Hanna Ingólfsdóttir Johannessen: Sonakveðja
05.16.2009
Matthías Johannessen

Ungur orti faðir okkar ljóð um móður okkar sem hann birti síðar í bókinni Mörg eru dags augu. Þar heitir það Vor í skafli:

Sá dagur var ei draumsjón köld og ber
sem dyra knúði og spurði eftir mér,
hann var mín gæfa, veröld fersk og ný
sem vor í skafli, moldin dökk og hlý.

Þú varst sá dagur, ung með augu brún
og yl sem fari sunnangola um tún,
og grasið var mín unga ást til þín.
Ég er þitt ljóð og þú ert stúlkan mín.

Úr þvalri jörð mun þiðna krapamor
og þá mun aftur koma túngrænt vor
með sumarbros og sólskinslokk um kinn.
Mín sól ert þú og ég er skuggi þinn.

Hún var einnig sólin í okkar lífi og af birtu hennar nærðumst við alla tíð. Ást hennar og hlýja var það veganesti sem gaf okkur feðgum þrek og lífskraft, en þessi birta átti ekki síst rætur í trú hennar, arfleifð og umhverfi. Hún var fædd og uppalin á Hólsfjöllum og þaðan fékk hún sinn víða sjóndeildarhring og sínar djúpu íslensku rætur. Þögn öræfanna var eitt helsta einkenni hennar og þá ekki síður virðingin fyrir lífi og dauða sem birtist einatt í dularfullri reynslu þess sem andar að sér jörð og ilmi og veit að þetta umhverfi er hugarveröld guðs, svo vitnað sé í trúarsannfæringu listaskáldsins Jónasar.

Nú hverfur hún aftur inní þessa djúpu þögn sinna ungu æskudrauma,við horfum á eftir henni; hlustum.

Móðir okkar var hljóðlát kona, minnti á hulduna í íslenskri náttúru, en var samt ákveðin og stefnuföst og það kom sér oft vel í margvíslegum afskiptum hennar af félags- og mannúðarmálum, en þó ekki síður sem bakhjarl í harla erfiðum störfum ritstjórans, föður okkar. Þar var hún kletturinn og veðraðist ekki. Við munum hana oft sem ráðgjafa hans, ekki síður en okkar, og ráð hennar brugðust aldrei. Tilfinning hennar fyrir tungunni var einstök og einatt til hennar leitað í þeim efnum.

Um viljann til þátttöku í umróti tímans er ekki síst fjallað í ljóðaflokknum Jörð úr ægi, en þar leikur móðir okkar aðalhlutverkið: stúlkuna sem kemur með landið til skáldsins og gefur borgarbarninu nýja sýn og nýjan skilning til að horfast í augu við blákaldan veruleikann, þótt hann eigi að sjálfsögðu upphaf í óskilgreinanlegri dulúð. Um slík efni hugsaði hún oft og minntist þá gjarnan á merkilega drauma sem hana hafði dreymt og tengdi þá stundum lífi okkar og reynslu. Það var engin tilviljun að síðustu ljóðin sem hún las voru í Stjörnum vorsins eftir Tómas. Hún gleymdi því aldrei þegar skáldið kom með þjóðhátíðarkvæðið 1974 og las það í stofunni heima á Reynimel fyrir foreldra okkar. Faðir okkar hafði beðið hann að yrkja hátíðarkvæði sem Tómas flutti svo sjálfur á Þingvöllum. En flutningurinn í stofunni heima var ekki síður hátíðleg stund og móður okkar ógleymanleg.

Við fylgdumst með móður okkar að sjálfsögðu bæði heima og heiman. og auðvitað var það í senn ómetanleg reynsla af ólíkum heimum og hefur hún komið sér vel í baráttunni við alls konar áreiti og áskoranir. En umfram allt höfum við getað sótt  næringu í óbilandi þrek hennar, traust og trú. Allt hefur þetta einkennt fólkið hennar frá Víðirhóli á Fjöllum. Starf hennar fyrir kirkjuna var sprottið af ást og sannfæringu.

Eitthverju sinn .þegar foreldrar okkar voru í heimsókn á Víðirhóli og gengu um æskuslóðir hennar yfirgefnar, kviknaði ljóðið Víðirhóll á Hólsfjöllum. Hún var ekki vön því að flíka tilfinningum sínum, en minntist þess síðar hvað það yljaði henni, þegar Snorri Hjartarson hrósaði ljóðinu við hana og hennar þætti í því:

Við fjárréttina er mýrasóley
með gulhvítu blómi
og grænum hjartalaga blöðum
-ég sé í huga mér
litla stúlku
hlaupa um þessa lynggrænu mela
með jarpt flaksandi hár...
og moldbrún augu.

Hún beygir sig niður
eftir blómi
og réttir mér hjarta
úr grænu blaði,.

réttir hún mér hjarta
vaxið úr dökkri mold,

og lynggróin heiðin
horfir á okkur
úr öllum áttum..

Við lútum höfði í minningu móður okkar og þökkum henni fyrir allt - ást hennar, trú, þrek og umhyggju.

Haraldur og Ingólfur

Article originally appeared on Matthías Johannessen rithöfundur (http://matthias.is/).
See website for complete article licensing information.