Árið 1985


2. desember 1985

Skrifaði stutta athugasemd í Morgunblaðið vegna ummæla Hannibals Valdimarssonar sem féllu í samtali við hann í sunnudagsblaðinu.

Þar segir hann að Eysteinn Jónsson hafi ákveðið að láta skrásetja æviminningar sínar til að leiðrétta ýmis atriði sem hann telur að séu rangtúlkuð í ævisögu Ólafs Thors.

Þetta er bara einhver vitleysa. Eysteinn vill að sjálfsögðu segja söguna af sínum sjónarhóli og ég hef ekkert við það að athuga.

Í bók Vilhjálms Hjálmarssonar um Eystein er aldrei neinn broddur í garð Ólafs sögu, miklu fremur rætt um hana af hlýju og tekið undir margt sem þar stendur.

Ég hef því aldrei heyrt fyrr það sem Hannbal heldur fram og sízt af öllu frá Eysteini Jónssyni.

Hann nefnir stundum Ólafs sögu í minningum sínum, til að mynda í tengslum við þingrofið og segir þegar hann hefur rifjað upp frásögn mína að hún “staðfesti frásagnir um “rafmagnað” andrúmsloft í þingrofsvikunni”.

Þá nota þeir Eysteinn nokkru síðar orðið laukrétt þegar vitnað er í frásögn mína.

Eysteinn Jónsson minnist á frásögn mína af myndun Þjóðstjórnar og mótmælir henni ekki þótt honum líki túlkun mín ekki allskosta sem vonlegt er.

Þó kemur fram hjá Vilhjálmi Hjálmarssyni að Eysteinn tekur undir lýsingu mína á andrúmsloftinu innan Sjálfstæðisflokksins þegar Þjóðstjórnin hafði verið mynduð og síður en svo, að hann hafi neitt við hana að athuga.

Og um eiðrofsmálið svonefnda, sem var ásamt þingrofsmálinu viðkvæmasta deilumál Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á sínum tíma segja þeir Eysteinn Jónsson að “Matthías Johannessen hefur í bók sinni um Ólaf Thors tekið “eiðrofsmálið” til meðferðar í samnefndum kafla og einkum frá sjónarhóli sjálfstæðismanna sem eðlilegt má kalla”.

Eysteinn hefur góðan skilning á því að Ólafs saga fjallar um ævi Ólafs Thors en hún er engan veginn alhliða eða endanleg stjórnmálasaga landsins á því tímabili sem hún fjallar um, né verður slík saga nokkurn tíma skrifuð eins og ég bendi á í Ólafs sögu sjálfri.

Í lok þessa kafla segist Eysteinn Jónsson ekki geta rifjað allt málið upp með Vilhjálmi Hjálmarssyni enda séu afstaða og málflutningur Ólafs Thors ítarlega rakin í bók minni eins og bent er á.

En þeir tala hvergi um rangtúlkun, vitna miklu fremur í Ólafs sögu sér til trausts og halds.

Frásögn þeirra er hófsöm og heiðarleg.

En ef það er rétt hjá Hannibal Valdimarssyni að Ólafs saga eigi einhvern þátt í æviminningum Eysteins Jónssonar þá er það vel. En eitt er söguskoðun, annað vísvitandi ósannindi eða rangtúlkun.

Kannski ætti ég að bjóða Hannibal að skrifa ævisögu hans því það fer ákaflega vel á með okkur og hefur alltaf gert.

Hann vill ekki skrifa ævisögu sína sjálfur.

Mér finnst það rétt hjá honum, hann er alltof mikill ákafamaður og tilfinningavera til að segja eigin sögu fullkomalega sannferðuglega.

Hann hefur augsýnilega góðan skilning á þessu enda hefur hann ávallt haft dómgreind sem hefur reynzt honum í seinn góður kompás og nauðsynlegt aðhald.

En svona miklum verkalýðsforingjum leyfist stundum meira en öðru fólki.

Þegar við sögðum frá því í ráðherratíð hans að hann hefði selt ráðherrabílinn leigubílstjóra, ef ég man rétt, þá lenti það ekki á honum, nei, síður en svo, það lenti á okkur morgunblaðsmönnum og við urðum fyrir aðkasti fyrir að vera að skipta okkur af ráðherrabíl Hannibals Valdimarssonar sem okkur kæmi ekkert við!

Bjarni Benediktsson sagði líka oft við mig að það ríktu tvennskonar lög í landinu; ein fyrir okkur sjálfstæðismenn, en önnur fyrir vinstra fólk.

Það má vel vera að það sé tekið harðara á okkur enda talið að við séum valdameiri og í einhvers konar skjóli af fjármagni.

En það er auðvitað eintóm vitleysa.

Hitt er svo annað mál að Hannibal Valdimarsson er einskonar pólitískur bóhem og enginn ætti að skilja það betur en ég.

Ef ég hefði “farið út í pólitík” hefði ég helzt viljað vera slíkur bókhem; frjáls af öðrum en frjálsastur af sjálfum mér.

Og þó, og þó!

Ætli Hannibal Valdimarsson hafi ekki einnig þurft að hugsa um atkvæðin sín, rétt eins og aðrir!


18. desember 1985

Skrifað grein um Morgunblaðið o.fl. í tilefni af sjötugsafmæli Sigurðar Bjarnasonar,sendiherra ,og birtist hún í blaðinu í dag.

( Innskot : síðar birt í bókinni Gríma gamals húss,1998 , helgispjall.

Þar eru einnig Dagpistlar um dægurmál og minningargreinar um Valtý Stefánsson,Halldór Kiljan Laxness,Eyjólf Konráð Jónsson og Ólaf K.Magnússon,ljósmyndara)

Greininni um Sigurð lýkur svo:

Ungir höggva menn bæði stórt og margt eins og segir í Guðmundar sögu dýra. Síðan fellur veðrið í sleikjulogn eins og þeir segja fyrir vestan og engin andviðri lengur. Það er mikil gæfa að fá að eldast með þeim hætti. Halda áfram að vera góður og vitur Lappi í vinahópi meðan tíminn lúskrast áfram, þetta endalausa niðandi haf.