Árið 1976
2. febrúar 1976
Ræða Ólafs Jóhannessonar á Alþingi í dag, þegar hann barðist fyrir pólitísku lífi sínu vegna Geirfinnsmálsins, er ógleymanleg.
Hún leiðir hugann að ræðu Ólafs Thors í Gamla bíói vegna Kveldúlfsmálsins á sínum tíma.
Að ræðunni lokinni gekk hann einn inn í kaffistofu Alþingis , settist þar og fékk sér kaffi.
Ég gekk að borðinu og spurði hvort ég mætti setjast.
Ólafur tók því vel.
Ég spurði hvort hann teldi að ríkisstjórnin væri í hættu ; hvort hann væri að fara úr henni.
Hann sagði, Nei, ég hef engar slíkar fyrirætlanir.
Hann bætti við, Annars veit maður aldrei hvað verður, ástandið er mjög slæmt. Það er svart framundan. Öllum samningum ólokið; sjómannasamningar og verkföll yfirvofandi.
Ég spurði hvað hann vildi segja um stjórnarsamstarfið að öðru leyti .
Hann sagði,
Mér líkar ekki hvernig tekið hefur verið á málum eins slæmt og útlitið er. Það þarf að taka miklu fastar á en verið hefur.
Geir er óvenjulegur drengskaparmaður og afskaplega heiðarlegur, en hann hikar.
Milli okkar hefur verið ágætt samstarf, en ýmislegt hefur verið látið danka sem hefði þurft að leysa fyrir löngu.
Nú er hálfur mánuður til verkfalla og tíminn illa notaður.
Ég held að Geir hefði átt að verða fjármálaráðherra, hæfileikar hans standa allir til þess, það er í eðli hans.
Annars er ég ekki viss um, að þeir,sem eru þarna með honum,eigi að vera þar, þótt þeir séu ágætir menn. Ég held það sé vafasamt að þeir ráði við þau málefni sem þeir hafa verið kallaðir til.
Ólafur Jóhannesson hefur augsýnilega þungar áhyggjur af samstarfsmönnum sínum í ríkisstjórn en hann kveðst ekki munu draga Framsóknarflokkinn út úr stjórnarsamstarfinu og sjálfur hefði hann engan áhuga á stól Geirs Hallgrímssonar.
Hann sagði að þeir Geir myndu tala um þessi mál sín á milli og ættu auðvelt með það.
Ég spurði hvort ég ætti að minnast á eitthvað af þessu við Geir, en hann bað mig um að gera það ekki.
Fórum að tala um önnur mál.
Hann sagðist hafa hugsað mikið um Geirfinnsmálið .
Ég sagði honum að nástaða við Kristin Finnbogason (framkvæmdastjóra Tímans) gæti orðið honum skeinuhætt.
Hann sagði það væri áreiðanlega rétt en Kristinn væri duglegur maður.
Ég sagði,
Þú gafst sterka yfirlýsingu í þinginu áðan um það að Framsóknarflokkurinn hefði aldrei fengið neina peninga frá þeim Klúbbs-mönnum, en ertu algjörlega viss um það?
Hann leit á mig og sagði,
Maður veit aldei alveg.
Ef menn hafa svarið og sárt við lagt að engir peningar hafi komið í flokkinn frá neinum af þessum mönnum, hvað mundir þú gera ef það kæmi í ljós að flokkurinn hefði samt sem áður fengið peninga án þess þú vissir um það, spurði ég.
Þá segði ég af mér, sagði Ólafur.
Ólafur sagði að menn ættu alltaf að berja frá sér, svara öllu eins fast og ákveðið og harkalega og unnt væri og láta menn ekki komast upp með neinar árásir.
Það væri hans reynsla.
Hann sagði að þau ummæli sem hann hefði viðhaft um sjálfstæðismenn almennt í þingræðu sinni hefðu verið fljótfærnisleg og hann vildi ekki láta þau orð standa.
Um Morgunblaðið sagði hann:
“Þið eruð alveg hreinir,” og var mjög ánæður með það að við hefðum skrifað um Geirfinnsmálið af ábyrgðartilfinningu, eins og hann komst að orði.
Ólafur sagðist ekki vera fyllilega ánægður með hvernig samið hefði verið við Wilson í þorskastríðinu.
Það hefði mátt nota fastari tök og láta Bretana standa við það sem íslenzku ráðherrarnir höfðu lýst yfir að þeir myndu gera.
Þetta virtist fara í taugarnar á honum.
Hann sagði að Geir Hallgrímsson hefði átt að koma til Íslands, leggja tillögur sínar þegar fram og ræða þær, fella þær síðan eða samþykkja.
Málsmeðferðin er ekki eftir mínu höfði, sagði Ólafur.
Ólafur Jóhannesson kvaðst vera viðkvæmur undir niðri. Nú hefði hann fengið útrás í þingræðunni í dag og eftir það yrði hann léttari í spori.
Hann gæti jafnvel fyrirgefið kratanum Sighvati Björgvinssyni upphlaupið!
Horfði svo fast á mig og bætti við,
En þetta var kannski bezti dagurinn til árása á mig sem hugsazt gat.
Nú, sagði ég, hvernig stendur á því, Ólafur?
Í dag er 2. febrúar. Þennan sama dag lézt sonur minn.
Ég sagði ekki orð.
Ólafur Jóhannesson kveðst ekki geta stefnt vinstri mafíunni,eins og hann sagði.
Ég spurði hvers vegna?
Hann sagði, Stjórnmálamenn stefna ekki.
Spurði svo hvort ég vissi hvers vegna í ósköpunum kratar væru látnir vaða uppi á Vísi.
Ég sagðist ekki þekkja þar til.
Framsóknarþingmaðurinn Vilhjálmur Hjálmarsson segir mér að hann hafi ekki tilfinningu fyrir því að stjórnin sé í hættu, en landhelgismálið hafi farið í taugarnar á Ólafi.
Steingrímur Hermannsson segir það sama.
Tómas Árnason segir að nú þurfi að fara gætilega.
Uppblástur, sagði Magnú Torfi Ólafsson, um Geirfinnsmálið, en hann sat þarna á næstu grösum í kaffistofunni.
Ég talaði einnig við Einar Ágústsson , utanríkisráðherra.
Hann sagðist ekki skilja Ólaf Jóhannesson, hann hefði raunar aldrei skilið hann. Ég átti mestan þátt í því að Geir yrði forsætisráðherra, sagði hann. Ég vissi það yrði endingarbetra eins dyntóttur og Ólafur getur verið.
6. febrúar 1976 - kvöldið.
Talaði við Ólaf Jóhannesson í dag. Hann segir að Geirfinnsmálið geti rofið ríkisstjórnina.
Mitt fólk stendur með mér, sagði Ólafur, en það væri ekki gott ef stjórnin félli því ég sé enga aðra stjórn eins og málum er háttað og útlitið er slæmt.
Bætti svo við,
Ég veit þið eruð lausir við kauða.
Veit ekki almennilega við hvað hann átti en held það sé Vísismafían.
Hann talaði um að Geir væri í erfiðri aðstöðu.
“En ég losaði mig við mína Möðruvellinga,” bætti hann við, “og það getur verið að Geir verði að gera slíkt hið sama.”
Ólafur segist ekkert vita um Geirfinnsmálið og þegar ég spurði hvað hann vildi gera svaraði hann,
“Ekkert, nema segja sannleikann.”
Svo bætti hann við, Nei, ég á ekkert undir Sigurbirni (veitingamanni) í Klúbbnum, svo vitlaus er ég ekki!
12. febrúar 1976
Geir sagði við mig í fimmtugsafmæli Baldvins Tryggvasonar að þeir Ólafur Jóhannesson hefðu talað saman um Atlantshafsbandalagið og mér skilst þeir hafi komið sér saman um að tala opinskátt um það sem annað og rasa ekki um ráð fram.
Geir lagði áherzlu á að við gerðum ekkert sem gæti losað um böndin milli Íslands og NATÓ og nú reynir á að þorskastríðið við Breta skaði ekki aðild okkar að því.
Þjóðarhagur kallar á að Morgunblaðið standi sig.
Geir segir að Ólafur hafi sagt við sig að nú væri bezt að fara hægt í sakirnar og flýta sér ekki í neinu.
Það kemur ekki heim og saman við það sem hann sagði við mig í kaffistofu Alþingis.
Geir segir að staðan hafi verið allt önnur þegar Ólafur Jóhannesson kom með sitt tilboð til lausnar þorskastríði á sínum tíma.
Þá hefði hann haft Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkinn með sér að mestu og getað kúgað Alþýðubandalagið eins og hann gerði.
“Án þess að það hafi verið kabínettspursmál.”
Nú hafi ekki verið nógu gott á milli flokkanna.
Ég minnti Geir á að Bjarni Benediktsson hefði sagt að hann mundi ekki mynda ríkisstjórn með Framsókn eftir kosningar, en ef undan því yrði ekki komizt “verð ég ekki í þeirri stjórn”.
Þá sagði Geir, En það hefur verið lagt á mig!
Bjarni lézt áður en til þessa kæmi.
Einar Ágústsson segir mér að kreppan sé liðin hjá.
Á þingflokksfundi sagði Ólafur Jóhannesson, Við verðum að þrauka. Samningsgrundvelli við Breta hafnað á ríkisstjórnarfundi.
15. apríl 1976 - kl. 22.10
Fékk í kvöld svohljóðandi skeyti: “ber er hver ath baki sem sjer brodur eigi stop treysti mer ekki ath thyda kvedskap thinn a thar sem blad thitt hefur ath osekju vefengt stoduveitingu brodur mins stop med brodur minum er of naer sjalfum mer hoggid, Magnus Magnusson.”
Magnús ætlaði víst að þýða eitthvað af ljóðum mínum fyrir Iceland Review en nú er hann því fráhverfur.
Við Magnús höfum átt góð samskipti; töluðum mikið saman í þorskastríðinu og ég fór með hann niður í Landssmiðju að sýna honum klippur Landhelgisgæzlunnar.
Aldrei hefur verið neitt nema gott okkar í millum.
En nú er hann sár og reiður vegna þess að við sögðum í Reykjavíkurbréfi, að mig minnir, að Gunnlaugur Snædal stæði næst prófessorsembætti í kvensjúkdómafræði og fæðingarhjálp.
Reikna með að okkur morgunblaðsmönnum hafi þótt þetta sjálfsagður hlutur, án umhugsunar.
Þekkjum ekki Sigurð Magnússon,bróður Magnúsar.
En Magnús er bæði sár og reiður og það lendir á mér, eins og ávallt.
Ég axla það eins og annað.
Þykir samt leiðinlegt að snurða hafi hlaupið á þráðinn á milli okkar Magnúsar.
Mér hefur alltaf líkað vel við hann.
Hann er fínn blaðamaður og góður fulltrúi Íslands út á við.
En nú er hann mér reiður vegna bróðurins.
Ég veit ekki hvort hann getur þýtt ljóð á ensku.Hann er prósaisti fyrst og síðast og sem slíkur er hann mikilvægur hlekkur milli okkar og Breta.
En allt lendir þetta á mér, að venju.
Hvað gerir það svo sem til?
Er ég ekki á fullum launum við að axla svona leiðindi?
Auk þess veit ég að Gunnlaugur Snædal er framúrskarandi læknir og að honum er sómi, hvar sem er.
Kannski á ég eftir að kynnast Sigurði Magnússyni, lækni. Mér er sagt hann sé góður læknir og standi fyllilega undir því að verða prófessor í kvensjúkdómum við Háskólann.
Vonandi á ég einhvern tíma eftir að sýna honum hlýhug, svo og Magnúsi.
Lífið kemur ekki allt í böggli, það má nú segja(!)
En kannski erum við morgunblaðsmenn of vissir í okkar sök, það skyldi þó ekki vera?
25. maí 1976
Geir Hallgrímsson bað okkur Styrmi koma upp í Stjórnarráð og ræða við sig.
Fórum þangað síðdegis.
Þegar við vorum setztir fékk Geir sér vindil og fitlaði við ný gleraugu sem hann hefur fengið.
Þegar við spurðum hvort hann væri farinn að nota gleraugu, horfði hann á okkur og sagði, Ég er farinn að nota gleraugu við lestur og þessi gleraugu hafa beðið eftir bezta gleraugnastandi í landinu!
Við brostum að þessum óvænta húmor forsætisráðherrans og báðum hann í guðanna bænum að koma þessum Geir Hallgrímssyni til skila við þjóðina, helzt í sjónvarpi.
Geir getur haft ágætan húmor þó að það séu ekki margir sem þekkja þá hlið á honum.
Bjarni hafði líka sérstakan húmor sem fæstir þekktu.
Þegar ég skrifaði samtalið við Jón seglasaumara var Guðrúnu, móður hans, nóg boðið og vildi láta áminna blaðamanninn sem skrifaði þennan óþverra!
Stóð fyrir vítum á mig í kvenfélagi sjálfstæðisflokksins,Hvöt.
Þegar við Hanna komum um kvöldið í sextugsafmæli Bjarna,en þá var fjölskyldan þar saman komin,sagði hann við mig, Komdu hérna með mér inn í stofu, ég ætla að kynna þig fyrir henni mömmu! “
Dró mig svo inn og að stólnum þar sem sú gamla sat og átti sér einskis ills von:
“Þetta er hann Matthías,” sagði hann við móður sína og kynnti okkur.
“Nú”, sagði hún og leit upp.
“Já, “,sagði Bjarni, “ sá sem skrifaði samtalið við hann Jón seglasaumara.!”
Svo flýtti hann sér hlæjandi í burtu.
En ég þurfti að nota alla mína lagni til að mjaka mér í burtu úr þessum lífsháska!
Geir hefur talað um að hann líti þetta og hitt alvarlegum augum og er það haft í flimtingum.
Magnús Finnsson,.blaðamaður, hefur sagt mér að hann hefði hitt þá Einar Ágústsson á Grand Hótel í Osló, þegar landhelgissamningurinn var gerður við Breta.
Þeir voru þar saman, Geir og Einar Ágústsson, og þar hafi ríkt einhver sérstök og vináttusamleg hlýja á milli þeirra.
Eins og góðum fréttamanni sæmir spurði Magnús, hvað forsætisráðherra segði um stöðuna.
Þá sagði Einar Ágústsson,
Forsætisráðherra minn lítur mjög alvarlegum augum á ástandið.
Og svo hlógu þeir báðir og Magnúsi þótti meira til þeirra koma en áður!
Geir sagði okkur Styrmi frá því þarna í Stjórnarráðinu að reynt yrði að komast að samkomulagi við Breta um 25 togara utan 20-30 mílnanna, samningur gerður til sex mánaða, skipt um togara þannig að sex tækju við af sex o.s.frv.
Bretar segðu að Efnahagsbandalagið mundi taka við samningagerð fyrir þeirra hönd að sex mánuðum liðnum.
Bókun sex um tollaívilnanir Íslendinga gagnvart Efnahagssambandinu gengi í gildi við undirritun samninga, en ekki fengist viðurkenning á 200 mílunum í yfirlýsingu um að brezkir togarar færu ekki inn fyrir að samningum loknum, né að bókun sex haldi eftir að samningar eru útrunnir.
Geir var alvarlegur og rökfastur og talaði rólega og sagðist sjálfur vera þeirrar skoðunar að hið eina rétta væri að semja .
Geir spurði hvað við segðum.
Við vorum á því að hann hefði engin önnur spil á hendi en semja.
Hann gæti ekki farið öðru sinni til útlanda, tekið þátt í samningum og komið heim án þess það leiddi til lausnar deilunni.
Við þyrftum að losna við þetta mikla og erfiða vandamál.
Mér finnst hann hafa góða yfirsýn yfir stöðuna og mikið jarðsamband.
Hann sagði þrír kostir væru fyrir hendi,
að semja, eins og honum fyndist sjálfum rétt,
að semja ekki og láta eins og ekkert hefði gerzt, sem væri að sjálfsögðu mjög hættulegt,
og að lokum að hóta stjórnarslitum, ef ekki væri samið.
En það væri ótækt að slíta stjórninni á þeim forsendum að við vildum samninga, en framsóknarmenn ekki; við vildum NATÓ-aðild en framsóknarmönnum væri sama um hana og þá gætu þeir komið fram á vígvöllinn, ef til kosninga drægi, með sterkari málefnalega vígstöðu en við .
Og hann velti því fyrir sér hvort slíkt gæti ekki leitt til pólitísks sjálfsmorðs, eins og hann sagði.
Hann hefði ekki áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum ef samið yrði en öðru máli gegndi um Framsóknarflokkinn því að Ólafur hefði viljað draga samninga á langinn ; hann ætti ekki gott með að ráða við sitt fólk og ekki hefði verið nógu gott samband milli hans og Einars Ágústssonar sem vildi semja við Breta.
Halldór Sigurðsson og Vilhjálmur Hjálmarsson, ráðherrar Framsóknarflokksins, vildu samninga í raun og veru, en þeir hefðu ekki tjáð sig um það á ríkisstjórnarfundi.
En þeir myndu fara eftir því sem Ólafur vildi.
Ólafur Jóhannesson hefði margítrekað það við sig áður en hann fór til Finnlands og Einar til Oslóar, að hann vildi í raun og veru samninga, en honum fyndist það ekki koma heim og saman við viðbrögð Ólafs Jóhannessonar eftir að hann kom heim, því að Ólafur hefði dregið úr samningum og virtist mjög á báðum áttum.
Geir virðist ekki skilja hvers vegna það er.
Matthías Bjarnason,sjávarútvegsráðherra, sagði mér í dag að Ólafur væri í baklás og Geir staðfestir að svo sé.
Hann hefur augsýnilega áhyggjur af því.
Geir spurði hvort við héldum að atburðirnir á miðunum, þegar siglt var á Ægi, Baldur og Ver nú um helgina með þeim afleiðingum að Ver væri stórlaskaður, hefðu dregið úr möguleikum á samningum, að áliti almennings.
En við töldum okkur ekki hafa orðið vara við það. Þvert á móti byggjust flestir við því, úr því sem komið væri, að samningar væru í loftinu og það væri ekki annað að sjá en menn óskuðu eftir því að þeir næðu fram að ganga.
Þeir væru rökrétt afleiðing af NATÓ-fundinum og við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því miðað við það alvarlega ástand sem fylgdi í kjölfarið, ef engir samningar næðust og fólk sæi þá svart á hvítu að átök væru í ríkisstjórninni og hún megnaði ekki að leysa mesta deilumál þjóðarinnar vegna þess að stjórnarflokkarnir gengju ekki sameinaðir til samninga.
Ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar gæti ekki verið alræðisstjórn Ólafs Jóhannessonar.
Geir staðnæmdist mjög við þetta, ef í ljós kæmi að einræðisherra stjórnarinnar væri í raun og veru formaður Framsóknarflokksins!
Hringdi í Þórarin Þórarinsson í kvöld.
Hann segir að landhelgismálið sé ekki í neinni sjálfheldu þótt Ólafur sé þungur, eins og hann komst að orði.
Honum hefði ekki líkað það að Geir og Einar Ágústsson,utanríkisráðherra, hefðu ekki haft samband við hann, meðan á Oslóarfundinum stóð.
Ólafur hefði fengið allar sínar fréttir úr blöðum, sjónvarpi og útvarpi, en engar fréttir frá þeim.
Einar hefði aldrei talað við hann og hann teldi þetta hina mestu ókurteisi og það færi illa í hann.
Ólafur er viðkvæmur maður.
Hann hefur áður sagt mér að hann sé viðkvæmari en menn haldi. Hann þolir ekki að gengið sé fram hjá honum.
Þórarinn hefur ekki heldur náð í Einar Ágústsson eftir að hann kom heim.
Hann er þykkjuþungur í garð Einars Ágústssonar af þeim sökum.
Þórarinn sagði að hér væri um innanríkisvandamál Framsóknarflokksins að ræða og kæmi Sjálfstæðisflokknum ekki við.
Hann fullyrti að Ólafur vildi ekki slíta stjórnarsamstarfinu. Það getur dregizt eitthvað að samningar verði gerðir, en deilumálin verði leyst.
Það sé lausn í aðsigi þótt hún sé kannski ekki á næstu grösum.
Þórarinn ætlar að tala við Ólaf, og Geir talar við hann í fyrramálið.
30. maí 1976 - laugardagur
Geir Hallgrímsson sagði okkur Styrmi frá því í dag að hann hefði átt samtal við Ólaf Jóhannesson sl. fimmtudag og sagt við hann,
Ef við tveir getum ekki talað saman í fullum trúnaði, þá er stjórnarsamstarfið í hættu.
Ólafur Jóhannesson tók þessu vel og þeir áttu síðan gott samtal saman í gær, föstudag.
Þá barst m.a. í tal að Ólafur Jóhannesson vildi taka sér langt frí en Geir sagðist ekki trúa því að hann væri farinn að hugsa um að draga sig í hlé.
Þá sagði Ólafur að hann hefði áhuga á að ljúka starfsævinni í sínu gamla embætti sem prófessor og gaf ótvírætt í skyn að það gæti orðið fyrr en síðar.
Ólafur og framsóknarmenn virðast taka betur undir samninga nú en áður. Hef það á tilfinningunni að þeir séu að verða hlynntir samningum, ekki sízt eftir að yfirlýsing barst frá Bretum í gær þar sem þeir segja að þeir muni, að sex mánuðum liðnum, virða reglugerðina sem Matthías Bjarnason gaf út 15. júlí sl. og þau svæði sem þar er um rætt.
Þar með er gulltryggt að Bretar munu ekki koma aftur inn í íslenzka lögsögu með herskip - og hver á þá að gera það?
Ekki Efnahagsbandalagið, sem hefur að sjálfsögðu engum sérstökum flota á að skipa.
Þar með erum við að vinna einn mesta sigur sem hugsazt getur í landhelgismálinu og 200 mílurnar verða innan tíðar virtar af öllum, enda þótt enn sé óvíst hvort bókun sex yrði aftur látin falla úr gildi að hálfu ári liðnu, ef samningar næðust ekki við efnahagsbandalagslöndin .
En það á eftir að koma í ljós.
Samningar eru sem sagt á döfinni.
Matthías Bjarnason og Einar Ágústsson fara til Oslóar og hitta Crossland og Bretana á mánudag, en brezku herskipin munu að öllum líkindum fara út úr íslenzkri lögsögu á morgun.
Geir sagði okkur í morgun að tilkynning þess efnis yrði gefin út í fyrramálið.
Það var gaman að hitta Geir í morgun, hann var léttur og glaður í bragði.
Þegar ég óskaði honum til hamingju með samningana, sagði hann,
Óskaðu mér ekki til hamingju fyrr en búið er að skrifa undir.
Hann er afslappaður og lítur björtum augum til framtíðar.
Ef við losnum við landhelgismálið, sagði hann, og öryggis- og varnarmálin verða í lagi eins og allt bendir til og við getum hægt á dýrtíðinni, þá kvíði ég engu.
Þá getum við sagt að við höfum staðið við það sem við lofuðum í upphafi.
Hann sagði Morgunblaðið hefði aldrei sýnt neinn bilbug og þó hann talaði ekki mikið um það mátti heyra að hann mat það mikils.
Í byrjun júlí 1976
Tortryggnin í garð ritstjóra Morgunblaðsins er með þeim hætti að það er líklega hálfgert kraftaverk að hafa lifað það af.
Það hefur ávallt farið vel á með okkur Jóni úr Vör en þegar ég kom heim úr laxveiði í Laxá í Aðaldal, biðu mín þessi bréf frá skáldinu:
“Matthías sæll.
Fram að þessu hefur þú birt frá mér efni fljótlega eftir að ég sendi þér það, jafnvel látið á þér skilja að þér þætti ekki verra að fá línu frá mér en sumum öðrum. Nú þykir mér ætla að bregða út af þessu, því ég sendi þér stutta grein strax og ég hafði lesið sunnudagspistil þinn um næstsíðustu helgi. – Nú eru allir, nema kannski við tveir, búnir að gleyma því sem um var rætt.
En er þá nokkur skaði skeður?
Þarf ég að færa rök fyrir því að svo sé?
Við ræðum hér efni, sem okkur báðum er hugleikið og eigum báðir jafnan rétt á því að sjónarmið okkar fái að koma fram. Þar á hvorugur að eiga sjálfdæmi á meðan umræðan er málefnaleg – ekki um of endurtekningarsöm eða margorð og kurteislega orðuð.
Þegar ég skrifa í Morgunblaðið stilli ég málfærslu minni meira í hóf en ég myndi gera annarsstaðar, vegna þess m.a. að ég vil ekki að þú fáir ákúrur fyrir að hleypa mér þangað, því enn erum við ekki komnir lengra á réttlætisbrautinni en það, að það þykja forréttindi – jafnvel fyrir þjóna hins ritaða orðs, að fá þar inni. – Í sunnudagsbréfi þínu var margt, sem ég hefði viljað gera athugasemdir við. En ég vildi að deila okkar yrði sem hófsamlegust”.
Þetta bréf er sent 29. júní.
En svo bætir Jón öðru bréfi við, dagsettu 30. júní og það er svona:
“Fram að þessu hef ég ekki viljað trúa því, að þú ætlir að nota aðstöðu þína við Morgunblaðið til þess að stinga uppí mig. Ég hef verið að telja mér trú um, að þar væri óvenjumikið plássleysi. Nú verð ég að fara að halda annað. Þá er að taka því.
Fyrir nokkrum árum ritaði ég öðru, voldugu dagblaði stuttan pistil og gagnrýndi skrif þess um utanríkisstefnu okkar. Það birti ekki greinina. Svona er nú málfrelsið á Íslandi. Við fáum að kaupa blöðin og borga þau, taka við gegndarlausum áróðri með þögn og þolinmæði.
Hér eru fleiri orð óþörf.”
Jón reynir ekki að ná í mig í síma, þá hefði hann auðvitað fengið að vita að ég var úti á landi og vissi ekkert um þessi bréf eða greinina hans.
Hann bætir þessvegna við 1. júlí:
“Góðan dag.
Viltu nú ekki endursenda mér greinina, ef þú hefur ákveðið að birta hana ekki? Kveð þig svo með orðum, sem ættu að vera okkur jafn kær:
Lifi frelsið!
Lifi ritfrelsið! Jón úr Vör.”
Ég hef sem sagt verið norður í Aðaldal en þegar ég kom aftur til vinnu fór ég að leita að grein Jóns, en þá hafði hún farið á flæking og týnzt.
Hún fannst svo eftir mikla leit og var að sjálfsögðu birt í Morgunblaðinu.
Við Jón erum vonandi jafnmiklir mátar og áður en allt er þetta einskonar dæmisaga um kröfurnar til ritstjóra Morgunblaðsins og þá tortryggni sem ríkir í hans garð.
Það er aldrei gert ráð fyrir því að hann taki sér frí eða sé ekki viðstöðulaust sá bréfakassi sem krafizt er.
Þá fjöruna verður víst að súpa svo lengi sem við veltumst í ölduróti kalda stríðsins.
7. ágúst 1976
Talaði vel og lengi við Geir Hallgrímsson á fimmtudag. Við vorum bara tveir og það var gott samtal um líðandi stund.
Geir sagðist vera mér sammála um að Kristján Edjárn gengist meira upp í forsetaembættinu en hann gerði sér jafnvel sjálfur grein fyrir.
Ég sagðist sjálfur halda að hann liti annars vegar stórum augum á embætti sitt og hlutverk en svo væri hann einnig með hugann við það alþýðlega umhverfi sem hann er sprottinn úr.
Í hjarta hans færi fram hörð barátta eða togstreita milli þessa tvenns.
Geir sagðist hafa gert það að tillögu sinni við Kristján fyrir innsetninguna að kjólfötum yrði sleppt.
Kristján óskaði eftir umhugsunarfresti í sólarhring.
Niðurstaðan var sú að halda kjólfötunum.
Geir sagðist hafa spurt Bjarna Ben. að því fyrir forsetakosningarnar á sínum tíma, hvort hann vildi ekki verða forseti.
Bjarni sagði ákveðið:
“Nei, ég hef fengið allt út úr lífinu sem ég óska mér, ég hef ekki áhuga á þessum hégóma.”
Hann hefur áður sagt eitthvað svipað við okkur Hönnu, hann vildi ekki verða forseti, ekki frekar en Halldór Laxness,en á sínum tíma bað hann mig fara í Gljúfrastein og bjóða Halldóri stuðning.
Skáldið hafnaði.
Geir segir að Geirfinnsmálið hvíli á Ólafi og Dóru, konu hans. Þau voru á Þingvöllum og töluðu mikið um erfiðleika Ólafs.
Þetta hefur verið erfiður vetur, sagði Dóra.
Geir hefur miklar áhyggjur af Gunnari Thoroddsen og samskiptum þeirra; talar um Gunnar sem Akkillesarhæl sinn.
Það er ástæða til að hafa áhyggjur af samstarfi þeirra.
Enginn veit , hvernig því lyktar.
9. október 1976, laugardagur
Hér á eftir fer svarbréf til Sigurðar A. Magnússonar, en hann bað mig um leyfi til að þýða ljóð eftir mig á ensku, en sendi mér jafnframt einhvers konar uppgjör vegna heldur skrautlegra samskipta okkar eftir að hann hætti á Morgunblaðinu.
Þetta bréf mitt er nokkuð hvassyrt - en mundi það ekki vera við hæfi.
Þar segir m.a. .
Reykjavík 9. okt. ‘76
Diddi minn.
Í sama bréfi sem þú skrifaðir mér til að biðja leyfis að birta ljóð eftir mig í Bandaríkjunum reiðir þú hátt til höggs og vegur að orðstír mínum á þann hátt sem ég get ekki kallað annað en svívirðilegan.
Ég mátti svo sem alltaf vita að þessi skítur allur hefði grafið um sig í brjósti þínu - og ég held þessi grunur minn hafi verið ástæðan fyrir því að við höfum ekki hitzt lengi, eða frá því þú komst dag eftir dag til hinnar spilltu skepnu, þegar þú áttir um sárt að binda af persónulegum ástæðum.
Ég vona að ég hafi tekið þér sæmilega, þó að mér hafi stundum fundizt þú ekki eiga erindi við mig nema þegar ég var nógu góður til að nota mig.
En ef einhver getur notað mig til góðs eins og í þessu tilfelli - þá er það guðvelkomið.
Ég er ekki hefnigjarn maður - og það veizt þú orðið öðrum betur - og leita oftast sátta, ef þess er kostur.
En svo lengi má brýna deigt járn að bíti.
Og með þessu síðasta bréfi þínu hefurðu gengið feti of langt, að mínum dómi.
Í gamla daga sögðu sameiginlegir vinir okkar að ég væri aumingi að láta þig nota vináttu okkar eins og þeir töldu, en það hafði engin áhrif á mig, því að ég taldi að þú ættir að vera á Morgunblaðinu, meðan þér fyndist sjálfum sæmandi.
Nú sé ég loks að allt hefur þetta farið snaröfugt í þig og brenglað þitt annars góða bókmenntaskyn - ég á við að þetta skyn hefur ekki ávallt notið sín í dómgreind þinni.
Hún er því miður oft úr lagi færð.
Mér finnst í raun og veru hræðilegt, hvernig lífið hefur leikið þig - og þó að ég sé síður en svo fullkominn, held ég sálarástand mitt sé eins og heiður himinn móts við þá hræðílegu þoku haturs, fyrirlitningar og biturleika sem stjórnar skrifum þínum í þessu yfirgengilega bréfi þínu.
En - það er þó hreinskilið og þú reynir að gera upp við mig, horfir að sjálfsögðu á öll mál af þínum litla norðurhjarasjónarhóli (þótt þú reynir að fullyrða að það geri í raun og veru allir nema þú), ert blindur í sjálfs þín sök - og raunar persónugerð dæmisagan um flísina og bjálkann.
En látum það gott heita, þú segir a.m.k. það sem þér finnst og heldur að sé sannleikur. Það virði ég og þess vegna svara ég þér, þótt bréf þitt sé í raun og veru ekki svaravert sökum formyrkvunar.
Auk þess átt þú í þessu tilfelli ekkert til mín að sækja, svo að þú gazt látið vera að skrifa mér - nema þá þetta með ljóðin, en þar mætti víst telja að ég ætti þér upp að unna, enda þótt mér liggi í léttu rúmi, hvort ljóð mín séu þýdd eða ekki.
Þau eru ort fyrir okkar litla land - og verða aldrei þýdd svo að frumtextinn fyrnist ekki meira eða minna.
Allt þetta veit ég - og þýðingar eru mér ekkert hégómamál, þótt einhverjir haldi víst annað.
Þau standa eða falla sem íslenzk ljóð, það er allt og sumt.
En þú talar enga tæpitungu að þessu sinni, svo að ég get svarað þér í sömu mynt. Ef þú hefðir skrifað smjaðursbréf, hefði ég ekki virt þig viðlits.
Svo spilltur er ég nú orðinn!
Þú talar eitthvað um siðferðilega yfirburði skálda í sambandi við okkur Indriða og vilt víst meina að kynni þín af okkur hafi sannfært þig um, að þar sem skáld fari, þurfi siðferðið ekki alltaf að vera hátt á hrygginn reist.
Ég veit ekki til að við höfum haldið því fram. Samt gerðum við allt - og ég lagði jafnvel á mig persónulega erfiðleika - til að sameina rithöfundasambandið með þér, og ég veit ekki til að það hafi brugðizt - enda þótt ég efist um að þú hafir átt þetta samstarf skilið eins og þú hegðaðir þér stundum.
Þegar þú tókst við Sambandinu af mér var eins og þú hefðir erft það frá hundi og ég man ekki til þú þakkaðir mér einu orði fyrir það heilsuspillandi starf sem ég hafði ynnt þar af hendi (alltof lengi), enda þótt þið gerðuð allt sem unnt var til að ég fengi aldrei frið og væruð með klofningstilburði út af smámálum.
Samt vann ég að því öllum árum að unnt yrði að sameina félögin og búa upp í hendurnar á þér.
Mér var þakkað af þér með því að skipa mig í sálmabókarnefnd Rithöfundasambandsins!!
Ég fór að vísu aldrei á vegum Rithöfundasambandsins til útlanda, en nú minnist þú á fólskulegar og linnulausar árásir hlaupastráka Mbl. á þig meðan þú sazt á ársþingi Norræna rithöfundaráðsins í Noregi.
Mátti sem sagt enginn hafa aðra skoðun á störfum þínum en þú?
Gat það ekki verið málefnaleg afstaða af því að þú áttir í hlut?
Nei, skoðaðu hug þinn betur. Kannski þú hafir einnig einhvern tíma sært annað fólk, ekki síður en það þig!
Þú getur bæði verið fljótfær og dómharður, einnig tillitslaus við þá sem aðra skoðun hafa en þú sjálfur, sbr. bréf þitt nú til mín
Þú blandar viðstöðulaust Morgunblaðinu saman við mig sem slíkan og er það kannski rétt. Þó man ég að ég gagnrýndi þig á Hallærisplaninu eitt sinn fyrir að kalla okkur nazista. Þú hrökkst við og sagðir (af því þá hentaði það þér),
“Nú, ekki ert þú Morgunblaðið.”
Ég er það sem sagt bara þegar það hentar sársauka þínum og dómgreindaleysi.
Og enn segir í bréfinu til SAM:
Fáir hafa gert meira fyrir þig en Bjarni Benediktsson, þú hundeltir hann lifandi. Skrifaðir vel um hann dauðan. Sagðir mér að þú hefir jafnvel sagt að hann væri mesti stjórnmálamaður Íslands um sína daga!
Ég reikna ekki með hann hafi lesið þetta!
Bjarni gerði það eitt sem hann trúði á og samfæring hans sagði honum. Hann var fastur fyrir, ekki vingull eins og þú. Hann var svo greindur maður að hann trúði því jafnvel að sumir kommúnistar hefðu sannfæringu fyrir því sem þeir boðuðu.
En hann barðist gegn þeim.
En hann gat virt þá að öðru leyti.
Það getur þú að vísu, ef marka má bréf þitt, þú ruglar t.a.m. ekki saman skoðunum mínum og ljóðum.
Bjarni gat einnig virt skoðanir andstæðinga sinna. En mér sýnist á bréfinu þínu að það getir þú ekki. Þú sérð djöfla alls staðar þar sem skoðanir okkar fara ekki saman.
Einu sinni fluttir þú fyrirlestur um NATO í ríkisútvarpið. Þórbergur sagði að mál þitt bæri vott um dómgreindarleysi og siðspillta pólitíska lágkúru.
Það var meðan þú fluttir málstað vestræns lýðræðis.
Ég hef alltaf gert það og m.a. barizt gegn kommúnisma harðar en flestir aðrir, hvorttveggja af djúpri sannfæringu. Ég geng sem sagt einn með svona siðspillta pólitíska lágkúru í brjóstinu. Því haggar enginn, og allra sízt kaupi ég ljóðum mínum og öðrum verkum frið með því að slá af þessari sannfæringu minni.
Þú lætur að því liggja að ég og mínir líkar séu skriðdýr og lýsir okkur sem hórum, ef ég man rétt.
Notaðu þín orð eftir því sem þér finnst viðeigandi, það hefur engin áhrif á mig.
Meðan ég veit að brottför varnarliðsins frá Íslandi mundi stórauka hættuna á að okkar litla land yrði heimsveldi Rússa að bráð, eins og Kínverjar fullyrða í mörgum samtölum við mig, enda augljóst mál og vitneskja allra góðra Íslendinga, þá mun ég láta blað mitt standa vörð um utanríkisstefnu Bjarna Benediktssonar, því að hún er jafnnauðsynleg nú og áður.
En að sjálfsögðu geta tímarnir breytzt.
Ashkenazy, vinur minn, sem þekkir kommúnisma betur en þú, hefur sagt mér nákvæmlega hvernig Sovétar hugsa sér að gleypa landið. Hann varar okkur við að slaka á öryggi og bjóða hættunni heim.
Það gera allir sem eitthvert vit hafa á og einhverja reynslu til að bera.
Þú talar um einhverjir útlagar frá kommúnistaríkjum sem þú hafir hitt í Bandaríkjunum séu sammála þér í einu og öllu, að mér skilst.
Það var þá til einhvers að þeir flýðu!
Eða talaðirðu kannski líka við Solzhenisyn?
Ég talaði aftur á móti við Sinjavskí í París eins og þú kannski veizt - og hann hefur nú sömu skoðun og mér skilst þú hafir haft fyrir 20 árum.
En hvernig á maður annars að vita hvaða skoðun þú hefur haft.
Ég held nefnilega, Diddi minn, að þú hafir haft litlar skoðanir á þjóðmálum, bara tilfinningaleg viðbrögð.
Og menn stjórna hvorki blaði né landi með slíkri dómgreind.
Þegar ég fékk þá ábyrgð að stjórna Morgunblaðinu einsetti ég mér að það yrði gert án tilfinningavæmni eða vináttutengsla - heldur með raunsæi og sannfæringu og trú á það sem ég tók að mér.
Eins og Becket!
En menn greinir að sjálfsögðu á um hvernig þetta skuli gert. Og þeir sem hatast við þetta, vilja auðvitað koma því á að ég sé spilltur.
Þú skrifaðir eitt sinn um Hannes Hafstein og Kristján Albertsson, þar sem þú m.a. tókst öllum á óvörum upp hanzkann fyrir Jóhannes afa minn, sem lifði fyrir frelsi og framtíð Íslands og lagði líf sitt raunar í sölurnar fyrir það.
En hann var kallaður spiltur, jafnvel landráðamaður af ýmsum þeim sem þá voru í þínum sporum nú.
Han lét sér fátt um finnast.
Hann var ekki spilltari en það að jafnvel þú sást í gegnum blekkingavef “föðurlandsvinanna” og gafst honum fyrstu einkunn - sem hann átti skilið.
En ég skil ekki enn að þú skyldir ekki halda áfram að æpa með hinum. Það sýnir mér að drengskapur ónáðar stundum freistingar Sigurðar A. Magnússonar.
Ég hef ekki áhyggjur af stefnu Morgunblaðsins, þegar upp verður staðið - ef Ísland verður ekki kommúnisma að bráð og fær að lifa áfram, frjálst og æ frjálsara. Hitt er annað mál að þetta blessaða land mætti vel losna við þá dómsjúku kynslóð sem er okkar - og það er rétt, að þegar við erum dauðir getur vel verið að segja megi með einhverjum rétti: Farið hefur fé betra!
En þessir tímar eru háskalegir og það eru fáir sem þola þá, þ. á m. þú - með allt þetta inni í brjóstinu sem nú brauzt fram.
Þú tínir allt mögulegt til, sumt man ég ekki eins og Biafra - hvað var það? - og í sambandi við Víetnam skrifaði ég sjálfur aðalgagnrýnina á stefnu Bandaríkjamanna, eftir að ég hitti Fulbright í Washington, þeirri voðalegu borg.
En auðvitað manst þú það ekki, það hentar ekki.
Það hentar ekki heldur að minnast á það sem við höfum gott gert - jafnvel ekki það sem við höfum gert gott saman, t.d. þegar við börðumst af hörku gegn fasistaklíkunni í Grikklandi - og ég var marggagnrýndur fyrir af þeim sem selja fisk til Grikklands.
Þú minnist ekki heldur á trúnaðarmál sem ég sagði þér og birtist svo í Þjóðviljanum o.s.frv. Ég hef gert mér far um að gleyma ýmsu af þessu, ætla ekki að fylla brjóstið á mér af skít og hatri, ég trúi á það góða.
Það er nóg samt.
En þú virðist reyna undir drep að muna allt sem þér finnst ávirðingar okkar, en hitt sem gæti ónáðað þína eigin samvizku er að sjálfsögðu gleymt og grafið.
Þú hefðir víst eitthvað sagt, ef þú hefðir lent í mestu galdraofsóknum sem ísl. rithöfundur hefur þurft að standa í, þ.e. 7-mánaða Fjaðrafoki, en varla nokkurn tíma talað um verkið, heldur vonzku mína og spillingu.
Síðasta árásin birtist í Austra (Magtnúsar Kjartanssonar,ritastjóra Þjóðviljans) 7 mánuðum eftir að ofsóknirnar hófust.
Svo reyni ég í bók í fyrra að bera hönd fyrir höfuð mér, en þá hefst nýr galdur!
Hvar stóðst þú í þessari herferð allri?
Og hvað hefðuð þið frændur sagt, - en þetta er aðeins lítið og meira og minna gleymt dæmi.
Þú biður um bækurnar mínar tvær. Þú færð þær að sjálfsögðu - og getur birt það sem þú vilt; ástæða: að þú komst út úr skelinni og gafst mér tækifæri til að segja við þig nokkur vel valin orð líka.
Ég er gamall vinur þinn - og það kemur einnig fram í bréfi þínu, þó að Hanna segist vart sjá það - en jafnframt harðasti gagnrýnandi.
Nú hef ég líka létt á mér, svo að ekki hallast á. Vonandi getum við svo talazt við án þess drepast úr skítalykt......”