Árið 1997 (seinni hluti)

 

28. maí, miðvikudagur

Í dag birtist grein í Morgunblaðinu um atburðina 30. marz 1949 eftir Leif Sveinsson. Hann gerir lítið úr bók  Vals Ingimundarsonar sagnfræðings, Í eldlínu kalda stríðsins, og afgreiðir hana með billegum hætti. Skil ekki hvað honum gengur til. Meginviðfangsefni greinarinnar er þó að koma höggi á Sigurjón lögreglustjóra Sigurðsson sem situr nú á friðarstóli, 81 árs gamall.
Leifur segir:
“Sem dæmi um fálmkennda stjórn Sigurjóns má nefna, að hann gaf út þá skipun, að varaliðsmenn skyldu fara út án hjálma og kylfa, en bera aðeins borða á handlegg. Þegar boðum var komið til Bjarna Benediktssonar um þessa vanhugsuðu skipun Sigurjóns ómerkti hann þegar skipunina með þessum orðum: “Allir út með hjálma og kylfur.” Mátti því segja að Bjarni hefði tekið stjórn lögreglumálanna í sínar hendur.”

Mér þótti fyrir því að birta þessar sögulegu rangfærslur; þóttist þess fullviss að allt væri þetta gaspur úr Leifi. Hef sjálfur reynslu fyrir því að annaðhvort treysti Bjarni mönnum eða ekki. Sem dómsmálaráðherra fór hann auðvitað ekki að taka stjórn lögreglumála úr höndum manns sem hann hafði árið áður treyst fyrir lögreglunni í Reykjavík. Hann skipaði Sigurjón lögreglustjóra 1948 en hann hafði verið aðstoðarmaður Agnars Kofood-Hansen sem var ekki löglærður. Það fannst Bjarna hneyksli. Þegar Agnar lét af lögreglustjórn skipaði Bjarni þennan unga mann lögreglustjóra en Sigurjón var þá einungis 33 ára gamall. Ég talaði stundum við Bjarna um Sigurjón og lögreglustjórn hans og fann þá að hann hafði ævinlega treyst Sigurjóni fullkomlega fyrir lögreglunni í Reykjavík og var mjög ánægður með störf hans; a.m.k. heyrði ég aldrei annað. Ef hann hefði ekki treyst Sigurjóni hefði hann ekki skipað hann í þetta viðkvæma og erfiða embætti. Sigurjón er fínn maður og hefur verið embættismaður með láði. Mér hefur alltaf þótt gott að tala við hann. Hann er látlaus maður og það sem mér þykir meira um vert, hann er hégómalaus. Ég talaði við hann í hádeginu í dag vegna þessarar greinar. Hafði áhyggjur af að bera ábyrgð á henni og þessum sögulegu fölsunum í blaði sem ég stjórna. Sigurjón skildi það allt vel. Hann brosti að Leifi. En hann vill ekki leiðrétta rangfærslurnar. Hann vill ekki láta eiga samtal við sig. Hann sagðist vera orðinn of gamall til þess. Hann sagði þetta særði fólkið sitt, ekki sízt eiginkonu sína, en það yrði að hafa það. Hann sagði ég hefði komið til sín áður því Leifur hefði fyrir margt löngu vegið í þennan sama knérunn. Það var út af hundi sem var geltandi í næsta nágrenni við Leif í Tjarnargötunni.
En Leifi tókst ekki að taka við lögreglustjórninni í Reykjavík. Mér skilst að Sigurjón hafi ekki getað orðið við kröfu Leifs um að þagga niður í hundinum. Þá fékk Leifur Sigurjón á heilann í staðinn fyrir að fá hundinn á heilann! Skrifaði um þetta í Morgunblaðið. Það fór víst jafn mikið í taugarnar á mér og greinin í dag, ég man það ekki, en Sigurjón minnti mig á það.
Um tíma fékk Leifur Davíð Oddsson á heilann. Það var víst út af Ráðhúsinu. Þá glefsaði hann í Davíð og gekk þannig feti lengra en hundurinn sem hann fékk ekki á heilann! Davíð hefur samt fengið frið fyrir glefsinu undanfarin ár.
Leifur á 6% í Morgunblaðinu.
Ég vona bara að menn haldi ekki að hann skrifi í nafni eigenda eða stjórnenda Morgunblaðsins. Sigurjón sagði að sér dytti það ekki í hug.            
En hann sagði einnig að ég mætti segja Leifi að allar væru fullyrðingar hans rangar og ættu ekkert skylt við sögulegar staðreyndir. Bjarni hefði aldrei viðhaft þau ummæli sem Leifur vitnar til.
Það sem Leifur segir um hjálma og kylfur er einber vitleysa, segir Sigurjón. Þeir Bjarni töluðu ekki um það. En þeir töluðu um annað atriði sem hvíldi á þeim, ekki sízt Bjarna:
Hvenær ætti að nota táragasið.
Það mátti alls ekki  grípa til þess fyrr en tillagan um aðild Íslands að NATO hefði verið samþykkt á þinginu. Ef táragasið eyðilegði þingfundinn yrði að boða annan þingfund daginn eftir og það gæti orðið bæði erfitt og hættulegt. Það skipti því miklu máli hvenær táragasið fyllti Austurvöll og þingsali. Þegar gripið var til þess mátti ekki miklu muna. Jón á Akri þingforseti var þá að slíta fundi. Ef táragasið hefði fyllt þingsalinn nokkru áður hefði orðið að fresta fundi og málið komið í óefni. Það varð ekki. En þetta veit ekki Leifur. Hann veit ekkert um samtöl þeirra Bjarna og Sigurjóns, að því er Sigurjón sagði mér. Og hann þurfti auðvitað ekki að segja mér það, ég sá í hendi mér þegar ég fór yfir grein Leifs í gærkvöldi og fékk áhyggjur af henni að hún væri illa bréfuð. Það hefur líka komið í ljós.
En ég gat ekki talað við Leif því hann er orðinn afi á Ítalíu og fór víst þangað af því tilefni.
Leifur er góður í sögusögnum en hann mætti vanda betur heimildir. Hann veitti mér aðstoð við að lagfæra samtalsgrein mína við Svein heitinn Björnsson, frænda hans. Þar voru nokkrar staðreyndavillur eða pennaglöp sem ég leiðrétti að fyrirsögn Leifs en þó var einkum fengur að tveimur eða þremur sögum sem eru nú eins og hvert annað krydd í samtalsgreininni!

Á morgun verður sagt frá söguþinginu í Morgunblaðinu. Þar er frásögn af erindi sem Guðjón Friðriksson hélt um fjölmiðla. Þar er margt almæltra tíðinda og kemur sögu blaðamennskunnar lítið sem ekkert við, annað rangt; til að mynda að opnun blaða hafi hafizt með kjallaragreinum í Dagblaðinu. Við höfðum birt margar aðsendar greinar gegn Morgunblaðinu og Sjálfstæðisflokknum þegar á sjöunda áratugnum. Svo þetta er ekki rétt. Þá fullyrðir hann einnig að Geir Hallgrímsson hafi legið eins og mara á Morgunblaðinu. Þetta er rangt. Hann veitti okkur drengilega aðstoð við að opna blaðið hægt og sígandi og breyta því úr flokksmálgagni í blað allra landsmanna.
Ég skil ekki hvað menn eru alltaf að skrifa um það sem þeir hafa ekki hugmynd um. Og af hverju spyrja þeir aldrei þá sem bezt þekkja til? Mér er það hulin ráðgáta. Ekki hefði ég viljað skrifað Ólafs sögu Thors með þeim hætti að búa til fyrirfram niðurstöður, þ.e. að ákveða sannleikann fyrirfram, og skrifa svo Ólafs sögu að þessum hugmyndum mínum.
Ég sé ekki betur en Guðjón Friðriksson vinni þannig úr hugmyndum sínum um sögu fjölmiðlunar á Íslandi. Hann hefur víst skrifað bók um þetta efni fyrir Blaðamannafélag Íslands og verður hún gefin út í haust í tilefni af 100 ára afmæli félagsins. Mér lízt ekki á það! Hann rekur hornin í þá sem skrifuðu í flokksblöðin á sínum tíma. En ég sé ekki betur en Guðjón Friðriksson sé að skrifa sögu fjölmiðlunar með nákvæmlega sama hætti og þeir sem skrifuðu flokksblöðin á sínum tíma; annars vegar allt fullt af sjálfsögðum hlutum sem allir vita og engum tíðindum sæta, en hinsvegar tilbúinn sannleikur sem verður ekki haggað hvað sem heimildum líður og hvernig sem aðrir reyna að koma staðreyndum á framfæri.
Þetta er ekki björgulegt. En ekki hvarflar að mér að reyna að lagfæra svona sagnfræði með athugasemdum. Það verða aðrir að gera. Ég sé ekki af því sem Guðjón Friðriksson fullyrðir að hann hafi gert neina vísindalega úttekt á þróun Morgunblaðsins, svo ég tali nú ekki um það erfiða andrúmsloft sem við var að etja í kalda stríðinu og aðstæðum öllum eins og þær voru, þegar við þurftum að berjast fyrir frelsi blaðsins upp úr 1959 með blóði og tárum. Ég hef stundum nefnt þetta í greinum. Guðjón tekur ekkert mark á því. Saga hans er sótt í sjálfsala sem er fullur af fordómum ef marka má það sem ég hef lesið af þessari sagnfræði hans. Og kannski ekki endilega fordómum, heldur innbyggðum sannleika sem sagnfræðingurinn treystir betur en þeim staðreyndum sem hægt væri að vinna úr sögulegum heimildum.
Líklega verðum við að svara þessu erindi í Reykjavíkurbréfinu á sunnudag. Við Styrmir töluðum um það í kvöld. En það er áreiðanlega eins og að æra óstöðugan.

30. maí, föstudagur

Borðaði með Kristjáni Karlssyni í gær. Margt bar á góma. Hann talaði vel um báða ljóðaflokkana. Ég sagði að sá knappari sem fjallaði um Ítalíu á yfirborðinu mundi fara í Söguna. Honum leizt ekki illa á það. Hann stakk upp á því að hinn fengi nafnið Goðsögn hugmyndanna. Mér leizt vel á það. Hann talaði um að Rómferilsljóðin væri eins og skúlptúr, hin kvæðin væru auðveld aflestrar og flæddu eins og talmál.
Kristján sagði mér að nú væri verið að gefa út bók á ensku með ljóðum okkar; frumsömdum ljóðum hans en mínum þýddum af Joe Allard og Bernard Scudder. Bókin á að koma út áður en ég fer til Toronto annan laugardag. Ég hafði ekki áður heyrt um að við ættum að vera saman í þessari bók. En það getur verið ágætt. Samt minni áhætta fyrir Kristján vegna þess að hans kvæði eru frumsamin á ensku. Kvæðin mín hljóta að láta eitthvað á sjá í þýðingum, hjá því verður ekki komizt. En látum vera.
Kristján sagði mér sögur af Halldóri Hermannssyni.
Ein þótti mér mjög fyndin: Helgi Briem sendiherra skrifaði á sínum tíma grein um Halldór og sagði m.a.... Hann hefur aldrei verið við kvenmann kenndur. Þá hrökk  Halldór við, leizt ekki á blikuna!

Ég hitti Halldór Hermannsson,  prófessar , þegar við strákarnir vorum í Íþöku 1954,skoðuðum karlinn sem þá var í hjólastól,þennan fegursta háskólakampus sem ég hef séð og Fiske-bókasafnið og man ekki betur en ég hafi skrifað greinarkorn um þessa heimsókn í Stefni.Þar minnir mig  Jóhann Hannesson  komi einnig við sögu,en við áttum mikið saman að sælda , þegar hann löngu síðar var orðinn skólameistari á Laugavatni , og  við börðumst saman  í Morgunblaðinu fyrir nýrri menntastefnu,einkum breytingum á landsprófi.
Þetta var eftirminnileg heimsókn,en því miður var Kristján Karlsson ekki í Íþöku um það leyti.

Hitti klíkuna um kvöldið. Gott hljóðið í þeim að venju en Sverrir Hermannsson talaði af þunga um óheillaþróunina í fiskstjórnunarmálum. Sagði að nú ætti að afhenda Samherja um 1100 tonn í viðbót. Sægreifarnir græddu á tá og fingri. Við hefðum því miður engin áhrif á þessa þróun þrátt fyrir mikil skrif og upphlaup. Hann sagði  það væri hægt að fá útgerðarmennina til þess að horfa með meira siðferðisþreki á þessi mál því að innst inni hefðu þeir ýmsir áhyggjur af siðleysinu.
Ég veit það ekki, er einhver mórall þar sem peningar eru annars vegar? Eða vald?          
En þetta má svo sem vera.
Minnzt á trúmál. Indriði G. sagði að maðurinn væri spendýr og spurði hvort við héldum að brúnn hestur í Skagafirði myndi lifa áfram framhaldslífi. Held hann hafi haft mestan áhuga á því. Skagfirðingar geta ekki hugsað sér framhaldslíf án hesta.
Við töldum það ekkert endilega víst.
Hann spurði hvaða munur væri á því og t.d. að amma okkar lifði eftir dauðann.
Við sögðum að við ætum að minnsta kosti ekki ömmu okkar.
Þá dró Indriði í land.
Ég hef aldrei fyrr heyrt Sverri Hermannsson tala um trúmál. Hann er augsýnilega mikill trúmaður. Hann sagði einungis,
Ég trúi og ég veit.
Hann var ekki spurður um það frekar.
Jóhannes Nordal sagði það væri ekki hægt að hugsa um trúmál eins og vísindi. Vísindi mundu aldrei sanna eitt eða neitt í trúmálum. Menn yrðu bara að trúa. Við Gylfi vorum sammála því og raunar Sverrir einnig og líklega Indriði G. að ég held. Annaðhvort trúa menn án spurninga eða ekki. Það er mystikin í trúnni sem ræður úrslitum. Það er ekki hægt að segja,
Ég trúi á guð þegar einstein er búinn að sanna tilvist hans.
Þá er einstein orðinn meiri en guð.
Það er einungis hægt að segja, Ég trúi á guð.
Ég hef engan sérstakan áhuga á framhaldslífi og ber það ekki saman við lífið á jörðinni. Ef við gerum það drögum við trúna niður á plan sem er henni ekki samboðið. Samt eru allskyns prestar og prelátar alltaf að tala um þjóðfélagsástand, velferðarríki og  veraldlega hamingju í tengslum við trúmál. Eins og það sé kjarni málsins. Þetta er  einungis venjuleg veraldleg pólitík.
Trú er annað og meira.  Hún fjallar um það sem maðurinn veit ekki, mun aldrei vita og verður aldrei sannað með vísindalegri þekkingu. Hún fjallar um það sem er ofar skilningi okkar. Ef hún væri það ekki væri hún einungis þjóðfélagsvandamál eins og fiskveiðistjórnun, réttlæti, siðleysi og staða mannsins á jörðinni. En við erum að tala um sálina. Við erum að tala um velferð hennar. Við erum að tala um eilífðina. Mig dreymdi í nótt að ég spurði einhvern, ég veit ekki hvern, Hvað er eilífðin. Og mér var svarað: Hún er ástand.
Þetta er það eina sem ég veit um eilífðina; hún er ástand.

1. júní, sunnudagur

Hef farið yfir fyrirlestur Guðjóns Friðrikssonar um blaðamennsku sem haldinn var á söguþingi fimmtudaginn 29. maí sl.  Hann er ekki eins afleitur og mér hafði sýnzt af frásögn Morgunblaðsins, en þó er hann einkum almennar upplýsingar og að mörgu leyti með röngum áherzlum. Þannig skekkjast hlutföllin. Svipuð áherzla lögð á fjölmiðla sem hafa skipt litlu máli og þá fjölmiðla sem fylgt hefur mestur slagkraftur í samtímaþróun á Íslandi. Sagt er að skilin milli Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins hafi orðið gleggri en áður, þegar Geir Hallgrímsson lét af formennsku í flokknum 1983 en þessi tímasetning er einungis tilbúningur. Morgunblaðið hefur unnið sig hægt og bítandi frá Sjálfstæðisflokknum og hefur að sjálfsögðu gengið á ýmsu. Að því leyti er sú fullyrðing Guðjóns rétt að blaðið hafi verið “á langri en ekki hnökralausri leið til sjálfstæðis”. Það er líka rétt að fyrir sveitastjórnarkosningar 1994 birti Morgunblaðið ávarp frá Davíð Oddssyni formanni Sjálfstæðisflokksins, meðal aðsendra greina, en ekki á sérstökum stað á útsíðum eins og áður, þótt blaðið hafi lýst yfir stuðningi við stjórnmálastefnu Sjálfstæðisflokksins í forystugreinum. Ég held Davíð hafi aldrei fyrirgefið þessa ákvörðun. Eftir langt samtal okkar í Stjórnarráðinu rétti hann mér greinina og ætlaðist áreiðanlega til að hún yrði birt að venju á útsíðu, en ég tók þá ákvörðun að setja hana inní blað sem aðsenda grein og ber mesta ábyrgð á því. Styrmir var saklaus að þessari ákvörðun og lét mig um hana. Hún ýtti að ég held mjög undir andúð Davíðs á Morgunblaðinu. Það varð svo að vera. Við vorum á þessari leið og varð ekki aftur snúið. En löngu áður hafði Morgunblaðið losað sig við samfylgd Sjálfstæðisflokksins og forystumanna hans. Það kostaði miklu meiri átök heldur en þótt Vísir reyndi að losa þessi tengsl á sínum tíma. Ástæðan er augljós. Morgunblaðið hafði verið óbilandi málgagn Sjálfstæðisflokksins frá því í kreppunni. Það barðist hatrammlega gegn þjóðnýtingu og vinstristefnu og svo auðvitað marxisma og heimskommúnisma eftir styrjöldina. Afstaða Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins fór þannig saman í öllum meginatriðum og engin leið að sjá neinn mun á stefnu flokks og blaðs í heljarátökum kaldastríðsins. Vísir var aftur á móti aldrei talið tryggt flokksblað Sjálfstæðisflokksins. Tengsl milli blaðs og flokks voru því ekki jafn sterk og tengsl Morgunblaðs og Sjálfstæðisflokks. Ástæðan var einfaldlega sú að Vísir var málgagn ákveðinna verzlunar- og viðskiptaaðila innan flokksins, en þeir voru ekki alltaf vel séðir á þeim vettvangi. Vísir var notaður til að efla þessi samtök innan Sjálfstæðisflokksins, bæði undir forystu Jakobs Möllers, sem átti rætur í Frjálslynda flokknum en ekki gamla Íhaldsflokknum, og svo manna eins og Björns Ólafssonar síðar, en hann átti undir högg að sækja í flokknum, barðist til valda og átti Vísi að bakhjarli eins og aðrir félagar á hægri vængnum. Þeir höfðu haft allt á hornum sér þegar Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn með Framsókn 1939, gagnrýndu slíkt samstarf og þá ekki síður nýsköpunarsamstarf við kommúnista eftir stríð. Sumir þessara hægri manna urðu aldrei sáttir við Sjálfstæðisflokkinn og yfirgáfu hann um skeið; mynduðu Lýðveldisflokkinn og gáfu út Varðberg. Það voru menn eins og Gunnar Einarsson í Ísafold og Hjörtur Hjartarson sem síðar starfaði í stjórn Árvakurs, en þeir sættust að ég held við Sjálfstæðisflokkinn þegar Björn Ólafsson varð ráðherra upp úr miðri öldinni.
Vísir varð þannig aldrei sérstakt flokksblað Sjálfstæðisflokksins eða traust málgagn hans. Árni frá Múla skrifaði einatt gegn flokknum þegar hann sá um forystugreinar í Vísi enda hafði hann orðið viðskila við Ólaf Thors og gamla flokksfélaga sína.
Þannig mætti segja að þeir sem stóðu að Vísi hafi verið kaþólskari en páfinn. Blaðið var sérstakt málgagn verzlunaríhaldsins í Sjálfstæðisflokknum, miklu frekar en flokksins í heild. Síðar varð það einskonar málgagn Gunnars Thoroddsens þegar hann hóf valdabaráttu sína innan Sjálfstæðisflokksins.
Það voru því sögulegar forsendur fyrir því að Vísir ætti auðvelt með að slíta sig úr tengslum við Sjálfstæðisflokkinn og raunar enginn stórviðburður þegar blaðið sigldi “hraðbyrði úr faðmi Sjálfstæðisflokksins undir ritstjórn Jónasar Kristjánssonar”, eins og Guðjón Friðriksson segir. Það kom á daginn þegar Jónas Kristjánssonar hrökklaðist frá Vísi og ákvað, ásamt öðrum starfsmönnum blaðsins og ýmsum öðrum, að stofna nýtt síðdegisblað, að eigendur Vísis flæktust inn í valdabaráttu í Sjálfstæðisflokknum og náðu þær hámarki veturinn 1974-75. Fyrir þessu öllu var söguleg forsenda. Það var úr henni sem Dagblaðið varð til.
“Skyndilega var komið blað sem stóð öllum jafnt opið án tillits til stjórnmálaskoðana,” segir Guðjón Friðriksson.
“Opin skoðanaskipti gátu farið fram á síðum eins og sama blaðsins”.
Þetta var eftir miðjan 8. áratuginn. En þá höfðu farið fram margvísleg skoðanskipti í Morgunblaðinu og menn höfðu þá lengi getað viðrað skoðanir sínar þar “ án tillits til stjórnmálaskoðana”, þótt ýmsir gamlir vinstrimenn og kommúnistar hikuðu við að skrifa í Morgunblaðið og kusu heldur Dagblaðið. Ástæðan var m.a. sú að þeim fannst þeir gefa minni höggstað á sér með því móti. Svo fór Magnús Kjartansson að skrifa í Morgunblaðið og hefur það líklega brotið ísinn að einhverju leyti.
Hann talaði oft við mig og sagðist ekki vilja skrifa í Þjóðviljann undir stjórn þeirra sem þar voru við stýrið. Við greiddum honum líka fyrir greinarnar og held ég að hann hafi munað um það.
Það var að vísu ekki öllum þóknanlegt að vinstri menn fengju inni í Morgunblaðinu, einkum hörðustu sjálfstæðismönnum.
Dagblaðinu hefur ávallt vegnað vel á Austurlandi og í norðurlandskjördæmi eystra, eða þar sem Tíminn var sterkastur. Það hefur reynzt framsóknarmönnum og vinstra liði í þessum kjördæmum auðveldara að meðtaka Dagblaðið en Morgunblaðið.
Við urðum sem sagt að fara hægt í sakirnar að opna Morgunblaðið fyrir hörðum vinstri mönnum og gömlum gallhörðum kommúnistum. En það gerðist hægt og sígandi og án þess til neinna átaka kæmi milli ritstjóra blaðsins og stjórnar Árvakurs, svo að dæmi sé tekið. Þessi þróun kostaði að vísu stundum þó nokkur átök, m.a. við suma forystumenn Sjálfstæðisflokksins, en stjórn Árvakurs studdi ævinlega við bakið á ritstjórum sínum. Án þessa bakhjarls hefðum við kannski ekki getað náð þeim árangri sem að var stefnt.
Nú eru sumir helztu stuðningsmenn okkar í þessari baráttu fallnir frá. Ég sakna þeirra. Geir Hallgrímsson, Gunnar Hansson, Hjörtur Hjartason, þeir eru allir farnir. Þeir gagnrýndu okkur stundum, en stóðu fast með okkur í öllu því sem máli skipti. Það gerði Bjarni Benediktsson einnig á sínum tíma. Við Valtýr töluðum oft um að stefna Morgunblaðsins þyrfti að vera frjálsleg, þótt hann og Jón Kjartansson hefðu haft náið og mikið samstarf við forystumenn Sjálfstæðisflokksins, einkum Ólaf Thors og Bjarna Benediktsson. Við Bjarni störfuðum saman á ritstjórn Morgunblaðsins og urðum vinir. Kristján Karlsson sagði við mig um daginn að Bjarni hefði stuðlað að því að ég yrði ritstjóri Morgunblaðsins, “en hann skildi þig aldrei”, bætti Kristján við. “Hann átti ekki von á því að þú mundir gera allar þær uppreisnir sem raun bar vitni á næstu árum”.
Ég hef aldrei hugsað um þetta fyrr, en það má vel vera; ég veit það ekki. Bjarni studdi mig sem ristjóra Morgunblaðsins held ég vegna þess ekki sízt að eftir dvöl hans á blaðinu sá hann að það var ekki hægt að halda því til streitu að Morgunblaðið yrði einungis flokksmálgagn Sjálfstæðisflokksins. Það var að verða tímaskekkja. Svara yrði kalli nýs tíma sem lá í loftinu. Indriði G. Þorsteinsson var orðinn ritstjóri Tímans og Morgunblaðið þyrfti á blaðamanni, en ekki pólitískusi að halda. Um það töluðum við Bjarni oft og hann lagðist ekki gegn því að ég reyndi að opna gluggana á Morgunblaðinu og hleypa inn ferskara lofti þegar hann var þar hættur og ég orðinn ritstjóri blaðsins. Stjórnmálabarátta borgaralegra afla hlyti að þola það, án þess Sjálfstæðisflokkurinn yrði innkulsa!
En mér er þó nær að halda að Bjarni hafi einna helzt stutt mig til ritstjórastarfa vegna þess að hann treysti mér. Hann vissi að þessi ungi vinur hans mundi aldrei svíkja hann. Hugmyndir okkar um blað og þjóðfélag fóru saman. Það nægði Bjarna Benediktssyni. Og það voru aldrei nein átök okkar í milli vegna stefnu Morgunblaðsins, þegar þessir gluggar höfðu verið opnaðir til hálfs,en stundum skiptar skoðanir,eins og gengur.. Sigurður A. Magnússon fór of geyst í upphafi sjöunda áratugarins og kallaði af þeim sökum yfir okkur margvísleg vandræði; einkum mig. Hann sáði tortryggni í kringum mig. Margir sögðu að hann væri vinstri maður, jafnvel kommúnisti; að ég væri bláeygur og sæi þetta ekki. Það var því talsvert áfall fyrir mig þegar hann gerðist síðar stuðningsmaður Alþýðubandalagsins og sannaði þar með það sem aðhaldsmenn mínir og gagnrýnendur í Sjálfstæðisflokknum höfðu fullyrt. En við gátum hrist þá af okkur, því þeir voru fáir.
Sigurður var ekki Morgunblaðið. Og við héldum ferðinni ótrauðir áfram og sigldum eftir veðri og vindum, og þá einnig sjólagi. Stundum ókum við seglum eftir vindi eins og nauðsynlegt getur verið, ef ekki á að kollsigla fleytunni. Og það tókst, stórslysalaust.
Guðjón Friðriksson segir: “Nýir ritstjórar, þeir Matthías Johannessen og Eyjólfur Konráð Jónsson, tóku ákvörðun um það í sameiningu að skapa Morgunblaðinu meiri sérstöðu frá Sjálfstæðisflokknum en áður hafði verið.”
Hvernig veit hann þetta? Hann hefur aldrei spurt mig og ég veit ekki til að hann hafi spurt Eykon á meðan hann lifði.
Ég varð ritstjóri sumarið  1959 en Eykon tæpu ári síðar. Þetta ár, 1959 voru tvennar alþingiskosningar vegna breyttra kosningalaga. Við Bjarni vorum saman tveir einir á Morgunblaðinu því að Valtýr hafði misst heilsuna, en Sigurður Bjarnason var lengstum í kjördæmi sínu fyrir vestan. Svo hætti Bjarni um haustið þegar hann varð ráðherra í viðreisnarstjórn Ólafs Thors. Hann vildi helzt vera áfram á Morgunblaðinu því þar hafði honum liðið vel, en Ólafur lagði svo fast að honum að hann treysti sér ekki til annars en taka við ráðherraembætti í ríkisstjórn hans, þótt honum væri það að sumu leyti á móti skapi.
Þá vorum við Sigurður Bjarnason tveir einir ritstjórar Morgunblaðsins um veturinn, því að Valtýr gat ekki staðið í neinum stórræðum heilsunnar vegna. Sigurður var á þingi og blaðið mæddi mikið á mér. Ég sá í hendi mér að hann skildi ekki alveg, hvað fyrir mér vakti, og stundum kom til brýnu á milli okkar vegna ritstjórnarstefnunnar.
Ég varð þreyttur á þessu karpi og hugsaði með mér að nauðsynlegt væri að fá nýjan mann að blaðinu til að efla þá stefnu sem ég taldi nauðsynlega, þegar hér var komið sögu. Þess vegna hringdi ég í Eykon og óskaði eftir því að hann kæmi á blaðið. Valtýr og hans fólk var ekki sannfært enda hafði það orðið fyrir vonbrigðum með Einar Ásmundsson sem það hafði aldrei sætt sig almennilega við, en látið sér lynda vegna óska Bjarna Benediktssonar og einhverra eigenda blaðsins, t.a.m. Bergs Gíslasonar frænda Einars.
Einari var margt vel gefið, en hann var heldur óreglusamur og hálfgert ólíkindatól af þeim sökum, þótt hann væri vel gáfaður og ágætlega ritfær, þegar hann vildi það við hafa. Hann var ljóðskáld. En hann átti ekki heima á Morgunblaðinu. Og þeir Sigurður Bjarnason urðu aldrei nánir samstarfsmenn, þvert á móti var auðvelt að skynja togstreitu þeirra í milli. Það var aldrei gott á milli þeirra, hvað þá vinátta.
Þegar Bjarni kom að Morgunblaðinu 1956, urðu þeir Valtýr Stefánsson aðalritstjórar í hausnum, en Sigurður Bjarnason og Einar Ásmundsson ritstjórar. Það merkir einfaldlega að þeir voru einskonar aðstoðarritstjórar blaðsins. Sigurður varð í raun og veru ekki ritstjóri fyrr en ég tók við því starfi. Þá sagði Bjarni, Við leggjum aðalritstjóratitilinn niður og verðum jafningjar(!) Þá fyrst varð Sigurður einn af aðalristjórum blaðsins, en ekki fyrr. Mér er til efs að hann hafi gert sér grein fyrir því sjálfur að þróunin yrði með þessum hætti sem til var stofnað.Hann lifði og hrærðist í pólitísku umhverfi Sjálfstæðisflokksins og hafði unnið marga góða sigra í heimabyggð sinni kornungur að aldri.

Það var svo 1960 sem Eykon kom að blaðinu og við vorum allir þrír ritstjórar þess, ásamt Valtý sem enn lifði. Hann var að vísu farinn að heilsu en kom á hverjum degi niður á blað, settist inn í skrifstofuna mína og við röbbuðum saman.
Þegar ég var blaðamaður á Morgunblaðinu á 6. áratugnum, fórum við Hanna iðulega heim til þeirra Kristínar, borðuðum og skemmtum okkur fram eftir nóttu. Þá þoldi ég vín ágætlega, en ekki  lengur. Þau Valtýr og Kristín voru sterkasti bakhjarl minn á blaðinu. Stjórnin stóð líka ævinlega öll að baki okkar ritstjóranna.
Guðjón Friðriksson talar um tilraun Gísla J. Ástþórssonar með Alþýðublaðið á árunum 1958-1962 eins og hann kemst að orði, “en hún hafði mikil áhrif á hin blöðin”.
Þetta er rangt.
Hún hafði ekki önnur áhrif á Morgunblaðið en þau að við vorum sannfærðir um að við mættum ekki fara í sama farið og Gísli, svo ólík sem þessi blöð voru. Þó að Gísli hafi verið ágætur blaðamaður og síðar samstarfsmaður okkar á Morgunblaðinu var þessi tilraun hans miklu fremur víti til varnaðar en að okkur þætti ástæða til að apa hana eftir. Alþýðublaðið í umbúðum Gísla J. Ástþórssonar hentaði ekki Morgunblaðinu, þótt þær hafi verið ágætar fyrir Alþýðublaðið sem var á heljarþröminni og veitti ekki af andlitslyftingu, en það var annars konar lyfting sem Morgunblaðið þurfti á að halda. Á þessum árum kepptum við einkum við Tímann , en stundum einnig Þjóðviljann sem vinstri menn töldu menningarlegsta blaðið þá. En Tíminn undir stjórn Indriða var harður í horn að taka.
Morgunblaðið hefur aldrei farið í kjölfar Alþýðublaðsins, Vísis eða Dagblaðsins, það hefur m.a. - og ekki sízt - verið styrkur þess. Það hefur reynt að kljúfa öldurnar eins og því er eiginlegt. Önnur blöð hafa klofið þessar sömu öldur eins og þeim hefur verið lagið. Við höfum aldrei freistazt til að slá upp fréttum í söluskyni, heldur vegna mikilvægis þeirra að okkar dómi. Við höfum ævinlega hugsað mikið um virðingu Morgunblaðsins, kannski stundum um of. En í mínum huga hefur það aldrei verið fyrst og síðast einhvers konar söluvarningur, þótt nauðsynlegt hafi verið að selja það eins og aðra fjölmiðla. En þessi afstaða hefur ekki háð okkur.
Fyrir rúmum áratug lýsti Dagblaðið því yfir að útbreiðsla þess væri á hælunum á Morgunblaðinu, mér skildist raunar að þá hefðu 2-3 þúsund eintök skilið blöðin að. Dagblaðsmenn sögðust vera komnir yfir 40 þúsund eintök, þegar Morgunblaðið var í 42-43 þúsund eintökum. Nú er Dagblaðið í 27-28 þúsund eintökum, en Morgunblaðið að nálgast 60 þúsund eintök. Guðjón Friðriksson eyðir ekki miklu púðri í að skýra þessar tölur eða önnur slík atriði sem hann gæti haft aðgang að. Samkvæmt síðustu ímyndarkönnun Gallups höfum við aldrei staðið betur að vígi en í dag. Við munum skýra frá nokkrum atriðum hennar í Morgunblaðinu innan tíðar.
En ætli þessi velgengni sé tilviljun einber?
Guðjón Friðriksson mætti spyrja sjálfan sig þeirrar spurningar. Hann talar mest um stjórnmál og svokallaða frjálsa blaðamennsku og óháða, en slík orð eru auðvitað ekkert annað en upphrópanir eða vígorð.
Óháða hverjum, skoðunum?
Ég tel það sé gæðablaði mikilvægt að hafa einhverjar skoðanir og ekki sízt einhverjar stjórnmálaskoðanir, þ.e. afstöðu til þjóðmála. Mikilvægt dagblað hlýtur að taka afstöðu til þjóðmála, en ekki einungis einhverra dægurmála sem hægt er að afgreiða í leiðurum með upphrópunum, eða af persónulegum geðþótta.
Guðjón talar ekki um afstöðu Morgunblaðsins á sjöunda áratugnum til menntastefnunnar, en þá hafði blaðið mikil áhrif í þá átt - og kannski forystu um það - að þessari stefnu var gjörbreytt undir lok viðreisnar. Hann talar ekki um átök blaðsins við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar um þetta mikilvæga atriði. Þá var hart barizt eins og ég hef tíundað annars staðar. Hann heldur kannski að það sé ekki pólitík, hvernig menntamálum er háttað. Hann nefnir ekki heldur þróunina í menningarmálum. Það skipti ekki litlu máli á sínum tíma fyrir bókmenntir í landinu, þegar Morgunblaðið gerðist sterkur bakhjarl nýrra bókmennta sem áttu undir högg að sækja og tók upp hanzkann fyrir atómskáldin í landinu. Hafði m.a. átt samtal við Stein Steinar sem vakti þjóðarathygli. Þá var Sigurður A. Magnússon betri en enginn sem áhrifamikill gagnrýnandi og menningarfrömuður á Morgunblaðinu.
Guðjón Friðriksson hefur ekki heldur neinn áhuga á afstöðu Morgunblaðsins til stóriðju og álvers á 7. áratugnum, en um  þau mál var þá heitast deilt, ásamt fiskveiðilögsögunni. Svo að ekki sé nú talað um EFTA-aðild. Við studdum öll þessi mál af hörku, ekki endilega vegna afstöðu Sjálfstæðisflokksins, heldur vegna þess að okkur datt aldrei í hug að bregðast framtíðinni með því að ganga gegn byggingu álvers, virkjun fallvatna og aðild að EFTA. Raunar höfðum við - og þá ekki sízt vegna áhuga Eykons - forystu í stóriðjumálum. En það telst víst hvorki frjáls né óháð stefna?!
Ef við hefðum lagzt gegn þessum málum sem ég hef nú nefnt,  hefðum við ekki einungis brugðizt Sjálfstæðisflokknum, heldur íslenzku þjóðinni; velsæld hennar og framtíð. Í slíkri baráttu er hvorki hægt að vera óháður né frjáls(!)
Þá virðist Guðjón Friðriksson ekki hafa minnsta áhuga á afstöðu Morgunblaðsins til fiskveiðistjórnunar og engu líkara en hann telji gagnrýni blaðsins á Sjálfstæðisflokkinn vegna kvótabrasksins eitthvað allt annað en stjórnmál! Ég er ekki viss um nema þessi málaflokkur sé mikilvægasta pólitík landsins undanfarinn áratug eins og sjá má af skrifum okkar um þetta réttlætis- og hitamál.
Guðjón Friðriksson sýnir engin merki þess að hann hafi áhuga á því að taka fyrir ákveðna þætti þjóðmálabaráttunnar en lætur sér nægja að alhæfa, þegar hann skrifar sögu sína að niðurstöðum sem ég held að hann hafi gefið sér, áður en hann hóf þessa vegferð um íslenzka fjölmiðlun.
Kristján Karlsson sem þekkir Guðjón Friðriksson og hefur stundum talað hlýlega um hann í mín eyru gagnrýndi hann mjög, þegar hann sá um daginn af morgunblaðsfréttinni, hversu yfirborðslegan skilning hann hefur á sögu blaðsins og þróun þess frá 1959. Hann sagði við mig að Guðjón botnaði augsýnilega ekkert í þessari þróun.
En ég sagði að það væri kannski ekki að furða því að hún væri bæði flókin og kröfuhörð og margt af því sem mikilvægst hefði gerzt á þessum árum hefði farið fram bak við tjöldin og án þess hægt væri að ætlast til annarrar úttektar en þeirrar sem byggði á yfirborðsskilningi. Afstaða Morgunblaðsins í Geirfinns- og Hafskipsmálum var t.a.m. lengst af harla varfærnisleg og án allra æsinga sem svo mjög settu svip sinn á allt þjóðlífið, enda nauðsynlegt að beita morgunblaðsvaldinu af varkárni. En við þurfum ekki að taka aftur neitt af því sem þá var skrifað um þessi mál í blaðið. Oft var erfitt að sigla milli skers og báru eins og kröfurnar voru á hendur blaðinu um uppslátt og yfirlýsingar. Þær freistingar stóðumst við, hvað sem öðru líður. Það hvarflaði aldrei að okkur að kveða upp neina dóma í þessum viðkvæmu málum, en vinna að hætti hússins á þann hátt að segja einungis það sem við vissum réttast. Ólafur Jóhannesson viðhafði m.a. þau orð að Morgunblaðið gengi ekki fyrir nazisma.
Ef við morgunblaðsmenn hefðum barið bumbur með þeim hætti sem Jónas Kristjánsson gerði á Vísi sællar minningar, er ekki ólíklegt að örlög okkar Eykons sem ritstjórar Morgunblaðsins hefðu orðið hin sömu og Jónasar. Við hefðum líklega ekki kembt hærurnar á blaðinu.
Sigurður A. Magnússon dæmdi sig úr leik vegna þess hann þekkti ekki vitjunartíma okkar. En þó er það rangt sem hann heldur stundum fram sjálfur, að hann hafi verið rekinn af blaðinu. Hann kom inn til mín einn góðan veðurdag, þegar við Haraldur Sveinsson sátum á tali í skrifstofu minni og tilkynnti mér uppsögn sína, því að Erlendur Einarsson hefði ráðið hann að Samvinnunni og væri hann mjög sáttur við það og hlakkaði til að hefja þar störf. Þangað fór hann og vann þar ágætt verk, ef ég man rétt. En það önduðu margir léttar þegar hann hætti á Morgunblaðinu á þeim viðkvæmu tímum, það er rétt.
Það hefði einnig getað orðið hlutskipti mitt, enda töldu ýmsir að skáld hlyti að vera vinstrisinnað og því er ekki að neita að margir litu svo á, að ég væri einhverskonar hvítur hrafn á þingi þeirra sjálfstæðismanna sem að Morgunblaðinu stóðu. En allt hefur þetta breytzt og þróazt eins og bezt var á kosið. Og sízt af öllu höfum við ritstjórar Morgunblaðsins leikið hlutverk Trojuhestsins í því starfi sem okkur hefur verið trúað fyrir.
Nú er jafnvel talað um að Morgunblaðið sé svo sjálfstætt að það sé orðið eins konar stjórnmálaflokkur. Ritstjórarnir hafi allt of mikil völd vegna sjálfstæðis blaðsins og mikillar útbreiðslu. Stefán Eggertsson, varaformaður Árvakurs, hafði orð á þessu við Styrmi í síðustu viku. Sannleikurinn er sá að það skiptir engu máli hvaða völd menn hafa, en hitt skiptir öllu, hvernig þeir fara með sín völd.
Lýðræði Morgunblaðsins birtist á síðum þess dag hvern. Það er hið mikla lýðræðislega torg íslenzkrar samtíðar og ástæðulaust að hafa áhyggur af því, þótt hörðu frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum ráði þar engu. Morgunblaðinu hentar sveigjanleg frjálshyggja sem er ekki sízt fólgin í varðstöðu fyrir fólkið í landinu og velferðarkerfið, menningu okkar og arfleifð, en þó umfram allt réttlæti og siðgæði sem ætti að taka til auðlindarinnar, ekki síður en annarra þátta þjóðfélagsins. Það er ekki sízt vegna skoðana minna á þessum efnum sem ég lagði höfuðáherzlu á það, ásamt Haraldi Sveinssyni, á sínum tíma að Styrmir Gunnarsson tæki við ritstjórastarfi á blaðinu. Honum hef ég getað treyst fyrir þessari stefnu, enda hefur samstarf okkar verið með ágætum og svipuðum hætti og samstarf okkar Eykons á sínum tíma. Það hefur ekki sízt verið blaðinu dýrmætt og skilað sér í góðum árangri. Styrmir var einn af sextíumenningunum sem vildu loka kanasjónvarpinu. Það var ekki sízt þessi afstaða hans sem var mér þóknanleg og olli því að ég treysti honum, þótt ég gæti ekki sjálfur sem ritstjóri Morgunblaðsins skrifað undir með sextíumenningunum. Það var ofur viðkvæmt mál og fjöldi morgunblaðsmanna andsnúnir lokuninni, þótt aðrir væru henni samþykkir. Bjarni var á móti lokun, en ég hafði mikið samband við Gylfa Þ. Gíslason út af þessu vandræðamáli og vorum við sammála um lausnina: að lokun ætti að flýta stofnun íslenzks sjónvarps. Það varð úr. Ég skrifaði um málið í Morgunblaðið og Bjarni gagnrýndi skrif mín. En Styrmir segir að þau hafi verið hálfvelgja. Ég er því ósammála. Ég gekk eins langt og ritstjóra Morgunblaðsins var óhætt á þeim tíma og við þær aðstæður sem þá ríktu í þjóðfélaginu.
Sigurður Bjarnason hætti á Morgunblaðinu 1970 og Eykon fjórum árum síðar, en þá var Styrmir orðinn ritstjóri. Sigurður var síðasti starfandi ritstjóri Morgunblaðsins sem sat á þingi. Eykon hætti þegar hann var kjörinn á þing. Það er því enn ein villukenningin í fyrirlestri Guðjóns Friðrikssonar, þegar hann segir: “Það sem þvældist fyrir þróuninni til sjálfstæðis á Morgunblaðinu var það að sumir ritstjórar blaðsins eða stórir hluthafar í Árvakri voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins  allt fram yfir 1980”.
Hvaða sumir ritstjórar?
Engir.
Og hvaða “stórir hluthafar í Árvakri”?
Enginn nema Geir, en hann var í senn brjóstvörn okkar og bakhjarl í þeirri löngu baráttu sem ég hef verið að reyna að tíunda hér. Hann var í senn aðhaldssamur og frjálslyndur vinur.
Ég sagði einhvern tíma við hann,
Geir, þú ert frjálslyndasti foringi Sjálfstæðisflokksins sem ég hef starfað með.
Hann svaraði,
En hvers vegna segirðu þetta aldrei á prenti?
Það skilar sér þegar þar að kemur, sagði ég.
Þá brosti Geir.
Mér er nær að halda að þessa hafi verið getið í minningargrein sem ég skrifaði um hann að honum látnum.
En Guðjón Friðriksson tekur ekkert mark á því.

 

2. júní, mánudagur

Ég hef áður fjallað eitthvað um fréttastofu Stöðvar 1 hér á þessum minnisblöðum, það var út af máli Vélsteins Ólasonar, ef ég man rétt. Ég tel að fréttastofa Sjónvarpsins hafi þá misstigið sig og gert sig seka um að nota “fráhvarf” til að koma höggi á háskólakennara í kosningabaráttu. Í raun er það svo að það er varla unnt að taka þátt í fréttasamtölum á sjónvarpsstöðvunum vegna þess hvernig þau eru skorin niður og enda einatt sem þrælritskoðað efni. Ég lenti í þessu á Stöð 2 einhvern tíma í vor eða vetur þegar ég var spurður um Mál og menningu. Þá var samtali við mig skorið niður með þeim hætti að það munaði litlu að ég væri þarna í sjónvarpinu eins og hvert annað flón. Sjónvarpsstöðvarnar skera niður eins og þeim sýnist. Þær ganga stundum svo nærri fólki í þessari ritskoðun að menn geta þakkað guði fyrir að koma heilskinnaðir út úr þessu yfirborðslega skvaldri. Þannig segir Kjartan Sigurjónsson organisti í Seljakirkju og formaður Félags íslenzkra organleikara í grein í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag, Ráðgjöf í orgelkaupum, og er það síðasta dæmið sem ég þekki um þessa ritskoðun - að ríkissjónarpið hafi birt frétt í seinni fréttatíma 26. maí sl “af ástæðum mér ókunnugum” - og sagt m.a.: “Talsverðar deilur hafa staðið um starfssvið nefndarinnar að undanförnu milli félagsins og söngmálastjóra, sem hefur sagt sig úr orgelnefndinni”.
Og Kjartan heldur áfram:
“Með því að ég kannaðist ekki við neinar slíkar deilur milli félagsins og söngmálastjóra hafði ég samband við fréttastjóra sjónvarps sem bauðst til að láta hafa við mig viðtal í ellefufréttum 27. maí sl. Ég þáði þetta og taldi mig hafa komið öllum leiðréttingum að, en brá heldur en ekki í brún þegar ég heyrði útsendinguna.
Var þá sem sé búið að klippa allt burt sem máli skipti en eftir stóð samhengislaust snakk sem lítið þjónaði tilgangi viðtalsins”.
Svo mörg voru þau orð.

----

Í síðustu ímyndarkönnun kom Morgunblaðið út úr öllum atriðum af mikilli reisn. En þó hefði mátt vera minna bil á milli útvarpsins og Morgunblaðsins þegar spurt var um trúverðugheit frétta. Mig minnir að 93% hafi talið RÚV trúverðugast en 77 eða 78%  Morgunblaðið sem kom næst á eftir Útvarpinu. Með tilliti til þeirra dæma sem ég hef fylgzt með af mikilli furðu er ég þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið eigi ekki þessa einkunn skilið, þótt það standi sig oft vel. Fjölmiðill sem streitist gegn því að menn fái leiðréttingu orða sinna vafningalaust stendur ekki undir 93% að mínum dómi.
Mikilvægasta boðorð blaðamennskunnar er góð umgengni og sanngjörn við annað fólk, tillitssemi og mannúðleg afstaða. Þessu boðorði nátengt er svo það boðorð að menn fái vafningalaust að leiðrétta það sem hefur verið ranglega hermt í fréttum.

Kvöldið

Orti nokkur ljóð á göngu í góða veðrinu.

Tíminn er

söknuður

Hann horfði á vatnið
og augun sóttu
æsku hans
inní gjálpandi
þögn.

 

Hugsun kemur þegar "hún"

vill en ekki þegar "ég" vil.

Nietzsche : Handan góðs og ills

Við ráðum ekki
hvenær við hugsum (ekki
alltaf) , ráðum ekki
hvað við hugsum (ekki
alltaf) , hugsunin er fluga
sem kviknar af minnsta
tilefni, hugsunin
suðar og deyr inní kyrláta
ljósfælna þögn
þegar nýjar hugsanir
kvikna af engu
tilefni.

Stundum er hugsunin ekki
fluga heldur kría
sem stendur kyrr í loftinu
með þanda vængi
og bíður eftir hornsíli.

 

Mý á vatni

Þeir eru fjórir
í vatninu, kasta flugu,
það vakir enginn fiskur, liggur
við þeir sofni
með suðandi mý
við andlitið, þeir
drepa mýið eins og fiskurinn
sem nú vakir á hvítum
himni í vatninu.

Þannig sér hann
æsku sína
gegnum smáriðið net
andlitslausra daga.

 

Endurskin

Það er skýjað.
Það er gul birta
bakvið skýin.
Glámsaugnalaust
hverfur tunglið
í gula birtu , holar
tóttir, beraður tanngarður

stirðnað bros.

Hægt hverfur tunglgul
hauskúpa
í föla geisla
deyjandi sólar.

 

Grænt hús

Húsið er grænt
eins og slýlyktin,

það er flaggað.

Þannig minnist hann
æsku sinnar.

Það var fallegt

að þjást

Þórbergur : Íslenzkur aðall

Við erum flugur á fíflavængjum
og finnum til þess í golu og sól
og tilveran er þá ekkert annað
en einskonar suð á gulum hól.

Og af því leiðir að einnig guð
er óséð fluga við blómið sitt
og fylgist með því ef einhver ætlar
í óleyfi að gera hitt.

 

Hús í Skerjafirði

Það er hvítt hús
í Skerjafirði,með
svölum og svörtu þaki, reist
1930.

Það er farið að flagna
að utan.

Það eigum við einnig
sameiginlegt.

 

Frá sjónarhorni

frosksins

Nietzsche : Handan góðs og ills

Það er mikið af dauðum
trjám í garðinum, segir
hún,fá lifandi.

Hér bjuggu ung
hjón sem misstu son sinn
í vatnið, hann var fimm
ára.

Þá voru engin tré.
Þá voru engin dauð tré
í garðinum.

En nú er húsið yfirgefinn
tími,
umvafið dauðum trjám
og kalgráum greinum,

en engin tíðindi frá sjónarhorni
frosksins.

Í Fossvogi

Greinar trjánna eru orgelpípur og ég hlusta á kvöldgrænan söng þrastanna, held svo áfram göngunni með hlýrri golu sem strýkur hvítan Fossvog handmjúkum fingrum. Í grasinu ofan við fjöruna þar sem blikinn kúrir á klapparlúnum jökulklettum, hitti ég þröst sem stóð þar að snæðingi, lífsreyndan að því er virtist, og sagði við hann, Þú ert fallegur þröstur, svona eiga þrestir að vera, en hann skáblíndi uppá mig og kinkaði kolli, Skilaðu kveðju minni til hinna dauðu, sagði ég enn, og þá viðraði hann vængina og hvarf að grenitrjánum í garðinum.
Þetta var góður konsert, þótt hann hafi ekki verið auglýstur.

Hef einnig verið að lagafæra söguna mína, en hún hefur ekki hlotið endanlegt nafn ennþá. Held að Rómferilsljóðin fari vel í henni á sínum stað. Nietzsche vissi sannarlega hvað hann söng þegar hann segir í Handan góðs og ills: “Skáldin eru blygðunarlaus gagnvart eigin reynslu: þau sjúga úr henni allan merg. (161).”
Hann segir margt athyglisvert í þessu riti sínu eins og öðrum. Þessi afgreiðsla hans á mergðinni er íhugunarverð: “Vitfirringin er fátíð hjá einstaklingum - en hjá hópum, flokkum, þjóðum og tíðaröndum er hún regla (156).”
Og með þetta í huga ættu menn frekar að skrifa ævisögu sína í þeim anda að hún sé skáldskapur og sannindi, en ekki einungis sagnfræði: ““Þetta gerði ég,” segir minni mitt. ”Þetta hef ég ekki getað gert, “segir stolt mitt og lætur engan bilbug á sér finna. Að lokum gefur minnið sig (68).”
Þetta mættu ekki sízt stjórnmálamenn muna þegar þeir endurskrifa söguna í æviminningum sínum. Ég hef reynt að hafa þetta í huga í þessum minnispunktum mínum og ef eitthvað er ranglega bókfært, þá er það ekki vegna þess að stoltið hefur kúgað minnið, heldur einfaldlega vegna þess að ég vissi ekki betur.

 

Ódagssett

Sigurbjörn Einarsson byskup sagði við mig þegar við hittumst um daginn í stúdentsveizlu,
Þú ert alltaf að skrifa um Njálu.
Já, sagði ég.
Og þú ert að eigna Sturlu Þórðarsyni Njálu.
Já, sagði ég, hefurðu eitthvað á móti því?
Þú ert kominn langleiðina með það, anzaði sr. Sigurbjörn, en ég veðja á Brand byskup.
Ég er ekkert hissa á því, sagði ég. Að Sturlu frátöldum, er Brandur byskup líklegasti höfundur sögunnar þeirra manna sem við þekkjum; höfundur Hrafnkötlu og snilldarljóðaþýðandi.

Þá brosti Sigurbjörn byskup.

11. júní, miðvikudagur

Höfum nú verið hér í Toronto í tvo daga eftir ágæta ferð frá Boston um Niagara þar sem við gistum. Þetta er í annað sinn sem ég hef komið til Niagara. Í fyrra skiptið var ég með skólafélögum mínum í Háskóla Íslands eins og ég hef nefnt einhvern tíma áður. Það var sumarið 1954. Þá var Halli nýfæddur. Ég var orðinn faðir, ég mátti ekki deyja. Ég varð að komast heim eftir áfallalausa ferð og taka til hendinni í nýju hlutverki. En mér fannst ég aldrei mundu komast heim aftur. Það var svo hræðilega langt heim. Við vorum þrettán klukkutíma frá Keflavík til New York, ágæt ferð að vísu en heldur lengri en inn í eilífðina, fannst mér þá. Þetta olli mér hugarangri sem ég gat ekki losnað við og hefur raunað loðað við mig alla tíð.

Ástarbréfin til Hönnu voru með þeim hætti að sólin var eins og kulnaður íshnöttur miðað við þau! Kannski á hún þau enn, ég veit það ekki.

Þessi ferð var bæði fróðleg og eftirminnileg. Hún var dýrmæt - og raunar dýrkeypt - reynsla sem ég hefði ekki viljað vera án. En sem sagt, þá komum við til Niagara á leiðinni frá Minneapolis þar sem við vorum í skjóli Valdimars Björnssonar og konu hans. Það var gott skjól. Þegar við komum á brautarpallinn í Minneapolis eftir næturferð frá Omaha í Nebraska stóð Valdimar fjármálaráðherra fylkisins á stöðvarpallinum og fagnaði okkur. Mig minnir að klukkan hafi verið sjö að morgni. Það var eftirminnilegt að fylgjast með honum á kosningaferðalögum um Manitoba-fylki. Þá hittum við m.a. helzta keppinaut hans, Humphray, sem sóttist síðar eftir forsetaframboði, en náði ekki síðasta áfanganum. Hann átti teyminginn eftir að Hvíta húsinu. En hann var sérstæður stjórnmálamaður, að ég held, og ekki bara eitthvert fjölmiðlafrík eins og nú er algengt um stjórnmálamenn. Hann dó úr krabbameini á bezta aldri. Tímarnir kalla á forystumenn. Í kalda stríðinu voru merkilegri stjórnmálamenn kallaðir fram á sviðið en nú.
Það var skrítið að koma til Niagara. Fossarnir eins og í minningunni, ekkert hafði breyzt. Þarna blasti við mér eilífðin með öllu, eins og nú væri sagt. Þó var ein breyting, aðeins ein. Matthías nafni minn og sonarsonur var ekki fæddur þegar ég var hér á ferð síðast, ekki heldur kærasta hans Saga Ómarsdóttir sem er með okkur í ferðinni. Og nú horfi ég á fossana, hlusta á þennan eilífa nið af tíma sem er ekki til, og Hanna við hlið mér. Ég veit ekki hvað ég hefði viljað gefa til þess að hún hefði verið þarna með mér 1954, en það koma ekki allir dagar í böggli eins og gamla fólkið segir. Samt finnst mér líf okkar eins og í böggli. Og þó, ætli það bögglist ekki fyrir okkur á stundum, þótt það renni áfram eins og þetta vatn. Niði og falli af flúðum og fossum; sporlaust eins og vatnið.
Og nú erum við komin til Toronto. Þegar ég var drengur á Hávallagötu lék ég mér mest við tvo vestur-íslenzka stráka, dóttursyni séra Friðriks í Dómkirkjunni Friðrikssonar. Við vorum miklir vinir og engir hjóluðu meira um götur Reykjavíkur en við. Við seldum eplakökur í bröggunum og eltumst við styrjöldina. Sú reynsla hefur fylgt mér alla tíð. Bræðurnir heita Freddy og Bobby, Freddy er eldri. Hann gerðist prestur í Kanada og hefur nú flutzt til Ástralíu þar sem hann er giftur öðru sinni. Bobby er víst fornsali hér í Toronto, ég veit það þó ekki. Móðir þeirra giftist  kaptein Fotry sem var yfirmaður í kanadíska hernum á Íslandi. Hún var ágæt kona og dugnaðarforkur. Hún bakaði eplakökurnar. Freddy var tilfinningasamur og röskur. Bobby bjó yfir stóískri ró sem átti engan sinn líka. Þegar við vorum einhverju sinni teknir fyrir strákapör og lögreglan flutti okkur á stöðina var Bobby með vekjaraklukku inná sér vegna þess að hann átti að taka tímann, þegar við reyndum okkur í hlaupum. Á leiðinni niður í lögreglustöð hringdi klukkan. Lögreglan hrökk í harðan kút og hélt að nú væru spellvirkjarnir að leika á yfirvöldin. En allt var þetta vegna þess að Bobby hugsaði ekki um klukkuna, fyrir honum var enginn tími til í raun og veru. Hann var sjálfur einhvers konar eilífð og ég veit af honum sem slíkum, þótt ég reikni ekki með því að ég mundi þekkja hann, ef ég hitti hann nú. Það var gott að hafa slíka eilífið á næstu grösum í miðjum hildarleik styrjaldarinnar. Móður minni þótti Bobby sérstaklega skemmtilegur vegna þess það datt aldrei af honum eða draup. Hún hló þegar hún heyrði söguna af vekjaraklukkunni. Aðeins einu sinni sá ég Bobby bregða, það var þegar Ellen móðursystir hans kom með yfirmann á skotapilsi í heimsókn og þau hurfu inn í rómantíska umgjörð kommúnunnar í Hávallagötu 44. Þá held ég að Bobby hafi ekki alveg litizt á blikuna.
Ég veit ekki hvort Bobby býr hér í Toronto. Ætla ekki að leita hann uppi. Liðið er liðið og bezt að láta það eiga sig. Milli mín og Bobbys eru nú tveir mannsaldrar eins og þeir voru mældir fyrir kreppuna. Freddy hefur komið til Íslands annað slagið svo við þekkjumst vel. En það hvarflar ekki að mér að reyna að kynnast Bobby aftur því hann hvarf úr lífi mínu um það bil sem styrjöldinni lauk. Hann er góð minning, ágæt en einungis minning. Og enginn skyldi lifa minningar sínar ef honum býðst áþreifanlegur og blæbrigðaríkur veruleiki þeirra andartaka sem við erum sífellt að upplifa með öðrum hætti en áður. Og þó eru þessi andartök einungis tilbrigði við aðra reynslu.
Ég var að lesa tvo kanadíska höfunda áður en ég kom hingað, Atwood og Munro. Þær eru framúrskarandi höfudar báðar tvær en þó einkum sérstæðar. Ég var farinn að kynnast Toronto af bók Atwoods The Cat’s Eye. Borgin er höfuðpersóna sögunnar enda er hún augsýnilega byggð á æskuminningum skáldkonunnar. Ég er nú að lesa sögu eftir Munro sem einnig á rætur í Toronto. Hún heitir White Dump.
Bókmenntahátíðin hér hefur gengið ágætlega. Ég er að vísu dálítið hissa á því hvað norrænir skáldsagnahöfundar fjalla mikið um efni sem er okkur fjarlægt og ónákomið. Einn þeirra las úr sögu sinni sem gerist í Asíu og á rætur í Tíbet. Íslenzkir skáldsagnahöfundar fjalla oftast um umhverfi sitt, það líkar mér vel. Einar Kárason skemmti fólki í gærkvöldi með gamansögu sem hann birti að ég held í Lesbók á sínum tíma og fjallar um þjóf sem tekur öllum fram; einkum í búðarhnupli. Einar Már Guðmundsson les í kvöld. Þetta eru hressir strákar og ég kann vel við þá. Einar sagði að engin bók hefði verið þýdd eftir sig á ensku og hann væri því með öllu óþekktur þar sem engilsaxneska væri allsráðandi.             
Ég sagði við hann, Þú ert þá í flokki með Kiljan og Hamsun! Þá brosti Einar og Hildur kona hans sagði, Hann getur þá vel við unað.
Við Einar Már vorum saman í Almenna bókafélaginu á sínum tíma. Hann kallar okkur AB-höfunda. Hann segist vera runninn úr kommúnistísku umhverfi og það er augljóst að hann vinnur mikið úr þessu umhverfi sínu inn í skáldsögurnar. Hann sagði okkur margt af Alla spánarfara sem hann er að skrifa inn í nýja skáldsögu. Mig minnir að hann hafi fengið efniviðinn hjá föðurbróður sínum sem þekkti Alla vel en hann dó fyrir mörgum árum. Ég vissi bara deili á Vernharði spánarfara, en Einar Már segir að hann hafi aldrei farið til Spánar. Vernharður hafi logið því. Það finnst mér skemmtileg uppákoma að ljúga upp á sig utanlandsför. En Vernharður hefur líklega viljað vera hetja og hann sagði sögur úr Spánarstyrjöldinni. Ein þeirra fjallar um það að hann stóð fyrir framan aftökusveit eins og Dostojevski á sínum tíma. Og þar sem hann stóð fyrir dómstóli allra tíma, sagði hann einhverja setningu sem ég man ekki hvur er, en hún varð til þess að aftökusveitin hætti við að taka hann af lífi. Mig minnir hann hafi ávarpað þá á íslenzku, það væri eftir öðru!
Einar Már er að verða afi og hann gengst mjög upp í því. Hann er vinalegur maður og milli okkar hefur ævinlega verið hlýtt handtak. Hann les í kvöld og ég efast ekki um að hann verði landi og þjóð til sóma á þessum fjarlægu slóðum. Báðir þessir rithöfundar leggja mikla vinnu í undirbúning að skáldsögum sínum. Þeir eru duglegir og vinna stundum eins og blaðamenn, eltast við heimildir, vinna úr hráefni. Einar Kárason lýsti þessu skemmtilega áður en hann las upp í gærkvöldi, hvernig hann eltist við konu sem hann hugðist nota sem sagnapersónu og hitti hana að lokum hér vestanhafs.
Einar Már er nú að vinna skáldsögu úr arfsögum úr umhverfi sínu. Það finnst mér uppörvandi. Menn eiga að fást við það sem stendur þeim næst, skrifa um það sem þeir þekkja.
Það er engu líkara en Munro þekki umhverfi fornrar íslenzkrar skáldskaparlistar. Fyrrnefndri sögu sinni lýkur hún með skírskotun í Eddu. Sögupersónan Sofia hefur mest dálæti á þessari gömlu íslenzku bók “sem hún las öll sumur, en hafði vanrækt vegna þeirra krafna sem sjónvarpið gerði”. Og sögu Munros lýkur með því að önnur persóna, Ísabella, tekur upp þessa bók sem Sofia skilur eftir í hægindastól, opnar hana og les þetta vers:
Seinat er at segia;
svá er nu rádit.

Ég hrökk við þegar ég sá þetta í sögu eftir kanadíska skáldkonu. Hún er ekkert blávatn, þessi kona, hugsaði ég með mér, minnir á Borges sem hafði fornan íslenskan skáldskap á hraðbergi og skírskotaði í hann hvenær sem honum sýndist.  Honum hefði líkað vel að ljúka sögu með þessum hætti. Skyldi Munro þekkja Borges og verk hans? Skáldskapur flýgur á ósýnilegum vængjum og endurnýjast eins og jörðin.

Nei, Thor Vilhjálmsson kemur ekki þótt svo hafi verið ráðið. Mér skilst hann hafi veikzt. Hanna vissi fyrir nokkrum dögum að Thor mundi ekki koma. Þá bauð mér í grun að enn væru draumfarir hennar vísbending um það sem yrði. Hún sagði mér einn morguninn að sig hefði dreymt Thor þar sem hann staulaðist milli tveggja manna og átti erfitt með gang. Margrét var þar skammt frá. Hún sagði við Hönnu í draumnum, Hann á ekki eftir að fara fleiri ferðir.
Þetta er ekki góður draumur. Og nafn Margrétar er afleitt í þessari stöðu.
Það hefði verið gaman að vera hér með Thor í nokkra daga. Okkur hefur alltaf komið vel saman, ágætlega. Milli okkar varð góð vinátta þegar í upphafi. Og á hana hefur mér vitanlega aldrei fallið skuggi. Hann segir að nafn sitt hafi fyrst verið nefnt í Morgunblaðinu fyrir mitt tilstilli, ég veit það ekki. Hann átti svo sem ekki upp á pallborðið hjá Morgunblaðsmönnum á sínum tíma. Ég held hann hafi æ síðan verið nokkurn veginn sáttur við blaðið, hvað sem öllum uppákomum og pólitísku argaþrasi líður. Thor er sérstæður höfundur, hann á sinn eigin tón. Það er kannski mikilvægast af öllu. En nú er Thor víðsfjarri og senn verðum við öll í eilífri fjarlægð frá verkum okkar. Hver veit nema þau eignist þá nýtt líf? Það hlýtur að vera óþolandi fyrir þessi verk að hafa stórkallalega höfunda ævinlega í næsta nágrenni við sig. Ég tala nú ekki um ef þeir eru sínkt og heilagt að krefjast meiri athygli en verkin eiga skilið!

Kvöldið

Við búum í hótelinu Westin Harbour Castle sem stendur hér niður við Ontario-vatn. Við erum á 18. hæð. Við blasir 25 hæða hús í næsta nágrenni. Þar er maður í reipum að þvo gluggana og lætur sig síga niður hæð af hæð og er eins og fugl eða eitthvert manndýr sem veit ekki af lofthræðslu og svífur milli himins og jarðar eins og ekkert sé. Þvær gluggana og er áreiðanlega á minni launum en fólkið í örygginu innan dyra. Ég hef verið að horfa á þennan mann sem situr á þessu bretti í köðlunum með svartan hött og þvær rúðurnar. Lætur sig síga niður á jörðina og fer svo aftur upp á þak til að festa kaðlana, mjakar sér framaf, sezt og hefur störf á ný. Mér finnst mikið til Niagara-fossa koma. En þegar ég sé þennan mann, þessa litlu flugu í mannsmynd, skil ég loks séra Matthías þegar hann segir andspænis Goðafossi:

Finnst mér meir ef falla
fáein ungbarns tár.

Ég hef dáðst að Everestförum. Það er mikið afrek að ganga á hæsta fjall heims. En ég skil að það sé hægt. Hitt skil ég ekki hvernig hægt er að hanga í köðlum á 25. hæð og þvo glugga eins og ekkert sé.
Allt er afstætt.

Nú sé ég í öðru ljósi en áður þegar menn klífa Everest. Maðurinn þarna í köðlunum hefur breytt afstöðu minni. Hann er ófrægur með öllu. Það þekkir hann enginn. En hans daglega brauð er afrek sem ég gæti ekki leikið eftir.
Aldrei.
Gæti aldrei skilið.
Ég skil þó að það sé hægt að klífa Everest.

 

 

13. júní, föstudagur

Las upp í gærkvöldi. Fullur salur. Gekk ágætlega. Hef átt samtöl við Toronto Star og Ottawa Citisen. Einnig samtal í kanadíska útvarpið. Öllu lokið. Joe Allard las með mér í gærkvöldi úr nýjum þýðingum sínum á ljóðum mínum. Skemmtilegt að fá þessar nýju þýðingar hans og Bernards Scudders á ljóðum mínum, auk kvæða Kristjáns Karlssonar, í bókinni Voices from across the Water. Ég get ekki sagt annað en viðtökur hafi verið mjög góðar og miklu fargi sé af mér létt. Við förum áleiðis til Boston í fyrramálið.
Í dag voru þrumur og eldingar. Það gerði ekkert til. Við höfðum ekkert sérstakt fyrir starfi. Er með hugann við Ingó. Hann flýgur til Edinborgar á fund prófessors síns í kvöld, að mér skilst. Vona að það gangi allt vel.
Styrmir hringdi. Guðmundur Jaki er látinn. Hann varð bráðkvaddur í Flórída.
Ömurlegt.
Ég man eftir Jakanum ungum manni. Hann var verkóbísi eins og við kölluðum strákana í verkamannabústöðunum við Ásvallagötu og Hringbraut. Ósköp meinlaus alltaf og fyrirferðalítill þótt ekki vantaði hann stærðina. Hann var alvöruverkalýðsforingi, hann kom úr þannig umhverfi. Minnir mig á það sem sænska skáldið Stig Larsson sagði við mig um daginn; að hann væri á móti sænskum vinstrimönnum. Ég spurði um ástæðuna.
Ég er kominn af verkafólki, sagði hann, þetta eru eintómir hvítflibbar.  Forystumenn í verkalýðshreyfingunni eru iðulega uppdubbuð yfirstétt, án tengsla við verkafólk og launþega.
Larsson er sérkennilegur maður. Hann segist vera hálfgalinn fíkill. Hann segist skrifa í vímu. Hann er vel að sér og kann skil á mörgu. Ég held hann hafi áhuga á Íslandi, það hafa fleiri hér; ekki sízt Norðmennirnir. Það eru margir góðir norrænir rithöfundar á þessari hátíð. Hef kynnzt sumum þeirra nokkuð vel. Líkar ágætlega við þá. Það er samkeppni milli þeirra sumra, einhver klíkustarfsemi. Norðmönnunum líkar illa við Larsson. Telja hann einhvers konar fíkniefnaflak. Las síðustu ljóðabókina hans í fyrrakvöld. Hún er nákvæmlega eins og hann sjálfur. Hann er módernisti að því leyti að hann skrifar allt sem honum dettur í hug. Hann talar vel um Tómas Tranströmer og Per Olov Sundman sem nú er dáinn, en við vorum miklir mátar á sínum tíma. Larsson segir að hann sé vanmetinn í Svíþjóð; jafnvel nú ásakaður um razisma í stríðinu. Hann talar einnig vel um Olov Lagerkranz. Illa um ýmsa aðra. Hann yrkir eins og hann er sjálfur. Hugmyndirnar flæða hömlulítið eins og þegar hann talar.  Mér er sagt að hann sé talinn eitt helzta skáld Svía nú um stundir.
Mér líkar vel við Einar Kárason og Einar Má Guðmundsson sem nú er farinn heim til Íslands. Hann las kafla úr síðustu skáldsögunni sinni. Kaflinn fjallar um pilta af Kleppi sem fara á veitingahús. Ég hafði heyrt Einar lesa þennan kafla áður á íslenzku. Nú hef ég einnig heyrt hann á ensku. Þessi kafli í bókinni er eins og smásaga. Gæti staðið einn sér. Einar Kárason segir mér að nafni hans Már sé eins og nýr maður eftir að hann skrifaði þessa skáldsögu um geðveiki bróður síns. Hann er þeirrar skoðunar að hún hafi hvílt eins og þungt farg á honum alla tíð frá því bróðir hans veiktist. Hann var eldri en Einar sem var í menntaskóla, þegar þessi ósköp dundu yfir. Þá varð Einar Már bitur og lokaði sig af.
Effata! sagði Kristur við málleysingjann.,þ.e. opnist þú!
Og hann opnaðist.
Nú er  Einar Már einnig opinn , glaðvær og vinalegur. Það er Einar Kárason einnig. Hef gaman af að tala við hann. Honum þykir Rushtie leiðinlegur skáldsagnahöfundur.
Einnig Kundera!

Síðdegis

Það hefur stytt upp. Toronto er skemmtileg borg þegar birtir. Það er allt skemmtilegt þegar glaðnar til.

Kvöldið

Ég þykist hafa fundið út hvers vegna Veröld Sofiu hefur orðið metsölubók um allan heim. Það er vegna þess að konur líta á hana sem kvennabókmenntir. Ef bókin hefði heitið Heimur Péturs og umfjöllunin verið um ungan dreng hefði hún ekki orðið sú metsölubók sem raun ber vitni. Af hverju segi ég þetta? Jú, einfaldlega vegna þess að tuttugu, þrjátíu konur þyrptust að Jostein Gaarder þegar við höfðum lesið upp og báðu hann um að árita bókina fyrir sig. Sumar komu með sín gömlu eintök. Ég sá ekki einn einasta karlmann í þessum hópi. Það vakti undrun mína. Sá sem ætlar að sigra heiminn, verður fyrst að sigra kvenfólkið. Það hefur meiri áhuga á vissum bókum en karlarnir. Það komu einnig nokkuð margar konur til mín að lestri loknum og þökkuðu mér fyrir. Sumar notuðu stór orð, einnig nokkrir karlar; guði sé lof! Ég áritaði tíu, tólf bækur og síðan gengum við með Sveini Einarssyni sem þarna var viðstaddur upp á hótel, slöppuðum af og fengum okkur bjór. Sveinn sýnir okkur Hönnu ævinlega mikla hlýju. Mér þykir mikið til um vináttu hans. Hann er menningarmaður fram í fingurgóma og drengur góður. Hann sagði að framlag mitt um kvöldið hefði verið glæsilegt. Ég tek mark á því. Hann talar ekki um hug sér og ummæli hans - og skáldfélaga minna - glöddu mig mjög.
Þetta var hápunkturinn, sagði sænska skáldið Ernst Brunner, ég beygi höfuð mitt(!) Thorvald Steen og norski kollegi hans Roy Jacobsen töluðu í sama dúr; svo og danska ljóðskáldið Søren Ulrik Thomsen sem las með okkur í New York á sínum tíma; vinalegur maður, en hlédrægur. Danska skáldið Sven Åge Madsen þakkaði mér einnig sérstaklega og finnska skáldið Lassi Numi sem ég kynntist fyrir 27 árum heima í Reykjavík. Þá var hann formaður finnska rithöfundarsambandsins en ég formaður Norræna rithöfundaráðsins. Hann er gott skáld. Mér þótti einnig vænt um að Jostein Gaarder hafði stór orð um upplestur minn. Hann getur verið örlátur, þrátt fyrir frægðina(!)

Á upplestrinum í kvöld kom Ísland fyrir bæði í texta Stig Larssons og Søren Ulrik Thomsens. Gríska-sænska skáldið Theodor Kallifaties las úr skáldsögu sem gerist í Grikklandi. Það eru fyndnir sprettir í henni og minntu mig á lýsingar í Don Camillo, ítalskri sögu sem Andrés Björnsson þýddi á sínum tíma og las sem framhaldssögu í útvarp. Þar var kommúnistinn í hlutverki þýzka nazistaforingjans í sögu Kallifaties.

 

18. júní, miðvikudagur

Komum heim frá Boston í morgun. Ágætt flug en dálítil ókyrrð yfir Labrador. Mér líkar illa öll ókyrrð í lofti. Tek henni þó betur en áður. Yfir Íslandi lá þykk skýbreiða, grá og ógagnsæ eins og íslenzka öfundin.
Þetta var góð ferð og eftirminnileg í alla staði. Viðtökur framúrskarandi í Toronto. Matthías H. ók prýðilega. Allt slysalaust. Sváfum í mótelum á leiðinni fram og til baka, bæði í Niagara og Springfield. Vorum á Radisson-hóteli í Niagara en Holiday Inn í bakaleiðinni. Vorum á Colonnade-hóteli í Boston, frábært. Kynntumst Boston betur en áður. Sigldum um Charles-ána, sá þá að víkingamyndir eru á Longfellow-brúnni. Það segir sína sögu. Minnti á það sem þeir sögðu okkur þegar við bjuggum í Cambridge 1966, að víkingar hefðu siglt upp Charles-fljótið. Ummerki væru eftir þá á þeim slóðum. Má vera, ég veit það ekki. En þeir vilja að svo hafi verið. Skrifaði eitthvað frá þessari ferð okkar 1966 í Ferðarispur, en man ekki hvað það var. Nenni ekki að gá að því. Held þar sé minnzt á Longfellow og áhuga hans á menningu norrænna manna, einnig Norumbega og líklega sitthvað fleira. Tók þá góða mynd af Leifsstyttunni á Commenvalth-Avenue.
Í gær heimsóttum við Isabellu Halsted sem við bjuggum hjá sumarið 1966. Hún er jafn hress og áður, stórmerk kona. Hún varð níræð í maí. Hún tók okkur afar vel og minntist liðinna daga fyrir 30 árum. Við þurftum að leita að húsinu hennar, Memorial Drive 998, en fundum ekki í fyrstu. Matthías H. var þrautseigur. Hann gafst ekki upp fyrr en við fundum húsið. Það stendur við sjö hæða blokk sem var þar ekki fyrir 30 árum. Þessi leit minnti mig á minninguna. Hún týnist í undirvitundinni en svo skýtur hún upp kollinum þegar við leitum hennar. Þá birtist hún okkur óbreytt að  öðru leyti en því að bak við hús minninganna er risin heil blokk. Nýtt fólk komið til sögunnar; fólk sem við þekkjum ekki.
Hanna skoðaði þessar gömlu vistarverur okkar og mér fannst hún yngjast um 30 ár. Samt hefur hún ekkert elzt.
Það var skemmtilegt að upplifa þessar endurminningar. Allt óbreytt, jafnvel Isabella Halsted þrátt fyrir árin nítíu.
Já, sagði hún, hér er allt eins og var þegar þið bjugguð hérna þennan mánuð 1966, nema það hefur verið bætt við drasli!
Hún er ekki mikil húsmóðir en gáfuð kona og einhvers konar hugsuður. Hún er dæmigerður fulltrúi þeirrar yfirstéttar sem hefur varpað ljóma á Nýja-England. Þegar við vorum hjá henni 1966 fáraðist hún yfir Víetnam-stríðinu og sagði að það væri með ólíkindum að bandaríska þjóðin hefði kosið yfir sig villimann frá Texas - og átti þá við Lyndon B. Johnson! Ég minnti hana á þessi orð. Hún brosti. Margt hefur breytzt; kannski allt, nema húsið sem er minningin sjálf.
Isabella Halsted var gift lækni, en hann kom úr stríðínu gjörbreyttur maður eins og hún segir sjálf. Og þau skildu. Síðan giftist maður hennar dóttur Franklins D. Roosvelts. Þegar hún lézt hafði hann samband við hana aftur og þau áttu yndislegt haust saman, eins og hún komst að orði. Faðir hennar var þekktur málari í Nýja-Englandi. Hann málaði mynd af Calvin Coolidge (1872-1933), 30. forseta Bandaríkjanna (1923-1929). Hann var síðasti forseti Bandaríkjanna fyrir kreppuna 1929. Faðir Isabellu spurði hann eitt sinn, hvernig honum hefði litizt á blikuna, þegar hann að morgni dags vaknaði upp við það að hann væri orðinn forseti Bandaríkjanna. Coolidge svaraði,
I’ll swing it!; þ.e. það bjargast! Annað sagði hann ekki.
En svo kom kreppan.

Það er gott að vera Íslendingur í Kanada. Það er líkast því að vera Íslendingur í Noregi. Fólk spyr ekki heimskulegra spurninga um land og þjóð. Það veit lengra en nefn þess nær. Augljóst að Vestur-Íslendingar hafa getið sér gott orð. Þeir varpa ljóma á Ísland og allt sem íslenzkt er. Þeir hafa komið sér vel fyrir. Ég hitti margt fólk af íslenzku bergi brotið. Það hefur mikinn áhuga á uppruna sínum og er stolt af honum. Samt vorum við ekki í íslendingabyggðum. Ég talaði við aðalbókmenntagagnrýnanda stærsta blaðsins í Kanada, Toronto Star. Gaf honum bók í lokin. Hann spurði hvort mér væri sama þótt ég setti einnig nafn konu sinnar í tileinkunina. Ég svaraði því til að það væri sjálfsagt; hvort hann teldi að hún hefði áhuga á því? Já, sagði hann, hún er af íslenzkum ættum. Langafi hennar var íslenzkur. Og hún er stolt af því.

Kanadamennirnir sögðu okkur að víkingarnir hefðu komið á land í Kanada, en ekki Bandaríkjunum. Það hafi verið vísindalega sannað með fornleifarannsóknum að þeir höfðu búsetu í Nýfundanlandi. Þetta þolir kaninn ekki, sögðu þeir. Þess vegna halda þeir svona fast við Kólumbus. Í Bandaríkjunum er líka svo margt fólk af spænsku og ítölsku bergi brotið. Þið eigið að hafa samstarf við okkur þegar haldið verður upp á 1000 ára afmæli Vínlandsfundar. Ég rak upp stór augu þegar einn Kanadamaðurinn sagði við mig að Bjarni Herjólfsson hefði fundið Vesturheim.
Hann var Íslendingur, sagði hann.                
Allt var þetta harla ánægjulegt og raunar með ólíkindum hvað fólkið í Toronto er vinalegt. Það kemur skemmtilega á óvart eins og borgin sjálf.
Ágæt frásögn Jóns Ásgeirssonar í Morgunblaðinu af upplestri okkar Íslendinganna. En myndin af mér síður en svo nein upplyfting! Ég er að verða eins og Auden! Hélt satt að segja að ég gæti ekki orðið svona ljótur á mynd! Ætli það sé nauðsynlegt að skáld deyi ung, þau verða svo ljót með aldrinum. Vonandi verð ég aldrei samkynhneigður eins og Auden, ég er orðinn of gamall til þess!!

Áður en ég kvaddi furðufuglinn Stig Larsson sagðist hann sækjast eftir aðdáun; hann vildi helzt lesa fyrir 30 þúsund skríkjandi stelpur eins og poppstjörnurnar!
Það vilja allir, sagði hann. Það vilt þú líka, sagði hann.
En ég mótmælti því.
Komst samt ekki upp með það!
Stig verður að fara til Chicago og taka flugvél þaðan því hann þarf að reykja á leiðinni. Hann mátti aftur á móti ekki reykja til Toronto, það var bannað. Hann sagðist hafa skriðið undir sætið og reykt þar! Ég trúi honum til alls. Hann er mesta ólíkindatól sem ég hef kynnzt.
Hittum Svein Einarsson og Amlóða-leikflokkinn á Logan-flugvelli í Boston. Þau voru strandaglópar. Sveinn er ævareiður vegna framkomu einhvers ferðaskrifstofumanns við hópinn. Held hann ætli að kæra framkomu mannsins sem hugsaði ekkert um skjólstæðinga sína, en reyndi að græða á þeim eins og hann gat.  Og Sveinn er vís til að standa við orð sín. Mér þótti leiðinlegt að geta ekki hjálpað hópnum. En þotan okkar var yfirbókuð og ekkert hægt að gera. Þórunn Magnea Magnúsdóttir leikkona, sem ég skrifaði samtal við á sínum tíma vegna þess að mér þótti hún svo efnilegt ljóðskáld 16 ára að aldri, komst þó heim með okkar vél. Hún á að fara til Danmerkur á morgun svo að öllum þótti sjálfsagt að hún fengi eina sætið sem losnaði. Veit ekki hvenær Sveinn kemst heim með hópinn sinn. En hann var eins og Ving-Þór, veifaði hamrinum og hótaði hefndum. Sveinn er mikill skapmaður ef svo ber undir. Öll mín samúð var með honum og hópnum. Það er Norðurlandaráði til skammar að láta gróðapunga komast upp með að græða á  listafólki, svo naumlega sem því er skammtað í þessu yfirborðslega umhverfi sem er umbúðir mannsins.

P.S.
Þarf við tækifæri að skrifa um mann sem nærist á því að hann er ofsóttur, að því er hann telur sjálfur. Og þegar engar ofsóknir eru á hendur honum býr hann þær til. Því ofsóknarlaust getur hann ekki lifað. Og svo endar það með því að hann fer að ofsækja þá sem áttu að ofsækja hann, en gera það ekki…!!

 

23. júní, mánudagur

Halli ( sem nú er varalögreglustjóri )sagði mér að ekið hafi verið á mann fyrir framan gluggann hans á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Anges fréttastjóri sagði mér að það hafi verið Geiri utangarðsmaður. Og hann hafi dáið í slysinu.
Þeir voru að þvo blóðið af götunni síðdegis. Þar skildu örlögin við Geira vin minn í blóði sínu. Ég skrifaði um hann tvær smásögur, birtar í Nítján smáþáttum, Mold undir malbiki og Sunnudagsprédikun. Ég hafði hann líka í huga í upphafi sjónvarpsleikritsins um Sjóarann o.s.frv. Vona sögurnar séu ekki lakari minningarorð en þau sem birtast í Morgunblaðinu…..

 

Miðvikudagur, 2. júlí

Ef hægt er að segja að einhver hafi sett svip á Reykjavík upp úr miðri öldinni, þá var það Þorgeir Kr. Magnússon. Hann var utangarðsmaður á bláum samfestingi; stór og fyrirferðarmikill. Hann var vinur lögreglunnar. Og hún sýndi honum tilhlýðilega nærgætni enda veit ég ekki til hann hafi nokkurn tíma gert flugu mein.
Geiri kom oft upp á Morgunblað þegar við vorum í Aðalstræti. Hann bað mig um styrk til að kaupa plötur. Stundum keypti hann plötur fyrir styrkinn, stundum ekki. En þegar bezt lét sat hann í herbergiskytrunni sinni og hlustaði á klassíska tónlist með Bakkusi.
Þeir voru fjandvinir.
Það var fastmælum bundið milli okkar Geira að hann ónáðaði mig ekki ef hann væri í slagtogi með Bakkusi. Hann stóð við þann samning, utan einu sinni.
Mig vantar bara fyrir pylsu og kók sagði hann. Ég hef ekkert borðað í tvo daga.
En þú ert að brjóta samning, sagði ég.
Hann snerti derhúfuna og hneigði sig.
Nú stendur illa á fyrir Geira sagði hann.
Já, sagði ég.
Nokkru síðar strunsaði hann í Ríkið. Það var hans eina og sanna ríki. Ríki okkar hinna og allt þess hafurtask lét hann lönd og leið. Gagnrýndi jafnvel harkalega að beðið væri sérstaklega í kirkjum fyrir forseta vorum og ríkisstjórn.
Þetta fólk getur bara beðið fyrir sér sjálft, sagði hann, rétt eins og við hin.
Við Geiri vorum sammála um það. Stundum einnig um pólitík. Það kom fyrir að hann skrifaði smáathugasemdir í Velvakanda eða viki smáminningargrein að látnum góðgerðamanni. Minnti þá á sveitasagnfræðingana sem Halldór Laxness getur um í Skeggræðunum:
“Ég var að hlusta á útvarpið um daginn,” segir skáldið. “Þar kom fram maður, sem spurður var frétta úr byggðarlagi sínu. Hann byrjaði frásögnina svona: “Vorið hefur verið gott fyrir sauðfé.” Þessi maður kom mér í gott skap.”
Geiri bað ævinlega guð um að blessa þann og vernda sem hann skrifaði um. Hann kom manni í gott skap.
Geiri blés mér í brjóst tvær smásögur sem ég skrifaði á sínum tíma og komst önnur alla leiðina inn í Íslenskar smásögur, 1847-1974, sem Þorsteinn Gylfason valdi undir ritstjórn Kristjáns Karlssonar. Það var 1983. Þá var Geiri upp á sitt bezta í miðbænum. En hann vissi ekkert um þessar sögur enda hefði hann ekki skeytt neitt um slíkan hégóma. Hann átti sér eigin veröld og hún var ekki af þessum heimi, því hún var blekking. En ef þessar smásögur duga eitthvað, höfum við Þorgeir Kr. Magnússon ekki lifað til einskis.
Leiðir okkar Geira lágu saman á undanlegustu stöðum. Samt þekkti ég hann lítið og vissi ekkert um hagi hans. En hann var víst alinn upp hjá ömmu sinni á Grímsstaðaholtinu. Ég vissi raunar hvorki hvaðan hann kom né hvert hann var að fara. Hann vissi það líklega ekki sjálfur, en samt átti hann alltaf von á einhverju. Svo kom dauðinn á hann eins og mannýgt naut; fyrirvaralaust eins og maður tæki plötu af fóninum; kom á rauðu ljósi.
Eitt sinn var ég á leið norður í land. Þá stóð maður á þjóðveginum í Miðfirði. Hann var með derhúfu og í bláum samfestingi; .það var Geiri. Hann veifaði.
Ég stöðvaði bílinn.
Sæll, sagði hann
Sæll, sagði ég. Hvert ert þú að fara?
Suður, sagði hann.
Og hvaðan ertu að koma?
Af bæ hérna skammt frá, sagði Geiri, þeir sendu mig þangað en ég er orðinn leiður á vistinni.
Nú, sagði ég, en ertu ekki að fara suður?
Jú, sagði Geiri.
En ég er á norðurleið eins og þú sérð, af hverju veifaðirðu mér?
Það skiptir engu máli, sagði Geiri, hvort ég fer norður eða niður.
Þú heldur áfram suður, sagði ég, náðu í annan bíl.
Já, sagði Geiri, blessaður(!) En heyrðu, mig vantar plötu með Schubert, má ég ónáða þig þegar þú kemur aftur suður?
Samningar eru samningar, sagði ég.
Þá veifaði hann og horfði lengi á eftir okkur. Stóð þarna í bílspeglinum unz hann hætti að veifa, sneri við og hélt áfram suður.
Geiri kom sjaldan í heimsókn eftir að við fluttumst í Kringluna. Miðbærinn er minn staður, sagði hann. Ekki úthverfin.

Páll Ísólfsson sagðist aldrei hafa leikið eins vel á orgel og þegar hann spilaði yfir utangarðsmanni sem hann þekkti ekki. Matthías Jochumsson orti aldrei annað eins erfikvæði eins og eftir karl í Hafnarfirði sem hann hafði aldrei séð. Páll sagði mér að hann hefði á þessari stundu langað til að himnarnir legðu við hlustir.
Það hefði Þorgeiri Kr. Magnússyni líkað vel. Ég bið honum guðs blessunar og þakka samfylgdina í tveimur litlum sögum um hvítan hrafn á bláum samfestingi.

Hélt enginn mundi skrifa minningargrein um Geira, og setti þessar línur því saman, en hætti við að birta þær þegar ég sá að margir skrifa um hann, þ.á m. Jón Óskar ágætis grein.
Þar segir að Geiri hafi orðið Jóni að ljóði.

25. júní, miðvikudagur

Skrifuðum gagnrýnisleiðara á forsetann í dag. Hann hringdi um kvöldmat og talaði við Styrmi, hafði þó einkum reiðzt Víkverja Agnesar Bragadóttur um kurteisisvenjur á Bessastöðum, þ.e.a.s. hvernig skenkt er þar á bæ!
Sat hjá Steingrími Hermannssyni á Rotary-fundi í dag. Hann sagði mér að hann hefði fallizt á að láta skrifa ævisögu sína í tveimur bindum, hið fyrra kemur út að ári. Hann gagnrýndi forsetann fyrir að ganga of langt í lénssiðastellingum, mun lengra en Vigdís.

Átti sjónvarpssamtal við Halldór Guðmundsson hjá Máli og menningu um Halldór Laxness. Benti á að hann leitar ungur upptaka Nílar en upptökin eru að sjálfsögðu í skáldinu sjálfu. Í Innansveitarkroniku og Guðsgjafaþulu er skrifað eins og Halldór telur að Íslendinga sögur hafi verið ritaðar. Þar er nærzt á nánasta umhverfi og það notað óspart, ásamt arfsögnum. Þetta hráefni notar höfundur svo í ritstýrðri sagnfræði sinni, þ.e.a.s. þessum skáldverkum. Höfundur Njálu notar Mörð Valgarðsson, hinn kristna, aðalillmenni sögunnar sem einskonar áminningu til ribbaldanna á næstu grösum en þeir svifu einskis um leið og þeir dýrkuðu Krist og kirkju sína. Þeir voru eins og kristsmunkarnir í Sögum herlæknisins, þeir voru með rýtinginn í krossinum. En Jarteinasaga Mosfellsdals fjallar um fólk sem er ekkert sérlega  kirkjurækið eða trúað, en reisir samt kirkju. Þannig verður hún einskonar almættisverk, þ.e. jartein Stefáns Þorlákssonar sem er tæki í höndum forsjónarinnar í þessari sögu, óafvitandi.

Hef verið að hlusta á Campbell. Það er alltaf jafn nærandi. Hann segir að goðsögnin sé upphaf alls. Hann segist ekki efast um að Kristur hafi verið til og að hann hafi verið tekinn af lífi, þ.e. krossfestur. En upprisan, segir hann - það er annað mál. Hann segir að goðsögnin um sköpun jarðar í Biblíunni sé mikilvæg, ekki vegna þess að hún þurfi endilega að vera sönn, heldur vegna þess að hún er sprottin úr vitundarheimi mannsins. Hún er ekki skrifuð eins og hver önnur frétt. Það er ekki eins og einhver blaðamaður sé að segja frá atburði sem hann var viðstaddur, þvert á móti. Hún er skrifuð eins og goðsögn. Innlifaður ótrúleiki, ef svo mætti segja.
Á miðöldum voru kirkjurnar það fyrsta sem ferðamenn sáu í bæjunum. Nú eru það viðskiptahallirnar; skýjakljúfarnir. Það segir mikið um okkar tíma. Samt er ekki hægt annað en minnast þess að Hallgrímskirkja gnæfir yfir Reykjavík og er það fyrsta sem aðkomumaður sér. Skyldi það tákna eitthvað? Ætli við séum á réttari leið en aðrar þjóðir? Hallgrímskirkja er engin tilviljun.
Jóseph Campbell talar á einum stað um tvær giftingar, hin fyrri byggist á holdinu og rómantíkinni; hrifningunni; fuglasöngnum. En hin síðari er einskonar andleg gifting þegar börnin eru vaxin úr grasi og holdleg hrifning ræður ekki ferðinni og það er tekið að kvölda í skóginum og fuglarnir að mestu hættir að syngja. Það er á þessu stigi sem hjónabönd hrynja, segir hann, og fara í hundana, ef þessi andlega gifting á sér ekki stað. Við erum öll leyndardómur sem enginn þekkir, jafnvel ekki við sjálf. Við andlega giftingu reynir fólk að kynnast leyndardómum hvers annars meir og betur en áður. Það er mikilvægt. Það er nærandi. Mönnum getur opnazt nýr og mikilvægur leyndardómur. Campbell segir  það sé eftirsóknarvert að eldast.
Ég vona að hann hafi rétt fyrir sér.

 

5. júlí - laugardagur

Ég veit ekki deili á Kristjáni Þ. Davíðssyni, sjávarútvegsfræðing, en hann skrifaði ágæta grein um kvótann í Morgunblaðið sl. þriðjudag. Við vitnum í hana í forystugrein Morgunblaðsins í gær og minnum á þessi orð sem hann við hefur og eru hárrétt og að mínu viti kjarni málsins í raun og veru: “Það sem vekur andúð á kvótakerfinu og býr til uppnefni eins og kvótaaðall, sægreifar og kvótakóngar er sú staðreynd að þorra fólks þykir misrétti felast í kvótakerfinu. Kvótalögin misbjóða réttlætiskennd almennings og þetta er hvati þeirrar miklu gagnrýni á kvótakerfið, sem fram hefur komið.”
Og ennfremur:
“Kvótalögin bjuggu til stétt manna, sem er uppnefnd kvótaaðall og allir aðrir, sem vilja veiða fisk skulu samkvæmt lögunum borga veiðileigu til “aðalsins”. Afskriftir eru í fyrirtækjarekstri til þess hafðar að hægt sé að telja til útgjalda slit og úreldingu tækja, húsa, skipa og annars sem tilheyrir tekjusköpuninni. En það að hægt sé að afskrifa keyptan kvóta, sem er endurnýjaður ókeypis á hverju ári um ófyrirséða framtíð, er að margra mati lýsandi dæmi um siðleysi löggjafans og þess “aðals”, sem stendur að slíkri lagasetningu. Afskriftaheimild á kvóta er illa dulbúin niðurgreiðsla til kvótaeigenda, ávísun á peninga úr vösum skattgreiðenda til kvótaeigenda, enda lögleg kvótaviðskipti oft uppnefnd “kvótabrask”. Afskriftirnar lækka skattbærar tekjur kvótaeigandans og til að bæta sér upp tekjutapið hækkar ríkið skatta annarra skattgreiðenda, launþega og fyrirtækja.”
Og loks:
“Þetta kerfi er alls ekki nýtt, það var víða reynt á miðöldum og af sögunni dæmt ónothæft. Það er kallað lénsveldi og þeir fáu, sem nutu þess voru kóngar, greifar og aðrir aðalsmenn, samanber uppnefnin kvótakóngur, sægreifi og kvótaaðall. Á miðöldum safnaðist þjóðarauður með siðlausum lagasetningum spillts ríkisvalds og siðlausum gerðum spillts aðals á fárra manna hendur uns upp úr sauð.”
Þarna er komið að kjarna málsins, hann er ekki fólginn í því hvort kvótakerfið er arðbærarra en annað kerfi; hvort það er hagstjórnarlega betra en annað kerfi; heldur því hvort það er siðlaust eða ekki; hvort það særir réttlætiskennd fólksins í landinu eða ekki. Eins og kvótakerfið er framkvæmt á Íslandi er það bæði siðlaust og ranglátt, það er kjarni málsins og það eitt skiptir í raun og veru máli.

Ásgeir Sverrisson, fyrrum fréttastjóri okkar á Morgunblaðinu og sonur Sverris Þórðarsonar sem átti vart sinn líka sem fréttahaukur, góður drengur, vel gerður og greindur, skrifar ágæta grein um íslenzkt lýðræði í Morgunblaðið nú í vikunni. Þessi grein heitir Íran og íslenskt lýðræði. Ég er sammála hverju orði sem stendur í þessari grein enda vorum við Ásgeir ævinlega sammála þegar hann var á fundum með mér og við fjölluðum um erlendar fréttir, meðan hann stjórnaði þeim skrifum á Morgunblaðinu.
Í upphafi greinar sinnar segir Ásgeir:
“Fyrir skömmu fóru fram forsetakosningar í Íran. Fulltrúi þeirra afla sem talin eru “hófsöm” innan klerkaveldisins sem þar ræður ríkjum fór með sigur af hólmi. Mjög kom á óvart að Muhammad Khatami skyldi hljóta meirihluta atkvæða í fyrri umferð kosninganna því búist hafði verið við því að úrslit fengjust aðeins eftir síðari umferðina þegar valið yrði á milli tveggja efstu manna.
Íran er ekki ríki sem menn tengja almennt við lýðræðislega stjórnarhætti. Samt eru forsetakosningar þar lýðræðislegri en á Íslandi. Í Íran hefur forsetinn lýðræðislegan meirihluta kjósenda á bakvið sig. Það gildir ekki um Ísland.
Forsetaembættið á Íslandi er í besta falli misskilningur og vaxandi byrði sem lögð er á herðar skattborgara. Vel kann að vera að meirihluti Íslendinga vilji viðhalda embættinu, slík spurning hefur aldrei verið borin fram frá stofnun lýðveldisins.
Slíka spurningu þarf að bera fram í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef vilji þjóðarinnar er sá að forsetaembættinu verði viðhaldið á þeim forsendum að forseti landsins sé í senn sameiningartákn þjóðarinnar og fulltrúi hennar (og að þörf sé á slíkum fulltrúa og sameiningartákni) blasir við sú krafa að sá einstaklingur sem þessu starfi gegnir hafi hlotið til þess lýðræðislegt umboð. Þannig er því ekki farið og hafa annmarkar þessa komið glögglega fram á því hnignunarskeiði er einkennt hefur forsetaembættið á síðustu 17 árum.
Það er grátlegt að lýðræðisástin skuli ekki rista dýpra en svo að menn telji almennt þetta ástand viðunandi. Það bregður upp skelfilegri mynd af stöðnun íslenskrar þjóðmálaumræðu að núverandi skipan mála hvað varðar kjör forseta lýðveldisins hafi ekki verið breytt í samræmi við leikreglur lýðræðisins. Með hvaða hætti verður réttlætt að forseti Íslands hafi ekki lýðræðislegan meirihluta á bakvið sig? Með hvaða hætti verður það réttlætt að skattborgurum sé gert að halda uppi slíku embætti, sem sífellt verður dýrara í rekstri um leið og innihaldið hverfur óðfluga, þegar sá einstaklingur sem embættinu gegnir, getur á engan hátt talist “sameiningartákn og fulltrúi” þjóðarinnar af þeirri einföldu ástæðu að meirihluti þjóðarinnar hefur aldrei lýst yfir því að hún vilji að sá hinn sami taki að sér það hlutverk. Með hvaða hætti ber að skilja hróplegt framtaksleysi íslenskra stjórnmálamanna í þessu efni? Með hvaða hætti getur fólkið í landinu borið traust til fulltrúa sinna á þingi þegar þeir hafa ekki burði til þess að innleiða lýðræðislegar leikreglur hvað varðar kjör forseta lýðveldisins?”

Ásgeir bendir loks á að jafnvel Rússar hafi náð lengra í átt til lýðræðis með tilhögun forsetakjörs síns heldur en við Íslendingar. Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni þótt enginn hugsi um það.

Við erum alltaf að fá nýjar og nýjar fréttir af allskyns vísindalegum niðurstöðum - og þá ekki sízt í tengslum við félagsfræði og eðli mannsins og stöðu hans í þjóðfélaginu. Ég er sannfærður um að mikill hluti þessara vísinda svokallaðra byggir á sandi, margt hálfgerður heilaspuni. Menn geta orðið doktorar í allskyns skýrslukönnunum, án neinnar vísindalegrar vinnu eða frumlegra hugsana. Það er raunar með ólíkindum  hvað fullyrt er nú um stundir í nafni vísindanna. Sjálfur var ég 17 merkur þegar ég fæddist. Feitur og pattaralegur og ári síðar var ég orðinn svo þungur að barnapían gat ekki borið mig upp stigann í Kirkjustræti 10 þar sem við bjuggum þá. Þetta var haft að gamanmálum á sínum tíma og mynd sem var tekin af mér 3. janúar ‘31 eða þegar ég var 1 árs, sýnir þennan pattaralega strák sem er að springa úr fitu. Foreldrar mínir hafa samt verið nógu stoltir af afkvæminu til að fara með það á afmælisdaginn til Lofts ljósmyndara sem var konunglegur sænskur hirðljósmyndari eins og stendur neðan við myndina og er það hið eina sem hefur verið konunglegt við mína ævi.
Ég hafði sem sagt alla burði til þess að vera glaðlyndur og bjartsýnn samkvæmt þessum vísindalegum könnunum og að minnsta kosti lifa án tilhneiginga til þunglyndis eða svartsýni.
Allt hefur þetta farið á annan veg.
Ég hef aldrei verið bjartsýnn, ég hef alla tíð verið heldur svartsýnn og haft áhyggjur af umhverfi mínu og þá ekki sízt næstu dögum og framtíðinni. Ég hef tekið allt inná mig eins og sagt er og fyllzt af kvíða við minnsta tækifæri. Þetta hefur stundum háð mér en stundum hefur það orðið mér að liði því að ég hef tekið líf mitt og umhverfi alvarlega og það hefur að sjálfsögðu hjálpað mér, bæði sem rithöfundi og blaðamanni.  En stundum hefur þetta háð mér verulega og því er ekki að neita að með köflum  þarf ég að berjast við tilhneigingu til þunglyndis þótt ég hafi ævinlega ráðið bug á því sjálfur og aldrei þurft á aðstoð annarra að halda í þeim efnum. En þessi þunglyndistilhneiging hefur einatt verið sársaukafull og stundum hef ég átt erfitt með að fara í vinnuna af þeim sökum, einkum á sínum tíma þegar ég varð fyrir miklum pólitískum árásum og verk mín voru dæmd samkvæmt pólitískum forskriftum. Þá kveið ég oft fyrir því að fara til vinnu og hitta annað fólk en ég lét mig hafa það. Ég hef oft bitið á jaxlinn og hrist af mér depurðina. En ég hef yfirleitt haft litla löngun til að vera í fjölmenni og því minni sem ég hef elzt. Það hefur að vísu eitthvað háð mér í störfum en ekki mikið vegna þess að það er sjaldnast ávinningur af því að sitja í veizlum eða þiggja þessi yfirborðslegu boð sem við Hanna sóttum viðstöðulaust á sjöunda og áttunda áratugnum en síðan lítið sem ekkert.
En vísindalegar niðurstöður um þyngd barna og fitu sem nú liggja fyrir eru samkvæmt eigin reynslu minni eins óvísindalegar og nokkur hlutur getur verið. Ég tek ekkert mark á þessu af þeirri einföldu ástæðu að ég hef persónulega reynslu fyrir allt öðru en því sem þessir svokölluðu vísindamenn hafa nú leitt í ljós um útlit mannsins og eðli!

6. júlí - sunnudagur

Lauk við sjálfsævisögu Miu Farrow. Athyglisverð bók, vel skrifuð. Woody Allen er einhvers konar perri eins og sagt er. Jafn hrikalegur persónuleiki og hann er góður leikstjóri. Ekki meira um það! Talaði lítillega við Miu í Höfða þegar hún kom hingað á listahátíð með þáverandi manni sínum André Previn. Fannst hún héldræg, en hugsaði sitt. Merkileg kona og viljasterk af bókinni að dæma.
Er að lesa Alias Grace eftir Margaret Atwood.

9. júlí - miðvikudagur

Í Morgunblaðinu í dag er mjög góð úttekt á Nato-fundinum í Madrid. Karl Blöndal hefur staðið sig framúrskarandi vel þar syðra.
Samtal við Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Ef Jón Baldvin hefði verið utanríkisráðherra hefðum við átt samtal við hann. En hann er úti í kuldanum.
Það eru embættin sem kalla  ráðherrana inn í fjölmiðlana eins og ég sagði Davíð á sínum tíma þegar hann  fylltist gagnrýni og tortryggni í okkar garð vegna mikillar umfjöllunar í Morgunblaðinu um Jón sem þá var utanríkisráðherra hans.
Tíminn hefur sem sagt staðfest orð mín.

10. júlí, fimmtudagur

 

Vínland

Íslendingar sem þátt tóku í listahátíð í Toronto ekki alls fyrir löngu urðu varir við mikinn áhuga þarlends fólks á Íslandi og menningu okkar. Rithöfundar sem lásu upp á bókmenntahátíðinni í Toronto, sem talin er ein hin virðulegasta hátíð sinnar tegundar nú um stundir, hlutu mjög góðar viðtökur og upplifðu mikinn áhuga á íslenzkum bókmenntum. Kanadamenn vita meira um Ísland en aðrar þjóðir, líklega að Norðmönnum einum undanskildum. Ástæðan er sú að Vestur-Íslendingar hafa varpað birtu á Ísland og allt sem íslenzkt er og urðu þátttakendur í listviðburðum vestra áþreifanlega varir við það. Toronto er ekki á þeim slóðum þar sem Vestur- Íslendingar hafa verið fyrirferðamestir, en samt var áhuginn með þeim hætti og þekkingin slík að enginn talaði um Ísland með forundrun eða eins og eitthvert frumstætt samfélag norðurheimsskautsmanna sem hefðu lítil eða engin tengsl við umheiminn. Þvert á móti var talað um land og þjóð af þekkingu og einhverri nærveru sem við eigum ekki að venjast hvar sem er. Þeir sem við var talað virtust hafa meira en nasasjón af landi og þjóð og margir minntust á Vestur-Íslendinga og hlut þeirra í uppbyggingu nútímasamfélags í Kanada. Á það var jafnvel minnzt að Íslendingar hefðu á sínum tíma stofnað einskonar sjálfstætt ríki í Gimli. Sumir töldu að fólk af íslenzkum ættum í Kanada skipti tugum þúsunda og nefndar tölur eins og sextíu eða sjötíu þúsundir, eða þar um bil.
Fjölmiðlafólk hafði mikinn áhuga á Íslandi, samfélagi okkar og menningu, sumir höfðu meira en nasasjón af hvoru tveggja en aðrir þekktu vel til íslenzkra landnema, sögu þeirra og samfélags. Það var oftar en ekki sem einhver sagði eitthvað á þessa leið, Já, ég veit það, langafi minn var af íslenzkum ættum; eða: Já, ég hef heyrt það, langamma konu minnar kom með foreldrum sínum ung telpa frá Íslandi - eitthvað í þá átt. Þeir eru fáir Kanadamennirnir sem reka upp stór augu þegar á Ísland er minnzt. Og það var merkilegt að heyra hvernig þeir töluðu um víkinga og landafundina vestanhafs. Þeir sögðu sem svo: Þið Íslendingar eigið að hafa samstarf við okkur Kanadamenn um hátíðarhöldin árið 2000 því við vitum að víkingar frá Íslandi og Grænlandi námu land á Nýfundanlandi, það hefur verið vísindalega sannað með fornleifarannsóknum. Bandarísk stjórnvöld hafa harla lítinn áhuga á þessum landafundum af þeirri einföldu ástæðu að það hefur aldrei verið sannað að víkingarnir komu til Bandaríkjanna. En þeir höfðu vetursetu hér í Kanada. Auk þess eru svo sterk öfl í Bandaríkjunum sem halda fram Kólumbusi að bandarísk stjórnvöld geta einungis með hálfum huga haldið fram landnámi víkinganna í vestri. En hér í Kanada vita allir að hvíti maðurinn fann fyrst land hér í Ameríku þegar norrænir víkingar komu til Nýfundnalands. Og við höfum mikinn áhuga á því að halda þetta landnám hátíðlegt.
Þetta er íhugunarefni fyrir okkur. Höfum við nógu mikið samstarf við Kanadamenn þegar áherzla er lögð á landnám forfeðra okkar í Ameríku? Höfum við nýtt okkur þann góða orðstír sem Vestur-Íslendingar hafa getið sér í Kanada? Væri ekki ástæða til að kanna það til hlítar? Þeir eru jafnvel að eignast geimfara og minnir á landkönnunarferðir víkinga. Kanadamenn virðast þess albúnir að viðurkenna landnám íslenzkra víkinga á Nýfundnalandi. Og hvað sem öðru líður er augljóst að bandarísk stjórnvöld eiga erfiðara um vik vegna ítalskra og spænskra áhrifa þar vestra. Fólk af íslenzku bergi brotið er tiltölulega miklu fleira í Kanada, einkum Manitoba, en Bandaríkjunum þótt þar séu einnig allmargir íslenzkrar ættar, einkum í Minnisota og Dakota. Þessir íslenzku kanar hafa einnig getið sér gott orð en áhrif þeirra virðast ekki vera jafn mikil og þeirra Íslendinga sem sett hafa svip á kanadískt þjóðlíf.

Norumbega - hvað er það?

Það er einna helzt í Boston og nágrenni sem norræn menning og arfleifð hefur fest rætur í Bandaríkjunum. Um það höfðu tveir merkir Bandaríkjamenn forystu, skáldið Longfellow og Horsford prófessor við Harvard. Nú er þessi áhugi að mestu horfinn en vel má vera að unnt sé að endurvekja hann. Sæðinu var á sínum tíma sáð þótt uppskeran hafi ekki orðið með þeim hætti sem til var ætlazt. Þó verður að viðurkenna að erfitt verður að vekja áhuga manna á þeim slóðum á Leifi eða Bjarna Herjólfssyni meðan augu og eyru vísindamanna eru alfarið við Nýfundnaland, því annaðhvort vilja menn að Leifur heppni hafi numið land í Nýja-Englandi eða þeim kemur hann ekkert við.
En Norðmenn eru ekki iðjulausir þar vestra - og aldrei að vita hverju þeir fá áorkað með alkunnum dugnaði.
Við Charles-fljótið í Boston er steinn sem Horsford lét reisa og á að vera til minningar um ferðir víkinga upp fljótið. Tíu mílur vestur af Boston er staður sem heitir Norumbega og hefur þar verið reistur allhár turn hlaðinn úr grjóti. Á honum er plata með áletrun og segir þar að Bjarni Herjólfsson hafi fyrstur séð landið norðan Cape Cod eða Þorskskaga 985, en Leifur Eiríksson hafi tekið land þar árið 1000 e.Kr. Síðan segir að Norumbega hafi verið numið af Leifi árið 1000 en kannað af Þorvaldi bróður hans 1003 en Þorfinnur karlsefni lagt það undir sig 1007. Áletrun þessi var gerð árið 1889. Í Boston er einnig skemmtileg og talsvert óvenjuleg stytta af Leifi. Hann er harla ungur víkingur með flaksandi hár og horfir til lands - Vínlands. Hann ber hönd fyrir augu og virðist góð hreyfing í myndinni. Leifur er í hringabrynju með brjóstskjöldum og hníf í belti. Auk þess ber hann stórt horn. Leifs-styttan hefur staðið á stalli sem hvílir á stefni og skut víkingaskips. Á framhlið stafnsins stendur aðeins með rúnaletri: Leifur hinn heppni Eiríksson (á íslenzku), á bakhliðinni: Leif the Discoverer Son of Erik who Sailed from Iceland and Landed on this Continent A.D. 1000. Á hliðinni eru upphleyptar smámyndir af landtökunni í Vesturheimi og konungshirð í Noregi og er verið að segja konungi frá landafundinum. Þeir sem heima sátu hafa orðið að ferðazt í huganum vestur um haf.
Þess má einnig geta að lokum að víkingamyndir eru á Longfellow-brúnni yfir Charles-fljótið, enn einn vitnisburður um nítjándualdar áhuga Bostonbúa á landafundum norrænna víkinga í Ameríku.

Kanadísk ritlist og íslenzk áhrif

Kanada er eitt stærsta land jarðarinnar. Þar er mikil deigla. Þar takast á ólík menningaröfl og þjóðerni. Nú er reynt að steypa þeim saman án þess sérkenni glatist. Nýja-England er evrópskasti hluti Bandaríkjanna en kanadískt þjóðlíf ber evrópskum áhrifum þó enn sterkara vitni en Boston og nágrenni. Toronto er harla evrópsk borg. Hún stendur fallega við Ontarío-vatn. Hún er sérstæð og eftirminnileg, ekki sízt vegna nútímalegrar húsagerðarlistar sem setur mestan svip á borgina. Há, eftirminnileg nútímahýsi eru einkennandi fyrir miðborg Toronto. Mörg þessara húsa eru óvenjuleg og bera nútímahúsagerðarlist fagurt vitni. Þjóðlífsblærinn er evrópskur en þó að sjálfsögðu með kanadískum sérkennum sem eru í senn sérstæð og vinaleg. Í Toronto er blómlegt menningarlíf, borið uppi af metnaðarfullri reisn og smekkvísi. Í Toronto er mesta Moore-listasafn í heimi. Henry Moore (1898- 1986) var brezkur myndhöggvari. Hann var einn þekktasti frumkvöðull höggmyndalistar á þessari öld og brautryðjandi nútímalistar í Bretlandi. Hann hafði áhrif á Ásmund Sveinsson. Henry Moore hannaði einnig umgjörðina um listaverk sín í Toronto og þykir listasafnið einn helzti áningastaður nútímalistar í heiminum.
Kanadamenn eiga ágæta listamenn, ekki sízt rithöfunda. Tvær konur skera sig úr á þeim vettvangi, Margaret Atwood, sem er bæði ljóðskáld og skáldsagnahöfundur og víðfræg orðin. Hún er einn af forvígismönnum fyrrnefndrar bókmenntahátíðar í Toronto. Síðasta bók hennar Alias Grace þykir mikið skáldlegt víravirki en hún byggir á sögulegum staðreyndum frá síðustu öld og fjallar um þekkt sakamál söguhetjunnar sem sumir telja að hafi verið saklaus að glæpunum en aðrir að hún hafi verið geðbilaður morðingi. Grace sem hverfur inn í geðveikrarhæli í Toronto kveðst hafa misst minnið og viti ekkert um þá atburði sem hún er ásökuð um. Sumir telja þetta verk beztu skáldsögu höfundar frá því hún skrifaði frægasta verk sitt The Handmaide's Tale. Það er ástríðufullt og áhrifamikið, viðkvæmnislaust en ljóðrænt. Næst síðasta saga Margaret Atwoods, Cat's Eye, byggir augsýnilega á minningum skáldkonunnar sjálfrar og sækir næringu í líf hennar og umhverfi. Þannig verður Toronto einskonar aðalpersóna þessarar athyglisverðu sögu því að þar er hún látin gerast, með rætur í æskuumhverfi skáldkonunnar.
Hin skáldkonan er Alice Munro, einhver eftirminnilegasti smásagnahöfundur samtímans. Sögur hennar í Open Secrets eru stílbreiðar og fljótandi og renna áfram viðstöðulaust og án hindranna eins og vatnsmikið fljót. Sögur Munros hafa vakið mikla athygli og þeir eru ófáir sem telja hana einn helzta smásagnahöfund nú um stundir. Open Secrets er síðasta smásagnasafn Alice Munros en eftir að það kom út var úrval smásagna hennar gefið út í fyrra, 545 síðna verk og hefur í senn vakið mikla athygli og aðdáun þeirra sem um hafa fjallað. Þetta úrval kom einnig út í fyrra. Alice Munro hefur sig lítt í frammi og kann bezt við sig þar sem hún fær að vera ein með verkum sínum, hlédræg og laus við þá fjölmiðlafíkn sem margir höfundar eru haldnir, en fyrir hana eru þeir sumir þekktari en ágæti verka sinna. Í þessari bók eru 28 smásögur og eiga þær rætur víða í Kanada og þá ekki sízt í Ontarío og Toronto þar sem rætur skáldkonunnar sjálfrar liggja. Það vekur ekki sízt athygli Íslendings að einni smásögu sinni, White Dumb, lýkur Munro með því að vitna í það íslenzkt rit sem er einna frægast allra íslenzkra rita, þ.e. Eddu. Sagt er um aðalpersónuna að hún hafi lesið Eddu hvert sumar en sjónvarpið hafi dreift huga hennar og dregið hann frá þessum dýrgrip en hún hafi horfið til hans aftur og skilið bókina eftir á stól við rúmið sitt eitt kvöld þegar hún lagðist til svefns. En þá hafi önnur persóna sögunnar tekið bókina áður en hún slökkti ljósið í svefnherberginu og lesið þessar ljóðlínur:

Seinat er at segia;
svá er nu rádit.

Þessi lokaorð sögunnar eru birt á íslenzku  (úr Atlamálum, 29.) og þess jafnframt getið að þau merki að nú sé of seint að tala um þetta, því það sé afráðið.
Það er merkilegt að þessi mikla kanadíska skáldkona skuli telja það eins og hvern annan sjálfsagðan hlut að ljúka smásögu eftir sig með tilvitnun í íslenzkt fornkvæði og það á frummálinu. Hún kann augsýnilega skil á verðmætum og mikil ljóðlist þarf engar hækjur til þess að lifa af, bæði sjónvarp og aðra dægrastyttingu. Hún er eins og grasið, sprettur þar sem henni sýnist, fyrirhafnarlaust og án yfirborðslegs fjölmiðlaáróðurs. Höfundur Reykjavíkurbréfs kann ekki skil á menntun og arfleifð skáldkonunnar en vel mætti ímynda sér að hún hafi haft kynni af þeim fjölfróðu og bókhneigðu Vestur-Íslendingum sem hafa sett svo sterkan svip á umhverfi sitt í þessu nýja ættlandi vestanhafs. En það verður líklega ekki hlaupið að því að fá skýringar skáldskonunnar á fyrrnefndum sögulokum, svo hlédræg sem hún er og lítið fyrir að ræða verk sín og vinnubrögð.

Með arfleifð í farteskinu

Íslenzkir landnemar vestur í Kanada tóku með sér mikilvæga arfleifð, ræktuðu hana og varðveittu eins og dýrmætan fjársjóð. Þeir voru margir bókhneigðir eins og alþýða manna var um og eftir síðustu aldamót hér á landi. Og þeir ávöxtuðu þessa arfleifð með sérstæðum og mikilvægum hætti. Úr þessu samfélagi spruttu mörg eftirminnileg skáld, t.a.m. Jóhann Magnús Bjarnason, höfundur Brasilíufaranna, Jakobína Johnson, Káinn sem er mestur húmoristi íslenzkra ljóðskálda fyrr og síðar, Guttormur Guttormsson, Þorskabítur og Stephan G. Stephansson sem er eitt af öndvegisskáldum íslenzkrar tungu á síðara hluta 19. aldar og fyrra hluta þessarar aldar. Hann fæddist á Kirkjuhóli, hjáleigu frá Víðimýri í Skagafirði, 1853, ættaður úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslu, Skagafirði og Húnavatnssýslu, kominn af skáldum og hagyrðingum. Foreldrar hans bjuggu á þremur kotum í Skagafirði sem öll lögðust í eyði en brugðu búi 1870 og fluttust norður í Bárðardal. Þar urðu þau vinnuhjú hjá Kristjáni bónda í Mýri, en Stephan varð 16 ára vinnumaður í Mjóadal sem er efsti bær í Bárðardal en nú löngu kominn í auðn. Stephan fluttist með foreldrum sínum og fleira frændfólki til Vesturheims sumarið 1873, vann þar við ýmis konar daglaunavinnu í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum og nam þar land í fyrsta sinn og bjó þar til 1880. Tveimur árum áður kvæntist hann Helgu Jónsdóttur, frændkonu sinni, frá Mjóadal. Þeim varð átta barna auðið og lifðu sex þeirra föður sinn. Þau Stephan fluttust búferlum til Norður-Dakota 1880 og þar nam hann land í annað sinn, í Garðar-byggð. Fleiri íslenzkir bændur voru í þeim flutningum, sendu konur sínar með járnbraut en gengu sjálfir og ráku gripi sína. Vegalengdin var 1370 km og tók ferðin fimm vikur. Stephan skipti enn um bústað 1889 og nam þá land í þriðja sinn í Alberta-fylki í Kanada. Bjó hann þar til dauðadags. Þar orti hann flest kvæða sinna, m.a. Sumarkvöld í Alberta en þegar hann kom til Calgary, sem er um 110 km frá heimili hans sá hann Klettafjöllin í fyrsta sinn. Það var vorið sem hann kom til Alberta og þá orti hann kvæðið Klettafjöll sem vakti einna fyrst athygli manna á skáldskap hans. Enginn vafi er á því að Stephan G. Stephansson hefði orðið víðfrægt skáld ef hann hefði ort á ensku. En íslenzka var móðurtunga hans og af þeim sökum þekkja nú fáir skáldskap hans þar vestra. En því fleiri þekkja hann sem betur fer hér heima, meta hann og virða enda hafa fá íslenzk skáld verið stærri í sniðum en Klettafjallaskáldið Stephan G. Stephansson. Það var hann sem talaði um íslenzka óskalandið og eylenduna sem vakir fjarst í eilífðar útsæ og þessa nóttlausu voraldar veröld þar sem víðsýnið skín. En við erum einmitt að upplifa hana um þessar mundir.
Stephan G. Stephansson kunni ekki síður að meta fóstru sína vestanhafs. Hann talar í ljóðinu Ameríka um fóstru sína við hlésæla skóginn á ljómandi sumri. Og þegar hann hugsar til Kanada verða honum þessi orð á vörum:

Svo vermdu þá, Kanada, í kjöltunni þinni
upp kólnaða frændsemd og ættjarðarminni!
Mér frjálsust, mér hollviljuð hugsjónum ungu,
ver heimaland sérhverrar þjóðar og tungu.

Og ennfremur:

Það geymdist þó nokkuð, sem á varð ei unnið
af eldinum - gulltöflu, þær höfðu ei brunnið.
Við sitjum hér, Kanada, í sumars þíns hlynning
og sólvermduð grasi að álíka vinning:
Hver gulltafla er íslenzk endurminning.

Þannig er Kanada fléttað inn í íslenzkan veruleika með sérstæðum og eftirminnilegum hætti, ekki af neinum venjulegum hagyrðingi, heldur stórskáldi á heimsvísu, þótt hann hafi ort á tungu fámennrar og heldur fátækrar eyþjóðar. En hún var samt að hans áliti auðug stórþjóð vegna tungu sinnar og arfleifðar. Þeir sem fluttu þessa arfleifð vestur um haf á sínum tíma hafa notið góðs orðstírs og enginn vafi er á því að þeir hafa varpað ljóma á þann íslenzka veruleika sem þeir hafa lifað með þar vestra fram á þennan dag.
Um það verður aldrei seinat at segia, því að sagan um landnám víkinga og Vestur-Íslendinga er sígilt viðfangsefni eins og hvert annað ævintýri.
(Reykjavíkurbréf)

 

16. júlí, föstudagur

Borðaði með Kristjáni Karlssyni í Holti í dag.
Kristján sagði mér sögu af því þegar Þórbergur hitti Láru Ólafsdóttur í Reykjavík eftir 1960; þ.e. eftir að við Þórbergur kynntumst. Ragnar í Smára sagði honum frá því sem gerðist.
Lára var kaupkona á Akureyri. Þórbergur hafði kynnzt henni lítillega þegar hann var þar nyrðra, en ekki nóg til þess að hún kæmi við sögu í Íslenzkum aðli. En hann skrifaði henni þau frægu bréf sem birtust í Bréf til Láru. Lára var systir Ragnars Ólafssonar, konsúls og kaupmanns á Akureyri, sem var faðir Sverris Ragnars en hann var kvæntur Maríu Matthíasdóttur, Einarssonar, náfrænku minni. Við vorum miklir mátar. Þau Sverrir og María tóku alltaf sérstaklega vel á móti okkur Hönnu þegar við komum til Akureyrar. Þá fengum við góðan mat hjá þeim og eitthvað í glas og skemmtum okkur vel fram eftir kvöldi. María var einstaklega falleg kona, glaðvær og skemmtileg. Sverrir var andstæða hennar, sterkur persónuleiki og hæfði henni vel.En hlédrægur.
Lára lét þau boð út ganga til Ragnars í Smára að hana langaði til að hitta Þórberg. Ragnar sagði Þorbergi frá þessu og þeir fóru saman á fund Láru, þegar hún kom suður. Þórbergur varð, að mér skilst, eftir og sagði Ragnari frá því síðar að það hefði verið eins og við manninn mælt; Þórbergur hafði sofið hjá Láru í þetta fyrsta og síðasta sinn.
Hann trúði Ragnari fyrir þessu ævintýri en bætti því við að það væri algjört trúnaðarmál og mætti ekki fréttast.
En þú verður samt að skrifa það niður, sagði Þórbergur, því það má ekki gleymast!!
Mér skilst að Kristján hafi skrifað þessa frásögn Ragnars í dagbók sína en hann hefur haldið dagbók af og til um langan tíma,að mér skilst.
Kristján sagðist einnig hafa rekizt á það í dagbók sinni að Ragnar og Björg hafi farið í sumarbústaðin með börn sín einhverju sinni sem oftar og tekið með sér ljóðabók Steins. Þau hafi einungis lesið hana og það svo rækilega að þau hafi öll fengið leið á henni!
Lásu sem sagt yfir sig!
Kristján hitti Ragnar nokkru síðar og þá viðhafði hann þessi orð um Stein:
Klókt manndýr!
En um þetta er áreiðanlega hægt að fá betri upplýsingar í dagbók Kristjáns. Hún hlýtur að vera athyglisverð lesning. Ég vona að hann geymi hana; að hún verði tiltæk þegar fram líða stundir. Og hægt verður að birta hana, sársaukalaust.

Við Kristján töluðum líka eitthvað um nafna hans Albertsson. Vorum sammála um að grein Jakobs F. Ásgeirssonar á 100 ára afmæli Kristjáns 9. júlí sl., en hún birtist í Lesbók Morgunblaðsins þá um helgina, hafi verið ágætlega skrifuð eins og hans var von og vísa.
Ég sagði við Kristján að mér hefði þótt dálítið einkennilegt að lesa það sem Jakob hefur eftir mér í þessari grein.
Ég var búinn að gleyma því.
Ég reikna með því að það hafi verið skrifað í Reykjavíkurbréf í tilefni af einhverjum afmælum Kristjáns, man t.a.m. eftir því að ég skrifaði um hann í Reykjavíkurbréf þegar ég var  einhverju sinni sem oftar á hafréttarráðstefnunni í Genf á sínum tíma, og sendi það heim.
Jakob segir að ég hafi skrifað á áttræðisafmæli Kristjáns að hann væri “einhver mesti samtalsmaður, sem nú er uppi með Íslendingum, frásagnir hans eru óviðjafnanlegar, tungutakið og upplifunin sérstæð og sjaldgæf og yfirsýnin og minnið með eindæmum”.
Allt er þetta rétt og tek ég ekkert af því aftur.
Jakob bætir því við að ég hafi jafnframt sagt að Kristján Albertsson sannaði “með lífi sínu og starfi að einn maður tengir tvær ólíkar aldir og enginn skyldi efast um mikilvægi hinnar munnlegu geymdar”.
Það er einnig rétt.
En ég er ekki þeirrar skoðunar að Kristján hafi verið það íkon í menningarmálum sem um var talað á sínum tíma. Hann var harla þröngur og gat verið ofstækisfullur. Hann vildi láta setja ólátabelgi í búr á Lækjartorgi svo að fólk gæti séð renna af þeim milli rimlanna. Ástir í kvikmyndum taldi hann ævinlega einhvers konar klám og ég er ekki þeirrar skoðunar að hann hafi haft alltof mikið vit á ljóðlist.
Kristján Karlsson segir líka að hann hafi getið þess sérstaklega að ljóðlist væri ekki hans sterkasta hlið. Samt dáði hann Matthías Jochumsson og Einar Benediktsson, en ég held það hafi ekki síður verið vegna málsmenningarhefðar þeirra og þjóðernisafstöðu en ástar á ljóðrænum skáldskap.
Ég sagði Kristjáni Karlssyni að ég hefði einu sinni heyrt nafna hans Albertsson hrósa kvæði. Það var þýðing mín á kvæði eftir Gunther Grass sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins. Hrós hans kom mér í opna skjöldu. Kvæðið er nútímalegt, órímað og óstuðlað. En samt hrósaði Kristján því.
Ég gapti af undrun, en sagði ekkert.
Kristján Karlsson sagði að hann hefði hrósað kvæði mínu um Matthías Jochumsson í sín eyru. Það gerði hann aldrei við mig. Þetta erindi birtist í Tveggja bakka veðri og er í gömlum dúr, það hefur Kristján kunnað að meta. Samt er það harla nútímalegt, enda áhrif frá Borges.

Hef verið að stúdera Engla alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson. Þetta er að mörgu leyti ágæt skáldsaga. Mér finnst hún vel byggð og straumurinn þyngist þegar á líður söguna. Mér finnst aðdragandi þess að Páll söguhetja missir vitið afar vel upp byggður og sannfærandi. Einar Már hefur tímabil bítla og blómabarna í fingurgómunum. Ýmsar lýsingar hans á þessu tímabili eru bæði skemmtilegar og sérstæðar. Sumt kannski ekki mikilvægur litteratúr, en þó eftirminnilegt - og þá einkum sem sérstæð strákasaga.
Ég hef gaman af svona lýsingum, þekki sumt af þessu úr æsku minni, en hún hefur augsýnilega verið miklu fábreytilegri en æska Einars Más og kynslóðar hans. Við upplifðum ekki þá veizlu sem þeim stóð til boða. Við upplifðum einungis heimsstyrjöld!
Já, það eru hnökrar á þessari skáldsögu, en þó ekki alvarlegir. Það er einnig margt mjög vel gert og stundum komizt eftirminnilega og skáldlega að orði, enda er það styrkur Einars Más sem prósahöfundar að hann er eitt af helztu ljóðskáldum sinnar kynslóðar. Mér fannst það eftirminnilegt þegar hann lýsir Páli þannig að honum finnist hann hafi verið jarðaður í lifanda lífi og af þeirri ástæðu fer hann út í kirkjugarð og leggur blóm á sitt eigið leiði!
Ranghugmynd, hver veit það?
Það er einnig skondið að vitskertur maður skuli tengja Sláturfélag Suðurlands, eða SS, við stormsveitir Hitlers og Himlers. Svo virðast helzt allir geðsjúklingar vera sípælandi í einhverjum bókmenntum, ég hef sjálfur upplifað þetta, ekki sízt í starfi mínu sem blaðamaður. Andrúminu í kringlum Pál þegar geðveikin sækir á hann - og þá ekki síður heimili foreldra hans - eru ósköp sem enginn mundi óska sér. Og það getur varla neitt verið hörmulegra en horfa upp á barnið sitt breytast í þá sálrænu rúst sem þarna er lýst.
Þessir kaflar gefa sögunni vigt og eru að ég held merkilegar lýsingar, upplifaðar, sérstæðar og eins og ég sagði - sannfærandi.
Englar alheimsins eru að mörgu leyti athyglisverðar bókmenntir og engin strákasaga. Sérhverju skáldi er nauðsynlegt að vaxa upp úr stuttbuxunum. Það gerir Einar Már í þessari sögu. Og lýsingar hans á því geðveika fólki, sem þarna er á ferðinni eru engin gamanmál, þótt broslegar séu, heldur drastískur harmleikur; að mörgu leyti áleitinn, en umfram allt sorglegur. Það er deginum ljósara að sagan er sprottin úr persónulegum sársauka.
Ég er þess fullviss að hún er miklu nær einhvers konar ævisögu en skáldlegum spuna.

Um fjölmiðla

Ég hef stundum fjallað um fjölmiðla á þessum blöðum, einkum þegar þeir hafa gengið fram af mér.
Mér finnst stundum mikill hroki í fjölmiðlamönnum. Þeir þykjast allt vita, allt kunna. Þeir geta vaðið á skítugum skónum inn í tilfinningalíf hvers sem er. Þeim kemur ekkert við, hvernig spor þeir skilja eftir sig. Þeir hafa helzt alltaf rétt fyrir sér. Sumir fjölmiðlar vilja helzt aldrei leiðrétta ranghermi og ef þeir gera það, þá er það gert með hálfum huga.
Í Morgunblaðinu var nú í vikunni athugasemd frá manni sem hafði sent athugasemd í DV, en hún hafði verið birt með þeim hætti sem DV-mönnum þóknaðist. Það voru teknar úr henni málsgreinar.
Sem sagt ritstýrð!
Af þeim sökum var hún birt í heild í Morgunblaðinu og svartletrað það sem DV hafði sleppt.
En það eru fleiri fjölmiðlar sem eru viðkvæmir fyrir leiðréttingum, jafnvel ríkisútvarpið. Ég sé ekki betur en stundum séu athugasemdir vegna ranghermis birtar þar með hangandi hendi. Það er forkastanlegt. Þeir sem ævinlega þykjast geta gagnrýnt aðra eins og þeim sýnist er svo sárt um eigið skinn að þeir treysta sér ekki til að birta viðkvæmnislaust athugasemdir við ranghermi í eigin málgagni.
Þetta er ekki lýðræði.
Og þegar hrópað er á torgum um prentfrelsi sem undirstöðu lýðræðis, fæ ég stundum gæsahúð. Þeir sem hæst hrópa meina ekkert með því. Þeir hrópa bara til þess að dreifa athyginni frá raunverulegri afstöðu þeirra sjálfra til prentfrelsis; eða málfrelsis. Þeir eru oft einóðir. Skortir smekk og eru því miður einatt illa ræktaðir og lítt menntaðir. Af því sprettur minnimáttarkennd. Ég sé ekki að stjórnmálamenn þjáist af henni með sama hætti og athyglisfíklar á fjölmiðlum. Flestir stjórnmálamenn eru lítt áberandi og þjást síður af athyglisfíkn en margir fréttamenn. Samt eiga þeir allt sitt undir athygli og dægurglamri.
Öllu er ritstýrt - og þá ekki sízt sjónvörpunum. Ég hef lent í samtölum á ljósvökum þar sem ég hef verið spurður um afstöðu til ákveðinna efna. Það er ómögulegt að taka þátt í slíkum spurningaleik. Ástæðan er einfaldlega sú að þar er öllu rækilega ritstýrt. Maður er látinn segja það sem ljósvakarnir vilja,. en ekki það sem maður telur sjálfur nauðsynlegt.
Ég var ekki alls fyrir löngu í samtali á Stöð 2 vegna þess að þeir voru eitthvað að fjalla um Mál & menningu og fákeppni á bókamarkaði. Ég svaraði því til að ég hefði engar áhyggjur af þessari samkeppni. Máls & menningar-menn hefðu öðrum fremur kunnað á markaðinn, það sæist á velgengi forlagsins. Þetta gamla forlag gamalkunnra komma og stalínista hefði lagað sig svo rækilega að nýjum aðstæðum að það hefði hrist af sér slyðruorðið, losað sig við fortíðina og gert út á markaðinn af færni og fyrirhyggju. Þeir væru nú eitthvert bezta dæmið um velgengni á frjálsum markaði. Mál & menning væri sem sagt orðin ímynd markaðsaflanna.
Ég talaði eitthvað fleira um þetta mál en þegar samtalið var sent út í sjónvarpinu var búið að klippa allt burtu sem máli skipti, nema það eitt að ég hefði engar áhyggjur af Máli & menningu!
Ég stóð þarna eins og afglapi á torgum. Ég var í hlutverki fíflsins. Í sjónvarpinu birtist beinagrind af málflutningi og hún harla óhrjáleg!
Svona ritskoðun er ekki árennileg enda höfum við ritstjórar Morgunblaðsins reynt eftir megni að forðast fjölmiðlana. Atlaga þeirra að texta annars fólks er með þeim hætti að ekki er við unandi. En þessari aðferð er einatt beitt af fullkomnu miskunnarleysi af þeim fjölmiðlum sem hæst hrópa um ritfrelsi og mannréttindi.
Allt í einu dúkkaði upp mikil “frétt” í fyrri viku um skuldir Hallvarðs Einvarðssonar, ríkissaksóknara. Þetta er gömul frétt eins og síðar hefur komið á daginn. Maðurinn hefur átt í skuldabasli frá því hann skildi við fyrri konu sína, það er allt og sumt. Það hafa allir vitað.
DV notaði þetta “frávik” til hins ítrasta. Það reyndi meira að segja að dylgja um mútuþægni Hallvarðs Einvarðssonar með því að segja í fimm dálka fyrirsögn á forsíðu að hann hefði átt aðild að “lekamálinu” - og var þá átt við greinaskrif Morgunblaðsins um Landsbankann á sínum tíma.
Agnes Bragadóttir skrifaði þær fréttagreinar og var vel að verki staðið. Við Styrmir bárum ábyrgð á þeim. Vissum að það gæti orðið eitthvert upphlaup vegna þessara skrifa og kom okkur ekki á óvart þegar rannsókn hófst. En í þessum skrifum var ekkert sagt sem ekki var rétt. Þau áttu fullan rétt á sér. Bogi Nílsson, þá rannsóknarlögreglustjóri ríkisins, sendi málið til ríkissaksóknara og fór það fyrir hæstarétt. Þar unnum við það. Agnesi bar engin skylda til að skýra frá heimildum.
Okkur þótti Hallvarður Einvarðsson sízt af öllu hallur undir Morgunblaðið, þvert á móti. Við töldum að ríkisrannsóknarlögreglustjóri og ríkissaksóknari hefðu sýnt of mikla hörku í þessu máli. En DV dylgjaði samt um það í tengslum við skuldir Hallvarðs að hann hefði verið hallur undir Landsbankann, eða Morgunblaðið, en það var auðvitað alrangt. Það eina sem hann var hallur undir var það sem foreldrar hans höfðu gefið honum, þegar hann var skírður, sem sagt nafnið Hall-varður!
Þetta “mál” hefur verið í öðrum fjölmiðlum og er allt hið fáránlegasta. Það skulda margir án þess að vera mútuþegar. Og ég er hálf hissa á því hvernig Þorsteinn Pálsson , dómsmálaráðherra, lét þennan málflutning sem hafði engan tilgang annan en róa Hallvarð út af gærunni, rugla sig.
En hann þurfti augsýnilega að gefa út einhverjar yfirlýsingar um að slíkar skuldir væru óæskilegar til að friðþægja fjölmiðlunum. Og e.t.v væri nauðsynlegt að breyta lögunum.
Það þarf að sefa rándýrin.
Við tókum engan þátt í þessari atlögu. Það var ekkert nýtt í þessu. Sem sagt, gamalt mál. Skuldir Hallvarðs jafnvel minni en verið hafði. Það vantaði bara upphlaup, einhvern æsing. Og svo þurfti DV á því að halda að stjórna umræðunni eins og sagt er á fínu fjölmiðlamáli.
Sumir fjölmiðlar eru nefnilega ekkert í því að segja frá því sem gerist og styðjast við staðreyndir en rjúka aftur á móti upp til handa og fóta, slá upp fréttum og reyna að stjórna umræðunni!
Gott dæmi um þetta er forsíðan á Degi-Tímanum miðvikudaginn 16. júlí sl. Ég sé ekki betur en þetta blað sé orðið einhvers konar dagblað fáránleikans. Það reynir ekki að segja fréttir, heldur selja “fréttir” - og samt selst það ekki!
DV er enn í vandræðum með útbreiðsluna, hún hefur ekkert aukizt þrátt fyrir breyttar forsíður og persónulegri skrif en áður. En í fyrrnefndu eintaki af Degi-Tímanum segir á forsíðunni, fimm dálka, um þá niðurstöðu hæstaréttar að ekki sé ástæða eða tilefni til að taka svokölluð Guðmundar- og Geirfinnsmál upp að nýju: Embættishrokinn skín í gegnum úrskurðinn
.
Þetta er fyrirsögnin á dagblaði sem Stefán Jón Hafstein gerir kröfu til að sé tekið alvarlega ! Ég les það að vísu sjaldan og tek það enn sjaldnar alvarlega. Sem betur fer er slík fyrirsögn nánast einsdæmi í íslenzkri fjölmiðlun. Og ég sé ekki að þeim sem stjórna Degi-Tímanum hafi tekizt það sem þeir ætluðu sér: Að stjórna umræðunni! Þessi fyrirsögn, ef hægt er að kalla hana því nafni, því hér var ekki um fyrirsögn að ræða heldur yfirlýsingu, er jafn lífvænleg og gervigæsir sem skotmenn nota til að laða að sér villibráð í mýrlendi!

Kvöldið

Hef verið að lesa bók eftir Peter Bernstein sem er sérfræðingur í fjárfestingum. Hún heitir Against the Gods. Fjallar um tölfræði og fjármál. Ég staldraði við svofelldar setningar: Að vera eins og sannleikur er ekki sama og sannleikur. Að eitthvað sé eins og annað er ekki sama og annað. En bezta fullyrðingin í ritinu er þessi: Óvissan gerir okkur frjáls; þ.e.  við vitum ekkert um framtíðina, þess vegna erum við ekki bundin af henni, við erum frjáls. Það á við um alla hugsun og allar athafnir mannsins.

Hlustaði á NBC-sjónvarpsstöðina um daginn. Samtal við Murray Lachlan Young. Hann hefur slegið í gegn í Bretlandi með upplestri ljóða sinna. Þau þykja fyndin og nógu gamaldags fyrir hvern sem er. Þau eru rímuð undir drep. Young segir að hann hafi ekkert lært af öðrum skáldum, heldur því sem faðir hans fór með fyrir hann þegar hann var drengur. Hann hefur engar áhyggjur af því þótt bókmenntamafían telji hann vont skáld. Hann kemur vel fyrir og öll er þessi uppákoma sérstæð. Hann hefur fengið tilboð uppá milljónir að mér skilst og á hann að lesa kvæðin sín á geisladisk. Það á að selja þau eins og heitar lummur, eða eins og hvert annað popp.

 

Sumir segja að alvöruskáldin séu sár og móðguð. Young sagði það ekki í fyrrnefndu samtali. En hann var hinn rólegasti og skemmti sér vel.

Ég sé ekkert á móti því að ung skáld rími; sé ekki heldur neitt á móti því að þau séu gamaldags; og sízt af öllu hef ég neitt á móti því að ljóðskáld nái til almennings. Það fer vel á því. Og vonandi er sá tími í nánd að almenningur taki ljóðum með sama fögnuði og fyrri kynslóðir.
En hitt er svo annað mál að Murray Lachlan Young er enginn Byron samtímans eins og reynt hefur verið að halda fram; ekki af bókmenntaelítunni að sjálfsögðu, heldur þeim sem eiga að selja geisladiskana!

Hef einnig verið að lesa  sjálfsævisögu Frank McCourt sem hefur alls staðar hlotið frábæra dóma og þykir einstök. Ég er sammála því að þessi bók er sérstæð og raunar eftirminnileg. Hún fjallar um yfirgengilega fátækt í Írlandi, sjúkdóma, kröm og kvöl. Og þá ekki sízt um drykkjuskap föður aðalpersónunnar. Samt virðist hann hafa verið bezti maður, en ógæfusamur. Kunni ekki að bregðast við freistingum sínum.
Ekki einn um það(!)
Bókin hefst á þessum setningum:
“Þegar ég lít um öxl til bernsku minnar undrast ég hvernig ég lifði af. Þetta var auðvitað ömurleg bernska: Hamingjusöm bernska er ekki umhugsunarverð. Verri en venjuleg ömurleg bernska er ömurleg írsk bernska og ennþá verri en hún er ömurleg írsk, kaþólsk bernska.”
Öll er bókin í þessum anda.
Dæmi:
Lítil stúlka er með berkla. Börnin bíða þess í ofvæni að hún deyi ekki fyrr en skólinn er byrjaður, en þá gæti verið hentugt að hún lokaði sínum ungu augum.
Ástæðan:
Þá yrði frí í skólanum, þá yrði erfidrykkja og þá fengju þau eitthvað að borða(!)
Minnir á ástandið á Vífilsstöðum þegar Egill í Stardal var þar og þeir máttu ekki sprengja á gamlárskvöld nema herbergisfélagi þeirra dæi fyrir miðnætti. Þeir biðu í ofvæni eftir því að hann legði upp laupana eins og ég hef víst drepið á annars staðar.

Hef einnig verið að lesa Harlot’s Ghost eftir Norman Mailer. Það er ekkert snilldarverk en gaman að sjá hvernig hann skrifar þessa bók. Það er kraftur í stílnum en hann er ekki eins litríkur og t.a.m. í skáldsögunni Kaldir karlar dansa ekki sem ég las þegar ég lá einhverju sinni í flensu fyrir nokkrum árum.

Helgarpósturinn kom ekki út á fimmtudagsmorgun, heldur þá um kvöldið.  

Ástæðan:             
Skuldir við Odda.
Blaðið var síðan prentað í prentsmiðju Ísafoldar.
Hvaða ályktun á að draga af þessu?
Að nú sé hægt að múta þeim á Helgarpóstinum?!
Eða - eru ekki allir þeir sem skulda upplagt mútuandlag?!
Þeir á Helgarpóstinum eru með Jón Ólafsson í Skífunni á heilanum. Kannski hann gæti útvegað þeim lánsfé?
Það væri svo sem eftir öðru.

Beið eftir Hönnu í hádeginu einn daginn í vikunni. Orti þá þessa snilld í góða veðrinu:

 

Það var maður myrtur
í miðbænum í gær.
Hann reyndi aldrei að troða
nokkrum manni um tær.

Hann var með bindi og barðist
í bökkum eins og gengur,
en vildi samt lifa og vera
vistaður hérna lengur.

Það veit víst enginn ennþá
hvar morðingja hans er að leita,
en hann gengur undir ónefninu
Örgumleiði streita.

 

Þannig er nú það!

P.S. Í nýju ritgerðarsafni eftir Havel gagnrýnir hann efnahagsæðið og svokallaða tæknimenningu sem geti rekið mann í blindgötu eins og hann kemst víst að orði, ef marka má grein í Morgunblaðinu eftir Kristján G. Arngrímsson, 17. júlí sl.
Hulda Valtýsdóttir var mjög hrifin af þessari grein og nefndi hana við mig um daginn.
Havel varar við hverskonar ofurtrú á úthugsað stjórnkerfi, hvort sem það heitir kommúnismi eða markaðshyggja. Samt er hann fylgjandi markaðsbúskap. Hann heldur því fram að endalok kommúnismans sé viðvörun til okkar allra. Merki um að tímabil hrokafullrar algildishyggju sé liðið eins og komizt er að orði í þessari grein. Nú sé kominn tími til að draga ályktanir af þessari staðreynd. Vandinn við tæknimenninguna sé sá að tæknilegar lausnir og tæknihugsun verði að markmiði í sjálfu sér vegna þess að öllum öðrum gildum er hafnað á þeim forsendum að þau séu blekking, “ópíum handa almúganum”, eins og Marx á víst að hafa sagt um trúna.
“En þetta leiðir til þess, að tæknigildið er eitt eftir, og tæknin verður þannig sjálf að því sem hún vildi hafna, tekur við hlutverki þess sem ekki er dregið í efa. En þá er komin heiftarleg mótsögn, vegna þess að það er aðal tæknihyggjunnar að hafna hvers konar dýrkun algilda og sættast einungis á nytjagildi”.
Sú fullyrðing er athyglisverð að kjarni evrópusamstarfsins hljóti að byggjast á því “að rækta þau gildi sem andi og siðferðilegur veruleiki evrópskrar sameiningar getur sprottið af”.
Havel segir að meðal þessara gilda sé virðing fyrir sérstöðu og frelsi hvers og eins; fyrir lýðræðislegu og fjölræðislegu stjórnkerfi; fyrir markaðsbúskap og grundvallarhugmyndum borgaralegs samfélags og réttarkerfis.
En hver er þá sá siðferðilegi veruleiki sem af slíkum gildum sprettur.
“Slíkur veruleiki verður aldrei búinn til, verður ekki skilgreindur sem tæknilegt kerfi. Siðferðislegur veruleiki er sá raunveruleiki sem maður sjálfur er sprottinn úr og maður verður jafnan að gæta sín á hrokanum sem er fólginn í því að halda að maður sé alveg sjálfsprottinn og fær um að skilgreina sjálfan sig. Þess vegna er leitin að siðferðislegum veruleika Evrópu ekki aðeins tæknilegt atriði, heldur líka huglægt- andlegt.”
Undir þetta er auðvelt að taka.

 

Í Englum alheimsins er talað um þann kulda sem er kallaður þjóðfélag. Það verða margir úti í þessum kulda. Sumir vegna ytri aðstæðna en líklega flestir vegna eðlis og eigin gerðar.
Ég spurði kaupmanninn í Svalbarða um það, þegar ég var að kaupa harðfisk og hákarl hjá honum um daginn, hvort það væri góðæri í landinu.
Hann sagði að svo væri.
Ég spurði hvort það væru ekki margir sem ættu bágt.
Hann sagði að svo væri einnig.
Allt of margir, bætti hann við. En erfiðleikarnir eru fólkinu sjálfu að kenna, sagði hann, þeir eru sjálfskaparvíti og krítarkortin eru verri en skuldirnar í gamla daga. Þetta er fólk, sagði hann, sem kann ekki að lifa.
Er það gamalt fólk? spurði ég.
Nei, sagði hann, það er ekkert frekar gamalt, þetta er fólk á öllum aldri.
Englar alheimsins eiga ekki endilega bágt af þjóðfélagsástæðum. Þeir eiga ekki síður bágt vegna þess hvernig litningarnir röðuðust við getnað. Þessi getnaður var þeim sjálfum óhagstæður. Sumir hafa lent á Kleppi, aðrir annars staðar. Þjóðfélagið þarf að leggja áherzlu á góðan aðbúnað handa þessu fólki. Það á erfitt uppdráttar.
Villi frá Skálholti, vinur minn, barðist við geðveiki alla tíð. Mér er nær að halda að hann hafi reynt að hylma yfir hana með áfengisdrykkju. Hann fann þegar geðveikin kom á hann. Þá þóttist hann ævinlega vera á túr. Ég hitti hann stundum undir þessum kringumstæðum. Þá var hann með lögg á sítrónuflösku, þóttist vera að drekka. En hann drakk lítið sem ekkert. Það var ekki áfengi sem háði Villa vini mínum frá Skálholti, heldur einhver sérstök tegund af geðsýki.
Margir drykkjumenn eru haldnir einhvers konar geðveiki. Þeir eru ágætir milli túra, en svo kemur sjúkdómurinn á þá og þeir detta í það, eins og sagt er. Einn þessara manna var Þorgeir Kr. Magnússon.
Þegar hann lézt í bílslysi á horninu fyrir framan lögreglustöðina við Hverfisgötu, var hann þekktasti utangarðsmaður bæjarins. Ég held hann hafi gengið yfir götuna á grænu ljósi, en bíllinn sem ók á hann var á rauðu ljósi.
Þannig kom dauðinn að Þorgeiri. Hann kom á rauðu ljósi.

Þorgeir þurfti umönnunar við. Hann var með einhverjum hætti öryrki. Þjóðfélagið, þetta kalda þjóðfélag, reyndi að rétta honum hjálparhönd. En það dugði lítt því að óvinur Þorgeirs bjó í honum sjálfum.
Þannig býr óvinurinn í mörgu af þessu fólki. Það er hægt að berjast við óvin sem maður horfist í augu við, en það er erfitt að berjast við þann ósýnilega óvin sem býr í manni sjálfum. Óvinurinn úti í kuldanum er viðráðanlegur, en hann er ópersónulegur og ekki allur þar sem hann er séður. Óvinurinn í eðli okkar er persónulegur, en ósýnilegur. Hann er einnig til alls vís. Stundum köllum við hann Bakkus, stundum eitthvað annað. Allir sögðu að óvinur Þorgeirs væri Bakkus.
En mér er samt nær að halda að Þorgeir Kr. Magnússon hafi átt við getnaðarmistök að stríða. Litningarnir rugluðust og hann leitaði á náðir Bakkusar þegar hann fann að innri óvinur hans sjálfs var orðinn fyrirferðameiri en svo að hann réði við hann ódrukkinn.

Við þurfum að hugsa um velferð hvers og eins; vista hvern og einn þar sem hann  á heima í þjóðfélaginu. Það eru ekki allir gerðir fyrir hið kalda þjóðfélag. Við erum misjafnlega útbúin. Sumir hafa engin tök á því að klæða af sér kuldann.
Steinn Steinarr sagði jafnvel að honum hefði aldrei fundizt hann vera af þessari veröld - og það hefur ekki heldur öðrum fundizt, bætti hann við.

Stundum hafa svipaðar hugsanir hvarflað að sjálfum mér. Umhverfið þykist vera mannúðlegt og gott, en það er eigingjarnt og grimmt. Það er frostkalt. Það er einungis einstaklingurinn, hver og einn, sem á til einhverja mannúð; einhverja hlýju. Ég sé af stórvelskrifaðri og óvenjulegri minningargrein Björns Sigurðssonar, lögregluvarðstjóra í Reykjavík, að lögreglan var Þorgeiri Kr. Magnússyni ekki einungis aðhald, heldur athvarf. Lögregluvarðstjóri sem skrifar með þessum hætti um utangarðsmann er réttur maður á réttum stað. Hann ber störfum sínum og umhverfi fagurt vitni.

Þessi sérstæða minningargrein er áreiðanlega engin tilviljun, hún er vitnisburður um íslenzkan kúltúr sem ég vona að þurfi ekki að víkja fyrir þeirri gervimennsku sem heimurinn otar að okkur öllum stundum.   
Ef mér væri falið að gefa út úrval minningargreina úr Morgunblaðinu, þá veldi ég grein Björns Sigurðssonar í það safn. Hún er dýrmætur vitnisburður um það bezta í fari okkar og umhverfi og ber þess vitni að það eru sólarblettir  í þeim kulda sem Einar Már kallar þjóðfélag.            
Grein Björns Sigurðssonar um Þorgeir Kr. Magnússon birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 3. júlí sl.

28. júlí, mánudagur

Nú er talað um að leggja niður það sem eftir er af málgagni Alþýðubandalagsins og gengur víst undir nafninu Vikutíðindi eða Vikublaðið, (ég sé það aldrei) og Alþýðublaðið og “sameina” þessi blöð Degi-Tímanum. Eigendur Dags-Tímans segja þó að Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkur muni ekki hafa nein áhrif á ritstjórnarstefnu blaðsins né íhlutunarrétt um ráðningu nýs ritstjóra, ef af yrði.
En þá má spyrja:
Til hvers eru þessir flokkar að “sameina” málgögn sín þessum vonarpeningi Sveins Eyjólfssonar og þeirra samfylgdarmanna hans sem standa fyrir útgerð Dags-Tímans?
Mundi þetta ekki allt vera einhvers konar matador?
Ég veit það ekki og velti því raunar lítið fyrir mér. Ég sé ekki betur en þeir ætli að afhenda Ámunda Ámundasyni Helgarpóstinn því að eigendur DV og Stöðvar 2 hafa víst engan áhuga á þeim vígvelli! Ámundi, sem uppnefndur er áman,  komst ágætlega að orði þegar hann sagðist ekki hafa neinn áhuga á því að eiga blað sem tæki fólk af lífi í hverri viku.
Ég hef stundum talað við Ámunda, hann er samtalsgóður og ég hef gaman af honum. Hann er alvörukrati og mér er til efs að hann sé mikill spekúlant.
Mér fannst það einnig dálítið hnyttið sem Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður eða “verktaki” á Alþýðublaðinu, sagði um þessa sameiningu.  Henni finnst hún víst lítið spennandi, sagði það væri fjósalykt af Degi-Tímanum!! Þetta var gott hjá Kolbrúnu. Hún var eins og barnið í keisaraleik H.C. Andersens; benti á að keisarinn væri ekki í neinu öðru en - fjósalyktinni!

Þetta var þörf áminning fyrir aðstandendur Dags-Tímans  og Stefán Jón Hafstein, ritstjóra blaðsins. Mér hefur sýnzt hann telji þessa fjósalykt hið eina sanna Channel-5!
En við sjáum hvað setur. Þetta er að sjálfsögðu ofur venjuleg íslenzk uppákoma; einhvers konar hráskinnaleikur eða tvískinnungur og hin raunverulega lykt er að sjálfsögðu - peningalykt. Hún er, því miður, orðin hin eina sanna tólg á Íslandi nú um stundir. Það er engin pólitík, engin hugsjón; ekkert.
Nema peningalykt.

Margrét Frímannsdóttir hafði miklar áhyggjur á þingi í vetur af því sem hún kallaði samþjöppun fjölmiðlavalds, ef ég man rétt. Þá hentaði slíkt tal. Nú hentar það ekki lengur. Samþjöppun skal það vera - og þá helzt í skjóli kapítalistanna! Nú hentar það í þessu uppákomuþrasi.
Sem sagt hentistefna.

29. júlí, þriðjudagur

Halldór Ásgrímsson hefur sett ofaní við forseta Íslands vegna ummæla um utanríkismál á blaðamannafundi í Washington  um daginn. Ég hringdi í Halldór, sagði honum að ég dáðist að hugrekki hans. Ég væri af gamla skólanum og teldi þessar athugasemdir réttar eins og embættið sé, í skjóli ráðherra.
Ópólitískt.
Það er ég líka sagði Halldór -  af gamla skólanum. Húrra fyrir honum!
Skrifum leiðara um málið.

Kvöldið

Heiðgul miðnætursólin hreyfist í
skýjum, en jörðin stendur
kyrr.

Þannig getur náttúran, sköpunarverkið, blekkt.
Jafnvel það.

31. júlí, fimmtudagur

Leiðari í Alþýðublaðinu í gær um vesturför forsetans. Þar er farið með himinskautum í væmni og manndýrkun. Ég geri því ráð fyrir að Össur Skarphéðinsson hafi skrifað þessa grein um vin sinn, hans heilagleika! Tækifærið notað til að ráðast undir rós á Vigdísi og Halldór Ásgrímsson.
Skrifum fréttaskýringu um þetta efni, en forystugrein Morgunblaðsins í morgun lýkur með þessum orðum:

“Frá stjórnskipulegu sjónarmiði séð er allt að því grundvallarmunur á því, hvort slíkar athugasemdir koma frá forsætisráðherra eða öðrum ráðherrum. Umræðurnar benda hins vegar til, að forsetinn hafi í ummælum sínum í Washington verið á mörkum þess, sem talið er eðlilegt eins og forsetaembættið hefur þróast á síðustu áratugum. Á athugasemdir utanríkisráðherra má þó líta sem ábendingu um að lengra verði ekki gengið án þess að það gæti leitt til alvarlegra umræðna um stjórnskipulega stöðu forsetaembættisins.”
En ætli ekki komi að því,þótt síðar verði?!

1. ágúst, föstudagur

Hef verið að hlusta enn einu sinni á njálulestur Einars Ólafs Sveinssonar. Tek eftir ýmsu sem áður hafði farið framhjá mér; t.a.m. orðinu eftirmæli sem nú er haft um minningarorð en merkir áminning á einum stað í sögunni. Síðar er merkingin samkvæmt orðanna hljóðan.

Síðasta tölublað Alþýðublaðsins kom út í dag. Þar er samþjappaðasta sjálfshól sem ég hef augum litið. Þar er einnig kokteill af grobbi og hvítri lygi og virðist hann valda slíkri sjálfsupphafningu að Narcissos verður eins og hver annar skuggi í samanburði við þá heljarblekkingu! Það eru allir snillingar sem komið hafa við sögu Alþýðublaðsins fyrr og síðar. Þar er engin meðalmaður. Ég trúi því vart að Össur Skaphéðinsson hafi skrifað kveðjuleiðarann. Held það hafi verið Munkhausen,endurfæddur.
Ég hef í raun aldrei gert mér grein fyrir því hvernig þetta fólk lítur á sjálft sig. Kolbrún Bergþórsdóttir segir að Alþýðublaðið sé skemmtilegasta blaðið - og á þá auðvitað við sjálfa sig! Það er kannski vegna þess sem það lagði upp laupana! Var Alþýðublaðið svo skemmtilegt að það gat ekki lifað? Allt er þetta raunar með ólíkindum og sé ég nú að þeir vitleysingar sem Einar Már lýsir í bók sinni um engla alheimsins  og höfðu á sínum tíma aðsetur á Kleppi hafa undanfarin misseri verið í napóleonsleik á Alþýðublaðinu! Þar var gálgahúmorinn! Mér er nær að halda að þetta litla blað hafi verið allt of lítið fyrir þessi ofurmenni!
Allt minnir þetta mig á það sem Einar Benediktsson sagði um dauða sinn. Honum hæfði enginn dauðdagi, nema heimsendir. Það voru mikil tíðindi þegar Einar Benediktsson dó. Þá hvarf andlegt mikilmenni til feðra sinna. En Alþýðublaðið deyr ekki með neinum brestum. Dauðdagi þess minnir á lauf sem fellur til jarðar á haustdegi.

Það er skrítið að lesa sumar greinar sem birtar eru í dagblöðum, einnig Morgunblaðinu. Kristín Ástgeirsdóttir alþingismaður skrifar nýlega grein í Morgunblaðið “Kirkjan þarf kvenbiskup”. Þar minnist hún á skáldsögu  Josteins Gaarders, Vita Brevis, sem ég hef fjallað um áður á þessum minnisblöðum. Hún talar um Floriu Emilíu sögunnar, unga ástkonu Ágústínusar kirkjuföður, eins og hverja aðra sögulega persónu! Josteinn bjó hana einfaldlega til í þessari sögu og skrifaði hana inní efnið eftir eigin höfði. Það gera skáldsagnahöfundar. Floria Emilía er sem sagt skáldsagnarpersóna, rétt eins og Salka Valka. En við finnum ekki Sölku Völku í símaskránni!

2. ágúst, laugardagur

Alþýðublaðið segir í gær að upplag þess hafi verið stærra en upplag Morgunblaðsins á tímum Finnboga R. Valdimarssonar og Gísla J. Ástþórssonar. Þetta er rangt. Styrmir sagði mér að Finnbogi Rútur hefði aldrei talað um að Alþýðublaðið hefi verið í stærra upplagi en Morgunblaðið um sína daga. Ég ætti svo sem að láta mér vel lynda þegar fullyrt er að Alþýðublaðið hafi verið stærra en Morgunblaðið í ritstjórn Gísla J. Ástþórssonar, en hann var á Alþýðublaðinu áður en ég varð ritstjóri Morgunblaðsins 1959 Þar áður á  Vikunni minnir mig,en fyrst á Morgunblaðinu.Var hafnað þar sem ritstjóra og átti því harma að hefna.

Ómar Friðriksson sem unnið hefur að fréttaskýringu um íslenzku blöðin í tilefni af hræringum á blaðamarkaðnum sagði mér í gær að hann hefði átt símtal við Össur Skarphéðinsson og hefði hann lýst fyrir honum að hann hefði sjálfur skrifað leiðarann í síðasta tölublað Alþýðublaðsins þá um nóttina, “með tárin í augunum”! Það er sem sagt Össur sjálfur sem er einn af englum alheimsins þarna á Alþýðublaðinu en sá sem skrifaði leiðarann var í stellingum Napóleons þegar hann var á leið út úr Rússlandi! Keisarinn skrifaði sem sagt sjálfur leiðarann með tárin í augunum.
En það er samt margt gott um Össur og þá bræður báða,Magnús og hann.Magnús gerði mig að þjóðskáldi Músavinafélagsins og Össur hefur góð tengsl við náttúruna.

Styrmir undraðist í gær að þessi skrif skyldu hafa farið í taugarnar á mér. Ég sagði að það sem ég vissi að væri ósatt færi í taugarnar á mér.
Hann spurði mig þá, hvernig mér hefði sjálfum liðið, ef ég hefði verið að skrifa síðasta leiðarann í síðasta Morgunblaðið sem kæmi út.
Ég sagði við hann, Ég hefði aldrei skrifað hann sjálfur!
Og ég get bætt því við að ég ætla ekki að vera á Morgunblaðinu ef skrifa þyrfti slíka forystugrein. Morgunblaðið er líklega ekki nógu skemmtilegt til að ástæða sé til að leggja það niður! Svo er guði fyrir að þakka að Morgunblaðið hefur vitað skilin milli menntaskólahúmors  og skemmtunar sem á rætur í fróðleik. Þess vegna m.a. er það jafn heilsuhraust og raun ber vitni. Það vinna ekki eintómir meistarar og snillingar á Morgunblaðinu sem betur fer. En þar er margt ágætlega vinnandi fólk og farsælt í störfum. Þess hefur Morgunblaðið notið, ekki sízt.

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra hringdi til mín í gær. Hann sagðist ekki eiga neitt erindi annað en þakka fyrir leiðarann um umhverfismál, þess vegna hefði hann hringt. Hann hringdi stundum þegar hann sæi ástæðu til að kvabba eða gagnrýna, en hann hefði einnig viljað hringja nú þegar ástæða væri til að þakka fyrir sig. Ég sagði að hann gæti hringt þegar hann vildi. Honum væri vel tekið á Morgunblaðinu eins og hann hefði séð. Hann sagði að það væri rétt. Ég sagðist hafa fylgzt með því að samstarfsmenn mínir hefðu afgreitt þrjár síðustu greinar hans vel og fljótlega. Hann kvað það vera rétt og lét í ljós ánægju með það.
Ég sagði við hann,
Fyrst varaformaður Framsóknarflokksins er að hringja langar mig til að segja við hann eitt orð til viðbótar.
Og hvað er það? spurði Guðmundur.
Ég var ákaflega ánægður með athugasemdir Halldórs formanns um daginn, mér fannst þær sýna hugrekki því að helzt  má enginn anda á forsetaembættið eða þann sem í því situr.
Guðmundur tók undir það en bætti við,
Halldór hefði mátt taka dýpra í árinni.
Það má vera, sagði ég.
Og það hefði Davíð einnig mátt gera, bætti Guðmundur við.
Ég mótmælti því ekki.
Það er merkilegt, sagði ég, að fólkið í landinu virðist taka þann sem kosinn er forseti í heilagra manna tölu.
Já það er engu líkara, sagði Guðmundur.
Og svo er hann kanóníseraður, sagði ég, jafnvel þótt hann sé gamall pólitískur syndaselur!
Þá hló Guðmundur Bjarnason, en ég bætti við,
Ég fann dálítið framsóknartikk í hjartanu þegar ég las athugasemdir formanns Framsóknarflokksins um daginn.
Ég heyrði á Guðmundi að honum fannst vera kominn tími til!

 

Ég sagði Styrmi frá þessu samtali. Hann sagði sem rétt er, að þeir séu tiltölulega fáir sem taka þátt í að gagnrýna forseta eða forsetaembættið. Fólkið sé viðkvæmt fyrir því.
Ég veit það, sagði ég. En það er m.a. skylda okkar að veita því aðhald, ekki síður en öðrum þáttum í íslenzku samtímalífi.
Styrmir hafði ekki á móti því, en taldi að fara þyrfti varlega. Ég sagðist vera sammála því, nauðsynlegt væri að fara með löndum þegar forsetaembættið væri annars vegar.
Styrmir sagði mér að Hallgrímur Geirsson hefði það eftir Magnúsi Gunnarssyni, fyrrum framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins, sem nú tekur þátt í einhverjum flugrekstri erlendis, að hann  sé þeirrar skoðunar að Ólafur Ragnar hyggist gegna forsetaembættinu í tvö kjörtímabil, en snúa sér þá aftur að pólitík sem hvítþvegið sameiningartákn þjóðarinnar og taka við forystu sameinaðra vinstri manna.
Ég sagði við Styrmi, Þetta kemur mér ekki á óvart. Geturðu trúað því að ég var að hugsa um það í morgun með sjálfum mér að Ólafur Ragnar Grímsson hefði mestan áhuga á því að verða forsætisráðherra? Til þess  yrði hann að snúa sér aftur að stjórnmálum og ég hugleiddi það með sjálfum mér að það mundi hann gera, þegar hann sem hvítþveginn forseti gæti í fyllingu tímans fengið leiðtogastarf vinstri manna á silfurfati. Styrmir sagðist trúa því að ég hefði hugsað um þetta, en honum finnast þessar hugmyndir harla merkilegar, þótt hvorki ég né Magnús Gunnarsson hafi minnstu heimildir fyrir slíkum bollaleggingum.
En það segir kannski einhverja sögu að okkur skyldi hafa dottið þetta í hug samtímis, Magnúsi í útlöndum en mér á þessu óútreiknanlega útskeri alheimsenglanna.

Síðdegis

Hef verið að fylgjast með heimildarmyndum um Hitler og nasizmann, að mörgu leyti athyglisvert. Geri mér betur grein fyrir andúð minni á manndýrkun eftir þessa þætti. Hitler sagði m.a.,
Það er kraftaverk að þjóðin skyldi hafa komið auga á mig meðal milljónanna.
Og ennfremur,
Það er gott fyrir stjórnvöld að fjöldinn skuli ekki hugsa.
Ég er hernámsbarn. Foreldrar mínir fyrirlitu nasizma. Faðir minn fyrirleit Hitler, já hataði nasizma; ekki sízt vegna þess að þeir réðust inn í Noreg, landið þaðan sem faðir hans hafði komið. Faðir minn dýrkaði Churchill. Ég er alinn upp í dýrkun á lýðræði og hatri á einræði. Samt þekki ég alla veikleika lýðræðis. Lýðræðið er að sumu leyti fyrirlitlegt í veikleika sínum, en það er eini kosturinn. Í skjóli lýðræðis geta illmenni  og ómerkilegir stjórnmálapopparar komizt til valda. Af þeim sökum hef ég fyrirvara á lýðræði eins og Platon. En ég legg meira upp úr því en hann og minna upp úr einræði. Ég fyrirlít einræði. Fyrirlít manndýrkun. Fyrirlít kraftaverkið sem Hitler nefndi. Ég er barn styrjaldar og veit  mætavel að hún átti rætur að rekja til illmennis sem fjöldinn dýrkaði og komst til valda í frjálsum kosningum. Það er kannski einna helzt af þeim ástæðum sem ég hef ævinlega haft fyrirvara á fjöldanum. Ég fyrirlít hann ekki, en veit samt að hann hugsar lítið sem ekkert. Veit að hann kom fulltrúa djöfulsins, Adolf Hitler, til valda í föðurlandi Goethes og Beethovens.
Hvernig má það vera?
Mergðin er ekki fólk, heldur náttúrufyrirbrigði. Hún lýtur lögmálum náttúrunnar; hún lýtur lögmálum náttúrulegrar hrynjandi. Hún hreyfist eins og aldan, hún fer eins og vindurinn blæs. Það gerir einstaklingurinn ekki. Það vissi Kirkegaard. Hann er minn maður.
Hann einn.
Hitler var einskonar stjórnmálapoppari. Guði sé lof að poppararnir hafa ekki vald til þess að drepa og þagga niður í fólki! Ég sé Hitler fyrir mér þar sem hann stendur andspænis þúsundum manna sem öskra af ánægju og taka þátt í æðinu. Og ég ber þetta saman við öskrið á popptónleikum. Hver er munurinn? Þetta er æði, þetta er uppnám; þetta er sefjun. Þetta er fólk sem hættir að vera fólk og hreyfir sig eins og aldan í storminum. Þetta er sama fólkið og kýs ómerkilega pólitíkusa til forystu í lýðræðislegum kosningum. Er einhver ástæða til að neita því? Er einhver ástæða til að blekkja sig með því að þetta sé eitthvert annað fólk, ó, nei, síður en svo. Þetta er sama fólkið og hafnar verðmætum, en öskrar og æpir með því sem er illt og einskis virði. Ég sé konurnar á fundunum með Hitler þar sem þær standa andspænis þessu gáfaða illmenni og æpa og öskra eins og í kynferðislegri fullnægingu, og þær minna mig, þessar konur, á stúlkurnar ungu sem veifa höndum á popptónleikum og öskra í æði sem ég skil ekki.

En þær eiga áreiðanlega flestar gott hjarta.Og æskufegurð.Þær eru einungis að leita að hamingjunni, eins og við Hanna þegar bið kynntumst á dansleik í Tjarnarkaffi um miðja síðustu öld.En það var ekki sefjun,það var rómantísk leit að hamingju.
Án leiðtoga,án poppsöngvaragoðs.

 En á bak við þetta pólitíska æði  og poppöskur er engin hugsun, engin þekking; engin rótföst sannfæring um mikilvæg verðmæti. Þetta er einungis hreyfing náttúrunnar, andsvar hugsunarlausrar og blindrar náttúru sem enginn skilur - og allra sízt hún sjálf. Þetta eru ekki viðbrögð einstaklingsins, manneskjunnar; þeirra sem leita að guðdómlegri vizku, þeirra sem leita að manninum sem einstaklingi. Þetta eru ekki viðbrögð þeirra sem njóta listar eins og verðmæta heldur æðis; þeirra sem njóta verðmæta eins og þau skipti sérstöku máli fyrir manninn og greini hann frá dýrum merkurinnar; nei þetta eru viðbrögð blindra náttúruafla sem eru að vísu ágæt út af fyrir sig, en lífsháskinn sjálfur þegar loddarar og stjórnmálapopparar taka þau í þjónustu sína og ná þeim á sitt vald eins og sirkusfólk sem temur rándýr að vilja sínum.
Og ég hef spurt sjálfan mig, Ó guð, hvernig stendur á því að þú hefur leyft þetta gegnum aldirnar? Hvernig stendur á því að þú hefur leyft manninum að afsala sér sjálfsvirðingu sinni og guðlegum mikilleika, þú sem ætlaðist til þess að hann bæri þér vitni og sköpun þinni? Hvernig, ó guð, stendur á því að þú leyfir manninum að afsala sér guðlegum innblæstri þínum, mennskunni, sérkennum hvers og eins?
Hvernig stendur á því að þú leyfir þessu afkvæmi þínu að týna sjálfu sér í æðiskasti blindra náttúruviðbragða?
Ég spyr og ég spyr enn og það er ekkert svar og það verður ekkert svar, aldrei. Einungis endurtekning á því sem er í ætt við ölduna; tortíminguna.

Kvöldið

Gunnar á Hlíðarenda talar ekki um vináttu við Njál þegar hann gefur honum 15 hesta af heyi og fimm hestburði af mat, heldur segir hann: “Góðar eru gjafir þínar en meira þykir mér vert vinfengi þitt og sona þinna.” Það má segja að vinátta og vinfengi merki hið sama - og þó(!) Í Íslenskri samheitaorðabók segir að vinfengi sé vinátta en vera í vinfengi við merki: að vera í kærleikum við. Vinátta merki: ástsemd, bróðerni, bræðralag, kunningsskapur, vinskapur, vinsemd; nálgast ást eða ástúð. Kærleikur nær líklega bezt merkingu orðsins vinfengi.
Það er gaman að hlusta á Njálu og velta fyrir sér hverri málsgrein, hverri setningu; hverju orði. Taka hvert orð og velta því við eins og steini, huga að því hvað það merkir og hvers vegna það stendur á þeim stöðum í sögunni sem raun ber vitni. Stíllinn minnir oft á annað efni frá 13. öld, einkum frásagnir í sturlungusafninu, en hann er þó mun skáldlegri með köflum og þá nær óbundnu ljóðmáli en sagnfræðilegri frásögn. Ég veit um engan frá þessum tíma annan en Sturlu Þórðarson sem bjó yfir slíkri ljóðrænni stílgáfu, nema ef vera skyldi Brand byskup Jónsson. En ef sagan er skrifuð um og eftir 1280 er hann löngu dauður, þegar hún varð til, því að hann lézt 1264.
Ef Sturla Þórðarson hefur ekki skrifað Njáls sögu, þá hefur einhver óþekktur snillingur sett þetta verk saman og að öllum líkindum unnið það upp úr styttri sögum sem hann hefur þekkt og haft tiltæk. Þannig taldi Borges að Íslendinga sögur hefðu orðið til; þ.e. úr smásögum. Langar sögur, sagði Borges, væru yfirleitt leiðinlegar en styrkur íslendinga sagna og ágæti þeirra fælist í samsetningu þeirra úr ýmsum þáttum og smásögum. Þetta hefur mér ævinlega þótt athyglisverð kenning - og það skyldi þó ekki vera að Borges hafi haft rétt fyrir sér um þetta og Njála sé þannig saman sett? Hún ber þess að minnsta kosti merki á ýmsan hátt. Það gera einnig fleiri íslendinga sögur, en þó ekki allar.

3. ágúst, sunnudagur

Svona ljóð getur manni dottið í hug þegar maður lítur í kringum sig:

O, tempora!

Við njótum landsins,
það fer heiðmerkurhugsun
um hugann
þegar við horfum blágresis-
bláum augum
þangað sem sumarbústaðurinn
stendur, kræklóttar birkihríslur
og fjallaþinurinn
við útikamarinn,

z-an
horfin

aðeins verslunarmannahelgar-
hávaði

matareitrun, timburmenn

niðurgangur.

Engum til z-unnar boðið.

Kvöldið

Höfundur Njálu hefur haft hvað mestan áhuga á því að segja spennandi sögu sem væri trúverðug með ýmsum hætti. En þegar farið er í saumana á þessari sögu blasir við að maðurinn sem heldur um fjöðurstafinn er skáldmæltur mjög eins og sjá má af ýmsum tilsvörum og þá ekki sízt tilhneigingu hans til stuðlasetningar í textanum: Mörður hét maður... segir í upphafi sögunnar. Síðar: “Hann stingur niður atgeirnum og stiklar í söðulinn... segir um Gunnar þegar þeir Kolskeggur leggja af stað í utanför sína. Frægasta málsgrein sögunnar, Fögur er hlíðin..., er ljóðrænn texti, samboðinn skáldi fremur en rithöfundi og minnir á þá höfunda sem hafa skrifað hvað ljóðrænastan texta á íslenzku, ekki sízt Halldór Laxness. Halldór lærði af njáluhöfundi að gefa konum nafn, eða hvort mundi ekki Guðrún náttsól minna á Ástu Sóllilju, slíkar nafngiftir eru ljóðskáldaverk.
Höfundur Njálu veit af umhverfi sínu að ekki er unnt að komast undan athæfi og ofbeldi ójafnaðarmanna hvernig sem reynt er. Af þeim sökum þvælist Gunnar á Hlíðarenda inn í hvert vígsmálið af öðru. Hann þráir frið en fær ófrið í anda sturlungaaldar. Hetjan kemst ekki undan umhverfi sínu og  ekki heldur örlögum sínum, ekki frekar en þeir vígamenn sturlungaaldar sem Íslendinga saga og aðrar frásagnir Sturlungu fjalla um.
Menn komast ekki svo glatt frá því að vega í knérunn, það veit höfundur Njálu öðrum betur.
Enginn hefur meiri unun af draumförum en hann og enginn kann betri skil á dularfullum fyrirbrigðum. Það er ekki einasta að Járngrímur gengur úr Lómagnúp og tekur á sig draumgervi dauðans, heldur gengur Svanur á Svanshóli inn í fjallið Kaldbakshorn “og var honum þar vel fagnað”. Hann var móðurbróðir Hallgerðar. En hin persónugerðu örlög sögunnar eru þó fyrst og síðast Njáll sjálfur sem segir í raun fyrir um alla framvindu og rekur hana áður en atburðir gerast og veit þá ævinlega, hvernig þeir muni gerast. Slík persóna er ekki til í öðrum sögum svo að ég viti. Örlögin sjálf persónugerð í Njáli á Bergþórshvoli. Þessi örlagahyggja blasir hvergi eins rækilega við og í sturlungasafninu og augljóst að höfundur Njálu hefur erft þessi örlagagen ómenguð og þau stjórna orðum hans og afstöðu oftar en svo að um tilviljun eina gæti verið að ræða. Þessa heiðnu afstöðu þekkti sturlungaöld af eigin reynslu ef draga má ályktanir af samtímaritum. Dulræn fyrirbrigði eins og við þekkjum af aðdraganda Örlygsstaðafundar eru svo mögnuð í þessum ritum - en þó einkum Íslendinga sögu - að það minnir á ekkert fremur en draumfarasögur Njálu og örlagalýsingar hennar.
Ekkert af þessu er nein tilviljun.
Njáls saga á að gerast kringum kristnitöku en andrúm hennar og umgjörð er ekki síður hið blóðuga aldarfar höfundar sjálfs. Slíkt rit hefur verið skrifað um samtíð höfundar, eins konar heimildaskáldsaga, þar sem Íslendinga saga er. Sturlungaöld birtist í Njálu þegar hún hefur breytzt í sannferðuga skáldsögu með rætur í heiðnu samfélagi og fjörbrotum mikilla örlaga.

6. ágúst, miðvikudagur

Orti þetta til gamans:

Sýndarveruleiki

Heyrðu, sagði hann,
og leit uppúr blaðinu,
hvernig væri að við færum
til Ríó de Janeró? Ha, sagði
hún, meinarðu þetta? Já, auðvitað,
sagði hann, Nú hvenær? spurði
hún undrandi. Kannski í kvöld,
sagði hann. Hvað áttu við?
spurði hún. Ég þarf að kaupa
ferðalagið, sagði hann. Kaupa hvað,
sagði hún. Jú, sagði hann, ég get
fengið Brasilíu og hvaða stað
á jörðinni sem er, þetta
fæst allt í tölvubúðinni
í Kringlunni, ég tek það með þegar ég
kem úr vinnunni.

Maður getur þá sparað sér
sumarfríið, bætti hann við
og sökkti sér aftur niðurí blaðið.

Og ennfremur:

“Hann hljóp meir en hæð sína

með öllum herklæðum, ok eigi

skemmra aptr en fram fyrir sik”

Þegar Sotomayor felldi 2.25
á evrópumeistaramótinu í Aþenu
fór hrollur um akkilisarhæl
kúbanskra áhorfenda, en
sjónvarpsþulurinn andvarpaði,
Maður sem hefur stokkið hæst
allra(!)
Þá varð mér hugsað til þín,
Gunnar Hámundarson

8. ágúst, föstudagur

Í ljósvökunum í gær voru samtöl við Halldór Halldórsson, Gísla J. Ástþórsson og Stefán Jón Hafstein. Fjölluðu ekki sízt um Morgunblaðið. Ég var spurður að því af hverju Gísla J. Ástþórssyni væri svona illa við Morgunblaðið.Ég svaraði því til að ég vissi það ekki.  (Hef þó heyrt að hann hafi horfið skyndilega af blaðinu á sínum tíma vegan ósættis,en það var fyrir mína tíð).
Gísli hefur aldrei haft þá afstöðu til blaðamennsku  sem einkennt hefur Morgunblaðið. Hann er á sigguviggu- línunni sem Gunnar Hansson og Ólafur Johnson í stjórn Árvakurs höfðu ofnæmi fyrir og vildu losna við úr Mogganum,þegar Gísli kom þangað aftur fyrir mín orð.
En við þeirri ósk eigendanna urðum við ekki. Og eigendur blaðsins sátu uppi með sína Siggu-Viggu!

En þannig var Alþýðublaðið á sínum tíma. Slík blaðamennska hefur aldrei hentað Morgunblaðinu.
Ég réð Gísla aftur að Mogga, hélt hann gæti fundið sig á blaðinu. En það varð ekki. Styrmir minnti mig á í gær að hann hefði verið talsvert á annan áratug á blaðinu  án þess njóta sín almennilega.Af Styrmis hendi  var þetta gagnrýni á ráðningu mína og þá ekki síður áminning um það að ég væri ekki sá mannþekkjari eða spámaður sem ég þættist vera!
En með okkur Gísla var alltaf vandræðalaust ,enda er Gísli ljúfur maður,en dulur.

Ég hef oft orðið fyrir vonbrigðum með fólk, bæði á Morgunblaðinu og annars staðar. Veit að það hefur stundum tekið mig langan tíma að komast til botns í fólki. Veit að þess eru mörg dæmi. En þó Gísli fyndi sig ekki á Morgunblaðinu er þetta tuð hans í garð blaðsins óþarft og  ég held þessi neikvæði tónn sé tilbúinn viðbrögð við gömlum vonbrigðum,því að hann var ágætur í samstarfi,en þó ekki til átaka úr því sem komið var.

Það er rangt ef hann hefur sagt að hann gæti ekki fengið grein birta í Morgunblaðinu eftir sjötugt, hann gæti ekki einu sinni fengið starf við gólfþvott á blaðinu. Hann getur að sjálfsögðu birt greinar í blaðinu eins og aðrir, en ekki sem starfsmaður á launum. Menn hætta á Morgunblaðinu sjötugir, en mega vinna út afmælisárið. Gísli var undir þessa sök seldur eins og eigendurnir Haraldur Sveinsson og Hulda Valtýsdóttir, svo og Þorbjörn Guðmundsson, Sverrir Þórðarson og aðrir. Enginn hættir með glöðu geði þegar heilsan er óbiluð. En menn verða að sætta sig við reglur, helzt án biturleika.
Nöldrið í Gísla er heldur hvimleitt og Morgunblaðið ætti annað skilið af hans hendi.
Mér skilst að bæði hann og Halldór Halldórsson hafi sagt að Morgunblaðið sé ekki skemmtilegt. Ef réttar upplýsingar og fróðleikur eru skemmtiefni, þá er Morgunblaðið skemmtilegt. En ef gálgahúmor og upphlaup í anda Hallgríms Helgasonar eru skemmtileg, þá er Morgunblaðið leiðinlegt.
Guði sé lof!
Það er nóg af leiðinlegum skemmtunum í þjóðfélaginu þó að Morgunblaðið hafi ekki forystu um þær.
Mér skilst líka að Halldór og Gísli hafi verið sammála um að ævintýrið í tengslum við Dag-Tímann sé dæmt til að mistakast. Ég hef engar áhyggjur af því, hvort það mistekst eða ekki. Ævintýrin eru orðin svo mörg á fjölmiðlamarkaðnum um mína daga og þau hafa mistekizt svo mörg, að ekki verður tölu á komið; Alþýðublaðið, Tíminn, Vísir svo að dæmi séu nefnd. Ég læt mér því í léttu rúmi liggja þó að Stefán Jón Hafstein hafi enn einu sinni þanið út brjóstið í fjölmiðlum og nú til að mata landslýð á því að Dagur-Tíminn sé blað allra landsmanna!!
Ég bíð bara eftir því að þessi blaðra springi.
Þá verður enginn heimsendir, ekki einu sinni hvellur.

Ég hef minnzt á það áður á þessum blöðum hvort spekingarnir sem alltaf eru að dæma störf blaðamanna Morgunblaðsins eins og hverja aðra svikna vöru láti sér aldrei í hug koma að þetta suð þeirra er rógur um störf annars fólks –og þá ekki bara einhverra ritstjóra-og getur komið við kauninn á þeim sem hafa heiðarlegan metnað og meiri getu en almennt gerist í þessum svokallaða fjölmiðlaheimi sem er þó enginn heimur í raun og veru, heldur sirkus þegar bezt lætur. Ástæðan er sú að góður fjölmiðill speglar daglegt líf - og það er oftast annaðhvort sirkus eða harmleikur. Þessi harmleikur birtist að sjálfsögðu í fjölmiðli sem tekur sig alvarlega. Það er því miður ekki hægt að breyta honum í skemmtiatriði.

Skrifuðum í dag forystugrein utan í þetta flugnasuð.

Við kaupum allan pappír hjá Norsk Skog og við Haraldur Sveinsson höfum setið dýrlegar veizlur hjá þeim í Noregi, ásamt Hönnu og Agnesi,konu hans.

Að ég sé að fara á fyllerí
með frændum vorum frá Norge,
það er víst rétt og það er af því
að þá get ég drekkt mine sorge!

Elías Snæland ráðinn að Degi-Tímanum. Breytir litlu því hann var á sínum tíma ritstjóri hins síðar nefnda. Ég hef kunnað vel við hann, þótt mér sé sagt hann sé haldinn morgunblaðsfóbíu. Þekki það ekki. En hann er þá ekki einn um það! Hann skrifaði af nærgætni og skilningi um ljóðabók mína, Tveggja bakka veður,  þegar hún var send í norrænu verðlaunakeppnina á sínum tíma.
Hann gat látið það vera.

12. ágúst þriðjudagur

Hitler var sameiningartákn. Sá sem gagnrýndi hann, gagnrýndi þjóðina. Er einhver munur á þessu eða því að forseti Íslands skuli vera friðhelgur; þ.e. að það megi helzt ekki gagnrýna hann. Sá sem það gerir má hundur heita. Hann er einna helzt ófriðhelgur. Hvaða munur er á þessu? Við þurfum að horfa í eigin barm. Þurfum að hrista af okkur þessa manndýrkun. Þurfum að gera okkur ljóst að það er ekki endilega eðlismunur heldur stigsmunur á kröfu nazistanna á allsherjardýrkun á Hitler og almenningsálitinu á Íslandi þess efnis að allir séu ágætir um leið og þeir setjast í eitthvert forsetaembætti; jafnvel þótt þeir hafi komið úr formennsku Alþýðubandalagsins sem á rætur í íslenzkum stalínisma. Þessi krafa um undirlægjuhátt við forsetaembættið er ekki reist á lýðræðislegum hefðum, hún á rætur í undirlægjuhætti. Hún er okkur til skammar: flatur fyrir mínum herra!
Hitler sagði að lygarar væru líka töframenn. Þau orð eru íhugunarverð, ekki sízt.

Sameining blaðanna, þ.e. sú ákvörðun að leggja niður Vikublað Alþýðubandalagsins og Alþýðublað Alþýðuflokksins og slá skjaldborg um Dag-Tímann, er fyrst og síðast áfangi á sameiningarferli vinstri manna. Ef marka má síðustu skoðanakönnun Gallups ýtir þessi samþjöppun undir aukið fylgi Sjálfstæðisflokksins sem mér skilst að sé nú rétt undir 50%. Og ég hef enga trú á því að þessi þróun eigi eftir að skaða Morgunblaðið ef vel er á málum haldið, þvert á móti. Dagur-Tíminn er dauðadæmdur, segir Indriði G. Þorsteinsson. Hann fullyrðir að bleyjubörnin þar á bæ muni ekki hafa erindi sem erfiði, enda seljist blaðið lítið sem ekkert. Indriði varð ristjóri Tímans 1961. Ég hafði engar áhyggjur af Alþýðublaðinu þegar ég varð ritstjóri Morgunblaðsins 1959.En ég fékk áhyggjur af samkeppninni þegar Indriði varð ritstjóri Tímans 1961. Hann veitti okkur sterkt viðnám og ástæða til þess þá að vera á verði og berjast af hörku við þá blaðamennsku sem Indriði stjórnaði á Tímanum. Ég sagði þetta við hann í símtali okkar í dag og honum þótti vænt um það. En það er rétt, ég meina hvert orð. Tíminn var okkur skeinuhættur uppúr 1961 og við þurftum á öllu okkar að halda til að hrista af okkur samkeppnina.
En það tókst.

Á þessum árum fór ekki framhjá neinum þegar “skúbbin” birtust í blöðunum. Við áttum mörg “skúbb”. Nú tönnlast allir á því sama. Stundum fara Stöð 2 og DV upp úr þessum farvegi og hengja einhvern í hita leiksins! Svífast þá einskis. Slík blaðamenska er ekki leyfð á Morgunblaðinu; ekki enn.

Talaði í dag við Baldvin Jónsson, fyrrum auglýsingastjóra á Morgunblaðinu. Hann rekur Aðalstöðina og viðhengi hennar. Ágætt samtal. Hann segir að þeir sem stjórna Frjálsri fjölmiðlun trúi því að þeir muni leggja Morgunblaðið að velli með Degi-Tímanum. Mikil er þeirra trú! Þeir trúðu því einnig þegar DV varð til á sínum tíma. Annars segir Baldvin ljótar sögur af siðblindu peningamanna á Íslandi nú um stundir og ekki hægt að hafa það allt eftir sem hann nefndi. Hann talaði um Jón Ólafsson, fullyrti að hann hefði verið bakhjarl Ólafs Ragnars í forsetaslagnum. R-listinn hefði ekki greitt auglýsingar á Stöð 2 fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Jón Ólafsson svífist einskis.
Ég veit ekkert um það, hef engin dæmi þess.
En Baldvin fullyrti og ég hlustaði. Tek enga afstöðu. Trúi engu - og þó öllu eins og ástandið er á Íslandi. Baldvin segir að Davíð Oddsson sé eini stjórnmálamaðurinn á Íslandi sem geri sér grein fyrir því hvað starfsemi Jóns Ólafssonar sé háskasamleg. Styrmir segir að það hafi komið fram í síðasta samtali þeirra Davíðs; að Jón sé sízt af öllu fínn pappír. Allir segja mér að hann sé að reyna að kaupa sér virðingu með því að nudda sér utan í forsetaembættið og vinstri flokkana.
Hvað veit ég?
Ekkert.
Það kemur í ljós hvort við verðum eins og eitt af siðspillingarlöndum þriðja heimsins; þessi skrínlagða heimska og skrautklædda smán, sagði Steinn sem alltaf sagði eitthvað af viti, eitthvað sem maður þurfti og átti að hugsa um og taka tillit til.
Og því utangarðsmaður,auðvitað.

Ég er alltaf að skilja Jón Eiríksson konferensráð betur. Hann sá um íslandsmál í Kaupmannahöfn á sínum tíma. Honum leizt ekki á blikuna. Hann kastaði sér í síki í Kaupmannahöfn,sagt það hafi verið af áhyggjum út af Íslandi (en var víst  ættlægt þunglyndi )
Það er ekkert síki í Reykjavík, svo er guði fyrir að þakka.

Bandarískur vísindamaður telur að Aswan-stíflan í Níl geti orðið til þess að seltan í Miðjarðarhafinu breytist og straumarnir úr Gíbraltarsundi norður til Íslands og Noregs geti haft í för með sér nýja ísöld innan hundrað ára. Við athugum þetta betur. Í BBC var sýndur þáttur um ísöld og Golfstrauminn. Hann breytti oft um stefnu frá 9000-15.000 f.Kr. og allt í hershöndum í Evrópu.
Allir eru með hugann við náttúruvernd ,það er gott. En þegar það sem gæti skipt sköpum blasir við, segir enginn neitt. Maðurinn er þeirrar gerðar, það er allt og sumt. Hann er ekkert merkilegri en svo. Á sínum tíma sagði ég einhvers staðar á prenti, Það er hægt að ganga í Atlantshafsbandalagið til verndar Íslandi en það er ekki hægt að ganga í Atlantshafsbandalagið gegn nýrri ísöld.
Ég stend við það.
Það er allt í hers höndum í heiminum nú um stundir. Einnig sköpunarverkið. Guð er kannski ekki í hershöndum, ég veit það ekki. En í kvöld sagði Anna sonardóttir mín þá setningu sem ég marka mest um ágæti mannsins og stöðu hans sem einskonar afleggjara af kaktusi guðs: Guð skapar gott fólk en það vill vera bófar(!) Hún horfir aldrei á sjónvarpsmyndir sem eru bannaðar börnum. Ef þær eru bannaðar börnum, segir hún, þá eru þær bannaðar börnum. Ef við eigum að spenna beltin, þá eigum við að spenna beltin(!) Ég hef engan frið fyrir henni þegar hún er með í bílnum! Ef við hin værum jafn þrekmikil gagnvart freistingunum og Anna litla væri heimurinn betri en raun ber vitni.

13. ágúst, miðvikudagur

Fórum norður í gær í blíðskaparveðri. Ókum norður Kjöl, 23 stiga hiti á Hveravöllum. Áðum við útsýnisskífuna norðan Hveravalla. Margir hafa orðið á vegi okkar, flestir útlendingar. Ferðin norður yfir hálendið er ógleymanleg. Útsýnið ólýsanlegt, sást inní sjöunda himin. Hlöðufell minnti á Jónas, Jarlshettur á Gizur jarl. Þær voru í svarblárri hringabrynju og hinar vígalegustu þar sem þær hölluðu sér utan í hvítan jökulinn. Bláfell svift eilífðarbláma nærverunnar. Hrútfell með hvítum kransakökutoppi. Og auðnin eins og eilífðin milli okkar og þeirra sem áttu á sturlungaöld afdrifaríkan fund á Kili.

Hlustuðum á njálulestur Einars Ólafs Sveinssonar, niðurlag. Ég hef alltaf talið að Hagkaup væri fleirtöluorð en eigendurnir mega víst ekki heyra það nefnt, þeir tala um Hagkaupið. Mér hefur fundizt það málglöp. En kaupið er oft notað í Njálu í svipaðri merkingu og við það situr. Æðri dómstóll er ekki til. Þá sé ég af sögunni að afhroð er komið af nafnorðinu afráð sem notað er í sömu merkingu. Þá segir í sögunni að sá geti lengi lifað sem veginn er með orðum. Það er víst hverju orði sannara. Björn í Mörk talar, ef ég man rétt, um að vera á varðhaldi í merkingunni á varðbergi. Það finnst mér skemmtilegt. Það er svo um Gunnar Lambason sem sagt er: Ló frá víða, þegar hann er að segja frá njálsbrennu í konungasölum Bretlandseyja. Um Kormlöðu er sagt að henni hafi verið allt vel gefið sem henni var ósjálfrátt, en það sem henni var sjálfrátt var henni allt illa gefið.
Skemmtilegt.
Talað er sérstaklega um fegurð hennar og minnir á vísu Davíðs Stefánssonar: Þinn líkami er fagur/ sem laufguð björk./ En sálin er ægileg/ eyðimörk!
Þá er einnig sagt að þeir Kári lögðu út frá Íslandi. Það finnst mér athyglisvert því venjulega töluðu 13. aldar menn,t.a.m. Snorri, um að fara út til Íslands, en utan til útlanda. En með sögninni að leggja er leyfilegt að nota atviksorðið út. Þá finnst mér skemmtilegt orðið  fargögn um farangur á skipi.

Áðum í Jónasarlundi í Öxnadal. Niður árinnar minnir á tímann. Það gerði einnig allt annað á ferð okkar austur á Hólsfjöll í dag. Áframhaldandi heiðskírt veður og hiti; 27 gráður á Víðirhóli, eitthvað svipað við Dettifoss. Niðurinn þar minnir ekki síður á tímann og gráa grjótið á Kristján Fjallaskáld. Það er svo sannarlega grátt, jafnvel grárra en hversdagsleikinn. Það er jafnvel svo grátt að það verður ekki síður eftirminnilegt en niðurinn og fossinn og gljúfrin í blárri móðu. Kristján Fjallaskáld hittir svo sannarlega á rétt lýsingarorð þegar hann segir á grjóti gráu í sínu fræga og eftirminnilega kvæði. En ekki hefði ég getað talað um það náttúrutröll sem Dettifoss er sem fornan vin. Ég held maður verði að hafa einhvers konar tortímingarkomplex til að taka þannig til orða. Svona fimbulkraftur vekur ekki síður með mér ógn og ótta en aðdáun og lotningarfulla tilfinningu fyrir óumræðilegri fegurð. Það er þetta tignarlega tortímingarferli náttúrunnar sem gerir hana ógnvekjandi og eftirsóknarverðan sálufélaga. Goðafoss  er eins og hvítur engill miðað við Dettifoss. Á Kili er til örnefnið Djöflasandur. Það minnir á hamslaust rennsli Jökulsár á Fjöllum. Það er eins og jörðin sjálf hafi breytzt í vatn. En það er í raun og veru Vatnajökull sem heilsaði okkur við Dettifoss og þar er krökkt af túristum. Svæðið verður eins og berjalyng með flugum og kóngulóm.
. Og ferðamennirnir eiga ekki orð. Þeir standa agndofa andspænis kraftinum í þessari mögnuðu íslenzku náttúru. Ég opnaði útvarpið við Dettifoss, hlustaði á fréttir. Það var verið að tala um lyf og verðlagningu á þeim og komizt einhvern veginn svo að orði, að í nokkrum tilfellum eigum við eftir að sjá (enska) betra verðlag. Guð sé oss næstur! Þetta fólk er eins og sandfok á öræfum íslenskrar tungu og líklega endar það með því að hún flosnar upp hvað sem melgresinu líður og breytist í einhvers konar orðflæði sem minnir að lokum á svartan sand auðnarinnar. En í fréttunum var líka haft eftir forseta landsins að móðurtunga þeirra sem hefðu flutzt vestur um haf væri enska! En þeir töluðu allir íslenzku - og betra mál en flestir nú um stundir hér austanhafs. Móðurtunga afkomendanna er aftur á móti enska, hvað sem öðru líður.

Við Goðafoss tókum við uppí tvö frönsk ungmenni og ókum með þau að Mývatni, kurteist ungt fólk. Við Dettifoss tókum við uppí ungt par frá Tékklandi og ókum með það fyrst í Ásbyrgi en síðan til Húsavíkur því þau ætluðu í hvalskoðunarferð. Á Húsavík tókum við uppí tvö þýzk ungmenni sem voru á leið til Mývatns og skildum þau eftir við Breiðumýri. Vonandi hefur einhver séð aumur á þeim. Fórum svo til Akureyrar og Eyjafjörðurinn skartaði sínu fegursta.

Spor í Öræfasandi

Á Mývatnsöræfum
eru margar vörður
sem tíminn
hefur skilið eftir
á torfærri leið
í kaupstað,
en stærsta varðan
Eilífur

skriðublátt fjall
norðarlega á heiðinni.

Við Dettifoss

Eilífur gægist
yfir Jökulsárgljúfrin,

fylgist með okkur
á vörðulausum
blindhæðum.

 

Kvöldið

Á Fjöllum

Við erum hætt fjárbúskap,
sagði konan,
og hundurinn hlustaði á
með athygli, sperrti
eyrun og lagði
kollhúfur, en ég var að biðja þá
að slá heimatúnið,

annars heldur fólk
að við búum á eyðibýli.

Í gamla daga
rauk á torfbæjunum
ef einhver var heima,
nú er hætt að rjúka.

Sagði konan

14. ágúst, fimmtudagur

Þegar við ókum suður Stóra-Vatnsskarð hugsaði ég til okkar strákanna sem vorum í vegavinnu hjá Jóhanni Hjörleifssyni og lögðum gamla veginn yfir skarðið. Það var þá sem Þorkell Zakaríasson barg lífi okkar Steingríms Hermannssonar þegar við sofnuðum út frá olíuvél sem reykti svo kyrfilega að tjaldið var orðið svart af reyk þegar þeir drógu okkur út úr því undir miðnætti. Ég held ég hafi minnzt á það einhvers staðar annars. En hvað sem því líður þá er varðan sem við hlóðum á Valadalshnjúk horfin. Hruninn þessi legsteinn á gamalli minningu.

Á leiðinni hugsaði ég með mér, Það eru ekki stjórnmálamenn sem hafa breytt Íslandi, heldur vinnuvélar.

Fékk skilaboð um símann þess efnis að Hannes Sigfússon væri dáinn. Við vorum þá að keyra norður Skagafjörð í yndislegu veðri og framundan fjörðurinn með djásnum sínum, Drangey, Málmey og Þórðarhöfða. Jóhannes afi minn sem fluttist með Elínu Thorarensen Hafstein móður sinni norður að Enni þegar Jóhannes sýslumaður, faðir hans, varð úti við túnfótinn í Hjarðarholti á Mýrum, hafði málverk af þessu útsýni í skrifstofunni sinni að Ránargötu 20 og var þess fullviss að þetta væri fegursta útsýni sem til væri á jörðinni.
En sem sagt, þarna heyrði ég lát Hannesar Sigfússonar.
Ég minntist samveru okkar í Þýzkalandi þegar við unnum með Edenkopen-hópnum að þýðingum á ljóðum okkar. Eftir það  var ávallt hlýtt á milli okkar.
Ég bað Morgunblaðsmenn að segja fallega frá láti hans á baksíðu og óskaði eftir því að annaðhvort Jóhann Hjálmarsson eða Þröstur Helgason skrifuðu nokkur orð á menningarsíðuna til minningar um Hannes.

Dymbilvaka hans er sérstakur áfangi í íslenzkri ljóðlistarsögu. Listrænn gleðigjafi.
Hannes var alvöruskáld og Dymbilvaka (1949) er bezta verk hans, að mér finnst. Held við Kristján Karlsson séum sammála um það. Fyrir kvöldfréttir var tilkynnt um andlát Hannesar svo ég hlustaði á fréttirnar til að heyra hvað þeir hefðu um þetta sérstæða skáld að segja.
En í fréttum Ríkisútvarpsins var ekki orð um andlát Hannesar. Það var svo sem eftir öðru. Það er allt rétt sem Pétur Pétursson þulur  hefur sagt um metnaðarleysi okkar þegar verðmæti eru annars vegar  - og arfleifðin.
Ég gleymi því ekki hvernig Ríkisútvarpið sagði frá andláti Einars Benediktssonar á sínum tíma. Ég er ekki að bera Hannes saman við Einar, en ég er þó að reyna að bera þessa tíma saman. Það er kollrak hvað nútíminn fer halloka í þeim samanburði.
Við höfum sáralítinn áhuga á verðmætum.
Það er ekki lítill atburður í samtímasögu okkar þegar Hannes Sigfússon kveður þennan heim. Hann var í fremstu röð íslenzkra skálda. Og hann var brautryðjandi.
En ekki orð um það í fréttum Ríkisútvarpsins!
Ætli það hafi verið hringt mörgum kirkjuklukkum þegar holdsveikisjúklingurinn Hallgrímur Pétursson gaf upp öndina? Það held ég ekki. Eða listaskáldið Jónas Hallgrímsson? Það held ég ekki heldur. Samt eru þeir einu mennirnir í samanlagðri sögu Íslands, auk Jóns Sigurðssonar, sem hafa vaxið inn í þjóðarsálina og verða þar meðan við heitum þjóð.
Kannski hafa tímarnir ekki breytzt eins mikið og ég er stundum að halda fram! Kannski hefur ekkert breytzt, alls ekkert. Við erum eins og gyltan undir trjákrónunni; lítum aldrei til himins.
Týnum sjálfum okkur við akarnið(!)

15. ágúst, föstudagur

 

Orti þetta í morgun.

Í anda Bólu-Hjálmars

Nú er allur blossi búinn
bráðum er ég allri rúinn
æsku minni og endaslepp
ævi mín og einkar snúin
öll mín samtíð heldur lúin
eins og var í Akrahrepp.

Kvöldið

Við Styrmir hittum Davíð Oddsson í Ráðherrabústaðnum í hádeginu í dag. Það var gott samtal og langt. Davíð þekkir vel skyldur sínar sem forsætisráðherra. Þegar við minntumst á forsetaembættið og vörn hans fyrir Ólaf Ragnar nú ekki alls fyrir löngu, sagði hann, að það væri ekki sitt hlutverk, að efna til óvinafagnaðar í þjóðfélaginu. Hann segir  það skipti sig engu hvort forsetinn hafi verið formaður Alþýðubandalagsins eða gamall sósíalisti, en bætti því við að hann væri mér sammála um, að það væri erfitt að láta sér lynda, að jafn ósvífinn og ómerkilegur pólitískur kjaftaskur um tuttugu ára skeið skuli taka við þessu embætti. Hann sagði að Vigdís hefði farið út fyrir sitt hlutverk á stundum, meðan hún var forseti. Þeir hefðu stundum beðið hana um að minnast á Nato í ræðum sínum þegar erlendir stjórnmálamenn hlustuðu á, en hún hafi þvertekið fyrir það. Þjóðin vill það ekki, sagði hún. En það eru 80% Íslendinga sem eru fylgjandi aðild okkar að Nato. Hún sat við sinn keip, lét Nato liggja milli hluta.
Einhverju sinni bar Vigdís sig upp undan smáathugasemd í Alþýðublaðinu. Davíð sagði að þetta væru heldur saklaus skrif miðað við það sem hann þyrfti að upplifa dag hvern. Þá leit Vigdís á hann og sagði,
Já, en ég er vinur fólksins!
Ég sagði við Davíð að ég teldi ekki mikla spillingu í kringum stjórnmálamenn á Íslandi. Þeir væru heldur atkvæðalitlir og flestir lítið þekktir. Þeir væru í skjóli örfárra forystumanna, t.a.m. væru allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í skjóli hans. Hann andmælti því ekki.Ég er sannfærður um að þetta er rétt og ekkert flaður af minni hendi.
Við töluðum um alla heima og geima. Það var jafn gaman að tala við Davíð nú eins og þegar bezt lét í gamla daga. Hann var ljúfur og opinn og raunsær. Hann hefur ekki trú á því að vinstri menn sameinist í kosningabandalagi fyrir næstu kosningar. Telur að gömlu forystumennirnir muni ekki víkja, en forsendur slíks bandalags eru auðvitað þær að Sighvatur Björgvinsson, Margrét Frímannsdóttir og Svavar Gestsson hætti í pólitík. Hann sagðist ekki sjá það fyrir sér. Honum líkar vel samstarfið við Halldór Ásgrímsson. Hann sagðist telja að það blundaði forsætisráðherra í öllum forystumönnum, Halldóri ekki síður en öðrum. Samt teldi hann að Halldór hefði ekki mikinn áhuga á því að verða forsætisráðherra í vinstri stjórn. Honum hafi ekki litizt á blikuna þegar hann virti fyrir sér þær fylkingar.
Auk þess  hafði hann tækifæri til þess að verða forsætisráðherra í þessari stjórn, bætti Davíð við.
Ég met það svo að Davíð væri reiðubúinn til að sitja í ríkisstjórn undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar, ef þess gerðist þörf. Hann telur ekki að það eitt blasi við að Halldór hljóti að verða forsætisráðherra í vinstri stjórn. Mér finnst þetta raunsætt mat, faglegt og að mörgu leyti drengilegt.
Styrmir skildi þessi ummæli á annan veg, þ.e. að Davíð hafi átt við að Halldór hefði getað orðið forsætisráðherra í vinstri stjórn, þegar stjórn Davíðs var mynduð. Styrmir telur að Davíð mundi aldrei taka í mál að sitja í ríkisstjórn undir forsæti annars en hans sjálfs.
Eða hvað mundir þú segja, ef þú ættir að verða aðstoðarritstjóri minn? spurði Styrmir.
Ég þarf að athuga betur ummæli Davíðs og spyrja hann um þau við gott tækifæri.
Ég sagði við Davíð að ég hefði áhyggjur af því að hégómaspilling væri í kringum forsetaembættið. Það kallaði á slíkt. Hann hafnaði ekki þeirri skoðun minni.
Hann er mjög raunsær gagnvart Jóni Ólafssyni og þróuninni á Stöð 2. Hann segir að þeir hafi stutt R-listann í síðustu kosningum og hann viti með fullvissu að vinstri menn hafi ekki þurft að greiða auglýsingar sem þar birtust fyrir kosningar. Ennfremur að það sé rétt að Stöð 2 hafi verið hlynnt Ólafi Ragnari fyrir kosningarnar. Ég held að á því leiki enginn vafi.
Davíð telur að stjórnmálamenn hafi verið meiri persónuleikar og eftirminnilegri áður fyrr en nú. Þá hafi einnig verið sterkari ráðgjafar en nú væri völ á. Þeir séu að vísu vel menntaðir hver í sínu fagi, en áður fyrr hafi ráðgjafar haft víðari útsýn en fagleg menntun veitir mönnum nú um stundir. Gæti bezt trúað því að eitthvað sé til í þessu.
Styrmir hélt því fram að nú væri í fyrsta sinn normalt ástand á Íslandi eftir lýðveldistöku. Það má áreiðanlega til sanns vegar færa og líklega ekki erfitt að sýna fram á það. Ríkisfjármálin í jafnvægi, engin verðbólga, eðlileg viðskipti við útlönd, rólegur markaður; sem sagt, eðlilegt ástand(!)
Við minntumst á kvótann. Það var í eina skiptið sem mér fannst Davíð ekki hafa það jarðsamband sem hann hefur að öðru leyti. Hann sagði að það væri lítið talað um veiðileyfagjald og kvótann. Hann hefði verið á fundi á Seltjarnarnesi ekki alls fyrir löngu og þar hefði því verið haldið fram að  þau mál væru ekki á dagskrá!
Þetta er auðvitað ekki rétt og reyndi ég að koma því til skila. Sagði m.a. að það gæti farið að kárna gamanið ef einhverjir alvörumenn tækju upp á því að bjóða fram til þingkosninga með veiðileyfagjald sem aðalmálið. Samt væru peningarnir ekki það sem ríði baggamuninn, heldur réttlætið. Ég hjó sérstaklega eftir því að Davíð mótmælti því ekki.

Við sátum frá 12.30-15.30 og áttum þetta góða samtal í jákvæðu andrúmi. Það ríkti hlýja og einlægni í Ráðherrabústaðnum þessa stund. Davíð sagðist búinn að skrifa smásagnasafn, velti því fyrir sér hvenær hann ætti að gefa það út. Í deiglu er afmælisbók um hann fimmtugan í janúar nk. Hann ætlar að láta þá bók nægja um sinn. Í henni á að vera útvalinn hópur vina og stuðningsmanna. Mér þykir vænt um að við Styrmir skulum vera í þeim hópi. Styrmir ætlar að ég held að skrifa um samskipti Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins. Ég sagðist ekki vera viss um hvað ég tæki fyrir; kvæði eða húmor Ólafs Thors? Davíð leizt vel á þetta allt, en ég sagði að ég mundi ekki vilja bera ábyrgð á grein Styrmis! Þá hló Davíð. En grein Styrmis verður aðalgulrótin. Bókin mun seljast út á hana! Satt að segja er ekki heiglum hent að skrifa um samskipti Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins. En ég fagna því að Styrmir skuli vilja taka að sér svo erfitt verkefni. Og ég sé ekki betur en Davíð þyki það hið bezta mál eins og nú er tízka að komast að orði.

 

17. ágúst, sunnudagur

Höfum verið með Morgunblaðsmönnum í Laxá í Leirársveit frá því í gær. Þá var hvass vindur og úrhelli, en hlýtt. Nú hangir hann þurr og vind hefur lægt, en það er svalara. Við Hanna höfum fengið 8 laxa svo það er heldur líflegt við ána. Mikil heilnæm ganga er ávísun á nokkur glös af bjór.

Fórum með Akraborginni því ég hef gaman af að tala við Óskar skipstjóra í brúnni. Karlarnir þar hafa frá ýmsu að segja. Óskar er sonur Óla Óskars, sem var Íslandsbersason.
Það var ládauður sjór. Ég horfði á hafið og ein og ein bára skaut kjóabringu en hvarf svo í ládeyðuna. Minnti mig á frægðina. Hún er eins og froðan í ládeyðunni.
Leit í DV á leiðinni upp á Akranes. Þar var samtal við Alan Alda, aðalleikarann í MASH. Hann segist elska Ísland. Mér er sagt að landið okkar sé í tízku nú um stundir. Ég er ekkert hissa á því. Það á frekar skilið að vera í tízku en allt það sem er í tízku. Hitt væri ekki verra ef tungan okkar og arfleifð væru einnig í tízku. Þá gæti verið að við lifðum af sem þjóð. Annars minnir DV mig oft á kýrhausinn. Það er ýmislegt skrýtið í þessu blaði. Um daginn var öll forsíðan undirlögð af frétt og mynd af manni sem ætlar að ánafna reðursafninu það litla sem undir honum er! Mér sýnist hann vera eitthvað drjúgur yfir því. Kannski sköndullinn á honum minni eitthvað á Jóhann risa. Hann var öllum mönnum stærri. En Jóhann blessaður var svo slappur að hann dróst varla áfram. Ég gæti ímyndað mér að kallinn á forsíðu DV sé með einhvers konar uppdráttarsýki.
Ég tók þessa forsíðu sem dæmi um hinn fáránlega sirkus samtíðarinnar í samtali okkar Davíðs um daginn.
Ég hef verið að hugsa um þetta samtal sem minnti á gamla daga; fór að hugsa um það sem Davíð sagði t.a.m. um Rolf Johansen stórkaupmann.
Þetta fólk hugsar allt öðru vísi en við, sagði Davíð, það er erfitt fyrir okkur að skilja það.
Sagt er Vigdís Finnbogadóttirhafi fengið enska konu til að mála af sér portrett. Málverkið hangir nú á Bessastöðum. En þegar því var skilað fylgdi reikningur með. Vigdísi hefur þótt hún sýna þessum enska listmálara mikinn sóma með því að bjóða henni að mála þessa mynd, en listmálarinn leit öðruvísi á málið og sendi milljón króna reikning með myndinni. Vigdís þekkti Rolf Johansen lítið sem ekkert skilst mér en hún tók upp símtólið og hringdi í hann, spurði hvort hann vildi fjármagna myndina. Rolf gerði það feginsamlega. Það hvarflaði ekki að honum annað en með þessu sýndi forsetinn honum mikinn sóma. Og milljón krónur fyrir slíkan heiður voru smámunir í hans augum, auk þess sem hann fékk birta mynd af sér með forsetanum við þetta sögulega málverk. Og Rolf Johansen velti því að sjálfsögðu fyrir sér hvers vegna forsetinn hefði hringt í hann. Vigdís hefði valið hann úr stórum hópi ríkra kaupmanna. Honum hefði sem sagt hlotnazt heiður umfram aðra! Og hann mátti una jafnvel við heiðurinn og forsetinn við málverkið!
Rolf Johansen þakkaði guði fyrir að hafa fengið tækifæri til að snara út milljón krónum af fyrrnefndu tilefni. Það hefði ýmsum þótt dýrkeyptur heiður!

Þegar við vorum að tala um  Ólaf Ragnar og ferð hans til Kanada minntist ég á ferð okkar Hönnu til Toronto í vor. Það gaf Davíð tækifæri til að vefengja þá fullyrðingu mína að Íslendingar væru að meiri hluta vinstri sinnaðir. Hann sagði að forsætisráðherra Kanada hefði sagt við sig á sínum tíma, að Vestur-Íslendingar væru allir íhaldssamir hægrimenn. Ég er svo sem ekkert hissa á því. Margir forystumenn Íslendinga í Vesturheimi voru ósköp sérvitrir og íslenzka vinstri stefnan á rætur í sérvizku sem er misskilinn heimaalningsháttur...

 

18. ágúst, mánudagur

Mér skilst  laxinn skynji ekki sársauka og hann hafi stutt minni en gullfiskurinn hefur ennþá styttra minni, eða 20 sekúndur. Það er engu líkara en háttvirtir kjósendur séu eintómir gullfiskar!
Enn er úrfelli með köflum og misvindasamt við Laxá í Leirársveit. Reyndi áfram við fluguna í morgun en gekk ekki. Fengum þó 9 punda fisk í Steinsholtskvörn. Þar sáum við 15-17 punda fisk, leginn. Hann stökk úti í miðri á og minnti á Gunnar á Hlíðarenda því að hann stökk hæð sína í öllum herklæðum. Var hinn vígalegasti. Reyndi við hann þó nokkra stund en hann gaf sig ekki til. Held við séum búin að fá 13 eða 14 laxa og einn sjóbirting. Kominn tími til að halda heim.
Það var úthellisrigning í nótt og ég svaf eins og sagt er í fornum sögum með erfiðum draumförum. Vaknaði á milli. Fyrst dreymdi mig tvær stórar líkkistur og eina litla í einhverri kirkju sem ég þekkti ekki. Fannst ekki endilega að kisturnar kæmu mér við. Slæmt að vakna við svona draum. Þegar ég sofnaði dreymdi mig annan draum, ekki betri. Við Hallgrímur Geirsson vorum eitthvað að þvælast með smábarn og við það var bundinn sími, ef ég man rétt. Fannst þetta barn þó ekki endilega á mínum snærum, en það er víst ekki gott að dreyma barn nema sveinbarn sé og sjálfur eigi. Veit ekki hvort þetta var sveinbarn eða ekki en það var að minnsta kosti ekki á mínum vegum, þótt ég væri eitthvað að þvælast með það ásamt Hallgrími.
Þegar maður dreymir svona vonda drauma er gott að biðja guð um það að þeir merki ekkert í sjálfum veruleikanum.

En hvers vegna dreymir mann svona drauma? Það verður líklega aldrei skýrt hvað sem Freud gamla líður, ekki frekar en sjálfur dauðinn. Þegar mann dreymir, upplifir maður einhvern innri veruleika sem heilinn skynjar án þess hann komi manni beinlínis við. Það sem er verst við suma erfiða drauma er sú staðreynd að þeir eru undanfari einhvers sem heilinn skynjar löngu áður en það gerist. En hvað það er, veit enginn. Þó hafa margir verið draumspakir, bæði fyrr og síðar - og þá ekki sízt í þeim ritum sem Sturla Þórðarson hefur brennimerkt sér með einhverjum hætti. Íslendinga saga sem á að vera samtímasagnfræði, en er þó líklega einhvers konar heimildarskáldsaga um samtímaviðburði, er full af slíkum draumförum, ekki sízt fyrir Örlygsstaðafund.
Við vitum ekki hvað draumar boða, ef þeir boða þá eitthvað á annað borð; ekki frekar en fólk á liðnum öldum. En af sögunum má sjá að það upplifði ýmislegt í draumi sem átti eftir að verða í veruleika. Ég hef einnig gert það, ekki sízt vegna þess hve Hönnu dreymdi oft fyrir því sem átti eftir að gerast. Sjálfur hef ég einstaka sinnum dreymt slíka drauma. En mig hefur líka dreymt vonda drauma án þess þeir kæmu fram á nokkurn hátt, svo er guði fyrir að þakka. Oft er ljótur draumur fyrir litlu efni. Vonandi upplifði ég það í nótt. Kannski voru þessir draumar fyrir ömurlegri reynslu okkar í morgun :
Við vorum á leið í bílnum að ánni en þá flugu allt í einu þrír eða fjórir spóar upp af veginum og einn þeirra lenti framarlega á bílnum. Hann lá á götunni og ég tók hann upp. Hann horfði dapur og undrandi á mig og það setti að mér hroll. Makinn sveimaði yfir okkur og vall. Spóinn var dauðadæmdur og ég varð því miður að ganga frá honum. Þetta þótti mér ekki skáldi sæmandi, að drepa annað skáld - og miklu betra - á þeim slóðum sem spóinn hefur helgað sér.
Það er ekki sízt hann sem gerir Ísland yndislegt.

20. ágúst, miðvikudagur

Sumir hundar hafa mannsvit
sumir menn hafa hundsvit,

þannig líður tíminn
í kolaportinu
eins og óð fluga.

Jóhann Hjálmarsson vakti athygli mína í morgun á því að í sumar hefði staðið yfir sýning í Árbæ á myndum og ljóðum reykvískra skálda en hvorugur okkar kæmi þar við sögu. Við erum slíku vanir. Ég get þó ekki kvartað yfir tómlæti vegna ljóða minna, síður en svo. En ég er borinn og barnfæddur Reykvíkingur. Ég hef ort nokkuð mikið um Reykjavík, að minnsta kosti mörg kvæði úr æskuumhverfi mínu. Þetta tómlæti gæti því verið særandi. Mér er vel tekið í Noregi, mér er vel tekið í Þýzkalandi, mér er vel tekið í Bretlandi, mér er vel tekið vestanhafs - alls staðar nema á þessum æskuslóðum mínum; hvað veldur? Hverjir sjá um svona sýningu? Er það fólk með tvö skráargöt í andlitinu? Ég veit það ekki, nenni ekki að setja rannsóknarnefnd í málið. Þetta fólk hverfur einn góðan veðurdag eins og dögg fyrir sól. Þá hættir það að geta talið sjálfu sér og öðrum trú um að  þessi skráargöt séu himinn yfir höfði okkar. Það er ekki gott fyrir skáld að vera dæmt inn í þögnina en það hefur svo sannarlega verið reynt hvað mig snertir. Ekki af öllum, heldur sumum.
Sámur hafði mannsvit, aðrir hafa hundsvit. Stundum hefði ég átt að láta hundsvitið vita af því að atgeirinn er heima. Það mætti syngja í honum oftar en raun ber vitni. Það mætti syngja í honum í þögninni. En hún getur svo sem verið ágæt - og kannski eina vörnin gegn Merði Valgarðssyni. Hann er einn örfárra sem lifir njáluna af. Illmenni kunna sitt fag, þau eru ósýnileg í myrkrinu eins og skugginn, en þau sjást í sólinni.
Það er gott, þá veit maður af þeim.
Ég veit af þeim. Ég hef þurft að vita af þeim, en  ég hef ekki elt þau inn í myrkrið. Það gerði Gunnar. Það varð honum að fjörtjóni.

22. ágúst, föstudagur

Hef lesið margt eftir George Orwell. Á sínum tíma fór ég yfir ljóð hans og þau höfðu áhrif á mig. Hann er gott ljóðskáld. Síðan hef ég lesið margt eftir hann, nú síðast Down and Out in Paris and London. Í fyrrahlutanum er fjallað  um fátæklinga í París en umrenninga og betlara í London í síðari hlutanum. Það var eitthvað í fyrra hlutanum sem minnti mig á Sult eftir Hamsun. Aðalpersóna sögunnar hlakkar til að fara heim til Lundúna; þar er margt eftirsóknarvert, t.a.m. marmelaði! London er góð borg fyrir þá sem eru ekki fátækir, segir í sögunni. Ennfremur - munurinn á milljónamæringum og fólki sem vinnur í veitingahúsum er eiginlega enginn, það klæðist bara öðruvísi!

Var á fundi með Styrmi og Hallgrími Geirssyni í morgun. Rætt um mannaráðningar á ritstjórn fyrir veturinn. Hefur ævinlega verið erfiður þáttur í stjórnun blaðsins. Held við höfum komizt að góðu samkomulagi um hvernig að þessu skuli staðið. Fórum að tala um nokkra þætti í sögu blaðsins.
Hallgrímur minntist á umtal þess efnis að ég yrði sendiherra.
Styrmir sagði  það hefði ekki verið neitt umtal, heldur formlegt boð.
Jón Baldvin hefði gert mér það tilboð að verða sendiherra í London eða hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Það var 1991, ef ég man rétt.
Þetta tilboð bætti stöðu okkar ritstjóranna í samningum við Harald Sveinsson á þeim tíma ! sagði Styrmir.
Ritstjórar blaðsins áttu ýmissa kosta völ ef út í það fór.
Ég hugsaði dálítið um sendiherrastöðuna hjá Sameinuðu þjóðunum vegna þess ég taldi að það gæti verið skemmtilegt að vera í alþjóðlegu umhverfi, en launakjörin voru ekkert sérstaklega freistandi.
Ég get ekki hugsað mér sendiherrastöðu þar sem maður þarf að vera einhvers konar þjónn og snúast í kringum hégómalega ráðherra og forseta. Það er líklega að mestu hægt að sleppa við slíkt í New York. En ég lét ekki freistast. Held að Morgunblaðsmenn hafi metið það. Hallgrímur var hissa á því að mér hefði verið gert þetta tilboð á sínum tíma, hann hélt þetta hefði verið eins og hver önnur kjaftasaga.

Ég sagði Hallgrími frá því að Jóhann Hafstein hefði hringt til mín þegar hann var forsætisráðherra upp úr 1970 og boðið mér að verða fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hjá Sameinuðu þjóðunum. Hann var þakklátur maður og hjartahlýr. Mat mikils það sem fyrir hann var gert. Ég hafði skrifað samtal við hann sem birtist 5 dálka á forsíðu Morgunblaðsins á sínum tíma, þvert ofan í þær skoðanir Eykons að Geir Hallgrímsson ætti að taka við Sjálfstæðisflokknum. Ég sagði að í Sjálfstæðisflokknum ætti ekki að nota sömu aðferðir og í kommúnistaflokki Sovétríkjanna. Það ætti ekki að ganga framhjá Jóhanni Hafstein og ýta honum til hliðar fyrir Geir Hallgrímsson. Það væri ógæfusamlegt og yrði Geir ekki til framdráttar. Geir hafði ekki heldur áhuga á því sjálfur. Ég kom inn til Eykons og sagði að ég væri búinn að skrifa samtal við Jóhann og  þar væri lögð áherzla á forystuhlutverk hans í Sjálfstæðisflokknum. Það yrði 5 dálka á forsíðu Morgunblaðsins. Eykon sat við skrifborðið sitt. Hann leit upp og horfði á mig nokkra stund en sagði svo,

Jæja, Matti minn, þá er síðasta vígið fallið! Og Jóhann fór á forsíðuna. Eftir það var enginn vafi á því hver væri leiðtogi Sjálfstæðisflokksins.
Jóhann mat þetta mikils. Hann hringdi til mín þegar ég var á ferðalagi á Norðurlandi. Náði í mig á Akureyri og sagði,
Ég vil að þú verðir fulltrúi flokksins hjá Sameinuðu þjóðunum.
Ég sagði honum að ég gæti það ekki. Þetta var áður en Styrmir varð ritstjóri og ef ég hefði tekið þessu boði og farið til New York í tvo mánuði eða svo, hefði Eykon verið einn með blaðið, það dugði ekki. Ég þakkaði fyrir mig og hafnaði þessu ágæta tilboði. Jóhann átti erfitt með Sagt er en hann er eini forystumaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur gert tilraun til að launa mér stuðning. Öllum öðrum þótti það sjálfsagt, þegar við studdum þá.
Jóhann hafði stórt hjarta. Hann hafði viðkvæmt tilfinningalíf. Það var auðvelt að láta sér þykja vænt um hann. Freistingar hans voru mannlegar en þakklæti hans var stórmannlegt.
Ég held Hallgrími Geirssyni hafi þótt þetta athyglisvert. Hann sá í hendi sér að Morgunblaðið hefur ekki setið uppi með ritstjóra sína, þvert á móti. Þeir hafa stundum setið uppi með Morgunblaðið!

23. ágúst, laugardagur

               Fékk bakþanka.Var ég að rugla saman Orwell og D.H.Lawrenc í gær,það skyldi þó ekki vera ? Þarf að kanna það.

Fór í langan göngutúr frá Skerjafirði um Fossvog, Elliðaárdal og upp að Elliðavatni. Gott veður en mun svalara en verið hefur. Ég hef farið margar slíkar göngurferðir í sumar. Þessi ganga er sannkölluð heilsulind. Elliðaárdalurinn er nú skógi vaxinn. Hann er að breytast í einhvers konar paradís. Þar hitti ég í skógarþykkninu lítinn þröst sem var að baða sig í drullupolli. Ég tók hann tali og við röbbuðum saman um stund. Þetta var heldur skynsamur þröstur, horfði á mig, lagði kollhúfur, hlustaði á það sem ég sagði, horfði fast í augun á mér og hugsaði um það sem fram fór. Svo speglaði hann sig í baðvatninu, kvaddi og trítlaði inn í skóginn. Ég sá síðast til hans þar sem hann flögraði inn á milli furugreinanna.

Nú var enginn lax í rennunni við stífluna. Þeir eru allir komnir upp á flugusvæðið. Nú er ekki eins gaman að rýna í rennuna og áður, einu sinni taldi ég 27 laxa í hylnum. Þá var hann skemmtilegri en nú. Augun njóta umhverfisins betur en ella þegar það er kvikt af lífi.

 

Gekk fram á fjóra dökkbrúna hesta í Víðidal. Þeir litu upp og skoðuðu mig af dálítilli tortryggni; sáu að þarna var aðskotadýr á ferð. Ég reyndi að tala um fyrir þeim og lokka þá til mín, en án árangurs. Þá settist ég á girðinguna og tók upp gemsann, hringdi í Hönnu og bað hana að sækja mig upp að Elliðaárósi þar sem áin rennur úr vatninu.
Það var blár himinn yfir Víðidal, en ruðningur af Esjunni. Það veit á norðanátt á morgun.

Kvöldið

Hef verið að lesa bandarískar smásögur. Mér er sérstaklega minnisstæð saga eftir Thomas Wolf sem heitir The Hollow Men. Fjallar um fréttamennsku og mann sem deyr af því að falla af háhýsi niður á gangstéttina. Í þessari sögu er ýmislegt sem ég hef hugsað um. Forsenda hennar er spurnarfornafnið hvers vegna?
Í kvöld hélt ég samt áfram að kynna mér Orwell. Tók til við framhaldið af fyrstu bók hans Road to Wigan Pier. Það fjallar um kolanámumenn í Bretlandi og aðbúnað þeirra. Minnti mig á kolanámuna í Marl í Þýzkalandi og heimsókn mína í hana. Ég hef að mig minnir skrifað um hana og ort um hana ljóð sem birtist í Ferðarispum. Fór þangað með þýzkum málara sem ég kynntist hér heima og hitti í Köln. Hann var alvanur námum því að hann teiknaði þær og málaði. Fór með honum 1100 metra ofan í jörðina og 5 kílómetra í allar áttir undir bænum. Það var ógleymanleg reynsla.
Af lýsingu Orwells er augljóst að aðbúnaður þýzku kolanámumannanna í Marl minnti fremur á paradís en helvíti í samanburði við reynslu Orwells. Ég var þarna á ferð hálfri öld seinna en Orwell á námuflakki sínu, það hefur getað gert gæfumuninn.
Í þessu riti fjallar Orwell einnig um stéttaskiptingu, dvöl sína í Burma, mállýzku og aðskilnað fólks eftir stéttum og litarhætti. Allt eru það eftirminnilegar hugleiðingar, og þá ekki sízt athugasemdir hans um sósíalisma og eftirsókn mannsins eftir vélum og tækjum og tólum til að vinna fyrir hann störfin. Enginn sækir vatn í brunn, segir Orwell, sem getur skrúfað frá krana.
Þetta rit er skrifað áður en Orwell gerði sér fulla grein fyrir sósíalisma. Þessi rit eru einskonar aðdragandi að Katalóníu-bókinni sem fjallar um Spánarstyrjöldina og hvernig hann uppgötvaði hið illa eðli heimskommúnismans. Þetta eru sem sagt aðfararit FélagaNapóleons og 1984. Af þeim sökum ekki sízt er hnýsilegt að kynna sér þessi verk hins mikla brezka hugsuðar.
Orwell fjallar m.a. um vinnuna og leikinn og hvernig vinna eins er leikur annars. Maður sem hefur það að aðalstarfi að kenna píanóleik lyftir sér upp með því að mála grindverk eða grafa skurð. Píanóleikurinn er hans starf. Erfiðisvinnan er hans leikur. En maður sem hefur það að ævistarfi að vinna kol úr myrkri námu lítur aftur á móti á slaghörpuna eins og eitthvert töfratæki, leikfang sem vekur einungis gleði og unað, kemur erfiði ekkert við og er einungis til að leika sér að.
Þetta er hið afstæða viðhorf til vinnu og leikja.
Mér hefur dottið í hug í tengslum við þessar hugleiðingar Orwells hvort tölvutæknin sé ekki af svipuðum toga. Hún á að létta undir með manninum og þá einkum að því er tekur til hugsana hans. Hún á að flytja þær auðveldar til annars fólks en áður var hægt.
En hvert leiðir þetta?
Er þetta einungis góð þróun? Ég held að á því séu tvær hliðar. Tölvutæknin léttir mönnum störfin og er í sumum tilfellum bráðnauðsynleg. Án hennar væru líklega engar geimferðir. En hún á eftir að draga úr samskiptum fólks. Maður er manns gaman, segir hið fornakveðna en þróunin stefnir í þá átt, að tölvan sé gaman mannsins og engan veginn víst að það eigi eftir að hafa þau frjóvgandi áhrif á manninn og hugsun hans sem að er stefnt. Mér er t.a.m. til efs að þessi þróun eigi eftir að auðga bókmenntir, dýpka þær og skerpa. Hugsun mannsins tekur ekki sízt mið af umhverfinu og umhverfi tölvunnar er annað en umhverfi sálar og tilfinninga. Ég er hálf hræddur um að tölvuöldin eigi betur við tæknihugsun kommúnismans og peningakapitalismans en þá innhverfu íhugun sem er forsenda þess einstaklings sem Kierkergaard taldi að einn gæti orðið hið raunverulega sannleiksvitni um tilgang okkar og þá guðdómlegu sköpun sem okkur er ætlað að bera vitni um.

24. ágúst, sunnudagur

Bjart veður en heldur svalt. Göngutúr inn í Fossvog. Ánægður með helgarblað Morgunblaðsins. Gott efni í Lesbók-Menningarblaði. Athyglisvert rabb um útópíuna eftir Árna Arnarson. Þarf að kynna mér betur hver hann er. Samtal við Dagnýju Kristjánsdóttur, nýbakaðan doktor í skáldsverkum Ragnheiðar Jónsdóttur. Það má vera að kvennabókmenntir fyrri ára hafi verið afgreiddar sem afþreying, eða kerlingabækur, en mér er til efs  það hafi verið hægt að jafna þeim við það bezta sem Halldór Laxness skrifaði, eða Gunnar Gunnarsson eða Hagalín eða Guðmundur Daníelsson. Í stíl og andrúmi held ég að þær hafi frekast líkzt skáldsögum Kristmanns. Ég þekkti Þórunni Elfu og kunni vel við hana. Hún var nokkuð góður rithöfundur. Ég tel samt að hún hafi verið betri höfundur þegar hún skrifaði minningar sínar en skáldsögur.
Þegar endurskoðun hefst er hætt við að vegasaltið sporðreisist. Ég er hræddur um að nú sé tilhneiging til að breyta réttum hlutföllum.  En það gerir svo sem ekkert til. Framtíðin setur allt í réttar skorður. Það er um okkur mennina eins og fjöllin, nærveran byrgir útsýn. Hún afmarkaðar það sem við sjáum af fjallinu. Það er ekki fyrr en maðurinn er allur sem hann sést eins og fjöllin. Það er ekki hægt að sjá fjöllin, nema úr fjarlægð. Enginn getur séð manninn fyrr en hann er allur.
Og ekki einu sinni þá,eða hvað skyldu margir hafa breytzt í helgimynd?
Við erum alltaf í einhverjum krossferðum, hugsum lítið um aðferðir en heillumst af markmiðum. Af þeim sökum skipta aðferðirnar öllu máli nú um stundir. Síðar taka markmiðin við. Við getum ekki séð samtíð okkar með augum framtíðarinnar.
Við erum nærsýn.
Stundum eins og moldvarpan; eða gylltan við akarnið.
Af þeim sökum skiljum við ekki þá sem skrifuðu eins og hálfvitar um Munch eða Ibsen á sínum tíma; eða Hamsun. Það eru moldvörpurnar sem meta samtímann. Það er ekki fyrr en hann birtist arnaraugum framtíðarinnar sem hann blasir við; allur.

Kvöldið

Langston Hughes skrifaði fallega smásögu um sterkan, svartan útigangsmann sem braut niður kirkjuna og frelsaði Krist af krossinum. Athyglisverð smásaga og eftirminnileg dæmisaga. Hún heitir On the Road. F. Scott Fitzgerald skrifaði fallega sögu um gamla konu. Sonur hennar er rithöfundur og það er ekki eftirsóknarvert. Sagan heitir An Author’s Mother. Hún er skrifuð inn í indæla minningu gömlu konunnar þegar hún deyr. Þá vex hún inn í ljóð eftir uppáhaldsskáldið sitt, Alice Cary. Hún orti m.a. Pictures of Memory. Þar segir svo:
Among the beautiful pictures
That hang on Memory’s wall...

29. ágúst, föstudagur

Borðuðum kvöldverð með Kristínu og Hilmari Skagfield í Tallahassee,Flórída.. Þau eru einhver ágætustu hjón sem við Hanna höfum kynnzt. Hilmar er mikill hugsuður. Hann fylgist með skáldskap en þó einkum táknfræði miðalda og samfléttun trúarbragða. Á því hefur hann sérstakan áhuga. Við tölum stundum um það. Íslenzk arfleifð er honum mikilvæg. Hann gagnrýnir íslenzku sjónvörpin og telur þau ekki þekkja sinn vitjunartíma. Þau séu helzt ekki annað en útlent drasl. Hilmar er aðalræðismaður Íslands í Tallahassee. Honum líkar vel við Einar Benediktsson sendiherra í Washington. Ég er ekkert hissa á því. Við Einar erum skólabræður og ég þekki hann vel. Sonarsonur Einars Benediktssonar, greindur maður og góðviljaður. Við höfum alltaf verið miklir mátar frá því við vorum í M.R. Hilmar telur að Íslendingar hafi vart efni á sérstöku forsetaembætti. Forsætisráðherra ætti að gegna þessu embætti. Það mætti vel vera pólitískt eins og í Bandaríkjunum. Nú fylgir forsetaembættinu of mikill kostnaður. En það sem verra sé, slíkt embætti ýti undir hégóma og alls kyns stellingar sem eigi ekki við á Íslandi. Allt er þetta rétt. Hilmar er veraldarvanur og veit hvað hann syngur. Forsetaembættið er auk þess ekki lengur ópólitískt. Hvernig getur embætti sem Ólafur Ragnar Grímsson er í verið ópólitískt? Það er bæði fráleitt og raunar hlægilegt. Sjálfur fer hann sínu fram í þessu embætti og segir það sem honum sýnist. Ég spái því að embættið eigi eftir að verða pólitískara en nokkru sinni því Ólafur Ragnar er fyrst og síðast pólitískt animal ,en ekki þjóðhöfðingi.En það vita allir og hann hefur aldrei reynt að hilma yfir það.

Hef verið að lesa Gísla sögu Súrssonar og Grettis sögu. Ósköp eru þetta ólíkar sögur; andrúmið ólíkt og stíllinn. Þær minna lítið á Njálu. Þó einstaka sinnum.
Gísla saga er nútímalegust, að ég hygg. Niðurlag hennar virðist benda til þess að hún hafi verið rituð í kristilegu umhverfi; a.m.k. hefur hún verið afrituð í slíku umhverfi. Merkilegt annars hvað hún er ólík Njálu í stíl og frásögn. Silja Aðalsteinsdóttir hefur lesið Gísla sögu inn á segulband, ágætlega. Óskar Halldórsson las Grettis sögu, einnig heldur vel. Ég hjó  eftir því að í Gísla sögu er talað um hingað og virðist benda til þess að hún hafi verið skrifuð vestra. Þá er einnig talað um það í sögunni að land hafi víða verið skógi vaxið á þeim tíma þegar hún gerist. Það er augljóst að skógar hafa verið miklir á Íslandi í kringum 1000. Gísli átti sér tvær draumkonur, aðra góða en aðra vonda, eins og höfundur sögunnar hefði komizt að orði. Og hann átti sjö draumavetur, en var þá drepinn að fyrirsögn draumanna.

Í öllum þessum sögum eru langir kaflar sem fjalla um atburði austan hafs. Það er merkilegt hvað Íslendingar hafa verið með hugann við Noreg þegar þeir skrifuðu þessar sögur á 13. öld. Íslendingar hafa þá einnig verið með annan fótinn á Bretlandseyjum og í Noregi á þessu skeiði sögunnar.

Það er sitthvað í Grettlu sem minnir á Njálu; t.a.m. er talað um að Grettir hafi klappað um kvið konu stýrimanns. Það hefur eik er af annarri skefur, minnir á Eddukvæði. Móttaka merkir mótspyrna í Grettlu. Þar er einnig skírskotað í Bandamanna sögu eins og hún liggi á skrifborðinu hjá söguritara
Ég hef gaman af orðunum hýbýlaprúður og húsgöngull í Grettlu; þ.e. sá sem sinnir vel heimili sínu og sá sem fer mikið í heimsóknir á næstu bæi. Það ætti að taka slík orð upp í nútímamáli. Í Grettlu er talað um að hafa eitthvað í fleymingi, kalsa við, í staðinn fyrir að hafa eitthvað í flimtingum eins og nú er sagt; sbr. flæmingur.

30. ágúst, laugardagur

Ingó hringdi og sagðist hafa afhent doktorsritgerð sína (við Lundúnaháskóla ). Var glaður og eins og hann hefði losnað við mikla byrði. Flyzt til Edinborgar á mánudag. Mér finnst hann kvíða minna fyrir því nú en áður, en við sjáum hvað setur.
Halli er við nám  í Flórída, ásamt Brynhildi og þremur yngstu börnum þeirra. Er að sjálfsögðu með hugann við þau öll og vona að þeim farnizt sem bezt.
Ég sagði við Ingó að ég óskaði honum til hamingju með grettistakið.

Hann gengst ekkert upp við hrósi,sjálfsgagnrýnin er sterkari en sjálfsánægjan, en nú svaraði hann,
Já, það má eiginlega segja að þetta sé grettistak. Ég mundi aldrei skrifa svona ritgerð aftur.
(Innskot síðar : En það gerði hann,því hann skrifaði aðra doktorsritgerð í læknisfræði við Edinborgarháskóla þar sem hann hefur kennt veirufræði .).

31. ágúst, sunnudagur

Ingó hringdi til okkar í morgun og sagði að Diana prinsessa hefði farizt ásamt vini sínum í bílslysi í París. Ég skoðaði sjónvarpsfréttirnar en kallaði síðan erlenda deild Morgunblaðsins til starfa. Erfitt að bíða með fréttirnar til þriðjudags, en hvað skal gera? Eina leiðin að þær verði svo vel gerðar og ítarlegar að lesendum þyki fengur að þeim þótt þær komi með seinni skipunum.
Diana hefur verið einskonar poppprinsessa - en nú er ævintýrið úti. Ég hef verið lítið hrifinn af kóngafólki og stellingum þess. Það nærist á fjölmiðlun, hvað sem hver segir. Fjölmiðlar geta verið fíkniefni. Og það er markaður fyrir þetta fíkniefni.
Óhóflegur auður kallar á margvíslegt siðleysi og spilling. En fólkið er heillað af þessu prjáli. Og Diana nýtur almennrar hylli þótt ég gefi lítið fyrir þessar stellingar. Það vandamál sem brezka krúnan hefði aldrei getað leyst, hafa örlögin nú leyst fyrir hana. Það er sársaukafull lausn. Tveir drengir hafa misst móður sína, annað er hálfgert aukaatriði.
Allt er þetta ævintýri bæði sorglegt og nú síðast harmsögulegt. En massinn þarf að lifa sig inn í svona ævintýri, það er eðli hans. Hann er náttúrufyrirbrigði eins og örlögin. Hann hreyfist eins og öldurótið.
Og kyrrist í logni.

Hef verið að velta fyrir mér mynd sem okkur barst frá Montserrat. Hún er af húsarústum og öskuleðju í miðri höfuðborginni, Plymouh, tekin 28. ágúst. Minnir á Pompeij og Heimaey. En það er ekki þetta sem gerir myndina eftirminnilega, heldur fótur sem liggur á leðjunni en dauður líkami “óþekktrar persónu” eins og segir í myndatexta er grafinn undir öskulaginu.

Ég hef verið að hugsa um þessa mynd. Fóturinn er eins og höggmynd í sérkennilegu umhverfi. Tærnar fimm krepptar en ilin blasir við augum. Ímyndunaraflið fer af stað. Áleitin mynd og óhugnanleg. Listaverk eftir náttúruna sjálfa. Ef einhver listamaður hefði látið sér detta í hug að vinna slíkt listaverk í þessu umhverfi, hefði hann líklega orðið ódauðlegur. Hann hefði orðið brautryðjandi í höggmyndalist og verkið hefði orðið varða  í sögu myndlistar heimsins. En listamönnum dettur ekki í hug það sem náttúran gerir; og þá væntanlega hugsunarlaust. Náttúran er alltaf feti á undan hugsun mannsins. Þess vegna er mér til efs að listamenn eigi að reyna að stæla hana eða nota hana sem viðmiðun. Þeir komast ekki með tærnar þar sem hún er með hælana. Verk hennar breyta alls kyns listaverkum í síðbornar eftirlíkingar. Náttúran skapar myndir sem enginn listamaður hefur roð við. Og enginn listamaður getur líkt eftir henni án þess  það verði hjárómahjal miðað við tilbrigðin í tónlist náttúrunnar.
Listamaðurinn á því einungis einn kost, að upplifa náttúruna með sínum mennsku tilfinningum og lýsa reynslu sinni með þessum tilfinningum en ekki viðmiðun við tilfinningalaust umhverfi sem hann getur ekki keppt við.
Við getum aldrei orðið annað eða meira en tilbrigði við umhverfi okkar og þá stórkostlegu reynslu sem sköpunarverkið er. En við getum ekki keppt við náttúruna, getum ekki  keppt við umhverfið. Það á enginn eftir að skapa annað eins og jafn harmsögulegt listaverk úr náttúruhamförum og  eldfjallið á Montserrat 28. ágúst sl.; enginn listamaður; enginn snillingur.

Prinsessa fólksins

Tony Blair

Þeir voru þrír
þrestir
við nýtekið leiði.

Sól skein í heiði.

Grafin í hyldýpið
geimstöðin
MÍR

guðlaus sú veröld
sem að okkur snýr.

Flögrandi þrestirnir
flytja okkur þó,
jafnvel þann dag
þegar prinsessan

fagnaðarerindið eina,
yfirsterkara reiði.

Þeir voru þrír
þrestir
við ógróið leiði.

Sól skín í heiði.

4. september, fimmtudagur

Við Hanna fórum í gær til Hofsóss að skoða sýningu þar um vesturfara. Það var harla athyglisvert. Sýningin er mjög vel sett upp og fróðleg. Mér skilst hún sé unnin í samvinnu við byggðasafn Skagfirðinga, en hér er þó fyrst og síðast um einkaframtak að ræða. Fyrirtækið sem að sýningunni stendur heitir Snorri Þorfinnsson og er hlutafélag. Frumkvöðull þess og forstjóri er Valgeir Þorvaldsson sem er ættaður úr næsta nágrenni við Hofsós. Hann rakti ættir okkar saman, svo og ættir okkar Vilhjálms Stefánssonar, en þeir Jóhannes afi minn voru þremenningar.

Sýningin er þannig úr garði gerð að unnt er að slást í för með fólkinu sem hélt frá Íslandi til Vesturheims á síðsta hluta 19. aldar og frameftir þessari öld. Eitt tekur við af öðru og unnt að sökkva sér niður í hlutskipti, aðstæður, aðbúnað og væntingar þessa fólks sem leitaði gæfunnar vestan hafs. Má raunar segja að þetta fólk hafi flúið landið vegna kulda, vosbúðar og harðinda þar sem hafísinn, landsins forni fjandi, átti ekki sízt hlut að máli. Þá var landfastur ís víða og unnt að ganga upp á Akranes og mundi þykja talsverð tíðindi nú á dögum.
Í Vesturfarasetrinu á Hofsósi er margþætt starfsemi, fræðandi og skemmtileg sögusýning, ættfræði- og upplýsingamiðstöð, bóksafn, fyrirlestrasalur og verzlun. Fyrrnefnt fyrirtæki sem dregur nafn sitt af syni Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur sér um rekstur setursins en Snorri er talinn hafa verið fyrsta hvíta barnið sem fætt er vestanhafs.
Eitt helzta verkefni Snorra Þorfinnssonar er að vinna að auknum samskiptum Íslendinga og afkomenda vesturfara. Um þá og þann góða vitnisburð sem þeir hafa hlotið vestra - og þá ekki sízt mikilvæga arfleifð þeirra - var fjallað í Reykjavíkurbréfi í sumar og lögð áherzla á hvernig þeim hefur tekizt að bregða sérstæðum ljóma á Ísland og íslenzka arfleifð. Í framhaldi af því er ástæða til að nefna þessa merku sýningu þar nyrðra og drepa á nokkur atriði sem festast í hugann á því ferðalagi sem boðið er uppá í Vesturfarasetrinu nú um stundir. Þess má geta að það er vel húsað í gamla kaupfélagsbústaðnum á Hofsósi sem hefur verið gerður upp og lagfærður af smekkvísi og glæsibrag.

“Hrafnfundna land” - glæta á strandstað

 Það var ekki að ófyrirsynju að þjóðskáldið Matthías Jochumsson orti níðkvæði um Ísland á níunda áratug síðustu aldar, Volaða land. Það kæmust áreiðanlega ekki mörg skáld upp með það að yrkja slíkt ljóð um Ísland nútímans enda minni ástæða til að vísu. En aðbúnaður fólks var þó lítt skárri á Íslandi þegar Jónas Hallgrímsson orti Ísland, farsælda frón þótt árferði væri betra. Matthías Jochumsson orti Volaða land 1887-1888 og var kvæðið þá birt. Í því segir skáldið m.a. að Ísland sé “húsgangsins trúfasta móðir”; ennfremur að það sé skakkt eins og skothent kvæði og þannig “skapaði guð þig í bræði”! Séra Matthíasi er sem sagt allmikið niðrifyrir!! Í lok kvæðisins segir:

Hrafnfundna land
munt þú ei hentugast hröfnum?
héðan er beint vorum stöfnum,
hrafnfundna land.

Allt er þetta kvæði með ólíkindum en í því birtast þó áreiðanlega þau vonbrigði og það vonleysi sem hafði búið um sig með alþýðu manna og var forsenda flóttans vestur um haf. Óánægja með verzlunarhætti var áreiðanlega einnig orsök landflóttans. Af umræðum um verzlunina stofnuðu eyfirzkir bændur Gránufélagið utan um strandaða franska skútu, 1869. Það var táknrænt fyrir aðstæður allar. En það var upphaf samvinnuverzlunar. Um svipað leyti hófst sala á lifandi sauðum í landinu og voru það brezkir sauðakaupmenn sem keyptu kvikfénað á fæti og greiddu með gullpeningum. Þeir voru m.a. notaðir til vesturfara og áttu áreiðanlega einhvern þátt í því að sumt það fólk sem flýði land átti þess kost af fjárhagsástæðum. En skip Gránufélagsins flutti afurðir bænda til útlanda en nauðsynjar út hingað. Þetta var upphaf tímamóta og vísaði fram á veginn þegar þilskipaútgerð tók við sér og gerbreytti öllum aðbúnaði fólks við sjávarsíðuna, vélar voru settar í báta en það var fyrst gert á Ísafirði og togarar hófu starfsemi sína en togaraútgerð hófst uppúr aldamótum. Þá tók að birta til. Menn sáu glætu framundan, það dró úr vesturferðum, en þó héldu þær enn áfram um skeið.

Samkeppni um landflóttann

Talið er að um 7000 Íslendingar hafi flutzt vestur um haf á vegum helzta ameríkuagentsins sem svo var kallaður, Baldvins T. Baldvinssonar, en kanadastjórn gerði þessa umboðsmenn út á Íslandi og víðar um lönd og lofaði gulli og grænum skógum. Sigfús Eymundsson sem fæddur var 1837, mikill athafnamaður og þekkasti ljósmyndari síns tíma, var einn helzti umboðsmaður vesturferða, en skipafélög kepptu um þessar ferðir eins og sjá má á auglýsingum í íslenzkum blöðum frá þessum tíma. Þá sýna myndir landfastan ís, t.a.m. er harla athyglisverð mynd frá Djúpavogi, tekin 1873, og sýnir hafíshröngl við bryggju. Um svipað leyti tilkynnir Ancor Línan að hún flytji menn frá Íslandi til Winnipeg, að því er virðist um New York, fyrir 166 krónur. Sá merki athafnamaður, Þorlákur Ó. Johnson, birtir auglýsingu í Ísafold 1876 þar sem hann tilkynnir að hann veiti tilsögn í ensku en hann hafði verið í Englandi í mörg ár “og í Lundúnaborg um langan tíma, þar sem Enska er almennt best töluð”. Segir þar að 66 aura kosti á tímann fyrir einn nemanda en ef tveir séu kosti 50 aura á hvorn en 1 krónu ef þrír taki þátt í sömu kennslustund.
Veturinn 1887 var afleitur og einn sá versti um árabil; frosthörkur miklar, stormar og hafís. Hey lítil og vond frá sumrinu og fellir hér og þar, einkum nyrðra. Þó voru aflabrögð góð og grasspretta um sumarið. Hafísþokan spillti þó um sumarið á norðurlandi. En nýting heyja var samt furðanleg þrátt fyrir rigningar og skriðuföll.
Kuldakaflinn hófst 1859 og ætlaði aldrei að linna. Fyrstir héldu vestur um haf yfir hundrað sunnlendingar sem höfðu tekið mormónatrú og var Utah hin langþráða paradís. Þessir fólksflutningar stóðu svo frá miðri öldinni til 1870. Flestir fóru vestur um haf 1887, eða um 2000 manns. Alls munu um 16000 Íslendingar hafa farið vestur um haf á þessum árum. Sumir dóu á leiðinni, bæði úr vosbúð, sjúkdómum og jafnvel sólsting; það var ekki óalgengt. Þá fóru einnig allmargir til Brasilíu en þingeyingar stofnuðu félagsskap til að kanna landkosti þar eftir harðindakafla sem voru einsdæmi. Um 7000 fóru af Norðurlandi, innan  við 1000 af Vestfjörðum og Suðurlandi, heldur fleiri af Vesturlandi, en rétt innan við 4000 af Austurlandi. 294 Reykvíkingar fóru vestur um haf og 297 Vestmannaeyingar.

Ófrjáls vinnuhjú

Ástandið á Íslandi var ömurlegt á þessum árum eins og fyrr segir. Vistarbandið sem svo var nefnt var einskonar átthagafjötrar, fólgnir í því að skylda vinnuhjú til að ráða sig í vist og heftu lögin þannig frelsi fólks, en ýttu undir þá þróun að bændur fengju ódýrt vinnuafl. Bændur fengu allan arð af vinnu þessa fólks en það fékk fæði og húsnæði og þá einnig lítilsháttar kaup. Fjórðungur Íslendinga var vinnufólk á þessum árum. Það mátti ekki gifta sig og stofna heimili fyrr en það hafði fengið jarðnæði en að því var ekki hlaupið fyrir fátæka alþýðu. Þetta fólk mátti að vísu flytjast til Vesturheims, en gat það þó sjaldnast vegna fjárskorts. Fólk þetta átti ekki auðvelt með að flytjast að sjávarsíðunni því þar var litla vinnu að fá, en úr rættist nokkuð þegar þilskipaútgerð hófst. Þurrabúðarmenn eða tómthúsmenn bjuggu í verstöðvum eða sjóplássum í grennd við verstöðvar og lifðu að mestu á sjávarafla en höfðu jafnframt einhver  grasnyt og afnot af jarðarskika.
Í alfræði Menningarsjóðs, Íslandssögu eftir Einar Laxness, segir m.a. svo um þurrabúðarmenn: “Með konungsúrskurði 21.7. 1808 var bannað, að menn settust í tómthús við sjó, nema þeir hefðu grasnyt fyrir eina kú eða sex ær og kálgarð að auki, ellegar sérstaklega stæði á og yfirvöld leyfðu; voru slík ákvæði oft ítrekuð á 19. öld, en reyndust yfirleitt gagnslítil, og byggð við sjávarsíðu óx með aukinni kunnáttu og tækni í sjávarútvegi. Skv. lögum 1888 var bannað að byggja tómthús eða þurrabúð, nema ákveðinn landskiki fylgdi, a.m.k. 400 ferfaðma lóð, auk matjurtagarðs; ennfremur skyldi t. sanna fyrir hreppsnefnd að hann væri reglumaður og ráðdeildarsamur og ætti skuldlausa fjármuni að verðgildi a.m.k. 400 kr., auk klæðnaðar á sig og skyldulið sitt. Síðar var veitt nokkurt lánsfé til ræktunar á smábýlum við sjávarsíðu. ...Oft voru t. (þ.e. tómthúsmenn) einnig nefndir húsmenn, og varð það heiti og heitið t. (þurrabúðarmaður) í raun samheiti, þótt einhver munur hafi verið í öndverðu; er þá ætlað, að húsmenn hafi upphaflega leigt húsaskjól hjá bændum og haft jarðarafnot (stundum nefnt grasbýli); síðar, er þeir fluttust til kaupstaða í sjósókn eða daglaunavinnu, hafa þeir greint sig frá t. að því leyti, að þeir höfðu einhverja grasnyt en t. enga... Lagaákvæði um t. voru tilraun bænda til að hamla gegn tilfærslu vinnuafls á öru breytingaskeiði nýrra atvinnuhátta,  en t. urðu vísir að verkalýðsstétt hinna nýju bæja og kaupstaða.”
Það hefur sem sagt margt breytzt á Íslandi frá því þurrabúðarmenn kúldruðust í hreysum sínum við sjávarsíðuna og reyndu að sjá sér og sínum farboða, eða fátækt fólk og vonlítið reyndi að koma sér vestur um haf og höndla þá paradís sem agentarnir lofuðu. Margir vesturfarar urðu námumenn, ótrúlega margir gullgrafarar, og þá helzt austur af Halifax í Nova Scotia eins og um er fjallað í nýlegri bók um þetta efni, Caribou Gold Mines, 1864-1990. Námuminjar eru enn á þessum slóðum og hnýsilegt skoðunarefni þeirra íslenzku ferðamanna sem nú flykkjast til Halifax.
Lítið var ritað um vesturferðir framan af, en jókst er tímar liðu. Að vísu talað um vesturfárið og vesturheimskuna. Benedikt Gröndal skáld gagnrýndi þær í ritgerðinni um Vesturheimsferðir, 1888, en hún mun hafa birzt fyrst í Ísafold. Jón Ólafsson skáld og ritstjóri svaraði í ritgerð sem hann nefndi Eitt orð af viti um Vestrfara og Vestrheimsferðir. Benedikt Gröndal afklæddur af gömlum Vestrfara! Jón talar um þvætting Gröndals og óhróður, en þessar deilur höfðu lítil áhrif á landflóttann, heldur hitt að árferði batnaði á Íslandi þegar fram liðu stundir, framfarir bættu kjör fólks, fátæktin minnkaði og loks má ekki gleyma því að Kanada var ekki það gósenland sem umboðsmenn tönnluðust á, heldur tók þar að harðna á dalnum og áttu menn þá nokkuð erfitt uppdráttar þar vestra með köflum.

Horft fram - með gát

Allt er þetta byggt á hinni merku sýningu Vesturfarasetursins á Hofsósi sem er til þess ætluð að opna augu okkar fyrir því að við þurfum að vera vel undir það búin að harðnað geti á dalnum. Við þurfum að nýta landið og rækta. Taka nýrri tækni feginsamlega og af skynsemi og vera þess albúin að veðurlag geti breytzt um stundarsakir. Þá verðum við að hafa búið svo um hnútana að við getum mætt áföllum og erfiðu árferði.
Þess má að lokum minnast að blóðtakan var mikil á árunum 1850-1914 eða 16.000 manns eins og fyrr segir og nú skipta niðjar Íslendinga vestra tugum þúsunda. Þeir hafa komið ár sinni vel fyrir borð eins og minnzt var á í fyrrnefndu Reykjavíkurbréfi. En þeir sem heima sátu tóku einnig til hendi og hafa ekki síður gjörbreytt umhverfi okkar og framtíðarvonum.
Í lok vesturferða 1914 voru Íslendingar 88.076. Þeir hafa þrefaldazt á þessu tímaskeiði. Ef svo heldur sem horfir má því ætla að við verðum 7-800.000 eftir jafn langan tíma og liðinn er frá lokum vesturferða. Það þarf mikla fyrirhyggju að sjá þessu fólki öllu farborða og búa því það umhverfi sem er í fullkominni andstöðu við það volaða land sem Matthías Jochumsson orti um fyrir 100 árum, en yrði samkeppnishæft við útlönd. En til þess að svo megi verða þarf umhverfi og árferði að sjálfsögðu að leggjast á þá sveif að Ísland verði áfram vel byggilegt. Margt í umhverfinu lagðist gegn því á síðasta skeiði 19. aldar, ekki sízt náttúruhamfarir með kuldaköstum og þeim forna fjanda, hafísnum. En okkur stafar þá einnig hætta af okkur sjálfum, því að íslenzkt þjóðerni mun ekki standast gnauð tímans deginum lengur en innra þrek okkar leyfir. Arfleifðin er í senn bakhjarl og vegvísir á leið til þeirrar jarðnesku Jerúsalem sem allt snýst um í þessari völtu veröld.

(Notað í Reykjavíkurbréf)

Kvöldið

Þetta var skemmtileg ferð norður í land. Veður að vísu heldur vætusamt; þokur á Holtavörðuheiði. Hlustuðum á upplestur Óskars Halldórssonar á Grettlu og lukum bókinni í Hvalfirði á suðurleið. Margt er athyglisvert í þessari sögu. Ég held  Halldór Laxness hafi lært mest af stíl Grettlu. Fyndni hennar minnir einnig allnokkuð á húmor nóbelsskáldsins. Sumt minnir á Njálu, t.a.m. þegar talað er um að Glámur hafi verið brenndur að köldum kolum; sbr. Njálsbrennu. Þá segir Spes, kona Þorsteins drómunda bróður Grettis sem hefndi hans í Miklagarði, Eitt gengi yfir okkur bæði; minnir á Bergþóru. Í Grettis sögu kemur jötunn að sjálfsögðu fyrir, þar eru örnefnavitleysur þegar höfundur kemur norður í Þingeyjarsýslur. Hann skrifar Bandamanna sögu, Njálu (sbr. Þórhallur Elliðagrímsson) Bjarna sögu Hítdælakappa og Fóstbræðra sögu inn í Grettis sögu  og kann skil á þessum sögum öllum. Þessi mikla þekking veitir honum frelsi og græðir bæði stíll og andrúm sögunnar á því.
Grettlu lýkur sem einskonar dæmisögu og áminningu til samtímamanna höfundar á  sturlungaöld.
Vígamenn og hetjur geta verið ógæfusamar en gott líferni og guðrækileg afstaða eins og kemur fram í lokin hjá Spes og Þorsteini veitir fyrirheit um sæluríkt líf annars heims.
Þá er það ekki sízt athyglisvert að Sturlu lögmanns Þórðarsonar er getið í Grettis sögu, að mig minnir þrisvar sinnum. Og augljóst að hann hefur skrifað um þetta efni áður en sagan er fullgerð. Stuðzt er við frásagnir Sturlu.

Þá er þess loks að geta að Grettir er dulbúinn sem Gestur í sögu sinni og minnir á þegar Gunnar á Hlíðarenda fer dulbúinn á fund Hrúts og Höskulds í Dali vestur.

Höfundur Grettlu hefur gaman af örnefnum og umhverfi, ekki síður en höfundur Njálu. Hann leggur áherzlu á skógana í umhverfinu eins og höfundur Gísla sögu Súrssonar og raunar einnig höfundur Njálu og lýsir dvöl Grettis í Þórisdal við Langjökul en þessi dalur týndist og mér er nær að halda að félagarnir í Nafnlausa félaginu, þ.e. Björn Ólafsson, Haraldur, faðir minn, og fleiri hafi talið sig finna þennan dal aftur þegar þeir voru í útilegum sínum fyrr á þessari öld. Mér finnst merkilegt að höfundur Grettis sögu skuli nefna þennan dal því hann hefur verið lítt þekktur að sjálfsögðu, svona álíka lítið þekktur og “í fjöllum” þar sem Gunnar  faldi sig eftir að hann hafði heimsótt Hrút dulbúinn; sbr. Helgispjall.
Slík listaverk sem Grettis saga eru ekki skrifuð á okkar tímum, ekki heldur rit eins og Gísla saga og fleiri sögur fornar, svo að ekki sé nú talað um Njáls sögu. Halldór Laxness kemst næst þessum snillingum að ég hygg enda hefur hann lært meira af þeim en nokkur annar íslenzkur rithöfundur fyrr og síðar. Samt var hann ungur í einhverjum uppreisnarhug gegn þessari klassísku arfleifð, en hún reyndist honum notadrýgri en allt annað sem hann hefur lært á lífsleiðinni.

6. september, laugardagur

Horfðum á útför Díönu prinsessu í sjónvarpi. Mikið sjónarspil, falleg og áhrifamikil athöfn. Spencer jarl, bróðir hennar, flutti sterka minningarræðu sem fór ekki framhjá neinum. Fjallaði ekki sízt um hina útskúfuðu; hina venjulegu manneskju, sem dró að sér athygli Díönu. Hvernig hún jók sjálfsvitund þessa fólks. Var samt af forréttindastétt. Sumir kalla Díönu víst öskubusku aldarinnar.

Bróðirinn sagði að prinsessan hafi ekki verið heilög og ekki þurft á því að halda. Hún hafi ekki þurft titla til að snerta fólk. En sjálf hafi hún innst inni búið við öryggisleysi eins og einatt er um börn fráskilinna foreldra.

Þúsundir manna á götunum þar sem líkbíllinn ók; köstuðu blómum og klöppuðu eins og á leiksýningu.
Einkennilegt(!)

Hver og einn leitaði að sjálfum sér í Díönu. Grét erfið örlög andspænis örlögum hennar. Mér er víst fyrirmunað að skilja þetta. Eitt þykist ég þó vita, að enska byskupakirkjan er sterkari eftir þessa athöfn en áður. Þeim er borgið sem sækir styrk sinn í Krist.

Kvöldið

Jarðarför Díönu prinsessu var óskaplega falleg athöfn. Jarlinn var senuþjófur. Mér fannst ég vera uppi á miðöldum Og nú er móðir Teresa einnig dáin á níræðisaldri. Tvær ólíkar konur horfnar. Önnur notaði allsleysi sitt í þágu sjúkra og fátækra; hin notaði frægð sína og forréttindi. Báðar urðu frægar af frægð sinni.
Fjölmiðlafrægð nútímans er á við píslardauða fyrr á öldum. En hvað ætli fjölmiðladauðinn endist lengi?

7. september, sunnudagur

Þreyttur andlega eftir vinnu undanfarið og jarðarfarargláp í sjónvarpi. Verkar illa á mig. Líklega hef ég orðið fyrir einhvers konar heilaþvotti. Eftir athöfnina í Westminster Abbey sagði einn af þessum alltvitandi fréttaskýrendum á sjónvarpi, að útför Díönu prinsessu hafi verið “great success”! Það er sem sagt ekki lengur brandari þegar Tómas Guðmundsson sagði mér á sínum tíma að jarðarför Hannesar Hafsteins hafi verið svo vel heppnuð að ýmsir hafi talið ástæðu til að endurtaka hana!

Það er mikill vandi að lifa heiminn af með báðar fætur á jörðinni. Og jafnaðargeð er ekki mín sterkasta hlið. Tilfinningarnar sjá fyrir því.

14. september, sunnudagur

Fór í Neskirkju í dag, séra Halldór prédikaði. Hann talaði um móður Teresu og Díönu prinsessu. Hafði áður fengið góðan skammt af því.
Heimsbyggðin syrgði, sagði hann, það er ekki sízt fjölmiðlunum að þakka; helzt þó sjónvarpinu.
Það er rétt.
Nú voru engin náttúruundur við dauða þessara frægustu kvenna samtímans. Þegar heimsbrestur var í gamla daga, fylgdi honum náttúruundur af ýmsu tagi. Becket var drepinn í Kantaraborgarkirkju, þá sáu ýmsir náttúruundur á himnum. Hann var síðar gerður að dýrlingi. Þorgils skarði dýrkaði hann öðrum fremur. En nú voru sem sagt engin náttúruundur. Það sem hefur undrað mig mest er almenn þátttaka í dauða þessara kvenna. Einhver sérstök tegund af sorg. Einhver persónuleg hryggð sem á rætur í þeirri vitneskju fólks að það á eftir að fara sömu leið. Þeir eru víst margir nú á dögum  popps og eilífrar æsku sem þurfa á slíkri áminningu að halda.
Séra Halldór talaði um að Díana hafi verið óhamingjusöm en Teresa hamingjusöm. Það má líklega til sanns vegar færa. Önnur varð heimsfræg af fátækt sinni, hin af auðæfum sínum. Og þjóðfélagsstöðu. Áherzlan á mannúðarmál, öðru gleymt. Um dauða Díönu skrifuðu þeir í Intelligence Digest:
“Þeir, sem þurfa á því að halda að skilja og segja fyrir um þróunina í heimsmálum, gætu lært ýmislegt af lífi og dauða Díönu prinsessu.
Það fyrsta, sem athygli vekur, er hvað almenningsálitið á Vesturlöndum er tiltölulega vanþroska enn. Vestrænir vísindamenn geta einræktað sauðfé og komið geimfari til Mars, rómantísk viðkvæmni hefur vikið fyrir kaldhæðinni efahyggju en viðbrögðin við dauða Díönu sýna, að almenningur á Vesturlöndum getur brugðizt við því, sem snertir hann djúpt, með afar tilfinningaþrungnum og órökvísum hætti (órökvísum vegna þess, að dauði Díönu rís ekki hátt á listanum yfir hörmulega atburði, til dæmis morðið á 16 skólabörnum í Dunblane, og fyrir pólitíkina skiptir hann litlu máli).
Með þessu er ekki verið að gagnrýna viðbrögðin við dauða Díönu, aðeins að segja frá þeim. Af þeim er alveg ljóst, að almenningsálitið á Vesturlöndum á ofanverðri 20. öld er ekki jafn þroskað og margir vilja halda _ og það skiptir miklu máli fyrir alla þá, sem reyna að greina og segja fyrir um heimsmálin, það er að að segja að því gefnu, að þetta sama almenningsálit sé driffjöðrin í hinum vestrænu lýðræðisríkjum.
Hinn lærdómurinn, sem draga má af dauða prinsessunnar, varðar hlutfallslegt mikilvægi goðsagnar og staðreynda.
Oft hefur verið bent á, að það, sem fólk trúir, að sé satt, skiptir meira máli í heimsmálunum en það, sem er satt. Dauði Díönu prinsessu sýnir hins vegar, að þessi formúla hrekkur ekki til. Hvað hana varðar er það, sem fólk vill trúa, að sé satt, sem vegur miklu þyngra en sjálfur sannleikurinn.
Á undanförnum árum hefur það margoft sýnt sig, að Díönuímyndin var miklu fremri og fullkomnari manneskjunni sjálfri en almenningur vildi ekki vita af því. Hann vildi fá sína fullkomnu Hjartadrottningu og ætlaði sér að eignast hana þótt hann yrði að loka augunum fyrir öllu, sem skyggði á goðsögnina.
Að fólk skuli ekki bregðast við og haga sér í samræmi við það, sem er satt, heldur fara eftir því, sem það telur vera rétt eða vill trúa, að sé rétt, er eitt af því, sem ræður mestu um framvindu heimsmálanna.
Í þriðja lagi sýna viðbrögðin við dauða Díönu hve mikill menningarlegur munur er á Vesturlandabúum og bókstafstrúuðum múslimum.
Í augum vestrænna manna var Díana næstum helg manneskja vegna þess dýrðarljóma, sem lék um hana, vegna stuðnings hennar við tízkumál eins og alnæmi og vegna þess, að hún hafði brotið af sér viðjar kerfisins (og hjónabandsins).
Í Íran aftur á móti var hún “einn af aðalleikurunum í hinni siðferðilegu niðurlægingu brezku konungsfjölskyldunnar”, kona, sem sagði skilið við manninn sinn “eftir að hafa ástundað spillt og siðlaust líferni”.
Þessar írönsku athugasemdir um dauða Díönu sýna vel, að átökin milli bókstafstrúaðra múslima og Vesturlandamanna stafa ekki af hernaðar-, tækni- og efnahagslegum yfirburðum þeirra síðarnefndu, heldur af þeim menningarlega mun, sem á þeim er.
Framferði og gildi, sem frjálslyndir Vesturlandamenn dást að, kalla fram hrylling og andstyggð hjá múslimum.
Gjáin milli Vesturlanda og íslams verður ekki auðveldlega brúuð, meðal annars vegna þess, að þótt yfirburðir vestrænna ríkja í tækni- og efnahagslegum efnum séu óumdeildir, þá leikur meiri vafi á um siðferðilegt gildismat þeirra.”
Þetta er ekki út í bláinn. Það eru að minnsta kosti efni til að íhuga þessi orð, hvað sem öðru líður.
Texti dagsins fjallar um dauða Lazarusar og þau orð Mörtu við Jesú að bróðir hennar væri enn lifandi ef hann hefði verið viðstaddur. Jesús sagði, Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig mun ekki deyja, heldur lifa. Kristur þurrkaði út dauðann. Páll postuli sagði meira að segja að dauðinn væri ávinningur. Ég hef enga tilfinningu fyrir því. Mér finnst í raun og veru svo gaman að lifa að ég hef engan skilning á því að dauðinn geti verið ávinningur. Það sem ég þekki til dauðans þá er hann rotnun; stirðnun, eilíf þögn. En Kristur sagði að dauðinn væri meira en þessi jarðneski viðskilnaður. Ég ætla að lifa í því skjóli hans og þannig ætla ég einnig að deyja.

Í föstudagsblaðinu var grein um ítalska listgagnrýnandann Liborio Termine. Hann sagði margt skynsamlegt að mínu viti. Hann sagði að listamálarinn gæti skapað nýjan heim í verkum sínum - og það á þá væntanlega einnig við um myndhöggvarann - en ljósmyndarinn hefði áhrif á áhorfendann með því að sýna heiminn í nýju ljósi. Hér ætti kannski frekar að standa í nýjum skuggum og nýju ljósi. Hann talaði um að nútímalist væri “trúarbrögð tómleikans” - og “vélvæðing heimsins hefur leitt okkur til neytendadýrkunar”. Hann heldur því fram að menningarvitund okkar hafi sljóvgazt og menning samtímans sé orðinn hluti af viðskiptaheiminum. Ég held að vísu að hún hafi alltaf verið það, en ekki sízt nú á dögum. Listmálarar miðalda reyndu að mála sig inn í Vatikanið og aðalshallir. Tónlistamenn fyrri alda reyndu að leika sig inn í konungshallir og verndaða veröld furstanna. Þetta var í raun og veru hálfgerður kaupskapur í aðra röndina. Nú lýtur  listin markaðshyggju eins og allt annað. Hún gerir ekki út á stóra viðburði, heldur almennar vinsældir, tízku eða hnýsni. Markaðshyggjan er ekki vinveitt mikilli list, allra sízt því sem á undir högg að sækja; sköpun brautryðjandans. Goðsögn hennar er neyzlusamfélagið; tízkan. Þar ræður maddama Pópadóra ríkjum, ekki móðir Teresa. Sem ljóðskáld er ég sannfærður um að þessi orð Termíne eru rétt:
“Neyzlusamfélagið drepur niður heim goðsagna og tákna og án þeirra ríkir tómið í menningu fólksins”.
Hann heldur því fram að í íslenzkt samfélag búi yfir “ríkulegum heimi goðsagna og tákna”. Ég efast mjög um þessa fullyrðingu, held að þjóðfélag íslenzks samtíma sé að glata þessum dýrðlega og mikilvæga heimi goðsagna og tákna eins og við þekkjum hann í arfleifð okkar, gömlum bókmenntum, skáldskap og goðsögnum. Alvöruskáld reyna að vísu undir drep að skírskota í þessa arfleifð og halda henni lifandi en mér er til efs  það séu nema örfá prósent þjóðarinnar sem geta notið þessa auðuga og ræktandi goðsagnaheims sem á rætur í reynslu mannsins og mennsku.
Nútímaskáld eiga að upplifa gamalt táknmál í verkum sínum, miðla því og afhelga það með þeim hætti að það sé skírskotandi leiðbeining og upplifun í umhverfi sem er á fleygiferð og dýrkar helzt hávaða og misjafnlega vel unninn iðnað sem reynt er að gera að dýrlegri list. En þessi hönnun, hvort sem hún birtist í myndlist, bókmenntum eða með öðrum hætti, er tjáning handavinnunnar eða eigum við að segja ákveðinnar þekkingar sem er að vísu athyglisverð ef vel tekst til, en listin hefst þar sem handavinnunni lýkur; einnig í bókmenntum. Það er hægt að skrifa og yrkja með ýmsum hætti en skáldskapurinn hefst ekki fyrr en unnið er úr einstæðum tilfinningum og yfirburðaþekkingu.
Jólabókasalan er ekkert annað en verzlun með menningu; markaðshyggja á lægsta plani. Ömurlegt kapphlaup um budduna; og vinsældirnar. En vinsældir sem eru byggðar á tízku, áróðri og athyglisfíkn eru jafn vonlausar og fölnað grasið meðfram stígnum þar sem ég gekk eftir messuna og virti fyrir mér aðdraganda hausts og vetrar í deyjandi umhverfi Skerjafjarðar og Fossvogs. Við höfum spunnið arfleifðarvefinn úr íslenzkri ull og bætt við erlendum þráðum sem hafa komið í veg fyrir að hún væri heimóttalegur og haldlaus vefnaður á heimsmarkaði hinna örfáu útvalinna. Björk og nokkrar kvikmyndir eru þar sem einskonar tízkuvefnaður, en Jón Leifs er þar líklega fastari í sessi og Sjálfstætt fólk og endurútgáfa bókarinnar í góðri þýðingu vestanhafs er í þann veginn að festa nóbelsskáldið á þessum slóðum. Mörg önnur íslenzk verk eru að verða gjaldgeng í þessum mikla vefnaði og nú eru Íslendinga sögurnar komnar út á þessum markaði í nýjum búningi og eignazt vonandi þann sess í heimsmenningunni sem efni standa til. Það er kominn tími til að heimurinn geri sér grein fyrir því að þær eru fyrstu skáldsögur sem skrifaðar hafa verið og raunar svo stórbrotin og mikilvæg verk að viðbæturnar hafa verið eins og nútímaleiklist sé bætt við Shakespeare og grísku leikskáldin.

Kvöldið

Hef verið að hugsa um náttúrulífsmynd sem ég sá í sjónvarpinu um daginn. Hún fjallar um paradísarfugla á Nýju Gineu. Litadýrð og formtilfinning náttúrunnar er svo úthugsuð að það er með engu móti hægt að hugsa sér annað en einhver alheimsheili standi á bak við þessi listaverk og enginn skyldi ætla sér þá dul að reyna að keppa við þessa óþekktu hugljómun.
Mér finnst það merkilegt að kvenfuglinn í þessari paradísarveröld er ósköp  venjulegur og án mikilla skreytinga. En karlfuglarnir eru þvílík listaverk að engu tali tekur. Í þessari ótrúlegu litadýrð keppa þeir um kvenfuglinn, dansa fyrir hann, tæla hann til ásta en um það virðist allt snúast. Og kvenfuglarnir eru þannig af náttúrunni gerðir að þeir láta tælast. Samt þykjast þær vera með einhverja stæla og velja svo þann karlfugl sem þeim þykir skrautlegastur. Karlfuglinn hefur engum öðrum skyldum að gegna en frjóvga kvenfuglinn. Að því búnu leitar hann sér að nýrri kerlingu. Og það er nóg af þeim handa glaumgosunum. En þetta eru glaumgosar eins og náttúran ætlast til. Í samfélagi mannsins er það konan sem skreytir sig. Hommar gera það einnig stundum, að ég held. Karlinn skreytir sig ekki en sýnir í hæsta lagi einhverjar karlastellingar..Og svo var kýllinn í gamla daga (eins og Björn Th.Björnsson leikur sér að í Byltingarbörnum,sögulegri skáldsögu um siðaskiptin í Skálholti,þeirri veizlu; en Guðrún Oddssystir Gottskálkssonar svíkur Gissur Einarsson veturinn sem hann fer utan til vígslu og eignast þríbura með sr.Eysteini sem átti að gæta hennar,líklega vegna þess hana langaði til að upplifa það sem undir kýlnum var; rauðum kýl þessa karlmannlega syndasels!).
Ég velti því fyrir mér hvort konur séu að skreyta sig fyrir öðrum konum því að mér er til efs að þessar skreytingar hafi mikil áhrif á karlana og kynhvöt þeirra. Maddama Pópadóra réð skreytingunni í Versölum, en það réð ekki úrslitum. Það sem úrslitum réð var sú staðreynd að hún var einhvers konar einvaldur í svefnherbergi konungs. Og eftir á að hyggja, karlar þeirra tíma skreyttu sig eins og paradísarfuglar með hárkollum, silki og pjattskóm. Þannig hefur allt sinn tíma.

15. september, mánudagur

Það haustar. Samt stillt veður og bjart. Gekk úr Fossvogi og framhjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Tún öll þakin lóum. Þær eru að búa sig undir flugið mikla yfir hafið. Ég sakna þeirra. Þær skilja eftir einmannakennd. Hefði viljað yrkja til þeirra kveðjuljóð, en get ekki. Ljóðin eru eins og lóurnar, koma og fara. Og ljóðin þurfa eins og lóurnar að búa sig vel undir flugið mikla yfir haf tímans.

Netið

Mörgum finnst ekkert eðlilegra en netið eða alnetið sé kallað internet á íslenzkri tungu. Fyrir nokkrum árum hefði líklega fáum dottið í hug að slík málglöp væri það sem koma skal. Ástæða þessa er líklega sú að síðari hluti orðsins endar á íslenzka orðinu net og til að stytta sér leið og vera dálítið alþjóðlegur hefur þeim sem nota internetið þótt tilhlýðilegt að gleypa þetta alþjóðlega framandi orð inter - með húð og hári og svo er ætlazt til þess að þjóðin melti þetta framandi orð eins og ekkert sé. Samt dettur áreiðanlega engum í hug - og líklega kæmist enginn upp með það  - að nota forliðinn inter  í orðum eins og alþjóða -, fjölþjóða-, milliríkja- o.s.frv.; eða hvers vegna heita ekki alþjóðalög á íslenzkri tungu international lög? Nei við höfum miklu betri orð eins og alþjóðalög, alþjóðaréttur, þjóðaréttur og hafa þau dugað vel fram að þessu. Þeir sem telja að forliðurinn inter- í samsetningunni internet dugi íslenzkri tungu ættu þá með sama rétti að beita sér fyrir því að talkerfi eða innanhússími heiti interphone, intersex sé notað um ánamaðka, interlift um lyftu á vörubílum og interview leysi samtöl eða  viðtöl af hólmi.
Það er engin afsökun þótt net sé í enda þessa orðskrípis því að við höfum aldrei notað þennan forlið sem merkir víxl-, milli-, eða gagn- á íslenzku og þannig ætti netið að heita víxlnet eða millinet samkvæmt orðanna hljóðan. Alnet er að mörgu leyti ágætt orð yfir þetta fyrirbrigði, en netið ætti þó að duga; eða vefur.
Þótt við notum framandi orð um það sem kallað er mótorsport gegnir það allt öðru máli því að mótor er tökuorð sem hefur hlotið þegnrétt í íslenzkri tungu, svo og orðið sport. Mótorsport er þannig íslenzkt orð þótt það sé framandlegt að ýmsu leyti en sem tökuorð gagnast það með allt öðrum hætti en til að mynda internet. Mótor, þ.e. vél eða hreyfill, er gefið í
Íslenskri orðabók sem vont mál að vísu, orð eða merking sem forðast ber í íslenzku en samt nothæft, sport er gefið í fyrrnefndri orðabók sem íþróttir eða skemmtilegt viðfangsefni, athugasemdalaust; þ.e. íslenzkt orð annmarkalaust. Orðið mótorbátur hefur fullan þegnrétt í tungunni þótt vélbátur standi okkur nær. Internet (tölvunet, skjánet; vefur) er af allt öðrum toga. Það er eins framandlegt og karlinn í tunglinu og á ekkert erindi inn í málsmenningarhefð okkar. Við ættum að reyna að útrýma því þótt erfitt muni verða, svo vinsælt sem þetta orðskrípi er meðal alls kyns sérfræðinga og internetionalista, en tungan mun að sjálfsögðu hafna því að lokum og þá mun það verða almannarómur að farið hefur fé betra. Vonandi verður það sem fyrst.
Internet er hallærislegt orð í íslenzku; tilgerðarlegt; framandi.
Það er allt og sumt(!)

(birt í leiðara fimmtudaginn 18. september)

16. september, þriðjudagur

Borðaði með Kristjáni Karlssyni í dag. Fékk hjá honum tvö frábær kvæði, annað hafði ég fengið áður, en nú leiðrétt.
Við rifjuðum upp hádegisverðinn með Joe Allard og Bernard Scudder á sínum tíma, einnig í Hótel Holti. Það var bráðskemmtilegur hádegisverður og þeir höfðu svo sem unnið fyrir honum þar sem þeir höfðu gengið frá enskri ljóðabók okkar af smekkvísi og áhuga. Eftir hádegisverðinn bauð þjónninn okkur kaffi með koníaki. Hann sagðist eiga sérstakt koníak. Þeir urðu mjög hrifnir af því og við fengum allir þetta sérstaka koníak. Það kom síðar í ljós að það var 150 ára gamalt og einn tvöfaldur kostaði að ég held um 10.000 kr. Ég fékk hálfgert sjokk þegar ég  greiddi reikninginn. Nefndi þetta þó hvorki við Kristján né neinn annan.
Kristján minnti mig á það í dag að þeir hefðu pantað annan umgang þegar ég var farinn. Þjónninn kom þá til hans og hvíslaði að honum að þetta væri 150 ára gamalt koníak, rándýrt. Kristján vildi ekki skemma ánægjuna fyrir þeim en tók ekkert sjálfur. Hann þurfti að borga 35.000 kr. þegar upp  var staðið!  Hádegisverðurinn kostaði sem sagt um 100.000 kr.!
Allt minnti þetta okkur á veizluhöld Ásbjörns Ólafssonar í Barcelona. Einhverju sinni voru þeir Kristján Karlsson ásamt fleira fólki á bar í hóteli þar í borg. Ásbirni leizt vel á aðstæður allar, var glaður og reifur eins og gumna hver og sagði að hann biði öllum viðstöddum upp á sjúss, ekki einungis þeim sem væru á barnum heldur öllum sem væru í húsinu. Síðan var gengið til drykkju. Að henni lokinni kom þjónninn með reikninginn. Ásbjörn horfði forundrandi á reikninginn en þá kom í ljós að greifinn hafði ekki áttað sig á því að á næstu hæð fyrir ofan var fjölmenn brúðkaupsveizla. Þar fengu auðvitað allir sinn sjúss á kostnað Ásbjörns. Hann spurði þjóninn en þjónninn svaraði, There was a bridal gathering upstairs! Ásbjörn brosti og borgaði reikninginn. Sagði ekki orð.
Við Kristján höfðum sem sagt upplifað eitthvað svipað með vinum vorum frá Englandi. En þeir áttu það svo sannarlega skilið eins og ég sagði. Þeir höfðu unnið gott verk og verður er verkamaður launa sinna.
Þegar við Kristján rifjuðum þetta upp í dag fór ekki hjá því að Genúaferð Ásbjörns Ólafssonar kæmi upp í hugann. Hann tók sér leigubíl frá Kaupmannahöfn og fór með honum til Ítalíu. Bauð Tómasi Guðmundssyni far en hann átti að sitja Penþing í Róm og hélt því áfram suður á bóginn. En Ásbjörn var orðinn lúinn eftir Alpafjöllin og hugsaði með sér að hann þyrfti að koma við á aðalhóruhúsinu í Genúa þegar hann kæmi þangað. Danski bílstjórinn ók með hann þangað. Hann gekk inn. Það fyrsta sem hann sá í anddyrinu var stórt olíumálverk af forstjóra SÍF,eða var það SÍS,,ég man það ekki !
Ásbjörn sagði,
Ég hugsaði með mér, Guð minn góður, er hann þá hérna líka, snaraðist heim á hótel og sofnaði!
Kristján kann mikið af svona gamansögum frá fyrri tíð og skiptir þá engu , hvort þær eru sannar eða lognar.

Ég sagði Kristjáni frá því þegar ég hitti Friðrik á Helgastöðum í seinustu viku júnímánaðar 1950. Þá vorum við Hanna nýtrúlofuð og vorum á leið til tengdafólks míns á Grímsstöðum. Komum við á Helgastöðum í Reykjadal þar sem systir Hönnu, Hrefna, bjó ásamt Pálma manni sínum. Þar bjuggu einnig foreldrar hans og Friðrik afi hans og landpóstur, en kona hans var rúmliggjandi. Friðrik var þjóðkunnur landpóstur. Hann var á áttræðisaldri þegar okkur bar að garði. Fagnaði mér sérstaklega og sagði að það væri eintóm formyrkvun í sveitinni, hann væri eini sjálfstæðismaðurinn þar. Nú hefði birt til. Allt hyskið í sveitinni styddi Framsókn.  Það væri munur að fá ungan sjálfstæðismann í heimsókn . Skrapp síðan inn í svefnherbergi og kom með gulldósir, rétti mér og sagði,
Þessar dósir gaf mér Lárus Jóhannesson, móðurbróður þinn, eftir að ég hafði flutt níðræðu á Þingvöllum um Hriflu-Jónas! Sagði mér síðan að hann hefði verið staddur á Alþingishátíðinni 1930. Þá hafi honum dottið í hug að það væri við hæfi að hann flytti níð um dómsmálaráðherrann! Hann hóf ræðuna og áður en langt um leið var kominn hnappur af fólki í kringum hann og fjölgaði alltaf.
Þá bar þar að Lárus Jóhannesson.
Hann slóst í  hópinn og hlustaði.
Þegar Friðrik hafði lokið ræðunni um Jónas gekk Lárus til hans þakkaði honum með handabandi og tilkynnti honum að hann hefði unnið fyrir gulldósum. Hann hefði haldið svo góða og tímabæra níðræðu um Jónas frá Hriflu að hann hefði sérstaka ánægju af að verðlauna hann fyrir vikið!

 Friðrik opnaði dósirnar og tók í nefið, rétti mér og þáði ég það til hátíðabrigða.
Lárus stóð við orð sín, sagði Friðrik póstur. Nokkru seinna um sumarið komu dósirnar heim að Helgastöðum og ég gat ferðazt um og gefið mönnum í nefið úr gulldósunum Lárusarnautum.
Friðrik vildi að við Hanna værum sem lengst á Helgastöðum og dró úr því eins og hann gat að við héldum förinni áfram. En að kaffi loknu kvöddum við allt heimilisfólkið - og þá ekki sízt Friðrik landpóst - og þökkuðum gleðskap og gestrisni. Friðrik var heldur hnugginn yfir því að eini sjálfstæðismaðurinn væri að hverfa aftur á braut og gaf í skyn að nú mundi framsóknarmyrkrið aftur leggjast yfir Reykjadal en bað okkur fyrir alla muni að koma við í bakaleiðinni. En það gerðum við að vísu ekki því að Ingólfur tengdafaðir minn var með okkur í bílnum á leið í Eyjafjörð þar sem hann hóf búskap á Kaupvangsbakka, alfluttur af Fjöllum. Og hann var ekki laus við bílveiki.
Kristjáni fannst þetta góð saga og hló lengi og vel. Hann sagði að ég hefði aldrei fyrr sagt sér hana.

Annað kvæðið sem ég fékk frá honum í dag heitir Persónur IV., mjög fínt kvæði þar sem hann skírskotar í vin sinn Jónas á Hriflu og minnist samskipta þeirra Einars Benediktssonar. Kvæðið á þannig einhverjar rætur í Standsiglingu Einars þar sem skáldið lýsir fyrirlitningu Dana á Íslendingum sem fengu oftar en ekki pláss í lestinni þegar þeir fóru milli landa. Jónas hafði mikla tilfinningu fyrir þessari fyrirlitningu, skrifaði um hana og ekki laust við að hann æli stundum á danahatri, t.a.m. í sögubókum sínum. Eitt sinn gagnrýndi ég þessa afstöðu hans í grein í Morgunblaðinu. Hann hringdi til mín.
Hann sagði,
Ö-hö, þér voruð eitthvað að gagnrýna mig og sögubækur mínar í Mogganum.
Já, sagði ég,
Það ættuð þér ö-hö ekki að gera. Ef þér haldið því áfram verð ég að drepa yður í grein í Mánudagsblaðinu.
Jæja, sagði ég.
En Jónas bætti við,
Þér ættuð ö-hö að hafa skilning á því sem ég er að gera, það hefur alltaf verið ágætt samstarf milli mín og ykkar moggamanna. Valtýr gerði mig að ráðherra og ég útbreiddi Morgunblaðið!
Síðar hitti ég Jónas Jónsson einhverju sinni þegar ég gekk inn í salinn á Hótel Íslandi, ásamt Sigurði A. Magnússyni. Jónas sat þar með dætrum sínum. Þegar við komum inn stóð hann upp, gekk til mín og sagði,
Ö-hö, ég heiti Jónas Jónsson, komið þér sælir, eruð þér ekki tízkublaðamaðurinn á Morgunblaðinu?
Ég heilsaði honum vel og vandlega og fór sú athöfn fram með þeim hætti að báðir gátu vel við unað. Svo kvaddi Jónas mig eins fyrirvaralaust og hann hafði heilsað mér og settist aftur hjá dætrum sínum.

Í ljóði Kristjáns Karlssonar, Persónur IV., segir hann m.a.:

orð þín
mild
eins og vægar
öldur

langt
undan hvössum
glitrandi hleinum...

Og ennfremur:

Í hálfluktum
augum

eldur
af brimi
undir nótt.

Fallegar myndir. Ljóðræn og góð hreyfing, ekki sízt vegna þess hvernig ljóðið er línuskipt.
Við Kristján erum sammála um að línan sé eitt af grundvallaratriðum í ljóðlist. Hún opinberar galdurinn. Rím, stuðlar og önnur bragarbrögð eru að sjálfsögðu einnig mikilvæg en línan er eins og hrynjandin, hún getur skipt sköpum.
Við skiljum ekki bókmenntafræðinga sem rugla með línuna þegar þeir fjalla um hefðbundinn og nútíma skáldskap. Línan getur skipt sköpum  í  atómkveðskap og hún er grundvallaratriði í hefðbundnum skáldskap, að sjálfsögðu. Ef fyrrnefndar línur Kristjáns hefðu verið skrifaðar í belg og biðu væri ljóðið ónýtt. Og þá væri ekki heldur nein vísbending um hvernig ætti að lesa það sem ljóð. Farvegur fljótsins ræður úrslitum um það hvernig það fellur; hvort það er breið prósaísk lygna eða krappt ljóðrænt flug. Stundum þegar ég fæ ljóð mín vélrituð finnst mér þau ónýt vegna þess að línuskiptingin er röng og ekki eins og ég tel að hún eigi að vera. Þá þarf að taka hana til endurskoðunar og breyta ónákvæmum stíl í nákvæmar línur sem einar geta komið ljóðinu til skila. En oftast skrifa ég ljóð mín sjálfur og ligg lengi yfir hverri línu.

Einar Benediktsson segir í Strandsiglingu sem Kristján hefur í huga í fyrrnefndu ljóði:

- Þessa síðast ársins för þeir fóru, -
fólkið hana rækir bezt.
Drukknir menn og krankar konur vóru
kvíuð skrans í lest.
Allt var fullt af frónska þarfagripnum.
Fyrirlitning skein af danska svipnum.

Þetta ljóð er einhver harðasta ádeila á yfirráð Dana á Íslandi sem um getur. Það er raunar merkilegt að Einar skyldi hafa komizt upp með að birta það á sínum tíma. Einhverjir hafa áreiðanlega látið hann gjalda þess. Það slær alþýðlegt íslenzkt hjarta í þessu ljóði og það er harður dómur yfir dönskum hroka og dönskum yfirráðum.
Hitt kvæðið sem ég fékk frá Kristjáni heitir  Eitt já. Það er þrjú erindi, mjög fallegt ástarkvæði. Hann hefur breytt því frá því það var birt í Lesbók Morgunblaðsins fyrir jólin í fyrra. Ég ætla að bera þessar tvær gerðir saman mér til gamans. Hann segir að það sé betra nú en áður þótt það sé ekki eins afgerandi ástartjáning.

 

17. september, miðvikudagur

Fór í Rotary í dag. Sat hjá Jóni Þórarinssyni, tónskáldi. Hann varð áttræður fyrir helgina. Þóra Einarsdóttir söng fjögur fallegustu lög Jóns, við undirleik Jónasar Ingimundarsonar. Jónas sat einnig við borðið hjá okkur. Hann er ástríðufullur áhugamaður um tónlist og mikill tónlistarmaður. Hann er að reyna að rækta tónlistarsmekk Rotary-félaga sinna. Held honum hafi orðið eitthvað ágengt í þeim efnum. Jónas er skemmtilegur og ég hef gaman af honum. Þau Þóra léku sitt hlutverk á fundinum frábærlega vel. Ég sá að Jón Þórarinsson gladdist mjög. Ég sagði við hann að það væri mikill heiður að sitja honum til hægri handar á þessari stund. Hann sagði ekkert. Jón lifir ekki á yfirborðinu. Hann er smekkvíst og vandað tónskáld, heldur hlédrægur listamaður sem hefur otað lítt sínum tota. Hann las einnig úr væntanlegri tónlistarsögu sinni. Það var hnýsilegt. Þóra söng vögguljóð Laxness, Fuglinn í fjörunni, ástarkvæði Magdalenu Thoresen, norsku skáldkonunnar sem Grímur Thomsen barnaði í Kaupmannahöfn á sínum tíma en leiðir þeirra skildu eins og kunnugt er. Og loks fallegt norskt kvæði eftir Kristmann Guðmundsson. Hún söng einnig brot úr Cosi van Tutti (þegar verið er að gefa konunni ráð í karlamálum!). Þetta var skemmtilegur kafli þótt verkið sé heldur langdregið að mínu viti. Þóra söng það með mikilli prýði og ég upplifði þessa tónlist í fyrsta skipti sem skemmtun.

Í Morgunblaðinu í dag er grein um doktorsritgerð íslenzks manns  við Toronto-háskólann. Hann heitir Gottskálk Þór Jensson. Ritgerðin fjallar um skáldsögu Petróníusar sem uppi var í Rómaborg á fyrstu öld eftir Kristburð og skrifaði skopsöguna Satyríca. Hún þykir gefa raunsæja mynd af samtíma hans, en Petróníus var um skeið háttsettur við hirð Nerós. Hann fargaði sér eftir samsærisáburð. Ég sé af fréttinni í Morgunblaðinu að þessi saga er talin elzta evrópska skáldsagan sem varðveitzt hefur “og með samanburði við önnur frásagnarform í fornöld sýnir Gottskálk framá að bókmenntagrein hinnar svokölluðu rómversku skáldsögu sé í raun um 200 árum eldri en Petróníus. Um er að ræða afar flókna frásagnaraðferð í fyrstu persónu með fjölmörgum styttri frásögnum sem þáttaðar eru inn í meginsöguna”. Mun fráasgnarform þetta hafa verið vel þekkt í fornöld og kallað “mílesiskar frásagnir” eftir glataðri erótískri skáldsögu sem samin var af gríska höfundinum Aristeites en hann var uppi á annarri öld fyrir okkar tíma.
Þetta vakti athygli mína vegna íslendingasagnanna. Ég hef alltaf talið að þær væru fyrstu skáldsögur sem skrifaðar hafa verið. En samkvæmt þessum upplýsingum eru þær þá upphaf skáldsagna með personae dramatis, eða dramatískum harmsögulegum persónum. Þær eru sem sagt brauðryðjendaverk í þeim efnum þótt einhverjar skopsögur hafi verið skrifaðar á tímum forn-grikkja og forn-rómverja.

20. september, laugardagur

Einmanna fugl
á efsta toppi furutrésins
og ekkert nema endalaus himinn
í augum þessa manns
sem staldrar við og starir einn
á fuglinn

og laufið minnir á skóginn
í hjarta fuglsins
og hvíta vinda í mjúkum fjöðrum hans

en augu þín þau halda til fundar
við himin
handan þessa skóglausa lands

og augu þín eru fuglar
sem fljúga
úr vitund sinni

eins og vatn sem hverfur til himins
á hvítum vængjum svans.

21. september, sunnudagur

Er að ljúka við Laxdælu, hvílík list(!) Auðveldaði mér að ljúka við Helgispjallið í dag. Hrútur var áttræður þegar hann drap Eldgrím út af  stóðhrossunum og jók þá mjög á orðstír sinn. Það efldi með mér bjartsýni. Ótrúlega margt sem minnir á Njálu; draumar, stóðhestar, Bróka-Auður, Gunnhildur, eggjun, grimmar konur (Þorgerður Egilsdóttir, Guðrún Ósvífursdóttir).
Er einnig að ljúka við Z-ástarsögu eftir Vigdísi Grímsdóttur. Fróðlegt, en leiðist efnið. Kvæði Audens Stop all the clocks í 16 línum um sama eða svipað efni finnst mér áhrifameira .
Hann hefur ákveðnar skoðanir á skáldum og skáldskap; telur að Hannes Sigfússon hafi verið alvöruskáld á sinn hátt þótt hann hafi ekki kunnað að meta allan skáldskap hans. Segir að Stefán Hörður viti ekki alltaf hvað hann er að fara. Hefur fyrirvara á Sigfúsi Daðasyni, nema þá helzt síðustu bók hans sem Helgafell gaf út á sínum tíma, en ég man ekki hvað heitir. …

Kvöldið

Grein sr. Hjálmars Jónssonar í Morgunblaðinu í dag um fornleifauppgröft að Neðra-Ási í Hjaltadal er fróðleg og allrar athygli verð. Ofan og sunnan bæjar og útihúsa í Neðra-Ási í Hjaltadal stóð lengi lítið fjárhús sem nefnt  var “Bænahúsið”. Heimafólk í Neðra-Ási og nágrenni hefur ætíð haft það fyrir satt að þar hafi kirkja verið til forna.
Þannig hefur sr. Hjálmar grein sína og segir síðan að grunnur fjárhússins hafi frá ómunatíð verið nefndur bænhúsið eins og hann kemst að orði. Við uppgröftin nú er fullsannað að þarna var  kirkja á sínum tíma og full ástæða til að ætla að í meginatriðum séu heimildir réttar bæði í Þorvaldarþætti víðförla og Kristni sögu Sturlu Þórðarsonar og ber þeim undravel saman. Engin ástæða til að efast um að kirkjan hafi verið byggð þar árið 984. Kristni saga  greinir frá því að Þorvarður Spak-Böðvarsson hafi reist guðshúsið árið 984. “En kirkja sú var ger 16 vetrum áðr kristni var í lög tekin á Íslandi...” Allt er þetta harla merkilegt og kom ímyndunaraflinu af stað. Þorvarður Spak-Böðvarsson kom mjög við sögu kristnitöku á Íslandi á sínum tíma, hann var einn helzti höfðingi landsins.
Sagnir eru til um það, segir sr. Hjálmar, að Þorvarður hafi kynnzt kristnum sið á Englandi þótt hitt sé vafalaust nær sanni að hann hafi tekið kristna trú af Þorvaldi víðförla og Friðreki trúboðsbyskupi. “Eftir að Þorvarður tók kristni varð honum umhugað um að efla trú og lét reisa kirkjuna á bæ sínum. Hefur þá Friðrekur byskup vígt hana og fengið einn af prestunum sem fylgdu þeim Þorvaldi til að þjóna við kirkjuna.” Heiðingjar litu kirkjuna í Ási illu auga og þá guðsdýrkun sem þar fór fram. Í Kristni sögu er greint frá þessu og á köflum með ævintýrablæ en það er ekki að vita nema ævintýrin séu grunduð á bláköldum veruleika.
Það sem vekur mesta athygli er sú staðreynd að fólk þar í sveitinni hefur ævinlega vitað að kirkja var reist að Neðra-Ási og auðvitað engin tilviljun að byskupssetrið var síðan sett niður á Hólum í Hjaltadal sem framhald af því mikla kristniboðsstarfi sem var einskonar arfleifð þar nyrðra. Þau ummæli eru einkar athyglisverð að heimafólki í Neðra-Ási og nágrenni hafi ávallt haft það fyrir satt að kirkja hafi verið til forna á jörð Þorvarðs Spak-Böðvarssonar enda hafi hann látið byggja þessa kirkju sjálfur. Engar minjar hafa verið um kirkjuna öldum saman, en samt hefur þessari vitneskju ekki verið hrundið.
Nú eru níu aldir frá því kirkjan var byggð og enn lifir í gömlum glæðum. Á grunni kirkjunnar hafa verið fjárhús en það haggaði engu um sannfæringu manna þess efnis að þau stæðu á grunni hinnar fyrstu kristnu kirkju sem byggð var í landinu.
Allt beinir þetta athygli að sannfræði Íslendinga sagna því að þær eru að sjálfsögðu byggðar öðrum þræði á munnmælum og arfsögnum sem hafa ekki verið meira en tveggja og hálfrar aldrar gamlar  þegar sögurnar voru ritaðar. Það gefur auga leið að margt af því efni sem ritað er í Íslendinga sögum er skáldskapur einber en hann hefur verið studdur munnmælasögum og arfsögnum um líf fólks á fyrri tíð og hefur mikið af því verið raunsatt með sama hætti og efnið í Innansveitarkroniku er byggt á margvíslegum staðreyndum sem skáldið lagar í hendi sér að eigin vild. Þannig hafa fornar sögur einnig verið mótaðar í deiglu skáldskapar og veruleika og skyldi enginn gera of lítið úr þeim heimildum sem þar er stuðzt við.
Í Þorvaldar þætti víðförla er talað um Mána sem Friðrekur byskup skírði á sínum tíma “og fyrir því að hann hélt kristna trú með mörgum manndyggðum og góðlifnaði, var hann kallaður Máni hinn kristni”.
Sagt er að Máni hafi gefið kirkju sinni veiði í hyl einum í Laxá. Kennileiti bera nafn hans. Mánafoss heitir foss í Laxá og hylurinn er þekktur og vinsæll af veiðimönnum því að þar veiðist vel í þessari gjöfulustu laxveiðiá landins á okkar dögum, Laxá á Ásum. Hóll einn þar nærri heitir Mánakot og þar er Máni talinn grafinn.
“Hvað sem því líður”, segir séra Hjálmar, “er þó sá munur á þessum tveim kirkjum að Máni  var einsetumaður og byggði kirkjuna fyrir sig einan en kirkjuna í Ási reisti Þorvarður fyrir sig, heimilisfólk sitt og aðra kristna menn.  Sú gerð hafði því miklu meiri áhrif fyrir eflingu og útbreiðslu kristninnar. Hún var fyrsta almenna kirkjan á Íslandi sem var byggð sem árangur af trúboði Þorvaldar víðförla og Friðreks byskups til þess að vinna kristnum sið fylgi í landinu. Hún er líka elsta kirkja á Íslandi sem fundist hefur og getið er um í fornsögum. Hennar er að sjálfsögðu sérstaklega getið í Kristni sögu.”
Í fornum sögum er sífelldlega getið örnefna og reynt að skíra þau með munnmælum og eru langir kaflar þess efnis t.a.m. í Egils sögu, einnig oft skírð örnefni í Laxdælu. Það er engu líkara en höfundar Íslendinga sagna noti örnefni eins og gömul kvæði til að spinna söguna með aðstoð þessara heimilda. Það er ástæðulaust að hlusta ekki eftir skýringum þeirra, þær fylgja að minnsta kosti munnmælum og eru greyptar í umhverfið. Í 28.-29. kafla Eglu er hvert örnefnið skírt af öðru í landnámi Skalla-Gríms svo að dæmi séu tekin en einnig á víð og dreif í sögunni allri.
Í Laxdælu  eru örnefni einnig víða skírð með svipuðum hætti og í Egils sögu, þ.e. rakin til þeirra sem land námu og umhverfisins að öðru leyti. Það er sjaldan talað um náttúrufegurð í þessum sögum og frásögnin um Stíganda í Laxdælu nánast eindæmi.
“Stígandi vaknaði við þetta og bregður nú engum viðbrögðum, því að margir menn voru nú um einn . Rauf var á belgnum og getur Stígandi séð öðrum megin í hlíðina; þar var fagurt landslag og gras loðið; en því var líkast sem hvirfilvindur komi að; sneri um jörðunni, svo að aldrei síðan kom þar gras upp. Þar heitir nú á Brennu. Síðan berja þeir Stíganda grjóti í hel, og þar var hann dysjaður.”
Þá er oftar en ekki lögð áherzla á sjálfstæði fornkvenna íslenzkra, t.a.m. þegar Þorgerður Egilsdóttir er gefin Ólafi Pá: “... en þó skal nú þetta við Þorgerði ræða, því að það er engum manni fært að fá Þorgerðar án hennar vilja”, segir Egill faðir hennar. Tekur hún svo síðar sjálf ákvörðun um brúðkaup þeirra Ólafs og er það fastmælum bundið á Alþingi. En merkasta frásögnin um sjálfstæði konunnar í fornum sögum er að ég hygg í 52. kafla Grettis sögu þegar lýst er Þorbjörgu húsfreyju úr Vatnsfirði og ákvörðun hennar að þyrma lífi Grettis þvert ofan í ráðagerð bænda sem ætluðu að “hengja Gretti og hlömmuðu (gera hart, háreysti) nú mjög yfir þessu”. Sagt er um Þorbjörgu húsfreyju að hún hafi verið skörungur mikill og stórvitur, “hún hafði héraðsstjórn og skipaði öllum málum, þegar Vermundur er eigi heima”. Rök hennar fyrir því að þyrma Gretti eru þá ekki sízt harla athyglisverð.

 

Ódagssett

Lauk við Íslandsförina eftir Guðmund Andra Thorsson. Góðir sprettir milli ferðalýsinga sem ég hygg að styðjist að mestu við gamlar ferðabækur. Veit það þó ekki.  En er þetta skáldsaga? Veit það ekki heldur. En Guðmundur Andri getur skrifað góðan texta sem ég kann að meta.

Hef verið að lesa grein um Philip Larkin sem keppir nú á brezka bókamarkaðnum um vinsældir við Auden. En þeir eru báðir dauðir svo að þeir geta verið afslappaðir, loksins!
Ég þekki vel til ljóða beggja. Þeir kunna vel til verka og mættu íslenzk skáld læra meira en þau hafa gert af fjölhæfni þeirra og verklagi. Ég minnist á Larkin í ljóðabókinni Fuglar og annað fólk. Það var ekki út í bláinn. Hafði hann stundum í huga í innspírasjónskastinu sumarið sem ég orti ljóðin. Þau voru svo gefin út um haustið. Hélt þau yrðu betur þekkt en raun varð á vegna þess að þau eru augljós og aðgengileg, en fólk vissi ekki hvaðan á það stóð veðrið og stillti sér upp í höm eins og hestar!
Það er sjaldan talað um þessa bók en ég hafði gaman af að yrkja hana.

Larkin taldi að menn ættu að yrkja ljóð úr undirvitundinni, nota þann efnivið með þeim hætti að hann komist til skila. Larkin sagðist vera dæmdur til þess að deyja án þess að gera neitt af því sem hann helzt vildi gera af því að það sem hann vildi væri ógerlegt.
Dauðaótti Larkins var alkunnur.
Ljóðið er einvígi við tortíminguna og árangur ljóðskáldsins fer ekki sízt eftir því hvað þessi innri barátta við dauðann er hörð og óvægin.
Af hverju var það þá ógerlegt sem Larkin langaði mest til. Líklega vegna þess að það var utan við veruleikann; afsprengi ímyndunar og hugarflugs.
Þau orð Larkins eiga svo sannarlega erindi við nútímann sem hann viðhafði um peninga:
Allt sem við getum vonazt til að láta börnum okkar eftir - það eru peningar!
Larkin var íhaldsmaður. Það stóð honum líklega fyrir þrifum í tízkuróti marxismans. Auden var sósíalisti en varð íhaldssamur með árunum. Skáld þurfa ekki að vera róttæk! Og alls ekki marxistar! Mörg beztu skáld samtímans eru borgaralega sinnuð. Það er jafnvel hægt að vera skáld og kjósa Sjálfstæðisflokkinn!
Hvað með Einar Benediktsson, Davíð Stefánsson og Tómas Guðmundsson?

Margir leyniþræðir liggja milli gamalla bóka. Ekki er þó víst að ástæða sé til að leggja of mikið upp úr því. Þó er víst að þessir þræðir eru úr sama vefnum. Eða mundum við ekki hugsa til Hávamála þegar við lesum þessa setningu í Grettlu: Þykir mér það ráð, að hér hafi eik það er af annarri skefur.

Eða - hvað skyldi það merkja þegar ágæta kemur fyrir í Fóstbræðrasögu og Grettis sögu - og einnig Finnboga sögu ramma að mig minnir? Mundi þetta orð ekki minna á Hákonar sögu Sturlu Þórðarsonar? Í Fóstbræðra sögu er talað um hinn hæstahöfuðsmið. Það minnir á himnasmið Kolbeins unga. Á næstu grösum er svo talað um að þeim Þorgrími reyndist meiri mannraun að sækja Þorgeir heldur en klappa um maga konum sínum!
Það hefur eik ef af annarri skefur, má segja um víxláhrif milli fornra sagna.

Lífið er undarlegt. Það birtist í öllum sínum margbreytileika í blaðamennsku. Stundum velti ég því fyrir mér hvort allir séu eitthvað skrítnir; eða undarlegir; eða þjáist af einhvers konar geðjafnvægisleysi þótt heilbrigðir séu. Ég hef að minnsta kosti oft upplifað í starfi mínu að ekki er allt sem sýnist.
Um daginn kom ég í vinnuna. Þá beið eftir mér heldur lögulegur maður, ekki illa snyrtur, ekki heldur illa klæddur. Hann var með vel hirt yfirskegg, svart.
Ritari minn sagði að hann hefði beðið eftir mér nokkra stund. Ég átti hans ekki von en bauð honum inn. Hann þakkaði fyrir, heilsaði kurteisislega og sagðist vera sonur Tryggva prentara sem hefði unnið á Morgunblaðinu í eina tíð. Ég sagðist muna eftir honum, ágætum manni. En skapheitum. Mér er raunar nær að halda að hann hafi með köflum þjáðst af einhverjum geðsveiflum án þess ég viti það.

Ég fór nokkrum fögrum orðum um föður mannsins sem þarna var kominn í heimsókn og talaði við mig eins og hver annar, af skynsemi og alvöru.

Þegar við höfðum skipzt á nokkrum setningum um föður hans þagnaði hann allt í einu, leit í gaupnir sér, hugsaði sig um, horfði síðan stíft á mig yfir skrifborðið og sagði sannfærandi, Ég hef fundið upp lyf við krabbameini. Ha, sagði ég, nú einmitt það(!) Já, sagði hann, en ég hef ekki fengið að njóta þess. Nei, sagði ég, en hvað ætlarðu til bragðs að taka? Það er nú það, sagði hann, þeir hafa gert mig að utangarðsmanni fyrir vikið. Já, einmitt, sagði ég og þurfti nú enn einu sinni að upplifa þetta óvænta andartak að sitja andspænis geðveikum manni og tala við hann í fúlustu alvöru. Hann truflaði mig að sjálfsögðu en ég lét það gott heita. Gat ekki rekið hann út úr skrifstofunni minni en lét hann tala máli sínu óáreittan og án þess ég reyndi að grípa frammí. Beið eftir tækifæri til þess að standa upp og vísa honum til dyra. Hélt raunar að hann ætti erindi við mig þess efnis að ég léti minnast á krabbameinsuppfyndingu hans í blaðinu, en það gerði hann ekki. Hann virtist einungis hafa komið til að létta á sér. Hann sagði, Því miður hafði ég ekki fundið upp krabbameinslyfið þegar móðir mín dó. En þegar bróðir minn fékk krabbamein nokkrum árum síðar var það komið í gagnið og bjargaði lífi hans. En það skiptir svo sem engu máli, það var bara lagzt á mig fyrir vikið. Ég fékk enga viðurkenningu, ekkert hrós. Mér var einungis vikið til hliðar. Ég var sendur í mitt gúlag og hef lifað utangarðs síðan. Hvað ætlarðu að gera? spurði ég. Hann neri saman höndunum, leit á mig og sagði, Hvað gerir maður í svona tilfelli? Maður getur ekkert gert, ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég er orkufræðingur að mennt og hef komizt að kjarna efnisins. Ég á líkan af vél sem getur framleitt alla þá orku sem menn þurfa, án olíu og mengunar. Gætirðu ekki orðið milljóneri á því? spurði ég. Nei, sagði hann. Spámenn verða ekki milljónamæringar. Ég verð bara að dúsa utangarðs. Fæ ekki heldur neitt fyrir krabbameinslyfið, en það gerir ekkert. Fórnin hefur verið mitt hlutskipti. Og ég kann svo sem ágætlega við mig þar sem ég hef hafnað með öskutunnunum. Öskutunnunum? hváði ég. Já, þær hafa orðið mitt hlutskipti. Það eru launin sem ég hef fengið fyrir uppgötvanir sem eiga eftir að gjörbreyta lífi mannsins á jörðinni.

Nú kom ritarinn minn inn í skrifstofuna. Ég stóð upp. Þá stóð gesturinn einnig upp, hneppti að sér frakkanum og við gengum út úr skrifstofunni. Ég leiddi hann að lyftunni. Ég vildi bara koma þessu til skila, sagði hann. Það var gott, sagði ég og ýtti á lyftuhnappinn. Lyftan var á leið til okkar og þegar hún kæmi gæti ég kvatt hann eins og ekkert væri. Hann horfði fast á mig. En ef þeir snerta hár á höfði mínu verður mér að mæta, sagði hann reiðilega. En ég kann ágætlega við mig innan um öskutunnurnar. Og það get ég sagt þér, að borgin okkar er mesti aldingarður sem til er á jörðinni. Nú, sagði ég, hvað áttu við með því? Að öskutunnurnar eru fullar af appelsínum og eplum og alls kyns ávöxtum. Það væsir ekki um þann sem lifir í þessum aldingarði.
Lyftan var komin. Dyrnar opnuðust. Hann gekk inn í lyftuna, strauk skeggið og horfði á mig. Já, sagði hann, ég hefði getað bjargað henni mömmu ef ég hefði verið búinn að finna upp krabbameinslyfið. En ég er ekki viss um að ég hefði spanderað því á hann pabba. Nei, það er ekki alveg víst, bætti hann við, hikandi.
Svo ýtti hann á lyftuhnappinn án þess kveðja mig.

28. september, sunnudagur

Styrmir er við rúmið. Gekk til hans í suðaustan hvassviðri og heim aftur. Það var hressandi. Yfir borginni fallegasti regnbogi sem ég hef séð yfir Reykjavík.
Guð skrifar í himininn.

 

29. september, mánudagur

Sá mynd um Oscar Wilde í sjónvarpinu. Ó, fagra veröld - skrifaði hann þegar hann kom úr fangelsinu. Líklega hefur Tómas nafnið á samnefndri ljóðabók sinni frá þessu uppáhaldsskáldi sínu. Hann lærði margt af Wilde. Ég held að þetta brezk-írska skáld hafi haft mun meiri áhrif á Tómas en við gerum okkur grein fyrir. Það ætti einhver bókmenntafræðingur að kanna það. Tómas hefði getað sagt þau orð sem höfð eru eftir Wilde undir lokin,
Ég skrifaði meðan ég þekkti ekki lífið. En nú þegar ég þekki það, hef ég ekkert að segja.

 

1. október, miðvikudagur

Ingó hringdi frá Edinborg. Hafði lokið doktorsprófi sínu í veirufræði. Sem sagt. Ph.D. við Lundúnaháskóla, einn þekktasta og virtasta læknaskóla heims. Mér er nær að halda að hann sé fyrsti íslenzki læknirinn sem lýkur bæði Msc. og Ph.D.-prófi frá skólanum. Nú verður hann frjáls, loksins. Ætti að geta notið frelsisins en ég á ekki von á því að hann komi heim, held hann ílendist erlendis. Ætlar að minnsta kosti að vera á rannsóknarstofu við Edinborgarháskóla næstu misseri.

Þetta er lánsdagur og hefur alltaf verið. Kynntist Hönnu 1. október 1949. Þá settist ég á stól hjá henni í Tjarnarkaffi - og hef setið þar síðan. Held ég hafi svipaða afstöðu til lífsins og Sturla Þórðarson; að við fylgjum örlögum okkar.
Páll Ísólfsson lýsti þessu með öðrum hætti í síðasta samtalinu sem ég átti við hann; að okkur væri stjórnað, eins og hann sagði.

 

2. október, fimmtudagur

Ingó í snögga heimsókn heim til Íslands. Höfum ekki séð hann svo mánuðum skiptir. Það var yndisleg tilfinning að sækja hann út á Keflavíkurflugvöll en hann verður stutt og ég er þegar farinn að kvíða því að hann fljúgi aftur austur yfir haf - eins og farfuglinn.

Ódagsett

Fann uppkast að ljóðaþýðingu okkar Árna Bergmanns á Baby Jar eftir Jeftusjenkó.

Fékk gott bréf frá Kristjáni Karlssyni eftir síðasta Helgispjall. Það er dagsett 29. september. Hann segir:
“Ég var að lesa Helgispjall þitt. Stórgott. Harmsaga Ketils (í Mörk) er sárari en Njáls af því að hún er “bara” tilfinningaleg; harmsaga Njáls meira intellektúel. Kjarninn í persónu (hans) er skammsýni; hann reynir að beita intellektinu á örlögin og fást við þau vísindalega, mér liggur við að segja félagsvísindalega.”
Athyglisverð ábending(!)

Hef verið að birta ljóð í nokkrum tímaritum, ég veit nú eiginlega ekki af hverju. Friðrik Rafnsson vildi endilega fá ljóð ort út af Zaraþústra Nietzsches í Tímarit Máls og menningar, áður óbirt; setti einnig óbirt ljóð í Geðhjálp, hef skrifað í það rit áður; finnst ég eiga eitthvað sammerkt því fólki sem þetta rit er ætlað. Kvæðið var óbirt og tilheyrir síðustu kvæðasyrpu minni sem liggur í ísskápnum  og bíður síns tíma! Það heitir Að hausti. Ég er heldur ánægður með þessi kvæði hvað sem öðru líður, þau eru eins og ég vil hafa þau. Það gerist ekki á hverjum degi! Þá setti ég óbirt kvæði í Æskuna, einnig að beiðni. Orti það einhvern tíma á leiðinni frá Akureyri til Reykjavíkur, mig minnir í Borgarfirðinum. Það er einskonar samtal við Jónas og heitir Þið þekkið fold. Æskan er 100 ára um þessar mundir en ég orti í hana á árum áður, skrifaði einnig í hana tvær eða þrjár sögur ef ég man rétt. Það var þegar Grímur Engilberts var ritstjóri Æskunnar. Hann kom oft niður á Morgunblað og við töluðum mikið saman. Urðum miklir mátar. Hann sagði mér lífsreynslusögu sína og kenndi þar ýmissa grasa án þess ég teldi ástæðu til að tíunda það á þeim tíma. Held Grímur hafi verið einhvers konar kommúnisti á þessum árum, það var kannski þess vegna sem hann dróst að mér með þeim hætti sem raun bar vitni og vildi fyrir alla muni að ég léti hann fá efni í Æskuna! Það eru margar hliðar á lífinu og það hefur ekki við að koma manni á óvart.
Og nú stendur til að við Hanna förum til Bonn þar sem ég flyt fyrirlestur um blaðamennsku við háskólann og les upp í tilefni af þýðingum Wilhelms Friese á Sálmum á atómöld. Les einnig upp í Stuttgart og Tübingen. Vona þetta verði góð ferð og eftirminnileg. Hef gaman af að leggja land undir fót í þessum tilgangi. Það stóð einnig til að ég kæmi við í London í tilefni af útkomu bókar okkar Kristjáns Karlssonar á ensku Voices from agross the Water. Hef frestað þeirri ferð enda vilja þeir heldur að ég komi í janúar. Það passar mér betur. Ég þarf hvort eð er að fara til Lundúna þá og vera viðstaddur þegar  doktor Ingólfur  tekur við  prófskjali sínu.

Er að drepast úr kvefi og slæmum hósta, Hanna fékk snert af lungnabólgu. Vonandi fæ ég röddina áður en ég fer til Þýzkalands. Annars fyndist mér meiri ástæða til að aðrir kjaftaskar en ég misstu röddina, þessir óþolandi framtóningar sem samkjafta ekki og maður getur ekki þverfótað fyrir. En þeir virðast aldrei kenna sér neins meins; mala bara sífellt í allskyns fjölmiðlum eins og grjótmulingsvélar.

23. október, fimmtudagur

Fór í góðan göngutúr með Skerjafirði sl. sunnudag, í sérlega góðu veðri; þó svalt. Mætti Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra sunnan Öskjuhlíðar, en ég var þá í gemsanum. Björn var í þungum þönkum. Hann var einn á ferð með hugsunum sínum. Hann var með bláa lambhúshettu og fór vel við landslagið.
Þú í símanum, sagði hann þegar við mættumst.
Já sagði ég og heilsaði honum með handabandi.
Björn brosti, svo hélt hvor sína leið.
Gekk um athafnasvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur. Það brakaði í rauðu laufinu. Það var gott að vera einn á ferð. Við áttum haustið sameiginlegt, ég og garðurinn. Dauður fugl í rauðu laufinu; sem sagt tvíhljóðamikið haust. Kann því heldur vel. Á þó ekkert sérstaklega góðar minningar um tvíhljóða, ei, ey, au, fékk þessi hljóð í sextíma ritgerð á lokaprófi í málfræði hjá dr. Alexander á sínum tíma. Þá þurfti ég að taka á öllu sem ég átti til.

Samtal við Helga Sæmundsson í næsta sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Hann er gamall kjaftaskur í pólitík og heldur óskemmtilegt að fylgjast með andlegum uppblæstri hans í þeim efnum. Þegar ég var í Menntamálaráði áttum við í erfiðleikum með Helga því hann sat þar , heldur illa stemmdur.
Ég varð formaður Menntamálaráðs fyrir tilmæli Áslaugar Brynjólfsdóttur sem reyndist mér mjög vel í ráðinu. Gunnar leikari Eyjólfsson sat þar fyrir kratana og ætlaði að gera Einar Laxness að formanni. En það vildi Áslaug ekki því hún hafði ekki áhuga á því eins og á stóð að fulltrúi sósíalista yrði formaður Menntamálaráðs. Þá var stjórnarsamstarf milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, ef mig misminnir ekki.
En hvað sem því líður, þá líkaði mér vel í ráðinu. Tel að það hafi unnið margt þarft verk. Það hefur gefið út ýmsar ágætar bækur. Um þær var fjallað af heilindum og án klíkuskapar þótt sitt sýndist hverjum eins og alltaf er.

Þegar Hrólfur Halldórsson,, framkvæmdastjóri, lézt skyndilega kom Helgi Sæmundsson askvaðandi niður á Morgunblað og sýndi mér yfirgang. Ég held hann hafi talið liggja beint við að hann tæki við af Hrólfi en veit það þó ekki nákvæmlega. Hann reyndi m.a. að saka mig um væntanlega útgáfu á riti Indriða G. Þorsteinssonar um þjóðhátíðina 1974 og frágang á henni við andlát Hrólfs. Ég var nýkominn frá Ameríku og hafði ekkert með þennan frágang að gera. Málið hafði verið afgreitt í ráðinu, og það er rétt að ég taldi skynsamlegt að ríkisforlag gæfi út yfirlitsrit um opinbera þjóðhátíð, en Indriði G. Þorsteinsson var beðinn um að skrifa þetta rit á vegeum ríkisstjórnarinnar svo það lá beint við hver ætti að sjá um útgáfuna.
Helgi hafði allt á hornum sér og ógnaði mér í þessu samtali okkar. En ég hristi Helga af mér. Ég hef oft þurft að hrista af mér. Held samt hann hafi aldrei fyrirgefið mér viðnámið. Minn akkilisarhæll er ekki frekja og yfirgangur, andspænis slíku hef ég alltaf getað staðið af hörku og djöfullegri einbeitni, minn hæll er eins og þeir segja blaðamenn Morgunblaðsins, hlýlegt viðmót, mjúklyndi og hæverska. Þá fell ég. Helgi hafði engan þessara kosta  gagnvart mér,þegar þetta var,þótt oftast hafi verið gott á milli okkar.
Helgi gat verið fyndinn í pólitískum ræðum á sínum tíma en það var oftast svört fyndni. Svo talaði hann þannig og kom þannig fyrir að hann var eins og Lou Costelló í búningi íslenzks sveitamanns svo að fólk fór strax að brosa innra með sér, þegar hann birtist á sviðinu.

Sigurður Nordal skrifaði á sínum tíma ritdóm um fyrstu ljóðabók Helga. mig minnir það hafi verið í Helgafelli. Þar stóð ekki steinn yfir steini.

En nú er hann orðinn atómskáld.

Þegar ég skrifaði Kompaníið brást Helgi mjög illa við. Þar var eitthvað verið að amast við krötum og hann þoldi það ekki. Hann skrifaði einn af sínum vondu ritdómum um þessa bók en hann var með allra verstu gagnrýnendum landsins um sína daga, enda  alinn upp í gamaldags sveitarómantík.
Ég hef aldrei lent í klíku með Helga Sæmundssyni eins og Indriði  G.og Hannes Pétursson. Það hefur farið þeim illa.
En það má svo sannarlega segja að Morgunblaðið sé frjálst og opið - já, jafnvel í báða enda eins og sagt var um Framsóknarflokkinn undir stjórn Ólafs Jóhannssonar. Það er gott að vera frjálslyndur, opinn og óháður - en það er ekki gott að vera eins og illa saumaður blóðmörskeppur. Við þurfum að læra þennan saum betur!

Helgi blessaður Sæmundsson er ekki alveg húmorslaus,síður en svo.Eitt sinn fyrir margt löngu sagði hann við mig  eftir kvöldverð í Menntamálaráði eitthvað á þá leið að íslenzk ljóðlist væri  ekki á flæðiskeri stödd “meðan við yrkjum báðir”.

Ég hef sjaldan hrokkið eins við en skaut mér á bak við það að þetta hafi verið sagt sem gamanmál. En þá rann upp fyrir mér ljós; að Helga væri fúlasta alvara.
En það fór víst ekki framhjá honum að ég dróg mig inn í skelina eins og kúfiskur.

25. október, laugardagur

Samtal í Lesbók við Knut Odegård um þýðingar okkar Jóhanns Hjálmarssonar á ljóðum hans. Ég dróst að ljóðaflokknum Vindar í Raumsdal  því mér finnst hann flott ljóðlist.
Knut segir hann hafi notað andblæ af Jörð  úr ægi.

Samtal við Davíð Oddsson í helgarblaði Dags. Hann segir að Björn Bjarnason sé óskaplega trygglyndur. Ég þekki ekki annað.
Ég hef alltaf sett spurningarmerki við vináttu í pólitík.Hún er hagsmunir,fyrst og síðast.

Ég bjó til orðið hagsmunavinátta á sínum tíma.

26. október, sunnudagur

Frétt í Morgunblaðinu um doktorsvörn Ingólfs. Það sem mér finnst bezt við doktorsritgerð hans er að hún er byggð á eigin rannsóknum. Hún er ekki einhver samtíningur úr skýrslum og allskyns félagsfræðiheimildum, en mér sýnist flestar doktorsritgerðir nú byggja einna helzt á slíku, auk einhverra munnlegra upplýsinga. Ekki hvarflaði að mér að ég gæti fengið doktorsnafnbót fyrir Njálu í íslenzkum skáldskap sem er m.a byggð á slíkri vinnu.
Samt eru ýmsar niðurstöður í bókinni um það efni sem hún fjallar um; jafnvel talsverð lýsing á “þjóðarsálinni” gegnum tíðina.

Förum til Þýzkalands á þriðjudag. Flyt fyrirlestur við Bonn-háskóla um blaðamennsku, les upp í sendiráðinu um kvöldið en svo förum við til Tübingen og Stuttgart þar sem ég les Sálma á atómöld, ásamt þýðandanum, Dr. Wilhelm Friese. Skreppum einnig til Brement-hjónanna, vina okkar, í Garmisch. Kvíði fyrir öllu þessu tilstandi, en vona við lifum það af.

 

7. nóvember

(Svar við spurningu um stjórnun)

Ritstjórinn segir að stjórnendur ráðgist að sjálfsögðu við blaðamenn um ýmis efni, en þó ekki um stjórnun eða skipurit. Þeir hafi aftur á móti fullt samráð um stjórndreifingu við næstu undirmenn sína og umsjónarmenn hinna ýmsu deilda, bæði fulltrúa ritstjóra, fréttastjóra og umsjónarmenn sérblaða. Hann er þeirrar skoðunar að bezt sé að stjórnendur beiti nærveru, reynslu og yfirburðum á sínu sviði, en það sé að sjálfsögðu reist á menntun og kunnáttu sem þeir hafa aflað sér í störfum. Það megi ekki fara milli mála hver stjórni úlfahjörðinni. Ef það sé ekki ljóst hrynji kerfið og öll skipurit, hvort sem þau eru skrifuð eða óskrifuð, komi að litlu gagni. Það sé gagnslaust að troða inn í skipurit stjórnendum sem hafa ekki burði til að stjórna öðru fólki. “Flokkurinn verður að sætta sig við forystuna, annars er voðinn vís. Ef hann gerir það, þarf engar skriflegar yfirlýsingar. Stjórnandi án virðingar er jafnilla settur, hvort sem hann styðst við skipurit eða ekki.
Í náttúrunni stjórna sterkir einstaklingar sem flokkurinn, eða hjörðin, sættir sig við, fyrirvaralaust. Úlfahjörðin hefur t.a.m. eðlislægt eða innbyggt skipurit og enginn í vafa um hver leiðir hópinn.  Hví skyldu önnur lögmál gilda um vettvang mannsins? Þar sem á skortir þessa nærveru og þetta þegjandi samþykki er víða allt í hers höndum á vinnustöðum, hvað sem líður öllum skipuritum og höfum við séð þess víða merki - ekki sízt á fjölmiðlum.
Í úlfahjörðinni þekkir hver einstaklingur hlutverk sitt og sinnir því. Hann stofnar helzt ekki til neinna átaka, þótt hann geti að sjálfsögðu gengið með reist skott eins og leiðtoginn. Hann getur látið reyna á stöðu sína, að vísu.
Eðli og aðstæður skipta miklu í allri stjórnun. Stundum stjórna undirmenn í gegnum yfirmann sinn og hann verður háður þeim, hvað sem öllum skipuritum líður. Hann sættir sig sem sagt við að “stjórna” í gegnum sterkari aðstoðarmenn - og allir una glaðir við sitt.
Stöðuheiti eða titlar eru einatt nauðsynleg tæki til að marka mönnum bás; afmarka eða skýra starfssvið þeirra.
Ég geri mér grein fyrir því að skipurit er nauðsynlegt við ýmsar aðstæður, ekki sízt þegar breytingar verða í stórum fyrirtækjum eða stofnunum. Þannig var nauðsynlegt að ákvarða starfsskiptingu þegar ný lög um yfirstjórn lögreglumála komust í framkvæmd á þessu ári. En skipuritið hefur þó ekki komið í veg fyrir árekstra, t.a.m. vegna stöðuveitinga eins og skýrt hefur verið frá í fjölmiðlum.”

31. október, föstudagur

Komum til Stuttgart í dag frá Tübingen. Þangað fórum við í gær, ásamt dr. Wilhelm Friese, prófessor frá Bonn. Wilhelm kom þangað því við lásum saman þýðingar hans á Sálmum á atómöld í einstæðu boði sem Valgerður Valsdóttir og Ingimundur Sigfússon héldu í tilefni af útkomu bókar minnar á þýzku. Gistum hjá sendiherrahjónunum, það var auðvelt þótt ég vilji heldur gista á hótelum en í heimahúsum á svona ferðalögum. Við Indi erum góðir vinir frá gamalli tíð, hann hefur ekkert breytzt og stendur sig eins og hetja í störfum sínum - og þau bæði. Indi er reyndar fæddur inn í svona embætti því hann hefur gaman af því, hann er smekkvís og áhugasamur.
Og umfram allt mannblendinn.
Það var eftirminnilegt að vera heiðursgestur í boðinu í sendiráðinu í Bonn þetta kvöld. Ingimundur flutti stuttan inngang, síðan talaði dr. Wilhelm um skáldskap minn og að lokum lásum við saman úr þýðingum hans. Að því búnu söng Hanna Dóra Sturludóttir við undirleik Þórarins Stefánssonar og gerði það frábærlega vel. Þau eru mjög vingjarnlegt ungt fólk.
Þarna var saman komið margt fyrirfólk í þýzku þjóðlífi, sendiherrar, stjórnmálamenn, ritstjórar og menningarmenn. Okkur var tekið með kostum og kynjum. Ég hef verið hálf lasinn undanfarið og ekki náð úr mér flensunni, en það var eins og hóstinn hyrfi þetta kvöld og röddin háði mér ekki.
Þarna var Jóhann Tammen, skáld í Bremerhaven og útgefandi, við vorum saman í Edenkopen-hópnum á sínum tíma. Framúrskarandi maður og skáld gott. Það urðu fagnaðarfundir þegar við hittumst. Þarna var margt mætra manna og á ég þá að sjálfsögðu við konur einnig, kennarar við háskólann í norrænum fræðum og að sjálfsögðu Max Adenauer. Hann er að verða níræður en lítur út eins og fimmtugur. Þeir njóta sín vel í ellinni, feðgarnir!
Hanna Dóra söng íslenzk lög, eingöngu.
Þannig varð kvöldið í sendiherrabústaðnum í Bonn eftirminnileg íslenzk minning sem ég held við gleymum ekki. Fyrr um daginn hafði ég flutt erindi í Bonn-háskóla um blaðamennsku. Fullur salur. Talaði á þýzku, það var dálítið erfitt en tókst vel, að ég held. Að fyrirlestrinum loknum voru fyrirspurnir og ég reyndi að svara þeim eftir beztu getu. Held einnig að það hafi farið skikkanlega úr hendi.
Fyrirlesturinn sem ég flutti er svohljóðandi í íslenzkri útgáfu minni, en ég stytti hann talsverft með því að fella úr langar tilvitnanir í Bjarne Bore. Lesturinn tók þó 40-45 mínútur.

Í Júragarði fjölmiðlunar

“Ég geri ráð fyrir því að eðlilegt megi teljast að ég víki þegar í upphafi máls míns að Morgunblaðinu, en við það hef ég starfað frá 1951 og sem ritstjóri þess frá 1959, en það er eins og segir í Íslenskri aðlfræðiorðabók, stofnað 1913 og útbreiddasta blað á Íslandi, þekkt fyrir fjölbreyttan fréttaflutning, birtir mikið af aðsendum greinum og fjallar ítarlega um utanríkis- og menningarmál. Upplag blaðsins nú er um 55 þúsund eintök dag hvern. Blaðið er gefið  út af hlutafélagi í eigu nokkurra fjölskyldna en það voru einkum kaupmenn sem sameinuðust um útgáfu þess þegar halla tók undan fæti fyrir stofnendum þess um 1920 og hafa erfingjar þeirra átt mestan hluta blaðsins æ síðan. Erfingjar Valtýs Stefánssonar sem var lengst ritstjóri blaðsins, eða frá 1924-1963, eru helztu hluthafar blaðsins. Annar stofnenda og fyrsti ritstjóri blaðsins, var Vilhjálmur Finnsen, sendiherra Íslands hjá vestur-þýzka sambandslýðveldinu um nokkurra ára skeið. Báðir voru þeir menn sem ég hefi nú nefnt í forystusveit íslenzkra blaðamanna og skildu eftir sig arfleifð sem nú blómstrar meir og betur en nokkurn tíma áður. Ritstjórar Morgunblaðsins hafa fullt frelsi í störfum sínum, án afskipta eigenda af efni og ritstjórnarstefnu.
Morgunblaðið hefur frá fyrstu tíð stutt borgaraleg öfl á Íslandi og átt í megindráttum pólitíska samleið með Sjálfstæðisflokknum sem nú hefur á hendi stjórnarforystu á Íslandi, enda langstærsti flokkur landsins. Engin tengsl eru samt milli blaðs og flokks önnur en þau hugsjónamál sem tengjast frjálsri verzlun og markaðsstefnu innanlands og aðild að Atlantshafsbandalaginu sem grundvöllur öryggismála og utanríkisstefnu landsins.
Þegar ég hóf blaðamennsku upp úr 1950 komu út fjögur dagblöð sem nú hafa lagt upp laupana og voru þrjú þeirra málgögn þriggja mið- og vinstriflokka en með þverpólitískri stefnu í lok kalda stríðsins flosnuðu þessi blöð upp og hættu að koma út enda stendur enginn aðili á Íslandi lengur fyrir þjóðnýtingu sem áður var í tízku og þeirri haftastefnu í viðskiptum sem áður einkenndi íslenzkt þjóðfélag; því síður eru nú talsmenn á Íslandi fyrir marxistiskri stefnu eða þeim alþjóðakommúnisma sem áður setti mark sitt á íslenzkt samfélag og var eins konar tízkustefna um skeið. Gegn þessum hálfsósíalisma í verzlun og viðskiptum hefur Morgunblaðið ævinlega barizt. Það hefur boðað markaðsstefnu frá fyrstu tíð og lagt aukna áherzlu á forystuhlutverk einstaklinga og einkarekstrar í þjóðfélagi okkar. Þessi stefna er nú orðin þverpólitísk að því leyti að hún er í raun og veru boðuð af öllum íslenzkum stjórnmálaflokkum, andstætt því sem áður var, og flokkslínur eru því mjög óljósar og engin þörf á málgögnum stjórnmálaflokka með ólíkar stefnur í grundvallaratriðum. Slíkur ágreiningur er ekki lengur fyrir hendi.
Þessi þverpólítíska þróun hefur ekki aðeins orðið á Íslandi heldur í velflestum ríkjum sem Íslendingar hafa mest samskipti við.
Auk Morgunblaðsins kemur út annað morgunblað, Dagur, en það var steypt úr tveimur málgögnum Framsóknarflokksins sem bæði eru hætt að koma út, Degi á Akureyri sem er á Norðurlandi og Tímanum, en útbreiðsla þessa blaðs þolir ekki á nokkurn hátt samanburð við gengi Morgunblaðsins. Eitt síðdegisblað kemur út í Reykjavík, Dagblaðið-Vísir, en það á rætur í tveimur síðdegisblöðum sem voru sameinuð, Vísi sem var í aðra röndina málgagn Sjálfstæðisflokksins, eða að minnsta kosti sjálfstæðisstefnunnar, og Dagblaðsins sem var stofnað 1975 og einkennir sig sem frjálslynt blað og óháð stjórnmálaflokkum. Í fyrrnefndri alfræðiorðabók segir svo um þetta blað: “Dagblaðið byggði á æsifréttum en fjallaði einnig um menningu og bókmenntir.” Það varð til við klofning út úr Vísi en sameinaðist honum aftur í Dagblaðinu-Vísi 1981. Upplag þess hefur síðustu misseri verið um 30.000 eintök á degi hverjum. Eigendur þessa blaðs eru hinir sömu og gefa út Dag. Sjónvarpsstöðin Stöð 2 sem er önnur sjónvarpsstöðin í Reykjavík, auk Ríkissjónvarpsins, á einnig aðild að þessari fjölmiðlasamsteypu.
Samkvæmt könnunum hefur Morgunblaðið yfirburðastöðu á fjölmiðlamarkaðnum og hefur sótt í sig veðrið hin síðari misseri, ekki sízt meðal ungs fólks, en á sínum tíma var því haldið fram að blaðið væri einskonar dínósárus á brauðfótum en allar slíkar fullyrðingar hafa verið bornar til baka með þessum könnunum og útbreiðslutölum og segja má að þetta stærsta blað Íslendinga hafi aldrei haft meira innra þrek né sterkari tengsl við lesendur en nú um stundir. Það hefur einnig styrkt stöðu sína á (inter)netinu. Útbreiðsla þess þykir með eindæmum því að ekki er vitað um annað dagblað sem hefur milli 50-60 þús. áskrifendur í 260 þús. manna þjóðfélagi. Það samsvaraði 50-60 milljónum áskrifenda í Bandaríkjunum.
Aðalkeppninautar Morgunblaðsins eru að sjálfsögðu sjónvarpsstöðvarnar tvær en það hefur haldið sínum skerf í þessari samkeppni og vel það.
Þá eru einnig nokkrar útvarpsstöðvar starfræktar á Íslandi, bæði ríkisútvarp og stöðvar í einkaeign, og hafa þær að sjálfsögðu sinn hlut af markaðnum en ógna þó enganveginn sérstöðu Morgunblaðsins. Ríkisútvarpið starfrækir tvær rásir.
Ég mun svo láta þetta yfirlit nægja um stöðu íslenzkrar fjölmiðlunar enda ástæðulaust að þreyta yður með lengra ágripi en kýs heldur að víkja að þeirri fjölmiðlun sem við eigum nú að venjast. Ég vil þó áður nefna eitt einkenni íslenzks samfélags sem hefur sett mark sitt á íslensk dagblöð, en það er áhugi Íslendinga á ættum og þá ekki síður minningu ættingja sinna. Þetta stafar líklega bæði af sögulegum ástæðum og áhuga umhvefisins á hverjum einum vegna fámennis og nábýlis. Sögulegu ræturnar eru án efa í fornsögum okkar en þar eru ættartölur eitt helzta einkenni þeirrar ritstýrðu sagnfræði, eða skáldsagnagerðar Íslendinga sagna sem talin er til heimsbókmennta. Það er í þessa ritstýrðu sagnfræði sem nóbelsskáldið Halldór Laxness sótti fyrirmyndir að skáldsögum sínum Innansveitarkroniku og Guðsgjafaþulu. Þær fjalla báðar um næsta umhverfi og persónur þess, byggðar á arfsögnum og munnmælum eins og Íslendinga sögunar.
Ættartölur í Dagblaðinu-Vísi eru eitt vinsælasta efni blaðsins og minningargreinar í Morgunblaðinu svo vinsælar að þær valda okkur miklum erfiðleikum. Við þyrftum að stemma stigu við því flóði sem nú flóir yfir bakka sína eins og hvert annað stórfljót, en erfitt að taka ákvörðun um hvernig það skuli gert af þeirri einföldu ástæðu að minningargreinar eru helztu persónulegu tengsl almenns lesanda við blaðið og kannanir hafa sýnt að lestur þeirra er um og yfir 80%, eða nánast jafn mikill og lestur almennra frétta. Til samanburðar má geta þess að greinar og fréttir um íþróttir og menningarmál hafa 35-40% lesningu.
Þessar vinsældir minningargreina eru einn helzti höfuðverkur ritstjóra Morgunblaðsins og erfitt að rata meðalhófið. Efnið er ekki einungis vinsælt, heldur og ekki síður viðkvæmt.
Sú var tíðin að Morgunblaðið var málgagn Sjálfstæðisflokksins en það er liðin tíð. Nú eru þeir gagnrýndir sem gagnrýni eru verðir og velþóknunar njóta þeir sem hennar eru verðir, án pólitísks geðþótta. Sú var tíðin að reynt var að breiða yfir ágreiningsmál borgaralegra afla, svo mikilvægt sem það þótti að allir væru sammála og sameinaðir - ekki sízt í Sjálfstæðisflokknum - í baráttunni gegn heimskommúnismanum á kaldastríðsárunum. Nú, þegar gömlu óvinirnir eru horfir af vígvellinum eru menn óhræddir að takast á í hinum ýmsu álitamálum og það er að sjálfsögðu gert.
Þverpólitísk stórmál á Íslandi í dag eru t.a.m. eignaraðild á fiskikvóta og afstaðan til Evrópubandalagsins án þess ég telji nauðsynlegt að skýra þann ágreining nánar hér. Morgunblaðið hefur gert kröfu til þess að kvótinn sé leigður - og þá e.t.v. með veiðigjaldi - en ekki gefinn einstökum útgerðarmönnum til frjálsrar ráðstöfunar, hann er sameigin þjóðarinnar og blaðið telur ekki að unnt sé að ráðskast með þessa sameign eins og hver vill; selja hana eða veðsetja. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðra stefnu, hann er á móti veiðileyfagjaldi og leyfir framsal kvóta. Alþýðuflokkurinn berst t.a.m. gegn slíku framsali og leggur áherzlu á veiðileyfagjald. Stefna hans er nær stefnu Morgunblaðsins. En. Morgunblaðið hefur ekki talið ástæðu til þess að við Íslendingar gengjum í Evrópubandalagið eins og Alþýðuflokkurinn hefur boðað, heldur sé ráðlegt að sjá hvað setur og er ég sannfærður um að það er eina rétta afstaðan. Þetta er sama afstaða og formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, hefur haft, svo að stefna Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins fara saman í þessum efnum. Við fylgdum því aftur á móti eins og meirihluti Alþingis að Íslendingar gerðust aðilar að EES-samningnum og hefur það gagnast okkur vel. Það eru margir merkir erlendir stjórnmálamenn sem hafa verið sömu skoðunar um þessi atriði og við Morgunblaðsritstjórarnir, t.a.m. Thatcer og fyrrverandi kanslari ykkar, Helmut Schmidt, en þau hafa talið að við ættum ekki að ana inn í Evrópubandalagið, heldur bíða átekta.
Mikil ábyrgð hvílir á jafn víðlesnu blaði og Morgunblaðið er og til þess eru gerðar miklar kröfur að vonum. Það er stundum vandratað einstigið milli fumlausrar og skilgóðrar fréttamennsku og krafna um heiðarleik og siðgæði sem á okkur dynja dag hvern, svo að ekki sé talað um frágang og málfar en íslenzk tunga er fjöregg okkar og afar viðkvæmt hvernig með hana er farið á þeim válegu sjónvarpstímum sem nú eru, en segja má að yfir 60% af öllu tali í íslenzkum sjónvarpsstöðvum sé á erlendum tungum, einkum ensku.
Blöðin eiga ekki að taka að sér hlutverk dómstóla og réttvísi. Þau eiga að vera aðhald en ekki dómstólar. Þau hafa nóg svigrúm undir strangri meiðyrðalöggjöf. Það er vond blaðamennska að líta á ógæfu fólks og yfirsjónir eins og hverja aðra verzlunarvöru.

Blaðamenn hefðu gott af að kynna sér þessi orð Dennings lávarðar í niðurlagi skýrslu hans um Prófumó-málið, en hann segir: Upplýsingar um ávirðingar þekkts fólks eru orðnar útgengileg markaðsvara, sannar eða lognar, raunverulegar eða tilbúnar. Þær eru seljanlegar. Því meira hneyksli því hærri fjárupphæð fæst fyrir vöruna. Styðjist efnið við ljósmyndir eða bréf, raunveruleg eða ímynduð, þeim mun betra.

Fólk verður aldrei söluvarningur í höndum þeirra sem hafa sæmilega heiðarlegt lífsstarf og temja sér vinnubrögð siðaðra manna. Það getur verið freistandi að ganga yfir mörk drengskapar eða meiðyrðalöggjafar, en sérhver sannur blaðamaður reynir að forðast það, jafnvel þótt annað gæfi meira í aðra hönd. Gott blað er ekki mannorðsmorðingi. Það er kvika þjóðlífsins, en ekki kviksyndi. Kandhal, fyrrum ritstjóri Aftenposten segir, Það er á valdi blaðanna án raunverulegra ástæðna, án laga og dóms, að eyðileggja fólk. Þetta verður hver blaðamaður að gera sér ljóst.

Þegar við vorum í Noregi vorið 1991 heimsóttum við Stavanger Aftenblad og áttum ágætt samtal við ritstjóra þess, Thor Bjarne Bore, alvarlegan mann og viðræðugóðan. Nokkru síðar rakst ég á athyglisverða grein eftir hann í málgagni norskra blaðamanna og þar fjallar hann um siðleysi í blöðunum og ábyrgð fréttamanna. Hann segir í upphafi greinar sinnar að fyrrverandi upplýsingafulltrúi hjá Kreditkassen hafi sagt að fyrir venjulegt fólk sé aðeins eitt verra en að verða fyrir reiði Guðs, það sé að verða umfjöllunarefni á forsíðu Dagbladet eða Verdens Gang í Osló án þess að vilja það. Þar sé nefnilega hvorki að finna náð né fyrirgefningu. Og Bore segir: “Það er ef til vill ekki þægileg tilhugsun að æ fleiri skuli spyrja hvort nýtt réttarkerfi sé að verða til í Noregi, kerfi þar sem menn eru dæmdir sekir um leið og grunsemdir vakna, þar sem menn verða að afplána refsinguna þegar í stað í gapastokki almenningsálitsins, ásamt öllum þeim ættingjum sem bera sama eftirnafn. Í gamla daga lauk refsingunni á einum sunnudegi við kirkjuna. Þá hlaut fólk refsingu eftir réttarhöld og dómsúrskurð, núna er gapastokkur fjölmiðlanna stundum miklu verri en dómarnir sem réttarkerfið kveður upp.”

Og Bore heldur áfram: “Ég hygg að við getum verið sammála um að ekki eigi að skerða tjáningarfrelsið þegar það er notað til að hindra óréttlæti og leiðrétta mistök... Rannsóknarblaðamennska fer vaxandi og það er gott fyrir samfélagið. En það er slæmt að í sumum tilfellum hafa menn sýnt óvarkárni og skaðað rannsókn lögreglu á málum með yfirgangi. Blöðin hafa oft varpað fram afdráttarlausum staðhæfingum allt of snemma og síðar hefur komið í ljós að þau voru á villigötum. Oft er skaðinn mikill, fjárhagslegur og félagslegur, fyrir einstaklinga sem verða fyrir barðinu á þessu þótt þeir reyni að rétta hlut sinn með málsókn...

Lögbrot er lögbrot en hvaða brot eru svo yfirþyrmandi að það sé eiginlega hægt að verja það að fjallað sé um það á mörgum blaðsíðum og birtar risastórar myndir. Fjölmennir flokkar ljósmyndara og fréttamanna eru á hælum hins ákærða, notaðar eru kvikmyndavélar og skær flassljós sem afhjúpa hverja einustu drætti og svipbrigði...

Athafnir fjölmiðla í slíkum málum minna á alþýðudómstóla. Eintakafjöldinn, áherzlan á málið, orðaval þar sem skoðanir blaðamanns koma skýrt í ljós og ekki sízt að einstaklingar á vegum fjölmiðlanna bregða sér í mörg hlutverk í senn — þeir annast rannsókn, eru ákærendur og dómarar auk þess sem þeir miðla upplýsingum til almennings...

Aðalritstjóri Washington Post segir réttilega að ekki sé nein ástæða til að segja frá einkalífi þekkts fólks nema framferði þess í einkalífinu geti haft áhrif á störf þess. Ef fólk í ábyrgðarstöðum tekur sér eitthvað fyrir hendur sem skerðir það traust sem almenningur verður að geta borið til viðkomandi einstaklings getur einkalífið orðið viðfangsefni fjölmiðla...”

Viðhalda verður gagnkvæmu trausti almennings og fjölmiðla ef hinir síðarnefndu vilja gegna hlutverki sem fjórði valdaþátturinn, “við verðum að halda okkur frá forheimskunar- og léttmetisblaðamennskunni”, segir Bore og bendir á að blaðamenn verði sjálfir að halda uppi siðferðislegum aga eins og Ibsen fjallar um í Rosmersholm. Sigrid Undset sagði réttilega að menning væri “í innsta eðli sínu ábyrgðartilfinning einstaklingsins”. Blöð þurfa að byggja á hugmyndafræðilegum grundvelli sem er í senn aðhald og viðmiðun þegar álitamál koma upp.

Ég vík aftur að orðum norska ritstjórans, hann segir:
“Á ritstjórn er ekki hægt að setja reglur sem hægt er að notast við í öllum tilfellum, en hægt er að draga mörk sem hvetja menn til að vera meðvitaðir um hvenær hægt sé að birta upplýsingar án þess að einstaklingum sé jafnframt sýnt óréttlæti. Sérhver lesandi hefur sína skoðun á því hvað eigi að birta. Það má aldrei verða takmarkið að allir séu undantekningarlaust ánægðir. Ef blað ætlar að gegna skyldu sinni sem gagnrýnandi samfélagsins hljóta sumir lesendur þess að verða lítt hrifnir af ákveðnum greinum, fyrirsögnum, þar sem fjallað er um þá, hve mikið rými er notað fyrir umfjöllunina og hvar í blaðinu hún birtist. Og aldrei megum við gleyma því að þeir sem af eðlilegum ástæðum eru mikið í sviðsljósi fjölmiðla glata alltaf að nokkru leyti hæfileikanum til að skilja gildi tjáningarfrelsisins og opinberrar umræðu.

En þróun mála veldur því að afar eðlilegt er að staldra við og spyrja: Erum við vitni að því hvernig fjölmiðlunum hrakar, hvernig þeir menga almenningsálitið með ofuráherzlu á einstaklinga og hneyksli fremur en að vera því til upplýsingar?

Er tvenns konar fjölmiðlasiðferði að verða til, annars vegar þeirra sem leggja áherzlu á að stundum hljóti tillit til einstaklinga að vega þyngst, hins vegar þeirra sem segja að tjáningarfrelsið sé takmarkalaust og skýra megi frá öllu ef það aðeins sé satt? Er raunveruleiki nútímafjölmiðlunar þegar öllu er á botninn hvolft fyrst og fremst spurning um peninga?”

Og Thor Bjarne Bore lýkur grein sinni með þessum orðum: “Á gamla blaðamannaskírteininu stóð skýrum stöfum: Orðið er máttugt vopn — misnotið það ekki. Það er ekki rými fyrir þessi orð á nýja plastskírteininu — var kannski rangt að breyta til?”

Niðurstaða mín af löngu fjölmiðlastarfi er svipaður fyrirvari og felst í þessum síðustu orðum norska ritstjórans. Fréttamenn þurfa sjálfir sama aðhald og þeir telja sér skylt að veita öðrum, einstaklingum og samfélaginu. En það er langt frá að á því sé almennur skilningur og um fjölda fréttamanna mætti hafa sömu orð og Bore notar um valdamenn: “Og aldrei megum við gleyma því að þeir sem af eðlilegum ástæðum eru mikið í sviðsljósi fjölmiðla glata alltaf að nokkru leyti hæfileikanum til að skilja gildi tjáningarfrelsisins og opinberrar umræðu.” Þetta á því miður við um allt of marga fjölmiðlamenn. Sumir þeirra vilja baða sig í sólskininu en þeim er nokkurn veginn sama þótt þetta sama sólskin valdi öðrum brunasárum. Ekki sízt af þeim sökum er mikilvægt hverjir stjórna fjölmiðlum, nú og í framtíðinni — og er það að sjálfsögðu algjörlega óháð tæknilegri þróun því að alþýðudómstóll notar þau meðul sem nærtæk eru hverju sinni.

Alþjóðleg fjölmiðlun er fyrirferðarmesti þátturinn í íslenzkum sjónvörpum. Erlendur skemmtiiðnaður er þar nánast allsráðandi og engu líkara en metnaður íslenzkra sjónvarpsstöðva standi helzt til þess að verða eins konar amerískur útikamar norður í ballarhafi. Þetta er heldur dapurleg framtíðarsýn, því miður, og vonandi hef ég á röngu að standa; vonandi rís þessi fjölmiðlun úr öskustónni og markar sér íslenzka stefnu með þá arfleifð að bakhjarli sem er dýrmætasta eign okkar. En það kann vart góðri lukku að stýra hvernig útlendir kapítalistar bora sig inn í Íslenska útvarpsfélagið og nú þegar á bandarískur banki sem þekktur er af fjárfestingarævintýrum í Suður-Ameríku um 20% í þessu “íslenzka” fjölmiðlafyrirtæki og er auk þess helzti lánabakhjarl þess. Ég set spurningarmerki við þessa þróun. Er þetta það hlutverk sem okkur er ætlað; að þjónusta erlend afþreyingarfyrirtæki og leggja fjöreggið í lófann á útlendum risa sem enginn veit hvað ætlast fyrir. Fjöreggið er arfleifð okkar, íslenzk menning. Hvað mundu menn segja ef útlendingar ættu 20% í auðlindinni: fiskimiðunum? Ég sé engan mun á því hvort útlendingar eiga helztu eldisstöðvar íslenzkrar menningar eða hafa yfirráð yfir þeirri auðlind sem er grundvöllur tilveru okkar og framtíðar; fiskveiðilögsögunni.
Blaðamennska er hávaðasöm. Alltaf leikið á öll hljóðfæri í einu. Undantekning að heyra fíngerðan einleik. Blaðamennska er slítandi starf. Samt hafa blaðamenn náð sjötugs aldri(!) En þeir eru víst ekki langlíf stétt. Þeir brenna upp í þeim eldi sem aldrei slokknar; amstri og atburðum hvers einasta dags sem guð gefur. Aldrei hefur það verið mikilvægara en einmitt nú að blaðamenn þekki sinn vitjunartíma í því alheimsþorpi tækni og (inter)nets sem er umhverfi okkar, viðfangsefni og veruleiki.
Íslendingar hafa í gegnum tíðina verið sérfræðingar í því að breyta erlendum áhrifum í mikilvæga íslenzka reynslu. Vonandi verður það áfram þótt við höfum enn engin efni til að talsetja erlendar sjónvarpsmyndir eims og þið. Við höfum ævinlega tekið laxinn til fyrirmyndar. Hann breytist ekki í skeldýr þótt hann lifi á skeldýrum. Hann heldur áfram að vera lax. Og hann leitar upp í íslenzku árnar þar sem hann glímir við fossa og flúðir - og freistingar laxveiðimanna!
Að lokum þetta:
Mér hefur dottið í hug að sagan sé að endurtaka sig. Tuttugasta öldin er blaða- og fjölmiðlaöld og öld geimvísinda. Mikið af hinni nýju fjölmiðlatækni er tengt þeim miklu ævintýrum sem geimferðirnar hafa verið á okkar tímum. Eins og dagblaðamenningin hófst  íslenzk bókmenntahefð í litlum lænum, síðan féllu þær saman í einn mikinn farveg sem við köllum konungasögur og Íslendinga sögur; edda og arfleifð. Svo hurfu þessir lækir til upphafs síns og sagnahefðin greindist á ný í margvíslegar lænur á 14. öld. Allar eru þær merkilegar að vísu, en þó aðeins svipur hjá sjón miðað við hið mikla fljót menningarsögulegrar hefðar í sagnaritun 13. aldar. Það skyldi þó ekki vera að á 20. öld höfum við verið í meginstraumi fjölmiðlunarinnar en förum nú senn að upplifa hvernig ný tækni leiðir til sérhæfingar rétt eins og áður en dagblaðið mikla varð til á þessari öld.
Þá gæti orðið þröngt á þingi í Júragarði fjölmiðlunarinnar; meiri átök en nú, einkum um auglýsingar; meiri og harkalegri samkeppni um athygli og áskrifendur.
Pascal segir að enginn tali um annan með sama hætti við hann sjálfan og aðra. Enginn vinátta væri til ef menn vissu hvað um þá væri sagt að þeim fjarstöddum. Þá væru ekki til fjórir vinir í veröldinni, segir Pascal. Sjálfselskan sé einkenni okkar og við höfum tekið hana í þjónustu okkar með ágætum árangri. En hann bætir því við að hún sé ekkert annað en hin falska ímynd kærleikans. Um þetta hugsar helzt enginn nú á dögum, ekki frekar en á tímum þessa mikla vísindamanns og heimspekings. Og hann fer ekki fallegum orðum um hégómann. Sem sagt, maðurinn hefur ekkert breytzt og engu líkara en Pascal sé enn á meðal okkar.
Lífið er hátíðlegast í hversdagsleikanum, hinu venjulega amstri. Það er efnisviður blaðamennskunnar. Og án þess ég hafi löngun eða tilhneigingu til að rugla blaðamennsku saman við bókmenntir er þessi fullyrðing grunnþema í ljóðabók minni Sálmum á atomöld, sem þó eru engir sálmar í venjulegum skilningi, en hún er nú að mestu nýkomin út í þýzkri þýðingu dr. Wilhelms Friese prófessors í Tübingen.
Nýtt skip er fréttaefni, aflabrögð og hvalablástur og margvísleg atvik úr hversdagslífinu. Fréttamennska þarf ekki, svo er guði fyrir að þakka, að vera svartur galdur; hún er ekki síður hvítur galdur eins og það sem er jákvætt, fróðlegt, uppbyggilegt og ástæða til að fagna. Hneykslin eru þó gómsætust, veit ég vel. Ávirðingar annarra sem sætta okkur betur við sjálf okkur, þær þykja oft fréttanæm frávik. Ef Pascal væri á meðal okkar gætum við ekki svarað honum með þeim, til að réttlæta starf okkar, en við gætum gert það með því að tala um margt í hversdagslegri reynslu hvers og eins. Það er margt í þessari reynslu fróðlegt og uppörvandi og fréttnæmt af þeim sökum.
Hitt er svo annað mál að frávik innan hversdagslegrar venju eru oft og tíðum mestu fréttirnar. Alvarleg slys, óvæntar vísindauppgötvanir, geimferðir; fyrsta sporið á tunglinu. Hin sjúklegu frávik eru annað og alvarlegra efni; morð, meiðingar, ofbeldi. Ég óttast því miður að of margir fréttamenn nú um stundir telji sér einna skyldast að koma þessum frávikum til skila og þá ekki sízt þeim mistökum og víxlsporum sem geta eyðilagt líf þeirra sem létu freistast, og því miður, einnig líf saklauss fólks sem tengist ógæfufólki með ýmsum hætti. Fréttamaður sem tekur slíkar fréttir ekki nærri sér er á rangri hillu. Hann ætti að starfa á öðrum vettvangi en þeim sem er hverjum aðgátsmiklum og varfærnum blaðamanni sár og dýrkeypt reynsla í hvert skipti sem starf hans leiðir til þess að vegið sé að æru og lífshamingju þeirra sem í ógæfu lenda, og þá ekki síður aðstandendum þeirra. Þau eiga ævinlega um sárast að binda, þessi saklausu fórnarlömb frávikanna.
Það eru að vísu margar skýringar á óvenjulegri útbreiðslu Morgunblaðsins.
En ég er þess fullviss að útbreiðsla þess er ekki sízt með þeim hætti sem raun ber vitni, vegna þess að Íslendingar hafa, þrátt fyrir allt og allt, meiri áhuga á því sem er jákvætt og uppbyggilegt en hinu sem er hráefni eymdar og ógæfu.”
(flutt 28.sept,1997,Bonn-háskóla)

Kvöldið áður, eða sama dag og við Hanna komum til Bonn, fórum við út að borða með Valgí og Inda, það var indælt kvöld. Við hittum þýzka konu, Riu Maternus, sem á veitingastaðinn Maternus í Bonn og sér um hann sjálf. Hún er um áttrætt. Hún gengur á milli gesta og talar við þá. Hún veitir þeim ókeypis eðalhvítvín og hefur gaman af að segja frá ævi sinni. Það var athyglisvert að fylgjast með því hvernig hún tók sendiherrahjónunum tveim höndum og síðar um kvöldið þegar við höfðum borðað settist hún hjá okkur, bauð okkur hvítvín og sagði okkur undan og ofan af ævi sinni.
Hún sagðist hafa verið gift lögfræðingi sem hafi ekki verið neitt sérstaklega spennandi, en hún hefði erft húsið og veitingastaðinn eftir foreldra sína. Þetta veitingahús, Maternus, er mjög þekkt í Bonn og þangað er fyrirmönnum boðið. Hún sagði okkur frá Reagan og Gorbasjov sem báðir hafa verið á hennar snærum og henni líkaði vel við báða; hún sagði okkur frá Nancy Reagan en líkaði ekki við hana, og ekki heldur við Díönu konu Menuhins sem hún þekkir vel enda eru þau eitthvað skyld.
Við Hanna kynntumst Díönu þegar þau Menuhin komu til Íslands og líkaði vel við hana. Hanna sagði við Valgí,
Henni líkar illa við allar eiginkonur!
Ég held það sé ekki endilega rétt. Henni líkaði bæði vel við Valgí og Hönnu og tók þeim af mikilli hlýju. En ég held hún hafi haft meiri áhuga á okkur Inda þótt hún sé orðinn áttræð! Hvað sem því líður minnti hún mig eitthvað á frú Teske sem við kynntumst í pensjonati í Bonn 1953 þegar við vorum þar á ferð og ég skrifaði um uppreisnina og sló tvær flugur í einu höggi; upplifði fyrsta áfall heimskommúnistans og brúðkaupsferð okkar Hönnu.
Við fórum til Berlínar með Gunnari G. Schram eins og ég hef víst minnzt á áður á þessum blöðum. Hann var eiginlega ótrúlegur ferðafélagi. Við áttum ekki fyrir flugfari til baka en hann komst í samband við einhverja alþjóðlega ungmennahreyfingu sem tók okkur að sér og borgaði fyrir okkur ferðina til Lundúna. Þar fengum við auk þess einhverja dagpeninga. Ég hef eiginlega aldrei skilið hvernig Gunnar fór að því að koma okkur á framfæri með þessum hætti. Ég held hann hafi fært sér í nyt samkeppni einhverra hreyfinga sem börðust um ungar sálir í kalda stríðinu.

Á þessum árum var maður svalur eins og hafgolan.
Maður lét sér ekkert fyrir brjósti brenna. Það var uppreisnarástand í Austur-Berlín en þangað fórum við eins og okkur sýndist og létum allar hættur lönd og leið.
Ég skrifaði greinar frá Berlín sem ég hef ekki séð síðan. Ferðin frá Berlín til Hannover var óskapleg. Vélin varð að fljúga í einhverri loftbrú og hristist eins og strá í vindi. Þessi ferð átti þó nokkurn þátt í flughræðslu minni sem nú kom á mig eins og æði og jókst með hverjum mánuði sem leið. Þessi ótti háði mér verulega næstu árin, samt flaug ég ævinlega þegar ég þurfti, beitti sjálfan mig hörðu og lét flugferðirnar yfir mig ganga. Var þó stundum svo kvíðinn þegar þær nálguðust að ég gat varla á heilum mér tekið.
En nú hef ég að mestu náð tökum á þessum óþarfa ótta og flaug meira að segja áburðarflug með Páli Sveinssyni fyrir hálfum öðrum áratug!
Einhverju sinni þegar við Hanna vorum í Glasgow á leið frá Bad Soden, það var víst um páskana 1973, dreymdi mig margar líkkistur daginn fyrir heimferðina og var sannfærður um að nú væri komið að endadægri! Ég var svo illa farinn á sálinni að ég hálflamaðist í fótunum og drattaðist áfram um götur Glasgow þennan morgun.
Þegar við komum loks út á flugvöll var nafn mitt kallað upp. Ég fór inn í skrifstofu Flugleiða. Þá var mér sagt að Elín móðursystir mín hefði dáið daginn áður. Það voru hin verstu tíðindi og ollu okkur mikilli sorg, enda var heimili þeirra Bergsveins Ólafssonar læknis  að Ránargötu 20 mér gott athvarf í æsku. Þar bjó Jóhannes afi síðustu ár ævinnar og tuggði æ stærri skrobita eftir því sem árin liðu!
Viktor Aðalsteinsson var flugstjóri í þessari heimferð. Hann sagði við mig,
Þetta verður ágæt flugferð, sagði hann, en þó er einhver lægð á leiðinni. Þú færð koníak þegar við erum komnir á loft.
Og hann stóð við það, enda drengur góður.

Gunnar G. Schram skrifaði smásögu í Stefni um frú Teske, ágæta sögu. Eitt sinn sagði ég við frúna þegar ég fór að morgni í fréttastúss - þá var maður ekki beysinn í þýzkunni, Wollen Sie bitte mine Frau aufziehen!
Þetta var haft að gamanmálum þarna í pesjónatinu næstu daga því að það merkir víst: Viljið þér gjöra svo vel að afklæða konuna mína kl. 10!
Ég var að biðja um að Hanna yrði vakin.
Frau Teske sló sér á lær og sagði skellihlægjandi,
Það er gott að við skulum ekki hafa haft neina karlþjóna hér í pensjónatinu!
Á þessum tíma var hálf Berlín rústir einar. Kakkalakkar í húsunum og aðkoman ömurleg.
Það var ágætt að vera hjá frú Teske, en hún var harðdræg í peningamálum enda nauðsynlegt eins og á stóð.
Þegar við kvöddum töldum við að unnt yrði að fá góðan afslátt, en því var ekki að heilsa.
Full greiðsla, sagði frú Teske, og engar refjar!
Við borguðum henni aleiguna og það var ástæða þess að við áttum ekki fyrir farinu heim.
Þá gat maður ekki hringt á Morgunblaðið og látið senda sér peninga. En úr rættist fyrir útsjónarsemi Gunnars og við fórum þessa tryllingsflugferð til Hannover með þristi frá Pan American. Það ætlaði allt um koll að keyra.
Ef ég lenti í slíkri flugferð í dag fengi ég hjartaslag; að minnsta kosti taugaáfall!

 

                (Innskot síðar :

Gunnar G. Schram - minning

Við Gunnar kynntumst í háskóla.Hann kom að norðan,ég úr MR.Leiðir okkar lágu saman í Vöku,þar var miðstöð þeirra sem töldu heiminum stafa hætta af heimskommúnisma.Þá var vá fyrir dyrum,en marxismi í tízku og þeir sem sóttust eftir vinsældum völdu sér annað kompaní en þennan meinlausa hugsjónahóp sem kenndu sig við lýðræði á byltingatímum.Og þóttu heldur lummulegar trakteringar , þegar stalínistar köstuðu fjöreggi heimsins á milli sín,eins og skessurnar í Hlyna kóngssyni.
En þarna kynntist ég mörgum þeim sem fylgt hafa íslenzka lýðveldinu fyrstu sporin inn í óvissa framtíð.Þessi kynslóð,hvar í flokki sem hún stóð, lét samt lítið fyrir sér fara,þótt hún væri traust og tæki hlutverk sitt  harla alvarlega.Kölluð lýðveldiskynslóðin af fyrirferðarmeiri sporgöngumönnum  sem nutu þess að losna að mestu við klámhögg kalda stríðsins..

En það var góður hópur í Vöku og hvarf til ýmissa starfa landi og þjóð til heilla.Sumir urðu jafnvel verkalyðsforingjar á vegum Sjálfstæðusflokksins og þótti nýnæmi,þótt slíkir verkalýðsforingjar þættu heldur gamaldags í dag.
Allir hafa þessir eldhugar átt sína sögu,sína miklu drauma,gleði og vonbrigði.En þó umfram allt sína miklu reynslu,samofna miklum pólitískum örlögum.
Og nú geta þeir horft til allra átta,ánægðir með hlutskipti sitt á viðsjárverðum tímum,þegar engu mátti muna að jörðin yrði sprengd í loft upp eins og hver önnur hundaþúfa við Kárahnjúka.

En þetta var sem sagt rúmgott samfélag,fullt af hugsjónum um afhroð ofbeldis og einræðisafla  og margvíslegum væntingum um affarasælt þjóðfélag hins nýstofnaða lýðveldis.
En það voru mörg ljón á veginum og ekkert fagnaðarefni að takast á við stalínismann á þessum örlagaríku  tímum.Og tízkan öndverð eins og alltaf,þegar eitthvað er í húfi.En Vökuhópurinn
fastur fyrir og átti þátt í því,hvernig við komumst klakklaust út úr logheitum átökum kalda stríðinu.

Gunnar var til foringja fallinn á þessum árum.Hann var bjartsýnn og vinsæll.Hafði áhuga á öllu því sem til mannheilla horfði.Var listrænn í eðli sínu og skrifaði góðan andríkan stíl sem lyfti undir löngun hans til blaðamennsku.Móðir hans var mágkona Valtýs Stefánssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, og því átti hann greiða leið að blaðinu.Þangað fylgdi ég honum því að hann gegndi því hlutverki m.a. að afla efnis fyrir blaðið og láta snara greinum sem þóttu hnýsilegar eins og á stóð.Slík störf voru fyrstu skref mín í blaðamennsku og þá fyrir áeggjan Gunnars.Að því leyti var hann örlagavaldur í lífi mínu. En um starf Gunnars á Morgunblaðinu skrifaði Valtýr í  afarpersónulegri grein um alla starfsmenn ritstjórnar í fjörutíu ára afmælisblaðinu,2.nóv. 1953 :” Gunnar Schram hefur haft umsjón með æskulýðssíðunni,ritað um stjórnmál,þingfréttir o.fl.Hann er meðal efnilegustu ungra manna í Sjálfstæðisflokknum”

Gunnar fékk snamma pata af því að ég hefði áhuga á skáldskap,þótt ég flíkaði því ekki , og tók ástfóstri við ljóðlist brezka skáldsins Dylans  Thomas sem  við fengum sérstakar mætur á.Þannig á ég bókina Quite Early One Morning eftir Thomas , áritaða af Gunnari.Vísbending um áhugamál þessara ára,þótt Gunnar færi í lögfræði,en  ég í norrænu sem svo var kölluð.
Þegar ég blaða í þessari bók nú,hálfri öld síðar, finnst mér hún hafa verið einskonar áskorun.Veröldin var  ekki bara pólitískt kviksyndi,heldur skáldlegar umbúðir um stóra drauma..Og það var víst engin tilviljun , þegar grein birtist um Dylan Thomas í Stefni,eftirmæli um skáldið úr Times 1953..Og þar segir í inngangi Gunnars :”Fá skáld hafa haft meiri áhrif á enska ljóðagerð,enda tókst honum snilldarlega að að samhæfa gamlar venjur nýjum tíma “.
Slíkt er ekki á allra færi.

Þegar ég nú snögghorfi um öxl , gleðst ég yfir því sem lífið veitti okkur af æsku og fyrirheitum,minnugur þess að Gunnar skrifaði  í Morgunblaðið  harla mikilvæga grein um frægasta menningarfund sjötta áratugarins,þegar Steinn Steinar lýsti því yfir að hið hefðbundna ljóðform væri dautt,eins og hann komst að orði.Án þessarar greinar værum við merkum sögulegum bókmenntaþætti fátækari.

Já,það var eftirvænting í lofti og gaman að takast á við þann hrollkalda veruleika sem fylgdi kalda stríðinu.Engu líkara en Ísland væri einskonar miðþyngdarstaður þessa hildarleiks sem hvarvetna blasti við. Hingað komu bókstaflega allir,ekki sízt tónlistarmenn og skáld  á heimsvísu og hér átti ég samtöl við ýmsa forystumenn sovézkra kommúnista.Og ekki ósjaldan orðabasl við þá sem maður átti skkert sökótt við.Ekki sízt ef maður vann á Morgunblaðinu,þar sem  rússagrýlan réð ríkjum , eins og allir áttu að vita,og lýðræðissinnar svo nefndir í útrýmingarhættu eins og geirfuglinn.
Eða voru það ekki við sem börðust gegn góða málstaðnum og þá auðvitað fyrir loðna krumlu auðvaldsins?!
Voru það ekki við sem  gegndum hlutverki hlaupastrákann fyrir hernaðarvélina í Washington og voru sífelldlega að reyna að koma höggi á ástmög alþýðunnar, félaga Stalín?!

Nei,við vorum ekki að hugsa um landið okkar,frelsi þess og öryggi;framtíð þess og fyrirheit.

Eða hvað?

Ég hafði ungur sjóari farið með frosinn fisk til Leningrað og verið bólusettur við kommúnisma, svo að dugað hefur hingað til. Gunnar þurfti ekki slíka bólusetningu.Hann dró einfaldlega ályktun af sögu þriðja ríkisins og það fullnægði dómgreind hans.

Saman fórum við Gunnar til Berlínar í júní 1953 og upplifðum heljartök rauðu krumlunnar í alþýðuuppreisninni þá og dugði okkur báðum næstu árin.Þá var Brandenborgarhliðið eins og hver annar vígvöllur,en um það var ekki hugsað,heldur þær fréttir sem Morgunblaðið beið eftir úr þessum stríðskalda þætti nútímasögunnar.Ég minnist þess hvernig ítalskur blaðamaður var drepinn þarna á torginu,en við okkur var sagt við skyldum ekki fara austur fyrir tjald og ef við gerðum það,yrði það á okkar eigin ábyrgð.En um það var ekki hugsað.Og ég sendi margar greinar heim um það sem  fyrir augu bar,en á öllum myndum af flóttamönnum að austan sem við birtum var strikað yfir augu þeirra svo að þeir þekktust ekki.Það var til verndar ættingjum sem eftiir urðu í þessu pólitíska limbói sem lesa má um í helvítiskaflanum í Gleðileik Dantes.

Ekki  vorum við bornir á gullstól þegar heim kom,það var nú eitthvað annað:Matthías til Berlínar með bundið fyrir augu , stóð í blaðinu sem kenndi sig við vilja þjóðarinnar.

Og búinn heilagur eins og Elli Hólm hefði sagt.

Í þessari ferð upplifðum við þriðja ríkið í rústum.Við bjuggum í pensjónati frú Teske sem var sérstæð og aðsópsmikil kona,en um hana og borgina skrifaði Gunnar eftirminnilega smásögu sem við birtum í  októberhefti Stefnis 1955 ,myndskreytta af Örlygi Sigurðssyni,,en okkur þremur blaðamönnum á Morgunblaðinu hafði verið trúað fyrir tímaritinu og  við töldum nauðsynlegt að breyta því í menningarrit vinstri mönnum til lítillar ánægju.Þriðji blaðamaðurinn var Þorsteinn Ó.Thorarensen.
Margir merkir höfundar lögðu  hönd á plóginn og þar birtist margvíslegt efni sem borgarastéttin var ekki vön,en tók  tveimur höndum.Þessi gráglettna tilraun var heldur skemmtileg ögrun á þröngum,fordómafullum tímum.Og auðvitað áttu ritstjórarnir sinn metnað,þótt ekki væru þeir í neinum metsölustellingum.

Smásaga Gunnars  sem heitir Borgin dimma og stúlkan,dagbókarbrot frá Berlín , er hálfsúrrealískt myndbrot um drauma og tortímingu og sýnir  rithneigð hans og listræna hæfileika og mundi sóma sér vel í sýnisbók íslenzkra smásagna.Hún var helzta afrek þessarar Þýzkalandsferðar.Mitt afrek var það að kippa Gunnari upp á gagnstétt þegar hann var á hraðri leið fyrir næsta sporvagn.Frá þeirri stundu hefur mér fundizt ég bera þó nokkra ábyrgð á lífi hans.

“Maður á ekki að reyna að sigrast á lífinu,heldur sætta sig við það”, segir í Borginni dimmu.

Á ritstjórnarárum Bjarna Benediktssonar á Morgunblaðinu kom í ljós að þeir Gunnar áttu ekki skap saman og taldi Gunnar  í samtölum okkar að Bjarni hefði byggt sér út af blaðinu.Eftir það hallaðist hann að forystu Gunnars Thoroddsens og  á þeim forsendum var honum falin ritstjórn Vísis allnokkru síðar,

Þegar að því kom að ég tæki að mér ritstjórn við Morgunblaðið,var Gunnar kominn til framhaldsnáms í útlöndum og ég óskaði  þá eftir því að annar gamall Vökumaður kæmi að blaðinu,Eyjólfur Konráð Jónsson,en samstarf  okkar hafði verið með ágætum, bæði á háskólaárunum og síðar þegar Eyjólfur var orðinn framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins.Með okkur hafði þannig þróazt hin bezta vinátta og ég treysti honum vel,þegar fyrir höndum var það mikla starf að losa um tengsl blaðsins við Sjálfstæðisflokkinn. og var Eyjólfur betri en enginn í þeirri baráttu,þótt sjálfur færi hann á þing á vegum flokksins.

                Þegar Gunnar hvarf til Þýzkalands hlaut hann von Humbolt-styrk,það var í október 1957,ef ég man rétt.Síðar hélt  hann til Bretlands,þar sem við Hanna sóttum þau Elísu heim í Cambridge sem hann kallaði Kambsbryggju í anda Fjölnismanna,en mér sýnist dagbækur Konráðs Gislasonar hafa haft áhrif á hann ungan,ekki sízt loftskurðurinn sem prýddi þessar hitasæknu setningar í texta hans,en kannski voru það þó einkum áhrif frá umhverfinu  á Akureyri og í MA.Þetta flug fannst mér einnig fylgja hugsunum vinar okkar á háskólaárum,Sveins Skorra Höskuldssonar  síðar prófessors.

                En nú var hafinn undirbúningur undir lífstarfið því að prófessorsstaða í lögfræði var markmiðið.Þar var svo lífsstarf hans,en hvorki í pólitík né blaðamennsku,sem bjuggu þó með honum alla tíð.

                Allan þennan tíma voru tengsl okkar Gunnars hin sömu og áður eins og sjá má af bréfi sem hann skrifaði mér frá Cambridge 30.júlí 1963.Þar lýsir hann högum sínum með þessum hætti:Maður lifir hér í huggulegheitum og hefur afar hægt um sig.Dægrastytting ekki önnur en reykja pípu,spila bridge og lesa enskan litteratur nýjan sem er reyndar lakari en maður skyldi halda.Annars á lögfræðin hug minn allan eins og þú veizt.Um þessar mundir að minnsta kosti og sit ég dag hvern blýfastur á gömlu sæti Eiríks meistara Magnússonar og hugsa.Auðvitað er það ákaflega gott fyrir manns andlegu heilsu,en heldur er ég samt að gerast þreyttue á vísindunum og gömlum rykföllnum skinnbókum,einangraður svo fjarri öllum mögnuðum íslenzkum lífshræringum,hákarli og gömlu brennivíni.En allt tekur enda einhverntíma og loks sé ég fyrir lokin á minni Kambsbryggjudvöl sem í mörgu hefur verið minn merkilegasti lífstími.Ég er náttúrlega orðinn hinn mesti lögspekingur eins og þú veizt og veit meira um eitt lítið horn lögfræðinnar en nokkur annar í þessu landi,sem er ekki mikils virði á metaskál silfurs og gulls en gefur manni þó tangarhald á tilverunni á sína vísu,sem ekki er að öllu forkastanlegt.Slíkt þarf ég ekki að skýra fyrir þér nánar”

                Annars staðar segir Gunnar í bréfi til mín,þegar hann reifar væntanlega ritstjórn sína á Vísi sumarið 1964 að Vsir og Morgunblaðið séu “tveir kvistar á sama meiði og mikið er komið undir að starfi saman af góðvild og einlægni,en reyni ekki að reyta menn hvort frá öðru (þótt ég myndi ekki neita ef mér væri boðin ritstjórastaða við Moggann!)...afstaða mín til  Mbl. er slík,eftir margra ára starf þar,að sízt sæti á mér að fara með undirmál gagnvart jafngóðum vinum mínum eins og þér,Valtý eða Sigurði (Bjarnasyni),enda mun ég aldrei reka Vísi þannig að Mbl. beri þar hallan hlut frá borði né ástæðulaust hnjóð.Ef einhvern tímann kemur að mannaskiptum milli blaðanna,meðan ég er þar,mun slíkt ekki gerast öðru vísi en með samþykki og samningum milli allra aðila.
Eg vona að þú takir þessi ummæli mín af þeirri einlægni sem þau eru sögð,en ég vil ekki láta það sambandsleysi sem stafar af því að við erum hvor í sínu landi valda hér neinum misskilningi okkar í millum”.

                Þegar Gunnar tók við Vísi var hugur hans þannig  bundinn Morgunblaðinu .Hann vissi að gott uppeldi og veganesti þaðan dygði honum vel,meðan hann stundaði blaðamennsku.Þá vorum við ritstjórar hvor á sínu blaði og samkeppni mikil á markaðnum.Lagt hafði verið upp með þann ásetning sem fyrr greinir,en lífið er hart með köflum og leikur  einatt góðan ásetning  okkar og vilja heldur illa.Og í þessu tilfelli kröfðust hagsmunir Vísis annars vilja en þess sem var grundvallaður á  gamalgróinni vináttu úr Vöku.
Morgunblaðið þurfti einnig á öllu sínu að halda til að geirnegla forystu sína  í markaðsharðri samkeppni,en það skyggði þó ekki á æskuvináttu okkar Gunnars.
Allt tók þetta að vísu á  við metnaðarfullar aðstæður líðandi stundar.Og áformin eins og kvikuhlaup fyrir eldgos. En þegar fundum okkar bar saman löngu síðar á hafréttarráðstefnunni í Genf,þar sem Gunnar var á heimavígstöðvum í fræðum sínum,ef svo mætti segja,var engu líkara en tíminn hefði staðið kyr frá miðjum sjötta áratugnum,Margt hafði að vísu farið á annan veg en við ætluðum,en kjarninn var þó heill,ef að var gáð,eins og Einar Benediktsson segir í kvæði sínu  Á Njálsbúð.
Og ég upplifði enn gamla vináttu okkar Gunnars og veglyndi hans.

                En tíminn líður eins og jökulfljót að lygnum ósi þessarar eilífu þagnar sem bíður okkar.

 

                                                                              Matthías Johannessen).

Við erum sem sagt komin til Stuttgart og í kvöld las ég upp í rithöfundahúsinu, ágætt kvöld. Dr. Wilhelm Friese stóð sig vel að venju, ég las sálmana á íslenzku en hann á þýzku. Góðir áheyrendur og hlustaðu vel.
Ágætar spurningar að lokum.
Ég hef haft gaman af að æfa mig í þýzkunni. Við yrðum áreiðanlega vel mælt á þýzku ef við værum hér í nokkrar vikur. Þýzkan liggur í undirvitundinni frá því við bjuggum í Þýzkalandi 1972-73. Okkur er alltaf jafn vel tekið og það er uppörvandi. Það er eiginlega ótrúlegt hvað fólk tekur við sér þegar það hlustar á ljóðalestur. Það tekur manni tveim höndum og þakklætið yljar eins og sunnanblær. Þannig var það einnig í Tübingen og þá ekki síður í Bonn. Þar var einnig gaman að flytja fyrirlesturinn um blaðamennsku fyrir fullum sal áheyrenda; ungt fólk í meirihluta enda virðist germanska deildin við Bonn-háskóla kraftmikil. Það eru miklir sérfræðingar og prófessorar í norrænum fræðum við Bonn-háskóla og Köln. Prófessorinn í Bonn er sérfræðingur í norskri tungu og talar hana frábærlega vel. En dr. Kreutzer, prófessor í norrænum fræðum við Kölnar-háskóla talar íslenzku reiprennandi. Geðfelldur maður, bað um erindið í þýzkt tímarit og falaðist einnig eftir nýjum ljóðum til birtingar.
Wilhelm Friese hefur áhuga á því að snara þeim þegar hann kemur heim í vor.

Gengum um Tübingen í morgun í yndislegu veðri. Gamla borgin er eftirminnileg. Hölderlin-húsið við Neckar höfðum við séð áður. Sumir telja Hölderlin mesta ljóðskáld Þýzkalands fyrr og síðar. Slíkt getur maður ekki sagt í landi Göethes, Schillers og Heines, en Hölderlin var einstæður. Hann orti kvæði sem heitir Hvað er guð?
Það er stór spurning!
Sátum við minnismerki Uhlands en hér minnir margt á þetta rómantíska skáld sem bæði Grímur Thomsen og Matthías Jochumsson snöruðu á íslenzku. Ég held reyndar að Uhland hafi haft veruleg áhrif á Grím Thomsen og afstöðu hans til skáldskapar. Við fengum ekki rómantíkina frá Danmörku, ekki endilega; við fengum hana beint í æð, eins og sagt er, héðan frá Neckar-svæðinu. Ég held að Uhland hafi kennt Grími Thomsen að yrkja um samtíma sinn og umhverfi með skírskotun í rómantíska fortíð.
Ég tók upp gemsann og sagði við Wilhelm Friese,
Nú ætla ég að hringja til Ingólfs sonar míns og einnig í Morgunblaðið. Seinna hringi ég til Uhlands, þá verður hægt að hringja til himnaríkis fyrir lítinn pening!
Svo hringdi ég í Ingólf og það var gott í honum hljóðið, ekkert gladdi mig meir.

Að því búnu fórum við með Friese-hjónunum í bíltúr og gengum m.a. upp hæðina þar sem Die würmlingen Kapelle stendur á hæð í Ammerdal, hún er 500 m há. Ég fann fyrir þessari göngu en Hanna fór eins og fugl upp hæðina. Ég sagði við hana þegar upp kom,
Nú veit ég hvort okkar lifir lengur.
Og ég er ekki í nokkrum vafa um það eftir þessa þrekraun.
Það var fagurt útsýni til svapísku alpanna, móða yfir landinu og útlit fyrir áframhaldandi bjart veður.
Þetta er eins og himnaför, sagði ég við dr. Wilhelm.
Og svo sagði ég þeim frá Gullna hliðinu, hvernig kerlingin hefði gengið til himnaríkis með sál karlsins í skjóðunni, fengið að kíkja inn og notað tækifærið og kastað henni inn fyrir hliðið. Þau höfðu gaman af þessu og þá ekki sízt rifrildi kerlingar við djöfulinn. Við hittum hann að vísu ekki í þessari okkar miklu himmelfahrt en eitthvað minnti hún samt á sálina hans Jóns míns.
Við kapelluna efst á fjallinu er fallegur kirkjugarður. Ég spurði hvort unnt væri að fá legstað þar.
Nei, sögðu þau, það er ekki hægt nema maður sé úr dalnum hér fyrir neðan.
Sem sagt, það geta þá verið forréttindi að búa í Ammerdal!
Við Wilhlem fórum að tala um trúarbrögð og hann sagði mér að hann væri kaþólskur. Það vissi ég ekki áður. Hann sagðist hafa verið í Greifswald og þar hefði hann kynnzt Bruno Kress. Hann var kommúnisti.
Dr. Friese er vel kristinn og af því stafar m.a. áhuginn á Hallgrími Péturssyni. Þessi einlæga trú hans hefur dregið hann að Sálmum á atómöld sem hann hefur þýtt  af ástríðu og fræðimannslegri nákvæmni. Hann gaf mér tvær bækur um trúlega efni, Deutsche Barock Lyrik, sem ég held hann sé sérfræðingur í og nýja bók sem heitir Höre Gott!, sálmar 20. aldar.
Ég hélt það væru einhver afdönkuð sveitaskáld sem væru höfundar þessarar bókar en það var nú eitthvað annað. Hún hefst með trúarljóðum Rilkes, Hermanns Hesse, Borcherts, Nelly Sachs og Dürrenmatts og lýkur með ljóðum Ingeborgar Bachmanns, Gottfried Benn, Paul Celan, Enzensbergers, Huchels og Peders Handke.
Það er sem sagt eitthvað annað en gamaldags að yrkja sálma!!
Það gera þýzkir módernistar og láta sér fátt fyrir brjósti brenna!
Ég hélt að ég væri eina sálmaskáld atómaldar, en það er öðru nær! Ég er í góðum félagskap. Eitt eru hefðbundnir sálmar sem eru sungnir í kirkjum, annað nútímasálmar handa nútímafólki. Sálmar á atómöld eru ljóðrænar hugleiðingar í atómstíl. Þeir fjalla ekki um neinar hátíðlega stellingar, heldur hversdagsleikann í allri sinni dýrð(!)
Mér þótti það athyglisvert sem Wilhelm Friese sagði um Bruno Kress. Hann var nokkuð þekktur á Íslandi vegna áhuga á íslenzkum fornbókmenntum og þýðingum á skáldverkum Laxness. Ég veit ekkert um hann annað en það, að hann er faðir Helgu Kress prófessors í bókmenntum við Háskóla Íslands. Ég hef hitt hana einu sinni og talað einu sinni við hana í síma. Hún þýddi frábæra bók Virginu Woolf um kvenrithöfunda, Sérherbergi, og ég sagði við hana að mér þætti þýðingin góð,
Láttu það þá koma fram í Morgunblaðinu, sagði hún.
Mér er nær að halda að ég hafi minnzt á þessa bók og íslenzka þýðingu hennar í Helgispjalli, man það samt ekki.
Þú kynntist Bruno Kress, sagði ég við prófessor Wilhelm.
Já sagði hann. Ég er fæddur og uppalinn í Austur-Þýzkalandi. Þar var mönnum innrættur marxismi. Þeim tókst að afkristna þjóðina.
Mér skilst það séu einungis 10-15% kristinnar trúar í Austur-Þýzkalandi, hinir eru guðleysingjar.
Hvað hefði Bach sagt við því?.
Það tekur langan tíma að breyta þessu.
En hvernig líkaði þér við Bruno Kress? spurði ég.
Hann talaði svo sem ágætlega við mig, sagði dr.Wilhelm. Við töluðum stundum um trúmál og þá sagði hann að ég væri nógu gáfaður til að gera mér grein fyrir því að það væri enginn guð til.
Og ekkert framhaldslíf.
Ég lét hann ekki komast upp með þetta og það voru engir sérstakir kærleikar með okkur. Í einkasamtölum talaði hann opið við mig … Í skýrslum sem hann skrifaði um mig, segir hann, að ég sé vonlaus því að ég verði aldrei góður marxisti …Ég sé trúaður og flokknum glataður….

Friese var tekinn höndum í heimsstyrjöldinni. Hann var hermaður í þýzka hernum og barðist held ég á Ítalíu. Hann var fluttur í fangabúðir í Skotlandi og mátti dúsa þar næstu 4-5 ár. Fékk þá að fara heim til Austur-Þýzkalands og lauk þar námi. En hann kom sér úr landi og fékk loks störf í Vestur-Þýzkalandi eftir miklar hremmingar og hafnaði loks í prófessorstöðu í Tübingen þar sem hann hefur unnið þrekvirki í sínum fræðum.
Ást hans á verkum Halldórs Laxness og Hallgríms Péturssonar er einstæð og mér er til efs að nokkur þekki þessi verk betur en hann. En ég finn að hann hefur lítinn áhuga á prósaverkum ungra íslenzra höfunda og telur að skáldsögur þeirra standi langt að baki því bezta sem hefur verið skrifað í þeim efnum á þessari öld.
Wilhelm Friese getur sagt eins og vinkona Ingimundar Sigfússonar, sendiherra í Bonn og ég nefndi hér að framan - konan sem rekur hina orðstírsmiklu veitingstofu í Bonn - að hann hafi kynnzt hamingjunni þegar verst gegndi.
Þegar veturinn var óbærilegur og við áttum ekki neitt en bjuggum við hungur, sagði Ria Maternus,  fundum við til mikillar hamingju vegna þess að við lifðum af.
Það er ógleymanlegt að lifa af, sagði hún - og því fylgir mikil hamingja.

Ógleymanleg kona sem klappar hvítvínsflöskunum eins og gæludýrum og er sjálf lífsgleðin upp máluð á níræðis aldri og varðveitir minningar mikillar ævi eins og dýrmætan fjársjóð.
En þó ekki endilega um eiginmann sinn og hjónaband!

Förum á morgun til Garmisch-Partenkircken og heimsækjum vini okkar þar, Pamelu og Marchall Brement, fyrrum sendiherra hér heima. Verðum hjá þeim eina nótt. Mig langar líka að skreppa til Oberammergau þar sem við bjuggum eftir Ólympíuleikana 1972 og fram að jólum, en þá fluttumst við um skeið til Kaupmannahafnar áður en við fórum aftur til Þýzkalands og dvöldumst í Bad Soden fram að páskum, eða þangað til við héldum heim aftur.

Þá hafði ég náð mér fullkomlega af streitukasti sem ég hafði fengið vegna mikillar vinnu, samt skrifaði ég mikið í þessri ferð; ekki sízt í Morgunblaðið. Og þá náði ég góðum tökum á þýzkunni. Hún hefur ryðgað af notkunarleysi eins og gamalt bílhræ en nú hef ég tekið flakið upp að nýju og það er að verða ökufært þótt ekki sé það nein lúxuskerra. En ég hef getað notazt við það og komizt allra minna ferða, bæði í boðum og á upplestrum.

Tungumál sem maður lærir er eins og gömul minning. Það býr í undirvitundinni og við getum kallað það fram eins og gamlan atburð, ef svo ber undir.

Helgi heitir maður og er Sæmundsson. Hann er doktor í vélaverkfræði. Hann hefur búið hér í Stuttgart í 30 ár. Móttökur hans hafa verið ágætar. Í mínum huga varpar hann ljóma á þetta nafn sem ég hafði svo sem ekki haft neinar mætur á. Við áttum að búa í herbergiskytru í húsi rithöfundasambandsins; tréstiginn þröngur, rúmið lítið og kytran eins og fjórir kamrar saman settir.
Ég vildi ekki sofa í þessum húsakynnum.
Þegar ég fór þarna upp og stóð á miðju gólfi greip mig hræðileg innilokunarkennd.
Ég sagði þetta við Helga og hann skyldi það vel. Ég hef haft þessa innilokunarkennd frá því ég var drengur, gat t.a.m. ekki keypt miða í bíó,ef ég þurfti að fara í þétta biðröð. Innilokunarkenndin er áreiðanlega verulegur þáttur í flugótta mínum.
En þarna stóð ég sem sagt og játaði þessa vankanta fyrir Helga og alúðlegri konu sem þarna var fyrir rithöfundasambandið og þau tóku afsökun minni ljúfmannlega, Helgi ók með okkur á stórfínt hótel gegnt járnbrautarstöðinni, Schlossgarten ,og þar erum við Hanna nú eins og blómi í eggi.
Upplesturinn hér í Stuttgart gekk ágætlega. Það var að minnsta kosti góðmennt og áheyrendur, þýzkir og íslenzkir, ágætir hlustendur og spurðu góðra spurninga. Þarna var ungt rúmenskt skáld sem ég hafði aldrei heyrt um áður, Klaus Schneider, og bað mig um ljóð í alþjóðlegt bókmenntatímarit sem hann gefur út hér í Þýzkalandi, ásamt öðrum ungum rithöfundum. Tók því vel þótt slíkt kitli mig ekki lengur.

Og nú er Bæjern framundan, Marshall og Pamela, og svo ætlum við að skreppa til Oberammergau, já einmitt(!) Það verður eins og að ferðast inn í fortíðina, inn í drauminn mikla sem einu sinni var veruleiki en nú eins og hver önnur minning; sem sagt, það er hægt að ferðast inn í minningu, ferðast inn í liðinn tíma og samt er hann aldrei liðinn vegna þess að hann fylgir okkur eins og einhvers konar gæludýr hvert sem við förum og svo lengi sem við drögum andann.

2. nóvember, sunnudagur

                Afmælisdagur móður minnar. Og Morgunblaðsins.

Frábært að hitta Marshall og Pamelu aftur. Þau hafa ekkert breytst. Vinir fyrir lífið, sagði Marshall þegar við kvöddumst heima fyrir hálfu þriðja ári. Þau eiga fallegt heimili með útsýni til Zugspitz; tvo fallega ketti með undarlegum nöfnum sem ég get ekki munað og páfagauk; þrjár stórar myndir eftir Baltasar, ein af Pamelu, önnur af tveimur hröfnum enda skírskotun í goðsögnina um Óðin en sú þriðja eftirminnilegasta hestamynd sem ég hef séð eftir Baltasar. Það sér aftan á hestinn eins og í hríð eða mósku.
Slíka mynd málar einungis sá sem býr yfir mikilli, reynar óvenjulegri tækni. Einnig tvær litlar en fallegar myndir eftir Jóhannes Geir.

Marshall er svo hrifinn af málverkum Baltasar að hann segist vona að hann verði einhvern tíma heimsþekktur,
Verður nokkur heimsþekktur á okkar tímum, í öllum þessum hávaða? spurði ég.
Það var gaman að tala við þau um bókmenntir. Marshall segist vera löngu hættur að lesa metsölubækur. Við erum öll sammála um að þær eigi það sammerkt öðru fremur, hvað þær eru drepleiðinlegar. Við erum undrandi á því af hverju þessar bækur eru svona vinsælar, skiljum það ekki.

Hvað er það eiginlega sem veldur því að fólk í öllum löndum les þessar bækur, eða að minnsta kosti kaupir þær, af slíkri áfergju?
Þetta eru yfirleitt ömurlegar bókmenntir. Tom Clancy er t.a.m. hundleiðinlegur höfundur. Við Pamela vorum sammála um að le Carré sé bæði flókinn og heldur langdreginn höfundur, en þó hafi Njósnarinn sem kom inn úr kuldanum verið bæði vel skrifuð og spennandi bók, eiginlega fínt listaverk.
En hvað kom fyrir le Carré?
Hann hefur lifað á þessari einu bók og átt miklum vinsældum að fagna sem merkilegur höfundur.
Ég hef aldrei skilið þetta.
Pamela segir það hafi verið gerðar góðar kvikmyndir eftir bókum hans og það er sjálfsagt rétt. En ágæti þeirra byggist ekki á þessum flóknu sögum, heldur þeim tækifærum sem kvikmyndin býður upp á - og þá ekki sízt Alec Guinnes.
Já, páfagaukurinn er heldur aðsópsmikill á heimilinu. Reyndi að tala við hann en hann er eins og samtíminn - hlustar ekki á neitt nema sjálfan sig.

Ef páfagaukur gæti skrifað bók handa öðrum páfagaukum, hvernig ætli slík bók yrði?
Jú, hún yrði líklega eins og metsölubækurnar á þessum sölulistum heimsbókmenntanna!
En kattabækur yrðu líklega eitthvað hlédrægari.

Hef verið að lesa um uppboð á munum Marlene Dietrich. Daily Mail gefur í skyn að hún hafi haldið við George Bernard Shaw, hann var víst ekki allur þar sem hann var séður í kvennamálum þótt hann hafi verið heldur ólöglegur af gömlum kvikmyndum að dæma! En þetta les Daily Mail út úr einu af bréfunum á uppboðinu.
Bernard Shaw var engin subba í kvennamálum eins og Bertrand Russel. Hann hélt víst meira að segja við tengdadóttur sína! Í nýrri ævisögu Victors Hugo er sagt að karlinn hafi jafnvel stungið kærustuna undan 21 árs gömlum syni sínum. Af þessari ævisögu hans að dæma hefur hann ekki verið við eina fjölina felldur í kvennamálum.
En Shaw sem var ekki sízt eftirsóknarverður vegna frægðarinnar fór fínt í sakirnar enda öðrum mönnum gáfaðri. Einhverju sinni sem oftar fékk hann hjúskapartilboð frá konu sem sagði:
“Þú hefur bezta heila í heimi, ég hef bezta líkama í heimi, við ættum því að geta eignazt fullkomið barn.”
En Shaw svaraði:
“Ef barnið fengi nú minn líkama, en þinn heila?!”
Ég vissi lítið um Victor Hugo, þekkti nokkur verk eftir hann og vissi að hann var höfundur Vesalinganna. En saga hans virðist athyglisverð. Hann var þyrnir í holdi stjórnvalda og kallaði arftaka Napoleons mikla Napoleon litla!
Gott hjá karlinum.
Hugo var þekktasti rithöfundur í heiminum í kringum 1860-70. Dickens taldi að hann væri guðumlíkur. Svo virðist sem hann hefði getað orðið þjóðhöfðingi Frakka þegar hann kom heim úr útlegð við fall Napoleons III, en hann hafnaði öllu slíku þrátt fyrir egó sem hefði verið hverjum metnaðarfullum stjórnmálamanni nægilegt tilefni til valdagræðgi. Hann hélt áfram að tátla hrosshárið sitt og varð því frægari sem hann lifði lengur. Það hvarflaði ekki að honum að fórna list sinni fyrir einhverjar þjóðhöfðingjastellingar, ekki frekar en Halldóri Laxness!
Skyldu þessar stellingar fullnægja Havel?

3. nóvember, mánudagur

Erum komin til Luxemborgar á heimleið. Verðum hér eina nótt. Það er ágætt, ég er hálf dasaður eftir ferðalög og erfið upplestrarkvöld en þau hafa einnig verið ánægjuleg.
Kvöddum Marshall-hjónin um miðjan dag í gær á járnbrautarstöðinni í Garmisch-Partenkirchen. Það hefur verið gott að vera hjá þeim þennan sólarhring en eitthvað hafa þau látið á sjá eins og við hin. Marshall er ekki eins glaður og þegar hann var á Íslandi. Hann sagði mér þá að hann drykki of mikið og fengi þunglyndisköst. Ég er hálf hræddur um að hann sé ekki laus við þunglyndið. Bæði hann og Pamela hafa skrifað skáldsögur sem þau hafa ekki fengið útgefnar en hann er að vonast til þess að úr því rætist. Pamela hefur lagt sína skáldsögu til hliðar og er að semja aðra. Honum lízt vel á þá sögu. Pamela er góður rithöfundur, það getur maður séð af hennar stóru skáldsögu,Miranda. Í henni er gott andrúm, hún er hressilega skrifuð og talsvert veður í stílnum.
Ég held Marshall hafi þótt vænzt um þegar ég afhenti honum spóluna með ljóðaupplestri Magnúsar Magnússonar. Þar les hann m.a. eina af þýðingum Marshalls á ljóði eftir mig. Ég sagði þeim að ég hefði verið undrandi að Magnús skyldi hafa valið tvö ljóð eftir mig á þennan mikilvæga geisladisk sinn því að okkur lenti saman á sínum tíma vegna starfs Sigurðar bróður hans.
Við Magnús höfðum unnið talsvert saman í þorskastríðum og hafði farið vel á með okkur. En þegar Morgunblaðið í Reykjavíkurbréfi studdi Gunnlaug Snædal til prófessorsembættis í kvensjúkdómafræðum við læknadeild Háskólans , sendi Magnús mér skeyti um þá páska þar sem hann segir að ber sé hver að baki nema sér bróður eigi - og hann geti ekki átt samstarf við andstæðing bróður síns.
Ég gat svo sem skilið þetta, en varð þó nokkuð undrandi - og gleymdi því svo.
Mér þótti því talsvert vænt um þegar hann valdi þessi tvö ljóð á diskinn sinn, en við höfum ekki hitzt frá því upp úr sauð milli Magnúsar og Moggans.
Ég kynntist Sigurði bróður hans nokkru síðar og við urðum miklir mátar. Ég bað Sigurð sem fékk fyrrnefnt embætti og stóð sig með ágætum að segja Magnúsi frá því hvað vel færi á með okkur. Ég bauð Sigurði m.a. í Naustið og borðuðum við þar hádegisverð og töluðum mikið saman.
Mér er nær að halda að Sigurður hafi sagt Magnúsi bróður sínum frá þessu, áður en hann dó á bezta aldri.
Ég nefndi þetta við Marshall og þau Pamela kváðust hlakka til að hlusta á upplestur Magnúsar.
Sigurður skar Pamelu upp á sínum tíma við móðurlífskrabbameini. Þau hafa verið honum ævinlega þakklát síðan. Marshall sagði að hann hefði verið byrjaður að þýða Íslandsklukku Laxness og það með leyfi skáldsins en nokkru síðar hefði Magnús Magnússon haft samband við Laxness og minnt hann á að hann ætti þýðingarréttinn á ensku.
Marshall spurði hvort Magnús hefði þýtt Íslandsklukkuna, ég minntist þess að minnsta kosti ekki. Marshall hætti við þýðinguna í 3. kafla, að mig minnir, en þá bárust honum fyrrnefndar fréttir. Hann tók þá til við að þýða Njáls sögu og hafði þýtt milli 70-80 blaðsíður þegar hann fékk nýtt starf vestur í Bandaríkjunum á vegum flotamálaráðuneytisins og hefur látið þar við sitja. Ég sagði honum frá stóru nýju Íslendinga sagna útgáfunni á ensku. Hann sagðist ekki mundu kaupa verkið, ef persónurnar hétu ekki sínum réttu nöfnum; það væri t.a.m. fáránlegt að segja Sigurd fyrir Sigurður.

Nú er Marshall skólastjóri merkilegs skóla hér í Garmisch-Partenkirchen en skólinn er einskonar samstarfsverkefni Bandaríkjamanna og Þjóðverja. Þjóðverjar leggja til skólalóðina og frábær mannvirki, en Bandaríkjamenn greiða kostnað af skólanum - að ég hygg.  Þar eru um 100 dimplómatar og yfirmenn í Nató-herjum, auk yfirmanna frá fyrrum Varsjársbandaríkjum. Þarna er farið yfir kalda stríðið og reynt að skýra stöðuna eins og hún er nú um stundir; reynt að efla lýðræðishugmyndir þessara manna sem koma frá fyrrum kommúnistaríkjum og eru ekki endilega skólaðir í lýðræðislegri hugsun.
En allt gengur þetta vel segir Marshall og hefur í nógu að snúast. Hvert námskeið tekur 5-6 mánuði.
Það var athyglisvert að heimsækja skólann og þegar ég kom í skrifstofu Marshalls var mér fyrst fullljóst hvað þetta er mikilvægt starf og áhugavert. Ég held Marshall njóti sín vel í þessu starfi enda hyggst hann gegna því framundir sjötugt. Hann er nú 65 ára, eða tveimur árum yngri en ég.
Þau Marshall og Pamela óku með okkur til Oberammergau og við heimsóttum Lisu Kreitmeier sem við Hanna leigðum hjá fyrir 25 árum, þegar við bjuggum í Bæjern. Ingó var þá með okkur, 8 ára, og talaði þýzku eins og innfæddur. Það kom honum vel í skóla síðar þótt ég geri ráð fyrir að hann sé nú nokkuð ryðgaður í málinu. En hann þarf áreiðanlega ekki lengi að dveljast í Þýzkalandi til að þýzkunni skjóti aftur upp úr undirvitundinni.
Frú Kreitmeier tók okkur tveimur höndum. Vidus sonur hennar var ekki heima, en hann var  átta árum eldri en Ingó og er nú tveggja barna faðir. Þau ferðast mikið og hann er nú á Ítalíu.
Heimilisfaðirinn er dáinn. Hann var fæddur í Dachau, hann var á sínum tíma í þýzka hernum, var sendur til Frakklands en hafði ímigust á styrjöldinni. Um hann skrifaði ég smásögu sem birtist í Nítján smáþáttum.

Hann var einn bezti tréskurðarmaður sinnar tíðar í Bæjern og eigum við mjög fallega hluti eftir hann. Lisa Kreitmeirer er aftur á móti einn þekktasti naivisti Þýzkalands. Hún hefur haldið margar sýningar á ótrúlegum verkum sínum, en þau eru bæði ævintýraleg, frumleg og skemmtileg. Hún hélt sýningu í fyrra og gaf okkur sýningarskrána. Nú hefur hún gefið út mjög skemmtilega bók um Lúðvík Bæjarakonung, hún er á ensku og þýzku og einkum ætluð börnum. Myndirnar í hennar stíl og engu líkar. Tel að þessi skemmtilega bók eigi að koma út á íslenzku. Pamela ætlar að kaupa hana handa börnum ættingja sinna, hún var svo hrifin af myndunum.
Lísa Kreitmeier vinnur mikið á Korsíku. Þau hafa farið víða um lönd á hjólum, jafnvel um Bandaríkin, einkum Arisona, og Chile. Ég sagði að hún yrði að koma til Íslands í júlí,
En þá er ég á Korsíku, sagði hún. Ég verð að koma í apríl.

En þá er enn kalt á Íslandi, sagði ég.
Það gerir ekkert, sagði hún. Ég er búin að fara um alla Síberíu!
Lísa Kreitmeier sat úti í sólinni þegar við komum og var að tala við vinkonu sína. Þær voru að drekka hvítvín. Það var eins og að ganga inn í liðna tíð þegar við komum inn í garðinn. Það var eins og ekkert hefði gerzt, en samt hafði allt gerzt. Kreitmeier dáinn, Vidus tveggja barna faðir, Ingólfur doktor í læknavísindum og við Hanna og Lísa Kreitmeier 25 árum eldri en þegar við sátum hér síðast.
Samt hafði ekkert breytzt.
Í kyrrðinni þarna ofan við Oberammergau ríkti eilífðin sjálf ofar hverri kröfu. Og Kopfel, tindurinn mikli sem blasti við okkur og reis úr Ölpunum og við nefndum herra Berg Johannessen á sínum stað, og aldrei tignarlegri.

Þetta var ekki ævintýri líkast. Þetta var ævintýri. Og ég sagði við Hönnu,
Heldurðu að við verðum hér eftir 25 ár?
Hún taldi það ekki ólíklegt!! En hvar sem við verðum eftir 25 ár, þá hefur ekkert breytzt; ekki einu sinni eilífðin. Og hún mun breiða út sinn mikla væng eins og þegar Kjarval var að deyja og um er fjallað í Kjarvalskveri.

Og nú erum við komin til Lúxemborgar. Það er enn heiður himinn. Við erum reynslunni ríkari. Það hefur margt gerzt í þessari ferð. Það hefur verið upprövandi og nærandi að hitta allt þetta fólk í Þýzkalandi, lesa fyrir það, svara spurningum þess. Ung stúlka  sem leggur stund á norræn fræði við háskólann í Tübingen spurði eftir upplestur okkar Wilhelms Friese:
Hvaða sól er þetta í kvæðunum yðar? Er þetta íslenzk sól?
Hverju átti ég að svar?
Ég hafði aldrei fyrr hugsað um hvaða sól er í kvæðunum mínum. Kannski er ég að tala um guð í Sálmum á atómöld þegar ég nefni sólina - og þó ekki því ég er ekki náttúrudýrkandi með þeim hætti að ég trúi því að náttúran sé guð. Og ég er enginn panteisti eins og Einar Benediktssonn hafði tilhneigingu til.
Og þó, og þó er sólin guð og ég er orðinn sannfærðum um að náttúran hugsar; að efnið hugsar með einhverjum hætti. Það er ekki einasta að það lagi sig að aðstæðum, heldur hugsar það að aðstæðum. Dýrin í frumskógarlöndunum taka á sig lit umhverfisins, það er vörn þeirra. Og ég fór að hugsa, hvers vegna breytist ekki þessi fallegi rauði og græni litur á páfagauknum hennar Pamelu,þegar hann hefur verið tólf ár á heimili þeirra, án síns upphaflega umhverfis?
Af hverju breytist ekki liturinn og fellur að húsgögnunum?
Og ég svaraði sjálfum mér með því, að það sé óþarfi. Hann geti haldið þessum dýrlega búningi sínum vegna þess að hann hafi ekkert að óttast.

Hann er í vinsamlegu umhverfi og þess vegna getur hann skartað sínu fegursta.

Kvöldið

 Hef verið að lesa blaðagrein um nýja ævisögu Emilie Schindler, ekkju Oskars Schindlers, en um hann og störf hans orti ég kvæði á sínum tíma og birti í Helgispjalli. Það var þegar ég hafði séð kvikmyndina um hann. Nú kveður við annan tón þegar blaðamaður heimsækir frú Schindler þar sem hún býr utan við Buenos Aires í Brasilíu. Hún telur að hann hafi verið hálfgerður svindlari. Hann var óforbetranlegur kvennabósi. Hann yfirgaf hana hvenær sem honum sýndist. Ég sé ekki betur en hann hafi verið einhvers konar Casanova. Hann virðist öllum stundum hafa verið á kvennafari. En hann var einnig góður við gyðinga, það verður víst ekki af honum skafið. Hann var að minnsta kosti ekki gyðingahatari.
En Emilie segir að það hafi enginn listi verið til yfir gyðinga og hann hafi haldið þá eins og hverja aðra þræla í þessari verksmiðju sinni sem hann starfrækti vegna þess, segir hún, að hann hafi verið gunga og ekki þorað á vígstöðvarnar. Ef hann hefði ekki starfrækt verksmiðjuna, hefði hann verið sendur á austurvígstöðvarnar!
Er þetta ekki eftir öðru?!

Gyðingahetjan mikla ekkert nema eigingjarn kvennabósi! Og ekkjan segist sjálf hafa staðið í alls kyns samningamakki við Þjóðverja og stundað svarta markaðinn til að útvega fólkinu lyf og mat og sjá því farboða með einhverjum hætti.
Það er að minnsta kosti ekki hægt að segja að ekkja Oskars Schindlers elski minningu manns síns! Hún segir að ógæfa sín hafi verið fyrst og síðast sú, að hún varð ung ástfangin af þessum manni.
Hvernig ætli þetta ævintýri hefði farið inn í söguna ef ekkjan hefði ekki lifað mann sinn?
Nú er búið að útbía minningu gyðingahetjunnar miklu vegna þess að konan hans ætlar sér augsýnilega að hafa síðasta orðið; hefna harma sinna. En hún neitar því ekki að hann hafi átt þátt í því að bjarga mörgum gyðingum, nei það gerir hún ekki; ekki beinlínis.
Þessi ævisaga Emilie Schindler heitir Þar sem ljós og skuggar mætast og er nýkomin út. Ég þarf að ná mér í hana.
Þá hef ég verið að lesa um Vetrarævintýri Heines sem er nýkomið út á ensku, ég held í nýrri enskri þýðingu. Bretar virðast hrifnir af þessu ævintýri hins þýzka skálds, finnst Heine fyndinn og ótrúlegt að svona skemmtileg bók skuli hafa verið bönnuð á sínum tíma! Þeir vitna í þessi orð:

The people enjoyed full freedom of thought,
At least among amasses,
Restrictions only affected the
Small group of the writing classes.

Ég sé að The Independent í nýjum búningi birtir daglega ljóð með fréttum á áttundu blaðsíðu. Þarf að huga að því. Það væri gaman að geta tekið þetta upp í Morgunblaðinu. Miðvikudaginn 28. október birta þeir t.a.m. ljóð úr stóru nýju safni sem fjallar um Viktoríutímabilið. Bókin virðist vera um 800 blaðsíður að stærð. Þar er af nógu að taka.

Á morgun fljúgum við heim. Ég hefði viljað koma við hjá Ingó í Edinborg. Sjáum hann vonandi um jólin. Mér finnst gott að koma heim þótt Stefán Friðbjarnarson hafi sagt mér í símtali í dag að það hafi snjóað. Gemsinn minn var í handtösku Hönnu og hringdi allt í einu í lest á leið til Luxemborgar! Það var þá Stefán að spyrja hvort ég hefði eitthvað á móti því að við skrifuðum leiðara í Morgunblaðið og mótmæltum því að nýr byskup yrði ekki vígður í Dómkirkjunni.
Ég sagði að við ættum ekkert að vera að skipta okkur af því hvar hann yrði vígður.
Einu sinni voru íslenzkir byskupar vígðir í Brimum, Lundi, Niðarósi, Kaupmannahöfn.Mér finnst það ætti að vígja nýjan byskup í Skálholti. Þeir vilja vígja hann í Hallgrímskirkju og mér skilst  allt sé í hávaðarifrildi út af því.
Maður heyrir alltaf eitthvað merkilegt að heiman! Hví skyldi okkur ekki vera fjandans sama hvar nýr byskup er vígður(!) Það eru ekki umbúðirnar, sagan eða hefðin sem úrslitum ráða, heldur hugarfarið.
Við vorum í Ettal-klausturkirkjunni, ásamt Pamelu og Marshall, í gær. Þar kveikti ég á kerti handa okkur öllum, ekki sízt handa drengjunum.
Það voru ekki hinar glæsilegu umbúðir rokkokkó sem réðu úrslitum á þeirri stundu, og þó urðu þessar umbúðir eins og einhvers konar paradísarheimt, heldur ljósið sem logaði innra með okkur. Og ég skyldi það eftir þarna í marglýstum stjakanum.

Sálmar á atómöld í þýskri útgáfu

Sálmar á atómöld eftir Matthías Johannessen eru komnir út á þýzku. Útgáfufyrirtækið Seltmann & Hein í Köln gaf verkið út og birtast sálmarnir bæði á íslensku og þýsku í þýðingu Wilhelm Friese Af þessu tilefni hitti Þórarinn Stefánsson Friese að máli.
Wilhelm Friese er prófessor í norrænum fræðum og sérfræðingur í norrænum barokkskáldskap og íslenskum nútímabókmenntum. Hann hefur ritað fjölda bóka og greina um sérsvið sitt, meðal annars "Halldór Laxness: Die Romane" sem kom út árið 1985 og vakti mikla athygli og ánægju unnenda verka Laxness í Þýskalandi.
Friese ritar eftirmála að þýskri útgáfu Sálma á atómöld og sagðist í samtali við blaðamann hafa rannsakað nokkuð Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Hann sjái efnislega samsvörun í verkum Hallgríms og Matthíasar þar sem “samband mannsins við náttúruna, guð og heiminn er yrkisefnið þó efnistök Matthíasar séu auðvitað nútímalegri. Hann nálgast guð og menn í gegnum náttúruna,” sagði Friese, “og mér finnst síðasti sálmurinn í bókinni lýsa því best þegar hann segir: Ein / við snjóhvítt
/ endalaust föl / En þú á næstu grösum. Hann talar ekki beint til guðs en maður finnur stöðugt nálægð hans. Matthías er guðhræddur maður og tjáir sig á nútímalegan hátt þannig að sálmarnir höfða einnig til þeirra sem ekki telja sig trúaða. Hann lýsir íslenskri náttúru en undirtónninn er trúarlegur. Þetta eru samt ekki sálmar í eiginlegum skilningi þess orðs heldur miklu frekar íhuganir í frjálsu formi.”
Nokkuð hefur verið um það undanfarið að þegar íslenskar ljóðabækur birtast í þýskri útgáfu er íslenski textinn birtur samhliða þýðingunni. Þetta er gert til þess að gefa kunnáttufólki möguleika á að bera saman frummál og þýðingu og eykur vafalítið á þann annars mikla Íslands- og íslenskuáhuga sem ríkir í Þýskalandi. Þessi leið hefur verið farin í þýskri útgáfu Sálma á atómöld. “Þýðingar á textum sem þessum hljóta alltaf að takmarkast við beinar þýðingar orða þar sem hljómfall, tónlist tungunnar, verður seint þýtt. Eiginlega er ekki hægt að þýða bundið mál og það munu öll skáld staðfesta. Það er hægt að þýða innihaldið en ljóðlist er skild tónlist og því næstum ómögulegt að þýða hana,” sagði Wilhelm Friese.
Ingimundur Sigfússon sendiherra og kona hans, Valgerður Valsdóttir, héldu móttöku í sendiráðinu í Bonn í tilefni útkomu bókarinnar. Wilhelm Friese og Matthías lásu úr bókinni til skiptis á þýsku og íslensku en einnig söng Hanna Dóra Sturludóttir íslensk sönglög við undirleik Þórarins Stefánssonar.
Auk þess að lesa úr verkum sínum hélt Matthías fyrirlestra við norrænu deildir háskólanna í Bonn og Tübingen. Þar fjallaði hann um íslenska fjölmiðlakerfið almennt en ræddi einnig siðfræði og ábyrgð blaðamanna.
(Birt í Morgunblaðinu 4. nóv. ‘97)

 

Íslenzk ljóð flutt í þýzkum háskólum

Áhugi á Íslandi og íslenskum málefnum er vaxandi í Suður-Þýskalandi eins og yfirleitt í öllu Þýskalandi segir Helgi Sæmundsson og hann þakkar það mörgum sjónvarsmyndum frá Íslandi sem sjást næstum vikulega, starfsemi ferðamálaskrifstofunnar í Frankfurt og starfsemi hinna ýmsu þýsk­íslensku félaga í landinu.
DIS, Deutsch-Isländisches Kulturforum Stuttgart, Þýsk-íslenska menningarfélagið í Stuttgart, stofnað 1990, er hingað til eina félagið af þessu tagi í Suður-Þýskalandi. Í Norður- og Austur-Þýskalandi eru starfandi mörg slík félög, sem vilja stuðla að menningarskrifum milli Íslands og Þýskalands.
Í síðastliðinni viku stóð félagið fyrir ljóðalestri Matthíasar Johannessen í húsi rithöfundafélagsins Í Stuttgart. Matthías las á íslensku úr nýútkominni bók sinni Sálmar á atómöld, en þýðandinn, prófessor Wilhelm Friese frá háskólanum í Tübingen, las þýðingarnar. Fyrir bókmenntaunnendur er það ávallt mikill unaður að hlusta á rithöfunda lesa úr verkum sínum. Þetta var áhrifamikill ljóðalestur, sem áhugaverðar umræður fylgdu. Þeir Matthías og prófessor Friese lásu dagana á undan í háskólanum í Bonn og í Tübingen, þar sem líka er mikill og vaxandi áhugi Íslandsvina á íslenskri tungu og bókmenntum. Sama er að segja um Stuttgart, sem hingað til er mest þekkt sem iðnaðarborg, aðsetur Daimler-Benz, Porsche, IBM og Hewlett Packard og höfuðborg Baden-W¨urttemberg. Námsflokkarnir í Stuttart bjóða í vetur, svipað og undanfarin ár, upp á þrjú námskeið í íslensku, sem Magnús Kristinsson sér um, auk landkynningarfyrirlestra hans og annarra.
Annað, sem er á döfinni hjá DIS í Stuttgart er t.d. að hljómsveitiin Megasuk, samsett af félögum úr Megas og Sukkat, heldur tónleika 20. nóvember. Páll Óskar verður ef til vill hér kvöldið eftir með tónleika, Flóki Kristinsson, prestur Íslendinga á meginlandinu, er væntanlegur í jólaguðsþjónustu 28. desember. Svo er lestur Wolfgang Schiffer úr bókinni Býr Íslendingur hér ­ endurminningar Leifs Muller í samvinnu við námsflokkana í Stuttgart 23. janúar 1998 og Sellókonsert Gunnars Kvaran í tónlistarháskólanum 19. febrúar.
Íslendingafélagið í Stuttgart stendur fyrir síðbúnu þorrablóti 7. mars í Stadthalle Marbach, en til þess koma árlega gestir úr öllu Suður-Þýskalandi og nágrannalöndunum, oftast 200­300 manns. Vanalega koma hljómsveitir og matreiðslumenn frá Íslandi á þorrablótin, sem eru lífleg og standa til morguns.
(Birt í Morgunblaðinu 5. nóv. ‘97)

 

Garðar H. Svavarsson

Nú er minn góði vinur, Garðar, látinn, langt um aldur fram. Við kynntumst haustið 1959 er bróðir minn heitinn fór að vinna hjá honum í Kjötverslun Tómasar á Laugavegi 2. Fáum árum síðar urðum við veiðifélagar og vinir. Samverustundirnar hafa orðið margar; við veiðiárnar, á ferðalögum, á heimilum okkar og í félagsmálum þar sem leiðir okkar lágu líka saman. Ótal minningar sækja á hugann þegar litið er yfir þessi liðnu ár, nú þegar þessi góði drengur er genginn.
Athafnamaðurinn Garðar er minnisstæður. Aðeins 24 ára gamall hóf hann umfangsmikinn atvinnurekstur er hann keypti Kjötverslun Tómasar að Laugavegi 2 í Reykjavík. Um tíma ráku þau hjónin, Hulda og Garðar, fjórar verslanir í borginni og höfðu mikil umsvif á þeirra tíma mælikvarða. Þau lögðu hart að sér á þeim árum er þau ráku verslanirnar, voru samtaka í því að leggja grunninn að velferð fjölskyldunnar og uppskáru eins og þau sáðu. Þau seldu reksturinn eftir liðlega tuttugu ára erilsöm störf og gátu leyft sér nokkuð rólegra líf eftir það. En Garðar var ekki þeirrar gerðar að hann sæti með hendur í skauti að loknu þessu tímabili í lífinu.
Listunnandinn Garðar gat nú fengið útrás fyrir sín áhugamál. Hann hafði einkar gott auga fyrir myndlist, keypti málverk ýmissa listmálara, eignaðist vináttu þeirra margra og naut samvista við þá og þeir við hann.
Þeir urðu sérstakir vinir Garðar og Erró. Garðar átti mestan þátt, og að ég best veit frumkvæði að hinni stórkostlegu gjöf Errós til Reykjavíkurborgar, auðvitað fyrir utan Erró sjálfan. Þar komu að sönnu fleiri að máli og nefni ég þar til sögu Matthías Johannessen og svo þáverandi borgarstjóra, Davíð Oddsson forsætisráðherra. Þessir menn lögðu sig fram um að gjöf Errós yrði þegin með þeirri reisn sem hæfði. Óneitanlega er leitt til þess að vita að deilur skuli hafa orðið um framtíðarstað hins merka málverkasafns og þótti Garðari það miður. Hann gladdist þó yfir að nú sæi til lands þótt lausnin um framtíðarstað safnsins væri önnur og metnaðarminni en ætlað var í upphafi.
Hin síðari árin hefur Garðar svo tarfað við uppbyggingu Listasafns lugleiða. Mér er vel kunnugt hvern mtnað hann lagði í þetta starf sitt. llt var það þó unnið á hæglátan átt, svo sem hann vissi að hæfði anni sem ekki var sérstaklega enntaður á sviði listfræði. Hann afði hins vegar þann fágaða smekk em hæfði og átti trúnað forráðamanna félagsins. Þeir treystu honum því fyrir innkaupum og skráningu safnsins. Sjálf áttu þau hjónin fallegt safn málverka sem prýtt hefur heimili þeirra.
Veiðimaðurinn Garðar var sá sem ég kynntist best. Hann stundaði skotveiði en þar áttum við ekki samleið.
Hann var einn af þekktustu laxveiðimönnum landsins. Hann kastaði flugu af hreinni list, vissi af langri reynslu og eðlisávísun hvar lax var að fá og hvaða flugu skyldi velja. Það var hrein unun að sjá hann veiða. Hann fékk lax til að taka þar sem aðrir höfðu orðið frá að hverfa. En hann vék líka úr stað fyrir veiðifélögum sem ekkert höfðu fengið og leiðbeindi þeim og miðlaði af þekkingu sinni. Og fengi Garðar ekki lax var vísast engan lax að hafa á þeim stað. Hún átti því oft við vísan sem Steingrímur í Nesi kvað á bökkum Laxár í Þing. eitt sinn þegar ekkert fékkst:

Í þessum hyl er ei veiðivon,
virðast laxar flýj'ann,
fyrst hann Garðar Svavarsson
setur ekki í'ann.

Hann leiddi mig fyrstu sporin á bökkum laxánna og það sem ég kann lærði ég af honum. Minn fyrsta flugulax fékk ég með leiðsögn hans í Vaðstrengjum í Laxá í Leirársveit, líklega sumarið 1965.
Í fjölda ára veiddi Garðar í þeirri fögru á. Mér eru minnisstæðar margar ferðir okkar þangað, einkum í efri hluta árinnar, ofan Eyrarfoss. Eitt sinn veiddum við þar 20 laxa á einum degi á eina stöng og misstum annað eins, alla á flugu.Við skiptumst á um stöngina, Garðar, Matthías Johannessen, Sverrir Hermannsson og ég. Daginn eftir fórum við svo í Hrútafjarðará og áttum eftirminnilega daga þar saman.
Í bókinni Vísur um vötn eftir Matthías Johannessen er þetta erindi í fallegu ljóði um Laxá í Leirársveit:

En Garðar minn Svavars-sonur
hann setur í einn, og ég
verð auðvitað að setja í annan
og eiga mitt stolt undir því

að setja svo aftur í annan
og enn dreg ég fisk á ný.

En Garðar veiddi í fleiri ám en Laxá, mér er nær að halda að hann hafi einhvern tíma veitt í þeim flestum. Mest hélt hann upp á Sandá í Þistilfirði. Á hverju sumri í 34 ár veiddi hann þar. Stundum tvisvar á sumri. Þar naut ég samvista við hann síðustu 28 árin ásamt öðrum góðum félögum, þeim Viktori Aðalsteinssyni, Þorsteini E. Jónssyni og síðustu árin Lárusi Jónssyni og áður Haraldi V. Haraldssyni.
Ferðirnar í Sandá öll þessi ár, oftast með fjölskyldum okkar félaganna á árum áður, eru ógleymanlegar. Að sönnu gat veiðin verið misjöfn, en félagsskapurinn og umhverfið var það sem við sóttumst eftir: áin sjálf með hylji sína og strengi og laxana, blómin og lyngið, ásarnir og fjöllin fjær, fuglarnir í mónum og svo söngur okkar félaganna í veiðihúsinu að kvöldi. Allt er þetta svo ljóst í minningunni að ekki máist burt.
Í byrjun júlí á síðasta ári vorum við að veiðum í Sandá. Garðar var þreyttur og ekki samur og áður. Hann kenndi um þrengslum í kransæðum en sá sjúkdómur hafði bagað hann um nokkurt skeið. En við rannsókn í september þá um haustið kom annar og alvarlegri sjúkdómur í ljós.
En þrátt fyrir erfiða lyfjameðferð átti Garðar öðru hverju góða daga. Þau hjónin gátu dvalist nokkrar vikur í sólarlöndum í mars á þessu ári og nutu þess vel. Að lokinni enn einni lyfjameðferð þar á eftir leit allt vel út um sinn. Garðar var hress og kátur og tók þátt í Sandárferð dagana 22. til 27. júlí á síðasta sumri.
Við nutum samvistanna félagarnir sem jafnan áður en þó var Garðari brugðið. Einn daginn röltum við saman tveir í heimahyljina, Kofahylinn og Stekkjarhólanesið, í dýrðlegu veðri. Þá töluðum við um margt sem ekki er ætlað öðrum að skyggnast í. Ef til vill skynjuðum við báðir að þessi yrði okkar síðasta ferð saman á bökkum Sandár.
Við félagarnir munum sakna Garðars í næstu för norður. Það var hann sem stofnaði Veiðifélagið Þistla árið 1964 og það var hann sem bauð okkur hinum, sem ég hef hér nefnt, á vit þeirra ævintýra sem við höfum lifað þarna öll þessi sumur. Það var hann sem sagði veiðisögur með slíkum tilþrifum að sannar sögur urðu með öllu ótrúlegar og öfugt.
Við félagarnir í Þistlum kveðjum frumkvöðulinn með söknuði og þakkæti í huga. Sérstakar kveðjur flyt ég frá konu minni, dóttur og tengdasyni. Hann var þeim einkar hlýr vinur og þau minnast samvistanna við hann heima og heiman.
Hulda, börnin, tengdabörn og barnabörn eiga samúð okkar óskipta. Guð styrki þau í sorginni.
Í áður tilvitnuðu ljóði um Laxá í Leirársveit er þetta fallega lokaerindi:

Svo kveð ég ána og ilminn
af ylgrænu birkitré.
Og sólin háttar á heiði
með himin í fangi sér.

En kyrrðin er eins og eilífð
sem andar í brjósti mér.

Svona held ég að Garðar hefði viljað kveðja og svona kveð ég hann. Ég finn gróðurilminn á árbökkunum þar sem við áður gengum saman. Og eins og sólin háttar með himin í fangi sér tekur nú himnafaðirinn Garðar og umvefur hann kærleika sínum.
Ólafur G. Einarsson.

(Birt í Morgunblaðinu 18. nóvember ‘97)

 

16. nóvember, sunnudagur

Árni Jörgensen hringdi til mín í gærkvöldi og sagði að Ólafur K. Magnússon ljósmyndari hefði dáið þá um morguninn. Hanna hafði séð hann í Hagkaupum daginn áður. Hann var þá hinn brattasti, brosti og veifaði til hennar. En dauðinn spyr ekki að því. Ég talaði við sr. Jakob í Landakoti því að Árni hafði fengið fréttirnar frá honum. Eva, ekkja Ólafs, er kaþólsk. Ég talaði við sr. Jakob í dag. Hann staðfesti að þetta væri rétt. Hann sagði að Óli K. hefði orðið bráðkvaddur í rúminu heima hjá sér, Eva hefði verið á næturvakt, en mér skilst hún vinni í sjúkrahúsi, og komið að honum látnum.

Sr. Jakob sagði að Óli K. hefði mikið stundað kaþólsku kirkjuna og hann hefði verið kominn að því að taka kaþólska trú. Hann yrði því jarðaður frá Krists kirkju í Landakoti. Ég bað hann lofa mér að fylgjast með. Hann sagði að hann yrði ekki jarðaður í þessari, heldur næstu viku. Þá þurfum við helzt að hafa Morgunblaðskálf með myndum hans á útfarardaginn.

Ólafur K. Magnússon

Maðurinn hefur ævinlega þurft á að halda einskonar sýndarveröld, helzt án sterkra tengsla við veruleikann. Úr þessari hálfmynd er goðsögnin sprottin. Nú á dögum birtist hún einna helzt í þeirri sýndarveröld sem fjölmiðlar eru sífelldlega að bregða upp, ýmist í áróðursskyni eða til að sætta okkur við þann veruleika sem enginn hefur í hendi sér. Það er úr slíkum jarðvegi sem barnfóstra getur orðið eins konar þjóðhetja í miðjum harmleik sem á sér illskýranlegar forsendur enda eru þær óþarfar vegna þess að ímyndin skiptir öllu máli en hvorki veruleikinn sjálfur né hastarlegt umhverfi um líf okkar. Það er engin tilviljun að ímynd á sér rætur í ímyndun - og segir alla söguna. Allt sem máli skiptir eru tilfinningar og það er nóg af þeim, brengluðum og óbrengluðum, í því tæki sem nú stjórnar viðbrögðum fólks í heiminum, sjónvarpinu. Þess vegna verða til hugtök eins og prinsessa fólksins, án tengsla við veruleikann; sprottin úr goðsögn og fjölmiðlaímynd.
Við sem vinnum á fjölmiðlum þekkjum þessa tilburði. Við reynum að stemma stigu við áherzlubrenglun og túlka veruleikann, en sitjum oftar en ekki uppi með ímyndina.
Ólafur K. Magnússon gerði sér grein fyrir þessu öllu og túlkaði umhverfið af þeirri raunsæju og skilgóðu nærfærni sem var fremur í tengslum við veruleikann sjálfan en sýndarskynjun sem er forsenda goðsagna og ævintýra. Í þessari tilbúnu veröld er þess jafnvel krafizt að harmleikir séu einskonar afþreying; markaðsvara. Illionskviða í nútímaumbúðum.
Blaðaljósmyndun er af öðrum toga. Hráefni hennar er veröldin sjálf, goðsagnalaus en áhrifamikil í allri sinni hrópandi þögn. Tíminn stöðvaður eins og síðasta andvarp.
Þessi veruleiki var viðfangsefni Ólafs K. Magnússonar. Og hann hafði slík tök á því að undrun sætti oft og tíðum.
Ólafur K. Magnússon var einn af máttarstólpum Morgunblaðsins; einstakur fréttaljósmyndari. Sumar mynda hans einnig listilega teknar, en eru umfram allt fréttamyndir. Verða ekki teknar aftur á hverju sem gengur. Þær lýsa því sem var að gerast og Ólafur var alltaf á réttum stað á réttum tíma. Margar mannamynda hans eru ógleymanlegar. Mér er nær að halda að hann hafi tekið vel flestar myndirnar í þáttinn Í fáum orðum sagt, sem ég skrifaði í Morgunblaðið árum saman. Samstarf okkar var því í senn náið og persónulegt. Það var gaman að vinna með Ólafi. Hann var alltaf sjálfum sér og blaðinu til sóma. Það fór lítið fyrir honum, en samt náði hann alltaf réttu myndunum. Hann var ómetanlegur Morgunblaðinu öll þau ár sem hann starfaði þar og ég hafði vonað að honum tækizt að raða myndasafni sínu og gera það aðgengilegt - og þá ef til vill með það í huga að gefin yrði út bók með beztu myndum hans. Þetta safn er sögulegur fjársjóður, einstætt verk um átakamikla samtíð. Kannski verður þessi bók einhvern tíma gefin út, vonandi. En það er mikilvægt að safnið varðveitist.
Ólafur K. Magnússon var mikill blaðamaður. Hann hafði einstæða tilfinningu fyrir því sem skipti máli. Sem blaðaljósmyndari minnti hann á þann fræga fréttamann AP, Ed Gilmore. Hann sást sjaldnast þar sem aðrir voru, en hann hafði sambönd og kunni að nota þau. Hann náði fréttum sem öðrum sást yfir. Hann gat lýst ástandinu í brezka sendiráðinu við Laufásveg þegar aðsúgur var gerður að því í þorskastríðinu. Samt var hann víðs fjarri, sat niðri á Hótel Borg og talaði við þá sem voru innan dyra í sendiráðinu og vissu allt um ástandið þar. Meðan egg og grjót dundi á húsinu var Chopin leikinn í stofunni. Þetta vissi Ed Gilmore en ekki þeir sem horfðu á grjótkastið. Þeir urðu að láta sér nægja að lýsa aðförinni að húsinu, en vissu ekkert um ástandið innan dyra. Lýsing fréttamanns AP birtist í mörgum blöðum víða um heim, mig minnir á forsíðu The Harald Tribune.
Þannig getur blaðamaður unnið sem hefur tilfinningu fréttamannsins, en hún er eins og einhvers konar eðlisávísun sem er meðfædd og lærist ekki. Og þannig vann Ólafur K. Magnússon, nánast ósýnilegur. En hann vissi alltaf ef Chopin var leikinn undir grjótkasti.

                                                                                                              M.

Kvöldið

Það er margt framundan í vikunni. Þarf að bera Garðar H. Svavarsson til grafar á þriðjudag - og þá um kvöldið að halda áfram að lesa ljóð mín inn á band. Ingó kemur frá Glasgow á miðvikudag og verður hjá okkur til föstudags, en þá heldur  hann áfram vestur um haf að kynna sér rannsóknaraðferðir í Toranto og Kaliforníu, en hann ætlar að gista hjá Louisu frænku okkar í New York Matthíasdóttur listmálara,en þau eru góðir vinir,, bæði þegar hann fer vestur um haf og á leiðinni heim aftur í desember.
Á fimmtudag þarf ég að lesa upp í Gerðarsafni og á laugardagskvöldið þarf ég að flytja hátíðarræðuna á 100 ára afmæli Blaðamannafélags Íslands, sem minnzt verður þá um kvöldið á Hótel Íslandi.
Það verður einnig nóg að gera á blaðinu og ég hef hug á því að skrifa Reykjavíkurbréf um kvótaframsalið, bæði með tilliti til landsfundar Alþýðubandalagsins og fyrirlesturs Þorgeirs Örlygssonar prófessors sem hann flutti á fundi Sjávarútvegsstofnunar Háskóla Íslands laugardaginn 8. nóvember sl. en fyrirlesturinn heitir Hver á kvótann?
Sem sagt, nóg að sýsla(!)

20. nóvember, fimmtudagur

Las upp í Gerðarsafni, Kópavogi. Góðmennt. Jósefína, systir mín, viðstödd, ásamt Hönnu, Ingó og Matthíasi H. Þótti vænt um það. Jón úr Vör einnig viðstaddur, hann kvaddi mig með þessum orðum, Það var gaman að vera hér í dag(!) Hann hefur alltaf sýnt mér hlýhug.

21. nóvember, föstudagur

Ingó fór til New York í dag. Ég er farinn að taka það nærri mér að kveðja hann svo oft sem raun ber vitni og Halli fer næstkomandi miðvikudag svo þeir verða báðir erlendis á afmæli móður sinnar, 28. nóvember næstkomandi. Þessar ferðir gera mig kvíðinn, dapran en mig hefur dreymt Siguðurð A. Magnússon undanfarið. Vonandi er það góðs viti !
Fór á Gunnlaugs Schevings-sýninguna í Listasafni ríkisins.
Heimslist.
Keypti nýja bók um hann þar sem listfræðingarnir vitna kyrfilega í bók mína um Gunnlaug. Það þótti mér vænt um. Mér finnst þeir vitna heiðarlega í Gunnlaugs-bókina. Hef tekið eftir því að listfræðingar vitna ekki alltaf heiðarlega í þau verk sem þeir nota. Taka þau traustataki án þess geta heimilda.

Hlustaði á ræðu forsætisráðherra neðra Saxlands, Schröders um þýsk efnahagsmál, Evrópusambandið og tengsl Íslands við það. Hann hefur sömu skoðanir á þessum tengslum og Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið. Ég sagði við Ólaf Davíðsson þegar við gengum út, Davíð Oddsson er búinn að heilaþvo hann ! En Davíð segir að hann hafi sagt við hann þegar þeir hittust, að hann ætlaði að hlusta á skoðanir hans, áður en hann segði honum sínar skoðanir. Og þá hefði hann flutt mál sitt með svipuðum hætti og á fundinum. Morgunblaðið segir frá erindi Schröders á morgun.
Sigríður Snævarr kallaði á Schröder og kynnti mig fyrir honum. Hann kom og heilsaði mér og mér hugnaðist maðurinn vel. Hann er eldklár og mér er sagt hann sé metnaðargjarn, en hann er aðlaðandi og að því er virðist hégómalaus.
Ingimundur sendiherra segir mér að hann sé fjórkvæntur.
Hann er talinn mikill kvennamaður. Hann er mun lægri en ég en samt hefur hann sterka nærveru. Það var gaman að hitta hann.

Hef verið að lesa minningargreinar um Bruno Kress, m.a. grein eftir Árna Björnsson. Þar kveður við annan tón en hjá Wilhelm Friese eins og ég hef getið um áður. Árni Björnsson kemst m.a. svo að orði í þessari minningargrein sem birtist fimmtudaginn 13. nóvember sl.  að hann hefði heyrt misjafnlega vel látið af Bruno áður en hann fór til Þýzkalands:
“Sumir sögðu að hann hefði verið bölvaður nasisti fyrir stríð, en væri nú orðinn enn bölvaðri kommúnisti. Að minni hyggju voru stjórnmál lítið annað en nauðsynlegt aukaatriði fyrir Bruno. Mér er nær að halda að hann hefði aldrei gengið í stjórnmálaflokk, ef hann hefði ekki talið sig tilneyddan vegna þeirrar pólitísku þrúgunar sem hann þurfti við að búa alla starfsævi sína. Ungur maður sem ætlaði sér einhvern frama á fjórða áratug, varð amk. að þykjast vilja ganga í nasistaflokkinn, og nokkurnveginn hið sama átti við um sósíalíska Einingarflokkinn á sjötta áratug.”

22. nóvember, laugardagur

 

Ræða á 100 ára afmæli Blaðamannafélags Íslands, flutt á hátíðasamkomu í Hótel Íslandi, laugardagskvöldið 22. nóvember

Við sem erum saman komin hér í kvöld á afmælisfagnaði Blaðamannafélags Íslands eigum ekki einungis íslenzka tungu að móðurmáli heldur er hún einnig eins konar atvinnutæki okkar flestra. Hún hlýtur því að vera mikilvægasta eign okkar og sú arfleifð sem er ekki einasta helgasta einkenni okkar, heldur einnig hagkvæmasta leiðin á mikilvægu ferðalagi gegnum tíðina - og þá einnig vonandi og væntanlega inn í þá framtíð sem við óskum landi okkar og þjóð til handa. Það var einnig svo að Jón forseti Sigurðsson taldi íslenzka tungu eitt helzta tæki þjóðarinnar á langri vegferð að lokamarkmiði fullveldis og þess frelsis sem arfleifð okkar er sæmandi, því það er í leiftrandi áminningu tungunnar sem við erum minnt á sérstöðu okkar og þá samfélagsvitund sem á rætur í þeirri sögulegu geymd sem við erum hvað stoltust af.
Jón Sigurðsson segir m.a. að menn eigi ekki að hlýðnast neinum lögum sem þeir skilja ekki “heldur lögum þeim einum, sem íslenzk voru, og áður réðu”. Það séu réttindi hverrar tungu sem sé lifandi þjóðmál eins og íslenzkan, að það eitt megi kalla að lögum skipað sem þjóðin hefur á sína tungu “og skuli engum öðrum skipunum hlýðnast”. Brot á réttindum íslenzkrar tungu stuðli að stjórnleysi í landinu enda hafi aðförin að íslenzkunni verið liður í því að innlima Ísland í konungsríkið. Margvísleg niðurlæging og viðstöðulausar tilraunir voru gerðar til að veikja mótstöðuafl Íslendinga og þá ekki sízt með því að sækja að tungu þeirra. En hún var sá broddur sem eigi lét beygjast. Það er óendanlega  mikilvæg söguleg staðreynd sem við ættum að hyggja að, ekki sízt nú, þegar að henni er sótt úr öllum áttum. Án hennar yrði Ísland eins og hvert annað auðnulaust eyland sem hefði glatað tengslum við rætur sínar og arfleifðin gæti ekki framar borið þann ávöxt sem að er stefnt. Forsetinn taldi, ásamt Fjölnismönnum, að tungan væri hvorki meira né minna en “helgustu réttindi “Íslendinga og aðför að henni væri barátta fyrir ólögum enda hafi það verið mark og mið “að gjöreyða öllu því, sem væri íslenzkt til, og þannig að sjá hinni fornu tungu Norðurlanda og þjóðerni Íslendinga og forræði fyrir borð kastað”.
Ég tel ekkert mikilvægara en minna á þessi réttindi tungu okkar á þessum tímamótum í sögu Blaðamannafélags Íslands, - og þá ekki sízt þá vá sem við hljótum að skynja allt í kringum okkur:

Hann lagði saman tárin
sem lítilmagnar grétu:
í svipi þeirra og andlit
var Íslandssagan brennd.

Ég laut höfði við legstein hans
letraðan fáum orðum,
í brjóti mínu var heiður himinn,
en haglél í grennd.

En það hefur einnig verið hugað að tungu okkar með léttari hætti en hér hefur verið nefnt. Ég hef talið það einstakt lán á löngum blaðamannsferli að kynnast þeim ýmsum sem boðuðu hvað mest verðmæti í samtíð okkar og báru þau fram með virðingu og reisn sem er sjaldgæfari nú en áður að mínu viti. Einn þeirra var Tómas skáld Guðmundsson. Hann leit upp til Árna prófessors Pálssonar eins og flestir ungir menn í þá daga og langaði að kynnast honum persónulega. Hann notaði því tækifærið eitt sinn þegar hann sá Árna sitja við annan mann í veitingahúsi, ég held Hótel Íslandi hjá Rósenberg. Hann herti upp hugann og gekk rakleitt að borðinu þar sem ljónið sat og kynnti sig. Árni var þurr á manninn en tók þó hinu unga skáldi vel og bað hann setjast. Kom þá höfðinginn upp í Tómasi, hann ákvað að bjóða Árna glas af öli, kallaði á þjóninn sem var danskur og sagði: “Tjener, kann vi få öl?”
Rís þá Árni prófessor úr sæti sínu með miklum svip og spyr hvort hann dirfist að ávarpa þjón á dönsku í íslenzku veitingahúsi. En Tómasi varð ekki orðfall fremur en endranær og svarar með myndugleik: “Haldið þér, prófessor Árni Pálsson, að ég spanderi okkar dýrmæta móðurmáli á danska þræla?” Þá glaðnaði heldur en ekki yfir Árna og hann sagði blíðlega: “Þér hafið rétt að mæla, megum við ekki vera dús.”
Á gleðisamkomu sem þessari er ekki úr vegi að minna á ummæli Tómasar þegar við hittumst einhvern tíma á góðri stundu og fengum okkur í glas. Tómas talaði um alla heima og geima en þó einkum um æskuumhverfi sitt, blómin og fuglana en svo kom að því að flaskan af létta víninu stóð tóm á borðinu. Ég spurði hvort hann vildi meira, hann horfði á mig, hristi höfuðið og sagði: “Nei, ég drekk aldrei úr tómri flösku. Maður verður að hafa framtíðina fyrir sér.”
Allir lögðu þessir andlegu höfðingjar áherzlu á heimsborgaralega háttvísi, en voru þó innst inni jafn íslenzkir og landið sjálft og tungan sem við tölum. En þeir reyndu ekki sízt að þreyja þorrann og segja alvarlega fyndni og fyndna alvöru. Páll Ísólfsson var slíkur maður en hann var mestur heimsborgari allra manna sem ég hef kynnzt og flutti til Íslands meiri tónlistarmenningu en nokkur annar. Hann var mikill gleðimaður og ræktaði heimsmenningu með húmor. Eitt sinni, sagði hann, var ég á gangi eftir Austurstræti, vissi þá ekki fyrr til en hönd var smeygt undir handlegg mér og vinur minn Árni prófessor Pálsson stundi þungan við hliðina á mér, “Heyrðu, Páll minn,“ sagði hann, “hvar endar þetta?” “Það veit ég ekki,“ sagði Páll. “Það veit ég ekki heldur,” sagði Árni Pálsson og gekk þegjandi yfir götuna.
Daginn áður hafði áfengi hækkað í verði.
Árni Pálsson var viðkvæmur í lund, sagði Páll í samtölum okkar, og fjarska barngóður. Þegar hann varð afi spásseraði hann um göturnar með barnabarn sitt og ljómaði af gleði. Þegar Jón kaldi, skrifstofustjóri Alþingis og kona hans eignuðust stúlkubarn varð hann sem vonlegt var mjög stoltur. Nú hittir Jón Árna, vin sinn, á götu og segir honum frá litlu dótturinni sem honum þótti auðvitað “alveg makalaust barn”. Jón bauð Árna heim að skoða undrið. Hann þá heimboðið og glaðnaði yfir honum.
Skömmu síðar heimsótti hann Jón sem fór að kjá framan í barnið og skæla sig allan í þeirri von að það brosti til Árna. Þá hneykslaðist Árni prófessor og sagði: “Ég kom hingað til að líta á barnið en ekki til að sjá þig láta eins og fífl.”
Þessi stúlka átti eftir að verða eiginkona fréttastjóra Tímans.
Halldór Laxness sagði einhverju sinni við mig: “Som man råber i skogen får man svar”. Þessi athugasemd skáldsins ætti að vera þeim íhugunarefni sem starfa á fjölmiðlum, leita frétta, skoðana og upplýsinga og eiga að miðla þessum fróðleik til umhverfis sem er misjafnlega móttækilegt fyrir staðreyndum og hættir til að rugla saman draumi, óskhyggju og veruleika.
Hann sagði að fréttamenn gætu stundum spurt með þeim hætti að hann færi allur í baklás, æstist upp og segði alls konar hluti sem hann sæi svo eftir. Verst þætti honum þó þegar fréttamenn spyrðu um það sem þeir þekktu ekki, þá stæðist hann ekki mátið en hefði allt samtalsefnið í flimtingum. Eitt sinn þegar ég var fjarstaddur hafði sú frumlega hugmynd fæðzt á Morgunblaðinu að upplagt væri að hringja í Halldór Laxness og spyrja hann um það hvort hann aflaði þjóðinni ekki mikilla gjaldeyristekna með þýddum verkum sínum. Ég þakka guði fyrir að ég var ekki viðstaddur þetta samtal og veit ekki hvernig það fór fram, né hvernig því lauk. En Halldór hafði samband við mig samdægurs og bað mig þess lengstra orða að sjá til þess að hann fengi aldrei aftur slíka upphringingu frá blaðamanni Morgunblaðsins. Hann hefði spurt sig spurninga sem fremur hefði átt að leggja fyrir nýsköpunartogara eða einhvern dall sem legði upp í Hull eða Grimsby. Hann væri augsýnilega þeirrar skoðunar að Halldór Laxness væri einhvers konar trollari eða botnvörpungur sem væri sendur á miðin í því skyni að afla þjóðinni gjaldeyristekna og svo væri reynt að fylgjast með því hvort þessar tekjur skiluðu sér í þjóðarbúið. Aflinn væri seldur á uppboði í einhverri hafnarborg í Evrópu og togarinn Halldór Laxness síðan aftur sendur heim til að stunda rányrkju á íslenzkum fiskimiðum. Ég yrði að sjá til þess að honum yrði hlíft við svona uppákomum sem yrðu aldrei til annars en þess að koma honum úr jafnvægi og í versta falli væru svona samtöl spiluð í útvarp öllum landslýð til mikillar undrunar og sjálfum honum til ama og leiðinda. Ég sagði honum að hann þyrfti ekki að óttast að fá slíkar upphringingar í framtíðinni frá Morgunblaðinu og fann að honum þótti vænt um það. Ég geri ráð fyrir því að honum hafi þótt slík samtöl eins og fóru fram um “botnvörpunginn Halldór Laxness” jafn niðurlægjandi og ómerkileg og honum hefur þótt þau samtöl mikilvæg og kannski einnig skemmtileg sem hafa skipt máli og fjallað um grundvallaratriði í list hans og lífi.
Ábyrgð blaðamanns er óneitanlega mikil. Hann á sér fyrst og síðast einn húsbónda; eigin samvizku. Ef hann gerir markaðinn að eina húsbónda sínum er voðinn vís. En hann þarf þó að sinna þessum markaði og þá ekki síður umhverfi sínu. Lífið er dýrlegast í hversdagsleika sínum, daglegri og óhátíðlegri uppákomu. Nýtt skip getur verið fréttnæmt, aflabrögð á aðalfundi Granda, hvalablástur og margvísleg atvik úr hversdagslífinu. Fréttamennska þarf ekki endilega að vera svartur galdur, svo er guði fyrir að þakka Hún er ekki síður hvítur galdur. Hún fjallar einnig um það sem er jákvætt, fróðlegt og uppbyggilegt og ástæða til að fagna. Það er margt í þessari reynslu fróðlegt og uppörvandi og fréttnæmt af þeim sökum
Hneyksli eru þó gómsætust, veit ég vel. Ávirðingar annarra sem sætta okkur betur við sjálf okkur, þær eru einatt frávik en það þarf að fara varlega með frávikin.
Þau eru oft og tíðum mestu fréttirnar, að vísu. Alvarleg slys, óvæntar vísindauppgötvanir, geimferðir; fyrsta sporið á tunglinu. Hin sjúklegu frávik eru annað og alvarlegra efni; morð, meiðingar, ofbeldi; stundum sem einskonar skemmtiatriði í sjónvarpi. Ég óttast því miður að of margir fréttamenn nú um stundir telji sér einna skyldast að koma þessum frávikum til skila og þá ekki sízt þeim mistökum og víxlsporum sem geta eyðilagt líf þeirra sem létu freistast, og því miður, einnig líf saklauss fólks sem tengist ógæfufólki með ýmsum hætti. Fréttamaður sem tekur slíkar fréttir ekki nærri sér er á rangri hillu. Hann ætti að starfa á öðrum vettvangi en þeim sem er hverjum aðgátsmiklum og varfærnum blaðamanni dýrkeypt reynsla í hvert skipti sem starf hans krefst þess að vegið sé að æru og lífshamingju þeirra sem í ógæfu rata, og þá ekki síður aðstandendum þeirra. Þau eiga ævinlega um sárt að binda - og líklega sárast - þessi saklausu fórnarlömb frávikanna.
En ég trúi því, þrátt fyrir allt og allt, að meiri áhugi sé á því sem er jákvætt og uppbyggilegt, en hinu sem er hráefni eymdar og ógæfu.
Fréttamenn þurfa sjálfir sama aðhald og þeir telja sér skylt að veita öðrum, einstaklingum og samfélaginu. Norski ritstjórinn Bjarne Bore við Stavanger Aftenblad segir um valdamenn: “Og aldrei megum við gleyma því að þeir sem af eðlilegum ástæðum eru mikið í sviðsljósi fjölmiðla glata alltaf að nokkru leyti hæfileikanum til að skilja gildi tjáningarfrelsis og opinberrar umræðu.” Þetta á því miður einnig oft við um fjölmiðlafólk. Sumir vilja baða sig í sólskininu, en þeim er nokkurn veginn sama þótt þetta sama sólskin valdi öðrum brunasárum. Ekki sízt af þeim sökum er mikilvægt hverjir stjórna fjölmiðlum, nú og í framtíðinni - og er það að sjálfsögðu algerlega óháð tæknilegri þróun því að alþýðudómstóll notar þau meðul sem nærtæk eru hverju sinni.
- - -
Aristótelis segir í Stjórnmálum að dyggð sé forsenda hamingju. Það er dyggð að varðveita sérkenni sín, arfleifð og þá ekki sízt tunguna sem er m.a. dýrmæt vegna þess að hún er tengiliður einnar kynslóðar við aðra. Hvísl milli kynslóða.
Ef við glötum tungu okkar, glötum við einnig þjóðmenningunni og sjálfstæðinu. Þá hrynur samfélagið. Þá getur ný þjóð heyrt Íslandi til; útlend þjóð, arfleifðarsnauð og opin fyrir erlendri ásókn. Auðnulaus þjóð í leit að sjálfri sér; hamingju sinni; og glataðri sjálfsvirðingu. En sjálfsvirðingin er ekki sízt forsenda hamingju - eða höfum við nokkurn tíma heyrt talað um hamingju þeirra sem hafa glatað sjálfum sér? Þar sem hamingjan býr í hjarta mannsins verður hún einungis varðveitt þar eins og tungan sem við tölum og tilfinningar sem hún lýsir.
Fjölmiðill sem vill lifa af verður ávallt að vera tilbúinn til að daufheyrast við andmælum sinunnar gegn nýgræðingnum. Hann á að taka áskorun umhverfisins, hann á að taka á umhverfinu ef svo ber undir. Kyrrstaða er allri fjölmiðlun öndverð. Fjölmiðill er eins og allt sem er í tengslum við lífið sjálft; hreyfing, viðbrögð. Góður og mikilvægur fjölmiðill er eins og strengir þandir milli tveggja skauta, milli tveggja ólíkra heima, svo ég vitni í Sigurð Nordal. Hann getur ekki gert hið dýrsterka og ruddalega umhverfi að hugsjón sinni, heldur á hann að reyna að hlú að þeim þroska sem hamingjan nærist á. Og þá fyrst er hann sjálfur mikilvægur þáttur þeirra verðmæta sem helzt skipta máli þegar upp er staðið. Við trúum því að þessi verðmæti séu til og um þau eigi að fjalla, ekki sízt á 100 ára afmæli Blaðamannafélags Íslands.

23. nóvember, sunnudagur

Vorum á afmælishátíð blaðamannafélagsins í Hótel Íslandi í gærkvöldi. Það var ágætt kvöld. Ég var beðinn um að halda hátíðarræðuna og tók því vel, eða öllu heldur: treysti mér ekki til að skorast undan því. Hundrað ára afmæli Blaðamannafélags Íslands er á margan hátt merkur atburður, að mínu viti. Afmælishátíðin nú í vikunni hefur farið ágætlega fram. Styrmir var á umræðufundi um framtíð fjölmiðla í fyrradag og mér er sagt það hafi tekizt vel. Hann lagði aðaláherzluna á árvekni ritstjórna gagnvart þrýstingi markaðs- og auglýsingaaðila. Við merkjum aukinn þrýsting frá þessum aðilum á sama tíma og þrýstingurinn frá stjórnmálamönnum er orðinn skaplegur. Þrýstingurinn frá eigendum er ekki umtalsverður og sízt af öllu í líkingu við það sem Lagerkranz lýsir í athyglisverðri bók sinni um ritstjórn sína á Dagens Nyheter. Hann var í stöðugu stríði við Bonniers-fjölskylduna, eigendur blaðsins. Einn helzti eigandinn var sífelldlega að gagnrýna hann fyrir einhvers konar vinstri villu en við höfum ekki orðið fyrir neinni slíkri áreitni af hálfu eigenda. Þeir hafa staðið með okkur í öllu því sem máli skiptir, t.a.m. nú undanfarið í afstöðunni til fiskveiðistjórnunar og framsals kvóta. Einnig að mestu í baráttunni við forystu Sjálfstæðisflokksins. Ég segi að mestu vegna þess að það hefur örlað á efasemdum einstakra eigenda - og þá að sjálfsögðu vegna hagsmuna þeirra. En það hefur ekki verið neitt sem ástæða er til að hafa orð á.
Afmælishátíðin í gærkvöldi fór vel fram. Þar voru um 500 manns. Ég þurfti að taka á öllu sem ég átti til að flytja mitt mál með skaplegum hætti. Mér er sagt það hafi tekizt. Ólafur Ragnar Grímsson forseti og frú Guðrún Katrín voru viðstödd. Hann þakkaði mér sérstaklega fyrir ræðuna, það gerði hún einnig. Davíð Oddsson forsætisráðherra og Ástríður Thorarensen voru einnig viðstödd og sátu sem heiðursgestir við borðið okkar, ásamt Lúðvík Geirssyni formanni blaðamannafélagsins og konu hans. Hún heitir Hanna Björk. Svo það voru tvær Hönnur við borðið. Ástríður þakkaði mér sérstaklega fyrir ræðuna og hafði stór orð um hana sem ég endurtek ekki hér. Það gerði Davíð einnig. Hann sagði að ræðan hefði verið nákvæmlega rétt byggð upp; fyrst hefði ég talað um íslenzka tungu, síðan mildað hópinn og talað hann á mitt band með tilhlýðilegri fyndni, en að lokum hefði ég tekið upp vöndin - og þá hefði öllum fundizt það sjálfsagt! Ef ég hefði haft öfuga röð á þessu, þá hefði söfnuðurinn móðgazt og ræðan farið í handaskolum!

Það fór vel á með forsetanum og forsætisráðherra og ég dáist að forsetafrúnni, hvað hún ber sig vel, jafnveik og hún hlýtur að vera. Hún er róleg og kurteis en Hanna er sammála mér í því að hún sé mjög ákveðin undir niðri og stjórni ferðinni.
Ég sagði við konu Lúðvíks Geirssonar að maðurinn hennar væri svo ljúfur og kurteis að það hefði ekki verið hægt að neita honum um að flytja hátíðarræðuna; sem sagt, hann fór að hjarta mínu gegnum akkilesarhælinn - þar er ég berskjaldaður! Ræðunni var mjög vel tekið meðan ég flutti hana og þá ekki síður í lokin. Að skemmtiatriðum loknum komu margir til mín að þakka málflutning minn og ég fann að ég hafði gert rétt í því að takast þetta erfiða hlutverk á hendur. Allir stöðvuðust við einn mann, sagði Sigmundur Ernir, þegar hann kynnti mig og voru sammála um að aðeins einn maður ætti að flytja þessa ræðu, Matthías Johannessen. Ég hef lítið tranað mér fram, ég hef haldið mér til hlés eins og ég sagði forsetanum sem kvartaði yfir því að ég sæist aldrei - en ég sé nú að einhverjir vita af manni og svo virðist sem einhverjir kunni einnig að meta það sem maður hefur bardúsað í blaðamennsku.
Ég sagði að það hefði farið vel á með forsetanum og forsætisráðherra og þeir léku á als oddi og það var skemmtilegt þarna við borðið. Ég verð að gera þá játningu að forsetahjónin komu mér algjörlega á óvart. Ólafur Ragnar er prýðilegur í þessu embætti og talaði mjög skynsamlega, að mér þótti. Hann sagði sögur, jafnvel á eigin kostnað; það hélt ég hann ætti ekki til. Það fór vel í mig. Þau forsetahjónin voru undrandi á því hvílíkt vald fjölmiðla væri orðið. Byskupsvígslunni hefði verið flýtt um hálftíma vegna þess að eitthvert sundmót kæmi í kjölfarið og ekki væri hægt að fresta því! Ég heyrði að þeim þótti þessi ákvörðun um að flýta byskupsvígslunni vegna sundmótsins og beinnar útsendingar á því hið fáranlegasta mál. Þá sló Ólafur Ragnar á létta strengi og sagði okkur frá því að byskupsskrifstofan hefði tilkynnt sér að hann ætti að vera við kirkjudyrnar þremur mínútum fyrir klukkan hálf tvö, en honum mætti ekki bregða þótt hann sæi prestaskrúðgöngu koma til móts við sig, hún væri þá á leið úr Iðnskólanum að kirkjunni. Forsetinn hló að þessu og gerði það að gamanmálum, en Davíð tók upp þráðinn og bætti við að það hefði ekki einungis verið nauðsynlegt að flýta byskupsvígslunni vegna þess að sundmótið kæmi í kjölfarið, heldur ætti heimilisþátturinn Kalli og vofurnar að hefjast klukkan þrjú!!! Það var mikið hlegið að þessu við borðið. Allir skemmtu sér konunglega og mér líkaði vel hvað þetta fyrirfólk tók sig lítið hátíðlega á þessari stundu. Kvíðinn sem ég bar í brjósti vegna þessa kvölds breyttist í þægilega ánægju og svo vel fór á með okkur Ólafi Ragnari að við ákváðum að hittast innan tíðar.
Ég hef ekki séð þig í hálft annað ár, sagði hann, við skulum hittast.

Ekki í fjölmenni, sagði ég.
Nei, sagði hann, bara í rólegheitum.
Ég bætti við,
Ég hef tekið þátt í flestum uppákomum frá 1959-1970 og stjórnað heilli þjóðhátíð 1974 svo nokkuð sé nefnt. Mannfagnaðarkvóti minn er búinn!
Ólafur Ragnar brosti og sagði,
Það má kannski úthluta nýjum kvóta!
Ég var ekki spenntur fyrir því enda er ég ekki neinn sérstakur kvótamaður eins og kunnugt er. Ég hef meira gaman af Donkíkóta en hinum eina sanna kvóta íslenzkrar samtíðar!
Davíð Oddsson rifjaði upp þegar hann var þingritari. Hann sagði skemmtilegar sögur af því. Hann gat þess m.a. að þingmenn hefðu yfirleitt verið þeirrar skoðunar að á þá hefði verið hallað í þingfréttum hans. En sumir voru svo stórir upp á sig að þeir töluðu aldrei við hann. Það voru ekki allir sem voru eins og Þorvaldur Garðar sem kom með málband og mældi sinn hlut miðað við hlut annarra í þingfréttum Davíðs!
Það fer alltaf sérstaklega vel á með okkur Davíð þegar við hittumst og ég dáist að því hvað fer vel á með honum og Ólafi Ragnari eftir það sem á undan er gengið. Mér líkar það vel. Það er þroskamerki.
Ég sá í sjónvarpinu að þeir sátu saman í byskupsvígslunni í Hallgrímskirkju í dag, séra Ólafur Skúlason og séra Þórir Stephensen, en séra Þórir er hinn versti út í þennan gamla einkavin sinn og sagði mér í símtali um daginn að leiðir þeirra hefðu skilið.
Ég sagði við hann,
En enginn átti meiri þátt í því en þú að hann var kosinn.
Nei, nei, sagði séra Þórir.
Jú, jú, sagði ég, þú barðist fyrir honum undir drep.
Nei, nei, ég ber ekki ábyrgð á séra Ólafi, sagði séra Þórir. Ég kaus hann ekki einu sinni!
Það getur nú ekki verið, sagði ég.
Þá sagði séra Þórir,
Ég var fjarverandi! sagði hann.
Nú sátu þeir þarna saman í kirkjunni og Hanna heldur því fram að þeir hafði örugglega tekizt í hendur. Ég efast um það. Það gerir  Ólafur sonur sr. Þóris einnig. Það sást minnsta kosti ekki í sjónvarpinu.
Áður en forsetahjónin gengu í salinn á blaðamannahátíðinni, sagði Davíð, Það fer að koma að upprisunni!
Ég skildi þetta ekki í fyrstu en svo rann upp fyrir mér ljós. Það standa allir upp þegar forsetahjónin ganga í salinn.
Ég sagði við Davíð,
En við trúum á aðra upprisu.
Þá brosti hann og kinkaði kolli.
Við töluðum nokkuð um opinberar heimsóknir. Forsetinn sagði að hann hefði meiri trú á vinnuheimsóknum en opinberum heimsóknum. Hann hefði að vísu orðið að fara í opinbera heimsókn til Norðurlanda, það væri hefði fyrir því. En hann hefði farið í vinnuheimsókn til Bandaríkjanna. Morgunblaðið hefði skilað henni mjög vel og rækilega og var hann augsýnilega ánægður yfir því. Hann sagði að vinnuheimsóknir væru skilvirkari en opinberar heimsóknir. Í slíkum heimsóknum væri unnt að komast nær því fólki sem við ættum í raun og veru erindi við, þ.e. þeim sem eru tengdir arfi okkar, menningu, sögu og landi. Þetta fólk væri oft útundan í opinberum heimsóknum.
Mér fannst þetta viturlega mælt af Ólafi Ragnari og tók undir það.

Hann sagðist ætla að leggja áherzlu á slíkar heimsóknir í framtíðinni, en ekki opinberar heimsóknir. Þá væru tekin fram leiktjöldin og leikritið færi fram eftir settum reglum. Það væri betra að þurfa ekki að draga fram pótemkín-tjöldin og vera sífelldlega að leika með þau sem baksvið. Vinnuferðir væru betri, án tjalda og leikrita, en þær gætu verið mjög áhrifamiklar og skilað góðum árangri eins og Bandaríkjaferðin hefði sýnt.

Hann sagði að ég yrði að fara til Utah, það væri erfirminnilegt að sjá arfleifð Íslendinga á þeim slóðum; áherzluna sem þeir legðu á arf sinn og ættir.
Hann var sammála mér um það að við ættum að taka höndum saman við Kanadamenn og leggja áherzlu á víkingaferðirnar til Nýfundnalands. Ég reikna með því að hann eigi eftir að sýna það í verki.
Ólafur er dugnaðarforkur og ef hann verður ekki hálflamaður vegna veikinda konu sinnar á hann áreiðanlega eftir að taka til hendi, áður en við minnumst 1000 ára afmælis kristni og víkingaferða til Vesturheims.
Þeir Davíð göntuðust með hina opinberu heimsókn forsetahjónanna til Suðurlands á sínum tíma og ég sá að Ólafur Ragnar hafði gaman af því, þegar Davíð minnti á að ferðin hefði endað með heimsókn í sláturhúsið!
Heimamönnum þótti ekkert athugavert við þessi heimsóknarlok, sagði Davíð, þeim fannst ekkert eðlilegra en heimsókninni lyki þarna í sláturhúsinu!
Það var mikið hlegið og ég sá að Ólafur Ragnar hefur meiri húmor en ég hef gert mér grein fyrir. Af þeim sökum ekki sízt varð gott samband okkar í milli, en við höfum auðvitað oft talazt við áður fyrr, en hann er breyttur. Hann hlustar betur á aðra, hann er mildari og varkárari en áður. Raunar hugnaðist mér ágætlega öll hans framkoma og þeirra hjóna og þá ekki síður það sem hann sagði - og þau bæði.
Um Ástríði og Davíð þarf ekki að tala. Það er alltaf fagnaðarfundur þegar við hittumst…

Við Hanna dönsuðum áður en við fórum heim. Ég sá nokkra blaðamenn sem hvorki dettur af né drýpur í daglegum önnum dansa eins og villimenn og fór að hugsa um þessa niðurbældu þörf margra að gefa lausan tauminn og hlaupa eins og ausandi folald út í náttúruna.

23. nóvember, sunnudagur

Ég skil ekki af hverju kirkjunnar menn þurfa endilega að vera að lesa einhverjar gamlar ritningargreinar við athafnir eins og byskupsvígslu. Í dag var lesin ritningargrein eftir einhvern af þessum gömlu gyðinglegu spámönnum, ég man ekki hvern, Jesæja held ég, þar sem fjallað er um réttláta og rangláta og höfuðáherzlan lögð á að hinir ranglátu fari allir beint til helvítis. Hvers vegna er ekki hægt að láta svona gyðinglegt skvaldur lönd og leið við athöfn eins og þessa?
Ég veit ekki betur en þeir sem trúa á Krist og guð föður séu hólpnir samkvæmt fyrirheitum hans sjálfs. Þeir þurfa ekkert endilega að vera réttlátir til þess.
Aðalatriðið er að trúa , var leiðsögn meistarans.
Og svo mætti spyrja, hver er réttlátur og hver er ranglátur? Ég sé ekki að fréttir frá Ísrael nú um stundir beri þess endilega vitni að þeir sem trúa á þetta gyðinglega spámannatal iðki öðrum fremur það réttlæti sem alltaf er verið að tönnlast á.
Og við fáum ekki einu sinni frið fyrir þessu við íslenzka byskupsvígslu!

Hef verið að lesa grein í Morgunblaðinu eftir Örn Ólafsson. Hún fjallar um danska skáldið Søren Ulrik-Thomsen, sem ég hitti í Toranto í sumar og las ljóðin sín kvöldið eftir upplestur okkar Gaaders. Ég var hrifinn af því að kynnast honum. Hann er mjög feiminn en geðfelldur maður. Hann las ljóð sín fallega. Mér þótti þau alvöru skáldskapur. Í einu ljóðanna sem hann las er skírskotun í Íslands. Mér fannst eftirminnilegt þegar hann las það og nú hefur Örn Ólafsson þýtt það og birt í grein í Morgunblaðinu:

...að standa eins og gróðurhús í nótt Íslands;
skínandi, marrandi tjald úr gleri
fullt af ávöxtum sem eru að bresta.
Snúast eins og djúpur diskur ratarsins
mót endalausri Asíu sem enginn hefur séð...
(Morgunblaðið 18. nóvember 1997)

 Reykjavíkurbréf í dag:

Morgunblaðið hefur sagt ítarlega frá erindi  Þorgeirs Örlygssonar, prófessors, á fundi Sjávarútvegsstofnunar Íslands 8. nóvember sl. Erindi hans bar nafnið Hver á kvótann? Í erindinu var ekki talið útilokað, að atvinnuréttindi gætu talizt til eignarréttinda og þannig notið verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Ef þessu væri svo farið, gætu þessi réttindi kallað á hin mestu vandamál, þegar ákveða skal í framtíðinni hvernig haga skuli atvinnurekstri á hálendinu, svo að dæmi sé nefnt. Það getur varla þótt góð eða réttlát skilgreining á atvinnuréttindum manna, að þeir geti sölsað undir sig almannaeign eftir langvarandi störf, eða notið réttinda við slíkar aðstæður, eins og um eign væri að ræða. Þannig mætti þá með sama rétti segja, að starfsmenn fyrirtækja eigi atvinnuréttindi í viðkomandi fyrirtækjum, ef þeir hefðu séð sér farboða með þessum störfum um langt skeið, t.a.m. áratugum saman. Það mundi áreiðanlega enginn eigandi atvinnufyrirtækis hlusta á slíkar kröfur - og hví skyldi þá eigandi auðlinda, þjóðin eða samfélagið, taka í mál að afnot af sameign veitti umsvifalaust bætur eða réttindi, sem nálguðust einhverskonar eignarétt.
Það er hægt að bollaleggja slíkt í lögfræði, en þar kemur að sjálfsögðu ýmislegt annað til, siðfræðileg afstaða, almenningsálit og stjórnmálastefnur. Þetta er augljóslega allt annar réttur en hagnýtingarréttur eignar, því að enginn ber brigður á, að eigandi eignar hefur í senn umráðarétt, hagnýtingarrétt, ráðstöfunarrétt og rétt til veðsetningar, auk erfðaréttinda.

Eitt er almenningur, annað takmörkuð auðlind
Af þeim sökum er augljóst, að framseldur kvóti, sem er ekki eign þeirra sem kaupa eða selja, getur ekki gengið í erfiðir, hann verður ekki veðsettur, en samkvæmt landslögum veitir hann hagnýtingarrétt, þótt ekki sé það í sama skilningi og umráðaréttur eiganda. Kvóti þarf ekki að vera eign af þeirri einföldu ástæðu, að hann er óveiddur fiskur í sjó. Hann verður ekki eign fyrr en fiskurinn hefur verið veiddur og af þeim sökum mætti segja að réttlætinu væri fullnægt, ef greitt yrði veiðigjald við löndun eða nýtingu. Um þetta komst fyrirlesarinn m.a. svo að orði: “Enginn deilir um það, að fiskiskip,  sem gert er út til veiða á miðunum við Ísland er háð beinum eignarétti þess eða þeirra aðila, sem eru eigandur skipsins  á hverjum tíma. Hinu sama gegnir um tól og tæki, sem skipinu fylgja og nauðsynleg eru til útgerðar þess. Slík eignarréttindi njóta tvímælalaust eignarréttarákvæðis stjórnarskárinnar, og verða eigendur ekki sviptir þeim bótalaust. Ekki er hins vegar sjálfgefið, að hinu sama gegni að öllu leyti um þær veiðiheimildir, sem þessum skipum hefur verið úthlutað á grundvelli gildandi laga. Það ræðst fyrst og fremst af túlkun þeirra lagareglna, sem um slík réttindi gilda, með hliðsjón af reglum sjálfrar stjórnarskrárinnar.”
Menn verða að gera sér grein fyrir því, að eitt er almenningur, en annað takmörkuð auðlind. Það, sem gildir um almenning, þarf ekki að gilda um takmarkaða auðlind. Afnot af henni eru forréttindi og sá sem nýtur forréttinda hlýtur að láta eitthvað í staðinn til samfélagsins, svo að hagnýtingaréttur hans sé byggður á góðum siðum, en ekki einhvers konar spillingu.
Það getur varla verið hlutverk löggjafans að ýta undir forréttindi sem mismuna þegnunum og geta leitt til brasks og siðleysis. Í því sambandi skiptir engu máli, hvort unnt er að skilgreina almenning sem eign eða ekki. Því takmarkaðri sem auðlindin eða almenningurinn er, því augljósari kröfur samfélagsins um gjald eða leigu, svo að unnt sé að réttlæta hagnýtinguna, án spillingar og samfélagslegs siðleysis. Þegar almannaréttur er afnuminn af auðlind eins og hafinu og hagnýtingarréttur takmarkaður, hljóta aðrar reglur að gilda um takmörkun og forréttindi en þær, sem áttu við um frjálsan afnotarétt, eins og áður gilti á hafinu umhverfis landið. Með því einu móti væri réttlætinu fullnægt.
Forréttindi byggð á réttlæti hljóta að vera markmið siðaðs samfélags. Þegar þrengt er að atvinnufrelsi manna og það framselt á fárra hendur, hljóta þeir, sem forréttindin öðlast, að gjalda þau með einhverjum hætti. Skiptir þá í raun litlu sem engu máli, hvort ríkið framkvæmir réttlæti í krafti þess, að það sé “eigandi fiskimiðanna í einkaréttarlegum skilningi” eða “handhafi lagasetningarvalds”. Handhafar löggjafarvalds geta sett reglur um meðferð og hagnýtingu fiskimiðanna umhverfis landið, eins og þeir telja rétt og nauðsynlegt í skjóli fullveldisréttar ríkisins. Um það hafa menn verið sammála.

Þjóð og ríki
Athyglisvert er það, sem fyrirlesari sagði um nýtingu vatnsbotns Mývatns utan netalaga einstakra laga, þ.e. í almenningi vatnsins, þótt botninn hafi ekki verið talinn eign íslenzka ríkisins í skilningi einkaréttar. Það hlýtur einnig að geta átt við um kvótann. Þessi lagasetning er athyglisverð vegna þess “ í fyrsta lagi, að ríkisvaldið telur sig bært til þess að láta tilteknum aðilum í té aðstöðu til að hagnýta tiltekinn almenning, þótt ríkið sé ekki eigandi þess landsvæðis, þar sem almenninginn er að finna. Í öðru lagi sýnir þessi löggjöf, að ríkisvaldið telur sér heimilt að taka gjald fyrir leigu af sölu hráefnis úr náttúruauðlind í almenningi, þótt ríkið sé hvorki eigandi landsvæðisins né heldur náttúruauðlindarinnar sem slíkrar í einkaréttarlegum skilningi. Hér má færa fram þau rök, að í þessum efnum komi ríkisvaldið fram sem vörslumaður þeirra hagsmuna, sem íslenskir ríkisborgarar eiga í almenningum  og sé með lagasetningunni að reyna að tryggja, að tekjur af sölu eða leigu hráefnis úr auðlindinni komi þjóðarheildinni til góða”. Svo mörg eru þau orð og þarf ekki um að villast.
Hið sama má segja um eigendalaust svæði á landi. Með dómi Hæstaréttar hefur löggjafinn fulla heimild til að ráðstafa náttúruauðlindum “sem er að finna á eigendalausum svæðum á landi í þágu þjóðarheildarinnar. Hinu sama hlýtur þá að gegna varðandi náttúruauðlindir í hafalmenningunum við og umhverfis landið”.
Hitt er þó mikilvægara, sem fram kemur í erindi fyrirlesarans, þegar hann segir, “þýðingarmest hlýtur í þessu sambandi sú takmörkun samkvæmt lögunum að vera, að úthlutuð veiðiheimild, myndi hvorki eignarrétt né óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildunum.
Þetta er að sjálfsögðu samkvæmt vilja Alþingis og laganna sem slíkra, þótt einhverjir fræðimenn telji að fiskimiðin geti verið eign ríkisins, en ekki þjóðarinnar, sem geti ekki myndað eignarrétt! Það geti íslenzka ríkið aftur á móti. Hér er auðvitað um einhverja skólaspeki að ræða, því að munur á ríki og þjóð í þessu sambandi getur engum sköpum skipt. En fyrst niðurstaðan er sú, að veiðiheimildir geti ekki myndað eignarrétt né óafturkallanlegt forræði einstaklinga yfir óveiddum fiski í sjó, hvernig stendur þá á því, að unnt er að selja hlutabréf í fyrirtækjum sem byggja allt sitt á þessum veiðiheimildum og telja fólki trú um, að það sé að kaupa aðild að eign eða eignarétti? Það er ekki að kaupa neina eign, nema þá tækin sem viðkomandi fyrirtæki á, en þau eru aukaatriði í framsals- og kvótaútgerð á Íslandi. Þeir, sem kaupa hlutabréf í íslenzkum útgerðarfélögum, eru þannig ekki að kaupa kvóta; þeir eru ekki að kaupa eign í merkingunni eignaréttur. Af þeim sökum mætti varpa fram þeirri spurningu, hvort hlutabréfasala í íslenzkum útgerðarfélögum fer fram að réttum hætti; hvort verið geti, að hér sé um einhvers konar blekkingu að ræða, vegna þess að hluthafarnir geti verið sviptir “eign” sinni og hafi ekki að lögum neina tryggingu fyrir því, að þeir geti síðan notað hana til tekjuöflunar. Fyrir þessu virðist liggja hæstaréttardómur sem fyrirlesari vitnar í. Hluthafar búa þannig við þá áhættu “að hin úthlutuðu og keyptu réttindi verði vegna ráðstafana ríkisvaldsins skert eða þau jafnvel afnumin og það án þess að slíkt leiði til bótaskyldu ríkisins”.
Mundi ekki vera ástæða til að huga að þessu atriði nánar. Mundi ekki vera ástæða til að láta þennan fyrirvara fylgja þegar útboð er á hlutafé útgerðarfyrirtækja?

Hvað um hvalveiðar
Að lokum þetta: Ef skerðing atvinnuréttinda með stjórnvaldsaðgerðum getur verið  bótaskyld, hvernig stendur þá á því að þeir, sem höfðu stundað hvalveiðar um árabil og sköðuðust illa af þeirri ákvörðun stjórnvalda að banna hvalveiðar - og þá í tengslum við alþjóðareglur - hafa ekki fengið umtalsverðar bætur, svo miklu tjóni sem þeir hljóta að hafa orðið fyrir, þegar hvalveiðibann var sett á? Eða - eru það bara sum atvinnuréttindi sem eru skaðabótaskyld?
Hitt er svo annað mál, að þeir sem fjárfestu í hvalveiðum, tóku áhættu og hljóta að hafa gert sér einhverja grein fyrir því. Sú áhætta var miklu óljósari en sú áhætta, sem þeir taka nú, sem kaupa framseljanlegan kvóta. Þeir vita að fiskurinn, sem þeir hafa keypt, er ekki frekar eign en óveiddur hvalur, ef bann er við því sett að veiða hann; þeir vita að óveiddur fiskur í sjó er ekki eign og það sem þeir kaupa með kvótanum skapar ekki eignarrétt. Og þeir vita einnig - og ekki sízt - að þessi kaup mynda ekki óafturkallanlegt og stjórnarskrárvarið forræði einstakra aðila yfir auðlindinni; vita að þeir geta þurft að greiða fyrir þessi forréttindi ef það þykir hentugasta leiðin til að ná fram jafnræði og réttlæti. Og þeir vita þá væntanlega einnig, að breytingar á fiskiveiðistjórnuninni munu ekki veita þeim neinar skaðabætur sér til handa, sem eru farnir að telja sér trú um að framsal kvóta sé ígildi eignar.
 (Reykjavíkurbréf, sunnudaginn 23. nóvember)

 

24. nóvember, mánudagur

Hef verið að pæla í gegnum bandarísku verðlaunaskáldsöguna Þúsund ekrur eftir Jane Smiley. Vel skrifuð á margan hátt eins og þessar sögur eru allar. Ágæt samtöl. En efnið hálf vemmilegt. Ég sé ekki betur en þessi saga sé einskonar afsökun fyrir blóðskömm; viðurstyggileg sifjaspell, raunar glæpsamleg. Rauður þráður sögunnar er um það að faðirinn æðir allar nætur eins og mannýgt naut um bæinn sinn og hefur samfarir við dætur sínar. Höfundur á í basli með þennan villimann, ekki sízt þegar hún reynir að gera upp sakirnar í lokin. Hún reynir að beina einhverju ljósi inn í myrkrið, en ljósið getur ekki lýst upp myrkrið, það verður einfaldlega svartara, óhugnanlegra. Og myrkrið gleypir ljósið.
Það fer hrollur um mig þegar ég les svona sögur. Í aðra röndina veit ég ekki til hvers þær eru skrifaðar.
Og þó er víst upplýsandi að vita af þessu fyrirbrigði.

 

30. nóvember, sunnudagur,Reykjavíkurbréf :

Sú var tíðin að sósíalsitar töluðu mikið um réttlæti. Það var engu líkara en þeir teldu sig hafa einhvers konar einkarétt á réttlætinu. Þeir böðuðu sig í þessu réttlæti marxismans en sagan hefur nú sýnt að það hefur haft í för með sér svo alvarlegar þjóðfélagshörmungar víða um heim, að vafamál er, hvort land eins og Rússland á eftir að ná sér eftir þau ósköp.
Það er að sjálfsögðu til réttlæti þó að ekki sé það beinlínis í tengslum við marxisma í augum þeirra, sem hafa horft upp á þessa þjóðfélagskenningu hrynja eins og spilaborg og skilja eftir sig þá ógnarfátækt sem rússnesk alþýða má búa við nú um stundir. Þetta réttlæti er með ýmsum hætti þótt ekki sé það afstætt á nokkurn hátt. Morgunblaðið hefur t.a.m. haldið því fram að framsal kvóta eins og því er nú háttað og tilraun til eignarréttar á þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar brjóti svo mjög í bága við allt réttlæti, að ekki verði við unað. Eða hvað mundu menn segja ef Norðmenn hefðu tekið upp á því að gefa olíuauðinn einstaklingum og örfáum fyrirtækjum, svo að þeir gætu selt hann og baðað sig í olíusólinni fyrir framan nefnið á norsku þjóðinnni? Ætli þá hefði ekki hvinið í tálknunum? Nei, Norðmenn höfðu vit á því að nota olíuauðlindina í því skyni að bæta hag allrar alþýðu í Noregi, greiða niður skuldir og hamla gegn óvæntri sóun og lúxus þeirra sem hreppt hefðu hnossið. Auðlindin hefur verið notað í þágu allrar þjóðarinnar og farið vel á því, án átaka eða pólitískra deilna. Engum hefur dottið í hug að gera athugasemd við það. Það hefði þótti saga til næsta bæjar, ef olíuauðurinn hefði verið framseldur einstaklingum og félögum, hann hefði orðið eign þeirra og þeir sem hefðu fengið hann að einskonar gjöf frá norsku þjóðinni eða stórþinginu hefðu getað selt hann, veðsett hann og erft.
Norðmenn hafa haft vaðið fyrir neðan sig. Þeir hafa þekkt sinn vitjunartíma. Þeir hafa vitað að ekki er hægt að gefa eign annarra, ekki hægt að framselja hana, ekki hægt að veðsetja hana eða erfa. Sem sagt, það er ekki hægt að framselja einstaklingum það sem er sameign þjóðar eða ríkis.
Þetta höfum við samt gert án þess að blikna. Við höfum leyft einstaklingum og fyrirtækjum að ráðskast með sameiginlega auðlind, framselja hana eins og hverja aðra eign, jafnvel gert kröfu til þess að hún sé framtalsskyld eins og hver önnur eign! Þekktir fræðimenn hafa jafnvel skrifað lærðar ritsmíðar um það, að menn geti eignazt slíka auðlind sem einskonar hagnýtingareign með því að nýta hana. Þannig ættu þær ferðaskrifstofur sem hafa haldið uppi ferðum á hálendið að eignast það, þegar ákveðið verður að afmarka þennan dýrmæta fjársjóð allra Íslendinga og breyta honum í takmarkaða auðlind með þeim hætti, að settar verði ákveðnar reglur um umgengni og aðgang að þessari viðkvæmu sameiginlegu eign okkar allra. En svo er guði fyrir að þakka, að það kemur væntanlega aldrei að því, að þessi eign verði framseld þeim, sem hafa gert út á hana og hagnazt á því á undanförnum áratugum.

Siðferðilegt aðhald
Morgunblaðið lagði ekki í upphafi höfuðáherzlu á afnotagjöld eða veiðigjald, heldur sé auðlindin háð því siðferðilega aðhaldi sem er forsenda réttlætis. Ef réttlætiskröfunni væri fullnægt, hlyti það að vera stefna okkar, að þeir veiddu fiskinn sem hæfastir væru til þess og þeir nýti hann og selji sem kunna það öðrum betur. En þá verður forsendan að vera í lagi. Það er sjálfsagt rétt sem fulltrúi sjávarútvegsins á Hjaltlandi sagði í samtali við Morgunblaðið ekki alls fyrir löngu, að fiskveiðistjórnunarstefna okkar Íslendinga hafi skilað árangri og hagfræðilega séð megi telja hana vel viðunandi. En þegar ranglæti er annars vegar, geta peningar og hagfræðistefna ekki ráðið ferðinni. Hagfræði sem byggist á ranglæti getur ekki verið neinum þóknanleg, hvað þá farsæl, og skiptir þá engu hvort hún hefur í för með sér hagnað fyrir þann sem nýtur góðs af henni eða ekki. Einræðisstefnur hafa ekki þótt siðferðislega réttlætanlegar, þótt þær hafi getað státað af efnahagslegri hagsæld.
Morgunblaðið hefur lagt höfuðáherzlu á, að forsenda fiskveiðistefnu okkar sé réttlæti, en á það hafa fæstir lagt áherzlu, sem um málið hafa fjallað. Sízt af öllu þeir hagfræðingar eða lögfræðingar, sem tekið hafa til máls um þann vanda sem við blasir. Það ber að harma. Og þeir eru því miður ekki einir um að gleyma því, hvort það sé rétt eða ranglátt að höfuðauðlind þjóðarinnar sé af henni tekin og hún færð einstökum útgerðarmönnum á silfurdiski eins og hver önnur gjöf. Það hafa því miður margir litið framhjá þessu, einnig ýmsir þeirra sem hafa gagnrýnt kvótaframsalið - og þá gert það á þeim forsendum að aðrir hagnist um of. En það er ekkert eðlilegra en menn hagnist á því sem þeir eiga og ávaxta með sómasamlegum hætti. Þeir, sem stjórna vel sínum fyrirtækjum, eiga að hagnast vel. Þeir sem sýna útsjónarsemi og framsýni eiga að fá sína umbun fyrir það. Hagnaður þeirra kemur öðrum til góða og ekkert er nauðsynlegra en vel rekin fyrirtæki á Íslandi skili miklum hagnaði handa eigendum sínum - og þá einnig að sjálfsögðu alþýðu manna. En það hlýtur að vera ranglátt að menn hagnist á því sem aðrir eiga eins og hagnaðurinn stafi af þeirra eigin eign. Þannig er því farið um kvótann. Þeir, sem selja hann, eiga hann ekki. Og þeir, sem kaupa hann, kaupa hann af þeim sem eiga hann ekki. Öðru máli gegndi, ef þeir leigðu hann af eigendunum; þ.e. þjóðinni, eða fulltrúa hennar, ríkinu. Þá væri öllu réttlæti framfylgt og þá gætu þeir valsað með það, sem þeir hefðu greitt fyrir, eins og þeir kysu sjálfir.
Það er af þessum sökum, sem Morgunblaðið hefur hvatt til þess, að veiðileyfagjald verði tekið upp. Það er einungis og einfaldlega í því skyni að einhverju réttlæti sé framfylgt og þeir, sem fá afnot af kvótanum, nýti hann með fullri heimild eigandans, í þessu tilfelli þjóðarinnar sjálfrar sem samkvæmt lögum hefur yfir þessarri auðlind að ráða.
Þannig væri réttlætinu framfylgt. En ef menn gætu bent á einhverja aðra betri leið til að framfylgja réttlætinu, væri Morgunblaðið opið fyrir því. En meðan enginn hefur bent á slíka úrlausn hlýtur athygli okkar einkum og sér í lagi að beinast að veiðileyfagjaldi í einhverri mynd.

Samræming án grundvallarmarkmiða
Sú er ástæða þess, að í upphafi þessa Reykjavíkurbréfs var talað um réttlætið og Alþýðubandalagið, að á nýafstöðnum landsfundi bandalagsins var enginn afgerandi stefnumörkun í fiskiveiðistjórnunarmálum og sýndist þar raunar sitt hverjum. Ýmist gufuðu tillögurnar upp eða voru sendar til miðstjórnar sem virðist vera einhverskonar pappírskarfa flokksins! Þar á bæ gátu menn sem sagt ekki sameinazt um réttlætið. Þeir gátu ekki sameinazt gegn því, að einstök fyrirtæki eða einstaklingar gætu náð undir sig þeirri auðlind sem er forsenda allrar hagsældar á Íslandi. Þeir gátu ekki einu sinni blásið í herlúðra gegn kvótabröskurum - og ranglætinu! Þar voru að vísu lagðar fram ýmsar ályktanir, t.a.m. um nefndarskipun til að kanna hvernig “staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar með hliðsjón af þeim gjöldum sem fyrir eru” og “réttlátri skiptingu afrakstursins, m.a. til að styrkja byggð um landið”; önnur ályktun um aðra nefnd sem skilgreini “með skýrum hætti þær auðlindir sem eru sameign þjóðarinnar” og hvernig með auðlindir skuli farið og hvort skuli tekið hóflegt gjald fyrir nýtingu þeirra; ennfremur óskir um tillöguflutning þingmanna flokksins “um breytingu á lögum um fiskveiðistjórnun”, en hún skuli þá einkum fela í sér “að smábátum sem stunda vistvænar veiðar á grunnslóð, s.s. krókaveiðar, verði veitt aukin veiðiréttindi”; ennfremur ályktun um eignarétt þjóðarinnar á auðlindum íslenzka hafsvæðisins eins og komizt er að orði, réttlæti gagnvart byggðarlögum, sjómönnum, fiskvinnslufólki og útgerðaraðilum, en ekki endilega gagnvart íslenzku þjóðinni, þ.e. eigandanum sjálfum; umgengni, hagræðing og rannsóknir - en ekkert af þessu fjallar um kjarna málsins, forsendu deilna og átaka og ástæður þess, að kvótaframsal eins og því er nú háttað er eins og þyrnir í holdi íslenzks almennings: ranglætið sjálft. Í einni tillögunni að ályktun um sjávarútvegsmál “segir m.a. “að landsfundurinn lýsir yfir stuðningi við frumvarp um að núgildandi fiskveiðilöggjöf falli úr gildi árið 2002 og að nýtt fiskiveiðistjórnkerfi taki þá við, sem samræmist grundvallarmarkmiðum Alþýðubandalagsins á þessu sviði”.
En hvernig er hægt að samræma eitthvað grundvallarmarkmiðum, sem eru ekki til!
Veit einhver hver eru grundvallarmarkmið Alþýðubandalagsins? Alþýðuflokkurinn hefur veiðigjald að markmiði, en bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur virðast vilja óbreytt ástand að mestu leyti, þótt ókyrrð sé mikil innan beggja þessara flokka og undiraldan mikil.
Þá má varpa fram þeirri spurningu, hvort Kvennalistinn hafi lagt áherzlu á réttlætið í tengslum við fiskiveiðistjórnunina og hvernig hyggst hann sjá því farboða, án tengsla við byggðastefnu og efnahagsmál.
Nei, réttlætishugtakið virðist ekki vera fyrsta og síðasta markmið þeirra, sem þjóðin hefur falið þingsetu og landsstjórn. Það eru önnur sjónarmið, sem þar ríkja og einkum efnahags- og hagsstjórn. Hún er að vísu ágæt svo fremi sem hún gengur ekki þvert á hugmyndir almennings um réttlæti og kröfur hans þess efnis, að því sé fullnægt.
Merkur hugsuður sagði á sínum tíma að engin lög festust í sessi önnur en þau, sem þjóðin samþykkti eða væri nokkurn veginn sátt við. Lög sem væru ólög í hugum almennings, væru til einskis nýt. Lögin um framsal, veðsetningu og erfiðir  í tengslum við fiskveiðistjórnun hér á landi eru því miður með því marki brennd.
Að vísu komu fram tillögur á landsfundi Alþýðubandalagsins þess efnis, að frjálst framsal kvóta verði afnumið og hóflegt gjald eða leiga sé innheimt af þeim aðilum sem stunda fiskveiðar, einnig talað um sægreifa, veiðiheimildir leigðar og leigan greidd af afla við löndun o.s.frv. En engin þessara tillagna var tekin svo alvarlega, að hún væri afgreidd eða sýnt í verki að flokkurinn hefði almennan áhuga á réttlæti gagnvart þjóðinni við fiskveiðistjórnun. Það er dapurlegur vitnisburður um flokk, sem ævinlega hefur talið sig útvalinn boðbera réttlætis á Íslandi. Og það er ekki síður dapurlegur vitnisburður um verkalýðsforystuna, að hún skuli aldrei hafa látið til sín heyra um þessi efni, svo að á hana hafi verið hlustað. Hvað skyldi dvelja orminn langa?
Væri ekki kominn tími til að menn reyndu að minnsta kosti að sættast á, að tekið yrði fyrir kvótabrask. Væri ekki kominn tími til að menn virtu að minnsta kosti þessa frumforsendu eignarréttar, sem merkur heimspekingur lagði sérstaka áherzlu á, þegar hann á sínum tíma reyndi að skilgreina eignarétt með einhverjum hætti.

27. nóvember, fimmtudagur

Hlustaði á ómetanlegan þátt Jónasar Ingimundarsonar, píanóleikara, um Schubert á Rotary-fundi í gær. Fín kynning og útlistun á snilli Schuberts.
Hef verið að skoða karp um ummæli Sigurðar Nordals þess efnis hvort Einar H. Kvaran væri verðugur nóbelshafi. Sigurður gekk gegn því á sínum tíma, þótt ólíklegt sé að það hafi komið til greina í alvöru. Hafði svo sem heyrt þetta áður og kynnt mér rökræður þeirra og annarra um þessa uppákomu en leit á þetta aftur vegna ævisögu Gils Guðmundssonar um Kvaran. Nordal segir í vörn fyrir ummæli sín um Kvaran að óeðlilegt sé að veita Nóbelsverðlaun rithöfundi sem ekki geti talizt fulltrúi hins bezta í skáldskap þjóðar sinnar.
Allt slíkt er auðvitað afstætt og listrænt mat harla persónulegt,en ég held Nordal hafi haft rétt fyrir sér.

Í Morgunblaðinu í dag er ritdómur um nýtt skáldverk eftir Diddu, en hún las upp með okkur ljóð fyrir 2-3 árum í Hlaðvarpanum, en hún þótti fersk og ný úr framandi umhverfi. Þröstur Helgason skrifar þennan ritdóm og mér finnst hann harla athyglisverður eins og annað sem frá Þresti kemur.

Svofelld orð þykja mér t.a.m. eftirminnileg - og er ég þeim algjörlega sammála:
“Við lifum á öld þegar allir hafa eitthvað að segja, allir eiga eitthvað merkilegt í pokahorninu sem þeir verða að koma á framfæri við heiminn, ef ekki á prent þá í útvarp, sjónvarp eða, þar sem nú er sagt auðveldast að fanga athygli fjöldans, á alnetið; möguleikarnir eru nánast óþrjótandi.
En hvað er það sem allt þetta fólk hefur að segja? Hvað er það sem þykir svo merkilegt nú en engin hefði talið ástæðu til að impra á við aðra manneskju áður? Jú, þetta eru innviðirnir. Það þurfa allir að segja frá sínu innsta. Öllu sem bærist í haus þeirra og hjarta. Hverri frumuskiptingu, hverju taugaboði, það þarf ekki einu sinni að vera hugrenning, hvað þá hugmynd, það er nóg að það sé grunur um eitthvað slíkt, það þarf ekki nema smávægilega ertingu skynfæranna og þá hafa jón og sigga fundið hjá sér þörf til að opna sig.”

6. desember, laugardagur

Dreymdi Sigurð Nordal í nótt. Það var ágætur draumur. Hann vildi gista hjá okkur og það var eiginlega enn betra. Undarlegir þessir draumar. Hef einnig undanfarið verið að dreyma Sigurð A. Magnússon. Ekki veit ég hvers vegna en þessi nöfn eru góð í draumi. Ég hef áður minnzt á drauma, t.a.m. í Helgispjalli. Ég held að flestir draumar eigi rætur í heilanum sjálfum. Þeir eru myndhverfing þess sem undirvitundin vinnur úr. Þeir eru oft eins og sá súrrealiski veruleiki sem við lifum í, öðrum þræði. En mér er nær að halda að stundum séu draumar fyrirboði. Það hélt Sturla Þórðarson. Það héldu ýmsir vitringar fornaldar og byggðu á reynslu sinni. En við vitum bara aldrei hvenær draumar eru fyrirboði og hvenær ekki. Ef við vissum það - eða hvers konar fyrirboði - ættum við auðveldara með að rekja þá örlagaþræði sem jafnvel Njáll kunni ekki skil á. En þá væri lífið líklega óbærileg martröð; að lifa með kvíða hins óorðna.

Sem sagt, Sigurður Nordal - hann var pái og það hlýtur að vera gott að hitta hann í draumi. Við skiptumst á nokkrum orðum. Ég rakst á hann í mannþröng og gekk með honum að heimili okkar sem var einskonar húskirkja. Við dyrnar óskaði hann eftir því að fá að gista. Ég tók því vel. Þegar við komum inn benti hann á forstofusal og sagði að þar gæti hann hreiðrað um sig. Þá kom Hanna og bauð honum gestaherbergi uppi á loftinu.
Hann þá það.
Mér leið vel í þessum draumi og þá ekki sízt vegna þess að Nordal tók undir það sem ég fullyrti; að menn ættu ekki að sækja afstöðu til bókmennta til heimspekideildar Háskóla Íslands. Það hefði kannski dugað á sínum tíma en hann væri liðinn og enginn ástæða til að taka frekar mark á bókmenntakennurum við háskólann en öðru fólki! Einkennilegt að maður skuli vera að hugsa um slíkt, steinsofandi. Og enn einkennilegra að maður skuli muna drauminn og samtalið eins og það hafi verið gallharður veruleiki.

Fór eftir vinnu í langan göngutúr í yndislegu veðri og gekk úr Elliðaárdalnum niður á Morgunblað þar sem ég geymdi bílinn. Var keyrður upp eftir. Dálítið hált með köflum en ég fór varlega; minnugur þess þegar ég datt og olnbogabraut mig á svellinu fyrir framan Morgunblaðshúsið sællar minningar. Hef aldrei náð mér að fullu en þó allvel.
Þegar ég kom að Morgunblaðshúsinu hitti ég Jóhann Hjálmarsson. Hann var að fara í finnska messu á áttræðisafmæli finnska lýðveldisins. Ég sagði við hann að mér hefði þótt góð grein Þrastar Helgasonar í Lesbókinni í dag um kvæði hans Veröld, slík grein kenndi mönnum að lesa ljóð - það væri mikilvægt.                
Þröstur hefur sterka tilfinningu fyrir góðum bókmenntum og hann kemur ævinlega úr annarri átt en aðrir. Það er ekki sízt styrkur hans.
Ljóð Jóhanns er svohljóðandi:

Hér geturðu unað um stund,
dvalist í þér sjálfum.
Aðeins fjaran svo langt sem augað eygir
og skuggi þinn í sandinum.

Þröstur segir m.a.:
Þetta fáyrta ljóð lýsir langt, og kannski lengra en menn grunar. Hér er veröldin sem við flest þekkjum og svo kannski önnur veröld sem aðeins skáldið þekkir til hlítar, veröldin sem það hefur skapað inni í sér, heimur skáldskapar. Og þarna er líka fleira sem vert  er að gefa gaum.
Aðeins fyrir nafn ljóðsins breytist hugnæm fjöruferð í æpandi nakta mynd af heiminum og lífinu, tilverunni. Okkur skolar upp á strönd lífsins þar sem við getum eigrað um svolitla stund, ein með sjálfum okkar, ekkert annað að sjá en okkar eigin skuggamynd í sandinum sem teygir sig svo langt sem augað eygir, bara heimurinn og þú og skuggi þinn.
Þröstur segir að tónninn í ljóðinu lýsi ekki endilega tilvistarótta heldur sátt, “og kannski miklu frekar en hitt: Hér geturðu unað um stund.”
Og ennfremur:    
“Þetta er kannski veröld skáldsins, innri veröld þess, eigin veröld þess þar sem það dvelur eitt með sjálfu sér og skugga sínum, skuggamynd sem allt eins gæti verið orð þess og hugmyndir um sig sjálft, skynjun þess í sjálfum sér, óhöndlanlegur og óræður skáldskapur þess.” Þröstur segir að ljóðið hafi birzt í Gluggum hafsins 1989 en síðasta ljóð þessarar bókar heitir Einvera og hljóðar svo:

Að festa þessi orð á blað hefur kostað efasemdir og hugarstríð -
væri rétt að láta það eftir sér. Hvað ég vildi segja er mér ekki alveg
ljóst. Þurfti ég að lýsa marsmorgninum þegar hvítir fjallstindar
baðast sól og færast nær mér þar sem ég skrifa þetta við glugg-
ann? Birtunni sem minnir á að dagarnir lengjast? Eða var það ein-
veran innra með mér sem ég skynjaði og lifði? Óðara rann það upp
fyrir mér að ég vildi ekki að orð mín skildust.

Og Þröstur segir enn:
“Skáldið er alltaf eitt í sköpun sinni og orð þess aðeins skuggamyndir af hugsunum þess, aðeins óræð mynd í sandi sem aldan máir burt áður en langt um líður. Skáldið vill vera eitt, það vill ekki að orð þess skiljist, að hægt sé að ráða í óljósa mynd þess í sandinum/orðunum. Og kannski þess vegna yrkir það ljóð.
Þetta viðhorf virðist vera lesandanum fjandsamlegt, skáldið vill ekki að það skiljist og um leið virðist það banda frá sér þátttöku lesandans í galdri sköpunarinnar. Þetta er afar módernísk afstaða og andstæð öllum póstmódernískum hugmyndum um upplausn höfundarins í eins konar skapandi lesanda sem sífellt leitar eftir þátttöku annars í sköpuninni. En annað býr undir. Skáldskapur Jóhanns er íhugun, innhverf athugun/sköpun á sjálfi og heimi eins og ljóðið Veröld er gott dæmi um. Slík hugleiðsla kallar ekki á skilning lesandans heldur að hann skynji og lifi textann.”

Þetta er góð greining og allrar athygli verð. Hún gerir það fyrir ljóðið sem skáldið virðist sízt af öllu vilja; hún gefur því skilning og breytir lesandanum í þátttakanda. Það hefði verið í anda Borges sem sagði að ljóðskáld ætti að breyta lesendum, eða áheyrendum, hversu margir sem þeir væru, í ljóðskáld sem upplifðu kvæðið hver með sínum hætti.
Þröstur Helgason hefur upplifað þetta kvæði Jóhanns með sínum hætti og hann hefur gefið okkur hlutdeild í þessari upplifun.                
Það er ekki sízt hlutverk bókmenntafræðinga að bregða slíku ljósi á skáldverk. Af slíkri ræktun sprettur nýr skáldskapur.

Í Lesbókinni í dag er einnig 5. grein Arnar Ólafssonar um viðtökur íslenzkra ljóða í Danmörku, Íslenskar bókmenntir á dönsku. Þetta er á ýmsan hátt athyglisverð grein og fróðleg. Ég mundi satt að segja ekki eftir því hve mikið var skrifað um ljóð mín í Danmörku þegar þau komu þar út 1968 en sé nú að það var mjög mikið. Mest af því var jákvætt en þó reyndu gagnrýnendur einnig að finna eitthvað að, bæði þýðingum og ljóðum, því að gagnrýnendum hættir til að leita jafnvægis! Mér sýnist þeir hafi helzt gagnrýnt Sálma á atómöld. Held ekki þeir hafi skilið þá til fulls, ekki frekar en íslenzka náttúru sem er Dönum framandleg. En Sálmarnir vöktu ekki sízt mikla athygli og nú hafa þeir verið gefnir út á þýzku. Ég held Danir hafi tekið sálmana of alvarlega sem slíka, þeir eru að sjálfsögðu fyrst og síðast hversdagsleg ljóð og óhátíðleg; einskonar andóf gegn hátíðlegum stellingum. Sálmar án hátíðlegra stellinga voru nýjung í þá daga. Í Sálmunum er eiginlega sagt óbeinlínis að hátíðleikinn birtist í hversdagsleikanum. Hann einn sé hátíðlegur, allt annað séu stellingar; hofmóður, hégómi, hræsni.
Eitt helzta tónskáld Dana, Svend Schultz (f. 1913), samdi mjög fallega tónlist við nokkra af Sálmunum og hefur hún bæði verið flutt í Danmörku og hér heima við góðar viðtökur. Ég hlustaði á hana í Norræna húsinu, mig minnir í túlkun Mótettukórs Silkiborgar og var henni forkunnarvel tekið. Mér leið að minnsta kosti vel á tónleikunum. Schultz hefur samið fjölda tónverka, auk fimm sifónía; svo að hann er ekkert blávatn(!)
Ég sakna tilvitnana í nokkra merka ritdóma sem Örn Ólafsson nefnir ekki, t.a.m. í ritdóm eftir menningargoðið Kai Flor sem var einskonar páfi í Danmörku á þeim tíma og hrósaði ljóðunum, ekki sízt Hólmgönuljóðum, á hvert reipi. Ljóðin væru full af patos,ef ég man rétt.Mig minnir hann hafi skrifað í Politiken; einnig í ritdóm eftir danska skáldið Ove Abilgaard sem sagði að ljóðin væru sannfærandi góður skáldskapur á dönsku.
Ég hef fengið fína dóma á Norðurlöndum, ekki sízt í Svíþjóð og þá ekki síður fyrir síðustu bókina í Noregi en í henni eru nokkur þeirra ljóða sem nú hafa verið lögð fram í samkeppni um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Joan Swedenmark hefur þýtt Vötn þín og vængur, að ég held á mjög fallega sænsku, og ég heyri ekki betur en ljóðin haldi vel hljómi og hrynjandi í þessari vönduðu þýðingu hans.
Þröstur Helgason minntist á póstmódernisma í grein sinni um ljóð Jóhanns Hjálmarssonar. Það var kannski dálítið einkennilegt - og kannski ekki alveg út í bláinn. Módernistar tóku listaverk sem þeim voru þóknanleg, prentuðu þau eða hengdu upp á vegg og umgengust þau eins og helga dóma. Gagnrýndu annað, eins og ljóð Davíðs Stefánssonar og málverk Gunnlaugs Blöndals og fleygðu því í einhverja sorpu sem þeir héldu að yrði síðsta orðið um list þessara manna.
En það var öðru nær.
List þeirra hefur endurfæðzt og er nú orðinn einn af þessum helgu dómum.
Við ráðum engu, tíminn ræður. Póstmódernistar, svonefndir, hafa að sumu leyti áttað sig á því. Þeir velja ekki úr flórunni eins og módernistar gerðu, mér sýnist þeir vilji helzt láta sem flest blóm bregða lit sínum á umhverfi okkar. Þeir hafa sem sagt verið að boða einhvers konar frelsi, en Kristján Kristjánsson sem skrifaði 10 greinar um fyrirbrigðið í Lesbók þar sem hann ræðst harkalega að póstmódernismanum, segir að hann hafi helzt ekki framkallað annað en nýjar kjaftastéttir! Hann er menntaður í einskonar raunvísindalegri heimspeki um mikilvægi menntunar og heilbrigðismála og hefur að margra dómi farið offari í greinum sínum. Ég veit það ekki, enda stendur mér á sama. Hef engan áhuga á póstmódernisma. Sá sem hefur þurft að eyða ævi sinni í heimskommúnismann og kalda stríðið þakkar guði fyrir jafn saklausar umræður og nú fara fram um póstmódernisma. Menn geta deilt um hann eins og þeir vilja fyrir mér. Þeir hafa frelsi til þess. Á sínum tíma sögðu frjálshyggjumenn eins og Hannes Hólmsteinn Gissurarson að frjálshyggja væri fólgin í fullkomnu frelsi. Hún gerði engar kröfur til þess að Stóri sannleikur væri höndlaður. En ég sé ekki betur en harðir frjálshyggjumenn hafi hafnað þessari greiningu sinni, og boði nú Stóra sannleika sem tekur á sig ýmsar myndir í umfjöllun þeirra. Þetta er afturför frá frjálshyggjunni í Frelsinu sem beindist að einræðishyggju og heimskommúnisma! Áður en yfir lauk kallaði Hannes Hólmsteinn mig fjölhyggjumann, en sá sig um hönd og breytti því í sveigjanlegan frjálshyggjumann! Ef maður er ekki með Sannleikann á hreinu þá er maður ekki lengur frjálshyggjumaður, heldur fjölhyggjumaður - eða eitthvað annað. Ég er hræddur um að póstmódernisminn festist í einhverju slíku nálarauga þar sem hann getur sig ekki hreyft, ekki frekar en klyfjaðir úlfaldar í borgarhliðum Jerúsalem. Allt slíkt trúboð endar í einhvers konar skólaspeki sem er farin að boða heilagan anda áður en maður veit af.
Kristján Kristjánsson talar um kjaftastéttirnar. Hann á við allt blaðrið í fjölmiðlum og líklega ýmiskonar rugl annað sem er að sönnu eitt af helztu einkennum okkar tíma. En slíkur málatilbúnaður er ekki sannferðugur vegna þess að alhæfing lýsir sjaldnast raunverulegum vanda. En það er rétt, við erum að drukkna í skvaldri. Það minnir á orð Krists, að það sé ekki óhreint sem inní okkur fer, heldur það sem út af okkur kemur; hugsunin, orðin, allt þetta lágplansskvaldur sem við þurfum að hlusta á sínkt og heilagt; öll þessi krafa um réttlæti sem er ekkert annað en flótti undan því sem er mikilvægt aðhald.
Í fyrradag kvað hæstiréttur upp dóm í máli Haralds sonar míns gegn persónulegum og skítlegum upphrópunum Hrafns Jökulssonar, en um þær hef ég fjallað áður á þessum blöðum Dómurinn hafði ekki þrek til að taka á málinu, heldur staðfesti hann dóm undirréttar sem var allur í þágu þessara kjaftaska sem nú glymja hæst í fjölmiðlum. Hæstiréttur heldur því fram að nafnbundnar árásir á forstjóra opinbers fyrirtækis séu á engan hátt persónulegar, heldur sé einungis átt við stofnunina eða fyrirtækið og Haraldur geti því setið uppi með þá fjarstæðu að hann sé glæpamannaframleiðandi ríkisins!!
Tízkuótti og fjarstæða!
Sem sagt, góður dómur fyrir kjaftaska; póstmódernískur dómur!. Samkvæmt kenningu Kristjáns Kristjánssonar hefur póstmódernisminn því tögl og haldir í réttarkerfi okkar nú um stundir, en það á víst að hafa lagað sig að réttarfari kjaftaskanna í Evrópu!
Ef Haraldur hefði ekki verið nefndur á nafn, hefði ég skilið dóminn, en ég skil hann ekki þegar reynt er að vega að æru hans og starfsheiðri með þeim hætti sem gert var. Þannig réðst Hrafn Jökulsson einnig að starfsheiðri og æru Þrastar Helgasonar í Morgunblaðinu um daginn og þótti mér það hábölvað að þurfa að birta þann óhróður. En Þröstur vildi heldur að hann yrði birtur athugasemdalaust, svo að enginn héldi að við tækjum gífuryrði Hrafns og fjarstæður hátíðlega. Þetta var rétt hjá Þresti.
Halli hefði átt að láta skítmennsku Hrafns Jökulssonar fram hjá sér fara og fylgja athugasemd Jóhannesar langafa síns um að hreyfa ekki við  skítnum því hann lyktaði, þá hefði hann losnað við þetta mýbit.
En fyrir bragðið vitum við nú betur. Það er nánast hægt að segja hvað sem er um hvern sem er, án þess þurfa að standa skil á því sem maður hefur sagt; samkvæmt dómi Hæstaréttar á þetta að minnsta kosti við um opinbera starfsmenn sem stjórna ríkisfyrirtækjum og þá að sjálfsögðu einnig stjórnmálamenn, en þeir geta auðvitað varið sig betur en embættismenn vegna þess að þeir eru sjálfir þáttur þess kjaftasamfélags sem sekkur niður á æ lægra plan með hverjum degi sem líður.
Mér er til efs að allt þetta skvaldur komi póstmódernisma við í raun og veru. Þetta er fjölmiðlaskvaldur. Þetta er einkenni hugsjónalítilla tíma. Það er ekki verið að berjast fyrir stórum, nýjum hugsjónum. Það er að vísu barizt fyrir betri heimi, gegn eyðni og jarðsprengjum. En það er ekki tekizt á um gott og illt eins og áður fyrr. Það var lífshættan sem kallaði fram það bezta í manninum. Háskinn sjálfur. Nú er háskinn einna helzt fólginn í sjálfskaparvítum, fíkniefnum, sjálfstortímingu. Óvinur hvers og eins er hann sjálfur. Áður sat óvinurinn á fleti fyrir í gervi fanatískra stjórmálaglæpamanna - og við vissum ekki hvort hægt væri að lifa af. Þá dugði ekkert svaldur. Þá dugði engin sýndarmennska. Þá dugði ekkert annað en - herðast í eldi.
Eða farast.

En kannski hryðjuverkamenn eigi eftir að breyta þessu.

Ég hef lesið ýmislegt eftir svokallaða póstmódernista, t.a.m. Derrida og Foucauld (1926-’84), sem var einn helzti fulltrúi franskrar formgerðarstefnu; hnýsileg og erfið lesning. Held að slík heimspeki fari vel í frönsku, en síður á ensku. Finnst hún eiginlega ómöguleg þegar maður reynir að hugsa hana á íslenzku. Það er ekkert í þessum ritum sem minnir mig á kjaftaskana í nútíma fjölmiðlasamfélagi; miklu frekar á atómskáldskap sem gerir miklar kröfur um skilning á illskiljanlegu efni.
En þau opna glugga; þjálfa hugann og framkalla hugmyndir.

Það var víst ungmennasamkoma á vegum tímritsins Fjölnis í Þjóðleikhúskjallaranum 1. desember sl. og einhver sem þangað átti leið blaðraði þessi lifandis ósköp í einhvern fjölmiðilinn, mér skilst það hafi átt að vera einhvers konar gagnrýni á foreldra eða eldri kynslóð, ég veit það ekki; uppgjör? En það skipti engu máli. Önnur samkoma var að ég held í ríkisútvarpinu, þar var saman komið ungt fólk sem hafði enga sérstaka hugsjón að mér skilst, engan kommúnisma eða marxisma, engan nazisma, ekkert pönk eða popp, hvorki súperstar né bítla; sem sagt, ekkert nýtt. Þetta er víst hin nýja kynslóð sem er að leita að einhverju nýju, leita að markmiðum; leita að sjálfri sér. Tilgangurinn með samkomunni var að drekka malt. Það var víst nýjasta uppákoman sem hugmyndasamfélagið bauð  upp á.
Malt-kynslóðin var gengin í garð(!)
Hún leitar að einhverju - og finnur víst ekkert! En það er ekki víst að þetta sé svo slæmt. Kynslóðirnar á undan hafa ekki þurft að leita langt yfir skammt, en þær hafa líka fundið margt slæmt. Blómabörnin leituðu að fegurð, kærleika og einhverjum tilgangi, en mörg þeirra fundu ekkert annað en fíkniefni; tortímingu. Þessi kynslóð hefur átt í erfiðleikum með börnin sín.
Kannski getur Malt-kynslóðin orðið sínum börnum betra aðhald og fyrirmynd en t.a.m. pönk-kynslóðin. Það skyldi þó ekki vera(!) Ég er hræddur um að þessi nýja kynslóð eigi erfitt uppdráttar vegna þess að hún er fædd inn í veröld kjaftaskanna, sýndarveröld fjölmiðlaskvaldurs, markaðssetningar þar sem enginn greinarmunur er gerður á ímynd og ímyndun.
Lýðveldiskynslóðin mín þurfti ekki að koma saman í ríkissjónvarpinu til að minna á sig; hún minnti raunar aldrei á sig. Hún var hlédræg kynslóð úr hernámi og heimsstyrjöld. Og óspillt af sjónvarpi.
En Malt-kynslóðin er fædd inní athyglissýki fjölmiðlaskvaldursins og þarf af þeim sökum að minna á sig. Það er hætta á að hún verði athygliskynslóðin og þá er ekki langt í kjaftakynslóðina og þann póstmódernisma sem Kristján Kristjánsson var að djöflast á, þótt honum hafi hætt til að skjóta púðurskotum á spörfugla.
Athyglissýki er vont pestarfár.

Manneskjan er einkennilegt fyrirbrigði. Hún er raunar eins og Herðubreið. Það er ekki sama úr hvaða átt litið er og það er ekki heldur sama hver horfir.   
Herðubreið er glæsilegust af Hólsfjöllum. Þaðan er hún drottning fjallanna. En þegar maður sér hana úr suðvestri, eða af Sprengisandi, breytist hún í harla óformað og ólögulegt hrúgald sem minnir sízt af öllu á drottningu öræfanna.
Það er ekki sama hver horfir á okkur og ekki heldur úr hvaða átt. Við erum þannig eins og Herðubreið. Mér dettur ekki annað í hug en það séu einhverjir sem sjái Esra Pétursson af Fjöllum þó að hann blasi við flestum nú um stundir af Sprengisandi. Það fer sem sagt eftir því hvaðan er horft á Esra Pétursson lækni og umdeilda ævisögu hans og hverjir horfa, hvaða mannkerti blasir við sjónum! Þannig erum við líklega öll - eins og Herðubreið, en það fer eftir ýmsu hve margir sjá okkur af Fjöllum og hve margir af Sprengisandi.
Ég gæti ímyndað mér að Malt-kynslóðin vildi blasa við af Fjöllum en hún á eftir að komast að því að fleiri sjá hana af Sprengisandi því að við erum ekki fullkomin, nema í hæsta lagi af einum sjónarhóli.
Lífið kennir okkur að við erum hið afstæða fyrirbrigði umhverfisins. Það er nauðsynlegt að gera sér þess grein, annars lendum við ekki einungis í andstöðu við umhverfið, heldur einnig - og ekki síður - við sjálf okkur. Óánægja með sjálf okkur lendir á umhverfinu. Forsenda þess að við séum ánægð með umhverfið er ánægja með sjálf okkur.
Malt-kynslóðin á einnig eftir að komast að þessum sannindum.

Já, maðurinn er hið furðulegasta fyrirbrigði og hann er ekki allur þar sem hann er séður.
Í Lesbókinni í dag er samtal Þrastar Helgasonar við Róbert H. Haraldsson sem er nýorðinn doktor í Nietzsche. Í samtali þeirra kemur fram að Nietzsche hafi verið hrifinn af verkum bandaríska heimspekingsins Emersons (1803-1882), Montaigne (1539-1592) Petroníusar La Rochefoucould (1613-1680) og Sokratesar svo ekki sé talað um Schopenhauer. Í hugsun Emerson Montaigne og La Rochefoucould er lögð áherzla á að menn sjái í gegnum sitt litla sjálf, sjái í gegnum sína eigin góðmennsku. Þeir benda allir á að ef til vill séum við varasömust, þegar við höldum að við séum bezt. Greiðvikin húmanismi fær kjaftshögg hjá þessum höfundum eins og komizt var að orði í þessari grein. Þar segir einnig að vantrúin á samfélagið sé áberandi hjá öllum þessum heimspekingum, vantrú á hópa, fjöldann. “Það er ekki mannfyrirlitning í þessu, heldur hópfyrirlitning, hræðsla við múgsálina er líka klassískt viðfangsefni. Allir vantreysta þeir pólitískum  “lausnum” á tilvistarvandanum.”
Nietzsche stendur því traustum fótum í ákveðinni heimspekihefð sem hann reynir að endurnýja og verja.
Ég hafði ekki gert mér grein fyrir að ég ætti svo sterkt sálufélag við þessa heimspekinga og það kom mér þægilega á óvart að upplifa það. Ég hef sömu afstöðu til einstaklinga og nú hefur verið nefnd; einnig sömu afstöðu til hópsins og múgsálar; mergðarinnar.
Þröstur Helgason hefur svofelld orð eftir Róbert H. Haraldssyni - og harla athyglisverð:
“Önnur aðferð til að útiloka Nietzsche er að benda á einhvern þverbrest í hugsun hans eða textum. Oft er talað um hetjudýrkun í textum hans sem dæmi um slíkan þverbrest. En Nietzsche er að mínu viti einn skeleggasti gagnrýnandinn á hetjudýrkun. Það blasir við þegar maður skoðar tilvistarheimspeki hans þar sem segir að hver einstaklingur eigi að leggja rækt við sig sjálfan. Að dómi Nietzsche er hetjudýrkun einmitt ein algengasta leiðin sem við förum til að þurfa ekki að horfast í augu við eigin mikilleika, eigið ágæti, eigin möguleika.
Annað dæmi um þverbrest sem menn þykjast sjá í textum hans er að segja að hann hafi ekki pólitíska kenningu, hann hafði t.d. ekki skýrar hugmyndir um réttlátt samfélag. En eins og ég benti á áðan hefur Nietzsche mikla vantrú á pólitískum “lausnum” á tilvistarvandanum. Þroskabrautin liggur sjaldan í gegnum stjórnmálaflokka, og það er sjaldan sem pólitískt þref er mannbætandi. Hins vegar er nokkuð algengt að stjórnmálamenn vilji bæta aðra og jafnvel samfélagið!”

Ég vissi ekki heldur að ég væri jafn mikill fylgismaður hugmynda Nietzsche og raun ber vitni samkvæmt þessum texta. Það kemur mér skemmtilega á óvart - og ég er í raun stoltur af því(!)

Ég hef verið að skrifa Reykjavíkurbréf vegna ummæla í bandarískri bók, nýútkominni, um samtal mitt við Faulkner á sínum tíma. Ég nefndi þetta við Kristján Karlsson í gær því að við hittumst í hádegismat og áttum gott og langt samtal saman. Við töluðum mikið um Sherwood Anderson og dálæti Faulkners á honum. Ég hef verið að lesa smásögur Andersons, Winesburg Ohio, og skil nú betur hvers vegna Faulkner hafði slíkt dálæti á honum.  Sögurnar eru með raunsæju yfirbragði en andblærinn er ljóðræn frásögn úr lífinu sjálfu. Það  er þessi nýi heimur ljóðrænnar frásagnar sem Hemingway og Faulkner hrifust af. Sagt er að þessar Ohio-sögur séu meistaraverk Andersons fremur en skáldsögur hans. Mér finnst þessar smásögur framúrskarandi. Þær hafa komið mér þægilega á óvart og ég drekk þær í mig eins og hunang; þessa ljóðrænu veröld sem var nýr heimur í bókmenntum og heillaði ekki einungis Faulkner og Hemingway, heldur einnig Wolfe, Steinbeck, Caldwell og Henry Miller. Samt fjalla þær allar um hversdagslegt umhverfi, hversdagslega atburði. En baklandið er einhvers konar guðleg forsenda þessarar tilveru sem sækir mennsku sína með ýmsum hætti í þessa sömu forsendu.
“Það er Kristur í hverjum og einum”, segir ein af sögupersónum hans “og hver og einn verður krossfestur”.
Nei það var ekkert undarlegt þótt Faulkner væri hrifinn af sögum Andersons. Faulkner er einn mesti skáldsagnahöfundur Bandaríkjanna fyrr og síðar. Það var mikill viðburður þegar hann kom til Íslands á sínum tíma. Ég hef lesið nokkur verk hans, smásögurnar í snilldarþýðingu Kristjáns Karlssonar sem einnig kynntist Faulkner hér heima og átti við hann samtöl. Og nú ætla ég að fara að lesa Light in August sem sumir telja hið mikla meistaraverk skáldbóndans úr Suðurríkjunum.
Faulkner sagði við Kristján Karlsson,
Ég hitti Hemingway einu sinni, við töluðum um veiðar!
Þannig talaði Faulkner.
Hann sagði einhvern tíma að Wolfe væri bezti skáldsagnahöfundur Bandaríkjanna, hann væri sjálfur næst bestur en Hemingway sá þriðji bezti.

Hemingway er ekki eins góður og við Wolfe, sagðiFaulkner,vegna þess að hann tók ekki eins mikla áhættu og við!.

William Faulkner nefndi einungis Sherwood Anderson í samtölum okkar, auk Dreisers. Hann sagði að sér þætti ekki eins vænt um að fá Nóbelsverðlaunin vegna þess að Anderson hefði ekki fengið þau á sínum tíma, heldur Sinclair Lewis, höfundur Babbitt og annarra skemmtilegra sagna úr borgaralegu umhverfi, með rætur í blaðamennsku. Lewis gagnrýndi þetta borgaralega samfélag en honum þótti vænt um það. Faulkner nefndi ekki átrúnaðargoð Laxness, Upton Sinclair, sem notaði skáldsöguna sem tæki til þjóðfélagsádeilu. Hann nefndi ekki heldur höfund The Great Gatsbys, Fitzgerald sem á einnig þennan lýríska tón. En Dreiser þótti klunnalegur skáldsagnahöfundur þótt hann hafi skrifað einhverja beztu sögu sem ég hef lesið, An American Tragedy.

Matthías Viðar Sæmundsson sagði einhverju sinni kenndur við Kristján Karlsson að smásaga hans Fagurkerarnir væri bezta smásaga sem skrifuð hefði verið á íslenzku. Hvað sem því líður, er hún í þessum ljóðræna anda Andersons; laus við uppákomu eins og O’Hara er sérfræðingur í. Og Jack London ef út í það er farið.
Hið ljóðræna andrúm er ekki sízt efniviður veruleikans. Í því er uppákoman fólgin.

Kvöldið

Fékk þessa vísu í hendur niðri á Mogga. Hún er ágætlega gerð svo ég tími ekki að fleygja henni!
Esra Pétursson geðlæknir hefur nú afhent lækningaleyfi sitt vegna deilna um ævisögu hans eftir Ingólf Margeirsson, en í henni hefur hann notað skýrslu um nafnkunnan sjúkling, auk þess sem hann hefur lýst kvennafari sínu með þeim hætti að athygli hefur vakið. Páll sá sem kemur við sögu er Páll Arason sem ánafnaði Reðursafni Íslands skaufa sínum að sér látnum, en var þó ekki manndómsmeiri en svo, að hann neitaði að sýna erlendri sjónvarpskonu gripinn, þegar hann var beðinn um það! Mig minnir að Páll hafi verið fararstjóri í hálendisferðum í gamla daga en veit það ekki gjörla. Sem sagt, enn yrkja Íslendingar djöullegar klámvísur - og þá heldur vel!

Í veröldinni er margt sem miður fer
en má þó bæta í vísindanna nafni.
Tæki hefur Esra undir sér
sem ætti að hengja á vegg í reðursafni.

Og þá mun fregnin hljóma heims um ból
frá heimspressunni í ítarlegu máli
að komið sé upp háreist hörkutól
við hliðina á tittlingnum á Páli.

Eftir síðasta Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins skrifaði Björn Bjarnason mánudaginn 24. nóvember í Alnets-dagbók sína þessa athugasemd :
“Síðustu daga hafa umræður um kvótakerfið og veiðileyfagjald loks leitt til þeirrar niðurstöðu, að deilan snýst um það, hve háan nýjan skatt eigi að leggja á útgerðarmenn. Tölurnar hafa numið frá 20 milljörðum króna niður í einn milljarð núna. Að vísu kemur fram í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag, að veiðileyfagjald hafi ekki verið markmið blaðsins í  umræðum um kvótakerfið heldur réttlæti. Er bent á, að Norðmenn hafi gætt réttlætis við nýtingu olíuauðlinda á hafi úti og þær bornar saman við fiskinn í sjónum. Í þessum samanburði gleymist að taka tillit til atvinnuréttinda þeirra, sem höfðu um árabil stundað fiskveiðar við strendur Íslands og skapað þjóðarbúinu verðmæti með sjósókn sinni. Með því að úthluta þeim kvóta voru atvinnuréttindi þeirra viðurkennd, en þessi réttindi eru varin í stjórnarskránni eins og eignarrétturinn. Enginn gat með sömu rökum og útgerðarmenn hér krafist hludeildar í olíunni í hafsbotni undan ströndum Noregs.”
Sjálfur er Björn af sjómönnum kominn í móðurætt. Það er selta i blóði hans,en hann gleymir í þessum rökræðum  öllum  þeim atvinnuréttindum sem ættu þá að fylgja þessu áunna basli.
Og er ekki einn um það.
Á þá brimniður genanna engin réttindi eða eru það einungis landkrabbar sem sumir hverjir hafa aldrei mígið í saltan sjó sem eiga allan réttinn?
Vantar ekki eitthvað í þessa “stjórnarskrárvörðu”,en hálfdönsku fljótaskrift sem  kallast stjórnarskrá,en er ekki annað í aðra röndina en lögbókarupphrópun,meðan hægt er að túlka hana eins og lénsskipulagið gerir ?
Það er rangt að deilan standi um það, hve háan skatt eigi að leggja á sægreifa, heldur framsalið og greiðslu til réttra eigenda.
Þar stendur hnífurinn í kúnni eins og segir í Reykjavíkurbréfinu.

Þegar við fengum 200 mílurnar var enginn alþjóðasáttmáli til um hafréttarmál og hafið milli 12-200 mílna því á engan hátt undir íslenzka stjórnarskrá selt. Bretar notuðu rökin um áunnin atvinnuréttindi í baráttunni við okkur og ef við hefðum  virt þau , þá hefðum við tapað málinu - og setið uppi 200mílnalausir þangað til alþjóðlegi hafréttarsáttmálinn var undirritaður!!
Crossland, brezki utanríkisráðherrann, sem átti að lokum einna mestan þátt í samkomulaginu við Íslendinga var margsinnis minntur á þessi atvinnuréttindi brezkra togaraeigenda á Íslandsmiðum og fullyrt að helztu fiskveiðibæir Breta, Grimsby og Hull, færu í eyði ef Bretar semdu við Íslendinga.
Crossland hafði þor þótt kjördæmi hans væri á þessum slóðum og hélt fast við sitt án þess atvinnuréttindi Breta á íslenzkum miðum væru virt með nokkrum hætti og raunar talaði enginn um þau í alvöru.

Það var gott að röksemdir brezkra útgerðamanna voru ekki helzta tromp íslenzku ríkisstjórnarinnar á þessum árum!!
En nú notum við þau í Smugunni!
Þannig er  allt  afstætt eins og fyrri daginn!
En forystumenn Sjálfstæðisflokksins mættu sýna sama manndóm og kratinn Crossland.
Annars skil ég ekki glámskyggni ágætustu manna þegar kemur að kvótanum og framsali hans sem er eitthvert mesta brask sem um getur í Íslandssögunni,þúsund sinnum verra en verktakabraskið á varnarstöðinni á Miðnesheiði.
Það er eins og menn horfi út um kýrauga og sjá ekki út fyrir seltunni.

Auk þess hafa útgerðarmenn ekki fengið kvótann ókeypis undan farið, nema síður sé, en sá skattur rennur ekki til réttra eigenda, þ.e. fólksins í landinu,heldur þeirra sem áttu skipsflök á réttum tíma.

Grein Arnar Ólafssonar í Lesbókinni í dag er svohljóðandi:

“Íslenskar bókmenntir á dönsku, 5. grein: Viðtökur íslenskra ljóða
Það er stundum forvitnilegt að sjá viðbrögð útlendinga við því sem Íslendingum er heimakunnugt, enda þótt t.d. danskir ritdómarar séu vitaskuld enginn hæstiréttur um íslensk ljóð, skrifar Örn Ólafsson í lokagrein sinni um íslenskar bókmenntir á dönsku.
Löngu er alkunna, að erfiðara er að þýða ljóð en aðra texta, vegna þess að í ljóðum eru svo margvísleg fyrirbæri hnituð saman. Sumir neita því að þýðing sé möguleg, tala frekar um að yrkja upp ljóð á öðru máli. Og víst er um það, að oft er útkoman þá ólík frumtexta, þar sem t.d. Tolstoj og Shakespeare eru heillandi sérstæðir á hvaða tungumáli sem er.
Í fyrri greinum var vikið að helstu þýðingum íslenskra ljóða á dönsku, Olafs Hansen um aldamótin og aftur um 1918, Guðmundar Kamban í lok seinni heimsstyrjaldar, og loks Pouls P.M. Pedersen á sjöunda og áttunda áratugnum.
Metnaðarfull kynning
Hér verður vikið að viðtökum þessa síðasttalda fimm binda safns sem of langt mál yrði að skoða víðar að sinni. Þetta var metnaðarfull kynning á ýmsum helstu ljóðskáldum Íslendinga. Fyrst kom ljóðaúrval Steins Steinars, 1964, tveimur árum síðar Hannesar Péturssonar, tveimur árum eftir það bók Matthíasar Johannessen, en sjö árum eftir hana kom ljóðaúrval Jóhannesar úr Kötlum. Og enn liðu sjö ár eftir það þangað til fimmta og stærsta safnið kom, úrval ljóða 28 skálda (sem ég taldi upp í 3. grein), Strejftog i islandsk lyrik, 1982.
Mjög er misjafnt hve margir ritdómar birtust um þessar bækur, og hve ítarlegir þeir voru. Einkum urðu ritdómar yfirborðslegir um síðustu bókina, sem eðlilega var sundurleitust. Jafnan voru ritdómarnir velviljaðir íslensku skáldunum, en misgagnrýnir. Einungis einn ritdómari bar þýðingarnar saman við frumtexta, og verður þá að ætla að hinir hafi ekki þóst nógu góðir í íslensku. Sá ritdómari, Vagn Steen, skrifaði eina ritdóminn sem ég hefi fundið um bók Hannesar Péturssonar (Jyllandsposten 18.12. 1966) og hann var eingöngu jákvæður, sérlega hrifinn af kvæðunum um Kópernikus, Maríu Antoinettu og “Undarleg ósköp að deyja”, en þótti orðavalþýðanda ekki alltaf nógu smekklegt.
Sérkennilegast þótti mér að sjá hve gagnrýnir menn voru á Stein Steinar, sem á Íslandi virðist nánast kominn í heilagra manna tölu. Elmquist (Politiken 20.6. 1964) talar um efa- og tómhyggju Steins eins og Windfeld (Kristeligt Dagblad 31.8. 1964), sem dregur fram naumhyggju Steins, “orðin eiga að verða þung af því ósagða, en það leiðir stundum til þess að þau verða verulega léttvæg”. Um Tímann og vatnið er hann tvíbentur, segir þennan ljóðabálk athyglisverðan og eiga sinn þátt í að gera bókina verðuga lestrar, þarna séu náttúrumyndir tengdar skýrum litum og sértekningum flatarmálsmynda. Þetta orki leyndardómsfullt, en sé til lengd- ar hæpið og óeðlilegt. Þýðandi fær skömm í hattinn fyrir að gera ekki grein fyrir úr hvaða ljóðabókum Steins hann þýði og hve mikill hluti ljóða hans þessi 130 ljóð séu. Fonsmark segir (eins og þýðandi í eftirmála) að Tíminn og vatnið sýni sterk áhrif frá sænska skáldinu Erik Lindegren, önnur sænsk skáld á 5. áratug aldarinnar hafi og greinilega haft áhrif á Stein. Torben Brostrøm (Information 4.7. 1964) tekur undir þetta, en sýnist áhrif finnlandssænsku skáldkonunnar Edith Södergran meira áberandi, ekki síst í Tímanum og vatninu, sem persónugeri hugtök á táknsögulegan hátt, en Steinn komist stundum ekki vel frá því, nálgist módernisma á klaufalegan hátt.
Mér sýnist Brostrøm helsti glámskyggn á þetta, en hér er ekki rúm til að rekja það (sjá bók mína, Kóralforspil hafsins). Fonsmark tekur kvæðið “Víg Snorra Sturlusonar” til dæmis um að þrátt fyrir alla efahyggju Steins hafi ljóðlistin verið mikið afl í augum hans, og því sjái hann valdhafa sem eilífa fjendur skálda. En sama kvæði kallaði Brostrøm “leiðindaskrúðmælsku með óviðeigandi og lágkúrulegum líkingum”. Fonsmark tekur kvæðið um Kristófer Kólumbus sem dæmi um eilífa leit Steins að óvissu marki, sem hann reyndar örvænti um að sé til. En Thomas Bredsdorff segir í ritdómi um safnrit Pedersens, Strejftog ... (Politiken, 1.12. 1982) að það ljóð sé bara veikur endurómur af kvæði Danans Johannes V. Jensen um Kólumbus.
Skarpar myndir - óvenjumargir dómar
Um bók Matthíasar Johannessen birtust óvenjumargir ritdómar. Þeir leggja áherslu á hve sterkar rætur í íslenskri ljóðhefð og fornri menningu þessi nútímalegi höfundur hafi; enda þótt hann jafnframt sæki til T.S. Eliot og ýmissa helstu módernista. Ljóðabókin fékk hrós fyrir innileg ástarljóð og áhrifamiklar náttúrulýsingar, þar sem skiptist á stórbrotið, hrikalegt landslag og sveitasæla. Þetta er m.a. hjá Fonsmark (Berlingske Tidende 7.9. 1968) og Bedsted (Jyllandsposten 1.9. 1968). Þeir segja að þessi ljóð miðli sannri reynslu á viðeigandi hátt, í myndrænni skynjun, sem sveiflist frá frumlegum, óvæntum líkingum til hversdagslegasta orðalags. Þar sýni höfundur ekki nógu örugg tök. Einkum verði trúarljóð hans mjög hefðbundin í ljóðmyndum, líkingum og táknum, t.d. “ský óttans, mosi tilverunnar, plógför tímans, haf tímans”. Hejlskov Larsen (Berlingske Aftenavis 16.9. 1968) telur svo hefðbundið myndmál almennt einkenni á kristilegum ljóðum. En aðrir lögðu áherslu á að þessir nútímasálmar næðu til samtímafólks með líkingum úr hversdagslífi almennings (Bønding í Aalborg Amtstidende 20.10. 1968).
Mjög á sömu lund og Hejlskovs er dómur Brostrøm (Information 27.8. 1968), og Fonsmark, sem talar þó um verulegar framfarir frá elstu ljóðunum til hinna nýjustu, Brostrøm leggur áherslu á að ljóðin hrífi vegna skarpra mynda (sanselighed). Form Hólmgönguljóða, ávarp og andsvar, hafi stundum sérlega fínleg áhrif, en það veki þó jafnan væntingar um skýrt markaðan kjarna, og ekki hafi alltaf tekist að skapa slíkt, ritdómara grunar að það muni hafa verið þýðanda sérlega erfitt verkefni. Hejlskov segir að fagrar náttúrumyndir Matthíasar sýni sálarlíf fólks óbeint, en einmitt það virðist dönskum lesendum nokkuð fornfálegt, enda þekki þeir varla ósnortna náttúru. Bedsted telur að Matthías hefði hlotið miklu betri kynningu á dönsku, með ljóðaúrvali sem hefði verið þriðjungur af fyrirferð þessa (og þá einkum sleppt Sálmum á atómöld), og skammar Pedersen fyrir útgáfustefnu, sem geti ekki vakið áhuga á íslenskri ljóðlist.
Um ljóðaúrval Jóhannesar úr Kötlum taka ýmsir ritdómarar það upp úr eftirmála þýðanda, að Jóhannes hafi sameinað kristilega arfleifð sósíalisma. Mest lof fær hann í Kristeligt dagblad (14.3. 1975, Claus Grymer): “stór og unaðsleg bók, full af hreinni, bragðmikilli ljóðlist”. Hinsvegar fannst Bent Irve (Weekendavisen 16.5. 1975) ljóðaúrvalið ekki rísa undir þeim orðum þýðanda að hér sé mikilvægt skáld á ferðinni. Jákvæðari er Eske K. Mathiesen í löngum ritdómi (Land og folk, 27.9. 1975), en segir þó að ljóð Jóhannesar muni tæplega hrífa Dani. Þau séu einhvernveginn of framandi bókmenntaheimi þeirra. Því valdi ekki bara framandi tungumál, heldur einkum samfelld, staðbundin hefðin sem Jóhannes byggi á, sálmar og alþýðukveðskapur. Hann yrki um náttúruna á innilegan hátt, sem Danir þekki helst í barnslegum kristnum ritum. Og stjórnmálaljóð yrki hann tryllt og móði þrungin; uppreisnarljóð og hyllingarkvæði.
Þýðandi fær sérlega jákvæðan dóm hjá Elmquist (Pol. 20.6. 1964), sem segist að vísu ekki læs á íslensku, en þessir textar (Steins) séu eins og frumortir á dönsku, og þýðandinn ósýnilegur að baki höfundar. Miklu gagnrýnni eru Brostrøm og Fonsmark, sem finnst vera óeðlilegt danskt mál einmitt á sömu þýðingum. Versta útreið fær þýðandi hjá Vagn Steen sem segir í ritdómi (Politiken. 4.4. 1975) að Jóhannes úr Kötlum sé miðlægur í íslenskri ljóðagerð, og nú séu ljóð hans komin á dönsku með styrk danska menntamálaráðuneytisins og Nordisk kulturfond. “Það var leitt,” segir Steen, og rekur síðan dæmi þess að þýðingin geri Jóhannes kristilegan, óalþýðlegan og hefðbundinn ljóðasmið á mjög villandi hátt, enda sé “lítilmótlegur inngangurinn"“í sama dúr. Sýnist Steen af þessu ljóðasafni að kanna þurfi grundvöll styrkveitingarinnar, og þá sérstaklega hvort fagmenn hafi metið verk þýðanda.
Þetta voru óvenjuharkaleg viðbrögð, en almennt virðist mega segja, þrátt fyrir mörg viðurkenningarorð, að dönskum ritdómurum hafi virst samtímaljóð bræðraþjóðarinnar íslensku ámóta framandi og kæmu þau frá Kúrdistan, einkum vegna þess hve bundin hún sé íslenskri náttúru. Því tók Brostrøm sérstaklega fram um ljóðaúrval Einars Más Guðmundssonar, 1981 (Information 6.11.), að hér kæmi ný sjálfsvitund í máli og tímaskynjun, “laus við þjóðlega ljóðlist um fjöll og firði og þessar eilífu bænir til réttlætisins”. Mér þykir þó líklegt að margir Danir af íslenskum ættum og aðrir danskir Íslandsvinir hafi sóst eftir þessu ljóðasafni, svo mikið er víst, að það er löngu ófáanlegt orðið.
P.s. Ég þakka Ásgeiri Jónssyni sagnfræðingi leiðréttingu um Guðmund Kamban (Mbl. 27.11.).
(Birt í Lesbók 6. desember ‘97)

Skrifaði þetta Reykjavíkurbréf - og einnig það næsta - vegna ummæla í bók Nuechterleins um kalda stríðið:
Það kennir margra grasa í þeim skýrslum sem fulltrúar stórvelda hafa verið að senda ríkisstjórnum sínum frá Íslandi í kalda stríðinu. Við höfum séð sumt af því en annað er óbirt. Það er mikill vandi að vinna úr slíkum plöggum og meta það rétt sem þar er sagt. Margt af því byggist á tilfinningalegri afstöðu þeirra sem um fjalla fremur en gallhörðum staðreyndum. Það er því harla mikilvægt að úr þessum skýrslum sé lesið með miklum fyrirvara og án þess menn sé ævinlega tilbúnir að gleypa það hrátt. Sendimenn erlendra ríkja hér á landi hafa verið misjafnlega glöggir og þá ekki síður misjafnlega vandir að virðingu sinni í þessum samskiptum við íslenzka ráðamenn og þá sem við sögu koma í þessum frásögnum. Þeir hafa misskilið margt, þeir hafa einnig oft verið afvegaleiddir og á þá leikið í pólitískum hita á hættulegum tímum. Þá hafa þeir ekki síður notað sín meðul í þessum samskiptum við fámennt umhverfi sem þeir skildu lítið eða illa.
Í Ólafs sögu Thors er m.a. fjallað um komu Harolds Macmillans til Keflavíkurflugvallar sunnudaginn 25. september 1960 í því skyni að ræða fiskveiðideilu Breta og Íslendinga og gera úrslitatilraun til að koma á sáttum. Enginn vafi er á því að í þessu langa samtali þeirra Ólafs Thors var lagður grundvöllur að lausn deilunnar, en viðræður hófust í kjölfar þess, eða 1. október, og fóru þær fram milli íslenzkrar og brezkrar nefndar sem forsætisráðherrarnir ákváðu á fundi sínum.
Að Keflavíkurfundinum loknum var íslenzkum blaðamönnum sem þar voru staddir ljóst að báðum forsætisráðherrunum hefði þótt hann mikilvægur og markað tímamót til lausnar deilunni. Var augljóst að vel fór á með þeim Macmillan og Ólafi Thors. Hinn fyrrnefndi sagði þegar hann kvaddi íslenzka forsætisráðherrann að hann mundi ævinlega minnast hans og sjá hann fyrir sér þegar hann hugsaði um landhelgisdeilu Breta og Íslendinga. En þegar hann skrifar æviminningar sínar hefur Macmillan verið búinn að gleyma þessum fundi að mestu og þar er vægast sagt heldur einkennilega komizt að orði um viðræður þeirra Ólafs Thors. Macmillan ræðir raunar af heldur lítilli virðingu um forsætisráðherra Íslands sem hann nefnir ekki með nafni. Þetta er að vísu ekki einsdæmi í ævisögu hans því að hann hefur tilhneigingu til að fjalla á fremur óvirðulegan hátt um leiðtoga annarra þjóða sem hann hefur þurft að eiga viðskipti við. Þótt minningar og stjórnmálasaga Macmillans sé talin heldur merkilegt rit um samtímasögu, kennir þar ýmissa grasa eins og oft vill verða og er nauðsynlegt að lesa ævisöguna með fyrirvara og gagnrýni. Sjálfsævisögur stjórnmálamanna fjalla oft um það, hvernig þeir vilja að atburðirnir hafi gerzt, en ekki endilega hvernig þeir gerðust! Macmillan lýsir Ólafi Thors svo að hann hafi verið veikgeðja forsætisráðherra sem hafi staðið höllum fæti í heimalandi sínu og verið altekinn ótta við kommúnista!
Í Ólafs sögu Thors segir svo um þetta: “Það er nánast óhugsandi að brezkur ráðamaður geti gert sér fulla grein fyrir erfiðri aðstöðu stjórnmálamanns í landi eins og Íslandi, þar sem áhrifa kommúnista gætir verulega, en slík áhrif þekkjast vart í Bretlandi, eins og kunnugt er. Brezkur forsætisráðherra hlýtur því einfaldlega að eiga erfitt með að skilja vandamál íslenzks forsætisráðherra, sem reynir eftir megni að koma í veg fyrir að marxistum takist að spilla fyrir samstarfi Íslendinga og annarra vestrænna ríkja, ekki sízt þeirra, sem aðild eiga að Atlantshafsbandalaginu. Í Bretlandi hafa báðir stærstu flokkarnir sömu afstöðu til utanríkismála og enginn ágreiningur er þeirra á milli um Atlantshafsbandalagið eða aðildina að því, svo að dæmi sé tekið. En hvað sem því líður er enginn vafi á, að samtal Ólafs Thors og Macmillans varð örlagaríkara fyrir stjórnmálaþróun á Íslandi en slík samtöl eru oftast nær, a.m.k. leiddi það til þess, að lausn fékkst á fiskveiðideilu Breta og Íslendinga og samningur þess efnis var lagður fyrir sameinað þing 27. febrúar 1961 sem fylgiskjal með tillögu til þingsályktunar um lausn fiskveiðideilunnar, en þar var farið fram á heimild Alþingis til að ganga frá málinu á grundvelli samkomulagsins. Landhelgissamningurinn við Breta var svo undirritaður 11. marz 1961, en áður höfðu farið fram á Alþingi miklar og heitar umræður um hann, enda var samningurinn áhorfsmál að margra dómi og mikið um hann deilt, bæði í blöðum og manna á meðal.” Hvernig átti Macmillan að skilja baráttu formanns Sjálfstæðisflokksins við hernámsandstæðinga? Hvernig átti hann að skilja baráttu íslenzks forsætisráðherra við marxista og þá sem börðust hatrammlega gegn aðild Íslands að Nató? Hvernig átti Macmillan að skilja að þorskastríðið við Breta gæti haft áhrif á aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og viðkvæm öryggismál? Eða mundi nokkur geta ímyndað sér að brezkur forsætisráðherra gæti skilið til fulls íslenzkan forsætisráðherra sem þurfti að ná jafnvægi milli viðkvæmra öryggismála og þjóðernistilfinninga lítillar eyþjóðar í miðju Atlantshafi?
Nei, auðvitað er vart hægt að ætlast til slíks. Hann hlaut að misskilja ýmislegt sem hann hefði þurft að skilja ­ og það gerði hann líka! En þessi misskilningur varð sem betur fer ekki til þess að koma í veg fyrir samninga.

“Gagnlegar viðræður”
Macmillan sagði Ólafi Thors að hann væri Skoti og sem slíkur væri hann þeirrar skoðunar að það væri “ákaflega margt sameiginlegt með Skotum og Íslendingum”. Hann segir ýmislegt vitlausara í ævisögu sinni en þetta. Áður en Macmillan fór frá Keflavíkurflugvelli talaði hann við íslenzka blaðamenn og sagði þá m.a. í einskonar ávarpi sem hann flutti: “Mér þykir vænt um að hafa getað komið hér við á leið minni til New York og hitt Ólaf Thors forsætisráðherra Íslands. Ég er þakklátur honum fyrir framúrskarandi gestrisni. Við áttum saman einkar gagnlegar viðræður um samskipti okkar og vandamál. Íslendingar eru gamlir vinir Breta og nú bandamenn, og ég vona, að þær viðræður, sem við höfum átt í dag, stuðli að því að ráða fram úr helztu vandamálum í sambúð landa okkar. Við óskum hvor öðrum góðs. Við erum vinir, og við viljum vera vinir framvegis og ég hygg, að það, sem við höfum getað sagt hvor öðrum í dag, muni stuðla að því, að sú langa vinátta haldist.” Af þessum ummælum á Keflavíkurflugvelli má ráða að samtal þeirra Ólafs Thors hafi þá haft veruleg áhrif á brezka forsætisráðherrann og eflt með honum áhuga á því að leiða þorskastríðið til lykta, svo að vinátta Íslendinga og Breta gæti haldizt áfram. Að öðrum kosti hefði hann ekki tekið til orða eins og raun ber vitni. En eitthvað stinga þessi orð í stúf við frásögn hans af viðræðum þeirra forsætisráðherranna þegar hann minnist þessara atburða síðar og fjallar um þá með fyrrnefndum hætti í ævisögu sinni. Það er ekki undarlegt þó að önnur tré brotni þegar krosstrén bregðast með þeim hætti sem nú hefur verið nefnt.

Faulkner heilaþveginn ­ fásinna!
Ástæðan til þess að þetta er rifjað upp hér er sú að nýlega kom út í Bandaríkjunum bókin A Cold War Odyssey eftir Donald E. Nuechterlein sem einhver man sjálfsagt eftir frá því að hann var hér á vegum bandaríska sendiráðsins upp úr miðri öldinni, en þá stóð kalda stríðið sem hæst, eins og kunnugt er. Hann fjallar þó nokkuð um íslenzk málefni og samband Bandaríkjanna og Íslands á þessum árum, nefnir nokkur nöfn réttilega, líklega þau sem hann man eftir langa fjarveru, en aðra nefnir hann að því er virðist með dulnefnum ­ og er þá stutt í að allt verði þetta einskonar hrærigrautur. Ritstjóri Tímans heitir til að mynda Jon Eliasson en slíkur maður var ekki til, ekki frekar en blaðamaðurinn á Morgunblaðinu sem átti að hafa skrifað samtal við bandaríska nóbelsskáldið William Faulkner, en hann gengur undir nafninu Jon Magnusson, “ungt skáld sem einnig vann við blaðamennsku”.
Höfundur bókarinnar segir að Faulkner hafi í samtali við Morgunblaðið lýst skoðunum sínum á Atlantshafsbandalaginu og vörnum vestrænna þjóða en einhver David átti að hafa verið viðstaddur samtalið. David vissi að Faulkner væri fámáll maður og þess vegna hafi hann gert það að tillögu sinni að Magnusson sem þekkti David hafi átt að kynna sjálfan sig lítillega og íslenzka rithöfunda, áður en samtalið færi fram!
Það er merkilegt við þessa frásögn bandaríska sendimannsins, að að því er látið liggja að starfsmenn bandaríska sendiráðsins hafi stjórnað samtalinu og komið því inn í kollinn á rithöfundinum sem hann ætti að segja um Nató og öryggismál! En þeir sem kynntust Faulkner vita að hann var ekki hallur undir neinn heilaþvott. Hann hafði ákveðnar skoðanir og það breyttu þeim engir, hvorki áróðursmeistarar bandaríska sendiráðsins né aðrir. Hann var fámáll, en fastur fyrir. Hann var að vísu góður fulltrúi Bandaríkjanna eftir að hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 1949, einkum vegna þess að hann hafði sömu skoðanir á öryggis- og utanríkismálum og þeir sem stóðu að Atlantshafsbandalaginu og var ekki í neinum vafa um að hefta þyrfti útbreiðslu heimskommúnismans og stemma stigu við honum hvar sem færi gæfist. Það þurfti enga diplómatíska eftirlitsmenn til að innræta honum þessa afstöðu. Hann hafði gert sér grein fyrir þeirri hættu sem af heimskommúnismanum stóð og var að því leyti í heldur fámennum hópi rithöfunda og listamanna, því að margir þeirra höfðu látið blekkjast um þetta leyti og orðið ýmist einskonar málpípur stalínista eða hlutlaus peð í höndum þeirra. En Faulkner var ekki einn þessara hlutleysingja. Í háttum og framkomu minnti hann einna helzt á Stein Steinarr, ekki sízt í tilsvörum. Og þegar hann kom hingað 1955 hafði hann svipaða afstöðu til heimskommúnismans og Steinn, sem nú var í óðaönn að gera upp við þá, sem hann hafði haft pólitíska samúð með áður. Það var mikið uppgjör og eftirminnilegt á þeim tíma, eins og kunnugt er.
“Sendimenn erlendra ríkja hér á landi hafa verið misjafnlega glöggir og þá ekki síður misjafnlega vandir að virðingu sinni í þessum samskiptum við íslenzka ráðamenn og þá sem við sögu koma í þessum frásögnum. Þeir hafa misskilið margt, þeir hafa einnig oft verið afvegaleiddir og á þá leikið í pólitískum hita á hættulegum tímum.”
(Reykjavíkurbréf, 7. desember ‘97)

 

Í síðasta Reykjavíkurbréfi var minnzt á frásagnir erlendra sendimanna hér á landi í kalda stríðinu og nauðsyn þess að umgangast þær með varúð. Ástæðan var ummæli í nýlegri bók sem út kom ekki alls fyrir löngu í Bandaríkjunum þar sem m.a. er talað um samskipti Morgunblaðsins og bandaríska nóbelsskáldsins William Faulkners.
William Faulkner er einn merkasti skáldsagnahöfundur Bandaríkjanna fyrr og síðar. Hann skrifaði skáldsögur og smásögur um lífið í Suðurríkjunum og lýsir glundroða og hnignun samfélagsins þar sem rótgróin menning er á undanhaldi, eins og komizt er að orði í Íslensku alfræðiorðabókinni. Faulkner hefur haft mikil áhrif á þróun skáldsögunnar - og líklega meiri en nokkur annar á suður-ameríska höfunda eins og Márquez.
Það var því mikill viðburður þegar William Faulkner kom til Íslands að lokinni Evrópuferð um miðja öldina. Morgunblaðið óskaði að sjálfsögðu eftir samtali við þennan fræga höfund. Hann var vel þekktur hér á landi og margir Íslendingar höfðu lesið bækur hans. Það var enginn viðstaddur samtalið annar en skáldið og blaðamaður Morgunblaðsins, en kannski hefur “David” verið að hlusta á það með hlerunarbúnaði í næsta herbergi! Donald E. Nuechterlein segir í fyrrnefndri bók sinni, A Cold War Odyssey, sem nefnd var í síðasta Reykjavíkurbréfi, að starfsmaður bandaríska sendiráðsins, sem að öllum líkindum starfaði fyrir leyniþjónusta, hafi verið viðstaddur samtal Faulkners og Morgunblaðsins þegar skáldið var hér á ferð 1955 - og stjórnað samtalinu!! Blaðamaðurinn hafi heitið Jon Magnusson og hann hafi talað við skáldið um “líf hans og störf í Mississippi”, en sendiráðið hafi gefið skáldinu línuna, þegar spurt var um Sovétríkin og kalda stríðið! og hafi þessi “David” séð um þá hlið málsins!
Það þurfti ekki að innræta Faulkner afstöðuna til lýðræðis og frelsis. Hún var inngróin í blóð hans og hann átti ekki í neinum vandræðum með að koma henni til skila. Hann hafði einnig gert sér grein fyrir vandkvæðum sem því fylgdu að hafa herstöð, eða varnarstöð, í fámennu herlausu landi og þurfti engin fyrirmæli þar að lútandi. Hitt er rétt hjá bókarhöfundi að samtalið í Morgunblaðinu var “meiriháttar fréttaviðburður”.
Og þar var að sjálfsögðu minnzt á Nató og varnarliðið, en annað var þó hnýsilegra og verður drepið á það hér á eftir.
Samtölin sem voru reyndar tvö eru birt í bókinni Hugleiðingar og viðtöl (1963), skrifuð haustið 1955, eða nokkru áður en Rússar réðust inn í Ungverjaland. Þannig var ástandið í Evrópu um þær mundir.

Þjóðfélagsleg ritverk eru áróður

“Fimmtudagur 13. október 1955:
Sagt er, að bandaríski Nóbelsverðlaunahöfundurinn, William Faulkner, kalli sjálfan sig bónda og bæti þá gjarnan við: Ég er ekki bókmenntamaður. - Þegar maður hittir Faulkner að máli, dettur manni þetta ósjálfrátt í hug: Hann er eins og góður og gegn bóndi, íslenzkur bóndi. Hann er hægur maður, íhugull og vekur traust við fyrstu kynni. Honum liggur lágt rómur og það er augljóst, að manninum er illa við allan hávaða og gauragang; (þolir þess vegna ekki leikrit og vill heldur lesa þau sjálfur!). Hann er síður en svo heltekinn af ógnarhraða nútímans og vélaskrölti kjarnorkualdar. Hann tottar rólega pípuna sína; honum virðist ekkert liggja á. Samt er hann Bandaríkjamaður...
- Hvaða hugmyndir höfðuð þér um Ísland, áður en þér komuð hingað?
- Þeir sem hafa komið hingað hafa sagt mér, að þið metið mikils bókmenntir og listir. Þið eigið líka rótgróna og merkilega menningu. - Mér leikur forvitni á að vita, hvort hugmyndir annarra falla saman við mínar eigin skoðanir, er ég hefi dvalizt hér um stund.
Ég held að þið Íslendingar eigið mjög sérstæða menningu, eins og flestar eyþjóðir, t.d. Japanir og Englendingar. Máske hefur sjórinn haft sín áhrif. Þær eyþjóðir, sem ég hef sótt heim eiga það allar sameiginlegt, að þær eru mjög stoltar af menningu sinni. Á Filippseyjum eru bókmenntamenn jafnvel að velta því fyrir sér, hvort þeir eiga heldur að rita á ensku eða taka upp gamla mállýzku, sem fáir skilja. Þetta er mikið vandamál.
Ég gæti ímyndað mér, að bókmenntamaður á Íslandi sé meira virði en bókmenntamaður í Bandaríkjunum. Hann er virtur af því að hann er bókmenntamaður og sennilega eru nánari kynni milli bókmenntamanna hér en heima.
- En hvað um Íslendinga sögurnar? Hafið þér lesið eitthvað af þeim?
- Því miður verð ég að viðurkenna menntunarleysi mitt. Ég hef lítil kynni haft af þeim, en ætla að reyna að kynnast þeim eftir föngum, þegar ég kem heim. Áhugi á bókmenntunum vex, þegar maður veit, hvar þær gerast og þekkir sögustaðina.
- Álítið þér, að höfundar eigi að taka þjóðfélagslega afstöðu í ritverki, prédika ákveðinn boðskap í þjóðfélagsmálum?
- Nei. Ritverk sem fela í sér “þjóðfélagslegan tilgang” eru áróður. Bókmenntir eiga að fjalla um manninn, baráttu hans, hugrekki o.s.frv. Maðurinn á í baráttu við sjálfan sig og meðbræður sína. Hann vill vera hugrakkur, en er þó í vafa um, að hann geti það - þangað til erfiðleikarnir steðja að og hann á ekki um annað að velja.
Margir helztu rithöfundar Bandaríkjanna hafa komið frá Suðurríkjunum; við biðum einu sinni lægri hlut í styrjöld - og urðum að sigrast á erfiðleikunum. Kannski er það ástæðan fyrir því, hve við höfum átt marga góða rithöfunda. Þegar fólk er hamingjusamt og ekkert bjátar á, lætur það bókmenntirnar eiga sig. En erfiðleikarnir eggja menn til afreka, þjappa þeim saman, gera þá frjálsa: maðurinn getur unnið þrekraunir, þegar á reynir. Þess vegna er það þroskandi að glíma við erfiðleika og vinna bug á þeim...
- Finnst yður mikill munur á æsku nútímans og, skulum við segja, æsku yðar kynslóðar?
- Ég held, að æskan sé alltaf lík sjálfri sér. Aftur á móti á æskan í dag við óvenjumörg og erfið vandamál að stríða. Þar vil ég einkum benda á “vélræn áhrif”. Með því á ég ekki endilega við flugvélar og kjarnorkutæki, heldur einnig ríkisstjórnir ekki ósvipaðar verksmiðjum að þessu leyti; þær eru engu síður afkvæmi vélmenningar nútímans. - Maðurinn verður að njóta frjálsræðis, einkum er það nauðsynlegt fyrir rithöfunda. Lýðræðið er heldur klunnalegt stjórnarform, en það er hið bezta sem við höfum enn komið auga á. Kostir þess eru einkum fólgnir í því, að einstaklingarnir geta haft hönd í bagga með, að það sé ekki misnotað. Þegar öllu er á botninn hvolft, er maðurinn, hver einstaklingur, meira virði en allar ríkisstjórnir...
- Eru bækur yðar vinsælli í Suðurríkjunum en Norðurríkjunum? Hvað vilduð þér segja um það?
- Ég held bækur mínar séu alls ekki vinsælar, t.d. lesa bændurnir, vinir mínir, þær ekki. Raunar hefur einhver sagt, að “allir í Mississippi geti skrifað, en enginn lesið.” - Annars er ég ekki bókmenntamaður, hugsa ekki um, hver les hvað.”

Stóra táin á Íslendingum
Og ennfremur:
“Sunnudagur 23. október 1955:
...Ég hef séð Ísland í ýmsum búningum; það hefur breytt um ham, frost og rigningar hafa skipzt á. Ég er þeirrar skoðunar, að maður verði að dveljast hér alllengi til að sjá fegurð landsins og litbrigðin í náttúrunni. Það þarf þjálfað auga til að greina þau. Þið sem alizt upp með landinu eruð á grænni grein, við hin verðum að venjast íslenzkri náttúru til að kunna að meta hana.
- Hvað um fólkið í landinu?
Íslendingar eru heldur þjóðernislegir í sér, ef ég mætti orða það svo. Þjóðernislegt stolt þeirra er á mjög háu stigi. - Ef ég ætti t.d. í rifrildi við Íslending, væri engin hætta á ferðum, þótt ég segði honum að fara til fjandans vegna þess að við værum ósammála í einhverjum atriðum. Við gætum haldið áfram að þrátta jafnt fyrir það. En ef ég segði honum að fara til fjandans vegna þess að hann væri Íslendingur, mætti búast við einhverjum ryskingum. Íslendingar umgangast útlendinga eins og útlendingar umgangast þá. Og þeir bera ekki einungis mikla virðingu fyrir bókmenntum , heldur líka þeim sem hafa skrifað þær. Ég gæti ímyndað mér, að Íslendingar mundu fyrirgefa góðum rithöfundi hvað sem væri.
- Þér töluðuð um þjóðernislegan metnað okkar Íslendinga.
Haldið þér þá, að við höfum ekki öðlazt nægilega reynslu sem frjáls og fullvalda þjóð?
- Það er einmitt það. Þið þurfið lengri tíma til að átta ykkur á hlutunum. Meiri reynslu. Þið eruð dálítið fljótir á ykkur stundum, haldið, að aðrir sýni ykkur ekki þá virðingu sem ykkur ber. Af þessum sökum er auðvelt að stíga ofan á tána á Íslendingi, án þess að vita, að hún sé þar fyrir. Við Bandaríkjamenn erum ekki alltaf nógu varkárir og þess vegna hættir okkur stundum til að “stíga ofan á tána”, en auðvitað er það ekki af illvilja, heldur óvart. Í samskiptum þjóða er nauðsynlegt, að menn misskilji ekki hver annan.
- Mr. Faulkner, hvers vegna skrifar rithöfundur?
- Þetta er erfið spurning. Sennilega vegna þess að hann vill það. Það er hans daglega brauð að skrifa. Hann verður bókstaflega að skrifa, sjálfs sín vegna. Hann er knúinn til þess af innri löngun.
 Sumir segja, að dagar skáldsögunnar séu taldir. Eruð þér sömu skoðunar?
- Nei. Upphaflega vill rithöfundurinn sennilega verða ljóðskáld, en finnur, að það á ekki við hann. Hver maður segir það sem hann vill segja í eins stuttu máli og hann getur. Þess vegna vill rithöfundur í fyrstu verða ljóðskáld, en kemur ekki fyrir í ljóðinu því sem hann vill segja. Þá skrifar hann smásögu, en sama sagan endurtekur sig, svo hann verður að lokum að skrifa skáldsögu. Þér spurðuð áðan, hvers vegna rithöfundur skrifar. Ég vildi bæta því við, að heilbrigður metnaður knýr hann til þess. Skáldið vill láta menn muna eftir því, þegar það er horfið af sjónarsviðinu - að það var þarna. Það krotaði nafn sitt á vegg sögunnar og í framtíðinni rekst kannski einhver á það.
- Þér minntuzt á kvæði. Hafið þér ort kvæði?
- Já. Ég hef gefið út ljóðabók. En ég sá, að ég var ekki maður til þess að yrkja og hætti - að mestu. Nú yrki ég aðeins eitt og eitt ljóð.
- Sagt er, að sum skáld sjái eftir að hafa birt æskuverk sín. Hvað segið þér um það?
- Ég sé ekki eftir að hafa birt neitt af æskuverkum mínum. Þau eru vafalaust mörg slæm, en ég hugsa ekki um þau. Ég hef gleymt þeim. Það skiptir mig engu, þó fólk lesi ekki bækur mínar - og æskuverk mín eru ekki undan skilin. Þegar ég hef lokið við bók, vil ég ekki hafa meira af henni að segja, vegna þess að hún er ekki eins góð og ég hafði óskað.
- Segið mér eitt. Haldið þér, að þér skrifið nokkurn tíma verk sem þér verðið ánægður með?
- Það vona ég ekki, vegna þess að þá er ekkert annað eftir en - að skera sig á háls.
- Hvenær skrifið þér helzt?
- Í frístundum mínum. Ég er ekki skáld og bóndi, heldur bóndi og skáld.
- Höfðuð þér nokkurn tíma hugsað um Nóbelsverðlaunin, áður en þér hlutuð þau?
- Já. Um það bil tíu árum áður en ég fékk þau, var mér sagt, að ég mundi fá þau næst, þegar þau yrðu veitt Bandaríkjamanni. Ég vonaði samt, að þau færu framhjá mér, vegna þess að þau féllu hvorki í hlut Sherwoods Andersons né Dreisers, sem ég dáðist að og mat mikils. Aftur á móti féllu þau í hlut Sinclairs Lewis og Pearl S. Buck, sem ég hafði litlar mætur á. Ég lét mér því í léttu rúmi liggja, hvort ég fengi þau eða ekki.”
Það er augljóst að bandarískir sendimenn hafa ekki endilega betra minni en brezki forsætisráðherrann Macmillan, þegar hann skrifaði ævisögu sína, og lýsti Ólafi Thors og samtali þeirra eins og hverjum öðrum hugarburði en ekki staðreyndum - og ástæða til að taka margt af því með fyrirvara sem frá þeim kemur. Ýmislegt getur að vísu komið heim og saman við staðreyndir, annað er í raun og veru nær skáldskap en veruleika! Oftar en ekki eru áherzlur rangar. Og svo mikið er víst að Hugleiðingar og viðtöl eru ekki eftir “Jon Magnusson”, “ungt skáld sem einnig vann við blaðamennsku!”
(Reykjavíkurbréf, 14. desember)

 

7. desember, sunnudagur

Styrmir sagði mér að Guðrún Pétursdóttir hefði spurzt fyrir um það áður en prófkjör sjálfstæðismanna  til borgarstjórnarkosninga næsta ár var haldið hvort það væri þóknanlegt af formanni að hún gæfi kost á sér. Hún fékk neikvæð viðbrögð. En eftir prófkjörið hafi Davíð átt frumkvæði að því að hún færi í áttunda sæti listans. Hann hafi sagt að hún mundi gefa listanum “liberalan” svip. Hún hitti hann að máli og hann tók forkunnarvel á móti henni. Það er því harla líklegt að hún fari fram. Mér er þó til efs að hún eigi erindi í borgarstjórn. Menntun hennar kæmi sér betur á þingi, að ég held.
En þetta sýnir að Davíð Oddsson er útsjónarsamur og pragmatískur stjórnmálamaður. Hann getur brotið odd af oflæti sínu ef nauðsyn krefur.

 

Kvöldið

Don Needham í Sydney, Ástralíu, var í engum vafa um að hann hefði verið rændur þegar hann las í skrifborðsdagsbók sinni: Húsrán kl. 4 í nótt!
Dagbækur búa sem sagt yfir margvíslegum upplýsingum!

Hef verið að hugsa um kvennakirkjuna og hvernig Auður Eir vill breyta faðir vor í móðir vor. Af því tilefni hefur mér dottið í hug hvort ekki mætti breyta Í nafni guðs föður almáttugs, sonar og heilags anda í: Í nafni guðsmóður almáttugrar, dóttur og heilagrar andar!
En án gamans: Kristur kenndi okkur eina bæn. Þar segir hann faðir vor....
Móðirin gegnir öðru hlutverki en Skaparinn  í guðshugmyndakerfi Krists.
Og það er ekki minna hlutverk.
En annað.

 

Mánudagur, 8. desember

Fyrsti snjórinn.

Alhvít
snertir feldmjúk
jörðin
ilsár augu

og sporlausa
sól.

9. desember, þriðjudagur

Fékk í dag frá Sviss ljóðaúrvalið Freundschaft der Dichter. Í því eru tveir norrænir höfundar og er ég annar þeirra með 3 ljóð. Tel varla ég eigi eftir að komast í fínna úrval, með jafn mörgum góðskáldum frá ýmsum löndum, en þó flest þýzkumælandi.
Uppörvun.

Kvöldið

Hitti gömlu klíkuna í kvöld. Indriði G. segist vera góður í blöðrunni, en afleitur í fótunum. Sverrir Hermannsson segir af Jóhanna Sigurðardóttir vilji nú fá vitneskju um öll boð, gesti og veiðiferðir á vegum Landsbankans. Klíkan er sem sagt að komast inn í tundurduflabelti íslenzkra stjórnmála! En Sverrir segist kæra sig kollóttan. Klíkan hefur hitzt í 13 ár, eða frá því Sverrir varð menntamálaráðherra. Og hún mun hittast áfram. Kannski Jóhanna geri fyrirspurn um kynlíf bankastjóra - þá færi nú gamanið að grána! Jóhannes Nordal er nýkominn að utan. Gylfi Þ. Gíslason sagði mér frá því að Einar Kristjánsson sem við teljum að hafi verið mesti liedersöngvari landsins hafi undir lokin þjáðst af drepurð og fargað sér. Hef aldrei heyrt það áður. Ég hef geisladiskinn hans á náttborðinu mínu, hann er óborganlegur.
Þegar Gylfi Þ. kom heim frá námi sumarið 1939 voru Valtýr Stefánsson, og Kristmann Guðmundsson meðal farþega.  Þeir tóku Gullfoss í Kaupmannahöfn, en aðrir Goðafoss í Hamborg. Gylfi var að koma heim frá Þýzkalandi, en Kristmann frá Noregi. Valtýr bauð Gylfa starf á Morgunblaðinu, en hann gat ekki þegið það því hann var alltaf sumarmaður í Landsbankanum með náminu. Kristmann spurði þá Valtý hvort hann gæti ekki fengið starf á Morgunblaðinu.
Nei, sagði Valtýr, Morgunblaðið hefur ekki efni á að borga þér það sem þú átt skilið(!) Valtýr var höfðingi, en Kristmann metsöluhöfundur í Noregi.
Bjarni Benediktsson rak svo Kristmann úr gagnrýnendastarfi við Morgunblaðið löngu síðar, eða upp úr miðri öldinni. Réð Sigurð A. Magnússon í staðinn, en hann vann þá á Morgunblaðinu. Bjarni sagði að Kristmann hefði sagt sér ósatt.
Það gerði enginn nema einu sinni!

Íslensk ljóð frá Kúrdistan

Þessa grein skrifaði Jóhann Hjálmarsson í framhaldi af greinum Arnar Ólafssonar:
Íslensk nútímaskáld rufu aldrei náttúruhefðina þótt þau væru vitanlega að yrkja um sig sjálf þegar fjöll, ár og fossar brutust inn í ljóðheim þeirra, skrifar Jóhann Hjálmarsson þegar hann veltir fyrir sér viðtökum íslenskra ljóða í Danmörku þar sem skáldin háðu oftast aðra glímu en íslensk.
Í greinaflokki sínum um íslenskar bókmenntir í dönskum þýðingum hefur Örn Ólafsson rifjað ýmislegt kunnuglegt upp og bætt öðru við. Í lokagrein sinni (Lesbók 6. des. sl.) sem fjallar um viðtökur íslenskra ljóða í Danmörku er sagt frá viðbrögðum danskra gagnrýnenda við þýðingasöfnum Poul P. M. Pedersens, en hann þýddi mest eftir Stein Steinarr, Jóhannes úr Kötlum, Matthías Johannessen og Hannes Pétursson.
Þegar þessar bækur Pedersens voru að koma út á sjöunda og áttunda áraugnum voru bókmenntaleg viðhorf í Danmörku með nokkrum öðrum hætti en nú og guldu ljóðin þess og nutu. Stundum voru hinar norrænu skírskotanir ljóðanna (Eddukvæði, Íslendingasögur) hafnar til skýjanna, en líka voru skáldin tætt í smátt fyrir að vera of bundin íslenskri náttúru og umhverfi.
Hvað varðaði þýðandann, Poul P.M. Pedersen, var ljóðmál hans eldri kynslóðar danskra skálda, “rökkurkynslóðarinnar” svokölluðu og íslensku skáldin voru ekki öll komin alveg út úr nítjándu öldinni.
Danskir gagnrýnendur voru og eru ekki neinn hæstiréttur um íslensk ljóð, eins og Örn bendir á, vafalaust þóttu þau flest of gamaldags í vegsömun heimkynna sinna og náttúruljóð þeirra virkuðu annarleg og á eftir tímanum í samanburði við hin dönsku skáld sem voru djúpt sokkin í existensíalisma, formtilraunir og þjóðfélagsgagnrýni eftir því á hvaða bylgjulengd þau voru.
Að yrkja um náttúruna lagðist að mestu niður með nítjándu aldar skáldunum dönsku, en íslensk nútímaskáld rufu aldrei náttúruhefðina þótt þau væru vitanlega einkum að yrkja um sig sjálf þegar fjöll, ár og fossar brutu sér leið inn í ljóðheim þeirra.
Eitt skildu dönsku gagnrýnendurnir naumast að ný stefna í íslenskri ljóðagerð, þegar rími og stuðlum var að mestu fleygt, var tekin upp í umhverfi þar sem náttúran beið við útidyrnar og varla var hægt að líta út um glugga öðru vísi en hún flæddi inn í hugskotið.

Fjöll og firðir

Örn telur að dönsku gagnrýnendunum hafi þrátt fyrir mörg viðurkenningarorð “virst samtímaljóð bræðraþjóðarinnar íslensku ámóta framandi og kæmu þau frá Kúrdistan, einkum vegna þess hve bundin hún sé íslenskri náttúru”. Þess vegna hafi Torben Brostrøm sem m.a. hafði lokið miklu lofsorði á ljóð Matthíasar Johannessen sem óvenju mikið var skrifað um (bæði í Danmörku og nágrannalöndum), getið þess í dómi um ljóð Einars Más Guðmundssonar í upphafi níunda áratugarins að í þeim kæmi fram ný sjálfsvitund í máli og tímaskynjun “laus við þjóðlega ljóðlist um fjöll og firði og þessar eilífu bænir til réttlætisins”.
Spyrja má hvers vegna Danir gáfu út og tóku vel ljóðasafni eftir Stefán Hörð Grímsson í þýðingu Erik Skyum-Nielsens (eins kunnasta gagnrýnanda Dana) fyrir tveimur árum. Stefán Hörður er einmitt dæmi um skáld sem yrkir mikið um íslenska náttúru; íslenskt landslag er veigamikill hluti ljóða hans.
Þegar þeir Steinn, Jóhannes, Matthías og Hannes voru til umræðu í Danmörku voru þeir ekki í anda þeirrar tísku sem ríkti þá. Það er kannski dálítið mótsagnakennt að það danskt skáld sem nýtur einna mestrar hylli nú í Danmörku og er þekktast erlendis er einmitt skáld sem yrkir mikið um náttúruna (að vísu ekki alltaf danska). Þetta er Henrik Nordbrandt. Í sumum ljóða sinna minnir hann á íslensk skáld að því leyti hve umhverfi og náttúra leika stórt hlutverk hjá honum þótt hann sá að sjálfsögðu að tjá eiginn hug með myndum og myndlíkingum úr náttúrunni.
Ég minnist þess að enskt skáld sagði mér eitt sinn að ekki þýddi að bjóða enskum lesendum upp á náttúrulýrik, hún væri löngu aflögð.
Þetta gildir eflaust um mörg ensk skáld, en ekki írsk og er skýrasta dæmið Seamus Heaney Nóbelsskáld, víðfrægasta samtímaskáld sem yrkir á ensku. Náttúran er alls staðar nærri í ljóðum hans, ekki síst sveitin og sveitalífið.
(Birt í Menningarblaði - Lesbók 10. des.)

16. desember, þriðjudagur

Athyglisverð frétt um ævisögu Doris Lessing á forsíðu Lesbókar í dag. Hún segir að hún hafi gengið í brezka  kommúnistaflokkinn fljótlega eftir að hún kom til Lundúna þótt hún “að eigin sögn hataði og hati enn að ánetjast nokkru og þyldi ekki opinber fundarhöld”.
Hún segir ennfremur að á 6. áratugnum hafi hún búið í London og verið aðþrengd fjárhagslega eins og fleiri. “Menntamenn og listamenn sem hún þekkti voru flestir marxistar og hún skoraðist ekki undan að fylgja þeim.”

Ennfremur  - svo athyglisvert sem það er: “Nú lítur Lessing þannig á að hún hafi verið viti sínu fjær þegar hún gekk í flokkinn og segir að inngangan hafi verið mesta taugaveiklunarákvörðun lífs sína. Hún var ekki trúuð á kommúnismann, en tekur undir með Arthur Koestler að menn hafi gerzt marxistar af persónulegum ástæðum.”
Afstaða margra var flóknari en fólk gerir sér grein fyrir að mati Lessings, oftar persónuleg en pólitísk. “Marxisminn var á þessu tímabili kórrétt stefna og kvað Doris Lessing snerti lét hún berast með straumnum”. Hún var víst ekki ein um það! En það er íhugunarefni að sjá svona yfirlýsingar. Þannig var fólk notað á sínum tíma og við þetta máttum við búa sem höfðum ekki trú á heimskommúnismanum og börðumst við marxismann af oddi og eggju! Það var oft erfitt, stundum var reynt að taka mann af lífi í óeiginlegri merkingu, ekki sízt ef maður var skáld og fylgdi ekki hinni marxisku hjörð. Hjarðmenni kommúnismans stjórnuðu ferðinni og jafnvel kona, sjálfstæð og stórgeðja eins og Doris Lessing, barst eins og viljalaust dýr með þessari marxísku hjarðbylgju.
Hvað þá um hina!

18. desember, fimmtudagur

Nú hefur enn ein þotan farizt. Vesalings fólkið sem bíður í ofvæni eftir því hvort einhver finnst lifandi í flakinu í Grikklandi. Þar eru öll fjöll hvít af snjó, hef ég séð í sjónvarpi.
Það er mikið á fólk lagt, sumt fólk. Og alla - að lokum(!)
Ég gæti ekki verið guð. Ég gæti ekki afborið að horfa upp á allan þennan harm í heiminum.
Væri ég þá of góður til að vera guð? Ég - þessi afskræmda eftirmynd guðdómsins.
Þetta hjarðdýr(!) Þetta manndýr(!) Þetta framhald keisarafingursins í Kolloseum(!)

Hef verið að horfa á box á Sýn. Það er einkennileg upplifun. Dýrið í mér horfir á þessi ósköp af áfergju. Upplifir barsmíðarnar sem hverja aðra skemmtun(!) Það er ömurlegt að uppgötva þannig dýrið í sjálfum sér. Og trúðarnir æpa og hlæja -  og vilja meira. Því lítt er af setningu slegið.Það er aldrei nóg af barsmíðum, aldrei nóg af misþyrmingum. Og svo er þetta kallað íþrótt! En sá guðdómlegi leyniþráður í sjálfum mér sem á rætur í viðkvæmni og mennsku fyrirlítur þetta sjónarspil. Ég veit að þessir boxarar geta það sem ég hefði aldrei getað. Og þeir eru fljótir og góðir í höndunum. Bubbi Mortens sagði um hnefaleikakeppni að hún væri bezta skáldsaga jólanna, það var þegar einhver var rotaður ef ég man rétt. Þannig eru hendurnar notaðar í þessari “skáldsögu”. Stundum eru hendurnar notaðar  í fallegum skáldskap eins og Passíusálmunum. Stundum til að skrifa eitthvað fallegt, eða leika á hljóðfæri - og stundum eru þær notaðar til að elska. Ég held við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því hvað þær eru mikilvægar sem tjáningartæki ástarinnar. Þær eru sem sagt notaðar til að slá og elska. Og ég kann betur við hendurnar í hlutverki hins síðarnefnda. Þá breytist þessi guðdómlegi leyniþráður í hárfína tilfinningu fingurgómanna.

22. desember, sunnudagur

Ingó kom heim frá Ameríku í morgun eftir langa ferð. Hafði stundum áhyggjur eins og alltaf þegar hann er einn á þessum ferðum sínum en nú heimsótti hann margar rannsóknarstofur í sínu fagi, það var mikilvægt. Með honum fylltist heimili okkar gleði jólanna.

23. desember, mánudagur

Davíð Oddsson heimsótti okkur Styrmi niður á Morgunblað í dag. Hann sat hjá okkur í tæpa þrjá tíma og við spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Þetta samtal var ekki endilega eins og hann lýsir því þegar hann hitti Thacher og hún sagði að samtalinu loknu að hann hefði verið skemmtilegasti maður sem hún hefði hitt - “en ég sagði aldrei annað en u eða a”, bætti Davíð við. Þannig samtöl líkaði henni augsýnilega bezt!!
Davíð talaði um að Friðrik Sóphusson mundi hætta í ríkisstjórninni, sjálfur vildi hann helzt verða forstjóri Landsvirkjunar en Sigríður Dúna, kona hans, vildi fremur að hann yrði sendiherra. Davíð sagði að erfitt yrði að finna varaformann fyrir flokkinn, kannski væri bezt að flokksráðið kysi Ólaf G. Einarsson til að gegna því starfi í eitt ár, eða þangað til málið yrði útkljáð á landsfundi. Davíð sagði að rangt væri í DV að Þorsteinn Pálsson mundi hætta, það stæði ekki til. Hann lagði áherzlu á að samstarf þeirra Þorsteins Pálssonar væri með ágætum þótt gamla vináttan ríkti ekki eins og áður fyrr, en þó væru þeir farnir að tala saman í síma, það hafi ekki verið fyrst eftir að Davíð tók við flokknum af Þorsteini. Davíð hrósaði Þorsteini og sagði að hann væri mjög góður lögfræðingur. Hann telur að hann mundi sóma sér vel í hæstarétti þegar að því kæmi. Við bentum einnig á Hörð Einarsson og var hann nokkuð sammála um það, að mér skildist. Davíð sagði að það þyrfti að finna eftirmann Þorsteins í Suðurlandskjördæmi Hann taldi ekki líklegt að Björn Bjarnason yrði varaformaður flokksins, taldi líklegra að Geir Haarde yrði fyrir valinu þótt ekki væri það nú víst. Mér fannst afstaða Davíðs til Geirs Haarde jákvæðari en ég hef áður heyrt. Hann er að hugsa um að bæta við ráðherra þegar Friðrik hættir og gera umhverfisráðuneytið að sérstöku ráðuneyti því það væri rangt að það fylgdi landbúnaðarráðuneytinu. Það væri nástaða. Hann telur að skipta þurfi upp ráðuneytum og ef dóms- og kirkjumálaráðuneytið yrði sérstakt ráðuneyti út af fyrir sig kæmi Sólveig Pétursdóttir sterklega til greina því hún hefði verið Þorsteini sterkur bakhjarl í þeim efnum á þingi, auk þess væri hún kona. Ef Ólafur G. Einarsson færi í nýtt embætti gæti Sigríður Þórðardóttir orðið formaður þingflokksins. Hún væri ágæt á karlana því hún talaði við þá eins og börn og þeir væru stundum æfir yfir því! Hún væri alltaf að kenna þeim eitthvað og heyrði ég ekki betur en Davíð þætti það fyndið!
Davíð færði okkur Styrmi smásagnasafnið sitt og þótti mér afar vænt um það. Hlakka til að lesa það. Það er ósköp bjart í kringum það og mér skilst að það seljist eins og heitar lummur. Það er ágætt. Davíð er nógu vinsæll til þess að það hentar ekki pólitískum gagnrýnendum að ráðast á hann nú um stundir. Hann er með pálmann í höndunum eins og við bentum á í Reykjavíkurbréfi á sunnudag. Held honum hafi þótt vænt um þetta Reykjavíkurbréf. Kannski kom hann af þeim sökum. Kannski mótast afstaða hans oftar af því öryggisleysi sem ég held megi rekja til æskuáranna, ég veit það þó ekki. En Davíð snýst harkalega gegn þeim sem gagnrýna hann, en fagnar með sama hætti innilega þegar hann mætir hlýju og góðvild. Ég þekki þetta sjálfur, það er dæmigert.
Davíð sagði okkur ýmislegt af samtölum sínum við erlenda fyrirmenn; þetta er t.a.m. flott saga:
Hann spurði Kohl að því á sínum tíma af hverju stofna þyrfti myntbandalag Evrópu, hvort ekki væri nóg að rækta þann góða og mikla árangur sem náðst hefði. Kohl svaraði - og Davíð varð undrandi í upphafi svarsins - hélt að kanslarinn hefði miskilið sig, en svo var ekki: Amma mín átti son sem hét Wolfgang. Hann dó í fyrra stríði. Móðir mín átti son sem hét Wolfgang. Hann dó í síðara stríð. Þegar við eignuðumst son hringdi ég í móður mína og bað hana að koma á fæðingardeildina. Sonur okkar á að heita Wolfgang, sagði ég við hana, og hann á ekki að deyja í styrjöld.

Þannig svaraði Kohl kanslari spurningu Davíðs um myntbandalagið.
Það er enginn meðalmaður sem Schröder þarf að eiga við á næsta ári, ef kratar velja hann sem kanslaraefni. Í samtölum þeirra Davíðs gerði Schröder ráð fyrir því að það yrði hans hlutverk að fella Kohl í næstu kosningum.
Við sjáum til.       En Davíð hefur eignast samtalsgóðan kunningja í Schröder fyrst hann tók honum svo ágætlega áður en hann varð kanslari.

Menn gleyma ekki slíku.Ísland hefur þannig eignazt góðan vin á kanslarastóli Þýzkalands, ef Schröder verður fyrir valinu. Við bárum hann á gullstól áður en hann varð kanslari.
Davíð talaði um hvað ameríkanar væru allir líkir. Honum finnst þeir oft heldur  heimóttalegir. Það var enginn hægðarleikur að fá bandaríska þingið til að fjölga Nató-ríkjum. Evrópubúar gerðu sér ekki fulla geri fyrir því hve erfitt var að fá bandaríkjaþing til að samþykkja stækkun Nató.
Kissinger sagði einhverju sinni við Davíð að það væri Hillary Clinton sem væri í buxunum og átti þá við að hún stjórnaði forsetanum og væri sterki aðilinn í því hjónabandi.
Þá sagði Davíð mér ummæli Ingridar ekkjudrottingar í Danmörku um Ólaf Thors. Ætla að bæta þeirri sögu inn í greinina í afmælisriti Davíðs sem fjallar m.a. um gamansemi Ólafs.
Davíð Oddsson var gestur Margrétar drottningar í Fredensborgarhöll og sat á milli hennar og Ingrid ekkjudrottningar. Það var haustið 1997.

Í samtali þeirra Davíðs og ekkjudrottningar  segir hún honum að hún hafi fyrst komið til Íslands á Alþingishátíðina 1930.
Davíð sagði:
Ég var ekki fæddur þá. En ég minnist þess þegar ég stóð við götu síðar sem heitir Hringbraut í Reykjavík og veifaði til yðar hátignar og Friðriks IX kongungs með íslenzku flaggi.
Já, sagði Ingrid ekkjudrottning, sú heimsókn var eftirminnileg og þá sérstaklega  vegna þess að ég kynntist skemmtilegasta manni sem ég hef fyrir hitt á ferðalögum mínum og hef ég þó víða farið. Það var fyrirrennari yðar, herra Thors.
Já, sagði Davíð, þér vitið að hann var hálfdanskur.
Ég veit það, sagði ekkjudrottningin, en ég sagði þetta ekki þess vegna…

Þorláksmessa

Hef nú lokið við Birtu í ágúst eftir Faulkner og Útlendinginn eftir Camus. Þessar sögur fjalla um skyld efni, þótt ólíkar séu. Niðurlag Útlendingsins  lýsir eiginlega vel efni beggja sagnanna en þar segir:
“Til þess að allt sé fullkomnað, til þess að ég kenndi miður til einsemdar minnar er þess eins að óska að margir komi til að horfa á aftöku mína og heilsi mér með hatursópum”.
Söguhetja Útlendingsins segir þetta í örvæntingu sinni andspænis fallöxinni, en Christmas í Birtu í ágúst upplifir þessi orð á flótta undan refsivendi Suðurríkjanna.
Í báðum þessum sögum er lýst stöðu mannsins, einstaklingsins, andspænis umhverfinu; andspænis samfélaginu, andspænis örvæntingu, sekt og réttlæti sem þjóðfélagið markar sér í einhvers konar leit að siðferðilegri meðalreglu sem er í aðra röndina nauðsynlegt aðhald, en í hina einstigi milli tilviljana og ásetnings.
Hver er sekur, og af hverju?
Er til einhver réttlæting á sekt?
Eða - á að fórna blóraböggli til að hlífa öðrum - og þá kannski þeim sem ábyrgðina bera - eins og fjallað er um í Almannarómi eftir Lenz.
Mér er til efs að nokkur skáldsaga hafi haft jafn djúp áhrif á mig og þetta meistaraverk þessa þýzka rithöfundar, það væri þá einna helzt Meðan Dofrafjöll standa sem ég las í íslenzkri þýðingu drengur í heimsstyrjöldinni síðari en þá var hún gefin út hér heima, höfundarlaus.
Áhrifin stöfuðu kannski ekki sízt af því að sagan fjallar um andspyrnumenn í Noregi en faðir minn innrætti mér djúpa samúð með þessum frændum sínum og lét mig fylgjast með hetjudáðum þeirra af áhuga og virðingu.
Það er svo til marks um lífsgletturnar að það skyldi vera þýzkt skáld sem fjallaði betur um sektarábyrgð andspyrnuhreyfinga, siðferðilega eldraun andspænis dauða og refsingu en nokkur annar rithöfundur sem ég þekki.

 

24. desember, aðfangadagur

Yndislegt veður.
Rósfingraður himinn þegar kvöldaði. Gekk í eina fjóra tíma í þessu fína veðri, m.a. í Fossvogi, Nauthólsvík og Skerjafirði.
Þegar ég kom að Fornhaga leyndi sér ekki að jólin voru í nánd.

 

Á göngu, aðfangadag

Ilmurinn,

þessi rauði ilmur
af sjóðandi brjósti
rjúpunnar.

Orti þetta einnig á göngunni:

Á aðfangadag, ‘97

1.

Yfir sléttan fjörðinn
fylgir sólin mér,
samt er hugur minn ið næsta
hjarta þér,

nú ýfist vatnið, einnig hugsun mín.

Hrönnin fer
sitt haf á leið til þín.

2.

Nú er kyrrð, það
kvöldar.

Fuglar viðra
vængi sína,
ég hef brotið
báða mína,

kvöldsett kyrrð og sól
í vestri.

Við Skerjafjörð, aðfangadag ‘97

Gulur
eins og skógur
á hausti

himinn þinn í vestri.

Jóladag

Hef verið að huga að smákvæðunum sem ég orti á göngunni í gær. Að henni lokinni fórum við í aftansöng í Neskirkju kl. 6 og síðan fórum við Ingó í byskupsmessu í kaþólsku kirkjunni á miðnætti, en Hanna aftur í Neskirkju.

Þetta voru fallegar athafnir sem höfðu áhrif á mig. Atli Heimir var í kaþólsku kirkjunni og sat fyrir framan mig eða andspænis mér við kórinn. Hann virtist lifa sig inn í þessa helgiathöfn og af því hef ég dregið þá ályktun að hann sé miklu trúaðri en ég hafði hugmynd um. Hann gekk til altaris, það gerði Ingólfur sonur okkar einnig, en samkvæmt ritúalinu mátti ég ekki taka við brauðinu og víninu í kirkjunni því ég er ekki kaþólskur. Ég hefði orðið að fá sérstakt byskupsleyfi og maður stendur ekki í svoleiðis æfingum að óþörfu! Ég sé raunar enga ástæðu til að fjargviðrast út af því hvort brauðið og vínið breytist bókstaflega í líkama og blóð Krists, eða ekki. Aðalatriðið er að mínum dómi að þessi athöfn er minning um hann eins og hann sagði sjálfur.

Og það er mannaþefur af þeirri tilraun mótmælenda og kaþólskra að reyna að gera einhvern yfirgengilegan ágreining um þessa táknlegu athöfn. Ég sé engan mun á því hvort Kristur er raunverulega nálægur eins og kaþólskir segja eða hvort hann er nálægur eins og mótmælendur fullyrða;hvort hann er kaþólskur eða lútherskur!
Í mínum huga eru þetta ekkert annað en hártoganir og skólaspeki og kemur kristinni trú - og allra sízt Kristi sjálfum - nokkurn skapaðan hlut við.

Hann sagði einungis, Gjörið þetta í mína minning. Minningin er raunveruleg nálægð. Hún fjallar um það að ástvinir okkar lifa með okkur, þeir eru ekki horfnir og dánir. Þeim hefur ekki verið tortímt. Í hvert skipti sem við hugsum til þeirra eru þeir raunverulega nálægir, þótt þeir breytist ekki í það jarðneska efni sem við notum í þessu jarðneska basli okkar.

Þannig hugsa ég einnig um Krist og kvöldmáltíðina, en ekki endilega að framliðnir vinir lifi áfram í minningu okkar og vitund eins og það skipti öllu og er kjarninn í vinsælu erindi eftir Hannes Pétursson og oft er vitnað til í minningargreinum.
Það er hedónískt  held ég og utan við kristin fyrirheit .

Með þessu hugarfari geng ég til altaris og blæs á einhvern ágreining um það hvort Kristur sé nálægur eða raunverulega nálægur; hvort brauðið og vínið séu tákn um nærveru hans eða hvort brauðið og vínið breytist í bókstaflegri merkingu í líkama hans og blóð. Það skiptir mig engu og ég get ekki ímyndað mér að það skipti nokkurn lifandi mann nokkru máli hvort hann er nálægur eða raunverulega nálægur. Annaðhvort er hann guðssonur eða ekki. Annaðhvort  gerir hann það sem hann vill eða ekki. Annaðhvort hefur hann, ásamt föðurnum, allt vald á himni og jörðu - eða ekki. Um það þarf ekkert að þrasa. Ef hann ákveður að vínið og brauðið breytist í blóð hans og líkama, þá breytist það í blóð hans og líkama, hvað sem við segjum. Ef það er einungis táknleg minning, þá er það táknleg minning hvað sem við segjum. Ég hef engar áhyggjur af því.
Það væri miklu fremur ástæða til að hafa áhyggjur af þeim mannaþef sem stundum má finna í rúmgóðum helli kirkjunnar!

Breytti kvæðunum sem ég orti í gær með þessum hætti:

Á aðfangadag ‘97

Yfir sléttan fjörðinn
fylgir sólin mér,
samt er hugur minn ið næsta
hjarta þér,

nú ýfist vatnið, einnig hugsun mín
sem veikum vængjum fer
himin og jörð
og haf að leita þín.

Og ennfremur:

Jól

Það kvöldar,
nú er kyrrð

fuglinn viðrar
vængi sína

ég hef brotið
báða mína,

samt eru jól

fölur blær
við bleika kyrrð

og sól

gulur
eins og skógur á hausti
himinn þinn
í vestri.

Vona þetta sé góð lending!

Kvöldið

Ég sé að kaþólskir kalla Jósef fóstra Jesú. Ég hef ekki séð það áður en getur verið ágæt skýring eins og jólaguðspjallið er. Það er ekki hægt að taka við því öðruvísi en sem barn. Það er ævintýri. Það hefur Lúkas sjálfur vitað þegar hann skráði frásögnina. Hann hefur áreiðanlega gert sér grein fyrir því að hún væri lygilegri en svo að fullorðið fólk gæti trúað henni.
En þannig fæddist frelsarinn og hann gat ekki vikið frá þeirri frásögn sem hann hafði eftir þeim sem til þekktu. Hann reyndi ekki að gera frásögnina eða ævintýrið raunsærra og trúverðugra en efni stóðu til með því að sleppa himneskum hersveitum, hirðunum eða fjárhúsinu, nei, þvert á móti hélt hann sig við það sem hann vissi bezt og sannast.
Og tók áhættu.
Lúkas vissi að hann var ekki að skrifa neinar dæmisögur Esóps. Hann vissi það eitt að hann var að skrifa söguna um barnið sem var sonur guðs og frelsari heimsins. Allt var þetta eins óveraldlegt og óraunverulegt og hugsazt gat, en hann hirti ekki um það.
Þessi staðreynd segir mér frekar en allt annað að ævintýrið um frelsarann í frásögn Lúksasar guðspjallamanns var sannleikanum samkvæm að hans dómi og hann hélt sig fast og ákveðið við þann sannleika sem hann hafði sjálfur grennslazt fyrir um og hafði öryggar heimildir fyrir.
Ef hann hefði reynt að breyta ævintýrinu í hversdagslega frásögn sem allir hefðu getað trúað, þá hefði verið miklu erfiðara að trúa því sem gerðist jólanóttina í Betlehem forðum daga.
En það er ekki gerð minnsta tilraun til að breyta ævintýrinu í sennilegan raunveruleika; þvert á móti. Það í sjálfu sér er styrkur en ekki veikleiki.
Jólaguðspjallið átti að vera eins og efni stóðu til en ekki eins og efasemdamenn eða raunsæishyggjumenn hefðu krafizt.
Sá sem ekki les þessa frásögn eins og barn, getur ekki tileinkað sér þennan fagnaðarboðskap. Hann kemur til okkar sem raunveruleiki í þeim umbúðum sem guð sjálfur valdi þessu mikilvægasta ævintýri sínu.

Við Ingó fórum í góðan göngutúr undir kvöld. Skerjafjörðurinn var undurfagur. Kyrrðin svo djúp að engu var líkara en við gengjum inn í eilífðina. Fuglarnir eins og svartar styttur á klettunum og hreyfðu sig ekki.

Orti ekkert en við Ingó töluðum því meira saman, ekki sízt um framtíð hans. Vona að hún verði eins og efni standa til. Ég sé að kennari Ingólfs og velunnari, dr. Gunnar Guðmundsson, einn ágætasti vísindamaður landsins og sérfræðingur í flogaveiki og heilablæðingum, segir í jólakveðju til hans m.a.:
“Kæri Ingólfur, nú dr. Ingólfur. Ég óska þér og fjölskyldu þinni innilega til hamingju með árangurinn. Ég var alltaf sannfærður um að þú hefðir bæði gáfur, samviskusemi og dugnað til að ljúka þessu öllu með miklum sóma. Nú er komið að mínum starfslokum og er þá ánægjulegt að geta minnst ágætra nemenda.
Ég mun ef heilsa mín leyfir halda áfram með rannsóknir á flogaveiki og arfgengri heilablæðingu með góðum samstarfsmönnum.
Vonandi færð þú, Ingólfur minn, gott starf við þitt hæfi. Mundu að það er alltaf pláss á toppnum.
Ég vil svo þakka þér og foreldrum þínum ánægjulega viðkynningu og tryggð mörg undanfarin ár, þinn einlægur Gunnar.”

Ég er ekki viss um að allir nemendur fái svona jólakveðju frá stórbrotnum lærimeistara sínum og prófessor. Ég tel að dr. Gunnar Guðmundsson sé einhver ágætasti maður sem ég hef kynnzt, stórgáfaður, fjölhæfur, hlýr og framúrskarandi í sínu fagi. Það er ekki ónýtt fyrir ungan mann að fá svona umsögn í veganesti.
Þetta sagði ég Ingó og hann er mér sammála.
Þá mundi ég eftir því að dr. Einar Ólafur Sveinsson fól mér að skrifa ritgerð um Nálu í íslenzkum skáldskap. Það var mikil viðurkenning á þeim tíma. Það mátti enginn koma nálægt Njálu með þessum hætti nema hann væri í náðinni!
Úr þessari ritgerð vann ég svo samnefnda bók sem enn er verið að kenna í Háskóla Íslands, að mér skilst.
Í augum Einars Ólafs var Njála einskonar helgirit. Og hann leyfði ekki að nafn hennar væri lagt við hégóma. En hann trúði mér fyrir henni(!) Traust hans  hefur verið mikið og gott veganesti.

 

Annan í jólum

Mín jörð er þinn himinn

Ég elska þig eins og eilífðin, áreynslulaust -

eins og vindgul gola fari lognkyrran fjörð
hugsunarlausum sunnanblæ

eins og laufgul gola fari skóginn
hugsunarlausum andvara

eins og stormgulur næðingur fari jökulhvíta
lausamjöll hugsunarlausum útsynningi

eins og þú farir huga minn átakalausri þögn
og jörðin ilmi við kyrrð í grasi og stráum

og ég sé hugsunarlaus eilífð og elski þig
jafnáreynslulaust og jörð mætir himni.

 

Í Skerjafirði

Aðventu-
skuggar

vaxa

klett-
fastir fuglar

að vindmjúkri
þögn.

25. des ‘97

Gulur
á vænghvítu vatni

sárfættur síðdegis-
himinn

stiklar
út fjörðinn
á fjöðrum
sem vaxa
úr firðdjúpum
himni

vaxa

inní sólseturs-
hvíta
þögn
í dimmum
skugga

hægt
sofnar fjaran

hægt
inní fangmjúka
vitund
kvölds
við himin og jörð…

 

Hef verið að hlusta á Paradise Lost eftir John Milton í flutningi Antons Lessers. Það er að sjálfsögðu áhrifamikill lestur en það þarf ekki að kafa djúpt í þessu verki Miltons til að sjá að snilldarþýðing Jóns á Bægisá á formlega lítið skylt við frumverkið. Minnir að því leyti á þýðingar Jónasar Hallgrímssonar á Heine, en þær eru eins og annar skáldskapur hans, sem hljómar ævinlega eins og fjallræða, eða eitthvert guðlegt tungutak og er óþýðanlegt.
Það var þá líklega rétt þegar Steingrímur J. Þorsteinsson, prófessor, talaði um Jón Þorláksson í fyrirlestrum sínum sem einskonar Jóhannes skírara íslenzkrar ljóðlistar.
Jónas var lausnarinn, engum líkur.               
Það skiptir ekki máli hvaðan innblásturinn kemur ef kvæðið er gott.
Satan er mannlegasta persónan í þessum kvæðabálki Miltons enda gengur hann fyrir sömu freistingum og þeir metnaðarfullu hagsmunapotarar sem vilja heldur ríkja í helvíti en þjóna í himnaríki.
Þau eru mörg helvítin og það hafa margir komið við sögu þeirra.