Viðtökur
09.2.2008
Matthías Johannessen

Ólafs saga og dagbækurnar

Finnst rétt að birta hér á síðunni minni tölvupósta okkar Guðmundar Andra,ef einhverjum þykir það hynýsilegt. Þeir eru svohljóðandi


16.08.2008, skrifaði Guðmundur Andri svohljóðandi tölvupósti til Matthíasar:

Sæll Matthías,

Ég hef lesið í dagbókum þínum með athygli og verð að segja að mér
þykir mikið til um það hispursleysi sem þær sýna og það hugrekki að
deila þeim með okkur hinum. Þær munu verða ómetanleg heimild þegar
fram líða stundir  - ekki bara um mikla umbrotatíma og þátttöku þína
í þeim, heldur líka víðfeðman og vakandi anda skáldsins, miklar
mótsetningar og viðkvæmni en líka áhuga á fólki -  og náttúrlega
fordóma eins og fljúga gegnum huga okkar allra daglega.

Árið 1998 víkur þú nokkuð að mér í kjölfar þess að ég hafði farið
nokkrum orðum um ævisögu Ólafs Thors í blaðagrein um Guðjón Friðriksson.

Í dagbókarfærslunum er á þér að skilja að ég sé ofmetinn höfundur,
skáldsaga mín Íslandsförin hafi hlotið of góðar viðtökur, og er mér
meira að segja skipað á skrumbekkinn hjá sjálfum Ólafi Jóhanni
Ólafssyni. Það er að sjálfsögðu fjarri lagi því bókin var ekki
auglýst umfram tilefni, en hitt kann að vera  rétt að einhverjir hafi
orðið til þess að hrósa bókinni meira en hún átti skilið - ég satt að
segja veit það ekki - dómarnir skiptust mjög í tvö horn, en hún gekk
prýðilega.

Mér þykir gæta misskilnings hjá þér varðandi ummæli mín um ævisögu
Ólafs Thors þó að ég skilji hvers vegna þér gremjast þau og vel megi
vera að þau hafi verið heldur hvatvísleg. Að vísu er ég ekki duglegur
að halda til haga gömlum pistlum en ég þykist þó muna hvað ég var að
hugsa. Þér skjátlast þegar þú telur að ánægja mín með bækur Guðjóns
hafi ekki verið einlæg eða einungis sett fram til að varpa rýrð á
þitt verk. Ég var fyrst og fremst að hugsa um Guðjón. Og þarna
skrifaði ég sem starfsmaður á bókaforlagi, ötull lesandi ævisagna frá
barnsaldri og þátttakandi á íslenskum bókamarkaði, ekkert síður en
"vinstri maður". Ég hafði stundum velt því fyrir mér hvers vegna ekki
voru gefnar út ævisögur eða alþýðusagnfræði hér á landi í anda þess
sem tíðkast með öðrum þjóðum - einkum Bretum -  þar sem maður getur
kynnst persónu frá öllum hliðum, kostum og löstum, afrekum og
mistökum. Á sínum tíma hreifst ég mjög af bókum Þorsteins Thorarensen
um aldamótapólitíkina, þar sem skrifað var af innlifun og ástríðu og
spennandi tíma án þess þó að maður fyndi til þess að höfundurinn væri
í tilteknu liði. Sagnfræðingarnir virtust niðursokknir í strang-
akademísk efni en nálega einu ævisögurnar sem út komu voru
hálfpartinn á vegum stjórnmálaflokka, skrifaðar til að gera hlut
tiltekinna manna sem mestan og bestan og málstað andstæðinganna sem
verstan. Mér þóttu þetta vera bautasteinar. Hver skrifaði um sína
dauðu. Og allt dregið fram sem varpað gat sem jákvæðustu ljósi á
"okkar mann". Jón Guðnason skrifaði um Einar Olgeirsson, Vilhjálmur
frá Brekku um Eystein... Meira að segja hinn löngu dauði
Heimastjórnarflokkur sendi frá sér slíka heilagramannasögu um Hannes
Hafstein eftir frænda minn Kristján Albertsson.

Og þú skrifaðir um Ólaf Thors. Sú bók var að vísu mikið og vandað
verk, og í þeim skilningi ósanngjarnt hjá mér að dæma hana svo hart.
Hún var læsileg og full af merkilegum fróðleik, einkum úr
bréfaskiptum þeirra bræðra Ólafs og Thors (sem mér virðist að hafi
verið vanmetinn maður) - og já - einhvers konar mynd af Ólafi Thors
verður þar ljóslifandi. En það er myndin sem Sjálfstæðismenn hafa
alltaf verið að mála upp handa okkur. Þú dregur taum Ólafs í smáu og
stóru, ert sífellt að bera í bætifláka fyrir hann, jafnven þar sem
hann þarf ekki einu sinni á því að halda. Við fáum mynd af óskeikulum
manni sem engan breiskleika hafði, mildum en sterkum leiðtoga,
fyndnum og ljúfum manni... Með öðrum orðum: þetta er bók handa
hjörðinni hans, bók skrifuð fyrir Sjálfstæðismenn.  Og þar með ekki
ætluð okkur hinum - nema ef væri til að reyna að gera okkur að
Sjálfstæðismönnum.

Þetta er ekki skrifað vegna þess að ég eigi "í einhverju basli með
ætt [mína]" eins og þú orðar það í dagbókinni. Öðru nær, og hér er
eiginlega komin helsta ástæðan fyrir því að ég sendi þér línu. Í
hreinskilni sagt þá leiðist mér að sjá slík ummæli, algjörlega að
tilhæfulausu, því að mér þykir afar vænt um skyldmenni mín og ég var
mjög náinn Kristínu ömmu minni sem ég var mikið hjá á daginn sem
barn.  Ég ber mikla virðingu fyrir minningu þeirra hjóna Thors Jensen
og Margrétar Þorbjargar og er stoltur af því að vera kominn af þeim.
En ég er ekki þar fyrir í einhvers konar fylkingu - þetta er ekki
eins og Ásbirningar voru eða Sturlungar - þeir dagar eru liðnir og
koma aldrei aftur.  Ég get ekki tekið ábyrgð á öllu sem Ólafur Thors
gerði. Ég hitti manninn aldrei og hann dó þegar ég var barn og hann
hafði mig aldrei í ráðum um eitt eða neitt. Þaðan af síður ber mér
skylda til að hafa hann í dýrlingatölu...

Ég bið þig að afsaka þessa framhleypni en mig langaði að koma því á
framfæri - þó seint sé - að ummæli mín um bók þína voru ekki vakin af
persónulegri óvild, og raunar hvarflaði ekki að mér þá að þau kynnu
að vekja sárindi. Eflaust hefði ég mátt orða hugsanir mínar af meiri
nærgætni. En þetta var sem sé vakið af því að mér þótti í raun og
veru Guðjón vinna brautryðjandaverki í því að frelsa "íslensku
ævisöguna" undan veldi stjórnmálaflokkanna.

Með vinsemd og virðingu

Guðmundur Andri Thorsson

 

18.08.2008, skrifaði Matthías Guðmundi Andra svar í tölvupósti:

 Guðmundur minn Andri,kærar þakkir fyrir þitt góða bréf sem ég var að lesa nýkominn af Hólahátíð. Ég met það mikils og tek mark á öllu sem þú segir.Vil aðeins undirstrika að dagbókin er skrifuð fyrir löngu og í dag er ég ekki sammála öllu því sem þar stendur,eins og skiljanlegt er. Það voru tveir menn sem skrifuðu bókina ,rithöfundur og ritstjóri eins og augljóst er af efninu..En ég er ekkert endilega sammála þeim lengur.Fannst samt rétt að birta þetta óbreytt eins og ég upplifði það og vera ekki að geyma það inní dauða okkar allra.Fannst það aumingjalegt.En allt er þetta séð með mínum gleraugum síns tíma og verður að hafa það !  
Ólafur frændi þinn heillaði mig og verður líka að hafa það!

Bið þig afsökunar á ættarummælunum sem spruttu úr hita síns tíma og áður en ég kynntist þér.En ég met þig meir en þarna kemur fram og þannig hefur mér farið fram í ymsum efnum ! Met ykkur bræður báða og feðga af hlýjum hug og ekki sízt það sem þú hefur bezt skrifað.

Þú afsakar þessa fljótaskrift og gott væri einhvern tíma að hittast og krunka saman,þinn einl.Matthías

Sjá dagbók Matthíasar miðvikudag 14. jan. 1998


Jón Kaldal skrifar m.a. í Fréttablaðið :

Skiptar skoðanir eru á því hvort rétt sé hjá Matthíasi Johannessen, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, að opna aðgang að dagbókum sínum á netsíðu sinni matthias.is. Sérstaklega hafa verið settir fyrirvarar við allra nýjustu dagbókarfærslur hans, frá 1997 og 1998, sem bættust við eldri árganga á dögunum. Þar þykir Matthías meðal annars ganga fulldjarflega fram í frásögnum af því sem nafngreindir menn létu falla í einkasamtölum við hann.
Þetta eru óþarfa áhyggjur. Það er jákvætt og þarft verk hjá Matthíasi að opinbera þau trúnaðarsamtöl sem hann átti við dagbók sína þegar hann var ritstjóri Morgunblaðsins.
Færslur ritstjórans fyrrverandi eru merkileg söguleg heimild. Þeir sem lesa dagbækurnar þurfa þó að gæta sín á því að taka þær ekki of bókstaflega, því þær eru ekki endilega rétt heimild um samtímann eins og hann var í raun og veru.
Dagbækur Matthíasar eru hins vegar örugglega mjög nákvæm heimild um það hvernig höfundurinn upplifði samtíma sinn. Og jafnvel hvernig hann vill að hans sé minnst. Eða svo notuð séu orð Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, sem Matthías segir frá í einni færslu sinni: „Við eigum að skrifa söguna sjálfir, hinum er ekki treystandi til þess(!)"
Það er ekki síst að þessu leyti sem dagbækur Matthíasar eru stórfróðlegur lestur fyrir alla þá sem hafa áhuga á stjórnmálum, viðskiptalífi og fjölmiðlum. Og það í þessari röð.
Dagbækurnar gefa ómetanlega innsýn í hvernig ritstjórn Morgunblaðsins var flækt inn í ýmis mál á stjórnmálasviðinu og í viðskiptalífinu. Hlutverk ritstjóranna var gjarnan að ráðleggja við lausn mála, bera boð á milli manna, koma á samböndum og lægja öldur.....


Egill Helgason segir í blogginu sínu:

Það er hreint stórskemmtilegt og mikill fengur að því að Matthías Johannessen skuli birta dagbækur sínar á netinu.
Að vísu hefur upphafist mikill grát- og hneyklunarkór sem virðist helst vilja meina Matthíasi að gera þetta opinbert.
Það er sérlega heimóttarlegt viðhorf.
Hjá meiri menningarþjóðum en okkur eru dagbókaskrif sérstök bókmenntagrein. Það má til dæmis nefna dagbækur merkismanna sem hafa valdið hneykslan í Bretlandi á síðustu árum.
En þó aðallega mikilli skemmtan.
Dagbækur stjórnmálamannsins Alans Clark urðu efni í sjónvarpsseríu þar sem John Hurt lék aðallhutverkið. Hann sagði bæði frá stjórnmálaklækjum og kvennafari.
Svo eru það dagbækur Woodrows Wyatt sem var alltmúlígmaður í stjórnmálum og trúnaðarvinur Margrétar Thatcher en lét svo allt flakka í dagbókum sínum.
Ekki er heldur slor að lesa dagbækur Kenneths Williams, leikarans sem var frægastur fyrir hlutverk sín í Carry On myndunum. Þær eru eiginlega instant klassísk. Fullt af djúsí leikaraslúðri, en líka mynd af merkilega tilfinninganæmum manni.
Þeir sem gagnrýna Matthías eru algjörlega á villigötum. Við þurfum ekki fleira fólk sem þegir – heldur er ástæða til að hvetja fleiri til að skrifa dagbækur og ævisögur og hafa það allt sem hreinskilnast.
Nóg er af pempíuskapnum og skinhelginni.
Svo er mönnum algjörlega í sjálfsvald sett hvort þeir trúa því sem stendur í svona textum. Yfirleitt ber að varast það.


Enn bloggar Björn Bjarnason og segir:

Matthías Johannessen birtir á www.matthias.is dagbókarbrot. Þau eru svo krassandi, að eðlilegt væri fyrir fjölmiðla að kafa dýpra og kynna sér málið til hlítar. Þess í stað setjast menn eins og Hallgrímur Thorsteinsson í vandlætingarstólinn. Honum fer það illa.
Matthías er þaulvanur höfundur viðtala og ávann sér virðingu og traust sem slíkur. Hann hefur ávallt haft einstakt lag á að draga jafnframt upp mynd af viðmælendum sínum. Ég minnist þess frá unglingsárum, að Guðrúnu, ömmu minni, þótti nóg um bersögli Matthíasar í viðtölum undir samheitinu: Í fáum orðum sagt.
www.matthias.is rúmast ekki undir orðunum: Í fáum orðum sagt, en veldurenn ýmsum lesendum áhyggjum og kannski líka viðmælendum


Þorbjörn Broddasson, prófessor í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands, segir í sjónvarpi og á netinu:

Þorbjörn Broddasson, prófessor í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands, segir dagbækur Matthíasar Johannessen mjög forvitnilegar og dýrmætar og að hann sé að gera landsmönnum greiða með því að birta þær.
Í dagbókum Mathíasar Johannessen fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins er hægt að lesa samtöl hans við ýmsa framámenn í íslensku þjóðfélagi marga undanfara áratugi. Þar eru rakin samtöl hans til dæmis við Svavar Gestsson, Davíð Oddsson, Geir H. Haarde.
Margir hafa bent á að þarna væri Matthías að bregðast trúnaði við þessa menn, sem hafi aldrei búist við því að samtölin við Matthias yrðu gerð opinber með því að birta þau á vefsíðu.
Doktor Þorbjörn Broddason prófessor við Háskóla Íslands hefur kennt fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands í yfir þrjátíu ár. Hann segir að ef ýmsir forystumenn íslenskrar vinstrihreyfingar hafi tekið upp á því að hitta ristjóra Morgunblaðsins sem skriftaföður, þá hafi þeir mátt búast við niðurstöðu af þessu tagi.

Stöð 2 spurði Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóra, hvort hann væri ekki að brjóta trúnað með dagbókarfærslum sínum. Hann svaraði: ,,Það sem var kannski trúnaður fyrir 30 til 40 árum er ekki trúnaður í dag, því ef svo væri þá væri engin saga.


Article originally appeared on Matthías Johannessen rithöfundur (http://matthias.is/).
See website for complete article licensing information.