Árið 1959

 

20. janúar 1959

Hef fengið bréf frá Unni Skúladóttur, dags. 16. jan., og með því fylgja bacchusar-vísur móður hennar, Theódóru Thoroddsens, og Árna Pálssonar prófessors.

Unnur segist hafa rennt huganum yfir það sem borið hafði á góma í samtali okkar þá um daginn og hefur einhverjar áhyggjur af því að hún hafi talað af sér.

En hún þarf engar áhyggjur að hafa af því.

Ég skrifa það eins og ég tel henni sæmandi

Unnur segir í bréfi sínu:

“Líklega hefur það verið á árunum fyrir fyrra stríð eða áður en bannlögin komust í framkvæmd, að vínsala var í svokölluðum Thomsenskjallara, nú Hótel Heklu, við Lækjartorg, að Árni Pálsson, seinna prófessor, kemur snemma dags heim í Vonarstræti 12, með “slatta” á flösku og má ég nú frú Theódóra mín tylla mér hér. Meiningin er að yrkja lofsöng til “Bacchusar”, og fékkst það leyfi –

Árni,

Ennþá gerist gaman nýtt

gnótt er í kjallaranum,

þá er geðið glatt og hlýtt

í gamla svallaranum.

Oft um marga ögurstund

á andann fellur héla

en hitt er rart hve hýrnar lund

er heyrist gutla á pela.

Það er eins og leysist lind

úr læðing margra ára

þegar hnígur heim að strönd

höfug vínsins bára.

Þá er stundarhlé en Theódóra tekur við.

Bacchus kóngur kann það lag,

þá köld og myrk er lundin,

að breyta nótt í bjartan dag,

og brúa dýpstu sundin.

Oft um skúra skinin þá

skjólin mörg og fögur

en skelfing vill oft skella á

þegar skroppinn er uppi lögur.

Augun gerast vot og veik

vitinu sumir farga.

Svona eftir sælan leik

svíkur hann Bacchus marga.

“Nei, ekki svona fljótt timburmennina, frú Theódóra mín,” – og lofsöngurinn var á enda.”

Það er merkilegt þetta orð þarna, ögurstund. Ekki minnist ég þess að hafa heyrt það í nútímamáli fyrr. En líklega hefur það verið Árna prófessor tamt fyrst hann notar það í spontantkveðskap.

En notar hann það rétt?!

Unnur Thoroddsen er einhver allra skemmtilegasta kona sem ég hef talað við; bráðgáfuð, hlý og minnisfróð.

 

 

21. janúar 1959 – miðvikudagur

Um samtalið við Þórberg er fjallað í bókinni 19. janúar.

Litlu munaði að Þórbergur missti kjarkinn og samtölin yrðu ekki birt.

En ég hef alltaf haft tröllatrú á þessu verki . Að það mundi takast. Bókin verður að vísu nýnæmi og samtöl ekki í tízku,ekki endilega.

Sennilega hefur Þórbergur óttazt það.

En formið hentar okkur, bókin skal takast(!)

Ragnar í Smára sagði mér í gær að dómarinn sem Þórbergur fór með handritið til og lagði blessun sína á bókina er enginn annar en Snorri skáld Hjartarson .

Hann er víst æðsti prestur Þórbergs í bókmenntum, bakvið tjöldin,enda einn mesti estetíker landsins.

Næst þegar ég gef út ljóðabók ætla ég bara að bæta við Borgin hló. Það sem ég hef ort eftir að hún kom út gæti auðveldlega staðið með öðrum ljóðum í henni. Mér finnst þessi kvæði flest eiga saman og mynda heild.

Þau eru hvort eð er ekkert annað en ævisögubrot.

Mér finnst ég hafa fengið uppreisn eftir gagnrýni Einars Braga í Þjóðviljanum, aðfinnslu í Forspili og skrif Stefáns Jónssonar fréttamanns í Dagskrá.

Kristján Karlsson hefur skrifað mjög flotta krítík í Helgafell og ég veit hann skrifar einungis það sem honum finnst.

Hann er laus við alla pólitík.

Orð hans eru þyngri á vogarskálinni en allra annarra.

Ragnar las dóminn fyrir mig í síma í gærkvöldi. Mér þótti hann fallega skrifaður og margt vel og skarplega athugað. Auk SAMs skilur Kristján bezt og skynjar það sem ég ætla þessum kvæðum.

Það verða birt kvæði eftir mig í New World Writing og þykir mér vænt um það vegna þeirra sem reynt hafa að sparka í okkur af pólitískum ástæðum.

Þetta er eitt helzta bókmenntatímarit sem nú er gefið út vestra.

Veit ekki betur en allt sé í blómanum með Þórbergs-bókina.

Og Njála er að koma út.

Annars er ekki svo hábölvað að fá misjafna dóma. Það hreinsar , þroskar.

Útgáfa Borgarinnar er meiri áreynsla en ég hélt og nú er að lyppast ekki niður. Auk þess hafa ýmsir tekið bókinni vel.

Það er gott veganesti.

Það járn sem þekkir engan eld herðist ekki, það verður deigt járn.

Ekkert er eins ömurlegur vitnisburður um vonda stjórn þjóðfélagsins og svartamarkaðsbrask. Ég heyrði nýlega sögu sem á að lýsa ástandinu hjá okkur.

Þrír útlendingar gengu að jafnmörgum íslenzkum stúlkum sem voru að spóka sig niður við Tjörn.

How much in dollars? segir einn þeirra.

Stúlkurnar urðu upprifnar yfir þessu og vildu fá dali. Útlendingarnir skildu hvorki upp né niður í þessu, en loks rann upp fyrir þeim ljós: stúlkurnar vildu kaupa dollara á svörtum markaði!

Þegar þeir sögðu þessa sögu bættu þeir við að konur hefðu hvergi lagzt svo lágt þar sem þeir þekktu til að stunda svartamarkaðsbrask! Það var í þeirra augum lægsta tegund af siðferði,miklu verra en götuvændi.

Og bæri pólitísku ástandi í landinu hörmulegt vitni.

Talaði lengi við Thor Vilhjálmsson á fimmtudag. Mér líkar ágætlega við hann. Við vorum saman á æfingu á Skin of our Teeth í Þjóðleikhúsinu.

Drukkum svo expressó saman.

Thor hefur lítið álit á Bjarna Ben. Ég reyndi að lagfæra það, en tókst ekki.

Að öðru leyti töluðum við sama tungumál. Held við höfum svipaðar skoðanir á listum og bókmenntum.


25. janúar 1959

Þórbergur, Ragnar í Smára, SAM og Guðmundur Steinsson,áður Gíslason, komu til okkar Hönnu á föstudagskvöld ásamt Björgu,konu Ragnars , Mömmugöggu og Kristbjörgu Kjeld.

Skemmtilegt kvöld.

Skrifa kjarna þess inn í samtalsbókina um Þórberg.

Benedikt Waage,forseti ÍSÍ, segir í dag í Morgunblaðinu að hann hafi senzt hjá Thomsens-verzlun.

Allt fékkst í Thomsens-magasíni eins og auglýst var.

Eitt sinn kom sjómaður í búðina og spurði, hvort það væri ekki satt að allt fengist í Thomsens-magasíni?

Jú.

Get ég þá fengið byr upp á Skaga, spurði sjómaðurinn.

Mér datt í hug að þeir ættu að setja góðar gæftir inní næsta kjarasamning við sjómenn.

Er að lesa ævisögu Stefáns Zweigs,Veröld sem var. Upplifuð bók um Vín og heimsmenninguna.

Sérlega vel þýdd.

Það hlýtur að hafa verið mikið ævintýri að alast upp í slíkri borg þar sem meðalmennskan var ekki verðlaunuð , en góðri list fagnað eins og farfuglum.

Enginn kommúnismi, ekkert hatur.

Ragnar sagði mér að Þorbjörgu, mágkonu Steins, hefði dreymt skömmu áður en samtal mitt við hann kom út í Helgafelli,að Steinn vitjaði hennar og bæði hana um að koma með eina af ljóðabókunum hans næst þegar hún heimsækti hann.

Það er eins og vanti eitthvað í kvæðið sem vitnað er til í samtalinu, sagði hann.

Ég ætla að ganga úr skugga um, hvort þetta er svona í bókinni.

Þegar samtalið birtist svo, féll niður eitt orð eða tvö úr tilvitnun í Tímann og vatnið.

Mikil rimma hefur orðið vegna ritdóms SAMs um Gangrimlahjól Lofts Guðmundssonar sem varð verðlaunabók Almenna bókafélagsins og því viðkvæmt mál.

Sigurður er sem stendur áhrifamesti ritdómari landsins, en ég skil sársauka Lofts. Það er bót í máli fyrir hann að menn eins og Tómas og Gunnar Gunnarsson kunna að meta bókina.

Hef lítið talað við Bjarna Ben., hann er svo upptekinn af pólitíkinni, eins og hún er nú þokkaleg! Ræddi aftur á móti í gær við Sigurð Bjarnason,ritstjóra, um samtölin við Þórberg.

Honum lízt vel á verkið.

 

8. febrúar 1959

Sá Alla syni mína eftir Miller í kvöld. Vel heppnuð sýning. Leikritið er svo hlaðið af efni að það hefði getað nægt í fjóra til fimm harmleiki. Fyrst hægt er að sýna þetta leikrit vikum eða mánuðum saman í Reykjavík er sú fullyrðing fallin um sjálfa sig að ekkert alvöruverk geti gengið hér.

Vel miðar með Þórberg. Við erum að velta fyrir okkur nafninu á bókinni. Okkur hefur dottið í hug Kompaní við allífið eða Í samfélagi við allífið .

Eða eitthvað í þeim dúr.

Magnús Jochumsson, gamall vinur föður míns og eigandi sumarbústaðarins við Helluvatn sem stóð næstur við okkur, segist í spurningu dagsins í Morgunblaðinu í dag einungis hafa heyrt um einn mann stundvísan:

“Hann átti nefnilega að skerast upp klukkan 9 einn morgun. Hann fékk sér leigubíl til sjúkrahússins og bað bifreiðastjórann að aka greitt, “því ég á”, sagði hann, “að mæta klukkan 9 til uppskurðar og kann ekki við, að þeir séu byrjaðir áður en ég kem!”


18. febrúar 1959

Njálan komin út. Bjarni fékk eintak og er ánægður. Einar Ólafur sagði að það væri gaman að fá svona bók þar sem efnið væri “eins og skinn rifið af svelli”.

Pabbi er ánægður með Njálu, en mamma kvíðir Þórbergi!

Vitaskipið Hermóður farinn, togarinn Júlí í síðustu viku. Hvað er hægt að segja um svo hörmuleg tíðindi?


2. marz 1959

Þá er ég loks að verða búinn með Þórberg. Hann talar við mig á hverjum degi orðið, stundum oftar en einu sinni.

Þegar ég fór í fyrradag úr Unnskiptingastofunni eftir stuttan stanz, sagði hann:

Vertu blessaður, og þakka þér fyrir gleðina sem þú komst með. Þú kemur alltaf með gleði.

Ég sýndi honum nokkur kvæði eftir mig þegar hann kom hingað heim um kvöldið, eins og segir í einum kafla bókarinnar.

Hann sagðist ekki skilja skáldskap sem segði einungis hálfsagða hluti.

Hann vildi tala um morðingja og hatur í kvæðinu um Sakiet Sidi Youssef.

Hann vildi hafa daginn glaðan en ekki klyfjaðan — mótsetningarnar væru þá sterkari.

Það má til sanns vegar færa.

Hann gagnrýndi nokkrar setningar og sagði að þær væru ekki nógu exact.

Hann prísaði kvæði um Hákon góða en sagði það ætti að standa höggunótt, en ekki hökunótt.

Ég hef kannað málið og er það ýmist.

Finnst einkennilegt að hann skuli vera svona ánægður með þetta kvæði, ég held það sé ónýtt. Veit ekki hvort ég birti það. Geri það þá til heiðurs Þórbergi!

Hann sagði að Eisenhower og Krúsjeff væru báðir mættir til leiks í þessu kvæði og braut heilann um hvor væri Krúsjeff. Eftir nokkra umhugsun bætti hann við, Hvur djöfullinn, þessi nútíma skáldskapur!

Þórbergur virtist hafa gaman af New York-kvæðinu, þótt hann segði þegar hann las: Blues á saxafón...

Nú, svo þú ert svona eitraður!

Ég held honum hafi fundizt allt ljóðið óskiljanlegt en hann hafði augsýnilega gaman af því, ég veit ekki hvers vegna.

Þórbergur segir að ég verði alltaf atómskáld, hvernig sem ég yrki;hvort sem það er rímað eða óbundið.

Þú ert þeirrar gerðar, sagði hann.

Svo fór hann að tala um kvæði Pastenaks í tímariti Máls og Menningar. Hann var ekki ánægður með þau.

Hvað þýðir þetta, sagði hann, og benti á:...rykfallinn markað...?!


7. marz 1959

Ég sat uppi á borði í skrifstofunni minni á Morgunblaðinu í fyrradag og var að lesa prófarkir af Þórbergi. Þá gægðist Bjarni inn um dyragættina og sagði, Þú ert búinn að fá þér rúm hér!

Svo kannaði hann hvað ég væri að lesa og bætti við, Nú, með Þórberg, alveg heillaður!

Brosti og gekk út.

Um daginn kom til tals að bezt væri að samtal úr Kompaníinu kæmi í Morgunblaðinu á afmæli Þórbergs. Sigurður Bjarnason sótti það fast. Bjarni féllst á það.

Ólafur sálfræðingur frá Vík í Lóni hafði boðizt til að skrifa grein um Þórberg.

Það er ómögulegt, sagði Sigurður,

Það væri mátulegt á Þórberg, sagði Bjarni hlæjandi.

Vorum hjá Þórbergi á föstudagskvöld.

Skemmtilegt.

Kristján Davíðsson leit inn. Það var kollrak!

Þórbergur og SAM rifust um “hjólbeinótta rómantík” og Gígjuna eftir Gröndal.

Engin niðurstaða.

Þórbergur er meiri unnandi Gröndals en SAM.

Ragnar las Gígjuna og Kristján Davíðsson var spurður um álit sitt:

Ég skil ekkert í þessu, sagði hann, en getur nokkur sagt mér af hverju það er, að ég skil ekkert í þessu, en samt þykir mér þetta svo fallegt?

Þið skiljið þetta seinna, sagði Ragnar og fór að tala um ástina.

Hún gat verið svo heit, sagði Ragnar, að menn gátu fært stúlkurnar sínar úr buxunum og étið þær!”

Fleira var sagt spaklegt.

Valtýr kom sem oftar í skrifstofuna mína í vikunni sem leið. Hann var afar hryggur, settist og lá við gráti.

Þú ert hryggur, sagði ég.

Já, sagði Valtýr.

Hvað er að? spurði ég.

Jú, Kristínu er farið að gruna að hún gangi með þann sjúkdóm sem engum þyrmir og þessi þolraun Kristínar leggst eins og mara á heimilið.

Í fyrradag sagði Valtýr mér svo léttari í bragði að Halldór Hansen gæti ekki fundið nein einkenni krabbameins í Kristínu.

Andrúmsloftið á heimilinu er gjörbreytt, sagði hann.

Þórbergur segir mér að honum líki Njálan vel.

Hún sé fræðileg og skemmtilega skrifuð. Og svo er líka blaðamennska í henni, bætti hann við.

11. marz 1959

Er hálf kvefaður. Verð þó að fara í Þórbergs-hófið á morgun. Þar verður lesið upp úr Kompaníinu.

Þá á ég einnig að lesa upp úr því í útvarp á morgun og í fyrramálið birtist þáttur úr því í Morgunblaðinu.

Mikið að gera og margt spurt um Kompaníið. Vekur mikla athygli. Búið að stilla því út í alla búðarglugga með auglýsingaspjöldum og myndum af okkur Þórbergi.

Hitti hann ekki í dag því þau Mammagagga fóru í sovézka sendiráðið. Þar kann hann vel við sig(!)

Valtýr hringdi til mín í kvöld og spurði hvort ég ætlaði á landsfund Sjálfstæðisflokksins.

Nei, svaraði ég, ég er búinn að fá ofnæmi fyrir pólitík í bili.

Það hef ég alltaf haft, svaraði Valtýr.


19. marz 1959

Jæja, nú er Þórbergur kominn út. Ég er feginn. Sumir marxistar skilja ekki hvers vegna þurfti að sækja mann á Morgunblaðið til að tala við Þórberg.

Sagði Þórbergi þetta í gær.

Hann sagði að menn þyrftu alltaf að finna sér einhverja afsökun.

Þórbergur varð eitthvað leiður yfir þessu.

Þá sagði ég honum það sem Ragnar hafði sagt mér, að Sigurður Nordal hefði sagt að bókin væri mjög vel heppnuð frá hendi okkar beggja.

Hann var samt ekki fyrirfram ákveðinn í því að vera í jákvæðu stellingunum, sagði Ragnar.

Kannski samtöl geti orðið sérstök bókmenntagrein, það væri skemmtilegt.

Gunnar Norland, mágur minn sagði um daginn að ég væri stundum í þessum samtölum einsog básúna í dómkirkju. En það gæfi samtölunum nauðsynlega lyftingu.

Þetta er ekki svo vitlaus lýsing.

Magnús Kjaran segir mér að Þórbergur hafi eitt sinn komið til sín í verzlunina Liverpool, að mig minnir, þegar Magnús afgreiddi þar, tekið upp eitt eggið og sagt, Hvað er þetta? Eru þær farnar að verpa stimpluðum eggjum?

Magnús skrifaði einhverju sinni upp á reikning fyrir Þórberg. Þórbergur skrifaði dálítið skjal sem hann lét hann fá og taldi upp allar eigur sínar nákvæmlega og verðmæti þeirra.

Ég sá skjalið og fannst það lýsa Þórbergi betur en mörg orð.

Magnús sagði við hann, En heyrðu Þórbergur, þú hefur gleymt koppnum.

Nei nei, svaraði Þórbergur, hann er innifalinn í þvottaáhöldunum!


20. marz 1959 – föstudagur

Yndislegt veður í morgun, sól og hlýja.

Vorið að banka uppá.

Hitti Eggert Stefánsson við Reykjavíkurapótek.

Íslendingar dýrka klónin, Kjarval og Þórberg, sagði hann. Ísland er ekki orðið nógu stórt ennþá. Innan tíðar verður úr því skorið hvort það verður sjálfstætt eða ekki.

Jæja,sagði ég !

Ef það verður ekki sjálfstætt, bætti Eggert við, þá stofna ég sjálfstætt Ísland suður á Ítalíu eins og Jón Sigurðsson í Höfn.

Fór svo að tala um að hann væri sérfræðingur í menningartengslum.

Fór með Halla í bæinn. Komum við hjá Jóni Magnússyni seglasaumara í bragganum við Tryggvagötu. Sagði Halla að Jón hefði verið svo mikill sægarpur á sinni tíð að aldrei hefðu sézt sjóskrímsli við Suðurland, meðan hann stýrði skútunum.

Þá hló karlinn og sagði, Ertu nú strax byrjaður að ljúga að drengnum!

Talaði lengi við Pétur bónda Ottesen alþingismann í fyrradag og var Guðmundur Steinsson viðstaddur. Hann varð ákaflega hrifinn af Pétri.

Pétur sagðist ekki ætla að fara fram aftur, hann vildi hætta í fullu fjöri.

Pétur sagði okkur margt skemmtilegt. Hann sagði að Jón Magnússon ráðherra hefði verið vitrastur þeirra sem hefðu setið með honum á þingi.

Jón hefði stundum drepið andstæðinga sína í umræðum með einni setningu.

Einu sinni sagði hann þegar rætt var um frumvarp um ríkislögreglu á þingi, Að hann Jónas Jónsson (frá Hriflu) skuli vera að bera sig saman við Björn Jónsson (ritstjóra og ráðherra), sem gnæfir yfir hann eins og himinhátt fjall yfir hundaþúfu.

Pétur sagði okkur Guðmundi að Þorsteinn Gíslason ritstjóri hefði átt samtal við Jón Magnússon í Lögréttu.

Þeir segja að þú sért enginn skörungur, sagði Þorsteinn.

Hvað eiga þeir að gera við skörung? svaraði Jón.

Pétur hefur einnig mikið dálæti á Hannesi Hafstein. Þegar þrek Hannesar minnkaði sagði hann að læknirinn hefði bannað sér að fara í tvö hús í bænum, Alþingishúsið og Íslandsbanka - en þá var hann bankastjóri og þingmaður!

Pétur Ottesen hefur lesið Njálu í íslenzkum skáldskap. Hann segist hafa haft gaman af henni en samt ætti hann erfitt með að samþykkja þá staðhæfingu mína að Sigurður Breiðfjörð hafi ort Hallgerðar rímuna.

Jakob Benediktsson orðabókarritstjóri og Ásgeir Blöndal Magnússon sýndu mér fram á það eins og bent er á í bókinni.

 

2. apríl 1959

Dómur Bjarna frá Hofteigi um Kompaníið fellur í heldur misjafnan jarðveg. Engu líkara en hann eigi í einhverjum erfiðleikum með dóminn. Reynir að skýra það að ég hafi e.t.v. skrifað beztu og fyndnustu bók Þórbergs með því að ég sé einhver yfirgengilegur hraðritari!

Kann ekki hraðritun.

Hef aldrei lært hraðritun.

Var gagnrýndur fyrir það þegar ég var þingskrifari. Við Þorsteinn Valdimarsson skáld og Gísli Jónsson menntaskólakennari vorum þingskrifarar saman og enginn okkar kunni hraðritun. Held samt að við höfum skrifað betri ræður en þær sem fluttar voru!!

Vona einungis að Kompaníið vísi veginn. Sýni að blaðamennska getur verið bókmenntir. Sama þó einhverjir reyni að skúta mig með hraðritun, vanur slíku úr Þjóðviljanum.

En það á eftir að lagast(!)

SAM hefur ekki skrifað enn. Þykist vita að hann eigi eftir að skrifa um Kompaníið af mestum skilningi. Hann veit hvernig svona bækur verða til, að þær eru upplifuð úrvinnsla úr miklu meira efni. Krefjast mikils þreks og enn meiri vinnu. Krefjast einnig áræðis eins og sést á því að Þórbergur fékk bakþanka þegar hann fékk handritið í hendur.

En þetta er mitt form og ég treysti því að ég kunni á því lagið. Þórbergur treysti því einnig eftir að Snorri Hjartarson hafði kveðið upp sinn jákvæða dóm.

Bjarni Ben. sagði að bókin væri heldur skemmtileg aflestrar eins og hann komst að orði, en Þórbergur væri þröngur og afturhaldssamur.

Guðmundur Hagalín segir að Þórbergur sé ekki þjóðskáld, heldur þjóðfífl. Ég hafi unnið það afrek að sýna fram á það!

En það vakti svo sannarlega ekki fyrir mér. Ég hafði áhuga á að kynna mesta ritsnilling þjóðarinnar á minn hátt. Ég sagði mesta , að vísu,þótt ég viti að samjöfnuður er marklaus, þegar listir eru annars vegar. Menn sem tala um bezta skáldið eða mesta málarann eru kjánar.

Er ég þá kjáni?

Kannski!

Það er enginn mestur í listum, ekki frekar en að eitthvert blóm sé mest í flóru náttúrunnar. Mér finnst sum blóm fallegri en önnur, það er allt og sumt. En það merkir ekki endilega að það sé fallegasta blómið í landslaginu.

Er byrjaður á Hólmgönguljóðum.

Við SAM og Guðmundur Steinsson heimsóttum Guðmund Daníelsson austur á Eyrarbakka.

Gengum fjöruna.

Eftir það orti ég eitt af hólmgönguljóðum, einsog sjá má.

Guðmundur Dan er ágætis maður og þau Sigríður bæði. Þau eiga myndarkrakka. Dóttir þeirra er 18 ára, verður stúdent í vor og heitir Iðunn.

SAM sagði að hún væri með tvö Iðunnar epli.

Guðmundur Daníelsson er viðræðugóður og sagði margt skemmtilegt. Í haust hyggst hann gefa út samtalsbók af Suðurlandi. Það verður áreiðanlega skemmtileg bók - og þá fara samtölin að verða það sem ég hef eiginlega barizt fyrir, sérstök bókmenntagrein.

Valtýr og fleiri vísuðu veginn.

Það er gaman að hlusta á brimið með Guðmundi.

Held það sé mikið brim í honum sjálfum.


6. apríl 1959

Þorleifur ríki á Háeyri sagði, þegar hann var spurður að því, hvernig hann hefði orðið svona ríkur,

Ég leysti hnútana(!)

SAM flutti heldur gott erindi um NATO í útvarpið í gærkvöldi. Þórbergur gagnrýnir það harðlega. En það er alveg rétt hvað sem Þórbergur segir að NATO er bjargvættur mannkynsins. Það er að minnsta kosti athyglisverð staðreynd að Rússar hafa engum landskika náð í Evrópu frá því Atlantshafsbandalagið var stofnað. Eins og kommúnistaríkin hafa hegðað sér, er guðsblessun að vera laus við þá. Og nú eru þeir að byrja í Tíbet(!) Bretar og gamlar nýlenduþjóðir komast ekki í hálfkvist við þessar nýju herraþjóðir.

Hannes Pétursson hringdi til mín í gær út af Árbók skálda sem AB ætlar að gefa út. Þetta er fín hugmynd og ég bind miklar vonir við hana. Ég er fullur af hugmyndum í sambandi við þessa bók. Svo verður Kristján Karlsson með okkur Hannesi í þessari útgáfu.

Hann er spenntur.


25. apríl 1959

Leiðinlegt veður .

Kalt.

Gengur vel með Hólmgönguljóð. Guðmundi Daníelssyni lízt vel á það sem komið er.

Tölum mikið saman um skáldskap.

Guðmundur segist aldrei hafa efazt um skáldskap sinn.

Ef mönnum líkar hann ekki, þá verð ég hissa(!)

Hef skrifað allmikið samtal við Eyjólf Eyfells. Er nú með annað samtal sem ég vona verði mitt bezta - við snæfellska bóndann Valdimar Kristófersson.

Tala á morgun við Birgi Kjaran og dr. Pál Ísólfsson um samtalsbók sem mig langar að skrifa við Pál.

Birgir á þó uppástunguna.

Væntanlegt heiti: Í dag skein sól.

Talaði við Snorra Hjartarson í hléinu á frumsýningu Túskildingsóerpunnar. Skrifa e.t.v. samtalsbók við hann um skáldskap og fagurfræði. Hann tók uppástungunni vel.

Sjáum til síðar.

Bjarni Benediktsson segir mér í trúnaði að Einar Ásmundsson verði látinn fara frá Morgunblaðinu, ef hann taki sig ekki á.


Lok apríl 1959 – ódagsett

Hef verið að tala við Jón Leifs. Þegar ég kom heim til hans einn morguninn tók hann á móti mér í silkislopp.

Hann bauð mér te.

Mér fannst ég vera að tala við Wagner.

Jón hefur enga minnimáttarkennd en hann sýndi mér hlýtt viðmót.

Held hann sé mikið tónskáld.

En hann á erfitt uppdráttar.

Hann þvælist meir fyrir sjálfum sér en nokkur maður sem ég hef kynnzt.

Jón Leifs á einn óvin: Jón Leifs.

Samt getur hann verið yndæll. Hann kemur stundum niður á Morgunblað því hann þarf að minna á sig eins og aðrir; og svo náttúrulega STEF.

Fólk hlær að tónverkunum hans og hatar STEF.

Það er að vísu ósanngjarnt en hann er of fyrirferðarmikill fyrir okkar litla samfélag.

Hann nær sér á strik dauður.


Í bréfi sem ég hef fengið frá Páli Jónssyni, járnsmið, gömlum manni sem er bundinn við hjólastól á Sólvangi í Hafnarfirði, segist hann hafa verið eins og rímnaskáldið gamla leggur Þórði hreðu eða hræðu í munn, þegar ég átti samtal við hann:

Illa búinn eg var þó, okkar nú við fundi.

Honum var stirt um stef en það kom ekki að sök því við höfðum tímann fyrir okkur . Blaðamenn þurfa stundum að sýna þolinmæði ef þeir vilja hafa árangur sem erfiði.

Páll svarar í þessu bréfi spurningunni um það hvers vegna Benedikt Gröndal hafi verið merkilegasti Íslendingurinn á sínum tíma og segir að hann hafi að sjálfsögðu verið eitt af höfuðskáldum Íslendinga, alveg sérstætt skáld, stundum óvanalega viðkvæmur og blíðlyndur, eins og hann kemst að orði, og það var hans sanna innræti og eiginlegi innri maður, “en þó miklu oftar kíminn og bar í þeirri grein svo hátt yfir aðra, að allir galgopar og háðfuglar hlutu að fyrirverða sig og þagna þegar Gröndal tók stuð.

Þegar hann gekk um Reykjavíkurbæ, eins og hann var þá, og lýsti því sem hann sá, í blaðagrein eða fyrirlestri, kom margt nýtt og skringilegt í ljós, sem enginn hafði áður veitt athygli. Það er ljótan að vera búinn að gleyma hverjum einasta brandara þessa fluggáfaða Íslendings, sem á sjer engan líka hjer á landi þegar um fyndni, kímni og kaldhæðni er að ræða.

Þriðji hæfileikinn, sem Gröndal var gæddur, og gerði hann alveg sjerstæðan hjer á landi á sínum tíma, var hin óviðjafnanlega hagleiksgáfa, hann var snilldarmálari, listaskrifari, allt, sem hann leysti af hendi bar vott um frábæran hagleik og smekkvísi – þetta þrennt: sjerstæð skáldskapargáfa, leiftrandi fyndni, einstæð meðal Íslendinga, og frábær listrænn hagleikur til allra verka gerði Benedikt Gröndal að merkilegasta Íslendingi sinnar tíðar.

Þrátt fyrir ljetta fyndni, var Gröndal gamli oft alvarlegur í skapi og þungur í svip, og lágu að því einkum tvær orsakir, sem jeg vissi um:

Hann átti ágæta konu, en naut hennar ekki lengi. Eftir fráfall hennar gerðist hann hljedrægari og fráhverfari fólki en áður og fannst hann vera mjög einmana, að minnsta kosti nokkurn hluta ævinnar. Hann unni konu sinni hugástum og harmaði hana til dauðadags.

Annað, sem gerði hann alvarlegan og þungbúinn, var það, að hann tók einhverja innvortist veiki, sem olli honum mikilla þrauta í köflum, einkum á efri árum.

Ekki kvaraði Gröndal þá, heldur fór inn og gekk hratt um gólf á meðan þrautaköstin voru að líða hjá.

Eitt var það í fari Gröndals sem vakti undrun mína. Jeg dáðist að Náttúrugripasafninu í húsi hans við Vesturgötu og var þar tíður gestur. Ég dáðist líka að Gröndal sjálfum og kom ekki síður til að vera í návist hans, þessa gagnmerka manns. Þá flæktust oft útlendingar inn á safnið. Þá ljet nú Gröndal okkar brýnnar síga fyrir alvöru, því honum var meinilla við útlendinga og vildi þá ekki inn á safn sitt.

“Safnið er handa ykkur, landar mínir,” sagði Gröndal. “Þessir útlendingar, sem eru að flækjast hingað, reykjandi og púðrandi, eiga ekkert erindi hingað, þeir hafa hvorki vit á neinu nje áhuga fyrir neinu.”

Gröndal, þessi hámenntaði maður sem hafði dvalið í ýmsum löndum á yngri árum og kunni mörg tungumál, var beinlínis hræddur við útlendinga og forðaðist þá suma, að minnsta kosti þótti mjer þetta undarlegt.

“Enginn er ég kvennamaður,” sagði Gröndal þegar rætt var um kvenfólk. “Samt elska jeg kvenfólkið og ég er rómantískt forlibtur í öllu kvenfólki!”

Seinasta áratuginn sem Gröndal lifði, ljet hann lítið á sjer bera og hafa veikindin sjálfsagt valdið því. Þó man ég eftir einu snjöllu tækifæriskvæði, sem birtist eftir hann á hans efri árum. Á því eru engin elli- nje veikindamerki, heldur er það magnað álíka fyndni og fjöri og þegar hann var á ljettasta skeiði. Nú man ég ekki vel hvert var tilefni kvæðisins, en líklega það að Friðrik konungur VIII bauð alþingi heim árið 1907, því kvæðið byrjar svona:

“Nú er Botnía farin beint út í Danmörk...”

og endar þannig:

“Og svo var jetið og drukkið dátt

útí Danmörk.

Frelsisvinirnir höfðu hátt

útí Danmörk,

átu grundvallarlagagraut

útí Danmörk,

en þó gott enginn af því hlaut,

útí Danmörk.”

Sagði Páll gamli Jónsson í bréfinu sínu ágætu.


21. júní 1959

Hitti Gunnlaug Scheving í dag og við völdum myndir í samtalið í Helgafell. Gunnlaugur er ágætur maður og mikill listmálari. Hann gaf mér vatnslitamynd af sjómönnum, en um daginn gaf hann okkur Hönnu mynd frá Akranesi.

Þeir Ragnar eru ánægðir með samtalið.

Kjarval ánægður með forsíðu Morgunblaðsins 17. júní sl. Er alltaf tilbúinn að gleðja þjóðina,eins og hann segir sjálfur.

Er stoltur af að hafa fengið hann til að myndskreyta forsíðuna.

Gengur lítið með Pál Ísólfsson enn. Fengum okkur í staupinu á mánudagskvöld, þá kom Ragnar.

Þeir rifust um Kristján Davíðsson.

Vonandi fer þetta að ganga eitthvað.

Hef nú að mestu lokið við ljóðaflokkinn. Er að hugsa um að láta hann heita Dagar eða Hólmgönguljóð. Ragnar kemur í kvöld að sjá handritið. Fékk þunglyndiskast út af því, er kvíðinn og spenntur.

Samt ánægður í aðra röndina.

Hef ekki hitt Þórberg mikið, en alltaf sama góða taugin á milli okkar.

Kosningar á sunnudag. Það er merkilegt út af fyrir sig. Hitt þykir mér samt merkilegra að Halli verður fimm ára á morgun.


27. ágúst 1959

Fékk þetta skemmtilega bréf í dag frá Gunnlaugi Scheving, dagsett í Múlakoti og handskrifað:

Kæri vinur, mannþekkjari og meistari.

Nú er jeg búinn að skrifa greinina sem þú talaðir um. Jeg sendi þjer hana á morgun með pósti í fyrramálið kl. 9.

Jeg er búinn að fara í feiknarlegt ferðalag með Ragnari Jónssyni. Fór um Hreppa, Skeið, Land, Þykkvabæ – Fljótshlíð. Landmannalaugar – o.fl. o.fl.

Drakk kaffi á Kaldbak – orti Symfoníu, Kantötu í bílnum uppi í Hreppum, þó mjög magaveikur. Hef ekki skrifað hana niður.

Kynntist ósýnilegum bíldraug, sem stal bensíninu af tveimur bílum og kastaði grjóti vestur í Árnessýslu.

Hefi upplifað íslenskan fyllirísgrandessu og gífurlega hurðaskelli að nóttu – svo ég hjelt að Bjólfurinn væri að hrynja yfir mig.

Nú er jeg rólegur og er að hugsa um umhverfið. Ég hef það gott.

Ég hef oft hugsað til þín með þakklæti. Þú ert listamaður, ég finn það. Þú gefur gott samband við listina – þú ert mér mikið apótek, og háfjalla-súrefni – það er gott.

– Þakkir.

– Þinn einlægur Gunnlaugur.

Það er munur að fá svona andlegt grasaseyði sent ókeypis ofan úr Fljótshlíð þar sem Gunnar mætti örlögum sínum vegna ofurástar á Hallgerði; konu sem hann þoldi ekki.

En Gunnlaugur Scheving hefur ávallt verið mér góður vinur; hann er generös, hann teiknar í ljóðabækur fyrir strákling eins og mig; það hefur verið ómetanlegt, enda er hann ómetanlegur, bæði sem maður og listamaður.


September 1959 – ódagssett

Hef fengið bréf frá blaðamanni Herald Tribune sem hér var á ferð. Hann talar um Pritchard hershöfðingja á Keflavíkurflugvelli og samtal mitt við hann. Hefur haft áhuga á að birta það, en ég veit ekki hvað úr verður.

Það má víst þakka fyrir að framkoma kanans á Keflavíkurflugvelli skaði ekki stórlega varnarsamstarf okkar við Bandaríkin. Mér líkaði ágætlega við Pritchard, en hann verður að víkja. Það þýðir ekki að setja Íslendinga undir einhver herlög, þeir lúta ekki því sem þeir skilja ekki, það er allt og sumt.

Það var viðkvæmt mál fyrir Morgunblaðið að eiga samtal við Pritchard því að við stöndum vörð um varnirnar eins og grimmir hundar.

Var hálfhræddur um að Bjarna Benediktssyni myndi mislíka svo hart og ákveðið samtal við yfirmann bandaríska hersins í Keflavík því það hefur ekki verið nein elsku mamma að sannfæra Íslendinga um nauðsyn varnanna.

En hann er ánægður. Veit öllum betur að varnirnar verða að byggjast á gagnkvæmu trausti og þeirri sannfæringu meirihluta íslenzku þjóðarinnar að þær séu nauðsynlegar.

En kaninn getur ekki misboðið Íslendingum með því að umgangast íslenzka ríkisborgara eins og hunda, miða á þá byssum og láta þá leggjast í svaðið, einungis vegna þess að þeir eru á einhverju svæði sem kananum er ekki þóknanlegt. Slíkt leiðir einungis til andúðar og endar með trúnaðarbresti.

Það verður að framfylgja reglum á Keflavíkurflugvelli eins og annars staðar með þeim hætti að sæmandi sé fyrir þá óbreyttu borgara sem þar starfa.

Pritchard hershöfðingja hefur ekki tekizt að skapa það andrúm sem nauðsynlegt er í slíku tvíbýli. Það getur spillt sambúðinni og endað með ósköpum. Rússar eiga það ekki skilið að eignast bandamann í andúð Íslendinga á stjórnleysinu í varnarstöðinni.

En kannski verður þetta samtal við hershöfðingjann birt annars staðar, ég veit það ekki, þeir um það. Maður fær hvort eð er aldrei greitt nema einhverja smápeninga fyrir það sem maður gerir fyrir útlendinga!

 

Ódagsett

Fékk bréf frá Ragnari í Smára,hafði beðið hann um að segja mér eitthvað af vini hans dr.Páli,því að nú væri ég að byrja á samtalsbókinni um hann og þekkti hann lítið serm ekkert.

Í bréfi Ragnars segir m.a. :

“Svo þú æltar að fara að tala við Pál vin minn Ísólfsson . Það verður skemmtilegt að rabba við hann um lífið og tilveruna og það er einmitt út af því sem ég ætla að skrifa. Reyndar varstu búinn að biðja mig um bréf um Pál en það verður mjög ófullkomið því Páll er eins og himnafaðirnn, maður veit ekki alveg hvað maður á að segja um hann. En það var hann Páll sem sagði þetta: Maður á ekki að drekka of mikið - en mikið. Hér talar sá sem valdið hefir og reynsluna.

Páll er mesti munaðarseggur sem ég hefi kynnzt, enda geníalastur allra. Hann hefði átt að sitja til borðs með Balzac og Händel. Svona hafa reyndar ýmsir forfeður okkar í Bergsætt verið. En Páll er ekki bara ofsalegur munaðarseggur, hann kann að vinna, hann kann að lifa, kann að þjóna Guði og Mammon og báðum af hjartans lyst. En skyldurækni Páls er ekki fengin að láni og hún er ekki lærdómur einn. Hún er arfur frá mörgum kynslóðum, háræktaður sjúkdómur sem hefur bjargað honum frá því að drukkna í munaði og kvennafari og því að helga sig óskiptan listköllun sinni, þessari eigingjörnu ástríðu sem svífst einskis og fellur jafnt til fóta djöflinum og guði ef hún aðeins má ráða sér sjálf “.

 

Og Ragnar í Smára heldur áfram í bréfi sínu til mín um Pál Ísólfsson:

“Það er haft eftir sr. Bjarna að eitt af því sem verið hafði honum einna mestur styrkur á langri og erfiðri embættistíð hafi verið það að í hvert sinn sem hann gekk inn að altarinu, fimm mínútum áður en messa skyldi hefjast, gat hann eins og nálægð þeirrar forsjónar, er hann hafði þjónað dyggilega um áratugi með fullkominni vissu reitt sig á það að upp á söngpallinum við orgelið sat vinur hans og samstarfsmaður, Páll Ísólfsson, og hagræddi nótnablöðunum. Og við hundruð jarðarfara til virðingar háum og lágum í þessum bæ, í sumarsól og vetrarhörkum, gat það jafnvel komið fyrir að hinn dáni og aðstandendur hans væru enn sinn í hvorum bæjarhluta, en Páll Ísólfssosn var þó að minnsta kosti á sínum stað og það brást aldrei að þeir mættust á réttu augnabliki fyrir augliti drottins. Einn ríkasti þátturinn í lífshamingu P.Í. er hin óskeikula skyldurækni hans. Hún er arfur frá því fólki og þeim tímum er þessi eiginleiki var æðsta dyggð mannsins og köllun þegar ekki var spurt um nema tvennt: er hægt að treysta honum, kann hann nokkuð. Þessi arfur hefur eflaust mótað hinn stórbrotna mann og snilling meira en nokkuð annað.

Páll fór mjög ungur utan til náms og var svo gæfusamur að komast til kennara sem héldu í heiðri fornum dyggðum og ávöxtuðu trúlega arfinn frá meistara meistaranna, Jóhanni Sebastian Bach. Listin var þá ennþá fremur þjónusta við lífið en tjáning eigin hugarumbrota, fagnaðar og rauna.

Uppeldi Páls heima og erlendis kann að hafa ráðið nokkuð miklu um það að er hann kom aftur heim frá námi með hlaðnar kistur gulls og gimsteina, þeirrar tegundar er aldrei áður höfðu borizt upp að ströndum einbúans í Atlantshafi, var ein hugsun öllum öðrum yfirsterkari í vitund hans, að fá stráð þessum óþekktu gersemum yfir land og lýð á Íslandi.

Manni með jafnaugljósa skapandi hæfileika og Páll ætti samkvæmt lögmálum mannlegs veikleika að hafa verið það efst í huga að loka sig inni með hljóðfærið og nótnablöðin og yrkja ódauðleg ljóð til konungs síns og vinna þannig þau frægðarverk sem sjálf tryggja sér líf um aldir. En boðskapur meistara Bachs hafði náð þeim tökum á hinum unga manni að engu varð umþokað um þá ákvörðun hans að gerast fyrst flytjandi og hrópandi orðsins, eins og nafni hans postuli, og síðar tónskáld, þjónn sinna eigin hugarumbrota, ef tími reyndist aflögu. Hann blótaði skáldgyðjuna aðeins á laun. Þau voru hans afbrot framan af ævinni. Og hver er sá að hann ekki samþykki svo óeigingjarna ákvörðun. Þannig hafði vinur hans, Magnús Ásgeirsson, það síðar og Casals og Busch. Sjálfur tel ég að þessir menn hefðu allir átt að helga sig sínum eigin sköpunargáfum. En hvar væri Bach í dag ef Busch og Casals hefðu ekki þekkt sinn vitjunartíma? Samhengið við listina væri ef til vill rofið núna. Og ef til vill hefði friðþægingarmáttur kristindómsins misst afl sitt ef Páll postuli hefði farið að mála á sér naflann í stað þess að ganga á vald meistara síns.”

Þetta er fínt veganesti, nú þegar ég er byrjaður að tala við Pál og fyrirhugað er að Bókfellsútgáfan eða Birgir Kjaran, gefi úti bókina.

Ragnar tekur því nokkuð vel en ég finn að það hvílir dálítið á honum að Birgir skuli gefa út þessa bók um Pál vin hans. Hann hefur ekki miklar mætur á Birgi sem bókaútgefanda. En hann lætur þetta gott heita. Birgir átti hugmyndina og hann á að njóta hennar.

Mér finnst gott að eiga samstarf við Birgi Kjaran og ég er ánægður að skrifa þessa bók handa honum.

Ragnar huggar sig við það að þeir Páll séu of miklir vinir til að hann geti gefið út bók um hann.

Ég veit ekki hvort þetta er afsökun eða sannfæring.

Vildi helzt ég fengi aldrei að vita það!


13. október 1959

Fór til Páls í kvöld. Góð heimsókn, rauðvín og góðgæti hjá Sigrúnu konu hans.Hann sagði mér af Þorsteini í Bæ, það getur orðið skemmtilegur kafli í bókinni.

Já bókinni(!)

Það er nú meira verkið sem bíður manns(!)

Vona samt það gangi þrátt fyrir aukna vinnu sem hleðst á mig vegna ritstjórastarfsins.,en ég tók við því í ágúst s.l.

Mér líkar nýja starfið vel. Finnst alltaf jafn skemmtilegt að tala við Valtý og Bjarna. Þeir eru góðir vinir.

Allt hefur gengið að óskum. Höfum nú birt fyrstu símamyndirnar að utan.

Fréttin um bjarghringinn af Hans Hedtoft var stórskúb. Fékk hann hjá Magnúsi á Hrauni.

Kom einnig á forsíðu Berlingatíðinda.

En þetta er mikið starf og meiri ábyrgð. Finnst stundum ég sé orðinn skólastjóri við stærsta skóla landsins. Bjarni er mér afar hlýr og hefur sagt hann treysti mér fullkomlega.

Með tímanum verður þú Morgunblaðið, segir hann.

Ætla ekki að drukkna í pólitík, langar ekki til þess. Ætla að sjá um daglegan rekstur ritstjórnar og skrifa undir drep eitthvað sem ég held menn nenni að lesa, ekki sízt samtöl. Nú síðast við Þorvald Skúlason.

Valtýr segir mér að hann sé ánægður með blaðið.

Það gleður mig.

Ætla að reyna að standa mig. Blaðamennirnir eru allir af vilja gerðir og gera margt vel. Held þeim hafi yfirleitt líkað vel að ég skyldi taka við ritstjórn, a.m.k. eru þeir mjög samvinnuþýðir og leggja sig fram. Ef ég hefði ekki tekið við ritstjórastarfinu, hefði Jóhannes Nordal verið sóttur út í Seðlabanka.

Tók því starfið að mér.

Senn koma Hólmgönguljóð út. Vona að bókin fái að sigla inn í gleymskuna án stóryrða. Held samt að eitthvað sé nýtt í þessum ljóðaflokki og athyglisvert.

Magnús á Hrauni er sómakarl. Ég kynntist honum þegar ég skrapp til Grindavíkur að skrifa um bjarghringinn af Hans Hedtoft. Ætla seinna að hafa samtal við hann.

Hann sagði mér frá því þegar Eggert Stefánsson kom einhverju sinni að Hrauni og reif í sig þorskhausa.

Þá sagði Eggert, Maður fer til Rómar, London, Brussel og Parísar en hvergi rekst maður á þorskhausa nema á Íslandi!

Er að lesa Bókina um veginn.,þar standa þessi orð:

Sá sem er hógvær, hreykir sér ekki - þess vegna ljómar hann.

Og:

Þegar góðverk er unnið og heiður fenginn, dragðu þig þá í hlé - það er vegur himinsins.

Þetta minnir á afstöðu Þórbergs í Kompaníinu. Ég sé hann er með Lao Tze í blóðinu.

Ennfremur:

Starfaðu lífsins vegna, ekki vegna hagnaðar eða eigingirni.

Og loks:

Unnt er að þekkja allan heiminn án þess að fara út fyrir hússins dyr.

Þetta er kannski ekki orðrétt munað , en í þessum anda.


21. desember 1959

Allt hefur gengið að óskum. Þó var Ólafur Thors eitthvað óánægður þegar við birtum stóra mynd af Vilhjálmi Þór og Stewart á útsíðu. Hann hringdi í mig og gagnrýndi þetta uppátæki.

Ég tók á móti, samt fór vel á með okkur.

Ólafur sagði við mig um daginn að hann væri skapvargur ,en yfirleitt er hann þægilegur við mig og almennilegur.

Það tekur tíma að venja pólitíkusana af því að vera síhringjandi niður á Morgunblað.

Þarf að tala við þá með lempni.

Allt tekur þetta tíma en það tekst.

Bjarni hefur meiri skilning á blaðamennsku en Ólafur.

Laugardaginn fyrir hálfum mánuði var ég boðinn til SAM en Bjarni bað mig koma við hjá sér fyrst. Við töluðum saman til klukkan 3.30 um morguninn.

Sigurður sat á hakanum.

Bjarni stendur með mér eins og hann getur, ekki síður en Valtýr og aðrir eigendur blaðsins.Valtýr kemur nær daglega og sezt hjá mér

Spyr tíðinda.

Og hlustar.

Samstarf okkar Sigurðar Bjarnasonar er einnig ágætt og leggja báðir sig fram. Held blaðið sé frambærilegt.

Sigurður er samt of upptekinn af pólitíkinni úti í alþingi, finnst mér stundum.

Læt Morgunblaðið sitja fyrir öllu, einnig heimilinu.

Það tekur á taugarnar.

Hef gaman af að rabba við Sigurð þegar hann kemur niður á blað úr þinginu.

Þú þekkir mig ekki fyrr en þú hefur verið með mér heima í Vigur, sagði hann um daginn.

Ég á það eftir.

Sigurður sagði mér þá sögu um daginn að Hannes Hafstein hefði haft fyrir sig hornherbergið milli Efri og Neðri deildar og boðið þangað inn þeim þingmönnum sem hann þurfti að tala við.

Það þótti mikill heiður að vera boðinn inn í "ráðherraherbergið" og var vel tekið eftir hvaða þingmenn þangað fóru.

Eitt sinn kom þingmaður nokkur hlaupandi til annars þingmanns, hnippti í hann og sagði með öndina í hálsinum, Það er sjómaður í ráðherraherberginu!

Tímarnir hafa breytzt sem betur fer.

Stóð til að Bjarni yrði næsti forsætisráðhera Sjálfstæðisflokksins en það varð ekki. Hann hafði ekki áhuga á að verða dómsmálaráðherra í Viðreisninni, vildi heldur halda áfram á Morgunblaðinu. En hann fór að bón Ólafs Thors um það sem annað.

Þegar ég talaði við hann um forsætisráðherraembættið, sagði hann, Mér er alveg sama, ég hef fengið allt út úr lífinu sem ég vil - og fór svo að tala um annað, m.a. Ingólf á Hellu og sagðist hafa átt mestan þátt í að hann hefði orðið ráðherra.

Ég hélt það hefði verið Ólafur Thors eða Sigurður Bjarnason .

Bjarni fullyrti annað.

Bjarni sagði hann hefði getað myndað ríkisstjórn fyrir lýðveldistöku 1944 þegar Sveinn Björnsson, forseti , myndaði utanþingsstjórn dr. Björns Þórðarsonar,en það þótti svo mikill heiður að Framsókn fékkst ekki til að láta Bjarna njóta hans, þegar á reyndi.

Svona er nú þessi pólitík! sagði Bjarni.

Hannes Pétursson hlaut bókmenntaverðlaun AB fyrir helgina. Vorum saman alla nóttina áður, ágætt kvöld, SAM, Kristján Karlsson og Guðmundur Steinsson.

Rauðvínsveizla(!)