Þakkaræða mín
12.3.2010
Matthías Johannessen

            Ég þakka mikinn heiður og mikla viðurkenningu sem ég met mikils. Ekkert kompaní er betra en tengsl við Háskóla Íslands. Þau reyndust mér vel ungum og æ síðan. Eftir próf sagði dr. Alexander Jóhannesson að ég skildi skrifa doktorsritgerð og koma að Háskólanum. Nú hefur loks verið bætt úr því !

            Ég hef að vísu kennt á vegum Háskólans og haft af því mikla ánægju.En kóssinn var annar en dr.Alexander ætlaði.

Ég hef verið að lesa kvæðaflokk Montales um látna konu hans. Mér skilst hann hafi ort þessi ljóð í einsemd á hótelherbergi á norður Ítalíu. Hann notar rím með eftirminnilegri nærgætni. Arfleifðin er á næstu grösum, þótt nýr tími sé andrúmið.

            Einmana finnur skáldið kröftum sínum viðnám þegar árin færast yfir. Sú reynsla getur í senn verið sár og nærandi.

 

            Og nú er komið haust.

                                   Eins og birkið sem bíður þess löngum

                                   að blíður andvari strjúki það undir kvöld,

                                   fari viðkvæmar greinar mjúkum höndum

 

                                   þannig bíð ég þess einnig við ótrygga sýn

                                   að augu þín snerti haustkaldan vanga

                                   eins og hvíslandi golur hljóðlega syngi

                                   við hrynjandi lauf þetta októberkvöld

 

                                   eins og dularfull ástríða dragi til sín

                                   mitt dáðlausa þrek

 

                                   en þrátt fyrir haustið í húmsvölum vindum

                                   og hríslurnar sakni laufsins á kulnuðum greinum

                                   og skógurinn minni á skilnaðarstund

                                   þegar skjálfandi rödd þín kveður að lokum

                                   vatnið sem gárast við grábláa steina

                                   og glitrandi tillit, það fylgir mér samt

                                   á þinn fund

 

                                   eins og skógurinn vakni og vaxi að nýju

                                   inní vorgræna golu sem kyssir hvern fugl

                                   og hvert tré

 

                                   þótt vindarnir gnauði við vatnið og niðurinn sé

                                   nóttin sem vex þér í augum.

 

Þannig kemur þetta haust, þetta óumflýjanlega haust; eins og kvæði innan kvæðisins,það sem ekki er beinlínis talað um,heldur ýjað að með vísunum og skírskotunum

Eins og þetta kvæði sem fjallar um skóginn á hausti og upprisu hans á vori, fugla og tré og hefur hliðsjón af umhverfi sínu.

Vindarnir deyja við vatnið, þeir eru veðrabrigði í lífi okkar. Þegar á móti blæs undir lokin vökna gömul augu eins og fjalla vötn, en niðurinn er nóttin sem hefur ávallt vaxið okkur í augum, þótt við höfum reynt að láta lítið á því bera.

Glitrandi andartak á góðum stundum fylgir okkur, þrátt fyrir haustið, þrátt fyrir skilnaðarstundir; þrátt fyrir skjálfandi raddir sem minna á kliðinn í skóginum, þegar laufið fellur og fuglarnir hætta að syngja.

Þessi stund hér í Háskóla Íslands í dag er slíkt andartak. Og fyrir það þakka ég af alhug og auðmýkt. 

Article originally appeared on Matthías Johannessen rithöfundur (http://matthias.is/).
See website for complete article licensing information.