Árið 1989


25. september - mánudagur

Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í sjónvarpinu í gærkvöldi, í tilefni af leiðara Morgunblaðsins, að blaðið kæmi Sjálfstæðisflokknum ekkert við og í Dagblaðinu Vísi í dag að Styrmir nyti einskis trúnaðar í Sjálfstæðisflokknum!

Friðrik Sophusson talaði við Styrmi og sagði að Þorsteinn teldi okkur Morgunblaðsmenn vinna gegn sér fyrir landsfundinn.

Ef við vildum stríð, þá gætum við fengið stríð!

Ég talaði við Þorstein sem sagðist telja að ég hefði stjórnað leiðaraskrifunum. Og auðvitað er það rétt að enginn leiðari er skrifaður án míns vilja. Það er auk þess rétt að ég ber ábyrgð á öllum nafnlausum forystugreinum blaðsins, ásamt Styrmi, hvort sem þær eru skrifaðar að mér viðstöddum eða fjarstöddum.

Ég spurði Þorstein hvers vegna hann hefði ekki haft manndóm til að nefna mig einnig í viðtalinu við Dagblaðið, en þá sagði hann, að blaðamaðurinn hefði einungis spurt um afstöðu hans til Styrmis og hann hefði svarað því, sem hann hefði verið spurður um.

Björn Bjarnason og Árni Þórarinsson,blaðamaður, segjast báðir hafa heyrt að nú séu “the kingmakers” á Morgunblaðinu komnir af stað enn eina ferðina og ýmislegt muni fylgja í kjölfarið fyrir landsfundinn.

Ég held aftur á móti það þurfi engan “kingmaker” fyrir Davíð Oddsson,enda erum við ekki í neinni krossferð í Sjálfstæðisflokknum.

Við Styrmir lögðum hönd á plóginn við myndun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar,en hún fór illa.

Og Davíð þarf enga aðstoð,ef til kemur.

Hann sér um sig sjálfur.


1. desember

Við Styrmir áttum fund með Geir Hallgrímssyni,seðlabankastjóra.á skrifstofu hans í bankanum síðdegis í dag.

Höfum ekki hitt hann frá því í október, hann hefur létzt mikið; og elzt um mörg ár.

Það var gaman að tala við hann og rifja upp atburði liðins tíma.

Geir sagði að Jóhann Hafstein hefði verið mjög beygður eftir fráfall Bjarna Benediktssonar og það hefði ekki verið í hans huga að taka að sér forystu Sjálfstæðisflokksins.

Þeir hefðu rætt saman, hann og Jóhann, Ingólfur Jónsson og Magnús Jónssonar og það hefði komið skýrt fram hjá Magnúsi og Ingólfi að þeir væru ekki reiðubúnir að axla þetta verkefni.

Ég minntist þá samtalsins við Ingólf á heimili þeirra Evu á sínum tíma.

Þá barst framtíðarforysta flokksins í tal og ég áttaði mig ekki á því að Eva, sem var fram í eldhúsi, hafði hlustað á samtal okkar Ingólfs, en hún kom allt í einu inn í stofu og sagði,

Ingólfur verður ekki formaður Sjálfstæðisflokksins! Hann hefur aldrei nokkurn frið, það er komið nóg!

Geir kvaðst ekki hafa haft áhuga á að taka við formennsku flokksins þótt ýmsir hafi verið hvetjandi þess, ekki sízt Eykon.

Eftir að Jóhann tók að sér forsætisráðuneytið hafi hann fengið meiri metnað en áður til að taka að sér formennskuna.

Geir kveðst hafa lýst yfir stuðningi við hann.

Hann hafi sagt Eykon frá því og Eykon reiðzt.

Varaformennskan hafi ekki verið komin á dagskrá á þessum tíma, það hafi ekki verið fyrr en mörgum mánuðum seinna og þá var Gunnar Thoroddsen kominn til skjalanna, en hann var hæstaréttardómari um þær mundir.

Gunnar talaði við fjórmenningana um að hann tæki við formennskunni, en Geir yrði ritari.

Hvorki Ingólfur né Magnús sögðust vilja taka að sér varaformennskuna.

Ég gat þess að Ingólfur kallaði okkur Sverri Hermannsson til ábyrgðar á landsfundinum 1971, þegar kosning fór fram milli Gunnars og Geirs og útlit fyrir að Gunnar væri kominn með meirihluta.

Sverrir hafði farið um landið að afla Geir fylgis og hafði ég farið með honum um Suðurland.

Sannfæring Ingólfs var í skötu líki og mér fannst hann draga sig í hlé fyrir kosningarnar.

Geir taldi þetta rétt mat, en við sigruðum.

Geir talaði um niðurlægingartíma sinn, eins og hann komst að orði, og þakkaði okkur stuðning fyrr og síðar.

Hann minntist á prófkjörið þegar hann féll í sjöunda sætið en ég hef einhvers staðar nefnt það í þessum dagbókarblöðum.

Þá um nóttina var hann hinn reiðasti og sakaði okkur Styrmi um að bera ábyrgð á óförum sínum í prófkjörinu þar sem við hefðum lyft Albert Guðmundssyni upp með því að hampa honum of mikið í blaðinu.

Hann hefur aldrei minnzt á þetta samtal áður og ég hélt satt að segja að hann myndi ekki eftir því, svo sár og reiður var hann um nóttina.

Hann sagðist ekki taka neitt aftur af því sem hann hefði þá sagt.

Albert hefði verið það versta sem fyrir íslenzk stjórnvöld hefði komið síðustu áratugi og hann hefði dregið stjórnmálabaráttuna niður á hið lægsta plan.

Hann hefði komizt til valda og áhrifa með því að nota fjölmiðla á þann veg sem aðrir hefðu ekki gert áður.

Bætti svo við að sjálfur bæri hann vissulega sína ábyrgð á Albert þar sem hann hefði átt þátt í að lyfta honum til valda, ekki síður en við.

Nætursamtalið við Geir fór fram í Valhöll, og þegar hann var sem reiðastur, spurði hann hvað gera skyldi.

Kjartan Gunnarsson var þar viðstaddur ásamt okkur Styrmi og hölluðust þeir að því að bezt væri að kalla saman landsfund, þar sem Geir segði af sér.

Ég mótmælti harðlega og sagði að þá mundi hann hrökklast úr starfi, niðurlægður.

Geir sagði nú að þessi afstaða mín hefði verið hárrétt og sæi hann það því betur sem lengra liði frá þessum örlagaríka degi.

Geir kvaðst lengi hafa velt því fyrir sér, hvort hann gæti ekki hefnt harma sinna og farið aftur í prófkjör og fengið úr því skorið, hver staða hans væri í flokknum.

En hann hefði horfið frá því þegar “ég var hrakinn úr ríkisstjórn” eins og hann komst að orði.

Geir taldi ekki að Morgunblaðið væri nógu hart í stjórnarandstöðu. Það gæti varla verið hlutverk ritstjóra þess að afla sér vinsælda.

Ég sagði það væri hlutverk ritstjóra Morgunblaðsins að afla því trausts og vinsælda án þess fórna heiðarleika og grundvallarstefnu.

Ritstjórar Morgunblaðsins hefðu ekki sízt sýnt það í þorskastríðinu 1976 að festa gæti verið mikilvægari en vinsældir, en þá þurftum við að halda sjó í miklu umróti og koma blaðinu í gegnum brotsjói öndverðs almenningsálits.

Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu jafnvel talað um úrsögn úr NATÓ.

Geir tók þessu vel að venju og sagði, Ég gefst upp!

Styrmir sagði að stjórnarandstaða Morgunblaðsins hefði ekki verið harðari á vinstristjórnarárunum 1971-1974 en nú væri, þótt mönnum fyndist það kannski.

Fyrir 1983 hefðum við, ritstjórar Morgunblaðsins, starfað í skjóli Geirs sem formanns flokksins og hann hefði jafnan tekið upp hanzkann fyrir blaðið þegar að því hefði verið ráðizt innan flokksins.

Nú hefðum við ekkert slíkt skjól og stæðum á berangri.

Það væri ný reynzla.

Þá hefði flokkur og blað ávallt átt samleið í meginmálum, en nú örlaði á skoðanamun.

Geir sagði að við hefðum ávallt talað mikið saman, við hefðum haft áhrif á hann og hann vonandi einnig á okkur, það hefði gert gæfumuninn.

Margt fleira kom fram í þessu eftirminnilega uppgjöri, en ég er ekki að tíunda það hér.

Styrmir ætlar síðar að senda mér minnisblað um það sem bar á góma. Hann hefur meiri áhuga á stjórnmálasögu þessa tímabils en ég.

Og hann kann á henni betri skil, finnst mér.

Ég var dálítið hissa á því sem Geir Hallgrímsson sagði um okkur og Albert Guðmundsson.

Við höfum látið Albert hafa hitann í haldinu; ævinlega.

Við höfum skrifað forystugrein þar sem við gagnrýndum árásir hans á Morgunblaðið á sínum tíma.

Í henni stendur m.a.:

“Albert Guðmundsson hefur þótt nokkuð stórorður í garð Morgunblaðsins. Sumum hefur þótt nóg um – og þá ekki sízt ýmsum í röðum sjálfstæðismanna. Aðrir “halda með” Albert.

Albert hefur haft lag á því að hafa boltann fyrir sig en nú hefur hann sent hann til Morgunblaðsins. Og þó að flestir hafi hingað til haldið að Morgunblaðið og Albert Guðmundsson hafi verið í sama liðinu er engu líkara en alþingismaðurinn telji, að blaðið sé einn helzti andstæðingur hans um þessar mundir.

Það er þó rangt.

Morgunblaðið veit ekki til að hann eigi neitt sökótt við blaðið, né blaðið við hann.

En Albert Guðmundsson verður að sætta sig við eins og aðrir þingmenn og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, bæði á alþingi, ríkisstjórn, sveitarstjórnum og víðar, að um hann sé rætt opinskátt í Morgunblaðinu, ekki síður en aðra sem valizt hafa til sóknar fyrir Sjálfstæðisflokkinn.”

Síðan er Alli gagnrýndur fyrir að hlaupa í Tímann og úthúða Morgunblaðinu, bæði þar og í Dagblaðinu, og sett ofan í við hann fyrir að ráðast harkalegar á blaðið en nokkrir andstæðingar þess og kalla það öllum illum nöfnum, saka það jafnvel um rangtúlkanir og það hafi beint ófrægingu að honum!

“Þrátt fyrir allt er ástæða til að fagna því, að þessar ásakanir eru komnar upp á yfirborðið.”

Síðan er bent á að Morgunblaðið hafi ávallt staðið Albert Guðmundssyni opið, ekki síður en öðrum forystumönnum Sjálfstæðisflokksins og raunar öllum skrifandi mönnum í landinu sem hafi áhuga á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, ef frágangur er málefnalegur og laus við persónuníð eða aðdróttanir sem varði við lög.

“En Albert Guðmundsson hefur, að minnst kosti ekki í seinni tíð, talið sig þurfa á að halda því plássi í Morgunblaðinu sem honum hefur alltaf staðið til boða, ef hann hefur viljað – og þá ekki sízt fyrir gagnrýni á Morgunblaðið.

En ekki hefur bólað á því að Albert Guðmundsson notaði sér þennan sjálfsagða rétt, varla einu sinni fyrir tvennar síðustu kosningar.

Nú gengur hann aftur á móti fram fyrir skjöldu í andstæðingablöðum – á sama tíma og hann vill ekki svara spurningum Morgunblaðsins en rýkur í Tímann undir fyrirsögninni “Tek ekkert mark á Morgunblaðinu – frekar en aðrir.”

Hann segir þar m.a. sem svar við þeirri spurningu Tímans hvort rétt sé það sem segir í Morgunblaðinu eins og komist er að orði “að verið sé að frysta þig úti í flokknum?”

“Já, Morgunblaðið og flokkseigendafélagið, skulum við segja. Það hefur gert margar tilraunir til að hilma yfir niðurstöður bæði prófkjörs og kosninganna. Þetta er bara einn liðurinn í þeirri iðju þess að breyta almenningsálitinu sér í hag.”

Hér mun átt við það að þrír blaðamenn Morgunblaðsins skrifuðu fréttaskýringar um viðhorf sjálfstæðismanna til hugsanlegrar þátttöku flokksins í ríkisstjórn eins og þau komu þeim fyrir sjónir, áttu samtöl við fjölda flokksmanna um land allt og drógu síðan ályktanir sínar án þess þar væri um að ræða stefnu eða skoðun Morgunblaðsins.

Það var fjallað um Albert Guðmundsson eins og ýmsa aðra sjálfstæðismenn sem tala fyrir munn flokksins og reynt að horfa á hann eins og aðra, frá ýmsum hliðum.

Þetta virðist Albert Guðmundsson ekki hafa þolað.

Við því er raunar ekkert að segja, hann er skapmikill stjórnmálamaður og hefði án einbeitni og skapfestu ekki orðið heimsfrægur knattspyrnumaður að verðleikum og þannig borið hróður Íslands um heim allan.

En Albert verður að sætta sig við að í Morgunblaðinu sé fjallað um hann, pólitíska stefnu hans og markmið með sama opinskáa hættinum og fjallað er um aðra stjórnmálamenn– eða er það ekki stefna sjálfstæðismanna að styðja og stuðla að “opinni blaðamennsku”?

Eða er Albert Guðmundsson þá ekki í þeim flokki?

Má kannski tala um allt nema hann?

Auðvitað verður hann að þola umnræður, ekki síður en aðrir.

Þeir sem taka jafnsterkt til orða og hann verða að hafa þrek til að þola, þegar þeim er svarað í sömu mynt.

Í þessari forystugrein er því treyst, en það mun koma í l jós.

Morgunblaðið kippir sér því ekki upp við gífuryrði Alberts í Tímanum og Dagblaðinu. Það hefur birt þau, svo lesendur geti fylgzt með því, hvernig efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í síðustu alþingiskosningum talar um þetta málgagn “flokks síns”.

En kannski er ástæðan til þess að viðbrögð Alberts Guðmundssonar eru jafn hörð og raun ber vitni sú, að hann hefur ekki Morgunblaðið í vasanum – og hefur ekki haft það frekar en nokkur annar hvað sem líður hjali hans um “flokkseigendafélagið” og önnur slík stóryrði.”

Síðan er sagt að Albert verði að þola að við yfirlýsingum hans sé brugðizt.

Blaðið láti ekki kaffæra sig í orðasneplum og merkingarlausum upphrópunum sem eigi ekkert skylt við stefnumál, hugsjónir eða markmið sjálfstæðisstefnunnar,“ enda er hún meiri og voldugri en nokkur einn einstaklingur, hversu valdamikill sem hann er í Sjálfsstæðisflokknum, á sama hátt og Morgunblaðið er miklu sterkari fjölmiðill en þær lítilmótlegu persónur, sem ritstýra því, enda á það eftir að lifa núverandi ritstjóra sína og marga ritstjóra aðra.

Sjálfstæðisflokkurinn á vonandi einnig eftir að lifa alla talsmenn sína, bæði Albert Guðmundsson og aðra sem starfa á vegum flokksins.

Bent er á að Alla hafi ekki tekizt að færa nein rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni að við höfum gert margar tilraunir til að hilma yfir niðurstöðu bæði prófkjörs og kosninga. Enda viti allir sem fylgzt hafi með blaðinu að þessi fullyrðing er óráðshjal og ekkert annað.

Þá hefur hann ekki heldur sýnt fram á neinar rangtúlkanir í Morgunblaðinu, enda er ekki flugufótur fyrir þeim fullyrðingum.

Þá er því hafnað að Morgunblaðið hafi reynt að gera hann tortryggilegan.

Þá er fjallað um þau ummæli hans að menn megi ekki njóta heimsfrægðar ef þeir vilja teljast gjaldgengir sjálfstæðismenn en það sé fyrirgefið “ef menn stjórna súkkulaðiverksmiðju”.

Þessu svarar Morgunblaðið svo:

“Skírskotunin til “súkkulaðiverksmiðjunnar” er augljós og íhugunarefni, ekki Morgunblaðinu heldur Sjálfstæðisflokknum og þá ekki sízt almennum stuðningsmönnum hans.

Yfirlýsingarnar eru ekki vandamál Morgunblaðsins, heldur Sjálfstæðisflokksins. Þær lýsa ekki Morgunblaðinu heldur erfiðleikum flokksforystunnar. En flokkurinn hefur oft áður þurft að glíma við slík vandamál, enda sýna þau ekki veikleika hans heldur styrk sem frjálslynds opins flokks þar sem ólíkar skoðanir takast á.”

Hitt sé svo annað mál hvort það sé hugsjón framsóknarstefnunnar til framdráttar að kalla Morgunblaðið “næturgagn” eins og Albert geri í tilfinningahitanum.

Vafalaust eigi einhverjir eftir að ylja sér við þetta orð og aðrar yfirlýsingar Alberts Guðmundssonar, en Morgunblaðið mundi ekki kippa sér upp við það.

Í lok leiðarans segir um Alla:

“Hann skaut fast. En það er ekki nóg að skjóta fast, ef menn brenna af.”

Þetta er nokkuð harður leiðari og Alberti er svarað fullum hálsi.

Ég skil eiginlega ekki hvernig Geir getur haldið því fram að við höfum ekki tekið á Albert Guðmundssyni.

Þessi forystugrein blaðsins ætti að taka af öll tvímæli um það.

En við Alli vorum alltaf góðir vinir á hverju sem gekk.

Aldrei neinn blettur á persónulegum samskiptum okkar.

Við áttum sameiginlegan arf úr ÍR og af Melavelli og hann dugar á hverju sem gengur.

Persónuleg tengsl ráða ekki stefnu, skoðun eða málflutningi Morgunblaðsins.

Það eiga menn erfitt með að skilja í fjármannahríð samtímans.

En vonandi kemst það einhvern tíma til skila.

Þangað til bíður maður eftir eilífðinni eins og Kolbeinshaus – og safnar hrúðurköllum.

Og nú er Kolbeinshaus horfinn með öllum sínum hrúðurköllum.

Skúlagatan lögð yfir hann og nú er hann líklega hvergi til nema í litlu kvæði í Borgin hló.

Það heitir Hörpusláttur.

Þannig hverfa einnig aðrir kolbeinshausar með öllum sínum hrúðurköllum undir skúlagötur eilífðarinnar;.

Týnast og gleymast.