Árið 1956

 

6. janúar 1956

Hef fengið bréf frá Gunnari Norland mági mínum. Það fjallar um styrk sem ég hef fengið til framhaldsnáms í Þýzkalandi. Það er mikill styrkur og merkilegur, kenndur við Alexander von Humboldt, þýzkan náttúrufræðing og landkönnuð sem uppi var frá 1769-1859. Þetta er góður styrkur en ég hef verið í vafa um hvort ég ætti að þiggja hann, eða hvort við ættum að halda heim að Danmerkurdvöldinni lokinni.

Hef stundað framhaldsnám í leiklistarfræðum og bókmenntum og kynnzt mörgu merkilegu en hef þó einna helzt áhuga á að koma heim og taka til starfa.

Gunnar segir að Valtýr Stefánsson hafi fyrir sitt leyti heimilað að ég fari til Þýzkalands í haust og komi svo að Morgunblaðinu að námi loknu. Ég hef verið að hugsa um að skrifa um Grím Thomsen og viðað að mér miklu efni.

En kannski langar mig til að vera nær samtíðinni; lífinu sjálfu og láta fortíðina eiga sig í bili; ég veit það ekki. Þess vegna er Gunnar að velta vöngum yfir því í bréfi sínu hvað gera skal.

“Þá koma önnur sjónarmið til greina, t.d. hvort þú álítur, að þú megir “missa” úr eitt ár í viðbót við nám erlendis. Slíkt námsferðalag birtist vitanlega í heldur slæmu ljósi, ef haft er í huga, að maður gæti ella setið í góðri stöðu (svei mér, ég held þetta sé að verða eins og hjá Vilhjálmi Þ.!), en lærdómur er lærdómur og verður sjaldnast metinn til fjár eða á annan praktískan hátt, allra sízt bókmenntalærdómur.

Hinsvegar eflast menn að þroska, viti og kunnáttu, og sú andlega og sálarlega efling verður aldrei ofmetin. Þú hefur nú þegar haft nokkurn kunnugleika af Englandi og enskri tungu, og nú af Danmörku, og þá væri vitanlega mikill fengur í að kynnast nýrri þjóð, nýrri tungu og nýrri menningu. Ég segi t.d. fyrir sjálfan mig, að hefði ég tök á, mundi ég reyna að fá góða fótfestu í ítölsku, þýzku og frönsku með því að dveljast um nokkurn tíma í viðkomandi löndum. Þetta, sem ég hef talið upp, er sumt af því pósitíva við væntanlega námsferð til Þýzkalands. Hið negatíva hef ég þegar drepið á, þ.e. þig langar að sjálfsögðu að setjast í fasta stöðu og koma þér fyrir á þeim stað (Íslandi), sem þú ætlar þér að hafast við á. Þú ert sýnilega ekki haldinn þessari “faraldspest”, sem nú hrjáir Íslendinga öðrum þjóðum fremur, og segir mamma þín mér, að þar komi m.a. til greina heimþrá. “Drýpur af hússins upsum...” Já, ég skil. Þó geta menn yfirunnið heimþrána, a.m.k. hefur mér tekizt það – þótt einvera og umkomuleysi útigangsstúdentsins hafi stundum orðið þungbærari – og samt nauðsynleg reynsla.”

Mér finnst í aðra röndina nóg komið af námi og hef hug á því að hasla mér völl heima.

Ég hef fengið mörg bréf frá Gunnari G. Schram um Stefni og hef haft mikinn áhuga á því að breyta honum í menningarrit, ásamt félögum mínum Gunnari og Þorsteini Thorarensen.

Ég hef einnig áhuga á því að halda áfram störfum við Morgunblaðið, hvað sem verður.

Hitt er svo annað mál að það er togstreita innra með mér.

Held ég hefði gaman af að kenna bókmenntir við Háskólann og stundum hvarflar að mér að stefna að því.

En ég verð víst sjálfur að vega þetta og meta, það getur enginn gert fyrir okkur. Það verða að minnsta kosti ekki nein örlög sem ákveða hvort ég fer heim eða ekki.

Það verður enginn nema ég sjálfur.

Og svo Hanna.

Ég stend á tímamótum.

Það er margt sem freistar.

Ég hef haft ánægju af að skrifa greinar fyrir Morgunblaðið og senda heim fréttir.

Og þá hef ég ekki síður haft ánægju af því að skrifa nýtt leikrit, Sólmyrkva, og yrkja ný ljóð sem kannski verða birt einhvern tíma.

Hver veit?

Og þó, og þó!

Kannski langar mig að fara til Þýzkalands; og kannski fer ég heim til Íslands og kannski verða það þá örlögin sem taka af skarið og kalla okkur heim.

Hver veit?

 

Gunnar Norland,mágur minn, talar í bréfi til mín um nýja bók eftir Þorgeir Sveinbjarnarson, Sundhallarforstjóra. Gunnar hefur alltaf gaman af að tala um bókmenntir.

Hann hefur þroskaðan smekk og ákveðinn enda sótti hann nám til Harvard. Hann segir að sér hafi þótt Helgi Hálfdanarson hafa þýtt Shakespeare bezt allra Íslendinga, “og sjálfsagt þótt leitað væri til annarra landa”.

Þetta finnst mér merkileg athugasemd því Gunnar er sérfræðingur í enskri tungu og bókmenntum. Og hann segir aldrei annað en það sem hann meinar.

“Ég ætlaði mér að senda þér bók Sundhallarforstjórans, en þá var pabbi þinn búinn að gera það,” segir Gunnar. “Ég býst við, að þú kunnir að meta ýmislegt í þeirri bók: náttúrustemmningar blandaðar persónulegri reynslu, eða hvað þetta nú er hjá Þorgeiri.

Bókin hefur vakið mikla athygli. Kristmann var alveg 100 prósent pro, en ekki sérlega vandaður eða vísindalegur, fremur en endranær. Þó er kannski ekki ranglátt að skrifa í stemmningu um slíka bók. Bjarni Benediktsson í Þjóðviljanum fór miklu varlegar í sakirnar og fann ýmsa vankanta á ljóðunum, m.a. að þau væru of keimlík, ort upp aftur og aftur. Að öðru leyti hælir hann skáldinu.

Ég hef þekkt Þorgeir frá því ég var strákur fyrir norðan; hann kenndi mér að synda árið 1933 á Laugum. Hann er viðfelldinn maður, dulur stemmningsmaður, borgfirzkur að ætt en hefur dvalizt lengi fyrir norðan, sbr. keiminn í sumum kvæðunum. Hann er líka mikill raunamaður. Sonur hans drukknaði í sundlauginni á Laugum og konu sína missti hann á bezta aldri fyrir einum þremur árum.

Þorgeir er víst þjóðvarnarmaður, en það er kostur við bók hans að þar birtist ekkert af því dóti. Mér finnst margt í bókinni vel gert. Galli er það þó eins og B.B. segir að ljóðin eru helzti keimlík. Einnig notar hann of oft þessa blöndu af metafór úr náttúrunni og persónulegri reynslu, slíkt hefur oft leitt menn á refilstigu.

Í “Leysingu” bls. 87, “hugarvötn mín lögð”; sú orðmynd finnst mér týpísk fyrir skáldskap höfundar. Annars virðist mér kvæðið Leysing gott kvæði. Kristmann bendir m.a. á “Haustlitir” bls. 31. – “En endinn varð/öll í tötrum” (sama notkun í orðmynd). Er ekki Lækjarspjall (bls. 15) endurómur af Páli gamla, eða “Við Kínafljót” (bls. 38) tómasarlegt – og svo víðar? Einnig gætir sums staðar fremur “þingeysks” orðfæris, eða sveitalegs, t.d. miðað við þessa fáu atómista eins og Hannes Sigfússon vin þinn og aðra slíka.

Ég hef talið upp ýmislegt, sem mér finnst miður fara, og á heldur sundurlausan hátt; þó verð ég að segja, að það sem bezt er gert hjá Þorgeiri vekur hjá mér hrifningu.”

Þá líkar Gunnari ekki ritdómur sem Stefán Hörður Grímsson hefur skrifað um ljóðabók Hannesar Pétursson í Birting. “Hann virðist aðallega byggja ritdóm sinn á umsögn um eitt kvæði “Víg Snorra”, og finnur þar með miklum orðalengingum að þessari þversögn skáldsins, “því hann var ekki þar”.

Ég botna reyndar ekki í framhaldinu eða “niðurstöðunni”, en verð að segja að dómur hans um þennan paradox er heldur hæpinn, því að skáldið ætti einmitt þarna að hafa leyfi til að nota póetískan lícens. Ég hef ekki lesið bókina en mér finnst form og orðfæri þessa litla ljóðs athyglisvert.”

Að lokum gagnrýnir Gunnar afstöðu Morgunblaðsins til Halldórs Kiljans og telur að blaðið hafi fyrir löngu átt að skilja hismið frá kjarnanum og viðurkenna hann af því “hann er stórskáld, þegar hann ritar um menn, en vandræðakind þegar hann talar um pólitík – viðurkenna hann fyrir verðleikana og skamma hann fyrir veilurnar”.

 

20. janúar 1956

Jón Dan hefur skrifað mér gott bréf. Það er að mestu ritdómur um Stefni, ágætar ábendingar. Hann er ánægður með smásögu eftir Jökul Jakobsson en segir að hún sé nauðalík að efni og saga sem hann eigi í óbirtu handriti, Jafnvel sömu setningar.

“Þó hefur hann hvorki séð mína sögu né ég hans.”

Sem sagt, sumar tilviljanir eru eins óskiljanlegar og örlögin sjálf.

Hannes Sigfússon hefur dæmt þrjú ný kvæði eftir Jón, góð og gild eins og hann kemst að orði, en Jón ætlar að senda mér þau en ekki Gunnari Schram, veit ekki hvaða skynbragð hann ber á kvæði.

“Þessvegna sendi ég þér þrjú þeirra (tvö góð a la Hannes), og ef þér lízt þannig á, að hvorki ég né ritið bíðum álitshnekki af birtinug þeirra, þá taktu eitt eða tvö, og sendu Scramba (Schram).”

Jón Dan segir að Deiglan eftir Arthur Miller sé “eitt það mesta snilldarverk sem ég hef séð. Miklu betra en Sölumaðurinn.

Blessaður vertu.

Til samanburðar hef ég svo Jónsmessudrauminn hans Shakespeares, sem nú er verið að sýna, lapþunnt blávatn, ekki einu sinni bergvatn, bara mýrasitra með brunnklukkum og öðrum óþverra. Það er stórfurðulegt, hvað englendingar (með litlum staf vegna löndunarbannsins) hafa getað agiterað hann upp, svo nú trúir alþýða allra landa – og lærðar, vitgrannar yfirstéttir líka, – að allt sé gott sem hann reit. Það eina, sem snart mig í þeim leik, var fáránlegur leikur handverksmanna (þeir leika fyrir furstann), þar sem Gestur Pálsson les prologus mjög kostulega, Bessi Bjarnason er nokkurskonar frænka Charles, Róbert Arnfinnsson vaskleg hetja; Haraldur Björnsson leikur múrvegg, Klemenz leikur ljón og Indriði Waage tunglið, allir alveg ágætlega. Og ekki síður lítið atriði frá leikstjóranum: hann lætur einn af litlu álfunum alltaf falla í svefn á leiksviðinu. Þegar álfahópurinn hverfur af sviðinu verður hann eftir og einhver þarf í mesta flýti að sækja hann, hann er vakinn og dreginn burt eða borinn burt. Í lokaatriðinu verður hann eftir, hefur sofnað eins og venjulega, lítið og þreytt og syfjað barn; og það dimmir á sviðinu en ljósgeisli kemur úr myrkrinu og fellur á það.”

Jón heldur að eitthvað búi á bak við Hafnardvöl okkar; ég sé ef til vill að ganga frá ljóðabók eða – skáldsögu; eða leikriti? “Já, sennilega er það leikrit.”

Jón Dan er naskur og nú er hann heitur!


Marzlok 1956

Hef fengið enn eitt bréfið frá Sverri Þórðarsyni.

Í upphafi segist hann geta lagt fram merkilegt plagg þegar heildarútgáfan af verkum mínum verði gefin út 1970; síðasta bréfið mitt til hans. Segir það sé nokkuð óvenjulegt bréf, kannski geymir hann það! En ég þarf að vaxa frá því bréfi eins og öllu öðru.

Hann nefnir að Valtýr og Kristín, kona hans, séu komin heim frá Danmörku.

Þau voru á heilsuhælinu Skodsborg utan við Höfn.

Valtýr sé ekkert hressari en þegar hann fór utan, því miður.

En það var gaman að vera með þeim hér í Danmörku, við fengum okkur í staupinu, fórum í leikhús, sáum margt saman. Það var dýrmætt.

Mér finnst Valtýr hafa færzt allur í aukana hér á gömlum Kaupmannahafnarslóðum. Þessi tími hefur verið okkur Hönnu dýrmætur, ekki sízt samfundirnir við Kristínu og Valtý.

Við sáum meðal annas Horft af brúnni hér í Kaupmannahöfn, með Mogens Wieht í aðalhlutverki. Man ekki hvernig nafn hans er skrifað og læt þetta duga, en sýningin var stórkostleg og ég var stoltur yfir því að hann er af íslenzkum ættum.

Sverrir segist hafa hitt Stein Steinar á götu og spurt hann almæltra tíðinda. Steinn sagðist vera hættur að yrkja. Það eru mestu tíðindi og alvarlegust sem ég hef heyrt misserum saman.

Sverrir nefnir væntanlegar kosningar, ég hef engan áhuga á þeim hér úti í Kaupmannahöfn.

Kosningar fara alltaf einhvern veginn.

Hitt er svo annað mál að við þurfum að halda vöku okkar og vernda landið okkar fyrir alþjóðakommúnisma. Allt annað er í mýflugumynd í samanburði við það....

 

Miður apríl 1956

Fékk í dag ágætt bréf frá Sverri Þórðarsyni, en hann er ólatur við að skrifa mér hingað út til Kaupmannahafnar.

Það eru margar góðar athugasemdir í bréfi Sverris enda má segja um bréfin hans að hann sé allur í frásögninni.

Gunnar G. Schram hefur haft orð á því í bréfi til mín hvað Sverrir sé duglegur að skrifa vinum sínum og hvað hann leggi sig fram í frásögnum; það er hverju orði sannara.

Í þessu bréfi er hann að lýsa konungsheimsókninni til Íslands.

Mér finnst skemmtilegust frásögnin af því þegar Ásgeir forseti gekk að honum í Þjóðminjasafninu, þekkti hann ekki og spurði á dönsku fyrir hvaða blað hann skrifaði:

“Þegar við konungshjónin, forsetinn og ég vorum að skoða Þjóðminjasafnið okkar, stóð ég álengdar eins og siðaður blaðamaður. Sé ég þá hvar Bessastaðabóndinn kemur í áttina til mín og taldi ég að hann myndi yfir í annað hliðarherbergi, en hann var jú kominn til að ræða við mig og spurði: “For hvilket Blad skriver De?”

Ég skrifa nú fyrir Morgunblaðið

– Jú, jú, hvernig spyr ég, sagði Bessastaðabóndinn, og Pálmi rektor skaut því inn í sömu andránni hvert þetta Morgunblaðs-fyrirbrigði væri og þá sneri Bessastaðabóndinn þessu öllu upp í grín og sagði að ég væri nú að nokkru leyti danskur, ha-ha-ha.

Og ég svaraði ha-ha-ha, líklega get ég nú ekki neitað því og bætti síðan nokkrum ha-ha við!

Svo spurði ég hann um gjöf konungsins og hans gjöf til Friðriks og það varð úr að ég fékk hann til þess að láta taka myndir af gjöfunum og þær urðu skúbb í blaðinu.

– Ég mun því kjósa Ásgeir en ekki Pétur öskuhaugakóng (Hoffmann).”

Sverrir segir mér frá því að þeir séu nú fluttir í Moggahúsið við Aðalstræti og þar sé unnið af krafti við að koma prentsmiðjunni fyrir. Hún verði komin í gagnið eftir u.þ.b. hálfan mánuð. Unnið sé að því að koma blaðinu fyrir í nýjum húsakynnum.

Konungskoman sé ein harðasta törnin sem hann hafi lent í frá því hann varð blaðamaður “og þó ég segi sjálfur frá sló ég kollegum mínum gjörsamlega við, bæði í referati og eins í ljósmyndara-rapporti”. Menn hefðu rifið þetta efni í sig og “– hafði ég gaman af þessu, því þetta var miklu vandasamara verk en skrifa þessar rútínufréttir um bílaárekstra, slökkvilið og hvað það nú allt er”.


Á aðventu 1956

Hannes Pétursson segist vilja losna undan því að birta kvæði eins og stendur; segist hafa mjólkað sjálfan sig eins og hann hafi getað og hann eigi ekkert kvæði tilbúið til prentunar. Vill aftur á móti rita grein um heimsókn sína í Dachau-fangabúðirnar þar sem hann hafi orðið svo frægur að standa inni í gasklefa en einnig komi til mála að birta sögu sem liggur hjá Kristjáni Karlssyni. Ef honum væri sama ,megi ég hirða hana í jólablaðið, sem sagt mér er heimil ólin. Sagan sem heitir Tryppaskál er víst byggð á sannsögulegum atburði sem gerðist skömmu fyrir aldamót. Heiti sögunnar er tengt örnefni og atburðum.