5. apríl, sunnudagur
Skrifaði þetta Reykjavíkurbréf eftir upplestrarferðina til Englands:
Útlönd eru að minnsta kosti tveir heimar. Þeir eiga að sjálfsögðu
margt sameiginlegt því að þeir eiga rætur í samfélagi sem er ein heild
og eitt þjóðfélag. En þegar nánar er að gætt eru ótal vistarverur í
þessu sama þjóðfélagi, kjör fólks, áhugamál og afstaða svo ólík að
fremur mætti tala um að nútímaþjóðfélag sé saman sett af mörgum litlum
samfélögum sem eru jafn ólík og þau eru mörg, þótt ákveðnir þættir
haldi þeim einkum saman og má þar fyrst og síðast nefna arfleifðina og
tungumálið. Ef tala mætti um almenningsálitið í tengslum við þessi
samfélög er enginn vafi á því að það sækir næringu, fyrirmyndir og
jafnvel fyrirmæli í fjölmiðlana sem ráða ferðinni í nútíma þjóðfélagi,
ákveða að mestu hvað um er rætt og hverja afstöðu fólk skuli hafa.
Þetta er samfélag fjöldans sem hugsar að mestu um það sem er uppi á
teningnum hverju sinni. En svo eru aðrir þættir sem eru jafn mikilvægir
og ekki síður áhrifamiklir þegar upp er staðið þótt þeir nái til miklu
færri og sæki fremur afstöðu í margvíslega þekkingu en þau dægurmál sem
eru efst á baugi í fjölmiðlum hverju sinni. Þeir sem ferðast og þurfa
að tala við fólk í útlöndum verða að sjálfsögðu varir við þennan mikla
mun. Því meiri fjöldi, því skarpari skil. Það dettur engum í hug að
almenningur í nágrannalöndum okkar í Evrópu sé að velta fyrir sér
íslenzku þjóðfélagi, forsendum þess og arfleifð. Þessi sami almenningur
heyrir að vísu eitt og annað um fyrirbærið Ísland án þess það komi
honum frekar við en aðrar þær
dægurflugur sem verða á vegi hans.
Samt er hægt að nota þessar dægurflugur í landkynningarstarfsemi og
hefur það verið óspart gert. Um það er ekkert nema gott eitt að segja.
áfram >>
Article originally appeared on Matthías Johannessen rithöfundur (http://matthias.is/).
See website for complete article licensing information.