Árið 1974

 

 

Miður febrúar 1974

Hef fengið bréf frá Ashkenazy.

Það er skrifað í Toronto 15. febrúar.

Hann fjallar fyrst um útlegð Solzhenitsyns, að hún sé hápunkturinn á þeirri herferð Flokksins að þagga niður í þeim fáu hugrökk Rússum sem segja sannleikann og dreifa réttum upplýsingum.

En þetta sýni einungis öryggisleysi þeirra sem stjórna sovézka alræðinu.

Eina leiðin nú sé að vanvirða Solzhenitsyn og úthrópa hann lygara, svikara og þar af leiðandi óvin fólksins. Hann hafi verið orðinn hættuleg áskorun og þar sem vegur hans hafi vaxið með hverjum deginum hafi hann orðið sovétskipulaginu ógnarlegri andstæðingur og æ meiri áhætta. Það hafi verið ómögulegt að láta ákærur hans í garð yfirvaldanna sem vind um eyru þjóta.

Og nú sé svarið komið:

Engum muni haldast uppi að segja annað en það sem Flokknum sé þóknanlegt eða hann telur rétt. En jafnframt á aðferðin að minna Vesturlönd á hversu mannúðlegir þeir séu í Moskvu: við leyfum honum að fara óáreittum til Vesturlanda þar sem honum mun áreiðanlega vegna vel.

Ashkenazy leggur áherzlu á hversu nauðsynlegt sé að láta ekki blekkjast af þessari “mannúð”.

Þetta sé allt úthugsað.

Helzt hafi þeir viljað losna við hann í hinar illræmdu fangabúðir sínar en hann hafi verið of þekktur og haft of mikinn alþjóðlegan stuðning bak við sig, píslarvætti hans hefði orðið sovétstjórninni þungt í skauti og þeim hefði þá ekkert orðið ágengt í stefnu sinni um “friðsamlega samúð” eða á ráðstefnunni um öryggi Evrópu.

Þess vegna hafi útlegð orðið niðurstaðan.

Síðan minnir Ashkenazy á hvernig aðrir óþekktari hafi horfið í gúlagið og týnzt inn í geðveikrahælin.

Þá segir hann einnig að rússneska þjóðin geti ekki dæmt um “glæpi” Solzhenitsyns af því að hún hafi ekki fengið tækifæri til að lesa stafkrók í síðustu bókum hans.

Ákærurnar á hendur honum hafi verið birtar í sovézkum blöðum sem túlki aldrei annað en skoðanir yfirvalda og þar sé sannleikanum hagrætt.

“Rithöfundur skrifar bók, yfirvöldin vita um innihaldið, almenningur veit ekkert, yfirvöldin misfara með innihaldið, og kynna höfundinn sem óvin fólksins, höfundurinn fær ekkert tækifæri til að svara fyrir sig opinberlega, fólkið þekkir málið einungis eins og yfirvöldin hafa lagt það fyrir en þau vitna af ásettu ráði einungis í örfá orð sem tekin eru úr samhengi til að styðja þeirra málstað.

Útlegð Solzhenitsyns er harmleikur – fyrst og síðast fyrir hann sjálfan þar sem líf hans verður ekki aðskilið föðurlandi hans, en hann er af blóði þess og holdi; það er einnig harmleikur fyrir landið þar sem stjórnvöld geta ekki horfzt í augu við sannleikann um þjáningar rússnesku þjóðarinnar og að lokum byltingarinnar.

Þannig er þetta einnig harmleikur fyrir sérhvern þann sem lætur sér annt um þessa miklu þjóð sem er mikilvægari heiminum en hægt er að tíunda; harmleikur fyrir hvern þann sem ber umhyggju fyrir réttlæti og einföldum mannlegum heiðarleika.

Það hefur oft verið sagt í Rússlandi að mikill rithöfundur sé samvizka þjóðarinnar.

Enginn mun draga í efa mikilleik Solzhenitsyns.

Hann glataði sínu elskaða landi en þjóð hans glataði líka því sem ekkert getur komið í staðinn fyrir.”

 

 

Maí 1974 – ódagssett

Hef fengið dálítið íhugunarvert bréf frá Hrafni Gunnlaugssyni,kvikmyndastjóra, sem nú er í Stokkhólmi.

Hann segir að fóstbróðir sinn, Davíð Oddsson, hafi sagt sér í bréfi nýlega að mér hafi sárnað “fljótfærnisbréf það er ég skrifaði þér í febrúar” og hefði ég trúlega verið sjálfum mér líkur, skrifað út frá eigin hugrenningum án útskýringa eða samhengis, þannig að mestu spekingar hefðu fengið allt annað út úr bréfinu en til var stofnað, þó þeir hafi verið allir af vilja gerðir að sjá það í réttu ljósi.”

Síðan segist Hrafn nú einu sinni vera “voðalegur egóisti” og er montinn af því, þó hann viti hvaða hættum slíkt býður heim.

Maður eigi að vera egóisti í sköpuninni, andanum, trúnni. – Eigingirni er allt annað.

Og þá snýr hann sér að ástandinu hér á Íslandi og segir:

“En hvað er þá að gerast á Íslandi spyr maður sjálfan sig. Jú, við áttum útvarpsráðsmeirihluta í áratugi, á meðan varð útvarpið rautt – við erum í minnihluta í dag, þá er útvarpið orðið eldrautt. Allt virðist stefna í sömu átt og í Svíþjóð. Við leyfum eyðileggingaröflunum að vaða uppi til að kaupa okkur smá frið. En höfum við hugfast: þeir vinna stöðugt af okkur land og hafa ekki tapað einum fermetra, frekar en Björninn bak við járntjaldið.

Því miður virðist ríkja algjört sinnuleysi í okkar röðum, ef þú og örfáir menn á Mbl. eru undanskildir, okkar menn líta á útvarpsráð sem bitling, Þjóðleikhúsráð sem snobb, en skilja ekki að þeir eru í útvarðsstöðu, þar sem baráttan á að vera hörðust og þar sem úrvalsliðið á að stöðva fjandmanninn.

Ég er voðalega hræddur um að við séum aðeins bremsuborðar, kæri pater, sem slitnum þegar hjólið snýst. Kannski tekst okkur að hægja á snúningnum eitt andartak með ofboðslegu átaki, en það er komið á fleygiferð aftur eftir augnablik. – Við verðum því að safna liði og hefja sókn. Ég hef sjálfur reynt að byggja upp tengsl við góða og hugrakka drengi sem ég veit að vilja berjast og þora. Þú manst eflaust enn þegar ég kom með Davíð Oddsson í fyrsta sinn upp á skrifstofu til þín, og Baldur Hermannsson á eftir að reynast fallbyssupenni þegar fram í sækir. Rúnar (Gunnarsson,á sjónvarpinu) á einnig eftir að fylgja okkur eftir gegnum þykkt og þunnt, þannig mætti nefna fleiri, en við verðum að byggja upp breiðfylkingu og standa saman.

Ég lít á þig sem kjörinn foringja til að safna liðinu um, en gleymdu því ekki að berserkir eru oft erfiðir í liðssveitum, þó þeir séu öllum mönnum betri í orustu. Sjálfur er ég þannig skapi farinn að ég rýk upp með offorsi og hleyp á mig, og þegar ég er í ham hættir mér til að tala beint út frá eigin hugrenningum. Þegar ég skrifaði þér “bréfið” þá var ég í öllum ham og fannst allt á leiðinni norður og niður, og við standa magnlausir gegn helreið laumukommanna; árangurinn varð frumhleypt reiðikast. Ég ætla ekki að útskýra þetta nánar, ég veit þú skilur það – svona er ég, ég hef erft þetta og mínir vinir sætta sig við þennan ókost vegna annarra kosta (vona ég!) – Ég bið þig að hugleiða þetta og óska að vinátta okkar sé einlæg sem áður. Ef ég hefði einhvern tíma ástæðu til að efast um sjálfan mig þá væri slíkt löngu orðið, öðrum eins óhróðri um þig hafa blóðhundar kommúnista reynt að ausa á mig. Staðreyndin er að þeir óttast að við stöndum saman, því þeir vita að þar fer herfylking en ekki “the lonesome rider”.

Sturlunga segir frá því að Guðmundur góði missti eitt sinn stjórn á skapi sínu og bannsöng Arnór Tumason í offorsbræði. Arnór var spurður hvað honum þætti um orð biskups.

Hann svaraði: “Hygg ek þetta atburð en eigi áhrínisorð.”

Látum bréf mitt hljóta sama dóm, það var atburður.”

Svo mörg voru þau orð,heit og einörð.

Og áminnandi,auðvitað (!)

Ég hef svo sannarlega fengið verra bréf en þetta!

Þegar berserkurinn Hrafn Gunnlaugsson sækir sér “atburði” í nýjar kvikmyndir, þá verður gaman að fara í bíó og hlusta á ylhýra málið í nýjum búningi; vonandi verður það jafnáhrifamikið fyrir arfleifð okkar og þýðing Odds Gottskálskssonar á Nýja testamentinu sællar minningar.

 

 

13. júní 1974 – fimmtudagur

Tómas Guðmundsson kom heim á Reynimel til okkar Hönnu og sýndi okkur það sem hann var búinn með af Þjóðhátíðarkvæðinu.

Það er fínt, tært og fallegt.

Hrifning okkar gladdi hann.

Hvítasunnan er minn uppáhaldstími, sagði hann. Ég byrjaði á kvæðinu annan í hvítasunnu en ég var búinn að hugsa mikið um það.

Hann sagðist hafa lesið verðlaunaljóð Davíðs Stefánssonar 1930 "og ekki líkað það", kvaðst ekki vilja hafa sitt kvæði rímað.

Tómas sagði að hann þekkti aldrei Einar Benediktsson af lýsingum annarra.

Hann var honum ljúfur og góður.

Mér finnst Tómas lýsa vináttu þeirra Einars eins og ég upplifði Stein Steinar. Hann var mér einnig ávallt ljúfur og góður og ég þekki hann ekki af lýsingum annarra.

Einhverju sinni voru þeir Einar Benediktsson í skrifstofu skáldsins í Þrúðvangi, þá gekk Einar að bókaskápnum, tók ljóðabók Jónasar og las Óhræsið.

Þegar kom að línunum: Á sér ekkert hæli/útibarin rjúpa... voru tár í augunum á honum, sagði Tómas.

Honum fannst þetta lýsing á sjálfum sér.

Tómas sagðist hafa ort mörg ljóð þegar hann var hjá Geir Zoega,vegamálastjóra í Túngötunni, m.a. kvæðið Í nótt hefur vorið verið á ferli...

Tómas segir, Hápunktur alls skáldskapar er að sitja á steini í Selsvörinni og hugsa.

Tómas sagði ennfremur að Sigurður Grímsson hefði aldrei viljað gera neitt nema yrkja, hvað sem hann hefði sagt sjálfur um það.

"En það stöðvar enginn þann sem verður og þarf að yrkja", bætti Tómas við.

Þannig hef ég aldrei heyrt hann tala áður.

Loks sagði Tómas:

Maður hefur verið að vona að þegar kæmi að okkur væri svo mikið liðið á eilífðina að enginn tími væri eftir fyrir okkur til að deyja.

 

 

Ágúst 1974 – ódagsett

Hef oft þurft að verja Sverri Hermannsson, vin minn , vegna afstöðu hans til myndunar ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar.

Ég átti því sérstætt samtal við hann um það efni.

Hann kvaðst hafa verið algjörlega sannfærður um að við ættum þess ekki kost að fá forsætisráðherraembættið, eins og hann komst að orði.

En að kvöldi fimmtudagsins 22. ágústs birtist sá möguleiki að framsóknarmenn væru til viðræðu um að Sjálfstæðisflokkurinn fengi forsætisráðherraembættið. Um það var deilt hvort Sjálfstæðisflokkurinn fengi sjö ráðuneyti en framsóknarmenn fimm og þeim áskotnaðist þá forsætisráðuneytið, eða hvort ráðherratalan yrði jöfn og Geir yrði forsætisráðherra. Þeir ræddu þessa möguleika og sýndist sitt hverjum.

Engin úrslit urðu næsta dag, föstudag.

Sverrir sagðist hafa gert sér grein fyrir því þegar á leið að Geir vildi í hjarta sínu heldur þann kost að mynda stjórnina en hann hafði sagt að nú væri erfitt um vik og hér væri um að ræða eina erfiðustu ákvörðun sem hann hefði þurft að taka.

Ýmsir þingmenn voru fylgjandi sjö-fimm leiðinni og kvaðst Geir ekki myndu hindra að hún yrði valin.

Sverrir segir:

“Rétt fyrir þingbyrjun næsta laugardag gekk ég enn einu sinn til Geirs og spurði hvort það stæði ekki hjarta hans nær að verða forsætisráðherra, og svaraði hann þá,

”Jú, það stendur hjarta mínu nær”.

Og þá voru að sjálfsögðu af minni hendi ráðin úrslit um það hvor kosturinn yrði valinn.”

Geir Hallgrímsson vildi láta greiða atkvæði um það í þingflokknum hver myndaði ríkisstjórnina, sagðist fyrst stinga upp á leynilegri atkvæðagreiðslu en bætti síðar við að hann væri reiðubúinn að víkja af fundi ef menn vildu heldur hafa handauppréttingu.

Þá varð ys og þys á þingflokksfundinum en formaður þingflokksins taldi það óþekkt að efna til slíkrar atkvæðagreiðslu og þar sem engin önnur uppástunga hefði komið fram um það hver stjórnina myndaði væri Geir Hallgrímsson sjálfkjörinn, og það varð úr að engin atkvæðagreiðsla fór fram um þetta mál í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Sverrir telur að Gunnar Thoroddsen hafi reynt að drepa því á dreif að Geir Hallgrímsson yrði forsætisráðherra enda voru átök þeirra á milli og landsfundur á næstu grösum þar sem velja átti formann flokksins.

“En þingflokksformaður hafði áður bent á, að Geir Hallgrímsson hefði aldrei verið kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins.”

Sverrir sagði að Albert Guðmundsson hefði einatt lýst því yfir að hann léti engan handjárna sig, hvorki í þessu máli né öðrum, “og lýsti að lokum yfir því að hann væri andstæður þessari stjórn með því að viðskiptamálin féllu ekki í okkar hlut”.

Sverrir segir að svona hafi þetta staðið í stönginni um hríð og margir orðið undrandi.

Jóhann Hafstein hafi komið inn á þingflokksfundinn og barizt skelegglega fyrir stjórn Sjálfstæðisflokksins.

Baráttan um ráðherrastólana er saga út af fyrir sig en hvorki kann ég á henni full skil né hef ég sérstakan áhuga á því persónulega framapoti sem er einn helzti fylgikvilli allra stjórnmála.

Ólafur G. Einarsson (síðar ráðherra) segir mér að þingmenn hafi rætt við framsóknarmenn á göngum og í kaffistofu og nokkur rimma hafi orðið um það á þingflokksfundinum “að alltof mikið spyrðist út sem gerðist á fundum þingflokksins. Það varð til þess að við ýmsir sátum fremur inni, heldur en gefa á okkur þann höggstað að við hefðum sagt frá því sem væri að gerast inni á okkar þingflokksfundi.

Þegar klukkan var farin að ganga eitt aðfararnótt laugardags fór ég fram í hléi og var að ræða eitthvað við þingmennina Steingrím Hermannsson og Tómas Árnason og var heldur létt yfir mönnum og þeir gerðu að gamni sínu.

Þá kom Ólafur Jóhannesson, forsætisráðherra, út úr herbergi Framsóknarflokksins, skimaði í kringum sig og sá að þarna voru aðallega framsóknarmenn, auk mín.

Ólafur sneri sér þá að mér og sagði heldur snakillur:

“Nú bíðum við ekki lengur.”

Ég ansaði að sjálfsögðu engu en hann leit enn hvassar á mig og ítrekaði orð sín.

“Nú bíðum við alls ekki lengur.”

Það sló þögn á alla sem þarna voru, en í þessu kom Geir Hallgrímsson niður stigann.

Þá hafði Geir lokið fundi sínum með viðræðunefnd Sjálfstæðisflokksins.

Ólafur snýr sér að honum , ítrekar þetta og segir, “Nú bíðum við alls ekki lengur”.

En Geir svarar því til að hann skildi það vel og spyr hvort ekki sé í lagi að þeir bíði enn í tíu mínútur.

Og þá svarar Ólafur, “Jú, við bíðum í tíu mínútur , en alls ekki lengur”.

Á þessum tíu mínútum ákvað þingflokkurinn svo að leita eftir því í fullri alvöru að Sjálfstæðisflokkurinn fengi forsætisráðuneytið.

Annað var ekki verjandi en taka þessu boði, þegar ljóst var orðið að forsætisráðherraembættið gæti orðið fugl á hendi Sjálfstæðisflokksins.”

 

 

23. ágúst 1974

Jóhann Hafstein hefur mikinn áhuga á því að ég viti ,að hann hafi lagt fram bókun í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um myndun ríkisstjórnar.

Af henni má glöggt greina að þessum gamla forystumanni Sjálfstæðisflokksins var mikið í mun að stjórnarforystan væri í höndum flokksins.

Hann segir að glæstur sigur Sjálfstæðisflokksins í tvennum almennum kosningum hafi ótvírætt mælt fyrir um að vinstristjórn á Íslandi skyldi lokið.

“En við taki endurreisnarstarf undir forystu Sjálfstæðismanna.”

Og ennfremur:

“Ég hefi frá öndverðu barizt gegn því í þingflokki sjálfstæðismanna að gengið yrði til samstarfs við Framsóknarflokkinn undir forsæti hans nú þegar hann biður Sjálfstæðisflokkinn ásjár, eftir að hafa á þrem árum haft forystu um það að stefna blómlegu þjóðarbúi á helarþröm í mesta góðæri.

Aðgerðir við stjórnarmyndun hjá forseta Íslands og Framsóknarflokknum eru ásökunarverðar.

Ég styð ekki stjórnarforsæti Framsóknarflokksins við núverandi stjórnarmyndun.

Ég mun hins vegar styðja starfsemi ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni og sérhverja viðleitni ríkisstjórnarinnar til endurreisnarstarfsins, svo geigvænlega erfitt sem það er.”

 

 

28. ágúst 1974

Hitti Geir Hallgrímsson á skrifstofu minni á Morgunblaðinu í hádeginu í dag, það lá vel á honum.

Þegar hann var setztur sagði hann við mig,

“Heyrðu, mikið á mér eftir að líða betur í stjórnarforystu heldur en í stjórnarandstöðu”.

“Jæja,” sagði ég, “ég hef heyrt þetta áður, við höfum allir vitað þetta.”

“Já,” sagði Geir, “ég kann ekki að vera í stjórnarandstöðu. Ég hef ekki notið mín í stjórnarandstöðu. Og ég veit af hverju það er, það er vegna þess að ég kann ekki nógu vel þetta sem Bjarni, vinur okkar, var stundum að kenna okkur, að gjalda lausung við lygi!

Ég er alltaf of ábyrgur og fer þess vegna ekki nógu vel út úr stjórnarandstöðu!”

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ákvað með 22 atkvæðum af 25 að hann yrði forsætisráðherra og þegar ég talaði við Ólaf Jóhannesson skömmu eftir að ég kom af fundi Geirs Hallgrímssonar eftir þingflokksfundinn , spurði ég hann, hvað hann vildi segja um þessa stjórnarmyndun.

Ólafur svaraði eins og Geir hafði raunar sagt áður.

“Ég vil ekkert segja. Þetta á ekkert erindi í blöðin.”

Ég sagði við hann að slíkar stórfréttir kæmu blöðunum við.

Ólafur sagði það væri bezt að hafa sem fæsta blaðamenn í kringum sig.

Ég sagði honum það væri nú ekki alltaf það versta.

“Jæja,” sagði hann.

Ég minnti hann á að Morgunblaðið hefði ávallt átt gott samstarf við hann.

“Já,” sagði hann, “eiginlega hefur Morgunblaðið verið hálfgert málgagn mitt.”

Þá spurði ég hann hvernig honum hefðu líkað samningaviðræðurnar við Sjálfstæðisflokkinn.

Þá brosti hann út í annað munnvikið og sagði, “Ja, það gekk ágætlega! Annars er þetta merkilegt,” bætti hann við. “Líklega er ég einasti maður í allri Íslandssögunni sem hef myndað ríkisstjórn fyrir annan mann.”

Við röbbuðum svo eitthvað saman og ég spurði hvernig honum liði; hvort hann væri í raun og veru ánægður með að hafa ekki orðið forsætisráðherra.

Þá svaraði Ólafur, “Já, það er léttir. Mér líkar þessi niðurstaða vel. Það er góð reynsla að bera krossinn stuttan tíma en heldur óskemmtilegt að lenda sjálfur á krossinum.”

Ólafur Jóhannesson talar, að mér finnst, ávallt við mig af einlægni. Ég held hann hafi viljað að Geir Hallgrímsson yrði forsætisráðherra; held honum þyki léttir að því að þurfa ekki að bera þann kross sjálfur öllu lengur.

Hitti Þórarin Þórarinsson, ritstjóra Tímans, í boði hjá danska sendiherranum í kvöld. Það var haldið til heiðurs utanríkisráðherra Dana.

Geir Hallgrímsson var nýtekinn við forsætisráðherraembætti og hélt ræðu ; sagði m.a. að hann vonaðist til þess að hann hefði ekki verið boðinn í veizluna á fölskum forsendum, þ.e. sem utanríkisráðherra!

Þórarinn sagði að við yrðum að láta Framsókn hafa dálítið frítt spil til þess að kommarnir yrðu ekki vitlausir, eins og hann komst að orði, og næðu ekki í skottið á Framsókn!

Þeir framsóknarmenn yrðu að fá að gagnrýna ýmsa hluti og minntist sérstaklega á varnarmálin, þar yrðu þeir einkum að hafa frjálsar hendur.

Þórarinn sagði orðrétt, Þessi stjórn verður a.m.k. að vera við völd í 8 ár til að unnt sé að ná því takmarki sem að er stefnt.

Andstæðingar þess innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins að Geir Hallgrímsson yrði forsætisráðherra gerðu mikið veður út af því að í Reykavíkurbréfi Morgunblaðsins hafi staðið að Sjálfstæðisflokkurinn gerði enga kröfu til að fá forsætisráðuneytið og fullyrtu að með því orðalagi hefði vígstaða flokksins mjög verið sköðuð og nánast útilokað að Geir gæti orðið forsætisráðherra.

Það er merkilegt að fylgjast með þessum tvískinnungi, en hann er víst annar helzti þáttur stjórnmála.

En þó má vera að þarna hafi einnig komið til málefnaleg afstaða því að Ingólfur vinur minn Jónsson vill heldur að Geir verði utanríkis- og viðskiptaráðherra en forsætisráðherra og telur viðskipta- og varnarmálin mjög mikilvæg fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ég sagði honum að hann ætti heldur að fylgja Geir inn í forsætisráðuneytið, það væri miklu sterkara fyrir flokkinn, en af einhverjum ástæðum vildi hann ekki fallast á það.

Sjálfur er Ingólfur ekki öruggur um sinn hag.

 

1974 - Ódagssett

Alllöngu fyrir borgarstjórnakosningarnar fór ég á fund hjá Hafsteini miðli. Ég hafði verði þar nokkrum sinnum áður og hitt Runka. sem talar í gegnum Hafstein í dásvefni.

Við vorum því orðnir vel málkunnungir!

Ég taldi mig ekki vera að hugsa um pólitík, en þá segir Runki,

“Þú ert með allan hugann við stjórnmál, viltu ekki vita eitthvað um þau”?

Ég sagði nei, ég er með önnur persónulegri mál efst í huga.

“Nei, nei,” sagði hann, “þú ert allur í stjórnmálum.”.

Svo var eins og hann sneri sér að öðrum viðstöddum fundargestum.

“Hann er alltaf að reyna að telja sjálfum sér og öðrum trú um að hann hafi engan áhuga á stjórnmálum, en hann er með allan hugann við þau.”

Síðan fór karlinn eitthvað að stríða mér út af þessu en nokkru síðar sagði hann upp úr eins manns hljóði,

“Ég veit þú vilt fá að vita hvernig landinu verður stjórnað.”

“Æ, ég veit það ekki,” sagði ég, “eða veizt þú eitthvað um það”?

“Já, ég veit það,” sagði Runki. “Þinn flokkur mun stjórna landinu næstu fjögur til fimm árin.”

Ég hváði, en hann endurtók setninguna.

Mér fannst merkilegt að heyra þetta og spurði hvort það væri einhver ástæða til að taka mark á því.

“Hef ég nokkurn tíma sagt þér annað en sannleikann ? ”, spurði hann hvasst.

“Nei,” sagði ég, “og þú ert sannfærður um þetta.”

“Já,ég er sannfærður um það, ég veit það.”

Nokkru eftir miðilsfundinn sagði ég Geir Hallgrímssyni og Eyjólfi Konráð Jónssyni þennan spádóm Runka í gegnum Hafstein miðil og hefur það allt komið heim og saman.

Þegar ég sagði Geir Hallgrímssyni þennan spádóm, að okkar flokkur hefði stjórn landsins á hendi næstu fjögur árin, var eins og Geir hrykki við.

Hann leit á mig og sagði, “Ha, ekki lengur?”

Þremur eða fjórum dögum áður en ákveðið var að mynda stjórn Geirs Hallgrímssonar hljóp snurða á þráðinn.

Þá hitti Eykon Magnús Kjartansson í Alþingishúsinu og sagði að hann hefði reynt að bera víurnar í sjálfstæðismenn, hvort ekki mundi unnt og heppilegt að flokkurinn sneri sér til Alþýðubandalagsins um stjórnarmyndun.

Þá segir Eykon við Magnús, Eruð þið reiðubúnir að varpa varnarmálunum fyrir róða?

Magnús Kjartansson sagði með sínum venjulega hálfkæringi að þeir væru reiðubúnir til þess, Varnarmálin eru ekkert vandamál, sagði hann, því að Ameríkanar munu sjálfir eftir ekki mörg ár kalla herinn heim, þegar ástand verður orðið betra í heimsmálum og friðvænlegra.

Eðvarð Sigurðsson var þarna nærstaddur og þegar Eykon spurði hann hvort hann væri reiðubúinn að kasta varnarmálunum fyrir róða, leit hann ákveðið á Eykon og sagði, Þau hafa nú aldrei vafist fyrir mér!

Þegar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafði ákveðið að Geir Hallgrímsson yrði forsætisráðherra, skrapp ég út í Alþingi og ætlaði að hitta Geir og fá hjá honum fréttir í Morgunblaðið.

Geir var farinn en ég náði honum á bílaplaninu þar sem hann var kominn inn í bílinn sinn og ætlaði að aka af stað.

Hann bauð mér að setjast upp í og við fórum að tala um hvaða fréttir Morgunblaðið gæti birt af stjórnarmynduninni.

Geir sagði,

Það verða engar fréttir af þessu, það gerist ekkert fyrr en á morgun.

Hann hafði augsýnilega áhyggjur af því að Framsóknarflokknum gæti snúizt hugur ,ef fréttir bærust af viðræðunum á svo viðkvæmu stigi.

Ég varð ágengur að venju og samtali okkar um þetta lauk með því að ég fékk að hafa eftir Geir nokkur orð, ef ég læsi þau fyrir Ólaf Jóhannesson.

Við höfum þetta fimmdálk á forsíðunni, sagði ég.

Geir greip andann á lofti, Ha, fimm dálka á forsíðunni?!

Ég fór niður í fjóra dálka en þá sagði Geir, Nei, ekki meira en þrjá dálka, í allra mesta lagi þrjá dálka!

Samtalinu lauk með því að ég sagði við hann að bezt væri að hafa fréttina fjóra dálka á baksíðunni og hann sættist á það.

Geir hefur sagt við mig:

Mín ríkisstjórn verður opin ríkisstjórn. Ég ætla að hafa góð samskipti við fjölmiðla, ég ætla að segja opið frá því sem er að gerast.

Ég sé að það er ekki hægt að loka fyrir fréttir og ég skil nú betur en áður í hvaða vanda þið eruð.

Það er ekki hægt að hefta fréttamenn í starfi þeirra.

Þetta var áfangi.

Mér er sagt það hafi ráðið úrslitum um að Geir yrði forsætisráðherra að Sjálfstæðisflokkurinn krafðist aldrei stjórnarforystunnar og talaði framan af á þann veg að Ólafur Jóhannesson gæti myndað stjórnina.

Ef það hefði ekki verið gert hefði Ólafur ekki getað átt viðræður við Sjálfstæðisflokkinn og alls ekki fengið þingflokk sinn til að fallast á slíkt stjórnarsamstarf með glöðu geði.

Í viðræðum Geirs og Ólafs kynntist Ólafur heiðarleika Geirs og fannst sjálfum ljúft að ganga til stjórnarsamstarfs undir hans forystu.

Þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem voru andstæðir því að Geir yrði forsætisráðherra töldu svo öruggt að það yrði ekki, að þeir þóttust styðja hann dyggilega og ásökuðu jafnvel okkur stuðningsmenn Geirs fyrir það að við héldum þannig á málum, að hann væri ekki í stjórnarforystunni.

Ég ætla ekki að lýsa vonbrigðum þeirra þegar Geir hélt svo um stjórnartaumana.

Ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins vildu að Ólafur Jóhannesson yrði forsætisráðherra, en ekki Geir.

Þegar síðasti fundurinn til ákvörðunar í þessu efni hófst gat enginn gert sér fulla grein fyrir því hver úrslitin yrðu, en fundarhlé, sem varð meðan beðið var svara frá Framsóknarflokknum, var notað til að ræða saman og þá sýndi Geir bæði hörku og lagni í samtölum við þingmenn hvern af öðrum.

Fundur þessi var haldinn mánudaginn 26. ágúst.

 

 

Ágústlok 1974

Hef fengið orðsendingu frá Jóhanni Hjálmarssyni. Hann hefur kynnzt Tomasi Tranströmer, “frábærasta skáld Svía”.

Jóhann fylgist vel með, hann er naskur á bókmenntir. Ég fagna því að hann skuli skrifa um bókmenntir í Morgunblaðið. Sjálfur hef ég oft grætt á þekkingu hans því hann fylgist miklu betur með bókmenntum, einkum ljóðlist, í öðrum löndum en ég hef gert.

Hann hefur valið Heimsókn eftir mig í antólógíu sem Hörpuútgáfan ætlar að gefa út í haust. Ég þekki ekki þetta ljóð en það hlýtur að vera í einhverri af bókunum mínum !

Nenni ekki að gá að því, það mundi hvort eð er engu breyta.

Og ég hef gaman af að sjá smekk Jóhanns af því sem hann velur.

Smekkur kemur aldei betur fram en í slíku vali; þess vegna ekki sízt er það mikilvægt, ef merkir menn eða góð skáld standa fyrir valinu.

Það lýsir þeim þá, ekki síður en þeirra eigin verk.

Að öðrum kosti er svona val lítils virði; t.a.m. í kennslubækur þar sem öllu ægir saman og ljóðabækur breytast í einskonar félags-eða þjóðfélagsfræði undir kaflaheitum eins og Fiskveiðar eða Landbúnaður!

 

 

Nóvember 1974 – ódagssett

Hef verið að fá bréf frá Páli Ísólfssyni.

Hann er á orgelferðalagi um Evrópu.

Við ákváðum að hann skrifaði greinar úr ferðalaginu og ég gæti þá birt þær í Morgunblaðinu.

Það stendur ekki á Páli, ekki frekar en vant er. Hann gerir allt sem hann er beðinn um og miklu meira en það.

Hann hefur sent margar greinar.

Ég þekki engan sem er eins samvizkusamur og Páll, eða ósérhlífinn.

Ef hann ætlar að skrifa greinaflokk úr ferðalagi til Evrópu, hefur maður vart við að veita þeim viðtöku.

En það er gaman að birta ferðagreinar eftir Pál.

Allt sem hann tekur sér fyrir hendur er jákvætt .

Og mikilvægt.

Páll er hlýr og blátt áfram, hreinskilinn og vinur vina sinna. Við höfum svo sannarlega notið góðs af því.

Og hann er hamhleypa til verka.

Og svo er hann hafsjór af hugsunum.

Og hugsjónum.

Hann segir í bréfi til mín dags. 9. nóv. sl.:

“Hvernig má það vera að maður skuli vera svo andskoti vitlaus að fara í slík ferðalög sem þetta? Í stað þess að vera lengi á einum góðum stað og njóta hans. – Nú förum við á morgun á stað (heim) með Gullfossi og mikið erum við fegin að vera þegar flutt um borð.”

Þau Páll og Sigrún eru sem sagt í Kaupmannahöfn og nú er síðasti teymingurinn eftir, heimferðin.

Páll segir að margt hafi á dagana drifið og hann hafi orðið margs vís “um þennan heim í förinni”.

Hann hefur gengið á fund páfa og Róm er honum umhugsunarefni.

“Ég var byrjaður á ferðasögu, en komst ekkert áfram fyrir ferðalögum úr einum stað í annan, og svo veizlur og væta, eins og þú skilur”.

Hann segist hafa gert ýmsar uppgötvanir um “þetta hroðalega mannlíf” og ekki allt skemmtilegt.

Ég hef fengið mörg bréf frá Páli sem hann hefur skrifað á þessu ferðalagi.

Í bréfi frá 3. okt. segist hann vera að hugsa um bókina okkar, eins og hann kemst að orði.

Hann biður mig blessaðan um að muna eftir því í próförk sem hann vill strika úr textanum.

“Annars held ég að bókin sé bara ágæt í alla stað. Mundu eftir myndunum! – Hér er drepleiðinlegt. Vona að betra taki við suðurfrá (hann er staddur í Kaupmannahöfn, í upphafi ferðar). En ferðasögu hef ég ekki getað samið ennþá, hvað sem seinna verður.

Við sjáum til.

Ekki lízt mér á handritamálið núna! Hér virðist alda vera að rísa (og hún ekki smá) gegn afhendingu handritanna. Sem Íslendingur vil ég fá þau heim.

En væri ég Dani, þá veit ég satt að segja ekki nema ég væri andvígur afhendingunni.

Svona er mannskepnan úr garði gerð: ómerkileg í alla staði.

Og lágkúruleg. –

Kiljan var skemmtilegur á leiðinni og við drukkum fast og þónokkuð mikið. Hann er að raka saman aurunum sínum hér um slóðir og hin ánægðasti yfir árangrinum.”

Fékk einnig bréf frá Páli 22. okt., dags. í Róm.

Hann segir:

“Elsku vinur! Það fyrsta, sem ég sagði, þegar ég fór að skoða mig um í hinni eilífu borg var , er þetta hægt, Matthías”!

Hvílík undur og skelfing sem fyrir augu ber!

Þessi borg er engri annarri lík, hún er svo gígantísk.

Hér hefur “hugsun mannsandans” sannarlega verið að verki, eins og Jón í Companíinu sagði forðum.

Hingað verður þú að koma, það er ekkert sem heitir! Og taktu Hönnu með!

Okkur líður vel en ég er alt að því veikur af “intrukkunum” sem þrýsta sér inn í sálina af slíku afli, að maður verður í senn óðamála og þó klumsa!

En þrátt fyrir alt hugsa ég þó stöðugt heim til míns elskaða Íslands, og sér í lagi til Ísólfsskálans og bókarinnar! Ég las í Mogganum um yfirvofandi verkfall prentaranna, tefur það ekki? Nenni ( Einar , sonur Páls) skrifaði mér að honum lítist öllu betur á þessa bók (Í dag skein sól)en þá fyrri, og var gott að heyra það. Vonandi verður henni vel tekið. Þú ættir það skilið, vinur minn, hvað sem öðru líður.

Hissa varð ég, þegar ég las í Mbl. að ég ætti að fá heiðurslaun! Ekki hafði ég hugmynd um það fyrr en í Rómaborg. Bara að þessi laun væru ekki skattskyld, þá munaði verulega um þau. En auðvitað er ég þakklátur ykkur sem að þessu standið!”

 

 

Nóvember 1974 – ódagssett

Hef fengið bréf frá Ashkenazy.

Hann er í San Francisco.

Við höfum verið að reyna að koma því í gegn að foreldrar hans megi heimsækja þau Þórunni hér heima á Íslandi, en það gengur erfiðlega.

Beitum samt öllum ráðum og vonandi tekst það.

En Ashkenazy segir mér í þessu bréfi að faðir hans hafi sagt sér í símtali að umsókn hans um ferð til Íslands hafi verið hafnað í Moskvu, án útskýringa, einungis höfnun.

Klippt og skorið.

Ashkenazy segir að við getum búið til frétt úr þessu í Morgunblaðið.

Stingur upp á því að önnur blöð fái kópíu af þessu bréfi hans, m.a. Þjóðviljinn, svo þeir geti einnig birt þessa frétt , ef þeir vilja.

Kveðst þó skilja að blaðamaðurinn í mér sé ekkert hrifinn af þessari uppástungu en honum finnst hún rétt eins og ástatt sé og auðvitað sendi ég bréfið áfram á önnur blöð.

Við sjáum svo hvað setur.

Ashkenazy segir að nýlega hafi leigubílstjóri í Reykjavík spurt hann að því hvort það sé “í raun og veru satt það sem standi í Morgunblaðinu, að föður þínum sé ekki leyft að koma til Íslands”?

Ashkenazy bætir við, Þarna sérðu að hann trúði því ekki að það væri satt sem þið prentið – einungis vegna þess að það er ekki Sovétríkjunum hagstætt og þið birtið oft slíkar upplýsingar um landið svo að hann telur að þetta sé áróður(!)

Þess vegna segist Ashkenazhy ekki sízt leggja til að þessar upplýsingar komist til annarra fjölmiðla á Íslandi.

Bætir svo við:

“Sannleikur er sannleikur og það er aðeins til einn sannleikur. Ef dagblað eins og “Þjóðviljinn” hefur ekki áhuga á því að birta þennan sannleika, sýnir það einungis að þeir hafa engan áhuga á slíkum mannúðarmálum.

En þeir fá að minnsta kosti að vita um þetta og mér er til efs að þeir hugsi – að minnsta kosti ekki í þessu tilfelli – að það geti verið áróður sem nú snýr að mér og föður mínum.

Ef þeir aftur á móti bera umhyggju fyrir Sovétríkjunum gæti verið að þeim væri ljóst að þeim væri ekki þénanlegt að halda sannleikanum niðri... Er nú mjög dapur og veit ekki lengur hvað gera skal.”

Við leggjum auðvitað ekki árar í bát; hættum ekki fyrr en foreldrar Ashkenazys fá að koma í heimsókn til Íslands.

 

 

Á aðventu 1974

Hef fengið snaggaralegt bréf frá Guðmundi G. Hagalín. Honum líkar ekki að Jóhann Hjálmarsson skuli hafa skrifað um bók mína um Gunnlaug Scheving, segist hafa ætlað að gera það og því verði ekki breytt.

“En svo dreit Jóhann ritdómi og er hann á allt annnan veg en minn, sem er í raun og veru kynning á frábæru samstarfi ykkar Gunnlaugs Schevings, viðhorfum hans og manndómi og einstæðum hæfileikum þínum til að túlka jafnvel dulustu listamenn.

Ég vil því að mín grein birtist í blaðinu – vil það ákveðið.”

En þetta er ekkert stórmál þótt gusti af karli.

Hitt er verra að hann er arfareiður út í Heinz Barüske vegna íslenzku smásagnanna í þýzku Erdman-útgáfunni. Segir að þar séu tvær sögur eftir Halldór Stefánsson, þrjár eftir Svein Bergsveinsson, og ein eftir hann sjálfan, tekin úr Nýju landi frá 1935 enda þekki Heinz Barüske ekkert til sinna sagna og engin saga sé eftir Jakob Thorarensen né Þóri Bergsson “sem báðir skrifuðu einhverjar beztu smásögur, sem ritaðar hafa verið á íslenzku”.

Og nú hvín í Hagalín því hann segir:

“Þá lepur kvikindið kjaftæði komma um það, að ég hafi ritað Sturlu í Vogum til mótvægis við sögu Laxness. Ég skrifaði fíflinu og sagðist ekki vilja fá aukaeintak af bókinni, en hins vegar ritlaun því vesturþýzka markið væri ekki smitað af því austurþýzka, þó að bókmenntasmekkur Vestur-Þjóðverja hefði ef til vill litazt áhrifum frá þeim, sem byggju austan múrsins.”

Hagalín er sem sagt reiður og það hvín í tálknunum á honum.

Þegar hann skýrir mál sitt með þessum hætti, þá er ég ekkert hissa á því hvað honum mislíkar verkið.

En ég held ekki það sé neinn illvilji á bak við val Barüskes, heldur þekkingarleysi.

Það er áreiðanlega rétt hjá Hagalín að hann þekkir lítið sem ekkert til verka hans.

Þetta er auðvitað afleitt þegar verið er að velja íslenzkar bókmenntir í merkileg yfirlitsrit erlend.

Ég þekki Barüske að góðu einu og veit að hann er hvorki kommúnisti né á þeirra vegum. En hann skortir þekkingu og góða leiðsögn um það sem hann þekkir ekki.

Þetta er hin merkasta útgáfa að mér sýnist og mér er nær að halda að Barüske vilji vera sanngjarn og gefa út gott yfirlitsrit. Bókin er að minnsta kosti nógu stór, eða 440 blaðsíður, og ég held að saga Hagalíns, Mutter der Kinder, sómi sér ágætlega á sínum stað.

Formáli Barüske er ágætur og sýnir að hann þekkir að öðru leyti vel til íslenzkra bókmennta enda er hann mikill áhugamaður um þær, ekki síður en bókmenntir annarra Norðurlandaþjóða. Hann talar ágæta dönsku og skilur ýmislegt í íslenzku.

Hann hefur kynnt ljóð mín fyrir Þjóðverjum og að mínu viti gert það ágætlega.

Það er ekki um svo auðugan garð að gresja í þeim efnum fyrir íslenzka rithöfunda.

Hitt er svo annað mál að ég geri ráð fyrir því að verk Hagalíns séu hörð undir tönn fyrir útlendinga, svo íslenzk sem þau eru, enda eru þau vaxin úr nokkuð annarri málsmenningarhefð en íslenzkar bókmenntir að öðru leyti.

En hvað sem því líður er þetta bindi af Moderne Erzähler der Welt athyglisverð kynning á íslenzkum sagnaskáldskap nú um stundir.

Ég veit að minnsta kosti ekki til að það sé boðið upp á aðra betri.