2000

annar hluti

 

26. apríl, miðvikudagur

Samtal um Stefni

Byggt á samtali Óskars Axelssonar í tilefni afmælis Stefnis.

 

Viðtal

1.

Stefnir var tímarit um þjóðmál og þar birtust margvíslegar greinar um þau efni. Þegar ég var beðinn um að annast útgáfu eins heftis brá ég á leik og reyndi einnig að gera út á önnur mið. Það var aðdragandi þess að okkur þremur ungum blaðamönnum við Morgunblaðið var trúað fyrir ritstjórn blaðsins, auk mín voru það Gunnar G. Schram og Þorsteinn Thorarensen. Við tókum við ritinu 1955 og sáum um það næstu tvö árin. Samstarf okkar var mjög gott, við höfðum allir eina afstöðu til flestra mála og reyndum að gera tímaritið eins fjölbreytt og unnt var. Höfuðáherslan var þó ekki lengur á innlend og erlend stjórnmál, eða viðfangsefni Sjálfstæðisflokksins, heldur lögðum við áherslu á víðtæka menningarpólitíska umræðu sem einkenndi ritið þau ár sem við stjórnuðum því. Við höfðum sem sagt áhuga á því að opna fleiri glugga og veita inn í þetta hús Sjálfstæðisflokksins nýju, fersku lofti. Okkur þremenningana langaði til að gera Stefni að einhvers konar framlagi til menningarumræðunnar hér á landi fyrst okkur var trúað fyrir ritinu. Morgunblaðið var þá harðsvírað málgagn Sjálfstæðisflokksins en við vorum fréttamenn en ekki pólitíkusar og létum það gott heita. En um Stefni gegndi öðru máli. Marxistar höfðu alfarið stjórnað allri menningarpólitískri umræðu hér á landi en við vorum allir miklir andkommúnistar og töldum m.a. nauðsynlegt að hafa sterkar varnir á Íslandi svo að unnt yrði að verjast stalínismanum ef með þyrfti. Þetta setti að sjálfsögðu mark sitt á allt umhverfi okkar, hugsun okkar og áform og aðgreindi okkur frá hernámsandstæðingum, hvort sem þeir voru sósíalistar eða ekki. En við töldum að undirstaða þessarar baráttu við heimskommúnismann þyrfti að vera af menningarlegum toga og lögðum á það áherslu. Stefnir ber þess merki. Við fengum frjálsar hendur og breyttum því sem við vildum. Við fengum unga rithöfunda, myndlistarmenn og annað menningarlega sinnað fólk til samstarfs við okkur, ásamt eldri listamönnum eins og Kristmanni, Agnari Þórðarsyni, Jakobi Thorarensen, Jóni Dan og einhverjum fleiri sem voru eldri en við, auk þess sem margt ungt fólk átti samfylgd með okkur á síðum þessa nýja borgaralega málgagns. Það var ekki ætlun okkar að hefja íhalds- eða hægrimenn upp til skýjanna, við spurðum aldrei hvaða skoðanir það fólk hafði sem lagði efni til ritsins. Við tókum fagnandi þeim sem vildu vera með okkur og birta eitthvað bitastætt og skemmtilegt eða fróðlegt í ritinu; meðal þeirra voru Hannes Pétursson sem var okkur innan handar og lagði verulegt efni til tímaritsins, Steingrímur Sigurðsson, Indriði G. Þorsteinsson, að mig minnir, og ýmsir fleiri sem vöktu athygli á þeim árum, mér er jafnvel nær að halda að Þorsteinn frá Hamri hafi birt sitt fyrsta ljóð á prenti á okkar vegum. En mesta athygli vakti þó ljóð Steins Steinars, sem ég fékk hjá honum, og birtist undir nafninu Ísland. Hann hafði ekki birt ljóð mörg undanfarin misseri og marxistar sáu ofsjónum yfir þessu, ég heyrði þá rakka ljóðið niður, ekki þess sjálfs vegna heldur vegna blaðsins sem það birtist í; að sjálfsögðu. Þá birtum við einnig marktæka ritdóma og umsagnir um myndlist, kannski kvikmyndir einnig, ég man það ekki, en ritdómarnir voru að a.m.k. á háu plani. Það þótti okkur mikilvægt. Síðar kom til liðs við okkur Sigurður A. Magnússon sem einnig starfaði á Morgunblaðinu. Við höfðum þá mjög svipaðar skoðanir, bæði á skáldskap og pólitík. Síðar hélt hann að unnt væri að breyta Morgunblaðinu úr sjálfstæðisflokksmálgagni á einni nóttu í opið blað. Ég vissi að það yrði ekki hægt eins og umhverfi okkar og tímarnir voru á þessum kaldastríðsárum, það yrði að gerast hægt og skref fyrir skref; það mundi að vísu taka mörg ár að sigla blaðinu þangað sem það er statt í dag. Þegar ég var orðinn ritstjóri Morgunblaðsins 1959, eða tveimur árum eftir að Stefnis-ævintýrinu lauk, tók ég upp þráðinn þar sem frá var horfið í Stefni og reri á önnur mið en venja var þar á bæ í þessu ölduróti. Stefnan var tekin en hægt var róið í fyrstu. Aðalatriðið að kósinn væri réttur. Annars lenti Morgunblaðið í hafvillum og þá var alveg eins líklegt að þetta mikla móðurskip færist í öldurótinu eins og önnur flokksmálgögn síðar meir. Þarna þurfti að beita list hins mögulega ef vel átti að fara. Allt tók þetta á taugarnar áður en blað allra landsmanna varð sú staðreynd sem raun ber vitni nú um stundir. En línurnar voru, að ég hygg, lagðar í Stefni. Þaðan var veganestið enda heppnaðist hann vel sem nýstárlegt ævintýri. Stefnir átti dálítið merkilega sögu enda var stofnandi tímaritsins, Magnús Jónsson, sem sat í einni af ríkisstjórnum Ólafs Thors, einstakur maður og mikill hugsuður eins og þú getur séð af samtölum mínum við hann skömmu áður en hann lést. Hann hafði þá verið mikilvæg menningarleg ballest í Sjálfstæðisflokknum, ef svo mætti að orði komast.

Fullyrða má að það hafi verið mikill titringur í kringum Stefni þegar hann birtist í þessum nýja búningi, mikill áhugi. Það kom flatt upp á þjóðfélagið að við skyldum hafa þennan menningarlega áhuga og létum efnahagsmálin lönd og leið ef því var að skipta. Það var augljóst að þetta fór mjög í fínu taugarnar á helstu menningarvitum marxista en það ýtti undir okkur frekar en hitt, við tvíefldumst. Aðalatriðið að vekja borgarastéttina til vitundar um að það væri margt merkilegt og jafnvel merkilegra við menninguna en þá auðhyggju sem alltaf var verið að tönnlast á og einkenndi Sjálfstæðisflokkinn öðru fremur. Ungir sjálfstæðismenn ættu að huga að þessum málum  betur en gert hefur verið síðustu misserin og reyna að vaxa upp úr þeirri bábilju að ríkið megi ekki verja skattpeningum til uppbyggingar á því sviði menningarlífs sem einstaklingum væri ofraun. Þá á ég við Þjóðleikhús, Ríkisútvarp, tónleikahús  og Borgarleikhús, svo að dæmi séu nefnd.

Við reyndum að minna á að það væri rangt sem marxistar höfðu reynt að telja fólki trú um, að borgaralegt fólk væri andmenningarlegt. Við vildum leggja áherslu á að svo væri ekki. Okkur fannst þessi áróður vinstri manna fáránlegur - og þá ekki síst sögulega séð, vegna þess að það hefur margsýnt sig að mikil list sprettur úr borgaralegu samfélagi, bæði á okkar tímum og þá ekki síður fyrr á öldum. Að okkar mati hafði Sjálfstæðisflokkurinn allt of lítinn áhuga á þessum efnum og hnoðaðist endalaust í efnahagsmálum eins og margt ungt fólk á verðbréfamarkaði enn í dag. Allt var þetta að vísu nauðsynlegt en þó í góðu hófi. Líf okkar er margslungnara en svo að fjármagn skipti öllu máli - en það skiptir máli.

Stefnir fékk góða útbreiðslu og fólk beið hvers blaðs með mikilli eftirvæntingu. Hverju skyldu þessir ungu strákar taka upp á næst, var spurt. Ritið var selt í verslunum og kom víða við. Jú, við höfðum fullt af áskrifendum og róðurinn gekk ágætlega. Fólki þótti þetta bæði hnýsilegt og fýsilegt. Sumir vinstri menn reyndu að hafa tímaritið í flimtingum og það bitnaði náttúrulega persónulega ekki síst á mér sem ungri skáldspíru. Ég þurfti að súpa marga fjöruna vegna áhuga á menningu og skáldskap. En það er liðin tíð og margt er gjörbreytt sem áður var óþolandi. Tímarnir breytast og einnig við. Það er nauðsynlegt að taka allt til endurskoðunar, jafn nauðsynlegt og hlú að gömlum rótum. En það er ekki hægt að nærast á gömlum lummum endalaust. Við verðum að viðra okkur með nýjum hætti og skoða umhverfið af nýjum kögunarhóli. Og í því sambandi þykir mér ástæða til að minna á að ungir sjálfstæðismenn þurfa að gæta sín á því að festa sig ekki á lágum plönum auðs og valda. Þeir eiga að hafa víðari útsýn, sjálfstæðisstefnan á það skilið, að mínu mati.

Þess má geta í sambandi við þann borgaralega jarðveg sem ég hef verið að fjalla um að síðar varð mikill fengur að Frelsinu, tímariti sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson hleypti af stokkunum við góðar undirtektir. Ég lagði þar einnig hönd á plóginn því mér þótti það framtak í senn mikilvægt og skemmtilegt. Ritið varð góð brjóstvörn í pólitíska atinu á kaldastríðsárunum og ég fagnaði því sérstaklega vegna þess að nú þurftu marxistar að etja við nýjan andstæðing, eða eigum við að segja áskoranda, og spjótin beindust síður að mér persónulega en verið hafði. Vel var vandað til útgáfu þessarar en þar var einnig fjallað um heimspeki og menningu, ekki síður en stjórnmál og efnahagsmál en eins og Stefnir á sínum tíma var Frelsið barn síns umhverfis og hafði verulegu hlutverki að gegna. Ég var að vísu aldrei harður frjálshyggjumaður, enda kallaði Hannes Hólmsteinn mig ýmist sveigjanlegan frjálshyggjumann eða fjölhyggjumann, hvort tveggja er rétt.

Það er ekki langt síðan um þetta var fjallað í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins og þar sem ég sem ritstjóri Morgunblaðsins á þar hlut að máli tel ég ekki fráleitt að vitna til þessa bréfs.

Í þessu Reykjavíkurbréfi sem birtist í Morgunblaðinu 2. apríl sl. segir m.a. á þessa leið: "Í nýlegu Reykjavíkurbréfi var komizt svo að orði að það hafi aldrei verið tilgangur þeirra sem boðuðu ágæti almenningshlutafélaga hér í Morgunblaðinu fyrr á árum að það ætti að leiða til auðsöfnunar fárra, heldur sem flestra. "Þessi stefna hefur að mörgu leyti þróast með okkur, en hefði þó mátt leiða til meiri jafnaðar og það var aldrei tilgangur hennar að fáir útvaldir gætu lagt undir sig mikinn auð í skjóli þessara vígorða. En þróun síðustu missera hefur sýnt að þeir sem hafa handa á milli það sem úrslitum ræður, peninga, auðmagnið, geta nýtt þessa fjármuni til meiri auðsöfnunar en þekkst hefur í íslensku þjóðfélagi:

"Menn hafa ekki einu sinni þurft að greiða skatt af söluhagnaði af kvótabraski - einatt ofsagróða - þótt tákngervingur frjálshyggjunnar, trillukarlinn, hafi að vísu þurft að gera það!" bætir Matthías við. Í Reykjavíkurbréfinu segir enn fremur: "Frjálshyggja er ekki endilega nein síðkapitalísk stefna sem skilur þá eftir á köldum klaka sem minna mega sín eða þurfa við fátækt að búa. Þvert á móti er það innbyggt í mannúðarstefnu hennar sem á rætur að rekja í þjóðarsáttmála byltingarmanna í Frakklandi 1789, þ.e. að þjóðfélaginu beri skylda til að sjá þeim farborða sem geta það ekki sjálfir.

Hitt er svo auðvitað kjarni þessarar stefnu að menn fái tækifæri til að haga lífi sínu að eigin hætti, en ekki samkvæmt fyrirmælum ríkis og valdhafa og þá ekki síður, að þeir hafi svigrúm til að koma undir sig fótunum, megi ráðskast með líf sitt og efni að eigin vild og án mikillar afskiptasemi hins opinbera, svo fremi sem allt fari þetta fram að siðlegum hætti og innan þeirra takmarka sem siðalögmál nútímasamfélags gera kröfur til."

"Frjálshyggjan er endalaus leit að lausnum eins og sagt hefur verið, tilraun til að takmarka valdið, binda það, svo að það geti horft til heilla fyrir fólk. Frjálshyggjan verður ekki útlistuð eins og marxisminn, hún verður ekki skýrð sem endanlegt guðsorð, ef svo mætti segja, heldur kallar hún á spennu - og þá ekki síst milli þeirra sem telja sig frjálshyggjumenn."

Í þessu Reykjavíkurbréfi er einnig komið að því sem ég nefndi hér að framan, þ.e. afskiptum ríkisins af list og menningu. Þar er sagt að fyrrnefndar stofnanir gegni svipuðu hlutverki og skólarnir og eigi því rétt á sér með sama hætti og þeir. Þetta hefur náttúrulega tekizt misjafnlega eins og allt sem við þurfum að glíma við, en þó er áreiðanlega unnt að fullyrða, að starfsemi þessara ríkisfyrirtækja (þ.e. Þjóðleikhúss, Ríkisútvarps) hafi verið íslenzkri menningu og arfleifð okkar mikilvægur og skjólgóður vermireitur og þá eru þau ekki sízt mikilvæg í þeirri hatrömmu baráttu sem nú fer fram um varðveizlu tungunnar en hún var að dómi Jóns forseta hornsteinn íslenzks sjálfstæðis. Hann talaði jafnvel um rétt íslenzkrar tungu."

 

2.

Matthías afi minn var norskur kaupmaður sem fluttist til Íslands og stofnaði verslanir í Reykjavík. Ég á því rætur í þessu borgaralega verslunarsamfélagi og sumt af því sem ég er alinn upp við minnir á Buddenbrooks Tomasar  Manns og umhverfi konsúlanna í fæðingarborg hans, Lübeck. Ég á einnig sterkar rætur í Sjálfstæðisflokknum því að Jóhannes móðurafi minn var einn af helstu forystumönnum Íhaldsflokksins og átti sinn þátt í sameiningu hans og Frjálslynda flokksins. Ég hef satt að segja enga fordóma gagnvart þessari arfleifð, nema síður sé. En tímarnir hafa breyst, þótt hitt sé jafnvíst nú um stundir og áður að verslun og viðskiptum fylgir menning og því meiri viðskipti því sterkari menning. Þetta sjáum við í borgum eins og Lübeck sem ég nefndi áðan og Björgvin þar sem föðurafi minn var fæddur og alinn upp, báðar með rætur í viðskiptum Habsborgara. En gamli Sjálfstæðisflokkurinn hafði tilhneigingu til að gleyma þessari borgaralegu fléttu efnahags- og menningar. Jafnvel öfgamenn eins og stalínistar gátu því haslað sér völl þar sem þeir áttu ekki heima, að okkar mati. En allt er þetta að breytast eins og ég sagði og Sjálfstæðisflokkurinn þekkir kall samtímans að þessu leyti.

Ég hef oft verið spurður hvort það hafi ekki verið erfitt að vera ritstjóri Morgunblaðsins og skáld eða rithöfundur og hef að sjálfsögðu svarað því til að svo hafi verið, oft og einatt. En þetta breyttist þegar blaðið opnaðist og gamla andrúmið okkar í Stefni forðum daga var orðið eins og hver annar sjálfsagður hlutur í viðleitni og viðhorfum á hægri kantinum. Ég hef því ekki fundið fyrir neinum sérstökum þrýstingi eða erfiðleikum hin síðari árin, þvert á móti. Ég held að fólk hafi kunnað að meta viðleitni okkar að þessu leyti. Svavar Gestsson minnti jafnvel á í athyglisverðri ræðu á sínum tíma að menningarumræðan færi helst fram á síðum Morgunblaðsins. Þannig hefur uppskeran verið eins og til var sáð. Eins og Stefnir forðum hefur blað allra landsmanna lagt höfuðáherslu á list og menningu og þá ekki síður menntun; ekki endilega í tengslum við neinn sérstakan stjórnmálaflokk heldur þjóðina sjálfa, fólkið í landinu, þrá þess og metnað. Það hefur aldrei verið neinn skoðanamismunur  um þessa þróun. Samritstjórar mínir hafa verið sömu skoðunar en best gæti ég trúað því að línan hafi ekki síst verið lögð í Stefni á sínum tíma, a.m.k. hefur þróun Morgunblaðsins verið með svipuðum hætti og það sem gerðist í Stefni undir ritstjórn okkar morgunblaðsstrákanna. Það er kannski tilviljun en þó efast ég um það. Þarna var tónninn sleginn, þarna var kósinn stunginn út. En auðvitað var farið allt aðra leið á stórblaðinu en litla tímaritinu. Þar var meiri barátta, þar var meira í húfi og þar voru slagsmálin oft og einatt blóðugri í öfgafullu andrúmi kaldastríðsins. 

 

3.

Fólk er alltaf að gera út á mergðina. Það er eins og hún ein skipti máli. Stjórnmálamenn verða að vísu að finna einhvern samnefnara í mergðinni því hún ræður úrslitunum. Atkvæðin koma frá henni. En það er einstaklingurinn sem skiptir öllu máli í samfélaginu, ekki síður en í kærleiksboðskap Krists. Það er sálarheill hvers og eins sem allt er undir komið. Þótt við höldum að við séum að tala til þúsunda manna erum við í raun ævinlega að tala til einhverra örfárra sem öllu stjórna. Líttu t.a.m. á Reykjavíkurbréfin, en þau eru aðalstefnumörkun Morgunblaðsins, hver les þau?

Allskonar skoðanavélar vaða nú uppi í öllum mögulegum fjölmiðlum en enginn segir neitt í raun og veru. Það er engin barátta, helst ekkert í húfi. Engu líkara en blaðrið sé guðspjall dagsins. Það eru þó helst einhver átök um umhverfismál. Það var merkilegt að upplifa Eyjabakka, þegar ritstjórinn fór þangað í september í fyrra, en skáldið kom aftur til byggða. Um það orti ég í síðustu ljóðabók  minni, en hver les það? Ég skrifaði að vísu einnig um það í Morgunblaðið en það var lágvær grein og ljóðræn. Hver hlustar á grasið vaxa? Hefurðu orðið var við nokkur heimdallareyru nú um stundir? Nei, það er öskur frumskógarins sem öllu ræður í dag og satt að segja sagði ég skilið við öskrið þegar kalda stríðinu lauk. Nú fjallar flest um græðgi og mér er nær að halda að fólk telji að þessi græðgi sé einkenni frjálshyggjunnar. En það er rangt. Frjálshyggja er ekki eftirsókn eftir vindi. Við eigum að rækta hið lágværa hvísl öræfanna og þau verðmæti í sjálfum okkur sem mölur og ryð fá ekki grandað. Það merkir einfaldlega að við eigum að rækta með okkur mennskuna og hún verður ekki betur ræktuð en með nánum tengslum og skírskotun í náttúruna. Og þegar komið er að landinu okkar og þeim rótum sem mikilvægastar eru, rótum okkar sjálfra, er arfleifðin ekki langt undan og svo það sem mestu skiptir, tungan.

Það eru þessi verðmæti sem við reyndum að leggja áherslu á í Stefni forðum daga og þau hafa fylgt okkur æ síðan. Græðgishyggjunni var útrýmt í okkar Stefni.

Við eigum að ryðja burt peningafjasinu og leggja áherslu á það sem er í andstöðu við frumskóginn. En þá verður líka hver og einn að geta séð sér farboða með góðu móti. Markaðurinn getur bætt kjör fólks og lækkað vöruverð án þess að milljaðar safnist á fárra hendur, ég tala nú ekki um í litlu landi eins og okkar, þar sem stéttaskipting fylgir ekki hömlulausum stórkapítalisma - og hefur aldrei gert. Það var aldrei markmiðið og getur varla verið hlutverk okkar á Íslandi að búa til tvær þjóðir; tvö tungumál; alþjóðatungu milljarðanna og tungutak þeirra sem hafa einungis löngun til að rækta garðinn sinn og - mundi þá ekki þessi garður vera í okkur sjálfum?

4.

Ég er ekki að boða að ríkið eigi að drepa einkaframtakið, heldur einungis að það eigi að lyfta undir mikla list; að það eigi að hlú að menningu. Einstaklingar hafa ekki bolmagn til að reka menningarstofnun á borð við Þjóðleikhús eða Ríkisútvarp, eða standa undir stórbrotnum kvikmyndum, þeir hafa ekki bolmagn til þess - þeir verða að fá aðstoð ríkisins, a.m.k. hér á landi þar sem einkafyrirtæki hafa tiltölulega lítið bolmagn miðað við stór fyrirtæki erlendis. Einstaklingar geta rekið revíur og poppútvarp og lítil útgáfufyrirtæki ef því er að skipta. En þeir ráða ekki við milljónahundruð til listar og menningar, ekki frekar en þeir geta rekið alla skóla á Íslandi; t.a.m. Háskóla Íslands; eða menntaskólana; eða Sjómannaskólann, eða Iðnskólann. Við eigum að vera stoltari en svo að láta það henda okkur að festast í kenningavaðli sem yrði einungis til þess að ríkið eyddi meiri peningum í ómerkilega hluti þegar það þyrfti ekki að eyða þeim í merkileg verðmæti - því að eitt skulum við muna: stjórnmálamenn munu aldrei lækka skatta! Slíkt skyldi engum detta í hug. Ef eitthvað lækkar, þá hækkar annað. Við megum ekki gleyma því að skattar eru eitt mikilvægasta valdatæki stjórnmálamanna. Hitt er svo annað mál að ég viðurkenni fúslega að hægt er að misfara með skattpeninga fólksins, verja þeim í margvíslegt rusl í stað þess að verja þeim í umhverfi Mozarts og Haydn á sínum tíma. Ríkisútvarp á ekki að vera einhver lággróður, heldur harður skóli þar sem fer fram mikilvæg ræktun, ekki síst ræktun tungunnar. Ríkisútvarp á ekki að keppa um léttmeti og klám eins og stundum brennur við í sjónvarpinu. Ómerkilegar einkastöðvar sem koma okkur lítið eða ekkert við og eru einungis einhvers konar peningamaskínur og umgjörð alls kyns athyglisfíkla eiga ekki að vera viðmiðun metnaðarfulls ríkisútvarps. En þær eiga rétt á sér eins og aðrar uppákomur þótt þær minni fremur á suðandi fiskiflugur en sjónhvassa erni.

 

5.

Hvað myndu hörðu frjálshyggjumennirnir í Heimdalli segja ef þeir fengju ekki að fara í háskóla nema greiða fyrir það sem svarar einni milljón króna á ári eins og kröfur eru gerðar víðast hvar erlendis? Ég er hræddur um  það heyrðist hljóð úr horni! Hvað um aðra skóla; hvað um heilsuverndarstöðvar? Hvað um velferð þegnanna? Hvað um velferðarríkið sjálft sem við höfum trúað á og hefur ekki brugðist hvað sem hver segir. Því hefur verið ógnað, það hafa verið gerðar meiri kröfur til þess en efni standa til, það eru alls staðar einhverjir sósíalar - en kjarninn er þó heill ef að er gáð eins og segir í Njálsbúð Einars Benediktssonar. Sjálfstæðismenn lögðu undirstöðuna að félagsþjónustu Reykjavíkur, þeir gerðu það með þeim hætti að undirstaðan var réttlig fundin, eins og segir í öðru kvæði sem allir vildu kveðið hafa, Lilju Eysteins. En það er margvísleg einkastarfsemi í tengslum við alla þessa viðleitni, sem betur fer. Hún er ekki síst hornsteinn þjóðfélagsins. Það eru einnig einkaskólar svo að dæmi séu tekin, ef til vill einnig einkaleikhús. Og einkasjónvarp, einkaútvarp - auðvitað eiga þau rétt á sér, en þau mættu vera betur ræktuð, metnaður þeirra meiri - og vonandi verður þróunin í þá átt.

Já, hvað mundu frjálshyggjumennirnir hörðu í SUS segja ef þeir þyrftu að borga háar upphæðir fyrir skólavist í Menntaskólanum á Akureyri? Ég er hræddur um að það kæmi skeifa á þá suma - eða  mundu þeir borga með glöðu geði hvað sem upp væri sett?!!

Nei, látum hjartað ráða, það er besti vegvísirinn.

Hin harða frjálshyggja græðginnar gengur ekki upp. Þar sem hún fær að ráða er einungis teymingur eftir í frumskóginn. Við erum ekki á leiðinni þangað, heldur útúr skóginum; þangað sem jökulinn ber við loft. Það er a.m.k. ætlunin að komast að þessu marki þar sem mennskan og fegurðin eru í fyrirrúmi; ofar hverri kröfu.

 

6.

Ég veit ekki hvort er hvimleiðara, skoðanaleysi eða ofskoðanir. Skoðanaleysi er eins og andleg gelding, ofskoðanir eins og ofskynjanir; blekkingar. En hvimleiðastar eru þó skoðanavélarnar í fjölmiðlunum. Þeir sem eru alltaf að hugsa fyrir aðra og gera jafnvel stundum kröfu til þess að lifa fyrir aðra. En það lifir enginn eftir formúlu eða kerfi og enginn getur lifað fyrir annan. Við verðum sjálf að lifa lífi okkar. Það er hæsta stig þröngsýni að vera sífellt að fetta fingur út í hvernig annað fólk lifir lífi sínu. Ég tala nú ekki um þegar þetta sama fólk hefur klúðrað öllu í eigin lífi sem unnt er að klúðra. Við getum ekki lifað siðmenntuðu lífi án tillitssemi og samúðar. Hún er einn dýrmætasti eðlisþáttur mannsins.

 

7.

Flestir pólitíkusar eru neyddir til að verða hentistefnumenn, tækifærissinnar. Ég álasa að vísu engum fyrir það því að stjórnmál eru list þess sem hægt er að gera, en það fer ekki alltaf saman við það sem manni finnst að nauðsynlegt sé að gera. Með hentistefnu er hægt að þoka góðum málstað áleiðis. Það er sjaldnast hægt með þvermóðsku og varla með valdbeitingu nema bakhjarlinn sé einhvers konar alræðisvald.

Ég hef nýverið skoðað grafhýsi Frankós í Kastillíu, það er grafið inn í fjall; ekki getur það verið takmark okkar eða fyrirmynd. Við höfum vaxið frá forfeðrum okkar að þessu leyti. Við ætlum ekki að deyja inn í fjöllin. En það eru fleiri í grafhýsum en skurðgoð öfgafulltra hægrimanna, t.a.m. smyrðlingur lénínismans. En hvað sem þessu líður er fyrirlitlegt að svíkja grundvallarhugmyndir sínar fyrir völd eða auð, en það gera margir því miður, ekki síst nú á tímum.

En þeir sem hafa komist í kynni við list og menningu og ræktað með sér þá mennsku og þá mannúð sem fylgir þessum þáttum í lífi okkar, þeir eru að maður skyldi ætla nær siðmenningu fyrir bragðið, nær því þjóðfélagi sem er draumsjón okkar og markmið. Og þá væntanlega einnig nær því en þeir sem eiga ekki aðra mælistiku á manngildi og verðmæti en gyðingurinn í leikriti Shakespeares, Kaupmanninum í Feneyjum.

(Sjá:Undir afstæðum himni,samtöl og dagbókarblöð,2000).

 

5. maí, föstudagur

Eftirfarandi barst mér í tölvupósti í vikunni:

Ágæta skáld

Fyrir mína hönd og félaga míns, Perfecto Andrade Grande, langar mig að fara fram á leyfi þitt til birtingar á tveimur ljóðum þínum í galisískri þýðingu okkar. Mér er tjáð af Rithöfundasambandinu að munnlegt leyfi höfundar sem fari með höfundarréttarmál sín eigi að vera nægilegt. Ljóðin eru þýdd fyrir safn íslenskrar nútíma- og samtímaljóðlistar sem kemur út hjá bókaforlaginu Follas Novas í Galisíu á Spáni í ritröðinni Libros da Frouma sem samanstendur af bókum, yfirleitt ljóðabókum, sem gefnar eru viðskiptavinum í bókabúðum. Bókin mun hafa talsverða útbreiðslu bæði innan Galisíu og yfir til Portúgal svo og á Spáni. Hún kemur væntanlega út síðari hluta sumars. Henni fylgir ítarlegur inngangur um íslenska ljóðlist, sögu og bókmenntir.

Þýðingin, sem er að mestu leyti tilbúin, fer fram bæði með takmarkaðri galisískukunnáttu minni og í gegnum millimál, ensku og spænsku. Útgáfan er tvítyngd. Menningarborg Reykjavíkur 2000 styrkir okkur.

Kveðjur,

Hermann Stefánsson

 

Heil og sæl

Ljóðin eftir Matthías eru “Við fossinn" og “Ský á himni", bæði úr Ættjarðarljóðum á atómöld, sem útgefandinn var svo almennilegur að senda okkur. Í bókinni eru 32 ljóðskáld, gefin er lausleg hugmynd um formódernisma og frumkvöðla módernismans, svo víkkar valið nokkuð með síðari kynslóðum módernista, er orðið allvítt með samtímaskáldunum. Ritið hættir sér því ekki beinlínis inn á sama svæði og helsta stoðrit Íberíuskagans í íslenskum og norrænum ljóðaþýðingum, Poesía nórdica, þar sem megináhersla er lögð á að gefa breiða sýn á frumkvöðla módernismans og næstu kynslóða hans. Og kallast einnig á við það með því að þýða nýrri ljóð skálda sem þar er einnig að finna.

kveðjur, Hermann

 

Svar:

Matthías man ekki í fljótu bragði eftir þessum kvæðum og telur þau varla sérstaklega einkennandi fyrir sig. Matthías var nýlega beðinn um 5 blaðsíður í kanadísk-franskri útgáfu á íslenskum ljóðum og með álíka mörgum skáldum en sýndi ekki áhuga á því hvað sem verður. Hann óskar eftir að þið hafið samband við forlag hans og útgáfustjóra Pétur Má Ólafsson hjá Vöku-Helgafelli. Matthías þakkar vinsemdina.

Með kveðju

Ellý Helga Gunnarsdóttir, ritari.

 

 

 

Dagbókarblöð frá Spáni.

(Sjá:Undir afstæðum himni, samtöl og dagbókarblöð, 2000).

 

21. apríl, föstudagurinn langi

Hófum Spánarferðina, fengum gott flug til Lundúna þar sem Ingólfur, sonur okkar, tók á móti okkur. Flugfreyjan annaðist okkur eins og ungbörn. Við Hanna vorum ein á Saga-farrými en þar vil ég heldur vera vegna þess að þar er rýmra um mig. Ég hef alltaf haft aðkenningu að innilokunarkennd, það hefur háð mér, ég átti t.a.m. í hinu mesta basli með að fá mér bíómiða á barnamyndir þegar ég var drengur vegna þess ég gat helzt ekki staðið í biðröð.

Flugmennirnir ungir og einstaklega alúðlegir. Þeir buðu mér fram í og var ég þar part af leiðinni og einnig við lendingu. Þessi tækni er í raun og veru einhvers konar furðuverk og kunnátta mannanna og reynsla,þótt ungir séu,áreiðanlega framúrskarandi. Flugstjórinn, kornungur maður og tók við Boeing 757 í janúar sl., heitir Ágúst Arnbjörnsson, sonur Arnbjörns í Setbergi, en nú er svo komið að ég spyr annaðhvort um foreldrana eða afann! Hinn flugmaðurinn heitir Þráinn Höskuldsson, ekki Sigfússon eins og kempan í Njálu, fyrrum flugmaður hjá Atlanta og var þá flugstjóri á Boeing 737. Þeir sögðu mér margt og sýndu enn fleira. Ég hef aldrei séð London svona vel úr lofti, gat stungið hana út með viðmiðun við Thames og hafði hana þannig á hreinu eins og krakkarnir segja.

Við erum á Þistla-hótelinu í London, það er bak við Oxford-götu, skammt frá Cumberland. Ágætt hótel en enginn íburður. Gamalt, nýuppgert. Við gengum niður í Soho í gærkvöldi, fengum okkur kínverskan mat. Það var ánægjulegt að vera með Ingó, það er endurtekning sem er alltaf ný. Við höfum það ágætt, slöppum af.

Ég er að hugsa um 50 ára afmæli Þjóðleikhússins, það gekk vel. Ég flutti mína ræðu og gat svo farið. Jónsmessunæturdraumur í leikstjórn Baltasars var fjörlegur en upp úr stóð framlag gömlu leikaranna, Herdísar Þorvaldsdóttur og Róberts Arnfinnssonar, sem er einhver verðugasti trúður, veggur eða tungl sem ég hef séð og Bessa Bjarnasonar sem var ágæt ástmey í sínu gervi - og síðast en ekki sízt Gunnars Eyjólfssonar sem var ógleymanlegur. Það hafði hann einnig verið þegar hann fór á kostum yfir Pétur Gaut á afmælishátíðinni fyrr um daginn. Gunnar er mikill leikari og raunar allt þetta fólk. Sveinn Einarsson heldur því fram að eldri leikarar fari betur með texta en unga fólkið, nái því meiri áhrifum. Það má vel vera en við eigum samt marga ágæta unga leikara. Þeir þroskast eins og hinir.

Kvöldið

Fórum á leikrit eftir Alan Benett, The Lady in The Van, en sú mikla leikkona Maggie Smith, lék aðalhlutverkið; þ.e. utangarðskonuna sem eitt sinn hafði verið menntaður píanóleikari. Leikritið er mjög vel skrifað en ég held það hefði orðið sterkara sem einþáttungur. Það útvatnast dálítið undir lokin og leysist síðan upp í einhvers konar fjarstæðuleikhús, þegar sú gamla rís upp úr kistunni og hverfur til himna. En þetta er semsagt brezkt leikhús eins og það getur bezt orðið og meira er ekki hægt að krefjazt. Ég hef áður hlustað á einþáttunga eftir Bennett, en hann er þekktastur fyrir slík útvarpsleikrit að ég held. Ég hef einnig lesið glefsur úr dagbókum hans. Hann er sérstæður höfundur og fer sínar leiðir. Ég keypti dálitla bók með glefsum úr dagbókum hans þar sem talað er um Konuna í vagninum, en leikritið er samið beint út úr raunveruleikanum, mig minnir að Konan í vagninum, sem hét víst ungfrú Shepherd, hafi dáið 1989.

Við búum á þistlahóteli en þessi leikhúsreynsla lofar góðu, hún var allt - nema þistlar.

Sáum einnig í kvöld ballettinn Coppelíu í Konunglegu óperunni. Þangað höfum við ekki farið eftir þá stórkostlegu endurnýjun sem gerð hefur verið. Getum margt af henni lært.

Coppelía er skemmtileg sýning, létt og auðmeltanleg. Ég þekki ekkert til höfundarins, Delibes, sem lifði á síðari hluta 19. aldar; heyrði ekki betur en eitthvað úr tónlistinni í þriðja þætti sé komið inn í Evítu, það skyldi þó ekki vera! Held sá kafli heiti Bænin.

Páskadagur

Fórum í síðdegismessu í St. Patric-kirkju í Soho, þar sem Ingó turnaðist til kaþólsku á sínum tíma. Ágæt páskamessa, einlæg og einföld. Á fremsta bekk sat utangarðsmaður. Hann var í þremur þykkum peysum. Hann lagðist á gólfið þegar hann bað. Hann gekk fyrstur út eftir messuna, þögull og virðulegur. Ég hugsaði með mér að hinir síðustu verði fyrstir.

Annar í páskum

Flugum með BA til Madrid. Fórum með Boeing 767, fínt flug. Á miðri leið kom flugstjórinn aftur í til farþeganna og heilsaði. Það þótti mér skemmtileg nýbreytni. Vekur traust og öryggi. Ég sagði honum að við værum frá Íslandi. Hann sagði "og nú ætlið þið að komast í heitara loftslag". "Já", sagði ég.

Síðan fór hann að tala um Keflavíkurflugvöll og þennan hafsjó af storknuðu hrauni, Reykjanes.

Ísland er alltaf þekkt í útlöndum af einhverju einu; aðeins af einhverju einu.

Veðrið var afar gott þegar við komum til Madrid, sól og 18 stiga hiti. Sá nautaat í sjónvarpinu, þjóðaríþrótt Spánverja. Það er ljótur leikur. Nautabaninn þreytti nautið og stakk það svo í gegn. Síðan drógu þeir sverðið úr dýrinu, þá lagðist það. Þá gekk nautabaninn að því og drap það. Þó að þetta sé hluti af menningararfi Spánverja tel ég þennan dauðadans úreltan á okkar dögum. Ég gæti a.m.k. ekki kvalið dýr með þessum hætti. Samt finnst mér nautakjöt ágætt, það er annað mál. Hvar eru nú græningjarnir, hvar eru hvalverndunarmennirnir nú? Ætli þeir séu allir Spánverjar?! Það var engin furða þótt Hemmingway hefði ánægju af nautaati. Það var honum leikur við dauðann. Hann var heillaður eða bergnuminn af dauðanum eins og maður sér í sögum hans - en þó einkum hvernig hann lifði.

Og hvernig hann dó.

Dauðinn er mér umhugsunarefni að vísu, en hann er mér enginn leikur, heldur ógn. Hann hefur alltaf síðasta orðið. Mér leiðast þeir sem hafa alltaf síðasta orðið. Nautabaninn getur drepið eins mörg naut og hann vill, en það breytir engu. Sjálfur getur hann ekki umflúið dauðann. Að lokum stendur sverð dauðans í gegnum hjarta hans - eða eigum við heldur að segja horn dauðans?

Lífið er skrýtinn leikur; minnir á guðastyttuna sem hindúinn gefur mjólk að drekka til að halda í henni lífi. En hún er jafndauð fyrir það. 

 

25. apríl, þriðjudagur

Sól og blíða í Madrid.

Ég hef verið að hlusta á hugleiðingar Alain DeBottons um heimspeki, einkum Sókrates, Epíkúrus, Seneca, Montaigne, Schopenhauer og Nietzsche. Afar fróðlegt. Ég þekkti lítið til Seneca. Hann var heimiliskennari Nerós keisara. Mér skilst samt að fanturinn hafi gert kröfu til að þessi gamli kennari hans fargaði lífi sínu undir lokin. Seneca hafði augsýnilega mikið jarðsamband. Hann fjallar um lífið í kringum sig og dregur ályktanir af því. Hann leggur mikið upp úr vináttunni. Hann segir það geti verið heilsusamlegt að vera góður við sjálfan sig. Vertu vinur sjálfs þín einn dag, segir hann. Margir gleyma þessu og láta allt fara í taugarnar á sér. En Seneca leggur ekki mikið upp úr mörgum vinum, heldur fáum.

Montaigne átti í raun aðeins einn vin og hann beið þess aldrei bætur þegar þessi verðmæti vinur hans lézt. Sjálfur lifði hann tvo eða þrjá áratugi eftir dauða hans.

Montaigne var augsýnilega einnig með sterkt jarðsamband. Hann fjallaði um hversdagslífið í kringum sig, dró jafnvel ályktanir af kynlífi. Taldi að við ættum að stjórna líkama okkar og dregur ályktanir af því, þegar karlmaður missir getu til konu og fær af því miklar hugarkvalir, sem enda með því að hann vantreystir sjálfum sér. Og ef hann stjórnar ekki líkamanum, getur honum ekki framar risið hold!! Þetta er líklega mikil heimspeki og áreiðanlega jarðbundnari og raunsannari en margt annað sem þykir merkilegra! Montaigne segir einnig að ekkert stórmenni hafi verið dáð í umhverfi sínu, tökum Tómasarkirkjuna í Leipzig, þegar Bach var þar. Hann nefnir að vísu ekki þetta dæmi, en það er ekki út í hött að skírskota til þess. Þar var Bach ekki kallaður fimmti guðspjallamaðurinn, heldur Gamli karlinn!

Montaigne var mikill bókaormur. Hann hefur augsýnilega lesið feiknin öll af allskyns bókum og vitnar í þær fram og aftur, ekki sízt Seneca. Hann segir það sé betra að vitna í merkilegar athugasemdir annarra en flaska á sínum eigin. Góð regla fyrir hugsuði! Þó að Montaigne hafi verið mikill bókamaður gerði hann sér grein fyrir því að bækur ráða engum úrslitum um hamingjuna. Hann benti á allt bændafókið, ólæst og óskrifandi, sem virtist vera fullkomlega hamingjusamt í sínu frumstæða umhverfi.

Montaigne segir að klám hafi runnið út eins og heitar lummur um sína daga, þ.e. siðaskiptin. Semsagt, ekkert er nýtt undir sólinni!

Stundum er sagt að þessi 16. aldar esseyisti hafi verið fyrsti nútímamaðurinn. Ástæðan: bersögli, ekki sízt um sjálfan sig.

Þegar kemur að hamingjunni er Schopenhauer ekki langt undan. Hann var ekki meiri tízkudraugur en svo að hann þurfti að gefa út fjölda rita, áður en nokkur maður kynntist þeim. Fyrsta bók hans, sem mér skilst hafi verið einhvers konar meistaraverk, seldist í 260 eintökum. Ekki ónýtt að hafa það í huga nú á dögum! Schopenhauer hafði ekki mikið álit á hamingjunni. Hann taldi að hún væri ekki hlutskipti mannsins, heldur vonbrigðin. Í svip allra gamlingja mætti lesa þetta orð, vonbrigði.

Sumt í heimspeki Schopenhauers er að mínu viti eintóm della; t.a.m. sú fullyrðing að ástin sé einungis til þess að framleiða börn, helzt falleg börn. Ástin er ekki til eins eða neins, hún kemur öllum á óvart og það er enginn að velta því fyrir sér hvort hann sé einhvers konar barnaverksmiðja eða ekki. Það er oft mikil ást án þess börn komi þar við sögu. En ást leiðir náttúrulega af sér börn, ef út í það fer.

Og þó! Hvað skyldu fæðast mörg börn fyrir mistök og án allrar ástar?!

Nietzsche dáði ungur Schopenhauer en hugsaði sig frá honum; hugsaði sig inn í Nietzsche. En Schopenhauer var ein helzta varðan á þeirri leið.

Og nú er klukkan orðin tólf á hádegi. Nýlistasafnið bíður og Prado.

Kvöldið

Það var gaman að skoða Prado-safnið, en yfirþyrmandi. Botticelli er ótrúlega fínn málari. Ætli hann hafi ekki átt mestan þátt í að draga himneskar persónur frum-renesansins niður á jörðina. Fólkið hans er a.m.k. komið með fótfestu. Áður sveif það í lausu lofti. Það eru fínar myndir eftir hann í safninu. Þegar við gengum í gegnum salina með Tizian og Tinteretto, sagði Hanna, Það er fallegt betrekkið hérna! Ég held hún sé orðin hálfþreytt á klassíkinni! Við sáum uppáhaldsmálara Gunnlaugs Schevings, Zurbarán, m.a. einhverja mögnuðustu Kristsmynd sem ég hef séð. Þegar ég horfði á hana og síðar á myndir El Grecos og Goyas minntist ég Baltazars. Það er ekki vandi að gizka á hverrar ættar myndir hans eru. Goya var hirðmálari konungsins og af myndunum mætti ætla að hann hafi verið heldur þunnur, eins og kóngar eru, þegar svo ber undir; kannski líka dálítið hlægilegur eins og þjóðhöfðingjar verða, þegar þeir vaxa inní pjatt og hégóma. Fjölskyldumyndin af konungspersónunum er heimsfræg. Mikið óskaplega held ég að þetta hafi verið leiðinleg fjölskylda. Drottningin er jafn þóttafull inni í stofu og á hestbaki. Hún hefur líklega aldrei tekið niður grímuna.

Goya er líklega fyrsti módernistinn. Hann er ótrúlega fjölhæfur listmálari, en myndirnar af andlitum almúgafólks minna á orð Schopenhauers þess efnis að vonbrigðin leyna sér ekki í andlitum gamals fólks. Þessi andlit Goyas eru einnig fyrirmyndir Munchs, ef nánar er að gætt.

Á leiðinni í salarkynni Goyas gengum við framhjá gamalli bústu af Neró. Vangasvipurinn minnti á neróa allra landa, en þegar maður leit beint framaní Neró kom ljóðskáldið Ari Gísli Bragason í ljós!

Þessi píslarganga var þannig hið mesta ævintýri, fróðlegt og óvænt.

Í gær missti ég Visa-kort í peningavél. Í dag American Express-kortið mitt. Nú er platínukortið eitt eftir. Þær eru gráðugar þessar maskínur og minna á ýmsa þá sem nú eru helzt þekktir á íslenzka verðbréfamarkaðnum. Það er vonlaust að fá kortin aftur. Vélarnir skila engu. Bezt að láta þær eiga sig. Maður þarf ekki annað en lesa ljóðsögu Ovids um Midas konung til að átta sig á þessu umhverfi: Nú sé ég ekkert lifir af í veröld gullsins!

Og svo var það óperan í kvöld, Svefngengillinn eftir Bellini. Við hefðum líklega ekki farið í óperu, ef Þórbergur hefði verið með okkur. Hann hataði óperur eins og pestina og taldi þær útslag fyrir almenna geðveiki.

Óperan var ágæt. Síðasta arían frábær, einhver sú fallegasta sem ég hef heyrt. Bellini dó 34 ára gamall. Þá hafði hann samið þrjár heimsfrægar óperur. Hann hlýtur að hafa verið einhvers konar séní, þessi ungi maður. Norma er þekktasta ópera hans, en ég hef ekki heyrt hana.

Svefngengillinn afsannar allar hugmyndir Schopenhauers um hamingjuna. Ástæðan; hún endar í yfirgengilegri hamingju! Það vakti athygli okkar að bass-barítóninn er íslenzkur óperusöngvari, Tómas Tómasson. Hann stóð sig með prýði og uppskar mikið lófaklapp að lokum. Ég þekki ekki til hans, en við vorum stolt af frammistöðu hans.

Madrid-óperan var þannig mikið ævintýri.

En Tómas er ekki einn af þessum fastagestum í íslenzkum fjölmiðlum. Hann virðist vinna sín afrek í listinni en ekki í fjölmiðlum eins og margir pólitíkusar og listamenn. Margir - alltof margir - eru eins og síldin í Vísi á sínum tíma. Þó að ekkert veiddist fyrir norðan, var alltaf feiknasíldveiði í Vísi. Þannig eru margir athyglisfíklar nú um stundir; vinna sín mestu afrek í fjölmiðlum!

En þessi síldarævintýri eru heldur lítils virði - og enda með krakki.

Annars er margt með ólíkindum í samfélagi okkar, sumt afarógeðfellt; snobb og manndýrkun. Margt annað eins og hver annar farsi, t.a.m. séðogheyrt-væðing fyrirfólks; það er rétt. Nútímaþjóðfélag gengur eiginlega fyrir gerviatburðum eins og deilum ásatrúarmanna við þjóðkirkjuna. Ósköp eru það nú hallærislegar deilur og minna einna helzt á ek. andlegt kolósseum. Samt er enginn drepinn - og öllum er sama!

Allt er þetta endalaus veizla hjá frú Dalloway.

Lífið er terpentína!

sagði Kjarval.

 

26. apríl, miðvikudagur

Fórum í klaustrið El Escorial í Caídos-dalnum þar sem grafhýsi Frankós er og loks til Toledó þar sem við sáum Tajo-ána sem rennur til hafs í Lissabon, dómkirkjuna með listaverkum El Grecós, málverk hans af guðspjallamönnunum og hina stóru útfararmynd Orgaz greifa (1586)sem margfræg er, en hún er í kapellu heilags Tómasar. Hún minnir á mynd eftir Giotto í Assisi þar sem listamaðurinn málar sjálfan sig með páfanum, en á þessari mynd El Grecós er hann sjálfur ásamt ýmsum fyrirmönnum í Toledó, kardinálanum og að sjálfsögðu greifanum dauðum, en í efri hluta myndarinnar trónar guðsmóðir og Kristur sjálfur; lykilmenn kristninnar á næstu grösum og lyklar himnaríkis dingla við heilagan Pétur.

Tajo-áin er einhvers konar rennandi skolp eins og flestar ár Evrópu nú orðið. Yfir henni trónar munkaklaustur Fransiscusa, en utan á klaustrinu eru hlekkir sem Ísabella drottning lét koma þar fyrir þegar kristnir menn frelsuðu bandingja múslima eða mára, en þeir höfðu kristna andspyrnumenn venjulega í járnhlekkjum.

Filippus II Spánarkonungur (1527-98) stofnaði klaustrið í El Escorial og kirkjan þar er einskonar fjöldagrafhýsi kóngafólks á Spáni gegnum tíðina, eða allt frá 16. öld. Filippus virðist hafa verið heldur önuglyndur, ef marka má málverk af karlinum, og hann þjáðist af liðagigt eins og sjá má af skrift hans. Hann átti fjórar drottningar og ríkti yfir mörgum löndum. Filippseyjar heita í höfuðið á honum. Ég er að vísu orðinn dálítið leiður á kóngafólki og þessi eilífa kóngasaga heldur athygli minni ekki sem skyldi, en hún er auðvitað bundin við þau listrænu afreksverk sem þessar þjóðir eiga, þ.ám. kirkjuna í El Escorial.

En það var annað sem vakti athygli mína, landakort á veggjum aðalsalarins í klaustrinu. Þar sá ég m.a. kort af Norður-Evrópu, líklega frá upphafi 16. aldar. Þar blasti Ísland við undir Grænlandi, kallað Islant og Thule. Það er augljóst að höfundur þessa korts hefur ekki haft nein kynni af Vínlandskortinu svonefnda, því að öll afstaða er út í bláinn og bæði Ísland og Grænland óþekkjanleg. Þau liggja í hafi sem heitir Oceanus Hyper Boreus. Færeyjar eru aftur á móti á sínum stað og sjálfum sér líkar, svo að ekki sé nú talað um England og löndin þar suður af. Það vakti athygli mína að Ísland var nefnt Thule og önnur staðanöfn voru t.a.m. Foglasker, Helgfiel, Holen, fyrir miðju landi en ekki endilega á Norðurlandi, Lagnes, Snaueliokel, sem á víst að vera Snæfellsjökull. Það væri áreiðanlega verðugt verkefni að rannsaka þessi staðanöfn á kortinu og kanna tengsl þess við önnur Íslandskort. Nyrzta staðarnafnið við Ísland er svo Grimse. En mest kemur á óvart staðarnafnið Bergen sem er austast á Íslandi og augljóst að höfundur þessa landakorts rennir blint í sjóinn með staðsetningu Björgvinjar og þá einnig að sjálfsögðu útlínur Noregs. Hann veit samt ýmislegt, hefur nasasjón af ýmsu en allar eru upplýsingar þessa korts handahófskenndar, einhvers konar vísbendingar, en þá helzt brenglaðar.

En semsagt, Filippus Spánarkóngur II hefur haft einhvern pata af Íslandi, ef hann hefur þá einhvern tíma barið þessi kort augum. Það er þó óvíst því að hann þurfti á öllu sínu að halda í baráttunni við "óvini ríkisins", þ.e. mótmælendur, Tyrki, gyðinga og Englendinga. Sat uppi með Flotann ósigrandi sem tapaði fyrir Englendingum 1588. Það var hans þorskastríð - og fór illa.

Grikkir vöruðu við ofmetnaði.

Filippus II var af Habsborgaraætt, sonur Karls 5.

Grafhýsi Frankós er einhvers konar tæknilegt undur út af fyrir sig. Það er grafið inn í fjallið, en á efstu klettum þess stendur kross sem er 150 metra hár og 200.000 tonn að þyngd. Grafhýsið er nú sérstök kirkja og hvíla foringjar falangista í gólfinu fyrir kórnum, þeir Frankó og stofnandi Falangistaflokksins, Jose Antonio de Ribeira. Leiðsögumennirnir voru tveir, annar sagði að í grafhýsinu hvíldu 40.000 þeirra sem féllu í borgarastyrjöldinni 1936-39, hinn taldi að þeir væru um 60.000. Alls féll í styrjöldinni um ein milljón Spánverja. Þarna eru því 4-6% hinna föllnu, bæði lýðveldissinnar og falangistar.

Það er skrýtin tilfinning að vera túristi. Það er sífelldlega verið að minna mann á að halda hópinn, ferðamennirnir eru merktir með gulum, rauðum eða grænum miðum sem minna á að þeir hafa borgað inngangseyri; þeir eru eins og rollur í réttum, dregnir í dilka eftir tungumálum og markaðir, miðarnir gegna samskonar hlutverki og t.a.m. bitið aftan hægra!

Toledó var höfuðborg Spánar þar til Madrid tók við; ekki vegna þess að þar bjó El Grecó, eða Grikkinn, heldur vegna þess að þar bjuggu Ísabella drottning og Ferdinand maður hennar.

Filippus II dó í El Escorial-klaustrinu en þangað leitaði hann frá skarkala heimsins. Í grafhýsinu þar eru tvær kistur tómar. Karl Spánarkóngur vill víst að þær hýsi jarðneskar leifar foreldra sinna, en faðir hans varð aldrei konungur Spánar. Frankó sá til þess. Mér skilst Karl eigi einnig að hvíla þar, þegar hans tími kemur og dagarnir eru uppi. Hann stundaði laganám í klaustrinu en þar er bæði háskóli og starfandi munkasetur. Dómkirkjan er einskonar samkomustaður dauðs kóngafólks, rétt eins og Hróarskeldu-dómkirkja þar sem loftið er eins og í stórum helli; rökum og dimmum, samanber gefið lífsanda loft, eins og séra Matthías sagði í frægu kvæði eftir heimsókn þangað.

Á morgun er ferðinni heitið til Avila og Segóvía.

P.s. Við nánari umhugsun minnir Frankó á landnámsmennina sem trúðu því að þeir mundu deyja inn í fjöllin. Mér er nær að halda að Ingólfur Arnarson hafi verið einn þeirra. Ásatrúarmenn höfðu fallega sýn til dauðans.

Síðar

Avila og Segóvía eru gamlar borgir og hafa breytzt lítið sem ekkert frá því á miðöldum. Það eru þá helzt rafmagnsvírar á veggjum húsanna og klæðaburður fólks sem breyta umhverfinu; annað ekki. Kirkjurnar eru sambland af gömlum rómönskum skreytingum, gotneskri list og svo að lokum alls kyns viðbótum frá endurreisninni.

Þetta eru vinalegar borgir og eiga sér langa og mikla sögu.

Í Segóvíu er tvö þúsund ára gömul vatnsleiðsla sem Rómverjar lögðu á sínum tíma. Þessar steinhleðslur eru með ólíkindum, rétt eins og kirkjurnar sem enginn skilur, hvernig hægt var að byggja án þeirrar tækni sem nú er tíðkuð. Hið sama má einnig segja um kastalann fræga í Segóvíu. Þar er flott mynd af Ísabellu drottningu, þar eru skreytingaráhrif frá márum sem komu til Spánar á 9. öld og þar er stórt málverk af Filippusi II Spánarkonungi, ungum. Samt virðist mér hann þá þegar orðinn dálítið leiður á lífinu og engin furða. Báðum megin við hann eru málverk af tveimur af fjórum konum hans. Þær eru dálítið fínar með sig og hafa líklega verið einhvers konar díönur á sínum tíma. Þarna, eins og annars staðar, er sagan upp um alla veggi, þ.e.a.s. saga kóngafólksins, hin opinbera saga sem allt snýst um, en saga almúgans er einungis sögð með vinnulúnum höndum; steinilögðum götum, gömlum húsum, yfirgengilegum vatnsleiðslum og fallega höggnu graníti í kirkjum og köstulum. Kastilja merkir land kastalanna, það var land Kíkóta; fremur hrjóstrugt norðan fjalla, minnir dálítið á Ísland og raunar snjóaði þegar við fórum um fjöllin, en grænni sléttur sunnar. Tré á stangli norðan fjalla en sunnan fjalla meiri trjágróður og spánskara land, ef svo mætti segja.

Í dag fengu Spánverjar nýja ríkisstjórn og héldu upp á það í sjónvarpinu. Það var náttúrulega jafn leiðinleg athöfn og heima undir slíkum kringumstæðum, en það er þó bót í máli að forsætisráðherrann er svo fallegur maður að hann ætti fremur heima í gömlu Hollywood en þarna á spænska þinginu. Það er margt fallegt fólk í þessu landi, en það er lágvaxið og sjaldnast glæsilegt.

Heilög Teresa var fædd í Segóvíu. Kannski var hún fyrsti femínisti sögunnar (1515-'82). Hún skrifaði fjölda bóka og skildi ekki hvers vegna jafnrétti ríkti ekki milli karla og kvenna. Hún var karmelíta-nunna, stofnaði 15 nunnuklaustur á Spáni og tvö munkaklaustur. Sjálfsævisaga hennar, Vida, er víðfræg.

Enn síðar

Við sáum málverk eftir Zurbarán af heilagri Teresu í dómkirkjunni í Sevilla en þangað komum við föstudaginn 28. apríl.

Það var merkilegt að koma til Sevilla eftir öll þessi ár; mínarettan á sínum stað, einnig dómkirkjan. Önnur eins listaverk er vart hægt að ímynda sér. Nú gekk allt betur en síðast. Við komumst inn í kirkjuna án þess athugasemd væri gerð við fatnað okkar. Síðast mátti Hanna ekki vera beraxla og ég ekki í stuttbuxum. Engin athugasemd var gerð við Ingó, en hann keyrði okkur þá frá Carvóeira í Algarve þar sem ég skrifaði Sól á heimsenda. Nú komum við með hraðlestinni frá Madrid. Hún er frábær. Mér líður hvergi betur en í góðum lestum. Þessi lest keppir við hraðlestina milli Lundúna og Parísar, ef ég ætti að gera einhvern samanburð. En hún fer að vísu ekki undir Ermarsund!

 

29. apríl, laugardagur

Sama fólkið í Sevilla og síðast. Ekkert hefur breytzt, nema við.

Alcázar-kastali í Sevilla

1.

Blómin

gular sólir

fikra sig

upp eftir pálmatrjám,

það er leið þeirra

til himins.

2.

Hvítar dúfur

í garðinum,

nýflognar úr málverkum

meistaranna,

samtalslausar

eru þessar myndir,

Sókrates!

3.

Blómin anga

í opinni skel

fínlegar fléttur

og fikra sig

inní hugann.

Merkilegt að skoða gömul hús og rústir; engu líkara en ein öld vaxi af annarri. Þannig bregður öld við aðra eins og segir í Velleklu (þ.e. gull-skortur) Einars skálaglamms. Eftirminnilegt að sjá þessa smágerðu list máranna, bæði á gólfi, veggjum og í lofti. Þetta fólk hafði fínlegan smekk. Ef eftirkomendur þeirra hefðu ræktað þennan smekk væru færri hryðjuverkamenn á meðal okkar.

"Múhammeðsmenn gætu talið upp alla þá valdhafa, listamenn, skáld, vísindamenn og heimspekinga," segja Durant-hjónin í ritinu Í ljósi sögunnar, "sem lögðu undir sig og settu svip sinn á vænan hluta af veröld hvíta mannsins frá Bagdad til Cordova meðan þjóðir Vestur-Evrópu stauluðust um í daufri miðaldaskímu (u.þ.b. 565- u.þ.b. 1095)."

Kvöldið

Fórum í listasafnið hér í Sevilla, að mörgu leyti ágætt safn, ekki sízt vegna þess ég hef hvergi séð fleiri myndir eftir Zurbarán. Kristsmynd hans er óviðjafnanleg.

Hef verið að lesa Í ljósi sögunnar eftir Durant-hjónin. Það leiðir hugann að aðstæðum heima á Íslandi:

"Að sögn Plutarkosar var málum svo komið í Aþenu 594 f.Kr. að "munur ríkra og fátækra hafði náð hámarki svo að borgin virtist í hættu stödd og engin úrræði til að forða henni frá ógöngum... virtust tiltæk nema harðstjórn." Hinir fátæku fóru að ráðgera uppreisn, af því að þeir sáu stöðu sína versna með hverju árinu sem leið - yfirstéttin hafði töglin og hagldirnar í þjóðfélaginu og spilltir dómstólar dæmdu fátæklingunum öll mál í óhag. Hinir ríku brugðust ókvæða við er þeir sáu hagsmuni sína í hættu og bjuggust til að verja hendur sínar. Heilbrigð skynsemi fékk að ráða; hófsemdaröfl í þjóðfélaginu tryggðu kosningu Sólons, kaupsýslumanns af höfðingjaættum, og var hann kjörinn arkon. Hann felldi gengi gjaldmiðilsins og létti þannig byrðar allra sem skuldugir voru (þótt sjálfur væri hann lánardrottinn). Hann lækkaði allar einkaskuldir og batt enda á fangelsun vegna skulda. Hann lét strika út vangoldna skatta og vexti af veðlánum og kom á stighækkandi tekjuskatti er gerði hinum auðugu að greiða tólf sinnum hærri skatt en hinir fátæku. Hann endurskipulagði dómkerfið á skaplegri hátt og gerði ráðstafanir til þess að synir þeirra sem fallið höfðu í stríði fyrir Aþenu yrðu aldir upp og fræddir á kostnað stjórnarinnar. Hinir ríku mögluðu og töldu aðgerðir hans blábera eignaupptöku; hinir róttæku kvörtuðu yfir því að hann hefði ekki skipt jarðeignum upp að nýju, en áður en mannsaldur var liðinn voru flestir á einu máli um það að endurbætur hans hefðu forðað Aþenu frá byltingu."

Einar Magnússon kenndi okkur vísu um Sólon og Krösos kóng hinn auðuga, hún er einhvern veginn svona:

Við Krösos unga sagði Sólon

er sá hann allt hans veldi:

Ævi manns er eins og ryk

allt til loka. -

 

Ágætt til íhugunar!

Kannski er þessi vísa hið eina sem ég lærði utanbókar í MR! Hún á líklega rætur í frásögn Herodótusar um samtal Sólons og Krösosar, en það átti sér áreiðanlega aldrei stað, því að Krösos var eins árs þegar Sólon lézt áttræður að aldri, 559 f.Kr. Sagnfræðilegur sannleiki hangir oft á þjóðsögulegum bláþræði.

Í listasafninu í Sevilla

1.

Kristsmynd Zurbaráns

á veggnum

sjálflýsandi kross

í umhverfisvænu

myrkri,

garðurinn

finkaður til

undir flæðandi

geislum.

2.

Hvað væri að sjá

ef Kristur hefði

ekki fæðzt

engar kirkjur

engin málverk

ekkert nema andlitslausa

mergð

í gruggugum spegli

tímans.

3.

Blaðgrænir skuggar

vatnsins

gárast

við appelsínurauða

ugga.

4.

Trén breyta

jörðinni

í sítrónugular

sólir.

5.

Þjófurinn hvarf

með tösku hollenzku

konunnar,

grátandi sagði hún,

Gleraugun

voru í töskunni

hann hefur stolið frá mér

sjóninni!

6.

Trén

hafa ekkert

takmark,

vaxa þó upp fyrir

húsin

þar sem fuglarnir

skríkja

fyrir guðina.

7.

Finkan

baðar sig

í gosbrunni,

það er þvottdagur.

8.

Þögnin

veðraður

finkugrár steinn

dómkirkjunnar.

9.

Hugsa

til hennar

sem sagði, Ég

er aldrei einmana

hugurinn

er félagi minn.

 

30. apríl, sunnudagur

Komum til Cordóba síðdegis í dag. Búum á framúrskarandi hóteli í gamla gyðingahverfinu, Hótel Amistad. Hverfið er frá 10. öld. Hanna minntist afmælis Bjarna Benediktssonar, með honum og Sigríði vorum við á Ítalíu sællar minningar. Það var sumarið 1962. Þá var hann dóms- og kirkjumálaráðherra. Við gengum á fund páfa, Jóhannesar 23., og skoðuðum marga bæi og þá ekki sízt Róm. Ókum frá Genf, gistum í Nissa á leiðinni, komum við í Assisi, einnig Perugía. Í Assisi voru allir litlu múnkarnir að sópa og fægja því að von var á páfanum í heimsókn, ég held vegna þessa fræga kirkjuárs. Tókum þátt í hátíðarhöldunum í tilefni af kirkjuárinu í Róm. Okkur var boðið í Vatikanið vegna þess að Bjarni var á ráðstefnu dóms- og kirkjumálaráðherra Evrópu. Páfi heilsaði öllum, en okkur Norðurlandabúum lauslega. Hann var lítið fyrir mótmælendur. Hann var á inniskóm og ávarpaði okkur stuttlega. Þegar hann heilsaði okkur sá ég að hann náði mér í geirvörtur. Þetta var eftirminnileg ferð, raunar ógleymanleg og ég hef skrifað um hana annars staðar.

Og nú erum við komin til Cordóba í Andalúsíu, þangað höfum við aldrei komið áður. Hún stendur einnig, eins og Sevilla, við Gvadalkívír-ána:

 

Borgin er blóm

með djúpar rætur

og skolpið vökvar ræturnar.

 

Hér í Cordóba er safn um sögu nautaats, einkum til minningar um frægasta nautabana Spánar, Manolete. Hann varð fórnardýr nautsins Isleros, 1947. Húðin af nautinu er geymd í safninu, ásamt ýmsum munum Manoletes - semsagt, safn dauðans.

Á Íslandi hafa nautaötin farið fram í þjóðsögulegum bókmenntum: Boli, boli bankar á dyr/ með bandinu sínu langa...

 

1. maí, mánudagur

Gengum um Cordóba, rigning. Skoðuðum kastalann með útsýni yfir fljótið. Það er raunar líkara skolpi en íslenzkum ám. Ferdinand konungur af Aragon og Ísabella drottning af Kastilíu, þ.e. konungshjón þessara ríkja beggja eftir sameininguna, tóku á móti Kólumbusi í þessum kastala, áður en hann hélt vestur um haf. Síðar varð kastalinn höfuðstöðvar spænska rannsóknarréttarins. Þá hefur ríkt hér sama andrúmsloft og í Lúbjanka-fangelsi KGB-manna í Moskvu.

Gengum um göturnar, sem eru frá 10. öld. Garðarnir inni í húsunum ævintýri, skreyttir blómum og keramik.

Moskan ótrúlega stór og tilkomumikil, einkum þegar inn er komið. Í henni eru á níunda hundrað bogar sem halda uppi þakinu. Súlurnar að sjálfsögðu úr marmara. Allt arfur frá márískum tíma. Síðar hefur kaþólsk kirkja verið byggð inn í moskuna. Þannig stendur maður á vegamótum margra alda og hlustar á nið tímans. Upplifir andstæður fyrri alda eins og samhljóm eða niðurstöður í daglegu lífi nútímans. Engu líkara en allt hafi þetta gengið fyrir sig átakalaust, en það var nú eitthvað annað! Arabísk eða márísk skreytilist er ákaflega fíngerð, minnir á arabískt letur. Ólæs á þetta letur getum við tileinkað okkur þá sögu sem naktir veggir þessarar gömlu húsagerðarlistar segja án orða; þessir þögulu veggir sem eru mælskari en endalaust skvaldrið í túristunum í kringum okkur.

Stytti upp síðdegis. Fallegt veður og við sátum í moskugarðinum.

Kvöldið

Þeir sem hafa stjórnað trúarbrögðunum í þessu landi hafa svo sannarlega ekki verið sömu skoðunar og Nietzsche en hann komst að orði eitthvað á þessa leið: Það er nauðsynlegt að setja á sig vettlinga áður en maður les Nýja testamentið - og eina persónan í Nýja testamentinu sem ástæða er til að bera nokkra virðingu fyrir er Pílatus! Mér er þetta að vísu óskiljanlegt en kannski eru þessar skoðanir arfur úr heimahúsum, þrátt fyrir allt. Faðir Nietzsche og móðurafi voru báðir prestar. Nietzsche elskaði föður sinn, að vísu, en fyrirleit augsýnilega lífsstarf hans. Kristni hefur verið honum einhvers konar hömlur í æsku og útrás síðar því nauðsynleg. Þannig sprengdi hann stífluna. En hafði það eitthvað uppá sig? Mér er það til efs.

Sá sem getur ekki notið ljóðlistar Krists hlýtur að vera heyrnarlaus, a.m.k. á öðru eyra. Ég sagði ljóðlistar, því að hún stendur ein og sér hvað sem öllum guðdómi líður.

Í moskugarðinum, Cordóba

Sitjum í garðinum

horfum á tvo

fílþunga karla

taka myndir

af moskuveggjunum,

veðruðum í skuggsælli

þögn

þúsund ára,

sitjum við gosbrunninn,

köstum mylsnu

af nýbökuðu

horni

til hvítrar dúfu

sem nálgast okkur

betra að hafa

vaðið fyrir neðan sig,

ef hún skyldi vera

heilagur andi

í eftirlitsferð,

en þá kemur snaggaraleg

finka að gosbrunninum,

skríkir,

þrífur brauðmola

við nefið á dúfunni,

en eftir sitjum við

jafnundrandi

og postularnir á hvítasunnu.

 

4. maí, fimmtudagur

Komum til Granada í gær eftir 2ja tíma ökuferð frá Cordóba. Allt landið þrælræktað, mest plantað trjám.

Gistum á einu sérstæðasta hóteli sem við höfum kynnzt, Alhambra Palace Hotel. Það er skammt frá Alhambra-höllinni sem márarnir reistu á sínum tíma, en Karl V bætti við á 16. öld. Alhambra merkir hið rauðsteinótta hús. Samt sýnist mér höllin fremur rauðbrún en rauðleit, en að innan eru móttökusalur soldánsins, svefnherbergi hans, svefnherbergi aðalkonunnar, einstæðar gersemar. Einnig garðarnir og allt sem þarna blasir við augum. Í næsta nágrenni við hallirnar virkið og þaðan ótrúleg útsýn yfir borgina og til Sierra Nevada-fjalla. Gamla íbúðarhverfið utan við hallarvirkið er rústir einar því að hersveitir Napóleons sprengdu þær í loft upp, að fyrirmælum hans sjálfs. Napóleon var að sjálfsögðu hvorki gáfumaður né stórmenni, heldur venjulegur herforingi sem óð eins og hundingi yfir allt og alla, en Frakkar tóku í dýrlingatölu af misgáningi. Ástæðan til þess að Alhambra-höllin var ekki einnig sprengd í loft upp var sú að einhent hetja, spænsk, tók sig til og hjó á alla sprengiþræðina, áður en Frakkarnir áttuðu sig. Þannig bjargaði hann þessum menningarsögulega dýrgrip. Ég tel þennan einhenta mann, José Garcia, miklu merkilegra framlag til mannkynssögunnar og menningarsögunnar en fyrirbrigðið Naflajón.

Garðarnir í Medina, sem merkir bær, hafa verið græddir upp og þar eru hin fegurstu trjágöng. Þar eru gömlu gosbrunnarnir notaðir enn, þeir eru eitt af furðuverkum veraldarsögunnar, en arabarnir leiddu vatnið úr fjöllunum, komu fyrir gosbrunnum á víð og dreif og allt án þess notaðar væru neinar tæknilegar eða verkfræðilegar formúlur. Vatnið rennur einfaldlega af einum hjalla á annan og spýtist upp úr gosbrunnunum þar sem því er ætlað - og allt er þetta með ólíkindum; rétt eins og annað í tengslum við þetta virki, ekki sízt varðturninn þaðan sem blasir við útsýn yfir allt héraðið.

Granada er gríðarlega vel staðsett í fjalllendi sem er einskonar framhald af Sierra Nevada-fjöllum; eitt fegursta bæjarstæði sem ég hef séð. Margt gamalt og gróið í þessu umhverfi sem er ævintýri líkast. En mesta ævintýrið er af manna völdum, þ.e.a.s. Alhambra sjálf. Þar eru skreytingarnar með svipuðum hætti og í stóru moskunni í Cordóba, arabíska skriftin víða, blasir við á veggjum og er partur af skreytingunni; af henni má sjá hver byggði þessi húsakynni, hvenær þau voru byggð og ýmislegt fleira sem heyrir sögunni til. Þetta fólk skildi ekki eftir sig aðrar heimildir en þessi húsakynni, hvorki bækur né annað. Af þeim sökum verða menn að lesa þessa sögu af veggjum þessarar einstæðu húsagerðarlistar. Þar eru einnig áminningar eins og þessi sem mér datt í hug að fella í svofelldan ljóðrænan búning:

 

Enginn er guð

nema Allah,

en í garðinum

blómlegt júdasartré

kristið fólk

getur hengt sig í því

ef það selur sig

fyrir silfurpeninga.

 

Við horfðum á þetta fallega tré sem leiðsögumaðurinn sagði að héti júdasar-tré hér um slóðir, en annars staðar ástartré.

Einkennilegar andstæður, nema því aðeins að Júdas hafi svikið Krist vegna ástar á honum. Það er til svo margvísleg ást - eina þá vinsælustu nú um stundir og þá sem einna helzt er í tízku mætti kalla peningaást!

Í gær var 26 stiga hiti, í dag svalara og þægilegra. Í gær fékk ég slæman verk í öxlina, sjúkraþjálfun langt undan, en Ingó náði í lyf handa mér og nú er ég fínn og til alls vís.

Í gær var kirkjuleg hátíð um allar götur Granada. Það var eftirminnilegt að fylgjast með henni. Þúsundir manna á götunum, konurnar í fallegum spænskum flamenco-kjólum, margir karlar með hatta, sumir á hestum eins og í gamla daga. Einnig í einhverjum búningum sem minntu á Yerma eftir Lorca eða Blóðbrullaup. Ég dái Spánverjana fyrir það hvað þeir halda arfleifð sinni vel við; unga fólkið ekki sízt. Öll tónlistin á götunum spænsk, allt sungið á spænsku. Það heyrðist ekki enskt orð, enginn vestrænn dans - allt spænskt og samkvæmt uppskrift arfleifðarinnar. Ég öfunda Spánverja af þessu þrekvirki, að varðveita sérkenni sín með þessum einstæða hætti. Það er hægt að lifa í nútímasamfélagi án þess láta ameríkaníséringuna gleypa sig með húð og hári - en getum við það?

Kvöldið

Hef verið að hugsa um hvað kaþólskar þjóðir Evrópu eiga gott að hafa varðveitt arfleifð sína jafnvel og jafnlengi og raun ber vitni. Hátíðin hér í Granada í gær var í raun fagnaðar- og trúarhátíð. Hún heitir Hátíð krossins. Fólkið upplifir trú sína með öðrum hætti en við, það upplifir hana eins og andblæ frá liðnum öldum. Konurnar eru í síðum og alla vega litum flamenco-kjólum sem eru einhvers konar listaverk út af fyrir sig og karlarnir punta sig með sama hætti og þeir hafa gert í gegnum aldirnar.

Fórum í Dómkirkjuna í dag. Hún er mikil og skrautleg, líklega barokk-kirkja frá 17. öld gæti ég trúað. Mjög skrautleg að innan, en skrautið er þunglamalegt. Sáum einnig grafhýsi Ísabellu og Ferdinands konungs sem er við hliðina á kirkjunni. Það er mjög áhrifamikið. Þar ræður dauðinn ríkjum. Þar sér maður kisturnar undir miklum minnismerkjum. Auk þeirra liggur þar eitthvert fleira kóngafólk, mig minnir Filippus I og einhver drottning. Skiptir ekki máli. Það er enginn þarna hvort eða er. En minningin er rækilega ræktuð. Á torgi skammt frá Dómkirkjunni er mikið minnismerki sem sýnir Kólumbus á tali við Ísabellu. Þegar við vorum í Alhambra í morgun sagði leiðsögumaðurinn að Kólumbus hefði átt síðasta samtal sitt við Ísabellu og Ferdinand fyrir Ameríkuförina í einu af hallarherbergjunum skrautlegu. Þar afhenti Ísabella Kólumbusi skartgripi sína, svo að hann gæti fjármagnað ferðina. Okkur var sögð svipuð saga í kastalanum í Cordóba. Þetta er nokkurn veginn eins og þegar maður ferðast um Bandaríkin og rekst á hvert húsið á fætur öðru þar sem Washington á að hafa gist - og þá helzt á tveimur, þremur eða fjórum stöðum í einu! En allir vildu víst Lilju kveðið hafa.

Hitt þykir mér athyglisverðara hvað mikið af skólakrökkum sækir söguleg minnismerki ásamt kennurum sínum og leiðsögumönnum. Spánverjar tala helzt ekkert annað en spænsku og rækta arfleifð sína með einstökum hætti. Hér er allt spænskt, þ.e.a.s. það sem er ekki arfleifð frá mörg hundruð ára yfirráðum máranna hér um slóðir, en þeir voru þá einnig orðnir nokkurs konar Spánverjar, þegar yfir lauk. Ég var að velta fyrir mér hvers vegna íslenzkir skólakrakkar eru ekki látnir rækta arfleifð okkar betur en raun ber vitni. En hvaða arfleifð? Það er þá einkum tungan og bókmenningin, við eigum nánast engin hús. Náttúran er það sem dregur ferðamenn að landinu; ekki hús, kastalar eða hallir; ekki kóngafólk eða stórviðburðir. Ekki íslenzkan heldur, því hún er fyrir okkur. Hvað er þá eftir? Ekki geta krakkarnir farið endalaust til Skálholts, að Hólum eða skroppið til Þingvalla.

Við værum í raun og veru öreigar sem þjóð ef við ættum ekki bókmenninguna og tunguna; ef við ættum ekki náttúru landsins; sjálfa umgjörðina.

P.s. (Það var ekki fyrr en máraríkið á Spáni hafði leyst upp í 36 smáveldi sem Ferdinand og Ísabella sigruðu þau og sameinuðu Spán. Síðasti soldáninn fékk fararleyfi til Afríku, sbr. kristilega kærleiksblómin spretta/ í kringum hitt og þetta...).

 

Alhambra

Ómaðksmoginn sedrusviður

í lofti

ilmur af sígrænni myrtu

í garðinum

júdasartré

göngum

inn í 13. öldina

fylgjum finkuléttri

hugsun

inn í andrúm

ólíkra tíma,

mælskir eru veggirnir,

enginn er guð

nema Allah

w er mestur

w talar

úr þögulum veggjum

hér talar Allah

úr sjöunda himni

þaðan sem vatnið rennur

að rótum tímans,

hvílum eyru

við vatnsmjúka tónlist

gosbrunnanna

fjalltært er vatnið

í brunnunum

fjalltært er vatnið

af sjöunda himni

þar sem fuglarnir baða sig

í vængmjúkri hugsun guðs.

 

5. maí, föstudagur

Þrumur og eldingar í nótt. Gekk á með ausandi rigningu síðdegis, en við létum það ekki á okkur fá. Regnhlífarnar komu í góðar þarfir. Í svona úrhelli taka svartir sölumenn regnhlífa við af þeim sem selja sólgleraugu og setja sinn svip á götusöluna.

Þegar upp stytti gengum við niður í Lorca-garðinn syðst í borginni, en þar stóð heimili fjölskyldunnar og er nú orðið að safni, Huerta de San Vicenta, Casa-Museo Federico Garcia Lorca. Það hefur verið talsvert utan við borgina á sínum tíma, en nú stendur það í miðjum garðinum í námunda við einhver fegurstu rósabeð sem ég hef séð. Það er við hæfi.

Í safninu er svefnherbergi Lorca á efri hæð, eldhús, stofa og önnur herbergi á neðri hæð. Mörg handrit í glerskápum, bækur með ljóðum skáldsins og leikritum, auk fjölda teikninga eftir skáldið og nokkurra stórra málverka á veggjum. Í þessu húsi upplifðum við, þrátt fyrir allt, kransakökuna á þessu ferðalagi. Allt var þó á spænsku, leiðsögumaðurinn talaði enga ensku, en ég náði þó í enska bók um líf Lorca, teikningar og skáldskap. Í henni eru margar skemmtilegar myndir, ekki sízt af Lorca og Dali sem voru miklir vinir upp úr 1920, en svo slettist upp á vinskapinn þegar Lorca gaf út sígauna-ballöðurnar; þá skrifaði Dali vini sínum langt gagnrýnisbréf þar sem hann setur út á tengsl hans við hefðina og segir að ljóðin fullnægi ekki hinum nýju þörfum módernismans. "Ljóð þín eru bundin á höndum og fótum við fortíðina," sagði Dali. En Lorca sagði að athugasemdin væri "skynsamleg og fordómafull" - eða eitthvað í þá áttina.

Í fyrrnefndri bók er ljóðið um Cordóba sem Lorca samdi á árunum 1921-24 undir fyrirsögninni Söngur riddarans eða Söngur hestamannsins. Þar er fjallað um aðra Cordóba en við upplifðum, borg sorgar og fjarlægðar. Nú er þar annað andrúm en Lorca lýsir:

 

Cordóba

Fjarlæg og ein.

Svartur hestur, stórt tungl

og ólívur í hnakktöskunni.

Þó að ég þekki leiðina

kemst ég aldrei til Cordóba.

Yfir sléttuna, gegn vindinum,

svartur hestur, rautt tungl.

Dauðinn fylgist með mér

úr turnum Cordóba.

Ó, hversu leiðin er löng!

Ó, minn hugrakki klár!

Ó, dauðinn bíður mín

áður en ég kemst til Cordóba.

Cordóba.

Fjarlæg og einmana.

 

Ingó segir að teikningar Lorca geti alveg eins verið eftir Miro, þeir séu svo líkir. Þær eru náttúrulega uppfullar af súrrealisma. Lorca hafði hann í blóðinu og þess vegna átti hann erfitt fyrir heima á Spáni þó að sígauna-ballöðurnar hafi orðið einhver vinsælasta ljóðabók sem um getur. En súrrealisminn hefur ekki verið auðmeltur og kannski er Lorca betur þekkur með bókmenntafólki í öðrum löndum en alþýðu manna á Spáni, eða eigum við að segja: andalúsíu. En til hennar sækir hann hina andalúsisku arfleifð sem hann breytir í klassíska nýlist.

Það voru engar hópferðir í þetta safn eins og í Alhambra, þar voru einungis hljóðir einstaklingar sem íhuguðu hverja mynd, sérhvert handrit og báru saman við prentað mál. Skrift Lorca er heldur barnaleg þegar hann notar penna og blek, en mun þroskaðri þegar hann skrifar með blýanti. Það er hnýsilegt að sjá hvernig hann strikar út, breytir og lagfærir; hann hikar ekki við útstrikanir frekar en önnur góðskáld. Það eru einungis meðalskáldin og þaðan af verri sem tíma ekki að breyta neinu, en telja allt fullkomið sem lendir á pappírnum í fyrstu atrennu. Hún er venjulega einnig síðasta gerðin í handritum vondra skálda. Þau skortir vandfýsnina, tilfinninguna, smekkinn. Þau gleypa allan innblástur eins og kýr sem kunna ekki að jórtra. Þær þrífast ekki og hefðu betur orðið hestar!

 

6. maí, laugardagur

Alhambra Palace-hótel stendur á hæðinni og rís eins og kastali yfir borgina. Það er rauðbrúnt með grænum gluggum. Það er ævintýri líkast. Það minnir einna helzt á skemmtiferðaskip, matsalurinn ekki opnaður fyrr en klukkan hálfníu á kvöldin. Kvöldverðurinn og allir þjónarnir eins og á Queen Elisabeth. Frá hótelinu að Alhambra-virki er steinsnar. Hótelið var byggt 1910.

Það var í þessu hóteli sem tekin var mynd af Lorca 5. maí 1929, ásamt fjölda gesta sem viðstaddir voru í tilefni af því að þá hafði leikrit hans, Mariana Pineda, verið frumsýnt. Á miðri myndinni, sitjandi, eru Margarita Xirgu, sem setti upp flest leikrit hans, og Frederico Garcia Rodrigues, faðir hans. Allt prúðbúið fólk, mest karlar. Ég sé ekki nema þrjár konur á myndinni, t.a.m. vantar móður hans, en að henni var hann mjög hændur. Hún hét Vicanta Lorca Romero. Til er mjög skemmtileg mynd af henni og heimili fjölskyldunnar þar sem skáldið birtist í speglinum bak við hana. Táknræn mynd á margan hátt. Lorca átti bæði bróður sem virðist vera mjög áþekkur honum og systur.

Fyrsta leikrit Lorca féll eftir fjórar sýningar í Madrid 1922 og ljóðasafn sem foreldrar hans kostuðu og út kom í Madrid 1921 vakti enga athygli. Á þessum árum var Lorca í vinfengi við Dali og Buñuel. Hann heimsótti Dali þar sem hann bjó í litlum fiskibæ í Katalóníu, Cadaqués; bæði 1925 og 1927 en þá stóð vinátta þeirra í blóma. Hann orti lítið, fallegt ljóð til vinar síns þar sem hann lýsir bænum.

Eftir fræga ferð til Ameríku, einkum Kúbu, þar sem Lorca var tekið með kostum og kynjum, kom hann aftur heim til Madrid og gerðist aðili að leikflokki sem fór um landið til að sýna verk gamalla meistara eins og Lope de Vega og Calderónes. Þegar lýðveldið var stofnað 1931 varð einn helzti mentor Lorca menntamálaráðherra. Leikflokkurinn var því styrktur af hinni nýju vinstristjórn lýðveldissinna, nefndist Barraca og fór víða um landið. Þá byrjuðu tengsl Lorca við vinstri stjórnina, en þau leiddu til harmsögulegra endaloka.

Lorca hafði upplifað verðbréfahrunið í New York 1929 og þar fannst honum fátt minna á þá kristilegu siðmenningu sem hann var alinn upp við. Alls staðar er fólk öskrandi og grenjandi eins og dýr, skrifaði hann heim. Einnig konurnar. "Þegar ég komst út úr þessu helvíti," heldur hann áfram, "var öll umferð bönnuð um Sixth Avenue. Bankastarfsmaður hafði kastað sér út um glugga á 16. hæð í Hótel Astor." Hann kom að þegar verið var að lyfta manninum af götunni. "Hann var mjög stór, rauðhærður, og ég gleymi ekki stórum hvítum höndum hans á sementsgrárri götunni. Við þessa sjón fékk ég nýja hugmynd um bandaríska menningu, ...það var eins og skip væri að sökkva og allt kristið andrúm horfið."

Nú fylgdu harmleikir Lorca, Blóðbrullaup var sett upp í Barcelona 1933 og síðan flutt til Buenos Aires þar sem það var sýnt meira en 100 sinnum. Yerma fylgdi í kjölfarið árið eftir og Margarita Xriga í höfuðhlutverkinu. Það var sýnt yfir hundrað sinnum í Madrid og síðan farið með það til Barcelona og Valencia. Þriðja leikritið Hús Bernarda Alba, skrifað 1936 eða sama ár og Lorca var myrtur, en ekki sýnt fyrr en 1945. Þá voru Margarita Xriga og leikflokkur hennar komin í útlegð til Buenos Aires og þar var Bernarda Alba ekki sýnt fyrr en 1945.

Spænski herinn gerði uppreisn gegn lýðveldisstjórninni í júlí 1936. Þá var Lorca í Madrid, en fór til Granada skömmu síðar, eða 13. júlí. Nokkru síðar gerði herliðið í Granada uppreisn og náði borginni 23. júlí. Mágur Lorca, Monte Sinos, nýkjörinn borgarstjóri, var handtekinn og drepinn 16. ágúst, eða sama dag og Lorca var handtekinn í Granada.

Margt er á huldu um dauða Lorca en talið að hann hafi verið drepinn í bænum Viznar. Mér skilst að enginn hafi rannsakað dauða hans jafn vandlega og ævisöguritari hans, Ian Gibson, sem skrifaði bókina The Assassination of Federico Garcia Lorca, en ég hef ekki lesið hana. Hún bíður betri tíma, þegar minningar úr þessari ferð ryðjast fram og kalla á nýjan farveg eins og gamalt fljót.

Hið mikla skáld Spánverja, Antonio Machado, sem sumir telja eitt helzta skáld þessarar aldar og lézt u.þ.b. sem lýðveldið hrundi, orti bitur eftirmæli um Lorca þegar hann frétti lát hans:

 

Hann sást á gangi...

vinir, reisið minnismerki

úr steini og draumum Alhambra,

yfir gosbrunn þar sem vatnið syrgir

og segir að eilífu:

glæpurinn var framinn í Granada,

í hans Granada.

 

Sjálfur hafði Lorca ort:

 

Ef ég dey hafið svalirnar opnar

barnið borðar appelsínur

(ég sé það af svölunum).

Uppskeran hafin og kornið þreskt

(ég heyri það af svölunum);

ef ég dey hafið opið út á svalirnar!

 

6. maí, laugardagur

Kvöldið

Lorca varð píslarvottur og sem slíkur mun hann lifa; ekki sízt. Hann var einnig brautryðjandi í skáldskap, bæði ljóðlist og leikritagerð. Hann var fínt skáld, að sjálfsögðu, en mér þykja ljóð hans ekki öll jafn góð; í sumum newyork-ljóðanna er mælskan ekki borin upp af nógu þéttu myndmáli og skírskotanir of súrrealískar fyrir minn smekk; að vísu eftirminnileg flugeldasýning sundraðra mynda, sumar hafa ratað inní íslenzka ljóðlist; t.a.m. rándýrsþófar. En fínustu kvæðin eru sérstæð, ljóðræn reynsla, svo persónuleg að ekki verður betur gert. Í þessum ljóðum er skáldið einn á ferð, einn með arfleifð sinni og því sem enginn á nema hann; einn með þeirri óskýranlegu tilfinningu sem gerir skáld að skáldi, en ekki fagmanni eingöngu. Lorca er beztur þegar hann er á heimaslóðum og eys af þeirri auðlegð sem Dali gagnrýndi einna helzt, þegar sígaunakvæðin birtust á prenti.

En allt er þetta falleg músík á frummálinu. Og ekki nauðsynlegt að skilja hana nema með tilfinningunni; rétt eins og gamlan dróttkvæðan skáldskap, kenningar hans, heiti og marggleymt myndmál. Ljóðgátur Lorca standa myndgátum Dalis auðvitað nær en fornri íslenzkri skreytilist.

 

7. maí, sunnudagur

Sevilla

Þegar við komum hingað aftur eftir þriggja tíma bílferð frá Granada gerði úrhellisrigningu með þrumum og eldingum, náttúrlega. Það getur rignt víðar en í Reykjavík og miðað við spænska rigningu er íslenzka regnið einskonar vasabókarútgáfa af sólarlandarigningu, ef svo ber undir. Í svona úrfelli er engu líkara en opnað sé fyrir allar flóðgáttir á himnum og samkvæmt islam situr Allah þarna uppi í sjöunda himni og skrúfar frá, það höfum við a.m.k. lært hér í Al-Andalus, en það er hið máríska nafn hins múslimska heimsveldis á Spáni. Arfleifð þessa ríkis er ótrúlega frjó og áhrifamikil. Það gátum við m.a. séð á tveimur sýningum sem við rákumst á hér í miðborg Sevilla í dag, en nú hefur glaðnað yfir veðrinu svo við ráfuðum um rétt eins og túristar gera. Önnur sýningin var í Casa de la Memoria de Al-Andalus og þar eru sýndir keramikvasar frá dögum máranna, sumir mannhæða háir, aðrir minni. En það er einhver paradísarþrá í þeim öllum, svo fallega skreyttir sem þeir eru - en á þessari sýningu voru einnig aldagömul málverk af Alhambra-fólki, einkum konum. Minna á sumar mannamyndir Errós eins og þær eru málaðar af nákvæmni og stakri tillitssemi við fyrirmyndirnar, þ. á m. málverk af fallegri konu sem les í bók, mér skilst hún hafi verið skáld þar um slóðir á sínum tíma. Orðið skáld í forngrísku merkir sá sem skapar, sköpuður. Þá var ljóðlist í heiðri höfð í þessu fyrirheitna ríki landvinningamanna og soldána. En þeir héldu upp á fleira en falleg kvæði og kóraninn, einkum töluna fjóra sem er undirstaða alls mynsturs í dýrlegri skrautlist þeirra. Það er mikið til af fallegum kvæðum á arabísku; mikið af fallegum kvæðum sem eiga rætur í paradísarþrá múslima, en þessi ljóðlist er einatt á næstu grösum við ástina sem Omar Kajam hefur öðrum fremur lofsungið í ferhendum sínum.

En það eru fleiri en Erró sem hafa sótt í spánska arfleifð máranna, það var augljóst þegar við fórum á hina sýninguna í Caja San Fernandó, einnig í miðborg Selvilla. Þar voru sýnd keramikverk eftir Picasso, sum einnig með rætur í afrískri listhefð. Þar voru margir eftirminnilegir vasar og þá ekki síður plattar eða diskar, margir svo persónulegir að maður hefði þekkt þá úr mílu fjarlægð. Nautabanaserían á vart sinn líka og ýmis verk önnur, t.a.m. Tónlistartúlkunin frá 1957 og þá ekki síður Ballettdansarinn.

Það skyldi þó ekki vera að Picassos verði einna helzt minnzt fyrir þennan þátt listar sinnar.

Fórum í messu í dómkirkjunni, einnig til altaris. Minnti mig á þegar við gengum til altaris í Vatikaninu fyrr á árum, kannski maður hafi mjakazt eitthvað að Gullna hliðinu fyrir bragðið! Það fer líklega eftir því hvort lyklapétur er kaþólskur eða lútherskur. Ég held hann hafi verið hvorugt. En samkvæmt Gullna hliði Davíðs Stefánssonar var hann helzt ósköp breyskur eins og við hin. Ef það er svo, má segja að hann sé réttur maður á réttum stað eins og hrúðurkarlar synda og freistinga hlaðast á mann í tímans rás!

En hvað um það, móðurkirkjan í Sevilla tók heldur hlýlegar á móti okkur nú en áður, þegar við komum hingað til Sevilla frá Portúgal, en þá vorum við á vegum gömlu Útsýnar í frábærri ferð sem endaði með hákarlaveiðum suðaustur af Carvoeiró, ásamt Einari Erni og Ástu Ragnheiði sem hafnaði að lokum í því eina sólarlandi sem margir Íslendingar sækjast einna helzt eftir; sólarlandinu við Austurvöll!

En efnið í skáldsögunni Sól á heimsenda á rætur í þessu ævintýri, svo og ein eða tvær smásögur, ef ég man rétt.

Þá fengum við ekki að koma inní dómkirkjuna í Sevilla á stuttbuxum svo við urðum að leigja okkur síðbuxur en höfðum nú vaðið fyrir neðan okkur og vorum í gallabuxum. Það er vissara að vera vel buxaður, þegar kóssinn verður að lokum tekinn á hið eina sanna gullna hlið!

 

Kvöldið

Sáum í sjónvarpinu þegar Putin tók við forsetaembætti í Rússlandi. Það hlýtur að vera einn sögulegasti atburður þessarar aldar, a.m.k. í augum okkar sem höfum sóað ævinni í kalda stríðið og allt hnoðið í kringum það.

Hvað sem segja má um Jeltsín hefur hann tryggt lýðræði í Rússlandi og nú hefur arftaki hans og lærisveinn tekið við, samkvæmt heilræðinu sem hann fékk í veganesti, Hugsaðu vel um Rússland! Lýðræðislegt Rússland er í deiglunni og ef vel tekst til hlýtur það að standa okkur nærri hvað uppruna, söguleg tengsl og trúarbrögð snertir. Það væri því tímaskekkja að vera í einhverjum bandalögum gegn Rússlandi. Slíkt heyrir fortíðinni til.

Hef verið að hugsa um Lorca. Skáld um allar trissur hafa verið að leika Lorca, en það fer þeim illa. Allir þessir smálorcar verða einhvers konar tímaskekkja. Lorca sjálfur er einstakur. En íslenzkur lorca væri eins og nautabani í kántrýbæ eða leikriti eftir Dario Fo. En það er því miður svo margt hér heima sem er fáránlegra en svo að Dario Fo gæti dottið það í hug; jafnvel honum! Stundum er t.a.m. engu líkara en við höldum að Ísland hafi orðið konungsríki 1944, en ekki lýðveldi; hégóminn, stellingarnar. Og snobbið!

Og nú er ferðinni aftur heitið til Madrid.

 

Ódagsett

Komin aftur til Madrid. Sit á Hótel Ambassador og læt hugann reika. Veðrið heldur óstöðugt og það hentar mér vel. Hættur að stunda sólböð og vil heldur sjá eitthvað eftirminnilegt. Hótelið ágætt en þegar við komum aftur til Sevilla fengum við herbergi á Hotel Inglaterra á 5. hæð, með svölum. Það var lúxus. Sáum yfir alla borgina. Kirkjuna og mínarettuna uppljómaðar á kvöldin. Áður en við fórum frá Granada keyptum við aðgang að neti Morgunblaðsins á netstofu þar í miðborginni. Engar fréttir í augum Spánarfara. Össur kosinn formaður Samfylkingarinnar, það þykir ekki fréttnæmt á fornum slóðum máranna. Hér er ekkert sem minnir á Ísland, fátt á Norðurlönd, laxinn frá Noregi, einnig þorskurinn. Hann er ekki einu sinni íslenzkur! Annars er ekki að sjá að Spánn sé eitt mesta ferðamannaland sem um getur, hér talar varla nokkur maður annað en spænsku. Þeir skilja helzt ekki orð í ensku. Þegar við vorum á Ítalíu með Bjarna og Sigríði sagði Sigríður að bezt væri að tala við Ítalana á íslenzku, það væri helzt hún sem þeir skildu! Það er erfitt að skilja ekki málið, það er eins konar fötlun; eins og að vera blindur eða heyrnarlaus. En eins og slíkir finnur maður fljótt leið að því sem máli skiptir. Maður bjargar sér einhvern veginn. Þegar við komum hingað lentum við í einhverju þrasi við leigubílstjóra. Það var út af tungumálinu. En Ingó bjargaði því og allt féll í ljúfa löð. Sjónvarpið er einnig að mestu á spænsku, þó má finna þýzka stöð, stundum CNN, stundum BBC. Ég fann ekki einu sinni Omega, engu líkara en hún hafi farið framhjá Spánverjunum!

Læt hugann reika. Dreymdi Marshall Brement. Veit ekki af hverju? Af hverju dreymir okkur? Af hverju dreymir mig allt í einu Marshall Brement? Við erum að vísu friends for live en ég hef ekki hitt hann frá því við heimsóttum þau Pamelu í Garmich fyrir einhverjum árum, nú eru þau flutt vestur til Bandaríkjanna. Þau eiga fallegar myndir eftir Baltasar. Marshall telur að hann sé mikill málari. Þeir eru margir miklir listmálarar, Spánverjarnir, það leynir sér ekki í listasöfnunum hér um slóðir.

Bragi Ásgeirsson segir það geti verið þægilegt að heyra ekki allt sem talað er.

Ég hef verið að hugsa um arfleifðina frá márunum og list þeirra. Þessi arfleifð hefur sett óafmáanlegan svip á allt kúnstverk Spánverja, ekki sízt Picassos sem var ættaður frá Malaga sem Arabar stjórnuðu um margar aldir, rétt eins og Granada og Cordóba. Allt er þetta mikil arfleifð og þá ekki sízt  gyðingahverfin með þröngu götunum; og gömlu arabahverfin. Við eigum ekkert slíkt, við eigum bara Fógetann við Aðalstræti.

Er að hugsa um hvernig list máranna byggðist upp á tölunni fjórum sem var heilög tala í þeirra augum. Buckminster Fuller heilaþvoði mig á sínum tíma þegar hann fullyrti að grundvöllur kúlunnar, jarðarinnar, grundvöllur alls, sem þola ætti mikil átök, væri þríhyrningur.

En w-ið var víst mikilvægast í augum máranna; það er táknleg skammstöfun fyrir Allah.

 

8. maí, mánudagur

Fórum í Nýlistasafnið í Madrid, sáum fastasýninguna sem er bæði yfirgripsmikil og eftirminnileg; þó misjöfn. Ég hygg Miro séu gerð bezt skil, bæði hvað snertir spanskgrænar járnmyndir hans og málverk. Höggmyndirnar eru einskonar hálfmyndir úr veruleikanum; túlka afskræmingu síðustu aldar með sama hætti og ógnlegar myndir Saura sem var fæddur á Spáni 1930 og vann afskræmingu sína með hliðsjón af súrrealisma; svo að ekki sé talað um þá afskræmingu sem einatt birtist í myndum Picassos en hann var margir málarar og gat allt sem hann vildi, en hann vildi bara sumt. Dali-safnið er nokkuð gott, ekki sízt fyrir þá sök að maður kemst að raun um það sem maður ætti að vita, að það var ekki til neinn einn Dali. Þeir eru margir á ferðinni í eldri myndum hans og þar bregður einnig fyrir eldri málurum. Það var einnig eftirminnilegt að standa andspænis óhugnaði Francis Bacons og skoða það liggjandi mannhrak sem bar fyrir augu, en andspænis því litaupplyfting Asgers Jorns, frægasta málara Dana og þekktasta cóbra-málarans en þar áttu þeir Svavar Guðnason samfylgd, eins og kunnugt er - en Henry Moore á næstu grösum. Litagleði Jorns með örvæntingarfullum andlitum stakk í stúf við flest eða nánast allt sem þarna var að sjá. En kannski voru tvær eða þrjár myndir eftir Juan Gris (1887-1927) hvað áhrifamestar - og þá helzt gítarmyndirnar; sterkar í formi og mjúkar í lit. Það er eitthvað af Braque á næstu grösum í sumum myndanna - og kemur ekki á óvart.

Lítið að gerast í popplistinni og nýlistina skortir leiðsögn, held ég; nýjan meistara sem getur vísað veginn inní meiri veizlu en uppá er boðið; sumt minnir á brotajárn, annað byggir allt á hugmynd sem ekki er útfærð. Fáar þessara mynda hrifu mig, því miður, og ég velti því fyrir mér þegar ég kom að hönnunarlistinni hvort nýlistin eigi ekki miklu skæðari keppinaut í henni en menn gera sér almennt grein fyrir. Henni eru gerð mjög góð skil í Nýlistasafninu í Madrid, þar er sýnd alls kyns hönnun og felld skipulega inní hvern áratug. Maður getur þannig séð sögu okkar og áhugaefni með því að ganga um þessa 20. öld, engu líkara en þessi þáttur hafi tekið við af gömlum höllum og kirkjum. Þarna eru einnig tölvumyndir, alls kyns sjónvarpslist og annað í þeim stíl. Sérstök sýningardeild fjallar um kvikmyndir Buñúels og þar eru sýndar kvikmyndir eftir hann og Dali. Það er afar hnýsilegt og ég sá að áhugi fólks var meiri á þessari deild en nýlistinni. Þarna sá ég forsíðuna á El Pais sem þýzkur hönnuður, Gäde, gerði 1976 og breytti þannig afstöðu Spánverja til útlitshönnunar dagblaða; öll stafagerð t.a.m. í samræmi við efni og umgjörð. Ég þarf að tala um þetta við Árna vin minn Jörgensen, þegar heim kemur. Það var áreiðanlega mikið spor í hönnunarlist þegar Tryggvi Magnússon teiknaði Morgunblaðshausinn og útlit Morgunblaðsins ber Árna og listrænu handbragði hans fagurt vitni.

Á sínum tíma talaði ég oft við Dieter Roth um uppsetningu og stafagerð en hann hafði einhver áhrif í þeim efnum, meðan hann dvaldist heima. Hugmyndir hans voru samt of róttækar fyrir borgaralega fastheldni Morgunblaðsins.

Og þá er komið að Guernica, þekktasta málverki aldarinnar. Listasafn sem býður upp á slíkt verk er ekki á flæðiskeri statt. Hvað á maður að segja þegar staðið er fyrir framan slíkt verk? Ekkert! Maður horfir bara þegjandi og reynir að lesa í myndmálið. En hvað? Um hvað fjallar þessi mynd? Örvæntingu og grimmd, að sjálfsögðu. Grimmdaræði styrjaldar, örvæntingu fórnarlambanna. Af andlitum þeirra má sjá að örvæntingin beinist að himninum. Það er táknrænt; gegn þeim sem létu sprengjurnar rigna yfir litla spánska bæinn Guernica og þá líklega einnig einhvers konar von um líkn frá þessum sama himni. Myndin er að mestu máluð í gráu, hjálmgráum lit nazismans. Stríðshestur og baslandi blóm við hóftungu hans, naut - er furða þótt nautinu blöskri? hefði Kjarval spurt.

Picasso lauk við Guernica 1937 en hún átti sér langan aðdraganda og mörg uppköst. Hann hafði alla tíð verið hugfanginn af baráttu manns og dýrs, hafði teiknað hálfmenni í hestsmynd, eða mínótára sem hægt er að sjá í listasafninu í Genf og nautaatið var honum í blóð borið. Guernica fjallar a.m.k. öðrum þræði um baráttu manns og skepnu.

En hvað sagði hann sjálfur um myndina? Þegar hann 1947 var orðinn þreyttur á vangaveltum sérfræðinga um inntak myndarinnar, lýsti hann þessu yfir: En þetta naut er naut og þessi hestur er hestur, þarna er einhvers konar fugl einnig, kjúklingur eða dúfa, ég man ekki nákvæmlega hvort er þarna á borðinu. Og þessi kjúklingur er kjúklingur, að sjálfsögðu eru þetta táknmyndir. Síðan segir Picasso að táknin séu ekki hlutverk listamannsins. Það væri þá alveg eins gott fyrir hann að skrifa þau niður eins og að mála þau: áhorfendur sjá í hestinum og nautinu táknmyndir sem þeir skíra eins og þeir skilja þær. Þarna eru nokkur dýr, já, hann segir að þarna séu fórnardýr, hann hafi ekkert um þetta annað að segja. Fólkið sjálft verður að sjá það sem það vill sjá.

Þetta er skýring höfundarins á frægasta málverki samtímans!

Á leiðinni að hótelinu gengum við fram á fjöldafund við ráðhústorgið, þar var margt manna og ég hef sjaldan eða aldrei séð jafn marga vopnaða lögreglumenn samankomna á einum stað. Á mótmælaspjöldunum stóð ETA-NO, þ.e. nei við hryðjuverkamönnum Baska sem myrtu blaðamann við El Mundo í gær, því blaðið hefur skrifað af hörku gegn þessum terror.

Og í dag eru öll blöð full af þessu morði; myndir, frásagnir; grátandi kona; syrgjandi fólk.

Sem sagt: maí 2000; Guernica í samtímalífi Spánverja. Þannig fylgir Guernica manninum á þessari löngu ferð hans úr einum helli í annan. Ástæðan er sú að honum hefur aldrei tekizt að hemja skepnuna í sjálfum sér. Baráttan milli manns og skepnu heldur því áfram og engu líkara en himnarnir hafi ekkert um það að segja.

Barátta milli manns og skepnu - í manninum sjálfum.  

 

8. maí, síðdegis

Dálítil hvíld, siesta, er ágæt í mollunni. Hef hlustað á hljóðbók með efni eftir Bertrand Russell um afstæðiskenningu Einsteins. Hef alltaf átt auðvelt með að skilja Russell, ég veit ekki af hverju. Hef jafnvel gagn og ánægju af þessari bók.

Annars eru ferðalög sérstakt líf utan við allt líf. Maður losnar einhvern veginn úr tengslum við umhverfið á svona flækingi, nema umhverfið sé því kunnuglegra. Og svo þarf maður að vera nokkurn tíma á sama stað. Þá hefur mér fundizt auðvelt að ná jarðsambandi en þó ekki eins hastarlega og Konráð Gíslason lýsir í ferðabréfum sínum því það er engu líkara en hann eigi heima á baðstöðum Þýzkalands þar sem hann er sér til heilsubótar, svo rækilega sem hann lýsir körlum, en þó einkum konum, sem verða á vegi hans. Karlinn virðist ekki hafa látið neina konu fram hjá sér fara. Hann var áreiðanlega ekki allur þar sem hann var séður í þeim efnum. Stundum er gáskinn svo mikill að hann fer með himinskautum í lýsingum sínum. Hann hefði áreiðanlega ekki látið Pay TV-Cannel á sjónvörpum ****-hótelanna nú á dögum fram hjá sér fara. Það hefðu orðið lýsingar sem segðu sex!

En hvað er ég að hugsa um Konráð Gíslason hér í Madrid? Ég hef afgreitt ferðabréf hans í bók minni Við Kárahnjúka og önnur kennileiti, 1999, bls. 278-280. Jú, hann var andinn á bak við Jónas og það er hægt að læra af honum að ferðast. Og ef íslenzkir skáldsagnahöfundar hefðu tekið mið af ferðabréfum hans og tileinkað sér eitthvað af ferskum og sérstæðum stílbrögðum hans, ættum við nú miklu sérstæðari skáldsagnabókmenntir en raun ber vitni; sérstæðari, frumlegri og veðurmeiri í stíl.

Rigning með köflum. Höfum samt gengið mikið. Orðinn sérfræðingur í regnhlífum. Þegar við sátum í kaffihúsi sagði Ingó við mig: Það er vinna að ferðast. Já, sagði ég, hörkuvinna! Svo fórum við að tala um lífið og tilveruna, samskipti fólks og vandamál. Hann sagði að höfnun eða afneitun gæti verið meira virði en vandræðaleg samskipti. Ég hugsaði um þetta en held það sé einstaklingsbundið. Allt er einstaklingsbundið. Ekkert á við um allt fólk. Allt horfir öðruvísi við hverjum einstökum sem betur fer. Það er hlutverk okkar að velja og hafna. Sumir velja erfiðleika sem geta leitt til hamingju, aðrir auðveldustu leiðina sem getur leitt til óhamingju. Allt er þetta afstætt.

Dreymdi Svein Einarsson í nótt. Það er ekkert skrítið, einungis áminning um að ég á að flytja ljóð við opnun ljóðlistarsýningar í Þjóðmenningarhúsinu daginn eftir að ég kem heim. Það er á vegum Sveins Einarssonar og listahátíðar. Hafði lofað þessu og við það verð ég að standa. Og þá kemur Sveinn í heimsókn að næturþeli hingað í Madrid til að minna mig á þessi ósköp og raskar ró minni. En það er áreiðanlega gott að dreyma Svein. Bezt þykir mér samt að dreyma Sigurð; einhvern Sigurð, ekki sízt Sigurð A. Magnússon. Það er skrýtið! Og þó. Draumar eru einhvers konar tákn og Sigurður er tákn um eitthvað jákvætt, kemur persónunni ekkert við.

Einn er sá staður þar sem maður skilur tungumálið jafnvel og innfæddir; það er safnið, ekki sízt málverkasafnið. Skoðuðum eftirminnilega sýningu í Thyssen-Bornemisza-safninu. Þar eru margar eftirminnilegar myndir, m.a. eftir bandaríska málara sem eru ekki á hverju strái í Evrópu og ótrúlega fallegt safn ítalskra mynda fyrir renisansinn; það eftirminnilegasta sem ég hef séð af því tagi. Þarna sá ég í fyrsta sinn mynd eftir Hans Hofmann, kennara Louisu Matthíasdóttur í New York. Mikið er hún annars ólík þessum kennara sínum sem hefur verið afar venjulegur afstraktmálari af þessari mynd að dæma. Mynd eftir Watteau frá 1712, smámynd sem lætur lítið yfir sér, hefði glatt auga Gunnlaugs Schevings sem dáði þennan 18. aldar málara öðrum fremur. En þarna voru einnig myndir eftir aðra meistara sem stóðu hjarta hans nær, Zubarán, Magritt. Einnig ágæt eintök af stórmeisturunum, Picasso, Miro og hvað þeir nú heita. Augljóst að Picasso og Braque hafa málað í svipuðum stíl framan af enda jafngamlir, fæddir upp úr 1880. Þarna eru impressionistar, expressionistar, popplistamenn og hvaðeina. Góður Kandinsky, slappur Munch, óskemmtilegur Matisse, samt er hann einhver mesti málari sögunnar, þokkalegur Cézanne og andlitslaus Bacon; auðvitað! Einkennileg árátta þessa listamanns að þola ekki andlit fólks óafskræmd. Hefur líklega stafað af einhverjum duldum sjálfstortímingarþáttum í honum sjálfum. Sjálfsmynd hans var þó alveg í lagi - og meira en það ef því var að skipta - og hefði vel getað átt við hann það sem Auden segir í bókmenntasögulegu yfirliti sínu A Certain Thing - og fullyrðir að sé íslenzkur málsháttur: Allir elska eigin fret! Ég hafði að vísu aldrei heyrt þetta orðtak og hvergi séð það á prenti nema í þessu fína yfirlitsriti Audens en þar er m.a. að finna úrval úr eddukvæðum.

En eftirminnilegasta myndin á þessari sýningu var kannski bátsmynd eftir van Gogh, máluð í Arles 1888. Það er einhver sérstök tilfinning í litefni þessa hollenzka málara. Það eru ekki einasta litirnir sem hrífa, heldur áferðin; tilfinningin í efninu. Hún er mjög áþreifanleg þegar maður stendur andspænis myndum van Goghs.

 

10. maí, miðvikudagur

Þeir sem koma til Madrid þyrftu helzt að skoða fallegt og óvenjulegt safn sem er kannski ekki í alfaraleið, þótt það sé í útjaðri miðborgarinnar; sérstætt menningarsögulegt safn og lumar á ýmsu. Það heitir Fundación Lázaro Galdiano Museum. Stendur við eina helztu götu borgarinnar, Calle Serrano.

Auk ýmissa gersema og muna úr daglegu lífi fyrri alda er þar einnig slatti af málverkum, m.a. dýrlegar smámyndir eftir Goya og eftirminnileg málverk eftir El Greco eða grikkjann frá Krít sem settist að í Toledo og tók upp þetta spænska nafn um uppruna sinn og svo ein af þessum fallegu guðsmóðurmyndum Murillos. En þessar gersemar eru í raun aukaatriði í safninu því hér birtist menningarsagan eins og hún leggur sig í margvíslegum munum öðrum sem lýsa siðmenningarlegri þróun betur en mörg orð. Hér eru svo fallega skreytt úr að engu tali tekur, litlar málaðar mannamyndir sem hafa verið notaðar eins og fjölskyldumyndir nú á dögum, þ. á m. lítil mynd af Rousseau sem sýnir þennan litríka persónuleika eins og hann hefur að öllum líkindum litið út, hér eru alls kyns men og skrautmunir, hálsfestar frá ýmsum tímum, hringar og annað daglegt tízkudót - en það sem vakti kannski mesta athygli mína fjölbreytt lyklasafn af ýmsum gerðum og frá öllum tímum, líklega mest útidyralyklar af öllum stærðum, stórir lyklar að kirkjudyrum og ég sá ekki betur en þarna væri hinn eini sanni lykill að sjálfu Gullna hliðinu! Það hefði ekki verið ónýtt að taka hann með sér ef illa stendur í bólið hans Lykla-Péturs þegar þar að kemur. Ekki trúi ég því að ritstjóri Morgunblaðsins til margra ára komist klakklaust inn fyrir það gullna port en vel má vera að það sé gamall komplex eftir 40 ára basl við kröfuhart umhverfi!

Og kalt stríð!

Ég er hræddur um að samanburður þessara skrautmuna við okkar tíma verði okkur heldur óhagstæður þegar fólk fer að skoða þá eftir nokkur hundruð ár - ef Norður-Evrópa verður þá ekki komin undir jökulóða frostvinda nýrrar ísaldar.

Rakst á það sem National Geographic hefur eftir þýzkum klerki frá 11. öld í víkingaeintaki sínu, þ.e. að Íslendingar hafi engan konung haft, lögin séu þeirra konungur. En þó held ég tungan sé kóróna okkar og stolt, landið og tungan, en lögin hafa því miður sett niður eftir ólögin sem skipta okkur nú í tvær þjóðir, kvótaþjóðina sem allt á - og svo hina.

Hef það á tilfinningunni að Spánverjar uni hag sínum heldur vel. Þeir eru hvorki með hugann við hörmungar borgarastyrjaldarinnar né ógnarstjórn falangista og ég held þeim sé eiginlega skítsama um þessi aðskotadýr sem þeir lifa á öðrum þræði. En hótelmenning þeirra er til fyrirmyndar yfirleitt., steinhótel og engar eldgildrur. Það er hægt að sofa í þessum húsum nokkurn veginn öruggur. Hreinlæti að því er virðist til fyrirmyndar.

 

11. maí, fimmtudagur

Lestarferðin frá Madríd til Zaragossa tekur rúma þrjá tíma. Þegar fjær dregur Madríd tekur við fjalllendi og þónokkuð glannaleg ferð, enda finnur maður að lestarstjórinn er önnum kafinn við að stjórna hraðanum. Zaragossa - höfuðborg Aragon. Þaðan var Ferdinand konungur, eiginmaður Ísabellu drottningar, ættaður. Ég varð mér á sínum tíma úti um grafíska mynd eftir Salvador Dali sem heitir Konungur af Aragon og skírði eitt smásagnasafna minna eftir þessari mynd hans. Um þetta var ég að hugsa á leiðinni til Aragon, en okkur var ráðlagt að staldra þar ekkert við; þar væri ekkert að sjá. Við létum það gott heita og héldum ferðinni áfram - Barcelona framundan. Þangað hafa allir Íslendingar komið og þeir sem hafa ekki farið þangað eru á leiðinni! Það var gott að slappa af í lestinni og lesa nokkur blöð sem voru ágætt veganesti eins og á stóð. Ég sá að Spánverjarnir sperrtu eyrun þegar við töluðum íslenzku og veltu því fyrir sér hvaða furðufuglar væru þarna á ferðinni. En þeir voru kurteisir og létu okkur afskiptalaus.

Ég blaðaði í spænskum dagblöðum. Það er hvíld að skilja ekki orð. Spænsk dagblöð fara ágætlega við landslagið á svona ferð. Svo tók ég til við ensku blöðin, fletti Newsweek og Time og lét það gott heita. Það er sjaldnast neitt upplífgandi í þessum vikuritum og dugar að fletta þeim. Fletti einnig Life. Þar voru eintómar verðlaunamyndir eftir blaðaljósmyndara. Mér finnst ljósmyndarar Morgunblaðsins hafa tekið miklu betri myndir á árinu sem leið. En heimurinn er ekki á Íslandi, hann er annars staðar. Það er líklega þess vegna sem íslenzkir listamenn eru svo ákafir í að fá viðurkenningu að utan; það er líklega einnig þess vegna sem stjórnmálamenn eru jafn æstir í að hitta erlenda kollega sína og raun ber vitni. Og það er líklega þess vegna sem útlendingar eru jafn miklir aufúsugestir á Bessastöðum og raun ber vitni; ég tala nú ekki um kóngafólk.

Ég las sérblað Times um menningu og listir. Áður hafði ég lesið athyglisverða grein í þessu sama blaði eftir Martin Amis, rithöfund, son Kingsleys sem allt bókmenntafólk þekkir. Martin kom til Íslands í fyrra eða hittiðfyrra á bókmenntahátíð, við höfum fengið marga ágæta rithöfunda á slíkar hátíðir. Þær hafa verið mikilvægar. Martin skrifar skemmtilega um líf sitt og umhverfi og þá ekki sízt föður sinn sem var yfirgengilegt ólíkindatól, en fínn höfundur þegar bezt lætur. Kingsley var mikill vinur eins helzta ljóðskálds Breta á þessari öld, Philips Larkins, en líklega þoldu þeir ekki hvor annan! Hann var orðinn leiður á lífinu, þegar allir vinir hans voru dauðir. Hann skildi við fyrri konu sína og sá alltaf eftir því. Það voru einkennileg tengsl milli þeirra hjóna. Síðustu árin bjó Kingsley í kjallaranum hjá henni, en þá var hún gift öðrum barnsföður sínum. Þetta virðist hafa verið ágæt nýting! Þegar flestir vinir Kingsleys Amis voru dauðir kynntist hann Eric Jacops, sérkennilegum manni og ágætlega skemmtilegum. Þeir Martin lentu upp á kant. Nú er Eric að svara Martin í þessu tölublaði Times. Hann gerir það varfærnislega og kann sitt fag. Kingsley Amis valdi hann að ævisöguritara sínum og fór vel á því. Hann segir að Kingsley Amis hafi ekki verið alltof hrifinn af skáldverkum sonar síns, en látið gott heita. Maður er ekki að agnúast út í vini sína, þótt þeir skrifi ekki eins og maður helzt óskar. Hvað þá afkvæmi! Eric Jacops segir að það hafi alltaf farið í taugarnar á Kingsley Amis að sonur hans skyldi hafa orðið rithöfundur. Hann hefði miklu frekar viljað að hann hefði orðið lífefnafræðingur eða kvikmyndastjóri. Einhverju sinni sagði hann: "Af hverju getur hann aldrei skrifað einfalda setningu eins og "hann lauk úr glasinu, gekk út úr bjórkránni og fór heim""!!

Þetta er skemmtileg grein eftir Eric Jacops. Framhaldið verður á morgun. Ég sé til.

Tvær greinar vöktu sérstaka athygli mína; önnur úr New York Times og fjallar um virkjanir sem Tyrkir eru að reisa með þeim afleiðingum að einhverjar dýrlegustu fornminjar þeirra fara undir vatn. Þær eru í tiltölulega nýfundinni borg sem var hin blómlegasta fyrir 2000 árum og minnir að ýmsu leyti á Pompeij. Í húsunum eru einhverjar fegurstu mósaikmyndir úr goðsögnum Grikkja sem til eru. Fornleifafræðingar vinna baki brotnu við uppgröft og hreinsun, en stjórnvöldum liggur svo á að fá rafmagnið sitt að vel getur farið svo, að gersemar fari undir vatn, áður en fornleifafræðingar hafa lokið störfum sínum.

Það er að sjálfsögðu sanngjarnt að Tyrkir fái rafmagnið sitt, en það gæti orðið of dýru verði keypti. New York Times undrast mjög þetta óðagot og engin furða.

Þetta dæmi gæti verið dálítil lexía fyrir okkur, eða hvað? Og þá ekki síður það sem um getur í annarri grein, en hún fjallar um tilraun indversku skáldkonunnar Arunhati Roy til að vekja á kvikmyndahátíðinni í Cannes athygli á virkjunarframkvæmdum í Mið-Indlandi, þar sem bændur í Narmada-dalnum eru handteknir fyrir að mótmæla fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum þar um slóðir. Skáldkonan heldur því fram að með þessum framkvæmdum verði líf milljóna manna lagt í rúst. Þessi frægi (er annars einhver frægur nú um stundir?) Booker-verðlaunahafi sagði að það væri tímanna tákn að hún hefði verið gagnrýnd fyrir skemmdarverk vegna þessarar afstöðu sinnar. Hún segir að geysimikið af fegursta og frjósamasta héraði Indlands fari í kaf við þessar framkvæmdir.

Sem sagt, þessi merka skáldkona notaði Cannes-hátíðina sem annars er einhvers konar athyglissýning fyrir fræga leikara til að vekja heiminn til umhugsunar um yfirvofandi voðaverk; já frægir leikarar, oftast eru þeir frægir fyrir að leika sjálfa sig.

Roy er þekktust fyrir skáldsögu sína The God of Small Things. Mér finnst það góð saga, en það er nú orðið sjaldgæft að maður rekist á reglulega góða sögu. Þess vegna las ég fagnandi síðustu sögu Thors Vilhjálmssonar um Sturlu Sighvatsson, en hún er sannfærandi smíð, sterkleg og ljóðræn. Gunnar Gunnarsson skrifaði snilldarverk eins og Brimhendu kominn undir sjötugt. Aldurinn skiptir semsagt engu máli, þegar skáld eiga í hlut. Líklega væri heimurinn betri ef náttúran hefði látið okkur fæðast gömul. Þá hefðum við getað elzt afturábak eins og Þórbergur sagði, þegar hann varð hálfáttræður.

Og Barcelona framundan.

 

12. maí, föstudagur

Barcelona - hvað kallar þetta orð fram, þetta kunnuglega orð? Sólarlandaferð? Vasaþjóf?

Nei, ekki endilega.

Þó að gamla hverfið sé við fyrstu sýn heldur skuggalegt að kvöldlagi leynir borgin á sér í gagnsærri birtu Miðjarðarhafsins og undir yfirborði ferðaiðnaðarins eru margar gersemar ef að er gáð.

Hverjar?

Picasso, Miro, Gaudi sem hannaði bæði hús og garð fyrir auðmanninn Güell, vin sinn, en þó einkum handa huldufólkinu. Kirkja Gaudis er enn í smíðum; kirkja Hinnar heilögu fjölskyldu, þar er Gaudi sjálfur grafinn undir væntanlegum kór þessa hálfkaraða snilldarverks. Hann fórst í sporvagnsslysi 1926, hálfáttræður, en kirkjusmíðin hófst 1882. Þá var Gaudi ungur maður og, nei - ekki upprennandi, heldur frægur. Kirkjan hefur þannig verið 118 ár í smíðum.

Þar sem við búum á -hóteli sem heitir eftir þessum frægasta arkitekt Spánverja, Hotel Gaudi, hef ég bundið sérstakt trúss við minningu hans því að hótelið er gott fyrir sinn þriggja stjörnu snúð og engin ástæða til að vera að snobbast í -hóteli í svona hafnarborg. Andspænis hótelinu stendur hallarhús Güells sem Gaudi hannaði fyrir vin sinn og er nú varðveitt safn. Það stendur við Rambla 3-5. Öðruvísi bygging en allar aðrar eins og allt sem Gaudi kom nálægt, eins konar ævintýri úr hulduheimum.

Og svo náttúrlega þessi óviðjafnanlega gersemi, dómkirkja Hins heilaga kross. Á bak við hana er elzta torg borgarinnar sem er 2000 ára gömul. Hún á rætur að rekja til rómverska heimsveldisins og hét áður Barsinó. Rómverjar hafa víða skilið eftir sig spor.

Það var gaman að fara með heldur gömlum leiðsögumanni í Gaudi-garðinn því að hann er - hvað á ég að segja, ekki eins og Þórbergur heldur svo eftirminnileg afsteypa af honum að mér datt í hug að Þórbergur hefði verið klónaður hér í Barsinó; sama hæð, sama höfuðlag, sömu útlínur, sama göngulag; og lágmæltur. En ef þetta hefði verið sjálfur meistarinn hefði hann áreiðanlega ekki talað þau fjögur tungumál sem þessi spænski leiðsögumaður þurfti að hafa á takteinum heldur hefði hann látið sér nægja esperantó sem hann var sannfærður um að yrði einn góðan veðurdag það alþjóðamál sem allir gætu unað við, einnig heimsveldissinnar. Og þá hefði hann gert þær kröfur til ferðamannanna að þeir skildu þennan rökfasta samsetning.

Gaudi-garðurinn er engu líkur; hús úr ævintýrum, gerð úr grjóti og mósaik, híbýli eins og blómavasar; hellar úr grjóti og hlaðnar steinsúlur sem minna á fílsfætur; eða pálmatré; engar beinar línur því Gaudi notar þær helzt ekki. Hann hafði illan bifur á beinum línum eins og Buckminster Fuller sem fann upp kúluhúsið, mig minnir eitt slíkt sé í Hafnarfirði. Það er byggt upp eins og jörðin sjálf og þess vegna þrælsterkt; kúla úr þríhyrningum.

Þegar ísöld leggst yfir norðurhjarann, sagði Buckminster Fuller við mig, þá byggjum við geodesiskt þak yfir Reykjavík og þá verður hún eins og gróðurhús! Og þar verður hlýrra loftslag en í dag! Fólkið sællegt og rjótt eins og tómatar!

Gaudi sótti fyrirmyndir sínar í náttúruna, sagði: Sá sem ætlar að vera frumlegur verður að sækja í frumleikann; náttúruna. Og það eru engar beinar línur í náttúrunni!

Í hálfkaraðri kirkju Hinnar heilögu fjölskyldu upplifði ég Köln á þeim tímum þegar dómkirkjan þar var í smíðum á miðöldum, þýzka töluð allt í kringum okkur og eitt mesta listaverk samtímans í burðarliðnum. Hér eiga milljónir vélmenna framtíðarinnar eftir að undrast andspænis þessu furðuverki. Nú einungis útlínur og nokkurn veginn fullgerð for- og bakhlið, auk turnanna sem eru komnir vel á veg en innan dyra ekkert nema vinnupallar, kranar, efni og verkfæri. Og svo jarðneskar leifar meistarans sjálfs í gólfinu.

Þegar við stóðum í miðju Mirosafninu komu fóstrur með krakkana sína sem öll voru eins klædd í rauðbleikum fötum og tengd saman með grænum reipum og börnin kunnu vel við sig innan um myndir þessa barnslega röksnillings myndlistarinnar; sungu og voru kurteis. Allt við hæfi í þessu musteri hinnar barnslegu listar sem er svo einstæð og persónuleg að hún minnir ekki á neitt nema sjálfa sig. Mest hafði ég þó gaman af myndum úr bronzi og járni, rækilega máluðum í mirólitum. Þessi verk standa úti og njóta sín vel. Teppin inni einnig mjög áleitin innan um öll stórmálverkin sem maður hefur séð ótal sinnum í bókum, sum þeirra a.m.k., og voru því kunnugleg. En mesta listaverk staðarins var ef til vill staðurinn sjálfur; útsýnið. Miro-safnið stendur skáhallt við gamla ólympíuleikvanginn og horfir yfir hæðina, borgin framundan, hafið, himinninn.

Eilífðin.

Allt framundan, hugsanir mannsins, sköpunarverk hans; allt nema maðurinn sjálfur, hann sem öllu þykist ráða liggur annaðhvort í kórgólfinu eða jörðinni; stundum einungis duft í keri, allt - nema það sem er framundan.

Af þeim sökum, ekki sízt, er listin jafnmikilvæg og raun ber vitni.

 

Við horfðum yfir turnspírur dómkirkjunnar, þær gnæfa uppúr götum og húsaþyrpingum og við sjáum yfir þetta leiksvið eins og guð sjálfur, horfum af himnum; enginn bíll, engin mannvera, borgin eins og mauraþúfa og maurarnir ósýnilegir, annaðhvort undir þessum gömlu veðruðu þökum eða að heiman. En það skiptir ekki máli; það eitt er mikilvægt sem augað sér og sagt er að auga guðs sé alltsjáandi. Og það er mikið að sjá í miðborg Barsínó þegar maurarnir eru komnir á stjá undir kvöld og göturnar fyllast af fólki, alls konar fólki, rassstóru fólki, innskeifu fólki, feitu fólki og mjóu, hálsstuttu fólki, fólki sem leiðist og fólki sem kyssist eins og dúfur, fólki sem er svo ljótt að það er yfirtak og fólki sem er svo fallegt að það á hvergi heima nema í hulduhúsum Gaudis; alls ekki í tízkuhúsum fegrunariðnaðarins. Þar eru beinu línurnar sem Gaudi þoldi ekki; uppgerðin; tómið.

Og þarna bak við kirkjuna er elzta torg borgarinnar þar sem Kólumbus stóð að Ameríkuförinni lokinni og sagði Ísabellu drottningu og Ferdinand konungi frá landafundum sínum; hann hefði fundið Indland. Hann hafði komið með fyrstu sex indíánana frá Suður-Ameríku og látið skíra þá í dómkirkjunni sjálfri og honum var fagnað eftir landafundinn, en þó að sjálfsögðu einkum fyrir gullið og silfrið sem var í vændum. Baráttan við márana ynnist ekki án þessara málma. Og þarna á torginu Kólumbus með hýrri há og nokkurn tíma á eftir, en síðan skrikaði honum fótur og dýrðin breyttist í venjulega jarðneska eymd. Nú er vegur hans minni en oft áður og margir sem telja að Kólumbus hafi verið illmenni eða þrælahaldari. Hann á undir högg að sækja en Leifur The Norseman á uppleið, jafnvel vígóður faðir hans, Eiríkur rauði, að sækja í sig veðrið, ef marka má tízkustellingar.

En Kólumbus kvaddi þennan heim án þess að vita nokkurn tíma að hann hefði fundið Ameríku. Hann fór með Indland inn í eilífðina. Það minnir á Lúther sem ætlaði aldrei að verða lútherskur heldur flikka upp á sannfæringu sinnar dýrlegu kaþólsku móðurkirkju.

En hvað þá um safn Picassos í gamla bænum í Barsínó? Það stendur við einhverja eftirminnilegustu götu borgarinnar, en þar hefur mörgum gömlum húsum verið breytt í söfn og þau standa svo sannarlega fyrir sínu, rétt eins og nýja listasafnið í Hafnarhúsinu.

Í Picasso-safninu eru myndir frá öllum tímabilum í list hans, ekki sízt bláa tímabilinu og hinu kúbíska frá 3. áratugnum - eða um sama leyti og Kandinsky var að breyta hefðinni í afstraktnútíma, enda lágu allar þessar breytingar í loftinu og í raun eru ótrúlega margir meistarar að vinna svipaðar myndir, Picasso, Braque, Gris og svo mætti áfram telja.

Eitthvað varð að gera.

Samt voru þetta meistarar sem allt kunnu. Picasso málaði svo meistaralegar myndir um fermingu að margir aðrir sem hafa fengizt við myndlist hafa ekki á gamals aldri náð jafn langt. Þarna eru ekki sízt margar myndir frá því Picasso stundaði nám við listháskólann í Barcelona, en þar bjó hann ásamt fjölskyldu sinni í níu ár, eða eftir að hann hvarf frá Malaga. Þessar myndir sýna að Picasso var ekki einungis meistari í grein sinni, heldur fæddur meistari. Hann var einungis sextán ára þegar hann málaði Vísindi og kærleika. Hvað skyldu margir listamenn hafa málað aðra eins mynd á löngum starfsferli? Áhyggjurnar í andlitum fólksins, kærleikann, vonina persónugerða í lækninum, barnið og nunnuna.

Það voru einungis slíkir snillingar sem gátu umskapað myndlistina. Enginn hefur, að ég held, málað jafn góðar afstraktmyndir og frumkvöðullinn sjálfur, Kandinsky. Afstrakt hans hefur ekki verið slegið út, sumar myndir hans eru þær eftirminnilegustu sem gerðar hafa verið í þessum stíl.

Þessir menn höfðu hefðina í blóðinu. Þeir kunnu allt. Þeir eru eins og píanóleikari sem getur spilað erfiðustu verk Rachmaninoffs nótnalaust. Það eru einungis slíkir menn sem geta umskapað listina; einnig bókmenntirnar.

Og þá ekki sízt ljóðlistina.

Fólk sem kann til fullnustu það sem ætlunin er að breyta.

Eins og Debussy.

 

14. maí, sunnudagur

Mig dreymdi Þórberg í nótt, kannski er það vegna þess hann hefur að öllum líkindum verið klónaður hér í Barcelona. Og þó. Líklega er orsök þessa draums fremur sú að Pétur Pétursson hefur lesið allt Kompaníið fyrir Ríkisútvarpið og mér skilst það verði flutt á þessu afmælisári. Ég hef ekki heyrt upplestur Péturs, en hlakka til þess. Hann er frábær upplesari og það er mikil list í frásögnum hans, eins og ég hef heyrt þær milliliðalaust, af vörum hans. Pétur las séra Árna í útvarp og gerði það með afbrigðum vel. Ég var eiginlega aðalhvatamaður þess að Pétur læsi Kompaníið. Hann kann að meta það. Birna, kona hans, segir það sé vanmetin bók. Það skiptir ekki máli. Það eitt skiptir máli að eitthvað sé sæmilega gert; að eitthvað sé gert eins og náttúran; að eitthvað sé tilraun til fullkomnunar; að eitthvað sé sprottið af fullkomnunaráráttu. En fullkomnun er víst ekki til, ekki einu sinni í náttúrunni. Og þó kannski einna helzt þar.

En hvort sem Þórbergur hefur verið klónaður hér í Barcelona eða ekki, er hann eitthvað að velkjast í huga mínum eftir að ég hitti leiðsögumanninn sem fór með okkur í dómkirkjuna. Og það er svo sem ekkert að því að dreyma Þórberg. Hann trúði á drauma. Trúði á allt yfirnáttúrulegt. Trúði á allt sem er ekki af þessum heimi. Trúði meira að segja á paradís á jörð. Mikil var trú hans! Hann hefði haft gaman af því að fara í ævintýragarðinn sem Gaudi hannaði hér í Barsínó. Og huldufólkshúsin. Hann hefði verið fljótur að upplifa þetta ævintýri.

En sem sagt, nú ætlar Pétur að vera í Kompaníi okkar Þórbergs um stund. Ég efast ekki um það geti orðið bærileg veizla.

Margir listamenn eru eins og hvítir hrafnar. Þeir falla ekki inní þjóðfélagið, ekki alveg. Ef þeir ætla að gera það, verða þeir að bæla ákveðinn þátt síns listræna eðlis. Það gerði Hannes Hafstein og hætti að yrkja, að mestu.

Einn þessara hvítu hrafna var brezki rithöfundurinn Lawrence Durrell. Ég hef haft gaman af að lesa skáldsögur hans héðan frá Miðjarðarhafinu. Þær koma úr annarri átt. Þær eru byggðar á lífi hans sjálfs, ævintýrum hans sjálfs. Hann var einskonar diplómat eða jafnvel njósnari og talinn kynferðisleg alæta. Mér dettur hann í hug vegna þess ég var að lesa í einhverju dagblaðanna að ein af söguhetjum hans, Sabri Takir, hefði verið skotinn á Kýpur í vikunni; hann var kýpurtyrki en þótti ævintýralegur braskari - og hefði tekið sig vel út á kvóta- og verðbréfamarkaðnum hér! Var vinur Durrells sem studdist við persónu hans í einni af skáldsögum sínum. Mér fannst þessi frétt lýsa lífi hans vel. Nú er verið að drepa eina af söguhetjum hans, löngu eftir að hann er sjálfur dauður. Það er svo sem eftir öðru og ætti ekki að koma neinum á óvart sem hefur fylgzt með þessum frjóa og sagnaglaða sídrykkjumanni.

Sabri Takir átti víst sökótt við einhverja krimma eins og í nútímametsölubók. Hann var drepinn á hóteli sem hann átti sjálfur í Lefkosa, helztu borginni á Norður-Kýpur. Hann er persóna í sögunni Bitter Lemons.

Durrell segir að Takir hafi lifað lífinu áreynslulaust. Hann var betur vakandi en flestir aðrir, ekki sízt þegar hann seldi fasteignir! Samt var hann með syfjuleg augu, bætir Durrell við. Sem sagt, austurlenzk og dreymin. Sá - án þess að horfa!

 

Það hefur verið fallegt veður í Barcelona, tunglið siglir fyrir fullum seglum og flikkar upp á borgina eins og hvítu skemmtiferðaskipin í höfninni.

Það er morgunn. Ég sit úti á svölum. Dómkirkjan blasir við í þessu fagra miðjarðarhafsveðri. Stór þota flýgur yfir Ólympíuhæðina og hverfur bak við tré og kastala. Hún er líklega að lenda. En þarna blasir Ólympíuhæðin við, hvíti fjarskiptaturninn við leikvanginn sem rís eins og minnismerki og engu minna listaverk en þessi skúlptúr sem blasir við hér og þar. Stóri glitrandi fiskurinn við höfnina, höggmynd sjálfs Lichtensteins, í skræpóttum popplitum; austur af turninum höllin mikla sem nú er safn - og svo, þarna á milli trjánna, hið hvíta hús Miros.

Ég virði borgina fyrir mér. Hverfin eru byggð upp eins og ferningar, ekki sízt gamla hverfið sem breytist í glaðvært samfélag á daginn og svo Rambla, gatan sem dregur að sér fólk á kvöldin eins og skreið dregur að sér fiskiflugur. Þar er mikið um að vera, samt gerist ekkert og þetta ekkert er ævintýri ferðamanna. Þarna er svart fólk með hvíta samvizku og hvítt fólk með svarta samvizku, fólk af öllum stærðum, gerðum og litum. Fólk í leit að einhverju sem er inni í því sjálfu án þess það viti. Þarna eru stultustrákar að skemmta fólkinu, fínustu brúðuleikhús sem ég hef séð, konur á öllum aldri sem spá í Tarot en þau fjalla aðallega um flækjur og dauða og þarna er karl sem er svo léttur á fæti að hann minnir á Jón Hreggviðsson í sparifötunum. Þarna er öll tízka heimsins saman komin, allt sem hugsazt getur - nema sauðskinnsskórnir og peysufötin. Við erum sem sagt fulltrúar þessarar deyjandi tízku. Hvernig væri að taka hana upp aftur og láta á sér bera?! Einu sinni var það tízka á Eyrarbakka að bretta sokkinn yfir aðra skálmina, nú er sú tízka einnig fyrir bí. En hún var alls ráðandi, þegar Páll Ísólfsson var ungur. Það sem mér finnst skemmtilegast við að ramba um la Rambla eru sýningar fólks sem er eins og myndastyttur, hreyfingarlaust og dregur að sér athygli með þögninni. Það er þó munur! Deplar ekki auga nema einhver láti sjóða í pottinum. Þá þakkar það fyrir með fallegum hreyfingum. Þarna er maður í kofforti með krítarhvítt andlit og ekkert stendur uppúr nema höfuðið. Hann hreyfir sig ekki, deplar ekki auga. Hann dregur að sér athygli allra, margir fleygja til hans smáaurum, en hann hreyfir sig ekki. Það er með ólíkindum hvernig hann komst niður í þetta litla koffort. Konsentrasjón, segja gamlir þýzkir ferðamenn fullir aðdáunar. Aðrir segja eitthvað sem við skiljum ekki. Hér eru töluð öll tungumál sem hægt er að hugsa sér - og það er gott að skilja ekki allt. Í skilningsleysi er hvíld.

Að skilja, hvað er að skilja? Er það ekki í aðra röndina að afsala sér venjubundinni hugsun, gamalgrónu umhverfi? Er það ekki í aðra röndina að uppgötva nýja viðmiðun, nýja heimsmynd? Og afsala sér einum þætti síns hefðbundna eðlis.

Það er góður þurrkur í dag, mundu bændur segja. Og nú er ferðinni heitið til Figueres sem er um 20 kílómetra suður af landamærum Spánar og Frakklands. Þar bjó Dali. Ég man ekki hvort hann var þar, þegar Erró hitti hann. Lýsing á því er, ef ég man rétt, í Erró-bók Aðalsteins Ingólfssonar. Hún er furðuleg. Dali var líka furðulegur. Og Erró er ekki eins og allir aðrir. Guði sé lof fyrir það. Hvítur hrafn.

En í Figueres bíður okkar ævintýraheimur Dalis, safnið sem hann skildi eftir handa eilífðinni.

Kvöldið

Las samtal við Martin Amis í bílnum á leiðinni til Figueres. Það er í Daily Telegraph. Þar hefur einnig birzt útdráttur úr nýútkominni sjálfsævisögu hans, Experience. Bretar eru svo ánægðir með hana að þeir halda vart vatni. Af hverju? Jú, þeir hafa uppgötvað að þessi óstýriláti sonur Kingsleys Amis er mannlegur eftir allt. Loksins! Í samtalinu fjallar Martin Amis um föður sinn af hlýju og raunsæi. Það hafa augsýnilega oft verið átök milli þeirra feðga, nú einungis kærleiksrík minning. Martin Amis er ekki trúaður, en neitar því samt að hann sé trúleysingi. Hann segir: "Það er leið okkar, þegar við deyjum: inní hjarta þeirra sem muna okkur." Þetta er ekki kristin afstaða, ekki endilega. Það er hvorki upprisa né endurlausn að lifa í minningu annarra, þótt það sé ágæt hedónísk lausn - í bili. En ég hef tekið eftir því að margt kristið fólk heima lítur á það eins og eitthvert takmark að hinn látni lifi áfram í minningu vina og vandamanna. En Kristur boðaði annað líf - og meira. Það var fyrirheitið. Markmiðið var ekki að taka sér bólfestu í hjörtum einhverra sem lifa í nokkur ár eða áratugi eftir dauða látins vinar. Þá er haldbetra að skrifa sjálfsævisögu eða láta mála af sér mynd eins og forstjórar og bankastjórar gera, svo andi þeirra svífi eilíflega yfir vötnunum! En þetta eru heldur leiðinleg vötn og koma einlægt upp um fyrirmyndina; t.a.m. kóngafólk, drepleiðinlegt.

Martin Amis talar af skynsemi um hjónabönd (einkamál viðkomandi) og skilnað (skilnaðarbörn eiga erfitt með að losna við þessa reynslu). Hann segist hafa heitið sjálfum sér því að leggja aldrei slíka byrði á börn sín, en hann gat ekki staðið við það. Annar sona hans af fyrra hjónabandi sagði þessa athyglisverðu setningu við föður sinn: "Pabbi, ég ætla að verða rithöfundur. Og ég ætla að skrifa hrollvekjur fyrir börn." Það varð Martin Amis nóg áminning.

Það er skrítið sem Martin Amis segir um föður sinn, þennan sérstæða og óstýriláta höfund borgaralegs umhverfis og brezkrar fyndni, eins og lýst er í Lucky Jim, en þar gerir hann m.a. grín að tengdafólki sínu; sonurinn segir að þessi óforbetranlegi aðdáandi Thatchers hafi verið kommúnisti! Samt var hann kommúnistum alla tíð þyrnir í augum eins og einkavinir hans, ljóðskáldið Philip Larkin (sem hafði áhrif á Fugla og annað fólk) og kremlarfræðingurinn mikli, Robert Conquest, sem hingað kom eins og kallaður í hita kalda stríðsins. Báðir harðir andkommúnistar. Og afstaða Kingsleys Amis í Víetnam-stríðinu var hin sama og Steinbecks; að hann studdi kanann og bar blak af honum af óvenjulegri ákveðni, þykist ég muna, vinstri mönnum til mikillar hrellingar. Martin Amis segir líka að brezka ljóðskáldið James Fenton, vinur föður hans, sé mikill kommúnisti. Hann var í Víetnam á sínum tíma, orti fín kvæði um ferð sína þangað og er eitt bezta ljóðskáld Breta nú um stundir, hvað sem allri pólitík líður. Hann kennir bókmenntir, annað hvort í Cambridge eða Oxford, ég man það ekki. Pamela Brement benti mér á Fenton fyrir margt löngu. "Þú ættir að kynna þér hann," sagði hún þegar við hittumst í Garmisch, "hann er afbragð." Og það er rétt.

Ingólfur hlustaði á tónlistina í bílnum og við vorum í þessu alþjóðlega dægurlagaflóði alla leið frá Figueres til Sitges og þaðan til Barcelona. Þá allt í einu kom ofboðslegt málæði, þulurinn stóð á öndinni. Augljóst hvað um var að vera. Það var verið að lýsa einhverjum knattspyrnuleik. Í hvert sinn sem knattspyrnuleik er lýst - og á hvaða tungumáli sem er - þá er eins og þulirnir séu í einhverju yfirgengilegu kapphlaupi við tímann - eða dauðann. Þótt maður skilji ekki orð veit maður alltaf, hvenær er verið að lýsa knattspyrnuleik. Allt ætlar af göflunum að ganga. Og rétt í sama mund má búast við heimsendi.

 

Þegar við sátum utan við Dali-safnið fór ég að hugsa um það enn einu sinni, að lífið og tilveran eru ráðgáta. Tvær dúfur, önnur stærri en hin, vöppuðu um torgið og hin stærri elti þá minni á röndum, sneri sér stundum í hringi, hneigði höfuð og gerði sig líklega. En kerlingin lét sér fátt um finnast, viðraði sig og spókaði í sólinni rétt eins og við. Ég var farinn að vorkenna karranum og hann hefur áreiðanlega verið farinn að hugsa hið sama og ég, að lífið sé ráðgáta.

Dali sagði að list hans legði gátur fyrir fólk. Og allt er þetta safn ein allsherjar ráðgáta. Efst er kúluhús a la Fuller, byggt upp á þríhyrningum, að sjálfsögðu, en hugsunin er ekki sótt í kenningar Fullers, heldur er fyrirmyndin fíngert netið í auga skordýrs.

Dali sækir fyrirmyndir sínar annað en við, venjulegt fólk. Og hvert þá? Inní hugarheim sjálfs sín, auðvitað; þessa súrrealísku draumaveröld sem á rætur í rotnandi heilabúi hans þarna í grafhýsinu.

Listasafnið er veröld út af fyrir sig. Það er sérhannað fyrir list Dalis þótt grundvöllurinn sé gamalt leikhús sem eyðilagðist í borgarastyrjöldinni. Dali hannaði húsið sjálfur, kom öllu fyrir eins og hann vildi og þannig tókst honum að búa til allskyns hönnunarverk inni í húsinu, sumt svo skrýtið að minnir helzt á hallir Lúðvíks Bæjarakonungs sem var hjálparhella Wagners og ráðgáta út af fyrir sig. Annað úr veröld barnsins. Þarna er t.a.m. rauður sófi en þegar nánar er að gætt og skoðað í gegnum stækkunargler á sjónauka þar efra, eru þetta varirnar á stóru andliti og herbergið heitir eftir May West sem var með hvítt gervihár og kynbombuvarir, ef marka má Dali.

Nú stendur listasafnið fullbúið með rauða útveggi og gult skraut sem minnir að sjálfsögðu á krúsidúllur meistara síns. Í garðinum er regnbíll, auðvitað kádiljákur, einnig bátur á dekkjasúlu og maður sér þetta allt í æ nýju ljósi eftir því sem ofar dregur í húsinu, því að útsýnið úr hverjum glugga er listaverk út af fyrir sig.

Þrátt fyrir snemmborna yfirburði og yndislegar litlar myndir sem Dali málaði kornungur þurfti hann að fikra sig áfram að súrrealísku markmiði sínu, þ.e.a.s. að innsta kjarnanum í sjálfum sér. Ég sé engan Max Ernst á næstu grösum, fremur Pissarró á stórri mynd, Matisse að sjálfsögðu, en Dali glímir við dansmynd hans fræga rétt eins og Picasso á fyrra hluta ævi sinnar. Og báðir dást þeir að átrúnaðargoðinu Velazques öðrum fremur, einkum málverki hans af konungsfjölskyldunni þar sem listamaðurinn sjálfur er ein af persónum myndarinnar. Á einu málverkanna sést Dali sjálfur í spegli þar sem hann er að mála Gölu, konu sína og lífsförunaut, en hún er helzta fyrirmyndin í fjölda verka.

Ef við tökum biblíusögulega (þ.e. smekklausa) líkingu og segjum að hænan sé lífið sjálft, getum við sagt að unginn í einu egginu hafi verið Salvador Dali; og á listasafninu sjáum við hvernig hann brýtur skurnina hægt og sígandi; þessi frelsari myndlistarinnar, þegar allt stefndi í kúbisma og flatarmál. Það er þessi veröld sem varðveitt er í safninu, bæði í málverkum, teikningum, skúlptúr og skartgripum sem ég kann sízt að meta. Það var í þessa veröld sem Flóki sótti silfurþráðinn í list sína, þar á einn þáttur Errós rætur og svo náttúrulega popplistin eins og hún leggur sig, framhaldið af Dali og Híeronymusi Bosch, trúarmálaranum mikla sem var einskonar poppskelfir á miðöldum, samt talinn til meistaranna.

 

15. maí, mánudagur

Montserrat er klettafjall sem rís úr grónum dölunum norður af Barcelona. Hamrar þess eins og myndhöggvari hafi slétt þá og hoggið og hægt að lesa margskonar myndir úr þessu veðraða listaverki náttúrunnar. Fjallið glæfralega bratt. Og þegar upp er komið blasa dalirnir við í öllum áttum, trén hætta að vera tré og breytast í græn pensilför sem þessi sami listamaður hefur leikið sér að gegnum ár og aldir.

Montserrat er vinsælt af fjallgöngumönnum sem æfa sig í snarbröttum hlíðum og ógnlegum hömrum, þverhníptum langleiðina niður á láglendi. Nú hefur malbikaður vegur verið lagður upp fjallið og er hin mesta listasmíð, því að úr fjarlægð að sjá dettur engum í hug að hægt sé að leggja slíkan veg til himins. En það hefur verið gert og ástæðan er einföld. Í efstu hlíðum þessa foldgnáa fjalls og fast að þessum miklu björgum var á öldum áður reist klaustur því að Benedikts-múnkarnir sem stofnuðu klaustrið á 9. öld leituðu þangað undan ágangi veraldarinnar að tigna guð eins nálægt ríki hans og unnt var. Þá höfðu kristnir menn nýrekið mára af höndum sér og ástæða til að taka sig saman í andlitinu og endurnýja kirkju í rústum. Þá komu til sögunnar kraftaverk hinnar heilögu, svörtu guðsmóður, en mynd hennar blasir yfir altarinu og þykir hin mesta gersemi.

Það er með ólíkindum að múnkarnir skyldu hafa haft bolmagn til að reisa klaustur í svo miklum hæðum og raunar kraftaverk hversu haglega öllu er fyrir komið þarna í fjallinu. Það hefur áreiðanlega verið erfitt um aðföng fyrr á tímum og þótt margir pílagrímar hafi komið við í Montserrat má fullyrða að þangað fór enginn ellihrumur, hjartveikur eða haldinn öðrum kvillum, þvílík raun sem það hefur verið að komast að efstu klettunum. Nú liggur þangað vegur í þúsund beygjum og bugðum og snarbratt hyldýpið fyrir neðan og því ógnlegra sem ofar dregur.

Þennan veg fórum við í dag og á leiðinni upp fann ég til lofthræðslu, en var góður á niðurleið. Þá hafði ég vanizt lofthæðinni við klaustrið og því ægifagra útsýni sem þar blasir við í öllum áttum. Þar stendur klaustrið og hallar sér að kirkjunni sem er einhver sú tilkomumesta sem ég hef séð og eru þær þó orðnar æðimargar. En á þessum stað hefur trúarleg auðmýkt meiri áhrif en víðast hvar annars, svo mikið sem múnkar og kristið fólk hefur lagt á sig til að lofa guð við þessar erfiðu aðstæður.

Benedikts-múnkarnir tóku alfarið við staðnum á 11. öld og voru þekktir að því að boða þann sannleika meistara síns, sem kallaður hefur verið Faðir Evrópu, að betra sé að stjórna með elskusemi en ógnarvaldi. Samt hefur klaustrið einatt orðið fyrir barðinu á ógnarvaldi - og þá einkum í styrjöldum, en verst varð það þó úti, þegar hersveitir Napóleons lögðu staðinn nánast í rúst að fyrirskipan þessa korsíska villimanns sem fór eyðandi eldi eða eins og engisprettuplága alls staðar þar sem spor hans lágu í löndum annars fólks.

En ekki skil ég hvaða erindi þessar hersveitir áttu þarna upp á fjallið og við þær erfiðu aðstæður sem raun ber vitni.

En maðurinn kann allar tiltækar djöfullegar kúnstir, ef hann ætlar að eyða og drepa, á sama hátt og hann getur framkallað kraftaverk, ef því er að skipta.

Montserrat-klaustrið er ekkert minna en kraftaverk. Það á að sjálfsögðu rætur að rekja til Maríu guðsmóður, verndara Katalóníu. Hún er þekkt um víða veröld sem slík og tignuð sem hin heilaga guðsmóðir kraftaverkanna; fór með Kólumbusi vestur um haf og er víða þekkt þar um slóðir. Og þá ekki síður í Evrópu þar sem átrúnaður á hana hefur borizt víða um lönd.

Og þá er heilagur Benedikt ekki síður í miklum metum víða og klaustur hans mikils metin fyrir góðvild og hlýju. Þar ríkir ofar hverri kröfu að stjórnað skuli með kærleika, en ekki valdi.

Það er til marks um álit Montserrat að Karl V og Filippus II af Spáni dóu báðir við ljós af kertum sem steypt voru í Montserrat-klaustri. Þá kom Jóhannes páfi 23. í heimsókn þangað, meðan hann stjórnaði heimsveldi kaþólsku kirkjunnar, og vonandi var hann ekki í sömu inniskónum og þegar við hittum hann í Vatikaninu sællar minningar.

 

Það eru nokkur hús eftir Gaudi hér í Barcelona, öll með blæ og yfirbragði meistara síns sem gerði garðinn fræga fyrir Güell. Við skoðuðum hann um daginn. Nú skoðuðum við hús sem Gaudi hannaði fyrir þennan góðvin sinn og stendur hérna á móti hótelinu. Güell var auðugur iðnrekandi og bað Gaudi um að teikna eða hanna handa sér þessa höll. Hún er á mörgum hæðum og ber nafn með rentu; allt í gaudi-stíl og þess vegna er þetta einhvers konar ævintýrahöll. Skrautið er m.a. úr tré og járni, annars er húsið að mestu úr steini og marmara. Á þakinu eru mósaik-strompar, harla skrautlegir og í katalóníu-stíl, þeim er ætlað að stjórna birtu og loftræstingu. Á annarri hæðinni er gat í gólfið, þar gat heimilisfólkið séð hver stóð við útidyrnar; einnig var hægt að henda niður um þetta gat smáölmusu handa betlurum og fátæku fólki. Á þriðju hæð gat Güell iðnrekandi skoðað gesti sem biðu hans á næstu hæð fyrir neðan. Sem sagt, hið fullkomna umhverfi spænsks sægreifa.

Güell-fjölskyldan flýði úr húsinu, þegar borgarastyrjöldin hófst 1936. Þá lögðu stjórnleysingjar húsið undir sig og höfðu þar bækistöð. Þeir skemmdu húsið lítið sem ekkert.

Þessi höll Güell-fjölskyldunnar er dæmigerð fyrir góðborgara sem vilja lifa og hrærast í umhverfi fyrirfólks, einkum aðalsmanna - og hafa efni á því. Við þekkjum þetta að heiman; einhvers konar bessastaðadekur.

 

16. maí, þriðjudagur

Frétti í gær að sr. Heimir Steinsson, þjóðgarðsvörður, sé látinn. Það er mikið áfall því að sr. Heimir var sérstæður maður. Það var sagt á sínum tíma ég hefði átt þátt í því að hann varð útvarpsstjóri, en það er rangt. Ólafur G. Einarsson, þá menntamálaráðherra, sagði mér frá því að hann ætlaði að skipa mikinn menningarmann útvarpsstjóra og það mundi gleðja mig. Ég fékk svo að vita nafnið klukkutíma áður en Ólafur skrifaði undir þessa ákvörðun sína. Þá sat ég niðri á Nausti og var að borða hádegismat með einhverjum vinum mínum. Þá hringdi Ólafur. Honum var mikið niðri fyrir og kvaðst vilja ég vissi nafn hins nýja útvarpsstjóra. Vildi af einhverjum ástæðum að ég frétti þetta frá honum sjálfum, en ekki á skotspónum. Það var fallega hugsað hjá Ólafi, því ég hef alltaf talið útvarpið afarmikilvægt og engin ástæða til að breyta því í einhverjar einkauppákomur, menningarsnauðar, mállausar; ömurlegar. Nóg af þeim, alls staðar suðandi í kringum okkur. Ríkisútvarpið hefur staðið vel í ístaðinu, það er enn mikil menningarstofnun eins og Þjóðleikhúsið, Sinfónían svo að dæmi séu nefnd. Þessar stofnanir á ekki að eyðileggja, heldur rækta. Sr. Heimir gerði sitt bezta, en það kom í ljós, að hann undi sér betur á Þingvöllum. Kunni ekki að meta sjónvarpssuðið sem skyldi. Það var gott fyrir Þingvelli og þangað fór hann aftur reynslunni ríkari. Hann hugsaði stórt. Hann hafði áhuga á skáldskap og orti sjálfur. Það eru kannski engin meðmæli með neinum nú á dögum, en það fór sr. Heimi vel. Hann kunni bragfræði, það er meira en sagt verður um mörg skáld önnur. Þeir sem kunna bragfræði geta gert alls kyns formbyltingar, rétt eins og meistararnir í málaralist eða tónskáld eins og Debussy og Stravinsky, hinir geta ekki gert neinar byltingar því að byltingamenn þurfa að vita, hvað þeir vilja og ekki síður hvað þeir vilja ekki! En nú þykir það víst hvorki fínt né nauðsynlegt að kunna bragfræði. Ég er gamalt atómskáld og margir munu áreiðanlega telja slíkar bollaleggingar merki þess, að formbyltingarskáldið sé farið að upplitast. Það má vel vera. En maður hefur líka leyfi til að þroskast, jafnvel nú á dögum!

Við erum því miður að glata brageyranu. Það var eins og niður hafsins í kuðungi. Það er mikið heimdallareyra og viðkvæmt. Nú heyrum við helzt ekkert fyrir fjölmiðlaskvaldri og útlendingadekri; helzt ekkert sem skiptir sköpum fyrir þjóðareinkenni okkar og þá arfleifð sem okkur hefur verið trúað fyrir. Ef við glötum henni, glötum við sjálfum okkur. En arfleifð og atómskáldskapur geta átt fallega samleið inní framtíðina.

Enn eru þeir að skrifa um Kingsley Amis í Daily Telegraph, svo ég tók blaðið með mér í flugvélina til London. Nú eru þeir að tala við síðari konu hans, Elizabeth Jane Howard, sem er einn helzti kvenrithöfundur Breta um þessar mundir. Martin Amis telur hana jafningja Iris Murdoch í ævisögu sinni. En hún réð ekkert við syni Kingsleys af fyrra hjónabandi, allra sízt Martin sem var óstýrilátur unglingur og las aldrei nokkra bók fyrr en hún tók af skarið, tróð í hann Jane Austin og sendi hann í Oxford. Kingsley sjálfur hafði engan áhuga á þessum sonum sínum og stóð að því er mér sýnist algerlega á sama um það, hvort þeir lærðu eitthvað eða menntuðust. Hann vildi bara fá frið! Hann er víst ekki einn um það. Það eru víst margir sem vilja frið fyrir börnum sínum nú á dögum.

Jane Howard, sem er komin undir áttrætt, segist aldrei hafa kynnzt neinum listamanni sem hafi verið auðvelt að tjónka við; hvað þá búa með. Þeir eru að vísu ekki leiðinlegir, en ævinlega erfiðir; ég held þeir hafi miklu minna kvíðaþol en annað fólk, segir hún. Kingsley leið af alls kyns fælni, hann var hræddur við myrkur, hræddur að vera einn, hræddur í neðanjarðarlestum, hræddur í járnbrautarlestum og flugvélum. Þannig óx hann inn í sína litlu bjórkrárveröld og bjó síðustu árin í sama húsi og fyrri kona hans og maður hennar. Það var eina leiðin til að eignast fjölskyldulíf!

Þegar við vorum á leiðinni frá Barcelona til London með Boeing 767-þotu British Airways, sem er framúrskarandi flugfélag, sá ég að flugstjórinn fór fram og það var opið inn í flugstjórnarklefann þar sem aðstoðarflugmaðurinn sat. Ég leit upp úr blaðinu og fór að hugsa um ég væri í 767-þotu eins og þeir sem hurfu með egypzku farþegaþotunni á leið yfir Atlantshaf í fyrra, en aðdragandi þess var víst sá, að flugstjórinn skrapp fram og skildi aðstoðarflugmanninn einan eftir við stýrið.

Þannig eru það fleiri en Kingsley Amis og hans líkar sem eiga við alls kyns hugaróra að etja, eða hvað eigum við að segja - ofnæmi. En hvað um það, þetta var góð ferð með Frakkland undir vængjum lengst af og loks Lundúnaborg sem á ekki sinn líka eins og allir vita.

Og nú fer þessari ferð að ljúka. Öllum ferðum lýkur en þær eru misjafnlega fróðlegar eða skemmtilegar eða uppbyggjandi eins og lífið sjálft. Það er ekkert eins leiðinlegt og skemmta sér, er haft eftir Halldóri Laxness og ég vil bæta við: það er ekkert eins skemmtilegt og fróðleikur.

Kvöldið

Keypti geisladisk með grískum og latneskum ástarkvæðum og annan með 101 sonnettu eftir 101 skáld á enska tungu. Sonnettan eldist ekki og kvæði fornra góðskálda eru ekki síður nútímaskáldskapur en það bezta sem nú er ort.

En það bezta kemst ekki alltaf til skila, því miður. Froðan flýtur ofan á, hún gutlar í fjörukambinum og dregur að sér athyglina.

 

17. maí, miðvikudagur

Sáum óperu Tchaikovskys Eugene Onegin, í ensku  þjóðaróperunni. Hafði ekki séð hana áður, en fannst tónlistin sterk og falleg og svo náttúrulega rómantísk a la Tchaikovsky. Óperan er gerð eftir frægasta kvæði  Pushkins sem hann orti með hliðsjón af Don Juan Byrons, að ég held. Þetta er mikið sagnakvæði og ekki sízt
merkilegt fyrir þær sakir að örlög Pushkins sjálfs urðu hin sömu og skáldsins Lenskys sem féll fyrir hendi Onegins í einvígi. Ástæðan: ást og afbrýðisemi. Það á ekki
af blessaðri ástinni að ganga. Hún fær aldrei frið fyrir afbrýðiseminni. En svo er guði fyrir að þakka að einvígi eru ekki lengur í tízku og þess vegna eru margir lifandi nú sem annars væru dauðir.

Gremin prins syngur óviðjafnanlega aríu um ástina í  næstsíðasta þætti. Ég sagði einhvern tíma í greinarkorni frá Ameríku, af fullkomnu ábyrgðarleysi auð-
vitað, að mér fyndist sumt í tónlist Tchaikovskys benda fram til söngleikja nú á dögum; minna stundum  á það bezta í þeim. Fyrrnefnd aría vakti með mér svip-
aðar hugrenningar og minni ég á það aftur, án ábyrgðar að sjálfsögðu. Meiri óperusérfræðingar en ég  mundu áreiðanlega fúlsa við slíkri einföldun. En það
skiptir mig engu máli. Mín viðbrögð eru fyrir mig, en ekki aðra. En hitt er nokkurn veginn víst að kjarnanum í þessu meistaraverki Tchaikovskys mætti vel lýsa
með línu úr Endymion Keats, annarri bók: Kossinn er hunangsdögg frá liðnum dögum. Keats segir að vísu  gröfnum dögum, en það er ótækt á íslenzku.

Pushkin orti kvæði 1826 sem ég þekkti ekki áður, það heitir Játning. Það er einhvern veginn svona:

 

Ég elska þig – þó að það ýfi skap mitt,

þó það sé erfitt og skammarlega tilgangslaust;

ég legg þessa vonlausu heimsku

að fótum þér!

Það fer mér illa og ég er of gamall!

Það er kominn tími til ég nái áttum!

Samt viðurkenni ég öll einkenni

þessa veiklyndis í sál minni:

án þín leiðist mér – ég geispa;

með þér er ég leiður – en þoli það:

það óþolanlega!

Það sem ég er að reyna að segja

ástin mín er... ég elska þig!

Þegar ég heyri þitt létta fótatak

á leið úr setustofunni, eða skrjáfið

í kjólnum þínum

eða þína saklausu stúlkurödd,

verð ég allt í einu eins og einfeldningur.

Þú brosir – það er mér gleði;

þú snýrð þér frá mér – það er mér sorg;

þín föla hönd er mér uppbót

fyrir heilan dag af þjáningu.

Þegar þú situr með hálfan huga

yfir útsauminum,

horfir niður og hárið bylgjast,

þá horfi ég á þig, ánægður og þögull,

blíðlega eins og barn!

Ætti ég að segja þér frá óhamingju minni,

minni afbrýðisömu sorg,

jafnvel stundum þegar þú ferð í langa göngu

í vondu veðri – alein?

Og tárin þín í einverunni

og tal þitt í horninu

og ferðirnar til Opochka

og píanóið á kvöldin?

Alina! Aumkaðu mig.

Kannski er ég ekki verðugur

ástar þinnar vegna synda minna.

En reyndu að látast! Tillit þitt

getur verið svo yndislegt!

Æ, það er ekki erfitt að blekkja mig!

Ég vil láta blekkjast!

 

Þetta er hrá endursögn, mælt af munni fram og þýdd úr enska prógramminu sem við keyptum á sýningunni. Það er margt merkilegt um Pushkin sem upplifði örlög sín í þessu mikla sagnakvæði, Onegin.

 

 

18. maí, fimmtudagur

Í dag var haglél í London. Það gekk á með ausandi rigningu, þrumum og eldingum.
Göturnar urðu líflegra fljót en þau sem við höfum séð fram að þessu; öll fljót í Evrópu
eru svo menguð að þau hníga varla; jafnvel stórfljót eins og Gvadalkívír þar sem það rennur í gegnum Granada. Það er skárra í Sevilla.

Það er gott að venja sig við troðninginn í neðanjarðarlestunum. Þannig verður það líklega þegar maður fer yfirum. Þá verður einn stiginn upp og annar niður, enginn þekkir annan og einn treðst á  öðrum. Þetta er góð æfing fyrir framhaldslífið, að hlaupa undan rigningunni í London og bíða eftir neðanjarðarlestum.

Í göngunum er allt fullt af plakötum og auglýsingum. Þar eru margar auglýsingar frá flugfélaginu go og Lundúnabúar hvattir til að fara til Reykjavíkur, nú sé það hægt vegna lágra fargjalda. Sem sagt, Reykjavík er komin á kortið. Og hverjum skyldi það
vera að þakka. Ætli það sé ekki  einna helzt ungu konunni sem nú er í Nizza að bíða eftir úrskurði sem fellur á sunnudag um mynd sem hún lék í fyrir danska kvik-
myndastjórann von Trier; Björk, auðvitað. Hún kom Íslandi á blað um allan heim. Trier segir hún sé engin leikkona, hún upplifi öll atriði með tilfinningunum. En hvað
er að því? Eru ekki tilfinningarnar grundvöllur allrar góðrar listar? Hann segir hún sé barn.
Hvað er á móti því að vera barn? Sá listamaður sem hefur ekki varðveitt sitt barnslega eðli er eins og fíll í postulínsverzlun. The Times segir að þau von Trier og Björk talist ekki við lengur. Ennfremur að Björk hafi gert Trier svo reiðan að hann hafi mölbrotið tvö sjónvarpstæki, en Björk hafi í uppnáminu étið kjólinn sinn! Eitthvað gengur nú
á þarna í Nizza. Eða kannski  bara í fjölmiðlunum!

Björk lék í leikritinu Glerbrot sem Kristín Jóhannesdóttir gerði uppúr Fjaðrafoki sem ég skrifaði á sínum tíma, þá við litlar vinsældir menningarvitanna. Aðrir tóku því vel. Björk lék sitt hlutverk með tilfinningunum og mér  hugnaðist það vel. Ég veit ekki
betur en Glerbrot hafi spjarað  sig ágætlega í sjónvarpinu, það var m.a. sýnt í Finnlandi, áfallalaust. Enginn braut sjónvarpstækin sín svo að sögur fari af
og enginn át utan af sér fötin, sem betur fer!

En allt er þetta leikur að markaði; leikur að athygli. Leikur að frægð. En mér skilst á
ungu fólki að Björk hafi rótfest sig á markaðnum vegna vinsælda. Hún geti notað frægð sína eins og henni hentar og vonandi gerir hún það með þeim hætti, að
hún eldist vel og verði hamingjusöm gömul kona eins og Hallbjörg. Frægðin kallar stundum  fram í lélegum karakterum það versta í eðli þeirra, en ég spái því
að hún eigi eftir að kalla fram í Björk það bezta sem hún á; barnið. Ekta tilfinningar eru bezta veganesti sem nokkur listamaður á í fórum sínum.

 

Fórum á Tate-nýlistasafnið milli skúranna. Það var mikið ævintýri og einskonar punktur yfir i-ið í þessari ferð. Bretar hafa breytt gömlu orkuveri við Thames í eitt fullkomnasta nýlistasafn heims. Það er ævintýri líkast að koma þar við. Frakkarnir breyttu járnbrautarstöð í listasafn og einhver Frakklandsforsetinn beitti sér fyrir því,
að sláturhúsi var breytt í tæknilistasafn. Þar eru stórar myndir eftir Erró sem hann sýndi okkur á sínum tíma, frábærar myndir og taka sig vel út í þessu safni. En í Tate fór ég að hugsa um það hvers vegna Íslendingar nýta ekki betur myndlistarmenn sína;
trúa þeim fyrir mikilvægum verkefnum til að flikka upp á umhverfið. Við eigum ekki önnur  verðmæti meiri en kraftmikla listamenn. Nú ætlum við að byggja tónlistarhús fyrir músíkantana og hefði mátt gera fyrir löngu. Og því þá ekki að eignast stórvirki á almannafæri eftir þá listamenn okkar sem ráða við slík verkefni? Af hverju þarf Erró að vera að gleðja Frakka endalaust? Hvers vegna eru honum ekki fengin verkefni hér heima? Og öðrum listamönnum íslenzkum, ekki sízt þeim sem erlendis búa –
og hafa náð sannfærandi árangri með verkum sínum.

Um allt þetta hlýtur maður að hugsa þegar gengið er um annað eins musteri og Nýlistasafn Tates við Thames. Húsið er upplögð umgjörð um nýlistina, því þetta
gamla orkuver er sjálft orðið einhvers konar nýlistarverk. Þegar maður stendur við gluggana og horfir yfir Thames blasir við einhver tilkomumesta sjón sem ég
hef séð úr safnhúsi, sannkallaður nýlistaleikur við náttúruna. Bandaríski málarinn Pollock, sem á þarna stórt og mikið verk (og  kallar Kristján Davíðsson fram í hugann), sagði á sínum tíma: Ég er náttúran. Samt sér enginn neina náttúru sem fyrirmynd í verkum hans. Þýzki listamaðurinn Beuys, sem á þarna heilan sal
(en hann var einn af stofnendum  Græningja í Þýzkalandi), sagði: Allir eru listamenn!

Bæði súrrealistarnir og nýraunsæisskólinn drógu ályktanir af náttúrunni, þótt þess sjáist ekki endilega mikil merki, en hugmyndafræðin er náttúrulega sú, að maðurinn sé hluti af umhverfi sínu.

Þarna var örtröð af fólki og þeir sem telja að nútíminn sé ekki listvænn, ef svo mætti
segja, þekkja ekki þennan sama nútíma; öll leikhús viðstöðulaust full hér í London, allar bókabúðir troðfullar af fólki sem er að lesa og kaupa bækur,
einnig hljóðbækur. Mér er til efs það hafi nokkurn tíma verið jafn margt fólk í bókabúðum og maður sér í þessum fínu bókaverzlunum hér í London, en
þær eiga vart sinn líka.

Á þessari nýlistarsýningu kennir auðvitað margra grasa og ástæðulaust að velta fyrir sér hverju einasta strái. Sum munu líka sölna fyrr en varir, önnur munu lifa eitthvað áfram – og þá helzt fyrir forvitni sakir – enn önnur eiga eftir að verða partur af
heimslistinni. Hér eru allir þessir karlar samankomnir sem við höfum séð í söfnum annars staðar, frumherjinn Matisse, sem allir  virðast hafa lært eitthvað af, enda einskonar vegvísir á sínum tíma, hér eru myndir eftir Dali og Picasso, þ.á m. Dansararnir þrír, en þó einkum Konan grátandi frá 1937, skírskotandi mynd
í harmleik borgarastyrjaldarinnar á Spáni; hér eru Cézanne, Derain af einhverjum ástæðum og auðvitað Braque, Max Ernst, og ég var víst búinn að nefna
Dali, en eftir hann er mjög sérkennileg mynd af síma; humar virðist vera símtólið, en hann var víst einskonar kyntákn í myndum Dalis; hér eru höggmyndir eftir
Giacometti, sem Sartre hafði mikið dálæti á vegna þess að fígúrur hans sýndu ömurleika mannsins, málverk eftir Kandinsky að sjálfsögðu og Lichtenstein,
Léger, sem Gunnlaugur Scheving hafði mætur á, Magritte, Miro, Modigliani og Mondrian, Moore og Munch, Warhol (Monroe-myndin, sem mörgum finnst sniðug) og svo allir þessir nýlistarmenn sem maður þekkir ekki og hefur raunar aldrei heyrt getið.
Hér eru skemmtilegar myndir og leiðinlegar, jafnvel drepleiðinlegar, frumlegar myndir og aðrar sem eru svo ófrumlegar að maður spyr sjálfan sig, hvers vegna
maður eigi enga mynd á þessari yfirgripsmiklu sýningu! Hér eru
sjónvarpshönnunarmyndir, kannski listaverk út af fyrir sig, ég veit það ekki, en að minnsta kosti vitnisburður um samtímann, alls kyns ljósmyndir, myndir úr margvíslegu efni, grjóti, járni og hvað eina. Hér er mynd eftir Duchamp, m.a. Berrassaða brúðurin frá 1915–23, og í miðju glerinu þríhyrningar, en á þá safnaði listamaðurinn rykinu í New York. Á einum þríhyrning er ryk eftir tvo mánuði, á öðrum ryk eftir fjóra mánuði og að lokum er ryk eftir tvö ár, eða jafn langan tíma og hann var með myndina í smíðum.

 

Ég hafði ekki sízt gaman af vatnaliljumynd eftir Monet á sýningunni í nýlistasafninu í London, en Erró sýndi okkur safn hans í París, ógleymanlegt. Og þarna er nektarmynd eftir Bonnard, ófögur finnst mér, en sérstakt herbergi fjallar einungis um nakið fólk. Svo eru auðvitað kvikmyndir eins og í nýlistasafninu í Madrid, sumar klúrar. Þegar við gengum um herbergi Francis Bacon heyrði ég að karl fyrir aftan mig sagði við konu sína: It’s sick! Þrjár myndanna af einhvers konar skrímslum, en aðrar þrjár af
andlitslausum körlum sem boruðu sig inní huga minn eins og martröð – og mátti ekki á milli sjá hver var mesta skrímslið.

Enn gæti ég nefnt fræg nöfn og ófræg og áhrif af einstökum myndum, en hver hefur áhuga á því? Sjálfur hafði ég mestan áhuga á heildaráhrifunum; safninu sjálfu; safninu sem umbúðum utan um þessa óvæntu uppákomu; safninu sem umhverfi hugsana og hugmynda; umhverfi fólks sem sér alltaf eitthvað nýtt með sínum gömlu augum; fólks sem er að reyna að feta okkur inn í nýjan sannleika, nýjan veruleika – en við erum misjafnlega móttækileg og sumt fer fyrir ofan garð og neðan. Við skiljum ekki og þegar við skiljum ekki fer það í taugarnar á okkur, en það breytir engu. Við höldum áfram að skilja ekki! En  skilningsleysið veldur engu uppnámi eins og í gamla daga, það fer bara fyrir ofan garð og neðan – og búinn heilagur! Í gamla daga bjuggum við um skeið í Oberammergau, Bæjern. Þegar við fórum til München þurftum við að
skipta um lest í Murnau. Þar höfðu Kandinsky og félagar hans búið á sínum tíma. Þess vegna leyfði ég mér að segja í Lesbókargrein að heimslistin hefði skipt
um lest í Murnau. Það var nokkuð til í því.

Margir sem fylgdust með þessum umskiptum urðu sárir, reiðir, hneykslaðir. Nú er fólk  bara forvitið, hefur sínar skoðanir, en fylgist með. Nú er lestarstöðin ekki lengur í Murnau. Nú er hún ekki sízt í nýlistasafninu í London. Það hefur stækkað borgina. Það hefur gert hana hnýsilegri.

London væri einnar messu  virði, þótt ekkert væri hér annað en þetta nýja safn.

Kvöldið

Talaði við Þorstein Pálsson, sendiherra. Það var gott samtal eins og ævinlega. Sagði honum frá því við hefðum farið að sjá Onegin. Hann minnti mig á að Kristinn Sigmundsson hefði sungið hlutverk sitt í þessari óperu í Ástralíu og hitt konu þar
syðra sem hélt verkið héti Einn gin! Við töluðum um auglýsingarnar frá go. Þorsteinn segir það hafi aldrei verið talað eins mikið um Ísland í Bretlandi og nú, ekki
einu sinni í þorskastríðunum. Ég varð undrandi, spurði hvers vegna. Hafði upplifað þorskastríðin í Bretlandi sem blaðamaður og þá var Ísland í tízku sem einhvers konar vandræðabarn. Þá átti ég samtal við Hare, sjávarútvegsráðherra Breta, um þorsk-
astríðið. Það var birt fimm dálka á forsíðu Morgunblaðsins. Chanter vinur minn, þá aðalsérfræðingur Daily Telegraph í Íslandsmálum, frétti af samtalinu og sagði þeir á Daily Telegraph vildu kaupa það til birtingar. Ég sagði honum það væri ekki hægt,
ég hefði skrifað samtalið fyrir Morgunblaðið og þar mundi það birtast. Annað væri svik, bæði við blaðið og ráðherrann. Þeir féllust á það en við Chanter fórum á
krána í Fleet-street, þá sem dr. Johnson stundaði sem ákafast, og fórum ekki fyrr en við vorum a.m.k. orðnir jafn góðglaðir og þeir Boswell.

Þorsteinn Pálsson sagði að á því væri enginn vafi að Björk væri undirrót þess, hvað Ísland væri mikið á dagskrá í Bretlandi, en þar kæmi margt fleira til, Ísland væri einfaldlega í tízku. Og nú er það ekki í tízku sem vandræðabarn, heldur ævintýralandið mikla, landið sem er öðruvísi; jöklalandið, eldgosalandið; land
skemmtilegrar borgar, Reykjavíkur, þar sem næturlífið virkar eins og segull á ungt fólk; hvalaskoðunarlandið, ekki sízt.

Ég sagði Þorsteini frá heimsókn okkar í Tate-nýlistasafnið og heyrði á honum að hann er á leiðinni þangað, þegar tími gefst. Áður en við kvöddumst hétum við á okkur að skreppa á pöbb, en það verður að bíða betri tíma. Og þá verð ég líklega að drekka bjór
fyrir okkur báða, því að Þorsteinn hefur alltaf verið heldur slakur í þeim efnum. En hann er því betri á öðrum sviðum.

Ég get ekki hætt að hugsa um mynd hins þýzka frumkvöðuls súrrelalismans, Max Ernst (1891–1976), sem heitir Næturbylting og var eins og einhvers konar hugmyndafræðileg yfirlýsing á sínum tíma: Hann er sjálfur sofandi í fangi föður síns. Hann er sjálfur eins og marmari með ósjáandi augu, samt hefur myndlistin verið kölluð tungumál augans, faðir hans í brúnum lit eins og veggurinn að baki, hendurnar gegnsæjar. Á veggnum útlínur skáldgagnrýnandans Apollinaire, en samt eins og hann sé að ganga niður stigann.

Og hvernig á svo að skilja þetta, á hvaða viðbrögð er listamaðurinn að kalla? Hver veit það – enginn nema hann sjálfur. Og nú er hann löngu dauður. Og enginn til frásagnar um merkingu  þessara hugaróra.

En það var eins og Dali sagði: Myndirnar mínar eru gáta; ráðgáta.

Svarið fer auðvitað eftir hverjum einum. Minnir á náttúruna sjálfa og ævintýri hennar. Skiljum við hana? Skiljum við fuglasöng, skiljum við súluna þegar hún steypir sér í hafið eins og eldflaug? Skiljum við sálarlíf Bacons? Nei, en við horfum. Og
reynum að skilja og erum forvitin, það skiptir mestu máli. En mér er til efs veröldin eigi nokkurn tímann eftir að verða eins og Beuys sá hana fyrir sér: Eitt allsherjar listaverk!

Náttúran er slíkt listaverk, að vísu, nei, hún er miklu meira: hún er kraftaverk. Og ef einhver er í vafa um, hver gerði þetta kraftaverk,  ætti hann að leita til Jónasar Hallgrímssonar; hann var aldrei í neinum vafa um hver væri höfundur sköpunarverksins.

Ódagsett

Eftir að við komum heim hef ég haft í mörgu að snúast. Fyrst þurfti ég að lesa upp í Þjóðmenningarhúsinu við opnun ljóðlistarsýningar Listahátíðar. Ég las ásamt skáldunum Þorsteini frá Hamri og Vilborgu Dagbjartsdóttur. Það gekk vel. Þetta var að mig minnir laugardaginn 20. maí. Það var merkilegt að koma í þetta hús, nýuppgert. Þarna las ég oft undir próf. Þá ríkti þögn í salnum. Nú var dálítill kliður. Hann fylgir mannamótum. En ljóðið er á vissan hátt þögn og þess vegna var salurinn góð umgjörð um þessa uppákomu. Sveinn Einarsson stjórnaði samkomunni. Ég hafði gaman af því  að hann minntist kvöldsins, þegar ég las upp á bókmenntahátíðinni í Toronto. "Matthías  stal senunni," sagði hann. Ég fór að hugsa um þetta kvöld í Toranto. Það var rétt, það var mikil eldraun að standa sig. Ég las á íslenzku, Joe Allard las þýðingar sínar á ensku. Það var svo góð stemning í salnum, að ég las einnig á ensku, það féll í góðan jarðveg. Þarna voru ekki sízt konur á öllum aldri, þær eru beztu áheyrendur sem ég get hugsað mér, betri en karlarnir.

Ég las líka í Háskólanum fimmtudagskvöldið 25. maí á opnun hátíðar Háskólans í tilefni af því að Reykjavík er menningarborg. Þar var fullur salur eins og getið er um í frétt Morgunblaðsins og ágætis áheyrendur.

Ég minntist þess þarna í salnum að þar voru í fyrsta skipti lesin ljóð eftir mig. Það var á bókmenntakynningu þar sem Sigurður A. Magnússon flutti erindi um atómskáldskap og Kristbjörg Kjeld las ljóðin. Ég man ekki hve mörg ljóð voru valin eftir mig en þau voru a.m.k. tvö ef ekki fleiri. Borgin hló hafði ekki komið út, þegar þessi kynning fór fram, en ljóðin sem lesin voru birtust síðar í bókinni. Ég man eftir því að Kristbjörg las kvæðin Dauði og Ást - og líklega einhver fleiri.  En þetta var eftirminnileg stund fyrir upprennandi skáldspíru - og það voru ekki allir sammála um að hún ætti heima bókarlaus, á þessari samkomu!

En nú var klukkutíma dagskrá og sá ég um hálftíma, ásamt Ástráði Eysteinssyni, prófessor í bókmenntafræði, en hann spurði mig um ljóð mín, einkum borgarljóðin. Skýrði sum þeirra, bað mig segja frá þeim og lesa. Allt fór þetta vel fram. Margrét Björnsdóttir, formaður nefndarinnar sem sá um hátíðina, sagði ekkert við mig að athöfninni lokinni, en skrifaði Styrmi svofelldan tölvupóst:  "Matthías var afburða - hann töfraði salinn, rúmlega 200 manns. Samkoman þótti einstök og allir!!! höfðu á orði að það væri hans verk.

Menn þökkuðu fyrir að þessi Richard Sennett hefði forfallast... þetta skaltu segja honum frá mér á morgun."

Ég fékk þessi ágætu skilaboð og þótti að sjálfsögðu vænt um þau. Magnús Baldursson tók í sama streng um kvöldið. Hann var einnig einhvers konar verkefnisstjóri. Ástráður Eysteinsson, sem stóð sig eins og hetja, hafði orð á því, hvað sér hefði þótt gaman! Þarna talaði Ingibjörg Sólrún Gíslasdóttir, borgarstjóri, í lokin. Hún vitnaði þrisvar sinnum í mig í ræðu sinni og þ. á m. lauk hún henni með tilvitnun í ljóð sem Ástráður fór með og sagðist vona að borgin fengi að vera ófjötruð, eða "eins og segir í ljóði Matthíasar:

 

Hún er tré,

sem hefur losnað

við gamlar rætur

og svífur eftir götunni

með lauf

niður á herðar."

 

Ævar Kjartansson frá útvarpinu var leiður yfir því að ljóðlistarþátturinn skyldi ekki hafa verið tekinn upp, en Þröstur Helgason á Morgunblaðinu á hann víst á segulbandi og hyggst fjalla eitthvað frekar um hann. Bæði rektor, Páll Skúlason, og Ingibjörg Sólrún, sögðust hafa orðið skáld þann hálftíma sem ljóðadagskráin stóð yfir.

Að dagskránni lokinni hitti ég margt fólk, afar þakklátt og vingjarnlegt. Ég talaði m.a. við Sigurð Guðmundsson landlækni sem nefndi útför Steingríms St. Sigurðssonar frænda síns. Hann sagði m.a.: "Dauði Steingríms kom engum jafnmikið á óvart og honum sjálfum!!"

Hann sagði að Steingrímur hefði lofað veglegri veizlu, þegar hann yrði 75 ára " - og hann stóð við það," sagði Sigurður, "því að erfidrykkjan fór fram þennan sama dag."

Þá hef ég séð að Vaka-Helgafell hefur fengið 400 þúsund króna styrk úr stjórn Menningarsjóðs til að gefa út ljóðasafn mitt. Þeir hafa ekkert talað við mig um þetta og veit ég raunar lítið sem ekkert, hvað þeir hyggjast fyrir en við sjáum til. Mér hefur einnig verið bent á að í frétt frá Bókasafnssjóði höfunda sem fjallar um útlán bóka fyrir árið 1999, frá almenningsbókasöfnum, Landsbókasafni Íslands, Háskólabókasafni, skólabókasöfnum og bókasöfnum á stofnunum, hafi Árstíðarferð um innri mann verið í efsta sæti ljóðabóka hvað útlán snerti, en í öðru sæti Er nokkur í Kórónafötum hér inni? eftir Einar Má Guðmundsson og í  þriðja sæti voru Ljóðmæli 1978-1998 eftir Hallgrím Helgason. Í fjórða sæti var svo kvæðabók Hannesar Péturssonar, þá Þorpið eftir Jón úr Vör. Ljóðasafn eftir Jóhannes úr Kötlum í sjötta sæti og í sjöunda sæti bók Þórarins Eldjárns, Kvæði. Sjón og Gyrðir Elíasson reka svo lestina í níunda og tíunda sæti.

Mér þótti vænt um hvað Árstíðarferðin spjarar sig vel þarna í söfnunum og sé að það eru aðrir sem kaupa bækur um jólin en þeir sem lesa þær. Enginn tekur bók á söfnum án þess vilja lesa hana, en margir kaupa bækur til gjafa og lesa þær aldrei.

Samtímabókmenntir snúast að mesu um hasar, en þó einkum um hnýsni. Fjölmiðlalesendur eru þannig einhvers konar hnýslar.

Áhugi brezku blaðanna á Martin Amis snýst ekki um skáldskap hans, heldur einkahagi þeirra feðga.

Bókaáhugi á Íslandi snýst einnig einkum um hnýsni, síður um bókmenntir sem slíkar.  Það sem er ekki hnýsilegt selst ekki. Lesandinn er oftast hnýsill, ekki fagurkeri. Svo líður tíminn og fólkiið sem lifir í hnýsni um annarra hagi hverfur af sjónarhólnum, flestir gleymast, en þá snýst þetta við; það eitt lifir af uppgjör tímans sem vel er gert, ekki endilega það sem er hnýsilegt, heldur listavel gert. Þannig lifir Lucky Jim eftir Kingsley Amis þegar allt annað í einkalífi þeirra feðga er gleymt og grafið og Kingsley Amis fær að lifa óáreittur í list sinni; ekki blöðunum, eða blaðri og kjaftagangi eingöngu, ekki einu sinni í ævisögu Martins, Experience; ekki í hversdagslegu bardúsi sem minnkar skáldið, heldur því sem stækkar það; listrænum afrekum sem vígtennur tímans vinna ekki á.

Um þetta allt var ég að hugsa úti í London og hvað Ísland er ósköp langt í burtu eins og það er samt nálægt. Einnig það sem Fenton hefur eftir Auden - en ég las grein sem  Fenton skrifaði um þennan fræga skáldbróður sinn - þar segir hann: List sprettur af auðmýkt, sagði Auden ungur. Tölvumenni hnýsninnar eiga aftur á móti ekki til neina auðmýkt.

Í tengslum við þessar hugleiðingar mætti nefna það sem ég las eftir Matthías Viðar Sæmundsson og fékk í hendur þegar ég kom heim, Gagnrýni, verðlaun og markaður, en þar segir hann m.a.: "Bókmenntaverðlaun eru hluti af margumræddri Bókmennta Vél og hljóta að metast samkvæmt því. Þau eru ysta lag annars leiks sem er öllu mikilvægari, leiks stöðugrar sköpunar sem ber í sér eigin umbun eða refsingu. Verðlaunaveitingar eru hvorki merkilegri né ómerkilegri en önnur gagnrýni, ein mælistika af mörgum á verðmæti, en séu þær teknar of hátíðlega þá er illt í efni. Leikur bókmenntanna verður að ValdaLeik, baráttu um stöðu innan trénaðs menningarheims. Skáldskapurinn verður við slíkar aðstæður að áhrifalausri orðræðu sem á sér það eitt markmið að viðhalda sjálfri sér, sinni marklausu frægð sem tíminn étur upp jafnóðum og salirnir tæmast, þegar allar mannlegar vélar þagna og DauðaVélin tekur við." Og í lokin vitnar hann í rithöfundinn Céline sem sagði í samtali: "Ég get ekki sagst elska það (lífið), nei - nei, ekki aldeilis... Ég umber það af því ég tóri og hef skyldum að gegna. Annars er ég nokkuð hallur undir bölsýna liðið. Mér er sagt ég verði að vænta einhvers  en ég vænti ekki neins. Ég vonast bara til að deyja eins sársaukalítið og unnt er, eins og allir aðrir. Það er allt og sumt, að enginn þjáist fyrir mig, mín vegna, að geispa golunni á friðsælan hátt, atarna óekkí? Að drepast sé þess kostur úr sýkingu eða, jæja, kannski ég káli mér sjálfum. Það mundi vera lang einfaldast því þetta sem í vændum er er vont og það versnar. Mér gengur verr að vinna núna en í fyrra og næsta ár verður enn verra. Það er vont og það versnar, það er allt og sumt."!!

Þó að ég sé lítið fyrir markaðinn, þá er ég ekki svona slæmur!

En ég hef fulla samúð með þessari afstöðu, hvað sem öðru líður. Mér finnst aftur á móti alveg fáránlegur leiðari Jónasar Kristjánssonar um Halldór Laxness og Björk þegar hún fékk Gullpálmann í Cannes. Hann skrifar fjálglega um "þjóðargersemar" og finnur engar á þessari öld nema Halldór og Björk! Hann notar tækifærið og ræðst á þá sem búa við gervifrægð í tímaritum með myndum "af borubröttu skammtímafólki", sem er frægt fyrir það eitt að vera frægt en hefur aldrei gert neitt, sem máli skiptir. "Það fer með rulluna sína og síðan er því skipt út fyrir næsta gervimann". Það má oft til sanns vegar færa, að vísu. "Þetta fólk vill vita, hvað markaðurinn segir hverju sinni, og hagar sér í samræmi við hann. Það hefur ekki innri rödd til að hlusta á og hefur ekki þrauseigju og úthald til að ná árangri á neinu sviði". Sjálfsagt einnig eitthvað til í því. En hitt er rangt að Halldór Laxness hafi verið einhver sérvitringur sem gekk sinn grýtta og langa veg inn í þjóðarsálina. Hann var einfaldlega skáld og hafði trú á skáldskap og verki sínu. Við vitum að hann sagði að sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni. Það var ekki sérvitringur sem sagði þessi orð, heldur skáld. Það er einnig rangt hjá Jónasi að hann hafi verið talinn "snyrtilegur umrenningur". Halldór var aldrei talinn umrenningur. Menn deildu um hann og verk hans, síðan fékk hann nóbelsverðlaun og fólk hætti að deila um hann.  "Við þurftum tæpast meira en tvær þjóðargersemar á hverri öld til að geta fullyrt, að þjóðin hafi þrátt fyrir annmarka sína gengið til góðs götuna fram eftir veg"!!!

Jónas Kristjánsson virðist þannig leggja allt upp úr því að einhverjir fái viðurkenningar erlendis, en ekki hinu, hvort verk þeirra eru  mikilvæg sem íslenzkur menningararfur. Halldór Laxness og Björk eiga það auðvitað skilið  að vera nefnd með þessum hætti vegna  frama á alþjóða vettvangi, en  það er einföldun að þau séu einu þjóðargersemar okkar. Svo er guði fyrir að þakka að við eigum margar þjóðargersemar, Kjarval,Ásmund, Svavar, Sigurjón Scheving, Stein, Gunnar,Tómas og mörg skáld önnur, Pál Ísólfsson, Jón Leifs og marga fleiri tónlistarmenn sem geta gegnt mikilvægu hlutverki án þess alþjóðasamfélagið komi þar við sögu. Erro er góður á sínum stað þótt hann hafi kannski ekki fengið neinn Gullpálma. Við stöndum áreiðanlega í þakkarskuld við þau afrek sem hann hefur unnið í Frakklandi, svo dæmi sé nefnt. Eða þá Louisu í New York(!)

Einföldun er hvimleið. Hún segir hvorki hálfsannleik né heila lygi. Hún leiðir einungis hugann frá kjarnanum, ýtir undir hégómlegan metnað og afvegaleiðandi fullyrðingar. Það sem sagt er getur verið rétt, en er þó rangt með tilliti til þess sem ósagt er.

Annars er ýmislegt í lagi í þessum leiðara Jónasar og engin ástæða til annars en gleyma því jafnóðum og lesið er, enda held ég til þess sé ætlazt. Sleggjudómar og einfaldanir Jónasar eru til einnota lestrar handa markaðnum og eru þess vegna einskonar gervisannleikur sem ástæðulaust er að muna stundinni lengur.

Annars finnst mér það skemmtilegast við árangur Bjarkar að hún gerir þetta allt með tilfinningu konunnar, en hún er ekkert að fara inní hlutverk karlaheimsins. Ég held það geri gæfumuninn. Þess vegna m.a. var hún afgreidd með þeim hætti sem raun ber vitni áður en verðlaunaveitingin fór fram. Það er gaman að sjá hvað Kristín Jóhannesdóttir segir um hana í Morgunblaðinu þegar hún rifjar upp samstarf þeirra við gerð sjónvarpsmyndarinnar Glerbrot sem Kristín vann upp úr Fjaðrafoki. Hún hrósar henni á hvert reipi,nefnir ekki sízt hennar góðu tilfinningar. En í Cannes byrjuðu þeir á því að misskilja þessar tilfinningar og það var mátulegt á þá, t.a.m. frönsku blöðin, ekki sízt Figaro, annað helzta blað Frakklands, sem opinberaði glámskyggni sína svo um munaði. Mörg önnur blöð úti í heimi, sem sátu uppi með forsíðumynd af Björk í fullum lit, þurftu sem betur fer einnig að éta sitt af hverju ofaní sig, ekki sízt þá margvíslegu lygi sem viðhöfð var þegar sagt var frá aðdraganda verðlaunaveitingarinnar.  Mér skilst dönsku blöðin hafi ekki verið barnanna bezt í þessum hráskinnaleik!

 

Ég hef verið að skoða greinar í DV um forsetaembættið og Ólaf Ragnar Grímsson og ástkonu hans. Það eru ljótar greinar og vondar og guði sé lof að engum datt í hug að birta þvílíkt og annað eins í Morgunblaðinu. Ástþór Magnússon fer þar fremstur í flokki og slitinn sjóræningjafáni við hún. Þetta er óskemmtilegt kompaní. Allur þessi vaðall um forsetann og ástarlíf hans er með þeim hætti að ég fæ ekki betur séð en DV hafi stundað gulu pressuna af fullum krafti, meðan við vorum í burtu. Ég er ekki mesti aðdáandi Ólafs Ragnars Grímssonar, en ég fyrirlít þessa aðför að þeim Dorritt. Ég hafna þeirri fullyrðingu að uppvöðsla angurgapa og athygisfíkla sé einhvers konar vörumerki frjálslyndis og lýðræðis í landinu. Þær uppákomur eru þvert á móti sorglegur vitnisburður þess vanþróaða lýðræðis sem við búum við, en þetta lýðræði svokallað er þó ekki betur sett í öðrum löndum, t.a.m. Bretlandi þar sem menn umgangast annað fólk, jafnvel í stórblöðum, eins og hvern annan hundaskít. Það þarf mikið þrek að standast þessa ásókn í fjölmiðlum og þeir fréttamenn sem hafa ekki þetta þrek standa að lokum uppi eins og hverjir aðrir kamarmokarar.

 

Ég hef oft haldið að ljóðið væri hornreka í samfélagi okkar. En þó hvarflar það orðið að mér að ljóðið sé ágætlega í sveit sett, ekki síður en forðum daga þegar meira var við það haft. Á markaðnum er ljóðið að vísu hornreka, en í bókasöfnunum er það enn eftirsóknarvert viðfangsefni bókmenntafólks - og það leynist enn víða.

 

Silja Aðalsteinsdóttir sem stjórnaði athöfninni í Þjóðmenningarhúsinu sagði að Vilborg Dagbjartsdóttir fengi stundum hugmyndir að ljóðum án þess vinna þau, en "læsi þau síðan í ljóðabókum Matthíasar!!" Þetta eru svosem ágæt hugrenningartengsl. Ég hef ekkert á móti því að vera í andlegu sambandi við Vilborgu. Í samtali okkar eftir upplesturinn sagðist hún hafa fengið hugmynd um "litla kalla", eða tindáta eins og við strákarnir kölluðum þá  og engin stríð önnur en þau sem þessir "litlu kallar" ættu í. Síðan hefði hún lesið kvæði um þetta í einni bóka minna: Ó, að allar styrjaldir/ færu fram í barnaherbergjum!

Og Vilborg trúir því að þarna séu einhver tengsl því að hún sagði að Stefán Hörður hefði fullyrt að  ljóðið lægi í loftinu og það væri hending ein, í hvaða móttökustöð það hafnaði!!

Þetta er skemmtileg hugmynd um bókmenntaleg áhrif og áreiðanlega einstök í menningarsögunni, en Stefán lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna og trúir víst þessu hugmyndaflakki eins og nýju neti!

 

26. maí, föstudagur

Fórum í Borgarleikhúsið í kvöld og sáum Svanavatnið. San Francisco-ballettinn undir stjórn Helga Tómassonar var í senn yndislegur og ógleymanlegur; list á heimsmælikvarða. Senurnar einnig eftirminnilega fallegar. Aðalkarldansarinn frábær, en aðalballerínan, sem er víst frá Singapor, óviðjafnanleg. Léttari en fiðrildi. Einbeitingin á sviðinu eins og tölvustýrð og samræmingin eftir því. Dansgerð Helga Tómassonar sannfærandi og eftirminnileg og þá ekki síður leikmynd og búningar. Allt eins og bezt verður á kosið. Helgi kom með heiminn út hingað. Hann er einn þeirra  sem er að stækka Ísland eins og segir í forystugrein Morgunblaðsins í dag.

Sýningin hófst hálftíma of seint og biðu frumsýningargestir í anddyri Borgarleikhússins og fengu sér bláan drykk sem þeir kölluðu Svanavatnið, að sjálfsögðu. Seinkunin skilst mér hafi verið af því að forsetinn var að borða með Jórdaníukonungi! Má ég þá heldur biðja um konunglega list Helga Tómassonar og samstarfsfólks hans en kóngalætin á Bessastöðum.

Í framhaldi af hugleiðingum mínum um "gersemarnar" í forystugrein Jónasar Kristjánssonar í DV í gær fór ég að hugsa um, hvers Helgi Tómasson á að gjalda fyrst hann er ekki nefndur ein af þjóðagersemunum. Hann sótti frægð sína einnig til útlanda. Hann gleymdist eins og fleiri; þ. á m. Stefán Íslandi; Einar Kristjánsson, María Markan, Kristján Jóhannsson, Kristinn Sigmundsson og hvað þetta fólk allt heitir sem gerir garðinn frægan. Veit þó ekki betur en Helgi Tómasson hafi dansað sig inn í hjörtu þjóðarinnar, þetta er að vísu væmið, en í stíl við annað á Íslandi nú um stundir.

Við Hanna hittum kínversku sendiherrahjónin meðan við biðum eftir því að sýningin hæfist. Þau eru alltaf ágæt. Rong Hua sendiherra er sérstæður maður og lifir í blöndu af veruleika og skáldskap. Ég benti á það ætti að hafa samtal við hann í Kastljósi sjónvarpsins, eða hvað þessi fréttatengdi þáttur heitir. Sendiherrann kvaðst mundu  koma og fjalla um hugðarefni sín, ekki sízt kínverska ljóðlist og þá eigin kvæði; jafnvel lesa eitthvað eftir sig; t.a.m. um íslenzka regnið og íslenzka vindinn sem hann er svo ánægður með, en ég hef snarað báðum þessum kvæðum á einhvers konar íslenzkt ljóðmál.

Þegar forsetinn birtist stóðu allir upp að venju en þegar viðstaddir stóðu einnig upp í hléi sagði Markús Örn útvarpsstjóri, sem sat við hliðina á mér, Þetta er alveg óþarfi, það er nóg að standa upp einu sinni! En sem opinber starfsmaður hálfstóð hann upp heldur þunglamalega, sýndist mér, en ég sat  og las prógrammið. Mér fannst einnig nóg að standa upp einu sinni, jafnvel þótt Ólafur Ragnar sé trúlofaður. En hann á það, blessaður, sameiginlegt með svönunum að hann hefur verið í álögum undanfarið. Nú hefur Dimmalimm leyst hann úr prísundinni og vonandi verður hann við góða heilsu þegar rómantíska víman rennur af honum.

En hvað um það, þetta var eitt af stóru kvöldunum(!)

 

Kvöldið

Ég þekki tvær litlar stúlkur sem horfðu á sjónvarpsútsendinguna frá Bessastöðum, þegar Ólafur Ragnar tilkynnti um trúlofun þeirra Dorritt. Þær drukku þennan atburð í sig. Enginn er næmari en börn, ef út í það fer. Þessar stúlkur eru fimm og níu ára. Við getum kallað þá sem er fimm ára Svövu, en hina Önnu. Eftir þáttinn hlustuðum við á þær tala saman. Það voru tveir símar í herberginu og nú þóttust þær vera vinkonur, tóku upp símtólin og töluðust við.

Anna: Sástu þáttinn frá Bessastöðum?

Svava: Já, ég sá hann.

Anna: Þegar forsetinn var að trúlofa sig?

Svava: Já. Þau sátu í fína sófanum og hann talaði um ást sína og hvernig þau ætluðu að skipta henni á milli sín.

Anna: Já, þau ætla að skipta henni á milli sín, ég sá það. En hann átti konu, nú á hann tvær - og þessi nýja er svo þrjózk.

Svava: Já, ég sá það á nefinu á henni.

Þannig héldu vinkonurnar áfram að tala um hina eftirminnilegu trúlofun á Bessastöðum.

Ég hef ekki heyrt  betri lýsingu á þessum atburði og gæti vel ímyndað mér að svona hafi allar vinkonur landsins talað saman eftir að forsetinn hafði fjallað um ástina í klukkutímadagskrá frá Bessastöðum. Dagblaðið sagði að hann hefði verið svo rómantískur og blíður að engu hafi verið líkara en Barbara Cartland hefði skrifað þessa rómantísku senu; meira að segja heldur líklegt að þetta hafi verið Svanasöngur hennar, því að hún lézt um svipað leyti.

 

28. maí, sunnudagur

Hef verið að hlusta á breska skáldið Ted Hughes lesa þýðingu sína á myndbreytingum Ovids; afar skemmtilegt. Ovid er ótrúlega nútímalegt skáld. Enginn hefur fjallað betur um gull og græðgi enda er lýsing hans á því, þegar guðinn Bakkus veitti Midasi konungi ósk sem stóð hjarta hans næst: að allt sem hann snerti breyttist í gull, klassísk áminning. Eftir það varð líf hans martröð. Grái markaðurinn ætti að lesa þetta merkilega ljóð um gullæðið.

Það er líka mjög flott hvernig Ovid lýsir ást Pygmalions og hvernig Venus gaf fílabeinskonunni hans líf í þakklætisskyni. Það er gaman að sjá líkingu eins og þessa: ofin í verksmiðju draumanna. Einnig er merkilegt að sjá hvernig Ovid lýsir Narkissus og ást hans á sjálfum sér, þegar hann sér spegilmynd sína í vatninu: dauðinn lokaði augum sem höfðu of mikla ást á sjálfum sér. Og þá er ekki sízt skemtilegt að sjá hvernig Ekko, eða bergmálið, varð til. Þá er einnig athyglisverð lýsingin á Narkissus þegar hann sextán ára drengur verður á vegi Ekkos, "sem getur ekki þagað - þegar annar talar". Slíkir leysast að lokum  upp eins og Ekko, í bergmál, en það var eina "lífið" sem honum auðnaðist. Kvæðið um Callisto og Arkas endar með því að móðirin sem hafði breytzt í bjarndýr og sonurinn leystust upp í hvirfilbyl

 

svo að þau tvö sem höfðu sameinast

í þessum blóðuga glæp og sorglegu mistökum

 

hurfu til himins og breyttust

í stjörnumerki, hinn Stóra Björn og hinn Litla

og þau dönsuðu saman kringum Pólstjörnuna.

 

Þetta er skáldskapur að mínum smekk.

 

Ég hef einnig verið að hlusta á spólu með ástaljóðum Ovids; engu líkara en maður í næsta nágrenni hafi ort þessi nútímalegu ljóð.

 

Nú er lognbirtan svo fögur að engu er líkara en eilífðin sé komin í heimsókn. Við fórum að Laxá í Kjós og þar var birtan svo mikil að engu var líkara en áin og dalurinn og fjöllin hefðu stigið niður af himni til að minna á umhverfi guðanna.

 

Í gær kom fyrsti laxinn í ána. Hann hefur einnig gert það undanfarin ár að viðra sporðinn í Laxfossi 27. maí. Þetta er sem sagt almanaks-lax.

 

Síðar

Hef verið að horfa á myndbönd sem Ingólfur gaf mér í jólagjöf og fjalla um pláneturnar og jörðina og sólina; stórmerkilegar myndir frá BBC. Mér finnst leitin að lífi á öðrum stjörnum ekki endilega mikilvægust, heldur vitneskjan um endalok sólar og jarðar sem mannvistarbústaðar; endalok sólkerfisins þegar sólin okkar þenst út undir lokin og verður ógnarlegur eldrauður himinhnöttur sem gleypir næstu stjörnur, kannski ekki endilega jörðina, en allt yfirborð hennar mun brenna upp og eyðast. Síðar verður sólin að lítilli dvergstjörnu á myrkum himni og deyr hægt og sígandi inn í algjört myrkur. Sólin er nú á miðjum aldri  og þar með einnig stjörnurnar í sólkerfi okkar; einnig jörðin. Það eru fjórir til fimm milljarðir ára frá því þetta kerfi tók á sig endanlega mynd og nú er talið við séum komin miðja leið að endalokum. Það er ógnleg tilhugsun, en stórkostleg. Þessi framtíðarsýn er eins og súrrealistískt málverk eftir Dali eða einhvern annan draumamann.

Stjörnur og sólkerfi eru eins og fólk, fæðast, lifa og deyja.

Eftir að ég hafði séð þessa myndröð fannst mér ástæða til ég keypti mér hatt og tæki ofan fyrir forsjón sem hefði gefið efninu þetta líf og tilverunni þessi endalausu fyrirheit.  Á himninum eru fleiri stjörnur en sandkornin á meðalbaðströnd; handfylli af stjörnum er þessari forsjón eins og hvert annað lítilræði. En ég er ekki í neinum vafa um að efnið hugsar, og hvort sem guð er andi eða efni þá er innblásturinn kominn frá þessari dularfullu vitund sem öllu stjórnar og öllu ræður og við vitum ekkert um annað en það sem við getum lesið í náttúrunni þegar þessi efnissköpun er annars vegar. Sumir láta sér nægja orð Krists um skapara allrar tilveru, aðrir þurfa meiri skýringar en svo að faðirinn einn nægi andspænis þessari ráðgátu.

 

4. júní, sunnudagur

Stefán Jón Hafstein hefur skrifað harða gagnrýni á forseta Íslands og embættisfærslu hans í DV. Ég sé ekki að greinin hafi vakið neina sérstaka athygli og er það með ólíkindum. Kannski hafa menn engan áhuga á þessu embætti, ég veit það ekki. Áhuginn beinist kannski einungis að því, að þetta embætti sé þáttur í íslenzku sápunni, og ef það er ekki til einhverrar skemmtunar eða upplyftingar, þ.e.a.s. gott framlag í slúðrið, þá hefur enginn neinn áhuga; ég veit það ekki? En hvað sem því líður þá tökum við Stefán Jón á orðinu og fjöllum um embættið í Reykjavíkurbréfi í dag, sem Styrmir skrifaði, en ég fór svo kyrfilega yfir í gærmorgun. Þetta er viðkvæmt mál og við förum með löndum. Að vísu held ég við höfum farið of varlega, þegar þetta embætti hefur átt í hlut, því að farsinn í kringum það, fjölskyldumál Ólafs Ragnars undanfarin misseri, hefur verið með þeim hætti, að það er engu líkara en embættið hafi verið helzta skemmtiatriði þjóðarinnar - en alls ekki það virðulegasta!

Sá hluti Reykjavíkurbréfsins sem fjallar um forsetaembættið í dag er svohljóðandi:

"Stefán Jón Hafstein, fyrrum ritstjóri Dags, skrifar grein í Dag sl. miðvikudag, þar sem hann fjallar um forsetaembættið, stöðu þess og embættisfærslu núverandi forseta Íslands. Í sjálfu sér er eðlilegt að fjallað sé um forsetaembættið á þeim tímamótum, þegar fyrsta kjörtímabili Ólafs Ragnars er að ljúka og hann hefur verið sjálfkjörinn til þess að gegna embættinu næstu fjögur ár. Og vafalaust verður það gert að einhverju marki á næstu vikum. Í ljósi þess hvernig embættið hefur þróazt er eðlilegt að fjallað sé um forsetaembættið og embættisfærslu forseta með áþekkum hætti og gert er um aðrar opinberar stofnanir og þá sem í fyrirsvari eru á hverjum tíma.

Hins vegar vekur athygli sú þunga gagnrýni, sem birtist í grein Stefáns Jóns Hafstein, ekki sízt vegna þess úr hvaða átt hún kemur. Höfundur greinarinnar hefur lengi notið trúnaðar í röðum vinstri manna og þá ekki sízt þeirra hópa, sem verið hafa kjarninn í stuðningsmannaliði núverandi forseta.

Umfjöllun um forsetaembættið hefur breytzt á liðnum árum. Sú var tíðin, að það voru óskráð lög á öllum íslenzkum fjölmiðlum að halda verndarhendi yfir embættinu og þeim, sem því gegndi hverju sinni. Þess vegna sást varla gagnrýni á fyrstu þrjá forseta lýðveldisins, þá Svein Björnsson, Ásgeir Ásgeirsson og Kristján Eldjárn. Sveinn Björnsson lá að vísu undir harðri gagnrýni stjórnmálamanna að tjaldabaki á þeim tíma, sem hann gegndi embætti ríkisstjóra, en sú gagnrýni kom lítið upp á yfirborðið, þótt hennar mætti að vísu sjá merki við forsetakjörið á Alþingi á Þingvöllum 17. júní árið 1944. Þetta er einn af þeim þáttum Íslandssögunnar, sem eftir er að fjalla um.

Þótt harkaleg pólitísk átök yrðu í forsetakosningunum 1952 tók það ótrúlega stuttan tíma að jafna þau mál meðal þeirra, sem harðast tókust á. Ásgeir Ásgeirsson sat á friðarstóli til æviloka.

Kristján Eldjárn sigldi einnig lygnan sjó í sinni forsetatíð að mestu leyti. Þó varð hann fyrir gagnrýni í forystugrein í Morgunblaðinu, þegar hann á sínum tíma veitti Lúðvík Jósepssyni umboð til stjórnarmyndunar. Forsetinn tók þá gagnrýni óstinnt upp og lét vita af því með ótvíræðum hætti. Ákvörðun hans að veita Gunnari Thoroddsen umboð til stjórnarmyndunar snemma árs 1980 var mjög umdeild.

Það var fyrst á síðari hluta forsetatíðar Vigdísar Finnbogadóttur, sem finna mátti að hin gamla hefð , að halda verndarhendi yfir forsetaembættinu í opinberum umræðum, var á undanhaldi. Segja má, að þar hafi breyttur tíðarandi bæði hér og annars staðar ráðið mestu. Í öðrum löndum voru meiri og opnari umræður um þjóðhöfðingja og embættisfærslur þeirra orðnar algengar og spurt var hvers vegna hið sama mætti ekki eiga við hér.

Þó kom gagnrýni á Vigdísi Finnbogadóttur lítið upp á yfirborðið. Á kvennafrídaginn svonefnda varð mikil spenna í stjórnarráðinu þegar forsetinn dró í nokkra klukkutíma að undirrita lög. Þegar kom að undirskrift laganna um EES urðu samskipti æðstu stjórnenda ríkisins ævintýraleg, þótt sú saga sé enn ósögð.

Í umræðum manna á milli kom í ljós, að vaxandi gagnrýni var á þáverandi forseta á þeirri forsendu fyrst og fremst, að sú hógværð, sem einkenndi forsetaembættið í tíð þriggja fyrstu forseta lýðveldisins, væri að víkja. Vel má vera, að ósanngjarnt hafi verið að beina þeirri gagnrýni að forsetanum. Alveg eins má ætla, að breytt fjölmiðlun hafi átt þar töluverðan hlut að máli. Alla vega er ljóst að vinsældir Vigdísar Finnbogadóttur meðal þjóðarinnar voru miklar eins og glöggt mátti finna á hálfrar aldar afmæli lýðveldisins á Þingvöllum árið 1994.

Þótt átökin við kjör Ásgeirs Ásgeirssonar hafi verið hin hörðustu, sem um getur í sögu lýðveldisins, er Ólafur Ragnar Grímsson umdeildasti stjórnmálamaður, sem kjörinn hefur verið á forsetastól. Raunar má halda því fram, að umdeildari stjórnmálamann hafi ekki verið hægt að kjósa sem forseta. Þess vegna þarf ekki að koma á óvart, þótt forsetinn hafi búið við það síðustu fjögur árin, að ákveðinn hluti þjóðarinnar hafi aldrei sætt sig við kosningu hans, gagnstætt því, sem átti við um Vigdísi Finnbogadóttur, sem einungis var kjörin með um þriðjungi atkvæða í upphafi.

Það má velta því fyrir sér, hvort forsetinn hafi yfirleitt haft nokkurn áhuga á að ná sáttum við andsstæðinga sína, en það er líka vel hugsanlegt að það sé einfaldlega ekki hægt gagnvart þeim aldurshópum, sem fylgdust með stjórnmálaferli Ólafs Ragnars fram að forsetakjöri fyrir fjórum árum.

Á síðustu tveimur áratugum hafa við og við heyrzt raddir um, að leggja ætti forsetaembættið niður og forseti Alþingis ætti að gegna embættisskyldum þjóðhöfðingja, þegar það ætti við. Þessum röddum hefur fjölgað en hins vegar má telja líklegt, að forsetaembættið sem slíkt skipti allan almenning í landinu meira máli en svo að menn vilji afnema það.

En jafnframt hefur tvennt gerzt; fjölmiðlunin hefur orðið enn opnari og nú þykir ekkert athugavert við að gagnrýni birtist á forsetann. Að vísu hefur Morgunblaðið þá reglu, þegar aðsendar greinar berast blaðinu til birtingar um forsetann og málefni hans, að gerð er krafa um ákveðna kurteisi og tillitssemi í gagnrýni á forsetann og forsetaembættið. Í sumum tilvikum sætta greinarhöfundar sig ekki við þá kröfu og verða þá frá að hverfa.

En jafnframt hefur forsetinn sjálfur með málflutningi sínum kallað yfir sig gagnrýni og raunar hefur mátt skilja hann á þann veg, að hann telji ekkert athugavert við, að svolítið næði um forsetaembættið. Það kann að vísu að vera álitamál enda verður þá erfiðara fyrir forseta að gegna því hlutverki að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Ætla má að þetta sameiningartákn sé höfuðverkefni embættisins, þótt það hljóti að vera erfitt, þegar umdeildir stjórnmálamenn sitja í embættinu.

Morgunblaðið hefur í forystugreinum gagnrýnt forsetann fyrir að gera tilraun til að færa út landamæri embættis síns, ef svo má að orði komast og blanda sér í umræður um þjóðfélagsmál á þann veg, að ekki hæfi forsetaembættinu. Aðrir hafa talið sig sjá merki slíkra tilrauna innan stjórnkerfisins, þótt gagnrýni þess efnis hafi ekki komið upp á yfirborðið. En svo er líka ljóst, að sumir virðast ekki hafa neitt við það að athuga.

Með breyttum tíðaranda, opnari fjölmiðlun og þeim breytingum, sem orðið hafa á embættisrekstri forseta Íslands er ekki ósennilegt að forsetaembættið muni liggja undir meiri gagnrýni en áður tíðkaðist og má segja, að það sé í takt við það, sem gerzt hefur í nálægum löndum.

Það er svo annað mál, að ekki er endilega víst, að það verði forsetaembættinu til farsældar. Ef marka má viðleitni úr ýmsum áttum til að koma á framfæri óvæginni gagnrýni á forsetaembættið er vel hugsanlegt að fjölmiðlarnir hafi mun íhaldssamari og varfærnari afstöðu til þessara mála, en sumir þjóðfélagshópar a.m.k.

Grein Stefáns Jóns Hafstein

SÚ GAGNRÝNI, sem fram kemur í grein Stefáns Jóns Hafstein í Degi sl. miðvikudag, er hins vegar allt annars eðlis en þær athugasemdir, sem hingað til hafa verið gerðar við núverandi forseta og forvera hans í embætti. Gagnrýni Stefáns Jóns beinist að því, að forsetinn blandi saman embættisskyldum sínum og einkamálum. Slíkar athugasemdir hafa ekki áður komið fram um forseta Íslands, þótt þær hafi heyrzt manna á meðal undanfarið.

Í grein sinni segir Stefán Jón m.a.: "Hér fer Ólafur Ragnar inn á nýja vegi með embættið og allt frá byrjun hefur honum farizt það óhönduglega. Vegna þess, að ein meginregla hefur ekki verið í heiðri höfð; að halda einkamálum þess, sem gegnir embættinu og því sjálfu aðskildu eins og framast er kostur. Þess í stað er embættið persónugert úr hófi. Við þurfum vissulega að vera upplýst um persónulega hagi þess, sem gegnir forsetaembættinu. En hér er lengra gengið."

Og nokkru síðar segir hann um sama efni: "Hér er engin hefð fyrir því að meðhöndla ... einkamál fyrirmenna, sem væru þau konungborin. Þvert á móti. Hér er rík og góð hefð fyrir því að meðhöndla einkamál fyrirmenna sem einkamál."

Greinarhöfundur víkur síðan máli sínu að fjölmiðlum og gagnrýnir þá fyrir þeirra vinnubrögð í sambandi við forsetaembættið og segir í því sambandi: "Ekki er forseta einum um að kenna." Og bætir við: "Ríkisútvarpið verður að átta sig á því, að við búum við lýðræði en ekki Hello-ræði."

Stefán Jón fjallar um embættisfærslu forsetans almennt og segir: "Í forsetaembættinu hefur Ólafur Ragnar fetað dyggilega það einstigi, sem honum er ætlað, tekið sér hæfilegt olnbogarými á réttum augnablikum og hvergi skjöplast. Þegar hann leitast við að tengja einkalíf sitt, embættið og vitund þjóðarinnar um það fatast honum. Þetta hefur verið vandamál frá upphafi."

Hann segir, að forsetinn hafi í upphafi fyrir fjórum árum tengt fjölskyldu sína mjög við embættið. "Þá hlutverkaskipan valdi forseti sjálfur. Hún var ekki hafin yfir gagnrýni en var hluti af þeirri ímynd, sem Ólafur Ragnar kynnti í undanfara kosninga. Að þeim loknum kom samt á óvart hve rækilega fjölskyldunni var blandað í embættisverk. Ferill Vigdísar og Kristjáns Eldjárns hafði sýnt og sannað að engin þörf var á slíku. Þau héldu einkalífi sínu eins aðskildu frá forsetaembættinu og mögulegt var. Mörkin hér á milli hafa riðlast í meðförum Ólafs Ragnars ... Séð-og-heyrt-væðing embættisins á enga samsvörun í þeim gildum og venjum, sem embættið á að standa vörð um."

Grein sinni lýkur Stefán Jón Hafstein með þessum orðum:

"Látleysi og alþýðleiki hafa lengstum einkennt embættið öðru fremur. Forseti vor er þjóðkjörinn. Hann er fremstur meðal jafningja, er hvorki meiri né betri en aðrir í krafti embættis, sem hann þiggur frá fólkinu. Enginn hefur falið Ólafi Ragnari Grímssyni að breyta þessum megineinkennum forsetaembættisins. Enginn hefur óskað eftir því að fá að skyggnast í einkalíf, ástir og sorgir á Bessastöðum. Þar eru mörkin dregin við hluttekningu, þegar stormar geisa stríðir og við það hvernig við samgleðjumst, þegar sólin skín. Allt þar umfram er óviðeigandi."

Hér hefur verið stiklað á stóru í grein Stefáns Jóns Hafstein. Búast má við, að hún verði forsetanum mikið umhugsunarefni m.a. og ekki sízt vegna þess, að hún kann að endurspegla viðhorf fleiri í hópi þeirra, sem Ólafur Ragnar hefur aðallega sótt stuðning til á opinberum ferli sínum."

 

7. júní, miðvikudagur

Í gamla daga var stundum haft orð á því að það væri hvergi síld nema í Vísi. Alltaf var síld í Vísi, þótt ekkert veiddist á miðunum. Þetta minnir á sumt fólk sem fjölmiðlar reyna viðstöðulaust að fullnýta. Í raun og veru ekkert merkilegt við það annað en það er í fjölmiðlum. Þar er það fullnýtt eins og síldin í Vísi í gamla daga. Hin skrínlagða heimska er ekki lengur skrínlögð. Hún er að verða helzta einkenni íslenzks samfélags sem skilur varla nokkurn tíma milli þess sem er verðmætt og hins sem er jafn verðlaust og síldin í Vísi.

 

Ódagsett

Hef verið að hugsa um það sem Time segir um Björk; að hún geti hvorki samið lög, sungið né leikið!

Hverf er haustgríma, segir í Hávamálum.

 

Hef einnig verið að hugsa um spænska arkitektinn Gaudi. Ætli nafnið sé nokkuð skylt gáta? Það væri vel við hæfi!, skylt forn-slavneska orðinu gadati, ráða, geta rétt.

Slavneskur uppruni? Ég veit það ekki.

 

Björn, æskuvinur minn af Hávallagötu, Þorláksson er látinn. Hann var með okkur í Röskum-drengjum. Hann var sá eini sem var dálítið hallur undir

Þriðja ríkið. Hann var sá fyrsti sem byrjaði að reykja. Hann hafði takmarkaðan áhuga á íþróttum, en lét sér þær lynda vegna félagsskaparins. Það er mynd af okkur í Morgni í maí  þar sem við stöndum saman við hjólið mitt, ásamt Þórði Þorvarðarsyni. Myndin er á bls. 73 og undir henni stendur Eftir Stalíngrad vegna þess að við stöndum undir sovézka heimsveldinu! Það er íslenzkur fáni á hjólinu mínu, hann blaktir einnig yfir sverðum og vélbyssum Rússanna! Allt þetta hefur Erro þótt við hæfi sem skírskotun í eitt ljóðanna.

Steingrímur Hermannsson og Guðjón læknir Lárusson, frændi minn, skrifuðu báðir minningargrein um Björn Þorláksson og eru þær svohljóðandi:

 "Birni Þorlákssyni kynntist ég fyrst í Miðbæjarbarnaskólanum fyrir meira en 60 árum. Þau kynni urðu að náinni og góðri vináttu, sem haldist hefur alla tíð og aldrei fallið á skuggi. Við vorum bekkjarbræður í barnaskóla og í Menntaskólanum í Reykjavík þaðan sem við útskrifuðumst 1948.

Björn var félagslyndur ungur maður og valdist snemma til forustu. Hann var umsjónarmaður síns bekkjar í menntaskóla. Við sátum saman í sex manna bekkjarráði, sem enn starfar. Nú er stórt skarð fyrir skildi. Við, sem eftir sitjum, þökkum Birni langt og gott samstarf. Við bekkjarsystkini Björns kveðjum með söknuði.

Kynni okkar Björns náðu fljótlega út fyrir skólann. Fyrir tilstuðlan Björns kynntist ég heilbrigðum hópi unglinga á og í nágrenni Hávallagötu þar sem Björn bjó. Á Landakotstúninu var farið í leiki og íþróttir stundaðar og komið saman í heimahúsum.

Þarna var drengjafélagið Röskir drengir stofnað 6. mars 1940. Í lögum félagsins segir að tilgangur þess sé að vinna að samstarfi og íþróttum drengja. Björn var mikill hvatamaður að þessu félagsstarfi og var bæði formaður og ritari félagsins. Um Röska drengi mætti skrifa langt mál. Fundir voru reglulegir og fundargerðir skráðar. Þær bera vott um festu í fundarsköpum, sem að vísu fór stundum úr böndum, þegar mönnum var heitt í hamsi. Tillögur voru margar fluttar og ýtarlega ræddar. Á fundi félagsins 13. september 1942 lagði Björn fram eftirgreinda tillögu:

"Ég geri það að tillögu minni, að stjórninni verði heimilað að gefa út bráðabirgðalög án samþykkis allra félagsmanna og utan fundar.

Bráðabirgðalög eru nauðsynleg og eiga menn að sætta sig við þau."

Þetta voru viðsjálverðir tímar og ríkisstjórn landsins greip iðulega til bráðabirgðalaga. Birni þótti sjálfsagt að stjórn Röskra drengja hefði sama rétt. Eftir miklar umræður var tillagan samþykkt.

Félagið Röskir drengir lifir enn. Fundir eru að vísu ekki eins tíðir og fyrrum og íþróttir og leikir liðin tíð en minningin um góða vini og félagsskap, sem ég hygg að hafi haft mikil áhrif á okkur alla, lifir. Í mars síðastliðnum héldum við hátíðlega upp á 60 ára afmæli félagsins. Þar var Björn í fullu fjöri. Skjótt skipast veður í lofti.

Við vorum flestir 15 félagar í Röskum drengjum. Þrír eru fallnir frá. Ágúst Sigurðsson lést ungur af slysförum, Jósef Björnsson lést á besta aldri og nú hefur Björn kvatt. Sem síðasti formaður Röskra drengja flyt ég fyrir hönd þeirra félaga, sem eftir lifa, Birni okkar hinstu kveðju með sérstöku þakklæti fyrir góðar samverustundir.

Eftir stúdentspróf skildust leiðir. Björn varð lögfræðingur og gerðist meðal annars athafnamaður í iðnaði og viðskiptum. Þá sögu munu aðrir rekja. Það veit ég, að hvar sem Björn starfaði, reyndist hann sami góði drengurinn.

Við Edda vottum eiginkonu Björns, Ellen Sigurðardóttur, og fjölskyldu okkar dýpstu samúð.

Steingrímur Hermannsson.

 

Mér er eiginlega ómögulegt að skrifa venjulega, hefðbundna minningargrein um Björn Þorláksson -. Til þess vorum við of nánir, höfðum þekkst of lengi og verið of góðir vinir. Að minnast hans er eins og að upplifa bernsku sína og ævi. Samt er ekki annað hægt.

Endurminningar hrúgast upp frá barnaskólaárunum, menntaskóla- og fullorðinsárum. Varla er nokkur leið að vita nákvæmlega hvenær kynni okkar hófust og skiptir enda ekki máli, því þræðirnir sem spunnir voru í bernsku héldu meðan báðir lifðu.

Vitanlega verður fyrirferðarmest í endurminningunni að minnast gleði og áhyggjuleysis æsku- og uppvaxtarára. Það var mikið um að vera á þeim tíma og enn meiri umbrot í vændum. Eins og logn á undan stormi. Vesturbærinn var að byggjast upp sunnan Túngötu og vestan Garðastrætis. Við Hólavallagötu og Hávallagötu risu tvíbýlishús og parhús í stórum stíl. Íbúarnir voru fólk á besta aldri - þótt okkur fyndist það gamalt - með mörg börn. Vestan Hofsvallagötu, á Hávallagötu 39, byggðu Valgerður og Þorlákur Björnsson, foreldrar Bjössa og Einars, sem var yngri bróðirinn. Við hliðina bjó Finnur Einarsson, bróðir Valgerðar. Á ská á móti bjó Ásgeir, síðar forseti, og Árni Kristjánsson píanóleikari og býr þar enn. Vestar bjuggu Haraldur Johannessen bankagjaldkeri og Anna kona hans, föðursystir mín, með þrjú börn. Eitt þeirra er Matthías, skáld.

Þorlákur, faðir Bjössa, var ættaður frá Seyðisfirði, sonur Björns hins sterka, Þorlákssonar, prests á Dvergasteini. Hann vann hjá H. Ben. og Co., sem þá hafði skrifstofur við Austurvöll. Þorlákur var hlýr maður, en þögull og alvörugefinn. Finnur, móðurbróðir Bjössa, var annars eðlis. Hann hafði ekki uppgötvað kynslóðabilið og hafði létta lund. Hann hafði ánægju af að tala við okkur krakkana og síðar unglinga. Ég minnist á það, því að Bjössa svipaði að sumu leyti til þessa móðurbróður síns.

Athafnasvæði okkar Bjössa og unglinganna þarna í nágrenninu var Landakotstúnið, sem þá var talsvert stærra en nú. Það og kirkjan voru nokkurs konar miðpunktur hverfisins. Yfir kirkjunni réð Meulenberg biskup, vænn maður, sem var vinur okkar allra. Yfir Landakotstúni réð hinsvegar Ferdinand munkur og rak úr túninu, ef fótboltaiðkanir voru að breyta því í svað, en gætti þess vel að ná engum. Landakotsklukkurnar voru hinn opinberi tímavörður. Ferdinand hringdi þeim kl. 18 og þá var kominn tími til að fara að koma sér í matinn, enda boðuðu þær endalok vinnudags, búðum var lokað og kvöldið hófst í Reykjavík.

Þetta voru í fyrstu áhyggjulitlir tímar og byrjun menntaskólaáranna breytti litlu um það. Heimsstyrjöldin og hernámið breyttu þessu öllu. Við vorum allt í einu komnir í návígi við alvöru lífsins. Þýski sendiherrann bjó við Landakotstúnið og hermenn voru á hverju horni. "Hernaðarskrifstofa Björns og Guðjóns" var heima hjá Bjössa og brotnir voru til mergjar pésar og bæklingar um flugvélar og beitiskip. Öllu þessu tímabili og þessu svæði gerði Matthías Johannessen skil í ljóðabálki sínum, Morgni í maí. Hann bjó á Hávallagötu 49 og var einn af þessu gengi. Hann var hins vegar tveimur árum yngri, þannig að hann var varla tekinn alvarlega þá.

Við fylgdumst að í Menntaskólanum. Bjössi var gerður að umsjónarmanni, enginn gat verið á móti því. Hann var mikill námsmaður og átti sérstaklega auðvelt með tungumál og sögu. Raungreinarnar voru annað mál, þannig að hann fór í máladeild og við báðir.

Unglingsárin liðu og alvara lífsins tók við. Við stóðum saman fyrir framan Alþingishúsið og létum henda í okkur grjóti hinn 30. mars 1949. Hvorki þá né síðar var nokkur vafi í hugum okkar, að þá átti að gera byltingu á Íslandi. Við töluðum um það síðast fyrir tveimur mánuðum.

Dauðinn birtist skyndilega, þegar Þorlákur faðir hans varð bráðkvaddur rúmlega fimmtugur. Hann var að tala í síma við konu sína. Dauðinn barði sem sé ekki að dyrum, hann ruddist inn í heim okkar ungmennanna. Valgerður, móðir Bjössa, var nú ein með syni sína tvo. Hún var engin venjuleg kona. Nokkur heimili á svæðinu höfðu alltaf verið opnari okkur unglingunum en önnur. Heimili Bjössa var eitt þeirra og það breyttist ekki. Við áttum þar athvarf og síðar á ævinni fékk ég tækifæri til að kynnast Valgerði á nýjan leik og minnast hennar á svipaðan hátt og Bjössa nú.

Svo skildi leiðir í háskóla og við ólík störf, en aldrei þannig að við vissum ekki hvor af öðrum og vináttan hélst óbreytt. Afmælisdaga var minnst, oft hringt og hlegið að því, sem fyrirfólki þótti hátíðlegt eða alvarlegt.

Við sátum saman við jarðarfarir bekkjarbræðra og furðuðum okkur á hvað þetta fólk, sem var að fylgja, var gamalt. Hvernig gat það verið svona miklu eldra en við? En Bjössi gekk ekki heill til skógar. Hann vissi það og ég vissi það. Hann eyddi ekki ævidögum sínum í að fárast út af því. Það væri rangt að segja, að hann ansaði því ekki, því að það orðalag gæti bent til ábyrgðarleysis. En engan sem sá hann eða hitti hefði getað rennt grun í að heilsan væri tæp.

Bjössi var mjög vinsæll maður og vinmargur, enda hafði hann ótrúlega gott lundarfar og jafnaðargeð. Í einkalífi var hann hamingjumaður og mikill fjölskyldufaðir.

Ég hef orðið að sleppa mörgu, sem ég var búinn að setja á blað af endurminningum mínum um Bjössa og ég hef ekki minnst á alla vinina, sem áttu þátt í að skapa þann heim, sem var okkar. En í þann hóp, sem var í mið- og vesturbænum á þeim árum, sem um getur, hefur nú verið höggvið stórt skarð. Og það er mikils að sakna.

Við Auður söknum vinar í stað og sendum Ellen og öðrum ástvinum hugheilar samúðarkveðjur.

Guðjón Lár."

 

14. júní, miðvikudagur

Eftirfarandi klausa var í DV - og hefði þótt saga til næsta bæjar fyrir 10-15 árum:

"Vaka-Helgafell hefur gefið út ljóðabókina Ættjarðarljóð á atómöld efftir Matthías Johannessen á geisladiski og snældu og les skáldið sjálft ljóðin. Einnig fylgja á öðrum diski en í sama pakka ljóð úr þremur eldri bókum Matthíasar, fyrstu bók hans Borgin hló, Jörð úr ægi og Hólmgönguljóðum.

Ættjarðarljóðin hlutu afar góðar viðtökur þegar þau komu út fyrir jólin. Meðal annars sagði Sigríður Albertsdóttir hér í DV að þau hittu "beint í hjarta lesenda. Þau eru frábærlega ort, sterk, mögnuð og skemmtileg. Margir munu njóta þess að lesa þau á myrkum vetrarkvöldum." Ekki er að efa að sumarkvöldin henti alveg jafnvel til að hlusta á skáldið lesa þau.

Þess má geta til gamans að vinsælasta ljóðabókin árið 1999 miðað við útlán bókasafna var Árstíðarferð um innri mann sem Matthías Johannessen gaf út 1992, en næstir á eftir honum komu í þessari röð: Einar Már Guðmundsson, Hallgrímur Helgason, Hannes Pétursson og Jón úr Vör."

 

17. júní, laugardagur

Gott veður. Gekk frá Elliðaánum niður í Skógræktarstöð, þangað sótti Hanna mig. Fór í gott steypibað, hlustaði síðan á Fyrstu ástina eftir Turgenev. Flott saga. Ég er sammála Ingólfi syni mínum um það að rússneskir rithöfundar hafa meira innsæi í sálarlíf persóna sinna en aðrir höfundar. Undir lok sögunnar reið yfir landsskjálfti sem mér skilst hafi verið 5-6 á Richter. Upptök hans voru að ég held í Fljótshlíð, eða við Hvolsvöll. Enn er óvíst hvort um Suðurlandsskjálftann er að ræða, en þegar þetta er skrifað hafa bæði Ölfusárbrú og Þjórsárbrú verið lokaðar. Verulegar skemmdir eru sumstaðar á vegum, lítið vitað um skemmdir á húsum.

Uppúr klukkan hálffimm var staðfest af sérfræðingum Veðurstofunnar að upptökin hefðu verið í Holtunum, mesti skjálftinn hefði verið 5,5-6 á Richter og ef þetta væri Suðurlandsskjálftinn yrðu menn að vera undir það búnir að ný kviða gæti komið í kjölfarið.

Ég lá útaf og hlustaði á spóluna þegar Hanna sagði, Jarðskjálfti! Ég lagði frá mér heyrnartólið og fann titring. Að honum loknum varð örstutt hlé, en þá kom hörkujarðskjálfti og húsið lék á reiðiskjálfi. Einhvern veginn fann ég ekki til neinnar hræðslu, ég veit ekki af hverju, við biðum bara næstu hrinu. Í kjölfarið kom örstuttur titringur. Við fylgdumst síðan með frásögn Ríkisútvarpsins af þessum hamförum og festum hugann við þær fregnir austan úr sveitum, að ekki væri vitað til að neinn hefði orðið sár af þessum sökum. Stórbrýrnar eru víst laskaðar og betra að fara varlega.

Þannig er þetta land, það hristir sig eins og ljón eða tígrisdýr og að sjálfsögðu án nokkurs fyrirvara. Það er svo sannarlega ekkert gæludýr eins og margir virðast halda. Fleiri kippir geta verið yfirvofandi og svo kemur Katla einn góðan veðurdag og þá er betra að vera ekki á flóðasvæðum hennar.

En hvað sem þessu líður, þá ætla ég að ljúka við Fyrstu ástina. Þar eru líka hamfarir, en þær gerast í sálarlífi persónanna, eins og venja er þegar stórskáldin rússnesku taka til hendi og semja sínar njálur. Þá getur ýmislegt gerzt og hætt við að ýmsir verði fyrir grjóthruni. En þetta hefur verið eftirminnileg þjóðhátíðarhrina; sterk áminning um það, hvar við eigum heima. Og eitt er víst: náttúran er ekki í sparifötunum, þótt fjallkonan skauti sínu fegursta.

18. júní, sunnudagur

CNN sagði fjálglega frá víkingaskipi sem hélt frá Reykjavík í gær til Vesturheims. Ekki orð um Suðurlandsskjálftann fyrr en síðar, ekki heldur í Sky. Og Morgunblaðið kemur ekki út fyrr en á þriðjudag! Ekki hefði það getað gerzt í gamla daga. Netið getur ekki komið í staðinn fyrir Morgunblaðið, það er augljóst. Það sem þar þótti helzt fréttnæmt í gær, þ.e. upplýsingar Ragnars Stefánssonar, var tekið upp úr útvarpinu!! Það hefur ekki verið háttur blaðsins - og dugar ekki til frambúðar - og ekkert aukablað, ekki heldur þegar Hekla gaus síðast. Hversu lengi skyldi fólk láta sér þetta lynda? Tæknin er orðin svo fullkomin á Morgunblaðinu að við getum ekki gefið út aukablað! Það sem maðurinn gat áður fyrr, getur tæknin helzt ekki í dag.

Höfðum fund með fréttastjórunum í dag. Undirbúningur undir sérstakt Suðurlandsskjálftablað á þriðjudag, vonandi verður það í lagi. En fyrstu fréttir þess efnis að hér hafi verið um Suðurlandsskjálfta að ræða, birtist á fréttavef Morgunblaðsins kl. 18.43 í gær. Þær voru hafðar eftir bandarískum og þýzkum vísindamönnum sem sögðu að skjálftinn hefði verið 6,6 stig á Richter-kvarða og hafi staðsetning hans verið á 63,9° norðlægrar breiddar og 20,3° vestlægrar lengdar.

Í kjölfarið á þessu kom svo Ragnar Stefánsson í sjónvarpið og tilkynnti að þessi skjálfti "flokkist undir Suðurlandsskjálfta" og hafi verið um 6,5 á Richter-kvarða.

Líklega hefur eignatjón orðið eitthvað meira en fyrst var talið, það er nú í skoðun. Fréttamenn okkar fara yfir allt svæðið í dag svo ég er sæmilega rólegur, get samt ekki sætt mig við að Morgunblaðið komi ekki út á morgun.

 

Síðdegis

Lauk við Fyrstu ástina eftir Turgenev. Hún fjallar um unga stúlku, Zinaida, og 16 ára gamlan dreng sem verður ástfanginn af henni. Ennfremur föður hans sem á í leynilegu ástarsambandi við stúlkuna. Í sögunni eru margir vonbiðlar en Zinaida hafnar þeim öllum, helzt með köldu og fráhrindandi yfirlæti. En þegar faðirinn kemur til sögunnar gjörbreytist stúlkan. Þá er hún einskonar fórnardýr ástar í meinum. Sagan er sögð eins og drengurinn upplifir hana. Hún er áhrifamikil, eftirminnileg og sorgleg. Báðar aðalsöguhetjurnar deyja í lokin, en drengurinn lifir. Eins og illskan í gervi Marðar lifir áfram í Njálu,  þannig hverfur hreyfiaflið í þessari sögu Turgenevs inn í dauðann; þeir sem geta ekki lifað í sögum, verða að deyja.

En hvers vegna lifir Mörður Valgarðsson? Og hvers vegna er hann, fulltrúi illskunnar, krisitnn maður? Hvers vegna? spyrjum við í lífinu sjálfu.

Og þannig er einnig spurt í góðum skáldsögum….

 

Nóttin

Höfum lokið við sérstakt blað um Suðurlandsskjálftann sem kemur út á morgun. Það er afleitt að þurfa að bíða svo lengi eftir að Morgunblaðið segi frá jafn ógnlegum tíðindum. Lentum einnig í því síðast þegar Hekla gaus, að það þurfti endilega að bera upp á laugardag eftir að blaðið hafði verið nýprentað. Þetta dugar ekki til lengdar. Í gamla daga gátu blaðamennirnir gert það sem tækninni er ekki fært nú um stundir. Það þýðir ekkert að segja að við þurftum að hafa aukablað á mánudegi, kerfið þolir það ekki. Fyrir bragðið þurfum við að geyma slíka atburði og koma svo að þeim eins og fólk sem er í berjamó; allir eru búnir að gramsa í lynginu þegar við komum út; eða eigum við að taka aðra líkingu: það er eins og að koma í hyl eftir að Tóti tönn er búinn að gramsa þar með maðki og ryðguðum önglum.

Samt er ég að vona að blaðið á morgun verði eins og óhreyft bláberjalyng.

 

21. júní, miðvikudagur

Nýr skjálfti kom á Suðurlandi í nótt, 6,6 á Richter. Mér fannst hann harðari en sá fyrri. Þá var fremur eins og húsið okkar flyti á öldum, nú miklu líkara höggi. Þessi skjálfti var styttri en hinn fyrri. Búinn að taka niður málverkin sem eru fyrir ofan höfðalagið okkar í svefnherberginu, en þar var stór teikning eftir Örlyg Sigurðsson, einnig tvö málverk stór, annað um Misima, sem Erro gaf mér vegna kvæðisins sem ég orti um hann á sínum tíma og Maríumynd eftir Svein vin vorn Björnsson. Nú getum við sofið róleg án þess fá þessar myndir í hausinn, þótt allt fari af stað á ný. Þeir spá því að næsti skjálfti verði nær Reykjavík, líklega á Bláfjallasvæðinu.

Við sjáum hvað setur.

Vann í alla nótt með strákunum og okkur tókst að koma út sterkri og ferskri forsíðu. Nú var skjálftinn á réttum tíma fyrir okkur; loksins. Skjálftablaðið á þriðjudag hefur fallið í góðan jarðveg. Morgunblaðið heldur þannig reisn sinni í þessum stóru átökum - það væri þá annað hvort! Aldurinn hefur ekki dregið úr mér, ég get unnið eins og ungur blaðamaður, ef því er að skipta. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni fyrir mig, en starfslokin eru ekki langt undan. Ég kvíði þeim og veit ekki hvað verður.

 

Nú verður Louisa frænka mín jarðsett í fjölskyldugröf í gamla kirkjugarðinum, ásamt Lee, manni sínum. Duftkerin þeirra verða sett þar niður eftir minningarathöfn í Dómkirkjunni. Ég hef verið beðinn um að flytja tvö eða þrjú ljóð í þessari athöfn og get ekki neitað því. Ég hef valið þau í samráði við dr. Gunnar Kristjánsson sem stjórnar minningarathöfninni.

Við Hanna sáum málverkasýningu Úllu og Temmu og Lees í Hafnarborg seinni partinn í dag. Hún er eftirminnileg og sýnir hvað þetta fólk er listrænir og framúrskarandi flinkir listamenn. En myndirnar eru dýrar, það er newyork-verð á þeim. Held aðeins ein myndanna sé seld.

 

Hef verið að fara yfir Efstu daga eftir Pétur Gunnarsson, vel skrifuð og skemmtilega byggð skáldsaga; sett saman úr litlum mósaikköflum sem mynda eina heild í lokin. Pétur sagði einhverju sinni við mig að við ættum margt sameiginlegt. Ég skyldi ekki þá hvað hann meinti, en skil það nú þegar ég hef lesið þessa skáldsögu hans. Ég hefði vel getað hugsað mér að skrifa hana. Hún er ljóðræn og án alls rembings; krydduð með skemmtilegum og óvæntum metafórum eða myndhvörfum (hálfmyndum). Það er víða ljóðskáld á ferðinni í þessari sögu. Það er að vísu ekki mikið efni í henni og mannlýsingar dregnar upp án smáatriða, samt kemst allt vel til skila. Þessi saga kom mér skemmtilega á óvart. Hún er t.a.m. miklu betri en kvikmyndin sem gerð var eftir fyrri skáldsögu Péturs, Punktur, punktur, komma strík. Það var vond mynd. Hún fældi mig frá verkum hans. Ég er fagnandi glaður yfir þessari sögu sem sýnir að Pétur kann sitt fag og ræður yfir listrænni meðferð tungunnar. Það er orðið sjaldgæft. Samt er allur stíllinn hóflegur og án þess höfundur sé að þenja út brjóstið. Ég hef ekki annan mælikvarða á bókmenntir en þann sem að mér snýr; það sem ég hefði viljað skrifa sjálfur tel ég gott. Svona er nú afstaða mín einföld. Einhvers staðar í sögu Péturs segir að lífið sé hugarfar. Það finnst mér góð skýring. Margar svona óvæntar og skemmtilegar athugasemdir í bókinni. Ég upplifði þetta hugarfar þegar ég horfði á knattspyrnuleik Hollands og Frakklands í Evrópukeppninni í kvöld. Frakkarnir voru allsráðandi í fyrri hálfleik og höfðu yfir, en Hollendingarnir komu í vígahug eftir hálfleik og sigruðu. Það var þetta nýja hugarfar sem úrslitum réð.

Velti fyrir mér ljóði um hugarfarið.

 

Kvöldið

Við verðum með flottan Mogga á morgun. Í nótt var ég með Sigtryggi fréttastjóra og fínu liði blaðamanna og í kvöld Ágústi Inga fréttastjóra, Árna Jörgensen og Einari Fal myndstjóra auk annarra góðra blaðamanna sem ég hygg skili mjög fínu blaði á morgun. Það er líka mikið í húfi, Suðurlandsskjálftar eru ekki á hverjum degi; svona hrinur koma einungis einu sinni á öld.

 

Seinna

Efstu dagar er góð bók. Höfundurinn víðlesinn og vel menntaður. Nýtur þess í ágætri sögu sinni. Eina athugasemdin sem ég hef fram að færa er sú, að undir lokin er sagt að eitt prósent af fólki lesi bækur; þannig lesi 250 manns bækur á Íslandi. En eitt prósent af Íslendingum er 2500 manns. Ég gæti ímyndað mér að það sé nærri lagi.

Annað hef ég ekki við þessa ágætu sögu að athuga. Hún er skrifuð af skáldi, en ekki eingöngu fagmanni. Það heldur smiður á hamrinum, en ekki gervismiður. Þeir hafa skrifað allt of mikið af íslenzkum skáldskap undanfarin ár; því miður.

 

23. júní, föstudagur

Minningarathöfn um Lee og Úllu í Dómkirkjunni í dag. Það var falleg athöfn, séra Gunnar Kristjánsson flutti frábæra minningarræðu. Ég las upp smáljóðasyrpu að beiðni Temmu frænku minnar. Held það hafi gengið vel. Sigurður A. Magnússon sat við borðið hjá okkur í erfidrykkjunni í Perlunni. Það var eins og í gamla daga. Þegar við hittumst er eins og ekkert hafi breytzt. Þykir afar vænt um það. Hafði sérstaklega gaman af að hitta ættingja mína í föðurætt. Það er góður hópur sem ég hitti sjaldan, en ég nýt þess því betur sem ég sé þennan hóp sjaldnar. Temma á fjórar dætur, sú elzta Úlla flutti minningarorð um ömmu sína á ensku. Hún komst við og það snart alla. Yndislegur dagur, hlýr og bjartur, lognkyrr.

Bíð svo eftir þriðja stórskjálftanum sem allir eiga von á. Enginn veit hvenær hann ríður yfir né hvaðan hans er að vænta.

Vonum hið bezta.

Ég las við minningarathöfnina síðasta ljóðið í Hólmgönguljóðum um dauðann, Ferðalag úr síðustu ljóðabókinni, Ættjarðarljóð á atómöld og kvæðið Og fjarlægð þín sefur í faðmi mínum í fyrsta sinn.  Það las ég m.a. í minningu Steins. Þar ertu að kallast á við Stein, sagði Aðalsteinn Ingólfsson við mig að athöfn lokinni.

Já, sagði ég.

 

25. júní, sunnudagur

Fór í langan göngutúr niður með Elliðaánum í gær, aftur í dag. Hlýtt og sólríkt. Held einhver Elliðaá renni um hina fyrirheitnu Paradísó, hún getur varla verið fullkomin án þess. Á göngunni í dag orti ég nokkur smákvæði, svohljóðandi:

 

Jónsmessa

við Elliðaár

1.

Það er veizla

í augum mínum,

 

straumkvika við gáraðan

himin á vatni

 

og fiskurinn vakir

eins og flugur

við fífla og grös.

 

2.

Sefið vex

úr lygnu vatni

 

allt lognkyrrt

 

nema vængur fugls

í huga mínum.

 

3.

Áin kvíslast

við sefgrænan

hólma,

 

það vatnar

við steina og klöpp,

 

þannig kemur

heiðin

inní huga minn

 

eins og þú

 

hreyfir kyrrstæða mynd

sem er minning.

 

4.

Þið talið

um hamingjuna,

 

þessa biðukollu

í hvössum vindi.

 

5.

Puntstrá við veginn

 

sóleyjar, grös

 

sumar á leið

inní fjallhvítan

huga minn.

 

6.

Hún í rauðri peysu

 

og hann faðmar hana

að sér, kyssir hana

á hálshvítar axlir,

 

þau leiðast burt

inní skugga af gamalli

hugsun.

 

Ást þeirra hugur minn

 

og heldur til fundar

við þig.

 

7.

Hugarfar mitt

 

sólskríkja á steini

lax í straumi

hvöss augu kríunnar

 

fiðrildavængir gul blóm

á brjósti þínu

 

ó jörð

 

og stelkurinn hrekkur upp

við þungt fótatak

í hálmþurru grasi,

 

ótti hans

hugarfar mitt

við ána.

 

8.

Kyrrstæður himinn

í vatni sem blikar

við sól

 

það er kvöld

 

svartar

gára vænghvítar endur

himin og vötn.

 

Kvöldið

Haraldur sonur minn er 46 ára í dag. Tíminn líður - og hvað erum við annað en aska á leið í jörðina? eða gul einær blóm við ána eða - dropi á leið til hafs eða - dropi á leið til himins, hver veit?

Hlustaði í gærkvöldi á bandarískan vísindamann sem er sérfræðingur í heilaæxlum. Hann segir að trú og vísindi fari vel saman. Sjálfur er hann á vegum guðs. Hann minnti á að bókmenntafræðingar kynntu sér verk skáldanna til að komast að niðurstöðu, þannig geti vísindamaðurinn kynnt sér náttúruna til að skilja guð. Sá sem les náttúruna af gaumgæfni kemst væntanlega nær skaparanum og verki hans en sá sem lætur sér hana í léttu rúmi liggja. Það var einnig skoðun Jónasar. Efnið er þrungið guðlegri hugsun, ef svo mætti segja, guðlegum innblæstri. Kraftaverk geta að vísu verið tilviljun, en ef þau eru tilviljun, þá eru þau ekki kraftaverk. Ég tel að náttúran sé kraftaverk.

 

2. júlí, sunnudagur

Enn einn sólardagurinn runninn upp, hlýr, heiðskír og fagur. Sáum í gærkvöldi eitthvert fegursta sólsetur sem augu mín hafa litið, hvítgult eins og hugmynd okkar um Paradísó. Góður göngutúr í gær, í dag stefni ég á að ganga frá Elliðavatni niður í bæ. Alltaf með Elliðaárnar á hægri hönd. Í gær hitti ég lóu sem gerði sig æði heimakomna. Flýgur nú í huga mínum þar sem ég heyri dirrindí og nið af vatni. Þar er einnig stelkur sem ég hitti í gær og var svo glaðklakkalegur að engu var líkt. Endaði sem framhald af staur við ána þar sem hann stóð og kallaðist á við þögnina.

Nú er klukkan ellefu að morgni. Kristnihátíð hafin á Þingvöllum í blíðskaparveðri og fuglarnir á Alþingi viðra sig í sólinni. Aristóteles talar um að við förum í göngutúra til að halda heilsunni við. Hann var sífelldlega að tala um allt milli himins og jarðar. Mikið af þessu tali sjálfsagðir hlutir. Hugur hans var heillaður af náttúrunni, það skil ég bezt. Físik merkir einungis náttúra og metafísik það sem kemur á eftir náttúrunni; svo einföld er nú þessi háspeki. En ég er á leið í göngu, ég ætla að hitta vini mína upp við ána, fiðrildin sem flögra við sóleyjarnar og fíflana og laxinn sem skríður upp eftir vatninu án þess láta sjá sig. Kannski sé ég hann stökkva í dag, það væri gaman. En ég veit af honum, það er ennþá skemmtilegra. Það sem hugann grunar er oft mikilvægara, ég tala ekki um skemmtilegra, en það sem hugurinn sér. Þess vegna er guð bæði mikilvægari og jafnvel skemmtilegri en allt annað. Aristóteles sagði hann væri grunur mannsins um það mögulega. Hann er aðalpersónan í leikhúsi möguleikans. Við sitjum í salnum og bíðum eftir að hann birtist á sviðinu. En ég upplifi hann þarna við Elliðaárnar. Þess vegna sæki ég þangað, ekki sízt í veðri eins og nú, þegar himinninn er eins blár og þrá mín til náttúrunnar; eða eins gulur og sakleysið í væntingum syndarans.

 

Síðar

Ekki mannfjöldanum fyrir að fara á Kristnihátíðinni í dag. Ég held það hljóti að vekja vonbrigði, þótt allt hafi gengið vel sem betur fer. Engin óhöpp. En eftir þessa tvo kristnihátíðar-daga hlýtur það að vera heldur hlutlaus ályktun að þjóðhátíðin 1974 sé í raun þjóðhátíðin mikla. Um 60 þúsund manns komu saman á Þingvöllum daginn góða seinast í júlí og yfir 20 þúsund manns í Reykjavík, svo ekki sé talað um allar hátíðirnar út um land. Allt í ítölsku veðri. Ég held unnt sé að segja að annars eins mannfjöldi hafi ekki verið saman kominn á Íslandi, hvorki fyrr né síðar

 

Júlí, ódagsett

 

Í fylgd með

Ovid

1.

Hárið fellur eins og lauf segir Ovid, minnir á

að páfagaukurinn viðrar

fegurstu fjaðrirnar þegar honum er hampað,

 

nú er lognbirta úti og úr hjarta mínu

flýgur kliðandi skógarþröstur

inn í opinn himin augna þinna.

 

2.

Ég horfi yfir úfnar öldur

 

ullhvítar eru öldur

himinsins,

 

ég er farfugl á leið

frá einu landi til annars

 

fylgi blikandi stjörnum

augna þinna.

 

3.

Horfi yfir kembdan himin,

sé úfna skýstrókana

undir álgráum

vængjum

 

sé blá vötn á himni

 

augu þín eru blá vötn

á himni.

 

8. júlí, laugardagur

 

Við höfnina

 

Herskipaflotinn

í höfn,

skemmtiferðaskip

frá Limasol,

 

ég upplifi stríðið

aftur

í þessari blóðrauðu

kvöldgeisla-

þögn

 

við hnígandi

sól,

 

minningin hvítar

dúfur

með skilaboð úr marg-

gleymdri fortíð

 

og lítil stúlka

á litríkum kjól

 

gráar freygátur, skemmti-

ferðaskip

eins og Caronía

 

fljótandi maura-

þúfur,

 

minningin bréfdúfur

fljúgandi skilaboð

úr kyrrstæðri

gleymsku

inní kvöldrauðan

himin

 

þar sem miðnætur-

sól

bregður lýsandi birtu

á liðna daga

 

upplifi enn

eins og þá: að lífið

er endurtekning,

 

viðeyjarblá

 

undir víðáttum

tímans.

 

9. júlí, sunnudagur

Yndislegt veður, fór í göngutúr.

 

Minning um hið ókomna,

á göngu í borginni

 

Hann horfði á mig

 

þrösturinn

 

ekki af grænni

grein

heldur blárri

í skuggsælli

hafgolu

 

á næstu grösum

sólskríkja

 

við þrjú í þessari

júlíbjörtu borg

 

höfuð mitt

fuglabúr

og við áttum öll þrjú

samfylgd

inní gamla

kirkjugarðinn

þar sem dauðinn

opnaði búrið

og hleypti okkur út

 

einhvern tíma seinna

kemur hann aftur

 

þrösturinn

 

leitar að nafnspjaldinu mínu

og syngur á grænni

grein.

 

Góðborgari

Kona hans elti tízkuna

en sjálfur elti hann skeggið á sér.

 

10. júlí, mánudagur

Við Styrmir fórum með landsvirkjunarmönnum, Friðriki Sophussyni, Jóhanni Má Maríussyni og Birni Stefánssyni í skoðunarferð á Sprengisand. Yndislegt veður, ógleymanlegt.

 

Á Sprengisandi

 

Hóftunga í skriðjökuls-

skeifu

 

Arnarfell ið mikla

 

drögum skó af fótum

okkar,göngum

berfætt í mýrarflákum

og víði,göngum hægt

að grónum tóttum

 

tínum gráa fjöður

af fugli

 

tínum fífu,tínum

elfting og kornsúru

 

 

lindin

votlendishugsun

heiðagæsa í sárum

 

mjög er genginn

hófur jökuls

við álfthvíta

vængi

og himin

 

undir skriðjökuls-

hvítum vængjum

brotnar eggskurn

fjallsins

 

lyfta klettföstum

goggi

ungar úr eggsáru

skurni

 

teygja álkuna upp

í ónuminn vindóttan

himin

 

fljúga af Heklu

járnfuglar

 

Hágöngur

 

síðaxla risar

á sárfættri leið

 

um óvistvænt

Vonarskarð tímans.

 

 

12. júlí, miðvikudagur

Í kompaníi við Lorca

Vor ferð er sókn á sauðskinnsskóm

en samt er hún betri, Lorca, en það

sem þú fékkst að upplifa á öðrum stað,

 

þar skríkir nett og falleg finka

og feigðarmjálm við kattlit blóm

þar hlauzt þú, skáld, þinn skapadóm

 

þótt hún væri engin óvænt þynnka

sú ógn sem reyndi á hvert þitt ljóð,

þau voru hert við hjartablóð

 

líkt og sól sem sezt til viðar

og sækir hrollinn beint til yðar,

vor sjálfumglaða gamla þjóð.

 

15. júlí, laugardagur

Á göngu við Elliðaár.

 

Í SAU-vindi

Óteljandi blika

sóleyjar

í fífuhvítum

vindi,

 

óteljuandi stjörnur

í gulu grasi.

 

Eftir-

skjálftar

Jörð hristir

hraun og blóðberg,

 

skelfur.

 

16. júlí, sunnudagur

Allt er afstætt,

einnig orð:

 

við gengum saman

yfir holt og hæðir

 

bergið var holt

undir fótum okkar,

 

þú sagðir: Það er hollt

að ganga.

 

Þannig eru orð

háð umhverfi sínu

 

eins og við.

 

Eins og allt:

 

eitt er faðir,

annað faðir vor.

 

Hef verið að lesa Dóttir Galíleós, fjallar m.a. um dæmigerða ritskoðun. Samt snýst hún - en hann kiknaði og sagði það aldrei. Almenningsálitið krafðizt þess bara, fyrst prentað 150 árum eftir dauða hans!! Gelíleó afneitaði sannleikanum undir þrýstingi, en varð heimsfrægur fyrir sannleikann!

Eins og Kópernikus.

Las einnig The Plato Papers eftir Ackroyd. Minnir á tímaleysi í sumu sem ég hef skrifað. Plato gerir sjálfan sig útlægan úr London framtíðarinnar. Góð niðurstaða eins og tímarnir eru. Einnig ágætt að Dickens hafi skrifað skáldsöguna Uppruni tegundanna og Poe hafi verið þekktur sagnfræðngur!

Hef einnig lesið Hauksmoor eftir Ackroyd, en er nú að lesa bandarískar smásögu.

 

22. júlí, laugardagur

Las um daginn grein um skáldskap Thom Gunn eftir brezka skáldið James Fenton; einkum síðustu ljóðabókina Boss Cupid. Undarlegt hvað ég á margt sameiginlegt með Gunn, en þó ekki samkynhneigðina! En ljóðform hans og hvernig hann upplifir hefðina í modernisma sínum minnir ótrúlega mikið á ljóðformið í Morgni í maí. Kom mér skemmtilegt á óvart….

 

23. júlí, sunnudagur

Steingrímur Pálsson skrifar grein í Morgunbloaðið í dag og tekur Ólaf Ragnar á beinið. Harla eftirminnilegt hvernig hann opinberar fáránleikaleikhús forsetans með því einu að vitna í hans eigin ræðu! Helsti andstæðingur Ólafs Ragnars heitir Ólafur Ragnar.

Á kristnihátíðinni var hann Billy Graham. Hann er í öllum gervum.

 

24. júlí, mánudagur

 

Að Hulduljóðum

Við minnumst þín og orðin ein og vís

að ástin sé rík og þú sért hennar dís,

þau mildu orð sem skáldið kæra kvað

og kliða nú,mitt land,í annars stað,

 

þau kliða ein við lyng og lítinn fót

og leita þess sem grær af djúpri rót

og enn er vængur fugls við fjall sem rís

úr fjarlægð guðs og þú ert hennar dís,

 

ég finn þig enn sem goluþyt við grjót

og gamall jökull á sitt stefnumót

við ójarðneskan himin hvar sem fer

þinn hvíti fugl með jörð í brjósti sér

 

og þessi jörð er upphaf annars nýs

því ástin er rík og þú ert hennar dís.

 

 

26. júlí, miðvikudagur

 

Mín hugsun er fugl

Hugsun mín er fugl sem fetar einn

sitt flug um jörð og hún er augasteinn

og fuglinn skilur eftir óvænt spor

við auga sitt og þú sem himneskt vor

 

í brjósti mínu,þú ert einnig þar

og þú ert stjörnublik  sem eitt sinn var

og verður eins og glitri sól við grein

og gras við dögg og vængur fugls við stein,

 

svo hverfur þetta blik úr brjósti mér

og bregður sól með nótt í fylgd með sér

sú snerting ein og engu lík,ég finn

að angist þín er nótt við vænginn sinn,

 

en sjálfur er ég eilíft andartak

við auga guðs og fuglsins vængjablak.

 

 

Hverf er haustgríma

Þú ert farfugl í huga mínum, mildur fer

þinn mjúki blær með nótt í fylgd með þér

heiðrík nótt og hljóð og vængur þinn

er hvísl við grein og sumarskóginn minn,

 

þú syngur þar, ég hlusta hljóður við

þinn himinbláa fjallalækjanið

og það er eins og grói grös við tún

og glampi sól og þú sért einnig hún..

 

Ég hrekk þá við og hverjum degi ljóst

að hjarta mitt slær nú við gamalt brjóst,

samt vil ég enn að vængur þinn sé hér

með vor og ilm og þig í fylgd með sér,

 

þá hverfur jörðin hægt að augum mínum

og hinzta sinn að vængjatökum þínum.

 

Vort líf

Regngrænn mosi

við lúinn stein

 

máðir stafir,

 

kross.

 

Og lúin

bein.

 

Að eldast

Hugsun þín flökt við hellismunna

og hverful nótt sem er engum kunn.

 

Fölnandi skuggi við skarðan mána

skjóllaust við hellinn,vangarnir grána.

 

Niðamyrkur og nótt í huga

nærgöngull dauði,bjór og fluga.

 

Hugsa til þín og hjartað slær

hugmyndalaust eins og einnota gær.

 

Hugsanir flökta við helli þinn

hégóminn leikur við hvern fingur sinn.

 

Flöktandi ljós eins og fluga í glasi

fölnandi sól og skuggi í grasi.

 

Snerti þitt tillit,snerti þinn huga

snertingin blekking og deyjandi fluga.

 

Flöktandi hugsun við hellismunna

hverful sem nóttin og engum kunn.

 

Kveð svo þá snerting sem snerti ég ekki

snertingin fluga við auða bekki.

 

29. júlí, laugardagur

Ort í sumarblíðunni við Elliðaár. Ég heyri fótatak haustsins, það er ekki langt undan; þrátt fyrir allt.

 

Þú ert minning

Hugur minn er vatn, þú vitjar mín

sem vindur strjúki spegil tímans burt

af ásynd vatns, það safnar enn til sín

þeirri sól sem deyr við aðra hverja jurt,

 

ég sakna þín, minn söknuður er eins

og sóley tregi júníbirtur þínar

en hugsun mín hún nýtur aldrei neins

en norpir eins og blóm við rætur sínar,

 

því sit ég nú við ána, ilmur ber

þitt ótvíræða bros að hvönn og steinum,

og þó að haustið sæki senn að mér

er sól við jörð og hún er ást í meinum,

 

samt uni  ég  því að áin renni burt

með ilm af  sumri þegar dauðinn tefur

við huga minn, mín ósköp, allt er kjurt                       

og  jafnvel vatnið niðar hljótt og sefur.

 

En þessi minning mildar það sem var,

hún mildar skugga hausts í fylgd með þér

því hún er eins og ljós við lítið skar

og lýsir þessa nótt í huga mér.

 

 

Davíð hrósaði Halla við mig og embættisfærslu hans sem ríkislögreglustjóra, hann væri nákvæmur og góður embættismaður. Í fyrstu hefði hann verið efins um, hvort hann gæti valdið embættinu, því hann væri of ungur. En Halli hefði sannað sig og Davíð hefði engar efasemdir lengur, þvert á móti. Öll samskipti hans við Halla hefðu verið til fyrirmyndar. Halli er í sumarfríi í Flórída, en ég sagði honum þetta í símtali í kvöld og það gladdi hann.

 

6. ágúst, mánudagur

Egilsstöðum

 

Á Héraði

Bláklukkan sefur unz ágúst fer að

og ævi þín styttist sem geisli við blað,

þá vaknar hún rétt eins og morgunn í maí

og mjakast sem vor inní himneskan blæ,

en samt er það haustið sem hjúfrar sig þá

að hlýlegu sumri með augun sín blá

og klukkurnar hringja við álfastein eins

og júlí sé fyrirheit sólar og steins

en steinarnir fljóta upp eins og allt

sé undraverk guðs og þúsundfalt

ævintýri að eiga þá stund

og endurfund

við lyngmó sem blánar af bláklukkum senn

og bregður hausti á vor sem er enn

þinn fegursti draumur,þau fyrirheit sumars í meinum

sem fylgja að venju skógarþrestinum einum

 

Hugsað

frá Skriðuklaustri

Endurminningin auga sínu deplar

og allt er hljótt, nú ritar skjálfandi hendi

á óskrifuð blöð þín ævi, lúnir sneplar

og annað það sem tíminn reif og brenndi.

 

Nú haustar að, við heyrum eins og gangi

við hljóða minning sá sem bregður ljánum

og allt er kyrrt og eins og líf þitt hangi

á ofurveikum þræði, þú deyrð á skjánum

 

í miðri útsendingu, einhver slökkti

og allt er hljótt, það snjóar, truflun fer

um huga þess sem horfði er myndin flökti

og hvarf sem elding, slokknaði með þér.

 

Einmana hugur eins og landið deyi

í aðvífandi haust við fölnað gras

og allt er hljótt og eins og dauðinn segi,

Ég er þitt skjól, kom heim, því nú er glas!

 

7. ágúst, þriðjudagur

Hólsfjöllum

 

Ort í bíl

á Hólsfjöllum

Allt er fegurst úr fjarlægð

fjöll og dalir,en þú

ert fegurst í fangi vorsins

eins og fífill við grös og tún.

 

Ég heyri hvísl þitt við landið

það hljóðnar við eyru mér,

það er eins og víðirinn vaxi

með vorið í fangi sér.

 

Þá kveður vatnið og kvakar

við kveldsól í huga þínum,

hún hverfur að lokum til landsins

sem leiftur við augu mín.

 

8. ágúst, miðvikudagur

Akureyri

 

Hauskúpan

er hellir

Hauskúpan veröld okkar

og hellir

og hugurinn leitar út,þangað

sem hugsunin finnur

engin endimörk,aðeins

áningastaði,

en tíminn hefur hlaðið

vörður í huga okkar,sumar

hrundar,aðrar vísa

veginn

þangað sem endimörkin liggja

 

þaðan sem enginn snýr

aftur inní hellismyrkur

hugans.

 

Nú er logn veðurs

og fjallgolan strýkur fjólubláan

feld hausthnjúkanna,

enn höldum við áfram

um svarta foksanda,bláir

gluggar í bómullarhvítum skýjum

og sólarglotti fylgir

stafkarli á himni,fylgir

hann okkur yfir grjótbláar

öldur þar sem gamlar vörður

ganga í jörðina,hægt

hverfa grjóthleðslur tímans,hægt

eins og fjöll undir öræfaþokur

þegar stafkarl lokar gluggunum

og sól hnígur að sanddauðri

auðn,

 

hugsun okkar kulnaður

hrauneldur,minning

um glóðir sem eitt sinn

loguðu við hellismunnann,brunnu

við storknandi kletta

og grjót,

samt getum við rímað jörð

við vörðu,samt getum við

rímað elda við fjallbláa

felda hnjúkanna,

 

en tímarnir hafa breytzt

þótt fjöllin séu hin sömu,himinn

og auðn hin sömu,sól

og ský,samt hefur allt breytzt

eins og tímarnir eru.

 

Enn höldum við áfram

yfir sandbláar auðnir

eins og ekkert hafi gerzt

og ekkert muni gerast,þegar

hugurinn nær áfangastað við hrundar

vörður og foksanda

tímans,áfangastaðurinn

er í huga okkar sjálfra

þangað sem enginn kemst,þaðan

sem enginn á afturkvæmt

 

þar sem ríkir blámi víðáttunnar

á veglausri ferð milli vonar

og ótta.

 

Vor hátign

Vér erum flugur en finnum til eins og guð

sé að finka við oss með sínum heilaga anda,           

en kringum oss þetta eilífa sjónvarpssuð           

og sífellda tilgerð með stjörnuhröpum að vanda.

 

Nú er logn veðurs en veröldin samt uppá rönd

og verður á meðan vor hátign suðar við blómin,

það er ekki guð heldur dýrið sem dregst hér um lönd

með dauðann í brjósti og ótta við skapadóminn.

8. ágúst, miðvikudagur

Sauðárkróki

 

Tveir hrafnar

Byskupinn messaði

í Drangey,

þá flugu Huginn

og Muninn njósnaflug

yfir eyjuna

 

Óðinn beið frétta

en Heiðnaberg

á næstu grösum,

 

þannig teflum við

hugmyndum okkar

í tvísýnu

 

9. ágúst, fimmtudagur

Borðeyri

 

Sóleyjarnar

við veginn

eru fleiri

en sólkerfin,

 

þær lýsa upp

huga

hellisbúans.

 

- - -

 

Puntstráin

eru jafnmörg

við veginn

og stjörnur himinsins,

 

þau rúmast ekki

í sólkerfum

hugans.

 

18. ágúst, föstudagur

Fór með Matthíasi H., nafna mínum, á frumsýninguna á Baldri. Það var ágætt, en áhrifameira þegar Sinfóníuhljómsveit æskunnar undir stjórn Zukofskís frumflutti verkið á sínum tíma. Þá var enginn dans eða ballett. Mér fannst hann nú trufla, engu líkara en þessi einhver mesta tónlist sem Íslendingur hefur samið sé e.k. undirspil undir ballettsýninguna. Það fór í mínar fínu taugar. Auk þess er ég ekki nógu hrifinn af svona óskírskotandi eða óræðum ballett, sem er mikið hnoð, ekki sízt á gólfinu; goðsagnahnoð. Vel gert að vísu, en þó einhver villimennska í þessum dansi sem mér líkar ekki. Lokin bezt, þá er Baldur borinn út dauður a la Wagner og eldarnir kvikna. Það var áhrifamikið sjó!

 

20. ágúst, sunnudagur

Fórum í Stardal. Magnús vinur minn Jónasson bóndi þar sagði að sumarið hafi verið það bezta frá 1939, þegar ég var fyrst þar í sveit. Þá sváfum við Magnús í sama rúmi inni hjá Katrínu, móður Kristrúnar, húsfreyju. Þannig náði ég í skottið á íslenzkri sveitamenningu eins og hún var gegnum aldirnar. Við Magnús erum sammála um að Skálafellið hafi grænkað verulega, bæði vegna árgæzunnar og þá ekki síður vegna þess þar er nú engin beit.

 

Eftir göngu, ódagsett

Við erum

grenitré

og við gömlumst

 

og það er náladofi

í greinum okkar.

 

Grenitréð

er sólkerfi

og stjörnur þess

eru fleiri en blikandi ljósnálar

himinhvolfsins.

 

 

 

19. ágúst, sunnudagur

Reykjavíkurbréf

Þeir sem ferðast um Ísland að sumarlagi fara ekki í grafgötur um að landið hefur mikið aðdráttarafl sem ferðamannaland; hingað þyrpast erlendir ferðamenn svo þúsundum skiptir og það er varla til orðið á landinu nokkur sá kimi eða krókur þar sem ekki er ferðamanna von yfir sumartímann. Þeir sem hafa ekið eitthvað að ráði um landið í sumar eða heimsótt helztu ferðamannastaði, hvort sem er í byggð eða á öræfum, hafa óhjákvæmilega rekizt á fjölda erlendra ferðamanna sem eru ýmist í hópum eða einir sér; sumir gangandi, aðrir á hjólum, enn aðrir í bílaleigubílum eða rútum. Allt gengur þetta fólk heldur vel um landið og lætur sér augsýnilega annt um gróður og umhverfi og þá er ekki heldur hægt að setja neitt út á akstur þessa fólks á þjóðvegum úti, erlendir ferðamenn aka a.m.k. ekki verr en en Íslendingar. Þeir útlendingar sem sækja Ísland heim eru að öllum líkindum mjög frábrugðnir því fólki sem sækir til sólarlanda og harla augljóst að þessir erlendu ferðamenn vita nákvæmlega hvað þeir vilja og hvert þeir ætla sér. Þeir hafa augsýnilega fengið góðar lýsingar á þeim stöðum sem ætlað er að heimsækja og sýna mikinn áhuga á umhverfi og mannvirkjum. Þegar komið er á staði eins og Kröflu, Akureyri eða Atlavík má sjá fjöldann allan af bílum með erlendum númerum og augljóst að þar er á ferð einkabílafólk sem hefur tekið bifreið sína með sér í ferðalagið og þá væntanlega komið til Seyðisfjarðar með Norrænu.

Augljóst er af því sem fjallað var um hér í blaðinu ekki alls fyrir löngu að þessum ferðamönnum mun fjölga stórlega í nánustu framtíð því nú er hafinn undirbúningur að smíði 40 þúsund tonna ferju milli Íslands, Færeyja og annarra nágrannalanda og enginn vafi á því að sóknin verður hert á þessum vígstöðvum og umferð mun stóraukast á íslenzkum vegum en jafnlíklegt að vegakerfið muni ekki þola þá miklu umferðaraukningu. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Þess vegna er nauðsynlegt að huga að framtíðaráformum í vegagerð um landið. Það þýðir ekki að skera neitt við nögl í þeim efnum af þeirri einföldu ástæðu að ferðamannastraumur hingað er ein mesta tekjulind landsmanna nú um stundir og ferðamannaiðnaðurinn svonefndi verður æ arðbærari eftir því sem áróðurinn í þeim efnum verður hertur. Okkur munar um minna en þá milljarða sem þessi nýja atvinnugrein gefur af sér, svo að ekki sé talað um öll þau störf sem hún krefst.

Áhugasamir ferðalangarÞað getur verið fróðlegt að fylgjast með þessu erlenda fólki, t.a.m. hópferð Tékka um landið en óhætt er að fullyrða að engir upplifðu Kröflu betur og jarðeldasvæði hennar en tékknesku ferðalangarnir. Þegar kom að því að skoða vélahúsið var áhugi þeirra svo mikill að þeir gleyptu í sig myndband með fyrri eldgosum og skoðuðu vélar og annan útbúnað af eftirminnilegum áhuga. Þarna var fólk á öllum aldri, karlar og konur, og augljóst að allt var það nýjabrum sem fyrir augu bar, hinar mestu kræsingar ef marka má áhugann.

Landsvirkjun tekur mjög vel á móti gestum sínum, allt umhverfi fyrirtækisins er til sóma hvar sem er á landinu og þá ekki sízt við Kröflu þar sem jarðorkan hefur verið beizluð mengunarlaust og með eftirminnilegum hætti. Það var augljóst að ferðamennirnir, hvort sem þeir voru Tékkar eða aðrir, gleyptu umhverfið í sig, ef svo mætti segja, og skoðuðu það allt gaumgæfilega, frá Víti til upphimins; margir þeirra gengu á hið svarta nýja hraun, skröngluðust upp á hæðir og virtu fyrir sér þær nýju orkumyndanir í storknuðu hrauni sem við blöstu; en í næsta nágrenni stigu gufustrókarnir til himins og útlendingum áreiðanlega ógleymanlegir eins og sumarveðrið hefur leikið við land og lýð.

Það er afar athyglisvert að fylgjast með þessum áhuga svo augljós sem hann er hvort sem dvalizt er á Kröflusvæðinu, við Námaskarð, Mývatn eða Dettifoss eða annars staðar þar sem Ísland leikur listir sínar og má þá að sjálfsögðu ekki gleyma öræfunum, Gullfossi, Geysissvæðinu eða þeim sérstæðu andstæðum sem hvarvetna blasa við undir Vatnajökli, Snæfellsjökli eða hvað þessir staðir allir heita sem draga að sér ferðamennina eins og segull. Líklegt má telja að margir erlendir ferðamenn hafi ekki enn uppgötvað ýmsa þá staði sem hafa hvað mest upp á að bjóða og má þar t.a.m. nefna Breiðafjarðareyjar en skoðunarferð frá Stykkishólmi um Breiðafjörð er ógleymanleg; flóðið, fuglarnir, eyjarnar. Eftirminnilegri ferð getur vart í góðu veðri og í næsta nágrenni Dalasýsla eða Snorrungagoðorð sem kalla má vöggu íslenzkrar menningar vegna þeirrar sagnalistar sem þar á dýpri rætur en nokkurs staðar annars í landinu.

 

Náttúran og sagan

Útlendingar sækjast líklega einna helzt eftir stórbrotinni náttúrufegurð landsins, síður söguslóðum. En nú hafa Íslendingasögur verið gefnar út á ensku í frábæru safni svo að ætla má að áhugi Íslandsfarans á söguslóðum sagnanna aukizt til muna. Þá verður sögulegt landslag ekki síður hið mikla aðdráttarafl. Það var þetta landslag sem danska skáldiðMartin A. Hansen, sem skrifaði Rejse på Island, sóttist einna helzt eftir en síður náttúran sjálf. Það var aftur á móti í hana sem danska ljóðskáldið Björnvig sótti þegar hann var að leita að hinum guðlega innblæstri í nýsköpun íslenzkrar náttúru.

Margt hefur verið gert til að efla þessa mikilvægu atvinnugrein þjóðarinnar og standa efni til þess að enn verði róðurinn hertur, þó að ferðamannastraumurinn að sumarlagi sé að nálgast það sem íslenzkt umhverfi þolir. Með því þarf að fylgjast rækilega og gæta þess öðru fremur að þessi mikli fjársjóður okkar, náttúran og umhverfið, verði varðveitt og ræktað í samræmi við siðmenningarlegar kröfur samtímans. Nátengd þessum kröfum er að sjálfsögðu sú áherzla sem við verðum að leggja á umferðarmenningu en hún er forsenda þess að við getum tekið á móti svo mörgum útlendingum sem raun ber vitni, áfalla- og slysalaust. Það er brýnt verkefni að aga ökumenn hér á landi, kenna þeim og innræta umferðarmenningu en skortur á henni er undirrót hraðaksturs og tillitsleysis.

 

Orka og umhverfisvernd

Sú fullyrðing gæti vel staðizt að ekkert fyrirtæki í landinu kynni sig með jafngóðum og upplýsandi ritum og Landsvirkjun en þessi rit eða bæklingar liggja frammi þar sem fyrirtækið hefur starfsemi og er þar geysimikinn fróðleik að finna. Einn bæklingurinn fjallar t.a.m. um umhverfi okkar og er þar lögð áherzla á að vatnsafl er sólarorka og sýnt fram á að raforka er hentugasta orkan og að sjálfsögðu endurnýjanleg vegna hringrásar vatnsins, eða sjálfbær eins og sagt er, og á það að sjálfsögðu bæði við vatnsafl og jarðhita en hvorki kjarnorku, kol, olíu né jarðgas. Þannig eru gróðurhúsaáhrif af vatnsafls- eða jarðhitaorku lítil sem engin og er það eins og nú háttar mikilvægast vegna þess hvert stefnir í þeim efnum. Að vísu er nokkur sjónmengun af rafmagnsmöstrum og nauðsynlegt að hafa vaðið fyrir neðan sig svo viðkvæmt sem umhverfið er. Það er þá ekki síður mikilvægt að velja rétta staði undir lón og orkuver og hefur það tekizt vonum framar hingað til. Í því kynningarriti sem nefnt var er um þessi mál fjallað af viti og varkárni og af þeim sökum ekki sízt er þess að vænta að jafn-vel verði staðið að þeim framkvæmdum sem eru í undirbúningi og áður hefur tíðkazt, hvort sem þær verða á Sprengisandsleið - og þá á slóðum heiðargæsarinnar í Þjórsárverum - eða á Austurlandi þar sem við hljótum óhjákvæmilega að vinna að því að verndaður verði sá mikilfenglegi þjóðgarður sem allir virðast sammála um að þar eigi heima, hvort sem um er að ræða náttúruverndar- eða virkjanamenn eins og þessar fylkingar hafa verið nefndar.

Orka og list

Í tengslum við allt þetta má nefna þá nýstárlegu og uppbyggilegu starfsemi sem Landsvirkjun hefur efnt til að ósk og frumkvæði Félags íslenskra myndlistarmanna og er þá átt við listsýningar við Laxárvirkjun og Ljósafoss. Þær eru án efa uppörvandi nýjung eins og þeir hafa áreiðanlega sannfærzt um sem þangað hafa komið í sumar. Í tengslum við þessar sýningar er það ekki sízt mikilvægt að nú gefst almenningi kostur á að skoða innviði þessara virkjana því að heimilt er að fara um berggangana við Laxárvirkjun en þeir eru svo vel gerðir að telja má til listrænnar sköpunar enda eiga þeir rætur í hugviti mannsins og þrá hans eftir hagnýtum tengslum við náttúruna og umhverfið. Mannvirkin við Ljósafoss eru með öðrum hætti og mætti kannski segja að þar sé vélasalurinn ekki minnsta listaverkið á sömu forsendum og nú var nefnt. Þessi mannvirki eru einhvers konar leikur við berg og fossa, leikur hugans að umhverfi, leit mannsins að sjálfum sér og hlutverki sínu í þessu sama umhverfi. Hann er ekki utan við það heldur partur af því. Og því betur sem nútímatækni og hugvit mannsins fellur að náttúru og umhverfi, því reisulegra minnismerki um getu mannsins, þrá hans og viðhorf.

Allt er þetta í samræmi við hugmyndir þess myndlistarmanns íslenzks sem einna helzt hefur opnað augu okkar fyrir þessu samspili vísinda og listar, Ásmundar Sveinssonar. Í Ásmundarkveri er ekki sízt um þetta fjallað, en áður en að því er vikið er ástæða til að fagna mjög góðri og ítarlegri sýningarskrá Landsvirkjunar og Félags íslenskra myndlistarmanna en hún er ekki sízt til þess fallin að vekja athygli á þessu sérstæða framtaki og varðveita þau heillavænlegu áhrif og þá óvenjulegu reynslu sem fylgir heimsókn í þetta stórkostlega - og nú einnig listræna - umhverfi.

Í Bókinni um Ásmund kemst listamaðurinn m.a. svo að orði: "Ég segi stundum við nemendur mína: Íþróttamaðurinn hleypur og nær marki, listamaðurinn nær aldrei marki - því það fer hraðar en hann sjálfur. Það opnast sífellt nýjar víðáttur. Nútímalistin gefur mönnum einmitt tækifæri til að horfa inn í þessar víðáttur - og endurnýja sköpunarmátt sinn. Áður héldu listamenn sig við bundna fyrirmynd, nú er listin orðin alheimslegri í eðli sínu. Það er ekkert undarlegt ef við höfum í huga vísindi nútímans og hugarfar manna nú á tímum. Allt hefur víkkað. Allt hefur losnað úr læðingi. Og svo er það tæknin. Hún verður alltaf til. Ef hún á að verða eilífur þáttur í heimsmynd okkar verður hún að sameinast listinni."

Þarna er tónninn sleginn. Eitt verka Ásmundar heitir Raforkan, það var engin tilviljun.

 

7. september, fimmtudagur

Fékk þennan tölvupóst í kvöld.

Kæri Matthías.

Sem aðdáandi þinn og Morgunblaðsins leyfi ég mér að senda þér nokkrar línur. Ég get ekki orða bundist yfir því að Morgunblaðið þegi þunnu hljóði yfir því ofríki sem lögreglan hefur sýnt fjölmiðlum (öðrum en Morgunblaðinu) í tengslum við heimsókn Li Pengs. Í leiðara Morgunblaðsins í gær sagði: "Tjáningarfrelsi og óheft skoðanaskipti eru grundvöllur okkar samfélags."  Samt finnst blaðinu það engum tíðindum sæta  að lögreglan hefur orðið uppvís að því að hindra fréttamenn í starfi og brjóta stjórnarskrárbundin réttindi um tjáningarfrelsi. Enn og aftur er líklegt að blaðið setji sig í þann vanda að birta greinar um mál sem ekki eru til á síðum blaðsins. Er skemmst að minnast "kjötmálsins" í þessu sambandi, þegar utanríkisráðherrafrúin varð uppvís að smygli.

Ég leyfi mér að senda þér hér með eintak af bréfi mínu til Ríkislögreglustjórans (þú kannast við kauða) og jafnframt athyglisverða grein sem Egill Helgason skrifaði og birt var í Silfri Egils á Strik.is. Ég vil taka fram að sjálfur tek ég skýringar lögreglunnar á meintri mismunun gagnvart íslenskum fjölmiðlum til greina. Á hinn bóginn ofbauð mér að sjá að engar hömlur voru settar á kínverska fjölmiðla.

Það er svo umhugsunarvert að því miður varð taugaveiklun og götustrákaháttur íslensku lögreglunnar til að skyggja á það sem skipti máli. Þeir íslenskir stjórnmálamenn sem á annað borð hittu Li Peng minntust ekki að séð verður á mannréttindamál. Ólafur Ragnar sagði skv. China Daily að samskipti Íslands og Kína væru til fyrirmyndar í samskiptum smárra og stórra ríkja, og Davíð ræddi bara viðskipti. Guðmundur Árni virtist sammála því að sinn væri siðurinn í hverju landi og ekkert meira um það að segja (Dagblað alþýðunnar).  Svo voru menn að skamma Vigdísi hér um árið!

Ég vona að þú virðir það við mig að ég sé ósáttur við Moggann að þessu sinni: Vinur er sá sem til vamms segir.

Með bestu kveðjum, Árni Snævarr.

 

Svar:

Árni minn Snævarr, þakka þér póstinn. Það sem ég get sagt er þetta:

Ríkislögreglustjóri tók málstað fjölmiðla  ekki síður en lögreglu í einnar mínútu samtali við aðrahvora sjópnvarpsstöðina og er ég ekki viss um að allir embættismenn hefðu tekið slíka áhættu gagnvart sínum mönnum.En stöðin skrökvaði í kynningu, sagði: Ríkislögreglustjóri ver lögregluna!.Hann sagði einungis að menn yrðu að fara að reglum hennar og ekki getur það verið ámælisvert!!

Ef of nálægt væri komið gætu erl.öryggisverðir gripið til vopna með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og því ekki sízt nauðsynl.að halda reglur.

Ábyrgð lögreglunnar er þannig tvíþætt, ef ekki á að hljótast slys af. Ég veit að ríkislögreglustj.virðir rétt fjölmiðla, en hann hefur tvöföldum skyldum að gegna. Ég veit einnig að hann hefur andúð á hörku eða ofbeldi, þótt að því sé látið liggja að hann sé talsmaður þess í delluleiðara Óla Björns í DV í dag; að allt hafi nú lýðræðið versnað eftir að hann kom til skjalanna. Þetta er alvarleg aðdróttun, en ég þykist vita að hann lætur hana sem vind um eyru þjóta úr þeirri átt. Það mundi ég amk. gera. Slíkir sleggjudómar er amk.ekki veganesti Óla Björns héðan frá Mbl.

Ríkislögreglustj. þekkir betur en flestir aðrir  baráttu blaðamanns við fulltr. einræðis frá því faðir hans var hundeltur vegna starfa sinna og sannfæringar. En embætti hans krefst tveggja sjónarhóla - því embætti hans ber ábyrgð á lífi þessara útlendinga hér á landi, ekki síður en slysalausum störfum ísl.blaðamanna við sl. tækifæri.

Í annan stað kemur heimsókn Lís til pökkunarstarfsmanns Mbl. blaðinu ekkert við. Af einhverjum ástæðum sem ég þekki ekki var farið fram á þessa heimsókn - og líkl. gegnum Alþingi - og þá bauð þessi starfsmaður blaðamönnum okkar heim til sín (án þess ég vissi þó af því), enda ræður hann sínu heimili og enginn annar. Mér skilst lögreglunni hafi bara verið tilkynnt þetta, án athugasemda. En lögreglan eða við eigum enga sök.ef einhverr sök er - sem ég sé þó ekki. Þótt margt hafi breytzt hér á landi ráða menn  yfir heimilum sinum, þurfa jafnvel ekki að biðja BLM.fél. um leyfi til að bjóða bl. Mbl. heim!!En auðvitað er reynt  sub rosa að spyrða Harald saman við mig í þessu máli, það er skítlegur leikur af þeirri einföldu ástæðu að  ríkislögreglustj.sinnir embætti sínu af stakri kostgæfni og heiðarleika (enda á hann ekki langt að sækja það!)

Loks, við munum að sjálfsögðu segja  frétt um kvörtun þína og  skýringaósk BLM.fél.og þá væntanlega geta svara lögreglu þegar þar að kemur.

Óska þér svo alls hins bezta, ekki sízt í starfi, og gott fyrir okkur blm. að muna að það er aldrei nein ein hlið á nokkru máli. Það veit  Stefán heimspekingur bróðir þinn, ekki sízt. En hvað sem öllu líður getum við unað nokkuð vel hér á torgi hins íslenzka friðar.

Kveðjur Matthías.

 

12. september, þriðjudagur

Hádegisspjall okkar Günter Grass og Slawomir Mrozek í Norræna húsinu í gær var mikil áraun fyrir mig, bæði hafði ég kviðið fyrir þessum díalóg og svo þurfti ég að halda Mrozek inni í samtalinu en það var hægara sagt en gert. Þessi pólski höfundur leikritsins Tangó, sem hér var sýnt á sínum tíma, hefur verið í útlegð um 30 ára skeið og einangrazt með þeim hætti að hann er í litlum sem engum tengslum við pólskar bókmenntir. Grass reyndi að vísu að hjálpa mér að koma honum inní samtalið, en það gekk brösulega. Þó sagði hann ýmislegt sem veigur var í. Það er erfitt að fjalla um þetta efni, bókmenntir og tjáningarfrelsi, á ensku því að orðin vilja ekki alltaf koma þegar maður þarf á þeim að halda, en það virtist ekki koma að sök. Ég hefði þó viljað standa mig betur í þessum efnum en í svona kringumstæðum verður maður einhvers konar fórnardýr hraðans og hefur ekki tök á öllu sem maður ætlar. Mér fannst álitlegt að hefja umræðurnar með kvæðalestri og þess vegna gerði ég það að tillögu minni að Grass læsi minningarkvæði um leikhúsmanninn Henn sem ég hafði þýtt í Oberammergau haustið 1973, með aðstoð Lísu Kreitmeier, sem er myndlistarmaður eins og Grass og navisti. Þetta gekk ágætlega, Grass las frumkvæðið af myndugleika og ég lauk svo mínu hlutverki og las þýðinguna. Að vísu stóð ég mig að því að hafa niðurlagið vitlaust, sagði endalaust í staðinn fyrir svefnlaus, en ég held það hafi ekki komið að sök og fáir eða enginn tekið eftir því. En slíkt leiðréttir maður ekki við slíkar aðstæður. Síðan ætlaði ég að tala um hlutverk ljóðsins undir einræði og hve máttugt það var í járntjaldslöndunum á sínum tíma og tókst að minnast á pólska skáldið Harasymonicz og kvæði hans um Matseðilinn sem lýgur aldrei, ekki frekar en fyrirheit og stjórnarstefna einræðisseggja, minnti á kvæði Kunze um Peter Huchel, austur-þýzka skáldið ágæta sem sá sér ekki annað fært en flýja land uppúr miðjum sjöunda áratugnum, en Kunze sagði þá:

Er ging

die zeitungen meldete

keinen verlust.

 

Uppúr þessu spunnust einhverjar umræður sem fóru reyndar í annan farveg en ég hafði hugsað mér og var ástæðan sú að Mrozek hafði engan áhuga á málinu því að hann sagðist ekki vera skáld og þekkja ekkert til pólskrar ljóðlistar. Ég ætlaði einnig að minna á orð rússneska skáldsins Osip Mandelstam þegar hann segir í einu kvæða sinna: Lífið í Pétursborg er svefn í líkkistu; einnig þessa ljóðlínu Tsvetajevu: Tár þín eru perlur í kórónu minni, en til þess gafst ekki færi þótt andrúm stalínismans hefði verið vel við hæfi á þessari stund, eða endurminningin um það.

Um morguninn höfðu Mrozek og Grass komið í heimsókn til mín upp á Morgunblað, ásamt Pétri Má og Steidl, sem gefur Grass út í Þýzkalandi og einhverja íslenzka höfunda einnig, meðal þeirra Laxness að ég held, og áttum við hálfs annars tíma samtal til að hita okkur upp! Þetta var ágætur undirbúningur og ég held að hádegisspjallið hefði orðið heldur þunnur þrettándi, ef það hefði ekki átt sér stað. Það byrjaði nefnilega með því að Mrozek sagðist ekki vera skáld og ekkert vita um pólska ljóðlist og bætti við "Ef þið ætlið að fjalla um þetta viðfangsefni þá eru þið með vitlausan mann". Ég sá í hendi mér að þetta yrði einhver vandræðagangur og fór þá þegar að tala um Tangó, enda er ég vel að mér í leikritinu og kann efni þess nokkurn veginn utanbókar, gat minnzt á orðnotkun Mrozeks og þann tilgang hans að fjalla um pólskt samfélag með þessari dæmisögu eða alligóríu um heimilishald í rúst. Hann vildi ekki samþykkja að leikritið væri dæmigert fjarstæðuleikhús en eitthvað í þá áttina og sagði það rétt vera að verkið fjallaði öðrum þræði um pólskt þjóðfélag undir kommúnisma. Með þessum hætti komst Mrozek á skrið og sætti sig við samtalið, og kvaðst ekki hafa neitt við það að athuga hvernig ég ætlaði að byggja díaloginn upp í hádeginu. Sá björn var sem sagt unninn. Síðan var margt spjallað og sagði Mrozek m.a. að honum hefði fundizt hann kominn til Mexíkó, þar sem hann bjó árum saman, þegar hann var lentur í Keflavík. Hann sagði að landslagið minnti sig á Mexíkó, en þegar við töluðum um náttúruna og skáldskap í hádegisspjallinu nefndi hann þetta ekki þótt ég reyndi að gefa honum færi á því. Hann var sem sagt afar þungur í taumi og það er augljóst að þessi langa útlegð eða einangrun hefur haft mikil áhrif á karakter hans, viðhorf og framkomu.

Grass er aftur á móti mjög viðráðanlegur, ef svo mætti segja, og samvinnuþýður í slíkum díólóg. Hann talaði meira að segja um pólskan skáldskap eins og hann gerði raunar í hádegisspjallinu og hefur augsýnilega fylgzt vel með. Ég minnti þá á hvernig Geirlaugur Magnússon hefði minnzt þess í eftirmála þýðinga sinna á pólskri ljóðlist að ljóðið hefði verið í hávegum haft í Póllandi, þegar hann var þar 1970, allir talandi um ljóð, allir hugsandi um ljóð og gat þess einnig sem hann segir í þessum sama eftirmála að pólska nóbelskáldið, Czeslaw Milosz, hefði einhvern tíman sagt að á landakortinu væri hvítur blettur ókannaður - þetta væri landsvæði pólskra bókmennta.

Mrozek sagði að það hefði þá kannski ekki verið ástæða til að kanna þennan blett sérstaklega, en Grass minntist aftur á móti á bók Milosz, Captiv Mind sem hefði haft mikil áhrif á hann á sínum tíma og vorum við sammála um að þetta hefði verið mikil og merkileg bók Ég þekkti hana vel, las hana spjaldanna milli og vitnaði stundum í hana á kaldastríðsárunum. En það sem mér þótti kannski merkilegast var sú fullyrðing Grass að Pólverjar hefðu vegna reynslu sinnar og sögu kunnað miklu betur að lifa undir einræði en til að mynda Austur-Þjóðverjar og þar hefði verið þó nokkurt frjálsræði eða þíða um skeið, eða  um miðjan sjötta áratuginn og hefði Austur-Þjóðverjum þótt það heilmikið frelsi. Hann bætti því við að pólskar bókmenntir hefðu alltaf lifað utan Póllands, þær hefðu aldrei kafnað vegna kúgunar, heldur hefðu þær verið lifandi bókmenntir annars staðar í heiminum, þótt þær hafi ekki átt upp á pallborðið heimafyrir. Þetta þótti mér merkilega athugasemd og þá einnig þau ummæli Grass að tjáningarfrelsi eða ritskoðun gætu verkað örvandi á höfunda, en um það vildi hann augsýnilega ekki tala í hádegisspjallinu; ekki frekar en þýzka gagnrýnandann sem Spiegel birti forsíðumynd af, þegar hann reif síðustu bók Grass í tætlur fyrir framan myndavélina! Ég spurði Grass um morguninn hvernig það hefði farið í hann. Hann sagðist hafa hlegið að þessu með sjálfum sér, en þó væri þetta fyrirlitlegt athæfi og hann hefði ekki skrifað orð í Spiegel og mundi ekki gera eftir þennan atburð.

Þegar ég ætlaði að spyrja hann um þetta í hádegisspjallinu eyddi hann því og sagði það væri of mikill heiður fyrir þennan þýzka gagnrýnanda að minnast á hann.

 

Ég minntist á grein Kundera í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag þar sem hann fjallar um jaðarbókmenntir og stórveldabókmenntir, en þó einkum um upphaf skáldsögunnar og nefnir þá Cervantes til sögunnar, en minnist ekki einu orði á íslenzkar fornsögur. Það hefur bandaríski bókmenntafræðingurinn Harold Bloom ekki heldur gert! Ég minnti Grass á að í samtali hans (sem var þýtt og prentað í Tímariti Máls og menningar) talar hann um hvernig Cervantes kynntist munnlegri frásagnararfleifð, þegar hann var fangi í Algeirsborg, og gefur eiginlega í skyn að þar sé að finna rætur skáldsögunnar.

 En ég komst ekki upp með moðreyk, Grass skemmti sér við að kalla þetta áróður af minni hendi og þá hlógu allir. Mér fannst þetta skemmtileg athugasemd en í raun og veru misskildi Grass það sem ég sagði, eða vildi misskilja það. Íslendinga sögurnar eru sprottnar úr munnlegri arfleifð líkt og margt annað í góðum skáldskap en eru svo skrifaðar á bókfell af merkum höfundum, óþekktum. En skáldsögulegur búningur þeirra er nútímalegur og fjallar með sama hætti um samtíð höfundanna og arfleifð þeirra og skáldsagnahöfundar gera enn í dag - og þá ekki sízt Günter Grass sem hefur borg æsku sinnar Danzig undir smásjánni og horfir í gegnum linsuna, Óskar dverg, sem allt sér og fylgist með öllu. En þessar ábendingar urðu til þess að Grass leysti frá skjóðunni og sagði skemmtilega hluti um ritverk sín. Um morguninn hafði hann sagt mér að upphaf allra skáldsagna hans væru ljóð um sama efni og það væri því ekki að ástæðulausu sem lesendur rækjust á ljóðræna kafla í verkum hans. Í hádegisspjallinu minnti ég einnig á kaflann: En var María falleg? Þar kemur raunsæisleg lýsing á Maríu, sem, eins og ég sagði, minnti mig á Buddenbrook Manns, en andrúmið er ljóðrænt og áferðin einhvers konar ljóðrænn prósastíll. Ég held Grass hafi þótt vænt um þessa athugasemd mína, a.m.k. komst hann á þó nokkurt flug og díalógurinn á það plan sem ég hafði ætlazt til. En Mrozek var alltaf dálítið utangátta og mér er sagt að áheyrendur hafi gert sér grein fyrir því og þá ekki síður tilraunum mínum til að koma honum inní samtalið, þótt misjafnlega gengi. En viðtökur voru góðar og mér skilst að mönnum hafi þótt fengur að þessari hádegisstund með skáldunum. Annars skrifaði Súsanna Svavarsdóttir frásögn af þessu skáldamóti, þar er minnzt á nokkur helztu atriði og læt ég þau fljóta hér með:

 

Þetta er áróður!

sagði Günter Grass, þegar Matthías Johannessen hélt fram fornsögunum sem fyrstu skáldsögunum.

Í hádegisspjalli í Norræna húsinu í gær ræddu rithöfundarnir Günter Grass, Matthías Johannessen og Slawomir Mrozek um bókmenntir og tjáningarfrelsi. Súsanna Svavarsdóttir fylgdist með umræðunum, þar sem íslenzk náttúra og fornsögurnar komu mjög við sögu.

Bókmenntir, tjáningarfrelsi, almennt hádegisspjall var yfirskriftin á hádegisspjallinu í Norræna húsinu í gær og var spjallið á dagskrá bókmenntahátíðarinnar sem nú stenduryfir í Reykjavík. Þátttakendur í spjallinu voru þýski nóbelshöfundurinn Günter Grass, pólski leikritahöfundurinn Slawomir Mrozek og Matthías Johannessen ritstjóri og skáld sem stýrði umræðunum.

Hádegisspjallið hófst á því að Günter Grass las ljóð sitt "Vinur minn Walter Henn er látinn" og á eftir las Matthías Johannessen þýðingu sína á ljóðinu og sagði að í framhaldi af því myndu þremenningarnir byrja spjallið á hugleiðingum um ljóðlist. Hann sagði að Günter Grass hefði gefið út þrjár ljóðabækur og í skáldsögum hans væru einnig afar ljóðrænir kaflar. Grass hefði frá upphafi verið undir miklum þrýstingi frá stjórnvöldum í sínu heimalandi þar sem tortryggni gagnvart ljóðlist hefði verið mikil og ljóðformið hefði verið það bókmenntaform sem álitið hefði verið hvað hættulegast. Hann vitnaði í spurningu sem Grass sló fram í einu ljóða sinna; "Er ljóðið vopn?" og beindi henni til skáldsins sjálfs.

Grass svaraði því til að greinilegt væri að frá einum sjónarhóli væru ljóð litin vopn og það væri innbyggt í kerfi einræðisstjórnar að óttast ljóðlistina. Hún væri álitin áróðursvopn. "Fyrir mér er þetta ekki svona einfalt," sagði Grass, "ég skrifa ljóð þegar ég hef tilefni til þess. Ég sest ekki niður og skrifa. Ég verð að bíða eftir tilefni. Það kemur ekki af sjálfu sér." Grass sagði frá því að eftir útkomu fyrstu ljóðabókar sinnar hefði hann því farið þá leið að fletta ljóð sín inn í skáldsögur sínar; löngu seinna hefði hann snúið sér aftur að ljóðlistinni og skrifað svokallaðar akvarellur. Hann hafi með því skapað nýja tegund af ljóðum, sem væri sambland af "akvarellum" og "digtum" sem hann kallaði "akvadigter".

Grass sagði einnig frá því að á 6. áratugnum hefði verið tímabil í Póllandi þar sem tjáningarfrelsi hefði verið óheft. Þetta tímabil hefði verið stutt og á milli tveggja ritskoðunartímabila. Þá hefðu verk tveggja pólskra ljóðskálda verið þýdd á þýsku og þau hefðu haft mikil áhrif á þýsk ljóðskáld sem voru á þeim tíma undir miklum áhrifum af bandarískri ljóðlist. Sem dæmi um ritfrelsið sem ríkti í þennan stutta tíma sagði Grass frá því að þá hefði verið leyft að sýna Polisja eftir sessunaut hans, Slawomir Mrozek, í Póllandi en ekki í Austur-Þýskalandi.

Reyndi að skrifa þannig að einræðið þyldi við

Þegar Mrozek var spurður um þessa stuttu þíðu í Póllandi og hvaða áhrif hún hefði haft á hans listsköpun, byrjaði hann á því að taka það fram að hann væri ekki ljóðskáld og þekkti því persónulega ekki til þeirrar ógnar, sem ljóðið væri. "Mitt sérsvið er leikrit og smásögur," sagði Mrozek, "þegar ég byrjaði að skrifa um tvítugt stóð einræðið mjög föstum fótum í Póllandi. Ég hafði mjög mikinn áhuga á því og reyndi í eitt og hálft ár að skrifa eitthvað sem var ekki of slæmt fyrir einræðið. Eftir þann tíma áttaði ég mig á því að ég væri að skrifa áróður en ekki bókmenntir. En þetta hlé sem varð á ritskoðun var mikilvægt fyrir pólska rithöfunda. Ég var 26 ára og við gátum náð andanum, það er að segja, við gátum fjallað um hluti sem höfðu verið bannaðir. Við gátum fjallað um vestræna menningu og kynnt okkur hana. Án þessa stutta hlés hefði mín kynslóð orðið mjög fáfróð og heimsk." Matthías Johannessen sneri sér aftur að Günter Grass og spurði hvort hann hefði ekki verið sakaður um guðlast og svaraði Grass því til að víst hefði svo verið en hann hefði einnig á sínum tíma verið sakaður um klám. "Ég skrifaði líka einu sinni um fisk," sagði hann, "og var sakaður um að grafa undan fiskiðnaðinum." Hann sagði verk sín ekki aðeins hafa mátt þola ritskoðun í Austur-Evrópu, heldur einnig á Spáni og í Portúgal og í Póllandi hefði þetta ekki aðeins verið spurning um guðlast, heldur hefði hann í einu verka sinna fjallað um hegðun rússneskra hermanna gagnvart ungum, pólskum stúlkum og það hefði ekki mælst vel fyrir í kommúnistaríkinu.

Slyppur og snauður til Ítalíu

Þegar Mrozek var spurður um hans reynslu af ritskoðun, sagðist hann ekki viss um hvernig hann ætti að svara því. Þegar hann hefði verið í Póllandi hefði hann ekki vitað hver hann var vegna þess að hann var eign ríkisins, eign ritskoðunarinnar. "Ég yfirgaf land mitt árið 1963 og bjó í 33 ár erlendis, fyrst á Ítalíu, síðan í París og að lokum í Mexíkó. Ég fór ekki aftur heim fyrr en þjóðskipulaginu hafði verið breytt." Mrozek sagðist hafa komið slyppur og snauður til Ítalíu og með framtíðina í óvissu. Hann hefði verið svo heppinn að fyrsta leikritið sem hann skrifaði þar, Tangó, sló í gegn. Það hefði komið sér mjög vel, bæði efnahagslega og fyrir hann sem listamann. Þegar hann var spurður hvort Tangó væri ádeila á fjölskylduna, eða þjóðfélagsádeila, sagði hann að það væri hvort tveggja. "Í verkinu er tekist á við reglu andspænis ævintýramennsku og fjallað um togstreitu milli kynslóðanna sem alltaf hefur verið og verður áfram." Mrozek bætti við, að verkið hafi verið dæmt sem andspyrnuverk og sagði: "Samkvæmt minni reynslu stóð ríkisvaldið, sem í mínu tilviki voru kommúnistar, mjög föstum fótum og kallaði sig af miklu sjálfsöryggi Byltingarflokkinn. Þeir reyndu ekki einu sinni að leyna mótsögnunum sem í þessu fólst og kölluðu fólk eins og mig andbyltingarsinna." Þegar Mrozek var spurður hvort verk hans mætti skilgreina sem "absúrd-verk" og hvort nauðsynlegt hefði verið fyrir hann að nota þá aðferð til að skrifa, svaraði hann því til að hann felldi sig ekki við þá skilgreiningu að verk hans væru "absúrd". Hann sagði mikinn mun á upphaflega "absúrdismanum" og þeim verkum sem Austur-Evrópu höfundar hefðu skrifað. "Absúrdisminn varpaði ljósi á hvað lífið er fáránlegt, til dæmis hvað það er í sjálfu sér fáránlegt að við skulum eiga eftir að deyja og að við skulum öll vera að burðast við að lifa lífinu þegar það eina sem blasir við er að við eigum eftir að deyja.

En fyrir okkur Austur-Evrópu-höfundunum var þetta spurning um það pólitíska vald sem við bjuggum við. Við kvörtuðum ekki undan lífinu sjálfu. Við báðum um að pólitíska kerfið sem við bjuggum við yrði fjarlægt - í Guðs bænum."

Skilgreiningar

Günter Grass bætti því við að rithöfundar hefðu alltaf mátt þola skilgreiningar sem kæmu að utan og benti á að nú væru menn álitnir skrifa "póstmódernísk" verk. En fyrst verið væri að tala um absúrdismann, þá mætti leiða að því rökum að Cervantes hefði verið fyrsti absúrdistinn. Hann væri hins vegar flokkaður annars staðar. "Við rithöfundar verðum að sitja undir því að prófessorar skilgreini verkin okkar. Við verðum bara að þola það,"sagði hann.

Þar sem Grass hafði tekið Cervantes sem dæmi, sagði Matthías að það minnti sig á það gildi sem munnleg geymd hefði í bókmenntum en Cervantes hefði einmitt kynnst henni í fangelsi í Alsír. Sagði hann að íslensku fornsögurnar ættu rætur í munnlegri geymd og spurði hvort ekki væri tími til kominn að viðurkenna að þær væru í rauninni fyrstu skáldsögurnar sem ritaðar hefðu verið og benti á að bæði þýski rithöfundurinn Heinrich Böll og suður-ameríski höfundurinn Borges hefðu sagt í samtölum við sig, að þeir hefðu báðir verið undir áhrifum frá þeim.

"Þetta er áróður," svaraði Grass að bragði og bætti því við að víst væri rétt að upphaflega hefðu bókmenntir ekki verið ritaðar. Hann væri ekki þeirrar skoðunar, að þörf væri á því að viðurkenna íslensku fornsagnirnar sem fyrstu skáldsögurnar; ef lengra væri litið, væri Biblían hugsanlega fyrsta skáldsagan sem rituð hefði verið.

"Ég held að það sé út í hött að leita að upphaflegu skáldsögunni," sagði Grass og bætti því við að enn í dag væru sögur fyrst mæltar og síðan ritaðar. "Þegar ég skrifa sit ég til dæmis ekki, heldur stend ég. Ég geng um gólf og þyl setningarnar sem ég ætla að skrifa og ég tel afar mikilvægt að við minnum okkur á að munnleg geymd var hið upphaflega form skáldsögunnar."

Rithöfundar eru í hópi þeirra sem tapa

Matthías spurði Grass út í Danzig-trílógíuna sem eru skáldsögurnar Blikktromman, Köttur og mús og Hundaárin og fjallar um borgina Danzig á uppvaxtarárunum.

Grass svaraði því til að Danzig væri borgin sem hann hefði glatað. Þegar ég kom aftur þangað árið 1956 hét borgin Gdansk, hún var gerbreytt. Henni hafði verið gereytt.

Fjöldi fólks hafði flutt þangað eftir stríð og ég varð að leita að því fólki sem ég fjallaði um í sögunum. Það fólk hafði ekki breyst og skildi tilfinningar mínar. Það skildi þá tilfinningu mína að finnast ég hafa misst eitthvað mikilvægt.

Þegar það gerist verður það að eins konar áráttu að skrifa um það sem er glatað til þess að endurskapa það. Við töpuðum svo mörgu, til dæmis þremur mállýskum en vegna fólksins náði ég að varðveita eitthvað af þeim í bókunum mínum.

Þegar ég segi að við höfum tapað, þá legg ég áherslu á að rithöfundur er á vissan hátt í flokki þeirra sem tapa. Í gegnum tíðina hafa tungumál tapast og borgir tapast. Þetta hefur verið um aldir og mun halda áfram og verða rithöfundum um ókomna tíð að yrkisefni.

Umræðan snerist næst um þá rithöfunda sem hafa lifað af ritskoðun og benti Matthías á að höfundar eins og Soltsjenitsjin hefðu algerlega horfið úr heimspressunni. Hvort mögulegt væri að andófsrithöfundar þrifust á hatri og ritskoðun.

Grass svaraði því til að Soltsjenitsjin hefði skrifað stórkostlegar bækur sem enn væru til en fjölmiðlar hefðu bara gleymt honum. Sagði það segja meira um fjölmiðla en Soltsjenitsjin.

Hann sagðist draga þá ályktun að blaðamenn væru ekki lengur færir um að lesa og síðan væri þetta spurning um ritskoðun á Vesturlöndum. Ef rithöfundur skrifaði gegn ríkjandi kapítalisma, væri hann þagaður í hel.

Vestræn ritskoðun

Það var ekki laust við beiskjutón hjá Grass þegar hann sagði að Vesturlönd litu á sig sem sigurvegara og að sigurvegarar væru alltaf heimskir. "Þeir eru að gera sömu mistök og kommúnistarnir áður," sagði hann, "og þeir trúa sinni eigin lygi.

Á Vesturlöndum er því haldið fram að markaðurinn leysi allt. Það er lygi og áróður." Í fyrsta skipti í þessu hádegisspjalli heyrðust mótmæli úr sal en Grass var ekki af baki dottinn og bætti við: "Þetta er eins og þegar kommúnistaflokkurinn sagði að flokkurinn myndi sjá um allt." Matthías Johannessen tók undir það, að markaðurinn bjargaði ekki endilega neinum verðmætum, hann væri t.a.m. ekki listvænn, þar ættu góðar bókmenntir undir högg að sækja. "Það er mitt kapitaliska viðhorf!!." Mrozek sagði, að hann væri ekki ritskoðaður í dag.

"Ég hef búið einn í Mexíkó í mörg ár, á afskekktum stað þar sem ég hef ekki haft síma og ekki sjónvarp. Ég fór aftur heim fyrir nokkrum árum og þá hafði Pólland gerbreyst. Ef það hefði ekki gerst, hefði ég aldrei farið heim. En ég er í einskismannslandi. Ég hef gleymt reynslunni af kommúnistakerfinu og af kapítalíska kerfinu í þau sjö ár sem ég bjó í Mexíkó. Í þau fjögur ár sem ég hef verið í Póllandi, hef ég verið að reyna að púsla lífi mínu saman."

Náttúra og bókmenntir

Höfundarnir þrír ræddu að lokum um tengsl náttúru og bókmennta og sagðist Grass vel skilja að þessi tengsl væru Íslendingum hugleikin, þar sem hér væri bara náttúra, náttúra, náttúra - menn þyrftu ekki að fara út úr húsi til þess að njóta hennar.

"Það er auðvelt að skilja hversu hættuleg tilvera ykkar er," sagði hann og bætti því við að ef hann ætti að tala um náttúruna á vinsamlegan hátt, þá hefði náttúran mun meiri fantasíu en mannlegt eðli.

"Ég reyni að skilja hana og bregðast við henni," sagði Grass, "og ég held að manneskjan sé að missa sambandið við hana." Hann lýsti yfir þeirri skoðun sinni að hann áliti manneskjuna mesta aðdáanda náttúrunnar - og versta óvin hennar.

Matthías Johannessen lauk svo hádegisspjallinu með því að lýsa ánægju sinni með að hafa þessa tvo viðmælendur í hádegisspjalli, sem m.a. hefði snúizt um íslenzka náttúru og fornsögurnar. Grass sagði þá, að það væri óþarfi að nefna til fornsögurnar, þegar Íslendingar ættu svo ágætan og lifandi samstímaskáldskap.

Í Degi  segir m.a. um þennan fund: "Þetta er áróður," svaraði Günter Grass að bragði, og uppskar almennan fögnuð áheyrenda í sal Norræna hússins. Ef út í það er farið, sagði Grass, þá eru bækur biblíunnar fyrstu skáldsögur heims."

Grass talaði að vísu ekki um skáldsögur eins og ég, heldur bókmenntir og sneri þannig útúr fyrir mér. Eiginlega óvart,  því að hann er áreiðanlega jafn heiðarlegur og hann er fastur fyrir.

En mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna sérstakur fögnuður ætti að fara um íslenzka áheyrendur, þegar arfleifð okkar fær ekki að njóta þess sem hún á skilið. Kannski það hafi farið um salinn það sem kallað er herd mentality, eða delerium of the crowds!!

Ég veit það ekki. En þarna voru ágætir áheyrendur og líklega hafa þeir viljað skemmta sér með Grass.

Í Degi segir ennfremur: "Þegar talið barst svo aftur að ritskoðun, hinu eiginlega umræðuefni fundarins, minnti Grass á að ritskoðun hafi ekki eingöngu tíðkast austantjalds eða í ríkkjum fasista, heldur megi ekki síður finna ritskoðun á Vesturlöndum nútímans, þar sem kapítalisminn ræður ríkjum.

Meðal annars þyrftu rithöfundar að glíma við ritskoðun í fjölmiðlum, þar fengju ekki öll sjónarmið að komast að og megi rekja það til þess hve máttur fjármagnsins væri mikill. Ef dagblað birtir t.d. greinar sem eru fjandsamlegar þeim sem yfir fjármagninu ráða, þá hætta auglýsingarnar að koma og þá verða ritstjórar dagblaðsins að sjá til þess að frekari skrif í sama dúr birtist ekki í blaðinu. "Þá verða menn að leita sér að öðru dagblaði til að skrifa í," sagði Grass.  "Ef það er þá nokkuð til annað dagblað."

"Þú hefur fengið góðar upplýsingar, heyri ég," sagði þá ritstjóri Morgunblaðsins."

Að vísu eru þrjú dagblöð gefin út á Íslandi, svo engu er líkara en Grass hafi fengið rangar upplýsingar, en hitt er þó mikilvægara að ég veit ekki um nokkurt dæmi þess að Morgunblaðið hafi gefið eftir vegna auglýsinga; t.a.m. hefur Eimskip aldrei dregið auglýsingu til baka þrátt fyrir aðhald okkar  á sínum tíma og mér vitanlega ekki LÍÚ eða kvótahafar vegna sjávarútvegsstefnu okkar. En kvikmyndahúsaeigendur hafa að vísu haft í hótunum, t.a.m. vegna gagnrýni, en á það hefur aldrei verið hlustað. Við höfum aftur á móti haft samstarf við þá um aukið efni um kvikmyndir, rétt eins og fasteignasala sem virðast aldrei fyllilega ánægðir með þjónustu blaðsins. En þessi samskipti hafa aldrei farið fram á þeim forsendum sem Grass nefndi, enda slíkt óhugsandi af þeirri einföldu ástæðu að við blöndum ekki saman efni og auglýsingum. Ég held allir sem vilja viti það.

 

 

Indriði G. Þorsteinsson jarðsettur í dag. Ég skrifaði grein um hann í Morgunblaðið og svaraði einnig spurningu Dags um stöðu hans, einkenni og framtíð verka hans. Þær greinar eru svohljóðandi:

Hann bjó um sig í Drangey samtímans

Indriði G. Þorsteinsson lifði margar ævir. Hann var rithöfundur, framkvæmdastjóri, ritstjóri; hvarvetna í fremstu víglínu. Styrkur hans sú íslenzka þjóðmenning og þúsund ára arfleifð sem setti mark sitt á æskuumhverfið í Skagafirði.

Spegill er vatnið og vökul er nóttin við ána og vaxandi tunglið er glitrandi daggir við ljána, þannig er dauðinn og dregur sinn slóða við stráin unz deyjandi sólin hún hnígur við grasið og ljáinn. En spegillinn gárast og vatnið er söngfugl í sárum og síðustu ljósbrotin ýfast sem vindur í gárum, svo dagar að morgni og gustar við glitrandi ána og grasrótin styrkist og upprisan hefst nú við ljána.

Indriði G. Þorsteinsson lifði margar ævir. Hann var rithöfundur, framkvæmdastjóri, ritstjóri; hvarvetna í fremstu víglínu. Styrkur hans sú íslenzka þjóðmenning og þúsund ára arfleifð sem setti mark sitt á æskuumhverfið í Skagafirði. Þessi arfleifð var umgjörð fræknustu afreka Indriða G. Þorsteinssonar, skáldsagna sem spruttu úr umhverfi hans sjálfs. Deiglan þjóðfélagsbreytingar stríðsáranna. Þessi skáldverk voru sérstæð og mörkuðu tímamót í íslenzkri bókmenntasögu. Samt átti Indriði við andróður að stríða enda var skaplyndi hans með þeim hætti sem einkenndi þjóðfélagstákn eins og Gretti Ásmundarson. Undir lokin bjó hann um sig í Drangey samtímans. Þar varðist hann ef að honum var sótt og hafði engar áhyggjur af örlögum sínum að öðru leyti. Féll að lokum fyrir þeim eina vígamanni sem allt hefur í hendi sér, þessum með ljáinn. En hann kallar á andstöðu sína, upprisuna. Nú er upprisa Indriða G. Þorsteinssonar hafin þarna á bökkum þess mikla fljóts sem við köllum tíma og hverfur í hafið án þess hugsa um bakka sína:

 

Spegill er vatnið og vökul er nóttin við ána

og vaxandi tunglið er glitrandi daggir við ljána,

þannig er dauðinn og dregur sinn slóða við stráin

unz deyjandi sólin hún hnígur við grasið og ljáinn.

 

En spegillinn gárast og vatnið er söngfugl í sárum

og síðustu ljósbrotin ýfast sem vindur í gárum,

svo dagar að morgni og gustar við glitrandi ána

og grasrótin styrkist og upprisan hefst nú við ljána.

 

Indriði G. tók mikinn þátt í þjóðmálum og gegndi reyndar einskonar forystuhlutverki í þeim efnum, meðan hann var ritstjóri Tímans. Þá gekk á ýmsu. Stundum kenndi hann áreiðanlega til í stormum sinna tíða eins og klisjan hermir. Stundum minnti hann á að illt er að egna óbilgjarnan. Hann var ritstjóri Tímans þegar blaðið gerði harða hríð að okkur Jóni úr Vör. Þá hóf Rithöfundasambandið málssókn vegna ritlauna og tapaði! En við Jón úr Vör stóðum uppi sem fórnardýr einhvers konar íslenzkrar þjóðmálaheimsku. Slíkt erfir maður ekki, það hverfur með fljótinu eins og morið. Þetta var að vísu skemmtilegur tími en harður og illskeyttur. Hann fór ekki vel með Indriða enda átti hann það sjálfur til að vera óbilgjarn og minnti á suma þá vígamenn sem eru helzt nefndir í Skagafirði á dögum sturlunga eða Gretti, sem gat ekki einu sinni látið gæsfugla foreldra sinna í friði! En hann var sanngjarn og ræktaði með sér réttlætiskennd. Þegar að honum var sótt gat hann verið langrækinn. Ég minnist hans ekki sízt í baráttunni um Fjaðrafok, þá tók hann upp hanzkann fyrir þetta óvelkomna leikrit og varði ritstjóra Morgunblaðsins sem var óvígur á heimavígstöðvum. Hann hafði sannfæringu og hún gilti. Hann átti í erjum við allskyns vinstri menn sem töldu sig af einhverjum óskiljanlegum ástæðum andstæðinga hans, sóttu að verkum hans en nefndu þau þó helzt ekki á opinberum vettvangi. Indriði lét sér fátt um finnast. Hann bjó um sig í Drangey og varðist eins og honum einum var lagið. Þar einangraðist hann æ meir og í síðasta samtali okkar heyrði ég ekki betur en hann væri sáttur við þessa einangrun og trúði því áreiðanlega innra með sér að verk hans stæðust þetta próf, þegar til lengdar léti. Á því er ekki heldur neinn vafi. Það hafa ekki verið rituð betri skáldverk um þessa umbrotatíma og þessar tvísýnu uppákomur sem hafa verið eins og Ionescu hafi skrifað þær. Indriði tók ríkan þátt í þessu íslenzka fjarstæðuleikriti. Hann lifði og hrærðist í alls kyns kenningum og pólitískum vafningum sem ég botnaði ekkert í. Hættu að berjast við þessar vindmyllur, sagði ég við hann í sumar, komdu og láttu Eddu gefa út verkin þín. Vindmyllur eru óverðugir andstæðingar, segir bókmenntasagan. En Indriði lagði kollhúfur. Hann vitnaði í reynsluna. Ég talaði um fyrir honum þegar Rithöfundasambandið var sameinað, en hann þóttist síðar illa svikinn. Hann nærðist á þessari baráttu við þá sem að honum sóttu, vildi einhvern veginn ekki missa af henni. Rússnesku andófsskáldin nærðust á illsku kommúnismans. Þá voru þau í tízku um allan heim, nú að mestu gleymd á óseðjandi markaðnum sem allt gleypir og engu skilar; jafnvel Solzhenitsyn!

Það er alltaf verið að fjalla um einhverja pólitík, einhverja uppákomu, eitthvað sem skiptir listir og bókmenntir í raun og veru litlu sem engu. Sjaldan um kjarnann; verðmætin; listina; handbragðið sjálft sem öllu skiptir. Ef skáldsaga er skrifuð um fólk er fjallað um hana sem þjóðfélagssögu. Og þá helzt sem einhvers konar dæmisögu. Blikktromma Grass fjallar fyrst og síðast um fólk, um það er sjaldnast talað. Hún á að fjalla um Þjóðfélagið. Menn eru alltaf að tala um það sem stendur ekki í bókum, sagði Halldór Laxness.

Ég hef einhvern tíma haldið því fram að 13. öldin sé höfundur Njáls sögu. Það mætti til sanns vegar færa, þó að margt sé þar af arfsögulegu ívafi. Hún fjallar að sjálfsögðu um fólk, en þó ekki fólkið á söguöld, heldur fólkið á 13. öld, sturlungualdarfólkið, hvernig það lifði í mótsögnum sínum eins og sagt hefur verið um Njál; og hvernig það dó. En ekki um Þjóðfélagið sem slíkt. Þannig fjallaði Indriði einnig um tímamótin í 20. aldar sögu samtímans. Hann skrifaði um fólk, að vísu í samfélagsumhverfi sínu, en umfram allt fólk. Og það lifir í fáguðum stíl, eða eins og Jóhann Hjálmarsson sagði svo ágætlega hér í blaðinu þegar hann minntist Indriða, "Sögur hans gerast í stílnum og andrúminu með sérkennilegum hætti".

Indriði skrifaði eins og skáldi er lagið, en ekki leiðarahöfundi. Féll þannig ekki að formúlunni um pólitíska gagnsemi skáldverka. Hann vissi að markaðurinn er samtímalegt tízkuok, olnbogaskot þeirra sem lifa og hrærast í fjölmiðlatóminu mikla. En það er mýflugnalíf, sjaldnast reist á mikilvægri eða frumlegri listrænni sköpun, og raunar með ólíkindum hvað þessi hávaði getur gert mikið úr litlu.

Indriði G. Þorsteinsson reyndi að vernda skáldið í brjósti sínu og gerði sér grettisbæli þar sem enginn náði til hans. Þar er hann minnisstæðastur, þar er hann allur. Eins og fjall úr fjarlægð. Við sjáum það allt, kalblettirnir horfnir og aurskriðurnar.

Indriði G. var framkvæmdastjóri þjóðhátíðarnefndar 1974. Það var engin tilviljun að hann var valinn í þetta erfiða starf sem hann gegndi af miklum sóma og stakri samvizkusemi. Sem slíkur var hann framkvæmdastjóri fjölmennustu samkomu í sögu íslenzku þjóðarinnar og ekki þarf að tíunda, hvernig til tókst. Samstarf okkar var framúrskarandi. Ég hef aldrei kynnzt duglegri manni eða útsjónarsamari, ef því var að skipta. Hann komst jafnvel í samband við veðurguðina og það lék ítalskur lognblær um Þingvöll á þjóðhátíðinni. Allt eftirminnilegt. Og niðurstaðan heiðblá minning og þríefldur þjóðarmetnaður eftir váleg tíðindi Vestmannaeyjagoss. Það var mikið gos og þjóðhátíðin mikilvæg uppörvandi hátíð. Ég er enn að hitta þakklátt fólk sem býr að henni. Það er ekki hægt að minnast hennar án þess í hugann komi nafn skáldsins úr Skagafirði, Indriða G. Þorsteinssonar.

Það er inní þennan bláma sem minning hans mun vaxa, nú þegar upprisan er hafin.

Matthías Johannessen.

Kvæðið orti ég á leið úr Laxá í Kjós, en þá var ég einn á ferð í myrkrinu að loknum góðum degi. Það var tveimur dögum áður en Indriði lézt.

 

Svar mitt við spurningu Sigurðar Boga Sævarssonar hjá Degi um Indriða G. Þorsteinsson:

Staða Indriða, einkenni og framtíðarmat.

Tíminn er hið mesta ólíkindatól.  Enginn veit hvað hann tekur upp á arma  sína. Verðmæti eru ekki efst á baugi nú um stundir, ekki heldur í listum og bókemnntum. Merkir höfundar eins og Hagalín og Guðmundur Daníelsson liggja  óbættir hjá garði; snilldarverk eins og Kristrún í Hamravík og Vatnið eru  nánast eins og óskrifuð - eða hver les þau? Er Gunnar Gunnarsson í tízku, eða er einhver að lesa Brimhendu?

Gæðaverk geta þannig legið í öskustónni meðan tízkunni hættir til að hampa miðlungsverkum, jafnvel stundum til útflutnings. Kristrún verður þó líklega  ekki þýdd að gagni, ekki frekar en sum önnur verk bókmenntanna; Jónas, Tómas, Tíminn og vatnið. Og er það bættur skaðinn. En við þurfum því meir á  þessum listrænu vegvísum að halda, ef kaupstaðarferðin á að hafa einhvern  tilgang.

 Ekki er ólíklegt að endurmatið mikla fari að hefjast. En þegar að því  dregur er það bjargföst sannfæring mín að skáldverk Indriða verði metin að  verðleikum. Það væri æskilegt því að þau eru í gæðaflokki - og við höfum  einfaldlega ekki efni á því að þau hafni í glatkistunni.

 Hjarðhugsun er slæmur fylgikvilli markaðarins, en við þurfum á  einstaklingshugsun að halda, smekk og estetik. Það hefur orðið  undir í hjarðleiknum, fjölmiðlafárinu; uppákomunum.

 Indriði hafði heldur lítinn áhuga á því að taka þátt í þessum darraðardansi. Þeir sem hafa lengi stjórnað fjölmiðlum fá ofnæmi fyrir  hégómanum sem fylgir listum og pólitík. Hafa því tilhneigingu til að draga  sig í hlé. Indriði bjó um sig í kaffispjalli um pólitísk dægurmál og skrýtnar kenningar. Hann trúði verkum sínum fyrir því sem máli skiptir, enda eru þau sprottin úr umhverfisarfleifð okkar, en engum sýndarveruleika.  Það er kjarni þeirra og einkenni. Mér er nær að halda að þau eigi eftir að  standast áraun tímans, þegar önnur tízkufyrirbrigði verða ósýnilegri en ar  í sólargeisla.

 Þetta er raunar ofureinfalt mál: ef íslenzk arfleifð heldur velli, tungan  sem hefur vaxið af þessum þúsunda ára gömlu rótum, sögurnar og ljóðin og  það sem er hæst á hrygginn reist í menningu okkar, þá munu þau verk önnur  fylgja sem einhver veigur er í; og þá ekki sízt skáldverk Indriða.   

En ef rótin visnar og allt sem af henni hefur vaxið, þá visna einnig önnur verðmæti; og þá glötum við skáldverkum Indriða. Þau lifa á íslenzku og þar  munu þau deyja. En við skulum ekki gera ráð fyrir því, ekki endilega.

Sjálfur efaðist Indriði samt stórlega um það, að við gætum haldið sjó í umróti samtímans. En hann lagði sig fram í því andófi.

 Mundi það ekki vera mikilvægasta hlutverk íslenzks rithöfundar á þessum  umbrotatímum? Er það ekki erindi hans við umhverfi sitt og framtíð; að  stuðla að því að askurinn mikli haldi áfram að blómgast eins og efni standa  til.

Matthías Johannessen.

 

Ódagsett

Við Styrmir töluðum við Siv Friðleifsdóttur. Það var ánægjulegt samtal, við eigum Noreg sameiginlega, því móðir hennar er norsk. Hún er augsýnilega mjög vel að sér í pólitík og engin vafi á því að hún ætlar sér stóran hlut. Hún sagði samstarfið í ríkisstjórninni ágætt og engin þreytumerki sjáanleg. Sagði að Halldór Ásgrímsson hefði sannfæringu fyrir því að nauðsynlegt væri að ræða Ísland og EB,  annað vekti ekki fyrir honum. Ég er farin að halda að Siv eigi eftir að takast á við Finn Ingólfsson um formennsku í Framsókn, þótt hann sé sem stendur í "geymslu" í Seðlabankanum. Við höfum haft af því pata að Finnur hugsi sér að taka við af Halldóri, en hann er víst ekkert á förum. Guðni Ágústsson væri líklega einnig kandidat, en hann skortir tengsl við atkvæðin á höfuðborgarsvæðinu, að sumra dómi.

En hver veit!

 

15. september, föstudagur

…Nú er stjórn Árvakurs að leita að eftirmanni mínum; það er víst mikið basl og mér leiðist þetta stúss. Tek helzt lítinn þátt í því. Allt hefur sinn tíma og allt hefur sinn gang. Mér skilst þeir séu á eftir einhverjum pólitíkusum. Ætli það sé framför? Mér skilst þeir séu á eftir einhverjum fínum mönnum. Ég hef aldrei getað orðið "fínn” ritstjóri  , svo það hlýtur að vera framför!

 

 

Þegar ég hætti get ég sagt þetta: Að hætta blaðamennsku minnir einna helzt á bónda sem hættir að stunda minnkarækt, en snýr sér að jörðinni. Ég hef enga tilfinningu fyrir aldri svo að útlitið er ágætt. Ég er rithöfundur og nú get ég loks farið að lifa sem slíkur. Jón úr Vör sagði að ég yrði alltaf skáld, sama á hverju gengi. Nú er það líklega að koma í ljós.

Áhyggjulaus hverf ég frá minnkabúinu og fer að sinna jörðinni; skáldskapnum.

Rétt eins og aðrir rithöfundar.

 

Það er merkilegt sem Árni Ibsen hefur eftir pólska leikritaskáldinu Slawomir Mrozek. Hann talar um hvað allar kenningar um bókmenntir séu í raun og veru leiðinlegar, en hitt þykir mér merkilegra sem kemur í framhaldinu: "Ég kunni vel að meta það sem ég rakst á í ævisögu Bertold Brecht um að hann hefði ekki lesið bækur, en legið í dagblöðum. Ég kann líka að meta dsagblöð. Að lesa dagblað er eins og að lesa hluta af heiminum, en með því að skrifa leikrit gefurðu honum form."

Og ennfremur: " Vandinn við leikrit er hins vegar sá, að enginn trúir þeim, en allri trúa blöðunum. Ég vel ekki efni, brýnt efni handa sósíalistum, eða hverrar trúar sem þeir kunna að vera. Það sem  er gott efni fyrir leikskáld er ekki gott efni fyrir stjórnmálamenn, félagsmálastarfsmann eða bónda. Gott efni fyrir leikskáld er það efni sem þá og þegar, hvenær sem tíminn er réttur til að skrifa leikritið, gefur færi á að byggja dramatískt ástand."

 

16. september, laugardagur

Styrmir sagði mér í morgun að náðst hefði samkomulag í auðlindanefnd um fiskveiðistjórnun, þ. á m. samkomulag um veiðileyfagjald. Einhverjir fyrirvarar að vísu en þeir skipta ekki máli, segir Styrmir. Það verður erfitt fyrir stjórnmálamenn að ganga framhjá þessu áliti, ekki sízt eftir að Halldór Ásgrímsson hefur samþykkt drögin að því og Davíð Oddsson óskað eftir niðurstöðu.

Þannig hefur barátta okkar frá því á fyrra hluta níunda áratugarins borið árangur og ég er sannfærður um að ef sættir takast um veiðileyfagjaldið muni landsmenn sættast á kvóakerfið. Það er því mikið hagsmunamál fyrir útgerðarmenn og þá sem að fiskveiðistjórnun standa að slíkt samkomulag náist. Eigandinn, þ.e. þjóðin, fær þannig endanlega staðfestan rétt sinn til auðlindarinnar og þeir sem fá leyfi til að nýta hana gera það með fullu samþykki eigandans. Það er þannig ekki sízt mikilvægt fyrir sægreifa og kvótakarla að um þetta ríki sátt og samlyndi og ég er sannfærður um að Halldór Ásgrímsson, sem á víst álitlegan kvóta, ásamt fjölskyldu sinni, sjái nauðsyn þessarar niðurstöðu. Þá getur hann haft sinn kvóta í friði en greiðir af honum eins og aðrir sem nýta auðlindina. Í upphafi baráttu okkar á níunda áratugnum lögðum við höfuðáherzlu á réttlæti og siðferði en létum greiðslu fyrir nýtingu bíða betri tíma. Réttlætið og siðferðið voru í því fólgin að menn gætu ekki eignazt það sem aðrir eiga, né veðsett það, selt eða grætt á því að vild. En veiðileyfagjald réttlætir nýtingu, rétt eins og þeir mega veiða í ám sem hafa leigt þær. Svo geta þeir grætt á þeim að öðru leyti eins og þeir vilja. Aðalatriðið er að eignarréttur sé virtur en menn geti ekki ráðskazt með eigur annarra, jafnvel ekki sameiginlegar eignir íslenzku þjóðarinnar. Það er ekki heldur hægt að selja öræfin en það er ekki fráleitt að selja aðgang að þeim ef átroðslan yrði umfram þanþol náttúrunnar. En allt virðist þetta í réttum farvegi og stefna Morgunbaðsins er að verða ofaná þrátt fyrir mikinn barning, róg og illt umtal. Útgerðin ætti að geta unað við sitt því að enginn ætlast til þess að hún þurfi að borga neina blóðpeninga, þvert á móti er það allra ósk að hún geti nýtt auðlindina sem bezt fyrir sjálfa sig og þjóðarheildina; og þá að sjálfsögðu í friði og sátt við umhverfið.

 

Ég get þannig farið að hætta á Morgunblaðinu ósköp rólegur yfir því að þessi barátta skuli hafa borið árangur, ekki síður en margt annað sem við höfum látið til okkar taka í Morgunbaðinu á þeim tíma sem ég hef unnið að ritstjórn þess. En margt er eftir og margt má betur fara. Markaðurinn t.a.m. er ekki listvænn, hann spyr ekki um gæði, heldur hvernig hjörðin leitar uppi vinsældalistann. En betra fyrirkomulag hefur ekki enn fundizt, því miður, og á meðan svo er verðum við að gera út á samfélagið, fjárlögin. Við verðum að krefjast þess að ríkið reyni að standa vörð um þau listrænu verðmæti sem markaðurinn hunzar; ekki endilega fyrir þá sem nú lifa, því að þeim er skítsama, heldur framtíðina; þessa sömu framtíð og tók Bach að sér tvö hundruð árum eftir andlát hans.

 

Edinborg, á

haustdögum

 

 (Sjá:Undir afstæðum himni,samtöl og dagbókarblöð,2000).

 

Allar ferðir enda einhvers staðar og með einhverjum hætti. Og þá einnig lífið sjálft. Myndi ekki vera við hæfi að ljúka þessari ferðarispu í þeirri stórborg erlendri sem ég kom fyrst til ungur messagutti á gamla Brúarfossi, 1946. Þá var eilífðin framundan. Nú er hún að baki. Eitt af því sem tengir Edinborg við Spánarferðina er Dali og verk hans sem hafa komið mjög við sögu í þessari rispu. Sem sagt, snillingurinn sem sækir myndefni sitt í freudiska draumaveröld undirvitundarinnar og þurfti af þeim sökum að gefa út þessa óhjákvæmilegu yfirlýsingu: Munurinn á mér og vitfirringi er einungis sá, að ég er ekki geðveikur!

Stórmerk sýning hefur verið á verkum Dalis í þessari Aþenu norðursins, eins og Edinborg hefur verið nefnd, og má fullyrða að þessi haustsýning skilji eftir frábært yfirlitsrit þar sem hverri einustu mynd sýningarinnar eru gerð góð skil, lýst af nærfærni og faglegri nákvæmni. Það er einnig gert á annarri sýningu í Edinborg sem er ekki síður hnýsileg, en hún er í Listasafni Skotlands og fjallar um annan myndsnilling á þessari öld, Paul Klee og verk hans. Sú sýning hefur opnað augu mín fyrir mikilvægi hans og sérstöðu, þótt ég hafi áður minnzt á hann í grein um Bláu riddarana fyrir margt löngu (Lesbók, 1973). Klee gekk í félagsskap þessara brautryðjenda nýlistar en þó sem einskonar sérfyrirbrigði, enda var hann einstæður alla tíð og af þeim sökum nokkuð til hliðar við meginstraum afstraktlistar á sínum tíma. Forystumenn Bláu riddaranna voru engir aðrir en Kandinsky, August Macke, Jawlensky og Franz Marc sem var drepinn á vígvöllum Vestur-Evrópu 1916, en þeir sem hafa komið í grafreitinn mikla við Verdun gleyma aldrei þeirri sóun mannslífa sem þar blasir við. Þessi ógnargrafreitur er einskonar minnismerki um þjóðernissinnaða páfugla stórvelda sem stundum eru kallaðir þjóðarleiðtogar en ganga einatt fyrir brengluðum metnaðar-elimentum hundadagakónga!

Allir voru þessir meistarar hver með sínum hætti og kannski mætti segja að þeir hafi verið einskonar expressionistisk vísbending um afstraktlist á næstu grösum; það sem lá í loftinu eins og sagt er. Hið sama gildir um alla þessa listmálara – og þá einnig að sjálfsögðu Paul Klee – að þeir höfðu full tök á þeirri gamalgrónu hefð sem öll nýlist er sprottin úr. Það eru einungis skussarnir sem skýla sér á bak við tízkustellingar einar saman, einnig í bókmenntum.

 Paul Klee var fæddur í Bern 1879. Hann lézt 1940 í Locarno úr ólæknandi sjálfsofnæmissjúkdómi, var þá rétt hálfsjötugur. En síðustu árin gekk hann á hólm við endalokin og sigraði dauðann í ódauðlegum og stórbrotnum listaverkum. Það er hin hefðbundna aðferð mikilla listamanna til að sigrast á dauða og tortímingu. Þá hafði honum verið útskúfað í Þýzkalandi þar sem hann bjó áratugum saman áður en Hitler komst til valda, en nazistar tóku hundrað og tvö verka hans úr umferð í listasöfnum landsins og grófu þau í kjallaramyrkri safnhúsanna; kölluðu hann andfélagslegan siðblindingja. Þeir höfðu þá einnig efnt til sýningar í Munchen á svokallaðri entartete kunst, 1937, eða úrkynjaðri list og átti Klee sautján myndir á þeirri sýningu. Þá þótti þetta vafasamur heiður, en nú eftirsóknarverð minning um kjark og frumleika. Enn eitt dæmi um að listin á að vera þroskaður ávöxtur sem fellur af laufguðum aski tímans, en enginn tízkugrænjaxl.

 Á sýningu Klees í Edinborg fór ég að hugsa um vegi listarinnar, hversu óvissir þeir eru í raun. Fyrstu ljóðabækur rússneska skáldsins Ossips Mandelstams voru gefnar út, bæði heima og í Berlín, ef ég man rétt, áður en – eða um svipað leyti – bolsévikar náðu völdum í Rússlandi. Síðar féll hann í ónáð hjá Stalín sem þekkti sjálfan sig í einu ljóða hans og var hann þá útlægur ger til Gúlagsins, þar sem hann hvarf í freðmýrar Síberíu. Ætla hefði mátt að óbirt ljóð þessa skáldjöfurs færu sömu leið og höfundurinn, en þau voru varðveitt, annars vegar í eftirritum eins og íslenzku handritin, hins vegar í minni eiginkonu hans stórmerkrar, Nadezhda Mandelstams, sem skrifaði eina eftirminnilegustu sjálfsævisögu aldarinnar, Von gegn von og Brostin von.

 Þannig getur mikil list lifað af, bæði ryð, möl og grimmdaræði einvalda. Sjálfir rotna þeir í fúahelvíti grafhýsanna.

 Um þetta var ég að hugsa unz ég staðnæmdist fyrir framan dálitla mynd þar sem punktar og beina línan eru allsráðandi, en Klee var gagntekinn af línunni út af fyrir sig, ekki endilega hinni bognu línu, eins og Gaudi, heldur öllum línum; beinum línum og óbeinum, brotnum línum og heilum, stuttum línum og löngum, breiðum línum og grönnum. Nulla dies sine linea voru einkunnarorð hans. Dálæti hans á þessari undirstöðu allrar myndlistar, línunni, birtist í eftirfarandi orðum: Ég fer í göngutúr með línunni! Hljómar reyndar eins og ástarævintýri.

En svo tóku litirnir við, freistingar skugga og ljóss.

Birtan.

 

Klee ritaði dagbækur og var sískrifandi með myndum sínum, lýsti afstöðu sinni, hugleiddi; leitaði. Hann gaf út Sköpunarjátningar sínar 1920. Fyrsta hálfan annan áratuginn, eða fram að fyrri heimsstyrjöld, gaf hann sig eingöngu að teikningum, og þá ekki sízt táknrænum myndum, m.a. úr goðafræði, en nokkru síðar uppgötvaði hann birtuna og þá tóku olíumálverkin við. Í táknrænum myndum sínum minnir Klee fremur en nokkur annar stórmeistari á ýmis myndverk Dalis, enda voru þeir samtímamenn og samleitendur í listinni. En myndir hans minna þó aldrei á þær fjarstæðukenndu, dalísku myndblekkingar sem Dali sjálfur kallaði ráðgátur.

Klee gerði sér áreiðanlega fulla grein fyrir því að innan hauskúpu sérhvers manns er einhvers konar leikhús þar sem fjarstæðukenndur súrrealismi draumvökunnar tengist því frjóa barnslega ímyndunarflæði sem hann lagði sjálfur svo mikla áherzlu á, sagði jafnvel að ekki væri unnt að finna nýlistarþróuninni stað án þess hafa til hliðsjónar myndlist barna og jafnvel vangefins fólks. Þar væri ekki sízt hægt að komast að rótunum. Sjálfur rakst hann á eigin myndir frá blautu barnsbeini og taldi þær þá merkustu verk sín, þótt hann hefði lokið listnámi og starfað að myndlist um þónokkurt skeið. Þessi barnslegi heimur birtist honum m.a. í sirkusnum sem hann hafði mikið dálæti á, ekki síður en Picasso. Og það var auðvelt að skilja hvers vegna, þegar við sáum gamla Moskvusirkusinn um kvöldið, en hann var á ferðalagi til að lífga upp á tilveruna og kom sem betur fór við í Edinborg. Klee sagði um sirkusinn sem hann teiknaði og málaði og hugleiddi ekki síður en það fjarstæðuleikhús sem býr í sérhvers manns huga, Sirkusinn bergmálar veröldina utan dyra.

Úr þessari hugarveröld barnsins spretta mörg verka Klees, ekki sízt englamyndir hans; ein þeirra heitir Englar drekka stjörnur – og Klee bætir við: Eða hvað skyldu þeir drekka annað!

Þess má þá einnig geta að Klee teiknaði 1938 mynd af harmsögulegri fígúru sem hann kallar Trúður; annað auga opið og bjart, en hitt einungis tvö strik. Á víst að merkja geðklofann í okkur öllum. Áður hafði hann gert tvær litógrafíur um línudansara, eða Seiltänzer 1923, önnur í rauðum lit en hin svargráum, og sagði hann að þetta fyrirbrigði sirkussins sem gengi á streng yfir hyldýpið mikla minnti á lífið sjálft og baslnáttúru mannsins við erfiðar aðstæður.

En það er fleira inni í höfðinu á manninum en fjarstæðuleikhús drauma og tákna því á einni myndinni, sem einnig er litógrafía frá 1923, er höfuð mannsins teiknað eins og jörð með visnuðum fótum og allt snýst um það sem er í höfði mannsins: konan sem hann elskar og þau saman. Þannig lýsir Klee sömu reynslu og Þórbergur, þegar hugur hans hafði ekki stundlegan frið fyrir elskunni og allt þurfti að víkja fyrir henni. Þessi mynd Klees heitir Ástfanginn maður.

Klee var undir áhrifum náttúru og umhverfis eins og allir listamenn, einkum fyrst framan af, en síðan rofna þessi tengsl að einhverju leyti og myndirnar fljóta frjálsar og fyrirmyndarlausar eins og ský á himni. Þegar á leið hafði Klee þörf fyrir að losa sig við næsta nágrenni og sneri sér þá að englunum. Þeir lyftu huganum frá brennandi jörð stríðsglæpamanna eins og hann lýsir í myndum frá 1938, Feuer, Quelle og Armer Engel frá 1939: Engill á svörtum fleti, útlínurnar hvítar og tryggja að hið svarta nái ekki yfirhöndinni. Og frá sama ári er einnig Englamyndin Wachsamer Engel.

Það var 1914 sem Klee fór til Túnis, ásamt August Macke, en þá kvaðst hann hafa skynjað birtuna á nýjan hátt og lýsir því í lítilli eftirminnilegri mynd frá höfninni í Hamamed. Hún minnir sterklega á litla vatnslitamynd frá Lækjartorgi eftir Nínu Tryggvadóttur; sama birta, sömu litir. Ég veit þó ekki hvort hún sá þessa hafnarmynd Klees, tel það afar ósennilegt vegna þess að allar þær myndir sem ég hef minnzt á eru í Bürgi-einkasafninu og ekki endilega aðgengilegar öðrum en eigendum þess. Upp úr þessari reynslu breytast myndir Klees og hann notar minna blek og penna, en snýr sér að olíunni, þótt teikningin fylgi verkum hans enn sem áður. Þessa þróun má sjá í fallegri mynd sem heitir Svartur hálfmáni frá 1917, þar er línan í ýmsum myndum, rauð indversk sól; skip. Tveir heimar fljóta saman, himinn og jörð; eða eigum við heldur að segja hugmynd að himni og jörð.

Í annarri mynd frá svipuðum tíma, Eyðilegging og von, sem máluð er sama árið og Franz Marc féll á vígstöðvunum blasir við okkur hrynjandi veröld í eins konar hálfkúbískum stíl, en þó er von í óspilltum fyrirheitum tungls, sólar og stjarna. Þetta er hin klofna veröld sem fylgir myndskáldinu lengst af; og helzt aldrei án vonar.

Það var eftir Túnisreynsluna og uppgötvun birtunnar sem Paul Klee sagði, Litur hefur náð tökum á mér… ég og liturinn, við erum eitt. Ég er listmálari!

Það er með ýmsum hætti sem listamenn uppgötva sjálfa sig; sjálfa sig og umhverfi sitt. En umhverfið er afstætt eins og allt annað. Þess vegna er ástæða til að staldra við þessa frægustu setningu í Sköpunarjátningum Klees, List endurtekur ekki það sem er sýnilegt, en gerir það sýnilegt.

 

Það er margt með öðrum hætti í Skotlandi en annars staðar á Bretlandseyjum. Skotar hafa uppá mikla sérstöðu að bjóða, bæði í listum og á öðrum vettvangi og eru raunar harla ólíkir Englendingum. Þeir hafa fengið hálendið inní sinn enska framburð og margt það sérstæðasta í tungu þeirra er raunar illskiljanlegt, ekki sízt mállýzkan í ljóðum skáldanna, en þau hafa lagt rækt við þessa arfleifð, ekki sízt Robert Burns, en þeir Robert Louis Stevenson, sem var fæddur átján árum eftir dauða Burns (1850), voru báðir mjög með hugann við fyrirrennarann Robert Ferguson sem hafði vísað leiðina, en lézt einungis tuttugu og fjögurra ára gamall (1774). Sagt hefur verið að hann hafi verið Edinborg það sama og Joyce Dyflinni og Dickens London. Hann býr í mér, sagði Stevenson einhverju sinni.

Ekkert skáld á enska tungu yrkir nær talmálinu en Stevenson, bæði í barnakvæðunum, A Childs Garden of Verses, og öðrum ljóðrænum skáldskap. Og samtölin í sögum hans eru fullkomið og sannfærandi talmál.

Hér eru nokkur kvæði, ort með hliðsjón af skáldskap Stevensons:

 

Minning

Undir stórum stjörnugeim

stendur mín gröf, ég er kominn heim,

glaður úr ferðum og frjáls að þeim,

feigðin er logn á sjó.

 

Séu eftirmælin um mig

megi hann liggja og hugsa um þig

kominn af hafi, sáttur við sig

sigldi í höfn og dó.

(Requiem)

 

Vinir

Beztu vinirnir eru ekki

aðeins nýir vinir manns,

heldur þeir sem eldri eru

og eiga langan trúnað hans.

 

Veit ég samt að margir muna

mikla vini sem hurfu á braut

og margir vildarvinir eru

aðeins væntingar sem enginn naut.

 

En beztu vinir einatt eru

ellidauðir og farnir burt

og engan grunar ástæðuna

og engan grunar hvurt.

(Til dr. John Brown)

 

Heimsókn af sjónum

Langt frá strönd og stormum

stefnir hann hingað og svífur

hátt yfir grasi og görðum

gamall sem híeróglýfur

 

mávurinn okkar sem eltist

alltaf við trosið í sjónum,

af hverju leitar hann löngum

að lífsbjörg í fallega grónum

 

görðum með trjám og grasi

og glaðhlakkalegum rósum,

leitar þar einhvers sem aðeins

er ætlað vængjaljósum

 

litlum fuglum sem flögra

frjálsir við blóm og greinar

mávurinn gamli sem grefur

til gulls við bylgjurnar einar.

 

Segjum honum að hafið

sé hvítur vængur á mávi,

það fari honum illa að fljúga

sem fluga á gulnuðu strái.

(A visit from the Sea)

 

Andlitsmynd

Að lokum þegar úti er allt

og ekkert nema myrkrið svart

og sálin deyr og sólin frýs,

þá skal ég þakka þúsundfalt,

ég þakka, guð minn, nauman part

af verki þínu, fús ég fer

í ferðalag um paradís

og ekkert skal þá ama að mér,

ég hanga mun sem api efst

í ótal trjám ef færi gefst.

(A Portrait)

 

 

Ferðalag

Októberlaufið þyrlast við þreytta fætur

þögult er myrkrið við greinar og djúpar rætur.

 

Stjörnurnar luktir og lifna á dimmumótum,

Ljáðu mér vængi og fljúgum af visnandi rótum.

 

Fljúgum með skógarins fuglum til tungls og sólar

og eltum ei ólar við myrkrið.

(Travels with a Donkey)

 

Áning

Við förum enn um gamlan vígavöll

og viti menn, hér græðir tíminn svörð

og kallar fram sinn kærleik eins og fyrr

og kornið vex og litar blóðga jörð.

 

Og þar sem áður engdist sviðið land

við örkuml þess sem barðist hér og dó

vex gras á ný og sárbeitt sverðið varð

að sigurtákni um jörð sem grær við plóg.

(Travels with a Donkey)

 

Stevenson skrifaði athugasemd sem einskonar formála fyrir ljóðunum í Underwoods (lággróður eða lágskógar) og fjallar þar m.a. um skozkuna og viðkvæma stöðu hennar. Orð hans eru íhugunarefni fyrir okkur. Hann segir:

„Ég tek einnig eftir því að hinir nýju mállýzkufræðingar okkar binda heimkynni sérhverrar mállýzku við tilteknar fermílur. Ég gæti ekki uppfyllt svo þægilega nálgun jafnvel þótt ég svo kysi; um mig var því þannig farið að ég ritaði aðeins mína skozku eins vel og mér var gerlegt, kærði mig kollóttan um hvort hún var runnin frá Lauderdale eða Angus, frá Mearns eða Galloway; heyrði ég gott orð notaði ég það blygðunarlaust; og þegar skozkan dugði ekki til eða rímið rann stirðlega fram, leitaði ég án hiks (eins og mér betri menn) til ensku. Það get ég þakkað vinsamlegri afstöðu til tungu þeirra Fergusons og Sir Walters, sem báðir voru Edinborgar-búar; og ég játa að í eyrum mér hefur Burns ávallt hljómað hálfvegis framandi. Og raunar er ég sjálfur frá Lothian; þar heyrði ég tungu æsku minnar talaða; og ég rifja hana upp fyrir mér með hinum drafandi seimi Lothian-búa. Dýrkendum nákvæmninnar leyfist því að kenna tungu mína við Lothian. Og reynist hún ekki hrein, því miður! hverju skiptir það? Sá dagur nálgast þegar þessi framúrskarandi og eftirláta tunga verður öldungis gleymd; og ayrshire-ísku Burns og aberdeen-ísku Dr. McDonalds bíða einnig þau örlög að verða draugar tungunnar. Þar til sá dagur rennur myndi ég njóta þess að vera um stund í hlutverki hins innfædda skapara og vera lesinn af mínu fólki, á minni eigin tungu: sá metnaður tilheyrir vísast fremur hjartanu en höfðinu, væntingar um lífdaga hennar eru takmarkaðar, notkun hennar bundin svo afmörkuðu rými.“

 

Það eru engir aukvisar sem eiga rætur í þessu sérstæða og fagra landi og höfuðborg þess, Edinborg; Sir Walter Scott, Boswell, Hume. Og enginn annar en Conan Doyle sem bjó í næstu götu hér fyrir ofan okkur; Carlyle og James Watt, höfundur hestaflanna og nútímagufuvélarinnar. En hvað sem því líður eigum við að leggja meiri áherzlu á sérstöðu þessara nágranna okkar en við höfum gert. Enginn vafi er á því að undir niðri ætlast Skotar til þess, enda komnir með þing og heimastjórn. En hver veit nema þeir eigi eftir að öðlast fullt sjálfstæði og hið skozka ríki geti þá með tíð og tíma lagt undir sig leifarnar af brezka heimsveldinu! Krúnan er að vísu að reyna að setja undir þann leka að Skotar gleypi Englendinga, það hefur hún nú síðast gert með því að senda Vilhjálm prins, framtíðarkonung Bretlands, í elzta háskóla Skotlands í Saint Andrews fyrir norðan, eða norðvestan Edinborg.

Og krúnan lék annan sterkan leik: drottningin aðlaði Sean O’Connery, þekktasta þjóðernissinna Skota; sjálfan James Bond. Hann hefur verið eins og hvert annað eitrað peð á þessu taflborði brezkra stjórnmála. Nú er peðið orðið riddari hennar hátignar.

En sem sagt, hér er margt að gerast. Fyrir skömmu sáum við beztu ballettsýningu sem ég hef augum litið, Rómeó og Júlía, hún var í Festival Theatre í Edinborg, jafn eftirminnileg og tónlist Prokofievs.

Og þá mætti einnig nefna einhverja ótrúlegustu sýningu sem ég hef séð, hún hefur verið í Konunglega safninu og fjallar um dauðann, nei, ekki dauðann sem sorglegt eða óhugnanlegt viðfangsefni, heldur dauðann sem hnýsilega staðreynd í lífi mannsins á jörðinni. Þarna upplifðum við dauðann með ýmsum hætti og í ólíkum löndum, lásum um þetta sögulega fyrirbrigði og hvernig það birtist á ýmsum tímum og við ólíkar aðstæður á harla upplýsandi sýningu. Af þessari fræðslu má draga margvíslegan lærdóm; af vasalausum líkklæðum kristinna manna og gyðinga má sjá að ekki er gert ráð fyrir því að við förum með neitt með okkur yfirum, en þó má einnig sjá að ýmsir hafa vaðið fyrir neðan sig; í Singapore fara sumir með Visa-kort í ferðina síðustu, farseðla og vegabréf, svo að þeir ílendist ekki í Neðra! Annars staðar er gert ráð fyrir því að menn þurfi á nesti að halda og nýjum skóm í þessa hinztu för og margvíslegu smádóti sem gæti komið sér vel fyrir hinn látna. Það mætti þannig vel ímynda sér að stækir neftóbaksmenn gætu haft af því gagn og ánægju ef dósunum þeirra væri stungið undir kistukoddann.

En helvíti, hvað er það? Mundi það ekki vera sálarástand okkar hérna megin grafar, eða kannski áningarstaður á ferðinni löngu, þar sem við gætum hreinsað okkur af blóði drifinni reynslu jarðarinnar.

Eða – kannski er það bara annað fólk eins og Sartre sagði og við erum minnt á þarna á sýningunni.

Glasgow hefur ekki síður en Edinborg upp á margt að bjóða, ekki sízt í leiklist og þar er ein eftirminnilegasta bókaverzlun sem ég hef séð. Hún ein útaf fyrir sig er einnar messu virði, þótt veðurfarið sé harla líkt því sem hér gerist; lægðirnar enda annað hvort þar eða hér heima!

En hvað sem því líður, voru skáldin sem minnzt var á og ýmis önnur sem enn lifa, rótfastir Skotar og minning þeirra, reynsla og upplifun fyrst og síðast skozk reynsla með sama hætti og sama rétti og reynsla okkar er íslenzk. Þannig segir Stevenson á einum stað að fallegustu stjörnur sem hann hafi augum litið séu götuljósin í Edinborg. Og hvort sem hann er í Frakklandi, Ameríku eða á Samoa-eyjum þar sem hann barði nestið undir lokin, vellur og sýður Skotland í blóði hans, þangað sækir hann fyrirmyndir ekki síður en Scott og Burns og aðrir sem koma við sögu þessa sérstæða lands. Ferðalög voru ástríða hans og ævintýri, en það breytti engu um afstöðuna til ættjarðarinnar. Hann var alla ævi á flótta undan berklunum sem tærðu lungu hans og hélt að kyrrahafssólin gæti orðið beittasta vopnið í vonlítilli baráttu. En svo var ekki. Skotland var í ferðatöskunni, ekki síður en verkum hans. Sir Walter Scott átti einnig þessa sömu reynslu og samt sótti hann frægð sína fyrst og síðast í sögulega skáldsagnagerð, en ekki endilega nánasta reynslusvið. Þeir Robert Burns voru að sjálfsögðu fín skáld, en þó hef ég einkum haft ánægju af hinum mjúku, ljóðrænu og einföldu kvæðum Stevensons, þótt hans sé helzt minnzt fyrir óvenjulegar skáldsögur eins og hrollvekjuna um Dr. Jekyll og Mr. Hyde, auk smásagna í svipuðum stíl. Mér er til efs að Borges hafi haft meiri mætur á öðrum höfundi. Alltaf þegar hann minntist á Stevenson vörpuðu augu hans glampa úr myrkri blindunnar. Og þessi glampi lýsti upp umhverfið eins og sól í hádegisstað.

 

Ég rakst óvart á tvær fréttir í skozka sjónvarpinu sem segja meira um mannkynið svonefnda en flest annað: annars vegar frásögn af fyrsta forsætisráðherra heimastjórnar Skota, Donald Dewar, sem lézt 63 ára gamall. Hann hefur verið forystumaður krata í Skotlandi og af sumum nefndur „faðir þjóðarinnar“, þótt hann hafi lagt áherzlu á heimastjórn, en ekki sjálfstæði eins og þjóðernissinnar. Lýsingarorðin hástemmd (varkár risi, sagði Hague) og auðvitað öllum gleymd að nokkrum tíma liðnum, eins og gengur; díanskur dauði! Í hinni fréttinni var sagt frá útför bófaforingjans Reggies Krays sem fór fram í London með miklum glæsibrag. Hann var, ásamt tvíburabróður sínum, glæpaforingi sjöunda og áttunda áratugarins í London, alþekktur glæpon og morðingi. Útförin fór fram með mikilli viðhöfn; kirkjan troðfull, svartir hestar fyrir líkvagninum og þúsundir manna utan við kirkjuna og á nærliggjandi götum til að votta hinum látna virðingu sína. Sem sagt, hetjan í East End!

Dauðinn fer ekki manngreinarálit í þessu kraðaki sem við nefnum mannlíf. Við munum líka hina guðlegu skurðgoðadýrkun á þjóðarleiðtoganum Adolf Hitler. Saga Klees er eins og smáneðanmálsgrein í glæpasögu aldarinnar miðað við ævi þessa hraðmælska gaspara og lýðskrumara.

En hvað sem dauðanum líður og hvernig sem hann horfir við skammtímaminni hjarðarinnar ber öllum saman um að „faðir“ skozku þjóðarinnar, Donald Dewar, hafi verið heiðarlegur maður, traustur lýðræðissinni sem bar virðingu fyrir umhverfi sínu og umhyggju fyrir fólkinu í landinu, ekki sízt þeim sem áttu undir högg að sækja. En það sem réð úrslitum um vinsældir hans í Skotlandi var menningarleg yfirsýn og ræktun skozkra sérkenna. Í minningarorðum um hann var lögð áherzla á hversu sterkar taugar hann hafði til skozkrar arfleifðar og að sögn kunni enginn betri skil á Robert Burns en þessi sérstæði þjóðarleiðtogi Skota sem við vissum lítil sem engin deili á. Ást hans á arfleifðinni var ekki sízt vegabréfið að vinsældum hans í Skotlandi. Mig minnir það hafi verið fyrrum Skotlandsmálaráðherra Íhaldsflokksins sem lagði áherzlu á þennan mikilvæga þátt í skozku samtímalífi, hvort sem þeir hallast að sjálfsstjórn með heimastjórn eða því sjálfstæði sem nú er á dagskrá, þótt það sé engan veginn í augsýn. Skotar og Færeyingar, þessar nágrannaþjóðir okkar, standa að því er virðist í sömu sporum, hvað þetta varðar. Og þá mætti einnig bæta Grænlendingum við.

Sem sagt, þeir tvístíga.

Donalds Dewars var minnzt á forsíðu allra skozku blaðanna og raunar ensku stórblaðanna einnig, sum blöðin höfðu engar fréttir aðrar á forsíðu en andlát hans og risastórar myndir af þessum „föður“ skozku þjóðarinnar. Þó að við höfum þekkt lítið til Dewars og pólitískrar baráttu hans, er enginn vafi á því, að hann hefur verið virtasti stjórnmálamaður Skota um langt árabil. Og eftir að hann varð fyrsti forsætisráðherra landsins hefur hann haft svipaða stöðu og Hannes Hafstein á sínum tíma. Hannes var að vísu ekki höfundur þingræðis á Íslandi, en Dewar var helzti hönnuður hins nýja skozka þings. Þeir voru báðir fyrstu ráðherrar eða forsætisráðherrar þingbundinnar heimastjórnar og þannig leiðtogar þjóða sinna – án þess þær væru sjálfstæðar. Það skyldi þó ekki vera að þróunin í Skotlandi yrði með svipuðum hætti og hér heima.

Dewar var fæddur og uppalinn í Glasgow. Hann var af millistéttarfólki, en gerðist leiðtogi þeirra sem börðust fyrir félagslegum umbótum og var ekki sízt dáður af þeim sökum, en þó einkum fyrir sín skozku sérkenni og trúna á skozka ævintýrið, ef svo mætti segja. Hann var líka lifandi eftirmynd annars ævintýraskálds, H.C. Andersens. Þeir hafa, að mér sýnist, verið mjög áþekkir í útliti.

Glasgow er skozkari borg en höfuðborgin, Edinborg. Þegar við sátum á McDonalds handan Clyde-árinnar og fengum okkur snarl fyrir leiksýningu í Tramway-leikhúsinu vatt ungur maður sér að okkur og spurði, hvaðan við værum. Við sögðum honum það. Hann fór strax að tala um Dewar og vinsældir hans, hann væri héðan frá Glasgow, sagði hann. Við erum Íslendingar, sögðum við, komum frá Edinborg. Jæja, sagði hann, Edinborg. Okkur sem búum í Glasgow líkar engan veginn við þá sem búa í Edinborg. Svo bætti hann við, hugsi: Og það er líklega gagnkvæmt.

Mér sýnist fólkið í Glasgow opnara og vinsamlegra í viðmóti en þeir sem hafa hlotið „enska“ uppeldið í Edinborg. Þar er yfirbragðið „aristókratískara“ en í Glasgow. Glasgow er sem sagt skozkari en Edinborg. Samt voru þeir allir ættaðir þaðan, Connan Doyle, Stevensson og Hume.

Ég spurði dr. Fanneyju Kristmundsdóttur, dósent í líffærafræði við Edinborgarháskóla, hvað hún segði um fólkið í Edinborg og Glasgow-búa. Hún sagði að þetta fólk væri mjög ólíkt. Edinborgarbúar væru lokaðri, þeir styddust við lengri hefð, t.a.m. hvað snerti menntun. Og þá væntanlega einnig tengsl við krúnuna. Þeir væru þannig væntanlega stærri uppá sig; hégómalegri. Án þess hún segði það beinlínis. Í Edinborg byggju margir menntamenn, lögfræðingar, læknar. Það væri erfiðara að komast í samband við fólkið í Edinborg en Glasgow. Afstaða Edinborgarbúans til Glasgow væri þessi: Það bezta sem kemur frá Glasgow er hraðlestin!

Dr. Fanney hefur hlotið mikinn frama á Bretlandseyjum og er nú einn af varaforsetum læknadeildar Edinborgarháskóla sem styðst við langa hefð og mikinn orðstír.

Ég spurði hana um kynþáttahatur á Bretlandseyjum, einkum Skotlandi. Hún sagðist helzt verða vör við einhvers konar kynþáttahatur hjá ungum Skotum sem létu þessa þjóðernisafstöðu sína bitna á Englendingum. Að öðru leyti væri allt með kyrrum kjörum í kynþáttamálum, enda þótt um tuttugu þúsund nemendur hvaðanæva úr heiminum sæktu Edinborgarháskóla ár hvert. Á fyrrnefndri afstöðu ungra Skota hefði einkum borið, þegar kvikmyndin Braveheart var sýnd, en slík verk geta ýtt undir allskyns taugaspennu og tilfinningaflæði; og ekki sízt þjóðernishroka.

Maður þarf ekki annað en fara í fyrrnefnt Tramway-leikhús í Glasgow til að finna þetta skozka andrúm sem ég hef verið að minnast á. Við sáum nýja gerð af Medeu eftir Evrípídes, frábæra sýningu þar sem Medea og Jason og Kreon töluðu ensku, en fóstran og þjónustufólkið skozku! Kórinn var aftur á móti allur upp á enskuna. Ég veit ekki hver Liz Lochhead er, höfundur þessarar nýju leikgerðar; eða endurvinnslu, ef svo mætti segja. Minnti að sumu leyti á nýstárlega skírskotun bandamanna í skírnismál og Eddu, þar sem skáldleg leikgerð Sveins Einarssonar og góð uppfærsla dregur fram arfleifðina.

Þetta nýja Tramway-leikhús er til húsa í gamla sporvagnaskýlinu í Glasgow þar sem vagnarnir voru geymdir í gamla daga. Nú hefur því verið breytt í eftirminnilegt umhverfi nýrrar leiklistar.

 

Medea minnir dálítið á Títus Shakespeares. Harmleikurinn með þeim eindæmum að engum dettur í hug að þvílíkt og annað eins geti gerzt í lífi okkar; að kona drepi börn sín til að sanna ást sína á eiginmanni sem hún hatar. Títus er blóðugasta leikrit Shakespeares og er þá mikið sagt. Verkið er ógnlegt og utan allrar skynsemi. Nú hefur verið gerð eftir því stórmynd samnefnd með Anthony Hopkins og Jessicu Lang í aðalhlutverkum. Hopkins er óborganlegur eins og ævinlega, en engu er líkara en efnið sé samið af sadista. Kannski Shakespeare hafi verið sadisti í aðra röndina, hver veit? Í þessari kvikmynd eru súrrealistísk áhrif og engu líkara en ráðgátur Dalis og tígrisdýr hans séu notuð þar eins og bindiefni til að halda söguþræðinum í réttu horfi.

Medea er með öðrum hætti. Hún er stutt leikrit, einskonar einþáttungur og minnir á að leikhúsið er ekki raunverulegt, því að allt gerist þetta innan hauskúpunnar. Það er þar sem leikhúsið fer fram, en ekki endilega á sviðinu. Enginn upplifir leikverk eins og annar. Við getum hugsað hvað sem er, án þess framkvæma það. Á þeim forsendum getum við horft á leikrit sem fjallar um fjöldamorð móður á börnum sínum vegna ástar, haturs og afbrýði. Að öðrum kosti væri allt slíkt svo fáránlegt að engu tali tæki. Það myrðir engin kona þrjú börn sín til að ná sér niðri á eiginmanni sínum. En það er hægt að ímynda sér það og allt annað innan þess sem við gætum kallað leikhús hugans. Þannig er einnig hægt að hugsa sér goðsögulegan fjarstæðuheim þeirra ævintýra sem fjallað er um í ásatrúarkvæðum Eddu.

Ímyndunaraflið er með ýmsum hætti og ólíkt frá einum heila til annars. Gagnrýnandi skrifar það sem honum finnst, en ekki endilega það sem er. Gagnrýni er þannig persónuleg upplifun og kemur raunar engum við nema gagnrýnandanum. Samt bíða allir eftir henni með andagt! Það heitir markaðslögmál! Ef gagnrýnandinn er sjálfur mikill listamaður eða hugsuður getur verið hnýsilegt að vita afstöðu hans og álit. Að öðrum kosti er gagnrýnin einskonar dægurfluga sem veltist um í gluggakistu fjölmiðlanna og reynir að draga að sér athyglina með suðinu einu. Útgefendur, leikhús og listamenn elska þetta suð – ef það er gott suð. En vont suð getur líka orðið eins og loftbor í eyrum samtímans. Sem sagt, óþægilegt. En samt er það betra en síbyljan í ljosvökunum að öðru leyti.

Fagleg umfjöllun getur að sjálfsögðu verið gagnleg, ef hún á rætur í góðum smekk. En honum fer hrakandi. Senn verður enginn smekkur, engar fagurfræðilegar pælingar, ef fram fer sem horfir; aðeins eitthvert þjóðfélagsgutl. Það er svo sem ágætt því að öld vélmennanna er að renna upp!

Samtíminn er harla holur, það er tómahljóð í honum. Svo hefur alltaf verið, og líklega óhjákvæmilegt; eða þangað til tíminn hefur valið úr honum það sem við köllum arfleifð. Kannski verður hún spennandi, arfleifð vélmennanna – hver veit? En allir samtímar eru glámskyggnir, einnig okkar; ekki sízt.

Í leikhúsinu innan hauskúpunnar getur allt gerzt. Og þar gerast öll leikverk – í raun. Þess vegna getum við horft á Títus og Medeu, að öðrum kosti kæmi slíkt ekki til greina. Ef við elskuðum konu náungans, gætum við hugsað okkur að drepa hann til að eignast konuna. En við gerðum það ekki. Ef við gerðum það, værum við morðingjar. Ef við hugsum glæpinn í leikhúsi hugans, gerist ekkert. Og enginn vissi að við hefðum tilhneigingu morðingjans. Hefðum framið glæpinn í huganum!

Af þessum sökum er hægt að semja fjarstæðuverk eins og Títus og Medeu, óhugsandi að öðrum kosti.

Títus Shakespeares er ljótt leikrit. Þegar ég bar það saman við kvikmyndina sá ég að efni myndarinnar fylgir leikritinu að mestu. Í báðum verkunum eru börn pínd og drepin, Títus drepur jafnvel dóttur sína. Efnið vekur manni viðbjóð og í huganum hneykslaðist ég á þessu framúrstefnubrölti Shakespeares. Hann svífst einskis, var sagt við mig. Hann reynir á allt. Hann reynir á þolrif mannlífsins til hins ýtrasta. Fyrirmyndirnar skortir ekki, líttu bara á grísku harmleikina! Já, einmitt, ég hafði þá í huga – og ekki sízt Medeu. Hún drepur börn þeirra Jasonar til að hefna svika hans. Öllu fórnað fyrir hefndina. En í Títusi sem á augsýnilega rætur í Medeu er gengið lengra. Títus drepur syni Tamóru gotadrottningar og matreiðir þá handa fyrirfólkinu! Þegar það hefur étið sinn skerf segir „kokkurinn“ að nú sé konan búin að leggja sér til munns sín eigin afkvæmi. Þá verður uppnám og endanlegt blóðbað. Þegar yfir lýkur hefur enginn lífið – nema höfundurinn!! En hann skemmtir sér konunglega, að vísu!

Einhverju sinni kom ég uppí Gljúfrastein uppúr nýári og sá það lá vel á skáldinu. Hann lék á als oddi, eða: hann lék við hvurn sinn fingur eins og kýrnar í kvæðunum hans. Ég spurði af hverju hann væri svona kátur. Jú, sagði hann, ég hef skemmt mér svo vel yfir hátíðirnar því ég hef verið að skrifa svo skemmtilegt leikrit! Ég tók að sjálfsögðu þátt í gleði skáldsins og finnst hún eftir á að hyggja talsvert meiri upplyfting en „skemmtun“ Shakespeares! Ég man ekki gjörla hvaða verk þetta var sem Halldór var að skrifa yfir jólin, gæti trúað það hafi verið Silfurtunglið; eða Strompleikurinn. En það skiptir ekki máli. Svona á að skrifa leikrit. Höfundurinn á helzt að hafa af því mesta ánægju sjálfur. Og kannski hefur Shakespeare þrátt fyrir allt haft það, hvur veit?

 

Eftir að ég sá kvikmyndina um Títus fannst mér hún því ókræsilegri sem ég hugsaði meira um það. En þá þvældist Medea fyrir mér. Og ekki nóg með það, heldur var ég minntur á að í hetjukvæðum Eddu væri um svipaðan óhugnað að ræða. Ég hafði satt að segja gleymt því; mundi ekki eftir barnamorðunum í Atlakviðu og Atlamálum. Þar er sagt frá því, hvernig Atli konungur Húna drepur niflunga-bræðurna, Högna og Gunnar, bræður Guðrúnar, konu sinnar. Þar liggur hið ylfska yfirbragð harmleiksins eins og úlfshamur yfir grimmdarhug germanskra þjóða. Og „gullið mikla“ sem Sigurður fáfnisbani sótti á Gnitaheiði, í bakgrunni. Að Högna dauðum slær Gunnar hörpu til að sefa ormana í gryfjunni. En að þeim bræðrum liðnum lætur Guðrún til skarar skríða, drepur syni þeirra Atla og matreiðir þá handa kónginum í hefndarskyni. Og kveikir í konungsgarði.

 

Sona hefir þinna

sverðdeilir (konungur)

hjörtu hrædreyrug (stokkin blóði úr dauðum ná)

við hunang um tuggin.

Melta knáttu, móðugur (í æsingi)

manna valbráðir, (kjöt af föllnum mönnum)

eta að ölkrásum

og í öndugi að senda,

 

eins og segir í 38. erindi Atlakviðu.

Í Atlamálum hinum grænlenzku er einnig að þessu vikið, þegar um það er talað í 77. erindi, að Guðrún hafi drepið syni þeirra Atla til að hefna niflunga-bræðranna. Hún lokkaði drengina í faðm sér og hugðist „spilla“ báðum, eins og hún kveður sjálf í næsta erindi, þ.e. lyfja ykkur elli sem merkir eftir orðanna hljóðan: lækna ykkur af elli; sem sagt, drepa ykkur. Og í þarnæsta erindi, eða 79. vísu, er þessari lýsingu haldið áfram:

 

Brá þá barnæsku (gerði enda á)

bræðra in kappsvinna,

skipti-t skaplega,

skar hún á háls báða.

Enn frétti Atli

hvert farnir væri

sveinar hans leika,

er hann sá þá hvergi.

 

Og enn fremur í 82. erindi:

 

Maga (þ.e. sona) hefir þú þinna

misst, sem þú sízt skyldir,

hausa veizt þú þeirra

hafða að ölskálum,

drýgða eg þér svo drykkju,

dreyra blett eg þeirra

sem merkir að hún blandaði vínið blóði þeirra og hann drakk það úr hauskúpum þeirra.

 

Þá segir í næsta erindi:

 

Tók eg þeirra hjörtu,

og á teini steiktag,

 

gaf síðan kóngi sínum og eiginmanni að eta og sagði að kálfshjörtu væru. Þá segir hún, Nú veiztu hvað varð af börnum þínum, en ég hælist þó ekki af mínum verkum.

Þá á sér stað dálítið samtal milli þeirra, áður en Atli hnígur í valinn. Hann segir í 85. erindi:

 

Grimm vartu Guðrún,

er þú gera svo máttir,

barna þinna blóði

að blanda mér drykkju;

snýtt (drepa) hefir þú sifjungum (ættmennum),

sem þú sízt skyldir

mér lætur þú og sjálfum

millum ills lítið.

 

Guðrún talar þá um að hún vilji fara í ljós annað, þ.e. deyja, og virðast þetta einhver kristin áhrif í þessu heiðna kvæði. En henni verður ekki að ósk sinni.

Shakespeare hefur margvíslegar afsakanir fyrir uppátækjum sínum og við sitjum uppi með okkar Títusa í eddukvæðum. Það er með ólíkindum hvernig fornum höfundum hefur þótt nærtækt og eðlilegt að fjalla um mannlega grimmd. En við því er ekkert að gera. Líf mannsins á jörðinni hefur ekki verið dans á rósum og enn er það djöfullegt í aðra röndina.

Barnamorðin eru augsýnilega gömul arfsögn, sem Evrípídes og höfundur Atlakviða styðjast við. En Evrípídes gætir þess að leggjast ekki í mannát, þótt slíkt efni hafi verið Shakespeare ærin freisting. En hvað sem því líður, móðurástin verður að víkja fyrir hefndarskyldunni.

Svo er guði fyrir að þakka að innan um þennan harmsögulega fjarstæðuleik eru glitrandi perlur sem minna á göfgi mannsins, en þó einkum snilld þeirra sem ortu; lýsingarorðanotkun í fyrrnefndum eddukvæðum minnir á orðsmíð Jónasar og Sveinbjarnar Egilssonar (vandstyggir, blakkfjallir, gullroðnir).

 

Hörpu tók Gunnar,

hrærði ilkvistum,

slá hann svo kunni

að snótir grétu,

klukku þeir karlar,

er kunnu gerst heyra;

ríkri ráð sagði;

raftar sundur brustu,

 

þ.e. Gunnar sló hörpu sína með tánum (ilkvistum), svo snilldarlega að konur grétu og karlar klökknuðu (klukku). Hann talaði þannig við Guðrúnu (ríkri ráð sagði) systur sína, að raftar brustu.

Hvorki meira né minna!

Svona skáldskaparrök eru sjaldgæf í samtímabókmenntum.

 

Í bók sem heitir Hugleiðingar og viðtöl er vikið að hamförum Shakespeares og nokkurra annarra rithöfunda sem koma við heimsbókmenntasöguna undir fyrirsögninni Tilfinningar og skáldskapur. Ég leyfi mér að vitna til þess í tengslum við það efni sem ég hef fjallað um í þessum rispum, þ.e.a.s. mannfórnirnar í Medeu og Títusi, auk barnamorðanna í hetjukvæðum Eddu. Ég sé af þessari gömlu tilvitnun í bókina að mér hefur ungum blöskrað ýmislegt af því sem heimsbókmenntirnar hafa haft upp á að bjóða, því að alltaf hefur einhver Hannibal Lecter verið þar á ferð og stjórnað þeim hryðjuverkum sem fylgt hafa manninum frá örófi alda. Í þessum XI kafla Hugleiðinganna segir m.a. svo (líklega bæði skrifað sem gamanmál og alvara!):

„Egon Friedell hefur varpað fram þeirri spurningu, hvort stórskáld eins og Dante, Strindberg, Poe, Nietzsche og Dostojevski hafi verið annað að eðli og upplagi en óbótamenn, sem skrifuðu frá sér glæpinn. Fleiri hafa imprað á ekki ósvipuðum „kenningum“, Hebbel segir t.d., að Shakespeare hafi einungis komizt hjá því að fremja morð vegna þess hann hafi sjálfur skapað morðingja, stjórnað orðum þeirra og æði í leikritum sínum, og þannig hafi morðfýsn hans fengið útrás í Hamlet og Ríkharði III. Jafnvel Goethe segir á einum stað: „Ég hef aldrei heyrt um nokkurn glæp, sem ég hefði ekki getað framið.“

Hér er hraustlega til orða tekið og ekki af nærgætni við skáldskapinn. Líklega eiga þessi orð rætur að rekja til þess, að mörg skáld eiga við að stríða umbrotasamari og sterkari tilfinningar en annað fólk. Þau þurfa að glíma við hættulegri hugsanir, margvíslegri freistingar. Án sífelldrar togstreitu milli ólíkustu afla yrði enginn skáldskapur til. Eins og eldsumbrot fæða af sér ný lönd, þannig verða skáldverk til í eldi og átökum. Listaverk geta vafalaust vaxið úr normal tilfinningu, en slík tilfinning er síður en svo einhlít forsenda góðrar listar, eins og margir halda.

Margir glæpir hafa verið framdir af misgáningi. Öryggisventillinn brást hlutverki sínu á örlagastundu. Hraunflóð hættulegra tilfinninga streymdi upp á yfirborðið á óheppilegum tíma og afleiðingarnar urðu afdrifaríkari en efni stóðu til. Ef sumir þessara ógæfumanna hefðu, þegar andinn kom yfir þá, setið við skrifborðið sitt með sæmilegan penna og hvítan pappír fyrir framan sig hefði glæpurinn kannski ekki orðið alvarlegri en lítið ljóð um ástina og afbrýðisemina! Eftir þessu að dæma hefði Egill Skallagrímsson líklega ort meira og betur, ef hann hefði drepið færri af þeim mönnum, sem voru svo ógæfusamir að verða á vegi hans, þegar eldgígurinn í brjósti skáldsins gaus og hann komst ekki undan því að yrkja; þá var stundum gripið til þeirra stuðla sem hljómuðu svo fagurlega í eyrum, þegar sverð og skjöldur mættust og skáldinu þótti allt til vinnandi „að höggva mann og annan“. Líklega hefur það verið mikil ógæfa, ekki síður fyrir íslenzkar bókmenntir en samtíðarmenn Egils, hve hann var lítt hneigður til skrifborðsvinnu. Hvílíkt ljóð hefði hann ekki ort, ef hraunflóð þessara tilfinninga hefðu t.d. beinzt í annan farveg:

„Gætið þér til Önundar, húsbónda yðvars, ok þeira félaga, at eigi slíti dýr eða fuglar hræ þeira,“ sagði hann við aðkomusveina, þegar hann með sverði sínu hafði ort eftirmælin um Berg-Önund.

Það er kannski ekki smekklegt frekar en ýmislegt annað í þessari bók, að varpa fram þeirri hættulegu spurningu, hvað hefði gerzt í Akrahreppi, ef Bólu-Hjálmar hefði haldið meira upp á sverðið en pennann. Mundi það ekki hafa orðið „félagsbræðrunum“ í hreppnum til happs, að hann lýsti geðshræringum sínum og tilfinningum í orðum en ekki athöfnum? Þessi vísa í Hjaðningarímum er t.d. ekki árennileg:

 

Á Gresía og Spanía

upp með gnýinn járna rann,

benja hlýjar blóði spýja,

bragnar flýja óvin þann.“

 

Mundi ekki fara vel á því að ljúka þessu ferðalagi öllu þar sem upp var lagt, þ.e. í bók sem öðrum þræði á rætur í Morgunblaðinu, Hugleiðingum og viðtölum, en hún kom út á forlagi Ragnars í Smára, Helgafelli, 1963 og var tileinkuð Valtý Stefánssyni „með þakklæti og virðingu“.

 

 

16. október, mánudagur

Komum heim frá Skotlandi í gær, gott flug, góð tilfinning. Frábær dvöl hjá Ingólfi syni okkar í Edinborg. Ætla að bæta við ferðarispurnar nokkrum atriðum úr þessari heimsókn til Edinborgar.

Fór í SPRON með afganginn af gjaldeyrinum. Hitti þar Davíð Oddsson. Held hann hafi verið að leggja inn fjögurhundruð þúsund krónur,

 Fjögurhundruð þúsund, sagði hann eða fjórar milljónir!

Nei, þú ert auðvitað að leggja inn fjögurhundruð milljónir, sagði ég, rétt eins og allir aðrir!

 Hann brosti.

 Við vorum samferða út. Hann sagðist fara í heimsókn til Winnipeg með flugi til Minniapolis síðar þennan sama dag. Flýgur síðan til Winnipeg.

Við töluðum dálítið saman og raunar sérkennilegt eftir á að hyggja hvað okkur tókst að koma miklu að. Ég sagði honum m.a. að ég hefði fengið bakþanka um það, hvort við Styrmir værum með ranga stefnu, þegar við hefðum sagt að leyfa ætti útlendingum að fjárfesta í sjávarútvegi. Ég hefði áhyggjur af því. Hann sagði það væri rétt hjá mér því þetta væri vitlaus stefna. Ég sagði Styrmi  þetta síðar um daginn, en hann minnti mig á að við hefðum tekið þessa afstöðu fyrir þremur árum. Það er rétt. Ég sagði Davíð líka að ég bæri ekki síður ábyrgð á þessari stefnu en Styrmir.

 En hún er röng, sagði Davíð ákveðið, og það er rétt hjá þér að fá bakþanka.

Þetta hafði hvílt á mér en eftir samtalið við Styrmi síðar um daginn létti mér dálítið vegna þess að hann reyndi að sannfæra mig um að útlendingar mundu aldrei ná tökum á sjávarútvegsfyrirtækjum hér heima. Ég minnti hann á Schengen sem tæki gildi í marz næsta ár. Þá yrði landið opnað upp á gátt og lögreglu- og tollayfirvöld gætu með engu móti varið aðsókn útlendinga, þ. á m. atvinnuleysingja,svo að ekki væri talað um fíkniefni. Mér skilst yfirvöld telji sig upplýsa um eitt prósent af fíkniefnasmyglinu í landinu. Það er svo mikið flutt í gámum sem enginn getur fylgzt með, enda eru margir þeirra á vegum fyrirtækja. Það mundi kosta hundruð milljóna eða milljarða, ef unnt ætti að vera að fylgjast með öllu smyglinu. Bandaríkjamenn eru víst löngu búnir að gefast upp. Haraldur sonur minn segir að lögregluyfirvöld erlendis sem hann tali við telji þessa varnarbaráttu okkar nánast vonlausa.

En Halldór Ásgrímsson ber höfðinu við steininn, þetta er víst allt svo ágætt að hans mati og ef einhver talar um vá verður hann vitlaus og telur vegið sé að Schengen-stefnu stjórnvalda. Þetta er allt ótrúlegt. Kannski sitjum við hér uppi einn góðan veðurdag með Schangen-land sem við getum ekki varið fyrir erlendri ásókn og fíkniefnaspillingu. Sem sagt, ráðum ekkert við.

Ég spurði Harald son minn um þetta. Hann er hugsi, en vill lítið segja. Held hann telji að varnarbaráttan verði okkur erfiðari en svo að við getum sinnt henni til fulls.

 

Erlent fjármagn í sjávarútvegi og fíkniefnasmygl og útlendingainnrás í þetta litla land veldur mér áhyggjum.  En við verðum að fylgjast með samtímanum. Verðum víst að brjóta odd af oflæti okkar og hanga ekki í gömlum forpokuðum tíma. Verðum víst að taka þátt í alþjóðamarkaðnum.

En lifum við hann af?

Við höfum að vísu  sjálfir, Íslendingar, hönd í bagga með erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi, þurfum ekki að stjórnast af Brussel, ef við göngum ekki í Evrópusambandið. En hvað gerir löggjafarvaldið? Ætli unnt sé að treysta því fyrir æ nauðsynlegri árverkni. Ég efast um það af vondri reynslu. Og við erum fastir í Schengen-ævintýrinu. Kannski eflir þetta allt tengsl okkar við útlönd og sjálfsöryggi, en það er þó óvíst. Það er mikið í húfi, nú er nauðsynlegast af öllu að skessurnar missi ekki fjöreggið.

 

Við Davíð vorum sammála um að rónarnir hefðu komið óorði á brennivínið. Hann sagðist hafa minnt á það í ræðu ekki alls fyrir löngu; hann hafi talað um hvernig mammonsdýrkendur hefðu fært sér markaðinn í nyt. Hann sagðist vera óhress vegna þessarar þróunar.

 Ég sagði að þetta gæti orðið okkur til þroska.

Hann spurði hvernig þá?

 Ég sagði  marxistar hefðu fengið bók með fallegum orðum. Þeir hefðu tekið þessa bók og reynt að breyta hugmyndum hennar í veruleika. Þá hefðu pólitískir glæpamenn tekið völdin og afflutt þessa bók. Þeir hefðu eyðilagt marxismann. Við værum ekki í ósvipuðum sporum. Nú hefðu fjármálaævintýramenn komið óorði á langþráð markaðsumhverfi okkar. Af þeim sökum ættum við ef til vill auðveldara með að skilja þá marxista sem gengu heilshugar til leiks og trúðu á fallegar kenningar. Við höfum einnig trú á frjálshyggjuna sem lausnarorð lýðræðis og frelsis, en sitjum uppi með braskara.

 Já, sagði Davíð og hristi höfuðið, en það er samt nauðsynlegt til langframa.

Ég hugsaði um þessi orð; til langframa. Sætti mig við þetta, ef þróunin verður okkur til blessunar.

En hver veit?

 

Davíð nefndi ekki að ég væri að hætta á Morgunblaðinu, hvað þá að hann hefði hug á að taka við af mér. Með því að segja mér frá því að þeir Halldór Ásgrímsson hefðu átt gott samtal, held ég hann hafi verið að gefa mér í skyn að hann hefði ekki áhuga á mínu starfi við blaðið. Ég sagði við hann að augljóst hefði verið að Halldór hefði verið orðinn argur í stjórnarsamstarfinu, en þá svaraði Davíð, Ég var líka orðinn mjög argur.

Kannski heldur þetta stjórnarsamstarf eitthvað lengur, en mér er til efs það verði til eilífðarnóns!

 

Ódagsett

Leifur Sveinsson sagði við mig einn morguninn í síðustu viku að Davíð Oddsson væri hættur við að verða ritstjóri Morgunblaðsins. Þeir bræður hefðu verið að grínast með þetta sín á milli því að honum hefði ekki verið boðið starfið! Þeir eru báðir á móti því að forystumaður í stjórnmálum taki við ritstjórastarfi mínu. Mér skilst þeir virði það báðir hvernig blaðinu hefur verið ritstýrt á undanförnum áratugum, án tengsla við stjórnmálaflokk. Sumir aðrir eigendur, eða stjórnarmenn skilst mér, leggi lítið sem ekkert upp úr þessu atriði, en vilji fá sterkan pólitíkus, mér er sagt bæði Stefán Eggertsson og Hulda Valtýsdóttir vilji fá Davíð Oddsson sem eftirmann minn. Það gætu þannig orðið einhver átök um starfið, en vonandi ekki.

 

Steingrímur Hermannsson sagði mér um daginn í óspurðum fréttum að hann hefði beðið Dag Eggertsson, höfund ævisögu hans, að hafa samband við sem flesta til að margvíslegar skoðanir kæmust til skila í þessu þriðja bindi sögunnar. Þar verða víst kaflar úr þessari dagbók minni sem ég lét þá fá í hendur á sínum tíma og er Steingrímur mjög ánægur með þá; segir að hvert orð sé satt og rétt sem þar standi. Það gladdi mig að vísu. Hann segir að allir hafi brugðizt vel við, ekki sízt Þorsteinn Pálsson, allir nema Halldór Ásgrímsson, en Dagur Eggertsson hefur víst ekki náð í hann og fann ég á Steingrími að honum þótti það athyglisvert, eða öllu fremur einkennilegt. Mér er til efs það sé gott með þeim Steingrími og Halldóri, enda hefur Steingrímur gagnrýnt Halldór og stefnu hans - og það ekki fyrir löngu. Mig minnir það hafi verið vegna Evrópusambandsins.

 

Það er einkennilegt hvernig alhæfingin tröllríður öllum hlutum nú á dögum, jafnvel svokölluðum vísindum. Í vikunni hélt einhver svissnesk kona fyrirlestur á vegum kvennasamtaka hér á landi og fjallaði um það m.a. að konur væru konum verstar, en hún lagði jafnframt áherzlu á að sýnt hefði verið fram á, að konur væru betri stjórnendur en karlar. Ætli eitthvað sé til sem heitir konur? Ætli konur séu ekki jafn ólíkar hver annarri og karlar? Það er ekkert sem heitir karlar, jafnólíkir og þeir eru. Sumir karlar eru góðir stjórnendur, aðrir ekki. Sumar konur eru áreiðanlega góðir stjórnendur, aðrar ekki. Það er allt og sumt, hvað sem "vísindin" segja.

Þá var talað um það í fréttum nú í vikunni að rannsókn hefði farið fram á því, hvort íslenzkar konur væru kynsveltar. Hvers konar vísindi eru þetta eiginlega? Það eru áreiðanlega margar konur kynsveltar, aðrar ekki. Það er einnig áreiðanlegt að margir karlar eru kynsveltir, aðrir ekki.

Sérhver maður er með sínum einkennum. Enginn er eins og annar, hvort sem um er að ræða konu eða karl. Það er allt og sumt, eða eins og sagt er á góðri íslenzku: það er heila málið! Okkar tímar eru á margan hátt merkilegir. Það gerist ýmislegt mikilvægt nú á dögum, ekki sízt í vísindum. En það gerist ekki sízt mikið í kringum rugludallana. Þeir hafa ekki við að koma óorði á það sem máli skiptir. Þeir eru rónarnir í samfélagsveizlunni.

 

Ég var að lesa grein eftir Valgarð Briem sem ætluð er Morgunblaðinu. Hún fjallar um umferðarmál. Hún rifjaði upp fyrir mér sögu sem ég hafði heyrt af Halldóri Laxness; kannski er hún sönn, kannski ekki, en það skiptir ekki máli. Hún er skemmtileg og ákaflega lík Halldóri. Sem sagt, hún gæti verið sönn.Nóbelsskáldið var einhverju sinni á leið úr Gljúfrasteini og ók niður Mosfellsdal. Þá kom á eftir honum ökumaður og lagðist á flautuna af því að skáldið ók með sínum hraða. Halldóri fipaðist og ók út af og lenti úti í skurði. Þá stöðvaði maðurinn einnig bíl sinn, hljóp út og fór að huga að skáldinu þar sem það sat í bíl sínum úti í skurði. Halldór opnaði dyrnar og sagði með sinni stóísku ró: "Er það eitthvað fleira sem ég get gert fyrir yður?"

 

Hannes Hólmsteinn er einn þeirra sem skrifar grein um nýbyrjaða öld í bók sem Háskólinn hefur gefið út. Ég barði greinina augum, eins og Steinn kenndi mér á sínum tíma. Ég staðnæmdist við upptalningu á Hannesi Hafstein, Jónasi frá Hriflu, Jóni Þorlákssyni, Bjarna Benediktssyn og Davíð Oddssyni og skoðaði nánar hvað þar var á ferðinni. Jú, Hannes er að telja upp þá sem sett höfðu mestan svip á tímabil liðinnar aldar. Þessi upptalning var að vísu ekkert merkileg. Slíkar upptalningar eru alltaf út í hött og lýsa engu nema fordómum höfundar. Það eitt var merkilegt sem vantaði í þessa upptalningu. Hannes hefur aldrei verið ánægður með Ólaf Thors af ýmsum ástæðum. Hann er líklega of mikill fulltrúi gamla Sjálfstæðisflokksins sem boðaði velferðarþjóðfélag. En hann var forystumaður stærsta stjórnmálaflokks landsins um þrjátíu ára skeið og oftar og lengur forsætisráðherra en nokkur maður annar. En hann vantaði í upptalninguna. Það var Hannesi líkt. Sem sagt, einatt er það eitt merkilegt við bækur og greinaskrif sem vantar. Ég þykist viss um að grein Hannesar sé merkilegust fyrir það að Ólafur Thors fær ekki að njóta sannmælis. Hann kemst ekki að fyrir fordómum Hannesar.  Leiðtoga á ekki sízt að dæma eftir hirðinni í kringum þá. Munurinn á John F. Kennedy og Nixon var einfaldlega munurinn á hirðmönnum. Þeir segja meiri sögu en flest annað.

Aðalhirðmaður Ólafs Thors var Bjarni Benediktsson. Það segir  ekki sízt mikið um Ólaf Thors.

Mér er til efs að nokkur maður hafi verið jafn vinsæll af samtíð sinni og Ólafur. Hann hafði meiri áhrif á umhverfi sitt en nokkur maður sem ég þekki. Hann var einhvers konar séní. Hann átti náðargáfu eins og Kjarval. Hann átti leikinn meðan hann stjórnaði Sjálfstæðisflokknum og landinu. Hann er mesti leiðtogi sem ég hef upplifað um okkar daga. Bjarni var einnig mikill leiðtogi, en hann var ekki eins vinsæll og Ólafur. En hann var kannski meiri hugsuður. Bjarni taldi Ólaf merkastan allra manna sem hann hafði kynnzt um ævina. Það segir allt sem segja þarf.,bæði um Ólaf og Bjarna.

 En hvað kemur það Hannesi Hólmsein við? Hæstiréttur er á annarri skoðun!

Og svo er eitt enn: Ólafur er skemmtilegasti stjórnmálamaður Íslendinga á þessari öld. Dönsku blaðakonunni Ninku þótti enginn pólitíkus jafn skemmtilegur og Ólafur. Það kemur fram í samtali hennar við hann.

 

28. október, laugardagur

Á göngu við Elliðaár, orti þetta í skóginum, á fimmta tímanum, síðdegis.

 

Það haustar

Enginn fuglasöngur, ekkert

aðeins vindur hausts

í greinum,

 

húmar senn í huga mínum.

 

Hvar er vorið?

 

Hvar eru sporin frá í fyrra?

 

Fýkur laufið undan vindi

allt mitt yndi

ekkert nema þögn í greinum,

 

húmer senn í huga mínum.

 

Hvar ert þú?

 

Kvöldið lokar lúnum augum.

 

Kemurðu aftur enn að vori,

á ég að þreyja haust í spori vinds

sem deyr við naktar greinar,

 

kemurðu aftur eins og minning

fugls sem hvarf

að huga þínum?

 

 

31. október, þriðjudagur

Við skrifuðum leiðara í dag um heimsókn forseta Íslands til Indlands; það var einnig mikið gert úr þessari heimsókn í Morgunblaðinu, bæði á forsíðu og miðsíðu. Forsetann hafði líka sagt að hann hygðist tala við forystumenn Indlands um það hvernig unnt væri að bæta ástand hinna útskúfuðu; eða lakast settu; eða óhreinu! Ég skildi það a.m.k. svo, þegar hann átti samtal við sjónvarpið um daginn. Indverjar hafa ekki verið eins hrifnir af þessari ferð og við sem höfum staðið á öndinni út af áhrifum okkar í heiminum. Í frásögn DV í gær segir m.a.: "Heimsóknin hefur ekki fengið mikla umfjöllun indverskra fjölmiðla, en dagblað í Nýju-Dehli greindi frá henni innblaðs í stuttri frétt í fyrradag."! Það er svo sem ágætt að koma á góðum skikk á milli Indverja og Íslendinga,  enda erum við indó-evrópskir að uppruna. Það gæti einnig haft einhver viðskiptaleg áhrif, ég veit það ekki. Held þó helzt þetta séu fyrst og síðast sjónhverfingar, a.m.k.  einhverskonar sjónleikur. Blekkingin er góð en hún má ekki vera allsráðandi Að þessu mættum við rithöfundar einnig huga. Það hefur enginn íslenzkur rithöfundur lifað með öðrum þjóðum. "Frægð" að utan er því ekki annað en orðin tóm. Sá sem skrifar á tungu dvergþjóðar verður að sætta sig við það. Hann verður að láta sér nægja þessa þjóð. Það sýnir ekki sízt danska ævintýrið. Í Danmörku urðu nokkrir íslenzkir rithöfundar frægir um tíma, einnig í Þýzkalandi. En sú frægð hefur breytzt í einhvers konar tómahljóð. Danskt tómahljóð er heldur ömurlegt tómahljóð. Og ekki er það indverska betra!

Þegar maður lítur í kringum sig í íslenzku samfélagi nú um stundir, er engu líkara en maður sé á knattspyrnuleik. Og maður hrópar eins og hinir: Áfram Dario Fo, þú átt leikinn!

 

Kvöldið

Allt venjulegt fólk er óvenjulegt. Það hættir að vera venjulegt þegar það er komið í samfélag við þjóðina, eða mergðina. Þá breytist það í þjóð eða samtíð, breytist í mergð. En hvað er fólkið,  eða öllu heldur fólkið í landinu? Það eru einstaklingar sem breytast í hóp. Þessi hópur hefur tilhneigingu til samhugsunar, en ekki einstaklingshugsunar og þá er hætt við sérkennin hverfi og verði samkenni. Einkenni fólks eru sérstæð, þau eru skemmtileg, en samkennin eru heldur hvimleið. Þau hafa tilhneigingu til að leiða til hópskoðana, þ.e. þau eru forsenda tízku og merkja svokallaðan samtíma. Þessi einkenni byggjast yfirleitt á liðamótalausri hugsun og lítilli frjósemi. Helzt verða allir að vera eins. Fjölbreytnin hverfur og nú er raunar svo komið að "karektérarnir" í miðbænum í gamla daga eru horfnir af götunum og einsfólk tekið við þjóðfélaginu. Þessi einsmenning er ekki háleit, hún er miklu fremur lágkúruleg. Hún kallar ekki á frumleika; kallar ekki á það sem einkennir kristnidóminn öðru fremur, þ.e. að guð muni sjá um velferð hvers og eins; ekki hópsins, heldur einstaklinginn. Af þeim sökum getum við orðið sáluhólpin.

Það er einn skemmtilegasti þátturinn í kristinni trú að einstaklingurinn fær að njóta sín andspænis fyrirheitinu. Hann deyr ekki sem hópsál. Hann deyr sem einstaklingur. Hann deyr einn. Og hvað sem allri hópsál líður þá getur enginn dáið fyrir annan. Við verðum a.m.k. að deyja sjálf. Og það er hverjum manni ærin raun. Samt segir Manfred Byrons þar sem hann er að príla í Alpafjöllum: Það er þá ei svo erfið þraut að deyja! (M. Joch.)

 

Ég var að lesa athugasemd eftir Sigurð Þór Guðjónsson um minningargreinar. Hann gagnrýnir þær eins og aðrir, en telur að þeim hafi ekkert farið aftur; þvert á móti. Hann telur að minningargreinar séu skrifaðar inn í staðlað form og raunar staðlaða hugsun; staðlað viðhorf. Það má vel vera, ég veit það ekki. En hitt er ljóst, hann misskilur eðli minningargreina. Þær eru ekki endilega skrifaðar í því skyni að lýsa eiginleikum hins látna. Þær gera í raun engar kröfur til þess að vera mannlýsingar. Minningargreinar eru sprottnar af allt öðrum ástæðum. Þær eru sprottnar af löngun fólks til að sýna öðrum ást eða kærleika; eða einfaldlega virðingu þótt ekki sé annað. Þær eru sprottnar af mennskri hlýju. Og sem slíkar gegna þær ærnu hlutverki, þó að þær séu hvorki listaverk né menningarsöguleg stórvirki. Það er varla nokkur dáinn fyrr en hann hefur fengið sína minningargrein í Morgunblaðinu. Hinn látni fær sína minningargrein á svipuðum forsendum og dáið fólk í fornöld fékk með sér í gröfina vopn sín, hesta, skip eða hvað eina. Minningargreinin er sem sagt einhvers konar veganesti; eða vegabréf. Það er yfirlýsing um að hinn látni er ekki einn á ferð. Hann er í slagtogi með vinum sínum, kunningjum, ástvinum. Umvafinn vináttu eða kærleika. Umvafinn hlýju sem nær út fyrir gröf og dauða.

Það er allt og sumt!

 

Hef verið að hlusta á upplestur enska leikarans Derrek Jacobi á minningum John Bayley, eiginmanns brezku skáldkonunnar Iris Murdoch, en þó einkum lýsingar hans á alzheimersjúkdómi hennar. Það er átakanleg frásögn og lýsir því vel hvernig þessi merka og gáfaða skáldkona sigldi hægt inn í myrkrið.

 

Alzheimer-sjúkdómurinn sem hefur hlotið nafn sitt af lækninum sem lýsti honum fyrst, dr. Alzheimer, mig minnir þýzkum lækni, er svo óhugnanlegur að engu tali tekur; hann er í raun og veru viðurstyggilegur sjúkdómur. Það eru ósköp hvernig þessi sjúkdómur getur niðurlægt jafn gáfaða og merkilega konu og Iris Murdoch. John Bayley lýsir þessari niðurlægingu af ást og skilningi og óvenjulegri nærfærni, þótt hann gangi ekki úr vegi til að nefna verstu hliðar þessarar hörmungar. En hann elskar þessa konu og sýndi það í verki, þegar mikið lá við. Að vísu var hún þá gengin svo langt inn í myrkviði eigin hugsana, að hún upplifði ekki sjálf þessa niðurlægingu.

Iris Murdoch var löngu horfin, þegar hún lézt, en Bayley sleppti ekki af henni hendinni fyrr en í lengstu lög. Þegar hún lézt lokaði hann augum hennar, en opnaði þau svo aftur og horfði inní þau og fannst hún, látin, sýna meiri viðbrögð en meðan hún lifði í svartnættinu. Þegar hann hafði þannig horft í brostin augu hennar um stund, lokaði hann þeim aftur og hugsaði með sjálfum sér, hve dauðinn væri kyrrlátur. Ég gæti vel hugsað mér að prófa að deyja, segir hann í frásögninni sem er fléttuð inní gamlar minningar með óvenjulega haganlegum og áhrifamiklum hætti, enda er hann bókmenntaprófessor og einn þekktasti gagnrýnandi í Bretlandi.

Það er að vísu langt síðan ég gerði mér grein fyrir að alzheimer væri óhugnanlegur sjúkdómur, hef raunar skrifað smásögu um eitt af fórnardýrum þessarar hremmingar, sagan er í Konungi af Aragon og heitir Grágæsagarður.

 

Á síðdegisfundum mínum þessa viku hef ég m.a. þurft að sýsla við fréttir af Indlandsheimsókn forseta Íslands. Það er leiðinlegra en tali tekur. Mér finnst þetta sýsl auðmýkjandi, niðurlægjandi; að þurfa að vera að tala við fréttamenn mína og ljósmyndara um annan eins hégóma og skipa honum með einhverjum skikkanlegum hætti inn í blaðið. Þetta er einhvers konar alzheimer í fullri vöku, niðurlægjandi og auðmýkjandi þjóðfélagsnauðsyn, unnin í því skyni að karlar og kerlingar um allt land geti skoðað uppstilltar myndir af fyrirfólki og japlað á heimsókn sem engu máli skiptir. Og svo er það fylgdarliðið sem verður að taka þátt í þessu hirðlífi. Mikið vorkenni ég Þorsteini vini mínum Pálssyni, sendiherra Íslands á Indlandi, fyrrum forsætisráðherra Íslands, að þurfa að standa í þessu pjatti - og það í fúlustu alvöru! Hann sést vart á nokkurri mynd, því hann felur sig á bak við óþekkta hindúska trúarleiðtoga eins og hann sé einhvers konar stéttleysingi! Og svo er Friðrik Þór þarna, að sjálfsögðu, og af myndum að dæma er hann að líkjast Strindberg æ meir með hverjum degi sem líður. En á einni myndinni er hann svo sfinx-legur í framan að ég er viss um að það hefur hvarflað að mörgum Indverjanum að þarna sé Siva loksins kominn í leitirnar.

En hvað þá um forsetann sjálfan? Hann hampar börnum í gríð og erg eins og einvöldum einum er lagið, kaupir brúði handa dótturinni og borgar með reiðufé, úr eigin vasa, segir í myndatexta! Sem sagt, það er tekið rækilega fram að skattborgarar sleppa við þau útgjöld, þó að það sé auðvitað ekkert sjálfsagt eins og þessir sömu skattborgarar gapa upp í hið nýja landslið og halda að Íslendingar hafi nú loksins sett mark!

Og enn heldur Dario Fo áfram leikriti sínu án þess gera tilkall til höfundarréttar. En þannig er það líklega rétt sem einhvern tíma var sagt: að lífið apar eftir listinni - en ekki öfugt!!

 

4. nóvember, laugardagur

DV birtir í dag kafla um undirritaðan í væntanlegri bók Sigurðar A. Magnússonar, það eiga víst að heita endurminningar. Kannski eru þessi skrif skaðleg, kannski ekki; ég veit það ekki. En Sigurður svífst einskis. Ég er að velta því fyrir mér hvort hann telur að svona skrif séu söluvarningur, ég veit  það ekki. Ég vona hann fái að minnsta kosti 30 silfurpeninga fyrir vikið. Ég er að velta því fyrir mér, hvort ég ætti að svara þessari hvítu lygi, en held þó ekki. Það mundi bara æsa upp geitungana. Það eina sem ég tek nærri mér í þessum skrifum eru fullyrðingar Sigurðar um að ég hafi hótað fólki með völdum mínum sem Morgunblaðsritstjóri. Það er ekki bara ósatt, heldur lygi. Annað er mér sama um. Ég ætti auðvelt með að svara tilvitnun Sigurðar í Þjóðviljann, þegar hann hringdi í Magnús Kjartansson og braut trúnað við okkur Eykon og kom sér á forsíðu Þjóðviljans. Ég hef fjallað um þetta einhvers staðar annars staðar í dagbókinni og hef þá eftir Magnúsi Kjartanssyni það sem satt er, en ekki afstæðan "sannleika" Sigurðar sem virðist lifa í einhverjum sýndarveruleika um eigið ágæti. Og náttúrulega píslarvætti!  En hvað um það, ég læt þetta yfir mig ganga - a.m.k. í bili, enda er mér svo sem sama í aðra röndina. Ég varð að vísu fyrir vonbrigðum, enn einu sinni! Hann átti bágt í æsku, við áttum báðir dálítið bágt í æsku. Við höfum verið vinir út á þessi bágindi, það er allt og sumt. En ég varð óskaplega þreyttur, þegar ég leit yfir þessi brigzl vegna þess að ég trúði ekki mínum eigin augum; trúði því ekki að hann hefði lagzt eins lágt og raun ber vitni; t.a.m. að ég geti ekki eignazt vini, hafi ekki hæfileika til þess - og það hafi bitnað á honum! Þess vegna hafi hann hrökklazt af Morgunblaðinu, a.m.k. er það látið í veðri vaka.

Ég hef aðeins einu sinni skipt mér af ritdómi eftir Sigurð A. Magnússon. Það var þegar hann skrifaði um Mutter Courage. Helga Valtýsdóttir, sárlasin eftir krabbameinsskurð, fékk aðalhlutverkið í leikritinu og við vissum öll það yrði síðasta hlutverk hennar. Sigurði var ekki vel til hennar, ekki frekar en annarra Morgunblaðsmanna, eða eigenda eða stjórnenda blaðsins. Hann skrifaði mjög illa um leik Helgu, en þorði samt ekki annað en sýna mér leikdóminn. Ég las hann yfir. Ég sagði við hann, Þú getur ekki skilið svona við Helgu Valtýdsdóttur, hún er deyjandi kona. Auk þess lék hún stórvel í þessu verki og það veiztu sjálfur. Þá svaraði Sigurður með þjósti,

Hún Svanhildur er ekki sömu skoðunar, hún segir að Helga hafi verið ómöguleg.

Ég horfði á hann og sagði, Svanhildur hefur ekki verið ráðin leikdómari Morgunblaðsins!i Þá gugnaði hann og breytti dómnum, þannig að hann var boðlegur Síðar skildu þau Svanhildur og Sigurður með harmkvælum og eitthvað orti hann um þann skilnað síðar. Þá kom hann til mín og gerði mig að sáluhirði sínum, við drukkum saman úr hvítvínsflösku - og mér leið illa. En lét það þó yfir mig ganga.

Önnur afskipti af bókmenntaskrifum Sigurðar A. Magnússonar eða leikdómum hans hef ég ekki haft. Ég treysti honum fyrir slíkum skrifum í gamla daga og tel hann  hafi oftast verið traustsins verður. En þegar hann heldur því fram að ég hafi sagt að nú sé hann að eyðileggja feril minn sem leikskálds, þá hefur mér aldrei dottið í hug hann hafi haft bolmagn til að eyðileggja einn né neinn - ekki einu sinni sjálfan sig! Ástæðan er einföld. Það tekur enginn mark á honum. Hann var að vísu í tízku á sínum tíma eins og gagnrýnendur geta orðið, en ég held hann hafi ekki gert neina tilraun til að ganga milli bols og höfuðs á neinum höfundi. Hann  hefur líka haft þurrkuntulegan og húmorlausan stíl, ekki beittan. Auk þess þótti honum  vænt um bókmenntir.

Sigurður er gamalt útigangshross og kleprarnir festust á sálina. En þótt hann hafi alla tíð þótt heldur klepróttur er mér nær að halda hann hafi notið sín allvel í góðum félagsskap. En einhver sár kvöl fór eldi um huga hans og hann kaus annan félagsskap  en okkar. Hann hvarf inní frostkaldan næðing metnaðar sem bar hann ofurliði, ýtti undir öfund, jafnvel mannfyrirlitningu á stundum. Þetta er í raun sorgarsaga en það hvarflar ekki að mér að fara að rifja hana upp, þótt að mér sé vegið í DV. En það er svo sem annað mál, þegar slíkt er birt í bók og reynt að hafa af manmni æruna á metsölumarkaði. Þá verður maður að verja hendur sínar, jafn óskemmtilegt og það getur nú verið.

En við sjáum til. Það er engum til framdráttar að munnhöggvast við Sigurð, ég held ég láti það ekki eftir mér, eða honum. En hann ætti svo sem skilið einn á snúðinn.

En það er merkilegt hvernig svona fólk eins og Sigurður kann að gera út á markaðinn - sem það hatar!

Og nú er hann víst líka í Séð og heyrt!

 

Kvöldið

Vorum á fundi með fréttariturum utan af landi. Hafði gaman af Ásmundi, fréttaritara okkar í Vestmannaeyjum. Hann er frændi Einars Gíslasonar í Betel. Hann sagði okkur þá sögu af Einari að hann hefði látið epli falla af loftinu handa krökkunum og þegar nóg var komið hrópaði hann, Svona guð það er komið nóg! En eplunum rigndi áfram og þá hrópaði hann aftur, Guð minn, það er komið nóg af eplum. En ekki hættu eplin að hrynja af loftinu svo hann tók það til bragðs að kalla hástöfum, Óskar bróðir, hættu, það er komið nóg af eplum! Þá loksins hætti að rigna eplum.

Hann sagði okkur einnig þá sögu af aflakónginum Binna í Gröf að hann hefði einhverju sinni sem oftar gengið niður á höfn. Þar voru fjórar stúlkur og sátu á bryggjunni, berfættar. Hann spurði hvað þær væru að gera. Þær sögðu, Við erum að veiða karlmenn. Jæja, sagði Binni, þetta er einkennilegur veiðimáti - og sitja á beitunni!

 

Þannig leið nú þessi fallegi dagur, stilltur og bjartur og sólin fyllti upp í Hofsvallagötuna þegar við ókum niður á Reynimel um hálffimmleytið. Ég held ég hafi aldrei séð eins fallegt sólarlag á Hofsvallagötu og í dag.

 

5. nóvember, sunnudagur

Fallegur dagur. Haraldur og Brynhildur komu heim frá Rhódos í dag. Kristján og Svava litla fara heim til sín aftur, en þau hafa verið hjá okkur Hönnu undanfarna daga.

Eftir á að hyggja var ég svo þreyttur, þegar ég hafði lesið níðgrein Sigurðar A. Magnússonar í DV í gær að ég fór heim, fékk mér bjórglas og sofnaði snemma um kvöldið.

Þegar ég vaknaði í morgun fór ég að hugsa um þessa fáránlegu ritsmíð. Raunar trúi ég því ekki enn að Sigurður hafi skrifað  þessa grein með þeim hætti sem raun ber vitni. Allt lagt út á hinn versta veg fyrir mér. Hann trónar eins og engill og heldur vörð um sannleikann og heilindin. Minnir einna helzt á Kerúb "með sveipanda sverði"!

Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu að Sigurður gæti lagzt eins lágt og hann gerir í þessum bókarkafla.

Ég hef aldrei gert neitt af því sem hann er að burðast við að lýsa; allra sízt hef ég hótað einum eða neinum með því að ég skyldi eyðileggja hann í Morgunblaðinu. Geri ráð fyrir því að blaðið beri þess vott undanfarin 42 ár, hvað sem Sigurði líður. Afstaða mín til Ólafs Jónssonar gagnrýnanda og Árna Bergmanns á Þjóðviljanum mótaðist eingöngu af framkomu þeirra sem pólitískra farandriddara vinstri manna í heiftarlegu köldu stríði, ekki sízt í menningarmálum. Ólafur var svo sannarlega enginn Morgunblaðsvinur, nema síður væri. Sigurður setur ekkert inn í rétt samhengi. Þetta var einfalega barátta milli okkar og vinstri manna, ekki sízt harðsvíraðra marxista og kommúnista. Þeir sáu um einelti á því fólki sem barðist við þá, ekki sízt á menningarfrontinum. Kunnu að búa til "andrúm morðsins" í kringum okkur andstæðinga sína, hvað sem Árni Bergmann segir um það í grein í síðasta hefti Tímarits M & M.

Það hvarflar ekki að mér að halda því fram að að ég hafi verið eitthvað slakur í þessum hanaslag, ég lagði mig áreiðanlega fram, en þó ekki með þeim hætti sem Sigurður lýsir.

Þegar ég kynntist Sigurði var hann harðari andkommúnisti en ég. Þegar ég var svo orðinn ritstjóri Morgunblaðsins kom í ljós að hann taldi sig eiga heima á vinstra væng stjórnmála og hafi ævinlega verið í þeim herbúðum, þótt hann hefði verið í felubúningi á Morgunblaðinu. Það var einkennilegt að upplifa þessa klæðskiptingu  Sigurðar .

Neikvæður ritdómur Sigurðar um Eins og þér sáið hefur kannski haft áhrif á mig í eina eða tvær mínútur, en ekki lengur. Sigurður hafði hvorki né hefur það bolmagn sem hann heldur, eða vonaðist til. Í Morgunblaðsherbúðunum var mér legið á hálsi fyrir að skjóta skjólshúsi yfir hann. Ég var margoft varaður við honum, en tók ekkert mark á því. Harðast gagnrýndu Bjarni Benediktsson og Tómas Guðmundsson mig fyrir að vera í kompaníi við Sigurð. Ég held Tómas hafi fyrirlitið hann og raunar allt sem hann skrifaði; taldi hann líka vont skáld - og hann var ekki einn um það. En það var rangt hjá Tómasi að Sigurður sé vont ljóðskáld. Hann skildi bara ekki þurran prósastílinn í ljóðum hans.

 Það voru margir sama sinnis og Tómas og létu mig óspart heyra það; ekki sízt vinir mínir í Almenna bókafélaginu, t.a.m. Eykon. En ég hafði engan áhuga á að hrekja Sigurð burt af Morgunblaðinu, hef ekki lagt í vana minn að róa menn út af gærunni. En ég hafði ekki heldur áhuga á því að hann eyðilegði þann grundvöll að framtíð blaðsins sem ég var að reyna að leggja...

Hægt og sígandi fór Sigurður að klæða sig úr felubúningnum og að því kom að hann gerði okkur allt það til bölvunar sem hann frekast gat. Við sátum sem sagt einn góðan veðurdag uppi með moldvörpu í þessu umhverfi Morgunblaðsins - og það á harla viðkvæmum tímum. Einmitt þegar lokaorustan við alþjóðakommúnismann var að hefjast. Samt varði ég hann við lítinn fögnuð umhverfisins sem sá betur að hverju stefndi en gamalgróin samúð mín. Auk þess var mér afarhlýtt til hans vegna fyrra samstarfs og þeirrar skemmtunar og uppörvunar sem við höfðum hvor af öðrum fram yfir 1960.

Nú segir Sigurður að vísu - og það í fyrsta skipti - að hann hafi ekki verið rekinn af Morgunblaðinu; sem sagt að ég hafi ekki rekið hann; hefur sem sagt talað tungum tveim, rétt einu sinni. En hann reynir að koma því inn hjá fólki að mér hafi sárnað svo leikdómur eftir hann að ég hafi reynt að hrekja hann af blaðinu. Reynir síðan að koma höggi á mig með tilbúnum uppspuna um að ég hafi ætlað mér að eyðileggja andstæðinga mína í krafti Morgunblaðsins. Hann getur ekki nefnt eitt einasta dæmi þess, enda er ekki hægt að finna slíkt dæmi á síðum Morgunblaðsins. Hitt er annað mál að það var tekizt á, stundum óvægilega, og eftir á að hyggja held ég að ég hafi oftar "verið tekinn af lífi", ef svo mætti segja, af miskunnarlausum andstæðingum Morgunblaðsins en nokkur maður annar. Ástæðan var einföld. Hún var sú að mér hafði verið gefin með móðurmjólkinni ást á listum og bókmenntum og sjálfur hafði ég þörf fyrir að skrifa einhvers konar skáldskap, einnig að yrkja ljóð. Það reyndi að vísu oft á skáldskaparþörfina í samtölum sem ég skrifaði um þetta leyti, en ég var svo sem ekkert að trana mér fram á því sviði. Fyrsta ljóðabókin mín kom ekki út fyrr en 1958, þá hafði ég verið sjö ár á Morgunblaðinu. Enginn tók henni betur en Sigurður A. Magnússona, enginn hampaði henni meir; né næstu bókum, Hólmgönguljóðum og Jörð úr ægi. Það var líka áður en Sigurður fór úr felubúningnum. Það var áður en hann sá að hann kæmist ekki upp með hvað sem væri á Morgunblaðinu. Eftir það skipti hann um skoðun. Og ef litið er á skrif hans síðan hef ég aldrei ort frambærilegt ljóð eftir að leiðir okkar skildu! Hann á áreiðanlega eftir að sýna framá með sam-ískri röksemdafærslu að ég hafi ort öll þau ljóð mín sem skipta einhverju máli vegna vináttunnar við hann í kringum sjötta áratuginn! Þá treysti ég honum svo vel að ég lánaði honum handritið að Borgin hló. Það var með athugasemdum Steins Steinars. Það var þannig dýrmæt eign. Á þessi blöð hafði Steinn skrifað eigin hendi einkunnir sínar - og þær voru harla góðar. Mér var því mjög annt um þetta handrit, en lánaði Sigurði það samt vegna þess hve hann gekk fast eftir því að fá að skoða athugasemdir Steins í rólegheitum heima. Ég hef aldrei séð þetta handrit síðan. Hann segir að það hafi lent í öskutunnunni. Það er margt dýrmætt í lífi Sigurðar A. Magnússonar og vina hans sem hefur lent í sorpinu.

En hann er bara svona og hvað er að fást um það!

Einhverju sinni löngu eftir að SAM var hættur á Morgunblaðinu kom hann með ljóðahandrit á skrifstofuna mína og bað mig lesa það yfir. Það gerði ég að sjálfsögðu þótt ég hefði helzt viljað losna við það úr því sem komið var. Við fórum svo yfir athugasemdir mínar sem voru með köflum nokkuð drastískar, en þá sá ég að Sigurði brá allnokkuð, svo ég sagði, Varstu ekki að biðja mig um að lesa þetta yfir!

 Jú-ú, sagði hann, en ég vildi bara að þú sæir þetta, það er búið að prenta bókina.

Þorsteinn frá Hamri las handritið yfir, áður en það var prentað, og er ánægður með þetta svona!

 Jæja, sagði ég, heldur afundinn. Af hverju varstu þá að láta mig fá þessa próförk, mér finnst óþægilegt að hafa verið með þessar aðfinnslur fyrst bókin er prentuð.

Hann svaraði því engu en ég fann að hann hafði búizt við betri viðtökum.

Að svo búnu felldum við talið og snerum okkur að öðru. Þetta var í síðasta sinn sem Sigurður talaði við mig um ljóðlist.

 

Það hefur stundum verið dýrt spaug fyrir mig að hafa stjórnað Morgunblaðinu svona lengi, en það hefur líka verið skemmtilegt spaug eða öllu heldur mikið ævintýri. Saga Morgunblaðsins er mikil saga. Hún er öðrum þræði saga samtímans. Þetta starf mitt við Morgunblaðið hefur bæði kostað mig vini og vinsældir. Það hefur einatt verið fórnarkostnaðurinn. En það er kannski ekkert við því að segja, þótt um mann hafi gustað. Ég hef ekki fengið neitt á silfurbakka, hvorki veraldleg gæði né metorð; né orðstír. Það sem mér hefur fallið í skaut hefur verið dýru verði keypt. Ég hef tekið margt nærri mér, en ég hef ævinlega bitið á jaxlinn. Guð hefur ekki lagt á mig annað en  það sem ég hef verið maður til að axla. Ég hef verið þakklátur fyrir það. Ég hefði ekki staðizt raunir Jobs.

 

Þótt Sigurður A. Magnússon hafi skrifað vel um Jón gamla á sínum tíma skilur hann ekki leikritið og ekki við því að búast; ekki endilega. Ég sé þetta á því sem hann fullyrðir í DV-greininni. Hann segir að fyrirmynd Jóns gamla sé alfarið Elías Hólm. Það er rangt. Ég hef sjálfur fjallað um þetta leikrit ásamt öðrum leikritum í bókinni Fjaðrafok og önnur leikrit og þar er hægt að kynna sér hvað rétt er í þessum efnum, en Sigurður hefur auðvitað ekki haft fyrir því. Í þessari umfjöllun segi ég m.a.: "Ég vil einungis geta þess um viðtökurnar á Jóni gamla, að Ólafur Jónsson, sem þá skrifaði gagnrýni í Alþýðublaðið og tók verkinu ágætlega, sagði að í því gætti áhrifa frá leikriti Samuels Becketts um segulband Krapps, sem einnig hafði verið sýnt í Lindarbæ árið áður. Þetta langar mig til að leiðrétta, fyrst ég er á annað borð að fjalla um þessi verk að viðskilnaði. Ég hef ekki hirt um það fyrr að benda á, að ég hafði hvorki séð né lesið þetta verk Becketts, þegar ég skrifaði Jón gamla - og hef raunar ekki enn. Aftur á móti þekkti ég Godot, sá leikritið í Iðnó á sínum tíma og ef um einhver áhrif frá Beckett er að ræða, hljóta þau að vera þaðan. Það tel ég þó harla ósennilegt. Karlarnir í Jóni gamla eru jafn íslenzkir og andrúmið í verkinu. Það þurfti ég ekki að sækja lengra en í kjallarakompu upp á Bergstaðastræti, þar sem Elías Hólm bjó síðustu árin, sem hann lifði.

Jón gamli varð til úr kynnum mínum af tveimur ógleymanlegum mönnum, sem drógu að sér athygli mína vegna fjölskrúðugs persónuleika, eftirminnilegrar lífsreynslu og sérstæðs tungutaks. Hef ég skrifað samtalsgreinar um þá í Morgunblaðið, en þeir eru nú báðir látnir. Þeir voru Jón Magnússon, seglasaumari, og Elías Hólm. Til  þeirra kom ég stundum á meðan þeir voru og hétu, eins og sjá má af fjórum greinum í Morgunblaðinu (Í fáum orðum sagt). Ekki minnist ég þess að neinn hafi komið auga á þetta, enda þótt Þorsteinn Ö. Stephensen hafi lesið samtalið við Elías Hólm í bókmenntaþætti í útvarpinu fyrir mörgum árum".

Ég hef ort og skrifað út úr lífi mínu, ég fjalla um það sem ég þekki. Það mun ég gera áfram. En þegar maður notar lífið sjálft í skáldskap getur maður farið með það eins og verkast vill - án þess spyrja nokkurn mann. Allur skáldskapur verður til af nokkru efni, eins og Snorri sagði. En hitt er slæmt, þegar maður býr til annað fólk að eigin geðþótta og fullyrðir að þar sé verið að fjalla um blákaldar staðreyndir, spinnur síðan upp og skáldar það sem manni sýnist og heldur því fram að hin ósanna veröld sé sannleikurinn sjálfur í allri sinni dýrð. Það er ekki einungis ábyrgðarleysi, heldur oft og einatt níð af verstu tegund. Þetta er veröld Sigurðar A. Magnússonar, því miður. Mér er svo sem sama þótt hann hafi verið að reyna að skrifa mig inn í þessa fáránlegu martröð sína, en þá er nauðsynlegt að lesandinn velti fyrir sér því sem Sigurður nefnir sjálfur í DV-greininni - en það er eina setningin sem er marktæk í öllum skrifum hans; hún hljóðar svo: "Sannleikurinn er sjaldnast hreinn og aldrei einfaldur." Þessi orð eru að vísu ekki frá Sigurði sjálfum, auðvitað ekki, heldur Óskari Wilde. Þessi orð hljóta að vera eldur sem brennur á sjálfum Sigurði.

SAM segist hafa verið rekinn úr Blaðamannafélagi Íslands þegar hann hætti á Morgunblaðinu. Þetta er enn ein hysterían, á þeim árum áttu þeir sem unnu við tímarit ekki aðild að félaginu. En það breyttist síðar. Þetta smáatriði segir að vísu enga sögu. En það er þó til marks um nákvæmni Sigurðar og áreiðanleika! Ég gæti ímyndað mér, án þess ég viti það, að enginn hafi haft áhyggjur af þessu nema hann sjálfur. En sem gamall blaðamaður hefði hann átt að fá undanþágu undan reglunni. En ég efast um honum hefði þá liðið betur. Píslarvottur blaðamannafélagsins var sem sagt fundinn - og embættið fór engum betur en SAM: Hann þarf á slíkri næringu að halda til að njóta sín útí æsar!

 

Kvöldið

Datt það í hug án þess það hvíldi neitt á mér að dagblaðsmenn réðust að okkur Styrmi fyrir ekki alllöngu vegna greina sem Jakob Frímann skrifaði í Morgunblaðið um vinnubrögð Dagblaðsmanna. Okkur Styrmi komu þessar greinar Jakobs í raun ekkert við, en við birtum þær af þeirri einföldu ástæðu að það voru engin meiðyrði í þessum greinum. Þegar Jakob sendi okkur fyrstu greinina var hún að vísu með þeim hætti að við töldum okkur ekki fært að birta hana; gerðum því athugasemdir við hana og Jakob tók þær allar til greina. Það var þá ekkert því til fyrirstöðu að birta gagnrýni á Dagblaðið. En þá ruku þeir upp til handa og fóta og réðust að okkur fyrir þessi greinaskrif Jakobs. Minnti á þegar að okkur var vegið fyrir greinaskrif Sverris Hermannssonar á sínum tíma, þótt við ættum engan hlut að þeim greinum. Töldum einungis enga ástæðu til að birta þær ekki. Sverrir bar sjálfur ábyrgð á eigin orðum. Jakob Frímann bar einnig ábyrgð á gagnrýni sinni. En ritstjórar Morgunblaðsins sátu svo uppi með skömmina og skepnuskapinn!

Að venju!

En nú gildir öðru máli. Þegar Sigurður A. Magnússon leggur rýtinginn í bakið á mér þykir Dagblaðinu ekkert sætara en birta þá ritsmíð. Það er ekki eins og Dagblaðið hafi reynt að fá einhvern annan kafla úr væntanlegri bók Sigurðar. Nei, þetta var það eina sem þeir höfðu áhuga á. Og ekki hvaflaði að þeim að fá viðbrögð mín, nei, þeir höfðu ekki fyrir því. Það mátti ekki skemma veizluna!

Hræsnin og tvískinningurinn eru með þeim hætti á þessum vettvangi að augljóst er, enda hefur upplag Dagblaðsins minnkað um tíu þúsund eintök frá því það var útbreiddast á sínum tíma. Ég hélt það yrði lexía fyrir þá Dagblaðsmenn,  en það virðist ekki hafa orðið.

Dagblaðið er einhvers konar geðklofi. Það er gult í aðra röndina, en í hina stendur það sig ágætlega. Það hefur tekið miklum stakkaskiptum og raunar framförum hvað snertir menningarskrif. Allt undir forystu Silju Aðalsteinsdóttur sem hefur ofið húmanistíska ást sína á listum og bókmenntum inn í þann vefnað sem gula teppið Dagblaðsins er spunnið úr.

 

…Undir miðnætti (5.nóv )

Hef verið að hlust á samtal Michael Enrights við dr. Bruce Meyer, prófessor í Toranto og fjalla þeir um þær fimm bækur sem prófessorinn telur mikilvægastar til skilnings á sögu mannsins, bókmenntum, hugsunum og heimspeki; þær eru Biblían, að sjálfsögðu, Ódysseifskviða Hómers, Eneasar-kviða Virgils, Myndbreytingar Óvids (Metamorphoses, eða Ummyndanir) og Þebu-leikrit Sófóklesar. Þetta er gott val, sýnist mér, en ég hef lesið öll þessi verk, meira að segja Biblíuna að miklu leyti. Og þá einkum á ensku í Flórdía! Í síðari þáttum taka þeir fyrir Milton Vasari og Joyce meðal annarra.

Mér finnst athyglisverð sú ábending dr. Bruce að hetjurnar þurfi að koma við í helvíti, áður en þær ná takmarki sínu; t.a.m. bæði Ódysseifur og Eneas. Það er því ekki sízt samkvæmt þessum fornu hugmyndum um hetjuna sem Kristur stígur niður til heljar.

Annað þótti mér athyglisvert, það er hvernig Penelopa vefur í Ódyssiskviðu til að tefja fyrir biðlum sínum, en dr. Bruce benti á að konur sætu stundum að vefnaði í fornum bókmenntum og gæti það verið táknræn athöfn, jafnvel heilög í aðra röndina. Konur sitja að vefnaði á tveimur eða þremur stöðum í Myndbreytingum Óvids. Það væri íhugunarefni út af fyrir sig að skoða þennan vefnað fornkvenna íslenzkra með tilliti til þess þegar tröllkonur ófu vef Darraðar í Njálu. Sú athöfn fjallar augsýnilega um örlögin, en kannski er merking hennar meiri og víðtækari en virðist í fljótu bragði. Ástæða til að skoða það nánar.

Þessi þáttur sem heitir The Great Books er að mörgu leyti athyglisverður, en ég hélt ég mundi græða á honum meir en raun ber vitni.

En hvað sem því líður er það athyglisverð ábending hjá dr. Bruce að Trója var byggð á sjö hæðum, einnig Róm, enda átti hún að vera Trója endursköpuð. Síðan fóru menn í Frakklandi að minnast þess, líklega á sextándu öld, að París væri byggð á sjö hæðum og lögðust þá í rómverska byggingalist og loks var Washington byggð á sjö hæðum og ekki endilega ástæða til að halda að það hafi verið tilviljun ein. Í Washington er margt sem minnir á Rómaborg, raunar fannst mér ég vera í Róm þau tvö eða þrjú skipti sem ég hef dvalizt í höfuðborg Bandaríkjanna.

Nú er bara að finna það út hvort Reykjavík sé ekki byggð á sjö hæðum, mér er raunar nær að halda að svo sé!

En hvað sem þessu líður þá er Eneas sérfræðingur í undirheimum samkvæmt kviðu Virgils og engin tilviljun, þegar Dante velur Virgil með sér á göngunni miklu um Infernó.

Enesar-kviða kennir manni að bíta á jaxlinn, grunntónn hennar er æðruleysi; það sé nauðsynlegt að láta ekki tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur, heldur beita íhygli og því andlega jafnvægi sem einkennir hetjuna Eneas. Það voru ekki sízt þessir eiginleikar sem miðaldamenn eins og heilagur Ágústínus mátu hvað mest og áttu hvað mestan þátt að kviðan lifði af, þótt hún sé harla erfið aflestrar. Ég átti fullt í fangi með hana, enda skilst mér persónurnar séu um fimm hundruð talsins. Þetta er þannig svipað torf og þegar verst gegnir í rússneskum skáldsögum.

Hinn heiðni Eneas er kristinn að því leyti að hann trúir því að menn verði að standa skil á lífi sínu hinu megin grafar og á þeim forsendum leiðir hann fólk sitt til Rómar, hugsar ekki um neitt annað en það sem því er fyrir beztu. Ástarævintýri hans og Didóar er dálítið hliðarspor á þessu langa og örlagaríka ferðalagi Tróju-hetjunnar miklu).

 

6. nóvember, mánudagur

Andvaka var allt mitt líf, segir Sverrir konungur í ljóði Gríms Thomsens. Andvaka er einhvers konar helvíti, maður vaknar grútsyfjaður og getur ekki fest svefn aftur fyrr en eftir dúk og disk; liggur vakandi og getur ekki varizt þeirri  skæðadrífu af hugsunum sem  á hugann leita.

Ég vaknaði í nótt og lá lengi andvaka. Á mig leituðu alls kyns hugsanir frá helginni. Ég gat eiginlega ekki trúað því að Sigurður A. Magnússon hefði skrifað bókarkaflann sem DV birti á laugardag með velþóknun. Ég hef fengið margar rispur um ævina, en þessi grein er the most unkindest cut of all.

Hanna segir ég skíti mig bara út á að svara grein Sigurðar, hún sé ekki svara verð. Auk þess sé hún gömul lumma. Hún er ekki ein um þessa skoðun. Hreyfðu ekki skítinn svo hann skaði þig ekki, sagði Jóhannes afi minn. Hann sagði einnig þegar hann var spurður, löngu eftir að Jónas frá Hriflu hafði skaðað hann í pólitískri baráttu þeirra  ( og lagt niður embætti hans !) hvort hann hefði heilsað honum.,þegar þeir hittust á Túngötunni ,. Já, sagði hann, auðvitað, ég hef aldrei gert honum neitt!

 

Ég hef aldrei gert Sigurði A. Magnússyni neitt.,svo ég viti Ekki heldur Ólafi Jónssyni, þótt hann hafi einu sinni í símtali hótað að eyðileggja mig sem skáld, ef ég réði hann ekki að Morgunblaðinu. Sigurður segir að ég sé með Árna Bergmann á heilanum. Ég hef haft allt annað að gera við heilann því ég hef þurft að standa í mörgum heilabrotum um ævina. Það hefur verið ágætt með okkur Árna, við lásum upp saman á bókamessunni í Gautaborg og hann hefur skrifað í Morgunblaðið og Lesbók. Ég hef aldrei úthýst honum af þeim vettvangi.

En þeir Þjóðviljamenn notuðu Sigurð á sínum tíma, það er nú augljóst af grein hans. Fyrst hræddu þeir hann með vondri gagnrýni um bækur hans og leikrit, svo gafst hann upp. Það var hans uppgjöf, en ekki mín. Þó að Sigurður hafi tilhneigingu masókistans og leiti undir höggin, ef því er að skipta,  þolir hann illa, ef tekið er á móti honum!...

.

Sigurður A. Magnússon heldur því fram að ég hafi sagt ég gæti ekki átt vini. Ég hef átt ágæta vini, þótt það sé stundum erfitt fyrir ritstjóra Morgunblaðsins sem þarf að súpa marga fjöruna. Sigurður segir að vinátta okkar hafi verið bláþráðarvinátta. Ég held hann hafi slitið þennan þráð í DV um helgina. En ég geri mér ekki grein fyrir ástæðunni. Held hún sé djúpsálarleg og hana sé einungis að finna í píslarvættisflækjum Sigurðar sjálfs, en þær eiga rætur í erfiðri æsku og umhverfi sem hefur, að því er virðist, verið einhvers konar helvíti. Það er ekki álitlegt að fara með slíkt út í lífið.

Eftir þessar hugsanir sofnaði ég aftur; ágætlega. Og þegar ég vaknaði var ég laus við bláþráðinn í lífi mínu.

 

Síðdegis

Björn Jóhannsson, fyrrum fréttastjóri Morgunblaðsins, minnti mig á það í morgun að á sínum tíma hefði Sigurður A. Magnússon skrifað Rabb þar sem hann kallaði okkur alla á ritstjórn blaðsins landsölumenn, hermangara og þar fram eftir götunum. Þá hafi Haukur heitinn Hauksson gengið fram fyrir skjöldu og safnað saman blaðamönnum til að mótmæla þessum skrifum og hafi  þeir almennt tekið þátt í mótmælunum; m.a.

 krafizt þess að sett yrði ofaní við Sigurð fyrir þessa ósvífni, jafnvel að ég ræki hann.

En þú gerðir ekkert, bætti Björn Jóhannsson við.

Ég mundi ekki eftir þessu, ekki frekar en ýmsum öðrum óþægindum sem ég hafði af Sigurði á þessum árum, en Björn man þetta áreiðanlega rétt, þótt ég hafi þurrkað margt slíkt úr huga mínum.

 

 

7. nóvember, þriðjudagur

Hef verið að hlusta á prófessor Robert M. Hazen fjalla á spólum um  The Great Principples of Sicence. Ég er nú í 20. fyrirlestri. Þetta eru stórfróðlegir fyrirlestrar um sögu vísindanna og góð viðbót við húmanistíska menntun. Við lifum á vísindatímum, en húmaníora er ekki í tízku. Það er því nauðsynlegt að gera sér einhverja grein fyrir því sem er efst á baugi á þessum vettvangi. Og Hazen er góður leiðbeinandi. Ég hef eiginlega mesta ánægju af fróðleik; bæta við það sem ég vissi. Ég veit ekki hvort efnið er forsenda andans, en hitt er víst að bezt fer á því að þetta tvennt fari saman, ekki sízt í jafnflóknu og krefjandi umhverfi og efnisheimi samtímans. Það er ekki hægt að vera skáld nú á tímum án þess fara með vísindunum inní sauðljósa troðninga annarra stjarna, kynnast áleitnustu draumum mannkynsins frá örófi alda; þeir blasa við á himninum, sól, tungl, stjörnur. Og nú hefur karlinn í tunglina breytzt úr rómantísku ævintýri í gallharðan veruleika sem siglir á úthafi himinhvolfsins, seglbúið skip hlaðið ótrúlegum fyrirheitum. Þangað horfðu fornegyptar væntingaraugum, þangað sigldu hugsanir þeirra og þar leituðu þeir að samhengi lífs og dauða; rétt eins og við.

Við sem stöndum eftirvæntingarfull eins og þeir á strönd hins mikla úthafs og sendum hugsanir okkar með þrjúhundruð þúsund kílómetra hraða á sekúndu inn í svartnætti himinsins þangað sem jafnvel sólarljósið  dofnar og deyr eins og grútartýra í skammdegismyrkri.

En það eru önnur ljós en jarðnesk sem vísa leiðina inn í þetta myrkur.

 

11. nóvember, laugardagur

Sigurður Sverrir hefur verið að kvikmynda á ritstjórn Morgunblaðsins. Þeir Erlendur Sveinsson ætla víst að gera heimildakvikmynd um skáldið og ritstjórann, áður en það er orðið um seinan! Ég veit aðeins eitt, að þeir eru góðir fagmenn og vinna sitt verk af alúð; eins og góðir listamenn.

Við sjáum til.

Haraldur J. Hamar sagði við Styrmi í gær að hann hefði hitt SAM og hann hefði sagt að á milli okkar hafi verið "love-hate".

 

Það var ekkert “hate” af minni hálfu.

 

12. nóvember - sunnudagur

Bæði Morgunblaðið og DV birta kafla úr 3ja bindi ævisögu Steingríms Hermannssonar um helgina. Í bókinni er vitnað í minnisblöð mín um myndun ríkisstjórnar  Þorsteins Pálssonar. Steingrímur var spurður um ævisögu sína í sjónvarpi í gærkvöldi er mér sagt og staðfestir frásögn mína. Punktarnir eru allir teknir af þessum dagbókarblöðum, þegar ég var á sínum tíma beðinn um að segja höfundi ritsins, Degi Eggertssyni, frá þessari stjórnarmyndun. Ég hef fulla trú á því sjálfur að allt sé það satt og rétt sem á þessum blöðum stendur um afskipti mín af því sem um er fjallað, enda  fáránlegt að skrifa dagbók gegn betri vitund! Þessi blöð voru upphaflega skrifuð sjálfum mér til stuðnings gegn gleymskunni og þá einnig til að varðveita fróðleik sem ég þyrfti síðar á að halda sem ritstjóri. En þegar fram liðu stundir hef ég haft gaman af að yrkja og skrifa ýmsar hugleiðingar handa dagbókinni einni, án þess ætlunin hafi verið að gefa það út, enda margt af þessu efni harla viðkvæmt. En þegar gamlir samstarfsmenn eins og Sveinn Þormóðsson sem heldur ég hafi verið fréttastjóri, þegar ég tók við ritstjórastarfinu, og Sigurður A. Magnússon eru farnir að setja sinn "sannleika" í bækur, má vel vera að mér sé nauðsynlegt að koma þessum blöðum á framfæri, þegar ég  er hættur ritstjórn og afskiptum af þjóðmálum.

Dagbókin er að vísu gloppótt, enda hef ég ekki iðkað hana að staðaldri...

...Sumt sem hér stendur er harla viðkvæmt og þarf að fara varlega með, en mest eru þetta þó hugleiðingar  mínar og sýna hvernig viðhorf mín voru frá einum degi til annars; t.a.m. gat afstaða mín til einstaklinga breytzt við nánari kynni, en yfirleitt tíunda ég afstöðu mína án tillits til þess, hvernig því yrði tekið. Reyni þó í þessum efnum sem öðrum að vera eins heiðarlegur og mér er unnt, þótt sitt sýnist hverjum eins og alltaf er. Þá er einnig oft minnzt á hvernig afstaða Morgunblaðsins myndaðist - og ekki síður hvernig skáldskapur minn varð til.

 

 

14. nóvember, þriðjudagur

Átti í morgun samtal við Sæmund Guðvinsson fyrir Sjómannablaðið Víking.

Við Styrmir borðuðum í hádeginu með Árna Mathiesen, sjávarútvegsráðherra. Hann heldur að Davíð Oddsson verði áfram á sínum stað. Árni mun reyna að leggja fram frumvarp til lausnar fiskveiðideilunni á næsta ári. Gott og fróðlegt samtal við Árna.

Höfum fengið tvær greinar um fiskveiðimálin frá Sverri vini mínum Hermannssyni. Báðar glórulausar árásir á ritstjóra Morgunblaðsins vegna leiðaraskrifa um lausn fiskveiðideilunnar í anda samkomulags auðlindanefndar. Sverrir tekur til sín ummæli um hagsmunaafsstöðu og óþjóðhollustu og þá sem vilja ekki sættir, en hann átti ekki sneiðina!

Þarf að tala um fyrir honum; en við birtum greinar hans að sjálfsögðu. Þær munu sýna og sanna frjálslyndi Morgunblaðsins í verki. Sverrir er svo ólmur að engu er líkara en hann sé að efla með sér hatur á okkur Styrmi. Mun reyna að eyða því, áður en það er orðið um seinan.

Ég sagði á leiðarafundi í morgun, Vinir eru til að missa þá! Að minnsta kosti er ekki sjálfgefið að ritstjóri Morgunblaðsins haldi vinum sínum, a.m.k. ekki auðveldlega! Það er jafnvel hægt að glata þeim fyrir misskilning!...