Harmljóð
útrásarvíkings
Flestallt hefur gengið mér úr greipum
ég geld þess enn sem var mín stærsta synd,
við mér blasir ógn og áttavilla
því augu mín vóru haldin,dauð og blind.
Enginn fær lifað lífi nokkurs annars
né leitað þess sem öðrum fellur til,
því enginn fær notið óskastunda þeirra
sem öðrum er skapað og honum er í vil.
Líf mitt var eldur, askan fýkur þangað
sem örlögin blása og veröld okkar deyr,
þangað sem blóm úr auðn og akri vaxa
og ævin breytist í mold og harðan leir.