Árið 1988


Apríl – ódagssett

Eftir páska talaði Þorsteinn Pálsson við mig og sagðist hafa heyrt að Albert Guðmundsson gæti vel hugsað sér að verða sendiherra í París. Mér þótti þetta merkilegt og Lúðvík Hjálmtýsson segir þetta ekki fjarri lagi; hann sé orðinn kvekktur á pólitíska þrasinu og hefði aldrei verið sáttur við að hverfa úr Sjálfstæðisflokknum.

Það væri rétt sem ég hef heyrt að sumir Borgaraflokksmenn tali ekki nógu vel um hann.

Fylgi flokksins fer minnkandi en Albert tekur ekki alltof mikið mark á því.

Það getur breytzt, segir hann.

Ég hef áhuga á því að tala við Steingrím Hermannsson um þetta mál því ég held Albert eigi undir högg að sækja og mig langar ekki til að sjá hann koðna niður í flokki sem hann stofnaði utan um sjálfan sig, en nær síðan ekki sjálfur utan um.

Lúðvík segir Albert muni fagna því að ég talaði við utanríkisráðherra.

Fór síðan á fund Steingríms.

Hann segist hafa heyrt þetta áður, Kristinn Finnbogason hafi nefnt þetta við sig. Hann segir sér sé hlýtt til Alberts og vilji margt fyrir hann gera en geti ekki gert hann að sendiherra sem stendur. Það sé engin hreyfing á sendiherrum og Haraldur Kröyer vilji vera áfram í París.

Sagði honum að ég hefði heyrt að Haraldur vildi hverfa til Noregs með sinni norsku konu og ljúka sínum langa og farsæla ferli þar.

Steingrímur segist hafa heyrt annað en hann muni kanna þetta mál nánar.

Finn hann ber hlýjan hug til Alberts. Alli vildi líka gera hann að forsætisráðherra og það metur Steingrímur meir en flest annað.

Hitti svo Albert í fimmtugsafmæli Sveins Eyjólfssonar,forstjóra DV..

Hann bað mig um að tala við sig, spyr mig um þessi mál.

Ég segi honum allt af létta og af hverju ég hafi verið að stússa í þessu, það hafi verið vegna þess ég hafi heyrt að hann hafi kannski áhuga á að fara til Parísar og ljúka ferli sínum þar og auk þess hafi ég heyrt heldur illa talað um hann í röðum Borgaraflokksmanna.

Hann sagði það væri helzt Ásgeir Hannes Eiríksson sem væri sér öndverður.

Hann væri vonsvikinn.

Ég sagði þetta væri alvarlegra en svo.

Ég hefði heyrt á þeim borgaraflokksmönnum sem ég hefði talað við að ofríki Alla væri svo mikið að nú væru þeir ekki undrandi á því af hverju bezti knattspyrnumaður Evrópu hefði aldrei getað orðið fyrirliði!

Hann væri einfari á vellinum og vildi öllu ráða. Sendi aldrei boltann frá sér.

Þannig væri talað í hans röðum.

Albert sagði þetta væri ekki svona slæmt. Einhverjir væru kannski að þusa um þetta og þá helzt liðið í kringum Ásgeir Hannes.

Margt væri þó gott um hann.

Sjálfur væri hann ekki þeirrar skoðunar að flokkurinn væri sitt sterkasta vígi, heldur hulduherinn.

Sagði að Haraldur Kröyer væri búinn að vera nógu lengi í París og það ætti að vera auðvelt að losa um sendiherraembætti þar; sagði að Brynhildur gæti vel verið sendiherrafrú þar í borg. Þau hefðu ávallt kunnað vel við sig í Frakklandi.

Þar þekkti hann marga.

Cirac væri til að mynda vinur sinn.

Brynhildur gæti fengið aðstoð eins og Gígja, kona Henriks Sv. Björnssonar, auk þess sem Ólöf, kona Sigurðar Nordals, hefði oft verið lasin á Kaupmannahafnarárum þeirra.

Brynhildur væri að vísu ekki góð til heilsunnar en hún mundi kunna vel við sig í París, og þau bæði.

Alli þakkaði mér mjög vel fyrir samtalið við Steingrím og áhuga minn á málinu öllu. Kvaðst meta þetta allt mikils og ég heyrði ekki betur á honum en hann tæki við sendiherraembættinu, ef honum byðist það.

Hann spurði að vísu hvort ég væri að reyna að sameina Sjálfstæðisflokkinn með þessu, en ég benti honum á að þetta væri ekki leiðin til þess.

Ég bæri enga ábyrgð á Sjálfstæðisflokknum og hann ekki á mér.

Auk þess reiknaði ég ekki með því að neinn borgaraflokksmanna saknaði Sjálfstæðisflokksins nema þá helzt hann sjálfur.

Þeir vildu allir vera þingmenn og pólitíkusar en vissu að sameining flokkanna yrði ekki endilega til þess að fullnægja pólitískum metnaði þeirra.

Þegar hér var komið í samtalinu horfði Albert á mig og sagði ákveðið, Ég er að undirbúa lista fyrir kosningarnar.

Fór síðan að tala um borgarstjórnarkosningarnar eins og ávallt þegar við tölum saman. Skoðanakannanir, sem hann gerir lítið úr, og stöðu sína almennt og flokkanna.

En hvað sem því líður hef ég á tilfinningunni að hann vilji komast út úr pólitík með sóma og hefja störf á nýjum vettvangi, til að mynda í París.

Innst inni held ég hann hefði ekkert á móti því að flokkarnir sameinuðust, svo mikill sjálfstæðismaður sem þessi formaður Borgaraflokksins er í raun og veru.


Maí – ódagssett

Viðey á Sundum,ljóðaflokkur og vangaveltur um hann.

Birt annars staðar.

 


 

Maí – ódagssett

......Davíð Oddsson,borgarstjóri, hefur verið að rífast við mig út af ráðhúsmálinu og gagnrýnir okkur fyrir að vera sífellt að hlusta á andstæðinga ráðhússins.

Hef sagt honum að sú afstaða borgarstjórnar sé gagnrýnisverð að leyfa ekki andstæðingum ráðhússins að láta undirskriftalista gegn byggingu þess liggja frammi í sundlaugum borgarinnar.

Þetta sé óttamerki.

Davíð mótmælir þessu harðlega en ég sit við minn keip. Sagði honum að hann mætti þakka fyrir að við gagnrýndum þetta ekki í Morgunblaðinu.

Hann sagði við skyldum bara gagnrýna þetta eins og okkur sýndist, hann mundi svara því fullum hálsi.

Ég sagði hann gæti engu svarað.

Þetta væru pólitísk mistök sem ættu ekki að henda sjálfstæðismenn. Slíkir listar hefðu ávallt verið leyfðir fram að þessu.

Við Davíð höfum hittzt og talað saman.

Höfum farið út í Viðey saman og það var eftirminnilegt.

Hann upplifir augsýnilega mjög sterklega sögulegar minjar og endurreisn staðarins.

Held hann sé hreykinn af framlagi sínu til endurreisnar Viðeyjarstofu.

Og hann má vera það.

Samtölum okkar lýkur ávallt í mikilli vináttu.

En við höfum tekizt á.

Þetta hafa verið góð samtöl.

En hann er ákaflega viðkvæmur fyrir ráðhúsmálinu.

Segist munu vinna það mál án aðstoðar Morgunblaðsins(!)

Ég held hann sé alltaf með það inn á sér að við höfum ekki tekið neina sérstaka afstöðu til ráðhússins. En þó finnst mér hann meta það þegar við skrifum harða leiðara og andmælum andstæðingum hans, ef þeir reyna t.a.m. að líkja honum við Kastró eða grípa til þess að hann noti fasistískar aðferðir.

Þeir leiðarar okkar hafa fallið í góðan jarðveg hjá Davíð, svo og Reykjavíkurbréfið þegar við vitnuðum til ræðu sr. Þóris Stephensens í Dómkirkjunni.

Held hann hafi verið ánægður með það Reykjavíkurbréf, enda má hann vera það því þar er á það bent, að engu fyrirtæki í landinu sé jafn vel stjórnað og Reykjavíkurborg undir hans forystu.

Þó sagði hann við okkur Björn Bjarnason um daginn þegar við vorum að tala um Þorstein Pálsson og hann hefði ekki viljað fara til Washington vegna þess hann hefði viljað vera heima til að leysa efnahagsvanda þjóðarinnar, að hann skildi heldur lítið í þessum efnahagsmálum og gæti til að mynda ómögulega séð að ekki mætti loka gjaldeyrisdeildum bankanna í tvo eða þrjá daga, meðan forsætisráðherra skryppi til Bandaríkjanna, annað eins hefði nú verið gert áður!

Auk þess hefði öll þjóðin lifað langa páska án þess gjaldeyrisdeildir væru opnar!!!

Held hann hafi litlar mætur á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar . Hann hefur sagt við mig að fásinna sé að ætla, að hann gæti haldið meirihlutanum í Reykavík á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn hefði 25-26% eins og nú væri skv. skoðanakönnunum.

Ráðhúsmálið breytti þar engu um.

 


 

12. maí – uppstigningardagur

Þorsteinn Pálsson talaði við mig og spurði álits á því hvort hann ætti vegna efnahagskreppunnar í landinu að hætta við heimsókn sína til Reagans eða halda henni til streitu.

Segir að miklir erfiðleikar steðji að þjóðinni og hann geti illa samvizku sinnar vegna farið til Bandaríkjanna, meðan svo sé.

Segist halda að hann muni ekki njóta fararinnar ef hann skilji eftir alla enda lausa hér heima.

Ráðgert sé að hann fari til Washington nk. laugardag og komi ekki heim fyrr en föstudaginn í þarnæstu viku.

Segir ennfremur að útstreymi gjaldeyris úr bönkunum hafi verið gífurlegt, einkum þriðjudag og miðvikudag og skilst mér að um hafi verið að ræða fjórðung gjaldeyrisforða þjóðarinnar, eða um 2,5 milljarða króna.

Bæði einstaklingar og fyrirtæki sækja í þennan gjaldeyri.

Mér skilst á Þorsteini að mikill ágreiningur sé í ríkisstjórninni og treysti hann ekki öðrum til að leiða viðræður um vandamálin. Segir hugmyndir samstarfsflokkanna, einkum Alþýðuflokksins, ómögulegar og út í hött og nú þurfi að ná pólitískri samstöðu, en það geti orðið erfitt eins og nú háttar.

Segir að Matthías Á. Mathiesen muni gegna störfum forsætisráðherra ef hann fer vestur og skilst mér að þá geti svo farið að forystan verði í höndum samstarfsflokkanna og allt lendi í hnút.

Ríkisstjórnin geti sprungið í loft upp meðan hann sé vestra.

Bandaríski sendiherrann telji vandkvæði á því að hann fresti förinni og hvetji til hennar, en hann sé á báðum áttum.

Styrmir er í Izmir. Og þegar ég talaði við hann og sagði honum alla málavöxtu kom í ljós að við erum sammála um, hvernig bregðast skuli við.

Það sé af og frá að svo merkilegri og mikilvægri ferð sé aflýst með svo skömmum fyrirvara og vafasamt hvort af henni yrði þótt frestun fengist.

Slík ferð hefur ekki verið farin og boðið væri einstakt í sögu lýðveldisins.

Efnahagsvandann væri hægt að leysa jafnframt því sem Þorsteinn færi vestur.

Við höfum áður þurft að fella gengið og horfast í augu við svipaðan vanda og nú blasir við.

Hvetjum því Þorstein til fararinnar, en hann getur stytt ferðina eitthvað.

Aðalatriðið er að hann hitti Reagan í Hvíta húsinu og Schultz, utanríkisráðherra.

Hann getur farið seinnipart sunnudags og komið aftur næsta þriðjudag og stjórnað viðræðunum um efnahagsmálin.

Samgöngur eru nú öðruvísi en áður og auðvelt að hafa verkstjórn á hendi einn eða tvo daga með símtölum.

En vesturferðin er mikilvæg fyrir okkur. Undirbúningur kominn á lokastig.

Ferðin yfirlýsing um góða vináttu þjóðanna tveggja og þá virðingu sem Hvíta húsið vill sýna forystumönnum Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra landsins, en í því er fólgin mikil yfirlýsing um þá virðingu sem þjóðin nýtur – og ekki sízt sá flokkur og þeir menn sem hafa haft á hendi forystu um að móta farsæla utanríkisstefnu.

Þorsteinn hringdi aftur um kvöldið.

Sagði honum að hann ætti að slá tvær flugur í einu höggi, fara vestur, stytta ferðina og hafa á hendi verkstjórn til lausnar efnahagsvandanum.

Fjölyrtum ekki um málið en fékk á tilfinninguna að Þorsteinn hygðist reyna undir öllum kringumstæðum að ljúka heimsókninni í Washington og einbeita sér jafnframt að lausn efnahagsvandans.

Davíð Oddsson kom í heimsókn upp á Morgunblað. Við Björn Bjarnason settumst með honum og röbbuðum við hann.

Vorum allir á einu máli um að Þorsteinn ætti að fara til Bandaríkjanna.

Davíð sagði að hann hefði sjálfur sagt sér að hann færi ekki og þurftum við þá ekki frekari vitna við.

Davíð sama sinnis og við hinir.

Hann er þeirrar skoðunar að gengisfelling sé svo venjuleg úrlausn á Íslandi að hún sé ekkert merki um hættuástand.

Vorum sammála um að aflýsing slíkrar ferðar með svo litlum fyrirvara sé mjög dramatísk og nánast varla minna tilefni en stórfelld hætta sé á ferðum.

Menn gætu farið að tala um að Þorstein brysti kjark til að fara vegna ábyrgðartilfinningar og samvizkusemi.

Framsóknarmenn tönnlast á gengisfellingu og blöðin full af slíku tali og nú eru útgerðarmenn búnir að fá fólk í lið með sér til að hrinda fastgengisstefnunni af höndum sér.

Davíð lízt ekki á blikuna.

Þingið sent heim og síðan öll þessi læti með viðeigandi varnaraðgerðum.

Meðan við sátum þarna þrír hringdi síminn.

Það var Þorsteinn.

Hann sagðist hafa reynt að ná í mig um morguninn og spurði hvort ég hefði ekki fengið skilboð þess efnis.

Ég neitaði því.

Hann varð undrandi og sagði ég hefði verið fyrsti maður sem hann hefði reynt að ná í þegar hann hefði verið að taka þessa ákvörðun, en án árangurs.

Jóhannes Nordal hefði verið sömu skoðunar og við Styrmir á uppstigningardag og hvatti hann eindregið til farar vestur, en hann hefði á fundi ríkisstjórnarinnar þá um morguninn hlustað á ágreininginn og þurft að horfast í augu við allan vandann og eftir fundinn hefði hann sagt við Þorstein að sér hefði snúizt hugur.

Hann væri nú þeirrar skoðunar að Þorsteinn ætti ekki að fara vestur, heldur reyna að leysa ágreininginn í ríkisstjórninni og finna leiðir til lausnar efnahagsvandanum.

Þorsteinn hélt fast við þetta í símtalinu eins og til að reyna að sannfæra mig um að ákvörðun hans væri sú eina rétta.

Hann sagðist hafa verið ákveðinn í að fara til Bandaríkjanna kvöldið áður, en eftir ríkisstjórnarfundinn þá um morguninn hefði sér snúizt hugur og þá hefði hann tekið ákvörðun um að vera heima og leiða viðræður.

Stjórn þingflokks Sjálfstæðisflokksins hefði einnig hvatt sig til þess.

Síðar frétti ég að Birgir Ísleifur og Halldór Blöndal hefðu verið þeirrar skoðunar frá byrjun, en Ólafur G. Einarsson ekki, en þó snúizt á þá sveifina undir lokin.

Sagði Þorsteini hverjir væri hjá mér og fannst honum ágætt að þeir vissu af þessu símtali.

Mig minnir ég hafi sagt honum að við værum allir þeirrar skoðunar að hann hafi átt að fara vestur.

Þorsteinn hringdi svo aftur til mín síðar. Sagði mér nánar frá gjaldeyrisflæðinu út úr bönkunum og ástandinu eins og það væri. Endurtók það sem hann hafði sagt fyrr um morguninn að stjórnin hefði að öllum líkindum sprungið ef hann hefði farið vestur til Bandaríkjanna, kannski ekki á meðan hann var þar, heldur fljótlega eftir heimkomuna, að mér skildist.

Vandinn og ágreiningurinn væri svo mikill að líf stjórnarinnar lægi við, hvorki meira né minna.

Held hann hafi talið að við myndum gagnrýna ákvarðanir hans í Morgunblaðinu þar sem við værum andvígir þeim.

Ég sagði við hann, Þú ert að tala við þann mann sem er harðasti gagnrýnandi þinn í þessu efni.

Já, sagði hann, ég veit það.

Ég fann hann velti því fyrir sér hvort sú afstaða kæmi fram í blaðinu, þannig að hann hafði af því verulegar áhyggjur og að því kom að hann bað okkur að bregðast sér ekki.

Ég sagði við Þorstein að við morgunblaðsmenn hefðum talað saman um morguninn um forystugrein blaðsins. Hún væri frágengin og stefnan mörkuð. Hann yrði að vita af einhverju baklandi á svo erfiðri stund og ég vildi að hann vissi að persónulegar skoðanir mínar eða okkar yrðu ekki eins og glampandi axaregg yfir höfði hans í Morgunblaðinu daginn eftir.

Honum létti augsýnilega.

Ég sagði við hann, Þorsteinn minn, ég skal lofa þér að heyra forystugrein blaðsins. Hún liggur hér á borðinu fyrir framan mig.

Nei, viltu vera að því, sagði hann, gerðu það ekki, það er öndvert prinsippum blaðsins.

Ég ætla að brjóta öll prinsipp, sagði ég, ef þú hefur áhuga á að heyra greinina.

Já, þér finnst það, sagði hann.

Hún er samin eins og ákveðið var í morgun og af henni getur þú séð að persónulegar skoðanir okkar eru ekki í fyrirrúmi. Það er annað sem er mikilvægara eins og á stendur, þú þarft að eiga þér eitthvert skjól, þegar svona er komið. Það er öllum fyrir beztu.

Ég las svo fyrir hann forystugreinina, en það hef ég víst aldrei gert áður, nema ef vera skyldi í forsetakosningunum sællar minningar, þegar ég las undir lokin forystugrein Morgunblaðsins fyrir Gunnar Thoroddsen.

Ég sagði við Þorstein þegar ég hafði lesið greinina, Ef þú vilt mátt þú jafnvel koma með tillögur til breytinga.

Þetta er alveg eins og þú hefur lýst því, ég óska ekki eftir neinum breytingum, sagði hann. Samt veiztu að ég afsala mér aldrei neinum völdum!

Ég held þú þurfir ekki að óttast neinar aftökur af okkar völdum, sagði ég. Við höfum ekki í hyggju að bregðast þér á svo erfiðri stund. Þjóðin er hálfrugluð, dómgreindin er hálfbrengluð, það vitum við.

Margir fögnuðu því þegar Steingrímur (Hermannsson) ætlaði að tala við Arafat og PLO.

Meirihlutinn var með því að forsetinn færi til Svétríkjanna að selja teppi og síld!

En nú gæti farið svo að allir gagnrýndu þig fyrir að fara ekki til Bandaríkjanna!! Við verðum að taka þátt í því að til þess komi ekki og ég er ekkert frá því að ákvörðun þinni verði vel tekið eins og ástandið er hér á landi. En nú er örlagastund.

Þakka þér fyrir, sagði Þorsteinn, nú sef ég rólega í nótt.

Þetta er alger undantekning.

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins munu ekki fá svona afgreiðslu í framtíðinni; ekki nema á örlagastund; ekki nema lífsháski steðji að þjóðinni.

Nýir forystumenn Sjálfstæðisflokksins verða að leysa sína félagsmálapakka án okkar aðstoðar.

Án þess við skjöldum þá eins og lýst hefur verið.

Ég ætla ekki að lesa neina leiðara í framtíðinni, hvorki fyrir forystumenn Sjálfstæðisflokksins né aðra.

Ekki einu sinni þá sem herzt hafa á Morgunblaðinu.

Þeir verða að bjarga sér. Nú eru þeir að taka við forystunni í oddafluginu. Þeir segjast kunna vængjatökin. Mikið er í húfi að það sé rétt.

Tíminn hleypur frá okkur sem eldri erum. Senn horfum við á hið villta annaríki vorsins.


4. október

Talaði við Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í gær þriðjudaginn 4. október ‘88 og gerði honum grein fyrir því að við mundum skjalda hann í þeirri viðleitni að stækka álverið í Straumsvík og efla stóriðju, ef niðurstöður yrðu jákvæðar.

Ég sá honum þótti vænt um þetta og hann staðfesti að áhugi kratanna á iðnaðarráðuneytinu hefði verið alvara.

Hann sagðist ekki vita um neina baktjaldasamninga milli Steingríms Hermannssonar og allaballanna enda mundi hann ekki vinna eftir neinum slíkum samningum sem ekki væru til að hans áliti.

Hann sagði að Steingrímur hefði talað óvarlega í sjónvarpinu um daginn þegar hann gaf það í skyn að stækkun álversins yrði ekki nema með samþykki allra stjórnarflokkanna.

Jón sagðist að vísu þurfa að fara með löndum í þessu máli eins og allir vissu en hann mundi halda sínu striki og reyna að klára málið, hvernig sem það færi nú. Hann mundi ekki halda sig við dagsetningar enda voru það ekki útlendingarnir sem töluðu um 1. marz, heldur Íslendingar. Hefði miklu meiri áhuga á því að undirbúa málið eins vel og unnt væri og vinna því fylgi, að mér skildist. Sagðist einnig þurfa að róa sína menn, t.a.m. Kjartan Jóhannsson, og sætta þá við sína málsmeðferð, en eitt væri víst að Hjörleifur (Guttormsson) og allaballarnir mundu ekki stjórna því á nokkurn hátt, hvernig hann færi með þetta mál.

Hann mundi gera það eins og bezt þætti.

Mér skildist að hann mundi setja einhverja nýja menn í málið og kanna það til hlítar. Það mundi e.t.v. taka lengri tíma en Friðriki Sophussyni þætti gott eða ráðlegt, en gamlar dagsetningar mundi hann ekki halda upp á, hvað sem afstöðu annarra liði.

Ég sagði honum að það væri mikilvægt að hann kæmi málinu í höfn, m.a. til að sýna fram á að allaballarnir hefðu ekkert að gera með málsmeðferð eða niðurstöðu.

Hann fullyrti að svo yrði ekki.

Ég benti honum á að Morgunblaðið myndi gagnrýna hann og stjórnina harðlega ef í ljós kæmi að þeir stjórnuðu ferðinni og gerir hann sér það ljóst.

Tel þó að einhver kvíði sé í honum út af yfirlýsingum Steingríms og kannski einhverra annarra, ég veit það ekki.

Brosandi sagði hann: “Þetta er erfitt mál. Það gæti kostað svo sem eina ríkisstjórn!”


Þá töluðum við um Evrópubandalagið og hefur hann augsýnilega mikinn áhuga á því en þó virtist mér hann hafa einna mestan áhuga á fangelsismálum sem hann hefur látið í hendur Halldóri Ásgrímssyni. Hann sagðist telja sjálfan sig hafa unnið þar umbótastarf og væri viðkvæmur fyrir að því yrði lokað.


Tók það sérstaklega fram að hann treysti Haraldi, syni mínum,fullkomlega fyrir að framfylgja því sem að væri stefnt og taldi hann hafa fullan skilning á því í samtölum þeirra.

( Innskot seinna :Jón var dómsmálaráðherra 1987-88 í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og skipaði þá Harald fyrsta fangelsismálastjóra landsins,en var nú iðnaðararráðherra í stjórn Steingríms Hermannssonar.

Halldór tók við dómsmálaráðuneytinu af Jóni 1988).

Jón

sagði að Halldór Ásgrímsson hefði fengið hugmyndir hans beint í æð og ekki kæmi til greina að hann færi að setja framsóknarmenn hingað og þangað í þennan þátt dómsmálakerfisins.


Hann yrði áhugasamur um það en mundi líklega helzt vilja að nýtt fangelsi yrði í Vopnafirði og var eitthvað kvíðinn yfir því að það yrði ekki gott fyrir Halldór því menn gætu tekið það eins og einhverja persónulega pólitík hans, en það væri þó ekki.

Vopnafjörður væri mjög vel til þess fallinn og hann nefndi einhvern bæ sem ég man ekki þar sem unnt væri og æskilegt að hefja slíka starfsemi.

Hann nefndi einnig að fjármagn til nýs kvennafangelsis væri á leiðinni og hefur augsýnilega mikinn áhuga á þessum þætti “þjóðlífs” okkar.

Gat þess að Kvíabryggja væri úti á landi.

Jón sagðist vera mikið með hugann við Evrópubandalagið.

Hann væri sannfærður um að Íslendingar vildu ekki vera eitthvert útsker langt norður í Ballarhafi, einangrað frá umheiminum. Hann væri að undirbúa hugmyndir um það hvernig mæta ætti innri markaði bandalagsins 1992.

Jón hefur gífurlegan áhuga á því að við séum ekki eins og álfar út úr hól, heldur vel undirbúnir að mæta nýjum ákvæðum Evrópubandalagsins, þegar þar að kemur.

Hann vinnur nú að undirbúningi þess og segist sjálfur hafa samið klásúluna í nýja stjórnarsáttmála. Benti mér sérstaklega á að þar væri talað um að þessum nýja þætti ættu Íslendingar að mæta án þátttöku í bandalaginu eins og komizt var að orði í sáttmálanum og þættist hann vita að ritstjórar Morgunblaðsins væru þeirrar skoðunar einnig, að svo skyldi með fara.

En nú yrði að finna flöt á því hvernig samskiptum okkar við bandalagið yrði háttað, án aðildar.

Mér fannst hann vera að segja að einhverjar fórnir þyrfti að færa til þess að við yrðum ekki einangrað fyrirbrigði í Evrópu og langt úti í hafsauga í efnahagslegum og lífskjaralegum skilningi, ef svo mætti að orði komast.

Telur sig vita að um þessi atriði sé ekki samkomulag í Sjálfstæðisflokknum og ekki heldur í kringum okkur á Morgunblaðinu.

Ég heyrði ekki betur en hann þættist vita að Björn Bjarnason vildi að við gengjum í bandalagið – og væri hann ekki einn um það.

Mér fannst á Jóni að hann hefði lesið þetta út úr skrifum Björns og ekki er ólíklegt að hann hafi heyrt þetta eftir honum einhvers staðar því Jón hefur stór eyru og margir sem tala við hann.

Ég tók t.d. eftir því að hann hefur heyrt mikið um Halldór Blöndal og fleiri sjálfstæðismenn hafa talað illa um þá Jónana (Jón Sigurðsson og Jón Baldvin Hannibalsson)og sagði hann ætti marga góða vini í kjördæmi Halldórs og þeir segðu honum hvernig Halldór hefði talað og það væri ekki allt gott!

Slíkir menn væru varla samstarfshæfir.

Það sem mér þótti einna merkilegast af því sem Jón Sigurðsson sagði var sú skoðun hans að ekki væri unnt að fella vextina með handafli; það yrði ekki gert.

Ég heyrði ekki betur en hann væri á sömu skoðun og ég að vextir ættu að lækka samkvæmt markaðnum. Það væri markaðurinn sem ætti að ákveða hvernig þeir lækkuðu.

Fyrsta atriðið sem nú blasti við ríkisstjórninni væri ekki að hlaupa til og afla skatta af fjármagnstekjum einstaklinga, heldur þyrfti slík ráðstöfun undanfara.

Það væri út í hött að ráðast á spariféð í 20-30% verðbólgu og alls ekki unnt fyrr en búið væri að koma verðbólgunni niður.

Það væri höfuðviðfangsefnið nú að minnka verðbólguna og þar með lækkuðu vextir sjálfkrafa, en þá fyrst mætti ræða um það, hvernig skattleggja ætti fjármagnstekjur og yrði það ekki gert nema með þeim hætti að slíkur skattur lenti á þeim sem græða óheyrilega á sparifé og verðbréfum.

Mér þótti þetta mjög athyglisvert og kannski það athyglisverðasta í samtalinu.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi ríkisstjórn eigi eftir að koma mörgum á óvart á næstunni, þannig að hún verði ekki eins harðhent og menn óttast.

Held þeir geri sér grein fyrir því að ekki sé til mikils ætlazt af þeim og þess vegna geti þeir starfað í jákvæðara andrúmslofti þegar fram í sækir en menn héldu.

Þetta gerðu alþýðubandalagsmenn sér einnig ljóst.

Vinstri stjórn hafi nú í fyrsta skipti tekið við vondu búi stjórnar Sjálfstæðisflokks og allir vissu að nú þyrfti að moka íhaldsflórinn.

Það sé ekki sama hvernig hann væri mokaður og ef þeir færu hóflega í þennan mokstur gæti það tekizt betur en menn hygðu.

Jón sagði það rétt vera að úrræðin væru gamalkunn og raunar öll yfir 40 ára gömul!

En hann bætti því við að stundum væri nauðsynlegt að nota gömul úrræði,þegar ekki væri lag til að nota ný.

Þannig hefði ástandið verið.

Gömlu úrræðin yrðu að duga sem stæði.

Sjálfur væri hann auðvitað ekkert hrifinn af þessum úrræðum en augljóst er að hann trúir því að hægt sé tímabundið að nota þau til úrbóta, ef hóflega er í sakirnar farið.

Hann sagði að Þorsteinn Pálsson hefði verið búinn að samþykkja gömul úrræði eins og allir vissu og benti m.a. á forstjóranefndina sem hefði skilað áliti þess efnis að niðurgreiðsluleiðin væri bezt.

Ég sagði honum að Þorsteinn hefði sagt mér að hann hefði haft allan fyrirvara á því en um þetta atriði er augsýnilega ágreiningur eins og sumt annað, þar sem sitt sýnist hverjum eins og oftast er í slíkum pólitískum darraðardansi sem verið hefur.

Ég heyrði á Jóni að hann hefði um sumt getað átt samstarf við Friðrik Sophusson og Friðrik hefði stundum komið honum á óvart, en í önnur skipti væri hann gjörsamlega lokaður og viðbragðslaus.

Hann heldur því fram að Þorsteinn hafi sjálfur sprengt stjórn sína og ekki áttað sig fyrr en svo slysalega vildi til, að hann hafði misst allt út úr höndunum á sér.

Telur það eins konar vanþroska að láta sér detta í hug að koma með afnám matarskatts á kratana, það hefði verið sálfræðilega forkastanlegt eftir það sem gengið hefði á.

Jón Baldvin hefði bókstaflega orðið trítilóður og eftir það lítil von um að þeir Þorsteinn gætu talað saman.

Jón væri mjög reiður út í Þorstein.

Kratar hefðu haft áhyggjur af því á tímabili, að Steingrímur kæmi allt í einu og segði: Já matarskattinn við höfum alltaf viljað losna við hann!

Auðvitað skulum við losna við hann!

Og hvað hefðu kratar þá átt að gera?

Þá hefðu þeir staðið einir og vígstöðulausir.

En Steingrímur hefði sýnt þann manndóm að gera það ekki. Það hefði bæði verið vegna þess að hann kynni að vinna með mönnum og taka tillit til þeirra, ef út í það færi, og jafnframt af eigingirni vegna þess að hann hefði auðvitað séð að með því yrði treyst sambandið milli hans og Jóns Baldvins.

Hann sagði að þegar Steingrímur hefði ekki notað þetta tækifæri, þá hefði trúlofun þeirra Jóns Baldvins hafizt og það traust myndazt sem leiddi til giftingar.

Hann taldi þetta augsýnilega snjallt hjá Steingrími, að standast þessa freistingu og vel teflt í stöðunni.

En hann er ekkert hrifinn af því að þurfa að styðjast við atkvæði Stefáns Valgeirssonar þingmanns og telur hann augsýnilega eins og mink í pólitísku hænsnabúi.

Mér er kunnugt um það vegna þess að Þorvaldur Gylfason leitaði ráða hjá mér, að Jón hefur áhuga á því að breyta dálítið andrúminu í kringum stjórnina og þeir Halldór Ásgrímsson hafa ákveðið að setja fagmenn í atvinnutryggingarsjóðinn sem úthluta á 3-6 milljörðum króna.

Þorvaldur spurði mig hvort hann gæti tekið þátt í stjórn slíks sjóðs, hann talaði við mig í gærkvöldi. Hann hafði áhyggjur, en vildi nú samt ekki skorast undan óskum Jóns Sigurðssonar um þátttöku í stjórn sjóðsins til þess að minnka áhrif Stefáns og co. og efla það álit með almenningi að sjóðsstjórnin ætlaði sér ekki að hygla pólitískum atvinnurekstri sem fara ætti á hausinn, heldur meta af alvöru hvaða fyrirtæki ættu skilið að fá stuðning frá sjóðnum.

Ég sagði Þorvaldi að á þessu væru tvær hliðar: það væri auðvelt að útbía sig með þátttöku í slíkum sjóði sem svo illt orð færi af þegar í upphafi, en hitt væri annað að reyna að stuðla að því með Jóni og Halldóri, að góðir menn tækju þátt í því að efla verðug fyrirtæki og koma í veg fyrir þann pólitíska subbuskap sem í uppsiglingu væri.

Þorvaldur gerir sér grein fyrir þessu og er tvíátta.

Sagði honum að margir, bæði sjálfstæðismenn og aðrir, myndu eiga erfitt með að skilja að prófessor í viðskiptafræðum anaði útí slíkt fen. En bæði faðir hans og Ólafur Björnsson, prófessorar í viðskiptafræðum, hefðu að vísu þurft að axla slíka ábyrgð.

Þorvaldur var að velta því fyrir sér hvort slík stjórn, ef góðir fagmenn væru í henni, gæti orðið ópólitísk fagmannastjórn.

Ég dró það í efa.

Hann sagði það væri helzta ósk Jóns Sigurðssonar og ætlaði að hugsa málið.

Að lokum má geta þess að Jón Sigurðsson telur þá skýringu á afstöðu Steingríms Hermannssonar ranga, að hann hafi byrjað sem leiðtogi nýs þéttbýlis Framsóknarflokks sem hefði breytzt í landsbyggðarflokk – og það hefði breytt honum.

Hann telur ekki að flokkurinn hafi breytzt með þessum hætti.

Steingrímur hefði stjórnað þeim flokki sem hann vildi.

Mér skildist miklu fremur að verkstjórn ríkisstjórnarinnar og samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn hefði verið með þeim hætti, að það hefði miklu frekar breytt bæði Framsóknarflokknum og Steingrími, án þess ég geti fullyrt að ég hafi skilið Jón Sigurðsson rétt, þegar hann talaði um þetta.

En það skildi ég þó rétt að hann taldi ekki að söguskýring Þorsteins Pálssonar væri rétt, þ.e. að Framsóknarflokkurinn hefði breytzt í gamla flokkinn án þess Steingrímur vildi.

Vil geta þess að lokum að Jón Sigurðsson gerir sér grein fyrir erfiðleikum ritstjóra Morgunblaðsins og veit fyrir hvaða aðkasti þeir hafa orðið.

Sagði að slíkt væri að sínu mati ómaklegt.

Það væri í raun og veru ekki hægt að styðja aðgerðir sem ættu ekkert skylt við sjálfstæðisstefnuna né pólitíska verkstjórn sem kæmi sjálfstæðisstefnunni og því sem Morgunblaðið hefði boðað í raun og veru ekkert við.

Sagðist ekki skilja hvernig á því stæði, að forystumenn Sjálfstæðisflokksins skrifuðu ekki það sem þeir hugsuðu þegar þeir hefðu eins mikil tækifæri til þess og raun bæri vitni þar sem Morgunblaðið væri mjög opið fyrir slíku, t.d. var hann hissa á því að Þorsteinn Pálsson hefði ekki gert grein fyrir sínum málum með grein eða greinum í Morgunblaðinu.

Það er augljóst að sjálfur telur hann mikilsvert að geta skrifað í Morgunblaðinu og talað við kjósendur sína og aðra lesendur blaðsins.

Hann spurði hvort hann mætti skrifa grein um vaxtamálin og vildi helzt gera það nú í vikunni, þótt greinin um Reykjavík og landsbyggðina birtist miðvikudag og ég dró ekki úr honum á nokkurn hátt, enda er ég sammála honum um það, að forystumenn Sjálfstæðisflokksins mættu sjálfir túlka meir af þeirri stefnu og þeim hugmyndum sem þeim eru kærastar.

Jón sagði að það væri gjörsamlega ómögulegt að reiða sig á að ritstjórar nútímablaðs stæðu í því lon og don að skrifa fyrir stjórnmálamenn sem í raun gætu gert það sjálfir.

 

29. október

Minntist Valtýs Stefánssonar í ræðu í 75 ára afmælishófi Morgunblaðsins að Hótel Borg.,sagði m.a.:

.......Engum var betur ljóst en Valtý Stefánssyni að blaðamennsku læra menn ekki í skólastofum, heldur í starfinu sjálfu. En haldgóð menntun er hverjum blaðamanni jafnframt mikilvægur stuðningur. Hvort sem menn vinna að ritstörfum eða öðrum þáttum blaðamennsku, hönnun, tækni eða annarri iðju er reynslan í daglegum erli sá eldur sem allt herðir.

Sókrates minnir á að nauðsynlegt sé að aga ótaminn hest við kunnáttu góðs tamningamanns en uxum þurfi að beita fyrir plóg og venja þá við akuryrkju.

Þannig á einnig að búa blaðamenn undir starf sitt.

En þá má líka bæta því við að án upplags verður enginn foli að góðum gæðing.

Meira þarf til í hörðum skóla blaðamennskunnar en kunna að kveikja og slökkva á sgulbandi.

Hitt er svo ekki síður íhygli vert að aþeningum til forna var jafn tamt að nota sophiu, eða vizku, um hvert það starf sem krafðist kunnáttu og þekkingar en ekki einungis andlega iðju svo nefnda.......


Ódagsett - Svar við spurningunni:
Hvað viltu segja um Sól á heimsenda?

Sagan gerist fyrst og síðast í hugskoti aðalpersónunnar, þar er leiksviðið. En ég nota andrúm og umhverfi sem mörgum Íslendingum er nærtækt úr ferðalögum til Miðjarðarhafslanda, þótti það henta sögunni betur en íslenzk umgjörð héðan að heiman.

Þannig gat ég lýst reynslu persónanna í nýstárlegu umhverfi og kallað fram ósköp hversdagslega reynslu með ævintýralegri uppákomum en ella.

Ég geri mér grein fyrir því að ljóðskáldið er ávallt einhvers staðar á næstu grösum þegar ég skrifa óbundið mál. Mér dettur ekki í hug að gera tilkall til að nefnast skáldsagnahöfundur enda þótt ég hefi skrifað smásögur og nokkur leikrit.

Ég kalla þetta kver sögu. Hún er í tengslum við aðrar sögur sem ég hef skrifað í Nítján smáþáttum og Konunginum af Aragon og svo auðvitað ljóðin.

Stíllinn er ljóðrænn prósi vona ég og freistingin – því það er freisting í öllum skáldskap eins og lífinu sjálfu – er hnýsni í duldar og hálfduldar tilfinningar og sálarlíf persónanna.

Sagan er eins konar heimsókn inní vitundarlíf þeirra.

Og sem gestur vona ég að höfundurinn sé velkominn inní þá veröld sem hann er að reyna að lýsa.

Veröld okkar allra.

Án þess þó að hafna sérkennum persónanna í því umhverfi sem er næring sögunnar og óvænt reynsla.

Stíll sögunnar er kröfuharður við lesandann. Hann á ekki að vera allur þar sem hann er séður þótt hann eigi að vera ljós. Að því leyti minnir hann á smásögurnar í Konunginum af Aragon sem böggluðust eitthvað fyrir brjóstinu á ýmsum sem eiga ávallt von á annaðhvort hrárri blaðamennsku eða ljóðrænni uppákomu þar sem atómskáld og blaðamaður eins og ég er á ferð.

Persónurnar í Sól á heimsenda eru fólk sem stendur hjarta mínu nærri og ég tel mig þekkja vel. Þær eru sprottnar úr draumum og veruleika, en þar – og einmitt þar – verður skáldskapurinn til eins og ég hef raunar ávallt minnt á í ljóðum mínum og sögum.

Úr draumum og veruleika, einmitt(!)

Eins og lífið sem kviknar á mörkum elds og ísa.

Allur skáldskapur á rætur í reynslu höfundarins. Úr margvíslegum minningum þjappast kjarninn sem er hráefni alls skáldskapar saman eins og súputeningur og breytist í næringu við rétta meðferð.

Það er þannig sem aðalpersónan upplifir líf sitt og þá sem næstir standa, eða eins og höfundur kemst að orði í upphafi sögunnar:

“Þau voru orðin svo vön þessum athugasemdum drengsins að hann var hættur að muna hvenær þær voru gerðar enda var enginn tími til þegar þau voru á ferðalögum saman, hann var löngu þurrkaður út og það sem var verður og það sem verður var án þess hann leiddi hugann að því eða velti því fyrir sér með nokkrum hætti. Og hann naut þess að losna við tímann og upplifa líf sitt í einni andrá, að upplifa alla reynslu sem eina reynslu, hvert atvik sem eitt atvik og hverja athugasemd sem eina ljósrák á svörtum myrkum himni”.

En það er umfram allt rétt sem Eiríkur Hreinn Finnbogason segir í kynningu:

“Sjálfsævisaga er hún vitaskuld ekki fremur en annar skáldskapur sem sprottinn er úr reynslu og umhverfi höfunda”.

Smásagan um Hamsun í Konunginum af Aragon er skrifuð uppúr leikriti einsog Spunnið um Stalín. Ég hafði gaman af að skrifa mig frá leikritunum, það var einsog að berjast fyrir frelsi sínu; undan oki annarra. Í sögunni er maður einn og óháður einsog í ljóðinu. Laus við íþyngjandi kröfur sviðs og tækni.

Einn með hugsun sinni.

Það er mér í senn freisting og fullnæging.

Samt hef ég verið blaðamaður alla mína hundstíð, hvernig má það vera??

Þegar Spunnið um Stalín var að birtast í Morgunblaðinu skrifaði einhver það væri merkilegt hvað Matthías skildi vel ofbeldi einræðisherrans og gengist upp í því!

Ég neita því ekki að þetta sovézka kerfi, og þá einkum Stalín, hefur dregið að sér athygli mína, rétt einsog þegar flugur sækja í skít.

En þessi ástríða hefur ekki orðið til þess ég hafi breytt um lit – einsog flugurnar!