1991

 

25. ágúst


Styrmir minn,

Fór yfir erlendu fréttirnar um helgina, ástríðan lifir enn góðu lífi!

Athyglisverðast fyrir okkur er yfirlýsing Jeltsíns um sjálfstæði Eystrasaltsríkja og áskorun hans á Gorbasjov að viðurkenna þau. Og Jeltsín hyggst viðurkenna þau eins og aðs.utanríkish. sagði við Mbl. svo þeir hljóta að skiptast á sendiherrum.

Þetta var allt sem við þurftum.

Jafnvel hetja eins og Þorgeir þurfti hvönn til að halda í. Og við ísl. hetjurnar þurfum einnig eitthvað að handlása okkur eftir, eitthvað meira en ástríðuna, þótt réttlætið sé okkar megin að venju.

Það er semsagt Jeltsín sem hefur gefið grænt ljós, hann er maðurinn sem við eigum nú að fylgja. Hann og Rússland hafa viðurkennt Eystrasaltsríkin – og það nægir okkur. Þú sérð hann á upphleyptu myndinni á styttu Jóns Sig. á Austurvelli.

Gorbastj. er aftur á móti maðurinn sem vísaði veginn, Jeltsín ryður hann.

Eitt sinn voru þeir báðir í sama flokki, það er hin ósýnilega hönd örlaganna sem nú bendir inn í framtíðina.

Þetta höfum við að vísu vitað, eða trúað, en þótt mín kynslóð sé hert í eldi er hún öguð við staðreyndir.

Annað gat verið lífshættulegt í kalda stríðinu eins og þú manst.

Nú er í senn drengilegt og stórmannlegt að fylgja Jeltsín rækilega eftir þótt við höfum ekki haft tækifæri til þess eða þurft þess, svo sterka sannfæringu sem við höfum um frelsi smáþjóða.

Við höfum ávallt séð sjálf okkur í brotnum spegli Eystrasaltsríkjanna og þess vegna höfum við ávallt tekið réttan pól í hæðina.

En maður verður að yfirgefa vígvöllinn án þess að leggja til þeirra sem þar liggja í sárum sínum.

Þannig horfum við nú á rússnesku þjóðina og ástæðulaust að auðmýkja hana og ég ætla að fylgja henni með fullri reisn að frelsiseldum Eystrasaltsríkjanna og sovézku lýðveldanna.

Það hefur nú um hálfrar aldar skeið verið æðsta hugsjón mín.

Ég þarf ekkert slagtog með gervihetjum eða sjálfskipuðum íslenzkum þjóðhetjum sem alltaf láta til sín taka þegar jeltsínarnir hafa rutt veginn.

Þetta var svona einnig í gamla daga og því var sjálfstæðisbarátta okkar ósköp lágkúruleg með köflum.

Beztu mennirnir eins og Hannes Hafstein urðu þá einatt illa úti andspænis mönnum sem sáust ekki fyrir en létu arka að auðnum í pólitísku gaspri sínu og komu því aldrei neinu til leiðar.

Það voru sóknvísir alvörumenn og engar loftbólur sem unnu alla áfangasigrana í sjálfstæðisbaráttu okkar eins og lesa má í Klofningi Sjálfst.flokksins 1915.

Þessa mættu sumir vinir okkar minnast sem nú halda hátíðir en það er einungis í hversdagsleikanum sem menn eru sterkir.

Hversdagshetjurnar eru mínir menn eins og þú ættir að vita.

Og nú lýt ég leiðsögn þeirra og kýs því samfylgdina við Jeltsín sem leysti Eystrasaltsríkin úr fjötrum.

En gleymdu því ekki að hann er Stór-Rússi eins og Solzhenitchyn – og það á eftir að koma í ljós. En þá eigum við vonandi einnig áfram samleið með þeim því að þú veizt það eins vel og ég.

Solzh. reif niður pótemkíntjöldin og þá hófst hrun sovézka Kommúnistaflokksins í raun.

Þegar miklir atburðir gerast, sagði Steinn, þá eiga litlir karlar að þegja.

Og eins og þú sérð hef ég látið lítið á mér bera!!

En ég hugsa mitt, hvort sem ég fæ mér grúsískt koníak eða ekki! Og ég held mín hugsun hafi ekki verið neitt verri öll þessi ár en sumra þeirra gervismiða sem nú standa með hamar og sigð... æ, nei, fyrirgefðu, hamar og sög, og halda reisugilli.

Mér var boðið í kvöldverðarboð Davíðs okkar (Oddssonar) í Ráðherrabústaðnum í kvöld, ég veit þú ferð – og það dugar mér.

Einhver Mbl.-maður á að vera þarna, sem tákn fyrir hugsjón okkar og baráttu, það er rétt.

En ég geri aldrei neitt sem ég þarf ekki að gera eins og þú veizt, en geri afturámóti allt sem ég á og þarf að gera, það veiztu líka.

Og nú má ég vera fjarri góðu gamni í kvöld – eins og Solzhenitchyn!!!

Þú fyrirgefur hvert hugur minn hvarflar á þessum stóru stundum.

Þær eru raunar svo stórar að segja má lífi manns og ætlunarverki sé lokið.

Samt er margt ógert, það sýnir m.a. fundurinn á föstudag með eigendum Mbl.

Alltaf skal maður þurfa að standa í því stappi að tala máli blaðsins dag og nótt. En það verður víst svo að vera fyrst blaðið hefur náð þeim áfanga einsog aðrar þjóðir að geta haldið við frelsi sitt og sjálfstæði gagnvart öllum.

En það getur þó brugðið til beggja vona einsog við vitum báðir og það er ekki sízt þess vegna sem ég hef lagt á mig að skrifa Helgispjallið hvern sunnudag, því þar hef ég getað komið ýmsu á framfæri sem erfitt reynist að viðra eða tönnlast á í leiðurum og Rvíkur.bréfum.

Þetta er þá til – og ýmislegt fleira annars staðar!

En svona fundir eru farnir að þreyta mig. Það hefur alltaf verið svo fjarri mér að bera sólskinið inn í fötu eins og Bakkabræður. Það sólskin sem hefur verið á mínum snærum er ekki útspekúleruð Kleppsvinna heldur vonandi einsog það sem við höfum hvern dag en tökum ekki sérstaklega eftir, hvaðþá við séum að bera það á torg í fötunum okkar.

Og oft höfum við raunar þurft að fálma okkur áfram í myrkri.

En Þjóðviljinn segir jafnvel í helgarblaðinu sínu að Mbl. sé frjálst blað þótt við séum með sjálfstæðishjarta – og hvorttveggja er rétt.

Já, hárrétt.

Ég er farinn að sjá eftir Þjóðviljanum ef hann hættir nú allt í einu að koma út – eins og ég hef þurft að drekka úr pólitíska morgunkoppnum þeirra, einkum fyrr á árum þegar öll hugsun blaðsins og aðferð var stalínístísk.

Hún var það framyfir ‘70, ef ég man rétt.

En nú horfi ég orðið frekar fram á veg en um öxl – og hef þá einatt áhyggjur af mannskepnunni, ekki sízt sjálfum mér.

Það er ekki sama hvernig menn fara í hundana og ég vildi helzt mæta dauðanum einsog kvöldið vex inní síðbúinn dag.

En ég kvíði engu einsog áður.

Mig langar ekkert að vera meiri en ég er – og mig hefur raunar aldrei langað til þess. Og þá er víst ekki mikil von til þess maður verði neitt mikið!

Ég hef alltaf átt í stríði við sjálfan mig, andstæðurnar – oft illsættanlegar og hamslausar ástríður skáldsins. En þó hef ég helzt viljað fóta mig á jörðinni – og eins og þú veizt og aðrir, þá er Hanna mín jörð og það hefur verið lífsgæfa mín þótt ekki hafi ég ávallt þakkað það sem skyldi.

Blaðamenn eru oft tillitslausir og skáld, þau eru hvern dag í miðjum eldi sem brennur innra með þeim, svo ekki er nú von til þess að allt sé ávallt í fullu jafnvægi.

Enda er líf og starf í fullu jafnvægi álíka eftirsóknarvert að mínum dómi og sú kalda skynsemi sem sér ekki grasið fyrir efnafræðilegum heilabrotum um samsetningu þess.

Þetta má vel fara saman en gleymdu því ekki að eitt sinn rifust Árni Pálsson próf. og Ól. Daníelsson vinur hans og stærðfræðingur um fegurðina á Þingvöllum og komust víst ekki að niðurstöðu.

Þannig sit ég nú einnig uppi með heldur litlar vonir um einhverjar niðurstöður af streði okkar.

Allur heimurinn stendur nú á haus og af því getum við ýmislegt lært.

Það sem aldrei hvarflaði að okkur að mundi gerast í lífi okkar, hefur nú gerzt – og miklu meira!

Þannig kemur lífið aftanað okkur í tíma og ótíma.

Við ráðum svo sáralitlu.

Það er einhver ósýnileg hönd örlaganna sem segir allt í einu, Nú get ég.

Og þá breytist öll atburðarásin í lífi okkar og umhverfi og við komumst ekki upp með moðreyk!

Það sem við héldum okkur væri skammtað var stundum meira en við vissum – og stundum líka minna.

Og nú hef ég verið að vinna úr of stórum skammti af lífsreynslu og alls kyns hugmyndum sem verða mér líklega ofviða einsog tíminn líður.

Samt ætla ég að gefa út smáljóðakver í haust, uppúr þurru raunar en finnst ágætt að minna á hvað skáldið er lítið hallt undir embætti eða hátíðlegar stellingar.

Hversdagsleikinn fer mér bezt – og kannski fleirum ef þeir vissu það! En mér finnst þú vita það, guði sé lof.

Vale,

M.

Síðan vitna ég í eftirmála bréfsins í kvæðið í Fuglum og öðru fólki þar sem talað er um að Berlínarmúrinn sé fallinn “einsog fallin spýta” og Rita Hayworth sé einnig horfin af sviðinu.

Segi að kvæðið sé einskonar fylgirit við bréfið til Styrmis og vel mætti vitna í það í leiðara Morgunblaðsins!!

Hef verið að hugsa um að bæta við setningunni, að það sé engu líkara en Sagan hafi skraddarasaumað Jeltsín í þeim tilgangi sem höfundur hennar ætlast til.

 

Sólarferð inní skammdegið

 

Nokkur kvæði sem ég hef raðað saman, óbirt. Þau eru líklega heimilislegri hér í handraða en ljóðasafni — og þó(!)

 

We find our nature daily or try to find it,

The old flame gutters, leaves red flames behind it.

Louis MacNeice: Letter to Graham and Anna.

Reykjavík, 16 August 1936.

 

Untergang des Abendlandes, Genf:

“I hear the sound of the human voice...”

(Walt Whitman: Leaves of Grass)

 

Það er líf í tuskunum

one, two, three o’clock

það er rokkað í skemmtigarðinum

four o’clock — rock

það er öskrað á senunni

sibbi, dibbi, dú

það er stúlka með pípuhatt

five, six, seven o’clock

það er strákur með handtösku

eight o’clock — rock

það er farið með hund á klósettið

nine, ten, eleven o’clock

það er skinnið af síðasta lamadýrinu í búðarglugga

twelve o’clock — rock

það er líf í tuskunum

we are going to rock

það er rokkað í skemmtigarðinum

around the clock tonight

það er öskrað á senunni

sibbi, dibbi, dú

það er stjörnubjartur himinn

one, two, three o’clock

það er klukka úr blómum

four o’clock — rock

það er taska úr krókódílaskinni í búðarglugga

five, six, seven o’clock

Það er 300 punda kvenmaður í fjólublárri buxnadragt

eight o’clock — rock

það er svartur kubbur í eldflaugaskóm

nine, ten, eleven o’clock

það er 300 £ kona í fjólublárri buxnadragt

twelve o’clock — rock

 

það er líf í tuskunum

we are going to rock

það er rokkað í skemmtigarðinum

around the clock tonight

það er öskrað á senunni

sibbi, dibbi, dú

það er stjörnubjartur himinn

one, two, three o’clock

það er farið heim með hundinn af klósettinu

four o’clock — rock

það er síðasti kanínupelsinn í búðarglugga

five, six, seven o’clock

það er klappað í skemmtigarðinum

eight o’clock — rock

Það eru engir grátstafir í söngnum einsog í Frakklandi

nine, ten, eleven o’clock

það er æði í rokkinu

twelve o’clock — rock

sibbi, dibbi, dú

we are going to rock

around the clock.

Sumar ‘77

 

 --

Estival Internationale:

1.

Kastar hnífum að konu

gleypir eld

stekkur heljarstökk á línu

gefur fíl karamellu

klórar ljóni bak við eyrað

og Rainer klappar og hlær

fursti yfir veruleikafirrtu landi.

2.

Trúðurinn fer í höfuðbað

í vaskafati

trúðurinn fer í bað

undir garðkönnu

trúðurinn steytir hnefa

og dettur í bala

trúðurinn vökvar smókingklæddan

dyravörðinn

trúðurinn rekst á stiga

og trúðurinn hlær

trúðurinn lætur fíla

standa á höndum

og trúðurinn hlær

í stúkunni.

Greifinn af Monte Cristó

Rainer fursti klappar.

Sumar ‘77

 

 --

St. Gottard:

Járnbrautarlestin

hverfur inní fjallið

einsog ánamaðkur í jörðina.

Lestin og maðkurinn

eiga margt sameiginlegt

ef að er gáð.

Annað er ólíkt með þeim,

það er ekki hægt

að renna járnbrautarlest fyrir lax

eða fara á ánamaðki

milli Lúganó og Lutzern.

Og þó er það hægt

í huganum.

Sumar ‘77

 

 --

Í Óðinsvéum:

Sjáum bréfin í móðu, handrit

myndir, sjáum litlu

hafmeyjuna góðu og ljóta

andarungann í lífi ævintýraskáldsins

minnumst þess

hvernig Jónas skrifar Legg

og skel eftir forskriftinni í sögunum

um Stolta tepottinn og boltann

sem var næstum trúlofaður

svölunni en lenti að lokum

í þakrennu, sjáum ævintýrið

um svínahirðinn á teiknimynd,

hlustum á sögu um óþekka

strákinn sem skaut pílu

í hjarta skáldsins, þá ganga ung hjón framhjá

með lamaðan son sinn

í hjólastól, sýna honum ævintýrin

og drengurinn reynir að brosa,

en brosið deyr á vörum hans

einsog síðasti loginn í höndum

litlu stúlkunnar

með eldspýturnar.

Sumar ‘80

 

 --

H.C. Andersen fermdur í Óðinsvéum

Á nýjum stígvélum

gekk ég inn kirkjugólfið

og það brakaði í þeim

eins og jólin væru komin

og ég hugsaði meira um þau

en guð.

Og samvizkan nagaði

mig.

Sumar ‘80

 

 --

Jótland:

Ho Ho Hansen

býr í Horsens.

Ho-ho, segir Hansen

þegar hann ríður út.

Ho-ho, sagði faðir Ho Ho

Hansen

þegar hann reið út

í Horsens.

Faðir Ho Ho Hansen

bjó ekki í Horsens,

þegar hann eignaðist

Ho Ho Hansen

í Morsø.

Ho-ho, sagði móðir Ho Ho

Hansen, þegar hún hitti

föður Ho Ho

Hansen í Korsør.

3. júlí ‘80

 

--

Anna Frank,

Amsterdam:

Einsog sól

einsog Rembrandt

sýnileg, ósýnileg

einsog dauðinn

fylgir þú okkur

fylgir þú þessari amstursfullu

borg

einsog tungl

fylgi gömlu síki.

Sumar ‘80

 

--

Dýragarðurinn,

Hamborg:

1. Mig langar til þín

einsog lækinn til stranda

einsog hafróða fljúgi

milli hjónabanda,

einsog Íslending dreymi

undir erlendum hlyni

um tvöfaldan vodka

og tónik með gini.

2.

Er þetta lifandi

eða kopar? spyr konan

og maðurinn svarar, Það er rostungur

þegar það ropar.

3.

Mörgæsir klæddar

konunglega

mæna til suðurs

með þýzkum trega...

4.

Strjútsfjaðrir eru

óskaplega dýrar, segir konan.

Það er vegna þess

þeir geta ekki flogið, segir maðurinn

hróðugur.

5.

Hér var hundlaus maður

frá Aarhus,

fæddur í Faarhus á Suður Jótlandi.

Sumar ‘80

 

 --

Marbach

Hér rennur Neckar: gömul, græn

og gengur eins og Wallenstein

til feðra sinna frjáls og ein

og finnur land sitt kliða í grein

(og andblær skálds fer enn um Main).

Hér sazt þú fyr við sól og dag

og Schiller, þegar geisli skein

í spegli vatns, þú lékst þitt lag

sem lítill fugl í Heidelberg

(þú nístir bæði bein og merg).

En Charlotta í hönd þér hélt

og hún var fegurst auf der Welt

og hún var sól í hjarta þér

svo himnesk sól í Würtemberg

(með nafnið þitt ið næsta sér).

Ódagsett

 

 --

París:

2.987.466 konur

með svefnherbergisaugu

og hárkollur.

Ungur maður á mótorhjóli

með kúluhatt

einsog Lárus frændi.

Ódagsett

 

--

Noregur

1.

Skógurinn

gengur niður að vatni

og horfir

í hvítan spegil.

2.

Forvitinn skógur

horfir á okkur

úr öllum áttum.

3.

Elgurinn hleypur með forvitin

augu okkar

inní skóginn

og segir

fréttir af þjóðveginum.

4.

Trén kveðja skóginn

og ganga eitt

og eitt niður

að ofþröngum

farvegi Herkju.

5.

Gömul minning

gægist úr sverðinum,

rætur trjánna.

6.

Vængur fugls

á gangstéttinni.

Nú veizt þú

fuglinn minn

meira um annað líf

en ég.

7.

Þú ert ilmur

af heggi

og ég anda þér

að mér

vina mín.

Undir haust

tína syngjandi

fuglar

svört ber

og syngjandi fuglar

fljúga með ilmlausan hegg

inní minningu okkar.

Ódagsett

 

--

Robert Burns:

Hin gömlu kynni gleymast ei

né gamall bær í Alloway

þar fæddist þú einn fagran dag

og fluttir með þér gamalt lag

(eitt vísubrot frá Wigton Bay).

Og allt sem Skotland enn á til

er að mér sýnist hérumbil

af anda þínum alið, skáld.

Og finni til þitt fólk, þá ber

það fögnuð þinn í hjarta sér:

að þessi tæra lind, þitt land

sé leyndardómur skálds frá Ayr.

Ódagsett

 

--

Heathrup:

Sardínur í dós

en það vantar olíuna.

Innflytjendaeftirlitið

opnar dósirnar.

Og gæðin koma í ljós.

‘84

 

--

Georgia

O’Hara horfinn

og þrælastríðið

einungis minning

í erfðavísunum

sem engu gleyma.

Litningalausir

sofa þeir í gamalli

skáldsögu,

sofa frá einni guðsþjónustu

til annarrar.

‘84

 

--

New York:

Á 46. götu sofa þeir

á tröppum leikhússins

og hafa

götótt stígvél

að höfðalagi.

Á næstu grösum

söngleikahúsin

og sviðin þar sem örlögin

eru ráðin

á næstu grösum

við örlög þeirra.

‘87

 

--

Evrópuferð sumarið 1990

Vín:

1.

Keisaraleg

sól

á gömlum veggjum

hallarinnar.

Samt er hér

enginn.

Auð herbergi

með gullhúðuðum

húsgögnum

minningar Franz

Jósefs

í hugmyndum

okkar

auð herbergi

utanum ekkineitt,

tómar hugmyndir

utanum hugsjónir

Sveiks.

2.

Fagrabrunns-

höll

rís úr ryði

og möl

og keisaralega gul

kallast hún á

við ilmandi

sól

og kopargrænt lauf

sumarkveðja

trjánna.

3.

Hér dó sonur

Napóleons

segir leiðsögukonan

og bendir, Þetta

er helgríma hans,

en Hitler sendi

kistu hans

til Parísar.

Fríður ungur piltur,

finnst ykkur ekki?

Hver er sínum

gjöfum líkastur,

segir gamalt máltæki.

4.

Svefnherbergi

Maríu Theresu,

segir Guðrún leiðsögu-

kona, eða heitir hún

Angella, spyr ég aftur —

fólk sem á 16 börn

þarf oft

að vera við rúmið.

En hún svaf hér aldrei(!)

5.

Enn fer Papageno

töfraflautu-

skóginn

ævintýralegum

tónum,

Wär’ich

lieber im Wald,

so hört ich doch

manschmal einen Vogel

pfeifen,

fer skóginn ilmandi

tónum

meðan Mozart

gefur.

6.

Ekki er hjarta

keisarans

í kirkju heilags

Stefáns

kirkjur

eru óáþreifanlegt

andrúm

annars hjarta.

Opnið eina dós

og gæðin koma í ljós,

segja kaupmennirnir í nálægum

götum.

7.

Sacher súkkulaði-

terta

er einsog allar

tertur í Vín

hitaeininga-

lausar,

segir Guðrún

og brosir

leiðsögumannsbrosi.

8.

Tod dem Kapitalismus,

skrifa vofur

gærdagsins

á leningraðsgráa veggi

Vínar.

9.

Klósettin

gleymdust í þessari

höll,

segir Manfreð

leiðsögumaður

og iðar

af kátínu,

arkitektinn

framdi sjálfsmorð.

Nú eru loftkæld

útiklósett

við höllina.

Og húsameistarar

hættir

að fremja sjálfsvíg

í ríki Habsborgara.

10.

Græn rennur

Dóná

svo græn,

svo græn

og Strauss hugmynda-

blá fjarlægð

í flögrandi

tónum.

En koksgrá

var hugmynd yðar

um heiminn,

herra húsameistari(!)

11.

Hjartadýr

við hraðbrautina,

jól á sumri.

Sumar ‘90

 

--

Salzburg:

Rósirnar

eru kátar

í Mirabelle-garðinum.

Og brosa marglitu.

 

--

Prag:

1.

Í Prag

gengur klukka

gyðinganna

afturábak.

En það á ekki

lengur við,

segir Manfreð.

2.

Himinlaust

hverfur

bakkagrænt vatnið

til himins.

Moldárlaus

himinn

sígur

að svörtum ósi

Moldár.

3.

Gleymdur er Jóhann

Húss

og gleymdur er Zisca,

senn gleymist

Gorbatsjov einnig.

4.

Ósköp

væri þessi borg

tómleg

án hundanna.

Þeir eru, greyin,

kappklæddir

í þessum hita,

segir hún

og virðir fyrir sér

hálftóma

verzlun.

 

--

Búdapest:

1.

Þjónninn í Fakete

Hollo

skammt frá Matthíasar-

kirkjunni

í Pest

veit ekki hann er

í rostungslíki

með þetta langa

keisaralega yfirskegg.

Ung stúlka

situr utanvið

minjagripaverslun,

hún er í þjóð-

búningi.

Sjáðu hvað þetta

er fallegur

útsaumur, segir

konan

og ég virði stúlkuna

fyrir mér.

Þá kveikir hún

í sígarettu.

Og Búdapest

brennur(!)

Bolonía

Þegar hún sleppir

hönd minni

og skóhljóðið þagnar

veit ég það er

útsala

á Ugo Bassi.

 

--

Bolonía:

Við skulum búa

á Grand Hotel

í nótt,

segir Visconti betlari

á Independenza,

ég ætla að leika

greifa einn dag.

 

--

Veróna:

1.

Það blikar á sverð

undir sigð

Aida

og þeir í hringleikahúsi

Verona hrópa bravó(!)

undir himni

og heiðum stjörnum,

þá hugsa ég til þín

Eggert

og vatnsgrænna hlíða Vicenza,

hugsa til huldunnar

þinnar.

2.

Það er grimmd

í skýjunum,

þau eru úfin,

vilja útrás

fyrir ofsa sem umbreytist

í eldingar, það eru

þrumur í skýjunum

einsog hugur Shelleys

hafi læst sig í himininn.

 

--

Toscana:

Landið æðir

móti okkur

fjöll dalir

og tré,

en Einstein hættur

að mæla hraðann.

 

--

Andið þið vindar

(Paradísarmissir, Eva.)

J.Þ.

Við hugsum, Jónas, heim um fjöll og dali

og hugans innri sól er bundin þér.

Í brjósti mínu vakir fugl sem fer

með fjaðrabliki einsog landið tali

í vængjum hans og vorblæ undir hlyni

sem var þitt hlýja skjól í eina tíð.

Andið þið, vindar ilmi úr birkihlíð

sem ylur fari blóm í næturskini.

————

En fuglinn þinn sem flögrar enn við grein

og flýgur norður burt úr huga mínum

hann vitjar þín í sólskinsdraumi sínum.

En sólin þín er skuggans flökt við stein.

Andið þið, vindar enn við dag sem skein

með ilm af vorsins blæ í trega þínum.

Sórey, 5. júní 1991

--

Einkabréf til Heines

Kemur einatt vel á vondan

að vera það sem til er sáð

við erum, dr. Heine, hugmynd

og heldur klén ef að er gáð.

Snúum brátt á leið til London

Zwölf lange Jahre flossen hin,

förum eitthvað einsog Londan

elti ryk og hófadyn.

Donna Clara, Donna Clara

du bist Herrin, ich bin Diener

íslenzkt skáld og ekkert nema

æskulausar vonir mínar.

Undir fölum ilmi af grasi

eru, Heine, flestir þeir

sem tínast inní tímalausan

tíma einsog molni leir.

Júní ‘91

 

--

Raufarhöfn

Þorpið

undir grárri súld

sem veðurstofan

spáði ekki, Ég

dreifi ekki

í dag, segir bóndi

í næsta nágrenni,

þeir spá þurrki,

tvílembd ær

við eldhúsgluggann

og lítill drengur

gefur henni kartöflur

og poppkorn

en skipshundur

eltist við lömbin hennar

nýkominn í land.

Það er leikur í honum. Hann

er að leita að eðli sínu,

segir gamall maður

og gengur framhjá með svartan hatt

yfir signum öxlum. Hann

er að létta til — og festir augun

í austrið.

Ódagsett

 

--

Vopnafjörður:

Báturinn við bryggju

götóttari

en óstoppaður sokkur,

þeir skipuðu upp

og óku með aflann í frystihús

þar sem ungar stúlkur

með hvítar hettur og dökkt hár

gantast við vigtirnar, Gangið

hreinlega um,

stendur á veggnum

og þær ganga kvenlega um

fyrir piltana.

Sjór

og hús við aldur

auð og hálffallin,

á frystihúsinu fáni

í hálfa stöng

og blaktir yfirgefinn

í súldinni,

annar við gult

timburhús

stoltur og íslenzkur

á stöng sem líkist

baujuspjóti,

upplitaður fáni

einsog líf hins látna,

nú blaktir það ekki lengur

á skari.

Sólarlaus fjöll undir regngrárri

blæju í austri.

Ódagsett

 

--

Í Þorlákshöfn:

Opinn bíllinn

við hlaðinn torfvegg

um kirkjugarðinn

Puccini leggur undir sig

næsta nágrenni spóans

sem hlustar andaktugur

á útvarpið

en flýgur svo vellandi

með Carusó

inní gamalkunn heimkynni

að segja öðrum fuglum

frá ósýnilegum gesti

í þessu fælna umhverfi.

Ódagsett