Draugagangur í Fréttablaðinu
10.14.2007
Matthías Johannessen

Í myndskreyttri heilsíðugrein Þráins Bertelssonar í Fréttablaðinu sunnudaginn 7.okt.s.l. leggur hann ranglega útaf bréfi sem Hrafn Gunnlaugsson skrifaði mér á sínum tíma og vitnað er til í dagbókum mínum á netinu.Bréfið fjallar um gagnrýni Hrafns á mig sem ritstjóra Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokkinn fyrir linkind í baráttunni við kommúnista á kaldastríðs árunum. Þar er talað um nauðsyn þess að verjast kommúnistum sem stjórnuðu menningarmafíunni á þeim hrollköldu árum og gagnrýnt hvernig þeir eru látnir vaða uppi,enda var það svo að borgaralegir listamenn voru hundeltir og áttu undir högg að sækja eins og harkan var.

Þráinn rangtúlkar bréf Hrafns auðvitað viljandi og segir það sýni ofsóknir á hendur honum og félögum hans..Kallar þá fasista sem veittu honum ekki aðstoð eða styrki ,en það var orðbragð stalínista á sínum tíma,nú merkingarlaus klisja eins og Þráinn ætti að vita.

Grein Þráins er kaldastríðsstagl og þeir ættu að lesa hana sem þekktu það ekki og vilja kynnast því , ómenguðu.Á þjóðviljaárunum var ég uppnefndur mccarþýisti og grein Þráins nú er skrifuð í anda þeirrar arfleifðar,enda varð hann ritstjóri Þjóðviljans , þegar þessi andi sveif yfir vötnum.

Sízt af öllu átti ég von á svona útúrsnúningi frá Þráni,en hann hefur semsé ekki losað sig við arfleifð kaldastríðsins þarna í nýja skjólinu af Baugs-auðvaldinu.Hann gerði nokkuð góða kvikmyndasyrpu frá Vestmannaeyjum á sínum tíma,eins og ég sagði honum þá,og á að gleðjast yfir því,en ofsjónir vegna tilvistarárangurs Hrafns Gunnlaugssonar eru sálarhnútur sem mér er með öllu óviðkomandi, enda veit ég ekkert um kjötkatla þeirra kvikmyndagerðarmanna,hvorki fyrr né síðar.

Sjálfsvorkunn Þráins Bertelssonar og gamaldags pólitískur ofsi eins og hann birtist í rangtúlkunum hans eru ekki mitt vandamál,eða Morgunblaðsins.

Þetta eru vandamál Þráins sjálfs.

(Sjá ennfremur matthias.is )

 

Matthías Johannessen,
fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins.

Article originally appeared on Matthías Johannessen rithöfundur (http://matthias.is/).
See website for complete article licensing information.