Kreppan
01.16.2009
Matthías Johannessen in Ljóð

Hún liggur yfir landi eins og skuggi,

sem ljós við kerti slokknar sérhver gluggi

en himinljósin horfa niður og skína

og halda tryggð við langa vegferð þína.

 

Það dimmir mjög og landið liggur undir

lævísri ógn og villu nú um stundir,

allt er það myrkur þyngra en tárum taki,

tökum því vel því seinna kemur Laki.

 

Hnípin var sagt,en horfum fram á veginn,

hvar sem við förum þar er línan dregin,

hamingja þjóðar hennar von sem er

að horfast í augu við Glám í fylgd með sér.


Article originally appeared on Matthías Johannessen rithöfundur (http://matthias.is/).
See website for complete article licensing information.