1996 (annar hluti)

 

13. apríl – laugardagur

Hef verið að skríða saman eftir skurðinn. Allt gengið vel. Styrmir kominn heim og við höfum átt löng og góð samtöl um mikilvægi þess að ritstjórn Morgunblaðsins haldi sjálfstæði sínu, ekki sízt gagnvart framleiðslu- og framkvæmdastjórn. Einhver tilhneiging virðist vera til að hafa afskipti af starfsháttum ritstjórnar og hafa mörg blöð átt við slík vandamál að etja. Þau hafa ávallt verkað eins og eitur á alla starfsemi. Þurfum að halda áfram því góða samstarfi sem verið hefur. Og þá þarf ekki sízt að halda sjó gagnvart stjórn Árvakurs svo að við lendum ekki í sams konar útistöðum og Olof Lagerkranz þurfti að standa í síknt og heilagt gagnvart sumum eigendum Dagens Nyheter. Bók hans um það er afar fróðleg.
Sjálfstæði ritstjórnar er forsenda þeirrar velgengni sem Morgunblaðið hefur átt að fagna.

Alþýðublaðið segir ágætlega frá ljóðabók minni nýrri, Vötn þín og vængur. Ég hef verið þar á forsíðu, baksíðu og miðsíðu og á bls. 3 er þessi klausa í Alþýðublaðinu miðvikudaginn 10. apríl sl.:
„Viðtal Alþýðublaðsins við Matthías Johannessen ritstjóra Morgunblaðsins vakti mikla athygli, enda örsjaldan sem Matthías veitir viðtöl. Nú heyrum við að í undirbúningi sé annað viðtal, og hefði einhverntíma þótt tíðindum sæta: Silja Aðalsteinsdóttir mun ræða við Matthías í hausthefti Tímarits Máls og menningar. Þarmeð má segja að formlega sé lokið köldu stríði í íslenskum bókmenntum, enda ekkert sem mælir gegn því að Matthías ræði við tímarit þess forlags sem gefur út verk Tómasar Guðmundssonar.”
Þetta er rétt.

En ekki veit ég hvaðan þeir hafa fengið þessar upplýsingar. Sjálfum finnst mér ekkert merkilegt þótt ég eigi samtal við Tímarit Máls og menningar.

 

Silja Aðalsteinsdóttir hefur ávallt sýnt mér hlýhug og fjallað af nærfærni og þekkingu um kvæðin mín. En það er þá gott ef kalda stríðinu er lokið „þarmeð”! Hef að vísu fengið mjög jákvæð viðbrögð við þessu samtali Alþýðublaðsins svo að einhverjir hafa lesið það.
Litla bílastöðin er kannski nokkuð stór!
Fékk m.a. svona bréf frá Braga Kristjónssyni, dagsett 9. apríl sl.: „Kæri Matthías, leyfðu mér „from the bottom of my heart” að þakka þér kærlega fyrir viðtalið í Abl. Þetta var svo flott og einlægt viðtal, þú hefðir sjálfur getað skrifað það þessvegna.

Það er sjaldgæft að upplifa í firringu allra fjölmiðla svona sannan hlut.

Mig langaði bara að segja þér þetta. Fleira var það ekki. Bestu kveðjur.”

Neita því ekki að það er alltaf notalegt að fá svona kveðju.

Var að lesa uppkast að samtali Guðmundar Sv. Hermannssonar og Karls Blöndals við Davíð Oddsson sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins á morgun. Að mörgu leyti ágætt samtal. Davíð fjallar um ofnæmi sitt fyrir Evrópusambandinu, að venju, og segir m.a. (ef þetta verður þá ekki strikað út í yfirlestri!): „En hinir ungu evrópsku hugsjónamenn ættu bara að synda eins og Jóakim von önd í þessum reglugerðarbunkum sínum. Evrópusambandið hefur aldrei skapað atvinnu nema í Brussel”!
Og samtalinu lýkur með þessum orðum:

„- En það er ekki þar með sagt að inngangan í ESB sé orsökin fyrir ástandinu í Svíþjóð.

Ég er viss um að það er ekki orsökin. Ég er alls ekki að segja það. Ég er bara að segja að þeir sögðu: þetta mun verða betra og þetta fer allt til andskotans nema við förum þarna inn. Svo bara fór allt til andskotans hvort sem var. Fólkið vill ekki láta plata sig.”

Að öðru leyti reynir Davíð að gera grein fyrir afstöðu sinni til forsetakosninga og er það heldur fróðlegur passus. Hann segir m.a. að hann hafi þegar í upphafi sagt við fjölmiðla að það væri afar ólíklegt að hann myndi bjóða sig fram.
„Það gerði ég af ásettu ráði. Bæði þótti mér það ólíklegt og eins vildi ég ekki að mitt nafn yrði til að torvelda einhverjum öðrum sem af einhverjum ástæðum vildi ekki vera í slag við mig.”
Ég man að vísu ekki eftir þessu en dreg það ekki í efa. Hitt er annað mál að ég er sannfærður um að þessi dráttur á svari frá Davíð hefur komið í veg fyrir að borgaraleg öfl hafi getað fundið árennilegan forsetaframbjóðanda og komið honum á framfæri í tæka tíð.
Kannski er þetta rangt hjá mér þótt ég hafi þessa bjargföstu sannfæringu.
Ég er einnig sannfærður um að Davíð ætlaði í forsetaframboð en byr ræður ef menn ætla að sigla. Þessi byr var ekki, að ég held, nógu árennilegur. Og fyrir bragðið stendur formaður Alþýðubandalagsins sem kallaði Davíð Oddsson á sínum tíma mann með skítlegt eðli á einhvers konar silfurbakka sem alls konar skrýtið fólk á Íslandi er nú að bera til Bessastaða!
Ólafur er að mörgu leyti ágætur en hann er mesti lýðskrumari og tækifærissinni sem hér hefur tekið þátt í stjórnmálum um áratuga skeið.
Og þótt eðli Davíðs hafi ekki verið honum að skapi þá tel ég það hafi verið Davíð til tekna en ekki vansa.

Í samtalinu við Davíð segir ennfremur:
„- Það heyrast samt þær raddir að með því að draga svarið svona lengi hafir þú einmitt komið í veg fyrir eða torveldað trúverðugt framboð af hægri vængnum.”

„Það er ekkert, sem bendir til þess. Það hefur ekkert nafn verið nefnt í mín eyru sem ég hef komið í veg fyrir að færi í framboð.”

Ég er sammála Davíð um þessi atriði sem nú verður vitnað til:
„Einn frambjóðendanna gefur til kynna að forsetinn eigi að vera eins konar farandssendiherra sem eigi að vera á faraldsfæti og koma Íslandi á kortið, eins og það er orðað. En Ísland hefur lengi verið á kortinu og ég sé engan þjóðhöfðingja fyrir mér sem farandsendiherra.

Annar frambjóðandi sagði í útvarpsviðtali að hann ætlaði að sitja á Bessastöðum, ef hann yrði kosinn, og hafna lögum frá Alþingi ef undirskriftasafnanir bærust um það. Það yrði um leið hálfgerð stríðsyfirlýsing við þingið, andstætt öllum hugmyndum um þingræði í landinu og fjarri öllum hugmyndum sem menn gerðu sér um forsetaembættið í upphafi.

Umræður um forsetaembættið og þær forsendur sem þessir kandídatar eru að tala um eru mér mjög framandi og ég tel að ef menn verða kosnir í þetta embætti á þessum forsendum og reki það á þessum forsendum, þá muni ekki líða á löngu áður en forsetaembættið hverfi úr okkar stjórnskipun í þeirri mynd sem það er nú. Þá eru menn komnir á slíkar villigötur að það nær ekki nokkurri átt.”

Og ennfremur:
„Forsetaembættið er í eðli sínu pólitískt. Það er ekki hægt að komast hjá því að það snerti stjórnmál vegna þess að forsetinn er annar af handhöfum löggjafarvaldsins og æðsti handhafi framkvæmdavaldsins. Þótt hann feli ráðherrum að fara með vald sitt þá ná lög í landinu ekki gildi nema forsetinn undirriti þau og stjórnarfrumvörp verða ekki lögð fram á þinginu nema forseti heimili það áður.

Forsetinn hefur einnig ákveðna stöðu varðandi stjórnarmyndunarviðræður. Allt eru þetta stjórnmálalegir þættir. Hitt er að vísu rétt, að eftir því sem ég best veit hefur forseti ekki haft raunveruleg áhrif á stjórnarmyndanir síðan 1959 heldur frekar komið fram til að gæta formreglna...”

Það væri fróðlegt að bera þetta saman við það sem Bjarni Benediktsson sagði í samtalinu við mig um forsetaembættið,þegar Gunnar Thoroddsen og Kristján Eldjárn voru í framboði.
En allt er þetta viturlega sagt hjá Davíð og mættu fleiri hugsa svo skynsamlega um forsetaembættið.
Mér sýnist einna helzt að fólk vilji kjósa í þetta embætti einhvern sem gæti orðið landkynningarforseti Íslands. Mér er nær að halda að þetta embætti sé að verða einskis virði sem táknleg yfirlýsing um sjálfstæði okkar og arfleifð.
Hvernig væri að láta útlendar ferðaskrifstofur og einhverja tengjaliði við Ísland erlendis kjósa forseta lýðveldisins. Hann þyrfti þá ekki endilega að sitja á Bessastöðum. Hann gæti t.a.m. verið í Lúxemborg, það er miðsvæðis!

Davíð Oddsson gerir atlögu að Guðrúnu Pétursdóttur og segir:
„Á sama hátt getur einhver forsetaframbjóðandi t.a.m. haft það sér helst til ágætis að vera á móti húsum. Eftir að hann eða hún væri orðinn forseti myndi hann væntanlega ekki halda því áfram að vera á móti húsum en kannski myndi sú reynsla nýtast viðkomandi í forsetaembættinu, þótt ég sjái það að vísu ekki.”!
Þarna er Davíð eins og hann er beztur!
En það verður fróðlegt að sjá hverju hann vill sleppa þegar samtalið birtist á morgun.
Ég sé ekki betur en hann sé að víkja að tækifærisrutli Ólafs Ragnars þegar hann segir:
„Um leið þýðir það ekki að sá sem verið hefur stjórnmálamaður verði af þeirri ástæðu góður forseti, frekar en hitt að sá sem ekki hafi verið stjórnmálamaður verði ekki góður forseti. Við höfum dæmi sem sýna og sanna það gagnstæða. Stjórnmálareynsla er örugglega góð en það er jafnframt mikilvægt að persónan sé þannig að henni sé almennt treyst og ekki með blóðugan feril í þeim efnum”!

Og svo afgreiðir Davíð Oddsson alla frambjóðendurna sem nú eru í augsýn með sínu lagi:

„- Það er einnig greinilegt af þessu að það er ekki kominn fram forsetaframbjóðandi sem þú myndir vilja styðja.”

„Nei, mér sýnist það ekki vera.”

Finnst þetta merkileg yfirlýsing hjá Davíð því Guðrún Agnarsdóttir er í fjölskyldu þeirra Ástríðar. Þær eru systradætur ef ég man rétt. Davíð er búinn að segja í samtalinu að forsetakosningarnar fari ekki eftir flokkslínum og af þeim sökum hefði hann vel getað stutt Guðrúnu Agnarsdóttur. En hann fellur ekki í sama pyttinn og Gunnar Thoroddsen á sínum tíma. Davíð gætir sín vel. Hann hefur vaðið fyrir neðan sig. Stjórnmálaleg afstaða hans er ofar fjölskyldupuðinu. Það er gott hjá honum. Ég ber virðingu fyrir því. Ég held að þessi afstaða lýsi honum á margan hátt mjög vel og þá ekki sízt pólitísku hugrekki hans.

 

 

Í frétt á menningarsíðu Morgunblaðsins í morgun er fjallað um nóbelsskáld sem hafna alnetinu. Þrjú nóbelsskáld á bókastefnu í Miami, Flórída, lýstu því yfir á blaðamannafundi að þau teldu ekki að ljóðlistin ætti erindi á alnetið.
„Það kann að virðast hroki, en fjöldi þeirra sem lesa ljóð, er ekki jafn mikilvægur og hvaða áhrif ljóðið hefur á þá, sem lesa það”, sagði Derek Walcott frá St. Lucia, sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1992.
„Fremur vildi ég að einn maður læsi ljóð eftir mig og yrði djúpt snortinn, en að mörg hundruð þúsund manns læsu það og létu sér í léttu rúmi liggja.”

Walcott kom fram á blaðamannafundi ásamt Octavio Paz frá Mexíkó, sem fékk nóbelsverðlaunin árið 1990 og Pólverjanum Czeslaw Milos, sem fékk þau árið 1980.

Enginn þremenninganna kvaðst myndu láta hugfallast þótt talið væri að aðeins einn af hundraði bandaríkjamanna læsi ljóð á okkar dögum.

„Þótt ljóðagerð sé list minnihlutans er hún engu að síður nauðsynleg andlegri heilsu þjóðfélagsins,” sagði Paz. „Ég trúi ekki á dauða ljóðlistarinnar því hann jafngilti dauða sjálfs þjóðfélagsins.”

Ég er sammála þessu öllu og mér þykir vænt um þessa afstöðu. Ljóðlist er einmanaleg iðja. Við eigum hana hvert fyrir sig. En af upplestrum mínum víða um lönd er ég þess fullviss að ljóðlist á spöl í landi sérhvers manns. Það þarf bara að framkalla hana. Maður þarf líka að venjast klassískri músík! Ég hélt á sínum tíma að hún væri fyrir alla aðra en mig. Svo fór ég að hlusta og fann að hún var einnig fyrir mig. Það var dýrmæt uppgötvun, ekki fyrir tónlistina, heldur mig!

Talaði við Jón Hall hjá ríkisútvarpinu í gær. Hann ætlar að hafa þátt um Vötn þín og vængur næstkomandi þriðjudag. Hann spurði um fyrsta ljóðaflokkinn, Um vindheim víðan, sem er tilvitnun í Völuspá. Ég sagði honum að ég hefði upphaflega haft í hyggju að merkja þessi ljóð með tölustöfum, en ekki sérstökum fyrirsögnum, en hefði horfið frá því. Flokkurinn væri eins konar ferðalag um arfleifð okkar; eins konar samtal eða hvísl milli kynslóða.
Ég hef alltaf haldið fast við það að ég kynni helzt að meta þau ljóð sem væru einhvers konar ferðalag eða samtal. Það eykur á spennuna og hreyfing er prýði á ljóðinu.
Þessi flokkur staldrar við vörðubrot á leið mannsins undir stjörnubjörtum næturhimni arfleifðarinnar. Hann á að vera eins og andrá undir þessum afstæða næturhimni. Hann er afstæður vegna þess að við sjáum allar stjörnurnar á sama andartaki þótt við vitum að þær hafa ekki allar orðið til á sama tíma. Sumar eru jafnvel ljósið eitt en sjálfar eru þær horfnar. Við sjáum þessa leiksýningu í einni andrá þótt milljónir eða milljarðir ára séu á milli fæðinga og dauða þessara stjarna. Við njótum þessarar leiksýningar eins og hún birtist á himinhvolfinu. Augu okkar taka við þessum milljónum ára eins og þau væru eitt andartak. Og við upplifum þessa eilífu andrá jafnlengi og við horfum til himins. Og hún verður hluti af reynslu okkar, þroska og fögnuði. En það þarf að vera heiður himinn til að við getum upplifað þessa veizlu. Sumir sjá aldrei heiðan himinn. Það er alltaf skýjað þegar þeir horfa til himins. Og sumir eru eins og gyltan sem horfir aldrei til himins en er með allan hugann við akarnið undir krónunni.

Ég sagði Jóni Halli að ég liti svipuðum augum á arfleifð okkar og þennan næturhimin stjarnannna. Ég vil yrkja um þessa vegferð okkar eins og hún sé ein andrá; ég vil upplifa þessi þúsund ár, þessi vörðubrot á langri vegferð mannsins eins og leiksýninguna á næturhimni arfleifðarinnar. Þess vegna hef ég ævinlega notað skírskotanir eða vísanir í gamlan skáldskap eins og hann sé ný og fersk upplifun, rétt eins og allt annað sem er að gerast í umhverfi okkar.
Þannig eigum við að umgangast arfleifðina. Hún á að vera hluti af reynslu okkar og umhverfi. Hún á ekki að vera dauður bókstafur einhvers staðar aftur í öldum, heldur leiftrandi þáttur í umhverfi okkar og samtíð. Þess vegna m.a. vitna ég til fornra bókmennta eins og ég væri að yrkja þær sjálfur og án allra útlistana.

Þannig er þessi fyrsti þáttur bókarinnar hugsaður og unninn.
Ég vann einnig Jörð úr ægi með svipuðum hætti, svo og Hólmgönguljóð eins og sjá má af skýringum mínum við endanlega gerð ljóðaflokksins. Þannig má einnig segja að Kornið og sigðin í Mörg eru dags augu sé eins konar brot af þessum næturhimni. Skálholtsljóðið er ort eins og þúsund ár væru ein andrá, ég tala nú ekki um Sólhjartaljóðið sem Jón Nordal hóf í æðra veldi með óviðjafnanlegri tónlist sinni.
Sólarljóð leyna sér ekki í þessu kvæði.

Þannig verða þau hluti af umhverfi okkar og þeirri andrá tímans og vegferðarinnar sem ég hef verið að tala um. Þetta verklag getur maður einnig séð í síðasta ljóðaflokknum í Dagur af degi en hann heitir Tunglið er spegill tímans, ef ég man rétt, og er tilvitnun í erlent skáld. Sá ljóðaflokkur er innblásinn af Borges, þó einkum bók hans Seven Nights. Síðasti flokkurinn í nýju ljóðabókinni er einnig ortur með svipuð viðhorf í huga, Kumpánlegt olnbogaskot, en þar verður meistaraverk Melvilles um Moby Dick að sams konar forsendu þessarar andrár og píslarsagan er í næsta ljóðaflokki á undan, Í nærveru tímans.

Það er hægt að upplifa arfleifð okkar án þess endurtaka hana. Davíð Oddsson sagði í sunnudagssamtali við Morgunblaðið að fólk eigi að þekkja söguna vel „en ég er ekki þeirrar skoðunar að menn geti nánast ljósritað hana.”
Þetta er góð líking og ég er henni sammála. Það er hægt að upplifa söguna með nýjum hætti; eins og blómin upplifa sólina á nýju vori. Arfleifð okkar getur kallað slík bros úr jörðinni. Geymdin er heimilisföst í blóði okkar. Minningin er í litningunum. Það þarf að kalla hana fram, endurvekja hana; upplifa hana með nýjum hætti. Maðurinn hefur breytzt svo lítið í gegnum tíðina. Það sem hann hugsaði fyrir tíu þúsund árum á erindi við okkur enn í dag. Á það er ég að reyna að minna í þessum vörðubrotum í upphafi fyrsta ljóðaflokksins í Vötn þín og vængur. Fyrsta kvæðið sem heitir Minning um Valhúsahæð byrjar á hundshræinu sem Sigurður Nordal segir frá í Einlyndi og marglyndi. Allir gengu framhjá því með fyrirlitningu. Spörkuðu í það. Héldu fyrir nefið. En svo kom Jesús Kristur og sagði, Þessar hvítu tennur glitra eins og perlur!

Það er eins og ljóðið vegi salt á þessari skírskotun og vísuninni í kvæði Steins um Valhúsahæðina. Í næsta kvæði, Á leið í Grasgarðinn má finna stuðning og innblástur frá Campbell, ekki sízt The Power of Myth. Þar er m.a. talað um dansandi Krist. Í næsta kvæði, Vökunótt fuglsins, sem er vísun í Kjarvalskver, er vitnað í 2-3000 ára gamalt egypzkt kvæði sem Helgi Hálfdanarson hefur þýtt og þá með þeim hætti sem Danir kalla blindsitat:

Í dag kenni ég dauðann,
eins og löngun að líta sitt hús
eftir fangavist óralöng ár

Þetta fellur að kvæðinu eins og flís við rass! Þúsundir ára í einni andrá. Hvaða munur er á okkur og fólkinu sem leitaði að guðsmynd sinni í sfinxum og íbisfuglum? Tíminn í einni andrá eins og maður sér í niðurlagi kvæðisins. Næsta kvæði, Með hliðsjón af Indra, er einnig sótt í þúsund ára gamla sanskrítararfleifð Veda-bókanna. Og guðahugmyndir forfeðra okkar á slóðum aríanna. Það er einnig angi af þessu í næstu kvæðum; vörðubrot sem við stöldrum við. Veikt hvísl sem við heyrum enn ef við hlustum.

Alexander Jóhannesson sagði við okkur nemendur sína í tímum í samanburðarmálfræði að við skyldum reyna að halda ur-endingunni í orðunum tveimur og þremur því að hann teldi að þetta væru leifar af stirðnuðum datívus í indó-evrópsku. Ég hef því reynt að geyma þetta gamla þágufall og nota það fremur en tveim eða þrem.
Í þessu kvæði og næstu kvæðum eins og Nirvana og Eldhúsguð er stuðzt við innblástur af fyrirlestrum prófessors Díönu Eck, í Harvard, og Roberts Henricks í Dortmouth, en ég hef hlustað á þessa fyrirlestra af spólu í útgáfu Superstar Teachers. Hef raunar hlustað á mikið af þessum fyrirlestrum og þeir hafa verið mér annar háskóli; ómetanleg uppspretta. Það má einnig sjá í kvæðunum Sunna ogUegh*. Í þessum kvæðum öllum er vitnað í ævaforn verk sem eru jafnfersk og ný í andrá samtímans eins og þau voru austur í Asíu á sínum tíma. Uegh* er indó-evrópsk rót og samstofna íslenzka orðinu vegur; merkir hreyfa, fara; váhati er forn-indverska og merkir ferðast eða flytja. Þetta eru hljómmikil orð og falla vel að þessari sinfóníu undir næturhimni arfleifðarinnar. Hugsun aríans í lágu hvísli samtímans, hin langa vegferð milli hans og okkar; áristos sem merkir beztur, arfleifð okkar gömul og gróin en ávallt ný og fersk. Eins og orðið sunna sem merkir sól í okkar arfleifð en lífsstíll Múhameðs spámanns eða umhverfi íslams í arfleifð hans eins og segir í kvæðinu. Eða engilsaxneska hvíslið úr gömlu kvæði sem Borges fór með hér heima á Reynimel 25a og vitnað er til í lok þessa kvæðis. Allt eins og atburðir sem gerast í sömu andrá á þessum næturhimni langrar vegferðar um mikla arfleifð. Darsan, þ.e.: að sjá eða upplifa guð. Mundi það ekki vera sama þráin nú um stundir og á þeim tímum fyrir 2-4000 árum þegar höfundar Veda framkölluðu guðshugmynd sína í eigin spegli?; mritorma – amritam – gamaya, eða frá dauða, leið mig til eilífðar. Sama þrá og nú, leiðsögustef mannsins á þessari löngu leið. Hljómmikið og fagurt í þúsund ára gamalli geymd, minnir á shanti hjá T.S. Eliot. Engin tilviljun, heldur meðvituð ábending um uppruna okkar. En það er að vísu ekki skáldskapur, einungis umbúðir. Skáldskapurinn er tilfinningin í þessum áþreifanlegu umbúðum.

Og svo Nietzsche og Saraþústra, er hægt annað en staldra við og hlusta? Það er ekki síður mikilvægt en staldra til að mynda við í Hávamálum eins og Jónas gerði þegar hann orti sólhvíta sofa inn í andrá sinnar eigin ljóðlistar; eða þegar Steinn sótti hrein í þáfjalli inn í Tímannog vatnið. Hann minnti okkur á að við værum á leið í kaupstað, en hefðum gleymt hvað við ætluðum að kaupa. En ég hef reynt að minna á það, ekki sízt í þessum kvæðum; arfleifð, verðmæti, nýja upplifun byggða á gamalli reynslu.

Jón Hallur spurði mig hvort ég væri ekki stundum hræddur um að fólk skildi ekki kvæðin mín.
Nei, hví skyldi ég vera hræddur um það?
Mörg þeirra eru augljós, önnur eru það ekki. Og hvað gerir til þótt þau séu engin opingátt?
Kvæði eru galdur; leyndardómur. Og maður þarf ekki endilega að hafa hann í hendi sér. Maður getur upplifað hann án þess skilja hann til fulls.
Skiljum við allt í fornum bókmenntum okkar?
Vitum við um hvað Óðinn og Mímir töluðu saman?
Óðinn varð að setja auga sitt að veði fyrir nýja vitneskju, en hvað svo?
Það rýrir ekki gildi Vafþrúðnismála þótt við vitum ekki hvað Óðinn hvíslaði í eyra sonar síns:

Fjöld eg fór
fjöld eg freistaðag
fjöld eg reynda regin:
Hvað mælti Óðinn,
áður á bál stigi
sjálfur í eyra syni

eins og segir í 54. erindi. Átt er við orðin sem Óðinn mælti síðast í eyra Baldri, en það leyndarmál vissu þeir einir.

Ég sagði Jóni Halli frá því þegar ég gekk með Borges inn í Almannagjá. Hann virti fyrir sér hamrana, stóð hljóður um stund en spurði hvort mér væri ekki sama þótt ég skildi hann eftir einan í gjánni; hann ætlaði að fara með spænskt ljóð og skilja það eftir á þessum helga stað. En það mátti enginn vita hvaða ljóð hann ætlaði að flytja.
Ég sagði honum að mér væri ljúft að skilja hann eftir.
Gekk út úr gjánni og að bílnum.
Borges var einn með landinu og fuglasöngnum. Ég spurði hann ekki hvaða ljóð hann hefði flutt. Langaði ekki til að vita það. En Almannagjá eignaðist nýtt leyndarmál og mér finnst það bæði skemmtilegra og meira spennandi að vita ekki svarið við þessum leyndardómi en ef hann hefði sagt mér það.
Eilífðin er leyndardómur; óskiljanleg.

Nei, við skiljum ekki allt, við skiljum harla lítið.
Skiljum við söng fuglanna?
Skiljum við baul hvalanna?
Skiljum við guð?

Leyndardómur þessarar löngu vegferðar undir alstirndum himni arfleifðarinnar er ekki síður heillandi en óskiljanlegur. Hann fylgir okkur eins og gustur; eins og gola í laufi. Við vitum af honum, það er nóg. Við getum verið í fylgd með Hómer í þýðingum Sveinbjarnar Egilssonar. Ég blindvitna í þessar þýðingar í kvæðinu Í fylgd með Hómer og það hattar ekki fyrir; á engan hátt. Það ekki sízt er mikið ævintýri. Og ég get verið í fylgd með Agli og það hattar ekki fyrir, það er ekki síðra ævintýri. Gestils álft getur verið fullgildur skáldskapur í nútímakvæði ef það stendur á réttum stað; sem blikandi stjarna í þessari eilífu andrá.

 

Eitt kvæðanna í þessum fyrsta ljóðaflokki heitir Í andrá dauðans. Það er skírskotun í áhrifamikla og ógleymanlega lýsingu Stephens Crane í The Red Badge of Courage en þessi skáldsaga er eins konar minningar um blóðugt borgarastríðið í Bandaríkjunum. Slíkt vörðubrot grær ekki upp eins og gamall kirkjugarður. Það verður ævinlega á sínum stað á heiðinni.

Eða Flóabardagi, okkar eigin sjónvarpsupplifun sem var sterkari en raunveruleikinn. Sturlungualdarmenn gátu ekki upplifað sinn Flóabardaga með sama hætti. En hann er vel varðveittur í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar.


15. apríl – mánudagur

Fyrrnefnt samtal mitt við Bjarna Benediktsson um forsetaembættið birtist í Morgunblaðið sunnudaginn 9. júní 1968 en þar lýsir hann yfir stuðningi við framboð Gunnars Thoroddsen.
Bjarni segir m.a.: „Það er rétt, að dagleg störf forseta eru ekki ýkja mikil, og æskilegt er, að sem sjaldnast þurfi verulega á hann að reyna. Stjórnskipun okkar er sú, að hið raunverulega vald er hjá kjósendum, Aþingi og ríkisstjórn. En þess eru of mörg dæmi, að á Alþingi hefur gengið illa að koma saman ríkisstjórn, er njóti nauðsynlegs stuðnings þingsins. Ég hefi á Alþingi í vetur nefnt þrjú dæmi um, að afskipti þess, sem með þjóðhöfðingjavaldið hefur farið, hafi ráðið úrslitum um stjórnarmyndun á þeim 28 árum, sem liðin eru frá því, að þetta vald komst á innlendar hendur, eða frá því vorið 1940. Fleiri dæmi mætti nefna, samanber það sem Stefán Jóhann segir í ævisögu sinni af tildrögum stjórnarmyndunar sinnar 1947.

Það er þess vegna ótvírætt, að forseti Íslands getur haft, og hefur haft, úrslitaorð um hin allra mikilvægustu efni, einmitt þegar mest á reið og mestur vandi var fyrir höndum.

Í stjórnarskránni er forsetanum að nafni eða formi til fengið ýmislegt annað vald, þ.á m. getur hann knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvarp með því að synja frumvarpinu staðfestingar. Þarna er þó einungis um öryggisákvæði að ræða, sem deila má um, hvort heppilegt hafi verið að setja í stjórnarskrána. Aldrei hefur þessu ákvæði verið beitt og sannast sagna á ekki að beita því, þar sem þingræði er viðhaft.

Forseti verður bæði að kunna skil á takmörkum síns raunverulega valds og hafa hæfileika til þess að beita því rétt, þegar á hann reynir”.

„En af hverju var ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðsluna sett inn í stjórnarskrána?”

„Ástæðan til þess var sú, að þegar verið var að semja frumvarpið að lýðveldisstjórnarskránni var utanþingsstjórn, sem meirihluti Alþingis undi mjög illa, þó að ekki væri hægt að ná samkomulagi um þingræðisstjórn. Með réttu eða röngu töldu margir þingmenn, þ.á m. ég, að þáverandi ríkisstjóri hefði við skipun utanþings stjórnarinnar farið öðruvísi að en þingræðisreglur segja til um. Menn óttuðust þess vegna, að innlendur þjóðhöfðingi kynni að beita bókstaf stjórnarskrárinnar á annan veg en konungur hafði ætíð gert frá því að landið fékk viðurkennt fullveldi 1918 – og þar með taka afstöðu með eða móti lagafrumvörpum, alveg gagnstætt því, sem ætlazt er til í þingræðislandi, þar sem staðfesting þjóðhöfðingjans á gerðum löggjafarþings er einungis formlegs eðlis. Menn vildu ekki eiga það á hættu að forseti gæti hindrað löglega samþykkt Alþingis með því að synja henni staðfestingar, heldur tæki lagafrumvarp engu að síðu gildi, en vald forseta yrði takmarkað við það eitt að geta þá komið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Þetta ákvæði skýrist þess vegna eingöngu af því tímabundna ástandi, sem hér ríkti á árunum 1942-1944, og hefur reynslan síðan bent til að þessi varúð þingsins hafi verið ástæðulaus. Ekki er kunnugt, að forseti hafi nokkru sinni komið til hugar að stofna til þess glundroða, sem af því myndi leiða, ef hann ætlaði að hindra Alþingi í ráðgjafarstarfi þess.”

Samtalið við Davíð Oddsson birtist í Morgunblaðinu talsvert breytt frá upphaflegu gerðinni. Blóðugan feril er breytt í vafasaman feril og í lokakaflanum um Evrópusambandið og reiðina í Svíþjóð er lygi breytt í ósatt. Þá hefur Davíð breytt svari sínu við þeirri fullyrðingu blaðamannanna að greinilegt sé af orðum hans „að það er ekki kominn fram forsetaframbjóðandi sem þú myndir vilja styðja”. Í upphaflegu gerðinni sem ég las á föstudagskvöldið sagði hann: „Nei, mér sýnist það ekki vera”, en breytir því með þessum hætti í lokagerðinni og þannig er það birt í sunnudagsmogga: „Ég tek enga afstöðu fyrr en framboðsfrestur er úti.” Á þessu tvennu er mikill munur. En þó er augljóst að hann styður engan þeirra sem höfðu boðið sig fram þegar samtalið var prentað í Morgunblaðinu.

Þegar við bjuggum sumarlangt í Bologna fyrir nokkrum árum og Ingólfur sonur okkar vann  þar á spítala með námi í læknadeild  (kynntist m.a. sullaveiki í gömlum ítölskum bónda) ferðuðumst við mikið um Ítalíu. Og komum þá m.a. til Lucca sem er allskammt frá Flórens, en um hana var vinsæl leið rómferla á sínum tíma.
Það var eins og að ganga inn í miðaldirnar og hafði mjög sterk áhrif á mig. Ég hef oft síðan hugsað um Lucca og þá ekki sízt rómferlana. Stundum sé ég Sturlu Sighvatsson fyrir mér þar sem hann leitar gistingar í þessari áleitnu borg á leið sinni suður til Róms. Sighvatur fór til Noregs 1233 og hóf þaðan suðurgöngu sína og kom ekki heim aftur fyrr en 1235, ef ég man rétt. Hann var einn glæsilegasti kappi sturlungaaldar, bróðursonur Snorra og glæsimenni hið mesta. Um hann og konu hans Sólveigu skrifar frændi hans Sturla Þórðarson fegurstu ástarsögu tungunnar, en hún er fólgin í einni setningu Sturlu Sighvatssonar þegar honum bárust tíðindi af Sauðafellsför eins og ég hef víst oftar en einu sinni minnzt á annars staðar. En Sturla var ekki bara kappsfullt glæsimenni heldur hinn mesti ofstopi og allt að því hryðjuverkamaður. En hann hefur augsýnilega einnig verið hneigður til hinna andlegri verka því að í Sturlungu segir að hann hafi haft sérstakan áhuga á ritum Snorra frænda hans og raunar gefið í skyn að hann hafi öfundað Snorra af þessari iðju.
Snorri öfundaði hann aftur á móti af Sólveigu.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig var umhorfs á Ítalíu þegar Sturla gekk suður. Hann hlýtur að hafa verið með hugann við það umhverfi sem hann ferðaðist um og því hnýsilegt að vita einhver deili á því.

Sturla Þórðarson segir frá suðurgöngu frænda síns í 92. kafla Íslendinga sögu. Þar segir svo:
„Þá var Sturla í Björgvin og svo öndverðan vetur. Síðan réð hann til suðurferðar, og fór hann til Danmerkur og fann þar Valdimar konung inn gamla, og tók hann allvel við honum. Var hann þar um hríð. Gaf Valdimar konungur honum hest góðan og enn fleiri sæmilegar gjafir, og skildu þeir með hinum mesta kærleik. Fór þá Sturla suður í þýðverskt land. Hann fann þar Pál biskup úr Hamri, og voru þeir allir samt í för út í Róm. Og veitti biskup Sturlu vel föruneyti og var inn mesti fulltingismaður allra hans mála, er þeir komu til páfafundar.

Páll biskup fór fyrir því út til páfa að hann varð missáttur við Hákon konung. Deildu þeir um Eyna helgu, er liggur í Mjörs.

Sturla fékk lausn allra sinna mála í Rómaborg og föður síns og tók þar stórar skriftir. Hann var leiddur berfættur á millum allra kirkna í Rómaborg og ráðið fyrir flestum höfuðkirkjum. (Ráðið merkir (var) barinn, hýddur (sbr. veita ráðningu)). Bar hann það drengilega, sem líklegt var, en flest fólk stóð úti og undraðist, barði á brjóstið og harmaði, er svo fríður maður var svo hörmulega leikinn, og máttu eigi vatni halda bæði konur og karlar. (Eigi vatni halda merkir fengu eigi tára bundist)

Þeir Páll biskup og Sturla fóru báðir samt í Norðurlönd og skildu með hinum mesta félagsskap. Veitti hvor öðrum góðar gjafir.

Fann Sturla Hákon konung í Tunglsbergi, og tók hann allvel (þ.e. mjög vel) við honum, og dvaldist hann þar lengi inn síðara vetur, er hann var í Noregi, og töluðu þeir konungurinn og Sturla jafnan.”

Þessi suðurför Sturlu hefur líklega verið farin sumarið og haustið 1233. Valdimar sigursæli var konungur í Danaveldi 1202-1241. En hver var páfi í Róm þegar Sturla kom þangað?
Og hvernig var umhorfs þar?
Giotto listmálari var ekki fæddur þegar Sturla gekk suður en hann er talinn upphafsmaður nýrrar málaralistar. Sturla hefur þannig ekki getað séð neitt af meistaraverkum endurreisnarinnar þótt einhver listaverk önnur hafi borið fyrir augu hans í þeim guðshúsum sem voru að rísa. En það hefur verið fátæklegt úrval listaverka miðað við það sem síðar varð. Við vitum ekki nákvæmlega hvaða leið þeir félagar gengu suður. En einhver merki hafa þeir séð um stofnun reglna Dómínikusar og heilags Franz því að heilagur Franz frá Assissi stofnaði reglu sína á árunum 1209-1211 og sér hennar þegar stað heima á Íslandi í verkum og afstöðu Gvendar góða Hólabyskups, sem varð helgur maður hér um slóðir, en heilagur Dómínikus sem var upphaflega Benediktínusarmunkur stofnaði sína reglu 1215 en sjálfur lifði hann frá 1170-1221. Franz frá Assissi lifði aftur á móti frá 1181-1226. Hann var einkum á vegum fátæklinga og talaði m.a. við fuglana sína eins og sjá má á frægri mynd eftir Giotto, Heilagur Franz prédikar yfir fuglunum.
Þessar reglur voru nýjabrumið á Ítalíu þegar Sturla Sighvatsson var á þeim slóðum en miklir atburðir í listum og menningu á næstu grösum.

En hver sat þá á stóli heilags Péturs í Róm?
Það var Gregoríus IX, frá 19. marz 1227 til 22. ágústs 1241; lærður maður og hafði stundað nám í París og Bologna og verið erindreki páfastóls í Þýzkalandi, Lombardíu, Toscana og á Suður-Ítalíu. Hann afhenti Friðriki II (1220-1250) krossinn við keisaralega krýningu en Friðrik II varð hinn merkasti konungur, sonarsonur Friðriks Barbarossa. Grimberg segir í sinni miklu sögu að hann hafi verið einna mest heillandi fyrirbæri mannkynssögunnar. Hann var kallaður stupor mundi sem merkir heimsins undur! Friðrik varð konungur Þýzkalands 1212 og 1220 var hann krýndur til keisara í Péturskirkjunni í Róm. En það leið ekki á löngu áður en keisarinn lenti í útistöðum við Gregoríus páfa IX vegna krossfara og lauk með því að páfi bannfærði keisara og eftir það átti hann í útistöðum við páfastól, fyrst Gregoríus og síðan Innocentíus IV þangað til yfir lauk. Hann lézt í Palermo 56 ára gamall árið 1250 „með honum var slökkt ljós á himni sögunnar. En það var ekki stjarna sem slokknaði hægt; það var halastjarna, sem sprakk”, segir Grimberg í sögu sinni.
Friðrik II liggur í steinkistu sinni í Palermo og undir henni standa fjögur ljón. Dómkirkjan í Palermo var byggð upp úr 1170 en Sturla Sighvatsson fór ekki þangað suður svo hann hefur ekki séð þessa kirkju. Það getur aftur á móti verið að hann hafi séð dómkirkjuna í Chartres í Frakklandi, eitthvert mesta listaverk sögunnar, því að hún var byggð upp úr 1200.

En það er af Gregoríusi páfa að segja að hann átti í eilífum útistöðum við umhverfi sitt og náði stuttum samningum við Friðrik II, t.a.m. hjálpaði keisarinn honum bæði 1232 og 1234 þegar hann var gerður útlægur úr hinni heilögu borg í hörðum deilum við íbúa hennar. En páfinn hjálpaði Friðriki til endurgjalds með því að tala milli hans og ýfingasamra bæjarfélaga í Lombardíu.
Þetta gerðist um það leyti sem Sturla Sighvatsson var þarna á ferð svo að hann hlýtur að hafa fylgzt rækilega með því og tekið afstöðu til þessara vandamála samtíðar sinnar. En hugur hans hefur að sjálfsögðu verið bundinn við Vatíkanið og þá miklu syndaaflausn sem hann sótti þangað.
Sama árið og Sturla Sighvatsson var drepinn á Örlygsstöðum, 1238, hörðnuðu aftur deilur páfa og keisara og urðu nú svæsnari en nokkru sinni fyrr. Páfi kallaði keisara antíkrist, kærði hann fyrir guðlast og bannfærði hann öðru sinni. Þá átti hann skammt eftir ólifað og Innocentíus tók við.

Þá voru tvö eða þrjú ár liðin frá því Gizzur Þorvaldsson tók Sturlu Sighvatsson af lífi í Örlygsstaðabardaga 21. ágúst 1238:
„Þá kom Gizzur til og kastaði að honum hlífunum og svo stálhúfunni. Hann mælti: „Hér skal ég að vinna.” Hann tók breiðöxi úr hendi Þórði Valdasyni og hjó í höfuð Sturlu vinstra megin fyrir aftan eyrað mikið sár og hljóp lítt í sundur. Það segja þeir, sem hjá voru, að Gizzur hljóp báðum fótum upp við er hann hjó Sturlu svo að loft sá milli fótanna og jarðarinnar. Þá lagði Klængur Bjarnarson í kverkar Sturlu í það sár, er þar var áður, og upp í munninn. Var allt sárið svo mikið, að stinga mátti í þremur fingrum. Þá kom Einar Þorvaldsson þar og sagði lát Sighvats.

„Ekki tel ég að því,” segir Gizzur.

Önundur biskupsfrændi skar púss af Sturlu og fékk Gizzuri. Annar maður dró gull af fingri honum, það er átt hafði Sæmundur í Odda, dökkur steinn í og grafið á innsigli. Gizzur tók gullið og vopn Sturlu.”

En hvað sem því líður þá fór Sturla Sighvatsson með stóru aflausnina á fund herra síns og hefur þá væntanlega hlotið þær viðtökur sem efni stóðu til eftir suðurgönguna.
Rómferlar gengu ekki suður að gamni sínu.


Ódagsett

Nú virðist fjör vera að færast í forsetaleikinn. Talið er að Guðmundur Eiríksson þjóðréttarfræðingur hyggi á framboð en ég held hann sé lítið þekktur. Þá virðist Pétur Hafstein, sonur Jóhanns ráðherra, einnig hafa endurmetið stöðu sína og hyggi á framboð.
Pétur mundi sóma sér vel á Bessastöðum, að ég held. Hann er vammlaus maður og enginn sýkópat, heldur hlédrægur og sem fyrrum sýslumaður en nú hæstaréttardómari allvel þekktur, en þó einkum af foreldrum sínum og ættum. Svo virðist sem einhver öfl, líklega í Sjálfstæðisflokknum, hafi nú ýtt á framboð Péturs eftir að Davíð Oddsson gaf Bessastaði frá sér.
Pétur er sjálfstæðismaður og flokkurinn gæti þannig eignazt frambjóðanda því mér virðist fáir taka mark á því sem Þorsteinn Pálsson segir í helgarsamtali við Dagblaðið að Guðrún Pétursdóttir sé flokksbundinn sjálfstæðismaður eins og hann kemst að orði. Allt er þetta þó á huldu og mér skilst hún hafi ýjað að því að hún sé hvergi í pólitík. Stuðningslið hennar virðist einna helzt koma af vinstri vængnum. Hún er því ekki fýsilegur kostur fyrir þennan meðaljón í Sjálfstæðisflokknum. En Pétur gæti orðið slíkur kostur. Hann gæti náð kosningu með mikilli dreifingu atkvæða. Ekkert hefði ég á móti því. Pétur er geðfelldur maður og er vel menntaður inn í embættið, en kannski of formlegur. Það er haft gegn honum. Jóhann faðir hans er einhver drengilegasti maður sem ég hef kynnzt. Þau Pétur og Guðrún Pétursdóttir eru þremenningar því að Haukur afi Péturs var bróðir Ólafs Thors. Sem sagt, ættarsamfélagið í öllu sínu veldi!
Allt minnir þetta mig á leiðindaatburð sem gerðist í þingflokksveizlu í Ráðherrabústaðnum þegar Bjarni Benediktsson var formaður flokksins. Ég veit ekki hver var aðdragandinn en Pétur Benediktsson faðir Guðrúnar gekk að Jóhanni Hafstein sem stóð þar við flygilinn og rak honum bylmingskinnhest svo að alla setti hljóða.
Þá stóð Ragnheiður móðir Péturs sig vel.
Hún gekk að Jóhanni manni sínum, leit til okkar gestanna og sagði, Má ekki maðurinn vera fullur!
Þá slöppuðu allir af og veizlan hélt áfram.
Mér fannst þetta ólíkt Pétri og hef aldrei skilið þessa uppákomu. Ég held þetta hafi verið út af einhverju smáræði, en veit það þó ekki. Efast um að nokkur viti það. Við héldum að Jóhann og Ragnheiður myndu ganga út en það varð ekki. Reikna með því að vinskapurinn við Sigríði og Bjarna Benediktsson hafi ráðið úrslitum. Þau tóku þetta að sjálfsögðu nærri sér en ég held bæði þau og aðrir hafi kappkostað að gleyma þessu. Man ekki til þess að það hafi nokkurn tíma verið rifjað upp.
Vonandi fara afkomendurnir ekki á kinnhestum inn í forsetaslaginn!!
En hvorki Pétur né Guðrún eru líkleg til þess! Hún var spurð hvað hún segði um samtal Davíðs við Morgunblaðið. Hún kvaðst ekkert vilja um það segja því að hún vonaðist til þess að hún yrði kosin og þá þyrfti forsetinn að eiga gott samstarf við forsætisráðherrann! Og meira að segja Ólafur Ragnar Grímsson er orðinn kjaftstopp. Hann var spurður um samtalið við Davíð og kvaðst ekkert vilja um það segja þótt augljóst sé að Davíð víkur allharkalega að honum í samtalinu. En hann tekur ekkert til sín – og þegir!
Þórbergur Þórðarson talaði á sínum tíma um það að nauðsynlegt gæti verið að afklæðast persónuleikanum og var haft í flimtingum en Þórbergur sagði síðar að orð hans hefðu verið misskilin. En mér er nær að halda að þessi orð Þórbergs eigi nú við.
Hver forsetaframbjóðandinn á fætur öðrum reynir að afklæðast persónuleikanum til að móðga engan og missa ekki atkvæði. Jafnvel Ólafur Ragnar Grímsson!!

En nú er að sjá hvað setur. Kannski fer Ólafur Ragnar Grímsson ekki á silfurbakka til Bessastaða. En hvað sem því líður hefur samtalið við Davíð Oddsson í Morgunblaðinu komið miklu róti á samfélagið. Davíð skýtur í allar áttir og er sjálfum sér líkur. Þetta er því gott samtal inn í þessa skrafandi samtíð okkar, en um hana sagði ung kona við mig:
„Hún er skemmtilega vitlaus!”
Það kæmi mér ekki á óvart að forysta Sjálfstæðisflokksins hafi nú snúið sér til Péturs Hafstein og heitið honum stuðningi eftir að Davíð Oddsson gaf endanlegt afsvar. Og þá er hægt að rifja upp þessi orð hans í samtalinu:
„Í annan stað sagði ég strax við fjölmiðla að það væri afar ólíklegt að ég myndi bjóða mig fram. Það gerði ég af ásettu ráði. Bæði þótti mér það ólíklegt og eins vildi ég ekki að mitt nafn yrði til að torvelda einhverjum öðrum sem af einhverjum ástæðum vildi ekki vera í slag við mig.”
Pétur Hafstein hefði áreiðanlega ekki farið í slag við Davíð Oddsson en nú hefur hann frjálsar hendur. Það mun að vísu há honum að hann er tiltölulega lítið þekktur og hefði þurft að hafa lengri tíma til að kynna sig. En kannski nægja honum tveir mánuðir, ég veit það ekki. Mér er t.a.m. til efs að sjálfstæðisliðið í kringum Þorstein Pálsson kjósi Pétur Hafstein og ég á ekki heldur von á því að gallharðir gunnarsmenn eigi eftir að kjósa hann.

Pétur skrifaði á sínum tíma gagnrýni á Davíð Oddsson og framboð hans til formennsku í Sjálfstæðisflokknum; harða gagnrýni sem birtist í Morgunblaðinu Þorsteini Pálssyni til stuðnings; vitnaði þá m.a. til greinar minnar „Býsnavetur í íslenzkri pólitík” og augljóst að hann var sömu skoðunar og þar kom fram, en sneri gagnrýni minni á Gunnar Thoroddsen gegn Davíð.
Pétur hafði sterk hrósyrði um þessa grein mína og það kæmi mér ekki á óvart þótt afstaða hans þá ætti eftir að koma honum í koll, ef hann kastar sér út í forsetaslaginn. En kannski hafa allir gleymt þessum gömlu erjum enda tími til kominn.
Og þó!
Mundi Davíð Oddsson hafa gleymt svo hörðum dómi á örlagastundu?

Brezka skáldið John Donne (1572-1631) var prestur við Pálskirkjuna í Lundúnum. Hann hefur ort um ástina og skorað dauðann á hólm í ljóðum sínum. Hann hafði verið kaþólskur en snerist á sveif með ensku byskupakirkjunni. En hann turnaðist án biturleika, eða eins og menn skipta um föt. Hann var kristinn, það var allt og sumt. Hann sagði að margar leiðir lægju til himnaríkis.

Þetta fellur vel að mínum hugmyndum. Ég held það skipti ekki höfuðmáli hvernig menn komast til himna, heldur hvort þeir komast þangað. Við Donne trúum því að vegurinn þangað sé Kristur.

Brezki heimspekingurinn John Locke (1632-1704) sem var einn helzti brautryðjandi raunhyggjunnar og eins konar andleg ljósmóðir kapítalismans taldi að sálin væri óskrifað blað við fæðingu, maðurinn læri allt af reynslunni. Skynsemin sé ekki endilega forsenda þekkingar. Hann telur að ríkisvaldið sé grundvallað á sáttmála borgaranna sem afsala sér hluta af frelsi sínu til ríkisins. En ríkinu beri aftur á móti að standa vörð um náttúruleg réttindi þegnanna, svo sem réttinn til lífs og eigna. Hann var þannig einn af helztu frumherjum frjálshyggju og lýðræðis og hafði mikil áhrif á hugsuði upplýsingarinnar. Hann sagði að í trúmálum skipti mestu máli hvað menn gerðu í lífinu,en ekki hverju menn tryðu.
Ég held þetta sé rangt í grundvallaratriðum,auk þess sem mér virðist þessi fullyrðing ganga gjörsamlega í berhögg við boðskap Krists.Siðferðilegar prédikanir voru ekki helzta erindi hans við manneskjuna,heldur boðun trúar á föðurinn;fyrirheit upprisunnar og aflausn.Manninum er allt fyrirgefið, ef hann trúir.Honum er ekki allt fyrirgefið þótt hann lifi vel,ef trú hans er veik eða engin.Þá kemst hann ekki til himnaríkis,hversu margar sem leiðirnar eru.
Að sögn Krists

Ég veit vel að Dante þóttist vita hvernig bæði himnaríki og helvíti litu út. Hann hefur lýst helvíti í anda síns tíma. Helvíti Dantes er merkilegt vegna þess að það er reist á miklum skáldskap. Það er skáldskapur Dantes sem hefur lifað en ekki trúarlegar lýsingar á helvíti. Þeir eru margir sem hafa lýst helvíti eins og þeir hafi verið þar. Og á miðöldum var í tízku að lýsa kvölum mannsins sem líkamlegum sársauka en ekki andlegri þjáningu.
Tómas frá Aquino, eða heilagur Tómas (1225-1274), einn merkasti heimspekingur og guðfræðingur sem uppi hefur verið, var sannfærður um að þeir sem lentu í helvíti kveldust líkamlega. En þar sem Tómas er einn helzti frumkvöðull skólaspekinnar er ekkert skrýtið þótt ýmsir miðaldaguðfræðingar tækju upp hugmyndir þessa gáfaða svartmunks og tönnluðust á þeim í ritum sínum.
Þetta eru að sjálfsögðu afar ógeðfelld trúarbrögð og raunar svo fáránleg að ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður trúi þessu í raun og veru.
En Tómas frá Aquino var barn síns tíma; það erum við öll. Hitt var miklu merkilegri tilraun þegar heilagur Tómas reyndi í ritum sínum að sameina heimspeki Aristótelesar og kenningar kirkjunnar. Trú og þekking fullkomna hvor aðra. Heimspekin á að beita reynslu og skynsemi í leit sinni og túlkun á guði en hann er opinberaður sannleiki og í ljósi þess á guðfræðin að kynna sér sköpunarverkið. Þetta kemur nokkurn veginn heim og saman við þær hugmyndir Jónasar Hallgrímssonar og þeirra sem hafa verið sama sinnis og hann í trúmálum að guð opinberist í sköpunarverki sínu. Þar getum við ekki sízt lesið hið mikla guðspjall.
En Jónas gekk lengra.
Hans guð var persónulegur faðir sem hann gat leitað til, milliliðalaust. Af þeim sökum þurfti hann síður á Kristi að halda en við hin. Samt þýddi hann hugleiðingar Mynsters byskups eins og ég tíunda í Um Jónas.

Ef Locke hefði rétt fyrir sér væri troðið í helvíti en tómt í himnaríki.

Engum er Pascal (1623-1662) líkur. Hann varð fyrir trúarlegri opinberun 1654 og gekk í jansenítaklaustrið í Port-Royal. Pascal varði reglu janseníta en réðst á jesúíta. Snerist gegn skynsemistrú og einhyggju í hinu mikla heimspekiriti sínu sem honum tókst ekki að ljúka en var gefið út undir nafninu Penses (1670).
Hef lesið margt í því og heillast af.
Pascal er einstæður. Ég er þess fullviss að það er rétt hjá honum að guðshugmyndin verður aldrei skýrð eða studd með raunsæislegum rökum. Einnig er ég þess fullviss að siðfræði er afstæð og kemur trúarbrögðum lítið við. Það m.a. hrekur fullyrðingar Lockes um trú og siðferði, hvað sem öðru líður.

Eftir að ég skrifaði þessa minnispunkta hef ég talað við Styrmi. Hann minntist á samtalið við Davíð Oddsson í Morgunblaðinu en það hefur vakið mikla athygli. Hann segir að sitt sýnist hverjum. Hann minnti á að Pétur Hafstein hefði á sínum tíma skrifað stuðningsgrein fyrir Þorstein Pálsson í formannsslagnum sællar minningar og hann ætti bágt með að trúa því að Davíð Oddsson hefði átt þátt í að ýta honum til framboðs af þeim sökum.
Hugleiðingar mínar þess efnis að forysta Sjálfstæðisflokksins hafi ýtt á Pétur Hafstein geta því eins verið út í hött, ég veit það ekki en það kemur í ljós.

Styrmir sagði að hann heyrði margt fólk gagnrýna Davíð og meir undanfarna daga en áður. Og nú hefðu ýmsir sagt við hann að Davíð talaði illa um forsetaembættið og frambjóðendurna vegna þess að hann væri úr leik. Menn væru búnir að fá nóg af bröltinu í honum, eins og það væri orðað, og margir gagnrýndu ýmislegt af því sem hann segir í samtalinu.
En við Styrmir vitum það einnig báðir að samtalið hefur glatt marga – og ég er sannfærður um að það hefur fallið í góðan jarðveg hjá hörðu sjálfstæðisfólki.


18. apríl – fimmtudagur

Fórum í sjötugsafmæli Indriða G. Þorsteinssonar. Þau búa vel í Hveragerði. Hann á tvær mjög fallegar myndir eftir Jóhannes Geir. Við fórum þrír saman úr fimm-menningaklíkunni, við Sverrir Hermannsson og Gylfi Þ. Gíslason, en Jóhannes Nordal komst ekki. Ég sagði þeim félögum mínum á leiðinni austur að ég væri búinn að finna út úr því hver væri hinn raunverulegi höfundur samtímaþjóðfélags á Íslandi.
Þeir spurðu.
Ég svaraði,
Það er Dario Fo. Þetta íslenzka samfélag fjallar um nakinn mann og annan í kjólfötum! Þetta fannst þeim ágætt nema hvað Gylfi taldi að Dario Fo hefði aldrei getað dottið í hug öll sú vitleysa sem hér tíðkast.

Indriði G. Þorsteinsson lítur vel út eftir uppskurðinn. Við gáfum honum nýju ljóðabókina mína með áritunum frá klíkunni. Held það hafi glatt hann.
Þarna hitti ég Gunnar Dal eftir langan tíma. Hann var að koma þegar við fórum. Það er allt gott og elskulegt okkar í millum.

Indriði var ekki klár á því hvað ég meinti þegar ég skrifaði um hann í Helgispjalli á sunnudag og sagði að Jónas frá Hriflu hefði verið hans Dala-Brandur.
Hvaða helvítis Brandur er þetta? spurði Indriði.
Nú, það er Dala-Brandur sem Snorri segir frá í Heimskringlu.
Nú, sagði Indriði, ég hélt þetta væri einhver helvítis karl austur í sveitum og botnaði ekkert í þessu.
Nei nei, sagði ég, þetta er skírskotun í merkilegustu frásögn norrænu kristnisögunnar. Noregskonungur svínbeygði heiðingjann Dala-Brand eins og Snorri segir frá og þegar hann hafði tekið kristni var skurðgoð hans brotið og hlupu þá mýs út úr því.
Þú ert að líkja þessu við Jónas?
Já, að sjálfsögðu, sagði ég.
Þú ert nú meiri skepnan, sagði Indriði, en það er rétt, Jónas var ófyrirleitinn pólitíkus en hann var stórkostlegur persónuleiki.
Það má vera, sagði ég. Ég talaði einungis við hann tvisvar. Í annað skiptið í síma, hitt skiptið niðri á Hótel Borg. Það fór heldur vel á með okkur en ég er ekki hrifinn af þeim fingraförum sem hann skildi eftir sig í lífinu.

Ólafur Egilsson hringdi til mín eftir helgina. Hann er með vangaveltur um að bjóða sig fram í forsetaembætti. Segir þó að Ragna frænka mín, kona hans, dragi frekar úr því en hitt. Ég tel að hún sé raunsæ. Það gladdi mig. Ólafur er góður drengur og gamalt morgunblaðsegg en það merkir engan veginn að hann eigi að fara í forsetaframboð. Ólafur Ragnar Grímsson er víst kominn yfir 60% í síðustu skoðanakönnun Dagblaðsins.
Þetta er sem sagt þjóðfélag Dario Fos!
Ég held að þessi prósenta Ólafs Ragnars sýni fyrst og síðast að samtalið við Davíð Oddsson hefur ekki haft þau áhrif sem ég taldi í fyrstu og ennfremur að fólk vilji fá „venjulega” íslenzka fjölskyldu á Bessastaði. Styrkur Ólafs sýnir einnig að það er ekki enn kominn sterkur frambjóðandi gegn honum.
Helgarpósturinn talar um það á forsíðu að Ólafur Ragnarsson í Vöku geti orðið slíkur spútník.
Ólafur er frændi minn fram í ættir og ágætur piltur. Mér hefur alltaf líkað vel við hann. Hann hefur komið vel fram við mig. Boðið mig velkominn í Vöku-Helgafell.
Við setjum þig í bókaskápinn þar sem þú átt heima,sögðu þeir Pétur Már,útgáfustjóri hans.
Og hvar er það ?spurði ég.
Hjá góðskáldunum,sögðu þeir.
Það var uppörvandi eins og á stóð,því mér var farið að líða eins og utangarðsskáldi,forlagslaus eins og ég var orðinn.
Og hafði misst lesendur mína eftir gjaldþrot Almenna bókafélagsins.
Ólafur er Thorarensen eins og ég og því ættgöfugur eins og Pétur Kr. Hafstein og Guðrún Pétursdóttir! En það dugar ekki. Ég held einmitt að fólk vilji fylgja Ólafi Ragnari til að vera á móti ættunum á Íslandi. Fólk vill ekkert ættarveldi á Bessastaði. Það vildi ekki Gunnar Thoroddsen. Það vill ekki thorsara eða hafsteinunga eða engeyinga eða thorarensena, eða hvað þeir heita nú allir ættarhöfðingjarnir í samtímaþjóðfélaginu íslenzka. Það virðist bara vilja Óla grís, son ósköp venjulegs rakara á Ísafirði.
Það er allt og sumt!
Það er mikið kjaftað á rakarastofum. Ólafur Ragnar hefur verið ungur þegar hann byrjaði að leggja við hlustirnar og læra á kjaftaganginn í umhverfinu! Hann skilur eftir sig ýmis ljót og leiðinleg fingraför eftir pólitískan feril. En það er sumt gott um hann. Mér hefur alltaf líkað vel við hann persónulega. Samtöl okkar hafa verið góð og heiðarleg og því má ekki gleyma að hann lýsti því yfir á sínum tíma – og hafði kjark til þess – að Alþýðubandalagið væri ekki marxískur flokkur. Það væri jafnaðarmannaflokkur; alþýðuflokkur.
Ólafur Ragnar Grímsson hafnaði marxismanum áður en Sovétríkin hrundu. Ég tel það sé honum til tekna.

Ólafur Egilsson segir að hann hafi heyrt að Davíð Oddsson sé heldur óánægður eftir að hann tilkynnti að hann yrði ekki í framboði. Ég veit það ekki, hef ekki talað við hann, má vera. Trúi Ólafi Egilssyni til að vita þetta. En það skiptir engu máli. Hitt skiptir meira máli að Ólafur Ragnar Grímsson virðist hafa helzta kost Ásgeirs Ásgeirssonar þegar hann fór í framboð; að hafa verið í flestum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum! Það skilar sér í slíkum kosningum að vera margra flokka maður – og þá ekki síður að hafa aldrei verið í Sjálfstæðisflokknum!

Fer í beina útsendingu hjá Rás 2 á morgun, laugardag. Þar verður víst fjallað um nýju ljóðabókina mína. Hlakka ekkert til. Reyni að tala ekki af mér; það verður mikil raun.

Fer í dag í síðasta skipti í sjúkraþjálfun eftir olnbogabrotið. Ég hef haft gott af þessari þjálfun. Hef fengið hlýja og góða meðferð. Hanna Ásgeirsdóttir, þjálfarinn minn, er dóttir Ásgeirs Bjarnasonar og Margrétar Vilhjálmsdóttur Árnasonar togaraskipstjóra. Hún var skólasystir mín í menntó. Þekkti þetta fólk ekki mikið en vissi af því í vesturbænum. Hanna er skemmtileg kona og greind. Hef mikla ánægju af að tala við hana. Hún er stúdent en lærði sjúkraþjálfun í Noregi. Það er mikil bæði andleg og líkamleg hressing að koma til hennar í þjálfun.
Ég er orðinn góður í olnboganum, einnig af kviðslitinu. Skurðurinn er gróinn. Ég er allur að skríða saman og fer með góða heilsu þegar við skreppum til Noregs í byrjun maí þar sem ég á að les ljóð og flytja erindi um Njálu í íslenzkum skáldskap á vegum Ásbjörns Aarnes, prófessors við Oslóarháskóla. Við höfum verið miklir mátar frá því við kynntumst á rithöfundaþingi sem franska skáldið Pierre Emmanuel stjórnaði á sínum tíma í Kaupmannahöfn en hann var einn helzti andstæðingur kommúnista í Frakklandi þar til hann lézt um aldur fram. Hann var óvenjulegur Frakki. Hafði ekki síður áhuga á því sem var að gerast í menningarlegum efnum í öðrum löndum en Frakklandi. Talaði einnig mjög fína ensku.
Mér fannst mikið til um að kynnast honum á sínum tíma.

Höfum sett upp vinnunefnd til að lífga upp á og breyta sunnudagsblaði Morgunblaðsins; einnig Lesbók. Í nefndinni eru Árni Jörgensen, Björn Vignir Sigurpálsson og Hanna Katrín, sem hefur verið með Daglegt líf fyrir okkur. Við ætlum að flytja það inn í sunnudagsblaðið.
Við Styrmir vorum á öðrum fundi nefndarinnar í morgun. Þau vita öll að helzt vildi ég sameina sunnudagsblaðið í stórt, mikilvægt og sérstætt magasín. Lesbókin hefði þá einnig vel getað verið í þessum pakka, en við erum í aðahaldsaðgerðum svo þetta verður ekki unnt núna. Það verður að bíða betri tíma. Við verðum að leggja áherzlu á meira fréttatengt A-blað á sunnudögum og betra B-blað sem væri þá í átt við magasín og mætti stækka síðar meir þegar fjármagn er fyrir hendi. Þá yrði kannski einnig hægt að prenta það sérstaklega og hefta, hver veit.
En það verður áreiðanlega ekki í minni tíð á Mogga; því miður.
Ég sagði þeim að höfuðþemu Birtings eftir Voltaire væru þau að guð hefði skapað þá beztu veröld sem hægt var eða þá veröld sem var mögulega hin bezta en það hefði verið kjarninn í heimspekikenningum Leibniz. Við þyrftum að skapa slíka veröld en okkur skorti fjármagn til þess nú. Guð hefði haft nóg af öllu og það háði okkur hvað við hefðum lítið af flestu.
Hitt helzta atriði Birtings er það að menn eigi að rækta garðinn sinn. Það er einnig mikilvægt atriði í Innansveitarkroníku þegar faðirinn segir við son sinn,
Viskum tátla hrosshárið okkar!
Ég minntist einnig á það. Við ættum að rækta garðinn okkar eins og þeir feðgar þótt við gætum ekki búið til það bezta mögulega sunnudagsblað sem hugurinn stæði til.
Þetta verður vandmeðfarið. Það þarf að sigla vel milli skers og báru. En vonandi tekst okkur að skapa nýtt sunnudagsblað sem yrði þá sérstætt og öðruvísi, vinsælt, uppbyggilegt og skemmtilegt. Þá ættum við einnig að geta lagt áherzlu á það, án mikils kostnaðar, að sameina Lesbók og menningarblaðið og gefa það út þannig á laugardögum.
Að því verður stefnt.
Einnig ætti að stefna að því að velja efnið í B-blað sunnudagsins með þriggja vikna fyrirvara eins og efnið í Lesbók svo unnt sé að afla miklu fleiri auglýsinga í það en verið hefur. Við erum ekki sterkir á þessu svelli. Við erum að gefa út sérstaka Lesbók um Lúxemburg en höfum ekki fengið neinar Lúxemborgar-auglýsingar í þetta blað. Það er með ólíkindum. Síðan gefum við út sérstakt Færeyja-blað og þurfum að reyna að fá góðar auglýsingar í það. En færeysk fyrirtæki eru svo fátæk nú um stundir að ég efast um það takist. Að þessu verður að stefna um leið og við eflum Lesbókina og sunnudagsblaðið.

Nokkru síðar

John Donne messaði yfir trúboðum sem voru að fara vestur um haf að kristna frumbyggja í Ameríku. Hann sagði að skipin sem þeir færu á hefðu ekki verið smíðuð til að flytja þá vestur um haf, heldur guð.

Ástin er tilhlökkun eins og vorið, þetta sagði ég m.a. í útvarpsþætti Valgerðar Matthíasdóttur og Helga Péturssonar sem var bein útsending frá Hótel Borg. Hún fjallaði einkum  um síðustu ljóðabók mína,Ættjarðarljóð áatómöld, og sitthvað fleira. Fannst ágætt að koma í þennan þátt þótt ég kunni aldrei við mig í fjölmiðlum. Óttast beinar útsendingar. Það hafa svo margir orðið að eins konar skoffínum í slíkum þáttum. Hef engan áhuga á að bæta því einnig við aðra reynslu mína! En ég er að vona að þetta samtal við mig og upplestur ljóðanna hjálpi bókinni eitthvað – og útgefandanum Braga Þórðarsyni. Hann segist ekki vera neinn galdramaður í því að selja bækur. En það er ágætt fyrir útgefendur að vera einhvers konar töframenn í þeim efnum. Það var Ragnar í Smára sem auglýsti bækur eins og páfinn í Róm seldi syndakvittanir. Bækur selja sig ekki sjálfar, veit ég það Sveinki! En ég kann aldrei við mig í þeim auglýsingastellingum.
Aftur á móti hef ég gaman af að flytja kvæðin mín fyrir annað fólk. Jarðvegurinn er yfirleitt mjög góður. Það hef ég fundið bæði hér heima og erlendis. Helgi Pétursson var staddur austur á Seyðisfirði og ég færði mér það í nyt og minnti á þessar æskuslóðir móður minnar. Vona það hafi fallið í góðan jarðveg þarna fyrir austan, það hefði henni þótt vænt um. Austurlandið er nær Evrópu en aðrir hlutar landsins. Þar er meira meginlandsloftslag og umhverfið minnir meir á t.d. Noreg en aðrir staðir í landinu. Það er fallegt fyrir austan. Móðir mín talaði oft um það. Ég sagði frá því í þættinum að ég hefði fyrst upplifað austurlandið þegar ég var á Brúarfossi. Þegar ég kom heim eftir að við höfðum sótt fisk á ýmsa staði fyrir austan sagði ég við móður mína,
Mamma mín þetta er ekki rétt hjá þér það sem þú hefur sagt um austurlandið!
Nú, sagði hún, hálfleið. Finnst þér það ekki.
Nei, sagði ég, það er miklu fallegra fyrir austan en þér hefur jafnvel tekizt að lýsa.
Þá leit faðir minn upp og sagði, Ætlar þú nú að fara að byrja líka!
Hef líklega sagt frá þessu einhvers staðar annars staðar, ég man það ekki. En Helgi gaf mér færi á því að minna á það.
Valgerður er vel að sér. Hún hafði undirbúið sig vel. Það var augljóst að hún hafði lesið Vötn þín og vængur og svo var hún einnig með Mörg eru dags augu og Hvíldarlaus ferð inní drauminn. Hún tjáði sig fallega um þessar bækur og sagði að það hefði farið straumur um sig þegar hún las sum ljóðin í nýju bókinni.
Helgi spurði mig hvernig mér hefði líkað það
Ég svaraði, Eins og árbökkunum sem horfa á strauminn fara framhjá!

Förum til Nínu og Júrí Resitov,, sendiherra Rússlands, í kvöld. Þar verður einnig María Ingvadóttir, mikil vinkona okkar, einkum Hönnu. Henni finnst mikið til um hana. María er sérstök kona og hefði átt að fara á þing en fór þess í stað sem viðskiptafulltrúi íslenska sendiráðsins til Moskvu. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins hafna oft nýju fólki sem hefur burði Maríu Ingvadóttur. Hinir fljóta ofan á eins og korktappar. Þannig er samtíminn. Glámskyggni hans birtist ekki sízt í prófkjörum. Samt eru þau nauðsynleg. Þau eru eins og fjölmiðlarnir, hávaðasöm og villandi. En þessi hávaði heyrir lýðræðinu til. Fylgikvillar þess eru margvíslegir. Samt er það eina lausnin þótt ófullkomið sé, það er allt og sumt.

Júrí sendiherra kom til mín fyrir tveimur dögum. Hann talaði um veiðar rússneskra togara á Reykjaneshrygg og hættuna af átökum milli þeirra og Íslendinga. Það gæti haft áhrif á Smuguveiðarnar. Hann sagði að það væri ekki nóg að hlusta bara á almenningsálitið hér á landi, það væri einnig almenningsálit í Rússlandi, ekki sízt Murmansk þar sem menn væru óánægðir með veiðar Íslendinga á umluktu hafi Smugunnar. Hann kom með alþjóðasamþykktir um þessi hafsvæði og talaði skynsamlega. Ég sagði honum að við værum reiðubúnir til að birta frétt eða fréttasamtal við hann þar sem að þessum málum væri vikið. Hann samþykkti það.
Þetta fréttasamtal við Resitov birtist svo á baksíðu Morgunblaðis í gær. Það vakti mikla athygli. Ég vona að það setji málið í réttan farveg. Það er ekki hlutverk okkar að æsa til andúðar gegn Rússum. Þeir eiga í nógum erfiðleikum heima fyrir þótt við séum ekki að auka á þá. Við eigum gott samstarf við Rússa. Guðrún Lárusdóttir útgerðarmaður í Hafnarfirði sagði út af þessum átökum að við ættum að hætta allri þjónustu við Rússa um allt land.
Ótrúlegt eiginhagsmunapuð!
Fólk um allt land lifir á rússafiski. Hann hefur veitt fjölda fólks mikla atvinnu. Mér skilst hann sé þriðjungur alls þess afla sem unninn er hér á landi, það sagði Resitov í samtali okkar. Hef ekki nennt að kanna það betur en Hjörtur Gíslason mun fjalla um það í næsta Veri.
Júrí Resitov var mikið niðri fyrir með köflum. Hann horfði á mig og sagði,
Hershöfðingi sem stjórnar þeim svæðum sem liggja að Rússlandi hefur verið með þrýsting og mér skilst jafnvel það hafi komið til tals að senda herskip á Reykjaneshrygg. Og þú veizt hvernig herskip við eigum!
Já, þeir eiga stór herskip og engin ástæða til að kalla þau hingað eða í Smuguna þegar þar að kemur. Þorsteinn Pálsson gerði rétt í því að fara varlega og rjúka ekki til að taka rússneska togarann þótt hann hafi rekið tvær mílur inn fyrir 200 mílna lögsöguna.
Resitov hrósaði Þorsteini fyrir það en segir jafnframt í Morgunblaðinu að rússneska Sjávarútvegsráðið muni kanna málið og birta niðurstöður sínar. Það verði hlutlaus könnun og alvarleg. Mjög viðunandi fyrir okkur Íslendinga.

Eyvindur Erlendsson er að skrifa ævisögu Júrís í einhvers konar heimildarskáldsagnarformi. Það var ég sem hvatti til þess enda er saga Júrís hin merkilegasta. Ég hef lesið nokkra kafla í bókinni og það er gott dramatískt andrúm í því sem ég hef séð; bókmenntalegt og á góðu plani. Ég talaði við Þorstein Thorarensen um útgáfu bókarinnar og hann hljóp á agnið. En þetta er gott agn að mínu áliti. Hann á að geta selt þessa bók vel. Þetta verður góð bók og athyglisverð. Ég veit að vísu að ég á að koma við sögu í þessu kaldastríðsumhverfi sem þarna er lýst m.a. en það gerir ekkert. Ég er vanur því úr verkum Guðmundar Daníelssonar og ýmissa annarra að leika hlutverk söguhetjunnar. Og ég hef áreiðanlega burði til að vera aukapersóna í þessu verki. Tek ekkert slíkt nærri mér og er í góðri æfingu!

Eyvindur Erlendsson réðst einhvern tíma á mig í blaðasamtali um leið og hann tók Hrafn Gunnlaugsson taki. En svo sá hann að ég ber ekki ábyrgð á Hrafni Gunnlaugssyni. Ég tók þessu að sjálfsögðu vel og gleymdi því. En síðar urðum við miklir mátar og hann lék meira að segja smáhlutverk í sjónvarpsleikritinu mínu um sjómanninn og allt galleríið í kringum hann sem Hilmar Oddsson stjórnaði á sínum tíma og var með ljóðrænum, fallegum blæ og gladdi mig mikið, enda var verkinu forkunnarvel tekið á sínum tíma.
Kannski verður það einhvern tíma endurflutt þegar ríkisútvarpið á fyrir skuldum!
Þetta verk og útvarpsleikritin Sókrates undir leikstjórn Helga Skúlasonar og Guðs reiði undir leikstjórn Sveins Einarssonar hafa verið með þessum ljóðræna blæ sem er mér eiginlegur og ég er þessum mönnum mjög þakklátur fyrir leikstjórn þeirra. Þar sáði ég í veikleika en Sveinn Einarsson sá um að upp reis í styrkleika. Það gerði Helgi einnig.
Þorsteinn Gunnarsson sem lék Danakonung í Guðs reiði vildi að ég skrifaði verkið fyrir leiksvið en ég nennti því ekki. Það getur einhver annar gert, ef vill. Ég er búinn að fá nóg af leiksviði í bili. Á sama hátt og ég tel að alltaf sé verið að reyna að búa til gervikónga og gervidrottningar í tengslum við forsetaembættið þá er einhver gervilykt af leiksviði sem mér fellur ekki alls kostar. Það verða einhverjir aðrir en ég að breyta henni í þá lífrænu kúamykju sem passar fyrir leiksvið!

Um daginn skrifaði Leifur Sveinsson vonda grein um Erlend  Einarsson forstjóra SÍS og fyrir mistök birtist hún í Morgunblaðinu á gullbrúðkaupsafmælisdegi þeirra Margrétar. Mér þótti fyrir því. Leifur réðst einnig á Jón Múla fyrir afmælisgrein sem Pétur Pétursson tengdafaðir hans skrifaði um hann hálfáttræðan. Minnti á átökin fyrir framan alþingishúsið í mars 1949. Slíkt langminni er óþarft í litlu þjóðfélagi. Jón Múli getur haft hvaða pólitískar skoðanir sem er án þess ráðizt sé að honum í tilefni afmæla.
Það var vondur tónn í þessari grein Leifs og ekki að mínu skapi. Leifur getur ráðizt á Erlend Einarsson vegna hruns SÍS en hann verður þá einnig að vera þess minnugur að faðir þeirra bræðra afhenti þeim milljónafyrirtæki, Völund, til að ávaxta og varðveita en það hrundi í höndunum á þeim eins og spilaborg.
Af hverju?
Leifur mætti vel spyrja sig þeirrar spurningar áður en hann ræðst að Erlendi á gullbrúðkaupsdegi þeirra hjóna.
Ég áttaði mig því miður ekki á þessari smekkleysu fyrr en of seint. Þá er ekki um annað að gera en kyngja gallinu. Auk þess tekur Leifur ekki sönsum þegar hann skrifar slíka grein.
Ástæðan: Hann er farinn að taka sjálfan sig of hátíðlega! Og þá líklega sem hluthafi!
En mér hefur alltaf líkað vel við Leif og við höfum átt góð samtöl,einkum áður en hann gekk í bindindi.Þá fór hann að hallast að Styrmi!Ég hafði ekkert af Leifi að segja fyrsta áratuginn sem ég var ritstjóri,þá hélt hann sér til hlés.Svo fór hann að viðra sig í Morgunblaðinu,með myndskreyttum greinum úr fjölskyldualbúinu Það fór eitthvað í taugarnar á mér,en hann hafði til þess fullan rétt eins og hver annar.
Leifur hefur aldrei abbazt neitt upp á mig sem ritstjóra eða reynt að þrengja frelsi mitt. Hann hefur aldrei notað eigandavald sitt uppá 7% (eftirstöðvar af Völundi!) á mig eða sveiflað neinni mammonskri gaddasvipu að mér, ég met það.
En það sem ég hef minnzt á hér var ósmekklegt og Leifi Sveinssyni ekki sæmandi.

Sveinn Haraldsson gagnrýnandi á Morgunblaðinu og frændi Leifs skrifaði mjög harða grein um síðasta leikrit Jónasar Árnasonar í Borgarleikhúsinu. Hann taldi það ónýtt. Hef ekki séð verkið og er því ekki dómbær. En ég tek þó harða dóma ævinlega nærri mér. Skipti mér samt ekki af þeim því að þeir sem skrifa bera ábyrgðina. Ég ber einungis ábyrgð á því ef vegið er að mannorði fólks. Það telst víst ekki til mannorðsskemmda að dæma leikverk hastarlega. Sveinn verður að fá leyfi til að hafa sínar skoðanir. Hann hefur skrifað af sanngirni og ég hef ekki séð hann lyfta neinni blóðugri öxi eða ógna leikskáldum með blikandi eggjum. Ég er sannfærður um að hann skrifaði um verk Jónasar Árnasonar eins og honum þótti sanngjarnt. En það er sárt þegar hálfáttræður maður verður fyrir slíkri gagnrýni.
Jónas var spurður um þessa gagnrýni í útvarpssamtali. Ég heyrði ekki samtalið. Mér er sagt hann hafi tekið gagnrýninni vel og svarað henni fullum hálsi. Mér þótti það gott hjá honum.
Gagnrýni er enginn hæstaréttardómur. Hún getur verið klámhögg. Menn eiga ekki að taka hana of alvarlega. En hún getur dregið úr aðsókn og skipt máli að því leyti. En hún getur einnig aukið forvitni – og aðsókn, maður veit það aldrei.
Mér skilst að Jónas Árnason hafi sagt í útvarpssamtalinu að hann ætlaði að hafa samband við ritstjóra Morgunblaðsins og biðja þá um að geyma gagnrýnina vel og vandlega og birta hana sem minningargrein þegar þar að kæmi.
Ég þekki slíkan hálfkæring. Hann ber ævinlega vott um óánægju, nei sársauka. Og mig langar ekkert til þess að eiga þátt í því að særa þá bræður Jón Múla og Jónas Árnason. Jónas talaði að vísu við mig um nazistana á Morgunblaðinu, það var fyrir mörgum árum. Við hittumst niðri í Landsbanka af einhverjum ástæðum og ég botnaði ekkert í þessari geðvonzku hans. Svo var kyrrt með okkur og vandræðalaust. Þannig er skemmtilegast að skilja við umhverfi sitt og annað fólk.
En ef Jónas hefur samið svona vont leikrit á gamals aldri þá verður hann að bera sjálfur ábyrgð á því. Eða ætti ég fremur að segja, þá verða leikfélagsmenn að bera ábyrgð á því að hafa leitt hann út á þennan blóðvöll.
Samtíminn er enginn elsku mamma en Jónas hefur ævinlega sloppið fyrir horn – fram að þessu. En hann er gamall pólitíkus og veit hvernig á að rífast við umhverfið. Hann veit að þeir sem ráða ferðinni eru nakinn maður og annar í kjólfötum!

Hef ekki hitt Kristján Karlsson frá því ég var skorinn upp. Fékk bréf frá honum í vikunni, dags. 18.4. Segir m.a.: „Kærar þakkir fyrir bókina sem mér fannst ákaflega góð. Meira um það seinna.”
Þarf að hitta hann í næstu viku, þá heyri ég kannski eitthvað meira. En mér þykir vænt um að Kristjáni Karlssyni skuli hugnast þessi nýja ljóðabók mín. Öðrum treysti ég ekki betur.


21. apríl – sunnudagur

Enn er Leifur Sveinsson með vonda grein í Morgunblaðinu í gær; einhvers konar Akureyrarbréf. Honum tókst að skreyta hana með myndum bæði af sjálfum sér og frúnni! Þessi klausa er um Davíð Oddsson: „Það vakti því mikla kátínu hjá okkur sundlaugargestum á Akureyri, þegar Rás 1 skýrði frá því í hádegisfréttum, að Selfossskolla þættu Bessastaðaberin súr. Fyrir þá, sem vilja hitta Skolla þá á hann sér greni rétt við túnfótinn hjá Arnarhóli, þar sem heitir „í Múrnum””.
Það vantar bæði jólin og upprisuna í svona sálarlíf.
Þó að Leifur hafi hatað Davíð Oddsson fyrir Ráðhúsið á sínum tíma (eða eitthvað annað,ég veit það ekki) ætti hann nú að vera kominn yfir þessa andlegu  kreppu.
En það er víst ekki hægt að neita birtingu svona gálgahúmors!

Leifur hrósar Davíð Stefánssyni í grein sinni, en Davíð talaði líka í ljóðum sínum um rotturnar sem naga og naga nætur og daga.

Já,mig dreymdi rottur í nótt. Það var vondur og ógeðslegur draumur.
Af hverju dreymir mann rottur?
Er verið að baktala mann?
Get ekki hugsað mér neitt viðbjóðslegra en rottur. Mér var sama um þær þegar ég var drengur en núna er ég svo hræddur við þær að ég treysti mér ekki til að drepa rottuunga sem ég sá í garðinum okkar fyrir nokkrum árum. Móðirin sýndi mér þá nærgætni að vera hvergi nærri. Rottur eru til einskis nýtar nema í rannsóknarstofum. En tilvera þeirra er einungis réttlætanleg vegna þessara vísindastarfa. Mér finnst hvítar rottur ekkert ógeðslegar, ég get vel séð hvíta rottu. En aðrar rottur... Guð minn góður!

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvers vegna mér er svona illa við rottur; hvers vegna ég er hræddari við þær en allt annað í tilverunni; hvers vegna mér finnst þær ógeðslegri en allt annað í tilverunni?
Þegar ég var drengur hafði ég engar áhyggjur af rottum. Sá stundum rottur bæði í Reykjavík og í Siglufirði og það hafði engin sérstök áhrif á mig. Líklega á þessi ótti rætur í störfum mínum við landbúnað í Bretlandi. Í Babworth þreskti ég korn með vinnufélögum mínum. Þegar þrír, fjórir metrar voru eftir af stabbanum, fórum við allir í vaðstígvél, kölluðum á hundana og munduðum kvíslarnar. Síðan var þreskingunni haldið áfram niður á jörð en þá stukku allar rotturnar út og suður og þarna varð mikið blóðbað. Ég gæti trúað að við höfum drepið 40-50 rottur. Líklega hef ég fengið áfall enda hvörfluðu slík ósköp aldrei að mér.

Já, líklega er þetta undirrótin;að þessi fóbía sé ættuð úr hafrastöbbunum hans gamla Picks sem ég vann fyrir þetta eftirminnilega sumar,1949.
En síðan hef ég ekki étið hafragraut sem var aðalmorgunverðurinn,þegar ég var strákur!

Vorum í gærkvöldi í boði hjá rússnesku sendiherrahjónunum. Þar hitti ég sérfræðing í rússneskum málefnum, Trenin, fyrrum undirofursta í Rauða hernum. Hann sagði að Dúman hefði ekki ætlað að samþykkja endurreisn Sovétríkjanna, tillagan hafi einungis verið ögrun. Enginn hafi tapað meira á þessu en kommúnistar. Þeir töldu víst að Sírínoskí mundi ekki greiða atkvæði með tillögunni, treystu því. En hann sagðist á síðustu stundu ekki geta annað.
Það varð kommúnistum mikið áfall!
Ég sagði honum að samþykkt þessarar tillögu hefði orðið til þess að Morgunblaðið tók afstöðu með stækkun NATÓ. Áður hefðum við verið á báðum áttum.
Hann sagðist skilja það. Vesturlandabúar gætu ekki skilið vendingarnar í rússneskri pólitík.
Hringi til hans seinna og fæ nýjustu fréttir frá Moskvu.
María Ingvadóttir var í boðinu. Hún fór til Moskvu í dag.
Ingólfur sonur okkar heimsækir hana þangað undir lok næsta mánaðar.
Alexei sendiherrasonur sagði við mig, Við verðum að fá nýjan forseta í Rússlandi.
Af hverju? spurði ég.
Við verðum að fá ungan mann með nýjar hugsanir. Allir Rússar eru kommúnistar án þess vita það!

Ég treysti enn á Jeltsín; þennan rússneska Atlas sem heldur á jörðinni.
En ef hann missir hana? spurði María Ingvadóttir.
Það er akkúrat það, sagði ég.

Hef verið að lesa grein um Auden sem Kristján Karlsson sendi mér. Hún birtist í The New Yorker, aprílheftinu, og heitir Goodbye 1939. Þar er sagt að Auden sé eina skáldið á heimsvísu sem hafi fæðzt á Englandi í heila öld. Hann hafi líklega verið mikilvægasta skáld á enska tungu eftir Tennyson. En margir brezkir gagnrýnendur urðu svo reiðir þegar hann flutti skyndilega til New York í janúar 1939 að þeir viðurkenndu hann aldrei sem mikið skáld.


Sumardagurinn fyrsti.

Fórum austur fyrir fjall í yndislegu veðri. Nálægðin við íslenzka náttúru var uppörvandi. Las í Island of the Day Before eftir Umberto Eco þegar við komum heim. Nýstárleg flétta í skáldsögu sem liggur á mörkum ævintýra og veruleika.

Þetta eru góðar línur í ljóðinu Úr hafvillu áranna í Söngvum frá sumarengjum eftir Guðmund Frímann:

Hér gæti ég kveðið mig sáttan við sorg mína og þrá
og sungið mig inn í dauðann með vor í hjarta.

Svona óvænt uppákoma er einstæð í hefðbundinni náttúrulýrík.
Og eftirminnileg(!)


26. apríl – föstudagur

Borðaði með Styrmi, Sverri Hermannssyni og Ólafi G. Einarssyni. Margt talað. Styrmir ætlar að skrifa skýrslu upp úr samtölum okkar um afstöðuna til Geirs Hallgrímssonar á sínum tíma. Sverrir hefur áhyggjur af því að hann liggi undir ámæli vegna þess hann hafi reynt að bola Geir Hallgrímssyni út úr forystu Sjálfstæðisflokksins. Allt virðist þetta óljóst, ekki sízt þau skilaboð Þorsteins Pálssonar á sínum tíma þess efnis að Geir væri reiðubúinn að hætta en Sverrir trúði því þá og af þeim sökum mun hann hafa talið að Þorsteinn Pálsson ætti að nýta eins vel og unnt væri brottför Geirs.
Við Styrmir fullyrðum að Geir hafi ekki verið reiðubúinn að hætta eins og þá stóð og það hafi verið tilbúningur sem hafi blekkt þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þ.á m. Sverri. Þetta kemur í ljós þegar skýrsla Styrmis liggur fyrir.

Framgangur Ólafs Ragnars í skoðanakönnunum fer mjög í taugarnar á mörgu fólki. Mér finnst sumir sem tala við mig vera í öngum sínum. Aðrir eru haldnir einhvers konar pólitísku þunglyndi. Það er a.m.k. depurð yfir mörgum. Fólkið vill ekki konu í kjölfar Vigdísar, það virðist augljóst. Þess vegna beinist athyglin að Ólafi Ragnari. Hann er bezt þekktur þeirra sem í framboði eru og ég tel árangur hans ekki sízt eiga sér skýringu í því að önnur framboð eru heldur veik. Ef sterkur frambjóðandi hefði komið fram á réttum tíma og getað ögrað Ólafi Ragnari væri útlitið annað en nú er. Hinn langi umþóttunartími Davíðs Oddssonar hefur verið bezti bandamaður þessa fyrrverandi formanns Alþýðubandalagsins sem fer misjafnlega í margt fólk, svo ekki sé meira sagt.

Ólafur Egilsson talaði við okkur Styrmi fyrir nokkrum dögum. Hann hefur verið að gæla við framboð til forseta. Ég tel það óraunsætt úr því sem komið er.Gaf það raunar í skyn í síðara samtali okkar. Hann talaði um að samtal sem Þórdís Bachman hefði skrifað við hann hefði ekki verið birt í Morgunblaðinu. Ég sagði að það væri vegna þess að við hefðum tekið ákvörðun um að birta ekki samtöl við þá sem væru í forsetafarveginum. Það kæmi að þeim síðar. En við létum ekki nota blaðið til áróðurs fyrir einstaka frambjóðendur.
Ólafur var ekki fullkomlega sáttur en sagðist hafa haldið að ástæðan hefði verið sú að Bryndís Schram hefði verið að hugsa um framboð og Styrmir hefði ekki viljað birta samtal við hann meðan svo væri!
Ég sagði honum að nefna þetta ekki við Styrmi. Hann væri orðinn þreyttur á þessum grunsemdum í sambandi við Bryndísi og Jón Baldvin.
Styrmir sagði mér svo síðar að hann hefði talað við Ólaf Egilsson. Það var víst á laugardaginn í síðustu viku, daginn eftir að við Ólafur töluðum saman.
Þá sagðist Ólafur hafa haldið að samtalið hefði ekki verið birt vegna þess að ég væri að fara í framboð!!!
Það er ótrúlegt hvað okkar beztu vinir geta ruglazt í ríminu þegar Morgunblaðið er annars vegar, hvað þá um hina?!
Ólafur sagði í samtali okkar að hann hefði m.a. haldið að sér höndum vegna þess að hann hefði talið að ég væri að hugsa um framboð því það hefði e.t.v. getað hentað að fá mann sem væri reiðubúinn að vera einungis eitt kjörtímabil en þá gæti Davíð tekið við og það hefði hvarflað að honum að um þetta hefði verið rætt við mig.
Ég hef aldrei ljáð máls á neinu í tengslum við þetta forsetastúss allt saman. Margir hafa minnzt á þetta við mig en ég hef eytt því jafnóðum. Minn hugur stendur ekki til Bessastaða. Þeir sem halda það þekkja mig illa.Eða ekki neitt. Ég á mig sjálfur og það frelsi getur enginn skert. Rithöfundur eða skáld sem ætlar á Bessastaði getur pakkað saman og hætt ritstörfum. Það vissi Halldór Laxness á sínum tíma. Ég hef aldrei verið opinber starfsmaður og ætla aldrei að verða opinber starfsmaður.
Ég ætla að vera frjáls eins og Byron!
Frjáls eins og þeir kollegar mínir sem nú eru í óða önn að raða sér niður á greinarnar í garðinum okkar Hönnu og hefja áður en langt um líður fegursta sönginn , meðan laufið springur út í sumarbrosinu.

Förum til Noregs á miðvikudaginn í næstu viku. Þar mun ég flytja erindi um Njálu í skáldskap og lesa upp fyrir þá sem sækja Njálu-ráðstefnuna í norska húmanistafélaginu, en hún verður haldin í Granavolden. Þar mun ég hitta norska vini mína, Knut Ødegård, Asbjørn Årnes og Lars Roar Langslet fyrrum menntamálaráðherra Noregs.
Við Asbjørn kynntumst á ráðstefnu í Kaupmannahöfn upp úr 1960 og höfum verið vinir síðan. Hann er einn helzti menningarviti Noregs, fyrrverandi prófessor í frönskum bókmenntum við Oslóarháskóla. Svo komum við heim annan mánudag og þá þarf ég að undirbúa mig undir mikið samtal sem Silja Aðalsteinsdóttir ætlar að skrifa og á að birtast í Tímariti Máls og menningar.
Mér skilst á Alþýðublaðinu að það teljist til tíðinda að þetta samtal birtist í þessu helgiriti vinstri manna á Íslandi. Mér hefur líkað ágætlega við forystumenn Máls og menningar og ekki sízt Friðrik Rafnsson, ritstjóra tímaritsins. Hann hefur ávallt sýnt mér hlýhug. Hann stjórnaði því að Ríkisútvarpið hélt upp á sextugsafmæli mitt á sínum tíma með sérstakri dagskrá. Ég undraðist þennan hlýhug en hann sagði við mig að annað væri fáránlegt.
Mér líður vel í slíku andrúmi. Ég átti því ekki alltaf að venjast. Og Silja hefur öðrum fremur sinnt ljóðum mínum og fjallað um þau af hlýhug og virðingu. Ég treysti henni vel fyrir verkinu. Hún skrifaði ágæta bók um Guðmund Böðvarsson skáld. Það ríður baggamuninn. Áður en ég kynntist Silju stóð ég eitt sinn á tali við Steingrím Sigurðsson neðst á Hverfisgötunni. Þá gengur lítill, dökkhærður kvenmaður glaðlega framhjá og heilsar. Steingrímur, lítur upp, en ég þekkti ekki konuna.
Steingrímur kallar á eftir henni, Það ert þú gamla kommapíkan þín!
Ég hrökk við.
Munaði minnstu að ég fengi slag þarna á Hverfisgötunni.
Hver er þetta? spurði ég.
Hún Silja Aðalsteinsdóttir.
Hvernig dettur þér í hug að kalla þetta á eftir konunni? spurði ég. Ég vona bara að hún haldi ekki að það hafi verið ég sem kallaði.
Nei, sagði Steingrímur, hún veit að það var ég.
Silja hefur aldrei minnzt á þetta við mig, en mér fannst það óþægilegt. Hefði satt að segja haldið að hinn borgaralegi arfur Steingríms frá Akureyri ætti að duga honum betur en þetta í umgengni við konur – af öllum flokkum.


27. apríl – laugardagur

Aðalsöguhetjan í skáldsögu Ecos sem ég hef verið að lesa, Eyja dagsins á undan, heitir Roberto og höfundur fer fram og aftur í sögu hans til að lýsa lífi hans og ævintýrum. Konan sem stelur hjarta hans heitir Lilja. Ég gæti trúað því að þetta nafn sé eins konar allegóría um guðsmóður sem allir karlmenn þrá; eða öllu heldur skírskotun til hennar. Halldór Laxness hefur skrifað um þessa óviðjafnanlegu guðsmóður sem er eins konar ástkonuímynd sérhvers karlmanns og Tómas Guðmundsson hefur ort um hana:

En, heilaga móðir, hvort fæ ég þá framar ratað
í fávísi minni til þín, ó, svaraðu mér.
Hvort týndi ég þér, eða hefi ég henni glatað?
Er hún ekki lengur til, ef ég fylgi þér?
(Í klausturgarðinum)

Orðið lilja hefur líklega komizt inn í forníslenzku úr mið-lágþýzku eða forn-ensku, sbr. fornensku lilie. Það er tökuorð úr latínu lium, lilia; líklega komið úr egypzku. Í sögu Ecos er lilja borið fram eins og á íslenzku. Orðið merkir laukjurt en guðsmóðir í yfirfærðri merkingu eins og við sjáum af þekktasta helgikvæði íslenzkrar tungu.

Skrifaði í dag pistil í helgispjall sem ég ætla að birta þar annan sunnudag. Hann fjallar um sýkópata, eða geðvillu. Hef komizt að þeirri niðurstöðu að sýkópatarnir í opinberu lífi á Íslandi valdi einkum samfélagsofnæminu hjá dómgreindarfullu fólki með aðhaldssamri sjálfsvirðingu, en mér virðist þetta ofnæmi fyrir umhverfinu fari vaxandi upp á síðkastið. Og það eru, að ég held, þessi dómgreindarlitlu blöðruselir og framtóningar sem vaða uppi í fjölmiðlum og opinberu lífi sem valda þessum kvilla, ef kvilla skyldi kalla.

 

28. apríl – sunnudagur

Lilja er umfram allt táknmynd sakleysisins. Þannig fer vel á því að hún tákni guðsmóður sem eignaðist barnið fyrir guðlegan innblástur.

Eyja dagsins áður, eða Eyja dagsins á undan er flókin saga og raunar vaxin úr draumi eða martröð inn í einhvers konar nútímalegt ævintýri. Hún er fleyguð með ástarsögu Robertos og Lilju en leyndardómurinn er leyndardómur lengdarbaugsins. Það er kannski ekkert undarlegt þegar haft er í huga að sagan á að gerast á 17. öld og harla lítið vitað um leyndardóma jarðarinnar. En í þessari martröð allri eða súrrealistísku fléttu birtist okkur allt í einu Júdas gamli í gervi gamals klerks og hann er þá að reyna að leita að deginum fyrir föstudaginn langa, eða fimmtudeginum áður en hann sveik Krist. En hann er líklega dæmdur til þess að finna aldrei þann dag því að friðþægingin er bundin við krossfestinguna og án hennar engin friðþæging; enginn Kristur, engin kristni. Þessu verður Júdas að una í því gervi sem hann birtist undir lok sögunnar.
Hvað sem lengdarbaugnum líður getum við ekki ferðazt inn í daginn áður eða daginn á undan. Hann er jafn lokuð bók og næsti dagur eða sú framtíð sem við þekkjum ekki.
Allt er þetta fléttað saman með sérkennilegum og raunar eftirminnilegum hætti og í þeim anda sem höfundur hefur ræktað sögur sínar úr gömlum aðferðum allegoríunnar.

Þetta er góð setning í Degi dagsins áður, Ástin er eins og eldur og reykurinn vísar á hana.

En er það nú alveg víst?

Kristján Karlsson sendi mér ágætt kvæði um daginn, Vestanvindur. Það er byggt upp á einstaka setningum sem eru eins og vörðubrot og eiga að minna á en ekki fullsegja. Kvæðið er eins konar eftirmæli um gamlan vin hans sem ég man einnig vel eftir, Lúðvík rafvirkjameistara sem rak rafmagnsverzlun á Laugarveginum þegar Ingi Guðmundsson vinur minn lærði hjá honum.
Kristján segist vera orðinn leiður á línunni í ljóðum og það hái sér mjög við ljóðalestur. Í þessu kvæði er hann á flótta undan línunni og tekst ágætlega. Hann drepur á morðið '32 og þá vitum við úr hvaða umhverfi kvæðið er sprottið, það var umhverfi Lúðvíks sem var einhver bezt talandi sögumaður sem Kristján Karlsson hefur kynnzt á lífsleiðinni. Þá er einnig talað um að vinna sér tvær krónur inn og er það skírskotun í þá frásögn Lúðvíks að Oddur á Skaganum, sem ég var alltaf hræddur við á sínum tíma, hafi greitt strákunum tvær krónur fyrir að ónónera sig, en aldrei hef ég heyrt það áður.
Tvær krónur á þessum árum voru miklir peningar enda átti Oddur gamli mikla peninga og gat keypt tvær eða þrjár íbúðir í DAS áður en hann dó og kom það flatt upp á marga því að Oddur stóð oftast á Pósthúshorninu við Austurstræti og betlaði.
Hann var viðskotaillur og ég forðaðist hann.
Lúðvík hefur líklega alltaf haft dálítið samvizkubit af því að drepa í sígarettu á kinn stúlku og kemur Kristján Karlsson að því í þessu eftirmælaljóði.
Lúðvík var bóhem, stundum ríkur stundum fátækur, drakk mikið og eltist við kvenfólk en hafði ógeð á vændiskonum. En hann var vís til alls eins og stendur í lok kvæðisins – með spurningamerki.


1. maí – miðvikudagur

Dagur launþega. Þegar Ingólfur sonur okkar varð stúdent fóru blaðamenn Morgunblaðsins á stúfana að tala við þetta nýútskrifaða unga fólk og einn þeirra lenti á Ingólfi og spurði hann hvað hann segði um kvennabaráttuna. Hann sagðist ekkert þekkja til kvennabaráttunnar. Það hefði engin slík barátta farið fram á sínu æskuheimili. Þar hefði ríkt fullkomið jafnrétti.
Móðir mín hefur verið atvinnurekandi, sagði Ingólfur, en faðir minn er launþegi!
Þetta þótti mér gott hjá Ingólfi og ágæt afgreiðsla á kvennabaráttunni. Ástæðan til þess að talað var við Ingólf var sú að hann varð semidúx í MR og árangur hans í erfiðri náttúrufræðideild vakti mikla athygli og yljaði foreldrunum. Hann hefur haldið þessu striki og er nú að hasla sér völl sem vísindamaður á alþjóðlegum vettvangi, við mjög erfiðar aðstæður og mikla samkeppni.

Hef verið að kynna mér japanska metsöluhöfundinn Shusaku Endo sem virðist harla merkilegur höfundur. Hann er kristinn. Hann segist hafa orði kaþólskur gegn vilja sínum; trú hans hafi verið undirbúin eins og brúðkaup, þ.e. eins og hann hafi gifzt konu sem móðir hans valdi. Hann reyndi að hrista þessa brúði af sér – fyrir marxisma, guðleysi – en tókst aldrei að losna við kristnina. Hann gat ekki búið við þessa brúði sína og hann gat ekki heldur lifað án hennar. Hún hélt áfram að elska hann og honum til mikillar furðu óx einnig ást hans til hennar. Endo hefur líkt trú sinni við of stóran fatnað sem ungur drengur er klæddur í en passar ekki alveg. Hann segist hafa verið að reyna að endursníða eða endursauma þennan vestræna fatnað sem móðir hans klæddi hann í og breyta honum svo að fötin „pössuðu mínum japanska líkama”.
Endo ferðaðist víða um lönd. Honum var hafnað heima og honum var hafnað í andlegu föðurlandi, Frakklandi, en þangað fór hann m.a. til að leggja stund á kaþólsk verk Mauriacs. Áður en hann fór aftur heim til Japans kom hann við í Palestínu til þess að rannsaka líf Krists og þá fyrst komst hann að miklum sannindum. Kristi sjálfum hafði verið hafnað. Allt líf hans var höfnun. Nágrannarnir hlógu að honum, fjölskyldan efaðist um andlegt heilbrigði hans, beztu vinir hans sviku hann og samborgararnir fórnuðu lífi hans fyrir þekktan glæpamann. Kristur helgaði líf sitt þeim sem áttu undir högg að sækja; þeim sem var hafnað; hann snerti holdsveika, borðaði með óhreinum, fyrirgaf þjófum, hórkörlum og vændiskonum.

Þessi nýja skynjun varð Endo eins konar opinberun. Kristur forðaðist ekki niðurlægingu. Kristur var ekki endilega fulltrúi hins heilaga rómverska keisaraveldis, hinna glæsilegu krossfararriddara, hinna dýrlegu kaþólsku kirkna. Hann var hinn þjáði þjónn; eða með orðum Isiah: „Fyrirlitinn og hafnað af mönnum, maður sorgar og þjáninga.”
Það var þessi Kristur sem gat skilið hugarangur og sálarkvalir Endos. Hann fór aftur heim til Japans endurnærður og sterkari í trúnni en nokkru sinni. Hann var ekki í fylgd með hinum krýnda konungi Kristi, heldur með hinum krossfesta, þjáða guðssyni sem var fórnað fyrir mennina. Það var guð þjáningar og þyrnikórónu sem vísaði veginn. Endo hafði eignazt sálufélaga sem hefur aldrei brugðizt honum. Og þegar ég fór að hugsa um þessa trúarreynslu Endos sá ég í hendi mér að hún væri ekki ólík boðskap Kierkegaards sem lagði áherzlu á Krist andspænis dauðanum; þann Krist sem breytti dauðanum í fagnaðarefni.

Í japönsku er talað um fumie; það merkir að kristnir menn og trúboðar afneituðu trú sinni með því að ganga á íkoni af Maríu og barninu. Að öðrum kosti voru þeir teknir af lífi. En þegar þeir höfðu troðið á helgimyndinni voru þeir frjálsir – og afkristnir, ef svo mætti segja. Endo traðkaði aldrei á helgimyndinni þrátt fyrir bitra reynslu.

Annað skáld sem ég hef verið að lesa, Auden, yfirgaf ekki heldur trú sína en óx inn í hana, ef svo mætti segja, eftir því sem árin liðu. Hann var sannfærður um að það væri rétt hjá Dostojevskí þegar Karamazov segir:
Án guðs er allt leyfilegt(!)
Hann fyrirleit hvernig lýðveldisherinn murkaði lífið úr klerkum og alþýðufólki vegna trúarinnar og sætti sig engan veginn við þessa villimennsku í borgarastríðinu á Spáni, þótt hann hefði haft samúð með andstæðingum Francos. Hann vildi að trúin væri mikilvægur áhrifavaldur í þjóðfélaginu og leitaði m.a. til Kierkegaards til að tjá sig um þessi efni. Hann var sannfærður um að eina heimspekin sem unnt væri að nota gegn nazisma yrði að vera með trúarlegu ívafi. Sjálfur óx hann inn í kristni og dó sem slíkur.

Auden var alla tíð mikill andstæðingur einræðis. Honum var heldur illa við pólitísk kvæði en þó hefur hann sjálfur ort nokkur slík kvæði sem ekki er hægt að ganga framhjá vegna þess hve þau eru góður skáldskapur. Í Skildi Akkilesar talar hann um hina grunnhyggnu mergð, milljón augu, milljón stígvél í röð. Svipbrigðalaus og bíða eftir merkinu. Og rödd án andlits. Og í kvæðinu Eftirmæli um harðstjóra segir svo:

Hann sóttist eftir einhvers konar fullkomnun
og kvæðin sem hann orti voru auðskilin.
Hann þekkti heimsku mannsins eins og handarbakið á sér
og hafði feikna áhuga á herjum og flotum.
Þegar hann hló hristust virðulegir þingmenn af hlátri
og þegar hann grét dóu lítil börn á götum úti.
(Jan. '93)

Stevie Smith er skemmtilegt, brezkt skáld. Hef verið að hlusta á hana lesa af bandi. Hún er persónuleg og öðruvísi. Áður en hún las eitt ljóða sinna sagði hún að dauðinn gæti verið góður vinur. Einn hinna grimmu rómversku keisara fór stundum í fangelsin. Þá kom fyrir að fangar sem voru aðframkomnir af illri meðferð hrópuðu til keisarans,
Leyfðu okkur að deyja.
Nei, sagði hann. Það geri ég ekki. Við erum ekki enn orðnir nógu góðir vinir til þess!

Ætli þetta sé ekki hámark þess skepnuskapar sem maðurinn einn allra dýra býr yfir?


7. maí – þriðjudagur

Komum heim frá Osló í gærdag eftir góða og eftirminnilega ferð. Kem að henni síðar. Fín flugferð. Vorum samferða Halldóri Ásgrímssyni og Þorsteini Pálssyni ásamt fríðu föruneyti en þeir voru að koma heim frá Osló þar sem þeir höfðu gert síldarsamninga við Norðmenn. Við skrifuðum vel um þessa samninga í forystugrein Morgunblaðsins í morgun. Þeir eru skynsamlegir og vísa væntanlega veginn því við þurfum að gera samninga um Barentshafið og Smuguna svo að friður ríki milli allra þeirra þjóða sem þar koma við sögu og á ég þá einkum við Íslendinga, Norðmenn og Rússa.
Ég heyrði á ráðherrunum í flugstöðinni í Fornebo að þeir höfðu einhverjar áhyggjur af því að samningunum yrði heldur illa tekið hér heima. Það hefur reynzt rétt. Sjómenn og útgerðarmenn eru samningunum andstæðir en Jakob Jakobsson fiskifræðingur hefur sýnt fram á nauðsyn þess að gera slíkan samning til að vernda þann mikla árangur sem náðst hefur við síldarfriðun á Atlantshafi.
Þegar við Þorsteinn gengum saman úr flugvélinni inn í ranann á flugstöðinni, með Hönnu á milli okkar, blöstu sjónvarpsmenn við en þá hnyppti hann í handlegginn á mér og sagði,
Heyrðu, hefurðu verið að gera eitthvað af þér í Noregi?
Gott hjá Þorsteini. Hann á til svona húmor. Það fer vel í mig. Hitt er annað mál að menn hafa verið að spyrja mig um hvað ég hafi verið að gera í Noregi með síldarnefndinni. Það þykir vart í frásögur færandi þótt skáld sé á ferð að lesa upp og flytja erindi um íslenzka menningu eða taka þátt í merku seminari um arfleifð okkar. Samtíðin fjallar um peninga og hagsmuni. Önnur verðmæti eru þá látin sitja á hakanum ef svo ber undir.

Talaði við Styrmi. Allt ágætt að frétta. Ekkert sérstakt. Mér skilst að Jón Baldvin sé eitthvað að hugsa um að fara í forsetaframboð. Hann segist víst eiga fallegri konu en Ólafur Ragnar! Vegurinn að atkvæðunum er órannsakanlegur eins og margt annað í þessari skrýtnu tilveru. Það leynir sér ekki að Helgispjall mitt á sunnudag um sýkópatana hefur vakið mikla athygli. Hef ekki haft við að svara spurningum um það hverja ég hafi einkum haft í huga!! Hrekkurinn tókst. Og vonandi að einhver hugsi um það þjóðfélag sem við lifum og hrærumst í, hvernig það er, hverjir stjórna því og hvers vegna.

Aðalfundur Árvakurs var haldinn sl. laugardag. Okkur ritstjórunum var boðið að sitja aðalfundinn í fyrsta skipti en ég var erlendis og Styrmir vildi ekki mæta einn. Þarna voru mættir ungir, nýir hluthafar eins og Kristinn Björnsson og Hallgrímur Gunnarsson. Kristinn var eitthvað að spyrja um Stöð 3 og vék einhverri spurningu að Birni Bjarnasyni sem þarna var einnig og varðaði hún útvarpsréttarnefnd. Hallgrímur Geirsson sagðist hafa bent Kristni frænda sínum á að Björn væri ekki þarna sem menntamálaráðherra heldur hluthafi. Síðar spurði Björn Hallgrím hvort þetta væri svona mikið mál hvernig rásum hefði verið úthlutað en við höfum fjallað rækilega um það hvernig útvarpsréttarnefnd sniðgekk Stöð 3. Hallgrímur sagði Birni að þetta væri alvarlegt mál og mér skilst að Björn hafi ekki gengið að því gruflandi eftir þennan fund að það er þungt í stjórnarmönnum Árvakurs vegna afstöðu og ákvörðunar útvarpsréttarnefndar undir forystu Kjartans Gunnarssonar.

Valgerður Bjarnadóttir kom heim til Íslands til að styðja Pétur vin sinn Hafstein í kosningabaráttunni. Mér skilst hún hafi verið í Þriðja manninum um daginn og þá m.a. talað um Gunnu frænku. Hún styður hana ekki þótt þær séu bræðradætur. Sem sagt, eitthvað kvarnast úr ættunum! En allt fjallar þetta um metnað og framapot.


8. maí – miðvikudagur

Fór í Rótarý í dag. Hitti Þorstein Pálsson. Hann lék á als oddi og þakkaði fyrir leiðara Morgunblaðsins um síldarsamninginn.
Maður ætti að hafa ritstjóra Morgunblaðsins með sér í öllum erfiðum samningum í útlöndum! sagði hann brosandi.
Samningur sem verndar síldarstofninn er ávísun á framtíðina, sagði ég. Þú þarft ekkert að þakka(!) Það er hollt að hugsa til framtíðar þegar ákvarðanir eru teknar í samtímanum.

.

Talaði lengi við Sigmund Guðbjarnarson prófessor eftir Rótarýfundinn í dag. Hann var að segja mér frá erfiðleikum háskólans og hinni hörðu samkeppni sem nú ríkir einnig hér heima á sviði rannsókna og vísinda, ekki síður en í útlöndum.
Ég sagði honum frá aðstöðu Ingólfs í þeirri hörðu samkeppni sem hann hefur átt í þar sem hann vinnur í sínu alþjóðlega umhverfi í London.
Sigmundur sagði að á þessum vettvangi væri ekki tekið mark á neinu nema hörku og ákveðni. Þetta væri samkeppni hinna hæfustu en þessi vettvangur væri heillandi og gæti verið ævintýri líkastur.
Hann taldi að Ingólfur hefði tekið réttan pól í hæðina þegar hann mætti þessari samkeppni með einurð og ákveðni. Sú afstaða ein kallaði á virðingu. Hann mælti með því að hann færi á vísindaráðstefnuna í Jerúsalem í sumar, en ég hef haft fyrirvara á því. Hann hefði verið þar sjálfur á sínum tíma og það væru merkar vísindastofnanir í Jerúsalem. Gyðingar leggðu áherzlu á menntun og vísindi. Háskólar í Jerúsalem nytu virðingar. Hryðjuverkamenn væru ekki í háskólahverfum Jerúsalem. Þeir væru annars staðar.

Sigmundur sagði að þeir háskólamenn ættu auðveldara með að tala við Björn Bjarnason nú en áður. Það væri farið að örla á skilningi þeirra í millum. Mér þótti vænt um það. En hann sagði að enn skorti á fullan skilning. Það hefði tekið Ólaf G. Einarsson tvö ár að tala sama tungumál og þeir í háskólanum.
Ég sagði honum frá hugmynd okkar Einars Stefánssonar prófessors um að háskólinn fengi kvóta sem bakhjarl eins og háskólar í Bandaríkjunum hefðu eignazt milljónasjóði til að ávaxta og nota í eigin þarfir. Honum leizt vel á kvótahugmyndina. Með slíku fyrirkomulagi lenti afrakstur háskólakvótans hjá þeim sem ættu auðlindina, þ.e. fólkinu í landinu. Það ætti að geta létt skattabyrðir ef vel væri farið með háskólakvótann og hann notaður skynsamlega til uppbyggingar og ávöxtunar. Þetta er kannski ekki svo vitlaus hugmynd. Hver veit nema við hleypum henni af stokkunum einn góðan veðurdag(!)
En Sigmundur stendur enn gegn sjálfseignarstofnun. Segist ekki munu treysta háskólamönnum fyrir því að stjórna háskóla fólksins í landinu. Þeir myndu breyta honum í háskóla hinna útvöldu áður en nokkrum vörnum yrði við komið.
Þetta er íhugunarefni.
Háskóli Íslands verður ávallt að vera háskóli fólksins en ekki hinna útvöldu. Það eiga allir að geta sótt þangað án þess hafa áhyggjur af eigin fjárhag. Við getum ekki breytt Háskóla Íslands í háskóla hinna ríku. En við getum breytt háskólanum í eins konar sægreifa svo hann hafi bolmagn til að sinna skyldum sínum við fólkið í landinu, arfleifðina og framtíðina.

Í dag var skýrt frá niðurstöðu skoðanakönnunar vestur á fjörðum þar sem verið er að stofna nýtt sveitarfélag, Ísafjarðarbæ. Ólafur Ragnar er sagður hafa yfir 50% á þessum æskuslóðum sínum svo hann virðist vera á góðri leið með að afsanna að enginn sé spámaður í föðurlandi sínu! Pétur Hafstein er með milli 20 og 30%, Guðrún Pétursdóttir rúmlega 10%, ef ég man rétt, og Guðrún Agnarsdóttir innan við 5%.
Ótrúlegt!
Vonir Péturs Hafsteins hljóta að minnka verulega við þessi tíðindi. Hann var sýslumaður á þessum slóðum árum saman en hefur samt ekki roð við Ólafi Ragnari. Og framboð þeirra Ólafs Hannibalssonar og Guðrúnar Pétursdóttur fyrir Sjálfstæðisflokkinn í síðustu alþingiskosningum skilar henni nú litlu fylgi, ef marka má þessa skoðanakönnun. Allt er þetta með ólíkindum. Samtíminn er valtastur vina. Sé ekki betur en pólitíska flökkudýrið sé að uppskera með sama hætti og Ásgeir Ásgeirsson á sínum tíma. Höfuðmeinsemd íslenzkrar samtíðar er hugarfar hjarðmennskunnar. Hvenær ætli hjörðin breytist í einstaklinga? Þeir sem sjást ekki fyrir ráða ferðinni og samt þykjast Íslendingar vera einhverjir einstaklingshyggjumenn. Það held ég sé grundvallarmisskilningur. Þeir fylgja lögmálum dýraríkisins. Fylgja þeim sem þeir halda að sé sterkastur. Þetta virðist nú meira áberandi en nokkru sinni áður í forsetakosningum. Og Ólafur Ragnar Grímsson kann að gera út á þennan veikleika í þjóðarsálinni. Æ já, þjóðarsálinni – guð minn góður!!

Stefán Ólafsson félagsfræðingur sagði okkur Styrmi í morgun í trúnaði að nokkrir vinir Davíðs Oddssonar hefðu beðið Félagsvísindastofnun um að gera könnun á fylgi hans ef hann færi í forsetakjör. Könnunin var gerð skömmu fyrir páska en þó eftir að Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti um framboð sitt. Niðurstöður könnunarinnar voru þær að Ólafur fengi um 60% af fylgi þeirra 80% sem svöruðu og tóku afstöðu. Ég man ekki fylgi annarra frambjóðenda en það var hverfandi. Og sjálfur Davíð Oddsson hlaut ekki nema um 10% atkvæða. Margir voru alfarið á móti honum, aðrir vildu að hann héldi áfram í núverandi störfum. Stefán taldi að hann hefði getað reiknað með eitthvað yfir 30% atkvæða ef hann hefði farið í framboð. En þá hefðu þeir sem vildu að hann héldi áfram núverandi störfum kosið hann þegar á hólminn væri komið
Í kvöldfréttunum var birt ný Gallup-könnun um fylgi forsetaframbjóðenda. Þar kemur í ljós að Ólafur Ragnar Grímsson hefur um 44% en aðrir frambjóðendur hverfandi fylgi, þetta þrjú til fimm prósent. Milli 30-40% höfðu ekki ákveðið sig; sú tala hefur sem sagt hækkað til muna frá fyrri Gallup-könnun. Og fylgi Ólafs Ragnars hefur minnkað til muna. En þessar niðurstöður sýna það sem ég hef raunar alltaf vitað, að Ólafur Ragnar Grímsson sækir forskot sitt í þá staðreynd að hann þarf ekki að kljást við neinn sterkan frambjóðanda. Því má vel vera að sterkur frambjóðandi gæti gjörbreytt þessari niðurstöðu ef hann kæmi nú fram. Jón Baldvin er að velta því fyrir sér hvaða fylgi hann hefði í væntanlegu framboði. Mér skilst hann ætli að láta gera könnun á því um helgina. Eftir það tekur hann ákvörðun.


11. maí – laugardagur

Hef verið að velta fyrir mér bardagalýsingum í Hómerskviðum og Íslendinga sögum. Sé í hendi mér að Hómer hefur haft veruleg áhrif á þessar lýsingar í okkar fornu bókmenntum. Hélt þetta væri mín eigin uppgötvun en þegar ég fór að kanna málið blasti við að svo er ekki. Steingrímur Matthíasson skrifar grein í Skírni 1916, Benrögn. Þar gerir hann dálítinn samanburð á þessum lýsingum en fjallar þó einkum um sár í fornum sögum íslenzkum. Hann vitnar í aðfarir Göngu-Hrólfs gamla þar sem segir: „Hrólfur gengur hart fram og heggur til beggja handa; urðu þeir léttir fyrir honum og féll nú hver um annan. Engum þurfti hann að gefa meira en eitt högg, og báðar hendur hans voru blóðugar til axlar upp. Bauð nú flestum framganga hans ótta... Hrólfur var þá svo reiður að hann eirði engu; hann hjó ákaflega sem hendurnar fengu tíðast reitt sverðið, en þrír eða fjórir féllu fyrir hverju hans höggi. Því var líkast til að jafna um mannfallið, sem þá er ákaflegast brýtur kurl af stofni, er menn gjöra til kol”. (Fornaldars. Norðurl. III Rvík. 1889, bls. 222 og 234).

Steingrímur segir:
„Þessar og þvílíkar bardagalýsingar í fornritum vorum eru mjög sviplíkar lýsingum Hómers í Ilíonskviðu, nema hvað Hómer er skáldlegri í líkingum sínum. Það sýnist eiga vel við að setja hér til samanburðar frásögu hans af framgöngu Akkilis, t.d.:
„Svo sem þá er geysilegur eldur hleypur óður um djúpa afdali, þegar þykkur skógur er að brenna, og vindurinn keyrir fram logann og þyrlar honum um allt, – svo óð Akkilis um allt, með spjót í hendi, líkur einhverri óhemju, og elti menn þá, er feigir voru, en dökk jörðin flaut í blóði. – Svo sem þá er maður tengir saman krúnubreiða uxa, til að láta þá þreskja hvítt bygg á vel settum þreskivelli og smækka byggkornin skjótt undir klaufum inna hábaulandi nauta: svo tróðu enir einhæfðu hestar hins hugstóra Akkils jafnt mannabúka og skjöldu, en allur hjólásinn undir kerrunni varð blóði drifinn, og blóðsletturnar undan hófunum og hjólröndunum gengu yfir kerrustólsbogann; en Peleifsson geystist áfram til að vinna sér frægð, og voru hinir óárennilegu armleggir hans blóði stokknir”. (Il.kviða. (Þýð. Svb. Eg. XX, 488-505)).””

Þrjú þúsund ár hafa ekki breytt manninum á nokkurn hátt og þarf ekki annað en minna á fjöldagrafirnar í Bosníu eftir átökin þar. Við erum dýr ógnar og ofbeldis og svo lengi sem það verður eitt helzta einkenni okkar verður Hómer lesinn sem helzti túlkandi mannlegs eðlis og þá ekki síður fornar íslenzkar sagnir.
Í Hómerskviðum skiptir máli hvaða útreið líkaminn fær. Patroklos sem stóð Akkilisi næst var með hugann við líkama sinn og það skipti miklu máli hvernig Hektor leit út dauður. Patróklos minnir á Gunnar á Hlíðarenda því hann vitjar Akkilisar oft í draumi og vill góða útför svo hann geti hvílt í friði.
Gunnar er ekki kyrr í sínum haugi en syngur þar um örlög sín og hefndir. Líki Njáls er lýst fögru og óbrunnu eins og þar hafi látizt helgur maður.

Og þessar lýsingar í Ilíonskviðu gætu verið íslenzkum fornsagnaskáldum klassísk fyrirmynd:
„Trós hélt nú höndum um kné hans, og vildi biðja sér lífs, en Akkilis lagði hann sverði í lifrina; valt lifrin út úr honum, en svart blóðið úr lifrinni fyllti skaut hans; sé þá sorti fyrir augum, og var hann örendur. Þá gekk Akkilis að Múlíus, og lagði hann með spjóti í eyrað, og gekk þegar eyroddurinn út um hitt eyrað. Þá hjó hann með heftisverði í höfuð Ekeklus Agenorssyni; varð allt sverðið volgt af blóðinu, en dökkrauður dauðinn og hin máttuga skapanorn heltók augu hans. Þá lagði hann eirspjótinu í gegnum handlegg Devkalíons, þar sem aflsinarnar koma saman í olnboganum; varð honum þá höndin ónýt og sá hann nú fyrir dauða sinn, beið svo, þar til Akkilis hjó á hálsinn með sverði; þaut þá af honum höfuðið og hjálmurinn með, en mænan gaus upp úr hálsliðunum, og féll hann endilangur á jörð niður. Þá fór Akkilis eftir hinum vaska Hrigmus Píráussyni, er komið hafði frá hinu frjósama Þraglandi, og skaut spjóti á hann miðjan, og gekk eirvopnið inn í lungað; féll hann þá ofan af kerrunni.” (20, 469-489)

Það er eins um Íslendinga sögur og Hómerskviður að það er valdið sem öllu ræður; frásögnin vegur salt á hinni ljótu villimennsku og því sem Yeats kallaði „hryllilega fegurð”.

Fyrirlestur minn í Noregi byggði á Njálu í íslenzkum skáldskap og talaði ég einkum um Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar, Njálukvæði Heidenstams (1859-1940) og gat ég vitnað í þýðingu Olaf Hansens á hinu fyrrnefnda. Þá fjallaði ég einnig um kvæði William Morris um Gunnar á Hlíðarenda, Gunnar's hove above the House at Lithend og kvæði Seamus Heaney, Funeral Rites en í þriðja og síðasta kafla þess fjallar skáldið um Gunnar á Hlíðarenda og notar Njálu til að minna á örlög eigin þjóðar og átökin á Írlandi. Vitnaði svo að lokum í kvæði Audens, Journey to Iceland þar sem skáldið minnir á orð Gunnars, Fögur er hlíðin... Bæði Morris og Heaney fylgja frásögn Njálu rækilega, tala um söng eða kveðskap Gunnars í hauginum og hvernig hann „sá í móti tunglinu”. Í sögunni segir einnig að Skarphéðinn og Högni „þóttust sjá fjögur ljós í hauginum brenna og bar hvergi skugga á”, en Heaney segir að menn hafi sagt að hann hafi verið syngjandi vísur um heiður og fjögur ljós hafi brunnið í haugherbergjunum. Fögur ásýndum liggur hetjan þarna og kveður og snýr glaðlegu andlitinu móti tungli. William Morris talar aftur á móti um „glad-eyed” í sínu kvæði.

Í umræðum um fyrirlestur minn var bent á að norska skáldið Wildenvey hefði ort kvæði um Gunnar og heimþrá hans, Hjemkomst, fallegt kvæði og eftirminnilegt. Ég hlustaði á Wildenvey þegar hann kom hingað á 6. áratugnum og las ljóð sín. Það var eftirminnilegt. Ég hlustaði einnig á Øverland lesa ljóð sín í Reykjavík, það var í kalda stríðinu, en hann var einhver harðasti andstæðingur kommúnismans þá um stundir og kom hingað til að minna okkur á þetta skrímsli sem tók við hlutverki nazismans eftir styrjöldina. Upplestur Øverlands hafði á sínum tíma mikil áhrif á mig og var mér ógleymanlegur.

Ég þurfti oft að lesa kvæði á þessari ráðstefnu þarna í Grannavollen – og þá helzt úr nýjustu ljóðabókinni, Vötn þín og vængur, en Knut Ødegård sem flutti einnig mjög sterkt erindi um auðlegð íslenzkra bókmennta í norskri menningarsögu las þýðingar sínar á þessum ljóðum en sum þeirra höfðu komið út fyrir tveimur árum hjá Cappelen undir nafninu Om Vindheim vida. Bókin hafði fengið mjög góðar viðtökur í Noregi og þarna á seminarinu var mér þakkað bak og fyrir eftir hvern lestur. Það var mjög ánægjulegt og uppörvandi. Mér líður ávallt mjög vel í hópi þessara norsku frænda okkar og þeir hafa sýnt mér eins mikla hlýju og virðingu og unnt hefur verið. Það kann ég vel að meta.

Norski bókmenntafræðingurinn og gagnrýnandinn Eiliv Straume sem þarna var einnig las eitt kvöldið þrjú ljóð eftir norskt skáld sem ég þekkti ekki áður, Peter Munheim, og fjalla þau öll um Ísland, På veg til Island, Sumarkveld i Island og 23 Januar 1973; auk gamallar sjómannsbænar frá Íslandi. Öll þessi ljóð hafa víst komið út í bók sem heitir Sett og drømt, 1979.

Noregsferð okkar Hönnu var þannig í senn einkar ánægjuleg og ógleymanleg. Hún minnti raunar á fyrri ferðir til Björgvinjar, Herøy og Molde á sínum tíma, en á öllum þessum stöðum las ég upp og í Herøy flutti ég einnig hátíðarræðuna á Víkingagleðinni þar.

Hef verið að hlusta á þætti úr Shakespeare sem prinsinn af Wales valdi á geisladiska. Ég er að vísu ekki með hugann við verk Shakespeares heldur umhverfi hans. Höfum verið að horfa á Glendu Jackson í hlutverki Elísabetar I í nýrri myndbandaröð. Fróðlegir þættir og vel gerðir, eða eins og Bretum er einum lagið.

Faðir Hamlets var drepinn með eyrnadropum. Tungumálið getur einnig verið þannig eitur. Það fer inn í eyrað og eitrar hug og hjarta. Það sjáum við ekki sízt í Óþelló. Galdur leikritanna er tungumálið; skáldskapurinn. En fegurðin getur ekki síður leitað sér að farvegi um eyrað en augað. Vemmilegasta orð sem ég þekki í íslenzkri tungu er eyrnakonfekt. Ég veit ekki hver fann upp þetta væmna orð en ég hefði ekki viljað eiga löng samtöl við hann. En falleg orð geta ekki síður leitað hjartans en ljót. Ástin getur tjáð sig í slíkum orðum. Án eyrans væri engin tónlist til og ekki heldur neinn Jago. Mér hefur stundum dottið í hug að hann eigi sér fyrirmynd í Merði Valgarðssyni í Njálu. Shakespeare leitaði að vísu víða fanga en vart getur samt verið að hann hafi heyrt af þessum skuggalausa, íslenzka Jago því að sagan var ekki til fyrir daga Shakespeares nema á kálfskinni og pappír. Ef hún hefði verið prentuð um hans daga væri ég þess sannfærður að Shakespeare hefði tekið Mörð traustataki og ort hann inn í Óþelló. En það er líklega tómt mál að tala um það.
En eitrið í eyra föður Hamlets er einhver merkilegasta vísbending bókmenntanna – og jafnframt áþreifanlegasta – um tungumálið sem hægt drepandi blásýru. Lygi sem skellur á hljóðhimnunni er eitur sem hverfur til hjartans.
Óþelló og Njála eru stórvirki um tungumál sem gegnir hlutverki eiturs og við sjáum að það er ekki síður áhrifaríkt en hvert það efni sem notað er til morða. Óþelló fjallar um eitur afbrýðiseminnar og lyginnar andspænis ástinni; Njála um eitur öfundar og haturs, fjandskapar andspænis vináttu. Hugurinn er akur og sæðið ákvarðar uppskerunna. Ödipus er aftur á móti um örlög sem þessum konungi Þebu eru búin án þess hann eigi sjálfur neinn þátt í þeim. Þessi örlög eru leikur guðanna. Þau eru ekki leikur mannsins að orðum heldur ákvörðun sem enginn fær umflúið. En guðirinir í Óþelló og Njálu heita Jago og Mörður Valgarðsson.
Í Óþelló IV,I segir svo:

„Óþelló: Hefur hann sagt nokkuð?

Jago: Jú, reyndar, herra; en verið viss, ekki'annað en hann sver fyrir.

Óþelló: Hvað hefur hann sagt?

Jago: Jú, að hann hafi – hvað, það veit ég ekki.

Óþelló: Hvað, hvað þá?

Jago: Legið.

Óþelló: Með henni?

Jago: Legið með, eða legið milli hluta.

Óþelló: Já, legið bæði með og móti í senn! lagzt á eitt með henni! þvílík svívirða! Klútur – játning – klútur!”

Eitrið er farið að hafa áhrif.

Mörður Valgarðsson segir við Þorgeir Starkaðarson í 67. kapítula sögunnar:

„Hann [Gunnar] hefir og tekið sáðland af Þorgeiri Otkelssyni og rofið svo sætt á honum; skalt þú fara að finna Þorgeir Otkelsson og koma honum í málið með þér og fara að Gunnari. En þó að í bresti nokkuð um þetta og fái þér hann eigi veiddan, þá skulu þér þó fara að honum oftar. Mun ég og segja þér að Njáll hefur spáð Gunnari og sagt fyrir um ævi hans, ef hann vægi í hinn sama knérunn oftar enn um sinn, að það myndi honum bráðast til bana, bæri þá svo við, að hann rifi sætt er gjör væri. Skalt þú því koma Þorgeiri í málið, að hann hefir áður vegið föður hans, og ef þið eruð á einum fundi, þá skalt þú hlífa þér, en hann mun ganga fram vel, og mun Gunnar vega hann. Hefur hann þá vegið þrisvar í hinn sama knérunn, en þú skalt flýja af fundinum. En ef honum vill þetta til dauða draga, þá mun hann rjúfa sættina. Er þar til að sitja”.

Í 109. kafla sögunnar kemur Mörður í Ossabæ og kallaði Höskuld hvítanesgoða til máls við sig. Þeir gengu á tal saman. Þá mælti Mörður: „Mikill mannamunur verður með yður Njálssonum. Þú gafst þeim góðar gjafir, en þeir gáfu þér gjafir með miklu spotti... Eigi muntu mæla í móti því... þá er þið Skarphéðinn fóruð austur að Markarfljóti, féll öx undan belti honum og hafði hann ætlað að drepa þig...” Í næsta kafla segir svo: „Það var einn dag, að Mörður kom til Bergþórshvols. Þeir gengu þegar á tal Njálssynir og Kári. Mörður rægir Höskuld að vanda og hefir þá enn margar nýjar sögur og eggjar einatt Skarphéðin og þá að drepa Höskuld og hvað hann mundu verða skjótara ef þeir færu eigi þegar að honum.” „Gera skal þér kost á þessu,” segir Skarphéðinn, „ef þú vilt fara með oss og gera að nokkuð”. „Það vil ég til vinna”, segir Mörður.”

Í næsta kafla er Höskuldur drepinn og þegar þeir Njálssynir segja föður sínum tíðindin spyr Skarphéðinn: „Hvað mun eftir koma?” En Njáll svarar „Dauði minn,” segir Njáll „og konu minnar og allra sona minna.”

Sem sagt, rógur Marðar er eitt helzta hreyfiafl harmsögunnar.

Óþelló var utangarðsmaður. Það var Mörður einnig með vissum hætti. Og Höskuldur hvítanesgoði sem hann reyndi að sá í fræjum hefndar og afbrýði var einnig eins konar utangarðsmaður sem Njáll bar á höndum sér við lítinn fögnuð sona sinna. Hann var í raun utangarðsmaður í fjölskyldu Njáls og auðvelt að egna þá bræður með öfundsýki. Óþelló var tortryggnari en ella vegna þess að hann var hvítur hrafn í umhverfi sínu, ef svo mætti segja. Það var Höskuldur einnig og jagoarnir slógu á þá strengi.

Annars er Óþelló leikrit um vasaklút. Hann gefur Desdemónu vasaklút sem móðir hans hafði fengið á sínum tíma og var eins konar tákn um ástir foreldra hans. Jago segir við Óþelló að Kassíus hafi verið með þennan vasaklút. Það er neistinn sem kveikir bálið. Vasaklúturinn í Óþelló minnir á skyrtuna í Gísla sögu Súrssonar. Í Gísla sögu segir svo, 9. kapítula: „Það var einn góðan veðurdag að Gísli lét alla menn vinna heyverk, nema Þorkel, hann var einn heima karla á bænum og hafði lagzt niður í eldhúsi eftir dögurð sinn. Eldhúsið var tírætt að lengd en tíu faðma breitt en utan og sunnan undir eldhúsinu stóð dyngja þeirra Auðar og Ásgerðar og sátu þær þar og saumuðu. En er Þorkell vaknar gengur hann til dyngjunnar því hann heyrði þangað mannamál og leggst þar niður hjá dyngjunni.

Nú tekur Ásgerður til orða: „Veittu mér það að þú sker mér skyrtu Auður, Þorkeli bónda mínum.”

„Það kann eg eigi betur en þú,” sagði Auður, „og mundir þú eigi mig til biðja ef þú skyldir skera Vésteini bróður mínum skyrtuna.”

„Eitt er það sér,” segir Ásgerður, „og svo mun mér þykja nokkurra stund.”

„Löngu vissi eg það,” segir Auður, „hvað við sig var og ræðum ekki um fleira.”

„Það þykir mér eigi brigsli,” sagði Ásgerður, „þótt mér þyki Vésteinn góður. Hitt var mér sagt að þið Þorgrímur hittust mjög oft áður en þú værir Gísla gefin.”

„Því fylgdu öngvir mannlestir,” segir Auður, „því að eg tók engan mann undir Gísla að því fylgdi neinn mannlöstur. Og munum við nú hætta þessi ræðu.”

En Þorkell heyrir hvert orð það er þær mæltu og tekur nú til orða er þær hættu:

Heyr undur mikið,
heyr örlygi,
heyr mál mikið,
heyr mannsbana,
eins eða fleiri,

og gengur inn eftir það.

Þannig er fræi afbrýðiseminnar sáð í hjarta Þorkels og frá þeirri stundu má rekja blóðferil sögunnar.

En Shakespeare hefur víst ekki heldur lesið Gísla sögu Súrssonar og er því saklaus að áhrifum af henni. En konurnar í Gísla sögu líkjast Desdemónu og Jóköstu í Ödipusi að því leyti að þær ræða lítið um líðan sína. En Auður stendur því sterkar með Gísla manni sínum sem hann á meir undir högg að sækja. Þetta eiga þær Jókasta að minnsta kosti sameiginlegt og kannski einnig Desdemóna. En þær ganga báðar inn í dauðann samkvæmt örlögum sínum , hvor með sínum hætti. Auður lifir aftur á móti mann sinn. Hún fer utan og kemur við í Noregi en heldur síðan til Danmerkur og tekur trú og gengur suður en kom eigi aftur.

En Gísli „lét líf sitt með svo mörgum og stórum sárum að furða þótti í vera. Svo hafa þeir sagt að hann hopaði aldrei og eigi sáu þeir að högg hans væri minna hið síðasta en hið fyrsta”. Minnir sem sagt á þær hómershetjur sem vasklegast börðust og fimlegast og sveifluðu vopni sínu eins og væru mörg sverð á lofti í einu.


14. maí – þriðjudagur

Margir fundir á Morgunblaðinu í gær. Einn um Listahátíð og ákvörðun þess efnis að reyna að sameina menningarblað og Lesbók og taka þá einnig 100 ára afmæli William Morris til meðferðar. Höfðum leiðarafund í hádeginu í gær, að venju á mánudögum. Talað um að skrifa leiðara um hvalveiðar. Við höfum áður skrifað leiðara gegn hvalveiðum, nú bendum við á að hvalveiðar geti varla verið fjárhagslega hagstæðar því ekki sé unnt að losna við hráefnið. Ég sagði leiðaradeildinni frá myndbandinu um hvalina og hvalaljóði Heathcotes Williams, Whale Nation. Lýsti því hvað hvalir gætu orðið stórir og þungir og það væri ægilegt að stöðva svo mikið hjarta með því að drepa hvali. Það væri eins og að stöðva hjarta móður jarðar. Varð samt að segja þeim að æxlunaraðferðir hvala væru dálítið sérstæðar; karldýrið nauðgaði beljunni að því er virtist og það væri mikil keppni milli karlanna að koma sæði sínu til skila. Sá hreppti afkvæmin sem byggi yfir sterkustu sáðfrumunum. Sagði að skaufinn á hvalnum væri allt að þrem metrum en sá þá framan í Agnesi Bragadóttur og baðst afsökunar á því að hún væri viðstödd.
Mér dettur aldrei neitt kyn í hug, sagði ég, þegar þú ert annars vegar. Þú ert eiginlega einskis kyns svo ég noti tungutak Snorra.
Henni þótti þetta að mér virtist heldur einkennileg athugasemd en karldýrin á fundinum, Ólafur Stephensen, Steingrímur Sigurgeirsson og Stefán Friðbjarnarson brostu í kampinn. Styrmir var farinn af fundi.
Já, þrír metrar, endurtók ég.
Aumingja beljurnar, sagði Agnes.
Horfði síðan á mig og bætti við, En heyrðu, geturðu ekki lánað mér spóluna og myndbandið?!
Ég hélt það nú og hún fékk hvort tveggja í gær.

Fréttamönnum tilkynnt í gær að Agnes tæki við fréttastjórn innlendra frétta, ásamt Sigtryggi Sigtryggssyni og Ágústi Inga Jónssyni. Freysteinn Jóhannsson tekur við Menningarblaðinu og Magnús Finnsson verður fulltrúi okkar ritstjóra og annast móttöku greina ásamt öðrum. Öllu vel tekið enda nauðsynleg verkaskipti. Menn þreytast á kvöldvöktum og nauðsynlegt að fréttastjórar fái tækifæri til að glíma við ný verkefni þegar þurfa þykir.

Ingó hefur ættleitt mörgæs í dýragarðinum í Lundúnum. Hún er virðulegasti meðlimur fjölskyldunnar og sá eini sem minnir eitthvað á alvöruþingmann. Það er enginn eins stoltur og mörgæs og enginn hreyfir sig eins þingmannslega og mörgæs. Þannig hlýtur Mörgæs Johannessen að vera stolt fjölskyldunnar og við hana eru bundnar miklar vonir; að sjálfsögðu. Nú þegar Ingólfur hefur fengið sinn mikla styrk frá Welcome-stofnuninni brezku ætti hann að hafa efni á að ættleiða aðra mörgæs. Þá væru tvö þingmannsígildi í fjölskyldunni. Frá sögulegu sjónarmiði séð væri það við hæfi.

Talaði í dag við Auði Laxness. Hafði heyrt að Halldór Laxness væri veikur. Hún sagði að hann hefði fengið flensu fyrir þremur dögum en væri nú skárri. Hann liti vel út og væri ósköp sætur eins og hún komst að orði. Hún sagðist mundu láta mig vita ef honum hrakaði.
Hún spurði hvort hún ætti að bæta einhverju við það sem hún hefði sagt um Halldór í samtalsbók þeirra Eddu Andrésdóttur, hún væri að taka til ýmis konar plögg en væri í vafa um það.
Ég hvatti hana til þess.
Ég sagði að hann væri merkasti Íslendingur okkar samtíðar. Ég sagði henni einnig frá mynd Troels um Maríu og Hamsun. Hún hafði heyrt af henni; að hún væri mjög góð. Við töluðum um Bergman sem hefði stundum notað Max von Sydow en ég sagði henni að ég hefði aldrei séð hann leika eins vel og Hamsun. Hún sagðist geta rétt ímyndað sér það. Norðmenn hefðu farið illa með Hamsun.
Hún sagði að Halldór hefði sagt, Ég skil ekkert í því hvað margir hafa horn í síðu minni, ég hef alltaf verið svo góður drengur(!) Hann þekkir þær mæðgur þegar þær koma í heimsókn og það er ekkert langt síðan hann sagði við Auði, ef ég skyldi hana rétt, Mikið er gott að ég skuli eiga þig að í vandræðum mínum.

Þannig hverfur þetta fljót inn í eilífðina; kyrrlátur straumur og hverfur að ósi.

Eins og Hamsun.

Í Noregi las ég bók Lars Roar Langslet, Rev eller pinnsvin? Tre essays om Hamsun. Ágæt, lítil bók sem ég hef verið að blaða í og þá kemur í ljós að ég hef skrifað nokkra minnispunkta aftan við bókina en hafði gleymt því. Þannig stendur 2. maí, fimmtudag. Sáum Hamsun-kvikmyndina í Filmteatret í Osló í kvöld; von Sydow hefur aldrei leikið betur. Strindbergsk mynd, að vísu, en sönn og áhrifamikil. Umhverfið leysist upp, við erum samtíma Maríu og Knut og upplifum harmsöguna með sjálfum okkur, milliliðalaust. Við vorum þátttakendur í lífi þessa fólks sem rann eins og elfur til hafs, grimmdarleg og miskunnarlaus með köflum en flæddi að lokum fögur og lygn inn í þetta eilífa haf þar sem guð talar í þögninni; stolt eins og skáldskapurinn sjálfur hverfur þetta líf að lygnum ósi; eftir boðamikil átök og margýfða strauma.

Stolt eins og skáldlegt þrek Knut Hamsuns.

Því er ekki sízt lýst með eftirminnilegum hætti í kvikmyndinni og svo auðvitað stoltri og átakamikilli ást þeirra Maríu.

Ég reyndi að harka af mér en myndin er svo áhrifamikil að hún hverfur inn í merg og bein og nístir sálarlífið og ég táraðist allan tímann – það hef ég aldrei gert fyrr á kvikmyndasýningu.

Ekki allan tímann(!)

Síðar hef ég párað daginn eftir í þessa sömu bók: Ásbjörn vinur minn Aarnes stjórnaði seminarinu í Grønnavollen að hætti hans sjálfs af ákveðni og tilfinningalegum skaphita og ekki laust við að hann viknaði stundum þegar áhrifin voru sem mest. Ég þurfti oft að lesa ljóð mín á ráðstefnunni og Knut Ødegård las þýðingar sínar. Því var vel tekið og vináttusamlega. Þegar lesið var ljóðið Hjarta myrkursins sem er í síðustu ljóðabók minni, eða Mørkets hjerte sagði ég að það ætti rætur að rekja til kalda stríðsins og þess umhverfis sem við nú lifðum. En við Ásbjörn kynntumst í Kaupmannahöfn á ráðstefnu sem var helguð frelsi og lýðræði en gekk gegn heimskommúnisma. Það var upp úr 1961 eða '62. Kvæðið er í afmælisbók Aarnes, Tanke og omtanke sem kom út á sjötugsafmæli hans 1993. Ég sagði að það væri táknrænt kvæði um þá veröld sem er umgjörð okkar og þann barbarisma sem við hefðum þurft að horfa upp á og berjast gegn; sömu villimennskuna og Conrad tákngerir í Kurtz í skáldsögu sinni um hjarta myrkursins.

Þegar ég hafði gefið þessa skýringu stóð Ásbjörn upp og minnti á að við hefðum kynnzt honum í Kaupmannahöfn '62. Hann sagði að við hefðum verið saman í Tívolí eitt kvöldið og þá fóru þeir að skjóta flugeldum og lýsa upp myrkrið með marglitum ljósum en þá hafi ég gripið í handlegginn á honum og sagt, Svona verður það einnig þegar við deyjum og vöknum hinum megin!
Norðmennirnir hlógu.
Það var indælt.


19. maí – sunnudagur

Skrifaði svofellt Reykjavíkurbréf um Þórarin Tímaritstjóra:

„Með Þórarni Þórarinssyni Tímaritstjóra er genginn einn helzti talsmaður Framsóknarflokksins um margra áratuga skeið og sá sem með skrifum sínum markaði einna helzt stefnu flokksins í Tímanum eftir að Jónas Jónsson frá Hriflu lét af þeirri forystu. Þórarinn Tímaritstjóri starfaði að einhverju leyti með öllum forystumönnum Framsóknarflokksins en hóf ungur stjórnmálabaráttu sína undir handarjaðri Jónasar frá Hriflu sem hafði mikil áhrif á hann þegar í upphafi og ávallt síðar þótt kastaðist í kekki eftir brottför Jónasar úr flokknum á 5. áratugnum. Þórarinn fylgdi Jónasi lengst af en leiðir þeirra skildu undir lokin. En Þórarinn hefur sterkar taugar til síns gamla leiðtoga og segir í sögu Framsóknarflokksins, Sókn og sigrar, sem hann lagði mikla vinnu í og skrifaði af metnaði að endanlegur viðskilnaður Jónasar við Framsóknarflokkinn í kosningunum 1946 hafi verið „óhjákvæmilegur”. Hann talar um áhrif og áróðurshæfni Jónasar en segir um framboðið í Suður-Þingeyjarsýslu vorið 1946 m.a.: „Ýmsir framsóknarmenn gerðu sér vonir um að heldur myndi draga til sátta í Framsóknarflokknum eftir myndun nýsköpunarstjórnarinnar þegar flokkurinn var orðinn einn í stjórnarandstöðu. Þetta rættist þó ekki, enda taldi Jónas Jónsson sig hafa fengið betri aðstöðu til að gera upp sakirnar við flokksstjórnina, sem að dómi hans hafði haldið óheppilega á málum. Þetta kom fram á margan hátt, og þó gleggst í tímariti sem hann nefndi Ófeigur og hóf göngu sína 1944. Þar deildi hann hart og óvægið á flokksforystuna og ýmsa forystumenn í Framsóknarflokknum. Óneitanlega veikti þetta Framsóknarflokkinn og var vatn á myllu nýsköpunarstjórnarinnar og flokka hennar. Tíminn og Dagur leiddu þessar ádeilur Jónasar að mestu leyti hjá sér.

Þegar leið að Alþingiskosningunum vorið 1946 var það orðið nokkuð almenn skoðun í Framsóknarflokknum, að ekki væri hægt fyrir miðstjórn flokksins að styðja Jónas til framboðs í Suður-Þingeyjarsýslu. Þetta mál var tekið til meðferðar í miðstjórn flokksins 3. maí og segir svo um það í fundargerð: „Formaður skýrði þessu næst frá fundarhöldum um framboð í Suður-Þingeyjarsýslu og aðdraganda þeirra. Kvað þá menn, sem af hálfu miðstjórnar mæta á þessum fundum, þá Eystein Jónsson og Steingrím Steinþórsson þurfa að vita hver afstaða miðstjórnarinnar er gagnvart framboði Jónasar Jónssonar. Las formaður tillögur til ályktunar um þetta mál og einnig ákvæði flokkssamþykktanna sem að þessu lytu. Kvað hann að prófkjörsleiðin hefði komið til orða, og myndi þá einkum hafa orðið kosið milli Jónasar Jónssonar og Karls Kristjánssonar, en Jónas Jónsson hefði lýst því yfir að hann tæki ekki tillit til prófkjörs.

Urðu um þetta mál litlar umræður, aðeins vörpuðu nokkrir fundarmanna fram orðum úr sætum sínum.

Var síðan gengið til atkvæða um tillöguna, sem var svohljóðandi: „Miðstjórn Framsóknarflokksins lýsir yfir því, að flokkurinn muni ekki viðurkenna framboð Jónasar Jónssonar af hálfu Framsóknarflokksins.”

Þórarinn bendir á að í þessum kosningum hafi tveir framsóknarmenn verið í kjöri fyrir flokkinn, minni hlutinn studdi Björn Sigtryggsson á Brún en flokksfélagið í sýslunni studdi Jónas Jónsson. Miðstjórnin studdi Björn sem fékk mun færri atkvæði í þessum kosningum en Jónas.

Það hefur verið erfitt fyrir Þórarin Þórarinsson að ritstýra Tímanum við þessar aðstæður enda voru þær upphafið að klofningi Framsóknarflokksins og leiddu til þess að hinn gamli forystumaður flokksins lenti úti í kuldanum en lærisveinn hans á Tímanum hélt áfram trúboði sínu fyrir flokkinn úr hinu gamla vígi og reyndi að sjálfsögðu að leiða þessar deilur hjá sér eins og hann gat en það hefur áreiðanlega kostað mikil átök og heilabrot eins og í pottinn var búið. En Þórarinn kunni ágætlega þá erfiðu þraut stjórnmálanna að þræða vandratað einstigi og komst nokkurn veginn heilskinnaður út úr þessum viðkvæmu átökum. Hann getur þess líka í framsóknarsögu sinni að Tíminn hafi leitt þessar deilur hjá sér eftir fremsta megni enda viðkvæmara efni en svo að unnt væri að hafa það í flimtingum þótt ýmislegt annað væri haft í flimtingum á Tímanum meðan stjórnmálabaráttan var sem hörðust á þessum árum.

Þórarinn var öllum hnútum kunnugur í Framsóknarflokknum og má óefað fullyrða að hann hafi þekkt innra starf flokksins betur en nokkur annar maður og átt meira og nánara samstarf við forystumenn flokksins en nokkur annar, enda má telja hann sjálfan til þeirra sem þá höfðu hvað mest áhrif á stefnu flokksins og afstöðu í einstökum málum. Hann var í senn einn af höfundum stefnunnar og harðasti túlkandi hennar eftir að Jónas Jónsson skildi við sinn gamla flokk.

Framsókn og veðurguðirnir

Þórarinn Þórarinsson var framsóknarmaður af lífi og sál eins og sjá má af ítarlegri sögu hans, enda ber hún þess vitni að hún er ekki síður áróðursrit en sagnfræðilegt heimildarit. Í henni er mikill fróðleikur um Framsóknarflokkinn og innra starf hans, afstöðu hans og stefnumörkun og ástæða til að ætla að höfundurinn skrifi um þau atriði af mikilli þekkingu svo mjög sem hann tók þátt í þessum störfum öllum. Hitt er svo annað mál að saga Þórarins um Framsóknarflokkinn er í hina röndina litað áróðursrit enda vafalaust til þess ætlazt af höfundarins hendi. Sókn og sigrar er í senn fróðleikur um Framsóknarflokkinn, afstöðu hans til þjóðmála, stefnuskrártúlkun og síðast en ekki sízt boðskapur höfundarins um ágæti flokksins og mikilvægi. Þeir sem heyra öðrum flokkum til hafa vafalaust ýmislegt út á þessa sagnaritun Þórarins að setja því ekki hélt hann ávallt í heiðri hlutleysisstefnu Sturlu Þórðarsonar þótt hann reyndi eftir fremsta megni að hafa fremur það er sannara reynist eins og Ari fróði innrætti íslenzkum sagnariturum við upphaf íslenzkrar sögu. En andstæðingar Framsóknarflokksins geta áreiðanlega ekki sætt sig við alla túlkun Þórarins enda varla unnt að ætlazt til þess og má í því sambandi benda á skrif hans um landhelgismál, til að mynda segir hann í kaflanum Viðræður Geirs (Hallgrímssonar) og Wilsons: „Sjálfstæðisflokkurinn virtist algjörlega ráðvilltur.”! En um niðurstöðuna og samkomulagið í Ósló segir svo: „Fyrir Framsóknarflokkinn var ánægjulegt að minnast þess, að haustið 1976 voru 40 ár liðin síðan samþykkt var á flokksþingi að flokkurinn beitti sér fyrir uppsögn breska landhelgissamningsins frá 1901, en það var forsenda þess að hægt yrði að færa út fiskveiðilögsöguna. Þess var líka ánægjulegt að minnast, að Framsóknarflokkurinn, var eini flokkurinn sem hafði verið í öllum ríkisstjórnum, sem færðu út fiskveiðitakmörkin. Hvað viðvíkur útfærslunni í 50 og 200 mílur hafði reynt mest á tvo forystumenn flokksins, Einar Ágústsson sem utanríkisráðherra og Ólaf Jóhannesson sem dómsmálaráðherra. Einar Ágústsson hafði með prúðmennsku og festu haldið vel á málum í erfiðum samningaviðræðum, en Ólafur Jóhannesson hafði stjórnað landhelgisgæslunni og sameinað þar einbeitni og aðgætni, en þetta tvennt er nauðsynlegt, þegar við ofurefli er að etja. Þeir hafa ótvírætt með þessu tryggt sér og flokki sínum gott nafn í íslenskri sögu.”

Engin ástæða er til annars en taka undir þessi orð. En hinu er ekki að neita að þar komu fleiri við sögu og lögðu ekki síður fram stóran skerf til farsælla lykta í landhelgismálum Íslendinga. Stefnan í landhelgismálum var ekki mörkuð af Framsóknarflokknum þótt hann kæmi þar sterklega við sögu, en þar sem áherzla er lögð á sögu Framsóknarflokksins í þessu riti er engin ástæða til annars en hrífast af hugsjónaeldi Þórarins Þórarinssonar og þörf hans til að koma sínum mönnum að þegar saga þjóðarinnar er annars vegar. En menn verða að gæta þess að saga íslenzku þjóðarinnar er ekki einungis saga Framsóknarflokksins. Það vissi Þórarinn Þórarinsson manna bezt þótt hlutverk hans væri að gera skerf flokks síns sem mestan í þjóðarsögunni. Það var hugsjón hans, það var ætlunarverk hans og hann gerði það með verulegum tilþrifum.

Um Þingvallafundinn á þjóðhátíðinni 1974 segir hann m.a.: „Mikil hátíðahöld fóru fram á Þingvöllum þennan dag, að viðstöddu miklu fjölmenni. Veður var hið fegursta. Nokkrar raddir höfðu heyrst um það áður, að áhættusamt væri að boða til slíkrar hátíðar á Þingvöllum, þar sem ekki væri hægt að treysta veðri. Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra kvað slíkar raddir niður.”

Þó að ýmislegt gott megi segja um sögu Framsóknarflokksins þá er hitt sönnu nær að honum hefur ekki tekizt að stjórna veðurguðunum; ekki enn. Auk þess voru efasemdirnar um hátíðahöld einkum vegna Vestmannaeyjagossins eins og skýrt er frá í viðamiklu riti Indriða G. Þorsteinssonar um Þjóðhátíðina 1974.

Arfleifð Framsóknarflokksins

Þórarinn Þórarinsson Tímaritstjóri var um margt eftirminnilegur maður. Hann var ágætur kollegi og tókst góð vinátta milli hans og ritstjóra Morgunblaðsins og hélzt meðan hann lifði. Hann var hógvær maður og af hjarta lítillátur. Hann barst ekki á. Og hann hafði litla þörf fyrir að láta á sér bera. Blaðamennska fór honum því betur en stjórnmál. Hann hafði til að mynda lítinn áhuga á að verða ráðherra. Þórarinn hafði líka áhuga á mörgu öðru en sögu Framsóknarflokksins og stjórnmálum þótt þar væri hann einkum og sér í lagi á heimavelli. Áhrif hans sem ritstjóra Tímans voru meiri en samtímaáhrif flestra stjórnmálamanna á miðjunni eða vinstra væng eins og sagt er og hann var að mörgu leyti farsæll ritstjóri og hugmyndagóður. En flokkur og blað voru eitt. Og hann gat verið óvæg inn og ekki endilega sem viðræðubeztur þegar deilt var um álitamál í pólitík. Hann hafði stefnu Framsóknarflokksins í fyrirrúmi og gat hnoðað hana eins og deig ef því var að skipta. Úr þessu deigi voru svo bakaðar þær kökur sem nauðsynlegar voru í þeirri freyðandi kampavínsveizlu sem stjórnmál geta verið ef svo ber undir. Þetta bakkelsi gat verið gómsætt, en ekki alltaf. Hitt er svo annað mál að það var ævinlega skemmtilegt að hitta Þórarin að máli. Jónas hafði alið hann upp í miklum áhuga á allskyns málefnum og hann hafði víðfeðma þekkingu á mörgum þeim þjóðfélagsmálum sem rætt var um á líðandi stundu, þótt ekki væri hann langskólagenginn. Hann hafði ekki sízt áhuga á bókmenntum og leiklist og var ævinlega viðræðugóður um þau efni. Hann skrifaði ágætar ritgerð ir um menningu og listir og vel mætti hugsa sér að sérstakt rit hans um þau efni eigi eftir að halda nafni hans lengst á lofti af því sem rekja má til þessa almenna áhuga Þórarins á umhverfinu og lífi fólksins í landinu. Þórarinn gat verið öðrum mönnum sanngjarnari ef svo bar undir og þá sótti hann fyrirmyndir í Sturlu sagnaritara, enda hafði hann mikið dálæti á fornum íslenzkum sögum og allri arfleifð okkar. Þessum áhuga kom hann oft vel og rækilega til skila á þeim vettvangi þar sem hann starfaði lengst af. Og ritgerðir hans um sagnfræðileg og menningarsöguleg efni eru áreiðanlega höfuðprýði þeirra ritverka sem hann skilur eftir sig nú þegar hann er allur og við minnumst hins ötula samstarfsmanns á akri íslenzkrar blaðamennsku. Vilhjálmur Hjálmarsson vitnar mikið í rit Þórarins Þórarinssonar í ævisögu sinni um Eystein Jónsson og má af þeim tilvitnum ekki sízt sjá hvernig Þórarinn hefur varðveitt arfleifð framsóknarmanna. Þannig hafa ritstörf Þórarins verið þeim Vilhjálmi og Eysteini mikill fengur og sýnir það ekki sízt hversu vel hann hefur haldið á arfleifð Framsóknarflokksins og með þeim hætti sem vel fer og vandlega í jafnmetnaðarfullu riti og ævisaga Eysteins er.”


20. maí – mánudagur

Það er hvergi til eins stór veröld í jafnlitlu umhverfi og í málverkum Vermeers. Og enginn hefur upplifað ljósið eins og hann.


22. maí – miðvikudagur

Fékk svofellt kvæði frá KK vegna Helgispjalla um Vermeer:

Hvenær sem ljósið

 

Hvenær sem
ljósið stelst
eins og aðfall
á kort í orðum
Lowells (Vermeer)

- utan árstíðar
í heiðnum bletti
á ímyndun
augans
sjáum við
stúlku sitja
fyrir mitt leyti
ekki við eitt
né neitt hvorki
útsaum né
lút
hún horfir
inn í sig
þannig
birtast
mér áhrif
mín á Vermeer

í öruggu skjóli
mynda hans
(Matthías, um
Vermeer, bókin
um Sverri).

2.
Hvað gætum vér
ekki ort inn
í brotið eitt
á ermi stúlku
hans
hennar með
túrbaninn, án þess
hún nálgaðist
- fjarlægðist?
fremur
en, lítum oss
nær, visst módel
Blöndals frá París,
Skarðsfjall Jóns Stef-
ánssonar
grunur um
fullkomnun. Fjarlægð
og nálægt eitt?

Til Matthíasar
Þinn KK.


23. maí – fimmtudagur

Þórarinn Þórarinsson jarðsettur í dag. Forspilið eftir Bach, Slá þú hjartans hörpustrengi – svo hverfur maður inn í angurværa hlýju óTímans. Guðmundur Jónsson söng Þitt lof, ó Drottinn vor eftir Beethoven og Þorstein Gíslason; ótrúlega vel. Tæplega áttræður hefur hann fengið einhvern eilífðarbjarma í röddina.

Kvöldið

Við Styrmir áttum langt og gott samtal við Guðrúnu Pétursdóttur. Hún er að ganga frá greinargerð um forsetaembættið í framhaldi af ágætri grg. Jóns Baldvins í Morgunblaðinu. Ef alvara Guðrúnar kæmist til skila stæði hún betur að vígi en nú er. Hún er viðræðugóð og ágætlega raunsæ finnst mér við nánari kynni. Og sá kostur hennar er umtalsverður, að hún leggur engum illt til. Samt hefur hún verið illa rægð.

 Guðrún tekur þessa svívirðu augsýnilega nærri sér. En eina hvassa athugasemd hennar var um Pétur Hafstein, þegar hún taldi hann líða af mannfælni, þ.e. eins konar umgangsfötlun. Ég þekki slíka fötlun orðið allvel því ég hef þurft að stríða við hana upp á síðkastið. Þetta er einfaldlega feimni á háu stigi, en hún er ekki betri en hvað annað. Hitt er svo jafnrétt að ég er ágætur þegar ég er kominn í mannfagnað, þótt ég hafi áður kviðið fyrir honum. Líklega er Pétur sama markinu brenndur, það er kostur en ekki galli.

Guðrún telur forystu Sjálfstæðisflokksins standa fyrir þeirri hörðu andstöðu sem hún finnur fyrir – og þá einkum Davíð og þá sem standa honum næst. Um Björn frænda sinn Bjarnason sagði hún einungis: Við höfum aldrei verið náin(!) Ég held ekki heldur að Bjarni og Pétur Benediktssynir hafi verið nánir, a.m.k. varð ég ekki var við það. Og heldur andaði köldu frá Pétri í garð Bjarna eftir að hann var kominn á þing. Stundum lenti það á mér sem ritstjóra Morgunblaðsins.

Merkilegt það sem Guðrún sagði um fólkið á fundunum; það hugsaði lítið sem ekkert um utanríkismál; það mætti ekki heyra minnzt á kjarnorkuvopn og gengist upp í friðartali. Líklega vitum við orðið lítið um þjóðarsálina, en hún á ekki síður við sína fötlun að stríða en við Pétur! Hennar fötlun pólitískt minnisleysi; þjóðfélagslegur barnaskapur. Og að sjálfsögðu ranghugmyndir um stöðu þessarar litlu þjóðar sem við erum í raun, þótt við höfum getað notað NATO til að styrkja stöðu okkar gagnvart umheiminum.
En sá tími er liðinn.


24. maí – föstudagur

Fór yfir þýzkar þýðingar dr. Wilhelms Friese á Sálmum á atómöld. Ágætar. Hef verið að lesa Blake og sonnettur Shakespeares og hvernig hann dregur ályktanir um líf mannsins af náttúrunni.

Nokkur atriði um skáldskap sem mætti styðjast við síðar,ef hentar:

Það er fróðlegt að lesa William Blake með jafnfrjóum og hugkvæmum prófessor og dr. Weinstein, við Brown University; að opna fyrir manni ljóð eins og The Chimney Sweeper í Songs of Innocence and of Experience. Ljóðið fjallar um litlu drengina sem unnu við sótun eða voru seldir sem sótarar 7-8 ára gamlir, því þeir voru nógu grannir til að komast inn í skorsteinana. Þeir voru krúnurakaðir svo að hárið flæktist ekki fyrir og oft voru þeir kviknaktir við störf. Og oft dóu þeir í reykháfunum. Eða lentu í sínum svörtu kistum þar sem engillinn frelsaði þá. Ljóðið er líklega ort á næstsíðasta áratug 18. aldar, eða löngu áður en Dickens og Marx fóru að huga að þeim aðstæðum sem fólk bjó við í upphafi iðnbyltingar.

Þekktasta ljóð Blakes er The Tiger sem fjallar e.t.v. um kraftinn í list og hugsun; andlega orku og sköpun, með skírskotunum í Promeþeifs sem stal eldinum frá guðunum og Genesis. En þó fjallar ljóðið líklega einna helzt um sköpunina; sköpunarverkið sjálft; skaparann: In what furnace was thy brain?... Did he smile his work to see? Það var guð sem skapaði lambið og tígurinn.

Í The Sick Rose er fjallað um orminn ósýnilega, fiðrildislirfuna eða tólffótunginn sem liggur í laufinu og breytist í fiðrildi. Hann á ek. samfarir við rósina sem er lýst eins og sköpum konu og í stormasömum átökum finnur hann þessa uppsprettu gleði og unaðar og hin dökka leynilega ást hans drepur rósina að lokum.

Þannig talar Blake í myndum og myndhvörfum, segir eitt en meinar annað eins og oft er í eftirminnilegum symbolisma. En hverjum og einum er auðvitað í sjálfsvald sett að túlka slíkan skáldskap eftir eigin höfði.

En einna athyglisverðast finnst mér kvæðið um London þar sem okkur er boðið í gönguferð um borgina með skáldinu og því sem fyrir ber lýst án afstöðu. Samt leynir afstaða skáldsins sér ekki og fyrir bragðið verður kvæðið einskonar framtíðarsýn, þ.e.a.s. það bendir á viðfangsefni sem eiga eftir að verða efst á baugi næstu tvær aldirnar.

I wander thro' each charter'd street.
Near where the charter'd Thames does flow
And mark in every face I meet
Mark of weakness, marks of wo.

Hann gengur um kortlagðar götur, jafnvel hin frjálsa náttúra Thames er kortlögð og ákveðin (sbr. Magna Carta = samningur, eða áætlun milli fólks og konungs um ákveðin efni). Og hann sér að sérhvert andlit er brennimerkt veikleikanum og þeirri ófrjálsu ógn sem þarna ríkir. Sem sagt, allir eru merktir kerfi þessa umhverfis eins og við kynntumst í löndum alræðisstjórna á okkar öld, allir eru eins og skáldið heyrir þetta kerfi á göngunni:

In every cry of every Man
In every Infants cry of fear
In every voice; in every ban
The mind – forg'd manacles I hear.

Og svo snýr hann sér að kirkju iðnbyltingarinnar og/eða slæmri samvizku samtíðarinnar og brezkum hermönnum deyjandi um allan heim fyrir hið konunglega heimsveldi:

How the chimney-sweepers cry
Every blackening Church appalls.
And the hapless Soldiers' sigh
Runs in blood down Palace walls.

Svo er komið að miðnætti og hann heyrir hvernig vændiskonurnar ungu eru notaðar og formælingar þeirra í þessu ófrjálsa umhverfi þar sem nýfædd börnin fara ekki varhluta af ástandinu því að líkvagn hjónabandsins minnir á að eiginkonurnar voru einnig ófrjálsar og misnotaðar; feðurnir seldu þær í hendur hæstbjóðanda að þeim forspurðum og þær urðu oft plágunni (eða sárasóttinni) að bráð rétt eins og gleðikonurnar og plágan lenti svo á börnunum.

But most thro' midnight streets I hear
How the youthful Harlots curse
Blasts the new-born Infants tear
And blights with plagues the Marriage hearse.

Það er heldur ófögur mynd sem við fáum úr þessu myndletri Blakes.

Við erum farvegur fyrir eigin hugsun og annarra. Hann þornar upp að sjálfsögðu en stundum standa gljúfur eftir. Líf mannsins er skammvinnt og miðað við jarðsöguna erum við eins og hver önnur skordýr í þessari dýrlegu sköpun. Í þeirri sögu er ekkert nafn mikilvægt, minnisstætt um stund að vísu en aðeins um stund. Við erum að finna steingervinga og bein eftir dínósára sem lifðu fyrir 65 milljónum ára. Þá var enginn maður og núna er enginn dínósárus. Við þekkjum einungis nafnlausa jarðsögu. Svo kom Hómer fyrir tíu þúsund árum eða svo og þeir sem skrifuðu Gamla testamentið. Þessi tíu þúsund ár eru einungis andartak í hugarveröld guðs, eins og Jónas mundi sagt hafa. Gunnlaugur Scheving kallaði það í samtölum okkar hlutfallið milli lífs og dauða.

Við ráðum svo litlu. Ekkert er eins frjálst og náttúran, samt er hún fjötrar. Ekkert er eins yndislegt og ástin, samt þurrkar hún út persónuleg einkenni. Við sjáum í Föðurnum eftir Strindberg hvernig fólk lagar sig hvert að öðru í löngu hjónabandi og verður það hlutverk sem það gegnir. Rétt eins og fuglar og blóm í náttúrunni sem Attenborough talaði um í sjónvarpsmynd sinni þess efnis. Við sjáum þessa útþurrkun í tveimur myndum eftir Munk, Kossinum, önnur er víst tréskurðarmynd. Það er allt að því darwínsk barátta milli kynjanna, eins konar barátta um það hver er hæfastur og sá sem er hæfastur lifir af. Faðirinn í samnefndu leikriti Strindbergs er ekki hæfastur í sínu umhverfi. Hann er barnið í leikritinu. Eiginkonan er móðirin. Eiginkonan er alltaf móðirin, segir Strindberg. Karlmaðurinn, hversu gamall sem hann er, verður alltaf barnið. Það er boðskapur Föðurins. Að vísu er sumt úrelt í þessu leikverki Strindbergs, t.a.m. getur engin kona ákveðið hvort maður hennar verður geðveikur eða ekki. Annað hvort er hann geðveikur eða ekki. Og nú er unnt með DNA-prófum að skera úr um faðerni barna. En það er mikill kraftur í þessu verki, sterkar vísbendingar; rétt eins og í Ödipusi sem fjallar um föðurbana sem er barn eiginkonu sinnar. Alltaf barnið! En bæði fjalla þessi leikrit um tilraun mannsins til að þekkja sjálfan sig.

Við getum ekki talað um Föðurinn án þess að þekkja Ödipus. Arfleifðin er vegabréf inn í framtíðina.

Kvæði Walt Whitmans um kóngulóna sem spinnur og spinnur en veit ekki með hvaða árangri er harla athyglisvert. Skáldin reyna að spinna inn í samtíð sína, reyna að ná tengslum við umhverfið en vita aldrei hvort það tekst. Reyna einnig að spinna inn í framtíðina en vita aldrei hvort nokkur uppgötvar vefinn. Kannski er hann bara fyrir flugur. Skáldin eru existensíalistar. Þau reyna að ná sambandi við aðra en það tekst sjaldnast.

Öll ljóð eru söngur um mann sjálfan. Þegar Leaves of Grass birtist 1855 varð bandarísk ljóðlist til; laus við þá brezku áferð sem var arfurinn; bandarískt tungutak og annað ónotað í ljóði.

Ég er reykvískur strákur og kann ekki annað tungumál en reykvísku. Hún hafði ekki verið notuð í ljóðlist sem hafði verið öguð í upplýstu sveitamáli sem hefur aldrei verið mér tamt. Og því þótti ýmsum að mitt tungutak hæfði ekki ljóðlist, það var ekki nógu klassískt. Það var of nálægt reykvísku talmáli til að vera fullgilt skáldamál. Samt hafði Jónas notað slíkt tungutak í einstaka ljóði en hans leikur hæfði ekki öllum.

Whitman líkir sér í fyrrnefndu ljóði við kóngulóna sem spinnur vef sinn hávaðalaust inn í endalaust tóm og reynir að finna eitthvert haldreipi. Skáldið spinnur þannig einnig inn í tómið og reynir að ná sambandi við einhvern eða einhverja. En hann er einn við sinn spuna og undir hælinn lagt hvort honum tekst að tengjast einhverjum öðrum, hvort honum tekst að ná sambandi við umhverfi sitt nú, eða einhvern tíma í framtíðinni. Hann vonast til þess að þögult tómið sé ekki eina svarið við þessum spuna. En hvað sem því líður er hann einn eins og kóngulóin og þarf að bíða, bíða. Lífið er löng bið. Löng bið eftir því að eitthvað gerist; að einhverju ljúki, eitthvað hefjist. Bið eftir fæðingu og dauða en umfram allt bið. Það er inn í þessa bið sem Beckett spann sinn eftirminnilega vef og þá einnig Walt Whitman, sem sagði mér ungum að mitt tungutak væri fullgilt í ljóði þó það væri ekki ofið úr gullaldarvef íslenzkrar sveitamenningar.

Þegar við vorum í Everglades sáum við fugla sem voru eins og fiskar og fiska sem voru eins og fuglar. Um það orti ég nokkur óbirt kvæði til minnis í staðinn fyrir að hnýta hnút á vasaklútinn minn. Í náttúrunni tekur allt á sig þá mynd sem bezt hentar. Í fyrrnefndum ágætum sjónvarpsþáttum Attenboroughs sáum við hvernig fuglar sem frjóvga plöntur laða sig að þeim og þá einnig hvernig plönturnar laga sig að fuglsnefjum sem eiga að dreifa fræjunum. Þannig vinnur náttúran og ég held okkur sé hollast að draga ályktanir af henni. Hún ein er fullkomin. Þannig á ljóðið að laga form sitt að efninu. Sama form hentar ekki öllum kvæðum, síður en svo. Kvæðið verður að leita að forminu í samræmi við það efni sem um er fjallað. En það er mikil list að velja kvæðum það ytra form sem efninu hæfir. Ég held það geti ekki nema mikil skáld. Hin fella allt efni í sama blýmótið. Þannig fer skáldskapurinn á mis við fjölbreytni náttúrunnar.

Ljóðlistin tengir okkur við annars hugsun og eykur þannig reynslu okkar, stækkar umhverfið í þessu glórulausa tómi þar sem engar sérstakar forsendur virðast fyrir því að við getum handlásað okkur að þeim veruleika um líf og dauða sem þrá okkar stendur til. Ljóðið er eins og dularfullur grunur um slíka veröld í endalausu tóminu sem Whitman t.a.m. fjallar um og þeir tilvistarfræðingar sem hafa reynt að staðsetja manninn í sköpunarverkinu.

Og enn um Whitman:

Ljóð Blakes um London (1780-90) er harla eftirminnilegur táknrænn skáldskapur um ófrelsið í borginni og ömurleg kjör almennings. Ungar konur seldar í eins konar ánauð í hjónabandi sem feðurnir ákváðu og lítið betur settar en vændiskonurnar sem skáldið sér á göngu sinni um borgina. En þessi hefðbundni skáldskapur, þótt nýr væri og óvæntur, dugði ekki Bandaríkjamönnum. Emerson sagði að Bandaríkin væru enn ósungin eins og hann komst að orði í frægri ritgerð. Hann lagði áherzlu á að það væri ekki hið hefðbundna form sem réði úrslitum um kvæði, heldur aðrir þættir. Og hann boðar frjálst form. Whitman tók hann á orðinu. Hann vissi að bandaríski draumurinn var ósunginn í ljóði og vildi bæta úr því. Ný þjóð gat ekki látið sér lynda gamalt form, gamla hefð. Slík þjóð þurfti á öðrum að halda en Hómer og Blake. Nýju skáldi, nýju yrkisefni. Grasið var eins konar tákn fyrir þessa nýju, ljóðrænu veröld; hið sjálfsána gras sem vex alls staðar, frjálst eins og þessi nýja þjóð og það breytir gröfum í grænar þúfur. Engum hafði áður dottið í hug að það gæti talist til tíðinda í skáldskap en það lýsti þessu nýja samfélagi, frjálsu og óheftu eins og grasið, þannig að nafnið á ljóðabók Walt Whitmans 1855 er engin tilviljun. Það vissi hann bezt sjálfur. Hann var blaðamaður í Brooklyn og sem slíkur upplifði hann rísandi borg. Myself er borgin, samfélagið; þjóðin ekki síður en skáldið sem bókina orti; eða eigum við heldur að segja eins og hann sjálfur: Skáldið sem óf þjóðarröddina inn í þennan nýja vefnað sinn.

Af þessu öllu hreifst ég ungur. Það var þetta sama frelsi, þessi ferski blær sem sló tóninn í rísandi borg sem var hreiður mitt og umhverfi.

Síðar kom arfleifðin til sögunnar.

Þessar hugleiðingar koma ekki til af góðu. Silja Aðalsteinsdóttir er að skrifa samtal við mig fyrir Tímarit Máls og menningar. Hún spurði mig m.a. um áhrif Walt Whitmans á mig ungan. Ég hef verið að hugsa um þessa spurningu og það er rétt, hann hafði meðvituð áhrif á mig; hann einn – og Dylan Thomas sem ég kynnti á sínum tíma, ungur blaðamaður, fyrir lesendum Morgunblaðsins. Ég hef ekki séð þessa grein síðan. Hún lenti í glatkistu Morgunblaðsins og líklega hæfir hún vel þessari sömu kistu.

Emily Dickinson var hin hliðin á bandaríska skáldpeningnum á síðustu öld. Andfélagslegt skáld og í algjörri andstöðu við Whitman. Ljóðin lokuð eins og hún sjálf og umhverfi hennar. Eftir því sem ég eldist skil ég hana betur. Þessar andstæður togast á í sjálfum mér og ég held að ljóð mín hafi grætt á því. Þau hafa fyrir bragðið orðið fjölbreyttari og kannski óvæntari. Ef Dickinson er lokað ljóðskáld þá yrkir Whitman opin ljóð. En enginn skyldi halda að svokölluð opin ljóð séu endilega opin. Þau leyna á sér, segja oft eitt en meina annað eins og öll góð ljóðlist. Dickinson var hin ósýnilega kona 19. aldar. Nú eru flestir horfnir nema hún. Ljóðlistin er stundum endingarbetri en umhverfi okkar og hún kemur aftur eins og grasið. Það vissi Emily Dickinson, hún orti einnig um grasið eins og Whitman. Í ljóðum hennar hafnar það í hlöðunni og hún óskar þess að hún væri hey. Ljóð hennar eru að minnsta kosti fyrningar frá síðustu öld og við sækjum enn í þessa andlegu næringu. Arfleifð okkar er einnig slíkar fyrningar og það eru mikil hey í hlöðum íslenzkrar menningar.

Dickinson er gott kompaní. Hún sagði einföldu fréttirnar úr náttúrunni og hún hafði enga löngun til að vera opinbert fyrirbæri, það hæfði bara froskum!

Jónas talar um guð sem föður. Emily Dickinson talar um hann sem nágranna. Fyrir bragðið yrkir hún um dauðann eins og útreiðartúr inn í eilífðina. Ég vildi að ég ætti slíka trú; slíkt jafnvægi hugans. Ég held af reynslu að konur eigi fremur slíkt jafnvægi andspænis dauðanum en karlar; veit það þó að sjálfsögðu ekki. En sá sem getur ort um dauðann eins og útreiðartúr er góður ferðafélagi:

Since then 'tis centuries; but each
Feels shorter than the day
I first surmised (grunaði) the horses' heads
Where towards eternity.

Shakespeare talar einhvers staðar um að sigra dauðann með skáldskap. Þetta kvæði Dickinson er slíkur sigur.


2. í hvítasunnu

Enn yndislegt veður. Vorið hefur verið með eindæmum bjart og fagurt. Doktor Wilhelm Friese bauð okkur í kvöldverð á Þingvöllum í tilefni af afmæli sínu. Þar voru einnig Auður Laxness og Margrét Eggertsdóttir sérfræðingur í Hallgrími Péturssyni og Guðbjörn Sigurmundsson bókmenntafræðingur og kennari sem flutti á sínum tíma mjög gott erindi í útvarp um Árstíðaferð um innri mann eða Hvíldarlausa ferð inní drauminn, mig minnir fremur Árstíðaferðina. Skemmtilegt kvöld. Auður lék á als oddi og sagði frá mörgu sem ég hef ekki heyrt hana tala um áður. Hún segir að Halldór hafi sagt 1984, Nú er ég hættur að skrifa. Þá kom út Og árin líða. Auður segir að um þær mundir hafi fyrst borið á sjúkleika hans. Hann endurtók sömu hlutina í handritinu. Hún benti honum á það þegar hún vélritaði, þá brást hann reiður við. Síðan var endurtekningin strikuð út. En þá skrifaði hann hana aftur inn í handritið. Það þótti henni ekki góðs viti. Síðan var það leiðrétt. Ég á Og árin líða áritaða frá Halldóri, með leiðréttingum hans; merkilegt eintak að mér finnst. Eftir þetta fór að bera meira á sjúkdómnum og það var þá sem hann hafði orð á því að hann væri eins og fastur inní frumskógi og talaði um hvað hann væri lánsamur að eiga hana að í veikindum sínum. Nú talar hann ekkert. En hann er fínn og strokinn og alltaf í fallegum fötum og jafnsætur og hann hefur alltaf verið, sagði Auður. Honum líður vel á Reykjalundi. Stúlkurnar eru svo góðar við hann, faðma hann og kyssa, þær kunna á hann. Reykjalundur er fyrir endurhæfingarsjúklinga svo að Halldór ætti í raun ekki að vera þar. En yfirhjúkrunarkonan sagði við Auði um daginn, Hann fer ekki héðan út meðan hann lifir. Auður minntist þess þegar hún bað mig um að spyrja hann um það á sínum tíma hvort hann væri kaþólskur og hann svaraði því til að hann væri að sjálfsögðu kaþólskur. Séra Jakob, kaþólskur prestur í Landakoti, kemur stundum til hans. Þeir sleppa ekki hendinni af honum. Þeir munu jarðsyngja hann þegar þar að kemur en Auður vill að dr. Gunnar Kristjánsson tali einnig yfir moldum hans. Skömmu eftir að Halldór hafði sagt að hann væri að sjálfsögðu kaþólskur, sagði hann Auði að hann vildi taka aftur upp kiljans-nafnið. Það er hið kaþólska skírnarnafn hans. Og á skjali sem páfinn sendi honum á níræðisafmælinu stendur Halldór Kiljan Laxness.

Auður sagði okkur ýmislegt af Jóni Helgasyni og sérkennilegri feimni hans sem gat birzt í yfirlæti og hranaskap. Einhvern tímann kom hún með útlending heim til Jóns í Kaupmannahöfn en þá tók hann þannig á móti þeim að engu var líkara en öll fjölskyldan væri nýdáin! Þegar Jón sýndi Halldóri handritið að ljóðabók sinni, á sínum tíma, lagði hann það á borðið og ýtti því smám saman að Halldóri og sagði feimnislega, Viltu ekki líta á þetta? Annað sagði hann ekki.

Auður sagði við dr. Friese að bók hans um Halldór væri mjög góð. Hann skildi hann fullkomlega og gerði sér einkum grein fyrir því hvað hann hefði verið trúaður. Halldór hefur ávallt verið mjög trúaður, sagði Auður með áherzlu.

Hef verið að lesa Baudelaire á ensku. Keypti nýja þýðingu í London í haust, hún kom út í Everyman's Library. Blóm illskunnar kom út í Frakklandi 1857, eða tveimur árum síðar en Söngur Whitmans. Þeir eru báðir borgarskáld, söngvarar nýs tíma. En þeir eru mjög ólíkir. Baudelaire yrkir helzt ekki um náttúruna. Hún er ekki skírskotandi kraftur í ljóðum hans. Hann yrkir um borgina; manninn í nýrri órómantískri veröld; manninn í hráslagalegri veröld sem hann ræður ekki við. Emmu Bovary í ljóðlist. Skáldsagan um hana kom út um svipað leyti í Frakklandi. Flaubert og Baudelaire voru miklir mátar. Baudelaire hélt að Edgar Allan Poe væri mesta skáld Bandaríkjanna. Hann braut Hrafninn til mergjar eins og raunvísindamaður. Hann taldi að skáldskapur væri vinna og hann vann með orð. Whitman var innblásinn af orðum.

Þau eru ólík þessi þrjú skáld sem ég hef verið að lesa. Whitman yrkir um allt og ekkert. Hann yrkir um dauðann af sömu áfergju og lífið; alheiminn af sömu ástríðu og jörðina; náttúruna, borgina. Hann trúði því að skáldskapur gæti verið partur af lífi hvers og eins. Ég hef haldið þetta einnig en nú er ég farinn að efast. Fólk vill hlusta á skáldin lesa upp ljóð sín en það kaupir ekki ljóðabækur. Whitman söng en Baudelaire orti. Og Dickinson bjó til stóra veröld úr þeim litla heimi sem hún lifði í; minnir að þessu leyti á hollenska málarann Vermeer. Ég hef einna mest gaman af að lesa kvæði hennar um skordýr og fugla í náttúrunni. Það er gaman að fylgja henni á þeim ferðalögum. Hún breytir smáveröld í alheim. Baudelaire yrkir mest um borgina. Hann yrkir um dauðann eins og ferðalag. Líklega er Svanurinn merkilegasta kvæði hans; ort 1851, tileinkað Victor Hugo sem þá lifði í útlegð. Kvæðið fjallar um þá sem hafa verið í útlegð, jafnvel svanurinn sem skáldið sér í París er útlægur úr umhverfi sínu. Kvæðið fjallar um rótlaust fólk; rótlausa borg. Haussmann var að breyta París um þessar mundir. Allt breytist, ekki sízt borgir. Andromake, kona Hektors, sem nefnd er í fyrsta erindi kvæðisins, var í útlegð. Dedalus, sem er nefndur í síðasta erindi fyrsta kafla var útlægur úr Þebu. Borgin er samastaður fólks í útlegð; svartar konur svelta, veikar á skítugum götum, munaðarleysingjar skjálfa eins og blóm og skáldið hugsar um fanga, skipreika fólk í þessum frumskógi í útlegð hugans.

Kvæðið um litlu konurnar í París er einnig minnisstætt; það er einnig tileinkað Victor Hugo. Einu sinni voru þær ungar og eftirsóttar, nú eins og særð dýr; enginn heilsar þeim, enginn kveður þær. Þær ganga saman og líkkistur þeirra verða eins og barnakisturnar í Sótarakvæði Blakes og enginn minnist þeirra lengur. Jafnvel himinninn rauður eins og sár og ástæða til að fyrirverða sig fyrir að lifa. Þetta er engin glansmynd, en þetta er hinn nýi tími, hin nýja veröld, hinn mikli skógur nýrrar borgaramenningar; iðnbyltingar. Hin órómantíska staðreynd þessa viðblasandi umhverfis, óyndisleg eins og lífið sjálft með köflum.

Ekkert þessara skálda var þekkt um sína daga; Whitman að vísu nokkuð, en Emily Dickinson óþekkt og birti einungis fjögur ljóð meðan hún lifði. Baudelaire lítið þekktur í París, nú kallaður faðir nútíma ljóðlistar. Flestir samtímamenn þessara skálda eru nú horfnir og gleymdir en þau lifa; hafa aldrei verið meir lifandi en nú; Whitman goðsögn, Baudelaire brautryðjandi, Dickinson eitt mest lesna ljóðskáld núTímans.

Undarlegir eru vegir listarinnar.


Næsta dag

Hann er kominn á austan með rigningu. Enginn, ekki einu sinni regnið, hefur svo litlar hendur segir bandaríska ljóðskáldið e.e. cummings á einum stað. Þessi setning minnir á Emily Dickinson en regnið getur haft stórar hendur. Ég held það hafi verið slagveður í nótt þegar hann var að ganga í austrið, og í slagviðri hefur regnið stórar hendur. Og laufið fýkur um stéttarnar.

Hef verið að hugsa um það sem Auður Laxness sagði í gærkvöldi. Halldór drakk alltaf bjór með matnum og þegar hann fékk ekki bjór blandaði hann rauðvín með vatni og drakk það með matnum. En ég hef aldrei séð hann drukkinn, bætti hún við.

Hef einnig verið að hugsa um ágæta kvikmynd sem við sáum í sjónvarpinu, eftir skáldsögu Josephs Roth sem var þýzk-austurrízkur rithöfundur, ættaður úr Galliciu. Þekkti hann ekki áður. Hann skrifaði marga rómana en dó aðeins hálffimmtugur. Hann skrifaði um gyðinga í Evrópu, hrun Habsborgararíkisins í styrjöldinni fyrri; hann skrifaði um umhverfi sitt eins og allir rithöfundar; þjóðfélagskönnuður og raunsæishöfundur. Myndin er afar vel gerð og raunar eftirminnileg. Max von Sydow leikur annað aðalhlutverkið, auðvitað ágætlega. Annars er merkilegt hvað það er mikið til af bókmenntum og listum sem maður þekkir ekki. Wilhelm Friese segir að Roth sé nú orðinn klassískur höfundur í þýzkum bókmenntum og verk hans sæki á.

Hef einnig verið að hugsa um frumvarp sem liggur fyrir alþingi um fjármagnsskatt. Mér skilst að það eigi að borga lítinn sem engan fjármagnsskatt af arði. Undarlegt. Maður sem vinnur baki brotnu í fyrirtæki sem aðrir eiga og hefur kannski níu milljónir króna á ári, þarf að borga 48% í tekjuskatt og hátekjuskatt en eigandi sem fær jafnmikið fyrir að koma ekki nálægt fyrirtækinu þarf að borga lítið sem ekkert. Annar þarf að borga nærri helminginn af því sem hann fær fyrir vinnu sína en hinn lítið sem ekkert af því sem hann fær upp í hendurnar án þess að vinna fyrir því. Og þetta hafa fulltrúar alþýðunnar samþykkt. Kýrhaus þjóðfélagsins er alltaf samur við sig!

Hef verið að hugsa um af hverju ég er að skrifa þessa dagbók; eða minnispunkta. Það er auðvitað til þess að geta unnið úr þeim síðar ef ég hefði þá einhvern tíma frið til þess, þó ekki ævisögu heldur einhvers konar ritgerð á mörkum skáldskapar og veruleika. En hver segir að ég fái tækifæri til þess?
Og svo er ekki heldur víst að ég hefði áhuga á því þótt tækifæri gæfist.

30. maí – fimmtudagur

 

Borðaði með Kristjáni Karlssyni í dag. Margt talað. Gaf Kristjáni ljóðabók Blakes með myndum hans. Komum okkur saman um að Kjarval hefði þekkt þessar myndir. Töluðum dálítið um myndhvörf – og þá einkum í ljóðum Wallace Stevens. Hann segir á einum stað að dauðinn sé móðir fegurðar; fræg lína eftir hann. Held hann hafi komizt svona að orði vegna þess að það eitt sé fagurt sem getur dáið.
Wallace Stevens er mikið uppáhald hjá Kristjáni og hann þekkir skáldskap hans vel. Skáldskapur hans byggist á hugmyndum, myndhvörfum. Hann byggist ekki á guðstrú eins og hjá T.S. Eliot eða sögulegri heimspeki eins og Pound hefur oft gaman af.
Hvað eru myndhvörf?
Þetta er eiginlega mjög vont orð. Myndhvörf eru eins konar tilfærsla eins og KK nefnir í kvæði sem ég birti í einni bókinni minni upp úr Helgispjalli. Sumir telja að allt tungumál sé eins konar myndhvörf eða tilfærsla. Ef ég segi, Þú ert refur, þá er það tilfærsla. Sumir telja að, Þú ert sé einnig tilfærsla. Þetta orð, tilfærsla, er að vísu heldur rislítið og mætti finna annað betra; hálfmynd kallaði Sigurður Guðmundsson skólameistari myndhvörf. Þau eru myndir úr lífinu, veruleikanum, notaðar í hugmyndir. Ef ég segi, Þú ert refur, þá er það tilfærsla úr náttúrunni yfir í hugmynd um mann sem er refur; þ.e.a.s. hann er viðsjálsgripur, hann er falskur og honum er ekki treystandi til neins. Í stað ritgerðar um eiginleika hans er nægilegt að segja, Hann er refur. Þessi tilfærsla úr veruleika í hugmyndir eða skáldskap losar mann við ritgerðir í ljóðlist.

Ég sá sjónvarpsmynd í gærkvöldi. Hún fjallaði um mann sem drap annan í húsasundi með múrsteini. Þetta var viðurstyggileg mynd og ég fór að hugsa um hana aftur í morgun. Þessi atburður hefur aldrei gerzt nema í þessari sjónvarpsmynd, samt er hann mér óhugnanleg reynsla. Hann er ekkert minni reynsla en margt af því sem ég upplifi í lífinu sjálfu.
Þegar margar kynslóðir hafa upplifað sjónvarp með þessum hætti verður lítill sem enginn munur á veruleika og upplifun af sjónvarpi. T.S. Eliot var einhverju sinni spurður um það, sagði Kristján mér, hvort hann færi ekki stundum í bíó.
Jú, sagði hann, stundum en mjög sjaldan. Það eyðileggur fyrir mér dagdraumana.
Þetta er auðvitað hárrétt. Skáldið þarf að upplifa dagdraumana; það þarf líka að upplifa drauma sína því að þeir eru ekkert minni veruleiki en atburður í sjónvarpsmynd sem hefur aldrei gerzt. Slík upplifun er náskyld hálfmynd. Það er ekki hægt að gera allt í veruleikanum. En það er hægt að segja flest ef ekki allt í skáldskap.
Wallace getur talað um kvöldið sem nóttina en það getum við ekki upplifað í veruleikanum. Annað hvort upplifum við kvöldið eða nóttina. Þannig veitast mörg tækifæri í skáldskap sem okkur bjóðast ekki í veruleikanum. Og þó, hvað um íslenzku júnínóttina?

Eftirminnilegasta ljóð Stevens er kvæði sem heitir, ef ég man rétt, Þrettán leiðir til að horfa á fugla. Þau eru öll örstutt. Í einu fyrsta erindinu er talað um 20 snjóþung fjöll sem hreyfast ekki en hið eina sem hreyfist í þessum fjöllum eru augu svartþrastar. Slíkt er ekki hægt að upplifa í veruleikanum en það verður því áhrifameira í skáldskap.

Kristján Karlsson þekkir vel verk Josephs Roths. Honum fannst myndin upp úr skáldsögu hans Radetzkymarsinn (1932) mjög góð. Lýsingin á hnignun austurríska-ungverska keisaradæmisins er eftirminnileg. Kristján sagði að Joseph Roth væri einn af uppáhalds-skáldsagnahöfundum sínum. Hann hefði verið mikill drykkjumaður undir lokin og dáið af þeim sökum, að mér skildist. Hann skrifaði stutta bók sem heitir Der Trinker.

Kristján hefur verið að lesa ævisögu Bertholds Brechts, Líf og lygar Bertholds Brechts, og segir að það sé mögnuð lýsing á þessum ómerkilega manni. Hann var svikari og falsari og hin skítlegasta persóna í alla staði, rétt eins og Paul Johnson hefur lýst honum í einu verka sinna og ég hef vitnað til í Helgispjalli. Hann notaði konur eins og vagnhesta. Hann var upphaflega ljóðskáld og gaf út þrjár eða fjórar ljóðabækur. Hann söng þessi ljóð og lék undir á gítar. Síðan fór hann að fást við leiklist. Hann sagðist að vísu ekki geta skrifað leikrit sjálfur en hann var mikill stjórnandi og notaði leikflokk sinn til að koma verkunum saman. Samstarfskonur hans skrifuðu verkin að mestu, að mér skilst. En hann fékk höfundarlaunin því hann var frægastur þeirra sem þarna komu við sögu. Mér skilst vinátta þeirra Kurt Weils hafi endað með ósköpum og kona Kurts, Lotta Lehman, sem við Hanna hlustuðum á í London á sínum tíma, fyrirleit Brecht. Hann notaði sovétstjórnina með sama hætti og hún notaði hann og við KK. fórum að bera saman kjánaleg skrif Halldórs Laxness á þessum árum kalda stríðsins fyrir heimskommúnismann og sovétstjórnina við kommúnistadaður Brechts, en komumst að þeirri niðurstöðu að hann hefði ekki átt til að bera þann skepnuskap sem Brecht er nú þekktastur fyrir. Hann var á launum hjá Rússum og afsakaði allt sem þeir gerðu. Hann var of líkur Hitler til að geta gengið í nazistaflokkinn en hann er upprunninn af svipuðum slóðum, þ.e.a.s. fæddur í Augsburg, Bæjern.
Kristján segir að maður lesi þessa ævisögu án mikillar tortryggni, svo vel sem hún er studd heimildum, og niðurstaðan sé sú sama og hjá Paul Johnson; skítakarakter.

 

Halldór Kiljan Laxness átti svo mikið af sakleysi sveitadrengsins að hann gat aldrei gefið sig á vald heimskommúnismanum með þeim hætti sem Brecht gerði. Halldór gat að vísu verið tækifærissinni og stundum varði hann gerðir sovétstjórnarinnar með þeim hætti að óskiljanlegt er; jafnvel fyrirlitlegt. En hann hristi af sér þennan pólitíska kláðamaur og afgreiddi hana svo að lokum í Skáldatíma með þeim hætti sem er bæði drastískur og heiðarlegur. Að öðru leyti er ekkert líkt með Halldóri og Brecht. Halldór gekkst að vísu dálítið upp í Brecht eins og fram kemur í Skeggræðunum enda átti hann til hégómlegt daður við skáldskap og pólitík. Hann þýddi Barnamorðingjann, Maríu Farrar eftir Brecht og kannski er þetta kvæði eftirminnilegasta verk Brechts. Aðstoðarkonur hans sömdu sum ljóðanna í leikritunum, að því er segir í fyrrnefndri ævisögu, en Brecht lagði undir sig allt sem aðstoðarfólk hans vann að. Sjálfur hafði hann ort kvæði sem áttu rætur í enskri ljóðlist, t.a.m. með hliðsjón af ballöðum Kiplings. Brecht mun sjálfur hafa sagt að hann ætti erfitt með að skrifa leikritin. Hann yrði að upplifa þau á sviði, stjórna flokknum, þreifa sig áfram og síðan voru verkin samin upp úr þessum æfingum. Hann var mikill stjórnandi og eins og einhvers konar forsjón; líkt og Bergman. En ég hef aldrei verið hrifinn af Bergman. Tel að von Sydow hafi tekizt bezt upp í kvikmyndum þegar hann losnaði undan ægivaldi Bergmans. Það hef ég séð bæði í Hamsun-myndinni og kvikmyndinni um Radetzkymarsinn. Halldór hefur ekki heldur verið hrifinn af Bergman. Ástæðan er áreiðanlega sú að Halldór hefur aldrei verið sýkópat eins og Brecht og Bergman, en þeir eru að mörgu leyti ákaflega líkir, það má sjá af sjálfsævisögu Bergmans sem ég hef ekki lesið en Kristján þekkir. Bergman hefur notað allt sem hann hefur komizt í kast við og þá ekki sízt kvenfólkið, leikkonurnar. Þeir eiga það sameiginlegt Brecht og Bergman – og svo margt fleira. Mér finnst þó Brecht betri vegna þess að hann getur stundum verið skemmtilegur. Mér hefur alltaf fundizt Bergman leiðinlegur, nema í síðustu kvikmyndinni sem er víst samin upp úr æsku hans, Fanny og Alexander (1982). Eftirminnilegasta persóna þeirrar myndar, auk drengsins, er frændinn sem fretar í stiganum! Þetta fret er smekkleysa á réttum stað!

Í Íslensku alfræðiorðabókinni segir að Bergman hafi gert kvikmyndir sem „einkennast af mögnuðu myndmáli og fjalla einkum um trúmál og sálarlíf mannsins”. Það má vel vera. En þetta hefur víst ekki náð til okkar Halldórs Laxness. Það gerir ekkert til. Hrafn Gunnlaugsson gengst upp í Bergman, það hlýtur að duga!
Í Íslensku alfræðibókinni er langur kafli um Berthold Brecht. Þar segir m.a. að hann hafi byrjað tilraunir sínar með epískt leikhús (Mutter Courage, 1939; fínt verk) á fjórða áratugnum. Í orðabókinni segir enn fremur að leikverkin séu oft „samsett af laustengdum atriðum og iðulega verða árekstrar milli hinna ýmsu tjáningarmiðla á sviðinu. Leikrit og leikhúskenningar BB hafa haft mikil áhrif á leiklist 20. aldar.” Þar segir einnig að hann hafi skrifað skáldsögu og ort fjölda ljóða, eins og komizt er að orði, og þótt hann hafi sjálfur litið á ljóðagerð sem aukagetu „er hann nú talinn til fremstu þýsku ljóðskálda á 20. öld”. Ég dreg ekkert af þessu í efa.


31. maí – föstudagur

Jón Steinar Gunnlaugsson talaði við mig í gær. Hann sagðist ekki hafa ráðfært sig við Davíð Oddsson áður en hann birti greinargerðina um Ólaf Ragnar Grímsson en þar segir hann að það væri hneisa fyrir þjóðina ef hann yrði kosinn á Bessastaði. Í greinargerðinni færir Jón Steinar rök að máli sínu.

Jón Steinar segir að það sé nánast ómögulegt að hefja vitrænar umræður um frambjóðanda eins og Ólaf Ragnar Grímsson. Hann sé einn ómerkilegasti stjórnmálamaður sem hér hefur verið um langt árabil og hann gerir sér grein fyrir því að gagnrýni á hann gæti orðið honum til framdráttar.

Það er augljóst að Ólafur Ragnar er ekki ánægður með þetta tilhlaup Jóns Steinars Gunnlaugssonar. Hann var formaður yfirkjörstjórnar en sagði af sér embættinu vegna framboðs Ólafs Ragnars. Ólafur segir í Morgunblaðinu í dag að afsögn Jóns Steinars hafi komið sér á óvart. Ólafur ætlaði að fara á friðarlaufi inn á Bessastaði og hann er auðvitað óánægður með það Fjaðrafok sem orðið hefur vegna aðgerða Jóns Steinars. Hann er einnig óánægður með Morgunblaðið en lýðræðisleg skylda dagblaðs er Ólafi Ragnari áreiðanlega ekki efst í huga þegar hann á sjálfur í hlut. Hann segir: „Mér þótti hins vegar vænt um það að í könnun, sem gerð var sama kvöld og Jón Steinar lýsti því yfir í nánast öllum fjölmiðlum landsins að það væri hneisa fyrir íslenzku þjóðina að kjósa mig forseta, – og Morgunblaðið flutti þann boðskap á baksíðu sinni, til að koma honum nú örugglega til skila -, að þá skyldi þjóðin hafna þessu sjónarmiði og fordæma það með því að meirihluti landsmanna lýsti yfir stuðningi við mig.”

Var það meirihluti, það held ég ekki. En þetta orðalag hentar stjórnmálamanninum og frambjóðandanum Ólafi Ragnari Grímssyni.

Ég er sammála því að það er ekki hægt að hefja vitrænar umræður um forsetaframboð. Þeir segja sem til þekkja að almenningur taki það óstinnt upp ef verið er að amast við forsetaembættinu. En þó finnst mér einhver doði yfir baráttunni. Mér er til efs að almenningur hafi mikinn áhuga á frambjóðendunum, veit það þó ekki.

Ég hef aldrei dýrkað mergð og nú blasir hún við. Þjóðfélag er ekkert nema mergðarsamkunda þar sem einn apar eftir öðrum. Einstaka hvítir hrafnar, það er allt og sumt. Íslenzkt samfélag er ekkert sérstaklega merkileg samkunda. Það er miklu fremur einhvers konar Fjaðrafok. Það er tvískinnungur í öllum yfirlýsingum um frelsi og frið, menningu og arfleifð. Kannanir hafa sýnt að Íslendingar vilja forseta sem kann að selja skreið í útlöndum eins og hver annar farandsendiherra eða ferðamálafulltrúi, hann þarf ekki að minna á neina arfleifð eða sérstæða menningu heldur á allt að fjalla um peninga og hagsmuni. Og svo á hann helzt að vera klókur í friðarmálum. Það er víst þess vegna sem Ólafur Ragnar nýtur þessa fylgis, að mér skilst. Hann hefur víst eitthvað sótt fundi í Indlandi og slíkum löndum undanfarin ár. En hann hefur allan tímann – eins og raunar Guðrún Agnarsdóttir einnig – verið á móti eina friðarbandalaginu sem hefur komið í veg fyrir styrjaldir, þ.e. Atlantshafsbandalaginu. Eða hvers vegna skyldu Eystrasaltslöndin nú endilega vilja fá aðild að þessu bandalagi? Eða miðevrópuríkin og Pólland undir forystu kommúnistastjórna? Það er auðvitað vegna þess að það hefur ekkert bandalag í sögu heimsins verið eins áhrifaríkt tæki fyrir friði og Atlantshafsbandalagið, það er eitthvert traustasta öryggi sem litlar þjóðir geta haft fyrir tilvist sinni, frelsi sínu og sjálfstæði. En gegn þessu bandalagi hefur Ólafur Ragnar Grímsson ávallt barizt af oddi og eggju. En margt fólk vill engar staðreyndir. Það á bara að opna einhvern fiðurpoka og láta júnívindinn blása fiðrinu í allar áttir. Og í þessum blæstri mun Ólafur Ragnar Grímsson að öllum líkindum fjúka til Bessastaða.

Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán
mín skömm og mín tár og mitt blóð

sagði Steinn og rataðist auðvitað satt á munn – eins og alltaf!

Þurfum að skrifa leiðara eftir helgina um friðarbandalagið Nató. Ástæða til að minna fólk á að friðarstarf er ekki bara einhver þvæla, orðagaspur í ræðum, heldur raunverulegur metnaður til að koma í veg fyrir blóðsúthellingar eins og Atlantshafsbandalagið hefur gert – og nú síðast í Bosníu. Hernaðarstyrkur þess er bakhjarlinn.

Var að lesa úttekt geðlæknis á skáldum og rithöfundum. Þar segir að Robert Burton hafi á 17. öldinni skrifað að skáld væru brjáluð og margir tekið undir þau orð. Hins vegar hafi Felix Post geðlæknir komizt að annarri niðurstöðu en hann rannsakaði æviskrár 100 látinna enskumælandi höfunda og greinir frá rannsókn sinni í British Journal of Psychiatry sem er tímarit um geðsjúkdómsfræði. Hann segir að ljóðskáld séu í betra jafnvægi en leikskáld og rithöfundar. Fjórðungur skálda upplifi að vísu töluverðar geðsveiflur en þjáist sjaldnast af langtímaþunglyndi, heldur vægu tímabundnu þunglyndi. Fjórtán prósent skálda sýndu aldrei merki um persónutruflanir. Færri skáld urðu áfenginu að bráð en aðrir bókmenntamenn, eða 31% en 51% leikskálda. Þau, eða 42% þeirra, væru verst haldin af lauslæti, 20% rithöfunda en einungis 14% skálda féllu fyrir freistingunni svo að vitað væri. 43% skálda náðu 74ra ára aldri, hins vegar urðu 38% leikskálda svo gömul og aðeins 24% rithöfunda. En 29% ljóðskálda náðu ekki fimmtugsaldri.

Þetta eru samt athyglisverðar tölur og sýna að ljóðskáld þurfa ekki undantekningalaust að vera geðveik eða áfengissjúklingar!

Orti þetta í gærkvöldi, af gefnu tilefni:

Hún sagði, Ég hef
ofnæmi fyrir kettinum, Þú hefur
svipt mig frelsinu
bætti hún við

og opnaði dyrnar.

Henry James sagði að í skáldsögum væru mörg herbergi. Það sama gildir um ljóðlist. Ég hef verið að kynna mér dálítið „baráttuljóð” bandarísku skáldkonunnar Adrienne Rich; athyglisverður skáldskapur að vísu en heldur leiðinlegur og prósaískur eins og slíkar bókmenntir eru oftast.


1. júní – laugardagur

Var spurður um það niðri á Morgunblaði í fyrradag hvort mér hefði ekki verið boðið í veizlu vegna heimsóknar Írlandsforseta.
Jú, ég sagðist hafa verið boðinn í veizlu.
Af hverju ég hefði ekki farið?
Ég svaraði því til að það væri alltaf verið að brjóta grundvallaratriðið þeirrar byltingar sem borgarastéttin hefði gert á sínum tíma og ég teldi enga ástæðu til að taka þátt í því. Það væri fáránlegt að sjá veizlugesti lýðræðisríkis skarta orðum eins og um aðalsríki væri að ræða. Snobbið á Íslandi væri líka orðið of mikið fyrir minn smekk. Ég hefði þó á sínum tíma stundum farið í slíkar veizlur, fór til að mynda þegar Ólafur Noregskonungur kom hingað, enda hitti ég hann við Norðurá, talaði nokkra stund við hann og Ásgeir Ásgeirsson í veiðihúsinu og hugnaðist vel. En þegar á leið hætti ég að mestu að fara í sendiráðsveizlur og opinberar veizlur, sá í hendi mér að það var nauðsynlegt fyrir ritstjóra stærsta blaðs þjóðarinnar að vera frjáls að öllu slíku. Maður er ekki frjáls þegar mætt er í slíkar móttökur því þá eru gerðar til manns ósagðar kröfur sem hefta þetta frelsi ritstjórans. Ég man eftir því þegar Sigurður Bjarnason var á sínum tíma í alls kyns veizlustússi og kom þá stundum niður á Morgunblað að veizlu lokinni til að fylgjast með því að viðkomandi fólki væru gerð þau skil sem hann taldi nauðsynleg vegna þátttöku hans í þessum samkomum. Fram yfir sjöunda áratuginn var ég einnig þessu marki brenndur en fór þá að sjá í hendi mér að þetta dygði ekki. Frelsi ritstjórans er forsenda fyrir því að hann geti stjórnað blaðinu óbundinn og án þess ósagða aðhalds sem fylgir tengslum og þátttöku. Stundum er að vísu nauðsynlegt að brjóta þetta en það hef ég ekki gert að nauðsynjalausu. Ég hef af sömu ástæðum einnig gætt þess að vera ekki í of miklum tengslum við Sjálfstæðisflokkinn og hef raunar ekki átt neitt saman við hann eða forystumenn hans að sælda misserum saman. Það er góð tilfinning. Það er nauðsynlegt aðhald fyrir mann sjálfan nú þegar stefna blaðsins hefur verið mörkuð og það á að vera frjálst að öllu nema sjálfu sér. Það á jafnvel að vera frjálst að hégóma og snobbi þeirra sem stjórna því. Lesendur eru fljótir að sjá í gegnum allt slíkt og það er ekkert verra fyrir frjálsan fjölmiðil en augljós trúnaðarbrestur við umhverfið og lesendur vegna tengsla sem hafa ósjálfrátt í för með sér forréttindi og ósögð lögmál samtengingar. Ég held Stöð 2 sé að ganga í gengum slíkan eld vegna afstöðu stjórnenda og samúðar með ÓRG sem margir telja augljós. Auk þess hef ég vaxið frá þessari opinberu þátttöku eftir því sem ég hef elzt og þroskazt og gef ekkert fyrir opinberar veizlur, uppákomur eða kokkteilboð. Þegar við Hanna tókum hvað mestan þátt í slíku með Bjarna og Sigríði á sjöunda áratugnum sagði móðir mín við mig að hún þekkti vel slíkar uppákomur því að Jóhannes bæjarfógeti, faðir hennar, hafði lengi verið þingmaður, formaður Sambandslaganefndar og forseti þingsins og því orðið að stunda veizlur af miklu kappi. En hún bætti við að það hefði ekkert staðið eftir þegar hann hætti þátttöku í opinberum málum; ekkert nema tveir eða þrír vinir sem héldu tryggð við veizluþreyttan stjórnmálamann, Magnús Guðmundsson ráðherra og svo að sjálfsögðu Jón Helgason byskup, en þeir Jóhannes voru skólabræður. Það var eftirminnilegt að sjá þá ganga sér til upplyftingar um bæinn. En veizlugestirnir voru horfnir út í veður og vind og nýir gestir komnir til sögunnar; nýir gestir, ný tillitssemi, nýtt snobb; ný samtrygging. Annars hef ég oft undrazt hvað margir svonefndir fulltrúar alþýðunnar eru yfir sig snobbaðir og hvað þeir sækjast eftir samneyti við háttsett fólk svokallað, fínt fólk og forseta. Ég hef aldrei skilið þennan tvískinnung en hann er áberandi í fari margra þeirra sem sækja atkvæði, völd og áhrif til alþýðunnar í landinu sem er ævinlega víðs fjarri þegar eitthvað er að gerast; mér skilst jafnvel að hún hafi átt í basli með að komast á Þingvöll til að taka þátt í þjóðhátíðinni 1994!

Ég kynntist þessum stellingum vel þegar ég var formaður Þjóðhátíðarnefndar 1974. Á fyrsta fundi þjóðhátíðarnefndar óskaði ég eftir því að nefndin samþykkti að hún ynni störf sín kauplaust. Það var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Síðan störfuðum við næstu sjö, átta árin kauplaust að þjóðhátíðarhaldinu en þegar kom að því að ákveða gestalistann var sá þáttur málsins sendur upp í utanríkisráðuneyti. Þá komu fínir ráðuneytismenn til skjalanna sem höfðu hvorki hrært legg né lið fram að því og sögðu:
Nú get ég!
Þeir sömdu gestalista – og þá líklega í samráði við ráðherra eða ráðuneyti – og þegar ég fékk listana í hendur sá ég að nefndinni yrði ekki boðið í veizluna á Þingvöllum. Einungis formanni nefndarinnar og Indriða framkvæmdastjóra. Ég mótmælti þessu og benti á að nefndin hefði starfað öll þessi ár kauplaust og ef einhver ætti að vera í veizlu á Þingvöllum stæði hún því næst. Þessu var ekki allt of vel tekið en ég tilkynnti þá að ef þjóðhátíðarnefnd yrði ekki í Þingvallaveizlunni segði ég af mér og myndi skýra þjóðinni frá ástæðunni. Þá loks var breytt um stefnu og nefndin fékk þessa einu umbun eftir alla vinnuna, að sitja Þingvallaveizluna! Þegar kom að gestalistunum upphófust stellingarnar og snobbið. Þá vildu allir Lilju kveðið hafa. Þá átti helzt að umbuna öllum – nema þeim sem höfðu unnið allt verkið. Og svo átti sólin að skína á þetta venjulega snobblið sem aldrei vantar þegar veizluhöld eru annars vegar. Það var ekki hægt annað en fá velgju af að fylgjast með þessum tilburðum. En þetta var góður skóli og lærdómur sem ég bý enn að. Þannig eru öll mál afgreidd á Íslandi. Þegar Sigölduvirkjun var vígð var öllum boðið í hús nema þeim sem höfðu unnið verkið. Þeir sátu utandyra í rigningunni. Ég vil helzt ekki taka þátt í þjóðfélagi sem gengur fyrir slíkum stellingum – og leyfir þær. Ég vil heldur vera í hópi þeirra sem sitja utandyra – í rigningunni. Hinir mega svo segja, Nú get ég(!) án þess það komi mér við. Ég segi eins og Snæfellingar, Hver maður við sinn sala, og ég hef unað því hlutverki ágætlega. Hitt er svo annað mál að við skrifuðum leiðara um vígsluna, með skírskotun í Bokassa. Hann var síðar dæmdur fyrir mannát!


2. júní – sunnudagur

Þegar ég var ungur hugsaði ég mikið um dauðann. Nú, þegar ég er að eldast, hugsa ég meira um lífið.


6. júní – fimmtudagur

Birtum á morgun skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar um fylgi í forsetakosningum. Ólafur Ragnar með 43%, Pétur Kr. Hafstein með 28%, Guðrún Agnarsdóttir með innan við 20% og Guðrún Pétursdóttir, minnir mig, að fái eitthvað um 10%. Við létum einnig spyrja um embætti forsetans og þá kemur hið óvænta í ljós: Að kjósendur vilja að forsetinn skipti sér meira af opinberum málum en verið hefur, bæði hér heima og utanlands, að því að mér skilst. Kannski er unnt að skýra fylgi Ólafs Ragnars með því að hann er stjórnmálamaður og meirihluti fólks vill ekki táknræna fígúru í forsetaembættið heldur einhvers konar pólitíkus sem skiptir sér af ýmsu því sem ekki er gert ráð fyrir í stjórnarskránni. Það skyldi þó ekki vera að íslenzka þjóðin sé orðin hundleið á þessu forsetaembætti og vilji annars konar embætti handa þjóðhöfðingjanum, eitthvað í ætt við embætti forseta Frakklands eða Bandaríkjanna eða Rússlands sem eru valdamikil embætti og þrælpólitísk. En forsetaembættið skiptir litlu máli hér úti á Íslandi. Ég er ekki með hugann við þessar kosningar, síður en svo, þótt ég verði að vinna með þær eins og hver annar blaðamaður. Ég er aftur á móti með hugann við kosningarnar í Rússlandi. Þar er kosið um framtíð heimsins. Í kosningunum á Íslandi er ekki kosið um framtíð mína eða minna, en í kosningunum í Rússlandi er kosið um framtíð okkar allra. Ég vona að Jeltsín nái kosningu. Það má ýmislegt út á hann setja enda er hann alinn upp í fylkingum ungkommúnista og tók sem slíkur þátt í stjórnmálum í Sovétríkjunum en hann virðist hafa hrist af sér þennan rótgróna kommúnisma og hefur augsýnilega ástríðu til þess að leiða þjóð sína inn í lýðræðislegt andrúmsloft þótt erfitt sé að sjálfsögðu að kenna gömlum hundi að húka eins og Þórbergur sagði.

Skrifa dálítinn passus um Ívar Guðmundsson látinn í næsta Reykjavíkurbréf. Ívar sýndi mér ávallt góða og hlýja vináttu. Ég byrjaði á Morgunblaðinu þegar hann var að hætta, 1951. Hann lagði mér ávallt eitthvað gott til og hrósaði blaðinu, vexti þess og víðsýni við hvert tækifæri sem gafst. Viðgangur blaðsins var gleði hans og fögnuður. Ég fann að hann hafði áhuga á því að vinna eitthvað fyrir blaðið þegar hann var setztur í helgan stein og þá fór hann að skrifa pistla að vestan. Hann sagði að þetta starf hefði lengt ævi sína um mörg ár. Ég vona að það sé satt. En greinin sem birtist um hann næstkomandi sunnudag er svohljóðandi:

„Ívar Guðmundsson dó inn í íslenzku sumarnóttina. Það hefði honum sjálfum þótt við hæfi. Hann var mikill Íslendingur í sér og bar fæðingarbæ sínum, Reykjavík, fagurt vitni hvar sem hann fór. Hann skrifaði á sínum tíma margt um lífið í Reykjavík og upplifði það ávallt hvern dag sem nýja reynslu. Blaðamennskan getur verið harla endurtekningarsöm eins og margt annað í hversdagslegu lífi en Ívar sá og upplifði þennan hversdagsleika með nýjum augum hvern dag enda var hann ferskur og áhugasamur blaðamaður meðan hann sinnti fréttastjórn hér við blaðið og raunar ávallt síðar. Hann skrifaði sérstakan þátt í Morgunblaðið og fjallaði þá ekki sízt um margt það sem fyrir augu bar í höfuðborginni. Hann var fyrsti Víkverji Morgunblaðsins en síðan hafa margir fetað í fótspor hans í þessum vinsæla þætti. Ívar setti persónulegt mark sitt á þennan þátt og hafði gaman af að skrifa úr daglega lífinu, eins og sagt er, enda var hann mikill og ódrepandi þátttakandi í þessu sama mannlífi sem hann fjallaði um í fréttum og blaðadálki. Hann rækti starf sitt eins og aðrir góðir blaðamenn af ástríðufullu tillitsleysi við sjálfan sig.

Sterkasti þáttur Ívars Guðmundssonar sem blaðamanns var tilfinningin fyrir umhverfinu, staðgóð þekking, en þó fyrst og síðast hafði hann til að bera það sem kallað er á máli blaðamanna „nef fyrir fréttum”, en sá eiginleiki er höfuðprýði margra beztu blaðamanna þótt þeir hafi misjafna hæfileika til að koma efninu frá sér.

Ívar Guðmundsson hætti störfum við Morgunblaðið 1951 og hvarf til Vesturheims þar sem hann var kallaður til starfa á vegum Sameinuðu þjóðanna og vann á þeirra vegum í ýmsum löndum næstu fjóra áratugina. Enda þótt hann hafi að mestu verið fjarri ættjörðinni um hálfrar aldar skeið var hún svo rótföst í eðli hans og tilfinningalífi að engum sem við hann talaði og ekki vissi betur hefði komið til hugar að hann hefði verið langdvölum erlendis. Um hann mátti svo sannarlega segja það sem skáld Vestur-Íslendinga minnist á í kvæði sínu „Úr Íslendingadagsræðu” að hugur og hjarta báru ævinlega mót heimalandsins þótt hann væri langförull og legði undir fót mörg þau lönd sem bera fremur vitni annarri arfleifð og öðrum andlegum gróðri en þeim sem prýða langholt og lyngmóa.

Ívar Guðmundsson var alla tíð sonur landvers og skers og það er gott að minnast hans í þeirri björgföstu fullvissu að um hann mátti segja hvert sem leiðin lá:

Fjærst í eilífðar útsæ
vakir eylendan þín:
nóttlaus voraldar veröld,
þar sem víðsýnið skín.

Ívar Guðmundsson hvarf, farinn að heilsu, inn í þessa sömu nóttlausu voraldar veröld. Hann er að leiðarlokum kvaddur með þakklæti og virðingu af þeim sem með honum störfuðu hér á blaðinu og því meira þakklæti sem við kynntumst honum betur. Hann hvarf til þess íslenzka óskalands sem hugurinn var bundinn órofa böndum og kannski engin tilviljun að hann fékk að kveðja jarðneskt líf sitt í því umhverfi sem stóð hjarta hans næst og fylgdi honum hvert sem hann fór. Í þessu reykvíska umhverfi var hann eins og höfðingi smiðjunnar sem hamraði nýjar fréttir og atburði líkt og stjörnur hrykkju af steðjanum. Það var lífið sjálft sem ritaði markverðustu frásagnir Ívars Guðmundssonar. Í þeim eldi var reynsla hans hert.”

Á sínum tíma hafði ég frumkvæði að því að ævisaga Júrí vinar míns Resetovs, sendiherra Rússlands á Íslandi, yrði skrifuð og féll það í hlut Eyvinds Erlendssonar. Hann hófst handa um ritun sögunnar og við fengum Þorstein Thorarensen til þess að gefa hana út. Vonandi kemur hún með haustinu. Hef lesið nokkra kafla eins og Eyvindur hefur gengið frá þeim og líkar vel. Ég stakk upp á því að sagan yrði í aðra röndina skrifuð eins og skáldverk og lagði sérstaka áherzlu á andrúmið, að það yrði byggt upp á ljóðrænni stakkató og sýnist mér að Eyvindur og þeir Júrí hafi farið að þessari hugmynd minni. Ég held að saga Júrís verði hin merkasta og sumt í henni á heima á alþjóðlegum markaði því að Júrí tók þátt í mannréttindamálum undir lok Sovétríkjanna, eða áður en Rússland reis á ný og hann var skipaður sendiherra í Reykjavík. Hann fékk það hlutverk m.a., á vegum utanríkisráðuneytisins, eins og fram kemur í kafla sem ég las í gærkvöldi, að þurrka þann smánarblett af Sovétríkjunum, að pólitískir fangar væru sendir í geðveikrahæli þar sem kommúnískir geðlæknar fjölluðu um mál þeirra eins og þeir væru búpeningur en ekki fólk. Það er mögnuð frásögn í mannréttindakaflanum í þessari bók þegar Júrí fer á fund yfirgeðlæknis Sovétríkjanna sem minnir á enga menn aðra en þá sem stjórnuðu útrýmingarbúðum nazista á sínum tíma. Og þá er ekki síður athyglisverður kaflinn sem tekinn er úr dagbók Júrís þegar hann rís upp gegn þessu hryllingskerfi á fundi hjá Shevardnadse, utanríkisráðherra, en lýsingin á þessum núverandi forseta Georgíu er ekki sízt athyglisverð fyrir þá sök að hann virðist sá eini af þeim á þessum fundi sem skildi hvað Júrí var að fara þegar hann gagnrýndi kerfið. Því er svo lýst hvernig þetta kerfi var afnumið og rússneskir geðlæknar komust aftur inn í alþjóðleg samtök geðlækna í Aþenu og þá fyrst má tala um að Rússar hafi reynt að kollvarpa sjálfir þessu stalíníska kerfi innanfrá. Hlutur Júrí Resetovs er hinn merkasti og ég lít hann stærri augum en áður, nú þegar ég hef lesið þennan kafla og tilvitnanir í dagbók hans. Ég er því stoltur af því að hafa átt aðild að útgáfu þessarar bókar og hvatt til ritunar hennar. Sjálfur hef ég fjallað um þennan ægilega tíma í Félagi orð – og þá ekki sízt í kaflanum um sovéska rithöfundinn Tarsis sem ég hitti í Bandaríkjunum 1966 og ræddi við um sjálfan hann og framtíð Sovétríkjanna. Hann hafði verið dæmdur geðveikur. Ástæðan? Hann spáði falli Sovétríkjanna!!

Mér fannst sérstaklega athyglisvert að kynnast frásögninni af því hvernig Júrí Resetov upplifði sjálfan sig eins og hvern annan hvítan hrafn á fundinum með sérfræðingum utanríkisráðuneytisins í mannréttindamálum. Þegar hann talaði gegn kerfinu lögðu þeir kollhúfur og auðvitað datt þeim ekki í hug að reyna að skilja orð af því sem hann sagði. Þarna var á ferðinni hugsjónamaðurinn innan um pólitíska embættismenn og get ég ekki annað sagt en ég hafi oft staðið sjálfan mig að þessu sama í hópi valdamanna og erindreka þeirra.


8. júní – laugardagur

Hagvangskönnun sýnir að þriðjungur þjóðarinnar er óánægður með alla forsetaframbjóðendur; líklega þessir aðhaldssömu hugsuðir. Það er ekki þar með sagt að þriðjungur Kínverja eða 3-400 milljónir séu einhverjir yfirgengilegir hugsuðir, þvert á móti er ég sannfærður um að þeir eru ekkert nema hjarðhugsun, eins og Nietzsche taldi. En þó gæti ég ímyndað mér að þriðji hver maður hefði, þegar hann væri einn með sjálfum sér, áhuga á einhverjum öðrum verðmætum en því dóti sem fæst í stórmörkuðum og er í raun og sannleika jafn eftirsóknarvert og þau verðmæti sem nútímapólitíkus býður upp á. Og þá undanskil ég ekki Ólaf Ragnar Grímsson þótt hann hafi haft einhverjar háskólagráður, svo ófyrirleitinn og tækifærissinnaður sem hann hefur oft verið á sínum pólitíska ferli. Ég gef ekki fimm aura fyrir slík tilhlaup. Stjórnmál kalla ekki fram það bezta í eðli nokkurs manns eða upplagi. Ef Ólafur Ragnar Grímsson kemst á Bessastaði vona ég að það bezta fái að njóta sín. Ég ætla að trúa því í lengstu lög að það hafi ekki enn séð dagsins ljós.

Annars hafa skoðanakannanir verið þó nokkuð athyglisverðar. Það kemur í ljós af könnun Félagsvísindastofnunar, sem hún gerði fyrir Morgunblaðið, að mikill meirihluti kjósenda vill ekki auka völd forsetans, en meirihlutinn vill aftur á móti að hann sé að vasast meira en verið hefur, t.a.m. í alls kyns utanríkisviðskiptum. Þetta er vandræðaembætti og hefur alltaf verið. Enginn veit í raun og veru til hvers það er. Smáríki þarf bara að hafa þjóðhöfðingja því annars er það eins og unglingur á stuttbuxum. En það skiptir svo engu máli hvert hlutverk hans er. Þetta er stundum kallað þjóðarstolt en stundum er þetta basl hálfömurleg tilgerð. Við þurfum frekar á öðru að halda en slíkri tilgerð. Við þurfum á hlédrægum þjóðhöfðingja að halda, sem lætur fara lítið fyrir sér í þessu litla og viðkvæma samfélagi.

Meirihlutinn vill líka að forseti sendi lög frá Alþingi til þjóðaratkvæðagreiðslu ef hann telur þeim áfátt með einhverjum hætti. Írar hafa ágætt fyrirkomulag, forsetinn getur sent slík lög til Hæstaréttar og það hefur hún raunar gert tvisvar sinnum. En sem stendur er Hæstiréttur Íslands ekki svo hátt á hrygginn reistur að hann sé sjálfsagður úrskurðaraðili um löggjöf á Alþingi. Miðað við suma þá hæstaréttardóma sem ég hef lesið undanfarið treysti ég þingmönnum betur til að semja lög en hæstaréttardómurum til að túlka þau. En þetta breytist áreiðanlega til batnaðar þegar meiri kröfur verða aftur gerðar til þeirra sem veljast í Hæstarétt. Þar þurfa ævinlega að vera fordómalausustu lögskýrendur landsins og þeir sem eru öðrum betur að sér í lögspeki og þróun mannréttindamála. Hitt er svo annað mál að þessi niðurstaða í skoðanakönnuninni bendir til þess að meirihluti Íslendinga vilji láta reyna á þjóðaratkvæðagreiðslu oftar en nú er gert ráð fyrir – og er það vel. En hví þá ekki að taka upp svissneska kerfið sem ég boðaði í Reykjavíkurbréfi einhvern tíma á áttunda áratugnum, að mig minnir, við lítinn fögnuð þeirra sem gangast upp í forsetaembættinu eins og nýkristnir Norðmenn í jarteiknahelgi Ólafs digra?

Mætti nota í skáldskap síðar,ef hentar.

 

 

 

9. júní – sunnudagur

Fór í gærkvöldi upp að Elliðavatni og keypti mér veiðileyfi. Veiddi svo með flugu á milli vatna, reyndi einnig í sunnanverðu Helluvatni en án árangurs. Vatnið dregur mig til sín. Það endurspeglar einhvers konar þrá eftir björtustu dögum æskunnar. Þar vorum við á sumrin þegar ég var 7-8 ára því faðir minn leigði sumarbústað Tuliniusar austan vatns. Hann er enn reisulegur og þangað mæni ég eftirvæntingaraugum. Sumarbústaður Magnúsar Jochumssonar póstmeistara hefur verið endurbyggður. Honum hefur verið lyft með fallegu risi og blasir nú við, rauður eins og sumir gígarnir í Rauðhólum þegar við vorum þar. En svo kom brezka hernámsliðið og gróf þetta náttúrulistaverk í sundur og flutti í Reykjavíkurflugvöll. Þannig liggja spor mannsins um jörðina.

Það var hellirigning þegar ég kom að vatninu og hvessti af austan með öldugjálfri. Ég kastaði í rigningunni og það var hressandi. Að nokkurri stund liðinni stytti upp. Vatnið kyrrðist og hvítnaði undir kvöldsólinni. Þá sá ég einn fisk vaka. Hann stakk sér upp úr, ekki til að elta fluguna mína, heldur í því skyni einu að fylgjast með kvöldsólinni. Það var yndislegt við vatnið, logn og kyrrð og svo allt í einu kom himbrimi upp úr kafinu og skimaðist um. Ég fór að velta því fyrir mér hvort þetta væri sami himbriminn og ég var að yrkja um í ljóðabókinni Land mitt og jörð sem kom út 1994, en þar er ljóðabálkur sprottinn úr Helluvatni og gömlum nostalgískum minningum um dvölina þar, Við seglhvítan væng:

Fugl hreyfir
vatn...
fugl

hreyfir væng
yfir vatni

undir sjónsnerting drengs...

Þannig upplifði ég æskuna í endurminningu þessa vatns sem fylgir mér eins og þetta yndislega lognkyrra, bjarta sumarkvöld sem er engu líkt nema fegurstu minningunum um þá sem fjallað er um í fjórða ljóði þessa bálks:

Hugur þinn
hverfur til þeirra
sem héldu
til himins

sögðu, Nú gengur
engill um vatnið

og golan
hvíslar við grjót

Og ég horfi á gjálfrandi báruna við fætur mína og sé hvernig hún slokknar við stein eins og allt sem er gott og eftirminnilegt og deyr inn í hvítt vatnið sem er stór himinn í minningu lítils drengs. Og ég fór að hugsa um það þegar faðir minn kom úr bankanum milli fimm og sex síðdegis og ég beið hans hvern dag með eftirvæntingu því við ætluðum saman á bátnum út á vatn og egna fyrir bleikjuna sem ysti svo fallega í pottinum þegar móðir mín sauð hana nýveidda í kvöldmatinn. Við sátum í bátnum og rerum til skiptis. Köstuðum akkeri þar sem Suðurá rennur í vatnið. Veifuðum til Magnúsar póstmeistara sem sat nokkru austar í sínum bát og kastaði eins og við, og dætur hans horfðu á og kölluðu í kyrrðinni eins og mýið bergmálaði þennan litríka dag. Og sáum bleikjuna vaka í austangolunni. Og hugur drengsins hvarf að hvítum lófa vindsins sem strauk ljósan, úfinn makka og þá, allt í einu, högg og stöngin bognaði og hann sveigði stöngina eins og kulið væri að fitla við toppinn. En þá stökk hann eins og tignarlegur hvalur í eftirvæntingarfullum augum drengsins og háfurinn tekinn upp og settur í vatnið...

sporðfögur bleikjan
við sólhvíta
hugsun

og sumardagsilmur
við lyng

Ég gekk oft með Helluvatni þegar ég var að yrkja þennan ljóðaflokk, Við seglhvítan væng, sumarið og haustið 1993. Mér fannst ég vera eins og farvegur þeirra fallegu minninga sem ég átti frá þessum æskudögum þarna við lynggróna gígana þegar sóldreggjakulið hvarf með nóttinni eins og ósýnileg hönd að myrkum hyljum þessara áleitnu minninga. Ég fylgdist með þröstunum í trjánum og stelknum og kríunum sem voru að helga sér einn og einn stein við vatnið en hurfu svo gargandi þangað sem félagslyndið dró þær. Og þær steyptu sér niður að vatninu, gáruðu hvítan spegil og fjarlægðust inn í sólgylltan silfurstreng úr norðvestri. En himbriminn lét ekkert á sig fá. Einn og ugglaus um sig og sína hagi kafaði hann inn í hvítan spegilinn og kom svo upp þar sem augun áttu einskis von og hreyfði vatnið og gígana handan vatnsins, kafaði og kom upp, kafaði og kom upp einn og ábúðarmikill eins og stef í gömlum draumi. Og þá allt í einu vaknaði vatnið af síðdegisblundi og hringlaga augu þess birtust í öllum áttum. Engu líkara en fiskurinn væri að tala við heiðan himinn og segja honum frá djúpinu, segja honum frá gleði sinni, segja honum frá þessu athvarfi lítilla flugna sem kvikna og slokkna eins og stjörnur himinsins. Og ég fór að hugsa um þegar dóttir Magnúsar póstmeistara missti stöngina í vatnið og ég fiskaði hana upp mörgum dögum síðar við mikil fagnaðarlæti og aðdáun sem fór eins og hríslandi gleði um lítinn, hlédrægan dreng. Og ég fór að hugsa um haustkvöldið voveifilega þegar faðir minn frétti af miklu bílslysi við Tungufljót og sendi mig til Magnúsar póstmeistara í kvöldmyrkrinu að segja þessar voveifilegu fréttir. Og rifjaði það upp hvernig ég hljóp við fót yfir lyng og mosa og hraun, lítill, myrkfælinn drengur sem skildi ekki hinztu rök og átti víst aldrei eftir að komast nálægt þeim skilningi sem svarar áleitnum spurningum um líf mannsins og dauða.

Og ég fór að hugsa um annað atvik sem festist í huga drengsins eins og fluga í silungskjaft og ég hef aldrei getað losnað við en vitjar mín aftur og aftur í ýmsum myndum. Ég hef raunar aldrei skilið að foreldrar mínir skyldu leyfa mér að standa einn við Suðurá því ég var ósyntur og áin ekki jafn saklaus og virtist í fljótu bragði. En þarna stóð ég einn bjartan sumardag undir haust, það var komið stálgrátt yfirbragð á haustskýin og kulið fór vatnið svölum gusti. Samt notalegt að standa þarna síðla dags í ágústbirtunni og beita maðki og kasta út í ána þar sem hún rennur í vatnið sunnan við bústað Magnúsar póstmeistara; láta færið renna með straumnum og horfa á stangartoppinn en aðhafast sem allra minnst og draga ekki inn fyrr en allt lá í botni. Ég lagðist á bakkann og fylgdi færinu en þá sveif á mig einhver höfgi og mér seig í brjóst um stund þar sem ég lá þarna á bakkanum en vaknaði við mikil högg þegar stöngin hristist í höndum mínum svo ég missti hana og hún rann eftir bakkanum að ánni en ég stóð upp, náði henni og byrjaði að draga inn. Það var þungur bogi á stönginni og hún hristist í höndum þessa litla sjö ára drengs en hann streittist á móti þeim sem var á hinum endanum og dró inn og var staðráðinn í að hafa í öllum höndum við þennan stóra fisk sem hafði tekið maðkinn hans. Og þá allt í einu birtist skepnan í allri sinni dýrð. Hann hafði aldrei séð þvílíkt og annað eins! Löng og mjó og engum fiski lík og þarna lá hún á bakkanum með öngulinn í kjaftinum og hann kraup á annað hnéð til að losa öngulinn. Tók utan um ferlíkið og hélt því með hægri hendi en hjakkaði öngulinn með vinstri hendi án þess honum tækist að losa hann. En þá allt í einu vafði skepnan sig utanum hægri handlegginn á drengnum og það greip hann ofsahræðsla og var sannfærður um að hann hefði veitt höggorm og hann væri áreiðanlega eitraður ef hann biti hann. Og hann greip utan um orminn, hálan og slímugan, og tók á öllu sem hann átti og gat loks losað sig við þetta óttalega kvikindi sem nú lá með öngulinn í kjaftinum og hringaði sig í grasinu á bakkanum. En drengurinn tók til fótanna og hljóp í einum spreng heim að segja tíðindin.
Það er ormur í vatninu, það er ormur í vatninu(!)
hrópaði hann og foreldrar hans urðu skelfingu lostin. En til allrar guðs lukku var Ebbi Frederiksen, vinur föður míns, í heimsókn, en hann var einn þeirra sem allt kunnu og hafði verið kokkur á Grænlandsfarinu Gottu, eins og segir frá í Morgni í maí. Ebbi fór úr jakkanum og bretti upp ermarnar og sagði,
Við skoðum aðstæður.
Og þeir faðir minn lögðu af stað að Suðurá og ég hikandi í humátt á eftir þeim. Ebbi skrollaði á err-inu og drengnum þótti merkilegt að hlusta á hann velta því fyrir sér hvers konar ogmug vægi þarna á fegð. Enginn hafði heyrt talað um neinn ogm í þessu tiltölulega saklausa vatni, það væri öðru máli að gegna um Lagarfljótsogminn því þar þyrftu menn að vara sig á hættunum og fara að öllu með gát. En ormur í þessu vatni, það getur ekki verið(!)
Drengurinn leit stórum augum á Ebba gamla Frederiksen.
Hann var saltdrifin hetja og kunni frá mörgu að segja. Hafði farið til Grænlands að sækja sauðnaut og hafði lifað af mikinn bruna á Skólavörðustíg þar sem hann missti allt í eldinn, þ.á m. handrit að ljóðabók sem hann hafði ort sér til gleði og ánægju eftir að hann skildi við konuna og hafði lokað bakaríinu sem hann hafði rekið um alllangt skeið. En hann hafði ekkert fyrir stafni eftir að hann var skilinn við konuna. Börnin komin á legg og hann hafði engum skyldum að gegna við samfélagið. Hann fékk sér í staupinu þegar honum sýndist. Spilaði pikkí við okkur feðgana ef svo bar undir og taldi raunar að við svindluðum alltaf þegar við gætum. Og þegar áfengisskömmtun var í stríðinu fékk hann áfengisbók föður míns, sem var bindindismaður, og það efldi vináttu þeirra og batt hann traustum böndum við föður minn, svo ólíkir sem þeir voru bæði að upplagi og reynslu.
Þegar Ebbi var spurður um handritið að ljóðabókinni sagði hann, Það brann allt sem brunnið gat, jafnvel eldfastug leig!
Og svo hafði drengurinn farið með Ebba í vitlausu veðri yfir Helluvatn, undir brúna og yfir Elliðavatn og þau systkin sátu á aftari þóttunni og horfðu á hann róa eins og þegar Þór réri á sínum tíma til fiskjar og veiddi orminn mikla. Og það var svo hvasst af suðaustanstæðum vindi að þeim leizt ekki á blikuna þegar þau horfðu á öldurnar rísa allt í kring og þökkuðu guði fyrir þegar lent var við Elliðavatnsbæinn, en þangað átti að sækja mjólk fyrir matinn og Ebbi sagði,
Ég eg öllu vanug, ég skrepp eftir mjólkinni.
Og við þurftum að sjálfsögðu að taka þátt í þessu ævintýri öllu og fengum að fara með og sem betur fer lygndi eitthvað meðan við biðum eftir mjólkinni og ferðin var skapleg heim aftur þótt Ebbi þyrfti að róa gegn andviðri.

Ekki hafði þessi ferð minnkað aðdáun drengsins á Ebba gamla Grænlandsfara og nú gekk hann á eftir honum þar sem hann skálmaði með uppbrettar skyrtuermar í því skyni að takast á við orminn mikla. En þegar komið var að bakkanum og stöngin blasti við var kvikindið hvergi sjáanlegt. Það hafði skriðið í vatnið aftur með maðkinn í kjaftinum og nú hófust ný átök og stöngin svignaði í höndunum á Ebba þangað til hann hrópaði upp yfir sig,
Nei, það eg baga áll!
Í sömu mund kom skepnan á land og lá í grasinu og hringaði sig í þessari dögggrænu veröld við fætur þeirra og faðir minn beygði sig niður, tók álinn og losaði hann af önglinum og var að hugsa um að sleppa honum aftur.
En þá sagði Ebbi, Nei, nei, ég bý til úg honum sjele! Afhenti mér stöngina, tók álinn og skálmaði aftur heim með uppbrettar ermar og bros á vör.

Ég spurði föður minn hvað áll væri og hann reyndi að segja mér það en tókst samt ekki betur til en svo að drengurinn fékk martröð um nóttina og dreymdi ekkert nema átök við Orminn mikla og gat ekki sofnað fyrr en hann fékk að kúra sig í rúminu milli foreldra sinna.

En Ebbi Grænlandsfari vissi ekki af martröðinni. Hann fór aftur heim til Reykjavíkur eftir kvöldverð. En það er af álnum að segja að Ebbi tók hann og lagði hann endilangan við skúrinn, rak nagla í gegnum hausinn á honum og festi hann þannig upp þar sem hann gat gert að honum og undirbúið hann undir sjeliið. Það var síðan borið fram með kvöldmatnum en enginn snerti það nema Ebbi sjálfur. Ég held honum hafi mislíkað það eitthvað, en hann sagði þó ekkert. Og þeir faðir minn fengu sér góða vindla eftir kvöldmatinn og púuðu inn í kvöldmyrkrið svo það líktist engu nema vatninu sjálfu þegar silungurinn vakir og ber hvítum himni fréttir af þögulu djúpinu.

Og ég renni augum að bakkanum þar sem drengurinn veiddi orminn á öngul og upp af gígnum trónar arnarstapi og minnir á eldgos sem fór landið hamförum endur fyrir löngu, en gígurinn fallega gróinn með grös og lyng og blóm sem teygja sig að hrauninu og það rís mosagróið upp af bakkanum þar sem drengurinn dottaði yfir færinu sínu og margvísleg blóm bera flugunum ilm sinn í síðdegisgolunni; hrafnaklukkur eins og glitrandi perlur í grárri sinu og þýfðu loðnu grasi, víðir á stangli og teygir sig frá vatninu þar sem straumiðan gælir við andvarann og fluguna, ein og ein holtasóley og bláklukkur á víð og dreif, en breiður af gulmuru og einstaka blóðberg. Og flugnablómið eins og lokaður heimur sem umlykur gamla reynslu.

En bláklukkan
kallar fluguna
á fund sinn,

ræðir bláan
útsaum
í grænum vefnum.


14. júní – föstudagur

Sáum Galdra-Loft Jóns Ásgeirssonar, ásamt Sigrúnu og Styrmi. Fín og áhrifamikil sýning. Ljóð Jóhanns Sigurjónssonar fléttuð fagmannlega inn í efnið. Alíslenzkt verk, ég er stoltur af því. Magnað og fallegt, t.a.m. Grös mín og vagga. Sé nú í hendi mér að Galdra-Loftur fjallar um hviklyndi karlmanna – en þó einkum um ófyrirleitni valdþyrstra pólitíkusa sem einskis svífast. Verst að þeir skuli ekki allir hverfa inn í blekkingu sína eins og Loftur. Hann er hinn fullkomni egóisti. Velur jafnvel konuna eftir hagsmunum, fórnar ástinni.

Jón Þórarinsson tónskáld sagði að óperan um Loft væri góð og músíkin oft falleg, en hún hefði getað orðið betri. Tók ekki undir þá fullyrðingu mína að hún væri betri en margar útlendar óperur.
Það hefði mátt sníða betur af vankanta, sagði Jón.


16. júní – sunnudagur

Sá um daginn sjónvarpsmynd um marglyttur og önnur gagnsæ sjávardýr, eða ætti ég kannski að segja: gagnsætt efni. Attenborough, auðvitað(!) Þessi dýr eru eins og umhverfið; gagnsæ eins og sjórinn. Er hann þá einnig dýr, hann hreyfir sig eins og marglyttan? En hann aflar sér ekki fæðu og tímgast ekki. Hann hugsar ekki. Hann er umhverfi; aðstæður. Allt efni virðist leita að lífi, en það eru aðstæðurnar sem skapa líf. Sérstakar aðstæður. Og efnið leitar lögunar eftir aðstæðum; lifnar og fer að hugsa. Jafnvel gagnsætt efni hugsar. En hví þá ekki sjórinn? Líklega vegna þess að hann er aðstæður eins og jörðin sjálf; loft og andrúm. Allt efni getur hugsað við réttar aðstæður. Í því felst sköpunin; efnið leitar sér lögunar og fer að lifa eins og hugsandi vera. Í því er e.t.v. fólginn hinn guðlegi innblásni kraftur; þetta veganesti sem efnið hefur fengið frá skapara sínum. En það merkir ekki endilega að guð búi í efninu, að náttúran sé forsjónin sjálf eins og Spinosa og aðrir algyðistrúarmenn leggja áherzlu á, nei, ekki frekar en skáldið lifi í kvæðum sínum þótt þau séu innblástur þess. En kvæðið ber skáldinu vitni eins og efnið ber skapara sínum vitni. Á það lagði Jónas áherzlu. Hún er forsenda allra hugmynda hans um líf og tilveru. Ég er farinn að trúa því að „hið dauða” efni kvikni og hugsi við réttar aðstæður. Þær eru að vísu jafnaugljósar og þær eru flóknar og manninum óskiljanlegar.

17. júní – mánudagur

Hef verið að yrkja allmikið. Sumarið er komið, grænar greinar og syngjandi fuglar. Og kvikan í sál minni er einnig slíkt umhverfi. Sem sagt, góðar aðstæður til að syngja(!)

 

 

 

 

 

Ort ímaí/ júlí

Hreiður skuggans

 

Ég fylgi eftir flugu við hrafnaklukku
sem festir yndi sitt við þíðan sólskinsblæ
og vorið sprettur úr veröld sem enginn þekkir
með viðeigandi birtu þegar dagur lengist í maí.

Og hrafnaklukkan hreyfist eins og fugl við steina
og hjúfrar sig að geislum sem flugur sækja að
eins og sólin væri kertaljós í litlu dimmu herbergi
og léki sér við myrkrið og flytti allt úr stað.

En ilmur þessa dags er sem daðri hún við lífið
og dreymi inní veröld þar sem enginn finnur til
en grunur hennar um söknuð og sára bitra reynslu
er sársauki sem fer eins og skuggi um djúpan hyl.

Og augu mín eru flugur sem fljúga kringum blómið
þar sem fuglar syngja við steina og gleðja hjarta mitt
en sólin leitar sjálfrar sín við gilsvart klettariðið
og syngur fyrir skuggana eins og fugl við hreiðrið sitt.


 

Guð

 

Er þetta Guð
spurði Anna litla
og benti á kápumynd
af Kristi
á Focus, Já sagði
afinn, þeir halda
að hann líti svona út
en það veit enginn nákvæmlega
því enginn
lifandi maður hefur séð hann, En
augun eru alveg eins
sagði Anna litla við afa sinn

en það má ekki klippa skeggið,
þá er hann ekki Guð.


 

Anna

 

Það er gott afi minn
sagði Anna litla
að þú ert með lítið hár,

þá ertu svo fljótur
að þurrka þér
eftir sund.


 

Hús fiskanna

 

Vatnið
bárujárn
vindanna

sól málar
vatnið
hörpublátt.


Fugl

 

Fuglinn vex
eins og lauf
úr efstu grein
trésins,

vængur
í vindmjúkum
geislum sólar


 

Kría

 

Ósýnileg
vex krían
inn í blindandi
himin.

 


Heiðmörk

 

Nú lokar sóley augum aftur
og aftanskinið strýkur væng
og skuggar fara hljótt um Heiðmörk
sem hverfur undir bláa sæng.

En nóttin strýkur lófum lyngið,
það leitar undir mjúkan feld
unz dagur rís og dagsbrún kveikir
sinn dularfulla sólareld.

Þá vaknar jörð í vitund þinni
og vekur fugl í brjósti mér
og sólin vex að veröld minni
með vorið sitt í fylgd með þér.


 

Við Hafravatn

 

Vatnsblá
hnígur báran
að blárri grösum.


 

Ást

Júníhvítri gleði
fer sólin
laufgaða fingur
trjánna

lófamjúk gola
hvísl í vængjum.


 

Eftirvænting

 

Þú ert vængjaður
gestur
á kvöldgulu vatni
augna minna.

Samt ertu annars staðar.


 

Í Vestmanna- eyjum

 

Snörum fuglinn
í netmöskva
augans.


 

Á Nesjavöllum

Gufan
er hálfmynd
vatns
við heitar lindir.


 

Minning

 

Bárujárns-
rifrildið
-varin
minning
um milda leirljósa daga


 

Köngurlóar- sumarið mikla

 

Köngurlær
éta ekki
járnsmiði,

þær spinna vefinn sinn
handa flugunum

skilja hann eftir
handa vindinum.


 

Hreiðra sig blikinn og æðurin fer

Jón Thor.

 

Biðukolla
er æður sem bíður
eftir steggnum.

Segir Benny Hill.


 

Minningagrein

 

Himbrimalaust
er vatnið
óskrifað blað

þrátt fyrir gulan sól-
staf úr vestri.


 

Frægð

 

Byltir sér

bleikur fiskur

skrifar nafn sitt
inní ó-gáraðan himin
flugnanna.


 

Hálfmynd

 

Sjáðu hvalinn
segja börnin,
og benda á svart sker
í Selsvörinni.


 

Á leið austur

 

Sjáðu skýið
segir drengurinn,
það er raksápa guðs

hann á ekki fyrir rafmagns-
rakvél.


 

Á Hengli

 

Nashyrningur,

storknuð kvika
hugans.


 

Tilbrigði

 

Marglit blóm
tilbrigði sólar
í gagnsærri rúðu

eins og hversdagsleg
tilbrigði guðs
í gagnsæju neti
tímans.


 

Hreyfing

 

Hreyfir rótfastan
skugga trésins

hreyfir rótföst
sólin
flöktandi skugga
og jörð.


Tilfærsla

 

Andalaust
bíður andlaust vatnið
anda sinna.


 

Mófugl

 

Hlustum,

stelkgrár syngur
rauðfættur móinn
við mjúklynda skugga.


 

Miðvikudagur

 

Toppandarleg
fer konan
í lagningu.


 

Vatnið og brunnklukkan

 

Í sólinni glitrar grasið
og glampar á dögg sem brosir við þér
og járnsmiður sækir í sólina,
hún hefur vorið og himneskar nætur í fylgd með sér.

 

En brunnklukkan bíður
í brosandi vatni sem speglar himin sinn
og augu mín fylgja klukkunni í kuli vatnsins
og kalsa við daginn sem leikur við vanga þinn.

 

Í þessari undraveröld sem vorið
vekur og ilmar við dularfullt blóm í hári þér
andar guðs blær og einhvern tíma
mun ilmur þess deyja í grasið sem vex yfir mér.


 

Tjaldur

 

Bringan tjaldhvít,
svartir vængir

græn bylgjast
jörðin
við fífilgul ljós

kvikna þau hægt
í vænghlýjum sporum
vindanna.


 

Köngur- lóar- vefur

 

Flugan liggur föst í slitnum vefnum
frákastið í yfirgefnum
spuna, dautt sem duft af gær-
degi sem var köngurlær.

Önnur deyr þar ein í förum
endar líka á köldum börum
dauðans þegar drattast nær
dagslok eins og köngurlær.

 

Snöggur vindur vefnum eyðir
værðarmjúka gleymsku dauðans breiðir
yfir þögn en blíður aftanblær
bregður fölu tungli á strá og köngurlær.


 

Karlremba

 

Ég hef þekkt
margar konur
sagði maðurinn, en engin
þekkir mig


 

Jónsmessa

 

Það er búið
að kveikja
á jöklinum,
segir drengurinn, sólin
er eldspýta.


 

Vor

 

Syngjandi fugl
á mjófingruðum greinum,

fagnar vori.


 

Tíminn er eins og vatnið

Steinn

 

Minning augans

minnkandi skafl
undir þáfjalli
tímans

rennur
að skjaldbreiðum
skugga vatnsins.


 

Útsaumur

Sólin kemur til vatnsins og vitjar þess
sem vorið stingur út
við mosa og hraun eins og hún sé ung
rómantísk stúlka og saumi varlega
í vasaklút
sem vinur hennar eignast þegar andvarinn
fer angan og lauf og blómin nýjum degi

og sólin er með svanaháls
og syngur um undarlega vegi
mannsins á jörðinni sem myrkrið þurrkar út,

en nú er júnínóttin langur dagur
og nýtur þess að strjúka fiðrað vatn
og undarlega fögur
við útsaum vatnsins bíður jörðin mín,

bíður þess einnig seinna að sólin
vitji aftur vatnsins undir haust
og veki blóm og fugl og köngurló á ný
og kveiki maðk og mý
í sýndarveröld sinni

því vorið mitt það vitjar endalaust
vatnsins og fuglsins, ég leita þín
sem geymir þetta vor
í vitund minni.


 

Veðurspá

 

Af hverju fer veðrið ekki
eftir sjónvarpsspánni,
spurði Kristján litli
Ömmu sína

og amman sem alltaf getur
svarað spurningum
um Guð
stóð nú á gati
eins og dönskukennari
sem kann ekki
Kaupmannahafnardönsku.


 

Undrið

 

Vaknið, opnið augu
undurfögru blóm við lyng og mosgrátt hraun
brosið fyrir bláklædd
börn sem tína sólskinið á laun,
eitt sinn var ég álfur
utanveltu sjálfur
og eitt sinn varst þú huldan
og bergmálið í steinum,

vaknið, opnið augu
andvarinn er sólkul
við blómálfa og fallin sinustrá,

undrið sjálft það vex af vorsins þrá
vorsins þrá
í meinum.


 

Flugnablóm

 

Hugur minn er hverfull eins og flugur,

þær kvikna undir sól að sjá
og sækja óspart í blá-
klukkur og angan
af öðrum blómum
en slokkna eins og ljós ef vindur
gnauðar í gömlum strá-
um

og innantómum
flugnahnöppum.

 


Samhengi

 

Hvort er blákolla
varablóm
eða stokkönd?

Það fer eftir samhenginu.


 

Barna-þrælkun

 

Viðbrögð Craigs
við barnaþrælkun,
þessa tólf ára kanadíska
drengs, er engin vandlæting
eða undantekning
að þau lýsa því
hvað það snertir
sem ertir
viðkvæma skynjun,

þau eru e.k. synjun

og hann leggur sig í líma
líkt og Blake í kvæðinu
um barnasótarana
í Lundúnum á sínum
tíma.


 

Grunur

Blóðberg er grunur hrauns um haustið
eins og herrann kæmi og segði: Naustið
skip heiðríkjunnar.


 

Sársauki

 

Haustvatnið
bólgnar

 

fer naustkaldur
vindur
að sængmjúku hafi.


 

Daður

 

Ef ég væri yngri
sagði járnsmiðurinn
gengi ég á eftir þér
með grasið í skónum,

þá væri það orðið að sinu
sagði hún.


 

Keppni

 

Marklaust skot
við markið,

ja-hérna!


 

Og æðurin fer

Nú æða allir
með Fagranesinu
út í Æðey
að kveikja júníeldana.

Það er jónsmessa.


 

Piparmey

Hattlaus og hálfáttræð
getur eigandi
hattabúðarinnar
farið í splitt,

hún hefur aldrei gifzt.


 

Endalok hunangsflugunnar

 

Hunangsflugan finnur þetta
fagra sumarblóm
en deyr svo eins og aðrar flugur
inní þetta tóm.

Það er eins og ilmur þessa
undarlega blóms
sé ævinlega undanfari
þessa endanlega dóms.


 

Og tíminn og vatnið
Renna veglaust til þurrðar
Inn í vitund mín sjálfs
Stein

Nú daprast augu mín
því degi hallar
að dularfullu kvöldi
þessa langa dags
og eilíf þögn
úr vestanvindi kallar
og veröld mín
er helför sólarlags,

ég stend þar einn
og strýk með augum mínum
það stöðuvatn
sem tíminn helgar sér
og nóttin ætlar
næturhimni sínum

en næsti dagur
nýjum vindum fer
sem morgunhvítum
mildum fingrum gári
það kyrra vatn
sem ýfist eins og pári
á ónýtt blað
sú nótt sem fylgir þér

þá opnast þessi veröld
eins og vakni
vorið þitt og kveiki
sól við ský,

en þá er eins og jörðin sjálf
hún sakni
þess sumarlangt
að vorið deyr sem mý

og augu þín þau eldast
eins og gengur
og ævikvöldið dugar ekki lengur,

samt rís þín jörð
við rauðan eld á ný


Í dimmum helli

 

Nóttlaus er veröld köngurlónna
nóttlaus er dauði flugnanna,

hugsanir þínar flugur
í dimmum helli.


 

Júníbirta

Í sólskinsgulum eldi brýnir flugan fætur sína
og fálmar sig að hunangsmjúkum ilmi þessa dags,
hún nýtur þess að nóttlaust hverfur landið
að næsta degi og það án sólarlags
en köngurlóin leitar skjóls í dimmum helli
og liggur þar við netdrjúgan spuna sinn,
hún spinnur þráð við þögult aftanskinið
og það er einnig nóttlaus skuggi minn

en landið rís úr ljósum blæ við hafið
og leitar þess sem gleður vökul augu þín,
þau fljúga eins og fugl að lyngi vöxnu hrauni
þar sem flugan dregur hunangsilm til sín
því nú er júnínóttin langur dagur
og nýtur þess án kvölds og sólarlags
en augu mín sem vængblá vænting fylli
þá veröld sína gleði næsta dags,

hann blasir við þér eins og eilíf sólskinsbirta
og allt vex grænt í sporum þessa lands
en holtasóley glitrandi bros í blænum
og bregður nýjum lit á gulnuð fótspor hans.


 

Samtal

 

Það er sóley
í fótspori mínu
sagði hún
og rétti honum
sólhvíta hönd

rétti honum
fallegan vönd
úr marglitum blómum

en hann sagði , Augu mín
segja allt sem bærist
innra með mér ,

að ástfangin jörðin
er blómið sem vex
eins og vornótt
að eilífum degi

og brosir við þér.


 

Jörð

 

Tréð

festir holdgranna
fingur
í heimkynni
bjöllunnar


 

Vatn þitt og minning

 

Þegar öndin verpir við óðal sitt
og enginn minkur í nánd
og fjallið kviknar við heiðan himin sinn
og hvítnar við lygna strönd
og víðihrísla vex við nafnið þitt
og vængjuð sól fer í hönd

þá finn ég þinn lófa við lófa minn
á leið til endurfundar
við liðna tíð sem leitar á
þann ljósa dag sem geymir víst
þá einu minning einnar stundar
sem aldrei fölnar líkt og strá
og gleymist okkur allra sízt

því þessi minning mild og hlý
er óðal mitt ef annað bregzt

hún er sem vor og vængjuð sól
á vinalegum grænum kjól
svo undarleg og ávallt ný

og þegar kul að kvöldi leggst
á kyrrlátt vatn sem gárar augu mín
þá veit ég að hún vitjar þín
og vatnsins, þessi minning.


Jónsmessa

 

Vestursólin
kveikir eld
á vatninu

augu mín álfar
og dansa
kringum bálið.


 

Á Hengli

 

1.
Forvitin
hlusta augu þín
á gíga
og gráblátt hraun

hlusta á lóu-
kvakið
við löngu slokknaða
elda.

2.
Fjallsgígurinn
moldfylltar
urðir
í gömlum
endajaxli.

Og ég spyr
sjálfan mig, Er
þá tíminn
gamall
tannlæknir?


 

Í Vatns-víkinni 1941

 

Flöktir
á tjaldi
gamalla minninga

dagur við deyjandi
sól

reyni að festa
flöktandi skugga
við fallvaltan
tíma

og sól.


 

Í Grafningi

 

Lynggrónar
kvaka grjót-
skriður
undir berglúnum
klettum

renna fram
eins og þornaðir
stórgrýttir
lækir.


 

Útsaumur

Móinn grær upp
hægt

þessi krosssaumur
vorsins.


 

Sól-
lestar-
ferð

 

Túngulur fífill

taglhnýtingur
biðukollunnar.


 

Áliðið

 

Furunála-
dofi,

það er haust.


Við Helluvatn

 

Slýlyktin af vatninu
vísar veginn
að minningu um ykkur
sem voruð eins og klettar
í landslaginu
þar sem silungurinn vakir
með kvöldflugunni,

en nú flöktandi skuggar
í gáruðum
sólríkum huga,

það var áður en minkurinn
nam lyngvaxið
landið umhverfis vatnið
og lúpínan fór næsta nágrenni
bláum græðandi eldi,

og sólin sezt eins og gömul
minning
þar sem vatnið lyftir sér
til flugs
undir álfthvítum sólvængjum

og mýið flögrar í tómu rúmi
við brosandi andlit okkar

og við tíndum saman
blóm
og slódrógum gljáandi
fiskinn
sem vitjaði flugunnar
úr myrku djúpi
sinna óræðu
heimkynna,

og jónsmessunóttin
leggur síðustu hönd
á þennan fallega
endalausa dag

en landslagið
ber þess enn vitni
að þið voruð hér eitt sinn

á ferð,

trén ganga hljóðlátlega
inn í kvöldkyrrðina
við gránandi hraunið.


 

Eldmessa

 

Húðsterkt
hverfur hraunið
undir lyng og mosa

eins og minning
inní ilm
af gleymsku.


 

Ættjarðar-kvæði

 

Það er íslenzkt veður
í sólríku
hjarta þínu
og ég anda að mér
sjávarlyktinni,

mávurinn
í hjarta þínu.


 

Kvöld við vatnið

 

Svanurinn teygir úr sér
og sezt á kvöld-
sólina.


 

Haustið er hugmynd um dauðann

 

Nú vorar enn, þín vorsól er
sem vængjað blik í fylgd með þér.

Og það er eins og augu þín
eitt andartak við fótspor mín,

þau eru blóm sem bærast við
minn blíða sumarvatnanið.

En síðar meir við sólarfall
þegar sumardagurinn fer hall-

oka eins og nóttlaus nótt
og næturblik sem að er sótt,

þá deyja einnig augu þín
og ekkert blóm við fótspor mín.


 

Við Bugðu

 

Fífillinn
breiðir úr sér
eins og frambjóðandi

en geldingahnappurinn
lætur sér fátt um finnast

sóleyjan brosir
hnarreist
við biðukolluna.


 

Heiðlóu-kvæði við Elliðaár

 

Áin niðar hvísl af heiðum,
hljóður fer
hvítur blær að hjarta þínu
með heiðlóu í fylgd með sér.

Legg við hlustir, lóan syngur
lögin þín,
það er eins og Ísland kveði
ástaljóð við blómin sín.

Syngdu lóa, syngdu meira
syngdu þitt
alþjóðlega ævintýri
inní sumarkvakið mitt.

Þá mun vorið vitja okkar
og vorið er
undraveröld eins og sólin
sé ævinlega í fylgd með þér.

Syngur lóa, syngur einnig
sólin þín,
það er eins og Ísland fari
ævintýri um blómin sín.


 

Við Úlfarsfell

 

Álút ganga
trén
upp hlíðina

með fjall
í fangið.


 

Meðalfell

 

Skessan
horfir til himins

leggur við hlustir

grænt hárið
flæðir niður háls
og bak

nýfædd leika
lömbin sér
í hárinu

fugl syngur
við klettfast
hlustandi eyra.


Tanngarðs-ljóð

 

Þetta er fantur, sagði
konan,
hann kom og sótti
tennurnar.

Hver?

Nú, tannlæknirinn, hann
hringdi og sagði, Þú hefur
ekki borgað, sagði hann
í símann, Nei, sagði ég, en
ég kem með aurana
strax og ég hef fengið
vinninginn sem Lauga
spákona lofaði mér.

Ég kem og sæki
tennurnar, sagði
hann.

Síðan hef ég verið
tannlaus, en það er
bót í máli
að það vantar
á hann vísifingur
hægri handar.

Hann mátti þakka fyrir
að halda hendinni, þessi
skíthæll!!

En fingurinn féll
fyrir eigin
vopni.


Við Elliðaár-stífluna

 

Tuttugu og níu laxar
í rennunni

synda hægt
inn í hlustandi
augu

hrökkva undan
þegar svartur
skuggi
strýkur dökk-
bláa uggana
og hönd mín
fer ána
vinalegri hlýju

gárar
gagnsætt vatnið
eins og korngult
engi

fer sárfætt golan
mjúka strengi
af heiðum
eins og augu strjúki
brennheita
bárujárnskviku
undir hvítri glóð
á himni

tuttugu
og níu laxar
í slýlausu vatni
leita skjóls
í steinadals-
hyljum
augna minna.


Spurning

 

Ástin? spyrðu.

Hún er aðdráttaraflið,
togkrafturinn.

Ómótstæðileg
eins og dauðinn.

Svarthol
hins óþekkta.


Augnablik

 

Eilífðin
opnar augu

horfir á þig
eins og fugl

horfir

eins og eitt
auga fugls.


Af samvizkunni

 

Syndin? segirðu.

Hún er blá-
berjadrit
sem á
uppruna sinn
í sól og lyngi.


            23. júní – sunnudagur

Jeltsín vann fyrri umferðina, það lofar góðu um framtíðina. Kommúnistar þar eystra eru líklega heldur óhressir, það er gott. Hér heima eru vinstri menn aftur á móti heldur ánægðir með ÓRG á leið til Bessastaða. En þó veit ég það ekki. Held ekki hann sé sérstaklega vinsæll af þeim. Og margir þeirra hafa hallað sér að Guðrúnu Agnarsdóttur og Guðrúnu Pétursdóttur. Fæstir að Pétri Kr. Hafstein. En Indriði G. segir að vinstri menn „eigi” forsetaembættið. Það eru líklega orð að sönnu. Vinstra fólk – og þá á ég einnig við framsóknarmenn – úti á landsbyggðinni ræður úrslitum um það. Ég þekki engan sem kallar fram jafn neikvæð viðbrögð og ÓRG. Það verða margir óglaðir þegar hann fer á Bessastaði. Mikil vonbrigði margra. Mér er til efs að tíminn eigi eftir að breyta því. Forsetaembættið er ekkert sameiningartákn, það er þjóðlygi sem við þurfum að búa við. Þeim sem mislíkar halda sig til hlés, það er allt og sumt. Svo er reynt að breiða yfir þetta úfna yfirborð með konunglegum stellingum og vemmilegri – oft væminni – persónudýrkun. Embættið er allt að því heilagt. Og heilagur mannaþefur er guðlasti líkastur. Það hafa margir orðið fyrir vonbrigðum eftir forsetakosningar og ég tel að þessi vonbrigði hafi loðað við forsetana hvað sem hver segir. Manndýrkunin hefur verið tilraun til að drepa þessum vonbrigðum á dreif. Ópólitískur tákngervingur sameiningar á helzt að vera sameiningartákn, það gegnir öðru máli um pólitíska, valdamikla forseta sem lúta lögmálum stjórnmálamannsins og eru ekkert endilega neitt sameiningartákn. Þeir eru einfaldlega valdamenn í valdabaráttu. En íslenzkur forseti þyrfti helzt að vera eins konar persónugervingur arfleifðar okkar. Þess vegna vildum við Bjarni Benediktsson fá Halldór Laxness í forsetaembættið á sínum tíma; þrátt fyrir Gerska ævintýrið(!)

Held ekki það séu örlög þegar Ólafur Ragnar verður kosinn á Bessastaði, heldur einskonar andörlög; þ.e. viðbrögð við þjóðfélagslegri blekkingu(!)

Bassi minn.

Við urðum býsna gamlir, góði vinur
- og getum ekki kvartað yfir neinu
þótt nú sé kominn tími til að fara
að tygja sig og kveðja og leggja í'ann.
Við lyftum glasi, syngjum nokkra sálma
með Sauðárkrók í huga og gamla daga
og tökum þessu; og þessi tár sem falla
og það eru gamlar minningar sem kalla.

En elskulegi vinur, tómlegt verður
í veröldinni þegar ekki heyrist
lengur þessi hjartanlegi hlátur
og heimtufrekjan, sem að minnir á
kryddað ber við botn í stórri tunnu
barmafullri af trygglyndi og ást.
Herrann veit, að ég þarf ekki að kvarta
að eiga svona vin í mínu hjarta.
(Páll Axelsson.)

Sá þetta ágæta minningarljóð um Örn Eiríksson í Morgunblaðinu í dag. Það er vel gert. Það er eftir Pál Axelsson sem ég hef ekki séð áratugum saman, eða frá því við vorum að fundera um skáldskap upp úr 1951 – eða '52. Líkaði alltaf vel við Pál. Hann er einkar vel að sér í enskum skáldskap og sjálfur var hann eins og enskur lord af betra taginu! Hann fluttist víst til Kaupmannahafnar. Og nú kveður hann vin sinn og frænda með þessum hætti. Það er dýrmætt að geta kvatt eins og lord í þessum hversdagslega heimi meðalmennsku og allragagns sem stundum er kennt við samtíð og tízku.

En svona ljóð eru víst ekki í tízku lengur. Jafnvel ungu skáldin kunna sum hver ekki íslenzkar bragreglur. En það eru til músíkantar sem spila eftir eyranu. Og það gerir spóinn.

Hef verið að yrkja lítil ljóð sem eiga helzt að vera myndhvörf, tilfærslur eða hálfmyndir. Og svo önnur sem eru tilraunir með rím í eðlilegu talmáli. Fjalla öll um íslenzku júníbirtuna, með einhverjum hætti. KK. segir að það sé ljómi yfir þessum kvæðum. Hann svaraði þeim með nýju kvæði sem ég ætla að fjalla um í næsta Helgispjalli.

Vigdís forseti sagði eftir tónleika Bjarkar í fyrrakvöld að hún væri uppáhaldstónlistarmaðurinn sinn. Sem sagt, Jón Leifs er kominn úr tízku áður en hann kemst í tízku – og hvað þá um hina?!!


 

Við verðum að nálgast ljóð Emily Dickinsons eins og lækjalontur sem leynast í hyl, segir Roger Shattuck í The New York Review, 20. júní sl. Það eru orð að sönnu. Dickinson orti eitt ljóð á dag í heilt ár, svo þetta ósamfellda dútl manns er eins og hver önnur afþreying í samanburði við það. Steinn orti á kvöldgöngu, það var einskonar undirbúningur undir háttinn(!)

Skrift Dickinsons er fínleg eins og fuglsspor á pappír. Nóttin párar slík spor á vatnið, stendur í kvæði sem ég orti í dag – án þess hafa þessa skrift skáldkonunnar í huga. En párið getur nú verið ágæt skírskotun í hana því ekkert skáld hefur verið í nánari snertingu við náttúruna sem guðlega opinberun – nema þá Jónas. Hún notaði hugsun og hugur í sömu merkingu og „kvæði mín”. Það skil ég vel. Hún segist í sínu fyrsta bréfi til óþekkts mentors síns, Th. Wentworths Higginsons, að hún eigi bækur Keats og Browning-hjónanna. Og þegar hún var lítil stúlka lærði hún ódauðleika, að eigin sögn(!) Hæðir, sólsetur og hundur jafnstór og hún sjálf eru félagar hennar. Þau segja ekki frá(!) Faðir hennar gaf henni hundinn. „Og hávaðinn við tjörnina um hádegi er meiri en í píanóinu mínu”. Hún telur sig ekki endilega trúaða eins og foreldra hennar og systkin, en heldur þó í eilífðina gegnum þykkt og þunnt.

Ég sé af þessari grein að Dickinson hefur ekki verið eins einræn og einangruð og ég hef haldið. Hún verður augsýnilega ástfangin tvisvar sinnum, einu sinni í æsku og svo síðar á ævinni, en sá maður var tæpum tuttugu árum eldri en hún og nýorðinn ekkjumaður; vinur föður hennar og þekktur dómari. Ástin spyr ekki um aldur. Hún er aldurslaus eins og tilfinningin.

Annars vöknuðum við illa í morgun því Matthías nafni minn og sonarsonur sem er sumarmaður í lögreglunni var særður í andliti á vaktinni í nótt. Ungur fíkill sparkaði í hann og nefbraut hann. Ungir sumarmenn eru berskjaldaðir en ástandið versnar. Það hefði getað farið ver.


28. júní – föstudagur

Höfum haft nokkur óþægindi vegna neikvæðra auglýsinga í Morgunblaðinu um Ólaf Ragnar; um fjörutíu manns hafa sagt blaðinu upp. Fólk er ekki vant slíkum auglýsingum þótt þær tíðkist erlendis og viðbrögð þess byggjast ekki á rökum heldur tilfinningum. Þeir sem bregðast ókvæða við eru, að ég held, flestir stuðningsmenn Ólafs Ragnars en þó eru einhverjir aðrir sem kunna ekki við þessa áróðursaðferð og hafa fengið samúð með Ólafi Ragnari, jafnvel einhverjir sem hafa ákveðið að kjósa hann þótt þeir hafi ætlað að kjósa annan frambjóðanda áður. Mennirnir á bak við þessar auglýsingar eru Sigurður gamli Helgason fyrrum forstjóri Flugleiða, Ómar í Þýzk-íslenzka og Björgúlfur í Hafskipum. Við vildum ekki birta auglýsingarnar nema að því tilskildu að við gætum sagt frá því í frétt hverjir að þeim stæðu. Það var samþykkt. Mér skilst þeir hafi myndað einhver samtök gegn Ólafi. Og nú hafa þeir einnig auglýst í Tímanum. Svo hefur einhver maður sem ég þekki ekki, Árni Árnason, staðið að einhverjum samtökum sem kalla sig Í Guðanna bænum... og hafa að mig minnir birt eina auglýsingu í blaðinu. Ýmsir telja að við hefðum átt að hafna þessum auglýsingum. Ég átti samtal við Rás 2 í dag og benti á að við hefðum birt greinar í Morgunblaðinu með miklu harðari gagnrýni á forsetaframbjóðendur heldur en þarna væri um að ræða í auglýsingunum. Ég sé ekki betur en þar séu einungis gallharðar, sögulegar staðreyndir. En kannski er forsetaembættið svo fínt að ekki megi rifja slíkt upp í Blaði allra landsmanna. Ég benti t.a.m. á í útvarpsþættinum að við hefðum birt harða grein um slappt tungutak forsetaframbjóðenda, einkum Guðrúnar Agnarsdóttur, undir fyrirsögninni Bibba á Bessastaði en Bibba þessi er grínpersóna úr útvarpsspaugi sem hét Bibba á Brávallagötunni, ef ég man rétt. Síkjaftandi kaffikerling og sérfræðingur í málleysum! Þá höfum við einnig birt grein eftir sjálfstæðismann með harðri gagnrýni á „heimsku” Péturs Kr. Hafstein fyrir árásir hans á Davíð Oddsson á sínum tíma. Þannig mætti lengi telja. Enginn hefur gert athugasemdir við þessar greinar. En svo þegar auglýsingarnar koma verður allt vitlaust. Sumir eru að vísu harla ánægðir með að „sannleikurinn um Ólaf Ragnar komi loksins í ljós”, en flestir sem hafa samband við okkur eru hneykslaðir. Ég sagði í útvarpsþættinum að Morgunblaðið væri eins konar þjóðfélagstorg þar sem menn hefðu leyfi til að viðra skoðanir ef þær brytu ekki í bága við meiðyrðalöggjöfina. Þótt við Styrmir og Hallgrímur B. Geirsson séum á engan hátt ánægðir með þessar auglýsingar, þvert á móti, þá situr blaðið uppi með þær af þeirri einföldu ástæðu að þær eru ekki refsiverðar. Það má svo tala um hvort þær ættu að heyra undir velsæmisregluna, en ég tel það ekki af þeirri einföldu ástæðu að við birtum margvíslegar auglýsingar, t.a.m. klámfengnar frá kvikmyndahúsunum, sem eru á mörkum þessa sama velsæmis. Ég get vel tekið undir það með Ólafi Ragnari Grímssyni að það sé óþolandi að forstjórar sem vaða í peningum, eins og hann komst að orði, skuli hafa tækifæri til að semja neikvæðar auglýsingar um hann eða einhverja aðra. En ég er alls ekki sammála ÓRG um það að með þessu sé vegið að lýðræðinu í landinu. Ef með þessu væri vegið að lýðræðinu þá væri vegið nákvæmlega jafn mikið að þessu blessaða lýðræði með því að birta gagnrýnar greinar á forsetaframbjóðendur. Listamenn verða að hlíta því að fjölmiðlar hafa á sínum vegum gagnrýnendur sem hafa það hlutverk að birta um þá neikvæða umfjöllun ef svo ber undir. Slík umfjöllun getur verið listamanni eða rithöfundi mjög þung í skauti. Hún er í raun og veru ekkert annað en neikvæð auglýsing. Mér leið svo sem ekkert vel þegar gagnrýnandi Morgunblaðsins var að hakka í sig síðasta leikrit Jónasar Árnasonar, sem kominn er vel á áttræðisaldur, og hefði átt að fá að vera í friði kominn á þennan aldur. En öllum fannst sjálfsagt að birta þessa gagnrýni. Jónas Árnason svaraði henni jafnvel sjálfur með góðlátlegri kímni í útvarpinu. Samt var þessi gagnrýni eins konar nagli í líkkistu verksins. Ef verkið hefði fengið góða umfjöllun þá hefðu einhver samtök vel getað sent Morgunblaðinu textaauglýsingu þar sem að verkinu væri vegið. Ekki hefðum við getað neitað að birta slíka auglýsingu ef hún væri innan velsæmis- og meiðyrðalöggjafar. En hitt er svo annað mál að fólk þarf ekki að borga auglýsingar undir slíka neikvæða gagnrýni; eða slík svör. Það getur einfaldlega sent blaðinu grein þar sem umsögn leikgagnrýnanda Morgunblaðsins er mótmælt. Sigurður Helgason og co. hefðu vel getað fengið auglýsingarnar, sem nú eru svo umdeildar, sem aðsendar greinar inn í Morgunblaðið. Við hefðum ekki hafnað þeim, ekki frekar en ýmsu því efni öðru sem við höfum birt fyrir þessar kosningar. En þeir hafa fengið miklu meiri athygli með því að birta efnið sem auglýsingar og sjálfir telja þeir sig hafa haft erindi sem erfiði eins og Sigurður Helgason fullyrti í morgun í samtali við Styrmi. En við erum þess fullvissir að þessar auglýsingar hafa haft þveröfug áhrif en til var ætlazt. Þær hafa aukið ÓRG samúð, einmitt á þeim tíma þegar honum reið allra mest á, þ.e. þegar fylgið var byrjað að hrynja af honum. Og í síðustu könnun sem við birtum í dag er hann að endurheimta fylgi sitt. Ég veit ekki hvort það er einungis þessum auglýsingum að kenna, en þær eiga áreiðanlega einhvern þátt í því.

Hallgrímur Geirsson hefur þurft að ræða við einhverja sem hafa viljað segja Morgunblaðinu upp vegna þessara auglýsinga. Hann skilur nú betur en áður það starf sem ritstjórar hafa þurft að inna af hendi öðrum þræði. Ég sagði við hann í morgun, sem senior og allt að því heilagur fílabeinsritstjóri, að ég yrði að hrósa honum fyrir hversu vel hann hefði gengið fram í þessum símtölum. Hann sagðist þakka skáldinu og ritstjóranum fyrir en bætti því við að nú gerði hann sér betur grein fyrir því en áður hvers konar starf þetta væri. Og ég er að hugsa um að fara fram á kauphækkun! bætti hann við. Ég hafði minnt hann á að ritstjórar blaðsins væru ekki ofborgaðir miðað við þann hernað sem þeir þyrftu oft á tíðum að eiga í við umhverfi sitt.

Styrmir skrifaði ágætan leiðara í Morgunblaðið í morgun um þetta auglýsingastríð sem á rætur að rekja til þess að fyrrnefndir menn eiga um sárt að binda vegna Ólafs Ragnars á sínum tíma. Hann gerði atlögu á þingi að Flugleiðum undir stjórn Sigurðar Helgasonar, svo og Hafskipum eins og Ragnar Kjartansson gerir grein fyrir í mjög persónulegum og athyglisverðum pistli sem við birtum í Morgunblaðinu um daginn. Einhver sagðist vilja segja Morgunblaðinu upp vegna þess að hann teldi ekki að gamlir „fjárglæfrahundar” ættu að hafa tækifæri til að nota peningana sína í stríðinu við gamlan þingmann.

Í gærkvöldi var fjallað um þetta mál í Sjónvarpinu og í morgun í Alþýðublaðinu og þar er þetta haft eftir Styrmi: „Þetta er óskaplega hlægilegt. Það hefur enginn krísufundur verið haldinn í þessu húsi í dag. Þetta er tóm vitleysa. Þú getur alveg sofið rólegur fyrir Morgunblaðsins hönd í þeim efnum,” sagði Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins í samtali við Alþýðublaðið í gær.” Bornar voru undir hann staðhæfingar þess efnis að margir hefðu sagt blaðinu upp og haldinn hefði verið krísufundur í Morgunblaðshöllinni þess vegna. Og enn er haft eftir Styrmi: „Þessi tegund auglýsinga er tiltölulega ný af nálinni. Þegar upp koma álitamál í sambandi við efni auglýsingar þá fjöllum við ritstjórar blaðsins um það ásamt framkvæmdastjóra blaðsins. Í þessu tilfelli er óskað eftir birtingu auglýsinga undir nöfnum samtaka. Þessi samtök eru hins vegar ekki þjóðinni kunn. Þess vegna gerðum við það að forsendu fyrir birtingu auglýsinganna að við gætum jafnframt sagt okkar lesendum hverjir standa að þessum samtökum. Þess vegna birtum við frétt um það á blaðsíðu 2 í blaðinu.”

Og í þessari forsíðufrétt Alþýðublaðsins segir ennfremur svo: „Hallgrímur Geirsson framkvæmdastjóri Morgunblaðsins segir ritstjóra blaðsins, Matthías Johannessen og Styrmi Gunnarsson, ábyrgðarmenn blaðsins og að þeir hafi tekið ákvörðun um birtingu auglýsinganna. Hann kvaðst ekki vita til þess að fólk hefði í stórum stíl sagt upp blaðinu vegna þessa. „Það er algjört trúnaðarmál hvaða auglýsingar bíða birtingar. Það er aldrei gefið upp,” sagði Hallgrímur aðspurður hvort fleiri auglýsingar af þessu tagi væru væntanlegar í Morgunblaðinu.”

Það er eitthvað verið að hneykslast á Morgunblaðinu í forystugrein í þessu sama Alþýðublaði. Það er í raun og veru mjög hlægilegt. Þar segir: „Það vekur furðu að ritstjórar blaðsins, sem jafnframt eru ábyrgðarmenn, skyldu hafa samþykkt birtingu auglýsinganna, nú þarf ekki að kalla til sérfræðinga í sálarlífi Morgunblaðsins til að kveða upp úr með að Ólafur Ragnar er blaðinu lítt að skapi en auglýsingarnar í gær munu fremur afla honum samúðarfylgis en taka af honum atkvæði”. Átti samúð eða andúð Morgunblaðsins að ráða ferðinni? Ætli menn eigi við það þegar talað er um frjálsa blaðamennsku? Eða lýðræði? Kýrhausinn kemur manni ævinlega á óvart og það er aldrei að vita úr hvaða átt hann birtist!

Guðmundur Andri Thorsson skrifar Skoðanir sínar í Alþýðublaðið í dag og varpar því fram hvort ekki sé rétt að Hannes Hólmsteinn eigi í þremur ritdeilum í Alþýðublaðinu um þessar mundir. Þær fjalli allar um Ólaf Ragnar. Það eru margir sem hamast nú við það að koma Ólafi Ragnari Grímssyni á Bessastaði!


29. júní – laugardagur

Kvöld

Það fór eins og við var búizt. Ólafur Ragnar kosinn forseti. Íslendingar virðast trúa á „pólitíska kraftaverkamenn”!; þ.e.a.s. minnihluti þeirra. Ólafur Ragnar fékk betri kosningu en Vigdís á sínum tíma, en hann er í minnihlutaflokknum eins og hún. Ég veit raunar ekki hver tapaði þessum kosningum. Tíminn mun leiða það í ljós. En mér er til efs að Ólafur Ragnar Grímsson eigi eftir að sameina þær þjóðir sem búa í þessu landi. Við erum í raun og veru ekki ein þjóð. Við höfum ekki breytzt frá því land var numið. Björnstjerne Björnson talaði mikið um það á sínum tíma að Norðmenn hefðu lengstum farið á mis við þá samfélagskennd sem breytir einstaklingum í þjóð. Þeir hafi farið til Íslands og út um allar jarðir vegna þess að þeir voru ekki þjóð heldur hópur einstaklinga sem hélt saman. Við höfum þannig ekkert breytzt! Hann segir að Norðmenn hafi ávallt verið meiri einstaklingar en samfélagsverur. Norðmenn breyttust en við ekki. Við erum ennþá tvær þjóðir, eða þrjár eða fleiri. En umfram allt erum við einstaklingar. Norðmenn börðust við Norðmenn segir Björnson, Svíar og Danir börðust við útlendinga. Íslendingar hafa aldrei barizt við útlendinga, ekki einu sinni fyrr á öldum. Á Sturlungaöld börðust Íslendingar við Íslendinga og notuðu útlendan konung í þessu bardúsi sínu. Noregur var, segir Björnson, valinn staður fyrir jarla, hersa og byskupa, kjörinn vettvangur fyrir einstaklinga sem voru í konungaleik. Slíkur vettvangur er ákjósanlegur fyrir skáld. Kannski er þetta ástæðan fyrir því að við höfum eignazt mikil skáld en litla samheldni sem þjóð. Við gátum ekki einu sinni sameinazt í baráttunni við Dani og börðumst hatrammlegar hver gegn öðrum en gegn danskri yfirstjórn. Þannig var það 1904, 1908 og jafnvel 1944 þegar tvær þjóðir bjuggu í landinu, önnur vildi svokallaðan lögskilnað við Dani, hin vildi hraðskilnað og varð ofan á. Það var einungis 1918 sem þjóðin gat sameinazt um fullveldi sitt. Þá var Jóhannes bæjarfógeti, afi minn, formaður Sambandslaganefndar og Jón Magnússon forsætisráðherra, einn merkasti stjórnmálamaður í íslenzkri sögu fyrr og síðar. Í grein sem norska skáldið Gunnar Heiberg hefur skrifað um Björnson og þessa afstöðu hans er þess getið að það séu kannski örlög Norðmanna að vera saman settir úr einstaklingum án þess nokkurn tíma að geta orðið samfélagshópur eða þjóð. Mér er nær að halda að það hafi ekki gerzt fyrr en þeir fengu sjálfstæðið snemma á þessari öld og þá einkum og sér í lagi þegar þeir þurftu að berjast við þýzka nazista. Þá stóðu þeir nokkurn veginn saman, og þó. Helzta skáld þeirra, mesta skáld þeirra, var í forystu fyrir þeim sem tóku Þjóðverjum fegins hendi. Og Norðmaðurinn Kvisling sló tóninn þegar einkenna þurfti föðurlandssvikara um allan heim.
Var það tilviljun?
Ég held ekki að Björnson hefði orðið neitt hissa á þessari einstaklingsbundnu afstöðu til þess hættulega umhverfis sem einkenndi stríðsárin. En þá loks varð einn kóngur í landi margra smákónga. Og eftir stríð hafa Norðmenn þjappast að baki norskum kóngum. Þeir eru þó áfram þessi sundurleiti hópur einstaklinga en hafa það fram yfir okkur að trúa á heilaga köllun konungsins. Við höfum verið að reyna að þjappa okkur að baki ósköp hversdagslegra forseta, breyta þeim í eins konar heilagleika og þykjast vera óskaplega viðkvæm fyrir forsetaembættinu. En það vantar, að mínu áliti, sannfæringuna. Konungar geta breytt hversdagslegu, mannlegu umhverfi í heilaga köllun, en það geta forsetar ekki. Þeir hafa einstaklinga með sér og móti. Þeir þurfa að stjórna mörgum þjóðum eins og stjórnmálamenn. Þeir eiga jafnmarga andstæðinga og samherja. Ólafur Ragnar Grímsson á þó fleiri andstæðinga en samherja. Það gæti orðið dýrkeypt spaug, ég veit það ekki. En það er sannfæringarlítið þjóðfélag sem kaus forseta í dag og mér er til efs að það verði unnt að bræða saman eina þjóð úr þessum mörgu þjóðum sem hafa látið ljós sitt skína undan farið; bæði í Morgunblaðinu og annars staðar. Það er mikill og bitur sársauki eftir þessar kosningar. Tíminn er að vísu góður læknir en það á eftir að koma í ljós hvort honum tekst að breyta forsetaembætti Íslands í þann skjólgóða vermireit heilagleikans sem krafizt var í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur. Embætti getur aldrei verið heilagt í mínum huga. Það er t.a.m. mannaþefur af byskupsembættinu og það er pólitísk svitalykt af forsetaembættinu. Landið er samt fagurt og frítt þótt fólkið sé helvíti skítt! En ef einstaklingar og smákóngar eru forsenda mikilla bókmennta, mikilla lista, andlegra afreka, þá er íslenzkt umhverfi ákjósanlegri vettvangur fyrir slíka sköpun en nokkru sinni fyrr eða síðar. Samfélagslist er einhvers konar handavinna en list einstaklingsins hefur ævinlega borið uppi þau verðmæti sem skipt hafa einhverju máli í þeim hildarleik sem við köllum sögu mannsins. Það er þessi ræktandi list fyrir listina, fyrir manninn og hugsun hans og þessi raunvísindalega snilld sem hefur einkennt þessa voðalegu öld okkar sem segir allt um dýrð mannsins í dýrslegu umhverfi frumskógarins.

Og ég spyr sjálfan mig, Skipta svona kosningar einhverju máli í raun og veru? Ég held ekki, því þær segja ekki einu sinni sannleikann um fólkið í landinu, þessa tvístruðu hópa einstaklinga sem eru síknt og heilagt að reyna að verða að þjóð.


30. júní – sunnudagur

Gott að þessar fjandans forsetakosningar eru að baki. Ólafur Ragnar bað stuðningsmenn sína að rétta okkur hjálparhönd sem studdum hann ekki. Ég hefði ekki haldið að forsetakosningar væru svo persónulegar að menn þyrftu að takast í hendur að þeim loknum. Ég þarf ekki að taka í höndina á neinum, ég er ekki ósáttur við nokkurn mann. En þótt fylgismenn Ólafs Ragnars tækju í höndina á andstæðingum hans er ég ekkert viss um að menn hlaupi upp til handa og fóta til þess að gleyma allri pólitískri fortíð hans og dægurþrasinu eins og regnskúr kæmi á mývarginn. Raddir andstæðinganna munu ekki þagna með þeim hætti. Það tekur langan tíma fyrir meirihluta þjóðarinnar að aðlagast þessum nýja forseta þótt hann verði fljótur að aðlagast þjóðinni. Meirihluti þjóðarinnar kaus gegn Ólafi Ragnari. Meirihlutinn hefur áður kosið gegn íslenzkum forseta. Það hefur blessazt á yfirborðinu. Vonandi blessast það einnig nú án þess til vandræða horfi. Það var ágætt samtal við Davíð Oddsson í nótt. Hann komst vel frá því. En hann sagði að það væri hræsni af sér ef hann fullyrti að stærsti flokkur landsins hefði haft einhverja sérstaka ástæðu til að fagna þessum úrslitum. En hann vonaðist þó til að þróunin yrði með þeim hætti. Þó að Davíð mæltist ágætlega og sýndi enn hversu sjóaður stjórnmálamaður hann er, leyndi það sér ekki að hann hlakkar ekkert til að starfa með Ólafi Ragnari. Hann sagði að vísu að hann hefði áður látið þau orð falla að hann vildi ekki starfa í skjóli Ólafs Ragnars. Hann hefði ekki þá verið að tala um hann sem forseta, heldur stuðningsmann ríkisstjórnar hans á alþingi. Auðvitað er eðlismunur á því. Davíð sagðist starfa í skjóli þingsins, hann á aldrei eftir að starfa í skjóli Ólafs Ragnars samkvæmt þingræðisreglunni. Í Morgunblaðinu var í gær frétt þess efnis að forsætisráðuneytið hefði keypt nýtt hús undir forsetaembættið. Skyldi það vera tilviljun?!

Auglýsingarnar í Morgunblaðinu hafa ekki haft nein afgerandi áhrif, líklega lítil sem engin. Það má sjá af því að Ólafur Ragnar Grímsson fær nánast sömu prósentutölu, svo og aðrir frambjóðendur, í utankjörstaðaatkvæðagreiðslunni og á öðrum kjörfundum í landinu. Utankjörstaðaatkvæðagreiðslan hófst löngu fyrir auglýsingaherferð forstjóranna. Fólkið hafði tekið sína ákvörðun fyrir löngu. Það vildi augsýnilega fá reyndan stjórnmálamann þessu sinni og Ólafur Ragnar Grímsson hitti á sína lukkustund, eins og Davíð Oddsson komst að orði. Það var ágætt fyrir hann og þá ekki síður stuðningsmenn hans og þennan persónulega metnað sem maður skilur ekki enda hef ég aldrei gengið upp í forsetum eða forsetaembætti og því síður í neinni persónudýrkun á þeim sem þar hafa setið. Ég hef þvert á móti haft allan fyrirvara á þessari manndýrkun, þessu lítt skilgreinda embætti. Þjóðin kýs í þetta embætti, hún hefur síðasta orðið og við það situr. Því urðu menn einnig að hlíta 1952 en þá voru átökin margfallt hatrammari en nú hefur verið. Þá hafnaði fólkið því að forystumenn stærstu flokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, segðu því fyrir um hvern kjósa skyldi á Bessastaði. Það kaus umdeildan stjórnmálamann eins og nú. Eftir þá hatrömmu sennu gátu menn augsýnilega ekki hugsað sér að kjósa þangað aftur umdeildan stjórnmálamann
og hölluðu sér að frú Vigdísi og Kristjáni Eldjárn. Þar með hófst hið hlutlausa tímabil. Ég átti þá samtöl bæði við Gunnar Thoroddsen og Kristján Eldjárn og birtust þau samdægurs í Morgunblaðinu 26. maí 1968, ef ég man rétt. Þar ræddi ég um viðkvæmasta málið við dr. Kristján, þ.e. Atlantshafsbandalagið og aðild Íslands að því, og ég man ekki betur en þær umræður hnigju í mjög svipaðan farveg og samtölin við andstæðinga Atlantshafsbandalagsins í þessum kosningum, ÓRG og Guðrúnu Agnarsdóttur. Allt eru þetta endurtekningar, gamlar lummur; klisjur. Og sjaldan eða aldrei hef ég heyrt annan eins klisjuvaðal og í kosningabaráttunni þessu sinni. Leikaraskapurinn svo yfirgengilegur að Ólafur Ragnar átti ekki einungis skilið að sigra í kosningunum heldur tel ég að hann væri fullsæmdur að Óskarsverðlaunum! En allt er þetta auðvitað eintómur skrípaleikur og skiptir í raun og veru harla litlu máli þegar upp er staðið.
Landið er fagurt og frítt, það er bjartur sunnudagur úti og vonandi á þjóðin okkar skilið þennan sunnudag og alla bjarta sunnudaga. Þótt ég telji ekki að hún sé endilega neinn sigurvegari í þessum kosningum þá verður hún að lifa í sátt við sjálfa sig og landið sitt og þá ekki síður það friðsamlega umhverfi sem hefur orðið hlutskipti okkar og eins konar guðsgjöf. Pólitísk átök og persónulegur metnaður, jarðbundinn og tímanlegur, breytir því vonandi aldrei.

En hvers vegna var Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, kosinn í forsetakosningum á Íslandi? Flokkur hans hefur aldrei haft meira en tæplega helminginn af því fylgi sem hann hefur nú sjálfur sótt til þjóðarinnar. Það sýnir að hann er ekkert blávatn. Í tveimur kjördæmum, Vestfjörðum og Austurlandi, er hann með hreinan meirihluta. Það sýnir öðrum þræði að kosið er til forsetaembættis samkvæmt pólitískum lögmálum því að framsóknarmenn og vinstri menn eru alls ráðandi í Austurlandskjördæmi, einnig frekir til fjörsins á Vestfjörðum. En þar hefur átthagaástin einnig komið Ólafi til góða. Vestfirðingum hefur augsýnilega runnið blóðið til skyldunnar(!) En þó sýna þessar kosningar fyrst og síðast þá tilhneigingu til upplausnar í pólitísku flokkakerfi landsins að ekki verður um villzt. Menn þykjast hafa leyfi til þess að kjósa af þó nokkru ábyrgðarleysi því að kalda stríðinu er lokið og flokksböndin ekki eins traust og áður. Þannig er augljóst að Ólafur Ragnar hefur fengið mikið þverpólitískt fylgi eins og Ingibjörg Sólrún borgarstjóri benti á í útvarpssamtali í morgun.
En hvað um hina?
Ég tel að Pétur Kr. Hafstein hafi svona nokkurn veginn fengið kjarnann úr Sjálfstæðisflokknum auk einhverra aðskotadýra úr öðrum flokkum. En sá hópur hefur augsýnilega ekki verið stór. Ég heyri að mörgum hefur þótt Pétur vera stirður og hálfliðamótalaus, einkum í sjónvarpi, þótt hann hafi oft komið vel fyrir og alltaf talað skynsamlega. En hann hefur ekki pólitískt eða persónulegt karma til að hræra upp í tilfinningalífi kjósenda. Það hefur Guðrún Agnarsdóttir augsýnilega ekki heldur. Ég hélt satt að segja að hún mundi bæta verulega við sig síðustu daga, en svo hefur ekki orðið. Margir hafa sagt við mig að hún svari aldrei neinum spurningum til fulls, hún fari kringum umræðuefnið eins og köttur í kringum heitan graut, en auk þess sé hún ekki laus við væmni sem virðist fara í margt fólk. Þó hefur mér fundizt hún koma vel fyrir, og þau bæði, Helgi Valdimarsson prófessor og hún. Auk þess hefur hún þann byr með sér að hún er kona. En kannski er það ekki lengur byr? Það skyldi þó ekki vera að hinni raunverulegu kvennabaráttu hafi lokið með þessum kosningum? Nema þetta sé stund milli stríða? Ég þekki eina konu, sem undir öllum venjulegum kringumstæðum hefði átt að kjósa Pétur Kr. Hafstein en kaus nú Ólaf Ragnar vegna þess hvernig hafði verið ráðizt á hann! Það var sem sagt hin móðurlega tilfinning konunnar sem greip frammí fyrir pólitískri rökhyggju. Ég veit líka að það hafði mikil áhrif á Harald son okkar, að í samtali við gamla vinkonu okkar , Valgerði Bjarnadóttur, í síðustu viku, ræðst hún að Davíð Oddssyni og dró það mjög úr áhuga hans á kosningunum. Okkur þótti fráleitt að kosningastjóri Péturs Kr. Hafsteins væri að ráðast á formann Sjálfstæðisflokksins  um svipað leyti og hún er að óska þess sem kosningastjóri að sjálfstæðismenn kjósi Pétur, ekki síður en aðrir.
Ég fann í gær að þetta fór illa í marga,jafnvel gamla vini.Ég er þess fullviss að birting samtalsins var röng tímasetning og háskasamleg fyrir kosningabaráttu Péturs.
Um Ástþór Magnússon hef ég lítið sem ekkert að segja. Hann breytti kosningabaráttunni í notalegan daríófó-farsa.En sú staðreynd að hann fékk á fimmta þúsund atkvæði sýnir auðvitað svart á hvítu að það er ekki hægt að treysta öllu fólki fyrir því sem við köllum lýðræði! Ástþór er áreiðanlega einlægur friðarsinni, hver er það ekki? En ég held það lýsi honum bezt þegar hann sagði í sjónvarpsumræðum að hver maður ætti að leita að Kristi í sjálfum sér. Þetta þótti mér athyglisverð vísbending. Og ég sé ekki betur en dr. Benjamín Eiríksson sé búinn að fá allskæðan keppinaut í kapphlaupinu um Messías!

Mér er sagt að Hrafn Gunnlaugsson sé með strútsegg heima hjá sér í Laugarnesi og reyni að unga því út. Vonandi verður það ekki hlutverk íslenzku þjóðarinnar að liggja á svona eggi til frambúðar í væntanlegri friðarbaráttu!

                En nú er komið að alvöru málsins.Forseti Rússlands verður kosinn eftir fjóra eða fimm daga. Ég sé ekki betur en forsjónin sjálf verði að stjórna þeirri baráttu, heimsins vegna, þótt hún hafi haft lítil afskipti af okkar málum.

Kvöldið

Skrifaði í dag uppkast að forystugrein Morgunblaðsins fyrir þriðjudaginn. Það er ekki einfalt mál. Svavar Gestsson telur víst að kosningarnar sýni að vinstri menn hafi tæplega 70% kjósenda í landinu! Nú er kosning Ólafs Ragnars allt í einu orðin hápólitísk. Hún var það ekki meðan verið var að safna sjálfstæðismönnum og öðrum andkommúnistum að baki Ólafi. Bandaríski draumurinn langþráði hefur rætzt. Rakarasonurinn orðinn forseti! Forsetahjónin nýju eru svo þakklát að ég er gráti næst!

Hef verið að horfa á úrslitakeppnina í Evrópumeistarakeppninni í knattspyrnu milli Tékka og Þjóðverja. Finn að ég held með Tékkum. Þjóðverjar eru stórþjóð en Tékkar eru lítil þjóð, það er ástæðan. Það er samúðin sem ræður ferðinni; tilfinningin.

Þannig ræður tilfinningin einnig miklu í forsetakosningum. Líklega hefur hún meira að segja en pólitísk afstaða. Það skýrir þetta kapphlaup að nokkru.

Við Morgunblaðsmenn höfum ekki tekið afstöðu í þessu kapphlaupi. Við erum orðnir svo frjálsir að við erum háðir frelsinu. Það mundi skaða okkur stórlega ef við tækjum afstöðu. Þannig er frelsið afstætt, eins og allt annað. Kannski ættum við að losa okkur við frelsið, þá gætum við tekið afstöðu!


2. júlí – þriðjudagur

Leiðari Morgunblaðsins í dag:
Forseti Íslands
Veldur hver á heldur, voru lokaorðin í forystugrein Morgunblaðsins á kosningadaginn. Og nú hefur þjóðin, eins og allar skoðanakannanir bentu til, kosið Ólaf Ragnar Grímsson til að gegna embætti forseta Íslands næstu fjögur árin. Ólafur er gamalreyndur stjórnmálamaður og um hann og stjórnmálabaráttu hans hafa löngum verið skiptar skoðanir, einkum á þeim árum þegar kalt stríð geisaði í álfunni og utanríkismálin voru viðkvæm deiluefni, en eftir hrun Sovétríkjanna hefur hið pólitíska landslag gjörbreytzt, flokkakerfið er ekki jafnsterkt og krefjandi og áður og þverpólitísk afstaða ræður atkvæði margra. Pólitískar skoðanir og flokksbönd eiga þó einnig verulegan þátt í niðurstöðu forsetakosninganna eins og greinilega má sjá af úrslitum á Austurlandi.

Það er einnig harla athyglisvert hvað skoðanakannanir hafa verið nákvæmar um niðurstöðurnar. Þessar kannanir hafa allar sýnt yfirburðastöðu Ólafs Ragnars Grímssonar. Þótt fylgi hans hafi dalað frá fyrstu könnunum hefur hann augsýnilega haldið forystu frá því hann lýsti yfir framboði sínu og niðurstöðurnar eru mikill og athyglisverður árangur, ekki sízt með tilliti til þess, að hann hefur til skamms tíma verið harla umdeildur stjórnmálamaður. En hann hitti á sína lukkustund eins og forsætisráðherra sagði kosningakvöldið, en utanríkisráðherra benti á að þessi glæsilega kosning stjórnmálamanns í embætti forseta Íslands hlyti að vera uppörvandi fyrir starfandi stjórnmála menn, því að hún sýndi að verk þeirra væru metin að verðleikum.

Allt er þetta athyglisvert og þá ekki sízt sú staðreynd að úrslitin hafa verið löngu ráðin, ef draga má ályktanir af utankjörstaðaatkvæðum. Kosning utan kjörstaða hófst fyrir mörgum vikum, en við talningu kom í ljós, að hlutföllin milli frambjóðenda voru nokkurn veginn eins þegar atkvæði utan kjörstaða voru talin og þau voru eftir sjálfar kosningarnar á laugardaginn. Það virðist sýna, að meginþorri kjósenda hefur verið búinn að gera upp hug sinn skömmu eftir að framboðsfrestur var útrunninn. Gæti það bent til þess, að áróður í kosningabaráttunni hafi minna að segja en margir hafa talið, t.a.m. er óvíst þegar þetta er haft í huga, hvort sjónvarpsumræður hafa haft jafnmikil áhrif og margir ætla og jafnframt virðist þetta benda til þess, að upphlaup í dagblöðum, gagnrýni og ádeilugreinar vegi ekki jafnþungt og höfundar eða áróðursmeistararnir virðast halda.

Hið innra lýðræði sem er virkt afl í hverjum kjósanda virðist því ráða ferðinni og það af miklu meiri þunga en ætla mætti í fljótu bragði. Þannig mátti sjá fyrir mörgum vikum – og stóðu raunar flestar vísbendingar til þess – að hinn nýkjörni forseti færi með sigur af hólmi. Lögmál þessa innra lýðræðis þekkir enginn og það geta engin vísindi skýrt þau til fulls eða sagt fyrir um þau með neinni vissu. Þau eiga rætur í viðbrögðum okkar og tilfinningum, sem við þekkjum ekki heldur til neinnar hlítar. Þegar ekki er kosið um gallhörð málefni heldur fyrst og síðast um persónur – og þá gjarna um samúð eða andúð eða fordóma – hafa menn við lítið annað að styðjast en þessar sömu tilfinningar, eða geðþótta sinn. Þó má að sjálfsögðu oft rekja þessi viðbrögð til þess, hvort kjósendur þekkja til viðkomandi frambjóðanda eða ekki. Gamalkunnir stjórnmálamenn geta notið góðs af slíkum óbeinum persónulegum kynnum við kjósendur. En þessi óbeinu kynni geta þá einnig orðið forsenda neikvæðrar afstöðu.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur að vísu verið umdeildur stjórnmálamaður, en hann hefur jafnframt verið atkvæðamikill talsmaður flokks síns og hugmynda, sem hafa að vísu ekki átt upp á pallborðið í þingræðislegu flokkakerfi. En opinber þátttaka hans hefur samt skilað honum miklum árangri. Hann hefur um langt skeið verið aðsópsmikill þingmaður, hvort semm mönnum hefur líkað málefnaleg barátta hans vel eða illa, og sem slíkur hefur hann eignazt sterka persónulega stöðu í þjóðfélaginu. Nærvera hans hefur sem sagt skipt sköpum í þeirri baráttu um forsetaembættið sem nú er nýafstaðin með sigri hans.

Miklu minna hefur farið fyrir öðrum forsetaframbjóðendum í þjóðfélaginu, þótt Guðrún Agnarsdóttir hafi á sínum tíma setið á þingi við góðan orðstír. Ástþór Magnússon var nær óþekktur af þorra manna og Pétur Kr. Hafstein og Guðrún Pétursdóttir, sem hætti við framboð fyrir kosningar, voru einna helzt þekkt í eigin röðum og þá af ágætum störfum sínum þar, en síður út í þjóðfélaginu þar sem atkvæðin eru. Miðað við þessar staðreyndir og þessar aðstæður geta þau öll vel við unað. Ólafur Ragnar Grímsson hefur að vísu notið góðs af þeim minnkandi þjóðfélagsátökum sem fyrr er að vikið og einkennt hafa tímabilið eftir kalda stríðið og þeirri þverpólitísku þróun sem hér hefur orðið og oft hefur verið minnt á hér í blaðinu, en það breytir engu um þá staðreynd, að árangur hans er mikill og óumdeilan legur persónulegur sigur. Hann hefði þótt óvæntur á sínum tíma, nánast óhugsandi, en ekki að breyttum aðstæðum eins og nú horfir. Þjóðfélagið er gjörbreytt og enginn þekkir það til hlítar. Eða hver þekkir kjör þeirra sem verst eru settir? Og hvaða áhrif hefur afstaðan til Evrópusambandsins eða auðlindarinnar, en þessi viðkvæmu stórmál eru enn óuppgerð í þjóðfélaginu. Þau eiga áreiðanlega eftir að koma til kasta þingsins – og það líklega fyrr en seinna. Jafnvel um eða upp úr næstu kosningum.

Um leið og Morgunblaðið óskar forsetahjónunum Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur og Ólafi Ragnari Grímssyni til hamingju með kosningaúrslitin, velgengni í nýjum störfum og allra heilla, er ástæða til að minna á að þjóðin hefur síðasta orðið og þeim dómi verður ekki áfrýjað. Megi sárin eftir Sköfnung, sem Ásgeir Ásgeirsson vék að á sínum tíma, gróa sem fyrst eftir harða rimmu. Ólafur Ragnar Grímsson ætti að hafa burði til að safna þjóðinni saman undir sameiningartákni Bessastaða, en það er frumskylda forsetans og meginverkefni, auk annarra starfa sem um er fjallað eða að er vikið í stjórnarskrá Íslands, eða þeim anda laganna sem tími og reynsla hafa innblásið í lýðræðishefð okkar.”

Svona leiðari segir ekki allt, heldur einungis það sem segja þarf við slíkar aðstæður. Það er fyrirvari á frelsi Blaðs allra landsmanna. Það er reynt að sætta sig og aðra við orðinn hlut, það er allt og sumt; reynt að skýra það sem er óskiljanlegt. Við hefðum einfaldlega átt að segja: Bandaríski draumurinn sem allir þrá, ekki sízt íslenzkir vinstri menn, varð að veruleika á lukkustund ÓRG. Rakarasonurinn frá Ísafirði, með ljósku sér við hlið, er kominn alla leið til Bessastaða. Hvað sem Ólafur Ragnar segir sjálfur um það, þá er langþráðu takmarki náð; a.m.k. var dulin þrá uppfyllt. Lýðræði okkar býður upp á það. Og „litli maðurinn”, „þjóðin á Þórsgötu 1”, fagnar í hjarta sínu. Afkomendur kaupmanna og höfðingja féllu(!) Með þessari sálrænu útlistun er hægt að skilja þessi kosningaúrslit. Allir „rakarasynirnir” horfa langeygir til Bessastaða. Og þeir komast þangað með þessu móti. Og ÓRG segir (af þeim sökum, auðvitað) að þetta sé sigur allrar þjóðarinnar! Og nú ætlar hann að sameina hana. Hann leikur sína rullu áreiðanlega nógu vel til þess, því hann er afburðaleikari á pólitíska sviðinu. En samt tókst honum aldrei að sameina vinstri menn. Ástæðan var einfaldlega sú að slík sameining getur ekki orðið nema á málefnalegum forsendum. Það er auðveldara að sameinast um ættjarðarástina. Forsetaembættið er tákn hennar, hver sem gegnir því. Svo einfalt er nú þetta.


Síðdegis

Birgitta Spur sagði mér í dag að Listasafn Sigurjóns gengi mjög vel en sá hængur væri á að hún hefði nóg að gera við að hreinsa gæsaskítinn eftir gæsirnar hans Hrafns Gunnlaugssonar þar í næsta nágrenni. Þær eru þarna svo tugum skiptir og Hrafn er orðinn eins konar gæsabóndi.
Hún er að hugsa um að fá hreinsunarstyrk frá borginni og sagði að Hrafn hefði átt vængstýfða nafna sína, en þegar þeir lögðust á gæsaungana skaut hann þá. Ég sagði henni að hann væri vanur skotmaður.
Þetta er stórvandamál, sagði hún.
Já, sagði ég. Þetta er eins og íslenzka þjóðin. Hún dýrkar svona hetjur.

Nei, sagði hún, Af hverju segirðu þetta?
Af því að Hrafn er engum manni líkur öðrum en Gretti Ásmundarsyni hinum sterka, sagði ég. Hann var að vasast í gásunum hans pabba síns og það snerist allt til vandræða í höndunum á honum. Vandræðin voru hans fylgja. Þú veist að þessi þjóð er óskiljanleg og hún hefur dýrkað óskiljanlegar hetjur í gegnum tíðina.
Birgitta horfði undrandi á mig.
Það er satt, sagði hún. Það er margt óskiljanlegt á Íslandi!


3. júlí – miðvikudagur

Hef verið að lea Jane Eyre undanfarið. Þar er minnzt á Ísland í upphafinu. Þetta er mikil saga og magnþrungin; meiri en flestar þær skáldsögur yngri sem ég hef lesið. Stíllinn þéttur og áhrifamikill, mannlýsingar eins og greyptar í granít. Brontë-systur eru miklar bókmenntir holdi gerðar. Þær hafa lifað í einstöku andrúmi sem skilar sér í verkum þeirra.


4. júlí – fimmtudagur

Mannkynið sigraði – Jeltsín kjörinn forseti Rússlands. Sýnir „að þjóð okkar er ekki hugsunarlausar vélar,” sagði talsmaður hans í morgun. En það eru margir „hugsunarlausar vélar” bæði hér heima og annars staðar.

Alþýðublaðið ræðst m.a. harkalega að heiðri Vigdísar forseta. Það hefði ekki verið gert ef hún ætti t.a.m. 4 ár eftir í embætti. Hýenan finnur blóðlyktina af lokaþættinum. Hroðaleg grein um Vigdísi í Alþýðublaðinu í gær eftir Gunnar Smára, fyrrum ritstjóra Pressunnar og Helgarpóstsins. Stútfull af ærumeiðingum, en hann getur skrifað skár en ég hélt að óreyndu. Svo heldur Alþýðublaðið að það geti ráðizt að Morgunblaðinu í morgun með heilagsanda áru! En hví ekki? Hví mega þeir ekki skemmta sér, strákarnir! Og reyna að láta svolítið á sér bera? En það les þetta bara enginn. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann tala um aðförina að Vigdísi. Eða – er öllum sama? Er hún í raun svona stuttlíf „ástin” á þjóðhöfðingjanum ástsæla? Finnst þessi aðför ómerkilegur leikaraskapur, svo að ekki sé meira sagt. Og – hvað væri sagt, ef Morgunblaðið hegðaði sér svona? Strákarnir á Alþýðublaðinu halda víst að þeir séu sr. Jón!!

Veðrið alltaf yndislegt. Fer oft upp að Helluvatni í yndislegu kvöldveðrinu. Hef ort þar mikið; þ.e.a.s. þar kviknar fleira en flugur(!) Og svo fylgist ég rækilega með skemmtiferðaskipunum. Það er nostalgía úr æsku. Orti þetta í gær:

Útlönd nýs tíma

 

Skemmtiferða-
skipin koma
og leggjast
við Ægisgarð, Miðbakka
og Korngarð

og hugurinn leitar
til baka
þegar útlönd komu
í heimsókn
fyrir stríð
og litlir drengir
hjóluðu niður á bryggju
til að fagna
þessum framandi
gestum,

þá var Sprengisandur
stæðilegastur, en nú
er hann horfinn
undir grjóthleðslur
nýrra tíma
eins og þau útlönd
sem hurfu í hamförum
heimsstyrjaldar

og ný herskipalaus
útlönd
koma í heimsókn, Ítalía
Prima, Bremen
Europa, Berlín, Queen
Elisabeth, Maxin
Gorky,

án Hitlers, án
Stalíns án
alls þess sem gróf
gamlar minningar
undir grjóthleðslu
gleymsku og þagnar,

hjólin heyra
fortíðinni til og við
ökum niður á Miðbakka
og Faxagarð, inní Sunda-
höfn og forvitin
augu full af eftirvæntingu
sem er alltaf jafnný og Passíu-
sálmarnir framkalla
stórt svart letur
úr hvítri skipamálningu
eins og upphleypta
stafi
á hvítan rissaðan
pappír:

Vistafjord...

Queen
Elisabeth...

það var
eftirminnilegt að fara
með henni til New York
í nóvember
þegar náttúruöflin
breyttu henni í árabát,

það var djúp lægð
eða 973 millibör

það voru tíu vindstig
og átta metra öldur

og skipstjórinn hafði
áhyggjur
af farþegunum

en nú

heiðblár himinn
og júníblærinn
strýkur kvöldbjarta
Esju
eins og hlý vinaleg
hönd strjúki bógsveittum
hesti
í 18 stiga hita.

Þannig koma útlönd
til þessara nærsýnu
augna
sem eitt sinn voru ung
og alltsjáandi

snerting.

Kvöldið:

Flatur fyrir mínum herra! Tíminn er í svipuðum stellingum og segir að í Morgunblaðsleiðaranum í gær hafi verið talað um „dagblað þjóðarinnar”. Þetta er auðvitað venjuleg gamaldags fölsun! Við töluðum um „útbreiddasta dagblað þjóðarinnar”. Það er einfaldlega margföld staðreynd.

Einkennileg tilfinning, það er eins og maður sé að upplifa gamla tímann. Og hann bragðast eins og úldið merarkjöt. Er nokkur furða þótt menn hvorki vilji kaupa né lesa þessa daglegu hrákasmíð?!

Tíminn hefur enn ekki minnzt á síðustu ljóðabókina mína. Ég er enginn hækúmeistari, yrki bara um íslenzku júnínóttina. Mér væri líklega tekið betur í Tímanum – ef ég væri í hækúnum!

Mér virðist af Jane Eyre að tungutak Charlotte Brontë hafi orðið fyrir einhverjum áhrifum af ljóðum Blakes, t.a.m.: tempest of the night en Blake talar um forests of the night í The Tyger og burning bright sem kemur fyrir í alkunnri opnunarlínu kvæðisins.

Erum að hugsa um að fara Sprengisand um miðjan júlí og þá kannski í Víðiker í Bárðardal þar sem Ingólfur faðir Hönnu er fæddur. Og þá einnig að Svartakoti; en þar er eitthvert stórbrotnasta bæjarstæði á Íslandi. Fór um þessa staði þegar ég var að yrkja Vor úr vetri, þá var Gunnlaugur Scheving með okkur og málaði Kinnarfjöllin.Og útsýn til sjávar.
Alltaf einn við trönurnar. Einn með landinu.Og sjónum.
En Sprengisandur er ónumið land. Það hentar mér vel núna, mér líður eins og útilegumanni! Ég veit ekki af hverju. En Eyvindur var sannur eins og segir í síðasta Helgispjalli. En sannleikurinn er í okkur sjálfum, einungis þar.


5. júlí – föstudagur

Fékk í dag bréf frá Kristjáni Karlssyni, þar sem segir m.a.:

„Kæri vinur.

Nei mér hefir sannarlega ekki leiðst að fá kvæðasendingarnar; þú sást í kvæðinu sem þú birtir; hvað mér fannst um fyrri kvæðin og langflest þessi virka eins á mig – þau fáu sem eru kannski annarrar tegundar fá samt blæ af hinum í þeirra félagsskap.

Það er eitthvað ólýsanlegt við þessi kvæði: ljós og litur sem kemur innanfrá í kvæðunum án þess að vera nefndur á nafn; Við Helluvatn, Heiðlóukvæði, Við Úlfarsfell, Meðalfell, Vatn þitt og minning (síðasta gerðin bezt), Jónsmessa, Í Grafningi, Útsaumur, Áliðið – öll uppljómuð á þennan hátt. – Svo þakka ég þér kærlega fyrir birtinguna á kvæðinu í Helgarspjalli og frábæra útlistun þína. Ég hefi heyrt mikið lof um hana. Sjálfum finnst mér hún inspíreruð. Kærar þakkir...
Þinn KK.”


6. júlí – laugardagur

Fíkniefnin eru versti óvinur okkar eins og annarra þjóða, væmni og sjálfsánægja er grasserandi í æðstu stjórn, speglasalir athyglisfíkla eru pótemkíntjöld okkar – en veðrið er yndislegt dag eftir dag. Munurinn á Íslendingum nú og þegar ég var að alast upp er munurinn á Ísland er land þitt og Þið þekkið fold með blíðri brá.

Öskubuska er dæmisaga um kvennabaráttuna og Hans klaufi er á leið til Bessastaða.

Sem sagt, gott!


6. júlí – laugardagur

Ákall

 

Ó Guð,
mig langar til að elska þig af öllu hjarta mínu
því allt sem ég á fegurst til er neisti af báli þínu
en milli okkar þögnin og þú ert einhvern veginn
svo þjakaður af okkar jörð og vonsvikinn og sleginn,
samt bið ég þig að halda í þá trú sem tókstu forðum
á tálsýn þína manninn og holdgerðir af orðum,
og leitar enn þá til þín eins og tungl að sólarljósi
en tefst á leið til stjarnanna og slokknar svo að ósi.

Ó Guð,
ég bið þú leiðir mig að mildum vötnum þínum
og miklir ekki fyrir þér þótt neistinn hugi að sínum
margvíslegu tilraunum til að verða að eldi
og takist það jafnilla og ef sólin risi að kveldi.

Hví fæ ég ekki að nálgast þína nærveru á stundum,
hví næ ég aldrei sjálfur þínum leynilegu fundum
mundi ekki vera sanngjarnt að ég sæi
þig svo sem eins og tvisvar áður en ég dæi,
því það er heldur ótryggt að eiga þig í vændum
og einhvern veginn líkast heyskorti hjá bændum,
það setur flestar áætlanir okkar helzt úr skoðrum
og allt verður jafnviðsjálvert og höggormurinn forðum.

Og Guð
hvort gætirðu ekki afskrifað ögn af þínu stolti
og opinberað dýrð þína eins og lóa syngi í holti,
og áminnt þína tálsýn um að tilveran er ekki
sú tölvuveröld mannsins og blekking sem ég þekki,
því hún er dýrleg sköpun og gimsteinn eins og glitri
geisli þinnar sólar og líkt og jörðin titri
sem fingurgull á hendi hennar sem við þráum
og hvíslar eins og golan sé vorið þitt í stráum.

Ég leita þín í birtunni þegar blærinn strýkur lyngi
og brimdauð fjaran eins og þitt stóra hjarta syngi
í holtinu og mónum og hlíðin taki undir
og hlaupi eins og lömbin um allar þorpagrundir,
þá finn ég þig sem angan af horfnum helgidómum
og hlíðin kemur syngjandi og faðmar mig með blómum,
því óskastundin ætlar sér spöl í mínum huga
en einhver bandar frá sér því ég er bara fluga.

Og samt er ég einn þáttur af þrauthugsaðri gleði
sem þjakaði víst engan meðan kraftaverkið skeði
og hvernig væri að endurtaka upphafið að nýju
og yfirfylla jörðina af flugnasuði og kríu?


Nei, það var varla ætlunin að kvabba Guð minn góður
þótt gerist þessi sigling svona heldur þungur róður,
við eigum það þó saman að lifa sjálfa okkur,
það er sárabót og afsökun, en gleðiauki nokkur.

Svo legg ég í þinn lófa framtíð mína alla
mitt líf og þá einnig sál mína að kalla
því athvarf þitt er einasta vörn á þessum tímum
þegar enginn hefur stundlegt næði fyrir símum


Nokkur nýort kvæði úr norðurferð:

Við gamalt

leiði

Hann gengur
um garðinn
með GSM-síma

en farsíminn
er utan þjónustu-
svæðis.

Nær augnsnertingu
við sumargræn
trén
sem bera moldinni
vitni.

 

Við fossinn

Vatn

hreyfir klettfastan
tíma

hreyfir
hugsun þína.

 

Brim

Faðmlag öldu
og kletts

ást við fyrstu
sýn.

 

Mengun

Reykurinn

hálfmynd höggorms
á himni.

 

Kvöldsól

Ósýnilegur vindur
gáróttur skuggi
á vatni.

Vestursólin
dýpkar
kvöldskuggana.

 

Í gamla

kirkjugarðinum

Ormétin
leitar viðjan
annarra
ormlausra daga.

 

Í Kjós

Grænblátt eins og hafið

vindhvítt
vatnið
í fossinum

kvöldþreytt
dregur sólin
til stafs

dregur sporðsterka
skugga
að fysshvítum
úða.

Óáran

Tvíbökur
nýbleyttar í svörtu
kaffi
eins og hráviði
um allt tún

tvíhöfða hrútlamb
martröð þessa langa
draums

skýin
kyrrstæðir skuggar
á móagrænum
úthögum

rís blóðug
egg
fjallsins
inní deyjandi
sólarlag.

 

Auðnin

Tíminn
hefur skilið eftir
allt þetta grjót
á langri vegferð
til byggða

og grjótið vex inní minninguna
eins og auðnin sjálf
þögul og ein

hér riðu þau forðum
inní þögn þessara skýja
sem drepa sólbletti
á jörðinni
eins og skjálfhentur fingur
fletji út
dauð skordýr á gráum steini

þögn

og auðnin hlustar
inní nýja hljóðláta vinda
sem skilja eftir mosa
og geldingahnapp
í hóffari gamalla minninga,

Herðubreið rís
eins og baksvipur tímans
sem heldur norður af
með Eyvindi,

einn heldur tíminn
norður grjótstórar auðnir
í fylgd með hugsun okkar
og svört gljúfur hverfa
undir skjaldbreiða dyngju
í suðri

þar sem himinn strýkur
ullhvítum skýjum
fjallhvíta vængi
þessara hagvönu álfta

hvort eru þær jöklar á ferð
inní ný ævintýri
sunnan heiða
eða sumarhvítir dagar
latir og hugsi einsog leirljós
hross við girðingu
lítils bæjar í Bárðardal, hugsandi
eins og þau, Bezt að leggja sig
í þessari heitu golu

og við stöndum í sporum
tímans, finnum blóðberg
og geldinghnapp
og ég rétti henni blóm
eftir öll þessi ár, rétti
henni hugsun þessarar þöglu
auðnar
þar sem rökkrið sígur
með sólhvítum degi
á fjallhátt enni
Herðubreiðar,

förum úr einum skugga
í annan
og sóldöggin fylgir okkur
að grænni vin
þar sem grasið hvílir
hugann
eins og minningar um þau
sem áðu hér endur fyrir löngu,

en hrossin gripu niður
og flipmjúk golan
strauk nýstigin spor,

hvort hefur tíminn
skilið þessa vin eftir
handa okkur eða hvössum
vindum af jökli,
hvort hefur hann skilið
sólina eftir handa okkur
eða rennur hún enn og einungis
að Arnarfelli inu mikla,

spyrja forvitin augu

spyr forvitinn geldingahnappur
í hendi hennar sem hvílir
ferðbúinn huga við grös
og græna vin.

Og auðnin
ein og grjótfögur
lyftir sér eins og breiðvængjaður
fugl
inní skófhvíta minningu
okkar sem nemum staðar
eins og tíminn við blóð-
berg og holtasóley
þar sem jökull hvítnar
inní fannhvítan himin.

II
Áin skrifar nafn sitt
í gljúpa sanda,

tíminn á ferð
frá klökknandi jökli
að kyrrum ósi

vindbarin gljúfur
bera þessu ferðalagi
vitni,

hvasst og margskorið
hraun
þar sem tíminn ristir
nafn sitt
í opinn stuðlabergslófa
þessarar þungstígu
auðnar
og vindurinn strýkur
hljóðlausu gnauði hvert strá, hvern stein
og hvert blóm

einhver hóar
úr nálægri fortíð

og einmana tófa á ferð

en handan árinnar
úfið skuggasvart hraunið
hlustandi útbruninn
eldur

hjarta nýhætt
að slá.

III
Fuglslaus
er auðnin

ekkert lyfir sér
til flugs
nema vænghvítur jökull
við sól,

en dyngjan
breiðir út skaflhvítar
fjaðrir

og viðrar sig í golunni.

Sprengisandi, 17. júlí ‘96

 

Móðir mín

Eins og júnígræn
sumargola
fer loðna þúfnakollana
laufsárum fingrum
þannig finn ég
hönd þína enn
við heitan vanga.

 

Við Hraun

Bakkarnir huga helzt að því
sem hverfur til sjávar enn í dag,
deyr inní kvöldið sem kveðjulag
og kliðar þó enn eins og gola á ný.

Hvíslar í lautum landið þitt,
legg ég við hlustir og sveitin þín
hún er nú orðin ættjörð mín
eins og einmana blóm við hjarta mitt.

Tíni ég grös við gengin spor
og gef henni þau sem með mér er,
hún var hér áður ein með þér,
þetta ástarstjörnubjarta vor.

Áin þín rennur inn í mig
aftur og nú til að minna á sig.

Öxnadal, 18. júlí ‘96

 

Öxnadalsá

Mórauð er áin sem eitt sinn var
undarlegt vatn í blóði þínu,
skaflarnir huga helzt að sínu
og hverfa með ánni til framtíðar.

Þá verður áin eins og þín
yndislegu kvæði um landið
tær og fögur, en tregablandið
talar hún enn við blómin sín.

Sástu hvar fuglinn flug við strá
og flögraði einn við minnig þína,
hann hefur sezt eins og sólskin á
svefnlaust vantið við hugsun mína,

það er eins og heiðin há
fari hvíslandi golu um ána sína.

Hrauni, 18. júlí ‘96.

 

Gamall eldur

Grámosinn góður
gleður hjarta þitt
hjúfrar sig hljóður
við himneskt lyngið sitt,
það er eins og ástin
sem umvefur þig
mjúk eins og morgunn
og minnir á sig.

Himneskt er hraunið
við hlýja mosató
þar sem lyngið leikur
við lítinn hvannamó,
gamlir stofnar gleyma sér
við gróið hjarta þitt
en grámosinn gælir
við gamla hraunið sitt.

Grámosinn góður
grær við hraunið þitt
útbrunna elda
og ævintýri sitt,
það er eins og ástin
sé eldur við hraun
bálið sem blossaði
og brenndi þig á laun.

Á leið um Borgarfjörð,
27. júlí ‘96

 

Fjallastóð

Móðan sveipar
kyrlát fjöllin
flipmjúkri þögn

bergmál hennar
í næstu vötnum

fellur grátt
faxið
að svarbláum makka.

Í Hvalfirði á leið suður,
27. júlí ‘96

 

1996

Þið
sem genguð
í jörðina

fúaspýtur
við grasgrænar þúfur.

Í Öxnadal,
27. júlí ‘96

 

1845

Grjótföst

minning þín
um Steinsstaði.

Í Öxnadal á leið suður,
27. júlí ‘96

 

Samfylgd

Lognkyrr fjöllin
fylgja okkur
í hvítum tjörnum

Í Langadal,
27. júlí ‘96

 

Ferðalag

Eggrauð fer sólin skurnhvíta flóa og fikrar
sig fram eftir dal inn að sandgráum leirum við ána
og augu mín teygja sig langt inn að jöklum og leita
að langþreyttum geislum við sólroðin eldfjöll, þau blána
af hikandi degi sem horfir til vesturs og fer
með hallandi sól inní myrkur sem faðmar að sér
þitt haustgula land sem heldur til fundar við okkur
og hraðfleygan fugl í vatnsmjúkum spegli sínum,

en himinn og jörð eru hljóðlátar myndir sem ber
við hálendisfjöllin í tjarnhvítum augnsteinum þínum,

þá eldir af degi og eilífðin fylgist með þér
og ánni sem blakar vængjum að fuglunum sínum.

Á Húnavöllum,
kvöld, 26. júlí ‘96

 

Kíkóti

Riddari ljónanna leikur í huga þínum
sitt langþráða hlutverk og Don Kíkóti gengur
vígreifur fram og otar sverðum sínum
að svikamyllum sem hreyfast ekki lengur

en þá kemur riddari hvíta tunglsins og tekur
að tilnefna sig sem hetju dagsins, þú bíður
rétt eins og tíminn sé eilífð sem aldrei líður
og allt þitt líf sé skógganga manns sem er sekur
um einasta glæpinn sem enginn fyrirgefur,

því allt er vort líf eins og sólbjartur deyjandi máni,

við þekkjum það öll að sér grefur gröf þegar grefur
og gamanið kárnar ef hetjan er vitskertur sláni.

Í Eyjafirði, á leið til og frá
Akureyri – hlustað á enskan
segulbandslestur úr Don Kíkóta
Cervantes, 26.-27. júlí ‘96.

 

Þið þekkið fold...

                   J.H.

Það vekur með þér vorsins þrá
að vitja fisks í silungsá
og vitund þín hún vex þá inn
í vökudraum og fögnuð þinn,
þú heyrir vorsin vængjaslátt
og vorið talar opinskátt
við fugl sem leitar hingað heim
í heiða nótt við bláan geim.

Þú vilt að þessi veröld þín
sé vökunótt sem ávallt skín
í vitund þinni vetrarlaus,
að vorið þitt sé land sem kaus
þér yndislegan júnídag
og aldrei nokkurt sólarlag
að hann sé kliður ilms sem er
ævinlega í fylgd með þér.

En veruleikinn leitar á
þinn ljúfa draum um eilíft vor –
það fölnar allt, það falla strá
og feigðin vex við hvert eitt spor
og landið þitt er helgrind há
og heiðavötn sem frjósa senn,
samt eru fjöllin fagurblá
og fuglar syngja í trjánum enn.

Það gefur fögur fyrirheit
að finna það sem enginn veit
í eigin brjósti eins og þú
sért eilífð guðs og hún sé nú
við gamalt hraun sem grær við tún
og gleymir ekki að það var hún,
þín ættarjörð með blíðri brá
sem bar til sigurs vorsins þrá.

Ský á himni

Fiðrildi leysist upp
á bláum himni

breytist í hvítan
hund

breytist í flugdreka
með úlfshaus,

þannig gekk skaparinn
frá verki sínu,

óköruðu.

 

Við Háamel, Sogi

Hrossanál

blóðberg og puntur

mosgróin þúfa
nálapúði
í saumastofu
skáldsins.
29. júlí ‘96.

 

Fjölmiðlar

Mývargur
við netlaust andlit

í sterkri sól.

 

Sláttur

Vindar
raka dreifinni saman
á heiðum
himni.

 

Við Sogið

Og fljótið þitt hvítnar við fossinn til að sjá
og fellur að ósi í þungum strengjum sínum
og eilífðin vakir ein og safírblá
og endurspeglar vatnið í djúpum hyljum þínum.

Og þarna stekkur fiskur og festir sig í
fluguna sem deyr á sama andartaki
og hrossanál og víðir og vaxandi mý
og vorið sem sprettur úr sól og fuglakvaki.

Þú horfir af bakkanum, hlustar enn með mér
á hvíslandi niðinn við lúið straumhart fljótið
og ég sé það líka og undrast með þér
hvernig óðinshaninn syndir og felur sig við grjótið.

En hugur minn leitar þá hljóður og einn
að huldunni þinni í klettinum við ána,
hvert blóm hlustar einnig, hver einasti steinn
og aldan hún hlustar á fossinn sinn við gjána.

Í þögninni einnig er eitthvað sem ber
því ofurlítið vitni að þig dreymir
um yndislega veröld sem vakir enn með þér
og vatninu sem framhjá okkur streymir.

Og þetta er sú veröld sem vonir standa til
að vaxi eins og grösin úr hugarfylgsni þínu,
vorið með fugla og yndislegan yl
og allt sem drottinn gefur með listaverki sínu.
Sogið, 29. júlí

 

 

11. júlí, fimmtudagur

Við Kristján Karlsson borðuðum saman í Nausti í dag. Skemmtilegt samtal og uppbyggilegt að venju. Töluðum m.a. um Halldór Laxness. Niðurstaða Kristjáns: Þrátt fyrir nokkrar vondar skáldsögur hefur Halldór sögulega fegurð til að bera.

Við minntumst á kvæði Jónasar Alsnjóa vegna ræðu sem Halldór Blöndal flutti einhvers staðar fyrir norðan og sagði víst við Styrmi að hann hefði flutt nýjan boðskap um kvæðið í þessari ræðu. Hún er samt einhver hastarlegasta sönnun þess sem er kjarninn í boðskap Prédikarans. Það var ekkert nýtt í ræðunni! Að hjartavörðurinn væri Jónas sjálfur, það er margafskrifuð fullyrðing! Hann talar um íslenzkt umhverfi, ekki heldur ný tilgáta. Ýmsir hafa rætt um þetta kvæði og ég hef tekið það til meðferðar í bók minni Um Jónas.  Þá hef ég einnig talað um það í þremur Helgispjöllum. Við Kristján vorum upphaflega ásáttir með að hjartavörðurinn væri Kristur, síðan leitaði það á hann að hjartavörðurinn væri Jónas sjálfur. Það sagði hann mér fyrir mörgum mánuðum og ég gat þess í Helgispjalli. Nú held ég að Halldór hafi fengið þetta frá Kristjáni og telji þetta tímamótauppgötvun?! Það er ekki blöndalskt, en kannski engeyskt! Við Kristján ræddum um þetta. Hann heldur kannski að hjartavörðurinn sé húmoristískur leikur Jónasar um sjálfan sig. Þeir Fjölnis-félagar hafi kallað hann hjartavörð vegna þess hann var í Sórey þegar hann orti kvæðið og þá auðvitað vegna þess að þar voru hirtir á ferð. Sagði Kristjáni að ég teldi þetta harla ólíklegt, svo ekki sé meira sagt. Það eru engar heimildir til um hjartavörðinn sem fyndna athugasemd þeirra félaga. Það er aftur á móti til annað kvæði eftir Jónas þar sem hann fjallar um veiðimennsku með skírskotun í gríska goðafræði og hef ég skrifað um það kvæði í bók minni Um Jónas, en það er ort á dönsku. Jónas Hallgrímsson talar ekki um sjálfan sig sem hjartavörð. Ég held að ekkert skáld, hversu alvarlega sem það tæki sjálft sig, talaði um eigin persónu sem hjartavörð. Slíkt væri afskaplega ólíkt Jónasi. Auk þess heitir þetta starf veiðivörður á íslenzku, game keeper á ensku. Konráð Gíslason hefur þetta orð ekki í sinni orðabók og ég held hjartavörður sé hvergi til í orðabókum. En í íslenzkri orðabók er orðið hjartavernd, þ.e. að vernda hjarta sitt. Það er ekki ýringur af gamansemi í þessu kvæði Jónasar, heldur er það jafnalvarlegt og það er torskilið.

Ég hef í Helgispjalli fyrir lögnu bent á að ekkert sé á móti því að Jónas sé að tala um sjálfan sig ef menn vilja skilja kvæðið svo. En þar afneitaði ég þeirri skýringu. Hún er því löngu afgreidd af minni hálfu og a.m.k. ekkert nýnæmi hjá Halldóri Blöndal frænda mínum. En þetta er að sjálfsögðu íslenzkt umhverfi í ljóði Jónasar. Það hef ég áður talað um. Jónas gat svo sannarlega ort um Ísland þótt hann væri í Danmörku.
Þeir eru skrítnir þessir þingmenn, þeir eru alltaf að finna upp hjólið. En það er þá helzt hjólið sem snýst í kringum þá sjálfa eins og jörð kringum sólina. Annars hef ég engan áhuga á þessu lengur. Þetta skiptir engu máli hvort eð er og ég held ekki einu sinni að það sé hægt að kría út atkvæði með svona bollaleggingum!

Ég spurði Kristján um Einar Benediktsson og síðustu æviár hans. Hlín Johnson var áreiðanlega harður húsbóndi og svo afbrýðissöm að hún dró skáldið með sér inní einveru Herdísarvíkur. En þá var hann farinn að heilsu og það er enginn vafi á því að hún var honum gott skjól undir lokin. Ég kynntist Hlín á sínum tíma og skrifaði samtal við hana. Hún verkaði vel á mig. Mér þótti hún greind kona og merkileg, en sérvitur. Það er langt síðan ég hef lesið þessa lýsingu mína á henni, en Hlín var, hvað sem öðru líður, eftirminnileg kona og skáldið féll áreiðanlega fyrir aðdáun hennar og ást. En mér er til efs að hann hafi elskað þessa konu. Hún var heldur hrjúf og stórskorin og hefði getað farið vel sem klettur í landslagi.

Af þessu samtali okkar spunnust umræður um ástir skálda. Ég spurði Kristján
hvort Tómas hefði verið ástfanginn af öllum þessum konum sem hann sagðist hafa kynnzt. Kristján sagðist halda að Tómas hafi aldrei orðið ástfanginn. Þegar skáld verða ástfangin af ungum konum, sagði hann, er ástæðan söknuður. Þau sakna æsku sinnar, þau eru að leita að sjálfum sér í þessari konu. Og það er ósköp eðlilegt, bætti Kristján við. Ég er samt ekki á því, skáld eru alltaf ástfangin, ekki sízt af sjálfum sér!
Hanna segir að þetta sé hallærislegt karlatal, hún hlaut raunsæi öræfanna í vöggugjöf.

Ég sagði Kristjáni frá samtalinu við Silju og finn að hann er ekkert hrifinn af því að ég sé á vegum gömlu sósíalistanna í Máli og menningu. En hann gerir ekki við það neina sérstaka athugasemd. Hann vill að við reynum að stofna sjálfir gott en lítið forlag. Hann spurði mig hvort ég teldi að Þorgeir í Odda hefði áhuga á slíku. Ég ætla að kanna málið. Þorgeir ætti að hafa efni á því. Ég sagði honum frá því að það kæmi fram í samtali okkar Silju að ég hefði á sínum tíma reynt að sýna bæði mér og öðrum fram á að ungur maður með reykvískt tungutak gæti ort marktæk ljóð. Ég hafði ekki lifað í neinu littereru umhverfi og þetta reykvíska andrúm bjó ekki yfir neinu skáldlegu tungutaki. Hið klassíska skáldskaparmál íslenzkrar ljóðlistar væri í sveitunum og það hefði verið allsráðandi á sínum tíma þótt menn eins og Hannes Sigfússon og fleiri hefðu verið fæddir og upp aldir í Reykjavík. Jón úr Vör var þorpari og þess sér stað í ljóðum hans. Kristján sagði að það mætti snúa þessu við; það væri ekki hvetjandi að skrifa eða yrkja í bókmenntalegu umhverfi. Það væri miklu betra að lifa og hrærast í umhverfi sem væri óbókmenntalegt. Reykjavík hefði á sínum tíma haft þann kost með sér. Æskuumhverfi hans fyrir norðan hefði aftur á móti verið harla bókmenntalegt og það hefði kallað á ákveðna tegund skáldskapar. Hefðin hafi verið allsráðandi. Af þeim sökum, meðal annars, hefði hann ekki gefið út ljóð fyrr en löngu síðar þegar hann var vaxinn frá þessu umhverfi. Ég sagðist skilja þetta vel og vitnaði til sögu Melvilles, Bartleby,  en þar segir þessi aðalpersóna sögunnar ávallt I prefer not to þegar hún er beðin um eitthvað. Það var það sem Kristján sagði við sitt umhverfi á sínum tíma. Kristjáni fannst þetta góð samlíking og hún gæti vel verið einskonar bókmenntaleg skýring á þessari sérstæðu sögu Melvilles. Kristján vildi yrkja sín eigin kvæði og ganga þvert á kröfur og hefð umhverfisins og gaf ekki út ljóð fyrr en þess var kostur. Þegar umhverfið hafi viljað fá ljóð hefðu viðbrögðin verið hin sömu og hjá Bartleby:  I prefer not to.

Sem sagt, þetta reykvíska umhverfi mitt hefur þá að öllum líkindum haft hvetjandi en ekki letjandi áhrif á unga skáldspíru sem dýrkaði skáldgyðjuna öðrum fremur.

Í þessu sambandi hef ég verið að hugsa um Moby Dick og þá ekki sízt þekktasta kafla sögunnar um mikilvægi hvíta litarins á hvalnum (42. kafla), en um þennan sama lit hef ég ort lítið kvæði í Dagur af degi,Tilbrigði um orðið hvítur. Og í síðustu ljóðabók minni Vötn þín og vængur er ljóðaflokkur sem er ortur með hliðsjón af Moby Dick.
En hver er hann, þessi hvalur?
Guð eða djöfullinn sjálfur?
Eða kapítalisminn?
Eða kommúnisminn? Eða auðnin
Eða náttúran sjálf?
Eða eigið sjálf, hið góða eða illa?
Eða hugmynd okkar um hvalinn?
Átti hefndarþorsti Ahabs rætur í hugarburði um hið illa sem hann þurfti að hefna sín á vegna þess að hvalurinn hafði sniðið af honum fótinn, eða var skipstjórinn geggjaður?
Allar þessar spurningar eru viðbrögð við lífi okkar og umhverfi og raunar eðlileg viðbrögð, eins og lífið getur verið kröfuhart og miskunnarlaust. Og við illa undir það búin að verða við þessum kröfum og bregðast rétt við þessu miskunnarleysi. Moby Dick í lífi hvers og eins er harður skóli og óvæginn. Hann er ýmist lífið sjálft í umhverfi okkar eða eðlislæg viðbrögð hjálparvana dýrs í grimmilegu umhverfi.
Það er hægt að missa fótinn með margvíslegum hætti. Hann er einungis myndhvörf, eða lýsing á hugarangri okkar.
Sjálfur hef ég skrifað sögu um svipuð myndhvörf. Það er sagan um Absalon; dæmisaga um innri baráttu; dæmisaga um viðbrögð við umhverfinu. En þó er þetta einkum saga um baráttu við öryggisleysi. Það er barátta okkar allra við sjálf okkur en þó einkum það sem við ráðum ekki við. Við ráðum ekki lífi okkar, við ráðum ekki umhverfi okkar; við ráðum ekki örlögum okkar. Við ráðum ekki einu sinni tilfinningum okkar.
Samt á það að heita svo að við höfum allt í hendi okkar(!)

Hef fengið í hendur ljósrit af uppkasti Einars Benediktssonar að ljóði um Jónas Hallgrímsson. Handbragð Einars leynir sér ekki. Þetta eru fjögur erindi, óköruð, en þó með leiðréttingum. Einar birti þetta ljóð aldrei, né fullgerði hann það. En það hefur varðveizt í einhverri kompu því á öðru blaðinu stendur 23 (bls). Kvæðið heitir Jónas Hallgrímsson og svo í sviga brot. Síðan hefur skáldið skrifað eigin hendi: gamalt óhæft kvæði (1885). Það er svohljóðandi:

Ég trúi á uppreisn vors ættarblóðs
á allt það sem knúði þig til ljóðs.
Ég finn að hjer vaknar hugur og hönd
sem heiðrar þig rjett sem var (ólæsilegt,
strikað út en skrifað fyrir ofan: kann að skrifa).

Jeg veit að senn (hrökkva og illlæsilegt orð,
strikað út en fyrir ofan stendur losnar um ljóðsins) bönd
Það hauður (fyrir ofan stendur land)
sem ól þig á skilið að lifa.

Þú unnir af flestum (strikað út en skrifað fyrir ofan heiminum) Íslandi mest,
þú orðaðir lof þess og heiður best.
Hálfgleymdar vísur í huga mjer
hvarflar svo oft (ólæsilegt orð, strikað út og skrifað dvelja fyrir ofan)
Líkur þjer Jónas enginn er
þú einn í heimi átt þá strengi.

_ _ _

( orð sem ég get ekki lesið) kveið um vog og ver
þar vaka fuglar á legi
og lömbin hvítu (strikað út og blessuð sett í staðinn) leika sjer
um laut og hól á björtum sumardegi
en efst um hlíð fer lítil ló.
Hún leitar fram að eggjamó.

_ _ _

Vort innsta líf, ó ættarstorð
undið(?) hjer í strengi
Mín (?) voldug bæn með vegin orð
þar vaka í huga mjer svo opt og lengi
Og yfir hverju búi og  bæ
hans blessun hvílir sí og æ.

Lengra er þetta uppkast ekki. Það má ljóst vera að Einar hefur ekki talið sig geta lokið kvæðinu en handbragðið leynir sér þó ekki. Kristján Karlsson, sem gaf mér uppkastið, sagði mér að Einar hefði snúizt gegn Jónasi vegna afstöðu hans til Sigurðar Breiðfjörðs.

Ég sagði Kristjáni Karlssyni söguna af því þegar við Snorri Hjartarson sátum í suðurenda Hljómskálagarðs og vorum að tala saman, en þá gekk Þórbergur þar framhjá, leit á okkur, hikaði, hélt síðan áfram og greikkaði sporið. En ég sagði við Snorra,
Bezt ég kalli á hann.
Þórbergur, kallaði ég, Þórbegur, komdu hingað.
Hann snarstanzaði, leit á okkur út undan sér og sagði, Hverjir eru þetta?
Ég sagði honum að það væri Snorri Hjartarson og ég.
Nú, sagði Þórbergur og gekk til okkar. Ég hélt þetta væru tveir rónar!
Kristján sagði að þessi saga minnti sig á það sem Lúðvík Guðmundsson bóhem og rafvirkjameistari, en síðar kaupmaður, hefði sagt sér á sínum tíma. Það var á þeim árum þegar Tunga stóð ein sér við Suðurlandsbrautina ókaraða og allt var í mold og drullu eftir rigningar. Þórbergur gekk þar fram hjá í heilsubótargöngu og var að basla við að komast úr forinni þegar Lúðvík ók framhjá með Tómas innanborðs.
Þeir stöðvuðu og Tómas kallaði á Þórberg.
En Þórbergur hrökk við, hræddist, því hann vissi ekki hverjir voru þar á ferð að kalla á hann og tók til fótanna. En það vildi ekki betur til en svo að hann skildi eftir báðar skóhlífarnar í forinni. Tómas stóð og horfði á eftir Þórbergi þar sem hann hljóp eins og fætur toguðu og skóhlífalaus niður að sjó.

Ég spurði Kristján um álit hans á skáldskap Snorra Hjartarsonar. Hann sagði, Hannes Pétursson er betri(!) Það mátti skilja á ýmsa vegu, en ég spurði þá um Guðmund Böðvarsson því Silja Aðalsteinsdóttir hefur skrifað um hann bók sem Kristján hafði ekki lesið. Hann sagðist ekki hafa verið neinn sérstakur aðdáandi Guðmundar, það væru tveir ókostir á verkum hans, hann væri annars vegar of rómantískur og hins vegar of þjóðernissinnaður. Rómantískur og þjóðernissinnaður, það er ekki eftirlætisformúla Kristjáns Karlssonar þegar skáld eru annars vegar. En hann sagði að það hefði ekki verið neinn vandi fyrir sig að velja í ljóðasafn sitt kvæði eftir Guðmund því hann hefði ort góð kvæði þótt þau væru ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá honum. Og hann bætti því við að í slíku ljóðaúrvali væri ekki endilega valið eftir smekk ritstjórans heldur þyrfti að huga að mörgum öðrum atriðum. Slík bók væri ætluð ólíkum lesendum og taka þyrfti tillit til margra sjónarmiða.

Þetta eru ekki hundrað beztu ljóð á íslenzka tungu, sagði Kristján með áherzlu, heldur valið úr verkum einstakra höfunda.
Ég sagði honum að ég skildi þetta vel. Ég væri ritstjóri fyrir blaði allra landsmanna og þar réði ekki minn smekkur einn, síður en svo, heldur þyrfti að taka tillit til fjölmargra atriða, sjónarmiða, og þá ekki sízt lesenda. Lesbókin hefði til að mynda birt mikið af vondum kvæðum en þau sýndu umhverfið og vörpuðu ljósi á svo nefndan alþýðukveðskap, ekkert síður en það bezta sem til væri. Við birtum oft ágæt kvæði, það væri annað mál, og annars konar efni sem væri vel boðlegt, en við ritstjórn þyrfti að taka tillit til margra ólíkra atriða.
Kristján sagði að þetta væri ekki ósvipað en þó væri sá munur að í ljóðasafninu væru engin vond kvæði. Það mætti birta þessi ljóð hvar og hvenær sem væri, þau stæðu fyrir sínu, hvað sem öðru liði.

Að lokum féll talið að Njálu. Þá sagðist Kristján vel geta ímyndað sér að Sturla Þórðarson væri höfundur hennar. En þá einkum ef haft væri í huga að Íslendinga saga hans væri ekki endilega sagnfræði eða pottþétt heimildarit, heldur einskonar skáldskapur um samtímann; ég ímynda mér að Kristján hafi þá haft í huga að Íslendinga saga væri einskonar heimildaskáldsaga. En ef við litum á málið með þeim hætti væri Íslendinga saga mikil og merkileg ávísun á Njálu.
Sem sagt, höfundur sagnaskáldsögunnar Íslendinga saga væri mjög líklegur höfundur Njáls sögu.

13. júlí, laugardagur

Í Helgarpóstinum sl. fimmtudag, 11. þ.m., var svofelld klausa: „Í Tímanum í gær er því haldið fram að Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, muni hætta störfum á næsta ári þegar hann verður 67 ára. Sérfræðingar Tímans telja líklegt að Þorsteinn Pálsson taki við af Matthíasi, enda sé Þorsteinn orðið langþreyttur á Davíð og formennsku hans. Þetta er útaf fyrir sig athyglisverð kenning en á henni er þó einn galli og hann stór. Staðreyndin er einfaldlega sú að starfsmenn Morgunblaðsins þurfa ekki að láta af störfum fyrr en sjötíu ára eins og allir vita sem hafa fylgst hafa með gangi mála þar á bæ. Matthías Johannessen verður ekki sjötugur fyrr en árið 2000 og getur setið á sínum ritstjórastól út allt það ár. Það eru engin ellimörk á Matthíasi Johannessen nema síður sé, því hann er sprækari en nokkru sinni fyrr. Það eru því engar líkur á því að Tíminn komi Þorsteini í sæti Matthíasar fyrr en á næstu öld...”

Svo mörg eru þau orð! Ég held ekki það væri vinnandi vegur, hvorki fyrir Tímann né  neinn annan, að koma Þorsteini Pálssyni að sem ritstjóra Morgunblaðsins. Ástæðan er einfaldlega sú að framkvæmdastjóri blaðsins og fyrrverandi stjórnarformaður, Hallgrímur B. Geirsson, hefur að ég hygg litlar mætur á Þorsteini Pálssyni. Framkoma hans við Geir Hallgrímsson á sínum tíma þótti ekki til fyrirmyndar og sjálfur er ég þeirrar skoðunar, án þess þó vita það til fulls, að fjölskylda Geirs Hallgrímssonar telji að Þorsteinn hafi svikið hann, eða komið í bakið á honum, á sínum tíma. Sverrir Hermannsson er a.m.k. á þeirri skoðun; að Þorsteinn hafi látið boð út ganga til fundar sjálfstæðismanna vestur í Stykkishólmi þess efnis að Geir væri reiðubúinn til að hætta formennsku í flokknum án þess það ætti við rök að styðjast. En fyrir bragðið, skilst mér, að Sverrir og aðrir hafi talið á fundinum fyrir vestan að nýta ætti þetta lag til að koma nýrri skipan á forystumál flokksins.
Sverrir hefur áhyggjur af því að hann sé talinn einn af „svikurunum” en heldur því fast fram að það sé ekki, hann hafi einungis brugðizt við þeim boðskap sem Þorsteinn hafi látið flytja á fund sjálfstæðismanna fyrir vestan þess efnis að Geir væri reiðubúinn að hætta formennsku.

Allt væri þetta nægileg ástæða til að Þorsteinn kæmi ekki að Morgunblaðinu. Hitt er svo annað mál að hann er vanur blaðamaður og gerði ýmislegt vel þegar hann var á Vísi á sínum tíma og ég átti ágætt samstarf við hann á Morgunblaðinu meðan það var. En ritstjóri Morgunblaðsins getur ekki gengið erinda sægreifanna, stefna blaðsins hefur verið aðhaldssöm krafa um að menn greiddu fyrir forréttindi í tenglsum við auðlindina en á það hefur Þorsteinn ekki mátt heyra minnzt. Morgunblaðið breytir ekki um stefnu á einni nóttu. Það má vera að stjórnmálamenn komist upp með það en það fer dagblöðum illa.

Björn Bjarnason er eitthvað að reka hornin í okkur í tölvubréfi sínu 30. júní sl. ef ég man rétt; segir að helztu fjölmiðlar taki afstöðu í veigamiklum málum eins og forsetakosningum og það sé alrangt að þar á bæjum ríki eitthvert hlutleysi. Veit ég vel, Morgunblaðið hefur tekið afstöðu í forsetakosningum – og það undir minni stjórn. En menn verða að hafa einhverja sannfæringu fyrir því sem þeir styðja. Ég þarf þess a.m.k. og ég veit að Styrmir er sama sinnis.

Morgunblaðið getur ekki tekið þátt í því að styðja einn til að fella annan. Margir kusu Ólaf Ragnar til að fella Pétur, fulltrúa höfðingjanna og hefðarinnar, eins og sagt var. Aðrir kusu Pétur til að fella Ólaf Ragnar, fulltrúa hinnar sósíalísku arfleifðar á Íslandi. Sumir kusu Guðrúnu Agnarsdóttur til að fella þá báða og koma konu að, en það getur varla verið markmið í sjálfu sér. Svo voru auðvitað aðrir sem kusu sinn frambjóðanda af sannfæringu. en mér er til efs að þeir hafi verið margir. Það var undantekning ef ég hitti slíkt fólk. Eina leiðin til að fella Ólaf Ragnar hefði verið sú að Pétur drægi sig einnig í hlé því að hann var fastur í 30% og náði lítið út fyrir harðan kjarnna Sjálfstæðisflokksins.
En hver segir að það hafi endilega verið betri kostur að kjósa Guðrúnu Agnarsdóttur en Ólaf Ragnar Grímsson? Það hefði ekki verið nein söguleg hefð fyrir því að Morgunblaðið styddi hana, því síður Ólaf Ragnar Grímsson. Ef kosningaslagurinn hefði verið barátta milli Ólafs Ragnars og Davíðs Oddssonar, svo að dæmi sé tekið, þá hefðum við kannski komizt upp með að styðja Davíð Oddsson á lokasprettinum; ég veit það þó ekki eins og margt fólk lét í þessum kosningum. Tilfinningasemi þess jaðraði við móðursýki. en það hefði verið söguleg hefð fyrir því ef við hefðum stutt Davíð í slíkri baráttu. Það hefði að sjálfsögðu mátt færa rök fyrir málefnalegri samfylgd formanns Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins.
En þessi staða kom bara ekki upp.
Ég geri ráð fyrir að við hefðum orðið að taka afstöðu ef hún hefði blasað við. Og það er enginn efi í mínum huga að við hefðum á sögulegum og málefnalegum forsendum rétt Davíð Oddssyni hjálparhönd á örlagastund. Hitt er svo annað mál að ég er engan veginn viss um að hann hefði þegið slíkan stuðning. Morgunblaðið er vald og fólk kýs gegn valdi ef því er að skipta.
Við gátum ekki neitað að birta auglýsingarnar sem fóru mest í taugarnar á almenningi fyrir forsetakosningar;  hinar svokölluð neikvæðu auglýsingar sem ég hef minnzt á í þessum dagbókarblöðum. Það var ekkert í þeim sem réttlætir slíka neitun og meirihluti kjósenda telur þær réttar. Samt hefðum við helzt viljað losna við þær. Það er enginn vafi á því að þær sköðuðu blaðið. En það hefði þótt saga til næsta bæjar ef við hefðum neitað að birta auglýsingar sem byggðust á staðreyndum um fortíð ÓRG. Þá hefði sjálfstæðiskjarninn rekið upp ramakvein og það hefði getað orðið okkur miklu skeinuhættara heldur en birting auglýsinganna. Þannig getur frelsið breytzt í andstæðu sína. Við vorum í raun og veru ekki frjálsir að þessum auglýsingum. Og við tókum þann kostinn sem okkur þótti skömminni til skárri. Hann var auk þess í samræmi við opnun Morgunblaðsins og það frjálsa torgandrúm sem ég hef stundum minnzt á; það er allt og sumt..........

               
En að öðru :
Allt á veraldarvafstrið  rætur í einhverri vöntun, einhverju andlegu tómi sem Þórbergur talar við mig um laugardaginn 6. desember 1950 og sagt er frá í Kompaníinu.  Menn eru að streða við að fylla þetta tóm „en það skrýtna við þetta er það að tómið fyllist aldrei. Og maðurinn er raunar alveg jafntómur og jafnvesæll að leiðarlokum sem í upphafi leiðarinnar. Þetta er eitt af því skrítna við lífið. Tómið verður aðeins fyllt með því að losa sig við strefið við að fylla tómið. Losa sig við persónuleikann, sem ég er frægur fyrir að hafa kallað svo, því strefið á rætur sínar í persónuleikanum. Hann er hnútarnir í sálarlífinu. Þegar menn hafa leyst hnútana, ljóma þeir eins og fagurt ljós”.

Það mættu vera fleiri fögur ljós á Íslandi um þessar mundir. Það er mikil vöntun í öllum áttum; mikið af tómi. Margt sem minnir á þorstann í helvíti. Þeir sem í fyrirrúmi eru streða eftir upphefð sem stækkar tómið en fyllir það ekki. Þessi keppni um frægð er hlægileg í frægðarlausu landi.
Hvert er svarið við þessu strefi?
Auðvitað – að rækta garðinn sinn. En þá man ég einnig það sem Þórbergur sagði við mig 12. desember, að kvöldi:
„Hvar sem drottinn gróðursetur fagurt blóm á Íslandi, þar er djöfullinn kominn með blaðlúsina.”

Það var áreiðanlega engin tilviljun að ég laðaðist að Þórbergi. Við áttum svo margt sameiginlegt; afstöðuna, lífsviðhorfið. Allt nema kommúnismann
. „Annars er það einkennilegt,” segir hann,  einnig laugardaginn 6. desember, „hvað margt fólk á erfitt með að laga sig hvert að öðru. Það vill vera svo rismiklar persónur að hvorug lætur undan fyrir hinni. Þegar ég mæti stórri persónu, reyni ég alltaf að vera lítil persóna til þess að stóra persónan hafi þá ánægju að vera ennþá stærri. Það er líka nokkuð algengur veikleiki í fari manna að slá sér upp á annars kostnað, að vera stórir þegar nokkrir eru viðstaddir, segja þá eitthvað vanvirðulegt um einn, gera hann hlægilegan og horfa svo upp á hina og spyrja með uppétandi augnaráði: var þetta ekki helvíti sniðugt hjá mér? – Þetta er nokkuð algengt í fari manna. Annars er stór persóna aldrei stór, hún dregur sig í hlé og þegir.”

14. júlí, sunnudagur

Þurfum endilega að fara að athuga sunnudagsblaðið, það er að verða alltof þröngt. Auglýsingar hafa aukizt svo mikið að þær þrengja að öðru efni með þeim hætti að blaðið er að breytast í appelsínubörk. Nú erum við búnir að fullvinna eitt blað úr Lesbók og Menningarblaði. Það hefur tekizt vel. Nú þarf að snúa sér að Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Auglýsingarnar eru að verða eins og 1986 eða 1987, ég man það ekki nákvæmlega. Þær eru að vísu ekki eins og arfi sem allt leggur undir sig; þvert á móti eru þær eins og lúpínan sem býr moldina undir mikinn gróður. Þess vegna verðum við að taka rækilega tillit til þeirra. En lúpínan má ekki eyðileggja mikinn gróður. Nú þurfum við að rækta upp nýtt sunnudagsblað og breyta appelsínuberkinum í safaríkan ávöxt.

Morgunblaðinu hefur vegnað vel. Það er stanzlaust á uppleið. Það er komið í 57.000 eintök á sunnudögum, 54.000 eintök á laugardögum en eitthvað minna hversdagslega. Meðalupplag er milli 53 og 54 þúsund eintök. Lausasalan hefur líklega aldrei verið meiri en nú. Það er uppörvandi.

Á sama tíma og þessi uppgangur Morgunblaðsins blasir við hefur Dagblaðið minnkað niður í 28.000 prentuð eintök. Á sínum tíma sögðust þeir vera að ná okkur. Ég man ekki betur en þeir segðust vera komnir í 40.000 eintök og það munaði innan við 5 þúsund eintökum á Dagblaðinu og Morgunblaðinu. Nú munar tæpum 30 þúsund eintökum! Það hallar undan fæti fyrir þeim. Ég fagna því ekki. Við þurfum á Dagblaðinu að halda. Það veitir okkur aðhald, það er hvatning.Og prentun þess er tekjulind sem skiptir talsverðu  máli.
Þegar öldur Dagblaðsins rísa verðum við að standa vaktina í brúnni eins og Jón Eiríksson gerði þegar við lentum á Brúarfossi í illviðri á Eystrasalti sællar minningar. Við þurfum á að halda þessari söltu hvatningu. Tíminn og Alþýðublaðið eru ekkert aðhald. Ljósvakarnir þó nokkurt en þeir veita okkur ekki þá yfirburðasamkeppni sem ég óttaðist á sínum tíma, síður en svo. Dagblaðið eitt hefur getað látið okkur hafa hitann í haldinu. Megi það örva okkur áfram. En því miður sé ég ekki merki um neinn sérstakan öldugang. Samt þurfum við að rífa okkur uppúr sunnudagslægðinni og þá helzt með jafngóðum árangri og þegar við breyttum Lesbók/Menningarblaði.
Þá var Árni Jörgensen betri en enginn eins og alltaf.

 

Kvöldið

Sé af smásögu Melvilles Bartleby að hún er einskonar fyrirmynd að Leigjanda Svövu Jakobsdóttur því að hún fjallar um mann sem er ráðinn á skrifstofu, verður þar þaulsetinn, hættir að vinna og gerir ekkert nema það sem hann vill heldur, en það er að setjast að í skrifstofunni, njóta þess að eigandinn er góðviljaður maður sem skirrist við að stjaka við honum eða reka hann út á gaddinn. Og að því kemur að hann er orðinn einskonar vofa í skrifstofunni. Eigandinn á ekki annars úrkosta en flytja með allt sitt hafurtask út úr skrifstofunni og skilja Bartleby einan eftir í gömlu húsakynnunum. Hann veldur þar miklum óþægindum og nágrannarnir vilja þá einnig losna við hann. En Bartleby fyllir upp í umhverfi sitt eins og bjalla Kafkas, skrifstofumaðurinn leggur undir sig skrifstofuna eins og leigjandi sem leggur undir sig húsnæði sem hann á ekki. En hann er sinnulaus, veslast upp og deyr.
Þetta er merkileg saga um ekki neitt; þ.e.a.s. allt milli himins og jarðar. Táknsaga eða dæmisaga úr lífinu, sem sagt einhvers konar allegóría um samskipti fólks og þá alveg eins her í framandi landi eins og hvað annað, en um það fjallar víst saga Svövu án þess ég viti það.

Ég hef ekki hugmynd um hvort Svava Jakobsdóttir þekkir þessa sögu Melvilles um Bartleby og gæti bezt trúað að hún hafi aldrei lesið hana. En það er með eindæmum hvernig hugmyndir ferðast eins og flökkudýr úr einu umhverfi í annað; eða frá einum manni til annars. Það væri líklega ekkert auðveldara en sýna fram á að þessi saga Melvilles sé fyrirmynd Svövu Jakobsdóttur að Leigjandanum, færa að því fullgild rök og nefna tilvitnuð dæmi því til staðfestingar.
Ég ætla ekki að spyrja Svövu hvort hún þekkir þessa sögu Melvilles. Mér er nákvæmlega sama. Mér finnst það ævintýri í sjálfu sér að vita það ekki. Skáldskapur er til þess að láta hugann reika; leysa úr læðingi.  Hann er ekki til að hefta hugsunina, stöðva hana; færa hana í fjötra.
Og nú hef ég eignazt nýjar víddir í hugmyndaflugið, þ.e. að vita ekki og vonandi fæ ég aldrei að vita hvort Svava hafði lesið Bartleby þegar hún skrifaði Leigjandann.

Bartleby er tímamótasaga og ég er ekki frá því að hún sé undanfari Kafka, en hef ekki hugmynd um hvort Kafka þekkti Bartleby eða ekki. Hitt er annað mál að Svava Jakobsdóttir hefur áreiðanlega þekkt Kafka þegar hún skrifaði Leigjandann.

Að forsetakosningunum loknum hvarflar hugurinn aðeins að því hve Ólafur Thors hafði réttari afstöðu til forsetaembættisins en flestir sem um það hafa fjallað. Ólafur var hégómalaus maður gagnvart tildri og ekkert villti honum sýn í þeim efnum. Hann sá í gegnum hégómann – og forsetaembættið (sbr. Ólaf sögu II, 247 og áfram).

Ég var eitthvað að minnast á Jónas Hallgrímsson og Alsnjóa! Ég á að tala um hann, trú hans og skáldskap á Hólahátíð um miðjan ágúst, að ósk vígslubyskups, sr. Bolla skálds Gústafssonar. Mér er það heldur ljúft. Hef áhuga á því að koma viðhorfum mínum um Jónas á framfæri sem víðast. Fólk les víst minna en áður og því er nauðsynlegt að flytja erindi eða lesa upp. Á 138. bls. í bók minni um Jónas er talað um útlenda áhrifamenn sem vísuðu íslenzkum brautryðjendum veginn þegar rómantíska stefnan tók við af skynsemisstefnunni; eða upplýsingunni. Þar hefði mátt bæta við þýzka guðfræðingnum Herder (d. 1803) sem var einn af heimspekingum stefnunnar, safnaði saman þjóðkvæðum, m.a. eddukvæðum, í safnrit, Volkslieder og lagði áherzlu á historískt landslag; benti á að listin væri í lífrænum tengslum við umhverfið og til hans sóttu fjölnismenn e.t.v. orð eins og þjóðarandi eins og Gunnar prófessor Karlsson hefur víst bent á. Þarf að athuga það nánar. En hin heilaga jörð Jónasar, t.a.m. Þingvellir og Gunnarshólmi, bera þó fremur anda guðs vitni en þjóðinni. Jónas er alltaf að fjalla um hina innblásnu jörð skaparans þegar hann minnist á sögulegt landslag, sbr. en lágum hlífir hulinn verndarkraftur í Gunnarshólma og  Drottins hönd þeim vörnum veldur í Fjallinu Skjaldbreiður.


21. júlí,  sunnudagur

Hef verið að horfa á Olympíusjónvarp. Alltaf sami áhuginn á íþróttum(!) Horfði líka á samtal Larry Kings við Billy Graham, m.a. um Reagan sem hann virðist meta mikils. Hann sagði að Reagan hafi alltaf getað fundið leið að fólki og til marks um það hefði allt verið í hnút í samtölum þeirra Gorbatsjefs á Reykjavíkurfundinum og engin ástæða til bjartsýni, en þegar fundur hófst á ný í Höfða morguninn eftir hafi Reagan byrjað daginn með því að segja Gorba kúrekasögur og við það hafi hann komizt í gott skap og fundurinn hafizt á léttum nótum.
Þannig fann Reagan leiðina að leiðtoga Sovétríkjanna. Það hríslaðist um mig óvænt gleði og óbeizlað stolt þegar Graham nefndi Ísland í þessum vinsæla þætti. Það er stutt í þjóðarstoltið þótt maður reyni sitt bezta til að hemja það, svona hversdagslega! Það er svo stutt leið milli stolts og minnimáttarkenndar; og þá ekki síður þjóðarstolts og þjóðarrembings.


23. júlí, þriðjudagur

Guðmundur Steinsson verður jarðsunginn í dag. Fékk svofellt bréf frá Sigurði A. Magnússyni, ásamt minningargrein um Guðmund.

„18.7. 1996.

Matti minn.

Ég sendi þér hjálögð minningarorð um Guðmund vin okkar og vona að þau berist þér í tæka tíð fyrir jarðarförina. Ég hefðu gjarna viljað hafa þau fleiri og betri, en maður er hálfvængstýfður hér útí Danaveldi án heimilda og tölvulaus. Við náðum aldrei að eiga sameiginlega stund með Guðmundi einsog til stóð, og má kannski kenna mér um það, en mér skilst að heilsu hans hafi hrakað til þeirra muna á síðustu mánuðum, að slíkt hefði sennilega ekki komið til mála. – Ég kem heim 30. júlí, og þá verður vonandi tóm til endurfunda.

Með kærri kveðju,

Þinn gamli vinur,

Diddi.”

Skrifaði svofellda minningargrein um Guðmund í Morgunblaðinu, með hliðsjón af dagbókinni föstudaginn 24. nóvember sl.:

„Þegar við Guðmundur Steinsson og Sigurður A. Magnússon hittumst síðast allir, það var föstudaginn 24. nóvember sl., mátti ljóst vera að við SAM höfum ekki náð þeim þroska mikillar reynslu sem Guðmundur vinur okkar gat státað af; erum enn að veltast í jarðbundnum hrellingum líkamans og höfum ekki losnað við neitt sem er þessa heims, hvorki kvíða né áhyggjur né aðrar kenndir sem manninum fylgja. En Guðmundur vinur okkar var að breytast í þessa heims eilífðarveru með ótrúlega þroskuðu viðhorfi vegna óvæntrar, hastarlegrar reynslu. Hann hafði að vísu ávallt verið í góðu jafnvægi en átt sína eigingirni eins og við hin. En eftir þessa sjúkdómsreynslu sagðist hann vera gjörsamlega laus við hana og þá einnig alla öfund og afbrýðisemi, mannjöfnuð og samanburð sem verkar æsandi á tilfinningalífið og setur fólk úr jafnvægi.

Guðmundur hafði ávallt mikla löngun til að fara norður á Hornstrandir og lét það eftir sér í hitteðfyrra, að ég held. Þá fór hann í þrettán daga ferðalag með Ferðafélagi Íslands og naut þess til hins ýtrasta. Það reyndi á kraftana og hann fann að hann átti þrek sem hann þekkti ekki áður og svo þessa samsömun við náttúruna sem er annarri reynslu bæði mikilvægari og dýrmætari. Guðmundur stóð sig eins og hetja í Hornstrandaferðinni og taldi hana nauðsynlegan undirbúning undir þá miklu baráttu sem framundan var; að hann hafi getað tekið áfallinu af karlmannlegri rósemi vegna þessarar reynslu; eða öllu heldur ekki sízt vegna hennar. Hann var í fullkomnu jafnvægi og gat miðlað okkur gömlum vinum sínum af dýrmætri upplifun sem hann þekkti ekki áður og vissi raunar ekki að væri til. Ég sagði við þessa gömlu vini mína, Þetta minnir mig á setningu í Nýja testamentinu sem séra Bjarni lagði áherzlu á við okkur fermingarbörnin sín: að íklæðast krafti af hæðum. Guðmundur Steinsson taldi að vel mætti segja að hann hafi íklæðzt krafti af hæðum.

Við rifjuðum upp ýmislegt sem við áttum sameiginlegt frá þeim tíma þegar við vorum ung, upprennandi skáld í jafnómótaðri borg. En Guðmundur nefndi sérstaklega að nú hefði hann meiri unun af því að ganga fjöruna á Eyrarbakka en áður og þangað sækti hann og yndi sér vel og án þess þurfa að flýta sér suður. En áður kvaðst hann hafa verið fyrir austan eins og fló á skinni; eða kría á steini. Nú færðist yfir hann kyrrð og rósemi í fjörunni á Eyrarbakka og eitthvert jafnvægi sem hann hefði ekki þekkt áður, en væri að öllum líkindum í einhverjum tengslum við eilífðina. Og hann fór að minnast þess þegar við gengum þrír saman um þessa sömu fjöru upp úr miðri öldinni, í fylgd með Guðmundi vini okkar Daníelssyni, og það var eftirminnileg reynsla – og það var þá sem þú ortir um bóluþangið, bætti hann við brosandi.

Það var gott að þekkja Guðmund Steinsson. Hann var einlægur maður og heill í vináttu sinni. Og hann var stór andspænis dauðanum.

Matthías Johannessen”


2. ágúst, föstudagur

Í gær fór fram embættistaka nýs forseta, Ólafs Ragnars Grímssonar. Fylgdist lítið með því. Hef fengið nóg af þessum hátíðlegu stellingum í litlu landi sem þarf á öðru að halda en pompi og prakti. En fólkið vill sína hátíð og engar refjar. Ég held hinn nýi forseti hafi flutt nokkuð góða ræðu við embættistökuna en hef þó ekki grannskoðað það. Styrmir skrifaði leiðara í tilefni af ræðunni og ég lét mér vel líka. Hef verið að velta því fyrir mér hvernig stendur á allri þeirri móðursýki sem blossar upp öðru hverju í tengslum við þetta auma embætti. Það má helzt ekki segja neikvætt orð um forsetaembættið, þá rjúka varðhundar þess, sem eru ófáir í landinu, upp á háa c, móðgast fyrir hönd þjóðarinnar og hafa allt á hornum sér. Embættið á helzt að vera heilagt og ég er þess fullviss að það skiptir engu hver skipar það. Þjóðin vill sitt forsetaembætti og engar refjar. Og það er engu líkara en hún líti á það eins og einhvern goðsögulegan kraft sem verður að virða. Þetta er mikil sefjun, jaðrar oft við móðursýki, eins og ég sagði. Slík sefjun er að sjálfsögðu til í öllum löndum þar sem slík leiðtogadýrkun er daglegt brauð. Þessi sama sefjun, eða svipuð, var vegabréf Hitlers, Stalíns og Mússólínis inn í helförina miklu sem hafði næstum því gengið af mannkyninu dauðu. Auðvitað er þetta ýkt analógía en hún er samt ekki út í bláinn. Þessi forsetadýrkun okkar er manndýrkun sem á rætur langt aftur í öldum. Þetta eru líklega einhverjar leifar af heiðnum dómi sem blandaðist síðan saman við dýrlingatrú kaþólikka. Fólkið þarf að eiga sér sjáanlega leiðsögn. Guðdómurinn ósýnilegi dugar því ekki. Við stæðum líklega betur að vígi, já, heimurinn stæði líklega betur að vígi, ef þessi manndýrkun væri lotning fyrir guðdóminum. Sem kristinn maður á ég þá að sjálfsögðu við lotningu fyrir Kristi og arfleifð hans. Það er ekki mannaþefur af slíkri dýrkun. Hún er bezt varðveitt, að ég held, í dulúð orþódoxu kirkjunnar þar sem sefjunin beinist öll að þeim dulmagnaða, ósýnilega krafti sem guðdómurinn er. Og í því tilfelli, að sjálfsögðu, guðdómur Krists. Ég öfunda múslíma í aðra röndina af þeirri kraftbirting sem lýsir sér í lotningu þeirra fyrir Allah. Sumir leiðtogar þeirra hafa að vísu einnig getað tileinkað sér eitthvað af þessari tilbeiðslu og þá fer auðvitað allt úr böndum eins og í Írak. Hússein er eins og hver annar stalín og er í raun og veru í samkeppni við Allah, en hefur vit á því að telja fólkinu trú um að hann ekki sízt sé á vegum bókarinnar einu, Kóransins, og þannig í nánum tengslum við guðdóminn. Grikkir tignuðu gyðjur og guði sem líkjast mjög svipuðum goðum í ásatrú hinni fornu. Leifar af þessari trú hafa borizt  inn í kristna tilbeiðslu og á okkar öld höfum við jafnvel séð mennska leiðtoga tignaða eins og goðsöguleg fyrirbrigði. Stalín hafði vit á því að beina sefjunaráráttu rússnesks fólks að eigin persónu, jafnvel forseti Bandaríkjanna er af mörgum tignaður að því er virðist eins og Rómarkeisarar hinir fornu og þarf ekki annað en minnast þess þegar John F. Kennedy féll fyrir morðingjahendi, en þá var engu líkara en Akkilles eða Hektor hefðu fallið í orrustunni um Trojuborg. Nixon er jafnvel túlkaður í stórmynd Oliver Stones eins og einhvers konar goðkynjuð vera, jafnvel þegar hann fellur af stallinum. Undir lok myndarinnar stendur hann fyrir framan málverk af John F. Kennedy og talar við hann.
Þá er eins og tveir mannguðir horfist í augu þótt annar sé dauður.

Ég get ekki hugsað mér Ólaf Ragnar Grímsson sem einhverskonar mannguð, hvorki hann né nokkurn mann annan. Allt slíkt dekur ærir upp hégómann, tildrið og blekkinguna í umhverfinu og getur orðið lítilli þjóð fjötur um fót, þótt hitt sé rétt að lítil þjóð þarf ekki síður á að halda einhverju sameiningartákni. Jón Sigurðsson er slíkt tákn, Jónas Hallgrímsson einnig. Hann er sú mannvera sem ég gæti helzt hugsað mér í goðkynjuðu hlutverki. Það er kannski vegna þess að hann hefur flutt hið goðsögulega fagnaðarerindi betur en nokkur annar.

Forsetaembættið er arfleifð úr fornöld. Því meir sem ég hugsa um það tel ég að það sé einhvers konar framhald af heilögu embætti lögsögumannsins. Líklega hefðum við átt að kalla forsetaembættið lögsögumannsembætti enda er það eitt hið merkasta embætti í sögu vestrænna þjóða og hefði verið skemmtileg tenging við arfleifð okkar, uppruna og þá ekki sízt það goðsögulega andrúm og þá sefjun sem margir krefjast andspænis forsetaembættinu. Það minnir eiginlega á hlutverk galdramannsins í þorpum Afríku á sínum tíma. Töframaðurinn hafði allt í hendi sér. Það var öruggast að umgangast hann og töfraformúlur hans af þeirri lotningu sem sá gat krafizt sem allt hefur í hendi sér. Það er ekki ónýtt að hafa slíkt goðkynjað fyrirbæri á sínu bandi ef í nauðir rekur.
Forsetinn íslenzki er þannig einskonar töframaður í íslenzku umhverfi og það er betra að sýna honum þá lotninu sem krafizt er ef menn vilja ekki lenda í þeim sjóðandi potti sem gat beðið trúboðanna ef þeir mökkuðu ekki rétt!

Allt þetta skal ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig, var einhvern tíma sagt. Mér detta þessi orð í hug þegar ég hugsa um sefjunar- og móðursýkisköst sumra þeirra sem halda að forsetaembættið sé sá hvíti galdur sem allt hefur á valdi sínu. Ég hef aldrei getað gengizt undir það jarðarmen sem fylgir þeirri dýrkun og þeirri heilögu vandlætingu sem brýzt einatt út í tengslum við þetta blessaða embætti. Og ég held ekki ég eigi eftir að ganga í barndóm með þeim hætti að ég geti vanizt þeim mannaþef sem þessari dýrkun fylgir.

Hef verið að yrkja talsvert eins og sjá má. Hef sent Kristjáni Karlssyni þessar yrkingar jafnóðum og nú síðast eftir norðurförina til Akureyrar. Þarna eru kvæði sem skírskota í Jónas og Tómas Guðmundsson, ég nota óbeinar tilvitnanir í Þið þekkið fold, þ.e.a.s. blíðri brá, og lýsingarorð Tómasar safírblár, en var í vafa um hvort það væri leyfilegt, spurði Kristján og hann segir það sé meira en leyfilegt, þetta séu augljósar skírskotanir í Jónas og Tómas og fari mjög vel á því. Ég veit það er gamaldags að nota slíkt tungutak í nútímakvæði en ég geri það eins og ekkert sé til að stytta mér leiðina inn í skáldskap þessara snillinga og leyfa þeim að vaxa með mér inn í nýjan skáldskap. Þetta getur virzt heldur barnalegt, jafnvel gamaldags, en Kristján segir að svo sé ekki. Þetta séu fín kvæði, einföld og ljós og falleg og birtan í þeim komi innanfrá. Ekki sé auðvelt að lýsa henni. Mér þótti vænt um þessa einkunn því ég hef satt að segja verið á báðum áttum en er það ekki lengur. Slík afstaða Kristjáns vinar míns veitir mér öryggi í óvissu.
Sýndi Árna Jörgensen þessi kvæði einnig, hafði gaman af því að hann er sama sinnis og Kristján.

Fékk kvæði frá Kristjáni um daginn, Meðan við treystum því meðan við trúum því, en í því eru skírskotanir í Þjóðsögur Jóns Árnasonar um viðskipti Kölska og Kolbeins, Það er ekki skáldskapur a tarna, Kolbeinn, eins og segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Þetta kvæði er ort með Kolbeinslag Stephans G. Stephanssonar í huga. Kristján segir að það sé ekkert sérlega vel ort kvæði en efnið athyglisvert. Hann segir að Stephan sé misskilið skáld. Ég ætla að tala nánar um það við hann þegar við hittumst næst. Ég skrifaði Kristjáni nokkrar línur um þetta ágæta kvæði hans og tel mig skilja það; held það fjalli um arfleifðina og varðveizlu hennar eins og raunar Kolbeinslag Stephans G. Þar er að ég hygg Kölski í hlutverki þeirra afla sem vega að arfleifð okkar kotbændanna hér úti í ballarhafi og reyna að eyðileggja málsmenningarhefð okkar. Kristján segir í sínu kvæði:

„Kolbeinn sem kvaðst á við fjandann?”

kvaðst á við Kolbein tvö
skáld búa í eðli manns, tvö
þjóðskáld kváðust á

í brjósti Kolbeins og
góðskáld kvað höfuðskáld
í kútinn

„og ímynd vor, menningin málið sigraði!”

Í mínu stutta bréfi til Kristjáns minnist ég á að þau litlu kvæði sem ég hef ort í hefðbundnum hætti undanfarið eru vaxin út úr þessari arfleifð okkar sem einu sinni var talsvert bundin orðum eins og túnl og únl. Hann talar um það í kvæði sínu að rós okkar beri ilm í stað þess að ilma sjálf og ég gat þess jafnvel að rósin ætti að ilma fyrir augað. Og undir það tók Kristján í símtali okkar. En kannski eigum við eftir að tala eitthvað meira um þetta hnýsilega kvæði Kristjáns og Kolbeinslag Stephans G. En þar segir þetta misskilda skáld vestur íslendinga:

„... að skorturinn spanar upp eðli vort illt,
en auðurinn ræktar vort bezta”

Og ennfremur:

Ið greiðasta skeið til að skrílmenna þjóð
er skemmdir á tungunni að vinna.
Frá hugsanaleysi er afturför óð
til apanna, bræðrunga sinna.

Og ennfremur:

Ég held in íslenzka þjóð yrði þjál
að þrælseljast uppskafningsdönsku.
Svo breyti eg um vélar um vog og um mál
og viðeyk þá skrælingjafrönsku.

Og ennfremur:

En alþýðuskáld eru þröskuldur þar
í þjóðernislífsseigju kliða.
Og þráin til alls sem að veglegast var,
hún vaknar, er stuðlarnir iða.

Þannig jöxlum við arfleifðina með ýmsum hætti og Kolbeinn og Stephan jöxluðu hana einnig með sínum hætti:

Því eðli Kolbeins var yfirmennt
hann orkaði því, sem er fáum hent,
að lepja upp mola um lífsins stig,
en láta ekki baslið smækka sig.

Þannig hefur íslenzka þjóðin einnig lifað af í gegnum myrkar aldir og vonandi á hún einnig eftir að lifa þannig af gegnum þá plastöld yfirborðsmennsku, hégóma og virðingarleysis fyrir raunverulegum verðmætum sem við nú lifum. En þá má líka minnast þess að við þurfum enn að horfast í augu við það sama og Kolbeinn:

Þeir skulu aldrei af sér láta ættjörð kúga.

Kölski:

Ómennskunni á sig trúa
og þeim bezt sem naprast ljúga.

Og loks:

Kolbeinn:
Vissi eg þú ert sá,
er sjaldnast satt orð talar!

Kölski:
Þeim, er svona sjálfsdáð galar,
sannleikurinn er til kvalar.

Þannig höfum við þurft að lifa og þannig erum við líklega einnig dæmd til að lifa áfram.
En er þá Kölski atómskáldið í þessum leik;módernistinn?!!

Kvöld:

Nú er Rannveig Ágústsdóttir dáin. Hún var merk kona og ágæt. Hún var ritari Þjóðhátíðarnefndar 1974 allan tímann sem hún starfaði. Vann þar ómetanlegt verk. Hef haft hlýjar tilfinningar til hennar æ síðan. Hún var bókmenntafróð kona og mér þótti vænt um það á sínum tíma þegar hún skrifaði ritgerð um ljóð mín í Háskólanum. Hún varð framkvæmdastjóri Rithöfundasambands Íslands og af því varð sómi fyrir sambandið. Hún var róttæk kona, en raunsæ. Einkavinkona Vilborgar Dagbjartsdóttur sem ég hygg muni skrifa um hana minningargrein í Morgunblaðið. Róttækar konur af þessari gerð varpa hlýlegri blæ á umhverfið. Silja Aðalsteinsdóttir skapar einnig slíkt umhverfi í kringum sig.
Ég hugsa ekki um stjórnmál þegar slíkar konur eiga í hlut, heldur vináttusamlegt umburðarlyndi og ræktandi afstöðu. Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnzt Rannveigu Ágústsdóttur. Hún er eftirminnileg kona og hún hafði mannbætandi áhrif á umhverfi sitt.


3. ágúst, laugardagur

Vilhelm G. Kristinsson skrifar stutta en athyglisverða grein í dag. Þar segir hann m.a. svo: „Útlendingar sem hingað koma oftar en einu sinni eru iðulega nefndir Íslandsvinir og eru þá vinsælt fréttaefni fyrir það eitt að kunna vel við sig hér á landi. Einnig erum við mjög upptekin af því hvernig löndum okkar vegnar í útlöndum. Mörg dæmi eru til um að listamenn hafi ekki öðlast náð fyrir augum okkar fyrr en þeir hafa hlotið viðurkenningu í útlöndum. Fjölmiðlar eru iðnir við að segja frá Íslendingum sem gera það gott á erlendri grund, enda vinsælt efni hjá okkur naflaskoðurum.

Þessi heimóttarskapur er vafalítið sprottinn af einangrun okkar hér norður í Dumbshafi og þörf hins afskipta fyrir viðurkenningu og að vera talinn gildur í samfélagi þjóðanna.

Í nýafstöðnum forsetakosningum endurspeglaðist heimóttarskapurinn á einkar afgerandi hátt. Þar kom í ljós að hæfni í samskiptum við útlendinga var þyngri á metunum hjá kjósendum sigurvegarans en það hvernig hann stæði sig á heimavelli. Í Morgunblaðinu laugardaginn 27. júlí eru birtar niðurstöður skoðanakönnunar sem Félagsvísindastofnun Háskólans gerði fyrir blaðið um forsetakosningarnar. Þar kemur í ljós, að flestir stuðningsmanna nýkjörins forseta, eða 69%, segja að hæfni hans í samskiptum við útlendinga hafi verið mjög mikilvæg ástæða fyrir vali þeirra í kosningunum. Almenn framkoma, heiðarleiki og hæfni í samskiptum við þjóðina koma þar á eftir.

Í ljósi þess hve útlendingar og samskiptin við þá virðast mikilvæg í augum Íslendinga er einkennilegt að rúm 40% þeirra skyldu í kosningunum velja frambjóðanda sem um árabil kaus að taka sér stöðu í þeirri stjórnmálafylkingu sem hve hatrammast barðist gegn mörgum helztu grundvallarþáttunum í utanríkisstefnu þjóðarinnar undangengna  áratugi, það er að segja samstarfi Íslendinga við nágranna- og vinaþjóðir sínar um viðskipti og varnir.” (Morgunblaðið).

Svo mörg eru þau orð og þau eru jafnrétt og fullyrðingarnar í hinum bannfærðu neikvæðu auglýsingum um fortíð Ólafs Ragnars Grímssonar sem birtust fyrir kosningar og urðu til þess að nokkur hluti þjóðarinnar hafnaði í einhvers konar móðursýkiskasti sem minnti einna helzt á trumbuslátt og regndansa í frumskógaþorpum.

Í þessu sama Morgunblaði er samtal við ungan íslenzkan bókmenntafræðing, Sigríði Gunnlaugsdóttur, sem hefur stundað nám í Kanada og skrifar um Doris Lessing og Nadine Gordimer, en þær voru báðar upp aldar í Afríku. Lessing í Suður-Rhodesiu frá fimm ára aldri, en Gordimer er fædd og uppalin í sunnanverðri Afríku. Hún hefur hlotið nóbelsverðlaun. Ég hef lesið talsvert eftir þær báðar, þ.á m. bók Lessing um stríðið í Afganistan. Hún var kommúnisti, en „þegar frá leið snerist hún alfarið gegn kommúnismanum og talaði eindregið gegn honum og því sem átti sér stað í Austur-Evrópu. Upp úr því fékk hún áhuga á kenningum sálkönnuðarins R.D. Langs og snerist á sveif með súfisma, sem er austræn dulhyggju- og meinlætastefna,” eins og Sigríður kemst að orði. Og hún bætir við: „Ég sé í skrifum Gordimers og Lessings tvær megináherslur, þ.e. pólitíska meðvitund og áhrif frá rómantísku stefnunni sem felur í sér áherslu á ímyndunarafl mannsins. Sumir fræðimenn sem hafa séð þetta tvennt að verki hafa litið á þetta sem galla í þeirra verkum. Ég tel hins vegar að þetta komi saman og rómantískum tilhneigingum þeirra svipi til rómantíkur Shelleys og Blakes, sem felur í sér að áherslan á einstaklinginn og listamanninn sé grunnforsenda fyrir því að hægt sé að breyta þjóðfélaginu. Því er þessi rómantíski hluti af þeirra lífsviðhorfum í raun pólitískur.”

Þetta er harla athyglisverð niðurstaða.


4. ágúst, sunnudagur

Í Morgunblaðinu um helgina er allítarlegt viðtal við nýkjörinn forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, þar sem hann segir að sér þyki glíman á vettvangi íslenzkra stjórnvalda fela í sér mikla endurtekningu, yfirleitt sé verið að ræða sömu atriði ár eftir ár og þá einkum og sér í lagi fjallað sífelldlega um efnahagsmál. Hann telur að ákveðin endurnýjun þurfi að eiga sér stað á vettvangi íslenzkra stjórnmála, bæði að því er snertir innihald og umbúðir og umræðustíl. Því mætti svo bæta við, eins og við höfum getið í Morgunblaðinu oftar en einu sinni, að öll stjórnmál nú um stundir eru þverpólitísk og ekki tekizt á um nein grundvallaratriði. Allir flokkar eru að tönnlast á því sama og engin glíma upp á líf og dauða eins og var þegar barizt var við heimskommúnismann í kalda stríðinu. Allt hefur þetta slævt vopnin. Manni er í raun að verða nákvæmlega sama hver fer með völdin í landinu, það skiptir svo sem litlu máli eða engu. Það væri þá einna helzt í tengslum við auðlindina og skatta en þó hefur mér virzt að sjálfstæðismenn séu orðnir jafn skattglaðir og aðrir, a.m.k. víla þeir ekki fyrir sér að leggja á fjármagnstekjuskatt, en vernda þó stórfelldan arð eða tekjur af hlutabréfum en refsa hinum sem vinna fyrir jafnháum upphæðum, og leggja blessun sína yfir stóreignaskatt. Ég sé ekki að þeir hafi neinn sérstakan áhuga á því að lækka skatta í landinu, til að mynda með veiðigjaldi á auðlindina eins og  Gylfi Þ. Gíslason benti á í tveimur ágætum greinum í Morgunblaðinu nýlega, eða sérstöku átaki til að ná í skottið á þeim skattarefum sem svíkja að því talið er tíu til ellefu milljarða undan skatti hvert ár, en þá upphæð þurfum við hin að sjálfsögðu að greiða svo að endar nái saman. Í raun kemur þetta pólitík lítið sem ekkert við. Þetta eru einungis skattatæknileg atriði, án átaka um grundvallaratriði eins og  frelsi eða kommúnisma. Það er að mínu viti ekki laust við að þessi slappleiki beri vott um einhvers konar pólitíska spillingu, a.m.k. geta meðaljónar leikið lausum hala í íslenzkri pólitík án þess miklar kröfur séu gerðar til þeirra og lítið fer fyrir hugsjónamönnum á Alþingi Íslendinga nú um stundir. Svavar Gestsson hefur að mínu viti áttað sig betur á staðreyndum en margir aðrir og sýnt þónokkur tilþrif á Alþingi, enda sterkur ræðumaður. Jón Baldvin Hannibalsson er einnig að mínu viti mjög sterkur ræðumaður og berst af krafti fyrir hugsjón Evrópustefnunnar, hvað sem um hana má segja að öðru leyti, en Halldór Ásgrímsson nýtur sín ekki með þeim hætti sem efni stóðu til þótt hann sé sanngjarn maður og viðræðugóður, en það vantar ekki að hann sé þungur á bárunni.
Ég heyri að Davíð Oddsson hefur mjög sterka stöðu sem forsætisráðherra og forystumaður á þingi og ég held að hann sé mesti stjórnmálamaður landsins í dag þegar öllu er á botninn hvolft. Hann getur verið ófyrirleitinn og afar viðkvæmur fyrir eigin stöðu, en hann veitir sterka forystu, en umfram allt –  hann þorir. Það er ævinlega eitt helzta einkenni merkra og mikilhæfra stjórnmálamanna. Tilfinningar mínar til Davíðs Oddssonar eru ekki jafnpersónulegar og áður. Við höfum lítið sem ekkert talað saman en milli okkar er vonandi einhver silfurþráður sem hefur ekki slitnað þótt ritstjóri Morgunblaðsins hafi farið á mis við hjartalag forsætisráðherrans, en það verður svo að vera og gerir ekkert til, a.m.k. meðan allt er tíðindalaust á þeim vígstöðvunum.
En hitt er svo annað mál að ég veit ekki til þess að Ólafur Ragnar Grímsson hafi lyft litlafingri til að bæta ástandið á Alþingi Íslendinga meðan hann var þar í forystu fyrir sínum flokki. Þar gat hann brugðið fyrir sig þeim lágkúrulega málflutningi endurtekningarinnar sem hann nú átelur í gagnrýni sinni.
En hvað sem því líður þá er batnandi manni bezt að lifa. Ástæðan til þess að Ólafur Ragnar talar í þessari tóntegund er auðvitað sú að hann getur ekki notað gamla lagið þar sem hann slær nú um sig í hinu heilaga embætti töframannsins í þorpinu.
En allt er það samt rétt sem hann tíundar í morgunblaðssamtalinu og hefði mátt koma fram meðan hann sjálfur var ein helzta síbyljan á Alþingi Íslendinga. Ég vona samt að honum takist að fóta sig í þessu nýja embætti. Það hefur verið sagt að þeim sem guð gefur embætti gefur hann einnig vit, eða eitthvað í þá átt og ég vona að það sannist á honum.

Ef við lítum á útihátíðir nú um verzlunarmannahelgina er augljóst að þjóðin á um sárt að binda. Drykkjuskapur og skrílslæti eru með þeim hætti að með ólíkindum er. Skríllinn á Akureyri hefur meira að segja hótað heilsugæzlufólki þar í bæ og legið við meiðingum á sjúkrahúsinu! Allskyns lausung einkennir þesssa þjóð; of mikið yfirlæti sem stafar líklega af einhvers konar minnimáttarkennd, jafnvel gorgeir ættaður úr sturlungaöld. Og svo hafa allt of margir þörf fyrir að æða í margmennið. Hópsálin ræður ferðinni. En sem betur fer hafa margir hægt um sig og fara hvergi.
Forsetahjónin skruppu á bindindismótið í Galtalækjarskógi. Það var gott að þau fóru ekki til Akureyrar. Aðskotalýðurinn þar hefði getað orðið þeim skeinuhættur. Bindindissemi Ólafs Ragnars Grímssonar er til fyrirmyndar. Vonandi getur sá þáttur lífsstíls hans og þeirra hjóna orðið ungu fólki holl leiðbeining á þeim upplausnartímum sem við nú lifum; svo að ég tali nú ekki um fíkniefnin.

Fórum í Stardal í gær. Þar er alltaf gott að koma og drekka kaffi með Þórdísi húsfreyju og Magnúsi bónda. Ég var þar tíu, ellefu ára drengur á heimili Kristrúnar og Jónasar Magnússonar. Það var gott heimili og ég varð góður vinur sona þeirra, við Egill urðum skólabræður og miklir mátar. Við Magnús sváfum í sama rúmi inni hjá Katrínu ömmu hans. Hún var ekki sízt góð kona. Á sínum tíma skrifaði ég nokkuð löng samtöl við Jónas Magnússon en hef ekki birt þau í bókum. Samt held ég þar sé þónokkurn fróðleik að finna, ekki sízt í frásögninni af bílferð okkar austur á Þingvöll, um Uxahryggi og Hvalfjörð, en Jónas var vegavinnuverkstjóri á þessari leið um margra ára skeið. Þeir pabbi voru miklir mátar og þess vegna var ég sendur í sveit í Stardal. Þar lærði ég margt. Þar var ég sumarið sem Bretinn hertók Ísland og mér er minnisstætt þegar brezkur hermaður kom með regnslá í rigningunni á hjóli sínu og einn síns liðs niður múlann með byssu um öxl, þá leizt okkur ekki almennilega á blikuna. Hann stanzaði við bæjarlækinn, skimaði heim á hlaðið en sneri síðan við. Það var fylgzt með honum úr öllum gluggum og okkur létti þegar hann hvarf aftur upp múlann og inní eilífa gleymsku tímans. Á þessum misserum bjuggu foreldrar mínir ekki saman því faðir minn hafði farið af heimilinu. En hann sinnti mér þeim mun betur sem hann var minna í kringum okkur og fyrir kom að hann skrapp í leigubíl upp í Stardal að heimsækja mig.Þá veiddum við stundum saman lækjalontur í Leirvogsá  undir Stardalshnjúk og ofan við Tröllafoss.

Þetta voru miklir átakatímar í lífi ungs drengs. Um þá hef ég m.a. ort í Morgni í maí og minnzt á þessi mótandi sálrænu átök einhvers staðar annars staðar, ef ég man rétt. Móðir mín vildi helzt aldrei um þetta tímabil tala og raunar ekki faðir minn heldur, og Jósefína systir mín verður hin versta þegar ég minnist á þessar æskuraunir og sálarangist. Mér var ungum kennt að lifa í blekkingu en ég hef að mestu  svipt af mér blekkingu þessarar sáru reynslu og eftir að mér tókst það varð himininn heiðari og fjöllin blárri.
Þegar ég var fyrst í Stardal gekk ég stundum einn upp á Múlann og horfði í átt til Reykjavíkur, kannaði hvort ég gæti séð ljósin kvikna undir kvöld. En það voru engin ljós og það var heldur dimmt yfir lífi þessa drengs sem sat þarna einn í múlanum og hugsaði sitt.

Þegar ég kom í Stardal nú um helgina minntist ég þess sérstaklega að faðir minn kom einhverju sinni með veiðistöng og við veiddum silungskóð í ánni, neðan við Stardalsmúlann. Þá skein sólin í heiði. Þá hoppaði hjarta drengsins af gleði. Hann átti allan heiminn. Hann átti allar vonir heimsins og hann var stoltur í því öryggisleysi sem hann bjó við eins og á stóð. Um allt þetta hugsaði ég þegar ég horfði niður eftir ánni, í átt að Tröllafossi og þá kviknaði neisti þessa kvæðis sem ég orti heima um kvöldið.

Við Leirvogsá, ‘39

Hér sat ég áður einn með föður mínum
og egndi fyrir lítið silungskóð,
en vissi samt ekki alveg hvernig stóð
á því að örlögin misstu jörðina úr höndum sínum,
þann heim sem beið mín einn og ætlaði sér
að eiga, drottinn, góða stund með þér,
en stríðið kom og vó að vilja þínum
og vakti líka ugg í brjósti mér,
ég stóð með færið fast í höndum mínum
og fannst ég eiga þennan djúpa hyl,
en grunaði ekki að veglaus vatnaskil
þau væru í augsýn þegar liði að hausti,

þá fann ég högg og heyrði föður minn
með hárri röddu kalla, Taktu á móti,
og fann þá enn ég fylltist þessu trausti
sem fylgir því að reyna á metnað sinn
og einn ég stóð og streittist við á grjóti
unz stöngin lá við bakkann og ég rétti
föður mínum fiskinn á þeim kletti
sem var mitt bjarg, mín veröld, drottinn minn,

þín yndislega jörð, en Hitler setti
það allt úr skorðum og líka drauminn þinn.

En nú er jörðin aftur eins og var
í Eden þegar drottinn gekk um sinn
fagra garð og fann þá drauma þar
sem fóru síðar eldi um huga minn

en áin lék við sól í sumarþeynum
og söng við færið líkt og ást í meinum
og þessi ást var, Ísland, draumur þinn
um vor og lyng og ljós á okkar vegi
og líf á jörð þótt aðrar stjörnur deyi
því jörðin mín  var ein um drauminn sinn.

Stardal/Reykjavík, 3 ágúst -96


7. ágúst, miðvikudagur

Átti gott samtal við Kristján Karlsson á mánudaginn. Sýndi honum kvæði mitt, Við Leirvogsá ‘39, og lét hann vel af. Fórum yfir kvæði hans, Meðan við treystum því, meðan við trúum því, sem ég held að hann hafi ort 24.7. sl., en hann lét mig hafa nýtt eintak með einni breytingu. Einkunnarorð kvæðisins eru úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar: „Það er ekki skáldskapur að tarna, Kolbeinn.”

Kvæði Kristjáns er svoljóðandi:

 

Meðan við treystum því meðan við trúum því.

                               „Það er ekki skáldskapur að tarna,
Kolbeinn.”
Kölski í Þjóðs. J.Á.

Þú Kolbeinn Kolbeinsson,
menn með hetjunöfn.
„Kolbeinn ungi?”

og skáldið í Lóni.

               „Kolbeinn sem kvaðst á við fjandann?”

kvaðst á við Kolbein, tvö
skáld búa í eðli manns, tvö
þjóðskáld kváðust á

í brjósti Kolbeins og
góðskáld kvað höfuðskáld
í kútinn

               „og ímynd vor, menningin málið sigraði!”

egg legg og túnl og únl
stórsigur ríms og tóms
á alvöru Kölska.
Þannig ber rós vor ilm

               „í stað þess að ilma sjálf?”

í stað þess að ilma sjálf
hvaða nafn sem hún ber,
sætlega, Rómeó,
ungi Kolbeinn Kolbeinsson

meðan við treystum því
að nafnið eitt sé nóg.

Ef litið er á þetta kvæði er augljóst að það er skírskotun í Kolbeinslag Stephans G. Stephanssonar.  Kolbeinn Kolbeinsson er auðvitað höfundurinn sjálfur en á Íslandi hafa hetjur almennt verið dýrkaðar hvort sem þær heita Kolbeinn ungi eða eitthvað annað. Um það fjallar upphaf kvæðisins. Í þjóðsögunni er talað um Lón á Snæfellsnesi en það heitir víst Einarslón. Tilvitnanir eru í kvæði Stephans G. Þegar skáldið segir að Kolbeinn sem kvaðst á við fjandann hafi kveðizt á við Kolbein, er hann einungis að gefa í skyn að hann kveðst á við Kölska í sjálfum sér; tvö skáld búa í eðli sérhvers manns. Þjóðskáld þarna er sá sem kann virkilega að yrkja með öllum þáttum íslenzkrar kveðskaparhefðar eins og Kolbeinn sjálfur, þ.e. sá sem kann skáldskaparmálið til fullnustu, en hann er ekki höfuðskáld, það vantar í hann ástríðuna. Og Kölski kvartar yfir því. Svona þjóðskáld kann að ríma egg við legg og túnl við únl og Stephan G. segir að með þessari kunnáttu, þ.e. ímynd okkar um málsmenningarhefðina og arfleifðina hafi menningin, eða málið, þ.e. tungan, sigrað. En Kristján Karlsson er ekki sömu skoðunar. Með þessari kunnáttu ber rósin að vísu ilm en hún á að ilma sjálf, það er niðurstaða Kristjáns. Á þessu er grundvallarmunur. Skáldskapurinn getur ekki einungis verið liðin tíð, hefð; hann verður einnig að vera samtíðin; ástríðan, nýr tónn í gömlu umhverfi. Hann þarf að ilma sjálfur. Ég hafði áður gert þá athugasemd að rósin ætti að ilma fyrir augað. Hún er ekki síður litur en ilmur; angan. Hún á að varpa sínum lit á þetta gamla umhverfi. Kristján Karlsson er þeirrar skoðunar í kvæðinu að skáldskapurinn flosnaði upp ef þáttur Kölska hyrfi, þ.e. hið óvænta; en þá vantar í skáldskapinn hið upprunalega í manninum. Í kvæði hans er Kölski ekki fulltrúi hins illa heldur er hann fulltrúi tilfinningalífsins. En þjóðskáldið er aftur á móti fulltrúi formsins.

Kolbeinslag Stephans G. Stephanssonar fjallar, eins og ég nefndi áður, meira um arfleifðina en síður um skáldið sjálft. En í kvæði Kristjáns er fjallað um skáldið sjálft en ekki arfleifðina; hún er eins og hljómandi málmur og hvellandi bjalla. Hún getur verið til trafala. Hún hefir ekki ástríðuna, hinn upprunalega skáldskaparkraft í einstaklingnum. Kristján telur að þjóðsagan viti þetta þótt hún nefni það ekki sérstaklega. En Stephan G. telur sjálfkrafa að arfleifðin sé góð og gild. Hún sé í raun allt það sem skipti máli. En Kristján Karlsson telur að hún geti verið dragbítur og innihaldslaus eins og rímorðin túnl og únl sem merkja í raun ekkert; og Kölski kvartar yfir í þjóðsögunni. Þetta er ekki skáldskapur, Kolbeinn, segir hann, undir rós. og hann kvartar þegar Kolbeinn fer að yrkja jafn dýrt og raun ber vitni.

Í framhaldi af þessum athugasemdum vorum við á einu máli um að skáld eru ævinlega hættuleg siðmenningunni en henni tekst með einhverjum hætti að innbyrða þau, hún hrindir þeim a.m.k. ekki frá sér þegar tímar líða, hún reynir að vinsa það úr skáldskapnum sem henni hentar og tekst það oftast. Og þá getur hann breytzt í einskonar Jónas eða Davíð, jafnvel Stein, en í honum var djöfullega mikið bæði af Kölska og Kolbeini. Þegar ný skáld koma til sögunnar bjóða þau umhverfinu birginn og geta haft örlagarík áhrif á þróunina. Jón úr Vör og Steinn eru augljóst dæmi um það og kannski einnig atómskáldin. Við erum ekki lengur þyrnar í neins manns holdi. Það er komin á sátt og nú sækir hefðin aftur á, einfaldlega vegna þess að margt í hinum nýja skáldskap er orðið að klisju eða kæk sem fer jafn mikið fyrir brjóstið á manni og hefðbundinn skáldskapur á sínum tíma.

„Kolbeinslag er undarlega illa ort, það var alveg að gera út af við mig þegar ég las það enn einu sinni,” sagði Kristján í samtali okkar. „Stephan er í ritgerðahugleiðingum þegar hann yrkir kvæðið en ekki í skáldlegum stellingum. En hann gleðst yfir arfleifðinni og virðist láta sér nægja að hún ilmi í skáldskapnum þótt hann verði að ilma af sjálfum sér. Hann persónugerir arfleifðina í Kolbeini en varar við hættunni af Kölska, þ.e. utanaðkomandi áhrifum. Þetta er dæmigerð íslenzk afstaða ef svo mætti segja eins og við höfum ávallt verið á verði gagnvart erlendum áhrifum þótt okkur hafi einnig alltaf tekizt að innbyrða þau  sem einhvers konar íslenzkan veruleika. Það gerðum við þegar á 12. og 13. öld þegar við breyttum latneskri heimsmenningu í íslenzka staðreynd, einnig á 16. öld þegar ný siðbótarmenning flæddi yfir landið og þá ekki síður þegar rómantíska stefnan lagði undir sig íslenzkar bókmenntir á fyrra hluta 19. aldar, en þá breytti Jónas jafnvel Heine í einhvers konar íslenzkt fyrirbrigði í skáldskap. Við eignuðumst mörg ágæt rómantísk skáld og ber auðvitað hæst Bjarna og Jónas en hvorugur þeirra voru dæmigerðir fulltrúar rómantísku stefnunnar og átti hún í raun og veru betri talsmenn í skáldum eins og Gísla Brynjúlfssyni sem orti Farald og Benedikt Gröndal sem orti Gígjuna, en þessi tvö ljóð eru rómantískasti skáldskapur á íslenzku sem til er:

Ef hugarburðir hverfa
heimur tómur er,
að hjarta harmar sverfa...

segir Gísli Brynjúlfsson í Faraldri og við sama tón kveður í Gígjunni.  Hann segir einnig síðar – og þar er Byron ljóslifandi kominn:

Ó, undradapra dauðakyrrð
bráðum munu á bleikri fold
bein mín liggja stirð!

Þarna ber rósin að vísu erlendan ilm en hún ber þá einnig angan af sjálfri sér. Faraldur er mjög athyglisvert kvæði og vakti mikla eftirtekt á sínum tíma eins og höfundur bendir á í aðfaraorðum að kvæðinu, en núna er það gleymt og grafið eins og verða vill þegar nýr tími fer í hönd. Við ættum að reyna að endurvekja þetta kvæði og sumt annað í skáldskap Gísla því hann er sérstakt skáld og ágætt þar sem hann er beztur. Í fimmta erindi Faralds segir hann í tveimur síðustu vísuorðunum:

skuggi meðal skugga var
er deyjanda roða dagsbrún hinst
á dapurt andlit bar.

Þessi skáldlega mynd minnir á upphafsorðin í undurfallegu kvæði sr. Björns í Laufási, en sagt er að hann hafi ort þau á brúðkaupsdaginn sinn:

Dags lít ég deyjandi roða...

 

Sr. Björn og Gísli Brynjúlfsson voru á svipuðum aldri. Þeir voru saman í Bessastaðaskóla, annar stúdent 1844 en hinn 1845 og þeir dóu um svipað leyti, Björn Halldórsson 1882 en Gísli 1888. Ég veit ekki hvor hafði áhrif á hinn en það væri gaman að vita hvaðan þessi magnaða náttúrumynd er ættuð, hvort Gísli hefur fengið hana frá sr. Birni eða sr. Björn úr Faraldri sem ég tel þó líklegra því að hann var flestum kunnur, en vísa sr. Björns hefur líklega ekki verið nein almælt tíðindi um þær mundir. En bæði þessi ljóð gera höfunda sína að góðskáldum.

Það væri þá helzt upplýsing Magnúsar Stephensens sem skildi okkur eftir á köldum klaka. Honum tókst ekki að breyta þeim erlendu áhrifum sem hann tileinkaði sér í þá dýrðlegu nýsköpun sem til stóð, en í þeim efnum hafði Eggert Ólafsson fremur erindi sem erfiði eins og sjá má af afstöðu Jónasar Hallgrímssonar til hans.

Kristján Karlsson telur að það sé helzt í síðasta mansöng Kolbeinslags sem Stephani G. Stephanssyni hafi tekizt að ná eftirminnilegu flugi í þessum ljóðaflokki, en mansöngurinn sé harla torskilinn. Þar er talað um að nauðsynlegt sé að þreifa á legsteininum ef menn þekkja ekki nafnið af röddinni. Þeir þurfa sem sagt að lesa sig áfram eins og blindur maður:

... þá, sem nafn ei þekkja af ljóði
þuklaðu um grafna stafi mína!

Dulúðin í þessum mansöng er í raun margræður skáldskapur. Það skiptir ekki sköpum hvort menn þekkja Kolbein af nafninu eða röddinni.

Það er rétt, við höfum lagt mikið upp úr hetjunöfnum:
„Við gerðum þau að óskaplegum hávaða á sínu tímabili,” sagði Kristján. Við höfum reynt að gleyma því að við erum lítil þjóð.
„Það er eins og maður sem nær ekki niður í vatni.” Við höfum þurft að troða marvaðann. Hann er einskonar blekking, því það er betra að kunna sundtökin.

Undir lok kvæðisins nefnir Kristján jafnvel Rómeó, eða mundi hann ekki vera í okkur öllum? Sá sem elskar og gefur ekki eftir ást sína.


Kvöldið

Í framhaldi af þeim þætti samtals okkar Kristjáns Karlssonar sem fjallaði um blekkinguna fórum við að tala um hvort blekkingin gæti skírt afstöðu fjölmargra Íslendinga til forsetaembættisins.
„Það er eitthvað í þessu embætti sem við þurfum á að halda,” sagði Kristján og bætti við:
„Fyrir utan innantómt tal var þetta einhverskonar helgiathöfn þegar nýr forseti tók við embætti, ritúal sem fólkið leggur mikið uppúr. Það er of persónulegt fyrir meginþorra manna til að hafa það í flimtingum, þótt undarlegt sé. Fólk vill ekki láta segja sér fyrir um þessi mál og þess vegna gátu stjórnmálaflokkarnir engu ráðið um úrslit kosninganna. Það er of einkalegt mál fyrir fólkið, of mikið tilfinningamál hvernig staðið er að þessu forsetaembætti og þess vegna þýðir ekki að leggja það niður eins og okkur hefur fundizt,” bætti Kristján við.

Það má vel vera að þetta sé rétt, ég veit það ekki. En ég geri mér fulla grein fyrir hinu að barátta gömlu hefðarinnar við nýskáldskapinn er metafór um baslið í dag og því harla áleitið og brýnt umhugsunarefni.

Undir lok samtals okkar sagði Kristján mér frá því sem ég hafði aldrei heyrt áður: að Ólafur Thors hefði talað við Hermann Jónasson þegar Sveinn Björnsson lézt og spurt hann hvort það væri ekki upplagt að Jónas Jónsson frá Hriflu yrði forseti. Hermann Jónasson talaði við Karl Kristjánsson, föður Kristjáns, en þeir Jónas höfðu verið miklir mátar og hann talaði við Jónas sem sagði án umhugsunar:
„Nei, ég passa ekki í það. Ég er ekki rétti maðurinn.”
Hann vissi það.
Nú hafa menn ekki slíka dómgreind. Jónas vildi ekki leggja það á andstæðinga sína í landinu að hann færi í forsetaframboð, jafnvel þótt forystumenn tveggja stærstu flokkanna hefðu haft á því áhuga. Þeir urðu því að leita annað til að fella Ásgeir Ásgeirsson og sr. Bjarni Jónsson vígslubyskup varð fyrir valinu.
Þegar Bjarni Benediktsson bað mig um að fara upp í Gljúfrastein og bjóða Halldóri Laxnes forsetaembættið tók hann því víðs fjarri. Þá hefði hann þurft að hætta að skrifa og það kom ekki til mála. Jónas frá Hriflu þekkti stöðu sína betur en ætla mætti ef viðbrögð hans eru höfð í huga, hann skildi sjálfan sig, þrátt fyrir allt. Á þessu tímabili hafði hann ekkert að gera en það breytti engu. Hann gat ekki hugsað sér að hafna í þessu embætti. En hann barðist síðar með kjafti og klóm gegn Ásgeiri og hefur líklega átt þátt í því að koma honum að eins og það munaði litlu. Greinar hans hafa áreiðanlega verkað öfugt í Reykjavík. Hann hafði talað um Grimsby-lýðinn en Kristján segir mér að slíkt tal hafi ekki rist djúpt, hann hafi haft miklar mætur á Reykjavík og talið að hún væri upplögð umgjörð eða gott umhverfi um þá rísandi menningu sem við blasti. Hann hafi þekkt hverja þúfu í Reykjavík og það hafi verið mjög skemmtilegt að ganga með honum um borgina. Hann hafi aldrei skilið hvers vegna það hafi verið nauðsynlegt að kúldra Þjóðleikhúsinu við Hverfisgötu þar sem það gat engan veginn notið sín.
„Jónas var rómantískt skáld,” sagði Kristján, og það kom ekki sízt fram í viðhorfi hans til Reykjavíkur. Kristján kvaðst oft hafa staldrað við hendingarnar í Kolbeinslagi: en láta ekki baslið smækka sig, en þá hafi hann haft tilhneigingu til að breyta þessu: en láta ekki baslið stækka sig.
Það hafi margir gert.
Og þá sé blekkingin á næsta leyti. Jónas hafði að þessu leyti hvorki látið blekkinguna smækka sig eða stækka sig.
Jónas var í raun og veru enginn orginal eins og sr. Bjarni heldur einungis venjulegur eða hversdagslegur maður þótt hann hafi verið einstæður. Kristján telur að íslenzka þjóðin telji helzt að heldur hversdagslegir menn passi í forsætisembættið. Alls ekki orginalar! Sr. Bjarni hafi verði orginal og ekki passað í embættið. Það hafi verið engu líkara en Jónas frá Hriflu hafi gengið út úr þeirri merku bók Úr fylgnum fyrri aldar. Hann hafi líka átt til þeirrar höfðingjaættar að telja og það hafi hann sjálfur vitað. Hann hafi verið sonur sr. Péturs á Ljósavatni, Jónssonar háyfirdómara, Péturssonar byskups, en hann var bróðir Brynjólfs Péturssonar fjölnismann. Þetta var á sínum tíma einhver merkasta ætt landsins. Ég held að Jarþrúður, kona Hannesar Þorsteinssonar, hafi verið systir sr. Péturs á Ljósavatni og svo mikið er víst að Jónas frá Hriflu lærði meir af pólitískum skrifum Hannesar Þorsteinssonar en nokkurs manns annars. Önnur systir sr. Péturs giftist Jóni Magnússyni forsætisráðherra. Sr. Pétur fór síðar suður í Skaftafellssýslu og átti son sem hét Jón Pétursson á Kálafellsstað, en honum kynntist ég og líkaði vel við hann í alla staði. Þóra Einarsdóttir í Vernd var kona hans. Þó Jónas hafi vitað um ætterni sitt skrifaði hann einhverjar mestu háðsgreinar sínar um Sturlubræður, Friðrik og Sturlu, sem einnig voru af þessari ætt, „ – hann var að klappa frændum sínum á kollinn!”, sagði Kristján Karlsson. En ég hef víst minnzt á þetta ætterni Jónasar áður og nefndi það við Kristján sem varð undrandi yfir því að ég skyldi hafa munað þessa ættfærslu sem hann sagði mér frá endur fyrir löngu. Ég held enginn trúi ættfærslunni og svo mikið er víst að Sverrir vinur minn Hermannsson þykist vita allt um það að hún hafi verið afsönnuð! En hvað veit ég, ekki var ég viðstaddur!


Eftir vinnu, miðnætti

Sigurður Fáfnisbani dreypti á hjartablóði drekans og skildi fuglamál. Ung kona í Kantaraborgarsögum Chauchers skreytti sig með fingurgulli og skildi fuglamál. Ég hef heyrt af konu á Eyri við Ingólfsfjörð sem talaði við æðarfuglinn eins og börn á bænum.

 

Stundum finnst mér ég skilja fuglamál. Það er fegursta tjáning sem ég þekki. Það er sambland af ljóðlist og músík. Í þessari tjáningu mætast himinn og jörð.

 

Hvað er ljótleiki?
Er það andlit Frankensteins?
Eru það viðbrögð hans við neikvæðu umhverfi; við skilningsleysi; við ljótleika hans? Enginn sýnir honum samúð nema blindur maður. Hann sér ekki ljótleikann með augunum. En hann sér einhvers konar mennsku með fingrunum. Hann óttast ekki ljótleika sem hann sér ekki. Hann einn kallar fram samúð; góðhug. Skrímslið þráir vináttu; ástúð. Það vissi Maria Shelley. Ljótleikinn kallar á hatur. Tilbúinn af manna völdum kemur Frankenstein í heiminn eins og saklaust barn, virðir allt fyrir sér með furðu og aðdáun, horfir á tunglið og barnið breytist í illmenni.

Ég hef minnzt á rómantísku stefnunna, Jane Eyre óx úr jarðvegi hennar. Sagan kom út 1847. Í 9. kafla sögunnar er talað um guð og dauðann. Og þar er shroud í merkingunni líkklæði, shrouded with snow, þ.e. hjúpað snjó (eins og lík). Þetta minnir á Alsnjóa Jónasar, einkennilegt(!)

Hef verið að velta fyrir mér samtali Bill Moyers við höfund leikritsins Oleana sem við Hanna sáum í Lundúnum sællar minningar; bandaríska leikritaskáldið Mamet. Athyglisvert samtal. Ég staldraði sérstaklega við ummælin um leikritið The Cryptogram sem fjallar víst  um ungan dreng sem bíður eftir föður sínum, er blekktur, svikinn. Sáum brot úr þessu verki. Þekkti þennan dreng af sjálfum mér. Varð snortinn. Það var minnzt á skáldsöguna The Village sem er skrifuð úr umhverfi skáldsins í Vermount, Nýja Englandi, og því lýst hvernig sögupersónan hlustar á þoturnar sem fljúga yfir og veltir því fyrir sér hvert þær eru að fara, kannski til Íslands.
Mamet talaði um Bæinn okkar eftir Wilder sem meistaraverk, en sagði að það væri brandari að nefna það því það væri kennt í öllum háskólum vestra. Hann sagði að markmiðið væri aðalatriðið í öllum verkum. Í Bænum okkar væri heilu þjóðfélagi lýst með einstökum dæmum.
Ég sá Bæinn okkar í Iðnó á sínum tíma, hef einnig séð hann í afbragðskvikmynd. Ég er sammála Mamet. Ég er einnig sammála honum í því að það eitt skipti máli – að skrifa.

Mamet er gyðingur og hefur fengið þá arfleifð að fæðast sem slíkur. Gyðingar eru þjóð bókarinnar, sagði hann, og bætti því við að það væri mikilvægt að leita uppruna síns og einkenna.
Hann talaði líkt og Ben Gurion í samtali okkar á sínum tíma.
Í einu leikrita Mamets sem ég þekki ekki segir rabbíi við gyðing að hann verði að lesa Esterarbók. Í nafninu einu leynist mikilvæg táknmerking. En gyðingurinn hefur farið á mis við arfleifð gyðinga og getur ekki lesið hebresku.
Hvað ertu þá eiginlega, spyr rabbíinn.
Hann er rótlaus.
Gyðingur sem getur ekki lesið Esterarbók er rótlaus.
Hvað er Íslendingur sem getur ekki lesið Eddu – eða Njálu?
Ekkert.
Hann væri rótlaus eins og þangið sem Jóhann Sigurjónsson yrkir um.
Við eigum að endurnýja menningu okkar, skapa nýja úr aldagamalli arfleifð.  En við eigum að leyfa arfleifðinni að ilma af sjálfri sér, hún á ekki að vera minning um ilm. Og nýsköpunin á einnig að ilma en hún á ekki að vera ilmur af hefðinni. Hún á að ilma af sjálfri sér. Það er hægt meðan við getum lesið þá íslenzku esterarbók sem hefur haldið lífinu í þjóðmenningu okkar og einkennum jafn lengi og við höfum dvalizt í þessu landi.

Þetta samtal við Mamet var á Stöð 2 21. júlí sl. Sama kvöldið var flutt athyglisvert sjónvarpsleikrit eftir Arthur Miller, auðvitað með rætur í gyðinglegum jarðvegi New York-borgar. Það var vel gerð flétta í ljóðrænni raunsæisgerð Millers.

Í Esterarbók er yfirskrift 9. kapítula þessi: Gyðingar hefna sín á óvinum sínum og halda hátíð.


8. ágúst, fimmtudagur

Horfði á ágætan þátt um Thor Hayerdahl í sjónvarpinu í gærkvöldi. Fékk sérstakan áhuga á fuglamanninum á Páskaeyju. Held ég sé sjálfur einhvers konar fuglamaður, en það hefur háð mér hvað ég er lofthræddur.


9. ágúst, föstudagur

Ein setning í Njáls sögu er sterk vísbending um höfund sögunnar, það er setningin „...en frá Valgarði (inum gráa) er kominn Kolbeinn ungi”.
Slíkt skrifar enginn af tilviljun heldur til höfuðs Kolbeini unga.
Höfundur sögunnar hefur verið andstæðingur hans og þarf að koma á hann höggi með þessum orðum.
Valgarður inn grái var faðir Marðar Valgarðssonar sem er óhræsið í Njálu. Það var síður en svo nein upphefð að vera afkomandi þeirra frænda. Setningin er því skrifuð Kolbeini unga til hnjóðs. Höfundur sögunnar var samtímamaður hans á 13. öld og augsýnilega andstæðingur.
Það bendir á sturlung.
Og þá er vart öðrum til að dreifa þegar sagan er skrifuð en Sturlu Þórðarsyni. Það er sama hvar borið er niður, allt bendir til þess að hann sé höfundur sögunnar, en ekkert mælir því í móti.
Í framhaldi af þessari setningu segir höfundur að Úlfur aurgoði og Valgarður inn grái hafi farið að biðja Auðar og hún hafi gifzt Valgarði „án ráði allra frænda sinna, en það þótti Gunnari illa og Njáli og mörgum öðrum, því að hann var maður grályndur og óvinsæll”.
Það hefur varla þótt nein upphefð að vera afkomandi slíks manns!
Höfundur minnist þess sérstaklega og festir grályndi Valgarðs rækilega við Kolbein unga Arnórsson. Það er ekki gert í vináttu skyni eða af neinni sérstakri nærgætni, eins og augljóst má vera.
Í framhaldi af þessu segir svo í þessum XXV kapítula sögunnar:
„Þau gátu sér son, er Mörður hét, og er sá lengi við þessa sögu. Þá er hann var fullkominn að aldri, var hann illa til frænda sinna og einna verst til Gunnars; hann var slægur maður í skapferðum og illgjarn í ráðum.”
Ekki hefur þessi lýsing aukið á vegsemd Kolbeins unga, nema síður sé. Þessi lýsing er svo endurtekin nokkrum kapítulum síðar, eða í XLVI kapítula, sem er örstuttur og fjallar einungis um Gissur hvíta og höfðingsskap hans, Geir goða og vináttu þeirra og svo loks örfáum orðum um Mörð Valgarðsson sem bjó að Hofi á Rangárvöllum.
Þá segir: „... hann var slægur og illgjarn. Þá var Valgarður utan, faðir hans, en móðir hans önduð. Hann öfundaði mjög Gunnar frá Hlíðarenda. Hann var vellauðugur að fé.”
Við þetta er bætt í einu handritinu: „... og heldur óvinsæll.”

Það fer vart milli mála að Kolbeinn ungi er sú persóna  Njálu-höfundar sem verst fer út úr því að hennar er getið í sögunni og raunar má segja að þetta innskot komi henni ekkert við og sé til þess eins fallið að varpa skugga á orðstír og ætterni Kolbeins unga Arnórssonar.
Kolbeinn ungi var fyrir Ásbirningum um sína daga. Hann hafði mægzt við sturlunga þegar hann varð tengdasonur Snorra. En hann skildi við Hallberu Snorradóttur og kvæntist Helgu Sæmundardóttur frá Odda. Kolbeinn lézt 1245, eða rúmum aldarfjórðungi áður en sagan er skrifuð. Hann var fæddur 1208 en Sturla fæddist 1214 og lézt 1284.
Kolbeinn ungi hafði verið annar helzt andstæðingur sturlunga í Örlygsstaðabardaga. Hann hafði verið fyrirferðarmikill höfðingi og hafði Sturla Þórðarson þurft að sverja honum trúnaðareið.
Í Íslendinga sögu segir Sturla að þeir Kolbeinn ungi og Gissur jarl hafi fundizt í þann tíma á Kili „og gerðu ráð sín, þau er síðan komu fram”.
Það var undir haust 1241, en 23. september það sama ár fór Gissur að Snorra Sturlusyni og var hann veginn í Reykholti þann dag. Það skorti ekkert á að Kolbeinn ungi byggi yfir þeim eiginleikum sem frændum hans eru eignaðir í Njáls sögu. Enginn gerði sér betur grein fyrir því en höfundur Íslendinga sögu, Sturla Þórðarson.

Við nánari athugun virðist mér Kolbeinn ungi eini stórhöfðingi sturlungaaldar sem Njáluhöfundur nefnir í sögu sinni og kemur það ekki til af góðu.

Í CXIX kapítula Njáls sögu er þess getið fjórum sinnum að Skarphéðinn hafi verið föllleitur eða föllitaður og tekið fram að auki að maðurinn hafi verið ógæfusamlegur.
Mundi þetta vera tilviljun?
Gæti það ekki bent til þess að hann sé einskonar persónugervingur dauðans í sögunni og sé það undirstrikað með þessum hætti?
Þess er þá einnig getið nokkru síðar að hann glotti eins og Grettir og er þess a.m.k. getið tvisvar sinnum í CXXIII kaptítula.
Það er dauðinn sjálfur sem glottir andspænis þeim mikla harmleik sem sagan fjallar um.
Mörður Valgarðsson átti auðvelt með að rægja Höskuld Hvítanesgoða við Njálssyni og átti ekki erfitt með að eggja Skarphéðin og þá bræður að drepa Höskuld. Skarphéðinn hefur orð fyrir þeim bræðrum og lagði á ráðin með Merði. Þeir Skarphéðinn höfðu mælt með sér að þeir skyldu allir vinna á Höskuldi þegar þar að kæmi en Höskuldur sér Skarphéðin fyrstan manna og vildi undan snúa, eins og segir í sögunni, en þá hljóp Skarphéðinn að honum og mælti:
„Hirð eigi þú að hopa á hæl, Hvítanessgoðinn,” – og heggur til hans og kom í höfuðið og féll Höskuldur á knéin.
Var þetta fyrsta högg harmleiksins en sá boðskapur Njáluhöfundar er mikilvægastur og kristnastur, að sjaldan verður hönd höggi fegin. Og þá ekki síður það sem hann leggur einnig áherzlu á að menn skuli ekki vega í knérunn.
Það er erindi Njáluhöfundar við lesendur sína.

Í Njálu eru á víð og dreif skírskotanir í samtímaatburði höfundar þótt sagan eigi að gerast 250 árum fyrr. Þannig kemur Ingjaldur á Keldum þeim skilaboðum til Njáls og sona hans að hann skuli „þetta sumar allt var um sig og hafi mannmart því að það er honum heilræði”, og minnir á þegar Hrafn Oddsson reynir að vara Gissur Þorvaldsson við fyrir Flugumýrarbrennu.
Um það var Sturlu Þórðarsyni kunnugt eins og sjá má á Íslendinga sögu. Ásjóna Njáls og líkami „sýnist mér svo bjartur, að ég hefi engan dauðs manns líkama séð jafn bjartan”, segir í Njálu eftir brennuna og minnir á lýsingu Sturlu á líkama Guðmundar byskups í 119. kafla Íslendinga sögu.
Þá minnir orðalag Njáluhöfundar um Skarphéðin dauðan á lýsingu í Íslendinga sögu.
Þessi víxláhrif eru fleiri og benda öll í eina átt. Það gerir einnig áhugi Njáluhöfundar á draumum og fyrirboðum og yfirnáttúrulegum atburðum.
Loks má geta þess til gamans að í Njálu er sagt að Flosi hafi riðið heim til Svínafells, en í Íslendinga sögu segir ævinlega heim þegar viðkomandi á þar heima (sbr. Hrafn Oddsson).
Þá er ekki sízt margt í Njáls sögu sem minnir á tungutak Sturlu Þórðarsonar í Íslendinga sögu og hef ég getið þess annars staðar, m.a. í grein minni í Bókmenntaþáttum.
En líkastur Njálu virðist mér þó stíllinn á Þorgils sögu skarða.
Ekkert af þessu er tilviljun og þá er það áreiðanlega ekki heldur tilviljun að Kolbeinn Tumason Ásbirningur, föðurbróðir Kolbeins unga, tók þátt í Lönguhlíðarbrennunni 1197.


12. ágúst, mánudagur

Rannveig Ágústsdóttir var jarðsett sl. föstudag frá Fossvogskirkju. Ég bar hana  út úr kirkjunni. Þótti vænt um að ég var beðinn um það. Hún var góð kona og göfug. Athöfnin var mjög falleg. Sigrún Hjálmtýsdóttir, eða Diddú, söng ásamt Finni Bjarnasyni. Hafði ekki heyrt hann syngja áður. Hann hefur mjög fallega rödd. Get vel hugsað mér að hann syngi við bálför mína frá Fossvogskirkju þegar þar að kemur. Hann söng m.a. kvæði Davíðs Stefánsson Snert hörpu mína himnborna dís. Það er fallegt kvæði og Atli Heimir Sveinsson hefur samið við það jafn fallega tónlist.

Kvæði Davíðs er svohljóðandi:

Snert hörpu mína himinborna dís
svo hlusti englar Guðs í Paradís.
Við götu mína fann ég fjalarstúf
og festi hann á streng og rauðan skúf.

Úr furutré sem fann ég út við sjó
ég fugla skar og líka úr smiðjumó.
Í huganum til himins oft ég svíf
og hlýt að geta sungið í þá líf.

Þeir geta sumir synt á læk og tjörn
og sumir verða alltaf lítil börn.
En sólin gyllir sund og bláan fjörð
og sameinar með töfrum loft og jörð.

Ég heyri í fjarska villtan vængjaþyt.
Um varpann leikur draumsins perluglit.
Snert hörpu mína himinborna dís,
og hlustið, englar Guðs í Paradís.

Sá Gunnar G. Schram við útförina og í erfidrykkjunni; ásamt Elísu konu hans. Gunnar eignaðist að ég held á stúdentsárum sínum dóttur með Rannveigu, en þau voru skólasystkin í MA þótt Rannveig væri fimm árum eldri en Gunnar. Ég þekki ekki þessa dóttur þeirra en talaði við hana í erfidrykkjunni, að ég held. Hún er miklu líkari föður sínum en móður. Gunnar talaði aldrei um Rannveigu þegar við vorum saman ungir í Háskólanum, né dóttur þeirra. Hann hefur aldrei minnzt á þær við mig, hvorki fyrr né síðar. Samt vorum við lengi framan af mjög nánir vinir. En Gunnar getur líklega verið dulari en ég vissi. Dulur schramari er nýjung  fyrir mig!

Vaknaði í morgun við það að ég var að yrkja einkennileg lítil ádeilukvæði á samtíðina. Hef nú skellt þeim inn á tölvuna undir heitinu Þú nafnkunna landið sem er skírskotun í samnefnt kvæði eftir Bjarna Thorarensen þar sem hann varar við „læpuskapsódyggðum”, en þær fara nú eins og eldur í sinu um allt þjóðlíf Íslendinga. Forsetinn óskaði eftir því að koma á bindindismótið í Galtarlækjarskógi um verzlunarmannahelgina. Sjónvarpið sýndi þau hjónin inni í einhverju tjaldi og líklega hefur þetta átt að vera eitthvert mótvægi við „læpuskapsódyggðunum”.
En þetta minnti mig allt miklu frekar á góða dátann Sveik, svo „ódyggðirnar” eru orðnar sprenghlægilegar þótt fíkniefnaumhverfið sé það ekki, né drykkjustaðir unglinga úti um allar þorpagrundir um verzlunarmannahelgina.
Hvaða fólk skyldi það eiginlega hafa verið sem kom út hingað frá Noregi á sínum tíma?
Ætli þetta hafi verið eintómir drykkjusvolar og ribbaldar? Engu líkara en þessir eiginleikar hafi festst í litningunum!! Og svo þessi genetíski metnaður og þá ekki sízt mannjöfnuður.
Vonandi verður bindindissemi hins nýja forseta einhverjum til fyrirmyndar. En hann er því miður húmorlaus eins og flestir sömu gerðar og lítill tækifærisræðumaður þótt hann hafi oft kunnað vel við sig í ræðustól Alþingis. Davíð Oddsson er miklu betri tækifærisræðumaður. Hann hefur einnig sinn fína húmor en hann kann líklega betur við sig í glitsölum en gömlum tjöldum!!
Og þá með ölkrús!

 

Þú nafnkunna landið er svohljóðandi:

Þú nafnkunna landið

                   B.Th.

(eða Verzlunarmannahelgi)

1. ...landið sem aldregi skemmdir þín börn

Ölvun
var eitthvað minni
en áætlað var
sagði þulurinn,
til að þóknast okkur,

sumir eins og þjóðhátíðar-
smokkur í fánalitunum

aðrir fengu kaldan bjór
með kjúklinga-
bitunum

en forsetinn minnti
á Sveik
þar sem hann sat
eins og indíánahöfðingi
í gömlu tjaldi
í Galtalæk.

2. ...hvert þinnar fjærstöðu hingað til neyttir

Aðalatriðið er
sagði konan
í útvarpinu
að láta ekki
hvern sem er
nauðga sér,

ó, fuglinn trúr
sem fer ekki
með fjaðrabliki
fyrir vikið.

3. ...aptur í legið þitt forna þá fara

Regn

og borgin
er blaut í gegn

enginn
árás á neinn

borgin er blautur
steinn,

senn
verður aftur sól
og sumar við Arnarhól

sól
og ekkert regn

en þá verður líklega einhver
stunginn í gegn...


13. ágúst, þriðjudagur

Við Styrmir vorum á fundi með Hallgrími B. Geirssyni og Haraldi Sveinssyni. Fjallað um Stöð 3 og hvernig Morgunblaðið geti aukið áhrif sín með aðildinni að Stöð 3. Eimskipafélagið og Sjóvá-tryggingafélagið eru reiðubúin til að taka þátt í Stöð 3 með ríflegum framlögum. Það er kannski ekki sérlega eftirsóknarvert fyrir Morgunblaðið að vera í kompaníi með þessum stóru hlutafélögum sem í augum almennings tengjast svokölluðum kolkrabba en ég sé ekkert á móti því ef það gæti styrkt stöðu blaðsins og áhrif og hjálpað Árvakri til að víkka út starfsemi sína með sjónvarps- og/eða útvarpsrekstri. Aðild Árvakurs að Aðalstöðinni hefur verið til athugunar en ég tel að Morgunblaðið eigi ekki að taka þátt í slíkum ljósvakarekstri með hangandi hendi, heldur af einhverjum metnaði. Sé ekki neina ástæðu til að við séum að stökkva sex metra í langstökki þegar við getum stokkið átta metra. Mér er nær að halda að félagar mínir séu á sömu eða svipaðri skoðun en við Styrmir erum auðvitað einungis samtalsaðilar við þessa fulltrúa eigenda Árvakurs en munum að sjálfsögðu ekki eiga þátt í neinni endanlegri afgreiðslu málsins.
Rætt um hvernig Morgunblaðið gæti átt þátt í nýrri fréttastofu við Stöð 3 og verður það nú líklega kannað.
Hver veit nema þetta geti orðið upphafið að ljósvakaþátttöku Árvakurs eða Morgunblaðsins og styrkt áhrif þess og arðsemi á þeim nýju ljósvakatímum sem við lifum.
Hitt er svo annað mál að ekki má veikja Morgunblaðið sjálft með neinni ævintýramennsku. Það þarf að styrkjast og eflast og það má ekki draga fé út úr þeirri starfsemi til eflingar annarri sem er áhættusöm og óráðin.
En vonandi fer þetta allt vel.En til þess þarf hugsjónalega ástríðu.
Og áræði.

Sá óvart á Discovery athyglisverða heimildarmynd um Filistea, þjóð sem talin er hafa komið frá grísku eyjunum til Kanaanslands á 13. öld f.Kr. „Filistear settust að á strandlengjunni við Miðjarðarhafið. Ríki þeirra og samband fimm borga: Gaza, Astododo, Askalon, Ekron og Gat,” eins og segir í orðskýringum nýju biblíunnar. Og ennfremur: „Er Filistear freistuðu þess að sækja lengra inn í landið kom til langvinnrar styrjaldar þeirra og Ísraelsmanna.”
Þessi heimildamynd um uppgröftinn í Ekron er mjög athyglisverð. Filistear voru upprunalega sjófarendur, að ég hygg, og elduðu grátt silfur við konunga eða faraóa Egyptalands. Þeir höfðu náð einhverjum sérstökum tökum á vinnslu járns til vopnaframleiðslu og voru hættulegir óvinir. Margar fallegar minjar um fugla hafa verið grafnar upp í Ekron. Filistear hurfu úr Ekron í kringum 700 f.Kr. að mig minnir, og virðast hafa ætlað að koma þangað aftur en borginni var eytt og þeir hurfu inn í þjóðahafið fyrir botni Miðjarðarhafs.
Lexían fyrir okkur er þessi:
Þeir týndust inn í þjóðahafið vegna þess að þeir glötuðu einkennum sínum, uxu frá arfleifð sinni. Um það mættum við hugsa en vonandi verður landið okkar áfram sú vörn sem Bjarni Thorarensen talar um í kvæði sínu Þú nafnkunna landið.  

Kristján Karlsson hefur það ekki með í yfirliti sínu um íslenzka ljóðlist og get ég vel skilið það, því önnur kvæði Bjarna eru mörg meiri skáldskapur. En Þú nafnkunna landið,  eða Ísland eins og kvæðið er nefnt í ljóðabók Bjarna frá 1884 er herhvöt sem við megum ekki gleyma:

Enn megnirðu’ei börn þín frá vondu að vara,
og vesöld með ódyggðum þróast þeim hjá,
aptur í legið þitt forna þá fara,
föðurland, áttu og hníga í sjá,

segir í síðasta erindi þessa torsótta ættjarðarkvæðis.

Ingólfur sonur okkar er nú í Jerúsalem. Hann á að halda fyrirlestur um rannsóknir sínar á alþjóðlegri ráðstefnu þar í borg í vikunni. Hann hefur verið í Amman, farið til Nazaret og Betlehem, horft á Galíleóvatnið, vaðið í Jórdan. Hann hefur séð allt það sem ég hefði helzt viljað sjá. En kannski getum við farið með honum síðar á þessar slóðir.
Og þó!
Tíminn er að verða nokkuð naumur fyrir slíkar langferðir. Það bíður okkur önnur ferð, lengri. Framtíðin ræðst af því hvenær hún hefst.


14. ágúst, miðvikudagur

Við lifum á válegum tímum. Fyrir nokkrum vikum ákvað dómsmálaráðuneytið að setja upp sérstakt öryggiskerfi á heimili Haralds sonar okkar. Það var ekki út í bláinn eins og tímarnir hafa breytzt. Íslenzkir fíkniefnasalar svífast einskis, ekki frekar en kollegar þeirra í útlöndum.
Haraldur sonur okkar er, vegna stöðu sinnar sem fangelsismálastjóri ríkisis, í brennidepli haturs og ógnar þessara svörtu skugga í okkar annars ágæta þjóðfélagi. Innan úr fangelsunum hafa lögregluyfirvöldum borizt fregnir um að þar séu innan dyra menn sem hyggi á hefndaraðgerðir og eigi þær að bitna á Haraldi.
Nú eru þrír hættulegir óbótamenn að losna úr haldi, morðingi frá Akureyri, sem ég man ekki hvað heitir, Ólafur Gunnarsson fíkniefnasali, sem hefur hundelt Harald í fjölmiðlum eftir að hann lenti í fangelsi eftir fíkniefnasölu, og árásarmaður sem var sekur fundinn um vopnað rán og árás á unga konu, að ég held. Allt eru þetta víst fíkniefnamenn með einhverjum hætti og ekki eykst öryggið í þjóðfélaginu við það að þeim hefur verið sleppt út.
Þá skilst mér einnig að geðlæknirinn á Sogni sem stendur í stórrifrildi við yfirvöld – og þá víst einkum um kaup og kjör – hefur látið sleppa ósakhæfum ofbeldismönnum og er mér sagt að meðal þeirra sé maður sem var á sínum tíma sekur fundinn um hrottalegt morð og ég held að sé hættulegur geðklofi.
Allt hefur þetta orðið til þess að auka áhyggjur einhverra manna í lögreglunni um hag og öryggi Haralds og fjölskyldu hans og í síðustu viku var ákveðið, án þess Halli óskaði þess sérstaklega, að láta vopnaðan lögregluþjón fylgjast með honum og fjölskyldu hans og sagði Matthías sonur Haralds mér í gær að þessi óþekkti lögreglumaður hefði komið í heimsókn til foreldra sinna í fyrradag og kynnt sér herbergjaskipan á heimili þeirra.
Allt setur þetta ugg að okkur Hönnu en jafnframt gleðjumst við yfir því að reynt er að koma í veg fyrir haturs- og hermdarverk gegn syni okkar og fjölskyldu hans. Slíkt er að sjálfsögðu erfitt ef forhertir glæpamenn fá þá grillu að þeir þurfi að koma fram hefndum á einhverjum sérstökum aðila, ekki sízt þar sem þau Brynhildur eiga fjögur börn og mundi þá ekkert þeirra vera óhult fyrir ódæði.
Vonandi eru áhyggjur lögregluyfirvalda meiri en efni standa til þótt allur sé varinn góður. Haraldur segir að þessir afbrotamenn lyppist yfirleitt niður eftir fangavistina, þeir séu frelsinu fegnir og taki helzt ekki þá áhættu að vera lokaðir inni aftur. Vonandi á þetta einnig við í þessu tilfelli, en hvað sem hver segir, þá hefur þjóðfélagið enga ástæðu til að treysta þessum ódæðismönnum, hvort sem þeir eru gamlir morðingjar eða fíkniefnasalar sem hafa m.a. eitrað fyrir ungt fólk á Íslandi.
Það væri svo sem ágætt að eiga einn Bjarna Thorarensen  eða Björn Blöndal í íslenzku dómskerfi eins og ástandið er orðið. Björn friðaði landið,en Bjarni var íhaldssamur dómari og hafði engar áhyggjur af því þótt illræðismönnum væri refsað rækilega.
Eða – hver hefur leyfi til að taka líf annars fólks?
Og hver hefur leyfi til að eitra fyrir börnin okkar, eyðileggja líf þeirra og skilja við þau með þeim hætti að þau væru betur dáin en lifandi fíklar?

Kvöldið

Hvað eru draumar.
Þeir eru undraveröld, óskiljanleg.
Ég hef m.a. minnzt á hana í helgispjalli endur fyrir löngu og ætla ekki að endurtaka það. Mig minnir ég hafi skrifað þá kafla í litla herberginu okkar í Búloníu á sínum tíma.
En af hverju er ég að velta fyrir mér draumum?
Jú, í nótt dreymdi mig sérkennilegan draum. Mig hefur lítið sem ekkert dreymt undanfarið og því kom þessi draumar til mín eins og óvænt heimsókn.
Mig dreymdi að ég væri að tala við Bjarna Benediktsson lengi nætur. Í upphafi draumsins hafði ég verið beðinn um að hafa auga með kornabarni sem ég man ekki hvort ég sá, en ég vissi af því að það átti að vera í minni vörzlu. Við Bjarni töluðum um gamlan tíma, það var gott hljóð í honum og mér leið vel í návist hans.
Hann rifjaði upp ýmislegt sem á dagana hafði drifið, m.a. þegar hann af gefnu tilefni þurfti að setja ofan í við kaupmenn, eða stóran fund verzlunarráðsmanna, og einnig var hann eitthvað að tala um að sjálfstæðismenn ættu að hafa forystu um að dreifa fjármagni til fólksins. Þetta var allt eftir mínu höfði og ég naut þessarar óvæntu návistar hans.
En þá allt í einu hrökk ég upp.
Það var kominn mannfjöldi inn í drauminn og ég hafði gleymt barninu. Ég fékk að sjálfsögðu áhyggjur því að barnið var horfið.
En þá kom einhver til mín og sagði ég skyldi ekki hafa neinar áhyggjur því barnið væri í góðum höndum.

Ég sagði Hönnu þennan draum þegar ég vaknaði í morgun. Hvað getur þetta verið, sagði ég.
„Þetta er eitthvað í sambandi við Björn Bjarnason,” sagði hún, „hann er áreiðanlega barnið í draumnum.”
„Já, einmitt,” sagði ég og mundi þá eftir því að ég hafði farið að sofa í gærkvöldi með áhyggjur af forystugrein Morgunblaðsins því í henni er fjallað um Háskóla Íslands og ekki tekið undir ummæli Björns um vandamál Háskólans, en þau voru í einhverjum ljósvakamiðlinum.
Hann sagði m.a. og til þess er vitnað í forystugreininni:
„Það leysir ekki vandann, að Háskólinn sníði sér stakk eftir vexti, eins og Björn Bjarnason segir í samtali við Morgunblaðið í gær, og reyni að komast af með núverandi fjárveitingu við óbreyttar aðstæður.”
Síðan er bent á þrjár leiðir, í fyrsta lagi takmörkun nemenda að Háskólanum, í öðru lagi að hækka skólagjöld og svo auðvitað í þriðja lagi að hækka fjárveitingar til Háskólans úr almannasjóðum. Til þessa verði stjórnmál að taka afstöðu.Og í lok leiðarans segir að Háskólinn sé „eitt helzta tákn íslenzks sjálfstæðis, hvorki meira né minna”.
Og það er að sjálfsögðu hárrétt. Ég hafði gert ýmsar breytingar á þessum leiðara í gærkvöldi og hafði m.a. bætt þessari setningu við.
Við Styrmir höfðum einnig í sameiningu gert athugasemdir við leiðarann og bætt við hann kaflanum um aukna fjárveitingu til skólans. Ólafur Stephensen skrifaði forystugreinina.

Þegar ég fór að sofa í gærkvöldi sótti þessi leiðari á mig. Ég fór að velta því fyrir mér að Björn vinur minn yrði óánægður með hvernig Morgublaðið afgreiddi ummæli hans. En við höfðum ekkert hróflað við þeim þótt nauðsynlegt væri að gera athugasemdir við ummæli ráðherrans. En ég þekki mitt heimafólk og er þess fullviss að Björn tekur afgreiðslu Morgunblaðsins illa upp og gæti vel tekið upp á því að gjalda vinum sínum rauðan belg fyrir gráan.
Af þessu hafði ég áhyggjur þótt ég teldi leiðarann hárréttan eins og hann birtist í blaðinu.

Þannig getur maður farið með áhyggjurnar inn í svefninn og þannig geta þær breytzt í táknræna veröld sem enginn þekkir og er líkust þeim skógum sem ógnlegastir eru í Grimms-ævintýrum. Í þeim skógum er nauðsynlegt að fara varlega, það þekkja fæstir réttar leiðir í því myrkviði.
Það er vont að dreyma barn.
Böl er þá barn dreymir, nema sveinbarn sé og sjálfur eigi. Ég átti ekki barnið í draumnum og ég veit ekki hvort það var stúlka eða drengur. En mér hafði verið trúað fyrir þessu barni og ég gleymdi því.
Það má vel vera að samvizka mín hafi barið að dyrum þarna í draumnum eða þá áhyggjur af því að geta ekki staðið fullkomlega með gömlum vini sem ég hef hvorki séð né heyrt eftir að hann varð menntamálaráðherra og má það teljast til ólíkinda.
En það truflar mig ekki. Það truflar mig aftur á móti talsvert ef hann heldur að ég hafi brugðizt sér. Ég held ekki að honum myndi nokkurn tíma detta í hug að hann hafi brugðizt mér! Ég er viðkvæmur fyrir vináttu. Ég tek hana alvarlega, þess vegna hef ég oft orðið fyrir vonbrigðum. Vinátta er ekki heilög. Það er ekkert heilagt bandalag til milli manna, einungis hagsmunabandalag. Mín skylda er trúnaður við Morgunblaðið og sjálfstæði þess, skylda Björns er trúnaður við sína ábyrgð, sitt starf – og þá ekki sízt fjárlögin.
Ég reikna með að hann sé að komast í þrönga stöðu hvað Háskólann snertir. En hann er auðvitað í starfi menntamálaráðherra til að leysa þetta vandamál eins og ýmis önnur og ég vona að honum takist það.
Þótt ég hafi gleymt barninu í draumnum var það í góðum höndum þegar ég vaknaði en það var úr minni umsjá. Örlög þess voru ekki komin undir mér heldur fólkinu í draumnum, þessum fjölda sem engum þyrmir. En þangað hefur Björn sótt pólitísk völd sín eins og aðrir stjórnmálamenn. Og svo leiðir tíminn í ljós hvort barnið er í góðum höndum eða ekki.
En mér virtist Bjarni Benediktsson ekki hafa neinar áhyggjur af þessu barni sem ég átti að gæta. Áhugi hans beindist að þeirri fjöru sem við supum saman á sínum tíma. Og í því samtali hafði ég eitthvert veður af Sigríði Björnsdóttur, en sá hana þó ekki í draumnum; vissi einungis af henni. Sigríður er gott nafn í draumi og nú held ég fast við það.

Draumar eru margvíslegir. Sumir vaxa úr sálarlífi okkar, aðrir eru myndbreyting þess sem heilann grunar og svo eru áreiðanlega til þeir draumar sem rekja má með einhverjum dularfullum hætti til annars heims.

Brezka skáldið W.H. Auden hafði ekki mikið álit á draumum. Ævisöguritari hans, Richard Davenport-Heins, segir á einum stað að hann hafi sagt um drauma að þeir væru útrás fyrir brjálæði okkar. Og mig minnir að hann hafi fagnað því að brjálsemi okkar birtist með þessum hætti en ekki í daglegu lífi hlutveruleikans.


20. ágúst, þriðjudagur

Dreymdi Sigurð A. Magnússon í nótt. Það hlýtur að vera góður draumur. Það er líka allt með kyrrum kjörum, einnig veðrið. Það hefur yfirleitt verið stillt veður í sumar. Í dag er skýjað, að vísu, en mikið sólfar undanfarna daga.
Hafði fund með Styrmi og fréttastjórum í morgun um fréttaritarakerfi Morgunblaðsins. Það þyrfti á andlitslyftingu að halda.
Mikill völlur á aðstandendum Dags-Tímans sem hyggjast gefa út sameiginlegt dagblað eftir viku.
Læt mér það í léttu rúmi liggja. En við höfum alltaf þurft að efla tengsl við landsbyggðina og nú er kominn tími til þess. Mætum aukinni samkeppni eins og óvígur her. Nýr ritstjóri sameiginlegs dagblaðs Dags og Tímans mun hafa verið á borgarafundum vegna útgáfunnar. Fréttastjórar Morgunblaðsins segja mér að fáir hafi sótt þessa fundi. Menn hafi ekki mikinn áhuga á þessu nýja blaði. Fátt var í Borgarnesi og átta mættu á Akureyri, að mér skilst!
En kannski verður þetta dagblað samt vísir að einhvers konar stofni sem gæti vaxið inn í framtíðina. Það kemur í ljós. Við höfum alltaf annað veifið þurft að mæta harðnandi samkeppni. Það er eðli þessa margumtala frjálsa markaðar. En frelsi hans er ekki einungis fólgið í uppbyggingu. Það getur einnig verið eyðandi afl í þjóðfélaginu; það er t.a.m. síður en svo hagstætt fyrir alvörulistir; alvöruverðmæti. En plastið fýkur vel með þessu frelsi.

Morgunblaðið er nú sent norður yfir heiðar að næturlagi og ég verð var við það á ferðalögum okkar Hönnu að það mælist mjög vel fyrir. Það eru allir að lesa Morgunblaðið að morgni dags, sögðu þeir í Skagafirði og í Húnavatnssýslu og einn bóndinn í Hrútafirði sagði að þessi flutningur Morgunblaðsins hefði í för með sér þjóðlífsbyltingu; nú læsu menn Morgunblaðið á morgnana í þessum sveitum, en ekki þegar þeir kæmu heim að vinnu lokinni á kvöldin,dauðuppgefnir, eins og áður.
Margir kæmu því seint til vinnu, það hlýtur að draga eitthvað úr hagvextinum! sagði bóndinn og hló.

Fékk í gærkvöldi í hendur frásögn á heimasíðu Björns Bjarnasonar menntmálaráðherra sem snertir m.a. Morgunblaðið. Hún er víst skrifuð sl. fimmtudag. Þar segir undir fyrirsögninni Fjáhagsvandi – forsetahátíð – sumarfrí:
„Þegar við Rut vorum á leið heim úr rúmlega viku sumarfríi í Frakklandi og ég las Moggann í flugvélinni sá ég frétt um það, að stefndi í halla hjá Háskóla Íslands á þessu ári. Var gefið til kynna, að hann kynni að verða um 60 milljónir króna miðað við fjárlög ársins.

Á fundi með samstarfsmönnum mínum í ráðuneytinu, mánudagsmorguninn 12. ágúst, daginn eftir heimkomuna spurði ég þá, hvort þeir hefðu eitthvað heyrt frá Háskóla Íslands um þessa fjárhagsörðugleika. Þeir voru jafnnær og ég, höfðu ekki séð annað en stóð í Morgunblaðinu. Sérstaklega kom á óvart, að þess var getið, að hallinn ætti rætur að rekja til reksturs fasteigna HÍ.

Ég var ekki fyrr kominn af þessum fundi en blaðamenn tóku að hringja til að fá viðbrögð mín við þessari stöðu HÍ. Ég sagði við þann fyrsta, að því miður gæti ég ekki tjáð mig um málið, fyrr en ég hefði kynnt mér það. Hafði ég síðan samband við háskólarektor og ræddi málið við hann.

Blaðamennirnir nálguðust málið á þeirri forsendu, að allt stefndi í hinn mesta voða. Gat ég helzt skilið á sumum þeirra, að HÍ væri að hruni kominn og þar með öll æðri menntun í landinu. Ég greindi frá því, að vandinn væri líklega sá, að 25 milljónir þyrfti að spara við kennslu og kostnaður við rekstur fasteigna væri orðinn 25 milljónum meiri en ráð var fyrir gert. Til kennslu í HÍ væri á fjárlögum varið rúmum 1100 milljónum króna, þannig að hér væri verið að tala um vanda, sem væri innan við 2% af fjárveitingu. Hann ætti ekki að vera óviðráðanlegur, HÍ yrði að sníða sér stakk eftir vexti. Með þeim orðum vísaði ég til þess, að hann yrði eins og aðrar stofnanir að halda sig innan fjárlaga. Ýmislegt fleira sagði ég við blaðamennina um þessi mál, eins og það, að háskólamenn hefðu oftar en einu sinni farið fram á betri stjórntæki til að nýta það fé, sem þeim væri skammtað. Teldi ég eðlilegt að koma til móts við þær óskir. Þá vissi ég ekki um neina ríkisstofnun, sem teldi sig fá það, sem hún þyrfti á fjárlögum. Um mitt ár yrðu menn að líta í eigin barm og huga að þróuninni síðari hluta ársins, það væri nú að gerast innan HÍ og skólinn ætlaði að taka á vandanum.

Morgunblaðið skrifaði leiðara um málið miðvikudaginn 14. ágúst og andmælti því, að það dygði að segja við HÍ, að skólinn yrði að sníða sér stakk eftir vexti. Leiðarinn var síður en svo frumlegur, miklu frekar gamaldags réttlæting aukinna ríkisútgjalda, sem lauk á þeirri merku ábendingu, að það yrði að gera „eitthvað” í málefnum HÍ!! Síðastliðinn sunnudag birtist leiðari í Morgunblaðinu, þar sem mælt var gegn því, að tekið yrði undir óskir Verslunarskóla Íslands um að koma á fót Verslunarháskóla. Nær væri að veita auknu fé til viðskiptadeildar HÍ. Þetta þótti mér einnig gamaldags viðhorf, kerfislegt og staðnað. Miðvikudaginn 14. ágúst kvað við allt annan tón um þessi mál í leiðara Viðskiptablaðsins. Voru þær hugmyndir, sem þar koma fram varðandi fjárhagsvanda HÍ, og rökræður um tilmæli Verslunarskólans um nám á háskólastigi miklu nær sjónarmiðum mínum en það, sem stóð í Morgunblaðinu. Raunar skil ég ekki, að Morgunblaðið sjái ástæðu til að gagnrýna, að ráðherra leggi áherslu á, að opinberar stofnanir eins og Háskóli Íslands hagi starfsemi sinni í samræmi við fjárlög. Er þá Bleik brugðið, frá því að ég sat og skrifaði leiðara í það ágæta blað. Raunar á ég oft erfitt að átta mig á því, hvort blaðið er með eða á móti einhverri stefnu, til dæmis því að ná niður hallanum á ríkissjóði, því að það er slegið úr og í – mætti stundum halda að blaðið væri í framboði, þótt það sé auðvitað hafið yfir slíkt.”

Björn er ekki einn um að telja Morgunblaðið „gamaldags” ef það hefur aðrar skoðanir en hann sjálfur. Þetta sögðu kommarnir einnig í gamla daga. Og andstæðingar blaðsins þá töluðu um risaeðlu á brauðfótum. Það var víst á þeim árum þegar Björn Bjarnason var einn þeirra sem skrifaði forystugreinar í Morgunblaðið. En hvernig getur eiginlega staðið á því að mig skuli dreyma fyrir svona karpi áður en það hefst?
Er þetta grunur heilans sem vakir allar nætur meðan maður sefur, eða vísbending að handan?
Hver veit(!)

 

Styrmir sagði mér frá því í morgun að þau endemi blöstu nú við Stöð 3 að nýja afruglunarkerfið dygði ekki. Þar er því allt í hers höndum. Þrjár leiðir virðast koma til greina: Að lýsa yfir gjaldþroti stöðvarinnar, að selja stöðina Íslenzka útvarpsfélaginu og loks sú (sem að mínu viti kemur ein til greina) að fá nýtt afruglunarkerfi og þá með þeirri nýjung að kaupendur geta valið einstakar myndir sem þeir vilja horfa á og borgað sérstaklega fyrir þær. Veit ekki hver niðurstaðan verður. Það fer líklega ekki sízt eftir því hver afstaða Eimskips og Sjóvá-tryggingafélagsins er, því að þessi fyrirtæki eru hugsanlegir nýir hluthafar í Stöð 3.

Styrmir sagði mér einnig í morgun að Jón Baldvin væri að hugsa um að hætta formennsku í Alþýðuflokknum eftir tólf ára setu. Þau séu búin að fá nóg. Bryndís vilji helzt flytjast úr landi og þau hefðu mestan áhuga á því að hann verði sendiherra Íslands í Washington.
Ég er ekkert hissa á því að þau skuli vera búin að fá yfir sig nóg af umhverfinu. Þetta er grimmdarlegt umhverfi að sumu leyti og það er auðvelt að fá ofnæmi fyrir íslenzku þjóðlífi. Það er auk þess rétt hjá Jóni Baldvin að erfitt getur reynzt að losa sig við rógburð og ásakanir um óreglu og spillingu, en þau hafa legið undir slíku ámæli eins og kunnugt er. Veit ekki hvernig þessu lyktar en það kemur í ljós.

Mér skilst að Sighvatur Björgvinsson hafi ekki áhuga á því að taka við Alþýðuflokknum. Hann er þó að mínu viti sá eini sem hefði til þess bolmagn, þótt ólíkindatól sé. En hver er það ekki í pólitík? Aðrir kandídatar eru víst Össur Skarphéðinsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Rannveig þingsflokksformaður. En hvað sem því líður, þá er veizlan í Hruna á dagskrá hjá Alþýðuflokknum. Og hver veit nema kirkjan sökkvi á nýársnótt?!

Fórum á fimmtudagskvöld í Laxá í Leirársveit. Fengum 12 laxa, Hanna fimm en ég sjö og þar af þrjá á Snældu sem er álitleg túba. Þetta var skemmtilegur tími, veðrið stillt og sólfar mikið en kom ekki niður á veiðinni. Ísland er engu líkt þegar það er baðað slíku sólskini. Þá blánar það inn í sjöunda himin. Þær fréttir bárust inn í þetta Morgunblaðspartí að Stefán Jón Hafstein hefði sagt á fyrrnefndum fundi í Borgarnesi að Sjálfstæðisflokkurinn ætti Morgunblaðið – eða næstum því!
Þetta fór eitthvað fyrir brjóstið á eigendunum og Hulda Valtýsdóttir taldi nauðsynlegt að svara þessu af hörku. Ég sagði að allir vissu að þetta væri ósatt, einnig Stefán Jón Hafstein.
Þá kom fram sú hugmynd hvort ekki væri kominn tími til að segja rækilega frá því hver ætti Morgunblaðið. Ég sagði að það hefði staðið í Morgunblaðinu oftar en einu sinni. Þeir sem vildu vita það, vissu það. En við sjáum hvað setur. Ef ástæða þykir til svörum við. Tilefnið verður að vera skýrt og ákveðið, helzt á prenti.

Það er lítið áfengi drukkuð í þessum ferðum. Slöppum af og förum snemma að sofa. Það er gott og heilsusamlegt. Þetta eru ánægjulegar stundir og hrista saman hópinn. Meiri veizlur áður fyr!

Héldum í Hrútafjörð á laugardagskvöldið og gistum þar hjá Eiríki vini mínum í Staðarskála. Fórum síðan daginn eftir, eða á sunnudag, á Hólahátíð þar sem ég hélt erindi um Jónas Hallgrímsson og trúarviðhorf hans. Þar var veður eins og í paradís og Hjaltadalur svo eftirminnilegur að ég fór með hann inn í framtíðina. Ég var stoltur af því að eiga ættir að rekja í Viðvíkursveit og í Enni á Höfðaströnd. Þaðan var Maren langamma mín og þar var Jóhannes bæjarfógeti afi minn alinn upp þegar Jóhannes Guðmundsson sýslumaður, faðir hans, varð úti við túnfótinn í Hjarðarholti. Í skrifstofu Jóhannesar var málverk sem sýndi yfir Skagafjörð, Drangey, Málmey og Þórðarhöfða. Jóhannes afi sagði að þetta væri fegursta útsýni í heiminum. Mér finnst engin ástæða til að vefengja það, ekki endilega.

Hátíðarmessan á Hólum var eftirminnileg og raunar skrautleg því að fjórir byskupar þjónuðu þar, þ.á m. byskup Íslands, Ólafur Skúlason. Sigurður, vígslubyskup í Skálholti, Sigurðarson flutti prédikun og ég heyrði ekki betur en hún væri einskonar sáttarorð milli hans sem svartstakks, eins og andstæðingar byskups hafa verið nefndir, og Ólafs Skúlasonar. Hann sat í kórnum ásamt öðrum byskupum og prestum og hlustaði rækilega á prédikun sr. Sigurðar og að mér sýndist með velþóknun. Sr. Sigurður talaði um tollheimtumanninn og faríseann og gerði sér far um að skilja aðstöðu beggja, en hún var að sjálfsögðu afstæð. Kristur kom svo og skar úr um réttlætið.
Það fór einnig mjög vel á með byskupunum heima hjá Matthildi og sr. Bolla, að hátíð lokinni. Þar var matarveizla og ekki annað að sjá en allt væri kyrrt með forystumönnum andlegrar stéttar á Íslandi og þótti mér það þroskamerki og þá ekki síður mjög í anda þess kristindóms sem þeir félagar eru að prédika sínkt og heilagt.
Við Hanna sátum hjá Ebbu og Ólafi Skúlasyni í kaffinu. Töluðum margt saman. Byskup nefndi hvernig að sér hefði verið vegið á undanförnum misserum en talaði þó fremur um annað. Hann sagði mér að þeir Bjarni Benediktsson og Sigurbjörn byskup Einarsson hefðu orðið miklir vinir þegar þeir einhverju sinni fengu sér í staupinu saman og ræddu sín mál.
Frú Magnea, kona Sigurbjörns, hefði ávallt haft auga með honum þegar áfengi hefði verið annars vegar því að ungur var hann veikur fyrir áfengi eins og hann segir sjálfur í ævisögu Sigurðar A. Magnússonar, ef ég man rétt, og var þá illa kominn. Mér skilst hann hafi verið í námunda við ræsið. En hann vann sig upp úr þessum hörmungum, tók sjálfan sig taki og hefur æ síðan staðizt allar freistingar. Mér skilst það hafi ekki sízt verið með aðstoð frú Magneu.
En þegar leiðir þeirra Bjarna og Sigurbjörns lágu saman eitt kvöldið á vegum Bakkusar lét frú Magnea það gott heita og nefndi Ólafur byskup þetta sem dæmi um hvernig hægt er að nota áfengi til að sætta menn og koma góðu til leiðar, ekki síður en illu.
Vinátta þeirra Bjarna hélzt alla tíð síðan og Ólafur Skúlason telur að sr. Sigurbjörn hafi kosið hann og flokk hans meðan  Bjarni hafði forystu hans á hendi. Mér þótti þetta harla athyglisvert. Byskup ætlar að segja mér betur frá þessu síðar ef við hittumst í góðu tómi.

Í erindi mínu talaði ég um trúarviðhorf Jónasar og hvernig þau tengdust fegurðinni, ástinni og sköpuninni sjálfri – og þá ekki sízt hvernig Jónas var alltaf að yrkja um hulduna sem persónugert Ísland eins og skýrast kemur fram í Hulduljóðum sem ég las einnig úr: Og þá einnig í setningum eins og:

... heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húf og rauðan skúf í peysu,

það er kveðja til Íslands, sprottin úr minningu um samfylgd við litla stúlku sem gömul dó á Hólum og liggur utan við kirkjudyrnar þar á staðnum. Nú eru „ástir” þeirra goðsögn. Sr. Bolli flutti m.a. Ferðalok.

Það er engin tilviljun að Hjaltadalur varð fyrir valinu þegar Hólastóll var settur á fót. Þar er tignarleg umgjörð um dýrðlega fagra sveit. Ég kom fyrst að Hólum ásamt félögum mínum í vegavinnunni á Stóra-Vatnsskarði en mig minnir að við höfum verið þar við einhver hátíðahöld. Þetta sumar, 1944 eða ‘45, fórum við einnig út í Drangey. Þá vildi Steingrímur Hermannsson reyna hver væri óhræddastur að ganga fram á bergið og ég held hann hafi ekki hætti fyrr en hann stóð þarna á hælunum. Hann þurfti alltaf að vera mestur.

Á Hólum talaði ég við sr. Sigurð vígslubyskup Guðmundsson. Hann sagðist eiga 3.000 bækur og firnagott ljóðasafn, þar væru margar af ljóðabókum mínum. Ég sagði honum að ef eitthvað vantaði skyldi hann láta mig vita, ég gæti þá sent honum norður það sem á skyrti.

Á leiðinni norður hlustuðum við á spólu með nýjum lögum Atla Heimis Sveinssonar við ljóð eftir Jónas Hallgrímsson. Það eru yndisgóð lög og ég skrifaði Atla Heimi þakkarbréf í gærkveldi. Mér skilst að hann hafi haft einhverja hliðsjón af bók minni  Um Jónas þegar hann samdi þessi nýstárlegu jónasarlög sín og þykir mér það ekki verra.
Atli Heimir er gott tónskáld og sérstætt. Lög hans við ljóð Jónasar eru mikilvæg viðbót við það sem áður hefur verið samið.

 

Á leiðinni norður Skagafjörð hringdi bílsíminn. Það var Ingólfur sonur okkar. Hann var þá nýkominn heim til Lundúna aftur úr Ísraelsferðinni. Það gladdi okkur ósegjanlega hvað allt hafði gengið vel. Hann var kátur og hress og ferðin var honum eftirminnileg. Hann er búinn að sjá hálfan heiminn. Það hefur áreiðalega þroskað hann mikið. En við þessa hringingu fékk ég endurnýjaðan kraft og orku sem skilaði sér í erindinu í Hólakirkju nokkrum klukkutímum síðar.

Á leiðinni suður hitti ég Magnús Ólafsson gamanleikara. Hann er ágætur maður. Hann vann í prentsmiðju Morgunblaðsins í gamla daga.
Þegar Jón gamli var sýndur sagði Magnús við mig:
Ég ætla einhvern tíma að leika Jón gamla. Þegar við hittum hann á leiðinni suður var hann að koma frá Sauðárkróki og drakk kaffi í Staðarskála. Hann hafði verið að skemmta á Króknum. Enn sagðist hann ætla að leika Jón gamla áður en yfir lyki, en bætti við, „Valur Gíslason gerði þetta svo vel”(!)
Ég er þess fullviss að Magnús Ólafsson getur leikið Jón gamla eftirminnilega.

Við Hanna hlustuðum á Gregory Peck lesa Lúkasar- og Markúsarguðspjall af spólu og stytti það bílferðina töluvert. Það er athyglisvert að lesa guðspjöllin í einni lotu. Þá sér maður að þau eru engin tilviljun. Heimildirnar eru ólíkar. En allt ber að sama brunni: Frásagnirnar af Kristi styðjast við reynslu og upplifun samtímamanna hans, þær eru sprottnar úr staðreyndum veruleikans en engum goðsögnum. Það má augljóst vera. Peck les guðspjöllin framúrskarandi vel. Hann er skírmæltur og auðvelt að skilja hann. Ég get ekki hugsað mér betri ferðafélaga en Gregory Peck með guðspjöllin á segulbandi.

Orti sama sem ekkert í þessari ferð. Andagiftin er líklega að yfirgefa mig. Það er að færast haust yfir hugarfarið. Skrifaði þó niður þessar setningar:

Landið klæðir sig
úr lopapeysunni,

svitnar
inní svalan
himin

Og

Fiðrildavængir er viðkvæmni mín...,

Ennfremur:

Mýið drepur vængjum á sólgulan himin vatnsins

Ég held mér finnsti eftirminnilegasta setningin í Hulduljóðum sú þegar Jónas segir að blómin smálíti upp. Það er ógleymanlegt – og þá ekki sízt sem skírskotun í manninn andspænis skapara sínum.

Að lokum.
Orti þetta smákvæði:

Það er svalt,
það er nótt
rauður himinn
í vestri

landið leggst
til hvíldar,
sænglaust
leggst landið
undir heiðan
svalan himin,

sofnar
inní sænglausan
himin.

Þarna er landið ekki í lopapeysunni. Það var það ekki heldur þegar við gegnum til náða í Hrútafirði aðfararnótt mánudags. Þá var heiður himinn, sænglaus nótt og svalt.

Hafði ort tvö lítil kvæði við Helluvatn og Elliðavatn undir kvöld 8. ágúst sl. Ég hef víst ekki minnzt á þau áður hér á þessum minnisblöðum, en held að þau verði hin síðustu í þessari syrpu sem fjallar um ljósið sem kemur innanfrá og ég hef verið að yrkja um í allt sumar. Kvæðin heita Við Elliðavatn  og  Haustkvíði – og eru svohljóðandi:

Við Elliðavatn

En húmið fellur á vatnið, dökkur vængur
og vitjar þess að kvöldi lúins dags
og húmið er snerting hinzta sólarlags

en öndin syndir undir loðnum bakka
og engin þögn er dýpri en skuggi hans
og höfuð undir hvítum fjöðrum svans,

hún snertir mjúka kyrrð er kvöldi hallar
og kliðar eins og haust við liðna tíð

en fyrir autan anga blóm í hlíð
og eilíft vor fer land mitt hlýjum gusti

en laufið fýkur inn í augu mín
og engin furða þótt ég drottinn hlusti
á fuglakvak við kraftaverkin þín
er nóttin strýkur vatnið eins og vængur
og vitjar þess við mjúkan lófa sinn

en vatnið reisir væng við huga minn.
8. ág. ‘96.

Haustkvíði

Þitt lauf er blær og hvísl sem engir heyra
úr hljóðaklettum vors í þinni sál
og það er eins og sárir fingur finni
þá furunál
í krepptri hendi sinni
og hvíslið þitt er þögnin við mitt eyra

og þei þei ró

nú syngur einn við sáran furuskóg
þinn vængjaþreytti þröstur og að sögn
um þöglan skóg sem fer um huga minn

þei þei og ró

mig grunar ugg sem er
svo einsætt vitni hausts í brjósti mér
og kliður þess er kul við djúpa þögn
og kvíði fugls við skógarilminn sinn.

(við Helluvatn, undir kvöld,
8. ág. ‘96.


22. ágúst, fimmtudagur

Átti langt símtal við Hallgrím B. Geirsson í gærkvöldi. Hann hafði þá um daginn átt samtal við Björn Bjarnason menntamálaráðherra, sem hafði óskað eftir viðræðum við hann um framtíð fjölmiðla. Þeir töluðu um ríkisútvarpið, Stöð 3 og ýmislegt er snertir framtíðarfjölmiðlun á Íslandi. Mér skilst að Björn hafi sagt að hann gæti ekki hróflað við Ríkisútvarpinu eins og nú stæði, enda leggjast framsóknarmenn gegn því. Hallgrímur sagðist þeirrar skoðunar að engin ástæða væri til að raska jafnvæginu í sjónvarpsfjölmiðlun, það yrði einungis til þess að afhenda Stöð 2 markaðinn á einskonar silfurbakka. Stöð 2 væri ekki þannig í sveit sett enn sem komið er að geta skapað slíkt jafnvægi. Stöðin á líka undir högg að sækja því að það afruglarakerfi sem nota átti hefur brugðizt og leitað verður nýrra leiða. Undir lok samtalsins minntist Björn á Morgunblaðið og þá kom fram hjá honum hið sama og hann hafði skrifað á heimasíðu sína um stefnuleysi og leiðindin í Morgunblaðinu.
Mér heyrðist helzt á Hallgrími að hann hefði látið það fara inn um annað eyrað og út um hitt. En ég staldra við þann þátt í frásögn Hallgríms þegar Björn sagði að leiðarar Morgunblaðsins og ritstjórar þess færu í fínu taugarnar á honum!
Ennfremur þegar hann sagðist ekkert hafa við ritstjóra Morgunblaðsins að tala .Þessi ummæli eru athyglisverð staðfesting á því sem ég hef haft á tilfinningunni. Björn er ósáttur við okkur og ekkert við því að segja.Það eru margir ósáttir við Morgunblaðið .
Allir vilja ritstýra Mogganum.!
Ég hef reynt að standa vörð um það sem mér hefur verið trúað fyrir og mér hefur aldrei dottið í hug að fórna hagsmunum Morgunblaðsins fyrir aðstöðu, forréttindi eða vináttu. Þjóðin á annað skilið þegar Blað allra landsmanna á í hlut og vonandi verður það alltaf svo.
Vona Björn verði sáttari við blaðið áður en yfir lýkur.Ég sé enga ástæðu til annars en við séum sæmilega sáttir við hann,því að embættismaðurinn í honum hefur gert hann að  traustum ráðherra.Og hann fer sínar leiðir,það er kostur.


24. ágúst, laugardagur

Hef verið að hlusta á spólur með ævisögu Nixons eftir Jonathan Aitken. Sumar þessara stóru ævisagna sem skrifaðar eru nú á tímum um stjórnmálamenn þessarar aldar eru bæði upplýsandi og athyglisverðar, lýsa stundum átökum og mannlífi sem eru meira í ætt við leikrit Shakespeares en veruleikann, en minna þó öllu fremur á að fyrrnefnd leikrit eru sprottin úr veruleikanum sem er einatt dramatískari en skáldskapurinn.
Þessi ævisaga Nixons er harla dramatísk með köflum. Maðurinn er ekki endilega a likable person eins og Ascheson sagði við Lyndon B. Johnson þegar forsetinn bar sig upp undan því að hann væri ekki vinsælli en raun bar vitni. En þó er Nixon á ýmsan hátt geðfelldari en Johnson en beztu þætti hans má rekja til æskuheimilisins í Kaliforníu, foreldra hans og fjölskyldulífs. Kristin arfleifð móður hans og Patt, kona hans, sem sterkur bakhjarl voru Nixon áreiðanlega drýgsta veganestið á leiðinni í skrifstofu Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu. En hann hafði líka sjálfur mikið viljaþrek, góða greind og yfirburðahæfileika sem nýttust honum við nám og langleiðina á pólitískum ferli. En hann var að mörgu leyti einfari og í raun og veru skil ég ekki hvernig þessi manngerð komst í tengsl við almenning í Bandaríkjunum. Kannski var ástæðan sú að hann var sjálfur ósköp venjulegur og ættlaus Bandaríkjamaður og einskonar holdgerður bandarískur draumur þótt hann hafi aldrei haft mikil fjárráð eins og sumir keppinautar hans. Bandaríska þjóðin hefur alltaf verið á höttunum eftir þessum draumi en hann getur breytzt í martröð og bandaríski draumurinn, Richard Nixon, endaði í slíkri martröð.

En hann var hátt á hrygginn reistur þegar hann kom hingað til Íslands í embætti varaforseta og þá ekki síður þegar hann hitti hér Pompedou og þeir ræddust við á Kjarvalsstöðum sællar minningar. Þá var skemmtilegt að vera blaðamaður og fylgjast með fundum þeirra. Þá var Reykjavík heimsborg og þá fannst mér Morgunblaðið heimsblað, ekki síður en þegar Reagan og Gorbatsjov hittust í Höfða.

Það er eiginlega merkilegt að hafa lifað alla þá atburði sem getið er um í bókinni um Nixon – og þá ekki sízt sem blaðamaður – og rifja þá upp með þessum hætti því það er ótrúlegt hvernig sagan hafnar í glatkistunni og hvað atburðir líðandi stundar gleymast fljótt. Ég mundi til að mynda ekki eftir því að Rússar hefðu haft samband við Lyndon B. Johnson fyrir forsetakosningarnar í nóvember 1968 og lögðu sig fram um að koma á friðarsamningum milli Bandaríkjastjórnar og Norður-Víetnam – og þá í því skyni einu að koma í veg fyrir að þessi harði andstæðingur heimskommúnismans og boðberi kalda stríðsins sem Nixon var í þeirra augum kæmist í Hvíta húsið. Ég var líka búinn að gleyma því hvað talningin eftir forsetakosningarnar var spennandi og líkur á því fram eftir nóttu að Humphrey yrði forseti Bandaríkjanna, en tölurnar úr miðríkjunum bentu til þess þótt annað yrði upp á teningnum þegar atkvæði lágu fyrir í stórfylki eins og Kaliforniu.
Þegar við strákarnir úr Háskólanunum fórum í löngu heimsóknina til Bandaríkjanna sumarið 1954 hittum við Valdimar Björnsson og vorum með honum á kosningaferðalagi. Þeir voru keppinautar, Valdimar og Humphrey en gott á milli þeirra og Valdimar kom því til leiðar, ef ég man rétt, að við hittum Humphrey og eftir það fylgdist ég ávallt meir með honum en flestum öðrum bandarískum stjórnmálamönnum. Hann tapaði forsetakosningunum 1968 og veslaðist síðan upp úr krabbameini.
En Nixon skildi fallega við þennan keppinaut sinn og í þeim kristna anda sem móðir hans hafði kennt honum.

Enn er blíðskaparveður, heiður himinn og fagurt sumar. En það er heldur úfinn sjór á netinu hjá Birni vini mínum Bjarnasyni. .
Hann segir:
„Morgunblaðið fjallaði í síðustu viku um þá ráðstöfun Þingvallanefndar að leyfa Saga film að nota efsta hluta Almannagjár til að taka alþjóðlega auglýsingamynd. Voru mál lögð þannig fyrir nefndina, að fengist ekki leyfi hennar, kynni myndatakan að renna Íslendingum úr greipum. Þegar kannað hafði verið, að hvorki yrðu unnin landspjöll eða Þingvellir yrðu misnotaðir í myndinni, þar sem ógjörlegt væri að átta sig á kennileitum, var myndatakan heimiluð. Saga film samþykkt að styrkja kortagerð á vegum Þingvallanefndar með 350 þúsund króna framlagi. Myndatakan leiddi til þess að loka varð efsta hluta gjárinnar tvo dagparta.

Ég réð það af umfjöllun Morgunblaðsins, að það vildi draga fram, hvort örugglega væru ekki einhverjir, sem teldu þessa ákvörðun Þingvallanefndar ámælisverða. Ég sagði sem nefndarformaður í samtali við blaðið, að frá mínum bæjardyrum séð byggðist það á illum huga en ekki sanngirni að gera þessa ráðstöfun tortryggilega. Þótti mér sérkennilegt að sjá það í Morgunblaðinu, að sr. Hönnu Maríu Pétursdóttur, þjóðgarðsverði á Þingvöllum, var í nöp við þessa ákvörðun Þingvallanefndar, því að hún hafði ekki haft fyrir því að láta þá skoðun í ljós við mig. Raunar hefur sr. Hanna María ekki verið virk í þjóðgarðsvarðarstörfum sínum undanfarið.”

Það er gott að Almannagjá þekkist ekki á kvikmyndinni því að mér skilst að þar eigi hún að vera einskonar inngangur í helvíti. Ég gæti þó ímyndað mér að Íslendingum þætti staðurinn helgari en svo að helvíti væri þar í nánd. En látum það vera. Það er rangt hjá Birni  þegar hann ræður af umfjöllun Morgunblaðsins, að það vildi draga fram  „hvort örugglega væru ekki einhverjir sem teldu þessa ákvörðun Þingvallanefndar ámælisveða”.
Morgunblaðið vildi ekki draga fram eitt eða neitt, það vildi einungis segja frétt. Sem sagt, það vildi draga fram frétt. Það er kannski erfitt fyrir fyrrum aðstoðarritstjóra dagblaðs að setja sig inn í slíkan hugsunarhátt nú þegar hann er orðinn ráðherra í ríkisstjórn. En á sínum tíma hefði hann örugglega haft fullan skilning á því. Lífið er afstætt og við erum einatt  fórnardýr hins afstæða skilnings. Það er ekki umgjörðin, lífið sjálft, veruleikinn í öllum sínum margbreytileika sem breytist frá degi til dags, heldur erum það við sem breytumst, afstaða okkar við nýjar aðstæður. Með það í huga er hægt að skilja bollaleggingar Björns á netinu.

Þegar menn eru orðnir ráðherrar verða þeir að gera greinarmun á fréttum, upplýsingum og gagnrýni eða illum huga eins og Björn segir. Annars geta þeir orðið hlægilegir, jafnvel ömurlegir.  Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins geta ekki verið fulltrúar einnar skoðunar. Flokkurinn er borinn uppi af óendanlega mörgum skoðunum og nú hefur hann enga stefnu, enga skoðun, sem aðrir hafa ekki.

Björn heldur svo áfram á Netinu og segir:
„Á sínum tíma, þegar faðir minn beitti sér fyrir því, að öll umferð bifreiða var bönnuð um Almannagjá, mótmæltu fulltrúar leiðsögumanna. Var helzt að skilja málflutning þeirra á þann veg, að það myndi draga úr ferðamannastraumi til landsins, að menn gætu ekki ekið niður Almannagjá. Raunin hefur orðið önnur.”

Það er rétt,
Bjarni Benediktsson hafði mikinn áhuga á að loka Almannagjá fyrir bílaumferð. Við gengum oft á Lögberg og við gengum oft um gjána. Og það var honum heilagt kappsmál að loka gjánni fyrir öllu öðru en gangandi fólki og fuglinum fljúgandi.

Bjarni og Sigríður voru ekki snobbuð. Þau voru ekki höfðingjasleikjur. Bjarni var maður fólksins. Hann vildi ekki leyfa nokkrum manni að girða sumarbústaðalönd niður að vatninu, hann vildi hafa opið svæði við vatnið svo fólkið í landinu gæti gengið í kringum það eins og því sýndist. Vatnið væri almenningseign. En Bjarni kunni takt og tón. Hann kunni að umgangast bæði veraldlega og andlega höfðingja. En hann gerði það sem jafningi og án tilgerðar. Hann brosti ekki til þess að brosa, heldur brosti hann þegar það átti við. Hann brosti t.a.m. ekki til kjósenda ef það átti ekki við. En hann leit á þá eins og Abraham Lincoln  og minnzt er á í ævisögu Nixons sem hafði mikið dálæti á þessari setningu Lincolns:
Guð hlýtur að hafa haft mikla velþóknun á venjulegu fólki eins og hann hefur skapað mikið af slíku fólki.

Ætla að minnast undir rós á skrif Björns Bjarnasonar í Helgispjallinu á sunnudag. Þar ætla ég að nefna í framhjáhlaupi á myndgerða líkingu af hestinum Bleik og benda Birni á að líta í eigin barm og reyna að setja sig í spor annars fólks. En ég ætla ekki að nefna þann möguleika að Bleikur geti verið hestur dauðans; hesturinn sem Lorca yrkir um.


25. ágúst, sunnudagur

Fórum í Krýsuvík í gær. Drukkum kaffi með Birgittu Engilberts og Sveini Björnssyni. Sveinn er alltaf að bæta við sig í listinni. Hann er með krabbamein í blöðruhálskirtli en býr yfir krafti sem mér er óskiljanlegur. Hann vinnur dagfari og náttfari að list sinni og engu líkara en hann sé að keppa við þann bleika dauða sem bíður í túnfætinum.Hann er stundum svo aðframkominn af sjúkdómnum að hann missir þvag ef hann tekur á. En sjúkdómurinn sést ekki á honum. Hann tekur verkjatöflur og hristir hann af sér. Hann er alltaf eins og klipptur út úr tízkublaði og hefur verið að mála fallegar, ljóðrænar myndir. Gömul og ný málverk eftir hann hanga nú í Kringlunni; stór og rúmfrek. En þarna fara þau betur en á nokkurri sýningu sem ég hef séð eftir Svein. Myndirnar í Kringlunni hanga vel í þessu stóra rúmi sem er þeim svo nauðsynlegt. Þær eru sterkar og sannfærandi.

Borðum með Louisu Matthíasdóttur frænku minni í dag. Hún er á Íslandi og mér þykir vænt um hvað hún hefur fengið fallegt veður. Temma dóttir hennar kom hingað með henni en er farin. Louisa er mikill málari, einn af þeim stóru og einstæðu. Hún er jafnmikill málari og hún er hlédræg. En nú er hún farin að nálgast áttrætt. Hún er eitthvað farin að gefa sig.
Það er kulnandi eldur í augum hennar.


26. ágúst, mánudagur

Það er margt hægt að læra af ævisögu Nixons. Lífið er fallvalt. Það er eins og vegir Guðs, órannsakanlegt. Nixon vann í forsetakosningunum í nóvember 1972 einhvern mesta sigur sem bandarískur forseti hefur unnið. Hann fékk yfir 60 milljónir atkvæða, en andstæðingur hans, MacGovern, undir 30 milljón atkvæðum, ef ég man rétt. Nixon var ekkert blávatn og það er með ólíkindum hvernig hann var hrakinn úr embætti. Það er augljóst að hann hafði ekki minnstu hugmynd um innbrotið í aðalstöðvar demókrata í Watergate-byggingunni, enda var það að öllum líkindum ekki af pólitískum toga, heldur var ætlunin að njósna með hlerunum um símavændi einhverra framtóninga í Demókrataflokknum. Nixon og nánustu samstarfsmenn hans voru alsaklausir af þessum gjörningi.
Í stað þess að krefjast opinberrar rannsóknar og komast til botns í málinu tóku forsetinn og samstarfsmenn hans upp á því að hilma yfir það sem þeim kom í rauninni ekkert við og festust í netinu. Aðferð guðanna til að minna okkur á að við erum bara menn en ekki óskeikulir guðir kemur ævinlega á óvart og í opna skjöldu.
Forseti Bandaríkjanna fer jafnvel ekki varhluta af því. Því hærra sem menn eru á hrygginn reistir, því sárara verður fallið. En Nixon átti þetta fall ekki skilið. En um það spyrja örlögin ekki. Nixon var merkur forseti að mörgu leyti. Hann hafði 1968 gert áætlun um fernt: Friðsamlega sambúð við Sovétríkin, stjórnmálatengsl og samstarf við Kína, friðarárangur í Víetnam og loks hugðist hann blása nýju lífi í NATO. Honum tókst þetta allt og þetta var ekkert smáhlass á pólitískum vagni forsetans, síður en svo. En það var lítil þúfa sem velti því um koll. Það er annars merkilegt hvað þessi Kaliforniu-maður hafði næma tilfinningu fyrir heimspólitík. Hann naut sín betur heima en erlendis og það var heima sem bandaríski draumurinn breyttist í martröð.

Af ævisögunni má sjá að Kissinger var ekki allur þar sem hann var séður. Hann hafði leiðtogalöngun en hæfileikar hans voru fólgnir í því að framkvæma áætlanir forsetans og það gerði hann oft með góðum árangri. En prímadonnan í honum sjálfum var sú freisting sem olli um tíma einhvers konar trúnaðarbresti milli forsetans og þessa nánasta samstarfsmanns hans. Þessi sama prímadonna hefur leikið marga grátt, bæði í stjórnmálum og  listum. En hún hefur líka leitt margt lítilsiglt fólk í sviðsljósið, þangað sem það átti ekkert erindi og stundum jafnvel, að því er virðist, með velþóknun guðanna, það hefur einatt verið mér óskiljanlegt.

Í öllum sem krefjast mikillar athygli býr drottningin í Mjallhvíti. Það er verstur andskotinn að þurfa að selja bækur. Það gerir fólk hégómlegt. Og af því verða sumir athyglissjúkir. Það er ekkert eins ömurlegt og markaðssetning á sjálfum sér. Það er hlutskipti stjórnmálamanna. Og listamanna, því miður. Fjölmiðlafólk getur einnig orðið illa úti.


28. ágúst, miðvikudagur

Hef verið að hlusta á Stephen W. Hawking flytja fyrirlestra á spólu um alheiminn, miklahvell, svartholin; tíma og rúm. Að sjálfsögðu athyglisvert þótt ég skilji ekki allt. Mér skilst alheimurinn hafi orðið til í miklahvelli og síðan hafi hann verið að þenjast út. Mér skilst líka að vísindamenn geti lýst nákvæmlega fyrstu mínútum og klukkustundum eftir miklahvell. Sumt er þó á huldu sem betur fer. Svartholin eru víst dauðar risastjörnur sem búa yfir svo yfirgengilegum þyngdarkrafti að jafnvel ljósið kemst ekki út; og þar brenglast tími og rúm. Allt er þetta harla athyglisvert.
Ég nefndi þetta við Kristján Karlsson í símann í gær en hann sagði sér væri svo nákvæmlega sama um alheiminn og þátt guðs í honum að hann nennti ekki einu sinni að leiða að því hugann!
Ætli guð sitji eins og barn við blöðruna sína og á blöðruna er alheimurinn teiknaður og guð blæs blöðruna út og alheimurinn þenst út og alltaf verður lengra og lengra milli sólkerfanna þangað til blaðran allt í einu springur í höndunum á guði? Eða hann hleypir loftinu út aftur – og kannski sleppir hann blöðrunni eins og börn gera og hún þýtur út í loftið; hver veit.
Hawking sagði við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur af endalokum heimsins, þegar að þeim kæmi væri okkar sól útkulnuð og ekkert sólkerfi. En það er víst nóg af sólkerfum um allar trissur í alheiminum og í hverju sólkerfi eru milljarðar stjarna. Og allt er þetta kerfi á hreyfingu og það hreyfist eitthvað sem enginn veit og þá getur maður spurt:
Hvað er þar sem ekkert er?
Churchill sagði í ævisögu sinni að það gerði hvern mann brjálaðan að hugsa um skák. Hún væri ærin ástæða til þess að maður stykki út um glugga á 4. hæð!
En hvað þá með alheiminn?
Og hvað þá með það sem er ekkert, eða utan við ekkert? Það er ekki nóg að segja að alheimurinn sé á hreyfingu.
Hvert hreyfist hann?
Kannski er alheimurinn bara brot af sköpunarverkinu. Kannski er mikilvægasti þáttur þess utan við alheiminn; hver veit? Nú er bezt að hætta, því nú er ég kominn upp á 4. hæð.

Vaknaði í morgun við það að ég var að yrkja lítið erindi fyrir munn ÓRGs sem margir nefna Óla grís í mín eyru og skiptir þá ekki máli hvort hann er orðinn forseti eða ekki. Íslendingar taka ekkert tillit til þess sín á milli, en liggja svo flatir fyrir sínum herra opinberlega. Ólafur veitti flotaforingja Bandaríkjanna fálkaorðuna um daginn og það þótti mörgum ótrúleg kaldhæðni guðanna.
En vísan er svona:

Oss tókst að lokum að líta til stórra verka
sem létu bezt kempum eins og Agli sterka,
að hengja fálkaorðu á aðmírálinn
og útkljá þannig deilur um varnarmálin.

Þetta er bara nokkuð góð vísa, a.m.k. segir hún meira um íslenzka farsann en sumt annað!


Kvöldið

Ósköp leiðinlegar afgreiðslur á Morgunblaðinu. Ég er stundum að velta því fyrir mér hvort það sé ekki eintóm vitleysa að rjóminn af Norðmönnum hafi á sínum tíma haldið út hingað til Íslands, mér er nær að halda að það hafi verið undanrennan.

Ég er enn að hugsa um alheiminn. Það er merkilegur heimur(!) Hawking segir að hann byrji ekki að dragast saman fyrr en eftir tíu þúsund milljónir ára svo við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því.
En hvað ef tíminn tæki upp á því að fara aftur á bak? Ef við ættum eftir að upplifa það að við dæjum áður en við fæddumst? Það gæti að vísu verið hentugt ef við myndum allt sem við hefðum upplifað, en er það víst? Kannski er það einmitt þetta sem Kristur átti við þegar hann talaði um efsta dag; að við ættum eftir að rísa upp á efsta degi; og það í holdinu! Það væri ekki á að lítast ef þessi samdráttur yrði til þess að við yrðum kölluð inn í okkar eigin tíma og allt sem þá gerðist endurtæki sig aftur á bak, til að mynda styrjaldir.
Þórbergur talaði um að hann væri byrjaður að eldast aftur á bak. Samkvæmt hugmyndum Hawkings gæti komið að því!


29. ágúst, fimmtudagur

Þegar Ágúst Ingi Jónsson fréttastjóri var að lýsa fyrir mér hinu nýja sameinaða blaði Dags og Tímans í morgun fannst mér af lýsingunni að allt væri einna helzt í skötu líki. Að símtalinu loknu sagði ég við hann.
Ég hef verið að yrkja þessa vísu meðan þú lýsir blaðinu. Lýsing þín kemur mér svona fyrir sjónir:

Nú kemur Tíminn tvöfaldur í roðinu
eins og tindabykkja upp úr soðinu,
það er eins og ekkert hafi gerzt
og enginn hafi sézt edrú
í öllu boðinu!

 

30. ágúst, föstudagur

Borðaði með Kristjáni Karlssyni í Nausti í dag. Skemmtilegt samtal að venju. Ragnar Borg kom inn í miðjum klíðum og fékk sér vindil og eitthvað í staupinu. Hann var eins og klipptur út úr tízkublaði. Ég er að koma úr ítölsku herskipi, sagði hann.
„Já,” sagði ég, „konsúlar verða að heimsækja herskip sín.”

Hef verið að lesa metsölubókina Heimur Sofiar eftir Jostein Gaarder. Það er athyglisverð flétta, þó ekki stórmerkileg skáldsaga. Hvernig ætti hún að geta verið stórmerkileg sem slík önnur eins metsölubók og hún er?! En hún er stórfróðleg.

Ég er ekki handviss um að það sé rétt sem höfundur segir að goðsagnir séu skýringar forfeðra okkar á fyrirbrigðum náttúrunnar; að hamar Þórs hafi framkallað regn og hann sé því einskonar frjósemisguð, en hamarinn geti einnig verið máttugt vopn. Það hvarflar eiginlega ekki að mér að forfeður okkar hafi trúað þessum goðsögnum. Gaarder heldur því fram að goðsagnir séu skýringar okkar á fyrirbrigðum náttúrunnar. Ég dreg það í efa. Ég held aftur á móti að goðsagnirnar hafi verið einskonar ævintýri, einskonar skemmtisögur en ekki endilega skilgreiningar á fyrirbrigðum náttúrunnar.
Hann segir að heimspekingar hafi komið til sögunnar og reynt að skýra fyrirbrigði náttúrunnar á raunvísindalegan hátt. Eitthvað er til í því. Umfjöllun hans um heimspeki og heimspekinga er hnýsileg að mínu viti. Hann heldur því fram að Parmenides hafi verið þeirrar skoðunar að ekkert breytist. Hann hefur þannig verið fyrirrennari nauðhyggjumanna á síðustu öld. Mér líkar sú skilgreining vel að skoðanir flestra séu einhvers konar barnaleikföng. Maður sér þetta oft. Heraklítus sagði víst að allt breyttist. Það er nær heimspekilegum skilningi mínum, hvað sem öðru líður. Allt getur breytzt, þess vegna er rúm fyrir óvænt tíðindi í efnishyggju nútímans, eins og ég hef fjallað um í bókinni um Jónas Hallgrímsson. Hómer og Hesiod fjölluðu um mikið af grískum goðsögnum um það bil 700 árum f.Kr. Ef fólkið hefur trúað þessum goðsögnum skil ég vel fyrstu heimspekinga Grikkja, að þeir skyldu hafa gagnrýnt þessar goðsögulegu skýringar á náttúrunni, en sjálfur trúi ég því ekki að nokkur maður hafi trúað þessum goðsögnum; held þær hafi verið eins og hvert annað skemmtiatriði á myrkum öldum óvísindalegrar þekkingar. Eða – skyldi einhver hafa trúað því að jötnar hafi stolið hamri Þórs og guðirnir hafi lofað að gefa jötnum Freyju fyrir hamarinn; að Þór hafi í raun og veru klæðzt eins og brúður og þeir Loki hafi haldið til jötunheima í kvenmansgervi? Ekki held ég það. Hitt er annað mál að goðsögnin er skemmtileg, ekki sízt sá þáttur hennar að brúðurin, þ.e. Þór, hafi étið heilan uxa og átta laxa þegar hann kom í Jötunheima!! Þeir félagar ná svo hamrinum og drepa Þrym jötun. Skyldi nokkur hafa trúað því að árferði hafi farið eftir þessum hamarsþjófnaði og náttúran hafi dáið að vetrarlagi vegna þess að hamar Þórs hafi verið í Jötunheimum?
Það hvarflar ekki einu sinni að mér.
Grikkir bjuggu til guði sína í mannsmynd. Ég gæti ímyndað mér að hjátrúarfullt fólk hafi trúað á þessa mannlegu guði með guðlegum yfirburðum og þess vegna hafi grískir heimspekingar orðið að leita raunvísindalegra skýringa á náttúrufyrirbrigðum sem hefðu átt að lúta lögmálum hjátrúarinnar, þ.e. yfirnáttúrulegum lögmálum.

Heimspekin spyr:
Hvað erum við.
Við spyrjum um marzbúa. Ætli við séum ekki einhvers konar marzbúar? Ætli maðurinn sé ekki einhvers konar furðuvera í náttúrunni? Ætli hann sé ekki í senn skammsýnn og þröngsýnn? Hann skýrir allt í tengslum við eigin hæfileika til að skynja umhverfi sitt. Ætli þessir hæfileikar séu ekki harla takmarkaðir? Heimspekingar spyrja eins og börn, það er þeirra styrkur. Aðrir spyrja einskis, það er hin afstæða takmörkun mannsins. Þessi takmörkun birtist í ýmsum myndum í umhverfi okkar.
Ég var að skoða nýtt blað, Tímann-Dag. Fyrsta blaðið fjallaði að mestu leyti um sjálfsmyndina, það voru þrjár eða fjórar myndir af ritstjóranum og aðalfyrirsögnin fjallaði um hann! Þetta er samtíminn. Stöð 2, þessi vandræðalega útlenda videóstöð átti tíu ára afmæli í fyrradag. Öll dagskráin fjallaði um sjálfsmynd stöðvarinnar.
Og hvað sáum við í speglinum?
Upphafningu sem er fremur í ætt við blekkingu en veruleika. Stöð 2 er enginn sérstakur íslenzkur veruleiki, því miður.Nema kannski fréttirnar.Og barnaefnið,að vísu.Bravó fyrir því!
Hún er að mestu erlend innrás á íslenzk heimili,rétt eins og slíkar stöðvar um allan heim. En það má ekki segja, það væri guðlast.
Þannig lifum við í sjálfsupphafningu og blekkingu sem er stórhættuleg íslenzkri arfleifð, íslenzkum veruleika og það má þakka guði fyrir ef við förumst ekki í þessari blekkingu.

Útlönd eru aðgangshörð og við verðum að lifa í samtíð okkar. En það er ekki hið sama og tilvísun á afsal einkenna okkar og sérstöðu. Og merkir ekki endilega að þetta útlenda sjónvarpsefni sé mikilvægt eða þroskavænlegt eða heilladrjúg fyrir litla þjóð sem á engin verðmæti nema þann veruleika sem hún vinnur úr arfleifð sinni og nýrri mikilvægri reynslu. Það stendur öðrum þjóðum nær að vinna úr blekkingunni.


4. september, miðvikudagur

Við Hanna höfum ákveðið að skreppa til Lundúna 23. september til 12. október nk. Viljum hitta Ingólf áður en hann fer til Asíu í nóvemberbyrjun. Höfum ekki séð hann frá því um áramót. Hlakka því til að skreppa til Lundúna.

Erlendur Sveinsson kom að máli við mig í morgun að ræða kvikmynd sem hann hyggst gera um föður sinn, Svein listmálara. Vill að við tökum þátt í myndinni með þeim hætti að við heimsækjum Svein í Krýsuvík og ég taki hann þar tali í tvær og hálfa mínútu. Mér skilst þetta samtal eigi að fjalla um Passíusálmana og hvort unnt sé að skreyta þá með litum einum. Erlendur vill að ég rökræði það við Svein. Veit ekki hvort mér tekst það. Ég er þeirrar skoðunar að unnt sé að túlka Passíusálmana með litum einum því kirkjan notar ekki sízt liti í táknlegri merkingu, til að mynda fjólubláan lit í tengslum við páskana.
Erlendur sagði að leið Sveins inn í litina eina væri löng og ströng en nú væri komið að einhvers konar upprisu. Já, Passíusálmarnir fjalla um upprisu. Og það má vel vera að Sveini takist að tákngera þá með litum einum. En ég á erfitt með að rökræða við hann um þau efni.
Við sjáum til.

Las grein í The New York Times Bookreview um gamalt nýtt ljóðskáld, Virginiu Hamilton Adair sem er 83 ára gömul og hefur gefið út fyrstu ljóðabók sína nýverið. Afar vel um hana skrifað og ég hef gaman af þeim dæmum sem tekin eru; til að mynda:

Slow scythe curving over the flowers
In yesterday’s field where you mow,
My cool feet flicked
The dew from the daisies, hours,
Hours ago! Ages and ages ago
they flicked the dew
From the yellow and snow-colored
flower you leisurely mow.

Mow merkir: slá, skera með ljá, sigð eða vél; brytja niður, stráfella.

Þetta virðist vera flott ljóð, ort með þeim hætti sem gerir gamla hluti nýja. Það er ekki síður mikilvægt en þessi suðandi módernismi sem er nú einna helzt til þess fallinn að gera nýja hluti gamla.

Las einnig, grein í TLS frá 30. ágúst sl. um samstarf Marianne Moore og Wallace Stevens. Greinin fjallar m.a. um vináttu þeirra, ekki síður en samstarf. Mér líkaði vel það sem sagt var, að það hefði verið þeim til stuðnings en aldrei vegna samkeppni. Greinarhöfundur segir einnig að þau hafi átt margt sameiginlegt, t.a.m. hafi vinstrisinnaðir gagnrýnendur reynt að afgreiða Stevens sem uppstoppaða þistilfinku ; sá fugl er líklega með smæstu dýrum .En vinstri sinnarnir gá ekki að því að hann hafði sömu eiginleika og fuglinn í Krisnihaldinu: Um snjótittlíng hef ég aungvu að bæta við það sem ég sagði um daginn við úngan mann sem var að leita að sannleikanum: ef til er almætti í himingeimnum, þá er það í snjótittlíngnum. Hvað sem á dynur snjótittlíngurinn lifir af; stórhíðarnar eru ekki fyr um götur geingnar en hann er orðinn sólskríkja.

Það er margt kúnstugt í Kristnihaldinu; sumt eftirminnilegt. Sveinn listmálari hefði til að mynda getað tekið undir þetta skímskeyti frá Lángvetníngi: Harma að ná ekki greftrun. Vona að koma til upprisu. Kannski eiga þeir upprisuna sameiginlega, Sveinn listmálari og Helgi á Torfhvalastöðum!

Það er eftirminnilegt sem segir um vatnið í Kristnihaldinu: Samt hélt hugsjón vatnsins sem er hugsjón lífsins áfram að búa í eyðimörk jarðarinnar. Ég hef einnig hugsað um vatn, einkum rennandi vatn, með þessum hætti. Það er tákn um líf; það sem hreyfist; andstaða við kyrrstöðu. Það stendur einnig hjarta mínu næst sem Halldór segir um fuglana: Það er leiðinlegt að við skulum ekki blístra hver á annan einsog fuglarnir. Orð eru villandi.

Ég hef gaman af setningum eins og þessum:
Þegar ég komst að því, segir séra Jón, að sagnfræði er fabúla, og hún vond, þá fór ég að leita að skárri fabúlu og fann guðfræðina. Og þá einnig þessari athugasemd um sagnfræði og skáldskap; að saga sé einlægt eitthvað allt annað en það sem hefur gerzt. Staðreyndirnar séu roknar frá manni áður en sagan er byrjuð; að saga sé aðeins staðreynd út af fyrir sig og „því nær sem þú reynir að koma staðreyndum með sagnfræði, því dýpra sökkurðu í skáldsögu... Munurinn á sagnaskáldi og sagnfræðíngi er sá að hann sem ég nefndi fyr lýgur vísvitandi að gamni sínu. Sagnfræðíngurinn lýgur í einfeldni sinni og ímyndar sér að hann sé að segja satt”!

Þetta eru eftirminnilegar setningar:
Ég læt ekki bjóða mér að bera þennan alheim á bakinu leingur einsog það væri mér að kenna að hann er til. Ennfremur: andlitið bar svip af djúpum fjarska. Ennfremur: þeir lugu svo hratt á miðöldunum að þeir feingu ekki tíma til að hixta.

Í Kristnihaldinu er talað um að fullyrt hefði verið að höfði Godmans Sýngmans hafi verið stolið;  engu líkara en Norman Mailer hafi komið þessari dellu inn í Kristnihaldið.  Í skáldsögðu hans, Töff gæjar dansa ekki eru svona hausaskrif aðalatriðið.

Í Kristnihaldinu er spurt hvernig á því standi að fuglar sýnist langtum stærri þegar þeir sitja en þegar þeir eru á flugi. Það er auðvitað vegna þess að allt er lítið í samanburði við himingeiminn. Þar byrjar mælistika guðdómsins.

Senn má fara að tala um íslenzku þjóðina eins og veraldarmanninn í Kristnihaldinu: hann átti heima um allan heim!

Talað er um þá sem voru „bara uppí fjöllum að skjóta sveitamenn að gamni sínu einsog allir miklir menn”. Gæti ímyndað mér að þarna væri skírskotað til hvítra manna í Úrugvæ. Eftir mat á sunnudögum fara hvítir menn þar í landi á síðdegisveiðar og skjóta indíána. Þetta sagði mér Jakob Möller þegar við vorum að tala saman í Genf á sínum tíma, en hann situr í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna þar í borg. Ég kom þessu til skila í Reykjavíkurbréfi þá skömmu síðar en Halldór Laxness er ekki að vitna til þess því að skáldsagan er skrifuð löngu áður en ég var í Genf, þ.e. mars ‘67 til júlí ‘68. En einhvern pata hefur Halldór Laxness haft af þessari villimennsku.

Þetta er flott, dramatísk mynd, nánast ljóð: „Fuglar flugu fyrir dyrnar. Gulbröndóttur urðarköttur sat á leiði og lángaði í frúkost en frúkosturinn saung með dillandi röddu ofanaf kirkjubustinni.”

Eitthvað á Úa sameiginlegt með konunum í Fornum ástum.

Enn góðar setningar:
Hún sendi mér símskeyti og sagðist vera dáin. Og: Guð mundi skella uppúr ef ég færi að biðjast fyrir. Og loks: Ég hef það samband við Meistarann sem túnglið hefur við sólina, segir Lángvetníngurinn. Og dæmigerð íslenzk gestrisni: Hér er ekkert fínt undir sautján sortum.

Þá er haft eftir presti þegar hann segir við Umba: „En þarna er gamall látúnsstjaki, nokkuð klunnalegur, á altarinu. Ef yður lángar í hann, segir prestur, skal ég draga annað augað í púng.”
Minnir mig á bókasafnarann sem kom stundum niður á Morgunblað og sagði einhverju sinni við mig,
Heyrðu, Matthías, væri þér sama þó að þú værir ekki í skrifstofunni þinni næstu tíu mínútur.
Ha, sagði ég, hvers vegna?
Ja, það er bók í skápnum sem mig langar í. Já, einmitt, sagði ég, og fór í burtu til að draga augað í pung!

Aldrei vissi ég hvaða bók hann ásældist.

Lýsingin á Jóni prímus í 13. kafla sögunnar minnir einna helzt á afstöðu fjölmiðlamanna þegar þeir voru á höttunum eftir Gísla á Uppsölum til að lýsa fávitaskap hans og subbulegu umhverfi. Hann átti víst að vera sérstæður og öðruvísi, en var í raun og veru andlega skertur. Halldór Laxness er þó ekki að gera grín að Jóni prímus þótt svo gæti virzt í fljótu bragði. Jón er einhvers konar fjallræðugarpur með slagsíðu.

En hvers vegna Úa?
Jú, það er víst vegna þess að „þegar karlmönnum verður litið á svona kvenmenn fara þeir að úa eins og æðarblikar”. En svo merkir Oia á frönsku – hóra.

En ég var að velta fyrir mér samstarfsvináttu Marianne Moore og Wallace Stevens. Vinstri menn fundu ekkert í verkum Moores annað en „ræktaða afneitun”; eða „ræktaða höfnun”. Þannig var einnig Tíminn og vatnið afgreiddur þegar bókin kom út á sínum tíma.
Ljóð Kristjáns Karlssonar hafa einnig stundum verið afgreidd með þessum hætti. Og sjálfur hef ég ekki farið varhluta af þessari afgreiðslu.


5. september, fimmtudagur

Borðuðum með framkvæmdastjórum bílaumboðsins Ingvars Helgasonar. Þeir flytja inn Subaru og Nissan. Ræddum við þá um auglýsingar, fréttir og annað sem við kemur blaðamennsku. Júlíus Vífill var óperusöngvari. Ég sagði við hann að það væri áreiðanlega einstakt íslenzkt fyrirbæri að óperusöngvari væri jafnframt forstjóri bílainnflutningsfyrirtækis. Því var ekki mótmælt. Helgi bróðir hans er líkari föður þeirra, að mig minnir. Hann er stór og mikill, þéttur á velli og feitlaginn. Ég nefndi þetta við hann.
Hann sagði,
Já, það hefur verið haft orð á þessu áður. Einhverju sinni spurði bóndi mig að því hvað ég héti. Ég sagðist heita Helgi. Þá horfði hann á mig og sagði,
Þú hlýtur að heita Verzlunarmannahelgi!
Gott hjá honum.

Styrmir fór í dag til Lundúna að fundi loknum. Ég þurfti aftur á móti að afgreiða leiðindamál; grein eftir Benjamín H. Eiríksson, níð um Sigurbjörn Einarsson og Ólaf Skúlason núverandi byskup; stóryrta árás á Morgunblaðið fyrir stuttan leiðara sem við skrifuðum í blaðið í gær til varnar Þorsteini Pálssyni, en í aðsendri grein í Alþýðublaðinu hafði verið ráðizt á hann með rógi og ærumeiðingum. ; loks
þurfti ég að afgreiða Ellert bæjarstjóra í Hafnarfirði og grein eftir hann sem var gagnrýni á Morgunblaðið fyrir að birta grein sem rifizt hefur verið um hvor hafi skrifað, Björn Ólason eða  Sverrir Ólafsson í Hafnarfirði. Sverrir segir að Björn hafi skrifað greinina, Björn hefur gefið yfirlýsingu um að hann hafi lánað Sverri nafnið sitt! En Morgunblaðið er eins og venjulega fórnardýrið! Náði samkomulagi við Ellert bæjarstjóra um yfirlýsingu þar sem segir að Morgunblaðið hafi fengið öll göng í hendur og lýsi því yfir að ávirðingarnar gegn honum séu með öllu ósannar og engan veginn á rökum reistar. Birtum þessa yfirlýsingu í Bréfi til blaðsins á morgun.
Ætla aftur á móti að senda Benjamíni H. Eiríkssyni grein hans til baka en hún er full af  illsku og órökstuddum dylgjum.. Hann segir að bæði sr. Sigurbjörn og sr. Ólafur séu hræsnarar, trúleysingjar og eitthvað í þeim dúr. Augljóst að dr. Benjamín gengur ekki heill til skógar. En Íslendingar hafa í aðra röndina einhverja skemmtan af vitfirrtu fólki og menn eins og dr. Benjamín ganga upp í því. Mér skilst að Hannes Hólmsteinn Gissurarson sé að skrifa samtalsbók við dr. Benjamín.
Skrýtið!

Þegar ég hafði lokið þessum þreytandi afgreiðslum birtist Steingrímur Sigurðsson og ég þurfti að sannfæra hann um að okkur væri nákvæmlega sama um þótt hann skrifaði í Alþýðublaðið!
Hvort það mundi skemma fyrir honum á Morgunblaðinu?
Nei, sagði ég, skiptir engu mál, breytir engu!
Það var eins og honum létti. Hann sagðist vera vinur minn og ég kæmi við sögu í ævisögu hans sem mér skilst að Hrafn Jökulsson hafi skrifað.
Skil ekki af hverju ég get aldrei fengið að vera í friði fyrir þeim sem skrifa bækur um sjálfa sig. Held þessi ævisöguhöfundar telji að það sé manni einhver sérstakur heiður að vera nefndur í þessum skruddum. Ég er annarrar skoðunar.
En það er margt gott um Steingrím. Hann hefur ómaklega verið einhvers konar utangarðsmaður í íslenzkri list, enda sérvitur og sérhverfur með afbrigðum. Og svo auðvitað einn af þessum íslenzku kjaftöskum sem eru eins og postulínskoppurinn á Hornströndum sem Steinn minntist á; til skrauts uppi á stofuborði! En það er margt gott um Steingrím og ég held að ég hafi kunnað á hann. Allt vinsamlegt okkar í millum.

En sem sagt, allt þetta beið mín að loknum fundi með bílainnflytjendum svo ég notaði tækifærið þegar heim kom og las kvæði Kristján Karlssonar, Um miðbæinn, kirkjugarðinn við Aðalstrætið og bláa blómið. Bláa blómið er einskonar tákn rómantísku stefnunnar, komið úr skáldsögu Novalis, Heinrich von Ofterdingen sem gerist á miðöldum. Novalis hafði ekki lokið skáldsögunni þegar hann lézt 1801. Í sögunni er m.a. fjallað um leit Heinrichs að „bláa blóminu” sem hann sá einhverju sinni í draumi og hefur ávallt síðan þráð.
Minnir á Coleridge sem spyr,
Hvað um það ef þú hefur í draumi þínum horfið til himins og týnt undarlegt og fallegt blóm? Og hvað um það ef þú heldur á þessu blómi í hendinni þegar þú vaknar?

Já, hvað um það?

Slíkur draumur hlýtur að vera mikil forréttindi þegar maður þarf að afgreiða greinar eftir dr. Benjamín,  pólitískan hanaslag í Hafnarfirði og  ímyndunarveiki Steingríms Sigurðssonar. Það hefði verið gott að sofna þegar heim kom.
En ég verð að fara fljótlega aftur niður á Morgunblað og tala við Hallgrím B. Geirsson og afgreiða venjulegan síðdegisfund með „silkihúfunum”.

Hann gengur á með rigningu og regnið er svo mikið með köflum að engu er líkara en Ísland sé komið til útlanda.

6. september, föstudagur

Tala við Súsönnu Svavarsdóttur um ljóðlist í þætti hennar á Aðalstöðinni á sunnudag. Hún segir að það sé mikill áhugi á ljóðlist; einskonar vakning. Ég veit það ekki. Það er erfiðara að selja ljóðabækur nú en áður.

Ég er að hugsa um að nefna það sem segir í Kristnihaldi undir Jökli að sumir skilja ekki eftir sig sögu nema grafir sína. Við höfum týnt gröfunum en geymt kvæðin.

Það er að vísu hægt að lifa eins og steinaldarmenn og því hefur jafnvel verið haldið fram að þá hafi menn verið hamingjusamir því að á steinöld voru þeir hluti af náttúrunni án þess að keppa við hana. Þeir vissu lítið sem ekkert og þó „allt sem þeir þurfa að vita eins og fuglar”. Nú vitum við margt sem við þurfum ekki að vita og erum víst harla óhamingjusöm. Og steinaldarmenn tjáðu sig stundum í hellaristum. Þá teiknuðu þeir dýr, sjálfir voru þeir hluti af dýraríkinu og tjáðu umhverfi sitt með þeim hætti. Þetta er að vísu sama umhverfi og okkar en við erum ólík steinaldarmönnum.
Samt hefur maðurinn lítið breytzt og ljóðið hefur fylgt honum á langri vegferð. Það á nú erfitt uppdráttar en minnir á fuglinn sem fýkur ekki þótt hann standi úti á berangri í fárviðri. Ljóðið er með gogginn við jörð, leggur vængina fast upp að síðunum, stélið vísar upp; og veðrið nær ekki taki á honum, heldur klofnar. Þessi fugl bifast jafnvel ekki í verstu hrinunum, hreyfist ekki á honum fjöður. Hann er staddur í logni, hann er hluti af umhverfinu, hluti af veðrinu eins og ljóðið er einn þáttur í manninum og mennskunni og það hreyfist ekki í veðrinu; tízkunni; auglýsingabransanum; þessum óljóðrænu tímum sem við nú lifum.
Og það lifir af eins og fuglinn.


8. september, sunnudagur

Freud segir að allir séu listamenn innst inni. Sá sem segist ekki skilja list, þekki sjálfan sig illa.

Freud segir í tengslum við súrrealisma að það sé listamaður í okkur öllum. Sérhver draumur sé einskonar listaverk. Og hann telur að inspírasjón, eða andagift, komi að utan, það sé eitthvað í umhverfinu sem ýtir undir andagiftina. Það sé ekki ólíkt því að við munum allt í einu eitthvað sem er alveg komið fram á varirnar á okkur, en þarf að ýta við.
Get vel tekð undir þetta þótt ég hafi stundum upplifað drauma, ekki sem framhald af gærdeginum og skírskotun í bælda reynslu, heldur vísbendingu um það sem verður; á eftir að gerast.
Er það grunur heilans um hið ókomna, ályktun hans af aðstæðum eða líkindum, eða vísbendingar úr annarri átt?
Ég hef oft spurt mig.
Í slíkum tilfellum væri draumurinn einskonar forspá, en ekki listaverk. Talaði m.a. um þetta í þætti Súsönnu Svavarsdóttur á Aðalstöðinni í dag.
Held það hafi verið tekið upp á segulband.

12. september, fimmtudagur

Borðaði í danska sendiráðinu með Rasmussen forstjóra Norræna hússins. Auk hans var þar ung búlgörsk kona frá Sofia, vinkona Klaus Otto Kappels, sendiherra, Elena Markova. Mér skilst hann hafi kynnzt henni í Sofiu. Þetta hlýtur að vera álitlegt drama því hann á tíu og tólf ára börn með konu sinni sem einnig er diplómat, að ég held. Talað um bókmenntir. Þau gáfu mér nýja danska þýðingu á ljóðum búlgörsku skáldkonunnar Blaga Dimtrova. Þarf að lesa þessa bók betur. Mér sýnist hún ekki sízt fjalla um hina kvenlegu hlið tilverunnar, ef svo mætti segja. Lítið kvæði í bókinni heitir Gras.
Það er svona:

Ég er ekki hrædd við
að láta troða á mér

troðið gras verður að göngustíg.

Dálítið sniðug hugmynd.

Þeir kumpánar töluðu einkum um bókmenntir, stjórnmál og forsetann. Ég sagði þeim að mér þættu stjórnmál því ómerkilegri sem ég eltist meir. Það er auðvitað út í bláinn að taka svo til orða því stjórnmál eru ekkert annað en lífið sjálft. En lífið sjálft er ekki allra meina bót! Ekki lýðræði heldur. Ég hélt aldrei að maður gæti orðið hundleiður á lýðræði. Kommúnisminn kallaði fram í manni kjark og þrek, sem sagt allt það bezta sem maður átti til.
Nú er drekinn dauður og þá stendur maður drekalaus og þarf sínkt og heilagt að hugsa um svokölluð félagsmál; eða samfélagsmál.
Mikið er nú lýðræðið annars leiðinlegt í aðra röndina! Ég var spurður um forsetann.
Ég sagði að við  morgunblaðsmenn hefðum verið á öndverðum meiði við forsetann í öllum málum.
En trúmálum?
Veit það ekki, sagði ég.
En hvað með ættjarðarhugsjónina?
Við höfum ekki átt samleið í þeim efnum, sagði ég, ættjarðarást og þjóðfrelsi þarf að tryggja með réttum aðferðum. Við höfum haft aðrar skoðanir í þeim efnum en forsetinn.
Þessu er öðruvísi háttað í Búlgaríu.
Nú, sagði ég, er ekki kommúnistastjórn þar?
Jú, en forsetinn er gamall andófsmaður. Hann á svipaðan feril og Havel, en Havel er svo stór að hann skyggir á aðra andófsmenn.
Ég viðurkenndi að ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu og ég verð að segja eins og er að það hefði glatt mig mikið ef íslenzku þjóðinni hefði auðnazt að kjósa „andófsmann” í æðsta embætti þjóðarinnar; einhvern sem hefur varið lífi sínu og fórnað einhverju fyrir lýðræðið og í baráttu við kommúnisma.
En við eigum ekki slíkar hugsjónir.
Mikið held ég að Kierkegaard hefði fyrirlitið margt í íslenzkri samtíð ef hann hefði lifað. Það er auk þess alltof algengt að ýmsir þeir sem mest ber á um þessar mundir og eru að leita að „hugsjónum” í öllum áttum, finni þær einungis í speglinum sínum.


13. september, föstudagur

Jóhannes Nordal bauð okkur Hönnu að veiða með þeim Dóru í Elliðaánum í dag. Þar voru einnig Guðrún dóttir hans og Ögmundur Skarphéðinsson tengdasonur, auk Grétu og Sverris Hermannssonar.
Gengum með ánni fram undir kvöld. Fengum ekkert. En það var afslappandi. Sátum nokkra stund í veiðihúsinu, mest talað um forsetann.
Það fer óskaplega í taugarnar á mörgu fólki að Ólafur Ragnar Grímsson skyldi hafa hafnað á Bessastöðum. Ég er nokkuð oft gagnrýndur fyrir það að Morgunblaðið skyldi hafa sagt frá heimsókn hans til Vestfjarða eins og um mikil tíðindi hafi verið að ræða. En við höfum haldið tryggð við forsetaembættið hver sem í því situr.
Þegar ég segi þetta er ég oft gagnrýndur harkalega. Embættið er ekki heilagt, er sagt. Leigubílstjóri sagði við mig um daginn að það ætti að afnema það.
Þannig raddir heyri ég oft. Og það sem einkennilegast er, ég hitti aldrei nokkurn mann sem segist hafa kosið Ólaf Ragnar Grímsson! Samt hlaut hann 40% atkvæða.
Held við liggjum undir gagnrýni fyrir að dekra við forsetaembættið af gömlum vana.
En – hvað eigum við að ger?.
Siglingin milli skers og báru er harla erfið í þeirri stöðu sem við erum. Og það má ekkert út af bera. Hörðustu stuðningsmenn Ólafs Ragnars Grímssonar eru eins og prinsessan á bauninni. Ef þeim finnst á hann hallað koma þeir fram í dagsljósið og þá þarf ekki að sökum að spyrja hverjir kusu ÓRG!
Það þarf að afhelga þetta embætti, sagði Jóhannes Nordal. Held það sé skoðun margra um þessar mundir.

Hef verið að hlusta á ljóðaupplestur sem Bill Moyers hefur haft veg og vanda af, en hann hefur auk þess gefið út samtöl við skáld í Bandaríkjunum, The Language of Life. Hann segir að ljóðaflutningur sé orðinn mjög vinsæll þar vestra.
Flutningurinn var tekinn upp á ljóðlistarhátíð í New Jersey, að ég held. Það er fróðlegt að hlusta á þessi samtöl og þennan upplestur. Margt ágætt. Viðtökurnar frábærar, ekki sízt þegar Lucille Clifton las lítið kvæði eftir sig sem fjallaði um bandaríska konu sem skar undan eiginmanni sínum, sællar minningar; eða öllu heldur um fuglinn í hendi hennar!
Við þekkjum þessi myndhvörf í íslenzkum skáldskap. Undir lokin opnar hún lófann og bíður þess að fuglinn fljúgi burt.
En hann flýgur ekki.
Og ég sem hélt að þetta væri lifandi fugl, segir skáldkonan að lokum, við mikinn fögnuð áheyrenda.

Þar sem maðurinn hefur verið á ferð eru svínabein, arfi og rottubein. Og ljóðlist. Eða eins og þessi svarta skáldkona, Lucille Clifton, sagði: að ljóðlistin hefði byrjað þegar einhver gekk út úr hellinum, horfði til himins og sagði í forundran,
A-h-h-h!
Þetta var fyrsta ljóðið. Og þetta ljóð er í hverjum manni. Það býr í öllum, sumir koma því frá sér, það er allt og sumt.

Hef verið að kynna mér sögu Bretlands eftir Winston Churchill, en hún er eiginlega of brezk fyrir minn smekk.


15. september, sunnudagur

Er að þefa af Brief Lives eftir John Aubrey. Sérkennilegar athugasemdir um þekkt fólk og óþekkt, líf þess og sérkenni. Hann skrifaði 66 bindi af slíkum þáttum, sumir einungis tvö orð, en sá lengsti 23.000 orð. Ég held hann hafi skrifað um 420 manns og niðurstaða hans er harla merkileg:
Beztu menn eru einungis menn í bezta falli!
Hann kallaði þessa hagalagða sína strandgóss! Ágæt lýsing. Aubrey lézt 1697. Hann var einskonar konungssinni en lifði þó á lýðveldistímum. Athygliverð frásögn hans af sir Walter Raleigh (1552-1618) og aftöku hans. Hann segir að sir Walther hafi stundum verið skáld, en ekki oft. Hann orti eftirminnilegt kvæði daginn fyrir aftökuna. Það fjallar um dustið og upprisuna. Vel ort og eftirminnilegt.


16. september, mánudagur

Fórum í hátíðlega messu í Hallgrímskirkju í gærkvöldi. Sameiginleg messa fyrir vesturhluta Reykjavíkurprófastsdæmis. Hanna sat á fremsta bekk ásamt öðrum bænalesurum sóknarnefnda, en ég aftarlega í kirkjunni. Á næsta bekk fyrir aftan mig sátu Kristín og Guðmundur Benediktsson, fyrrum ráðuneytisstjóri. Solveig Lára, dóttir þeirra, þjónaði fyrir altari, en maður hennar, sr. Gylfi R. Jónsson, var settur inn í embætti héraðsprests. Allt gekk það stórslysalaust.
Þegar við höfðum gengið til altaris og ég hafði meðtekið líkama Krists úr höndum sr. Solveigar Láru vék ég mér að Guðmundi föður hennar og sagði,
Ég hef áður farið með Ingólfi og Hönnu til altaris í Péturskirkjunni.
Það hef ég aldrei gert, sagði Guðmundur. Ég hef aldrei gengið til altaris hjá þeim kaþólikkum, maður fær bara brauðið hjá þeim en sjálfir drekka þeir allt vínið!

Að messu lokinni vék ég mér að sr. Solveigu Láru og sagði að það væri gott að vera syndlaus til morguns.
Þetta, sagði hún, á að endast út alla vikuna.

Og nú geng ég fyrir þessu fyrirheiti.


Eitt finnst mér umhugsunarvert þegar ég les og hlusta á þessi ljóð sem Moyers er að kynna; hvað það er lítill munur á ljóðunum sjálfum og skýringum skáldanna á efni þeirra í samtölunum við Moyers. Ljóðin eru flest um persónulega reynslu höfundanna, þetta eru að mestu svokölluð „opin” ljóð og eru jafnáhrifamikil í óbundnum skýringum og því óbundna ljóðformi, sem notað er.
Hvað skyldi það segja okkur?


20. september, föstudagur

Ágæt veiðiferð í Hrútu. Sverrir Hermannsson mætti ekki, hann fór til Frakklands. Ólafur G. Einarsson, þingforseti, lék á als oddi. Fór með mikið af vísum. Halldór Blöndal fór með fáar vísur, en talaði því meir um Póst og síma. Ljúfur að venju. Albert Kemp stjórnaði, en Ólafur G. eldaði. Kristján H. sonarsonur minn skemmti sér konungslega. Haraldur faðir hans held ég einnig. Kristján fékk margar bleikjur, Haraldur góðan lax í Réttarstreng þar sem ég fékk minn fyrsta lax 1940, með pabba og Þorgils Ingvarssyni í Landsbankanum. Hef ort um þá ferð, óbirt. Sr. Hjálmar Jónsson alþm. kom í heimsókn, fór einnig með vísur. Þægilegur maður og vel hagmæltur, býr yfir góðum húmor. Afkomandi Bólu-Hjálmars og ber honum gott vitni.

Ólafur G. Einarsson sagði söguna af vitleysingnum á Kleppi sem alltaf þóttist vera að veiða í klósettinu. Helgi Tómasson yfirlæknir gekk eitt sinn fram hjá og spurði:
Hefurðu fengið eitthvað? Ónei, sagði veiðimaðurinn. Helgi sagði við nærstadda hjúkrunarkonu eins og þá var sagt,
Hann er að lagast; hann hefur ekki fengið neitt!
En sjúklingurinn sneri sér að næsta manni og hvíslaði, Heldurðu að maður fari að gefa upp bezta veiðistaðinn!!
Hef árum saman farið á eigin kostnað í Hrútu,nema þegar pabbi bauð mér 10 ára gömlum.Og ég veiddi maríulaxinn.

Hlutafélagið um Stöð 3 er gengið saman (Sjóvá, Mbl. , Sam-bíóin, Eimskip o.fl.). Gott! Nauðsyn brýtur lög!

Frágengið að Jón Baldvin verður sendiherra, sagði Styrmir mér í dag.


22. september, sunnudagur

Fórum í messu hjá sr. Halldóri í Neskirkju. Fámennt, en góðmennt. Hitti Ólaf vin minn Egilsson sem sagði mér frá Tyrklandi þar sem hann hefur verið í embættiserindum. Þar eru flókin vandamál og að mínu mati erfið staða fyrir NATO-ríki þar sem bókstafstrúar-múslímar eru nú í stjórnarforystu, hafandi sérstök tengsl við hryðjuverkamennina í Íran. NATO var stofnað gegn heimskommúnisma, en ekki fyrir múslimska ofstækismenn.
En kannski verða þeir ofaná í Tyrklandi sem meta meir tengsl við vestrænar þjóðir en ofstækismenn múslima sem hafa breytt trú sinni í gerræði eins og jesúítar á sínum tíma. Tala aftur við Ólaf þegar við Hanna komum heim úr Lundúnaför um miðjan næsta mánuð, en þangað förum við í fyrramálið að hitta Ingó. Förum svo með honum til Parísar eins og í fyrra.
Sr. Halldór lagði útaf texta dagsins um ekkjuna í Naíu og dauðan son hennar sem Kristur vakti til lífsins. Hvernig var eiginlega hægt að krossfesta hann sem hafði unnið slíkt kraftaverk?
Ofstækismennirnir stjórna alltaf ferðinni, sagði Hanna.
Það á áreiðanlega við mörg rök að styðjast.
Sr. Halldór lagði áherzlu á mikilvægan tilgang lífsins sem er eitt af leiðsögustefum kristninnar. Hann minnti á ummæli Valgeirs Guðjónssonar í útvarpi, en hann hefur verið að setja upp leikverk um blómabörnin, eða hippakynslóðina, sem á sínum tíma fór að fikta við fíkniefni. Hún hefur fengið sína dýrkeyptu reynslu. En af hverju heldur þá ungt fólk í alsnægtum áfram þessu háskasamlega fikti?
Valgeir hefur spurt og fengið þetta svar,
Við höfum engu að tapa(!)
Það vantar einhvern bakfisk í ungt fólk sem hugsar og talar á þennan veg. Það skortir eitthvað á líf þess. Það vantar tilganginn í líf þess. Það þarf ekki að berjast fyrir gæðum og leitar lífsfyllingar í eitrinu.
Hvílík ósköp(!)
Ekkjan í Naíu hafði engu að tapa þegar hún varð á vegi Krists, en hann gaf henni nýjan tilgang. Hann gerir það ævinlega. Um það mætti þetta unga ógæfusama fólk hugsa. Og mikilvægt hlutverk hvers og eins í kristnu samfélagi.
En tízkan glepur eins og ávallt. Og nú er ekki laust við  það sé einskonar lenzka að fikta. Það var margt gott um Bítlana og hippana, en ofmargir vildu breyta heiminum með því að fikta við fíkniefni.
En maður bætir ekki lífið með því að fikta við dauðann.
Við höfum ekki farið varhluta af þessu fikti samfara þeirri poppmúsik sem einatt minnir á fyrrnefnt tilgangsleysi, þótt hún geti einnig verið einhvers konar gefandi og andleg laxerolía við tilfinningateppu. En hún getur stafað af leiða og tilgangsleysi. Stundum er fallega sungið eins og þegar Bubba Mortens tekst bezt upp. Mér er nær að halda að hann, en þó einkum Megas, séu einskonar framhald af Sigurði Breiðfjörð og öðrum fulltrúum rímnakveðskapar.
Sveinn Haraldsson skrifaði leikdóm um eintal sem verið er að flytja eftir Megas. Hann sagði að það „stirndi á gullið” í textanum ef ég man rétt, og enginn kæmist með tærnar þar sem hann hefði hælana í rituðu máli handa „þessum síðustu og verstu tímum”, hvað sem það merkir. Ég skil það svo að nú sé smekkurinn á öðru og lægra plani en áður og þennan smekk túlki Megas öllum öðrum betur.
Ef þetta er rétt skilið tel ég slíka alhæfingu út í hött og vart samboðna lesendum stærsta blaðs þjóðarinnar.
“Samtíminn” er ekki hópur ungs fólks sem er agað við vondan smekk. Hann er sem betur fer miklu víðtækara viðfangsefni. Þó að „samtíminn” hafi tekið Sigurði Breiðfjörð miklu betur en Jónasi Hallgrímssyni og Jónasi hafi verið stórlega misboðið og lagt til atlögu við hinn vonda smekk síns tíma í frægum ritdómi um rímur Sigurðar Breiðfjörðs, þá var annar „samtími” sem hélt fram góðum smekk og leiddi skáldskap Jónasar til öndvegis.
Það sem Sigurður hafði vel gert leið fyrir hnoðlist og smekkleysurnar og þess vegna hafði Jónas erindi sem erfiði þegar upp var staðið.
Rímnakynslóðin sem þá var jafnfrek til fjörsins og poppkynslóðin nú rann sitt skeið á enda. Og skáldskaparhnoð hennar lenti í þeirri menningarlegu úreldingu sem er ævinlega hlutskipti þess vonda smekks sem „þjóðarsál”samfélagsins er sínkt og heilagt að fikta við eins og þau vímuefni önnur sem helzt bera holtaþokuvælinu vitni.
Eitt er gull, en annað tilburðir gulllistarmanna.
Ég held mikið upp á það bezta í kveðskap Sigurðar Breiðfjörðs og hefði viljað gefa út mitt úrval úr list hans. En hroðinn er þá líka yfirgengilegur og með þeim hætti sem Jónas lýsti.

 

Samtal okkar Silju Aðalsteinsdóttur er nú komið út í Tímariti Máls & menningar. En þar eru pennaglöp hálfleiðinleg, þegar ég er að líkja skáldskapnum við sígrænt lerki. En það fellir barrið og er undantekning! Ég vissi þetta svo sem, en samt slapp lerkið í gegnum allan lestur! Notaði því tækifærið og leiðrétti þetta í Helgispjalli í dag. Leiðréttingin er svohljóðandi:
P.S.
Í samtali okkar Silju Aðalsteinsdóttur í síðasta hefti Tímarits Máls & menningar, sem út kom í vikunni er af vangá minnzt á lerki sem sígræna þöll eða barrtré. En ólíkt öðrum barrtrjám er lerkið barrfellir. Það hefur verið eitt helzta skógræktartré hérlendis frá 1950, fyrst gróðursett í Hallormsstaðarskógi 1937. Í samtalinu á að sjálfsögðu að standa greni.
Lerki er líklega tökuorð úr dönsku, það er einnig til sem karlkynsorðið lerkir. Þá er til lerki, einnig tökuorð úr dönsku, sem söngfugl og kannski ekki út í bláinn að tala um lærvirkjatré í sömu andrá og skáldskap!

 

24. september, þriðjudagur

Gengum mikið í dag um London. Fórum í margar búðir. Ég vigtaði mig, 100,8 kíló. Þarf að komast vel undir 100 kíló í fötunum, helzt í 98 kg! Verður kannski hægt að ná því með mikilli göngu, því meiri ganga, því minna samvizkubit af bjórdrykkjunni!! Keypti mér jakka og buxur fyrir 78 pund  í C&A. Ágætt fyrir utangarðsmann. Fer aldrei í fínar búðir, þær eru fyrir aðra. Gerviefni fara mér bezt. Kannski er þetta snobb niður á við, eins og Hanna segir, en það skiptir engu máli. Aðalatriðið er að þetta sé ekki fatnaður handa gerviskáldi! Annars á ég erfitt með að fá á mig tilbúin föt hér í Bretlandi, þau eru yfirleitt of lítil. Fötin á tjallana passa mér illa. En þetta var ágætt verð.

Las í morgun grein í The Daily Telegraph um nýútkomna sjálfsævisögu Brigitte Bardot. Greinarhöfundur segir að hún líti á sig eins og Heilagan Frans af Assisi, samt er hún marggift, hefur átt fleiri elskhuga en tölu verður á komið og hefur auk þess lýst yfir stuðningi sínum við franska nýnasiztann Le Penn.
Ástæðan:
hún telur hann huggulegan og greindan mann sem ofbýður margt, eins og henni sjálfri. Það fer hrollur um hana þegar hún hugsar um „innrás” múslíma. Moskur hafa tekið við af  kirkjuturnum yfirgefinna þorpa, segir hún. Maður Bardot hefur unnið á vegum Le Penn og hún hefur áður eitthvað verið að pissa utan í hann, svo maður noti tungutak sem ætti frekar við þá skepnu sem hún virðist dá meira en manneskjuna.
Þegar hún varð ófrísk að einkasyni sínum, sem hún segir að hafi verið æxli sem nærðist á henni, fór enn hrollur um hana en enginn vildi, að hennar eigin sögn, hætta á að fremja fóstureyðingu á svo frægri leikkonu svo að hún sat uppi með drenginn.
Þegar hún fór á fæðingardeildina, full af hatri í garð væntanlegs barns, var hún heltekin sorg yfir því að þurfa að skilja við hundinn sinn. Hún segist eiginlega hafa verið á barmi örvæntingar vegna þessa aðskilnaðar. Hún vildi ekki sjá drenginn þegar læknirinn sagði henni að henni hefði fæðzt sonur.
Mér er fjandans saman, sagði hún, ég vil aldrei sjá hann aftur.
Ekki veit ég hvernig svo óvelkomnu barni hefur vegnað í veröldinni. Hundurinn hlýtur að vera kominn til ára sinna ef hann er enn á dögum. Sjálf segist Bardot búa yfir miklu móðurþeli eins og sjá megi af ást hennar á allskyns dýrum. Hún virðist vera algjörlega blind á sjálfa sig, en það skortir ekkert á gangrýnina á aðra. Ekki alls fyrir löngu heyrði hún ferðamann segja upphátt þegar hann mætti henni,
En hvað hún er ljót!
En hún svaraði eins og hennar var von og vísa,
Nei, ég er Birgitte Bardot!
Mér skilst þessi sjálfblinda geti verið fyndin með köflum, en það er óvíst hvort aðdáendur hennar til margra ára verði á sömu skoðun.
Mig minnir þessi ævisaga heiti Upphafsstafirnir B.B. Bardot er sextíu og eins árs, hrukkótt af sífelldum sólböðum og tóbaksreykingum. Hún hefur átt óteljandi ástmenn, leikið í 48 kvikmyndum, gifzt fjórum mönnum, staðið í fóstureyðingum, fengið taugaáföll og nokkrum sinnum reynt sjálfsvíg en mistekizt. Hún fæddist á 17. síðu, segir greinarhöfundur The Daily Telegraph, missir meydóminn á 72. síðu, undirgengst fyrstu fóstureyðinguna á blaðsíðu 83, giftist á blaðsíðu 85, segir frá lesbískum tilhneiginum á bls. 98, verður enn ófrísk á bls. 99 og eyðir fóstrinu.
Hún varð ekki fræg vegna leikhæfileika, heldur útlitsins. Tímaritið Elle birti mynd af henni 14 ára gamalli og þar með var teningunum kastað.

Bardot segist ekki vera kynþáttahatari þótt Le Penn hafi lýst því yfir nýlega að það sé eðlismunur á kynþáttum. Hann er nú um stundir þekktasti útlendingahatari Evrópu og slæmur félagsskapur þótt hann hafi ótrúlega mikið fylgi í Frakklandi. Þetta fylgi sýnir einungis að Frökkum ofbýður hvað margir múslímar hafa flutzt til Frakklands, en þeir sitja að sjálfsögðu uppi með þá vegna heimvaldastefnu í Afríku á sínum tíma. Ef þetta fólk er þyrnir í holdi þeirra er það einungis á sömu forsendum og Bandaríkjamenn sitja uppi með sitt kynþáttavandamál: syndir feðranna koma niður á börnunum. Það eru að sjálfsögðu ofstækisfullir bókstafstrúarmenn sem hafa komið óorði á islam og múslíma. Þeir eru fyrirferðarmestir í heiminum nú um stundir og mest áberandi í fjölmiðlum. Þeir eru að sjálfsögðu skeinuhættir vestrænni menningu og þeirri arfleifð sem er stolt Vesturlandabúa. Af þeim sökum tekst mönnum eins og Le Penn að efla til óvinafagnaðar gegn útlendingum – og þá einkum múhameðstrúarmönnum, þótt þeir séu áreiðanlega flestir ofstækislausir og ekki hatursfullur í garð kristinna manna. En rónarnir koma óorði á brennivínið, það er alkunn saga, og hryðjuverk eru áreiðanlega þyngsta byrði þeirra múhameðstrúarmanna sem helzt vilja lifa í sátt og samlyndi við kristið fólk í vestrænum löndum. Þau kalla fram á sjónarsviðið menn eins og Le Penn sem er einskonar franskur arftaki Hitlers en vonandi eiga Frakkar ekki eftir að sitja uppi með hann eins og Þjóðverjar sátu uppi með Hitler. Það varð þeirra ákvörðun sjálfra – og sjálfskaparvíti.

Í öllum símaklefum hér í borg eru auglýsingar um símavændi, með myndum og öðrum upplýsingum. Ég hélt satt að segja að slíkar auglýsingar væru bannaðar, en klefarnir hafa a.m.k. ekki verið hreinsaðir. Mér dettur þetta í hug vegna þess að við vorum að lesa um allskyns misnotkun á Netinu. Hanna benti mér á blaðagrein þess efnis, en þar er talað um allskyns misnotkun á þessu vinsæla tækniundri sem er orðinn nýr vefnaður og sérkennileg viðbót við sköpunarverkið. Í þessum vefnaði eru upplýsingar um klám og allskyns svik og svindl og augljóst að þess verður ekki langt að bíða að Netið verði eins og símaklefarnir í Lundúnaborg. En það er þá hægt að hugga sig við að í klefunum eru nothæfir símar fyrir þá sem þurfa á gagnlegri þjónustu halda, en láta vændið eiga sig.
Allt er þetta partur af hugsun mannsins, upplagi hans og bardúsi. Hann þráir hin grænu tún,en er bundinn fjósinu.

Keypti nýja bók með köflum úr dagbók Alec Guinness, brezka leikarans fræga sem kom til Íslands á sínum tíma. Hún heitir My Name Escapes Me. Keypti bókina vegna þess að mér er minnisstætt þegar sir Alec var á Íslandi og ég mætti þeim hjónum á kvöldgöngu í Vesturbænum, en þau bjuggu á Sögu, ef ég man rétt. Ég man ekki hvenær þau komu til Íslands, en kvöldganga þeirra er mér minnisstæð. Þarf að kanna hvort Morgunblaðið átti ekki samtal við sir Alec þegar hann var heima. Höfum að sjálfsögðu séð ótal kvikmyndir með þessum brezka snillingi, en auk þess sáum við hann í hlutverki Arabíu Lawrence í leikhúsi hér í Lundúnum á sínum tíma, það var minnisstætt.

Ísland kemur við sögu í þessum dagbókum fimmtudaginn 13. apríl, en þá segist sir Alec hafa borðað kvöldverð á Garrick en sessunautur hans hafi verið brezki málarinn Keith Grant. Þeir hafi talað saman í heila klukkustund enda áttu þeir sameiginlegt áhugamál þar sem Ísland var.
Keith Grant kveikti þá löngun í leikaranum að heimsækja aftur Ísland áður en hann dæi og þá til að sjá norðurljósin, þetta undur allra undra veraldarinnar, síbreytileg og ólýsanleg. Við ættum að bjóða sir Alec heim til Íslands að vetri til þegar von væri á miklum norðurljósum. En þá þarf að vera talsvert frost og heiðríkja.
Mestu norðurljós sem ég hef séð birtust okkur þó haustkvöld nokkurt fyrir fjölmörgum árum þegar við ókum suður  Hólssand að Grímsstöðum. Ég efast um að ég hafi nokkurn tíma séð annað eins náttúruundur og hef þó upplifað mörg eldgos.
Haraldur sonur okkar var með okkur lítill drengur svo þetta hefur verið í kringum 1960. Hann varð svo hræddur að hann lagðist á gólfið aftur í bílnum og leitaði þar skjóls fyrir undrinu. Við reyndum að segja honum að þetta væri hættulaust náttúrufyrirbrigði sem yrði honum ógleymanlegt. En hann lét sér ekki segjast og lá á gólfinu þangað til við komum að Grímsstöðum.

Engum hefur dottið í hug að auglýsa Ísland sem hið ótrúlega undur norðurljósanna. Við auglýsum hveri og hvali og þessa yfirgengilegu náttúrufegurð sem landið okkar hefur upp á að bjóða, en væri ekki kominn tími til að taka áhættuna og auglýsa norðurljósin? Einar Benediktsson var óhræddur við það. Hann var á undan sínum tíma á ótrúlega mörgum sviðum enda var hann sjáandi og skáld og vildi breyta draumum lítillar þjóðar í gallharðan veruleika. Draumsýn hans um Búrfellsvirkjun varð ekki að veruleika fyrr en mörgum áratugum eftir að hann lagði drög að þessum sama veruleika og Íslendingar höfðu ekki við að hafa draumsýnir hans aðrar að athlægi, afgreiddu þær svo endanlega með því að skáldið hefði selt norðurljósin!
En nú er kominn tími til að selja þessi sömu norðurljós og ef þarf frekari vitnanna við nægir að fletta dagbókum sir Alec Guinness sem hefur aldrei séð annað eins náttúruundur og rafmagnaðan himin; einasta undrið sem hann þráir að upplifa aftur áður en hann deyr, en þessu sama undri lýsti Einar Benediktsson m.a. með þessum hætti:

Veit duftsins son nokkra dýrðlegri sýn
en drottnanna hásal í rafurloga...

og þá verður allt svo lítið og lágt
sem lifað er fyrir og barizt er móti.

Áður en við fórum að heiman var ég á síðdegisfundi og fór yfir fréttirnar með Agnesi Bragadóttur. Þá hringdi síminn. Það var Jón Baldvin. Hann var grasekkjumaður. Hann ætlaði í leikhúsið um kvöldið og bauð Agnesi. Agnes var á vakt og gat ekki farið.
Láttu Matta á vaktina, sagði hann við Agnesi.
Hún kom skilaboðunum til mín.
Ég svaraði, Þið Jón ættuð að fara saman í leikhús fáránleikans.
Það þótti Agnesi fyndið en Jón lauk samtalinu.

Keith Grant, sem ég nefndi hér að framan, kom til Ísland og hélt athyglisverða sýningu á málverkum sínum. Þau fjölluðu öll um Surtseyjargosið. Við Hanna eigum eitt slíkt málverk heima í stofu. Keith var ágætur. Við fórum í ferðalag með hann og því verri sem vegirnir voru, þeim mun betur líkaði honum. Þess vegna ókum við yfir Lyngdalsheiðina til Laugarvatns. Það þótti Keith Grant næstum því eins eftirminnilegt og Surtseyjargos. Hann hentist fram og aftur í erfiðum beygjum á þvottabrettinu og hafði orð á því að svona ættu vegir að vera. Ég átti samtal við hann sem birtist í Lesbók 1973.

Hef ekki séð Keith Grant frá því við hittum hann hér í London fyrir mörgum árum. Þá bauð hann okkur heim en konunni hans var ekkert um Íslendinga gefið. Hann gaf mér í skyn að ástæðan væri sú að hann hefði lent á kvennafari heima á Íslandi og konan teldi að við værum einhverskonar fulltrúar fyrir íslenzka ást undir norðurljósum; veit það samt ekki, en hún talaði nánast ekkert við okkur Hönnu og þar með slitnaði sambandið við brezka Surtseyjar-málarann Keith Grant.

Ingó hefur farið í kaþólska kirkju sem er skammt frá London School of Hygine and Tropical Deseases sem er sérstök stofnun innan Lundúna-háskóla. Þar er rannsóknastofa hans. Hann spurði okkur hvort okkur yrði sama þótt hann turnaðist til kaþólsku, hafði samt engar áhyggjur af mér, ég var hvort sem er alinn upp í kaþólskum skóla. Hann var hræddur um að móðir hans legðist gegn því, en það gerði hún ekki. Við leggjumst ekki gegn kristnum söfnuðum. Þá sagðist hann hafa verið að hugsa um þetta en væri enn óákveðinn. Ég sá að honum líkaði að okkur væri sama hvort hann stundaði kaþólska eða lútherska kirkju.
Kaþólsk kirkja virðist skírskota sterkar til hans og hann játar það hreinskilningslega að það séu hinar táknrænu umbúðir messunnar sem hafi heillað hann. Hann segir að Kristur sé miðþyngdarstaður kaþólskrar trúar ekki síður en lútherskrar. Maríudýrkun sé ekki eins mikil og við lútherskir höldum. Það sé munur á sakramentinu að vísu, við lútherskir tökum blóð og líkama Krists í hans minningu en kaþólskir trúi því að vínið sé blóð Krists og brauðið líkami hans, eins og hann sagði sjálfur. Ingólfur segir að það vefjist ekkert fyrir honum. Ég sagði honum að mér fyndist enginn munur í raun og veru á því hvort vínið eða brauðið væru táknræn minning eða veruleikinn sjálfur. Allt væri þetta einungis túlkunaratriði og í því skyni gjört að meðtaka frelsarann.
Við fórum á sínum tíma í altarisgöngu í Péturskirkjunni í Róm. Það var auðvelt fyrir okkur að meðtaka fagnaðarerindið um vínið og brauðið. Leiðin til frelsarans skiptir okkur engu máli, það er áfangastaðurinn, hann sjálfur, sem öllu máli skiptir.
Og svo velferð Ingólfs, andlegt jafnvægi hans og hamingja.

25. september, miðvikudagur

Fórum í The Old Wick og sáum An Ideal Husband eftir Oscar Wilde. Fínir leikarar, gott stykki, en þó einkum skemmtilegt. Gagnrýnendur hafa frá því leikritið var frumsýnt í janúar 1895 lagt aðaláherzlu á armbandið sem var stolið, en Wilde sagði að umsagnir þeirra, þótt jákvæðar væru, sýndu svo ekki væri um að villast að þeir hefðu engan skilning á efninu. Þeir hefðu eftir frumsýninguna skrifað um aukaatriði. Sálfræði verksins, sem væri aðalatriði þess, fjallaði um muninn á því hvernig karl elskar konu og kona elskar karlmann; veikleika konunnar annars vegar og karlsins sem þolir ekki að sýna þeim sem hann elskar ófullkomleika sinn hins vegar.
Í leikskránni er tilvitnun í samtal sem brezki blaðamaðurinn Gilbert Burgess átti við skáldið og var birt í The Sketch 9. janúar 1895 og sýnir hve mikilvæg slík blaðasamtöl geta verið. Burgess hefur augsýnilega bjargað nafni sínu frá glötun vegna þessa samtals við Wilde. Leikritið er háalvarlegt í eðli sínu en þó bráðfyndið með köflum. Það er sem sagt eftir Oscar Wilde og gæti líklega ekki verið eftir neinn annan. Samtölin feiknalega vel skrifuð, efnið eins og þrætt sé einstigi yfir sextugu dýpi. Fjallar um gamlar syndir, mútur og þá kúnst að geta lifað með því að horfast í augu við sjálfan sig. Aðalpersónan, ef svo mætti segja, er afvegaleidd metnaðargirnd stjórnmálamanns. Kona hans gerir miklar kröfur til þessa fullkomna eiginmanns sem hefur ekki getað staðið undir siðferðilegum blekkingum hennar, en bezti vinur hans er persónugervingur Oscars Wildes sjálfs, Goring lávarður, sem er hálfgerður flottræfill en leynir þó á sér því hann er kaldhæðinn, fyndinn en umfram allt góðhjartaður; leggur áherzlu á kærleikann, ástina og fyrirgefninguna á örlagaandartökum. En hann er þó einnig harla veikgeðja og hálfgerður auðnuleysingi í augum foreldra sinna. Þau eru óborganlegar persónur í verkinu.
Goring lávarður telur að foreldrar birtist ævinlega þegar verst gegnir og hefur líklega ekki verið einn á þeirri skoðun.
Ég gæti vel ímyndað mér að lávarðurinn segi meira um sálarlíf og innri gerð Oscars Wildes sjálfs en flest það sem um hann hefur verið skrifað.
Gáfur Wildes, fyndni hans og óvæntur frumleiki kemur hvergi betur fram en í þesssri leikpersónu hans. Pabbinn botnar augsýnilega ekkert í syninum og þegar hann spyr hvort hann viti alltaf hvað hann er að segja, svarar sonurinn,
Nei, ekki alltaf!
Goring lávarður þekkir vel veikleika mannsins og bregzt réttilega við þeim. Hann segir einhvern tíma í miðju leiksins að það fari í hönd langt ástarævintýri þegar maðurinn gerir sér grein fyrir ást sinni á sjálfum sér. Þá er drottningin í Mjallhvíti ekki langt undan.

Oscar Wilde sagði að gagnrýnendur væru illa menntaðir, það þyrfti að mennta þá. Þegar talað er í leikritinu um góða blaðagrein er sagt að viðkomandi hljóti að hafa lesið milli línanna. Af þeim leikdómum íslenzkum sem ég hef lesið „á þessum síðustu og verstu tímum” held ég að þessi athugasemd Wildes gæti auðveldlega átt við sumt af því sem nú er skrifað um listir og leikhús heima á gamla Fróni.

Í Fyrirmyndareiginmanni talar móðir Goring lávarðar um einstakan eiginmann og venjulega eiginmenn. En hún taldi sig  gifta einum slíkum. En þegar þessi persóna er jafn vel leikin og raun bar vitni í The Old Wick verður hún ekki einungis einstök, heldur ógleymanleg. Í Lady Windermere’s Fan segir að London sé full af konum sem treysti eiginmönnum sínum; það sé ávallt hægt að þekkja þær úr; þær séu fullkomlega óhamingjusamar. Og í Myndinni af Dorian Grey segir að karlmenn giftist af því að þeir séu þreyttir; konur vegna þess að þær séu forvitnar; öll séu þau vonsvikin!
Og loks segir í Myndinni af Dorian Grey, að þeir sem séu trúir þekki einungis aukaatriði ástarinnar, en þeir sem séu ótrúir þekki hina harmsögulegu hlið ástarinnar.

Wilde kynntist sjálfur bæði ást og harmi. Þegar hann lenti í hneykslismálinu með Alfreð Douglas lávarðssyni var nafnið hans tekið út úr leikskrám vestur í Bandaríkjunum. Hann lézt í París 1900 og hafði þá safnað saman Síðustu orðum handa eftirtímunum, m.a. þessum:
Annaðhvort verður að fara, veggfóðrið eða ég!

En Goring lávarður mun lifa áfram í verkum Oscars Wildes.

Hef gengið á milli bókabúða og keypt nokkrar spólur. Faber og Penguin hafa nú sent frá sér álitlegt safn af hljóðbókum með upplestri skálda og leikara, þ.á m. Seamus Haney og Ted Hughes, að ógleymdum Philiph Larkin í upplestri Alan Bennetts. Hef gaman af að hlusta á slíkan upplestur; bæði fróðlegt og skemmtilegt. Hef ekki enn náð í snælduna með upplestri Simon Armitages, en þetta unga skáld er í forystu sinnar kynslóðar hér í Bretlandi. Ég kynntist honum heima á Íslandi þegar þeir Maxwell fóru í fótspor Audens. Þá áttu þeir samtal við mig sem var flutt í BBC. Ég hef því miður ekki hitt þá aftur en það hefur alltaf staðið til að við læsum upp saman hér í Bretlandi.
Það verður að bíða betri tíma, einkum vegna þess að Mare’s-forlagið varð að fresta útgáfum á þýðinum á ljóðum mínum vegna þess að útgáfustyrkur var felldur niður þar til næsta ár, að ég held. En við sjáum til. Hér er nóg að sýsla og fátt finnst mér skemmtilegra en fara í brezkt leikhús. Við ætlum einnig á La boheme með Ingó, La traviata, flemingó-dans og svo Parísaróperuna þegar við skreppum þangað eftir hálfan mánuð. Það sem er leikhúsiðnaður í Bretlandi, hvort sem er á sviði eða í sjónvarpi, væri talið til stórlistar heima á Íslandi. Þó er sumt vel gert í leikhúsum heima, en oftast þykir mér vanta herzlumuninn og er kannski engin furða með svo fámennri þjóð.

Hef verið að hlusta á Christopher Marlowe; athyglisvert.

Rakst á tvö eintök af The Naked Machine í Foyles; óbundin. Sagði Hönnu að ég væri að hugsa um að kaupa þau, kosta rúmlega 5 pund hvort.
Hanna sagði að ég hefði ekkert við þau að gera.
Ég sagði að það væri gott að eiga þau til gjafa.
Hanna sagði að það væri meiri virðing í því að eiga tvö eintök af ljóðabókinni sinni í stærstu bókaverslun heims en að kaupa þau handa einhverjum sem hefur ekki unnið til að eignast þau.
Það væri miklu virðulegra að láta þau gegna hlutverki sínu í ljóðadeild Foyles en flytja þau heim til Íslands.
Sem sagt, skildi eintökin eftir innan um heimsbókmenntirnar og þar verða þau áreiðanlega næstu hálfa öld!

Styrmir hringdi í dag, þurfti að ráðfæra sig við mig um nokkur óleyst vandamál; með hvaða skilmálum Jóhanna Kristjónsdóttir gæti starfað sem lausamanneskja við Morgunblaðið; hvort við ættum að kaupa ferskeytlur af Vísnafélagi Þingeyinga, en Jóhanna Steingrímsdóttir í Nesi hafði víst ámálgað það. Af og frá. Vísur eru eins og hugmyndir, flögra um og deyja oftast prentaðar. Lenda sem sagt í garðkettinum eins og þrestirnir. Ótrúlegt að nokkrum skuli detta í hug að selja svona vísur, það hef ég aldrei heyrt áður. En allt á víst að selja nú á dögum. Og nú virðist ferskeytlan jafnvel vera á leiðinni inn í markaðslögmálið! Vísur eru gamanmál, þær eru eins og bros.
Stundum eru þær eins og einhver reki við í samkvæmi.
Fyrir það dettur engum í hug að borga, jafnvel þótt það sé þingeyskt samkvæmi!


26. september, fimmtudagur

Hanna er að lesa dagbækur sir Alecs. Henni finnst þær fremur þunnur þrettándi. En samt virðist hún hafa gaman af þeim. Hún var að segja mér frá athugasemd sir Alecs við dauða John Osbornes og brezka blaðamannsins Peter Cooks. Sir Alec minnir á að brezk leiklist hafi ekki byrjað með Horfðu reiður um öxl eins og alltaf sé verið að segja okkur. Hann segir að frásagnirnar um lát þessa Cooks hafi tekið meira pláss í blöðunum en þótt öll konungsfjölskyldan hefði verið drepin á einu bretti. Hann spurði brezka leikskáldið Alan Bennett hverju þetta sætti, en þá hafði Bennett svarað,
Hann var blaðamaður!
Ég hef aldrei heyrt það fyrr að blaðamenn berji nestið sitt með þeim hætti. Ætli þeir kveðji ekki frekar eins og glefsandi kjölturakkar? Hlutverk þeirra er einatt hlutverk hundsins. Þeir sjá um húsbóndann sem er að öðru jöfnu annað hvort stjórnmálamaður, leikari eða poppstjarna.
Eða eigandi miðilsins!

Kvöldið:

Ég sé af dagbókum sir Alecs að Keith Grant hefur fremur lagt leið sína til Noregs en Íslands. Hann keypti mynd af honum  í fyrra sem var af norskum firði. Og laugardaginn 10. febrúar í ár vitnar hann í bréf sem Keith skrifaði honum frá Noregi þar sem hann lýsir ólýsanlegum norðurljósum. Þess verður þá ekki langt að bíða þar til Norðmenn fara að selja norðurljósin sín. Þeir eru alltaf einu skrefi á undan okkur.
Þeir uppgötvuðu jafnvel Ísland áður en nokkur Íslendingur hafði barið landið augum.

Fórum í þjóðaróperuna og sáum La traviata. Fín sýning. Mættu vera fleiri aríur, en þær eru yfirleitt of fáar í þessum gömlu óperum. Oftast  miklar umbúðir um lítinn kjarna. En hann er þess virði að vinna sig að honum. Í óperum Wagners flæðir skáldskapurinn aftur á móti með viðstöðulausri tónlistinni.

Hvað eru söngvarar, hvað eru leikarar?

Sir Alec Guinness svarar því svo í samtali við The Times á morgun: „Túlkandi orða annars manns, oft og tíðum sál sem þráir að opinbera sig heiminum en þorir ekki.”

Sir Alec er lítillátur maður. Þegar örlar á kaldhæðni er hún einskonar vörn fyrir geðfellda hæversku þess sem veit að enginn varaleikari getur komið í hans stað. Þegar hann hverfur af sviðinu verður það autt og alec-laust. En Smiley verður víst alltaf til á myndböndum.

Förum í næstu viku með Ingó í Konunglegu óperuna. Höfum ekki heldur komið þangað áður. Það er tilhlökkunarefni að koma í þetta fræga hús. En þá verða meiri berklar því við ætlum að sjá La boheme.

Hef verið að hlusta á Marlow. Hann er ólíkur Shakespeare þótt þeir séu harla líkir, enda börn sama tíma. En Shakespeare er skáld samtalsins – Marlow er skáld frásagnarninnar. Það var eitt af þessum kaldhæðnu augnablikum tilverunnar þegar hann var drepinn í einvígi hálfþrítugur.
Á sínum tíma sagði Faulkner mér að það hefði ekki verið pláss bæði fyrir hann og Hemingway í Bandaríkjunum. Ætli það hafi ekki verið rúm fyrir þá Marlow og Shakespeare í Bretlandi?
Marlow orti um Faust. Hann var heillaður af samskiptum þeirra kölska. Hann lifði samkvæmt þessari hrifningu og þannig dó hann.
Og þá hefur Shakespeare líklega losnað við þann eina mann sem hann hafði ástæðu til að öfunda, svo vel sem Marlow orti inn í form sinnar samtíðar.


27. september, föstudagur

Hanna segir að sir Alec sé smámunasamur; og trúlega geðstirður. Það fer í taugarnar á honum að verða gamall. Mikið skil ég hann vel. Heyra ekki eins og áður. Gleyma. Konan hans er ekki mikil húsmóðir. Hún er listmálari. Hún heitir Merula. Hún virðist vera lítið heima. Hann virðist standa í eldamennsku og húsverkum. Það hefur áreiðanlega bjargað hjónabandinu. Annað hvort eru hjónabönd dauðadæmd eða eitthvað óvænt bjargar þeim; eitthvað sem enginn reiknaði með.

Hef verið að lesa The Nation’s Favourite Poems, nýútkomna. Fá kvæði eftir lifandi skáld. Þau virðist ekki eiga upp á pallborðið, þrátt fyrir „poetry boom” eins og komizt er að orði í formálanum. Vinsælasta kvæði Breta meðal almennings er samkvæmt skoðanakönnun If eftir Kipling og kemur raunar ekki á óvart. Það var fyrst prentað 1910 og Þorsteinn Erlingsson hlýtur að hafa þekkt það þegar hann orti kvæði sitt Ef þú ert fús að halda á haf...
Matthías nafni minn og sonarsonur er ekki allskostar ánægður með skólagöngu sína. Ég ætla að benda honum á þessi kvæði. Ég ætla einnig að minna nafna minn á kvæði Yeats um draumana, að leggja þá ekki að fótum annarra, þeir geta traðkað harkalega á þeim; að eiga draumana fyrir sig og halda í þá á hverju sem gengur. Það er alltaf verið að traðka á draumum okkar. En þeir eru dýrmætari en traðkið.

Hef verið að hlusta á The Importance of Beeing Earnest. Enn um ónytjunga sem brillera á tungutaki höfundar. Gamla lafðin er óborganleg. Hún vill ekki gifta dóttur sína, Gvendólínu, manni sem er kominn úr handtösku í biðsal járnbrautarstöðvar! Enginn skyldi lá henni það – á viktoríutímum! En þannig fannst víst einnig Edward Albee. Afstaða hans til stjúpmóðurinnar birtist í leikritinu sem við sáum hér í borg í fyrra, Þrjár konur stórar. Gömlu lafðinni hefði ekki litizt á uppruna hans.

Athugasemdirnar í þessu leikriti eru jafnóvæntar og eftirminnilegar og í öðrum verkum Oscars Wildes. Ætli Victor Borge hafi samið setninguna um gervirósina með þessa setningu gömlu lafðarinnar í huga þegar hún segir við aðra stúlkuna,
Hárið á þér er eins og af náttúrunnar hendi, en það má breyta því! Um þjóðfélagið segir hún að enginn eigi að gagnrýna það, það sé merki þess að gagnrýnandinn hafi aldrei komizt inn fyrir dyr þjóðfélagsins. Kerlingin er engu lík nema lafðinni í Fyrirmyndareiginmanni. Þær sýna báðar hvernig Wilde hefði orðið ef hann hefði verið kvenmaður og gifzt inn í aðalinn. Óþolandi – supertanta!. En þannig var hann hvort eð er í sínu rétta gervi – og þessu sama umhverfi. Óþolandi í augum þeirra sem urðu fyrir barðinu á ræktaðri ósvífni hans.

Leikritið um Ernest er snilldarleg della. Tungutakið listrænn spuni.


28. september, laugardagur

Las þessa fyrirsögn í The Daily Telegraph: Sri Lancans kill 450 Tigers. Ég hugsaði með mér, ósköp er að sjá þetta, að þeir skuli hafa 450 tígra. Hvers konar villimennska er þetta? Mega þessi dýr ekki lifa í friði? Maðurinn er meiri skepnan. Las svo áfram. Og í fréttinni stóð: Troops killed at least 450 Tamil Tiger Guerillas and lost 75 soldiers in a new offensive in northern Sri Lanca, the government said yesterday.

Þeir drápu sem sagt 450 uppreisnarmenn tamíla. Það þykir ekki mikil frétt nú á dögum. Tígrarnir eru verðmætari en maðurinn. Ef þarna hefði verið fjallað um 450 tígra hefði fréttin verið með stóru letri á forsíðu.
Þannig er veröldin í dag, maðurinn er að útrýma tígrum en tamílskir tígrar eru réttdræpir eins og nú háttar þarna austurfrá.

Afstæð villimennska er daglegt brauð í samfélagi nútímans. Jafnvel meinleysingi eins og ég hrekk við ef verið er að drepa þessi dýrmætu tígrisdýr en legg svo kollhúfur ef það eru bara tamílskir tígrar. Jörðin er vont umhverfi fyrir sálina. Illmennskan er smitandi og nú berast þeir á banaspjót á hernumdnum svæðum Ísraels. Þar var einu sinni reynt að vísa manninum leið til guðs en hann kann bezt við sig á Golgata. Nú um stundir er líklega öruggara að vera tígur í útrýmingarhættu en tamílskur tígur. Mundi það ekki segja meira um frumskógareðli mannsins en þær hálftómu kirkjur og þau bænahús sem eru umbúðir ofstækis og illra verka?

Sáum söngleikinn Sunset Blvd. í Aldelphi-leikhúsinu á Strand. Fín sýning með Ritu Monero í aðalhlutverki. Við sáum hana fyrst í kvikmyndinni Carmen fyrir nær fjörutíu árum, og hún er ekki síðri nú en þá. Sumt í þessu verki minnir á Phantom of the Opera sem við sáum í New York fyrir tveimur árum, en sá söngleikur er einnig eftir Andrew Lloyd Webber, sem er að verða einskonar Verdi nútímans. Ég hef áður skrifað í bréfi frá Flórída um söngleiki nútímans og er sannfærður um að sumir þeirra verða ekki síður sígildir en ýmsar þær óperur frá síðustu öld sem njóta hvað mestra vinsælda. Við sáum söngleik Webbers, Cats, við ljóð Eliots í New York þegar ég fór þangað í fyrra að lesa upp. Það var einnig eftirminnileg sýning. Sunset er engin gamanmál. Hann er harmleikur sem stórstjörnur og frægðarfólk ætti að íhuga.


29. september, sunnudagur

Fórum í kaþólska kirku í Soho með Ingólfi. Veðrið heldur þungbúið og ekki hannað fyrir langar göngur. Drukkum kaffi með Ingó eftir messuna á litlu veitiungahúsi í Soho, en fórum síðan í safn.

Hittum prestinn sem Ingó hefur haft samband við í trúarglímu sinni undanfarin misseri, séra Austin Garvey, viðkunnanlegan mann og vel að sér. Við sögðum honum dálítið frá kaþólsku kirkjunni í Reykjavík, uppeldi mínu í Landakotsskóla og ÍR-húsinu, sem hafði verið gömul kaþólsk kirkja. Það var kaþólskt andrúm í umhverfi mínu og ég hef aldrei neina tilfinningu fyrir því að einhver raunverulegur munur sé á kaþólskri og lútherskri kirkju.
Við fórum ekki til altaris vegna þess að presturinn veit að við erum lúthersk og ættum ekki að vera undirbúin undir það sakramenti sem veitt er í kaþólskum kirkjum, þ.e. að vínið sé blóð Krists og brauðið líkami hans.
Kaþólsk trú telur ekki endilega að altarisgangan sé til minningar um blóð Krists og líkama hans heldur neytum við þess í þeirri fullvissu að þar sé um að ræða raunverulegan líkama Krists. Þannig meðtökum við hann. Það truflar mig ekkert hvort um er að ræða líkama Krists eða minningu um hann þegar við göngum til altaris.

Boing-þota af gerðinni 757 fórst út af strönd Perús með 70-80 manns. Lenti í sjónum. Ég skil ekki hvernig hægt er að leggja það á nokkra lifandi sál að upplifa síðustu sekúndur slíks hryllings. Af því stafar fælni mín gagnvart flugi þótt ég viti innst inni að það er öruggari ferðamáti en flest annað, ef stuðzt er við stærðfræðina.
Og nú förum við Hanna heim í slíkri þotu eftir tíu daga. Ég þarf að taka á, svo mikið er víst. Tilfinningar verða áreiðanlega ekki í lagi. En ef skynsemin verður ofan á ætti þetta að ganga bærilega.
En svo fer Ingó til Bangkok, Hong Kong og Peking í byrjun nóvember. Það er kvíði í mér út af því ferðalagi. Í gær fékk hann að vita að hann á líklega að flytjast á rannsóknarstofu í Edinborg með næsta vori; eða eftir að hann hefur verið í Toranto- og Stanford-háskóla.
Þetta er allt mikið ævintýri ef vel gengur.
Í bænum mínum bið ég fyrir því. Ég bið fyrir drengjunum mínum báðum og velferð þeirra. Og nú sérstaklega fyrir Matthíasi nafna mínum sem er í erfiðu námi í Háskólanum. Vonandi gengur það vel.

Síðar

Sir Alec segir á einhverjum stað í dagbókum sínum, það er víst 6. nóvember 1995, að það virðist enginn endir á þeirri hugsunarlausu illsku sem iðkuð er á þessari plánetu í þessu minniháttar sólkerfi, siðferðilegt þrek mannsins minnki sífelldlega, auðvelt sé að biðja í trú, von og kærleika, en öllu hraki þessu með ljóshraða. Hinir síðustu og verstu dagar hafi verið verri en svo að hann treysti sér til að nefna þá á pappír.

Runki  sem talaði gegnum Hafstein miðil sagði við mig á sínum tíma að það yrðu ávallt slys svo ófullkominn sem maðurinn væri, og þá ekki sízt vegna þess að hann færði sér í nyt tækni sem hann réði ekki við.

Forseti Afganistans hefur verið hengdur á torgi úti af islömskum uppreisnarmönnum sem einskis svífast. Sjálfur var hann kommúnisti og lét sér víst fátt fyrir brjósti brenna. Enn eitt islamskt ríki, mér lízt ekki á blikuna(!)
Mannréttindabaráttan í Burma undir lær og maga, eins og Guðmundur vinur minn Jörundsson mundi sagt hafa, manndráp að venju fyrir botni Miðjarðarhafs, Júgóslavía og ýmis önnur ríki eins og púðurtunna.
Eða fjöldagröf.

Kvöldið

Við göngum hér um borgina og ég dáist að ungu utangarðsmönnunum sem sitja á gangstéttunum í ausandi rigningu, blautir og kaldir, og biðja um skiptimynt, eins og þeir segja. Mér sýnist einn þeirra sé vafinn inn í dömubindi; vængjalaust.

Hef verið að hlusta á Great Speeches in History. Margar harla athyglisverðar. Brezka kvenréttindakonan Emmelyne Pankhurst flutti á sínum tíma merka ræðu fyrir jafnrétti kynjanna, minnir það hafi verið 1912. Hún talar um að lögmál náttúrunnar eigi að vera æðra lögmálum karla. Þetta er góð ræða. Ég heyri konur nú á dögum aldrei flytja svona góðar ræður fyrir málstað sínum.
Hvers vegna?
Veit það ekki.

Niðurlagið á ræðu Emils Zola sem hann flutti 1898 til varnar sjálfum sér vegna ásakana um meiðyrði er harla athyglisvert. Hann bendir á hvernig stærstu fjölmiðlarnir hafi eitrað þjóðfélagið þegar þeir hafi skrifað um Dreyfus-málið. Fjölmiðlar eru engin sáluhjálp en þeir eru þó hornsteinn lýðræðis.

Einn helzti mælskumaður Breta á sínum tíma, Robert Emmett , flutti árið 1802 mjög merka ræðu fyrir réttlæti. Hann segir í lokin frá manni sem gekk við hliðina á Júpíter. Maðurinn sagðist vera ósammála Júpíter. En guðinn gat ógnað manninum með því að grípa til þrumunnar.
Þú grípur til þrumunnar, sagði maðurinn, þegar þú talar fyrir röngum málstað. Og ég get ekki keppt við þrumuna.
Góð dæmisaga.
Lýsir því vel sem við eigum oft við að stríða.

Undanfarin ár hefur stór og grár betlitrúður verið við innganginn í Selfridges í Oxford Street, dansað, barið saman einhvers konar málmtrumbum í því skyni að vekja athygli á sér og fá fólk til að taka þátt í því að láta sjóða í einkapottinum hans. Þessi gráskeggur hefur vakið athygli mína.
Ég fór því að skima eftir honum fyrir utan Selfridges en sá hann ekki.
Þegar við Hanna gengum framhjá Harrods í dag sá ég gamlan gráskegg heldur niðurlútan sitja nærri einum innganginum og selja eldspýtur. Hann var sem sagt í hlutverki litlu stúlkunnar með eldspýturnar. Ég fór að huga að kappanum sem var heldur framlágur og sá þá í hendi mér að þarna var kominn betlitrúðurinn úr Oxford-stræti.
Hann hefur sem sagt flutt sig um set. Þarna sat hann heldur niðurlútur og eins og hann væri annað hvort utan gátta eða hefði lítinn áhuga á væntanlegum viðskiptavinum. Hann benti ekki einu sinni á eldspýtustokkana, hvað þá hann léti á sér bera eins og forðum daga.
Ég fór að velta því fyrir mér hvers vegna hann hefði flutt sig um set og sæti nú þarna við Harrods, grár og gugginn og heldur ellihrumur. Líklega hefur hann uppgötvað að þarna þyrfti hann ekki að láta eins á sér bera og fyrir utan Selfridges. Kannski kemur ríkara fólk inn í Harrods en í Selfridges, a.m.k. er deginum ljósara að hann hefur minna fyrir viðskiptunum á þessum nýja stað en  uppi í Oxford Street.
En betlitrúðar eldast eins og aðrir.
Og þeir verða með aldrinum minna upplagðir að dansa og vekja athygli á sér með málmtrommum og allskyns kúnstum.
Þeir hverfa hægt og sígandi inn í elli og minnkandi áhuga og þá breytast umsvifin og verða í samræmi við þessa minnkandi getu.
Einn góðan veðurdag breytist þessi uppáhaldsbetlari minn í litlu stúlkuna með eldspýturnar og hver veit nema örlög hans verði hin sömu og hennar. Og þá verður hann kannski ekki fær um að kveikja á eldspýtu í vetrarkuldanum fyrir jólin og enginn nennir að veita honum athygli og lífið fer framhjá honum þarna á götunni eins og tíminn sem skilur ekkert eftir nema autt svið.
Og þá getur verið að betlitrúðurinn deyi á sviðinu án þess nokkur taki eftir því.
En það er samt ekki víst að hann eigi ekki fyrir útförinni.
Einn helzti og hvimleiðasti betlari Reykjavíkur þegar ég var drengur var Oddur á Skaganum. Hann var frekur og yfirgangssamur og ég var hræddur við hann þar sem hann stóð á horninu við pósthúsið. En þegar hann dó arfleiddi hann DAS að þremur eða fjórum íbúðum, ef ég man rétt.

Uppáhaldsbetlari minn í London fer líklega að berja nestið sitt. Og ég geri ekki ráð fyrir því að hann eigi fyrir fjölmennri erfidrykkju. Þó er aldrei að vita. En hitt þykist ég vita að hann á ekkert í Harrods. Ef ég man rétt þá hefur einhver arabískur peningafursti lagt Harrods undir sig.
En ég er ekki viss um að hann eigi betri heimvon en gráskeggurinn með eldspýturnar.

Ef ég væri brezkur blaðamaður færi ég á fund betlitrúðsins og ætti við hann langt samtal um líf hans og störf, viðhorf hans og hugsjónir. Ég er viss um að hann býr yfir reynslu sem væri efni í konunglegt samtal.

Vigtaði mig í dag hjá Boots. Hef losnað við eitt kíló og tvö hundruð grömm frá því ég kom hingað til Lundúna. Stundum höfum við gengið fimm til sex klukkutíma á dag um borgina. Með því móti get ég drukkið þann bjór sem ég vil.


4. október, föstudagur

Fórum í þjóðlistasafnið. Turner var mikill málari. Það leynir sér ekki að Kjarval hefur lært af honum. Ég sá í hendi mér að Ásgeir Bjarnþórsson hefur lært af franska málaranum Seuret. Þessar stóru hvítu fígúrur hans eru augljósar fyrirmyndir Ásgeirs. En Ásgeir getur verið flinkur og átti betra skilið en þær viðtökur sem hann fékk hjá listgagnrýnendum hér heima á sínum tíma.Hann málaði góðar myndir af Jósefínu ömmu minni og Jóhannesi bæjarfógeta,afa mínum.Þær hengu uppi í stofunni hjá Stefaníu og Lárusi,syni þeirra ,í Suðurgötu 4.
Sáum einnig fínt úrval af Rembrandt – og þá ekki síður Cezanne.

Horfðum á kvöldfréttir í BBC. Fínar myndir af öskugosinu í Vatnajökli og ágæt frásögn af því sem þar er að gerast. Minnzt á flóð og varnir gegn þeim. Talað við brezkan vísindamann. Ekki hef ég enn séð gosið í Vatnajökli á CNN. Nú um stundir gerist ekkert á CNN annað en átök í Ísrael. Ég held þeir ættu að grobba minna og hafa betri heimsfréttir.

Fórum í Konunglegu óperuna í kvöld, sáum La bohéme. Höfum aldrei fyrr farið í þessa frægu óperu sem er jafnað við Scala, Vínaróperuna, Metropolitan og Parísar-óperuna. Ríkislottóið, sem var stofnað í fyrra, fær óhemjupeninga og skilst mér að þetta fjármagn renni til lista; m.a. til óperunnar.
Gætum við ekki stofnað svona ríkishappdrætti, til að mynda til að byggja tónlistarhús. Íslenzkar listir þurfa á meiri peningum að halda hvað sem grobbnir stjórnmálamenn segja um það. Þeir þorðu ekki einu sinni að standa við orð sín og byggja eitt sérkennilegasta listasafn Evrópu á Korpúlfsstöðum. Þar var allt í niðurníðslu, að sjálfsögðu, og Errósafnið ein allsherjar svikamylla.
Hvenær skyldum við eignast stjórnmálamenn sem þora að gera eitthvað fyrir íslenzkar listir og íslenzka menningu? Þora að taka áhættu? Þora að hlú að arfleifð sem er framtíðinni nauðsynlegur bakhjarl?

Nótt

Talaði við Sigtrygg fréttastjóra Sigtryggsson. Spurði hann um gosið. Hann lýsti því fyrir mér. Þegar við töluðum saman var hann að horfa á Sky-fréttirnar og lýsti fyrir mér því sem þeir sögðu um gosið í Vatnajökli. Það var allt rétt. Í lok samtalsins kom fréttin einnig á CNN; ágæt frétt. Þeir töluðu um að askan gæti fælt þotur frá landinu og óttazt væri að flóð gætu valdið tjóni. Allt rétt sem þeir sögðu. Myndirnar stórkostlegar. Þeir tóku það sérstaklega fram að lítil byggð væri í kringum þennan stærsta jökul Evrópu og því ekki ástæða til að óttast um mannslíf. Sigtryggur segir að nú sé beðið eftir flóðinu.
Hvar kemur það?
Fer það norður fyrir og skemmir varnargarða við Sultartanga eða Búrfell. Mér skilst það gæti valdið verulegu tjóni. en líklega fer það yfir Skeiðarársand.

Ísland er engu líkt. Það er lifandi land. Hin dauða náttúra sem lætur aldrei á sér kræla í löndum eins og Bretlandi eða meginlandi Evrópu er til alls vís heima á Íslandi.

Sigtryggur sagði mér að nú væru sjáendur farnir að hringja á Morgunblaðið, þeir sæju fyrir gífurlegt flóð í nótt.
Ég sagði,
En eru þetta ekki sjávarendur sem bíða eftir flóðinu?
Hver veit?
Sjáendur eða sjávarendur, hver er munurinn?

Þegar Ísland minnir á sig verða allar flugeldasýningar eins og eldspýtnalogar miðað við það.

Hringi í Sigtrygg í fyrramálið. Hann er á vakt. Brenn í skinninu að fá síðustu fréttir. Frá Bretlandi séð er Ísland nú eins og gamla Thule; ævintýralandið sem ekki er til.
Hin dularfullu heimkynni guðanna.Leikfang skálda eins og Morris,Auden og Hughes!


5. október, laugardagur

Íslenzkt sumarveður.

Vona að engar hamfarir séu í fréttunum.

Hugsa um samtal okkar Hönnu við Ingó við morguverð í gær. Hann sagði okkur meira frá rannsóknarstarfi sínu en áður. Það er líklega vegna þess að hann sér fyrir endann á því. Nú stendur til að hann flytjist til Edinborgar ásamt prófessornum sínum og labbinu, eins og hann kallar rannsóknarhópinn. Þar verður prófessorinn yfir allri sýkla- og rannsóknadeild sjúkrahússins í Edinborg. Ingólfur telur að það gæti orðið tilbreyting að búa í Edinborg um tíma. Hann er orðinn hálfleiður á London í bili. Hann segir að umhverfið kalli á meiri hörku en hann nenni að standa í. Og sumir samstarfsmenn hans á labbinu eru heldur frekir til fjörsins. Honum hefur tekizt að rækta eitlakrabbamein úr fólki í mýs og að mér skilst er það í fyrsta sinn sem það hefur tekizt. Hann mun fjalla um það ásamt öðru í doktorsritgerð sinni. En það koma fleiri vísindamenn við sögu þessa máls og nú þarf hann að gæta þess að metnaðarfullir samstarfsmenn hirði ekki alla gloríuna af þessu samstarfsverkefni.
En hvað sem því líður þá voru það mýsnar hans sem ollu þessum tímamótum. Mér finnst hann vera dálítið hreykinn yfir því eins auðmjúkur og hann er innst inni þótt hann sýni stundum hörku á yfirborðinu. En hann er mjög vel á sig kominn. Hann er í góðu andlegu jafnvægi. Og það er margt sem blasir við honum, ferðin til Hong Kong, Bangkok og Peking, starfið í Toranto og við Stanford-háskóla í Kaliforníu að doktorsnámi loknu. Og svo starfið í Edinborg. Hann segir réttilega að þaðan sé styttra heim en frá London og nú ætla Flugleiðir að fjölga ferðum á milli Keflavíkur og Glasgow, ég held þær verði sjö þegar vetraráætlun gengur í garð.

Hlusta á Ted Hughes lesa The Iron Woman, sérkennilega og hálfóhugnanlega sögu eftir hann sjálfan. En hef þó gaman að fylgjast með honum.

Pólsk skáldkona hlaut nóbelsverðlaunin. Íslenzkt skáld, Geirlaugur Magnússon, hefur víst þýtt eftir hana, tvö eða þrjú kvæði.

Keypti bókina  The Vikings, Lords of the Seas. Athyglisverð bók með flottum myndum, hef ekki séð sumar þeirra áður. Þarna er talað um arfleifð okkar af mikilli þekkingu og virðingu. Snorri Sturluson kemur mjög við sögu Eddukvæðin og fornbókmenntir okkar; ásamt ásatrú. Það er ástæða til að vera stoltur af þessari arfleifð, hún er einstök. Mér er til efs að nokkur smáþjóð hafi varðveitt annan eins arf og Íslendingar. Að því leyti er landið eins og hvert annað ævintýri. Það er Thule arfleifðarinnar.

Förum á Miss Saigon í dag. Mér er sagt það sé skemmtilegur söngleikur, minni á Madame Butterfly.

Kvöldið

Miss Saigon er mikið drama og vel gert. Þátturinn um bandaríska drauminn sem martröð er að mínu viti frábær. Honum lýkur með því að frelsisstyttan stígur upp úr framsætinu á kádilják. Annars er þetta sorglegt verk eins og La traviata og La bohéme. Allar aðalkvenpersónur þessara verka deyja í lokin. Og rithöfundurinn deyr undir lokin í Sunset Blvd. Hvað sem því líður finnst mér efnið í söngleikjunum miklu áhrifameira en hinn rómantíski ástarleikur óperunnar.

Stór mynd af gosinu í Vatnajökli á forsíðu The Independent; flott mynd. Vatnajökull er loksins, loksins, orðinn heimsfrægur. Jafnvel Bretar vita nú að hann er stærsti jökull Evrópu.
Rakst á bókaflokk um útlendingahatur í ýmsum löndum. Keypti Xenophobe’s Guide To The Icelanders. Fór að blaða í henni og sá þá að þar er vitnað í ljóð eftir mig úr The Naked Machine. Notkunin þökkuð fremst í bókinni. Ég þekki ekki höfundinn, Richard Sale, en hann segir í kaflanum um bækur að ljóðlist standi Íslendingum næst. Ég efst þó um það, að minnsta kosti tíma þeir helzt ekki að kaupa ljóðabækur. Hann segir að raunar sé kveðskapur hjástund Íslendinga. Allir séu síyrkjandi og nú sé talað um það í Reykjavík að senn verði reist stytta til minningar um eina Íslendinginn sem aldrei hefur ort ljóð!!

Fórum til Ingólfs og hittum vini hans. Skemmtilegt kvöld. Þar var stúlka frá
Bangladesh, Tansína að ég held; hún er læknir og í doktorsnámi eins og hann. Hún sagði okkur margt frá Bangladesh. Nafnið á landinu merkir: Landið þar sem bangla er talað. Og þetta tungumál er náskylt hindustani og komið frá sanskrít, að ég held. Sem sagt indó-evrópskt tungumál eins og íslenzka. Í Bangladesh eru 100 milljónir manna. Þar eru ósar Gangesar en fljótið er ekki heilagt eins og í Indlandi. Þar er fljótið í guðatölu. Þar eru margvísleg trúarbrögð. Þar trúa menn jafnvel á tré. Það gera menn ekki í Bangladesh, þeir eru múslímar. Ósköp værukærir múslímar, enda súnítar. Í Pakistan eru Shítar. Þeir eru einnig í Íran og ráða nú ríkjum í Afganistan. Shítar eru mikli herskárri en súnítar.
Ástæða:
Shítar hafa búið í eyðimerkurlöndum eins og Pakistan, Arabíuskaga, Íran, Afganistan. Þeir hafa þurft að berjast um vatnið. Það hefur gert þá grimma.
Súnítar sem búa við nægilegt vatn eru heldur værukærir. Slíkir múslímar eru í Írak og að mér skilst í Nílardalnum. Einnig í Bangladesh, þar er nægilegt vatn þegar Indverjar skrúfa ekki fyrir Ganges. Mér skilst það séu miklar eyðimerkur í Pakistan.

Það er lítil vinátta milli Pakistana og fólksins í Bangladesh. Pakistan merkir landið hreina.

Þessi múslímska stúlka var ósköp geðfelld. Hún er velmenntuð og umburðarlynd. Hún sagði að ég talaði eins og faðir hennar! Ingólfur skýrði málið:
Ég væri bezti læknirinn á heimilinu, bezti lögfræðingurinn þótt ég ætti bæði lækni og lögfræðing fyrir syni.
Ég þættist geta stjórnað öllu á heimilinu.
Tansína sagði að faðir hennar væri í sama hlutverki.
Í Bangladesh eru einkum bændur, fiskimenn og millistétt sem stundar einkum smáiðnað.

Það var eins og að ferðast til Asíu að tala við þessa ungu konu og mér varð heldur hlýtt til súníta. Bezta leiðin til að menn geti lifað í sátt og samlyndi er að þeir tali saman; ferðist. Þetta skemmtilega kvöld hjá Ingó var slíkt ferðalag.

Ætli við Íslendingar séum heldur umburðarlyndir vegna þess að við höfum nóg vatn? Það skyldi þó aldrei vera. Og nú skilst mér að það séu sem svarar tólf Þjórsár í Grímsvötnum.

6. október, sunnudagur

Athyglisverð grein í Observer um gosið í Vatnajökli og náttúruhamfarir á jörðinni. Minnir mig á þegar ég skrifaði grein um Surtseyjargosið í Observer og hún var valin í úrval greina úr blaðinu í bókina The Observer Revisited, 1963-1964, valið af Cyril Dunn. Einnig athyglisvert samtal við sir Alec Guinness. Í lok þess segir leikarinn að norðurljós séu undur allra undra og nú langi hann enn til að sjá þessa dýrð áður en hann deyi. Einhverju sinni sá hann norðurljós á flugi yfir Norðurpólnum.

Mig hefur æ ofan í æ dreymt Bjarna Benediktsson undanfarið. Það hafa verið góðir draumar. Við höfum átt hlýleg og vináttusamleg samtöl eins og í gamla daga.
Einkennilegt(!)

7. október, mánudagur

Gosið í Vatnajökli hefur verið í fréttum, bæði í blöðum og sjónvarpi. Stórfínar myndir og ágætar frásagnir í BBC og CNN. Mikil frétt í The Schotsman, fyrirsögnin dæmigerð: Skotar losna við öskufallið. Fréttin fjallar ekki sízt um það að ólíklegt sé að aksan úr Vatnajökli berist til Norður-Skotlands. Gosstrókurinn sé einkum gufa en lítið af eiturefnum. Það hefði gegnt öðru máli í gosinu 1938, þá hafi borizt aska til Skotlands. Í Observer í gær var stór mynd, kort og frásögn af gosinu; ágæt frásögn, byggð á upplýsingum vísindamanna.

Sigtryggur segir mér að margir erlendir fréttamenn hafi komið til Íslands vegna gossins. Það er merkilegt hve fréttir eru afstæðar. Nú þyrpast erlendir blaðamenn til Íslands vegna þessara miklu hamfara þótt ekkert mannslíf sé í hættu. En þegar snjóflóðin urðu á Flateyri í fyrra fór, að ég held, enginn blaðamaður til Íslands þótt þá yrðu mannskæðar náttúruhamfarir. Snjóflóð geta orðið í Frakklandi, Sviss eða Austurríki, þau draga ekki að sér neina sérstaka athygli. En eldgos eru ógnvekjandi hamfarir í augum þeirra sem hafa aldrei séð slíkt náttúruundur. Ætli fréttamenn líti ekki á þau í tengslum við hugmyndir um ragnarök. Þau eru kannski í hlutverki norðurljósanna í lífi sir Alecs, undur allra náttúruundra.

Kvöldið

Hef verið að lesa klassískar írskar smásögur og keypti í dag úrval úr smásögum Dorothy Parkers. Keypti einnig ljóðabók James Joyces í klassísku Wordsworth-útgáfunni. Þar er þessi yndislegi ljóðaflokkur, Kammermúsík, sem ég hlustaði á fyrir tveimur eða þremur árum í upplestri hans sjálfs. Nú hlusta ég á flokkinn í rólegheitum. Hefði viljað snara honum á íslenzku, en það er ekki hlaupið að því. Þá hef ég einnig verið að lesa litla útgáfu með úrvali af helztu verkum Oscars Wildes, það er að sjálfsögðu skemmtileg bók. Þar er m.a. tilvitnun til samtals Gorings lávarðar og Pipps þar sem lávarðurinn segir:
Að elska sjálfan sig er upphaf að ævilöngum rómans...
Þar er einnig óborganlegt samtal lafði Bracknells og Jack Worthings, en hann segir henni frá því að hann sé af engum kominn því hann hafi fundizt í handtösku í biðstofu í Viktoríu-stöðinni. Lafði Bracknell er áreiðanlega skemmtilegasti snobb bókmenntasögunnar. Orðheppin og frumleg eins og höfundurinn.Um hann sagði George Bernard Shaw:
Wilde er að mínu viti hið eina sanna leikskáld okkar. Hann leikur sér að öllu: fyndni, heimspeki, drama, hann leikur sér að leikurum og áhorfendum, að öllu leikhúsinu.
Þetta er mikið sagt í landi Shakespeares(!)

Wilde sagðist vera Íri og um hann hefur verið sagt að hann hafi verið skáld yfirstéttarinnar. Sjálfur sagði hann um þessa sömu yfirstétt:
Ef hægt væri að kenna Englendingum hvernig á að tala og Írum hvernig á að hlusta þá yrði þjóðfélagið nokkurn veginn siðmenntað.

Hef kembt bókabúðirnar hér í London. Hef aldrei rekizt á bók eftir Hamsun, Gunnar Gunnarsson eða Laxness. Hvernig getur hinn siðmenntaði heimur farið á mis við slíka öndvegishöfunda? Það er sífelldlega verið að selja metsölubækur eftir allskyns meðaljóna en stórskáld eins og ég nefndi sjást ekki í bókabúðum frekar en fiskiflugur.
Hvernig má þetta vera?
Þó sýndi Hanna mér stóra bók í lítilli bókaverzlun með  ævintýrum H.C. Andersens, fína útgáfu með fallegum teikningum. Og hún kostaði ekki nema átta pund.
En samt liggja margir höfundar óbættir hjá garði í þessum stóru menningarlöndum. Og þeir hafa ekki einu sinni gleymzt hér í Bretlandi,því þeir hafa aldrei verið munaðir!. Samt er Halldór Laxness næstum því eins skemmtilegur höfundur og Oscar Wilde, Þórbergur að minnsta kosti jafn skemmtilegur og Hamsun fínni prósaisti en nokkur brezkur höfundur sem ég þekki.
Og Gunnar Gunnarsson er áreiðanlega jafn dramatískur skáldsagnahöfundur og Thomas Hardy og stundum minna þeir hvor á annan.
En þeir hafa allir farið fyrir ofan garð og neðan,að mestu!Til að miklar bókmenntir geti enzt og notið sín í þýðingum þarf mikil skáld til verksins Mér er sagt að Steinn Steinar sé eins og hvert annað leirskáld á þýzku!
Nei ,heimskynni íslenzkra skálda er Ísland.En svo má reyna á markaðinn í útlöndum, það er annað má.Og ekkert við því að segja að gera út á kauphallir bókmenntanna.
Og hver veit nema markaðurinn taki við sér,svo að ég noti uppáhaldsfrasa fréttamanna.