Árið 1984


Sumarið 1984 - ódagssett

 

Móbil, Alabama:

1.

Á horninu

á Government Street

svartur drengur

og selur rauðar blöðrur,

I Love You, stendur

á blöðrunum.

Tveir hundar ganga

framhjá.

2.

Hús ríka

mannsins

með evrópskt

andlit

eins og hann.

3.

Hér arðræna

svertingjar

svertingja

á flóamarkaðnum,

hengja fötin

upp í trén.

Hundurinn

einnig svartur.

4.

Langt er síðan

hvítar hendur

struku

þessar bleiku rósir.


 

Bréf til Kristjáns Karlssonar:

24. ágúst ‘84

 

Tallahassee, 24. ágúst ‘84

Góði vinur Kristján.

Flatmagandi og iðjulaus eins og krókudílarnir í Wakulla Springs sem er stærsta ferskvatnsuppspretta í heimi segi ég fyrir annað bréf áður en við höldum heim og er það að fornum sið svo að þú hafir eitthvað að heyra af fjörrum löndum.

Eins og þú sérð af þessu er ég orðinn allfornyrtur enda verið að lesa Njálu og Sturlungu hér í Flórdía.

Það stingur að vísu í stúf við allt umhverfið og verkaði líklega á samfélagið eins og skröltormur með hornspangargleraugu, ef kunnugt væri.

Bækurnar fæ ég lánaðar hjá Hilmari Skagfield, ræðismanni hér og bókaormi, syni Sigurðar Skagfields óperusöngvara.

Íslenskur bókaskápur í Flórída er jafn fjarstæðukenndur og alvarlegustu leikrit Uneskos.

Ekkert veit ég skemmtilegra en lesa þessar gömlu bókmenntir okkar, og þá ekki sízt að velta fyrir mér orðum og meðferð hugsunar í ljóðum manna eins og Sturlu Þórðarsonar sem er alæta á skáldskap eins og ég.

Mér skilst nú æ betur að Íslendinga sögur eru skrifaðar upp úr ákveðnum formúlum sem voru höfundum svo inngrónar að þeir þurftu lítið fyrir þeim að hafa.

Þannig er sárum, vígum og vígssökum lýst af sama áhuga í Sturlungu og til að mynda Njálu.

Ef þessi rit eru ekki öll meira og minna eftir örfáa snillinga eins og Snorra og Sturlu, þá eru þau úr þeirra skóla runnin á sama hátt og Time sem fjöldi manna skrifar úr og inn í formúlu, að mestu höfundaeinkennalaust, en samt athyglisvert afrek í nútíma blaðamennsku þótt ekki sé allt hárnákvæmt eða rétt frekar en hjá forfeðrum vorum.

Nú höfum við verið í New Orleans þar sem Louis Armstrong var en mig langaði til að sjá þessa borg vegna kynna okkar heima.

Við sigldum á Missisippi og ég lék Mark Twain í tvo klukkutíma, álíka kunnur þar um slóðir og Samuel Clemens eða annar blaðamaður, William S. Porter, eða O. Henry öðru nafni, en hann þekkja líklega allir þótt bókmenntir séu varla sterkasta hlið fólks hér um slóðir.

Sjónvarpið er alls ráðandi og svo yfirgengilegir metsöludoðrantar til að brjóta síðar upp í sjónvarpsþætti. Það virðist helsta hlutverk skáldsagnahöfunda nú um stundir, þanngi að sjónvarpið er jafnvel að ná tangarhaldi á bókinni.

En þá er að hugga sig við að fornbókmenntir okkar gengdu sama hlutverki og þessar sjónvarpsbókmenntir og nú er farið að halla undan fæti hjá okkur.

Franska hverfið í New Orleans er sérstætt og við gætum sætt okkur við nokkur kaffihús eða vinnustofur, svo fintfölende sem við erum orðnir með árunun, en þó síst í Bourbon Street sem frægust er.

Hún er líka eins og frægðin og sjónvarpið, hávaðasöm og sjabbi.

Það er annars merkilegt að hér virðast allir öskra inn í sjónvarpið og undantekning ef menn tala þar saman.

Mér er nær að halda að Reagan forseti sé sá eini sem ekki öskrar í sjónvarpið. Það var merkilegt að hlusta á hann flytja útnefningarræðu á landsfundinum í Dallas, en hún var sýnd í sjónvarpi, eftirminnileg tíðindi úr þessu villta vestri brauðs og leikja.

Annars var ég að lesa í Montgomery í fyrradag í stórmerku safni Time-Life um jörðina, þar sem Ísland kemur að sjálfsögðu mjög við sögu, að ísaldir komi með tólf til fimmtán þúsund ára bili ef ég man rétt og nú höfum við haft tíu þúsund ára hlýviðrisskeið, svo að ekki er nema tvö til fjögur þúsund ár í jökulinn.

Svo frægðin er ekki eftirsóknarverðari en þetta!

Tortímingin kemur í öllum myndum, ekki síst frostnu vatni.

Ætli þeir verði ekki að fara að gera eitthvað í þessu, stjórnendur frægðarinnar?

Annars var miklu hlýrra á Íslandi á 13. öld en nú er og er það ein skýringin á blómlegu og ógerilsneyddu mannlífi og frjósömum bókmenntum þeirra tíma.

Ísland var gósenland, eftirsóknarvert.

Það nennir enginn að leggja undir sig ónýt lönd. Ásælni Hákonar gamla eru því meðmæli.

Það var gaman að koma til Montgomery.

Þar ræður Wallace enn öllu, svo óskiljanlegt sem það er. Ung svertingjastúlka í kirkju Marin Lúters King sagði okkur að hann hefði ekki breytt um stefnu, samt kysu margir svertingjar hann.

Ég veit ekki hvers vegna, sagði hún feimin og hlédræg, en blökkufólkið hafði það nú heldur gott í Alabama.

“Teljið þið að Martin Lúter King hafi verið heilagur maður” spurðum við.

“Já,” sagði hún.“Hann sá engilinn”.

Sendi þér smáviðbót til gamans.

Hef mest gaman af að dútla við hugmyndir eins og þú veist. Og upplifa mikilvæga atburði.

Á tröppum þinghússins í Montgomery er gyllt stjarna þar sem Jefferson Davis stóð þegar hann sór eiðinn sem forseti Suðurríkjanna.

Þegar Halli tók af okkur mynd þarna á tröppunum kom í ljós að ég stóð óvart á stjörnunni.

Hlutskiptik manna er misjafnt og kannski engin tilviljun að mig dreymdi Kristján Eldjárn í nótt.

Hann var í dökka regnfrakkanum og með svarta viðhafnarhattinn og heilsaði mér glaðlega.

Ég fór að vísu að velta því fyrir mér hvort ég væri feigur, því þú veizt að ég er nógu ímyndunarveikur til að vera sæmilegt skáld.

Eða eigum við að kalla ímyndunarveikina hugmyndaflug eins og sérfræðingar í fóbíum gera?

Með bestu kveðjum til ykkar Elísabetar frá vinum ykkar hér í djúpa suðrinu,

Matthías.