Árið 1986


Úr bréfi til Björns Bjarnasonar,þegar við vorum í Flórída í þriggja mánaða fríi:

Melbourne, Fla. 4. jan. ‘86

....Mér þótti að sjálfsögðu vænt um að smásögurnar mínar (Konungur af Aragon ) seldust upp hjá forlaginu, svo að AB ætti þá ekki að tapa á þeim, en um það hugsa ég stundum, þegar ég gef út bækur. Ég hef alltaf áhyggjur af útgefandanum, því ég vil ekki að hann tapi heldur græði á því sem ég er að bauka í frístundum mínum, þessum stopulu frístundum sem vilja nú fara forgörðum, þegar ég er ekki erlendis. En sem sagt, það er skemmtilegt að það skuli vera hægt að selja ljóð og smásögur á Íslandi.

Ég er að vísu dálítið undrandi á þessu sjálfur (jafnframt því sem ég er að sjálfsögðu heldur glaður) vegna þess að mér er það fulljóst að sumar smásögurnar eru seinteknar og hélt raunar bókin væri fyrir fáa útvalda, sem væru vanir að lesa í erfiðar bókmenntir.

En Íslendingar virðast ekki kalla það ömmu sína, þótt bækur séu harðar undir tönn og ekki allar á yfirborðinu.

Þessi bók er eins langt frá blaðamennsku og hugsazt getur og stendur ljóðinu miklu nær. Það virðast margir hafa skilið, ekki sízt ungt fólk og opið, en sumir aðrir kunna ekki við sig í þessu dularfulla umhverfi og ég lái þeim það ekki. En þegar forvitni og eftirvænting fara saman og fordómar og fyrsta sjokk eru læst niðri í skúffu má alltaf búast við einhverri uppákomu.

Menn leita viðstöðulaust að sjálfum mér í þessum sögum eins og gengur en skáld nota einungis ívaf úr lífi og reynslu sinni, þegar svona verk er samið.

Kveikjan er ástríða og þörf, hitt er vinna.

Mér þykir skemmtilegast orðið að vinna með orð og breyta.

Geyma og lagfæra.

Ég á mikið af ljóðum sem ég hef meiri nautn af að eiga en gefa út.

En nú vill Eiríkur Hreinn fá eitthvað af þessu, við sjáum til.

Kristján Karlsson sagði við mig að sá sem ætti ekki innsæi og skildi það ekki kynni ekki að meta smásögurnar, þær væru honum lokið bók. Og svo kemur ungur bókmenntafræðingur (Páll Valsson) sem ég þekki hvorki haus né sporð á og fer að tala um innsæi í Þjóðviljanum.

Þá hugsaði ég mitt.

Sigurjón Björnsson sem er einn af örfáum alvörusálfræðingum sem ég hef kynnzt, og estitiker með afbrigðum eins og bók hans um Gunnar Gunnarsson ber vitni, sagði við mig að þetta kver væri lykillinn að öllu sem ég hefði gert.

Hann ætlar að skýra það fyrir mér síðar.

Loks fékk ég ágætt bréf frá vini okkar Baldvin Tryggvasyni sem hefur oft komið mér á óvart með næmri tilfinningu fyrir listum, og þá ekki sízt bókmenntum, og gladdist ég yfir því áliti sem hann hefur á bókinni, enda aðalútgefandi hennar og mikilvægt að hann hafi ekki lagzt í rúmið hennar vegna!

Hann sagði mér einnig frá viðbrögðum Vigdísar forseta vors sem virðist lesa mikið og fylgjast vel með bókmenntum og af því ég er nógu forsnobbaður til að hafa glaðzt yfir áliti hennar læt ég það fylgja, en hún sagði við Baldvin, Ég efast um að það sé hægt að komast nær lesendum sínum en Matthías gerir í þessari bók sinni.

Ég vissi ekki að hún hefði þessa lífsreynslu.

Hún hefur áður sýnt verkum mínum vináttu, einkum ljóðunum. Hún valdi mig sem ljóðskáldið, þegar hún talaði við danska útvarpið, ég kunni vel að meta það.

Það er í þjáningunni sem menn skýrast eins og þú veizt öðrum mönnum betur.

Mér er fulljóst að það má einnig lesa út úr þessu kveri sem er skáldskapur að mestu, en með ívafi erfiðrar og þroskandi reynslu, eins og ég sagði. Kannski einhverjir hafi gert sér grein fyrir því.

Ég ætlaði svo sannarlega ekki að fara að þvarga um þetta kver mitt. Það er liðin saga, ég hef kvatt það eins og það kom, án þess gera neinar kröfur til að verða einhvers konar metsölubók (ég þoli þetta orð ekki eftir Kompaníið, Hundaþúfuna, Dagur ei meir, Olaf Thors og allar þessar metsölubækur sem eiga að vera fulltrúar gæða , en ekki magns), hvað þá að kverið hafi átt að frelsa heiminn!

Auk þess fær maður aldrei neitt fyrir þessar skruddur, ég hef raunar aldrei fengið nein ritlaun sem máli skipta nema hálfu ári eftir útkomu Ólafs sögu, en þá tók ríkið einnig bróðurpartinn eins og endranær.

Maður verður helzt að lifa í ræfildómi til að halda einhverju eftir af ritlaunum og ég hef hvorki nennt því, haft metnað til þess né löngun. (Segðu Þorsteini (Pálssyni,jármálaráðherra) þetta, hann hefur áhuga á metsölubókum, því hann hirðir ágóðann, ásamt AB!)

Menn skrifa sjaldnast vel nema úr lífinu sjálfu. Og þá verður maður að þekkja það, annaðhvort af öðrum ritum og heimildum eða eigin reynslu sem er betra. Loks segir Eiríkur Hreinn að ég eigi aldrei að vera að hugsa um hvernig bækurnar mínar seljist, það sé hlutverk forlagsins. Vondar bækur seljist oft vel, góðar bækur sjaldnast.

Engum er ljósara en mér að sala er enginn mælikvarði á gæði.

En maður getur ekki heldur eytt ævinni í að skrifa fyrir tíu, tólf hræður, það er þá betra að hafa þær sjö!

Ég hef sagt við Eirík að AB eigi ekki að gefa út bækur nema eftir höfunda sem hafa efni á að skrifa án þess að selja, hinir eru svo öfundssjúkir og illvígir og einatt hatrammir út í kollega sína og aðra, að engu tali tekur.

....Hér situr maður og hefur nógan tíma til að hugsa - það er víst listin að lifa, segir Nordal - og ónáða vini sína með greinum sem fæstir hafa áhuga á.

71)

Og enn segir í bréfinu til Björns Bjarnasonar:

....En ég skrifa orðið svo lítið í Morgunblaðið eins og þú veizt, því allur tíminn fer í reddingar og þjónustu við aðra, enda fæ ég víst borgað fyrir það.

Ég hef sagt þeim í Árvakri að ég óski ekki eftir því að fá greitt fyrir það sem ég skrifa, lít á það sem lúxus að fá tíma og tækifæri til að skrifa í vinnunni, en ég vilji fá vel borgað fyrir ábyrgðina og skítverkin. ég held það sé enginn ágreiningur um þetta.

Í raun og veru öfunda ég blaðamenn sem hafa skriftir að aðalstarfi en hvorki þjónustu né verkstjórn.

Ég tel það forréttindi.

En ég efast um að blaðamenn geri sér grein fyrir því. Þeir eru farnir að hugsa of mikið í samanburði, finnst mér stundum.

Ég held það hafi ekki verið þannig, þegar ég var ungur. Þá var þetta bara eitt samfellt æði og svo var maður einn góðan veðurdag tekinn úr umferð og gerður að ritstjóra, þótt manni hefði sízt af öllu dottið það í hug, enda efst ég um það hafi staðið hjarta mínu næst, þótt þetta hafi verið ævintýri líkast, að vísu.

Mér er það fullljóst að ég hef gert dálítið af því að ýta frá mér og okkur og talið það nauðsynlegt af ýmsum ástæðum sem þú þekkir eins vel og ég.

Blað eins og Morgunblaðið þarf eins og lítil þjóð að undirstrika sjálfstæði sitt með þeim hætti sem eftir er tekið, svo mikill utanaðkomandi þrýstingur sem sífellt dynur á svona blaði eins og lítilli þjóð, eins og við þekkjum.

En ég er að sjálfsögðu sammála því að Íslendignar eiga ekki að vera að tala sífelldlega um vonzku Dana, þótt ég hafi þekkt fólk sem flóreraði í Danahatri og hundskammaði mig fyrir að innræta ungu fólki ánægju með Dani!!

En það er líka ágætt að vita af því að bezt er að vera laus við Dani eins og aðra og láta þar við sitja.

En Danir gera engar kröfur á okkar hendur, þvert á móti hafa þeir verið að senda okkur gjafir eins og handritin og annað sælgæti án þess krefjast neins í staðinn.

En við eigum að sjálfsögðu að hafa náið og eðlilegt samstarf við þá, svo lengi sem hagsmunir og hugsjónir fara saman.

Og við viljum leggja áherzlu á norrænt samstarf sem er báðum þjóðum gagnlegt, en engin ástæða til að gangi út í öfgar.

Þannig eigum við einnig að umgangast Sjálfstæðisflokkinn fyrst þú tókst þessa líkingu. Mér finnst hún ágæt, en einnig upplýsandi og íhugunarverð.

Sérstaklega vegna þess að sjálfstæðismenn gera einatt óguðlegar kröfur á hendur blaði eins og Morgunblaðinu, sem er ekki frjálsara að Sjálfstæðisflokknum en svo að forystumenn flokksins og þingmenn gera ávallt kröfu til að Morgunblaðið fjalli um þá með öðrum hætti en aðra stjórnmálamenn.

Samt er ég ekki viss um að þeir séu alltaf að framkvæma stefnu Sjálfstæðisflokksins og mörg dæmi eru þess að þeir hugsa meira um sjálfa sig en flokkinn og hugsjónir hans.

Þeir verða að hafa sitt aðhald eins og aðrir, en þá verðum við að sjálfsögðu að hafa eins rétt fyrir okkur og unnt er og fara ekki ofari.

Ég veit vel að Guðrún Helgadóttir er marxisti og harður andstæðingur NATO og varna. Við gagnrýnum hana að sjálfsögðu fyrir það, því það er í senn hlutverk okkar og sannfæring.

En ég var að lesa samtal við hana í Morgunblaðinu, þar sem hún talaði m.a. um fátækt og skort fólks sem hún þekkti í æsku og eigin reynslu og ég staldraði mjög við orð hennar og ummæli.

Það var enginn ágreiningur okkar í milli eins og hún talaði.

Ég er síður en svo alltaf svona sammála öllum sjálfstæðismönnum sem taka til máls í fjölmiðlum og sumir þeirra tala eins og þeir hafi aldrei gert sér grein fyrir, hvað í sjálfstæðisstefnunni er fólgið.

Og þá verða þeir að fá að vita það.

Blað eins og Morgunblaðið sem gerir kröfu til að vera Blað allra landsmanna og er það raunar í ríkara mæli nú, held ég, en nokkru sinni, getur ekki dregið fólk í dilka eftir skoðunum, allra sízt að einhverjir séu æskilegri en aðrir vegna stjórnmálaskoðana, þótt við boðum sjálfstæðisstefnuna af þeirri sannfæringu sem við eigum

Kjarni hennar eru mannúðarhugmyndir borgarastéttarinnar sem hefur gert þingræði og lýðræði, jafnrétt og frelsi, að kjörorði sínu og markmiði.

Við erum svo lánsamir, Björn minn, að heyra til þessari einu stétt sem hefur látið sig varða einstaklinginn og frelsi hans. Þessa stétt er að finna í öllum lýðræðisflokkum, en ég tel að heima hafi Sjálfstæðisflokkurinn haldið merki hennar á loft af mestum heilindum.

Um það fjallar raunar bréf sem ég skrifa Hannesi Hólmsteini (Gissurarsyni) í Lesbók í tilefni af grein hans um Frelsisgrein mína, og eftir á að hyggja - og þá ekki sízt vegna áminninga minna til Sjálfstæðisflokksins sem þú segist hafa staldrað við - hef ég talið ástæðu til að bæta um betur og lauk um daginn við fjórða Bréf mitt til vinar, þar sem ég reyni að sýna fram á að á Íslandi er Sjálfstæðisflokkurinn bezti kosturinn ekki sízt vegna sögu sinnar og arfleifðar.

Ég sendi ykkur þessa grein innan tíðar, eða þegar eitthvað af öðru dóti hefur verið birt, svo þetta ruglist ekki! Eða lendi í saltpækli Þorbjörns (Guðmundssonar,ritstjórnarfulltrúa) og þeirra félaga!

En það er alveg rétt að við eigum ekki sífellt að vera að staglast á sjálfstæði okkar, það er hvimleitt, en við eigum að láta vini okkar hafa hitann í haldinu og allra sízt að hörfa úr því vígi, þar sem við nú erum.

Bezt væri að Sjálfstæðisflokkurinn sæi um sitt og við um okkar.

Það er sterkast fyrir stefnuna, eins og faðir þinn sagði réttilega. Hann trúði á prentfrelsi eins og önnur mannréttindi.

Allra sízt eigum við að hafa áhyggjur af skoðunum öndverðum okkar. Menn í okkar stöðu eiga þvert á móti að hafa áhyggjur af því, ef fólkið getur ekki komið skoðunum sínum á framfæri.

Svo trúum við á málstað okkar og berum hann fram til sigurs.

Annars er þetta mál sem auðvelt er að tala um eins og ég sagði við Hönnu, þegar hún lýsti ánægju með bréf þitt, en erfiðara að ráða fram úr í daglegu starfi.

Það gildir engin allsherjarregla, þar er ekkert síðast orð frekar en í lífinu sjálfu.

Þar verður að bregðast við hverjum vanda eins og hann blasir við. En það er að æra óstöðugan að ætla sér að lýsa þessu fyrir þeim sem lítið þekkja til þess, eins og þú veizt.

Mér er raunar til efs að blaðamennirnir geri sér neina raunverulega grein fyrir því, hvernig staðið er að verki í ritstjórn blaðsins, hvað þá aðrir.

Þar er hverju vandamáli mætt eins og sérstöku tilfelli og það leyst sem slíkt.

Ég finn líka að ég er að gefast upp á þessari sífelldu þerapiu um ritstjórn Morgunblaðsins og stefnumörkun. Þó tel ég nauðsynlegt að sem flestir viti, hvernig að málum er staðið og mátulegur dialógur við lesendur og velunnara blaðsins er af hinu góða.

Jæja, Björn minn, ég vona allt gangi vel hjá ykkur og heyri ekki betur. Ég kem svo og verð með ykkur á síðasta sprettinum fyrir kosningar án þess ég hlakki neitt sérstaklega til, eins og sá hamagangur getur verið asanlegur!

En Blað allra landsmanna verður að hafa stefnu, og helzt betri stefnu fyrir landið okkar og fólkið en allir aðrir, ekki sízt sumir þeir þingmenn sem hafa villzt inn í Sjálfstæðisflokkinn en eiga ekki heima þar, hvað þá í forystu.

Fæstir þeirra hafa sannfæringu fyrir öðru en eigin ágæti og það er að kyrkja flokkinn vegna þess að ágætið er af skorum skammti, svo að maður sé nú einu sinni raunsær!

Það er laukrétt sem þú segir um heilindi og hagsmuni, sérhagsmunir og trúnaður manna á milli, hvorki í stjórnmálum né annars, fara saman.

Vinátta sem er hafin yfir slíka hagsmuni er forsenda þess að vel fari.

En það vantar hana tilfinnanlega í Sjálfstæðisflokkinn nú um stundir.

Þó trúi ég því að þroski og ágæti Þorsteins (Pálssonar) og Davíðs (Oddssonar) nægi þeim til farsællar vináttu í þágu flokks og þjóðar.

Ef það er rangt hjá mér, þekki ég þá ekki eins og ég hef haldið.

En við eigum að leggja okkar lóð á vogarskál þessarar mikilvægu vináttu. Þeir mega vera eins kappsfullir fyrir mér og þeir vilja, en kapp er bezt með forsjá, hljóta þeir báðir að vita.

Hér situr maður og nýtur hvíldar og gerir það sem hugurinn girnist. Við höfum séð ýmislegt athyglisvert, einnig í sjónvarpinu. Ég ætla að skrifa Reykjavíkurbréf bráðum til að létta ykkur störfin og minnast á Haig (hershöfðingja) sem er að íhuga forsetaframboð vegna þess að hann hefur “áhyggjur af landinu”.

Ef allir sem hafa svona áhyggjur heima færu í forsetaframboð, byði ég ekki í það!

En í pólitík eru margir messiasar.

En Haig veit þó meira um NATO (frá því hann var þar yfirhershötðingi) en margir aðrir. Kannski hann tæki Atlantshafið fram yfir Kyrrahafið, annað mál að það skiptir okkur miklu hver er forseti Bandaríkjanna, ekki sízt okkur....

 

13. janúar ‘86

Úr bréf til Kristjáns Karlssonar :

Melbourne, 13/14. janúar ‘86

Góði vinur, Kristján.

...Ég hef enga löngun til að trana veerkum mínum á framfæri og hef geymt mörg handrit í salti lengi og þykir það nú orðið einna skemmtilegast.

Þá get ég komið að þeim síðar, ferskur og nýr eins og mér er eiginlegt og klára málið eins og mér hefur tekizt hingað til og þú hafðir orð á.

Þú segir líka að ég sé búinn að skrifa nóg, og enginn er þér meira sammála en ég!

En ég verð nú einu sinni að vera sískrifandi, við því verður ekki gert.

Þú sagðir svo skemmtilega að þú ættir stundum í vandræðum með mig, því að það bezta sem ég gerði væri spontant og þess vegna vissir þú ekki nema ég ætti að birta meira og minna allt sem ég skrifaði!

En ég vil nú heldur hafa þetta svona og fá þitt góða aðhald og gagnrýni sem ég skil og kann að meta. Eftir henni fer ég eins og þú veizt, en þá verð ég að hafa trú á því sem við mig er sagt. ég held ekki Eiríkur (Hreinn hjá AB) hafi þessu sinni komið sinni gagnrýni til skila, honum var svo mikið niðri fyrir og ég alltof ýtinn, ég veit það vel, en það var vegna þess ég var að fara af landinu og var að hugsa um að taka handritið með mér og laga það, Þú segir það sé enginn vandi, taka kvæðin út, stytta og breyta tilvitnunum í nafnlaus blindsitöt.

Allt þetta skildi ég og fékk sjálfstraustið svona nokkurn veginn aftur!

Skilaðu nú samt góðum kveðjum til Eiríks vinar okkar og biddu hann skrifa mér örfáar línur, hann hefur kannski tíma til þess.

Niðurstaðan var svo sú að ég skildi handritið eftir heima og sneri mér að því að skrifa greinar í Morgunblaðið, ég hef víst gert alltof lítið af því uppá síðkstið, enda enginn tími til þess í vinnunni. Þar er allt alltaf í grænum sjó og ég tel mig vinna fyrir kaupinu mínu með þeirri streitu sem þar er boðið uppá.

En nú hefur mér þótt skemmtilegt að skrifa nokkrar greinar, Reykjavíkurbréf og þess háttar. Þannig kemst ég líka einhvern veginn í betra samband við sjálfan mig en ella. Ég er svo latur maður að eðlisfari að ég verð alltaf að vera að vinna eitthvað, svo ég endi ekki eins og krókódíll í Wakula Spring, en mér er til efs að nokkur maður hafi nokkurn tíma séð þessa skepnu hreyfa sig þar!

Ég hef frestað Portúgalsbókinni (Sól á heimsenda) eins og ég sagði þér og veit ekki hvað ég geri í ljóðunum, en þetta safnast bara upp hjá mér og eiginlega þyrfti ég að koma einhverju á prent.

Annars hætti ég að yrkja.

Ég hef ekkert ort frá því við fórum yfir Lukasar-kvæðið sem birtist fyrir jól í menningarblaði Morgunblaðsins og þú varst svo vænn að lesa yfir og gefa góð ráð að venju. Ég fékk svo blaðið í hendur í morgun og fannst það fara vel á síðunni.

Ég stend mig alltaf að því að hætta að yrkja, þegar fyrningar eru orðnar óheyrilegar - kannski er þetta eitthvað í ætt við búskap, ég veit það ekki!

En við sjáum til.

Við fengum Morgunblaðið með þínu fallega kvæði, við Hanna töluðum um það og hvað okkur þætti það flott.

Þá þakka ég þér kærlega fyrir blaðið með brotunum úr ritgerðarsafninu þínu sem ég vona hafi komið til sem flestra, svo mikilvægt sem það er í öllu kraðakinu, bæði heima og erlendis.

Ég hef lesið ýmislegt hérna og menntað mig verulega, enda veitir ekki af.

Ég hef auk þess hlustað á margar sögur lesnar af frábærum upplesurum, okkur vantar slíkan upplestur tilfinnalega heima, það er eins og enginn geti lesið upp á íslenzku tilgerðarlaust, mér er það hulin ráðgáta hvernig getur staðið á þessu, en svona er nú þetta samt með örfáum undantekningum.

En þeir eiga svo frábæran upplestur á skáldverkum á ensku sem hægt er að kaupa hér á segulböndum, að unun er á að hlýða. Ég skal lofa þér að sjá eitthvað af þessu síðar, ef tollurinn tekur það ekki af mér í þessu sósíalitíska ríki þarna norður frá, þar sem flest er glæpur sem snertir einstaklinga, en þó undantekning að nokkur glæpur sé nokkurn tíma framinn þar.

Að minnsta kosti ekki miðað við það sem hér gerist - og víðast annars staðar.

Þá hef ég hlustað mikið á tónlist á disklingum, það er nýtt galdratæki sem Styrmir kenndi mér á og þú ættir að spyrja hann, hvernig tæki þetta er.

En ég hef komið mér upp dýrlegri tónlist og hlusta orðið eins og Ragnar í Smára, nema hvað ég er með heyrnartæki og trufla engan og spila fyrir mig einan. svona tæki er því gott fyrir innhvert fólk með viðkvæmt ego!

Og nú kem ég að þessu eina tilefni sem mér tókst að finna.

Ég hef verið að dunda við að skrifa þessa litlu sögu sem fylgir þessu bréfi og þar sem ég er nú kominn til botns í henni og hef vélritað hana, datt mér í hug, hvort ég mætti ekki senda þér hana til lestrar.

Bað því Styrmi kanna málið, því mér þótti frekja að senda þér handritið orðalaust.

Styrmir sagði þú hefðir tekið þessu mjög vel og ég þakka þér fyrir það. og hér er þetta sem sagt. Þú sérð þetta er dálítið persónulegt með köflum en ég er nú einu sinni þannig gerður eins og þú veizt.

Sagan er í einhverjum tengslusm við Naglann sem við höfum talað um og algjör útvíkkun á henni, með þeirri fléttu sem mér er eiginleg og ef svona spontant bygging stendur undir sér.

Hún hefur gefið mér allt það frelsi sem ég verið að hafa, ég get ekki hreyft mig nema í slíku frelsi eins og þú veizt, en þá er spurningin, hvort útkoman er nógu snaggaraleg og föst í reipum.

Mér er það fullljóst að sumt má lagfæra, en sendi þér þetta nú samt, því ég finn ég geri ekki meira við þetta hér.

Nenni því bókstaflega ekki!

En varð þó að skrifa mig út úr þessum hugsunum sem bæði eru sprottnar úr persónulegri reynslu og púraskáldskap eins og þú sérð. Í raun og veru er þetta helgisaga og eins biblíulegur nútímaveruleiki og það sem okkur er boðið uppá í þeirri helgu bók, án þess ég sé þó að bera þetta saman á nokkurn hátt.

En eitthvert haldreipi verður maður þó að hafa!

Ég ætla mér alls ekki að fara að birta þetta á þessu eða næsta ári - og kannski aldrei, hver veit? - en langaði þó til að þú litir á það og segðir mér álit þitt. Ég hefði að sjálfsögðu gaman af því, ef ég gæti gert þetta þannig úr garði, að til sóma væri - og þá helzt dálítið flott, annars ekki!

Mér hefur dottið í hug ég gæti haft þetta sem inngangt að einhverju sem ég veldi úr handritinu sem þið Eiríkur Hreinn lásuð fyrir jól, en kannski er þetta þó alltof ósamstætt og ætti ekki að blanda saman.

Mér datt einnig í hug þetta gæti farið með ljóðum í lokin, og þó!

Ég geri mér ekki grein fyrir neinu svona lengur og mér er það rétt mátulegt að standast ekki freistingarnar betur en þetta! En þú manst hvað Tómas sagði um það.

En svona er nú þetta, góði vinur. Lífið er dýrt...

 

18. janúar ‘86

Úr bréf til Sveins Björnssonar,listmálara:

Melbourne, Fla.

18. janúar ‘86

.....Frískt skáld er vonlaust. Tómas var alltaf að reyna að sannfæra okkur vini sína um að hann væri með blóðsjúkdóm og þegar við fórum einnig að hallast að því, leið honum betur!

Nú hefur mér liðið svo vel að ég hef ekki skrifað eina ljóðlínu, en kannski er það þetta framandlega umhverfi, þessi hiti, þessi sól, ég veit það ekki.

Ég hef þó áður ort talsvert í sólarlöndum, bæði í Portúgal, á Spáni og Ítalíu, einnig eitthvað áður hér á Flórída og örlítið í Afríku, þ.e. á heimavígstöðvum Hönnu, þegar við fórum til Marokkó í hitteðfyrra, það var skemmtilegt.

En nú eru engir söngfuglar í mínum trjám, hvað sem veldur. Kannski hrynjandin hafi farið úr skorðum með þessum hlýju og sólríku vetrarmánuðum, sem eiga að vera frostkaldir og helzt hvítir, en ekki iðjagrænir og ilmandi. Trén og fuglarnir í tilfinningalífi okkar láta ekki svo auðveldlega villa um fyrir sér!

Streitan í vinnunni er náttúrulega hálfgert eitur, þegar maður hættir að vera ungur og svo hef ég alltaf unnið tveggja manna starf til að sjá okkur farboða og vegna löngunar, því ég hef haft jafngaman af blaðamennsku og öðrum ritstörfum og viljað leggja þetta á mig með þessum hætti.

Nú er ég kannski farinn að hallast meira að því að skrifa fyrir sjálfan mig, en síður í blaðið, það er ekki seinna vænna og kemur með árunum. Þó hef ég varla skrifað meira í Moggann í annan tíma, bæði Reykjavíkurbréf og svo bréf undir nafni um reynslu mína, eins og þú hefur kannski séð, en ég hef af einhverjum ástæðum þurft að koma þessu til skila.

Ég tel það forréttindi að hafa tíma til að skrifa, það hef ég varla nokkurn tíma nema undir kvöld niðri á blaði, en þá er ég oftast orðinn úrvinda af þreytu og helzt eins og uppgefinn smalahundur sem getur ekki meira og hefur reynt að þóknast húsbónda sínum allan daginn.

Ævi mín hefur mikið farið í að smala rollunum saman, en þær eru ekkert sérstaklega þakklátar fyrir það eins og gengur!

Þá hef ég skrifað langa smásögu sem ég hef verið að melta með mér í hálfan fjórða áratug, en núna er hún kannski að fullmótast, ég veit það ekki, það mun koma í ljós. Maður þarf að hafa þetta hjá sér og dunda við það eins og þú veizt.

Ég tel menn eigi ekki að vera að stússast í því sem þeir hafa ekki efni á, þá verða þeir að koma þessu í peninga sem fyrst, verða argir og geta ekki unnið eins vel og ella.

Þú hefur stundum verið hálfleiður sýnist mér yfir því að selja ekki nóg, en þú þarft ekki alltaf að vera að selja sem betur fer, þú hefur efni á að láta verkin þín liggja hjá þér, skoða þau og átta þig og taka mið af sjálfum þér, ekki síður en öðrum.

Það er t.a.m. gaman að eiga ljóðamyndirnar okkar og láta þær ekki allar fyrr en einhvern tíma og þá geturðu haft þær hjá þér og okkur og unnið þig að næsta áfanga með þær að leiðarljósi.

Ég á efni í tvö ljóðahandrit sem ég hef legið á eins og ormur á gulli og lít stundum í til að skoða og lagfæra, en nú vilja þeir hjá AB fá bók í ljóðaflokkinn í vor og ég hef sagt þeim ég íhugi það.

En ég þarf ekkert á því að halda, ég hef gaman af að hafa þetta hjá mér, minnugur þess sem Tómas svaraði, þegar hann var eitt sinn spurður um, hvers vegna hann væri að yrkja?

Það er til þess, svaraði hann, að hafa eitthvað gott að lesa, þegar ég verð gamall!

Svo á ég annað handrit sem er e.k. saga og þeir hjá AB og Kristján Karlsson telja góða bók og meiningin var að gefa hana út í haust, en nú er ég búinn að fresta því, líklega um ár, ég veit það ekki.

Hún heitir Saga úr Suðrinu (lokatitill Sól á heimsenda). Svo á ég enn eitt handrit sem þeir telja ekki fullunnið, svo ég tók það aftur og ætla að garva í því á næstu árum. Loks er meiningin að gefa út safn samtalsbóka minna og er ég að vinna að því að breyta og lagfæra, t.a.m. er ég nú með bækurnar um Pál Ísólfsson, Hundaþúfuna og Í dag skein sól, en ég hef fullklárað Þórberg og bætt nýrri bók við Kompaníið, sumt hefur ekki áður birzt, annað á stangli, einnig einhverju við Kjarvalskverið og Svo kvað Tómas.

Þetta kemur á næstu árum, líklega í tveimur stórum bindum, en ég vil ljúka við þetta eftir mínu höfði og þá er ekki seinna vænna að ganga frá endanlegri gerð kominn undir sextugt!!

Ég hef frétt það frá AB að þeir hafi selt smásagnasafnið, Konungurinn af Aragon, upp, og gladdi það mig því slík söfn seljast víst ekki eins og heitar lummur, eins og þú veizt.

Ég hef annars engan áhuga á metsölubókum, finnst orðið eitt og út af fyrir sig eitthvað hégómlegt, þótt ég hafi skrifað nokkrar slíkar, en þær eru hvorki betri né verri fyrir það. Það spyr enginn um söluna, auk þess sem metsölubækur seljast oft í eitt skipti og aldrei meir!

En ef menn vantar peninga, eiga þeir annaðhvort að halda heldur kléna málverkasýningu eða skrifa bók eftir metsöluformúlunni, og helzt ekki eyða lengri tíma en sem svarar þremur mánuðum í verkið! Bezt er að mála inní venju og vinsældir eða skrifa af segulbandi, þannig nýtist hvorttveggja bezt, tími og peningar. Og alls ekki og fyrir alla muni að gera nú ekki neitt sem aðrir hafa ekki gert, það gæti eyðilagt sölu og vinsældir!

Annars er það djöfulspúl að skrifa vel eftir öðrum - ég hef stundum sagt að lengsta leið sem ég þekki sé af vörum eins manns á blaðið hjá öðrum - en þá verður maður að upplifa hann eins og Kjarval Esjuna.

Maður upplifir ekkert á segulbandi! Maður styttir sér einungis leið með því. Sá sem þarf að stytta sér leið, á ekki að vera að skrifa.

Hann á að tala

Sá sem styttir sér leið fer einatt á mis við það eftirminnilegasta á leiðinni, einkum það sem er ekki í alfaraleið.

Fínlegu ævintýrin í landslaginu, litlu strikin sem ráða úrslitum um listrænt gildi verksins, einkenni skálda og listamanna.

Það er engin ein Esja frekar en það sé til aðeins einn Laxness.

Það fer eftir því, hver horfir, það fer eftir því hver les, hver talar.

En það eru svo fáir sem horfa vel, lesa vel. Alltof fáir, því miður!

Ef Kjarval horfir, þá verður einungis til ein Esja, hans Esja. En þá eru allar hinar esjurnar eftir!

 

Um það þegar sagt er að einhver sé allur:

....ekkert er allt. Allra sízt að eitthvað sé allt í dauðanum. Það er miklu frekar við séum öll í lífinu, annað er okkur framandi og ráðgáta sem aldrei verður leyst. Við vitum svo lítið um dauðann , kannski ekkert. Og samt þekkir enginn annars líf. Einskis manns líf er allt fyrir öðrum.

Við þekkjum ekki einu sinni sjálf okkur, hvað þá aðra. Ég á t.a.m. oft í bölvuðu basli með sjálfan mig og botna ekkert í þessari skepnu sem er ég sjálfur!

Hvað þá öðrum.

Ætli maður komist ekki næst því að vera allur í eigin verkum, ég veit það ekki.

Og mér er sama(!)

Allra sízt að nokkur sé allur í annars verki.

Þannig geri ég mér fullkomlega grein fyrir, að hvorki Páll, Þórbergur, Kjarval, þú eða aðrir eru allir í mínum verkum, en þeir sem ég hef skrifað um eru mín niðurstaða.

Þeir eru einungis mínar Esjur.

Vitnisburður um, hvernig ég hef horft, hvernig ég hef hlustað. Og ekki sízt vitnisburður um hvernig móttökutækið starfar.

Það er allt og sumt(!)

En ég vona að það sé nóg, að minnsta kosti verða Þórbergur, Páll, Tómas, Ásmundur og hvað þeir nú heita ekki endurteknir!

Ekki frekar en ár sem er liðið.

Ekki frekar en þínar Vestmannaeyjar sem nú eru horfnar.

Ekki frekar en myndir Júlíönu af æskustöðvum hennar.

Svona er nú þetta einfalt, elsku vinur. Og þess vegna, ekki sízt þess vegna, eigum við að eyða ævinni í það sem er mikilvægt, það sem er merkilegt og skiptir okkur, og þá ekki sízt landið okkar einhverju máli.

Ég veit ekkert mikilvægara en merkilegt fólk og ekkert ómerkilegtra en ómerkilegt fólk.

Ég held því fari fjölgandi, jafnvel náttúran er farin að gæla við magn í stað gæða. en hún lætur ekki heldur að sér hæða, þegar gæði eru annars vegar.

Þess vegna er gaman að lifa, ekki sízt þess vegna.

Við erum alltaf að rekst á fólk sem er eins stórt í sér og fólkið í málverkum Gunnlaugs vinar okkar.

Það er uppörvandi.

Þú veizt maður á alltaf að hlakka til einhvers, annars er maður dauður.

Annars er eitthvað að tilfinningalífinu.

Annars er eitthvað frosið eins og í náttúrunni, þegar hún hættir að hlakka til á vetrin, en svo kemur vorið og þá vaknar hún inní eftirvætningu fuglanna.

Og blómanna.

Þá fer einhver yndisleg tilhlökkun um hana, einhver gleði sem er svo heilbrigð og heillandi og umfram allt skemmtileg.

Þannig erum við einnig, sem betur fer.

Ég hlakka til margs. Ég hlakka t.a.m. til þegar bókin okkar kemur út í haust, því ég veit hún verður fersk og falleg. Ég vona þið Páll Vígkonarson (forstjóri Myndamóta)hafið talað saman um allt fyrirkomulag og bókin verði tilbúin með haustinu eins og talað var um. ( Innskot síðar : Iðunn gaf hana út,ljóð eftir M.J,myndir eftir Sv.Bj)

......Nú er ég að hlusta á frábæran upplestur úr verkum Mark Twains, það er skemmtilegt. Hann hafði þá reglu að setja sér strangar reglur ungur, svo hann yrði svo styrkur gamall að hann gæti brotið þær allar í ellinni(!) Hann byrjaði að reykja vindla á barns aldri og hafði þessar reglur í lífinu: Að reykja aldrei nema einn vindil í einu og hafa ekki aðra reglu en þá!

Við gætum tekið mið af þessu, góði vinur, en ég er bara hættur að reykja og hef aldrei reykt vindil nema þennan eina sem ég varð veikur af 2. nóvember 1946.

En það er aldrei að vita uppá hverju maður tekur í ellinni.

Faðir minn var einhver mesti vindlareykingamaður sem ég hef þekkt og ég held hann hafi haft nákvæmlega sömu reglur í lífinu og Mark Twain.

Hann bragðaði að vísu aldrei áfengi og kannski er það þess vegna sem ég er ekkert hræddur við Bakkus.

Við pabbi vorum miklir vinir. Ég sakna hans alltaf. Ég sakna foreldra minna. Mér er tíðhugsað til þeirra. Hjá þeim kynntist ég bæði sól og svölum vindum. Ég var aldrei neinn kjölturakki, það var til þess ætlazt að maður biti á jaxlinn og yrði að manni. Og þó veit ég ekki, hvort var ætlazt til nokkurs annars en maður stæði sæmilega fyrir sínu. Ég er ekki alinn upp í neinum metnaði, síður en svo, og það hefur aðeins hvarflað að mér, hvort það hafi ekki háð mér eitthvað. Eiginlega vil ég helzt vera í friði, hugsa um Hönnu og drengina og ykkur vini mína. En ég hef einnig fengið ýmsum öðrum efnum að sinna og ristillinn hefur ekki alltaf verið sáttur við þau.....


6. maí 1986

Menningarvika í Kópavogi,flutti sögu og ljóð,síðan samlestur Leikfélags Kópavogi á nýju leikriti eftir mig.

Vel sótt,ánægjulegt kvöld.

Ef gamli einþáttungurinn minn, Eins og þér sáið, verður einhvern tíma leikinn aftur (sjá Fjaðrafok og fleiri leikrit) á þessi þáttur að koma í beinu framhaldi á eftir honum, eins og um eitt verk sé að ræða.

Hagalín var á sínum tíma ánægður með absúrdismann í Eins og þér sáið, en sagði það ætti að lengja verkið.

Og hér er lengingin!


Nú færir höfundur til dagbókar kafla úr bréfum til Herdísar Þorgeirsdóttur til birtingar í tímariti hennar, Heimsmynd, og nokkur bréf frá Bandaríkjunum til vina sinna á Íslandi , svo og ræðu flutta á 25.ritstjórnarafmæli hans og dagsettar greinar í Morgunblaðinu.

Hann vitnar í Heimsmyndar-bréfin í bók sinni Málsvörn og minningar,,en þau birtust ekki í heild í Heimsmynd.

Tíminn er

gamall dómari...

Rósalind.

Brekkuskógi, 21. okt. '86

Þú sendir mér bréf með spurningum um líf og dauða og allt þar á milli.

Það var mér að kenna.

Ég hafði lofað þér samtali, en gugnaði, enda búinn að fá mig fullsaddan af þessum daglega skammti innantómra yfirlýsinga í samtalsformi, sem eru að verða ein helzta hrollvekja íslenzkrar endurtekningar.

Þegar ég les þessi samtöl sakna ég þess, að við skulum ekki krunka eins og hrafnarnir.

Þessi samtöl eru orðin ein helzta plága samfélagsins, eins og poppið, sem einnig er að mestu leyti endurtekning.

Ég hef alla mína vizku úr bókmenntum og veit ekki betur en endurtekning þyki vond í texta. Í henni missa allir hlutir bláma fjarlægðarinnar, verða gráir og hversdagslegir eins og súrt regn í skógum V-Evrópu.

Mér er samt skítsama um öll þessi samtöl og allt þetta popp, enda hef ég aldrei litið svo á, að hlutverk mitt væri að frelsa heiminn. Ég reyni bara að lifa eins og hver annar og ef það er rétt hjá þér, að ég sé lifandi og mikill tilfinningamaður í þokkabót, þá gleðst ég yfir því án þess hreykja mér, enda ekki af neinu að miklast.

Ég vona samt, að orðið "sérstakur" í bréfi þínu merki ekki, að þú teljir mig einhvern yfirgengilegan sérvitring eða hvítan hrafn í samfélagi svartra hrafna.

Ég held nánast, að ég sé laus við að vera sérvitur, og það hefur kannski háð mér dálítið.

Því eldri sem ég verð á ég erfiðara með að fóta mig á föstum skoðunum og hef raunar reynslu af því, að hollt sé að hafa mannúðlega en ekki einstrengingslega afstöðu til skoðana, sem maður aðhyllist ekki. En ég get víst verið fastur fyrir, ef því er að skipta, án þess það teljist til sérvizku.

Það er enginn ritstjóri Morgunblaðsins í tæpa 3 áratugi, sem heldur að lífið og annað fólk sé einhver elsku mamma, nei, það er nú eitthvað annað og ég hef sætt mig við það eins og aðrir.

Þetta viðhorf mitt kemur vonandi fram í Morgunblaðinu, sem er orðið svo stútfullt af ólíkum skoðunum, að ég hef stundum sagt ég sé ekki sammála neinu, sem í blaðinu stendur nema forystugreininni.

Það kalla ég nokkuð góðan árangur af löngu starfi og ströngu.

Þegar ég gluggaði í greinarnar í síðustu Heimsmynd hafði ég vissa samúð með Atla Heimi (Sveinssyni,tónskáldi), þótt ég sé ekki þeirrar skoðunar, að rithöfundur sé eitthað meiri eða betri höfundur fyrir það eitt að fara á tónleika, en mér finnst það skína út úr niðurlagi samtalsins við hann.

Þórbergur taldi óperur seigdrepandi hávaða og var samt ekkert minni rithöfundur fyrir bragðið.

En hann hlustaði stundum á útvarp og líklega af meiri þörf en Atli Heimir.

Orð voru honum fíkniefni.

Mér fannst þessi barátta Þórbergs við óperuna alltaf dálítið fyndin og hetjuleg.

Hún minnti á don Kíkóta.

En ég var ósammála afstöðu hans á sama hátt og ég hefði ekki tekið þátt í hernaði Kíkóta. Það gerir mig svo á engan hátt að meiri rithöfundi en efni standa til. Auk þess eru flestar óperur óþolandi, ef maður skilur þær.

Þórbergur var mikill sérfræðingur í esperantó og hefur líklega skilið allar óperurnar, sem hann hlustaði á, það væri í sjálfu sér nægileg afsökun fyrir afstöðu hans.

En sem sagt:

Mér var þetta mátulegt, að lofa að skrifa þér bréf í stað enn eins þessara stöðluðu samtala, hvílík örlög að vera einn helzti ábyrgðarmaður þessarar greinar ritæðisins og það á tölvuöld, sem breytir öllum stíl í meðalflæði , sem húmanisti eins og ég ætti að dásama, en geri ekki af þeirri einföldu ástæðu, að ég er haldinn meira ofnæmi en ráða má af Morgunblaðinu.

Þó veit ég að stundum eru skrifuð góð samtöl, veit t.a.m. að þú hefur lagt þig fram, enda komin úr Morgunblaðseggi.

Ég þekki ungan mann, sem er svo vel gerður, að hann er eins konar afruglari ættar sinnar. Samt hefur engum dottið í hug að eiga við hann samtal.

Ég er stundum að segja honum að fara út í pólitík eða skrifa bók eða semja poppóperu, en hann er ekki í þeim stellingum, og kemst líklega aldrei í blöðin, ekki frekar en Guðmundur vinur minn Dýrfirðingur, sem ég ætla að segja þér dálítið frá, því hann er tilefni þess, að það hvarflaði að mér að skrifa þér þessar línur.

Faðir unga mannsins, sem ég nefndi er alltaf eitthvað að þvælast í fjölmiðlum. Hann er atvinnuskrumari, sem ég hef grunaðan um að ætli sér í prófkjör áður en langt um líður.

En hann er ekki viss fyrir hvaða flokk.

Það skiptir ekki heldur höfuðmáli. Hann er atvinnuruglari með góð sambönd. Um hann orti rómverska skáldið Catullus ódauðleg kvæði, þau fjalla um svallið í Rómaborg á dögum Sesars,

Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán

mín skömm og mín tár og mitt blóð.

Þetta var nú um lífið og tilveruna, Herdís mín.

Mér dettur að sjálfsögðu ekki í hug að reyna að svara öllum þessum spurningum þínum, enda hefði ég þá leyst lífsgátuna, og það hefur aldrei hvarflað að mér, að mér hafi verið ætlað það auvirðilega hlutverk. Eftir lausn lífsgátunnar yrði ekkert eftir og lífið óþolandi án þeirrar óvissu, sem þessi gáta hefur í för með sér. Sjálfur hef ég reynt talsvert til að breiða yfir þessa yfirsjón náttúrunnar og líklega með allsæmilegum hætti.

Ég hef spurt fleiri spurninga á undanförnum áratugum en nokkur annar Íslendingur, en í Kristnihaldinu segir, að menn geti spurt svo margra spurninga, að svörin verði óskiljanlegri en spurningarnar og seinast verði maður orðinn idíót, eins og þar stendur.

Ég tók þetta að sjálfsögðu til mín, eins og þú getur nærri. Þess vegna sný ég mér í þessu bréfi að fólki, sem aldrei spurði neins og krafðist aldrei neinna svara. Ég hef kynnzt mörgu slíku fólki, sumt hefur orðið vinir mínir.

En slíku fólki fer fækkandi

Nútíminn þarf á öðrum betri leikurum að halda í sínum molíersku kómidíum.

En hvað er ég eiginlega að tala um þetta, hví sný ég mér ekki heldur að einhverju umræðuefni, sem stendur hjarta mínu nær?

Einhverju efni sem gæti lyft mér á hærra plan, t.a.m. hugleiðingum um Borges eða Browning, verk þeirra og veröld, líf þeirra og dauða?

Eða Joyce, sem bjó um skeið í Trieste með Noru Barnaccle og börnum þeirra, en þangað fórum við Hanna í sumar, ásamt Ingólfi syni okkar.

Einnig til Flórens.

Þar bjuggu Browning- hjónin og þar dó Elizabeth Barrett í Casa Guidi 1861. Þrátt fyrir bókmenntalega ástríðu, hugsaði hún um það eitt fyrir dauða sinn, að Róbert gæti séð um uppeldi einkasonar þeirra. Það skildi hann vel og slíka konu kunni hann að meta. Hún var lánsöm kona í neyð sinni og fékk ósk sína uppfyllta, þá að deyja í örmum Roberts, það er líklega æðsta stig rómantískrar uppfyllingar og án samanburðar í sögunni. Það er eins og spíritismi hennar hafi orðið eins konar vísbending um áhrifamátt efnisheimsins á því andartaki, sagði góður vinur minn eitt sinn í stríðnisfullum tóni.

Hann er hallur undir þverstæður og telur þær mikilvæga leið að sannleika.

Elizabeth Barret, sem orti þessar dýrðlegu sonnettur um ást þeirra Roberts, var með hendur eins og fætur á litlum fugli. En hún var harðari af sér en margur hyggur. Virgina Woolf, sem er bezti fulltrúi skálda af veika kyninu sem ég þekki, kunni ekki að meta Elizabeth Barret og minnti á, að örlögin hefðu orðið henni öndverð sem rithöfundi. Enginn lesi hana eða ræði verk hennar né heyri um hana né stöðu hennar í bókmenntunum.

Og Edward Fitzgerald, sem þýddi Rubayat svo vel á enska tungu, að Pound jafnaði honum við samanlögð persnesk fræði á öldinni, sagði um Elizabeth Barret, að hún hefði átt að vera í eldhúsinu og hugsa um börnin og fátæklinga eins og kynsystur hennar í stað þess að vera síhugsandi um það sem karlar geti betur gert, þ.e. að skrifa!

Þannig leit nú þessi geirfugl enskra bókmennta, þessi einstæði snillingur á hlutverk skáldkonunnar.

Sjálfur hafði Browning aðrar skoðanir á málinu, enda var hann einstæður og kom alltaf á óvart.

Í einu ljóða sinna, Memorabilia, talar hann um Shelley eins og á að gera, en ekki eins og uppstoppaðan fugl, sem getur ekki svarað.

Browning hafði engan áhuga á fjölda, en sat uppi með hann. Fékk þó orð í eyra fyrir að vera óljós með köflum, en ætlaði sér aldrei að yrkja eins og aðrir. Að yrkja var eins og að kveikja sér í vindli eða setjast að kapli eins og hann sagði í bréfi til J.Ruskins, eða var það kannski einhver annar?

Eða sagði hann það einhvern veginn öðru vísi, ég man það ekki.

Hann fluttist til Feneyja, þar sem við vorum einnig á ferð í sumar, gömul mynd af honum er eins föst í huga mínum og lúðraþeytararnir á þaki Markúsarkirkjunnar. É

g hefði viljað eiga tilfinningaviðbrögð hans og tala við dauða menn og lifandi eins og hann gerði.

En hvers vegna er ég að tala um þetta?

Þú spurðir ekki um neitt slíkt, samt er ég með hugann við svona fólk fremur en þær tröllslegu hnallþórur og þá grínögtugu jónaprímusa, sem alltaf eru að vekja á sér athygli með furðulegum uppákomum.

Jón sagði að vísu merkilega hluti um konuna og móðurina, eins og Laxness er lagið, en það er með þann kafla eins og lykkjustundina, hann er alltof stuttur í sögunni.

En innan um bollaleggingar um segulsvið jökulsins, hraðfrystihús og ónýta kirkju glitrar þó á setningu, sem gæti svarað öllum þínum spurningum, og hún er svona:

Sá sem ekki lifir í skáldskap, lifir ekki af hér á jörðinni.

Þeir sem vita þetta ekki eru með heiminn á bakinu og ætla að komast með hann í kaupstað og selja hann.

En þeir komast aldrei á leiðarenda.

Enginn skrifar eins fallega um silfurþráðinn í góðu fólki og Halldór Laxness.

Persónusafn hans er engu líkt.

Ég er ekki að segja, að það sé bezta safn í heimi. Ég sagði, að það væri engu líkt. Þó að ekkert væri í Kristnihaldinu annað en kaflinn um konuna og móðurina, væri þeirri bók borgið. Samt er ýmislegt í henni, sem ég felli mig ekki við og er það heldur sjaldgæft þegar bækur Halldórs eru annars vegar.

Hann á eftir að fá önnur eftirmæli en þau, sem féllu í stofunni hjá Nordal, þegar við sátum þar saman og ég var að gera hosur mínar grænar fyrir almættinu.

Í þessu sambandi minnist ég tveggja ljóða, sem ég lærði ungur og kann utanbókar og fer stundum með upphátt þegar ég er einn. Ég kann þessi ljóð einungis á ensku, enda verða þau ekki þýdd.

Polonius kveður son sinn með þessum orðum í Hamlet:

This above all: to thine own self be true,

And it must follow, as the night the day,

Thou canst not then be false to any man.

Farewell, my blessing season, this in thee!

Og Keats segir í frægu ljóði, The Terror of Death:

When I have fears that I may cease to be

Before my pen has gleand my teeming brain,

Before high-piled books in charact'ry

Hold like rich garners the full-ripen'd grain.

o.s.frv.

Svona skáldskapur hefur fylgt mér eins og veganesti, sem menn fengu í gamla daga þegar þeir lögðu upp í langferð.

Já, þú spyrð um dauðann.

Segir ekki andlitsmyndin af Marilyn Monroe, þar sem hún liggur á krufningsborðinu allt sem segja þarf. Mér er nær að halda að svo sé, enda hef ég ort ljóð um svipaða mynd.

Hitt er annað mál, að Guðmundur Jörundsson sagði mér frá því, nýkominn frá London fyrir nokkrum árum, að Marilyn Monroe hefði komið til hans í hótelherbergið og beðið hann að hjálpa sér og biðja fyrir sálu sinni. Hann gerði það og hún hvarf honum ánægðari en hún kom.

Getur þetta verið?

Að þessi fræga, bandaríska kona komi til ókunnugs manns úti í London og treysti honum fyrir sáluhjálp sinni vegna útkjálkareynslu af dulrænum fyrirbrigðum?

Ég hef aldrei dregið í efa orð af því sem Guðmundur hefur sagt mér, enda hefur allt staðið eins og stafur á bók. Ég treysti honum fullkomlega en leyfi mér að skilja ekki órannsakanlega vegi guðs.

Heimspekingar hafa reynt það.

Skáld og hugsuðir hafa reynt það.

En ég þekki engan , sem hefur ekki hafnað í merkingarlausum orðum þegar hann hefur staðið andspænis þessu kollraki, sem dauðinn er. Um þá hlið tilverunnar er ég hættur að fjalla á prenti, þótt ég hugsi stundum um örlög mannsins andspænis dauða og tortímingu.

Þegar ég var ungur las ég einhvers staðar ummæli Ritu Hayworth þess efnis, að franska Ali Kahns léti sem ljúfasta tónlist í eyrum hennar.

Nú er jafnvel sú tónlist þögnuð.

Allt þagnar.

Skógurinn þagnar í rigningu.

En þar sem er skógur má alltaf búast við fuglum.

En þótt ég vilji sem minnst um eilífa lífið tala get ég brotið þessa reglu og sagt þér dálítið einkennilega reynslu, sem hefur oft leitað á hug minn.

Við Eyjólfur Eyfells vorum miklir mátar. Hann var að mínu viti stórmerkilegur sjáandi og ég sóttist eftir að tala við hann, auk þess sem hann var ágætur listamaður af gamla skólanum.

Hann fór oft sálförum eins og Guðmundur Jörundsson vinur minn og upplifði ýmislegt á astralplaninu.

Eitt sinn segir hann mér að hann hafi nótt eina mörgum árum áður hitt gamla konu í einni slíkri næturferð, blóðið lagaði úr höfði hennar og hún var algjörlega áttavilt þarna hinum megin, nýdáin í bílslysi, mig minnir nú reyndar það hafi verið fyrsta dauðaslysið af völdum bifreiðar í Reykjavík.

Þegar Eyjólfur var að stumra yfir henni kom Þórður læknir á Kleppi að, en hann var einnig gæddur þessum dulræna hæfileika og þarna stumruðu þeir yfir gömlu konunni saman, unz henni leið eitthvað skár.

Þá kvöddu þeir og hurfu aftur í hylki sitt.

Þetta sagði Eyjólfur mér og svo leið tíminn og Eyjólfur dó og ég hugsaði ekki um þetta framar.

Mörgum árum síðar sitjum við Snorri Hjartarson niðri í Hljómskálagarði í yndislegu sumarveðri og erum að hlusta á fuglana.

Þá kemur Þórbergur á heilsubótar- göngu eftir stígnum og gengur hratt fram hjá okkur án þess líta til hægri eða vinstri.

Þú ert með fullum seglum, Þórbergur, kalla ég til hans.

Ha? segir hann og hrekkur við, stanzar og gýtur augum til okkar.

Hverjir eru þetta?

Ég segi honum það, en Snorri brosir og skemmtir sér konunglega yfir eðlislægri varkárni Þórbergs.

Ég hélt þið væruð tveir rónar, segir Þórbergur, þegar hann ber kennsl á okkur, sezt svo á bekkinn og fer að segja okkur frá boðskap fuglanna, astralplaninu og eilífðarverum.

Þá kemur að því, sem stundum hefur farið eins og kalt vatn milli skinns og hörunds á mér, þegar ég hef leitt hugann að eilífðarmálum.

Hann segir okkur í óspurðum fréttum frá því, að Þórður á Kleppi hafi sagt sér mörgum árum áður, þegar hann fór sálförum einu sinni sem oftar og hitti Eyjólf Eyfells þar sem hann var að stumra yfir gamalli, áttavilltri konu, nýdáinni í bílslysi, sem húkti þarna alblóðug meðan Eyjólfur reyndi að rétta hana við.

Þarna fékk ég í fyrsta og eina skiptið tíðindi af astralplaninu úr tveimur ólíkum áttum og án þess viðkomandi frásagarar hefðu borið saman bækur sínar fyrir fund okkar Snorra við Þórberg, enda báðir löngu dauðir.

Um þetta hugsa ég stundum og segi sem minnst.

Ég lít á dauðann sem ferðalag og veit ekkert meira spennandi, þótt ég kvíði alltaf fyrir áður en lagt er af stað.

Ferðalag er hreyfing og án hreyfingar ekkert líf.

Ljóðið er ferðalag frá einni hugsun til annarrar.

Þannig gæti ég einnig ímyndað mér dauðann sem ferðalag frá einum áfangastað til annars, líkaminn gegndi þar sama hlutverki og geimferjan, ef farið væri til tunglsins. Hann er hylki, sem við þurfum ekki á að halda í þeirri eterísku veröld sem enginn þekkir, en allir hugsa um.

Duftsins veika hreysi, segir Klopstock.

Ég ætla að láta brenna þetta hylki þegar þar að kemur, en fyrst verður að taka heilann úr sambandi. Ég hef hvort eð er aldrei haft frið fyrir honum alla mína hundstíð, ekki einu sinni á nóttunni. Þá hefur hann ekki sízt ásótt mig og reynt að halda fyrir mér vöku.

Jafnvel á korni, svo lífsnauðsynlegu sem það er, eru tvær hliðar. Það er hægt að nota það til heilsubótar, en svo er einnig hægt að breyta því í bráðdrepandi eitur, sem menn sækjast eftir til að fara í hundana.

Með þessum mótsetningum verður svo kornið og kornguðinn einn mikilvægasti þáttur allra trúarbragða.

Náttúran er svo margbrotin að snjótittlingurinn er sólskríkja á sumrin og ekkert á móti því að skipta um persónuleika vor og haust.

Slíkt ferðalag frá einum persónuleika til annars er ekki sízt heillandi að mínu viti.

Þar sem ég er að skrifa þér þetta bréfkorn í Brekkuskógi er mér litið út um gluggann.

Það er alhvítt, hvert sem horft er. Og þarna í hvítri fönninni situr lítill fugl og mænir á mig.

Ég held hann sé að fylgjast með því sem ég er að gera.

Kannski er hann að reyna að minna mig á að tala ekki af mér.

Kannski er hann að minna mig á að fara varlega með orð.

Og hann horfir á mig þessum litlu, fíngerðu augum, sem minna á lítil, fíngerð orð, svört, lítil orð, á stóru hvítu blaði.

Þannig er þessi fugl þarna í endalausri snjóbreiðunni. Þetta litla orð á óendanlega stóru blaði, sem blasir nú við mér.

Ég held ég hafi séð þennan fugl áður.

Og þá var hann í hlutverki sólskríkjunnar og söng eins og lævirki, þar sem hann dúaði sér í loftinu og söng okkur inn í sumarnóttina.

Nú er hann þögull eins og landið, nema hvað Brúará niðar í fjarska, tíminn niðar í fjarska eins og vatnið. Samt er enginn tími og nú er fuglinn floginn inn í svartan skóginn þarna í hvítri breiðunni. Að vori vaknar þessi skógur og grænt laufið tekur á rás inn í veröldina og leitar sér skjóls í hugsun minni.

Og loftið titrar af fuglasöng.

Það er eftirvænting í þessari grænu hugsun, sem er ekki komin á leiðarenda. Kannski dagar hana uppi á miðri leið og það verður ekkert vor og enginn skógur og snjótittlingurinn verður aldrei oftar að sólskríkju.

Þannig kemur dauðinn í heimsókn.

Það er allt og sumt.

Og engu líkara en allt hafi verið unnið fyrir gýg; þessi endalausa barátta okkar við tíma, sem er ekki til og er einungis jarðnesk viðmiðun fólks án fuglasöngs.

Þórbergur er einhver eftirminnilegasti maður sem ég hef kynnzt.

Tómas sagði eitt sinn við mig:

Eftir þúsund ár, þegar við erum allir dauðir og marggleymdir verða menn að lesa einn íslenzkan höfund, Þórberg, fyndni hans lifir okkur alla.

En Tómas sagði svo margt eftirminnilegt og sniðugt, að það væri efni í mörg bréf.

Áður en við urðum vinir, eða í kringum það þegar Borgin hló, Njála í íslenzkum skáldskap, Kompaníið og Hólmgönguljóð komu út eins og opnað hefði verið fyrir flóðgátt fór Tómas að ókyrrast eitthvað og þótti bækur mínar koma út með of stuttu millibili.

Leizt sem sagt ekki á blikuna.

Hann labbaði þá einn góðan veðurdag inn í Ísafold, horfði á bókaborðið og sagði grafalvarlegur við afgreiðslustúlkuna:

Hefur engin bók komið út í dag eftir Matthías Johannessen?!

Gekk síðan hægt út og hafði komið boðskap sínum til skila. Upp úr því urðum við vinir og fáum mönnum á ég meir að þakka en Tómasi Guð- mundssyni.

Steinn valdi kvæðin í Borgin hló, Tómas síðan í allar ljóðabækur mínar fram að Dagur ei meir, en þá var hann gamlaður orðinn og treysti sér ekki lengur til að gegna svo ábyrgðarmiklu starfi. Frá því hefur Kristján Karlsson verið minn mentor og hefur það verið mér ómetanlegur stuðningur og ávinningur í baráttunni við misjafnlega vinveitt umhverfi.

Öll skáld ættu að hafa aðhald af svona smekkmönnum, hvað sem það kostar. Þá skiptir gagnrýnin minna máli en ella,kannski engu.

Jafnvel Þórbergur hafði sitt aðhald og mat mikils. Hann fór í smiðju til Snorra Hjartasonar eins og sjá má af Kompaníinu og afmælisgrein sem ég skrifaði um Snorra.

Það er í eldinum , sem maður skírist. Hann setur óbrennandi gjallið á sinn stað, eða eigum við heldur að segja þennan eldfasta leir, sem á svo greiðan aðgang að skáldskap okkar allra.

Þú spyrð um framtíðina.

Ég hef engar áhyggjur af henni. Og kannski hef ég ekki þann áhuga á henni, sem efni standa til.

Stundum efast ég um það verði nokkur framtíð.

Og ef það verður engin framtíð, hvað verður þá um allt þetta fræga fólk á Íslandi og víðar, sem fjölmiðlarnir eru fullir af allan sólarhringinn?

Það skiptir mig t.a.m. engu, hvort Ólafur Ragnar Grímsson verður að tala við einhverja karla úti í heimi eða ekki og gæti ég bezt trúað hann héldi því áfram eftir dauðann. En þá verður það bara ekkert gaman, því að vísindamenn hafa ekki fundið upp myndavél fyrir annað líf. Ég held þeir fái því leið á þessu og hætti að tala saman.

En ef þeir halda áfram, þá er Höfði tilvalinn staður.

Ég ætla bara ekki að vera viðstaddur.

Já, framtíðin, segirðu. Hún er óskrifað blað, sem betur fer. Hugsun mannsins mun vaxa inn í veröld tölvunnar og ekkert okkar sem nú lifum getur ímyndað sér þann heim, sem við blasir án heimsendis. Hann er okkur svo framandi, að ekkert okkar væri í stakk búið til að lifa í slíkum heimi.

Af þeirri ástæðu einni er nauðsynlegt að berja nestið áður en það verður um seinan.

Þó blasir sú staðreynd við, að Íslendingar eru farnir að byggja hús og fer þessi ástríða ekki fram hjá neinum. Líklega ætla þeir að vera hér áfram, en um það voru áhöld í þúsund ár. Jafnvel Hallgrímur Pétursson hefur nú komið sér upp þaki yfir höfuðið. Ég held, að rétttrúnaðarkynslóð hans hafi hugsað sér himnaríki með svona stórum kirkjum eins og í Rómaborg á sama hátt og Borges ungur hugsaði sér Paradís sem bókasafn með fjöldann allan af skruddum frá ýmsum öldum.

Mitt himnaríki er aftur á móti í ætt við Paradís Jónasar:

Meira að starfa guðs um geim.

Af þessu sérðu, að ég hef ekki glatað barnatrúnni, langt frá því. En ég er farinn að tala af meiri ábyrgðartilfinningu um líf eftir dauðann en ég gerði þegar ég var yngri.

Maður eldist svona.

Maður eldist í hring.

Maður eldist inn í sig.

Senn hitti ég aftur þann feimna og hlédræga dreng, sem ég var þegar ég var unglingur. En ég er ekki viss um við höfum um neitt að tala. Við erum ekki til saman, nema í einhverjum línum, sem ég orti áður en ég hafði tekið út fullan þroska. Samt held ég, að hann tæki undir með mér, ef ég minnti hann á þá staðreynd, sem við blasir í þessu litla erindi:

Blá eru sundin

þegar kassinn hverfur

í Keldnaholt.

Nei, ég er heldur áhugalítill um framtíðina sem arftakar Reagans og Gorbachovs halda í kjarnorkugreipum sínum.

Af því geturðu séð, að ég er ekkert uppvægur fyrir því að eiga eftir að þurrkast út, jafnvel hef ég getað sofið fyrir því hingað til.

Annað eins hefur nú gerzt!

En það er kannski af þeim sökum sem ég læt mér í léttu rúmi liggja, hvort það kemur út einni íslenskri skruddu fleira eða færra í einhverju landi, sem lætur sig hvort eð er engu skipta hvað við erum að bardúsa hér norður á hjara veraldar.

Einar Benediktsson leit svo stórt á skáldskap sinn, að hann taldi sér engan annan dauðdaga samboðinn en heimsendi. Hann hefði átt talsverða von um að fá ósk sína uppfyllta, ef hann væri lifandi nú um stundir.

Menn eru alltaf uppi á vitlausum tíma, ekki sízt skáld sem taka hlutverk sitt alvarlega.

En þú mátt ekki halda, að ég hafi ekki gaman af góðum bókum. Góð bók er mér unaðsleg freisting og þú veizt, að Tómas sagði, að freistingar væru til að standast þær ekki. Mig skiptir engu eftir hvern góð bók er, hvort hún er eftir Marques eða einhvern íslenzkan þjáningarbróður hans. En mér er orðið alveg sama, hvort við rithöfundar fáum krónunni meira eða minna, enda skrifar enginn betri bækur, þótt hann hesthúsi margfaldan skammt af þessari alræmdu þjóðarköku, sem stundum er talað um.

BÓKIN hefur aldrei verið skrifuð, og verður aldrei skrifuð, nema þá sú bók, sem Kristur lét okkur í té án þess skrifa stafkrók, nema þá einhvert tákn í sandinn.

Keats skrifaði nafn sitt á vatn. Hann komst langleiðina - og nokkrir aðrir......

........En hvað sem þessu líður legg ég framtíðina í lófa guðs hvernig sem það má nú vera og sef fyrir áhyggjum af honum.

Ég er ekki einu sinni viss um, að mér mundi líka neitt sérstaklega við hann, ef ég kynntist honum persónulega eins og t.a.m. Sigurði Nordal.

Ef guð er eitthvað líkur sköpunarverki sínu, þá hef ég ýmislegt við það að athuga, t.a.m. hvernig alls kyns pólitíkusar og illmenni hafa getað ráðskazt með þetta leikfang hans án tillits til minna skoðana á því.

Ég veit nú verð ég kaffærður með frjálsum vilja mannsins, en ég veit ekki til, að maðurinn sé frjáls að neinu.

Hann ræður ekki einu sinni hvað hann dreymir.

Frelsi hans er ófrelsi þess,sem getur aldrei orðið fullkomið.

Það er fullkomnað, sagði Kristur á þeirri stund, sem allir verða að engu.

Ég er farinn að binda því meiri vonir við þessi orð, sem ég verð eldri og ég staldra við setningar eins og þessa, sem höfð er eftir merkum lækni, Snorra Páli Snorrasyni, í bókinni Ég vil lifa:

"Ég hallast frekar að því, að þetta allt saman fari eftir lögmáli, sem búið er að hanna af skaparanum og hefur sennilega frá upphafi verið mótað fyrir hvern einstakling. Og síðan fara hlutirnir eftir þessari fyrifram mótuðu braut."

Ég hegg eftir svona niðurstöðu mikillar og djúprar reynslu. Enn er sagt ýmislegt, sem athygli vekur og skiptir máli. Og guði sé lof fyrir það, að skrifaðar eru samtalsbækur, sem ástæða er til að íhuga og staldra við, en Ég vil lifa er ein slík og fjallar um fólk, sem hefur frá miklu að segja.

Þjáningar þess vöktu með mér bjartsýni og ég er farinn að gæla við það, hvort við eigum ekki að hætta að nota orðið guð, sem enginn skilur, og taka upp Hönnuður í staðinn.

Það væri rökrétt framhald af himnasmiður, sem gamla fólkið tók sér í munn, ef mikið lá við. Íslendingar hafa alltaf óttazt ógagnsæ orð eins og guð.

Helzt held ég þeir vildu hafa forsjónina eins og fugl á hendi.

Í nótt var mig að dreyma einhvern Gunnar.

Það merkir stríð.

Lífið er styrjöld.

Ég stóð mig að því að vera að hnoða hann inn í eitthvert umhverfi, sem mér var framandi.

Það var hreyfing í kringum hann, líklega þetta sem við köllum líf. En svo hvarf hann mér í draumnum.

Ég held mig hafi dreymt draum einhvers annars, líklega einhvers leikritaskálds, sem tókst ekki sköpunarverk sitt, en er að skrifa verðlaunaleikrit fyrir Ríkisútvarpið.

Þá lenti það inn í minni vitund.

Það skyldi þó ekki vera, að líf okkar sé með þessu marki brennt, draumur einhvers sem við kunnum ekki skil á, dæmdur til að mistakast?

Enginn tekst alveg.

Þegar okkur finnst við nálgast einhverja fullkomnun, vaknar einhver, sem var að reyna að hnoða okkur í draumi sínum og minnist þessarar glímu, sem var fyrirfram töpuð. Og hann situr uppi með tvær hendur tómar og hreyfingu, sem var aldrei annað en hikandi flökt í draumi annars manns.

Ég veit það ekki, en mig er farið að gruna ýmislegt, svo oft sem ég hef fengið vísbendingar um mikilvæg ókunnug atriði í draumum, sem verða mér alltaf ráðgáta.

En hér læt ég staðar numið um þessi efni, annars yrði að fara að brjóta kenningar Helga Pjéturs til mergjar.

Þú spyrð, hverjar séu lífsskoðanir mínar.

Þær koma fram í lífi mínu og störfum og svo því, sem ég hef skrifað, ekki sízt því, hvernig ég svara þessu alltof vingjarnlega bréfi þínu.

Guðmundur Dýrfirðingur er einn þeirra, sem mótuðu mig. Samt þekkti ég hann aldrei mikið og hef ekki séð hann í tvo áratugi.

Ég hef lært af honum og öðru fjallræðufólki eins og móður minni að horfast í augu við erfiðleikana og reyna að leysa þá eins og steingeitin. Hún hefur vitið í klaufunum og kann að fóta sig í klettunum. Samt er ég óskaplega lofthræddur og hugga mig við það sé langt síðan forfeður mínir héngu á afturlöppunum í greinum frumskógarins og sáu upp undir veröldina, sem hefur líklega alltaf staðið á haus, án þess það hafi verið sannað.

Allt það sem máli skiptir er ósannað, þ.á m. svokallað framhaldslíf, sem minnir mig alltaf á framlengingarsnúru. Erfiðleikastundir mínar eru sársauki, sem ég hef valdið öðrum með því að taka sjálfsagða hluti alltof nærri mér.

Það er allt og sumt.

Þú getur séð þetta í ýmsu af því, sem ég hef skrifað. En ég tel ekki að það sé erfitt að vera sjálfum sér samkvæmur. Það er raunar jafn eftirsóknarvert og hugsa um eitthvað sem ætla má að skipti máli.

Það eru allir að keppast við að hugsa um eitthvað annað.

Þannig losna menn við áskorun, sem er mikilvæg til þroska, þú getur kallað það togstreitu, ef þú vilt.

Og nú erum við komin að skáldinu og blaðamanninum.

Togstreitan er spennandi, því hún er áhætta.

Ritstjórar voru einatt skáld hér áður fyrr. Stofnandi Dagskrár, fyrsta íslenzka dagblaðsins, var stórskáld eins og þú veizt.

Þegar erlendir blaðamenn spyrja mig, hvernig það fari saman að vera ritstjóri og skáld, hef ég svarað:

Hvernig er hægt að vera ritstjóri á Íslandi án þess að vera skáld?

Þá reka þeir upp stór augu og ég segi þeim frá sr. Matthíasi, Þorsteini Erlingssyni, Jóni Ólafssyni, Þorsteini Gíslasyni og hvað þeir nú heita þessir ólíku mótendur íslenzks þjóðfélags gegnum tíðina.

Það er oft gott að snúa spurnigum við til að fá rétt svör.

En þannig er ég sáttur við hlutskipti mitt og raunar þakklátur fyrir að hafa fengið að takast á við ólíka þætti í sjálfum mér og umhverfinu. Mér þykir vænt um, þegar mér yngra fólk segist hafa lært eitthvað af mér.

Þá fyllist ég gleði.

Þá kemur framtíðin í franska vísit án þess gera boð á undan sér. Og mér þykir einnig vænt um þegar ungt fólk og ræktað gerir sér far um að skilja sögur og ljóð sem svona maður eins og ég hefur verið að setja saman af ástríðu sem er æði.

En þegar þú spyrð um skáldið og ritstjórann á ég ekki annað betra svar en það sem Jónína Leósdóttir fékk ekki alls fyrir löngu, þegar hún talaði við mig í tilefni af útkomu smásagnasafnsins Konungur af Aragon og aðrar sögur. Hún hefur þetta eftir mér:

"Ég hef stundum íhugað það, hvort það væri ekki öfundsvert að sinna því einu að skrifa bókmenntir og skáldskap. Ég hef hins vegar svo mikla tilhneigingu til þess að fara inn í andlegt klaustur, að ég hef ekki treyst mér til að gera það, þar sem ég er hræddur um, að ég myndi þá hverfa heiminum með einhverjum hætti.

Að eðlisfari er ég feiminn og hlédrægur, þó að enginn trúi því og ég hafi verið að reyna að sannfæra menn um þetta í nokkra áratugi. Það gengur hins vegar illa, því ég þekki engan sem trúir því ennþá.

Þetta er nú samt staðreynd, og þess vegna hef ég talið, að blaðamennskan sé mér lífsnauðsynleg næring. Hún er jarðsamband mitt við lífið og fólkið og allt, sem ég hef skrifað um."

Þú spyrð einnig, hvernig íslenzkt þjóðfélag leggist í mig.

Það hefur alltaf lagzt heldur illa í mig frá því ég las fyrst um hryðjuverkamennina í Sturlungu.

Ég hef einungis lesið örfáar barnabækur og hef ákveðinn fyrirvara á því fagi.

Drengur las ég helzt þær barnabækur, sem voru upphaflega skrifaðar fyrir fullorðið fólk eins og Robinson Crusó.

Íslendinga sögur eru beztu barnabækur sem ég þekki.

Engum sem les þær í æsku kemur illska heimsins á óvart.

Þær geta orðið unglingum eins og bólusetning. Það er ekki síður ástæða til að bólusetja við illsku heimsins en t.a.m. mænusótt. Ég var að vísu svo óheppinn að skilja ekki Íslendinga sögurnar þegar ég var unglingur, enda var ég óskaplega seinþroska eins og ætlazt var til af því þjóðfélagi, sem ól okkur upp milli stríða.

Þjóðfélagið, sem þú nefnir, hefur þó einnig lagzt nokkuð vel í mig frá því Steinn sagði mér Vestfirðingar hefðu stillt koppnum sínum upp á borð, fyllt hann af vatni og marglitum blómum.

Það er eitthvað upprunalegt, sterkt og sérstætt við þjóðfélag fólks með svo þjóðlegt stolt og nægjusaman metnað.

Heimsmynd þessa fólks er mér að skapi og ég hef gert mér far um að koma henni til skila í samtölum mínum.

Það er ekki heimsmynd stórra ljósmynda og mikilla yfirlýsinga. það er ekki heimsmynd sjálfskoðunar í lygnu vatni kyrrlátrar tízkugleði. Ekki heldur ómelt heimsmynd myndbandasælunnar eða höfðingjanna svokölluðu, heldur þessi góðviljaða afstaða til allra hluta og hlédræga ósk um að erlend postulínsmenning geti komið að öðru gagni hér en úti í þeim stóra heimi.

Þetta er algjör andstæða við hrokafulla kröfu um athygli sem Einar Benediktsson lýsti svo, að Íslendingar leystu niður um sig og rækju bakhlutann framan í menn og segðu:

Þetta er alheimurinn!

Ég hef oft séð glitta í þessar rasskinnar og þá hef ég dregið mig í hlé.

Þú segir að ég hafi barizt fyrir að slíta tengsl milli Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins.

Já, hvers vegna ekki?

Morgunblaðið átti að vísu mikinn þátt í stofnun Sjálfstæðisflokksins, en þetta eru tvær ólíkar umbúðir um sömu hugsjón.

Ég hef aldrei séð neina ástæðu til að Morgunblaðið væri einhver jólapappír utan um stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, svo margir frammarar, sem þar ríða húsum, og met ég þó marga framsóknarmenn mikils, hef t.a.m. stungið upp á því við Denna Hermanns, að hann gangi í Sjálfstæðisflokkinn í skiptum fyrir sjö til átta framsóknarmenn í þingflokki Sjálfstæðsiflokksins.

Ég held hann sé að hugleiða þetta.

Hann er a.m.k. kominn í Reykjaneskjördæmi, sem Sjálfstæðisflokkurinn á nú hálfpartinn.

Enginn veit hvert verður næsta spor sem Steingrímur stígur. Við vorum saman í vegavinnu eins og skjalfest er og tókum þátt í keppni um það, hver gæti farið lengst fram á brúnina í Drangey. Þá svitnaði Denni - og vann að sjálfsögðu. Hann er alltaf jafn kappsfullur á brúninni, en ég á ekki von á því, að hann fari fram af.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki eina aflið í landinu, sem reynir að bera fram sjálfstæðisstefnuna eins og ég skil hana.

Við Þorsteinn Pálsson vorum einhvern tímann að tala um þetta og þá minnti hann mig á, að erfitt væri fyrir okkur á Morgunblaðinu að ákveða upp á eigin spýtur hvað sjálfstæðisstefnan væri.

Það má vel vera, en ég held að sumir kratar séu meiri sjálfstæðismenn en margir sjálfstæðismenn.

Þetta er nú mín meining.

Og hví gæti þá Morgunblaðið ekki alveg eins stutt krata, ef Sjálfstæðisflokkurinn færi út af sporinu. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, enda er ég gamall viðreisnarritstjóri og sunnudagskrati í þokkabót eins og dr.Gylfi segir.

Það er nokkuð gott hjá honum.

En áður en ég afgreiði þessa fullyrðingu þína með dæmum langar mig að koma þeirri skoðun á framfæri að í öllum öðrum löndum en á Íslandi væri Sjálfstæðisflokkurinn eins og nú háttar talinn sósíaldemókratískur flokkur með íhaldsívafi. Þess vegna er Alþýðuflokkurinn jafn lítill og raun ber vitni og Alþýðubandalagið jafn stórt. Alþýðuflokkurinn hefur nú lengi verið hefðbundinn borgaralegur flokkur með ívið meiri félagshyggju á stefnuskrá sinni en Sjálfstæðisflokkurinn, en þó er það bita munur en ekki fjár.

Áður var Alþýðuflokkurinn byltingarafl gegn borgaralegu þjóðfélagi og hafði alls kyns óróaseggi innan vébanda sinna. Sá tími er liðinn sem betur fer.

Og nú er Alþýðubandalagið á hraðri leið inn á miðjuna eins og allir bændaflokkar, þótt þar séu metnaðarfullir marxistar í bland.

En svo er það náttúrulega þessi freisting sem kratar skulu ævinlega vera að falla fyrir: að bíta í rauða eplið þegar það er rétt að þeim og þá missa þeir meðvitund í þessari venjubundnu vinstri stjórn með öllu, verðbólgu og upplausn. Skyldu vera til betri dæmi í stjórnmálasögunni um það vonda sem ég vil ekki, það gjöri ég? Ekki svo að skilja að Alþýðuflokkurinn sé neinn Páll postuli eða Mjallhvít í Madonnumynd. En það þarf að minnsta kosti sjö dverga til að lífga flokkinn við eftir þessi ævintýri með rauðu eplin.

Það er rétt sem Þorsteinn Pálsson hefur sagt að kosningar geta verið ávísun á svona freistingu.

Þess vegna erum við Morgunblaðsmenn á verði gagnvart krötum, einnig gagnvart öfugri Viðreisn.

Það er ekki að vita nema dvergarnir gefist upp.

Alltaf skal sú gamla drottning rísa upp í einhverri mynd og spyrja, hver sé fegurst á landi hér, og alltaf skal spegillinn svara af inngróinni undirgefni: Vinstri stjórn, vinstri stjórn!

En nú er verið að stilla hann inn á jafnaðarstjórn. Ég þykist vita að Steingrímur verður að þvælast í þessum spegli og svo Ólafur Ragnar, auðvitað.

Það verður gaman að mynda Nýsköpunarstjórn þegar verkalýðsleiðtogarnir í Alþýðubandalaginu fá sinn tíma í speglinum, menn eins og Ásmundur Stefánsson og Þröstur Ólafsson. Annars mætti þessi spegill vel brotna fyrir mér.

Freistingar okkar eru aðrar en ég hef nefnt, til að mynda öfugur höfuðstóll ríkisins eins og ég hef ort um í kvæðinu Undir regnhlíf og formaður Sjálfstæðisflokksins las upp í útvarpi í fyrra með lævísu brosi á vör.

Ég heyrði það ekki en mér var sagt frá því. En hvað sem því líður, þá er þetta vondur stóll að sitja í.

En þá eru það dæmin um sjálfstæðisbaráttu Morgunblaðsins, örfá dæmi.

Þegar ég var nýráðinn ritstjóri hringdi Ingólfur Jónsson niður á blað og spurði eftir mér.

Ég var að rífast við Eystein niðri í þingi, sagði hann.

Jæja, sagði ég.

Heyrðu, bezt ég láti þig fá þetta. Ertu tilbúinn?

Ég er alltaf tilbúinn.

Svo hóf hann að segja fyrir frétt í símann.

Ég hlustaði: Ingólfur Jónsson afhjúpaði Eystein Jónsson á fundi... Ertu ekki að taka þetta niður, sagði hann.

Nei, sagði ég.

Nú, er eitthvað að?

Nei, sagði ég.

Á ég að byrja aftur? sagði hann.

Ef þú vilt, sagði ég.

En ertu þá tilbúinn? Ég er alltaf tilbúinn, endurtók ég.

Það varð nokkur þögn.

Ætlarðu kannski ekkert að skrifa?

Nei, sagði ég.

Af hverju? spurði hann. Ertu ekki ritstjóri Morgunblaðsins?

Jú, sagði ég, en það var ekki ráðið segulband þegar ég varð ritstjóri.

Bætti því meira að segja við, að mér dytti aldrei í hug að hringja svona upp í landbúnaðarráðuneyti til að segja honum fyrir verkum. Og þó teldi ég ritstjórastarfið ekki ómerkilegra en það starf, sem hann væri í.

Þá kvaddi Ingólfur og lagði á.

En hann skellti ekki á mig eins og Kristján Eldjárn gerði einhverju sinni, þegar hann spurði um ákveðinn leiðara og hver hefði skrifað hann.

Það var þegar Morgunblaðið sagði, að aldrei hefði forseta Finnlands dottið í hug að fela kommúnista stjórnarmyndun, eins og Kristján gerði og allt varð vitlaust út af.

Ég sagði Kristjáni, að við Styrmir bærum ábyrgð á leiðaranum.

Ég spurði ekki um það, sagði hann. Ég spurði, hver hefði skrifað leiðarann.

Við gefum það aldrei upp, sagði ég, enda skiptir það ekki máli. Ritstjórarnir eru samábyrgir.

Ég spurði ekki um það, ég spurði hver hefði skrifað leiðarann.

Fyrst forsetinn spyr, verður gerð undantekning, sagði ég, og ég skal svara þér. Þú ert að tala við þann, sem skrifaði leiðarann.

Þá skellti Kristján á.

Ég kvartaði yfir þessum afskiptum forseta við forsætisráðherra og kvaðst telja þau óviðeigandi í lýðræðislandi.

Dr. Kristján hringdi til mín nokkru síðar og sagði: Eigum við ekki að drekka saman kaffi, Matthías minn.

Ég dró ekki úr því, enda vorum við miklir mátar og ég hafði átt samtal við hann áður en hann var kjörinn forseti og þekkti hann að góðu einu.

Ég held hann hafi séð eftir þessari símhringingu. En það má bara ekki fjúka í forseta. Hann verður að vera andlega hlutlaus samkvæmt stjórnarskránni.

Svona samtöl geta farið ákaflega illa í viðkvæmt skáldið, þótt það sé sjóað í kalsamri veröld ritstjórans.

Og þá finnst mér harla erfitt að samræma mótsagnirnar í sjálfum mér.

Veit þó, að andstæður kalla á hreyfingu og af henni leiðir allt líf, öll hugsun; allt sem máli skiptir.

Það er sólin og sunnanblærinn, sem láta botnfrosið vatnið renna úr klakanum.

Það er í andstæðunum, sem allt leysist ur læðingi.

Þannig hef ég sætt mig við þetta tvöfalda hlutverk mitt, sem er raunar ofur einfalt í sjálfu sér.

Ég hef alltaf séð fyrir mér stórt, hvítt og óskrifað blað sem bíður eftir því að einhver komi og fylli það orðum og setningum.

Slíkt blað er mér freisting og ástríða.

Það er allt og sumt.

Ég get vel fallizt á að leiðarinn um forsetann hafi verið óþarflega ögrandi af okkar hendi og ástæðulaus áminning í krossferðinni gegn þessum alþjóðlega kommúnisma , sem við erum síknt og heilagt að lumbra á.

En þarna sá ég svart á hvítu, hvað dr. Kristján tók embætti sitt miklu hátíðlegar en ég hafði gert mér grein fyrir.

Eftir að hann hafði verið kosinn forseti, bað hann mig koma niður í skrifstofu sína, sem þá var í alþingishúsinu.

Þegar þangað kom var erindið að spyrja mig varfærnis- og ljúf- mannlega, hvort Morgunblaðið styddi hann ekki sem forseta, þótt við hefðum skrifað forystugrein til stuðnings dr. Gunnar Thoroddsen.

Ég sagði við hann:

Forseti Íslands er forseti Morgunblaðsins.

Þá brosti hann og við töluðum lengi saman um stjórnmál og bókmenntir.

Þá þótti mér hvað skemmtilegast að tala við dr. Krisján.

Hann var afslappaður og í engum þjóðfélagsstellingum, sem ég hef ofnæmi fyrir. En það er víst vegna þess ég er framhald þessa borgaralýðs, sem gerði uppreisnina í París 1789, og getur ekki hugsað sér tilgerðarlegri tímaskekkju en konunglegt prjál og oflæti.

En af þessu má ráða, að enginn getur verið alveg frjáls af öðrum. Tillitssemi er einfaldlega mikilvægur þáttur mannlífsins, en sannfæringarlausar gælur leiða til glötunar.

Það var ekki borðliggjandi að ætla sér að gera Lúðvík Jósefsson að forsætisráðherra. Hann hafði sómt sér vel í sjávarútvegs ráðuneytinu og hafði málefni sjómanna og útgerðarmanna í fingurgómunum.

Hann skildi þessa kalla betur en flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Þegar ég skrifaði um hafréttarmál frá Genf var hann í íslenzku sendinefndinni. Við töluðum oft saman og urðum miklir mátar.

Lúðvík er einstakur maður og ég hafði gaman af að tala við hann. Hann reyndi að kenna mér kapítalisma á löngum gönguferðum um Genf.

Mér veitti víst ekki af.

En mér er einkar minnisstætt, hvað hann gerði mikið grín að litlu kapítalistunum í Sjálfstæðisflokknum. Það minnti mig á grínið, sem Þórbergur gerði að fyrstu geimflaugum Bandaríkjamanna.

Þetta voru smáhvellhettur miðað við þrumuskot Rússa.

Kekkonen fól öðrum stjórnarforystu en gömlum stalínistum, lét þá njóta sín annars staðar í þjóðfélaginu og lagði ekki á þá freistinguna sem Áki Jakobsson talaði um.

Það er rétt, við vildum að Laxness yrði forseti, en það var eftir uppgjörið í Skáldatíma.

Lúðvík hafði verið einn af helztu forystumönnum Kommúnistaflokksins og formaður austfirsku deildar hans.

Slíkir flokkar höfðu ekki beinlínis haft það á stefnuskrá sinni að virða þá borgaralegu þjóðfélagsgerð sem við búum við, ætluðu raunar að gjörbylta henni með ólátum.

Dr. Kristján mátti því vita hvað við blasti.

Nú horfir þetta allt öðruvísi við. Alþýðubandalagið er sambland af gömlum kommum og athafnasömum vinstri mönnum. Sumir ekki minni húmanistar en við, aðrir meiri kapítalistar en ég.

Morgunblaðið á sína stjórnarskrá.

Hún birtist í fyrsta tölublaðinu og fjallar um mikilvægi frjáls fréttablaðs. Þá höfum við einnig óskrifuð lög, sem við hljótum að fara eftir. Við eigum til að mynda að standa vörð um íslenzka lýðveldið, þingræðið og kristna kirkju, ef ég hef skilið mitt hlutverk rétt, auk þess sem við hljótum að virða og vernda þá utanríkis- og öryggisstefnu sem Alþingi Íslendinga hefur markað.

Alþýðubandalagið hefur nálgazt þessa stefnu mjög á undanförnum árum og raunar hef ég upp á síðkastið talað við ýmsa alþýðubandalagsmenn, sem eru þeirrar skoðunar, að þessari stefnu eigi ekki að breyta. Hún hafi að vísu verið mörkuð án þeirra þátttöku en að vilja þjóðarinnar og honum verði þeir að hlíta. Þeir vilja taka þátt í varnarsamstarfi vestrænna þjóða, en eiga meira samstarf við bandamenn okkar í Evrópu og minna við Bandaríkjamenn.

Þetta höfum við Morgunblaðsmenn einnig hugsað um. Við höfum oft orðið þreyttir á Kananum en við sjáum sem stendur ekki betri lausn á öryggismálunum en með bandarísku varnarliði í Keflavík.

Hitt er svo annað mál, að nauðsynlegt er að festast ekki í gömlum formum og efla þessa öryggisstefnu með meiri þátttöku okkar Íslendinga og nánara samstarfi við Evrópuþjóðir en verið hefur. Um þetta er enginn ágreiningur milli okkar og sumra forystumanna Alþýðubandalagsins. þeir vilja bara ekki, að Ísland verði víghreiður til árása.

Við ekki heldur.

Við viljum haga öllum öryggismálum okkar á þann veg, að augljóst sé að Ísland sé varnarstöð en ekki eitthvert eldflaugnavígi.

Rússar hafa viðurkennt þetta í verki með því að stinga upp á stórveldafundi hér á landi. Þeir vita, að hér eru engin kjarnorkuvopn og að utanríkisstefna Íslands er til varnar en ekki árása.

Gorbachov hefði aldrei lent á flugvelli, þar sem væru bandarískar kjarnaflaugar. Hann hefði aldrei komið til NATO-ríkis, sem hann teldi ógna öryggi Sovétríkjanna.

Þessu svaraði hann raunar við spurningu, sem ég lagði fyrir hann á þeim mikla blaðamannafundi, sem hann hélt í Háskólabíói eftir stórveldafundinn. Ég taldi, að svar hans væri mikill fengur fyrir okkur og staðfesti, að stefna okkar í utanríkis- og öryggismálum sé og hafi verið rétt.

Sjálfstæði Morgunblaðsins er mér fyrir öllu sem ritstjóra og því verður ekki breytt héðan af.

Við Styrmir erum á einu máli um það, en hann verður nú orðið fyrir meira aðkasti en ég.

Einu sinni var ég vondi maðurinn á Morgunblaðinu, nú er það hann.

Samt er hann einhver bezt gerði maður sem ég hef kynnzt. En einhver verður að vera atvinnuillmenni á svona vinnustað! Það er hlálegt að það skuli vera hann. Forysta Sjálfstæðisflokksins veit að við Styrmir erum í sama báti hvað þetta snertir.

En samt vill hún helzt ekki vita það.

Ég sit nánast á friðarstóli, enda kominn tími til. Honum var nær að taka þetta að sér, en hann fær friðarstólinn ylvolgan þegar að því kemur og ef hann stenzt þá freistingu að fara út í pólitík. En ég held hann hafi lítinn áhuga á prófkjörum sem eru að taka við af Kólosseum og knattspyrnu.

En átök eins og þau sem ég nú hef lýst eru daglegt brauð á einu blaði, þar sem persónuleg samskipti eru með þeim hætti, að helzt minnir á mauraþúfu, þótt fámennir séum.

Við Gylfi Þ. Gíslason höfum til að mynda alltaf verið miklir mátar, en sú var tíðin, að Bjarni Benediktsson hringdi eitt sinn til mín og sagði:

Geturðu ekki hætt þessum skrifum um landsprófið, Matthías minn?

Hvað segirðu, Bjarni, svaraði ég, af hverju?

Ja, hann Gylfi er alveg að verða vitlaus yfir þessari gagnrýni og þetta getur haft mjög slæm áhrif á stjórnarsamstarfið.

Nú, segi ég, en geturðu beðið mig um þetta, Bjarni, eins mikilvæg og skólamálin eru?

Nei, svaraði Bjarni.

Svo varð dálítil þögn og hann segir:

Þú gerir eitt fyrir mig, þú ræðst aldrei persónulega á Gylfa.

Þarftu að biðja mig um það, Bjarni, spurði ég.

Nei, svaraði hann og kvaddi.

Bjarni Benediktsson treysti vinum sínum. Honum hafði liðið vel á Morgunblaðinu og vissi að sjálfstæðir einstaklingar eru meira virði en flokksþrælar og já-menn. Á því var vinátta okkar byggð og hún hefur verið einn af silfurþráðunum í lífi mínu.

Þú spyrð um þjóðfélagið góða, hvort það sé betra eða verra en áður.

Ég veit það ekki og ég hef engar áhyggjur af þjóðfélaginu, hef ég sagt.

Sjálfskaparvítin eru verst.

En við eigum þó nokkuð í land að ná Dönum, ef marka má reynslu, sem Steinn Steinarr sagði mér á sjötta áratugnum.

Einhverju sinni þegar hann var í Kaupmannahöfn hringdi hann í skakkt númer.

Ung kona kom í símann og það skipti engum togum, sagði Steinn, ég heimsótti hana um kvöldið og kom ekki heim fyrr en næsta morgun.

En þetta stendur allt til bóta hér heima, bætti hann við og glotti.

Við ættum ekki að vera úrkula vonar um það. En svona sögur sagði Steinn ungum aðdáanda til gamans. Og kannski til að auka aðdáunina!

En ég sá í gegnum hann, máttu vita.

Ég held að þjóðfélagið sé rúmbetra en það var áður. Að sumu leyti rómantískara, þótt undarlegt sé í öllum töffheitunum. En manneskjan breytist víst ekkert, það er kjarni málsins.

Ég ólst upp í hlýju, borgaralegu umhverfi en það var hraglandi í nánd. Stundum fundum við svalann af honum leggja inn yfir ferskeytulausan Vesturbæinn og þá var betra að búa sig vel.

Annars er þetta afstætt eins og sælan í himnaríki.

Ég vildi ekki eyða eilífðinni í englasöng og sálmakvak og ég held ekki þeir Hafskipsmenn tækju undir fullyrðingu mína um betra þjóðfélag en áður, en þá verða þeir líka að líta í eigin barm.

Ég segi þetta þó:

Þegar ég var yngri veitti Þjóðviljinn mér undir ritstjórn Svavars Gestssonar, minnir mig, og leiðsögn Magnúsar Kjartanssonar þessa áminningu, mörgum mánuðum eftir allt fjaðrafokið um samnefnt leikrit í Þjóðleikhúsinu:

Aldrei datt Göbbels í hug að skrifa leikrit!

Gálgahúmor þeirra félaga reið ekki vð einteyming í þá daga og kom mér raunar alltaf í opna skjöldu, þessi svala illvíga fyrirlitning á ímynduðum eða mögulegum andstæðingi.

Svo var strikað yfir þetta allt í næsta kokteilpartíi.

Þá fengu menn sér í glas og skemmtu sér konunglega eins og eftir forskrift Hallgríms Péturssonar.

Nú skrifa fleiri blaðamenn blöðin og færri pólitískir flóðhestar, guði sé lof.

Hvað sem öðru líður er reynt að halda sig við staðreyndir í Morgunblaðinu og leggja út af þeim.

Það er allt og sumt.

Þannig verða margir leiðarar blaðsins til eftir löng samtöl okkar ritstjóranna, sem trúað hefur verið fyrir þessu blessaða og margumrædda blaði, og aðstoðarmanna okkar. Síðan fær einn það hlutverk að skrifa uppkast og loks er farið nákvæmlega yfir beinagrindina, hvert orð, hver setning vegin og metin. Eg tala nú ekki um, ef málið er viðkvæmt eins og eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og síðasta hönd lögð á gripinn undir kvöld og þá eftir margra klukkusstunda vangaveltur um nauðsyn og afleiðingar.

Ég hef alltaf haft lúmskan grun um, að pólitík sé ætlað að vera á lágu plani. Og oft hefur verið reynt að keyra okkur niður á þetta plan, en ég trúi ekki að það þurfi að vera svo. Og oft hafa merkilegir menn tekið þátt í þessum leik, sem betur fer.

En ég er hræddur um, að þeim fari fækkandi.

Þegar Albert Guðmundsson talar um, að það liggi alltaf illa á okkur Morgunblaðsritstjórum, ef honum gengur vel, þá veit hann að þetta er bara frasi, sem merkir ekkert eða fimm aura brandari, sem enginn á að taka hátíðlega, enda höfum við sýnt annað í verki, þegar ástæða hefur verið til. En ég hef leyft mér að minna forystu flokksins á það, sem Bjarni Benediktsson sagði eitt sinn:

Það er ekki aðalatriðið , hvað kemur upp úr atkvæða- kössunum, heldur hvað við eigum skilið, og við það situr.

Af öllu þessu má draga þá ályktun, að þjóðfélagið hafi batnað að því leyti, að nú tala vinir og samstarfsmenn opnara hver við annan en áður var. Og pólitískir andstæðingar sýna hver öðrum meira umburðarlyndi fyrir bragðið (!).

Þetta er góð þróun að mínu viti.

Ég fagnaði því mjög þegar Þorsteinn Pálsson og VSÍ fóru í hár saman út af talnavafstri. Ég er þess fullviss, að Þorsteinn þurfti meira á því að halda að losna við Vinnuveitendasambandið en það við hann. Frelsi hans sem foringja stærsta flokks landsins er meira eftir en áður. Þannig þurfum við einnig að fóta okkur í nauðsynlegri fjarlægð frá Sjálfstæðisflokknum.

Hitt er svo annað mál, að Morgunblaðið varð auðvitað sökudólgurinn í kappglímu Þorsteins og VSÍ og engin ný bóla, að það sé í hlutverki skotskífunnar.

Það er gott að hafa einhvern blóraböggul þegar menn eru reiðir og sakna þess pólitíska hamars síns, sem mér skilst að sé hvað nauðsynlegastur í þessum skrýtnu krossferðum samtímans.

En þá væri stundum hollt að hafa það hugfast, að Jerúsalem er himnesk borg og sú sem er á jörðu niðri ekki nema svipur hjá sjón.

Stalín ætlaði að telja okkur trú um, að hann væri með þessa borg á sinni hendi, en raunin varð nú önnur. Menn eru farnir að gera sér grein fyrir því, og það hefur ekki sízt bætt þetta litla þjóðfélag okkar.

Og raunar mörg önnur þjóðfélög.

Ég vona bara, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins fari nú ekki að telja sér trú um, að þeir standi við borgarhlið þeirrar himnesku Jerúsalem, sem enginn stjórnmálamaður kemst til, því að hún er ójarðneskur draumur og ekki af þessum heimi.

Þangað eiga menn að hugsa eins og taoistar og fjallræðufólk.

En slíkt fólk leggur bara ekki fyrir sig stjórnmál, því miður. Það eitt út af fyrir sig sýnir, að ástandið gæti verið betra.

Ungur kynntist Alli Jónasi frá Hriflu.

Tók ástfóstri við hann.

Jónas dýrkaði ungu fótboltahetjuna.

Aðdáunin var gagnkvæm.

Primadonnan borgaði fyrir sig með brjóstmynd framan við fjármálaráðuneytið.

Það fór í fínu taugarnar á mörgum sjálfstæðismönnum, sumir fyrirgáfu aldrei þessa dýrkun.

Þeim fannst ráðherra Sjálfstæðisflfokksins ofhallur undir framsóknarhetjuna.

[Þessu fólki létti þegar Alli stofnaði Borgaraflokkinn. En Alli var vígreifur. Nú hefur bráð af honum. Hann nærðist á umdeildri stöðu í Sjálfstæðisflokknum, primadonnan naut sín einhvern veginn betur þar en í Borgaraflokknum].

Alli kann bezt við sig þegar hann fær að valsa með boltann. Í gamla daga fór hann með boltann í miðjum leik að stúkunni á Melavelli og lék listir sínar fyrir Svein Björnsson forseta og Benedikt G. Waage. og þeir klöppuðu fyrir Valsmanninum unga og réðu sér ekki fyrir kæti, ekki sízt ÍR-ingurinn Sveinn Björnsson.

Þá leið Alla vel.

Hann tvíefldist. Sjálfstraustið óx, samt skorti ekkert á það. Sjálfur hafði ég fylgzt af aðdáun með Alla, smápolli, enda lifði ég og hrærðist í íþróttum.

Faðir minn var formaður ÍR á þessum frægðarárum.

Ég var stundum á kvöldin með Alla vestur á Melum og sótti fyrir hann boltann.

Svo fóru menn eins og Jónas frá Hriflu að sparkast á við hann.

En ég er löngu hættur að sækja fyrir hann boltann.

Gagnstætt Alla er ég alinn upp í andúð á Framsóknarflokknum. Jóhannes bæjarfógeti og alþingisforseti, afi minn, sem var nær því að vera taoisti í lífi sínu en nokkur stjórnmálamaður annar, sem ég hef þekkt, varð illa fyrir barðinu á framsóknarmönnum, sem lögðu allt undir til að eyðileggja forystumenn gamla Íhaldsflokksins, bæði persónulega og pólitískt.

Þetta var víst djöfulleg barátta og endaði með því, að gamli maðurinn hætti um sextugt.

Þú getur séð lýsingar mínar á honum annars staðar, bæði í Sálmum á atómöld og í samtalinu við Matthías Viðar Sæmundsson í Stríð og söng og hann er sjálfsagt oftar á næstu grösum í frásögnum mínum.

Lárus Jóhannesson móðurbróðir minn hefur lýst honum vel í Blöndalsættinni. Hann var samt ekki af þeirri ætt, heldur kvæntur inn í hana. Hann var Thorarensen og Scheving og Kristján Karlsson segir mér, að hinir síðarnefndu hafi verið einstaklega vel gert fólk.

Það þóttist Lárus einnig vita.

Þegar móðir mín gekk með mig áttu foreldrar mínir heima í Kirkjustræti 10, í húsi Helgu Magneu, föðurömmu minnar, sem Þorvaldur Garðar vill endilega fara að rífa, þar sem það stendur þarna við Alþingishúsið.

Hún hafði búið þarna með síðari manni sínum, Kristjáni Þorgrímssyni konsúl og leikara, sem var svo guðdómlega laglaus, að hann breytti Ævintýri á gönguför í táradal gleði og ærsla.

Tíminn kom á þessum árum út einu sinni í viku, að mér skilst, en ég hef ekki nennt að kynna mér svo ómerkilegt atriði nánar, og þá hrópuðu sölustrákarnir upp fyrirsagnir blaðsins, sem fjölluðu ekki sízt um Jóhannes bæjarfógeta, mannvonzku hans og glæpi, enda hafði hann aldrei gert flugu mein, svo ég viti til né misfarið með nokkurt mál, sem honum var trúað fyrir.

Hafskipsmálið nú er barnaleikur borið saman við þessi rugluðu átök í gamla daga, samt voru sakarefnin meiri og minni tilbúningur þá, en nú er þó fótur fyrir þessum átökum öllum, án þess ég hafi áhuga á að gerast dómari í því máli.

En af þessum sökum gat móðir mín ekki farið út fyrir hússins dyr og foreldrum mínum sagt, að hætta væri á að hún missti fóstrið, ef hún færi ekki úr bænum.

Þannig töldu læknar að ég gæti orðið úti í móðurkviði í pólitískri gjörningarhríð

Og þannig var nú ástandið þá og svo ætlarðu að segja mér, að þetta hafi ekki lagazt!

Móðir mín fór sumarið 1929 að Laugarbökkum í Ölfusi og gekk með mig þar, þangað til talið var óhætt að hún kæmi í bæinn aftur.

Af þessu geturðu séð, að ég er að mótast í vinalegu umhverfi Sogsins, þar sem Tómas horfði yfir sundin blá.

Þannig er ég orðinn pólitískt bitbein, áður en ég fæðist og hlýtur það að hafa haft einhver áhrif á mig, auk sveitasælunnar með nið af ánni og ilm af grasi.

Tíminn er líknsamur.

Allt er þetta nú dautt og grafið, þótt ég sé að líta til baka af gefnu tilefni, því annars yrði ég að svara spurningum þínum jarðsambandslaust og það gengur ekki.

Jónas frá Hriflu var ekkert lamb að leika við og forystumenn Sjálfstæðisflokksins líklega ekki heldur. Ég er ekki svo barnalegur eða glámskyggn, að ég geri mér ekki grein fyrir því svona eftir á að hyggja.

En Jóhannes afi, sem átti stórmerkan stjórnmálaferil að baki var aldrei í neinni sauðargæru.

En hann var ljúfur eins og lamb.

Hann gat auðvitað verið fastur fyrir eins og gengur um slíkt fólk.

Morgunblaðið var sverð hans og skjöldur eins og annarra sjálfstæðismanna, sem lentu í útistöðum við Jónas og þá félaga.

Það voru miklar andlegar þjáningar samfara þessari hatrömmu pólitísku rispu og ég er alinn upp í skugga þeirra. En ég hef nú ekki haft meiri áhyggjur af þessum átökum en svo, að ég tók upp hanzkann fyrir Jónas Jónsson í Ólafs sögu, enda taldi ég það rétt þegar fjallað var um rifrildið milli hans og eggjanna tveggja, þeirra Eysteins Jónssonar og Hermanns Jónassonar.

Ég veit nefnilega hvernig hænunni líður þegar ungarnir eru að vafstra eitthvað.

Og þá man ég það, að Valtýr Stefánsson sagði mér í febrúar 1959, að honum hefði ávallt verið illa við hænsni.

Móðir mín sagði mér, að hænurnar hefðu alltaf hætt að verpa þegar ég kom heim, bætti Valtýr við og brosti.

Stefán skólameistari, faðir Valtýs, og Jóhannes bæjarfógeti voru fóstbræður, báðir Valtýingar. Valtýr Stefánsson var skírður í höfuðið á dr. Valtý, en Jóhannes var mágur hans og Anna móðir mín bar nafn konu hans.

Ég hafði snarað nokkrum sögum úr Post í Morgunblaðið fyrir orð Gunnars G. Schram. Við vorum félagar og skólabræður í háskólanunm, en Gunnar var systursonur Kristínar konu Valtýs.

Faðir minn sótti um starf fyrir mig á Morgunblaðinu vorið 1951.

Við fengum neitun.

Tveimur dögum síðar hringir Valtýr í pabba og segir:

Er hann Matthías sonur þinn ekki dótursonur Jóhannesar bæjarfógeta?

Jú, sagði pabbi, sem hafði góðan húmor, við skulum vona það.

Láttu hann koma til mín á morgun, sagði Valtýr.

Ég fór svo á fund Valtýs daginn eftir og var ráðinn.

Valtýr hafði skrifað fallega minningargrein um Jóhannes afa þegar hann dó í febrúar árið áður.

En ég var þannig ráðinn á blaðið vegna fóstbræðalags Stefáns og Jóhannesar afa. Þetta var indæll klíkuskapur og vinátta sem hefur enzt með einstæðum hætti.

Ég vona starf mitt á Morgunblaðinu hefi réttlætt ráðningu Valtýs.

Við Hanna giftum okkur í júní 1953 og fórum til Berlínar. Þá var uppreisnin þar í algleymingi. Gunnar G. Schram fór með okkur.

Ferðin hafði mikil áhrif á mig.

Og hún breytti Gunnari í smásagnahöfund eins og sjá má í Stefni sem við ritstýrðum saman, ásamt Þorsteini Thorarensen, sem var með okkur á Mogganum.

Við Gunnar kynntumst í pólitíska moldviðrinu í háskólanum. Þá hafði Höskuldur Ólafsson forystu um að ég yrði formaður Stúdentaráðs.

Höskuldur varð fyrstur manna til að sýna mér mikið traust. Hann er svo gáfaður, að honum hefur aldrei dottið í hug að taka þátt í pólitískum áflogum og hefðu þó allar dyr staðið honum opnar á þeim vettvangi. Menn eins og þeir Baldvin Tryggvason hafa kunnað fótum sínum forráð. Þeir hafa verið farsælir menn í störfum sínum. Ég kynntist þeim báðum í þessu eftirminnilega umhverfi æskuáranna og met þá því meir sem á ævina hefur liðið.

Í Almenna bókafélaginu stóð Baldvin alltaf fast með mér sem rithöfundi, ekki síður en Eiríkur Hreinn og aðrir yngri vinir mínir þar

Eitt sinn þurfti ég að taka í lurginn á Þórarni Tímaritstjóra fyrir forystugrein sem hann skrifaði um ímyndað kommadekur mitt.

Við Þórarinn höfum aldrei eldað grátt silfur saman og ávallt farið vel á með okkur.

Hann kom niður á Morgunblað með svargrein og bað mig að birta. Ég gerði það að sjálfsögðu með glöðu geði.

Þarna töluðu lærisveinar Valtýs og Jónasar saman í mesta bróðerni niðri í Morgunblaðshöll og voru þó að ybbast eitthvað hvor framan í annan á prenti eins og verða vill í þessum bransa.

Og svo heldurðu kannski að þjóðfélagið hafi ekki breytzt til batnaðar!

Ó-jú, ég held nú það.

Þegar Þórarinn kvaddi mig þarna á ganginum sagði hann þessa eftirminnilegu setningu:

Hugsaðu þér bara, ef Jónas og Valtýr hefðu getað talað svona saman eins og við höfum gert, þá hefði þjóðfélagið verið betra en það var.

Ég vona að Valtýr og Jónas og Jóhannes afi minn og aðrir fagni því þarna á astralplaninu, hvernig við Þórarinn höfum getað talað saman. Sjálfur vil ég heldur lifa í því þjóðfélagi sem er en því sem var.

En nú er illt í efni, Herdís mín, ég ætlaði að skrifa þér dálítið bréfkorn um reynslu mína þegar ég var á sjó ungur og fjarri öllu frægu fólki. Þar var enginn, sem neinn hafði nokkurn tíma vitað haus né sporð á, heldur rólegt fólk og fyrirferðarlítið eins og þeir sem þurfa ekki stöðugt að vera að fylla tómið í brjósti sínu.

Þórbergur líkti því við þorstann í helvíti.

Þá var gaman að lifa.

Þá var margt merkilegt fólk á Íslandi, en þó einkum kurteist og tillitssamt við umhverfið.

Þá hlupu menn helzt ekki í blöðin, nema þeir ættu þangað eitthvert erindi.

Nú eru flestir sótraftar á sjó dregnir.

Fæstir hafa upp á neitt að bjóða, nema þá kannski þetta tóm og þennan þorsta.

Ég hafði í hyggju að svara spurningum þínum með dálitlu bréfkorni um Guðmund vin minn Dýrfirðing, sem var með mér á Brúarfossi í eina tíð.

Ég veit ekki, hvort hann er lifandi eða dauður, en hvort heldur sem er, þá bið ég að heilsa honum. Hann er mér hvað minnisstæður þeirra, sem ég hef kynnzt í þessum útmánaðahraglanda, sem við köllum líf.

Hann sýndi mér tillitsemi ungum, og vináttu, sem mun ylja mér gömlum, ef ég lifi.

Guðmundur Dýrfirðingur vissi það öðrum mönnum fremur sem ég hef kynnzt, að listin að lifa, hin erfiðasta, nauðsynlegasta og æðsta list allra lista, er framar öllu listin að hugsa, eins og Nordal kemst einhvers staðar að orði.

Samt datt manni aldrei í hug, að hann hugsaði nokkurn tíma nokkurn hlut.

Ástæðan var sú, að hann vann verk sitt án mælgi og var oftast þögull og sagði aldrei neitt fram yfir það sem var nauðsynlegt t.a.m.,

Ætlarðu ekki að fá þér steinbít,drengur?

Ertu búinn að leggja á borðið?

Vantar ekki mjólk?

Ertu búinn að vaska upp?

Eða þá:

Ég skal fara með kaffið upp í brú fyrir þig í nótt, ef þú verður eitthvað laslegur.

Guðmundur var annar kokkur á Brúarfossi.

Sagan um Guðmund er eins og annað sem ég hef skrifað um fólk, talin sagnfræði af þeim, sem þekkja ekki til, en skáldskapur af hinum.

En það vita allir, sem skrifa um fólk, að því meiri sagnfræði sem sagan er því meiri skáldskapur.

Það skiptir að vísu ekki máli.

Hitt er mikilvægt finnst mér nú, kominn undir sextugt, að án Guðmundar Dýrfirðings, hefði sjómennska mín orðið martröð og minning um eldraun, sem var lífsháski, ekkert minna.

Við vorum í káetu saman á Brúarfossi, þegar ég var 16 ára gamall.

Það er ævintýraleg birta yfir þessari reynslu.

Við sáum til botns í óveðrum á Norðursjó og ég var svo sjóveikur, að Guðmundur varð að skrifa dagbókina mína og ég á hana enn og Norðursjávarkaflann með hans fínlegu hendi.

Ofviðri í Eystrarsalti og Jón Eiríksson í brúnni hálfan annan sólarhring, tundurdufl í Finnska flóa og lífshætta við hvert fótmál.

Á heimleiðinni gerðu kyndararnir uppreisn, því Jón skipstjóri tók af þeim bjórinn, og sögðu:

Hér verðum við þangað til bjórinn er kominn á sinn stað!

Skipið slóaði, það var allur dampur úr mannskapnum, en aldrei sagði Guðmundur Dýrfirðingur neitt, aldrei æðruorð.

Svo fengu kyndararnir bjórinn sinn.

Löngu síðar skrifaði ég frásögn í Morgunblaðið um harmleikinn kringum Reykjaborgina og Fróða og fékk þá að vita, að hásetinn og kokkurinn sem stýrði Fróða sundurskotnum í land með félaga sína dauða og limlesta á dekki og niðri í káetu væri lifandi og bryti hjá Eimskip.

Ég bað um að þessi maður kæmi niður á Morgunblað til mín, því ég ætlaði að skrifa við hann samtal inn í greinina Nóttin í björtu báli.

Nokkrum dögum síðar birtist Guðmundur Dýrfirðingur í skrifstofu minni.

Við höfðum ekki sézt árum saman. Sæll, Matthías minn, sagði hann og rétti mér höndina.

Sæll, Guðmundur, sagði ég, hvað segir þú?

O, þetta sama, sagði hann.

Og alltaf hjá Eimskip, sagði ég.

Ojá, sagði hann.

Það varð dálítið vandræðaleg þögn.

Svo settumst við.

Heyrðu, sagði hann, vildirðu eitthvað tala við mig?

Ha, sagði ég, nei, ekkert sérstakt, en það er gaman að sjá þig.

Nú, jæja, sagði hann, þetta er þá einhver misskilningur.

Nú, hvað áttu við, segi ég.

Ég var beðinn um að skreppa til þín, því þú vildir tala við brytann á Lagarfossi.

Já, það er rétt, sagði ég undrandi. En ég ætlaði nú að tala við hásetann, sem stýrði Fróða til lands og varð hetja í stríðinu.

Nú, sagði Guðmundur Dýrfirðingur, það er einmitt það.

Svo horfði hann í gaupnir sér og loks vandræðalega á mig og bætt við:

Ja, ég er nú víst þessi háseti.

Ég horfði agndofa á hann.

Þessi maður sem var káetufélagi minn allan þennan tíma á Brúarfossi og hafði sýnt mér föðurlega umhyggju og nánast bjargað lífi mínu í stórsjóum sat nú þarna fyrir framan mig, án þess nokkurn tíma hafa nefnt Fróða á nafn við mig áður, hetja í stríðinu, hlýr og góður og fínlegur og allt öðruvísi en ég hafði hugsað mér hetjur, þarna sat hann og við horfðumst í augu og sögðum ekkert um stund.

Á því andartaki lærði ég þá list, sem öllum listum er æðri, ef ég hef þá nokkurn tímann lært hana - að lifa þessu lífi sem okkur er gefið.

Það var um þetta, sem ég ætlaði að fjalla í bréfinu til þín, Herdís mín, en það verður að bíða betri tíma eins og margt af því sem mikilvægast er.


2. nóvember 1986

Ég hef verið að hugsa um spurningarnar þínar og svörin mín.

Eitthvað er þessu nú öllu ábótavant.

Styttri svör hefðu líklega dugað betur.

Um dauðann hefði nægt eitthvað í þessum dúr:

Dauðinn er ávísun á hylli og góðan orðstír. En stundum er hún innistæðulaus.

Þegar ég var ungur ætlaði ég að deyja ungur.

Ég ætlaði að deyja rómantískum dauða eins og Keats! En þessi plön fóru sem betur fer út um þúfur. Ég hef gaman af að lifa, ekki sízt vegna þess, hvað ég var seinþroska. En ungur las ég Keats og alla ljóðlist, sem ég náði í.

Hann var einhvern veginn áþreifanlegri en Shelley og Byron. Þó upplifði ég Ozimandios of Egypt eins og ég væri hann, taldi að skáldin væru hinir einu sönnu löggjafar heimsins og ættu helzt að stinga við eins og Stefán frá Hvítadal og Byron.

Ef ég væri sextán ára í dag og horfði á sjálfan mig þætti mér áreiðanlega ekki mikið til mín koma enda hef ég alltaf öðrum þræði horft á sjálfan mig eins og Borges.

Þegar ég hugsa um samsetninguna Matthías og ég hef ég sitthvað við Matthías að athuga, þó einkum það hvað ég hef haft lítinn frið fyrir honum.

Hann hefur jafnvel ofsótt mig.

Hann þolir ekki einu sinni popp og segir að það sé síðasta bergmál frumskógarins.

Það þykja Ingólfi syni mínum fordómar.

Þessi Matthías var víst eitthvað viðkvæmari ungur en ég er nú.

Við Sigurður Bjarnason vorum að rifja það upp fyrir skömmu, þegar hann hafði eitt sinn sem oftar samið leiðara og þurfti að fá hann vélritaðan af segulbandinu, en ritari okkar stynur því þá upp, að hún sé að skrifa ljóð fyrir mig og leiðarinn verði að bíða!

Sigurður verður alveg dolfallinn og fer að tuldra í barm sinn:

Búin að vera að skrifa ruglið úr honum Matthíasi í klukkutíma!

Styrmir heyrir þetta ungur blaðamaður og segir mér.

Ég fer þá til Sigurðar, halda þeir fram í sameiningu, þótt ég muni það ekki lengur, og spyr, hvern fjandann þetta eigi að þýða, hvort hann sé eitthvað á móti minni ljóðlist!

Sigurður hrekkur við og verður alveg klumsa og fær engum vörnum við komið.

Fer til Styrmis og húðskammar hann fyrir lausmælgi.

Ég hef alltaf gaman af að hitta gamla vini mína af Morgunblaðinu, ekki sízt Sigurð Bjarnason og Eyjólf Konráð.

Þá skemmtum við okkur konunglega og drekkum ögn af góðu víni. Þá er margt rifjað upp og ég skal segja þér af því síðar.

Í dag er afmæli móður minnar. Hún hefði orðið 86 ára, ef hún hefði lifað.

Hún er ólík öllum öðrum sem ég hef kynnzt.

Mér finnst hún líkjast mest móður heilags Ágústínusar eins og hann lýsir henni í Játningum sínum. Minningin um hana kallar á æsku mína og nú er bezt ég líti ögn til baka í lokin, en þegar ég hef tíma síðar get ég bætt við þessa reynslu með því að rifja upp nokkur atriði úr gömlum minnisblöðum, sem ég á í fórum mínum.

Það er gaman að eiga eitthvað ógert.

Það eykur spennuna og gerir andrúmið radíótíft.

Ég hef alla mína ævi lifað og hrærzt í slíku umhverfi, þótt framhliðin á mér sé eins og lognhvítur vatnsspegill, án silungsboða undir kvöld.

Í bréfi til eins vinar míns segi ég m.a. af gefnu tilefni um þann Matthías sem fáir þekkja:

"Í raun og veru hef ég alltaf verið einfari, þótt starf mitt hafi gert kröfur til opinberra afskipta. Mér líður bezt innan fjögurra veggja heima hjá mér, og nú orðið fer ég sjaldan á mannamót.

Ég hef mesta hneigð til að skrifa og yrkja og vera einn með hugsunum mínum.

Ég er ekki eins félagslyndur og margir halda og kannski á ég ekki heima í flokki með neinum. Samt hef ég sýnt vissa viðleitni til félagslyndis, fremur af nauðsyn en þörf.

Hitt er svo annað mál, að ég hef sótt mikinn innblástur, menntun og uppörvun til þeirra fjölmörgu ólíku vina minna, sem ég hef kynnzt um ævina, bæði þeirra sem ég hef skrifað um og annarra.

Ég hefði ekki viljað fara á mis við þá reynslu.

En ég þykist þó vita að munkarnir í Ettal kunna öðrum mönnum betur að laga þann líkjör sem bragðast.

Með líkjör hafa þeir kallazt á gegnum aldirnar.

Slíka einveru kann ég að meta og ekki sízt þann sannleika sem þetta fólk hefur verið að reyna að brjóta til mergjar. Ég hef oft þurft að tala við sjálfan mig með þessum hætti. Ástæðan er einfaldlega sú, að skyldurækni hefur alltaf verið minn helzti ókostur. Tillitssemi við aðra hefur oft verið mér fjötur um fót. Sjálfsgagnrýni hefur nagað mig meir en nokkur veit.

En ég hef gagnrýnt aðra minna en ég hefði átt að gera."

Og þar hefur þú verið mér fremri."

Ég á dýrmæta minningu um móður mína og Hallgrím Pétursson sem oft leitar á mig:

Einhverju sinni þegar ég ungur drengur signdi mig sem oftar eftir páskabaðið fór móðir mín að segja mér af þessum ógæfusama riddara Krists.

Hún sagði hann hefði verið merkilegur og gott skáld. Hún sagði hann hefði elskað guð og verið góður maður.

Ég signdi mig fallegar þennan dag en aðra daga. Ég signdi mig til heiðurs þessu ókunna skáldi, sem hafði elskað guð og verið svo góður maður, að öllum mætti verða til fyrirmyndar, ekki sízt sem skáld.

Móðir mín sagði mér ég gæti séð minnismerki um hann við Dómkirkjuna.

Þá gekk ég niður að kirkjunni og þreifaði á steini Hallgríms Péturssonar.

Svo horfði ég á hörpu hans um stund, hljóp síðan heim og síðan hefur hann ekki verið langt undan.

Mér er ógleymanlegt að sjá steininn, sem hann meitlaði í nafn Steinunnar dóttur sinnar um það leyti, sem hann var að yrkja eftirmæli sín um hana. Þá sá ég hann fyrir mér liggjandi á hnjánum, grafandi nafn þessa yndis síns inn í framtíðina. Það var mér ógleymanleg reynsla að sjá þennan stein og raunar er kvæði um þessa reynslu mína í næstsíðustu ljóðabók minni Tveggja bakka veðri.

Það heitir 1674.

Séra Hallgrímur var mikið skáld. Aldrei hafa trú og list haldizt eins fallega í hendur og í ljóðum hans og séra Matthíasar. Svona skáldskapur með öllum þeim innblásnu hnökrum og guðlegu smekkleysum er ekki ortur á neinni ákveðinni stund. Hann er ekki ortur fyrir neinn sérstakan tíma heldur hefur hann ávallt verið til og verður eins og sígrænt tún þeirra fyrirheita sem við fáum í vöggugjöf.

Og það íslenzkt skáld, sem hefur ekki fengið þetta veganesti er illa á vegi statt, ekki sízt á þeim tímum, sem við nú lifum, þegar auðvelt er að verða svokallaðri alþjóðamenningu að bráð.

Í mínum huga eru menn eins og sr. Hallgrímur ein af landvættum okkar á válegum tímum. Þessa hugsun fékk ég með móðurmjólkinni.

Hallgrímur var minn maður þegar í bernsku. Og svo frelsarinn, að sjálfsögðu, svo mjög sem móðir mín leitaði til hans bæði í sorg sinni og gleði. Biblían var á náttborðinu hennar. Og sálmabókin ávallt tiltæk. Stundum kom ég að henni, þar sem hún sat ein, gömul kona í íbúðinni sinni í Garðastræti, og las guðsorð.

Það sem dugði henni er mér einnig nægilegt veganesti.

Þegar ég horfi um öxl til æsku minnar sé ég hana ávallt innan hrings í Vesturbænum.

All sem er fínt og fallegt og á að vera sterkt í náttúrunni er bogið eða ávalt. Stytzta leiðin á jörðinni er aldrei bein, heldur bogin, þess vegna erum við að þvælast yfir Grænland á leið til New York.

Og allt sem er sterkt er kúpt, jörðin sjálf, sólin, hauskúpan, konubrjóst(!)

Allt sem er kantað er veikt, það vissu Rómverjar þegar þeir byggðu Kólósseum, sem enn stendur og vex inn í eilífðina eins og sumir listamenn.

Góður listamaður hugsar mjúkt og bogið og ávalt.

Þess vegna eru góðir listamenn svo oft misskildir.

Sú ferhyrnda hugsun er kröfuharður keppinautur við mýkt og mjúkar línur. Hún er hugsun hörkunnar og hversdagsleikans.

Það er alltof mikið af kantaðri hugsun.

Hún er forsenda fordóma og óbilgirni og árásarhneigðar.

Forsenda þessarar brothættu veraldar.

Ástin er aftur á móti sú bogna lína.

Það hefði verið óhugsandi að Steinn yrkti um að hann gengi í ferhyrning í kringum allt sem er. Og það er engin tilviljun þegar hann segir í lok þessa dýrðlega ástarkvæðis:

Og innan þess hrings er veröld þín.

Auðvitað var hún þar!

Hann talar líka um hina íbjúgu veröld í Söknuði, hlýja og góða veröld minninganna, en hið hvíta blóm dauðans vex á hornréttum fleti í Tímanum og vatninu og þar rignir gegnsæjum teningum við ragnarök.

Mitt hreiður var svona hringur, þrátt fyrir allt.

Og allt.

Svona kúpt veröld úr stráum.

Sterkari en öll sú ferkantaða hugsun sem að henni sótti.

Fannst mér þá.

Og þykir enn.

Veit að guð hugsar í bognum línum, þessi elífa hringrás tilverunnar.

Hönnuður mýktar og fegurðar.

Hönnuður beinnar línu ferhyrndrar hugsunar, þessa sjókalda húmors sem er innbyggður í horn nashyrningsins þegar hann æðir beint af augum.

Já, alltaf beint af augum, auðvitað.


2. nóvember 1986

Eftir á að hyggja tel ég ekki úr vegi að senda þér enn eitt bréfkorn, ef það mætti verða til þess að skýra enn frekar hvað fyrir mér vakir þegar ég þarf að svara jafn umfangsmiklum spurningum og þeim, sem þú hefur lagt fyrir mig.

Þórbergur varð aldrei neinu tilgangsleysi að bráð eins og Jóhannes úr Kötlum yrkir um, t.a.m. í litla kvæðinu um steðjann og sleggjuna þegar hann gerir upp lífsskoðun sína undir lokin og á hann sækir efahyggja, heilsulausan.

Ég kynntist þessari andlegu baráttu því að ég átti samtal við hann í sjónvarpið að ósk hans, nokkru áður en hann dó.

Nei, Þórbergur hafði aldrei áhyggjur af merkingu orða, þau voru list hans og leikur.

Allt hans líf, er mér nær að halda.

Hann sat við sinn keip hvað sem tautaði og raulaði. Var ójarðneskur ef svo mætti segja og ópraktískur.

Margrét sá um þá hlið málsins.

Hann var aldrei tekinn inn í samfélag heilagra, því hann var andatrúarmaður. Sagði jafnvel eitt sinn við mig, að þeir væru ekki góðir marxistar í Moskvu. Þeir hefðu sagt, að það væri ekkert framhaldslíf til. Í staðinn fyrir að þeir ættu að vera díalektískir og segja þegar þeir væru spurðir,

Er til framhaldslíf?

Við vitum það ekki.

Þeir eiga mikið ólært, bætti Þórbergur við.

Þannig held ég einnig að við ættum að spyrja oftar og svara sjaldnar.

Þórbergur var mannúðarmaður í lífi sínu. Hann var kröfuharður við sjálfan sig og aðra. Ég hef ekki þekkt betri mann. En hann hafði oftrú á vondu skipulagi, sem spratt úr kenningum með tiltölulega meinlausu yfirbragði.

Þórbergur var síður en svo áhugalaus um það sem hann átti, t.a.m. bækurnar í Unnskiptingastofunni. En hann þjáðist sízt af öllu af græðgi umfram nauðsyn.

Ég er ekki að mæla henni bót, en ef menn komast í álnir með heiðarlegum hætti, öfundast ég ekki yfir því.

Ég tel eins og stjórnarskrá Íslands, að það megi skerða eignaréttinn, ef það liggur klárt fyrir, að almannaheill krefjist, en ég treysti ekki stjórnmálamönnum að fara með svo viðkvæmt mál, þótt það sé eitt helzta viðfangsefni þeirra.

Eignarétturinn er og á að vera friðhelgur , þótt samfélagið hafi orðið ásátt um að skerða hann til framfærslu þeirra, sem hafa orðið undir í lífinu og kunna ekki að sjá sjálfum sér og sínum farborða.

En að öðru leyti vil ég og krefst, að menn virði eignaréttinn.

Þess vegna vil ég ekki eins og Hannes Hólmsteinn gefa einhverjum útgerðarmönnum, sem hafa stundað sjó með misjöfnum árangri, fiskimiðin við Ísland, sem við fengum öll í okkar hlut eftir harða baráttu og eigum öll sameiginlega eins og tíundað er í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 10. maí sl.

Ég læt hvorki Locke, Nozick, Hannes Hólmstein né aðra segja mér fyrir um það, hver á að eiga fiskimiðin, sem ég sem Íslendingur á eignaraðild að, og engin kenning eða kenningameistarar geta frá mér tekið.

Hitt er annað mál, að einstaklingar geta sótt meiri arð í miðin en ef þau væru þjóðnýtt. Ég trúi því t.a.m. með Kristjáni Ragnarssyni, að dugmiklum sjósjóknurum sé bezt treystandi til að breyta fiskinum okkar í verðmæti, sem við þurfum að nota til ýmissa þarfa. Ég held raunar, að bæði Jónas H. Haralz og Hannes Hólmsteinn Gissurarson séu sammála mér í því, hvað sem líður hugsjónum þeirra að öðru leyti, að ég hafi sem eignaraðili að miðunum mest upp úr því að duglegir og útsjónarsamir sjómenn og útvegsmenn fái sem frjálsastan aðgang að nýtingu miðanna, en þó með einhverri stjórnun eða skipulagi eins og gefur auga leið.

Ég er einnig þeirrar skoðunar, að bezt fari á verkaskiptingu í sjávarútvegi eins og öðrum greinum og tel að skjólstæðingar Kristjáns Ragnarssonar eigi að sjá um sinn hluta en vinnslustöðvar Friðriks Pálssonar að nýta það hráefni, sem þær hafa efni á að kaupa á eins hagkvæman hátt og unnt er.

Lýðræðislegasta leiðin væri sú, að öllum Íslendingum væru send hlutabréf í fiskimiðunum og þau rekin eins og almenningshlutafélög. Þannig ætti að sjálfsögðu einnig að reka stór fyrirtæki á vegum ríkisins svo að fólk hefði einhvern áhuga á því, hvernig auðlindir landsins eru nýttar og hvaða arð það fengi sent árlega vegna starfseminnar. Þá fengju fyrirtækin nauðsynlegt aðhald og við færum að velta rekstrinum fyrir okkur með öðrum hætti en áður. Þetta var einhvern tíma kallað auðjöfnun upp á við. En nú alþýðukapítalismi eða eitthvað í þá átt.

Það á auðvitað ekkert sjónarmið að ráða nýtingu fiskimiða annað en það hvað mest gefur af sér. En ísaður gámafiskur hefur selzt erlendis fyrir fimmfalt verð miðað við frystan fisk á Bandaríkjamarkað, svo að dæmi sé tekið, þá eigum við auðvitað að selja hann til Evrópu, en þá eiga hluthafarnir í miðunum, þ.e. öll íslenzka þjóðin, að hagnast á mismuninum. Ég teldi það alveg í lagi að útlendingar greiddu fiskvinnslufólki meira en nú fyrir minni vinnu og lengri tómstundir - og mundi þá fremur kjósa þessu fólki til handa bóklestur en sjónvarpsgláp, þótt sumt sé nýtilegt í þessum nýja miðli.

Ég er ekki sérfræðingur í Locke frekar en öðrum heimspekingum, en veit þó að hann er lágríkismaður eins og Nozick og taldi að guð deildi jarðeignum.

Nozick er aftur á móti lágríkismaður án guðs.

Hannes Hólmsteinn hefur bent mér á, að ég hafi svipaða afstöðu og Locke til eignaréttar. Það komi fram í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 10. maí sl. Hann hefur sent mér til staðfestingar tilvitnun í rit hans um ríkisvaldið, sem kemur út á vegum Lærdómsrita Bókmenntafélagsins og verður að því mikill fengur eins og öðrum verkum, sem Þorsteinn Gylfason hefur ritstýrt í þessum stórmerka bókaflokki.

Mér þykir þetta harla merkilegt, ég tel mig samt engan Lockista. Ég er að lýsa íslenzku velferðarríki nú á dögum en ekki brezku umhverfi á dögum Lockes.

Hitt er rétt að fáar hugmyndir eru svo frumlegar að þær hafi ekki sézt áður. Hlutverk okkar er ekki sízt að endurskapa gamlar hugmyndir, fella þær að okkar tíma. Stundum erum við önnum kafin við þetta án þess gera okkur grein fyrir því.

Í Reykjavíkurbréfinu var einnig sýnt fram á það með sterkum rökum, að enginn hefur áhuga á eignum sósíalismans í Sovétríkjunum. Þar drabbast þessar opinberu eignir niður. Öllum er sama um þær. Menn sóa þeim og spilla og að sögn sovézka fræðimannsins sem vitnað er til í bréfinu hnupla menn því sem þeim sýnist, hvort sem það eru varahlutir í bíla eða önnur framleiðsla ríkisins. Mér dettur ekki í hug að slíkt sóunar- og spillingarkerfi leiði til annars en fátæktar þegnanna og upplausnar í landinu, enda sjást þess víst víða merki.

Samt getur sameign náttúruauðlinda, ekki sízt fiskimiða, verið nauðsynleg og aukið hagsæld þegnanna, ef vel er á málum haldið og ýtt undir hagnaðarvon einstaklinga með velferð allra þegnanna að markmiði.

Íslenzka þjóðin barðist sameiginlegri baráttu fyrir útvíkkun fiskveiðilögsögunnar í þvi skyni að vernda fiskstofnana sem voru svo ofveiddir, að hætta hefði verið á landauðn, ef ekki hefði verið gripið í taumana í tæka tíð.

Það var íslenzka ríkið sem vann þessa styrjöld með sameiginlegu átaki þegnanna.

Stríðið var ekki háð í nafni neinna einstaklinga, og erlendar þjóðir voru sízt á þeim buxunum að samþykkkja kröfur Íslendinga til útfærslu vegna afskipta einhverra einstaklinga af þessum málum, heldur vegna þess siðferðilega og sögulega réttar sem Íslendingar áttu sem þjóð til þessara miða, vegna menningarhefðar og þeirrar virðingar sem hún nýtur á alþjóðavettvangi hvað sem líður efnahagsstjórn okkar að öðru leyti.

Hvenær eignaðist ríkið fiskimiðin? spyr Hannes Hólmsteinn og ýmsir aðrir frjálshyggjumenn. Það var auðvitað með samningum við önnur ríki um yfirráðarétt yfir landgrunni og hafsvæðum umhverfis landið að hörðum og oft tvísýnum og hættulegum þorskastríðum loknum. Það var íslenzka ríkið, sem varði þessa landhelgi.

Kannski landhelgismenn geri einn góðan veðurdag kröfu til fiskveiilögsögunnar?

Eða Pétur Sigurðsson?

Eða þeir ráðherrar sem skrifuðu undir samningana við önnur lönd?

Eða við blaðamenn sem tíunduðum ofbeldi Breta á miðunum, stöppuðum stáli í þjóðina og sýndum, ásamt stjórnmálamönnum, fram á siðferðilegan rétt okkar til fiskimiðanna?

Eða kannski það hafi verið þjóðin sjálf, þessir eigendur landsins, sem stóðu sameinaðir í þessu stímabraki árum saman og voru reiðubúnir til að láta líf sitt fyrir mikla hugsjón og sameiginlegt takmark.

Eða hver borgaði þessa baráttu alla?

Og hvað um alla þá em fluttu mál okkar á erlendum vettvangi?

Gæti Hans G. Andersen gert tilkall til fiskimiðanna einn góðan veðurdag?

Kannski Gunnlaugur Þórðarson telji sig eiga þau?

Lúðvík Jósepsson skyldi þó ekki vera með það inn á sér að hann eigi 50 mílurnar?

Og Geir Hallgrímsson 200 mílurnar?

Kannski Eyjólfur Konráð ætli sér Rokkinn?

Nei, íslenzka þjóðin á þessi fiskimið. Hún á hafsvæðin umhverfis landið.

Þau eru sameign hennar.

Það er ekki síður tilfinninga- og þjóðernismál en spurning um eignarétt.

Nú er það hlutskipti okkar allra að nýta fiskimiðin á sem arðvænlegastan hátt. Þessari þjóð, sem með sameiginlegu átaki rak Breta og aðra rányrkjumenn af höndum sér með aðferðum, sem gerðu andstæðingana orðlausa og voru öðrum þjóðum hvatning í sjálfstæðisbaráttu þeirra, ætti að vera trúandi til þess.

Hver á lýðveldið Ísland?

Það er heilög eign okkar allra sem enginn Íslendingur getur gert sérstakt tilkall til, þótt sumir telji sig betri Íslendinga en aðra.

Þjóðin á Þórsgötu 1 er liðin saga.

Við skulum ekki fara að endurvekja hana í nýrri mynd. Hún var svo ömurlegur þáttur í ærslasögu æsku minnar.

Og afkvæmi kalda stríðsins.


6. nóvember 1986

Reykjavík, 6. nóv. '86

Þú spyrð mig einnig um gagnrýni. Og mér finnst spurningin bera keim af því þú haldir ég sé eitthvað sár eftir barninginn eða illa haldinn. Ég ætla því einu sinni að ræða um þetta af raunsæi og tæpitungulaust, þótt annað sé nú ofar í huga mínum.

Gagnrýni er nákvæmlega jafnmerkileg og mennirnir sem stunda hana. Þannig getur hún verið harla merkileg, ekki síður en ómerkileg. Stundum er hún mikilvæg, en stundum einsog hvert annað bæjarslúður......

En sem sagt gagnrýni á verk mín(!)

Þetta verður þá í fyrsta og síðasta skipti sem ég fjalla um hana.

Okkur Einari Braga kemur ágætlega saman, við höfum elzt inn í umburðarlyndi.

En þegar Borgin hló kom út, gerði hann harða atlögu að henni í Þjóðviljanum og mig minnir hann hafi líkt mér við litla skrifstofustúlku í Vesturbænum, en nenni þó ekki að gá að því.

Ég átti erfitt með að skilja gagnrýni hans og hélt hún stafaði eingöngu af pólitískum fordómum, þangað til Kristján Karlsson sagði mér löngu síðar, að það væri rangt.

Ástæðan hefði verið sú, að ég hefði gert hallarbyltingu eða gagnbyltingu innan atómskáldskaparins þegar Borgin hló kom út og það hafi ekki verið vinsælt af Birtingsmönnum.

Síðar orti ég í Birting og fór vel á því. Thor Vilhjálmsson fékk hjá mér frumgerðina að Goðsögn, en hún breyttist mikið þegar hún var endurbirt í Fagur er dalur. Ljóðið var einfaldlega ekki nógu sterkt einsog það var prentað í Birtingi en mér þótti vænt um að Thor skyldi velja það í ritið með samþykki þeirra Birtingsmanna. Það hefur alltaf verið góð vinátta milli okkar Thors og góður skilningur. Ég held við höfum metið hvor annan.

Ég hef stundum þurft að þola léttar aftökur í dómum, en hef risið upp af höggstokknum einsog skáld hafa þurft að gera á öllum öldum. Það getur tekið á taugarnar að fá slæma útreið, en þó ekki einsog áður.

Ég er að verða einsog englavera í uppstreymi en hef engar áhyggjur af því.

Ég minnist þess, að Steinn Steinar, sem lézt um svipað leyti og Borgin hló kom út, sagði við mig, þegar hann hafði lesið ritdóm Einars Braga:

Matthías minn, hafðu engar áhyggjur af honum Einari Braga, þú skrifar bara um næstu bók eftir hann, það er venjan!

En ég stóðst þá freistingu og hef alltaf gert. Og ef ég skrifaði um Einar, þá yrði það góður dómur.

En Jóhannes Helgi svaraði ritdómi Einars Braga og mér þótti vænt um það einsog á stóð.

Þorsteinn Jónsson tók einnig í sama streng einhvern tíma á þessum árum, en hann skrifaði um útvarp í Morgunblaðið og var vinsæll smásagnahöfundur.

Við urðum miklir mátar.

Kvöldið áður en Örn Ólafsson snupraði mig fyrir smásögurnar mínar og gaf mér einn á snúðinn í DV var samtal við hafnarverkamann í sjónvarpsþætti.

Hann var spurður hvaða skáld honum líkaði bezt.

Hann svaraðí:

Steinn Steinar.

Hann var spurður um núlifandi skáld.

Hann svaraði: Matthías Johannessen.

Þetta yljaði mér. Mér finnst gott að vera í andlegu slagtogi með hafnarverkamönnum. Ég var eitt sinn einn af þeim og vann í frystikláfum og koladöllum.

Það var hálfgerð vosbúð.

Þegar ég heyrði ummæli hafnarverkamannsins yljaði það mér að fá svona veganesti inn í friðsæla elli.

Annars skil ég vel, að Örn Ólafsson og ýmsir aðrir þoli mig illa, svona stundum.

Það er tilbreyting í því!

Ég er of fyrirferðarmikill og mér finnst Matthías þvælast alltof mikið fyrir mér.

Hví skyldi þá ekki einnig öðrum vera nóg boðið! Mér hefur jafnvel dottið í hug ég ætti ekki eftir að lifa sjálfan mig af!

Hitt er svo annað mál að manni leggst alltaf eitthvað til og Örn Ólafsson hefur getið ljóða minna að góðu einu.

Sá sem er ekki tilbúinn að horfast í augu við harða gagnrýni á ekki að skrifa bækur. Ég hef fengið marga góða dóma um ævina, bæði hér heima og erlendis. En einnig skírzt í miklum eldi. Ég held þessi eldur hafi gert mig að manni. Ég hugsaði sem svo, að ég skyldi ekki láta gagnrýnendur mína hafa síðasta orðið.

Ég stæltist, ég lagði mig fram, og ég vona það hafi orðið til einhvers.Ég hef fengið marga góða dóma í DV og einnig vonda, svo það er ekkert nýtt. Ég var skotspónn Ólafs Jónssonar með jöfnu millibili árum saman, en svo undir lokin tók hann annan pól í hæðina.

Ég veit ekki af hverju og það skiptir mig ekki máli.

Þegar hann skrifaði um Sálma á atómöld, það var í Alþýðublaðið ef ég man rétt, þá misskildi hann síðasta ljóðið svo hrapallega, að ég var að hugsa um að skrifa leiðréttingu, en hætti við það vegna þess ég hef aldrei svarað gagnrýni.

Í þessum 49. sálmi segir:

Eins og bráðin lamast í kjafti

villidýrsins

og skelfist ekki lengur,

þannig tekur þú frá okkur

óttann og kvíðann

þegar við liggjum varnarlausir

í gini dauðans

og bíðum -

Ólafur taldi að ég hefði líkt Jesú Kristi við kjaft villidýrsins, ef ég skildi hann rétt, botnaði ekkert í slíkri smekkleysu.

Það var ekki heldur von!

Slíkt guðlast hefði verið eins fjarri mér og hugsazt gæti.

Kristur er þvert á móti líknin; fyrirheit sem gerir mér auðveldara að horfast í augu við dauðann - og gin hans.

Annars er ég hættur að fylgjast með gagnrýni einsog ég gerði, en mér þykir vænt um þegar glöggir gagnrýnendur lýsa þannig inní verk mín að ég græði á samfylgdinni, það er miklu algengara nú en áður var. Nú er það reglan, áður undantekningin.

Ég spurði Halldór Laxness eitt sinn hvort árásir á hann hafi ekki gengið nærri honum á sínum tíma.

Nei, sagði hann. Ég las þær ekki, ég var í útlöndum.

Ég er að komast á þetta "útlenzka" stig!

Fyrir mörgum árum reyndi Hjálmtýr í Nonna að koma því orði á í heilsíðugrein í Tímanum, að við Jón úr Vör værum einstaklega fyrirferðarmikil leirskáld. Máli sínu til stuðnings vitnaði hann í ljóð okkar Jóns, sleit þau úr samhengi og misþyrmdi þeim eftir beztu getu.

Niðurstaðan varð auðvitað sú, að þarna voru tveir andlegir lassarónar á ferð.

Rithöfundasambandi Íslands hugnaðist ekki þessi meðferð á skáldum sínum og óskaði eftir því, við leyfðum málsókn á hendur Hjálmtý og blaðinu fyrir þessa meðferð.

Við létum það gott heita.

En Rithöfundasambandið tapaði málinu í héraði og þorði ekki að fara með það fyrir hæstarétt.

Þannig vorum við Jón í raun og veru yfirlýst leirskáld að lögum.

Það var einkennileg tilfinning.

Tíminn fékk Pál S. Pálsson lögfræðing til að semja málsvörn og greinargerð og birti hana síðan með risaletri á fréttasíðu blaðsins, en þar var reynt að sýna fram á með öllum tiltækum ráðum, að við Jón ættum ekki betri meðferð skilið en þá, sem raun bar vitni.

Þannig var málsvörnin einnig notuð til að gera okkur að orðstírslausum aumingjum.

Þegar ég hitti bændur skömmu síðar sögðust þeir hafa lesið Tímann, hlógu góðlátlega og héldu því fram, að eitthvað væri nú spunnið í ungan mann einsog mig fyrst allt þetta púður hefði verið notað í þeim tilgangi að klekkja á mér. Og fyrst ég væri enn lifandi, væri mér ekki fisjað saman!

Þannig sá ég í hendi mér, að svona árásir verða rithöfundi meir til framdráttar en tjóns.

Ég held þeir sem ætla að ná sér niðri á okkur skáldum eigi að finna upp betri og áhrifaríkari aðferðir til þess en botnlausar skammir í blöðum.

Menn spyrja bara agndofa:

Hvað hefurðu gert þessum manni?

Og þar sem ég veit ekki til þess ég hafi gert flugu mein, verður mér orðs vant. Eiginlega hafði ég aldrei gert Tímanum neitt, þótt ég væri ritstjóri Morgunblaðsins, og því síður Hjálmtý í Nonna. Ég hef átt marga framsóknarmenn að vinum. Við Jón Sigurðsson, ritstjóri Tímans, urðum miklir mátar og hann skrifaði fallega um eina af ljóðabókunum mínum. Svo hef ég ort í Tímann og Indriði hefur slegið því flott upp á forsíðu.

Eiginlega er ég hálfgert þjóðskáld Tímans - og fer vel á því!

En hinn tíminn horfir á allt þetta brambolt kankvísum augum og skemmtir sér vel! Ég sé hann fyrir mér þar sem hann stjórnar þessum uppákomum, með bros á vör(!)

Þegar Fjaðrafok kom óvænt á mig fékk faðir minn þó nokkrar áhyggjur af syni sínum. Hann veigraði sér við að sjá leikritið í Þjóðleikhúsinu.

Svo beit hann á jaxlinn og fór á síðustu sýningu. Eftir það létti honum, en þetta voru drastískir tímar.

Ég er orðinn leiður á áflogum.

Indriði G. Þorsteinsson, vinur minn, hefur miklu meiri ánægju af svona hasar. Ég man ekki betur en hann hafi verið ritstjóri ásamt Þórarni þegar við Jón úr Vör vorum leiddir til slátrunar í Tímanum og kannski fengu þeir einhvern móral útaf því!

Þórarinn hefur síðar skrifað fjarskalega vel um margt sem ég hef gert, ekki hefur staðið á því. Og Indriði bar fyrir mig skjöld í fjaðrafokinu mikla, ásamt ýmsum öðrum, Jóhanni Hjálmarssyni, Ásgeiri Jakobssyni og ýmsu fólki sem ég þekkti lítið eða ekkert. Síðar hafa menn einsog Ellert B. Schram, Sæmundur Guðvinsson, Steindór Steindórsson frá Hlöðum, Elías Snæland Jónsson, Kjartan Árnason, og margir fleiri getið verka minna að góðu í fjölmiðlum.

Ég gæti sent þér nöfn heillar herdeildar í viðbót til að sýna þér að ég hef einsog þú og margir virðast halda í þeirri hlýju sem frá ykkur streymir til mín og er mér mikils virði enga ástæðu til að forherðast í hjarta mínu vegna þess ég sé ein af þessum sívanmetnu skáldspírum sem enginn nennir að lesa.

Maður var ekki laus við þetta ungur og gekkst raunar uppí því, en það rjátlaði af manni sem betur fór.

Og bækur mínar hafa alltaf selzt vel.

Hitt vona ég svo að ég hafi ekki verið ofmetinn, enda engin tilhneiging til þess - og klappliðið víðs fjarri!

Mörgum veitist samt erfitt að sjá skáldið fyrir ritstjóranum.

Ég lái þeim það ekki.

Ég hef tekið eftir því, að sumum skandinavískum blaðamönnum hefur þótt óskiljanlegt, hvernig ritstjóri pólitísks blaðs getur verið rithöfundur, og það á heldur hægri sinnuðu blaði!

Við þetta hef ég orðið að búa og sem leikritahöfundur hef ég staðið í sporum andófsmanna.

Sumir gefast upp, aðrir þjarka í því að vera þeir sjálfir. Ég vona ég sé í þeim hópi. Og svo má ekki gleyma því, að stundum gefur maður höggstað á sér, stundum fær maður gagnrýni vegna þess aðrir reyna einnig að vera heiðarlegir og skrifa í nafni sjálfsvirðingar, en ekki fordóma. En slík gagnrýni er oftast rökföst og án stóryrða.

Gagnrýni á að vera upplýsandi, helzt á hún að varpa nýju ljósi á viðfangsefnið einsog þegar Kristján Karlsson sýndi óvænt fram á, að ljóð Steins, Utan hringsins, er eitt eftirminnilegasta ástarkvæði íslenzkra bókmennta.

Áður var það einungis leikur með geómetrísk tákn:

Ég geng í hring í kringum allt sem er...

Þótt maður hafi verið á fullum launum að afla sér pólitískrar óvildar, þá á ég marga andstæðinga að vinum og kunningjum. Marxistar hafa stundum sýnt mér sanngirni, bæði í Þjóðviljanum og Tímariti Máls og menningar. Silja Aðalsteinsdóttir hefur í þessum efnum sýnt af sér hugrekki, sem ég tel sérstætt og gæti verið mörgum sjálfstæðismanninum fyrirmynd, ekki síður en þeim þarna á vinstra væng.

Einnig Rannveig Ágústsdóttir, sem ég hef ávallt metið mikils frá því við vorum saman í Þjóðhátíðarnefnd. Hún hefur þá kosti sem sjaldgæft er að fari saman: hún hefur fínan smekk og getur hrifizt, ef kröfum hennar um góðar bókmenntir er fullnægt.

Matthías Viðar Sæmundsson og Eysteinn Þorvaldsson hafa skrifað af skilningi um verk eftir mig og sá fyrnefndi komizt að þeirri niðurstöðu ég sé exístensíalisti, en það vissi ég ekki áður.

Þetta varð mér íhugunarefni.

Greinar sem vekja mann til umhugsunar eru mikils virði. Við þekkjum sjálf okkur svo sáralítið. Mér hefur aldrei dottið í hug ég eigi við neina tilvistarkreppu að stríða. En ég veit að ofnæmi mitt fyrir umhverfinu er einsog náðin; aldeilis óendanlegt(!)

Ætli skáldskapur sé ekki m.a. sprottinn úr þessu umhverfisofnæmi, ég gæti bezt trúað því. Það á rætur í sálarlífi okkar og tilfinningum.

Mér hefur aldrei dottið í hug það stæði í neinu sambandi við þjóðfélagið.

Páll Valsson skrifaði af næmum skilningi um Konung af Aragon í Þjóðviljanum. (Og Ingi Bogi Bogason cand.mag. um Sól á heimsenda, en hann er sérfræðingur í Steini og modernisma.. Um Sólina skrifuðu einnig af gleði og næmleik Gylfi Gröndal, Berglind Gunnarsdóttir og Kjeld Gall Jörgensen danskur sendikennari sem skildi öðrum mönnum betur hvað fyrir mér vakti, en grein hans birtist í Helgarpóstinum.

Og margir fleiri hafa lagt hönd á plóginn(!)

Nei, ég hef enga ástæðu til að brynna músum eða gangast uppí einhverjum kalblettum á sálinni(!)

Ég get svo bætt þessu við til að sannfæra þig endanlega.

Ég nefni mörg nöfn. Margt af þessu fólki er ungt og hresst. Ég hef gaman af ungu fólki. Það er sjaldnast fordómafullt. Og öll höfum við eitt sinn verið ung.

Gunnar Stefánsson sýndi af sér dirfsku, ungur bókmenntafræðingur á Tímanum, og kvað einn góðan veðurdag upp úr með það, að nú skyldu menn hætta að skrifa um pólitíska afstöðu rithöfunda og snúa sér að verkum þeirra.

Það þóttu mér mikil tíðindi á sínum tíma.

Andrés Kristjánsson og dr. Eysteinn Sigurðsson hafa einnig skrifað um mig af skilningi í Tímann og DV, Andrés raunar af hlýju og einhverri gleði sem minnir mig á tilhlökkun í náttúrnni. Jón Þ. Þór skrifaði mannborulega um Ólafs sögu Thors í Tímann, en þó skrifaði Sólrún Jensdóttir um hana í Helgarpóstinn af mestri alúð. Þar skrifaði Gunnlaugur Ástgeirsson einnig ágætlega um Bókmenntaþætti og Hjörtur Pálsson athyglisverða og ítarlega grein í Skírni. Svanur Kristjánsson skrifaði einnig heldur lofsamlega um Ólafs sögu í tímaritið Sögu þótt hann kallaði mig til ábyrgðar fyrir niðurstöður ungra fræðimanna sem ég vitnaði í, einsog ég bæri einhverja ábyrgð á þessum niðurstöðum sem hann taldi rangar. Það þótti mér heldur súrt í broti og var að hugsa um að andmæla þessu, en hætti við það. (Kom þó munnlegri athugasemd til skila við Svan löngu síðar, og þar með var málið afgreitt af minni hálfu.)

Margir aðrir hafa sýnt mér nærgætni og skilning, þeir hafa verið mér bakhjarl í næðingi, en óþarft að nefna þá alla með nöfnum. Ég vissi alltaf af þeim. Það jók mér t.a.m. þrek og sjálfstraust hvað Gunnar Gunnarsson talaði fallega um Jörð úr ægi sem er einhvers konar undanfari Sólar á heimsenda og Guðmundur G. Hagalín um ljóð mín yfirleitt.

Ragnar í Smára gaf mig út, svo og Baldvin í AB og þeir vinir mínir þar, en Eiríkur Hreinn skrifaði um Borgin hló og hefur séð um útgáfu margra bóka minna af einstæðri alúð.

Stefán Hörður fylgdist með mér af hlýhug. Það var mér ekki sízt uppörvun. Til gamans má geta þess að Stefáni Herði virtist einkum umhugað um Galda-Loft hinn nýja í Borgin hló og minntist hann oft á það ljóð við mig á sínum tíma. Ég held það lýsi Stefáni Herði með öðrum hætti en við eigum að venjast og þótti mér vænt um það. Enginn annar hefur nefnt þetta kvæði við mig. Jakob Jóh. Smári skrifaði fjarskalega vel um sonnetturnar í Vor úr vetri. Og við Jóhann Hjálmarsson vorum alltaf í kallfæri hvor við annan, urðum vinir og samstarfsmenn og kunnum alltaf að meta skáldskap hvor annars. Það er mikill kraftur í Jóhanni. Hann er hugrakkur ritdómari og smekkvís, svo gott ljóðskáld sem hann er. Samt hefur hann orðið fyrir aðkasti og m.a. verið kallaður Litla skáld á grænni grein og His Masters Voice. En hann hafði nógu sterk bein til að þola það.

Ég geymi nöfn margra annarra í huga mínum - og þá ekki síður uppörvandi bréf sem ég fékk frá Jóni úr Vör á heldur mótdrægum tímum, svo ég tali nú ekki um Halldór Laxness. Jón fagnaði þessu unga skáldi sem gekk á hólm við líf sitt og umhverfi og sagði í ritdómi Hólmgönguljóð bæru vott um dirfsku, ef ég man rétt, enda hvorki skeytt um tízku né hefð.

Svona er nú þetta, Herdís mín.

Og svo má ég ekki gleyma því trausti sem Louisa Matthíasdóttir, Gunnlaugur Scheving og Erro sýndu mér með því að skreyta ljóðabækur mínar.

Og sjálfur Kjarval málaði stórt verk yfir fyrsta kvæðið í Borgin hló, Hörpuslátt.

Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það verkaði á mig ungan. Það er svona viðurkenning sem ég met, án atkvæðagreiðslu!!

Ég get verið langminnugur þótt ég sé ekki langrækinn eða hatursfullur. Mér er það m.a. minnisstætt hvað ungur menntamaður, Páll Baldvinsson, skrifaði vel um Guðs reiði í DV og það er rangt ég þurfi að hafa einhverjar sérstakar áhyggjur af umfjöllun um leikritin mín.

Hún hefur verið svona upp og ofan einsog þú veizt. Og ég hef skrifað þau án áætlunar um viðurkenningu.

Raunar gleymi ég öllu venjulegu mótlæti jafnóðum, svo það er ekki víst ég muni að tíunda aðfinnslurnar. En til hvers að varðveita minningar um einhverja stundlega óvild eða tilhlaup sem höfðu engin áhrif á ferðalagið sjálft?

Þetta tvísýna ferðalag um öræfi íslenzkrar samtíðar.

Þessa dýrmætu reynslu sem er nóg umbun í sjálfu sér. Og senn verður einungis teymingur eftir.

Þeir útlendingar sem hafa skrifað vel um þýðingar ljóða minna hafa hvað mest stuðlað að velgengni minni hér heima. Danir skrifuðu mjög lofsamlega um Klagen i Jorden, þýðingar P.M. Pedersens, og þegar þessir dómar bárust út hingað til Íslands um miðjan sjöunda áratuginn var mér loks borgið sem ljóðskáldi(!).

En ég fékk mjög góðar viðtökur víðar en í Danmörku, s.s. í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð og þá ekki síður í Þýzkalandi og Bandaríkjunum þar sem var skrifað um ljóð mín af nærgætni og næmum skilningi án þess ég fari að tíunda það, enda hálfhégómlegt að reyna að endurtaka það sem ekki verður endurtekið.

Og samt stend ég mig að því að vera að reyna það!!

En mér óx samt ásmegin við þetta og það skiptir mig því máli. Það er svo einkennilegt að útlent bókmenntafólk hefur einatt tekið ljóðum mínum af skilningsríkari fögnuði en ýmsir sem hafa skrifað um þau hér heima. Það er kannski tilviljun, ég veit það ekki. Menningarlegt umhverfi þessara kvæða, landið og forn arfur ofinn inní nútímareynslu og íslenzkan veruleika er þessu erlenda kúltúrfólki kannski mikilvægari eða óvæntari upplifun en okkur og þá líklega vegna þess því finnst mikið til um fjölbreytni á tímum þegar allt á helzt að vera eins, súrrað saman í eitt form, eina tízku. (Það gladdi mig að á það skyldi minnzt þegar Thor fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs - og um það fjallaði forystugrein Morgunblaðsins þá.)

Það væri falskur tónn í þessu bréfi mínu til þín, ef ég gleymdi að minna þig á hvernig Sigurður A. Magnússon jók mér þrek þegar ég var ungur og skrifaði af mikilli sannfæringu um þessi kvæði, ekki sízt í Borgin hló, Hólmgönguljóðum og Jörð úr ægi.

Þá vorum við fóstbræður í andanum.

Síðar varð hann eitthvað staðari enda agaður við skaplyndi hesta og ég átti erfitt með að átta mig á þessari varkárni hans sem var einsog tveir mínusar og endaði þó alltaf einhvern veginn í einum plús.

Ég taldi að kvæðin hefðu skánað með árunum, enda var ég ósköp seinþroska og rakti mínusana til Hinriks og Beckets(!)

En Sigurður tekur mig ávallt með í þau söfn sem hann sér um, enda smekkmaður innvið beinið(!)

Mér finnst hann aftur vera orðinn nokkuð sáttur við þessi kvæði mín, a.m.k. sáttari en á tímabili og hef þakkað það hljóðlátu jafnvægi andstæðna sem leita sér niðurstöðu í reynslu og þroska.

Vinátta okkar Sigurðar hefur þolað margt og henni hefur ekki lokið fyrir kórnum í Kantíu(!)

Ég vona það verði aldrei og núorðið ættum við báðir að eiga nóg umburðarlyndi til að koma í veg fyrir það, gamlir vopnabræður. Ég hef alltaf metið vináttu okkar mikils, áræði Sigurðar og hugsjónahita. Þessir eiginleikar hafa aukið honum afl sem rithöfundi.

Það er einungis eitt sem ég get ekki fyrirgefið honum. Hann fékk lánað handritið að Borgin bló með athugasemdum Steins - og týndi því(!)

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig ég gæti refsað honum, en hann eflist bara við hverja húðstrýkingu einsog kunnugt er, enda píslarvottur af lífi og sál!

Og þar sem ég er öðrum þræði örlagatrúar sætti ég mig við þessi einhver alvarlegustu mistök í lífi hans, svona nokkurn veginn(!)

En Sigurður lifir víst eftir þeirri kenningu Kierkegaards að hlutverki harðstjórans ljúki, þegar hann deyr. En píslavotturinn deyr - og hlutverk hans hefst(!)

Og svo má ég ekki gleyma rithöfundum á borð við Guðmund Daníelsson, Óskar Aðalstein og Kristmann sem hafa alltaf haldið kvæðum mínum sterklega fram, Kristmann skipaði þeim jafnvel í fyrirrúm skömmu fyrir dauða sinn. Kristinn Andrésson skrifaði heldur vel um Fagur er dalur í tímarit Máls og Menningar og amaðist síður en svo við skáldinu þótt honum litist ekki á ritstjórann einsog ástandið var þá. Og Árni Bergmann skrifaði greinaflokk um Hugleiðingar og viðtöl í Þjóðviljann og bjó til lýsingarorð úr nafninu mínu.

Það dugar manni ungum svona einsog einn teyming!

Og Árni hefur nefnt kvæði eftir mig af hlýhug og skilningi.

Fyrirrennari hans, Bjarni frá Hofteigi, skrifaði skrýtinn dóm um Kompaníið og gerði sér rangar hugmyndir um, hvernig það var unnið, en vék nokkuð góðum orðum að Sólmyrkva, leikriti sem ég skrifaði en hefur aldrei verið sýnt, þótt Jón Laxdal segist brenna í skinninu að koma því á fjalirnar.

En það er víst nóg til af öðru.

Og í miðjum kvennastellingum áttunda áratugarins skrifaði Helga Kress ekkert ver um mig í Skírni ef ég man rétt en önnur karlrembusvín!!

Það þótti mér hraustlega gert.

Af kvenlegu innsæi fagnaði hún þessu kvæði sérstaklega:

Þetta er niðursoðið ljóð

eins og gleði okkar

er þetta ljóð soðið niður

eins og gleði okkar

kemur þetta ljóð

niðursoðið eins og gleði okkar

er þetta ljóð

eins og tómatsósa

er þetta blóð úr sári okkar

eins og dósahnífur

er bros þitt og opnar þetta ljóð

eins og dósahnífur...

Þetta er eitt af Þið-ljóðunum í Mörg eru dags augu. Ég hef nú ekki nennt að fletta þessu upp í Skírni, en held ég muni þetta rétt.

Annars skiptir það ekki máli.

Við getum hvort eð er ekki vitnað í þann sem hefur síðasta orðið. Það eru forréttindi líðandi stundar. Það er eftirvænting óvissunnar. Það er leyndardómurinn sem við munum aldrei þekkja hversu eilíf sem við erum að öðru leyti.

Þessi nærgætni og þessi skilningur hafa verið mér uppörvandi þarna í hraglandanum, því að ég er ekkert öðruvísi en annað fólk og gengst upp við hlýju viðmóti.

Það er eiginlega minn akkilesarhæll.

Með aðferðum þess er greið leið að hjarta mínu. Andúð og óbilgirni kalla aftur á móti fram í mér einhverja djöfullega hörku sem ég á í ríkara mæli en margir halda og bið guð stundum að forða mér frá. Þess vegna óttast ég alltaf freistingar mínar þegar að mér er vegið. En þær hafa minnkað með árunum, sem betur fer.

Ég þurfti af gefnu tilefni að geta um minningabrot Jónasar Árnasonar þegar þau komu út og notaði tækifærið til þess þegar ég skrifaði grein í Morgunblaðið í tilefni af sjötugsafmælis Sigurðar Bjarnasonar.

Við Jónas eltum saman grátt silfur í sjónvarpsþætti einsog frægt er orðið, það var þá sem Halldór Laxness vildi fara upp á hærra plan.

En ég sagði einsog krakkarnir: Jónas byrjaði!

Sem betur fer er þetta þáttarræksni týnt.

Ég get svo sagt frá því nú án þess hreykja mér, en sem dæmi um mannúðlega afstöðu Jónasar til umhverfisins að hann hringdi til mín eftir sýningu sjónvarpsleikrits míns Ófeliu og sagði:

Ég á ekkert að vera að hrósa þér, en ég vil nú samt þakka þér fyrir þessa litlu ljóðrænu perlu.

Kvaddi svo án frekara tilstands.

Þegar svo gagnrýnandi Dagblaðsins eða lausamaður í gagnrýni, fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, dembdi sér yfir leikritið daginn eftir var mér Jónas ofarlega í huga.

Þótt hann sé pólitískur járnkarl er taugakerfið úr rósfingruðum morgungeislum.

Og þeir lýsa inní verk hans og umhverfi.

Ég get svo bætt því við að Haraldur Ólafsson og Hólmfríðurf kona hans og margir fleiri tóku í sama streng eftir sýninguna á Ófelíu og þótti mér vænt um það.

Ég hef ekki þurft að fara inní innri raðir sjálfstæðismanna til að sækja skilning og uppörvun.

Innvígðir fara sér oft hægt; gæta sín vel.

Þessi samantekt er engan veginn tæmandi, en ég læt hana fljóta með til að svara spurningum þínum og efasemdum og fara ekki undan í flæmingi.

Einhverjir halda víst ég sé bitur og illa haldinn á sálinni eftir barninginn, jafnvel kalinn á hjarta, en af þessari upptalningu - sem ég vona verði ekki talin mér til hégóma og lýðskrums - hlýt ég að hafa sannfært þig og aðra um að ég er það ekki og hef enga ástæðu til.

Ég er ekkert vanmetið skáld.

Ég er í góðu jafnvægi.

Ég þarf engar frekari viðurkenningar.

Allt tilstand setur mig úr jafnvægi.

Og ég hef ekki trú á annarri umbun í listum en gleðinni yfir verki sem maður trúir á sjálfur.

Ég hef mætt hlýju og skilningi, þótt stundum hafi á móti blásið einsog verða vill. Þá andæfir maður og bíður lags. Eldraunin var í fjaðrafokinu. Og þegar ég haslaði mér völl ungur. Ég viðurkenni fúslega það hvarflaði að mér ég mundi ekki lifa barninginn af. Og líklega hef ég ekki verið alveg fóbíulaus í fjaðrafokinu!

Þá hafði ég ekki kynnzt ummælum danska skáldsins J.V.Jensens þess efnis,að við verðum að þola gaghnrýni eins og við verðum að þola svitalyktina undan handarkrika rakarans!

En nú hugsa ég um þetta allt einsog hvert annað flugnabit.

Eitthvað sem fylgir veðráttunni.

Mér dettur það svona í hug þegar ég minnist þessara eftirtektarverðu orða Kierkegaards í Endurtekningunni, svo hljóðandi í þýðingu vinar míns Þorssteins Gylfasonar.

"Líf skálds hefst í stríði við gjörvalla tilveruna. Manni, sem er skáld, ríður á að finna ró eða réttlætingu, því hinu fyrsta stríði hlýtur hann alltaf að tapa. Vinni hann strax, er hann ekki réttlættur. Skáldið mitt finnur réttlætingu í barmi eyðileggingarinnar".

Ég finn einhvern unaðslegan óm af þessum orðum í eigin reynslu


P.S.

Til að gera þetta bréf eins fullkomið og ég get sendi ég þér nokkur fylgisskjöl einsog til að taka af allan vafa og sýna þér svart á hvítu að ég hef í raun og veru fengið meiri umbun fyrir kvæði mín en ég hef átt skilið.

Fyrsta “opinbera “ viðurkenningin sem ég fékk var úr Rithöfundasjóði ríkisútvarpsins.Það var allnokkru eftir að Jötð úr ægi kom út,ef ég man rétt.

Þá hringdi Kristján Eldjárn, þjjóðminjavörður í mig og sagði að ákveðið hefði verið að ég fengi þessa viðurkenningu.

Ég hikaði.

Leit ekki stórum augum á mig sem ljóðskáld – og allra sízt verðlaunahæft.

Auk þess mundi þetta e.t.v. koma af stað nýrri pólitískri skrunu af persónuárásum þarna í kalda stríðinu.

Ég sagði við dr.Kristján sem ég þekkti þá lítið.

Ja,ég hef nú eiginlega aldrei litið á mig sem ljóðskáld.

Hann svaraði:

En það gerum við.

Ég held dr. Kristján hafi verið formaður nefndarinnar,en veit ekki hverjir voru þessir við,en það voru líklega nefndarmenn.

Ég tók svo við þessari viðurkenningu fyrir orð dr. Kristjáns,taldi hann sterkan bakhjarl eins og háttaði í þjóðfélaginu.

En kynni okkar hófust að ég hygg með þessum hætti.

Sem sagt vel!

Menuhin sagði í bréfi til mín 3. júlí 1972, Við höfðum mikla ánægju af að lesa kvæðin þín... Við vorum að velta því fyrir okkur hvort þú hefðir einhverja sérstaka borg í huga þegar þú ortir Borgin hló þar sem lýst er bæði furðum og grimmd borgar. Við tókum einnig eftir þessari sérstöku íslenzku tilfinningu í ljóðinu Ég hef átt land að vini...

Áður, eða í bréfi til mín frá 15. marz 1966, sagði Jón úr Vör m.a.:

Ég kem að erindinu í lokin, en fyrst ætla ég að segja þér, að ég las nýju bókina þína fljótlega eftir að hún kom út. Óska þér til hamingju með hana. Ég held að þetta sé heilsteyptasta bókin þín, og rímuðu kvæðin eru svo vel gerð, að satt að segja held ég að síðustu árin hafi ekki öðrum tekist betur þegar frá er skilinn Jóhannes úr Kötlum. Hans rímljóð eru ekta, og Tómas lætur ekkert til sín heyra.

2. ágúst 1981 segir Halldór Laxness m.a. í stuttu bréfi til mín,

Hjartans þakkir fyrir sálubótarljóð sem ná tilgangi sínum. Ljóð þín létu mig fara að leita viðmiðana í enskri hefð frekar en franskri og þýzkri, en minna mig hvergi á Skandinavíu sem betur fer. Það er lífsspursmál að skrifa ekki né yrkja einsog skandinavar, sem ekki eignuðust bókmenntir fyren á nítjándu öld.

Helgi Hálfdanarson segir í bréfkorti til mín 1979:

Og má ég svo líka þakka þér fyrir flutning á fínni póesíu í sjónvarpi á dögunum.

Allt eru þetta stórmenni andans. Orð þeirra hafa fremur hlýjað mér en kitlað hégómagirnd mína eða aukið hana. Ég held mér hafi tekizt að hafa stjórn á henni og kannski er það vegna reynslu blaðamannsins sem hefur séð svo mikið af hégóma um dagana

Ég hef reynt að halda mig við jörðina.

Ég hef séð þetta fólk sem gengur í skýjum og er hætt að nota skósóla vegna þess ágætis sem það telur sig hafa fram að færa.

Ég vona ég sé ekki einn þeirra, held ekki ég hafi nokkurn tíma haft þessa tilhneigingu.

Slíkir tilburðir færu mér líka illa.

Ég kann bezt við mig í hversdagslegum stellingum og fer alltaf úr jafnvægi þegar eitthvert tilstand er.

Þegar vinur minn Rúnar Guðbjartsson flugstjóri sem hefur verið að lækna mig af flughræðslunni sem demdist yfir mig í lok sjötta áratugarins - og gat það auðveldlega vegna þess hann hafði sjálfur átt við fælni að stríða, þ.e. drykkjusýki sem hann læknaðist af með miklum sóma - sagði mér að lækningin fælist m.a. í því að þykja svolítið vænt um sjálfan sig einsog hann komst að orði, þá fór ég að hugsa um að svona viðhorf til sjálfs sín væri ekki endilega af hinu illa, heldur gæti það einnig ýtt undir hlédræga menn og feimna einsog mig án þess það væri skemmandi eða beinlínis hlægilegt.

Og nú ætla ég að láta mér þykja svolítið vænt um sjálfan mig, svo nauðsynlegt sem það getur verið til að fara ekki í súginn og verða ekki fælni, feimni og minnimáttarkenndar að bráð.

Ég hef séð þessa ást alls staðar í kringum mig og ef ég man rétt þá hefur Oscar Wilde minnt okkur á að þetta er eina ástin sem endist til æviloka!

Og loks máttu vita að bandaríski gagnrýnandinn Richard Eder sem hlaut Pulitzer- verðlaunin fyrir gagnrýni haustið 1987 hefur sent mér bréf sem þú getur fengið til birtingar hvenær sem er, þar sem hann skrifar svo fallega um þýðingar Marshalls Brements á ljóðum mínum að nægja mundi hverju skáldi fram í andlátið.

Ég var, segir Eder, sérstaklega snortinn af ljóðum þínum, og einkum ástarkvæðunum (sem þau eru að sjálfsögðu flest). Þau virðast vera um lesandann, þegar hann les þau, einsog öll slík kvæði sem af bera.

Af þessum tilvitnunum geturðu séð að ég er nú á réttri leið og augljóst að mér er farið að þykja hæfilega vænt um sjálfan mig!!

Og svo má bæta því við í lokin að ég hef aldrei fengið annað eins þakklæti og eftir að Sjónvarpið flutti þáttinn um ljóð mín, Allir þessir dagar, en mér var það einstök ánægja að vinna með þeim sem þar komu við sögu, þessum ungu fullhugum sem trúa á sjálfa sig og list sína og geta jafnvel aukið gleði manns með því að skila vandasamri ljóðlist í þessum yfirborðslega fjölmiðli.


1986 - Ódagsett

Fann ræðu sem ég flutti á 25 ára afmælishátíð v/ritstjórastarfs, í Þingholti:

Góðir vinir og samstarfsmenn – og þá ávarpa ég ykkur ekki sízt, Bubba (Guðbjörg,kona Eyjólfs) og Eykon, og fagna því að þið eruð hér með okkur í kvöld, minnugur gleði og traustrar vináttu og 15 ára samstarfs okkar á Morgunblaðinu á viðkvæmum æsku- og mótunarárum. Þá blasti ekkert við nema framtíðin sem breytist hraðar í fortíð en okkur grunaði þá. Mozart íslenskrar ljóðlistar Páll Ólafsson lýsti þessum árum vel þegar hann segir:

Mikið yndi er að sjá

eftir vökunætur

hér úr drafnar djúpi blá

daginn rísa á fætur.

En hann sagði einnig – og við það getum við enn bundið þó nokkrar vonir:

Senn er þetta æviár á enda liðið,

eg hef hætt í straumnum staðið,

stundum gleymt hve tæpt er vaðið

En verndin drottins var hjá mér í vöku og blundi;

hann sá að það er veikum vandi

að vaða á réttum stað að landi

Nú skal ég á næsta degi að nýju vaða

nýjar öldur, nýja boða,

nýjan lífs og sálar voða

Þannig hefur það verið, og þannig mun það verða.

Ég lít svo á að þessi kvöldverður sé haldinn á afmæli Valtýs Stefánssonar til að minna okkur á það sem við getum með stolti kallað samhengið í sögu Morgunblaðsins; minna okkur á að ég er lærisveinn Valtýs Stefánssonar og í vissum skilningi fóstraður af honum; minna okkur á að við vorum nánir vinir og samstarfsmenn og hann ásamt ykkur, stjórnendum Árvakurs, valdi mig til þeirra starfa sem ég hef nú gegnt í aldarfjórðung, með fullum stuðningi Bjarna Benediktssonar sem þá var ritstjóri.

Ég er að sjálfsögðu glaður yfir því að allt þetta skuli vera staðreynd en það er jafnframt uppörvun að eiga slíkan bakhjarl sögulegra forsenda, svo að ég tali ekki um það traust og vináttu sem ávallt hefur ríkt milli ykkar og okkar ritstjóra.

Ég man aldrei til það drægi til sundrungar með okkur þótt stundum væri tekizt á.

Við tókum merkið úr höndum Valtýs Stefánssonar og höfum reynt að halda því á loft í þeirri baráttu sem hann ætlaði blaðinu.

Með Morgunblaðinu var ekki tjaldað til einnar nætur.

Valtýr ætlaði því ekki sögu Leifs heppna og þeirra víkinga sem fundu Ameríku, en glötuðu henni aftur. Landnám Kólumbusar var honum og stofnendum blaðsins ofar í huga.

Á þessari stundu horfum við fram á leið með hliðsjón af þeim arfi sem okkur var trúað fyrir. Við minnumst vina okkar sem farnir eru og í kvöld eru mér einkum Kristín og Valtýr ofarlega í huga.

Stefán skólameistari, faðir Valtýs, og Jóhannes bæjarfógeti , afi minn, voru fóstbræður í sjálfstæðisbaráttunni, nánir samstarfsmenn og vinir alla tíð.

Valtýr var heitinn í höfuðið á doktor Valtý Guðmundssyni sem var mágur Jóhannesar því að hann var kvæntur Önnu Jóhannesdóttur, en móðir mín bar nafn þessarar, föðursystur sinnar.

Dr. Valtýr hvatti nafna sinn til að taka að sér ritstjórn Morgunblaðsins fyrir sextíu árum.

Valtýr sagði í samtölum okkar að hann hefði metið ráð dr. Valtýs Guðmundssonar meir en flestra annarra og mér er til efs að þessi merki stjórnmálamaður hafi í annan tíma haft heillavænlegri áhrif á þróun íslenzks þjóðlífs og menningar, svo afdrifarík sem ritstjórn Valtýs Stefánssonar varð fyrir samtímalíf á Íslandi.

En hann átti góða samstarfsmenn.

Það var sérstök reynsla að upplifa vináttu hans og Jóns Kjartanssonar (ritstjóra)og Sigfúsar Jónssonar (framkvæmdastjóta) og það gagnkvæma traust sem þeir báru hver til annars.

Jón var að vísu hættur á Morgunblaðinu þegar ég kom þangað og farinn á þing, en tengsl hans við Valtý og blaðið eru minnisstæð.

Í fyrrnefndu samtali okkar sagði Valtýr einnig við mig:

“Kristín varð mér upp frá þessu sá bakhjarl, sem hverjum manni er nauðsynlegur í erfiðu og umdeildu starfi.”

Það var ekki síður dýrmæt reynsla að kynnast henni, þessum stórbrotna og eftirminnilega listmálara og fögru heimili þeirra.

Þegar Valtýr Stefánsson réð mig að Morgunblaðinu kallaði hann þangað til starfs dótturson Jóhannesar bæjarfógeta en ekki stráklinginn sem var að vasast í pólitík í Háskólanum með G. Schram og Eyjólfi Konráð Jónssyni.

Fyrsta starf mitt á Morgunblaðinu þá var að þýða sögur, einkum smásögur úr Póst, síðan hef ég unnið þar öll störf sem til falla á einni ritstjórn og allt bendir til að ég muni einnig hafna í því virðulega embætti að verða eini maðurinn á Morgunblaðinu sem ekki er ómissandi.

Ég tel það í sjálfu sér talsvert afrek miðað við fyrstu 15 ár mín sem ritstjóri blaðsins og trúðu víst fæstir að slíkir skipulagshæfileikar leyndust með skáldinu!

Ég er í engum vafa um að Valtýr væri stoltur af því hver þróunin hefur orðið ef hann væri meðal okkar í kvöld, og þá ekki sízt af nýjum, ungum mönnum. Ég geri mér einnig grein fyrir því að hann hefði ýmislegt að athuga við sumt í starfi okkar en hann talaði oft við mig um það hve nauðsynlegt væri að losa Morgunblaðið úr beinum tengslum við stjórnmála- og hagsmunaöfl í þjóðfélaginu enda þótt hann legði ríka áherzlu á hlutverk þess sem málsvara frelsis og einstaklingshyggju sem byggði á velferðarhugsjóninni, en það er sú sjálfstæðisstefna sem gert hefur Ísland að því sem það nú er.

Að þessum markmiðum hans hefur verið stefnt.

Morgunblaðið á að vera mannræktarblað, rúmgóð samtímaheimild.

Blaðið á að vera fréttið af Íslandi og öðrum löndum eins og segir í fornum ritum, en kunna þó skil á moði og töðu.

Og það á að vera stolt af því að hafa stefnu í þjóðmálum og markmið að vinna að, og ekki síður undanbragðalaust þor til að birta efni sem gengur þvert á stefnu þess.

Það höfum við gert, stundum við lítinn fögnuð þeirra sem telja sig öðrum frjálslyndari.

En sigursæll er góður vilji.

Og í átökunum sýnir málstaðurinn hvers virði hann er og það fylgir starfinu að standa fastur fyrir þegar að okkur er hert.

Í Árna sögu byskups Þorlákssonar er þessum stórlynda og einarðasta málsvara miðaldakirkjunnar talið til tekna að hann gerði sér vini af óvinum og þótti merki um styrkleika ,en hvorki auðsveipni né undirgefni.

Af þessum orðum má draga ályktun um erindi góðs málstaðar við samtíð og framtíð.

Í Svo kvað Tómas segir skáldið við mig að það sé bókstaflega satt eins og hann kemst að orði sem Valtýr Stefánsson hafi eftir honum haft í viðtali að hann hafi ætlað sér þrennt þegar hann var ungur drengur:

Að verða skáld.

Að eignast hús á þeim stað þar sem hann var vanur að svipast um þegar hann gekk á milli uppáhaldsveiðistaða sinna við Sogið – og að verða ríkur maður.

En Tómas bætir því við að hann hafi ekki viljað verða mjög ríkur og síðustu árin missti hann áhuga á því að verða auðugur en ég hef aldrei getað skilið, segir hann, að það sé neitt sáluhjálparatriði að svelta.

Ætli mönnum yfirleitt sé búinn meiri sálarvoði af að eiga peninga en vanta þá, spyr skáldið.

Þessara spurninga hefur Morgunblaðið einnig ávallt spurt.

Ég hef ekki vitnað í Tómas Guðmundsson út í bláinn heldur vegna þess að mér er fátt minnisstæðara á þessari stundu en samtal Valtýs við hann, Svo kvað Tómas, en í þennan titil sótti ég nafnið á samtalsbók okkar Tómasar.

Í þessu samtali Valtýs glitrar og skín fyndni Tómasar og fellur með einstæðum hætti inní upplifun Valtýs og næma tilfinningu fyrir umhverfinu og brýzt síðan út í þeim sjaldgæfu meðfæddu hæfileikum sem samtöl hans og greinar eru sprottin úr.

Í þessu samtali er komizt svo að orði:

Heyrðu, Valtýr. Réttu mér glasið.

Tómas dreypir á og setur glasið nær sér, og heldur áfram: – Hvað mundi verða um freistingarnar, ef maður léti aldrei eftir þeim? Þær yrðu úti! Hvers eiga þær að gjalda? Það guðdómlegasta við falleg vín er það, að þau gera mann svo ístöðulausan. En til eru þeir menn, sem aldrei geta unnið bug á “karaktér” sínum. Það er af því að þeir eru svo litlir aristókratar.

Ég tek það fram að þessar línur voru skrifaðar löngu áður en það fór að teljast til dyggða að ganga í bindindi á Morgunblaðinu.

Við Haraldur (Sveinsson) höfum þó reynt að halda uppi merkinu og það er rétt sem hann segir sjálfur að enginn er nú rekinn fyrir að blóta Bakkus nema hann drekki meira en framkvæmdastjórinn !

Ég þekki engan sem er í verulegri hættu.

En það er ekki svo að skilja að við höfum tekið svofellda vísu Páls Ólafssonar of bókstaflega:

Bakkusi á ég nú bágt með að gleyma,

Bakkus er farinn að hænast að mér,

Bakkus er í mér og Bakkus er heima,

Bakkus er alls staðar hvar sem ég fer.

Páll átti hund sem hét Bakkus og gat því leyft sér slíka trúarjátningu.

Ástæðan til þess að ég vitnaði í fyrrnefnd orð skáldanna, Tómasar og Páls, er sú að mig langar til að við höfum þau í huga hér í kvöld og þessi stund megi verða í anda þeirra Valtýs og Tómasar þegar þeir eru að tala saman nóttina góðu en úr þeirri skel kom ein dýrmætasta perla íslenzkrar blaðamennsku.

En samtal Valtýs er ekki einungis skáldlega eftirminnilegt heldur einnig fyndið og skemmtilegt. En þó ég bendi á það sem fyrirmynd geri ég ekki kröfu til þess að neinn taki sér fyrir hendur það ætlunarverk Tómasar sem hann trúði Valtý fyrir að leggja “grundvöll að hjónabandi kunningja míns með því að yrkja fyrir hann ástarkvæði til stúlku sem hann þekkti ekki þá.”

Þetta var gott hjónaband að öðru leyti en því að stúlkan atyrti stundum eiginmann sinn fyrir það að hann skyldi hafa hætt að yrkja, eins og hann hafði nú verið efnilegur í upphafi!

Mig langar til að þessi stund í kvöld verði í þeim anda sem við eigum að venjast á Morgunblaðinu og er arfur frá Valtý, að við getum sagt það sama hvert við annað og Valtýr sagði við Tómas á tröppunum á Laufásvegi eftir samtalsnóttina góðu: Þakka þér fyrir, Tómas minn, þú hefur gleymt nóttinni.

Það er ekki lítið lán að fá slíkan arf í veganesti, óð til lífsins og gleði yfir því að vera til; að fá að starfa og njóta sín; og ekki sízt að miðla öðrum af gleði sinni og reynslu.

Nei, það var ekki af tilefnislausu sem ég vitnaði í Svo kvað Tómas. Í þessari samtalsbók okkar segir Tómas Guðmundsson undir lokin:

“Einu sinni var ungur drengur spurður, hvort hann kynni að leika á píanó.

“Ég veit það ekki”, svaraði drengurinn, “ég hef aldrei reynt það”.

Margt fólk afsalar sér þeirri hamingju sem góðar bókmenntir gætu örugglega veitt því ef það hefði “komizt upp á lagið” með að njóta þeirra”, sgeir Tómas ennfremur. Og af því að skáldskapur er í svo nánum tengslum við tunguna, sem er sameign okkar allra og hverjum manni tiltæk, þá ganga menn að því vísu, að ekki þurfi neina kunnáttu til að njóta hans.

Hér á árunum átti Valtýr Stefánsson stundum tal við mig um þá hugmynd sína, að komið yrði á fót kennslustsóli við Háskólann í fögrum bókmenntum og ljóðlist sérstaklega.

Hann gerði ráð fyrir að þetta embætti yrði bundið nafni Jónasar Hallgrímssonar.

“Það var vel til fundið, og ég held þú gerðir vel að hreyfa þessari hugmynd.”

Sagði Valtýr.

Ég á margar bækur áritaðar af merkum mönnum.

Valtýr gaf mér sínar bækur áritaðar. Þær eru mér dýrmæt minning.

Á síðustu bókina, Menn og minningar, skrifaði hann:

“19.11. 1959. Þú færð þessa síðustu bók mína. Heill þér, Matthías minn. Til hamingju með hana og öll þín störf við Morgunblaðið um öll ókomin ár sem eiga vitaskuld að vera löng. Valtýr Stefánsson”.

Íslands hefur sortnað sól,

sá hefur kvatt og farið,

sem nakið landið leiddi í skjól,

af löngum vetri barið.

Höndin þín var hlý og góð

hlúði að öllu smáu,

hugsjón þín, þitt líf og ljóð,

land sem fæstir sáu:

hvítir jöklar, hraun við tún,

heiðin nepjukalin,

en ilmgrænn skógur, björk við brún,

breiðist niður dalinn.

Þar sem liggur lamið grjót,

leifar af jökulspori,

vildirðu festa fagra rót

og fylla dalinn vori.

Þannig voru öll þín ár,

ást á grænum hlyni.

Nú þakkar Ísland, sveitin sár,

sínum bezta vini.

(26. jan. ‘85. MJ.)


6. desember ‘86

Bréf til Jóns á Fjalli

Melbourne, Fla. 6. des. ‘86

Góði vinur, Jón á Fjalli.

Þú verður að fyrirgefa mér ævinlega, hvað ég hafði lítinn tíma þegar þú leizt inn á Moggann og þá ekki síður þegar við hittumst á Holti. Ég var önnum kafinn að búa mig til brottferðar og ljúka samtölum sem ég átti eftir áður en ég færi hingað til Bandaríkjanna. En það yljaði mér að sjá þig og ekki sízt að heyra að þú ert sammála leiðara Morgunblaðsins um kirkjuna og þjóðmálin. Auðna hennar getur verið undir því komin, að rétt sé að málum staðið.

Þetta er dálítið löng dvöl hér ytra og nota ég allt þriggja mánaða fríið mitt til að menntast svolítið.

Það er kominn tími til!

Við blaðamenn fáum svona frí á fjögurra ára fresti eftir tíu ára starf og kemur það sér vel.

Því miður get ég ekki sent þér smásagnakverið mitt héðan, en þú færð það síðar. Þar er m.a. alllöng saga byggð á arfsögnum um móðurafa minn og Marenu konu hans en þetta efni hefur leitað mjög á hug minn frá því ég var barn og heyrði talað um þetta við móðurkné.

Ég hef alltaf talið að ég sé talsvert líkur Jóhannesi (Guðmundssyni) móðurafa mínum (langafa mínum). Hann þótti æringi, heldur ljúfur og hneigður til bókmennta, en það var einhver tregi sem fylgdi honum alltaf, enda varð hann ungur úti í túnfætinum þarna í Stafholtstungunum.

Móðir mín sagði að ég væri eina barnabarn foreldra sinna sem væri alfarið líkt sínu föðurfólki og hef ég stundum hallazt að því sjálfur, þótt ég finni Norðmanninn aldrei langt undan.

Ég held við Guðjón Lárusson,læknir, séum einna líkastir í okkur af systkinabörnunum, enda höfum við verið ákaflega samrýndir frá fyrsta fari.

Ég segi þér þetta í óspurðum fréttum vegna áhuga þíns á ættfræði og þá ekki síður vegna þess við höfum stundum talað um, hvernig fornritin voru skrifuð.

Ég er sannfærður um að þau spruttu úr arfsögnum sem svo var ritstýrt inní ákveðna umgjörð eftir lögmálum þáríkjandi tízku.

Þegar ég skrifaði söguna um Maren sá ég að hún var einber skáldskapur, þótt hún væri reist á sagnfræðilegum lögmálum.

Þá hélt ég að ég hefði þessa sveit nokkurn veginn á tilfinningunni, en Haraldur Sveinsson hefur sagt mér að ég hafi ekki lýst staðháttum rétt og þótti mér það ekki verra þar sem um skáldskap er að ræða.

Ég sagði við Harald að hann hefði með þessu aukið mér trú á að ekki væri hægt að draga miklar ályktanir af staðháttalýsingum fornrita og þar með lagt lóð á vogarskál minna hugmynda.

Hann smalaði þessa sveit í æsku, en ég var aðkomumaður eins og Jóhannes langafi minn.

Þessu til viðbótar get ég sagt þér að sýslumaður Dalamanna, sá mæti maður og víðlesni, sendi mér bréf undir haust þar sem hann bendir á að rétt sé frá sagt í Njálu um ferðir Gunnars um Dalasýslu þótt Einar Ólafur, minn góði kennari, og ýmsir aðrir hafi fullyrt að staðháttum sé rangt lýst, en þetta hefur verið notað mjög gegn þeim skoðunum mínum, að Sturla Þórðarson hafi skrifað söguna.

Ég gladdist auðvitað ósegjanlega yfir þessu og skal sýna þér þetta bréf síðar, en ég hef leyfi sýslumanns til að birta það þegar ég vil og mun gera það við hentugleika.

Ég les það kannski fyrir þig þegar við förum með Marshall og Pamelu Brement að skoða Knafahól(a), eða var það ekki þangað sem þú ætlaðir með okkur?

Mér er nær að halda að það séu ekki nema tvær setningar í sögunni minni um Maren sem telja mætti sagnfræðilega réttar, þ.e. þegar Lárus sýslumaður, segir Jóhannesi skrifara sínum að tala aftur við sig í úníformi og þau ummæli Marenar ófrískrar, þegar leitarmaður kemur hlaupandi inní Hjarðarholt og segir, Sýslumaðurinn er dauður(!), en þá á hún að hafa svarað, Þá verð ég að lifa(!)

Annað er víst skáldskapur að mestu.

En fornritin sem studdust þó við miklu eldri arfsagnir en ég í þessari sögu urðu til úr svona hráefni.

Ég gerði sem sagt tilraun með þetta sjálfur og þykist nú hafa reynslu fyrir því, þegar upp er staðið.

Annars er merkilegt, hvað Íslendinga sögurnar eru nálægt æskuumhverfi Sturlu Þórðarsonar og þeirra frænda. Ég þykist nú vita, að þær fjalla um samtíma þessa fólks með efnivið úr löngu liðinni fortíð og er sammála Barða um það, en þó í einhverjum tengslum við Snorrunga eins og ég reyni að benda á í Bókmenntaþáttum mínum.

Það er ekki einleikið, hvað þær fléttast allar saman og fjalla um sama fólkið, að mestu.

Sumar sagnanna eru að sjálfsögðu alveg sér á báti eins og maður ætti von á, s.s. Hallfreðs saga og nokkrar sögur aðrar.

Njála er að sjálfsögðu þrælbundin þeirri fléttu sem rekja má í Dali vestur og til sturlunga.

Hænsna-Þóris saga heyrir þessari fléttu einnig til og er miklu merkilegra verk en menn hafa talið. Þar eru mörg minni afarlík Njáls sögu minnum, s.s. stofnun dómsins í lokin sem minnir á stofnun fimmtardóms í Njáls sögu, brennan og sumt fleira, t.a.m. Gunnar og vörn hans margfræg.

Þessa sögu er einnig hægt að rekja til Mýramanna, því að Jórunn sem um er fjallað verður svo kona Þorsteins á Borg og móðir Helgu fögru.

Þannig hefur þessi saga sprottið af sömu rótum og Gunnlaugs saga, og sýnist mér það harla merkileg staðreynd sem styrkir málflutning minn í Bókmenntaþáttum enn frekar.

Ég held þessi Snorrunga- og Mýrarmanna verk séu öll komin úr sömu fjöðurstöfum, a.m.k. úr sama verkstæðinu þarna vestra.

Þú skalt nú athuga þetta við tækifæri, en væntanlega kem ég að þessu síðar, ef mér endist aldur til.

Því eldri sem ég verð, því meir sækja þessi sérstæðu verk á hug minn.

Ég er ekki haldinn neinum trúarbrögðum í þessu efni og er raunar alveg sama, hver skrifaði þessar bækur, en þó finnst mér eftirsóknarvert að reyna að gera mér einhverja grein fyrir því, fordómalaust, svo mikilvæg sem þau eru fyrir okkur og sögu bókmennta.

Íslendinga sögurnar eru þvílíkt afrek þykir mér að við hefðum sannað tilverurétt okkar sem þjóðar þótt við hefðum aldrei gert neitt annað af viti en skrifa þær til gamans og skemmtunar á löngum, myrkum vökum.

Á vorin brýndum við eggina og fórum að leggja landið undir okkur - eða Noregskonung!

Aldrei iðjulausir frekar en nú!

En sem betur fer eigum við ýmislegt annað í pokahorninu.

Hitt er svo annað mál að ég tel íslenzkum höfundum nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þessum merku bókmenntum og festa sér þær í minni eins og karlarnir mundu kennileiti þegar þeir reru til fiskjar og hugðust sækja mikinn afla.

Við höfum það gott hérna, sól og 20-30 stiga hiti á C hvern dag.

Það á vel við okkur.

Og það á ekki sízt vel við mig að geta flatmagað svolítið, hugsað fyrir mig og skrifað það sem mig langar til.

En því miður get ég víst ekki skrifað neina Íslendinga sögu!

Ég er ekki sagnaskáld þótt ég hafi skrifað nokkra þætti, en það heillar mig og er mér skemmtileg áskorun.

Mig hefur aftur á móti aldrei langað til að skrifa langar skáldsögur, þær eru flestar misheppnaðar og óskapleg tímasóun að lesa þær, að örfáum sögum undan teknum.

Borges sagði að Íslendinga sögurnar væru smásögur, en ekki skáldsögur, og er mikið til í því. Þær eru saman settar eins og þeir gömlu sögðu sjálfir.

Undanfarið hef ég getað skrifað lítið af því sem mig hefur langað til í þessu geggjaða starfi sem mér finnst alltaf aukast þrátt fyrir æ meiri aðstoð góðra samstarfsmanna sem einnig eru að kafna í vinnu.

Það er því nauðsynlegt að geta andað á milli.

En þannig er blaðamennskan, fjósaverk sem aldrei taka enda, viðstöðulaus hlaup milli fjóss og hlöðu, og svo eru fjárhúsin ekki langt undan eins og þú veizt!

En oft er þetta skemmtilegt, þegar vel gengur, ég tala nú ekki um þegar vel viðrar. En þau eru of mörg hretin í blaðamennsku og hef ég stundum þurft að verjast þeim, lítt búinn.

Hér er enginn snjór til að minna á jólin.

En það er mikið um jól í öllum búðum og ótrúlega margir jólasveinar hafa skotið upp kollinum, jafnvel fleiri en heima - og er þá mikið sagt! Sumir vel vopnum búnir innanundir jólasveinabúningnum. Prestur hér norður frá var kærður um daginn fyrir að hryggja börnin með því að segja að engir jólasveinar væru til.

Hann hefði bara átt að koma heim til Íslands!

Söfnuðurinn varð vitlaus og nú er prestsræfillinn að reyna að draga úr þessu hneyksli, en þá er því haldið fram að hann hafi jafnvel bætt gráu ofan á svart með því að fullyrða að jólasveinninn sé dáinn!

Mér skilst að hann sé að hrökklast úr embætti, svo þetta verður líklega engin fagnaðarhátíð hjá honum. En honum var líka nær, að ætla að taka ævintýrið og blekkinguna frá börnunum. Það eiga menn aldrei að gera. Auk þess trúi ég á jólasveininn og öll ævintýri sem ég hef lesið.

Allt sem maðurinn hefur einhvern tíma hugsað er einhvers staðar til, ég skal lofa þér því.

Ég þekki engan áþreifanlegri veruleika en íslenzkar þjóðsögur.

Þær hafa sagt mér meira um lífið og tilveruna en flest annað sem ég hef kynnzt.....

 

16. desember ‘86

Bréf til Agnesar Bragadóttur,blaðamanns.

Melbourne, Fl., 16. des. ‘86

Agnes mín.

Þakka þér fyrir bréfið. Mér þótti gott að fá það, því að menn á mínum aldri eru hégómlegustu kvikindi jarðar eins og þú veizt. En satt að segja þótti mér vænt um að Bréfin til Herdísar skyldu ekki falla alveg ofaní milli, ég hafði dálitlar áhyggjur af því að þau væru slitin ofmikið úr samhengi. Ég geri mér ekki grein fyrir hvað hún sleppti miklu enda hef ég ekki séð ritið, en það var slatti.

Ég á þá afganginn til elliáranna.

Maður þarf að hafa eitthvað gott að lesa, þegar Elli kerling verður heimilisföst í lífi manns!

Og ég sem ætlaði að deyja ungur eins og Keats!

Ég sá húsið sem hann dó í, skammt frá Spænsku tröppunum í Róm. Hann sem dó svo ungur gaf þessu húsi eilíft líf. Það er mikill vandi að deyja á réttum tíma og nú óska ég þess að verða gamall með Hönnu.

Ég hef hvort eða er glatað tækifæri æskunnar. En ég er ekki eins séður og Diddi (Sig. A. Magnússon) sem er farinn að undirbúa sextugsafmælið sitt, ef marka má blaðafregnir, með hernaðarlegri nákvæmni og skilst mér að Silja Aðalsteinsdóttir stjórni áætluninni.

Að vori ætla ég að gefa út lítið ljóðakver. Það verður í kyrrþey eins og allt sem skiptir máli(!)

Annars hef ég kynnzt Silju og líkar vel við hana. Hún setti ljóð eftir mig í Tímarit M & M og það gladdi mig. Það eru svo margir þarna á vinstra vængnum sem ég kann vel við og ég held ég skilji löngun þessa fólks til að lifa sínu lífi og í samræmi við siðferðilegan þroska sem enginn nær.

Allra sízt í pólitík.

Hér liggjum við Hanna og Ingólfur úti á palli í glaðasólskini og hita og ekkert er eins fjarri og jólin. Þeir segja líka hér í Flórída að börnin geti varla tengt jólin við annað en snjó, hreindýr og jólasveina. Hér hafa þeir engan snjó og engin hreindýr.

Við lifum eins og blómi í eggi og ég hef komið frá mér fjórum, fimm greinum sem ég þurfti að losna við. Eins og þú veizt er aldrei tími aflögu þarna niðri á Morgunblaði, allra sízt í framhúsinu. Oft öfunda ég ykkur af því að fá tíma til að skrifa það sem þið teljið eftirsóknarvert.

Ég tel forréttindi að fá að skrifa, það eru ábyrgðin og afgreiðslustörfin sem ég hef sagt Árvakurs-mönnum ég vilji fá borgað fyrir. Hitt er lúxus miðað við aðstæður.

Já, Agnes mín, þetta er nú meira æðið, en það er skemmtilegt æði.

Einkaframtak til að láta sér ekki leiðast.

Í gærkvöldi var ég að horfa á samkeppni um það hverjum leiddist mest hér í Bandaríkjunum.

Ég held það hafi verið einhver sjónvarpsstjarna sem varð hlutskörpust og dóttir Bandaríkjaforseta var framarlega í röðinni.

Hvernig heldurðu að þeim líði þá í Hvíta húsinu um þessar mundir?

...eða sjónvarpsáhorfendum fyrst svona er komið fyrir stjörnunum.

En stjarnan var alsæl.

Mönnum er sama orðið, hvað þeir vinna - bara ef þeir hafa unnið!

Við sögðum stundum á Morgunblaðinu í gamla daga að þeir væru ófáair sem vildu heldur vera frægir að eindmum, en ekki.

Dostojevski getur þess í Nótum úr neðra að manninn skorti þakklætiskennd.

Mér skilst vegna þess m.a. að hann getur ekki hugsað sér að lifa án þjáninga.

Ef engin þjáning væri mundi hann búa hana til.

Stundum er þjáning raunveruleg.

Ég held Steinn hafi ekki kynnzt raunverulegri þjáningu fyrr en undir lokin. Þá kom hún á hann með sinni kaldhæðni.

Það var mikil reynsla að fylgjast með því.

Hann hafði oft talað um það við okkur að halda veglega upp á fimmtugsafmælið sitt.

Sagði, Þið fáið kaffi og með því eða, Þið fáið kaffi og kleinur. En það verður ekkert áfengi(!)

En það var ekki neitt, alls ekkert.

Hann dó ári fyrir kleinurnar.

En Steinn var séður, stundum útsmoginn. Hann dó jafnvel á hárréttu augnabliki í lífi sínu og engu líkara en hann færi eftir gömlum spádómum í þeim efnum!

Ef hann hefði dáið síðar hefði hann horfið frá mikilli frægð og yfirþyrmandi vinsældum og fengið mikið bakslag eins og Davíð (Stefánsson).

Í staðinn var hann tekinn í guða tölu.

Ég sé hann fyrir mér eins og Skarphéðin, hann glottir.

Það var engin tilviljun að hann orti kvæði um Skarphéðin.

Hann fann til skyldleikans.

Þeir dóu báðir með krosslagðar hendur.

Ég naut þess ávallt að vera frændi Louisu Matthíasdóttur, en þau Steinn gengu saman um Reykjavík þegar ég var drengur og engu líkara eftir á að hyggja en nútíminn hafi komið með þeim inní líf okkar.

Ég skal segja þér seinna frá dramatísku atviki sem ég upplifði skömmu eftir dauða Steins.

Ungum þótti mér ævintýi Beru og Ljósvíkingsins eitthvað brotalamalegt, þar til Kristján Karlsson benti mér á að líklega hafi Laxness haft Louisu og Stein í huga þegar hann samdi þennan kafla sinnar miklu sögu, enda voru þau tíðir gestir í Unuhúsi eins og hann. Fram að þessu þótti mér Ljósvíkingurinn offarlama fyrir þessa stúlku, en sá nú að dæmið gekk upp í einhverri fallegustu ástarsögu íslenzkra bókmennta.

Það er ekki lítið hlutverk að vera skrifaður inní slíka sögu og skiptir þá ekki máli, hvort maður hefur unnið til þess eða ekki.

Kristján Karlsson hefur séð margt sem öðrum hefur yfirsézt. Kólumbusaregg íslenzkra bókmennta hefur oft verið í hans hendi.

Þú talar um að ég gefi blaðamönnum mínum ýmislegt til að hugsa um í Bréfum til Herdísar.

Ég vona það sé rétt hjá þér.

En þessar ábendingar mínar eru ekki til þess ætlaðar að daga úr ykkur, heldur eru þær hugsaðar sem hvatning til að gera enn betur og þó einkum greina á milli þess sem skiptir máli og hins sem er einskis virði.

Þið eigið að fyllast eldmóði þegar þið lesið svona bréf, það gerði söfnuður Páls!

Starf ykkar á Morgunblaðinu er mikilvægt. En það verður aldrei nógu vel unnið, hvorki af mér né öðrum.

Það er allt og sumt.

Það er einmitt vegna þess hvað starfið er mikilvægt, hvað það er gaman að gera vel.

Segjum að við séum blaðamenn í Leipzig á 17. öld.

Við erum upptekin af öllu umhverfi okkar, aðlinum, herforingjunum, borgarstjóranum og öðrum háttsettum embættismönnum.

Við eigum samtöl við allt þetta lið.

Við skrifum um öll þessi embætti eins og vera ber, við týnum okkur í hégóma aðals og yfirstéttar, upplifum fjölmiðlafárið, starfið er æði!

En við megum bara skrifa um allt nema Bach.

Allt nema hans tónlist!

Ég held það hafi verið þetta sem ég átti við, og einungis þetta.

Þú kemur þessu til skila til blaðamannanna, ef þeir hafa sett upp skeifu við lestur bréfanna.

Annars manstu kannski eftir því að enginn blaðamaður hefur skrifað jafn mikið um venjulegt íslenzkt fólk og ég, stundum jafnvel í sömu stellingum og þegar ég yrki kvæði af ástríðu sem ég hef aldrei getað gert mér né öðrum grein fyrir.

Þetta embættislausa fólk sem er svo nálægt jörðinni hefur leitað á hug minn með sérstökum hætti.

Ég vil að íslenzkir blaðamenn komi þessu fólki til skila, ekki síður en þeim sem eiga meira undir sér.

En þá eins og það sé skrifað inní sitt rétta, eiginlega umhverfi, en ekki einhverja tilbúna fjölmiðlaveröld sem er því framandi.

Bréfin til Herdísar eiga sízt af öllu að draga úr ykkur mátt, heldur verka eins og hvati til að hraða efnahvörfunum, svo ég grípi til lífefnafræðinnar, en ég er alltaf beztur í því sem ég kann ekki skil á.

Það erum við öll.

Ég hef haft mikinn áhuga á raunvísindum eins og kunnugt er af umfjöllun Morgunblaðsins um líftæknina.

Ingólfur sonur minn blés mér þessu í brjóst.

Þessi áhugi á raunvísindum skerptist mjög þegar ég fór á opið hús Háskólans í vetur og hitti Jóhann Axelsson (prófessor) og samstarfsmenn hans.

Þar voru einhver tæki til að mæla lungnaþol og öndun.

Ég vildi helzt ekki láta gera þessa tilraun á mér, því mér hefur aldrei fundizt ég kunni að anda og segir Gunnar Eyjólfsson leikari að það sé rétt.

Ég fór nú samt í tækið og blés og þá kom loksins í ljós að ég er með mestu andans mönnum á Íslandi og fékk ég plagg uppá það, undirritað af prófessor Jóhanni.

Það var mikill varnarsigur fyrir mig.

Þú andar eins og tvítugur piltur, sagði Jóhann sigri hrósandi.

Og nú hef ég plagg uppá andagift mína og er að hugsa um að senda einum eða tveimur gagnrýnendum svona vottorð og lækka í þeim rostann.

Það hefði komið sér vel að þekkja Jóhanna Axelsson í gamla daga þegar við vorum að brjóta óbundna skáldskapnum leið og berjast við íhald sem tók starf sitt alvarlega eins og íhald á að gera.

Þá var íhaldið ekki sízt vinstra megin við miðju, hitt íhaldið var áhugalaust meðan við skiptum okkur ekki af pólitík, eins og sagt var.

Hún var þá heilög eign fárra útvaldra.

En svo vandaðist málið þegar við fórum að skipta okkur af þessari sömu pólitík.

Ég man nú samt hvað Jóhann Hafstein var glaður þegar ég skrifaði Morgunblaðssamtalið við Stein.

Og svo fóru bæði íhöldin að sætta sig við okkur og nú eru það bara einhverjar tímaskekkjur sem telja að ég sé an unlikable man.

Sem sagt:

nú er það ekki í tízku að ráðast á skáld vegna stjórnmálaskoðana.

Menn geta jafnvel brennt sig á því, ég veit nýleg dæmi þess.

Hitt er svo annað mál, að ritstjórar eru sjálfsagt skotmark, það hef ég alltaf vitað.

En hvað um það.

Ég vona þér gangi vel í því mikilvæga starfi að skrifa fréttaskýringu um Sjálfstæðisflokkinn.

Ég er farinn að halda að það sé í honum sem þjóðin á bágt um þessar mundir.

Það er heldur viðkunnanlegt hlutverk, hvað sem öðru líður.

Fólk verður alltaf að fá útrás fyrir þjáningu sína, segir Dostojevskí. Hann segir líka að fertugsaldur sé hin ömurlegasta elli og það sé ósiðlegt að verða eldri en fertugur!

Ég hafði þessa sömu skoðun fyrir fjörutíu árum.

Nú lifi ég til að afsanna hana. Vonandi lifir Sjálfstæðisflokkurinn einnig af sinn “fertugsaldur”!

Bjarni Benediktsson sagði einhverju sinni, að formennska í Sjálfstæðisflokknum væri vanþakklátasta starf sem hann þekkti.

Ég veit ekki af hverju.

Líklega er flokkurinn saman settur úr borgaralegum hagsmunahópum sem eru ekki fullkomlega ásáttir um leiðir að markinu.

Þú veizt að ólíkir hagsmunir stangast alltaf á.

Ég sé t.a.m. ekki hvaða raunverulega hagsmuni hafnarverkamaður og Albert Guðmundsson eiga sameiginlega, nema þá að varðveita lýðræði og frelsi einstaklingsins, og þá einnig frelsi á markaðnum til að lækka vöruverð.

En þegar kemur að launum vandast málið, Albert segist vera fulltrúi þessa manns, hann sé fyrirgreiðslupólitíkus litla mannsins.

Það getur vel verið að einhverjir trúi þessu og líklega gerir Albert það sjálfur, því að hann er með hjartað á réttum stað. Ég hef samt fyrirvara á þessu öllu og þoli raunar ekki frasa eins og “litli maðurinn”.

Litla bílastöðin er nefnilega nokkuð stór!

Ég dæmi menn ekki eftir aðstöðu, heldur andlegri reisn. Þetta hljómar í eyrum margra eins og tvisvar tveir séu fimm. En ég er orðinn hundleiður á því að tvisvar tveir séu alltaf fjórir. Það er hvort eða er ekkert að marka tölur sem stjórnmálamenn fara með.

Aðstaða er ekki sama og hamingja.

Hver er lítill?

Hver er í skítverkunum?

Ég gleymi því ekki sem Björn Thors yngri sagði við mig fyrir löngu.

Hann var í drullugalla og hreinsaði einhver prenttæki á tröppunum við bakhús Morgunblaðsins. Ég átti leið þar um, stanzaði hjá Birni sem var ataður olíu og segi, Þú hefur mikið að gera Bjössi minn, ósköp ertu skítugur.

Þá lítur Björn upp á mig og segir brosandi,

Ég? Nei, ég hef ekki yfir neinu að kvarta. Ég hélt það værir þú sem ert í skítverkunum(!)

Sem sagt:

hann breytti mér umsvifalaust í “litla manninn” á Morgunblaðinu og mér hefur alltaf þótt það nokkuð gott hjá honum.

Enda hefur Alli alltaf haft þó nokkra samúð með mér, þótt hann kalli mig helzta kalkún landsins.

En hugsaðu þér bara hvernig hagsmunir manna eins og Alberts sem vilja ráðskast með opinbert fé fyrir “litla manninn” hljóta að rekast á hagsmunagæzlu fjármálaráðherra.

Duglegir sjálfstæðismenn breyta öllum opinberum fyrirtækjum í einkafyrirtæki sem þeim er trúað fyrir. Engir yfirmenn ríkisfjölmiðla eru t.a.m. frekari til fjörsins eins og þú hefur séð. Þannig getur ríkið ekki fengið betri fjármálaráðherra en úr röðum sjálfstæðismanna. Og það verður enginn ábyrgur fjármálaráðherra vinsæll, það er allt og sumt. Við erum ekkert þakklát í eðli okkar.

Allt þetta brennur nú á Þorsteini (Pálssyni) sem er vandaður ungur maður og alls ekki nógu mikill ævintýramaður í pólitík til að verða vinsæll.

Hann er líkari Jóni Þorlákssyni og Geir Hallgrímssyni en Steingrími Hermannssyni, enn einum vini mínum, en samt hafa þeir átt með sér gott samstarf af heilindum þeirra í milli, held ég, og eflt tengsl milli stjórnmálaflokka sem þjóðin vill að geti unnið saman, enda er árangurinn heldur góður miðað við það sem verið hefur.

En stjórnmál eru störf hinna kaldrifjuðu, menn eiga einfaldlega að átta sig á því.

Auk þess eru þau ekki annað en list þess mögulega.

Því miður höfum við of oft orðið vitni að því ómögulega.

Samkeppni í stjórnmálum gerir engan að betra manni. Hún er samkeppni forgengileikans.

Hann kallar einatt á hégóma og tildur.

Hann hagar sér oft ósæmilega.

Hann leitar síns eigin.

Hann er sjaldnast langlundaður.

Ég hef einnig séð þetta í listum.

Þess vegna þótti mér þeim mun vænna um Hayden sem ég kynntist honum betur.

Hann var snillingur.

Þess vegna vissi hann og hafði efni á að segja um Mozart að hann væri mestur tónskálda.

Svona segja aukvisar aldrei.

Þeir afgreiða bara Eine kleine Nachtmusik og Divertimento no. 17 eins og hvert annað popp, ef það þjónar hagsmunum þeirra.

Það er undantekning, ef stjórnmálamaður finnur Divertimento hjá keppinaut sínum.

Ég þekki a.m.k. engan Hayden í pólitík.

Það gerir forgengileikinn, Agnes mín.

Áróðursmenn tala um að Sjálfstæðisflokkurinn sé að verða samtök frjálshyggjumanna.

Þetta kemur ekki heim og saman.

Auk þess er frjálshyggja ekkert eitt, það er blekking eins og ég þykist hafa sýnt fram á í grein minni um hana og velferðarríkið í Frelsinu í fyrra.

Sjálfstæðismenn sitja nú í ráðherrastólum og sjá um hagsmuni hálfsósíalistisks ríkis.

Stefna flokksins og störf þessara manna hljóta að stangast á.

En þeir veita þó viðnám öðrum fremur.

Og mundi það ekki vera hvað nauðsynlegast heima á Íslandi eins og nú horfir.

Ríkið hefur verið að gleypa allt, ekki sízt þegnana.

Við lifum á erfiðum tímum.

Þegar ég hafði fengið skattana mína í fyrra talaði ég við Þorstein Pálsson í bílasíma. Ég sagði honum að ég hefði aldrei upplifað aðra eins skatta og væri ég þó ýmsu vanur í þeim efnum, hefði m.a. farið í gengum heila eysteinsku, en aldrei hefði þetta verið annað eins kollrak og nú.

Ég yrði raunverulega í vinnu hjá honum það sem eftir lifði ársins og þyrfti að éta það sem úti frýs.

Hann hló bara að því eins og vera ber.

Það er grunnt á gamanseminni hjá Þorsteini sem betur fer og hann sagði,

Bíddu andartak, ég þarf að taka beygjuna, annars keyri ég í Rauðavatn!

Þetta segir í raun alla söguna, og Þorsteinn veit það.

Ég er alltaf hræddur um Sjálfstæðisflokkinn þegar hann þarf að beygja fyrir Rauðavatn.

Í borgarstjórn er hann miklu frjálsari.

Þar hefur hann meira svirúm.

Flokkur með meirihluta getur siglt undir eigin flaggi, en ekki annarra. Davíð (Oddsson,borgarstjóri)hefur siglt vel. En hann þarf að súpa sína fjöru eins og aðrir.

Nú er myrkur, snjór og kuldi heima. Hér er sól og suðaustlægir vindar af hafi og ég sé hvernig þeir bæra laufið á pálmatrjánum, fullir af einhverjum ólýsanlegum fögnuði og virðingu sem þessi sérkennilegu tré eiga skilið.

Þessar andstæður minna á líf okkar.

En þá eigum við líka íslenzka jónsmessu til góða, kyrrð og sólgular nætur.

Eftirvæntingin er dýrmætasta eign mannsins. Með hana í huga sendum við þér og ykkur öllum jóla- og nýárskveðjur frá þessu hreindýrslausa landi, með þökkum fyrir allt gott, hreinskilið og vinalegt.....

 

27. desember ‘86

Bréf til Baldvins Tryggvasonar,sparisjóðsstjóra SPRON.

Melbourne, Fla., þriðja í jólum ‘86

Góði vinur, Baldvin.

Mikið þótti okkur Hönnu skemmtilegt að fá kortið frá þér. Ég hló mig máttlausan þegar þú fórst að lýsa vinkonu okkar Íslendinga, Gróu á Leiti, en Hanna hafði ekkert af þessu heyrt og ég aðeins lauslega einhvern tíma í haust eða vetur, en gleymt því aftur! Þú getur rétt ímyndað þér hvað það er lítið interessant að vera gift mér, þótt hún hafi aldrei kvartað, enda lifir hún jafnvel kjaftasögulausara lífi en ég - og er þá mikið sagt!

Eiginlega veit ég aldrei neitt, og þá sjaldan mér eru sagðar einhverjar krassandi kjaftasögur eins og Baldvin vinur minn Tryggvason ætli að fara að kvænast forsetanum, gleymi ég því á nokkrum klukkustundum, og líklega áður en ég kem heim úr vinnunni, svo Hanna fær ekkert að heyra.

Þó hef ég staðið hana að því að vita stundum lengra en nef hennar nær, en þá fer hún svo vel með það að ég fæ aldrei að vita neitt!

Svona er nú þetta, góði vinur, og hefur líklega alltaf verið.

Hitt er annað mál að ég hef haft það að ævistarfi að fylgjast með því sem hefur raunverulega gerzt, og kannski hefur það verið nógu mikill skammtur fyrir jafn eterískan mann og mig!

Eins og þú veizt - og sérð raunar á smásögunum sem þú talar svo fallega um - hef ég lifað og hrærzt í einhverju skáldlegu ofnæmi sem aldrei lætur mig í friði og endar svo í einhverrri útrás, svona sögum eða ljóðum eða einhverju öðru.

Þó hefur einnig ávallt verið lagt á mig að vera svo djöfullega raunsær að engu tali tekur.

En ég fæ borgað fyrir það!

Einu atriði vildi ég bæta hér við og það er að ég hef alltaf talið að einkamál fólks séu einkamál þess en ekki allra annarra.

Páll Ísólfsson sagði mér að Árni vinur hans Pálsson (prófessor) hefði einhvern tíma sagt,

Nú, Páll veit það! Það þarf þá ekki að borga undir það!

En Páll sagði aldrei nema skemmtilegar sögur og það eiga menn að gera.

Það gladdi mig að sjálfsögðu sem þú sagðir um Konunginn af Aragon.

Í fyrsta lagi berð þú ábyrgð á útgáfunni og verður að tala af metnaði og raunsæi sem slíkur, en í öðru lagi hefur þú svo næma tilfinningu fyrir skáldskap að það hefur stundum undrað mig.

Sveinbjörn (rithöfundur) hefur fengið gott veganesti frá ykkur Júlíu báðum enda hefur það skilað sér vel. Innilegar kveðjur til hans og þeirra. Mér er einkar minnisstætt þegar við hittum hann í Kaupmannahöfn, ég held það hafi verið þá sem ég gerði mér grein fyrir hvílíkur efniviður er í honum.

Þá var ég í skáldlegum stellingum og skrifaði allmargar smásögur og Guðs reiði sem flutt var í útvarp.

Í þriðja lagi veit ég hvað áfall eins og þú hefur hlotið dýpkar menn og þroskar þrátt fyrir allt og gerir þá næmari en ella á raunveruleg verðmæti í lífinu.

Annars hefurðu alltaf haft þessa jákvæðu og skemmtilegu afstöðu til listar sem ég hef svo oft dáðst að og hef raunar þurft á að halda.

Ég gleymdi því t.a.m. aldrei, hvernig þú talaðir um Fjaðrafok á sínum tíma og það var sko aldeilis ekki í tízku þá!

Þá gat ég sótt andlegt þrek til örfárra manna, ég sagði örfárra, og þú varst einn þeirra.

Mér er sérstaklega minnisstætt hvernig þú vitnaðir í þann mikla mennta- og gáfumann, Sveinbjörn tengdaföður þinn (Sigurjónsson,skólastjóra), og leitaðir stuðnings í orðum hans eins og þú héldir ég tæki meira mark á honum en þér.

Mér fannst það lýsa þér vel.

Þú sagðir hann hefði lýst yfir þeirri bjargföstu trú sinni að Fjaðrafok yrði endursýnt og þá sæju menn, hvað í verkinu byggi.

Þetta var gott veganesti eins og á stóð.

Og nú hefur Kristín Jóhannesdóttir (kvikmyndastjóri) óskað eftir að gera sjónvarpsmynd um þetta óhreina barn mitt og sjónvarpið gert við mig samning um að særa það úr öskustónni.

Ég hef fallizt á það, því ég treysti fínlegum vinnubrögðum Kristínar eins og ég hef kynnzt þeim í einhverri skáldlegustu kvikmynd sem ég hef séð, Á hjara veraldar.

Við Hanna fórum að sjá þessa mynd á Jónsmessunni og ég varð svo gagntekinn af áhrifunum að ég skrifaði uppúr því eina af smásögunum í Konunginum af Aragon, ég hef ekki bókina hjá mér og man ekki hvað hún heitir, en það eru ljóð í henni um ána og grösin og döggina og þau sem vita ekki, hvort lífið er svona svartur skuggi á hvítu tjaldi eða eitthvað sem heldur áfram að sýningu lokinni.

Eða hvað?

Ósköp vitum við nú annars lítið.

Mundi það ekki vera ein ástæða þess, hvað skáldskapur er mikilvægur?

Hann lætur okkur aldrei í friði.

Hann minnir okkur á að einmitt þegar við höldum við þekkjum þetta nú allt, ég á við líf okkar og örlög, þá setur skáldskapurinn upp þennan líka dæmalausa svip og fer að leggja fyrir okkur óþægilegar spurningar.

Ég þarf ekki að segja þér það, svo vel sem þú veizt hvað við vitum lítið.

En ég vona bara að endurreisn Fjaðrafoks verði með þeim hætti sem tengdafaðir þinn spáði.

Ég þarf kannski ekki svo mikið á því að halda lengur, en það væri bara skemmtileg tilbreyting frá því sem var áður en farið var að taka mann alvarlega!

Og það gleddi föður minn sem veigraði sér við að fara á leikritið þegar það var sýnt í Þjóðleikhúsinu vegna þess hann hélt það hlyti að vera eitthvað til í þeim neikvæðu dómum sem hann hafði útvegað sér án minnar aðstoðar.

Hann lét sig þó hafa það að fara á síðustu sýningu og móðir mín sagði mér hann hafi leikið á als oddi í hléinu og þá ekki síður að leikslokum.

Sjálfur sagði hann aldrei mikið - við erum á margan hátt ólíkir feðgarnir! - en hún sagði hann hefði verið alveg læknaður þegar þau komu heim og ég held hann hafi aldrei tekið mark á vondri gagnrýni um verk mín eftir það!

En svona er nú þetta, Baldvin minn.

Rithöfundur verður að vera við öllu búinn, ég hef alltaf gert mér það ljóst, þá er að eiga styrkar stoðir og þú hefur verið ein þeirra.

Fyrir það get ég aldrei fullþakkað, hversu gamall sem ég verð.

Ég hef verið að lesa Nótur úr neðra eftir Dostojevskí, það er einkennilegt hvernig maður finnur sjálfan sig í þunglyndi þessa yfirgengilega Rússa.

Ég hef líka verið að lesa smásögur Fitzgeralds frá djasstímanum, Jellybean, Lees of Happyness og þessi eftirminnilegu meistaraverk bernsku okkar sem við höfum víst gleymt og þekktum líklega aldrei.

Það var ekki fyrr en maður kynntist í stríðinu Fats Waller, Louis Armstrong og þeim körlum sem maður komst í einhverja snertingu við þessa veröld Cutton Clubs og þessa villta vesturs sem hefur fylgt okkur síðan.

Þess vegna hafði ég stórgaman af að hitta Benny Goodman heima, þótt hann segði ekkert af viti og talaði bara í einhverjum hálfkæringi, svo ég fór að hugsa, hvort svona maður væri eitthvert óskiljanlegt náttúrufyrirbæri.

Nú er hann dauður svo það ætti að liggja fyrir, en ég er samt engu nær.

Mér fannst hann fjarlægur eins og kulnandi stjarna.

Samt var hann gúddman og vinsamlegur, en eitthvað útá þekju, þangað til hann tók sér klarínettið í hönd og spilaði eins og enginn annar.

Það var allt öðruvísi að hitta Louis eins og ég hef reynt að lýsa í samtalinu við hann. Samt var hann einnig eitthvað kærulaus um sjálfan sig og veröldina.

En í minningu hans fórum við til New Orleans í hitteðfyrra, það var eftirminnilegt og þar skrifaði ég uppkastið að einni sögunni í Konunginum, ég man ekki hvað hún heitir frekar en fyrri daginn, en hún fjallar um mann sem sér móður sína látna sem lítið barn, eða eitthvað í þeim dúr, ég man aldrei stundinni lengur það sem ég hef skrifað, þegar ég hef sent það frá mér og leita helzt aldrei í það nema ég þurfi.

Ég er ævinlega með hugann við það sem ég er að gera hverju sinni.

Eftir New Orleans-ferðina og skemmtileg kynni af Bourbon Street og Missisippí orti ég prósaljóð um Louis og sitthvað fleira frá Suðurríkjunum og kannski verður það birt einhvers staðar og einhvern tíma, hver veit?

Ég hef orðið mest gaman af að hafa þetta hjá mér, það eru víst ellimörk!

Þá hef ég verið að lesa A perfect Spy eftir John Le Carré, ágæta bók en dálítið flókna eins og allar bækur hans.

The Spy who came in from the Gold sem ég las fyrst verka hans er bezt.

Flækjan gengur svo vel upp í lokin.

Ég hef hlustað á Le Carré lesa upp af segulböndum og hann er einhver bezti leikari sem ég hef heyrt í.

Það er ótrúlegt hvað bretar eiga góða leikara. Allt sem þeir koma nálægt verður að list, það er sama hvaða framleiðsla það er. Einhverjar beztu stundir mínar hafa verið þegar ég hef farið í leikhús í London og horft á Sir Lawrence Olivier, Sir Alec Guinnes sem kom heim með konunni sinni og þau gengu eins og ungt par um Garðastræti að kvöldlagi, alein og rómantísk. Það hvarflaði ekki að neinum að ónáða þau þarna í íslenzku kvöldkyrrðinni, ekki frekar en vellandi spóa á vorkvöldi.

Ég sá Sir Lawrence í Nashyrningunum fyrir mörgum árum, en Sir Alec í Arabíu Lawrence.

Þá hef ég einnig séð hina lordana tvo, Ralp Richardsson og John Gielguld í No mans Land eftir Pinter og engan annan og það var með ódæmum, hvað Sir Ralp gat orðið fullur og hvað Sir John fannst hann óþolandi!

En alltaf sama listin.

Eða Edward Fox í Cocktail Party Eliots (!)

Eða Rex Harrison hann er víst ekki aðalsmaður - eða hvað?.

Svo ég tali nú ekki um upplestur á Kantaraborgarsögum sem ég hef verið að hlusta á af segulböndum, hvílík veizla(!) Kaninn á einn og einn svona upplesara sem breyta efninu í hold og blóð, E. Scott Fitzgerald má t.a.m. vel við una.

Í Fullkomna njósnaranum segir ein persónan að við getum ekki étið hugsjónir!

Ég hef einnig verið að hugsa dálítið um pólitík, því ég er nú einu sinni ritstjóri Morgunblaðsins, og svolítið hef ég sent heim af greinum í þeim dúr.

En það er líka allt og sumt sem ég hef skrifað!

Óskrifandi get ég víst ekki verið eins og alkunna er, jafnvel þótt mér væri borgað fyrir það! Ég get haft svo mikla nautn af að skrifa að Hildur ritari minn Friðriksdóttir sem vélritaði alla sögu Ólafs Thors margoft sagði einhvern tíma í haust vegna bréfa sem ég þurfti að skrifa Herdísi Þorgeirsdóttur í Heimsmynd, að ég mætti ekki sjá auðan pappír án þess að fylla hann orðum og til að létta sér störfin væri hún að hugsa um að skrifa miklu þéttara en hún hefði gert og helzt ekki skilja eftir nokkurn auðan blett sem gæti freistað mín.

En mest gaman þykir mér nú samt að krota í handrit sem á að heita

fullgert.

Mér er nær að halda Þórbergur hafi leitt mig í freistni í þessum efnum, en það fór kalt vatn milli skins og hörunds á prenturunum í Víkingsprenti, þegar prófarkirnar að bókum hans komu úr lestri frá honum. Það voru raunar engar prófarkir, heldur nýjar bækur.

Ég er að vísu ekki svona slæmur, en þó er þarna bitamunur, en ekki fjár.

Ég minntist á hugsjónir og stjörnur og stjórnmál, já einmitt, fyrr nefnd persóna í Fullkomna njósnaranum segir einnig að hugsjónir séu eins og stjörnurnar, við getum aldrei náð þeim, en við græðum samt á því að þær skuli vera á sínum stað.

Við lifðum í betra heimi, ef allir gerðu sér ljóst að við getum horft á stjörnurnar og dáðst að þeim, en þó einkum tekið mið af þeim á langri og tvísýnni siglingu, en við getum aldrei náð þeim, enda ekki ætlazt til þess.

Við höfum siglt inní æ betri þjóðfélög vegna þessara stjarna sem ég er að tala um, en siglingunni lýkur aldrei.

Það er ævintýrið.

En á þessari staðreynd flaska allir einræðisherrar og allir alræðisflokkar.

Þeir telja sig halda á stjörnunum, æ guð minn góður(!)

Stundum hvarflar að mér það væri betra að engar stjörnur væru til. Það er þegar ég er í þunglyndiskastinu og Dostojevskí nær tökum á mér.

Ég hef einnig verið að lesa og hlusta á sitthvað fleira, því ég fæ alltof stopulan tíma til þess heima og er raunar orðinn afvanur iðjuleysi sem er grunnt á í eðli mínu, því ég er latur að upplagi og vil helzt vera í friði.

Páll Ísólfsson var svona latur líka.

Þess vegna var hann sívinnandi til að lenda ekki í kör.

Ég hlustaði um daginn á lestur úr Out of Africa af segulbandi, það voru dýrlegar stundir.

Ég hef varla lesið fallegri kafla en lýsingu Blixens á dauða Denis Finch-Hattons.

Hún hlýtur að hafa elskað þennan mann úr einhverri dularfullri fjarlægð sem breytist í áleitna nálægð, þegar hún sleppir þessari minningu úr lófa sínum.

Það er mikill skáldskapur.

Slíkur skáldskapur sprettur einungis úr lífinu sjálfu.

Ekkert hugmyndaflug getur keppt við minningar úr reynslu mikils höfundar.

Og þarna standa ljónin á gröf Hattons í hlíðinni sem horfir við óendanlegri víðáttu sem minnir ekki á neina fegurð aðra en stóra, hvíta og óskrifaða örk af dularfullum ævintýrum sem enginn getur fest á pappír nema örlögin sjálf.

En þau skrifa aldrei stafkrók, frekar en Kristur.

Maður sér þau fyrir sér þarna á sléttunni og það er djúp og óendanleg þögn í kringum þau og svo þetta ljónsöskur sem gæti komið storknuðu blóði til að renna á ný.

Og þessar andstæður, þögn og öskur, eru lífið sjálft, lífið og dauðinn sem engum hefur tekizt að festa á blað.

Eitthvað sem maður finnur og veit, en lýsir ekki

Allir rithöfundar hafa þó reynt að lýsa þessari reynslu af lífi og dauða í einum farvegi, hver á sinn hátt.

Mér þótti ekki lítið vænt um, þegar þú segir í kortinu að sögurnar mínar, svo litlar og hlédrægar sem þær eru, snerti sálartetrið eins og þú kemst að orði, svo það hrekkur við og hve nærri bókin snerti tilfinningar manns, eins og þú segir.

Styrmir sagði mér eftir Birni Bjarnasyni um daginn, að Konungur af Aragon (nafnið er frá grafískri mynd eftir Dalí sem við Hanna eigum og ég þarf endilega að sýna þér við gott tækifæri) væri að seljast upp og ég vona það gleðji ykkur Kristján (Jóhannsson,forstjóri AB,arftaki Baldvins), svo mjög sem ég ber hag útgefenda minna fyrir brjósti, eins og þú veizt!

En ég vona bara að einhverjum finnist það sama og þér og forsetanum.

Mig hefur alltaf langað frekar til að gleðja fólk en hryggja, þótt hið síðar nefnda hafi stundum orðið hlutskipti mitt.

Ummæli Vigdísar forseta við þig þess efnis að “sér fyndist varla vera hægt að komast nær manni í rituðu máli en Matthías hefði gert með þessari bók sinni” virðast hafa komið þér nokkuð á óvart og raunar öll afstaða hennar til mín sem rithöfundar.

En hún hefur áður sýnt mér hlýhug og hef ég metið það, svo mikla þörf sem hún hefur fyrir skáldskap og koma honum til skila.

Fyrir nokkrum árum var langt samtal við hana í danska útvarpinu og átti hún að velja sér listamenn, einn í hverri grein, sem hún talaði við um íslenzka menningu.

Hún óskað eftir því ég yrði ljóðskáldið og féllst ég á það með ánægju.

Við spjölluðum svo saman ásamt þekktu dönsku skáldi og lásum ljóð fyrir danska útvarpshlustendur, bæði á dönsku og íslenzku, ef ég man rétt, en ég hef aldrei heyrt þáttinn.

Mér þótti þetta skemmtilegt og fór að hugsa um, hvar í veröldinni það gæti gerzt annars staðar en á Íslandi, að þjóðhöfðinginn eyddi dýrmætum tíma sínum í að tala við ljóðskáld um hluti sem eru álíka höndlanlegir og stjörnurnar.

Við Vigdís vorum í Landakotsskóla saman og eigum því sameiginlega veröld sem var og er mér öðru fremur dýrmæt eign.

Vilborg Kristjánsdóttir , móðir Kristjáns Jóhannssonar þekkir þessa veröld vel, því að hún var einnig umhverfi hennar og athvarf.

En kannski er þetta ástæðan til þess að þær vinkonur hafa sýnt verkum mínum óvenjulega hlýju.

Vilborg skrifaði meira að segja ritgerð í Hamrahlíð um einhver ljóða minna og fékk A, en ég hef gert það að skilyrði, þegar ég hef veitt skólafólki aðstoð í þessum efnum!

Og ég veit ekki betur en þau hafi öll fengið A.

Nú fæ ég úr fjarlægð enn eina og óvænta staðfestingu á þessari hlýju og þessum skilningi og það væri dauður maður sem mæti það ekki.

Í Konunginum af Aragon eru margar viðkvæmar minningar úr þessari veröld sem ég hef verið að tala um, en annað úr öðrum áttum og þá einkum skáldskapur sem á frekar rætur í eldri eða síðari tímum.

En drengurinn sem ég eitt sinn var hefur ávallt fylgt mér, þótt ég þekki hann orðið harla lítið

En reynsla hans var mesta þrekraun ævi minnar, eins og ég hef sagt Matthíasi Viðar í samtali okkar í Stríði og söng.

Þessir ungu menn eru alls trausts verðir. Þeir eru ekki hræddir við einlægni sína né fordóma og þeir eru menn til að standast þá freistingu að vega að þeim sem eru á öndverðum meiði við þá í pólitík og eru raunar langt yfir hana hafnir í störfum sínum.

Maður átti þessu ekki að fagna í gamla daga eins og þú manst og því met ég það meir en ella.

Kristján Karlsson sagði við mig að sá sem ekki skildi innsæi eða ætti það sjálfur, gæti ekki skilið þessar smásögur mínar, ég mætti ekki búast við því.

Svo kemur ungur, menntaður gagnrýnandi Þjóðviljans, Páll Valsson, sem ég þekki ekkert, og fer að tala um innsæi!

Ég hélt ég yrði ekki eldri!

En þá sannfærðist ég endanlega um að nýr tími færi í hönd.

Og það gladdi mig að fá að upplifa það.

Mér finnst það mikilvægt fyrir landið okkar, listina og framtíðina að við skulum vera að eignast ungt, frjálslynt fólk sem skrifar ekki eða hugsar eftir forritum.

Og samt er tölvuöld gengin í garð!

Hvernig getur þetta komið heim og saman?

Eru menn að kasta köðlunum og leggja rækt við taugarnar? Er öld tilfinninganna að ganga í garð, loksins?

Öld manneskjunnar, það skyldi þó aldrei vera(!)

Ég er ákaflega viðkvæmur fyrir þessu öllu, eins og þú veizt, og nú vil ég við förum að tala öðruvísi hvert við annað en kalda stríðið krafðist, ég ætla að leggja mitt litla lóð á þá vogarskál, bæði í Morgunblaðinu og annars staðar.

Það er nefnilega gaman að tala við róttækt fólks eins og Silju Aðalsteinsdóttur og Rannveigu Ágústsdóttur sem hafa skilið ljóð mín betur en margir aðrir, hvað sem Dagblaðinu, Þjóðviljanum og Tímariti Máls og menningar líður að öður leyti.

Þær hafa a.m.k. afsannað þá kenningu Jóhanns Hjálmarssonar að gamlir stalínistar skilji okkur bezt og séu í raun og veru þeir einu sem kunna að meta skáldskap okkar!

Annars á ég einatt dálítið erfitt með sjálfan mig.

Ég fæ flesta hluti á tilfinninguna, þeir segja blaðamennirnir á Mogganum að ég hafi sjötta sans, en engum hefur þó dottið í hug ég hafi sjötta sjans!

En svona er nú þetta.

Ég tek allt inná mig og hugsa ekki minnst í fasta svefni.

Stundum hefur það komið fyrir að ég hafi vaknað, gengið að handriti sem ég hef verið að vinna að, flett á ákveðið orð eða setningu og breytt því eins og heilinn ákvað um nóttina.

Hann er að allan tímann án þess ég hafi hönd í bagga með því og leiðréttir vitlaus orð eða setningar eins og tölva. ég veit vel hann hefði mátt leiðrétta meira, en hann getur ekki séð við öllu(!)

Morguninn sem Styrmir hringdi til mín og sagði mér fréttina af sölunni á smásögunum var mig að dreyma Eirík Hrein gleiðbrosandi og vissi ég fengi góðar fréttir að heiman.

Svona er nú að vera með heila sem er sífellt að flækjast út og suður og um allar trissur!

En stundum finnst mér það nánast óþolandi og Hanna hefur gert grín að mér fyrir að vera að taka hann alltof hátíðlega, og það er auðvitað alveg rétt hjá henni.

En aldrei hef ég orðið þess eins var að heilinn væri að flækjast í handritunum mínum og þegar ég var að skrifa Spunann um Stalín.

Ég veit ekki af hverju, en hann hafði einhvern sérstakan áhuga á þessu verki. Kannski hann hafi einhverja ómeðvitaða aðdáun á Stalín, það væri svo sem eftir öðru!

Þegar við fengum kortið þitt í morgun, vorum við að hlusta á klassíska tónlist.

Ég sagði við Hönnu,

Viltu heyra fegursta tónverk sem samið hefur verið?

Hún sagði,

Hvaða tónverk er það, þögnin?

Ég var nær búinn að fallast á þessa athugasemd hennar sem mér þótti bráðsnjöll, en lét það ekki eftir henni og spurði aftur, þótt maður eigi aldrei að viðra svona fullyrðingar, svo mörg stórkostleg listaverk sem til eru.

Ég sá það á henni að hún hélt ég ætlaði að fara að leika Mozart, en það var þó hvorki Rondó, 314, í C-dúr eftir hann, né Rondó Beethovens, nr. 3 í C-moll opus 37, né heldur Blómavals Tsjækovskís sem ég setti á diskinn.

Síðasta verkið hefði kannski verið næst lagi, því hún sagði mér ung að hún vildi láta spila Blómavalsinn yfir sér, en ég hef beðið guð um það verði aðrir en ég sem taka ákvörðun um það.

Ég hef ekki þitt þrek, þitt jafnaðargeð.

Það er allt og sumt.

Nei, ég ætlaði ekki að spila fyrir hana neitt af þessum meistarverkum, heldur serenöðu þess manns sem ég held hafi verið stærstur í sér allra listamanna, ekki sízt vegna þess hann hafði þrek til að segja um Mozart, rúmlega tuttugu árum yngri mann, að hann væri mestur allra tónskálda, já ég á við Joseph Hayden sem var auðvitað sjálfur yfirgengilegur snillingur (annars hefði hann ekki sagt þetta) og serenöðu hans í F-dúr, ópus 3, nr. 5.

Og við hlustuðum á þetta verk saman og það var eins og nírvana væri á næsta leyti og það minnti mig á ljóðræna lýsingu Blixens þegar hún kveður Hatton, veiðimann, vin sinn þarna á sléttunni og horfir á eftir honum inní sitt ódauðlega listaverk.

Þögn á undan, þögn á eftir.

Eins og í lífinu sjálfur.

En ég get bætt því við að Hayden minnir mig oft á Tómas, ég veit eiginlega ekki af hverju, því að ekki vantar skemmtunina í ljóð Tómasar.

En Tómas var með einhverjum hætti fullkominn í verkum sínum eins og Hayden.

Af þessu öllu geturðu séð, Baldvin minn, að ég hef ekki enn lagzt í kör, hvað sem verður. Og nú er ég í þann veginn að fá þá flugu í höfuðið, þar sem nóg er af þeim fyrir, að meistarar nútímans verði dregnir uppúr söngleikjunum sem allir halda að séu bara skemmtiefni.

En það er rangt.

Þeir eru líka skemmtiefni, en alls staðar inná milli glittir í dýrgripi í verkum eins og Porgy and Bess, West Side Story (sem við Hanna sáum minnir mig í London með Nathalee Wood), My fair Lady og Sound of Music (sem við sáum einnig í London eins og Evítu, en Don’t cry for me, Argentína er fallegt og klassískt þegar það er vel flutt. Og mörgum fleiri).

Sú hugmynd hefur læðzt að mér að Tsjækovskí hafi haft mest áhrif á þessa tegund tónlistar, brot úr 5. sinfóníunni, vals úr Serenöðu ópus 48 og slík tónlist, já sjálfur Blómavalsinn sem mér finnst vera sprottinn úr aðalstefi 5. sinfóníu Beethovens held ég séu fyrirmyndirnar, auk djassins að sjálfsögðu.

Eða 1812 Capriccio.

Menn eins og Gershwin eru meistarar.

Og nú skil ég loks Guðmund Vigni latínukennara minn í fjórða bekk MR, þar sem ég kynntist Júlíu þinni og öðrum góðum bekkjarsystkinum mínum á þeim árum.

Guðmundur var að skemmta sér í Breiðfirðingabúð þar sem við strákarnir vorum líka og þá heyrðum við í mannþrönginni að einhver kallaði til hljómsveitarinnar, Við viljum Gershwin(!)

Það var Guðmundur Vignir sem hafði verið að reyna að troða Islanda insula est í okkur og ekki furða,þótt hann þyrfti að lyfta sér dálítið upp á milli prófa.

Nú stjórnar hann skattheimtunni í Reykjavík, en ég kann þó betur við hann í Breiðfirðingabúð, ég veit eiginlega ekki af hverju. Kannski vegna þess við höldum dauðahaldi í góðar minningar.

Og nú er Breiðfirðingabúð horfin, einnig hún.

Í tónlist eins og bókmenntum byggir hver á öðrum, stundum munar engu við ruglum saman Hayden og Mozart. Þannig eru Íslendinga sögurnar einig skrifaðar, svo við getum varla greint á milli höfunda. Eitt sinn var sagt við Brahms að hann hefði orðið fyrir áhrifum frá Beethoven í ákveðnu verki.

Jú, hann sagði, það væri rétt “og hver einasti asni tekur eftir því”! bætti hann við.

Ég er heldur lítill músíkmaður laglaus eins og ég er, en þó veit ég ekkert unaðslegra en hlusta á tónlist. Ég geri það því oftar sem ég verð eldri, enda hef ég aldrei heyrt talað um músíklausan Blöndal!

En Guðjón frændi minn Lárusson læknir sem lifir og hrærist í tónlist og er einhver músíkalasti maður sem ég hef fyrir hitt segir að ég hafi afasí, þ.e. ég geti tekið við tónlist en ekki komið henni frá mér.

Auk þess held ég náttúran sé svo útsmogin að hún hafi einfaldlega talið rétt að öll mín músík færi í ljóðin, ekki veitti af!

Náttúran veit sínu viti.

Ég ætla a.m.k. að halda mig við þá skýringu í bili, eða þangað til henni verður hrundið.

Hitt er svo annað mál að mikið í klassískri tónlist var upphaflega skemmtimúsík eins og raunar fornbókmenntirnar sem urðu klassískar þegar frá leið.

Þegar við Hanna vorum að tala um Hayden og Mozart í morgun, sagði hún það væri erfitt að gera upp á milli þeirra, “en það er meiri skemmtun í Mozart”, bætti hún við.

Þá sá ég að ást hennar á Blómavalsinum var ekki tilviljunin einber.

Jæja, Baldvin minn, fyrirgefðu nú þennan langhund, en mér þótti svo vænt um að heyra frá þér að ég mátti til með að skrifa þér bréf um hagi okkar og hugsun.

Við höfum það ágætt, fórum í kvöldmessu í Lúthersku kirkjunni hér í Melbourne á aðfangadag og var það mjög hátíðlegt.

Svo borðuðum við kalkún á jóladag og það er bezti maður sem ég hef fengið.

Alli segir að ég sé mesti kalkún landsins, en nú sé ég að þetta hlýtur að vera yfirgengilegt hrós hjá honum, en kannski veit hann það ekki! .......