1996 (þriðji hluti)

 

 

11. október, föstudagur

Fórum til Parísar á miðvikudag, komum aftur til Lundúna með Eurostar um þrjúleytið. Þó nokkurt ævintýri að fara undir Ermarsund. Höfum nú farið fjórum sinnum undir kanalinn svo maður er orðinn hagvanur þar.
Talaði við Morgunblaðið þegar við komum út úr göngunum. Guðlaug ritari minn sagði mér að flóðið í Vatnajökli væri ekki komið undan jöklinum. Helzt væri talið að það kæmi norðanmegin.
Allt með kyrrum kjörum á blaðinu. Talaði einnig við Freystein fréttastjóra og hann sagði að vísindamenn biðu nú eftir flóðinu en vissu hvorki hvar né hvenær það kæmi.
Merkilegt.
Jafnvel Vatnajökull er jafnduttlungafullur og allt annað á Íslandi. Sáum mjög góða frásögn af Vatnajökuls-gosinu í franska sjónvarpinu í gærkvöldi; kort af landinu, góðar myndir af gosinu. Frakkar eru áhugamenn um eldgos og jarðfræði. Mig minnir að Paris Match hafi verið með feiknafínar myndir af Surtseyjargosinu eða gosinu í Heimaey, jafnvel á kápu. Franski vísindamaðurinn sem fréttamenn sjónvarpsins töluðu við heitir  Chemine og mér skilst hann sé frægur fjallafræðingur. Held að fréttaþátturinn hafi tekið meira en tíu mínútur. Sáum af honum að flóðið væri ekki komið. Flóð aldarinnar lætur á sér standa. En Freysteinn sagði mér að Vatnajökull hefði breytzt mikið í þessari goshrinu.
Ísland breytist.
Það er ekki eins og dauðu löndin sem breytast ekkert. Það er lifandi, nánast eins og lífvera. Það var ekki undarlegt þótt Jónasi fyndist það vera síbreytilegt sköpunarverk guðs.

Fórum í Rodin-safnið í París. Hafði aldrei séð það áður. Rodin stendur Grikkjunum og Thorvaldsen nær en Einar Jónsson sem er einhverskonar symbólisti; eða súrrealisti. Hann vinnur með drauma. Hugmyndir eru sterkur þáttur í listsköpun hans og handverkið framúrskarandi. Handverk Rodins er einnig framúrskarandi en hugmyndir hans eru fremur bundnar við handverkið en draumkennd ævintýri. Hugsuðurinn er framúrskarandi handverk. Myndin af Balzac er augljóslega mjög lík honum en hún er meira en handverk vegna þess hvernig hann sveipar skáldið inn í draumkenndar útlínur efnisins. Það eru fremur hugmyndir Einars Jónssonar sem fylgja honum inn í veruleikann. En handverk Rodins verður okkur minnisstæðara en hugmyndaflugið.

Ósköp hefur Rodin verið lítill og alpahúfulegur. Samt skilst mér hann hafi verið hinn mesti kvennamaður eins og Picasso.

Sáum einnig nýja og gamla list í Pompidou-safninu. Allskyns nýlistaverk, sum byggð upp á tengslalausum hugmyndum sem  mér hugnast ekki. Spil á mjóum stöngum sem standa á gólfinu; allskyns spil á eins stöngum.
Var þetta handverk?
Eða hugmynd?
Ég veit það ekki. Það vakti engar skírskotanir með mér, né nýjar hugmyndir. Hef lítinn áhuga á slíkum verkum. Líklega fjalla þau um myndlistina í sjálfu sér, annað ekki; ég veit það ekki. Hvítir strigafletir; svartir strigafletir; þrír ferkantaðir strigafletir, hvítir. Allskyns verk í anda naumhyggjunnar, ágætar skreytingar gæti ég trúað en vekja ekki nýjar hugmyndir um umhverfið; því miður. Stórar bláar myndir eftir Míró með svörtum hnoðrum, að mig minnir. Margar myndir eftir Picasso, hann virðist geta allt. Ingó finnst þær myndir beztar þegar hann vinnur í járn. Ég er orðinn leiður á afskræmdum tilraunum samtímans. Reyni samt að ganga upp í þeim eins og fjórir í sextán, en stend mig ævinlega að því að vera þrír! Hin afskræmda veröld Francis Bacon er líklega nokkuð merkileg vegna þess að hún er einkennandi fyrir hann.
En ég hef lítinn áhuga á henni.
Hef lítinn áhuga á afskræmingu afskræmingarinnar vegna. Eftirminnilegustu herbergin voru með myndum eftir Kandinský og Chagall. Þar ræður hið frjálsa hugmyndaflæði ríkjum og tekur við af handverkinu eins og himinn rísi af jörð; eins og himinn og jörð hverfi að einu andartaki, einu eilífu andartaki þar sem jökulinn ber við loft.


Sáum stórmerkar myndir eftir Claude Monet, bæði vatnaliljurnar hans og aðrar myndir í Musèe Marmottan og Musèe de l’Orangerie, en þar eru stóru vatnaliljumyndirnar, heimsfrægar. Monet málaði þessar myndir í kringum aldamót,að ég held, eftir að hann hafði verið í Bretlandi og kynnzt Turner og málað myndir af Thems og brezka þinghúsinu.

Handverk er alltaf í fókus en listin á sér engar útlínur. Maður sér þetta vel í verkum Rodins, til að mynd styttunni af Balsac hún er gott dæmi um list og handverk. Hugarflugið tekur við af handverkinu; listin; það er yfirbragð verksins, hið útlínulausa fas rithöfundarins sem vekur athygli.
Hugmyndaflugið fylgir okkur en ekki smáatriði handbragðsins eins; það er hið draumkennda listræna handbragð sem fylgir okkur, en ekki smáatriðin í smíðinni. Hið sama má segja um vatnaliljur Monets, þær fylgja okkur eins og draumkennt ævintýri. Og grátvíðirinn fellur í vatnið eins og hugmynd um tár.

Hef miklu meiri ánægju af nútímadansballett en klassískum ballett. Við Ingó erum nokkurn veginn sama sinnis um það. Höfum svipaðar skoðanir á ýmsu í listum, s.s. myndlist. Hef haft gaman af að kynnast því.

Ætla að skrifa eitthvað um Parísar-för okkar í Helgispjalli þegar við komum heim. Þegar við vorum í Bæjern 1972 skrifaði ég grein um Kandinský og nútímamyndlist. Hélt satt að segja að hún hefði hafizt með verkum Bláu riddaranna. Skrifaði um það sérstakt fylgirit með Lesbók. Við bjuggum í Oberammergau og þurftum að skipta um lest í Murnau þegar við fórum til München. Kandinský bjó í Murnau þegar hann var að breyta nútímalistinni.
Ég hélt því að  listin hefði skipt um lest í Murnau. Núna er ég þeirrar skoðunar að hún hafi skipt um lest mun fyrr; það var í fyrr nefndum verkum Monets.

Kvöldið

Hitti Knút Björnsson lækni, bróður Sveins Björnssonar listmálara og konu hans hér í Grafton-hótelinu. Hann var dapur yfir líðan bróður síns.
Hann sagði, Við erum ekki aðeins bræður heldur miklir vinir.
Það er ekki víst að Sveinn lifi næstu jól. Við Hanna urðum undrandi. Var hann nú svona illa farinn af krabbanum?
Hann er kominn út um allt, sagði Knútur.
Sveinn er á tvöföldum skammti af morfíni. Ég sagði að mér fyndist Sveinn líta vel út.
Þau hristu höfuðið.
Andlegt þrek hans er ótrúlegt. Sveinn sagði við Knút ekki alls fyrir löngu,
Ég má ekki vera að því að deyja, ég á svo margt ógert. Ekkert lýsir Sveini Björnssyni betur en þessi setning.
Ég ætla að reyna að hringja til hans og segja honum frá nokkrum merkum málverkasýningum sem við höfum séð bæði hér í London og París. Ég ætla að segja honum frá því hvernig ég hef nú loksins fyrir tilstuðlan Ingólfs komizt að því hvar eru vegamót gamallar og nýrrar listar;
það er í vatnaliljumyndum Monets.
Nútímalist er sem sagt eldri en mig minnti.


13. október, sunnudagur

Fórum í Westminster-kirkjuna með Ingó í morgun. Eftirminnileg kaþólsk messa. Þessi höfuðkirkja kaþólskra í Bretlandi er stórfengleg þótt hún sé ekki eldri en sem öldinni nemur. Kirkjan var troðfull af fólki, ég gæti ímyndað mér að þar hafi verið á annað þúsund manns. Kórgluggarnir óskreyttir. En sólin skein gegnum ólitaða gluggana sem endurköstuðu geislum hennar inn í kórinn með þeim hætti að ógleymanlegt var.
Messan tók hálfan annan tíma.
Gengum svo í góða veðrinu, fengum okkur snarl í þjóðlistasafninu og sáum þar m.a. ógleymanlegar maddonnumyndir eftir Leonardo daVinci.

Fyrir tuttugu til þrjátíu árum snaraði ég nokkrum kvæðum eftir brezka skáldið Bryan Patten en hef ekki fylgzt með honum síðan. Nú er komin út eftir hann ný ljóðabók, Armada, og er talin bezta bók Pattens. Keypti hana og hef í hyggju að þýða eitt eða tvö kvæði í viðbót. Patten er í senn óvenjulegur og skemmtilegur. Keypti einnig aðra ljóðabók, Stones and Fires, eftir John Fuller, sem hlotið hefur mjög góðar viðtökur. Hann er sonur Roy Fullers sem ég hef vitað af áður. Þessi bók Fullers, sem er háskólaprófessor, hefur skotið öðrum ljóðabókum í haust ref fyrir rass og hlotið eftirsóknarverð verðlaun. Ástæða til að kynna sér þessi ljóð sem nú falla í kramið í Bretlandi.

Förum í kvöld á flamengo-dans í Albert Hall.
Heim á morgun.

Sérblað um tíu ára afmæli leiðtogafundarins í Höfða fylgdi Morgunblaðinu í dag. Karl Blöndal sá um það eftir samtöl okkar áður en ég fór utan. Þar segir m.a.:

„Reagan segir í bók sinni, „Ronald Reagan: Ævi Bandaríkjamanns”, að í Reykjavík hafi vonir sínar um kjarnorkuvopnalausan heim stuttlega fengið byr undir báða vængi, en þær hafi síðan orðið að engu á einum lengsta degi forsetatíðar sinnar. Þann dag hafi hann orðið fyrir „„mestum vonbrigðum og verið hvað reiðastur” þau átta ár, sem hann var forseti.

Hann segir í bókinni, sem kom út fjórum árum eftir fundinn, að hann og Gorbatsjov hafi náð samkomulagi um afvopnun, sem „enn í dag valdi undrun”, en það hafi runnið út í sandinn þegar Sovétleiðtoginn hafi komið aftan að sér.

„Þrátt fyrir þann skilning sumra að leiðtogafundurinn í Reykjavík hafi mistekist held ég að sagan muni sýna að hann markaði tímamót í leitinni að öruggum og skjólsælum heimi,” skrifar Reagan. „Ég held að Gorbatsjov hafi verið reiðubúinn til samninga næst þegar við hittumst vegna þess að ég gekk út í Reykjavík og hélt geimvarnaráætluninni áfram.”

Mikhaíu Gorbatsjov segir m.a. í ævisögu sinni að Reykjavíkur-fundurinn hafi opnað nýjar víddir. Og í sérstöku ávarpi vegna afmælis Reykjavíkurfundar segir hann ennfremur:
„Mér fannst einnig að fundur, sem haldinn væri á þessum stað, í fornu og að upplagi friðsamlegu landi, þar sem þrautseigja og þögul iðjusemi og virðing fyrir sjálfum sér og öðrum eru löngu orðin traustustu gildi lífs og velsældar, væri einkar viðeigandi og jafnvel táknrænn...

Undir þunnu lagi kurteisi og hófstilltra samningaviðræðna bak við glugga vinalegs, lítils húss á strönd myrks, þungbúins og ógnvekjandi hafs byltu sér ástríður í anda Shakespeares.

Ronald Reagan forseta og mér kom þegar nokkuð vel saman. Neisti trausts og vonar hafði kviknað milli okkar í Genf, ári fyrir Reykjavíkurfundinn. Í hjörtum okkar vildum við báðir einn og sama hlutinn: ráða niðurlögum ógnarinnar um kjarnorkustríð. Það var fyrir þær sakir að á þessum tveimur dögum í Reykjavík nálguðumst við oft, eftir þreytandi og lýjandi rökræður, það lykilaugnablik þegar svo virtist sem aðeins vantaði lítið skref til að við næðum samkomulagi og undirrituðum það...

Samkomulagið tókst ekki. Í kjölfarið fylgdu fljótfærnislegar yfirlýsingar um að leiðtogafundurinn hefði mistekist. En 20 mínútum eftir að forseti Bandaríkjanna og ég, hvorir tveggja í uppnámi, höfðum kvaðst fyrir utan húsið, sagði ég á blaðamannafundi að fundurinn hefði markað tímamót, ekki mistekist.

Og ég reyndist hafa rétt fyrir mér. Ronald Reagan og George Shultz, sem orðið hafa vinir mínir fyrir lífstíð, létu ekki undan þrýstingi heima fyrir og að einhverju leyti erlendis frá, létu ekki undan þótt rigndi yfir þá efasemdum og jafnvel mótmælum víða að, heldur stóðu sig með prýði með því að sýna visku og draga þær ályktanir af Reykjavíkurfundinum, sem mannkyn allt ætlaðist til að risaveldin gerðu.

Reykjavík markaði vissulega tímamót. Eftir fundinn færðust viðræður um að binda enda á kalda stríðið og fjarlægja kjarnorkuógnina úr heiminum á svið hefðbundinna samskipta, ávallt með þátttöku leiðtoga Sovétríkjanna og Bandaríkjanna og stundum annarra áhrifamikilla ríkja á þessum tíma.”

George Shultz segir í samtali við Morgunblaðið af þessu tilefni:
„Mér veittist sú ánægja að taka á móti Gorbatsjov að heimili mínu í Stanford-háskóla í Kaliforníu eftir að við höfðum báðir látið af embætti og ég sagði við hann:
„Þegar þú tókst við embætti var kalda stríðið enn undir frostmarki eins og í mínu tilfelli, en þegar við hættum var því lokið. Hvað lítur þú á sem vendipunktinn?” spurði ég og hann sagði án þess að hika eitt augnablik:
„Reykjavík.”
Ég spurði hann hvers vegna og hann svaraði:
„Vegna þess að á hæstu stigum áttum við í djúpum viðræðum um mikilvægustu málin og við sýndum að við gátum rætt þau með árangri, þótt við næðum ekki samkomulagi þegar upp var staðið.”

Þetta fundust mér mjög athyglisverð ummæli og ég held að þau séu sönn enda var samkomulagið um meðaldrægar flaugar að miklu leyti samþykkt í Reykjavík, kjarni sáttmálans um langdrægar flaugar var samþykktur í Reykjavík og svo er nokkuð, sem fólk mætti gera sér betur grein fyrir, og það er að í Reyjavík viðurkenndu Sovétmenn fyrsta sinni að mannréttindi mundu vera löggildur og viðurkenndur hluti þess, sem yrði á dagskrá í samskiptum okkar, að þeir mundu ræða þau mál. Það var stórt skref.”

Shultz sagði ennfremur í þessu Morgunblaðssamtali:
„Sú staðreynd að Höfði er lítið hús var til tekna vegna þess að þar komust ekki margir að og sú staðreynd að Höfði er ekki í miðri borginni þannig að auðvelt var að halda fólki í burtu skipti einnig máli. Leiðtogarnir gátu komið sér fyrir og gert sér grein fyrir því að þeir voru einfaldlega tvær mannlegar verur, sem sátu þarna ásamt nokkrum aðstoðarmönnum og ræddu málin. Þetta var einfaldlega fullkomið og ég held að þið gerið rétt í því að rifja upp þetta afmæli.”

Eduard Shevardnadze, utanríkisráðherra Sovétríkjanna þá, segir m.a. í orðsendingu til að minnast fundarins:
„Í kjölfar leiðtogafundarins fylgdi stutt, en byltingarkennt tímabil, sem veitti heiminum lausn frá stórveldaglímu kalda stríðsins. Múrinn var rifinn og grundvöllur skapaðist til að gera heiminn öruggari og opnari. Vegna alls þessa má líta á Reykjavíkurfundinn sem einn mikilvægasta atburð aldarinnar.

Margar þjóðir, þar á meðal föðurland mitt, Georgía, hafa hlotið frelsi vegna þeirrar þróunar, sem hófst í Reykjavík. Þrátt fyrir ýmis harðindi og þökk sé hjálp vina okkar hafa Georgíumenn lagt heilshugar af stað á braut lýðræðis, markaðsbúskapar og verndar grundvallarmannréttinda. “

15. október, þriðjudagur

Komum heim í gærkvöldi eftir góða ferð. Mikil lægð yfir landinu, eða um 960 millibör, en hafði engin áhrif á flugið. Það var að vísu skýjað en heldur rólegt veður. Haraldur sótti okkur á flugvöllinn, ásamt tveimur börnum sínum, Kristjáni og Önnu. Það var erfitt að kveðja Ingólf að venju en vonandi verða englarnir með honum eins og hingað til.

Styrmir var farinn til Genfar á Infra-fund, ásamt Hallgrími B. Geirssyni, Erni Jóhannssyni og Guðbrandi framleiðslustjóra. Talaði við hann um kvöldið um forystugrein Morgunblaðsins og fréttaskýringu Egils Ólafssonar og Ómars Friðrikssonar um landsfund Sjálfstæðisflokksins. Ágæt grein og höfðum við enga athugasemd við hana. Breyttum leiðaranum dálítið og bættum inn í hann athugasemdum þess efnis að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki látið brjóta á stóru málunum, afstöðunni til Evrópusambandsins og fiskveiðistjórnuninni.

Á skrifborðinu mínu beið bréf frá Þorsteini vini mínum Gylfasyni, formanni Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands, ásamt gögnum um kæru Sverris V. Ólafsson á hendur okkur Styrmi vegna greinar sem birtist í Morgunblaðinu eftir Björn V. Ólason, en hann lýsti því síðan yfir að hann hefði lánað Sverri Ólafssyni nafn sitt og væri hann höfundur greinarinnar.

Sverrir hafði mótmælt þessu en við trúað Birni V. Ólasyni og gagnrýndum þessi vinnubrögð. Ég hafði áður talað við Sverri og á bréf frá honum þess efnis að málinu lyki ef við birtum athugasemd frá honum. En Sverrir Ólafsson virðist ekki vera slíkur maður að hann standi við orð sín.
Ég sagði við Þorstein Gylfason að við myndum líklega óska eftir opinberri rannsókn á því hver hefði skrifað bréfið og sagði hann að siðanefndin mundi þá að öllum líkindum vísa málinu frá sér.
Svörum bréfi siðanefndar þegar Styrmir kemur heim.

 

Davíð Oddsson hringdi til mín í bílasímann svo að við töluðum ekki lengi saman. Hann vildi bjóða mér í óformlegan kvöldverð með, að ég held, ræðismanni Líbanons, en ég man það ekki.
Sagði honum að ég væri ekki upplagður, mér hafi verið hálfóglatt þá um daginn. Hann tók því öllu vel.
Spurði hvort við hefðum verið erlendis og ég sagði svo vera. Ég óskaði honum til hamingju með landsfundinn.
Hann sagði að þetta hefði verið góður landsfundur. Hann hafði sent mér bók um Borges sem ég þakkaði fyrir og töluðum við um stund um efni hennar en hétum svo á okkur að hittast við gott tækifæri. Hann ætlar að hafa samband við mig.
Ég sé til hvað verður. Þetta var gott samtal, hlýlegt og jákvætt og mér hugnaðist það vel. Ég vil helzt tala við Davíð einan næst þegar við hittumst. Það er svo langt síðan við höfum talað saman. Vil helzt ekki að aðrir séu viðstaddir.

Setti mynd af nýja fjallinu í Vatnajökli á forsíðuna. Það er glæsileg mynd, en svo virðist sem eldgosinu sé að ljúka. Vatnið hleðst upp og guð má vita hvenær það ryðst undan jöklinum.

Jónína Mikaelsdóttir hitti mig rétt fyrir hádegi og þurfti að bera upp við mig erindi sem hún virtist vera í einhverjum vandræðum með. Hún er, að ég held, formaður einhvers þýðingarsjóðs sem stendur nú að því að koma íslenzkum rithöfundum til Berlínar næsta ár. Þjóðverjarnir vilja víst fá tillögur um væntanlega þátttakendur og í samræmi við Rithöfundasamband Íslands var ég á blaði hjá Jónínu. Mér skilst hún hafi stungið upp á mér.
Ég þakkaði henni það en sagði henni að ég hefði ekki áhuga á að fara til Berlínar, ég hefði lesið þar upp tvisvar sinnum og nóg væri.
Hún hafði einhverjar áhyggjur af því að í umsögnum frá Rithöfundasambandinu um þá rithöfunda sem til greina koma væri einhver neikvæður tónn í minn garð, en allir hinir fengju jákvæða umsögn, Kristínu Ómarsdóttur og Lindu Vilhjálmsdóttur líkt við snillinga og Guðbergur Bergsson að minnsta kosti nóbelshöfundur að mér sýndist! En ég mistækur.
Ég sagði við Jónínu, Veistu ekki hver hefur skrifað þetta?
Nei, sagði hún, ég botna ekkert í þessu.
Það er Sigurður A. Magnússon sem skrifaði þetta, það er í sama dúr og hann skrifaði þegar ég las upp í Berlín í fyrra skiptið. Sem betur fer var hann ekki viðstaddur í síðara skiptið!
Mér finnst þetta orðið helvíti hart að vera hundeltur svona af mínum gamla vini og félaga, jafnvel svo að persónuleg fóbía hans er einhvers konar útflutningsvara árum saman. Skil ekki af hverju hann er einhver endanleg forsjón í tengslum við umsagir um rithöfunda fyrir útlönd. Engu líkara en hann sé búinn að setja upp einhverja heilaga úthlutunarskrifstofu um íslenzka rithöfunda. Mér er að vísu sama um þetta en það er að verða hálfþreytandi.
Sigurður er því miður orðinn einn allsherjar kækur og að mínu viti er það ástæðulaust fyrir Rithöfundasambandið að hafa kæk að andlegri leiðsögn.
Ég benti Jónínu á að þetta væri kjarninn í grein sem Sigurður skrifaði fyrir mörgum mörgum árum í eitthvert rit í Þýskalandi sem hét, að mig minnir, Land aus dem Meer,  eða eitthvað í þá átt, en það var gefið út í tilefni af norrænni bókmenntahátíð sem ég tók þá þátt í ásamt nokkrum öðrum rithöfundum. Þar var þessi sami fyrirvari á skáldskap mínum.

Las grein eftir Siglaug Brynleifsson um íslenzka arfleifð og þótti hún athyglisverð. Ég þarf að klippa hana út úr Morgunblaðinu og hugleiða hana eitthvað nánar. Ég skil betur nú en áður af hverju hann gekk svo fast gegn forsetaembætti Ólafs Ragnars Grímssonar. Í þessari grein er vitnaði í rit eftir hann um íslenzka menningu og er sú tilvitnun nægileg skýring á andstöðu hans við forsetatign Ólafs.

Nýkominn heim hef ég í ýmsu að snúast, ekki sízt þar sem blaðið er allt í mínum höndum. En ég hef verið að kynna mér metsölurit Joan Wester Anderson, Where Angels Walk, mjög athyglisverðar frásagnir um yfirnáttúruleg fyrirbrigði sem ósköp venjulegir Bandaríkjamenn hafa upplifað. Þau minna á ýmislegt það sem ég hef sjálfur skrifað eftir íslenzku alþýðufólki. Forsjónin getur haft hönd í bagga ef því er að skipta og englar hafa áreiðanlega sitt hlutverk í tilverunni. Þeirra er líka víða getið í merkum ritum. Margir hafa upplifað kraftaverk sem þeir rekja til þeirra.
Ég er að hugsa um að fara að halla mér meira að englunum en ég hef gert hingað til.

20. október, sunnudagur

Hef verið að hlusta á fyrirlestra Campbells um gyðjur í fornöld. Margt áhugavert, til að mynda hvernig tunglið er sýnt með nautshornum á egypzkum myndum og hverfur þannig inn í sólina og fæðist af henni aftur. Miklu eldri frásögn frá Mesapótamíu en Mósebækur segja frá barni sem var sett í einskonar vöggubát og lagt þannig í Eufrat en fannst og varð konungur í Mesapótamíu. Það þarf ekki mikla snillinga til að sjá að þarna er frumgerðin að þjóðsögunni um Móse í Gamla testamentinu. Samt má vel vera að spámaðurinn sé vaxinn úr einhverjum veruleika sem hefur verið fléttaður inn í gamla þjóðsögu.

 

Campbell fjallar m.a. um Móselög og segir að þau séu heilög því að lögbókin komi frá Jahve. Lögum guðs má ekki breyta, þau eru æðri manna lögum. Fyrstu lög slíkrar tegundar eru frá dögum Hammúrabis, konungs í Babýlon, en hann tók við lögum ríkisins úr hendi sólguðsins. Slík lög voru að sjálfsögðu heilög. Grikkir sömdu aftur á móti sín lög sjálfir, þeir fóru eftir manna lögum. Slíkum lögum má breyta að vild.
Alþingi setti sín lög sjálft á sínum tíma án þess guðirnir kæmu þar nærri. Þannig höfum við ævinlega búið við manna lög eins og Grikkir. En það hefði kannski komið okkur betur ef við hefðum eignazt lögbók sem lögsögumaðurinn hefði tekið úr höndum einhvers guðanna sumarið 930.

Hef verið að lesa nýja ljóðabók Pattens. Ég þýddi sex ljóð eftir hann 1969 og birti í Lesbók. Skrifaði einnig stutta grein um hann þá. Eitt þessara ljóða heitir Kjánaleg uppgötvun Nonna litla; fjallar um Sprengjuna. Í greininni sagði ég m.a.:
„Við vitum að Brian Patten segir það satt, að æskan hefur ekki kunnað að meta kjarnorkuna vegna þess að hún veit að hún er fremur skæðasta vopn stríðsguðsins en blessun þess nýja veruleika sem við hefðum kosið. Heimur unglingsins, ég vil segja barnsins, speglast með áhrifaríkustum hætti í ljóði Pattens um sprengjuna.        
Ég býst ekki við að ég komi hugsun hans, tilfinningu eða hrynjandi til skila í þýðingunni en mundi þó óska þess að hún vekti einhvern til nokkurrar umhugsunar um þann heim sem börn okkar telja sig hafa hlotið í arf. Eða héldum við kannski að við hefðum afhent þeim „sprengju, sem hægt væri að dreifa yfir blóm – sprengju, sem birti upp alheiminn... og sendi niður regnskúrir af gleði?”

 

Ennfremur um Patten:
„Hann er fordómalaus, ferskur, nýr, en umfram allt óhræddur að gefa tilfinningum sínum lausan taum. Hann á í ríkum mæli viðhorf æskunnar við samtíð sinni, hrynjandi hennar og síðast, en ekki sízt, kjark hennar og heilindi, sprottin af nýju mati og kröfunni um fordómalausan heiðarleika. Hann er ekki enn orðinn stórskáld og kannski verður hann það aldrei. En hann er merkisberi æskunnar og þeirrar óvæntu reynslu sem bíður okkar, ef við nennum að stíga niður af þessum fína tróni okkar, kynnast henni, hlusta á hana. Ljóð Pattens gera okkur auðveldara að sjá hennar heim með nýjum augum. Í þeim heimi er ekki allt eftirsóknarvert, ekki allt eins og það á að vera frekar en hjá þeim sem eldri eru, en þar er margt nýstárlegt og lærdómsríkt. Einföld myndsaga hans verður okkur nákomin vegna þess að hún varpar ljósi, birtir upp – og ekki sízt vegna þess að hún kastar skuggum.
Draumurinn á sér rugguhest.
Og við skulum gæta að okkur: Draumurinn getur breytzt í veruleika á hvaða andartaki sem er og veruleikinn orðið einber draumsjón og hégómatál.
Við skulum búa svo um hnútana að við missum ekki andlegt jafnvægi, þegar við heyrum rugguhestinn hneggja. Hann á sér einnig líf, ekki síður en Freyfaxi. Jafnvel skyndiástin er geðþekk, séð réttum augum, en ekki með lituðum gleraugum rómantískra fagurkera. Arfur frá einföldum og óbrotnum veruleika hippanna.
Og þó!
Ætli sú ást sem ekki skilur eftir nema rigninguna á milli þeirra sé uppgötvun hippanna?
Spyrjið Maupassant.”

Og ennfremur:     „Það væri glámskyggni af okkur sem eldri erum að skella skollaeyrum við þessari hikandi afstöðu unga fólksins. Á sama hátt og við höfum reynt að rétta því hjálparhönd hefur það einnig rétt okkur sína. Til þess að leiða heiminn út úr þeirri sjálfheldu sem hann er nú í er okkur nauðsynlegt að þessar hendur mætist. Af þeim sökum meðal annars hef ég vakið athygli á ljóðum Brians Pattens. Sá sem veit ekki að alltaf er hætta á að „alheimurinn rotni” og gerir sér ekki grein fyrir því að drekinn er meðal okkar – honum hefur ekki tekizt það sem mörgum hefur reynzt erfiðast, en er þó hvað nauðsynlegast – að vera samtíma sjálfum sér.

 

Kjánalegri uppgötvun lýkur svo:

Nú,
miklu eldri í útliti,
ráfa ég um myrkar götur
í leit að stað þar sem ég get skilið sprengjuna mína eftir
en er alls staðar gerður afturreka af opinberum blókum
sem segja: „Hún er fráhrindandi,” og ég svara: „Auðvitað”.

Hún
mun fæla
blóm og fugla og sólina frá því að koma
og einn morguninn
þegar ég horfi út við dagmál,
nývaknaður og ljómandi, til að ganga úr skugga um
að uppgötvun mín hefur ekki sprungið út

mun ég ekkert sjá
gegnum bráðnaðar rúðurnar.

Kvæðið um regnið heitir Partí og er svohljóðandi:

Hann sagði:
„Verum hér
nú þegar allir eru farnir
og klæmumst fallega hvort við annað,
meðan hitt fólkið er að kveðja
og dögun læðist inn
eins og ókunnugur gestur.

Hikum ekki
vegna þess sem við vitum
eða vegna þess hve hér er orðið kalt,
gefum huganum tauminn
og sleppum lausum
hinum óða, limlesta krókódíl ástarinnar.”

Og það gerðu þau
innan um bergfléttur og ölbletti
og síðan tók hann strætisvagn og hún lest,
það var ekkert annað á milli þeirra
en regnið.

Ég hef ekki fylgzt með Brian Patten frá 1969 en hann hefur gefið út, að ég held, sex ljóðabækur frá þeim tíma og nokkrar bækur handa börnum. Armada hefur hlotið mjög fína dóma í Bretlandi og enginn vafi á því að Brian Patten er að verða eitt helzta ljóðskáld Breta af sinni kynslóð. Í þessari nýju ljóðabók er kvæði sem heitir  In Perspective og hljóðar eitthvað á þessa leið á íslenzku:

Yfir auðuga jörð blómlegar orkidíur og akra sem ég þekki varla
kemur hamingjan á móti mér,
hungrað gæludýr sem heldur ég sé húsbóndinn.

Gott hugsaði ég, leiðréttum ekki misskilninginn
beinin í vösunum mínum
hafa verið mér nógu lengi til trafala.

Það verður að fóðra hamingjuna eins og sorgina.

Í Lesbók Morgunblaðsins sem kom út nú um helgina er grein um norska skáldið Olav H. Hauge eftir Örn Ólafsson. Ég hitti Hauge þegar hann kom til Íslands á sínum tíma og við urðum miklir mátar. Ég þýddi nokkur ljóða hans á íslenzku og skrifaði stutt samtal við hann í Lesbók, Skáld undir skinnfeldi. Þýðingarnar og þetta samtal birtust í Lesbók einhvern tíma eftir 1968, ég man ekki hvenær. En ljóðin sem ég þýddi eftir Hauge voru sex, að mig minnir, meðal þeirra þekktasta kvæði hans Svartir krossar:

Svartir krossar
í hvítum snjó
híma regnvotir á verði

komu þeir dauðu
yfir klungraðan mó
með krossa á herðum
og lögðu þá frá sér
og leituðu í klakann að ró
hver undir sínum sverði.

 

Hauge er einhver bezti þýðandi heimsbókmenntanna á nýnorsku. Og raunar eitt helzta skáld þeirra fyrr og síðar. Norðmenn gerðu allt sem þeir gátu til að hann fengi bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, en það tókst ekki; ekki frekar en þegar reynt var að koma þessum verðlaunum yfir á eitt af höfuðskáldum Norðurlanda á sínum tíma, vin minn Rolf Jacobsen. Ég hef einnig þýtt nokkur kvæði eftir hann, m.a. Aldrei áður sem birtist í Lesbók og erfiljóðið um konu hans; einnig birt í Lesbók. Fyrir það sendi hann mér áritaða sérútgáfuna af norska Draumkvæðinu.
Olav H. Hauge var einhvers konar sérfræðingur í fornum íslenzkum bókmenntum. Hann hafði lesið þær allar – að ég held á frummálinu. Njáls sögðu oft, jafnvel upphátt „enda er hún kannski bezta sagan, Gísla saga er einnig góð”.

Þessi skáldskapur hefur haft mikil áhrif á ljóðlist Hauges. Og þá ekki síður Eddukvæði. Í samtali okkar sagði skáldið að það hefði haft mikil áhrif á hann, „að báðar þjóðirnar, sú íslenzka og norska, eru sama fólkið, ein ætt. Og það sem maður lærir í æsku situr djúpt í manni”.
Hann sagði það væri gaman að verða vitni að því „að þið getið lifað í nútímanum, fylgzt með, verið evrópskir eins og við, og aðrir Evrópubúar – þó haldið áfram að vera Íslendingar. Hann kvaðst hafa lært knappan stíl sinn af Eddukvæðum. Og hann sækir einkunnarorð í forna íslenzka ljóðlist: Gamla ljóðlistin hefur haft mikil áhrif á ný-norsk ljóð. Og einnig á dönsk ljóðskáld, t.a.m. Torkild Björnvig”. Hann sagði að Norðmenn hefðu haft minni áhuga á þessum gömlu bókmenntum en vert væri en kvaðst halda að ung skáld í Noregi „séu að fá æ meiri áhuga á Íslandi og Færeyjum”.

Með grein Arnar Ólafssonar er birt kvæði Olavs H. Hauge um Herdísarvík og Einar Benediktsson. Þetta umhverfi hefur haft jafnmikil áhrif á hann og William Heinesen sem orti um Einar á færeysku, enda mat hann Einar öðrum skáldum meir. Ég þýddi þetta kvæði Heinesens eftir að ég hafði átt samtalið við hann, eða 1965, og það var lesið upp á veglegri kvöldhátíð Stúdentafélagsins eða Blaðamannafélagsins, ég man ekki hvort heldur, bæði á íslenzku og færeysku. Síðan var það birt í Lesbók Morgunblaðsins.
Heinsen var boðið að koma á þessa hátíð en gat það ekki. Helga Valtýsdóttir las kvæði hans á frummálinu. Heinesen sendi svofellda athugasemd með kvæðinu og er hún birt sem formáli fyrir þýðingunni í Lesbók ‘65:
„Ég hefði mjög gjarnan... viljað segja nokkur orð um Einar Benediktsson, sem ég var svo heppinn að kynnast persónulega og virði mjög mikils. En sem einskonar uppbót sendi ég ljóð um Einar. Ég orti það 1960 á færeysku og var það birt í tímariti okkar, Varðinn. Ég orti þetta ljóð þegar ég heimsótti Ísland 1954 þegar við ókum framhjá þeim stað á Suðurlandinu, þar sem Einar dvaldi síðustu ár ævinnar, reikaði óþolinmóður fram og aftur, gamalt skáld og farinn að heilsu, en stoltur og óbugandi þar sem hann var milli hvítbrimandi strandar og líflauss eldvatnsins við Krísuvík. Vitneskjan um þessi örlög – með stórbrotið og dramatískt landslag að bakhjarli – hafði óafmáanleg áhrif á mig. Ég hafði ungur hitt þetta mikla skáld, meðan hann enn var fullur af þrótti og lífskrafti, mikilli póesíu, skaphita og einnig miklum húmor.”

Með grein Arnar Ólafssonar er kvæði Hauges um Einar Benediktsson. Það minnir á kvæði Heinesens:

Auðnin

 

Hvítbrimandi strönd og líflaust eldvatnið:
Lág sól, hár himinn, bítandi vindur.
Grýtt, víðáttumikil hraunauðnin
undir rjúkandi snjófjöllum.
Hafið rís við hamrana
í hvítum brimsúlum.
Skríður steingerði yfir haugana,
fjósið að falli komið,
kofinn stendur.
Herdísarvík dag nokkurn í desember.
Ég heyri óminn af söngnum hans.

Í þessari sömu Lesbók er einnig stutt samtal við Torkid Björnvig sem hingað kom á einhvers konar málþing um Karin Blixen. Ég hitti hann ekki í þetta skipti en stundum áður og hef átt samtal við hann sem er í M-samtölum. Við hittumst einnig á skáldaþinginu í New York fyrir tveimur árum og hafði ég gaman af að tala við hann yfir bjórglasi. Í þessari Lesbók birtast tvö ljóð í þýðingu Thors Vilhjálmssonar, bæði frá Íslandi. Ég hef sérstakar mætur á Bláasti dagurinn. Það er svona:

Raufarhöfn útskagabærinn í norðri sem nyrst var hugsað –
austur sneri hinn smái, framandi – kunni flói með ánni
sem rann út að brimsins gjósandi andhverfu öldu,
kríthvít sjóðandi ræma þvert yfir flóans dimma bláma.
Á undan brimi var höfn, bak við brimgarðinn hafið,
djúpblátt hafið og himinn flóinn og höfnin.
Og skipin að gutla við djúpblátt, djúpur rann af þeim bláinn;
ský voru engin, höfðu hreinlega aldrei verið.
Þetta varð bláasti dagur á allri minni ævi.

Var að lesa eitthvað um Novël Coward í TLS. Ævisaga hans er nýkomin út en ég hef engan áhuga á henni. Við Hanna sáum aftur á móti í London fyrir nokkrum árum eitt af þessum kokteilleikritum hans og var ágæt skemmtan vegna þess að Rex Harrison lék aðalhlutverkið. Það var heldur eftirminnilegt að sjá þennan gamalkunna leikara í svona brezku stykki, en að öðru leyti hef ég gleymt þessari uppákomu. Hún er eins og impressjónistísk list; útlínulaus.

Hanna benti mér á minningargrein sem Árni Grétar Finnsson skrifaði í Morgunblaðið fimmtudaginn 17. október sl. um Jóhann Petersen. Þekkti ekki Jóhann en held ég hafi talað við hann í síma einu sinni eða tvisvar. Það fór gott orð af honum og ég held hann hafi verið dálítið sérstæður forystumaður Sjálfstæðisflokksins. Hann var víst alla sína tíð í Hafnarfirði, mikill stuðningsmaður Ólafs Thors en átti hvað mest frumkvæði að því að Matthías Á. Mathiesen fór í framboð fyrir alþingiskosningarnar 1959, en þá var Hafnarfjörður sérstakt kjördæmi.
Árni Grétar, sem ég kynntist í samtökum ungra sjálfstæðismanna á sínum tíma og hefur stundum talað við mig um skáldskap, enda skáldlega sinnaður sjálfur, líklega síyrkjandi lögfræðingur, segir í þessari minningargrein að Jóhann hafi verið „maður víðlesinn og hafði m.a. ánægju af ljóðum. Hann var fyrsti maðurinn, sem vakti athygli mína á ljóðum Matthíasar Johannessen, ritstjóra og skálds. Var það löngu áður en Matthías öðlaðist þá viðurkenningu, sem hann nýtur í dag.”
Sem sagt, nú eru þeir farnir að safnast til feðra sinna sem stóðu álengdar með manni og veittu andlegan stuðning yfir erfiðasta hjallann.

Í ritgerð sinni Mál og kveðskapur, listin að binda orð, vitnar Helgi Hálfdanarson í nokkrar vísur sem maður getur haft gaman af. Þessi íslenzka alþýðuhefð er óborganleg og sem betur fer lifir hún góðu lífi með þjóðinni.
Undir lokin vitnar Helgi í þessa alkunnu vísu:

Kvölda tekur, setzt er sól,
sveimar þoka um dalinn;
komið er heim á kvíaból
kýrnar, féð og smalinn,

sem er glitrandi perla og minnir einna helzt á tungutak Jónasar í Þið þekkið fold. Ég er algjörlega sammála því sem Helgi segir:
„Er hún ekki annars frábært listaverk, þessi staka? Er ekki myndin, sem upp er brugðið, fullkomin? Þar er hvorki of né van. Hvergi verður þess vart að bragformið grípi fram í fyrir skáldinu eða segi því með nokkru móti fyrir verkum. Og ekkert óþarft skraut! Ekkert tildur! Einungis örfáar staðreyndir, sagðar á látlausan hátt, svo vel valdar, að öll lýsingarorð eru þarflaus.
Við sjáum hvernig þokan líður um hamrabelti og græna geira í hlíðinni. Við finnum ilm úr döggvotu grasi, sem hvergi er nefnt. Og okkur grunar mjaltakonur með skjólu sína við kvíavegginn.
Vísan er Ísland.
Hún er íslenzk náttúra og hún er íslenzk þjóð. Hún er okkar landslag og okkar fornu lífshættir. Hlýtur ekki þessi staka að verka verk mikils listamanns? Ég læt ykkur eftir að eigna honum tiltekna listgrein. Var hann efni í málara? eða tónsnilling? Eða var hann umfram allt ljóðskáld að eðlisfari?
Hver var hann?
Eftir hvern er þessi vísa? Hún er eftir þann mikla snilling, íslenzka alþýðu. Nafn tiltekins höfundar veit enginn. Gleymt er það. En þó að nafn hans „heimtist aldrei að landi” úr hafsjó aldanna, hefur tíminn varðveitt það af honum sjálfum, sem meira er um vert en nafnið, en það er verk hans, þó ekki væri annað en þessi staka, sem hefur lifað á vörum þjóðarinnar ásamt ótal mörgum ámóta snilldarverkum gleymdra Íslendinga, verkum sem hafa orðið kærkominn yndisauki og dýrmætur skerfur til íslenzkrar menningar.”

Íslendinga sögur og Eddukvæði eru einnig slík listaverk eftir þann mikla ónefnda snilling, íslenzka alþýðu.

Í bréfi sem Helgi sendi mér 16.9. sl. ásamt erindi sínu, segir hann m.a.:

„Mikill árans asi var á manni þegar við mættumst í dag. Við bílleysingjar erum alltaf í kapphlaupi við strætisvagnana. Ég gaf mér ekki einu sinni tíma til að þakka þér fyrir afbragðsgott Helgi-spjall. En það læt ég ekki hjá líða. Hafðu margsæll rætt um þörfina á góðu riti um uppruna og þróun íslenzkrar ljóðlistar, endurnýjunarkraft hennar og nútímagildi. Ég vildi einmitt hafa orð á því við þig, að þar þyrfti um að fjalla höfundur sem bæði væri fræðimaður á þessu sviði og skáld... En ekki gazt þú búizt við að sleppa fremur en aðrir undan vélabrögðum prentvillupúkans, sem hafði lag á að breyta „blás” í „báls” í vísu Bjarna (hann er að vitna í Helgispjall). Sú staka hefur mér þótt einhver hin fallegasta af fornum ástarvísum. Hitt er svo annað mál, að slæm spjöll þykja mér að skýringu Fornritafélagsins á þessu orði; en þar er það kallað eignarfall af nafnorðinu „blár”, sem eigi að merkja annað hvort himinn eða sjór. Hvort um sig gerir vísupartinn að viðundri.
Ég hefði haldið að flestir hlytu að skilja „blás” sem lýsingarorðið „blár” í eignarfalli; og ég sé ekki betur en Guðni túlki það svo í Eyrbyggju-útgáfu sinni, sem sé; milli guls viðar og blás (viðar).
Þá stendur þar:
„Þennan dag vildum við lengstan frá því, að skógur ljómar gullinn við morgunsól, til þess er hann blánar (þ.e. dökknar) í kvöldhúmi.” Þarna var póesía! En ekki meira um það...”

Ég er að sjálfsögðu algjörlega sammála Helga og ég held ég sé búinn að leiðrétta þessa villu í Helgispjalli.

26. október, fyrsti vetrardagur, laugardagur

Yndislegur dagur, stilltur og heiður. Fagurgyllt ský sigldu suðvestur til hafs, glampi á Esju, hiti 8 stig. Fór út á Gufunes, sá í fyrsta sinn listaverk Hallsteins Sigurðssonar. Heiður jökull í vanillugulri heiðríkju. Fór síðan upp að Elliðavatni; lognhvít eilífð á vatninu.

Orti þessi þrjú kvæði:

Að hausti

Og haustið fer að hjarta þínu
með heiðgul ský í veganesti sínu,

við fylgjumst að og færum
fjöll og dali úr stað

hraun og jökulsár,

göngum yfir vatnið hönd
í hönd
og hreyfumst eins og jörð
að hvítri rönd
við fjörð
og fuglslaust land

og húmið leggur hörundsáran væng
sem hroll að mjúkri sæng.

Undir lokin

Og enn fer sól að esjublárri Leir-
vogsá með streng af sunnanblæ
í fylgd með sér,
ég veit mitt haust er fugl í fylgd með þér
og flögrar eins og goluþeyr
í maí
en hverfur svo í milda minning þína
og mánaskin sem slokknar þar
og deyr

en haustið breiðir sólskinsgeisla sína
á sumarbjartan dag sem eitt sinn var
en slokknar hægt við sót og brunnið skar

og haustið fellir hrímgrá ský við Mó-
skarðshnjúk og kembir slegið hár,

einn á ferð og yfirgefinn már
við undarlega minning vængjum sló
í huga mínum,haustið okkar fer
sem hljóðlát  taki nóttin burt með sér
þau sólskinsbjörtu yndislegu ár
sem átti ég með þér.

Við Jökul

Jökullinn hverfur
í haustgula
heiðríkju sína

eitt sinn stóð eldstólpi
upp af þeim gíg

auðmjúk er nóttin
sem nemur,ó drottinn,
við nóttlausa deigluna þína.

Kvæðið Að hausti var svohljóðandi í fyrstu gerð:

Að hausti

Og svo fer haust að hjarta þínu
með heiðgul ský að veganesti sínu,

við fylgjumst að
og færum
fjöll og dali, ár
og vötn úr stað

göngum yfir vatnið hönd
í hönd
og hreyfumst eins og jörð
að hinztu rönd
og húmið leggur hörundsáran væng
sem hvíta sæng
á fjörð
og fuglslaust land.


1. nóvember, föstudagur

Við Hanna fórum út að borða með Silju Aðalsteinsdóttur og Friðriki Rafnssyni á Karpe Diem. Það var indælt, fínn matur, góð stemmning. Héldum upp á samtal Silju við mig í Tímariti M & M fyrir skömmu. Hittum þar Jónínu Mikhaelsdóttur og Ingu Jónu Þórðardóttur, ásamt manni hennar Geir H. Haarde, fyrrum blaðamanni á Morgunblaðinu, nú þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins. Það eru alltaf fagnaðarfundir þegar við hittumst. Líkar einstaklega vel við Geir H. Haarde. Tel að hann hafi geðslag og hæfileika til að taka við Sjálfstæðisflokknum. Hann sagði mér að útvarpsstjóri hefði nú sótt um sitt gamla embætti sem þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. Eitthvað töluðum við frekar saman og ég sagði þeim þá skoðun mína að íslenzki veruleikinn væri í leikhúsinu en farsinn í veruleikanum.

Hitti fjórmenningana, félaga mína í síðustu viku, þá Gylfa Þ. Gíslason, Jóhannes Nordal, Indriða G. Þorsteinsson og Sverri Hermannsson. Við töluðum m.a. um Sjálfstæðisflokkinn. Mér finnst ver talað um hann nú en áður. Sverrir er þess fullviss að Davíð Oddsson sé illa skrámaður af kosningu Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetaembætti…..
Félagar okkar höfnuðu þessu a.m.k. ekki. Veltu fyrir sér hvort Davíð myndi ekki hætta eftir þetta kjörtímabil, þá tæki að öllum líkindum við vinstri stjórn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar. Gæti einnig verið rétt þótt ég hafi áhuga á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags. Þykist vita að Svavar Gestsson hafi það líka. Halldór hefur fært sig til á pólitíska leikvanginum með yfirlýsingum um að vel gæti komið til greina að íhuga breytingar á kvótakerfinu og afstöðu til Myntbandalags Evrópu. Sjálfstæðisflokkurinn situr þar eftir og ræktar sitt status quo.
Félagar mínir voru þeirrar skoðunar að Geir H. Haarde væri líklega álitlegasti eftirmaður Davíðs Oddssonar í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins Hann er a.m.k. a likeable person....
!

Vonir standa til að unnt verði að komast til botns í erfiðleikum Stöðvar 3. Það skiptir Morgunblaðið verulegu máli, en staðan hefur verið erfið og ég veit ekki hvernig hugmyndirnar um nauðungarsamninga verka á almenning. Vona að þeir skaði ekki Morgunblaðið, svo vel sem við stöndum annars að vígi. En það er nauðsynlegt að finna mótvægi gegn Stöð 2. Það þarf jafnvægi á fjölmiðlamarkaðnum. Lítil þjóð hefur ekki efni á öðru.
Annars heyri ég æ meiri gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn fyrir það að sitja hjá meðan auður og völd safnast á fárra manna hendur, bæði í landi og á miðunum. Held þetta skaði flokkinn verulega og eigi eftir að skaða hann meir þegar fram í sækir. Er farinn að heyra gagnrýni á þessa hlutlausu afstöðu flokksins.
Eða er hún hlutlaus?
Er þessi þróun ekki þóknunarleg forystunni? Ég þekki engan meiri sjálfstæðismann en Óla Blöndal frænda minn í Siglufirði. Hitti hann um daginn. Hann fór strax að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn fyrir að leyfa slíka tilfærslu á peningum og völdum.
Þetta er ekki gamli Sjálfstæðisflokkurinn, sagði hann. Nú stjórna einn eða tveir menn ferðinni í Sjálfstæðisflokknum og þeir láta þetta viðgangast, sagði Óli Blöndal, og spurði mig hvort mér fyndist þetta ekki fráleitt. Þetta væri ekki sú eina sanna sjálfstæðisstefna, að hygla valdagráðugum peningamönnum.
Ég var sammála honum um að það væri ekki sú eina sanna stefna, hvað sem öðru liði. Vona að forystan sjái að sér í stað þess að sitja þarna uppi í fílabeinsturni og hamast á ritstjórum Morgunblaðsins fyrir kratisma!!
Kristján Ragnarsson réðst á okkur Styrmi í ræðu sinn á LÍÚ-þingi í gær; talaði um að síðasti sósíalisti landsins sæti á ritstjórastóli Morgunblaðsins. Talaði einnig um illmælgi í sambandi við framkvæmd fiskveiðistjórnunarinnar og skrif Morgunblaðsins.
Ég tel ekkert af þessu svaravert. Og ef eitthvað af því er svaravert þá höfum við svarað þessu margoft og fyrir löngu. Kvótakerfið skaðar útsjónarsama fiskiskipaeigendur sem hafa glatað samúð margra vegna kerfisins. Þeir ættu fremur skilið að fá frið. Er Becker hagfræðingur þá sósíalisti? Er Clinton sósíalisti? Svona yfirlýsingar eru svo hallærislegar að engu tali tekur. Ég verð að líta á þetta eins og hvern annan brandara. En þá er illa komið fyrir litlu þjóðfélagi ef Kristján Ragnarsson er helzti húmoristi landsins!
Allir fjölmiðlar veltu sér upp úr þessum ummælum hans. Það var fjölmiðlaveizla út af engu. Dellan ríður ekki við einteyming á Íslandi.
Hitti Leif Sveinsson í morgun. Ágætur. Hann nefndi árás Kristjáns Ragnarssonar og fullyrðingar hans um sósíalisma ritstjóra Morgunblaðsins. Vitnaði í það sem Kristján sagði, en samkvæmt frásögn Morgunblaðsins var það svohljóðandi:
„Hafi einhver velkst í vafa um að málflutningur þeirra (ritstjóra Morgunblaðsins) byggðist á illmælgi og óvild, (sic!) ættu þeir hinir sömu að hafa sannfærst þegar litið er til skrifa þeirra að undanförnu, þar sem fréttamönnum er blygðunarlaust beitt til að fylgja eftir ritstjórnarskrifum þeirra. Hlutskipti ritstjóra þessa blaðs er aumkunnarvert þegar litið er til þess að áður fyrr var það í brjóstvörn fyrir atvinnulífið en nú berst ritstjóri þess fyrir auknum ríkisafskiptum, aukinni skattheimtu og meiri sósíalisma. Það hefði einhvern tíma þótt eftirtektarvert að síðasta alvöru sósíalistann skuli daga uppi sem ritstjóri Morgunblaðsins.”

Ótrúlegt!!
Og auðvitað engin leið að svara svona vitleysu. Sá sem skrifar svona ætti eiginlega að selja farmiða í neðanjarðarlestunum í Lundúnum. En það er einhver munur á ritstjóra Morgunblaðsins eða forystu Sjálfstæðisflokksins:
„Hann (K.R.) sagði að til væru þeir sem létu þessi skrif ekki á sig fá og gerðu sér grein fyrir tilgangi þeirra, m.a. forsætisráðherra, sem með mjög skýrum hætti og nánu samstarfi við sjávarútvegsráðherra hefði kveðið niður kröfur um auðlindagjald á landsfundi flokksins fyrir skömmu. Ennfremur hefðu þeir staðið að því að setja rækilega ofan í við tvo þingmenn af Vestfjörðum, sem farið hefðu fram með tillögur um sóknar- og flotastýringu, sem hefðu átt að leiða til meiri miðstýringar hins opinbera en áður hefði þekkst í íslenskum sjávarútvegi.”
Aumingja Davíð, að fá svona klapp frá fulltrúa ranglætisins. Það eina sem Morgunblaðsritstjórarnir hafa gert er að standa vörð um réttlæti.
Réttlætishugtakið hefur verið í hávegum haft í Morgunblaðinu, en á það minnast þessir menn aldrei. Þeir einblína bara á gróða; milljónir. Eða eins og Leifur Sveinsson sagði, að kvótaeigendur væru eins og bílstjórarnir á Litlu bílastöðinni í gamla daga þegar þeir voru að selja á svörtum markaði. Einn seldi mest af öllum. Þeir veltu því fyrir sér hvernig stæði á því. Hann var alltaf á sama stað, hvers vegna hann færi ekki annað. Málið var athugað og þá kom í ljós að það vantaði vélina í bílinn hans!
Gott hjá Leifi.
Svona aðdróttanir, eins og Kristján Ragnarsson gerði sig sekan um í fyrrnefndri ræðu, eru ekki til neins annars ætlaðar en sá illvilja og tortryggni í garð ritstjóra Morgunblaðsins hjá eigendum þess sem vilja auðvitað ekki skipa sér í flokk með sósíalistum!!
Ég sagði Leifi þetta.
Hann sagðist vera að fara til Kanaríeyja, kvaðst mundu hugsa málið og afgreiða kvótaranglætið. Kannski kemur hann með þessa sögu, hver veit? Það væri mátulegt á þá sem telja það réttlæti að selja það sem er í eigu annarra og þeir hafa fengið ókeypis hjá réttum eigendum, veðsetja það sem aðrir eiga og erfa það einnig. Ég veit um ekkju sem erfði kvóta upp á 120 milljónir. Hún lifir nú eins og Díana prinsessa af því að hún er kvótaekkja. Aðrar ekkjur þurfa að sjá sér farborða og standa í eilífu basli vegna þess að þær hafa ekki getað leigt eða selt það sem aðrir eiga. Og svo er talað um illmælgi og óvild og engin leið til að opna augu þessara einfeldninga sem fyndist það sjálfsagðasta mál í heimi að taka vélina úr togaranum og lifa eins og sprúttsalinn.
Nei, Morgunblaðsritstjórarnir eru ekki sósíalistar, en þeir hafa reynt að halda í réttlætishugtakið. Samt er það að renna upp fyrir mér að gamanyrði Halldórs Laxness í Íslandsklukkunni eru nú orðin að veruleika: Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti!

Skrifaði um minningar Maríu Þorsteinsdóttur hjá Menningar- og friðarsamtökum íslenzkra kvenna á sínum tíma í Helgispjall fyrir hálfum mánuði. Það var heldur vinsamleg athugasemd en ég hef orðið fyrir aðkasti hennar vegna. Eiginlega var mér líkt við sorphaug í grein í Alþýðublaðinu eftir einhverja konu sem ég þekki ekki, en var víst á sínum tíma formaður fyrrnefndra friðarsamtaka. Það er raunar ómögulegt að bregðast við þessu umhverfi þar sem sykópatarnir vaða uppi eins og hundaþúfurnar í flatlendinu. Menningar- og friðarsamtök íslenzkra kvenna samþykktu jafnvel ályktun þar sem mér var úthúðað fyrir þessi skrif, og hef ég sjaldan orðið jafnundrandi. Mun svara þessu sem einskonar eftirmála næsta Helgispjalls svohljóðandi:
Gamlir stalínistar í Menningar- og friðarsamtökum íslenzkra kvenna senda mér tóninn vegna heldur vinsamlegrar umfjöllunar um æviminningar Maríu Þorsteinsdóttur í þessum þáttum fyrir hálfum mánuði. Allt er þetta byggt á útúrsnúningum og ekki svaravert, en minnir á gamla góða kaldastríðsæðið. Megi þeim vel farnast þarna í fortíðinni.”

Íslenzkt þjóðfélag hefur þá sérstöðu að hér vaða sykópatarnir elginn í fjölmiðlum. Og rísa einna helzt úr þessu kollótta landslagi og, því miður, svipað mætti segja um pólitíkina.

Nú er Einar Pálsson dáinn; blessaður. Góð vinátta var okkar í milli. Hann hafði ýmislegt fram að færa athyglisvert. Annað langsótt og ástæðulaust að sporðrenna því. En hann hafði áhrif á mig sem ljóðskáld. Það má til að mynda rekja vissa þætti í Kornið og sigðin í Mörg eru dags augu til hugmynda hans; t.a.m. fimmta erindi í IV kafla.

Hugsun okkar birtist
í gervi margra tákna...

Og svo er talað um ormana þrjá sem komu með gjafir á fund hins hvíta folalds; og barnið í jötunni. Þetta eru áhrif frá Einari. Eða einhvers konar tenging við hugmyndir hans.

Hef verið að líta á gömul blöð. Fann m.a. athugasemdir um Fjaðrafok. Var búinn að gleyma þeim. Þær eru í 19. stuttum köflum, svohljóðandi:

Fjaðrafok

1. Ég hef verið spurður um margt víðvíkjandi verkum mínum, m.a. Borgin hló, Sól á heimsenda, Fjaðrafoki. Hef fjallað annars staðar um sumt, t.a.m. Sturlu sem Atli Heimir samdi við áhrifamikið og eftirminnilegt tónverk handa Íslenzku hljómsveitinni. Ballettinn Af mönnum er saminn við tónlist Þorkels Sigurbjörnssonar, en hún er aftur samin við ljóð í Borgin hló.

Tónlist Þorkels er hárrétt viðlag við ljóðin og þegar ég sá ballettinn gladdist ég mjög því ég þóttist skynja að hann var einnig saminn úr andrúmi þeirra og ég var ekki í neinum vafa um tengslin milli skáldskapar, tónlistar og dansins og því ekki út í hött að tala um að Borgin hló sé upphaf þessarar fléttu. Tónlist Þorkels er í ætt við þá skemmtimúsík sem tíðkaðist þegar ljóðin voru ort. Af mönnum lýsir viðhorfum þeirrar æsku sem dansaði eftir hljómfalli sveiflunnar og leitaði hreyfingar í takt við hjartslátt sinn einsog Sarah Walker minnti okkur svo eftirminnilega á þegar hún söng Gershwin á listahátíð eins og ekkert væri sjálfsagðara en hann sæti við sama borð og Schubert og Mendelssohn. Togstreitan í dansinum milli kvikmyndar og kyrralífs er einnig sprottin úr þessu andrúmi þar sem leitað er jafnvægis milli gleði og sorgar, lífs og dauða; hreyfingar og kyrrstöðu.
Undir glaðværu yfirborði er hikandi spurn, rétt eins og ungu stúlkurnar í Borgin hló eru æska á svörtum sokkum, svo minnt sé á heiti eins af ljóðunum.

2. En þá er það Fjaðrafok og sjónvarpsmynd Kristínar Jóhannesdóttur, Glerbrot.

lltaf skal Fjaðrafok koma mér jafnmikið á óvart, raunar í opna skjöldu. Þegar það var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu hvarflaði ekki að mér það mundi vekja neina sérstaka athygli. Þegar sýningar hófust ætlaði allt um koll að keyra. Það var einsog landskjálfti færi um þjóðfélagið. Stjórnmálamenn á vinstri væng sem kenndu sig við menningu stóðu á öndinni af hneykslun og undir þessa hneykslun voru settir allir þeir fjölmiðlar sem þá voru tiltækir. Jafnvel hlutlaust ríkisútvarpið brást ekki í þessum leik. Sumir fögnuðu verkinu að vísu og margir sem sáu það lögðu lykkju á leið sína að þakka mér fyrir það.

3. Sízt af öllu datt mér í hug að reynt yrði að gera leikritið að lykilsögu svokallaðri og tengja það persónum sem ég þekkti hvorki á haus né sporð. En það á samt rætur í heimildum sem ég fékk frá Knúti Hallssyni í Menntamálraáðuneytinu. Hef aldrei litið á þær sem trúnaðarmál.

4. Fjaðrafok lifði í minningunni einsog hálfgerð martröð og í þessari martröð var allt á sínum stað: faðirinn sem brást, vonda stjúpan og þursarnir marghöfðuðu. En svo gleymdi ég þessari martröð án þess botna neitt í henni. Vissi þó það hafði verið gerð tilraun til að loka fyrir mér leikhúsum og tókst að mestu. Lykillinn hafði týnzt í landskjálftanum mikla!! Síðan hefur Sókrates þó verið fluttur í útvarp fyrir tilverknað Helga Skúlasonar leikara sem stjórnaði útvarpsleikhúsinu um stundarsakir og varðveittur á plötu sem Fálkinn gaf út, Guðs reiði fór framhjá leiklistardeild ríkisútvarpsins en var samþykkt af útvarpsráði fyrir tilstuðlan Sveins Einarssonar sem leikstýrði verkinu í útvarpi og tókst vel. Margir hlustuðu, jafnvel þótt það væri í fjórum hlutum og töluðu við mig um þetta einkennilega verk sem gerist á gráa svæðinu milli lífs og dauða, jarðneskrar stundar og tímalausrar eilífðar. Þá var Ófelía einnig flutt í sjónvarp að ósk Jóns Þórarinssonar að ég held. Að sýningu lokinni hringdi sá sem sízt skyldi, Jónas Árnason, og sagði, Ég á ekki að vera að hrósa þér, en ég þakka þér fyrir perluna.

Og lagði á.

Þá fór ég að ímynda mér að þjóðfélagið hefði eitthvað breytzt til batnaðar og ævintýrið um stjúpuna og meinvættirnar liðin saga. Vissi þó að Jónas á til höfðingja að telja og getur verið stór í sniðum. Hugsaði svo ekki frekar um það.

Svo líða mörg ár.

Þá hefur Hrafn Harðarson, bókasafnsstjóri og samfylgdarmaður listar og sakleysis, samband við mig og segir Leikfélag Kópavogs vilji flytja eftir mig leikverk ásamt öðrum ritverkum á menningarvöku Kópavogs. Það varð mér eftirminnilegt samstarf og vekur mér gleði í endurminningunni. Þá varð nafnlausa fáránleikaverkið til, en Friðrik Rafnsson íhugar víst að birta það í Tímariti M & M. ,ef hentar.

Og enn líður tíminn.

Þá er mér tilkynnt að Kristín Jóhannesdóttir hafi óskað eftir því að gera kvikmynd upp úr Fjaðrafoki og ég samþykki það en bið um að nafninu sé breytt. Á dauða mínum átti ég von en ekki þessu þreki hjá ungri listakonu sem hefur sýnt að hún er myndskáld mikið. Ég fagnaði því að það skyldi vera kona sem óskaði eftir að vinna úr verkinu. Ég tel það standi konum nær en körlum að skilja það. Tilfinningalíf þeirra er næmara ef það er næmt á annað borð, einkum á efni eða ævintýri einsog þarna er um að ræða. Það hefur líka komið í ljós að allir þeir sem mest hafa fjargviðrazt út af Fjaðrafoki eru karlmenn með pólitískt asklok fyrir himin. Ekki sízt þeir sem telja sig standa í einhverju sérstöku ástarsambandi við listgyðjuna eða hafa þrifið til hennar bölvísri hendi eins og Sverrir vinur minn Hermannsson mundi sagt hafa og standa vinstra megin við miðju.

5. Því hefur verið haldið fram í þessum pólitíska hasar að Hrafn Gunnlaugsson hafi stjórnað ferðinni í dagskrárdeild Sjónvarpsins, en nú er annað komið á daginn. Kristín Jóhannesdóttir segir í samtali við Lilju Gunnarsdóttur í Þjóðviljanum að það hafi verið Viðar Víkingsson sem vakti athygli hennar á leikritinu. „Hann var þá leiklistarráðunautur eða dramatúrg hjá Sjónvarpinu, og hafði komizt í tæri við verkið og var geysilega hrifinn af því. Hann bað mig að lesa það yfir og ég varð ekki minna hrifin.”

Hrafn Gunnlaugsson hefur sem sagt fjarvistarsönnun og allt púðrið sem eytt hefur verið á hann, blessaðan, blautt og ónýtt og ekki einu sinni efni í einn fret, hvað þá meira! Hann getur vel við unað þótt myndir hans séu harla umdeildar, bæði erlendis og hér heima; eða kannski frekar vegna þess. Sérfræðingur sænska sjónvarpsins í kvikmyndum svarar vel fyrir Hrafn þegar verið er að abbast upp á hann... einn athyglisverðasti skapgerðarleikstjóri á Norðurlöndum, segir hann... e.k. faðir nýrrar bylgju í norræni kvikmyndgerð þar sem sameinast átök og innsæi.

En þegar ég las þessar upplýsingar kom Fjaðrafok mér enn einu sinni á óvart. Ungur áhugasamur sérfræðingur í leiklistarfræðum hjá sjónvarpinu uppgötvar verkið, hefur þrek til að benda á það og koma því í vinnslu. Því er ekki fisjað saman þessu unga fólki sem hefur verið að spretta upp um allt þjóðfélagið einsog sóleyjar eða blágresi... en því miður, það heldur að veðráttan sé betri en hún er. Hraglandinn á Íslandi er ekki fyrir viðkvæmar plöntur. Ég trúi því að þetta unga fólk standi hann af sér og verði miklir listamenn og bjóði birginn öllum tilhneigingum til stalínisma í list, en fáir hafa því miður þorað. Þó breyttist andrúmsloftið meðan Össur Skarphéðinsson og Óskar Guðmundsson voru á Þjóðviljanum. Þeir sópuðu stalinísku andrúmi í burt. Margir ungir menntamenn á vinstri væng hafa auk þess skrifað einsog húmanistum sæmir og mörg plön upp fyrir dægurþrasið.
Ég hélt því það væru veðrabrigði, en stóð mig svo að því að vera jafn barnalegur og þeir sem trúðu áður fyr að Krúsjeff mundi leiða þá inn í paradís.

6. Einn þeirra sem tóku til máls eftir að Glerbrot hafði verið sýnt í sjónvarpinu var Sigurjón Jóhannsson leikmyndateiknari, einn alfremsti leiksviðsmaður landsins. Hann sagði að verkið væri „skínandi gott, vönduð listræn vinnubrögð, fjallar um nærtækt efni á stórbrotinn hátt utan við allan hversdagsraunveruleika. Það er alveg út í hött að tengja verkið við ákveðna raunverulega atburði – það er langt yfir slíkt hafið”.

Margir töluðu í svipuðum dúr. Það yljaði mér að Kristín skyldi fá fallegar kveðjur sem hún átti skilið, þótt aðrar sendingar væru kaldranalegri.

7. Í fyrrnefndu samtali í Þjóðviljanum segir Kristín við Lilju:
„Vegvísirinn að leiðinni liggur náttúrulega í verki Matthíasar, og það eru ævintýrin. Þetta er mjög grimmt ævintýri einsog Grímsævintýrin eru, og persónurnar eru þær sem við þekkjum úr ævintýrunum, það er prinsessan sem er í einhvers konar álögum, lokuð inni í eins konar kastala, hjá norninni sem er tvíhöfða ófreskja – lögreglukonan og forstöðukonan. Það er vonda stjúpan sem hefur komið henni í vandræðin, og svo kemur prinsinn og bjargar henni”.
Og svo sakar ekki að Björk leikur aðalhlutverkið.

8. Við erum svo lánsöm að eiga ungt listafólk með mikla menntun og þekkingu og löngun til sjálfstæðrar listsköpunar. Þó að við höfum farið á mis við marga áratugi í þroskasögu kvikmyndalistar er þessu unga fólki að takast að bæta nýju ævintýri við íslenzka menningarspunann. Íslenzkar kvikmyndir eru ekki alfullkomnar, en þær eru sérstæðar og öðruvísi en það sem við fáum utan úr heimi. Í þeim er sérstæður blær tungu okkar og menningar og landið sjálft hefur verið sú uppspretta sem um munar.

9. Íslenzk kvikmyndalist er ekki vatnslaus gljúfur gamalla minninga. Hún er í tengslum við vorið og það sem er nýtt og gefur okkur fyrirheit um átök og árangur. Það er ekki sízt í kvikmyndalistinni sem tunga okkar og menning eiga eftir að lifa af. Þetta er sams konar ævintýri og þegar myndlist hófst fyrir alvöru á Íslandi. Við höfðum að mestu farið á mis við hana þar til undir lok síðustu aldar, en þá tóku íslenzkir myndlistarmenn sig til og skópu á örfáum áratugum myndlist sem er sérstæð og mikilvæg og nýtur virðingar hvar sem er í heiminum. Við eignuðumst jafnvel meistara í myndlist á nokkrum áratugum. Íslenzk kvikmyndalist er einnig að breytast í slíkt ævintýri. Kannski hún sé nú við vatnaskil sem minna á fyrstu sýningar Kjarvals og Svavars Guðnasonar, hver veit(!)

10. Táknin í Glerbroti virðast hafa farið fyrir brjóstið á Merði Árnasyni á Þjóðviljanum sem vildi láta „útbúa fyrir almenning handhægan tákn- og pælingabækling með næsta pródúkti” Kristínar. Samt hafði hún skýrt verkið í Þjóðviljanum og bætt um betur í samtali við Súsönnu Svavarsdóttur í Morgunblaðinu. En Mörður hafði augsýnilega ekki lesið blaðið sitt og ástæðulaust að lasta hann fyrir það!

11. Kristín sagði að í leikritinu séu „arkitýpur” úr ævintýrum eins og hún kemst að orði. Heldur síðan áfram:
„Þar með skírskotar hann (þ.e. höfundur leikritsins) út fyrir þessar týpur, sem við þekkjum, aftur til miðaldabókmenntanna, yfir í helgisögur sem fjalla um píslargöngu.” Síðan segist hún hafa ákveðið að leggja áherzlu á þessa píslarsögu í verkinu og hún bætir við:
„Þær viðtökur sem verkið fékk á sínum tíma voru mjög ótrúlegar og óréttmætar. Í staðinn fyrir að... skilja skírskotunina í því í stærra samhengi, var það tekið og tengt einhverju skandalmáli.

Með því að skírskota stöðugt til þessara „arkitýpa” ævintýranna nær Matthías að setja þetta í stóra samhengi „alligóríunnar” og losa það við þessa nærsýni sem var alltaf verið að klína á verkið; nærsýni lykilskáldskapar... Með því að nota arkitýpur nær maður að tengja þær við ómunamynni – eitthvað sem allir þekkja. Það þýðir ekki að það sé einhver einföldun á persónum, heldur eru þessar ævintýrapersónur alltaf mjög margslungnar. Ævintýrið er mjög „pópúlert” form. Þú hefur þessar aðalpersónur sem hafa hlutverk sem hvert mannsbarn þekkir úr ævintýrum og þarmeð helgileikjum, því ævintýrin eru „pópúlert” form á helgileikjum miðalda. Þar eru prinsessan, stjúpan, nornin og prinsinn sem leysir prinsessuna úr álögum, svo maður gleymi því nú ekki að þar er alltaf hinn vanmáttugi faðir.

Með því að nota þessa uppbyggingu og ævintýraskírskotanir nær maður að losa verkið úr samhengi við einhvern ákveðinn skilgreindan tíma og þar með hefur þú möguleika á að tala til fólks á öllum tímum um hluti sem skipta máli á öllum tímum...

Í Glerbroti höfum við þetta þríeyki, fjölskylduvaldið, ríkisvaldið og trúarvaldið og það hvernig manneskjan bregst við hlutverki sínu, þegar hún fær þessi völd í hendur, því það er alltaf hætta á að þú farir yfir mörkin þegar þú hefur vald og dettir ofan í misbeitingu á því. Það þarf alltaf gífurlegan þroska til að stirðna ekki inni í dæminu.”

Og loks:

„Þar komum við að þessum tveimur meginflötum á Maríu sem geta framkallast í hvaða manneskju sem er, því hver manneskja er í rauninni almætti sem er samsetning af guðdómi og djöfullegu valdi. Ég sagði einhvers staðar að María væri þessi samsetning – engilbjartur skratti – og spurningin er hvernig hún vinnur úr þessu í píslargöngunni sem á hana er lögð. En þetta má segja um hinar persónurnar líka”.

Ég sé ekki betur en Kristín Jóhannesdóttir hafi gert hreint fyrir sínum dyrum. Það á enginn heimtingu á nákvæmari skýringaritum þegar skáldverk eru annars vegar. Hitt er svo annað mál að það má deila um mörg atriði í þessu verki einsog öðrum.
Gagnrýnandi Dagblaðsins sagði t.a.m. að vonandi fengi Kristín mörg fleiri verkefni því „að hún tryggir góða „horfun” þótt ekki séu allir að skemmta sér”.
Þetta er ekkert skemmtiverk, það er rétt.
Það átti aldrei að verða neinn farsi. En hasarinn í kringum það hefur alltaf fjarað út í farsa. Það er eitt af því sem hefur komið mér á óvart. Eitt af því sem ávallt vekur mér furðu. En hví ætti ég svo sem að skilja það frekar en annað!

12. „Glerbrot var alltof þrúgandi”, sagði ungur maður í DV. Það er rétt. Glerbrot er þrúgandi. Fjaðrafok er þrúgandi leikrit. En því miður er lífið svo margbrotið að það er á okkur lagt að þurfa einnig að horfast í augu við það sem er þrúgandi. Við höfum lært mikið af ævintýrum og þjóðsögum. Þær eru einnig veruleiki út af fyrir sig. Hugarflugið lausbeizlað, en áminningin nógu fjarlæg raunveruleikanum til að við getum horfzt í augu við hana; til að við getum haft hana í huga. Lært af henni sem skírskotandi umhugsunarefni.

13. Eyvindur Erlendsson, maður mér ókunnugur (  innsk.kynntist honum síðar að öllu góðu), dembdi sér yfir íslenzka kvikmyndagerð eftir sýningu Glerbrots. Helzt ekkert bitastætt, sízt af öllu leikritið. En hvað kom mér þetta svo sem við?
Ekkert.
Maður deilir ekki við fólk um smekk þess. Og maður sem sker niður við trog Bergman, Fellini („glúrinn loddari”), Fassbinder, Leone („þessi ítalski kábojmyndasmiður”), Antonioni, eitt ljóðrænasta myndskáld samtímans ásamt Tarkovski og sjálfan Bunuel, þann frumlega og hugdjarfa súrrealista sem stendur við hlið Lorca og Dali í listasögunni – hann getur varla átt neitt sameiginlegt með okkur Kristínu Jóhannesdóttur, guði sé lof!
Eftir þessa upptalningu vorkenndi ég Ingólfi Margeirssyni, ritstjóra Alþýðublaðsins. Og einnig Jóni Baldvin, svolítið!

Sem sagt: Allir með allt niðrum sig, nema Chaplin! Ég hugsaði með mér, Það er ekki ónýtt að fá að vera í slíkum félagsskap(!) Og undi glaður við mitt. Það geta Hrafn Gunnlaugsson og Kristín Jóhannesóttir einnig gert. Hitt var alvarlegra – og raunar högg undir belti – þegar Eyvindur Erlendsson sagði að Kristín hefði valið Fjaðrafok „til þess að komast í góðan félagsskap”.

Eru slíkar dylgjur samboðnar menntuðum manni? Þær hefðu eins getað staðið í Pravda, nafnlausar.

14. Alþýðublaðið hafði í mörgu að stússa vikuna eftir Glerbrot. Vitnaði jafnvel í grein Ragnars Stefánssonar jarðskjálftafræðings sem hafði birzt í Þjóðviljanum og sagði raunar alla söguna um þá Mörð Árnason og Eyvind Erlendsson, Glerbrot sem líka var sýnt um helgina, segir Ragnar, er fallegt krúsidúlluverk álíka litað af íhaldspólitík og Óðalið!
Pólitíkin er mér hugleiknust... Síðan er eitthvað farið að amast við ritstjóra Morgunblaðsins eins og Evindur Erlendsson og Mörður höfðu gert undir rós, en þó einkum fjargviðrazt yfir því hvað hart sé veitzt að „hinu opinbera”.
Engu líkara en þessir menn hugsi með smurðu hjarta Lenins.
Jarðskjálftafræðingurinn var sem sagt heiðarlegur. Hann sigldi ekki undir fölsku flaggi. Hann var í hlutverki barnsins í dæmisögu H.C. Andersens og benti á Eyvind og Mörð. Svipti af þeim dularklæðunum. Og þarna stóðu hatursmenn íhaldsins í sínu rétta gervi.

Ég hefði svo sem átt að vita að það þyrfti jarðskjálftafræðing til að fjalla um Fjaðrafok af einhverju viti!

15. Mörður Árnason reynir að niðurlægja Kristínu Jóhannesdótur í skyldugrein sinni og telur augsýnilega að það sé leyfilegt með háði:
„Það má auðvitað gefa sér – einsog ýmsir umfjallendur í blöðum virðast hingaðtil hafa gert óbeinlínis – að Didda sé einfaldlega of djúp til að maður fatti fiffin”!
Svona skrifar ekki sá sem hefur raunverulegan áhuga á skáldskap eða tilfinningu fyrir þeirri háskalegu áhættu sem einlægt er tekin í listum.
Kollrak Kristínar er algjört í þessu neikvæða trúboði, en ég slepp fyrir horn:
„Ég hef ekki séð það sviðsverk Matthíasar Johannessens sem liggur að baki, og veit ekki að hve miklu leyti sá texti þvælist fyrir fótum (sic!) Kristínar, – en manni virðist túlkun sjónvarpshöfundarins töluvert á skjön við tilætlun leikskáldsins, – sá tímalausi mýtusvipur sem Kristín reynir að ljá sögunni fellur illa að tilhlaupum frumsögunnar að umræðuvakningu í stíl gamla Brandesar.”

Hvernig veit Mörður Árnason þetta fyrst hann þekkir ekki Fjaðrafok? Ekki var okkur kennt það í tímum hjá Einari Ólafi og Steingrími J. Þorsteinssyni í gamla daga að viðeigandi væri að fjalla um þau verk sem maður þekkir ekki. Ég hefði satt að segja haldið að Mörður reyndi að vara sig á því. En það er kannski engin ástæða til að býsnast yfir því einsog tímarnir eru. Margir eru einóðir nú sem fyr.
En kannski eru þeir Mörður og Eyvindur ágætir í betra selskapi - og kannski á ég eftir að kynnast því síðar.

16. Mér þætti satt að segja fyrir því ef Þjóðviljinn fengi ekki að dafna í anda Össurar Skarphéðinssonar undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar. Það væri spor aftur á bak, ekki einungis í íslenzkri blaðamennsku heldur þjóðlífinu öllu. Og Ólafur Ragnar ætti það vart skilið. Ég vona því að hér sé um slys að ræða, undantekningu, og hef raunar ástæðu til að ætla að svo sé, þegar ég hugsa um húmanistana á vinstra væng, ungt og markvert menntafólk sem gerir miklar kröfur til sjálfs sín og fjallar af metnaði um listir og bókmenntir, en skoðar þær ekki gegnum kíki sem snýr öfugt eins og þegar lúsin skreið yfir kikkertglasið og skipparinn hélt hún væri julla, svo að vitnað sé í Árna frá Geitastekk. Og nafni hans Bergman og Silja Aðalsteinsdóttir eiga annað og betra skilið en svona flumbruskap í blaðinu þeirra. Svo að ekki sé nú talað um ýmsa aðra ágæta sósíalista.

Það var uppörvandi að lesa óvænta grein eftir ungan sósíalista í Þjóðviljanum 15. júlí s.l. Hann heitir Árni Páll Árnason og talar við alþýðubandalagsmenn einsog ég vildi tala við allt borgaralega þenkjandi fólk í landinu, því við erum einnig í glerhúsi. Árni Páll er laganemi og varaformaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Grein hans var hressandi endurnæring, vísar fram en ekki aftur og er okkur öllum þörf ádrepa. Hann segir m.a.:

„Það virðist vera staðreynd, – og hún ekki mjög skemmtileg, að órúlega grunnt sé á hinu gamla ofstæki sem oft, og ekki að ástæðulausu, hefur verið kennt við kalda stríðið. Þetta ofstæki á sér ýmsar birtingarmyndir sem margir kannast án efa við. Fangar kalda stríðsins tala einatt um skáldin og rithöfundana „okkar” og eru þá aðrir vart taldir með, það eru fræðimennirnir „okkar” og menn bíða í ofvæni eftir því að ungt og efnilegt fólk „gefi sig upp”, taki undir „okkar” viðhorf í fræðilegri umræðu, gangi í Keflavíkurgöngu, kaupi Þjóðviljann eða í versta falli skrifi þó undir á móti ráðhúsinu.

Það þarf ekki að hafa um það mörg orð, út í hvers konar ógöngur hugsunarháttur af þessum toga leiðir menn. Menn hneigjast til sjálfsdýrkunar og úrvalshyggju, samfara óumflýjanlegri stöðnun, hætta að geta brugðist við nýjum aðstæðum, fyllast kreddufestu og sjúklegum ótta við einhvern óskilgreindan „kratisma”, sem verður samheiti yfir allt það í þessum heimi sem hvorki var til í gær né í fyrradag.

Þetta ástand virðist sem betur fer vera í rénum eftir því sem tímar líða fram og hlýindi vaxa í stjórnmálalífinu, en það er full ástæða til að staldra við og meta orsakir og afleiðingar slíks ástands. Auðvitað koma ýmsir þættir þessarar lýsingar minnar, þeim kunnuglega fyrir sjónir sem eitthvað hafa að ráði starfað innan íslenskra stjórmálaflokka.”

17. Þessi pólitíski hasar, þessi gömlu slagsmál þar sem allir reyndu að hafa rangt við – heyra sögunni til. Þau eru víti að varast. Ég vona að menn eins og Mörður Árnason hyggi að því andartak. Sem íslenzkufræðingur hefur hann gott veganesti; manneskjulega menntun sem ætti að geta aukið honum víðsýni. Stækkað asklokið, jafnvel breytt því í himin. Það stendur margt gervilegt menntafólk, fullt af metnaði og góðvild og löngun til að bæta þjóðfélagið undir þessum marglita – og margbreytilega himni – sem er ýmist blár, bleikur eða rauður. Það er gamaldags og úrelt að spyrja fyrst hvaða stjórnmálaskoðun rithöfundar hafa – og afgreiða þá svo. Og það skiptir í raun engu hvort Hrafn Gunnlaugsson er á hægri væng eða ekki; eða Kristín Jóhannesdóttir. Eða aðrir listamenn. Hitt skiptir öllu hvort þeir hafa unnið að listinni af einlægni og alvöru. Ég hef enga hugmynd um pólítískar skoðanir Kristínar Jóhannesdóttur. Ætla ekki að spyrja. Kemur það ekki við. En með kvikmyndinni á Hjara veraldar vann hún afrek, það veit ég. Kvikmyndin er full af skáldlegu innsæi. Hún hafði raunar svo sterk áhrif á mig að ég skrifaði jónsmessudaggarsöguna í Konunginum af Aragon eftir að ég hafði séð hana. Það er ekkert gamaldags við þessa mynd. Allt nýtt og ferskt og óvænt. Enginn Chaplin sem betur fer. Eitt þessara listaverka sem gefa fyrirheit um mikla kvikmyndalist á Íslandi.

18. Í Hrafninn flýgur tókst Hrafni Gunnlaugssyni m.a. að flétta harmsöguleg örlög úr gömlu efni sem maður að óreyndu hefði haldið að gæti ekki nýtzt okkur lengur í skáldskap. En það var öðru nær. Hrafninn flýgur vel og markvisst. Ég veit þó ekki til að neinn hafi komið auga á kjarnann í verkinu – og augsýnilega ekki Eyvindur Erlendsson. Ungur, kristinn drengur smitast af illverkum heiðingja sem drepa foreldra hans á Írlandi og fer út hingað til Íslands að svala í blóði hefndarþorsta sem sækir allan sinn kraft í heiðna siðfræði. Þetta er merkilegt efni, sérstætt og eftirminnilegt; kristnum dreng breytt í bústað fyrir Óðin. Við erum saman sett úr mörgum vistarverum. Sumir hýsa Krist, aðrir Óðin. Og hrafninn var hans fugl.

Þannig verður kvikmynd Hrafns ekki einungis hasar og vígamennska, heldur býr hún yfir boðskap sem hollt er að hyggja að, ekki sízt nú á dögum þegar úlfurinn gerir sér bæli í hjarta okkar, svo að vitnað sé í gamalt hólmgönguljóð. Um þetta mættu þeir ekki sízt hugsa sem gert hafa harða atlögu að Hrafni Gunnlaugssyni vegna þess eins að hann hefur um stund stjórnað mikilvægum þætti íslenzkrar menningar án þess að eiga Eyvind Erlendsson, Mörð Árnason eða Ragnar Stefánsson að viðhlæjendum eða pólitískum samfylgdarmönnum.

19. Sæmundur Guðvinsson víkur að Fjaðrafoki í Sunnudagspistli sínum laugardaginn 28. maí 1988. Þegar hann hefur lokið lofsorði á mynd Kritínar Jóhannesdóttur segir hann:
„Ef ég man rétt varð Matthías fyrir heiftarlegum árásum og óvæginni gagnrýni þegar leikritið var sýnt á sínum tíma. Á þeim tíma töldu sjálfskipaðir páfar á sviði lista að til listamanna gætu þeir aðeins talist sem aðhylltust vissar stjórnmálaskoðanir. Það þótti fáheyrð ósvífni af ritstjóra Morgunblaðsins að stunda skáldskap og aðrar bókmenntalistir án þess að vera í hópi innvígðra...”
Sæmundur er næmur maður og hefur mikinn og góðan skilning á listum og bókmenntum. Sjálfur hefur hann skrifað margt vel og vikið að ýmsu eftirminnilega. Og þarna bendir hann réttilega á að fjaðrafokið var ekkert annað en hver önnur pólitísk della og hafði Páll Baldvin Baldvinsson einnig áður vikið að því í athyglisverðum ritdómi í DV um Guðs reiði. Þá fór ég satt bezt að segja að hugsa mitt því að Páll mátti vel vita þetta. En í ólæknandi barnaskap mínum hélt ég orðið að þjóðfélagið hefði breytzt svo til batnaðar að maður þyrfti ekki að hafa pólitískar áhyggjur af ópólitískum ritverkum. En þar flaskaði ég eins og oftar.

Sæmundur Guðvinsson segir í nefndri grein að nú sitji ég á friðarstóli, eins og hann kemst að orði. Þetta hélt ég einnig sjálfur. En þá tókst Fjaðrafoki enn einu sinni að ýta mér út í þann pólitíska drullupoll sem er öðrum pollum stærri hér á landi. Og einhvern veginn eru þessir pollar alltaf á næstu grösum þótt maður sé að telja sér trú um þeir séu afsirklaðir einsog hvert annað feimnismál. En vonandi á ungt fólk á Íslandi eftir að fylla upp í þessa polla, svo maður þurfi ekki sínkt og heilagt að vera að atast við óforbetranlega slagsmálahunda þarna í pólitísku leðjunni.

En friðarstóllinn bíður síns tíma!! „Okkar” – stefnan á enn spöl í landi margra þeirra sem fjalla um samtímann.

8. nóvember, föstudagur

Enn heiðríkt, lygnt með frosti. Vetur hélt snemma innreið sína. Sakna sumarsins. Og birtunnar. Þrjú síðustu kvæðin sem ég orti inn í sumarsyrpuna fjölluðu auðvitað um haust. Og þá einkum haustið í okkur sjálfum.
Ætli birta haustsins komi einnig innanfrá? Spyr Kristján Karlsson þegar ég hitti hann í Nausti í hádeginu.
Hann er búinn að fá kvæðin.

Hef verið með hugann við drengina mína. Ingólfur er lagður af stað í Asíu-ferðina, Haraldur þarf að verjast skítnum hér heima. Að venju. Hrafn Jöklulsson og „fíkniefnadeild” þjóðfélagsins er á eftir honum fyrir það eitt að hann hefur stórbætt aðstöðu fanga og aðbúnað svo að gjörbyltingu er líkast! En hundstungan er löng. Og kjaftaskarnir verða að hafa eitthvað fyrir stafni. Vona hann komist út úr þessu ósár, enda á hann það skilið. Ég get í aðra röndina skilið að hann vilji verja orðstír sinn fyrir dómi, þegar Hrafn kallar hann „glæpamannaframleiðanda ríkisins”, en sú gullna regla Jóhannesar afa míns á þó einnig rétt á sér, að maður skyldi ekki hreyfa við skítnum svo hann skaði ekki. Halli hreyfði við skítnum en vonandi eigum við eftir að lifa skítalyktina af. Svona mál eru ævinlega útbíandi, ekki sízt vegna þeirrar ræfladýrkunar sem er eitt helzta einkenni íslenzks nútímasamfélags.

Hef verið að lesa prófarkir af fimmta bindi Helgispjalls, ásamt Sveini Sigurðssyni blaðamanni. Kemur út í 200 eintökum fyrir jól, á vegum Árvakurs eins og í fyrra. Einnig þýðingar okkar Jóhanns Hjálmarssonar á ljóðum Knuts vinar míns Ødegaards. Hef einnig verið að lesa smásögur Dorothy Parkers og kynna mér Foucault. Þegar ég les svona verk eins og heimspekiumfjöllun hans hugsa ég alltaf til Þórbergs og kenningar hans um exact-merkingu orða.

Þá hef ég einnig verið að kynna mér þessa frægu frönsku skáldsögu, Dangerous Liaisons, eftir de Laclos. Hann var upp 1741-1803, eða á svipuðum tíma og Stendhal eða Beyle, eins og hann hét réttu nafni. Hann var uppi 1783-1842 og talinn einn merkasti skáldsagnahöfundur 19. aldar, þótt honum væri lítið hampað meðan hann lifði. Rauður og svartur er stórkostleg skáldsaga eftir hann, ég held hann hafi samið hana í kringum 1830.
Stendhal var eins og de Laclos eitthvað á vegum Napóleons, ég held hann hafi barizt í hersveitum hans. Hann lýsir orrustunni við Waterloo í annari skáldsögu. Báðir þessir höfundar áttu undir högg að sækja í lifanda lífi og ég sé ekki betur en de Laclos hafi dáið í vesöld eins og von Kleist.
Veraldleg velgengni er ekki endilega fylgikona mikilla skálda! de Laclos samdi þessa bréfaskáldsögu sína 1782 og hefur hún bæði verið kvikmynduð og sýnd í leikgerð í Þjóðleikhúsinu 1989, Háskaleg kynni. Laclos átti heima í neðsta lagi aðalsins að ég held og er sérfræðingur í siðspillingu hans eins og kemur fram í þessari skáldsögu.

Kvöldið

Haraldur er að hugsa um að sækja um varalögreglustjóraembættið ef hann fær hvatningu til þess.
Ingólfur fer til Hong Kong á sunnudag.

9. nóvember, laugardagur

Átti gott samtal við Kristján Karlsson í gær. Sátum lengi í Nausti, að venju. Hann sagði að haustið gæti ekki síður komið innan frá en utan í kvæðunum. Þau vörpuðu annarri fallegri birtu en sumarljóðin. Kristján fór góðum orðum um síðustu ljóðin þrjú um haustið, sagðist hafa í huga að gefa út Eitt hundrað íslenzk kvæði sem yrði einskonar ljóðabók hans sjálfs, en í hana tæki hann einungis það sem væri honum hjartfólginn skáldskapur og bætti við, Ég geri ráð fyrir því að ég mundi setja Undir lokin í svona bók.
Það er einlægt kvæði í víðri merkingu.

Mér þótti vænt um það.

Fékk fín kvæði frá honum sjálfum, einkum Fyrirætlanir, 28.10.’96, flott kvæði í breiðum ljóðrænum stíl um vesturfara sem fengu aldrei neitt skip frá Húsavík og komust því hvergi. Hann spurði hvort mér þætti þetta góður ljóðrænn skáldskapur. Ég svaraði því játandi. Sjálfur hef ég ort svona kvæði sem eru einskonar afkvæmi ljóðræns prósa:

Þér hafið vafalaust komið öllu
í lag, maður sem bíður skips í
óvistum þorps á norðurströnd
landsins fyrir eitt hundrað
og þrjátíu árum – á leið til
Ríó; líf yðar ofið úr mislitum
tætlum í samfelldan glóvefnað
framtíðarinnar meðan þér biðuð en
nú taka eyður að koma í vefinn...

... skipskoman dregst
á langinn; loks gefið þér heyið
óþolnum hestum langferðamanna
á plássinu.

Á plássinu merkir á torginu. Húsvíkingar hefðu aldrei talað um bæ sinn sem pláss. Þetta er því einskonar húsvíkskt tökuorð.

Jakobína Jónasdóttir, föðuramma Kristjáns, sagði honum sögur af fólki sem kom til Húsavíkur að bíða skips til Ameríku, var búið að ráðstafa landi og búfénaði, en svo kom ekkert skip og fólkið beið og beið, en ekkert gerðist. Það átti því ekki annan kost en ílendast og gefa heyið sitt óþolnum hestum.

Það vantar fleiri svona kvæði í flóruna. Kristján hefur ort kvæði um Miðbæinn og Vesturbæinn sem hann hefur tileinkað mér og kallar Fantasía til M.J. Held það sé fullort 3.9. sl. Það heitir greinirinn og hefst svona:

Greinislaus, utan við
eignarhald tíma og rúms
stendur afræktur kofi
(fyrrum kofinn og kofi einhvers)
í sporlausum myndiheimi lands
og máls: nútíminn helber
og kyrr
meðan gróðursvið
ákveðins greinis þéttist og
dafnar í ávölum grónum hæðum
í Vesturbænum en tungan
umhverfis kólnar; hér
skýtur fortíðin rótum
hraðar og dýpra en annars-
staðar
og greinirinn? eignarmark
hlýlegri menningar: húsið við
götuna, konan,
óðar með
Garðastræti fara áhrif hans
þverrandi, annað og nýtt
tekur við nöfnin einangrast:
Aðalstræti.

Ég hef fengið þetta kvæði í dálítið annarri versjón þar sem línurnar eru styttri og fleiri. En þetta er lokagerðin.

Mér þótti þessi athugasemd um ákveðna greininn nógu merkileg til þess að svara kvæðinu með þessum hætti:

Þú talar
um ákveðin greini

að kona sé
annað en konan

að hús sé
annað en Húsið

að aðalstræti sé
annað en Aðalstræti,

þannig göngum við
með stóran staf
um Miðbæinn

en leggjum hann frá okkur
þegar við hverfum að húsinu
í aðalstræti englanna

Ætla að sýna Kristjáni þetta við gott tækifæri.

Orti einnig þessi smábrot, mér til gamans:

„Dagbækur Púskins”

Hver segir að líf okkar
sé fljót

að það sé blár
strengur Sogsins
og renni eins og tær fjallalækur
til hafs

hver segir að líf okkar
sé ekki vatn
í niðurfalli.

Fyrirheit

Ég á ekki vildarkort
í Flugleiðum
en ég á vildarkort
í samfélagi englanna
á himnum

ósköp hefur samt gengið illa
að afla sér punkta.

Og loks:

Eftir símtal við Ingó í Bangkok

Þú sagðir vinur minn
að þú hefðir lent
í umferðartöf

að þú hefðir verið að flýta þér í búð
rétt fyrir lokun
vegna þess að þú hefðir týnt
ferðatöskunni á leiðinni frá London
en öngþveitið á götunni
hefði tafið þig,
Og hver er ástæðan?
spurði ég, Fíll sagðir þú.

Svo kvöddumst við
og ég slökkti á GSM-símanum, hugsaði: Ósköp
er nú allt afstætt
í veröldinni.

Hafði í hyggju að yrkja kvæði í framhaldi af þessum línum sem leituðu á mig: Að vaxa hægt að sýndarveröld sinni... En það hefur ekki tekizt. Líklega verður sýndarveröldin áfram á sínum stað, óáreitt.

Við Hanna fengum dálitlar áhyggjur af því að Ingó hefur ekki heimt ferðatöskuna sína með ferðafatnaði og snyrtivörum eftir flugið frá Lundúnum. Samt var gott hljóð í honum og það bjargast fyrst hann er með það sem hann á að kynna á vísindaráðstefnunni í Hongkong þegar þangað kemur. Hann fer þangað á mánudag. Vonast til að hann verði þá búinn að fá töskuna. Hann fór í verzlun rétt fyrir kl. 21 að kaupa nærföt en var næstum því orðinn of seinn vegna umferðarteppu, eins og segir í kvæðinu!

Kvöldið

KK sagðist ekki vita hvað hann tæki eftir Tómas eða Hannes Pétursson ef hann gæfi út ljóðakver undir heitinu Eitt hundrað íslenzk kvæði. En hann gæti líklega ekki tekið neitt kvæði eftir Jóhannes úr Kötlum, í mesta lagi brot. Og stór spurning hvort jafngott skáld og Guðmundur Böðvarsson yrði með í slíkri bók. Hann virðist ekki skírskota til Kristjáns.  Hann sagðist ekki vera í vafa um hvaða kvæði hann tæki eftir Jóhann Hjálmarsson. Það yrði Breiðidalur. Hann hefði ekki gleymt því frá því hann las það fyrst fyrir þrjátíu, fjörutíu árum.

Breiðidalur, til Ragnheiðar

Skýin eru rifnar slæður
við tveir deplar jarðarinnar
lækur rennur gegnum hjörtun
hrafninn flýgur burt með skuggann

Ég er sammála Kristjáni um ágæti þessa litla kvæðis. Það er sterkt og áleitið.

Undir miðnætti

Hef ekki sízt verið að hugsa um ósk okkar Styrmis þess efnis að Rannsóknarlögregla ríkisins hefji opinbera rannsókn á umdeildri grein í Morgunblaðinu eftir Björn V. Ólason eða Sverri Ólafsson, en Siðanefnd Blaðamannafélagsins hefur málið til umfjöllunar vegna þess að Sverrir hefur kært okkur fyrir henni og bíður nú eftir ákvörðun Rannsóknarlögreglunnar. Bréf okkar til viðkomandi aðila eru birt í Reykjavíkurbréfi sem Styrmir skrifaði, þau skýra málið.

En af gefnu tilefni einnig skrifaði ég svohljóðandi Reykjavíkurbréf sem skýrir sig sjálft:

„Eitt helzta úrlausnarefni okkar nú um stundir er lagfæring á lögum um fiskveiðistjórnun og þá með þeim hætti að þau fullnægi réttlætishugmyndum okkar eins og ráðgert er með skýrri yfirlýsingu um að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar, enda langmikilvægasta auðlind hennar og raunar undirstaða íslenzks sjálfstæðis og þess velferðarríkis sem við viljum treysta og varðveita. Þegar lögin voru sett héldu margir að endanlegu takmarki væri náð, en það hefur ekki reynzt svo í raun. Kerfið hefur, að flestra dómi, kallað á viðskipti sem margir hafa nefnt kvótabrask, enda fráleitt að svo langt sé vikið frá grundvallaratriði laganna um eignarréttinn, að unnt hafi verið að framselja þessa sameign eins og um eign einstakra aðila hafi verið að ræða. Þannig hafa menn jafnvel getað lagt skipum og grætt á kvótasölu, þeir hafa getað selt það sem aðrir eiga, þ.e. þjóðin, veðsett það og jafnvel erft. Og svo hefur raunar virzt að þessi viðskipti séu löghelguð með dómum. Menn eru farnir að tala um kvótaeign sína eins og grundvallaratriði íslenzkrar löggjafar skipti engu máli og hægt sé að fara með auðlindina eins og hverjum og einum hentar. Það var ekki markmiðið með lögunum um fiskveiðistjórnun. Þau áttu að vísu að vera einskonar hvati þess að þeir einstaklingar sem bezt eru í stakk búnir til að stunda útgerð fengju til þess tækifæri án þess gengið væri á rétt þeirra sem auðlindina eiga samkvæmt lögum. En aðalmarkmiðið var að sjálfsögðu verndun fiskstofnanna og hefur nokkrum árangri verið náð í þeim efnum.

Skiptir réttlætið engu?

 

Útgerðarmenn hafa þurft að kaupa veiðiréttindi dýrum dómum, en þó ekki af eigendum þessa réttar, heldur aðiljum sem hafa „eignazt” kvóta vegna galla í kerfinu. En þessir aðiljar eiga ekki það sem þeir hafa verið að selja. Af þeim sökum er kvótasala siðlaus samkvæmt öllum skilningi okkar á réttlæti, þótt hún sé ekki andstæð íslenzkum lögum eins og þau blasa nú við.

Ýmsir fræðimenn í hagfræðilegum efnum hafa fjallað um kvótakerfið án þess að þetta réttlætisviðhorf hvarfli nokkurn tíma að þeim og engu líkara en sumir þeirra telji að nægilegt sé að færa þessi viðskipti til bókar til þess að þau séu boðleg siðfræði og réttlætanleg gagnvart lögum. Bókhaldið ákveði eignarréttinn!! Þá er einatt reynt að réttlæta kvótasöluna með skírskotunum og samanburði við það sem er ósambærilegt, jafnvel rjúpna- og gæsaveiðar á jörðum sem bændur hafa átt frá ómunatíð, hvað sem hver segir, enda skal landið með lögum byggt. Og lögin segja að auðlindin sé sameign þjóðarinnar. Það er kjarni málsins, umbúðalaus og án samanburðar við það sem er ósambærilegt. Því verður ekki haggað, nema með nýrri lagasetningu.

Framsalið er eitt viðkvæmasta atriðið, þegar kvótinn er til umræðu. Það kom ekki sízt í ljós í nýliðnum umræðum á Alþingi, enda sá þáttur þessa máls sem helzt hefur kallað á gagnrýni og samfélagið sættir sig sízt við. Af þeim sökum verður sú krafa æ háværari að greitt sé fyrir framsal kvóta og hann einungis viðurkenndur sem leigukvóti en geti alls ekki orðið nokkurs manns eign, einstakra aðila eða útgerða. Fyrir þessa leigu eigi að greiða eins og annan afnotarétt, t.a.m. laxveiðar, en þá að sjálfsögðu réttum eiganda, sem er samkvæmt íslenzkum lögum þjóðin sjálf. Einfaldara getur það nú ekki verið þótt sýknt og heilagt sé reynt að fela þetta grundvallaratriði laganna um kvóta og aflamark með allskyns umbúðum, jafnvel reynt að vefja ranglætið inn í „vísindalegt” hugmyndamynstur sem allt fer á skjön við meginkjarna laganna um fiskveiðistjórnun og sameignina.

Og þá einnig réttlætið.

Einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Kristján Pálsson, lýsir þessu kerfi svo í grein hér í blaðinu sl. þriðjudag, Reykjavíkurbréfi svarað: „Hvað varðar fyrsta atriðið þá er það þekkt og útgerðarmenn hafa kvartað yfir því í mín eyru, að kvótahafar selji kvótann sinn ár eftir ár án þess nokkurn tíma að þurfa sjálfir að senda eigin skip eftir þeim afla. Þeir eru sumir hverjir í annarri vinnu eða lifa í vellystingum á sólarströndum fyrir leiguna af aflahlutdeildinni sem þjóðin hefur úthlutað þeim. Það eru aðrir útgerðarmenn og sjómenn eins og t.d. á Reykjanesi sem veiða þennan kvóta og með loftfimleikum kemst kvótaeigandinn hjá því að veiða 50% kvótans annað hvert ár eins og lögin um stjórn fiskveiða gera ráð fyrir. Þetta er ólíðandi og verður að breyta með strangari ákvæðum í lögum. Annað atriðið er afleiðing af því fyrsta, þeir sem sitja á aflaheimildunum krefjast einfaldlega hæsta mögulega verðs og skiptir þá engu hvort útgerðin er í stakk búin til að mæta því verði eða ekki. Aðferðin hefur því verið sú að sjómennirnir hafa verið „neyddir” til að greiða hluta launa sinna til kvótakaupa svo þeir fái vinnu.”

Og enn:

„Hvað varðar síðasta atriðið þá er ljóst að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar heimilaði að aflahlutdeildina mætti færa sem eign útgerðar og var það gert til að mæta slæmri eiginfjárstöðu Sambandsfyrirtækja svo þau fengju úthlutun úr Steingrímssjóðunum. Erfðarétturinn var þar með tryggður við skipti á fyrirtækjum og verður ekki breytt öðruvísi en með því að kaupa upp allar aflaheimildirnar. Ekki mæli ég með slíku en vara við frekari festingu með því að heimila veðsetningu aflaheimilda. Að tryggja í stjórnarskránni eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindum hafsins er einnig nauðsynlegt svo enginn freistist til að fjarlægja sama ákvæði úr lögunum um stjórn fiskveiða.”

Eitthvað er nú farið að molna úr kvótastíflu Sjálfstæðisflokksins. Hvað skyldi hún halda lengi eins og farið er að hækka í Grímsvötnum almenningsálitsins?!

Ranglætið og réttlætið

 

Það getur varla verið tilgangur stjórnvalda á Íslandi anno 1996 að gera þessa alkunnu fyndni Íslandsklukkunnar um dönsk stjórnvöld fyrr á öldum að einkunnarorðum sínum: Vont er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti!! Meðan ranglætinu er fullnægt með þeim hætti sem gengur og gerist með kvótaframsali nú verða þessi einkunnarorð nýlendustefnunnar einskonar fleinn í þjóðarkvikunni og að því mun koma, að samfélagið rís upp gegn ranglætinu og eigendur heimta umbun fyrir afnot af eigninni.

Þetta er sá veruleiki sem við blasir. Ritstjórar Morgunblaðsins gerðu sér æ betri grein fyrir þessu eftir setningu kvótalaganna 1984 og þrátt fyrir stuðning blaðsins við meginatriði laganna um fiskveiðistjórnun urðu fyrrnefndir þættir því meira áhyggjuefni sem reynslan leiddi vankantana betur í ljós. Ritstjórn blaðsins ræddi þessi atriði á fundum sínum og að því kom að hún setti þann fyrirvara fyrir stuðningi sínum við meginatriði laganna að framsali kvóta fylgdi afnotagjald, nú kallað veiðileyfagjald, sem rynni til samfélagsins alls – og þá ekki sízt til að minna á hverjir eru eigendur auðlindarinnar. Kvótabrask væri óheimilt en afnotaréttur bundinn leigugjaldi og væru menn þá samkvæmt siðlegum viðskiptaháttum í fullum rétti, ef þeir vildu framselja þessi áunnu réttindi sem þeir hefðu greitt fyrir og greiðslan fallið til hinna raunverulegu eigenda.

Um þetta var full samstaða með ritstjórum blaðsins allt frá því blaðið tók þessa afstöðu til veiðileyfagjalds og fór að boða réttlætishugtakið á 9. áratugnum. En þá var m.a. sagt hér í blaðinu; t.a.m. í helgispjalli: „Þá kæmi það sízt af öllu á óvart, þegar fiskimiðin verða komin á hendur fárra útvaldra sem sleppa engu fyrr en í fulla hnefana, þótt almenningi yrði nákvæmlega sama hvort miðin yrðu gróttakvörn þeirra eða útlendinga. Og þá fyrst sættust menn á að EB-mönnum yrði leyft að nýta þessa friðhelgu auðlind. Það yrði eftir öðru að fólk sætti sig fremur við útlent auðvald en innlent.

Ranglæti kallar aldrei á réttlæti, heldur röng viðbrög. Og meira ranglæti. Ábyrgð kvótamanna gæti því orðið meiri en þeir væru menn til að axla. Réttlæti þeirra gæti orðið af svipuðum toga og lýst er í Íslandsklukkunni.”

Og ennfremur: „...aðrir en eigendur eiga ekki að geta ráðskazt með auðlindina eins og nú er... Aðalatriðið er ekki, hvernig veitt er, heldur hvort réttlæti sé fullnægt... Eignarrétturinn er friðhelgur og það brjótast engir inn í eigur annarra nema forhertir sósíalistar sem telja ríkisvaldið einskonar heilagan anda eins og Hegel.. Ríkið getur ekki freistað manna til yfirgangs og lögverndað ráðstöfunarrétt fárra aðila yfir eign okkar allra. Það jaðrar við að svipta fólk þegnrétti... Og ekkert er eðlilegra en byggðirnar taki höndum saman og eignist veiðileyfi með eðlilegum hætti og án haturs og illinda. Við þurfum öðru fremur á sátt og samstarfi að halda. Kvótakerfið hefur haft illdeilur í för með sér. Byggðarlögin eru full af tortryggni, en eðlilegt væri að þeim gæfist tækifæri til að byggja þar upp blómlega búsetukjarna sem arðvænlegt er. Það væri í anda sjálfstæðisstefnunnar... Kvótakerfið er eins og marxismi, óréttlátt í eðli sínu, þótt tilgangurinn sé kannski ekki svo slæmur. En hann er farinn að helga meðalið. Kvótakerfið blæs á grundvallarhugmynd sjálfstæðisstefnunnar um eign handa öllum. Og óskiljanlegt hvaðan svokölluðum vinstri sinnum í öðrum flokkum kemur sá hugsjónahiti að lífsnauðsynlegt sé að mynda eign handa fáum, þvert ofan í landslög. Þegar við fengum 200 mílna fiskveiðilögsögu 1976, með sameiginlegu átaki allra Íslendinga, var aukið við eign hvers og eins, en ekki fárra útvaldra... Séu fiskimiðin 400­500 milljarða virði eins og sumir ætla, væri hlutur hvers og eins í auðlindinni ekki undir 2 milljónum króna og síhækkandi fiskverð eykur verðgildi hennar stöðugt...”

Og ennfremur: „En nú á að snúa öllu við. Nú á að leggja fiskimiðin, sameiginlega eign íslenzku þjóðarinnar samkvæmt lögum, útgjaldalaust í hendur örfárra manna sem hafa haft skip á hendinni. En þjóðin er þessu andstæð eins og könnun Félagsvísindastofnunar og Gallup hafa sýnt svo eftirminnilega. Hún leggur áherzlu á sameign (95,2%) og vill fá greitt í sameiginlegan sjóð fyrir afnot af fiskimiðunum (66,8%). Fólkið, hvar í flokki sem er, vill einnig tryggja byggðakvóta þar sem hagkvæmt er að reka útgerð og sjálfsagt að stuðla að því. En athyglisverðast er þó að fólk hafnar þeim siðferðisbresti að útgerðarmenn geti selt fisk sem þeir eiga ekki öðrum fremur, eða þann veiðikvóta sem þeim hefur verið úthlutaður án endurgjalds (allt að 86,9%), enda grundvallaratriði þessa máls að eignarréttur sé virtur eins og lög gera ráð fyrir. Veiðitæknileg atriði leysa menn í samræmi við reynslu og hagkvæmni og þá væntanlega eins og siðmenntað fólk en ekki villimenn; og án þess að rugla saman óskyldum málum, t.a.m. laxveiði í ám sem bændur eiga og hafa átt í þúsund ár, og veiðum í sameiginlegri auðlind á hafinu... Kvótakerfið hefur ekki ýtt undir auðsöfnun almennings, heldur eignatilfærslu til fárra, þótt sístækkandi hlutafélög eins og Grandi auki bjartsýni. Marxistar sögðu alltaf, og segja víst enn, að kenningin sé ágæt en framkvæmdin röng. Það segja sumir kvótamenn einnig. En þeir verða þá að lagfæra kerfið með sannfærandi hætti... Fiskimiðin eru eins og aðrar sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Ein slík auðlind er orkan. Þess vegna er það heldur fáránlegt þegar eigendurnir sitja ekki allir við sama borð og greiða jafnhátt orkuverð hvar sem þeir búa. Þannig eiga menn einnig sama rétt til fiskimiðanna hvað sem búsetu líður, og auðvitað ættu allir að greiða sama verð fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar... Fátt er íhugunarverðara nú um stundir en sú tilhneiging að færa mikið vald á fárra hendur og safna auði undir fámennisstjórnir. Það varð okkur dýrkeypt reynsla á sturlungaöld þegar fé og mikil völd féllu fáum en fyrirferðarmiklum og þó umfram allt óvægnum höfðingjum í skaut sem glutruðu niður frelsinu í hendur Noregskonungi þegar metnaður brazt í milli þeirra... Líklega er hægt að láta kólumbusaregg kvótakerfisins standa upp á endann og gera áætlun um réttláta framtíðarskipan fiskimiðanna, svo að útgerðarfélög eflist af áhuga almennings, þ.e. eigendanna. Við lagfæringu þarf að taka tillit til ólaganna undanfarið og veita útgerðinni nægilegan aðlögunartíma til að sætta sig við sanngjarnan kostnað af nýtingu miðanna. En afnotagjöld af þeim eiga að vera skapleg og í samræmi við getu og rekstur fyrirtækjanna. Þó er höfuðatriðið að miðin séu ekki bókfærð eign eins né neins eins og skattayfirvöld hafa krafizt, heldur í umsjón þeirra sem eigendurnir treysta bezt fyrir góðri nýtingu og hagkvæmum rekstri. Það verður farsælasta lausnin... En frumkvæðið að þjóðarsátt um auðlindina verður að koma frá þorgeirum ljósvetningagoðum þessa mikilvægasta atvinnurekstrar landsmanna, enda er það ekki í stíl arftaka og erfingja athafnaskáldanna að gera tilkall til þess sem aðrir eiga.”

Afstaða Morgunblaðsins

 

Reynt hefur verið að halda fram þeirri firru – og nú síðast í grein eftir fyrrum formann Alþýðubandalagsins, Svavar Gestsson – að Jón Baldvin Hannibalsson sé einskonar höfundur fiskveiðistefnu Morgunblaðsins – og þá helzt í samstarfi eða í samráði við annan ritstjóra blaðsins!! Slík firra er að vísu ekki svaraverð en þó ekki úr vegi að geta þess hér, að Svavar hefur ekki verið einn um þennan áróður, heldur hefur verið gripið til hans á öðrum vettvangi einnig. „Fyrirtækja-sósíalistinn”, eins og Jakob F. Ásgeirsson komst að orði í ágætri grein hér í blaðinu nýlega, í formannsstóli LÍÚ, Kristján Ragnarsson, hefur ekki sízt látið hvína í tálknunum án þess að ritstjórar Morgunblaðsins kippi sér upp við það, enda á engan hátt ámælisvert að formenn í félögum reyni að ávinna sér traust samfélaga sinna og vinnuveitenda og vinna þannig fyrir kaupinu sínu.”

Morgunblaðið sækir ekki stefnu sína, hvorki í þessu máli né öðrum, til Jóns Baldvins Hannibalssonar né annarra forystumanna á vettvangi stjórnmálanna. Stefna blaðsins er mörkuð af ritstjórum þess í sameiningu – og um hana ríkir festa og eindrægni. Morgunblaðið hefur aldrei þurft að sækja réttlætiskennd sína til stjórnmálaforingja sem eiga allt sitt undir atkvæðasveiflum. En almenningsálitið er valtastur vina eins og stjórnmálamenn fá oft að finna fyrir. Réttlætið sækir blað allra landsmanna í eigin styrk og þá samstöðu sem einkennir vinnubrögð á ritstjórn þess.

Lýðræði og réttlæti

 

Nú þegar alþjóðakommúnisminn hefur hrunið og lýðræðisríkjum stafar ekki sérstök hætta af honum er það eitt helzta hlutverk okkar að rækta lýðræðishefðina. Morgunblaðið hefur áfram haft það í fyrirrúmi og svo mun ávallt verða. Réttindi þegnanna eru ein helzta forsenda þessarar hefðar, réttur þeirra og velferð. Og þá ekki sízt sá þáttur hefðarinnar sem gerir kröfur til þess að hver og einn njóti þess réttlætis sem þessi hefð býður uppá. Í þessu réttlæti felst m.a. jafn réttur þegnanna til auðlindarinnar. Það er andstætt lögum að einhverjir fáir útvaldir geti skammtað sjálfum sér réttlæti umfram aðra. Einn helzti höfundur kvótastefnunnar, Halldór Ásgrímsson, virðist nú vera farinn að átta sig á því. Fyrir lögum eru allir jafnir og jafn réttháir. Af þeim sökum hlýtur það að vera skylda Morgunblaðsins að berjast fyrir þessu réttlæti, hvort sem er á sjó eða landi. Raunar færi bezt á því, að þessu ágreiningsmáli yrði skotið til þjóðarinnar sjálfrar. Hún tæki ákvörðun um fyrirkomulag þessara mála í þjóðaratkvæðagreiðslu. Takmörkuð gæði eru eftirsóknarverð verðmæti. Og auðsöfnun í skjóli ranglætis getur aldrei orðið undirstaða þeirrar framtíðar sem við óskum þjóðinni til handa. Enginn mun líða til lengdar að ranglæti komi í réttlætis stað. Það er ekki sósíalismi, heldur grundvallarþáttur þeirrar sjálfstæðisstefnu sem Morgunblaðið hefur ævinlega boðað, bæði í baráttunni við heimskommúnismann og ekki síður nú eftir að hann hefur glatað ógnarmætti sínum.

10. nóvember, sunnudagur

Kynnti mér ritgerð eftir Timothy Ferris um alheiminn. Hugurinn stefnir á þessa ráðgátu sem Einstein lýsir svo: Það sem er óskiljanlegt við alheiminn er það að hann getur verið skiljanlegur(!) Við höfum fært þekkingu okkar út af þessari öld um milljónir ljósára og ávallt rekizt á samhljóminn eða samræmið sem Keppler lagði svo ríka áherzlu á í leit sinni að sporbaugsferli himintunglanna. Keppler er merkilegur maður. Við sáum fæðingarbæ hans í Svartaskógi þegar við vorum þar á ferð fyrir mörgum árum. Þar er myndastytta af honum á miðju torginu. Hann skrifaði víst geimferðaskáldsögu sem gerist að hluta á Íslandi, að mér skilst.

Þekking okkar hefur stóraukizt en þó höfum við einkum lært í þessari þekkingarleit hvað við vitum lítið.

Robert Frost sagði að fegurð metafóra væri fólgin í því hvað þau væru ófullkomin. Fegurð alheimsins er fólgin í því hvað hann er fullkominn.

Ætli svartholin eigi eftir að sýna okkur og sanna að okkar veruleiki er einungis ranghverfan á tilverunni, það skyldi þó ekki vera.

Kvöldið

Mér blöskrar hvernig að okkur er ráðizt af sjálfstæðisforystunni í umræðum um kvótann. Af þeim sökum skrifaði ég fyrrnefnt Reykjavíkurbréf um málið. Kristján Ragnnarsson var ekki að tala við fólkið í landinu þegar hann flutti ræðu sína á þingi LÍÚ, eða sægreifana, heldur eigendur Morgunblaðsins, stjórn Árvakurs. Hann var að gera ritstjórn blaðsins tortryggilega í augum þeirra með því að tala um sósíalismann á blaðinu. Hann var að sá tortryggni. En það sæði fellur í grýttan jarðveg. Eigendur blaðsins vita betur og ég hef orðið þess mjög var að mönnum hefur þótt Kristján fara offari.

 

Hef verið að hlusta á spólu um Kipling. Ljóð hans If var valið vinsælasta ljóðið í Bretlandi á ljóðlistardaginn ‘95. Hef lesið ýmislegt eftir hann. Kvæðin eru blátt áfram og skemmtileg, þau líkjast einna helzt grófum söngvísum. Hélt að Kipling væri fágaðri. Hann var heimsvaldasinni en fyrirleit brezka stjórnmálamenn. Taldi víst að þeir væru að svíkja heimsveldið.
Gleymi aldrei eftirvæntingu okkar þegar við fórum í Tjarnarbíó, nýopnað á sínum tíma, að sjá Mówglí. Ekkert barn getur upplifað ævintýrið sterkar en við gerðum þá. Fengum miða vegna þess að Greipar dyravörður leigði í kjallaranum hjá Ágústi Elíassyni, annars alltaf uppselt.

Undir miðnætti

Hef verið að hugsa um þessi atriði eftir að ég hlustaði á fyrirlestur Campbells um gyðjur:

Oannes var vatnaguð í Babýlon milli 1000 og 2000 f.Kr., en breytist í Jóhannes í Biblíunni.

Maddonnan með barnið er til í öðrum trúarbrögðum en kristni, til að mynda í Afríku. Þessi maddonnutrú var vinsæl í Alexandríu áður en kristnin breiddist þar út.

Svín eru mikilvæg í dýrkun eins og Barði Guðmundsson hefur bent á; sbr. Orestes og heimkomu Odysseifs.

Tunglnautið hverfur til sólar, eða sól étur tungl; sbr. ásatrú.

Sagan um Helenu í Illionskviðu er ævintýrið um það hver fær ljóskuna!!

Frá því Odysseifur er í landi lótusætanna og þar til hann vaknar á strönd Íþöku er ferð hans draumur, þeir eru í draumalandi. Sem sagt, gott hráefni í frásagnarljóð(!)

Hvaðan skyldi trojuhesturinn vera kominn?

Síðast talaði ég við Einar Pálsson í gamla kirkjugarðinum í fyrrasumar. Það var í góðu og fallegu veðri. Hann gekk inn í garðinn og við tókum tal saman. það var annaðhvort laugardagur eða sunnudagur. Fuglar fluttu söng trjánna til himins og Einar gekk að leiði foreldra sinna. Skyldi hann heyra fuglasönginn þar sem hann er nú.

Um nóttina

Hef lokið við Dangerous Liaisons eftir de Laclos. Það er mögnuð bréfsaga og mér er nær að halda að hún sé fyrirmynd Turgenevs í frægri smásögu sem ég las einhvern tíma á íslenzku en man ekki hver þýddi. Ég sé í ensk/íslenzkri orðabók að liaison merkir samband; kynferðissamband karls og konu utan hjónabands. Um það fjallar þessi saga. Og ástina. Og ástríðuna. Og svikin. Og tortíminguna. Þetta er mögnuð saga, einstaklega vel skrifuð með fínu andrúmi og óvæntum lýsingum á sálarlífi aðalsins á þessum tíma. Og öllum tímum! Valmont er aðalpersónan, ástríðufullur en að sumu leyti geðþekkur flagari sem segir að ástin ein geti veitt hamingju. Ungur maður, Danceny, er eini karlmaðurinn á næstu grösum við hann, einnig heldur geðþekkur en reynir á þolrifin í Valmont og undir lokin heyja þeir einvígi. Valmont deyr hetjudauða.

Aðalsfrúin, Merteuil, er hreyfiafl sögunnar, fyrrum ástkona Valmonts, og hefur yndi af svikum svikanna vegna. Hún stjórnar ferðinni, hún er þau miskunnarlegu örlög sem leiða til glötunar, en samkvæmt þekktri vísu Guðmundar Andréssonar eru örlög eitt, en forlög annað. Munurinn á Merteuil og forlögunum er sá, að hún er af holdi og blóði og fellur einnig í ógæfu undir lokin. Hún fær bólusótt sem afskræmir andlit hennar og kostar hana annað augað. Sál hennar er í andlitinu, segir undir lok sögunnar. Helzta fórnardýr Valmonts er Tourvel sem fer undir lokin í klaustur og deyr þar. Þegar hún sér að hverju stefnir segir hún, Þú ert höfundur synda minna, hvaðan hefur þú fengið heimild til að refsa þeim? Cècile de Volanges, sem Danceny mundi kalla elskuna sína ef hann væri í sporum Þórbergs, verður annað fórnardýr Valmonts áður en Danceny bregzt henni. Rosemonde er eiginlega eina venjulega manneskjan í þessu ástardrama og hún segir eftirminnilegustu setningu sögunnar:
Karlmaður nýtur þeirrar ástar sem hann fær, konan þeirrar ástar sem hún veitir.

Laclos er einskonar ritstjóri sögunnar og gefur í skyn að hann hafi verið beðinn að setja saman þessa sögu úr bréfum frá persónunum, en slík listbrögð voru ekki óalgeng í minningasögum 18. aldar.

Það er rétt sem Valmont segir í bréfi til Danceny að persónurnar í sögunni njóta einungis hamingjunnar á þeim andartökum sem þær njóta ástarinnar. Merteuil segir líka í einhverju bréfinu að hún hafi einungis verið hamingjusöm á meðan ástarsamband þeirra Valmonts varði. Samt fylgir ástinni ekkert annað en ógæfa. Hún leiðir til svika og tortímingar, hvort sem menn eiga það skilið eða ekki. Það á víst að vera boðskapur sögunnar. Móðir Cècile segir á einum stað: Af öllu þessu sé ég hvernig hinum illu er refsað en ég sé enga huggun í því fyrir hin ógæfusömu fórnardýr. Og í raun og veru er „boðskapur” sögunnar sá að menn gjalda fyrir ást sína og ástríður.
Ógæfa fylgir unaði.

Ég velti því fyrir mér hvort það sé einber tilviljun að ég hef verið að lesa þessar svokölluðu dagbækur Púshkins, eða Játningar hans, eins og bókin heitir í þýðingu Súsönnu Svavarsdóttur. Þegar öllu klámi sleppir eru athyglisverðir kaflar í þessu riti sem gætu vísað á skáldið; hugleiðingar um hugsanir og athafnir, afbrýðissemi; dauðann. Og ég fór að bera saman líf Púshkins eins og því er lýst í þessum svokölluðu játningum hans og reynslu persónanna í Háskalegu sambandi. Það er engu líkara en líf skáldsins hafi fæðzt af þessari sögu og á ég þá ekki við eins og því er lýst í játningunum heldur eins og það var í raun og veru; umbúðalaust. Hann var haldinn þessari sömu ástríðu og Valmont og hún leiddi hann í glötun, líf hans endaði með einvígi. Chevalier Danceny er Dante í lífi Púshkins. Konurnar í umhverfi beggja réðu ferðinni. Þær voru togstreitan og tortímingin. Dante var rekinn úr Rússlandi og bjó ásamt konu sinni, í Frakklandi, til dauðadags. Púshkin særðist til ólífis í einvíginu 27. janúar 1837; ungur að árum eins og Valmont.

11. nóvember, mánudagur

Horfðum á brezka sjónvarpsmynd í gærkveldi, Kóríólanus, eftir Shakespeare. Hef aldrei séð þetta leikrit fyrr. Á margan hátt mjög athyglisvert og í nánari tengslum við grísku harmleikina en önnur leikrit Shakespeares. Mikilvægur hlutur kvennanna minnir einkum á grísku harmleikina. Þetta verk hefði getað verið eftir Sófókles eða Evrípídes. Merkilegt hvernig stóru skáldin fleyta kerlingar á sama vatninu.

Í leikritum Shakespeares er mikið af setningum sem geta staðið einar sér eins og hvert annað ljóð.

Kóríólanus segir:
Eyru mín standast betur bænir þínar
en borghlið ykkar afl mitt.
(5.2.)

Og nokkru síðar segir hann:
Einn koss langur sem útlegð
sætur sem mín hefnd!
(5.3.)

Og enn fremur:

Þá skyldu steinar strandarinnar fljúga
til stjarnanna!
(5.3.)

Og loks segir Vólúmnía, móðir hans, í þessum sama þætti:

Og hér er lítið ágrip af þér sjálfum,
sem kynni, þegar tímans lestri er lokið,
að líkjast þér í öllu

Þessar línur fjalla um son Kóríólanusar.

Í þriðja þætti, öðru atriði, segir Kóríólanus, þegar móðir hans, eiginkona og vinir reyna að leiða honum fyrir sjónir að hann eigi að sættast við lýðfulltrúana í Róm, en það er andstætt skaplyndi hans eins og síðar kemur í ljós og hann vill ekki vera „hið prúða tungutak við þessa böðla,” svo vitnað sé í Antoníus í Júlíusi Sesari:

Vík brott, mín lund! nú skal mitt eðli atað
umrenningsgeði hverfast heróp mitt
sem hljómaði við bumbu í flautu-væl
eins og rómgeldings, eða meyjar rödd
sem svæfir krakka, blendin bros slá tjöldum
á vanga mér, og drengja-tárum döggvast
sjónspeglar mínir...

Þannig yrði hann í augum sjálfs sín ef hann talaði upp í eyrun á lýðnum.

Stjórnmál brjóta einatt niður þá sjálfsvirðingu sem Kóríólanus reynir að vernda með sjálfum sér.

 

17. nóvember, sunnudagur

Hef enn verið að gramsa í gömlum pappírum og rakst á grein sem ég hafði skrifað um Ásmund Sveinsson, auk nokkurra athugasemda sem ég held að séu ekki í Ásmundarbókinni. Í grein þessari segi ég m.a. að Ásmundur Sveinsson hafi verið einn af brautryðjendum íslenzkrar myndlistar, hann hafi verið fæddur á Hvalsstöðum í Dalasýslu „ekki fjarri þeim stað í vesturhluta Íslands þar sem ýmsir telja að Leifur heppni hafi verið borinn og barnfæddur”.
Ásmundur hafi numið ný lönd eins og Leifur og opnað Íslendingum sýn til nýrra áður ókunnra átta. Það er fjallað um líf hans og störf og vitnað í grein eftir Laxness sem hann hefur skrifað á ensku. Tilvitnunin er sem sagt óþýdd.
Ég reikna með því að þessi grein hafi verið ætluð útlendingum en man ekki eftir hvar hún hefur birzt; líklega óbirt.
Og þó!
Í lokin segir m.a.:
„Vonandi gefur þessi bók einhverja hugmynd um afdaladrenginn íslenzka sem fór á hugmyndafluginu ekki ómenntaðri ferðir en þær, sem sveitungi hans, Leifur heppni, fór á skipum sínum. Talað hefur verið um „skip hlaðin draumum”. Skip Ásmundar Sveinssonar hafa auðvitað verið hlaðin draumum en þau hafa ávallt fyrir tilverknað mikillar listar siglt inn í nýjan og áþreifanlegan veruleika sem að vísu hefur oft verið ævintýri líkastur eins og lífið sjálft.”

En sem sagt, margt af því sem maður hefur sett saman er týnt úr huganum og tröllum gefið. Ég man ekki einu sinni nákvæmlega eftir öllum þeim bókum sem ég hef skrifað eða skrifað í. Þurfti þó að finna helztu ritin um daginn þegar við Styrmir fengum bókaskáp í fundaherbergið okkar en það var ákveðið að bækur allra ritstjóra Morgunblaðsins skyldu prýða herbergið. Ég fór á stúfana og held ég hafi fundið flestar mínar bækur svo að unnt sé að koma þeim þarna fyrir.

Ásmundi Sveinssyni fannst hreyfingin gera fólk fallegt. Sá sem nennir ekki að hreyfa sig, er latur og flatmagar, hann er ljótur. Maður sem berst við að koma bátnum sínum í naust er fallegur. Fegurðardrottning sem nennir ekki að hreyfa sig er ljót!

Móðurástin varð honum hvati til listsköpunar. Frummóðirin í járni og reyniviðarbút á að draga fram frumstæða eiginleika móðurástarinnar. Allt kallar á efni, sagði Ásmundur. Og allt varð Ásmundi að yrkisefni, hann notaði margvíslegt efni í list sinni. Vinur hans gaf honum reyniviðarbútinn þegar hann var að byggja og Ásmundur breytti honum í Frummóðurina. Hárið úr grænu járni, það er barninu skjól.

Aðalsmerki móðurástarinnar er verndin og barnið vex af móðurinni í myndinni. Það er Kristur af hennar meiði. Í Móðurást er búið að skjóta annað brjóstið af konunni og einbrjósta reynir hún að vernda barnið sitt.
Guðsmóðurhugmynd Ásmundar, hefur verið sagt.

Þegar við töluðum um ástina í myndum Ásmundar sagði hann,
Ég hugsa ekki í hormónum, ég hugsa í formum. Ég vil að þau tali saman. En hann bætti við,
Ekkert er heilbrigðara en ást til viðhalds lífinu.

Það er fjall í Vatnsberanum, einskonar verndari. Hann á rætur að rekja til gamalla minninga um vinnulúið fólk sem fylgdi Ásmundi alla tíð. Hetjuskapur þess var honum áleitinn innblástur, hann talaði um tröllslegar hetjur, þegar hann minntist á Vatnsberann og Járnsmiðinn. Það var úr hversdagsleikanum sem verðmætin komu.
Ég man eftir nokkrum vinnukonum sem ruku út í bylinn, sagði Ásmundur, og komu aftur með kærkomið vatn í skjólu, sjálfar gaddfreðnar.
Þetta fólk hefur aldrei yfirgefið mig.

Alltaf voru þessar konur einskonar verndarar í huga Ásmundar. Ekki sízt verndarar menningar, sbr. þjóðsögur Sigfúsar þjóðsagnasafnara, en hann skrifaði niður merkar þjóðsögur, flestar eftir konum sem skrifuðu aldrei neitt sjálfar en sögðu forkunnarvel frá. Það voru þær sem ólu upp aldamótakynslóðina. Ein þessara kvenna sem vernduðu menninguna og mótuðu nýja kynslóð var móðir Ásmundar Sveinssonar.

Mér verður hugsað til þessara mæðra nú. Hvar skyldu þær vera eins og margir unglingar tala bjagaða íslenzku.

 

XXXX
Það var ekki að ófyrirsynju að Dagur íslenzkunnar var í gær. Þar var margt á dagskrá, sumt bjálfalegt. Annaðhvort er ég orðinn utangátta eða smekkvísin hefur verið gerð útlæg úr landinu, nema hvort tveggja sé! Og svo þurfa menn alltaf að vera tróna með einhver verðlaun. Vilborg Dagbjartsdóttir skáldkona fékk Jónasar Hallgrímssonar-verðlaunin fyrir að standa vörð um íslenzka tungu. Það var svo sem ágætt og Vilborg á allt það bezta skilið og enginn vafi á því að hún hefur reynt að rækta tunguna okkar af fremsta megni, bæði sem skáld og kennari. Samt koma svona verðlaun yfir mann eins og hland úr fötu og allur þessi fyrirgangur verður ankannalegur.

Ég minntist þessa dags í Morgunblaðinu með því að endurbirta ritgerð mína um rétt tungunnar og Jónas Hallgrímsson sem ég lagði drög að í fyrirlestri fyrir stúdenta á sínum tíma, en skrifaði svo inn í Helgispjallið. Valdi auk þess úr nokkrum greinum sem ég hef skrifað í Morgunblaðið og birti þetta saman í Lesbók-Menningarblaði í tilefni dagsins. Það sem ég valdi úr gömlum greinum og Reykjavíkurbréfum sem ég skrifaði á sínum tíma átti að mínu viti ágætlega við gærdaginn en var þó einkum til að minna á að allir dagar eru íslenzkudagar Morgunblaðsins. Við þurfum ekki að fara í neinar stellingar til að iðka íslenzka tungu. Hún er áskorun hvern dag og hún er því miður einnig alltof oft vitnisburður um að okkur verður fótaskortur á tungunni. En það sem ég valdi er svohljóðandi, auk kaflans um Jón Sigurðsson og íslenzka tungu í Helgispjalli:

Á degi íslenzkunnar
Viðfangsefni allra daga

Morgunblaðið hefur margoft brýnt fyrir lesendum sínum að standa vörð um móðurmálið og sjálft leitast blaðið við að ganga á undan með góðu fordæmi, ekki aðeins á degi íslenzkunnar, heldur alla daga. Hvatningargreinar um þetta efni hafa margoft birzt í blaðinu. Hér eru dæmi frá tveimur árum.
Íslenzk tunga hefur verið til umræðu að undanförnu. Margir bera ugg í brjósti þegar vikið er að framtíð hennar. Erlent fjölmiðlaefni þrýstir sér inn í stofu flestra Íslendinga, nánast viðstöðulaust, og stór spurning hvort við stöndumst þessa ásókn til lengdar. Í þessum efnum sem öðrum er sókn bezta vörnin. Þess vegna hafa umræður þessar verið af hinu góða og þá ekki sízt ráðstefna Sverris Hermannssonar menntamálaráðherra um íslenzka tungu á fullveldisdaginn. Hún var mikilvægt framlag í þeirri gagnsókn sem nú er hafin fyrir varðveizlu tungunnar. Ráðstefnan var jafn brýn og hún var ánægjuleg. Málflutningur unga fólksins vakti ekki sízt gleði og vonir. Hann var sérvizkulaus. Nú kemur til kasta þings og fjárveitingavalds að láta verkin tala. Sú hugmynd er allrar íhugunar verð að helga 1. des. ár hvert íslenzkri tungu og málsmenningarhefð okkar. Þessi vakning verður að ná inní þingsalina. Og til ríkisfjölmiðlanna. Og þá ekki sízt skólanna. Það mætti hefja framsagnar- og framburðarkennslu í yngri árgöngum en gert er ráð fyrir í ályktunum ráðstefnunnar. Það þarf að hlúa að rótunum í því ræktunarstarfi sem nú verður hafizt handa um.

Menntamálaráðherra hefur áður skorið upp herör í þingsölum og látið til sín taka. Þannig hefur hann síður en svo einskorðað málflutning sinn við deilurnar um setuna þótt setuáhugi hans hafi orðið hvað kunnastur. Ýmsir mæltu setunni bót en hún fór fyrir brjóstið á öðrum. En setan er aukaatriði. Varðveizla íslenzkrar tungu skiptir aftur á móti sköpum. Með ráðstefnunni á fullveldisdaginn hefur menntamálaráðherra lagt á það áherzlu og tekið forystu um viðnámið. Hann er vel í stakk búinn, svo gott tungutak sem hann hefur sjálfur úr vestfirzku æskuumhverfi sínu.

Það er rétt hjá menntamálaráðherra að nauðsynlegast er nú að efla þekkingu Íslendinga á bókmenntum sínum, fornum og nýjum, því að þær eiga undir högg að sækja í sterkasta fjölmiðlinum, sjónvarpinu. Þar eiga þær að vera hátt á hrygginn reistar, ekki síður en í öllum skólum landsins. Þá er framsögnin, skýr framburður, eitt mikilvægasta atriðið, þótt hitt skipti engu hvort menn nota norðlenzkan, vestfirzkan, sunnlenzkan eða skaftfellskan framburð. Það væri út í hött að krefjast þess að einungis væri notaður einhver samræmdur framburður á opinberum vettvangi. Slíkt leiddi einungis til andúðar og óánægju, auk þess sem fjölbreytni í tungutaki er jafn skemmtilegur og mikilvægur þáttur í þjóðlífinu og hvað annað. Litrík fjölbreytni er okkur eiginleg því að hún er eitt helzta einkenni náttúrunnar og við erum hluti af henni. En það á að kenna mönnum réttar áherzlur í töluðu máli, hvort sem þeir tala norðlenzku eða sunnlenzku. Sú tilhneiging, ekki sízt innan þingsala því miður, að nota rangar og útlenzkulegar áherzlur á íslenzk orð gæti reynzt okkur sá skaðvaldur sem úrslitum réði. Það er því nauðsynlegt fyrir Íslendinga að vita að aðaláherzla á önnur atkvæði en hið fyrsta í hverju orði er röng. Slíkt tungutak stafar af útlendum áhrifum og gæti orðið til þess að kippa stoðunum undan málkerfi okkar. Á þetta eiga allir kennarar að leggja áherslu, ekki sízt þeir sem kenna erlend tungumál. Það er mikilvægasti þáttur tungumálakennslu að kunna íslenzku svo að vel fari. Því eiga tungumálakennarar að leggja áherzlu á móðurmálið jafnframt því sem þeir kenna sín fög.

Tungumálakennsla á ekki sízt að miða að því að menn hugsi betur á eigin máli og komi þessari hugsun skýrt og skorinort á íslenzka tungu. Við blaðamenn erum í glerhúsi, hvað þetta snertir. Íslenzk setningaskipan er sífelldlega að bögglast fyrir brjóstinu á fjölmiðlafólki. Það snarar alltof oft erlendum texta á einhvers konar íslenzkt hrognamál sem er fremur enska eða danska en ástkæra ylhýra málið. Lesendur eiga að vera kröfuharðir við okkur blaðamenn. Við eigum að hafa hitann í haldinu. Og það á að gagnrýna okkur harðlega þegar við vinnum úr erlendum heimildum með þeim hætti að til skammar er. Það vill þó alltof oft brenna við. Og það gerist raunar ekkert síður þegar unnið er með íslenzkan texta frá grunni og engum þýðingum er til að dreifa. Íslenzk tunga var höfuðprýði Bessastaðaskóla. Þar var hún kennd með eftirminnilegum árangri í öllum kennslustundum, hvort sem um var að ræða grísku- eða latínutíma, eða þá kennslu í einhverjum öðrum fögum. Alltaf var verið að kenna móðurmálið og áherzla á það lögð, enda voru kennarar Bessastaðaskóla mikilhæfir sérfræðingar í íslenzkri tungu og menningu.

Kennarar nú um stundir ættu að tileinka sér andann í Bessastaðaskóla. Þar var íslenzk tunga í tízku. Oft var þörf en nú er nauðsyn að íslenzk tunga komizt aftur í tízku. Það kom í veg fyrir að við glötuðum íslenzkunni á síðustu öld að danskan varð ekki tízkufyrirbrigði, jafnvel ekki í Reykjavík sem var þó harla maðksmogin að þessu leyti. Því miður eru flestir slagarar á ensku. Og þeir eru í tízku. Þó heyrast dægurlög með sæmilegum íslenzkum textum, sem betur fer. En þau eiga því miður undir högg að sækja. Allt skal koma úr enska blýmótinu. Vonandi að þessi hrina gangi einhvern tíma yfir eins og aðrar náttúruhamfarir.

1985

Íslenzkan hefur tekið breytingum eins og önnur tungumál. Hjá því verður bókstaflega ekki komizt. Hún er að breytast og á eftir að breytast. Menningarleg framtíð okkar veltur á því, hvernig hún breytist og hve mikið. Þannig hefur einnig íslenzk tunga tekið breytingum á vörum fólksins og meiri en margur hyggur. Það er ekki okkar hlutverk að sporna við þróun málsins, heldur því að það verði málfræðilegum byltingum að bráð. Og margt ber að varast. Breytingarnar gerast oftast hægfara og við tökum ekki alltaf eftir þeim, hugsum ekki um þær í daglegum önnum. En þeir sem komu í skrifstofu ríkisféhirðis fyrir jólin og hlustuðu á tal þeirra, sem þangað áttu erindi, gátu látið sér detta í hug að æ-ið væri að hverfa úr málinu og verða a-inu að bráð: Sumir höfðu verið hakkaðir, aðrir höfðu verið lakkaðir.

1984

Margt fróðlegt og nýtilegt hefur verið sagt og skrifað um íslenzkt mál, til að mynda í útvarpi, og má nefna Árna Böðvarsson meðal annarra, skínandi kennara eins og bréfritari kynntist í háskóla, enda hefur hann nú góðu heilli verið gerður að íslenzkufulltrúa þessa áhrifamikla fjölmiðils. Og ekki verður lögð nægileg áherzla á, hve þættir Orðabókarmanna hafa verið mikilvægir og fróðlegir, enda hafa erindi þeirra verið hvatning til Íslendinga að rækta garðinn sinn á vályndum tímum.

Hér í blaðinu hafa verið miklar umræður um íslenzka tungu ­ og er það vel. Gísli Jónsson, menntaskólakennari, sá frjói, áhugasami og gagnmmenntaði norrænufræðingur, hefur ekki látið deigan síga, heldur haft forystu um málrækt með þeim hætti, að vart getur liðið langur tími, þar til þættir hans verða gefnir út í bók.

1984

Við Íslendingar þurfum að gæta okkar vel og slá skjaldborg um menningu okkar og tungu, nú þegar sú öld gengur í garð að erlend áhrif flæða úr gervihnöttum yfir stórar þjóðir sem litlar. Vonandi lifum við byltinguna af. En það verður að sjálfsögðu ekki undir öðrum komið en okkur sjálfum. Höfum við þrek til þess að vinna svo úr fortíðini, að við stöndumst framtíðina? Vonandi verður menning íslenzkrar fortíðar leiðarljós okkar inn í framtíðina, svo að við slitnum ekki úr tengslum við rætur okkar, þá er voðinn vís. Blómið deyr á rótlausum stilk. Án íslenzkrar tungu og fornra bókmennta munum við sogast inn í þjóðahafið mikla, hverfa; verða ósýnileg eins og örverurnar. Við trúum því, að hlutverk okkar verði annað og meira í framtíðinni.

1984

Morgunblaðið hefur oft varað við þeim erlendu áhrifum sem eru skeinuhættust íslenzkri tungu, en svo lengi sem við höfum nokkrar áhyggjur af þróun hennar ætti okkur að vera minni hætta búin en ella. Það er skylda okkar að varðveita tunguna, varðveita samhengið í sögu þjóðarinnar, varðveita samanlagða arfleifð íslenzkrar menningar, íslenzkra bókmennta ­ en það verður ekki gert án varðveizlu tungunnar sem er forsenda þess að við lifum af og höldum sérkennum okkar.

1984

Það er raunar kjarni málsins, að við getum lesið allar bókmenntir okkar fyrirhafnarlítið, a.m.k. miðað við aðrar þjóðir, eins og Sigurður Nordal benti m.a. á, er það "okkur ekki sízt mikilvægt fyrir þá sök, að það gerir okkur kleift að eiga samskraf við allar þær kynslóðir, sem lifað hafa á Íslandi og einnig þá sem fluttu þessa dýrmætustu eign okkar, tunguna, úr dölum og fjallahéruðum Noregs út hingað. Í þessum kjörgrip er fólgið ævintýrið að vera Íslendingur."

1984

Íslensk menning hefur risið hæst í návígi við umheiminn. Það hefur verið henni áskorun, aukið henni innra þrek: Funi kveikist af funa, segir í Hávamálum, eins og margt annað viturlegt. Gætum við hugsað okkur að vera án tengsla við þau? Skilja ekki þá heimsmenningu, sem við hlutum í arf og aðrir verða að njóta í þýðingum? Slík tilhugsun væri óbærilegri en önnur ógæfa, sem yfir dyndi. Samt látum við varnaðarorð, sem vind um eyru þjóta. Tökum ekki mið af ógæfu Norðmanna, þegar þeir glötuðu tungu sinni. Þá munaði minnstu, að Noregur yrði dönsk hjálenda. Þeir prédikuðu á dönsku. Við á íslenzku. Kannski reið það baggamuninn. Áherzlur breyttust, níðhöggur tungunnar nagaði rætur hennar. Og því fór sem fór. Nú vega mætustu menn að tungu okkar, breyta áherzlum í söng og tali ­ og vita ekki hvað þeir gjöra. Vonandi lifir íslenzk tunga af þessar stórhættulegu tilraunir til áherzlubreytinga og ögranir við grundvöllinn sjálfan.

1985

Í raun veit þó enginn hvort kominn er alvarlegur brestur í þá klukku sem enn hljómar á Íslandi og við höfum einsett okkur að vernda á hverju sem gengi, klukku íslenzkrar tungu. Margt bendir til að klukkan sú hljómi ekki ávallt með þeim hætti sem ætla má. Stofnanamálið í æðstu stöðum er oft geigvænlegt en það mun ekki sízt vera merki um yfirstéttartilburði eins og fyrr á öldum þegar kerfiskarlar notuðu kansellístíl til að minna óbreyttan almúga sífelldlega á að hann ætti ekki að vera að skipta sér af þjóðmálum heldur láta þá sjálfa um þau. Almúginn skildi ekki einu sinni hið opinbera tungumál sem þá var í tízku. Við sjáum slíka tilburði enn á því opinbera orðfæri sem líkist meir hrognamáli en þeirri tungu sem íslenzk alþýða heur varðveitt í gegnum tíðina.

Morgunblaðið hefur oft varað við þeim erlendu áhrifum sem eru skeinuhættust íslenzkri tungu, en svo lengi sem við höfum nokkrar áhyggjur af þróun hennar ætti okkur að vera minni hætta búin en ella. Það er skylda okkar að varðveita tunguna, varðveita samhengið í sögu þjóðarinnar, varðveita samanlagða arfleifð íslenzkrar menningar, íslenzkra bókmennta ­ en það verður ekki gert án varðveizlu tungunnar sem er forsenda þess að við lifum af og höldum sérkennum okkar.

1985

En hvers vegna er ekki lögð meiri rækt við íslenzka tungu í ríkisfjölmiðlinum? Hvers vegna þurfa erlend mál að glymja í honum sýknt og heilagt? Er ástæða til að þola þennan ágang ­ og allt fer þetta fram í skjóli ríkiseinokunar. Er þetta metnaður hins opinbera í menningarmálum? Eða verður spyrnt við fótum? Verða erlendir fréttabútar íslenzkaðir eða munu áhrifamenn á sjónvarpinu einungis leggja kollhúfur?

Er það kannski vilji Alþingis? Forráðamenn ríkisins verða að svara slíkum spurningum. En fyrst og síðast verða þeir að eiga um þetta við samvizku sína. Ætla þeir að láta íslenzkt þjóðfélag kafna í erlendu suði? Hvenær ætla þeir að færa sér stórbrotinn arf íslenzkra bókmennta og lista í nyt með þeim hætti sem íslenzka sjónvarpinu sæmdi?

1985

Íslenzk menning hefur aldrei verið neitt útkjálkahokur. Hún hefur verið alþjóðleg menning, sótt næringu í það bezta sem heimurinn heur haft upp á að bjóða, og þá hefur henni bezt vegnað þegar hún hefur verið í mestum tengslum við alþjóðlega strauma.

Fornar bókmenntir okkar sem frægastar hafa orðið fjölluðu ekki einungis um atburði á Íslandi heldur einnig ­ og ekki síður ­ um það sem gerðist með öðrum þjóðum. Þannig er frægasta rit íslenzkrar tungu, Heimskringla, undirstaða norskrar sagnaritunar og margt í fornum bókmenntum okkar lýsir alþjóðlegri reynslu síns tíma. Við höfum aldrei verið einangruð smáþjóð, nema á einangrunar- og niðurlægingarárum. Þegar Íslendingum hefur vegnað bezt hafa þeir verið í nánum tengslum við umheiminn.

 

Styrmir setti saman Reykjavíkurbréf um mál sem ég hef áður minnzt á í dagbókinni. Það fjallar um Björn V. Ólason og Sverri Ólafsson.

Reykjavíkurbréfið er svohljóðandi:

„Fyrir nokkru sendi Sverrir Ólafsson, myndlistarmaður í Hafnarfirði, kæru til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands á hendur ritstjórum Morgunblaðsins. Tilefni kærunnar var, að hinn 21. ágúst sl. birtist hér í blaðinu bréf frá Birni V. Ólasyni, sem hinn 28. ágúst sl. baðst afsökunar hér í blaðinu á hinu fyrra bréfi og sagði að Sverrir Ólafsson væri hinn raunverulegi höfundur þess, en hann hefði lánað nafn sitt á bréfið. Athugasemd, sem ritstjórar Morgunblaðsins gerðu við síðara bréf Björns V. Ólasonar, varð tilefni kæru Sverris Ólafssonar.

Vegna þeirrar kæru sendu ritstjórar Morgunblaðsins bréf til siðanefndar Blaðamannafélagsins, sem nú þykir rétt að birta, enda ekki ástæða til annars en að lesendur Morgunblaðsins hafi tækifæri til að fylgjast með gangi þessa máls. Bréfið til siðanefndarinnar er svohljóðandi:

„Reykjavík, 24. október 1996. Til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands.

Vegna kæru, sem siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur borizt á hendur Morgunblaðinu frá Sverri Ólafssyni, Hafnarfirði, vilja ritstjórar Morgunblaðsins taka fram eftirfarandi. Dregizt hefur að koma þessum athugasemdum á framfæri við siðanefnd vegna fjarveru annars ritstjóra blaðsins og er beðizt velvirðingar á því.

1. Birting hins upphaflega bréfs, undir nafni Björns V. Ólasonar í Morgunblaðinu hinn 21. ágúst sl. voru ritstjórnarleg mistök, sem rædd voru á ritstjórn blaðsins að morgni þess dags, áður en nokkrar athugasemdir voru gerðar af annarra hálfu. Samkvæmt þeim starfsreglum, sem byggt er á við afgreiðslu aðsends efnis, hefði átt að óska eftir því við höfund bréfsins, að hann breytti texta þess t.d. þar sem fullyrt er, að Jóhann Bergþórsson hafi hlotið fangelsisdóm. Hið rétta er að hann fékk skilorðsbundinn fangelsisdóm.

2. Hinn 28. ágúst sl. birti Morgunblaðið afsökunarbeiðni frá Birni V. Ólasyni, þar sem hann kveðst hafa lánað Sverri Ólafssyni nafn sitt undir umrædda grein. Jafnframt skýrir hann frá því, að hann hafi haft samband við Morgunblaðið og óskað eftir því, að greinin yrði ekki birt.

3. Á ritstjórn Morgunblaðsins var haft samband við alla aðila, sem hugsanlega hefðu getað tekið við slíkri beiðni frá Birni V. Ólasyni en sá aðili hefur ekki fundizt. Að sjálfsögðu er ekki hægt að fullyrða, að Björn V. Ólason hafi farið rangt með um þetta atriði. Hins vegar er það alþekkt á ritstjórn Morgunblaðsins, að höfundar aðsends efnis, sem verða fyrir gagnrýni vegna þess, sem þeir skrifa í blaðið eða láta hafa eftir sér í viðtölum, bregðast við þeirri gagnrýni með því að segja, að rangt hafi verið eftir þeim haft og í einstaka tilvikum, að þeir hafi óskað eftir því að viðkomandi efni yrði ekki birt en blaðið hafi ekki orðið við þeim óskum.

4. Fram á síðustu ár hefur ritstjórn Morgunblaðsins ekki haft ástæðu til að draga í efa, að greinar eða bréf, sem blaðinu berast undir nafni tilgreindra einstaklinga séu raunverulega verk þeirra einstaklinga. Þess vegna er meginreglan enn sú, að í langflestum tilvikum er því einfaldlega trúað að svo sé. Á síðustu árum hefur þess þó gætt að blaðinu berast bréf með nafni og heimilisfangi, sem athugun leiðir í ljós, að eiga sér enga stoð í veruleikanum. Þess vegna er nú meiri fyrirvari gerður um slíkt efni en áður.

5. Engu að síður trúðu ritstjórar Morgunblaðsins þeirri fullyrðingu Björns V. Ólasonar, að hann hefði lánað nafn sitt með þeim hætti, sem hann sjálfur sagði í bréfi sem birt var hinn 28. ágúst sl. Ein ástæða fyrir því, að sú fullyrðing var tekin trúanleg er sú, að þess eru dæmi úr pólitískri baráttu undanfarna áratugi, að slíkt hafi verið gert. Þótt stjórnmálabaráttan hafi breytzt umtalsvert eimir þó enn eftir af gamaldags vinnubrögðum. Af þessum sökum var efni þeirrar athugasemdar, sem blaðið gerði við bréf Björns V. Ólasonar á þann veg, sem raun ber vitni. Spyrja má, hvers vegna blaðið hafi ekki haft samband við Sverri Ólafsson fyrir birtingu og borið þessa staðhæfingu undir hann. Svarið er að Morgunblaðið lítur á aðsent efni sem trúnaðarmál á milli blaðsins og höfundar þar til það hefur birzt.

6. Sverrir Ólafsson hefur mótmælt fullyrðingum Björns V. Ólasonar þess efnis, að hann sé hinn raunverulegi höfundur bréfs þess, sem birt var í Morgunblaðinu 21. ágúst sl. Hann hefur hins vegar ekki fært sönnur á, að Björn V. Ólason hafi farið rangt með. Þar með hefur hann heldur ekki fært sönnur á, að athugasemd ritstjóra Morgunblaðsins við grein Björns V. Ólasonar hinn 28. ágúst sl. hafi verið efnislega röng. Hér stendur orð gegn orði.

7. Það hefur aldrei staðið á ritstjórum Morgunblaðsins að biðjast opinberlega afsökunar á því, sem misfarið er með á einhvern hátt á síðum blaðsins. Um þetta eru svo mörg dæmi á síðum Morgunblaðsins að ekki þarf um að deila. Þegar Sverrir Ólafsson gerði athugasemd við fullyrðingar Björns V. Ólasonar var hún birt þegar í stað.

8. Þar sem Sverrir Ólafsson hefur nú kært ritstjóra Morgunblaðsins til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands vegna þessa máls, teljum við okkur ekki eiga annan kost en óska opinberrar rannsóknar á því hver hafi raunverulega verið höfundur þess bréfs, sem blaðið birti hinn 21. ágúst sl. undir nafni Björns V. Ólasonar. Meðfylgjandi er afrit af bréfi, sem lögmaður Morgunblaðsins, Jón Steinar Gunnlaugsson, hrl., sendi Rannsóknarlögreglu ríkisins í gær, miðvikudag 23. október 1996.

9. Eins og fram kemur í því bréfi telur Morgunblaðið að þetta mál „varði . . . bæði almenna tiltrú blaðsins, sem skiptir það afar miklu máli, auk þess sem þetta ræður úrslitum um ábyrgð á efni aðsendra greina skv. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Sýnist það geta varðað beint við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að tilgreina rangan höfund að grein, sem blaðinu er send til birtingar.

Með bréfi þessu hafa ritstjórar Morgunblaðsins gert siðanefnd Blaðamannafélags Íslands grein fyrir viðhorfi sínu til þessa máls. Það er augljóst, að blaðið hefur verið dregið inn í pólitískan hráskinnaleik í Hafnarfirði, sem enginn getur fullyrt um á þessari stundu, hvernig er vaxinn. Vonandi verður Rannsóknarlögregla ríkisins við tilmælum lögmanns blaðsins þannig að hið rétta komi fram.

Virðingarfyllst,
Matthías Johannessen,
Styrmir Gunnarsson.”

Bréf til Rannsóknarlögreglu ríkisins

 

Eins og fram kom í bréfinu til siðanefndar sendi Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður ritstjóra Morgunblaðsins, bréf til Rannsóknarlögreglu ríkisins hinn 23. október sl., þar sem þess er óskað, að fram fari rannsókn á því hver hafi verið höfundur bréfs þess, sem Morgunblaðið birti hinn 21. ágúst sl. undir nafni Björns V. Ólasonar. Bréf Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl. er svohljóðandi:
--
„Rannsóknarlögregla ríkisins
Auðbrekku 6
200 Kópavogur

Reykjavík, 23. október 1996.
Árvakur hf., Kringlunni 1, Reykjavík, sem gefur út Morgunblaðið, hefur leitað til mín og óskað eftir að ég sendi yður erindi það sem hér skal greina.

Þann 21. ágúst 1996 birti blaðið aðsenda grein undir fyrirsögninni „Hafnfirðingar krefjast meirihluta jafnaðarmanna”. Hafði greinin borist blaðinu undir nafni Björns V. Ólasonar, félaga í Fulltrúaráði Alþýðuflokksfélaganna í Hafnarfirði, og var hún birt undir því nafni í blaðinu.

Nokkrum dögum síðar barst blaðinu önnur grein til birtingar frá sama manni undir fyrirsögninni „Ellert Borgar Þorvaldsson og Jóhann Gunnar Bergþórsson beðnir afsökunar”. Þessi grein var birt í blaðinu 28. ágúst 1996. Í henni sagðist Björn ekki hafa skrifað greinina 21. ágúst 1996 heldur hefði Sverrir Ólafsson varamaður í stjórn Alþýðuflokksfélags Hafnarfjarðar gert það. Ritstjórn blaðsins birti athugasemd með þessari síðari grein, þar sem hún m.a. frábað sér efni af þessu tagi og með þessum aðferðum.

Næst barst blaðinu til birtingar 30. ágúst 1996 athugasemd frá Sverri Ólafssyni, þar sem hann taldi greinarskrif Björns V. Ólasonar vera sér með öllu óviðkomandi. Taldi hann Björn V. Ólason m.a. hafa teymt ritstjóra Morgunblaðsins út í vafasamar fullyrðingar um saklausan aðila og átti þá við athugasemdina sem birt var með grein Björns 28. ágúst.

Sverrir Ólafsson hefur nú kært ritstjóra Morgunblaðsins til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands fyrir brot á siðareglum félagsins.

Umbj. minn leyfir sér að fara þess formlega á leit við Rannsóknarlögreglu ríkisins að fram fari opinber rannsókn á því hver skrifað hafi greinina, sem Morgunblaðið birti þann 21. ágúst 1996 í góðri trú um að höfundur hennar væri Björn V. Ólason. Það hefur verulega þýðingu fyrir starfsemi Morgunblaðsins að höfundar aðsendra greina séu rétt tilgreindir í blaðinu. Varðar þetta bæði almenna tiltrú blaðsins, sem skiptir það afar miklu máli, auk þess sem þetta ræður úrslitum um ábyrgð á efni aðsendra greina skv. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Sýnist það geta varðað beint við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að tilgreina rangan höfund að grein, sem blaðinu er send til birtingar.

Hjálögð sendast yður eftirtalin skjöl í þágu hinnar opinberu rannsóknar.

1. Handrit greinarinnar „Hafnfirðingar krefjast meirihluta jafnaðarmanna” ásamt ljósriti hennar úr blaðinu 21. ágúst 1996.

2. Handrit greinarinnar „Ellert Borgar Þorvaldsson og Jóhann Gunnar Bergþórsson beðnir afsökunar” ásamt ljósriti hennar og athugasemdar ritstjórnar úr blaðinu 28. ágúst 1996.

3. Handrit „Athugasemdar frá Sverri Ólafssyni” ásamt ljósriti úr blaðinu 30. ágúst 1996.

4. Ljósrit úr Morgunblaðinu 1. september 1996 „Athugasemd vegna yfirlýsingar”.

Virðingarfyllst,
Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.”
--

Bréf frá Rannsóknarlögreglu ríkisins

Rannsóknarlögregla ríkisins svaraði bréfi lögmanns Morgunblaðsins hinn 8. nóvember sl. með svohljóðandi bréfi:
--
„Vísað er til erindis yðar dags. 23. október 1996 þar sem þér óskið þess fyrir hönd Morgunblaðsins að fram fari opinber rannsókn á því hver hafi skrifað grein sem birtist í blaðinu þann 21. ágúst 1996 undir nafni Björns V. Ólasonar. Teljið þér að röng tilgreining höfundar að greininni geti varðað við 1. mgr. 155 gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Bréfið eða greinin, sem um ræðir, þykir ekki vera skjal í merkingu 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga og greinin sýnist heldur ekki hafa verið notuð til þess að blekkja með henni í lögskiptum í merkingu hegningarlagaákvæðisins.

Þótt gengið sé út frá því að greinin sé skjal í merkingu 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga og að hún hafi verið notuð í lögskiptum er tæpast um fölsunarbrot að ræða enda hefur Björn V. Ólason lýst því í ódagsettu afsökunarbréfi að hann hafi samþykkt að nafn hans væri notað undir greinina, sbr. þar sem segir: „...Ég hafði vitneskju um innihald greinarinnar og lánaði Sverri nafn mitt...”

Lögreglunni ber einungis að hefja rannsókn liggi fyrir vitneskja eða grunur um að refsivert brot hafi verið framið, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991, sbr. þó 3. mgr. 66. gr. sömu laga. Er megin markmið lögreglurannsóknarinnar falið í að afla nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda verði fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, sbr. 67. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Með skírskotun til þess sem hér hefur verið rakið þykja ekki efni til að verða við beiðni yðar um opinbera rannsókn og er beiðni yðar því hafnað, sbr. 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19, 1991.

Þessa synjun getið þér borið undir ríkissaksóknara, sbr. 2. mgr. 76. gr. laga nr. 19, 1991.

Gögn sem fylgdu beiðni yðar endursendast hér með.

Bogi Nilsson.”
--

Bréf til ríkissaksóknara

Í framhaldi af þessu bréfi Rannsóknarlögreglu ríkisins tóku ritstjórar Morgunblaðsins ákvörðun um í samráði við lögmann blaðsins að vísa beiðni um rannsókn til ríkissaksóknara. Í samræmi við það sendi Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. ríkissaksóknara svohljóðandi bréf hinn 15. nóvember sl.:
--
„Embætti ríkissaksóknara Hverfisgötu 6 150 Reykjavík Reykjavík, 15. nóvember 1996.

F.h. umbj. míns Árvakurs hf., Kringlunni 1, Reykjavík og með vísan til 2. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála leyfi ég mér að senda yður hjálögð eftirtalin skjöl:

A. Ljósrit bréfs míns til Rannsóknarlögreglu ríkisins 23. október 1996 ásamt skjölum merkt 1­4 sem talin eru upp í bréfinu og fylgdu því.

B. Ljósrit svarbréfs Rannsóknarlögreglu ríkisins 8. nóvember 1996.

Í bréfi RLR kemur fram að synjað sé rannsóknarbeiðninni frá 23. október 1996. Leyfi ég mér f.h. umbj. míns að bera synjunina undir embætti yðar og krefjast þess að þér hnekkið henni og mælið fyrir um umbeðna rannsókn.

Um tilgreindar ástæður fyrir synjun RLR í bréfinu 8. nóvember 1996 vil ég segja þetta:

1. Varla getur leikið á því vafi að handrit umræddrar greinar teljist vera skjal í merkingu 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga. Er vandséð hvernig menn geta komist að annarri niðurstöðu.

2. Sé handrit að grein, þar sem höfundur er ranglega tilgreindur, sent blaði til birtingar, er verið að blekkja í lögskiptum. Er þá átt við þau lögskipti, sem felast í að óska birtingar á greininni í blaðinu undir nafni hins tilgreinda höfundar. Þetta eru lögskipti sem blöð eiga daglega við þá sem óska birtingar efnis undir tilgreindum höfundarnöfnum.

3. Þó að Björn V. Ólason segi í afsökunargrein sinni, að hann hafi haft vitneskju um innihald greinarinnar, er augljóst af samhenginu, að hann hefur talið það innihald allt annað en raun ber vitni. Er að minnsta kosti ljóst að allt þarfnast þetta rannsóknar til að unnt sé að hafa skoðun á því hvort refsivert brot hafi verið framið.

Ástæða er til að leggja þunga áherslu á að þeir hagsmunir, sem umbj. minn hefur af lögskiptum sínum við höfunda aðsendra greina varða að sumu leyti sjálfan grundvöllinn í starfsemi hans. Menn mega ekki vera svo uppteknir af þeim tilvikum sem algengust eru við beitingu lagaákvæða, að þeir sjái ekki að þau geta skv. orðum sínum og efni náð til annarra tilvika sem fátíðari eru. Rannsóknarbeiðnin lýtur að því að fá það upplýst, hvort umbj. minn hafi verið blekktur til að birta í blaði sínu grein undir nafni manns, sem ekki hafði samið hana, né fallist á að hún yrði birt í hans nafni með því efni sem hún hafði.

Auk alls þessa skal það ítrekað sem greindi í bréfi mínu 23. október 1996, að nafn greinarhöfundar ræður úrslitum um ábyrgð á efni aðsendra greina skv. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.

Með vísan til alls þessa er þess vænst að þér hnekkið synjun Rannsóknarlögreglu ríkisins og mælið fyrir um rannsókn þá sem um er beðið.

Virðingarfyllst,
Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.”
--
Þess skal getið, að siðanefnd Blaðamannafélags Íslands tók fyrir skömmu ákvörðun um að fresta afgreiðslu kæru Sverris Ólafssonar, þar til í ljós kæmi, hvort málið yrði tekið til opinberrar rannsóknar eða niðurstaða slíkrar rannsóknar lægi fyrir.

„Eins og fram kemur í því bréfi telur Morgunblaðið að þetta mál „varði... bæði almenna tiltrú blaðsins, sem skiptir það afar miklu máli, auk þess sem þetta ræður úrslitum um ábyrgð á efni aðsendra greina skv. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Sýnist það geta varðað beint við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að tilgreina rangan höfund að grein, sem blaðinu er send til birtingar.””

Við vildum ýta frá okkur og lofa lesendum okkar að fylgjast með þessari óvenjulegu dellu.

Síðdegis

Sigríður og Sigurður A. Magnússon héldu brúðkaup sitt í gær og vorum við Hanna boðin í veizluna í Norræna húsinu og hittum þá m.a. Þorstein Gylfason sem er formaður Siðanefndar Blaðamannafélagsins. Hann hafði ekki séð Reykjavíkurbréfið, enda nýútkomið, en ráðlagði mér að skrifa Siðanefndinni tvær, þrjár línur þess efnis að við hefðum snúið okkur til ríkissaksóknara og óskað eftir því að fram færi rannsókn á þessu sérkennilega máli, þrátt fyrir niðurstöður Rannsóknarlögreglu ríksins.

Talaði við margt fólk í brúðkaupsveizlunni. Meðal gesta voru forsetahjónin, hitti þau ekki. En Svavar Gestsson tók mig tali og nefndi greinina sem hann hafði skrifað um Jón Baldvin, veiðikvótann og Styrmi sem næstsíðasta Reykjavíkurbréf fjallar um. Hann segir að það sé misskilningur í Reykjavíkurbréfinu, taldi að Styrmir stæði fyrir honum. Ég sagði að það væri rangt. Ég hefði þá misskilið grein hans en ég hefði ekki haft skaplyndi til þess til að standa undir því að Morgunblaðið elti hugmyndir Jóns Baldvins um fiskveiðistjórnun. Hann sagði að þetta væri misskilningur, hann hefði átt við að Jón Baldvin hefði elt Morgunblaðið! Ég sagðist ekki hafa getað lesið þessa afstöðu út úr orðum hans. Hann ætlar að líta á grein sína aftur og var hinn ljúfasti þegar ég sagði honum að ég hefði sjálfur staðið fyrir þessu Reykjavíkurbréfi, en ekki Styrmir Gunnarsson.

Ef Svavar telur að lesa megi greinina eins og ég skildi hana en ekki eins og hann ætlaði að skrifa hana, þ.e. að Jón Baldvin hefði elt Styrmi og Morgunblaðið í fiskveiðimálunum þá hyggst hann leiðrétta skrif sín. Ég fagnaði því, en efast þó um að ég eigi eftir að heyra frá honum aftur um þetta mál! Ég sagði honum aftur á móti að greinin hefði verið einskonar himnasending því við hefðum getað svarað forystumönnum Sjálfstæðisflokksins með því að nota grein hans og hefði það komið sér vel.

Svavar sagði að ríkisstjórnin væri afskaplega leiðinleg og spurði hvort ekki væri ennþá hægt að mynda þá ríkisstjórn sem við vildum í samtali okkar á sínum tíma, þ.e. ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags. Ég taldi að það hlyti að vera hægt og slík þjóðarsátt væri nauðsynleg eftir kalda stríðið. Ég hefði ekki breytt um skoðun í þeim efnum. Leiðinlegast af öllu finnst Svavari allt sameiningarkjaftæðið á vinstra væng. Hann segir það sé ennþá leiðinlegra en jafnvel ríkisstjórnin sem minnti sig einna helzt á embættismannastjórn. 
Mér þótti þetta allt heldur athyglisvert en samtal okkar var á lágum nótum og afar vinsamlegt. Ég skil þó ekki hvernig ég hef getað misskilið grein hans, en það kemur í ljós. Held að Svavar hafi skrifað aðra grein en hann hefði nú viljað skrifa!

Rakst í gömlu dóti á leiðara eftir Tíma-Tóta sem birtist í Tímanum 14. febrúar 1981. Þar segir að ég hafi verið barinn til ásta, ég sé orðinn húskarl á höfuðbóli Þjóðviljans og eitthvert óskiljanlegt samband milli skrifa Morgunblaðsins og Þjóðviljans um skáld og rithöfunda og verk þeirra, eins og Tóti kemst að orði. Þjóðviljinn er höfuðbólið en Morgunblaðið hjáleigan og Þjóðviljinn gefur tóninn og Morgunblaðið tekur undir! Þetta samspil sé vissulega svo mikill áhrifavaldur í menningarlífi þjóðarinnar „að það er meira en tímabært að gefa því gaum og leita eftir skýringum á því”.

Allt er þetta með ólíkindum, en samt hafði ég gleymt þessum leiðara og við Tóti vorum ávallt ágætir félagar. Það var ekki hægt annað en sjá í gegnum fingur við hann þegar pólitík var annars vegar. Hann sveifst einskis ef út í það fór og meinti að sjálfsögðu ekkert með því eins og þessi leiðari ber vitni. Upphaf hans er svohljóðandi:
„Fyrir nokkrum árum sýndi Þjóðleikhúsið leikrit eftir nýjan höfund, sem margir höfðu gert sér góðar vonir um fyrirfram, þar sem hann hafði unnið sér viðurkenningu sem orðsnjall og hugmyndaríkir rithöfundur. Viðtöl, sem hann hafði átt við ólíkt fólk, bentu einnig til góðrar og vaxandi mannþekkingar, sem er leikritahöfundi nauðsynleg. En þessi uppvaxandi leikritahöfundur var ekki af réttu pólitísku sauðahúsi að mati þess harðsnúna hóps sem vill berja skáld og rithöfunda til ákveðins forms og átrúnaðar í skáldskap og öðrum listum.

Leikrit umrædds höfundar og sýningin í Þjóðleikhúsinu hlaut hina hörðustu dóma þessa fólks. Hin miklu áhrif, sem það hafði tryggt sér, brugðust ekki. Aðsókn að sýningunni snarminnkaði og fljótlega var henni hætt.

Svo þungt féll þetta hinum unga leikritahöfundi að hann mun hafa gefizt upp við leikritagerðina að mestu eða öllu. Hann vildi þó ekki leggja skáldskapariðju alveg á hilluna. Til þess að tryggja sér nokkurn vinnufrið, gekk hann til liðs við þá, sem höfðu ófrægt hann.

Þetta er ekki eina sagan þessarar tegundar. Því miður eru þær alltof margar. Ungir og efnilegir höfundar hafa gefizt upp eða bognað og gengið í sveit með þeim, sem höfðu niðurlægt þá. Þess hefur þá oft verið skammt að bíða að þeir væru hafnir þar til skýjanna og taldir meðal mestu listmanna þjóðarinnar.

Hér hefur það gerzt, sem kallað hefur verið að berja menn til ásta.”

Allt er þetta ótrúlega ósvífið og úr lausu lofti gripið án þess ég kippi mér upp við það. Hitt er svo annað mál að það hefur hvarflað að mér að SAM vinur minn hafi gengið alþýðubandalagsmönnum á hönd eftir að hann hætti á Morgunblaðinu til að firra sig þeim terror sem þá ríkti á Þjóðviljanum. En kannski átti hann alla tíð heima í þessum herbúðum. Ég saup aftur á móti hverja fjöruna af annarri vegna andstöðu minnar við heimskommúnismann. En sú staðreynd hentaði ekki Þórarni Þórarinssyni þegar hann var að kokka leiðarann sinn sem fyrr var nefndur.

Það hefur margt verið skrifað um Einar Pálsson. Magnús Sigurjónsson segir í minningargrein í Morgunblaðinu 13. nóvember sl. að Einar hafi sagt sér „að flest rök bentu til þess að Klængur Þorsteinsson byskup í Skálholti (1152-1176) hefði samið frumgerð Njálssögu og notið þar samráðs vinar síns og fóstbróður, Gissurar Hallssonar, en þeir tveir voru þá hinir mestu lærdómsmenn á landi hér”.
Allt er þetta með ólíkindum. Það er að vísu talað um frumgerð en á sínum tíma sagði Einar Pálsson við mig:
„Það er svo augljóst að Sturla Þórðarson skrifaði Njáls sögu að ég hef ekki einu sinni leitt að því hugann.”
Og hann sagðist vera sammála öllu því sem ég hefði sagt um það.
Hitt er svo annað mál að í útvarpinu var langt samtal við Einar á sínum tíma og hann nefndi aldrei Sturlu sem höfund Njáls sögu en talaði af þó nokkurri velþóknun um kenningar Barða Guðmundssonar.
Ef fræði Einars Pálssonar eru byggð á sömu hentistefnu og þessi dæmi sýna, þá held ég að maður eigi að lesa þau með miklum fyrirvara.

Í Alþýðublaðinu 13. nóvember sl. er samtal við Jón Baldvin Hannibalsson þar sem hann nefnir m.a. fyrrnefnt Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins og segir:
„Um þá stefnu sjálfstæðisforystunnar segir Morgunblaðið í eldheitri og snjallri ádrepu í síðasta Reykjavíkurbréfi að vont sé þeirra ranglæti en verra þeirra réttlæti. Um leið og ritstjórar Morgunblaðsins taka fram, til að fyrirbyggja misskilning, að stefna blaðsins í sjávarútvegsmálum sé ekki runnin undan rifjum fyrrverandi formanns Alþýðuflokksins segja þeir að hún sé hin eina og sanna birtingarmynd sjálfstæðisstefnunnar um atvinnufrelsi og virðingu fyrir eignarrétti.”

Leibnitz sagði að guð hefði skapað þá einu beztu veröld sem möguleg væri. Það var gott fyrir okkur. Annars værum við ekki til!

Haraldur sonur minn hefur sótt um nýtt starf, embætti varalögreglustjórans í Reykjavík. Mér skilst að Þorsteinn Pálsson hafi kallað hann á sinn fund og hvatt hann til að sækja. Vona að það fari allt vel úr hendi. Hann hefur haft forystu um að stórbæta aðbúnað fanga og ég veit að embættisfærsla hans er til mikils sóma, hvað sem talsmenn fíkniefnaaðalsins segja um það; hinir einu sönnu framleiðendur glæpamanna um heim allan.

Kvöldið:

Talaði við Ingó í dag. Hann er kominn til Peking. Lætur vel yfir Asíu-ferð sinni. Fer held ég aftur heim til Lundúna á fimmtudag.

Fór að hugsa betur um samtalið við Svavar Gestsson. Sagði Styrmi frá því. Hann er sama sinnis og ég, að Svavar sé með látalæti þegar hann talar um að í grein sinni hafi hann sagt að Jón Baldvin hafi elt fiskveiðistefnu Morgunblaðsins.
En við sjáum til.
Svavar velti mikið fyrir sér í samtali okkar hvernig hægt væri að handlása sig að stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokknum. Ég sagði við hann að  þeir alþýðubandalagsmenn hefðu klúðrað fiskveiðistefnunni og þess vegna þyrftu þeir ekki að hafa áhyggjur af ágreiningi við Sjálfstæðisflokkinn hennar vegna!! Hann staðnæmdist við kjördæmamálið; hvort ekki væri hægt að mynda ríkisstjórn Alþýðubandalags og Sjálfstæðisflokks í kringum kosningalög.
Ég lagði kollhúfur.

Ég man ekki hvort ég hef minnzt á það á þessum blöðum að Agnes hitti Jón Baldvin eftir Landsfund Alþýðuflokksins, að mig minnir. Hann sagði við hana,
Hvað segir Matti?
Hún sagði að Matthías segði allt gott, hvers vegna hann spyrði?
Jón Baldvin spurði hvort árásir Hrafns Jökulssonar á Harald son okkar lentu ekki á sér.
Nei, sagði Agnes, ég hef aldrei heyrt hann minnast á það, og raunar hef ég ekki heyrt hann minnast á þetta mál.
Jæja, sagði þá Jón Baldvin, en við erum með ritstjóra á Alþýðublaðinu sem við getum ekki losnað við! Og er ekki í lagi.
Og hafði áhyggjur af því,að mér skildist.

Ég tek eftir því að það er ekki stafkrókur um fangelsismál í landsfundarályktun Alþýðuflokksins. Samt hafði Jón Sigurðsson forystu um þessi mál þegar hann var ráðherra. Undarleg þessi pólitík. Mér dettur í hug að þeir hafi ekki þorað að taka þessi mál upp af ótta við eigið málgagn,Alþýðublaðið,og hatur ritstjóra þess og fíkniefnafanga á Hrauninu  á fangelsismálastjóranum!!
Þögnin væri því bezta úrræðið.
Annars hef ég verið að lesa tvö tölublöð af málgagni fanga á Litla-Hrauni, Hraunbúanum.
Haraldur má svo sannarlega vel við una. Þeir ráðast harkalega að Hrafni Jökulssyni fyrir að segja að á Hrauninu séu einungis efnafíklar og glæpamannaefni. Taka undir þau orð í lögmannsgrein í DV að hann sé ritsóði!
Í Hraunbúanum segir ennfremur:
„Ég held að ég ljúgi því ekki þegar ég segi það að ég hef aldrei séð neinn sem hefur gegnt þessu starfi blanda eins miklu geði við fanga eins og Haraldur gerir, alltaf þegar hann kemur hingað og á leið um þar sem fangar eru þá gefur hann sig á tal við þá, oftast er það nú þannig að fangar tala við hann af fyrra bragði.

Eitt er ég viss um, það halda margir að ég sé að reyna að sleikja mig upp við þennan mann... En það er ekki rétt. Mér finnst og hefur alltaf fundist að menn eigi rétt á því að njóta sannmælis, sama hver er...”

En Hrafni Jökulssyni hefur þó ekki fundizt ástæða til þess.

Ég rakst af tilviljun á einhver kvæði um átökin á Balkanskaga,ég held,einhver ástakvæði,og þau báru Hrafni betra vitni en níðið í Alþýðublaðinu og á netin.Minnti á skáldskap Vilmundar sen var að vísu ekki stór í sniðum,en bar honum betra vitni en allt þetta pólitíska þras sem var hin ástríða hans.

 

23. nóvember, laugardagur

Í brúðkaupi Sigríðar Friðjónsdóttur og Sigurðar A. Magnússonar sl. laugardagskvöld voru flest gáfnaljósin saman komin. Sigurður í góðu stuði og mér þótti vænt um að hann skyldi hafa boðið okkur. Þrátt fyrir allt og allt liggur einhver þráður milli okkar sem aldrei hefur slitnað alveg. Og vonandi verður það ekki. Við eigum að ég held alltof góðar minningar saman frá átakaárum æskunnar til þess að þráðurinn slitni. En oft hefur munað litlu, guð minn góður!

Mér skilst  það sé talið sjálfsagt að Halli fái þetta nýja embætti sem hann er að sækja um. Held að hann sé spenntur fyrir því sjálfur. Þá mundi hann losna úr embætti fangelsismálastjórans og er svo sannarlega kominn tími til. Hann gæti orðið verðmætur yfirmaður lögreglunnar, fastur fyrir en hlýr og viðkvæmur og tillitssamur við annað fólk. Ágætur í lögum. Vona reyndar að hann losni úr gamla embættinu og taki til við ný verkefni.

Ingólfur kom til Lundúna aftur sl. fimmtudag. Hafði þá verið í hálfan mánuð í Bangkok, Hong Kong og Kína . Honum fannst ágætt að koma til Hong Kong, en langar ekki þangað aftur. Þykir umhverfið þar líkjast mest nýsprottinni vestrænni gorkúlu. Mér skilst mannlífið þar í borg sé eins og stækkuð mynd af Wall Street. En Ingó þótti gaman að koma þangað. Hann var samt miklu hrifnari af því að koma til Bangkok og Kína en Hong Kong. Þar er sú menningarlega arfleifð sem hann sækist eftir. Ég sagði honum ég hefði einhverntíma lesið að Kínamúrinn væri einasta mannvirkið á jörðinni sem geimfarar sæju utan úr geimnum. Hann sagði það hefði verið eftirminnilegt að fara þangað.Kannski maður væri eitthvað sýnilegri ef maður byggi á Kínamúrnum?
Ætli guð geti séð mann betur þar en annars staðar á jörðinni?
Síðasta morguninn sem Ingó var í Peking komst hann inn í grafhýsi Maós. Það þótti honum ekki sízt eftirminnilegt. Hann hafði í fyrra komizt inn í grafhýsi Leníns en grafhýsi Maós er miklu stærra. Þessi kommúnistaríki hafa verið einhvers konar framhald af múmíuveldi faraóanna.
Þótt Ingó hafi verið hrifinn af mörgu í Kína segir hann að það sé miklu áþreifanlegri menning í Moskvu en í Peking. Þar séu til að mynda svo stórkostleg listasöfn að engu tali taki; byggingar og margt annað úr fortíðinni.
Það er auðvitað einnig í Peking eða Beijing og þá ekki sízt gamli keisarabærinn, að mér skilst. En samt er menningararfleifðin áleitnari í Moskvu, finnst Ingólfi. Hann segir að maður sjái strax að Rússland hafi yfirgefið kommúnismann, en maóisminn loði enn við kínverskt þjóðfélag. Í Moskvu hefði engum komið á óvart þótt Lenín væri einn góðan veðurdag færður úr grafhýsinu, en slíkt gæti ekki gerzt í Peking. Þar er múmía Maó Tse Tungs ein af áþreifanlegustu staðreyndum þess veruleika sem Kínverjar eru að reyna að brjótast út úr eins og ungi úr eggi.

Við Hanna erum hálffegin að Ingólfur er kominn aftur til Lundúna. Samt eru þar margar hættur á ferðinni því enn eru glæpamenn IRA í launsátri.

20. nóvember sl. kom Sighvatur Björgvinsson, nýkjörinn formaður Alþýðuflokksins, í heimsókn á Morgunblaðið. Hann talaði mest við Styrmi en ég hitti hann undir lokin. Ágætt samtal. Hann er sammála því að staða hans sé erfið. Hann þarf að afgreiða sameiningarkröfu á vinstri vængnum jafnframt því sem hann þarf að leita að atkvæðum inn að miðju, jafnvel inn í Sjálfstæðisflokkinn. Hann segir að viðreisnarstrengurinn í brjósti sínu sé brostinn.
Viðreisn heyrir fortíðinni til.
Honum þykir lítið koma til Alþingis, að mér skildist. Umræður þar væru ekki á háu plani. Velti því mikið fyrir sér hvers vegna sérfræðingar, sumir hámenntaðir í útlöndum, tækju ekki meiri þátt í samtímalífi á Íslandi en raun ber vitni; t.a.m. í fjölmiðlum og pólitík.

Sighvatur spurði hvenær ég mundi skipta um bókaforlag; hvort ég mundi ekki blessa yfir leiði kalda stríðsins með því að hverfa til Máls og menningar?! Ég sagði honum að vel gæti svo farið. Mér væri auðvelt að ganga til samstarfs við Mál og menningu enda ber ég mikla virðingu fyrir því hvernig þeir hafa vaxið inn í nýtt umhverfi; og nýjan tíma. Ég sé ekki betur en þeir kunni til að mynda öðrum fremur á samkeppni markaðarins.
Gott hjá þeim(!)

Skruppum í Krýsuvík sl. mánudag. Þar eru Erlendur, sonur Sveins Björnssonar, og Sigurður Sverrir kvikmyndatökumaður að  festa Svein listmálara á filmu. Þeir hafa unnið í þessu vikum saman. Þetta á að vera alvörumynd um listmálara eins og sagt er frá í grein Freysteins Jóhannssonar um þetta efni í Menningarblaði Morgunblaðsins í dag. Við Sveinn töluðum saman og Hanna fletti bókinni okkar og var þetta allt kvikmyndað. Mér skilst þeir ætli að nota einhverja búta úr þessu í myndina. Ágæt heimsókn í Krýsuvík. Sveinn er að vísu ósköp laslegur en hann er þéttur fyrir og hefur mikla lífslöngun. Ég veit samt ekki hvað hún dregur hann langt. Hann er að mála nýjar myndir, athyglisvert afstrakt í mikilli litadýrð. Mér datt í hug að þetta væru svo litrík málverk að það væri hægt að festa þau upp í höllum himnaríkis!

Við Hanna vorum boðin í veizlu í ráðherrabústaðnum sem Rut Ingólfsdóttir og Björn Bjarnason héldu sl. laugardag í tilefni af Degi íslenskrar tungu. Gátum að sjálfsögðu ekki farið því að við vorum í brúðkaupinu fræga. Björn sendi mér í gær ræðu sem hann flutti þennan dag, en ég hafði hvorki vitað af henni né heyrt hana. Þótti vænt um að hann skyldi senda mér hana með hlýlegum orðum. Ætla að senda honum sérprent af samtali okkar Silju Aðalsteinsdóttur í Tímariti Máls og menningar, í þakklætisskyni.
Ræða Björns Bjarnasonar er svohljóðandi.

„Dagur íslenskrar tungu

Fyrir réttu ári samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína þess efnis, að framvegis yrði fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar skálds helgaður íslenskri tungu. Í samræmi við það er nú, hinn 16. nóvember, efnt til dags íslenskrar tungu í fyrsta sinn.

Tómas Guðmundsson skáld komst þannig að orði um Jónas Hallgrímsson: „Hin skamma ævi þessa hugljúfa snillings er bundin svo djúpum rótum tilveru hvers manns, er mælir íslenzka tungu, að naumast verður sá maður, sem ekki kann honum nokkur skil, með öllu talinn góður Íslendingur. Í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar hefur þjóðin fundið þá ættjörð, sem hún ann heitast, og það er veglegra og vandasamara hlutverk að vera Íslendingur fyrir það, að hann hefur ort og lifað.”

Frekari og betri rökstuðning er ekki unnt að finna fyrir þeirri ákvörðun, að tengja dag íslenskrar tungu nafni listaskáldsins góða. Jónas var auk þess í hópi Fjölnismanna, sem vildu hlut móðurmálsins sem mestan og gerðu afdráttarlausar kröfur um þjóðlegt og tigið málfar. Í formála Fjölnis er lögð áhersla á, að tungurnar séu höfuðeinkenni þjóðanna og síðan segir: „Eingin þjóð verður fyrri til enn hún talar mál útaf fyrir sig, og deyi málin deyja líka þjóðirnar, eða verða að annari þjóð.”

Þótt enginn dragi í efa réttmæti þess, að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar sé helgaður móðurmálinu, kann einhverjum að þykja framtakið óþarft. Rök mín fyrir því eru þessi:

Dagur íslenskrar tungu er hátíðisdagur móðurmálsins. Hann er dagur, sem Íslendingar nota til að íhuga sérstöðuna, sem endurspeglast í tungunni. Dagurinn er alls ekki síðasta vígi dauðvona þjóðtungu, heldur merki um hina staðfestu vissu Íslendinga, að þeir eiga sér eigin sögu og menningararfleifð.

Áhugi á því að leggja rækt við tunguna er mjög mikill. Sjást þess víða merki. Eru margir, sem vilja láta að sér kveða í því skyni. Með því að efna til dags íslenskrar tungu ætti að vera unnt að tryggja sameiginlegt átak. Við vitum öll, að margar hendur vinna létt verk.

Áreitið á tunguna er meira en nokkru sinni fyrr. Upplýsingar streyma að okkur eftir nýjum leiðum og engum dettur í hug að stífla þær. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að minna á þá staðreynd, að tungumálið er tækið, sem við nýtum til að miðla þekkingu og afla hennar. Hún er öflugasta, þjóðlega verkfæri okkar. Íslenskan mótar handbragð okkar Íslendinga í þekkingarsamfélaginu og hún gefur framlagi okkar til þess sérstakt gildi. Með því að leggja rækt við sérkenni tungunnar styrkjum við hlut okkar í hinu alþjóðlega samfélagi.

Á sama tíma og samstarf þjóða eykst og auðveldara verður að koma skoðunum sínum hindrunarlaust á framfæri við heiminn allan, leggja einstaklingar og þjóðir meiri rækt en áður við uppruna sinn og sögu. Ætti það ekki að koma okkur Íslendingum á óvart, því að við lítum þannig á, að sagan, landið og tungan skapi okkur helst sérstöðu í samfélagi þjóðanna. Töpum við þessum sérkennum, mun ekki líða á löngu, þar til við glötum viljanum til þeirrar baráttu, sem hefur á ótrúlega skömmum tíma breytt íslenska þjóðfélaginu úr bændasamfélagi í háþróað og auðugt þekkingar-, þjónustu- og iðnaðarsamfélag án þess að menningararfleifð okkar hafi lotið í lægra haldi fyrir erlendum menningarstraumum.

Um það er ekki deilt, að þekking á erlendum tungumálum er mikilvægari en áður við nýjar alþjóðlegar aðstæður og með meiri áherslu á arðbær störf byggð á rannsóknum og vísindum. Rækt við móðurmálið er hins vegar forsenda þess, að menn geti tileinkað sér aðrar tungur.

Ég gæti þannig fært mörg fleiri rök fyrir því, að við efnum til dags íslenskrar tungu. Hér hef ég kosið að nefna þau, sem snerta átök þjóðarinnar í samtímanum. Hinu hef ég sleppt, sem lýtur beint að rækt við menningararfinn. Lít ég þannig á, að skyldan við hann sé okkur í blóð borin. Við vitum öll, að án tungunnar hverfur íslenska þjóðin inn í stærra samfélag eins og Fjölnismenn töldu á sínum tíma. Raunar blasir við, að það yrði inn í hinn enskumælandi heim, því að Norður-Atlantshafið, sem umlykur okkur, er menningarlegt yfirráðasvæði hinna öflugu enskumælandi nágranna okkar í austri og vestri.

Ég tel hin fjölbreyttu og ánægjulegu viðbrögð, sem dagur íslenskrar tungu hefur vakið, til marks um, að Íslendingar vilji eindregið leggja rækt við móðurmál sitt. Sá vilji ræður úrslitum um lok þeirrar ferðar, sem við hefjum hér í dag.

Á vegum menntamálaráðuneytisins hefur verið leitast við að undirbúa daginn með því að virkja sem flesta. Dagur íslenskrar tungu er ekki minningardagur heldur tilefni til að gera betur, huga að nýjum leiðum til að vekja áhuga á gildi þess að tala og rita íslensku.

Vil ég á þessari stundu þakka þeim, sem hafa annast skipulag átaksins í tengslum við daginn. Fól ég það starf sérstakri framkvæmdastjórn en í henni sitja Kristján Árnason, prófessor, formaður Íslenskrar málnefndar, Njörður P. Njarðvík prófessor, Ólafur Oddsson menntaskólakennari, Sigmundur Ernir Rúnarsson fréttamaður, og Þorgeir Ólafsson deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, sem jafnframt er formaður stjórnarinnar. Jónmundur Guðmarsson deildarsérfræðingur hefur verið verkefnisstjóri hennar.

Strax og fréttir bárust af því fyrir ári, að ríkisstjórnin hefði fallist á tillögu mína, kom fram víðtækur áhugi á málinu. Meðal þeirra, sem sögðust að eigin frumkvæði vilja leggja málstaðnum lið, var Íslandsbanki, sem veitir fjárstyrk, er ákveðið var, að rynni til einstaklings, sem að mati framkvæmdastjórnar hefði með sérstökum hætti lagt tungunni lið með störfum sínum og annarri viðleitni. Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar verða veitt í fyrsta skipti hér á eftir og vil ég þakka bankanum þennan stórhug og stuðning við framtakið, var frumkvæði hans hvatning öllum, sem að undirbúningnum komu.

Tilefni þessarar samkomu okkar hér í dag er einmitt að heiðra þá, sem hafa lagt tungunni lið. Athöfnin hér í Listasafni Íslands er einungis einn þáttur af mörgum, sem tengjast þessum degi. Fjölbreytnin á að stuðla að því að vekja sem flesta til umhugsunar um móðurmálið. Í dag og undanfarna daga hefur verið bryddað upp á ýmsu, sem tengist tungunni. Raunverulegt átak byggist á þátttöku margra aðila, sem spanna meginsvið þjóðlífsins. Framkvæmdastjórn dagsins lagði höfuðáherslu á frjálsa þátttöku fyrirtækja, stofnana, samtaka og félaga, leit hún raunar fremur á sig sem umsjónarmann en stjórnanda. Vil ég hér með þakka öllum, sem með frumkvæði, áhuga og góðum vilja hafa lagt málinu lið. Vona ég, að strax á fyrsta degi íslenskrar tungu hafi tekist að renna styrkum stoðum undir framtakið á komandi árum.

Hverjum degi þarf að velja sitt þema og tryggja þannig innra samræmi þessa langtímaverkefnis. Slíku þema er ætlað að vera almennt viðmið, einkum í starfi skóla, þótt hverjum og einum hafi verið og sé frjálst að nálgast tilefni dagsins á eigin forsendum. Framkvæmdastjórnin ákvað, að í ár skyldi Jónas Hallgrímsson, líf hans og list, setja svip sinn á daginn og því eru einkunnarorð hans – Móðurmálið mitt góða – frá Jónasi komin.

Góðir áheyrendur!

Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, segir í nýlegri bók sinni Um Jónas, að með Jónasi Hallgrímssyni hefjist nútíminn í íslenskri ljóðagerð. Lífsstarf hans eigi rætur í fornri menningu þjóðarinnar og alþjóðlegum viðhorfum, en ljóðlist hans sé jafnnútímaleg og kvæði Steins Steinars, atómskáldanna og arftaka þeirra, tungutakið án stirðleika eldri skáldskapar og fylgi vandförnu einstigi talmáls og bókmenntalegrar arfleifðar.

Orðrétt segir Matthías: „Jónas lifir með okkur, við eigum hann að; en hann er ekki daglegur gestur í lífi okkar; sjaldnast er vitnað í hann.... En samt er hann eins og einhver goðsöguleg vera á stalli og ef við ímynd hans eða orðstír væri amazt risu menn upp til að mótmæla.”

Og Matthías líkir Jónasi við ljóðið, sem er óáleitið og endingargott, til þess sé vitnað í þrengingum, það vaxi inn í vitund okkar, sterkt og lífseigt eins og grasið.

Tómas Guðmundsson sagði veglegra og vandasamara að vera Íslendingur fyrir það, að Jónas Hallgrímsson hefur ort og lifað. Við skulum hvorki víkjast undan vegsemdinni né vandanum.

Megi ljóðið, Jónas og móðurmálið mitt góða vera sterkt og lífseigt eins og grasið í vitund íslensku þjóðarinnar. Stuðli dagur íslenskrar tungu að því, er til nokkurs unnið.”

Þennan dag var víst haldið eitthvert málþing um íslenzkuna sem Heimir Pálsson stjórnaði. Ég hef ekki haft aðrar fregnir af því en það sem stóð í Morgunblaðinu þriðjudaginn 19. nóvember sl. Mér líkaði ágætlega það sem Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndagerðarmaður sagði af þessu tilefni:
„Sagt er að þegar fólk hugsi á ensku kunni það tungumálið. Hvernig eiga ungir þegnar þessa lands að hugsa á íslenzku ef stór hluti umhverfis þeirra mótast af enskri tungu? Bandarískir kvikmyndaframleiðendur hafa gert undirmeðvitund okkar að nýlendum sínum og þurfa ekki að beita gömlum aðferðum við nýlendukúgun sína. Nú nægir þeim að einoka þá auðlind sem frístundir fólks eru, þ.e. að fá að drepa tímann fyrir fólki án þess að borga veiðigjald í því andvaraleysi sem í því ríkir. Hér á landi fá sumir leyfi til að sjónvarpa efni án þess að greiða fyrir þann skað sem þeir valda innlendri menningu. Sums staðar í Evrópu, eins og t.d. í Frakklandi, greiða menn fyrir sjónvarpsrás eins og um afnot af auðlind væri að ræða. Þetta fé rennur síðan til innlendrar kvikmyndagerðar... Þó að ráðamenn segist vera allir af vilja gerðir til að efla hag íslenzkrar tungu, er ljóst að það verður ekki gert nema með þjóðarátaki. Tafarlausra aðgerða er þörf. Hér duga ekki töfralausnir markaðsspekinga sem eru þýddar upp úr ritum milljónaþjóða. M.a. vegna smæðar okkar getum við ekki vænzt þess að frjáls samkeppni komi tungunni til bjargar. Því miður hefur það sýnt sig að hinar frjálsu sjónvarpsstöðvar hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að auka hlut íslenzks dagskrárefnis sem stendur undir nafni.”

Gott hjá Friðriki Þór. Hann fær fjórar stjörnur. Eða kannski fimm(!)

Kvöldið

Hef verið að hlusta á Robert Fulghum lesa úr bók sinni Frá byrjun til enda. Hann segir frá því þegar hann stal bílnum frá móður sinni ungur drengur og prófalaus. Ekkert merkilegt í sjálfu sér. En ég minntist þess þá þegar faðir minn hafði keypt Standardinn skömmu eftir stríð og hann stóð gljáfægður fyrir utan heimili okkar á Hávallagötu 49 og ég hafði þessa ódrepandi ástríðu að aka honum en fékk að sjálfsögðu ekki því ég var ekki nema sextán ára og próflaus. Þetta hefur verið 1946. Ég hef líklega verið í 2. bekk menntaskólans. Einn daginn fóru foreldrar mínir í kvöldboð, en skildu bílinn eftir heima. Ég bauð skólasystkinum mínum í bílferð, ók um allan Vesturbæinn eins og Bjössi á mjólkurbílnum og svo heim aftur án þess nokkuð kæmi fyrir. Og bíllinn stóð á sínum stað þegar foreldrar mínir komu heim um kvöldið, jafn gljáfægður og áður.
Ég hef oft hugsað um hvað ég var lánsamur að ekkert skyldi koma fyrir. Ég hefði getað valdið slysi, ég hefði getað eyðilagt nýjan bíl föður míns sem hafði tekið lán til að eignast þennan litla brezka bíl, en hann var bara opinber starfsmaður, heldur lágt launaður, og enginn burgeis.

Við gerum oft það sem við eigum ekki að gera. Stundum er okkur refsað, stundum ekki. Ég veit ekki hvaða lögmál gilda í þeim efnum, kannski engin. Hitt er víst að ég hefði getað eyðilagt mitt eigið líf og okkar skólasystkinanna, foreldra minna og heimilis ef ólánið hefði elt mig þennan klukkutíma sem ég var að brjóta lögin í Vesturbænum vegna þeirra freistinga sem ég stóðst ekki.

Nokkru síðar tók ég bílinn einnig í leyfisleysi skömmu fyrir hádegi, eða áður en faðir minn kom gangandi heim úr vinnunni. Það drapst á bílnum á horni Hávallagötu og Hofsvallagötu. Ég reyndi að koma honum í gang en gekk ekki. Þá ók leigubíll hægt niður Hofsvallagötuna og stöðvaðist fyrir framan mig þarna á horninu. Ég startaði bílnum í ofboði, en snerti þá leigubílinn örlítið, held þó ekki það hafi sézt neitt á honum. Bílstjórinn kom út og sá að ég var skelfingu lostinn. Hann grunaði strax að ég væri ólöglegur. Sagði við mig að hann myndi kæra þetta til lögreglunnar.
Ég bað hann gera það ekki.
Hann sagðist ekki skyldu gera það ef ég borgaði sér 100 krónur.
Það voru miklir peningar 1946. Ég hljóp heim til mömmu sem vissi ekki að ég hafði tekið bílinn traustataki, enda ætlaði ég bara á honum einn Sólvalla-hring(!)
Hún bað guð fyrir sér. Ég spurði hvort hún gæti borgað fyrir mig 100 krónur. Hún hafði að vísu ekki mikil auraráð en bílstjórinn fékk sitt og ég kom bílnum á sinn stað eftir þessa örlagaríku glæfraför áður en faðir minn kom heim.

Ég hét guði því að ég skyldi aldrei taka bílinn hans pabba traustataki, ef hann hjálpaði mér út úr þessum kröggum.
Og guð varð við bænum mínum. Þetta samkomulag við guð braut ég aldrei og bíllinn var föður mínum til þeirrar gleði sem til stóð.
Þó munaði litlu að ég dræpi mig í þessum bíl eftir að við fluttumst að Nökkvavogi 41.
Það var held ég 1948. Þá var ég einhvern tímann að koma heim af skólaballi og var einn í bílnum. Að sjálfsögðu allsgáður. Það var eftir miðnætti, frost og myrkur, og ég áttaði mig ekki á því hvað göturnar voru hálar. Þá var Suðurlandsbrautin mjórri en hún er nú. Á gatnamótum Grensásvegar komu tveir bílar á móti mér. Ég snerti bremsuna. Þá tók bíllinn að snúast og ég missti stjórn á honum. Þeir bílar sem á móti komu þustu framhjá án þess neinn tæki eftir vandræðum mínum. Ég kunni víst ekki að bregðast við svona hættu og missti algjörlega stjórn á bílnum. Hann snerist við á flughálli götunni og lenti að lokum á hvolfi milli kletts og brúar sem var yfir skurð meðfram Suðurlandsbraut. Ég komst við illan leik út um þakgluggann.
Það var óskaplegt að sjá bílinn.
Ég fékk að sjálfsögðu áfall en komst heim við illan leik, vakti foreldra mína og pabbi kom með mér á slysstað. Þegar hann sá bílinn þar sem hann lá í skurðinum milli kletts og brúar sagði hann ekki orð. Hann vissi að það munaði einungis nokkrum metrum að ég hefði orðið til í þessum skurði. Það hefðu verið ömurleg endalok á stuttri ævi.

Standardinn var gerður upp og kostaði föður minn ærið fé. Þótt ég væri með full réttindi og hefði ekkert gert af mér annað en stíga á bremsuna á röngu andartaki þá var bíllinn ekki kaskótryggður og tjónið algert. Ég fékk að sjálfsögðu af þessu talsvert samvizkubit en faðir minn gagnrýndi mig aldrei með einu orði þótt hann yrði fyrir svo tilfinnanlegu tjóni. Líf mitt var honum meira virði en allt það sparifé sem hann hafði önglað saman á langri ævi.

Standardinn var svo seldur nokkru síðar og þá keypti faðir minn lítinn grænan Fíat sem hann fékk fyrir orð Sverris vinar síns Júlíussonar, sem var formaður LÍÚ, en samtök útgerðarmanna fengu á þessum árum svo nefndan bátagjaldeyri og gátu flutt inn bíla til að selja og standa þannig straum af útgerð sinni.
Ég keypti þennan Fíat nokkrum árum síðar.
Þá bjuggum við Hanna í kjallaranum í Nökkvavogi 41 og þurftum á bíl að halda því hún vann á hárgreiðslustofu sinni í bænum og ég á Morgunblaðinu og stundaði auk þess nám við Háskóla Íslands. Þetta var fyrsti bíllinn sem við eignuðumst. Hann var ágætur, hann stóð sig alltaf vel, nema í frosti, þá þurfti stundum að ýta honum í gang.

Miðnætti

Eineygur
gengur vetur
yfir bringuhvítt
hjarn

lokar auganu aftur
og hverfur að nakinni jörð.

24. nóvember, sunnudagur

 

Í sumar skrifaði ég Helgispjall um síkópata. Það birtist í næsta riti með helgispjöllum sem kemur út fyrir jól og er fimmta bindi þessarar ritraðar, nefnist Eintal á alneti eftir samnefndu, óbirtu kvæði, en ég ætla að prenta það í Helgispjalli fyrir jólin. Í dag heitir Helgispjallið  Hver er mestur? Það er einskonar framhald af greininni um síkópatana og sýnir vel það ofnæmi sem ég fæ með köflum fyrir umhverfinu. Þetta helgispjall er svohljóðandi:

Hver er mestur?

Við búum í poppmenningarsamfélagi og guðið er eingetið alnet og hálfur veruleikinn flótti inní sýndarveröld sjónvarps og fíknar; þ.e. blekkingar. Semsagt, blekkingin er einn helzti söluvarningur þessa hasars. En í hverskonar þjóðfélagi búum við? Er það gott þjóðfélag, meðalgott? Eða slæmt? Við búum aðvísu í lýðræðisþjóðfélagi sem býður uppá þónokkra samhjálp. Semsagt, lýðræðislegu velferðarríki. En er það ekki fyrirheitna landið? Má vera. Þó mætti þetta vera öðruvísi þjóðfélag fyrir minn smekk. Afhverju? Jú, vegna þess að helzta einkenni þessa samfélags er hávaði og taugatitringur. Þetta er því hávaðasamfélag. Og hvar er hávaðinn mestur? Að sjálfsögðu í fjölmiðlunum. Það er oftaren ekki sem þeir gera mikið úr litlu og lítið úr engu. En sjaldnast að þeir leggi sérstaka áherzlu á raunveruleg verðmæti. Það þurfa allir að vera í einhverjum stellingum svoað þeir sjáist í þessu glamursama þjóðfélagi pótemkintjaldanna. Og hvernig eru þessar stellingar? Jú, þær eru auðvitað stellingar markaðsþjóðfélagsins. Og þá er ekki að sökum að spyrja. Það er ekki einungis verið að selja einhvern varning, heldur er oftaren ekki verið að selja fólk; oft kjaftaska sem eru vitlausir í að selja sig athyglisdjöflinum, en hafa svosem ekkert að segja. Þeir sem mest ber á í svona samfélagi er allskonar fólk sem er á uppboði. Ef rithöfundar, popparar eða stjórnmálamenn þurfa að minna á sig eru hverskonar uppákomur eða sjónarspil hin ákjósanlegustu tækifæri, en hvorki verk þeirra né verðmæti.

En dugar þetta eitthvað til langframa? Það held ég ekki. Nú er jafnvel hið daglega auglýsingabrauð ameríkana um margra mánaða skeið, Bob Dole,forsetaframbjóðandi, horfinn af sjónarsviðinu inní þessa hávaðasömu þögn sem hefur ævinlega síðasta orðið. Og það verður ekki langt þangaðtil hann verður með öllu gleymdur, jafnvel þótt það hafi birzt af honum tvær til þrjár myndir daglega í sama blaðinu og sjónvarpsrispur sem voru orðnar einsog hver annar fjölmiðlakækur þar vestra. En hvað þá um minni spámennina hér heima? Hvað um öll séníin sem nú er verið að auglýsa einsog kaffibakkelsi á bolludaginn?

Öruggasta ráðið til að ná athygli eru gífuryrði. Allskyns gífuryrði. Og því bólgnari og innantómari, því betra. Semsagt, við lifum í samfélagi innantómra upphrópana; sbr. bylur hæst í tómri tunnu! Þeir sem tala af einhverju raunverulegu viti, þeir sem reyna að halda í einhvern smekk eða miða ræðu sína við raunveruleg verðmæti hverfa inní þennan taugatitring einsog mý í vindgusti.

Svona samfélag er aðvísu ekki nýtt af nálinni. Það hefur örlað á því áður. En nú er þessi hávaðatitringur ekki lengur eitthvert tíst í einni og einni hagamús einsog áður var. Nú er þetta tíst einkennandi hávaði í samfélagi okkar. Og þeir eru margir músíkantarnir í þessari samfélagssinfóníu hávaðans. Aðvísu ekki eins margir og ætla mætti miðað við hávaðann, því það er tiltölulega fámennur hópur sem tekur þátt í þessum þjóðsöng og heimtar sína athygli. Aðvísu fólk úr flestum stéttum – og þá ekkisízt þeir sem eru í einhverju listrænu basli eða pólitískri andlitslyftingu. Þetta fjallar semsagt um athygli. Jú, en einnig völd. Og peninga. En fyrstogsíðast um athygli, eða frægð sem er engin frægð hér á hjara veraldar.

Íslenzk frægð er einsog flugnasuð við arnarhreiður. En það er til fólk sem fyllir tómið með þessu suði. Allskyns fólk. Og það er bókstaflega að æra samfélagið þótt það sé andsætt öllum náttúrulögmálum að suð geti orðið að einhverskonar þjóðfélagsböli.

Já, athyglissýki er þetta víst kallað. Mannjafnaðarpot. Og svo auðvitað peningastreð – og mætti vel finna afsökun fyrir því eins og ástandið er. En það er bara ekki láglaunafólkið sem stendur í þessu stríði. Það vinnur sín störf í kyrrþey – einsog sá þögli meirihluti – og horfir agndofa á atganginn. Á sér önnur trúarbrögð en spegilinn í baðherberginu sínu. Dregur sig í hlé – einsog flestir aðrir – og undrast alla þessa tilvistarkreppu; allt þetta framapot.
Ætli það sé orðið að einhverskonar smitsjúkdómi?
Hver veit?

Einu sinni dansaði öll Evrópa milli borga í einhverskonar miðaldaæði. Og afhverju? Jú, vegna þess að einn byrjaði að dansa. Og þá þurftu auðvitað ýmsir aðrir að viðra sig. Þetta var á þeim tímum að það var ekki hægt að kenna fjölmiðlunum um dansæðið. Það kom innanfrá, það kom úr miðaldatóminu sjálfu.

Og það var einsog þorstinn í Helvíti.

En nú er komið að Kompaníinu sem ég skrifaði á sínum tíma uppúr samtölum okkar Þórbergs. Þar er drepið á þetta athyglisæði. Þórbergur sagðist geta orðið landshöfðingi í gegnumklofsskautahlaupum. Semsagt, frægur í Suðursveit. Það hefði þó verið betra en vera frægur að endemum. Sumir vilja það heldur en vera ófrægir með öllu.

Laugardaginn 6. des. 1958 segir svo í Kompaníinu:

"Ég hef aldrei skilið, hvað menn geta lagt á sig mikið af heimskulegu erfiði til þess að ávinna sér veraldarupphefðir, sem þeim virðist ekki vera nein lífsnauðsyn að ná. Venjulega byrja þeir með að komast yfir kvenmann og þykjast hafa vaxið að manndómi. Það er frumstæðasta ástríða mannsins. Þetta eitt endist þeim þó ekki til lengdar og þá fer þá að langa eftir að safna auðæfum. Og þeir halda áfram að safna og safna og aldrei hafa þeir safnað svo miklu, að þeim finnist þeir hafi efni á að segja: Nú er ég búinn að fá nóg. Þetta er eins og helgar bækur lýsa þorstanum í Helvíti. Og þeir geta lagt svo mikið að sér til að reyna að fullnægja þessari blekkingu í sjálfum sér, að þeir eru orðnir úttauguð hrör langt fyrir aldur fram. Peningagræðgi er mjög slæm fyrir taugarnar og hjartað og æðakerfið, að ég tali nú ekki um fyrir sálina. Aðrir leggja mikið kapp á að geta sallað náungann í fótbolta, sigrað hann í stangarstökki, kringlukasti og glennt sig betur en hann í þrístökki, sem ég held að sé auðvirðilegasta stökk í heimi. En samt verða menn heimsfrægir fyrir það. Enn aðrir sækjast eftir því að komast til valda, verða dýrkaðir af fólkinu sem alþingismenn, ráðherrar og annað þvíumlíkt. Svo eru þeir sem keppa eftir að verða frægir fyrir að skrifa bækur, yrkja kvæði, herma eftir uppi á leikpalli, möndla óperur. Allt stafar þetta frá einu og því sama: einhverri vöntun í manninum, einhverju andlegu tómi, sem er verið að strefa við að fylla. En það skrítna við þetta er það, að tómið fyllist aldrei. Og maðurinn er í raun og veru jafntómur og jafnvesæll að leiðarlokum sem í upphafi leiðarinnar. Þetta er eitt af því skrítna við lífið. Tómið verður aðeins fyllt með því að losa sig við strefið við að fylla tómið. Losa sig við persónuleikann, sem ég er frægur fyrir að hafa kallað svo, því að strefið á rætur sínar í persónuleikanum. Hann er hnútarnir í sálarlífinu. Þegar menn hafa leyst hnútana, ljóma þeir eins og fagurt ljós."

Sagði Þórbergur.

26. nóvember, þriðjudagur

Svartasta skammdegið. Vaknaði um hálfsjöleytið í morgun. Lá andvaka, hugsaði.
Það eru víst nokkur ellimörk að vakna svo snemma, en ég hef verið heldur morgunsvæfur enda hef ég alltaf þurft að vinna langt fram á nætur, bæði á vöktum á blaðinu og heima. Haraldur sonur okkar fór í morgun í vitnaleiðslu í máli  ákæruvaldsins gegn Hrafni Jökulssyni á Alþýðublaðinu. Hann hringdi til mín um hádegið og sagði spurningarnar hefðu átt að sýna að ekki hefði verið ráðizt að æru hans persónulega, heldur fangelsiskerfinu.
Dómarinn spurði hvort hann teldi að ráðizt hefði verið að æru hans. Hann svaraði því játandi. Hann er sallarólegur og afslappaður. Einhverjar þrjár hræður voru í salnum. Hann heldur að ljósmyndari frá Alþýðublaðinu hafi verið á staðnum, en ekki aðrir fjölmiðlar. Það verður þá að öllum líkindum eitthvað í blaði alþýðunnar eins og fangarnir segja.
Þegar Haraldur gekk út kvaddi hann Hrafn Jökulsson með handabandi. Hann sagði að Hrafn hefði hrokkið við.
Hann sagði við mig, Ég hef ekkert gert honum.

Hann man sem sagt eftir kenningu Jóhannesar bæjarfógeta langafa síns um þetta atriði; að auðvelt sé að heilsa þeim sem maður hefur ekkert gert.
Það hefur líklega verið erfiðara fyrir Hrafn!

Var að velta því fyrir mér hvernig þetta samfélag væri.
Þykir mér vænt um þjóðfélagið?
Nei.
Þykir mér vænt um samfélagið?
Nei.
Þykir mér vænt um einhvern félagsskap?
Ænei.
Þykir mér vænt um blaðamennina?
Ekki sem hóp, heldur einstaklinga.
Mér þykir vænt um hvern og einn. Mér þykir ekkert vænt um fólk almennt, en hvern og einn.
Þegar ég veit að fólk hefur orðið fyrir áfalli, þegar það hefur orðið fyrir andlegri þjáningu, þegar að kviku þess hefur verið vegið, hvort sem er af völdum náttúrunnar eða annars fólks, finn ég til með hverjum og einum. Oft bið ég fyrir þeim sem eiga bágt. Oft bið ég einnig fyrir þeim sem deyja, ekki sízt í slysum. Ég hef trú á bæninni.Og tel þetta kristna afstöðu.
Hef trú á því að bænin  sé mesti kraftur sem til sé. Að það sé hægt með von að vefja verndarhjúp um hvern og einn.  Ekki hópa,ekki ríkisstjórn eins og prestarnir halda í sínum opinberu embættisstellingum.Bænin er ekki galdraformúla. Hún dugar ekki á söfnuð, ekki samfélag, ekki þjóðfélag. Þess vegna finnst mér fáránlegt þegar verið er að biðja fyrir hópsál, Það á að biðja fyrir hverjum og einum.
Kristur talar um sáluhjálp hvers og eins.

Já, ég hef tröllatrú á bæninni. Móðir mín kenndi mér það. Og ég hef lifað í þessari trú og mér þykir vænt um þá sem ég bið fyrir. Samt hef ég oft beðið fyrir óvinum mínum. Þá hef ég fundið hvernig hatrið molnar utan af þeim eins og gifsið utan af gifsmanninum í pólsku kvikmyndinni frægu.

Hvernig er hægt að láta sér þykja vænt um hjörð? Hvernig er hægt að láta sér þykja vænt um eitthvert félag eða hóp manna? Það er mér jafnóskiljanlegt og hitt er mér innróið og eðlislægt, að þykja vænt um einstaklinginn.
Hinn misskilda,hinn útskúfaða,hinn þjáða,hinn kvíðna.
Hinn sorgmædda.
Það er hann sem á erfitt uppdráttar. Það er hann sem á erfitt með að fóta sig. Það er hann sem er að brjótast um í samfélaginu og reyna að leysa tilvistarvanda sinn.
Hjörðin hefur engan tilvistarvanda. Hún þarf ekki að horfast í augu við sjálfa sig eins og einstaklingurinn. Nakinn andspænis sjálfum sér og skapara sínum.

Hjörðin  er viljalaust verkfæri lýðskrumara.Viðbrögð hennar eru tilfinning náttúrunnar sem er sveigð undir einhvern hitler;eða stalín;eða Maó.
Eða lítum bara á viðbrögð sebrahestanna á steppum Afríku.Ef einn fælist tekur öll hjörðin á rás.Og ljónið bíður eftir bráð sinni.
Og þá þýðir ekkert að leggjast á bæn!

Tveir vinir mínir berjast nú við krabbamein, Sveinn Björnsson listmálari og Garðar Svavarsson kaupmaður. Hans er getið í Vísum um vötn.
Þessi veikindi hafa að sjálfsögðu breytt lífi þeirra og fjölskyldna.
Það var oft gaman að vera með Garðari við laxveiðiá. Ég lærði margt af honum. Hann er flinkasti laxveiðimaður sem ég þekki.
En Sveinn Björnsson?
Hann gengur upp í málverkum sínum.
Þykir mér vænt um þau? Nei, ekkert sérstaklega. Þau eru misjafnlega góð, það er allt og sumt.
En ég er með hugann við Svein og ég er með hugann við Garðar. Ég hef beðið fyrir þeim báðum. En ég hef aldrei beðið fyrir málverkum Sveins Björnssonar og ég held þau myndu ekkert batna við það(!) Listin getur verið verðmæt en einstaklingurinn, hver  og einn, skiptir öllu máli. Það er líka mikilvægasti boðskapur kristninnar og ég veit enga gjöf dýrmætari en fyrirheit Krists; að í húsi föðurins séu margar vistarverur; þ.e. fyrir hvern og einn.
Kristur vissi öðrum betur að við erum ekki öll af sama sauðahúsi. Hver og einn er með sínu marki brenndur og þannig stendur hann andspænis skapara sínum, einn og óstuddur,þegar þar að kemur.. Að öðru leyti en því að Kristur hefur búið okkur stað.
Við förum ekki með jarðneskar leifar inn í dauðann en við förum með hjartalagið, ef mér skjátlast ekki. Það er hjartalagið sem skiptir öllu máli. Og ég veit enga siðferðispredikun betri en þá sem Jóhannes afi minn lifði eftir, Ég hef aldrei gert honum neitt(!) sagði hann um Jónas á Hriflu og talaði við hann á nýræðisaldri eins og ekkert væri.
Mér þykir vænt um þessa arfleifð, hún hefur oft hjálpað mér, og ég gleðst yfir því að hún er inngróin í hjartalag sona minna. Þeir hafa einnig fengið fjallræðuandann úr móðurættinni.
Ingólfur tengdafaðir minn hefði til að mynda sómt sér vel í fjallræðusögum Halldórs Laxness. Hann var góði hirðirinn en baráttuþrekið sótti hann í Katrínu konu sína. Hanna, dóttir þeirra, er eins og Herðubreið blasti við úr eldhúsglugganum á Víðirhóli þegar hún var telpa;drottning fjallanna.
En hún er ekki eins og Herðubreið þegar horft er á hana af Sprengisandi. Það er ekki sama hvaðan maður horfir, og ekki heldur – hver horfir.Af Sprengisandi er Herðubreið með hversdagslegustu fjöllum.

5. desember, fimmtudagur

Geir H. Haarde borðaði með mér í matsal Morgunblaðsins í hádeginu í dag. Geir er alltaf samur við sig. Hann breytist ekkert, hann er sama ljúfmennið, sami húmoristinn og sami húmanistinn og hann var ungur maður á Morgunblaðinu. En eldurinn á eftir að herða hann.Hann hefur ævinlega haldið tryggð við okkur og ég held jafn mikið uppá hann nú og þegar hann starfaði á blaðinu. Hann er á réttum stað sem formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og stjórnmál eiga vel við hann. En það brýtur  ekki á honum vegna Davíðs.Þar splundrast úthafsaldan.
Geir hefur komið vel út úr sínum stjórnmálastörfum og ýmsir málsmetandi menn segja við mig að hann sé vel til foringja fallinn og það gæti orðið flokknum til framdráttar að hann tæki við af Davíð Oddssyni. Þessa skoðun heyrði ég meðal annars þegar við ræddum þetta eftir kvöldverð í Landsbankanum, á fundi fimmmenningaklíkunnar, þá voru þeir allir á einu máli um að Geir væri besti kosturinn, Gylfi Þ. Gíslason, Jóhannes Nordal, Indriði G. Þorsteinsson og Sverrir Hermannsson.
En hann mætti sýna meiri hörku eins og Björn Bjarnason sem hefur tekið miklum framförum í pólitík.
Nefndi þetta,en það eru ekki allir á þessari skoðun. Geir telur að Davíð Oddsson stefni að því að gera Björn Bjarnason að eftirmanni sínum....
Ég spurði hvort Davíð hefði ekki boðið Geir ráðherraembætti, hann svaraði því neitandi, hann talaði við mig, sagði Geir, eins og aðra þingmenn, ég sagðist telja að ég ætti rétt á ráðherraembætti eins og hver annar, en hann benti á úrslit prófkjörsins og spurði hvort ákvörðunin hefði ekki verið tekin þar….      .
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins eigi ekki við neitt sérstakt böl að etja nú um stundir og sé tiltölulega samhentur.
Við Geir töluðum um ýmislegt annað, að sjálfsögðu, og hétum á okkur að hittast á nýju ári, fá okkur hádegisverð og bjórglas

Kvöldið

 

Halli og Brynhildur skruppu til Lundúna í morgun. Það var frost, logn og heiðskírt.
Ingólfur skírist til kaþólskrar trúar í Soho-kirkjunni á morgun. Þau verða viðstödd athöfnina, auk nokkurra vina Ingólfs. Mér er sama hvaða leið menn velja sér á fund Krists, sjálfur var ég í kaþólskum skóla á viðkvæmum aldri, þá fórum við með kaþólskar morgunbænir. Ingólfur hefur kosið sér þessa kristnu umgjörð. Það er hans val.

Sunnudagur, annar í aðventu

 

Séra Felix Ólafsson prédikaði í Neskirkju í dag. Texti dagsins var um brúðarmeyjarnar. Hann sagði að olían væri andi guðs, bæði í þessari sögu og annars staðar þar sem olíu væri minnzt í Biblíunni. Þótti þetta athyglisvert. Enginn talaði eins í líkingum og Kristur. Hann er að því leyti eins konar upphaf allrar ljóðlistar. Ætli hún sé tungumál himnaríkis? Það er slæmt hvað fólkið hefur misst tengsl við líkingar og myndmál og er eins og á andlegu flæðiskeri statt þegar slíku bregður fyrir, bæði í Bilíunni og nútímaljóðlist.
Held að kaþólskt fólk á fyrri tíð hafi verið betur í stakk búið til að meðtaka líkingamál Biblíunnar og skáldskaparins en þeir sem nú lifa. Það er mikil afturför og ef líkingamál Krists er tungutak himnaríkis verður erfitt fyrir marga að skilja það sem þar fer fram. Menn ættu því að leggja meiri áherzlu á ljóðlist en gert hefur verið. Hún víkkar þrönga merkingu orðanna, skýrir með einföldum hætti flókin jarðnesk vandamál.
Kristur er fyrst og síðast guðlegt skáld og ljóðlist hans á rætur í guðlegri andagift. Það getur verið erfitt að fylgja honum, en sá sem kann skil á flóknu líkingamáli ljóðlistar er betur í stakk búinn til að fylgja Kristi en sá sem hefur farið á mis við ljóðlistina. Þó að ekki væri af annarri ástæðu en þessari er ljóðlistin mikilvægt tæki til að skilja umhverfi okkar, kristið samfélag og þá ekki sízt þá fornu guðstrú sem er í senn rætur trésins og króna. Án þessara tengsla við jörð og himin mundi tréð visna, það yrði einungis fuglslausar greinar og sönglaus kalvíður.
Texti dagsins var einnig um komu Messíasar og vitnað til Jesaja, ellefu: „Af stofni Ísai mun kvistur fram spretta og angi upp vaxa af rótum hans.
Yfir honum mun hvíla Andi Drottins: Vísdóms og skilnings, andi ráðsspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins. Unun hans mun vera að óttast Drottin: Í Jesaja  sjö er Kristur einnig boðaður: „ Og sjá, yngismær verður þunguð, og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.”
Þetta eru miklir spádómar, en ég hefði kosið að þeir hefðu ekki staðið í Gamla testamenntinu; ég hefði kosið að Kristur hefði komið án slíkra spádóma; að hann hefði komið óvænt og undirbúningslaust; án Gamla testamenntisins. Þá hefði enginn getað sagt að Kristur væri að uppfylla gamla spádóma. Þá hefði enginn getað sagt að hann væri að fylgja þessum gömlu gyðinglegu spádómum; að hann hefði verið sérvitur gyðingur sem hefði tekið sig of alvarlega; að hann hafi þótzt vera það sem hann var ekki. Ég held að vísu að fáir eða engir sem kynna sér Nýja testamenntið rækilega efist um guðdóm Krists vegna þessara tengsla og ef það væri gert, teldi ég það ósannfærandi vegna þess hve líf Krists og guðleg andagift er sannfærandi í öllum guðspjöllunum fjórum.
En ef einhver vildi gæti hann sagt:

Hann tók Gamla testamenntið og spámennina á orðinu og tók sér fyrir hendur að lifa inn í þessa spádóma. Ég held meira að segja að gyðingar hafi ekki tekið við Kristi vegna þess að þeir óttuðust einmitt þetta. En mér er líka til efs að Kristur sé Immanúel Gamla testamenntisins, ég held miklu fremur að hann sé einn og sérstæður, ólíkur öllum öðrum og hafinn yfir alla veraldlega spámenn gyðinga. Hann var einfaldlega Kristur, þessi óvænti, einstæði vitnisburður um Guð, ólíkur öllu öðru sem við þekkjum. Hann var guð friðþægingar, aflausnar, upprisu, hann var ekki endilega fyrirheit Jave, heldur hins kristna himnaríkis; fyrirgefningar og kærleika. Hann var að vísu gyðingur, en hann blés á kennisetningar gyðinga ef honum bauð svo við að horfa. Sjálfur sagðist hann vera ljós heimsins; upprisan og lífið, og ég trúi því.
Eina leiðin finnst mér til að lifa af, að afhenda honum líf sitt og hvílast í honum og Drottni.

 

14. desember, laugardagur

Leifur Sveinsson ritar eftirfarandi grein í Morgunblaðið í dag:

Að gefa út dagblað

I
Ég sest við skriftir á altani hótelíbúðar okkar hjóna á Barbacan Sol á Ensku ströndinni á Gran Canaria. Það er laugardagurinn 9. nóvember 1996. Fyrir framan mig liggur nýjasta eintakið af The European. Þar er skýrt frá því, að í Grikklandi, þar sem vagga lýðræðisins stóð, séu væntanlegar breytingar á skattalögum. Skattaívilnanir til ólympíustjarna, leikara, poppstjarna, herforingja, þingmanna og blaðamanna verði afnumdar. Til skamms tíma greiddu blaðamenn t.d. skatta aðeins af helmingi launa sinna. Hugmyndin að baki „blaðamannakjara” í skattheimtu var að fá mildari gagnrýni á gerðir viðkomandi ríkisstjórna. Þannig maraði vagga lýðræðisins í kafi spillingarinnar. Costas Simitis forsætisráðherra Grikklands ætlar nú að reyna að laga þetta og er honum óskað góðs gengis í þeirri baráttu.

II

Á fyrsta starfsdegi Eyjólfs K. Jónssonar í maíbyrjun 1960 sem ritstjóra Morgunblaðsins hringdi síminn á skrifstofu hans: „Þetta er Ólafur Thors, ertu tilbúinn. Ég er með línuna.” Eykon kvaðst ekki tilbúinn, hvorki þá né síðar. Hann væri ráðinn ritstjóri af stjórn Árvakurs hf., útgáfufélags Morgunblaðsins, og hefði í samráði við meðritstjóra sína algerlega frjálsar hendur um efni blaðsins. Hann tæki hvorki við línum frá Kveldúlfi, Sjálfstæðisflokknum eða LÍÚ. Svipaðri reynslu hafði Matthías Johannessen orðið fyrir ári áður í viðskiptum sínum við Ingólf ráðherra Jónsson frá Hellu. Þetta rifjaðist upp fyrir mér um daginn, er ég las hin furðulegu ummæli Kristjáns Ragnarssonar á aðalfundi LÍÚ. „Hlutskipti ritstjóra þessa blaðs er aumkunarvert, þegar litið er til þess, að áður fyrr var það í brjóstvörn fyrir atvinnulífið, en nú berst ritstjóri þess fyrir auknum ríkisafskiptum, aukinni skattheimtu og meiri sósíalisma. Það hefði einhvern tíma þótt eftirtektarvert, að síðasta alvöru sósíalistann skuli daga uppi sem ritstjóri Morgunblaðsins.” Skömmu eftir LÍÚ ræðuna hitti ég Matthías Johannessen í anddyri Morgunblaðsins og mælti: „Ekki látum við stjórnendur Árvakurs hf. taka ykkur Styrmi af lífi án dóms og laga líkt og í Villta vestrinu forðum daga, þegar byggðin var ávallt hundrað kílómetrum á undan réttarfarinu.”

III
Veiðileyfagjald er mjög umdeilt á Íslandi og sýnist þar sitt hverjum og virðist langt í land, að um það náist samkomulag, sem öll þjóðin geti sætt sig við. En kvótabrask á sér formælendur fáa, nema meðal þeirra, sem á því þrífast. Almenningur skilur ekki, að það skuli gefa jafnan hlut að binda bát sinn við bryggju og leigja kvótann, eða stunda sjóinn í misjöfnum veðrum og hætta þannig lífi sínu og limum við að færa aflann að landi. Þetta minnir mjög á blómaskeið leynivínsölunnar í Reykjavík, sem mikið var stunduð hér fyrr á árum hjá Litlu bílastöðinni, sem þá var til húsa, þar sem nú er Hlemmur. Einn bílstjóranna seldi meira áfengi en félagar hans á stöðinni. Þeir urðu afbrýðisamir út í hann, töldu að það væri lágmark að aka vínþyrstum viðskiptamönnum einn hring í kringum stöðina, áður en seld væri flaskan. Þessi hreyfði aldrei bíl sinn, seldi alltaf úr bíl sínum, sem var kyrrstæður úti í horni bílastæðisins. Kom í ljós að bíllinn var vélarlaus. Eigandinn hafði selt vélina úr bílnum. Vonandi er sjávarútvegsráðuneytið ekki að úthluta vélarlausum bátum kvóta. Svo slæmt er það ekki ennþá.

IV
Hugtökin „sósíalisti” og „kommúnisti” hafa verið skýrgreind með ýmsum hætti. Winston Churchill skýrði kommúnisma þannig: „Þeir segja: „Þitt er mitt, en mitt er mitt.”” Sósíalisti er sá, sem vill þjóðnýta atvinnutækin og láta reka þau af ríkinu. Útgerðarmenn og sér í lagi „gengisfellingarkórinn” vill ávallt láta þjóðnýta tap sitt, en þegar almenningur vill fá framlag sitt til baka, þegar vel gengur hjá útgerðinni, þá þykjast LÍÚ forkólfarnir ekki þekkja það sama fólk, sem bar byrðar þeirra, er verr gekk. Ég man ekki hvort þetta er kallaður pilsfaldasósíalismi eða eitthvað annað.

V
Ritstjórar Morgunblaðsins telja styrk blaðsins mestan í þeirri staðreynd, að heiftarlegustu árásir, sem gerðar hafa verið á einstaklinga í Morgunblaðinu, hafi verið árásir skólastjóra nokkurs á Drangsnesi á okkur Geir Hallgrímsson. Menn vorkenna þeim mönnum, sem ekki geta hamið skap sitt, hvort sem er í ræðu eða riti.

Þannig varð Kristján Ragnarsson sér til ævarandi skammar á aðalfundi LÍÚ. Sígild er setning Jóns Vídalíns biskups: „Reiðin er hóra djöfulsins.” Höfundur er lögfræðingur.

 

15. desember, sunnudagur

Helgispjall
Dauðinn er afþreying

 Fyrir ekki alllöngu drap ég á sjónvarpið í þessum þáttum og minnti á hvernig það er notað sem afþreying, eða einskonar dægrastytting og er þá einskis svifizt í þeim efnum. Nýlega las ég frásögn af því hvernig einn mesti harmleikur þessarar aldar er notaður í skemmtiiðnaðinum og verður æ vinsælli afþreying og raunar skemmtiatriði sem áheyrendur eru svo sólgnir í að þetta er að verða milljónaiðnaður og sér ekki fyrir endann á þessari uppákomu. Ég á hér við hið hörmulega slys þegar Titanic fórst á Atlantshafinu austur af Nýfundnalandi. Time segir frá þessu skemmtanahungri ekki alls fyrir löngu og minnir á að nokkrar tylftir frásagna og söngva, fjórar kvikmyndir og ein framhaldsmynd, auk mikillar uppákomu í Las Vegas, hafi ekki satt það hungur sem æsispennandi harmleikir æra upp í trylltum lýðnum, en allt byggir þetta á harmleiknum mikla um Titanic. Time kallar þetta Titanic-æði og telur að lýðurinn verði sönglandi Hærra minn guð til þín um það leyti sem ný kvikmynd James Camerons um þetta efni kemur á markað á næsta ári. Einn aðstandenda sjónvarpsuppákomunnar talar um þessa endalausu heillandi og tímalausu sögu, eins og hann mun hafa komizt að orði um þennan sorglega atburð.

Time bendir á uppbyggilegra efni um þennan atburð í heimildarmynd á Discovery og fjórum nýjum bókum um efnið, en af þeim eru þrjár skáldsögur.

En kannski er hnýsilegasta atriði þessarar uppákomu nýr söngleikur á Broadway sem verður færður upp næsta ár og að sjálfsögðu undir nafninu Titanic - án upphrópunarmerkis, segir Time. Og höfundurinn er harla ánægður með efnið, segir að það muni falla vel í kramið á Broadway. "...fólk er svo snortið að það missir málið, það verður að syngja." "Eða sökkva," bætir Time við.

Allt er þetta með endemum og skipið sem gat ekki sokkið er að verða einskonar tákn þeirrar kynslóðar sem gengur fyrir hávaða, plasti og peningum; tryllt og hugsjónalítil siglir hún inní sýndarveröld samtímans, ófullnægð og án þeirra andlegu verðmæta sem kannski gætu fyllt tómið og skemmtir sér við það sem hendir aðra en er jafnlangt frá því að geta hent þá sjálfa einsog það var óhugsandi að Titanic gæti sokkið. Og á þessari siglingu glymur Hærra minn guð til þín, ekki einsog kveðjusálmur og útrás fyrir sorg og söknuð, heldur einsog hver annar slagari sem á að fullnægja þeirri kröfu umhverfisins um decibel-hávaða sem kerfið og markaðurinn krefjast.

Mundi þetta ekki segja ýmislegt um samtíð okkar? Um það æði sem hefur gripið mannskapinn? Um vöntunina og þá staðreynd að tízkan er einsog önnur fíkniefni, fullnægir einungis meðan æðið stendur yfir, krefst meira æðis; sífellt stærri skammta af títanískri fullnægingu.

Reynt er að græða á öllu, slysum, hryðjuverkum, morðum, fíkniefnum sem tortíma lífi ungmenna, mansali og klámi.

Jafnvel jólunum; ekki sízt þeim.

Sjónvarpið, sagði ég í fyrrnefndu helgispjalli, endurspeglar vissa þætti raunveruleikans, aðra ekki. Það er jafnvel hægt að heyja styrjaldir í sjónvarpi. Og það er hægt að fylgjast með þeim úr þessari órafjarlægu nálægð sem sjónvarp býður uppá. Áhorfendur geta upplifað stríð sem nýja tegund af hasar. Tekið þátt í honum úr öruggri fjarlægð. Tilfinningasljóir fyrir síendurteknum harmleik sem snertir okkur einungis einsog hver önnur afþreying.

Í Bandaríkjunum er sagt að sjónvarpsæskan sé að verða tilfinningalaus. Hún endurtekur ofbeldi kvikmyndanna í raunveruleikanum. Og þegar raunverulegt fórnardýr er sært, tilaðmynda af skotsárum, þá rekur þetta unga fólk upp stór augu og segir undrandi, Er þetta sárt?

Því það er ekkert sárt í sjónvarpi.

Og nýlega misþyrmdu þrír sex ára drengir fimm ára telpu í Þrándheimi, skildu hana eftir liggjandi í snjónum þarsem hún varð úti. Í sjónvarpshasarnum deyja þeir ekki sem eru barðir heldur standa þeir upp einsog ekkert sé. Það var, að mér skilst, afsökun drengjanna sem þekkja ekki mun á sjónvarpslífi og veruleikanum.

Í sjónvarpinu er dauðinn bara skemmtilegur hasar, jafnvel hann.

Einn helzti tölvusérfræðingur heims, Joseph Weizenbaum, kemst m.a. svo að orði í bók sinni Computer Power and Human Reason:

"Samt getur engin rökræða, sama hve mælsk og sannfærandi hún er, breytt þeirri staðreynd, að vísindin eru almennt talin eina leiðin til aukins skilnings. Þegar ég held því fram, að vísindahyggjan hafi smám saman breytzt í hægvirkt eitur, þá á ég við, að með því að telja vísindalega þekkingu ávísun á hinn eina sannleika, þá sé verið að ómerkja allar aðrar skilningsleiðir. Áður fyrr var listin, einkum bókmenntirnar, talin uppspretta andlegrar næringar og skilnings en nú er litið á hana sem hverja aðra dægrastyttingu. Leikhúsin í Grikklandi og Austurlöndum til forna, sviðið hans Shakespeares, Ibsens og Tsjekovs, svo nær sé farið í tíma, allt voru þetta skólar. Námsefnið, sem þar var kennt, jók mönnum skilning á samfélagi sínu. Þótt enn komi fyrir, að einhver Arthur Miller eða Edward Albee fái að kveðja sér hljóðs í New York eða London, þá hungrar fólk og þyrstir aðeins í það, sem á að heita vísindalega sannað. Soðningin er svo tímarit á borð við Psychology Today, einhver uppsuða úr verkum Masters og Johnsons eða vísindaguðfræði eins og hún birtist hjá L. Ron Hubbard. Trúin á skynsemina hefur dregið úr spádómskrafti tungumálsins sjálfs. Við kunnum að telja en erum að gleyma hvað er þess vert að vera talið og hvers vegna.

18. desember, miðvikudagur

Í dag fjallar Alþýðublaðið um heiðurslaunaflokk Alþingis, bæði á forsíðu og í forystugrein. Í leiðaranum er reynt að vega að æru minni og talað um í fyrirsögn að Matthías hafi „11,7 milljónir í vasapening”! Í leiðaranum er ég tekinn útúr og sagt að nafn mitt „skeri sérstaklega í augu,”! Mér hafi verið  fengin heiðurslaun frá 1983, „þegar hann var 53ja ára”.  Síðan er talað um laun mín sem ritstjóra Morgunblaðsins og sagt að ég hafi á þessum 13 árum fengið 11,7 milljónir í heiðurslaun. „Var ekki hægt að ljúka kaldastríðinu í íslenskum bókmenntum með ódýrari  og smekklegri hætti?”
Þessi leiðari er að sjálfsögðu einhvers konar hrafnaspark. Hatrið og illviljinn leyna sér ekki og raunar ætti ég að vera orðinn vanur slíkum dylgjum en einhvern veginn venst ég þeim aldrei, það er kannski ein af ástæðunum fyrir því að mér hefur ekki alltaf liðið vel í þessu umhverfi mínu.
Ég hef, eins og ég hef sagt einhvers staðar annars staðar, aldrei litið á heiðurslaunin sem framfærslu eða fátækrastyrk, heldur heiðursviðurkenningu Alþingis og mér hefur þótt vænt um hana sem slíka.
Ég tel að peningarnir séu aukaatriði enda eru þeir nálús sem enginn myndi geta framleitt sér af,eftir skatta! Annað hvort er verið að  sýna skrifum mínum virðingu eða ekki.
Mér þykir sérstaklega vænt um þessa viðurkenningu vegna þess að enginn fær heiðurslaun án þess einhugur sé á bak við þau á Alþingi Íslendinga; þannig tóku þingmenn krata ekki síður ábyrgð á þessari ákvörðun Alþingis á sínum tíma en þingmenn annarra flokka. Alþýðublaðið mætti kannski líta sér nær. En hvað sem því líður, þá er einungus verið að reyna að sá hatri og illvilja í minn garð og það kæmi mér ekki á óvart þótt einhverjir segðu ha,ha þetta var mátulegt á hann! En þarna þarf maður enn einu sinni að upplifa kaldastríðshatrið. Mér er víst ætlað að fara enn einu sinni í gegnum þennan skala og kippi mér ekki upp við það að neinu ráði.

 

Allt er þetta byggt á flækjum og óskiljanlegri illkvittni. Ég geri ráð fyrir því að málaferli Haralds sonar míns og væntanlegur dómur í máli Hrafns eigi ekki sízt þátt í þessari aðför að æru minni. En ritstjóri Morgunblaðsins verður að vera við öllu búinn, hann veit að hann á von á hretviðri úr þeim kólguskýjum sem við blasa.
Hitt er svo annað mál að margt annað hefur glatt mig, ég hafði til að mynda mikla ánægju af að lesa upp fyrir fólkið í Náttúrulækningafélaginu í Hveragerði í síðustu viku og þá ekki síður í klúbbnum Hananú í Kópavogi en á það upplestrarkvöld minnist Reykjanesblaðið Vogar nú nýlega og segir meðal annars:
„ Matthías Jóhannessen gerði mikla lukku á fundi Hananú-hópsins fyrir nokkrum dögum í bókasafni Kópavogs. Skáldið mætti og hlýddi á félaga bókamenntaklúbbsins lesa úr ljóðum Matthíasar, sem síðan útskýrði ljóðin. Umræður voru miklar, og kvöldið einkar vel heppnað. „Þetta var unaðsleg stund,” sagði einn viðmælenda Vogaum þetta kvöld með skáldinu Matthíasi.”
Þá þótti mér ekki síður vænt um það sem Þröstur Helgason segir í bókablaði Morgunblaðsins í gær og kom mér raunar nokkuð á óvart, en ég met það mikils vegna þess að Þröstur er sterkur og smekkvís bókmenntamaður og segir aldrei annað en það sem hann meinar. Hann er vandaður maður og vel menntaður og skrifar bókmenntalegri og ígrundaðri gagnrýni um bækur en flestir sem þá iðju stunda. Hann segir í grein sinni Leysingjar:
„Tvær bækur gnæfa yfir aðrar í flokki ljóða að þessu sinni. Gyrðir Elíasson sendir frá sér Indíánasumar sem er göldrótt bók. Andstæð hinni einföldu ljóðrænu Gyrðis er breiðari og dýpri stíll Matthíasar Johannnessen. Ef til vill mætti líta á bók Matthíasar, Vötn þín og vængur, sem summu þess sem á undan er gengið á ferli hans”.
Yfirlitsgreinar þeirra Þrastar og Jóhanns Hjálmarssonar í bókablaði Morgunblaðsins hafa verið mjög athyglisverðar og upplýsandi. En bóksalan sýnir því miður að Íslendingar hafa engan sérstakan áhuga á fagurbókmenntum. Ég tel að sá sterki kjarni sem hafði þennan áhuga þegar ég var ungur sé nú orðið harla veigalítill. Hann stjórnar að minnsta kosti ekki metsölunni! Auk þess eru Íslendingar ekki ljóðlistarfólk, þeir eru allir í hugleiðingum, a la Gibran og Rögnvaldur Finnbogason.!

Fékk í dag í hendur Íslandsbók þeirra félag Simon Armitage og Glyn Maxwells Moon Country, frekari fréttir frá Íslandi. Ég hafði gaman af að hitta þessi ungu brezku skáld á sínum tíma og mér sýnist í fljótu bragði að þetta sé harla vel gerð bók enda viðmiðunin eða áskorunin mikil því þeir félagar fóru til Íslands í fótspor Audens. Í bókinni er mikið af kvæðum enda eru þeir báðir ágæt ljóðskáld. Þá er þar einnig sérstakur kafli um samtal okkar og verð ég að segja að hann er mjög vel gerður og hárrétt lýsing á því sem að mér snýr. Ef úr öðru hráefni bókarinnar er unnið jafnvel má ætla að mikill fengur sé að þessari bók enda hef ég séð tvo ágæta ritdóma um hana í brezkum blöðum. Voru báðir skrifaðir af þekktum skáldum og bókmenntamönnum þar í landi. Ég þyrfti að koma á framfæri einhvers konar þakklæti til þeirra félaga, við sjáum til.

Hef verið að lesa ævisögu Kiellands eftir norska skáldið Thor Obrestad, sem býr í Stafangri og skrifaði á sínum tíma mjög vel um þýðingar á ljóðum okkar Jóhanns Hjálmarssonar. Það er athyglisverður kafli í þessari bók um dálæti Kiellands á Kirkegaard, þeir áttu ýmislegt sameiginlegt, voru báðir af borgaralegum ættum og aldir upp við athvarf talsverðra auðæfa. Það kom ekki í veg fyrir að þeir helguðu líf sitt leitinni að sannleikanum og það var einmitt sannleiksvitnið Sören Kierkegaard sem var leiðarljós skáldsins Alexanders Kiellands enda áttu þeir þá reynslu sameiginlega að þeir höfðu svikið ást lífs síns og stóðu í ógreiddri skuld við almættið af þeim sökum; þess vegna þyrftu þeir að helga líf sitt sannleikanum. Þeir héldu með skrifum sínum dómsdag yfir sjálfum sér, en um það fjallar einmitt eitt af ljóðum Ibsens.
Einstaklingurinn á að lifa af ástríðu og taka afleiðingum gerða sinna, kjarninn í lífi okkar ætti að vera hin tilvistarlega áskorun.
Það er tilvistarhugsun einstaklingsins sem máli skiptir, hin persónulega einlægni er sannleikurinn. Kielland veitti einmannaleik sínum útrás í verkum sínum og til þess að svo mætti verða leitaði hann fyrirmynda í verkum Kirkegaards.
Kielland var eins og mörg skáld viðkvæmur og varð að villa á sér heimildir til að halda út og kikna ekki andspænis umhverfinu. Þetta gerir hann að sjálfsögðu í verkum sínum sem ég hef áður talað um á þessum minnisblöðum.

Ég er oft spurður um það, hvernig hægt sé að vera ritstjóri og skáld í senn. Nú sé ég að ég ætti að svara því með skírskotun í Kielland. Hann var skáld, en hann var einnig borgarstjóri í Stafangri og amtmaður í Molde, þar sem við vorum með Knut Ödegaard á Björnsonshátíð fyrir tveimur árum.

Ég er ekki að bera mig saman við Kielland en fyrst hann, jafnmikið skáld og hann var, brautryðjandi og vegvísir, gat skrifað verk sín ásamt borgarstsjóra- og amtmannsstörfum þá ætti ritstjóra Morgunblaðsins að vera það leikur einn. Ég ætla að svara þessu til næst þegar norskir blaðamenn spyrja mig þessarar spurningar. Kielland hætti að vísu að skrifa þegar hann var 42ja ára. Þá var hann orðinn nokkuð drykkfelldur, feitlaginn og þungur á sér, og þá átti hann ekki mörg ár ólifuð. Hann hafði fengið gott veganesti með litningum sínum, kaupmaðurinn í honum hafði agað tilfinningarnar, lögfræðingurinn krafðist skipulagningar og vits og viðskiptakúltúrinn lá í blóðinu og uppeldinu
Kielland talaði sjaldan um Guð, hann talaði um guðdóminn og sambandið við guðdóminn og líklega hefur efni Augnabliksins upphaflega dregið hann að hugmyndum Kierkgaards en í þessu riti sínu gerir hann upp við dönsku kirkjuna og þau „sannleiksvitni” sem voru á hennar vegum. Mig minnir ég hafi drepið á þetta atriði þegar ég í bókinni Um Jónas fjallaði um Mynster Sjálandsbiskup og útgáfu Fjölnismanna á hugleiðingum hans.

Var að tala við Halla um GSM-símann rétt í þessu, hann er í London en heldur til Amsterdam síðar í dag. Við teljum að leiðarinn í Alþýðublaðinu eigi rætur að rekja til þeirra beggja vinanna Hrafns Jökulssonar og Gunnars Smára Egilssonar, sem ég þekki ekki, en mér er sagt að það sé eitthvert níð um okkur Styrmi í bók sem hann gefur út nú fyrir jólin og ég nenni ekki að lesa. Hann var ritstjóri Pressunnar og það nægir mér.
En það er eins og Auden sagði í tilvitnanasafni sínu, A Certain Thing, sem er einskonar hugmyndasaga hans sjálfs: „Allir elska fretin úr sjálfum sér!”
Auden segir að þetta sé íslenskt orðtak og má það vera þótt ég þekki það ekki.

Síðar um daginn.

Þegar ég las upp í Náttúrulækningafélaginu í Hveragerði hitti ég Jón Helga Hálfdánarson, son séra Hálfdáns á Mosfelli, en hann var sonur Jóns Helgasonar byskups og voru þeir Jóhannes bæjarfógeti afi minn skólabræður og miklir vinir ævilangt. Jón Helgason var sonur Helga Hálfdánarsonar prestaskólakennara og sálmaskálds og kenndi einnig við prestaskólann eftir að hann kom út hingað að loknu námi í Kaupmannahöfn. Hann skrifaði kirkjusögu sem ég þurfti að lesa undir lokapróf í íslenskum fræðum, góða bók, vel skrifaða og aðgengilega.
Móðir Jóns Helga og kona Jóns byskups var dönsk, hét Marta María, prestsdóttir frá Fjóni, lítil kona og ófríð, segir Jón Helgi um þessa ömmu sína. Æskuvinir Jóns Helgasonar spurðu hann hvort hann gæti ekki fengið sér fríðari stúlku að fara með heim til Íslands, en þá svaraði hann,
Þið ættuð bara að hlusta á hvernig hún leikur á píanó(!)
Jón Helgi var alinn upp hjá foreldrum sínum á Mosfelli en móðir hans var Lára Skúladóttir Norðdahl frá Úlfarsfelli en það var stórbú á þessum tíma.
Ég man vel eftir séra Hálfdani frá því ég var strákur í Stardal, hann kom stundum í heimsókn til Jónasar bónda Magnússonar og leyndi sér ekki að hann hafði gaman af að fá sér í staupinu. Hann var fríður maður, hvítur fyrir hærum og með hvítt yfirskegg. Hann var glaðlyndur og verkaði vel á umhverfið. Þeir Jónas í Stardal voru miklu mátar.
Jón Helgi segir að séra Hálfdan faðir hans hafi verið mikið fyrir sopann en hann sá samt aldrei vín á föður sínum og telur að hann hafi kunnað vel að umgangaast það þrátt fyrir mikla vínhneigð. Einu sinni gekk Jón Helgi með föður sínum að Laugarbóli í Mosfellssveit en prestur hafði hug á að hitta bóndann þar, Ólaf Gunnlaugsson, og fá sér í staupinu með honum. Þegar þeir koma að Laugarbóli segir Ólafur bóndi við klerk,
Viltu ekki koma inn fyrir og fá þér einn lítinn?
Það tekur því varla, svaraði séra Hálfdan, ef hann er ekki stór.
Síðan var gengið í stofu og þar var sóknarpresturinn settur til staups. Jón Helgi segir að séra Hálfdán hafi viljað fá sér í staupinu með einhverjum sem hann hafi haft gaman af að tala við og Ólafur bóndi hafi þannig orðið fyrir valinu.
Nokkurn spöl frá Laugarbóli er bærinn Reykjahlíð, þar bjó Stefán Þorláksson sem þekktur var um allar sveitir. Hann kom oft með fólk í Mosfellskirkju og sótti það að messu lokinni. En hann kom aldrei inn í kirkjuna. Hann efnaðist vel og varð auðugur maður, hans er getið í Innansveitarkroniku, þeirri skáldsögu íslenzkri sem kemst næst því að vera fullkomið listaverk. Séra Hálfdán kemur ekki við þá sögu því hún fjallar um fyrirrennara hans, séra Jóhann Þorkelsson sem þá sat á Mosfelli. Hann var einn þeirra fáu klerka sem lögðu á sig að breyta eftir Kristi. Sem sagt í ætt við það fjallræðufólk sem skáldið hefur gert að einskonar ljósvíkingum skáldsagna sinna.
Það var séra Jóhann sem sagði að hann ætti ekki öl eins og Egill Skallagrímsson var vanur að drekka, „en gott kaffi er gott ef það er gott”.
Og það var einnig þessi sami séra Jóhann sem sagði við ribbaldana í sókn sinni þegar þeir spurðu af hverju þeir færu til Guðs og hvort þeir hefðu unnið til þess og hvað þeir hefðu að vilja þangað,
„Við komum þaðan í upphafinu”, sagði séra Jóhann. „Við eigum þar heima”.
Hann vissi að við vitum lítið sem ekkert en fullyrti þó að „við tilheyrum Guði og eigum heima hjá honum”.
Við þessari arfleifð tók séra Hálfdán.
Í Innansveitarkroniku segir að Stefán Þorláksson hafi einlægt verið í hnífakaupum en það gerðu hrísbrúarmenn aldrei.
„Bænagerð eða þvíumlíkt mundi Stefán ekki til að hafa heyrt í sínum uppvexti eftir að hann hætti að stunda kirkjugaungu með Láka fyrir sunnan; hann taldi kristindóm fyrir utan sig af því hann gæti hvort sem er ekki breytt honum neitt ef hann skyldi vera rángur.”
En það var þessi sami Stefán Þorláksson sem arfleiddi Mosfellskirkju að eigum sínum og var þannig upphafsmaður að þeirri jarteikn sem varð þegar Mosfellskirkja reis af grunni þarna í dalnum, það er almættisverk þessarar miklu en stuttu sögu.
Stefán efnaðist einkum af því að í landi hans fannst sú uppspretta af heitu vatni sem notað var til húshitunar í Reykjavík upp úr stríði en „fyrir þetta vatn voru Stefáni goldnar fjárupphæðir hærri en menn höfðu áður kunnað að nefna hér á landi. Vatnið var leitt suður í víðum bunustokkum með þeim árángri að slík ókjör af sjóðheitu baðvatni koma á hvert nef í Reykjavíkurborg að annað eins er óþekt á jörðinni nema í Petró-pavlofsk á Kammstjöku. Til að mynda í litlu húsi einsog því þar sem þessir sagnaþætti eru skráðir renna inn og út 17.280 lítrar af sjóðheitu vatni á hverjum sólarhríng úr hver Stefáns Þorlákssonar.”
Einkunnarorð Stefáns voru:
„Kaupa, kaupa, sama hvað kostar,” enda var ekki hægt að tapa því að allt hækkar í verði og hefur ævinlega gert „síðan á dögum Caligúlu.”

Kirkja Stefáns Þorlákssonar sem reis að Mosfelli í Mosfellsdal var vígð 4. apríl 1965 og mun enginn hafa lagt Guðskristni annað eins af mörkum þar í dalnum, hvorki fyrr né síðar, og var Stefán þó álíka trúlaus, að sagt var, og „Konstantín mikli sem þó sannanlega bjargaði kristindóminum.” En trúarhetja var hann ekki og samt varð hann styrkari stoð sönnum kristindómi en helgir menn og bænheitir.
Séra Hálfdán Helgason þjónaði fjórum kirkjum, Mosfellskirkju, kirkjunni í Viðey, Lágafellskirkju og Þingvallakirkju. Þegar séra Jóhann Hannesson trúboðsprestur í Kína varð þjóðgarðsvörður tók hann jafnframt við Þingvallasókn og var þá séra Hálfdáni haldið veglegt samkvæmi. Jón Helgi segir að Einar stórbóndi á Kárastöðum hafi setið við hlið séra Hálfdáns í samkvæminu og spurt hvernig honum litist á að hætta þar í sókninni eftir öll þessi ár.
Þá svaraði séra Hálfdán því til að það mætti draga af því nokkrar ályktanir „að það þurfti heiðingjaprest til að taka við sókninni af mér.”
Séra Hálfdán varð bráðkvaddur í bíl sonar síns á miðri Hellisheiði, þá var hann hálfsextugur. Þeir voru á leið austur fyrir fjall en Jón Helgi, þá nítján ára, nýorðinn leigubílstjóri og ók fjölskyldunni austur. Það gerði vitlaust veður á heiðinni og bíll sem var á undan Jóni Helga sneri við í sköflunum en bíll hans festist á veginum og var þá faðir hans örendur í framsætinu. Þá var gengið í hríðarbylnum að hinum bílnum og bar Jón Helgi föður sinn dauðan 200 metra milli bíla, í nístingskulda og blindbyl. En hann segist ekki hafa fundið fyrir því og komst hann með líkið klakklaust í Skíðaskálann.

Jón Helgi segist aldrei hafa orðið myrkfælinn og hefur hann þó annast útfarir og líkflutninga á Suðurlandi. Þegar hann var einhverju sinni spurður að því hvort hann væri ekki myrkfælinn í líkbílnum svaraði hann því til að pabbi hans sæti á vélarhlífinni!
Eitt sinn þurfti hann að fara með lík gamals manns til krufningar í Reykjavík. Hinn látni hafði viljað klæðast sérstakri peysu og uppáhaldsbindinu sínu þegar að því kæmi að búa um hann í kistunni. Var hann þannig klæddur á leiðinni til líkskurðar.
Jón Helgi hittir Hörð, son Moníku á Merkigili, þegar hann var á leið suður yfir Hellisheiði með hinn látna fyrir aftan sig, þeir taka tal saman en fyrst spurði Hörður hver þessi maður væri sem sæti í framsætinu og samkjaftaði ekki.
Jón Helgi sagði að þar sæti enginn maður.
Nú, svaraði Hörður og lýsti manninum, klæðnaði hans og útliti. Var þetta nákvæm lýsing á hinum látna sem í kistunni var.
En Jón Helgi svaraði einungis, Þeir þegja alltaf hér afturí hjá mér!.
En þessi reynsla hefur ekki vikið frá Jóni  Helga þótt hann hafi aldrei orðið neins var.
Og þó.
Húsfreyja í Mýrdal hafði verið á Mosfelli þegar Jón Helgi fæddist en hann var veiklaður fyrstu tvö árin og hafði þessi kona verið móður hans mikil hjálparhella á því erfiða tímabili. Þá var það fastmælum bundið að foreldrar Jóns Helga mundu senda hann í sveit til þessarar konu ef hún giftist og hefði tök á að taka við honum. Þegar Jón Helgi var þrettán ára var hann sendur austur því þá var kona þessi orðin húsfreyja þar .
Jóni Helga leið illa fyrir austan, segist hafa verið barinn og einatt hafi hann verið svangur því hann fékk ekki sama mat og aðrir.
Eitt sinn sat hann hálfgrátandi í herbergi sínu og horfði til Dyrhólaeyjar en heyrði þá að nafn hans var kallað,
Jóni Helgi, Jón Helgi, og leit þá við og sá að Skúli afi hans sat þar í herberginu en hann var löngu dauður.
Jón Helgi þekkti afa sinn af myndum þótt hann hefði aldrei séð hann.
Skúli bóndi á Úlfarsfelli var sérstæður maður og höfðinglegur og hafði mikið alskekk. Drengurinn ætlar þá að hlaupa til afa síns en þá hvarf sýnin og afinn leystist upp fyrir augum hans.
Það voru mikil vonbrigði eins og á stóð en hann varð að harka af sér því enginn vissi hve illa honum leið, bréfin til foreldra hans voru rifin upp og ekki send og engum datt annað í hug en vel færi um hann hjá þessari gömlu vinnukonu á Mosfelli.
En Jóni Helga tókst að strjúka og komst í bíl til Víkur, hann leitaði þar uppi gamlan vin föður síns en hann sendi hann aftur á bæinn og þegar þangað kom stóð bóndinn við mjólkurpallinn með písk og tók á móti honum að hætti hússins.
Svo kom auðvitað að því að séra Hálfdán fengi pata af líðan drengsins og þá fór hann austur í Mýrdal og sótti hann sjálfur.
En þetta var mikil og þung reynsla, segir Jón Helgi, og hún hefur mótað líf mitt allt og afstöðu.

Séra Hálfdán á Mosfelli handskrifaði allar ræður sínar, hann notaðist aldrei við gamlar ræður, hann reiddist ef því var haldið fram. Þegar hann lézt á Hellisheiði hafði hann tilbúna ræðu fyrir næsta sunnudag og lá hún í skrifborðsskúffunni hans og beið þess að prestur flytti hana í næstu messu á Mosfelli.
En sú messa varð aldrei.
Óflutt bíður prédikun séra Hálfdans enn eftir því að hún finni sinn söfnuð.
Um hvað fjallar þessi prédikun? spurði ég.
Um dauðann, sagði Jón Helgi.

Undir kvöld.

Hef verið að lesa Fávitann eftir Dostojevskí, það er sterk saga og sérkennileg. Muishkin fursti elskar tvær konur, Nastasíu sem hann óttast einnig og telur jafnvel ekki með réttu ráði og Aglaju, sem er af góðum ættum og alger andstæða hinnar fyrrnefndu hvað snertir upplag, líferni og skaphöfn. Það er því ekki út í hött þegar Radomsky segir við hann, að hann sé einnig ekki með réttu ráði.
En hver er með réttu ráði þegar ástin er annars vegar, umhverfið eða samfélagið?
Þetta rannsakandi, illskeytta og miskunnarlausa samfélag.

Það er merkilegt hvernig höfundur kynnir prinsinn fyrir þessu hræðilega samfélagi eins og hann kemst að orði þegar hann leiðir Muishkin inn í forsnobbað samkvæmi þess fyrirfólks sem skáldsagan snýst einkum um.
Þetta samfélag fylgir manninum.
Og þetta fólk.

Á miðnætti

 

Haraldur sonur okkar var skipaður í embætti varalögreglustjórans í Reykjavík í dag. Það var hraustlega gert af Þorsteini Pálssyni. Hann lætur deilur okkar um sjávarútvegsmál ekki lenda á syni mínum. Það sýnir að Þorsteinn er drengskaparmaður, enda vissi ég það áður. Hann hefur hlýtt og gott hjarta og einhvern veginn hef ég ávallt skynjað manneskjuna sem býr í brjósti hans. Þyrfti við gott tækifæri að láta hann finna hve mjög ég met manndóm hans. Hann lætur Harald njóta sannmælis án þess láta erjur okkar um framsal kvótans trufla sig.

Ódagsett

Það er einatt ástæðulaust og getur leitt til hörmunga að svipta menn sjálfsblekkingunni. Það er ekki sízt boðskapur Villiandarinnar eftir Ibsen sem við Hanna og Ingólfur sáum í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Þetta var ágæt sýning en hún er ekki glæsileg eins og leikdómari Morgunblaðsins segir í oflofsamlegum dómi að mínu mati.
Leikritið er langt og þunglamalegt og heldur stirðlega skrifað. Ég get vel skilið Halldór Laxness þegar hann segir í Skeggræðum okkar að hann þoli illa svona leikrit. Hann gagnrýnir hvernig bandarískir leikritahöfundar hafa tekið evrópsku raunsæishefðina upp á arma sína.
Það eru einkum evrópsk leikskáld á þessari öld sem hafa reynt að leita nýrra leiða á sviðinu.
En þessi leit hefur ekki alltaf verið jafn skemmtileg! Það er kostur við þessa sýningu að hún er jöfn, engin senuþjófur en þó yfirleitt vel leikin, án mikilla átaka eða tilþrifa. En hún er heldur daufleg. Gína á kannski að vera fremur daufleg kona því hún hefur augsýnilega verið minnimáttar sem vinnukona og látið ráðskast með sig án þess það hafi valdið henni neinu hugarangri. Hedvik er eina litríka persónan í verkinu, fyrirmyndin er áreiðanlega faðir Ibsens sem einnig varð gjaldþrota. En Hedvik er ruglaður og barátta hans við bjarndýr í kanínulíki er eins og margt annað í þessu verki fáránlegra en leikhús fáránleikans.
Samt er gaman að sjá þetta á sviði, en þrír og hálfur tími er í lengsta lagi.
Manni detta í hug ummæli annars Clausens-bræðra þegar þeir höfðu verið áskrifendur að frumsýningum um nokkurt skeið, fengið sér að borða og hvítvín í hléinu, Þær eru ágætar þessar sýningar ef það væru ekki þessi helvítis leikrit!
Villiöndin er í raun og veru heldur vandræðalegt verk með köflum og sem sagt langdregið. Siðapostulinn sem rótar upp í lífi fólksins er eins og grafari sem rótar í gömlum beinum. En hann er stórháskasamlegur og skilur eftir sig rjúkandi rúst. Það gerir grafarinn ekki, því hann er að vinna með dauðann, hinn með lífið.
Síðasti þáttur verksins er beztur að mínu viti. Í honum er skemmtileg uppákoma sem væri efni í gamanleik en deyr út í voðaskoti. Mér er nær að halda að kallinn hafi skemmt sér við að skrifa þennan þátt. Og ég fór að velta því fyrir mér hvort þessi þáttur einn sér hefði ekki verið stekrari en leikritið í heild.
Siðapostulinn ætlaði auðvitað ekki að koma illu til leiðar. Slíkir postular ætla víst aldrei að stefna á harmleik, en gera það samt. Og hann dreifir þessari illskeyttu réttlætisflensu sem leiðir til þess að Heiðvík dóttir Gínu þykist ætla að fara að vilja siðapostulans og drepa villiöndina, en skýtur sjálfa sig - og er það fyrirsjáanlegt allt of lengi. Auk þess dugar villiöndin sem tákn afar illa. Maður tönnlast ekki á táknum eins og gert er í leikritinu. Það er einungis merki þess að höfundur trúir ekki sjálfur á táknið. Það er eiginlega utanveltu. Og það er ekki gott í táknrænu raunsæisverki að táknið sé utanveltu, hvað þá í svona langri siðaprédikun.

Í tilefni af bókpersónunni Floríu

 

Hef verið að lesa nýtt skáldverk eftir Jostein Gaarder, Vita Brevis, sem fjallar um ímyndaða ástkonu Ágústínusar kirkjuföður, Floríu, og með fjölda hnýsilegra skírskotana í Játningar hans. Í bréfinu er reynt að ýta honum af stallinum og skírskotað til ástar hans og mennskra tilfinninga þegar hann var enn ungur og holdleg ást þeirra Floríu gat af sér son sem dó sextán eða sautján ára hjá föður sínum. En þessi ást átti sér dýpri rætur og bar ekki síður ávöxt í viðkvæmri sál elskendanna og öllu tilfinningalífi þeirra. Á þetta er reynt að minna og koma hinum nú heilaga kirkjuföður niður á jörðina þar sem hann á heima eins og aðrar breyskar mannverur.
Í þessu skyni er drepið á viðkvæm atriði í Játningunum og má segja að það sé oft gert af skáldlegu innsæi og næmri tilfinningu og virðingu fyrir konunni. Eða eins og greind kona og íhugul sagði við mig ekki alls fyrir löngu, Það er merkilegt hvað höfundur hefur næma tilfinningu fyrir reynsluheimi konunnar - og væri áreiðanlega auðvelt að færa rök að því.
Þetta nýja skáldverk Gaarders er vel skrifað og haganlega og byggist einnig á ísmeygilegum sniðugheitum þegar hann skírskotar í gömul rit og skýrir þau.
Grundvallarspurning bókarinnar er þessi:
Getur jarðnesk ást ekki verið guði þóknanleg?
Manni finnst það nú eiginlega fyrst hann tók upp á þeim fjanda að skapa okkur í sinni mynd ef trúa má heilagri ritningu. En þá er hann að vísu sífelldlega að berja í bresti þessarar ófullkomnu skepnu sinnar sem er þó úthugsuð af óendanlegum hagleik, rétt eins og önnur fyrirbrigði sköpunarinnar.
En ég er ekki viss um að Ágústínus sé ógeðugri í bréfverki Floríu en eigin játningum sem þó eru engu líkar, því í bréfi ástkonunnar verður hann svo mannlegur í breyskleika sínum að okkur verður ennþá hlýrra til hans en áður. Hann er það sem öllu máli skiptir hér á jörðinni - manneskja.
Þannig var Kristur ekki einungis guðssonur, hann var einnig maður - og þess vegna höldum við jól.
Helmingurinn af þessari bók Josteins Gaarders eru tilvitnanir í Játningar Ágústínusar. Oft eru þær að sjálfsögðu það bezta í þessu skáldverki sem á að vera einskonar skuggi af Játningunum og það er erfitt að hlaupa frá skugganum sínum, eins og minnzt er á í bókarlok. Oftar en ekki er snúið út úr Játningunum og þegar á líður ritið verður það harla þunnt í roðinu, til að mynda er gripið til þess ráðs að lýsa Ágústínusi eins og hverjum öðrum ofbeldismanni eða heimilisböli þegar þau Floría eiga að hittast aftur eftir dauða allsráðandi móður hans, Móníku.
Þannig er reynt að gera hann að félagslegu samtímavandamáli okkar og aumingja Móníku er lýst sem herfu og hafði hún þó ekkert af sér gert annað en að elska þennan, að mörgu leyti veikgeðja son sinn, draga hann upp úr skít og slarki og benda honum á guðs vegi.
Á þann hátt gæti hann vaxið frá þeim vonda félagsskap sem lýst er í Játningum hans.
En út úr þessu er einnig snúið og reynt að endurvekja Ödipus-harmleikinn með samskiptalýsingu Ágústínusar og móður hans, sem hafði ekki annað unnið til þessarar lýsingar á einhvers konar andlegri blóðskömm eða sálrænu ofbeldi en það að hún var fróm kona, umhyggjusöm móðir; og umfram allt sannkristin á hálfheiðnum tímum.
Faðir Ágústínusar var aftur á móti heiðinn og þannig einskis verð ópersóna í bréfsögu Floríu. En hann gegnir þá ekki heldur miklu hlutverki í Játningum sonarins. Það hafði samt verið hin hedóníska, eða jarðbundna, afstaða hans sem sonurinn fylgdi á svallárum æskunnar. Við nánari athugun og með auknum þroska þótti honum þetta líferni illt og innantómt og hvarf frá því. Launin var frelsun, skírlífi; eða einlífi; afholdenhed eins og höfundur nefnir það á frummálinu.
Það má líkja þessu við bindindi alkóhólista, þ.e. fullkomin afneitun allrar veraldarhyggju. Eina leiðin til að ná tökum á sjálfum sér, líferni sínu og umhverfi. Mér er nær að halda, gagnstætt því sem höfundur Vita brevis heldur fram, að Ágústínus hafi orðið fyrir miklum sársauka þegar stúlkan hans var tekin frá honum, án þess hann nefni hver gerði það.
Líklegast þykir mér að hún hafi dáið, en þó má vera að hún hafi orðið honum fráhverf, kannski vegna annars manns, ég veit það ekki. Og raunar veit það enginn því það er Ágústínusi of sársaukafullt til þess að hann treysti sér til að fjalla um það í Játningunum; segir einungis... hún var tekin frá mér.
Það er þannig ekki eins og hann hafi svikið hana, heldur hafi hann misst hana.

Konan sem fyrr er nefnd og er ekki beinlínis rauðsokka þótt hún verji undir drep af kvenlegu stolti frelsi konunnar og jafnréttisstöðu í samfélaginu en þó af sérstæðri kvenlegri tillitssemi við umhverfið, er svo hrifin af skilningi Josteins Gaarders á reynsluheimi kvenna eins og hann birtist í Vita brevis, að hún segist vera farin að elska hann!
Og er það ekkert nýnæmi að konur felli hug til geðþótta síns en ég sagði henni að hún skyldi þá skreppa til Noregs og reyna að ná ástum hans, þau væru nokkurn veginn jafnaldra því hann er fæddur rétt upp úr 1950.
Hún tók þessu ekki fjarri og má guð vita hvernig því ástarsambandi reiðir af, ef hún hefur árangur sem erfiði! Vonandi verður hún ekki eins og hver önnur skuggamynd af þeirri ógæfusömu Floríu sem hefur það einna helzt að markmiði sínu að hrinda heilögum guðsmanni af stalli sínum og dýrka efnið umfram andann.
En að gefnu tilefni varaði ég hana jafnframt við að upplifa líf sitt í bókum því það eru ömurleg örlög að verða einhvers konar skáldsagnarpersóna í eigin lífi.
Það varð þó aldrei hlutskipti Floríu því að hún er hvergi til nema í bréfsögu þessa sérkennilega norska latínuheimspekings, Josteins Gaarders, sem breytti telpuhnátunni Sophiu í afar ósennilega heimspekipersónu sem fór eins og hver önnur tízkubylgja um allan heim og var næstum því jafnmikilsmetin á Íslandi og doktor Benjamín Eiríksson sem nú ku vera orðinn heimsfrægur í Reykjavík, jafn útbreiddur og gubbupestin sem hér hefur gengið.
Mér dettur í hug að hann sé þá ef til vill jafn heimsfrægur og hljómsveitarstjórinn sem heimsótti Heimsklúbb Ingólfs Guðbrandssonar nú um hátíðirnar en Morgunblaðið segir frá honum í myndatexta í Fólki í fréttunum. Auðvitað hljóta allir að vera heimsfrægir sem koma á árshátíð Heimsklúbbsins!
En hvað sem þessu líður, þá ætti unnusti fyrrnefndrar konu, ég held hún sé manni gefinn með einhverjum hætti, rétt eins og Floría, að vera var um sig og fara sér gætilega og alls ekki að hleypa henni einni til Noregs. Það gæti orðið eins og þegar hundur eltir héra svo að enn sé vitnað til Vita brevis hér í lokin.
En kannski hún ætti bara að nota þetta á ástmann sinn svo hann hlaupi ekki útundan sér eins og Ágústínus í bréfsögu Floríu; ég veit það ekki, hann getur horfið hvenær sem er, sagði hún eitt sinn.
„Ég er ekki örugg í þessu sambandi, hann er giftur.”
Mér varð hugsað til vinar míns séra Hackings, kaþólsks prests sem ég talaði stundum við um lífið og tilveruna. En þó einkum dauðann. Ég orti hann á sínum tíma inn í Sálma á atómöld.
„Er ekki erfitt fyrir þig svona myndarlegan veraldarmann”, sagði ég eitt sinn við hann „að lifa einlífi?”
„Það er álíka erfitt fyrir mig og þig „ sagði hann, með kankvíslegri alvöru, „þú ert giftur konunni þinn, en ég er giftur minni kaþólsku brúði, kirkjunni. Ég á að vera henni jafn trúr og þú konunni þinni.”

Þegar hann var dáinn var mér sagt að hann hefði orðið ástfanginn af konu sem hefur líklega verið eitthvað lík Floríu.
En þá fékk hann krabbamein og lézt nokkru síðar; hvarf inn í náðarfaðm sinnar himnesku brúðar.
Hann var einstakur maður að allri gerð. Og sr. Jakob sagði mér að hann hefði orðið byskup, ef hann hefði lifað.

 

Æjá, doktor Benjamín. Hann gengur að vísu ekki með tófuskott eins og Kai Miller, en hann hefur verið með allskyns kúnstir; neitaði til að mynda að heilsa mér niðri á Mogga því hann tæki ekki í mína óhreinu hönd, eins og hann komst að orði. Samt braut hann eitt sinn odd af oflæti sínu, það var þegar við Styrmir buðum honum til samskrafs í gamla Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti, hann talaði við okkur í tvo, þrjá tíma, og létum við okkur hafa það. Að þeim fundi loknum rétti hann mér höndina.En aldrei síðar.
En ég veit ekki til að ég hafi nokkurn tíma gert honum neitt, ég hef þvert á móti þurft að hlusta á ruglið í honum, til að mynda í boði hjá Jóhannesi geðlækni Bergsveinssyni, frænda mínum, sem býr á neðri hæðinni í sama húsi við Bárugötu og doktor Benjamín, en þá lýsti hann því í löngu máli hvernig blætt hefði úr fótum hans og skírskotaði með því til krossfestingar Krists.
Ég hlustaði og mér sýndist honum líka það nokkuð vel.
„Hann er verstur þegar líður að páskum” sagði Jóhannes læknir og hvatti mig til að taka þetta ekki of alvarlega!
Metsöluhöfundurinn er sem sagt krossfestur á hverjum páskum!
Ég las bók Hannesar Hólmsteins um hann eins og Steinn kenndi mér að hraðlesa það sem ég hefði ekki áhuga á og sé ekki betur en Hannes hafi komizt nokkurn veginn frá þessu verki. En doktor Benjamín er ver farinn andlega en fram kemur í þessari minningabók, þótt sjúkdómurinn leyni sér ekki.

Ég átti góð samskipti við dr. Benjamín á fyrra hluta 7.unda áratugarins.Þá kom hann stundum niður á Mogga með góðar greinar,t..a.m. um Hannes Hafstein og  þessar geggjuðu ritdeildur sem urðu um ævisögu Kristjáns Albertssonar um hann.Ég hafði gaman af að afgreiða dr. Benjamín ;hann var kurteis,geðþekkur og gott kompaní.Síðar fékk hann Kennedy-kvæðið mitt í einhverja minningabók um forsetann og gerði því afar góð skil,bæði á ensku ig íslenzku.
En loks fór allt í klúður hjá honum,hann missti heilsuna og líf hans breyttist í harmleik.Hann kom með grein til mín,stutta,þar sem talað var um einhvern Jóhannes,og varð mikið umtöluð.Ég sagði honum þetta væri árás á Jóhannes Nordal,en hann þvertók fyrir það,þarna væri átti við Jóhannes,bróður hans!
Og sló mig út af laginu!

Ég held þú ættir ekki að birta þessa grein,sagði ég í símann.
Vertu ekki hræddur,sagði hann,þeir segja dr. Benjamín er orðinn vitlaus! En dr. Benjamín er óvitlaus og alheill.
Svo kvöddumsat við.
Eftir þetta heilsaði hann mér aldrei.
En þetta er eina greinin sem ég veit um sem komið hefur upp um alvarlegan sjúkleika höfundar.

Gylfi var viðskiptaráðherra og átti sem bankamálaráðherra klukkustundarsamtal við bankastjórann daginn sem greinin birtist.Hringdi fyrst í mig og spurði,hverju þetta sætti.
Ég sagðist ekki vita það,hann yrði sjálfur að komast til botns í því.
Þetta er eins og hringur,sagði Gylfi við mig eftir samtal þeirra.Maður byrjar á einum punkti og allt samtalið er í lagi,þangað til komið er að lokapunkti og punktarnir snertast.Þá kemur sjúkdómurinn í ljós.Það var bara á þessu andartaki sem ég sá að hann gekk ekki heill til skógar,því hann nefndi sig og Jesú Krist í sömu andrá eins og um eina persónu væri að ræða.Ég upplifði sjúkdóm hans þarna á andartaki.Og ég varð að láta hann fara úr bankanum.
Af einhverjum ástæðum lenti það svo á mér að hafa birt greinina,því að þar með lauk öllum okkar ágætu samskiptum án þess ég hefði gert honum neitt,þvert á móti varað hann við.En hann fór þá að hata mig og tengja mig við Kiljan og sagði ég væri Virgil á ferðalagi um helvíti með Dante (þ.e. Kiljan )!.
Það var víst heldur ókræsilegt umhverfi eins og í Gleðileiknum!
Og svo fór hann að amast við mér og ljóðum mínum,taldi ég stæði gegn trúboði hans ,gat tekið æðisköst niður á Mogga og síðast þegar hann var búinn að tala eitthvað við Styrmi,æddi hann um gangana,sveiflaði stafnum og hrópaði,Morgunblaðið hrynur þegar Matthías hættir.
Sem betur fer var ég ekki viðstaddur þetta lokauppgjör dr. Benjamíns við Morgunblaðið.
En hatur hans truflaði mig um tíma.
Og ég saknaði  þess Benjamíns Eiríkssonar sem ég átti samskipti við ungur ritstjóri.

 

Þegar ég hugsa um Villiöndina, dettur mér enn og aftur í hug afbrýðissemi Swanns í garð þeirra sem notið hafa Odettes í  Glötuðum tíma Prousts; hvort sem það eru karlar eða konur. Villiönd Ibsens fjallar í aðra röndina um afbrýðisemi og það er ekki sízt hún sem leiðir til glötunar.
Afbrýðisemi er algjör andstæða umburðarlyndis, hún er einskonar atlaga að kærleikanum, þótt hún sé sprottin úr ástinni. En hún er fyrst og síðast byggð á eigingirni og misskildum samanburði. Afbrýðisemin er einungis smáútúrdúr í hinu mikla verki Prousts, en lýsing hans á henni er samt einhver eftirminnilegasti þáttur sagnabálksins. Veikasti þátturinn eru unglingaástir höfundar og Gilberts dóttur Swanns og Odetts ef ég man rétt. Þær eru dálítið barnalegar, fremur en barnslegar. En styrkur sagnabálksins Í leit að liðinni tíð eru óborganleg smáatriði. Eins og í hversdagsleikanum. En fyrrnefndar unglingaástir eru heldur barnslegar þegar bezt lætur og mér finnst þær grynnka verkið. Af þeim sökum finnst mér fyrsta bindið betra en annað, það er dæmigert að hið síðara fékk Goncourt-verðlaunin en hið fyrra var verðlaunalaust enda hafði bókmenntaklíkan í París ekki áttað sig á höfundinum þegar það kom út. Hafði hann þó skrifað ýmislegt annað áður en hann hóf útgáfu á Liðnum tíma. Ef mér skjátlast ekki, eru  síðari bindin í svipuðum dúr og moll og fyrstu bindin tvö; þ.e. höfundur sýgur út úr umhverfi sínu og minningum eins og hunangsfluga sækir sætleika sinn í litagleði blómanna.

Fjallkirkja Gunnars Gunnarssonar sver sig sterkast allrar íslenzkra skáldverka, eða minningasagna, í ætt Prousts. Þar fjallar Gunnar um líf sitt, undir dulnefnum eins og Proust. En Halldór Laxness og Hagalín skrifa aftur á móti minningasögur sínar með réttum nöfnum þeirra persóna sem eru kallaðar til sögunnar. Það gerir Þórbergur einnig.
Þannig nýtur Fjallkirkjan þessarar sérstöðu sem einstætt verk í íslenzkri bókmenntasögu, bæði að gerð og listfengi öllu.

 

Það voru vetrarsólstöður, heldur milt veður, klakinn að mestu af gangstéttunum og ástæða til að anda að sér.
Ég gekk um Vesturbæinn.
Fór inn í kaþólsku kirkjuna, sat þar einn nokkra stund, hugsaði um Fedda munk Meulenberg byskup, prestana og systurnar sem kenndu mér í Landakoti, hugsaði um Krist sem hékk þarna á krossinum, hugsaði um móður hans, brúði heilags anda eins og kirkjan kallar guðsmóður.
Gekk svo út og hægt fram hjá ÍR-húsinu, leit upp í gluggana á vesturgaflinum sem snúa að Hofsvallagötu, þar bjuggu foreldrar mínir um eins árs skeið. Þar fékk ég skarlatssótt á þeim árum þegar hún var drepsótt, þar lá ég drengur fyrir dauðanum og þar reis ég upp fyrir hjúkrun og umhyggju móður minnar.
Hugsaði um allt þetta.
Hugsaði einnig um pappírspokana sem voru á hverjum morgni við dyrnar, fullir af plómum. Hugsaði um byskupinn litla sem sendi þessum sjúka dreng þessa ófáanlegu ávexti í kreppunni. Hugsaði um það hvernig kaþólska kirkjan kom til mín í líki þessara ávaxta.

Það var svo sannarlega margs að minnst.
Ég gekk niður Hofsvallagötu, staldraði við á horninu á Hofsvallagötu og Hávallagötu, gekk vestur Hávallagötu, fram hjá húsinu þar sem við systkin vorum alin upp. Gatan er hlýleg eins og góð minning en húsin eru farin að láta á sjá og hús foreldra minna í niðurníðslu;sínu verst.
Var það eitthvað táknrænt,hugsaði ég.
Ég stanzaði fyrir framan húsið, horfði upp í gluggana, þeir voru dökkir og drungalegir, horfði á þakskeggið, það var molað af veðrun, hugsaði um kvæðið sem ég orti í Morgni í maí, Hávallagata 49. Velti því fyrir mér af hverju ég hafði ort þetta kvæði; af hverju ég hafði sett það fremst í þessa ljóðabók, vissi það ekki, en það var sprottið úr tveimur heimsstyrjöldum; heimsstyrjöld drengsins og heimsstyrjöld Hitlers. Leit upp í austurgluggann á næsta húsi, þar sat sonur Jóns Bogasonar bryta og horfði einmannalegum augum inní tóma gagnsæja veröld utandyra. Einmanna drengur því faðir hans var farmaður og lengstum í siglingum en móðir hans látin. Um það hafði ég einnig ort í þessari sömu bók og þar er nafni drengsins breytt í því skyni að kvæðið geti verið algild heimild um þessa tíma.
Hugsaði um þetta umrædda kvæði og mundi eftir því að það er númer XL í Morgni í maí og hefst eins og efni stóðu til á orðinu
-Blossi.
Hugsaði um Jón Bogason og aðra sjómenn sem bjuggu einnig á næstu grösum, sumir fórust, aðrir höfðu lífið eins og sagt var í Þykkvabænum þegar Katla kom og vatnssvelgurinn æddi niður sandana. En Jón Bogason hafði ekki lífið. Hann fórst með Dettifossi á hafsvæðum Bretlands og Írlands eins og segir í kvæðinu:

...og lífið kvadd'ann með köldum
kossi.
Eftirminnilegur maður, risi á vöxt og dró að sér athygli,þögull og hugsi, þar sem hann gekk hægt eftir götunni í einkennisbúningi brytans:
Ekkert leiði með hvítum
krossi,
segir í kvæðinu.
Allt þetta mundi ég og einnig það hvernig Dickens opnar skáldsögu sína um stjórnarbyltinguna miklu í Sögum tveggja borga: Þetta voru verstu tímar og þetta voru beztu tímar.
Þannig voru þessir tímar einnig þarna á Hávallagötunni þegar heimsstyrjaldirnar geisuðu, bæði á sjónum og í sálarlífi drengsins sem reyndi að laga sig að þeim misjöfnu aðstæðum sem umhverfið bauð upp á.
En allt var þetta þó ævintýri og ástæða til að horfa hlýjum huga í kringum sig og gleðjast yfir því hvernig verstu tímar gátu einnig orðið beztu tímar.
Og ég hélt áfram hægum skrefum í átt til jökulsins sem var einskonar útvörður þesssa mannlífs og þessa umhverfis,en sást nu ekki lengur fyrir húsum, og fór að hugsa um samtal okkar Hallgríms Jónssonar vélstjóra á Dettifossi; það þrýstir sér inn í hugann þarna á göngunni og engu líkara en við hefðum hitzt í gær en ekki fyrir þriðjungi aldar. Og hugur minn varð eins og klettabelti sem bergmálar sögðum orðum og samtali sem hverfur inn í hamrana.
Hallgrímur sagði mér frá því þegar hann sigldi með Skúla fógeta að selja fisk í Grimsby, það var í ágústmánuði 1914, eða skömmu eftir að styrjöldin fyrri hófst. Kristján Kristjánsson, síðar fornbóksali í Hafnarstræti, var nýtekinn við skipinu af Halldóri Þorsteinssyni og þeir höfðu fengið ágætan afla í Flóanum og fyrir Vestfjörðum: "Ferðin gekk ágætlega. Við seldum vel miðað við aflann, svo lögðum við aftur af stað heim, en þegar við vorum um 30 sjómílur austur af Tyne lenti skipið á tundurdufli og sökk. Fjórir af áhöfninni fórust, þeir voru allir sofandi frammí. Við hinir komumst í bátinn og lögðum frá skipinu, þegar farið var að vatna yfir það að framan.
Okkur tókst að ná tveimur slösuðum mönnum upp úr hásetaklefanum frammí, en þá var hann fullur af vatni eftir sprenginguna og mátti engu muna. Skipið hvarf okkur í myrkrið og var þá kominn sjór yfir framþiljurnar. Við rerum að síldveiðibát, sem var ekki langt undan, og flutti hann okkur til lands.
Þegar við lentum á duflinu, var ég á vakt niðri í vélarrúmi. Allt í einu heyrði ég ógurlegan hvell og í sömu svipan nötraði skipið og skalf með braki og brestum, svo mér lá við falli. Það hófst upp að framan, eins og stór alda hefði riðið undir það. Hnoð úr samskeytum skullu niður á gólf og sjór steyptist inn um hágluggann niður yfir vélina. Hún hafði gengið með fullum hraða, en hreyfðist nú ofurhægt. Þeir á stjórnpallinum sáu eldblossa koma undan báðum bógum skipsins og sjóstrokan frá sprengingunni sögðu þeir að hefði farið upp fyrir siglutré. Þetta gerðist í einu vetfangi og því næst seig skipið aftur niður að framan og miklu dýpra en það var áður.
Ég stöðvaði vélina án þess að fá skipun um það úr brúnni, enda kom sú skipun aldrei, því að þeir hröðuðu sér í bátana. Þegar mér fannst skipið vera farið að hallast ískyggilega mikið fram og helzt leit út fyrir að það mundi stingast á endann, tók ég það ráð að hlaupa upp á þilfar. Þá voru þeir komnir úr brúnni að skipsbátnum og farnir að losa hann, en aðrir sem höfðu verið í káetu eða yfirmannaklefum komu þjótandi upp, sumir á nærklæðum með föt sín í fanginu. Skipstjórinn, sem hafði sofið í klefa sínum undir stjórnpalli, kom einnig á nærklæðum og hélt á fötum sínum.
Enginn hægðarleikur að ná þeim sem höfðu slasazt. Þegar við höfðum hrint bátnum á flot og gert blys af tvisti, hlupu sumir fram á, en aðrir héldu bátnum. Þá sáu þeir að félagar okkar flutu ósjálfbjarga á sjónum í hásetaklefanum innan um alls konar rusl og spýtnabrak úr rúmum og þiljum, en von bráðar tókst þó að ná tveimur, og var annar þeirra meðvitundarlaus. Þegar ég kom upp á þilfar aftur, mætti ég þeim sem voru að rogast með særðu mennina niður í bátinn.
Þeir sögðu:
Enn vantar fjóra úr hásetaklefanum, en kannski eru þeir dauðir. Við urðum ekki varir við fleiri. Okkur þótti leiðinlegt að fara við svo búið. Við lýstum niður í hásetaklefann og þá náði vatnið rétt yfir þilfarið, en stiginn var burtu. Einn félaga okkar var innan um brakið sem flaut þar ofan á. Við gátum með naumindum séð til hans, en náðum honum ekki upp. Hann var dauður. Pétur Maack, sem síðar fórst með Max Pemberton, gekk djarfmannlegast fram við björgun félaga okkar. Hann var hraustmenni og þreklundaður með afbrigðum."
Og enn:
"Við sigldum á gamla Gullfossi til Ameríku. Fyrstu ferðina fórum við í febrúar og fengum áfall á leiðinni, sjó svo stóran að hann beygði inn þilið stjórnborðsmegin í borðsalnum og braut mest alla tréklæðninguna allt í kringum bátadekkið, náði jafnvel upp í brú. Engum varð þó meint af þessu, og var gert við skipið í New York.
Við reyndum að sigla, þar sem minnst var af þýzkum kafbátum við Ameríkuströnd, og aldrei urðum við þeirra varir, þó krökkt væri af þeim um allan sjó og mörg skip yrðu þeim að bráð. Aftur á móti kynntist ég þýzkum kafbátahernaði í seinna stríði, þegar ég var á Dettifoss, en honum var grandað á hafinu milli Skotlands og Írlands. Sumir sögðu að hann hefði rekizt á tundurdufl, en ég er nú ekki á því."
"Við vorum á leið frá Ameríku og urðum eins og þá var komið að fara í skipalest suður fyrir Írland á leið til Englands. Við fórum frá Belfast á fimmta tímanum um morguninn. Þrjú skip voru samferða frá Belfast til Skotlands, og var Dettifoss eitt þeirra. Með þeim voru þrjú vopnuð fylgdarskip. Ferðinni var heitið til Norður-Skotlands, þar sem safnað var saman skipum, sem áttu að fara í skipalest til Íslands.
Ósköpin dundu yfir meðan við yfirmennirnir sátum að snæðingi. Tundurskeyti hitti bakborðskinnung skipsins að framan og tætti það sundur undir sjávarmáli. Skipið tók strax að síga niður að framan og hallast á bakborða. Fólk þusti út á þilfar og komust flestir úr klefum sínum, að þeim undanskildum sem voru frammí. Ekki veit ég, hvort einhverjir hafa slasazt við sprenginguna, en ekki mun gangurinn sem lá milli herbergja skipverja frammí hafa teppzt. Eini hásetinn, sem var í rúmi sínu, Kristján Símonarson, komst lífs af.
Tveir björgunarbátar voru á bátaþilfari miðskips, en einn bátur á palli aftast á skipinu. Auk þess voru á því björgunarflekar. Ekki var viðlit að koma út nema bakborðsbátnum. Stjórnborðsbátnum var ekki unnt að koma út vegna þess, hve skipið hallaðist fljótt á bakborða. Einn flekinn losnaði frá skipinu við sprenginguna og annar fór á flot skömmu síðar.
Vinna hófst að venju um borð upp úr klukkan sjö, og vegna þess að þetta var á matartíma voru flestir hásetar frammí að borða. Fórust því margir þeirra í sprengingunni. Við stukkum strax upp á dekk, sem nærri má geta og fór hver að sínum báti eða björgunarfleka. Tími var naumur, eins og sjá má af því, að fimm mínútum eftir að sprengingin varð, var skipið sokkið.
Ég fór ekki niður. En þriðji vélstjóri, Ásgeir Magnússon, sem var á vakt, stoppaði vélina þegar í stað og kom upp. Ég held hann hafi verið einn niðri, þegar sprengingin varð.
Þegar ég kom upp á bátadekk að bakborðsbátnum, var Ólafur Tómasson, annar stýrimaður, þar fyrir að reyna að losa bátinn ásamt fjórða meistara, Geir Geirssyni. En þá er skipið farið að hallast svo mjög að báturinn fellur strax út, þegar hann losnar, en hangir samt í uglunum. Skipið var enn á töluverðri ferð og þegar bátnum er fírað í sjó fylgir hann skipinu. En hann er fastur í fangalínunni, sem fest var með sérstökum útbúnaði framar á skipinu, og var þetta gert til að fljótlegt yrði að losa bátinn, ef í nauðir ræki. Þurfti raunar ekki annað en taka í þar til gerða spýtu, sem var í auga á fangalínunni. En þar sem ferðin var enn svo mikil á skipinu, var erfitt að ná spýtunni úr auganu og losa bátinn.
Þegar báturinn kom í sjó, sveiflaðist hann frá skipinu, en hékk þó í fangalínunni. Stýrimaðurinn og vélstjórinn ætluðu að stökkva ofan í hann, en bilið milli hans og skipsins var það breitt, að þeir lentu í sjónum, en gátu náð taki á borðstokknum á bátnum og haldið sér þar. Nokkrum sekúndum síðar kom báturinn aftur að skipinu og fórum við Gísli Guðmundsson, matsveinn, þá um borð í hann. Þá var skipið sigið svo mjög á bakborða, að minnstu munaði að báturinn lenti undir bátsuglunni og færi niður með skipinu. En á síðustu stundu tókst Gísla matsveini að ná spýtunni úr auganu, um leið og alda féll undan bátnum og gátum við ýtt honum frá skipshlið.
Ég gekk á bátsugluna með öllu því afli, sem ég átti til, en meðan ég er að ýta bátnum frá skipinu, kemur farþegi á náttfötunum skríðandi á fjórum fótum eftir uglunni og út í bátinn. Það var Páll Melsted, stórkaupmaður, og má segja að erfiðleikar okkar við að leysa bátinn hafi bjargað lífi hans, að minnsta kosti hefði hann lenti í sjónum og enginn fleki í nánd við okkur.
Skömmu eftir að báturinn var laus undan uglunni hjálpuðum við upp í hann félögum okkar sem hengu á borðstokknum. Nokkru seinna sökk skipið. Það beygði hálfhring á bakborða og sá ég ofan í reykháfinn um leið og það sökk. Þá var skipið um 50 metra frá okkur. Rétt í sömu mund sáum við hvar tvær konur komu upp á bátadekkið og hlupu undan sjónum upp stigann að stjórnpallinum, en þar tók sjórinn þær. Auðvitað gátum við ekkert aðhafzt hvorki þeim né öðrum, sem voru lifandi um borð í skipinu, til bjargar.
Þegar skipið var sokkið, kom annar vélstjóri, Hafliði Hafliðason, syndandi að bátnum, því að hann náði ekki í neinn fleka. Við drógum hann upp í, en ekki var hann þrekaður þótt kalt væri, enda góður sundmaður.
Mikið af braki flaut upp, þar sem skipið sökk. Við rerum þangað. Þar fundum við aðra konuna á floti innan um ruslið. Við drógum hana um borð, lögðum hana á þóftu, því hún var meðvitundarlaus, og stýrimaður hóf lífgunartilraunir á henni. Þær báru árangur. Hún náði sér tiltölulega fljótt. Eitthvað heyrði ég talað um að hún hefði flotið vegna þess að hún hefði verið vanfær, en engar sönnur veit ég á því.
Aðrir, sem af komust , náðu í fleka. Þeir höfðu misst hann í sjóinn og urðu að synda að honum, en sumir náðu honum ekki og drukknuðu. Þeirra á meðal var fyrsti stýrimaður, Davíð Gíslason.
Þegar skipið sökk, var öll ferð komin af því. Það stakkst niður að framan og sáum við íslenzka fánann síðast, er það hvarf í djúpið.
Aðeins ein hugsun komst að hjá okkur, sem í bátnum vorum.
"Eru ekki einhverjir fleiri lifandi í sjónum... sjáið þið ekki fleiri...?"
En við sáum ekki fleiri.
Eitt fylgdarskipanna staðnæmdist, þegar Dettifossi var sökkt, og varð eftir til að annast björgun. En þeir hættu ekki á að koma nálægt slysstaðnum, heldur vörpuðu þeir í sífellu djúpsprengjum um allt svæðið. Leið rúmur klukkutími áður en þeir áttuðu sig á því, að ekki var lengur til setu boðið og bjarga þyrfti fólkinu.
Það vildi okkur til lífs að veður var skaplegt, en ekki hefði mátt miklu muna, því að björgunarflekinn, sem flestir voru á, fór brátt að síga og sjór gekk sífellt yfir hann og sátu skipbrotsmenn í sjó upp í mitti, margir lítt klæddir. Var flekinn að mestu í kafi, þegar hersnekkjan renndi upp að honum og tók fólkið um borð. Við í bátnum vorum á grænni grein og rerum að henni. Aðhlynning var góð, öll fengum við romm eins og hver vildi, og hresstust menn þá fljótlega. Ég lauk ekki við minn skammt".

Og nú var komið að kadettinum sem Steinn orti um. Nú var hann kominn þangað sem við njótum góðs af fórnardauða og friðþægingu Krists. Ég rifjaði upp kvæðið í huganum og einnig kvæðið sem Steinn orti um Hávallagötu 44. Þar sá ég hann stundum drengur. Vissi samt ekki að hann orti kvæði, vissi ekki að hann orti um barn á þessari götu og hlæjandi stein. Stundum hló hann sjálfur en það var sjaldan. Hann glotti eins og Skarphéðinn. Og hann orti um Skarphéðin, því hann vissi að þeir voru ekki ólíkir. Hann fann sjálfan sig í honum og hann gekk þarna eftir götunni og klappaði heitum lófa á garðvegginn, staldraði við, leit í kringum sig og gekk svo inn í íbúð Guðmundar Sigurðssonar sem ég skrifaði um annars staðar. Hann leigði hjá gömlum eineygðum presti sem naut hafði stangað og hann minnti á Óðin fyrir bragðið. Og þeir báru mikla virðingu fyrir þessum eineygða presti, drykkjubræðurnir Guðmundur og Steinn, Bergur Pálsson og Magnús Ásgeirsson.
En nú var kadettinn kominn í heimsókn, hann sparkaði upp gáttinni og stóð miðsvæðis í huganum þar sem ég holdgerði í einni andrá öll þessi löngu gleymdu ævintýri sem voru eitt sinn jafn áþreifanleg og veruleikinn sjálfur.Nú var ég kominn niður á Fógeta og mér leiddist ekkert þar sem ég sat þarna yfir Newcastle Brown og virti hugsunarlaust fyrir mér barflugurnar, reyndi að endurupplifa deyjandi bergmál úr löngu liðnum tíma.
Það var sjórinn, já, já það var þessi niður af sjónum; þetta hljóð sem var niður af deyjandi brimi og fylgdi manni eins og Stokkseyrarfjaran, já, hljóðið sem Páll Ísólfsson hafði svo oft minnzt á og er eilífur niður í verkum hans. Og ég hlustaði á þennan nið sem heyrist ekki, þessi orð sem deyja við klettótta strönd og mér leiddist ekki, síður en svo. Samt var þetta áður en ungi sjómaðurinn að austan sem stóð við barinn mjakaði sér að borðinu og settist með viskíglasið í hendi og sagði:
„Þessi tegund af viskíi hefur aldrei brugðizt mér, hvorki á sjó né landi.”
„Já”, sagði kadettinn, „Mathilde Mærsk, ég var á henni þegar seinni styrjöldin brauzt út.  Þá komum við frá brezku Gvæana til Halifax í Kanada og ég lét það verða mitt fyrsta verk að strjúka af skipinu. Við tókum þrír þátt í þessu „samsæri”. Hinir voru Norðmaður, að nafni Petersen, og Karl Guðmundsson, búsettur í Ólafsfirði. Ástæðan til þess að við strukum var ekki sú, að við óttuðumst þýzka kafbáta - onei, þetta átti miklu fremur rætur að rekja til þeirrar staðreyndar, að Íslendingar og Norðmenn eru ákaflega ólíkir Dönum. Hinir síðast töldu eru ágætir sjómenn, og þegar þeir komust að því að ég fékk hærra kaup en þeir, var þeim nóg boðið, enda vissu þeir, að ég hafði engan siglingatíma og gátu ímyndað sér, að biblíulestur og sjómennska væru harla ólíkar atvinnugreinar, en þá hafði ég verið í Hjálpræðishernum og unað því vel, en nú komst ég í kast við danska öfund og hún er ekki betri en sú íslenzka, get ég sagt þér.

Nei, okkur tókst ekki að strjúka í þetta skiptið, útlendingaeftirlitið sá um það. Við vorum fluttir aftur um borð í umsjá tveggja lögregluþjóna. Mathilde Mærsk lá þá í St. John, þar var verið að ferma skipið korni til Írlands. Ekki fór þó svo, að við Karl færum með skipinu til Evrópu, því við strukum aftur og fórum huldu höfði, þangað til það var farið. Við fórum með alla okkar fjármuni upp á Admiral Beatty Hotel, sem er eitt veglegasta gistihús borgarinnar og tókum okkur íbúð á leigu. Ef ég man rétt, kostaði hún 60 dollara á dag. Karl talaði ekki orð í ensku, en ég kunni málið mætavel og hafði því orð fyrir okkur. Ég ritaði Karl inn í gestabókina sem Count Guðmundsson og kvaðst sjálfur vera ritari hans; lét auk þess getið, að við værum í fisksöluerindum fyrir íslenzk fyrirtæki og mundum innan skamms ræða við alla helztu fiskkaupmenn þar í landi. Fórum síðan upp í íbúð okkar og pöntuðum whisky. Þegar þjónninn kom með whiskyið, var ég sofandi, svo Karl varð að vekja mig með miklum tilburðum; leizt þjóninum ekki á blikuna.

  1.  
  2.  

Nokkru síðar fórum við Karl í skemmtigöngu, og áður en við komum til hótelsins aftur, hafði útlendingaeftirlitið hremmt okkur í annað sinn, en blaðamennirnir, sem gestgjafinn hafði sent til viðtals við „greifann”, urðu frá að hverfa. Daginn eftir lásum við í einu blaði borgarinnar, að nú kynnu þeir góð skil á því, hverjir við værum, en auk þess voru þeir svo elskulegir að láta þess getið, að auðvelt hefði verið að villast á mér, því ég hefði talað Oxford-ensku, en það væri fátítt um kyndara á dönskum skipum.
Í flestum hafnarborgum Kanada eru stór og góð hæli fyrir strokumenn og aðra þá, sem lögreglan hefur haft hendur í hári. En svo illa vildi til, að hæli þeirra í St. John brann nokkrum dögum áður en við vorum teknir, svo við vorum fluttir í umdæmisfangelsið upp á vatn og brauð. Þar voru alls kyns glæpamenn, og undum við hag okkar hið versta. Ég fékk þó að hringja til konsúls Dana. Hann var ágætur maður, hét Larsen upp á gamlan danskan máta og tókst honum að útvega okkur sérstakt herbergi, sem gaf ekki á nokkurn hátt eftir venjulegri stofu í Pólunum. Þar sátum við í þrjár vikur, og þar varð ég 28 ára.
Í janúarbyrjun næsta ár kom inn skip frá sama félagi og var okkur þá tilkynnt að eitt skipsrúm væri laust. Köstuðum við hlutkesti um það, hvor okkar skyldi hreppa starfið og kom upp minn hlutur. En þegar ég frétti, að hér var um lemparastarf að ræða, leizt mér ekki á blikuna og gaf Karli það eftir. Daginn eftir kom enn eitt skip frá sama félagi, Jessie Mærsk, sem Íslendingum er vel kunnug, því hana rak hér á landi í stórviðri 1941.
Ég hafði selt fötin mín í fangelsinu til að geta keypt tóbak, og þegar ég kom um borð að taka við hásetastarfinu, var ég ekki í öðru en skyrtubol, buxum og skóm. Úti var nístandi kuldi og geturðu rétt ímyndað þér, hvernig mér leið. En skipstjórinn var ágætur maður og lét mér í té góðan fatnað.
Ég var á þessu skipi nokkra mánuði og gekk allt slysalaust. Fórum við margar ferðir með fosfat-farm eða eyðimerkursand frá Afríku til Evrópu, og þegar við vorum í einni slíkri ferð bárust okkur þau geigvænlegu tíðindi, að Þjóðverjar hefðu ráðizt inn í Danmörku, en þangað var ferðinni heitið.
Brezka útvarpið skoraði á alla danska sjómenn að sigla skipum sínum til hafnarborga bandamanna, eða til hlutlausra ríkja. Við ræddum þetta mál fram og aftur og urðum ásáttir um að spyrja skipstjórann, hvað hann hygðist fyrir. Tjáði hann okkur, að hann hafði skipun um að sigla til Álaborgar og mundi hann gera það.
Við sögðum honum þá, að við mundum allir leggja niður vinnu. Það kvað hann sig engu skipta og sagði, að yfirmennirnir gætu siglt skipinu heilu í höfn.
Af þessu samtali vissum við, að við yrðum að taka ráðin í okkar hendur, ef við vildum ekki lenda í klónum á nazistum. Við skutum á fundi og ákváðum að taka að okkur stjórn skipsins kl. 5 næsta morgun, 11. apríl, og bíða þess, að við fengjum aðstoð brezkra eftirlitsskipa til að komast í höfn.
Þegar ég kom af vakt á miðnætti, höfðu félagar mínir komið sér saman um, að við skyldum ekki hefja „uppreisnina” fyrr en kl. 8 næsta morgun, því þá mundum við hafa landsýn af Írlandi og gætum betur áttað okkur.
Þessi ákvörðun varð okkur til happs því þjónn yfirmannanna ljóstraði upp fyrirætlunum. okkar.
Ég benti félögum mínum á að kl. 5 væru hinir „vafasömu” komnir í koju og líklega í fasta svefni. Var nú afráðið að nýju að gera „uppreisnina” kl. 5.
Stóðst áætlun okkar ágætlega, við bundum 1. stýrimann í kortaklefanum, settum af handahófi stefnu á Bristol, fórum síðan niður í svefnherbergi skipstjórans og handtókum hann. Hann ætlaði að grípa til skammbyssu sinnar, en danskur kyndari varð fyrri til. Skipstjórinn kvaðst hafa vitað að við mundum koma, en ekki búizt við okkur svo snemma. Áður en til þess kæmi, að hann yrði bundinn , gaf hann okkur drengskaparheit um, að hann skyldi fara með skipið til Englands og gengum við að því. Hef ég oft hugsað um, hve heppnir við vorum, að hann skyldi vera slíkur dánumaður sem hann reyndist í hvívetna því að okkur hefði sennilega verið yljað undir uggunum, ef hann hefði brugðizt heiti sínu og siglt til Danmerkur.
Við komum svo til Cardiff um kvöldið og eftir nokkurt þóf var skipið látið sigla á vegum bandamanna.
Ég var þar um borð, þangað til ég gekk í brezka herinn í júní 1940. Í janúar næsta ár var ég sendur til Íslands og vann þar sem dómtúlkur og skjalaþýðandi fyrir brezka herliðið.
En síðsumars 1942 hafði ég fengið nóg af því starfi og strauk úr hernum. Fór ég vestur á Skógarströnd og faldi mig þar hjá frændfólki mínu, en konu minni og móður var tilkynnt, að ef ég gæfi mig ekki fram fyrir tiltekinn tíma, yrði ég líflátinn, þegar ég næðist. Þær vissu hvorugar, hvar ég var niður kominn og komust þessi boð ekki til mín fyrr en um seinan. Ég átti því fyrir höndum margvíslega örðugleika, en með aðstoð góðra manna, ekki sízt Ólafs Friðrikssonar, gat ég boðið þeim birginn. Loks gat ég komið því svo fyrir, að ég var rekinn úr hernum vegna óheiðarleika, en komst fyrir bragðið í kast við íslenzk hegningarlög. Af því hafði ég þó hvorki ama né eftirsjá, því það mátti heita mitt eina úrræði til friðar, enda tilkynntu brezku hernaðaryfirvöldin, að þau mundu ekki um mig fást, hvorki til né frá.
Á krýningardag Elísabetar II. var mér ásamt mörgum öðrum, veitt sakaruppgjöf og hef síðan oft verið í Englandi í bezta yfirlæti.”
Að lokum: Ég hef vafalaust ávaxtað mitt pund illa,” sagði kadettinn ofan í hattinn. „Mér finnst stundum þeir hafa rétt fyrir sér, sem halda því fram, að ég hefði getað orðið eitthvað meira en flakkari og drykkjusvoli. ...”En ekki er öll nótt úti enn,” sagði draugurinn.”

Þorláksmessa

Fékk bréf í dag frá Davíð Oddssyni, dags. 20. des., svohljóðandi: „Kæri Matthías.
Eins og þú veist þá hefur Morgunblaðið heldur pirrað mig á undanförnum misserum og hefur sá pirringur fremur vaxið en hitt. En það breytir engu um þann hlýhug sem ég ber til þín og Hönnu, og þær góðu minningar sem ég á um okkar samskipti. Þú veist líka að ég hef ekki mikið álit á ykkar vitlausa veiðileyfagjaldi, en ég vona að það hafi ekki nein áhrif á þann hug sem þú berð persónulega til mín og oft hefur komið fram á liðnum árum. Mér líkaði vel viðtalið við þig í Mál og menningu. Það er auðvitað tímanna tákn að þar skuli yfirleitt haft viðtal við skáldið Matthías Johannessen. Mér líkaði þó enn betur við ljóðabókina. Hún var auðvitað „matthíösk” á besta máta, en jafnframt ný. Það var í henni nýr tónn, hlýr tónn. Hún var að mínu mati leikandi létt, þótt hún væri barmafull af heimspekilegum og siðferðilegum gátum og hafði ég því af henni mikla ánægju.
Mér til gaman sendi ég þér lítið ljóð, sem ég setti saman í gær þegar að jólaskapið tók að ná tökum á mér, mitt í allri hringavitleysunni á þinginu.
Ég óska ykkur Hönnu gleðilegra jóla.
Með góðri kveðju,
Davíð Oddsson.

Með þessu bréfi fylgdi ljóð sem Davíð orti 19. desember síðastliðinn undir umræðum um fjárlögin. Það heitir Hin fyrstu jól. Kvæðið er svohljóðandi:

Hin fyrstu jól

Nóttin er björt, því loftin öll stjörnurnar lýsa
leitandi mönnum hin skærasta þeirra er að vísa
á Betlehemsþorpið og gestunum gert er að læðast
í gripahús inn, þar sem mannkynsins von er að fæðast.

Hví hófu þeir langferð, hví gengu þeir Betlehemsgötu?
Guð hefur beint þeim að veikburða ungviði í jötu.
Þeir leituðu tilgangs, í skapandi skilninginn þyrsti
og skjól fyrir hættum og sorgum þeir fundu í Kristi.

Þótt Kristur sé fundinn er göngunni löngu ekki lokið.
Leitin er eilíf, þó hann hafi létt mönnum okið.
Eitt svarið er fengið, en glíman og lífsgátan krefjast
að gangan að jötu sé ætíð og sífellt að hefjast.
Davíð Oddsson.

Sýndi Styrmi bréf og ljóð.
Styrmir sagði, Davíð er tveir menn og báðir birtast í þessu bréfi. Ég sagði við hann að þetta væri gott kvæði og kannski vildi Davíð láta birta það. Kom okkur saman um að það mætti vel vera svo ég hringdi í hann.
Ég sagði honum að mér fyndist þetta gott kvæði og það væri skemmtilegt að birta það í aðfangadagsblaðinu.
Hann sagði að það væri smá hortittur í því, næst síðasta línan væri ekki fullstuðluð. Það væri því braglýti í kvæðinu.
Ég sagði að það gerði ekkert til. Það sæju allir og vissu að hann kynni sína bragfræði. Og þeir sem kunna bragfræðina hefðu leyfi til að brjóta hana.
Hann sagði að lífsgátan væri mikilvægt orð í ljóðinu og hann vildi ekki fórna því fyrir bragreglurnar. Ég sagðist oft hafa brotið reglurnar ef mér sýndist svo, þetta skipti engu máli. Við ættum að birta kvæðið eins og það væri. Það mundi gleðja marga. Það gætu ef til vill tveir eða þrír forsetar ort svona kvæði og átti ég þá við skáldin á forsetastóli í Tékklandi og Ungverjalandi, en ég vissi ekki um neinn forsætisráðherra sem mundi geta það.
Davíð sagði að hann hefði ekkert á móti því að ég birti kvæðið ef ég vildi það. Hann sagði að ég mætti ráða því.
Við birtum kvæðið í aðfangadagsblaðinu á miðsíðu, við hliðina á leiðara. Við fundum nýja mynd eftir Rax af Hóladómkirkju upplýstri, það er mjög falleg mynd og fer vel með kvæðinu. Vona að þetta gleðji Davíð og lesendur okkar. Og það gladdi mig að fá þetta í hendur á síðustu stundu og geta birt það í jólablaðinu.
Ég bað Árna Jörgensen að koma niður á blað og hanna miðsíðuna á ný. Hann gerði það með sóma. Hann hafði verið í hádeginu í skötu á Nausti og ég sagði honum að ég vildi ekki að kvæði Davíðs yrði í skötulíki.
Ég hringdi í Davíð og spurði hvort ekki mætti standa undir kvæðinu Ort á aðventu.
En hann sagði, Það er ort niðri á þingi 19. desember, undir fjárlagaumræðum(!)
Einn þingmannanna hafði víst snúið sér að forsætisráðherra og fagnað því að hann væri að skrifa hjá sér undir ræðu hans.
En þá var Davíð að yrkja kvæðið og minnir á Hannes Hafstein þegar hann á sínum tíma teiknaði myndina frægu af Birni Jónssyni undir umræðum á alþingi.
Þegar ég hringdi í Davíð sagði hann að það hefði munað litlu að hann hefði keyrt yfir mig á Birkimelnum þá fyrr um daginn.
Ég mundi ekki eftir því.
Ég sagði við hann að þá hefði ég líklega orðið frægur, loksins.
Við komum okkur saman um að það hefði orðið frétt úr því.
Ég bætti við,
Og þá hefði Styrmir þurft að skrifa frétt þar sem hann skýrði frá því að þú hefðir drepið mig vegna veiðileyfagjaldsins!
En Davíð er víst ekki svo pirraður. Hann sagði að okkur gæti grein á um málefni, en vinátta okkar héldist; lagði ríka áherslu á það.
Bætti svo við:
„Þetta er svona smápirringur!”
Já, alveg rétt, ég sé það nú að Davíð segir í bréfinu til mín sem er dagsett 20. desember að hann hafi sett saman kvæðið í gær, eins og hann kemst að orði, þegar „jólaskapið tók að ná tökum á mér, mitt í allri hringavitleysunni á þinginu”.
Mörg skáld hafa brotið íslenzkar bragreglur. Þau sem kunna þær hafa svo sannarlega leyfi til þess. Mér er nær að halda að Grímur Thomsen hafi haft þessar bragreglur á reiðum höndum en samt braut hann þær eins og honum sýndist. Margir töldu að þetta væru eintómir fingurbrjótar og hortittir hjá honum. Hann hefði ekki brageyra. Ég held að hann hafi vitað lengra en nef hans náði í þessum efnum.Lengran en annarra.Hann var stórvelmenntaður í skáldskap,ekki bara íslenzkum heldur klassískum,frönskum,brezkum og dönskum.Og segja má hann hafi uppgötvað H.C.Andersen í ritdómi,þegar aðrir hundsuðu hann.
En svona orti hann,eins og honum sýndist. Þetta voru hans einkenni og kvæðin hans hafa lifað.
Davíð er semsagt í góðum félagsskap.

Hef verið að setja saman dálitla frásögn sem byggist á gömlum samtölum mínum við sjómenn, Hallgrím vélstjóra, Jón kadett og Guðjón á Eyri. Nota þau sem tilvitnanir í þessari frásögn sem á rætur að  rekja til þess að við Kristján Karlsson sátum niðri í Nausti, en þá kom til okkar sjómaður að nafni, Jón Þór Grímsson, og talaði stanzlaust við okkur í hálfan annan tíma.
Sagði okkur frá reynslu sinni, sjómennsku, drykkjuskap og afbrotum, þ.e. ölvunarakstri, innbroti og dómi vegna ölvunar á sjó. Hann rak upp í bergið fyrir vestan Þorlákshöfn, komst með yfirnáttúrulegum hætti í land, skreið upp klettabakkann og þar fannst hann á brúninni. Það var tekin blóðprufa úr honum og hann fékk ölvunardóm. Þetta var í marz 1993 og þá birtist af þessu frásögn Árna Johnsens í Morgunblaðinu (fimmtudaginn 24. marz), en hann gagnrýnir lögregluna fyrir austan fyrir að taka blóðprufu úr hröktum sjómanni, nýheimtum úr helju,en auðvitað var það skylda hennar hvað sem vestmannaeyingum líður.
Ég nota einungis nokkur atriði úr þessari frásögn eins og Jón Þór sagði okkur hana og vona að þetta klappi, því mig langar til að koma nokkrum minningum úr Vesturbænum á framfæri með þessum hætti og þá ekki síður nokkrum brotum úr samtölum mínum við látna sjómenn, en þau eru gleymd og grafin í þýfðum kirkjugarði Morgunblaðsins.
Sem sagt óbirt í bók.
Hef einnig í huga frásögn af þrekraun Hafsteins Jónssonar sem bjargaðist með sama hætti við svipaðar aðstæður. Og á sömu slóðum. (Sbr. frásögn hans, Mbl. sunnud. 31. des. ‘95).

Aðfangadagur , rauð jól.

Hef verið að lesa Haroun and the Sea of the Stories eftir Rushdie, finnst það hálfleiðinleg saga. Við Kristján Karlsson erum sammála um að Rushdie sé ofmetinn. Í jólablaði Time er bók hans um Síðasta andvarp márans talinn bezta skáldsaga ársins, það er fráleitt. Mér finnst hún hálfgert klúður. Og ekki þótti mér hún minna klúður þegar ég fór að lesa Í leit að liðnum tíma eftir Proust, bæði Swann’s Way og Whithin a Budding Growe. Ég get vart hugsað mér að það sé hægt að skrifa betur en þessar minningasögur Proust. Það er augljóst að þetta skáldverk er byggt á minningum hans og raunar ómögulegt að segja hvað er skáldskapur og hvað minningar. Allt rennur þetta saman í flæðandi, ljóðrænum stíl sem er tær og eftirminnilegur eins og góðviðrið í æsku hans. Að sumu leyti harla ólíkur Joyce en þó eru þessi fljót úr sömu vötnum tímans og engu lík. Ég las á sínum tíma æviminningar Canettis á þýzku. Held hann hafi fengið Nóbelsverðlaun fyrir þær. Þær eru skrifaðar í þessum sama dúr og Proust og taka öllum skáldskap fram. Held líka að þær séu meiri skáldskapur en staðreyndir eins og alltaf er þegar snillingar fara höndum um efnið. Það var auðvelt að lesa þessa bók á þýzku eins tær og einföld, ljóðræn og hlý og hún er; minnir á þýzkuna í minningabók Katju Mann.

Hef einnig verið að hlusta á Gurre-Lieder eftir Arnold Schonberg. Það er eins konar ópera samin við ljóðaflokk I.P. Jacobsens sem skrifaði Maríu Grubbe. Eftirminnilegt verk eins og hún og öðru vísi en margar þær óperur sem maður hefur fengið nóg af. Ég ætla að hlusta á þetta verk aftur. Mér hefur jafnvel dottið í hug að skrifa svona ljóðaflokk ef eitthvert íslenskt tónskáld léti einhvern tíma svo lítið að semja við hann einhvers konar tónlist.

Hef einnig verið að lesa smásögur kandadísku skáldkonunnar Alice Munros, sérstæðar sögur og vel skrifaður skáldskapur úr hráefni sem skáldkonan þekkir augsýnilega vel. Þannig eru einnig smásögur ítölsku skáldkonunnar Tamaro sem ég hef verið að lesa. Þær hafa verið þýddar á íslenzku, heldur vel.

Skáldsagan um Ágústínus, kirkjuföður, sem á að byggjast á bréfum ástkonu hans, Floríu Aernilias, fjallar um freistingar lífsins, eins og ég hef áður nefnt, og blóðugan vígvöll jarðarinnar. En guðir í sköpun eiga að sjálfsögðu rætur í þessari sömu jörð þótt áfangastaðurinn sé heimkynni Beatrísu.

Annan í jólum

 

Fórum í tvær messur á aðfangadag með Ingólfi, fyrst í Neskirju þar sem við sátum við hliðina á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra og Hjörleifi manni hennar. Borgarstjóri var eins og jólastjarna, þau heilsuðu okkur hlýlega eins og efni stóðu til. Ég held þetta sé í fyrsta skipti sem ég hef hitt Ingibjörgu Sólrúnu og mann hennar og hugnaðist mér það vel. Séra Halldór Reynisson talaði um barnið sem við þyrftum að varðveita í sjálfum okkur. Hann talaði um einlægnina og muninn á því að vera barnalegur og barnslegur. Við eigum að taka á móti jólunum af barnslegri einlægni. Þannig göngum við að jötunni og fögnum jólaævintýrinu sem er svo ótrúlegt að engum hefði dottið í hug að skrifa það með þessum hætti ef hann hefði ætlað að byggja á því trúboð. Jólaguðspjallið er nógu ótrúlegt til að það sé hægt að trúa því. Sá sem ekki trúir því án spurninga og skýringa getur ekki upplifað það eins og efni standa til.
Við hittum margt fleira fólk þarna í kirkjunni og var það ánægjulegt. Við fórum einnig í miðnæturmessu í kaþólsku kirkjunni. Þó að ég sé mjög tengdur þessari kirkju og Landakoti og hef oft farið einn í kirkjuna að hvíla hugann og biðjast fyrir þá hef ég aldrei verið þar fyrr við messu. Við sátum hjá Nínu Björk og Braga Kristjónssyni. Kirkjan var full af fólki. Messan var stílfögur og áhrifamikil. Augljóst að hún byggði á tvö þúsund ára hefð. Byskupinn nýi tónar mjög vel og er augsýnilega mikill latínuhestur.
Mér fannst ég upplifa gömlu íslenzku byskupana, Þorlák, Pál og Jón Arason þegar ég virti þennan hollenzka kennimann fyrir mér með byskupshattinn og hirðisstafinn. Hið mikla og óvenjulega vald kaþólsku kirkjunnar var ísmeygilegt og nærgöngult.
Ég er ekkert hissa á því að stalínisminn réð ekkert við þetta vald. Ég dáist að því hvað byskupinn fleytir sér á íslenzku eftir svo stutta dvöl hér á landi. Hann er enginn aukvisi, það er augljóst. Hann hefur fullt vald á þeim boðskap sem hann er kallaður til og mér fannst ég raunar vera kominn langt aftur í aldir þar sem við sátum þarna og hlustuðum á prédikunina, víxlsönginn og sakramentið.
Áhrifamikil og fögur athöfn.
Veðrið stillt og gott þegar við komum út úr kirkjunni, klukkan 1.20, þó dálítil hálka.
Í dag fórum við Ingó í langan göngutúr, ætluðum að koma við í Hallgrímskirkju, en hún var lokuð. Á hurðinni stóð:
Opið alla daga frá 10-6.
Samt var þessi höfuðkirkja ekki opin á sjálfan jóladag. Ég sagði við Ingó,
Ætli þetta sé ekki táknrænt, kannski er lokað í himnaríki á jólunum!
Bætti svo við,
Kannski verður himnaríki lokað með þessum sama hætti þegar maður kemur þangað, þá verður maður frá að hverfa og halda áfram að reika um ókunnugt umhverfi.
Það væri kvíðvænlegt.
En prófessor Dungal sagði að kvíðinn væri oftast meiri en ástæða væri til. Reynslan væri einatt auðveldari en áhyggjurnar. Vona það eigi einnig við um dauðann.
Annars hef ég rifjað það upp við Huldu Valtýsdóttur eftir yndælt samtal okkar Styrmis við hana, að eitt sinn þegar við Moggamenn hefðum komið með þeim Gunnari heim eftir kvöldpartí, þá hefðu þau verið lykillaus, en ég var nógu kenndur til að skríða inn um klósettgluggann. Þótti það einstætt og eftirminnilegt afrek.
Það hefði enginn bindindismaður leikið eftir. Hún brosti og sagðist muna það, að sjálfsögðu.
Ég sagði þá við hana, Svona ætla ég að komst inn í himnaríki, ef allt verður lokað og læst. Þá nota ég sömu aðferð og skríð inn um klósettgluggann.
Við Ingó gengum síðan niður í bæ og komum í kaþólsku kirkjunni, hún var að sjálfsögðu opin. Þar settumst við, nutum kyrrðar og hvíldum hugann.

Við fengum margar fallegar jólagjafir frá Ingólfi, allar keyptar í Kína. Hann gaf mér meðal annars undurfagrar slökunarkúlur með tónlist og veitti víst ekki af! Auk þess fékk ég lyklakippu sem Ingó keypti í grafhýsi Maos, mátulegt á gamlan maóista!

Hef ort þrjú kvæði mér til afþreyingar á jólunum. Þau fara hér á eftir.

Á vegum englanna

Jón Helgi heitir
maður í Hveragerði
sonarsonur Jóns
byskups Helgasonar,

hann er útfararstjóri
á Suðurlandi
hæglátur maður
og ómyrkfælinn,

hefur ekið líkbíl
vandræðalaust
um allt Skálholtsdæmi,

Þeir þegja afturí hjá mér,
segir Jón Helgi,

þannig hefur Þorlákur
helgi
verndað umdæmi sitt
af kostgæfni
og allt starf Jóns Helga
á vegum englanna.

En ekki er öll nótt úti,
sagði draugurinn.

(Ort í miðnæturmessu í kaþólsku kirkjunni, aðfangadag).

Vinur litla mannsins

 

Hann byggði hús
og skyggði
á nágrannana,

Þú skyggir
á sólina sögðu þeir,

en hann brosti
og lét mála stóra
gula sól
á húsgaflinn,

Hérna er sólin ykkar
sagði hann

og þeir brostu.

 

Á flótta

Svanurinn
þreyttur á jólastressinu
við Tjörnina
hafnaði franskbrauðinu
í ótal framréttum
höndum,
tók sig upp
og flaug austur
í Álftaver
þar sem hann fékk loksins
frið
fyrir metsölubóka-
listanum.

Milli jóla og nýárs

 

Nægur tími til íhugana, gott veður til að ganga, en hálka.
Proust fann veruleika fortíðar sinnar í listinni. Hvað sem tortímingunni líður getur hún lifað af. Hún er að sjálfsögðu ekki sá hlutveruleiki sem hann upplifði, heldur sú veröld sem hann á innra með sér og það er þessi veröld sem birtist í sögunum og það er hún sem við getum upplifað með honum. En veröld hlutveruleikans, sú veröld sem var og var umhverfi annars fólks er horfin að eilífu.
Það er skemmtilegt innskot í Swann’s Way um blaðamennsku. Þegar Swann segir:
Gerum ráð fyrir því að þegar við opnum blaðið okkar hvern morgun með eftirvæntingu þá sé sú umbreyting orðin að við finnum hvað - ó! ég veit ekki, eigum við að segja Pensées Pascals.Ogeinhver magnaðasta lýsing á afbrýðisemi sem ég hef nokkurn tíman lesið er að sjálfsögðu afbrýðisemi Swanns út í Odette sem hann elskar en yfirgefur svo í þessari bók: Hann er svo giftur henni í þeirri næstu, Innan verðandi trjálundar.
Skáldið Bergotte, eða Anatole France segir í þessari bók að Odette sé gömul hóra sem er óvelkomin í fínum húsum. Afbrýðisemi Swanns sem lýst er á bls. 513-516 í minni ensku útgáfu fjallar um lesbískar tilhneigingar Odettes. Foreldrar Swanns hafa einhverja óbeit á Bergotte en þegar hann segir þeim að hann telji son þeirra hið mesta gáfumenni breyta þau skyndilega um afstöðu til skáldsins og tíunda ágæti þess. Þessi frásögn er í Innan verðandi trjálundar, mjög fyndin - og dæmigerð. Afstaða okkar er afstæð. Hún á rætur í fordómum okkar; andúð okkar og samúð

Alsnjóa enn
Ég tala um Alsnjóa Jónasar Hallgrímssonar bæði í síðustu helgispjallabókinni, Eintal á alneti sem Árvakur gaf út nú fyrir jólin og einnig í bók minni Um Jónas; reyni að brjóta þetta erfiða kvæði til mergjar en það hafa einnig margir aðrir reynt. Nú tel ég mig loks hafa komizt að niðurstöðu og styður hún fyrri hugmyndir mínar. Síðasta erindi kvæðisins er svohljóðandi:

Víst er þér, móðir, annt um oss;
aumingja jörð með þungan kross
ber sig það allt í ljósi lita, (innskotssetning)
lífið og dauðann, kulda og hita.

Ég hef áður rakið síðustu orðin, kulda og hita, til ljóðs eftir Jón á Bægisá og er ekki fjarri lagi að ímynda sér að Jónas hafi orðið fyrir áhrifum þessa sama kvæðis, en það er engin skýring á því hvað hann ætlast fyrir með orðunum: kulda og hita Móður jörð er annt um allar andstæður náttúrunnar í ótal jarðneskum litbrigðum, lífið og dauðann, kuldann og hitann. En þessi orð geta varla verið þarna í lok kvæðisins upp á punt, eða rímsins vegna. Þau hljóta að merkja eitthvað og merking þeirra er gífurlega mikilvæg vegna þess að kvæðið er ort að þessum lokaorðum. En hvaðan eru þau komin og hver er merking þeirra? Þau standa bersýnilega í sterkum tengslum við orðið einstaklingur sem kemur fyrir í síðasta vísuorði fyrsta erindis: einstaklingur! Vertu nú hraustur. Og hvað merkir hraustur á þessum stað? Það merkir hraustur á sálinni. Hver maður á að hafa sterkt innra þrek. Hann á að vera hann sjálfur. Orðin kulda og hita sýna að skáldið er að brýna fyrir mönnum að lifa ekki í hálfvelgju. Þeir eiga annaðhvort að vera kaldir eða heitir. Og af hverju dreg ég þessa ályktun? Af Opinberunarbók Jóhannesar. Þangað hafa mörg skáld sótt og vekur enga sérstaka athygli í sjálfu sér; til að mynda Jóhann Sigurjónsson þegar hann orti Sorg einsog hverjum manni má augljóst vera. Án Opinberunnarbókar Jóhannesar væri Sorg óskiljanlegt kvæði með öllu. Og án þessarar sömu bókar er Alsnjóa einnig illskiljanlegt. En ef við skýrum kvæðið með hliðsjón af þriðja kapitula Opinberunarbókar Jóhannesar, Til Laódíkeu, verður merking þess auðskiljanleg - og skiptir þá engu hvort hjartavörðurinn er Kristur eða Jónas sjálfur, en um það eru skiptar skoðanir. Þó mundi Opinberunarbókin að mínu viti fremur benda til Krists en skáldsins.
Í þessum þriðja kafla Opinberunarinnar segir svo: “Þetta segir hann, sem er amen, votturinn trúi og sanni, upphaf sköpunar Guðs: “Ég þekki verkin þín, að þú ert hvorki kaldur né heitur. (Leturbr. M.J.) Betur að þú værir kaldur eða heitur. En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur mun ég skyrpa þér út af munni mínum. ...Ver því heilhuga og gjör iðrun." Það eru þessi orð Opinberunarbókarinnar sem Jónas er augsýnilega að skírskota til. Hann er að vara okkur við hálfvelgju. Hann er að minna okkur á þann eina sannleika sem hann getur mælt með. Og allt kemur þetta heim og saman við efni annars kvæðis sem einnig er harla erfitt til skilnings, þ.e. Svo rís um aldir árið hvurt um sig sem hann orti 1845, eða einu ári eftir að hann yrkir Alsnjóa. Þar segir skáldið m.a.:

Ég man þeir segja: Hart á móti hörðu,
en heldur vil eg kenna til og lifa,
og þó að nokkurt andstreymi ég bíði,

en liggja eins og leggur uppi í vörðu,
sem lestastrákar taka þar og skrifa
og fylla, svo hann finnur ei, af níði

Skáldið er að yrkja um sama efni í báðum þessum skyldu og óljósu kvæðum. Hann er að yrkja um andlegan styrk. Hann er að yrkja útúr Opinberunarbók Jóhannesar. Þetta eru brýningakvæði um heilhug, gegn hálfvelgju; fjalla um það að menn eigi að vera óhræddir að taka afstöðu án ofstopa, óhræddir að sýna andlegan styrk þegar á móti blæs og þá að sjálfsögðu með skírskotun í guðlegan innblástur. Slík afstaða var Jónasi harla eiginleg og kemur heim og saman við alla afstöðu hans að öðru leyti.

 

Mér þykir athyglisvert það sem séra Sigurbjörn Einarsson segir í samtali í jólablaði DV. Hann hvetur til þess að menn standi vörð um íslenzku þjóðkirkjuna, en minnir á að ef við yfirgefum Krist getum við fengið hakakrossinn eða hálfmánann í staðinn.
„En það getur komið að því að meirihluti þjóðarinnar segi Kristi upp... og þá verður kannski hálfmáninn eða hakakrossinn settur í fánann.”

 Í samtali okkar Davíðs Oddssonar um daginn vorum við sama sinnis og mér er nær að halda að átökin í heiminum gætu orðið milli öfgafullra islamskra bókstafstrúarmanna og þeirrar kristnu kirkju sem staðið hefur í tvö þúsund ár. Það gæti orðið hildarleikur. Ég get ekki skilið hvers vegna þessir hryðjuverkamenn verða að troða illsakar við kristið fólk. Það hlýtur að búa eitthvað annað á bak við það en trú á guð og góða hluti. Þetta er barátta um veraldleg völd og áhrif, jarðnesk barátta. Þess vegna er hún blóðug eins og átökin á Norður-Írlandi.
Annars þurfum við að losa okkur við alls kyns fordóma Gamla testamentisins, mannasetningar lagðar drottni í munn en eiga augsýnilega rætur í umhverfiskröfum hins gyðinglega samfélags á sínum tíma, sem okkur kemur væntanlega ekkert við þótt ég viti að Kristur var sprottinn úr þessu sama umhverfi, en hann gekk gegn því hvenær sem honum sýndist og taldi lögmál þess hvorki heilög né óumbreytanleg. Hann hafði til að mynda aðrar skoðanir á hvíldardeginum en prestlingar gyðinga og var einnig þeirrar skoðunar að það eitt væri óhreint sem út af manninum kæmi en ekki það sem færi inn í hann eins og lögmálin kenndu. Við þurfum ekki frekar á kennisetningum hins gyðinglega umhverfis að halda en siðferðiskröfum íslenzkra fornrita sem mæla fyrir um hefndarskyldu síns tíma.

 

Þetta er harla sérkennilegt þjóðfélag sem við lifum í. Nú er bók um doktor Benjamín Eiríksson efst á metsölulista í þessum jólabókahasar sem verið hefur. Maðurinn gengur ekki heill til skógar og er haldinn ofskynjunum eins og sjá má á nokkrum stöðum í þessu ritverki. Hvernig er hægt að taka mark á minningum manns sem upplifir veruleikann með þeim hætti? Það er ekki honum að kenna, að sjálfsögðu. En ég skil ekki það fólk sem sækist í svona rit. Er það að leita að einhvers konar fjarvistarsönnun fyrir sjálft sig? Ég veit það ekki og mig langar ekki til að vita það. En metsölulistinn með þessa bók og kökuuppskriftabók Hagkaups í efstu sætum er svo sannarlega ekki vitnisburður um það þjóðfélag sem ég hefði sótzt eftir, ef ég hefði mátt ráða sjálfur. Maður situr uppi með umhverfi sitt hvort sem manni líkar betur eða verr og þá mætti kannski einnig segja að þjóðfélagið sitji uppi með okkur sem höfum ofnæmi fyrir þessum ískrandi falska tóni þessi. En samfélagið virðist upplifa hann eins og dýrlega tónlist, jafnvel af guðlegum toga spunna!
Ég minnist þess þá einnig þegar við áttum samtal við Halldór Laxness í útvarpsþætti Gunnars G. Schrams og ég spurði skáldið hvernig stæði á því að hann hefði getað gengið út úr herbergi Veru Herts, upplifað handtöku hennar og barns þeirra doktors Benjamíns og haldið rakleiðis til Svíþjóðar að skrifa Geska ævintýrið. Það var náttúrulega ófyrirgefanlegt.
En hann líkti þessu öllu við einhvers konar slys. Það var vond samlíking og Halldóri ekki samboðið. Ég sá líka á honum að spurningin kallaði á viðbrögð sem hann átti erfitt með að stjórna. Hann reyndi að réttlæta gerðir sínar en gat það ekki og hann getur það ekki heldur í Skáldatíma.
Við birtum kafla doktors Benjamíns um kynni þeirra Veru Herts og bættum við þessari spurningu og svari skáldsins úr útvarpsspjallinu. Líklega hefur þessi kynning aukið á sölu bókarinnar svo að við Morgunblaðsmenn erum líklega ekki saklausir af þessari roksölu, ekki frekar en ýmsu öðru sem blaðamennska og upplýsingaskyldur hennar gera kröfur til. En ég vildi ekki að nafn mitt kæmi við sögu í þessari upprifjun Morgunblaðsins hef engan áhuga á því að koma nokkurs staðar við sögu doktors Benjamíns. Tel að hann eigi að fá að vera í friði með veikindi sín. Mér líður illa í návist hans og hef losnað við hana að mestu leyti, þó hef ég orðið að eiga samtöl við hann eftir að hann veiktist og hugnast þau ekki. Ég held raunar að doktor Benjamín Eiríksson sé haldinn illsku inn við beinið , spilltur af ofurást á eigið ágæti; sem sagt narkissus-þátturinn í honum stjórnar allri afstöðu hans og ræður ríkjum í miskunnarlausum persónuleika hans. Mér er nær að halda að sjúkdómur doktors Benjamíns eigi rætur í þessum sálræna ofvexti.
Á sínum tíma þurfti ég að afgreiða grein sem doktor Benjamín sendi Morgunblaðinu, ég man ekki af hvaða tilefni. Ég las greinina og í henni er vitnað til vísu þar sem einhver Jóhannes kemur við sögu. Allt að tilefnislausu, að sjálfsögðu. Ég hringdi í doktor Benjamín og sagði við hann, Ef við birtum þessa grein eftir þig, munu allir halda að þú sért ekki með réttu ráði. Þá svaraði doktor Benjamín eins og ekkert væri, Það gerir ekkert til, þeir mega vel segja að doktor Benjamín sé geðveikur. En trúðu því aldrei, Matthías, því hann er við fulla heilsu.
En ég hef víst minnzt á þetta áður í svipuðum dúr.

Eftir þetta samtal reiknaði ég með því að doktor Benjamín gæti staðið fyrir sínu og þyrfti ég ekki að hafa áhyggjur af greininni. En annað kom í ljós. Þegar hún birtist í Morgunblaðinu fór hún ekki framhjá ráðherrum og þeim sem ábyrgðina báru á fjármálum ríkisins. Gylfi Þ. Gíslason, eini maðurinn sem mér virðist doktor Benjamín afgreiða með illsku í bók sinni, hringdi í mig þegar greinin hafði birzt í Morgunblaðinu og vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Hann spurði mig um greinina. Ég sagði honum frá símtali okkar Benjamíns. Hann sagðist ætla að kalla hann á sinn fund og tala við hann. Hann getur varla verið með réttu ráði, bætti hann við. Við veltum því fyrir okkur hver þessi Jóhannes væri, doktor Benjamín væri að ráðast á Jóhannes Nordal undir rós, en ég sagði Gylfa að hann hefði sagt mér í símtalinu að vísan væri um bróður hans, látinn að mig minnir. Gylfi Þ. Gíslason var sannfærður um að vísan ætti að vera Jóhannesi Nordal til hnjóðs og kvaðst mundu kanna málið. Ég fékk að sjálfsögðu þónokkrar áhyggjur af þessu og fór nú að efast um að rétt hafi verið að birta grein doktor Benjamíns í Morgunblaðinu en sá þá í hendi mér að það hefði verið nauðsynlegt; ef hann gengi ekki heill til skógar væri ekki hægt að trúa honum fyrir fjárfestingabanka og greinin mundi þá upplýsa ráðamenn um að nauðsynlegt væri að bregðast hið fyrsta við því. Greinin gæti þannig verið upplýsandi.
Ekki vissi ég þó hvað fyrir doktor Benjamín vekti ef hann væri við góða andlega heilsu en það mundi þá koma í ljós fyrr en síðar.
Gylfi talaði síðan við Benjamín, hringdi til mín að því samtali loknu og sagði, Hann er andlega sjúkur, ég talaði við hann í klukkutíma og gekk allt ágætlega í 59 mínútur en í eina mínútu líkti hann sjálfum sér við Jesúm Krist og þá gerði ég mér grein fyrir því að hann er sjúkur.
Þannig sannfærðist viðskiptaráðherra landsins um að höfundur þessarar sérstæðu greinar í Morgunblaðinu gengi ekki heill til skógar. Ég hefði gaman af að sjá þessa grein í Morgunblaðinu og rifja hana upp en man ekki hvenær hún birtist og nenni ekki að leita að henni.
Hvað sem doktor Benjamín líður hefði Gylfi Þ. Gíslason framið embættisafglöp sem ráðherra ef hann hefði ekki leyst bankastjóra Framkvæmdabankans frá störfum þetta ár, 1965.
Halldór Laxness gerir Framkvæmdabankann að gamanmálum í Guðsgjafaþulu sinni. Hann talar háðuglega um kvenfélagið sem þoldi ekki bjór og glerverksmiðjuna sem fór á hausinn. Segir frá arsenikinu sem fannst í rústum verksmiðjunnar en Framkvæmdabankinn var að mér skilst bakhjarl þessarar verksmiðju og bar á henni ábyrgð og þá einnig að sjálfsögðu gjaldþroti hennar. Þegar arsenikið finnst í rústunum fá bjórandstæðingarnir í kvenfélaginu að vita að þar hafi ekki verið falinn hinn banvæni drykkur, heldur þetta tiltölulega saklausa efni til glergerðar, og þá var samþykkt og sent út svofelld ályktun:
Guði sé lof, það var bara arsenik!
Þetta upphrópunarmerki gæti verið ágæt niðurstaða á öllu þessu máli sem nú virðist orðið einskonar afturganga í þessu tiltölulega saklausa samfélagi þjóðar sem á að mestu leyti ættir að rekja til höfðingja og norrænna konunga.

 

 

Jarteinasaga

 

Kronika um jarteinina á Mosfelli leiðir hugann að öðru skáldverki sem á einnig rætur þar í dalnum með sama hætti og Njála á rætur í Dölum vestur,
Guðsgjafaþulu. Það er hin skáldlega ævisaga Óskars Halldórssonar sem er byggð á heimildum öðrum þræði og þannig bréfuð að hún verður ekki véfengd. Er hún ein sérstæðasta ævisaga sem skrifuð hefur verið. Í henni er lýst kartöflurætkun Óskars, en Stefi í Reykjahlíð var einnig mikill grænmetisræktandi eins og lýst er í Kronikunni. Þar segir að einnig hefði mátt skrifa ævisögu Stefáns Þorlákssonar og það hefði einhver annar getað gert en höfundur Kronikunnar og yrði það meiri bók og betri en hún. Annað eins listaverk verður ekki hrist fram úr erminni og er sú bók enn óskrifuð. Í Guðsgjafaþulu er nokkuð nákvæm lýsing á hinum róttæka hugsjónamanni og þjóðnýtingarpostula Ólafi Friðrikssyni sem kom kadettinum til hjálpar á örlagastund, en hann var einn þessara sérkennilegu íslenzku hugsjónamanna sem alltaf eru að finna sannleikann en glopra honum niður jafnóðum úr höndum sér; greindum manni og góðviljuðum en hann sást ekki fyrir, fór offari í ýmsu og töldu sumir vart með öllum mjalla. Hann kvæntist gerðarlegri þýzkri konu sem síðar rak Hljóðfærahúsið í Bankastræti. Hún var dökkhærð og framandi og stakk á ýmsan hátt í stúf við umhverfi sitt. Þegar þau höfðu skilið sagði hún ævinlega ef hún var gagnrýnd fyrir eitthvað, Skal ég þá heila mitt líf bæta fyrir að ég var gift með ham Ólafur Friðriksson?! Hún var sumsé þeirrar skoðunar að ekki kæmu allir dagar í böggli eins og gamla fólkið lýsti veraldarvafstrinu. Ólafur Friðriksson sem boðaði einhvers konar marxisma í Guðsgjafaþulu snerist gegn skapara sínum og barðist eins og ljón gegn kommúnistum þegar þeir ætluðu að koma í veg fyrir að Íslendingar gerðust aðilar að Atlantshafsbandalaginu 30. nóvember 1949. Hann stóð þá fyrir framan þinghúsið og varði það með hnúum og hnefum gegn þeim sem að því sóttu. Kallaði yfir mannskapinn að það væri eina vitið úr því sem komið væri að ganga í Nató og hrukku margir kommar undan þeim sannfæringarkrafti.
En hvorki Óskar Halldórsson né Ólafur Friðriksson koma við sögu kraftaverksins í Mosfellsdal. Þeirra almættisverk voru á öðrum sviðum og Óskars þó einkum á síldarmiðunum, en hann átti ekki alltaf innangengt í Útvegsbankann þrátt fyrir margar efnahagslegar endurfæðingar og fór þaðan eitt sinn í fússi undan Jóni bankastjóra Ólafssyni sem neitaði honum um lán, sagði að hann þyrfti ekkert á þessum banka að halda, hann gæti farið á þann eina banka sem aldrei brygðist, Selvogsbanka. Að þessu er að vísu ekki vikið í Guðsgjafaþulu. Þar er öll áherzlan á síldinni og svo auðvitað þeirri staðreynd að gulróumaðurinn Óskar Halldórsson hafi verið djöfull góður strákur.

 

Ég var með þessar sögur í huga þegar ég skrapp á öldurhús sem fyrr er getið og slappaði af. Þar hafði ég setið einn nokkra hríð en komið auga á lágvaxinn, holdgrannan mann sem stóð við barinn með viskíglas í hendi og gaf mér auga öðru hverju. Fór síðan að fikra sig í áttina til mín og að því kom að hann ávarpaði mig. Hann sagðist vera sjómaður að austan og hefði farið barnungur á sjó. Hefði lengi vel verið sjóveikur, En þá var mér gefið selslýsi, bætti hann við. Nú? sagði ég, af hverju selslýsi. Vegna þess, sagði hann, að það er versta lýsið. Jæja, sagði ég, en er það ekki vont ofan í sjóveikina. Jú, að sjálfsögðu, sagði hann, til þess var leikurinn gerður. Þegar ég hafði tekið selslýsi gat ég kastað upp. Eftir það var ég góður.
Þannig hófst samtal okkar þar sem ég sat einn við borðið en hann stóð með viskíglasið í höndum, pantaði Camel og kveikti í. Fór að tala um sjómannslíf sitt og endaði að sjálfsögðu með því að hann settist við borðið og gaf mér skýrslu sem hefði verið Íslands-Bessa sæmandi. Sagðist vera nýkominn á fertugsaldur en hefði marga fjöruna sopið þótt ekki væri árunum fyrir að fara. Sagðist hafa verið í ferðum til margra landa en þó verið lengst af á fiskveiðum við Ísland, bæði á eigin fleytum og stærri skipum. Nú væri hann á ísfisktogara, gerði það gott, hefði um þrjúhundruð þúsund krónur á mánuði, frían kost og uppbót ef vel gengi. Hann væri laus og liðugur en hefði þó áður verið í sambúð, Einkum með henni Dísu sem bjó á Ísafirði, þegar ég var á vertíð frá Bolungarvík, hún gekk oft á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar, Það var svo sannarlega merki um að þetta var ekkert hálfkák, þetta var ást. Ég sagði að það væri merkilegt að upplifa svo brennandi ást nú á dögum, þetta væri orðinn svo mikill leikaraskapur og maður sæi það á öllu að gervifólkið væri að taka við veröldinni. Gervifólk,endurtók hann eins og hann yrði allt í einu snakillur, enda var þetta í eina skipi sem hann andmælti mér, það er ekkert gervifólk til, þú ættir að kynnast sjóurunum um borð í togurunum, þetta eru allt frábærir menn, elskulegir, mér þykir vænt um þá alla með tölu, það er engin gervimennska þar sem fólk er, menn reyna bara aða gera það sem þeir geta eins og á stendur. Aðstæðurnar móta manninn. Ég hef þurft að gera ýmislegt á erfiðum stundum sem ég hefði aldrei gert annars, lífið er afstætt, peningalaus og svangur brauzt ég inn í kaupfélag fyrir vestan, þá varð ég að dúsa í fangelsi um tíma. Það var engin gervimennska, það var bara sjálfsbjargarhvöt. Maður gerir það sem nauðsynlegt er og aðstæður krefjast. Það má líkja fólki við gimsteina. Það er ekki hægt að taka þá og leggja til hliðar og segja, Þetta er granít! Gimsteinn getur aldrei orðið granít, hann verður alltaf gimsteinn. Þannig verður fólk alltaf fólk. Gervimaður er ekki til nema þá kannski sem talva. Ég skal ekkert um það segja.
Nú var hann orðinn allhávær svo að fleiri voru farnir að leggja við hlustir og hann lék á als oddi. Sagði frá því þegar hann var einn á trillunni sinni fyrir sunnan land, vélin bilaði og hann lenti í brimgarðinum, heyrði allt í einu brak og bresti og vissi að aldan hafði skellt bátnum stjórnlausum á egghvasst sker. Kastaðist útbyrðis en náði taki á þangkletti, beið næstu öldu, sleppti takinu og flaug á henni í land. Vissi aldrei hvernig það gat orðið en þó enn síður hvernig hann komst upp klettana, rankaði við sér þegar hann stóð á brúninni og horfði niður í skaflhvíta ólguna fyrir neðan. Það var eins og ég horfði út um glugga á fjögurra hæða húsi, sagði hann, mér hafði tekizt að kalla may-day áður en ósköpin dundu yfir og það leið ekki á löngu þar til ég sá bílljós í fjarska, þau nálguðust, leitarmenn voru komnir. Ég bað þá um að fara strax með mig í þorpið því ég ætlaði í bað, fyrst volgt en síðan heitara svo að líkaminn aðlagaðist eðlilega því umhverfi sem við eigum að venjast. Ferðin gekk vel, ég skalf ekki einu sinni. En þegar ég var kominn úr baðinu stóð lögreglan við dyrnar. Þeir sögðu að ég hefði verið drukkinn á bátnum. Ég sagði það væri ekki rétt. Þeir mældu blóðið, niðurstaðan 0,6%. Þannig hefur þetta ævinlega verið, ég hef sigrazt á öllu brimi, þrátt fyrir þessi 0,6% eða kannski vegna þeirra, og nú horfði hann spekingslega í kringum sig um leið og hann kveikti aftur í Camel. Svo fór hann að tala um Maja-menninguna í Suður-Ameríku og blóðfórnir þar syðra, skírskotaði í Hómer og Ódysseif, virtist vita svona nokkurn veginn það sem vitað er um Búdda en spurði um leið og hann horfði rannsakandi á mig, Æ hvað hét hann nú aftur? Siddharta. Gott sagði hann, einmitt Siddharta. Hann fékk uppljómun, ég þekki slíkt ástand, hef komizt í góða vímu og séð alla vega lita loftbelgi og aðra furðuhluti á himnum og upplifað raunveruleikann eins og ævintýri. Heldurðu að víma sé raunveruleiki? spurði ég hægt og án þess eiga á hættu að ganga of nærri honum. Hvað annað, sagði hann. Það sem er dýrmætast í lífinu er ekki til. Kristur var mikill spekingur. Hann sagði það dýrmætasta sem sagt hefur verið á jörðinni en þó hefur aldrei verið farið eftir því, því  það er ekki hægt eins og maðurinn er af Guði gerður. Þessi orð eru töluð inn í ævintýri, þau eru töluð inn í ójarðneskt umhverfi. Það getur enginn veruleiki tekið við slíkum orðum, að elska óvin sinn eins og sjálfan sig.
Hann drap í sígarettunni, tók húfu upp úr vasanum, setti hana á sig, rétti mér höndina og kvaddi. Hvert ferðu núna? sagði ég. Úr einu ævintýri í annað, sagði hann, brosti og gekk hægt út. Staldraði andartak við dyrnar, hálfkallaði, En mundu eftir granítinu, það er ekki gimsteinn. En samt gott til síns brúks, hneigði sig og gekk út.

 

Ég var að hugsa um að það þyrfti að skrifa ævisögu þessa sjómanns að austan og velti því fyrir mér að það yrði annar að gera en ég, einhver sem kynni betur til verka og hefði bein í nefinu til að gera það eftirminnilega. Hann hafði að vísu ekki ræktað tómata og rósir, eða setið hverajörð eins og Stefán Þorláksson, eða Stefi Stuttalákason sem stóð fyrir almættisverkinu í Mosfellsdal en samt hefði verið ástæða til að koma honum til skila við hentugleika, ekki síður en Stefa. En nú var hann horfinn, gufaður upp eins og reykurinn á Nesjavöllum, horfinn inn í himin og gagnsæja veröld ósýnilegra ævintýra. Og það var einmitt þá sem ég fór að hugsa um eftirminnilegt fólk sem ég hafði kynnzt og stóð undir því áliti austfirska sjóarans að eitt eru gimsteinar, en annað granít. En voru það ekki undantekningarnar sem sönnuðu regluna um plastveröld og gervimennsku? Auðugt fólk innra með
sér en átti kannski lítið undir sér á veraldarvísu og gat ef svo bar undir minnt á húsfreyjuna í Skagafirði sem varð að nota rúmlakið á borðstofuborðið ef einhver kom í heimsókn og sagði þá kannski við heimamenn, Svona á fætur, á fætur, ég þarf að nota dúkinn! Hugurinn er ekki kirkjugarður. Í honum mætast lifendur og dauðir. Hann er einskonar samkomustaður; torg.
Gesturinn sem nú kom í hugann var að vísu enginn fátæklingur, þvert á móti, sérstæður maður og samtalsgóður, þótt nú sé hann einungis bergmál liðinnar stundar sem aldrei kemur aftur; Guðjón á Eyri: "Við vorum fimm alsystkin, faðir minn hafði eignazt þrjú börn áður en þau hófu sambúð, hann og móðir mín. Áður hafði hann eignazt þrjú börn með tveimur konum. En þú varst víst að spyrja um ástina, hvað áttu við með ást? Er það eitthvað milli karls og konu? Ja, hún var ágæt, hún var að minnsta kosti ekkert afvæli".
„Var ekki einangrunin slæm þarna fyrir vestan?”
"Fyrir rollurnar, kannski, en mannfólkið gleymdi einverunni og svo fengu nábúarnir að kenna á því þegar gott var veður á vetrum, en það var oft hörð veðrátta á Norðurströndum. Nú á þar enginn athvarf nema refurinn og einstaka fugl".
„Við hvern talar maður í svona einveru?”
"Maður talar lítið, hugsar margt".
„Og hvað hugsaðirðu?”
"Ég hugsaði  um að verða skipstjóri á stóru skipi, ekki kotbóndi".
„Þú fórst snemma á sjóinn?”
"Ég damlaði undir hjá föður mínum þegar hann fór að skjóta selinn, það var kaldsamt. Þú ættir að vera á skinnskóm í hörkugaddi. Mig langaði alltaf til að eignast danska skó. Og auðvitað kom ekki annað til mála þegar ég var orðinn hreppstjóri".
„Var fólkið trúað?”
"Ja, amma komst ekki í kirkju annan í jólum".
„Af hverju ekki?”
"Nú, menn trúðu á álfa og hún þurfti að vera heima og gæta þess að þeir kæmust ekki inn í bæinn".
„En þú?”
"Ég fór í fyrsta skipti í kirkju þegar ég var fjórtán ára, þar var margt um manninn og mikið sungið, það var eitthvað í æðarvarpinu sem minnti mig á þessa kirkjuferð".
„Hvað sögðu álfarnir við ömmu þína?”
"Mest lítið. Hún missti mann sinn fullaldra kona, þá lagði hún af stað frá Arnarfirði með sjö til átta kindur yfir Glámujökul og ofan í Ísafjarðardjúp, fær flutning þaðan yfir í Ísafjörð, heldur svo sem leið liggur yfir á Langadalsströnd og síðan upp úr Hraundal yfir Ófeigsfjarðarheiði og heim að Eyri. Henni var ekki fisjað saman þessari konu".
„Ertu líkur henni?”
"Það er sagt svo. Sá sem hefur lesið Egils sögu er ekki á flæðiskeri staddur".

Og nú komu þeir í heimsókn hver á fætur öðrum, saltdrifnir sjóarar úr fortíð sem var mér löngu gleymd.
Lúther Hróbjartsson:        
"Þegar við vorum á kútter Haraldi í stórviðri á Eyrarbakkabugtinni og lágum þar til, pumpuðum skipið á formiðdagsvaktinni og oftar ef þörf gerðist en höfðum bönd sem við festum á klampa eða krussholt en á endanum var lykkja sem mennirnir settu yfir sig meðan þeir dældu úr skipinu - en þá ætlar félagi minn að byrja að dæla en getur ekki bundið sig þegar lykkjan losnaði og hleyp ég þá til og bind hann en þegar ég lít upp ríður stór alda yfir skipið svo að ég sá mér ekki annað fært en stinga mér út undir lunninguna og ná í krussholtið, ég held mér svo í það meðan sjórinn ríður yfir. Þegar aldan hefur riðið yfir skipið er það orðið lunningarfullt og mennirnir hanga eins og þverkræktur þorskur í böndum en engum hafði þó orðið meint af volkinu. En þegar ég kom niður í káetu litlu síðar til að losa mig við vosklæðin var mikill sjór á káetugólfinu svo ég tók upp hlera til að hleypa honum niður, þá er kominn svo mikill sjór í skipið að kjallarinn undir káetugólfinu er að fyllast. Þegar við athugum þetta nánar rennur lækur út úr einum skápnum í káetunni, var þá ekki um annað að gera en hálsa skipinu yfir því yfir stag fór hún ekki. Síðan kom í ljós að hornið á hekkinu sem var fest við skammdekkið hafði rifnað frá. Tróðum við hampi í rifina og bræddum smjörlíki yfir. Urðum að hálsa skipinu aftur því að nú lá hún til lands. Síðan gættum við að lestunum og sáum að saltið úr kössunum öðrum megin var bráðnað og skemmt. Var þá farið að pumpa skipið til að losa úr því sjóinn og jafna saltinu milli kassanna. Skömmu seinna lygndi en þá sigraði þorskurinn okkur svo við hugsuðum ekki um heimferð strax en fiskuðum þangað til næsti landsynningur skall á. Þess var ekki langt að bíða og sigldum við þá heim í góðu leiði, eins og skipið þoldi, komust heilu og höldnu til Reykjavíkur, glaðir og reifir."
Ólafur Kr. Teitsson:          
"Ég kynntist sjónum strax suður á Vatnsleysuströnd. Þar er ekkert nema grjót og klappir og svo hafið, hvítt brim við ströndina og endalaust haf.
Guðni bróðir minn fórst með Bergþóru, hann var næzt elstur. Nú liggja þeir ellefu skipverjarnir á Bergþóru í gamla kirkjugarðinum en tveir annars staðar. Þangað lá leið þeirra á ungum aldri. Þá var ég átta eða níu ára gamall, Ég átti að fara með skipinu en það vantaði svefnpláss fyrir mig, sögðu þeir, það bjargaði mér. Mér hefur alltaf lagzt eitthvað til. Og hér er ég. Þegar Guðmundur á Skalla var dáinn kom hann til mín í draumi, berhöfðaður, í blárri peysu og bláum buxum, hvítum ullarsokkum upp að hnjám, og klossum.
Hann segir við mig: "Jæja, Ólafur minn, komdu og sjáðu, það er of lítið herbergið handa okkur báðum."
Þá segi ég:
"Nú, ég er ekkert að koma til þín."
...Já, mig hefur dreymt fyrir öllu sem máli skiptir, stundum hefur það komið sér vel, til dæmis þegar mig dreymdi gömlu konuna í fyrra stríði, ég var eitthvað um tvítugt, ég mæti henni í draumnum og hún tekur mig tali, klukkan átta um morguninn er ég kominn niður í Skúla fógeta sem ég var á, tek allt mitt hafurtask, kveð kóng og prest og fer í land. Þá segja félagar mínir,
"Óli minn, við erum búnir að vinna mikið fyrir þig."
"Þið eruð ekkert búnir að vinna fyrir mig, drengir, því ég er farinn af skipinu." Halldór Þorsteinsson skipstjóri var í fríi, en Kristján Kristjánsson bóksali var með skipið.
Ég segi við strákana:
"Skilið þið til hans Kristjáns að ég sé farinn af skipinu."
Þegar ég hitti Kristján segi ég við:
"Hefurðu fengið skilaboðin, Kristján
"Já, ég hef fengið þau, en mér þykir þetta ótrúlegt, þig hefur dreymt eitthvað."
"Já, víst var það," segi ég, "mig dreymdi gamla konu og hún sagði mér að fara ekki með skipinu."
"En hvað heldurðu að Halldór segi ef við verðum búnir að missa allan mannskapinn þegar hann kemur?" segir Kristján.
"Það er alveg sama, ég fer ekki um borð í skipið meira", segi ég.
Svo fer ég suður á strönd til pabba og mömmu, tek orfið mitt í ágúst og fer að slá. En þeir fara til Englands og lenda á tundurtufli, held ég, í Norðursjó.
...Einhverju sinni sem oftar vorum við að koma til Reykjavíkur á Skalla, það var í seinna stríðinu, þá bólgnar allt upp og gerir vitlaust veður og við fáum brotsjó á okkur og skipið leggst á hliðina. Það er versta veður sem ég hef lent í á sjó. Þegar ég vaknaði um nóttina vissi ég að öll grunn yrðu uppi, því að mig hafði dreymt svo einkennilegan draum: Ég var á gangi í Brunnastaðahverfinu heima á Vatnsleysuströnd og geng beint í suður. Þá sé ég gamla konu sem situr við þjóðveginn og heldur á tveimur börnum. En þegar ég kem að henni verður hún að tófu og börnin að yrðlingum. Þegar ég vakna segi ég við Hillaríus kokk:
"Ef þessi draumur verður ekki kominn fram eftir sólarhring mundu það þá að ég hef sagt þér hann."
En auðvitað kom hann fram þennan sama sólarhring, veðrið var svo vont að ég sagði við sjálfan mig í fullri alvöru:
"Hvað, ætlar skipið niður?"
Þegar ólagið reið yfir  skipið segir kokkurinn við mig:
"Vertu fljótur".
"Það þýða engin læti", segi ég, "maður verður þó að klæða sig."
Þegar ég kem upp í ganginn liggur skipið á hliðinni og grængolandi sjórinn streymir um allt en þó ekki niður í vélarrúm. Kokkurinn segist ekki geta fótað sig í eldhúsinu en mér var annað ofar í huga, ég batt línu utan um mig, bað kokkinn að halda í hana, fór svo út að athuga vírana, þegar ég kom svo upp í brú lá hann á lúgum. Þá segir Guðmundur:
"Óli minn, reynið þið að brjótast niður og kalla á mannskapinn".
Þegar ég kom niður heyrði ég að einhver sagði:
"Það þýðir ekkert, drengir, við skulum bara vera niðri. Það er ekki hægt að fara upp, það er sama hvar maður endar lífið." En við höfðum þó alla upp, svo brutumst við fram í lest til að laga fiskinn en undir morgun dóu öll ljós og eldar slokknuðu svo okkur rak stjórnlaust fyrir sjó og veðri. Um tíuleytið um morguninn hringir Björn í Mýrarhúsum á Seltjarnarnesi til Kveldúlfs og segir að hann sjái skip sem eigi í erfiðleikum. Þá er lóðsbáturinn sendur frá Reykjavík og með hans hjálp komumst við til hafnar.
...Þegar ég sá Guðmund minn standa þarna í brúnni og stjórna óx mér kjarkur og áræði. Um hræðslu og ótta var ekki spurt og svo er annað, það er einn sem ræður. En heldur er óskemmtilegt á sjó að dreyma börn sem maður þekkir ekki og konu sem bregður sér í tófulíki. Sjaldan er ein tófa trygg."

Og enn komu þeir í heimsókn Sturlaugur Einarsson, Ásmundur Bjarni Helgason og þeir Filipppus Jóhannsson eða Pusi sterki eins og hann var kallaður, eru farnir að tala saman þarna í huga mínum og svo fara þeir einnig að skeggræða, þeir Bjarni Guðmundsson og sjómaðurinn ungi að austan og tala um þorskinn sem Bjarni veiddi fyrir mörgum árum úti á Köntunum og ég man þennan kynlega glampa í augum hans og engu líkara en honum þætti skemmtilegt að komast inn í þessa minningu sem eitt sinn var veruleiki en nú ævintýri; gagnsætt og ósýnilegt:
"Hvað komstu með af sjónum, Bjarni?"
"Þetta andlit."
"Þetta rauða andlit."
"Já, sjórinn var rauður fyrir vestan, þeir segja hann sé grænn, það fer eftir því hver horfir."
"Ég átti við reynsluna."
"Hvað ég kom með af reynslunni í land?"
"Já."
"Ég held sjórinn hafi ekki gert mig að verri manni, af hverju spyrðu?"
"Ég hélt þú værir Færeyingur."
"Nei, ég er ekki Færeyingur, ef ég væri það sæti ég á þessari stundu niðri í gamalli skútu og væri að drekka Álaborgarákavíti."
"Þeir drekka mikið fyrir vestan?"
"Nei, en þeir drekka."
"Hvenær fórstu fyrst á sjó?"
"Ég var ellefu ára þegar ég fór fyrst á handfæri með föður mínum. En svo hættum við að fara saman þegar ég var sautján ára."
"Af hverju?"
"Hann drukknaði."
Það var þögn.
"Hvenær kemur pabbi?" Við stóðum öll í fjörunni, móðir mín, fimm systkin undir fermingu. Það var ekki um annað að gera en taka til höndum, ég hét því við kistu föður míns að fara ekki frá móður minni fyrr en barnið sem hún þá gekk með og tveimur mánuðum síðar varð bróðir minn væri komið á legg. Það er eitt af fáu sem ég hef aldrei séð eftir."
"Og með hverjum varstu?"
"Halldóri Sigurðssyni frá Ísafirði, ætli ég muni það ekki(!) Ég reri með honum á haustin fram undir jól og legið til þegar búið var að draga nema vont væri veður, þá var farið inn. Þeir fara ekki allir í fötin hans Halldórs Sigurðssonar, get ég sagt ykkur. Eina nóttina undan Jökli sagði hann okkur að gá á loggið, það var í veðrinu þegar Skúli fógeti fórst. Mælirinn sýndi að við áttum eftir tíu mílur í land."
Hann er vitlaus,” sagði Halldór.
Tveimur mínútum síðar braut fyrir framan stefnið og við áttum ekki eftir nema nokkra faðma í land. Hann hafði séð þetta á sjólaginu. Þessir menn kunnu að horfa til veðurs. Það þurfti meira til en þara í lognspaðana til að setja þá út af laginu.
...Við fórum ekki langa göngutúra til að sýna hug okkar til landsins. Og héldum ekki ræður yfir Snæfellsjökli. Við stóðum á þilfarinu og elskuðum Ísland, þegjandi.
"Einu sinni hélt ég væri búinn heilagur", sagði Bjarni enn. "Það var 1924, þá átti ég að heita formaður á skektu sem Halldór Ólafsson átti. Við rerum úr Hnífsdal og lögðum norður af Vigur. Hann hvessir af norðvestan og mér dettur í hug að sigla upp í Ögurnesið en veit það er brim og vandasamt að lenda og tek þá ákvörðun að fara heldur í Álftafjörð. En þá voru svo miklir boðar út af Vigur og svartabylur að ekki var árennilegt en svo lygnir hann aðeins og við felldum segl og róum beint út frá eynni og setjum svo aftur upp við Stóra-Boða en hann óttaðist ég mest og þegar við komum yfir boðana heyri ég mikinn skell og lít við í ofboði og þá brotnar hann fáa faðma fyrir aftan okkur, það var eins og hönd sem ætlar að slá flugu á rúðu en hittir ekki og við vorum hólpnir.
...En svona hefur þetta gengið og lengi vel var ég trúlofaður ýsunni, eða þangað til ég hitti konuna mína á Hernum og sagði:
"Brauð með kaffinu!" Hún er norsk og allt hefur þetta gengið vel þótt börnunum sé ekki til að dreifa."
Og nú vorum við komin aftur að Innansveitarkroniku og ævisögu Íslands-Bessa, Guðsgjafaþulu, svo að Jónas bóndi í Stardal var mættur í þetta gulrófulausa samkvæmi og við hlustuðum á minningar hans um það umhverfi þar sem Gunna stóra var eini kapitalisti sveitarinnar því hún átti ekki neitt og var því alfrjáls eins og fuglinn fljúgandi. En hún var ein þeirra kvenna sem setti mark sitt á líf skáldsins sem skrifaði fyrrnefndar sögur: "Ég er hræddur um að Guðný amma Halldórs hafi stækkað í huga hans”, sagði Jónas í Stardal, „fjarlægðin hafi sett á hana bláa móðu fjallanna. Mér þótti frómt frá sagt meira til koma foreldra hans en gömlu konunnar enda var hún fyrir löngu komin af bezta aldri þegar þau fluttust að Laxnesi. Hún er mér ekki eins minnisstæð og Halldór hefur sjálfur lýst. Þó hygg ég að Sigríður móðir hans hafi verið lík Guðnýju því gamla konan var orðfá. Hún átti til að vera þegjandleg en hýr og ógngóð í samskrafi.
En líklega hefur hún gefið skáldinu meiri hlutdeild í fortíð þjóðarinnar en aðrir gátu og fyrir bragðið orðið honum minnisstæðari. Guðný sat lengstum á rúmstokknum og prjónaði. Og henni þótti ósköp gott þegar maður rétti henni nefntóbaksbaukinn, þá tók hún ögn í nefið.
Faðir Halldórs, Guðjón í Laxnesi, var fríður maður, holdgrannur. Halldór er nokkuð líkur föður sínum í vaxtarlagi en þó geri ég ráð fyrir að hann sé ekki síður úr móðurættinni, en það fólk þekkti ég minna. Sigríður Halldórsdóttir, móðir Halldórs Laxness, var fríð kona og svipgóð, en hún var heldur fáskiptin, þó trygglynd og vinföst. Hún var músíkölsk eins og Guðjón maður hennar og hafði fallega söngrödd. Heimilisræknin var henni í blóð borin enda held ég ekki að hún hafi farið nokkru sinni að heiman svo orð sé á gerandi. Ævintýraþrána hefur Halldór sótt annað en til móður sinnar. Hún gat verið áminnandi, með snarpri kaldhæðni ef því var að skipta og líkaði illa að hlusta á forvitið fólk og spurult. Oft var gestkvæmt í Laxnesi. Eitt sinn kom þangað maður í heimsókn sem húsfreyju þótti of forvitinn um heimilishagi. Hann spurði meðal annars hver ætti stúlkubarn sem þar var að leik. Þá sagði Sigríður þar sem hún sat og strauk yfir lófann eins og hún gerði gjarnalega: "O, Guð á allar eigur."

 

 

 

29. desember, sunnudagur

Enn hvarflar að mér það sem Alþýðublaðið sagði um heiðurslaunin; ég veit raunar ekki hvers vegna ég er að hugsa um þetta, líklega vegna þess að ég er að reyna að hugsa um eitthvert réttlæti. Á alltaf að ganga framhjá mér sem rithöfundi vegna þess að ég er í fullu starfi hjá Morgunblaðinu? Eða - á ég að njóta sannmælis ef menn eru sammála um það, eins og þingmenn á sínum tíma? Og hvað er sannmæli? Það getur enginn ákveðið í þessum efnum nema tíminn einn. Og hann getur leitt allt annað í ljós en þá sannfæringu þingmanna á sínum tíma að ég eigi að skipa sæti í heiðurslaunaflokknum.
En hvað um það.
Alþýðublaðið skrifaði í vetrarbyrjun að heiðurslaunin væru láglaunardúsa, ef ég man rétt. Og þá var ekki verið að amast við mér í þessum hópi. Það er þá líka rétt að ég þarf svo sannarlega ekki á þessum peningum að halda, en þótti vænt um það á sínum tíma, þegar algjör samstaða var um það á þingi að ég væri þessa heiðurs verður. Þá hafði ég farið í gegnum marga elda en ósár eins og Kári. Það átti víst að brenna mig inni eins og Skarphéðin, en tókst ekki.
En því er þá einnig gleymt í æsingnum að þeir listamenn sem eru á starfslaunum fá mun hærri laun en heiðurslaunamenn, auk þess sem þeir eru einskonar opinberir starfsmenn á föstum mánaðarlaunum. Þeir lækkuðu í launum ef þeir færu á heiðurslaun! En viðurkenningin væri meiri að vísu. Og það er hún sem skiptir öllu máli þegar maður hefur þurft að vinna fyrir henni með blóði og tárum. Já, einatt gegn ofstæki. Ég reikna með því að Kári hafi kunnað að meta reykinn af eldinum á Bergþórshvoli þegar hann gat fylgt honum til frelsis.
Nokkrir listamenn sem Alþýðublaðið nefnir eru á starfslaunum, kannski allir, ég veit það ekki. En fyrst upphæðin skiptir svona milku máli í augum alþýðublaðsskríbenta, þá hlýtur það einnig að skipta máli að starfslaun listamanna eru hærri en heiðurslaun. En Alþýðublaðið gat ekki um það, að sjálfsögðu ekki. Það hentaði ekki tilganginum en hann helgar meðalið eins og allir vita.

Erlendur Jónsson skrifaði um daginn ritdóm í Morgunblaðið um Stóru tilvitnanabókina sem sögð er eftir Símon Jón Jóhannsson og Axel Ammendrup, ógurlegur doðrant upp á 448 blaðsíður!! Þessi samsetningur kostar næstum því fimm þúsund krónur! Þetta er ein af þessum hráu geðþóttabókum sem verið er að gefa út á þvísa landi, Íslandi, og engin ástæða til að neinar sögur fari af því, en ég get ekki stillt mig um að hafa haft lúmskt gaman af þessum passus í ritdómi Erlends um þessa klaufalegu gervismíð: „Margur er þarna samsetningurinn af þessu tagi. Yfirhöfuð eru þýddu tilvitnanirnar klárari. Hinar íslensku eru fremur eins og hver úr sinni áttinni: spakmæli, kveðskapur, jafnvel alllangar greinar teknar upp úr skáldritum. Lítur svo út sem þeir, Símon Jón og Axel, hafi farið í gegnum tiltekna höfunda en horft framhjá öðrum. Til Megasar er vitnað tólf sinnum, svo dæmi sé tekið, tvöfalt oftar en til Sókratesar. Að Megas væri lagasmiður, söngvari og textahöfundur, það vissu allir. En að hann væri svona mikill spekingur! Það vissi maður ekki. Nú veit maður það. Auður Haralds slagar upp í Platon: alls er fimm sinnum til hennar vitnað. Hægt er að kalla á lakari kennanda því Auður er þónokkur lífspekingur undir öllum galsanum. Pétur Gunnarsson slær víst metið ef Halldór Laxness er undan skilinn því hann er þarna skrifaður fyrir hátt í fimmtíu spekimálum og hefur vinninginn yfir flesta ef ekki alla hugsuðu allra tíma, þar með talinn Salómon konung.”!

Hef verið að hugsa um Proust og rakst á gamla úrklippu með grein eftir Jóhann Hjálmarsson um þetta „villta barn meðal skugganna”. Greinin fjallar um bók Olofs Lagercrantz um Proust og birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 1993. Í þessari grein Jóhanns segir meðal annars: „Hinar fjölmörgu persónur sögunnar gæðir Proust holdi og blóði. Tilfinningarnar eru ríkulegar, ekki síst þegar ástarævintýri eru í boði. Odette de Crécy, ein af mest áberandi konum sögunnar, hefur sængað með flestum karlpersónunum. Þegar Charles Swann, menntamaðurinn og spjátrungurinn, hittir Odette sér hann strax að hún minnir á málverk eftir  Botticelli. Odette er þó grófgerðari en hinar fínlegu gyðjur Botticellis. Hún og Swann eiga fátt annað sameiginlegt en óstöðvandi ástarþrá og munúð.
Af mörgum samkynhneigðum persónum skáldsögunnar er Baron de Charlus fremstur í flokki. Frá leit hans að bólfélögum og líka samförum við kynbræður sína skýrir sögumaður. Samkynhneigðin sem er svo fyrirferðamikil í sögunni speglar langanir og gerðir sögumannsins sem er að nokkru leyti höfundurinn sjálfur. Proust lagði í æsku sinni ást á konur, en litlum sögum fer af nánum samskiptum hans við þær. Aftur á móti eru til margar heimildir um ástríðufull sambönd hans við drengi og karlmenn. Reynsla hans í þessum efnum er að mati Lagercrantz rifjuð upp í sögunni.
Tvennt er það sem Proust taldi há sér og var honum síst að skapi. Annars vegar var það samkynhneigðin, hins vegar sú staðreynd að hann var af gyðingakyni í móðurætt. Olof Lagercrantz telur að lýsingar Proust á gyðingafjölskyldum og gyðingum yfirleitt (meðal þeirra er Swann) séu svo gagnrýnar og háðskar að rithöfundur sem skrifaði slíkt nú á tímum yrði stimplaður gyðingahatari og fengi að kenna á því. Sögumaður finnur það sameiginlegt með samkynhneigðum og gyðingum að þeir leita félagsskapar manna sem eru alger andstæða þeirra og ekkert vilja af þeim vita.
Eftir að hafa dvalið við grimmdina í sögunni leggur Lagercrantz það til mála að hún sé trúverðug lýsing á eðli mannsins. Eftirkomendur okkar muni komast að því að siðmenning okkar stjórnist af fáránlegum og glæpsamlegum lögum sem við í mestu makindum sættum okkur við. Í skáldsögunni búi falinn grátur bak við orðin. Engum sé að treysta. Sögumaður sé villt barn meðal skugga.
Því má bæta við að sumir túlkendur  Prousts hafa talað um gleðina í frásögn hans, hamingju þess sem þrátt fyrir allt er gefin sú náð að geta skapað, eins konar jafnvægi þunglyndis og gleði sem einkenndi söguna.
Í leit að liðnum tíma er listaverk sem kallar fram minningar og andrúmsloft, finnur það sem liðið er og líka samtíma höfundarins, enda var hann að skrifa til dauðadags. Það er æviverk og skyggir á annað sem Proust samdi þótt það sé ekki alveg marklaust.
Ilmur daganna, máltíðir, föt, göngurferðir, samkvæmislíf, orðræður, tónlist, myndlist eru meðal þess sem við fáum innsýn í að ógleymdum löstunum sem eru vissulega þungamiðja skáldsögunnar.
Sálfræðilegt næmi, nákvæmar og hljómrænar lýsingar, skáldlegt innsæi, fjölbreytni hafa menn talið sögunni til tekna og bent á þýðingu hennar fyrir þróun skáldsagnagerðar, ekki síst nýja rómaninn franska.
Einhverjir munu eflaust telja það með ólíkindum af hve mikilli þolimæði og umburðarlyndi Lagercrantz fjallar um samkynhneigð, hégómleik og ýmsa ágalla sögupersónanna. Skýringarinnar gæti verið að leita í eftirfarandi orðum formálans: „Það fólk sem ég hef hitt hef ég tengt persónum skáldsögunnar.”
Og Lagercrantz bætir við að hann hafi betur skilið sína eigin samtíð með Proust við hlið sér.”

30. desember, mánudagur

Jarðarför Péturs Sigurðssonar, sjómanns. Erfidrykkja að lokinni athöfn á vegum DAS í Hafnarfirði.
Sigurður Skagfjörð Steingrímsson söng 23. Davíðssálm, áhrifamikið, eitthvað annað en þegar verið er að kyrja Faðirvorið þrátt fyrir þau ummæli Krists að fylgjendur hans eigi ekki að vera með bænahávaða og læti eins og heiðingjar. Hitti ýmsa sem ég hef ekki séð lengi. Tréð er byrjað að fölna og laufið fellur.
Styrmir skrifaði ágætlega um Pétur í Reykjavíkurbréfi í gær. Hann talaði einnig um grein í jólahefti Economist, þar sem bent er á að beint lýðræði verði eitt helzta viðfangsefni 21. aldar.
„Nú er tíminn að renna upp,” sagði hann, „nú er ástæða til að minna á nauðsyn þjóðaratkvæðagreiðslna sem þú hefur alltaf verið að tuða um á undanförnum árum.” Það er rétt, ég tel að fulltrúalýðræðið sé að ganga sér til húðar. Þingmenn eru ekki lengur nauðsynlegur milliliður. Hið beina lýðræði í Sviss hefur gefizt vel. Um það sannfærðist ég þegar ég var þar á sínum tíma og skrifaði um hafréttarmál. Forsetaembættið er líka einskonar þjóðfélagslegur botnlangi. Það er kominn tími til að losna við þetta óþarfa líffæri, við höfum ekkert efni á því, lítil þjóð, ekki frekar en Svisslendingar sem láta forsetaembættið ganga milli ráðherranna. Þannig verður þetta nokkurn veginn snobblaust embætti. Við ættum að taka upp þennan sama hátt. Auk þess er skattfrelsi forsetans brot á jafnræðisreglunni, það virðist augljóst mál. En við erum því miður forsnobbuð í aðra röndina. Það hefur komið mér einna mest á óvart hvað margt vinstra fólk svokallað gengst upp í titlum, embættum og ytri táknum sem skipta engu máli.
Ég skrifaði á sínum tíma um þetta í Reykjavíkurbréfi, held það hafi verið einhvern tíma eftir að ég hafði verið í Genf að skrifa frá hafréttarráðstefnunni þar. Benti á svissnesku aðferðina og mælti með henni. Fann að því var ekki vel tekið. En nú hefjum við atlögu að hinu óbeina lýðræði, þ.e. þingræðinu. Nú mælum við fast og einarðlega með þessu beina lýðræði og segjum að fólkið hafi jafn mikla reynslu og þekkingu til aðskera úr umeinstök mál og misjafnlega gerðir þingmenn,
Við lifum á fjölmiðla- og upplýsingaöld og stjórnmál orðin þverpólitísk. Við tökum Economist á orðinu og reynum að breyta okkur í hugsjónamenn 21. aldar. Ég hef að vísu aldrei verið mergðarmaður, þvert á móti þá hef ég einatt gagnrýnt hjörðina. Ég met einstaklinginn því meir en það breytir ekki því að meirihluti fólks á að ráða í þjóðfélaginu, hvernig sem maður lítur á samfélagið og einstaklinginn að öðru leyti. Ég sannfærðist um ágæti þjóðaratkvæðagreiðslunnar þegar ég fygldist með því hvernig Svisslendingar afgreiddu nánast óleysanlegt deilumál þar í landi á sínum tíma; það var um staðsetningu kjarnorkuvers. Komið hafði til átaka, lögreglunni var beitt af harðneskju og mótmælendum stökkt á flótta. Þetta stefndi í vandræðaástand en þá var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um kjarnorkuverið og staðsetninguna og Svisslendingar héldu sig að sjálfsögðu við niðurstöðuna. Það hefur aldrei verið deilt um kjarnorkuver í Sviss eftirþessaatkvæðagreiðslu. Ef þetta hefði verið hér hefði allt farið í bál og brand og við hefðum setið uppi með óleysanlegt, viðkvæmt vandamál árum, ef ekki áratugum saman. Við eigum að leysa deiluna um kvótabraskið með þjóðaratkvæðagreiðslu, einnig deilurnar um hálendið og hvað eina sem er svo viðkvæmt að þingmönnum sem eru einskonar fangar atkvæða sinna er vart treystandi til að leysa það til frambúðar. Þingið á svo að sinna öðrum þeim málum sem við blasa, rétt eins og svissneska þingið. Margra ára tuð mitt er kannski að verða mikilvægt réttlætismál, hver veit?
En hvað er réttlæti?
Í áramótagrein sinni talar Davíð Oddsson forsætisráðherra um réttlæti eins og hann sé að tala út úr kýrhaus; segir að þeir sem hafi talað um veiðileyfagjald „hafi flúið í síðsta vígið” og sjálft „réttlætið” kallað til sögunnar. Að vísu einu rökin sem skiljanleg séu. Vandinn sé sá, að það hafi enginn öðlazt „patent” á réttlætinu, ekki frekar en á draumunum. Og draumur eins sé martröð annars.Sem sagt, réttlæti eins er ranglæti annars.
Réttlætið sé þannig afstætt hugtak.
Hvað skyldu siðfræðingar segja um það?
Eða hvað skyldi Sókrates hafa sagt um það?
Davíð hefði ekki verið hátt skrifaður á torginu í Aþenu!
Það er stjórnmálamaðurinn sem er að tala og í stjórnmálum er allt afstætt, hvort sem það heitir réttlæti eða eitthvað annað. „Réttlæti” stjórnmálamanns er að vísu ekkert verra en „réttlæti” mergðarinnar; eða meirihlutans. Það er orðið ranglæti áður en maður veit af, eða - ætlar Davíð Oddsson að kalla það „réttlæti” að menn selji það sem þeir eiga, ekki veðsetji það sem aðrir eiga og erfi það sem aðrir eiga? Um það snýst heila málið.
Ég hef aldrei haft áhuga á þessu fiskstjórnunarmáli nema vegna kvótabrasksins og hvernig hefur verið ráðskazt með eign þjóðarinnar. Það hefur sært réttlætiskennd mína. Það þarf að skilgreina rækilega að hér er um þjóðareign að ræða sem menn hafa, óvéfengjanlega heimild til að nota, þegar þeir hafa greitt eigandanum þótt ekki væri nema táknlega upphæð fyrir þessa heimild. Kvótinn er leigður, enginn getur selt hann sem sína eign, veðsett hann eða erft. Það er allt og sumt og það þarf engar gæsalappir í svo einföldu máli og það kemur engu trúboði við. Davíð viðurkennir líka að „réttlætið” sé einu rökin fyrir veiðileyfagjaldi; að þau rök séu skiljanlegust eins og hann segir. En hann fer háðslegum orðum um þessi rök.
Það flýr enginn í rök, menn flýja frá rökum. Það flýr enginn í réttlæti, menn flýja frá réttlæti. Rök og réttlæti koma draumum ekkert við. Slík fullyrðing er flótti; hún er rökleysa. Hún er dæmigert upphlaup stjórnmálamanns í vanda. Þegar stjórnmálamenn eru í vanda eiga þeir ekki að hlaupast frá honum, hvað þá brigzla þeim sem vilja leysa vandann um „að ýta undir óánægju, öfund og óróleika”.
Martin Luther King sagði:               
Ég á mér draum. Það var draumur um réttlæti.

Gamlársdagur

Tíminn vill ei tengja sig við mig, sagði Jónas. Hvort mundu ekki skáld allra tíma geta sagt hið sama?
Þjóðin hefur gefið Jónasi einkunnarorðin listaskáldiðgóða. En meinar hún eitthvað með því? Ég veit það ekki. Nú á dögum snýst mannlífið ekki um að leita sér hugfróunar í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. Nútíminn snýst um sölumennsku. Um hana er talað, um hana er spurt. Ekki sízt í listum og svokölluðum bókmenntum. Það er undantekning ef talað er um fagrar bókmenntir, eins og þegar ég var ungur. Sætleiki lífsins er ekki hugljómun Jónasar Hallgrímssonar eða guðstrú hans eða sú hugarveröld sem var honum hugstæðust; heldur veraldarhyggjan, sölumennskan; en þó einkum og sér í lagi fjölmiðlaslúðrið sem er orðið alfa og ómega nútímasamfélags. Kvótabraskið,framsalið, er angi af þessu söluæði.Kannski upphafið að því ranga verðmætamati sem ýtt er undir nú um stundir.
Við elskum Jónas hvert og eitt og sem mergðarsamfélag á hátíðlegum stundum. Þannig elskum við einnig tunguna og landið. En það er blekking að halda að þjóðarsálin svokallaða speglist í verkum listaskáldsins. Þjóðarsálin er því miður á miklu lægra plani, hún speglast í leirburðarstaglinu og holtaþokuvælinu sem Jónas varar við í Hulduljóðum. Allar þjóðir eru því miður vanaþrælar lágkúrunnar sem Jónas talaði einnig um og það mun ekki breytast á nýju ári.
Því miður.

Fallegt veður. Gekk um bæinn síðdegis, fór í kaþólsku kirkjuna, gekk út á stéttina, horfði niður Ægisgötu; horfði á umhverfi æsku minnar hugsaði um örlögin, hugsaði um borgina. Orti þetta ljóð á leiðinni heim, lauk við það á tölvuna.

Nálægð þín er borg

Minn hugur hverfist
hægt um vitund þína
og nálægð þín
er borg við svalan gust,

nú birtir senn, þitt sólarlausa haust
fer svörtum skugga
þrastargrein sem þögul
þreyir þennan gust,

hún bíður þess að borgin
springi út

vaxi inn í vitund þína

vaxi

veki laufið veki fugl
svo vitji hugur minn
borgar sinnar enn

úr nálægð þinni

ein
á þessu hausti
vitjir þú mín eins og borgin hlusti
á lauf sem vex með fugl
á hverri grein.

 

Nýársnótt

 

Lagði af stað upp úr ellefu og gekk frá Reynimel út á Seltjarnarnes; heilsubótarganga til grenningar. Ferðinni er heitið til Haralds og Brynhildar þar sem fjölskyldan safnast saman, kveður gamla árið, fagnar því nýja. Stillt veður og gott, fjögurra stiga hiti. Enginn á ferli. Einn með borginni. Ég var ekki að hugsa um gamla árið og ekki heldur um það ár sem gengi í garð eftir klukkutíma. Ég var ekki að hugsa um neitt. Ég hafði aldrei fyrr haft borgina einn út af fyrir mig. Hvar var allt fólkið? Var það að undirbúa flugeldasýninguna? Var það að hlusta á sjónvarpsskaupið? Ég veit það ekki. Hitt veit ég að svona gengur maður inn í dauðann, aleinn, og það er ekkert sárt og maður þarf ekki að hugsa og manni líður vel. Þannig gengur maður inn í nýtt ár sem færir mann nær dauðanum, einkennilegt. Er það þetta sem við ætlum að fagna eftir klukkutíma? Var ég að hugsa um það, æ nei. Ég var að hugsa um skreytingarnar við húsin og í gluggunum. Er þetta álfaborg? var ég að hugsa. Er ég huldumaður? var ég að hugsa. Hver veit(!) Veruleikinn birtist í ýmsum myndum. Veruleikinn er afstæður og við, hvað erum við? og hvert erum við að fara? Var ég að hugsa um það? Ég veit það ekki.
Fátt sem minnti á vetur. Það var þá helzt skíman á himni og svartar greinar trjánna. Fátt sem minnti á gamla árið. Það voru þá helzt skreytingarnar við húsin. Ekkert sem minnti á nýja árið. Það er líka ómótaður veruleiki. Ekki einu sinni draumur eða hugarórar.
Ekkert.
Aðeins eftirvænting.
Ég hafði verið að lesa ritgerðir eftir Bertrand Russell, þar á meðal Á hvað trúi ég og Hvers vegna ég er ekki kristinn. Hann segir að allur ótti sé slæmur. Var ég óttasleginn þarna einn í myrkrinu, aleinn? Nei, ég fann ekki til ótta. Og ég er ekki viss um að allur ótti sé slæmur. Ótti getur verið öryggisventill. Hann getur vísað á yfirvofandi hættu. Þannig getur hann verið nauðsynlegur. Ótti er forsenda trúarbragða, segir Russell og heldur því fram að mótmælendur hafi glatað trúnni á kraftaverk. Jú, alveg rétt, ég er að hugsa um að þetta sé einber vitleysa. Ótti er ekki forsenda trúarbragða. Margir óttast dauðann, að vísu. Það er vegna þess að við óttumst það sem við þekkjum ekki. Við óttumst óvissuna. Okkur grunar annað líf sem við þekkjum ekki og við óttumst það sem við þekkjum ekki. Við óttumst ekki trúarbrögð, heldur það sem við þekkjum ekki. Trúarbrögð eru einungis andsvar leitar. Trúarbrögð eru eins og vegvísar við fjölfarna leið. Trúarbrögð eru ekki vegvísar óttans, þau eru tilraun til að leiða okkur yfir heiðina, þau eru einskonar vörður. Trúarbrögð eru ekki vörður óttans. Við óttumst dauðann af því að við þekkjum hann ekki. Við óttumst hið ókomna. Okkur grunar annað líf og við óttumst þennan grun. Ef við værum þess fullviss að við tortímdumst, að við dæjum og öllu væri lokið mundum við ekki óttast dauðann. Þá mundum við einungis reyna að njóta lífsins og deyja óttalaus. Þá þyrftum við ekki að óttast það sem við þekkjum ekki. Þá þyrftum við ekki að óttast óvissuna. Það er óvissan sem er forsenda óttans. Þannig er hann e.t.v. helztu rökin fyrir lífi eftir dauðann.
Stundum á óttinn rætur að rekja til þekkingar. Vanþekking getur verið líkn. Maður sem þekkir ekki hættur, er óttalaus. Það eru hættur og þekking á þeim sem eru undirrót óttans. Þegar fólkið safnaðist saman í kirkjum á miðöldum að biðja fyrir sér og sínum í verstu bylgjum drepsóttanna smitaðist það í fjölmenninu og dó. Það fór óttalaust í kirkjuna af því að það þekkti ekki smithættuna. Ef það hefði þekkt hana hefði það ekki safnazt saman í kirkjunum. Nú vita allir að best er að forðast mannsöfnuð þegar hættulegir faraldrar ganga yfir.
Þekkingin er þannig forsenda þessa ótta en hún getur þá einnig komið í veg fyrir hættur. Þekking menntaðs manns getur vakið ótta og andlega kvöl sem villimaður þekkir ekki. Það kemur þekkingunni í raun ekkert við, því síður ást eða hamingju sem Russell nefnir í einni ritgerða sinna.
Var ég að hugsa um þetta?
Það má vel vera, ég veit það ekki. En þegar ég var kominn að Valhúsabraut hófust sprengingarnar. Himinninn glitraði af marglitum ljósum. Flugeldarnir lýsa okkur inn í nýtt ár eins og forsetar og kóngafólk telur að það muni ganga fagnandi inn um hið gullna hlið. En ég er viss um að þetta er blekking. Það verða engar flugeldasýningar. Menn fara ekki inn um þetta hlið á vegabréfum kónga og drottninga ekki heldur forseta og annars fyrirfólks.
Engir stimplar, engin vegabréf, einungis hjartalagið. Engir flugeldar, engin marglit ljós á himnum, einungis það ljós sem kemur að innan. Þetta sjálflýsandi hjartalag.
Um það var ég að hugsa þegar ég gekk inn í lýsandi fögnuð þessa nýja árs.