Að ragnarökum
07.6.2011
Matthías Johannessen

Þegar talað er um gróðurhúsaáhrif

er aldrei reiknað með þeim eldiviði

sem þarf til að kynda upp í helvíti

 

sumir hugsjónamenn telja að allir

skógar jarðarinnar nægðu ekki

til að halda þessum eldum við

eftir siðferðisbrest mannkyns

á síðustu öld,

                                   þannig hefur

mennskunni hrakað og útrýmingaræði

hugsjónamanna færzt í aukana, komið

harðar niður en glæpir svörtustu miðalda,

 

samt hafa rómantísk skáld og listamenn

stjórnað þessari helför,

yfirgefið hjarta sitt

eins og hrunið skjól í köldum veðrum

tímans,

            sigað manndýrinu á umhverfi sitt,

þessir svokölluðu leiðtogar fólksins

sem voru ungir að fikta við skáldskap, liljur

Georgíu og langþreytta fíla í litbrigðum

kínverskra fjalla

en breyttu hendingum

ljóða sinna í skíðlogandi martröð síns herleidda

helvítis,

senn skortir eldivið til upphitunar

þessara frosnu túndra gúlagsins

 

                                               en þegar laufið

fellur í fölum skógum Amason og eldarnir

slokkna á gamalkunnum slóðum Dantes

og skáldskapurinn um manninn rotnar

með annarri ösku

           þá grænkar Eden aftur

og Askurinn syngur að nýju um iðjagræna

jörð.

Article originally appeared on Matthías Johannessen rithöfundur (http://matthias.is/).
See website for complete article licensing information.