1995

síðari hluti

 

 

20. júní – þriðjudagur

 

Okkur Styrmi greinir sjaldan á, eiginlega aldrei. Og þó vorum við í kvöld ekki sömu skoðunar um birtingu á gagnrýni brezkra blaða um söng Kristjáns Jóhannssonar í Grímudansleik Verdis í Covent Garden í London.

Ég sagði að við mundum ekki birta neinn dóm ef okkur bærist einungis ein niðursallandi grein, því að við vissum að fleiri greinar hefðu birzt í brezkum blöðum og það væri ræfildómur af okkur að birta ekki alla dómana á morgun.

En við fengum ekki nema einn dóm, hann er eftir Andrew Porter, gagnrýnanda The Observer.

Ég leit á þennan dóm og sá í hendi mér að hann var bæði neikvæður og jákvæður og var því þeirrar skoðunar að það mætti birta hann einan.

Það væri ekki mannskemmandi.

Um þetta vorum við Styrmir sammála.

En hann var ekki sammála mér um það að við birtum ekki einn dóm ef hann væri niðursallandi.

Tímarnir hefðu breyzt, sagði hann, og við fengjum bara dómana í hausinn í útvarpinu.

Við stöndum í harðri samkeppni og getum ekki leyft okkur að geyma dóma.

Ég sagði að við þyrftum ekkert að rífast um þetta því að við hefðum dóm sem auðvelt væri að birta, og þess vegna gætum við verið sammála um það.

Það varð úr og dómur Observers birtist í eindálkaramma á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu á morgun.

Neikvæðir dómar um íslenzka listamenn að utan geta verið þeim þungir í skauti hér heima.

Við snobbum fyrir útlendingum, þótt við ættum ekki að hafa aðrar viðmiðanir en okkar eigin.

Þetta er einn af fylgikvillum smæðarinnar. Kynntist því af eigin raun þegar ljóðabók mín, Fra Hav til Jøkel, kom út í Danmörku um miðjan sjöunda áratuginn og fínir ritdómar bárust til Íslands úr virtum blöðum.

Upp úr því fór róðurinn að léttast hér heima(!)

En hvað,ef ég hefði fengið einn vondan dóm,t.a.m. í vinstri sinnaðri Information?

Það hefði tekið langan tíma að hrista hann af sér!

 

21. júní – Miðvikudagur

 

Við Styrmir töluðum málefnalega um birtingu listadóma og var það gott samtal að venju.

Hann hefur harðari skoðanir en ég um birtingu dóma.

Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar séu svo hallir undir það sem útlendingar segja og skrifa að það geti verið ósköp fyrir listamenn að fá einungis niðursallandi dóma birta í fjölmiðlum hér heima. Auðvitað verður að birta slíka dóma ef þeir eru einróma neikvæðir, en engin ástæða er til þess ef eitthvert saltkorn af jákvæðri afstöðu er að finna í þessari framleiðslu.

Útlendir gagnrýnendur eru engar heilagar kýr að mínum dómi, sumir jafnvel vitlausari en ýmsir þeir sem hafa skrifað um listir hér heima þau ár sem ég hef fylgzt með.

Ég man vel eftir hatri Eggerts Stefánssonar á Morgunblaðinu vegna listdóma. Og það var ekki fyrr en ég hafði átt rauðvínssamtalið við hann, sem hann kallaði svo, að hann tók Morgunblaðið í sátt.

Og þó !

Segjum í saupsátt!

Hann var líka afskrifaður og samt eru miklir tónlistarsérfræðingar sem halda því fram að hann sé sérstæðasti og kannski merkilegasti söngvari okkar fyrr og síðar.

En hann átti harma að hefna.

Og mig langar ekkert til að kalla yfir neinn listamann slíka harma, ef unnt er að komast hjá því.

Styrmir sagði að þetta væri gamaldags sjónarmið, við gætum ekki stjórnað fréttastreyminu og má það vel vera. Við stæðum í harðri samkeppni og er það að sjálfsögðu rétt. En ég spurði minn góða kollega, Stöndum við í samkeppni um að eyðileggja fólk?

Nei, að sjálfsögðu ekki, sagði hann, en bætti því svo við að afstaða mín væri lummuleg og gamaldags!

En ég skyldi ráða því sem ég vildi.

Við höfum áður átt svona samtöl. Hann segir að ég hrökkvi alltaf í baklás þegar svipuð vandamál blasa við. Hann segir að þá taki skáldið völdin af ritstjóranum – og má það vel vera. En mér er þó nær að halda að áhrif skáldsins á Morgunblaðið hafi ekki síður verið heilladrjúg en ákefð ritstjórans í ferskt efni og mikil skúbb!

Nú höfum við að sjálfsögðu birt alla dómana sem okkur hafa borizt um Kristján Jóhannsson; þeir eru misjafnir, en varla mannskemmandi.

 

22. júní

 

Davíð Oddsson flutti ágæta ræðu 17. júní sl. Sumir hafa verið að velta því fyrir sér hvers vegna hann gerði atlögu að Efnahagsbandalaginu með þessum orðum, Væri Ísland í Evrópusambandinu og gengi samrunastefnan til þess endapunkts, sem trúuðustu samrunamennirnir þrá, mætti með sanngirni segja, að staða hins íslenzka Alþingis yrði mjög áþekk því, sem hún var á fyrstu dögum hins endurreista þings fyrir 150 árum.

Hér er sterklega að orði kveðið því að danskur konungur hafði úrslitavald um öll málefni Íslands á því árabili sem Davíð nefnir.

Hann lætur sem sagt að því liggja að við flyttum út fullveldi okkar með aðild að Efnahagssambandinu.

Ég veit að vísu ekkert um það en mikið þykir mér vænt um það hjartalag sem liggur að baki svona tilfinningum.

Davíð er í góðum tengslum við rómantíska sjálfstæðisbaráttu síðustu aldar og í brjósti hans slær íslenzkt hjarta sem er að minnsta kosti í takt við sjálfstæðisbaráttu okkar, hvað sem segja má um nútímann.

Davíð er augsýnilega mikið niðri fyrir.

Og hann talar af einlægni.

Með þessum orðum hefur hann áreiðanlega náð að hjartarótum margra sem hafa ekki búizt við slíkri þjóðernistilfinningu af munni formanns Sjálfstæðisflokksins.

En þá hafa aðrir tekið þessu illa, líklega einna helzt þeir hörðu sjálfstæðismenn sem vilja ólmir fá aðild að Evrópusambandinu.

En Davíð hefur tekið af skarið og hvað sem segja má um erfiðleika hans af þeim sökum, fagna ég þessum hjartslætti.

Þarna vísaði skáldið stjórnmálaleiðtoganum rétta leið að mínum dómi.

Skáld geta verið góðir vegvísar og stundum er tilfinning þeirra raunsærri en skynsemi pólitíkusa.

Af niðurlagi ræðu Davíðs sé ég að hann hefur ekki gert ráð fyrir þeim neikvæðu viðbrögðum sem við höfum heyrt úr röðum evrópusambandssinna. Ástæðan er sú að hann var einunis að túlka tilfinningalegar forsendur sem hann sækir í sjálfstæðisbaráttu Jóns Sigurðssonar og fjölnismanna.

Í fyrra eða hitteðfyrra var hringt til mín og ég beðinn um að lesa kafla úr bók minni Um Jónas á bókadegi í Perlunni. Mig langaði ekkert sérstaklega til þess en þá var mér sagt að Davíð hefði valið þessa bók til umfjöllunar og ég mætti ekki skerast úr leik að lesa úr henni.

Það gerði ég ekki heldur.

Og það var ánægjulegt að hittast í Perlunni.

Ég hef aldrei verið í Perlunni fyrr, segi ég við Davíð. Hvað segirðu, segir hann, er það satt?

Já, ég hef aldrei komið hingað fyrr.

Þá finnst mér það vera táknrænt og engin tilviljun, sagði hann, að við skyldum nú hittast hér af þessu tilefni.

Og mér fannst það líka.

En í þessari bók er fjallað um afstöðu Jónasar í ástakvæðum hans og fullyrt að þau séu ort til huldunnar, þ.e. landsins og þjóðarinnar, en ekki einstakra kvenna sem hann hafi orðið hrifinn eða gagntekinn af á góðum stundum.

Það er sköpunarverk guðs í mynd huldunnar, landið sjálft, sem Jónas er alltaf að yrkja um, og ég sé það á ræðu Davíðs að hann er sama sinnis.

Vona bara að ég hafi haft þessi áhrif á hann því að ég tel að þetta sé rétt túlkun á ljóðum Jónasar; eða með orðum Davíðs sjálfs í þessari ræðu:

“Fræðimenn hafa skrifað leikandi lærðar greinar um stúlkuna, eða stúlkurnar sem Jónas söng um í kvæðum sínum. En íslensku þjóðinni er alveg óhætt enn í dag að taka til sín kveðjuna sem þrösturinn góði bar frá skáldinu, Ísland, fagurt og frítt, og þjóðin, sem landið byggði, átti elsku hans – þjóðin var ekki síst stúlkan hans, þjóð með húfu og rauðan skúf, í peisu. Jónas kunni Ísland að meta. Við, sem nú erum uppi, skulum einnig sýna, að við kunnum gott að meta.”

Þessi orð eru engin tilviljun og þau eru ekki úr tengslum við ummæli Davíðs fyrr í ræðunni, svohljóðandi:

“Um daga Jónasar Hallgrímssonar var mikill munur á móðurríkinu, Danmörku, og hinum hrímhvíta kletti, hinum kalda klaka ríkisins í norðri. Munurinn á aumasta koti og hárri höll nægir vart til samanburðar á Reykjavík og Kaupmannahöfn árið 1845. En hvorki Jónas skáld né Jón forseti efuðust eitt augnablik um tilverurétt þjóðar sinnar þrátt fyrir það og því síður flögraði að þeim, að þessi þjóð gæti ekki séð málum sínum borgið, fengi hún til þess traust og tækifæri.”

Allt er þetta samkvæmt stefnu Sjálfstæðisflokksins frá upphafi. Flokkurinn er sprottinn úr sjálfstæðisbaráttunni og hvorki hann né Morgunblaðið tóku annað í mál en farið yrði eftir fullveldisviðurkenningunni frá 1918 og lýðveldi stofnað á Íslandi 1944, ef þjóðin óskaði þess.

Hvorki Sjálfstæðisflokurinn né Morgunblaðið létu nokkurn tíma bilbug á sér finna í þessum efnum og blésu á þær röksemdir lögskilnaðarmanna að við ættum að fresta lýðveldisstofnun þar til Danmörk yrði frjáls að stríði loknu.

Það er í anda þessarar stefnu sem ég skynja og skil orð Davíðs Oddssonar í þjóðhátíðarræðu hans.

Tilfinningalíf mitt er einnig með þessum hætti og af þeim sökum þykir mér nú gott að vera í kompaníi við Davíð og fagna þessari afstöðu hans. Okkur liggur ekkert á inní Evrópusambandið, hvað sem verður. Það er auk þess engin leið til þess að horfa framhjá stefnu þess í sjávarútvegsmálum. Hún ein út af fyrir sig kemur í veg fyrir aðild eins og Morgunblaðið hefur margoft hamrað á.

 

24. júní – laugardagur

 

Fann í dag enn eina syrpuna af gömlum ljóðum sem ég var löngu búinn að gleyma; þar á meðal ljóðaflokk í sjö þáttum um heimskommúnismann sem ég hef að sjálfsögðu aldrei birt í bók, en þótti við hæfi að prenta í Lesbók Morgunblaðsins 25. ágúst 1968, þegar kalda stríðið stóð sem hæst.

Sú afstaða sem þar kemur fram var svo sannarlega ekki til þess að auka vinsældir mínar meðal vinstri manna í landinu – og þó átti ég alltaf spöl í landi sanntrúaðra stalínista!

En um slíkt hugsaði ég aldrei, hvorki fyrr né síðar.

Þetta ljóð heitir Gagnbyltingarsöngur, og ég sé af athugasemd að það er ort 1965 þótt það hafi ekki verið birt fyrr.

Ég hef ekkert á móti þessu ljóði, síður en svo. En ég hefði ekki birt það í dag. Nú þarf fremur að græða sárin en hella salti í þau.

Við nánari athugun sé ég að sum ljóðin í þessari syrpu hafa verið birt í Mörg eru dags augu; en önnur hafa aldrei verið birt.

Ég hef dálítið gaman af að vekja upp þessa gömlu drauga.

Kannski eru þeir bara sprelllifandi(!) Ég hef til að mynda ekkert á móti þessum ljóðum sem ég hef sleppt úr ljóðaflokknum Stef í kaflanum Undir haust í Mörg eru dags augu:

Kirkjugarðurinn

er fróðleg bók

með fáum prentvillum

þar las ég örlög okkar

ást okkar og örlög

Abilgail, eða:

getur verið

að ég sé enn logsárt myrkur

og hún tungl

að hún sé

tunglskinsstund í lífi mínu.

En kannski hef ég birt þetta ljóð, ég man það ekki, það hljómar samt kunnuglega.

Eða:

Kossar hennar

rauður varalitur

á myndastyttu

eða hvernig á ég

að segja: senn

göngum við

fram hjá hvort öðru

eins og höggmyndir

horfist í augu,

eða:

Hvernig þú talaðir

hvernig þú gekkst

hvernig þú horfðir

sól á himni

og alltaf heiðskírt

þegar ég hugsa til þín

eða:

Við vorum ein í garðinum

hlustuðum á fugla

hlustuðum á lauf trjánna

bældum grasið

hlustuðum á hvísl stjarna

hlustuðum á augu hvort annars

bældum grasið undir birkinu

svo kvaddi ég þig

eins og lauf kveður

greinar trjánna

eða:

Tárin leituðu sér

farvega

í andliti hennar

þvoðu burt grímuna

frá Max Factor

Og hérna er óbirt kvæði, Jól:

Stundum er talað

um náttúrulögmál.

Eitt sinn þekkti ég

unga stúlku

sem var slíkt lögmál:

villtur gróður

augu sem sprungu

ávallt út

á réttum tíma.

Ég trúi á þetta lögmál,

hef séð jólakaktusinn

springa út á aðventunni

og horfa stórum

rauðum augum

á dag sem dylst í myrkri

hef spurt sjálfan mig,

hvernig þessi útlendi gestur

fer að því að vita

að íslenzk jól

eru í nánd

en sonur minn sex ára

hefur séð við þessari óleystu gátu:

hann segir að jólakaktusinn

finni hangikjötslyktina

og setji skóinn sinn

út í glugga

Og annað kvæði, óbirt:

Þú lokar augum hægt

svo undarlega hægt og svifa-

seint.

Og bros þín fölna öll

á bleikri vör,

nú stendur tímans

fleinn

í holdi þér:

þú veizt

að veröld lokaráðs er mistil-

teinn.

Að vísu ekki gott en þó tilraun til að spjara sig eins og blóm sem vex úr hrauni.

Og hér er kvæði um Breiðholt sem ég hef fyrir löngu gleymt, það birtist í Norðanfara:

Þegar við vorum á ferð

síðla vetrar

voru hér engar götur

heldur freðin holt

grjót mosi

og okkur var sagt

að talsvert berjalyng

hefði verið hér á sumrin

þegar langafar okkar

áðu við Vatnsþró

og brynntu sveittum hestum –

en nú hefur verið sáð til húsa,

vaxa þau úr jörð

teygja sig móti sól

og nýjum degi,

stór hús og smá

með augu sem skima

í allar áttir

og njóta útsýnis

yfir Sundin –

og þar sem áður var lyng

grjót mosi

eru beð af húsum

sem vaxa úr jörð

og opna grá blöð sín

móti nýjum óköruðum degi –

og seinna fyllist holtið

iðandi ljósum,

sjálflýsandi flugum á grænum blöðum

trjánna:

hús vaxa úr jörð

stór hús og smá

og senn verður malbik

þar sem áður var

lyng mosi grjót,

við tökum ofan fyrir

borginni, segjum:

Góðan dag,

nú er um að gera að vökva

svo að hús vaxi úr jörð,

stór hús og smá

og fylli beðin iðandi ljósum –

því nú er vor.

Og hér eru tvö kunnugleg ljóð sem ég man ekki hvort ég hef birt í bók:

Sóley

blátær niðandi lækur

hvísluð orð

hrauns og mosa

af heiðum

sóley,

hlustandi þögul

bylgjast í túni,

nýútsprungið bros

eftir langan

ásjónukaldan vetur.

Og :

Nú fer kliður um trén,

grænt lauf slítur af sér

fjötra vetrar og frosta.

Ég sé fífilgul augu

gægjast undan

kirkjugarðsveggnum.

Það er vor.

Og :

Augu þín

voru ekki speglar

heldur dökkbrún mold,

ég snerti hana ósýnilegum fingrum

djúpristum plógi

sem grófst inn í hjarta þitt.

Og svo eru hér ljóð úr Æskunni sem ég hef gleymt.

Grímur Engilberts var alltaf að biðja mig um ljóð á sínum tíma. Við vorum miklir mátar og ég hafði gaman af að tala við hann.

Hann var frumlegur persónuleiki. Hann var bróðir Jóns listmálara en honum kynntist ég ekki; því miður.

Já, hér kennir margra grasa og mörgu hefur verið sleppt; t.a.m. þessu úr ljóðum fyrir börn:

Þulurinn sagði,

Nú verður leikið

Maríuvers

eftir dr. Pál Ísólfsson

Guðrún Tómasdóttir

syngur

Sonur minn

leit upp

úr Mikka mús,

sagði undrandi:

Hvers vegna syngur hann ekki sjálfur?

Og svo öll þessi slitur sem hafa ekki eignazt heildarmynd og geta ekki lifað í formlausri ófullkomnun:

... samt er harpa mín laufblað

hjá hlyni Egils

og:

senn kemur aftur

sól að liðnum vetri

koma fuglar í dal

og stilla daghörpu

Slitur sem ég sé nú að hefur verið sleppt úr ljóðaflokknum Undir regnhlíf.

En þetta er ekki svo slæmt:

Þuríður gamla Sveinsdóttir

sefur undir mold

og steini, eitt sinn

var eldur í brjósti hennar:

til ungs manns bar hún

ást sína í leyni.

Nú liggur hún hér

eftir langan dag

og sefur, áður átti hún

ilm blóma í túni,

en nú fýkur í skafla

og í fannir skefur.

Á gröf hennar liggur

lauf bitið af vetrar-

gaddi, svartir stafir

sorfnir af vindum

segja: sól hennar hné

þegar sumar kvaddi.

Og hérna er fyrsta kvæðið sem ég birti, ef ég man rétt, það var í 1. des. blaði stúdenta:

Lækirnir renna...;

líklega 1951, ‘52 eða ‘53, ég man það ekki

Þetta er ljóð um borgina og mér þótti það heldur gott á sínum tíma. Hérna er líka annað ljóð um sr. Bjarna, birt í Lesbók Morgunblaðsins og hlaut misjafnar viðtökur á sínum tíma. Einkunnarorð þess eru sótt í samtöl okkar Bjarna. Hann skírði mig og fermdi og ber þannig nokkra ábyrgð á syndum mínum og verður til þess vísað þegar að því kemur!

Og svo er hér enn eitt ljóð sem ég var búinn að gleyma um Helga Johnson, togaraskipstjóra í Grimsby. En við hann skrifaði ég röð af samtölum í Morgunblaðið, ef ég man rétt. Mig minnir að kvæðið sé birt í Suðurlandi.

Árni Johnsen samdi lag við það og söng það inn á plötu. Hún er víst gleymd og grafin.

Ég er tiltölulega ánægður með síðasta erindið; þetta er úr því:

þeir buðu þér orðu en reyndu ei að troða um tær

trollarakarli úr Flóa: from British Empire.

Þú tókst ekki við henni – til hvers mundi það vera

fyrst tími vannst ekki til að láta á sér bera.

Og svo eru hér óbirtar vísur um hafið sem aldrei urðu fullburða þótt ég reyndi að bjarga þeim, þegar við Hanna vorum hjá Bjarna og Sigríði á Þingvöllum 1967.

Þær eiga víst rætur í reynslu minni af Brúarfossi.

En allt er þetta ónýtt eins og sjá má af því að þetta eru tvö skárstu erindin:

Hér bíða mín útlönd og alls staðar lauf á trjám

og ævintýrið fyllir mitt brjóst og mitt hjarta.

Og enn ert þú vina að vaða gras upp að hnjám

þar sem víðirinn leikur við heiðasveitina bjarta.

En útlendur skógurinn ilmar í brjósti mér

og aldrei varð fögnuður lífsins svo titrandi heitur,

hver vissi að ég ætti eftir að unna þér

og ókunnug sveit yrði helgur og nálægur reitur.

Æ, já. Þetta er nú annars meira baslið. Og með ólíkindum hvað ég hef ort mikið inní gleymskuna.

 

27. júní – kvöldið

 

Sá brot af heimildarmynd um prófessor Chomsky sem nú virðist vera í tízku; það sem ég heyrði var afar þunnt og einhvers konar tízkulap um þjóðfélagið (kerfið og pólitík), umhverfismál og fjölmiðla og ýmislegt annað sem nú er ofarlega á baugi. Ég heyrði enga frumlega hugmynd um valdið, eða lýðræðið, hvað þá valdstjórnarmenn.

Skil ekki hvernig svona almennt snakk getur komizt í tízku. Það þykist ekki lifa á mergðinni en sækir í hana, nákvæmlega eins og fjölmiðlar og pólitíkusar og aðrar hunangsflugur þjóðlífsins.

Þetta er engin heimspeki, hvað þá frumleg heimspeki á við stórvirki mikilla hugsuða; samt er gapað upp í þetta orðalap eins og eitthvert lausnarorð.

En afstaðan til Chomskys er auðvitað afstæð eins og annað. Ég minnist þess þegar brezka skáldið, eða suður-afríska skáldið, Laurence Lerner, kom til Íslands, en þá átti ég samtal við hann sem nú er grafið einhvers staðar undir grösugum þúfnakollum Morgunblaðsóræktarinnar.

Ég spurði hvernig honum líkaði að vera á Íslandi og hver væri munurinn á því umhverfi þar sem hann byggi og íslenzku samfélagi.

Hann býr í Brighton í Bretlandi og sagði hann væri líklega höfuðskáld þessa litla brezka bæjar.

Þar byggi álíka margt fólk og á Íslandi öllu. Samt er ég í raun óþekktur í mínu umhverfi og engum þykir neitt til um það þótt ég geti kallað mig höfuðskáld þar um slóðir. Það þykir ekkert merkilegt.

En það er þeim mun merkilegra á Íslandi. Þar skipta bókmenntir enn miklu máli; það er allt og sumt.

Ég man líka eftir því sem Helga Valtýsdóttir leikkona sagði einhvern tíma við mig þegar við vorum að tala um leiklist. Hún var ákaflega góð leikkona, minnisstæð í Mutter Courage eftir Brecht og Virginiu Woolf eftir Albee, en báðar þessar leiksýningar fylgja manni eins og ég held raunar ég hafi sagt í minningarorðum um Helgu, þegar hún var jarðsett.

Hún sagðist hafa verið að lesa Karamazov-bræðurna eftir Dostojevskí og Upphaf mannúðarstefnu Kiljans.

Osborne lætur aðalpersónuna þylja þvætting sem er hans eigin skoðun á ýmsu, sagði hún, en um leið verður persónan ekki heilsteypt því hann vill koma öllu að.

Jafnvel Dostojevskí verður þetta á.

Hann vill setja út á ýmsilegt í stjórnarfarinu í Rússlandi – og þá ekki síður trúarbrögðunum – en velur til þess persónur sem með fyrri lýsingu á þeim gætu ekki mögulega haft þann orðaforða og skilning sem Dostojevskí sjálfur hefur, þess vegna bíður skáldverkið tjón af því. Kiljan hafði vit á því að setja svona rökræður í ritgerð.

Upphaf mannúðarstefnu og The Grand Inquisitor eru af sömu rótum runnin. En hann leggur ekki sögupersónum sínum annað í munn en það sem þær standa undir samkvæmt fyrri lýsingum.

Ég hef engan heyrt tala svona um Dostojevskí fyrr. En þetta var skoðun Helgu Valtýsdóttur og ungir skáldsagnahöfundar mættu svo sannarlega velta henni fyrir sér.

Ég á bréf frá Helgu Valtýsdóttur sem hún skrifaði mér á banasænginni – og hef ekki gleymt því:

“En þegar maður horfir svona upp í loft geta bækur og menn runnið saman og fólk opnar alltaf augu mín, ég meina bara opnar þau. Þegar svona lítil áttræð kona segir eftir að hafa raulað tvo sálma með næstum tár í augunum:

“Mikið langar mig að sjá “Æfintýri á gönguför”, ég sá það fjórtán ára. Þá var sunnudagur og ég fór til prestsins. Tveggja tíma leið. En hann sagði mér að bíða, ég gæti fengið að sjá leikrit um kvöldið. “Ég kann öll lögin, skyldu þau vera þau sömu.”

Ekki þurfti maður að sjá nema einn afkomanda þessarar konu til þess að skilja hve óumræðilega erfitt líf hún hefur átt og á og eðlilegra væri mörgum að þegja ekki yfir því. Nei – af hógværð og kurteisi valdi hún sér umræðuefni sem hún áleit að hlyti að falla í góðan jarðveg hjá mér. Eins og Albee segir “Móðir jörð”.

Það er móðir jörð í mörgum konum.

Þú ættir að hitta hana, sem var að flýta sér heim að krafsa túnið sitt og býr á fæðingarstað Matthíasar Joch. fyrir vestan. Við farandleikarar sjáum ekki aðeins landið, við finnum ræturnar þegar við gefum okkur tíma til að hlusta.

Þegar bóndinn sem sagði við mig fyrir nokkrum árum, Sástu hana?

Ég hafði skroppið spölkorn uppí fjallshlíð og á niðurleið mæti ég bónda sem segir, “Sástu hana?” “Nei – ha – hverja?” “Rolluskjátu, ég týndi henni í gær.”

Það var eins og starf mitt yrði að engu.

Ég veit ekki alveg hvernig – ég varð svo lítil og hann svo stór. Ef ég sný mér að tilefni þessa bréfs, sem var að skrifa í stað þess að hugsa upp í loft – held ég að ég komist að því að styrkleiki mannsins liggur oft í því að finnast eitthvað annað líka.

Ekki annað um það sem hann var að hugsa síðast.

Það er bara svo margt annað.

Þú skilur, mér er alveg sama þó dagurinn á morgun verði erfiður. – Það er svo margt annað.”

Helga var eftirminnileg kona og það er gott að gera sér grein fyrir því að það er aldrei neitt eitt.

Það er alltaf eitthvað annað.

 

2. júlí – sunnudagur

 

Hef að vísu ekki lesið skáldsögu Sartres frá 1938, Óbeit, eða Velgja, en mér skilst hún fjalli m.a. um það að ógerningur sé að segja sanna sögu.

Það er mikið til í því.

Við lifum ekki aftur á bak, heldur áfram. Og það er mikill vandi að líta um öxl og komast að einhverjum trúverðugum kjarna um líf annars fólks; störf þess og viðhorf. Þá er nauðsynlegt að fylgja samtímaheimildum svo langt sem þær ná og túlka þær af trúverðugleika.

Það reyndi ég af fremsta megni í Ólafs sögu.

Kvikmyndir geta ekki sagt nema brot af ævi þess sem um er fjallað. Menn nota slitur héðan og handan en gamlar kvikmyndir eldast fljótt og fölna. Fólkið verður ankanalegt og fjarlægt.

Ég sá í kvöld samsetta kvikmynd um ævi Bjarna Benediktssonar sem Hannes Hólmsteinn hefur tekið saman.

Efniviðurinn er því miður ekki upp á marga fiska.

Hannesi hefur verið vorkunn því að myndin er sett saman úr slitrum sem varla eru sýningarhæf.

Mér fannst ég aldrei komast í samband við það andrúm sem ég þekkti ungur ritstjóri. Og samt eru þetta kvikmyndir með lifandi fólki.

Það er einkennilegt.

Slíkar kvikmyndir eru eins og gamalkunnir gestir sem koma í heimsókn, en maður þekkir ekki lengur.

Þannig verkaði þessi syrpa á mig. Þetta var ekki sá Bjarni Benediktsson sem ég átti nær dagleg samskipti við í hálfan annan áratug.

Ef ég hef nokkurn tíma verið í vafa um að ritað mál sé sterkari miðill en kvikmyndin um samtíð sem einu sinni var en er orðin fortíð áður en við vitum, þá er ég ekki í vafa um það lengur.

Nærveran í vel skrifaðri frásögn er miklu meiri en nærvera kvikmyndarinnar nema því aðeins auðvitað að heimildamyndin sé gerð meðan viðfangsefnið lifir og myndin sé unnin af þeirri natni sem listaverk krefjast.

Líklega hefði verið betra að nota minna af þessum slitrum en meira af lifandi fólki sem þekkti Bjarna og Sigríði og hefði getað sagt frá þeim með sínum hætti. Þá hefðu nokkur innskort orðið áhrifameiri en þær endurtekningar sem þessi slitur bjóða upp á.

Jakob Ásgeirsson ætlar að skrifa sögu Bjarna. Vonandi tekst betur til. Þessi kvikmyndaslitur geta þá verið einskonar neðanmálsgrein við þá frásögn.

Hannes Hólmsteinn fékk frá mér smáslitur sem ég tók af Bjarna með Sigríði og börnunum fyrir framan konungshúsið á Þingvöllum. Hann notaði stuttan kafla úr þessum slitrum undir lok myndarinnar. En mín slitur eru síður en svo betri en önnur sem þarna sáust, því miður; öllu verri.

En kannski verður maður að samþykkja það með Sartre að það er ekkert til sem heitir sönn saga þegar fjallað er um líf okkar. Við höfum öll upplifað sama fólkið og sömu atburðina með öðrum hætti en aðrir. Þess vegna er Ólafs saga ekki “sannari” en Þingvellir í málverkum Kjarvals; hvað þá samtölin sem ég hef átt við annað fólk. Mundu þau ekki hafa verið upplifuð með sama hætti og Kjarval eða aðrir málarar upplifa landslagið; fyrirmyndina.

Ef hundrað listamenn máluðu Esjuna fengjum við hundrað Esjur og ef hundrað blaðamenn tala við gamla konu yrðu til frásagnir um hundrað gamlar konur.

Samt væru allar myndirnar af þeirri einu sönnu Esju og öll samtölin við þessa einu gömlu konu.

En af fyrrnefndum ástæðum, þ.e. að skrifað mál endist betur en kvikmyndin, hafa allir þeir leikarar sem vettlingi geta valdið látið skrásetja ævisögu sína, eða mundi það ekki vera ein helzta ástæðan fyrir þessu ævisagnaflóði bandarískra leikara?

Það lifir líklega með þeim sá grunur að kvikmyndin eldist illa og betra sé að hafa vaðið fyrir neðan sig; að verða eilífur á prenti.

Sartre sagði í fyrstu að maðurinn væri það sem hann gerði, en undir lokin breytti hann þessari hugmynd sinni og sagði, að maðurinn væri það sem hefði verið gert úr honum.

Sem sagt, nýr Sartre.

En hann breytti ekki skoðun sinni á því sem kemur fram í leikriti hans þegar ein persónanna segir, Helvíti, það er annað fólk – að við erum öll speglar annars fólks.

Ég þekkti ekki þessa kenningu þegar ég orti Hólmgönguljóð á sínum tíma en nú geri ég mér grein fyrir því að það er ýmislegt í þessum ljóðaflokki sem minnir á hugmyndir Sartres um speglana.

Matthías Viðar Sæmundsson hefur líklega haft á réttu að standa þegar hann skrifaði um Félaga orð; að ég sé existensíalisti.

 

3. júlí

 

Hef verið að hugsa; það er einkennilegur ávani.

Hef verið að hugsa um hvernig meðalmennskan hefur náð tökum á samtímalífi á jörðinni; ekki einungis hér heima heldur alls staðar að því er virðist.

Kierkegaard sagði að blöðin lyftu meðalmennskunni til áhrifa.

Það má til sanns vegar færa. Lýðræði kallar ekki alltaf á þann sterkasta, þann hæfasta. Það kallar ekki á einn eða neinn. Hann velst bara úr hjörðinni. Líf mannsins byggist á hjarðmenningu sem Nietzsche talar um.

Hann afneitar guði, kristindómi; öllum trúarbrögðum. Hann dýrkar manninn og yfirmennskuna; dýrkar gríska menningu og það er kannski ekkert skrýtið eins og samskiptin voru náin milli manns og guðs. Guðir eignuðust hálfmenni; hetjur, eins og Akkilles. Okkar menning býður ekki upp á slík forréttindi!

Kierkegaard telur aftur á móti að lífið sé einskis vert án guðs; án Krists. Hann gerir kröfur til þess að kristnir menn séu kristnir. En það vantar mikið á.

Þeir eru kannski ekki eins ólíkir og virðist í fljótu bragði, tilvistarheimspekingarnir Kierkegaard og Nietzsche, því að hinn síðar nefndi sagði að það hefði aðeins einn kristinn maður verið til – og hann dó á krossi.

Það er ekki alveg út í hött.

En það er áreiðanlega mikið til í því að einkenni okkar tíma er hjarðmenning. Blöðin eru hætt að stjórna þessari menningu, það gerir sjónvarpið. Það kallar fram og leggur áherzlu á meðalmennskuna í allri sinni dýrð.

Það lyftir henni til áhrifa.

Þar er ekki spurt um hvað menn segja heldur hvernig þeir “koma fyrir”; hvernig þeir líta út, hvernig þeir göslast í gegnum þessa nærveru. Það skiptir engu þótt sjónvarpshetjan segi aldrei orð af viti en ef hún kemur vel fyrir, þá er hjörðin ánægð.

Ég hef skrifað minningargrein um Stefán Arnbjörn Ingólfsson, vin minn og mág, sem er nýlátinn úr heilablóðfalli. Hann var góður drengur og ég þekki engan sem var eins vel undir það búinn að kveðja þennan heim og kanna ókunnar slóðir, svo sannfærður sem hann var um kærleiksríkan guð og eilíft líf mannsins.

Kierkegaard talar um það þegar hann lýsir dvöl sinni á æskustöðvum föður síns í Jótlandi, hvað heiðin er kröfuhörð og opin; þar getur enginn dulizt fyrir guði. Hann er nálægur og það er ekki hægt að flýja hann.

En ég minni á í greininni um Stefán Arnbjörn að við eignuðumst þennan guð í nokkuð öðru og mildara ljósi: Faðir og vinur alls sem er, annastu þennan græna reit.

Það var guð Stefáns Arnbjörns og það er minn guð; hlýr, umhyggjusamur, kærleiksríkur; umburðarlyndur. En hann getur verið aðhaldssamur og kröfuharður þrátt fyrir það. En hann er ekki endilega eins og gyðingar lýstu honum. Guð faðir er eins og húsbóndi á íslenzkum sveitabæ. Hann er eins og föðurlaus Jónas hugsaði til slíkrar forsjónar. En það er sterkur vilji á bak við þessa trú, hvað sem öðru líður. Þessi sami vilji og ég er að reyna að lýsa í bókinni Um Jónas, en það er viljinn sem við erfðum úr trúarheimspeki Lúthers og hefur verið hvetjandi afl alls staðar þar sem mótmælendur hafa komið saman.

Mér er nær að halda að Schopenhauer hafi erft hugmyndina um þennan lífsvilja þótt hann skrifi hana inn í heldur guðlaust og svartsýnt umhverfi kenninga sinna. Hann gerir þennan vilja að einhvers konar frumkrafti tilverunnar. Hegel kallaði þennan vilja Zeitgeist, eða anda tímans; eða vilja tímans. Hegel lagði mesta áherzlu á skynsemina í kenningum sínum en Nietzsche setti andlega sköpun ofar skynseminni. Hann sagði víst að túlkun, afstaða eða upplifun réði úrslitum um viðhorf okkar. Hegel lagði áherzlu á frelsið og það er athyglisvert að sjá hvernig hann talar um þjóninn og húsbóndann; að þjónninn eigi einnig að njóta ávaxtanna af erfiði sínu.

Það var því ekki einkennilegt þótt Marx hallaðist að kenningum hans og legði út af þeim í draumsjón sinni um uppreisn öreigans. Ég sé ekki betur en Hegel hafi ekki einungis lagt áherzlu á frelsið; að frelsi andans sé kjarninn í eðli mannsins, heldur ýjar hann að velferð þeirra sem eiga undir högg að sækja.

Það er geðfelldari hugmynd en margt af því sem Nietzsche er að boða, þótt Nietzsche sé skemmtilegri en Hegel ef hægt er að dæma af því sem ég hef kynnzt úr ritum þeirra.

En skemmtilegastur er auðvitað Kierkegaard, skáldið og hugsuðurinn eins og hann vildi láta kalla sig. En hann var líka harðastur í horn að taka ef því var að skipta. Spurði hver hefði sagt: Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

Var það hinn upprisni Kristur sem situr í allri sinni dýrð við hægri hönd guðs föður almáttugs sem sagði þetta?

Nei, sá Kristur hefur ekki sagt aukatekið orð, ekki enn; ekki aukatekið orð úr því tignarsæti.

En það var hinn auðmýkti Kristur sem sagði þessi orð og líf hans á jörðinni segir okkur allt um það hvernig við eigum einnig að lifa; ekki í dýrð og þjáningarlausri sælu; heldur hædd og spottuð og þyrnum stungin.

En það á enginn jafnauðugan líkingasjóð og Kierkegaard; enginn nema Kristur sjálfur.

Ein af líkingum Kierkegaards er um hund sem glefsar í þann sem sýnir yfirburði. Þessi hundur er hinn fyrirlitlegi þáttur andlegs lífs en samt gælir fólkið, mergin, við þennan hund meðan hann gerir atlögur að einstaklingnum. En svo segir fólkið allt í einu, Þetta nægir!

Það gerist þó ekki fyrr en þessum sterka einstaklingi hefur verið misþyrmt með þeim hætti að öllum þykir nóg um. En þá uppsker hundurinn jafnvel fyrirlitningu almennings, en fólkið iðrast ekki á neinn hátt því þetta var engum að kenna nema hundinum; mergðin átti engan þátt í þessari atlögu!

En mergðin læknast ekki af sjúkdómi sínum.

Hún læknast aldrei.

Og hún upphefur sjúkdóminn í æðra veldi.

Eða þessi frábæra líking:

Það kviknar í sirkusnum. Trúðurinn hleypur í bæinn til að segja frá eldinum. En þá segir fólkið,

Upp á hverju taka þeir næst til að auka aðsóknina?

Á meðan brennur sirkusinn til kaldra kola.

Og nú getum við spurt,

Ætli heimurinn farist með þessum hætti?

Trúðurinn er þá í gervi vísindamannsins sem sér hættuna fyrir og reynir að vara menn við henni.

En stjórnmálamennirnir og þeir sem sköpum skipta hlæja framan í mergðina því þeir vilja gera henni allt til geðs og vita að hún er í sirkusnum til að skemmta sér, en ekki slökkva óvelkominn eld.

Hverjir hugsa í raun og veru um geislun og aðra mengun; ósonlagið og eyðileggingu frumskóganna; jarðarinnar?

Eru það áhrifamennirnir?

Kannski sumir, en fæstir. Stjórnmálamenn hugsa fyrst og síðast um einn þátt umhverfisins, atkvæðin.

Nietzsche talaði um að frumkraftur mannsins væri viljinn til valda. En það eru, því miður, fleiri en ofurmennin sem eiga þennan vilja, nota hann og beita honum eins og svörtum galdri fyrir sjálfa sig og atkvæðin sem þeir lifa á.

Guðmenni er ekki líklegast til að vera velkomið inn í slíkt samfélag.

Í tækniþjóðfélagi mergðarinnar er lýðurinn guðmennið sjálft og persónugerist í lýðskrumi foringjans.

En ef ég skil Kierkegaard rétt, þá eru sannleiksgildin ekki í tízkumergðinni, heldur meðal þeirra sem þjást fyrir sannleika sinn; ofsóttir, jafnvel krossfestir.

Það eru ekki veraldleg gæði sem úrslitum ráða hvort menn eru sannleiksvitni eða ekki, heldur heiðarleikinn.

Konungsríki guðs er hvort eð er ekki af þessum heimi.

En heiðarleiki getur verið fylginautur mannsins á jörðinni.

Kierkegaard gagnrýnir ekki kristindóminn eins og Nietzsche, heldur þá afstöðu kirkjunnar að hafa ekki í heiðri grundvallarreglur hans.

Það er annars einkennilegt hvað forystumenn tilvistarstefnunnar um vandkvæði mannsins í umhverfi sínu eru gjörólíkir; kristnir, heiðnir, sósíalistar og andstæðingar sósíalisma eins og Nietzsche.

En með allt þetta í huga er ómögulegt að fallast á það með Hegel að líf mannsins á jörðinni grundvallist á skynsemi.

Náttúrulögmál eru til að mynda ekki skynsemi; þau eru einungis náttúrulögmál.

Og enginn veit hvaðan þau eru runnin; hvort á bak við þau eru tilviljanir einar eða guðlegt kraftaverk.

Í hvorugu tilfellinu væri um skynsemi að ræða, heldur mætti tala um tilviljanir utan og ofan við skilning mannsins og skynsemi, eða þá órannsakanlega vegi guðs.

Og ekki veit ég hvort það er rétt hjá Hegel að miklir menn séu fulltrúar skynseminnar; að þeir skapi tímann og tíminn skapi þá; að þeir séu réttir menn á réttum tíma.

Hitt má vera að mikilmenni hvers tíma sé sá sem getur orðað vilja síns tíma. Slíkur maður er þá einskonar persónugervingur tímans og nær sögulegum árangri af því að hann lýsir þessum vilja tímans; eða Zeitgeist.

Þegar ég velti þessu fyrir mér sé ég í hendi minni að Kristinn E. Andrésson er að skírskota til Nietzsche þegar hann gefur bók sinni nafnið Ný augu, tímar Fjölnismanna. Hún kom út 1973, tileinkuð Þórbergi Þórðarsyni. Það er augljóst að Enginn er eyland sem kom út tveimur árum áður er skírskotun í skáld ástar og dauða, John Donne.

Slíkir titlar eru sjaldnast tilviljun. Á þessa bók skrifaði Kristinn: Til Matthíasar Johannesens, í vináttuskyni.

Kristinn átti undir högg að sækja í eigin flokki undir lokin og það var engan veginn gott á milli hans og Magnúsar Kjartanssonar. Kristinn þurfti á Morgunblaðinu að halda til kynningar á þessum ritum sínum og mér þótti vænt um að geta rétt honum hjálparhönd, enda stóð hann höllum fæti.

Uppgjör þeirra Magnúsar Kjartanssonar var dálítið sérkennilegt þarna í miðju kalda stríðinu. Og ég held að einhver góður fræðimaður ætti að reyna að leysa þá gátu.

Kristinn var alla tíð harðlínumaður og mér er nær að halda að úr því sem komið var hafi Magnús talið slíka menn fremur til trafala en framgangs stefnunni.

Ég held Kristinn hafi dáið óglaður.

Hann vissi að það var pólitískur landskjálfti yfirvofandi, hann var nógu greindur maður til að gera sér grein fyrir því að húsið sem hann hafði flutzt inn í ungur gæti hrunið í fjörbrotum kommúnismans.

En hann hélt fast í hugsjónina og ætlaðist einnig til þess af öðrum. Af því spratt tortryggni, óvild og átök bak við tjöldin.

Hlustaði á Einar H. Guðmundsson doktor í stjarneðlisfræði á Rótarífundi um daginn. Þótti það athyglisvert. Hann fjallaði um Miklahvell og Miklahrun; þ.e. upphaf og endi veraldarinnar. Lét eiga samtal við hann í Morgunblaðið. Elín Pálmadóttir tók það að sér og gerði það ágætlega. Hann sagði m.a. í fyrirlestri sínum að ljósið frá Síríusi sem Þórbergur notaði til að beita fyrir elskuna sína, hafi verið tæp níu ár á leiðinni til okkar.

Við sjáum sem sagt þessa umtöluðu stjörnu eins og hún var fyrir tæpum níu árum.

Andromedus-stjörnuþokan, sem er næsta vetrarbraut við okkur, lítur nú út á himninum eins og hún var fyrir rúmum tveimur milljónum ára.

Hvernig skyldi hún vera í dag?

Ætli hún sé til?

Kannski er ekkert eftir nema ljósin á leið til okkar.

Hvílíkur leyndardómur er þessi tilvera; þessi sköpun. Getur verið að hún sé tilviljun?

Til upp úr þurru

Mér verður hugsað til þess sem Nietzsche sagði: Amor fati, þ.e. örlagaást.

Og sólin, þetta yndislega tákn guðdómsins í augum Jónasar sem er undirstaða alls lífs, ræður vötnum og vindi og öllu umhverfi, ætli einhvern tíma verði hægt að spyrja:

Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað?

Þegar hún deyr, deyr allt.

Þá hefst skeið hinna köldu hnatta; skeið hinna kulnuðu sólna og köldu reikistjarna.

Einar H. Guðmundsson segir að sólin okkar fari að þenjast út eftir u.þ.b. fimm milljarða ára og verði að rauðum risa. Síðan losi hún sig við yfirborðslögin og eftir situr glóandi heitur hvítur dvergur, sem síðan kólnar á löngum tíma.

Hvar verðum við þá?

Guði sé lof, ekki með hugann við þessi ósköp!

“Um það bil 100 þúsund árum fyrir Miklahrun er þessi sakleysislegi örbylgjukliður orðinn jafnheitur og stjörnunnar. Þá er ástand alheimsins eins og inni í glóandi ofni og sólirnar fara að gleypa í sig orku frá umhverfinu, draga til sín ljós í stað þess að senda það frá sér. Þetta endar með því að þær springa. Síðustu 100.000 árin mundi því ríkja rosalegt ástand í veröldinni. Sjóðandi heitt plasmað verður sífellt heitara og heitara og æ þéttara og hrynur að lokum saman í einum punkti í Miklahruni. Í vissum skilningi er þetta eins og viðsnúinn Miklihvellur.”

Svo snýr hann sér að “villtum vangaveltum Hawkings “, en ég las mér til ánægju bók hans, Saga tímans, þegar hún kom út í íslenzkri þýðingu fyrir u.þ.b. fimm árum og hlustaði á hana á ensku.

Slíkt efni er heillandi og áleitið.

Það varpar ljósi á snilld mannsins og smæð og má ekki á milli sjá hvort má sín meira.

En sagan er ekki öll sögð með Miklahruni.

Ein af niðurstöðum skammtafræðinnar sem er til vitnis um nútímalega afstöðu Jónasar Hallgrímssonar til sköpunarverksins og ég hef fjallað um í fyrr nefndri bók segir “að í tómarúminu sé stöðugt að myndast efni og eyðast aftur. Viss líkindi eru fyrir því að í mjög skamman tíma geti myndast mikið efnismagn. Þetta gerist ekki daglega, en í heimi sem verður mjög gamall gæti þetta gerst einstöku sinnum. Og ef þetta gerðist gæti hugsanlega myndast svarthol eða jafnvel ormagöng. Efnið sem myndaði slík ormagöng færi þá að lifa sjálfstæðu lífi og þenjast út. Og gæti jafnvel myndað nýjan heim, sem hefði tilveru fyrir utan okkar veröld”.

Sem sagt, nýfædd veröld. Og hún gæti jafnvel fætt af sér annan heim. Og þá yrði okkar heimur aðeins bóla í alheiminum!

Og löngu liðinn undir lok.

Ég orti að gamni mínu nokkur kvæði út af þessum ósköpum:

Framtíðarsýn

Eggblómi

skurn hvítra hugmynda

kulnandi sól

við kvöldföla

hnetti

og deyjandi jörð.

 

Sólsetur

Eggskurn dagsins

brotnar

flæðir hvítan

yfir fjörð og jökul

en rauðan

drýpur hægt

inní hugmynd okkar

um nýja jörð.

 

Nýr heimur

Eins og fiðrildi

flýgur

af hamskiptri

lirfu

á laufi

þannig hverfur

hugmynd okkar

að nýrri veröld

af vænglausum göngum

ormsins

inní vængjaðan draum

um veröld sólar

í deiglu.

 

Miklahrun

Deyja hvítir

dvergar

inní svört tóm

og tröllslega veröld

kulnandi hnatta

eins og sólskuggar hverfi

að slokknuðum eldum

Langavatns.

Nietzsche sagði að maðurinn væri hið sjúka dýr sköpunarinnar, þá átti hann líklega við hve illa hann er settur í samfélagi sínu. Skoðun hans á ríkinu var mjög neikvæð og öndverð skoðun Hegels sem marxistar gældu við vegna misskilnings; á sama hátt og nazistar misskildu Nietzsche. En ég hef áhuga á skoðunum Hegels þegar hann talar um þjóninn og húsbóndann og skil vel að marxistar hafi sótt í þessar fyrirmyndir um jafnari rétt þessara aðila. En nú spyr ég sjálfan mig:

Erum við á leiðinni að verða svona þjónar – og það í miðri velmegun meirihlutans?

Eitt kvöldið sáum við sjónvarpsmynd um Íslendinganýlendu í Haustholm á Jótlandi, þeir vinna allir í fiski. Held þeir séu á milli fimmtíu og sextíu. Þeir hafa tæpar eitt þúsund krónur á tímann þarna á Jótlandi en heima höfðu þeir víst 235 krónur!

Hvernig má þetta vera?

Getur verið að íslenzku fyrirtækin taki svona mikið til sín og skilji verkafólkið eftir?

Það þarf að kanna þetta mál, fara ofan í það, leiða sannleikann til lykta – við getum ekki endalaust fullyrt að íslenzk fyrirtæki hafi ekki efni á því að greiða fólki mannsæmandi laun. Þá verður bylting einn góðan veðurdag.

Ekki vildi ég lifa hana.

Þetta er ágætt verkefni fyrir Morgunblaðið, við sjáum hvað setur. Kannski fá

Danir mikla styrki frá ESB og geta haldið uppi sjávarútvegi með þeim; hver veit?

Ég hef gaman af hugmyndum Nietzsches vegna þess hvað þær eru skáldlegar. Maður þarf ekki að vera sammála honum, ekki frekar en skáldi. Maður nýtur einungis þessa skáldlega flæðis, drekkur það í sig og veltir fyrir sér þessu hugmyndaflugi sem gengur þvert á allar viðteknar skoðanir.

Og sem betur fer.

Ekki vildi ég búa í heimi þar sem hugmyndir Nietzsches væru allsráðandi. En það er gaman að velta fyrir sér myndbreytingum hans eins og þegar hann talar um manninn sem villta hunda í kjallaranum, en þeir breytist síðan í syngjandi fugla.

Það er skáld sem talar.

Það voru margir óðir hundar á vegum Þriðja ríkisins en enginn þeirra breyttist í syngjandi fugla. Þeir voru allir hundóðir, það er allt og sumt. Ég held ekki – og er þannig sammála Nietzsche – að neitt geti breytt manninum úr þessu tryllta dýri í yndislegustu skepnu jarðar, vængprúðan syngjandi fugl, nema listin og bókmenntirnar.

Ég hef reynt að kynna mér existensialisma ,eða tilvistarstefnuna, svo ég viti þó ekki væri nema örlítil deili á sjálfum mér!

Það væri þá helzt ýmislegt í hugmyndum Kierkegaards sem hefur heillað mig.

En satt að segja hef ég aldrei orðið sérlega hrifinn af Sartre og ýmsum kenningum hans enda var hann sídaðrandi við marxista og jafnvel öfgahópa ýmiskonar. Hann markaði tilvistarstefnu sína með því að lýsa yfir því, að maðurinn væri það sem hann vildi vera; að maðurinn væri það sem hann gerði sjálfur.

Þannig mætti segja að tilvistarstefna Sartres sé fólgin í þessum orðum: Liggur hver eins og hann hefur um sig búið.

Ég er ekki sáttur við þessa skilgreiningu á vanda mannsins og að því leyti er ég ekki sartristi.

Það eru ýmsir þættir utan við okkur sjálf sem marka okkur bás í lífinu; hafa áhrif á stöðu okkar og örlög ef svo mætti segja; jafnvel hugmyndir okkar og hugsanir.

Við erum þannig bæði það sem við viljum eða gerum sjálf, en einnig það sem umhverfið og annað fólk ákveður. Og stundum erum við ekki einungis við sjálf, ráðum ekki við okkur sjálf. Missum tök á okkur sjálfum; eða hefur ekki verið sagt:

Hið góða, sem ég vil, það gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég

. Og svo bætir Páll við,

En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr.

Ég held að fyrri setningin sé hárrétt hjá Páli, nei, ég held það ekki, ég veit það; ég hef sjálfur reynslu fyrir því. En ég er aftur á móti ekki viss um að syndin stjórni hinu vonda, heldur eðli okkar; við erum bara menn, en ekki guðir.

Og það vonda sem við gerum, það gerum við sjálf, en ekki syndin.

Það er dýrið í okkur sem ræður ferðinni og það ræður enginn við upplag sitt.

Nú er ég kominn hringinn, ég er sem sagt existensíalisti.

Syndin er einungis partur af trú minni og uppeldi, það er allt og sumt. En ég viðurkenni hana sem slíka vegna þess að Kristur gerir kröfur til þess að við játum syndir okkar, iðrumst, gerum yfirbót en þá loks séum við hólpin.

Kristnin er trú syndarinnar.

Það hefði verið auðveldara að lifa fyrir syndafallið. Ég öfunda dýr merkurinnar af því að þekkja ekki syndina; þennan svarta skugga sem liggur eins og mara á lífi hvers kristins manns. En hann fékk þá einnig Krist sjálfan og fyrirheit hans um sáluhjálp, upprisu og eilíft líf. Að sumu leyti mætti segja að kristin kenning sé einskonar tilvistarstefna því að hún boðar að hver liggi eins og hann hefur um sig búið.

Þannig værum við án hjálpræðis Krists og fórnardauða hans. Hann hefur þannig upphafið tilvistarstefnuna og breytt henni í eilífan fögnuð hinna sáluhólpnu. Það hefur Sartre ekki getað, né aðrir forystumenn tilvistarstefnunnar.

En ég er sammála Sartre í því að við eigum að reyna að velja hlutskipti okkar, hafa eins mikil áhrif á örlög okkar og unnt er. Samt veit ég að það er einatt erfitt; að það getur verið vandi að velja.

Mér þykir allt bezt, sagði Lási kokkur þegar hann þurfi einhverju sinni að svara erfiðri spurningu.

Hann var hins vegar þónokkur heimspekingur eins og sjá má af samtali okkar.

Og hann var einhver hamingjusamasti maður sem ég hef kynnzt fyrr og síðar.

 

6. júlí

 

Komum heim frá Akureyri undir miðnætti. Engu líkara en vetur sé genginn aftur í garð. Tveir Spánverjar týndir á Drangajökli, vonandi finnast þeir.

Hanna veit að íslenzki bylurinn er banvænn.

Magnús bróðir hennar varð úti á sínum tíma, 16 ára gamall, mikill efnispiltur.

Ísland er ekkert gæludýr, ekki einu sinni á sumrin. Það er stutt í rándýrið. Jafnvel þeir sem lifa með þessu tvískipta eðli landsins geta orðið illa fyrir barðinu á því; hvað þá útlendingar.

Kom við hjá Braga Þórðarsyni forstjóra Hörpu-útgáfunnar á leiðinni norður. Fórum yfir nokkur atriði í næstu bók minni og breyttum nafni hennar. Mér datt í hug að hún ætti að heita Hvar er nú fóturinn minn?

Bragi vill heldur, Hvíldarlaus ferð inn í drauminn.

Það er matthíasarlegra, sagði hann.

Ég samþykkti það að sjálfsögðu. Hann á að selja bókina, ekki ég!

Ég veit þetta er erfið bók en hann er spenntur fyrir að gefa hana út.

Menn þurfa að lesa hana hægt. Ég er ekki viss um að margir hafi þolinmæði til þess nú á dögum. Gagnrýnendur lesa einnig of hratt.

Bezt að vera ekki heima í haust þegar bókin kemur út!

Sá frétt í Morgunblaðinu sem vakti athygli mína. Þar segir að í skýrslu Borgarendurskoðunar í Reykjavík komi fram að kostnaður við hátíðarhöld á vegum borgarinnar vegna lýðveldishátíðarinnar í fyrra hafi orðið 19,3 milljónum meiri en áætlað var.

Ég man ekki til þess að við færum eyri fram úr áætlun 1974. Þá vantaði okkur alltaf peninga. Mig minnir að við höfum fengið 750 þúsund á fjárlögum! Urðum sjálfir að gefa út víxil fyrir Gjábakkaveginn! Ólafur Jóhannesson sagðist skyldu sjá um að ríkið borgaði hann, hann stóð alltaf með okkur. Margir aðrir voru ýmist áhugalausir eða fullir af andúð, ég veit ekki hvers vegna. Kannski þeir hafi viljað stjórna þessu sjálfir, kauplaust eins og við! Ætli menn myndu taka það í mál nú um stundir að vinna sjö ár kauplaust fyrir ríkið eins og ég lét Þjóðhátíðarnefnd 1974 gera?

Mér er það svo sannarlega til efs.

Það er alltaf sagt að Íslendingar séu mikil bókaþjóð, en ég er satt að segja ekki viss um að svo sé. Freysteinn Jóhannsson, fréttstjóri, sagði mér um daginn að hann hefði spurt tvo unglinga hver væri vinsælasta Íslendinga sagan.

Riddari hringstigans! sögu þeir.

Ef það verður ekki hugarfarsbreyting á Íslandi á þessari fyrstu skaplegu öld íslenzkrar sögu frá 1300, þá verður mikið þjóðarslys, en kannski eftir öðru eins og árar!

Annars hefur þekking manna ávallt verið í molum.

Þegar við Bjarni Benediktsson gengum að Skógarkoti á sínum tíma hittum við gangnamenn.

Þeir heilsuðu og sögðu,

Við heilsum forsetisráðherra okkar.

Nokkru síðar sáum við ref sem varð hræddari en við og hvarf á samri stundu.

Þegar við héldum göngunni áfram kippti Bjarni í handlegginn á mér og sagði,

Allir þekkja mig, en enginn þekkir þig.

Nokkrum dögum seinna sagði ég við Bjarna,

Hefurðu heyrt um skoðanakönnunina sem var gerð í gagnfræðaskóla hér í Reykjavík, það var spurt hver væri forsætisráðherra landsins?

Nú, jæja, sagði Bjarni. Og hvernig fór könnunin?

Enginn vissi hver er forsætisráðherra landsins, en einn sagði Sveinn Benediktsson!

Sem sagt, jafntefli!

Á þetta hef ég víst minnzt áður þegar ég skrifaði ritgerðina Með vinum sem birt var í bókinni um Bjarna, 1983. Þar lýsti ég vináttu okkar og samstarfi og hef ekki meira um það að segja.

Vaknaði um daginn fyrir allar aldir, verkjaði í vinstri fótinn. Hann hefur aldrei verið eins góður og sá hægri. Doði kringum litlu tána, bólgublaðra. Hélt ég væri að fá heimakomu og svo myndi ég deyja úr fótarmeini.

Það væri eftir öðru.

Eigi skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir, sagði Gunnlaugur ormstunga.

Gluggaði í handrit, viðþolslaus.

Hringdi í heilsugæslustöðina á Seltjarnarnesi um áttaleytið, þar hef ég ávallt fengið frábæra þjónustu.

Fór til Guðfinns læknis kl. 9.10.

Hann leit á löppina og sagði mér að leggjast á bekk og stakk á kýlinu. Enginn gröftur, einungis glær vökvi, en það var kallað hundshland í gamla daga, sagði Guðfinnur.

Það hlýtur að vera konunglegur sjúkdómur, hugsaði ég.

Og ég sem á engan hund, ekki einu sinni gullfisk!

Það var margt við jarðarför Stefáns Arnbjörns,mágs míns. Mér er sagt að afkomendur tengdaforeldra minna séu á þriðja hundrað; glæsilegur hópur.

Gaman að hafa tekið þátt í þessari fólksfjölgun.

Skrifaði minningargrein um Stefán Arnbjörn, þar er honum rétt lýst að mínu viti.

Hún birtist í gær, útfarardaginn.

En dauðinn er farinn að safna okkur saman, hægt og bítandi; eins og segir í Viðljóðum í Tveggja bakka veðri:

Við höfum kvatt margar kistur

lotið höfði við margar grafir

talað saman...

en myrkrið leitar sér skjóls

í skotgröfum

og myrkrið leggst yfir vígvöllinn

þegar kvöldar...

og dauðinn kemur í andlit

annars manns.

Hef verið að lesa heimspeki Jean-Pauls Sartre eins og ég hef nefnt og Dagbækur Allans Bennetts, 1980-1990, en ég þekki hann af leikritum.

Eftirminnilegur höfundur, finnst mér.

Sáum úti í Bretlandi kvikmyndina Brjálæði konungs sem er gerð eftir handriti hans. Stórmerkileg mynd. Mig minnir ég hafi áður minnzt á hana í þessum kompum.

Móðir Bennetts er augsýnilega með alzheimer, kannski er hún bara þrælkölkuð eins og Helga Magnea amma mín varð undir lokin,rétt komin yfir sjötugt.

Hún dó í Kirkjustræti 10. Þar bjuggum við víst einnig. Hún sagði ég hefði byskupshendur. Hún hafði verið gift Matthíasi afa mínum Johannessen en síðar Kristjáni Þorgrímssyni konsúl. Hann átti Kirkjustræti 10. Helga Magnea taldi að ég hlyti að vera eitthvert náttúruundur fyrst ég héti þessu nafni afa míns. Ég var tveggja ára svo ég man ekki þetta byskupstímabil ævi minnar. Mínar hendur eru ekki til þess fallnar að blessa nokkurn mann!

En það var Alan Bennett. Hann lýsir móður sinni mjög skemmtilega eins og hún var nú rugluð, mér finnst það einkennilegt. Ég hef að vísu notað þennan sjúkdóm í smásögu sem ég skrifaði fyrir mörgum árum og birtist í Konungi af Aragon en hefði aldrei notað sjúkleika móður minnar til skemmtunar.

Bennett segir að á fimmtugsafmæli Harolds Pinters hafi brezkur blaðamaður hringt til hans og spurt hvað hann vildi segja í tilefni af afmælinu. Síðar datt Bennett í hug að hann hefði átt að svara spurningunni með þessari uppástungu, Við ættum að halda upp á afmælið með tveggja mínútna þögn!

Ég vildi svo sannarlega eiga svona húmor!

Bennett segir að Josep K. sé alltaf leikinn eins og gefið sé í skyn en ekki eins og hann er samkvæmt texta Kafka, ofurvenjulegur opinber starfsmaður.

Hann minnir á það sem Arthur Miller sagði á sínum tíma,

Leikið textann, en ekki það sem gefið er í skyn. Bennett tekur undir það.

Hef verið að þýða nokkur ljóð eftir bandaríska ljóðskáldið Kenneth Koch. Hann las kvæðin mín á ljóðlistarhátíðinni í New York, ásamt okkur Marshall Brement. Hafði gaman af að kynnast honum. Hann hrósaði þýðingum Brements í hástert.

Ég hef á mörgum ferðum, bæði í Evrópu og einnig vestur í Bandaríkjunum upplifað ánægju manna með þýðingar Marshalls á ljóðum mínum í The Naked Machine.

Það hefur sannfært mig um ágæti þeirra, en sjálfur hef ég ekki þá tilfinningu fyrir enskri tungu að ég geti dæmt um það, hvort ljóðlist er góð eða vond. Hún er galdur og annað hvort mistekst galdur eða heppnast.

Ekkert millistig.

Annað hvort læknar töframaðurinn sjúklinginn eða ekki.

Marshall hefur augsýnilega tekizt að fremja þennan galdur og það hefur glatt mig.

Þýðingar Marshalls hafa verið notaðar í enskumælandi löndum og það hefur verið mikilvægt fyrir mig að fá staðfestingu á því að þær standa fyrir sínu. Vissi það raunar eftir að brezka skáldið Adam Thorp fjallaði um bókina á afarjákvæðan hátt í alvöruritdómi í Literary Review á sínum tíma.

Thorp sjálfur er eitt helzta skáld Bretlands af sinni kynslóð.

Hef aldrei hitt hann, því miður, en ég hef gluggað í verk hans; athyglisverð; alvöruskáldskapur.

Hyggst birta þýðingar á ljóðum Kochs með samtali við hann í menningarblaði Morgunblaðsins. Hann er einfalt skáld og skemmtilegt. Kvæðin eru eins og hann sjálfur.

Góðskáld eru held ég ávallt eins og þau eru sjálf í daglegu lífi.

Þórbergur var eins og verkin hans, Steinn eins og ljóðin hans, nei, ég man ekki eftir neinum undantekningum.

Mörg skáld eru jafnleiðinleg og ljóðin þeirra. Engu skáldi man ég eftir sem er skemmtilegra en ljóð þess.

Allan Bennett segir frá konu sem hafði keypti deyjandi blóm fyrir jarðarför kunningja síns. Henni var bent á að blómin væru farin að visna,

Gerir ekkert, sagði hún, ég ætla hvort eða er að kasta þeim í gröfina!

Allt visnar þetta hvort eð er.

Orður og titlar, þarflaust þing, sagði Steingrímur. Og Sartre hafnaði

Nóbelsverðlaunum, vildi að rithöfundar sæktu heiður sinn í eigin verk.

Hef alltaf verið að þýða eitthvað af ljóðum. Hef ekki nennt að gefa þau út í sérstakri bók. Minnir ég hafi snarað milli 50 og 100 þýzkum ljóðum á íslenzku, auk margra annarra ljóða sem ég man ekki lengur hvar eru niðurkomin. Kannski ég ætti að taka þetta saman einhvern tíma og gefa út á bók.

En hver mundi vilja gefa það út?

Hef helzt ekki viljað endurtaka ævintýri Jónasar Thoroddsens!

Það árar ekki vel fyrir ljóðlist, hún er of sönn fyrir þessa uppvöðslusömu og háværu samtíð; þessa afþreyingarfíkn sem lítur jafnvel á réttarhöldin í máli O.J. Simpsons eins og einhverja tegund af skemmtun!

En þetta er fyrst og síðast harmleikur; morðmál; ofbeldi; lygar. Menn hafa svo sem upplifað harmleiki áður – en ekki sem sérstaka tegund af sjóbissness.

Fátt lýsir okkar tímum eins vel og þessi uppákoma.

 

10. júlí – mánudagur

 

Davíð Oddsson hringdi til mín í morgun. Bauð okkur Hönnu að vera viðstödd stutta minningarathöfn á Þingvöllum vegna þess að aldarfjórðungur er liðinn frá því Bjarni og Sigríður og Benedikt litli fórust þar í eldsvoða. Þótti vænt um að okkur Hönnu skyldi vera boðið að vera viðstödd. Sagði sjálfur fyrir um fréttina í blaðið á morgun; fyrirsögnin: Minningarstund við bautasteininn á Þingvöllum. Hún á að birtast á blaðsíðu 2 með tveimur litmyndum. Engu líkara en náttúran sjálf hafi hannað þennan fallega bautastein í því skyni að minnast þessa hörmulega atburðar.

Ef ég man rétt fórum við fjórir austur á Þingvöll að leita að slíkum minningarsteini, dr. Kristján Eldjárn, þáverandi forseti, Guðmundur Benediktsson ráðuneytisstjóri og við Björn Bjarnason. Leituðum einkum í Almannagjá norðanverðri. Þar kom forsetinn auga á þennan stein og okkur var öllum ljóst að ekki yrði á betra kosið. Hann fannst í gjánni skammt norðan við veginn þar sem hann liggur inn í þjóðgarðinn.

Það var rétt sem Davíð sagði í stuttu ávarpi sínu, að það sló þögn á þjóðina við slysið.

Við stóðum þögul við steininn nokkra stund. Það var hlýtt á Þingvöllum, en rigning.

Síðast þegar ég kom að steininum orti ég lítið ljóð sem ég gaf Birni en það hefur ekki verið birt.

Að athöfn lokinni las Davíð úr minningargreinum Halldórs Laxness og Sigurðar Nordals eins og segir í fréttinni en þær voru upphaflega prentaðar í Morgunblaðinu, ásamt öðrum minningargreinum, við útför þeirra þriggja.

Þeir sem viðstaddir voru athöfnina á Þingvöllum, auk Davíðs Oddssonar, Rutar og Björns og Bjarna Benedikts sonar þeirra og okkar Hönnu, voru allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins í núverandi ríkisstjórn og konur þeirra, auk Ólafs Davíðssonar ráðuneytisstjóra, Harðar Einarssonar og Sigrúnar og Ásgeirs Péturssonar.

Þetta var því þröngur hópur vina, en ýmsa vantaði. Ég veit ekki hvers vegna. Mér fannst þegar ég stóð þarna í rigningunni sem þessi tuttugu og fimm ár væru einn dagur, ei meir.

Hefur eitthvað gerzt á þessum tíma?

Jú, heimskommúnisminn er hruninn og Sambandið horfið af sjónarsviðinu, en Íslandsbanki að flytja inn í stórhýsi þeirra á Kirkjusandi.

Annað hefur víst ekki gerzt!

Við Hanna vorum oft með Sigríði og Bjarna á þessum ferðum þeirra um landið. Fórum einnig í Rómarferð með þeim; ógleymanlegt. En það stóð ekki til að við færum með þeim í síðustu ferðina. Þau ætluðu að gista þessa einu nótt í Konungshúsinu en það vissum við ekki. Um það hafði ekki verið talað. Ég held án þess mér sé það fullkunnugt að sú ákvörðun hafi verið tekin á síðustu stundu. Haraldur bílstjóri veit það líklega en ég held hann hafi síðastur allra talað við þau í þessu lífi. Einstakur maður og vinur okkar allra. Svo átti hann að sækja þau og halda ferðinni áfram, en það átti fyrir þeim að liggja að hefja annað og lengra ferðalag um ókunnar slóðir. Þangað sem enginn veit hvert ferðinni er haldið og enginn þekkir bílstjórann.

Klukkan hálffjögur um slysanóttina hringdi síminn hjá okkur Hönnu hér heima á Reynimel 25a.

Ég vaknaði og það setti að mér kvíða. Fór í símann.

Það var Ágúst Bjarnason, sonur séra Bjarna. Við vorum miklir mátar.

Röddin var annarleg.

Hvað er að? sagði ég.

Veiztu hvort Bjarni og Sigríður gistu í Konungshúsinu? spurði hann.

Nei, sagði ég, ég veit það ekki.

Af hverju spyrðu?

Það brann í nótt sagði hann.

Það var búið að skrifa uppkast að leiðara þegar ég kom niður á Morgunblað eftir hádegi næsta dag. Við Hanna fórum fyrst upp í Háuhlíð, síðan fór ég niður eftir að stjórna blaðinu. Ég skrifaði nýjan leiðara; skrifaði þennan leiðara grátandi, það hef ég aldrei gert, hvorki fyrr né síðar. Held ekki hann sé neitt verri fyrir það. Eykon fór svo yfir þennan leiðara og við gerðum smávægilegar breytingar á honum. Síðan var ákveðið að við skrifuðum báðir nöfnin okkar undir þessa einstæðu forystugrein. Það hafði aldrei verið gert í Morgunblaðinu, hvorki fyrr né síðar. Svo var tekið til við að undirbúa næsta blað, fjalla um atburðinn og undirbúa minningarblaðið.

Mig minnir svo að við Björn færum austur að Þingvöllum þarnæsta morgun; gengum að köldum kolum þessa örlagaatburðar og horfðum á rústirnar, en sérfræðingar gerðu athuganir sínar og rannsökuðu þær.Síðan héldum við ferðinni áfram, komum m.a. við hjá Jörundi Brynjólfssyni,fyrrum alþingismanni, fyrir austan og lögðum drög að minningargreinum.

Björn stóð sig eins og hetja. Jafnvægi hans var með ólíkindum, ég hef raunar aldrei skilið það til fulls.

Séra Bjarni minnti mig einhvern tímann á að við íklæddumst krafti af hæðum eins og komizt er að orði í Biblíunni og ég orti minningarljóð um hann með skírskotun í þessi orð.

Við Björn íklæddumst slíkum krafti.

Það gerðu einnig allir sem stóðu þeim þremur næst og ég held að í þögninni hafi þjóðin einnig íklæðzt þessum krafti af hæðum.

En öllum var hugsað til brennunnar á Bergþórshvoli. Það var að ég held Benedikt litli sem fórst með afa sínum og ömmu sem leiddi huga þjóðarinnar að þeim voveiflega atburði.

Kannski er Njálsbrenna skáldskapur, kannski á hún einhverjar rætur í veruleikanum, en slysið á Þingvöllum var einungis veruleiki, kaldur og nakinn og eins nístandi og veruleikinn einn getur verið.

Að köldum kolum, segir í Njálu.

En af þessum kolum rís einhver mikilvægasta og örlagamesta minning sem íslenzka þjóðin hefur eignazt svo ég tali nú ekki um okkur, vini þeirra þriggja.

 

11. júlí

 

Sveinn Sigurðsson hefur verið að lesa próförk af Helgispjöllunum mínum sem verða sett saman á tvær bækur, til viðbótar þeim Helgispjöllum sem Iðunn gaf út svo ágætlega á sínum tíma, Ævisaga hugmynda og Þjóðfélagið.

Sveinn er vel vinnandi maður og ég treysti honum fyrir þessum lestri. Hann fór að tala við mig í kvöld um Spunnið um Stalín; kvaðst vera með hugann við það og sagðist vera undrandi á því hvernig ég hafi getað lifað mig inn í efnið með þeim hætti sem raun ber vitni.

Ég sagði það hefði sprottið úr reynslu minni í kalda stríðinu, bæði sem áhorfanda, blaðamanns og þátttakanda með köflum.

Ég minnti hann á að það hefðu ekki verið hermennirnir sem stóðu í verstu bardögunum í Víetnam sem hefðu lifað sig mest inn í atburðina, það hefðu verið aðrir sem hefðu skrifað átakanlegustu lýsingarnar; rithöfundarnir og ljóðskáldin.

Rithöfundur og skáld lifir sig inn í alls kyns atburði án þess endilega taka þátt í þeim.

Halldór Laxness spurði mig einnig á sínum tíma hvernig Spunnið um Stalín hefði orðið til; einkum samtölin.

Ég sagði honum að ég hefði skrifað söguna upp úr leikriti sem ég hefði samið um stalínstímann.

Já, einmitt, sagði Halldór, það hlaut að vera.

Ég sagði Sveini þetta einnig.

Ég hef aldrei komið þessu leikriti um stalínismann á framfæri, veit ekki hvort nokkur ástæða er til þess. Kannski er það til einhvers staðar í handriti, ég man það ekki.

Ég skrifaði einnig leikrit um Hamsun og Maríu og taldi það gæti plummað sig í útvarpi en svo fékk ég meiri áhuga á því að skrifa smásögu upp úr þessu leikriti og það gerði ég.

Hef síðan ekkert hirt um leikritið en líklega er það einhvers staðar til í handriti.

En sagan birtist í Konungi af Aragon – og öðrum sögum og heitir þar: María, eða sagan um Mörtu.

Og einkunnarorðin eru úr Viktoríu Hamsuns, Ég hef starað inn í ævintýrin mín.

 

12. júlí – miðvikudagur

 

Ítalskt veður.

Allar rósirnar sprungnar út í garðinum.

Það er eins og maður sé kominn til Paradísó.

Ekkert er eins líkt mannlífinu og veðrið.

Davíð Oddsson sagði mér á Þingvöllum að hann hafi verið gagnrýndur fyrir það í DV að vitna í Jónas; það sé úrelt.

Á hvaða leið erum við eiginlega undir forystu fjölmiðlanna?

Ætli við séum á harðahlaupum undan því bezta í sjálfum okkur?

Heimskan er eins og náðin; aldeilis óendanleg eins og Magnús dósent komst að orði.

Það var Davíð til sóma að vitna í Jónas.

Davíð hefur réttan hjartslátt.

Þegar honum tekst upp slær hjarta hans í takt við það bezta í þjóðarbrjóstinu.

Það er engin tilviljun hvernig hann hefur varað við aðild að Evrópusambandinu. Sú afstaða kemur beint úr hjartarótunum. Með þessa eiginleika að veganesti gæti Davíð orðið góður forseti. Myndi treysta honum til að sigra í forsetakosningum þótt engum öðrum sjálfstæðismanni hafi tekizt það nema Sveini Björnssyni en hann var ekki kosinn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Davíð er sérfræðingur í að sigra í kosningum. Það getur komið sér vel fyrir stjórnmálamenn!!

Það er engin tilviljun þegar Jónas segir að Bjarni Thórarensen hafi flogið fannhvítur svanur til sóllanda fegri. Hann var alltaf með hugann við einhvers konar Paradísó.

Síðar í þessu minningarkvæði líkir Jónas Bjarna við örninn en samkvæmt kenningum Snorra hefði hann átt að halda líkingunni á svaninum áfram, annars væri kvæðið nykrað og allt að því ónýtt. Tvær ólíkar líkingar megi ekki nota í sama kvæði.

Þetta er auðvitað eintóm vitleysa og ástæðulaust að taka það alvarlega. Ólíkar líkingar gefa kvæðinu meira svigrúm og hugmyndunum meira tækifæri til að viðra sig.

Það er eins og að opna fleiri glugga en einn; sjá í fleiri áttir en eina.

Jónas talar um frelsarann í lok þessa kvæðis. Það gerir hann mjög sjaldan og einungis þegar honum er mikið niðri fyrir, t.a.m. í kvæðinu Eftir Tómas Sæmundsson. Þar kemur Kristur einnig við sögu; sonurinn góði.

Hef verið að kynna mér hugmyndir bandaríska heimspekingsins John Deweys (1859-1952).

Þekkti hann ekkert áður.

Hugmyndir hans um menntamál eru athyglisverðar. Skólinn er einungis einn þáttur menntamála en alls ekki sá grundvöllur sem tönnlazt er á. Athyglisvert fyrir okkur sem horfum upp á unga fólkið glutra niður tengslum sínum við arfleifðina og tunguna. Það gerðist ekki ef skólinn væri hornsteinn. Sjónvarpið hefur tekið að sér þetta hlutverk uppfræðslu og menntunar; því miður. Það er á góðri leið með að breyta okkur úr þjóð í óþjóð. Við máttum við ýmsu, en ekki því. Án arfleifðar og íslenzkrar tungu ættum við að afhenda landið minknum og æðakollunni; flytjast í eina götu í New York og lifa á myndlist; eða söng og láta selinn um að veiða þorskinn og hvalina um síld og loðnu.

Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af Dewey, að vísu. Hann er of bandarískur fyrir minn smekk.

Hef einnig verið að lesa Ívar hlújárn eftir sir Walter Scott. Las þetta allt í æsku og dýrkaði sir Walter. Gleymi því aldrei þegar ég sá styttuna af honum í fyrsta sinn í Edinborg 1946 en þá lá Brúarfoss í höfninni í Leith og við skoðuðum borgina.

Það er indælt að hverfa aftur til sir Walter Scotts.

Ég sagði við Hönnu í gærkvöldi að ég væri orðinn hálfleiður á þessu öllu og nú væri ég að hugsa um að ganga í barndóm.

Ívar hlújárn er liður í þessum áformum!

Annars er ég með hugann við Jeltsín. Hann hefur fengið kransæðastíflu. Þegar ég frétti af veikindum hans fannst mér jörðin sjálf hafa fengið kransæðastíflu. Ég man ekki eftir því að nokkur maður á okkar tímum hafi verið jafn mikilvægur fyrir framtíð mannkyns og jarðar og þessi rússneski stjórnmálabangsi. Hann hefur öðrum fremur breytt andrúminu í heiminum og án hans veit enginn hvað gæti gerzt þar eystra; hvort kommúnistar og þjóðernissinnar tækju höndum saman og hæfu nýtt, kalt stríð á hendur umhverfi sínu; eða hvort herinn tæki völdin og við sætum uppi með nýja kjarnorkuógn.

Það gæti ráðið örlögum okkar allra hvort Jeltsín lifir eða deyr; hvort hann fær áfram að stjórna þessu víðlenda ríki inn í lýðræðislega framtíð eða hvort hann fellur frá og vonir okkar og hugsjónir deyja með honum.

Æðaþrengsli hans eru æðaþrengsli okkar allra; svo litlu má muna, því miður.

Þegar John F. Kennedy féll frá breyttist sáralítið í heiminum; hann hélt áfram að velta eins og áður.

Þegar Stalín féll frá hélt kalda stríðið áfram og Krúsjoff sagði, Við munum grafa ykkur(!)

Upp úr þessu andrúmi varð Friðsamleg sambúð til. Ljóðaflokkurinn er sprottinn úr ógnarjafnvægi, Kúbudeilu og Parísarfundinum sællar minningar, þegar ég sat andspænis Krúsjoff og Malínovskí hershöfðingja á blaðamannafundinum í Palais de Chaillot. Það er einhver ógleymanlegasta reynsla sem ég hef fengið sem blaðamaður, ógnleg reynsla og fylgir manni alla tíð. En svo kom Gorbasjov og andrúmið mildaðist. Það var líka eftirminnilegt að vera á blaðamannafundi hans í Háskólabíói en þar svaraði hann því neitandi þegar ég spurði hvort erfitt hefði verið fyrir Rússa að samþykkja stórveldafund hans og Reagans hér á Íslandi vegna aðildar okkar að Atlantshafsbandalaginu.

Svar hans var góðs viti.

En ég er sannfærður um að öflugar varnir vestrænna ríkja og yfirlýsingar Reagans um stjörnustríðsáætlun Bandaríkjamanna áttu drjúgan þátt í því að Sovétveldið hrundi.

Þá kom Jeltsín eins og kallaður og æ síðan hafa örlög heimsins hvílt á honum, öðrum fremur.

Hann er eins og Atlas.

Þarna stendur hann með jörðina á herðunum. Hlutverki hans er síður en svo lokið. Það er hagur okkar allra að hann kikni ekki undan þunganum; að hann geti enn um stund axlað jörðina. Að öðrum kosti sætum við kannski uppi með nýja rússneska ógnarstjórn; slavneska heimsveldisstefnu gamalla kommúnista og nýrra þjóðernissinna. Lýðræðislaust Rússland; það væri svo skelfilegt að maður gæti ekki til þess hugsað.

En þarna stendur Jeltsín einn og heldur á hnettinum. Það er sagt að lýðræðisþróunin í Rússlandi sé komin svo vel á veg að ekki væri unnt fyrir nokkur öfl að snúa þeirri þróun við, ég veit það ekki; treysti engu í þeim efnum. Von okkar er enn um stund bundin við Jeltsín. Í brjósti hans slær hjarta heimsins og ef það hættir að slá getur orðið vá fyrir dyrum. Að Einstein einum undanskildum held ég að Jeltsín hafi skipt jörðina og mannkynið meira máli en nokkur annar á okkar tímum; nema ef vera skyldi Fleming; og Salk.

Vonandi kemst Jeltsín til heilsu.

Vonandi leggur hann ekki hnöttinn frá sér. Vonandi kiknar hann ekki undan þunganum.

Atlas var jötunn og guðirnir refsuðu honum með því að dæma hann til að halda hnettinum á herðum sínum. Jeltsín er gamall kommúnisti og hann var dæmdur til að axla þau vandamál sem Rússar og heimsbyggðin öll þarf að horfast í augu við vegna þeirra glæpa sem framdir hafa verið í nafni Marx og alþjóðlegs kommúnisma.

Jeltsín er tengiliður milli gúlagsins og þeirrar vonar sem við bindum við framtíðina.

Hann er jötunn á vegum guðanna, en hann veit það ekki.

 

18. júlí – þriðjudagur

 

Það er norðan eða norðaustan átt, oftast bjart. Stundum nokkuð svalt en það gerir ekkert til. Yfirleitt falleg veður. Hef verið að taka myndir af miðnætursólinni á Seltjarnarnesi og Skúlagötu. Skýin eru ævintýri líkust. Hef einnig náð þeim á filmu. Spyr sjálfan mig hvort ljósmyndun sé listgrein því jafnvel ég sem er með imbavél og kann ekkert á ljósmyndun, get náð þessum fínu myndum af landinu sem aldrei bregzt! Hvorki Hrafni Gunnlaugssyni né öðrum myndasmiðum sem sækja sérstaka tegund af snilld í heillandi fegurð þess.

Hvað er list?

Það sem er ekki tilviljun, það er list ef vel er á haldið.

En er hægt að kalla tilviljun list?

Er hægt að kalla það list þótt ég nái góðum myndum með köflum?

Nei, það held ég ekki.

Það yrkir enginn gott ljóð af tilviljun, heldur kunnáttu. Og þá ekki heldur mikilvæga tónlist og merkilegar myndir.

John Dewey sagði að listin ætti að vera einn þáttur samtímalífs í þjóðfélaginu, en ekki afmarkað svið. Á sama hátt væri lýðræði eins konar lífsstíll fremur en stjórnsýsla. Það væri hlutverk hvers og eins að stjórna eða hafa áhrif á félagsþættina í lífi okkar. Ágæt hugmynd, og líklega ekki eins bandarísk og ég hélt í fyrstu. Það á ekki að aðgreina listina með því að geyma málverk í listasöfnum, segir Dewey; þau eiga að vera á almannafæri. Grikkir voru sömu skoðunar til forna. Hofin þeirra og aðrar byggingar voru mikil listaverk. Þau voru skreytt eins og guðahús Egyptanna til forna. Þessar gömlu menningarþjóðir notuðu liti miklu meira til skreytinga á stórmerkum byggingum sínum en við höfum gert okkur grein fyrir. Við sáum bara kaldar rústirnar, litalausar. En bæði Egyptar og Grikkir máluðu myndir og hús sterkum litum. Þessar byggingar voru glæsileg sjón og þá ekki síður myndastyttur Grikkjanna sem einnig voru litaðar og skreyttar gulli og fílabeini; t.a.m. Aþenu-myndir Fídíasar. Aþenu-mynd hans í Meyjarhofinu á Akrópólis var risastór; hún var reist 438 f.Kr. Stytta hans af Seifi í Ólympíu var einnig lögð gulli og fílabeini og talin meðal sjö undra veraldar.

Aþenu-styttan var svo dýr að aþeningar samþykktu í allsherjar atkvæðagreiðslu að gera myndhöggvarann útlægan fyrir bruðl! Samt var hann snillingur, en það skipti ekki máli. Fyrrnefndar styttur hans eru að vísu glataðar en við þekkjum samt handbragðið.

Af hverju tökum við ekki upp svona útlegðardóma þegar stjórnmálamenn bruðla með opinbert fé og sóa skattpeningum okkar eins og þeir hafi unnið fyrir þeim sjálfir?

Grikkir töldu ekki einu sinni að snilld gæti afsakað bruðl.

Hvað megum við þá segja sem sitjum uppi með bruðlið án markverðra listaverka sem hægt væri að rekja til þess?

Garðurinn okkar er að koma til.

Bóndarósin blómstrar eins og rauðar sólir.

Ég keypti hana á Grímsstöðum í Hveragerði og plantaði henni hér í garðinn sjálfur. Og það er eins með hana og ljósmyndunina, hvorttveggja hefur flikkað upp á ímyndina. Sjálfstraustið mátti alveg við því! Annars hef ég haft jafn gaman af að skoða skemmtiferðarskipin sem koma til Reykjavíkur og horfa á rósirnar eða sólarlagið.

Bóndarósin er með ellefu stórum blöðum. Næsta ár verða þau orðin tólf.

En hvar verðum við þá?

Verðum við þá kannski í einhverjum öðrum rósagarði?

Það veit enginn.

Líf okkar kemur og fer eins og skemmtiferðarskip. Bezt að reyna að njóta þess meðan á ferðinni stendur.

Við Hanna fórum með Hanseatic til Nord Cap og suður með öllum Noregi og til Hamborgar í ágúst 1970. Við höfðum áður farið með Queen Mary yfir Atlantshafið, frá New York til Lundúna. Það var 1966.

Ógleymanleg ferð.

Ég held Queen Mary sé merkilegasta og flottasta skip sem ég hef siglt með.

Við fórum einnig með Queen Elizabeth II í nóvember í haust frá Southampton til New York þar sem ég las upp á ljóðlistarþinginu, sællar minningar. Hafði áður verið í upplestrarferð í Normandí. Þurfti að fara aftur til Lundúna og lesa þar upp, í Cambridge, í Kent-háskóla og Durham-háskóla svo við hugðumst fara með Queen Elizabeth aftur austur yfir hafið. En við fengum svo vont veður á leiðinni vestur, einkum þegar við

nálguðumst Nýfundnaland, að skipið breyttist úr sjötíu og tveggja þúsunda stórskipi í smákopp sem veltist á öldum Atlantshafsins eins og korktappi, svo varla var stætt um borð, og af þeim sökum tókum við þá ákvörðun að fljúga heldur til London. Höfðum fengið nóg af brælunni þótt vistin um borð í skipinu hafi verið til fyrirmyndar. Við fengum einnig sprautur og fundum ekki fyrir sjóveiki en veltingurinn var þreytandi. Auk þess var skemmtilegt að fljúga með British Airways til Lundúna. Kann bezt við mig í Júmbó-þotum. Þar finn ég ekki til neinnar innilokunarkenndar. Hún háir mér í flugvélum, einkum ef þær eru þröngar. Kann þó nokkuð vel við mig í Boeing 757 og sætti mig af þeim sökum við Flugleiðir!

Það var gaman að lesa upp í Bretlandi, einkum í Cambridge. Viðtökurnar voru alls staðar frábærar. Ljóðlist á spöl í landi víðar en maður heldur. Hún hlýtur að eiga jafnmikið erindi við manneskjuna nú á dögum og fyrr á tímum, þrátt fyrir hávaðann, poppið og sjónvarpið. Samt eru ljóð aldrei flutt, að minnsta kosti ekki í sjónvarpi, þar eru þau utangarðs ef þau eru ekki sungin.

Nú verður að syngja allt.

Kannski farið verði að syngja sjónvarpsfréttirnar bráðum, hver veit? Af hverju má ekki flytja ljóð, lesa það upphátt? Landsýn Steins Steinars dúkkaði allt í einu upp í sjónvarpi um daginn. Það var vegna þess að einhver var byrjaður að raula það. Ég held það hefðu runnið tvær grímur á Stein ef hann hefði upplifað þessa kynningu á kvæðinu. Hann gaf mér það einhvern tímann þegar við vorum að tala saman heima hjá þeim Ásthildi í Fossvoginum, þá tók hann það upp úr pússi sínu og áritaði það til mín:

smápilts nokkurs!!

Þannig var Steinn. Og nú er hægt að koma honum inn í sjónvarpið með harmkvælum ef hann er raulaður inn á myndbandið. Ramminn um þetta líf okkar er að verða einhver plastkennd froða og fólkið baðar sig í þessari froðu.

Maðurinn er einkennileg skepna.

Hann er eins og dreggjar af borðvíni guðanna. Samt hefur hann eignazt snilld sem er eins konar aktygi á grimmd hans og ófyrirleitni:

Þess skrínlögðu heimska og skrautklæddu smán, eins og Steinn sagði.

Bezt ég fjalli um þetta í Helgispjalli við tækifæri.

Gluggaði í Vikublaðið. Þar birtist á forsíðunni skólabókardæmi um það hvernig ekki á að skrifa fréttir: Frjálshyggjumaður gjaldþrota. Það er verið að tala um gjaldþrot AB. Síðan er fléttað inn í fréttina alls kyns meinfýsni og reynt að draga Davíð Oddsson inn í fjármál Friðriks Friðrikssonar. Hvað væri sagt ef Dagblaðið slægi upp á forsíðunni: Kommúnisti gjaldþrota! Ég sé engan mun á þessu tvennu. Gjaldþrot Almenna bókafélagsins er sorgarsaga og kemur frjálshyggju ekkert við. Eða hvað væri sagt ef stæði yfir þvera forsíðu Morgunblaðsins: Alþýðubandalagsmaður gjaldþrota! Ég sé engan mun á þessu tvennu. Segjum að Mál og menning yrði gjaldþrota, hvað kæmi það Alþýðubandalaginu við; félagshyggju eða marxisma?

Ekkert.

Það væri bara sorgarsaga þeirra sem að bókaútgáfunni standa. Ég hélt að svona gamaldags draugagangur væri hættur í íslenzkum blöðum, en það er nú eitthvað annað. Og þegar ég skoða Pressuna betur er hún full af alls kyns meinfýsni – auðvitað undir rós. Menn eiga erfitt með að hemja freistingar sínar, það er rétt. Og það er sárafáum gefið að hemja pólitískar freistingar sínar. Þá er ævinlega stutt í skepnuskapinn.

Ég hef tapað hálfri annarri milljón á gjaldþroti AB og misst auk þess rjómann af föstum kaupendum bóka minna. Auk þess hrundi hugsjón sem var mikilvæg þegar maður var ungur og baráttuglaður. En mér hefur aldrei dottið í hug að kalla neinn til ábyrgðar fyrir þetta slys; aldrei dottið í hug að kveinka mér undan því hvernig fór eða festa þá upp á kross sem ábyrgðina bera. Afgangurinn af bókum mínum hefur verið seldur á mörkuðum fyrir smápeninga í því skyni einu að afla lausafjár. Ég hef sagt við sjálfan mig:

Ég hefði ekki viljað vera fátækur rithöfundur og lepja dauðann úr skel bókaútgefenda.

Ég hef misjafna reynslu af útgefendum en mér er nær að halda að þeir hafi flestir einungis áhuga á þessu tvennu: að gera út á metsölubókalistann og selja misjafnlega góðar eða vondar bækur eins og ís í kramarhúsi og koma sér undan því að borga rithöfundum það sem þeir eiga skilið fyrir vinnu sína. Samt eru margir útgefendur miklir hugsjónamenn og líklega græða þeir ekki eins mikið og sumir halda, enda á bókin undir högg að sækja.

En nú hef ég varpað akkeri í skjóli af Hörpu-útgáfunni sem ætlar að gefa út bækurnar mínar með skipulögðum hætti og þannig að þær fáist á markaðnum og geti þá væntanlega endurheimt einhverja af lesendum mínum sem hurfu eins og dögg fyrir sólu með hugsjónareyknum af eldi borgaralegra rithöfunda sem stóðu að stofnun Almenna bókafélagsins undir forystu Bjarna Benediktssonar á sínum tíma.

En hugsjónin lifir sem betur fer góðu lífi annars staðar. Hún er partur af því bezta í eðlisþáttum borgaralegs lýðræðis og sá þáttur verður ekki bældur hvernig sem reynt er. Hann á sér rætur í mennskri afstöðu einstaklingsins og markmið hans er frelsi þessa sama einstaklings á hverju sem gengur. Mál og menning til að mynda gerir nú út á þetta frelsi.

Ólafur Stephensen og Páll Þórhallsson áttu samtal við Svavar Gestsson um nýlega bók hans, Sjónarrönd, og er það birt í Morgunblaðinu sunnudaginn 9. júlí sl. Eiginlega er þetta ekki samtal heldur einhvers konar rökræður og fer vel á því. Við veltum því mikið fyrir okkur morgunblaðsmenn hvernig afgreiða skyldi þessa sérstæðu bók og niðurstaðan varð sú að rökræða ungra manna við Svavar gæti orðið spennandi lesning. Ég var ánægður með niðurstöðuna en sé í hendi mér að pólitísk þróun Svavars hefur orðið hin sama og ég þekki af sjálfum mér. Maður losnar með tímanum við hina endanlegu sannfæringu. Það er þess vegna góður tónn í bók Svavars og þessum rökræðum þeirra þremenninganna.

Ég er sammála ýmsu sem Svavar segir og því ástæða til að ætla að andstæðurnar í íslenzkum stjórnmálum séu að verða eins konar niðurstaða þrátta, eða árangur af átökum andstæðna eins og Hegel lagði áherzlu á. Það er ágæt niðurstaða að mínu viti og vegna hennar er ástæða til að ætla að Íslendingar hætti að vera tvær þjóðir í einu landi en renni saman í eina þjóð með mismunandi skoðanir, en sameiginlegt markmið.

Þjóðhátíðarræða Davíðs Oddssonar , óvenjuleg, óvænt og orð í tíma töluð eins og ástatt er nú í heiminum, var gott framlag til þessarar niðurstöðu, að mínu viti. Og ég sé af rökræðunum að Svavar Gestsson er sammála þessu; kallar ræðuna kaflaskil í sögu Sjálfstæðisflokksins og þeirri umræðu sem verið hefur um utanríkismál eftir stofnun lýðveldisins. Ég hygg þetta sé rétt. Og öll afstaða Davíðs Oddssonar til Evrópusambandsins er af sömu rót runnin. Þarna er Davíð eins einlægur og hann getur verið og þar sem hann er einlægastur, er hann beztur. Þá nýtur hann sín og þá finnur þjóðin hjarta hans slá í brjósti sínu, jafnvel þeir sem vilja einhvers konar aðild að Evrópusambandinu án þess fórna arfleifð okkar, sérstöðu og þjóðernislegri framtíðarsýn.

Það er engin ástæða til að læsa sig inn í bandalagi eins og Evrópusambandinu svo ég vitni til orðalags Svavars og engin ástæða til að hlaupa inn fyrir þau hlið meðan yfir þeim stendur: þeir sem hér fara inn fyrir verða að skilja fullveldið eftir utandyra(!)

Við afhendum engum útlendingum auðlindina sjálfa. Menn verða að sætta sig við það, hvað sem öðru líður en svo getum við séð til hvað framtíðin hefur upp á að bjóða. Við þurfum a.m.k. ekki á að halda neinni reglugerð um skiptingu auðlindarinnar handa útlendum fiskimönnum. Við höfum nú þegar látið of mikið af hendi þegar litið er á kort af Norður-Atlantshafinu; það er í raun ótrúlegt hvað Norðmönnum hefur tekist að leggja stóran hluta þess undir sig með fiskveiðilögsögu sinni suður eftir öllum Noregi, ásamt fiskveiðilögsögu Jan Mayen sem er nánast fáránleg niðurstaða þótt hún sé líklega, að minnsta kosti að einhverju leyti, í samræmi við niðurstöður Hafréttarsáttmálans. En Jan Mayen er í raun eyðieyja þar sem þrjátíu eða fjörutíu veðurfræðingar dveljast um tíma og ætti ekki að koma neinni fiskveiðilögsögu við, ef réttlæti réði á höfunum. Ég tel að við eigum miklu meira tilkall til þessara hafsvæða en lesa má út úr núverandi sjókortum.

En það sem hefur samt vakið mesta athygli mína í fyrrnefndum rökræðum við Svavar eru þau orð hans að pólitísk virkni hafi minnkað.

“Það er áhyggjuefni. Þessi fjölmiðlastjórnmál eru stærri og stærri hluti af tilverunni. Menn líta meira og meira á stjórnmálamenn sem vöru og úrslitin í kosningum eins og Evróvisjón. Það er svo lítil tilfinning og svo lítil sál í þessu. Það má enginn sem er í stjórnmálum láta sér finnast neitt. Auglýsingastofurnar ráða ótrúlega miklu í kosningabaráttunni. Þetta er svo óeinlægt.”

Þetta er nákvæmlega það sem háir allri stjórnmálabaráttu eftir lífsháska kalda stríðsins. Það er öllum sama um allt, nema sjálfan sig. Já, sjálfan sig og sín framtíðaráform í pólitík. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Þannig verða stjórnmálin hugsjónalaust puð fyrir athyglisfíkla sem hafa lítið sem ekkert fram að færa og lúta því lágkúrulega hlutskipti eins og Svavar kemst að orði: að breyta sjálfum sér í gangandi Gallup. Ég tek undir það með Svavari að mikil hætta er á því að stjórnmálin verði viðfangsefni einhverra tæknimanna sem vinna ástríðulaust að því einu að olnboga sig áfram í þjóðfélaginu; skoðanalausir í raun og veru, eins konar andlegar hengilmænur og hugsjónalaus reköld sem fyllast þó vissri tegund af bjartsýni og ástríðufullri sjálfsánægju þegar sjónvarpsbrosið á að lýsa upp þjóðarsálina sem er þó engin sál, ekki frekar en hjörðin hafi sál.

Og allt er þetta í ætt við það sem Einar Benediktsson á að hafa sagt, Íslendingar leysa niðrum sig, reka framan í mann bakhlutann og segja: Þetta er alheimurinn! En þessi lágkúrulega þverpólitíska og sjálfhverfa þróun er bara ekkert séreinkenni á Íslendingum heldur hefur hún heltekið allar þær þjóðir sem búa við kleyfhugasýki í sambýli geðklofans við sjónvarpið og yfirþyrmandi áreitni þess. Slíkt sambýli leiðir eins og allir vita til ranghugmynda, tilfinningasljóleika og jafnvel upplausnar persónuleikans.

Það er í þessu umhverfi sem eiginleikar lítilla hitlera geta truflað dómgreind annars merkilegra þjóða.

 

22. júlí – laugardagur

 

Sáum í gærkvöldi sjónvarpsmynd um ævi brezka glaumgosans George Brian Brummells sem var samtímamaður Georgs IV Bretakonungs (1820-30). Athyglisverða mynd og að mörgu leyti vel gerða. Ustinov lék hlutverk prinsins af Wales með sannfærandi tilbrigðum, hlýju og ofstopa og eftirminnilegum tilbrigðum við vináttuna. Stuart Granger lék Brummel ágætlega en Byron lávarður var heldur hjákátlegur miðað við goðsögnina. Hann er að vísu engin höfuðpersóna í þessari kvikmynd en samt sá eini sem hefur ekki fallið í gleymsku. Merkilegt hvað góður skáldskapur getur verið endingarmikill. Elizabeth Taylor er einnig ung í þessari mynd, grönn og falleg og leikur að sjálfsögðu þá konu sem eftirsóknarverðust er. Hanna fékk enn einu sinni gott tækifæri til að minna mig á hvað Elizabeth Taylor væri falleg kona; segir hún sé þó aðeins 1,55 á hæð!

En það má bara þakka fyrir meðan hún verður ekki jafn breið eins og hún hefur tilhneigingu til að fitna!

Elizabeth Taylor og Sophia Loren eru eftirlæti Hönnu.

Fallegastar allra, segir hún.

Ég get vel samþykkt það. En þó dáist ég einkum að þessum konum fyrir frábæra leikhæfileika, það gerir Hanna auðvitað einnig.

En hvað sem því líður þá minnti þessi kvikmynd okkur á ferð sem við fórum með Ingó til Brighton í sumar. Ég hafði aðeins einu sinni komið þangað áður að heimsækja brezka skáldið Lawrence Lerner en hafði ekki tækifæri til að skoða bæinn í þeirri ferð. Nú gengum við um allan bæinn og upplifðum hvað hann er vinalegur og yndæll. Göngugöturnar með alls kyns forngripaverzlunum eru ekki sízt eftirminnilegar. En þó var konungshöll Georgs IV eftirminnilegust, þótt fáránleg sé. Höfðum aldrei séð hana áður og þekktum raunar ekkert til hennar en hún er eitt af furðuverkum Evrópu, á því er enginn vafi.

Ég held Georg IV hafi verið sonur Georgs III sem var konungur frá 1760-1820 og var alltaf að skipta sér af stjórnarfarinu, en þau afskipti leiddu m.a. til þess að Bandaríkin risu upp og öðluðust sjálfstæði 1776. Um hann er fjallað í frábærri mynd sem ég hef einhvern tímann nefnt áður, Madness of the King, með Nigel Hawthorne. Mér er til efs ég hafi séð betri leik í kvikmynd því Hawthorne tekst að þenja eigið hljóðfæri milli brjálsemi og fulls vits á þann hátt að ótrúlegt má heita.

Saga Brummels fjallar um málsháttinn: Valt er veraldargengi(!)

Nú man enginn eftir Georg konungi IV en ferðamenn þyrpast inn í þetta stórfurðulega afkvæmi hugmyndaflugs og sóunar, konungshöllina í Brighton sem sækir fyrirmyndir í kínverska og indverska arfleifð. Það er merkilegt hvað þessir einvaldar komust upp með á kostnað fólksins. Samt var Georg IV, eða prinsinn af Wales, heldur vináttusamlegur í þessari kvikmynd en ég minnist þess að hann var ósköp skítlegur í Madness of the King.

Þannig verður þetta fólk fórnardýr þeirra sem nota ævi þess í listræna sköpun og hnoða leirinn að hennar þörfum.

En guð skapaði himin og jörð á einskis manns kostnað.

!

Hef verið að lesa How we die eftir bandaríska lækninn Nuland. Merkileg bók og mjög vel skrifuð. Höfundur telur að eyðni sé versta plága sem mannkynið hefur upplifað vegna þess hvernig veiran brýtur niður allt ónæmiskerfið.

Tékkneska skáldið Holub mælti sérstaklega með þessari bók í grein í LTS í fyrra. Ég er ekki hissa á því, Holub er vísindamaður og skáldið glímir við dauðann.

Shakespeare leggur Sesar þessi orð í munn:

Af allri furðu finnst mér undur mest

að heyra að karlmenn hræðist, er þeir sjá

að dauðinn, þessi vísa loka-lausn,

lætur ekki’ á sér standa,

eins og segir í þýðingu Helga Hálfdanarsonar.

 

23. júlí – sunnudagur

 

Aðalpersónan í flestum leikritum gömlu, grísku skáldanna er dauðinn.

Eða ástin.

Og svo náttúrulega lífið sjálft sem breytist ekkert, ekki frekar en dauðinn.

Eða ástin.

Sófokles lætur kórinn segja í fjórða stöðuljóði kórsins í Ödipus konungi: Þér kynslóðir dauðlegra manna, á brautum lífsins reikið þér sem hvikulir skuggar og hamingja yðar er sem svipul sjónhverfing, hverfull draumur, sem þér hrökkvið upp af, áður en varir.

Og niðurstaða leiksin:

En nú er hann fallinn í duftið. Sviptibyljir ógæfunnar hafa fært hann í kaf og brimöldur hörmunganna hremmt hann. Því skalt þú, maður, gá að þér og spyrja að leikslokum. Og engan dauðlegan mann skalt þú sælan prísa, unz hann hefur farsællega æviskeið sitt á enda runnið, eins og segir í þýðingu Jóns Gíslasonar skólastjóra, sem var lítill maður á velli en stórgeðja og mikill í andanum. Menningarsjóður gaf út þýðingar hans á fornum skáldskap og ég tel það sjóðnum til sóma. Það sýnir með öðru að það var rangt að leggja niður þetta merka opinbera kúltúrforlag sem hefur gefið út mörg mikilvæg rit og mér er til efs að þau hefðu öll séð dagsins ljós án Menningarsjóðs.

Ég hafði ánægju af að starfa í Menntamálaráði á sínum tíma og taka þátt í þeirri menningarviðleitni sem þar fór fram.

Slík starfsemi á ekkert skylt við þjóðnýtingu á nokkurn hátt. Hún var einungis eins og framrétt hönd ræktunarmannsins sem reynir að rétta náttúrunni hjálparhönd og bæta umhverfi sitt.

Ég sé ekki að neitt hafi komið í staðinn fyrir þessa starfsemi. Nú fjallar allt um peninga og gróða. Hugsjónir eru hverfandi. Okkur vantar einhvern Aristófanes til að minna á það og hafa tilburði stjórnmálamanna að háði og spotti. Við hefðum kannski átt að gera meira af því í Morgunblaðinu; hefðum kannski átt að taka fastar á þessu fólki sem hefur raðað sér á pólitísku valdajötuna og starfað undir formerkjunum: Þitt siðferði er ekki mitt siðferði. En við höfum þurft að fara gætilega, því skammt er milli ábyrgðar og ofstækis. Það er ekki sízt mikilvægt í litlu samfélagi að nota mikið vald með réttsýni og án geðþótta. Það er geðþóttinn sem hefur dregið úr áhrifum og virðingu íslenzkra blaðamanna.

Verk Sófoklesar minna á að lífið er eins nú og áður var. Þannig hefur maðurinn ekkert breytzt. Markús Árelíus keisari sem var uppi á 2. öld e.Kr. segir í heimspekitexta sínum að menn skyldu hyggja að því sögulega drama sem þeir þekkja og liðnum atburðum og skírskotar í líf Adrianusar, Antoniusar, Filipusar, Alexanders mikla og Krösosar og segir að leiksýningin sé alltaf hin sama; það séu aðeins nýir leikarar. Þetta þekkjum við ekki síður af okkar umhverfi og um þetta fjalla flest grísku leikritin; þennan síendurtekna breyskleika mannsins og vanmátt hans andspænis guðlegum áætlunum.

Allt er þetta augljóst af riti Michaels Grants. um grísku klassíkina en þó einkum 5. öldina fyrir Kristsburð – og þá ekki síður af leikritunum sjálfum.

Ödipus konungur er með eindæmum áhrifamikið verk þótt efnið sé í raun eins fáránlegt og hugsazt getur. En Sófokles tekst að gera það að nærtækri reynslu. Hann var mikils metinn borgari í Aþenu á 5. öld f.Kr. og skrifaði að mér skilst á annað hundrað leikrita, en sjö hafa varðveitzt.

Í leikriti hans um Ajax eru frumdrög að einum þætti Don Kíkóta því hann trylltist þegar hann fær ekki vopn Akkilesar, heldur Ódysseifur, og reynir að drepa Ódysseif en Aþena sáir í hann brjálsemi og hann ræðst gegn nautgripahjörð og drepur hana; eins og þegar Kíkóti réðst í geggjun sinni á fjárhópinn.

Nei, það er víst ekkert nýtt undir sólinni. Friðarboðskapur kvennanna í Konunum í Troju eftir Evrípídes og Lýsiströtu Aristofanesar er ekki síður hugsaður út úr okkar samtíð en friðlausum tímum höfundarins.

Barnamorðin í Konunum í Troju mina á munaðarleysingjahælin sem blöstu við í Rúmeníu eftir fall Sjáskjeskus og þær fréttir sem við heyrum nú innan úr kínverska gúlaginu. En við sáum mynd þess efnis í sjónvarpinu ekki alls fyrir löngu; áhrifamikla áminningu um djöfulleg áform mannsins á öllum öldum.

Hvað hefur þá gerzt?

Hefur eitthvað breytzt?

Ég veit það satt að segja ekki, en eðli mannsins hefur að minnsta kosti ekki breytzt. Ekki heldur það góða sem hann á til, ekki heldur það sem betur fer. Og við það er vonin bundin.

Ödipus konungur er áhrifamikið leikrit. Sófokles hefur verið einhvers konar hornsteinn. Eftir dauða Evrípídesar skrifar Aristófanes leikritið Froskana og þar hyggst hann sækja Evrípídes til undirheima og skila honum aftur inn í lífið.

En það verður Æskelos sem snýr aftur; ekki Evrípídes; ekki heldur Sófokles.

Það er gaman að sjá hvernig Aristófanes notar þekkta Grikki í gamanleikjum sínum. Þannig er Sókrates tekinn til bæna í Skýjunum og þá auðvitað einkum fyrir það að hafa spillt æskunni! Það er ekki bara okkar samtími sem er glámskyggn. Samtíminn hefur ávallt verið glámskyggn, einnig á andlegri stóröld Grikkja, það er 5. öld f.Kr.

Hvílíkir tímar!

Þá lifði skáldið góða Simonides, og Pindar sem á engan sinn líka. Og Heródótus, og Þúsídídes og öll leikritaskáldin, Sókrates og Plató.

Slík upptalning frá einni og sömu öld er með ólíkindum.

Og þó(!)

Mundi þetta ekki minna dálítið á endurreisn okkar tíma? Og alla þá snillinga sem hafa verið samtíða okkur á þessari öld? Ég hef skrifað um þá suma. Ætli það sé ekki eins og að hafa verið alinn upp í akademíu Aristótelesar?

Þessi kynni hafa ekki dregið úr manni kjarkinn, þvert á móti. Þau hafa aukið sjálfstraustið og hækkað kögunarhólinn.

Mér er til efs að forngrískir stórhugsuðir hafi í raun og veru trúað á guðina. Þeir eru alltaf að lýsa þeim eins og breysku mannfólki. Þeir hafa líklega ekki trúað á guðina frekar en ásatrúarmenn á sín goð. Norrænu goðunum er einnig lýst eins og breysku mannfólki. Það trúir enginn á slíka guði. Þeir eru bara til skrauts og viðmiðunar. Og svo er alltaf verið að vara við þeim því það er stutt í djöfullegar fyrirætlanir þeirra eins og sjá má í grísku harmleikjunum og íslenzku goðafræðinni. Nei, það hefur enginn trúað á þetta hyski en líklega hefur mönnum staðið ógn af örlögum sínum og betra að persónugera þau og blíðka með einhverjum hætti. Annars er ekki margt líkt með fornum íslenzkum bókmenntum og grískum. Grikkirnir fjalla um guðina eins og menn en það er aldrei gert í Íslendinga sögum.

Það sem Ajax segir í samnefndu leikriti Sófoklesar hefði aldrei getað staðið í Íslendinga sögu: Gjöf óvinar er eyðileggjandi og engin gjöf; eða: Flestir hafa upplifað vináttuna eins og svikula höfn.

Þetta eru ekki viðhorf Íslendinga sagna; þvert á móti. En það má vel vera að það sé meiri friðarboðskapur í fornum íslenzkum sögnum en við höfum enn áttað okkur á; og að þær líkist fyrir bragðið meir leikritum eins og Konunum í Troju og Lýsiströtu. Hið fyrrnefnda sá ég í Lundúnum í sumar en hið síðarnefnda í Háskólabíói fyrir mörgum árum. Það var eftirminnileg og brýn leiksýning og ég tel að Brynja Benediktsdóttir leikstjóri hafi unnið verulegt afrek með þeirri sýningu.

Nei, það hefur líklega fátt breytzt í eðli mannsins frá því guðirnir stjórnuðu grískum bókmenntum. Simonides segir:

Ferðamaður, berðu Lakedaímon-mönnum þessi orð:

Við sem liggjum hér grafnir gerðum það sem okkur var sagt.

Eða:

Nú er eyjaborg Salamis gröf okkar.

Vinur, við áttum einu sinni heima í

hafnarborginni Korintu.

Æ, hvað ætli hafi svo sem breytzt?

 

Síðdegis

 

Gekk út í gamla kirkjugarð. Hlýtt en dumbungur. Góð hvíld frá veröldinni, samt er maður aldrei einn og trén ummyndast í fólk eins og hjá Ovid.

Rakst á nýlegan grafstein Ágústs Bjarnasonar , vinar míns.

Svo hann er þá hérna, og séra Bjarni á næstu grösum.

Moldin er þögul, en hún er ekkert döpur.

Það er gleði í fuglunum.

Ég þykist vita að þeir eru að segja hver öðrum gamanmál úr lífinu; gamanmál úr trjám dauðans.

Ég hitti svartan kött í garðinum.

Ég sagði við hann, Þú hypjar þig héðan, ef þú lætur ekki fuglana í friði.

Hann varð skömmustulegur. Hann fór að sleikja á sér aðra framlöppina.

Þetta var íbygginn köttur og ég sagði við fugl sem ég hitti þarna á göngunni, Ef þú varar þig ekki, lendirðu í kjaftinum á svörtum ketti.

Þá tók fuglinn til vængjanna.

En ég kallaði á eftir honum,

Ef þú ferð ekki gætilega fer áreiðanlega fyrir þér eins og þeim sem liggja hér undir trjánum.

Þá hvarf fuglinn milli greinanna en kötturinn læddist milli leiðanna og ég horfði á eftir honum, gamanlaust.

Ég dvaldist ekki lengi í garðinum. Ég á ekki eftir að dveljast þar lengi.

Ég kýs frekar ofninn í Fossvogi þar sem duftið er dauðhreinsað af eldinum. Bezt væri að opna kerið og láta vindinn um ákvörðunarstaðinn. Ég veit það ekki, mér er sama. En ég er að hugsa um frásögn Berlioz af kirkjugarðinum í París þegar konan hans var grafin upp og flutt í annan garð og hann horfði varnarlaus á skelfilega tortímingu dauðans.

Það er engin tortíming betri en eldurinn.

Hann hreinsar.

Og hann skilar reyknum til himins.

 

24. júlí – mánudagur

 

Þannig mæltist Pittakosi, en hann hefur ekki

á réttu að standa þótt hann hafi verið vitur maður:

að það sé erfitt að vera framúrskarandi. Ekki erfitt;

einungis guð getur notið þeirra forréttinda; þegar maður

verður fyrir meiri óhamingju en hann

getur ráðið við er ekki hægt

fyrir hann annað en vera slæmur.

Allir eru góðir þegar hamingjan er þeim hliðholl,

slæmir þegar hún er þeim öndverð en oftast eru þeir beztir

sem guðirnir elska.

(Simonides, 556-468 f.Kr.)

 

25. júlí – þriðjudagur

 

Sáum í kvöld sjónvarpsmynd um Róm og Pompei. Höfðum verið á öllum þessum stöðum og ég hef skrifað eða ort eitthvað um þá flesta.

Harmleikirnir á Kolosseum voru afþreying þess tíma; eins konar O.J. Simpson-réttarhöld í sjónvarpi.

Maðurinn er undarleg skepna og hefur víst ekkert breytzt frá því sögur hófust.

Fékk allt í einu samúð með bandaríska kvikmyndaleikaranum Robert Mitchum.

Ástæðan: Lýsing Shirley MacLaine á þessum fyrrum ástmanni sínum: Að hann hafi verið fæddur einfari sem ætlaðist aldrei til neins af lífinu annars en þakið læki ekki.

 

27. júlí – fimmtudagur

 

Hlustaði á sjötta píanókonsert Beethovens, nýútkominn; saminn upp úr eina fiðlukonsert tónskáldsins. Og óþekktur þar til fyrir skemmstu.

Hugsaði um Robert Graves og pantaði The Greek Myths og ævisögu Graves eftir Miranda Seymour; einnig disk með hans eigin upplestri.

Hef að vísu þekkt ljóð hans nokkuð lengi og rit hans um rómversku keisarana. Sjónvarpsmyndin um þá var ákaflega vel gerð, en Graves átti lengi vel undir högg að sækja. Hann var áttræður þegar sjónvarpsmyndröðin var gerð. Graves barðist ungur á vígstöðvunum við Sommes.

Höfum ekki komið þangað.

Fórum aftur á móti til Verdun, skoðuðum minnismerkin og kirkjugarðana. Í orrustunni sem Graves særðist illilega í voru átta þúsund brezkir hermenn drepnir. Sjálfur slapp hann naumlega. Raunar var hann talinn af og í Times var skýrt frá láti hans. En það var sem betur fer á misskilningi byggt. Þegar hann lézt svo 1985 sagði Times í minningargrein um hann að hann hefði verið “mesta ástarskáld á enska tungu eftir daga John Donnes”

En hann var miklu meira en það.

Hann var höfundur sumra ágætustu bóka aldarinnar og líf hans var ævintýri líkast. Hann gaf út 58 bindi af ljóðum, 43 bindi ritgerða og 20 bindi skáldsagna; auk þess samdi hann eitt leikrit og gaf út 10 þýðingar á skáldverkum. Annað eins og þetta fór víst í pappírskörfuna(!)

Robert Graves taldi að ekkert skáld yrði fullkomið fyrr en það hefði eignazt sönggyðju eða konu sem uppsprettu andagiftar. Sagt er að hann hafi fundið slíka sönggyðju í Lauru Riding, bandarískri skáldkonu, sem varð honum innblástur nýrrar sköpunar. Fullyrt var að hann hefði ort miklu betur en áður þegar hann kynntist þessari sönggyðju sinni, Lauru Riding.

Hann var þá kvæntur en þau Laura Riding giftust ekki og það slitnaði upp úr sambandi þeira.

Þá kvæntist Graves annarri konu sinni og átti með henni fjögur börn.

Ég veit ekki hvort hún varð honum ný músa, en það má vel vera. Það verður gaman að kynnast betur þessu einstæða enska skáldi sem ég hefði svo sannarlega viljað þekkja.

Held að Einar Pálsson hafi átt í bréfaskriftum við hann, minnir það; kannski hittust þeir. En það skiptir ekki máli úr því sem komið er. Hitt er mikilvægara að hann vissi góð deili á íslenzkum fornbókmenntum og fornri íslenzkri goðafræði. Það hefði verið gaman að tala við hann um þessi efni.

Nú er það því miður um seinan.

Hitt er svo annað mál að hann fékk ungur áminningu sem hverju skáldi er nauðsynlegt aðhald

Mundu að bezti vinur þinn er pappírskarfan!

Þetta er góð áminning. Hún hefur verið mér innbyggt aðhald alla tíð.

Kannski að þessar dagbækur eða minnisblöð ættu heima í henni; eða eldinum, ég veit það ekki.

Kannski fæ ég aldrei að vita það.

 

29. júlí – laugardagur

 

Í Morgunblaðinu í dag er sagt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri í Reykjavík, hafi fyrirskipað breytingar á Höfða; skipta skuli t.a.m. um málverk í þessu umhverfi leiðtogafundarins fræga milli Gorbasjovs og Reagans. Meðal málverka sem flutt eru í geymslu er myndin af Bjarna Benediktssyni þar sem hann hékk á veggnum bak við þjóðarleiðtogana eins og goðsöguleg forsjón.

Magnús vinur minn Óskarsson,borgarlögmaður, sem hafði yfirumsjón með því hvernig umhverfi leiðtogafundarins skyldi háttað segir að það hafi þótt við hæfi því Bjarni hafi haft forystu um aðild Íslands að Nató og varnarsamstarfi vestrænna þjóða.

Þetta kemur fram í frétt á annarri síðu Morgunblaðsins á morgun, sunnudag.

Það er auðvitað fáránlegt að breyta umhverfi leiðtogafundarins; sýnir einungis þröngsýni og jaðrar við ofstæki að mínu viti. Slíkt á að varðveita.

Það hefði átt að loka fundarherberginu fræga með snúru milli dyrastafa svo að gestir gætu litið þar inn og séð aðstæður um alla framtíð.

Það er fátt sem við eigum sem talist getur frægt á alþjóðamælikvarða; það væri þá helzt Geysir ,Bláa lónið og Hekla.

Og svo handritin. Ég held ekki Surtsey lengur, veit það þó ekki. Og svo þetta fræga hús þar sem margir telja að stigið hafi verið stærsta sporið í friðarviðleitni stórveldanna; þá lauk kalda stríðinu; þá hrundu Sovétríkin; og þá má segja að hið illa afl alþjóðakommúnismans hafi misst takið á jörðinni og framtíð hennar.

Höfði er því harla merkilegt hús og það koma margir útlendingar til Íslands að skoða þennan sögulega vettvang alþjóðastjórnmála. Hvílík glámskyggni að breyta þessu umhverfi! Hvílík þröngsýni! Svo ekki sé nú talað um það smekkleysi að flytja þetta málverk af Bjarna Benediktssyni í geymslu. Veit ég vel að það er engin lykilmynd í sögu íslenzkrar myndlistar eins og dr.Gunnar vinur okkar Kvaran,listfræðingur segir.

En það er lykilmynd í þessu sögufræga umhverfi.

Það eitt skiptir máli.

Vonandi verður einhver til þess að færa þetta allt í sama horf og var á leiðtogafundinum svo við getum átt þessar sögulegu minjar óskemmdar.

Það er verið að friða alls kyns þúfur um allt land, um það hafa verið sett lög á Alþingi. En svo er hægt að vinna svona skemmdarverk án þess brjóta nokkur lög.

Líklega erum við einhvers konar villimannaþjóðflokkur. Við eigum engar minjar og enga dýrgripi og má þakka fyrir meðan við eyðileggjum ekki landið sjálft. Mátti líka þakka fyrir á sínum tíma að bókmenntaþjóðin skyldi ekki nota handritin í skóbætur. Hún var að vísu fátæk en sem betur fer hafði hún meiri áhuga á sérkennum sínum og uppruna en notagildi þessara gömlu skinnpjatla.

Það er svo annað mál að okkur sem áttum Bjarna að vini eru þessar breytingar auðvitað mikið tilfinningamál. Hann var alla ævi ofsóttur af andstæðingum sínum og einkennilegt að hann skuli ekki mega liggja í friði og við þá reisn sem hann vann til með verkum sínum og forystu fyrir góðum og réttum málstað.

Það er að minnsta kosti niðurstaða sögunnar.

Ung kona sagði við mig, Mín kynslóð þekkir lítið til Bjarna Benediktssonar og Ólafs Thors og hún hefur engar tilfinningar til þeirra.

Jæja, sagði ég, en til Jóns Sigurðssonar?

Ekki heldur, sagði hún. Við lifum í samtímanum, en ekki fortíðinni.

Við Styrmir vorum að tala um það í morgun að tímarnir hefðu breytzt mikið. Það væri t.a.m. ekki unnt að búa til pólitísk goð úr stjórnmálamanni í dag eins og reynt var á sínum tíma vegna harðra átaka og kröfu um sterka leiðsögn.

Nú þarf ekki á neinni slíkri forystu að halda.

Það er enginn lífsháski lengur. Það þarf bara að hafa einhverja félagsmálapakka í lagi handa atkvæðunum, það er allt og sumt(!) Við lifum ekki í samtíð mikilla hugsjóna. Við lifum í samtíð mikils hávaða.

Samt þótti mér dálítið gaman að hlusta á Bob Dylan í sjónvarpinu í gærkvöldi. Ég held að bak við list hans sé alvörumaður. Hann er ekki fulltrúi hávaðans, heldur ljóðrænnar tjáningar eins og Bítlarnir. Þetta er annars mikill iðnaður.

Morgunblaðið segir frá því í sunnudagsblaðinu að Björk komi heim til Íslands í einkaþotu; hvorki meira né minna.

Ósköp finnst mér þetta nú fáránlegt.

Samt er mér afar hlýtt til Bjarkar, hún lék aðalhlutverkið í sjónvarpsleikritinu Glerbrot sem Kristín Jóhannesdóttir kvikmyndaði upp úr Fjaðrafoki.

En það heyrir víst sögunni til eins og herbergið í Höfða.

Samtíminn er valtastur vina.

 

Um kvöldið

 

Sunnudagsblað Morgunblaðsins er komið út. Það hefur oft verið falleg miðnætursól í Reykjavík fyrr í þessum mánuði og ég hef verið að taka myndir af sólsetrinu.

Birti líka mynd með Reykjavíkurbréfinu, ásamt ljóði: Sólsetur.

Það hefur víst aldrei verið gert áður. Ég orti þetta sólsetursljóð eitt kvöldið þegar ég var að taka myndir af dagslokunum. Kristjáni Karlssyni og Styrmi þótti upplagt að birta það. Ég held það sé ekkert stærilæti í því, en ég er dálítið stoltur af myndinni! Hef spurt sjálfan mig: er ljósmyndun listgrein, fyrst jafnvel ég get tekið svona mynd? Og það á imbamyndavél! Kannski ég ljúki verki mínu á Morgunblaðinu á ljósmyndadeildinni?

Agnes Bragadóttir segir að minnsta kosti að Styrmir hafi trúað því að myndin hafi verið eftir Raxa,eða Ragnar vin okkar Axelsson. Það er einhver mesti tæknisigur sem ég hef unnið á ævinni! Styrmir mótmælir þessum skilningi Agnesar og ég lái honum það ekki! En þarna eru mynd og sólsetursljóð eins og myndatexti með Reykjavíkurbréfi sem fjallar um verzlun og viðskipti, sem sagt: allt á sínum stað(!)

Talaði við Árna Jörgensen um þessa uppsetningu, hann var henni samþykkur og þá er björninn unninn(!)

Árni er frumlegur og kraftmikill hönnuður Morgunblaðsins til margra ára; hefur ekki sízt fínan bókmenntasmekk.

Hitti Kristján Karlsson í gær. Langt síðan við höfum hitzt. Sátum á Naustinu frá hálfeitt til hálffimm. Drukkum einungis Egils-pilsner. Höfðum ekki hitzt í sex vikur. Töluðum margt um skáldskap og gamla tímann.

Vaknaði klukkan sjö í gærmorgun og lauk við að yrkja nokkur kvæði sem ég vildi að Kristján fengi. Orti þau að mestu þá um morguninn, en átti þó einhver uppköst. Hef svo bætt við nokkrum ljóðum og ætla að birta þau undir fyrirsögninni: Fréttatengd óljóð úr umhverfinu.

Kristjáni lízt vel á þetta allt og vill að ég birti kvæðin sem fyrst. Ég sagðist mundu geyma þau í nokkrar vikur. Hann yrði að fá að eiga þau einn í nokkurn tíma.

Þá brosti hann.

Fékk tvö skemmtileg kvæði frá honum í staðinn, Líkt og tungan og Atvik um vetur. Góð kvæði eins og Kristjáns er von og vísa. Í kvæðinu Atvik um vetur er umhverfið braggahverfi í Mosfellssveit. Þar var einnig einhvers konar sjúkraskýli í stríðinu. Þar fórst brezk eða bandarísk hjúkrunarkona í bílslysi.. Hún gekk þar aftur, að því er bílstjórar segja; stóð á vegarkantinum og fékk far, þakkaði fyrir sig eftir stuttan bíltúr og hvarf.

Kristján þekkti ekki þessa sögu, samt yrkir hann um hana.

Einkennilegt(!)

Ég sagði honum frá þessu og hann átti ekki orð, sá í hendi sér að hann hafði verið að yrkja um dramatískan atburð sem hann þekkti ekki:

Hér liggja tröppur,

sem lágu áður

að vígi Breta,

í hól við veginn beint til lofts

en við sem yrkjum

myndir loftsins

á sumardegi án tilhugsunar

um vetrarlæki

án fyrirmyndar

í skýjum loftsins án takmörkunar

á ferli dagsins,

ökum fram hjá

á tómri jörð,

segir m.a. í kvæði Kristjáns. Og í upphafi þess segir að vettvangurinn sé “á leið til Mosfells”.

Já,einkennilegt(!)

Hugboð skáldanna er yfirskilvitleg veröld sem enginn ætti að reyna að skýra.

Allra sízt skáldin sjálf(!)

 

30. júlí – sunnudagur

 

Séra Guðmundur Óskar Ólafsson talaði í Neskirkju í dag um Sakkúdea og boðskap þeirra um allsnægtir og paradís á jörð. Þeir voru stjórnmálamenn síns tíma. Kristur líkti kenningum þeirra við súrdeig. Hann fjallaði ekki eins og Sakkúdear um hverfulleikann, heldur fyrirheitið. Boðskapur hans var ekki um allsnægtirnar, heldur hjartalagið.

Séra Guðmundur Óskar er að hætta í Nessókn, því miður. Hann hefur flutt margar frábærar stólræður. Það fer jafn lítið fyrir honum í prestastétt og hann er mikill kennimaður í stólnum. Við söknum hans úr söfnuðinum. Hann býður upp á góðan félagsskap, það gera ekki allir prestar, því miður.

Nei,við kunnum ekki að umgangast verðmæti; höfum ekki tilfinningu fyrir þeim að minnsta kosti ekki verðmæti úr okkar eigin samtíð. Það hefði mátt breyta öllu umhverfi Höfða í listsögulegt safn, en ekki fundarherbergi leiðtoganna. Þar ættu sömu húsgögn að vera, sömu veggir, sama andrúm og á þeim andartökum sem Ísland varð allt í einu nafli heimsins. Það hefur hvorki gerzt fyrr né síðar.

Nú hafa borgaryfirvöld orðið til þess að við göngum með sögulegt naflakviðslit sem þarf að laga. Það er sem betur fer ekki stór aðgerð; ekki stærri rispa en þegar Jónas Magnússon, prófessor, lagar naflakviðslitið á sjálfum mér einhvern tíma fyrir næstu áramót. Annars get ég víst fengið garnaflækju og hún er eins konar ávísun á lífhimnubólgu. Betra að hafa þetta kerfi í lagi!

En við eigum engin fúkkalyf við þeirri þjóðfélagslegu lífhimnubólgu sem pólitískir athyglisfíklar eru alltaf að framkalla samfélaginu til hrellingar.

En hlédrægur kjarni íslenzku þjóðarinnar lætur sjaldnast að sér kveða og kannski hverfur leiðtogaherbergið eins og handritapjötlurnar inn í gleymsku og þögn.

Séra Guðmundur Óskar minnti á grasið sem grær yfir spor okkar.

Stjórnmálamenn gleyma því oftar en ekki að þetta sama gras grær einnig að höfði þeirra.

Rósirnar féllu í rokinu í dag.

 

3. ágúst

 

Stóð fyrir framan Kringluna 1 og beið eftir Hönnu.

Grátt veður og úði.

Að mér gengur maður allmikill vexti, í gulum samfestingi með merki Reykjavíkurborgar á brjósti og bláa derhúfu.

Hann var grár fyrri hærum og talaði þvoglulega.

Boginn í mjöðm, hélt á einhvers konar krók.

Hann sagði, Er Árvakur lokað hlutafélag?

Það er í eigu nokkurra fjölskyldna, sagði ég.

En er það opið? Mig langar að kaupa hlutabréf, sagði hann.

Það er víst ekki hægt, sagði ég, annars veit ég það ekki. Ég er launþegi á Morgunblaðinu, en ekki eigandi.

Já, sagði hann, ég er af merkum ættum.

Einmitt það, sagði ég.

Hann horfði á mig nokkuð tortryggilega og rannsakandi og sagði, Það eru mörg skáld í mínum ættum og betri skáld en þú!

Það er nú hægt, sagði ég.

Það eru Einar Ben., Matthías Jochumsson og Jón Thoroddsen, sagði hann.

Einmitt það, sagði ég.

Er klósett í Morgunblaðshúsinu, sagði hann.

Ja, gáðu, sagði ég.

Ég þarf að nota klósett, sagði hann og gekk burt, stoppaði svo, leit um öxl og setti kóssinn á Hús verzlunarinnar.

Stöðvaði aftur, leit um öxl, gekk til mín og sagði með áherzlu, Ég er frændi borgarstjórans sem var.

Jæja, sagði ég, áttu ættir að rekja til Vestmannaeyja?

Það eru nú fleiri staðir en þær, sagði hann.

Og hvað gerir þú hjá borginni? spurði ég.

Ég tíni rusl, sagði hann.

Er munur á ruslinu nú eða áður? spurði ég.

Alltaf sama ruslið, sagði hann .

Og fór.

Þá kom Hanna og við ókum burt.

 

5. ágúst – laugardagur

 

Hef lokið við Oswald’s Tale eftir Norman Mailer. Ég man enn eins og það hafi gerzt í gær hvar ég var þegar ég heyrði af morðinu á Kennedy. Ég var í kaffi hjá Lárusi, móðurbróður mínum Jóhannessyni í Suðurgötu 4 og Stefaníu, konu hans.

Þá var hringt í mig frá Morgunblaðinu,

Kennedy var skotinn í Dallas(!)

Annað var ekki sagt í símann, en ég svaraði, Kem á stundinni, og æddi niður á Morgunblað, kallaði saman ritstjórnarfund og við hófum að undirbúa blaðið fyrir næsta dag.

Þessi svarti dagur, föstudagurinn 22. nóvember 1963, hafði mikil áhrif á mig og ég orti kvæðið Kennedy sem var birt í Morgunblaðinu minnir mig, en síðar í minningarriti um Kennedy sem Íslenzk-Ameríska félagið gaf út í maí 1965.

Benjamín H.J. Eiríksson var þá forseti þess og stjórnaði útgáfunni.

Sigurður A. Magnússon þýddi kvæðið og það var birt bæði á íslenzku og ensku.

Ég er löngu vaxinn frá þessu kvæði og nú er það mér einungis eins og hver önnur minning um tilfinningar sem heyra sögunni til.

Ég fékk þakkarbréf frá James J. Blake, sendiherra Bandaríkjanna, á Íslandi.

Býst ekki við dr. Benjamín hefði valið eftir mig kvæði í dag. Hann hefur sagt ég sé í sporum Virgils – og hvernig þá?

Jú, ég hef víst farið um helvíti með Halldóri Laxness sem hann hatar.

Og ég sem hef verið á leið með Halldór úr helvíti kalda stríðsins!!

Margt hefur verið skrifað um Oswald og morðið á Kennedy og hef ég lesið sumt.

Tók á sínum tíma þátt í að snara og koma Warren-skýrslunni á framfæri í Morgunblaðinu en hef aldrei verið sannfærður um aðild Oswalds að morðinu, ekki fyrr en nú.

Bók Mailers er sterk og stórmerkileg. Hún sýnir inn í líf Oswalds með þeim hætti – og án prédikunar eða áróðurs um aðild hans að morðinu – að ég tel nú augljóst að hann er morðinginn.

Það er a.m.k. ekkert sem bendir til annars.

Líkurnar eru yfirgnæfandi.

Skáldsagnahöfundinum tókst það sem öðrum hefur ekki tekizt. Hann leiðir Oswald á morðstaðinn, lýsir sálarlífi hans, Rússlandsdvöl hans og ofbeldishneigð sem lenti á Marinu, konu hans , og brengluðum sjálfsmetnaði sem er að því er mér sýnist forsenda brenglaðrar sjálfsímyndar.

Samt var Oswald bara ómenntaður 24 ára gamall drengur.

Hvílík ósköp(!)

Hví skyldi hann ekki nota sögulegar aðstæður. Hann þurfti ekki endilega að vera tæki sögunnar, hann gat orðið leiðtogi – eins og þekktari morðingjar: Hitler, Stalín.

Hví ekki?

Að öðrum kosti:

Hví keypti hann sér riffilinn, hví drap hann Tippit lögreglumann ef hann var saklaus? Og hví hafði hann reynt að drepa bandarískan hershöfðingja í Dallas, úr launsátri?

Nei, Oswald hafði allt til að bera og Mailer sýnir fram á það án þess reyna á nokkurn hátt að koma sökinni á hann eða reyna að kalla hann fyrir dómstól sögunnar. En hann leiðir einfaldlega í ljós með frásögn sinni að Oswald hefur nokkuð örugglega framið ódæðið – og þá af einhvers konar hugsjón. Hann ætlaði sér að verða hetja hugmynda sinna, en hann varð andhetja þjóðfélagsins; eins konar vofa í bandarísku þjóðfélagi eins og Mailer segir.

Hann notar mikið af heimildum, notar þær vel. Frásögn hans sjálfs er sterk og eftirminnileg, ekki sízt þegar hann byggir á eigin rannsóknum um dvöl Oswalds í Minsk þar sem hann kvæntist Marinu. Beztu kaflar bókarinnar og áhrifamestu fjalla í lokin um hana og Margréti, móður hans, sem er harla lík honum sjálfum; einfari með breglaða sjálfsmynd.

Merkilegt, báðar konurnar í lífi Lees Oswalds heita nöfnum sem byrja á mar-.

Tilviljun – eða hvat?

.

6. ágúst – miðnætti

 

Fórum norður Kjöl.

Bjart og blíðskaparveður.

Orti tvö eða þrjú kvæði inn í flokkinn Úr fréttatengdu umhverfi.

Jakarnir brotna úr skriðjöklunum, bráðna í jökullónið eins og við, hverfa með leirgulu fljótinu til hafs eins og við.

Þessi líking dygði vel í hindúisma og búddatrú.

En ekki í kristni.

Kristur lagði sérstaka áherzlu á sáluhjálp hvers og eins. Það er hornsteinn kristninnar, niðurstaða sem allt hvílir á.

Spói flaug á framrúðuna í Byskupstungum. Ég stöðvaði bílinn og leitaði að honum, þá flaug spói hjá og svo annar.

Vellandi.

Ég var þess nú fullviss að spóinn hefði sloppið, eða haft lífið eins og sagt var í Mýrdalnum forðum daga.

Og mér létti.

Engir fuglar á Kjalvegi.

Hveravellir eru eftirminnileg vin í auðninni.

Hvernig má annað vera en þetta stórfenglega land sé í blóðinu á okkur?

Allmikil umferð á Kili og margir útlendingar. Þeir eru augsýnilega búnir að uppgötva hvar unnt er að finna andvarann af eilífðinni.

 

7. ágúst

 

Stytti mér nú stundir við að bera saman Hindarkvæði Davíðs Stefánssonar og Steins Steinars, Skógarhind og Skógur. Efnið hið sama, ástin; hin særða ást.

Andspænis henni dauðinn.

Davíð og Steinn áttu meira sameiginlegt en þeir vissu. Það hefði verið uppörvandi ef þeir hefðu vitað hvað þeir áttu sameiginlegt; tilfinningar hinnar mennsku afstöðu.

 

19. ágúst – laugardagur

 

Helgispjallið í Morgunblaðinu er einskonar dagbók, en þó öllu heldur hugleiðingar; ekki eins persónulegar og í dagbók. Var að hugsa um að birta eftirfarandi kafla í Helgispjallinu, en skrifa það heldur inní dagbókina. Það er svo persónulegt að mér finnst það eiga fremur heima hér í dagbókinni en í Helgispjallinu. Þar get ég samt hugleitt samtalslistina í tengslum við aðra ritlist, eða kannski fremur annan texta. Svo finnst mér persónulegar vangaveltur mínar um Sigurð A. Magnússonar og samskipti okkar á Morgunblaðinu eiga fremur heima hér í þessum lokaða heimi en í blaði allra landsmanna, sem hafa hvort eð er harla takmarkaðan áhuga eða skilning á þessum liðna og marggrafna tíma. En dagbókin er vettvangur hans og hér er bæði stund og staður til að líta um öxl.

Þetta hafði ég skrifað í Helgispjallið, en flyt það nú hingað í rétt umhverfi:

Ég hef minnzt á mannúðlegri afstöðu en áður. Skáldin sjálf líta opnari augum á mannlífið en áður var, þegar ég var ungur og kalda stríðið í algleymingi. Þá fóru orð og upphrópanir eins og arfi um hug okkar; eða einsog lok yfir akur. Sprengjan mótaði okkur öll, hafði áhrif á hugsun okkar og viðhorf. En sem betur fer gekk þetta aldrei svo langt við yrðum í hennar mynd. Hún skapaði okkur ekki, heldur við hana. Og þess vegna trúum við því nú að manninum takist að ráða við þetta sköpunarverk sitt.

En guð hefur átt fullt í fangi með sína sköpun(!)

Hvað þá við(!)

Sprengjan er staðreynd og héðan í frá mun hún fylgja manninum, því að ekkert verður aftur tekið sem eitt sinn er hugsað; allra sízt er hægt að uppræta hugsun sem orðin er að veruleika.

En nú erum við farin að eyða þessari hugsun í verki. Við þráum sjónbauginn, einsog skáldið segir. Þar er birta af von sem við blasir.

Kalda stríðið hefur farið neikvæðum straumi um þjóðfélag okkar, rétt eins og allan heiminn og þá ekki sízt Ameríkuríki þar sem menn berast enn á banaspjót og sá merki perúanski skáldsagnahöfundur, Mario Vargas Llosa, hefur lýst með þeim hætti að mér fannst ég upplifa allan svartagaldurinn hér heima í gamla daga, þegar ég las lýsingu hans á ástandinu þar syðra í merkri grein.

Skrif Llosa hljóta að vekja athygli okkar sem höfum verið að brjótast útúr þessu eitraða pólitíska andrúmslofti, fylgikvilla ofstækisfullrar heimspólitíkur og ómannúðlegra átaka undir skugga Sprengjunnar.

Sá sem býr við þennan ótta á erfitt með að lifa af. Hann kallar ekki fram hið góða í manninum; þvert á móti; honum fylgja uggur og hatur og skemmt hjarta.

En nú er bjartara framundan. Gamla myrkrið var að vísu góður skóli, svartnætti lífsháskans, sem við þurfum að herðast í. En ég sakna þess ekki að ungt fólk sleppi við þennan kalda næðing, því hann gerir engan að betra manni. Þó er ungum rithöfundum hollt að herðast í barningi. Þá vita þeir að ekki koma allir dagar í böggli, eins og gamla fólkið sagði. Það getur verið nauðsynlegt að vita það, þegar á líður ævina.

Það er ekki sízt ungt vinstrisinnað menntafólk sem hefur tileinkað sér meiri mannúð í samskiptum við aðra en áður var, þegar ég var ungur. Þá voru þessir trúboðar á vinstra væng margir hverjir andlegir hryðjuverkamenn í aðra röndina. Nú halda þeir á ljósi, ungir vinstri sinnaðir bókmenntamenn, heimspekingar; hugsuðir að öðru leyti — og það fer þeim vel. Þeir eru hættir að kallast á við umhverfið gegnum þokulúðra. Nú talast menn við með öðrum hætti en áður. Fátt er meira fagnaðarefni að mínum dómi.

Ég held svokölluð opnun Morgunblaðsins hafi átt einhvern þátt í þessari þróun hér heima. Sættir tókust með blaðinu og Halldóri Laxness á sjötta áratugnum. Það mildaði andrúmsloftið kannski meir en nokkur getur gert sér í hugarlund. Síðan hafa skoðanir skáldsins og blaðsins að mestu fallið í einum farvegi. Frjálsir einstaklingar í rúmgóðu velferðarríki þar sem öryggisnetið ætti að koma í veg fyrir verstu slysin, er hugsjón beggja.

Samtal mitt við Stein Steinar í Morgunblaðinu á 6. áratugnum var einnig fagnaðarefni þeim sem unnu fögrum listum og töldu að þær þyrftu ekki endilega að vera einhvers konar afleggjari pólitískrar útópíu.

Ungum þótti mér eftirsóknarvert að taka þátt í gleði af þessu tagi. Úr þessari gleði og virðingu fyrir verkum marxískra snillinga skrifaði ég Kompaníið. Það var samið úr samtölum okkar Þórbergs.

Þegar bókin kom út, sagði Þórbergur:

Þú skrifar bókina og burgeisarnir kynnast loksins viðhorfum mínum!

Þórbergur var þeirrar skoðunar að borgarastéttin færi nú að kynna sér viðhorf hans vegna þess að blaðamaður á Morgunblaðinu ætti þar einnig hlut að máli.

Og engu líkara en hann hefði mikinn áhuga á þessum skoðanaskiptum(!)

Það hvarflaði að mér að morgunblaðsmenn yrðu ekkert hrifnir af þessu uppátæki mínu. En þá var ég beðinn um að ritstýra blaðinu!

Þrátt fyrir þetta tilhlaup Þórbergs var hann ekkert að bila í trúnni þegar Kompaníið var í burðarliðnum.

Þvert á móti.

Engu líkara en hann gengi í endurnýjun lífdaga. Þetta var líka allt svo skemmtilegt, að tala saman nánast daglega af einlægni og reisn. Þessi reynsla var mér dýrmætt veganesti og ég reyndi að fara vel með það sem mér hafði verið trúað fyrir.

Um þetta leyti flutti Sigurður A. Magnússon útvarpserindi um Atlantshafsbandalagið. Þórbergur hlustaði mikið á útvarp og nú hafði hann mörg orð um útvarpserindi Sigurðar sem hann gagnrýndi harðlega í mín eyru. En hann kunni að meta að Sigurður gerði greinarmun á stjórnmálaskoðunum rithöfunda og verkum þeirra, þegar hann skrifaði gagnrýni í Morgunblaðið.

Ég er ekki frá því að bókmenntaskrif Sigurðar A. Magnússonar í upphafi sjöunda áratugarins hafi verið lóð á vogarskál þeirrar viðleitni að auka friðsamlega sambúð í þjóðfélaginu, enda voru ritdómar hans þverpólitískir, eins og nú er sagt á fínu máli, og fjölluðu um verkið sjálft.

Sigurður skrifaði ritdóma án pólitískrar formúlu og hafði hugsjónalega ást á fögrum bókmenntum, hvað sem öðru leið. Þannig kom hann eins og ferskur andvari inn í íslenzka blaðamennsku. Og atómskáldskapurinn á honum ekki sízt mikið upp að unna. Hann tók honum með gleði og án fyrirvara, enda sjálfur atómskáld. Lenti jafnvel í hörðum ritdeilum hans vegna. Og raunar við báðir, þá ungir morgunblaðsmenn.

Handbendi auðvaldsins, sögðu sumir, skrautfjaðrir í hatti þess, sagði Jón úr Vör.

Og vildi ég færi að kenna bókmenntir uppi í háskóla!

Það voru ekki allir jafnánægðir með okkur. Mér er t.a.m. minnisstætt hvað Sigurður gat farið í fínu taugarnar á Tómasi. En Kristján Albertsson og Jónas frá Hriflu sögðu hvor í sínu lagi:

Hvað segja tízkublaðamennirnir?!

Svona skjall er skemmandi. Það þarf sterk bein til að þola það ungur. Blaðamenn ættu að huga að því. Það getur breytt efnilegu fólki í athyglisfíkla. Og ekkert er hvimleiðara en sjálfsánægja; og tómahljóðið sem fylgir henni. En svo er auðvitað alltaf hægt að fá annað skip og annað föruneyti; og stefna t.a.m. á þing.

Svo skildu leiðir okkar Sigurðar. Mér var trúað fyrir Morgunblaðinu. Og takmarkið var að “opna” blaðið hægt og sígandi.

Það var mikil áskorun.

Og illkleif björg framundan.

Það tók tíma.

Þá var annað andrúm en nú. Við lágum stundum undir harðri gagnrýni sjálftæðismanna sem höfðu talað um Morgunblaðið sem “sitt blað!”.

Baráttan var löng og hörð. Hún stendur enn yfir, en við eygjum takmarkið: blað allra landsmanna(!) En það merkir ekki sama og geðlaust og skoðanalaust blað allra landsmanna. Morgunblaðið á sinn kompás og eftir honum er stýrt.

Þá er hvorki lagzt undir kvóta né kolkrabba.

Sigurður A. Magnússon var óþolinmóður. Hélt að sigurinn væri í höfn, þegar stríðið var nýbyrjað. Hann var bráðlyndur hugsjónamaður. En grasið grær án þess við tökum eftir.

Valtýr hefði glaðzt, ef hann lifði. Hann var ræktunarmaður. Og blaðamennska var honum hugsjón; ekki sú blaðamennska sem eyðir, heldur sú sem ræktar.

Okkur Sigurð greindi stundum á eins og verða vill. Hann skildi ekki alltaf aðstöðu ritstjórans. Ég sá oft í gegnum fingur við hann, en ekki alltaf.

Menn aka seglum eftir vindi, þegar siglt er. Takmarkið er að komast í höfn. Siglingin getur aldrei orðið aðalatriðið. En vinátta okkar bilaði aldrei, ekki heldur þegar Sigurður tók kúvendinguna yfir á vinstra væng.

Eitt sinn sagði ég við hann, Okkur greinir æ oftar á, þú gerir okkur stundum mjög erfitt fyrir.

Hann horfði á mig, en þá datt mér í hug að bæta við fremur í gamni en alvöru,

Þetta er að verða eins og milli gömlu fóstbræðranna Hinriks konungs og Tómasar Becketts!

Ég hafði varla sleppt orðinu þegar Sigurður sagði:

Ég er Beckett! – og skírskotaði í leikrit Anouilhs.

Þar með sat ég uppi með Hinrik og veraldarstríðið, hann hlaut píslarvættið(!) Og væntanlega einnig það andlega konungdæmi sem hann gerði tilkall til.

Og var lengi kyrrt, einsog segir í Brennu-Njáls sögu.

Viðbrögð Sigurðar A. Magnússonar minntu mig á Þorgils skarða og ummæli hans kvöldið áður en hann dó að Hrafnagili, en um það segir svo í sögu hans:

“Þorgils reið til Hrafnagils. Var honum þar vel fagnað. Skipaði hann mönnum sínum þar á bæi. Honum var kostur á boði, hvað til gamans skyldi hafa, sögur eða dans, um kveldið. Hann spurði, hverjar sögur í vali væru. Honum var sagt, að til væri saga Tómass, erkibyskups, og kaus hann hana, því að hann elskaði hann framar en aðra helga menn. Var þá lesin sagan og allt þar til, er unnið var á erkibyskupi í kirkjunni og höggvin af honum krúnan. Segja menn, að Þorgils hætti þá og mælti: “Það myndi vera allfagur dauði.” Litlu síðar sofnaði hann”.

Sem sagt: ekki er allt sem sýnist(!)

En Sigurður A. Magnússon á ekkert sameiginlegt með Þorgils, nema Tómas Beckett. Sturla Þórðarson ber saman þá frændur Böðvar og Þorgils og segir munurinn sé sá að Böðvar hafi brjóst; semsagt betra hjartalag.

Það er mikið sagt.

Hjarta Sigurðar er viðkvæmt, en harla eigingjarnt samkvæmt forsendum þessara orða: allfagur dauði!

 

Síðdegis

Gekk heim úr vinnunni, yndislegt veður.

Leit inní Perluna, fór síðan yfir Öskjuhlíð.

Perlan er vel heppnað ævintýri, öllum til sóma.

Margir útlendingar; kornung bandarísk hjón með þrjú börn sín.

Minntu á þrastahjón í skóginum.

Hugsaði margt á leiðinni, orti tvö lítil kvæði:

Maðurinn skapaði

gínuna

í guðs mynd,

þannig skapaði guð

manninn,

samt erum við

eins og fiðrildi

í fölnandi laufi

lirfunnar.

Og:

Öskjuhlíð

Drengur

horfði ég undrandi

á netsvört fallbyssu-

hreiðrin

undrandi horfði ég

á klettgráa

hjálma gestanna,

nú geng ég á mosgráu

grjóti

og svörtum íshellum

geng í svörtum sporum

jökulsins

beygi mig niður

eftir ilmandi blóðbergi

hrafnaklukku og hrossanál

beygi mig niður

eftir fífu geldingahnappi

og flugnablómi

undrandi beygi ég mig niður

að ilmandi lyngi

og hjálmgrænum mosa

við puntstrá

hlusta á skóginn

hlusta á ilmandi sönginn

úr þrastahreiðrinu

undrandi hlusta ég

á niðandi eilífð liðinna daga

skil fuglamál

eins og Sigurður fáfnisbani

þegar hann dreypti á hjartablóði

drekans

skil fuglamál

eins og konan unga í Kantaraborgar-

sögum

þegar hún setti hringinn

á fingur sér

skil fuglamál

eins og þögul trén í skóginum

þögul hverfa trén

inní kliðandi söng fuglanna

hverfa eins og við

inní mosgrænan ilminn

af puntstrám og lyngi.

Á göngunni um Öskjuhlíð var ég einnig að hugsa um fleira; var að hugsa um Perluna og þegar ég kom þangað inn í fyrsta skipti. Það var þegar Davíð Oddsson valdi kafla úr bók minni Um Jónas til að lesa þar upp í fyrra, á bókadegi. ....

Ég fór að hugsa um Andvara-grein hans um Geir Hallgrímsson, hún er ágæt á margan hátt, en það kom mér í opna skjöldu að hann skyldi hafa það eftir Geir að hann hefði einhverjar áhyggjur af því að við ritstjórar Morgunblaðsins, vinir hans, værum ofhallir undir félagshyggju Jóns Baldvins og Alþýðuflokksins. Ég heyrði Geir aldrei segja neitt í þessa átt. Kannski hefur Davíð misskilið orð hans eitthvað, ég veit það ekki. Ég hef haft orð á því við hann, en hann hlustar ekki á það og er harður á fullyrðingum sínum. Hann hefur að sjálfsögðu fullan rétt á því.

Hitt er annað mál að við Styrmir erum áreiðanlega hallir undir félagshyggju sjálfstæðisstefnunnar — og af því hafði Geir aldrei neinar áhyggjur!

Fór að hugsa um að varla gæti Davíð haft einkarétt á því að hafa slík ummæli eftir öðrum, lifandi eða dauðum, svo að ég gæti áskilið mér rétt til að koma mínum sjónarmiðum á framfæri, afstöðu minni til annarra og þá hvernig ég hefði upplifað annað fólk, bæði vini mína og aðra, þ.á m. Davíð sjálfan og Geir — og hvers vegna þá ekki að lofa öðrum að skyggnast inní þennan lokaða heim dagbókarinnar, enginn gæti haft neitt við það að athuga fyrst Davíð hefði slíkt frelsi.

Stöðu hans vegna er ábyrgð hans meiri en mín.

Var einnig að hugsa um kvæði Indriða skáldbónda á Fjalli Þórkelssonar (1869-1943), um Sigurgeir á Fjalli.

Hafði nýlesið það.

Og hrifizt.

 

3. september — sunnudagur

 

Fórum í kveðjumessu til sr. Guðmundar Óskars Ólafssonar í Neskirkju. Hann flutti hörkuræðu eins og oft áður. Það gneistaði af henni. Óvenjulegt nú á dögum. Trúir á þann boðskap sem hann flytur. ..

Sr. Guðmundur Óskar vitnaði undir lok ræðu sinnar í sálminn minn í Sálmabókinni, um vegi guðs og manns. Kunni vel að meta það. Hann hefur stundum áður vitnað í “skáldið okkar hér í Nessókn”.

Skyldi maður rísa undir því?

Las þýðingar Guðbergs Bergssonar á spænskum ljóðum í bókinni “Hið eilífa þroskar djúpin sín” á ferðinni norður í land um daginn. Tók að yrkja í einhvers konar æðiskasti sem stendur yfir enn og minnir á það þegar sjómenn tala um skot!! Landið hafði þessi áhrif á mig. Og svo hef ég verið að svara þessum spænsku skáldum; finnst það skemmtileg tilbreyting. Orti enn þrjú kvæði í gær og dag, m.a. einskonar síðbúin áhrif frá ferð okkar Hönnu norður Kjöl í sumar. Þá orti ég einnig einhver ljóð í syrpu sem kemur í Lesbók um mánaðamótin, Úr fréttatengdu umhverfi. Kristján Karlsson sagði ég ætti að birta það sem fyrst, Árni Jörgensen er á sama máli. Hann er einnig mikill smekkmaður á ljóðlist — og segir meiningu sína, það er kostur. Sýndi Styrmi ljóðaflokkinn. Hann tók stórt uppí sig. Kom mér á óvart, en gladdi mig. Hann er að verða ljóðrænni með árunum!!

Hef haft ánægju af þessu skoti og ekki sízt af að yrkja síðasta kvæðið í gær og dag, Sólstafsferð inní nóttina. Styðst þar við þjóðsöguna Ólafur muður. Held kvæðið hafi tekizt eins og til var ætlazt, efni þess leynist a.m.k. ekki ef litið er í saumana.

Davíð Sch. Thorsteinsson sagði mér eftir Rótarý-fund um daginn að hann hefði verið að lesa Kjarvalskverið og sér fyndist vanta þessa sögu í það, en Ragnar í Smára sagði honum hana á sínum tíma:

Kjarval hafði alla tíð miklar áhyggjur af vinnslu kísilgúrs við Mývatn. Síðasta skipti sem Ragnar sat hjá honum í Borgarspítalanum náði hann engu sambandi við Kjarval, en lét það ekki á sig fá. Hann talaði viðstöðulaust um dægurmál allskonar án viðbragða frá Kjarval sem var mjög úr heimi allur.

En þá allt í einu rís Kjarval upp við dogg, hvessir á hann augu og segir, Ragnar minn, Ragnar minn, er ennþá tap á kísilgúrnum?

Ragnar fullyrti að þessi setning hefði verið hin síðasta sem Jóhannes Kjarval sagði í þessu lífi.

 

4. september – mánudagur

 

Hef verið að lesa bækur Daniels J.Boorstins, the Creators og The Discoverers. Athyglisvert yfirlit um menningarsögu mannsins. Galli á þeirri fyrrnefndu að þar skuli ekki vera rætt um fyrstu skáldsögurnar, Íslendinga sögurnar og fornritin okkar sem voru einstæð á sínum tíma – og eru það enn. Þetta er þekkingargloppa hjá höfundi sem er stórfróður og ágætlega skrifandi.Í síðar nefndu bókinni er ágætt yfirlit yfir merka landvinninga víkinga og þar er sagt að Kólumbus hafi siglt undir portúgölsku flaggi allt að heimskautsbaug. Í einni ferðinni hafi verið verzlað með ull og þurrfisk fyrir vín og hafi Kólumbus og félagar hans þá farið til Írlands og Íslands (231-232).

Hef verið þess fullviss að Íslandsferð Kolumbusar hafi verið mikilvægur hlekkur í landvinningasögunni og fundi Ameríku, því að hér hafi hann auðvitað fengið upplýsingar um vesturferðir víkinganna. Þá hefur hann fengið hugmyndina um að sigra Atlantshafið og halda vestur á bóginn; vissi að þar var land fyrir stafni.

Þannig hafa víkingaferðirnar ekki verið til einskis, heldur hafa þær haft úrslitaáhrif á framvindu sögunnar.

Finnst mikilvægt að þessi tenging er nefnd hjá Boorstin með því að geta Íslandsferðarinnar. Þá þurfum við ekki á að halda neinu Vínlandskorti lengur. Fornsögurnar eru nægileg heimild og þá einnig Íslandsferð Kólumbusar og þekkingaröflun hans sjálfs.

Höfum líklega á sínum tíma lagt ofmikla vinnu í Vínlandskortið og frásagnir af því í Morgunblaðinu.

Ég snaraði vínlandstextanum á íslenzku ásamt Sonju Diegó og birtum í Morgunblaðinu,síðan endurbirt í Úrvali.

Allt í góðri trú,auðvitað.An En við höfðum skúbbað með þessari frétt.Nordal var á móti kortinu og margir aðrir,sögðu það falsað.En mér skilst rannsóknir hnígi fremur að því það sé ekta.

Veit það þó ekki....

 

9. september — laugardagur

 

.....Við Hanna fórum að dást að yngsta barnabarninu, dóttur Haralds og Brynhildar. Kyssti hana í fyrsta sinn á kollinn, sérstök tilfinning. Vonandi verður hún farsæl og gæfusöm eins og þau öll.

Fékk mér göngutúr um Vesturbæinn. Leit inní Kaþólsku kirkjuna; fór með bæn eins og við gerðum í Landakotsskóla í gamla daga. Hugsaði til foreldra minna. Vesturbærinn í dýrlegri birtu; sólin ljóskastari á Hallgrímskirkju.

Hef enn ort nokkur kvæði undanfarið, ég er eins og gamall eldgígur sem heldur áfram að sletta úr sér í lok eldgoss. Orti þetta kvæði í dag, en það hefur, eins og alltaf, tekið miklum breytingum frá fyrsta uppkasti. Þarf að sýna Kristjáni Karlssyni allar útgáfurnar og leita hans ráða. Þykist viss um að síðasta útgáfan sé bezt. En Kristján er fyrir norðan. Við sjáum hvað setur.

 

9. sept. ‘95

 

1.

Morgunsólin snarkandi

eldar

í kirkjuglugganum

snarkandi

eldar

við samvizku þína.

2.

Um sex-leytið

er sól

yfir suðurfjöllum

og Keilir

landblátt fyrirheit

á gulum fleti.

3.

Augu þín sjálfstillandi

linsur

kvöldsólin

flassljós

á Hallgrímskirkju-

turni.

4.

Um níu-leytið

er norðurloftið

sólgult

eins og vonin á ljósnæmri

filmu.

5.

Senn kvikna

tungl og stjörnur

í myrkraherberginu,

senn skríður lúinn

jökull

undir teppi.

6.

Nætursvört hverfur

hugsun þín

að nýjum morgni.

 

12. september — þriðjudagur

 

Þröstur Helgason skrifar grein um bandaríska rithöfundinn William Styron, í menningarblað Morgunblaðsins s.l. laugardag, ágæta grein. Styron kemur á bókmenntahátíð og er það vel. Mundi vilja hitta hann, en veit ekki hvort það tekst. Ég er orðinn svo óduglegur að elta fótspor samtímans, enda heill her til þess á Morgunblaðinu. Öðruvísi mér áður brá þegar maður þurfti að atast í öllu sjálfur. Nú eru fleiri á menningarblaði og íþróttadeild blaðsins en allir blaðamenn þess þegar ég byrjaði 1951.

Styron er einn hinna fáu; stóru. Hann kann að skapa ljóðrænt andrúm með stílnum, án þess fórna sögunni; efninu.

Sagði Sigurði Valgeirssyni og Thor Vilhjálmssyni þessa skoðun mína um daginn, þeir vildu ég skrifaði um Styron í prógrammið. Mér fannst það ekki við hæfi, ég þekki ekki verkin nógu vel til þess.

En það væri gaman að hitta tröllið.

Staldraði við það sem Þröstur segir um Styron og tel það rétt, jafnvel sem almenna reglu. Get að minnsta kosti tekið undir hvert orð sem eigin reynslu án þess neinn hafi svo sem tekið eftir því í tengslum við mín eigin verk:

"Styron segist ekki hafa leitt hugann mjög að hlutverki hins ómeðvitaða í skáldskap sínum fyrr en eftir að hann hlaut bata af veikindunum. Þá fyrst sá hann að þunglyndið hafði löngum marað undir yfirborði texta hans, sjálfsmorð hafði t. d.verið honum hugleikið yrkisefni. Við endurlestur á verkum sínum segir hann það einnig hafa komið sér á óvart hversu vel sér hafi tekist að lýsa þunglyndi persóna sinna. Svo nákvæmar lýsingar hefðu ekki verið mögulegar nema vegna þess að sjúkdómurinn leyndist í undirmeðvitund hans sjálfs. Þunglyndið var því ekki framandi gestur er það helltist yfir hann, segir Styron, það hafi verið að berja dyra um langt skeið. “

Í bókinni heldur Styron því fram að þunglyndið hafi verið uppspretta skáldskapar hans, þarfarinnar til að skrifa. Þannig mætti líta á skrif hans sem einskonar geðlausn eða jafnvel sem tilraun til að yfirvinna dauðann, sjálfstortímingarhvötina. Skáldskapurinn er leiðin til lífsins. "(gott(!)) Verk hans séu "þrotlaus sjálfsskoðun", hin dýrlega ljóðræna skáldsaga Sophie´s Choice hafi verið tilraun til að skrifa "tilurðarsögu skálds"; öll mikil list nærist á bölsýni" (gott!)). Þunglyndið, sektin, dauðinn; allt eru þetta uppsprettur skáldskapar að mati Styrons. En vonin sé aldrei langt undan, en "hún nærist á örvæntingunni — vonin um að finna lífsviskuna í djúpi þjáningarinnar."

Og þessi von kristallast bezt í ljóðrænni skynjun.

Held ég kannist við þetta allt.

Það er raunar langt síðan ég hef gert mér grein fyrir þessu, þótt mér hafi aldrei dottið í hug að bera það á torg. En Guðjón frændi minn Lárusson læknir skynjaði þetta í sögunum í Konunginum af Aragon og hélt ég væri á barmi örvæntingarinnar!

Gott hjá honum.

Ég var að vísu í Florída þegar rætt var um þetta sögusafn heima, en hann sagði mér í símann að hann væri ekki einn um þessa skoðun.

Hvað sem því líður skildi ég örvæntinguna eftir í bókinni og horfði vonglaður fram á veginn — með þunglyndið að baki. En það hefur heimsótt mig og stundum gengið nokkuð nærri mér. En ég hef ævinlega getað hrist það af mér. Hef góða grímu, ógagnsæja, og enginn veit hvað er á bak við hana. Kannski ekki heldur ég sjálfur. En stundum þegar ég vaknaði timbraður í gamla daga langaði mig ekkert til að vakna. Þá varð ég stundum var við þessa depurð sem var ekki laus við tortímingarhvöt. En ég hristi hana af mér eins og annað. Hef ævinlega getað stjórnað ferðinni og ætla að halda því áfram, á hverju sem gengur.

Haukur Jónasson læknir, vinur minn, huggaði mig með því þegar hann uppgötvaði að ég væri með ristilkrampa — og stundum svo slæma að ég gat varla staðið upp úr rúminu, t. a. m. í kosningum á sjöunda áratugnum, enda áhyggjur miklar og ábyrgðin vegna ríkisstjórnar Bjarna Ben.— að vitleysingar fengju aldrei spastískan colon, heldur þyrfti maður að vera þó nokkuð gáfaður til að fá þennan sjúkdóm sem enginn þekkir og rakinn er til ósjálfráða taugakerfisins.

Þá sætti ég mig við sjúkdómsgreininguna!!

Hún kemur líka heim og saman við það sem Heiðar snyrtir sagði við mig um daginn þegar ég var að velja mér ný gleraugu í Linsunni og fannst þau bezt sem hann sagði klæddu mig bezt:

Ég held, sagði ég við hann að lokum, að ég sé bara helvíti mikill smekkmaður.

Já, sagði Heiðar snyrtir umhugsunarlaust, gáfumenn eru það alltaf!!

Svona eiga kaupmenn að vera, snöggir og orðheppnir(!) En mér er sagt að Heiðar sé framsóknarmaður; merkilegt!

Þessir ristilkrampar hafa háð mér verulega, en ég læt ekki á því bera. Verra gæti það verið. Líklega eiga þeir rætur í einhverri tilhneigingu til þunglyndis eða svartsýni, eða að minnsta kosti kvíða, gæti bezt trúað því.

Faðir minn hafði þessa tilhneigingu. Þunglyndi háði honum raunar mjög með köflum, en það vissu fáir. Með allt slíkt var farið eins og mannsmorð á þeim tíma. Nú hefði hann fengið lyf og verið alhress. Hann var líka stórfínn milli kastanna og það hefur vafalaust hjálpað honum að hann bragðaði aldrei áfengi. Hann var íþróttafrömuður, kraftmikill formaður ÍR á velmektardögunum upp úr stríðinu og vinsæll og virtur af öllum þeim sem þekktu hann. Átti óvenjulega mannkosti og enginn hefur haft eins mikil áhrif á mig og hann. Hann var mikill félagsmálamaður á yngri árum og stofnandi og formaður Sambands bankamanna sem nú eru öflug samtök launafólks opinberra starfsmanna. Undanfari BSRB.

Móðir mín sagði að ég væri líkastur sínu fólki-og þá ekki sízt föðurfólkinu. Hún átti erfitt með að sætta sig við að ég skyldi heita eftir föðurafa mínum, hún vildi ég héti eftir föður hennar. En Matthías afi kom víst í draumi til pabba, sagði konan hans gengi með sveinbarn og óskaði eftir því að það fengi sitt nafn. Móðir mín féllst á það að lokum. En sama er mér úr því sem komið er. Hitt finnst mér athyglisvert og uppörvandi að ég á merka forfeður í báðum ættum. Matthías Eysteinsson óðalsbóndi í Askevold í Noregi, langalangafi minn, var einn þeirra föðurlandsvina í Noregi sem sat Eiðsvallaþingið þegar stefnan í sjálfstæðismálinu var mörkuð og Jóhannes móðurafi minn sat í Uppkastsnefndinni og var síðar formaður Sambandslaganefndarinnar sem kom með fullveldið 1918. Hann var mikilsmetinn stjórnmálamaður, var tvisvar beðinn um að verða forsætisráðherra, en hafnaði því í bæði skiptin. En hann vildi vera forseti Sameinaðs þings og sómdi sér vel í því embætti. Hann hefur kannski talið það sögulegasta embætti landsins, framhaldið af lögsögumanninum, ég veit það ekki. Við töluðum mikið saman á menntaskólaárum mínum, en aldrei minntist hann á stjórnmál. Og ekki var ég að angra hann með þeim.

Lárus H. Blöndal,bókavörður, sagði mér að hann hefði verið mesti smekkmaður á bókmenntir sem hann hefði kynnzt, ásamt Sigurði Nordal.

Kannski fékk ég einhvern neista af þessum steðja Jóhannesar afa míns.

Hef verið að hugsa um kenningar Einars Pálssonar, tákn og launsagnir úr fortíðinni. Aldrei hefur mér dottið annað í hug en rætur okkar liggi um margvíslega jörð Evróp, Miðjarðarhafsins-og upphafið sé enn austar. Að sjálfsögðu. Hef einnig verið að yrkja um þetta – og birti síðar. Það eru vafalaust minjar um þessa næringu á víð og dreif í arfleifð okkar, ekki sízt lögum, ljóðum og sögunum. En enginn veit hvað hún er mikil. Kannski vissu þeir það ekki alltaf sem skrifuðu ritin; ekki endilega.

En þetta eru skáldleg vísindi og mikilvæg. Sums staðar leynir allegórían sér ekki og verður þá að einhvers konar boðskap. En á því hef ég engan áhuga, ekki frekar en áróðursritum samtímans. Áhugi minn beinist að bókmenntunum; skáldskapnum; þessari rismiklu hugsun; örlögum mannsins í þessum verkum; ekki örlögum guðanna, heldur mannsins. Það er nóg af guðmennum í grískum skáldskap. Og fornum trúarbrögðum.

Af þessum íslenzku verkum vitum við t. a. m að enginn maður fær annars örlög eins og Sigrid Undset minnir tvisvar sinnum á í Kristínu Lavransdóttur, Krossinum.

Alexander Jóhannesson kenndi okkur það í samanburðarmálfræðinni að líklega væru þágufallsendingarnar -ur í tveimur og þremur stirðnuð föll úr sanskrít; þess vegna væri skemmtilegt að halda þessum datívusi í tungunni. Þetta veit fólk ekki og raunar skiptir það engu máli í daglegu lífi okkar. Við getum notað tveimur eða tveim og þremur eða þrem án þess gruna þessi tengsl og merkingin verður fullljós án þessarar vitneskju.

Auk þess er þetta ekki alveg víst.

Hugmyndaflug Alexanders var í góðu lagi. Hann var eiginlega einhvers konar skáld og erfitt að fylgja honum eftir á fluginu þegar hann tók sig til í tímum. Ég fór illa út úr prófum hjá honum því hann prófaði okkur helzt í því sem hann kenndi okkur ekki; eða átti að sleppa. Samt bjargaðist maður fyrir horn-og náttúrlega með hans aðstoð. En hann skildi ekkert í frammistöðu okkar!!

En hvað sem þessu líður ter ég að þessar -ur-endingar gegni álíka mikilvægu hlutverki í málsögunni og gömul táknfræði eða gleymdar launsagnir í miðaldafræðum. Maður getur notið skáldskaparins til fulls án miðalda táknfræðiþekkingar, rétt eins og við getum notað málið, haft gagn af því og ánægju, þótt við vitum engin deili á uppruna orða, merkingu og þróun þeirra.

En það er mikið ævintýri að kunna einhver skil á þessum fræðum; bæði sannindum og tilgátum.

Haustar

Frakkalaus geng ég

upp Frakkastíg,

hann rignir.

Langir tónar þrastanna

þagnaðir,

hann rignir haustlaufi.

 

Dýrlingskirkja

í Padúa

Hnígandi geislar

við kirkjuna, ég hugsa með

mér, Ekkert skrítið

þótt þeir hafi múrað

uppí forhliðarglugga

heilags Ágústusar eins og dúfurnar

láta hver utaní annarri,

svartklæddir hettumúnkar

ganga frá bænastund

eins og vænglausir skuggar

tímans

undir hnígandi sól, Bona

sera segja gestrisin

augu

forvitnir himnar

dúfnanna.

 

Á grænu ljósi

Á stóru hjóli

og þrjú kríli á litlum hjólum

stolt með gulan hjálm

og ungarnir með rauðan bláan

og hvítan hjálm

fer öndin með ungana

á grænu ljósi

yfir Miklubraut.

 

Freisting

Þú ert

framrétt hönd

í skemmtigarðinum

sólgul hneta

í skjálfandi lófa

ég er íkorni

á ég

eða á ég ekki?

 

At

Þverskorin

eru horn nautsins

veifum rauðri

dulu

hreyfingarlaus fylgja

blóðug augu

gagnsæjum höndum vindsins

bíðum

þessara veðruðu horna

 

Tóttir

Gömul jörð

og lúin

moldþögul sál mín,

hægt gengur

tíminn

í grónar tóttir

ekkert smjörgras, engin

ólafssúra né

fjalldalafífill

einungis þögult gnauð

í graslúnum vindum,

rótið með aðgát

í þessum viðkvæma

jarðvegi.

?

Er þetta kafbátur?

spurði barnið

og benti

á krókódílinn

í Everglades.

Undir haust

Ég var eitthvað að minnast á Ólafs sögu um daginn, það þyrfti að gefa hana út í styttri gerð. En kannski verður það nú aldrei. En þar sem þetta var fyrsta bókin um Ólaf Thors og lítið hafði verið skrifað um hann og samtíma hans taldi ég mér skylt að vitna rækilega í heimildir, til að mynda um fiskveiðideilur við Breta, svo menn sæju svart á hvítu að ég færi ekk með staðlausa stafi.

En nú mætti stytta margt af þessu í endurútgáfu og gera ritið aðgengilegra, einkum fyrir ungt fólk sem vill kynnast sögu þessara ára.

Þegar bókin kom út sagði Björn Þorsteinsson prófessor við mig, Ég og mínir menn erum ánægðir með bókina(!) Þetta kom mér skemmtilega á óvart því að Björn og “mínir menn” voru vinstri menn; sem sé marxistar. Ég átti á öllu von úr þeirri átt. Mér er líka sagt að Ólafur Ragnar Grímsson hafi haft allt á hornum sér og ekki kunnað að meta Ólafs sögu, en ég hef aldrei talað um það við hann og hann ekki heldur við mig. Svo ég kann ekki skil á þessari afstöðu. Ég er hræddur um að hún eigi rætur í pólitískum ærslum því hann kunni vel að meta bók mína um Sjálfstæðisflokkinn gamla og klofning hans og í hans tíð í Háskólanum varð hún víst hluti af pensúminu í þjóðfélagsfræðum. Sú bók er að vísu heimildagóð og ég vann hana eins og ég hafði vit til, en hún er veigaminna verk en Ólafs saga og ástæðulaust að kunna að meta hana, en ekki sögu Ólafs. Allt slíkt mat er afstætt. Ólafs saga á snertiflöt við pólitískan feril Ólafs Ragnars, en ekki saga sjálfstæðisbaráttunnar fyrr á öldinni.

Það eina sem Björn Þorsteinsson sagðist hafa út á Ólafs sögu að setja var skortur á gamansögum og munnmælum um Ólaf.

Það hefði mátt vera meira af því, sagði hann.

Ég sagðist ekki hafa viljað hafa annað í bókinni en það sem ég hefði fengið staðfest. Sumar gamansögurnar um Ólaf væru tilbúningur, en ég viðurkenndi að þær hefðu þá einnig gildi sem slíkar. En síðan hef ég safnað sögum um Ólaf og mætti setja þær einhvern tíma inní endurbætta útgáfu af verkinu sem sérstakan kafla.

(Þetta efni er birti í Afmælisriti Davíðs Oddssonar,1998)

Ódagssett –

Skemmtilegt að bera saman það sem Kielland segir um hafið og Joseph Conrad í Hvirfilvindi eða Typhoon. Conrad þekkir það betur og er harður í dómum; kannski raunsærri en Kielland, sem skrifar um hafið af skáldlegri aðdáun. En Conrad afgreiðir það eins og sjómaður sem hefur marga fjöruna sopið og veit að það er til alls víst. Kielland lýsir hafinu úr nálægri fjarlægð, ef svo mætti segja, en Conrad setti sig í spor MacWhirrs skipstjórans í sögunni, sem þekkti ekkert annað en blákaldar staðreyndir og hversdagslegan veruleika þótt hann hafi aldrei komizt í kynni við taumlausar hamfarir og óstjórnlega reiði. “... reiðina, sem afmáir, en þiggur aldrei frið – hina ástríðufullu, trylltu bræði hafsins. Hann vissi, að hún var til, á sama hátt og við vitum um tilveru glæpa og illmennsku. Hann hafði heyrt um það á sama hátt og friðsamur borgari fréttir um orustur, hungursneyð eða stórflóð, en veit þó í raun og veru ekki hið raunverulega inntak þessara atburða, – jafnvel þótt hann hafi einhvern tíma lent í götuuppþoti og orðið að sleppa einum miðdegisverði, eða orðið gegndrepa í rigningarskúr. MacWhirr skipstjóri hafði siglt yfir höfin, alveg eins og fjöldi manna líður yfir ár ævi sinnar, fram á grafarbakkann, án þess að kynnast lífinu til hlítar, án þess að hafa komizt að eigin raun um öll þessi svik, ofbeldi og ógnir. Slíkir menn eru til, bæði á sjó og landi, svo hamingjusamir – eða svo fyrirlitnir af forlögunum eða hafinu.”

Og hver voru þessi forlög?

Þau eru risavaxin og ósýnileg hönd sem teygir sig inn í mauraþúfuna og knýr okkur til að leita að óskiljanlegum markmiðum.

Nei, það kynnist enginn lífinu til hlítar. Það var rétt sem Níels Dungal sagði við mig á sínum tíma, að hann lifði í einni veröld, en ég í annarri. Líf vísindamannsins og læknisins sem stendur andsæpnis dauða og tortímingu hvern dag sem guð gefur er annað en það sem blaðamaður kynnist í erilsömu og fjölbreyttu starfi og Dungal vildi að ég kynntist þessum heimi hans og gerði það með þeim hætti sem segir í samtali okkar.

Blaðamaðurinn fæðist inn í nýjan heim hvern morgun og hverfur svo eins og sólin til að rísa aftur upp næsta morgun. Hann tekur daglega inn á sig ótal atburði og skilar þeim aftur eins og endurvinnuslustöð, en margt er ónothæft á þeim sorphaugi. Og dagarnir verða hver öðrum líkir þótt þeir séu eins fjölbreyttir og gott ímyndunarafl. En fjörugt ímyndunarafl sem Conrad talar um er ekki síður nauðsynlegt blaðamanninum en skáldinu. Það er þetta ímyndunarafl sem getur tengt saman ótal heima í lífi okkar; vitjað nýrra veralda sem við þekkjum ekki.

Ég hef verið að hugleiða manninn í umhverfi sínu og komizt að þeirri niðurstöðu að sjálfsfullnægingarhvötin sem er dýrmæt eign getur orðið að sjálfseyðingarhvöt. Þessar andstæður eru innbyggðar í manninn. En ég þekki engan sem stendur betur undir því með Ólafi Hjaltasyni Hólabyskupi að nota sjálfsfullnægingarhvötina ævinlega til góðs en samstarfsmann minn til margra ára á Morgunblaðinu, Þorbjörn Guðmundsson, sem nú er að taka pokann sinn. Metnaður er góður en það er ekki nema andartak milli metnaðar og ofmetnaðar. Það þarf mikinn þroska til að ráða við þá þætti í eðli mannsins sem geta raskað öllu jafnvægi, bæði í honum sjálfum og umhverfi hans. Vinir mínir á Morgunblaðinu hafa margir hverjir átt þennan þroska og Þorbjörn hefur átt hann í ríkum mæli. Slíkur þroski er forsenda allrar hamingju. Sá sem er óánægður með sjálfan sig verður aldrei ánægður með aðra, hvað þá umhverfi sitt. Það er gaman að halda á björtu blysi og afhenda það öðrum, en það er ekkert gaman nema halda loganum hreinum.

Sigurður Nordal segir í Lífsskoðun, í Einlyndi og marglyndi, að þroskinn sé hinn mikli töframaður lífsins og ef við höfum hann að marki þá komi hamingjan sem aukageta, komi sem merki þess að við séum á réttri leið, eins og hann kemst að orði. Ég vona að við höfum reynt að þroskast eitthvað með Morgunblaðinu og blaðið með okkur því fátt er nú mikilvægara en að fjórða aflið eflist að styrk og sjálfstæði – og þá á ég ekki við neina gula pressu – og vinni sitt verk í lýðræðislegu íslenzku samfélagi eins og til er ætlazt. Ég vona að við höfum kunnað að eldast en það er mikil list. Ég vona að aldurinn fari blaðinu vel og okkur sem störfum við það. Vona að það sama megi segja um okkur og blaðið; eða eins og Nordal minnir okkur á að æskan á að láta sig dreyma en fullorðinsárin að framkvæma. Við áttum okkur drauma og ég vona að fullorðinsár okkar réttlæti draumana, sýni að þetta hafi ekki allt verið eintómur hégómi og þess sjái stað í blaðinu sem okkur hefur verið trúað fyrir. Uppfylling drauma er öðru mikilvægara eins og Nordal nefnir og einnig það að láta draumana halda áfram að hrísla um störf fullorðinsáranna og sýna að hugsjónin lifi af allt mótlæti, erfiðleika og vonbrigði.

Gott dagblað þarf á sterkum vilja að halda og tekur sjálft sig alvarlega en nærist hvorki á hroka né yfirlæti. Það dreymir um uppfyllingu æskudraumanna og við vitum hverjir þeir voru. Mér er nær að halda að blaðið okkar sé enn að taka út þroska. Blað sem vill lifa af verður ávallt að vera tilbúið til að daufheyrast við andmælum sinunnar gegn nýgræðingnum. Það á að taka áskorun umhverfisins; og taka á umhverfinu ef svo ber undir. Kyrrstaða er allri fjölmiðlun öndverð. Dagblað er eins og allt sem er í tengslum við lífið sjálft; hreyfing og viðbrögð. gott og mikilvægt dagblað er eins og strengir þandir milli tveggja skauta, milli tveggja ólíkra heima, svo ég vitni enn í Nordal. Það getur ekki gert hið dýrsterka og ruddalega umhverfi að hugsjón sinni, heldur á það að reyna að hlú að þeim þroska sem hamingjan nærist á. Og þá fyrst er það sjálft mikilvægur þáttur þeirra verðmæta sem helzt skipta máli þegar upp er staðið. Við trúum því að þessi verðmæti séu til og um þau eigi að fjalla. Morgunblaðið á að vera einskonar þjóðfélagstorg og þar á að vera þéttskipað. Það er þess vegna sem blaðið hefur ávallt átt sinn dag, eins og Einar Benediktsson segir í Pundinu, og vonandi hefur okkur stundum tekizt að leika á þann streng sem blaðið okkar á fegurstan og sannastan.

Sá tónn er mikilvægur því hann er bergmál úr þjóðardjúpinu.

Ódagssett

Hef stundum velt því fyrir mér hvers vegna heldur ómerkilegt fólk nær oft lengra en aðrir. Er þetta fólk betur fallið til að lifa af samkeppni í hörðu lífi mannsins en aðrir sem hafa sterkt siðgæðismat og gott tangarhald á freistingum sjálfs sín? Eru þeir í raun og veru betur settir í lífinu sem hafa heldur slappan forheila og þurfa ekki að gera út á sjálfsögun og dómgreind en hinir sem eru ekki jafnsjálfsöruggir þótt þeir hafi betri gáfur og meira vit? Er það eitthvað í samfélagi mannsins sem kallar á framtóninga og fyrirferðarmikla sjálfbirginga? Eru það kannski fjölmiðlarnir? Er ég kannski einn þeirra sem ber ábyrgð á þessu jafnvægisleysi í íslenzku umhverfi? Ef svo væri gæti ég svarað því til að margt ágætt fólk, vel gert og góðum andlegum efnum búið, kemst einnig áfram í lífinu. En hinir eru miklu fleiri sem láta aldrei til sín taka, óska þess helzt að lifa kyrrlátu og átakalausu lífi og aðhaldssömu við sjálfa sig og eigin metnað. En hinir eru þó ótrúlega margir sem komast áfram á ósvífni og yfirgangi, lítilli dómgreind og ennþá minni gáfum, en kunna samt öðrum betur áralagið í lífsins ólgusjó. Stundum vegnar skúrkunum bezt.

Um þetta hugsa ég stundum og finn til óhugnaðar. Er þetta guðs vilji, getur það verið? Eða er þetta eins og hver önnur náttúruslys, ég veit það ekki. Hitt veit ég, að um þetta hafa menn hugsað á öllum öldum. Ég sé af Hinnum guðdómlega gleðileik að þetta hefur oft leitað á Dante. Hann hrökklaðist sem útlagi úr fæðingarborg sinni og hraktist vegna yfirgangs annarra og án þess hann gæti komið nokkrum vörum við. En hann átti skáldskapinn og í honum sendi hann þá sem höfðu angrað þessa réttlætiskennd hans og vakið ofnæmi skáldsins beinustu leið til helvítis. Þar dúsa þeir á ýmsum stigum, einnig þeir sem höfðu ekki annað gert af sér í lífi sínu en framfylgja hégómaskapnum sem er meinlausasta tegund drambsins, eins og Samuel Johnson segir í riti sínu, Vandræðaskáld. Það þarf mikinn meistara til að hafa svona tök á lífi eftir dauðann eins og Dante hafði. Og það þarf mikla sannfæringu um kerfið handan grafar og dauða.

Ég hef hugboð, en enga sannfæringu.

Ég held að margir fyrri tíða menn geti þakkað guði fyrir að Dante var ekki guð! Þá hefðu þeir þurft að hírast í 9. hringnum til eilífðarnóns! En þó að Dante hafi ekki verið guð þá var hann guðlegt skáld og sem slíkur er hann góður leiðsögumaður um torfærur ítrustu hugsunar mannsins, svo vitnað sé í Campbell. Sú leið ekki sízt ætluð þeim framtóningum sem ganga helzt fyrir þeim löstum sem stöðva myndhverfa mannssálina í 8. eða 9. hring Vítis eða í næsta nágrenni við hinn fallna ljósengil og vængfrosna uppreisnarsegg hins guðdómlega kærleiksheimilis. Metnaður hans var svipaður og margra þeirra sem við höfum horft upp á ná miklum völdum, hæfileikarnir hinir sömu og lestirnir áþekkir. En ég er ekki viss um nema samfélag mannsins sjái lengur í gegnum fingur við ósvífna valdabraskara en samfélag englanna við þann fallna Lúsífer.

En hvernig má þetta vera; að þetta sé guðs vilji, getur það verið? Eða þolir hann slíkt með sama hætti og hann lætur yfir sig og okkur ganga hvers kyns slys og náttúruhamfarir? Hann skapaði ekki fullkomna veröld, það er nú hægt að vera ánægður með minna, en hann skapaði líklega þá einu veröld sem unnt var eftir því forriti sem hann hafði í höndum.

Og við verðum að una því.

Ódagssett

Rakst á lítið ljóð eftir Longfellow um Ísland. Snaraði því að gamni mínu á íslenzku. Það minnti mig á dvöl okkar á Nýja Englandi á sínum tíma. Í umhverfi Boston er ýmislegt sem minnir á norræna menningu. Það var uppörvandi og ég skrifaði um það; líklega er eitthvað af því í Ferðarispum. En ljóð Longfellows er svona:

The Broken Oar

Once upon Iceland’s solitary strand

A poet wandered with his book and pen,

Seeking some final words, some sweet Amen,

Wherewith to close the volume in his hand.

The billows rolled and plunged upon the sand,

The circling sea-gulls swept beyond his ken,

And from the parting cloud-rack now and then

Flashed the red sunset over sea and land.

Then by the billows at his feet was tossed

A broken oar; and carved thereon he read:

“Oft was I weary, when I toiled at thee;”

And like a man, who findet what was lost,

He wrote the words, then lifted up his head,

And flung his useless pen into to sea.

 

Brotna árin

Í eina tíð á Íslands fjarlægu strönd

eitt sinn var þar skáld á ferð með penna og bók

leitaði hinzta orðs sem yfirtók

endanleg markmið bókar í hans hönd.

Öldurnar flykktust uppað þessum söndum

og alkunnir mávar vörðu héruð sín

en milli hraktra skýja sólin skín

og skreytir allt því kvöldsól fer með löndum.

En þá skaut brotinni ár úr ölduróti

og upp hann tók og las það sem var skráð:

“Oft var ég þreyttur ef hann blés á móti”.

Þessa lausn úr löðri hafsins dró

og letrar orðin, hvessir svo í gráð

og gagnslausum penna grýtir útá sjó.

16. september — laugardagur

Hitti William Styron á Hótel Holti í dag, langaði til að tala við hann því hann skrifar svo fínan ljóðrænan stíl.

(Eitthvað notað úr þessu iVatnaskilum.)

Fór með Einari Fal. Styron var með Ólafi Jóhanni Ólafssyni og Jason Epstein, ritstjóra Random House sem gefur Ólaf út.

Dálítið sérkennilegt andrúmsloft.

Mér fannst eiginlega fyrst í stað að ég væri kominn á fund með markaðslögmálinu sjálfu.

Ég sagði að Faulkner hefði á sínum tíma sagt við mig að það væri ekki pláss bæði fyrir Faulkner og Hemingway í Bandaríkjunum.

Þeir hlógu að því en kom saman um að nú væri nóg pláss. Það væru engir almennilegir ungir höfundar þar vestra og mér skildist ekki heldur í Bretlandi. Ég hef þó rekist á ágæt skáld bæði vestan- og austanhafs, lítið þekkt að vísu.

Ég nefndi að Arthur Miller ætti erfitt uppdráttar í Bandaríkjunum, hann væri meira metinn í Bretlandi. Þeir hefðu verið að sýna leikrit eftir hann í Lundúnum þegar ég var þar síðast á ferð; síðasta leikritið hans. Styron sagði að það væri vont leikrit. Það væri raunar undarlegt að svona rusl væri sett upp þar í landi.

Hann talaði ekki hlýlega um Arthur Miller.

En þá fyrst tók steininn úr þegar Epstein sagði sína skoðun. Hann sagði að Arthur Miller væri vondur höfundur og hefði ekki skrifað neitt gott leikrit. Bandaríkjamenn hefðu einungis átt einn góðan leikritahöfund, Eugene O’Neil.

Eitthvað töluðum við um hvað ljóðlist ætti erfitt uppdráttar í Bandaríkjunum. Ég minntist á Brodský og hvað hann ætti erfitt uppdráttar í Bretlandi. Þeim bar saman um að hann væri gott ljóðskáld og ætti betra skilið austanhafs.

William Styron sagði að hann hefði aldrei fengið góða dóma, eða nánast aldrei, í Bretlandi og væri lítið þekktur þar í landi.

Hann hefði aftur á móti verið metsöluhöfundur í Frakklandi. Líklega vissu þeir um dálæti hans á Bovary og Camus! Hann á víðar erfitt uppdráttar, þessi stórmerkilegi skáldsagnahöfundur og mér skilst að honum hafi vegnað bezt í löndum eins og Póllandi og Suður-Ameríku, ekki í Þýzkalandi.

Þeim Epstein bar saman um að það væri auðvelt að selja íslenzkt lambakjöt í veitingahúsum í Bandaríkjunum, það væri frábært. Menn þyrftu bara að kunna að selja það.

Ég skaut inn í að líklega væri bezt að Ólafur Jóhann hætti hjá Sony og tæki að sér að selja íslenzkt lambakjöt þar vestra; hann kynni á markaðinn.

Sem sagt, það var heldur létt yfir hópnum þegar á leið og við vorum byrjaðir að borða.

En Epstein þurfti sem betur fer að fara fljótlega eftir það því hann átti að taka þátt í umræðum í Norræna húsinu. Þeir eru hér á vegum bókmenntahátíðar. Slíkar hátíðir þreyta mig heldur núorðið og ég hef ekki látið sjá mig á þessari hátíð en mig langaði til að hitta William Styron því ég met hann mikils sem stóran höfund.

Við Einar Falur sátum með honum í heila klukkustund eftir að hinir voru farnir og það bar margt á góma. Það er skemmtilegt að tala við Styron einslega. Hann er hlýr og mannúðlegur og eins og ég ímynda mér mikla höfunda. Honum finnst held ég allt ágætt á Íslandi. Ætlar að koma hingað aftur seinna og fara þá eitthvað um landið. Ég tók að mér að verða leiðsögumaður hans. Honum leizt vel á það. Hann sagðist hafa lesið eitthvað af íslenzkum fornbókmenntum en ekki mikið. Hann sagði að Sjálfstætt fólk væri ótrúleg bók og leyndi ekki aðdáun sinni á henni.

Ég vék aftur að Faulkner og þá sagðist Styron hafa þekkt hann og sér hefði líkað vel við hann. Hann hefði verið hlýr og huggulegur við sig og ekki snúið að sér kaldhæðnislegu hliðinni sem hann var einna frægastur fyrir. Faulkner hrósaði honum fyrir skáldverk hans og að því bjó Styron lengi. Styron fór góðum orðum um skáldsögur Toni Morrison og Anne Tyler, einnig skáldsögur Pat O’Conroy, til að mynda Prince of Tides sem mér finnst frábærlega vel gerð og yndislega skrifuð.

Hann hefur orðið fyrir áhrifum af þér sagði ég.

Já sagði Styron ég finn það. Það er þetta ljóðræna andrúm sem hann hefur tileinkað sér.

Styron játti því.

En við vorum sammála um að slík ljóðræna yrði að koma innan frá. Það væri ekki hægt að læra hana. Þess vegna væru svo margir skáldsagnahöfundar sem skorti hana í verkum sínum.

Skáldsagan þarf að eiga innri rödd, sagði hann, eða raddir

Hann sagðist vera nýbúinn að skrifa bók um æsku sína og hefði nýlega birt kafla í New Yorker um dvöl sína í hernum. Ég spurði hvort við mættum nota kafla úr þessu síðasta verki hans í Lesbók. Hann sagði okkur væri það velkomið. Ég ætla að útvega mér það og láta þýða kafla í Lesbók.

Hann sagði að Faulkner hefði haft heldur illan bifur á Truman Capote; sagði að hann væri eins og lítil fluga sem væri að reyna að stinga sér leið gegnum holdið á manni!

Hann þoldi ekki yfirborðslæti hans og auglýsingamennsku.

Í dag birtist ágætt samtal við Styron á miðsíðu Morgunblaðsins eftir Þröst Helgason og stór flott mynd eftir Einar Fal auk leiðara um bókmenntahátíðina en kjarni hans var skírskotun í Styron.

Hann sagðist hafa orðið snortinn þegar hann sá þetta og nú þyrfti hann að láta Ólaf Jóhann þýða þetta fyrir sig.

Við töluðum að sjálfsögðu um þunglyndi og hvernig hægt er að breyta því í sköpunarkraft. Hann sagðist aldrei hafa hugsað um þunglyndi áður fyrr en nú væri hann farinn að gera sér grein fyrir því. Áður voru andlegir sjúkdómar og áfengissýki til minnkunar. Nú væri betur hægt að ráða við þessa sjúkdóma vegna þess að nú væri litið á þetta eins og krabbamein eða berkla; sjúkdóma sem ástæða væri að meðhöndla svo sjúklingarnir næðu bata.

En það er augljóst að hann treystir sér ekki til að skrifa stór verk lengur. Hann segir að tvær síðustu bækur sínar séu stuttar og það sé eitt af því sem mæli með þeim.

Þunglynt fólk hefur ekki þrek til að lesa langar bækur, þess vegna var gott að ég skyldi skrifa um þunglyndi mitt og andlega erfiðleika í stuttu máli. Mér er kunnugt um að margir hafa lesið bókina og hún hefur hjálpað mörgum.

William Styron kvaðst hafa reynt við ljóðlist á yngri árum en hún hentaði honum ekki. Hann sagðist ekki hafa ráðið við hana en hann hafi mikið yndi af ljóðlist. Honum þótti vænt um þegar ég sagði að hann væri ljóðskáld í prósa. Hann vill vera slíkt skáld, það er augljóst.

Styron á heima við Cape Cod í Nýja-Englandi. Hann segir sér líði vel þar. Þangað hefur hann boðið Clinton bandaríkjaforseta og Garcia Marquez rithöfundi og segir að það hafi verið skemmtilegt kvöld. Fyrst hafi þeir ætlað að fara að tala saman um pólitík en farið að leiðast það mjög fljótlega og eftir það hafi umræðurnar snúist um bókmenntir.

Styron segir að bókmenntalegustu forsetar Bandaríkjanna séu Kennedy og Clinton. Hann sé vel lesinn í bókmenntum, til dæmis í hans eigin skáldsögum. Og hann hafi góðan bókmenntalegan smekk en það sé fyrir mestu að þessir tveir forsetar hafi virt skáldskap. Virðingin ráði úrslitum.

Carter hafi haft áhuga á ljóðlist og hafi víst ort sjálfur en hann hafi ekki lesið það. Hann sé hálfgerður fúskari (diletante).

Forystumenn repúblikana hafi aftur á móti aldrei haft áhuga á bókmenntum svo hann viti til. Þeir týnist ævinlega í efnahagsmálum.

Hitt er annað mál að hann er sammála Epstein um að það hljóti að vera röng niðurstaða sem Time komst að í könnun á þessu ári; það er að Bandaríkjamenn lesi ljóð. Það lesi enginn ljóð vestra nema skáldin sjálf og þeir sem ætli sér að vera skáld.

Epstein sagði raunar að þeir héldu flestir að þeir gætu grætt á því! En þeir kæmust að annarri niðurstöðu !

Sáum kvikmynd Hilmars Oddssonar um Jón Leifs, Tár úr steini, á forsýningu síðastliðinn miðvikudag. Ákváðum að gefa út sérútgáfu af Menningarblaðinu, svo sterk áhrif hafði þessi mynd á okkur. Hún er einstaklega vel gerð og áhrifamikil. Ég hef varla séð sorglegri kvikmynd.

Ég man eftir Annie Leifs og Snót, dóttur þeirra, hér á götunum og við Jón urðum miklir mátar.

Ég á bréf frá honum sem hefjast á þessum orðum:

Kæri vinur.

Ég átti samtal við hann þegar hann varð sextugur en þá var hann svo óvinsæll vegna tónlistar sinnar og Stefs að menn fussuðu og sveiuðu í hvert skipti sem nafn hans var nefnt.

En ég vissi betur þótt ungur væri og hann kunni að meta það.

En það er undarleg tilfinning að sjá kvikmynd um efni sem er manni jafn kunnuglegt og ævi Jóns Leifs. Ég fékk mikla samúð með minningu hans og ég er stoltur af því að hafa sem blaðamaður tekið honum vel á sínum tíma og skrifað við hann stórt samtal þegar þjóðfélagið og samtíminn krafðist þess að hann væri einhvers konar hornreka.

En hann gaf líka höggstað á sér.

Hann gat verið ósvífinn; ófyrirleitinn.

Þeir Páll Ísólfsson voru fjandvinir með einhverjum hætti. Einu sinni þegar ég kom heim til Páls vegna Hundaþúfunnar var hann glaður og uppveðraður.

Hvað hefur nú gerzt ? spurði ég.

Nú, Jón lék á als oddi á tónskáldafundi í gærkvöldi.

Hvaða Jón? spurði ég.

Nú, Jón Leifs. Hann faðmaði mig og við sættumst.

Það var gott sagði ég.

Svo liðu nokkrar vikur.

Þá kom ég enn til Páls að venju.

Hann var dapur.

Hvað er nú að ? spurði ég.

Það er Jón, sagði hann.

Jón Leifs ? spurði ég.

Já.

Og hvað gerðist.

Við vorum á tónskáldafundi í gærkvöldi og hann var eins og andskotinn sjálfur. Held ég hafi aldrei séð hann verri!

Vináttan brostin — að minnsta kosti í bili.

Á þessu gekk víst en það var einhver hlýr undirtónn í garð Jóns og mig minnir einnig ég hafi fundið slíkan undirtón hjá Jóni í garð Páls. Þeir voru æskuvinir í Þýzkalandi og það þarf mikið til ef slík bönd bresta með öllu.

Ég þekki þetta sjálfur. Við Sigurður A. Magnússon höfum aldrei getað orðið óvinir, á hverju sem hefur gengið. En vinátta okkar hefur stundum verið eins og upplitað fat.

Eða gatslitið!

Veit ekki hvernig hún er nú, vonandi þolanleg. Ef við hefðum ekki verið æskuvinir og fóstbræður í gamla daga held ég við hefðum ekki þolað hvor annan, þegar tímar liðu. Hann mætti að vísu losa sig við þá fordóma að ég hafi hætt að vera gott skáld þegar leiðir okkar skildu.

Og nú er mér sagt að Guðmundur vinur okkar Steinsson sé kominn með krabbamein; brisið hafi verið tekið úr honum, svo og hálfur maginn. Ömurlegt, en mér er sagt Guðmundur standi sig vel. Hann hefur alltaf haft gott þrek þegar að honum hefur verið vegið. Það var leiðinlegt hvað hann fór illa út úr síðasta leikritinu í fyrra; eða var það í vor? Tíminn er svo fljótur að líða.

Mér er sagt það sé varla hægt að lifa brislaus.

Við áttum góða daga saman, við SAM og Guðmundur Steinsson þegar við vorum að hefja feril okkar í gamla daga. En við höfum valið ólíkar götur.

Samt finn ég þetta gamla andrúm,þegar við hittumst.

Páll og Jón Leifs voru fulltrúar ólíkra viðhorfa. Annar var merkilegt tónskáld og lagði grundvöllinn að tónlist þessarar aldar á Íslandi; orgelleikari á heimsvísu.

Hinn óvenjulegt tónskáld og frumlegt , einfari, og nú er honum líkt við Sibelius og Béla Bártok.

Ég er viss um að það á við rök að styðjast.

Báðir þessir menn voru einhvers konar séní. Þeir voru vinir og þoldu ekki hvor annan. En kannski áttu þeir hvor öðrum meira að þakka en þeir sjálfir vissu. Þeir voru andstæður en einnig samtal tímans án kröfu um niðurstöðu.

Slíkir menn kalla ekki á niðurstöður, heldur nýjar spurningar.

26. september — þriðjudagur

Álút

ganga fuglslaus trén

inní sönglaust

haustið.

Eða:

Álút

ganga trén

inní langferðabíl.

Það haustar.

Þýðingin á Kristínu Lavranzdóttur eftir Sigrid Undset er stórvel gerð hjá Helga Hjörvar og Arnheiði Sigurðardóttur. Norska Undsets er miklu nær íslenzku en flest þau afbrigði af nýnorsku sem ég hef séð.

Ótrúlegustu orð eru hin sömu. Vitlaus er alls staðar, það er eins í norsku og íslenzku og witless á ensku.

Fallegir kaflar í bókinni:

Hið líkamlega lífið var án alls undanfæris gagnsjúkt af ófriði; í þeim heimi þar sem manneskjur blönduðust saman, öfluðu nýrra ættliða, létu dragast hver að annarri í holdlegri ást og elskuðu sitt eigið hold, þar kom hjartasorg og brostnar vonir, svo vissulega sem hrímfall um haust; lífið sundurskilur vinina að lokum, svo víst sem veturinn sundurskilur laufið og tréð.

Og:

Samtímis sá hún inn í sjálfa sig, í myndum, eins og manni kann að finnast í sterkum sótthita, að hann sjái dæmisögur inni í sjálfum sér — inni í henni var sem eyðihús, gersamlega hljótt, dimmt og þefur af auðninni; sýnirnar skiptust á — sjávarströnd, fjara, þar sem hafið hefur dregið sig langt frá landi, hvítir sléttir steinar, haugar af svörtu dauðu þangi, hvers konar rekald.

Ástandið í landinu fer bráðum að minna á veturinn 1978 vegna óánægju launþega með kjaradómshækkanir til æðstu embættismanna ríkisins.

Held ekki þingmenn geri sér grein fyrir þessari gífurlegu óánægju, þessari ólgu við grasrótina, ekki frekar en þá.

Förum ekki með Morgunblaðið í neinn slag eins og 1978. Höfum skrifað af sanngirni, aðrir sjá svo um sitt.

Hitti Þorkel Zakaríasson um daginn, þegar við fórum í Hrútu 7.-19. sl. Hann bjargaði okkur Steingrími þegar við vorum nærri dauðir í tjaldinu á Vatnsskarði af reykeitrun.

Fékk alla söguna hjá honum. Punkta hana kannski niður síðar, rétta.

29. september

( Flutti afmæliserindi á Hótel borg fyrir Huldu Valtýsdóttur,birrt í Gríma gamals húss,1998 )

1. október

Í Morgunblaðinu í dag birtist ljóð eftir mig sem ég orti fyrir norðan í sumar, þegar við Hanna fórum í Ásbyrgi og að Dettifossi, þá sáum við Herðubreið heiða og tignarlega þegar við stóðum vestan ár. Yndislegt veður, einnig í Hljóðaklettum, þar sem ég skoðaði blómin sem koma við sögu í kvæðinu. Árni Jörgensen hannaði kvæðið inní myndir af Herðubreið, mér finnst opnan falleg — og RAX stendur sig vel að venju. Held Gunnlaugur Scheving hefði orðið hrifinn af svona veizlu.

Skemmtileg tilviljun að kvæðið skyldi birtast í dag, því nú, 1. okt., eru 46 ár frá því við Hanna hittumst fyrsta sinn og umhverfi kvæðisins og myndanna er hennar umhverfi og hún er drottning kvæðisins, ásamt Herðubreið.

Fórum í Neskirkju í dag og vorum við innsetningu nýs aðstoðarprests, sr. Halldórs Reynissonar. Hann flutti ágæta ræðu, gagnrýndi m.a. jarðbundna efnishyggju marxismans og framfarahyggjuna sem brást. Hann var forsetaritari á sínum tíma og frú Vigdís var viðstödd athöfnina. Við Hanna sátum fyrir aftan hana, hún sneri sér við, leit á mig og sagði:

“Mikið var skemmtilegt að hlusta á ræðuna þína í afmæli Huldu”, bætti svo við:

“Þú ert skáld af guðs náð!”

Ég fór allur hjá mér, en þá hófst athöfnin og ég náði mér!!! Hún hefur áður vikið að mér fallegum orðum, t.a.m. í Hallgrímskirkju skömmu eftir að Árstíðaferð um innri mann kom út.

Hvað á maður að segja við slíku?

Sem minnst!

En svona eiga forsetar að vera!! Og augljóst að hún á að halda áfram í embætti!!

Þegar við Kristján Karlsson hittumst í Nausti um daginn gaf hann grænt ljós á kvæðin sem ég hafði sent honum, talaði um glæsilegan skammt, enda hef ég ort mikið undanfarið.

Töluðum m.a. um þessi fínu skáld sem voru norður í Þingeyjarsýslu á sínum tíma. Hann telur að ljóðlistin þar hafi orðið fyrir áhrifum af auðugu músíklífi nyrðra á síðustu öld, en þar var þjóðleg músík í hávegum höfð. Þar voru smíðuð hin ágætustu hljóðfæri, langspil og fiðlur sem spilarinn hélt í olnbogabótinni í staðinn fyrir undir hökunni. Sagði Garðar í Hólum í Reykjadal vissi allt um þessi hljóðfæri og þarf ég að láta athuga það.

Bjarni Þorsteinsson segir í þjóðlagabók sinni að hann hafi sótt mikinn meirihluta laganna á þessar slóðir.

Norsk ljóðlist hefur líklega einnig orðið fyrir svipuðum músíkáhrifum á sínum tíma. Þessi áhrif bárust svo með norskum 19. aldar bókmenntum til Íslands.

Skáldin í Þingeyjarsýslu eiga öll þennan músíkalska streng, einnig Guðmundur Friðjónsson sem er “músíkalskt skáld eins og ég sagði við Sigfús Bjartmarsson sonarson hans”, sagði Kristján við mig.

Mér er sagt að Björn Bjarnason hafi í útvarpssamtali í dag verið spurður, hvort hann taki undir með Davíð Oddssyni þegar hann fullyrti að Morgunblaðið styddi Alþýðuflokkinn og Björn hafi svarað því játandi.

Og hann sem vann á Morgunblaðinu!

Undarlegt þetta mannlíf.

Jón konferenzráð Eiríksson hafði áhyggjur af Íslandi og dembdi sér í dönsku síkin.Hann var víst ósköp þunglyndur og ég skil hann vel!

Frásögn Þorkels Zakaríassonar um það þegar þeir félagar björguðu lífi okkar Steingríms Hermannssonar í vegavinnutjaldinu á Stóra-Vatnsskarði í ágúst 1945, en tjöldin stóðu þá rétt fyrir sunnan Valagerði:

Það var ágætis veður og við Sigurþór Helgason á M-44, blárri vörubifreið, árgerð ‘42, vorum að koma með síldarmjöl sem við sóttum á Sauðárkrók og fluttum á bæina. Það var aðfaranótt sunnudags, klukkan hefur verið að ganga fjögur og við seinir fyrir en samt hafði ég augun hjá mér. Við vorum á leið í Vatnshlíð með fóðurbæti fyrir Eirík bónda þar og Héðin son hans, en í hverjum sekk voru 200 pund af síldarmjöli.

Sigurþór ók fyrir Vegagerðina, en tók þessa flutninga að sér í ígripum.

Ástæðan til þess að við vorum svona seint á ferð var sú, að útskipun gekk eitthvað slaklega, en ég man ekki af hverju.

Þegar við ökum fram hjá tjöldunum, segi ég við Sigurþór,

Stoppaðu hérna, það er eitthvað að í einu tjaldinu.

Ég sá að tjaldið var svart og eitthvert dimmt ljós í því og gat ekki verið eðlilegt á þessum tíma nætur. Við stönzuðum og rukum að tjaldinu og náðum ykkur út.

Það var nokkuð algengt að þessar tveggjakveikja gasvélar ósuðu og því sagði Jóhann Hjörleifsson verkstjóri alltaf,

Fyrsta boðorðið er: Þið megið aldrei láta lifa á gasvél hjá ykkur yfir nóttina.

Þessar vélar voru vangæfar og gátu verið stórhættulegar. Ég geri ráð fyrir að vélin hafi ósað í 10-15 mínútur og reikna ekki með að þið hefðuð kembt hærurnar ef við hefðum farið þarna um hálftíma fyrr, eða hálftíma síðar. En það var erfiðara að vekja þig en Steingrím.

Þorkell segir að það hafi ekki mátt segja Jóhanni frá þessu, hann hefði tekið það svo nærri sér — og því hafi hann ekkert vitað, en Steingrímur fullyrðir að hann hafi komizt að því og lagzt í rúmið, hann hafi tekið ábyrgðina á okkur svo alvarlega, en ég veit ekki hvort er réttara, enda var maður ekki að súta slíkt á þessum árum, hvorki líf eða dauða.

Hef ekki lesið æviminningar Gorbatsjovs, en í Morgunblaðinu í dag er frásögn hans af Reykjavíkurfundi þeirra Reagans. Hann segir að fundurinn hafi markað tímamót, en það tók erlenda fréttamenn langan tíma að átta sig á því. Um það skrifaði ég Reykjavíkurbréf frá Melbourne, Florida, en þar vorum við Hanna og Ingó frá des. ‘86-marz ‘87.

Gorbatsjov hélt blaðamannafund í Háskólabíói að toppfundinum loknum og var ég þar viðstaddur. Hann talar í ævisögu sinni um “risavaxinn sal blaðamannamiðstöðvarinnar” og segir að þar hafi verið þúsund blaðamenn.

Hann segist hafa átt í þó nokkru sálarstríði á leiðinni á blaðamannafundinn, því ákveðið hafi verið í Moskvu áður en hann hélt út hingað að Bandaríkjamenn yrðu afhjúpaðir, ef ekki næðist samkomulag, og fjandsamleg afstaða þeirra til mannkynsins.

Hann velti þessu fyrir sér á leiðinni í Háskólabíó, segist ekki hafa getað leitt það hjá sér að þeir Reagan hafi náð saman, þrátt fyrir allt, bæði hvað varðaði fækkun langdrægra og meðaldrægra flauga.

Samvizkan var því andvíg að nota þetta áróðursbragð, en hann hafði ekki gert upp hug sinn þegar hann gekk inní sal Háskólabíós.

En þá réðu viðbrögð blaðamannanna úrslitum:

“Er ég kom inní salinn risu blaðamennirnir úr sætum sínum. Þetta hafði mikil tilfinningaleg áhrif á mig. Ég var hrærður. Í andlitum þessa fólks endurspeglaðist allt mannkynið er beið ákvörðunar um örlög sín. Á þessu augnabliki gerði ég mér grein fyrir hvað hafði gerst í Reykjavík og hvernig við yrðum að halda á málum”.

Af þessu má sjá að viðbrögð blaðamanna geta stundum haft örlagarík áhrif og þeir virðast þessu sinni hafa ráðið úrslitum um það, að forseti Sovétríkjanna hélt ekki fast við gamaldags herbragð Kremlverja, heldur hélt hann öllum dyrum opnum svo að unnt yrði að ná samkomulagi í framhaldsviðræðum. Upphafið að hruni Sovétríkjanna mætti þannig rekja til Háskólabíós og ætti því að varðveita það eins og hverjar aðrar sögufrægar minjar, ekki síður en Höfða; eða ætti ég heldur að segja að þar sé upphafið að endalokum kaldastríðsins.

Enginn veit hvað gerzt hefði ef fréttamennirnir hefðu púað á forsetann og sýnt honum dónaskap, þá hefði hann líklega færzt allur í aukana eins og Krúsjeff í París sællar minningar, en á þeim fundi var ég líka eins og ég hef skrifað um.

Þannig hefur maður upplifað kalda stríðið frá a-z, unz hringnum var lokað í Reykjavík.

Lýsing Gorbatsjovs kemur mér ekki á óvart, ég þykist hafa haft þetta á tilfinningunni þarna í Háskólabíói. Það leyndi sér ekki að forsetinn var hrærður. Og hann talaði þannig, ekki með neinum æsingi, heldur með yfirveguðum áherzluþunga sem hafði áreiðanlega mikil áhrif á okkur öll sem þarna vorum viðstödd. Blaðamennirnir vissu, að þeir voru þátttakendur í heimssögulegum atburðum — og margir okkar að við værum að lifa tímamót. Það þurfti engan spámann til að fá það á tilfinninguna.

Hitt vissi ég ekki, enda sat ég aftarlega í salnum, að Raisa, kona Gorbatsjovs, sem þar var einnig stödd horfði tárvotum augum á mann sinn meðan hann lýsti óförum Reykjavíkurfundarins sem sigri.

Hún skildi hvað um var að vera og var hrærð.

“Við tókum þarna tillit til þess andrúmslofts er var að finna í heiminum og björguðum þar með samningaviðræðunum. Við opnuðum nýjar víddir og sýndum fram á að á eftir Reykjavík myndi frekari árangur nást”.

Þetta held ég einnig allir hafi haft á tilfinningunni sem þarna sátu, þótt þeir hafi kannski ekki skilið til fulls hvað forseti Sovétríkjanna var að fara.

Ég brann í skinninu að spyrja forsetann að því hvort erfitt hefði verið að koma til fundar í Reykjavík vegna Keflavíkurvallar og aðildar Íslands að NATO og taldi að neitandi yfirlýsing hans jafngilti því að Rússar litu engan veginn á varnarstöðina hér sem árásarstöð. Það gæti haft mikil, jákvæð sálræn áhrif. Rússar gerðu þannig engar kröfur til að við værum hlutlausir.

Ég einbeitti mér, þótt ég efaðist um að einn aumur íslenzkur blaðamaður kæmist að fyrir heimspressunni og notaði sterkan hugsanaflutning til að vekja athygli forsetans á mér, þar sem ég sat aftarlega í salnum með upprétta hönd.

Þá leit hann allt í einu til mín, benti á mig og sagði,

Næsta spurning!

Ég kom erindi mínu þannig til skila þrátt fyrir ofurefli heimspressunnar.

Forsetinn svaraði neitandi og skýrði svar sitt nokkrum orðum. Svarið var eins gott og ég gat frekast hugsað mér — og mér fannst við vera leystir úr álögum. Síðan hefur mér alltaf verið harla hlýtt til Míkhaíls Gorbatsjovs.

Ég notaði svipuð huglesningartengsl þegar ég komst að og gat spurt Kissinger á fjölmennum blaðamannafundi hér heima um afstöðu Bandaríkjastjórnar til þorskastríðsins, en þá svaraði hann okkur í hag, án þess móðga Breta.

En þessum körlum er ekki að treysta. Löngu seinna tók Kissinger það sem dæmi í ævisögu sinni hvernig smáþjóðir gátu kúgað stórveldi í kalda stríðinu, að Íslendingar hefðu notað dvöl bandaríska varnarliðsins í Keflavík og aðildina að Atlantshafsbandalaginu til að setja kananum stólinn fyrir dyrnar og kúga stórveldi.

Það kom svo sannarlega ekki fram á fyrrnefndum blaðamannafundi með honum hér í Reykjavík, enda segja stjórnmálamenn sjaldnast það sem þeir hugsa, heldur einungis það sem þeir eiga að hugsa.

Ég tel þetta dæmi í ævisögu Kissingers merki um ákveðna tegund af lítilmennsku og ber ekki til hans neinar sérstakar tilfinningar, ekki frekar en til Edwards Kennedys sem ég spurði um varnarmál Íslands í samtali í Bonn, en hann bað mig um að endurtaka spurninguna á blaðamannafundi svo að hann fengi pressu út á svarið víðar en á Íslandi!

Kannski fékk hann það, ég veit það ekki.

Þegar ég hugsa um fyrrnefnt dæmi í ævisögu Kissingers, spyr ég sjálfan mig, hvers vegna smáþjóð megi ekki nota aðstöðu sína, rétt eins og stórþjóð? Ég sé ekkert athugavert við það, nema síður sé!

Ég hef lýst því í Ólafs sögu, hvernig MacMillan rangtúlkar fund þeirra Ólafs Thors á Keflavíkurflugvelli í miðju þorskastríði, enda var ég á blaðamannafundi hans og ræddi við hann að fundi þeirra loknum eins og skýrt er frá í Morgunblaðinu á sínum tíma.

Þessir karlar eru ekkert merkilegri en annað fólk í raun og veru, þeir misskilja, snúa út úr og skrifa söguna eftir eigin höfði, en ég held Gorbatsjov segi satt og rétt frá í ævisögu sinni, að minnsta kosti upplifði ég blaðamannafund hans með svipuðum hætti og hann lýsir sjálfur.

Brandt kanslari þýzka sambandslýðveldisins var merkur leiðtogi og mér er ógleymanlegt þegar ég talaði við hann í Bonn á sínum tíma og lýst er í Morgunblaðinu. Hann talaði út úr hjartanu og það mátti treysta orðum hans eins og síðar kom í ljós. Hann sagðist mundu leysa fiskveiðideiluna við Íslendinga — og það gerði hann.

Scheel sem þá var utanríkisráðherra og síðar forseti landsins sagðist aldrei borða fisk og hafði engan áhuga á deilunni. Ef hann hefði mátt ráða, stæðum við enn í þorskastríði við Þjóðverja!!

En Scheel var víst ágætur kórsöngvari, hefði líklega plummað sig vel í grátkórnum!!

Herðubreið

Dögg undir morgun

og ég á land að vini

lyftist til himins

í fjalldrapa-

grænni dögun

við hraungrjót og beitilyng

land mitt

lyftist til himins

þar sem spor okkar

geymast

við næringarríkt sortu-

lyng

og klettarnir kallast á

yfir fljótið en lágvaxnar

birkihríslur draga að sér

fugla og svalkalda

skugga

sem leita sér skjóls

eins og þrestir,

í gamla minningu

sem eldist ekki en er síung

eins og furutréð

leitar hugur minn, ég sé

dögggrænt landið

lyftast til himins

úr þokunni

sem er einmanaleg, útlínulaus

og hverfur með ilmandi

blóðbergi

inní minningu um okkur tvö

og landið

dögggrænt undir fossgráum

úða

og lyftir sér til himins

á kvöldbláum vængjum

Herðubreiðar.

2. október – mánudagur

Útópían gamla í draumsýn byltingarmanna, hvort sem þeir eru fasistar eða kommúnistar: líf án leyndarmála, þar sem opinbert líf og einkalíf er eitt og hið sama. Súrrealíski draumurinn sem André Breton hafði mætur á: glerhúsið, hús án gluggatjalda þar sem maðurinn býr í allra augsýn.

Ó, fegurð gagnsæisins! Hið eina sem hefur látið þessa draumsýn rætast: þjóðfélag sem lögreglan hefur fullkomið eftirlit með.

Ég skrifaði um þetta í Óbærilegum léttleika tilverunnar: Jan Prochazka, sem var atkvæðamikill í Vorinu í Prag, var undir ströngu eftirliti eftir innrás Rússa árið 1968. Á þessum tíma átti hann allmikil samskipti við annan merkan stjórnarandstæðing, prófessorinn Vaclav Cerny, sem honum hugnaðist að sitja með að drykkju og spjalli. Öll samtöl þeirra voru tekin upp með leynd og mér býður í grun að vinirnir tveir hafi vitað það og kært sig kollótta.

Dag einn árið 1970 eða 1971 tók lögreglan upp á því að útvarpa samtölunum reglulega til að koma óorði á Prochazka. Í augum lögreglunnar var þetta djarft tiltæki sem ætti sér engin fordæmi. Og viti menn, það tókst næstum því; þetta kom strax óorði á Prochazka: vegna þess að menn láta svo margt flakka undir fjögur augu, segja ýmislegt misjafnt um vini sína, eru grófir í tali, hegða sér kjánalega, segja klúra brandara, endurtaka sig, koma viðmælandanum til að hlæja með því að ganga fram af honum með hneykslanlegu tali, brydda á villutrúarhugmyndum sem þeir myndu aldrei gangast við opinberlega og svo framvegis.

(Úr greininni Hérna ertu ekki heima hjá þér, kæri félagi eftir Milan Kundera, The New York Review, 21. sept. ‘95).

Mig dreymdi í nótt að Magnús Kjartansson væri orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins, leitaði að honum í draumnum og ætlaði að tala við hann, en fann hann ekki!

Undir lokin skrifaði Magnús helzt í Morgunblaðið, sagði mér að honum væri ekki vel tekið af þeim sem þá stjórnuðu Þjóðviljanum.

En vegir draumanna eru órannsakanlegir.

3. október – kvöldið

Vigdís forseti tilkynnti við þingsetningu að hún gæfi ekki oftar kost á sér. Það kom mér á óvart þótt Ólafur Ragnarsson hefði sagt mér fyrir nokkru að hún færi ekki oftar fram.

Davíð Oddsson var spurður í kvöldfréttum hvort hann gæfi kost á sér, en kom sér undan að svara. Það kom mér ekki á óvart.

Vigdís fær góðan leiðara í Morgunblaðinu á morgun, þar er fín setning um arfleifð okkar: Landið ber rótunum vitni. Vigdís verður einnig á forsíðu og millisíðu.

Blaðamannafundur hennar á Bessastöðum í dag var harla athyglisverður, enda talaði hún út úr pokahorninu og gagnrýndi þá sem höfðu veitzt að henni meðan á Kínaförinni stóð.

Hún er sár.

Og hún er grimm því hún sagði að allt yrði þetta tekið fyrir þótt síðar yrði.

Það var uppörvandi að heyra gamla skólasystur sína og jafnöldru segja:

Það er enn mikið eftir af sumrinu í mér

og:

Ég er á góðum járnum! Já, uppörvandi! (og skrýtið)

En nú fara í hönd órólegir tímar. Forsetakosningar eru það leiðinlegasta sem ég get hugsað mér. Vona þær geti þó farið skaplega fram í Morgunblaðinu.

Hallgrímur Geirsson sagði okkur í dag að Björn hefði sagt í útvarpssamtalinu að hann hefði á þeim tíma verið sammála Davíð Oddssyni, en jafnframt að hann hefði sjálfur á sínum tíma tekið þátt í að efla sjálfstæði blaðsins gagnvart Sjálfstæðisflokknum — og er það rétt.

Þótti þetta betri tíðindi, sem sagt: Morgunblaðið er ekki lengur kratablað, enda eru kratar sjaldnast í fréttum nú orðið!

Hallgrímur Geirsson hóf störf sín á Morgunblaðinu í dag og við Styrmir sátum með þeim Haraldi á skemmtilegu spjalli í morgun.

Samstarf okkar Haralds hefur ávallt verið gott og vináttusamlegt og vona ég að svo verði einnig nú þegar Hallgrímur er tekinn við framkvæmdastjórastarfinu. —

7. október

Nóbelsskáld í umhverfi

íslenzkrar menningar

Írska ljóðskáldið Seamus Heaney, sem í fyrradag hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels, er hertur í eldi fornrar engilsaxneskrar arfleifðar þar sem hann kynntist skáldskap með kenningum, segir Matthías Johannessen, sem hér lýsir skáldinu og kynnum sínum af því.

Það er merkilegt – og þó kannski ekkert merkilegt í sjálfu sér – hvað íslenzkur sagnaheimur hefur mikið aðdráttarafl. Við vitum hvernig skáld einsog Morris, Auden, Pound og Borges sóttu í hann. Nú um stundir eru tvö enskumælandi skáld hvað frægust, lárviðarskáld brezku krúnunnar, Ted Hughes, höfundur Crow og Wodwo og Seamus Heaney sem hingað kom á ljóðlistarhátíðina sællar minningar og nú hefur hlotið nóbelsverðlaun.

Bæði eiga þessi skáld það sameiginlegt að hafa sótt yrkisefni í sögu okkar og arfleifð.

Ted Hughes skírskotar í íslenzkan sagnaheim í kvæði sínu Thistles, smákvæði um blóð og átök sem hann les á snældu frá Caedmon og heitir: Selections from Crow and Wodwo. Þar talar hann um rotnaðan víking í íslenzku frosti og þá hefnd og það blóð sem að baki liggur.

Það er reyndar ekkert undarlegt þótt víkingar séu Hughes áleitið umhugsunarefni. Hann er ættaður úr næsta nágrenni Jórvíkur og þar hefur hann alið aldur sinn að mestu. Í Jórvík eru áhrifamestu minjar um daglegt líf víkinga sem ég hef séð og andrúmið annað en í kringum víkingaskipin sem eru til sýnis á Norðurlöndum og bera okkur annan andblæ en amstrið úr daglegu lífi. Þar eru að vísu einnig kaupskip, en þó einkum orustuskip með stríðsaxaandrúm í kringum sig.

Mannvistaleifarnar í Jórvík eru fremur til vitnis um menningarlega hefð en hefndir; lífsbaráttuna eins og hún hefur alltaf verið; samfélag sem er að mörgu leyti ekkert ólíkt því sem við þekkjum úr daglegu lífi okkar.

En samfélag hefndanna er annars staðar. Þær eru hreyfiafl bókanna; sagnanna.

Skáldskaparins.

Í ljóðasafni Heaneys The Haw Lantern er athyglisvert kvæði um Ísland en annað kvæði eftir hann með skírskotun í sagnaheim okkar er þekktara enda hefur hann einnig lesið það upp og margir hafa heyrt það á snældu frá Faber Poetry Cassette. Það heitir Funeral Rites og er í þremur þáttum. Í hinum síðasta kemur Gunnar á Hlíðarenda við sögu þar sem hann liggur dauður í haug sínum án þess hans hafi verið hefnt, syngjandi vísubrot um heiður og sæmd undir þessu gamla tungli sem fylgir einlægt hetjum á heljarslóð.

Enn ein eftirminnileg skírskotun í fornar sögur okkar, nú ofin inní bernskuminningar merkilegs nútímaskálds frá Írlandi.

Gunnar má vel við una ef hann hefur þá einhvern tíma verið til annars staðar en í Njálu.

En hún er Heaney ofarlega í huga hvað sem öðru líður, enda er hann hertur í eldi fornrar engilsaxneskrar arfleifðar þar sem hann kynntist skáldskap með kenningum. Hann segir í formála fyrir kvæðinu að stutt sé úr þessum sagnaheimi yfir til Víkinga-Íslands einsog hann tekur til orða í kynningu sinni. Hann segir að Funeral Rites ljúki með mynd úr Njáls sögu þar sem Gunnar liggur ekki kyrr eins og komizt er að orði um drauga í fornum sögum, t.a.m. Eyrbyggju og Grettlu, en ástæðan er sú að hans hefur ekki enn verið hefnt að siðalögmálum og ættarkröfum sögualdar.

Þarna liggur hann, segir skáldið, baðaður ljóma einsog í draumi um möguleika á fyrirgefningu í þessum hefndarfulla heimi. Það er athyglisverð yfirlýsing, full vonar og líklega engin tilviljun að írskt skáld með rætur í engilsaxneskri menningarhefð skuli einmitt leita þessa möguleika, þessarar vonar um hefndarlaust þjóðfélag á heldur vonlausum tímum. Og þá stöðvast hann einsog ósjálfrátt en þó meðvitað við Njáls sögu sem lýkur með líknsamri kyrrð lífs og vonar undir blóðskuggum mikils harmleiks.

Og Kári heitir á hurðir Flosa eftir skipbrotið.

Frábært.

Kveikja kvæðisins er návist dauðans í æsku skáldsins. Hann man eftir líkvökum þegar menn vöktu yfir hinum dauðu og minnir á sama sið hér heima fyrr á tíð. Og skáldið minnist þess ekki sízt þegar aftur var komið heim úr jarðarförum og hins látna minnzt með eins konar erfi.

Allt þekkjum við þetta úr okkar eigin sögu.

En skáldið segir að manndrápin og jarðarfarirnar í Belfast hafi leitt hugann að hefndarsamfélagi sögualdar á Íslandi.

Af nærgætni við skáldið hef ég ekki reynt að snara þessu minnisstæða og brýna kvæði á þá tungu sem Gunnar hefði skilið þarna í hólnum sínum. En sú milda hlédrægni hetjunnar í trylltu samfélagi sem einkenndi umhverfi hans öðru fremur mætti vel fylgja hugsun okkar inní nýtt þjóðfélag, ekki síður en skáldlegar myndir Heaneys, sem bregða birtu á íslenzka hetju sem er ekki hlægileg í umhverfi sögu sinnar, heldur harmsöguleg.

Eins og þeir atburðir sem við okkur blasa nú á dögum um heim allan.

Í The Haw Lantern er kvæði sem ber yfirskriftina A Postcard from Iceland, eða Póstkort frá Íslandi. Ég stenzt ekki freistinguna að ráðast á Póstkortið, þótt kvæðið sé nánast óþýðanlegt, ekki sízt vegna þess skáldið notar lukewarm til að minna á að luk sé forn-íslenzkt orð (þ.e. lúka). En kvæðið fjallar m.a. um gljáandi leir og ef illa tekst til með þessa lauslegu þýðingu verður hún a.m.k. í nokkru samræmi við efni kvæðisins!

En það er allavega gaman að sjá hvernig heitt vatn við lófa, í hvera­ sprænu við Krísuvík verður útlendu skáldi eftirminnileg reynsla og fylgir honum alla leið inní ljóðabók sem skiptir máli, þar sem talað er um heimsmenningu einsog bændur um tíðarfar.

Póstkort frá Íslandi

Þegar ég dýfði hendi til að finna strauminn

skammt frá hvernum, heyrði ég ekkert

nema muldrandi ólgu í aur og gljáa.

Að baki stóð leiðsögumaður og sagði,

Lukewarm. Þú vilt kannski vita

að lúka er íslenzkt fornyrði um hönd.

Og kannski einnig það (sem þú veizt nú þegar)

hve venjulegur og mjúkur þessi þrýstingur er

þegar lófi finnur innri lófa vatnsins.

The Haw Lantern, 1987.

Það var gaman að hitta Seamus Heaney á ljóðaþinginu hér heima. Eftirminnilegt að heyra hann fara með lítið kvæði Kristjáns Karlssonar í þýðingu sinni og tala við hann um eina skáldið sem ég reyndi að læra af ungur, Dylan Thomas. Um hann skrifaði ég fyrstu greinina á íslenzku, áhugasamur blaðamaður og nemandi í bókmenntum og íslenzkum fræðum.

Þá var allt nýtt undir sólinni. En nú vex maður óðum inní gervi Prédikarans.

Seamus Heaney segir að litadýrðin í Krísuvík og djúp kyrrðin hafi orðið kveikjan að póstkortinu frá Íslandi sem hann "færði konu sinni á Írlandi að Íslandsheimsókn lokinni", einsog hann komst að orði við Agnesi Bragadóttur þegar hún hitti hann í Cambridge, þar sem hann kennir bókmenntir við Harvard.

Hann hefur semsagt ort kvæðið seinnipart sumars 1985.

Þá segir hann einnig að heitið á The Haw Lantern, sé sótt í harðgeran berjakjarna, eða þyrna, og sé dauft ljósið í ætt við skammdegisbirtuna á Íslandi, þegar hún er hvað veikust. Titillinn fjallar þannig um vetrarber í veikri glætu.

En þó er Seamus Heaney fyrst og síðast með hugann heima á Írlandi.

"Ég gæti aldrei orðið neitt annað en Íri og ég get hvergi skrifað nema heima á Írlandi. Heima liggja rætur mínar og þær verða ekki rifnar upp. Ég fæddist og ólst upp í afskekktri byggð á Norður-Írlandi, nánar tiltekið í Derry-héraði, þar sem helzta syndin var að segja frá hlutunum einsog þeir voru. Og það er kannski þess vegna sem ég heillaðist svo af þögninni og því ósagða á Íslandi".

Og hann minnir á gamalkunna fyndni Oscars Wilde sem hann notaði óspart til að hlífa eigin kviku og sigra í samkeppni um athygli, Það er enginn leiðinlegri en sá sem er spurður hvernig hann hafi það og byrjar að segja frá því hvernig hann hefur það."

(Grein birt í Morgunblaðinu 7. október)

7. október

Úr fréttatengdu

umhverfi

1.

Ein

við grafhýsi

dauðra minninga;

uggi

á ljósfælnu stjörnuhafi;

myrkur

við titrandi glerhimin;

ein

við skugga af flöktandi

báli;

ein

undir smáljósakransi

og fölnandi

stjörnuljósum.

(Áramót)

2.

Í nótt dreymdi mig

að ég væri að klöngrast

yfir skriðjökla

Vatnajökuls

maður gerir svo margt

í draumi

sem ferst fyrir í vöku.

3.

Land mitt

gufuskip

kolmórautt spýtist

jökulfljótið

úr katlinum

Skaftárhlaup

er ketilhreinsun

Þorkels vélstjóra

annars yrði sprenging

um borð

í skemmtiferðaskipinu

Ísland.

4.

Mig dreymdi að ég væri

lítill fugl

og naut frelsis vængjanna

vaknaði

og varð undrandi

að hitta sjálfan mig fyrir,

hvernig get ég þá vitað

hvort ég er maður

sem dreymdi fugl

eða fugl sem dreymdi

að hann væri maður

(svo ég vitni óbeint

í Chuang tzu

lærisvein

Lao tze)

egyptar dýrkuðu

guð

í líki spóans

og óttuðust ekki

dauðann

en afneituðu honum,

hindúar sögðu

að máninn risi

í huga mannsins

og sólin af auga hans

guðirnir af vörum hans

og vindurinn

af hægum andardrætti.

Mig dreymir guð

hægan andvara í hlýjum vængjum

fuglsins.

5.

Lífið er afstætt

lífið er aflamark

og framsal kvóta

lífið er sóknarmark

og slagsmál við veðurguðina

lífið er esb

lífið er ees

lífið er árbæjarsafn

norræns samstarfs,

grípum gæsina

því nú er smuga.

6.

Miðgarðsormur

veltir sér.

Og jörðin skelfur.

Við sem erum

í paradís

verðum að búa

við þetta helvíti,

segir borgarstjórinn

í Los Angeles.

7.

Síberísk þögn

fylgir nýjum

degi

rís hann

yfir ríki loðfílanna.

8.

Lýsnar

verða kynþroska

tveggja vikna

segir í erlendri frétt.

Kynlíf er víst í tízku

um þessar mundir

segir hann.

Það er ekki skrítið

þótt þeim fjölgi

segir hún.

Og heldur áfram að lesa

Nýtt mannlíf.

9.

Í nótt dreymdi mig

að dóttir mín hefði villzt

á afréttum

Auðkúluheiðar

en þá mundi ég eftir

leitarkofanum.

Auk þess á ég

enga dóttur.

10.

Kínverskir kommúnistar

hafa selt nýru

úr dauðum föngum

til Vesturlanda

segir í heimildamynd

andófsmannsins

Wus

hjartalausir

hafa þeir nú

fengið hann til að játa

að þetta voru

gúlagnýru

úr heiladauðum föngum

semsagt

alsaklaust markaðslögmálið.

11.

Helgi Hálfdanarson

vill breyta Íslandi

í Kýpur

sameina Vigdísi og herra Ólaf

Skúlason

í einum Makaríosi

hann þjappaði Grikkjum

saman gegn Tyrkjum

sem voru upphaflega

Grikkir

eins og goðsögnin um Troju

ber með sér

en hver getur þá sameinað

Íslendinga sem eitt sinn voru

Norðmenn

- gegn Norðmönnum?

12.

Ung kona

á göngu

ófrísk gengur hún

eins og stolt antílopa

með barn sitt undir belti

hvort er hún með dreng

eða stúlku?

spyrja hermennirnir

í Líberíu

hver annan

og veðja

dreng eða stúlku?

spyrja þeir hver annan

og rista hana á kviðinn

eins og hún sé úlfurinn

í Rauðhettu.

13.

Förum gætilega

að höfrungunum

goðsögnin segir

þeir séu sjómenn

sem stukku fyrir borð

af ótta við Díonýsos.

Sýnum þeim hlýtt

viðmót, þeir eru

gæludýr í fiskabúri

guðanna.

14.

Brezki Íhaldsflokkurinn

er kominn

að fótum fram,

það þyrfti

að gefa honum blóð

segir stjórnmálafræðingurinn

það þyrfti

að setja hann í öndunarvél

segir kjósandinn.

En Karl Bretaprins

skemmtir sér konunglega

á Witless Hospital.

15.

Verzlunarmannahelgin

er samfaranótt

íslenzku þjóðarinnar

segir kvöldblaðið

Evening Standard

um Uxa-hátíðina,

þess vegna þyrpast

Bretar

til Íslands.

Þeir eiga annað

erindi

út hingað en 10. maí

1940.

Þá áttu þeir stefnumót

við dauðann.

16.

Það er talað um jafnrétti

kynjanna

hvað er það?

Spyrjið konurnar

í Algeirsborg,

hana Fatímu Ghodbane

fimmtán ára

þegar þeir rændu henni

slæðulausri

og drápu með hnífi

spyrjið Jamínu Amrani

nítján ára

þegar þeir myrtu hana

slæðulausa

og langt gengna með barn sitt

spyrjið hana Amel Guedjali

nítján ára

og Karímu systur hennar

átján ára

skotnar til bana

í viðurvist foreldra sinna

og yngri systur

slæðulausar gengu þær

inní fögnuð Allah.

17.

Hirðskáld Músavina

á ég það markmið

að ganga norður Kjöl og síðan

í lúpínuvinafélagið

með allsherjarendur-

hæfingu öræfanna

fyrir augum,

eða

hversvegna höfum við ekki

þakið Hofsjökul

hvellbláum útsaumi

lúpínunnar

og

hversvegna höfum við ekki

sáð þessum bláu augum

dagsstjörnunnar

í vænghvítar breiður Lang-

jökuls (eins og Sófókles

mundi sagt hafa)

eða

hversvegna höfum við ekki

ort hagamús öræfanna

kórfagran lofsöng

hnúfubaksins?

(Ort í 17 stiga hita og glaða sól-

skini, Hveravöllum, 6. ág. '95, kl. 16.45?17.00.)

18.

Börn

leikum við okkur

eins og börn

og leitum eftirvæntingarfull

inní sýndarveröld

barnsins

fullorðin

leitum við eins og börn

inní sýndarveröld fullorðinna

gömul

leitum við að nýjum

ævintýrum

leitum að sýndarguðum

dauðans.

Eins og börn.

19.

Jakarnir brotna

úr skriðjökli

Langjökuls

eins og við

úr skriðjökli

tímans,

bráðna í jökullónið

og hverfa

með leirgulri

Hvítá

til hafs.

20.

Húsbréfalaus

fer snigillinn döggvott grasið

Hvenær fæðist maðurinn

með hús sitt á bakinu?

21.

Miðgarður

í Nýju Jórvík

heimkynni íkorna

og utangarðsmanna

valhallarlaus

og án guðanna

goðsagnalaus

og án Lennons.

22.

Hann leitar athvarfs

á ísjaka

kajakinn

er hús

á næsta jaka

tveir hvítabirnir

og fylgjast með honum

vita ekki

að manndýrið

er friðað.

Hann sendir upp

neyðarblys

hundelt

sendir friðlaust

manndýrið upp neyðarblys.

23.

Nýflegið

land mitt

undir eggsárum

fingrum dauðans

moldsárt

í vindmjúkum greipum.

24.

Getur verið það sé

háð útrýmingarstríð

í Bosníu

getur verið það séu framdir

stríðsglæpir

við Sarajevó

getur verið Hitler sé

upprisan

í eðli okkar

getur verið ég sé

vakandi?

25.

Ég hef séð auglýsingu

um konu

sem heldur á fíl,

kvennabaráttan

hefur náð

tilgangi sínum.

26.

Eggskurn dagsins

brotnar

flæðir hvítan

yfir fjörð og jökul

en rauðan

drýpur hægt

inn í hugmynd okkar

um nýja jörð.

(Lesbók, 7. október 1995 og í bókinni

Við Kárahnjúka og önnur kennileiti,1999))

8. október – sunnudagur

Styrmir skrifaði fínt Reykjavíkurbréf í dag um þau ummæli bandaríska nóbelshagfræðingsins og frjálshyggjumannsins, Gary S. Beckers, að íslenzka kvótakerfið sé ónothæft vegna þess siðleysis og óréttlætis sem væri því samfara.

Stingur upp á veiðileyfagjaldi sem lausn.

Becher hefur verið í miklum metum hjá Hannesi Hólmsteini, hvað skyldi hann segja um þessi skilaboð, þessa afstöðu?

Ekkert, ekki enn.

Þetta hlýtur að hafa verið mikið högg fyrir þá sem hafa kallað okkur sósíalista vegna afstöðu okkar! Ekki er Becker sósíalisti, nei hann er frjálshyggjumaður – og auk þess eitt af goðunum í þeim trúarbrögðum!

Við þurfum ekki að minnast á þetta mál oftar. Siðferðilegur sigur okkar er í höfn, hvað sem verður um pólitísku hremmingarnar.

10. október – þriðjudagur

Mikil úttekt um afsögn forsetans í Morgunblaðinu í dag. Dálítið sætsúpuleg og í anda efnisins, en Sindri Freysson vann hana vel, enda vel vinnandi blaðamaður.

Fátt nýtt.

Forsetinn lagði blessun sína yfir greinina.

Sé að Douglas-Home er dauður. Hitti hann á sínum tíma á Keflavíkurflugvelli, mig minnir hann hafi verið að koma af fundi í Japan, ásamt utanríkisráðherra sínum, Butler sem tapaði fyrir honum í slagnum um forystuna í Íhaldsflokknum brezka.

Skrítnir karlar, Home lítill og heldur pervisalegur en geðfelldur, Butler stór og mikill, eldrauður í andliti, líklega af dagdrykkju, í miklum svörtum frakka með loðfeldi. Talinn eldklár, en mér leizt ekki á hann! Það var eins og hann væri í einhverri fýlu!

Eða í Æðstaráði Sovétríkjanna!

Mér var sagt að Home væri borið fram hjúm vegna þess að einn ættfaðirinn sem var skotzkur hershöfðingi hafi hrópað, HOME – og öll herdeildin lagði af stað úr styrjöldinni, hver til síns heima!

Jafngóð skýring og hvað annað!

11. október – miðvikudagur

Hélt ég væri orðinn laus við gamla hatrið, en fék þá þetta bréf í dag. Í gamla daga fékk ég stundum svona tilskrif, einu sinni meira að segja með ryðguðum rakhníf og beðinn um að nota hann á réttum stað!

Það var eftir samtölin við Jón gamla seglasaumara.

Þetta er ekki svo slæmt, en slæmt úr því sem komið er, hélt orðið þetta kalda andrúmsloft hins sjúklega haturs heyrði gömlum tíma til.

Blekking!

Lengi lifir í gömlum glæðum – en óþægilegt þótt það skipti ekki lengur máli; enda undantekning.

Já, bréfið, það er svona:

“Ritstjórn Morgunblaðsins

Kringlunni 1

103 Reykjavík

Reykjavík, 8. október 1995

Hvor hlaut nóbelsverðlaunin?

Það var vel til fundið af Morgunblaðinu, laugardaginn 7. október s.l., að halda uppá veitingu bókmenntaverðlauna Nóbels með því að birta heila opnu með ljóðabálki eftir Matthías Jóhannessen leirlistamann, ritstjóra blaðsins.

Í sama blaði birtist jafnframt grein eftir ritstjórann um skáldbróður sinn Seamus Heaney. Þar stendur:

“Það var gaman að hitta Seamus Heaney... og tala við hann um eina skáldið sem ég reyndi að læra af ungur, Dylan Thomas. Um hann skrifaði ég fyrstu greinina á íslensku, áhugasamur blaðamaður og nemandi í bókmenntum og íslenskum fræðum. Þá var allt nýtt undir sólinni. En nú vex maður óðum inní gervi Prédikarans.”

Sælir eru hógværir. – Það er að sjálfsögðu rétt ályktað hjá ritstjóranum að við lesendur höfum meiri áhuga á að fregna hvað okkar maður (= Prédikarinn?) hafi haft við Heaney að segja en orð sem hugsanlega hafa hrotið af vörum hins virta írska ljóðskálds er fundum þessara andans jöfra bar saman.

Úr vöndu er að ráða af umfjöllun Morgunblaðsins og er mér því spurn: Hvor hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels – írinn Seamus Heaney ljóðskáld eða Matthías Jóhannessen leirskáld og ritstjóri frá Víkinga-Íslandi?

Fróðlegt verður að fylgjast með hvort við óbreyttir lesendur Morgunblaðsins fáum líka að sjá ljóð eftir Nóbelsverðlaunahafann.

Virðingarfyllst,

L. Klifurmús.

cc. Matthías Jóhannessen, ritstjóri Morgunblaðsins.

Velvakandi/Morgunblaðið.

Jónas Kristjánsson, ristjóri DV.

Hrafn Jökulsson, ritstjóri Alþýðublaðsins.

Karl Th. Birgisson, ritstjóri Helgarpóstsins.”

Það er eins og að fá tundurdufl í vörpuna löngu eftir að stríðinu er lokið. En þá er að gera það óvirkt! Tíminn einn kann skil á því. Maður ræður ekki við ósýnilega Merði, eða hvað segir Njála um það?!

Svara þessu að gamni mínu, óbeint, í Helgispjalli 22. okt. nk.; á þessa leið:

Merkilegt að sjá það í skemmtilegri ferðasögu Boswells og dr. Samúels Johnsons Til Orkneyja að mesti samtalssnillingur enskrar tungu, sem Boswell gerði ódauðlegan skuli hafa haft tilhneigingu til að þegja tímum saman. Segir sjálfur það sé rétt lýsing á sér að hann sé einsog draugur, segi ekkert nema á sig sé yrt.

Hann talaði semsagt ekki af sér.

Og hann hefur á einum stað orð á því að alltof margir skrifi bækur sem ekki geti það. Mér varð hugsað til jólabókaflóðsins hér heima!

Þóað sagt hafi verið að dr. Johnson hafi litið niður á Skota talar hann oftast vel um land og þjóð og er þakklátur þeim viðtökum sem hann fær. Honum líður augsýnilega vel í návist Boswells sem var mun yngri og leit upp til lærimeistarans einsog hann væri tákn á himni. Dr. Johnson saknar trjánna og fyrstu 300 kílómetrana segist Boswell ekki hafa séð nema eitt tré í Skotlandi sem sé eldra en hann sjálfur.

Dr. Johnson þykir landið óþægilega nakið og segist ekki hafa séð þar fleiri tré en Boswell hesta í Feneyjum.

Þar sagðist hann hafa séð einn hest.

Dr. Johnson lætur vel af Skotum en tekur undir að þeir hljóti að vera meiri skepnur en Englendingar vegna þess að þeir séu fjær sólinni og þeir hafi af þeim sökum þykkara blóð en Bretar.

Þeir félagar eiga í miklum samtölum hvarsem þeir koma og þykir einna skemmtilegast að hitta fyrirmenn af aðalsættum.

Þá fer dr. Johnson á kostum.

Þá upplifa áheyrendur þennan eftirminnilega samtímamann af jafnmikilli áfergju og hann upplifir umhverfi Makbeðs. Honum þykir skemmtilegt þegar alþýðukona lýsir yfir því hvað henni þyki mikið til um að hitta þennan frægasta Englending sem uppi sé, að Mansfield lávarði undanskildum.

Og vegna þessarar einu undantekningar trúir dr. Johnson því að hún sé ekki að gæla við hann með yfirborðskurteisi heldur trúi hún því sem hún hafi sagt.

Þannig getur undantekningin gert frásögnina sennilegri en ella. Af því mætti draga lærdóm.Klifurmýs hafa engar undantekningar. Í lífi þeirra er enginn Mansfield lávarður, þær eru bara nagdýr sem þenja sig ósýnilegar í myrkrinu og stjórna músaganginum í þjóðfélaginu.

Boswell og dr. Johnson fóru til Skotlands síðsumars 1773, einsog tíundað er í ævisögu dr. Johnsons, sem er heldur langdregin og raunar lítið um skemmtileg samtöl en því meir um allskyns bréf. Samtölin eru ávallt stutt, en stundum dálítið skemmtileg. Það er ekkisízt athyglisvert fyrir okkur Íslendinga að sjá hvernig doktorinn lýsir deilum og hernaði fólksins í fjallahéruðum Norður-Skotlands. Hann er þeirrar skoðunar að fjalllendið ýti undir deilur og misklíð og alls kyns samkeppni sem leiði til átaka. Úr einangrun vex tortryggni og henni fylgir úlfúð og illur hugur. Það skyldi þó ekki vera að hér sé loks komin skýringin á hatri og hefndum sturlungaaldar sem vekur því meiri undrun sem maður kynnist betur þessari blóðugu öld.

En dr. Johnson talar einnig um annað; þær framfarir sem fylgt geta ofbeldi. Skotar voru ávallt andvígir Cromwell en dr. Johnson talar um nytsamlegt ofbeldi þegar hann minnist herfarar hans í hálönd Skotlands. Hann segir tilaðmynda að herskarar Englendingsins hafi kennt Skotum að gera sér skó á fæturna. Því miður getum við vart talað um nytsamlegt ofbeldi á þessari öld, svo óhugnanlegt sem grimmdaræðið hefur verið, ekkisízt í hálfnýlendum sovézka kommúnismans þar sem öllu hefur hrakað frá því sem var og engin blessun orðið af útbreiðslu marxismans. Fyrir hans tilstilli hefur engin þjóð lært að gera sér skó sem ekki kunni það áður. Fremur mætti fullyrða að verkkunnáttu hafi hrakað og hagsæld minnkað miðað við það sem efni stóðu til. Ofbeldi hefur þannig ekki orðið neinni þjóð nytsamlegt á þessari öld. Þekkingin hefur verið notuð í þágu hernaðar og peningunum varið í skriðdreka og eldflaugar.

 

13. október – föstudagur

 

Síðar

Sesar er ekkert merkilegri en hirðfíflið svo vitnað sé í Hamlet og má það víst til sanns vegar færa. En list lýtur öðrum lögmálum. Mikil list rotnar ekki eins og hold, hún verður þvert á móti mikilvægari með tímanum og hún á ekkert skylt við þá blindu náttúru sem leggur allt að jöfnu, eyðir öllu jafnt.

Það getur varla varðað við lög eða siðgæðishugmyndir okkar að syngja svona texta,

aleinn í myrkrinu

ég rembist að snökkta ekki

þeir rogast með gálgann

aleinn í myrkrinu

svo ég vitni í grein í Morgunblaðinu um popptexta, en það getur þá ekki heldur verið tilgangur vísnasmiðsins að þessar línur varðveitist annars staðar en í söngnum.

Mér skilst þó á höfundi greinarinnar að þetta sé með frambærilegri popptextum, en annar höfundur hafði áður talið í sama blaði að líkast til varðveittist hefðbundinn skáldskapur einna helzt í poppinu!

Það á ekki af honum að ganga(!)

Í klyfjar ljóðsins hefur safnazt saman margskonar aðskotadót, til að mynda upplýsingar, fróðleikur, lífsspeki eða heilræði af ýmsu tagi og var það skiljanlegt á sínum tíma þegar erfitt var að flytja góss manna á milli án fjölmiðla. En skáldin hafa á þessari öld létt af ljóðinu og nú er það að mestu “hreinn leikur ímyndunaraflsins” eins og Kristján Árnason bendir svo ágætlega á í formála sínu að riti Aristótelesar, um skáldskaparlistina. Sjálfur hef ég mest gaman af þessum frjálsa leik ímyndunaraflsins og samspili forms og hugsunar; líkingum sem Aristóteles fullyrðir að séu langmikilvægastar í skáldskap, “því þær eru það eina sem ekki verður fengið hjá öðrum en eru merki um snilligáfu, og til að gera góðar líkingar þurfa menn að hafa auga fyrir því hvað er líkt”. Þannig vissu þessir gömlu karlar sannarlega hvað þeir sungu. Þá hef ég einnig gaman af óvæntri notkun orða í skáldskap, myndhvörfum og skírskotunum og tel þá ekki sízt að margræðni sé eitt helzta aðalsmerki góðs skáldskapar eða þessarar “ljúfu vitfirringar” eins og Grikkir komust að orði. Tómas Guðmundsson sagði einhvern tíma við mig undir lokin að hann legði minna upp úr rími en hrynjandi eftir því sem árin færðust yfir og get ég vel skilið það; hrynjandin, ekki síður en líkingar, er hornsteinn alls góðs skálskapar og líklega sá þáttur hans sem úrslitum ræður um það hvort skáldinu tekst að yrkja sig frá prósa og áhrifum annarra skálda og eignast sitt eigið persónulega göngulag, ef svo mætti segja. Það hlýtur að vera hverju skáldi sem hefur ljóðlist að ástríðu metnaðarmál og kannski einnig eitt helzta takmark þeirrar listar sem hann hyggst rækta með sjálfum sér.

Enda þótt ég telji að nauðsynlegt hafi verið að endurnýja form og innihald ljóðlistar eins og gert hefur verið á þessari öld, er margt í þeim gömlu klyfjum sem ég met mikils og ég tel fráleitt að hafi íþyngt þessari listgrein og á ég þá ekki sízt við sögukvæðin en þó einkum sem vísbendingu um eigin samtíð og skírskotun til viðmiðunar. Þekktast slíkra kvæða er líklega Gunnarshólmi, sprottinn af ástríðufullri fegurðarþrá listaskáldsins góða og þannig skemmtun og gleðiauki í senn auk annarra mikilvægra eiginleika. Aristóteles segir að sögukviður séu fyrir smekkvíst fólk sem getur skilið bókmenntir án látbragðs. Þó að fjölmiðlarnir hafi gert æ kröfuharðari tilraunir til að kalla bókmenntir og listir niður á sitt plan getum við enn sagt með þó nokkru stolti að svo sé guði fyrir að þakka að enn sé margt fólk á Íslandi sem lætur ekki blekkjast en gerir kröfur til smekkvísi og hefur gagn ánægju og nautn af því sem vel er gert. Þetta fólk hlýtur að vera hverju skáldi sú áskorun sem úrslitum ræður. Ég geri ekki endilega ráð fyrir að þessi smekkur og kröfuhörð gamaldags fagurfræði séu kennd í skólum, því miður, en þó má alltaf láta á það reyna. Ljóðskáld getur að minnsta kosti ekki orðið þræll vonds smekks þótt mér finnist stundum gerðar tilraunir til þess í því kerfi sem við höfum ánetjazt. Það er ekki efni ljóðlistar sem úrslitum ræður, heldur ferskleiki hennar og handbragð skáldsins. Sé það persónulegt og sérstætt er markinu náð. Þegar ég var strákur söfnuðum við dátum sem allir komu úr sama blýmótinu en við máluðum þá misjafnlega. Það er vond ljóðlist sem kemur sífelldlega úr sama blýmótinu. Hvert ljóð á að vera atvik út af fyrir sig eins og sköpun í sólkerfum.

Hið sama á að sjálfsögðu við um ágæti ljóðlistar og allra annarra listgreina. Á þær verður ekki lagður neinn algildur mælikvarði eins og um væri að ræða keppni í skák eða íþróttum. Við höfum afstætt mat á fegurð; einnig í listum.

“En til er sú tegund umræðu,” segir Fílón, “sem sjálfseðlis málsins og mannshugans má einlægt skilja og túlka á fleiri en einn veg og getur aldrei orðið hæfilega traust eða nákvæm, hversu mikillar varúðar sem gætt er og hvernig sem orðin eru skilgreind. Hér er um að ræða þær deilur, er varða stigmælingu eiginleika yfirleitt. Menn geta deilt um það til eilífðarnóns, hvort Hannibal sé mikill, mjög mikill eða framúrskarandi mikill maður, hversu mikil fegurð Kleópötru hafi verið, hvaða lofsyrði Lívíusi eða Þúkídídesi beri, án þess að deilan verði nokkru sinni til lykta leidd. Vera má, að deiluaðiljar eigi hér við hið sama og noti ólík orð, eða öfugt. Samt kann svo að fara, að þeir geti aldrei skilgreint orð sín þannig, að þeir verði einshugar um merkinguna. Ástæðan er sú, að stig þessara eiginleika verða ekki, svo sem magn eða fjöldi, ákveðin með neinni nákvæmri mælingu, er nota mætti sem mælikvarða í deilunni.”

Þetta ættu þeir að hafa í huga sem ganga fyrir einhvers konar verðlaunafíkn í listum en allt slíkt er út í bláinn og engum til góðs nema auðvitað þeim sem þurfa að selja bækur og önnur listaverk. En þá eiga menn að viðurkenna að þetta eru verðlaun markaðarins en ekki endilega listarinnar. Jónas Hallgrímsson hefði aldrei fengið nein verðlaun, rímnamenn hefðu séð um það. Fjölnismenn voru fámennur hópur og illa settir á markaðnum. Það sjáum við af því að engum kom til hugar að gefa út sérstaka ljóðabók eftir Jónas Hallgrímsson meðan hann lifði. En hvað komu margar bækur út eftir Sigurð Breiðfjörð?

Ef ljóðið hreyfist ekki eins og tónlist þá er það ekkert annað en gaddavírsprósi sem reynir að villa á sér heimildir.

Merkileg lýsing er í Cakes and Ale eftir Maugham á hverfulu láni ljóðskálds sem fær ekki þær viðtökur sem bækur hans gefa tilefni til. Auglýsingamoðið ræður ferðinni. Það er ömurleg lýsing, en líklega sannari en margt annað. Hann gefur út ljóðabók og er hafinn til skýjanna, jafnað við Milton. Og það er eins og um Hómer forðum, að minnsta kosti sex grískar borgir gera tilkall til hans.

Svo kemur næsta bók út. Og sex borgir afsala sér tilkalli til Hómers.

Grikkland er hrunið, en Hómer lifir(!)

Ég hef einhvers staðar minnzt á það áður, ég held í Helgispjalli, þegar Victor Borge tekur upp rósina af sviðinu og segir að hún sé næstum því eins falleg og gervirós!

Þetta lýsir ýmsu í samtíð okkar. Og stundum hef ég jafnvel grun um að ýmsir þeir sem allt þykjast vita um bókmenntir séu í raun og veru að tala um félagsfræði; eða sálfræði.

Við sjáum þetta jafnvel í tímaritsgreinum háskólakennara.

Samt lifa þeir á ljóðlist(!)

Menn yrkja af ástríðu. Elska af ástríðu. Allt sem skiptir máli sprettur af ástríðu.Menn geta jafnvel að dómi forngrikkja, til að mynda Platóns, læknað sorgina með ástríufullum flutningi kvæða. Taktfastur sláttur atkvæðanna víkur sorginni til hliðar. Þessi ástríða birtist ekki sízt í kórunum. Hún var í Hómer og síðar í kvæðum kaþólsku kirkjunnar.

Og hafnaði í kaþólskri sefjun; ekki sízt grísk-kaþólskri mystík.

15. október – sunnudagur

Forsetakapphlaupið er að taka á sig venjulega skrípamynd af þjóðfélaginu. Þetta stefnir í þennan gamalkunna íslenzka sirkus! Það virðist vera ótrúlegasta fólk sem gengur með forseta í maganum!! Og svo er spilað á “þjóðarsálina” eins og venjulega. Það er víst kallað lýðræði. Samt taka 65-70% engan þátt í þessum leik samkvæmt skoðanakönnun DV, en bíða átekta og horfa á tilburðina úr fjarlægð. Það virðast vera um 70% af þjóðinni sem halda dómgreindinni og spyrja forheilann áður en rokið er upp til handa og fóta í sirkusnum. Það er að vísu uppörvandi, því lýðræðið byggist á þessu fólki, íhygli þess og ábyrgðartilfinningu, en ekki “þjóðarsálinni” sem fjölmiðlarnir geta leikið á eins og snákaflautu.

En við sjáum hvað setur. Morgunblaðið má ekki láta nota sig, við megum ekki stíga víxlspor. Við erum brenndir eftir fyrri forsetakosningar og nú verðum við að halda höfði. Annars er þetta allt skelfilega ömurlegt; leiðinlegt. En svona upphlaup eru fylgikvillar lýðræðis. Og kosningar eru hornsteinn þess. Svo við verðum að láta þetta yfir okkur ganga. En það er ekkert tilhlökkunarefni, miðað við lætin þegar Vigdís var kosin. Ég sé ekki betur en hún hafi unnið kosningarnar síðustu vikuna, a.m.k. var Guðlaugur talsvert hærri en hún í síðustu skoðanakönnuninni. Mig minnir að hún hafi þá aðeins verið með um 24%. En síðustu dagana hækkaði hagur Strympu!

Kannski á þetta eftir að endurtaka sig.

Eins og vegir guðs eru kosningar órannsakanlegar. Samt held ég ekki maðurinn eigi neitt skylt við guð. Hann er einfaldlega dýr, grimmt dýr sem hefur nuddað sér utan í guð!

Forsetaembættið er vandræðastaða í litlu samfélagi; allt of dýrt. Við höfum í raun ekki efni á svona lúxus. Allskyns hátíðlegar stellingar og snobb fylgja því– og er óþolandi í lýðræðissamfélagi. Ótrúlegt hvað margt fólk er væmið andspænis forsetatigninni. Jafnvel fílefldir karlmenn! Er þetta arfur frá Dönum: Flatur fyrir mínum herra! – ég veit það ekki. Það ætti að leggja embættið niður og láta forseta Alþingis sinna því. Hann gæti það eins og drekka vatn.

En Ólafur vinur minn Einarsson er víst ekki mikið gefinn fyrir blávatn! Við höfum það eitthvað sterkara þegar við hittumst.

Var um daginn að velta fyrir mér Garðari á Hólum og músíkinni í Þingeyjarsýslu. Nú hefur Sigtryggur ,fréttastjóri , látið mig fá útskrift af samtali sem birtist við Garðar í Morgunblaðinu 26. febr. sl.

Ólafur Hreiðarsson pökkunarstjóri Morgunblaðsins kom fagnandi til mín og óskaði mér til hamingju með blaðið. Sunnudagsblaðið var prentað í 57.242 eintökum, en við höfum aldei áður komizt yfir 57 þús. eintök. Þetta er uppörvandi. DV er komið niður í 29 þús. eintök, ég fagna því þó ekki. Sú var tíðin að DV-menn hreyktu sér af því að þeir væru komnir yfir 40 þús. eint., en þá var Morgunblaðið í nokkur þús. eint. meira upplagi, það var allt og sumt. Ég trúði þessu að vísu ekki, en hvað vissi ég?! Nú er munurinn 30 þús. eint.

Risaeðlan vaknaði

Og setti upp sjónvarpsbros. Og þá kom í ljós að hún tók sig ágætlega út. Fram að því var Morgunblaðið aldrei auglýst neitt. Það átti að sjá um sig sjálft. Það var auglýsingafælið! En við lifum bara á auglýsingatímum – og þessi stærsti auglýsingamiðill þjóðarinnar áttaði sig á því – í tíma! En það mátti engu muna, held ég.

Förum til Lundúna á föstudag. Les kannski upp, hef verið beðinn um það. Förum einnig til Parísar, um Ermarsundsgöngin.

Allir spyrja, Þorirðu það?!

Nei, svara ég, þess vegna ætla ég að fara.

Ég er skíthræddur enda fullur af innilokunarfælni.

Þetta er glíma sem ég þarf að vinna. Ótti er til þess að sigrast á honum. Og til þess verð ég að sigrast á sjálfum mér. Það er nóg að gert að sigrast á sjálfum sér í lífinu.

Af hverju þurfa menn þá alltaf að vera að sigrast á öðrum.

Jafnvel með ofbeldi(!)

16. október – mánudagur

Þó að Halldór Laxness hafi stundum kvartað yfir því að vondir gagnrýnendur hafi lesið ýmislegt út úr verkum hans sem stæði þar ekki, þarf enginn að fara í grafgötur um að skáldsögur hans búa yfir margvíslegum táknlegum skírskotunum og sumar eru augljósar allegóríur eða táknsögur um sjálfstæðisbaráttu, verðmæti og arfleifð, eins og Íslandsklukkkan, Innansveitarkróníka og Atómstöðin öðrum þræði.

En slagkrafturinn í verkum skáldsins er ekki sízt fólginn í því hvernig hann leiftrar upp vandamál samtímans með táknlegum persónum í dæmisögunni, sem búa yfir miklu víðtækari skírskotunum en ætla má í fljótu bragði og geta jafnvel orðið persónugerð tákn í samtímasögunni eins og Ljósvíkingurinn og Bjartur í Sumarhúsum sem eru tákngervingar mikilvægra verðmæta að sjálfsögðu, en eru þó fyrst og síðast þeir sjálfir í átakamikilli samtíð og áminnandi hlutverki.

Samt hefur mér aldrei tekizt að lesa neinn sósíalisma úr þessu samfélagi, en aftur á móti er gert stólpagrín að honum í Guðsgjafaþulu.

Bjartur er að sjálfsögðu einhvers konar einstaklingshyggjumaður og umhverfi hans jafn rómantískt og það er raunsætt, en Ljósvíkingurinn er skáldleg ímynd þeirrar arfleifðar sem fátækt fólk gerði að heimsmenningu.

Við þekkjum svona tákngervinga úr lífinu sjálfu; eða hvað var Ragnar í Smára annað en íslenzk arfleifð holdi klædd og margt annað fólk sem ég kynntist ungur og var einskonar persónugerð sjálfstæðisbarátta og vitnisburður um þau verðmæti sem hafa gert Íslendinga að sérstæðri þjóð?

Það var ígildi háskólanáns að kynnast þessu fólki; forréttindi að fá að skrifa um það.

Mér er nær að halda að nóbelsskáldið sé helzti táknsagnahöfundur íslenzkur á síðari tímum, þótt ýmsir aðrir hafi brugðið upp einhvers konar dæmisögum í verkum sínum en, Halldór Laxness gerði það jafnmeðvitað og markvisst og sumir höfundar Íslendinga sagna. Þær eru að sjálfsögðu með ívafi táknlegra skírskotana þótt við þurfum enga kennslu í launsögnum til að skilja þær okkar skilningi og eins og bezt nýtist okkur nú á tímum. Táknleg skírskotun um tilgangsleysi blóðsúthellinga á sturlungaöld getur til að mynda verið fólgin í margvíslegum og óhugnanlegum lýsingum á hryðjuverkum og manndrápum. Þessar lýsingar eru ekki einungis sannferðugar á sínum tíma, heldur varnaðarorð á trylltri öld. En listin gerði sögurnar mikilvægar, ekki sem skemmtiiðnað heldur upphaf óendanlegrar auðlegðar sem mölur og ryð fá ekki grandað og hefur verið sem lýsandi viti við erfiðar aðstæður, hörmungar og fátækt.

Síðdegis –

Blöðin eiga ekki að taka að sér hlutverk dómstóla og réttvísi. Þau eiga að vera aðhald, en ekki dómstólar. Þau hafa nóg svigrúm undir strangri meiðyrðalöggjöf. Það er vond blaðamennska að líta á ógæfu fólks og yfirsjónir eins og hverja aðra verzlunarvöru.

Blaðamenn hefðu gott af að kynna sér þessi orð Dennings lávarðar í niðurlagi skýrslu hans um Prófumó-málið, en hann segir: Upplýsingar um ávirðingar þekkts fólks eru orðnar útgengileg markaðsvara, sannar eða lognar, raunverulegar eða tilbúnar. Þær eru seljanlegar. Því meira hneyksli því hærri fjárupphæð fæst fyrir vöruna. Styðjist efnið við ljósmyndir eða bréf, raunveruleg eða ímynduð, þeim mun betra.

Fólk verður aldrei söluvarningur í höndum þeirra sem hafa sæmilega heiðarlegt lífsstarf og temja sér vinnubrögð siðaðra manna. Það getur verið freistandi að ganga yfir mörk drengskapar eða meiðyrðalöggjafar, en sérhver sannur blaðamaður reynir að forðast það, jafnvel þótt annað gæfi meira í aðra hönd.

Gott blað er ekki mannorðsmorðingi.

Það er kvika þjóðlífsins, en ekki kviksyndi.

Kandhal, fyrrum ritstjóri Aftenposten segir, Það er á valdi blaðanna án raunverulegra ástæðna, án laga og dóms, að eyðileggja fólk. Þetta verður hver blaðamaður að gera sér ljóst.

Um kvöldið –

Kötturinn sem Guðrún Á. Símonar kom með á hverja sýningu á Jóni gamla í Lindarbæ og sést í sjónvarpsmyndinni eins og hver önnur prímadonna hét Jezebel, þriggja ára síamsköttur með blá augu, sagði Guðrún mér. Hún var dóttir Kikki sem var bláeygur síamsfress, en móðir hennar sem einnig var síamsköttur, hét Madam Butterfly.

Guðrún Á. Símonar sagði mér frá þessu einhvern tíma þegar ég úthlutaði henni styrk sem formaður Menntamálaráðs. Það var aðdáunarvert hvernig hún skilaði kisu á hverja sýningu. Hún var stolt af henni eins og umhyggjusöm móðir og talaði um hana af móðurlegri tilfinningu.

Guðrún var sérstök kona. Þegar Lúðvíg C. var að koma niður á gamla Mogga í Austurstræti og segja okkur frá sigrum Guðrúnar í útlandinu, en hann var giftur móður hennar, var engu líkara en við hefðum unnið heimsstyrjöld.

Margir töldu Lúðvík og Helga Hallgrímsson með leiðinlegri mönnum.

En Lúðvík vann á og Helgi var einhver skemmtilegasti maður sem ég hef kynnzt eins og ég vona að sjáist af samtalinu mínu við hann.

Honum var ekki vel við Pál Ísólfsson en það gerði ekkert.

Við fengum okkur koníak og það skipti öllu máli. Ég vona það sé koníaksilmur af samtalinu og veit það er rauðvínsilmur af samtalinu við Eggert Stefánsson.

En Lúðvíg C. var svo mikið niðri fyrir þegar hann kom með fréttirnar af frægð Guðrúnar niður á blað að við, ungir galgopar, gáfum henni viðurnefni Eimskips, “óskabarn þjóðarinnar”.

En hún stóð fyrir sínu.

Hún var sérstæður persónuleiki og fín söngkona. Hún var viðkvæm og gat verið snakill, en góð þeim sem hún tók.

Ég er henni ævinlega þakklátur fyrir Jezebel.

17. október – þriðjudagur

Þegar við vorum í Bandaríkjunum veturinn 1986-87 heimsótti ég bæði Miami Herald og Florida To-day og var það harla lærdómsríkt, og þá ekki sízt að kynnast umgjörðinni um starfsemina; blað Knight-Ridder í Miami er í gömlum, þröngum húsakynnum en það er gott blað með dálítið gamaldags ábyrgðartilfinningu sem er mér mjög að skapi(!)

Florida To-day er nýtízkan í algleymingi, bæði hvað snertir vinnubrögð, afstöðu og umgjörð og margar nýjungar athyglisverðar en annað harla yfirborðslegt.

Þegar ég kom heim gaf ég byggingarnefnd Morgunblaðsins skýrslu um þetta húsnæði ef hægt væri að nýta einhverjar hugmyndir í nýja Morgunblaðshúsið.

Okkur var fjarskalega vel tekið á báðum blöðum.

Mér líður ævinlega heldur vel innan um góða og vel menntaða blaðamenn sem bera virðingu fyrir umhverfi sínu og vinnu.

En þó einkum sjálfum sér.

Hilmar vinur okkar Skagfield í Tallahassee sendi mér erindi Tony Ridder forstjóra Knight-Ridder Newspapers í Miami, en hann flutti erindi í Tallahassee 10. janúar 1992 í The Florida Economics Club. Það fjallar um framtíð fjölmiðla og er harla athyglisvert. Ég hafði það til hliðsjónar í lok samtals okkar Árna Þórarinssonar sem birtist í tilefni af 80 ára afmæli Morgunblaðsins í Mannlífi í nóvember 1993. Í þessu erindi segir Ridder m.a.:

“Þrátt fyrir kvein, hrakspár manna eru dagblöð vaxandi, ekki deyjandi fjölmiðill. Vissulega breytist það sem við erum að gera og hvernig við gerum það í samræmi við kröfur á sviði síbreytileika og aukinnar samkeppni í fjölmiðlum. En sé horft fram hjá áhyggjum dagsins er ljóst að dagblöðin og fyrirtækin sem gefa þau út eru enn traust, lifandi og mjög arðbær.

Dagblöð ná daglega til mikils meirihluta — 62% — allra fullorðinna manna í Bandaríkjunum. Reyndar ná dagblöð samtals á hverju fimm daga tímabili til 86% allra fullorðinna. Þetta er augljóslega ekki merki um áhrifaleysi dagblaðsins sem fjölmiðils.

Auk þess má benda á að þótt hlutverk dagblaða á heildarauglýsingamarkaði hafi minnkað undanfarna áratugi þegar nýir fjölmiðlar og nýir keppinautar voru að koma á markaðinn, verður að hafa í huga að blöðin fá stærstu sneiðina af auglýsingatekjunum ár hvert.

Dagblöð eru ekki útdauðar risaeðlur.”

Við getum státað af hagstæðari tölum hér heima.

Síðan bendir Ridder á að dagblöð eigi samt sem áður í efnahagslegum vanda eins og hann kemst að orði, og þá ekki sízt vegna þess að lestrarvenjur fullorðins fólks í Bandaríkjunum hafa breytzt. Hlutfall þeirra sem lesa dagblöð daglega lækkaði úr 73% árið 1967 í 51% á árinu 1991. En þeim sem lesa dagblöð einu sinni í viku a.m.k. fjölgaði aftur á móti úr 18% 1967 í 35% 1991. Sjónvarp og kapalsjónvarp hafa dregið úr lestri dagblaða og fjöldi kvenna er nú á vinnumarkaðnum og hefur minni tíma til að lesa dagblöð en áður. Afþreyingarefni dregur ekki sízt úr dagblaðslestri en þó bendir Ridder á að lesendum dagblaðanna fækki lítið sé reynt að fá heildarfjölda þeirra í viku hverri, eða einungis um fimm prósentustig frá 1967; sem sagt dagblaðalestur fullorðinna hefur minnkað úr 91% í 86%.

Tæknin, þ.e. fjarskipti um gervihnetti, hefur breytt plánetunni í “alheimsþorp” og rutt úr vegi þeim hindrunum sem töfðu fyrir fréttaflutningi. “Fréttir um leið og þær gerast” er krafa sjónvarpsnotenda og hún hefur neytt dagblöðin til að taka að sér nýtt hlutverk, þ.e. að hjálpa lesendum til að skilja umheiminn og segja þeim hvað liggur að baki fréttunum og hvað líklegt sé að morgundagurinn beri í skauti sér.

Síðan snýr Ridder sér að framtíðinni og talar um tölvufréttir, símafréttir og fax-dagblöð, eða bréfsíma. Allt eykur þetta samkeppnina en ógnar ekki dagblöðunum í náinni framtíð að mati Ridders, vegna þess að tæknin sem til þarf er enn á þróunarstigi og útbreiðsla tilskilinna tækja ekki nægilega mikil til að þetta nýnæmi geti veitt blöðunum samkeppni. Dagblöðin verði því áhrifamesti miðillinn á sviði frétta, upplýsinga og auglýsinga talsvert fram á næstu öld, segir Ridder. En sjónvarpið verður aðalkeppinauturinn. Tæknin muni gera sjónvarpið fjölbreytilegri miðil en nú og fyrirsjáanleg er stórsókn einkatölvunnar inn á heimilin. Þær eigi eftir að verða eins útbreiddar og örbylgjuofnar og vinsæl víxlverkandi afþreyingartæki. Heimilistölvan verður daglegur hluti af menntun miðstéttarbarna. Síðan verður farið að tala um sjónvarpsblöð. Tölvur vinna úr sjónvarpssendingum alls kyns kennsluefni, afþreyingarefni og upplýsingar. En upp úr 2010 blasir við nýr heimur. “Þá veður raftæknileg dreifing upplýsinga um sjónvarp orðin helzta boðleið fyrir margt það efni sem blöðin flytja í dag. Og að mörgu leyti mun þetta rafeindakerfi samsvara “raunverulegu” dagblaði, búið mörgum sömu kostum varðandi myndgæði, færanleika og jafnvel kostnað og dagblöðin í dag.

Allur fjöldi borgaranna verður orðinn mjög fær í tölvunotkun, ekki sízt vegna þess hve notkunin verður auðlærð. Þeim erfiðleikum sem nú eru fyrir hendi við tölvunotkun og komið hafa í veg fyrir að tölvur veiti blöðum og öðrum fjölmiðlum samkeppni, hefur að mestu verið rutt úr vegi.

En hvernig fer þá fyrir blöðunum? Þau breytast “og lesendur þeirra breytast stig af stigi með aukinni rafeindalegri dreifingu. Þótt prentvélarnar og pappírinn verði áfram til, verða dagblöð í núverandi mynd ekki nálægt því jafn ríkjandi á markaðnum eftir 20 ár og þau eru í dag... Ein mesta hindrunin sem dagblöðin verða að komast yfir í framtíðinni er áframhaldandi klofningur hefðbundinna almennra lesenda í ólíka hagsmunahópa. Vaxandi klofningur virðist óumflýjanlegur.”

Fjölmiðlar munu stuðla að frekari klofningi með því að flokka lesendur í smærri og smærri greinanlega hópa. Dagblöð og aðrir fjölmiðlar munu gera þetta til að halda sínum hlut hjá almennum neytendum og til að fullnægja kröfum auglýsenda um markvissari markaðssetningu.

Nýir rafeindafjölmiðlar eins og videotex og audiotex munu ýta undir aukinn klofning vegna þess að sú þróun hæfir samkeppnishagsmunum þeirra. Þessir fjölmiðlar henta mjög vel breytilegum hagsmunahópum vegna þess að efni þeirra liggur fyrir í fjölbreyttum gagnasöfnum og dreifing þess fer fram með beinum sendingum milli sendanda og einstakra móttakenda.

Lesendur og auglýsendur munu einnig leggja fram sinn skerf til áframhaldandi klofnings. Æ fleiri lesendur munu ætlast til þess að fjölmiðlar veiti þeim aðeins þær upplýsingar sem þeir óska eftir af öllu því flóði sem fyrir liggur hverju sinni. Neytendur munu sjálfir aðskiljast eftir því sem þeim verða ljósari séróskir sínar og þeir verða færari um að fullnægja þessum óskum vegna aukins framboðs.

Auglýsendur munu í mjög auknum mæli krefjast þess að ná aðeins til líklegustu kaupenda á vörum þeirra og þjónustu. Þeir verða í auknum mæli tregir til að greiða fyrir það sem þeir telja óþarfa kynningu á almennum fjöldamarkaði. Þeir munu krefjast sérhæfðari miðla fyrir auglýsingar sínar.”

Og þá verður stutt í að “rafeinda-dagblöð” líti dagsins ljós. Dagblöðin verða svo hönnuð handa hverjum og einum, sniðin að þörfum lesenda.

“Þegar sú tækni hefur verið þróuð verður okkur fært að bera daglega til hvers lesenda blað sem sniðið er eftir sérstökum þörfum hans.”

Dagblaðslesendur fá þannig sérhannaða skammta af fréttum, auglýsingum og upplýsingum sem eru sérstaklega valin með tilliti til þarfa hvers og eins.

Þetta minnir á hvernig Íslendinga sögur, þ.e. elfan mikla, leystist upp í smærri kvíslar eins og fornaldarsögur Norðurlanda sem voru afþreying og annála sem voru til fróðleiks. Hlutverki sagnanna var sem sagt lokið. Það má vera að upplýsingar og fróðleikur dreifist til fleiri við þessa tækniþróun og nauðsynlegt að halda í þá von. En þetta er samt íhugunarverð framtíð og mér er til efs ég hefði haft áhuga á að gera blaðamennsku að lífsstarfi mínu ef aðstæður hefðu verið þær sem hér er lýst. Þetta er framtíðarsýn afþreyingar og skemmtiiðnaðar, sérhæfðrar þekkingar en ekki almennrar, það er eins konar 14. öld fornaldarsagna og annála — en ekki Íslendinga sagna!

Þegar við vorum í Noregi vorið 1991 heimsóttum við Stavanger Aftenblad og áttum ágætt samtal við ritstjóra þess, Thor Bjarne Bore, alvarlegan mann og viðræðugóðan. Nokkru síðar rakst ég á athyglisverða grein eftir hann í málgagni norskra blaðamanna minnir mig og þar fjallar hann um siðleysi í blöðunum og ábyrgð fréttamanna.

Hann segir í upphafi greinar sinnar að fyrrverandi upplýsingafulltrúi hjá Kreditkassen hafi sagt að fyrir venjulegt fólk sé aðeins eitt verra en að verða fyrir reiði Guðs, það sé að verða umfjöllunarefni á forsíðu Dagbladet eða Verdens Gang án þess að vilja það. Þar sé nefnilega hvorki að finna náð né fyrirgefningu. Og Bore segir:

“Það er ef til vill ekki þægileg tilhugsun að æ fleiri skuli spyrja hvort nýtt réttarkerfi sé að verða til í Noregi, kerfi þar sem menn eru dæmdir sekir um leið og grunsemdir vakna, þar sem menn verða að afplána refsinguna þegar í stað í gapastokki almenningsálitsins, ásamt öllum þeim ættingjum sem bera sama eftirnafn. Í gamla daga lauk refsingunni á einum sunnudegi við kirkjuna. Þá hlaut fólk refsingu eftir réttarhöld og dómsúrskurð, núna er gapastokkur fjölmiðlanna stundum miklu verri en dómarnir sem réttarkerfið kvað upp.”

Og Bore heldur áfram:

“Ég hygg að við getum verið sammála um að ekki eigi að skerða tjáningarfrelsið þegar það er notað til að hindra óréttlæti og leiðrétta mistök... Rannsóknarblaðamennska fer vaxandi og það er gott fyrir samfélagið. En það er slæmt að í sumum tilfellum hafa menn sýnt óvarkárni og skaðað rannsókn lögreglu á málum með yfirgangi. Blöðin hafa oft varpað fram afdráttarlausum staðhæfingum allt of snemma og síðar hefur komið í ljós að þau voru á villigötum. Oft er skaðinn mikill, fjárhagslegur og félagslegur, fyrir einstaklinga sem verða fyrir barðinu á þessu þótt þeir reyni að rétta hlut sinn með málsókn...

Lögbrot er lögbrot en hvaða brot eru svo yfirþyrmandi að það sé eiginlega hægt að verja það að fjallað sé um það á mörgum blaðsíðum og birtar risastórar myndir. Fjölmennir flokkar ljósmyndara og fréttamanna eru á hælum hins ákærða, notaðar eru kvikmyndavélar og skær flassljós sem afhjúpa hverja einustu drætti og svipbrigði?...

Athafnir fjölmiðla í slíkum málum minna á alþýðudómstóla. Eintakafjöldinn, áherzlan á málið, orðaval þar sem skoðanir blaðamanns koma skýrt í ljós og ekki sízt að einstaklingar á vegum fjölmiðlanna bregða sér í mörg hlutverk í senn — þeir annast rannsókn, eru ákærendur og dómarar auk þess sem þeir miðla upplýsingum til almennings...

Það er gersamlega óverjandi aðferð að kreista staðreyndir út úr fórnarlambi með því að hóta að skýra frá upplýsingum sem hafa ekki fengizt staðfestar. Það er enn verra að birta óstaðfestar upplýsingar í trausti þess að fórnarlambið þori ekki að bregðast við þeim. Það er svívirðilegt að nýta sér vitnisburð barna eða annarra sem ekki eru færir um að skilja hvaða afleiðingar orð þeirra geta haft.

Enginn getur komizt undan ábyrgðinni með því að vísa til þess að viðkomandi maður hafi sjálfur kallað yfir sig umfjöllun. Í raun er það svo að sá sem birtir eitthvað hlýtur ekki eingöngu að ábyrgjast að það sé satt heldur einnig að virðingarverð ástæða sé fyrir birtingunni. Ég er sammála aðalritstjóra Washington Post sem segir að ekki sé nein ástæða til að segja frá einkalífi þekkts fólks nema framferði þess í einkalífinu geti haft áhrif á störf þess. Ef fólk í ábyrgðarstörfum tekur sér eitthvað fyrir hendur sem skerðir það traust sem almenningur verður að geta borið til viðkomandi einstaklings getur einkalífið orðið viðfangsefni á opinberum vettvangi...”

Bore fordæmir það sem hann kallar “snuðrara-blaðamennsku” og telur að hún geti kallað yfir fjölmiðlana lög sem skerði frelsi þeirra. Viðhalda verði gagnkvæmu trausti almennings og fjölmiðla ef hinir síðarnefndu vilja gegna hlutverki sem fjórði valdaþátturinn, “við verðum að halda okkur frá forheimskunar- og léttmetisblaðamennskunni”, segir hann og bendir á að blaðamenn verði sjálfir að halda uppi siðferðislegum aga eins og Ibsen bendir á í Rosmersholm og hann kallar jafnframt Sigrid Undset til vitnis um grundvallaratriði því að hún sagði á sínum tíma að menning væri “í innsta eðli sínu ábyrgðartilfinning einstaklingsins”. Hann varpar fram þeirri spurningu hvort ritstjórar ritstýri eða láti sér nægja að sjá um daglega stjórn. Spyr hvort ekki vanti hugmyndafræðilegan grundvöll á marga fjölmiðla. “Standa ritstjórnirnar í alltof litlum mæli á grunni hins trausta gildismats? Hlýtur ekki að vera fyrir hendi gildismat í hvert sinn sem tekin er ákvörðun í siðferðislegum efnum?”

Allt er þetta mikið íhugunarefni og ég tel að Bore fjalli mjög skynsamlega um vandamálið. Ég er sammála öllum þeim skoðunum sem hann sjálfur hefur og hvernig hann setur þær fram. Og þá ekki síður því sem hér fer á eftir:

“Ef almenningi finnst að við umgöngumst ekki tjáningarfrelsið með virðingu eigum við á hættu að frelsið sem við höfum ekki efni á að glata verði skert. Þess vegna verðum við að halda verkfærum okkar í siðferðismálum vel við og slæva ekki virðinguna fyrir þeim ef við ætlumst til þess að vera tekin alvarlega í hvert sinn sem við drögum að húni fána tjáningarfrelsisins. Fólk lætur sér fátt um finnast ef við vísum til hins heilaga frelsis í hvert sinn sem við göngum erinda lögreglunnar og dæmum fyrirfram þá sem grunaðir eru um afbrot, læðumst inn í svefnherbergi einhvers sem nýtur tímabundinnar frægðar eða látum móðan mása um eitthvað sem engu máli skiptir.

Fjölmiðlarnir eru eina stofnun samfélagsins sem getur rifið niður blekkingartjöld og afhjúpað óverjandi aðgerðir í baráttu sem að öðru leyti er fullkomlega eðlileg, um völd og áhrif. Fjölmiðlarnir verða að forðast að snuðra í einkalífi valdhafanna — en skýra frá þeim atriðum í skaphöfn þeirra og gerðum sem skipta raunverulega máli í beitingu valdsins sem þeim er falið...

Á ritstjórn er ekki hægt að setja reglur sem hægt er að notast við í öllum tilfellum, en hægt er að draga mörk sem hvetja menn til að vera meðvitaðir um hvenær hægt sé að birta upplýsingar án þess að einstaklingum sé jafnframt sýnt óréttlæti. Sérhver lesandi hefur sína skoðun á því hvað eigi að birta. Það má aldrei verða takmarkið að allir séu undantekningarlaust ánægðir. Ef blað ætlar að gegna skyldu sinni sem gagnrýnandi samfélagsins hljóta sumir lesendur þess að verða lítt hrifnir af ákveðnum greinum, fyrirsögnum, þar sem fjallað er um þá, hve mikið rými er notað fyrir umfjöllunina og hvar í blaðinu hún birtist. Og aldrei megum við gleyma því að þeir sem af eðlilegum ástæðum eru mikið í sviðsljósi fjölmiðla glata alltaf að nokkru leyti hæfileikanum til að skilja gildi tjáningarfrelsisins og opinberrar umræðu.

En þróun mála veldur því að afar eðlilegt er að staldra við og spyrja: Erum við vitni að því hvernig fjölmiðlunum hrakar, hvernig þeir menga almenningsálitið með ofuráherzlu á einstaklinga og hneyksli fremur en að vera því til upplýsingar?

Er tvenns konar fjölmiðlasiðferði að verða til, annars vegar þeirra sem leggja áherzlu á að stundum hljóti tillit til einstaklinga að vega þyngst, hins vegar þeirra sem segja að tjáningarfrelsið sé takmarkalaust og skýra megi frá öllu ef það aðeins sé satt? Er raunveruleiki nútímafjölmiðlunar þegar öllu er á botninn hvolft fyrst og fremst spurning um peninga?”

Og Thor Bjarne Bore lýkur þessari athyglisverðu grein sinni með þessum orðum: “Á gamla blaðamannaskírteininu stóð skýrum stöfum: Orðið er máttugt vopn — misnotið það ekki. Það er ekki rými fyrir þessi orð á nýja plastskírteininu — var kannski rangt að breyta til?”

Niðurstaða mín af löngu fjölmiðlastarfi er svipaður fyrirvari og felst í þessum síðustu orðum norska ritstjórans.

Fréttamenn þurfa sjálfir sama aðhald og þeir telja sér skylt að veita öðrum einstaklingum og samfélaginu.

Langt frá að á því sé almennur skilningur og um fjölda fréttamanna mætti hafa sömu orð og Bore notar um valdamenn:

“Og aldrei megum við gleyma því að þeir sem af eðlilegum ástæðum eru mikið í sviðsljósi fjölmiðla glata alltaf að nokkru leyti hæfileikanum til að skilja gildi tjáningarfrelsisins og opinberrar umræðu.”

Þetta á því miður við um allt of marga fjölmiðlamenn.

Sumir þeirra vilja baða sig í sólskininu en þeim er nokkurn veginn sama þótt þetta sama sólskin valdi öðrum brunasárum.

Ekki sízt af þeim sökum er mikilvægt hverjir stjórna fjölmiðlum, nú og í framtíðinni — og er það að sjálfsögðu algjörlega óháð tæknilegri þróun því að alþýðudómstóll notar þau meðul sem nærtæk eru hverju sinni.

Framtíð íslenzkrar fjölmiðlunar er óráðin. Margt bendir til að alþjóðleg fjölmiðlun taki við af henni áður en langt um líður.

Hún er fyrirferðarmesti þátturinn í íslenzkum sjónvörpum. Erlendur skemmtiiðnaður er þar nánast allsráðandi og engu líkara en metnaður íslenzkra sjónvarpsstöðva standi helzt til þess að verða eins konar amerískur útikamar hér norður í ballarhafi.

Þetta er heldur dapurleg framtíðarsýn, því miður, og vonandi hef ég á röngu að standa; vonandi rís íslenzk fjölmiðlun úr öskustónni og markar sér íslenzka stefnu með þá arfleifð að bakhjarli sem er dýrmætasta eign okkar.

En það kann vart góðri lukku að stýra hvernig útlendir kapítalistar bora sig inn í Íslenska útvarpsfélagið og nú þegar á bandarískur banki sem þekktur er af fjárfestingarævintýrum í Suður-Ameríku um 20% í þessu “íslenzka” fjölmiðlafyrirtæki og er auk þess helzti lánabakhjarl þess.

Ég set spurningarmerki við þessa þróun.

Er þetta það hlutverk sem okkur er ætlað; að þjónusta erlend afþreyingarfyrirtæki og leggja fjöreggið í lófann á útlendum risa sem enginn veit hvað ætlast fyrir.

Fjöreggið er arfleifð okkar, íslenzk menning.

Hvað mundu menn segja ef útlendingar ættu 20% í auðlindinni? Ég sé engan mun á því hvort útlendingar eiga helztu eldisstöðvar íslenzkrar menningar eða hafa yfirráð yfir þeirri auðlind sem er grundvöllur tilveru okkar og framtíðar; fiskveiðilögsögunni.

1. Desember 1995

[RÆÐA]

Það er tómahljóð í alþjóðahyggjunni, segir hinn merki þjóðfélagsheimspekingur, Isiah Berlin í athyglisverðu samtali sem ég las á sínum tíma. Hann segir að fólk geti ekki þroskazt nema það sé þáttur af sérstæðri menningu; heyri einhverju samfélagi til. Menn heyra til einhverri arfleifð. Það er hægt að bæta við hana, þróa hana og rækta, en ekkert samfélag lifir af með því að ganga af henni dauðri.

Það er þannig hlutverk okkar að ávaxta arfleifðina, rækta hana; bæta við hana og gera hana fjölbreyttari með allskyns áhrifum og nýrri reynslu.

Á því andartaki sem alþjóðahyggjan legði undir sig öll samfélög og ekkert væri til annað en eitt tungumál, hvort sem væri í listum, viðskiptum eða stjórnmálum, einn strengur sem ætti að lýsa sálarlífi okkar, tilfinningum og arfleifð, þá yrði ekki til alþjóðleg menning, heldur dauð menning eins og Berlin kemst að orði; menning hins einsleitna víðáttubúa, gætum við sagt með Kundera. Ef allt lyti sömu lögmálum og afþreyingin og skemmtana-iðnaðurinn, þ.e. yrði einshyggju alþjóðatungumálsins að bráð, þá hyrfu öll sérkenni í samfélaginu inn í eftiröpun og stórþjóðastaðla sem kæmu í stað frjóvgandi og sérstæðrar menningar.

Ég hef haft áhyggjur af tungu okkar og framtíð hennar og er ekki einn um það og því meiri sem erlend áhrif hafa verið, einkum í sjónvarpi og öðrum ljósvökum. En ég ætla í bili að staldra við dálítið atvik sem Berlin tíundar og vona að það megi ávallt eiga við okkar dýrmæta arf. Hann nefnir sögu sem Jacob Talmon segir í einni bóka sinna og lýsir vel þeirri seiglu sem gróin menning býr yfir. Tveir tékkneskir skólastjórar voru að tala saman snemma á átjándu öld. Við erum líklega hinir síðustu í víðri veröld sem tala tékknesku, sögðu þeir hvor við annan. Við blasa endalok hennar. Við munum óhjákvæmilega öll tala þýzku hér í Mið-Evrópu og sennilega einnig á Balkanskaga. Við erum síðustu móhíkanarnir.

Enn tala menn tékknesku og langur vegur frá endalokum hennar. Hví ættum við þá ekki einnig að geta varðveitt þetta fjöregg? En það er ekki sama í hvers höndum það er og það stendur engum nær en Háskóla Íslands að gæta þess í þeirri róstugu veröld sem við lifum. Þess vegna ekki sízt ætti háskólinn að hafa yfir að ráða sjónvarpi sem ynni nýjan mikilvægan veruleika, einskonar íslenzkan hvítagaldur, úr markverðu alþjóðlegu hráefni – og miðlaði því til fólksins í landinu.

Þegar við bjuggum í Kaupmannahöfn um miðjan sjötta áratuginn leigðum við hjá dönskum hjónum sem hurfu til Svíþjóðar í atvinnuleit. Eitt sinn um miðjan veturinn ‘55-’56 komu þau hjón snögga ferð til Kaupmannahafnar og vitjuðu íbúðar sinnar. Þetta var einhvern mesta frostavetur sem ég hef upplifað, 20-30 stiga gaddur hvern einasta dag eftir áramót og veit ég raunar ekki hvernig þau hjón komust frá Svíþjóð því sundin voru frosin og ófær. En þarna skaut þeim upp einn góðan veðurdag og sögðu okkur meðal annars þau merku tíðindi að húsbóndinn hefði fengið sölumannsstarf við sænska bókaútgáfu og seldi nú meðal annars Íslendinga sögur. Hafið þið lesið þær? spurði hann. Jú, við þóttumst hafa gert það, að mestu. Á sænsku? spurði hann. Nei, íslenzku sögðum við. Jæja, sagði hann forviða, Svo þær hafa þá verið þýddar á íslenzku!

Við gáfum ekkert út á það enda vildum við fyrir alla muni halda íbúðinni og þá var auðvitað mikilvægt að móðga ekki vesalings manninn.

Í Sognfirði dvöldumst við í sumarhúsi nótt eina fyrir nokkrum árum og þegar ung stúlka kom að innheimta leigu spurði ég hana á skandinavísku, eða víkinga-esperantó, hvenær ferjan kæmi, en þá horfði hún á mig með sínum stóru bláu augum og sagði, Tað veit jeg ekkji. Talaði semsagt íslenzku sem fólk þar um slóðir kallar gammelnorsk. Þegar við vorum í Gautaborg löngu síðar hittum við tvo pilta sem vísuðu okkur á járnbrautastöðina með þessum orðum, Þið eruð Íslendingar, sögðu þeir. Já, sögðum við. Við vitum það, sögðu þeir. Af hverju? spurðum við. Jú, vegna þess að við heyrum að þið talið úrgammel svensk! Þessi uppákoma var skemmtileg viðbót við bókamessuna í Gautaborg.

En þótt fólkið á vesturströnd Noregs tali einhvers konar gammelnorsk og Svíarnir í Gautaborg kunni einhver skil á úrgammel svensk þá er ekki þar með sagt að þeir geti tileinkað sér þær fornu bókmenntir sem til eru á þessum tungum, hvað þá varðveitt þessa sömu arfleifð.

Mér koma þessar sögur í hug nú þegar myndbönd flæða inn á hvert einasta heimili og íslenzkt baðstofulíf sem hélt menningu okkar við um aldaraðir er að breytast í einhvers konar útlendan hasar með erlendu tali. Og nú er sú spurning ekki eins fjarri lagi og um miðjan sjötta áratuginn hvort við eigum kannski eftir að kynnast Íslendinga sögum og öðrum fornum ritum okkar einna helzt af erlendum myndböndum með slíku tali. Og auðvitað yrði samsetningin í anda Dallas svo að þættirnir ættu heima í því umhverfi sem nú gerir kröfu til þess að vera arftaki íslenzku baðstofunnar. Á sama tíma er fjörkippur í íslenzkri kvikmyndagerð. Það er uppörvandi áskorun, en þess sér sjaldnast stað í afþreyingarstreðinu mikla.

Enginn veit hvernig styrjöldinni um tungu okkar og menningararf lyktar. Hún stendur nú yfir, svo háskaleg sem hún er. Mótstöðukraftur okkar minnkar að ég held með hverju ári sem líður og senn verður tízkan þeim vilhöll sem þykjast vera að vernda íslenzka menningu, en vega nú að rótum hennar með þeirri erlendu síbylju sem er einatt einkenni hinna nýju ljósvaka. Jónas er höfundur þessa fallega orðs og notar það í þýðingu sinni á stjörnufræði Úrsins, en mér er til efs að hann hefði eytt því á þá háværu fjölmiðla sem nú læsa klónum í hvers manns huga.

Jónas Hallgrímsson var náttúrufræðingur og ljóðskáld; einkum ljóðskáld. En það fer vel saman, ljóðið og náttúruvísindin.

Mér er til efs að ljóðið gegni lengur einhverju sérstöku hlutverki eins og áður fyrr. Við lifum ekki á ljóðrænum tímum ef svo mætti segja. Við erum fædd inn í plast og umbúðirnar um líf okkar eru úr gerviefni. Fyrr á öldum nærðist fólk í goðsögulegum dæmisögum eins og við sjáum í hómerskviðum og biblíunni og ljóðlistin stóð í órofa tengslum við þessa klassísku menningu sem birtist svo með sérstæðum hætti í eddukvæðum, dróttkvæðum vísum og konungakvæðum síðar.

Markmið ljóðlistarinnar er nú ekki annað en ljóðlistin sjálf. Það vantar því mikið á að hún gegni sama hlutverki og áður. En sem vitnisburður um mannlegar kenndir, tilfinningar, ást, þrá, ótta og hatur svo eitthvað sé nefnt er hún að sjálfsögðu mikilvæg listgrein og verður væntanlega áfram.

Ljóðlistin er ágæt leið að manninum sjálfum því hún getur sagt hið ósagða og þótt hún geti verið áleitin þarf hún ekki að vera óvinur eða andstæðingur, heldur góður samfylgdar-maður. En hún er að sjálfsögðu einnig afhjúpandi í hlédrægni sinni, myndmáli, líkingum og margræðni og af þeim sökum heldur illa séður gestur í einræðisríkjum. Hún gegnir kannski ekki miklu hlutverki í tæknibúnu allsnægtarríki þar sem allt snýst um peninga og markaðinn og að koma sér áfram, eins og sagt er. En hún er þá því mikilvægari þar sem þjáning og ótti eru helztu fylgifiskar mannlífsins.

En þar sem dauðinn er sú byrði sem við þurfum öll að bera, á ljóðlistin einnig erindi við þá sem eru ekki íþyngdir af neinni þjóðfélagsógæfu, en þurfa einfaldlega að horfast í augu við sjálfa sig og örlög sín.

Hlutverk ljóðlistar er þannig ekki á enda, svo lengi sem maðurinn er háður tilfinningum sínum og fegurðarþrá og sigur dauðans er í augsýn. Þar sem á því verður væntanlega engin breyting eins og maðurinn er af guði gerður og örlög hans afráðin andspænis dauðanum og þá ekki sízt þar sem ástin er augsýnilega dýpsta kennd hans og eðli hans inngróin, mun ljóðlistin áfram gegna því hlutverki í lífi hans sem nú blasir við, þótt hún hafi glatað goðsögulegu markmiði sínu gagnvart hetjunni. En dýrkun hennar er ekki heldur úr sögunni, síður en svo, og nægir að minna á hetjur popps og kvikmynda.

Hetjurnar kunna nú bezt við sig í kvikmyndum og öðrum fjölmiðlum en enginn veit hversu þar er lífvænlegt þegar plastið hrúgast upp og enginn hefur tök á að fylgjast með allri framleiðslunni. Þá má telja líklegt að tíminn vinsi verðmætin úr eins og hann hefur alltaf gert – og kannski hann verði þá til að rétta við hlutskipti ljóðsins. Það á enn margt ósagt.

Ef ljóðlistin dæi á Íslandi væri það eitthvað svipað því og ef íslenzka birkið hætti að laufgast einn góðan veðurdag. Þá yrðum við íslenzkum skógarilmi fátækari. Landið yrði naktara og fáskrúðugra og tengslin við það ekki hin sömu og áður. Það yrði eins og að glata því mikilvægasta og dýrmætasta í lífi hverrar þjóðar, goðsögninni.

Nú þegar ljóðlistin hefur yfirgefið guði og hetjur og snúið sér að venjulegu fólki og hversdagslegu lífi er þess að vænta að hún verði áfram einn þáttur þess og mikilvæg tengsl við arfleifð okkar og uppruna.

Jón forseti Sigurðsson lagði áherzlu á rétt íslenzkrar tungu enda væri hún forsenda alls sjálfstæðis. Hún og landið eru hið eina sem heyrir okkur til og ekki öðrum. Hún er mikilvægasta forsenda arfleifðar okkar. Það stjórnar enginn íslenzku þjóðinni sem talar ekki tungu hennar. Við höfum sögulega reynslu fyrir því. Íslenzkar bókmenntir eru skrifaðar á þessa tungu og því eru þær okkur dýrmætari en ella. Þær eru ein af forsendum tilvistar okkar og sérstæðs þjóðernis. Því eru þær flestu öðru mikilvægari. Ef við glötum tungu okkar glötum við einnig þjóð-menningunni og sjálfstæðinu. Þá hrynur samfélagið. Þá getur ný þjóð heyrt Íslandi til; að vísu; útlend þjóð, arfleifðarsnauð og opin fyrir erlendri ásókn. Auðnulaus þjóð í leit að sjálfri sér; hamingju sinni; og glataðri sjálfsvirðingu.

En sjálfsvirðingin er ekki sízt forsenda hamingju eða höfum við nokkurn tíma heyrt talað um hamingju þeirra sem hafa glatað sjálfum sér? Þar sem hamingjan býr í hjarta mannsins verður hún einungis varðveitt þar, eins og tungan sem við tölum og tilfinningar sem hún lýsir.

Aristóteles segir í Stjórnmálum að dyggð sé forsenda hamingju. Það er dyggð að varðveita sérkenni sín, arfleifð og þá ekki sízt tunguna sem er meðal annars dýrmæt vegna þess að hún er tengiliður einnar kynslóðar við aðra. Hvísl milli kynslóða. Við Íslendingar sem nú lifum getum átt mikilvæg samtöl við þá sem sköpuðu gullaldarbókmenntir okkar – og það á þeirra eigin tungu. Slík samskipti eru lítilli þjóð ómetanleg; stækka hana og auka henni þrek. Án þessa arfs hefðum við ekki fengið sjálfstæði okkar, handritin né 200 mílna fiskveiðilögsögu og án hans væri sjálfsvirðing okkar líklega heldur bágborin. Án hans enginn háskóli eins og við þekkjum, þetta mikilvæga flaggskip íslenzks sjálfstæðis með alþjóðafána þekkingar og nývísinda við hún, engar raunvísindastofnanir, enginn Árnagarður né þjóðarbókhlaða. Þá væru engin Hollvina-samtök háskólans í burðarliðnum með það markmið “að auka tengsl Háskóla Íslands við fyrrum nemendur sína og aðra þá sem bera hag skólans fyrir brjósti”.

Aristóteles segir að fólkið í köldum löndum skorti gáfur og hæfileika og gæti hvorki stjórnað sjálfum sér né öðrum, þótt það ætti andlegt þrek sem slægi upp í hugdirfsku hellena. Allt þetta höfum við afsannað vegna menningar okkar og arfleifðar. Montequieu gerir sér grein fyrir því í loftslagskenningu sinni í Anda laganna að kaldlandaþjóðir búa yfir miklum krafti, viljastyrk og frelsisþrá. Ekki er ólíklegt að hann hafi dregið þessa ályktun af arfi okkar Íslendinga sem allir siðmenntaðir menn hafa haft spurnir af öldum saman.

Íslendingar hafa borið gæfu til að velja úr erlendri menningu þau áhrif sem ákjósan-legust hafa verið og breytt aukinni þekkingu í íslenzkan veruleika. Þannig hafa og íslenzkar bókmenntir ávallt verið með sínum sérkennum og var sá tónn sleginn þegar í upphafi þegar fornritin voru skráð á bókfell.

Þannig var einnig trúarlíf Íslendinga með öðrum hætti en tíðkaðist annars staðar þótt trúin væri hin sama. Íslendingar tóku kristna trú með svo sérstæðum hætti að sá atburður á sér vart hliðstæðu með öðrum þjóðum. Þeir breyttu einnig siðbótinni í séríslenzkan veruleika þrátt fyrir þau gífurlegu áhrif sem komu utan frá Danmörku og meginlandinu og réð það að sjálfsögðu úrslitum að þeir snöruðu guðsorðabókum sínum á íslenzka tungu, prédikuðu á íslenzku og höfðu metnað til þess að laga lúterskan rétttrúnað að íslenzku umhverfi, rétt eins og þeir höfðu brotið þá frumreglu kaþólskrar kirkju að nota helzt ekki latneska alþjóðamálið eins og páfadómur vildi, en rita þess í stað bækur á íslenzka tungu svo að alþjóð fengi boðskapinn beint í æð, eins og nú er komizt að orði. Slíkt þótti allt að því goðgá í öðrum kaþólskum löndum og átti sér fáar fyrirmyndir.

Allt hefur þetta orðið til þess að móta íslenzkt samfélag á okkar dögum og ekkert útlit fyrir annað en þessi mikilvæga arfleifð verði áfram það leiðarljós sem helzt mun lýsa okkur inn í framtíðina.

Samhengi í íslenzkri menningu og bókmenntum er í senn merkilegt og mikilvægt. Mörg heimsskáld hafa sótt í þennan brunn, þau hafa sem sagt sótt í íslenzkan skáldskap, íslenzkar bókmenntir, íslenzka hugsun, en ekki þennan samnorræna arf sem alltaf er talað um undir heitinu norse. Líklega eru það frændur okkar á Norðurlöndum sem hafa ýtt undir þessa nafngift en við skulum ekki láta villa um fyrir okkur. Þetta er einfaldlega íslenzk geymd og það er okkar sérhlutverk að varðveita hana og endurnýja. Við höfum aldrei ætlað okkur að vera skandinavískt þjóðminjasafn; höfum aldrei ætlað okkur að vera til frambúðar einangraðir fátæklingar sem lifa helzt í fortíðarljóma og miklum bókmenntum; eða blekkingu og andörlögum; heldur íslenzkur veruleiki með fyrirheit fortíðarinnar í farteskinu.

En þótt margt sé harla fagurt og eftirminnilegt í þessum forna menningararfi verður það ekki endurvakið með okkur í upphaflegri mynd. Það getur einungis orðið aflgjafi nýrra hugmynda, nýs galdurs. Það verður aldrei endurtekning gamalla töfra. Andrúm verður ekki endurtekið. En töfraþula tungu og arfleifðar sækir hljómfall sitt í reglubundna hrynjandi hjartsláttarins. Hún á rætur í kvikunni sjálfri og hún hefur fylgt okkur frá ómunatíð.

Eins og tónlist.

Eins og allt sem ber mennskunni vitni og skiptir máli; það á rætur í sköpuninni sjálfri, hjartslætti jarðarinnar, hrynjandi hennar og taktbundinni þögn alheimsins, þessari hljómlist þagnarinnar sem bregður fyrir í miklum sinfóníum; í þessari hrynjandi sem er í okkur sjálfum eins og aldan sem hreyfist í kyrru, þögulu hafi. Og hafið þarf ekki augu eða eyru til að kynnast þessari hreyfingu. Það er sjálf hreyfingin, þögnin mikla sem fylgir háttbundinni hrynjandi tímans.

Við getum margt af arfi okkar lært. Forníslenzk ritverk eru ómetanleg og ástæða til að draga af þeim ályktanir um samtíma okkar. Þessi verk eru ekki dauður bókstafur né gamall texti handa stúdentum, heldur markverð tíðindi úr reynsluheimi þeirra sem þurft hafa að horfast í augu við harðneskjulegt alræði samtímans og það úthellta blóð sem pólitískar hugmyndir og hefndarverk hafa skilið eftir í okkar eigin slóð. Stundum eru þessi verk unnin í skjóli mikilla hugsjóna, já raunar oftast. En hugsjónir sem leiða til hefndarverka eru vondar hugsjónir. Slíkum hugsjónum þarf að breyta og kannski þarf helzt að breyta þeim sem boða þessar hugsjónir eins og kristnir menn gerðu upp úr miðöldum þegar ofstækismenn gengu á lagið og frömdu hryðjuverk í skjóli þess kærleiks-boðskapar sem engu er líkur.

En mér er til efs að Íslendingar, jafnvel þeir, geri sér nægilega grein fyrir mikilvægi þessa forna arfs okkar, hvað þá aðrar þær þjóðir sem horfast í augu við háskalegan heim. Það getur varla verið tilviljun þegar merk erlend skáld draga mikilvægar ályktanir af þessum verkum í brýnum og hastarlegum skírskotunum. Í þessum ritum kynnumst við grimmilegum hryðjuverkum og blóðhefndum sem voru snar þáttur af hugsun og hugmyndum umhverfisins, rétt eins og hryðjuverk á Írlandi, í Bosníu og annars staðar eiga rætur í sjúku hugarfari ofstækisfullra ógæfumanna. Í Íslendinga sögum sjáum við það betur en annars til hverra hörmunga slík ógn og óbilgirni og slíkt hatur leiðir. Sá sem þekkir Njálu kveikir ekki njálsbrennur. Blint tillitsleysi er arfasátan og upphaf bálsins. Sú áminning á brýnt erindi við umhverfi okkar og samtíð.

Aðfangadagur

Það hefur verið í mörgu að snúast. Ég hef verið hálfhandlama enda í plastgifsi upp fyrir olnboga. Sigurður Kristinsson bæklunarlæknir hringdi til mín sl. föstudag og bað mig að skreppa til sín. Hann hafði fengið bakþanka um meiðslin. Hann lét taka gifsið af, skoðaði handlegginn vandlega, sendi mig í röntgen og skýrði síðan fyrir mér hvers kyns var; þetta væri heldur óvenjulegt mjúkt olnbogabrot, eins og hann kallaði það, og ekki víst hvaðan flísarnar sem sjást á myndinni hefðu komið, en það væri góðs viti að nú væri augljóst að þær hefðu ekki komið innan úr liðnum. Ég væri ekki heldur með blóð eða vatn í liðnum svo að meiðslin myndu gróa og ég yrði jafngóður eftir.

Ég verð þá ekkert hreyfihamlaður, sagði ég.

Nei, sagði hann, við ráðum við það. Þú ferð í sjúkraþjálfun og ég ætla að tala við þjálfarann þinn og segja honum hvers kyns er.

Sigurður er hress og ágætur. Hann hefur verið í Smugunni. Og hann hefur verið þyrlulæknir. Hann fór bæði til Súðavíkur og Flateyrar þegar snjóflóðaslysin urðu þar.

Það hafði verið meinlaust í Smugunni en hafrótið á leiðinni vestur hafi verið yfirgengilegt.

Þá sáu þeir framan í Ægi konung í sínum versta ham.

Sigurður stundaði framhaldsnám í Svíþjóð. Nú vill hann koma upp heilsugæslustöð sjómanna. Mér lízt vel á það. Hann sagði að það væri einkennilegt hvað Íslendingar reyndu ævilega að forsmá þær tvær stéttir sem allt byggðist á; húsmæður og sjómannastéttina.

Ég ætla að reyna að rétta fram hjálparhönd í heilsugæzlumálinu og sagði honum það.

Hann sagði mér að koma næsta föstudag.

Hann sagðist vera ættaður úr Vestmannaeyjum. Þaðan hefði faðir hans komið, en þau hafi flutzt til Hafnarfjarðar þar sem Kristinn faðir hann varð bæjarstjóri.

Hann þekkir Svein Björnsson, vin minn. Hann er ánægður með Svein.

Ég hef gaman af Sveini, sagði hann, hann er karakter. Og ég hef gaman af myndunum hans.

Áttu bókina með myndum Sveins við kvæðin mín, sagði ég.

Nei, sagði Sigurður.

Mundirðu vilja eignast hana, sagði ég.

Já, sagði hann, það væri gaman.

Ég skal reyna að útvega hana sagði ég.

Ég á aukaeintak og ætla að fara með það til hans á föstudaginn. Maður sem hefur verið að reyna að koma í veg fyrir að ég verði hreyfihamlaður á þessa bók skilið.

Bækur eiga að vera hjá þeim sem vilja eiga þær.

Þær eru eins og gæludýr.

Þær eiga ekki að vera hjá ókunnugum sem hafa engan áhgua á þeim. Bækur eru yndi þeirra sem vilja eiga þær. Ég horfi oft á bækurnar mínar án þess taka þær út úr skápunum. Og svo þegar maður tekur þær fram á að handfjatla þær eins og maður sé að gæla við hundinn sinn. Þá gefa þær manni það sem þær eiga; eins og hundurinn.

Hef verið að hlusta á bandarískar smásögur, bæði eftir Mark Twain, Stephen Crane, Ambrose Bierce og Jack London.

Þeir eru allir sjálfum sér líkir.

Ég dáist að því hvernig Jack London getur sýnt manninn andspænis dauðanum á norðurslóðum í sögum eins og The Love of Life og To Build a Fire, en ég hafði áður lesið fyrrnefndu söguna um uppgefinn manninn og úlfinn særða.

Það er eftirminnileg lýsing hvernig þessi tvö dýr gera upp sínar sakir, knúin af lífsþrá og dauðabeyg.

Einnig merkilegt hvernig hundurinn skynjar hættuna af frostbitnum örmagna manninum í síðari sögunni.

Jack London þekkti þetta umhverfi. Og hann lýsir manninum í náttúrunni eins og aðrir höfundar lýsa honum í borgarumhverfi sínu. Maðurinn er hluti af umhverfinu,alltaf.

Og hvað sem jólaboðskapnum líður er hann engin guðleg vera, heldur dýrið mikla sem allt snýst um.

Trúarbrögðin gera of miklar kröfur til hans.

Það háir honum í lífsbaráttu hans og kannski einnig í þessu umhverfi þar sem hann er í hlutverki dýrsins í einmana auðninni þar sem yfirburðirnir ráða, eðlishvötin og grimmdin. Þar er ekki spurt um synd eða iðrun heldur þau gæði sem forfeður okkar lögðu mest upp úr þegar þeir þurftu að lifa víkingatímana af.

Í auðninni ríkir hin grimma lífshvöt blóðsins , en ekki iðrunarsveifla altarisgöngunnar.

Við lifum eftir aðstæðum.

Þess vegna erum við nú farin að geta hugsað um synd og iðrun; guðlegt takmark. Og háleitt hlutverk mannsins í tiltölulega áhættulausu umhverfi.

En þó staldra ég einna helst við sögu Ambrose Bierce, bæði The Eyes of the Panther og ekki síður An Occurrence at Owl Creek Bridge sem fjallar um mann sem á að hengja og bíður dauða síns en lætur hugann reika inn í ímyndaðan veruleika þar sem hann berst fyrir lífi sínu og lýkur með því að hann hleypur í fang konu sinnar við hús þeirra, en þá allt í einu: svart myrkur, þögn; hálsbrotinn hangir hann í reipinu; dauður.

Dauður hverfur hann inn í veruleikann.

Áður en ég las þessa sögu dreymdi mig að Ingólfur, sonur minn, hefði tekið hvítan kettling og sett hann í gin einhvers miklu stærra kattdýrs.

Þegar ég vaknaði datt mér í hug að þessi hvíti kettlingur táknaði lífið andspænis dauðanum og ég velti því fyrir mér hvað það hefði komið mér við því ég á engan kettling og ekki Ingólfur heldur.

En kannski þetta hafi bara verið draumur um hvítan kettling án þess hann þyrfti endilega að merkja neitt sérstakt.

Orti þetta kvæði í fyrradag:

Hún þvoði

saltið

af trjánum

þvoði

norðanáhlaupið

af söltum greinum

trjánna

af sömu umhyggju

og börnum sínum,

nýfæddum.

Bókadómar eru í jólahasarnum eins og minningargreinar eftir stórslys.Þeir eru ýmist skrifaðir af velþóknun eða vanþóknun. Ég las til að mynda grein í Helgarpóstinum eftir Egil Helgason um Stein Steinar, Ævi og skoðanir, sem er nýkomin út hjá Vöku; með æviferli Steins Steinars eftir Inga Boga Bogason, Löng og erfið leið.

Þetta er góð útgáfa með hnýsilegum myndum og ritgerð Inga Boga á vel við í þessari bók enda skrifuð af áhuga og alúð.

Samt segir gagnrýnandinn að hún eigi ekki heima í bókinni! Hann segir einnig að greinar Steins séu sumar hverjar slitróttar, úreltar eða níðangurslegar.

Ósköp er þetta dapurlegt! En líklega bernskubrek.Egill á eftir að þroskast.

Greinar Steins skipta máli af því að þær lýsa honum sjálfum eins og hann var — og hugsaði.

Annaðhvort hefur maður áhuga á Steini Steinar eða ekki. Það væri hægt að afgreiða ljóðin hans með svona upphrópunum ef menn vildu, en það skipti engu máli. Raunar væri hægt að afgreiða öll ljóð með sama hætti. Það hefur auðvitað verið gert og skiptir engu máli.

Annaðhvort hefur maður áhuga á ljóðskáldinu Steini Steinar eða ekki. Og ef maður hefur áhuga á Steini Steinar skiptir þessi bók miklu máli.

En ekki það sem um hana er skrifað.

Það er allt og sumt.

Ætli gagnrýnendur hugsi aldrei um svona einfalda hluti? Ætli þeir telji sér trú um að það eitt skipti máli sem þeir eru að þræla inn í tölvuna sína? Og samt skiptir það engu máli — ekki nema gagnrýnandinn sé merkur vegna einhverra verðmæta sem skipta máli og þá skipti það máli hvernig hann hugsar — og skrifar.

Annars er þetta bara eins og að fara í berjamó — og finna ekkert nema grænjaxla.

Þeir eru súrir eins og hálfkæringurinn!

Fann spólu með dagskrá okkar Thomasar Tranströmers á bókamessunni í Gautaborg í september 1990. Vissi ekki að ég ætti þessa spólu. Hlustaði á hana.

Thomas fékk heilablóðfall nokkrum vikum síðar svo að upplestur hans þarna, svör hans og frásagnir, hljóta að vera Svíum dýrmæt eign.

Þetta er mikil og löng dagskrá og salurinn var fullur af fólki eins og heyra má.

Ég las á íslenzku. Sænsk leikkona las ljóðin mín á sænsku. Thomas las sjálfur sín ljóð. Það var lesið úr Goðsögn, Ögurstund og fjallað um það orð,auk annarra smákvæða eins og Gömul kona, lítið afskekkt herbergi... Mér fannst ljóðin hljóma vel á sænskunni enda les leikkonan þau af innlifun.

Áheyrendur tóku mikinn þátt í þessum upplestri og spurðu margra spurninga.

Ég hafði gaman af að segja þeim frá Íslandi og íslenzkri arfleifð. Vinur minn, Nils Gunnar Nilsson, menningarritstjóri Sydsvenska Dagbladets, stjórnaði dagskránni og tók margt fyrir.

Þegar ég hlustaði á segulbandið var ég ekki ánægður með þessa skandinavísku sem ég talaði þarna í Gautaborg. Ég hef augsýnilega verið að reyna að líkja eftir sænskunni og þess vegna fer skandinavískan einatt úr skorðum.

En þetta fór allt vel, held ég.

Og þessi dagskrá er með þeim eftirminnilegri sem ég hef tekið þátt í. Ég verð að viðurkenna að mér finnst gaman að hún skuli vera til á bandi. Og það er auðvelt að upplifa dagskrána með því að hlusta á spóluna því hún er skýr og heldur áheyrileg.

Föstudaginn 22. desember sl. las ég í Morgunblaðinu að Haraldur Sigurðsson bókavörður væri látinn. Hann afgreiddi mig oft á Landsbókasafninu þegar ég las þar undir próf og við urðum miklir mátar.

Þegar ég var drengur borðaði ég um tíma með foreldrum mínum og systur í einhverju [M1] pensjonati í Túngötu, að mig minnir, því að við vorum að flytja og millibilsástand á heimilinu.

Þá borðaði þar einnig stór maður og fyrirferðarmikill, það var [M2] Haraldur Sigurðsson.

Ég heyrði talað um að hann væri ógurlegur kommi og svo mikill guðleysingi að hann hefði skyrpt á mynd af Jesú Kristi.

Ekki þekkti ég þessa hlið á Haraldi.

Hann var allra manna prúðastur, íhugull og öfgalaus. En hann var víst marxisti, hvað sem það merkti.

Nú er hann að minnsta kosti hættur að amast við Jesú-myndum og væntanlega kominn á fund herra síns þar sem hann hefur verið leiddur í allan sannleika og má nú una því vel að Kristur hefur dugað betur en Karl Marx og lærisveinar hans; eða ætti ég heldur að segja þeir sem sneru út úr guðspjallinu hans með gúlaginu?

En Haraldur Sigurðsson var sem sagt ágætur maður og það var hann sem bað mig um að skrifa ferðasögu í afmælisrit Ferðafélags Íslands á sínum tíma en þá skrifaði ég Öskjuferðina og birtist síðar í Ferðarispum (og danskri ferða-og hljóðbók) og hefur skemmt ýmsum að mér skilst.

Matthías, sonarsonur minn og nafni, hefur séð nýja kvikmynd sem heitir Agnes og fær þrjár stjörnur í Morgunblaðinu. María vinkona mína Ellingsen leikur Agnesi og mér er sagt hún geri það vel. Annars hef ég ekki séð myndina og er ekki dómbær á hana.

En Matthías segir að yfirvaldið eða sýslumaðurinn sé hin mesta skepna í myndinni, ofbeldismaður og nauðgari. Sýslumaðurinn á auðvitað að vera Björn Blöndal, ættfaðir Blöndalanna og langalangafi minn.

Ég sagði Matthíasi að þetta væri eintómur skáldskapur því að Björn Blöndal hefði þótt hinn merkasti maður í alla staði og vel látinn af öllum — nema glæpamönnum.

Hann var ættaður frá Blöndudalshólum, það er eitt fegursta bæjarstæði á Íslandi. Ég mundi vilja eiga þessa jörð til minningar um þennan langalangafa minna.

Björn þótti mikið og gott yfirvald en var harður við glæpafólk. Hann friðaði Norðurland og sumir telja að frammistaða hans hafi einnig orðið til þess að látið var til skarar skríða gegn glæpamönnum á Suðurlandi. Þar víluðu Kambransmenn ekkert fyrir sér, ekki frekar en morðingjar Natans Ketilssonar,en hæstiréttur dæmi þá til dauða og þurfti Björn að framfylgja því í Vatnsdalshólum.

Hann var vinur Bólu-Hjálmars og brást þeim hjónum aldrei.

Ég hef kynnzt afkomendum Natans, það er allt ágætisfólk. Og Björn Blöndal þótti yfirburðamaður. Hann fór að sjálfsögðu sem yfirvald að landslögum, enda embættismaður konungs sem öllu réð, ásamt stjórnvöldum í Kaupmannahöfn.

Hann var alls ekki talinn harðhentur við fátæklinga, þvert á móti, en hann þurfti að verja líf sitt og annarra gegn glæpahyski sem óð uppi í Húnavatnssýslum á þessum árum.

Og hann friðaði sýsluna.

En það kostaði blóð.

Bólu-Hjálmar var fátækt skáld og örreitisbóndi. En Guðrún, kona Björns Blöndals, og þau hjón bæði voru einkavinir Guðnýjar og Hjálmars skálds Jónssonar sem ortu um hann látinn fallegt kvæði. Mig minnir hún sé skrifuð fyrir kvæðinu. En maður veit af Hjálmari á næstu grösum.

Hann skar út forkunnarfallegan eldhússkáp handa sýslumannshjónunum, og Guðrún Blöndal, ömmusystir mín sem við kölluðum alltaf töntu Blöndal, átti þennan skáp og hafði hann í eldhúsinu sínu en gaf hann Þjóðminjasafninu áður en hún lézt.

Skápurinn er dýrgripur og sýnir þakklæti Bólu-hjónanna í garð sýslumanns og konu hans enda var vinátta þeirra djúp og einlæg.

Björn Blöndal tók ekki þátt í því að koma sauðaþjófsorði á skáldið í Bólu. Hann var þvert á móti einskonar bakhjarl hans og bjargvættur. Hann hefur aldrei verið orðaður við ofbeldi, nauðgun eða neitt þess háttar, þvert á móti var hann þekktur að góðmennsku og persónutöfrum.

Og þannig hefur orðstír hans lifað þar til hann nú er afskræmdur,fyrst í sögu,síðan í þessari kvikmynd. Hún er að vísu sögð skáldskapur, mér skilst hún eigi að vera eins konar íslenzkur vestri. Og þá er ekki að sökum að spyrja. Kannski er þetta helgimynd um skúrka, ég veit það ekki, það má athuga það síðar. Það yrði þá ekki sú fyrsta!

En ég hef sjaldnast ánægju af íslenzkum kvikmyndum þótt ég fagni því að þær skuli enn vera talaðar á íslenzku.

Ég hitti Þráin Bertelsson um daginn. Ég þakkaði honum fyrir Vestmannaeyja-myndirnar hans. Fannst þær vel gerðar, eðlilegar og ekkert pínlegt í þeim eins og oftast er, að mér finnst, í þessari íslenzku framleiðslu.

En styrjöldin um tunguna fer ekki sízt fram í þessari íslenzku kvikmyndagerð, og það er þess vegna, fyrst og síðast, sem mér hefur fundizt hún mikilvæg.

Það er í sjónvöpunum sem úrslitaorustan um tunguna verður háð og þess vegna verður maður að láta ýmislegt yfir sig ganga. Ég ætla til bráðabirgða að einblína á þessa athugasemd Sæbjörns Valdimarssonar í gagnrýni hans í Morgunblaðinu 23. desember sl.:

“Undir sýningu Agnesar verður áhorfandinn að gleyma öllu sem heitir sagnfræði, höfundarnir hafa dramatíserað atburðarásina svo að hún er næsta óþekkjanleg. Í staðinn fyrir sögu af ólánssömu almúgafólki, svo langt leiddu af nöturlegum tíðarandanum að það vílaði ekki fyrir sér að myrða fyrir nokkra ríxdali, er komið öllu nútímalegra myndefni um ástir, afbrýði, svik og grimmilega hefnd, sem kallar bölvun yfir persónurnar. Gott og vel, öllum er skáldaleyfið frjálst. Þessi umbúnaður gengur oft vel þó hann sé ærið reyfarakenndur...”

Sem sagt, þessi mynd kemur Birni Blöndal ekkert við. Hann lifir í sögulegum veruleika en ekki misjöfnum skáldskap.

Og svo auðvitað í eftirkomendum sínum vesölum, mér og öðrum slíkum!!

Hef þekkt nokkra afkomendur Natans Ketilssonar og skrifað dálítið um örlög þessa fólks. Erlingur Jónsson myndhöggvari í Noregi sem nú er staddur á Íslandi er afkomandi Natans. Hann er langafi hans og Erlingur er stoltur af afanum. Erlingur er ágætur maður og sérstæður listamaður. Hann kann sum ljóða minna utan bókar og fer fallega með þau! Ég get helzt ekki lært svona utan bókar, ekki lengur!

Ég sagði Erlingi að ég hefði lært þennan kafla úr Fegurð himinsins svona: Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt en fær hlutdeild í himninum. Þar ríkja ekki framar neinar sorgir og þess vegna er gleðin óþörf, þar ríkir fegurðin ein ofar hverri kröfu.

Ég hrökk við þegar ég bar þetta einhvern tíma saman við texta Laxness og sá muninn. Þar stendur til að mynda: ekki nauðsynleg í stað óþörf, en mér finnst minn heili hafa lagfært þetta á löngum tíma!

Erlingur þolir illa mergðina rétt eins og ég. Segir það sé með ólíkdum allt ruslið sem fleygt er í heilann á fólki, en verðmætin glatist . Erlingur hefur áhyggjur af þessu, segir að hlutverk heilans sé að skilja ruslið frá verðmætunum og það takist stundum.

Þetta sé eins og bragðlaukarnir og hlutverk þeirra, en þeir séu m.a. til að koma í veg fyrir að við förum að éta tjöru!

Segir Erlingur Jónsson sem kann marga góða vísuna eftir Natan, langafa sinn. Hann var fínn silfursmiður, segir hann, og ég hef fengið ýmislegt frá honum.

Orti þetta í gærkveldi því það var einhver skemmtileg þorláksmessustemmning hér á heimilinu:

Þú situr og fægir

silfrið í gamalli

skúffu

ég fylgist með þér

eins og tíminn

fylgist með því

hvernig við eldumst,

hugsa: seinna

þegar fellur á skjöld minn

kemurðu jafnung og forðum

og fægir hann

undir kvöldfölum skuggum

dauðans.

Klukkan er farin að ganga fimm. Senn verður heilagt. Við ætlum við aftanmessu klukkan hálftólf.

Ég hugsa um fólkið sem missti ættingja sína í flugslysinu mikla í Kólombíu þegar Boeing 757 fórst þar fyrir skömmu án þess vitað sé um orsökina. Ég hef séð þetta fólk gráta í sjónvarpinu. Það syrgir börn sín, það syrgir ættingja sína. Hjarta mitt hefur slegið með þessu fólki og ég finn til sársauka.

Allt minnir þetta á Flateyrar-slysið; og Súðavík.

Hvers vegna?

Hvers vegna syrgir ungur maður konu sína og tvö börn þremur dögum fyrir jól? Þau voru á leiðinni til hans frá New York.

Ingólfur sonur minn fór um svipað leyti með samskonar þotu frá New York til Íslands. Ég þakka guði fyrir þá ferð. En ég hryggist með þeim sem eiga um sárt að binda.

Hvernig má þetta verða? spyrjum við endalaust.

Ekkert svar.

Og það verður aldrei neitt svar því þetta á víst svona að vera án þess við séum spurð. Án þess okkur sé ætlað að fá svar; án þess okkur sé ætlað að skilja.

Og þá leitar hugurinn til þess sem fæddist í dag.

Hann einn er svar. Ég á að minnsta kosti ekki annað svar. Fyrirheit hans er það svar sem bezt hefur dugað mér og öðrum.

Jóladagur

Hef verið að lesa ljóð eftir ung skáld sem skírskota í náttúruna með þeim hætti að mér hugnast það heldur vel:

Landslag með tíma

svo sólríkur þessi dalur

að undir morgun týrir

á degi frá í gær

Svo mikil þessi fjöll

að næturskuggarnir einir

ná utan um þau

Svo skjólsæl þessi laut

að í lynginu leynist ylur

frá liðinni öld.

þetta er eftir Sigfús Bjartmarsson. Og Ragnar Ingi Aðalsteinsson yrkir:

þokan hangir

um þotuvænginn —

bak við hann grillir

í gulbrúnar skellur

dökka bakka

og deigan mó,

tjarnir og læki

í lemjandi regninu,

hross sem norpar

í nöprum strengnum

og Nesið

umlukið sjó.

Betra hefði verið að sleppa greininum, að vísu.

Einar Falur Ingólfsson skrifar um nýja ljóðabók eftir Þórð Helgason. Þórði tekst oft vel upp og hann hefur þá sérstöðu sem ljóðskáld að hann á í pokahorninu ágætan húmor.

En ég er sammála Einari Fali þegar hann segir að miðlínurnar tvær megi missa sín í þessu kvæði hans, þá verði það áferðarfallegra og sterkara. En kannski þetta sé líkara Þórði svona:

Vilt þú verða hafið

þegar skip mitt ferst

vilt þú varðveita mig

í djúpi þínu

fara um mig

mjúkum straumum?

Finnst þetta ágæt ábending hjá Einari Fali en Þórður er stórlátur og ég efast um að honum líki svona aðfinnslur. En dómur Einars Fals er að öðru leyti með þeim hætti að mér finnst Þórður geta vel við unað.

Það er augljóst að Einar Falur er einlægur í dómnum og hann meinar það sem hann segir og hann hrósar líka Þórði fyrir það sem honum finnst vel gert.

Fyrir nokkrum árum skrifaði Erlendur Jónsson stuttan ritdóm um ljóðabók eftir Þórð. Þórður sætti sig ekki við þessa “afgreiðslu” og talaði um það við mig. Ég gat vel skilið að honum skyldi renna í í skap. Hann átti skilið alvarlegri umfjöllun og við reyndum að bæta úr því ef ég man rétt.

Þórður hefur oft sýnt mér hlýhug. Hann sagði við mig á sínum tíma að Dagur af degi væri merkilegasta ljóðabók sem hefði komið út um langan tíma. Mér varð svo mikið um þetta að ég fór að lesa bókina aftur, en það geri ég aldrei nema ég þurfi — og þá einungis til að undirbúa mig undir upplestra. Ég átti ekki von á neinu; vissi að Þórður er vinstri maður og átti venjulega von á ónotum úr þeirri átt(!)

Ég var eitthvað að tala um Stein Steinar í gær. Guð hjálpi þeim ef hann hefði lifað!

Þegar Einar Bragi réðst á Borgin hló í Þjóðviljanum á sínum tíma sagði Steinn við mig,

Matthías minn,þú afgreiðir hann bara með sama hætti,næst þegar hann gefur út ljóðabók!

Hef ekki haft tækifæri til að hlusta á þátt Jóns Karls um smásagnahefti mitt en hann var í útvarpinu einhvern tíma fyrir jól og ég hef fengið hann á bandi. Mér líkar þessi samtalsþáttur okkar ágætlega, svona eftir á að hyggja: Mörk draums og veruleika eru eins og rauður þráður í bókinni en á þessum mörkum verður skáldskapurinn til, segir Jón Karl.

Já, svara ég, þetta leitar á mig. Það er maðurinn sjálfur í sínum mörgu tilverum. Ekki þjóðfélagið sem slíkt heldur við sjálf; okkar eigin beinagrind.

Jón Karl segir að glíma mín á mörkum draums og veruleika sé ekki ný af nálinni, hún liggi til grundvallar í sumum leikverkum mínum, svo og mörgum sögum í Kongunginum af Aragon. Það sé að sjálfsögðu í heilanum sem stefnumót draums og veruleika eigi sér stað.

En Jón Karl segir að ég hafi einnig hugað að því hvernig þessu stefnumóti sé háttað í fornsögunum.

Ég lýsi fyrstu sögunni í Konungi af Aragon, Maren, og hvernig hún er rituð upp úr efni sem ég hef verið handgenginn enda fjalli það um langömmu mína. Sagan sé byggð á minnum og munnmælum en samt sé hún skáldskapur að mestu, þó örlítið byggð á skrifuðum eða bréfuðum heimildum, “en samt gæti ég trúað að það séu ekki nema tvö tilsvör í allri sögunni sem eru nokkurn veginn áreiðanleg, það er allt og sumt og hið sama má segja um sögurnar í þessu nýja smásagnasafni, það á sér einhverja kveikju, einhverja handfestu í veruleikanum en þarna er reynt að handlása sig milli draums og veruleika með einhverjum hætti, stundum kannski dálítið sérkennilegum og ég vona stundum einnig dálítið fyndnum”.

Jón Karl minnist á fléttuna í sumum sögunum og hvernig reynt sé að tvinna saman tvær frásagnir í eina heild; hvort þetta sé frásagnabragð sem ég hugsi í samhengi við draumreynsluna.

Ég svara því til að þetta sé í einhverju sambandi við það tímaleysi sem einkenni þessi verk, þetta tímaleysi á mörkum draums og veruleika. Með þessari aðferð “hafi mér fundizt ég geta búið til skel, það er að segja annars vegar getur þetta verið sama manneskjan sem er að hugsa svona löngu síðar, hún er til að mynda ung í síðustu sögunni en svo kemur hugsun hennar löngu síðar og myndar lokaða skel og þar er tíminn þurrkaður út og ómögulegt að vita hvað er skáldskapur og hvað er veruleik. Þannig vil ég hafa það, ég er orðinn leiður á óskáldskaparlegum frásögnum.”

Jón Karl minnist á heilann sem getur þurrkað tímann út , ýmist sé hugsað fram eða aftur en minnir á að ég tali einnig um manninn sem einskonar öskutunnu. “Já, í sögunni um öskutunnuna (en ég las brot úr henni í þættinum) má sjá að þessum blessuðum rithöfundi finnst stundum hann þurfi að upplifa sjálfan sig eins og einhvers konar sorphaug, það er fleygt í hann öllu mögulegu dóti og drasli á hverjum degi, þetta upplifum við öll, og þetta kemur fyrir í öðrum sögum, til að mynda þar sem viðkomandi dreymir bókstaflega öskutunnu og hann er orðinn sannfærður um það að hann sé orðinn öskutunna, en svo kemur lausn á því. Það er ekki út í bláinn að það lendir margt í heilanum á okkur sem við höfum engan sérstakan áhuga á að þar sé og það þarf stundum að losna við það, vinna úr því alveg eins og í Sorpu.

Þetta hefur heillað mig að því leyti að ég hef mikinn áhuga á því hvað er fyrir innan hauskúpuna, ég leita mannsins þar, því að þar er hugsun hans og þar er það sem hann vinnur úr og það hlýtur að vera hlutverk skáldskapar að leita mannsins þar sem hann er en ekki í öllum umbúðunum þar sem hann er einskonar þræll eins og í þjóðfélagi, við erum einskonar þrælar í þjóðfélagi því við erum upp á svo margt komnir, það er svo margt sem er ýtt að okkur og heilinn verður að taka við þessu og meira að segja fáum við ekki að vera í friði á nóttunni.

Og þá hef ég mikinn áhuga á því að vita hvað þetta er sem að okkur er rétt; hvað er maðurinn? Hann er ekki bara það sem við sjáum, hann er það sem unnið er úr hugsun og hugmyndum hans og það er á þeim mörkum sem allur skáldskapur verður til.

Þess vegna er ég ekkert óskaplega spenntur fyrir einhverjum þjóðfélagslegum lýsingum.

Ég er spenntur fyrir manninum og þjóðfélaginu sem er innan hauskúpunnar.

Allt er þetta að vísu talmál og heldur vanmáttugt og ókræsilegt á prenti en ég er nokkuð ánægður með það sem ég var að reyna að segja, enda er það í samræmi við það sem ljóðskáld fást einkum við.

Hlustaði í gær á Haydn, í kvöld á Sögusinfóníu Jóns Leifs. Uppörvandi og öðruvísi. Jón var misskilið séní, en hann ýtti oft undir þennan misskilning sjálfur með framkomu sinni. en það fór ávallt vel á með okkur.

Fórum í náttsöng í Neskirkju, það var ósköp yndælt.

Full kirkja.

Börnin gengu inn í hvítum kyrtlum með ljósin sín. Íslenzk framtíð vekur ævinlega gleði.

Sr. Halldór Reynisson flutti ágæta prédikun um hina orðlausu gleði jólanna.

Var að hugsa um að ljóð Páls postula um kærleikann væri einskonar samtal hans við fjallræðu Krists sem er samskonar ljóð og engum öðrum ljóðum líkt enda vart af þessum heimi.

Það talar enginn eins og Kristur og því getur það varla verið tilviljun hvernig Páli tekst að nálgast hann.

Þar sem Kristur kemur við sögu breytist jörðin í himnsk fyrirheit og andspænis þeim stöndum við orðvana eins og ómálga börn , en finnum að guð er nálægur; faðirinn sem Jónas talar um eins og Kristur sagði fyrir og enginn má eða getur breytt þeim orðum. Faðir vor, enginn kemst nær guði en í þessum orðum, enginn.

Aldrei.

Hef verið að hugsa um trúmál.

Hef verið að hugsa um Biblíuna og hvernig Kristur skírskotar í Gamla testamentið. Þess vegna verðum við að hafa þessa grimmdarlegu bók gyðinganna og herskáu afstöðu, sem aðfaraorð og forboða Nýja testamentisins.

Það hefði kannski farið betur á því að við hefðum sett Njálu í staðinn fyrir Gamla testamentið í Biblíuna okkar, en það hefði líklega þótt hið mesta guðlast! Auk þess er enginn almennilega kristinn í Njálu nema illmennið Mörður og sýnir það ekki sízt að bókin er skrifuð af leikmanni því það vantar í hana allan klausturanda; bæði tungutakið og afstöðuna.

En þá mætti svo sem spyrja: Er einhver kristinn í Gamla testamentinu? Ég hef ekki komið auga á það.

Jesaja gefur frelsarann í skyn, að vísu, en Daníel er sá fyrsti sem fjallar um framhaldslíf, þeir sem sofi muni upp rísa, einhvers konar fyrirboði kristinnar trúar.

Og Jesús sækir sjálfur margt í Gamla testamentið en hafnar líka ýmsu sem þar stendur. Menn eiga að vinna þegar nauðsyn krefur; og það er ekki endilega óhreint sem fer inn í manninn, heldur hitt sem fer út af honum, þ.e. ill hugsun; óhrein orð.

Svona afstaða er Kristi lík, honum einum.

En gyðingar gátu ekki tekið við honum vegna þess að hann kom ekki með lúðrablæstri í skýjum.

En sjálfur segist Kristur koma þannig öðru sinni. Þá kannski falla þessi trúarbrögð Biblíunnar í einn farveg.

Jesús var fæddur í jötu, sonur fátækra foreldra. Hann var fæddur inn í umbúðarlausan heim; hreysi en ekki höll. Jatan var hans umgjörð. Hann átti heima á meðal klaufdýranna og hann gerðist maður til að draga úr grimmd mannsins; minnka hið dýrslega eðli hans.

Hefur það tekizt?

Ég efast um það, því miður.

En veröldin er þó önnur og betri vegna hans. Hann gerði byltingu í hjarta mannsins hvað sem öðru líður og þessi bylting er mikilsverðustu tíðindi allra alda.

Þess vegna höldum við jól.

Þess vegna hvílir helgiblær yfir fæðingu Krists, já ekki sízt þess vegna.

Og kannski á hann eftir að koma aftur í skýjum. Og þá fyrst verður Gamla testamentið og Nýja testamentið að einni heild.

En þjóð Gamla testamentisins hefur afneitað honum — og þá ekki sízt vegna þess að hann fæddist í jötu,en fór ekki himinskautum um veraldarsöguna.

Það var ekki tilviljun að ég notaði þetta fyrirheit í þeim eina sálmi sem ég á í sálmabókinni íslenzku, Hann sagði við þá: Sjá ég kem í skýjum... (nr. 165, með sínu lagi sem Páll Ísólfsson samdi í vináttuskyni við mig og er magnað verk ef vel er sungið).

Trúaður efasemdamaður hugsar sífellt um trú; og guð. Það gerði sr. Matthías. Jónas var ekki efasemdarmaður, hann þurfti ekki að hugsa um trú. Hún var honum eðlisborin; inngróin. Ég held hann sé mesta trúarskáld sögunnar. Hann þarf ekki á Kristi að halda eins og við hin: Faðir og vinur alls sem er, þessi skírskotun í Krists-bænina dugði honum. Guðstrúin var honum það sama og vatnið fiskinum eins og ég hef drepið á í bók minni um Jónas.

Hef skrifað hjá mér ýmislegt um trúmál,en sleppi því hér í dagbókinni.[M1]

[M2]