Á vígvelli siðmenningar VI.


Steinn á Hótel Borg,ásamt Matthíasi,Magnúsi Þórðarsyni,Jóni Eiríkssyni og Skúla Benediktssyni. Myndina tók Ólafur K.Magnússon á öndverðum sjötta áratug síðustu aldar.

 

Nú mun hún sökkvast

Völuspá

 

 Tilvitnun úr Hrunadansinum, 2005:

...Hvort er það líf  samt leiftur eða grátur
sem lifað er á hafsins yztu nöf

hvort er það líf sem spónabrotinn bátur
og brestur dauðans enn við nyrztu höf,

hvort er það nýrra tíma tízkuhlátur
og tálsýn enn við kalda vota gröf

hvort er þinn hugur leikur brims við boða,
brimsalt haf eða lognhvít klettafroða?.,....

 

...Hvort breiðir út faðminn mót Fróni sú mammonsgóða
framtíð sem nú er hvarvetna að allra dómi
efst á baugi í baráttu smæstu þjóða
við basl og örbirgð,

virðing okkar og sómi
er vandasöm fylgd við fjármagn og ofsagróða
þegar fegurð asksins er líkust deyjandi hjómi

og níðhöggs  tennur nærast þar við rót
sem nýöld mammons fremur sín heiðnu blót......

 

...En akurinn bleiki ber okkur ilm af degi
sem breiðir út faðm mót þjóð á villigötum,

það er undarleg birta og enginn sérstakur tregi
á þeim óvissu leiðum sem við í blindni rötum

því það er um þetta eins og veglausa vegi
að væntingin saknar einskis af því sem við glötum

því hún er bundin við baslið í okkur sjálfum,
þennan brothætta mun á sterkum vilja og hálfum....

Hrunadansinn, 2005

 

Land,1

Land mitt
gömul minning,

ég á flótta
undan minningu..

 

Land,2

Land mitt
draumur sólar
við jökul,

nú martröð.

 

Land,3

Land mitt
kalið í rót,

dró að sér
flugur
unz frysti við rót.

 

Land,4

Land mitt
haustfölur máni,

glottir.

 

Land,5

Land mitt
eyðibýli,

göngum
á sauðskinnsskóm
eftir fjárlausum
götum

yfir hjarnhvítar
heiðar.

 

Land,6

Land mitt
sæluhúslaus
Fróðárheiði,

vindsár
undir svipuhöggum
Hreggnasa.

 

Land,7

Land mitt
einmana risi,

kallar hann okkur
eitt af öðru

inní Lómagnúp tímans.

 

Land,8

Land mitt,

mitt einmana
land

senn kemur sólskinsblettur
í heiði,

koma vorgræn
grös

kemur lauf

senn rís hún aftur

jörðin.

 

1.

Nú þegar íslenzka efnahagsundrið er orðið að efnahagsviðundri eins og Egill Helgason ku hafa sagt svo hnyttilega finnst mér ekki úr vegi  að vitna í nokkur atriði sem um það fjalla í greinaflokki mínum Á vígvelli siðmenningar og þá einungis til þess að minna á,hvað í raun og veru gerðist þegar íslenzka efnahafgskerfið hrundi og dansinn í Hruna er á enda.Veizlunni lokið,peningarnir horfnir til útlanda og ekkert eftir í pípuhatti þotuliðsins nema  gamla kanínan,margnotaða.
Þeir voru kallaðir útrásarvíkingarnir og fengu útflutningsverðlaun forsetans.Fyrir hvað,að selja íslenzkar vörur?Nei ,fyrir að flytja út eignir og sparifé fólksins í landinu og kaupa tuskubúðir erlendis.Fóru með höndina inní gin úlfsins og misstu hana.
Fengu milljarðalán í íslenzkum bönkum og ógnuðu umhverfinu.Reka  fjölmiðla og vega að ímynduðum andstæðingum,einkum í DV,en þó einnig víðar.
Fóru í hlutverk dönsku selstöðukaupmannanna og tæmdu bankana sem nú eru eins og gömul minnismerki,hrundir kastalar.
Og heyra sögunni til.
Um þetta hef ég verið að skrifa hér á síðunni undan farin misseri  eins og lesendur vita og nú  ástæða til að rifja það upp.
Búið var að tæma sjóði Icelandair og flytja úr landi og mátti þakka fyrir að þetta hvað mikilvægasta fyrirtæki landsins hélt velli.Og spjarar sig vel eins og sjá má af síðustu fréttatilkynningu félagsins sem nú er að græða einhverja milljarða.
Örlög þess sýna þó að íslenzka ríkið verður að ábyrgjast jafn miðlæg fyrirtæki í þjóðlífi Íslendinga.Það á einnig við um bankana og kemur markaðsstefnu ekkert við.Ævintýramenn geta ekki kastað á milli sín fjöregginu eins og skessurnar forðum,án eftirlits.

Í þessum hamagangi öllum þjónar ritstjóri DV,Reynir Traustason ( og eigendurnir í kringum hann) ,hagsmunum sínum og telur þessa blekkingu nýja blaðamennsku !! Bankarán Davíðs Oddssonar,hrópaði DV,þegar eigendur Glitnis  báðu um hjálp !
Hvaðan skyldi þetta bergmál hafa komið ?!
Kauþing,það er önnur saga.Það er brezkt hneyksli og ofbeldi,hvað sem aðdragandanum líður.Þar var fyrirtæki sett á hausinn sem átti fyrir skuldum,að sagt er.
Þar fór handleggur í gin brezka ljónsins.
Og þó var háskasamlegast hvernig Brown forsætisráðherra talaði um þjóðargjaldþrot Íslendinga á örlagastund,það hefur kostað okkur blóð og svita.Kannski dulin hefnd fyrir þorskastríðin,ég veit það ekki.
Ég var í Bandaríkjunum þegar  þorskblokkin lækkaði um 2 sent og sendi frétt um það í Morgunblaðið.Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra,var fljótur að skilja hættuna og varaði við henni,mig minnir þegar í stað í Reykjavíkurbréfi.Enginn var honum fremri,þegar grípa þurfti til pólitískra úrræða.
En kreppan skall á.
Fyrst við lifðum þetta áhlaup af , þetta högg að rótum íslenzks efnahagslífs, þá hljótum við að gera það einnig nú. Ég minnist þess ekki að neinn talaði um ríkisgjaldþrot 1967,kannski var það vegna þess að bankarnir voru í ríkiseigu og nutu mikils trausts útlendra skjólstæðinga sinna,enda var þeim stýrt af varkárni og ihaldssemi.Nú hafa þeir verið í einkaeign og traustið augsýnilega ekki að sama skapi og áður,því miður.Aldrei hefðu gömlu karlarnir lánað ævintýramönnum milljarðahundruð til að slá um sig í innantómum tízkuheimi. Þeir hugsuðu um annað en áhættur sem gætu komið þjóðinni á kaldan klaka.
Þeir höfðu torfbæjamenningu í blóðinu eins og henni er lýst í málverkum Gunnlaugs Schevings.

Þegar bandarískur þingmaður var að því spurður hvort hann ætlaði ekki að greiða atkvæði með björgunarleið Bush forseta, svaraði hann því til að hann vildi varðveita skattpeninga fólksins.
Nei,þetta er sósíalismi, sagði hann, þetta er óamerísk leið.Ég mun ekkert gera til að bjarga  “ the crooks “ !
Ég lái honum ekki,en svo var björgunin keyrð í gegnum þingið til að vernda fasteignir fólksins
Slík björgunarleið hefur einnig verið farin hér heima,en enginn veit hvort hún dugar.Forráðamenn ríkisins hafa að mér sýnist  staðið sig vel í brimgarðinum,án þess ég tali um aðdragandann.
Nú er lag,sögðu karlarnir í Stokkseyrarfjöru og komust oftast í gegnum boðana.
En stundum urðu slys..

2.

En hvað hefur staðið í þessum skrifum mínum undan farin misseri ?
Jú,m.a. þetta :
“En nú þegar útrásin er í algleymingi er ekki úr vegi að horfa um öxl og skoða afstöðu fjölnismanna til verzlunar og viðskipta,en þeir boðuðu hvorki innrás né útrás,heldur uppbyggingu í landinu sjálfu og þá ekki sízt landnýtingu í þessum framtíðardraumum sínum ……
……Þegar ég hugsa um þessa utrás hins nýja íslenzka auðvalds sem alltaf er verið að tönnlast á og byggist á matar-og bensínpeningum alþýðunnar,hvarflar hugurinn að gömlum bókartitli sem frægur varð á sínum tíma,Fjósakona fer út í heim! ….

 

….Getum við einnig státað af því? Mér er það til efs eins og nú háttar í vindhviðum samfélagsins. Jafnvel þeir sem telja sig fulltrúa fólksins veitast að þeim sem eru að reyna að hemja ólman fola fjármagnsins og vernda réttarríkið.
Þessi grimmilega saga Harris (Imperium ) fjallar einnig um okkur en ekki einungis pólitískt umhverfi Róms á dögum Síserós,þar er talað um hleranir vegna samsæris áhrifamanna eins og Katilínu , jafnvel Sesars.Allar sömu forsendur og við þekkjum,sami tilgangur,sama löngun til að skara eld að sinni köku;eða varhugaverðum hugmyndum sem menn hafa ánetjazt.Og Síseró ósköp einmana í andstöðu við sitt spillta umhverfi,þar sem eiginhagsmunir ganga fyrir mútum og gagnkvæmri fyrirgreiðslu.Ástæðan ekki sízt sú sem Seneca (5 f.Kr-65 e.Kr) nefnir í ritgerð sinni um okkar skammvinna líf,að í lýðræðisríki eiga stjórnmálamenn allt undir öðrum.
Það er ekki alltaf gott veganesti,en hefur orðið mörgum að falli……

 

…..Fyrir útrásinni fyrr á tíð stóðu danskir kaupmenn sem tóku allan hagnað sinn af verzlun hér á landi og fluttu til Kaupmannahafnar.Nú þurfi íslenzka kaupmannastétt,segja fjölnismenn, sem ávaxti hagnað sinn hér heima eða eyði honum að öðrum kosti,en aðalatriðið sé að hagnaðurinn verði eftir í landinu sjálfu og notaður til atvinnu og uppbyggingar hér heima.
Bjarni (Benediktsson ) vitnar máli sínu til stuðnings í Tómas Sæmundsson,sem hann kallar oddvita fjölnismanna, og bendir á að Tómas hafi sagt að kaupmennirnir séu “að sínu leyti hið sama í kaupstöðunum og bændur séu í sveitunum: “ undirstaða landsins velmegunar,því fé þeirra er kyrrt í landinu,eykst þar og eyðist,og af þeim rótum rennur sú kaupmannastétt,sem landinu er áríðandi og máttarstofn þjóðarinnar “ ,eins og Tómas komst að orði.
Bjarni ítrekar þessa nauðsyn,að féð verði áfram í landinu og sé ekki flutt út, með því að vitna í formála eða ávarpsorð fjölnismanna sem komust svo að orði um verzlun landsmanna til forna , “-Þess vegna lenti allur ágóði verzlunarinnar þar sem hann átti að lenda,inni í landinu sjálfu.
Mundu þessi orð ekki vera íhugunarverð eins og viðskiptum okkar er nú háttað, og ástæða til að bera þau saman við arðrán dönsku faktoranna á sínum tíma sem sópuðu gróðanum til Kaupmannahafnar?.....
(Sjá Hrunadans og heimaslóðir,2006)

 

…..Ég þekkti marga sem þóttu ríkir í gamla daga,en höfðu byrjað með tvær hendur tómar. Hugsjón þeirra var sú að auðgast fyrir almenning. Ég átti samtöl við þessa menn,þeir voru frumkvöðlar sem bættu umhverfi sitt.
Og þeir dreifðu peningunum sínum meðal fólksins hér heima.En þeir fluttu ekki afraksturinn af vinnu fólksins til útlanda,þar sem þeir gátu lifað eins og plöntur í gróðurhúsi á kostnað þeirra sem gerðu þá ríka.
Það þarf þrek til að vera ríkur.Og það þarf klókindi til að vekja góðhug þrátt fyrir auðæfi,vizku til að vera kapítalisti af guðs náð; þannig að umhverfið njóti góðs af því og umberi auðæfin. Gömlu íslenzku auðmennirnir kunnu áralagið,bæði á sjó og landi.,en um þá skrifaði ég á sínum tíma í Frelsið…

 

 

Og aðlokum :

……Í hinu nýja efnahagsumhverfi okkar á það enn við sem er grundvallaratriði í brautryðjandaverki Adams Smiths,Auðlegð þjóðanna, en það er :
að menn eigi að gæta þess að verða ekki ofgráðugir,þegar frelsið verkar eins og hver önnur freisting. ( hann varar semsagt mjög ákveðið við græðgi og notar það orð í riti sínu).
Frjálshyggja Smiths vísar enn veginn inní siðlega framtíð einkarekinnar hagstjórnar….

 

…..Höfum við ekki ástæðu til að hugsa okkar gang?
Nú stefnir í að Ísland verði einhvers konar bankaríki.Það er svosem ágætt.Þúsundir manna hafa atvinnu af bankastarfsemi og vinna að milljarðagróða ár hvert.
Og er það vel.
Litla Ísland í farvegi Sviss,hví ekki? En þá er að vera vel á verði,gæta sín.Halda tryggð við arfleifð ( ekki sízt tunguna) og uppruna og kynna land og þjóð eins og efni standa til, en ekki í sýndarmynd.Flytja ekki út erlendar tízkuklissjur eins og gert hefur verið í einsmenningarviðleitni samtíðarinnar.Það er hallærislegt, vekur meðaumkun. Stingur í stúf við fyrirætlanir hins unga lýðveldis sem hefur virðingu sína og hróður af sögu sinni og málsmenningarhefð.
Og svo auðvitað vegna sérstæðrar náttúru sem auðmenn eru nú farnir að ásælast vegna orkunnar; dýrmætustu eignar þjóðarinnar, sjálfrar baktryggingarinnar :
vatnsins. “

 

Í bók minni Málsvörn og minningar ,2004,segir m.a. svo um eitt af samtölum okkar Davíðs Oddssonar :

“ Kannski sitjum við hér uppi einn góðan veðurdag með Schangen-land sem við getum ekki varið fyrir erlendri ásókn og fíkniefnaspillingu.
Sem sagt, ráðum ekkert við.
Ég spurði Harald son minn um þetta. Hann er hugsi, en vill lítið segja. Held hann telji að varnarbaráttan verði okkur erfiðari en svo að við getum sinnt henni til fulls.

Erlent fjármagn í sjávarútvegi og fíkniefnasmygl og útlendingainnrás í þetta litla land veldur mér áhyggjum.  En við verðum að fylgjast með samtímanum. Verðum víst að brjóta odd af oflæti okkar og hanga ekki í gömlum forpokuðum tíma.
Verðum víst að taka þátt í alþjóðamarkaðnum.
En lifum við hann af?
Við höfum að vísu sjálfir, Íslendingar, hönd í bagga með erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi, þurfum ekki að stjórnast af Brussel, ef við göngum ekki í Evrópusambandið.
En hvað gerir löggjafarvaldið?
Ætli unnt sé að treysta því fyrir æ nauðsynlegri árverkni. Ég efast um það af vondri reynslu. Og við erum fastir í Schengen-ævintýrinu.

Kannski eflir þetta allt tengsl okkar við útlönd og sjálfsöryggi, en það er þó óvíst. Það er mikið í húfi, nú er nauðsynlegast af öllu að skessurnar missi ekki fjöreggið.

Við Davíð vorum sammála um að rónarnir hefðu komið óorði á brennivínið. Hann sagðist hafa minnt á það í ræðu ekki alls fyrir löngu; hann hafi talað um hvernig mammonsdýrkendur hefðu fært sér markaðinn í nyt. Hann sagðist vera óhress vegna þessarar þróunar.
Ég sagði að þetta gæti orðið okkur til þroska.
Hann spurði hvernig þá?
Ég sagði marxistar hefðu fengið bók með fallegum orðum. Þeir hefðu tekið þessa bók alvarlega og reynt að breyta hugmyndum hennar í veruleika. Þá hefðu pólitískir glæpamenn tekið völdin og afflutt þessa bók.
Þeir hefðu eyðilagt marxismann.
Við værum ekki í ósvipuðum sporum. Nú hefðu fjármálaævintýramenn komið óorði á langþráð markaðsumhverfi okkar. Af þeim sökum ættum við ef til vill auðveldara með að skilja þá marxista sem gengu heilshugar til leiks og trúðu á fallegar kenningar.
Við höfum einnig trú á frjálshyggjuna sem lausnarorð lýðræðis og frelsis, en sitjum uppi með braskara.
Já, sagði Davíð og hristi höfuðið, en frelsið er samt nauðsynlegt til langframa.
Ég hugaði um þessi orð; til langframa. Sætti mig við þetta, ef þróunin verður okkur til blessunar.
En hver veit?”

 

3.

Dagbækurnar

Nýbirtar dagbækur mínar eru frá árunum  1996 -1999.Þær fjalla að sjálfsögðu um hugmyndir mínar og afstöðu,lýsa mér semsagt betur en öðrum.Þær eru auðvitað ekki neinn endanlegur sannleikur né ljósmynd af þeim sem ég nefni.En þær eru mín viðbrögð við umhverfinu ; mín sagnfræði,hugverk mín sem ritstjóra og þó einkum rithöfundar og þá væntanlega eitthvað fróðlegar sem slíkar; enda þónokkuð af ljóðum og öðrum skáldskap í bland við óbundið mál.

Ég tek þetta fram vegna æsifrétta  DV og annarra fjölmiðla af þessum dagbókum mínum og bloggs Guðmundar Magnússonar sem hefur af tilefnislausu reynt að gera þær tortryggilegar.Sem sagnfræðingur veit hann þó það er ekki til neinn endanlegur sannleikur.Enginn upplifir atburði eins og annar.Og hver og einn sér umhverfið sínum augum án þess lýsingar hans þurfi að vera ósannar eða gular eins og hann er eitthvað að bollaleggja,líklega vegna kvæðisins  Lýðræði – eða hvat ; síðari hluti þess er nú fullgerður og birtist hér á eftir,ásamt kvæðinu öllu.

 

Það sem var trúnaður fyrir áratug er enginn trúnaður í dag.Ef svo væri, hefðum við aldrei eignazt neina sagnfræði.Öll skjöl í erlendum söfnum eru birt innan 10-25 ára.

Við ritstjórar Morgunblaðsins áttum fund með Stefáni Ólafssyni prófessor um skoðanakannanir fyrir forsetakosningar 1996 og nefni ég það í dagbókunum. Aðspurður í DV segist Stefán ekki muna eftir fundinum.
Stefán er kurteis maður og hefur fullt leyfi til að gleyma fundum.Hef ég ekkert við það að athuga, svo fremi sem ég er ekki sakaður um ósannindi.
Og það gerir Stefán ekki,enda braut enginn trúnað.

 

Mikið hefur verið rætt og ritað um dagbækurnar og mikið í þær vitnað,ekki sízt á netsíðunni dv.is,svo að þar er smáglæta! Yfirleitt hefur henni verið vel tekið,en örfáir bloggarar hafa sett upp skeifu og enn færri ráðizt að mér og Morgunblaðinu.Menn mega rækta fordóma sina fyrir mér , þótt ég kunni því illa að vera líkt við Gróu á Leiti í blaði sem mitt gamla félag , Árvakur,gaf út,24 stundum. En sú gamla vinstrigrýla sem það gerði er nú líka dauð !!

Fréttamiðlar reyndu að blása það upp sem ég hef eftirJennu Jensdóttur um Guðjón Friðriksson,en það tókst auðvitað ekki,því mér var ekkert ljúfara en hafa það sem sannara reynist og var Guðjón sáttur við þá afstöðu mína eins og sjá má hér á heimasíðu minni.Samskipti okkar Guðjóns hafa verið með ágætum og gleðst ég yfir því,enda kann ég vel að meta ýmislegt sem hann hefur látið frá sér fara.
Mér var alfarið einum kennt um þessi mistök og er það svo sem í lagi,en ég minnti fréttamann gömlu gufunnar á að einatt hefðu þeir ýmislegt eftir öðrum án þess þeir væru rúnir ærunni.
Enginn hefur borið brigður á að sagan um litlu stúlkuna sem refsa átti fyrir að skrifa um kvæðin mín sé sönn,en þannig var andrúmið í kalda stríðinu,miskunnarlaust.Morgunblaðið sagði þá sögu nákvæmlega og  hafði hana eftir stúlkunni sjálfri eins og menn hafa séð.
En eftir stendur að líklega situr ónafngreindur kaldastríðskennari einhvers staðar í skólakerfinu og lætur ekki á sér kræla, þótt hann sé sá sem gerði aðförina að stúlkunni á sínum tíma;huglaus nafnleysingi sem þorir ekki að segja til sín og sveipar sig þögn bleyðunnar.telur það mátulegt á þennan gamla Morgunblaðsritstjóra að sitja uppi með svona misskilning án þess unnt sé að leiðrétta hann til fulls.Það er þá líka íhugunarefni fyrir fjölmiðla að þeir gáfust upp við að finna kauða og upplýsa málið.Höfðu flestir meiri áhuga á að ná sér niðri á mér !
Það var öll rannsóknarblaðamennskan!

Og hvað skyldu þessir kauðar vera margir þarna úti í svartnætti kerfisins,þar sem unnt er að komast upp með ofstæki og einelti áratugum saman í skjóli nafnleysis?
Og fórnarlömbin,ungt fólk og saklaust.

Vonandi verður þetta til þess að einhverjir sjái að sér,t.a.m.þeir sem rækta ekki annað með sér en fordóma,þeir sem hafa þá að leiðarljósi þegar þeir velja efni,heimildir og tilvitnanir í ritum sínum.En umgengni við þetta þrennt kemur einatt upp um það andlega harðlífi sem þjáir einatt bæði uppalendur og fræðara.
Og var eitt helzta einkenni kalda stríðsins.

Ég geri mér þó ljóst að þekkingarskortur er einnig orsök þess að menn ganga framhjá heimildum sem varpa öðru ljósi á umræðuefnið en til er ætlazt.Síðasta dæmi þess var grein í Lesbók nú nýverið sem fjallaði um Uppkastið,en þar láðist að geta þess í heimildasafninu að skrifað hefði verið ritið Klofningur Sjálfstæðisflokksins gamla 1915 þar sem byggt var á áður ókunnum heimildum um þá sem þar koma helzt við sögu.Hefur þetta rit þó verið kennt við Háskóla Íslands,að mig minnir að frumkvæði núverandi forseta! Það kom út 1971.
Þannig hef ég oft séð af heimildaskrám og tilvitnunum að óþarfi er að lesa viðkomandi efni,svo þröngt sem um er fjallað vegna vanþekkingar eða fordóma.
Nema hvorttveggja sé.

Ég hafði gaman af kveðju frá Sverri Stormsker í 24 stundum,þegar hvað mest var fjallað um dagbækurnar.Það var hlýleg kveðja sem ég kunni að meta.Hann minntist þess þegar hann var heimilisvinur hér á Reynimel 25A vegna þess þeir Ingólfur sonur okkar voru bekkjarbræður.Sverrir var kurteis drengur og sérstæður.Hann talaði um skáldskap og hef ég áreiðanlega grætt eitthvað á því.
Sverrir vitnar í ummælin í dagbókinni um Helga S Guðmundsson og finnst þau fyndin.Hann var ekki einn um það.Afgreiðir svo Frramsókn með tilvísun í þessi ummæli og gerir það eins og hans er von og vísa.Helgi svaraði og segir ég sé skáld og þannig sé þetta allt skáldskapur.Ég get vel unað því og bið lesendur líta á þennan stutta kafla í dagbókinni um Sverri vin minn Hermannsson og Helga S. sem brandara og gamanmál sem enginn eigi að taka alvarlega.Helgi S. hefur komizt vel áfram,eignazt gott orðspor og hlotið traust.Þeir Styrmir Gunnarsson eru miklir mátar og Styrmir er naskur í þeim efnum.
En semsagt,reynum að skilja milli alvarlegrar fyndni og fyndinnar alvöru eins og sr. Bjarni sagði í samtölum 0kkar.

Til þess þarf stundum að bíta á jaxlinn(!).

Í þessu sambandi langar mig að minnast á kvæði Þóris jökuls í Sturlungu,Upp skalt á kjöl klífa… Fræðimenn hafa haldið því fram að Skafl beygjattu skalli merki að viðkomandi eigi ekki að beyja af andspænis ógnaröldu og örlögum.En nú hefur mér verið bent á að þetta merkir annað,því sjómenn gráti ekki andspænis höggstokknum.Skafl merki þarna brotstjór og andspænis honum séu engin ráð,menn verði að una slíkum hamförum.Menn beygi ekki náttúruöflin,eða knésetji.
Þannig fær ljóðið það karlmannlega inntak sem að er stefnt,en umfram allt heildarmynd sem prýðir góðan skáldskap.
Og þannig verði list þess meiri.
Hið sama gildir í lífinu sjálfu,maður bítur á jaxlinn og örlögin ráða ögurstund.
Það er allt og sumt

( Hér má benda á að flestir nota ögurstund í rangri merkingu,en um það hef ég fjallað annars staðar.svo og Ásgeir Bl.Magnússon í lítilli grein um þetta orð).

 

4.

Lýðræði,

-eða hvat ?

            Í brjóst mitt hefur dropið eitur
                af vængjum hins svarta fugls.
Stefán Hörður

1.

Fólk fær daglegan skammt af eitri
í heimkynnum gulu handarinnar,
þar sem níðhöggur
gengur milli rótar og krónu án þess neitt
gerist því askurinn hefur vanizt illskunnar
margslævðu ásókn,
nei nú er svo komið að níðið
hefur engin áhrif á nokkurn mann,
það
rennur eins og eitur um kalkaðar æðar
og fólk getur ekki án þess verið
nokkurn dag án þess vita um aðförina
að samvizku þess og mennsku,

samt veit enginn í hve miklum mæli
við höfum ánetjazt fíkninni,            
minnir á sagnir
af Míþradatesi konungi í Pontos
sem Rómverjar sigruðu að lokum
í stríðinu mikla um manninn í hlutverki guðs,
hann
fékk daglegan skammt af ólyfjan svo enginn
gæti stytt honum aldur með því að byrla honum
eitur eins og tíðkaðist í samskiptum
ríkjandi illmenna í þeim veðruðu löndum
sem lifna í sögunni einni,
en með þessum
daglega skammti hafði lævís aðför að lífi
einvaldsins engin áhrif
og eitrið rann
um æðar hans eins og hver önnur næring
í daglegum skammti úr dauðans holu
tönn.

 

2.

Ég veit ekki hver þú ert,
en ég veit af þér eins og skógurinn
veit af kattgulum glyrnum
í svörtu myrkri,
veit af þér eins og golu
á döggvotum blöðum
sporlausri
golu í þessum dimma skógi,
rándýr
á ferð í huga mínum
léttstíg eins og þögnin sem fylgir
nærveru þinni,
ég sé þig ekki
en skynja umhverfið
í hreyfingarlausu myrkri
þinnar ógnandi nærveru,

Will Durant segir við fæðumst ómennsk
eins og kattmjúk rándýr
frumskógarins,verðum að læra
mennskuna

rækta hana

ganga út úr
hvikulum glyrnum
skógarins,
upprétt göngum við
út úr skóginum
með þunga byrði mennskunnar
á veikum herðum,

skeftið á spjóti mínu
brotnaði í sári drekans,dauður liggur hann
við ormagryfjuna í Ragnars sögu loðbrókar
þegar ég sæki brotið vopn mitt
inn í döggsvalan skóg þar sem glyrnur
dauðans tindra eins og stjörnur
í tunglgulu myrkri,

minnugur þeirra orða
sem fylgja okkur frá rótum asksins
að ymjandi krónu einmana
trés:
Hann bitu eigi vopn í dag,
en nú granda honum eigi ormar.

 

5.

Hin hægfara
bylting

Þegar reynt er að finna orsök þess,hve illa hefur farið á Íslandi geta menn staldrað við ýmsa samverkandi þætti og kennt þeim um.En niðurstaðan verður alltaf sú sama,sjálfskaparvíti.
Við getum sagt að aðildin að EES hafi opnað allar gáttir og einkavæðing bankanna hafi verið ávísun á aðhaldsleysi.En hitt er þá líka rétta að það er ekki hægt að skella skuldinni á frelsið,ef illa fer,heldur misnotkun á frelsinu. Og þær freistingar sem því fylgja og ýmsir hafa varað við undan farin misseri.

En þeir hafa mátt sín lítils. Þeir hafa verið hafðir að háði og spotti og á þá ráðizt í fjölmiðlum.Úrtölumennirnir voru settir til hliðar.Þeir urðu eins konar utangarðsmenn í þessu nýja samfélagi hins grimma auðvalds sem ég hef nefnt svo frá upphafi alsælunnar.

Við litlar undirtektir og enn minni hrifningu.

Það sem gerðist var í raun hægfara bylting.Auðvaldið tók völdin af stjórnmálamönnunum sem höfðu lítið bolmagn,enda margir hverjir logandi hræddir við þetta nýja peningaveldi sem var að ná undirtökunum á öllum sviðum,ekki sízt í fjölmiðlunum.
Nú var hafið tímabil hins nýja valds,hinna nýju ætta.

Og úr varð ný sturlungaöld.
Hver sem reyndi að hreyfa sig gegn hinu nýja afli var kjöldreginn í fjölmiðlum auðvaldsins,jafnvel gerður aðsúgur að Morgunblaðinu og Styrmi Gunnarssyni, þáverandi ritstjóra þess. Reynt að eyðileggja mannorð hans,með ósæmilegum hætti. .Sams konar aðför var gerð að embættismönnum rettarríkisins og dómstólar hafðir í gíslingu,hvað sem hver segir,lögfræðingar  (sem nú eru í þjónustu Breta ! ) ráðnir fyrir himinháar upphæðir til að brjóta réttarríkið á bak aftur og búa til tvenns konar lög,önnur fyrir nýríka,hin fyrir okkur sem utan stóðum þessa nýja auðvalds :
Einn helzti bloggarinn á vegum baugsveldisins hefur nú sagt að starfsmenn á þeim slóðum hafi verið logandi hræddir við eigendurna og skrifað eftir því.Hann segir samkvæmt tilvitnun Björns Bjarnasonar  (en bloggsíður viðkomandi þekki ég ekki ) ;
: „Sjáiði hvað ég er kræfur? Eitt af því fjölmarga góða við hrunið er að maður er ekki lengur HRÆDDUR við þetta lið. Hvernig er hægt að vera hræddur við lið með skít upp á bak sem búið er að koma landinu á kúpuna? Auðvitað þorði maður ekki að tala hreint út eða segja eitthvað því þetta lið átti ALLT. Ég held að hvað sem fólk reyni að stinga hausnum í sandinn með að eignarhald hafi engu skipt þá sé það einfaldlega rangt. Hin ósýnilega hönd sjálfsritskoðunar hvíldi alltaf á lyklaborðinu. Allavega mínu”.
Ætli þetta segi ekki alla söguna um fjölmiðlabyltinguna og hina nýju blaðamennsku sem DV kallar svo ? Það hefur ekki verið vinsælt að ýja að því undanfarin misseri,en kannski er nú hægt að vitna í þessar vígslóðir án þess eiga á hættu aðsúg og illmælgi eins og við Haraldur sonur minn höfum þurftað horfast í augu við nú um alllangt skeið, því að miðlar hins grimma auðvalds hafa verið jafngrimmir og það sjálft.
Í nýlegri,harla athyglisverðri morgunblaðsgrein segir skáldið Einar Már m.a.: “..,.Baugsmenn,eða auðmennirnir í Baugsgroup,hafa kennt Davíð Oddssyni um fjármálakreppuna og óspart notað fjölmiðla sína til þess.Þessa fáránlegu gremju hafa jafnaðarmenn,til dæmis leiðtogi þeirra Ingibjörg Sólrún,étið eftir auðmönnunum sem tala um fjölskylduofsóknir þegar reynt hefur verið að taka á afbrotum þeirra og siðleysi..(leturbr.mín MJ..”

Og Einar Már talar svo um hirðskáld þessa nýja auðvalds “.... en ýmsir listamenn hafa gerst hirðskáld þeirra....”
Hverjir skyldu það nú vera ?
Hinn þáttur þessarar byltingar sem úrslitum hefur ráðið er eignaraðild auðvaldsins að hinum nýju bönkum og óheftur aðganguir þess að fjármagni..Ég verð þó að viðurkenna að aldrei hvarflaði að mér að auðvaldið hefði fengið aðra eins fyrirgreiðslu og raun ber vitni,heili minn herfur ekki einu sinn rúm fyrir slíkar upphæðir.
Allt hefur þetta verið stórfelld misnotkun á aðstöðu,vanvirða við frelsið sem hefur opnað allar gáttir á síðustu misserum.Og þá hefur mér allra sízt dottið í hug að þessir ævintýramenn hafi verið að slá um sig á ábyrgð almennings í landinu,en hann hefur verið grandalaus og líklega flestir í klappliðinu mikla sem hélt það mundi ævinlega finna ylinn af heimilisarni hinna nýju ætta.
Nú er reyklaust úr því húsi og ekkert nema kannski einhverjir neistar af deyjandi glæðum. En sú var tíðin að engir voru meiri aufúsugestir á Bessastöðum og engir gátu yljað sér þar jafn notalega og útrásarvíkingarnir sem um var talað eins og væringja hinna nýju tíma.
En það getur enginn búið við þann arin lengur,því miður.,enda hefur forsetinn rakið þá raunasögu sjálfur og engu við það að bæta.Fjölmiðlafrumvarpið og örlög þess voru liður í þeim háskasamlega leik sem leiddi til þess að húsið brann og eftir standa þær brunarústir sem nú blasa við.

 

6.

Á göngu

í Öskjuhlíð

Af hverju er ég ekki kanína
í þessari efnahagskreppu,

ef ég væri kanína
þá liði mér betur,

þrátt fyrir hundana.

                        okt. ‘08

 

7.

Veglaust haf

Mér er nær að halda að enginn hafi skilið Tímann og vatnið til fulls.Flokkurinn er að vísu hlaðinn skírskotunum sem eru einskonar vörður til skilnings á þessu dularfulla ljóði sem er byggt yfir frumatriði mennskunnar,vizku og fegurð.

Sagt hefur verið að við séum ekki fædd manneskjur,heldur breytumst við úr manndýri í manneskju með menntun og siðmenningu.

Tíminn og vatnið fjallar um þessa mennsku,þessa fegurð og þessa ástríðufullu leit að vizku.Áferð kvæðisins og ljóðrænn músíkalskur tónn þess ýtir undir það einstæða tilfinningalega flæði sem var algjör nýjung í íslenzkum bókmenntum á sínum tíma.

Eina leiðin til að upplifa Tímann og vatnið er afsal röklegrar hugsunar, þ.e. með tilfinningaskilningi ef svo mætti að orði komast.

Sem sagt kvæðið er á næstu grösum við tónlist sem enginn gerir kröfu til að skilja.Að vissu leyti voru dróttkvæðin skilin þessum skilningi og því nauðsynlegt að mæla þau af munni fram til að opna leyndardóm mynda og kenninga.Mikil kvæði á alltaf að fara með upphátt,segir bandaríski bókmenntafræðingurinn Harold Bloom í bók sinni ágætri How to Read and Why.

Við vitum það eitt að ljóðaflokkurinn fjallar um ást,dauða og guðlega forsjón. Í fyrsta hluta kemur blómið einkum við sögu, það er á gulum skóm í sólbjörtum fögnuði sínum .
Og það er grunlaust.
Þá kemur blóm dauðans til sögunnar Það vex á hornréttum fleti,þetta hvíta blóm dauðans.
En ekki veit ég hvaðan Steinn hafði þetta táknmál, kannski frá Þorvaldi Skúlasyni sem hann mat öðrum fremur.
Buckminster Fuller hafði litla trú á ferningnum eða teningnum,styrkurinn lægi í boginni línu,kúlu (jörðin sjálf ); samkvæmt því hlýtur blóm dauðans að vaxa á hornréttum fleti,þar er veikleikinn.

Í nágrenni við þessi blóm er miskunnarlaust og kaldhæðið umhverfi og erindi um vatn sem rennur um rauðanótt,en það er skírskotun í Odysseifskviðu eins og Steinn sagði sjálfur;ferð án fyrirheits..
Að því búnu rignir himinninn gagnsæjum teningum,sem sagt það eru ragnarök í tengslum við þessa ást.En þá kemur forsjónin til skjalanna; þ.e. Guð með stórum staf. En honum fylgir efi,eða eins og skáldið komst að orði,að hann vissi ekkert,en vonaði það bezta.
Og í kjölfar efans ástarsorg; þ.e. neikvæð játun úr nálægð fjarlægðarinnar:

Og fjarlægð þín sefur
í faðmi mínum
í fyrsta sinn.

Að lokum tekur þögn dauðans við á hinu veglausa hafi sem við blasir.Og skáldið býr um sig í hálfluktu auga eilífðarinnar,sátt við reynslu sína og vonbrigði;sátt við trega sinn og harmkvæli.

Í samtölum okkar sagði Steinn að hann hefði hætt að yrkja Tímann og vatnið í miðjum klíðum.Honum tókst sem sagt ekki að ljúka kvæðinu.En það væri hugsað sem ballett , byggður á goð-og helgisögnum, styddist t.a.m. við Vedabækurnar, sagnir um Parzival og Graal : Gagnsæjum vængjum.....og svo för Odysseifs eins og fyrr getur.En í upphafi ljóðaflokksins, sem við getum kallað eitt mesta ástarkvæði íslenzkra bókmennta, er fjallað um blómin tvö og mætti vel segja mér að þar væri skáldið að tala með skírskotandi hætti í goðsagnakennt miðaldakvæði um Tristran og Ísodd,en það fjallar um blómin tvö, Ísodd  hina björtu og þá svörtu.; eða hið hvíta blóm dauðans.