Guðjón Friðriksson segir rangt með farið í dagbókum Matthíasar
09.2.2008
Matthías Johannessen

Orðsending til Matthíasar Johannessen, birt í Morgunblaðinu föstudaginn 29. ágúst, 2008.

Guðjón Friðriksson segir rangt með farið í dagbókum Matthíasar: "En á einum stað í þessum færslum er spunnin upp um mig slík lygaþvæla að ég get ekki annað en beðið þig að taka hana af netinu."


KOMDU sæll, Matthías.

Dagbækur þínar eru um þessar mundir töluvert í umræðunni og greinilega hafa margir orðið til þess að lesa þær. Til vitnis um það er að mér hafa borist fregnir úr fleiri en einni átt um að þar sé að finna um mig umfjöllun í færslum ársins 1998. Ég fór því að forvitnast og fann skrif um mig á nokkrum stöðum. Mér er sama þó að um mig og mín verk falli dómar og hirði yfirleitt ekki um að svara þeim. En á einum stað í þessum færslum er spunnin upp um mig slík lygaþvæla að ég get ekki annað en beðið þig að taka hana af netinu og helst strika yfir hana í dagbókinni. Ég vil síður að hún verði heimfærð upp á mig einhvern tíma seinna. Þú hefur söguna eftir Jennu Jensdóttur rithöfundi sem ég hef aldrei átt í neinum illdeilum við og þekki raunar.
Sagan gengur út á að ég hafi kennt stúlku að nafni Jóhanna Eiríksdóttur í Ármúlaskóla, hún hafi skrifað ritgerð upp á 9 um ljóð þín en ég gefið henni 4 í einkunn.
Síðan segir í dagbókarfærslunni: „Jóhanna bar sig upp undan þessu við Jennu, fyrrverandi kennara sinn, en hún tók málið upp við Kristján J. Gunnarsson, fyrrum fræðslumálastjóra, sem síðar hefur fengist við skáldskap og ort nokkrar ljóðabækur, auk skáldsögu; góður maður og gegn. Hann trúði vart því sem hann heyrði, hafði samband við Magnús skólastjóra Ármúlaskóla og kallaði inn allar ritgerðirnar svo unnt yrði að fara yfir þær og bera saman. Þá kom í ljós að ritgerð Jóhönnu var upp á 9. Það kom engum á óvart sem til þekktu. En upp úr þessu var Guðjóni Friðrikssyni sagt upp og hrökklaðist hann þá til Ísafjarðar. Þar gerði hann sér lítið fyrir og hóf ofsóknir á hendur Jennu og Hreiðari sem barnabókahöfundum. Það voru hefndirnar.“
Síðan fylgir hæfileg útlegging þín á innræti mínu og pólitískum skoðunum en slíkt læt ég mér í léttu rúmi liggja.
Um þetta er í stuttu máli það að segja að ég hef aldrei kennt Jóhönnu Eiríksdóttur, aldrei kennt í Ármúlaskóla, aldrei svo ég muni í kennaratíð minni fengið ritgerð í hendur um ljóð Matthíasar Johannessen, aldrei verið kærður fyrir einkunnagjöf, aldrei verið sagt upp störfum við neinn skóla, þaðan af síður hrökklast til Ísafjarðar og aldrei ofsótt Jennu og Hreiðar. Ég var hins vegar kennari í 3 ár við Menntaskólann á Ísafirði af fúsum og frjálsum vilja en það er önnur saga.
Þú gerir þetta fyrir mig.

Kær kveðja.
Höfundur er sagnfræðingur.

Yfirlýsing Guðjóns

Í dagbókarfærslu Matthíasar Johannessen 7.október 1998 er frásögn af meintum samskiptum mínum við Jóhönnu Eiríksdóttur og skólayfirvöld í Ármúlaskóla. Frásögnin er í öllum atriðum röng og er annaðhvort sprottin af misskilningi eða á við um annan mann enda hef ég aldrei kennt við Ármúlaskóla. Matthías hefur í dag beðist afsökunar á þessu og við höfum náð fullri sátt um hvernig með skuli fara.

Reykjavík 31.ágúst 2008.

Guðjón Friðriksson


Article originally appeared on Matthías Johannessen rithöfundur (http://matthias.is/).
See website for complete article licensing information.