Ný ljóð
09.14.2012
Matthías Johannessen

Þegar
landið
rís

 

1 Æska
og elli

 

Lífið er leiðin til dauðans

                     Guðmundur Andri:
                            Valeyrarvalsinn

 

Að lífið sé leiðin til dauða

er leiðsögn sem hugann ber

langt framá leiðarenda

að leyndardómi sem er

markmið í sjálfu sér.

Ég fylgi skáldi sem fer þessa leið

um fyrirheit vona sinna

og geng með honum þann grjótsára veg

sem grær eins og tíminn

að væntingum vonbrigða minna

 

 

2 Hrunið

 

Vitund okkar vaxin inní

veröld sem er ekki til,

þar er móða, þokubakkar

þar sér ekki handaskil,

 

þar er allt sem augað girnist,

allt sem ég að lokum vil.

 

Vitund okkar vilji þess

sem vakir í brjósti sérhvers manns,

hún er varða lífs á leiðum

leiðsögn guðs á vegferð hans,

 

en okkar vitund villt að lokum

vaxin inní hrunadans

 

 

3 Eilífðar-
smáblóm

                  M. Jochumsson

 

Fékk þann harða dóm

að falla í jörðu

 

deyja

 

þetta blóm

 

við heyrðum skóhljóð

tímans

 

kom tíminn á horngulum

skóm.

 

 

4 Það dregur í loft

                         Jón á Fjalli

 

Enn var óuppgróið

allt á milli heimatúns

og mels.

 

Blikur á lofti

sagði bóndinn

og benti til Vörðu-

fells.

 

Þá var Ísland eins og óspillt

stúlka

og engin leið að túlka

framtíð þess,

 

ekkert píslarvætti, aðeins

passíusálmavess.

 

Þá var Ísland gárulaust og græddi

gömul sár og  þar sem ennþá

blæddi.

 

 

 

5 Þú skrínlagða heimska

                                             St.St.

 

Hví hafði gæfan yfirgefið okkur

athvarfslaus við nyrztu ballarhöf ?

 

Hingað mændi sérhver drullusokkur

með silfurblik sem kalk úr dauðans gröf.

 

Græðgin hafði gefizt djöfuls árum

og grafið um sig fjarri öllum vonum,

 

eins og mý af ólum maggadonum

úr auðvaldsköldum heimi tregasárum.

 

Og allt var gert með galdri að þeim hætti

sem gullið ræður för og hröðum slætti

hjartans.

 

 

6 Aftur í legið þitt..

                            Bjarni Thor

 

Þá var Ísland illa svikið

allt var þá í grænum sjó

aðeins lifað augnablikið

engin vestursólarglenna

engin íslandsklukka sló,

 

þá var hnipin þjóð  í vanda

 

þá var Sogið eins og Blanda

 

þegar feigðar fjandabrennu

af Flugumýrareldum sló.

 

 

7 Kyssið þið bárur...

                                    J.Hallgr.

 

Þegar landið hneig í haf

og hending réði kasti

og það sem einhvers virði var

virtist orðið að plasti,

þá kom huldan, hlíðin söng

með hvísl af lækjarniði,

 

en landið reis við reginfjöll

og rosa á fiskimiði.

 

Síðar hefur lægt, ég lít

þau ljósu fjöll sem birtast mér.

 

Nú leggur huldan ljósa nótt

við lyng og blóm í hjarta sér

 

 

8 Huldan

 

Mín fagra dís,

 

í róti nýrra daga, dvel þú ei

við dauðans fingralöngu hönd,

því nú er eins og eilíft vor

sé ilmur hafs við Skógarströnd.

þar rísa margar eyjar úr

þeim unaðsreit sem fuglum hentar vel,

 

við nutum þess að eiga athvarf þar

við arnarból og supum fisk úr skel.

 

 

9 Hún vakir...þó enn

                                     St.St.

 

Og nú er landið litríkt eins og forðum

og laugast enn við tungl og gulan streng

og vörðuð leiðin fagnar framtíð sinni

með fuglasöng við veginn sem ég geng,

þar blasir við sú vitund sem mig dreymir

og vitjar enn míns hjarta líkt og  þú

sért eilíft hvísl af andblæ þeirrar stundar

sem áður var og ég á enn og nú.

 

 

10 Eina
ögurstund

                Völ, 41

 

Gamall er ég og grár

sem veggur dauðans,

 

með auðnarsvip er allt

sem blasir við

 

og rauðanóttin rís

úr hafi tímans

 

og allt er hljótt

í þessum fuglaklið.

 

 

Þið þekkið
fold

               J.Hallgr.

 

Því blekkingin er bandamaður þinn

sem bregður hlátri yfir þögn og dauða...

                                    (Hrunadansinn, vlll)

 

1

Vér sem erum alin upp með Njálu

og eigum þetta land að skírnargjöf,

hvers væntum vér af þeim sem áður ólu

vort undarlega land við nyrztu höf  ?

 

Vér væntum þess að arfleifð þeirra dugi

í öskugráum byl vors hrunadans

og nýir tímar hefji vora hugi

til heiðurs arfleifð þessa kalda lands.

 

--------

 

2

En nú er allt í afturför sem snertir

þá arfleifð sem er stolt í þessum dans

og þótt vort þjóðskáld sólir saman hnýti

er smáblóm dauðans bundið við þann krans.

 

-----

 

3

Því hér er ekki sungið útúr sögnum

sigurljóð um land við nyrzta haf,

en holtaþokuvæl er viðbit þess

sem veröld guðs í tannfé fyrrum gaf.

 

Vér syngjum eins og fuglar kviðri að kveldi

og köllum það til vitnis um vort stolt,

en það er eins og napur næðingsvindur

norpi þar sem  minkur við þau holt.

 

-------

 

4

Því ættum vér að vernda gróður þess

sem vex af djúpri rót í þeirri mold

sem arfleifð vor í ösku tímans geymdi

og undi sér við þessa gömlu fold.


-------

 

5

Ég veit að tízkan telur sig ei þurfa

að tjalda því sem gerir oss að þjóð

og arfurinn er ekki líkt og fyrrum

sú endurnýtta  tímalausa glóð,

hún kveikti löngum elda eins og færi

um æðar landsins vorgrænt kvikuhlaup

en nú er eins og íslendingaþættir

séu ekkert nema gamalmenna raup.

 

En tíminn líður, tengist aðeins því

sem tvíræð reynsla kallar fram á sviðið,

það sem var en verður ekki á ný

sem vorköld ást á  því sem nú er liðið,

samt býr við hjartað blik af gömlum eldi,

það brakar enn í þeirri öskuglóð

og enn er Þorgeir þögull undir feldi

og þrætubókarfjöld á heljarslóð.

 

-------

 

6

Hlustum enn á gamlan gróður þinn

mitt grýtta land og fögnum við þann söng

því líf vort allt er von og vænting meir

en Vaðlaheiðarmillisveitagöng.

 

Nú sezt þar fugl á staur og starir út,

við störum báðir út í vatnsins nið

og vatnið rennur hægt til himins upp

og hverfur loks í  sjávarfuglaklið.

 

-----

 

7

Ég nýt þess enn að hafa hvílzt í þér

mitt hljóða land sem jökulvötnin ber

af örlöglausum öræfum til mín

með undrakrafti líkt og gamla Rín.

 

Og þessi kraftur þýtur um vort blóð

með þungum nið er blæs í hjarta mitt

þeim undrakrafti jökulhvítrar móðu

sem ógnar því er deyr við brjóstið þitt.

 

-----

 

8

Á Bliklastöðum berst á milli greina

ein beingul ugla sem hefst þar löngum við

en hún er líkt og aðrar grimmar uglur

með endurlýstan mánagulan kvið.

 

Við dimmumót er kvöldgult kulið eins

og  kankvís fari sól að vænjum fugla,

þeir mættu vita  að dauðans krappa kló

er kattargul og tvisýn skógarugla.

 

En nú vex tungl af hamrahlíðarvegg

og hnígur burt að annarlegri strönd,

sem fuglar kveðji kulsárt aftanskin

og klógult nemi tunglið önnur lönd.

 

Það væri bezt að viðra á öðrum slóðum

vængi sína og lifa kvöldið af,

 

minn hugur leitar langt á sundin út

og leggst til skjóls  við tunglgult Atlantshaf.

 

----

 

9

( Hrafnar tveir flugu

með þeim alla leið )

                    (Njála lxxix )

 

Undir hömrum hrafnar tveir,

hrafnasparkið eins og væri

feigðartákn, svo flygju þeir

og fyndu næsta tækifæri

til að vekja voðagrun

um veröld fyrir næsta hrun.

 

------

 

10

Að vísu hefur tíminn tekið stökk

og talsverð breyting hefur átt sér stað

og nú er jafnvel mesta hetja heims

horfin burt sem visnað skógarblað.

 

En dauði Armstrongs eru tímamót

sem öðlast dýpt í sögu þessa lands,

þeir æfðu í Öskju, hann og vinir hans

því hálendið er  að mestu auðn og grjót.

og eftirmynd af tunglsins tæpa gróðri

þótt tregafulla  skíman villi sýn

og nú er engin næturrómantík

með norðurljósum þar sem tunglið skín

 

En fótspor manns á mánans yfirborði

er mikill sigur fyrir anda vorn

og jafnvel meiri en Magellans langa sigling

um meginlönd og suður fyrir Horn.

 

--------

 

11

En þarna situr þröstur einn og fagnar

að þjóðin skuli lifa hrunið af

og landið rís þótt útrás hafi ætlað

að ógna því og færa það í kaf.

 

Því spilling þjóðar þekkir engin takmörk

og þjóð er óþjóð ef hún festir rót

og hræsni eins er öðrum lítils virði

og allra sízt nein gleði í þokkabót.

 

Og því skal eigi una við þá lygð

sem öllum lygum fremur drepur þá

goðsögn að vér göngum lengstum til

góðs þar sem vegur skáldsins mikla lá.

 

------

12

Ég heilsa ykkur heimarómi blíðum

um hálfbyggð nakin marggleymd sveitaþorp,

ég fór þar um með frægu skáldi áður

og fannst ég vera skáldið Adam Thorp.

 

Hann kom sem Auden endur fyrir löngu

að eignast svalan jökul fyrir vin,

en sá að landið átti eðli tígurs

og einnig vígtenjnt jökulfjallagin.

 

Og nú er Ísland eins og gamall draumur

sem engan dreymir nema þetta skáld,

það brakar enn við Egils vígaferli

og enn er kvæði rist á þennan skjöld.

 

------

 

13

Vér lifum í heimi sem hverfur oss

hægt og sígandi unz Amason

glatar sínum dýrmæta draumi

og deyr eins og hver önnur fölskvalaus von.

 

Atburðir samtíðar þrengja að því

sem þekkast er á vorri jörð

og nú er svo komið að eilífðin er

aðeins dauði og þakkargjörð.

 

 

14

 ( af dauðanum )


Dauðinn er vegurinn

til eilífðarinnar

            Quo vadis


82ja ára gamall

arka ég um þessa gömlu fold

þar sem njólinn nýtur þess að hausti

að nærast við þá ríku gróðurmold,

 

ein á ferð og áin rennur hægt

uppímóti líkt og raunar við,

ein og væntum einskis framar, það

er andartak við dauðans þunga nið.

 

Því dauðinn kemur, drepur fingri á

þær dyr, og jörðin hverfur undir lín

svart sem myrkur, mildar þessa nótt

og mjúkum höndum dregur oss til sín


------


15

Ég heilsa einkum heimarómi blíðum

þeim sem heimtu landið undan danskri stjórn

og kyntu undir óskir þeirra er vildu

endurnýja feyskinn huga vorn.

 

Hann var sem minning, ævagamlar glæður

sem gras er vex við kalinn túnasvörð

og allt varð nýtt og endurnýtt við sagnir

af úthafi sem reis við græna jörð.

 

Nú sér hún rísa sól við hvítan jökul

og sólarröndin málar þetta haf

líkt og Kjarval kæmi hingað aftur

með kraft þess lands sem hverfur norðuraf.

 

-----

 

16

Og þegar sólin spennir jörð sem áður

og allt er kyrrt við næturhimin þinn,

þá andar jörðin úthafsbláum friði

og Ísland faðmar vökudrauminn sinn.

 

En sólin hallar höfði sínu að

þeim hinzta degi sem er framtíð vor,

hann er jafnóvænt æfintýri og þá

er Armstrong kvaddi tungl við fyrstu spor.

 

-----

17

( af guði )

 

Vér leitum þess er býr í brjósti voru

og bregður ljósi á kviku þess sem fer

um huga vorn og hnattblys sólarkerfa

en himinn guðs mun leyna enn á sér,

því oss er löngum ætluð önnur veröld

og andi hans  er fjarri mannsins sýn,

samt birtast verk hans enn um sköpun alla

og arfleifð guðs er hugarveröld  þín.

 

Þú finnur innst í hjartans helgidómi

þá hönd sem leiðir ótta vorn í skjól,

sem hirðir geymir hann með nálægð sinni

þá hjörð sem lifir af sín kvíaból.

 

Og þangað leitar hugur vor að hausti

er haustar að í vitund gamals manns,

því ekkert skjól er betra þjóð sem þegni

en þinglýst náð í föðurarmi hans.

En sjálfur er hann innst í kviku þinni

og ætlast til þú finnir mynd hans þar

því guð er ekki húsbóndi á himnum

og heilsar engum þar sem Armstrong var.

 

En tunglið er samt ljós er lýsir veginn

og leiftrar þar sem tákn um guðlegt bál,

en engan veginn yfirlýsing drottins

um eilíft líf og dauðans himneskt skjól.

 

-----

 

Vér finnum engan guð í geimferð þeirri

sem gerð er út af tölvubúnum huga,

verðum því að horfa inní hjartað

og helzt að láta óvissuna duga.

 

------


18

(Purgatorio, xxx)

                

Minn hugur fylgir hverju spori þínu

og hvílist þar sem dögg við grasið skein

og skuggi þinn er þögn í brjósti mínu

og þögult andvarp hausts við nakta grein.

 

Ég elska þig og bið þess Beatrísa

að blessun þín sé ljós á veg minn stráð

og þegar önnur ljós þau hætta að lýsa

þá lýsir þú sem ég hef ávallt þráð.

 

Ég hitti þig við helveg þar í neðra

og hjarta þitt var einnig fyrir mig

en ég varð úti í veðri allra veðra

þótt veröld mín sé einnig fyrir þig

 

----

 

Vor jörð er öllum öðrum hnöttum betri

og eilíft sumar grænkar líkt og nú

en sjálf ert þú sem vor að loknum vetri

og veröld mín er himnesk eins og þú.

 

----

19

Nú rís elding þess tíma

sem fáliðann virðir           

                  Einar Ben, Væringjar


Það er rétt sem Einar orti forðum

að elding tímans rís við fjallabrún

og þó að margt sé öndvert eins og háttar

er ekkert betra veganesti en hún.

 

Ég horfi fram og huga mest að því

að Herðubreið sé enn á sínum stað

og Hólsfjöll séu áfram íslenzk jörð

og efalaust að tízkan leyfi það.

 

Því ungur fór ég yndælt júníkvöld

og átti vin á Grímsstöðum á Fjöllum,

þá ríkti kyrrð á öræfunum öllum

og æviminning þessi töðugjöld,

 

svo hvíli ég minn huga norður þar

en hjartað slær í takt við þetta kvöld.

 

------

 

20

Ég horfði fram á Eilífs öskubláma

sem á þar skjól í vestanfjallanmóðu

og þangað einnig þar sem Kverkfjöll stóðu

í þokkafullum miðhálendisgráma,

 

en Jökla rann við silfurgráan sand

og sótti kraft í þetta gleymda land.

 

                                             Matthías Johannessen


Article originally appeared on Matthías Johannessen rithöfundur (http://matthias.is/).
See website for complete article licensing information.