Árið 1998 (fyrri hluti)

 

 

Á þrettándanum

Casanova Was a Busy Man, segir á forsíðu N.Y.T. Book Review 23. nóv. sl. Það er fyrirsögn ársins!

4. janúar, sunnudagur

Fórum á stórtónleika Rotarys í gærkvöldi. Ég er viss um að það hafa ekki verið haldnir margir tónleikar á Íslandi þessum fremri. Þar sungu Sólrún Bragadóttir, Rannveig Fríða Bragadóttir, Finnur Bjarnason, dóttursonur Gunnars G. Schram, og Kristinn Sigmundsson við undirleik Jónasar Ingimundarsonar. Dýrðleg brot úr Onegin Tshcaikovskis, spretti úr Mozart, þ.e. Cosi fan tutte, Töfraflautunni, Don Giovanni og Brúðkaupi Figaros, Finnur Bjarnason, 24 ára gamall íslenzkur bariton í London söng O du mein holder Abendstern eftir Wagner, þá söng Kristinn úr óperu Smetana, Seldu brúðunni - hann söng Tshcaikovsky á rússnesku og Smetana á tékknesku - síðan sungu Sólrún og Rannveig úr óperu Belinis, Norma, Mira, o Norma, en eftir hlé voru sungnar þrjár aríur úr Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini, ein eftir Puccini, ein úr La travida en þrjár aríur úr Don Carlos, einnig eftir Verdi.
Loks aukalög.

Þetta voru ógleymanlegir tónleikar og Jónasi Ingimundarsyni og Rotarý til stórsóma. Ég hefði ekki getað haldið upp á afmælið mitt með betri veizlu en þeirri sem við fengum í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Kristinn Hallsson var kynnir og stóð sig að sjálfsögðu með prýði. Hann er einnig geðfelldur maður. Allt þetta fólk syngur í erlendum óperuhúsum, sumt hefur sungið þar árum saman. Mér er nær að halda að þessir frábæru söngvarar geti allir sungið hvar sem er í heiminum. Það er alltaf verið að auglýsa upp einhvern einn, en það er með ólíkindum hvað við eigum marga söngvara og margt annað atgervisfólk sem varpar ljóma á Ísland. Það er ekki mikið fyrir þetta fólk gert og framtóningarnir yfirleitt í fjölmiðlum. Það ber lítið á þessu fólki, þótt við reynum að fylgjast með því. Þess var getið í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu hvað Kristinn Sigmundsson hefur unnið mikla sigra í Evrópu, enda er hann söngvari á heimsmælikvarða. Hann hefur ótrúlega hljómmikinn bassa, framburður hans og leikur er svo eftirminnilegur að ég man raunar ekki eftir öðru eins.
Þetta var miklu betri skemmtun heldur en að horfa á eina heila óperu. Ég held að framtíðin eigi eftir að vinsa úr þessu óperumoði og bjóða upp á fleiri slík kvöld sem þetta; þ.e. deiglan á eftir að vinna sitt verk og þá verður sá hreini málmur eftir. Hitt deyr eins og annað moð og það er alkunna að helmingurinn af flestum, ef ekki öllum, óperum er hálfgert rusl, að minnsta kosti efnið!

Kvöldið

Hef lokið við bók Davíðs Oddssonar. Hún er lík honum sjálfum. Hún er ósköp viðfelldin, ágætlega skrifuð, glettin. Þetta eru eiginlega frásagnir fremur en sögur. Augljóslega allar sprottnar úr reynslu hans sjálfs. Skáldskapurinn er til uppfyllingar eins og oft vill verða. Ég heyri fólk tala um að þetta séu ekki miklar bókmenntir, það má vel vera, ég veit það ekki. Ég held þetta séu jafn góðar bókmenntir og margt annað. ..

Bækur Einars Más og Davíðs urðu efstar á metsölulistanum fyrir jólin. Ég held ekki að nein þjóð sé að kaupa bókmenntir í raun og veru; held að bóksala eins og allt annað fjalli um hnýsni. Fólk er að hnýsast í það sem aðrir eru að gera, en ekki að leita eftir list eða mikilvægum bókmenntum. Þær seljast ekki endilega. Fólk er að horfa yfir öxlina á höfundum svo það geti lesið bréfin sem þeir eru að senda út í þjóðfélagið, það er allt og sumt. Svo kemur tíminn og kveður upp sinn dóm. Þá verður lítið eftir.

Tíminn er miskunnarlaus.
Eins og hafið.

 

Ódagssett

Talaði við Davíð Oddsson. Hann hefur verið veikur. Þurfti að lesa fyrir hann frásöguna um Ólaf Thors og Ingrid. Hann minntist á grein í DV eftir Guðberg Bergsson, árás á hann og sögurnar hans. Guðbergur hefði átt að standast þá freistingu. Hún minnir á vopn ástralskra villimanna.

 

9. janúar, föstudagur

Orti þetta mér til gamans:

On the Road

Jack Kerouac
Augu mín
fuglar í hári þínu.

 

11. janúar, sunnudagur

Kristján, sonur Halla, varð 13 ára í dag. Ingó gaf honum hlut í tígrisdýri í dýragarðinum í London. Dýrið er frá Súmatra og ég hef skírt það Berthu Johannessen. Kristján getur séð það þegar hann kemur síðar til Lundúna.

14. janúar, miðvikudagur

Guðmundur Andri ræðst á mig í lofgrein um Guðjón Friðriksson í Degi í gær. Þar er notuð gamalkunnug aðferð, að gera lítið úr einum til að upphefja annan. Þetta gerði Einar Bragi einnig þegar hann skrifaði um okkar Þorstein frá Hamri í Þjóðviljann fyrir margt löngu. Það var þegar sá gállinn var á honum!
Guðmundur Andri segir að lofgjörð mín um Ólaf Thors dugi ekki vinstri mönnum. Um það varðar mig ekkert, bókin á að duga sannleikanum eins og ég kynntist honum. Guðmundur Andri segir að ég hafi skrifað Ólafs sögu til að gera Ólaf Thors að dýrlingi - og það sé óbærilegt fyrir vinstri menn, hvað sem sjálfstæðismönnum líði! Þetta kemur mér ekki á óvart úr þeirri átt, en það er ósatt með öllu. Ég hef sízt af öllu löngun til að breyta dauðlegu fólki í guðlegar verur, þótt Snorri hafi gert það í Ólafs sögu sinni. En ég hef ekkert á móti slíkri aðferð því ég tel að bezt fari á því að rithöfundi sé hlýtt til viðfangsefnisins og þá þarf hann að standast þær freistingar sem því fylgja. Það gerði ég og var svo sannarlega á varðbergi, en Ólafur þolir mikið ljós. Það kom mér reyndar á óvart, og hví ætti hann ekki að njóta þess? Hann var óvenju heilsteyptur stjórnmálamaður og minnir á Hannes Hafstein að því leyti. Kristján Albertsson var látinn gjalda þess að hann var ekki að skrifa ævisögu skúrks og nú á ég einnig að gjalda þess í upphafningu Guðmundar Andra sem á augsýnilega í einhverju basli með ætt sína. Það er ekki óalgengur kvilli..
Ingibjörg Thors, sem var óvenjuleg kona og vel gerð og svo raunsæ að hún gat talað um Ólaf Thors eins og hvern annan ef því var að skipta, sagði einu sinni við mig um Ólaf:
“Maðurinn var einhvers konar séní.”
Það má vel vera. En hitt er víst að hann var öðrum mönnum heilsteyptari og svo mikill leiðtogi fjöldahreyfingar sjálfstæðismanna að leitun er á öðru eins í lýðræðislegu samfélagi. Þetta blasir auðvitað við þegar farið er í saumana á ævisögu Ólafs Thors, hvort sem manni líkar það betur eða ver. Það þarf ekki að konunga þennan óvenjulega forystumann með skrumi eða skjalli því að staðreyndirnar bera honum vitni án þess ég hafi þurft að skrumskæla öruggar heimildir.

Ólafur Thors á kannski eftir að verða þjóðardýrlingur þegar vinstri menn svokallaðir ganga allir sem einn fyrir markaðshyggju kapitalismans eins og Guðmundur Andri sjálfur. Þegar hann gefur út snilldarverk sín ætlar allt um koll að keyra og minnir einna helzt á uppákomurnar í kringum Ólaf Jóhann Ólafsson. Þá verður alltaf gengisfelling á lýsingarorðum! En svo nær markaðurinn jafnvægi og sjónhverfingum linnir. Síðasta bók Guðmundar Andra var hafin upp til skýjanna, ef ég man rétt. Hún var heldur vel skrifuð, en efnisrýr
. Það vantar í hana hryggjarstykkið.
Hitt er svo annað mál að Kristján Karlsson segir að bókin um Ólaf og ævisaga Jóns Þórarinssonar um Sveinbjörn Sveinbjörnsson séu beztu ævisögur sem hér hafa komið út.
Það nægir mér.

17. janúar, laugardagur

Birtist í Degi í dag á fimmtugsafmæli Davíðs Oddssonar sem svar við spurningunum: Hvernig stjórnmálamaður er Davíð Oddsson? Hver verður framtíð hans?
Mér er sagt það hafi nýlega verið gerð atlaga að mér í grein hér í blaðinu, ástæða: að ég hafi með Ólafs sögu Thors reynt að gera þjóðardýrling úr þessum látna forystumanni Sjálfstæðisflokksins. Þetta er að sjálfsögðu heldur barnaleg uppákoma _ og alrangt. Ólafur þolir mikið ljós. Og hann sá um sig sjálfur.
Mér er nær að halda að Davíð Oddsson sé í sporum Ólafs að þessu leyti. Hann sér um sig sjálfur, hjálparlaust. Hann þarf engar einkunnir, hvorki frá mér né öðrum. Og um framtíðina veit ég ekki. Spyrjið völvuna.
Á þessum merku tímamótum í lífi Davíðs Oddssonar sendi ég honum og fjölskyldu hans innilegar hamingjuóskir, með þökkum okkar morgunblaðsmanna fyrir samfylgdina – án þess hægt sé að segja við höfum verið samfylgdarmenn í kaldastríðsmerkingu.

Á fimmtugsafmæli Davíðs í dag eru nokkrir spekingar spurðir um álit sitt á honum, einn þeirra er Indriði G. Þorsteinsson. Hann notar tækifærið til að fullyrða að engar þjóðsögur hafi spunnizt um Ólaf Thors í lifanda lífi. Hvílík endemisvitleysa! Indriði getur stundum verið eins og nýkominn af fjöllum - en ég veit ekki hvaða fjöllum. Kannski veit Guðmundur Andri það, hann svarar spurningunni um hver verði framtíð Davíðs með því að líkja honum við Esjuna!! Og framtíð hennar!!  

 

                            Áskorun

Ég er tilbúinn til
að takast á við það sem ég vil,
en alls ekki annað,
allra sízt það sem er sannað.

Ódagsett

Grein Styrmis Gunnarssonar , kollega míns, um Morgunblaðið sem birta átti í afmælisriti Davíðs Oddssonar, en var tekin út  að beiðni Huldu Valtýsdóttur og söltuð, er svohljóðandi ...(kemur dagbók minni að vísu ekki við,en geymi hana hér,svo að þessi afstaða hans glatist ekki.Hún kemur mér við og ritstjórn Morgunblaðsins á síðara hluta aldarinnar :

Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn

Samskipti og Sjálfstæðisflokksins hafa lengst af verið mikil og náin. Blaðið og flokkurinn eru sprottin úr sama jarðvegi. Frelsi til orðs og æðis er sá grundvöllur, sem  og Sjálfstæðisflokkurinn hafa byggt á hugsjónabaráttu sína og þjóðmálastefnu. Blað og flokkur börðust einarðlega fyrir því, að sjálfstæðisbarátta Íslendinga yrði til lykta leidd með stofnun lýðveldis á Þingvöllum. Stuðningur við virka þátttöku Íslendinga í baráttu frjálsra þjóða heims gegn kúgun kommúnismans var grundvallarþáttur í utanríkisstefnu bæði  og Sjálfstæðisflokksins. Blað og flokkur voru í fremstu víglínu í baráttunni fyrir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og gerð varnarsamningsins við Bandaríkin.  og Sjálfstæðisflokkurinn hafa verið samherjar í stuðningi við einkaframtak í atvinnulífi og frjálsa samkeppni í viðskiptalífi. Flokkur og blað stóðu saman í upphafi baráttunnar fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar og börðust sameiginlega fyrir lokaáfanganum með útfærslu í 200 sjómílur.  og Sjálfstæðisflokkurinn hafa átt samleið og snúið bökum saman í öllum stærstu viðfangsefnum og baráttumálum íslenzku þjóðarinnar á þessari öld.
Þessi sterka og mikla samstaða hefur byggzt á því að forráðamenn  og Sjálfstæðisflokksins hafa átt sameiginlegar hugsjónir og haft sameiginlega sýn í öllum meginmálum íslenzku þjóðarinnar á 20. öldinni. Hins vegar hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið eigandi að og þess vegna ekki getað tryggt stuðning blaðsins við baráttumál flokksins í krafti eignar.  hefur frá upphafi verið í einkaeign, fyrst í eigu tveggja einstaklinga en síðan hlutafélagsins Árvakurs, sem að mestu hefur verið í eigu sömu fjölskyldna frá upphafi, þótt nokkrar breytingar hafi orðið þar á.
Einstakir forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið í hópi eigenda . Þar átti Geir Hallgrímsson stærstan hlut að máli en hann var stjórnarformaður Árvakurs hf. þann áratug, sem hann var formaður Sjálfstæðisflokksins og bæði fyrir og eftir. Bjarni Benediktsson átti einnig hlut í blaðinu en miklu minni en hann var jafnframt varaformaður stjórnar Árvakurs hf. um skeið á þeim sömu árum og hann var formaður Sjálfstæðisflokksins. Gunnar Thoroddsen átti einnig lítinn hlut í blaðinu en kom aldrei að stjórn þess. Áhrif Bjarna Benediktssonar voru mikil á , bæði vegna náinna tengsla við Valtý Stefánsson, ritstjóra blaðsins og einnig vegna þess, að hann var annar af tveimur aðalritstjórum  um þriggja ára skeið. Þó verður að telja, að Geir Hallgrímsson hafi haft mest áhrif forystumanna Sjálfstæðisflokksins um málefni  vegna þeirrar sérstöku stöðu, sem hann hafði bæði á vettvangi blaðs og flokks.
Forráðamenn  höfðu einnig mikil áhrif innan Sjálfstæðisflokksins. Beint og óbeint höfðu einstakir stjórnarmenn í Árvakri hf. umtalsverð áhrif innan Sjálfstæðisflokksins. Valtýr Stefánsson ritstjóri átti sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur um skeið sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Jón Kjartansson, sem var ritstjóri  í 23 ár með Valtý sat einnig á Alþingi fyrstu árin, sem hann gegndi ritstjórastarfi á  en það var fyrir stofnun Sjálfstæðisflokksins. Jón tók aftur sæti á þingi nokkrum árum eftir að hann lét af ritstjórastarfi. Sigurður Bjarnason frá Vigur var kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1942 en kom jafnframt til starfa við stjórnmálaskrif á  á svipuðum tíma. Hann varð síðan stjórnmálaritstjóri blaðsins 1953 og ritstjóri 1956, þegar Valtýr og Bjarni voru aðalritstjórar. Sigurður frá Vigur sat ekki á þingi frá 1959 til 1963 en var þá ritstjóri með þeim Valtý og Matthíasi Johannessen. Hann sat síðan á þingi samfleytt til 1970 meðfram störfum sínum, sem ritstjóri Morgunblaðsins en gerðist þá sendiherra í Kaupmannahöfn. Eyjólfur Konráð Jónsson var kjörinn varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra í þingkosningunum 1967 og sat við og við á þingi jafnhliða ritstjórastörfum á Morgunblaðinu fram til ársins 1974 er hann var kjörinn á Alþingi og lét af ritstjórastarfi 6 mánuðum síðar.
Af þessu má ljóst vera, að hin nánu samskipti Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins hafa bæði byggzt á sameiginlegum hugsjónum og því að forráðamenn blaðs og flokks hafa gegnt trúnaðarstöðum á báðum vígstöðvum samtímis. Hvorugur aðili hefur nokkru sinni haft skipunarvald gagnvart hinum. Hins vegar þótti mörgum afskipti Sjálfstæðisflokksins af Morgunblaðinu stundum ganga úr hófi, sérstaklega um miðja öldina. En nokkrum áratugum síðar var haft á orði, að afskipti Morgunblaðsins af málefnum Sjálfstæðisflokksins mættu vera minni.
Á þessari sameiginlegu vegferð Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins hefur gengið á ýmsu. Tíðarandinn hverju sinni hefur haft sín áhrif í þeim efnum. En á þessum áratug, tíunda áratugnum, verður að telja að því verkefni hafi verið lokið á farsælan hátt að leiða samskipti Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins inn í nýjan og eðlilegan farveg.
Nú gegna engir úr hópi forystumanna Sjálfstæðisflokksins trúnaðarstöðum innan stjórnar Árvakurs hf. eða á ritstjórn Morgunblaðsins að öðru leyti en því að Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, er annar af varaendurskoðendum útgáfufélagsins. Og engir af forráðamönnum Morgunblaðsins skipa trúnaðarstöður á vegum Sjálfstæðisflokksins. Hér hefur alveg verið skilið á milli. Hvorki Sjálfstæðisflokkur né Morgunblaðið hafa horfið frá sínum grundvallarhugsjónum en þær eru túlkaðar með mismunandi hætti af hálfu forsvarsmanna flokks og blaðs, ef svo ber undir. Sjálfstæðisflokkurinn segir ekki Morgunblaðinu fyrir verkum og Morgunblaðið gerir enga tilraun til að hlutast til um innri málefni Sjálfstæðisflokksins.
Forráðamenn Morgunblaðsins gerðu sér ljóst fyrir um það bil fjórum áratugum að framtíð Morgunblaðsins sem sjálfstæðs fjölmiðils í harðri samkeppni á fjölmiðlamarkaðnum hlyti að byggjast á því að blaðið markaði sér sjálfstæðan sess.  Segja má, að allir formenn Sjálfstæðisflokksins frá Bjarna Benediktssyni og til þessa dags hafi lýst skilningi á því sjónarmiði, þótt allir hafi þeir á stundum talið, að framkvæmd þessara breytinga á stöðu blaðsins hefði mátt vera með öðrum hætti.
Morgunblaðið á sér töluvert lengri sögu en Sjálfstæðisflokkurinn, sem var stofnaður tæplega einum og hálfum áratug eftir að fyrsta tölublað Morgunblaðsins kom út. Raunar má ætla miðað við þær upplýsingar, sem fram koma í ritverki Matthíasar Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins um Ólaf Thors að Morgunblaðið hafi átt drjúgan þátt í að leiða flokka og flokksbrot á hægri væng stjórnmálanna saman í einn farveg með stofnun Sjálfstæðisflokksins. En þrátt fyrir það og sameiginlegan uppruna er það engu að síður áhugaverð spurning, hvers vegna samskipti flokks og blaðs urðu svo náin, sem hér hefur verið rakið.
Hulda Valtýsdóttir (Stefánssonar ritstjóra), sem hefur fylgzt með málefnum Morgunblaðsins nánast frá því að hún man eftir sér telur að meginástæðan fyrir því sé eftirfarandi: Stjórnmálaátökin á fjórða áratugnum voru hörð og illvíg. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins héldu uppi hatrömmum árásum á forsvarsmenn beggja aðila. Aðför Framsóknarmanna undir forystu Jónasar Jónssonar frá Hriflu að Valtý Stefánssyni var með ólíkindum. Undir lok þess áratugar fengu Ólafur Thors og fjölskyldufyrirtæki hans, Kveldúlfur hf., sömu meðferð af hálfu Framsóknarmanna og Alþýðuflokksmanna.
Á þessu tímabili voru Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur við völd mestan hluta áratugarins og gerðu tilraun til að umbreyta íslenzku þjóðfélagi á þann veg, sem gekk þvert á stefnu og viðhorf bæði Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins, með stórauknum ríkisafskiptum. Hulda Valtýsdóttir telur að af þessum ástæðum hafi það verið sameiginlegir hagsmunir forráðamanna Morgunblaðsins og forystumanna Sjálfstæðisflokksins að snúa bökum saman í viðureigninni við andstæðinga sína. Þetta má orða á þann veg, að það hafi ekki sízt verið andstæðingar Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins, sem tryggðu hina nánu samstöðu flokks og blaðs.
Valtýr Stefánsson hafði mörg járn í eldinum á þessum árum. Eftir uppgangsár í efnahagsmálum á fyrstu ritstjóraárum hans tók við ein erfiðasta kreppa, sem Íslendingar hafa upplifað og var að sjálfsögðu einungis angi af heimskreppunni miklu. Kreppan hafði áhrif á fjárhagslega afkomu Morgunblaðsins, sem var afar erfið á þeim tíma. Valtýr gat ekki látið rekstrarvandamál blaðsins afskiptalaus, þótt traustur maður héldi um stjórnvölinn á þeim vettvangi, sem var Sigfús Jónsson.
Hulda Valtýsdóttir man eftir föður sínum koma þreyttan heim á kvöldin eftir að hafa gengið á milli hugsanlegra auglýsenda allan daginn til þess að afla viðskipta. Þá gaf hann konu sinni, Kristínu Jónsdóttur, listmálara skýrslu um hvernig gengið hefði, en hún var einn sterkasti bakhjarl hans á þessum árum.
Þegar saman fór, einhverjar illvígustu persónudeilur í íslenzkum stjórnmálum á þessari öld, sem beindust meðal annars að Valtý og erfiðleikar í rekstri blaðsins er ljóst, að forráðamenn Morgunblaðsins hafa þurft á bandamönnum að halda og eðlilegt að þá væri að finna innan Sjálfstæðisflokksins.
Ólafur Thors, sem tók við formennsku Sjálfstæðisflokksins af Jóni Þorlákssyni snemma á fjórða áratugnum þurfti einnig á Morgunblaðinu að halda. Árásir andstæðinganna beindust ekki síður að honum en Valtý og síðar var gerð skipuleg tilraun til þess að koma Kveldúlfi hf. á kné og þar með öllu ættarveldi Thors Jensens og afkomenda hans. Morgunblaðið var Ólafi og Sjálfstæðisflokknum betri en enginn í þeirri orrahríð, sem er rakin ítarlega í Ólafs sögu Thors eftir Matthías Johannessen. Mörgum árum síðar skrifaði Valtýr sjálfur ævisögu Thors Jensens í tveimur bindum, verk, sem mun lengi halda nöfnum beggja á lofti, Thors og Valtýs.
Ólafur Thors hafði lengi haft áhuga á að styrkja stöðu sína innan Morgunblaðsins. Hann reyndi að gera náfrænda sinn, Kristján Albertsson, rithöfund, sem hafði náið samband við Morgunblaðið til æviloka, að ritstjóra blaðsins snemma á þriðja áratugnum. Þetta kemur fram í dagbókarbroti Valtýs Stefánssonar, frá 18. marz 1924 sem Matthías Johannessen vitnar til í Ólafs sögu en þar segir: “Fregnir um blaðamennsku ganga að Þorsteinn Gíslason fari til Tímans og þeir taki Vísi með Lögréttun — eða að Þorsteinn stofni dagblað með Lögréttu og að Kveldúlfur kaupi Vísi handa Kristjáni Albertssyni, þeir ætluðu honum í Mogga en gekk ekki.”
Ólafur Thors gafst þó ekki upp við að ná meiri áhrifum á Morgunblaðinu en leiddi af samstöðu hans og forsvarsmanna blaðsins á erfiðum tímum. Haraldur Sveinsson, sem var framkvæmdastjóri Morgunblaðsins í 27 ár og hafði áður verið formaður stjórnar Árvakurs hf. í rúman áratug, segir að mikil átök hafi orðið á milli Ólafs og eigenda Morgunblaðsins um hlutabréf í félaginu á árinu 1938. Þá háttaði svo til, að töluvert af hlutabréfum í Árvakri hf. lá í Útvegsbankanum til tryggingar skuld. Bankinn krafðist þess að skuldin yrði greidd upp og þess vegna voru hlutabréfin til sölu. Aðrir hluthafar höfðu hins vegar forkaupsrétt að bréfunum og gátu ráðið því, hverjir fengju þau keypt. Þeir vildu ekki, að Ólafur Thors kæmist yfir bréfin. Vel má vera, að sú afstaða hafi endurspeglað einhver átök í viðskiptalífinu á þeim tíma. Ólafur var fulltrúi útgerðarmanna. Helztu hluthafar í Árvakri hf., fyrir utan Valtý Stefánsson, sem hafði eignast rétt innan við helming hlutafjár, komu úr verzlunarstéttinni í Reykjavík. Hagsmunir þeirra og útgerðarmanna fóru ekki endilega saman eins og skýrt kom í ljós ári síðar. Í stað þess beindu þeir hlutabréfunum til föður Haraldar, Sveins M. Sveinssonar, eiganda Timburverzlunarinnar Völundar, sem þá var eitt öflugasta fyrirtæki í landinu.
Haraldur Sveinsson lýsir þessum hlutabréfakaupum svo í bókinni Áhrifamenn, sem Jónína Michaelsdóttir skrifaði: “Faðir minn var einn af stofnendum Verzlunarráðs Íslands og varaformaður þess um árabil meðan Hallgrímur Benediktsson var formaður. Þeir urðu góðir vinir og samstarf þeirra var með miklum ágætum, bæði á þessum vettvangi og öðrum... Hallgrímur lagði þá til að leitað yrði til föður míns sem bæði mundi ráða við að kaupa bréfin og vera æskilegur inn í samstarfið. Það varð úr og árið 1938 tók hann sæti í stjórn Árvakurs. Hann skildi stefnu Morgunblaðsins á þann veg, að því væri skylt að styðja baráttuna fyrir frjálsri verzlun. Með árunum fékk hann æ meiri áhuga á rekstri blaðsins og þeim möguleikum, sem slíkur fjölmiðill býr yfir.”
Þessar sviptingar um hlutabréfin í  Árvakri hf. breyttu þó engu um hið nána samband á milli forystumanna Sjálfstæðisflokksins og ritstjóra Morgunblaðsins. Þeir Ólafur Thors og Valtýr höfðu þekkzt frá skólaárum og að sögn Huldu Valtýsdóttur var mikið samband á milli þeirra. Ólafur hringdi oft til föður hennar en þeir voru ekki alltaf á sama máli, sem er gömul saga og ný í samskiptum ritstjóra Morgunblaðsins og forystumanna Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Sveinsson segir, að 1939 hafi komið upp einhver djúpstæðasti ágreiningur, sem sögur fara af á milli hluthafa í Árvakri hf. og ritstjóra Morgunblaðsins. Þjóðstjórnin, sem Ólafur Thors átti sæti í tók ákvörðun um mjög umdeilda gengislækkun. Hún var útgerðinni í hag en lá við að hún riði að fullu verzlunarfyrirtækjum, sem voru með skuldir í útlöndum. Meðal þeirra voru fyrirtæki, sem stjórnarmenn í Árvakri hf. áttu.
Þótt gengislækkunin gengi með alvarlegum hætti gegn hagsmunum þeirra og að minnsta kosti í einu tilfelli hafi legið við gjaldþroti studdi Morgunblaðið gengislækkunina. Sú ákvörðun hlýtur að hafa verið mikil þrekraun fyrir þá Valtý Stefánsson og Jón Kjartansson. Styrkur Valtýs í þessari stöðu hefur verið sá að hann var orðinn stærsti einstaki hluthafinn í Árvakri hf. Jafnframt blandaðist engum hugur um, að sterk staða Morgunblaðsins á dagblaðamarkaðnum var fyrst og fremst hans verk, en Jón Kjartansson hafði einskorðað sig við leiðaraskrif og aðra umfjöllun um stjórnmál. Þótt meðeigendum Valtýs hafi mislíkað mjög stuðningur blaðsins við gengislækkunina hefur þeim þó verið ljóst, að framtíðarhagsmunir þess og fyrirtækisins og þar með eigna þeirra byggðu mjög á Valtý og hæfni hans í starfi.
Þegar horft er til baka verður ljóst að á fyrsta einum og hálfum áratug í ritstjórastarfi á Morgunblaðinu hafa þeir Valtýr Stefánsson og Jón Kjartansson staðið í stórátökum á þremur vígstöðvum:  þeir hafa sameiginlega gengið í gegnum þann pólitíska eld, sem brann á árunum milli 1930 og 1940. Valtýr hefur samhliða því að ritstýra blaðinu unnið með Sigfúsi Jónssyni að því að tryggja fjárhagsstöðu blaðsins á kreppuárunum og loks hafa þeir Valtýr og Jón komist í nánast óþolandi stöðu gagnvart öðrum eigendum Morgunblaðsins vegna gengislækkunarinnar 1939.
Og framundan var  kannski erfiðasta verkefnið, sem þeir höfðu tekizt á við, sem var að stýra blaðinu í gegnum viðkvæmt og erfitt tímabil heimsstyrjaldarinnar síðari. Um það verður ekki fjallað hér en þó má nefna eitt dæmi, sem sýnir við hvað var að etja á stríðsárunum og í aðdraganda þeirra.
Hinn 1. júní 1938 barst ritstjórum Morgunblaðsins svohljóðandi bréf frá Hermanni Jónassyni, þáverandi dómsmála- og kirkjumálaráðherra: “Eins og yður, herra ritstjóri, er kunnugt, hefur Ísland lýst yfir ævarandi hlutleysi. Það hefur engan lofther, landher né flota og sem tákn hins ævarandi hlutleysis síns hefur það engan gunnfána. Vörn landsins er yfirlýst hlutleysi þess. Eins og gefur að skilja, verður hlutleysið að vera meira en yfirlýsingin ein. Það verður jafnframt að koma fram í verki, orðum og athöfnum gagnvart öðrum þjóðum. En á það telur ráðuneytið að hafi brostið, að þess hafi verið gætt að sýna hófsemi í orðum um erlendar þjóðir og forvígismenn þeirra. Hefur í ýmsum slíkum ummælum gætt sams konar stóryrða og sams konar óvarkárni og sumir menn telja, að sé sérkenni á blaðamennsku Íslendinga um innanlandsmál.
Nú virðist ráðuneytinu það auðsætt mál að slík stóryrði, sem oft eru viðhöfð um erlendar þjóðir og þjóðhöfðingja, gagni engum flokki og engum málstað, en séu hins vegar mjög líkleg til þess að valda misskilningi, því að oft eru þessi ummæli skilin sem óvinátta íslenzku þjóðarinnar í garð hlutaðeigandi þjóðar. Ummæli þessi snerta á engan hátt til tjóns þá, sem þau eru viðhöfð um, en eru hins vegar líkleg til þess að skaða sjálf oss.
Ráðuneytið telur það miklu skipta, að Ísland geti sýnt hlutleysi sitt í hvívetna, einnig í því að stilla slíkum ummælum í hóf. Blöð og einstaklingar geta sett fram sínar skoðanir, fært fyrir þeim rök og barizt fyrir þeim á frjálsmannlegan hátt án þess að sýna ruddaskap og viðhafa stóryrði. Ráðuneytið vill þess vegna æskja þess af yður, herra ritstjóri, að þér gætið þess að framvegis verði ekki í blaði yðar, viðhaft óviðurkvæmilegt orðbragð um erlendar þjóðir eða forvígismenn þeirra. En ef slíkt hendir mun ráðuneytið hér eftir, þótt það hafi ekki verið venja undanfarið, láta beita viðeigandi hegningarlagaákvæði gegn hlutaðeigandi. Einnig mun ráðuneytið ef ekki verður hjá því komizt reyna að gera frekari ráðstafanir í samráði við þingflokkana til að koma í veg fyrir áframhald þessa ósiðar.”
Það er erfitt fyrir fólk nú á tímum að skilja hótanir á borð við þessa og þá kröfu um sjálfs ritskoðun, sem í bréfinu felst. En vafalaust hafa ríkar ástæður legið til þess að dómsmálaráðherra þess tíma sendir frá sér slíkt bréf. Það eru reyndar ekki nema um það bil tveir áratugir síðan sovézk stjórnvöld settu ítrekað fram þá kröfu í viðskiptaviðræðum við Íslendinga í Moskvu að Morgunblaðinu yrði gert að draga úr gagnrýni sinni á Sovétríkin. Þegar því var svarað til að íslenzk stjórnvöld gætu ekki hlutast til um skrif blaðsins eða haft áhrif á þau, var lýst undrun á því af hálfu sovézku fulltrúanna á þeirri forsendu, að Geir Hallgrímsson, þáverandi forsætisráðherra væri jafnframt stjórnarformaður Árvakurs hf.
Bréf dómsmálaráðherra sýnir, að ritstjórar dagblaða hafa þurft að gæta mjög að sér í aðdraganda stríðs og á stríðsárunum sjálfum. Þá hefur skipt miklu máli að hafa mikil og náin tengsl við forystumenn stjórnmálaflokkanna, sem höfðu bezta vitneskju um þau mál, sem vörðuðu hagsmuni þjóðarinnar í samskiptum við önnur ríki á þessum tíma. Þetta hefur verið þeim mun viðkvæmara vegna þess, að á þessum sömu árum er uppi ágreiningur innan lands um það, hvernig ljúka eigi sjálfstæðismálinu. Íslendingar þurftu á viðurkenningu annarra þjóða að halda til þess að geta stofnað lýðveldi og þess vegna var það ekkert lítið mál hvernig haldið væri á samskiptum þjóðarinnar út á við. Einnig af þessum ástæðum hefur það skipt ritstjóra Morgunblaðsins miklu máli, að vera í góðu sambandi við forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Vitneskjan um það, sem var að gerast að tjaldabaki hefur auðveldað þeim mjög að taka ákvarðanir frá degi til dags. Og eins og andrúmið var á milli flokka og manna á þeim árum var ekki við því að búast að slíkar upplýsingar kæmu frá forystumönnum annarra flokka.
Fyrstu tuttugu árin í ritstjóratíð Valtýs Stefánssonar og Jóns Kjartanssonar á Morgunblaðinu hafa verið viðburðarík, sviptingasöm og afar erfið og álagið á þá báða hefur áreiðanlega verið gífurlegt. Skýringin á því, hvers vegna samskipti Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins urðu svona náin blasir við.
Þótt hlé yrði á fyrstu árunum eftir stríð og ástandið skaplegt meðal annars vegna þess að helztu andstæðingarnir í stjórnmálum tóku höndum saman um myndun nýsköpunarstjórnarinnar, það er Sjálfstæðisflokkur, Alþýðuflokkur og Sameiningarflokkur alþýðu — Sósíalistaflokkur, reyndist það hlé verða stutt. Kalda stríðið var framundan og því fylgdu mestu átök, sem orðið hafa í innanlandsmálum á Íslandi á þessari öld.
Jón Kjartansson lét af ritstjórastarfi eftir 23 ára starf árið 1947. Valtýr var einn eftir. Sigurður Bjarnason frá Vigur hafði komið til starfa á blaðinu nokkrum árum áður en hann var einnig þingmaður og hafði um kjördæmi sitt að hugsa samhliða störfum á blaðinu. Þetta hljóta að hafa verið  erfið ár fyrir Valtý enda segir Hulda dóttir hans, að henni hafi orðið ljóst, þegar hún kom heim frá útlöndum árið 1953 eftir nokkra fjarveru að álagið á föður hennar hafi verið nánast óbærilegt.
Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu leiddi til harkalegustu átaka, sem orðið hafa á Íslandi ekki bara á þessari öld heldur í margar aldir. Varnarsamningurinn við Bandaríkin, sem fylgdi í kjölfarið skipti þjóðinni í tvennt. Morgunblaðið var í fremstu víglínu í þessum átökum. Á síðum þess og annarra dagblaða og að sjálfsögðu á Alþingi var baráttan háð frá degi til dags. Allt var sett undir mæliker kalda stríðsins. Enginn naut sannmælis. Allir voru dregnir í dilka. Það skipti engu máli, hvort um var að ræða stjórnmálamenn, blaðamenn, rithöfunda eða aðra listamenn. Allir voru dæmdir eftir því hvar þeir skipuðu sér í flokk.
Aldrei þurfti Sjálfstæðisflokkurinn meira á Morgunblaðinu að halda en einmitt á þessum árum Og aldrei skipti það meira máli fyrir ritstjóra Morgunblaðsins að eiga sér öfluga bandamenn og málsvara. Og aldrei voru tengsl blaðs og flokks nánari en einmitt þá.
Áratugurinn 1950–1960 er tími mikilla umskipta á Morgunblaðinu. Líklega hafa áhrif Sjálfstæðisflokksins á blaðið aldrei verið meiri og gengu bersýnilega úr hófi, þegar svo var komið að fréttir af fundum í einstökum flokksfélögum Sjálfstæðisflokksins voru jafnvel birtar á forsíðu blaðsins. Þarna fór saman erfitt stjórnmálaástand, kalda stríðs átökin voru í hámarki og baráttan við kommúnista og áhrif þeirra bæði í verkalýðshreyfingu og í menningarlífinu var háð af mikilli hörku.
Forsvarsmenn Morgunblaðsins fundu að tengsl blaðs og flokks voru komin úr böndum. Valtýr Stefánsson var einn ritstjóri blaðsins frá 1947 til 1956 eða í tæpan áratug. Sigurður Bjarnason varð stjórnmálaritstjóri 1953 en 1956 voru gerðar meiri háttar breytingar á yfirstjórn blaðsins. Bjarni Benediktsson, sem þá var utan ríkisstjórnar vegna myndunar vinstri stjórnar það ár var ráðinn aðalritstjóri ásamt Valtý og var það að ráðum Valtýs að Bjarni kom að blaðinu. Sambandið á milli þeirra hafði orðið æ nánara og Bjarni hafði skrifað mikið í blaðið allt frá borgarstjóraárum sínum. Bjarni tók upp hanzkann fyrir Valtý, þegar hann þurfti á að halda og skjaldaði hann í hvert sinn, sem að honum var vegið.
Sambandið við Sjálfstæðisflokkinn styrktist öðrum þræði með ráðningu Bjarna, enda var hann varaformaður flokksins á þessum árum. En ráðning hans varð Morgunblaðinu einnig til framdráttar á annan veg. Bjarni Benediktsson kynntist Morgunblaðinu innan frá og sá stöðu þess í nýju ljósi eftir veru sína þar. Með starfi sínu á Morgunblaðinu lagði Bjarni sitt af mörkum til þess að skapa Morgunblaðinu sjálfstæðari stöðu á næstu árum og virti þá viðleitni eftir að hann var orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins og síðar forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson var orðinn hluthafi í Árvakri hf., þegar hér var komið sögu. Hann átti að vísu mjög lítinn hlut en hann skapaði honum engu að síður fótfestu innan blaðsins og tryggði að rödd hans heyrðist um innri málefni þess.
Bjarni eignaðist hlut sinn í blaðinu ekki átakalaust. Hlutabréf í útgáfufyrirtækinu voru til sölu vegna andláts Guðmundar Ásbjörnssonar. Bjarni Benediktsson, sem þá var einn mesti valdamaður þjóðarinnar og hafði haft forystu um þær örlagaríku ákvarðanir, sem teknar voru í utanríkismálum 1949 og 1951 vildi kaupa hlutinn.
Tveir ungir menn, sem þá voru komnir til starfa í þágu Árvakurs hf. sem fulltrúar annarrar kynslóðar meðal eigenda fyrirtækisins voru því andvígir. Þetta voru Haraldur Sveinsson og Geir Hallgrímsson. Þeir höfðu mjög ákveðnar skoðanir um framtíð Morgunblaðsins eins og síðar verður vikið að. Að baki þeim stóðu tvö öflug fjölskyldufyrirtæki. Bjarni Benediktsson setti óskir sínar um kaup á hlutabréfum Guðmundar Ásbjörnssonar fram við Hallgrím Benediktsson, stórkaupmann, föður Geirs. Haraldur Sveinsson var því andvígur og vísaði til þess, að ráð hefði verið fyrir því gert, þegar Guðmundur Ásbjörnsson eignaðist þau á sínum tíma að þau gengu til baka til annarra hluthafa í félaginu.
Um þetta urðu miklar sviptingar og varaformaður Sjálfstæðisflokksins tók afstöðu Árvakursmanna mjög þunglega svo að ekki sé meira sagt. Að lokum varð niðurstaðan sú  að hlut Guðmundar Ásbjörnssonar var skipt á milli Bjarna og nokkurra hluthafa í félaginu.
Bjarni Benediktsson tók síðar sæti í stjórn Árvakurs hf. í krafti hlutabréfaeignar Valtýs Stefánssonar og var varaformaður stjórnar Árvakurs hf. um skeið á sama tíma og hann var formaður Sjálfstæðisflokksins. Að því kom þó að hann hlaut að víkja úr því sæti, að Valtý látnum, þegar dætur hans Hulda og Helga og eiginmenn þeirra gerðu kröfu til þess að eiga eðlilegan hlut að stjórn félagsins í samræmi við hlutafjáreign þeirra.
Þegar ritstjórn Morgunblaðsins var skipað með nýjum hætti 1956 lögðu kaupsýslumennirnir í stjórn Árvakurs hf. áherzlu á að ráða Einar Ásmundsson, hæstaréttarlögmann ritstjóra að blaðinu og hugsuðu það, sem eins konar mótvægi við ráðningu Bjarna. Einar Ásmundsson hafði skrifað töluvert í blaðið og þeim þótti sjónarmið hans og afstaða fara saman við þeirra viðhorf. Þeir Valtýr og Bjarni voru því aðalritstjórar en Einar og Sigurður Bjarnason frá Vigur voru ráðnir ritstjórar.
Samhliða þessum umskiptum hafði Valtýr átt mörg samtöl við ungan mann, sem hafði komið til starfa á ritstjórn Morgunblaðsins árið 1951 og unnið þar með háskólanámi. Þetta var Matthías Johannessen, sem Valtýr gerði að trúnaðarvini sínum. Stefán Stefánsson, skólameistari, faðir Valtýs og Jóhannes bæjarfógeti Jóhannesson, formaður Sambandslaganefndarinnar 1918, móðurafi Matthíasar, voru einkavinir og baráttufélagar í röðum Valtýinga fram yfir Uppkastið. Viðhorf Valtýs til Matthíasar kom skýrt fram í meðmælabréfi, sem hann   skrifaði vegna umsóknar Matthíasar um námsstyrk, sem norsk stjórnvöld veittu. Í meðmælabréfi þessu segir Valtýr Stefánsson:
“Cand. mag Matthías Johannessen hefur tjáð mér að hann ætli að sækja um styrk þann, sem veittur er íslenzkum námsmanni af norsku stjórninni. Persónulega hef ég haft náin kynni af Matthíasi og gerþekki hann, sem áhugasaman reglumann, hugkvæman og hugmyndaríkan. Þannig hefur hann komið fram sem fjögurra ára starfsmaður við Morgunblaðið. Því miður yrði ég að sjá af starfskröftum hans um skeið, ef hann hlyti styrkinn, en ég vænti þess fastlega, að hann komi aftur í þann framgjarna, áhugasama hóp ungra manna, er nú um nokkurn tíma hafa unnið við blaðið.”
Í samtölum þeirra Matthíasar kom skýrt fram sú skoðun Valtýs, að tímabært væri að draga úr þeim nánu samskiptum, sem orðin voru á milli Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins. Valtýr Stefánsson vildi að blaðið losnaði af flokksklafanum. Hann var of mikill blaðamaður til þess að una þeirri stöðu, sem upp var kominn. Um þessa afstöðu Valtýs er fjallað í forystugrein Morgunblaðsins á útfarardegi hans 23. marz 1963. Þar sagði meðal annars: “Valtýr Stefánsson var þeirrar skoðunar, að þá aðeins gæti blað verið gott, að það væri óháð og lyti engum húsbónda nema eigin sannfæringu. Sjálfstæði blaðanna var honum því mikið kappsmál. En samfara þessu sjálfstæði þyrfti að vera rík ábyrgðartilfinning og löngun til að vinna þjóð sinni og landi allt það gagn, sem unnt væri.”
Með Valtý að bakhjarli fór Matthías Johannessen að leiða fólk inn á síður Morgunblaðsins, sem hafði verið persona non grata þar um skeið. Þetta voru menn á borð við Halldór Laxness og Stein Steinarr. Framan af rithöfundaferli Halldórs var Morgunblaðið hans blað en eftir því, sem hann hallaði sér æ meir að vinstri mönnum og sósíalistum slitnaði sá þráður. Matthías kom með Halldór Laxness til Morgunblaðsins á nýjan leik. Þetta voru mikil tíðindi, ekki einungis í bókmenntaheiminum heldur ekki síður á hinum pólitíska vettvangi. Það hafði verulega þýðingu í stjórnmálaátökum þessara ára, að Halldór Laxness og Steinn Steinarr voru tilbúnir til að eiga samskipti við Morgunblaðið og styrkti blaðið jafnframt mikið.Með þessum hætti breikkaði ímynd þess í augum lesenda.
Bjarni Benediktsson lagði sitt af mörkum til hins sama með því að afnema þá venju, að blaðið segði einungis frá ræðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins á Alþingi en hundsaði málflutning annarra eða rangfærði hann.
Þetta gerðist á ritstjórninni. Innan stjórnar Árvakurs hf. höfðu áþekk sjónarmið verið að ryðja sér til rúms. Haraldur Sveinsson og Geir Hallgrímsson töluðu um það sín í milli á þessum árum, að Morgunblaðið yrði að skapa sér sjálfstæðari sess. Þeim var ljóst, að framtíðarvelferð blaðsins og  þar með fyrirtækisins byggðist á því. Þeir nutu stuðnings annarra stjórnarmanna, þeirra Bergs G. Gíslasonar, Ólafs Ó. Johnson og Hjartar Hjartarsonar.  Eftir að annar tengdasona Valtýs, Gunnar Hansson, arkitekt hóf afskipti af málefnum blaðsins var hann eindreginn stuðningsmaður þessara sjónarmiða. Þeir töldu sig bezt geta tryggt slíka þróun með vali á ritstjóra eða ritstjórum. Um skeið beindist athygli þeirra að dr. Jóhannesi Nordal, sem þá var að koma heim frá námi en leið hans lá inn í bankakerfið.
Bjarni Benediktsson tók sæti í ríkisstjórn á ný haustið 1959 og var kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins 1961, þegar Ólafur Thors lét af því starfi. Matthías Johannessen  var ráðinn ritstjóri snemma árs 1959 og þá var aðalritstjóratitillinn felldur niður. Eftir að Bjarni hvarf frá blaðinu beitti Matthías sér fyrir því, að Eyjólfur Konráð Jónsson var ráðinn ritstjóri vorið 1960.
Stefnan hafði verið mörkuð. Á milli stjórnar Árvakurs hf., Valtýs Stefánssonar og hinna nýju ritstjóra var alger samstaða um að beina Morgunblaðinu í nýjan farveg og draga smátt og smátt úr tengslum við Sjálfstæðisflokkinn. Ritstjórarnir hófust handa og framundan var 35 ára vegferð, öll starfsævi eins ritstjóra Morgunblaðsins, Matthíasar Johannessen.
Á áratugnum 1960 til 1970 var farið afar hægt í þessar breytingar. Meðal fyrstu vísbendinga um breytta tíma var, að forystumenn Sjálfstæðisflokksins fundu sumir hverjir að þeir gátu ekki hringt í ritstjóra Morgunblaðsins og búizt við því að gagnrýnislaust yrði tekið við skoðunum þeirra og ábendingum. Eru til skemmtilegar sögur um samskipti Ólafs Thors og Eyjólfs Konráðs og Matthíasar og Ingólfs Jónssonar, sem eru til marks um breytta tíma. Sameiginlegu viðhorfi ritstjóranna til breytinga á blaðinu var lýst í grein sem Eyjólfur Konráð Jónsson skrifaði í 50 ára afmælisblað Morgunblaðsins hinn 2. nóvember 1963.
Hins vegar fór ekkert á milli mála þennan áratug að í öllum meginatriðum studdi Morgunblaðið stefnu Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnarstjórnina, sem flokkurinn var í forystu fyrir. Þó mátti greina blæbrigðamun í stöku málum. Þannig er ljóst, að Morgunblaðið fjallaði af meiri áhuga um Efnahagsbandalag Evrópu á fyrri hluta áratugarins en forystumenn Sjálfstæðisflokksins töldu henta.
Þegar höfundur þessarar greinar kom til starfa á Morgunblaðinu á miðju ári 1965 vísuðu ritstjórarnir sumum málum enn til Bjarna Benediktssonar. Svar hans var alltaf það sama: þeir verða að ákveða þetta sjálfir. Hin nánu tengsl á milli ritstjóra Morgunblaðsins og formanns Sjálfstæðisflokksins sáust meðal annars í því, að þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði haldið misheppnaðan kosningafund í Háskólabíói nokkrum dögum fyrir alþingiskosningarnar 1967 var efnt til skyndifundar á heimili Bjarna Benediktssonar í Háuhlíð um miðnætti til þess að ákveða, hvernig ætti að skrifa um fundinn í blaðið daginn eftir. Pressan beið meðan ákvörðun var tekin um hvernig fyrirsögnin á forsíðu ætti að vera.
Blaðamenn, sem skrifuðu fréttir af borgarstjórnarfundum fóru á blaðið að fundinum loknum, skrifuðu ítarlega frétt af umræðum á fundinum og hringdu síðan í Geir Hallgrímsson, borgarstjóra undir miðnætti og lásu fyrir hann alla frásögnina áður en hún var birt í blaðinu. Þessi vinnubrögð voru viðhöfð árum saman.
Undir lok Viðreisnaráratugarins kom upp mál, þar sem Morgunblaðið hélt í rauninni uppi harðri gagnrýni á ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Þar var um að ræða athugasemdir blaðsins við stefnuna í menntamálum og alltof þröngan aðgang ungs fólks að menntaskólanámi, þar sem hinu svonefnda landsprófi var beitt á þann veg, að það útilokaði fjölda ungmenna frá því að læra til stúdentsprófs. Umfjöllun Morgunblaðsins leiddi til víðtækra umræðna í þjóðfélaginu. Fjölbrautaskólinn í Breiðholti svo og brautskráning stúdenta frá Flensborgarskóla eru dæmi um ávöxt þessara umræðna, svo að eitthvað sé nefnt.
En skrif blaðsins voru byrjuð að valda erfiðleikum innan ríkisstjórnarinnar. Gylfi Þ. Gíslason, sem þá var menntamálaráðherra, tók þeim þunglega og Bjarni Benediktsson spurði Matthías Johannessen hvort hann ætlaði að fella ríkisstjórn sína. Það voru einu athugasemdir Bjarna við ritstjóra Morgunblaðsins vegna máls, sem bersýnilega olli honum óþægindum. Áður hafði Morgunblaðið að vísu stutt mennta- og menningarmálastefnu Gylfa Þ. Gíslasonar svo rækilega, að sú rödd heyrðist innan Sjálfstæðisflokksins, að Matthías Johannessen væri sérstakur ritstjóri Gylfa. Samband þeirra Bjarna Benediktssonar og Matthíasar var orðið mjög náið á Viðreisnarárunum og hefur það áreiðanlega átt þátt í að eyða allri tortryggni af Bjarna hálfu, sem annars hefði getað skotið rótum. Ekki sízt vegna þess að samband hans og Eyjólfs Konráðs var orðið mjög stirt á síðari hluta Viðreisnartímabilsins.
Morgunblaðið þjónaði Sjálfstæðisflokknum vel á þessum árum með frásögnum af málflutningi talsmanna hans, hvort sem var á flokksfundum eða annars staðar. Slíkum fréttum var gert hátt undir höfði. Ekki var höfð uppi gagnrýni á forystumenn, þingmenn eða borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins en það var alveg ljóst, að ekkert samráð var um leiðaraskrif frá degi til dags við foringja Sjálfstæðisflokksins.
Kannski má halda því fram, að þess hafi ekki þurft við. Það voru einungis dyggir stuðningsmenn flokksins, sem skrifuðu leiðara blaðsins og fréttir af vettvangi stjórnmálanna. Í leiðurum voru gjarnan langar tilvitnanir í ræður forystumanna Sjálfstæðisflokksins. Einu sinni ofbauð Geir Hallgrímssyni sú þjónustusemi, hringdi og spurði, hvort Morgunblaðið hefði engar sjálfstæðar skoðanir.
Ritstjórar Morgunblaðsins höfðu rétt til setu á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins á þessum árum. Eyjólfur Konráð Jónsson sat þá reglulega. Þegar leið á Viðreisnarárin ákvað Bjarni Benediktsson að þessi réttur skyldi einnig ná til þeirra, sem skrifuðu leiðara í blaðið. Greinarhöfundur sat þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í nokkur ár vegna þeirrar ákvörðunar.
En smátt og smátt opnaðist Morgunblaðið. Þar birtust greinar með sjónarmiðum, sem voru foringjum Sjálfstæðisflokksins ekki þóknanlegar. Blaðið byrjaði að birta greinar um atburði á vettvangi stjórnmálanna, sem lýstu ekki endilega viðhorfi forystumanna Sjálfstæðisflokksins og voru ekki skrifaðar í nokkru samráði við þá. Við lok Viðreisnaráratugarins var Morgunblaðið mun opnara blað en það hafði verið í byrjun hans.
Þótt ritstjórar þess hefðu þá stefnu að draga úr afskiptum Sjálfstæðisflokksins af málefnum blaðsins töldu þeir sér heimilt að skipta sér af málefnum flokksins, ef þeim sýndist svo. Við það voru engar athugasemdir gerðar þá en þessa afstöðu mátti rökstyðja með því, að þeir hefðu sama rétt og aðrir flokksmenn til þess að hafa skoðanir á mönnum og málefnum innan Sjálfstæðisflokksins. Þegar Gunnar Thoroddsen lét af ráðherradómi og gerðist sendiherra í Kaupmannahöfn hafði Eyjólfur Konráð Jónsson forystu um að fá Geir Hallgrímsson kjörinn í varaformannsembættið í hans stað. Eftir lát Bjarna Benediktssonar beitti Eyjólfur Konráð sér aftur mjög fyrir því, að Geir Hallgrímsson yrði kjörinn formaður en niðurstaðan varð sú, að Jóhann Hafstein tók við formennsku. Um þessa atburði fjallaði ég í minningargrein um Eyjólf Konráð í Morgunblaðinu hinn 14. marz 1997. Þar sagði meðal annars: “Mér minnisstætt, að morgun einn, þegar við Eykon sátum saman á skrifstofu hans og bárum saman bækur okkar að venju um stjórnmálaskrif næsta dags opnaðist hurðin skyndilega með nokkrum fyrirgangi og Matthías Johannessen kom inn og sagði: Við verðum með forsíðuviðtal við Jóhann Hafstein á morgun. Eykon leit á hann og sagði: “Jæja, Matti minn, þá er síðasta vígið fallið.” Í orðum Matthíasar fólst tillaga — ekki ákvörðun. En þegar Eykon sá, hvernig samstarfsmanni hans var innanbrjósts lét hann gott heita. Þannig var samstarf þeirra. Byggt á vináttu, trausti og tillitssemi. Næsta dag birti Morgunblaðið viðtal við Jóhann Hafstein efst á forsíðu með fimm dálka fyrirsögn og eftir það gat enginn efast um eindreginn  stuðning blaðsins við Jóhann sem eftirmann Bjarna.”
Vinstri stjórnin, sem mynduð var 1971 olli nokkrum þáttaskilum í blaðamennsku Morgunblaðsins. Fréttaflutningur blaðsins um stjórnmál breyttist mikið og var með allt öðrum brag en verið hafði. Fram að þeim tíma hafði öll umfjöllun um stjórnmál verið í höndum fárra manna á ritstjórn blaðsins. Auk ritstjóra Morgunblaðsins áttu þar hlut að á þessum árum Björn Bjarnason, Þorsteinn Pálsson, Halldór Blöndal og Davíð Oddsson en áratug áður hafði Hörður Einarsson, hrl. og síðar ritstjóri og framkvæmdastjóri Vísis og framkvæmdastjóri DV, komið þar mjög við sögu. Nú varð sú breyting á, að almennum blaðamönnum var sleppt lausum, ef svo má að orði komast og þeir byggðu upp sambönd við ráðherra í vinstri stjórninni og náðu fréttum, sem aðrir fjölmiðlar höfðu ekki vitneskju um.
Að nokkru leyti var þetta óhjákvæmileg breyting vegna þess, að með tilkomu sjónvarpsins nokkrum árum áður hafði fréttamennska ljósvakamiðlanna gjörbreytzt og bæði sjónvarpið og síðar útvarpið ráku harðari fréttamennsku, en áður hafði tíðkast hjá útvarpinu. Morgunblaðið gat ekki setið hjá og dagað uppi. En jafnframt byggði blaðið upp trúnaðarsambönd í herbúðum stjórnarflokkanna, sem leiddu til þess, að blaðið birti hvað eftir annað fréttir af lokuðum fundum, sem ekkert átti að vitnast um. Slíkar fréttir höfðu raunar byrjað að birtast á Viðreisnarárunum af vettvangi Alþýðubandalagsins og Sósíalistaflokksins, og ollu forystumönnum þeirra flokka miklum heilabrotum. Í einu tilviki töldu þeir að Morgunblaðið hefði komið fyrir fullkomnum hlerunarbúnaði á viðkvæmum fundi, þar sem blaðið birti fréttir af fundinum morguninn eftir en honum lauk kl. 3 um nóttina.
Þessi fréttaflutningur Morgunblaðsins var ekki endilega neikvæður fyrir forystumenn vinstri stjórnarinnar. Þeir voru mjög mikið í fréttum blaðsins af þessum sökum. Á þessum árum heyrðist fyrst sú gagnrýni, að talsmenn vinstri flokkanna væru of mikið í fréttum Morgunblaðsins og sú staðreynd ein væri þeim til framdráttar hvað sem liði afstöðu blaðsins til ríkisstjórnarinnar og stefnumála hennar. Svipaðar raddir höfðu heyrst í kosningabaráttunni vegna þingkosninganna 1967. Morgunblaðið  birti þá hvað eftir annað fréttir innan úr Alþýðubandalaginu um klofninginn, sem þar varð og leiddi til hins svonefnda I-lista framboðs í þeim þingkosningum. Þá var því haldið fram, að fréttir Morgunblaðsins af klofningi Alþýðubandalagsins hefðu orðið Hannibal Valdimarssyni til framdráttar.
Svo miklar áhyggjur höfðu menn af því, að opinn fréttaflutningur Morgunblaðsins af málefnum vinstri stjórnarinnar, sem sat frá 1971–1974 yrði henni til álitsauka að á fundi, sem ritstjórar Morgunblaðsins á þeim árum áttu með stjórn Árvakurs urðu þeir varir við verulegar áhyggjur stjórnarmanna af því, að blaðið væri með þessum hætti að hjálpa vinstri stjórninni. Þeir voru jafnframt ítrekað spurðir, hvort ekki væri hægt að styðja betur við bakið á Sjálfstæðisflokknum.
Afstaða þeirra til samskipta blaðs og flokks var þó óbreytt eins og skýrt kom fram, þegar greinarhöfundur var ráðinn aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins í febrúar 1971. Þá var það skilyrði sett fyrir þeirri ráðningu af hálfu stjórnar Árvakurs hf. að ég gegndi engri trúnaðarstöðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þessi afstaða var ítrekuð, þegar ég var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins 1. nóvember 1972. Nokkrum árum síðar var látið á það reyna, hvort þetta skilyrði næði til setu, sem óbreyttur stjórnarmaður í stjórn Sjálfstæðisfélags. Svo reyndist vera. Þegar ákveðin þáttaskil urðu í samskiptum Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins á árinu 1983 tók greinarhöfundur í samræmi við þetta þá ákvörðun að leita ekki oftar eftir kjöri, sem fulltrúi á landsfundi Sjálfstæðisflokks.
Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn var auðvitað eindreginn á þessu tímabili, þar sem Morgunblaðið hélt uppi stanzlausri orrahríð á hendur vinstri stjórninni og tókst aftur og aftur að skapa úlfúð á milli stjórnarflokkanna með fréttum úr innstu herbúðum þeirra. Má óhikað fullyrða að stjórnarandstaða Morgunblaðsins hafi jafnvel verið harðari en þingmanna Sjálfstæðisflokks á Alþingi. En ítrekuð fréttasamtöl við ráðherra vinstri stjórnarinnar, sem leiddi til þess að þeir voru mikið í fréttum blaðsins fór mjög fyrir brjóstið á mörgum Sjálfstæðismönnum. Slíkar raddir áttu eftir að heyrast aftur og aftur næsta aldarfjórðunginn.
Á þessum fyrstu árum áttunda áratugarins bar líka á nýrri gagnrýni á Morgunblaðið innan Sjálfstæðisflokksins. Hún var í því fólgin, að blaðið mismunaði mönnum úr forystusveit flokksins markvisst eftir því, hvort þeir væru blaðinu þóknanlegir eða ekki.
Í skjalasafni Eyjólfs Konráðs Jónssonar eru athyglisverðar heimildir um gagnrýni af þessu tagi, sem upp kom á þessum árum og átti líka eftir að heyrast næsta aldarfjórðunginn. Í minnispunktum, sem Eyjólfur Konráð skrifaði að loknum þingflokksfundi hinn 26. janúar 1972 segir meðal annars:
“Guðlaugur Gíslason kvaddi sér hljóðs og gagnrýndi það, að Morgunblaðið skyldi á gamlársdag birta greinar eftir forystumenn andstöðuflokka Sjálfstæðisflokksins. Jafnframt gagnrýndi hann, hve Morgunblaðið skýrði mikið frá ræðum andstæðinga Sjálfstæðismanna á Alþingi.
Jóhann Hafstein gat þess, að hann hefði talið hæpið að birta greinar frá foringjum andstöðuflokkanna. Sagðist hann ásamt varaformanni flokksins, Geir Hallgrímssyni, hafa rætt það mál við ritstjóra Morgunblaðsins og einnig rætt almennt um þingfréttir og samband flokksins við Morgunblaðið.
Enginn hafði kvatt sér hljóðs og ætlaði formaður að slíta umræðum en þá bað Gunnar Thoroddsen um orðið. Hann kvaðst verða að átelja Morgunblaðið  mjög bæði fyrir birtingu greinanna eftir forystumenn annarra flokka og jafnframt fyrir það, að blaðið mismunaði mjög mönnum. Sagði hann að svo rammt kvæði að þessu, að einn þingmaður væri í banni. Hann hefði flutt þrjár ræður fyrir jólin, en ekki verið greint frá neinni þeirra. Ég spurði hver sá maður væri. Hann svaraði: það er maður, sem ekki er hér inni, en þagði síðan um stund en sagði svo: Þorvaldur Garðar.
Gunnar Thoroddsen nefndi sem dæmi um það að Morgunblaðið mismunaði mönnum að á Varðarfundi með fjármálaráðherra hefði hann haldið 15 mínútna ræðu, en Morgunblaðið hefði einungis skýrt frá ræðum frummælenda, en síðan sagt, að Gunnar Thoroddsen hefði gert fyrirspurnir....
...Sagði ég síðan að fram hefðu verið bornar ásakanir á hendur blaðamönnum Morgunblaðsins, sem væru þess eðlis, að reka þyrfti þingfréttaritara blaðsins, ef þessar ásakanir væru sannar, því að blaðamenn hefðu skyldum að gegna og trúnaði, meiri en menn kannski almennt gerðu sér grein fyrir. Ég gat þess, að þrír ritstjórar Morgunblaðsins bæru einir ábyrgð á efni þess og þess vegna væri eðlilegt að beina gagnrýni að þeim, einmitt á þann hátt, sem Guðlaugur Gíslason hefði gert og væri ekkert við því að segja, að menn hefðu skiptar skoðanir. Ég vakti athygli á því, að á Varðarfundi hefði andstæðingi verið boðið að flytja aðalræðuna og ráða stefnu þess fundar, væri þar þó um að ræða flokksstofnun, gagnstætt því, sem væri með Morgunblaðið og skyti nokkuð skökku við að fárast yfir því, að Morgunblaðið heimilaði stjórnarandstæðingum nokkurt rúm, en sjá ekkert athugavert við fund Varðar.
Gunnar Thoroddsen sagði þá, að hann hefði ekki verið að brigzla blaðamönnum Morgunblaðsins um óheiðarleika heldur væri það ljóst að það væri Eyjólfur Konráð Jónsson, sem réði því að sumir væru settir í bann en þeir sem hann hefði velþóknun á, fengju sérstaka þjónustu....Sagðist hann geta fært sönnur á það að hann færi með rétt mál. Ég greip þá fram í fyrir honum og bað hann leitast við að sanna mál sitt.
Sönnunin var sú, að á haustþinginu hefðu Sjálfstæðismenn flutt tvö stórmál, annars vegar hefði Geir Hallgrímsson verið fyrsti flutningsmaður að tillögu í varnarmálum, en hins vegar hefði hann, Gunnar verið fyrsti flutningsmaður að tillögu í landhelgismálinu. Um varnarmálatillöguna hefði Morgunblaðið skrifað mikla ritstjórnargrein og getið þess, að Geir Hallgrímsson hefði verið fyrsti flutningsmaður tillögunnar, en hins vegar hefði verið skrifaður stuttur leiðari um landhelgistillöguna og ekki á það minnzt að Gunnar Thoroddsen hefði verið fyrsti flutningsmaður hennar. Væri þetta og margt fleira til sannindamerkis um það, að Eyjólfur Konráð Jónsson hældi þeim einum, sem hann teldi vera verðuga. Urðu síðan nokkrar orðahnippingar og gat ég þess þar meðal annars, að ég hefði óskað eftir því við Gunnar Thoroddsen síðsumars, að hann ritaði reglulega greinar í Morgunblaðið, helzt vikulega, tvær greinar hefðu birzt en síðan hefði botninn dottið úr öllu saman. Ég spurði, er þetta líka mér að kenna?
Ellert Schram kvaðst geta kvartað undan því, að ekki hefði verið skýrt frá tillögum, sem hann hefði flutt á þingi. Vildi hann þó taka sérstaklega fram, að vel hefði verið getið um jómfrúarræðu sína. Sagðist hann hafa átt um þetta viðtal við mig og hefði það endað í nokkrum styttingi, enda væru báðir skapstórir.
Magnús Jónsson tók til máls, ræddi hann um þingfréttir almennt. Sagðist hann ekki geta metið það, hvort nægilega vel hefði verið frá sínum málum og ræðum sagt, enda kastaði hann ekki á það tölu, væri ekki svo viðkvæmur fyrir eigin persónu.
Jóhann Hafstein ræddi málin lítillega og kvaðst ekki sjá ástæðu til að frekari umræður yrðu, enda hafði þá enginn kvatt sér hljóðs. Jóhann Hafstein tjáði mér áðan í síma, að Gunnar Thoroddsen hefði rætt við sig eftir þennan fund, sem var allheitur. Hefði hann ekki minnzt á Morgunblaðsmálefni,...”
Rétt er að geta þess í hverju ágreiningur um birtingu áramótagreina var fólginn, sem Jóhann Hafstein víkur að á fundi þeim, sem hér er vitnað til. Á gamlársdag 1971 birti Morgunblaðið í fyrsta sinn stuttar áramótagreinar eftir forystumenn annarra flokka til viðbótar við áramótagrein formanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta varð til þess, að Jóhann Hafstein, sem þá var orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins kom í heimsókn á Morgunblaðið ásamt Geir Hallgrímssyni, stjórnarformanni Árvakurs hf., þar sem óánægja formanns Sjálfstæðisflokksins með þessa stefnubreytingu var rædd. Sjónarmið ritstjóra Morgunblaðsins var að eðlilegt væri að lesendur blaðsins ættu aðgang að viðhorfum forystumanna allra flokka um áramót á síðum blaðsins en þyrftu ekki að leita í önnur blöð til þess að fá aðgang að þeim. Niðurstaðan af þessum fundi var sú, að ritstjórarnir féllust á, að í stað þess að óska eftir stuttum áramótagreinum frá forystumönnum annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins yrði beint til þeirra ákveðnum spurningum. Hefur sú venja haldizt síðan.
Eins og fram kemur í minnispunktum Eyjólfs Konráðs var Gunnar Thoroddsen ekki einn um að gera athugasemdir við vinnubrögð Morgunblaðsins á umræddum þingflokksfundi. Það gerði Ellert B. Schram líka, en hann hafði tekið sæti á Alþingi eftir þingkosningarnar sumarið 1971.
Hinn 5. nóvember 1972 birtist svo í Morgunblaðinu grein eftir Ellert, í formi opins bréfs til Eyjólfs Konráðs Jónssonar sem sýndi, að Morgunblaðið lá áfram undir gagnrýni vegna þess, hvernig blaðið hagaði samskiptum sínum við Sjálfstæðisflokkinn. Í grein þessari sagði Ellert B. Schram meðal annars:
“...Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur og samtök innan hans eiga ekki sjálfsagðan aðgang að þessu dagblaði eða öðrum. Sá “stóri og voldugi Sjálfstæðisflokkur” fær inni fyrir náð og miskunn velviljaðra ritstjóra. Þannig eiga þingmenn flokksins undir þingfréttariturum, hvort málflutningur þeirra kemst til skila og málsvarar Sjálfstæðisflokksins eru háðir mati og jafnvel duttlungum ykkar á ritstjórnarskrifstofunum, hvort stefna flokksins er túlkuð — og hvernig hún er túlkuð. Okkur er báðum kunnugt um að þetta ástand hefur oft og einatt valdið kurr í flokknum sjálfum. Þessu til viðbótar segja sumir, að ritstjórn blaðsins geri skoðunum mismunandi hátt undir höfði; að skoðanir ritstjóranna séu ekki spegilmynd af skoðunum þess breiða hóps, sem styðji flokkinn, að flokkurinn sitji tíðum uppi með stefnu, sem mótuð og mörkuð er af ykkur á ritstjórninni, frekar en þeim, sem til þess eru valdir af flokksmönnum sjálfum. Enn er á það bent að skrifstofa flokksins og ýmis samtök  hans eigi oft á tíðum í verulegum erfiðleikum með að fá birtar fréttatilkynningar eða ályktanir og málefni flokksins í það heila tekið, sitji á hakanum í efnisvali blaðsins.”
Eftir að hafa gert þessar athugasemdir lýsir Ellert B. Schram skilningi á afstöðu ritstjóra Morgunblaðsins er hann segir:”Ég þykist skilja tilraunir Morgunblaðsins til að móta sér sjálfstæðari stöðu og hrista af sér flokksklafa og flokksáhrif . Og þegar metnir eru kostir og gallar þess fyrirkomulags að dagblöð séu í eign og undir stjórn stjórnmálaflokka, þá út frá sjónarmiðum skoðanafrelsis og óháðrar blaðamennsku er ég eindregið fylgjandi að blöðin losi sig úr viðjum flokkanna. Þetta segi ég í trausti þess að þau falli ekki í aðra gryfju hlutdrægni og hagsmuna. Ég er sammála þeirri almennu viðleitni, að þjóðfélagið losi sig við þá flokkspólitísku samtryggingu, sem þrúgar alla skapaða hluti, stöðuveitingar, nefndakosningar, fréttaflutning, opinbera fyrirgreiðslu o.sv. frv....Morgunblaðið vill ekki leggja flokkspólitískt mat á fréttir. Það vill ekki leggja mælikvarða Sjálfstæðisflokksins á það efni, sem birt er. En ég hef ekki skilið það svo, að blaðið vilji útiloka greinar eða frásagnir, sem séu í anda þeirrar lífsskoðunar, sem gerir Sjálfstæðisflokkinn að stjórnmálahreyfingu í landinu.”
Í skjalasafni Eyjólfs Konráðs Jónssonar er  einnig að finna frásögn af símtali á milli hans og Gunnars Thoroddsens, sem fram fór hinn 9. október 1973, sem sýnir enn þá spennu, sem upp er komin í samskiptum sumra forystumanna Sjálfstæðisflokksins að minnsta kosti og ritstjóra Morgunblaðsins. Í frásögn Eyjólfs Konráðs segir meðal annars:
“...Ég hringdi í morgun í Gunnar Thoroddsen til að ráðgast við hann um skrif þau, sem orðið hafa út af stúdentafundi um landhelgismál sl. sunnudag og bað hann jafnframt um ræðu hans af fundinum til birtingar. ...
Í framhaldi af þessu tókum við að ræða almennt um Morgunblaðið. Var Gunnari geysimikið niðri fyrir. Kvað hann störf mín mjög mikið gagnrýnd og sagði að augljóst væri, hvaða menn Morgunblaðið vildi upphefja. Benti ég honum þá á, að strax eftir að vinstri stjórnin var mynduð hefði ég óskað eftir því, að hann ritaði vikulegar greinar í blaðið. Svaraði hann því á þann veg, að það gæti verið klókt af Morgunblaðinu að hafa öðru hverju greinar eftir sig til þess að sýna frjálslyndi. Ég sagði að erfitt mundi að ná saman, ef hann liti þannig á málin. Hann margendurtók að ég þyrfti ekki að tala við hann eins og barn, ég vissi ósköp vel, hvað ég væri að gera og leiðarar blaðsins, Reykjavíkurbréf og Staksteinar væru allt mikið gagnrýnt. Ég sagðist vera reiðubúinn að ræða við hann alla málefnalega gagnrýni og spurði hann sérstaklega að því, hvort okkur greindi að einhverju leyti á um landhelgismálið. Því svaraði hann ekki en sagði hins vegar að Morgunblaðið gæti ekki um störf þingflokksins og samþykktir hans. Ég benti honum þá á, að þegar þingflokkurinn síðast var að störfum og fjallaði um 200 mílna fiskveiðitakmörk hefði öll forsíðan verið helguð því máli. Hann kvaðst þá eiga við þingflokksfund, sem áður hefði verið haldinn í Borgarnesi en af honum bárust Morgunblaðinu engar fréttir eða tilkynningar....Hins vegar margendurtók hann gagnrýni sína á skrif Morgunblaðsins og sérstaklega störf mín. Ég bað hann um málefnalega gagnrýni og sagði hann þá, að Morgunblaðið hefði logið upp á sig í leiðara í sambandi við landsfundinn og jafnað sínum málflutningi saman við málflutning kommúnista. Kvaðst hann þó ekki vita hver hefði ritað þann leiðara og nefndi raunar að verið gæti, að Styrmir Gunnarsson hefði gert það.
Ég sagði Gunnari að mér væri kunnugt um skipulegan róg gegn Morgunblaðinu og það, sem sagt væri, væri í samræmi við orð hans nú. Spurði ég hann að því, hvort það væri kannski hann, sem bæri þessar sögur út. Hann varð ókvæða við þeirri spurningu og endurtók enn einu sinni, að ég vissi hvað ég væri að gera og þyrfti ekkert að tala eins og ég væri einhver kjáni...
...Ég sagði við Gunnar Thoroddsen, að mér hefði fundizt viðkunnanlegra að hann ræddi um þingfréttir við okkur ritstjórana áður en hann færi að tala við væntanlega þingfréttaritara. Hann kvaðst hafa rætt málið við formann stjórnar Árvakurs. Ég benti honum á, að efni Morgunblaðsins heyrði undir ritstjórn en ekki framkvæmdastjórn. Því svaraði hann einungis með orðunum: Jæja, einmitt það og virtist ekki taka það trúanlegt.”
Gagnrýnin, sem Morgunblaðið lá undir af hálfu ýmissa forystumanna og þingmanna Sjálfstæðisflokksins og að nokkru leyti forystusveitar ungra Sjálfstæðismanna á fyrri hluta áttunda áratugarins sneri aðallega að þeim þremur þáttum, sem hér hefur verið vikið að. Í fyrsta lagi var því haldið fram, að almenn fréttasamtöl við ráðherra í vinstri stjórn væru þeim pólitískt til framdráttar. Með þeim væri stuðlað að því, að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins væru of mikið í sviðsljósinu og það á þeim vettvangi, sem sízt skyldi, það er á síðum Morgunblaðsins.
Frá sjónarhóli ritstjóra Morgunblaðsins var hér einfaldlega um að ræða eðlilega fréttamennsku, sem blaðið hlyti að ástunda ætti það að standa undir nafni og halda stöðu sinni í samkeppni á blaðamarkaðnum sem var síharðnandi.
Í öðru lagi kvörtuðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins undan því, að málflutningi þeirra væri ekki gerð nógu ítarleg skil á síðum blaðsins. Um þessa gagnrýni var þetta að segja: Það var að sjálfsögðu óhugsandi að gera umræðum á Alþingi tæmandi skil á síðum blaðsins. Eftir að blaðið hóf að segja jöfnum höndum frá ræðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins og andstæðinga þeirra á Alþingi hlaut það að einhverju leyti að koma niður á því plássi, sem til aflögu var fyrir þingmál þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Þar að auki voru komin upp þau sjónarmið á ritstjórn blaðsins að ekki mætti leggja það allt undir pólitík og þess vegna áreiðanlega naumt skammtaðra pláss undir þingfréttir en var á síðustu tveimur áratugum þar á undan, þegar pólitíkin hafði að mörgu leyti forgang. Hins vegar er af og frá, að þingfréttaritarar Morgunblaðsins hafi haft fyrirmæli um að gera sumum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hærra undir höfði en öðrum.
Í þriðja lagi var því haldið fram, að Morgunblaðið styddi suma þingmenn og forystumenn Sjálfstæðisflokksins meir og betur en aðra. Þessi gagnrýni blossaði upp af margföldum þunga á nýjan leik á árabilinu 1978 til 1983.
Nú má auðvitað segja sem svo, að ekkert sé athugavert við það, að dagablað, sem gefið er út af einkafyrirtæki taki sjálft ákvörðun um það, hverja stjórnmálamenn það vill styðja og hverja ekki. Morgunblaðið hafði hins vegar jafnan stutt mjög eindregið helztu forystumenn Sjálfstæðisflokksins á hverjum tíma og gerði enn, þegar hér var komið sögu. Jóhann Hafstein hafði verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá láti Bjarna Benediktssonar og Geir Hallgrímsson var kjörinn varaformaður flokksins á landsfundi 1971 í harðri kosningu á móti Gunnari Thoroddsen. Eftir að ljóst var orðið, að Jóhann vildi taka við formennsku flokksins haustið 1970 studdi Morgunblaðið hann dyggilega og síðar þá báða, hann og Geir. Eftir að Jóhann lét af formennsku vegna veikinda og Geir tók við formennsku en Magnús Jónsson frá Mel við varaformennsku átti það sama við.
Hins vegar fór ekkert á milli mála, að ritstjórar Morgunblaðsins á þessum tíma voru mjög eindregnir stuðningsmenn Geirs Hallgrímssonar og vildu veg hans sem mestan. Það hafði ekkert með stjórnarformennsku hans í Árvakri hf. að gera. Þeir Geir og Eyjólfur Konráð höfðu verið nánir pólitískir bandamenn frá því á sjötta áratugnum og hefur Eyjólfur Konráð lýst því í minningargrein um Geir, hvernig það bar til. Á sínum yngri árum var Matthías Johannessen í öðrum hópi meðal ungra Sjálfstæðismanna en Geir og átti meðal annars þátt í að fella alla stjórnarmenn Geirs í Heimdalli frá kjöri en Geir, sem þá var formaður félagsins var hlíft. Með þeim Matthíasi og Geir hafði hins vegar tekizt náið samstarf á vettvangi Morgunblaðsins eftir að Matthías kom að ritstjórn þess. Geir Hallgrímsson var átrúnaðargoð ungra Sjálfstæðismanna á þeim árum, sem höfundur þessarar greinar kom til starfa á þeim vettvangi. Hinir þrír ritstjórar Morgunblaðsins höfðu því hver um sig gildar ástæður til þess að veita Geir Hallgrímssyni eins öflugan stuðning og þeir framast gátu. Og hver gat gagnrýnt Morgunblaðið fyrir að styðja borgarstjórann í Reykjavík, varaformann Sjálfstæðisflokksins og formann Sjálfstæðisflokksins?
Gagnrýni Gunnars Thoroddsen á þessum árum var því afgreidd með því á ritstjórn Morgunblaðsins, að hann væri ekki búinn að sætta sig við að hafa ekki náð kjöri, sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á nýjan leik á landsfundinum 1971. Hann hafði sjálfur tekið ákvörðun um að hverfa frá stjórnmálum 1965. Að hans ósk hafði Morgunblaðið lýst opinberlega stuðningi við hann í forsetakosningunum 1968.
Morgunblaðið háði harða kosningabaráttu fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum og þingkosningunum 1974. Eftir að Geir Hallgrímsson myndaði ríkisstjórn sína síðla sumars 1974 breyttist tóninn hins vegar á ritstjórninni. Fram að þeim tíma höfðu öll skref sem stigin voru verið í átt til þess að fjarlægjast Sjálfstæðisflokkinn, þótt hægt færi en þó með nægilega  skýrum hætti til þess að blaðið kallaði yfir sig þá gagnrýni, sem hér hefur verið vikið að.
En nú hafði sá stjórnmálamaður, sem ritstjórar Morgunblaðsins mátu mest myndað ríkisstjórn og það leiddi til þess að eitt skref var stigið til baka. Segja má, að á næstu þremur árum hafi verið vakað yfir hverri einustu frétt, sem sneri að ríkisstjórninni til þess að gæta þess, að hún væri sett fram í réttu ljósi. Blaðamennirnir, sem voru byrjaðir að njóta þess frelsis, sem vinstri stjórnin 1971-1974 veitti þeim fundu þessa breytingu og kunnu ekki að meta hana. Ritstjórarnir töldu hins vegar að miklir þjóðarhagsmunir væru í húfi að vel tækist til.
Vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar hafði farið lengra að því marki að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin en vinstri stjórnin 1956-1958 þótt bæði Ólafur Jóhannesson og Hannibal Valdimarsson fullyrtu í einkasamtölum við ritstjóra blaðsins, að til þess mundi aldrei koma. Fyrsta verkefni ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar var að koma varnarsamstarfinu í réttan farveg og Morgunblaðið studdi það eindregið eins og við mátti búast.
Í annan stað var það stefnumál ríkisstjórnarinnar að færa fiskveiðilandhelgina út í 200 sjómílur. Ritstjórar Morgunblaðsins höfðu lengi talið, að stefnumörkun Viðreisnarstjórnarinnar í landhelgismálinu í þingkosningunum 1971 hefði verið meiriháttar mistök. Ríkisstjórn, sem hafði setið lengi að völdum hefði látið embættismenn ráða ferðinni. Almenningur skildi ekki þá stefnu Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, að færi ætti landhelgismörkin út að 400 metra dýptarlínu.
Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn höfðu staðið saman í baráttunni fyrir stofnun lýðveldis á Íslandi 1944 og í fyrstu landhelgisdeilunni við Breta árið 1950. Morgunblaðið taldi nú skipta höfuðmáli, að Sjálfstæðisflokkurinn næði frumkvæðinu í landhelgismálum úr höndum vinstri manna, sem höfðu haft forystu um útfærslu í 12 sjómílur og 50 sjómílur.
Þriðja stóra málið sem ríksstjórn Geirs Hallgrímssonar þurfti að kljást við var óðaverðbólgan. Verðbólgan fór úr böndum með  valdatöku vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar. Hún magnaðist svo enn vegna fyrri olíukreppunnar.
Til þess að ná þessum þremur meginmarkmiðum töldu ritstjórar Morgunblaðsins nauðsynlegt að nálgast Sjálfstæðisflokkinn á nýjan leik og það var gert. Á þessum árum skapaðist mjög náið samband og samstarf á milli ritstjóra blaðsins og Geirs Hallgrímssonar. Reglulegir fundir voru haldnir á skrifstofum blaðsins með forsætisráðherra, þar sem þeir voru einnig Haraldur Sveinsson, framkvæmdastjóri og Björn Bjarnason helzti aðstoðarmaður Geirs í forsætisráðuneytinu.
Eini maðurinn, sem gagnrýndi ritstjóra blaðsins á þessum árum fyrir þessa augljósu stefnubreytingu var Haraldur Sveinsson, sem var hvoru tveggja í senn æskuvinur Geirs, náinn samstarfsmaður hans í stjórn Árvakurs og fulltrúi næst stærsta hluthafa blaðsins. Hann hélt því hvað eftir annað fram við ritstjórana   að þeir væru að fara með blaðið mörg ár aftur í tímann inn í Sjálfstæðisflokkinn og gaf ekkert eftir í þeirri gagnrýni.
Þessi eindregni stuðningur við ríkisstjórnina kom þó ekki í veg fyrir, að til ágreinings kæmi á milli forsætisráðherrans og ritstjóranna. Í eitt skiptið mislíkaði honum svo mjög við Morgunblaðið, að hann talaði ekki við ritstjóra blaðsins vikum saman.
Málefnalegur ágreiningur kom hins vegar upp í kjölfar kjarasamninganna, sem gerðir voru vorið 1977. Forsætisráðherrann túlkaði samningana á þann veg, að þeir væru í járnum. Morgunblaðið taldi þá hafa farið úr böndum. Það var þó ekki sagt fyrr en að loknum fundi þar sem þessi mál voru rædd af hreinskilni. Ritstjórarnir sökuðu Geir Hallgrímsson um að hlusta um of á Jón Sigurðsson, sem þá var forstjóri Þjóðhagsstofnunar og allir vissu, að væri Alþýðuflokksmaður. Geir hafði hins vegar miklar mætur á Jóni og efndi til fundar með honum og ritstjórum  til að sannfæra hina síðarnefndu. Niðurstaðan með góðu samkomulagi beggja aðila var sú, að Morgunblaðið mundi tala á annan veg en talsmenn ríkisstjórnarinnar og rökin voru þau, að það mundi koma Sjálfstæðisflokknum vel, ef í ljós kæmi að Jón Sigurðsson hefði haft rangt fyrir sér.
Eftir kjarasamningana við opinbera starfsmenn um haustið fór allt úr böndum. Ráðgjafar Geirs innan stjórnkerfisins ráðlögðu honum að grípa í taumana. Mörg samtöl og mikil fóru á milli forsætisráðherrans og ritstjóra Morgunblaðsins í desember 1977, þar sem hinir síðarnefndu vöruðu Geir við af pólitískum ástæðum að hlusta á þau ráð. Snemma í janúar kallaði Geir til skrafs og ráðagerða Jóhannes Nordal, Seðlabankastjóra sem dró upp slíka hryllingsmynd af því, sem gerast mundi í efnahagsmálum lands og þjóðar, ef ekkert yrði að gert að forráðamenn Morgunblaðsins hétu stuðningi blaðsins við febrúarlögin og studdu einnig síðar maílögin.
Það sem gerðist í kjölfarið er öllum kunnugt og verður ekki rakið hér. Hins vegar væri það fróðlegt rannsóknarefni að kanna, hvað hefði gerzt, ef ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar hefði ekki gripið til þeirra óvinsælu ráðstafana, sem leiddu til ófara Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningum og þingkosningunum 1978. Ekki er ósennilegt að þá kæmi í ljós, að Geir hafi valið rétta leið fyrir þjóðina, þótt hann hlyti ekki umbun fyrir það í kosningum.
Eftir kosningaúrslitin vorið og sumarið 1978 fór fram samtal á milli Geirs Hallgrímssonar og ritstjóra Morgunblaðsins, sem af hálfu hinna síðarnefndu var eitthvað á þessa leið: Við höfum gert meiriháttar mistök og sízt af öllu orðið til þess að veita þér þann stuðning, sem við vildum. Við þrengdum blaðið alltof mikið og reyndum að setja þig á stall eins og Morgunblaðið gerði 20-30 árum áður með formenn Sjálfstæðisflokksins en nú eru breyttir tímar. Við verðum að venda okkar kvæði í kross og galopna blaðið. Þessu var Geir Hallgrímsson algerlega sammála.
Sumarið 1978 varð gjörbreyting á Morgunblaðinu. Það gekk í endurnýjun lífdaga. Hinum eldri og reyndari blaðamönnum, sem fram að þessu höfðu lítið komið nálægt pólitík, nema á vinstri stjórnar árunum 1971-1974 voru veittar frjálsari hendur. Þeir unnu dag og nótt og vikum saman birti Morgunblaðið nýstárlegar fréttaskýringar um það, sem var að gerast að tjaldabaki í stjórnarmyndunartilraunum innan allra flokka. Þetta sumar var í fyrsta sinn skrifuð mjög opin fréttaskýring í blaðið um innri málefni Sjálfstæðisflokksins og þau átök, sem fram fóru þar innan dyra. Þar með var brotið blað. Segja má, að frá og með þessu samtali við Geir Hallgrímsson hafi aldrei verið horft til baka en alltaf stefnt fram á við.
Næstu fimm árin voru erfiður tími innan Sjálfstæðisflokksins. Í kjölfar kosningaósigranna vorið 1978, slakari útkomu en vænzt var í desemberkosningunum 1979 og stjórnarmyndunar Gunnars Thoroddsens í febrúarbyrjun 1980 hófst mikil valdabarátta innan Sjálfstæðisflokksins. Í stórum dráttum má segja, að Gunnar Thoroddsen og Albert Guðmundsson hafi tekið höndum saman um að koma Geir Hallgrímssyni á kné og sumir yngri menn flokksins hafi haft loðna afstöðu til Geirs í þeim átökum en aðrir stutt hann.
Á þessum árum vék Morgunblaðið aldrei frá því setta marki að rjúfa hin gömlu tengsl við Sjálfstæðisflokkinn en byggja samskipti við flokkinn á nýjum grundvelli. En jafnframt var blaðið eitt helzta vígi Geirs Hallgrímssonar í þeim átökum, sem yfir stóðu.
Sumir héldu því fram áhrif Morgunblaðsins innan Sjálfstæðisflokksins væru orðin óhóflega mikil, að blaðið mótaði stefnu flokksins gagnstætt því, sem áður hefði verið að flokkurinn mótaði stefnu blaðsins. Þá var því haldið fram, að ritstjórar Morgunblaðsins væru á kafi í stjórnarmyndunartilraunum og sá áróður var mjög stífur að Morgunblaðið fjallaði af velþóknun um stuðningsmenn Geirs Hallgrímsonar innan Sjálfstæðisflokksins en refsaði andstæðingum hans. Allt var þetta ofmælt.
Hið nána samráð á milli formanns Sjálfstæðisflokksins og ritstjóra Morgunblaðsins, sem hafði orðið mjög mikið á forsætisráðherraárum hans hélt áfram og var nú orðið nánast daglegt. En þau samskipti byggðust fyrst og fremst á því, að ritstjórar Morgunblaðsins voru á þeim árum ein helzta upplýsingalind Geirs Hallgrímssonar. Í samtölum við þá fékk hann betri yfirsýn en ella yfir það, sem var að gerast í þjóðfélaginu almennt og Sjálfstæðisflokknum sérstaklega. Tengsl þeirra við forystumenn annarra flokka komu honum að góðum notum og hann var ekki hræddur við að notfæra sér þau  og taldi þau jákvæð.
Þegar Geir á þessum árum flutti meiriháttar stefnumarkandi ræður leitaði hann gjarnan eftir því við ritstjóra Morgunblaðsins, að þeir sendu honum uppköst eða minnispunkta en hann leitaði eftir hinu sama við fjölmarga aðra aðila. Stundum notaði hann mikið af því, sem honum var sent. Stundum ekki neitt.
Þegar Morgunblaðið birti greinar í desember 1979, þar sem hvatt var til þess að kannaðir yrðu möguleikar á myndun nýsköpunarstjórnar var það gert án samráðs við Geir. Hann vissi ekkert um þær greinar fyrr en þær komu í blaðinu en því trúði Gunnar Thoroddsen aldrei, eins og fram kom á landsfundinum 1981.
Þegar hins vegar ritstjórar Morgunblaðsins notuðu tengsl sín við einstaka forystumenn Alþýðubandalagsins á bak við tjöldin til þess að kanna jarðveg fyrir slíkri stjórnarmyndun kom í ljós að þar voru á ferð fleiri fulltrúar Geirs Hallgrímssonar. Þar var um að ræða dr. Jóhannes Nordal, sem greinarhöfundur uppgötvaði þá að hafði meiri sambönd inn í Alþýðubandalagið en ætla hefði mátt.
Þannig voru starfshættir Geirs. Hann leitaði eftir hugmyndum frá mörgum. Hann notfærði sér sambönd og tengsl margra aðila. En hann tók sjálfur þær ákvarðanir, sem máli skiptu.
Forsvarsmenn Morgunblaðsins litu svo á, að ásakanir um að blaðið mismunaði mönnum eftir því, hvort þeir væru hliðhollir Geir eða honum andsnúnir ættu ekki við rök að styðjast. Þetta væri fyrst og fremst aðferð andstæðinga hans innan Sjálfstæðisflokksins til þess að koma höggi á hann á þeirri forsendu, að slík vinnubrögð gætu ekki viðgengist nema hann sem stjórnarformaður Árvakurs hf. legði blessun sína yfir þau. Nákvæm rannsókn til dæmis á umfjöllun Morgunblaðsins á fréttasíðum um málefni ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens mundi áreiðanlega leiða í ljós, að ráðherrar hennar áttu ekki erfitt með að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á vettvangi Morgunblaðsins. Blaðið snerist mjög hart gegn stjórnarmyndun Gunnars eins og meðal annars kom fram í grein, sem Matthías Johannessen skrifaði í Morgunblaðið hinn 23. febrúar 1980 og nefndist: Býsnavetur í íslenzkri pólitík. En jafnframt var honum sýnd full sanngirni eins og berlega kom fram á sjötugsafmæli hans, þegar Morgunblaðið fjallaði um Gunnar í Reykjavíkurbréfi á þann veg, að í afmæli hans daginn eftir þakkaði hann Matthíasi Johannessen sérstaklega fyrir Reykjavíkurbréfið en bætti við — það era.s. fyrri hlutann! Seinni hlutinn var helgaður gagnrýni á ríkisstjórn hans.
Á síðari áratugum hefur Morgunblaðið ekki birt svæsnari árásargreinar á nokkurn mann en blaðið birti um stjórnarformann Árvakurs hf. á þessum árum.
Árið 1983 urðu formleg þáttaskil í samskiptum Sjálfstæðisflokks og Morgunblaðs. Eins og áður var að vikið höfðu ritstjórar Morgunblaðsins og síðar leiðarahöfundar haft rétt til setu á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins. Þegar Gunnar Thoroddsen var kjörinn formaður þingflokksins varð á þessu sú breyting, að hvorki ritstjórum né leiðarahöfundum var boðinn aðgangur að þingflokksfundum heldur þingfréttaritara Morgunblaðsins. Aldrei var gefin nokkur skýring á því, hvers vegna þessi breyting var gerð. Og aldrei fór neitt skriflegt á milli flokks og blaðs um þessa skipan mála.
Hinn 4. júlí 1983 barst Stefáni Friðbjarnarsyni, sem verið hafði þingfréttaritari Morgunblaðsins í tæpan áratug hins vegar bréf frá Ólafi G. Einarssyni, þáverandi formanni þingflokks Sjálfstæðismanna. Bréf þetta var svohljóðandi:
“Á fundi þingflokks Sjálfstæðismanna þann 27. júní s.l. var samþykkt að eftirtaldir aðilar skyldu eiga rétt til setu á fundum þingflokksins til loka næsta þings: formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins, formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, borgarstjórinn í Reykjavík og þingfréttaritari Morgunblaðsins.
Með vísun til þessa er yður hér með boðið að sækja reglulega fundi þingflokksins á næsta þingi. Fundartími er mánudagar og miðvikudagar frá kl. 16-18. Fundirnir eru ekki sérstaklega boðaðir. Aukafundir eru haldnir eftir þörfum. Ekki er gert ráð fyrir, að framangreindir aðilar verði sérstaklega boðaðir til þeirra funda nema umræðuefni varði þá sérstaklega.
Samkvæmt 14. gr. starfsreglna þingflokksins er þingmönnum gert skylt að sækja fundi þingflokksins. Þótt sú skylda sé ekki lögð á gesti er þess vænst að þeir sjái sér fært að mæta á hinum reglulegu þingflokksfundum.
Eintak af starfsreglum þingflokksins fylgir hér með.
Með von um góða samvinnu
Ólafur G. Einarsson”

Þótt bréf þetta væri stílað á þingfréttaritara Morgunblaðsins tóku ritstjórar Morgunblaðsins að sér að svara því. Það svar var sent í samráði við stjórn Árvakurs hf. en formaður hennar var þá Geir Hallgrímsson, sem enn gegndi formennsku í Sjálfstæðisflokknum sumarið 1983 og lét ekki af því starfi fyrr en á landsfundi um haustið. Svarið sem sent var 21. júlí 1983 var svohljóðandi:
“Til þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
Með bréfi dags. 4. júlí sl. hefur þingfréttaritara Morgunblaðsins verið tilkynnt, að hann eigi rétt til setu á fundum þingflokksins sbr. samþykkt þingflokksins frá 27. júní sl.
Um langan aldur hafa þingfréttaritarar Morgunblaðsins átt rétt til setu á fundum þingflokks Sjálfstæðisflokksins og fram til haustsins 1975 átti einn af ritstjórum blaðsins sæti á þingflokksfundum.
Að vandlega athuguðu máli hafa ritstjórar Morgunblaðsins nú tekið ákvörðun um, að þingfréttaritarar blaðsins notfæri sér ekki þann rétt, sem tilgreindur er í bréfi formanns þingflokksins frá 4. júlí sl.
Um leið og Morgunblaðið þakkar þingflokki Sjálfstæðisflokksins áratuga samstarf látum við í ljós von um góða samvinnu í framtíðinni.
Með kveðju,
f.h. Morgunblaðsins
Matthías Johannessen
Styrmir Gunnarsson”

Með þessum tveimur bréfum lauk formlega nánum samskiptum, sem staðið höfðu áratugum saman á milli þingflokks Sjálfstæðismanna og ritstjórnar Morgunblaðsins. Lengi höfðu ritstjórar frá Morgunblaðinu jafnframt verið þingmenn Sjálfstæðisflokksins en nú var þessum samskiptum í því formi, sem þau höfðu lengi verið lokið.
Um haustið urðu önnur þáttaskil, þegar stjórnarformaður Árvakurs hf. lét af formennsku í Sjálfstæðisflokknum.
Ritstjórar Morgunblaðsins töldu haustið 1983 að nú væri brautin bein og breið. Hinn nýi formaður Sjálfstæðisflokksins var Þorsteinn Pálsson, sem hóf starf á Morgunblaðinu ungur að árum og skrifaði um stjórnmál í blaðið í nokkur ár. Hann hafði sem slíkur tekið þátt í að framkvæma þær breytingar, sem voru að verða á blaðinu og meðal annars lent í átökum við einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins af þeim sökum. Hann hafði síðan tekið við ritstjórn Vísis og verið óvæginn í gagnrýni á forystumenn Sjálfstæðisflokksins, raunar svo mjög að stirt var um skeið á milli hans og þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, Geirs Hallgrímssonar.
Rúmu ári áður hafði annar ungur maður, sem starfað hafði á Morgunblaðinu um skeið og  meðal annars skrifað einhverja eftirminnilegustu Staksteina blaðsins ,Davíð Oddsson, unnið glæstan kosningasigur í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Framtíð Sjálfstæðisflokksins var nú í höndum þessara tveggja ungu manna, sem forráðamenn Morgunblaðsins höfðu mikla trú á og hafa sett mark sitt á Sjálfstæðisflokkinn síðan.
Morgunblaðið hélt áfram að þróa hina opnu blaðamennsku fram eftir níunda áratugnum en sleit aldrei öll tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Í formannstíð Þorsteins Pálsson, sem stóð í rúm sjö ár voru þessi samskipti ekki hnökralaus. Hinn ungi formaður hafði þann hátt á að hann talaði ekki við ritstjóra Morgunblaðsins ef honum mislíkaði við þá. Þeim kom þetta á óvart en þó ekki síður hitt, að þegar þeir höfðu samband við hann að eigin frumkvæði eftir margra mánaða þögn  var sem ekkert hefði gerzt og gömul vinátta stóð á traustum grunni.
Á þessum árum var því hreyft að ritstjórar Morgunblaðsins væru of mikið að skipta sér af málefnum Sjálfstæðisflokksins. Þegar horft er til baka má fallast á, að sú gagnrýni hafi átt við nokkur rök að styðjast. Ef til vill má segja, að forráðamenn Morgunblaðsins hafi verið orðnir heimaríkir um of. Þeir voru búnir að velkjast um í ólgusjó Sjálfstæðisflokksins í áratugi, þegar hér var komið sögu. En með sama hætti og þeir kröfðust þess, að Sjálfstæðisflokkurinn skipti sér ekki af Morgunblaðinu var með réttu hægt að gera þá kröfu til þeirra, að þeir skiptu sér ekki af Sjálfstæðisflokknum. Rökin, sem áður var vísað til og hægt var að nota tveimur áratugum áður um rétt flokksmanna í Sjálfstæðisflokknum til þess að skipta sér af málefnum flokksins áttu tæpast við á níunda áratugnum. Telja verður að síðustu beinu afskipti ritstjóra Morgunblaðsins af málefnum Sjálfstæðisflokksins hafi verið vorið 1987. Þá hafði höfundur þessarar greinar frumkvæði að því að leiða þá saman fyrir kosningar, Þorstein Pálsson, formann Sjálfstæðisflokks og Jón Baldvin Hannibalsson, formann Alþýðuflokks og Matthías Johannessen átti þátt í að greiða fyrir samtölum þeirra tveggja við æskuvin sinn, Steingrím Hermannsson, sem þá var formaður Framsóknarflokks og fráfarandi forsætisráðherra.
Þótt Morgunblaðið væri smátt og smátt að nálgast lokapunkt á langri vegferð gleymdu ritstjórar Morgunblaðsins því ekki, að almennir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins væru jafnframt bestu stuðningsmenn Morgunblaðsins. Við vorum sérstaklega viðkvæmir fyrir því, að gera ekkert það í borgarstjórnarkosningum, sem hægt væri að segja að yrði skaðlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ástæðan var sú, að við töldum, að meirihlutinn í Reykjavík væri nánast hjartað í Sjálfstæðisflokknum og að fjölmargir góðir stuðningsmenn Morgunblaðsins mundu aldrei fyrirgefa blaðinu, ef það brygðist Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórnarkosningum.
Að loknum borgarstjórnarkosningunum 1990, hinn 27. maí, skrifaði Davíð Oddsson, borgarstjóri ritstjórum Morgunblaðsins og aðstoðarritstjóra svo og stjórnarformanni Árvakurs hf. og framkvæmdastjóra svohljóðandi bréf:
“Fyrir mína hönd persónulega og fyrir hönd borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna og Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vil ég nota fyrsta tækifæri til þess að færa Morgunblaðsmönnum alúðarþakkir fyrir mikinn og öflugan stuðning blaðsins í þeim sveitarstjórnarkosningum, sem svo farsællega lyktaði í gær.
Morgunblaðinu tókst að veita flokknum í Reykjavík afar öflugan og einlægan stuðning en um leið að vera opinn vettvangur fyrir alla þá umræðu, sem átti sér stað vegna kosninganna og hafa yfirburðir Morgunblaðsins aldrei komið betur fram í þeim efnum. Ef ljósvökum er sleppt er ljóst að hin almenna stjórnmálaumræða fjölmiðlanna fór að mestu leyti fram í Morgunblaðinu og þótt sú umræða kunni að vera efni, sem ekki er almennt sóst eftir, þá tel ég að í jafn stuttri og snarpri kosningabaráttu hafi hún haft mikið gildi jafnt fyrir blaðið, sem lesendur þess.
Persónulega vil ég þakka fyrir samstarf mitt við ritstjórn blaðsins í kringum þessar kosningar. Ég met mikils þann velvilja og vináttu, sem ég þykist finna fyrir hjá forráðamönnum Morgunblaðsins.
Davíð Oddsson”

Fjórum árum seinna tók Morgunblaðið nýtt skref, þegar kom að borgarstjórnarkosningum. Blaðið studdi Sjálfstæðisflokkinn og baráttumál hans en einungis í leiðurum og Reykjavíkurbréfum. Vinstri menn héldu að vísu öðru fram og töldu að Morgunblaðið hefði í einstaka tilvikum hagrætt fréttum til þess að gefa betri mynd af stöðu Sjálfstæðisflokksins en fyrir þeirri ásökun voru engin efnisleg rök.
Frá sjónarhóli Morgunblaðsins eru ritstjórnargreinar blaðsins, það er forystugreinar og Reykjavíkurbréf hinn eðlilegi vettvangur fyrir skoðanir blaðsins sjálfs, hvort sem um er að ræða afstöðu í kosningum eða umfjöllun um önnur mál. Á þetta gat Árni Sigfússon, þáverandi borgarstjóri Sjálfstæðisflokksins fallizt, en hann hringdi í ritstjóra Morgunblaðsins árla á sunnudagsmorgni eftir kosningaósigur sinn og þakkaði blaðinu fyrir þann stuðning, sem það hefði veitt honum.
Fall ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar haustið 1988 var erfið reynsla fyrir bæði hann og Sjálfstæðisflokkinn. Á þeirri vegferð Morgunblaðsins, sem hér hefur verið lýst hafði blaðið ekki áður staðið frammi fyrir slíkum atburðum eftir að skilin á milli flokks og blaðs voru orðin jafn mikil og þá.
Hin persónulegu tengsl voru jafn mikil og áður eins og sjá má af því, að ritstjóri Morgunblaðsins var boðaður seint um kvöld til fundar við Þorstein Pálsson, forsætisráðherra og Davíð Oddsson, borgarstjóra í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg daginn áður en stjórnarsamstarfið sprakk í loft upp.
En nú þurfti ekki bara að gæta að gömlum vináttutengslum og hagsmunum Sjálfstæðisflokksins. Trúverðugleiki Morgunblaðsins, sem sjálfstæðs dagblaðs var líka í veði. Eftir þennan fund og upp úr miðnætti var sú ákvörðun tekin á ritstjórn Morgunblaðsins að slá upp á baksíðu fyrirsögn, sem var talin lýsa því, sem fréttnæmast var í hraðri atburðarás en ekki fyrisögn, sem var Sjálfstæðisflokknum hagstæð frá pólitísku sjónarmiði. Næstu daga og vikur eftir að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar féll lýsti Morgunblaðið þeirri skoðun í ritstjórnargreinum, að Sjálfstæðisflokkurinn ætti einnig hlut að því  máli, að samstarf flokkanna þriggja hefði ekki gengið betur en raun varð á.
Þarna er að mati greinarhöfundar að finna upphafið að ákveðnum trúnaðarbresti, sem í vaxandi mæli einkenndi samskipti Morgunblaðsins og hinnar nýju forystu Sjálfstæðisflokksins í tæpan áratug.
Síðar þetta sama haust eftir að ný vinstri stjórn hafði tekið við völdum var þeirri skoðun hreyft í persónulegum samtölum að það væri óskaplegt til þess að vita að  svo miklum hagsmunum Sjálfstæðisflokksins hefði verið fórnað vegna æskuvináttu tveggja manna og var þá átt við persónuleg tengsl annars ritstjóra Morgunblaðsins við þáverandi formann Alþýðuflokksins.
Þessi ásökun var sett fram af auknum þunga síðari hluta kjörtímabils ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og því jafnvel haldið fram, að Morgunblaðið hefði ekki aðeins sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn heldur tekið upp stuðning við Alþýðuflokkinn.
Svo vill til að greinarhöfundur fékk vissa syndakvittun úr óvæntri átt hinn 28. marz 1993. Þá sendi Hannes Hólmsteinn Gissurarson mér svofellt bréf:

“Kæri Styrmir
Ég skrifa þér vegna þess, að mér þótti fyrir því, hversu ókurteis.....var við þig, þegar við hittum þig um daginn. Ég veitti honum síðar stranga áminningu; þótt okkur kunni að greina á um einstök málefni, veitir það...enga heimild til þess að kalla þig sósíalista. Auðvitað ert þú enginn sósíalisti, þótt þú kunnir að vera sammála sósíalistum í einstökum málum, eins og ég hefur verið ódeigur við að benda á. Ég er þeirrar skoðunar,að þér megi helzt lýsa sem rómantískum íhaldsmanni; þú ert þjóðrækinn, hrifinn af smákapítalisma, einkaframtaki, atorku og dugnaði einstakra manna, en efagjarn á stórkapítalista og stórfyrirtæki og lítill aðdáandi skarkalans og hávaðans á markaðnum.
Gagnrýni þín á gang þjóðfélagsmála minnir talsvert á gagnrýni ýmissa toría, brezkra íhaldsmanna, nítjándu aldar, á kapítalismann ungan; ég er ekki samþykkur þeirri gagnrýni en rangt er að kenna hana við sósíalisma vinstri flokka; þessir menn gerðu sér grein fyrir því, að kapítalisminn er að sumu leyti tortímingarafl; hann rífur upp með rótum ýmis arfhelg vé fyrri alda; hann sundrar fólki (um leið og hann sameinar að öðru leyti); hann ógnar tryggðaböndum og gömlum og góðum siðum. En þessir menn skildu ekki, að kapítalisminn er líka að sumu leyti sköpunarafl; hann veitir minnihlutahópum svigrúm;hann rúmar óvinsælar skoðanir (að því tilskyldu að menn vilji greiða kostnaðinn af að hafa þær); hann byggir upp um leið og hann veltir í rúst.
Ég tel og hef sagt vinum mínum og kunningjum það, að sjálfstæðismenn eyði tímanum til einskis, ef þeir nöldra úti í horni um það, hvernig Morgunblaðið sé orðið. Ég hef sagt þeim, að blaðið sé þrátt fyrir allt opið blað og ekki í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn; þeir eigi að nota sér það í stað þess að búast við því að Morgunblaðið heyi hina pólitísku baráttu fyrir þá. Þeir verða að átta sig á því að hjónaskilnaðurinn hefur farið fram; Morgunblaðið bað um skilnað og aðalatriðið er að skilnaðurinn fari fram í góðu. Ég hef góða reynslu af sambandinu við ykkur Matthías frá fyrri árum; þið veittuð mér tækifæri og leiðsögn á mesta mótunarskeiði mínu, þótt við uppgötvuðum síðar að við ættum ekki samleið að öllu leyti. Ég áskil mér rétt til að gagnrýna ykkur, þegar mér sýnist, enda er ég sem betur fer ekki háður ykkur að neinu leyti; kosturinn við lektorsmálið er þrátt fyrir allt sá, að ég skulda ykkur ekkert eftir það!En ég hef jafnan tekið svari ykkar, þegar á ykkur hefur verið hallað ómaklega að mínum dómi. Ég vil ekki heldur að þú sitjir undir ómaklegum glósum eins og komu frá....um það að þú sért sósi (jafnvel þótt það hafi verið í einhvers konar glensi), þegar ég hafði stungið upp á því, að við hittumst einn góðan veðurdag og röbbuðum saman. Ég veit að þið eruð í óða önn að undirbúa flutning í nýtt húsnæði og óska ykkur til hamingju með það.
Beztu kveðjur,
Hannes Hólmsteinn Gissurarson”

Ég get vel fallizt á þessa greiningu Hannesar Hólmsteins á stjórnmálaskoðunum mínum og niðurstaða hans um hjónaskilnað Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins er rétt.
Hins vegar ber það stundum við að trúnaðarbrestur kemur upp á milli þeirra, sem skilja að skiptum. Sá trúnaðarbrestur kom upp á milli forráðamanna Morgunblaðsins og forystusveitar Sjálfstæðisflokksins á lokastigi þessarar löngu ferðar. Frækornum hans var sáð haustið 1988 en hann magnaðist á þessum áratug.
Í pólitík er það, sem mönnum finnst vera stundum  jafn mikill veruleiki og það sem er. Um síðir gerðu ritstjórar Morgunblaðsins sér grein fyrir því, að sú tilfinning var fyrir hendi í alvöru, en ekki  bara sem pólitískt dægurtal að Morgunblaðið hefði ekki einungis sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn heldur tekið upp einhvers konar trúnaðarsamband við annan flokk eða forystu annars flokks. Þau tengsl við forystumenn annarra flokka, sem forystumenn Sjálfstæðisflokksins áður fyrr töldu gagnleg voru nú talin þess eðlis, að ekki væri lengur hægt að eiga trúnaðarsamtöl við ritstjóra Morgunblaðsins.
Þegar slík staða er komin upp verður að ganga hreint til verks. Og það hefur verið gert. Nú í ársbyrjun 1998 eru samskipti forystu Sjálfstæðisflokksins og forráðamanna Morgunblaðsins komin í eðlilegan, hreinskiptin og einlægan farveg. Skilnaðurinn sem Hannes Hólmsteinn vék að í bréfi sínu fyrir tæpum fimm árum hefur að lokum farið fram í góðu.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur sjaldan staðið sterkar en nú. Morgunblaðið hefur haldið velli í harðri og vaxandi samkeppni á fjölmiðlamarkaðnum. Þessar tvær þjóðfélagsstofnanir standa djúpum rótum í sama jarðvegi og áður. Veganestið hefur ekki sízt verið sjálfstæðisstefnan, þótt hún hafi verið túlkuð með mismunandi hætti.
Grundvallarhugsjónirnar eru þær sömu og þegar lagt var upp snemma á öldinni. Afstaðan til einstakra mála er mismunandi, bæði í stórum málum og smáum.
Þriðja kynslóð eigenda Árvakurs hf. hefur smám saman verið að koma til starfa á vettvangi Morgunblaðsins. Segja má, að Hallgrímur Geirsson, framkvæmdastjóri blaðsins, sem þá var stjórnarformaður útgáfufélagsins hafi lýst afstöðu hennar til þeirra sviptinga og átak, sem hér hafa verið gerð að umtalsefni er hann sagði í ræðu á 75 ára afmæli Morgunblaðsins hinn 2. nóvember 1988: “Ég dreg enga dul á þá skoðun, að meginforsenda áhrifa og útbreiðslu Morgunblaðsins er sjálfstæði þess í þjóðmálaumræðunni, þar sem Morgunblaðið hefur leitazt við að hefja sig yfir þröng flokkssjónarmið og hagsmuni einstakra þrýstihópa og látið hagsmuni þjóðarheildarinnar sitja í fyrirrúmi.”
Samskipti Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins hafa þróazt í farsælan og jákvæðan farveg.
Sjálfstæðisflokkurinn er merkileg þjóðarhreyfing, sem hefur sýnt að hún hefur óvenjulegan lífskraft.
Morgunblaðið hefur skapað sér sjálfstæðan sess í íslenzku þjóðlífi og hefur með því lagt grunn að nýrri sókn á nýrri öld. )

18. janúar, sunnudagur

Vorum í afmæli Davíðs Oddssonar í gærkvöldi, það var ágætt. Sátum hjá Ólafi G. Einarssyni, forseta Alþingis, Sverri Sigfússyni og Stefaníu, konu hans, og Ebbu og Ólafi Skúlasyni, fyrrum byskupi. Þau voru létt og kát og við gerðum að gamni okkar vegna síðasta samtals við byskup í sjónvarpinu þar sem reynt var að gera hann tortryggilegan vegna þess að hann hafði víst sett einhverja pappíra í tætara!
Það kom fram í samtali hans við Árna Þórarinsson og Ingólf Margeirsson í sjónvarpinu.
Séra Ólafur sagðist ekki hafa sett nein skjöl í tætarann nema þau sem skiptu engu máli eða væru til í tvíriti; sem sagt, engin merkileg skjöl.
Við Ólafur G. Einarsson minntumst á tætarann og höfðum þetta allt að gamanmálum,þegar borðvínið var tekið að virka!
En það er augljóst að Stöð 2 ætlar að ríghalda í þetta fórnardýr sitt sem forseti Alþingis kallaði kynóða tætarann!
Ólafur byskup tók þessu öllu vel og tók sjálfur þátt í því að tætaramálið væri haft í flimtingum.
Það var ósköp vinalegt samkvæmi þarna í Perlunni og skemmtiatriði ágæt þótt Kristján Jóhannsson væri svo kvefaður að hann gat ekki sungið. Davíð sagði í einni af sinni mörgu þakkarræðum að það sætti eindæmum hve mikið væri klappað fyrir því að Kristján Jóhannsson gæti ekki sungið!
Hann lék á als oddi, var ósköp hlýr og kátur enda var þetta mikil hirð í kringum hann, allir höfundar nýrrar Davíðs-afmælisbókar og margir vinir hans aðrir.
Davíð líður bezt í slíku kompaníi,held ég. Hann nærist á hlýhug og vináttu en kann síður á andrúmsloft kulda og fjandskapar. Þá glatar hann fyndninni sem er lykillinn að vinsældum hans.Þá getur hann reiðzt og það fer honum illa.
Hann er augsýnilega mjög ánægður með Kjartan Gunnarsson sem stóð fyrir veizluhöldum, sagði að Kjartan væri engum líkur þegar hann tæki til hendi. Þó hafði hann dálitlar áhyggjur af flugeldasýningunni á miðnætti, hann mun ekki hafa vitað um að Kjartan hafði undirbúið svona áramótaskemmtun.
Ég hafði gaman af því þegar hann sagði að nauðsynlegt hefði verið að banna klónun og varpaði fram þeirri spurningu hvernig menn héldu að líft væri á Íslandi ef Hannes Hólmsteinn hefði t.d. verið klónaður og það væru til tveir eða þrír hannesarhólmsteinar.
Þá hefði enginn þurft að gera neitt á Íslandi því að Hannes væri svo duglegur að enginn kæmist þá að fyrir klónuðum hannesum og dugnaði þeirra.

Ég hitti marga gamla vini og gróna, Jóhannes Nordal, Kristján Karlsson og þá fleiri sem ég hef ekki séð í nokkurn tíma. Sverrir Hermannsson komst ekki því að Gréta, kona hans, er lasin..
Ólafur G. Einarsson lék á als oddi,rétt eins og í veiðiferðum okkar.
Hann hefur látið innrétta kjallarann í Kirkjustræti 10 og sagðist ætla að bjóða mér þangað þar sem þetta væri hús ömmu minnar og ég hefði átt þar heima í frumbernsku. Það væri kominn tími til að við hittumst í þessu merka húsi.
Það heitir Kristjánshús eftir Kristjáni Þorgrímssyni konsúl en Helga Magnea Norfjörð Johannessen amma mín giftist honum þegar hún hafði verið ekkja eftir Matthías, fyrra mann sinn ,um nokkurra ára skeið. Hún var mikil selskapsdama á sínum tíma skilst mér og þótti hrókur alls fagnaðar þrátt fyrir  þær miklu sorgir sem hún hafði orðið fyrir í lífinu.
Hún var einn af frumherjum Thorvaldsenfélagsins.
Það verður gaman að koma í húsið með Ólafi G. Einarssyni sem tók loforð af Hönnu þess efnis að ég mætti fá mér eins mikið í staupinu þarna í kjallaranum og ég frekast þyldi. Ég þekki engan annan sem hefur komizt að slíku samkomulagi við hana! En það var gert í votta viðurvist!
Ólafur G. kveið augsýnilega fyrir ræðu Friðriks Sóphussonar og sagði að það yrði vond ræða. Mér heyrðist einna helzt á honum að selskapurinn myndi leysast upp þegar Friðrik tæki til máls.
Allnokkru síðar stóð hann upp og sagðist þurfa að fara til útlanda næsta morgun.
Hanna sagði við hann,
Ætlar þú ekki að hlusta á ræðu Friðriks?
Þá hrökk Ólafur við og sagði,
Ha, er hann ekki búinn að flytja ræðuna - og flýtti sér eins og hann gat úr samkvæminu.
Ég sagði við þá Ólafana báða áður en Alþingisforsetinn fór að það hefði verið gott svar hjá byskupnum þegar hann sagði í fyrrnefndu samtali sem svar við þeirri spurningu, hvernig manni liði sem þyrfti að ganga í gegnum þann eld sem á sr. Ólafi hefði brunnið, en byskupinn svaraði að það væri ekki hægt að ganga í gegnum slíkt nema vera annað hvort idjót eða saklaus  “- og ég er ekki idjot!”
Ég sagði að þetta hefði verið gott svar.
Þá sagði Ólafur G. Einarsson að ég léti að því liggja að nauðsynlegt hefði verið að byskup lýsti þessu yfir. Væri það í fyrsta skipti í sögunni að fyrrverandi byskup Íslands þyrfti að lýsa því yfir að hann væri ekki idjot!
Ólafur Skúlason tók  þessu öllu vel, hló og skemmti sér og lét eins og allt væri þetta gamanmál.
Ég var raunar undrandi hvað hann leyfði okkur að gantast með sín mál og fór það vel í mig. Ég hefði ekki haldið að hann væri jafn ókvartsár vegna persónu sinnar og raun bar vitni þarna í afmæli Davíðs.
Þegar mynd var tekin af höfundum Davíðs-afmælisbókar gekk Gísli Gunnarsson prófessor í sögu til mín og sagði að árásir á mig fyrir Ólafs sögu Thors væru fráleitar, þetta væri nýtileg sagnfræði og ég hefði skrifað góða bók sem fjallaði bæði um kosti Ólafs Thors og lesti.
Mér þótti heldur vænt um þetta og minntist þess þá að Gísli Gunnarsson skrifaði grein þegar fjaðrafokið stóð sem hæst og tók annan pól í hæðina en þeir sem vógu að mér  hatramlegast þá.
Við Davíð töluðum saman áður en við Hanna fórum úr afmælinu á öðrum tímanum um nóttina. Það var gott samtal, hlýtt og vinalegt.
Davíð sagði að grein Styrmis sem átti að birtast í afmælisbókinni hefði verið góð og margt athyglisvert í henni. Hún væri með öllu meinalaus. En nú gæti hann bætt við hana og tekið sér tíma til að ljúka við lengri og meiri grein. Þá gæti hann litið á það sem hann hefði nú skrifað sem einskonar uppkast að meira verki.
Hann virtist vita að Hulda Valtýsdóttir hefði lagzt gegn því að grein þessi yrði birt en Styrmir bar hana undir Harald Sveinsson og Hallgrím Geirsson, auk mín og höfðum við allir samþykkt hana. En greinin fór fyrir brjóstið á Huldu blessaðri. Kannski hún hafi borið greinina undir einhvern, ég veit það ekki. Ég er ekki í neinum vafa um að Styrmir á eftir að fullgera þessa ágætu grein, þótt síðar verði.
Davíð tók eftir því að Styrmir var ekki í  kvöldboðinu. Hann sagði að hann hefði tekið boðinu en kæmi svo ekki, spurði hvers vegna. Ég sagði honum að það hafi áreiðanlega staðið illa á fyrir honum án þess ég tíundaði það frekar. En af þessari athugasemd Davíðs marka ég að hann er þrælminnugur og tekur eftir öllu í kringum hann.
Ég varð undrandi þegar ég gerði mér grein fyrir því að hann hafði tekið eftir að Styrmi vantaði, samt voru milli 3 og 400 hundruð manns í þessu boði!
Davíð sagði að samtöl þeirra Styrmis undanfarið hefðu verið góð og sættir milli þeirra að nást en bætti því við að hann þyrfti ekki að sættast við mig út af einu né neinu því að við værum gamlir og grónir vinir. Þó að eitthvað slettist upp á vinskapinn þyrftum við ekki að gera upp okkar í milli.
Öðru máli gilti um þá Styrmi því að þeir hefðu aldrei verið vinir með þeim hætti sem við hefðum verið.
Mér hugnaðist þetta samtal vel og við Hanna fórum heim glöð í bragði. Áður hafði ég talað við Hannes Hólmstein sem kom með bókina að borðinu okkar og hrósaði framlagi mínu til afmælisins. Síðar um kvöldið talaði ég dálítið nánar við Hannes, hann var þá orðinn vel kenndur og talsvert hávær. En kjarni þess sem hann sagði var þetta: að þeir ungu forystumenn Sjálfstæðisflokksins hefðu tekið það mjög nærri sér að milli þeirra og okkar varð trúnaðarbrestur og einhvers konar vináttuslit. Þeir hefðu verið fóstraðir af okkur og því hefði þetta verið mikið viðkvæmis- og tilfinningamál. Við yrðum að ná sáttum. Við yrðum einnig að ná sáttum í kvótamálum, það er hægt sagði Hannes með áherzlu, við getum fundið flöt á því að sættast um stefnuna.
Ég tók þessu öllu vel og skildum við með góðum hug.
Styrmir hefur sagt mér að Hannes hafi lagt áherzlu á hið sama, þegar þeir töluðu síðast saman í síma, en það var út af grein Styrmis og nauðsyn þess að draga hana til baka. Hannes sýndi á því mikinn skilning og ég held að hann hafi farið vel með þetta trúnaðarmál. Ekkert gæti glatt mig meira en ef við næðum sáttum í fiskveiðideilunni og þá ekki sízt út af Þorsteini Pálssyni, en á honum öðrum fremur hefur eldurinn brunnið. Það hefur ævinlega farið fyrir brjóstið á mér því ég held mikið upp á Þorstein. Hann er vænn og góður drengur og mig hefur alltaf langað til að standa fremur með honum, en rísa gegn honum og stefnu hans.
Við sjáum hvað setur.
Hann var ekki í afmælinu því hann var á skíðum á Ítalíu.

 

Haraldur sonur minn hefur sótt um embætti ríkislögreglustjóra. Þegar hann tók við varalögreglustjóraembættinu í Reykjavík var á það minnzt að hann gerði sínar endurbætur á embættinu, en vel gæti komið til greina að hann tæki við ríkislögreglustjóraembættinu að því loknu, ef það losnaði.
Við sjáum hvort það fer eftir, en ég held hann muni ekki kemba hærurnar í embætti varalögreglustjórans í Reykjavík, því að hann hefur að mestu gert þær endurbætur sem honum voru ætlaðar og mér er nær að halda að honum þyki erfitt að vinna undir stjórn Böðvars Bragasonar. Það er kannski ekkert skrítið því hann hefur stjórnað Fangelsismálastofnun um margra ára skeið og það er erfitt fyrir unga menn sem hafa haft erfiða stjórnun á hendi og skilað henni vel að gerast undirtyllur annarra í nýjum embættum.
Þegar ég óskaði eftir að Eyjólfur Konráð Jónsson yrði ráðinn að Morgunblaðinu sagði Bjarni við mig,
Við verðum að gera hann að ritstjóra, hann hefur verið forstjóri Almenna bókafélagsins og hann mun ekki kunna við sig öðruvísi en þið stjórnið blaðinu saman.
Ég var sammála Bjarna enda hafði ég aldrei ætlað annað en hann yrði samritstjóri minn.
Það fór eftir og varð okkur til heilla, svo einlægt og heilsteypt sem samstarf okkar var á blaðinu.
En ég kunni að sjálfsögðu vel að meta það að Eykon lét eftir mér að stjórna því sem ég vildi, en ég fylgdi honum fast í helztu áhugamálum hans.
Þannig er unnt að stjórna með öðrum. En Böðvar Bragason hefur ekki boðið Haraldi upp á neitt slíkt svo að hann hefur átt nokkuð undir högg að sækja þar sem hann hefur verið og sæi ekki eftir því að geta unnið þar sem hann hefði frjálsari hendur um það sem hann telur rétt og nauðsynlegt.

 

Styrmir segir mér að Geir Haarde hafi í ræðu sinni í síðdegisboði Davíðs í Perlunni á laugardag minnt á sögu sem Peres, forsætisráðherra Ísraels, sagði einum þingmanna sinna, en hann sagði Geir Haarde.
Þegar þeir Davíð og Peres hittust, sagði Davíð við hann:
You jews are god’s chosen people but we icelanders are god’s frozen people!
Af þessu hafði Peres hina mestu ánægju.

23. janúar, föstudagur
Nú er Clinton Bandaríkjaforseti enn að berjast við almenningsálitið. Enn er hann ásakaður um kynferðislega áreitni. Það eru fleiri en byskup Íslands sem hafa þurft við slíkt að búa!
Clinton segist vera saklaus eins og Ólafur Skúlason.
Við sjáum hvað setur.
En hvað sem því líður þá er páfinn kominn til Kúbu. Aldrei hefur honum verið brugðið um kynferðislega áreitni! Kannski það verði honum að falli áður en yfir lýkur. Þó sýnist mér hann vera heldur hrörlegur en þó er aldrei að vita ef maður hefur vísu Páls Ólafssonar í huga:

Mér er illt í útlimonum
öllum nema bara honum.

Ég sá í hendi mér þegar ég fór yfir Morgunblaðið í gær hverskyns er því að þar gengur Guðjón Friðriksson fram á völlinn, lýsir yfir stuðningi við Ingibjörgu Sólrúnu borgarstjóra og lofsyngur harðan vinstrimann, Helga Hjörvar og hvetur menn til að kjósa hann í prófkjöri. 
Nú þarf víst ekki frekari vitnana við. Guðmundur Andri og aðrir vinstri menn ætla sér að búa til alvöru sagnfræðing úr Guðjóni Friðrikssyni - og þá ekki sízt með því að slátra Ólafs sögu Thors!
Þetta er gamalkunnug aðferð. Ég hef kynnzt henni fyrr.
Faulkner sagði einhverju sinni við mig, Það er ekki rúm bæði fyrir Hemmingway og Faulkner í Bandaríkjunum!
Hvað þá um litla Ísland!
Guðmundur Andri virðist telja að það sé ekki rúm fyrir bæði mig og Guðjón Friðriksson, ég verð því að fara sömu leiðina og veiru-kjúklingarnir í Hong Kong sem hafa smitað fólk af fuglaflensu: Þeim hefur öllum verið slátrað!
Guðjón Friðriksson segist vera óflokksbundinn, það má vel vera. En hann var blaðamaður á Þjóðviljanum og hann hefur engu gleymt og ekkert lært ef marka má pólitískar yfirlýsingar hans. Annars flutti hann erindi í Rotarý um daginn. Það fjallaði um Einar Benediktsson og næsta bindi af sögu hans. Mér hugnaðist þetta erindi. Guðjón hefur fundið mikið af óþekktum heimildum um Einar og það var ágætlega skemmtilegt að hlýða á erindi hans. En það er ekki eins og einhver snillingur sé upp risinn hér á landi þótt allt sé þetta góðra gjalda vert sem Guðjón Friðriksson hefur unnið. Það þarf þó ekki að vera endanlegur sannleikur sem hann kemur með um þetta.

Kristján Karlsson sagði mér þegar við hittumst á Holti í gær, að Einar  vinur minn  Benediktsson, , sendiherra  væri ósáttur við fyrsta bindið um afa sinn vegna þess, hvernig farið væri með föður hans, Benedikt Sveinsson.
Þar væri einungis brugðið upp einni mynd af þessum merka stjórnmálamanni - og hún væri  ekki fögur.
Ég veit það ekki, ég á eftir að lesa bók Guðjóns en mönnum finnst hún lipurlega skrifuð, hæla henni þó einkum fyrir nýjar upplýsingar byggðar á áður óþekktum heimildum. Ég hygg slík heimildasöfnun, þolinmæði og kergja sé mesti kostur Guðjóns sem sagnfræðings.
Þegar heimildir eru góðar og lagt er af stað með traust veganesti einkennist verkið ekki af tómahljóð, síður en svo.

Vinstri menn  og gamlir marxistar leita að höfundi sínum, ef svo mætti segja, og nú hafa þeir séð ljósið! Það endar alltaf með því að gamlir kommar þurfa að sjá ljósið, ef þeir eiga að komast í sæmilegt jafnvægi. Og þá er reynt að slökkva á þeim týrum sem þykja ekki þóknanlegar.
En það er rétt hjá Kristjáni Kristjánssyni sem skrifar um póstmódernismann í Lesbók, að eggjabóndinn verður að þola hanagal.

Ég nefndi Kristján Karlsson. Við áttum ágætt samtal í hádeginu í gær. Við töluðum um ástina og hvernig hún getur vitjað karlmanna á öllum aldri svo þeir verði gagnteknir, hrifnir og utan við sig enn eins og skáldið sagði. Kristján sagði að það væri engin regla á þessu. Og fullyrti að karlmaður við sæmilega heilsu gæti auðveldlega orðið ástfanginn af tveimur konum, jafnvel þremur í senn. Sturla Sighvatsson hefði augsýnilega verið mjög ástfanginn af Solveigu, en Vigdís var honum þá einnig harla kær eins og lesa má milli línanna í Íslendinga sögu. Ekki efast ég um að þetta sé rétt og litli strákurinn með vogina og amorsbogann getur skotið hvern sem er - og hvernær sem er. Það fer ekki eftir aldri manna, útliti né neinu því sem okkur er sjálfrátt. Það er hin ósjálfráða tilviljun, ef svo mætti segja, sem hittir í mark. Um konur vitum við Kristján ekkert, en líklega eru þær þó með sama markinu brenndar, ég tala nú ekki um ef þær halda sér vel eins og nú er æ algengara en áður.

Kristján hefur orðið nokkuð mikla reynslu af ástamálum og kynlífi. En hann gefur heldur lítið fyrir það úr því sem komið er. Honum finnst það yfirleitt ekki eftirminnilegt; finnst að minnsta kosti engin ástæða til að tíunda það í ævisögum. Uppáferðum er jafnfljótt aflokið og ljóði sem kemur í imspírasjónskasti.
Kristján minnti mig á orð kanadíska bókmenntafræðingsins Frys, en hann sagði að gagnrýnin kæmi á undan kvæðinu. Það er dálítið merkileg athugasemd og líklega er þó nokkuð til í henni. Það eru margir sem yrkja inn í gagnrýnina, jafnvel Helgi Sæmundsson ef marka má ritdóm í Morgunblaðinu í gær um nýja ljóðabók hans. Þetta var heldur þunnur þrettándi ef ég dreg ályktanir af tilvitnunum, samt reyndi Skafti Halldórsson ritdómari að gera eins mikið og hann gat úr því sem fyrir hendi var. Hann klappaði Helga á kollinn en minnti jafnframt á að hann væri ekki nútímaskáld!
Kristján minntist á þennan ritdóm og við vorum sammála um  að engin ástæða væri til að vera vondur við burðarlítil ljóðskáld.
En Kristján bætti við að hann hefði hugsað til þess þegar hann las þessi skrif að hann hefði ekki viljað vera gagnrýnandi með öllum þeim óþægindum sem því fylgja.
Kristján telur að póstmódernisminn hafi verið talsvert gagnlegur, það hafi hrikt í ýmsu sem vel mátti hreyfa við. Hann heldur að Þorsteinn vinur okkar Gylfason standi að baki Kristjáni Kristjánssyni sem hefur verið að ráðast á póstmódernismann í Lesbókinni. Hann sé lítið hrifinn af nýungum í andlegum efnum nú um stundir og vilji halda í gömul verðmæti. Hann er t.d. eindreginn stuðningsmaður hefðbundins skáldskapar og mér er nær að halda að hann kunni t.a.m. ekki að meta atómskáldskap; a.m.k. hef ég alltaf skilið hann svo.
Ég minnti Kristján á að póstmódernisminn leyfði miklu fremur hefðbundinn skáldskap en gamli módernisminn sem réðst á hann og lagði áherzlu á atómskáldskap og afstraktlist. Þannig væri Þorsteinn vinur vor Gylfason kominn í alvarlega mótsögn við sjálfan sig, ef hann væri nú talsmaður þessa sama póstmódernisma.

24. janúar, laugardagur

Átti langt og gott samtal við Huldu Valtýsdóttur í gær. Við töluðum um væntanlega ævisögu Valtýs Stefánssonar og hvernig að henni skuli staðið. Það mál er allt í deiglu enn. Hulda raðar bréfum svo þau verði aðgengileg, þegar að söguritun kemur. Höfum talað um að Jakob Ásgeirsson riti söguna, en það er ekki frágengið. Þurfum að tala betur við hann. Þetta er viðkvæmt mál og mér er nær að halda að Hulda sé dálítið kvíðin því að mikið er undir því komið að vel takist til.
Valtýr var umdeildur maður á sinni tíð og naut ekki sannmælis. Það er  kominn tími til að rétta hlut hans. Hann hefur verið lengur ritstjóri Morgunblaðsins en nokkur annar, en á þessu ári mun ég víst slá þetta met án þess ég hafi nokkra löngun til þess. Það má vel vera að ég hafi verið of lengi ritstjóri Morgunblaðsins, ég veit það ekki, en það hefur hentað mér vel! Og ég vona það hafi einnig gagnazt blaðinu.
Töluðum einnig um andrúmsloftið á Morgunblaðinu, hvernig það hefur bólgnað út og orðið að stórfyrirtæki. Ég sagði Huldu að morgunblaðsandinn gamli væri ekki allsráðandi á ritstjórn blaðsins eins og áður fyrr, enda væru nú jafn margir á íþróttadeildinni einni og voru á allri ritstjórninni, þegar ég hóf þar störf árið 1951. Það er ómögulegt að hafa mikil tengsl við hvern og einn eins og áður var, en við reynum að viðhalda þeirri arfleifð sem byggt hefur verið á og innræta mönnum virðingu fyrir henni og þeim kröfum sem gerðar eru til blaðsins.
Hulda talaði um grein Styrmis sem átti að fara í afmælisrit Davíðs Oddssonar, en hann dró til baka þar eða hún var ekki sátt við allar söguskýringar í henni. Hún sagði að fyrripartur greinarinnar væri ágætur en síðari parturinn slaklega unninn. Það fór mjög fyrir brjóstið á henni hvernig vitnað er í gamla minnispunkta frá Eykon, svo og einnig hvernig Styrmir vitnar í bréf frá Hannesi Hólmsteini.
Ég sagði henni að ég væri ekki sammála þessu ofnæmi en hún bað mig þá að lesa greinina aftur, ef það mætti verða til þess að rétta mig af!
Hún er einnig viðkvæm fyrir hlut Gunnars Thoroddsen í þessari grein en gerði sér samt ljóst að við höfðum rétt fyrir okkur, þegar við gagnrýndum aðferð hans og stjórnarmyndun á sínum tíma.
Viðkvæmnust er hún þó fyrir því að hún telur sig geta lesið út úr grein Styrmis að Valtýr, faðir hennar, hafi ætlað að afhenda Sjálfstæðisflokknum Morgunblaðið en kaupmennirnir hafi komið í veg fyrir það. Það stendur að vísu ekki í greininni, en ég skil vel þessa viðkvæmni, ef hún hefur ráðið úrslitum um afstöðu hennar til greinarinnar. Hún segir að menn geti mislesið ýmislegt í greininni og því ástæðulaust að gefa höggstað á okkur, allt gæti þetta komið fram síðar og þá í endurbættri grein; t.a.m. í bók á 100 ára afmæli Morgunblaðsins.
Ég man ekki betur en það sé rétt að Valtýr hafi leitt hugann að því, að styrkja aðild Sjálfstæðisflokksins að Morgunblaðinu. Gunnar Hansson sagði að Kristín, kona hans, hafi komið í veg fyrir það.
“Þá sagði Kristín frá Arnarnesi nei.”
Þá var ekki frekar um það rætt.
Valtýr nefndi þetta ekki við mig og ég veit ekki hvernig þetta bar að eða hver hugur Valtýs var í raun og veru, en það er augljóst að Hulda Valtýsdóttir er mjög viðkvæm fyrir því, ef menn gætu haldið að faðir hennar hafi ætlað að afhenda Sjálfstæðisflokknum lífsstarf sitt. 
Get ég vel skilið það án þess þó að vita nákvæmlega hið rétta í málinu.

Allt fór þetta samtal fram í fyllstu einlægni. Það ríkti góðhugur milli okkar Huldu eins og ævinlega og hún sýndi afstöðu minni og skýringum skilning. Hún gerir sér grein fyrir því að vinátta okkar ritstjóra Morgunblaðsins er heil og einlæg og samstarf okkar við Hallgrím Geirsson gott. Það er samkvæmt arfleifð blaðsins og því sem okkur hefur verið trúað fyrir.
Hulda er einnig ánægð með að Styrmir hefur náð sáttum við Davíð Oddsson og við ritstjórarnir höfum átt við hann góð og vináttusamleg samtöl.

Milli okkar og formanns Sjálfstæðisflokksins er nú hin bezti vilji til skilnings og góðs samstarfs þar sem það á við.

Fékk svofellt tölvuboð frá Styrmi: “Ég sagði Davíð Oddssyni að ég hefði ætlað að segja honum frá örlögum greinar minnar en hefði heyrt á Matthíasi að hann vissi allt um málið. Hann kvaðst hafa getið sér þess til að Hulda hefði átt hlut að máli og kvaðst hafa lesið greinina aftur eftir að hafa heyrt þessi viðbrögð. Hann sagðist ekki getað áttað sig á því sem um væri að ræða.
Ég sagði honum að ég gæti ekki heldur fest hendur á því. Ef til vill hefði hún áhyggur af því að svona skrif gætu ýft upp gömul sár...”

Kvöldið

Las grein Þrastar Helgasonar í Lesbókinni í dag um þær þrettán bækur sem lagðar hafa verið fram til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hann segir um bækur okkar Árna Bergmanns:

Ísland: Ferðalag mannsins og tilvistarleg leit
Skáldsagan Þorvaldur víðförli eftir Árna Bergmann kom út árið 1994 og vakti töluverða athygli og jafnvel deilur. Til er Íslendingasagnaþáttur af Þorvaldi og er það eina heimildin sem Árni hefur til að styðjast við í skáldsögu sinni. Þátturinn segir frá trúboði Þorvalds hér á landi og saxneska biskupsins Friðreks. Það slitnar upp úr samstarfi þeirra tveggja vegna ofbeldishneigðar og óstýrilætis Þorvaldar. Biskupinn hverfur af landi brott og nokkru síðar leggst Þorvaldur einnig í mikil ferðalög til Jerúsalems, Miklagarðs og Rússlands þar sem hann stofnar klaustur og deyr í hárri elli. Þessa sögu nýtir Árni sér en gefur þó ímyndunaraflinu mjög svo lausan tauminn enda er skáldsaga hans viðburðarík með afbrigðum. Sagan fjallar hins vegar ekki aðeins um hið ytra ferðalag Þorvalds þar sem hann kynnist algerlega nýjum heimi og aðstæðum heldur er hún einnig saga um innra ferðalag mannsins, um leit að innra friði, trúarvissu, þekkingu og ekki síst ást.
Tvennt vakti sérstaka athygli er bókin kom út; hin geysilega yfirgripsmikla þekking Árna á hugmyndafræði, trúarsetningum og sögulegum straumum þess tíma sem bókin fjallar um og vald hans á stíl og orðfæri. Einnig má segja að hið mikla umfang sögunnar í hugmyndalegum og frásagnarlegum skilningi geri hana að einni af eftirminnilegustu skáldsögum seinni ára.

Haft hefur verið á orði að í nýjustu ljóðabók Matthíasar Johannessen, Vötn þín og vængur, megi sjá summuna af fjörutíu ára höfundarferli hans, að í henni birtist hvað best breiddin í skáldskap hans. Þegar bókin er lesin í fyrsta sinn verður sumum kannski um og ó yfir víðáttunni sem opnast í snöggri sýn.
Hér eins og í fyrri bókum er helsta einkenni skáldskapar Matthíasar hin rómantíska og ljóðræna undrun yfir sköpunarverkinu, sköpuninni, og um leið beitt skoðun á því. Hér er farið um vindheim víðan í þeirri háskalegu tilvistarlegu jafnt sem trúarlegu leit sem sett hefur mark sitt á skáldskap Matthíasar. Og í fjölmörgum vísunum til íslensks og erlends forns skáldskapar endurspeglast sömuleiðis sú sannfæring Matthíasar að við séum afurð fortíðarinnar, að fortíðin lifi í okkur.
Hér er einnig að finna bæði hið prósaíska opna form og hið ljóðræna innhverfa form ljóða Matthíasar. Hér eru breið og mikil frásagnarljóð en einnig vinna hnitmiðun og lýrísk ögun mikið á í þessari bók, sjást þess glögg merki í seinni hluta bókarinnar.

25. janúar, sunnudagur

Hef verið að hlusta á Portrait eftir Atla Heimi Sveinsson, m.a. flautukonsert frá 1973 sem aflaði honum tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.

Ég hef gaman af tónlist Atla Heimis, hún verkar á mig eins og hann sjálfur og það hefur alltaf farið vel á með okkur. Guðmundur Andri Thorsson skrifar um Atla Heimi í smábækling sem fylgir geisladisknum, ágæta grein og að mörgu leyti fróðlega; að vísu dálítið tilgerðarlega í upphafi og í lokin en það gerir ekkert til. Tilgerð hefur fylgt tónlist frá upphafi vega, hún er einskonar fylgifiskur hennar og á það líklega rætur í þeirri staðreynd, hvað hún var oft og einatt mikill hluti af hirðlífi fyrri tíma. En nútíminn þarf ekki á þessum krúsidúllum að halda þótt reynt sé að iðka þær með ýmsum hætti, t.a.m. á listahátíðum þegar klappið og snobbið verða aðalatriðið og listræn upphafning kafnar í þessum hávaða.
En hvað um það.
Guðmundur Andri hefur það eftir Atla Heimi að hann hafi á áttunda áratugnum fundið hjá sér þörf til að snúa aftur til rómantíkur eins og hann kemst að orði og hafi þetta verið “nokkurs konar nýrómantík en átti lítið skylt við gömlu rómantíkina”.
Ég held þetta sé eitthvað svipað og Þröstur Helgason reynir að lýsa þegar hann fjallar um minn skáldskap. Hann sagði í útvarpserindi að ég hefði verið stílbrjótur og nýsköpuður í ljóðlist, en ræktaði jafnframt rómantískt viðhorf án þess það væri gamaldags.
Þetta má vel vera.
Og hann endurtekur svipaða greiningu í því sem hann skrifar um bækurnar sem nú liggja fyrir til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs þegar hann segir að í Vötn þín og vængur sé helzta einkennið eins og í fyrri bókum mínum “hin rómantíska og ljóðræna undrun yfir sköpunarverkinu, sköpuninni, og um leið beitt skoðun á því”.

Ljóð mín eru áreiðanlega ekki rómantísk í anda Jónasar Hallgrímssonar og kynslóðar hans því að sá skáldskapur var einatt epískur, en ég hef ekki lagt stund á frásagnarljóð. Held mér finnist þau yfirleitt heldur leiðinleg nema þegar skáldum tekst framúrskarandi vel upp í handverkinu og má þar nefna Gunnarshólma Jónasar; að sjálfsögðu.
Ef það er rómantísk afstaða að líta um öxl, þá er ég áreiðanlega rómantískt skáld því ég get ekki hugsað mér framtíð íslenzku þjóðarinnar án þess veganestis sem hefur gert hana að sérstæðu samfélagi og raunar harla merkilegu í allri sinni smæð. Arfleifðin hefur ævinlega verið mitt rómantíska veganesti en ég hef litið á hana svipuðum augum og Atli Heimir; þ.e. að hér sé um nýrómantíska viðleitni að ræða sem byggir á nýjum vinnubrögðum í skáldskap og þá ekki sízt þeirri stuttu reynslu sem módernisminn hefur fært okkur.  Það er að minni hyggju þessi nýrómantíska nýstefna í skáldskap sem skiptir höfuðmáli vegna þess að hún hefur miklu hlutverki að gegna; að tvinna saman ólíka tíma, ólíkar kynslóðir og flétta næringarmikla nútíð inn í þá framtíð sem við ætlum þjóð okkar og menningu.
Ef það er þetta sem Þröstur Helgason á við þegar hann talar um mína rómantísku hneigð, þá hefur hann að minni hyggju rétt fyrir sér - og þá ekki síður þegar hann talar um undrun yfir sköpunarverkinu, sköpuninni.
Þessi undrun er að sjálfsögðu í nánum tengslum við þá skilgreiningu Jónasar Hallgrímssonar, að tilveran sé hugsun eða hugarveröld guðs.
Mér er nær að halda - og skil raunar ekkert í þróun og tilveru að öðrum kosti - að hinn guðlegi kraftur hafi veitt efninu einhvers konar sjálfstætt líf, svo að það geti hugsað sig inn í þær aðstæður sem fyrir hendi eru hverju sinni.
Ég hef áður minnzt á þessar hugmyndir mínar um það að efnið hugsi með einhverjum hætti - og þá að sjálfsögðu í tengslum við þennan guðlega kraft eða orku sem er forsenda þess - en hvaðan hún kemur og hvernig hún vinnur í raun og veru, það veit hvorki ég né nokkur annar; ekki frekar en mýflugan sem deyr um svipað leyti og hún fæðist.
Faðir vor - hverjar eru útlínur þessarar kærleiksríku orku? Það veit enginn. Kannski getur hún tekið á sig þá mynd sem hún hugsar; hver veit.
Hitt er án efa að fortíðin lifir í okkur með einhverjum hætti. Litningarnir eru talva sem allt geymir. Stundum getum við klikkað á efnisatriði í þessari tölvu, stundum ekki. Við erum að þessu leyti miklu takmarkaðri en þær tölvur sem við eigum kost á. En þótt ekki sé hægt að klikka á ýmis efnisatriði lifa þau með okkur í undirvitundinni og koma stundum upp á yfirborðið án þess þau séu kölluð fram sérstaklega. Og stundum upplifum við þau, að ég hygg, í draumum. Það er ekki sízt þess vegna sem draumurinn er mikilvægur veruleiki. Samt er hann ævintýri og á sér engar forsendur aðrar en það hugarflug sem er einungis laustengt veruleikaskyni okkar eins og það birtist t.a.m. í fornaldarsögum Norðurlanda og ævintýrum frá ýmsum tímum. Sum eru tilbúningurinn einber, önnur geta birzt í reynslu sem við köllum dularfull fyrirbrigði og skiljum ekki, því þau eru utan við jarðbundna vitund okkar og eiga enga samleið með veröldinni eins og hún blasir við, raunsæi og veruleikaskyni, þótt þau eigi ýmislegt sameiginlegt með tilfinningum okkar og grun.

Ég tel mig hafa margvíslega reynslu fyrir því að veröldin er annað og meira en hlutveruleikinn. Nú er jafnvel búið að afsanna efnishyggju nítjándu aldar sem átti að vera einhvers konar síðasta orðið í leit mannsins að sjálfum sér og umhverfi sínu. Það er miklu meira rúm innan efnisins fyrir ýmis konar tilviljanir og uppákomur en efnishyggjumenn nítjándu aldar gerðu ráð fyrir. Þetta vissi Jónas Hallgrímsson af einhverjum ástæðum; kannski vegna innsæis. Ratsjá skáldskaparins réð kóssinum, ekki kompásnál raunvísindanna.
Við getum átt von á hverju sem er.
Og það er mikilvægt að láta ekkert koma sér á óvart í þessari rúmgóðu hugarveröld sem við héldum einu sinni að við stjórnuðum, en uppgötvuðum svo hægt og sígandi að við erum einungis hluti af og engan veginn sú orka hennar sem hefur síðasta orðið, þótt maðurinn hafi unnið mikil og ótrúleg afrek; áreiðanlega meiri afrek en dínósárarnir sem hurfu eins og dögg fyrir sólu fyrir 60 milljónum ára og löngu áður en hugarorkan var farin að íhuga mannskepnuna sem einhvers konar kórónu lífsins eða trúnaðarskepnu sína á jörðinni.
Það er áreiðanlega ætlazt til þess að maðurinn fari vel með það sem honum hefur verið trúað fyrir; heilli jörð, jafnvel sólkerfi.
Okkur Íslendingum hefur  verið trúað fyrir arfleifð sem var einhvers konar hversdagsleg reynsla germanskra þjóða á sínum tíma. Okkur hefur verið trúað fyrir heiðnum goðsögnum sem hafa glatazt með öðrum þjóðum og okkur hefur verið trúað fyrir varðveizlu gamallar merkingar í lifandi orðum og tungutaki. Okkur hefur verið trúað fyrir tungumáli sem hefði nýtzt okkur allsæmilega í víkingaferðum um Evrópu á sínum tíma.
Sá sem hugsar um allt þetta, hlýtur að huga að svo miklum arfi og merkilegum. Og hann hlýtur einnig að hneigjast að því rómantíska viðhorfi, að það séu mikilvæg - og raunar stórmerkileg - forréttindi að varðveita þessa dýrkeyptu reynslu horfinna kynslóða og ávaxta hana; varðveita hana ekki einungis í litningunum, heldur einnig - og ekki síður - í því daglega lífi og hversdagslegu störfum sem eru viðfangsefni okkar meðan við gistum þennan áfangastað sem Tómas kallaði hótel Jörð - og gaf þannig í skyn að líf okkar væri einhvers konar ferðalag og næsta áning væri jafnóviss og allt annað í þessari margþættu tilveru.
Það má vel vera að það hafi verið rétt hjá Steini að þessi ferð sé án fyrirheits - en hún er mikilvæg meðan á henni stendur, hvað sem öðru líður.

29. janúar, fimmtudagur

Ólafur Ragnarsson, eigandi Vöku-Helgafells, kom heim á Reynimel í gær með útgáfusamning sem við gengum frá og skrifuðum undir.  Áður hafði ég beðið Friðrik Rafnsson um að nefna það við Halldór Guðmundsson að hann talaði við mig ef hann hefði áhuga á að ræða við mig útgáfumál en af því hefur ekki orðið.
Kristján Karlsson nefndi það einnig við mig í haust að hann hefði áhuga á því að Bókmenntafélagið gæfi út röð nútímabókmennta og spurði mig hvort ég gæti fallizt á að útgáfan hæfist með mínum ljóðum. Hann sagðist ekki vita hvort af þessu gæti orðið því stjórn Bókmenntafélagsins hefði ekki tekið endanlega afstöðu, en vildi vita, hvort ég hefði á móti því að heildarsafn ljóða minna yrði fyrsta bókin. Hann sagði að hann teldi að af þálifandi skáldum stæði ég helzt undir slíkri útgáfu en nefndi jafnframt Hannes Sigfússon, sem ég held að hafi verið lifandi þegar þetta kom til tals í samtölum okkar, en ég man það þó ekki.
Ég hef ekki heyrt Kristján nefna þetta síðan svo ég efast um að af þessu verði. Ég þarf því að segja honum að ég hafi nú bundizt Vöku-Helgafelli og held að honum hugnist það vel því að hann mátti helzt ekki til þess vita að ég gengi til liðs við þá í Máli og menningu, taldi það falskan tón. Ég gat svo sem vel fallizt á það en mér hefur líkað svo ágætlega við Halldór Guðmundsson að ég hefði vel getað verið í slagtogi með honum, og Friðrik Rafnsson hefur sýnt mér mikla virðingu og hlýhug enda hef ég ort talsvert í tímarit MM eftir að hann tók við stjórn þess. Hann sá líka um sérstaka dagskrá í útvarpi þegar ég var sextugur og kom það mér mjög á óvart. Ég sagðist ekki hafa átt von á slíku en hann svaraði því til að það hefði verið undarlegt ef útvarpið minntist ekki slíks afmælis eins af helztu skáldum landsins, eins og hann komst að orði. Mér þótti það að sjálfsögðu fagurlega mælt en held Friðrik eigi ekki til fláttskap, svo hreinn og beinn sem hann er og óhræddur að segja skoðanir sínar.
En sem sagt, Ólafur Ragnarsson spurði Styrmi í samtali þeirra um daginn hvort ég væri ekki enn hjá Hörpuútgáfunni.
Styrmir kvað nei við og sagði að ég væri laus og liðugur.
Hann færði þetta í tal við mig og ég sagði honum að Ólafur Ragnarsson gæti komið með einhverjar hugmyndir um útgáfu á verkum mínum því að bækur mínar væru fæstar til í verzlunum og mér fyndist það í raun og veru ótækt. Ég væri að detta út af markaðnum. Mig langaði helzt ekki að enda eins og hver önnur hornkerling íslenzkra bókmennta.
Styrmir sagði að Ólafur hefði imprað á þessu af fyrra bragði en hann hefði ekki gert það. Ólafur hefði sagt að hann gæfi út Davíð Stefánsson og Stein Steinar og hann teldi að ég ætti heima í sömu hillu og þeir. En til þess þyrfti markaðsátak. Og bækur mínar þyrftu að vera til.
Ég talaði svo við Ólaf Ragnarsson og hann endurtók þetta allt við mig og ég neita því ekki að ég gekkst upp við því. Tel líka nauðsynlegt að þeir hafi aðgang að verkum mínum sem vilja. Ég veit vel að það dettur engum í hug að gefa út heildarsafn nú á dögum en við Ólafur vorum sammála um að hann gæfi út það helzta og minnti mig á að ég ætti 40 ára rithöfundarafmæli á þessu ári. Það væri því ástæða til að hefja útgáfuna í haust - þá með útgáfu á fyrstu ljóðabók minni Borgin hló sem kom út 1958, ásamt Njálu í íslenzkum skáldskap.
Ég verð að viðurkenna að ég smitaðist af áhuga Ólafs Ragnarssonar og þeirri tröllatrú sem hann hefur á verkum mínum, ekki sízt ljóðunum.
Ég finn að ég þarf slíkan útgefanda sem trúir á höfunda sína og lítur svo á að þeir varpi ljóma á forlagið en séu ekki einungis einhvers konar fjárhagsleg byrði. Það fer gott orð af Ólafi sem útgefanda og ég hef heyrt að hann sjái vel um höfunda sína enda augljóst hvernig hann ræktar þá fyrir markaðinn og býr í haginn fyrir verk þeirra.
Ég hef að vísu sagt honum að hann megi ekki ofgera þetta átak í fjölmiðlum og er hann alveg sammála því. Hann segir að ég þurfi ekki á samskonar átaki að halda og Ólafur Jóhann Ólafsson, sem hafi verið ungur og lítt þekktur höfundur þegar hann tók við honum en aftur á móti eigi ég mína viðurkenningu sem bakhjarl.
Ólafur hyggst breyta forlagi sínu með þeim hætti að gera Helgafell að sérstakri útgáfudeild og verði ég þá höfundur þar, þá lýk ég mínum ferli í sama forlagi og ég hóf hann á sínum tíma á vegum Ragnars í Smára. Mér líkar það vel og finnst það heillavænleg starfslok þegar þar að kemur.
Ólafur segir að Mál og menning og Vaka-Helgafell hafi 60% af innlendum bókamarkaði og skiptist þau jafnt á forlögin. Hann hefur öfluga útgáfustarfsemi, starfrækir bókaklúbba jöfnum höndum og frjálsa sölu og er það mikill styrkur. Hann segir að bókmenntafræðingar sínir og starfsfólk allt fagni því að ég komi til samstarfs við forlagið og telji það hinn mesta ávinning. Ég ætti því að geta notið mín á þeirra vegum og finnst þetta spor sem nú hefur verið stigið bæði skemmtilegt og uppörvandi.
Ég vona að Halldór Guðmundsson og Kristján Karlsson taki þessu öllu vel þegar ég segi þeim frá því við gott tækifæri en Ólafur mun ekki tilkynna þetta samstarf okkar fyrr en þar að kemur.
Þegar ég hugsa um þessi samtöl okkar held ég að úrslitum hafi ráðið í mínum huga áhugi Ólafs og trú hans á verk mín og sú viðmiðun sem hann notaði í samtalinu við Styrmi og endurtók við mig. Ég get varla fengið betra veganesti. En ég er farinn að halda að staða mín sem skálds sé sterkari en ég vissi því að í Degi 24. janúar sl. segir Elías Snæland Jónsson í yfirlitsgrein um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og bækur okkar Árna Bergmanns, sem lagðar hafa verið fram, að ég sé “meðal fremstu ljóðskálda Íslendinga á seinni hluta þessarar aldar og  mundi sóma sér vel í félagsskap með þeim Ólafi Jóhanni og Snorra (Hjartarsyni) sem áður hafa fengið verðlaunin fyrir ljóðabækur.” Ólafur Jóhann fékk þau 1976 en Snorri 1981.
Ég tel þó litlar sem engar líkur á að ritstjóri Morgunblaðsins fái slík verðlaun en bækur mínar hafa verið kynntar af þessu tilefni, bæði hér heima og á Norðurlöndum, með þeim hætti að ég held það hafi verið ávinningur að taka þátt í þessari uppákomu nú í þriðja og síðasta sinn. Gamall maður lætur slíkt vart yfir sig ganga! Ég hegg líka eftir því sem Kristján B. Jónasson bókmenntafræðingur segir í mikilli yfirlitsgrein um íslenzkar bókmenntir í nýútkomnu Nordisk Tidskrift, litteraturen I Norden 1966, að sennilega sé ég þekktasti sporgöngumaður módernistanna og Vötn þín og vængur sé “mikið og áhrifamikið verk”, en síðar í greininni segir hann að hugrekki mitt eins og hann kemst að orði “til að sameina heimsbókmenntir, menningu, heimspeki og ljóðlist í einni fléttu, er án efa mesti slagkraftur Matthíasar, og gerir hann þegar bezt lætur að stórskáldi (en dikter af størst tænkeligt format”.)
Aldrei hefði mér dottið í hug að ég fengi slíka einkunn - og það frá ungum bókmenntafræðingi!

Ólafur Ragnarsson sagðist alltaf heimsækja Halldór Laxness annað veifið að Reykjalundi. Hann sé nú orðinn mjög afturfarinn. Hann fylgi þó fötum og sitji í stól mest allan daginn. Ólafur kom með myndskreyttu ljóðabókina hans fyrir jólin og sýndi honum. Hann telur að Halldór hafi kveikt á því að þetta væru ljóð eftir hann sjálfan og hann hafi að minnsta kosti þekkt hann, kannski einungis andartak.
Ólafur hefur verið mjög ánægður með samstarfið við Auði og Halldór. Það hefur farið vel á með þeim. Halldór kallaði hann á sínum tíma “eina son okkar”. Ég finn hvað hann ber mikinn hlýhug til skáldsins. Virðing hans fyrir Halldóri er nánast ólýsanleg. Hann segir að hann hafi hjálpað honum að koma út tveimur síðustu bókunum, ritgerðarsafni og bókinni um dvöl hans með munkum. Heilsa hans hafi þá verið farin að bila. Hann hefur ekki annazt frumútgáfu á öðrum verkum Halldórs en lagt áherzlu á að rækta gömul verk og koma þeim á framfæri. Hann segir að Halldór hafi verið byrjaður að hverfa af markaðnum þegar hann tók við honum. Þess vegan stofnaði hann sérstakan klúbb um verk hans. Nú eru þau vel í sveit sett og allir hafa aðgang að þeim sem vilja. Það er annað en var þegar Vaka-Helgafell kom til sögunnar.

Ólafur segir að samband Halldórs við Einar son sinn hafi orðið meira með árunum en Einar hafi oft komið til föður síns og Auðar og sátu þeir þá lengi á tali feðgarnir. Þegar Silja Aðalsteinsdóttir var að skrifa samtalsbókina við Ingu Laxness og þurfti að vita sem mest um samlíf og hjónaband þeirra Halldórs fékk hún Einar son þeirra sér til aðstoðar og átti hann víst verulegan þátt í að bókin var fullgerð með þeim hætti sem raun ber vitni. Á þeim tíma heimsótti Einar föður sinn meir og oftar en áður. Þá rifjuðu þeir ýmislegt upp úr ævi Halldórs og hélt skáldið að sonurinn hefði fengið sérstakan áhuga á lífi hans og störfum. Daginn áður en bók Silju kom út var Einar hjá föður sínum. Ólafur segir að þau Auður hafi spurt hvort nokkuð sérstakt væri að frétta en Einar hafi kveðið nei við því. Daginn eftir hafi bókin komið út. Þetta fór víst eitthvað fyrir brjóstið á þeim báðum, Auði og Halldóri, og Ólafur fullyrðir að þau hafi séð rangfærslur í bókinni sem skáldinu líkaði illa. Ég hélt satt að segja að Einar Laxness væri opinskárri maður en Ólafur lýsti fyrir mér, að hann væri þormeiri. Mér fannst það í samstarfi okkar í Menntamálaráði. Ég hef ekkert nema orð Ólafs Ragnarssonar fyrir því hvernig þessu vatt fram og hefði einhvern tíma áhuga á því að spyrja Silju um það en Einar var henni víst betri en enginn við samningu bókarinnar um Ingu, móður sína.
Hvað sem þessu líður skilst mér á Ólafi Ragnarssyni að mynd af Halldóri í bókinni hafi farið mest í taugarnar á honum. Það er gömul mynd af honum á sundskýlu. Hann sagði að svona myndir birtu menn ekki í bók, þær væru einkamál. En birtingin var gerð að honum forspurðum og hann verður að láta sér lynda að hverfa á sundskýlunni inn í eilífðina.
Ég man ekki eftir þessari mynd og hef ekki bókina við höndina svo ég get ekki flett upp á henni. En allt finnst mér þetta heldur óþægilegt og ástæðulaust að angra gamalt fólk og sómakært með þeim hætti sem Ólafur Ragnarsson lýsti fyrir mér. Ég hef reynslu fyrir því að það var ævinlega hægt að fá Halldór Laxness til samstarfs án þess nauðsynlegt væri að hlífa honum. En ég hef líka reynslu fyrir því að hann var viðkvæmur fyrir sjálfum sér og gat verið stór upp á sig enda hafði hann fulla ástæðu til þess.
Mér virðist það fari í taugarnar á Ólafi Ragnarssyni að Auður talar stundum um Halldór eins og hann sé horfinn en það er að sjálfsögðu hennar vörn gegn erfiðum aðstæðum sem hafa tekið á taugarnar árum saman.

30. janúar, föstudagur

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs féllu í skaut sænsk-finnskrar skáldkonu, Tua Forsström. Ljóðabókin heitir Eftir að hafa verið með hestum um nótt, lítil bók og að mínu viti fullkomin skandinavísk tízkuhönnun; svona ljóð eins og Halldór Laxness varaði mig við að yrkja!! Hanna las þessa bók í síðustu viku og sagði við mig að hún gæti ekki fengið verðlaun því hún væri svo hundleiðinlegt torf! Ég var nokkurn veginn viss um að hún hlyti verðlaunin, hún er rétt ort. Hún er ort eins og á að gera nú á dögum í Skandinavíu. Það yrkja öll góð skáld á Norðurlöndum svona prósaljóð ef þau ætla að komast áfram.
Við Hanna fórum til Hveragerðis í gærkvöldi, vorum þar í nótt. Þar dreymdi mig skrítna drauma. Nú eru þeir ónýtir eins og hver önnur blekking.
Skáldsaga Árna Bergmanns um Þorvald víðförla er meira verk en verðlaunabókin að mínum dómi. Hún hefði því að réttu lagi staðið verðlaununum nær. En við Árni getum þá sagt saman, í fyrsta skipti eftir langvarandi karp okkar í milli þótt við séum orðnir hinir mestu mátar hin síðari ár, Sælt er sameiginlegt skipbrot!
En þótt maður hreppi ekki lottóvinninginn í þessari veizlu sem okkur var nú boðið til, er ekki þar með sagt að lífið haldi ekki áfram. Víst heldur lífið áfram þótt mennirnir séu alltaf að ráðskast með það og þá ekki sízt líf annars fólks. Við það verða menn að sætta sig, ekki sízt skáld. En enginn hefur örlögin í hendi sér. Eða síðasta orðið. Tíminn er einn um það.
Og samt er hann  víst ekki til(!)

Síðdegis

Þrátt fyrir niðurstöðuna í samkeppninni um bókmenntaverðlaunin er ástæða til að halda uppá þennan dag því að yfir honum er heiðrík birta sem fellur á líf okkar Hönnu og fjölskylduna alla: Haraldur sonur okkar var skipaður í embætti ríkislögreglustjóra en það er mikið embætti og krefst ábyrgðartilfinningar og hrokalausrar vizku. Það fer ekki hjá því að við Hanna erum afar stolt af sonum okkar báðum, og fjölskyldum. En þó er ég einkum guði þakklátur á þessum degi. Handleiðsla hans hefur verið eins og móðir mín sagði. Halli hefur unnið sig upp í þetta embætti sjálfur en Þorsteinn Pálsson hefur þá líka sýnt honum mikinn drengskap; óvenjulegan og þá ekki sízt þegar haft er í huga að ég hef stundum yljað honum undir uggum vegna sjávarútvegsstefnunnar, en hann er meiri maður en svo að hann láti það bitna á syni mínum. Við höfum auk þess ævinlega verið miklir mátar. Hann er drenglundaður maður og stór í sniðum. Hann horfir ekki af þúfnakollum. Ég vona að honum farnizt ævinlega vel, bæði í lífi sínu og pólitík, hann á það skilið. Hann hefur vaxið af pólitískum erfiðleikum á sínum tíma og ég gleðst yfir því að hann var ungur á Morgunblaðinu.Vonandi get ég einhvern tíma sýnt honum rækilega í verki vináttu mína og þakklæti.
Ég veit að Halli á eftir að standa sig vel í sínu starfi. Hann er ákveðinn, en hann er líka réttsýnn og viðkvæmur. Hann getur sett sig í spor þeirra sem eiga bágt og ég veit að hann á ekki eftir að leyfa að lögreglumenn ráðist inn á heimili fólks sem grunað er um misferli og það rifið út úr hýbýlum sínum fyrir allar aldir í augsýn hungraðra sjónvarpsvéla.  Hann hefur sýnt að hann er varkár og góðviljaður. Hann neitaði að vista móður í Síðumúlafangelsi á sínum tíma þegar Valtýr Sigurðsson fógeti ákvað að hún skyldi geymd í einangrunarfangelsinu vegan forræðisdeilu við barnsföður sinn og hafði það eitt til saka unnið að fela barn sitt fyrir yfirvöldum til að halda því á sínum vegum hvað sem öllu forræði liði. Valtýr kærði Halla til dómsmálaráðherra sem var honum sammála um að neita að vista konuna um óákveðinn tíma í Síðumúlanum enda án efa mannréttindabrot.

Kvöldið

Það er komið kvöld. Ég er í fríi. Ég nenni ekki að taka þátt í fréttum sem snerta sjálfan mig með þeim hætti sem atburðir dagsins gera. Ég er orðinn leiður á því. Samt er ég hættur að vera skáld. Nú er ég orðinn ritstjóri aftur. Ég kveð skáldið, að minnsta kosti í bili, og ritstjórinn framkallast í myrkvastofu þessa sérkennilega dags. Það er heldur gott veður, samt er ekki stjörnubjart

 

Ég veit af stjörnunum einhvers staðar bak við myrkrið. Þar er tunglið einnig á ferð. Það á sér bæði bjarta og dökka hlið. Það er tákngervingur gleði okkar og sorgar. Sem slíkt er það heilt, jafnvel þótt það sé hálft. Þannig er einnig lífið.

Ég minnist þess þegar ég var í tólf ára bekk í Landakotsskólanum. Þá var ég efstur á jólaprófi. Þá hljóp dúxinn, Jakobína Þórðardóttir, heim, grátandi. Þá tók ég þá ákvörðun að verða aldrei aftur dúx. Það var nokkuð góð ákvörðun og Jakobína, eða Jagga eins og við kölluðum hana, fór aldrei aftur grátandi heim.

Ég vil ekki að neinn gráti undan mér. Það er betra að ég finni til en aðrir mín vegna. Og nú þegar ég hugsa um þessa björtu og dökku hlið tunglsins fer ég að hugsa um ABC-leikhúsið í Kaupmannahöfn. Þangað fórum við Hanna stundum þegar við bjuggum þar í borg frostaveturinn 1955-56. Ibn Schönberg, gríðarlega stór maður og feitur, var skemmtilegasti gamansöngvari Dana um þær mundir, en Paul Reumert var aftur á móti þekktasti leikari Dana. Þá söng Ibn Schönberg í ABC-leikhúsinu:

Paul Reumert höster Bifald når han er overstået
men jeg har aldrig fået noget!

31. janúar, laugardagur

Jóhann Hjálmarsson segir nokkur orð um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í menningarblaði Morgunblaðsins í morgun. Forsström sem á heima í Finnlandi var stödd í Svíþjóð og mætti á blaðamannafundi í Stokkhólmi. Mér þykir það dálítið skrítið en kannski hefur hún átt erindi þangað; kannski á hún þar kærasta; kannski hefur hana dreymt eitthvað og farið eftir vísbendingu; kannski átti hún erindi til Stokkhólms, ég veit það ekki, skiptir ekki heldur neinu máli.
Í áliti nefndarinnar segir:
Að bókin einkennist efnislega “af samhengi og tónvísi.” Einnig að hún höfði “beint til dagsins í dag”!
Ég vissi ekki það ætti að veita verðlaun fyrir “samhengi”, þá hefði ég aldrei leyft að Vötn þín og vængur væri lögð fram í þessari keppni því að hún er í raun og veru margar ljóðabækur, samhengislitlar.
Jóhann segir að íslenzku bækurnar hafi “vakið mikla athygli dómnefndarmanna”. Mér er það samt til efs. Bækur sem tapa í samkeppni vekja litla athygli og þær eiga yfirleitt undir högg að sækja á markaðnum.
Skáldkonan finnska sagði í sjónvarpinu í gærkvöldi að hún hefði orðið hissa á útnefningunni enda hefði verið um að ræða svo margar fínar bækur. En því fleiri fínar bækur, því sætari er sigurinn, auðvitað!

Þröstur Helgason segir um skáldkonuna í sama blaði að bækur hennar séu “vel unnar og meitlaðar”. Hann segir að ljóðin í þessari bók séu “mörg hver afar falleg” en það þurfi vandlegan lestur til að kalla fram hinn “dulda galdur  sem í þeim býr”. Allt má þetta vera rétt þótt bókin hafi ekki verkað á mig með þessum hætti. Þessi sænska ljóðlist er orðin heldur hefðbundin og formföst. Hún kemur mér sjaldnast á óvart. Mér finnst hún oft eins og út úr blýmóti.
Það sem mér finnst bezt við bókina er að það er unnt að lesa hana sem einhvers konar samtöl við Tarkovskí, Hómer og Aspenström. En þessi hversdagslegi og að mörgu leyti prósaíski ljóðstíll heillar mig ekki, enda ekkert undarlegt því ég skil ekki þetta sænska tungutak og þann grun sem það vekur, svo ég vísi aftur í grein Þrastar. En hann getur þess að dómnefndin hafi lagt áherzlu á “þematískan þéttleika” bókarinnar og tekur undir þá lýsingu.
Þröstur Helgason heldur áfram:
“Ljóð Forsström segja hversdagslegar sögur með víða skírskotun. Yrkisefnin eru fjölbreytileg; sorgin, þráin, fátæktin, glötuð tækifæri og kannski umfram allt kærleikurinn og ástin sem eru ofar öllu. Þótt hinn grái samfélagslegi veruleiki sé áberandi þá er náttúran einnig mikilvægt umfjöllunarefni, einkum hafið og skógurinn. Hér er að finna samfélagslega gagnrýni, heimspekileg ljóð, írónísk ljóð og glettin.
Á síðasta ári komu út 200 titlar á finnlands-sænsku en af þeim töldust 48 til fagurbókmennta. Bókmenntir Finnlans-Svía fylgja í megindráttum alþjóðlegum meginstraumum í bókmenntum. Tilraunir eru þó ekki algengar, allra síst í lausamálsbókmenntunum og ljóðagerðin fylgir að mestu hinni módernísku hefð eins og bók Forsström er raunar ágætt dæmi um.”
Þetta er hefðin sem Laxness varaði mig við á sínum tíma. Og hún er sízt af öllu neitt nýnæmi nú á dögum.

1. febrúar, sunnudagur

Það er ekki undarlegt þótt fólkið í landinu beri ekki mikla virðingu fyrir fjölmiðlum. Alls staðar hefur verið minnzt á þá ákvörðun dómsmálaráðherra að skipa Harald, son okkar Hönnu, í embætti ríkislögreglustjóra. Ef Morgunblaðið kæmi ekki út hefði þessi frétt ekki enn komizt óbrengluð til skila. Bylgjan sagði á föstudag að hann héti Harald Johannessen, ríkissjónvarpið sagði að hann héti Haraldur Jóhannesson og Dagblaðið sagði að hann hafði gegnt embætti vararíkislögreglustjóra! Allt er þetta rangt. Og allt væri þetta í skötu líki ef Morgunblaðið hefði ekki birt rétta frétt á laugardag.
Já, það er ekki skrítið þótt orðstír íslenzkra fjölmiðla sé ekki hátt á hrygginn reistur.

Seinna

Jóhann Hjálmarsson sagði okkur sl. fimmtudag að Jón úr Vör hefði tekið mjög nærri sér þegar hann fékk ekki bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs á sínum tíma. Kannski hafi hann aldrei náð sér fullkomlega eftir það kollrak. Hann hafi þá hætt að skrifa dagbók sína sem hann hefur haldið áratugum saman og ýmislegt fleira breyttist í huga hans. Ástæða þess hve hann tók þetta allt nærri sér var sú, að Olof Lagercranz, skáld og fyrrum ritstjóri við Dagens Nyheter, mælti mjög með bók hans og hafði jafnvel samband við nefndarmenn í dómnefndinni. Annar sænsku dómnefndarmannanna kom um þessar mundir til Íslands og sótti Jón heim. Í samtali þeirra lýsti hann yfir stuðningi sínum við bók Jóns og lét að því liggja að hinn dómnefndarmaðurinn sænski mundi einnig styðja ljóðabók Jóns þegar þar að kæmi. Verðlaunin voru þannig orðin einhvers konar fugl á hendi Jóns.
En þegar til kom varð mikil samkeppni milli Jóns og höfuðskálds Norðmanna, Rolfs Jacobsens, og niðurstaðan sú að í þessum átökum féllu verðlaunin ofan í milli, ef svo mætti að orði komast, þ.e. þau féllu í hlut lítt þekkts færeysks skálds , Roa Patursons, að ég hygg, en man þó ekki nákvæmlega hvernig nafn hans er skrifað. Það draup sem sagt á djáknann í þessum barningi! Átök tveggja höfuðskálda urðu þeim að falli, en honum til góðs!  
Þannig mega menn aldrei ætla að þeir hafi einhvern fugl á hendi. Lífið er aldrei slíkur fugl. Það minnir frekar á vindinn. Það sem gerist er óvænt; ósýnilegt.
En Jón hefur víst aldrei náð sér að fullu eftir þetta at og lái honum hver sem er. Svona verðlaun eru auðvitað háð tilviljunum frekar en nokkru öðru. Það getur margt gerzt í atkvæðagreiðslu. En það er ágæt reynsla að taka þátt í svona kapphlaupi. Það er alveg í lagi að taka það hátíðlega, en fáránlegt að halda að það sé einhver endanlegur sannleikur.
Þetta er einkum kapphlaup um peninga og auðvitað um þau markaðsvöld sem geta verið nauðsynleg í snobbuðum tízkuheimi.
Það er e.t.v. ekki hægt að skilja Jón úr Vör og afstöðu hans á sínum tíma án þess vita að Bonniers hafði ákveðið að gefa út ljóðabók hans og skilst mér á Jóhanni Hjálmarssyni að frá þessu hafði verið gengið vegna þeirrar “vissu” að bókin hlyti verðlaunin. En þegar hún gerði það ekki, hætti Bonniers við að gefa út þessa óverðlaunuðu ljóðabók! Svona er nú þetta einfalt!

 

En Norðmenn urðu vitlausir þegar Jacobsen fékk ekki verðlaunin. Hann var höfuðskáld þeirra og þeir skildu ekki ástæðuna fyrir því að hann gæti ekki fengið slík verðlaun, heldur óþekkt færeyskt ljóðskáld.

Samkeppni eins og þessi kallar fram í manni einhvers konar sambland af vonbrigðum og baráttuvilja. En menn verða að gæta sín á því að gera ekki vonbrigði og sársauka að nautn, ég held að mörgum hætti til þess. Það eru til margvíslegar nautnir og þetta er ein þeirra.

Boxari getur orðið fyrir vonbrigðum eða sársauka ef andstæðingurinn nefbrýtur hann eða sprengir gagnaugað og dregur úr baráttuþreki hans. En það getur líka orðið til þess að kalla fram í honum vilja sem úrslitum ræður, ekki endilega í keppninni sjálfri, heldur í tengslum við þá sjálfskoðun sem er óhjákvæmileg í öllum átökum.

Ég er ekki svo barnalegur eða skyni skroppinn að ég viti ekki vel að það hefði verið ýmsum of stór biti að kyngja, ef ég hefði fengið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Það hafa áreiðanlega verið margir sem biðu eftir “góðum” eða “þolanlegum” úrslitum, og ýmsum hefur áreiðanlega létt, þegar þau lágu fyrir. Nú er hægt að halda áfram að ýja að því að ástæðulaust sé að nefna mig þegar farið er yfir nöfn íslenzkra ljóðskálda. Svo ég tali nú ekki um rithöfunda! Og nú geta þeir sem vilja gagnrýnt það sín á milli - og jafnvel á opinberum vettvangi - að það hafi verið fáránlegt að senda ljóðabækur mínar í svona samkeppni því að þær standi ekki undir því.
Ég neita því ekki að ég hef þannig geðslag að mér er í móti skapi að skemmta þessum skröttum. Þeir eru að vísu fáir orðnir og þeim hefur sífækkað eftir því sem ég hef elzt og bækur mínar hafa orðið fleiri. En það eru víða sjálfskipaðir spekingar. Einhver bókmenntagaur við háskólann telur það, að mér skilst, helzta viðfangsefni sitt að sleppa ljóðum mínum, þegar hann fjallar um nútímaskáldskap hér heima. Mig minnir hann heiti Garðar Baldvinsson - og þó er það ekki víst. En honum tókst að nefna hvorki mig né Jóhann Hjálmarsson á einhverri sýningu í Árbæjarsafninu sl. sumar, þegar hann tók saman yfirlit yfir skáld sem fædd eru eða uppalin í Reykjavík. Það sá ég í grein eftir Skafta Halldórsson í Morgunblaðinu. Það var eiginlega afrek út af fyrir sig að sleppa mér, jafn þrælslegum vesturbæingi og ég er. Ég er fæddur á Ásvallagötu 10, eða rétt við gamla kirkjugarðinn, og eyddi frumbernsku í Kirkjustræti 10, húsi ömmu minnar sem Alþingi hefur látið gera upp og hefur nú til afnota; í fallegu húsi eftir andlitslyftinguna. Þessi sami spekingur skrifaði einhverja bók um dauðann og þar eru tilþrif hans ekki mest í því sem hann nefnir til sögunnar heldur hinu sem hann sleppir. Ég hef ort mikið um dauðann, jafnvel ofmikið, og það er augljóst að hann hefur sótt á mig. En í augum þessa bókmenntafræðings hef ég aldrei ort neitt um dauðann og ástæðurnar eru augljósar: ég er sjálfur dautt ljóðskáld…!

Kvöldið

Þyrfti við tækifæri að skrifa sögu um mann sem nærist á því að hann er ofsóttur, að því er hann telur sjálfur. Og þegar engar ofsóknir eru á hendur honum, býr hann þær til.  Ofsóknarlaust getur hann ekki lifað. Og svo endar það með því að hann fer að ofsækja þá sem áttu að ofsækja hann, en gera það ekki. Ég þekki svona folk,án þess ég hafi áhuga á að vera í ofsótta liðinu ! það er ömurlegt.
Sný mér  því að öllum þeim sem hafa sýnt verkum mínum áhuga
Og ástúð.

Það eru mörg Háskólabíó ! Verðlaunanefndir,erlendir gagnrýnendur og svo lesendur um allar trissur.Svo ekki sé talað   um alþingismenn sem hafa úthlutað mér heiðurðlaunum.,
Ef þetta skiptir þá einhverju máli !

            Ps.

Halli sagði mér í gær að hann hefði verið slæmur í maganum. Það hefði verið eftirstöðvar af gleðinni yfir nýja embættinu. Nú sé hann orðinn kvíðinn. Ég veit hann nær sér af þessu.
Ég sagði við hann,
Ef þú værir ekki kvíðinn, þá hefðir þú ekki átt að fá þetta embætti(!) Sá sem gengur inn í embætti ríkislögreglustjóra kvíðalaus og eins og hann hafi í öllum höndum við umhverfið, er áreiðanlega á rangri hillu.
Þetta er erfitt embætti sem fjallar m.a. um i fólk sem á bágt og hefur orðið undir, ekki sízt í baráttunni við freistingar sínar. Þetta veit Halli og það er eðlilegt að hann sé kvíðinn, því að hann hefur viðkvæmar taugar og manneskjulega afstöðu.