2001

fjórði hluti

 

8.  júlí,  sunnudagur

Hef verið með hugann við Gamla testamentið. Hanna segir ég sé búinn að fá það á heilann, það má vel vera að svo sé - um stundarsakir. Hef lesið margt í því vel og rækilega og kann að meta stórleik þess og andlega sýn. En trú mín er ekki bundin þessu mikla verki, heldur Nýja testamenntinu, þótt ég viti vel samhengið milli þessara bóka, m. a.  það, að Kristur kunni skil á á þessari gyðinglegu undirstöðu og vitnaði í saltarann á dauðastundinni á krossinum: Guð minn, guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?

Ég þykist einnig kunna á því nokkur skil að 2/3 hlutar trúarbragða í heiminum í dag eiga rætur í þessu ótrúlega verki og þangað sækja, auk gyðinga, kristnir menn og múslímar. Það er úr þessu svarrandi myrkrahafi, eins og Jón Helgason kemst að orði, sem trú þessa fólks hefur borizt til okkar.

 

 

Ég hef verið að tala um Gamla testamenntið við þá menn lærða sem ég hef hitt undanfarið, bæði í Skálholti í gær, þegar við drukkum kaffi með dr. Pétri Péturssyni rektor þar , en þangað fórum við á tónleika og hlustuðum á ný verk eftir Jón Nordal, m. a.  við nýfundið kvæði eftir tengdaföður hans, Jón Helgason, og  sr.  Ólaf á Söndum; falleg verk. Mér þótti vænt um Jón hafði góð orð um fjallkonukvæðið og lagði áherzlu á ferskleikann.

Þá átti ég gott samtal við gamla byskupinn, sr. Sigurbjörn, sem er enn eins og unglamb þrátt fyrur sín níutíu ár. Hann tekur okkur alltaf afarvel , kann að meta störf Hönnu í sóknarnefnd Neskirkju og sagði m. a.  að ég hefði sem ritstjóri opnað faðminn móti kirkjunni. Morgunblaðið hefði að vísu ekki verið neitt á móti kirkjunni, en fremur afskiptalaust og sinnt henni slælega.

 

Þá talaði ég einnig um helgina við sr.  Örn Bárð sem bað mig lesa yfir fyrir sig ljóðahandrit og tók ég það að mér. Hann sagði að gyðingar Gamla testamentisins hefðu ekki trúað á líf eftir dauðann og þess vegna hefði verið hörð krafa um refsingu hérna megin grafar og og grimmdin ekki sízt stafað af því.

Mér þótti þetta athyglisvert og skýra margt.

Gyðingar gátu ekki tekið Kristi því að hann átti að birtasti í skýjum eins og Daníel talar um,  vald hans eilíft og riki hans “skal aldrei á grunn ganga”.

Jesaja talar einnig um komu Kristsx, en með öðrum hætti.

En það var ekki fyrr en í Daníels-bók sem talað er um  upprisu, eða líf eftir dauðann. : þeir sem sofa munu upp rísa.

Allt er þetta harla merkilegt og þeir sem kunna ekki einhver skil á þessum menningararfi verða ósjálfrátt einhvers konar utangáttarfólk í sínu eigin umhverfi.

 

Kvæði Jóns Helgasonar heitir Trú mín er aðeins týra, /tórir á þurrum kveik. . . eftirminnilegt og Jóni líkt. Solveig, dóttir hans, sagði okkur að hann hefði ekki komið því á framfæri meðan hann lifði, heldur hefði það dottið út úr bók að honum látnum.

Þannig lifði hann og þannig dó hann. Kaldhæðinn efasemdarmaður eins og Steinn, en vonaði það bezta:

 

Fræðiverk mín sem forðum

festi ég hugann við,

týnast í vind og veður

veita mér engan frið.

Það sem ég kvað í kvæðum,

kuldalegt sumt og ljótt

verður mér allt til einskis

athvarfs á kvíðans nótt.

 

Jón Nordal samdi einnig tónlist við falleg ljoðabrot eftir sr.  Ólaf á Söndum, enda er margt álitlegt inni á milli í kompu hans.

 

Fyrr um daginn flutti sr.  Gunnar Björnsson ágætt erindi um samtíð Hallgríms Péturssonar og söng sjálfur tóndæmin, þótti mér það skemmtilegt. En síðar flutti sönghópurinn Hljómeyki tónverk eftir brezka tónskáldið Richard Rodney Bennett (f. 1936), áhrifamikið verk við kvæði Wordsworth, The Glory and the Dream, þar sem náttúran er vegsömuð á eftirminnilegan hátta,  og var það fallega sungið:

 

To me the meanest flower that blows can give

Thoughts that do often lie too deep for tears.

 

 

Landnám

Það þarf vart að efast um að kjarninn í landnámssögu Íslands sé nokkurn veginn sá sem haldið er fram í Landnámu og Íslendingabók Ara, en þó er þar allmargt harla grunsamlegt og úr lagi fært eins og ýmsar þær skýringar Snorra í ritum hans, sem eiga að byggja á sögulegum staðreyndum, en eru þó fremur sprottnar af goðsögulegu efni myrkra alda fyrir hans daga. Af þeim sökum hefur honum ekki verið hampað erlendis sem miklum sagnfræðingi, nema þá í hinum sagnalitla Noregi, þótt ekkert vanti á að Snorri sé víðfrægur ritsnillingur, en þetta tvennt þarf ekki að fara saman, sagnfræði og ritsnill.

Heimskringlu er að öllum líkindum nokkuð líkt farið og  Gamla testamenntinu, því að engum dettur í hug þar sé allt reist á sagnfræðilegum grunni, þótt kjarninn eigi við einhver rök að styðjast.

Hitt er annað mál að þetta frumrit um sögu gyðinga er ekki minna bókmenntalegt afrek en Hómerskviður og líkjast þeim allnokkuð eins og tveggja manna samtöl Móses og guðs sem minna á samskipti guða og manna í grísku kviðunum.

Sá sem hefur ekki einhver kynni af  Gamla testamentinu á erfitt með að skilja margt í vestrænni menningu, svo mikil áhrif sem það hefur haft á  hugarheim okkar. God save tih king er komið úr konungsbókum biblíunnar og íslenzki þjóðsöngurinn á rætur í saltaranum, svo að dæmi séu tekin

 

Troja hefur að öllum líkindum verið til og nú eru fornleifafræðingar að grafa upp sögulegar heimildir á biblíuslóðum sem styrkja fremur en veikja frásagnir biblíunnar af ferðum gyðinga frá Egyptalandi. Þannig þykjast þeir nú hafa fundið hið rétta Sínai-fjall. Og með sama hætti og við höfum nú fundið leifar af Ingólfsbæ frá því fyrir 9oo, þannig hafa fræðimenn einnig grafið upp leifar tveggja egypzkra borga  sem týndar voru,  Baal Sefón og og Pi Hakírót, en við þessar hafnarborgir í ósum Nílar settu gyðingar upp búðir sínar, segir Mósebók.

Sérfræðingar hafa jafnvel varpað fram ótrúlegustu hugmyndum um gönguna yfir Rauða haf, t. a. m.  er ein þeirra sú, að land hafi þornað um skeið vegna ógurlegs sprengigoss á grísku eyjunum, en flóðaldan hafi sogað hafið til sín, en síðan skollið yfir þurrlendið aftur (og drepið egypta, þótt ekki hafi það endilega verið að guðs vilja eins og biblían vill vera láta).

Styrkur Gamla testamenntisins er ekki  hin óumdeilda saga, heldur  hin bókmenntalega reisn, einlægni frásagnarinnar sem engum hlífir, ekki einu sinni guði; trúarstyrkurinn, þ.e. goðsagan. Það er hægt að lesa biblíuna sem miklar bókmenntir, án þess trúa henni eins og barn sem festir hugann við furðusögur og ævintýri. Og þá er ekki síður hægt að lesa hana sem grundvöll að stofnun nýs ríkis.

 

Í landnámssögu Íslands kennir margra grasa eins og í  Exodus, þótt sú saga sé á lægri nótum, ef svo mætti segja, en hin grimmúðlega saga hrakinna gyðinga. Samt sé ég ekki betur en sitthvað í sögu okkar minni allhastarlega á Exodus og verður þá þegar fyrir okkur frásögnin í  Landnámu af ferðum Hrafna-Flóka út hingað. Aðspurður um landið kvað  Þórólfur, samskipsmaður hans, “drjúpa smjör af hverju strái á landinu, því er þeir höfðu fundið”

Það hvarflar ekki að mér annað en þessi orð séu skírskotun í frásagnir Gamla testamenntisins og til þeirra vitnað í því skyni að vefja þessar siglingar einhverri goðsögulegri dulúð, enda er tvisvar tekið fram í Mósebókum, að fyrirheitna landið fljóti í mjólk, eða eins og segir í Exodus, annarri bók Móses “...í það land, sem flýtur í mjólk og hunangi” (3, 17.) Ekki trúi ég þetta sé tilviljun einber, heldur úthugsuð vísun í þau guðlegu fyrirheit sem voru leiðarstef gyðinga á langri, erfiðri göngu.

 

Gyðingar fóru margar könnunarferðir að guðs ráði og eygðu í draumsýn sinni “landið góða”, sem á var stefnt.

Í fyrsta kafla fimmtu Móse-bókar er minnzt á þessar könnunarferðir, þar segir m.a.: ”Sendum menn á undan oss, að þeir megi kanna landið fyrir oss og færa oss fregnir af veginum, sem vér eigum að fara, og af borgunum, er vér munum koma til” - og þeir fóru af stað “tólf menn af yður, einn mann af ættkvísl hverri” og þeir héldu norður til fjalla. . . og könnuðu landið. Og fluttu fregnir sínar eins og Þórólfur smjör: ”Gott er landið , sem Drottinn Guð vor gefur oss”.

 

Þannig fóru víkingar einnig út hingað í könnunarleiðangra og  sýndist sitt hverjum um “landið góða”

Þótt Ingólfur færi um sum frjósömustu héröð landsins, lét hann öndvegissúlur ráða landnámi sínu og búsetu, tók jafnvel hrjóstrugt land fram yfir önnur héröð betri, enda hafði Karl orð á því: ”Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta”

Þessi orð eru áreiðanlega færð til bókar í því skyni að leggja áherzlu á, að Ingólfur lét guðina ráða því, eða guðamyndirnar á öndvegissúlunum,  hvar ætt hans skyldi skjóta rótum í nýju landi.

Hann fór eins og gyðingar forðum að guðlegri handleiðslu. Landnáma segir að hann hafi gert það” til heilla”.

 

Goðsögnin átti ekki einungis rætur í í heiðindómi þeirra sem land námu á Íslandi, heldur einnig - og ekki síður – í arfleifð þeirra kristnu  skrásetjara sem komu henni á framfæri. Í þeim efnum var biblían nærtæk heimild.

 

Þannig var land okkar numið á goðsögulegum forsendum, hvað sem allri sagnfræði líður. Þjóðfélagið var ekki endilega reist á sögulegum grunni, heldur skáldsögulegri draumsýn.

 

Meðan við eigum þessa draumsýn er okkur vel borgið.

 

 

17. júlí, þriðjudagur

 Hef verið í Laxá í Þing, fyrst tvo daga með Halla, síðan tvo daga með Ingó. Þetta var skilnaðargjöf starfsmanna Morgunblaðsins til mín.

Naut þess mjög.

 

Heyrði um ófarir Árna, vinar míns, Johnsens, hafði samband við hann símleiðis daginn eftir; þá á leið suður um Kinnina og Ljósavatnsskarð. Vonaðist til að málið yrði afgreitt sem misskilningur. En þá fór hann að segja ósatt í fjölmiðlum um einhverja helvísti óðalsteina sem hann tók út á Þjóðleikhúsið og höfnuðu í garðinum heima hjá þeim.

Allt undir lær og maga hjá Árna í slíkum málum, því miður, og nú sér hann sína sæng upp reidda. Sjálfskaparvítin eru auðvitað alltaf verst. Þó hefur hann einhverja málsvörn sem birist í samtali við hann í Morgunblaðinu í dag. En hún mun ekki duga honum, sýnist mér.

 

Davíð Oddsson hélt blaðamannafund um mál Árna í gær. Ég dáðist að framkomu hans. Hún var til fyrirmyndar í alla staði. Hann gaf Árna allt sem hann á, , en það dugar víst ekki til.

Björn Bjarnason var bæði í útvarpi og sjónvarpi um þessa uppákomu í dag og stóð sig með ágætum. Hann er sár, að vonum. Fastur fyrir,  bæði í gagnrýni – og vináttu. Þeir Árni unnu saman á Morgunblaðinu á sínum tíma og hafa verið góðir vinir og samstarfsmenn,  bæði þar og á Alþingi. 

 

Styrmir hafði samband við mig í gærkvöldi og bað mig fara með sér yfir leiðara Morgunblaðsins. Tók því að sjálfsögðu vel. Hafði ekkert við hann að athuga, enda  er sleginn réttur tónn. Gerði aðeins eina athugasemd, en líklega mikilvæga, enda var Styrmir strax sammála: Árni Johnsen hefur viðurkennt sök sína... breyttist í Árni Johnsen hefur viðurkennt ósannindi vegna viðskipta með kantsteinana... Hann hefur ekki viðurkennt annað en misskilning og íhugar viðbrögð við ummælum þeirra sem kölluðu hann þjóf í fjölmiðlum í gær.....

 

Árni hefur ekki verið sakaður um þjófnað og ekki játað neitt slíkt á sig og þess vegna geta þetta verið grófleg meiðyrði, hvað sem öðru líður.

.

 

 

En sem sagt:

Þessi uppákoma Árna Johnsens gæti verið  mesti harmleikur sem fram hefur farið  á fjölum Þjóðleikhússins...

 

 

18. júlí, miðvikudagur

Sat við Æðarfossa í Laxá í Þing.  12. júlí s.l. og hugsaði. Umhverfið speglaðist í huga mínum eins og himinn í vatni.

 

Hvítt tilbrigði

við brandgula

hugsun við ána

 

Fuglinn

er í landinu

 

og fossinn

í hvítum vængjum

fugls.

 

==

 

Með nef

undir drithvítum

væng

 

hverfur fýllinn

í straumhvíta

iðu árinnar.

 

==

 

Á hvítum

fuglsvængjum

svífur fossinn

til himins.

 

==

 

Seinþreytt

safnast áin

í sjóhvíta

froðu,

 

safnast eins og hugsun okkar

undir hvítan væng.

 

==

 

Þegar vindsterkir

fuglar

elta brandgula

uglu við húsið

 

verða augu þín

að algóðum himni

 

skjólgóðum

himni við ána.

 

 

==

 

Hvít eru Kinnafjöll

 

hvít

eins og heimsókn

af himni

 

==

 

 

Hunangsfluga

eltir

brandgula

hugsun.

 

 

==

 

Og tálkndauður

urriði

á hundaþúfugrænum

bakka.

 

==

 

Ofar við ána

örlítil sandlóa

 

fer huga minn

hikandi sporum.

 

 

==

 

Og krían

karlmannlegt handtak

af himni

 

(vænghvít er krían

með kollsvarta húfu

að enni).

 

 

 

21. júlí, laugardagur

Mikið hefur gengið á í fjölmiðlum vegna Árna Johnsens.Ég hef fylgzt agndofa með því, agndofa og ráðalaus. Jónas Kristjánsson segir í leiðara DV að Árni hafi verið fórnardýr kerfisins. Það hafi ákveðið að stúta honum, svo að aðrir sleppi. Þetta er auðvitað eintóm vitleysa. Hann varð fórnardýr freistinga sinna, en það hafa svo margir verið. Fréttamenn fundu blóðlyktina og þustu á vettvang.  Þeir ákváðu að eyðileggja hann,  því nú var lag.

 

Það kviknaði eldur. Hann hefði getað lognazt út af. Eldur þarf súrefni. Og Árni var sjálfur þetta súrefni. Hann skrökvaði og það komst upp. Það er kúnst að skrökva og Árni kann hana ekki. Hann æsti eldinn með sífelldu masi sem ærði fréttamennina.

Og nú er húsið brunnið.

 

Sigmund virðist í teiknimyndum sínum í Morgunblaðinu ganga út frá því að fréttamenn hafi ofsótt Árna Johnsen, í því sé öll ógæfan fólgin. Það er aðeins hálfur sannleikurinn. Það voru freistingar hans sjálfs og ósannindi sem sáu um útbreiðslu eldsins. Ef hann hefði hugsað sinn gang og neitað að masa í fjölmiðlum, hefði hann kannski getað fleytt sér á sundinu. Þó efast ég um það. Fréttamenn fundu blóðlyktina og gerðu aðsúg að fórnardýrinu,  unz það sagði sig úr bygginganefnd,  og nú skilst mér einnig  hann ætli að segja af sér þingmennsku.

 

Árni segir að Guðlaugur sundkappi í Vestmannaeyjum hafi sagt hann ætti bara að snúa sér á bakið, synda baksund og taka pusið í hnakkann. En það mundi ekki duga lengi úr því sem komið er.  Það er ef til vill hægt að blása úr nös á bakinu, en þá hefði hann átt að reyna það fyrr.

Nú er of langt í land.

 

Nú sækja úlfarnir að og þeir hafa þjappað svínunum saman eins og á sturlungaöld. Og ekki undankomu auðið. Árni kominn til Vestmannaeyja eins og þegar Grettir fór til Drangeyjar. Það var honum skammgóður vermir.

 

 

Við vorum í veiði í Aðaldal, þegar ósköpin brustu á. Ég hringdi í Árna  úr bílnum þegar við vorum í Kinninni og sagði honum að hafa samband við mig, ef hann þyrfti á að halda. Hélt satt að segja að þetta mundi ganga yfir. Datt þó ekki í hug að Árni mundi síðar um daginn ganga sjálfur í gapastokkinn með ósannindum í fjölmiðlum.

Sumum kollega hans þar hefur áreiðanlega þótt kominn tím til að draga eitthvað niður í honum, enda hefur hann verið vinsæll af flestum,  ef ekki öllum,  og mikil fyrirferð á honum, bæði sem þingmanni og skemmtikrafti. Hann hefur verið hvers manns hugljúfi með gítarsnúruna um hálsinn, en nú tóku þeir af honum gítarinn og settu snúruna um hálsinn á honum . Og hann varaði sig ekki. Hefur líklega haldið það væri einhver miskunn hjá Magnúsi.

En það er nú eitthvað annað. Sendibílstjóri sem flutti eitthvað af umræddu góssi Árna kallaður sem þjóðhetja í kastljós sjónvarpsins og hreykir sér þar eins og hani á haug af því að hafa  sagt til Árna og tilfæringa hans. Og dómgreindarlausir fréttamenn, gælandi og klappandi hver öðrum af smeðjulegri ánægju yfir óförum Árna, hrósandi “litlu löggunum” og smánjósnurunum út um allt þjóðfélagið sem væru tilbúnar að leika skítleg hlutverk í upplýsingaþjóðfélagi Orwells.

Sem sagt: Stóri bróðir í hverju smámenni, það er markmiðið. Og blaðamenn fagna hundaæðinu eins og nádýr!

 

Blóðlyktin safnar úlfunum saman.

En verst var þó, þegar Árni leiddi vini sína á Morgunblaðinu í gildru með ósannindum sínum. Það voru að vísu krampakennd viðbrögð ráðalauss manns sem reyndi að bjarga lífi sínu. Má kannski afsaka á þeim forsendum, ég veit það ekki. En ástæðulaust að hefna fyrir það eða fara í einhvern endanlegan baklás.

Árni háttaði í björtu,  eins og sjómenn í Vestmannaeyjum sögðu um drukknandi sjómenn, og stóð loks kviknakinn frammi fyrir alþýðudómstólnum. Og dómurinn féll.

 

Þegar símtali okkar Árna lauk sagði hann dapur, Þetta er vont. Þá gerði ég mér grein fyrir því að eitthvað meira væri í aðsigi. Hef ekki heyrt í honum síðan og reyndi þó nokkrum sinnum að ná til hans, en tókst ekki. Samband okkar er eins og var í gamla daga, þegar togararnir voru að farast í óveðrum; þá slitnaði allt samband við þá allt í einu og hvorki hósti né stuna eftir það.

 

Styrmir sagði mér i gærkvöldi að Geir H.  Haarde hefði skroppið til Eyja og væri Árni eitthvað brattari en hann hafði haldið. Davíð talaði við hann í gær og ráðlagði honum að fara til útlanda í þrjár vikur, eða meðan gerningahríðin gengi yfir.

Þá sagði Árni, Ég hef enga peninga til þess.

Styrmir sagði að Davíð væri að hugsa um að efna til samskota fyrir þau  Halldóru svo að þau kæmust úr landi.  Ég bíð og sé hvað setur. En þessi bið hefur verið ömurleg. Hef ekkert getað gert, bíð ráðlaus og dapur eins og við öll.

Davíð heldur að Árni fái  skilorðsbundinn dóm, en mér var sagt í gærkvöld að hann gæti vel fengið 2ja mánaða dóm...

En það á eftir að koma í ljós hvort hann verður ákærður og dæmdur - eða ekki.

 

Í samtalinu við Davíð,  þegar hann sagðist mundu segja af sér þingmennsku, sagði Árni, Ég féll fyrir björg.

Það er eiginlega vægt til orða tekið eins og málin standa nú.

 

Seinna

Þori varla að lesa fréttir eins og þær eru. Held það séu eitthvað um tíu myndir af Árna í DV í dag, þar af heilsíðu forsíðumynd! Er þetta jafnvægi? Er þetta nærgætni – að baða sig í þeirri sömu sól sem hefur valdið Árna Johnsen slíkum brunasárum?

Ég skil vel það þurfi að segja frá þessu öllu, en mundi þessi gauragangur ekki vera meiri en góðu hófi gegnir? Ætli fréttamenn væru reiðubúnir að fara gegnum slíkan eld, ef þeir ættu sjálfir hlut að máli?

Hvað hefði þurft mörg aukablöð, ef Árni hefði nú drepið einhvern? Já, einhvern annan en sjálfan sig?

Þannig mætti spyrja, en hver veit svarið. Það er vandratað einstigið milli hvíta galdurs í blaðamennsku og svarta galdurs.

Fréttamenn verða alltaf að vinna af meiri ábyrgð en freistingu. En þeim tekst það sjaldnast. Nú hafa margir kallað Árna þjóf. En hvað gerist, ef hann yrði sýknaður af því og dæmdur á öðrum forsendum t.a.m. fyrir umboðssvik, en ekki fjárdrátt. Gæti hann þá ekki höfðað meiðyrðamáls gegn þeim sem hafa þjófkennt hann, mér er nær að halda það, þótt ég viti það ekki. Allt gæti þetta orðið harla skrautlegt á næstu misserum.

 

En markaðurinn kallar á blóð.

Og meira blóð.

Meiri sölu. En upplýsingar eru ekki sama og hasar. Gagnrýni ekki sama og miskunnarleysi. . Fjölmiðlar ekki sama og dómstólar. Mannúðlegt aðhald, ætti að vera kjörorðið. En hver hefur áhuga á því?

Ekki sölumenn dauðans!

 

Enn seinna

Reyndi að slappa af í gærkvöldi með því að horfa á sjónvarpið. Niðurstaðan var þessi: Mér leiðist mannkynið! Dýralífsmyndirnar á Discovery voru ljósið í myrkrinu!

 

Fór að hugsa um tungumálið, þegar íþróttaþulir töluðu alltaf um hlaupakonur. Hlaupastrákur þykir ekki fínt eða jákvætt orð.

En hvað þá um hlaupakonur? Hvers vegna þá ekki að tala um hlaupakarla? Þetta heitir  á íslenzku hlauparar. Það er allt og sumt. En svona getur tízkan afvegaleitt beztu menn!

 

Ég var líka að hugsa um orðið nátthagi því að við ókum fram hjá Nátthaga í Ölvusi í fyrradag. Það er fallegt orð, nátthagi. Samt er varla hægt nú um stundir að nota orðið nátt án þess það sé tilgerðalegt. En hver vildi skipta á nátthagi fyrir næturhagi. Áreiðanlega enginn.

Þannig fer bezt á því að nota orð af tilfinningalegri ástríðu. Það er vandi að velja orð, þau eru viðkvæm. Þess vegna geta sumir aldrei staulast á ambögulausan texta

 

Loks minntist ég þess að Ingó hafði sagt mér í laxveiðinni fyrir norðan að Bretar töluðu um fairweather friendship, eða góðviðrisvináttu. Ég hef áður búið til orðið hagsmunavinátta sem gæti líka verið góðviðrisvinátta; þ.e.  sú vinátta sem gildir meðan allt leikur í lyndi og hver getur notað annan. Hin vináttan er mikilvægari sem endist á erfiðum stundum, þ. e.  skammdegisvináttan.

 

Svo eru sumir með því hugarfari að stinga mann með rýtingi  í bakið og hvísla um leið í eyru manns: Við erum vinir!

Slík vinátta birtist í síðustu bók Sigurðar A.  Magnússonar.

 

Kvöldið

Hef verið að lesa Ugg og ótta eftir Kierkegaard. Þar kemur fram að hann telur í dagbókarfærslum sínum að Grímur Thomsen hafi lesið þetta rit eftir sig, ásamt öðrum,  enda lærður maður,  og notað sér það óspart í doktorsritgerð sinni um Byron án þess láta  þess að nokkru getið.

Athyglisvert!

 

22. júlí, sunnudagur

Bjart veður og stillt.

 

Þegar ég vaknaði í morgun lá ég vakandi allnokkra stund. Alls kynns hugsanir létu mig ekki í friði,  Þær beindust allar að gömlum vinum mínum og örlögum þeirra; sviplegum dauða Bjarna Benediktssonar, afhroði  Alberts Guðmundssonar, Steingríms Hermannssonar, Sverris Hermannssonar og nú Árna Johnsen, en þeir hafa allir verið nákomnir vinir mínir til margra ára. Sérstæðir menn og drengir góðir, hvað sem öðru líður. Eiginlega hjartaprúðari en flestir aðrir sem ég hef kynnzt. En enginn þeirra sást fyrir, nema Bjarni. Aðrir  náðu sér á strik, en heldur illa út leiknir. Vonandi gerir Árni það einnig.

Þá hrökklaðist Þorsteinn vinur minn Pálsson úr formannssæti Sjálfstæðisflokksins, það var sárt. En hann hefur einnig náð sér á strik sem betur fer.

En ósköp er þetta nú allt trist. Og ég hef spurt sjálfan mig, Eru örlögin í okkur sjálfum eða lúta þau einhverri tilverusveiflu sem við ráðum ekkert við. Erum við leiksoppar okkar sjálfra - eða einhverra afla annarra?

Spyr sá sem ekki veit.

 

Seinna

Það er eiginlega of gott veður til að nefna Hrafn Jökulsson, en hjá því verður víst ekki komizt. Það sýnir dómgreind ríkissjónvarpsins að kalla hann til í því skyni að fjalla um mál Árna Johnsens. Hvílík ranghverfa á mati og dómgreind. Mín kynni af honum eru þau að hann sjáist ekki fyrir, en búi  um sig í pólitískri siðgæðisbómull og varpi út andlegri leiðsögn eins og b

ilaður viti! .

Að kalla Hrafn sem sannleiksvitni verkar á mig eins og ef rómverska senatið hefði kallað Katilínu til að bera vitni um siðferðisþrek Cicerós!

 

Kvöldið

Hanna talaði við Halldóru í dag og ég við Árna Johnsen. Mér skilst þau séu á leiðinni í bæinn.  Hann ætlar að hafa samband við mig, þegar hentar. Ég hef ekki getað talað við vini mína, sagði Árni þegar ég ýjaði að því að ég hefði ekki náð í hann.

Þetta var ekki sá Árni sem við þekkjum. Hann er gjörsamlega niðurbrotinn. Talar lágt og úr dapurlegri fjarlægð. Nær engum áttum....

 

Ég sagði Árna frá súrefninu sem hann hefði blásið á fjölmiðlaglæðurnar og hann bæri sjálfur ábyrgð á þeim.  Ég teldi það sárasta væri um garð gengið,  hvað sem yrði. Já, sagði Árni, súrefnið er búið. Það er búið að drepa.

Hann neitaði því á engan hátt að hann hefði sjálfur átt sökina, en taldi að fjölmiðlarnir hefðu ekki sézt fyrir, samt hefur hann ekki treyst sér til að fylgjast með þeim,  nema í aðra röndina.

Ég sagði, Þetta var áhrifamikil mynd sem birtist af þér í DV um daginn, tekinn í Vestmannaeyjum. Ætli ljósmyndarinn fái ekki verðlaun fyrir hana.

Það var í eina skiptið sem Árni brosti í símtalinu.

Svo kvöddumst við og Árni var jafndapur og beygður þótt ég hefði bent honum á að nota sína miklu trú sér til hjálpar. Mennirnir láta engan njóta efans í átökum góðs og ills. En það gerir guð.

Væntanlega...

 

Mér skilst einhverjir eigendur Moggans hafi verið að velta því fyrir sér, hvort Árni yrði ráðinn þangað aftur og legðust þá gegn því. Það væri eftir öðru. Eftir svo sem tvö, þrjú  ár mun enginn hugsa neitt um það, hvort Árni ynni á Morgunblaðinu eða ekki. Dæmin um vini mína , Steingrím og Sverri Hermannsson,vandræði þeirra og hneyksli, styðja það. Báðir voru kosnir á þing aftur eftir sín mál og þau nú að mestu gleymd. Voru þeir þó báðir ráðherrar, en Steingrímur forsætisráðherra eftir grænu baunirnar, ef ég man rétt.

 Og nú er Berluskóni forsætisráðherra Ítala, hver hefði trúað því fyrir ári?!

 

Hvað þá um eitt eða tvö fúlegg í bjargi Árna Johnsens!

 Ef þetta yrði ekki meira í fullri körfu sigmannsins! En full karfa af fúleggjum væri kollrak!

 

Hitt er víst að Árni er miklu betri blaðamaður en obbinn af þeim sem vinna á þeim markaði, ég sagði ekki allir, heldur obbinn. Þar er misjafn sauður í mörgu fé,  eins og annars staðar!

En Árni kann að tala við fólk og umgangast það. Slíkt fólk vantar á fjölmiðlana.

 

Og nú sný ég mér aftur að  bandaríska vestraskáldinu, Louis L´Amour og held áfram að hlusta á Showdown Trail eftir hann. Það er góð afþreying og minnir á þegar ég fór einn og alsæll á 5-sýningar í Gamla bíó og sá kúrekamyndir sem voru bannaðar fyrir börn innan 12 eða 14 ára og horfði heillaður á Tim Holt bregða fæti fyrir bófana. Það var ástríðufull upplifun og líklega ekki minni en bíó-ástríða Stalíns!! Jafnaðist jafnvel á við Róbinson Krúsó, en saga hans var toppurinn!

 

 

22. júlí, sunnudagur

Áfram með gúrkuna!

Enn sóttu að mér alls kyns hugsanir, þegar ég vaknaði í morgun. Það er ekki hægt að hugsa ógrátandi um mál Árna vinar míns Johnsens. Ég er bæði dapur og ráðalaus og allt mitt fólk hugsar af mikilli samúð til þeirra Árna og Halldóru, aldraðrar móður hans og Breka sonar þeirra  sem er bæði góður drengur og efnilegur; nýstúdent í fyrra og þá vorum við í góðum fagnaði heima hjá þeim

En allt hefur breytzt. . Þetta hefur verið eins og dauðsfall og engu líkara en Árni hafi í símtali okkar í gær talað upp úr gröf. En upprisa er ekki útilokuð Hún getur að vísu tekið góðan tíma, en það er einmitt hann sem fyrnir yfir flest.

 

Árni hafði setið svo lengi í byggingarnefnd Þjóðleikhússins að hann var orðinn  eins og heimaríkur hundur á þeim bæ og líklega hættur að skilja alltaf milli sín og hennar. Af þeim sökum hefur hann komið þeim í opna skjöldu sem fylgjast áttu grant með umboði hans og umsvifum. Að því leyti hefur kerfið brugðizt, ekki endilega stjórnmálamenn, heldur embættismenn ekki síður. En það er auðvelt að kenna mönnum um það eftir á. Það hefur enginn átt von á neinum ósköpum, þegar Árni hefur átt í hlut, því að ókunnugt fólk þekkir ekki óráðsíu Árna og hvernig hann hefur valsað með allt af lítilli fyrirhyggj, en miklum og óforbetranlegum áhuga.

En hann er ekki einn um það.

 

 

 

 

 

 

 

Meðan þessu heldur fram er fróðlegt að fylgjast með örlögum brezka metsöluhöfundarins Jeffrey Archers. Fall hans er mun hærra en Árna. Hann var forystumaður í brezka íhaldsflokknum, ráðherra í stjórn Thatchers og náinn samstarfsmaður hennar og sleginn til riddara á sínum tíma. Auk þess er lávarðurinn margfaldur milljónari og víða þekktur. Móðir hann lézt og fékk þessi frægi fangi að vera viðstaddur jarðaförin. Það snart mann að sjá hann á Sky í fylgd með geðþekkri og eiginlega glæsilegri konu sinni og tveimur sonum. Hún leiddi hann að fangabílnum, þau kvöddust og hann kvaddi syni sína, bíllinn ók burt og þau hurfu inn í lífið.

Archer er ótrúlegur ævintýramaður og lygalaupur, en hefur mikla hæfileika, augsýnilega. Metnaðurinn varð honum að falli eins og fleirum. Þegar hann hugðist verða borgarstjóri Lundúna varð mörgum nóg boðið, einnig þeim sem hafði áður logið fjarvistarsönnun fyrir hann í málaferlum við gulu pressuna.

Þá voru örlögin ráðin.

Ég hef lesið nokkuð margar smásögur eftir Archer, ein þeirra varð mér minnisstæð. Hún fjallar um mann sem drepur ástkonu sína, en kemur glæpnum á annan mann - og sleppur.

En Archer slapp ekki.

 

Borðaði hádegismat með Styrmi og Jóhannesi Nordal niðri  á  Morgunblaði í gær. Það var gaman að hitta Jóhannes eftir allan þennan tíma, veikindi og uppskurð við krabbameini í raddböndum. Röddin er  samt alveg bærileg og tekur maður ekki endilega eftir þvi að raddböndin hafa verið skorin úr honum, nema hvað hann þarf að styðja fingri á hálsinn til að geta talað....

 

Styrmir sagði að blaðamaður sem hefði verið í Eyjum segði að Vestmannaeyingar stæðu eins og klettur með Árna og streymdu heim til þeirra að votta honum samúð sína og stuðning. Náttúrubörnin styðja hvert annað eins og dýrin í skóginum.

 

 

25. júlí, miðvikudagur

Fékk mér morgungöngu í góða veðrinu, hugsaði um æsku mína á þessum slóðum; ráfaði. Kom við í Svalbarða og keypti mér  þrjú svartfuglsegg og harðfisk, hélt svo áfram. Hitti unga drengi, þeir heilsuðu glaðlega, Góðan daginn sögðu þeir.

Ég svaraði í sömu mynt.

Þeir voru með garðyrkjutæki og mér er nær að halda þeir vinni í kirkjugörðunum.  Nú er sumar í öllum görðum, einnig þeim, og fuglarnir syngja dírrindí. Þeir eru ekki eins pattaralegir og lóan í Aðaldal. Hún er svo vel á sig komin að ég hef aldrei séð aðra eins velmegun. Og hún syngur margraddað inn í hraun og lyng og kyrrlátan himin og allt sköpunarverkið tekur undir og tónlistin hafnar í eyrum mínum eins og kveðja frá skaparanum sjálfum.

Gekk um Ljósvallagötu. Þar var verið að taka upp einhverja kvikmynd.

Góðan dag, sagði ungur maður við tækjabíl.

Og brosti í sólinni.

Góðan dag, sagði ég. Hvaða mynd er verið að taka?

Barnamynd, sagði hann.

 Nú, sagði ég, hvað heitir hún?

Regína, sagði hann og brosti meira.

Á hvers vegum? spurði ég.

Kvikmyndasamsteypunnar, sagði hann.

Hvað er það? sagði ég.

Það er fyrirtæki Friðriks Þórs, sagði hann.

Jæja, sagði ég, vonandi tekst vel til.

Áreiðanlega, sagði hann.

Það verður að minnsta kosti gott veður í myndinni, sagði ég.

Já, áreiðanlega, sagði hann og brosti enn.

Það er alltaf gott veður í Vesturbænum, hugsaði ég, þegar við kvöddumst. Hann bregzt aldrei.

 

27. júlí, föstudagur

Suðaustan rok og rigning. Hélt áfram að lesa fjórar eða fimm bækur, þ. á m. Jörðin undir fótum hennar eftir Rushdie. Stíllinn  talsvert bólginn og ábúðarmikill og umbúðamiklar lýsingar. Útúrdúramikil saga. Mikil einbeitingarkrafa til lesandans. Of mælsk fyrir minn smekk, en hnýsilegur heimur og fjarlægur. Sögumaður alæta á samtímann, en meltingin mætti vera betri.

 

Hlustaði líka á einn af fyrirlestrum bandaríska prófessorsins Richard Wolfsons um orku og veðurfar; gróðurhúsaáhrif. Hnýsilegt.

 

Erlendur Sveinsson er á fullu að undirbúa næsta tökukafla að myndinni um ritstjórann og skáldið. Hið síðar nefnda er næst á dagskrá, annaðhvort í september eða október þegar Sigurður Sverrir kvikmyndatökumaður kemur heim frá Danmörku. Við Erlendur fórum í könnunarleiðangur um gönguleiðir mínar og æskuumhverfi. Það er nærandi að tala við Erlend. Vinnubrögð hans eru til fyrirmyndar og eiga ekkert skylt við hina gerilsneyddu fagurfræði og flumbruskap samtímans.

 

Orti þetta að gamni mínu:

 

Eins og fiðrildi

hverfi úr púpu

laufmaðksins,

 

þannig brýzt sólin

úr brothættu

skurni morgunsins.

 

 

Og:

 

Þessi dagur er spælegg

á svartri pönnu

morgungyðjunnar

 

og rauðan miðlægt auga

jökulhvítunnar.

 

 

30. júlí, mánudagur

Ég rakst óvart á leiði gamalla vina minna í Fossvogskirkjugarði, það er orðið nokkuð langt síðan, en ég held þetta kvæði sem ég orti í gær af einhverjum ástæðum megi rekja til þess, hvernig mér varð við þarna í garðinum (kannski bókað áður á þessum blöðum ) :

 

 

Við gröf

 

Við þessa gröf

er gleðin efst í huga, við

glöddumst eins og fluga í hvítu

ljósi og úr þeim draumi

dreg ég gamla nót,

það glitra litlar myndir

í þeim möskva,

en árin renna óheft

að þeim ósi sem eitt sem virtist

renna uppí mót.

 

Samt stend ég hér og drúpi

að hvítum krossi og þögnin

gamalt orð i dúfumynd

og það er eins og blessuð

blómin krjúpi

við blossa liðins dags

 

og lindavatn af sólskinshimni

falli, það fellur eins og tár

af auga þér og jörðin gróið

sár við fætur þína

og þrýstir hugsun þinni

að hjarta sér.

 

 

Og dúfan hreyfir væng

of veröld alla

og blængsvört kyrrð

að morgni þessa

dags, samt fagnar sérhver geisli

grænu strái

en gleðin fölnað log

þess sólarlags

 

og tíminn bregður ljá

við tind og tjaldhvít vötn

í annarlegri þögn

 

en öspin hjalar ein

við hlyn og vinda

 

og hugsun þín sem grasdögg

hvítra stjarna.

 

 

Það má sjálfsagt bæta þetta eitthvað!

 

Sumarið er heldur grátt, en þó ekki rigningasumar. Góðir dagar á milli, til tilbreytingar.

 

Ódagsett

Viðtal Halldórs Halldórssonar við Matthías Johannessen í Mannlíf:

 

RITSTJÓRI KALDA STRÍÐSINS

 

Þegar ég kem á Reynimelinn hefur dregið ský fyrir sólu. En það er samt hlýtt í vesturbænum. Ég hringi dyrabjöllunni og geng nokkur skref aftur út á gangstéttina. Ég er kominn á Melana mína, æskuslóðirnar, og það er góð tilfinning. Í því opnar Hanna dyrnar og býður mér inn í stofu, þar sem veggir eru þaktir málverkum meistara íslenzkrar myndlistar. Hanna Johannessen segir mér, að Matthías sé alveg að koma. Ég spyr Hönnu hvort það hafi ekki verið erfitt að vera gift manni, sem væri búinn að ritstýra Mogganum í rösk 40 ár? “Nei, þetta hefur verið okkar líf, Morgunblaðið hefur verið stór hluti af mínu lífi líka.” Matthías Johannesen, skáld og ritstjóri, kemur léttfættur inn í stofu, sportlega klæddur og býður mér sæti. Það er ekki laust við, að ég verði örlítið óstyrkur, mættur til að eiga Mannlífsviðtal við “meistara samtalslistarinnar”, manninn, sem í blaðamennsku sinni varð einkum frægur fyrir andrík og skáldleg viðtöl sín undir samheitinu “Í fáum orðum sagt”, í Morgunblaðinu. Eða eins og Guðjón Friðriksson blaðamaður og sagnfræðingur segir í sögu Blaðamannafélags Íslands: “Má segja, að með þeim (viðtölum Matthíasar)  hafi mannlífsviðtöl orðið snar þáttur í íslenzkri blaðamennsku.” En í ljósi þessara orða getum við þó allavega sagt, að það sé við hæfi, að fyrsta viðtalið, sem Matthías veitir eftir að hann hætti á Morgunblaðinu um liðin áramót eftir hálfrar aldar starf, skuli einmitt birtast hér í Mannlífi.

 

Þegar Morgunblaðið kvaddi Matthías fylgdu sérstakar óskir um, að honum gæfist loks tími til að helga sig skáldskap og fræðimennsku. Og ekki stóð á því, að Matthías léti gamlan draum rætast og sannaði um leið, að það er líf eftir Moggann. Nú hefur Matthías vinnustofu fræðimanns í Þjóðarbókhlöðunni, þar sem hann er nær daglega að störfum.


Jú, ég er anzi mikið í fræðimannsherberginu og vinn einkum að efni, sem ég átti ókarað og hef verið að ljúka við. Þetta er mest ljóðakyns, en ég hef  einnig

alltaf haft áhuga á því að skrifa leikþætti, sem ég kalla leiksögur.

 

Þú nefndir leikverk, leiksögur. Geturðu sagt okkur frekar frá þeim?

 

Það er nú þannig, að ég vil helzt ekki tala um það vegna þess, að þetta er óbirt. Sumt af þessu er í tengslum við kynni mín af fólki, og þá ekki sízt sem blaðamaður. Þetta hefur verið svona forðabúr eða fyrningar í hlöðu og nú er ég byrjaður að gefa á garðann, moka út, og nota það sjálfur sem hráefni í sýn mína á mannlífið hvernig svo sem til tekst, um það skal ég ekkert segja. En ég hef núna meiri áhuga á fjarstæðuleiklist heldur en raunsæisleikritum og það sem ég hef verið að skrifa núna er “markerað” af því.

Það hafa verið flutt slík verk eftir mig í sjónvarpi , útvarpi og Þjóðleikhúsinu, ein þrjú stykki. ,auk annarra verka.En það er langt um liðið síðan leiksaga hefur verið flutt eftir mig, enda get ég ekki komið neinu slíku efni á framfæri, meðan ég er formaður þjóðleikhússráðs. Ég hef átt ókaraðar leiksögur sem ég hef verið að ljúka við. Jafnframt hef ég verið að fást við nýja hluti, meðal annars ýmislegt sem ég hef kynnzt í mínu starfi.

Ég hef alltaf þurft að hafa jarðsamband, þegar ég hef skrifað skáldskap og í tengslum við þetta jarðsamband, hef ég yfirleitt fjallað um eiginn reynsluheim og hvernig ég hef kynnzt fólki og umhverfinu í gegnum skáldskapinn og þá að sjálfsögðu einnig í gegnum mitt eigið líf.”

 

Sumir halda því fram, að þú sért skáld í anda tilvistarstefnunnar, existensíalisma?

 

Já, já, ég veit það bara ekki. Ég hef áreiðanlega hugsað mikið um tilvistarmál, en þó einkum þannig, að ég hafi ekki hugsað um þau! Það er kveikja að öllum skáldskap. Hann byrjar með neista. Ég veit ekki hvar þessi neisti kviknar. Hann kviknar á ýmsum stöðum. Við erum partur af umhverfinu og þetta gerist hvarvetna í náttúrunni.Allt hefur sinn tíma Farfuglarnir eru ekki að verpa allt árið, eins og þú veizt!

 

Núna nýtur þú þessa frelsis, sem samstarfsmenn þínir á Mogganum óskuðu þér um áramótin, en ef maður lítur yfir feril þinn og afköst þá kemur í ljós, að þú hefur verið ótrúlega mikilvirkur höfundur ljóða, leikverka,smásagna og heimildarrita um merka Íslendinga o.s.frv.

 

 

Ég hef aldrei skrifað annað en það sem mig hefur langað til og ég hef alltaf skrifað af mikilli ástríðu. Ég hef alltaf haft tíma til að gera það sem mig hefur langað til eða viljað vegna þess að ég var ritstjóri og það var enginn ritstjóri, sem gat verið að þvæla mér út og suður. Ég ákvað það bara sjálfur.

Ég átti mjög góða samstarfsmenn á Morgunblaðinu, sem voru mér til aðstoðar við alla hluti og ég gat alltaf treyst. Sumir þeirra eru þar ennþá og þá ekki sízt ritstjóri blaðsins, Styrmir Gunnarsson, sem varð ritstjóri með mér 1972. Styrmir kom á Morgunblaðið ungur maður; þá var ég búinn að vera ritstjóri í mörg  ár. Hann kom á blaðið vegna þess að hann var ungur sjálfstæðismaður, og átti að skrifa um pólitík.

Við Styrmir höfum síðan átt afskaplega gott og vináttusamlegt samstarf og ég treysti honum í hvívetna. Hið sama gildir um framkvæmdastjóra blaðsins, Hallgrím Geirsson.

 

Þú varst fyrst framan af með pólitíska ritstjóra við hlið þér?

 

Ja, já. Þegar ég tók við blaðinu 1959, 29 ára gamall, þurfti ég að hefja stefnu á blaðinu, sem kallaði á fjarlægð við Sjálfstæðisflokkinn. Sú barátta byrjaði strax. Ég held m.a.s. að þess megi sjá merki í Stefni frá þessum tíma, því ég var í ritstjórn Stefnis. Þar reyndum við að fóta okkur í sjálfstæðri afstöðu gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn gaf út þetta rit, en við breyttum því í menningar- og bókmenntatímarit. Og ég held ég hafi alltaf verið með hugann við það, að Morgunblaðið þyrfti í reynd að vera “blað allra landsmanna” og ég er alveg sannfærður um að mínir vinir og samstarfsmenn, hafi verið ánægðir með það.

Ég fékk svo Eyjólf Konráð Jónsson til fylgis við mig um 1960, en við höfðum  átt gott samstarf í háskólanum og reyndar einnig í Almenna bókafélaginu og nú urðum við  um nokkra hríð góðir samstarfsmenn á Morgunblaðinu, eða þangað til hann fór á þing. Sigurður Bjarnason frá Vigur var líka með okkur. Það var ekki leggjandi á hann að fara að atast í Sjálfstæðisflokknum enda var hann á þingi yfirleitt. Þetta hvíldi því talsvert á mér frá fyrsta fari. Við Valtýr Stefánsson vorum miklir vinir og góðir samstarfsmenn og hann tók mér vel. Hann missti heilsuna hægt og bítandi á sjötta áratugnum, en kom yfirleitt á hverjum degi niður á blað. Eftir að ég varð ritstjóri sat hann hjá mér og við ræddum mikið saman. Hann var mjög glaður yfir því, ef hægt væri að minnka þessi yfirþyrmandi tengsl Morgunblaðsins við Sjálfstæðisflokkinn, þó að það hefði ekki tekizt á þeim tíma.

Bjarni Benediktsson hafði verið ritsjóri á blaðinu og við vorum saman ritstjórar um skeið, eða hálft ár, og urðum miklir vinir. Sú vinátta var með nokkrum eindæmum. Og ég held það hafi hjálpað mér sem ritstjóra í þessum hugleiðingum um stöðu blaðs og flokks, að verðandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins treysti ritstjóra Morgunblaðsins og vissi,  að hann mundi ekki fara með neinum látum að Sjálfstæðisflokknum, enda hef ég alla tíð verið sannfærður um mannúðarþátt sjálfstæðisstefnunnar. Það hefur aldrei háð mér neitt að viðurkenna það. Öll blöð verða að hafa einhverja stefnu og á þessum tíma var kalt stríð, átökin voru köld og persónuleg og það var sérstaklega erfitt fyrir mig sem rithöfund og skáld að mæta þeim ágangi, sem ég þurfti að horfast í augu við.

 

Slagur Moggans og Þjóðviljans var mikill. Á þessum tíma var ýmsum brögðum beitt til að angra andstæðingana, ekki satt?

 

Jú, mér er t.d. minnisstætt, að lengi vel þrjózkaðist Morgunblaðið við og merkti alla sósíalista og vinstri sinna í þingfréttum með einkennisstafnum (k) í sviga, sem átti að standa fyrir “kommi.” Við merktum t.d. Gils Guðmundson með ká-i  og ég lenti í miklum bréfaskiptum við Gils, sem á þessum tíma sat á þingi. Hann sendi mér bréf í Þjóðviljanum og ég svaraði honum með bréfum í Morgunblaðinu. Þau hafa verið endurprentuð í Fálaga orð.Hann kvartaði yfir því, að Morgunblaðið væri ekki hlutlausara en svo, að það merkti hann með ká-i. Ég hafði í raun ekki áttað mig á því, að þetta væri þvílíkt viðkvæmnismál fyrir suma þingmenn Alþýðubandalagsins. Eftir nánari athugun lét ég sleppa þessu ká-i og gekk þannig til móts við Gils í þessum efnum.

 

Hvenær var þetta?

 

Þetta var einhvern tíma um miðjan sjöunda áratuginn,minnir mig. En svona var þetta návígi. Það var ekki gott, það var illvígt og það tók mikið á mann. Þetta voru átökin á milli kommúnista og svonefndra lýðræðissinna. Erfiðustu ár mín á Morgunblaðinu voru á sjöunda  áratugnum, þegar kalda stríðið var í algleymingi og smitaði öll samskipti manna.  En þar áður hafði ég einnig lent í alls kyn ati við vinstri menn og marxista ,einkum á Þjóðviljanum. Ég var ritstjóri kalda stríðsins.

Sem dæmi um það mætti segja þá sögu, að ég hitti Joseph McCarthy þingmann í Washington D.C. , sem þá var hvað atkvæðamestur í Bandaríkjunum vegna formennsku í ó-amerísku nefndinni svokölluðu. Það var 1953,en þá var ég nýbúinn að eiga samtal við leikskáldið fræga,Arthur Miller í New York.Hann skrifaði Deigluna sem var einskonar uppgjör við McCarthyisma.Mér þótti hnýsilegt að tala við McCarthy. Á yfirborðinu vottaði ekki fyrir þeim öfgum, sem maðurinn var frægur fyrir. Þær voru í djúpinu sjálfu. Þetta var orðagjálfur á yfirborðinu. Kjaftaskar eru ekkert nýtt fyrirbrigði!

Ég gekk til McCarthys í göngunum í Washington (á milli þingsins og skrifstofa þingmanna) og spurði hvort senatorinn vildi ekki eiga samtal við blaðamann frá Morgunblaðinu. Jú, jú sagði McCarthy. Það var með ólíkindum hversu vel hann þekkti til íslenzkra stjórnmála og spurði mig sérstaklega um “kommúnistann” Hannibal Valdimarsson! Hann þekkti til hans með nafni og virtist vita allt um íslenzka verkalýðspólitík og aðra anga íslenzkra stjórnmála. Og eftir að ég sagði frá þessu kom það fyrir, að ég væri kallaður “McCartyistinn Herr Johannessen”. 

En þótt þú talir við einhvern mann ertu ekki um leið orðinn hann. Íslenzki laxinn étur rækjur og skelfisk, en honum dettur ekki í hug að breytast í skelfisk eða rækju.

Ég sagði við Magnús Kjartansson einhvern tíma, þegar við vorum í síðdegisdrykkju saman, að þeir væru jólasveinar á Þjóðviljanum og hann spurði af hverju? Ég tók dæmi um McCarthy og nafngift Þjóðviljans, Og svo er það annað, sagði ég við Magnús: Þú kallar mig alltaf Herr Johannessen. Já, er það ekki ágætt, þið með þennan danska hégóma, sem þið getið ekki sleppt. Ég sagði: Magnús, þú veizt lítið um þetta, augsýnilega ekki neitt! Þetta er norskt nafn. Norskt? Já, sagði ég. Pabbi minn og Kjartan, faðir þinn, Magnús, voru miklir mátar. Þú ættir að vita þetta. Norskt nafn? segir Magnús. Er þetta ekki fordanskað íslenzkt nafn? Nei, nei, faðir minn heitir Haraldur, en afi minn hét Matthías Johannessen, norskur kaupmaður, sem kom til Íslands frá Bergen dó þegar faðir minn var 2ja ára gamall, árið 1900. Það var rómantísk birta, um nafn hans, því hann dó frekar ungur. Faðir minn vildi ekki breyta nafninu. Það var honum viðkvæmnismál að halda norska ættarnafninu. Það er erfitt, mjög erfitt að bera ættarnafn á Íslandi og ég ráðlegg engum að taka upp dönsku- eða norskuskotið ættarnafn, því þá er voðinn vís. Pólskt eða albanskt er líklega betra!

En eftir þetta var ég aldrei kallaður McCarthyisti og aldrei Herr Johannessen.

 

Á þessum árum kalda stríðsins var togstreita milli vinstri og hægri manna, eins og Magnúsar Kjartanssonar og fleiri og þín; má vera, að þú hafir fengið það óþvegnara, hlotið meiri gagnrýni en flestir aðrir hægri menn, vegna þess að þú varst jafnframt skáld?

 

Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Það var ekki tekið gilt, að skáld væri ekki vinstri maður. Ég var náttúrlega borgaralegt skáld, ég hef alltaf verið borgaralegt skáld og ég er stoltur af því. Þú þarft ekki annað en líta í kringum þig, hér heima og annars staðar í heiminum, þá sérðu hverjir hafa verið borgaraleg skáld. Þú þarft ekki að vera einhver Che Guevara til að vera gott skáld.En Maó var gott skáld. Ég hef þýtt mörg kvæði eftir hann. Ég er sannfærður um, að hans verður minnzt sem skálds löngu eftir að allir verða búnir að gleyma Formanninum. Hann hefur óskaplega fína metafóra og merkilega aðferð. Nú kann ég ekki kínversku og hef þýtt þetta úr sænsku og ensku. Það var raunar svolítið merkilegt því að á sínum tíma talar Magnús Kjartansson við mig og spyr hvort hann megi ekki nota þýðingarnar mínar á Maó! “Eins og þú vilt”, segi ég og spyr hvað standi til. Jú, ég á að halda fyrirlestra í skólum um Kína, kínversku þjóðina, Maó formann og ég vil endilega fá að vitna í þig og þýðingarnar þínar! Svo hitti ég hann seinna, og þá hafði hann gert þetta og það var eins og við manninn mælt, að í hvert skipti sem Magnús byrjaði að lesa þýðingar borgaralega ritstjórans á Morgunblaðinu á ljóðum hins mikla Formanns, þá skelltu allir upp úr. Það þótti mér mátulegt á Magnús.

 

 

Í forystugrein í Morgunblaðinu 3. janúar s.l. segir að “Þegar ljóst var orðið um og upp úr miðjum Viðreisnaráratugnum, að ritstjórar Morgunblaðsins stefndu að því að rjúfa þau nánu tengsl, sem skapazt höfðu á milli blaðsins og Sjálfstæðisflokksins við allt aðrar og erfiðari aðstæður, töldu einstaka blaðamenn Morgunblaðsins á þeim tíma, að þetta verk væri hægt að vinna á einni nóttu. Það var mikill misskilningur.”

 

”Hvað hefur í raun sjálfstæðisbarátta Morgunblaðsins tekið langan tíma, einhverja áratugi?

 

Allan tímann. Það hefur tekið allan tímann. Þú veizt það náttúrlega, að á stalínstímanum töldu borgaraleg öfl, að þau væru að berjast fyrir lífi sínu, og þessi barátta þeirra var ekkert síður óvægin en átök marxista. Og Morgunblaðið varð eins konar tákngervingur þessa alls. Þetta var eðlilegt og þegar við skoðum hvað gerzt hefur, verðum við að sjá þetta með augum þeirra sem þá  lifðu, þeirra sem tóku þátt í baráttunni. Við getum ekkert verið að líta um öxl og þykjast geta sett okkur í spor þessa fólks.

Morgunblaðið var þá tákngervingur helvítis íhaldsins, sem stóð gegn þessum pólitísku kröfum, sem marxistar t.d. voru fulltrúar fyrir, og svo náttúrlega fyrst og síðast Þjóðviljinn. Ef maður vann á Morgunblaðinu, þá var manni refsað fyrir það. Það er ekki spurning, hvað sem sagt er í dag. Og ef þú varst skáld, þá fékkstu gúmorren. Og þetta ástand hélzt alveg fram á áttunda áratuginn. En þá breyttist þetta og ég hef fengið pólitískan frið meira og minna síðan sem skáld og rithöfundur og mér hefur líkað það vel. Hitt er annað mál, að vegna þessara hörðu deilna og láta, þá gátu menn verið tortryggnir og þessi tortryggni erfðist yfir á sjöunda áratuginn. Til Morgunblaðsins voru gerðar miklar kröfur , að blaðið yrði borgaralegt vígi, sem hægt væri að treysta og ekki sízt af þeim sökum og vegna fyrirferðar vinstri manna ,ekki sízt í Þjóðviljanum, sem var á margan hátt ágætlega skrifaður, þá varð krafan miklu meiri.. Þess vegna þurfti að fara mjög varlega í að losa blaðið hægt og sígandi undan þessum yfirgengilegu tengslum við Sjálfstæðisflokkinn. Þegar ég varð ritstjóri, þótti það sjálfsagt, að þingmenn hringdu niður á Morgunblað og spyrðu: Ertu tilbúinn? Þegar ég upplifði þetta í fyrsta skipti, sagði ég við viðkomandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins (Ingólf Jónsson á Hellu), að ég hefði verið ráðinn að Morgunblaðinu sem ritstjóri, en ekki segulband! Og hann hringdi aldrei aftur með þessum hætti.Og við urðum miklir mátar. En þannig umgengust menn blaðið. Ég man eftir þessu í ýmiss konar tilbrigðum.

En eitthvert erfiðasta vandamál sem við þurftum að glíma við var Laxárvirkjunardeilan. Hún var óskaplega erfið, annars vegar voru þeir sem þurftu á rafmagni að halda, t.d. Akureyringar, og hins vegar bændurnir í Þingeyjarsýslu. Hjarta mitt hefur alltaf slegið meira og minna með náttúruverndarmönnum og mér þótti ekki við hæfi, þegar byrjað var að mæla fyrir rafmagnsstaurum á túnum bænda, án þess spyrja þá leyfis

Einhverju sinni var Hermóður á Sandi staddur hjá mér, þegar Jóhann Hafstein var iðnaðarráðherra. Við vorum að tala saman, við Hermóður. Þetta var áður en við kynntumst. Hann var að leita hófanna og velta fyrir sér hvernig við stæðum í ístæðinu. Hann var ekkert ánægður með Morgunblaðið. Þá er hringt og ég tala við þann, sem hringir og undir lok samtalsins spyr ég: “Hvenær voru ritstjórnarskrifstofur Morgunblaðsins fluttar upp í iðnaðarráðuneyti?” Það varð þögn.En eftir smástund héldum við áfram talinu og kvöddumst síðan. Í símanum var Jóhann sjálfur og var

óánægður með eitthvað í stefnu okkar í Laxárvirkjunardeilunni. Þarna situr Hermóður og horfir á mig og segir: “Þú afsakar, að ég spyrji. Ekki var þetta iðnaðarráðherra? “Jú, jú, segi ég, þetta var hann, Jóhann Hafstein sjálfur. Hermóður varð þrumu lostinn. Eftir það faðmaði hann mig í hvert einasta skipti, sem við hittumst, og þegar ég sá hann síðast var hann í endurhæfingu á Grensásdeild, eftir uppskurð við heilaæxli. Þegar hann kvaddi mig, tók hann utan um mig, kyssti mig og þakkaði mér fyrir okkar vináttu og samstarf. Svona var þetta. Þetta er gott dæmi. Það voru mörg svona dæmi, Halldór. Þetta var í raun afar erfitt oft og tíðum. En svo batnaði andrúmið.

Jóhann Hafstein var drengur góður og við urðum miklir mátar. Þegar Bjarni dó á Þingvöllum, sagði Jóhann:”Nú verður ráðsmaðurinn að stjórna búinu, þar til nýr húsbóndi kemur”. Hann var lítillátur maður.

 

Var það á tíma Viðreisnarstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks? Morgunblaðið fylgdi þeirri stjórn að málum.

 

Morgunblaðið var reyndar í stjórnarandstöðu í skólamálum framan af Viðreisninni. Við gerðum kröfur til endurskipulagningar á  menntastefnunni, kröfðumst þess m.a. að landsprófið yrði lagt niður.Það var mörgum erfiður hjalli og vanhugsað. Ég þurfti að verja stefnu okkar á mörgum fundum, í sjónvarpi og náttúrlega í blaðinu.

Sumir sögðu, að ég væri ritstjóri Gylfa Þ. Gíslasonar, því mér líkaði raunar mjög vel við hann sem menntamálaráðherra. En dr.Gylfi var eðlilega ekkert ánægður með þessa gagnrýni blaðsins á skólastefnuna. Bjarni Benediktsson sagði einhvern tíma við mig: “Hann Gylfi er alveg voðalega reiður yfir þessu “- og bað mig um að sjá til þess það yrði ekki ráðizt á hann persónulega Svo ég segi: “Þarftu að biðja mig um það?” Hann sagði nei.

Við Gylfi vorum og erum mjög miklir vinir og ég met hann mikils. Hann breytti skólastefnunni og það var einnig hans mál að stofna íslenzkt sjónvarp og leysa þannig eitt erfiðasta vandamálið, sem við blasti; kanasjónvarpið. Deilan um það gerði allt vitlaust á sínum tíma. Krafa Morgunblaðsins var einnig íslenzkt sjónvarp.

Á Morgunblaðinu fórum við strax að fara okkar eigin leiðir í mörgum málum á sjöunda áratugnum og ritstjórn blaðsins var mjög samhent og hafði sterkan bakhjarl í stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Í Árvakri gegndu ýmist formennsku Geir Hallgrímsson eða Haraldur Sveinsson. Þegar Geir var orðinn ráðherra tel ég, að hann hafi verið lýðræðislegastur allra manna hvað snerti Morgunblaðið, því hann reyndi aldrei að bregða fæti fyrir þá frjálslyndisstefnu, sem mótuð hafði verið. Við gátum haldið okkar striki, þegar hann var formaður Sjálfstæðisflokksins, alveg eins og okkur sýndist. Við töluðum oft saman, deildum jafnvel, en samtöl okkar voru í anda Platóns.

 

Segðu mér eitt. Er það ekki staðreynd, að jafnvel enn í dag fær Morgunblaðið bágt fyrir að lýsa óvinsælum skoðunum frá áhrifamiklum einstaklingum, flokksmönnum, hagsmunahópum, öflugum fyrirtækjum,en jafnframt að þessi gagnrýni hefur ekki jafnmikil áhrif og áður fyrr?

 

Þú veizt það kannski ekki, en ég var byrjaður að skrifa gegn sjávarútvegsstefnunni upp úr 1983. Og jafnvel mínum góða kollega ,Styrmi Gunnarssyni, þótti nóg um átríðufulla andstöðu gamla ritstjórans. En svo tók hann við merkinu og hefur staðið sig eins og hetja

Á þessum tíma fjallaði ég ekki um peningamál, heldur siðferðileg atriði málsins. Selur maður það sem maður á ekki? Erfir maður það sem maður á ekki tilkall til öðrum fremur? Veðsetur maður það, sem maður á ekki? Ef svo væri ætlaði ég nefnilega að óska eftir því að fá að selja bæði Arnarhól og Austurvöll og fá eitthvað fyrir þetta, eins og þessir strákar, sem eru að kaupa allar mögulegar jarðir og eyjar og sker um allar trissur. Nei, það var á þessum hugsjónalegu nótum, sem ég fjallaði um þetta. En menn vildu ekki skilja það Þó átti ég góðan bakhjarl í Gunnari Hanssyni, varaformanni Árvakurs, hann hvatti mig til að berjast gegn þessum ólögum.

Um leið og þú nefnir peninga fara menn að hugsa og þegar auðlindagjaldið var orðið stefna Morgunblaðsinss tóku kvótaeigendur við sér og fóru að ráðast á blaðið. Ég veit, að margir vinir mínir hafa bölvað mér í sand og ösku, og okkur Styrmi, fyrir þessa stefnu blaðsins. Hún hefur verið algjörlega öndverð stefnu Sjálfstæðisflokksins, eins og allir vita..

Þegar ég kvaddi Morgunblaðið varpaði ég fram þeirri spurningu, hvernig blaðið hefði staðið að vígi hefði það gerzt aðalmálsvari kvótastefnunnar, eins og hún hefur verið.í framlvæmd. Ég er þeirrar skoðunar, að blaðið væri ekki til. Það væri horfið. Aðalstefna fjölmiðils getur ekki verið siðlaus hentistefna fyrir lávarðadeild þjóðarinnar.

Hvert var upphaf þess, að þú fórst að vinna á Morgunblaðinu?

 

Þvert ofan í það sem margir halda kom ég á Morgunblaðið sem skríbent, blaðamaður. Ég var að vísu ungur sjálfstæðismaður, hafði verið formaður Stúdentaráðs fyrir Vöku og tók við Stefni ásamt félögum mínum. En ég fór ekki sem pólitíkus inn á Morgunblaðið, ég vildi skrifa.

Þegar ég byrjaði á blaðinu 1952 var ég í háskólanum og lauk námi samhliða því að starfa á blaðinu.Í háskólanum var ég að glíma við góða og kröfuharða kennara  og erfið verkefni, sem m.a. Halldór Halldórsson, prófessor, lét mig fá. Ég skrifaði um Kristrúnu í Hamravík og Guðmund G. Hagalín og þetta verkefni var ekki verkefni í bókmenntum , heldur málsögu.  Þá myndaðist milli okkar Halldórs mikil vinátta. En ég vann líka undir handarjaðri Jakobs Benediktssonar og Ásgeirs Blöndals, mikilla marxista,og annarra góðra kennara. Dr.Halldór kenndi mér skemmtilegustu greinina, merkingarfræði.

 

Var það ekki erfið ákvörðun að fara ekki í fræðimennsku og kennslu heldur í blaðamennsku?

 

 Ég lauk kand. mag. prófi í íslenzku hér heima. Síðan fór ég til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn, bæði í bókmenntum og leiklistarsögu. Þar orti ég mikið af Borgin hló og samdi leikritið Sólmyrkvi. Valtýr Stefánsson var þar þá til heilsubótar og hann vildi að ég kæmi á blaðið aftur. Og ég gerði það. Þá var ég reyndar að undirbúa mig undir það að komast að í háskólanum. En svo þegar mér var boðið að verða ritstjóri Morgunblaðsins, sagði ég við sjálfan mig: Annaðhvort tekurðu því eða ekki og hættir þá að hugsa um starf við háskólann.En síðar hef ég kennt þar í ígripum.

 

Í síðasta Reykjavíkurbréfi Matthíasar 31. desember s.l., fyrsta  og eina Reykjavíkurbréfinu í Morgunblaðinu, sem hefur verið merkt höfundi sínum segir Matthías:

“Óvænt ráðning mín í ritstjórastarf á sínum tíma hefur að því er virðist rutt blaðamönnum leið til áhrifa og ábyrgðar; vonandi þá einnig lesendum til góðs og blaðinu til framdráttar…Ungt fólk á að fá tækifæri , en það á ekki að rétta því spegil til að baða sig í. Fjölmiðlar hafa því miður færzt mjög í þá átt. En þeir geta verið gagnlegir, þegar þeir fjalla um merkileg málefni.” Þá segir Matthías um blaðamennsku að hún sé ekki litilsiglt starf eins og stundum heyrist, “en hefur að öðru jöfnu tilhneigingu til að vera jafn merkileg eða ómerkileg og þjóðfélagið sjálft.”

 

Matthías, þótt þú sért e.t.v. ekki jafn svartsýnn á framtíð íslenzkrar tungu og Tómas Guðmundsson, skáld, þá sýnist mér, að þér lítist ekkert á blikuna á nýrri öld alþjóðahyggju, og skylda okkar við íslenzka menningu dagi uppi í enskumæltum heimi?

 

Það má vera. Það veit a.m.k. enginn hvernig styrjöldinni um tungu okkar og menningu lyktar. Hún er háskasamleg og mótstöðukraftur okkar minnkar. Það er eins og metnaður íslenzkra sjónvarpsstöðva standi helzt til þess að verða eins konar amerískt útihús hér norður í ballarhafi. Í síðasta Reykjavíkurbréfinu mínu vitnaði ég í Tómas, sem sagði, að annaðhvort verðum við að leggja niður fjölmiðlana eða tunguna, þetta tvennt fari ekki saman! Tómas var tákngervingur hins listræna eða estetíska smekks og gamalgróinnar ritlistar, en fjölmiðlarnir fylltu hann bölsýni. Mér er þó nær að halda að þetta hafi verið óþarfa svartsýni. Vonandi halda tunga okkar og dýrmætur ritlistararfur velli.

 

Nú ert þú þekktur fyrir að krefjast af þínum blaðamönnum, að þeir legðu rækt við íslenzka tungu, að þeir skrifuðu rétt mál, og helzt gott. Tókstu menn á beinið, ef illa var unnið?

 

 Já, já. Ég er þeirrar skoðunar, að það væri ekki rétt af mér að sækja um að verða flugstjóri, ef ég hefði ekki lært að fljúga né væri það rétt af mér að sækja um stöðu á skurðstofu Landspítalans, hafandi ekki lært læknisfræði. En mönnum þykir sjálfsagt að verða blaðamenn, þótt þeir séu ómæltir á íslenzka tungu og jafnvel óskrifandi. Þá segir enginn neitt. Einhver umlar. En líf okkar liggur við, ekki sízt nú á dögum.

 

Já ætli það eigi ekki við um nokkuð stóran hóp íslenzkra blaðamanna, að þeir séu vart skrifandi.

Ætli það ekki. Og menn með slíka annmarka, þurfa þeir þá ekki að upphefja sig á kostnað annarra. Eitthvað þurfa þeir að gera!

 

Það leikur enginn vafi á því, að Matthías á margar góðar minningar og erfiðar frá ritstjóraferlinum. Hann er á ýmsan hátt mjög sérstakur, viðkvæmt skáld og menningarfrömuður og svo á hinn bóginn pólitískur, veraldlegur áhrifamaður í erilsömu starfi í 40 ár. En það er ákaflega stutt í ljóðið og ljóðskáldið.

 

Argentínska skáldið mikla, Borges, unnandi íslenzkrar ritlistar og hinn mikli bókmenntafræðingur Bandaríkjanna, Harold Bloom, hafa verið með þær hugmyndir , að menn eigi að reyna að hlera þá vizku, sem sé einhvers konar svar við þeirri örlagaspurningu, sem er á allra vörum: Hver er ég? Á hvaða leið er ég? Hvort er lífið draumur eða veruleiki? Og það sé hægt að hlera einhvers konar svör við þessu með því að hlusta á hina persónuna í ljóðlist.

Ég hef hugsað dálítið um þetta í sambandi við blaðamennsku. Ef við lítum á sjónvarp, þá opnar fjöldi áhorfenda fyrir tækin til að sjá veröld, sem er fjarlæg og kemur þeim í raun lítið sem ekkert við. (Um þetta hef ég fjallað í grein í bókinni Kárahnjúkar og önnur kennileiti). Þessi fjarlæga veröld hungurs, ofbeldis og dauða er veröld annars fólks  Eins konar sýndarveröld.Og þetta fólk fagnar því með sjálfu sér að það býr ekki við slíkar aðstæður. En þá er einnig á það að líta að tilveran er ekki eins slæm og hættuleg og fréttirnar benda til. Þær fjalla sem betur fer um undantekningar eða frávik og á það raunar við um mikinn hluta allra frétta, þótt það sé með ýmsu móti, hvernig blaðamenn fjalla um slík frávik.  

 

 

Ertu að ýja að því, að blaðamaðurinn eigi að hlera eftir samvizku sinni?

 

Já, ef til vill, en ég held að hann geri það sjaldnast. Hann mætti gera það oftar. Ég hef ort ljóð um þetta, sem heitir Fjölmiðlar. Það er hin hliðin á galdrinum, sem heitir blaðamennska; hún á sér bæði hvítan og svartan galdur. Ég hef ekki haft löngun til að taka þátt í þessum svarta galdri. Ég hef snúið mér að þessum hvíta galdri .

 

Mývargur

við netlaust andlit

 

í sterkri sól.

 

Það er mikill vandi að vera í þessari návist og það er ekki á allra færi að fara með þessa návist gagnvart þeim, sem vargurinn gerir aðsúg að.

 

Hvað áttu beinlínis við með svörtum og hvítum galdri?

 

Svartur galdur er þessi neikvæða afstaða til allra hluta, og ég tek fram, að neikvæð afstaða er ekki það sama og gagnrýnin afstaða, ekkert frekar en í bókmenntum. Krítísk afstaða getur verið mjög gagnleg, ef hún er sanngjörn. En ef hún breytist í einhvers konar ofsóknaræði, þá er hún svartur galdur. Ég óttast það einna mest, því miður, að of margir fréttamenn nú um stundir telji sér einna skyldast að koma alls kyns frávikum til skila og þá ekki sízt þeim mistökum og víxlsporum, sem geta eyðilagt líf þeirra, sem létu freistast og því miður einnig líf saklauss fólks, sem tengist ógæfufólki með ýmsum hætti. Fréttamaður, sem tekur ekki slíkar fréttir nærri sér ,er á rangri hillu og hann ætti að starfa á öðrum vettvangi. Sumir vilja baða sig í sólskini en þeim er nokkurn veginn sama þótt þetta sama sólskin valdi öðrum brunasárum.

 

Þú ert að  lýsa miskunnarleysi blaðamennskunnar, blaðamanna?

 

Já, ég er að lýsa miskunnarleysi þeirra sem hefur verið trúað fyrir völdum sem þeir misnota. Og það kemur gagnrýnni blaðamennsku, ekkert við, ekki neitt. Niðurstaðan verður þá þessi. Góður fjölmiðill er ekki mannorðsmorðingi, hann er kvika, en ekki kviksyndi.Og ef hann  þarf að segja váleg tíðindi af ógæfu fólks eða harmleik, á hann ekki að velta sér upp úr þeim.Blákaldar staðreyndir nægja.

 

En nú má færi að því rök, að fjölmiðill hljóti og geti aldrei komizt hjá því að varpa skugga á mannorð annarra?

 

Það er rétt, en fyrst og síðast gera menn það sjálfur.

 

Getur verið, að samkeppni og sölumennska ráði of miklu um blaðamennsku?

 

Já, það gæti verið. Hún er erfið freisting. En ég held ég eigi einkum við það, að Morgunblaðið er veldi. Ef það segir eitthvað í leiðara, t.a.m.að einhver sé vitleysingur, þá verður það bara einu sinni sagt. Þótt það sé sagt í alls konar öðrum fjölmiðlum, þá er öllum skítsama. Það er ekki tekið alvarlega,ekki endilega. Ég á í raun við það sé búið að gengisfella orðið. Það merkti ekkert, sem Morgunblaðið sagði um pólitíska andstæðinga sína í gamla daga.En við skrifuðum okkur út þessu rugli: “Vitlausi maðurinn í skutnum”, það var Hannibal, og þar fram eftir götunum. Þessir tímar, stalíns-tímabilið, voru tímar pólitísks hundaæðis á Íslandi. Og Morgunblaðið smitaðist.

 

En nú eru aðrir tímar, þar sem hefur gætt meira svokallaðrar nútíma blaðamennsku, sem er ágeng, það er farið í saumana á málum o.s.frv. Á dögunum sagði ungur blaðamaður, að Styrmir og Morgunblaðið hefðu brugðizt skyldu sinni með því að setja mál Árna Johnsens ekki í pólitískt samhengi,  heldur látið kyrrt liggja. Hvað sem máli Árna líður þá hefur einmitt svona gagnrýni komið fram á Morgunblaðið í áranna rás, það að blaðið láti stundum kyrrt liggja – af pólitískum eða öðrum ástæðum. Hvað segir þú um þessa gagnrýni? 

 

Ég held þetta sé oft mjög ósanngjarnt vegna þess það er fylgzt svo rækilega með hverju einasta orði, sem  birtist í forystugreinum Morgunblaðsins, það verður ekki aftur tekið.Fólk hefur tilhneigingu til að trúa Morgunblaðinu og þetta traust er dýrmætasta eign blaðsins.

 

En gerið þið ekki of mikið úr þessu,?

 

Það má vera. Hitt er annað mál, að við vorum  ásakaðir í Geirfinns- og Hafskipsmálunum fyrir það að bíða átekta. Þegar Morgunblaðið er ekki með staðreyndirnar fyrir framan sig, fer það ekki af stað. Það sendi engan í gapastokkinn í þessum málum, hafði vaðið fyrir neðan sig. Er það ámælisvert?

Þú átt við að þið hafið hægt um ykkar í sumum málum, meðvitað?

 

Nei, ég á kannski einna helzt við það, sem stendur í Birtíngi Voltaires, fyrst þú ert að tala um þetta. Það er hægt að vega ólán manna á margvíslegum vogum. Í Birtíngi er fjallað um ólán manna. Ég sé ekki betur en Voltaire sé að tala um blaðamennsku, og jafnvel blaðamennskuna í dag. Birtingur hélt, að hann væri búinn að drepa greifann Altúngu og samfylgdarmann hans. Svo hittir hann þá sem galeiðuþræla og hann þekkir þá aftur. Og hann segir, hvernig fór ég að því að drepa yður ekki, greifi minn góður? Og hvernig eruð þér lifandi, kæri Altúnga minn, eftir að þér hafið verið hengdur? Síðan þegar Birtingur er sannfærður um, að þetta eru mennirnir, sem hann var búinn að drepa, segir hann: Fyrirgefið enn einu sinni, sagði Birtíngur við greifann. Fyrirgefið, æruverðugi faðir, að ég skyldi hafa rekið yður í gegn með sverði.

 Minnumst ekki á það, sagði greifinn.

Þetta er íslenzk blaðamennska, blaðamennska um allan heim En Morgunblaðið getur ekki beðið fórnardýr fyrirgefningar eftir að hafa drepið þau. Aðrir fjölmiðlar eru svo heppnir, að þeir geta drepið allt og alla, og svo hitta þeir fórnardýrin seinna., bráðlifandi, eins og Birtingur! Þau eru ódauð, þau eru óhengd og það skiptir ekki máli.

Voltaire og Birtíngur segja nákvæmlega allt sem ég hugsa um þetta mál.

 

Þetta er ágæt fílósófía, en það má deila um þessa afstöðu og halda því fram, að Morgunblaðið setji sig á  háan hest, taki sig of hátíðlega?

 

Það er alveg rétt, það má deila um það. Við höfum ekki gengið fyrir neinni minnimáttarkennd!.

Á kreppuárunum lenti pólitískur andstæðingur Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins norður í landi, í umfjöllun um meint svikamál.. Í Morgunblaðinu var vegið að honum. Hann framdi sjálfsvíg. Þá segir í Morgunblaðinu: Sjálfsmorðið er sönnun sektar! Þetta er einhver ljótasti bletturinn á sögu Morgunblaðsins. Það voru ekki ritstjórar blaðsins, sem skrifuðu þetta eða stjórnuðu.þessum skrifum. Þetta voru aðsendir pólitískir pistlar, sem fóru inn í blaðið eins og þá tíðkaðist, líklega umhugsunarlítið. Þannig voru tímarnir þá. Ég ætla ekki að nefna höfundinn og látum hann liggja milli hluta.

En ég ætlaði ekki að taka við svona blaði og ég ætlaði ekki heldur að skila svona blaði í hendurnar á þeim sem við tækju. Þegar ég varð ritstjóri var ekki ráðinn slátrari að blaðinu. Ekki heldur neinn Sherlock Holmes!!

Guði sé lof, að íslenzkir fjölmiðlar eru ekki sterkari en Birtíngur. Það er dómstólanna að kveða upp dóma  í sakamálum og lögreglunnar að rannsaka slík mál.

 

En verður ekki að virða fjölmiðlunum það til vorkunnar, að sérstaklega í samtímanum er allt orðið miklu opnara og um leið miklu meiri vandi að ákveða nákvæmlega hvenær fjölmiðill er að fella dóma með birtingu á nafni eða lauslegri lýsingu á meintum sakamanni – eða bara að gegna upplýsingaskyldu sinni?

 

Ég er sammála þessu og menn verða að lifa í sinni samtíð.

 

Tökum dæmi af máli Árna Johnsens, hvernig hefði verið hægt að fjalla um það án þess að nefna hann á nafn?

 

Það var auðvitað ekki hægt. En ég vil sem minnst um þetta  tala.

Er þetta mál ekki svolítið erfitt fyrir þig persónulega, þar sem Árni var starfsmaður þinn? Hann laug að þjóðinni í gamla blaðinu sínu.

 

Ég er búinn að vera miður mín út af þessu öllu.Við erum vinir hans, þessi fjölskylda. Og Morgunblaðið hefur átt um sárt að binda, gæti ég ímyndað mér. Árni var einn bezti blaðamaður sem ég hef starfað með.

 

 

En snúum okkur þá að öðru í lokin. Við höfum lítið talað um æsku þína og uppruna, Matthías.

 

Móðir mín, Anna Jóhannesdóttir, var fædd á Seyðisfirði og fylgdi öldinni, flyzt til Reykjavíkur 18 ára gömul, þegar faðir hennar varð bæjarfógeti í Reykjavík. Faðir minn, Haraldur Johannessen, var hálfnorskur, fæddur 1897. Halldór Laxness sagði mér, að móðir mín hefði verið fallegasta stúlkan í Reykjavík, þegar hann var ungur. Og þegar faðir minn sá hana í Austurstræti í fyrsta sinn sagði hann við vin sinn, sem var með honum: Ef þessi stúlka lítur við verður hún konan mín. Og hún leit við.

 

Var mikið talað um pólitík á þínu æskuheimili?

 

Nei, sáralítið, og Jóhannes afi minn, talaði aldrei um pólitík.Hann var áreiðanlega búinn að fá nóg af henni. Hann fór bara með þjóðsögur og ævintýri!

Virginia Woolfe segir, að tvennt sé mikilvægast, þegar maður rifji upp ævi sína; fyrsta minningin og síðan mesta áfallið.

Mín fyrsta minning er sú, að ég var tveggja ára gamall heima í Kirkjustræti 10, þar sem foreldrar mínir bjuggu hjá Helgu Magneu, föðurömmu minni, en faðir minn hafði komið heim með stórt tréskip með járnbyrðingi.Ég var að sigla þessu skipi, sem ég réð ekkert við, enda álíka stórt og ég sjálfur. Þetta er fyrsta ferðin, sem ég hef farið. Síðan hef ég farið margar ferðir, og mér finnst ekkert varið í ljóð, sem eru ekki einhvers konar ferðalög; hreyfing.

Fyrir mér er rennandi vatn einna mikilvægast alls, en ég forðast frosið vatn. Það er eins og ímynd okkar um dauðann. Rennandi vatn og vængir eru ímynd okkar um lífið.

Fyrsta áfallið sem ég fékk, þegar ég var nokkru eldri, kannski fjögurra ára, var heima hjá Jóhannesi bæjarfógeta, afa mínum, og Jósefínu ömmu í Suðurgötu 4. Jóhannes afi var forseti Alþingis og forystumaður í stjórnmálum, mjög þekktur á sínum tíma, enda sat hann í nánast öllum sjálfstæðisnefndum landsins, þar á meðal sem formaðu Sambandslaganefndar 1918. Hann var mágur dr. Valtýs sem valtýskan er kennd við.

Ég var hjá þessum móðurforeldrum mínum og Elín, móðursystir mín, gætti mín, en ég reyndi að komast út úr herberginu vegna þess að móðir mín fór á spítala og ég vildi komast til hennar. Þessi minning er fyrsta áfallið sem ég fékk í lífinu. Hún fjallar um öryggisleysi.

Ég bæti við beztu minningunni úr æsku minni. Það eru sumrin sem við vorum við Helluvatn, sem er austan við og samtengt Elliðavatni, þegar við faðir minn vorum að veiða silung á báti. Ég fer oft upp að Helluvatni og rifja upp þessa minningu sem er lýst í ljóðaflokknum Við seglhvítan væng,í ljóðabókinni Land mitt og jörð. Sú bók er lítið þekkt.

 

Hvað þjóðin hér mundi, fyrirlestur í Norræna húsinu. 

1.

Það mun hafa verið um áramótin 1979 og '80 sem ég í stuttri grein um atburði liðins árs nefndi muninn á þjóð og óþjóð án þess þó að tíunda það í löngu máli. Það sem þarna skilur á milli eru að öllum líkindum nokkur áherzluatriði í tengslum við arfleifð og varðveizlu. Við getum líka sagt ræktun eða minni sem tengjast þjóðlegum verðmætum og siðmenningalegri afstöðu. Í fyrrnefndri grein er m.a. komizt svo að orði: "Nú reynir á einstaklinginn. Hópsálin hefur þegar gefizt upp. Við stöndum í sporum Norðmanna um það leyti sem Snorri fæddist... Það er ekki sízt minnisstætt frá síðasta ári, hve margir Íslendingar voru ómæltir á íslenzka tungu í fjölmiðlum. Við þurfum að kenna fólki að tala, bæði börnum og ekki síður fullorðnum. Tungan skiptir auðvitað um klæði, en það er engin ástæða til, hvað sem "byltingarmenn" segja, að hún standi á fíkjublaðinu einu saman. Slík einföldun væri ekki eftirsóknarverð, hvað sem yfirstrumparnir segja um það!

Vonandi verður aldrei skrifuð sú Konungsskuggsjá sem talin verður síðasta verk íslenzkt - á íslenzka tungu... Íslenzk tunga má aldrei verða að "einhvers konar máli", eins og "frjálslyndir" starfsbræður mínir í norrænum fræðum komast að orði, þegar þeir vilja vera "róttækir" og umburðarlyndir.

Megi saga okkar fá þessa ósk sína uppfyllta. Til þess eru Grikkland, Rómaveldi og Norvegur - að varast þau!"

Svo mörg voru þau orð og allkarlmannlega mælt og líklega of djúpt í árinni tekið, eins og verða vill. Ekkert man ég hvert tilefnið var né hverjir þessir frjálslyndu og umburðarlyndu voru, en einhver umræða hefur líklega átt sér stað um þessi efni og þá væntanlega sumt farið í fínu taugarnar! En hvað sem því líður má vel færa rök að því að varnaðarorð og ákveðin íhaldssemi á þessum tíma hafi átt rétt á sér, a.m.k. að einhverju leyti. Og ekki hefur ástandið batnað þótt margt hafi verið vel gert tungu og arfleifð til trausts og halds.

Allt er það vitnisburður um þjóðlegan metnað og hugsjónaleg heilindi. Þótt ásóknin sé af erlendum toga, þrýstingurinn á tunguna, t.a.m. í fjölmiðlum, einkum sjónvarpi, eigi rætur annars staðar en í umhverfi okkar, þá er hitt víst að það verður hlutverk okkar sjálfra - og engra annarra - að rækta þjóðlegan arf og láta aðför að honum aldrei sem vind um eyru þjóta. Það er t.a.m. íhugunarefni, finnst mér, þegar tímarit Varðbergsmanna berst manni í hendur og þá að hluta til með enskum greinum sem  enginn hefur hirt um að snara á íslenzku og aðstandendum þykir augsýnilega við hæfi að prenta á alþjóðamálinu sem ræðurnar voru haldnar á, þ.e. ensku. Þetta hirðuleysi er alls ekki saklaust og minnir á þá lágkúru sem hér viðgekkst á Íslandi þegar danskan átti að vera landsmönnum jafn töm og tístið músinni.

En Jóni forseta var nóg boðið og hann sagði nei, benti á rétt íslenzkrar tungu eins og hann komst sjálfur að orði og sagði að Íslendingar þyrftu ekki að hlíta lögum sem væru ekki skráð á þeirra eigin máli.

Allt er þetta í fullu gildi enn í dag.

Ég hef ekkert á móti því að birtar séu greinar á erlendum tungum þar sem það á við, en mundi t.a.m. ekki telja að Morgunblaðinu ætti að haldast uppi að birta það efni á erlendum málum - og þá auðvitað ensku - sem ritstjórnin nennti ekki að þýða á íslenzku. Morgunblaðið birtir t.a.m. aldrei texta á ensku í auglýsingum án þess fylgi íslenzk útgáfa.

 

Við þurfum árverkni í þessum efnum eins og öðrum en umfram allt að láta ekki allt yfir okkur ganga eins og ekkert sé.

 

Ég heyri íslenzka íþróttafréttaritara stundum bera afrek frjálsíþróttamanna frá Bahama saman við árangur okkar fólks, enda eru þessar tvær þjóðir álíka fjölmennar, en íþróttamenn frá Bahama margfaldir verðlaunamenn  á heimsmótum. Þeir eru íþróttaþjóð í fremstu röð, helztu spretthlauparar heims.

En við?

Miklir eftirbátar í þeim efnum. Enginn þjóðsöngur, engir fánar. Engar þjóðhetjur. Sitjum enn uppi með Gunnar á Hlíðarenda!

En allt gott um það að segja.

 

Samt eru íbúar Bahama nokkurn veginn arfleifðarlausir eins og maður finnur, þegar komið er til Nassau. Tungumálið enskur hrærigrautur, sagan eins og brokkgeng trunta eftir langa og stranga ferð gegnum kúgunaraldirnar. Frumbyggjamenningin horfin, að minnsta kosti ekki sýnileg ókunnugum ferðamanni. Helzta fyrirtæki í Nassau heljarstórt spilavíti sem okkur var sagt heyrði mafíunni til. Veit þó ekkert um það. Samt gömul hús og falleg við helztu götur. Eins konar sögulegar heimildir um erlenda yfirstétt og þrælatök sem lauk með sjálfstæði 1973.

En íþróttamenn á heimsmælikvarða,ósýnilegir að vísu þarna í karabísku paradísinni miðri.

En við?

Arfleifð okkar þúsund ára  gömul og enn við lýði, þrátt fyrir móðuharðindi nýlendustefnu og niðurlægingu sem búið er að þurrka út, að minnsta kosti á yfirborðinu.

En arfleifðin samt, hvert sem litið er.

 

Einar Benediktsson lýsir henni svo í Þjóðstefnugrein 1916: ”Vegna uppruna vors, vegna vors dýra.fræga tungumáls og vegna þeirrar sögu, sem afskekkta, fámenna eyjarþjóðin vor á, hefur orðlistinni verið skipað í öndvegi hjá oss fram yfir allar aðrar listir, og það hlýtur svo að vera og á svo að vera”.

 

En orðlistin kemst ekki á verðlaunapall á heimsmótum. Helzta einkenni okkar sést annars staðar og þá ekki sízt í tungunni sjálfri.

 

Ég hef ekkert á móti íþtróttum, nema síður sé, alinn upp af föður sem var spartverskur í orðum og æði og gegndi formennsku í Íþróttafélagi Reykjavíkur um árabil. Þetta spartverska uppeldi hefur dugað vel. Og það hefur ekki dæmt þjóðir eftir andlegum eða líkamlegum afrekum, heldur þeim siðmenningarlega ávinningi sem orðstír andans og íþróttir afla.

 

Við eigum í svona samanburði meira skylt við minna samfélag þar vestra en hið bahamska, og þá á ég við íbúa St. Lúcíu og umhverfi hennar. Það er samfélag nóbelsskáldsins Derek Walcotts, en hann hlaut nóbelsverðlaun í bókmenntum 1992 og þótti yrkja betri enskan texta en aðrir þá um stundir. Þetta samfélag sem hefur hlotið arfleifð sína frá afrískum þrælum og varð sjálfstæð þjóð 1979, með um 140 þúsund hræðum, þykir eiga afarsérstæða menningu, tónlist, söng og dans, en þó ekki síður ritmenningu sem jafnast við það bezta á alþjóðaettvangi og myndlist ekki síðri. Alþjóðaorðabækur  nefna höfunda eins og Garth St.Omer og myndlistamenn eins og Xavier og St. Dunstan Omer án þess ég þekki nein deili á þeim. Ekki frekar en útlendingar þekkja almennt nöfn íslenzkra listamanna.

 

Íþróttamenn frá St. Lúcíu í karabíska hafinu stunda ekki verðlaunapalla á heimsmótum, ekki frekar en við, en samt nýtur þetta litla samfélag þeirrar virðingar sem efni standa til. Það á jafnvel nóbelshafa í efnahagsvísindum og þykir jafnast á við verðlaunapening í boðhlaupum.

 

Við þennan andlega styrk eigum við ekki síður að miða afrek okkar og orðstír en annað sem þykir tilkomumeira í daglegri samkeppni pönks og fótbolta sem eru nú um stundir helztu afþreyingarefni æskunnar - og er það að vísu vel andspænis fíkniefnaskítnum og freistingum hans.

Íslenzk einkenni hafa verið túlkuð með ýmsum hætti gegnum aldirnar og útlendingar átt í erfiðleikum með að fóta sig á því svelli. Sumar þessara lýsinga hafa lent inn í heimsbókmenntunum og varðveitzt þar eins og bautasteinn um skringilega þjóð sem enginn botnar í, búandi í landi sem fékk nafn sem eitt út af fyrir sig vekur hroll með útlendingum, allt frá því Blefkin skrifaði níðrit sitt, alræmt.

Aðrir hafa lýst einkennum sem eru heldur blendin og má raunar segja að slíkar lýsingar sé að finna í ferðasögu Audens og MacNeice, Letters from Iceland, en þar kennir margra grasa eins og kunnugt er,  þótt Auden hafi marglýst yfir aðdáun sinni á fornritum okkar og talað um hann hafi komið hingað í einskonar pílagrímsferð til hins helga lands bókanna sem  Ben Gurion talaði um á Þingvöllum.

 

2.

Í nýlegri skáldsögu bandaríska metsöluhöfundarins, Philip Roth, The Human Stain eða Hin mannlega smán, er fjallað um íslenzku sögupersónuna Steena Palsson sem er ein af æskuunnustum söguhetjunnar  Colemans Silk. Hann hefur  augsýnilega haft einhvern pata af þessu framandlega fólki og þykir Steena hið mesta krydd í þessa fléttu sína. Það má til sanns vegar færa. 

 

Roth er enginn venjulegur rithöfundur, heldur einn þekktasti skáldsagnahöfundur Bandaríkjanna um þessar mundir og hefur hlotið flest þau verðlaun sem þykja eftirsóknarverðust þar um slóðir , þ. á m.  Pulitzer Prise og National Book Award, hlaut jafnvel þjóðlistar verðlaunapening Hvíta hússins 1998, en í The HumanSstain er hin subbulegasta lýsing á á kynferðismálum Clintons, en hún birtist ekki fyrr en 2000

.

Roth er þannig afarvirtur höfundur þar vestra, þótt The Human Stain sé ekki það meistaraverk sem ætla mætti af auglýsingum og verðlaunavafstri. En sagan er þó sterklega skrifuð í sinni fljótandi mælsku. Hún er mikið ferðalag.

 

Sagan fjallar um Coleman Silk, háskólaprófressor í klassískum fræðum, eins og Roth sem hefur  verið háskólaprófessor í samanburðabókmenntum , en báðir, höfundur og sögupersóna hans, hafa verið virtir vel og dáðir háskólakennarar, eða þar  Coleman er sakaður um kynþáttahatur. Um þann öxul snýst bókin öðrum þræði og sakleysi Colemans. Þverstæðan er aftur á móti sú að Coleman er hvítur blökkumaður, en hefur undir drep reynt að leyna því og tekst það fram í rauðan dauðann. Hann slítur tengsl við sína svörtu fjölskyldu, eignast fjögur hvít börn með hvítri konu sinni sem deyr án þess vita nokkurn tíma um þetta mikla leyndarmál.

Coleman deyr í sögulok eftir mikla eldraun vegna fyrr nefndra ásakana sem kostuðu hann starfið. Þá er hann orðinn 71 árs og lifir með hvítri hreingerningarkonu sem stundar bústörf öðrum þræði, en hún er  ekki nema hálfdrættingur hans í aldri. Hún er sem sagt hans viagra!

Honum tekst að leyna uppruna sínum í hálfa öld , einnig fyrir henni, og er þessi saga.  rakin frá upphafi til enda. Það er í þessari upprifjun sem Stína kemur að efninu.

 

Og hvernig lítur höfundur á þessa íslenzk -ættuðu stúlku? Jú, þau sofa saman um hverja helgi í eitt ár, hún dansar nakin fyrir hann, þó hálffeimin og með hálfum huga, en samt með slíkum tilburðum að hún hefði getað kallað sjálfan Gershwin úr gröf sinni, en umfram allt – og það þykir mér einna merkilegast - hún er að föndra við að yrkja, þótt ekki séu ljóðin kannski hátt á hryggin reist. En sem sagt: hún er íslenzk og hún er skáld! Hún er ekki poppsöngvari eins og aðalpersónan í síðustu skáldsögu Salmans Rushdie, Jörðin undir fótum hennar; hún er ekki sprottin úr einsmenningarlegu umhverfi alheimsþorpsins, heldur arfleifðinni.

Hún er skáld.

Að sjálfsögðu!

 

Skáldskapur virðist vera arfleifð okkar og orðstír úti í hinum stóra heimi, allt frá því hirðskáldin sóttu gullið í greipar fornkonunga. Líklega hefur Roth aldrei heyrt talað um Íslending sem er ekki skáld. Eða drykkjubolti, nema hvorttveggja sé.

Og svo auðvitað fegurðardís, a.m.k.  um helgar!

 

Coleman skilur þetta ekki til fulls, en honum líkar ástkonan þó ágætlega þar til hún hvefur úr lífi hans eins og hún birtist; tíðindalaust!

 

Þessi 18 ára “útlagi frá Minnesota”, Steena Palsson, yrkir kvæði um Colman þar sem fótleggjavöðvum hans er m.a. lýst Kvæðið var handskrifað á blað úr minnisbók, undirritað S, því var bögglað saman og sett í póstkassann, því Stína er einnig dálítið feimið skáld!

 

Hann hefur líkama!

Fallegan líkama

vöðvarnir aftan á leggjunum og aftan á hálsi.

 

Hann er einnig bjartur og ágengur.

Hann er fjórum árum eldri, stundum finnst mér hann yngri.

 

Hann er blíður, rólegur, rómantískur,

þótt hann segist ekki vera rómantískur.

 

Ég er þessum manni nærri því hættuleg.

 

Hvað get ég sagt um það

hvernig ég upplifi hann?

Og ég hugsa um hvað hann gerir

þegar hann hefur gleypt mig í einum bita.

 

Var þetta kvæði, nei helzt ekki! En Coleman gruflaði út í meininguna, óöruggur. Hvað átti hún eiginlega við?

Þannig verða þessar hugleiðingar hennar til að vekja með honum öryggisleysi. Er gefið í skyn hann sé svartur? Hann var ekki viss. Og efinn nagar hann. Þessi stúlka veit lengra nefi sínu.

En niðurstaðan?

Kvæði hinnar hrífandi Stínu merkti ekkert sérstakt! Þetta var ekki einu sinni kvæði. Og hún skáld, nei!

Stína Pálsson var engin Slvia Plath! En hún var skynsöm. Og hann hafði ekki sízt fallið fyrir því. Samt var það óþægilegt hvað hún var miklu hærri en hann sjálfur.

 

Faðir Stínu er griðarstór. Íslendingar eru jarðýtur. Persónuleiki hans er hnýsilegur.  Furðulegasta fyrirbrigði. Drykkjubolti, ef því er að skipta.  Hann er kaupmaður og sérfræðingur í skipulagsleysi. Leggur undir sig öll samtöl. Afinn og amman eru með sama marki bernnd! "Íslendingar. Ég vissi ekki einu sinni þeir væru kallaðir Íslendingar. Ég vissi ekki einu sinni þeir væru hér. Ég veit ekkert um Íslendinga, alls ekkert”, segir Coleman. Þeir komu vestur einhvern tíma eftir risaeðlurnar.

Er hún að forðast þetta yfirþyrmandi fólk sem er eins og farg á henni? Móðirin af dönskum rassmussens-ættum jarðbundinna og draumóralausra gena,  reynir að koma skikk á íslenzku óreiðuna, en faðirinn hin fullkomna andstæða þessarar reglu.

 

Ævintýri Colemans og Steenu lýkur með bréfi. Það er ekkert ljóðabréf, nei aðeins kveðjubréf sem hann varðveitti með öðrum gögnum.

Það var allt og sumt.

 

Nafnið Stína er vel til fundið í þessari sögu. Höfundur hefur augsýnilega haft einhvern pata af því. Það var líka í tízku á stríðsárunum, ef ég man rétt. Sorry, sagði hermaðurinn. Stína! sagði hún.

Og svo sungum við strákarnir, ef enginn heyrði til:

Stína,

láttu ljósið þitt skína

yfir leiðina mína

veittu sumri og sól!

 

En þannig berst orðstír okkar,  og helztu einkenni þessara afkomenda víkingakonunga öllum augljós!!

 

3.

Allar þjóðir hafa sín einkenni, við ekki síður en aðrir. Þau mótast af aðstæðum. Þar má fyrst nefna umhverfið sem hefur mótuð okkur gegnum aldirnar, lagað okkur að aðstæðum og eflt ákveðið lífsviðhorf sem verður einskonar reisupassi á langri leið inn í síóvænta framtíð. Það safnast margt og mikið í klyfjar þessarar ferðar, sumt týnist á leiðinni, annað er varðveitt og notað á hverju sem gengur. Mörg orð hafa horfið í málinu sem voru brýn og nauðsynleg á sínum tíma, en ekki lengur. Önnur hafa tekið við og tjáð nýjan veruleika; nýtt umhverfi. En kjarninn er þó heill, ef að er gáð. Og þá má spyrja - en hversu lengi?  Þótt öllum sé vitanlega ljóst að tungumál breytast og laga sig eins og annað að nýjum aðstæðum, verður að rækta þau. Þar skilur milli feigs og ófeigs.

Aðalatriðið er að kunna skil á því sem ég hef séð kallað siðmenningarleg gæði en þau eru inngróin arfleifðinni og hljóta að bera henni eitthvert vitni. Listamenn sækja, ekki síður en aðrir, í sameiginlegan sjóð, sameiginlega arfleifð, sem Jung lagði áherzlu á; við getum kallað þetta gagnasafn genanna þar sem þekking og reynsla genginna kynslóða er varðveitt sem arfleifðarleg gæði og þá að sjálfsögðu veigamikill þáttur siðmenningarlegrar reynslu samfélagsins.

Kierkegaard orðar þetta svo í Ugg og ótta: "Væri maðurinn án eilífrar vitundar, væri allt byggt á óhömdu, ólgandi afli sem byltist um í myrkum ástríðum og leiðir af sér allt sem er stórt og allt sem er smátt, ef að baki alls dyldist botnlaust og óseðjandi tóm, hvað væri þá lífið annað en örvænting? Væri þessu þannig farið, ef ekkert heilagt band væri til sem tengdi saman mannkynið, ef kynslóðir kæmu hver af annarri fram eins og laufið í skóginum, ef hver kynslóð tæki við af annarri eins og fuglasöngurinn í skóginum, ef mannkynið færi um heiminn eins og skip um hafið, eins og vindurinn um eyðimörkina, í gáleysi sem ekkert gott hlýst af, ef eilíf gleymska sæti ætíð óseðjandi um bráð sína og ekkert afl hefði mátt til að hrifsa hana frá henni - hversu tómt og vonlaust væri þá ekki lífið?"

 

4.

Umhverfið hefur mótað okkur gegnum aldirnar, lagað okkur að aðstæðum og eflt ákveðna eiginleika sem hafa verið einskonar reisupassi á langri leið inní síóvænta framtíð. Þetta umhverfi hefur ekki sízt greint okkur frá öðrum afkomendum eyjafólks við Bretland og norskra víkinga. Og þannig er arfleiðin einnig að öðru leyti. Hún er samsafn alls þess sem þjóðirnar hafa vinsað úr í tímans rás og þá sem tákn um þjóðleg verðmæti og áherzlur til eflingar mikilvægum einkennum. Mótun landsins,eða áhrif þess eru að sjálfsögðu slík verðmæti og því mundi það bera góðri ræktunarviðleitni vitni að umgangast landið af þeirri reisn sem efni standa til.

En það sýnist sitt hverjum í þeim efnum.

 

Fyrir mörgum árum urðu miklar deilur um svonefndan Kísilveg og hraunið við Mýrvatn. Ungur ritstjóri gerði ég mér ferð þangað til að skilja deiluefnið og sá þá í hendi mér að þessi vegur gæti fremur orðið til að vekja áhuga á þessu lítt þekkta umhverfi og gefa fólki færi á því að tengjast því betur, en framkvæmdirnar yrðu alls ekki til skemmdar eða eyðileggingar. Mér er nær að halda að tíminn hafi staðfest þessa tilfinningu sem á líklega minna skylt við raunsætt mat en margir héldu í hita baráttunnar.

Svipaða sögu held ég megi segja um Gjábakkaveginn á Þingvöllum. Hraunið þar og skóginn þekktu helzt engir nema tófan og fuglinn fljúgandi. En með þessum fagurlega lagða vegi hefur umhverfið orðið nýr þáttur í lífi okkar og tengt okkur betur en ella við Þingvelli; þjóðarsöguna. Ég er ekki svo utangátta að ég geri mér ekki grein fyrir því að Gjábakkavegurinn hefði ekki verið lagður, ef hann væri á dagskrá nú um stundir. En við treystum okkur ekki til að efna til þeirrar fjölmennustu hátíðar sem haldin hefur verið á Íslandi, þ.e. ellefu alda afmælisins Íslandsbyggðar 1974 án þess Gjábakkavegurinn væri lagður. Niðurstaðan hefur orðið nærvera almennings við umrætt svæði.

Afstaðan til umhverfisins er gjörbreytt frá því sem áður var, en ég er ekki þeirrar skoðunar að það þurfi endilega að vera nauðsynlegt að landið okkar sé einkum handa tófum og fuglum, heldur þjóðinni sem byggir það. Og hlaut það í vöggugjöf. Við þurfum ekki að geyma það í formaldihýði eins og dauða líkamsparta á rannsóknarstofu, heldur njóta þess. En þá einnig að hagnýtingunni fylgi þessi siðmenningarlegu gæði sem ég hef nefnt. Þau eru fólgin í siðlegri umgengni við landið og þeirri sjálfsögðu afstöðu að engin spjöll séu unnin á náttúrunni og umhverfi okkar. En eðlileg hagnýting eins og vegagerð sé í sátt við ræktun og sögulega hefð.

 

Ég hef oft haft fyrirvara á þeirri röskun sem framkvæmdir hafa leitt til í landinu. Ég veit að við þurfum á rafmagni að halda, en það er ekki sama hvernig til þess er stofnað. Alvarleg röskun verður ekki aftur tekin. Að vísu kemst ekkert afl í hálfkvist við þann tortímingarkraft sem býr í landinu sjálfu og eldstöðvum þess og raunar eru náttúruöflin helzti þáttur þeirrar uppbyggingar sem heitir Ísland. Eitt eldgos við Mývatn og þessi perla þurrkast út án þess við getum að gert, röskun á Vatnajökli og jökulárnar ekki raftækar, ef svo mætti segja. Uppblástur, eyðilegging.

 

En það er vont siðferði að vega í sár. Og þá ekkert síður sárin sem náttúran sjálf hefur unnið á landinu. Ræktun og uppgræðsla er einskonar gjörgæzla. Þar á sjúklingurinn að braggast. En ég er þó ekki endilega viss um að náttúran sjálf ætlist til þess henni sé komið til hjálpar. Hún vill byggja upp að eigin vild og tortíma að sama skapi.En tékkneskt skáld hefur sagt:Réttum grasinu hjálparhönd(!)

 

Sitt sýnist hverjum í afstöðunni til umhverfis og framkvæmda. Það er skiljanlegt. Fólkið þarf líka að lifa í landinu. En það þarf ekki síður að lifa með landinu. Í því er arfleifðin fólgin og þær kröfur sem til okkar eru gerðar. Okkur hefur tekizt það bærilega að mínu viti. Og ég hef þá trú að svo geti verið áfram. Verstu spjöll sem ég þekki sem reykvískur strákur, alinn upp á stríðsárunum, eru gígarnir í Rauðhólum sem brezki herinn eyðilagði og flutti sem púkk undir Reykjavíkurflugvöll, en þessum hernaðaraðgerðum mætti líkja við náttúruhamfarir því að enginn mannlegur máttur hefði getað reist rönd við þeim. Ég lék mér í þessum gígjum sem drengur, í sumarhúsi við Helluvatn , og man þá vel. Þeir voru eins fögur smíð og náttúran getur bezt gert, þegar henni tekst upp, rauður hraunsallinn niður í botn þar sem lyng og blóm skörtuðu ævintýralegri fegurð eftir lognkyrrð tímans um árþúsundir.

 

Blæðir

úr ógrónum

sárum

og sóldreggjakulið

við gíg,

segir í Land mitt og jörð.

 

 

Önnur mestu náttúruspjöll um okkar daga tel ég vera smíði húsalengjunnar við Kleppsveg, þar sem byrgt er fyrir útsýn yfir sundin blá. Þar hafa að vísu ekki verið unnin spjöll á náttúrunni sjálfri, heldur útsýninu. Þar hefur orðið sjónmengun. Þótt listaverk Sigurjóns prýði húsalengjuna er sjónmengunin með þeim hætti að til vanza hefur verið. Á þetta minnist aldrei nokkur maður og sýnir það kannski betur en margt annað þann tvískinnung sem hefur viljað loða við mengunarummræður hér á landi. Slík afstaða styður ekki kröfuna um siðmenningarleg gæði og góðar umgengnisvenjur.

Ég reikna með því að ég hafi sjálfur átt minn þátt í þessum tvískinnungi án þess ég hafi látið mikið að mér kveða í þessum umræðum, en sem ritstjóri blaðs allra landsmanna verð ég að axla mína ábyrgð, ekki síður en aðrir. En dagblað getur ekki snúizt gegn öllum framkvæmdum sem til gagns mega koma og mér er nær að halda að til þess sé ætlazt að slíkur miðill sé fremur hvetjandi, þegar lífsbaráttan er annars vegar.

Það var sagt eftir einskonar könnunarferð á Kárahnjúka og Snæfellssvæðið að ritstjórinn hefði lagt upp í þessa hálendisferð, en skáldið komið til baka. Þetta má til sanns vegar færa. Togstreitan var a.m.k. mikil og þótt ritstjórinn hafi verið allur uppá framkvæmdirnar var niðurstaða skáldsins einnig með sínum hætti. Hún birtist í síðustu ljóðabók minni, Ættjarðarljóð á atómöld , og þá einkum í tveimur ljóðum sem heita Í sárum og Við Snæfell, þar sem talað er um risann sem gnæfir yfir umhverfið

 

...og horfir

yfir gæsabyggðina

 

óttast ekkert

allra sízt

 

fuglahræður.

 

5.

Ég hef minnzt á siðmenningarleg gæði, einnig nauðsyn þess að muna. Óþjóð man helzt ekki neitt stundinni lengur. Hún hefur lítinn sem engan áhuga á ræktun, hirðir ekki um arfleifðina, sækir ekki í sameiginlegan sjóð kynslóðanna; minningin er henni lítils eða einskis virði. Óþjóð horfir ekki um öxl, heyrir aldrei hvíslandi nið kynslóðanna; hlerar ekki skáldskap tímans. Ruglar saman ræktun, þjóðlegum metnaði og þjóðrembingi.

Brezki listfræðingurinn Kenneth Clark segir m.a. um siðmenninguna í Civilation að brezka skáldið Wordsworth hafi verið fyrsti náttúrudýrkandi brezkrar ljóðlistar, en fram að því hafi flest fjallað um hallir , kristni og inniveru. Clark viðurkennir að víkingar hafi átt sína menningu, en spyr: Áttu þeir siðmenningu? Hann svarar því neitandi. Siðmenning sé fólgin í því að maður eigi heima einhvers staðar í tíma og rúmi; að maður geti horft fram á veginn og einnig um öxl. Að maður kunni að lesa og skrifa.

Samkvæmt þessari skilgreiningu eru margir nú um stundir án siðmenningar. Þeir lifa eins og víkingar. Þeir lifa eins og flökkudýr sem eiga sér hvorki stund né stað.

Og þeir hyggja á strandhögg-en vita ekki hvar!

Þeir eru eins og fólkið sem Steinn var að lýsa í samtölum okkar: Það er á leið í kaupstað, en það er löngu búið að gleyma hvað það ætlaði að kaupa! Eða á nútímamáli - það ætlar í Kringluna, eða til verðbréfasalans. Það ætlar að gera góð kaup.

 

Mér sýnist þetta allt íhugunarefni og jafnvel harla mikilvægt til umhugsunar. Samkvæmt þessu hættum við að vera siðmenningarlegt samfélag á þeirri stundu sem við gleymum fortíð okkar, eða leggjum ekki eyru við þeim hvíslandi verðmætum sem fylgja okkur eins og áminning. Sagan er slíkt hvísl. Og af þeim sökum, ekki sízt, er hún mikilvæg. Af þeim sökum, ekki sízt, er mikilvægt að leggja rækt við hana, draga af henni ályktanir. Læra af henni. En umfram allt varðveita þau verðmæti sem tíminn hefur lagt okkur upp í hendur. Glata þeim ekki; glopra þeim ekki niður. Við varðveitum ættir okkar, það er í tízku, jafnvel til að eignast betra og umfram allt heilbrigðara líf við þær aðstæður sem bíða niðja okkar. Hví skyldum við þá ekki leggja rækt við annað jafn mikilvægt, arfleiðina? Það sem gerir okkur að sérstæðri þjóð, tunguna? Og hví skyldum við þá ekki grafa til þeirra verðmæta sem liggja í lítt könnuðum sálmahandritum. Þar heyrum við hvísl úr þjóðarsálinni, eða ættum við heldur að segja, kvikunni? Þar getum við grafið til dýrrar listar sem á rætur við þjóðarkvikuna. Þjóð sem leggur áherzlu á slíkt er ekki óþjóð, heldur stoltaralegt samfélag sem gengur fram í metnaði og af þjóðræktarlegri reisn, en engum þjóðernissinnuðum rembingi sem er allt annað og ekki á dagskrá hér.

 

Sr. Bjarni Þorsteinsson skrifar athyglisverðan inngang að sínu umfangsmikla riti, Íslenzk þjóðlög, og kennir þar margra grasa um þjóðlega menningu sem vert er að gefa gaum að. "...og því frekar sem lagið getur kallazt sannarlega "ekta", þess meira virði er það fyrir þjóðina, að hafa varðveitt það og eiga það, jafnvel án tillits til þess, hvort lagið er - sem kallað er - fallegt eða ekki... En sérhver þjóð setur þó sinn einkennilega blæ á sín þjóðlög, og það höfum vér einnig gjört."

Það á einnig við um þjóðkvæði og þjóðsögur, sem hingað hafa flutzt snemma á öldum, eins og sr. Bjarni bendir á, "og vér nú köllum vora eign". Þessi verk segir hann hafa verið lengi alkunn um allt Ísland "og þau hafa bæði við útlegginguna og meðferðina fengið á sig svo þjóðlegt snið, að vér teljum þau algerlega vora eign, og það fyrir æfa löngu".

 

Allt verður þetta svo hinn raunverulegi þjóðarauður, ásamt því sem hér á rætur og upphaf. Að þessum rótum hefur þjóðin hlúð. Og hún hefur umgengizt afleifðina eins og um fjöregg væri að ræða, arfleifð sem ekki má glopra niður. En við höfum ævinlega unnið úr erlendu hráefni, enda var það í farteskinu, þegar frumbyggjarnir lögðu leið sína út hingað; sagnir og eddukvæði og önnur arfleifð til minnis. Áherzla lögð á að muna, hverjir þar voru á ferð. Þessi minning var fyrst bundin við tunguna, munnlegar frásagnir, síðan skinn og kálfsblóð.

Hún var sá þjóðarauður sem fleytti okkur gegnum myrkar aldir.

 

 

Í inngangi Íslenzkra þjóðlaga er þess einnig getið með táknrænum hætti, hvernig Íslendingar hafa unnið úr menningargeymd sinni, en það virðist vera ein helzta forsenda þeirrar andlegu reisnar sem fylgt hefur bókmenntum okkar gegnum tíðina.

Sr. Bjarni segir: "En nú eru menn þó farnir að sjá það í öðrum löndum, hvílík uppspretta fyrir tónskáldin er fólgin einmitt í þjóðlögunum; og þar þykir það nú orðið kostur á sérhverri lagasmíð, smárri sem stórri, að hún sé byggð á þjóðlegum grundvelli; ekki þannig að tekin séu heil eða hálf þjóðlög, eða minni hlutar þeirra, og fléttaðir inní hin nýju söngverk; ekki þannig að eitt þjóðlag sé tekið, því vikið dálítið við, og búið til úr því nýtt þjóðlag; ekki þannig, að maður þekki neitt ákveðið þjóðlag í hinu nýja söngverki; - heldur þannig, að hið nýja söngverk hafi á sér reglulega þjóðlegan blæ, að tónskáldið hafi "lifað sig inn í" anda þjóðlaganna og einmitt fyrir það geti látið hið nýja söngverk sverja sig í ættina til síns eigin föðurlands og sinnar eigin þjóðar. Í þessu efni eiga hin íslenzku tónskáld komandi tíðar mikið verkefni fyrir höndum".

 

Þegar ég hugsa um þetta dettur mér í hug lítil hefð sem nú er orðin arfleifð, ávarp fjallkonunnar 17. júní. Ástæðan er sú að ég hef átt þó nokkurn þátt í þessu fyrirbrigði og tel mér heiður að því ekki sízt vegna þess að hér er um sérstæða íslenzka hefð að ræða. Þótt hún stingi nokkuð í stúf við óljóðvænt umhverfi okkar nú um stundir, svo að notað sé það tungutak sem gildir á þeim þjóðlega býsnavetri sem við erum að basla við, þá er þetta góð áminning um þau verðmæti sem bezt hafa dugað okkur og átt ríkulegan þátt í þjóðareinkennum okkar gegnum tíðina. Þá á ég auðvitað við bókmenningu okkar sem hefur bæði verið harla sérstæð og langseig. Hún hefur að mestu staðizt tímans umrót og raunar heldur hallærislegt öfugmæli að þola ekki eitt slíkt ávarp í sviptivindum popps og pönkara sem hafa leikið hlutverk lúpínunnar í íslenzkri náttúru, innflutt og frekt til fjörsins, en stendur ekki undir sínum bláu fyrirheitum, a.m.k. ekki til langframa. Hún er samt ágæt, lúpínan, til síns brúks og kannski nauðsynlegur innfluttur lággróður til að ýta undir einkennameiri íslenzkan birkivöxt í hrjóstrugu umhverfi. Ávarp fjallkonunnar leiðir hugann langt aftur í aldir og minnir á málsmenningarhefð okkar og dýrmæta arfleifð. Hún er lítið dæmi um ræktun, lítið dæmi um hvíslandi nið milli kynslóða, áminning um það hver við erum. En þó kannski öllu fremur - hver við erum ekki!

Hvað sem því líður er slík ræktarsemi mikilvæg. Hún leiðir hugann að því sem við erum, eða öllu heldur því sem við viljum vera; a.m.k. á hátíðlegum stundum. Hún er krafa um að muna, en það er ein helzta forsenda siðmenningarlegra gæða.  Óþjóð man ekki stundinni lengur hver hún er. Orðið á ekkert skylt við óljóð sem Jóhannes úr Kötlum notaði til að minna á að hægt væri að yrkja á íslenzku án stuðla og höfuðstafa. En það er ekki verra að nota þá; minna þannig á sérstöðu okkar, einkenni okkar; og hvíslandi niðinn.

Þegar ég hugsa um þessa geymd dettur mér í hug sú gleymskutilhneiging sem birtist í skáldsögu Salmans Rushdie,Jörðin undir fótum hennar,en þar segir:”Bombey gleymir sögu sinni við sólsetur,en endurritar hana við sólris”,eins og sögumaður,ljósmyndarinn Raj,kemst að orði.

Sem sagt, fortíð og framtíð mætast í sjálfheldu nútímans, félagslegum framförum til óþurftar.

 

Þessi nýja arfleifð, ávarp fjallkonunnar, er með allt öðrum brag en ef reynt væri að taka upp hirðskáldastellingarnar, svo að dæmi sé nefnt, og gera þær að einskonar uppákomu í samtímanum. Að vísu var gerð tilraun til þess við konungskomuna 1921, en þá var Einar Benediktsson fenginn til að flytja Kristjáni X drápu  á samkomu stúdenta í Iðnó, að viðstöddu skrautklæddu fyrirfólki. Þar vantaði víst ekki sundurgerðina, ekki frekar en nú á dögum. Árni Thorsteinsson tónskáld samdi tónlist og Eggert Stefánsson söng.

Einar flutti konungi sjálfur drápuna, en viðbrögð hins síðarnefnda voru fálæti. Skáldið fékk engan gullhring á spjóðsoddi fyrir kvæðið, heldur rétti konungur honum höndina lauslega, sneri sér að Eggert og átti dágott samtal við hann.

Skáldinu þótti sér misboðið og hóf síðar baráttu gegn nýlendustefnu Dana á Grænlandi! Líklega hefur konungur ekkert botnað í því heldur!

 

Af samtímafrásögnum og ævisögu Einars eftir Guðjón Friðriksson virðast þessi skrípalæti hafa verið hinn mesti farsi og kannski sá fáránlegasti sem sýndur hefur verið í Iðnó - og er þá mikið sagt! Slíkt á ekkert skylt við varðveizlu eða endurnýtingu gamalla verðmæta. Né virðingu fyrir mikilvægri arfleifð. Gamlar lummur verða ekki endurnýttar, allra sízt ef þær verða að hégómlegum eða hlægilegum klissjum.

Hirðskáldskapur átti sinn tíma, enda skyldu konungarnir það sem íslenzk skáld fluttu. En það þýðir ekki lengur að bjóða fólki upp á kjólföt og stóra svarta slá, sem krækt er saman með silfurspennum og fóðruð með gráu silki! Nei, slíkt minnir fremur á Odd á Skaganum en samtímaveruleika. Og því dæmt til að mistakast.

 

Hitt er svo annað mál að Einar Benediktsson orti tvö kvæði við þessa konungskomu og í Kveðjunni  til Kristjáns konungs hittir hann ómeðvitað í andanum á kjarna þess sem skapað hefur íslenzka þjóð, en í upphafi 3ja erindis segir:

 

Þú leizt á, hvað þrautseiga þolið hér geymdi,

hvað þjóðin hér mundi,er heimurinn gleymdi...

 

Við höfum sótt áhrif og andagift í allar áttir og ævinlega unnið úr þessu hráefni, breytt því í íslenzkan veruleika. Við höfum verið eins og laxinn sem leitar á fjarlægar slóðir, étur skeldýr og kemur aftur í gömlu árnar, ekki sem skeldýr heldur lax. Við ættum að halda áfram að taka hann okkur til fyrirmyndar. Mér er nær að halda við höfum gert það hingað til með bærilegum árangri og ef ég væri spurður um, hvort óþjóðin sé á næstu grösum í rótleysi samtímans, mundi ég hiklaust segja: Það er lax í ánni!

Meðan svo er höfum við ekki brugðist þeim skyldum sem framtíðin hefur lagt okkur á herðar.Tröllkonur kasta fjöreggi á milli sín segir í þjóðsögunni um Hlyna kóngsson. En við ættum að geta varðveitt það nú sem fyrr án þess glutra því niður. Það væri mikil ógæfa úr því sem komið er. Tilefnislaus og skammarleg.

En það er líklega alvarlegri áminning en maður gæti haldið í fljótu bragði þegar Bjarni Thorarensen bendir okkur á að lasta ekki laxinn

 

sem leitar móti

straumi sterklega

og stiklar fossa.

 

Mundi hann ekki vera að brýna okkur og vara okkur við þeim hættum sem hann nefnir í stórbrotnu kvæði sínu, Íslandi. Kannski hann hafi upplifað það eins og við að ungu fólki hættir til að gleyma. Það gengst oftar en ekki upp við tízku og tildri.

 

 

Í Svo kvað Tómas segir á einum stað: "Ljóð eru minning þess sem var". Þau eru sem sagt vitnisburður um þá ræktun sem ég hef drepið á. Ljóð geta þá ekki síður verið vitnisburður um þjóðlega ræktun og mikilvæg verðmæti. Ljóð geta speglað þá skugga sem framtíðin kastar inn í nútímann, svo að vitnað sé í Tómas. Þannig er  list sem er nógu góð til að lifa af í senn fortíð sem vitjar nútímans og lifir í honum og nútími sem tengist framtíðinni órjúfandi böndum. Þegar þjóð á engan slíkan vitnisburð eða hættir að rækta hann og einblínir á stundleg gæði og gróðavon er óþjóðin á næsta leiti

.

Öll mikilvæg verðmæti eru hólmganga við tímann. Og tortíminguna. Sú þjóð sem gerir sér grein fyrir því er á réttri leið. Hún er ekki á villigötum.

Eru Íslendingar slík þjóð?

Mér er nær að halda að svo sé. Hún er ekki gróf eins og Auden sagði í frægu kvæði, ekki enn!

Það var þannig engin tilviljun að Tómas var beðinn um að yrkja þjóðhátíðarkvæðið 1974. Nú þykir slíkt ekki lengur nauðsynlegt. En það er samt uppörvandi að ávarp fjallkonunnar má rekja til skáldskapar Eggerts Ólafssonar og Jónasar og svo skáldskapar Tómasar.eftir lýðveldistöku. Og meðan sú minning er í heiðri höfð er okkur allvel borgið, hvað sem öðru líður.

Tökum annað dæmi, nærtækt:mundi okkur ekki vera allvel borgið meðan Yggdrasill er heiti á verzlun með lífrænt  ræktaðar afurði? Hún er við Frakkastíg og stingur engan veginn í stúf við umhverfið að öðru leyti.

 

En erum við byrjuð að gleyma? Eða á það við okkur nú sem Tómas sagði í samtölum okkar: Við deyjum dálítið á hverjum degi, eða þangað til við deyjum. Þá hættum við að deyja!

Ætli sé komið að því að við hættum að deyja hvað úr hverju?

Spyr sá sem ekki veit.

 

6.

Og þá að tungunni, en ekkert einkenni okkar er mikilvægara en hún. Íslenzk tunga er hvergi töluð annars staðar en hér á landi, ekki svo að orð sé á gerandi. Og hér hefur hún varðveitzt. Annars staðar hefur hún glatazt. Hún er þannig öðru fremur vitnisburður um málsmenningararfleifð okkar, ræktarsemi; hirðusemi. Hún ber þjóðlegum metnaði vitni. Í henni, ekki sízt, er fólgin reisn okkar, ekki sízt vegna þeirra sérstæðu verðmæta sem hún á ein í bókmenntum og bóklegri arfleifð. Það eru mikil forréttindi að eiga hana og varðveita.

Þetta segi ég þrátt fyrir að mér sé vel ljóst að skáld eða rithöfundur væri betur í sveit settur, ef hann skrifaði á eitthvert alþjóðamál, t.a.m. ensku, spænsku eða rússnesku. Ég tala nú ekki um mandarínsku!

Þess má þá geta að Kínverjar eiga 25oo ára gamla ljóðlist sem varðveitt er á mandarísku.Allt menntað fólk getur lesið þessi ljóð enn í dag.Fyrimynd sem við ættum að tileinka okkur-eða mundi slíkt ekki geta verið okkur hvatning;uppörvun? Í Kína eru talaðar margvíslegar mállýskur,en bókleg arfleifð,ekki sízt ljóðlistin,  er einskonar sameiningartákn-og þá ekki síður ómetanlegur fjársjóður..

 

Íslenzka veitir ekki neina heimsfrægð. Allt tal um slíkt er út í hött. Allt það bezta sem hefur verið skrifað á íslenzka tungu er í raun óþýðanleg - eða hvað um verk Þórrbergs og helztu skáldverk Hagalíns. Og ljóð Einars Benediktssonar, óþýðanleg? En það eykur mikilvægi varðveizlunnar. Fyrst engir aðrir en við geta notið tungunnar til fulls, er okkur mikil ábyrgð á herðar lögð. Okkur ber raunar skylda til þess, úr því sem komið er, að glopra ekki niður þessari einstæðu áskorun; glopra ekki niður þessum einstæða vitnisburði um afrek þjóðarinnar og einkenni. Við ættum að hafa öll tök á að rækta þessa geymd og mér er nær að halda það sé almennur vilji til þess. En þá þarf að taka á, bíta á jaxlinn.

Íslenskan er jafn erfitt viðfangsefni og það er brýnt. Og mikilvægt. Við verðum að laga hana að nýjum tíma eins og ávallt hefur verið gert. Til þess þarf víðsýni og þor; þolgæði. Ef við værum orðin óþjóð, hefðum við engar áhyggjur af tungunni; né neinni annarri arfleifð. Þá hefðum við það eins og Óli Maggadon,  hann sagði einfaldlega: Lago -, eins og góði dátinn Sveik , og allt fór í bendu!

Sakleysingjar vita aldei hvað þeir gera. En þegar þjóðir lenda í svipuðum sporum, að þær vita hvorki, hvað þær gera né hafa áhyggjur af því eða vilja til að taka á og mæta áskorun, er sjálfur lífsháskinn á næstu grösum. En leiðtogar þjóðanna eru því miður ekki alltaf neinir jónarsigurðssynir, engir siðmenningarlegir gótusóparar sem verja umhverfið ágangi. Þeir eru fína fólkið og oftar en ekki í gíslingu fjöldans. Eigum við eftir að verða fórnardýr þessarar nafnlausu óræktuðu mergðar sem sækir alltaf í þann breiða veg óþjóðarinnar, hunzar ræktun af því hún veit ekki hvað ræktarsemi er, hunzar geymd og verðmæti af því hún hefur ekki hugmynd um hvað geymd er, heyrir ekkert hvísl, heyrir engan nið aldanna og heldur að arfleifð og einkenni þjóðar séu síðasta myndbandið á leigunni.? Þekkir engin siðmenningarleg gæði.

Vonandi ekki.

Vonandi verður einhver metnaður það aðhald sem úrslitum ræður, eins og alltaf hefur verið á Íslandi. Það er alþýða landsins sem skilaði okkur arfleifðinni, ekki endilega fínt fólk sem veltist um í dönsku hrognamáli reykvískrar niðurlægingar á sínum tíma og týndi áttum í viðskiptum sínum við kóng og Kaupinhafn.

Einar Benediktsson sagði einhverju sinni: "Orðin koma sjálf upp í fangið á mér. Tungan er svo auðug. Það er ekki vandi að yrkja á íslenska tungu enda er hún það eina, sem við eigum eða munum eignast, sem máli skiptir. Og það megum við þakka - að málið glataðist ekki - húsgangskörlunum sem fóru milli bæja, lúsugir, hungraðir og hálfnaktir, með rímur og þulur sem þeir kváðu fyrir fólkið á bæjunum."

 

Og Borges sagði í samtölum okkar: "Norrænir menn skópu heimsmenningu, sem er einsdæmi. Þess vegna er ég kominn hingað. Ég er þakklátur fyrir að vera hér. Ég mun aldrei gleyma þessu landi. Að þessi draumur skuli hafa rætzt! Ég hlusta á fólkið tala íslenzku. Ég heyri sama málið og forfeður þess, sem ég dái, töluðu sín á milli. Kannski með svolítið öðrum brag. Ég hef mínar hugmyndir um það, en samt sem áður lifir þessi tunga hér. Hvernig eigum við að þakka ykkur fyrir að hafa varðveitt þssar bókmenntir, þessa sögu og þessa tungu? Ég gerði mér fljótlega ljóst að blómi germanskrar menningar er varðveittur hér. Norræn menning er kóróna hennar."

 

Sem betur fer voru þeir einnig margir sem áttuðu sig. Jón Sigurðsson sagði að ekki væri unnt að skilja að sjálfstæðisbaráttuna og rétt tungunnar. Hélt því fram klippt og skorið að Íslendingar gætu ekki né þyrftu að taka alvarlega þau lög sem einungis væru skráð á dönsku. Þessir menn sögðu ekki Lago, heldur Hingað og ekki lengra! Þess vegna lifðum við umrótið af, þegar brestur kom í einangrunarhleðsluna. Annars værum við óþjóð hrognamálsins sem skaut rótum í Reykjavík á síðustu öld. En prentsmiðjudanskan dó drottni sínum, sem betur fer; ekki vegna þess hún hætti að deyja, heldur vegna þess hún gat ekki lifað. Hafði grunnar rætur arfans og náði ekki að næringarkjarnanum.

 

Latína var heimsmál langt inn í myrkar aldir og raunar með ólíkindum að hún skyldi ekki lifa af ásókn tímans. Frá Ænesar-kviðu Virgils og fram eftir öllum öldum var latína alls ráðandi heimsmál á Vesturlöndum og fóstraði þau siðmenningarlegu gæði sem úrslitum ráða; latína var sem sagt alþjóðamál miðalda. En það dugði ekki til. Hún var orðin jafn lúin og heimsveldið sem var viðfangsefni hennar, þegar það var komið að fótum fram.Og af einhverjum ástæðum var hún rótfúnari en mandaríska Samt voru öll mikilvægustu rit heimsins skrifuð á latínu og varðveitt í þessum sígilda búningi.

Það hefði því ekkert átt að geta hróflað við latínunni, ekki fremur en rómverska heimsveldinu. Hún var töluð á Spáni og Ítalíu, í Frakklandi, Rúmeníu og Portúgal og víðar, samt veslast hún upp og deyr á vörum fólksins.

Hún var kröfuhörð um framburð og málfræðin ströng og rökvís. Rétt eins og íslenzkan.

En smám saman hættir fólk að nenna að bera hana fram og hún breytist með tímanum í mállýzkur svipað og skandnavísku málin; portúgölsku, rúmönsku, frönsku, spænsku og síðast, en ekki sízt, ítölsku. Þá er komið langt fram á miðaldir. Enn er þessi forni arfur þó á tungu fólksins á Ítalíu, en ítalskan nær yfirhöndinni hægt og sígandi, hvað sem Virgil og öðrum snillingum líður. Og loks vinnur hún sína stóru sigra í verkum Dantes, Petrarka og Bokatsio. Latneska deyr á vörum fólksins og ítalska tekur við, þessi nýja hljómmikla tunga sem lifað hefur til okkar daga.

 

Þetta voru eins konar myndhvörf; fiðrildið óx úr púpunni og skildi maðkinn eftir.

Og svo er forsjóninni fyrir að þakka að fiðrildið flaug inn í framtíðina. En fyrra myndgervi latneskrar hámenningar dó á vörum fólksins sem hafði nægan annan lífsháska að glíma við en varðveizlu gamals tungumáls. Allt gerðist þetta eins og í andrá, samt var aðdragandinn langur og tvísýnn eins og tíminn.

 

Með allt þetta í huga er meira en lítil ástæða til að hafa áhyggjur af íslenzkunni. Hvers vegna skyldi hún lifa af fyrst latínan, heimsmálið mikla og útbreidda, hið rökvísa mál kristni og kirkju, dó á vörum fólksins - og þá líklega einna helzt vegna þess að málfræðin og framburðurinn kröfðust þolinmæði sem mergðin, áhyggjulaus um hefð og arfleifð, á ekki til á slíkum vegamótum. Einungis fáeinir svartmunkar í steingerðu umhverfi lokaðra klaustra.

 

Ekki alls fyrir löngu var sagt við mig að íslingar mættu taka sig taki. Ég hrökk við. Íslingur, hvað var það? Og ég fór að hugsa um málið. Og þá varð það augljóst að íslingar eru Íslendingar þegar framburðarþolinmæðina brestur! Og ég hugsaði með mér, Þetta er bara byrjunin. Svo kemur hitt á eftir.

 

Og hvað svo?

 

7.

Þurfum við að hafa áhyggjur af tungunni?

 

Í harla athyglisverðri bók David Crystals, Language death, sem prentuð var árið 2000, fjallar hann um dauða tungumála og segir að samkvæmt Ethnology, febrúar 1999, sé gert ráð fyrir því að enn séu lifandi á sjöunda þúsund tungumála víðsvegar um jörðina en augljóst það séu aðeins nokkrar fjölmennustu þjóðir heims sem noti helztu tungumálin;af sex milljörðum manna á jörðinni 1999 eru átta móðurmál töluð af yfir hundrað milljónum manna, en alls tala 2,4 milljarðar þessi átta tungumál. Um helmingur jarðarbúa talar tuttugu tungumál. Þannig tala 96% jarðarbúa aðeins 4% allra þeirra tungumála sem töluð eru. Færri en þúsund manns tala fjórðung tungna og færri en tíu þúsund meira en helming þeirra.

Íslenzka er töluð af tæplega þrjú hundruð þúsund hræðum og er í flokki 795 tungumála sem eitthundrað þúsund til milljón manns í heiminum tala, eða 13,1 prósent. Færri en tíu þúsund manns tala einhverja þeirra fimm þúsund tungna sem þá eru eftir,. Höfundur segir að um sé að ræða fjögur þúsund tungumál í útrýmingarhættu, ef gert sé ráð fyrir því, að þær tungur hverfi sem færri en tuttugu þúsund manns tali. Þegar útttektin var gerð talaði aðeins einn maður fimmtíu og eitt þessara tungumála.

 

Eins og af þessu sést telur höfundur íslenzkuna ekki í hættu vegna þess fjölda sem talar hana, þótt hitt sé augljóst að ýmislegt annað getur komið til, þegar tungumál deyja út, eins og við höfum séð, bæði í Grikklandi og á Ítalíu. Tungan deyr hægt út, segir Crystal, og af þeim sökum gerir samfélagið sér ekki grein fyrir hættunni og þá venjulega of seint.

Einangrun er góð vörn eins og við þekkjum, en hún er ekki lengur fyrir hendi í  þeim heimi sem við nú byggjum.

Unnt er að ná góðum árangri og viðhalda tungumáli með aðstoð fjölmiðla, ekki sízt ljósvaka, og bendir Crystal á að welskan hafi t.a.m. hresstst við með þeim hætti.

 

Við erum að því leyti vel á vegi stödd, bæði hvað varðar útvarp og sjónvarp, og því deginum ljósara, hve mikilvæg þessi tæki eru í málsmenningarlegri lífsbaráttu okkar sem jaðrar nú - að ég hygg - við lífsháska - og þá ekki síður mikilvægt, hvernig þau eru notuð. Í þessum fjölmiðlum þarf íslenzkan að vera hátt á hrygginn reist og má ekki láta undan síga í varnarbaráttunni. Enginn vafi er þó á því að enskan leikur lausum hala í sjónvörpum, þótt hitt sé mikilvægast að þar eru barnaefni, fréttir og samtalsþættir ýmiskonar á ylhýra málinu. Það var fyrst og síðast metnaðarmál þegar keflavíkursjónvarpið var að skjóta rótum, að við eignuðumst innlent sjónvarp og enginn vafi á því að kanasjónvarpið flýtti fyrir þeirri þróun, líklega um mörg ár. En mikið af því sem íslenzkar sjónvarpsstöðvar flytja nú er svipað eða samskonar efni og tíðkaðist í keflavíkursjónvarpinu. Að því leyti hefur metnaði okkar ekki verið fullnægt, nema síður sé.

Nú getum við náð í fjölda erlendra stöðva og er það raunar í nokkru samræmi við tengsl okkar við samtímamenningu erlenda á öllum tímum. En fyrir bragðið þyrftu okkar stöðvar að vera sterkari en raun ber vitni. Það þætti nokkuð hjákátlegt, ef hluti af efni Morgunblaðsins, Fréttablaðsins eða DV væri á ensku, samt eru tvítyngd blöð víða, t.a.m. í Færeyjum þar sem leyft hefur verið að prédika á dönsku öldum saman. Við þurftum ekki að ganga undir það jarðarmen og átti það áreiðanlega þátt í varðveizlu tungunnar.

Við leyfðum ekki erlendar auglýsingar í Morgunblaðinu, nema íslenzkur texti fylgdi, og ég þykist vita að sá háttur er enn á hafður.

 

Mér er til efs að keflavíkursjónvarpið hafi verið nein þrautaganga málfarslega, þótt það væri eins og sandkorn í auga samtímakvikunnar, ef svo mætti segja, og því nauðsynlegt að íslenzkt sjónvarp tæki við, þótt útlent væri í aðra röndina. Það var þjóðernisleg nauðsyn. Þjóðrækniskvikan þoldi ekki þetta áreiti, metnaðnum var ofboðið. Allt var það gott og blessað, en útbreiðsla kanasjónvarpsins var eins og engisprettufaraldur og því munaði litlu að of seint væri í rassinn gripið, þega menn áttuðu sig. Þjóðarstoltið var á yztu nöf. Þeir sem höfðu kostað til keflavíkursjónvarpsins höfnuðu lokun, ef ekkert kæmi í staðinn.

Íslenzkt sjónvarp var því lausnarorðið.

En var hastarlega vegið að íslenzkri tungu með keflavíkursjónvarpinu? Ef svo hefur verið, þá hefur lítið breytzt í þeim efnum. Þá er hættan svipuð nú og áður var. Við eigum ekki völ á alíslenzkum stöðum. Mikill meirihluti efnis er á erlendum tungum, einkum ensku. Textun efnis er bitamunur en ekki fjár. Talsetning eina leiðin eins og tíðkast með stórþjóðum Evrópu, en þó telja margir að sú lausn sé óþolandi, m.a. vegna þess að gerilsneyddur vestri með John Wayne sé eins og hver annar brandari á vörum þýzks, fransks eða ítalsks leikara.

Við ættum því að hafa sömu áhyggjur af íslenzkum sjónvarpsstöðvum nú eins og keflavíkursjónvarpinu áður, svo efnislíkar sem þær eru kanasjónvarpinu að mörgu leyti og á ég þá að sjálfsögðu við þá flæðandi ensk-amerísku þætti sem einkenna dagskrána öllum stundum. En talsett barnaefni er þó til fyrirmyndar og gæti, ásamt þeim þáttum öðrum sem íslenzkir eru, ráðið úrslitum um þróun tungunnar.

 

Þegar sænska skáldið Olof Lagercrantz, ritstjóri Dagens Nyheter, kom hingað til lands 1965, sagði hann í samtali við Tímann að hann sem ritstjóri stórblaðs hefði "ekki verið fús til að viðurkenna að sjónvarpið hefði mikil áhrif á menninguna. Blaðið og bókin eru þau fjölmiðlunartæki sem ég hef mest álit á."

Ég verð að viðurkenna að viðhorf mitt á þeim tíma var ekki með öllu ósvipað og hefur raunar ekki breytzt frá því Lagercrantz lét þessi ummæli falla. En þar sem hann vitnaði í ummæli mín í þessu Tíma-samtali taldi ég mig knúinn til að skrifa grein um þetta viðkvæma mál og birti hana þetta sama ár í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Sjónvarpsmál - og íslensk menning. Þar reyndi ritstjóri með fjöldann allan af stuðningsfólki keflavíkursjónvarps að áskrifendum Moggans að fóta sig eins og steingeita er siður, en niðurstaðan var auðvitað sú að allir voru óánægðir með greinina, bæði fylgjendur og andstæðingar kanasjónvarpsins. Lausnin var ekki í sjónmáli og allir héldu fast við sitt. Í greininni kom þetta m.a. fram:

 

a) "Varla getur vakað fyrir neinum að knýja fram lausn, eins og þá að loka fyrir keflavíkursjónvarpið, ef sú lausn er þyrnir í augum þúsunda manna, sem telja sér frjálst að nota sjónvarpið sér til skemmtunar og dægrastyttingar."

b) "Íslenzk menning (getur) ekki átt tilveru sína undir slysum eða óhöppum, eins og því þegar sjónvarpinu var dengt inn á innlendan markað augsýnilega að mjög vanhugsuðu máli og einnig: Að það hlýtur að vera sjálfstæðri þjóð prinsippmál, að hún sjálf, að yfirveguðu máli - og engar tilviljanir - ráði því, hvaða sjónvarp eða önnur fjölmiðlunartæki séu alls ráðandi í landi hennar. Þar skilur milli feigs og ófeigs - milli okkar og Ísraelsmanna (sem áttu ekki heldur neitt eigið sjónvarp en reyndu að notast við sjónvarpssendingar arabaríkjanna og óvina sinna þar). ...ekki sé uppbyggilegt til frambúðar að láta keflavíkursjónvarpið keppa við innlend menningarfyrirtæki um okkar þrönga markað."

En hver var niðurstaða greinarinnar?

Hún var íslenzkt sjónvarp. En það var ekki í augsýn. Og flestir töldu að það yrði ekki að veruleika fyrr en að mörgum árum liðnum. Þess vegna m.a. voru allir, að ég held, hundóánægðir með greinina - og niðurstöður hennar, t.a.m. gagnrýndi Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, greinina í samtali okkar, en ég hef eiginlega aldrei skilið af hverju. Hann vann að sjálfsögðu að lausn málsins sem var orðið óþolandi sjálfskaparvíti á þeim tíma.

Og lausnin var íslenzkt sjónvarp.

Þótt ég tæki þessa afstöðu og markaði þannig þá stefnu Morgunblaðsins að íslenzkt sjónvarp væri lausnin, gerði ég mér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því, að það gæti orðið mesta ógnin við blaðið á markaðnum og kveið mjög, þegar að því kom.Reyndi jafnvel að stinga höfðinu í sandinn og líta fram hjá því!

 

En niðurstöður greinarinnar  voru þessar:

 

a) "Ég held því að einasta lausnin á þessu harla vafasama máli sé sú, að stofnað verði til íslenzks sjónvarps sem er sterkara og girnilegra til stundargamans en það varnarliðssjónvarp sem nú er á boðstólum, mikill hluti íslenzkra hlustenda skilur ekki og er síður en svo nein andleg kjarnafæða, þótt maður hafi heyrt raddir í þá átt. Þótt íslenzkt sjónvarp verði kannski ekki fyrst í stað neinn Mímisbrunnur, hef ég trú á því að það eigi fremur auðvelt með að sigra í samkeppninni við keflavíkursjónvarpið."

 

b) "En sem sagt: eina lausnin á þessu máli, sem ég eygi í bili, er sú, að íslenzka sjónvarpið taki við af því bandaríska - og það sem fyrst. Þó þeir sem af fákunnáttu eða klaufaskap leyfðu bandaríska sjónvarpinu að ná til íslenzkra heimila og áttu þar með drjúgan þátt í þeirri sjálfheldu, sem málið er nú hafnað í, hafi ekki gert sér grein fyrir hvimleiðum eftirköstum sjónvarpsstríðsins, er hitt víst, að núverandi ástand, sem ég held að allir séu sammála um að sé óþolandi, sé bezta hvatning til átaka í sjónvarpsmálum okkar, þannig að við fáum eigið sjónvarp mörgum árum áður en ella hefði orðið."

Svo mörg voru þau orð. Og það leið ekki langur tími þar til íslenzkt sjónvarp sá dagsins ljós. Ég held ég halli ekki á nokkurn mann, þótt ég fullyrði, að þáverandi menntamálaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, átti meiri þátt í því en nokkur maður annar að losa okkur við kanasjónvarpið og efna til þess íslenzka sjónvarps sem síðan hefur a.m.k. fullnægt metnaði okkar og þjóðarstolti.

 

En hefur metnaði okkar verið fullnægt að öllu leyti? Og er tungunni borgið? Um það má endalaust deila. En meðan þetta viðkvæma efni kallar á umræður, er okkur sæmilega borgið; þ.e. meðan við velkjumst í vafa um ábyrgð okkar og framtíðarsýn og okkur er ekki sama um hvað verður.

 

8.

Í fyrrnefndu riti Crystals er vitnað í orð Michael Karuss þess efnis, að á þessari öld verði nítíu prósent núlifandi tungumála annaðhvort dauð eða á síðasta snúningi. Foundation for Endangered Languages er sömu skoðunar: Meirihluti tungumála er í útrýmingarhættu og meira en helmingur tungumála ber dauðann í sér vegna þess að þeir sem eiga að skila arfleifðinni til næstu kynslóðar eru ekki nægilega í stakk búnir til þess.

Á þetta við um okkar tungu?

Að sjálfsögðu ekki. Það verða aðrir þættir - og ekki víst við þekkjum þá alla - að koma til, ef svo hörmulega færi fyrir ylhýra málinu.

 

En af hverju ætti okkur ekki að vera sama? Ástæðurnar eru margar og við þekkjum þær flestar. Ræktun og samhengi menningar, arfleifðin. Íslendingasagnalausir Íslingar væru eins og hver önnur skrýtla. Slík þjóð hefði ekki fengið fiskveiðilögsöguna, ekki handritin og sízt af öllu þá virðingu sem hún nýtur - þrátt fyrir allt. Við erum ekki orðin vulger eða gróf óþjóð eins og Auden sagði. En af raunsæi sem hljómar eins og áskorun bætti hann við: ...ekki enn!

 

Íslingarnir þyrftu ekki endilega að búa á gamla Fróni, þeir gætu komið sér fyrir á alþjóðamarkaðnum við Wall Street, einkennalausir áður en yfir lyki.

 

Ekkert einkenni er eins sterkt og jafn mikið sameiningartákn og þjóðtungan. Þannig er ekkert sameiginingartákn jafn áhrifamikið. Það er auk þess aðalsmerki ræktaðrar þjóðar að muna. Geyma það sem hún á, rækta það og skila því til framtíðar. Ekki eins og hverjum öðrum arfa, heldur fagurlega ræktuðum bletti. Við ættum að hafa öll tök á því, svo sterkur sem bakhjarlinn er. Við ráðum okkur sjálf. Við getum sjálf stungið út kóssinn. Við þurfum engin fyrirmæli að utan. Það hefur engin Brussel tekið við af Kaupinhafn. Siðmenningalegu gæðin eru í höndum okkar sjálfra.

 

Blæbrigði tungumáls verða ekki þýdd. Íslenzkan er einhvers konar Graal sem enginn getur eignazt, nema við. Sérhvert tungumál er musteri, segir Oliver Wendell Holmes, þar sem sál þeirra sem tunguna tala er varðveitt. Crystal spyr hvar enskan væri án Shakespears og annarra meistara hennar. Við getum spurt hvað íslenzkan væri án Snorra og Guðbrands byskups. Snorri lifir án norskunnar, en Norðmenn eru rótlausir án hans. Samt skilja þeir hann ekki, ekki blæbrigðin. Þau hafa farið forgörðum í þýðingunni. Út vil ek merkir annað í eyrum Íslendings en Norðmanns. En í eyrum Íslings mun það ekkert merkja.

 

Crystal varpar fram þessari spurningu: Hví ætti okkur ekki að vera sama, þótt tungumál deyi. Og hann svarar með welskum málshætti: Cenedl heb iaith, cenedl heb galon; það merkir: Tungulaus þjóð er hjartalaus þjóð.

 

Crystal bendir á að ekkert í umhverfi okkar varðveitist eins vel og í tungumálinu og nefnir dæmi þess. Tvær plöntur sem allir héldu að væru eins voru það ekki, þegar nánar var skoðað, þær voru með sitt hvoru laginu, sem tungan varðveitti. Það kom í ljós þegar frumtunga íbúanna var könnuð. Þá sýndi hún framá einkenni sem öllum hafði sést yfir en varðveittust í blæbrigðum málsins.

 

Crystal segir að tungumálið sameini allt, tengi arfleifð, reynslu og þekkingu við umhverfið og dreifi vitneskjunni um samfélagið. Tómas Mann hefur sagt að arfleifð sé menning. En við þurfum á að halda tungunni - og þá ekki sízt blæbrigðum hennar - til að vita, hver þessi menning er. Það eru ekki allir eins heppnir og Norðmenn að eiga Íslendinga að til að varðveita annars glataða þætti þjóðarsögunnar; enda liggja þeir ekki á því, a.m.k. ekki á hátíðlegum stundum. Og ásókn þeirra í ýmislegt það sem íslenzkt er ætti að vera okkur fremur fagnaðarefni en einhvers konar hráefni í innanbúðarkarp. Slíkt áreiti ætti að ýta undir stolt okkar og áskorun.

 

Ef við eigum einhver verðmæti sem hægt er að státa af, þá eru þau á þessum slóðum; tungan og glæsilegur bókmenntaarfur. Einsmenningarumhverfi okkar kallar að vísu á önnur verðmæti, en getum við lifað á þeim til frambúðar? Mundi það fullnægja stolti okkar að pönka inní framtíðina? Nei, slík kaupstaðaferð yrði ekki sú eftirvænting sem við ætluðum framtíðinni.

 

Við kynnumst fólki af tungu þess. Hún geymir andlegan auð þeirra sem nota hana, hefur verið sagt. Og áreiðanlega með réttu. Og þá er ekki úr vegi að minnast orða Ezra Pounds þess efnis, að öll mannleg vizka er ekki fólgin í neinni einni tungu, og engin ein tunga getur lýst allri reynslu mannsins. Það var þannig ekki að ófyrirsynju að Heidegger notaði orðið hús sem myndhvörf um tunguna. Í húsi föður míns eru margar vistarverur, hefur verið sagt af öðru tilefni.

 

Ég hef minnzt á ummæli sr. Bjarna Þorsteinssonar, en þar var fjallað um tónlist, ekki tungumál. Samt á sumt af því sem hann sagði einnig - og ekki síður - við um tungumálið.

En ég er ekki svo skyni skroppinn að ég geri mér ekki grein fyrir því, að fleira er menning en tungan; og þá ekki síður siðmenning. Forsendur menningar og siðmenningar eru þúsundir smáatriða og sum koma tungunni lítið sem ekkert við. Um það er ekki deilt. Við getum nefnt fatnað, húsmuni, fæðu, dans, tæki og tól, hár og útlit, iðnað; listiðnað. Og margt fleira. Það eru þúsundir marglitra steina í þeirri mósaikmynd sem við köllum þjóðfélag; eða samfélag; eða siðmenning. En samt er það svo, eins og bent hefur verið á, að missir tungumáls er einskonar menningarlegt hjartaslag. "En menn geta lifað af hjartaslag; og það getur menningin einnig", segir Crystal í fyrrnefndu riti sínu. Og hann bætir við að nýtt tungumál getur komið í stað hins gamla, eins og við þekkjum frá Norðurlöndum, Spáni og Portúgal svo að við nefnum umhverfi tveggja þeirra heimstungna sem flestir tala, en spænska og portúgalska eru ekki einungis framhald latínu, heldur einnig - og ekki síður - ný tungumál. En Crystal bætir við að margt fari forgörðum í þessu umróti. Nýja tungan geti ekki skilað sömu andagift, sagnalist og orðaleikjum og gamla tungan, áhrifamagn stuðla og hrynjandi hverfi, frásagnir fái annan blæ.

Hið sama á sem sagt við í þessu tilfelli og þegar bókmenntum er snarað á aðrar tungur. Þá slitnar silfurþráðurinn oftar en ekki. Af þeim sökum m.a. ættu skáld og rithöfundar á smáþjóðatungu að hafa heldur hægt um sig, eins og dæmin sýna. Þeim fer bezt umhverfi heimahaganna. Þeirra eigin tunga er umgjörð þeirra hugsana sem þeir hafa í hyggju að koma á framfæri við umhverfi sitt. Það tekst að sjálfsögðu oft og einatt að koma hugsunum á framfæri við annað fólk, en sjaldnast blæbrigðum þessara sömu hugsana. Af þeim sökum er öll frægð heldur endaslepp, nema þá helzt heimahagafrægðin. En heimahagafrægð smátungunnar á ekki uppá pallborðið á markaðstorgi alþjóðahyggju og stórþjóða , þótt Ibsen og Kierkegaard hafi komizt gegnum það nálarauga; og kannski nokkrir aðrir, H.C. Andersen, Srindberg?

 

Út vil ek, sagði Snorri. Það var ekki til Noregs, heldur heim. Samt gaf hann Norðmönnum upphaf sitt, sjálfan efniviðinn í sjálfstæðisbaráttuna. Það geta skáld víst ekki lengur, hvað sem frægðinni líður.

 

 

 Áður en ég skil við þetta efni er ástæða til að benda á þá áherzlu sem Crystal leggur á efnahagslegt sjálfstæði sem mikilvægan þátt í varðveizlu tungumála. Að því leyti erum við vel í sveit sett. Það getur enginn krafizt annars af okkur en þess sem við viljum sjálf. Af þeim sökum skulum við ekki gera lítið úr peningahyggjunni sem alltaf er verið að skamma, heldur nota hana til góðra verka - og þá ekki sízt til að varðveita arfleifðina, ég tala nú ekki um tunguna eins og Einar skáld Benediktsson reyndi að innræta okkur með andagift sinni og stóriðjudraumum. Í þeim efnum getum við haft sama-konuna sem fyrirmynd:

Á sameiginlegum fundi sama og noskra embættismanna var einn samanna spurður, hvort hann þyrfti ekki á túlki að halda. Nei, svaraði konan, þess þarf ég ekki. En ég mun tala á samísku, svo að vel getur verið að þið þyrftuð á túlki að halda!

Þetta finnst Crystal góð saga og engin þjóðremba. Stolt og metnaður kemur neikvæðri þjóðrembu ekkert við. Hvorttveggja er einfaldlega einn þáttur arfleifðar, ekki sízt varðveittur í tungunni. En öll viðleitni, öll ræktun á sitt hvetjandi upphaf í hugarfarinu.

 

9. ágúst, fimmtudagur

Hitti Árna Johnsen í dag, ég spurði hvað hann segði nýtt?  Ekkert, sagði hann, þetta er helvítis bræla.

Svo fengum við okkur snarl í Nauthólsvík og röbbuðum saman. Útlitið er slæmt, enda var hann farinn að skammta sér nefndarlaun með þessum sérkennilega og ólöglega hætti, að skrifa sitt eigið góss hjá byggingarnefnd Þjóðleikhússins. Hann segir upphæðin sé eitthvað undir 2 milljónum króna. En það eru áreiðanlega ströng viðurlög við þessu, ekki sízt aðferðinni; fjárdráttur eða umboðssvik, ég veit það ekki. Og kannski enginn enn.

Einhverjar flísar og annað dót hefur bætzt við á syndaregistrinu.

Ég finn hann gæti ekki tekið fangelsisdómi.

En hvað gat ég sagt? 

Meðan við sátum þarna komu Sveinn Eyjólfsson og frú í kvöldmat, heilsuðu Árna innvirðulega og Sveinn sagði, Árni, minn, allir sem þekkja þig standa með þér. Ég sagði það væri hægt að standa með honum, þótt maður þekkti hann ekki!

Það þótti skrítin athugasemd, held ég.

Þetta var dálítið pínleg stund, eða þangað til þau settust að snæðingi. Árna fannst þetta einkennileg og óþægileg tilviljun, að hitta þau þarna; eigendur  þúfunnar sem velti hlassinu - og án allrar miskunnar.

Mér þótti þetta líka óþægilegt.

En það var skárra þegar þau fóru að tala um eignir sínar. þ.á.m.  Kollabúðir við Þorskafjörð.

Já, sagði ég, þarna í næsta nágrenni við sr.  Matthías. Þar var einu sinni sérkennileg gömul kona sem ég sá einhvern tíma eina við heyskap.

Við komum okkur saman um að hún hlyti að vera dáin!

 

Hef lokið við tvö kvæði sem eru viðbót við Örlög og englaryk, setti þau aftast og skil við efnið í kvæðinu Við Gröf. Kvæðið þar á undan orti ég á göngu í Elliðaárskóginum í gær; í blíðskaparveðri.

 

Annars hef ég verið að fara yfir Einar Benediktsson eftir Guðjón Friðriksson. Það er ágætlega skrifuð bók og mjög fróðleg. Notkun höfundar á samtímabréfum er kannski dálítið umhugsunarverð, því að maður hefur ekki alltaf réttu bréfin í höndunum. En bréfin segja samt sína sögu, ég á við:  sína sögu!

 

Skemmtilegust þykir mér lýsingin á því þegar Þorsteinn Gíslason flaug á Einar Benediktsson á einhverjum fundi, en þá hafði sletzt upp á vinskap þeirra, mig minnir út af Dagskrá, en það samstarf fór í vaskinn.

Einar fékk tvö glóðaraugu í áflogunum við Þorstein, því að allt sem snerti hann var helmingi meira en hjá öllum öðrum. Eitt glóðarauga hefði hvergi nærri dugað svo miklu skáldi!  En mér þótti  meiri töggur í Þorsteini,  síðar Moggaritstjóra, en ég hefði haldið. Hann hækkaði því heldur í áliti hjá mér, en það er ekki að marka eins og mér finnst skemmtilegt að horfa á boxkeppnina á Sýn undir stjórn Bubba Mortens. Þorsteinn hefði verið góður á móti Tyson!

En hvað sem því líður, er hann litríkari en ég vissi.

 

Ein bezta setningin í bókinni er  um það að einhver hafi sett kampavínsmiða á edikflösku, önnur er höfð eftir Benedikt frá Auðnum, þegar hann talar um botnvörpu til að veiða í skrílhylli! Þær eru margar slíkar í sjónum á þessum síðustu og verstu tímum!

Benedikt er að verja kaupfélögin fyrir þeim feðgum Benedikt Sveinssyni og Einari Benediktssyni og þá helzt aðför hins síðar nefnda að kaupfélögum í Dagskrá.

En allt fjallar þetta um peninga, rétt eins og nú!

 

Það eru flottar myndir í kvæðinu sem Einar orti á leið til baronsins á Hvítárvöllum í Borgarfirði eitt síðsumarskvöld eftir aldamót, í blæjalogni; Haugaeldi. Fyrsti kaflinn ber af hinum tveimur síðari. Í fimmta erindi hans er dæmigerð draumsýn skáldsins um betri tíð með stórbæ og ljómandi torgum og eimskipum þjótandi til og frá landinu. En mest finnst mér um líkinguna í næsta erindi, hún er óviðjafnanleg og ekki á færi nema stórskálds:

 

Náttúran sjálf er hér góð og gild;

sem glitborð, dúkað með himneskri snilld

breiðir sig engið. Allt býðst eftir vild.

Borðið er þakið með sumarsins réttum.

 

Í  Slútnesi sem Einar orti eftir mikil veikindi í Reykjavík kringum aldamótin , líklega sullaveikiskast, sýnir flestu betur styrk hans sem náttúruskálds, einkum í fjórða og sjöunda erindi:

 

Ilmblóm með kerfi æða og tauga,

sem andvarans mjúku bylgjur lauga!

Blaðvarir hvísla svo hljótt þitt mál.

Ég hallast að bikarsins lifandi skál.

Mér finnst eins og speglist fjötruð sál

í frjóhnappsins daggarauga.

 

Og:

 

Týsfjóla! Krjúp þú með krónuna fríða

og kysstu þá mold, sem þú blómgast á;

þó heimti hún blöðin þín himinblá

af hisminu aftur skal rísa þinn kraftur.

 

Þá þyrfti ég að kanna áhrif Welhavens (Sinfoni) á Dísarhöll Einars, einnig að bera saman hafískvæði hans og sr. Matthíasar, slíkur samanburður hlýtur að sýna muninn og einkenni þeirra.

 

Loks mætti segja að þessi lína í Agli Skallagrímssyni sé betri vitnisburður um góða frjálshyggju en nokkuð annað sem ég þekki:

 

. . að gifta hins stærra er frelsi hins smærra.

 

Mér finnst Guðjón Friðriksson hitta vel á tilvitnanir, það sýnir estetíska smekkvísi. Það eru líka skáldleg tilþrif í þessari ævisögu Einars Benediktssonar og færir hana nær skáldsagnagerð. Í þeim efnum eru greinar Tómasar og Sverris Kristjánssonar líklega einhver fyrirmynd, svo og skrif Jóns Helgasonar á Tímanum. En þetta einstigi er vandratað í sagnfræði, þótt skemmtilegt sé.  

 

 

 

Seinna

Njörður P.  Njarðvík skrifaði ágætlega um kvæði mitt Fögnuður í síðustu Lesbók. Hann skilur það fullkomlega. Það gladdi mig, þótt ég sé ekki að velta mér upp úr svona gömlum hlutum. Hugsa fremur um það sem ég er að gera hverju sinni.

 

FÖGNUÐUR

Hægt koma blómin í heimsókn

hægt eins og þú komir langa

leið eftir hallandi heiði

hvarflir auga til sólar

haldir svo áfram engi

sem anga af vori og grösum,

hægt koma blómin af heiði

og horfa með þér yfir ána

þangað sem fjöllin fylla

fangbreiðan himin af ilmi

og hverfa til sumars og sólar

með sandgráa fjöru í spori,

hægt koma blómin í heimsókn

með heiðar og vötn og lyngið

fyllir augu þín ennþá

ógnlausri stundu sem kemur

með blænum í heimsókn og ber þér

brennandi þrá til lífsins,

þér sem átt aðeins eftir

að eignast þá jörð að vini

sem bíður með bros af sóley

og blikandi dögg á gulum

fífli sem fylgir þér, kveður

og fer svo með öðrum blómum.

(Dagur af degi, 1988.)

 

Miðleitin kallast ljóð sem hverfast um einn efniskjarna, eina hugmynd, í knöppu formi, í hnitmiðuðu máli. Útleitin ljóð eru aftur á móti þannig að ein mynd kviknar af annarri og svo koll af kolli: "Þær hrannast upp og leita skipulags í öðrum og opnari byggingarmáta en hið knappa ljóð hefur" (Óskar Halldórsson). Því er freistandi að kalla þetta ljóð Matthíasar útleitið, en ljóð fylgja ekki alltaf skilgreiningum bókmenntafræðinga. Hin markvissa endurtekning "hægt koma blómin í heimsókn (af heiði)", og reyndar einnig á orðinu heimsókn, kallar hug lesandans aftur til upphafsins og tengir efnisþætti ljóðsins fastar saman en oftast er í útleitnu ljóði.

Ljóðið er þulukennt og mælskuþrungið án málalenginga, og þau áhrif verða sterkari af því að málsgreinar eru ekki aðgreindar með punktum og upphafsstöfum, heldur einungis með fjórum kommum, - líkt og ein samfelld lota. Stuðlasetning er hefðbundin og hrynjandi næsta regluleg, þrír bragliðir í vísuorði (auk forliða sums staðar), þríliður fyrst og tvíliður í lokin, en á milli ýmist þrí- eða tvíliður, - rím ekkert.

Mælandi ljóðsins gerir ekki vart við sig, en ávarpar lesandann þráfaldlega í annarri persónu, laðar hann til fylgdar við sig og lætur hann sjá og skynja sýn sína, og þannig verður "þú" eins konar "ég". Þetta er svona bragð til að gera lesandann að fyrstu persónu ljóðsins. Reyndar getur "þú" ljóðsins allt eins verið þjóðin, íslensk þjóð sem fagnar hinni hverfulu heimsókn gróðurs og sumars.

Ljóðið sýnir einstaklega næma náttúruskynjun skáldsins (sem við þekkjum reyndar úr mörgum öðrum ljóðum Matthíasar) - og um leið lífsfögnuð, eins og lögð er áhersla á með heiti þess. Lykilhugtök virðast mér vera hverfulleiki og ferð sem birtist í heimsókn en það orð undirstrikar einmitt hverfulleikann. Heimsókn er ekki varanleg. Birting blómanna er eins og hæg ferð sem tengist vegferð mannsins. Maður og gróður ferðast saman, blómin horfa með manninum "yfir ána". Streymandi vatn er lífstákn um fram allt og því líta maður og blóm saman það líf sem þau eru hluti af. En það eru ekki einungis maðurinn og blómin sem hreyfast í þessu ljóði, heldur allt. Jafnvel fjöllin. Unaðslega falleg er myndhverfingin af fjöllunum sem "fylla / fangbreiðan himin af ilmi / og hverfa til sumars og sólar / með sandgráa fjöru í spori". Og rétt þykir mér að taka sérstaklega eftir sögninni hverfa, því að allt er hér hverfult um leið og það "ber þér / brennandi þrá til lífsins".

Við vitum mæta vel að allt er hverfult, líka hin íslensku blóm sóley og fífill, sem unglingar Reykjavíkur keppast nú við að slátra sem óðast með drynjandi vélorfum. Vonandi eiga þeir þó eitthvað enn af lífsþránni brennandi, sem skáldið telur að berist okkur eðlilega í "ógnlausri stundu sem kemur / með blænum í heimsókn". Og kemur þá að aðvörun mælandans mitt í lífsfögnuðinum sjálfum: þrátt fyrir dýrmæta heimsókn gróðursins átt þú (ég, við, þjóðin) "eftir / að eignast þá jörð að vini/ sem bíður með bros af sóley". Og hér er ekki úr vegi að gefa sérstakan gaum að sögninni bíður. Með jarðvináttu má gera hverfulleikann að varanleika, - með því að tryggja sífellda endurtekningu hinnar dýrmætu heimsóknar.

Og loks breytist fögnuður þessa næma ljóðs í fögnuð yfir þessu næma ljóði.

Njörður P. Njarðvík.

 

 

Það var bjart í dag og fallegt veður. Horfði yfir Sundin  frá Gufunesi og upp á Kjalarnes

Undurfagurt.

 

Fór að hugsa um Þorkel mána, sonarson Ingólfs, sem óskaði eftir því að hann yrði borinn út í sólskinið á banasænginni , eða í helsótt sinni, eins og Landnáma kemsta að orði: Faðir hans var Þorsteinn Ingólfsson, er lét setja þing á Kjalarnesi, áður en alþingi væri sett. ”Hans son var Þorkell máni lögsögumaður, er einn heiðinna manna á Íslandi hefur bezt verið siðaður. Hann lét bera sig í sólargeisla í helsótt sinni og fal sig á hendi þeim guði, er sólina hefði skapað”.

Þennan mann skil ég fullkomlega. Raunar betur en allar aðrar sögulegar persónur; að láta bera sig út í sólina og deyja inn í slíka birtu, það væri mér að skapi.

 

Hugsaði um þetta í dag og meðan ég sat í Þjóðarbókhlöðunni orti ég smákvæði um þetta. Það var áður en Svanur Kristjánsson prófessor g Óskar Guðmundsson, fyrrum Þjóðviljaritstjóri, komu að fá sér kaffisopa. Svanur fór að tala um að Mogginn hefði klikkað á því að fjalla í leiðara um fjármál Sjálfstæðisflokksins, en ég sagðist aldrei hafa haft neinn áhuga á fjármálum flokkanna, allir vissu þeim væri öllum mútað , svona óbeinlínis og þá með ýmsum hætti. Ég hefði einungis haft áhuga á  stuðningi sovézkra kommúnista við skoðanabræður sína hér heim. Það hefði verið alvarlegt mál.

Svanur söguprófessor sagði þetta væri blettur á Mogga, en ég sé ekki hvaða séráhuga blaðið ætti að hafa á fjármálum Sjálfstæðisflokks og þá frekar en annarra flokka. Þeir gengju hvort eða er allir fyrir alls kyns smurningi. En hitt væri sjálfsagðara en svo að um þyrfti að fjalla , að þeir gerðu grein fyrir fjármálum sínum, rétt eins og t. a. m.  Morgunblað! En þá mundi auðvitað enginn leggja í pólitíska púkkið!

Um það vorum við sammála.

 

En vísan er svona:

 

 Berið mig út í sólina

og söngva vors í grein,

berið mig þangað sem geisli

guðs er fugl við stein,

berið mig út í birtuna

og blessað vorið mitt,

berið mig þangað sem landið unir

við lyngið sitt.

 

Svanur og þeir félagar vissu ekkert af þessari vísnagerð, en vegna góðlátlegra ýfinga okkar varð ekki meira úr vísnagerð þessu sinni! !

 

11. ágúst, fimmtudagur

Stóð á tali við Óskar Guðmundsson og Guðrúnu Eggertsdóttuer í afgreiðslu handritadeildar Þjóðarbókhlöðunnar á leið að hitta Aðalgeir Kristjánsson vin vorn, en hann var farinn af safninu. Guðrún er ágæt kona og ég árita stundum bækur fyrir hana. Hún er dótturdóttir Jónasar frá Hriflu, dóttir Eggerts læknis Steinþórssonar, en ég kynntist honum á sínum tíma á nuddstofu Miksons, sællar minningar.

Sem við stöndum þarna á skrafi kemur Sigurður Þ. Guðjónsson og ég heilsa honum. Hann umhverfist og frábiður sér kveðju mína, spyr hvort ég hafi ekki fengið bréf frá sér og bætir við: höfðingjasleikjan þín!

Þau Óskar og Guðrún urðu undrandi, en ég tók þessu heldur vel, sagði: Er það nú ekki orðið langt síðan. Ég ætlaði að bæta við, Í tölvubréfinu þínu var ekki tekið fram að ég mætti ekki heilsa þér!!, en Sigurður beið ekki boðanna, en hvarf eins og fiskifluga inn í lesstofu safnsins.

 

Ég þurfti náttúrlega að gefa viðmælendum mínum, sem urðu furðu lostnir, einhverja skýringu á framkomu Sigurðar og sagðist halda hún ætti rætur að rekja til leiðara í Morgunblaðinu  eftir kristnitökuhátíð í fyrra þess efnis, hvort ekki væri ástæða til að lofa sr.  Sigurbirni Enarssyni byskupi að vera í friði í sinni háu elli þrátt fyrir sterk ummæli hans um þá sem vógu að hátíðinni.

Í Sturlungu talar Sturla Þórðarson um kirkjuna sem móður og mér er nær að halda að sr. Sigurbjörn hafi tekið upp þykkjuna fyrir þessa sömu móður sína, þegar honum fannst að henni vegið. Með það í huga eru hörð ummæli hans skiljanlegri en ella.

Sigurður hafði kært byskup  til einhverrar siðanefndar kirkjunnar og tók ummæli blaðsins til sín.

Mér hefur alltaf fundizt það ósköp barnalegt. Það er að vísu ekki mitt vandamál, heldur hans. Og nú þarf ég að heilsa einum færri en áður og kann því svo sem ágætlega!

 

Það koma margir skrítnir menn hingað á safnið sagði Guðrún, og svo héldum við áfram samskrafinu eins og ekkert hefði í skorizt. Enda hafði ekkert í skoriz!

 

En þegar ég hugsaði um þetta atvik síðar um daginn minntist ég þess, hvernig ritstjórastarf við Morgunblaðið gat framkallað alls kyns náttúruhamfarir og þá ekki sízt landskjálfta. Aldrei þurfti ég samt áfallahjálp af þeim sökum, enda var skáldið sterkara en margur hélt!

Þetta var einhvers konar eftirskjálfti, kannski eitt stig á Richter í mesta lagi!

En nú þarf ég að fara að biðja fyrir Sigurði eins og öðrum anskotum mínum!!

 

( innskit síðar: Sigurður bað mig afsökunar síðar,rétti mér höndina og sagðist ekki vilja vera óvinur minn,hann óx af því og ég mat það mikils).

 

13. ágúst, mánudagur

Fórum í Skálholt á laugardag, hlustuðum á gregorískan söng; það var fallegt; nærandi. Ferðalag inn í fortíðina. Það hefði ekki liðið yfir mann þótt Páll byskup eða Þorlákur hefðu birzt þarna í kirkjunni.

Veðrið stillt og hlýlegt og gott að anda að sér. Það gerðum við líka í gær, þegar við fórum upp á Kaldadal í hlýlegu veðri og stilltu, en ekki ýkjabjörtu.

Sem sagt, gott að anda að sér.

 

Björn Bjarnason er að svara grein sem Linda Vilhjálmsdóttir skáldkona skrifar í Lesbók um íslenzk stjórnmál. Sá þetta út undan mér, en hef hvorugt lesið. En af viðbrögðum menntamálaráðherra virðist nýr stjórnspekingur risinn upp með þjóðinni, einlægur aðdáandi forsetans skilst mér.

Þjóðinni hlýtur að stórlétta eins og forsetakröggurnar hafa verið!

 

Líklega er þetta nokkuð góð þróun, að breyra Lesbók í einhvers konar dægurmálapott, það er hið eina sem okkur vantar í þeirri andlegu krísu sem vokir yfir vötnunum.

 

Ég held lágskrílsmenningin hafi færzt mjög í aukana eins og hún tröllríður netmiðlunum. Mér skilst heimsóknir á klámslóðir séu t.a.m.  hreint ótrúlegar. Hið ófullnægða samfélag lágkúrunnar í algleymingi.

Og kampavínsmiðar á allar hlanddollur samtímans. Steinn  talaði um það við mig að menn tækju koppinn sinn, stilltu honum upp á stofuborð og segðu, Þarna er íslenzk menning!!

 

 

Hef verið að snara kínverskum kvæðum á íslenzku með Ronghua, sendiherra, sem skýrir kínverska textann. Það má því segja að þýtt sé úr kínversku. Hef gaman af því. Kvæðin eru að mig minnir 2000 ára gömul. Okkar vitnisburður um menningu er helmingi yngri, en það gerir ekkert. Við stöndum nokkuð vel að vígi í þeim efnum, en enginn getur kennt okkur eins vel að muna og þessi dæmalausa kínverska arfleifð.

Og kvæðin eins og þau hefðu verið ort í gær.

Slík reynsla jafnast á við-að anda að sér!

 

15. ágúst, miðvikudagur

Hanna benti mér á  fína minningargrein í Morgunblaðinu í dag. Hún er um Ara Magnús Kristjánsson sjómann, undirrituð af börnum hans. Hún er eins og ljós í myrkrinu; væmnislaus, án tilvitnana í leirburð. Eins og lítil listræn saga; eftirminnileg.

Og börnunum til sóma.

Greinin er svohljóðandi (stenzt ekki freistinguna að geyma hana hjá mér á þessum blöðum, svo sterkt vitni sem hún er um skýrar glæður ódrepandi alþýðumenningar, þrátt fyrir allt-og allt! ! ):

 

"Roskinn maður gengur rólegum föstum skrefum út um vesturdyr Hrafnistu í Hafnarfirði að kvöldlagi og ýtir á undan sér hjólastól sem í situr eilítið yngri kona. Hún segir ekkert en skimar leitandi út í loftið. Hún er með Alzheimer. Hann hverfur frá í smástund, kemur aftur með stól í hendi og sest við hlið hennar, hallar höfði sínu að hennar og saman horfa þau á sólarlagið. Hann elskar sína konu sem hefur þjáðst af Alzheimer í rúm tólf ár, þráir ekkert heitar en að geta veitt henni hlýju og verið áfram með henni. Hann kvíðir framtíðinni. Skyldi hann lifa af þá erfiðu aðgerð sem framundan er? Hefur bara einu sinni áður farið í aðgerð og veit í raun lítið hverju hann getur átt von á. Konan hans sem hann hefur lifað með í afar ástríku hjónabandi í rúm fimmtíu ár, hefur eignast með sín sex börn og upplifað með sorgina er þau misstu Gísla, skynjar ekki hvað í vændum er. Hann veit jú að vel verður hugsað um hana á Hrafnistu og börnunum sínum getur hann treyst til að halda áfram komu sinni hvern dag í heimsókn. En hann langar ekki til að kveðja, þráir að lifa áfram, komast vestur í Djúp í ber, geta dvalið þar á æskuslóðum sínum í góðu yfirlæti hjá góðu fólki. Hann þráir að komast á sjóinn á trillunni sinni sem er við landfestar niðri á smábátabryggjunni í Hafnarfirði þar sem hann er með tvo beitta bala tilbúna í verbúðinni sinn og þar sem hann á sína vini sem rabba saman um fiskirí og þjóðmálin. Hann þráir að fá að fylgjast með afkomendum sínum sem hann er svo stoltur af en er spar á hrósyrðin af vestfirskum sið. Helgina fyrir aðgerð nýtur hann samverustunda með nánustu fjölskyldu sinni austur í sveit þar sem "Open Ara"-golfmótið er haldið að þessu sinni. Hann treystir sér ekki til að spila með en stoltur veitir hann syni sínum fyrstu verðlaun. Notar tækifærið til þess að kíkja eftir berjum og lofar að koma aftur að tveimur vikum liðnum að tína ber. Daginn fyrir aðgerð er hann einn um sinn, fær sér göngutúr í hrauninu við Hrafnistu er kvíðinn og er djúpt hugsi. Heimsækir konuna sína á annarri hæð og fer með hana út í sólina. Börnin koma í heimsókn. Hann heldur um hönd dóttur sinnar og þrýstir fast, segir ekkert, kann ekki að bera tilfinningar sínar á borð, biður hana þó um að hugsa vel um mömmu sína ef hann skyldi nú ekki koma aftur heim af spítalanum. Síðar sama dag, kemur önnur dóttir hans og þau sitja saman og ræða um lífið og tilveruna, horfa á fréttir saman og hún spyr hvort hann hafi heyrt í syni sínum sem býr í Svíþjóð. Ekki í dag, segir hann, slær á þráðinn og þegar hann kveður þakkar hann syni sínum fyrir allt gamalt og gott. Dóttirin, sem stödd er í Þýskalandi, hringir og hann biður um að fá líka að tala við dótturdóttur sína. Hann biður hana að muna eftir sér í bænum sínum áður en hún fer að sofa. Hún kveður grátandi. Jæja þá er víst best að halda í hann. "Pabbi minn, ertu búinn að ákveða hvað þú ætlar að taka með þér á spítalann?" Nei, hvað á hann að taka með? "Greiðu." "Ha, jú, best er að taka greiðu, og rakvél, jú og gleraugun og inniskóna." Ekki fer meira í plastpokann. Hann gengur um herbergið, dregur samanbrotna peningaseðla upp úr rassvasanum, "ég skil peningana eftir, nei annars best að hafa þá með til að geta keypt sælgæti handa krílunum." Hann lítur í kringum sig, skoðar myndirnar á veggjunum, opnar ísskápinn þar sem alltaf er nóg af harðfiski handa tengdabörnunum og kók í glerflöskum ásamt fullum dalli af nammi handa barnabörnunum. Sest aftur fær sér einn smók af Fauna vindlinum, "mig langar ekkert að reykja, en ég er bara svolítið taugaóstyrkur." Stendur aftur upp, setur kaskeytið á höfuðið og gengur með konuna sína niður á aðra hæð þar sem hann kveður hana óvenjuvel og lengi, klappar henni ofurblítt á vangann með sínum hrjúfu sjómannshöndum og kyssir vel og lengi. Gengur út í fallegt sumarkvöldið. Veðrið er stillt, hafflöturinn sléttur, fínasta sjóveður. Skyldi hann komast aftur á sjóinn? Háttar á spítalanum og feðginin biðja um að fá að vera ein um stund. Hún spyr hvort hann vilji hringja í einhvern. "Jú, hringdu í Alla bróður, hann svaraði ekki í dag." Og hann talar við fleiri, situr á rúminu, dinglar fótleggjunum nervus og nær því að segja öllum að hann kvíði fyrir aðgerðinni en ekkert sé annað að gera í stöðunni og búið sé að sannfæra hann um að þetta sé víst fyrir bestu. Hættulegra sé fyrir hann að fara ekki í aðgerðina. Hann losar um kvíðann eftir því sem hann talar við fleiri í gemsann sem nánast hverfur inn í lófann hans. Hefur aldrei talað í svona tól áður. Komið að því að kveðja dóttur sína. Þau leggja kinn við kinn og hún fær hann til þess að lofa sér að standa sig í aðgerðinni því hana langi svo til að fá að vera veislustjóri í janúar þegar hann verður áttræður. Tárin leka niður vanga hans, hann getur ekkert sagt og þau kyssa hvort annað góða nótt. Hún hverfur út í sólarlagið, keyrir heim, grætur og er kvíðin. Morguninn eftir koma börnin hans til að vera hjá honum fyrir aðgerðina. Hann montinn, "bara vinsæll." Honum er farið að líða vel af áhrifum kæruleysistöflunnar, gerir meira að segja að gamni sínu og segist helst treysta þeim, börnunum sínum fyrir að stjórna aðgerðinni. Þau kyssast öll og hann hverfur þeim sjónum inn skurðstofuganginn. Máttarvana bíða þau allan daginn og eftir því sem aðgerðin dregst á langinn verða þau kvíðnari. Þau sjá pabba sinn ekki aftur á lífi. Geta ekki fylgt honum aftur heim af spítalanum, fá bara plastpokann sem nú er ekki eingöngu með gleraugum, greiðu, rakvél og inniskóm heldur líka buxum, peysu, útiskóm og kaskeytinu. Söknuðurinn er mikill en sárindin mest. Hann langaði svo mikið til þess að lifa lengur og þau langaði svo gjarnan að hafa hann áfram í kringum sig og börnin sín. Minningin um frábæran föður sem var okkur fyrirmynd í verki frekar en í orði mun lifa alla tíð. Hann sýndi okkur hversu mikilvægt og yndislegt það er að vera umvafinn jafnvægi, öryggi, og ástúð.

Sú mynd er við höfum af foreldrum okkar veitandi hvort öðru og okkur sjálfum öryggi, ástúð og hvatningu mun fylgja okkur og vera okkur sem lifandi fyrirmynd um ókomna tíð og mun hvern dag minna okkur á hversu heppin við erum að vera þeirra börn.

Erla, Kristján, Arndís,

Örn og Kristjana.

Erla, Kristján, Arndís, Örn og Kristjana. "

 

Af hverju hefur engum dottið í huga að gefa út á bók úrval úr minningagreinum í Mogga, það gæti verið fróðleg og athyglisverð bók

 

 

 

 

16. ágúst, fimmtudagur

Enn bjartur dagur og heiður. Engu líkara en forsjónin sé að minna okkur á að hún hefur ekki yfirgefið landið, þótt manni fyndist stundum ærin ástæða til!

 

Úttekt ríkisendurskoðunar á málum Árna vinar vors Johnsens hefur nú verið birt. Verri niðurstaða en ég var farinn að vona. Kannski endar þetta með fangelsi. Öll siglum við undir hvítum seglum freistinganna, en Árni virðist hafa gleymt stýrinu í landi.

 

Íslenzk einkenni

Íslenzk einkenni hafa verið túlkuð með ýmsum hætti gegnum aldirnar og útlendingar átt í erfiðleikum með að fóta sig á því svelli. Sumar þessara lýsinga hafa lent inn í heimsbókmenntunum og varðveitzt þar eins og bautasteinn um skringilega þjóð sem enginn botnar í, búandi í landi sem fékk nafn sem eitt út af fyrir sig vekur hroll með útlendingum, allt frá því Blefkin skrifaði níðrit sitt, alræmt.

Aðrir hafa lýst einkennum sem eru heldur blendin og má raunar segja að slíkar lýsingar sé að finna í ferðasögu Audens og MacNeice, Letters from Iceland, en þar kennir margra grasa eins og kunnugt er,  þótt Auden hafi marglýst yfir aðdáun sinni á fornritum okkar og talað um hann hafi komið hingað í einskonar pílagrímsferð til hins helga lands bókanna sem  Ben Gurion talaði um á Þingvöllum.

 

Í nýlegri skáldsögu bandaríska metsöluhöfundarins,  Philip Roth,  The Human Stain eða Hin mannlega smán, er fjallað um íslenzku sögupersónuna Steena Palsson sem er ein af æskuunnustum söguhetjunnar  Colemans Silk. Hann hefur  augsýnilega haft einhvern pata af þessu framandlega fólki og þykir Steena hið mesta krydd í þessa fléttu sína. Það má til sanns vegar færa. 

 

Roth er enginn venjulegur rithöfundur, heldur einn þekktasti skáldsagnahöfundur Bandaríkjanna um þessar mundir og hefur hlotið flest þau verðlaun sem þykja eftirsóknarverðust þar um slóðir , þ. á m.  Pulitzer Prise og National Book Award, hlaut jafnvel þjóðlistar verðlaunapening Hvíta hússins 1998, en í The Human Sstain er hin subbulegasta lýsing á á kynferðismálum Clintons, en hún birtist ekki fyrr en 2000

.

Roth er þannig afarvirtur höfundur þar vestra, þótt The Human Stain sé ekki það meistaraverk sem ætla mætti af auglýsingum og verðlaunavafstri. En sagan er þó sterklega skrifuð í sinni fljótandi mælsku. Hún er mikið ferðalag.

 

Sagan fjallar um Coleman Silk, háskólaprófressor í klassískum fræðum, eins og Roth sem hefur  verið háskólaprófessor í samanburðabókmenntum , en báðir, höfundur og sögupersóna hans, hafa verið virtir vel og dáðir háskólakennarar, eða þar  Coleman er sakaður um kynþáttahatur. Um þann öxul snýst bókin öðrum þræði og sakleysi Colemans. Þverstæðan er aftur á móti sú að Coleman er hvítur blökkumaður, en hefur undir drep reynt að leyna því og tekst það fram í rauðan dauðann. Hann slítur tengsl við sína svörtu fjölskyldu, eignast fjögur hvít börn með hvítri konu sinni sem deyr án þess vita nokkurn tíma um þetta mikla leyndarmál.

Coleman deyr í sögulok eftir mikla eldraun vegna fyrr nefndra ásakana sem kostuðu hann starfið. Þá er hann orðinn 71 árs og lifir með hvítri hreingerningarkonu sem stundar bústörf öðrum þræði, en hún er  ekki nema hálfdrættingur hans í aldri. Hún er sem sagt hans viagra!

Honum tekst að leyna uppruna sínum í hálfa öld , einnig fyrir henni, og er þessi saga.  rakin frá upphafi til enda. Það er í þessari upprifjun sem Stína kemur að efninu.

 

Og hvernig lítur höfundur á þessa íslenzk - ættuðu stúlku?  Jú, þau sofa saman um hverja helgi í eitt ár, hún dansar nakin fyrir hann, þó hálffeimin og með hálfum huga, en samt með slíkum tilburðum að hún hefði getað kallað sjálfan Gershwin úr gröf sinni, en umfram allt  – og það þykir mér einna merkilegast- hún er að föndra við að yrkja, þótt ekki séu ljóðin burðug. En sem sagt: hún er íslenzk og hún er skáld! Hún er ekki poppsöngvari eins og aðalpersónan í síðustu skáldsögu Salmans Rushdie, Jörðin undir fótum hennar; hún er ekki sprottin úr einsmenningarlegu umhverfi alheimsþorpsins, heldur arfleifðinni.

Hún er skáld.

 

Að sjálfsögðu!

 

Skáldskapur virðist vera arfleifð okkar og orðstír úti í hinum stóra heimi, allt frá því hirðskáldin sóttu gullið í greipar fornkonunga. Líklega hefur Roth aldrei heyrt talað um Íslending sem er ekki skáld. Eða drykkjubolti, nema hvorttveggja sé.

Og svo auðvitað fegurðardís, a. m. k.  um helgar!

 

Coleman skilur þetta ekki til fulls, en honum líkar ástkonan þó ágætlega þar til hún hvefur úr lífi hans eins og hún birtist; tíðindalaust!

 

Þessi 18 ára “útlagi frá Minnesota”, Steena Palsson, yrkir kvæði um Colman þar sem fótleggjavöðvum hans er m. a lýst Kvæðið var handskrifað á blað úr minnisbók, undirritað S, því var bögglað saman og sett í póstkassann, því Stína er einnig dálítið feimið skáld!

 

Hann hefur líkama!

Fallegan líkama

vöðvarnir aftan á leggjunum og aftan á hálsi.

 

Hann er einnig bjartur og ágengur.

Hann er fjórum árum eldri, stundum finnst mér hann yngri.

 

Hann er blíður , rólegur , rómantískur,

þótt hann segist ekki vera rómantískur.

 

Ég er þessum manni nærri því hættuleg.

 

Hvað get ég sagt um það

hvernig ég upplifi hann? 

Og ég hugsa um hvað hann gerir

þegar hann hefur gleypt mig í einum bita.

 

Var þetta kvæði, nei helzt ekki! En Coleman gruflaði út í meininguna, óöruggur. Hvað átti hún eiginlega við? 

Þannig verða þessar hugleiðingar hennar til að vekja með honum öryggisleysi. Er gefið í skyn hann sé svartur?  Hann var ekki viss. Og efinn nagar hann. Þessi stúlka veit lengra nefi sínu.

En niðurstaðan? 

Kvæði hinnar hrífandi Stínu merkti ekkert sérstakt! Þetta var ekki einu sinni kvæði. Og hún skáld, nei!

Stína Pálsson var engin Sylvia Plath! En hún var skynsöm. Og hann hafði ekki sízt fallið fyrir því. Samt var það óþægilegt hvað hún var miklu hærri en hann sjálfur.

 

Faðir Stínu er griðarstór. Íslendingar eru jarðýtur. Persónuleiki hans er hnýsilegur.  Furðulegasta fyrirbrigði. Drykkjubolti, ef því er að skipta.  Hann er kaupmaður og sérfræðingur í skipulagsleysi. Leggur undir sig öll samtöl. Afinn og amman eru með sama marki bernnd! ”Íslendingar. Ég vissi ekki einu sinni þeir væru kallaðir Íslendingar. Ég vissi ekki einu sinni þeir væru hér. Ég veit ekkert um Íslendinga, alls ekkert”, segir Coleman. Þeir komu vestur einhvern tíma eftir risaeðlurnar.

Er hún að forðast þetta yfirþyrmandi fólk sem er eins og farg á henni?  Móðirin af dönskum rassmussens-ættum jarðbundinna og draumóralausra gena,  reynir að koma skikk á íslenzku óreiðuna, en faðirinn hin fullkomna andstæða þessarar reglu.

 

Ævintýri Colemans og Steenu lýkur með bréfi. Það er ekkert ljóðabréf, nei aðeins kveðjubréf sem hann varðveitti með öðrum gögnum.

Það var allt og sumt.

 

Nafnið Stína er vel til fundið í þessari sögu. Höfundur hefur augsýnilega haft einhvern pata af því. Það var líka í tízku á stríðsárunum, ef ég man rétt. Sorry, sagði hermaðurinn. Stína! sagði hún.

Og svo sungum við strákarnir , ef enginn heyrði til:

Stína,

láttu ljósið þitt skína

yfir leiðina mína

veittu sumri og sól!

 

En þannig berst orðstír okkar,  og helztu einkenni þessara afkomenda víkingakonunga öllum augljós!!

 

 

 

 

19. ágúst, sunnudagur

Sverrir Hermannsson hringdi til mín í dag, en ég hef ekki heyrt í honum allt árið. Það var gott hljóð í honum. Ætlar að hafa samband við mig eftir pólitíska fundarispu á Vestfjörðum.

Sverrir minntist á hlýlegri afstöði Davíðs Oddssonar í garð Árna Johnsens en sín, þegar hann lenti í risnumálum Landsbankans og hrökklaðist fyrir vikið úr embætti bankastjóra. Hann sagðist nú vita að Davíð hefði verið þar meira á bak við en vitað væri. Hlýleg afstða til Árna nú ætti rætur að rekja til þess að Árni hefði á sínum tíma svikið Þorstein Pálsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og kosið hann formann flokksins, en ekki Þorstein sem féll í kosningunum.

 

Ég hef ekki heyrt þetta fyrr og veit því ekki , hvort rétt er.

 

21.  ágúst, þriðjudagur

Hef verið að yrkja þettta kvæði eftir að ég sá fallega fuglamynd eftir Pál Steingrímsson. Skrítið að vera að yrkja um gleði vorsins undir haust og það með þessar hörmungar á alla vegu, bílslys, dauða og limlestingu fólks um allt, ekki sízt ungs fólks, og svo hræðilegt slys í veiðimannakofa við Veiðivötn þar sem við Guðmundur Daníelsson vorum eitt sinn á ferð með Hönnu og Sigríði. Það var mikil veizla. En litlu munaði ég villtist í Jökulheima

Nú er orðið eins langt síðan og upphaf þessarar jarðar fyrir fjórum milljörðum ára!

 

En veröldin heldur áfram og jörð rís aftur á nýju vori. Þá rís allt úr híði og fjaran syngur í sólinni. Tilhugsunin um slíkt er eins konar algleymi. Og þá koma fuglarnir eins og blessun guðs.

 

Kvæðið varð svona í lokagerð, en ég orti það fyrst í föstu formi, en braut það svo upp og fannst betur á því fara:

 

Vorgleði

Áin brýtur sig.

 

Vinalegt vor án trega

og veröldin skriðin

úr híði.

 

Það glitrar á ósinn

 

hann rennur til himins

 

við hlustum sem fuglar

á niðinn,

 

þeir gleyma sér úti við jökul

 

heilsa með himin í augum

og hverfa til strandar,

 

sandlóan keppir

við sendling sem krafsar með löngu oddhvössu nefi

en hafið sígur til himins, rís upp

við þangbrúna kletta

 

og margbarið grjót,

 

þeir hlusta

 

fjaran syngjandi bergmál

af brothættu stefi

 

þar sem úthafið hvíslar við langþreyttan fót.

 

En jökullinn leggur kollhúfur, kærir sig ekki

um kliðandi masið í fuglum við úthafssogið,

 

hann horfir til sólar og svipast

um auða bekki,

 

en sólin kyssir þá vængi sem þar hafa flogið

 

og skima við útfallið, eigna sér

fjöruna alla.

 

 

 

23. ágúst, fimmtudagur - Í sól og blíðu.

 

Reynimelur 25A

(23. ágúst ´01)

 

Hunangsflugan

er kapítalistinn í garðinum,

 

þar ræður hún lögum

og lofum.

 

Blómin skarta

sínu fegursta

í návist hennar,

 

runnamuran gul

eins og sólin

 

og dögglingskvistur

glitrandi rúbín

í garðinum.

 

Dvergfura hallar sér

hlustandi að stuðlabergi

úr Hljóðaklettum.

 

En undir svölunum

kóngulóarvefur,

 

kirkjugarður alþýðunnar.

 

 

Grenitréð

Grenitréð er vaxið

úr huga mínum,

 

gróðursett

af skegggráum

himni,

 

svignar í golunni

eins og eilífðin.

 

 

 

Slys við Veiðivötn

Gasljósið lýsir

langan veg

inn í helju,

 

beljandi regnið

brimar við tré

og glugga.

 

Það slokknar á ljósinu

 

slokknar ljósið

í lokuðum augum þeirra.

 

 

Á Landakotstúni

Svo grænt er grasið

að grænka þess

er blá,

 

svo grænt svo grænt

hvert strá.

 

 

 

24. ágúst,  föstudagur

 

Andlát

í Reykjavík

Og vesturljósin vitja blóma sinna

í veröld sem er skógur drauma þinna,

hann vex að skuggum hausts í huga þínum

og hljóðnar þar með gömlum vini sínum.

 

Og sönglaus nóttin vex að veröld þinni

og vængur tungls er birta þín að sinni

og allt er hljótt , en næturkyrrðin niðar

og nóttlaust land þitt sígur hægt til viðar.

 

Og jörðin andar eins og gola fari

með undarlegu hiki að gömlu skari,

þið deyið saman hægt í huga mínum

eins og húmið slökkvi log á kveiknum sínum.

 

En þannig hverfur vestrið vitund þinni

og veröld mín er brunnið skar að sinni.

 

 

 

25. ágúst, laugardagur

Hef lokið við að hlusta á brezka leikarann Alan Bates lesa sögu Vikram Seth, An Equal Music, vel skrifaða og sorglega sögu um tvo tónlistarmenn, píanóleikarann Júlíu og fiðluleikarannn Mikael. Þau hafa elskazt í Vín, en nú er hún gift  James og þau eiga saman soninn Luke. Leiðir þeirra Mikaels skilja, en þegar þau hittast aftur í Lundúnum eftir langa mæðu,  hefst martröð ástar í meinum. En nú hefur Júlía að mestu misst heyrnina. Heldur samt konserta. Sögunni lýkur svo með örvæntingu Mikaels.

Það leynir sér ekki að sagan er skrifuð af ljóðskáldi. Ég hef lesið ljóðaþýðingar eftir Seth, frábærar. Og þá er saga hans, A Suitable Boy, ekkert blávatn.

 

Hef verið að fara yfir frásagnir Xenofóns af persastríðunum. Merkilegt þetta skuli hafa verið skráð á dögum Sókratesar og Platóns, en Xenófón hefur verið merkur sagnaritari. Hann skrifaði um það sem hann þekkti og þá sem voru honum samtíma; og handgengnir; þá sem hann upplifði af eigin raun. Það gerir frásagnir hans eftirminnilegri og umfram allt persónulegri en ella. Og líklega einnig trúverðugri, því að hann er enginn flautaþyrill. Cyrus persakonungur er athyglisverð persóna í umfjöllun hans.  

 

Við Hanna fórum austur fyrir fjall í sumarblíðunni og ég ók niður Kjósina, með Laxá á hægri hönd. Þetta er falleg leið og áin perla. Við feðgarnir eigum að veiða í henni á fimmtudag og föstudag. Þá hitti ég Bubba Mortens og læt hann heyra ljóðaflokkinn um englarykið. Hann hefur áhuga á því. Það verður ennþá dramatískara þarna á árbakkanum þar sem vatnið er tært eins og heilagt orð.

 

Blá er skriðan

og fjallið eins og hugur okkar

 

nakið fjallið eins og hugur okkar

á leið til himins,

 

en grastóin við ræturnar

teygir sig uppundir klettabelti

 

en kemst ekki lengra.

 

 

Fórum í messu í Neskirkju í morgun. Full kirkja. Kvöldmáltíð og aflausn synda sem ætti að duga fram í næstu viku..

 

 

 

29. ágúst, miðvikudagur

Nú er samtal okkar Halldórs Halldórssonar komið út í Mannlífi. Og í gær flutti ég fyrirlesturinn á vegum Sagnfræðingafélagsins um Þjóð og óþjóð. Húsakynnin fylltust af fólki, mér skilst það hafi verið eitthvað undir 200 manns í Norræna húsinu. Þykir mikið. Lofar góðu, sagði Páll Björnsson formaður félagsins. Allt gekk vel og áfallalaust. Hávar Sigurjónsson segir vel frá þessu í Morgunblaðinu í dag. Þá var einnig þáttur um erindið í Víðsjá útvarpsins, en ég heyrði hann ekki.

Miklu af mér létt.

Og nú er það Laxá í Kjós á morgun og föstudag, með drengjunum mínum. Hlakka alltaf jafnmikið til þess. Og þá ætla ég að hitta Bubba Mortens og lesa fyrir hann kvæðaflokkinn um englarykið. Hann segist vera spenntur fyrir því.

 

4. september, þriðjudagur

Las Englarykið fyrir Bubba í veiðihúsinu við Laxá í Kjós, hafði dálítið gaman af því. Bubbi hlustar vel. Segist þó hafa skemmt eitthvað í sér heilann af fikniefnum,  en það hafi ekki komið niður á músíkinni, enda hefur hann aldrei verið betri. Vinsælastur af ungu fólki , segir Kristjan sonarsonur minn .

 

Ingó er kominn til Spánar, hittumst svo aftur þegar við förum til Feneyja, í Miðjarðarhafssiglinguna.

 

Þessi fyrirsögn var einhvers staðar nýlega: Látnir  bera ábyrgðina. Sýnir í fyrsta lagi að ekkert orð merkir í raun neitt sérstakt nema í tengslum við annað. Og svo náttúrlega í öðru lagi tilfinningaleysi fjölmiðlunga fyrir tungunni.

Og hvað er svo hugsað um á fjölmiðlum? Helzt ekkert nema pjatt og plast. Það var dæmigert þegar öll brezka pressan setti með stórfyrirsögnum á forsíðu 5-1 sigur Breta á Þjóðverjum í fótbolta. Þótt það yrði kjarnorkustyrjöld yrði fyrirsögnin ekki stærri! Og svo kórónaði Daily Mirror fáfengilegheitin með því að birta stóra mynd á allri forsíðunni af brennandi hönzkum þýzka markvarðarins með minningargrein um þýzka knattspyrnu! !

Að hugsa sér þá delluveröld sem maður lifir í; þessa sýndarveröld fjölmiðlanna. Þessa plastveröld heimskra blaðamanna.

Og fólkið sækir í þetta. Kann auðvitað engan mun á afþreyingu og þeirri áskorun sem lífið er.

 

Síðar

Hef snarað þessum kvæðum úr kínversku, með aðstoð Ronghua sendiherra sem ætlar að nota þýðingarnar í háskólafyrirlestrum:

 

Baun er soðin með því

að brenna stofninn,

 

og baunin grætur í pottinum.

 

Af hverju vilt þú ólmur

afgreiða mig

í ofninn

 

við sem erum af einni

og sömu rót.

 

 

Chu-söngvar

Fólkið reyndi að gleðja keisarann

á þessum heillavænlega degi, það

var hátíðleg stund og virðuleg.

 

Allir struku jaðihringa, festa

á langsverðin, jaðisteinar

hangandi skraut á klæðum þeirra.

 

Þungir jaðisteinar í fjórum hornum

dýrmætrar strámottu, fjöldi

ilmandi blóma, stórar kjötsneiðar

í ilmandi stráum á brönugrasinu.

 

Angan af osmaþus-fórnarvíni,

trommukjuðarnir hátt á lofti, hægt

hrynjandi söngur, öflug tónlist vinds

og strengja.

 

Fagurlega klædd dansar völvan

af list, öll höllin þrungin þungri

angan, allir tónar í einum

samhljómi. Og keisarinn hress og glaður.

 

 

 

Óður til appelsínu-trésins

Appelsínutré fóstrað af náttúrunni

lagað að jörð og vatni hér um slóðir

þar sem þér hefur verið ætlað

að flytjast ekki burt, þú munt æ

og ávallt dafna hér í suðrinu.

 

Getur ekki fest rætur annars staðar

svo bundið þessari jörð, ávallt fast fyrir

í ákvörðunum þínum. Lauf þín

græn og hvítur fölvinn hreinn, fullt

af skefjalausri gnægð, jafnvel þótt það séu

þyrnar milli laga, en ávextirnir svo fagrir

og ávalir, fullkomin andstæða græns og guls. Það

minnir á rósaský.

 

Yfirborðið ólíkt hreinum hvítum stofni, þú

ert eins og maður sem er traustsins

verður,fegurð þín fáguð

og frjáls.

 

Ég dáist að þér, glóaldintré fyrir sunnan, þú

tókst svo snemma ákvörðun, þú ert

einstakt, neitar að hreyfa þig, sjálfstætt,

slíkur vilji er geðfelldur og ánægjulegur.

 

Enginn getur fært þig úr stað, með þessar

djúpu rætur, úthverft og ástríðulaust

hófsamt og fjarri öllum óhreinleika, aldrei

gróft, samt frjálst að öllu.

 

Svo varkárt, með hreinan skjöld, hefur aldrei

gert mistök, aldrei framið neina synd, ósíngjarnir

verðleikar þínir minna á himin

og jörð.

 

Vonandi verður þú styrkur og ævilangur

félagi þegar kuldinn fer að og öll blóm

visna, þú ert hjartahlýtt og fágað,

beinvaxið sterkt og og æðahreint.

 

 

Samt ertu enn ungt, þú gætir verið

fyrirmyndarkennari. Framkoma þín

jafn einörð og Bo Yi, ég mun lengi fylgja

því fordæmi.

 

 

 

 

 

 

Það sem hugur minn stendur til

er sunnan við hafið.

 

Ég hefði viljað gefa þér

hárnál úr skjaldbökubeinum

með tveimur perlum.

 

En þegar ég frétti þú værir mér ekki

lengur trúr

brenndi ég hana og askan hvarf með vindinum.

 

Ég mun slíta tengsl okkar

og aldrei hugsa um þig oftar.

 

Hanar göluðu og hundar geltu

þegar þú játaðir mér ást þína.

Bróðir minn og mágkona voru viðstödd.

 

Æ!

 

Haustvindurinn þaut í fuglsfjöðrum.

 

Og senn verður dögun í austri

vitnisburður um hjarta mitt.

 

 

 

Þjóðkvæði

Á sandrifi í ánni tveir fiskiernir

og minna á þokkafulla konu

og fyrirmyndareiginmann.

 

Hann reynir að fiska misjafnlega stórar

botnplöntur, eltist við tígulega konu

bæði í vöku og draumi, án árangurs.

Saknar hennar dag og nótt.

 

Ekkert getur haldið aftur af þrá hans,

og hann byltir sér í rúminu.Reynir

að fiska misjafnlega stórar vatnaliljur,

leikur á sjö og tuttuguog fimm strengja hljóðfæri

til að vinna hjarta hennar, þessarar

tígulegu og þokkafullu konu.

 

Reynir að tína frá vinstri til hægri ójafnan

gróður vatnsins, reynir að þóknast

þokkafullri konunni. Það er leikið

á bjöllur og trommur.

 

11. september, þriðjudagur

Hef lítið lesið blöðin og fylgist illa með fjölmiðlum. Það er auðvelt að komast af án þeirra, manni líður jafnvel einatt betur án þeirra.

En þetta skiptir engu. Fjölmiðlar eru bara afurð líðandi stundar, það er allt og sumt. En það er alkunna að fagurgræn tún vaxa þar sem sorpið hefur verið urðað.

Ég segi þetta vegna þess  hvað mikið af vitleysu, hrærigraut og verðmætabrengli birtist einatt í fjölmiðlum. Og það þarf hestaheilsu til að þola allt þetta heimskulega áreiti. En stundum flýtur gott efni með þótt ekki sé það alls ráðandi, nema síður sé.

Mér var um daginn bent á leiðara í Morgunblaðinu sem fjallaði um Björk Guðmundsdóttur. Tilvitnanir í poppgagnrýenendur Jótlandspóstsins og Financial Times, ef ég man rétt. Annarhvor þeirra segir að áður hafi Ísland einungis verið þekkt fyrir lunda, þorsk og jarðskjálfta, nú hafi Björk bætzt við.

Og Morgunblaðið tekur þetta ósköp hátíðlega.

Slíkar fullyrðingar segja aðeins eitt: að viðloðandi poppari veit ekki betur, það er allt og sumt! Hann hefur t.a.m.  aldrei heyrt talað um ritlistararfleifð okkar - eða hvers vegna ætti hann að hafa heyrt um hana? Hann þekkir bara sinn poppheim. Nú á dögum er sérhæfingin orðin svo mikil að allir lifa í sínum heimi. Einnig tónlistargagnrýnendur.

Poppgagnrýnendur erlendra blaða eru ekkert öðruvísi eða merkari en popparar hér heima, þeir hugsa um og lifa í sínum heimi. Eins og iþróttafréttaritarar sem halda að allt snúist um landsleiki! Ef einhver íslenzkur íþróttamaður hlyti feiknaveinsældir erlendis, rétt eins og Björk, yrði sagt að nú væri Ísland þekkt hans vegna - og svo náttúrlega vegna lundans og þorsksins!

Ef bókmenntagagnrýnendur ættu í hlut mundu þeir að öllum líkindum segja að Ísland væri þekkt fyrir arfleifðina, sögurnar - og svo kannski Kiljan. Þeir lifa auðvitað einnig í sínum heimi,  en slík fullyrðing  væri  að öllum líkindum sönnu nær. Það er í þennan fjársjóð sem Ker, Morris, Auden og Borges sóttu, en hvorki lundann né þorskinn.

Og eins víst að erlendur bókmenntagagnrýnandi, eða sérfræðingur í Jóni Leifs eða Atla Heimi, hefði enga nasasjón af Björk; eða lundanum!.

En þetta sýnir í hnotskurn almennt ályktanabrengl misjafnlegra upplýstra fjölmiðlunga. Allir menntaðir menn vita að ritlistararfur okkar hefur dregið að sér mesta athygli útlendinga gegnum aldirnar og það hefur ekkert breytzt. Hitt er áreiðanlega rétt að Björk er þekktasti Íslendingur nú um stundir og almennar vinsældir hennar íslenzkt eindæmi. En hún er því miður ekkert þekkt erlendis fyrir sína gömlu plötu með íslenzkum úrvalslögum.

Og hún fékk ekki að njóta síns frábæra kvikmyndaleiks. Mér fannst hann frammúrskarandi og skrifaði um hann leiðara á sínum tíma. En ég þurfti ekki að styðjast við neinar erlendar hækjur í þeim skrifum. Þau voru að hætti hússins í þá daga.

 

En hvað ætli margir þekki til Íslands einungis af Keikó; eða Flugleiðum; eða Geysi; eða Íslenzkri erfðagreiningu; eða Heklu?

Eða einungis af eskimóunum sem hér búa?

 

Nei, það skiptir engu máli hver þekkir eitthvað til Íslands. Við þurfum að vísu að markaðssetja það fyrir ferðamannaiðnaðinn. Við þurfum að græða á forvitni um landið; að vísu. Við þurfum að láta útlendinga létta undir með okkur.

En það skiptir engu máli hver þekkir til landsins, eða hvort einhver hafi heyrt þess getið að öðru leyti.

En það er umhverfi okkar. Og við eigum að rækta þetta umhverfi. Ekki einungis með lúpínu, heldur íslenzku birki.

Þetta er okkar umhverfi og við eigum ekki annað. Það er nátengt arfleifðinni; tungunni. Það býr í vitund okkar. Það býr í þjóðarvitundinni, ef hún er þá til í þessum flughraða gleymskunnar nú á tímum.

 

Það er allt og sumt!

 

Kvöldið

Opnaði netið um eitt-leytið í morgun. Fór á ABC-fréttastöðina, sá það hafði flugvel flogið á skýjakljúf viðskiptamiðstöðvarinnar i New York, en hún er víst 110 hæðir. Hélt þetta væri flugslys. Fór á CNN-netið, það kom fljótlega í ljós það hefðu tvær þotur flogið á kljúfinn. Þá opnmaði ég sjónvarpið og fylgdist með, það var hryllilegt, ótrúlegt sem við blasti. Hryðjuverk, sögðu þeir. Grimmd mannsins og skepnuskapur í allri sinni ”dýrð”!  Trúði því ekki ég væri að horfa á raunveruleika, trúi því eiginlega ekki enn. Það hefur verið eins og horfa á hasarmynd af bandi. Hafði ég fengið þetta myndband í Tröllavídeó? Nei, þetta var blákaldur veruleikinn sem við blasti, ekki léleg hasarmynd. Og enn óvitað um afleiðingar þessara hörmunga.

Já, enn allt í óvissu.

Ef þeir sem að slíku standa fá þá umbun  að lenda í íslamskri paradís, þá kýs ég helvíti okkar hinna. Og ekki trúi ég því að Allha standi að slíkri þjáningu.

Guð er guð og enginn er guð nema Allha. Nei, þetta eru ekki guðleg hryðjuverk, þetta eru verk hins ódulbúna Satans. Margir múslimar eru á hans vegum nú um stundir. En það er ekki víst þeir viti það!

 

 

12. september, miðvikudagur

Þegar ég sagði Hönnu frá hryðjuverkunum í Nerw York í gær, bætti ég við:

 

Getur verið að þetta sé gabb. Sjónvarpsstöðvarnar séu að leika sér að hörmungum.

Áttu við innrásina frá Marz, eða eitthvað slíkt?

Já.

Við horfðum saman á sjónvarpsstöðvarnar og auðvitað viss ég í hjarta mínu það gæti ekki verið neinn léki sér að slíkri sviðsetningu. Og allra sízt allar þær erlendu stöðvar sem við höfum.

Nei, þetta eru víst árásir hryðjuverkamanna, sagði ég, og þeir nota bandarískar farþegaþotur eins og eldflaugar.

 

Við gátum vart trúað því sem við sáum. Það var eins og sýndarveruleiki. Eða sjónhverfing. En þannig fylgdist ég með ósköpunum í allan gærdag. Það er líka til þess ætlazt. Þessi ósköp eru ætluð fjölmiðlum. Einkum sjónvarpi. Mér er til efs slík fólskuverk væru framin án sjónvarps. Það er einskonar safngler ómennskunnar í heiminum, eins og það er hvarvetna notað.

Því miður.

Hin siðmenningarlegu gæði eru annars staðar. Hasarinn í sjónvarpinu.

 

Í morgun fór ég að velta því fyrir mér hvort blöðin væru orðin úrelt sem fréttamiðill. Þau eru það í þessari samkeppni, auðvitað. Það er flest um garð gengið þegar þau koma út. En samt eru þau ekki úrelt. Sjónvarpið krefst þess einfaldlega að blöðin verði öðruvísi. Þau geta ekki upplifað atburðina eins og sjónvarpið, en þau geta horft á þá frá annarri hlið. Spurningin er bara hvernig. Og það er sú stóra spurning sem blöðin verða að svara.

 

Þegar svona atburðir gerast upplifum við þá eins og þátttakendur, ekki áhorfendur. Það er styrkur sjónvarpsins. Veiki punktur þess er yfirborðsmennska. Gott og vel unnið dagblað getur skákað henni. Þar liggur styrkleiki dagblaðanna. En þau notfæra sér hann misjafnlega.

 

Ég viðurkenni að mig langar ekki í fyllri mynd af þessum ósköpum en ég hef fengið í sjónvörpunum í gær. En ég hef samt áhuga á því að vita það sem er óséð, allan bakgrunninn; og svo náttúrlega harmleikinn. Hann á eftir að skila sér á næstu vikum; mánuðum.

Eða árum.

Og þá áreiðanlega í góðum dagblöðum frekar en sjónvörpum. Þeirra hlutur er liðinn tíð. Hitt bíður dagblaðanna.

 

Seinna

Hryðjuverkin í New York marka tímamót í mannkynssögunni. Það verður aldrei litið sömu augum og áður á öryggi á Vesturlöndum. Heimsstyrjöldin gegn hryðjuverkamönnum er hafin. Mannfallið í World Trade Center er eins og eftir mannskæða orrustu á vígvelli

 

Það mun aldrei gleymast hvað sem öðru líður. Hannibal er við borgarhliðin, sögðu Rómverjar heilli öld eftir að þessi  skelfilegi herforingi frá Karþagó ógnaði heimsveldinu með fílainnrásinni í Ítalíu. Kom aftan að Rómverjum yfir Alpana.

Og hvað vannst fyrir Karþagó? Ekkert annað en hún var lögð í eyði, þegar hinn eineygði Hannibal var kominn að fótum fram. Og svo var hann sjálfur náttúrlega drepinn eins og hver annar hundingi; eða hryðjuverkamaður. En hann og umhverfi hans átti þó harma að hefna.

Ekki hinn auðugi bin Laden og ofstækisflokkur hans.

Kaninn á áreiðanlega eftir að svæla hann út úr greninu í Afganistan.

 

Bin Laden segist  enga aðild eiga að þessum harmleik, en fagnar honum. Einkunnarorð hans gætu verið: Hryðjuverkamenn allra landa sameinist!  Það virðist hafa gerzt í gær. En hver er drifkraftur þessarar ógnar. Auðvitað olíuauðurinn sem fjármagnar hana, hvað sem yfirlýsingum líður. Og á honum bera íslamskar ríkisstjórnir ábyrgð, hvað sem hver segir. Hann er uppsprettan. Og hann verður olían sem heldur þessu báli við.

Nema unnt verði að stemma stigu við þessum blóðpeningum austan úr Miðjarðarhafsbotnum.

 

Enn síðar

Dreymdi ruglingslegan draum í nótt. Þar kom Sigurður A. Magnússon við sögu. Ég sagði honum að ég myndi svara lygunum í síðasta bindi “ævisögu” hans. Hann svaraði ég yrði hlægilegur, ef ég gerði það.

 

Skrítinn draumur! En réttur að því leyti að SAM telur hann geti sagt hvað sem er um hvern sem er án þess nokkur nenni að leiðrétta hann. Sá hinn sami yrði hlægilegur! Og af hverju? Jú, sá sem tæki mark á Sigurði væri hlægilegur, því að hann væri ekki svaraverður.

 

Og svo er eitt, sá sem svarar honum verður að leita á hans plan. Það gæti verið þrautin þyngri;  að skíta sig út á því.

 

 

Líklega var þetta boðskapur draumsins, ef það var þá nokkur boðskapur. En það er ágætt að dreyma nafnið Sigurður. Þó vildi ég að einhver bæri það annar í mínum draumum. En ég ræð því ekki hvaða sigurð mig dreymir.

 

 

Og kannski var minn eiginn heili að stríða mér, hver veit. Hann gerir það stundum, bölvaður!

 

13. september, fimmtudagur 

Sóttum Matthías H.,  nafna minn,  til Keflavíkur. Hann er kominn heim til að giftast Sögu, kærustu sinni. Þau búa nú í Kaupmannahöfn, en hún var komin á undan. Matti sagði eins og ég hef sagt við sjálfan mig:  Ég hef fylgzt með harmleiknum í New York í sjónvörpum og það er svo raunverulegt að ég er miður mín. Þegar ég kom í flugstöðina í Höfn leit ég á blöðin, en hafði engan áhuga á þeim. Alltaf sömu myndirnar og svo frásagnir sem ég þekkti úr sjónvörpunum. En  þá kom ég auga á fyrirsögn í einu blaðanna sem var öðruvísi: Féllust hendur þegar ég steig oná dauða hönd.

Þetta voru orð slökkviliðsmanns sem var að leita í rústum World Trade Center. Þetta var öðruvísi og persónulegri harmleikur og vakti athygli mína, sagði Matti. Vakti mér hroll og sársauka.

 

Persónuleg frásögn sem leiddi Matthías H. inni í rústirnar með nýjum hætti.

Og harmleikinn

 

Þær skipta þúsundum sögurnar um persónulega reynslu fólksins, örvæntingu, hugrekki. Tveir menn báru bæklaða konu niður 68 hæðir og björguðu lífi hennar. Prestur slökkviliðsmanna var á einni neðstu hæðunum og veitti deyjandi manneskju  síðasta sakramenti, en þá hrundi yfir hann og hann lézt.

Allt efni í helgisögur framtíðarinnar.

 

Í kvöld hef ég svo verið að horfa á margar slíkar frásagnir, af símtölum við þá sem voru í þotunum og byggingunum og hringdu heim rétt áður en þeir fórust. Margt fólk stóð fyrir framan rjúkandi rústirnar, með mynd af ættingjum sínum og var að leita. Allir grétu. Og fréttamaðurinn grét líka. Og þulirnir grétu.

Og mér vöknaði um augu.

 

Dagblöðin geta átt sinn dag, að sjálfsögðu. En þau geta ekki farið með fólki til heljar. Til þess þurfa þau að hafa einhvern Virgil á sínum snærum.

 

Og virglarnir eru annars staðar.

 

Síðar

Hef verið að fara yfir sögu persastríðanna eftir Heródótus. Þar er margt athyglisvert. Ég hef verið að fylgjast með undankeppninni í knattspyrnu um Evróputitilinn og þá ekki síður stórmót sumarsins í frjálsum íþróttum. Það hefur verið bæði eftirminnilegt og skemmtilegt. Margir áhorfendur og allir beztu frjálsíþróttamenn heims. Og hvað kepptu þeir um? Titla, nei. Þeir kepptu hver við annan um gullstangir.

Tímanna tákn.

Án peninga lítill áhugi. Það er svo sem gott og blessað, en samt íhugunarefni.

Í persasögunni er sagt frá arkadíumönnum sem komu á fund Xerxesar persakonungs. Konungur spurði hvað grikkir hefðust að? Þeir halda ólympíuleika, sagði talsmaður komumanna. Horfa á frjálsar íþróttir og vagnakappakstur. Og hver eru verðlaunin? Sigurvegarinn fær lárviðarkranz.

Þá hrópaði einn viðstaddra persa og sagði við konunginn, Hvers konar fólk er þetta eiginlega sem við eigum í höggi við, menn sem keppa hver við annan, ekki um peninga heldur heiður!

Slíkir menn hlutu að vera ósigrandi.

Og það kom líka á daginn.

 

Menn gátu einnig fengið lárviðarsveig fyrir vizku og herstjórn. Þá komu þeir saman og greiddu atkvæði um valið. Þannig hlaut Þemistóteles flest atkvæði fyrir slikt eftir sjóorrustuna við Salamis 480 f. Kr. Fyrst kusu allir karlarnir sjálfa sig, svo að enginn fékk fleiri atkvæði en eitt. Síðan fékk Þemistóteles flest atkvæði fyrir hlutdeild sína  að sigri gríska sjóhersins, en hann  stjórnaði uppbyggingu flotans.

 

Orrustan við Þermópílu, eða Laugaskarð,  sem liggur  milli hárra fjalla og strandar fór einnig fram 480 f. Kr. og þar sigruðu grikkir einnig undir forystu Leonídesar.

 

Kvöldið

Orti þessi tvö erindi um sama atburð eins og Heródótus segir frá honum: orrustuna við Þermópílu: 

 

Við göngum hvern dag í orrustu eilífra víga

með ásetning þeirra sem láta ekki deigan síga,

en örvahríðin er öðrum þræði svo mögnuð

að örvarnar skyggja á sól og birtu og fögnuð,

í skugganum barizt, við sigrum að vísu og segjum

það sortnar við ský, en lífið er gott þótt við deyjum.

 

 

eða:

 

Við lifum í skugga

af litningum okkar,

 

þeir eru örvarnar

í orrahríð sortnandi

sólar,

 

átökin hið innra

 

og örvahríðin skyggir

á sólina.

 

Við berjumst

í skugganum.

 

Það er borgarastyrjöld

í hverju húsi.

 

Og við byrgjum gluggana.

 

 

14. september, föstudagur

Og hvað er mér svo eftirminnilegast eftir síðustu sólarhringa?

 

Í fyrsta lagi myndirnar af þotunum þegar þær skella á skýjakljúfunum. Hugsunin um að þar voru saklausir ferðamenn innan borðs.

Í öðru lagi símahringingar þeirra sem voru í þotunum fjórum sem herteknar voru til ættingja sinna.

Í þriðja lagi símtöl dauðdæmds fólks til ættingja sinna úr skotmörkunum, bæði þotum og tvíburaturnunum.

Í fjórða lagi sorgmæddir og ringlaðir ættingjar í nágrenni rústanna sem voru að leita að þeim sem saknað er. Hef ekki séð ægilegri eða sorglegri sjónvarpstökur. Í meðferð CNN var þetta þeirra finest hour, að mínu mati. Miklu áhrifameira en t.a.m.  eldflaugnaárásin á Bagdad. Hún var ópersónuleg ógnun, sýndi ekki mannlega örvinglan, heldur eldflaugar í fjarlægu næturmyrkri. En nú var sjónvarpsfólkið á heimavígstöðvum, grét með fólkinu og tók persónulegan þátt í harmleiknum. Og kláraði verk sitt með fádæma áhrifamiklum hætti.

 

Vígvöllurinn liggur um Bandaríkin þver og svo auðvitað endilöng NATÓ-ríkin. Og líklega víðar. Þetta er heilagt stríð og hryðjuverkamenn og smádjöflar satanísks trúarofstækis eiga eftir að sýna hramminn oftar. En það var áreiðanlega ekki tilviljun að ráðizt var á hjarta heimskapítalismans sem dælir peningablóðinu út um allar æðar. En þetta hjarta er sterkt og heldur áfram að slá. Það mætti að vísu dæla meira af siðmenningarlegum gæðum og andlegri næringu til þjóðarlíkamans en hingað til

Hver veit nema það verði. Mér heyrðist Billy Graham, 83ja ára, trúa á slíkt kraftaverk eftir allar þessar hörmungar. Það kom fram í ræðu hans við minningarathöfn í þjóðarkirkjunni í Washington í dag. Þar flutti Bush forseti ágæta hugvekju. Hann var í dag harðlega gagnrýndur í brezkum blöðum og brezka þinginu fyrir heigulshátt; að hafa flúið af vettvangi eftir árásirnar í New York og Washington og koma ekki á vígvöllinn. En mér er til efs að hann hafi einn ráðið því hvert þota hans hélt við þær aðstæður og svo mætti líka spyrja, hvers vegna það hefði átt að stefna forsetaþotunni í ginið á  glæpamönnum sem ætluðu augljóslega að granda honum. Margir virðast hafa litla trú á forsetanum, en mér finnst hann heldur viðfelldinn. En þó sér í lagi drengjalegur. Getur verið að þessi maður stjórni mesta stórveldi sögunnar, hugsa ég með mér, þegar ég sé hann í sjónvarpi.

Svarið er Já,  hvort sem mönnum líkar betur eða ver!

 

Ég trúi því í fyrsta skipti að hryðjuverkamönnum væri trúandi til að nota kjarnavopn í framtíðinni. Fjármagn þeirra  er a.m.k.  nægilegt til þess. En yfirburðir þeirra felast þó ekki í vopnum, heldur vilja til sjálfstortímingar. Þannig er andlit óvinarins ósýnilegt. Og hver getur átt við andlitslausan óvin?

Ekki einu sinni Bandaríkin. Það hefur sýnt sig; áþreifanlega. Á sjötta þúsund fórnardýr í morgunárás, hver hefði trúað þeim ósköpum? En nú trúir maður hverju sem er. Þannig þurfum við einnig að vera vel á verði. Sú gæzla er ekki sízt í höndum Haralds sonar míns. Ég vona að forsjónin verði með honum og störfum hans, ekki veitir af. Ég heyri hann gerir sér fulla grein fyrir þessu. En hann hefur lítinn pólitískan stuðning fyrir þvi að það kostar peninga, t.a.m.  að sjá um öryggi þeirra sem eiga að þyrpast hingað á NATÓ-fund að vori. En pólitíkusar verða að skilja að það kostar peninga að geta baðað sig  nokkurn veginn óhultur í frægðarsólinni alþjóðlegu ( sem venjulega er fljót að hníga til viðar).

 

15. september, laugardagur 

Og nú hafa borizt fréttir af fyrsta “íslenzka” fórnarlambinu í árásinni á World Trade Center. Það er ungur tengdasonur Kristjáns Tómasar Ragnarssonar yfirlæknis við Sinai-sjúkrahúsið þar í borg. Hann var eiginmaður Vigdísar Kristjánsdóttur. Sonur þeirra er sjö mánaða. ”Ólýsanleg sorg”, segir afi hans í samtali við DV.

 

17. september, mánudagur

 

 

Smábreyting,en mikilvæg:

 

 

Kveðjustund

í Vesturbænum

 

Og vesturljósin vitja blóma sinna

í veröld sem er skógur drauma minna,

hann vex að skuggum hausts í huga mínum

og hljóðnar þar með gömlum vini sínum.

 

Og sönglaus nóttin vex að veröld minni

og vængur tungls er birta mín að sinni

og allt er hljótt , en næturkyrrðin niðar

og nóttlaust land mitt sígur hægt til viðar.

 

Og jörðin andar eins og gola fari

með undarlegu hiki að gömlu skari,

þið deyið saman hægt í huga mínum

og húmið slekkur log á kveiknum sínum.

 

En þannig hverfur vestrið vitund minni

og veröld mín er brunnið skar að sinni.

 

18. september, þriðjudagur

Nú er talið að tæplega 6000 manns séu dauðir undir rústum tvíburabygginga World Trade Center.

Óttalegt

Ég veit vel saklaust fólk hefur dáið áður, en þetta snertir með sérstökum hætti; ekki sízt vegna sjónvarpanna. Af þessu braki verða svo til ýmsar þjóðsögur, þegar tímar líða og árásin breytist í einskonar bandarískt tyrkjarán. Þjóðsagnalaust verður það mannlíf aldrei sem lifað er á mörkum draums og veruleika. En hvaða veruleika? Stundum er draumurinn raunverulegri en lífið sjálft.

Ég veit einnig vel að saklaust fólk hefur verið drepið í íslömskum löndum. Og það á einnig um sárt að binda vegna hryðjuverka;t.a.m. í Palestínu.. En það réttlætir ekki svo blinda aðför að lífi saklauss fólks.

 

 

Hugsaði þetta þegar ég gekk heim undir kvöld:

 

Haustið fer að

En þegar laufið gulnar og gullnum roða slær

á greinar allra trjánna og haustið færist nær

og skógurinn er þögull og þröstur bælir sig

og þytur hausts í laufi og nóttin kallar mig

til fundar við þá minning sem mildu ljósi fer

um margvíslega gleði og vor í brjósti þér,

 

og   þegar naprir vindar á vængjum haustsins slá

hvert visnað blað á túni og grös við brýndan ljá,

 

þá hverf ég eins og grösin að gráum rótarhnúð

og grafarþögn við skugga á þili undir súð

og myrkrið færist yfir og allt sem þú varst mér

er ekkert nema skuggi af sól í fylgd með þér,

 

en samt er þessi minning það milda ljós sem nú

fer margvíslegri gleði um vor sem enn ert þú.

 

 

 

Í fyrstu gerð sagði ég:  ...og haustið faðmar þær... en ég held þetta sé betra: ...og haustið færist nær.

 

 

 

Kvöldið

Styrmir hefur verið að tala við mig um álit sérstakrar ráðherrarnefndar sem ætlunin er að leggja fyrir þingið til lausnar deilum um fiskveiðistjórnunina. Grundvöllurinn um þjóðareignina siðferðilega réttur, en útfærslan útvötnuð tillaga auðlindanefndar. Álitið verður lagt fram í næstu viku og þá er mikilvægt Morgunblaðið slái réttan tón strax í upphafi, ef það yrði til þess Alþingi samþykkti góða lausn sem væri sannfærandi, en ekki hlægileg dúsa upp í okkur og aðra sem hafa gagnrýnt ástandið. Það verður áreiðanlega gert, við Styrmir erum sammála um afstöðuna og mun hann skrifa leiðara þess efnis. Hann les hann fyrir mig í næstu viku. Mér skilst honum þyki það betra.

 

Talaði lengi við Þröst Helgason í Þjóðarbókhlöðunni, ekki sízt um kver sem hann ætlar að skrifa upp úr samtölum okkar, en það verður ekki fyrr en eftir áramót.

 

 

Undir miðnætti

Heródótus - eða var það Xenófón-lýsir því hvernig grikkir þvoðu hár sitt og kembdu fyrir orrustuna við Laugaskarð, ef þeir féllu í bardaganum, og bendir til bræðra Brands Arnþrúðarsonar í Sturlungu löngu síðar. Hann fer einnig í herklæði sín til að hann  þekkist eins og Skúli fógeti síðar, ef hann yrði drepinn. Skúli fór í vitlausu veðri á Viðeyjarsundi í einkennisbúning sinn til að engum blandaðist hugur um, hver þar væri dauður, ef lík hans ræki á land! En hann lifði af. En bræðurnir voru drepnir eins og grikkir. Hár sitt þvoðu þeir  sem undirbúning undir himnaveizluna miklu yrðu þeir hálshöggnir.

 

Rit grísku sagnaritaranna, Heródótusar og Xenófóns, eru heldur áþekk og bæði með ævisöguívafi, enda reist á reynslu þeirra sjálfra og eigin heimildaöflun. Það er þessi skírskotun til eigin reynslu sem gerir þessi rit ekki sízt hnýsileg. 

 

Hef einnig lokið við Lífsins tré eftir Böðvar Guðmundsson. Ágætlega skrifuð frásögn, en fékk ekki áhuga á efninu. Fyrstu hundrað síðurnar af öllu þessu ritverki voru áhugaverðar og að mínu mati góður sagnaskáldskapu. Þær las ég fyrir löngu. En síðan breytist þetta í ferðasögu og loks í frásögn af skrítnu fólk sem kemur mér lítið sem ekkert við.

 

 

20. september,  fimmtudagur

Borðaði með Kristjáni Karlssyni á Holti í dag. Fínt, en kannski erum við farnir að gamlast dálítið. Styrmir hringdi og sagði okkur að Jóhannes Helgi væri látinn. Við minntumst hans sem góðs stílista og skapstórs drengskaparmanns. Hann skrifaði veðurmeiri stíl en ungt fólk í dag.  En hann var tortrygginn, það háði honum. Viðfangsefnið í Svartri messu er þessi tortryggni.

Ég minnti Styrmi á að Kristmann hefði orðið hundrað ára í næsta mánuði. Hann ætlar að athuga málið.

Annars er veröldin heldur döpur sem stendur. Og kannski er hún það alltaf, þótt við tökum ekki eftir því.

Það eru alltaf einhverjir sem taka eftir því.

 

Kristján fagnaði því að væntanlegt ljóðaúrval mitt verði stórt, þá ber minna á valinu, sagði hann. Segja má það sé alveg rétt. Hann telur að helzt eigi að gefa út dagbókina mína eins og hún leggur sig, ekki sem úrval. Það muni gera hana eins og þurrkað blóm. Hún eigi að vera lifandi eins og hún kemur fyrir af skepnunni.

Ég er að íhuga þetta. En hver hefði efni á slíkri útgáfu? !

 

Við Kristján fengum okkur dálítið í staupinu. Það var heilsusamlegt. Og við hæfi, því að við töluðum mest um Einar Benediktsson. Það eru allir dagar góðir til að deyja, segir í skáldsögunni Alkemistinn sem ég er að hlusta á í afslappaðri þýðingu Thors Vilhjálmssonar sem einnig les.

Það er falleg saga.  Hún fjallar um ferðina miklu, lífið sjálft. Þetta ólýsanlega kraftaverk. En á því er brotalöm. Illmenni geta ráðskazt með þetta líf og jafnvel ákveðið aldurtila ókunnugs fólks. Saklauss fólks sem  aldrei hefur gert flugu mein. Og það stendur ráðalaust andspænis þessum óboðnu gestum sem telja sér heimilt að gegna hlutverki örlaganna.

Eða jafnvel guðs.

Ég held hann verði að endurskoða kraftaverkið. Svipta illmennin þessu valdi sínu.

En mér er til efs að guð sé endurskoðunarsinni. En ég veit ekki af hverju. Trúi því ekki það geti verið einhver tilgangur í því að drepa annað fólk. Að minnsta kosti ekki guðlegur tilgangur. En djöfullegur tilgangur, það er annað mál. Og kannski er guði um megna að stjórna ferðinni þegar djöfullegur kraftur hins illa tekur sér bólfestu í mannssálinni og breytir henni í sína mynd; rétt eins og þegar eyðniveiran breytir varnarfrumum líkamans í sjálfs sín eðli og notar þær til að brjóta niður það kraftaverk sem efnið er.

 

Kvöldið

Í Alkemistanum segir m.a. svo:  Hjarta mitt er svikult, sagði pilturinn við alkemistann. ...Það er gott, svaraði alkemistinn, það sannar að hjarta þitt er lifandi... Hvers vegna á ég þá að hlusta eftir hjarta mínu... ? Vegna  þess að þú munt aldrei geta þaggað niður í því...  Og jafnvel þótt þú látir svo sem þú heyrir ekki það sem það er að segja þér, þá mun það ætíð stagast á því sem það hugsar um lífið og heiminn, jafnvel þótt það sé svikult. Svik eru alltaf óvænt áfall... Enginn má svíkja sitt hjarta svo það er betra að hlusta eftir því sem það segir...

Ég staldraði við svona hugleiðingar höfundarins, brasilíska skáldsins Paulo Coelho.

 

Ferðalag sögunnar er yfir eyðimörkina til píramíðanna þangað sem við Hanna og Ingó höldum innan tíðar. Og hvers vegna langar spænska hirðinn að komast til  píramíðanna sem í raun eru ekkert nema steinfjöll?  Vegna þess, svaraði pilturinn, að það var alltaf verið að segja mér frá þeim. Svarið sem hann fékk: ...Þetta eru ekkert nema steinahrúgur, þú getur komið þér upp einni slíkri í bakgarðinum þínum!

 

Hann var að leita að veraldarsálinni og allsherjarmálinu, kindurnar höfðu kennt honum að slík tunga væri  til. Sál úlfaldalestarinnar og sál eyðimerkurinnar tala sama mál. Eyðimörkin er óbreytanleg eins og hafið sem öldurnar breyta og sandurinn breytist með vindinum;  en eyðimörkin er alltaf hin sama.

Eins og hafið

 

En hvað er þetta orðlausa mál? Mundi það ekki vera ástin? Var það ekki reynsla hans þegar augu þeirra Fatímu mættust? Ást er það þegar tvenn augu mætast.

En allsjherjarmálið er sem sagt án orða.

Og hirðirinn hugsar einnig, að kannski væri hann að læra sögu allsherjarmálsins sem ber í sér fortíðina og framtíð allra manna

Mér finnst það líka flott þegar höfundur segir að einhver hafi sært þögn eyðimerkurinnar.

 

 

Seinna

Þegar ég var búinn að lesa Vötn þín og vængur inn á geisladisk sem á að fylgja ljóðaúrvali Silju brá Gísli Helgason, upptökumaður, á glens og spurði, hvort ég hefði heyrt söguna af því þegar Guðni Ágústsson skoðaði hauskúpurnar sem fundust í brunarústunum á Bergþórshvoli.

Ég sé ekki betur en þetta sé hauskúpan af Skarphéðni, sagði Guðni landbúnaðarráðherra um þá fyrri.

Þá var honum sýnd hin kúpan. Hann skoðaði hana gaumgæfilega og svaraði síðan, Ég sé ekki betur en þetta sé hauskúpan af Skarphéðni ...ungum!!

 

22. september, laugardagur

Nú eru þeir sem saknað er í World Trade Center orðnir 6,333. Þannig hafa nær 7000 manns farizt í þessum ósköpum. Það hefur þurft minna til að allt færi á annan endann í veröldinni. Samt fá sumir aldrei nóg. Mikið held ég við yrðum hissa ef við fengjum að vita hvað margir hugsuðu vestrænum þjóðum þegjandi þörfina.

Og svo fer kannski allt í bál og brand. En það gleður mig að Rússar hafa tekið sér stöðu gegn hryðjuverkamönnum og áhangendum þeirra í íslömskum löndum.

 

Kínverjum er ekki heldur sama. Og herforingjastjórn Pakistans á um sárt að binda. Hún hefur tekið mikla áhættu með því að lýsa frati á þessa hallærislegu talíbönsku trúbræður sína í ógnarstjórn Afganistans og lummulegt klerkaráðið þar eystra, sem skýlir hryðjuverkamönnum. Ég held ég hafi aldrei áður haft samúð með herforingjastjórn! Talaði t.a.m. á sínum tíma á almennum fundi gegn grísku herforingjastjórninni - og átti hún þó aðild að NATÓ!

 

 

Enn síðar

Hef talsverðar áhyggjur. Matthías nafni minn og Saga kona hans á leiðinni frá Ameríku til Evrópu, Haraldur og Brynhildur á leiðinni til Búdapest. Og Ingólfur á Bretlandseyjum.

Allt tekur þetta á viðkvæmni mína. En þá minnist ég þess sem móðir mín sagði eitt sinn, þegar við vorum að flækjast svona, að það væri engu líkara en fólkið hennar væri sígaunar. Þannig hófst þetta ævintýri líka í Björgvin, þegar Matthías afi  eirði ekki þar hjá fjölskyldu sinni, en leitaði til Íslands að tryggja sér Helgu Magneu ömmu mína.

Og hafnaði við hlið hennar í gamla kirkjugarðinum.

Foreldrar hans áttu bara tvö börn, stúlku og dreng. Hún lézt ung af barnsförum, hann var þá horfinn til Íslands. Þau hafa áreiðanlega hugsað sitt, ein í elli sinni.

 

Kvóti

26. september, miðvikudagur

Sverrir Hermannsson hringdi til mín í fyrradag, við ætlum að hittast á föstudag. Hann velti því upp hvort Morgunblaðið færi nú ekki að fagna tillögum milliþinganefndar  um fiskveiðistjórnun – og sviki þannig málstaðinn! Við vorum sammála að álitsgerð hennar væri útvötnuð niðurstaða auðlindanefndar. Og þar með óþarft millispil. Samt var það kannski nauðsynlegt, ég veit það ekki. En ég bætti svo við að ég teldi að Morgunblaðið mundi fagna þeiri viðurkenningu sem í niðurstöðunni væri fólgin,  þ.e. að auðlindin sé sameign þjóðarinnar og hún ætti að fá sína rentu  sem afnotagjald kvótahafa, þótt upphæðirnar væru hlægilega lágar í tillögum þessarar ráðherranefndar. Veiðigjaldið  mætti ekki vera hallærislega lágt - og þar með ósannfærandi sem sáttargrundvöllur. Ef Morgunblaðið fagnaði þeim hugmyndum vikji það frá skrifum okkar undan farin ár. En hófsamt gjald væri í lagi. Við Styrmir hefðum talað um þetta og værum sammála um öll þessi atriði.

Sverrir hlustaði. En ég held hann hefði viljað heyra annað!.

 

Fór svo yfir leiðara Morgunblaðsins með Styrmi í gærkvöldi og tel hann í góðu lagi, þótt hann henti ekki formanni Frjálslyndaflokksins sem  hefur áður sagt að við höfum svikið í þessum málum. Það var eftir síðustu kosningar og þá vegna þess við gerðum ekki atlögu að stjórninni vegna fiskveiðistjórnunarmálsins. Þannig hefði ríkisstjórnin haldið velli.

En ef við hefðum gert atlögu vegna þessa eina máls væri nú engin sáttatillaga í loftinu. Stjórnin hefði haldið velli þrátt fyrir kvótabraskið. Sverrir var líka harður andstæðingur tillagna auðlindanefndar og veit ég það fór mjög í taugarnar á Jóhannesi vini okkar Nordal, formanni nefndarinnar. En þeir eru samt búnir að veiða saman í Hrútu í sumar!

Það merkir: sáttir að kalla!

Andstaða Sverris stafar bara af hans pólitísku nauðsyn. Frjálslyndi flokkurinn byggist á því að stjórnun fiskveiða sé hneykslanleg – og það er rétt-, en ef sátt yrði um afnotagjald fyrir hagnýtingu auðlindarinnar gæti málið verið úr söghunni. Þá væri eignarréttur þjóðarinnar endanlega viðurkenndur og því yrði ekki breytt um alla framtíð. Að vísu væru meiri möguleikar á að nýir menn kæmust inn í kvótakerfið, ef farin yrði svonefnd fyrningarleið, eins og  margir vilja, þ. á m.  kratar að því er virðist, en um það er engin samstaða, ekki frekar en í auðlindanefndinni.

 

Sátt er þjóðarnauðsyn. Óréttlætið, siðleysið hefur verið látrið viðgangast nógu lengi. En það verður engin sátt um lágkúru , þ.e.  smánarafnotagjöld, þótt grundvallaratriðið sé í höfn. Hitt er svo annað mál, að kvótabraskið mun halda áfram, kerfið er þannig. En það verður viðfangsefni framtíðar

 

Annars er það athyglisvert hvað mikið er vitnað til allskyns aðilja í fyrrnefndum álitsgerðum sem hafa einlægt verið að sýna fram á að auðlindin sé ekki endilega þjóðareign. Og þá ekki sízt með allskonar lögfræðilegum brellum. Til þessara skrifa  er ótæpilega vitnað. En engum dettur í hug að vitna til þess aðilja sem háð hefur sleitulausa baráttu gegn siðleysinu og ólögunum, áður fyrrr með litlum sem engum stuðningi annarra; þ.e.  Morgunblaðsins.

Mundi það ekki segja dálitla sögu um glámskyggni samtímans? Ef Morgunblaðið hefði ekki skrifað eins og raun ber vitni, væru engar sáttatillögur á döfinni. Og enginn væri að leggja drög að nýjum frumvörpum um fiskveiðistjórnunina sem Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra boðaði í gær.

 

Það voru margir sem stálu eða reyndu að stela senunni í sjálfstæðisbaráttu okkar sem lauk 1918. Það eru einnig margir í svipuðum sporum nú um stundir.

En hvað gerir það, ef réttlætið nær fram að ganga.

 

Í tengslum við þetta dettur mér í hug minnisblað sem Einar Laxness vitnar til í afmælisbók sinni, en þar eignar Einar Arnórsson, afi hans,  sér og Bjarna frá Vogi allan heiðurinn af fullveldissáttmálanum 1918. Það heitir víst karlagrobb. Enginn ber brigður á ágæti þeirra félaga, en það er ekki stórmannlegt að niðra Jóni Magnússyni forsætistráðherra og öðrum nefndarmönnum, þeim Þorsteini M. Jónssyni og Jóhannesi Jóhannessyni, afa mínum, formanni nefndarinnar,  með þeim hætti sem gert er í minnisblaðinu.

Haukarnir í nefndinni, Einar og Bjarni, voru settir í undirnefnd með dönskum samninganefndarmönnum, til að gera uppköst, því að allir vissu, að það sem þeir gátu fallizt á mundu hinir einnig geta skrifað undir. Þetta voru hyggileg vinnubrögð og augljóst að Jóhannes og Jón Magnússon stóðu að þessu. Ég hef svo lýst því annars staðar – og þá  eftir Lárusi Jóhannessyni, móðurbróður mínum - hvernig Jón forsætisráðherra fylgdist með nefndarstörfum bak við tjöldin. Þeir Jóhannes töluðu þannig mikið við dönsku nefndarmennina utan nefndarstarfa, enda nutu þeir meira traust þeirra en a.m.k.  Bjarni frá Vogi sem Danir höfðu litlar mætur á.

Það er líka augljóst – og þarf ekki um að ræða - að engar niðurstöður fengust án samþykkis forsætisráðherra og formanns sambandslaganefndar sem mesta ábyrgð báru. Og mikil hyggindi voru það að setja gömlu sjálfstæðismennina í þvargið í undirnefndinni. Og þá ekki síður að fá mesta lögfræðing landsins til að  leggja drögin. Minnir á þegar fjölnismenn létu Tómas Sæmundsson um inngang Fjölnis, en gerðu svo þær breytingar sem þeim þóttu nauðsynlegar. Þannig eru fingraför Jónasar á víð og dreif í formálanum.

Þorsteinn M. Jónsson hefur minnzt nefndarstarfanna í Sambandslaganefndinni í samtali okkar og birtist það í Morgunblaðinu á sínum tíma.

 

Ódagsett

Hef haft í mörgu að snúast. Erlendur Sveinsson og Sigurður Sverrir hafa staðið í kvikmyndatökum hér heima. Nú er viðfangsefnið - skáldið!

Hef lokið við skáldsögu Ísabellu Allende, Daughter of Fortune. Ekki vantar að hún sé ágætlega skrifuð, en þó er einhver gamaldags tónn í henni sem mér leiðist. Hún minnir á sögur Howard Fast frá Kaliforníu. Það eru ágætar sögur og auðveldar aflestrar. Raunsæið öllu ofar! Góð afþreying. En ég sé hann er ekki í miklum metum í bandarískum bókmenntasögum. Og kannski orðinn eitthvað úreltur, ég veit það ekki.

Hef einnig verið að hlusta á Seamus Heaney lesa nýja þýðingu sína á Bjólfskviðu. Að mörgu leyti merkilegt verk, svo gamalt sem það er. Það er víst ort á engilsaxnesku, fjallar um hetjuna Bjólf og drekann Grendel sem hann drepur.  Þetta er hin mesta ófreskja, og þá ekki síður móðir hans sem Bjólfur drepur einnig; auk annarra dreka. Minnir á Sigurð fáfnisbana, enda ort einhvern tíma fyrir þúsund e.Kr. Sem sagt, barátta milli góðs og ills. Ágæt dæmisaga eins og ástandið er í heiminum, nú sem fyrr. Tolkien hafði mætur á þessum ævintýralega ljóðsagnaflokki - og þótti engum mikið! Borges talaði mikið um tvo aðra ljóðaflokka engilsaxneska frá þessum tíma, The Seafarer og orrustuna við Maldon; einnig kvæðið um orrustuna við Finsburgh.

William Morris var meðal þeirra sem áður höfðu þýtt Bjólfskviðu á nútíma ensku. Bjólfskviða þótti ekkert sérstaklega merkilegur ljóðaflokkur áður fyrr, en hefur nú sótt í sig veðrið.

 

Sagan

Hef verið að ljúka við söguna mína, Hann nærist á góðum minningum. Þegar ég hugsa um efni hennar, svo lengi eftir frumsamningu sögunnar dettur mér þetta í hug:

 Allt verður til af einhverju efni. Sá sem byggir sér timburhús býr ekki í skógi, heldur umbreyttum skógi. Þannig mætti segja að hann búi í umbreytingu. Skógartrjám hefur verið breytt í hús.

Þannig er öll list; umbreyting. Höfundurinn smíðar hús úr tiltækum efnivið. Segjum það séu persónur í lífi hans. Hann notar þær sem hráefni, en hann verður að umbreyta þeim. Enginn skrifar t.a.m. raunsanna lýsingu á annarri persónu af þeirri einföldu ástæðu að engir tveir menn sjá þessa persónu sömu augum. Þannig getur hún orðið efniviður í mörg slík timburhús. Ég tala nú ekki um þegar myndlistarmaður málar myndverk af Kristi - og fyrirmyndin er Erlendur í Unuhúsi!

En þannig er þessi skáldsaga mín samin; líklega eins og Sól á heimsenda og þá aðrar sögur og leikrit sem ég hef samið. Ég umbreyti því sem ég hef þekkt. Ég er ekki að lýsa einstökum trjám; né gamalkunnum skógi; heldur nota ég efni sem ég þekki í nýtt hús. Og það hýsir hugsanir mínar og reynslu sem hæfir þessu nýja umhverfi.

Mánudagur 15. október

Fékk svofellt tölvubréf frá Styrmi: ”Ég reyndi að ná í þig í síma síðdegis á laugardag, en það svaraði enginn sími hjá þér.  En það eru náttúrlega mikil tímamót,  þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefir samþykkt í prinsippinu gjaldtöku í sjávarútvegi sem við vorum kallaðir sósíalistar fyrir að boða fyrir einum áratug. Með beztu kveðju. SG”.

 

Svaraði þessu: ”Ég forðaðist þennan landsfund eins og heitan eldinn. Það var gerð mikil tilraun til að ég veitti fyrningarmönnum stuðning. Ég kom mér að sjálfsögðu út úr því, notaði m.a.  dæmisöguna um fleyginn í sjálfstæðisbaráttunni,þ.e. uppburð íslenzkra mála í ríkisráði Dana.,en um það hef ég fjallað í bókinni Klofningur Sjálfstæðisflokksins gamla.... Sagðist eiga þátt í stefnu Moggans og ég kæmi ekki aftan að vinum mínum þar. Mundi að öllum líkindum ekki verða á fundinum (enda hafði ég engan áhuga á því.).

Það var skilið.

Hanna var á fundinum, það kostaði 6000 krónur. Það voru nóg útgjöld í bili!

Annars er ég að verða búddisti, því þeir hafa sem kjarnaatriði:  ég veit það ekki... ég skil það ekki!

 

Ódagsett

Kvikmyndun lokið í bili s.l.  föstudag, það var víst í fyrradag, 19. okt.  s.l. En þeir halda svo áfram um miðjan nóvember. Þennan föstudag sáum við kvikmynd þeirra Erlends og Sigurðar Sverris um Svein vin minn Björnsson, listmálara. Það er fín mynd. Ef þeim tekst jafnvel upp með okkar mynd verð ég ánægður. Vonandi verður það svo eftir allt þetta umstang. Við Thor og Hanna sátum saman á sýningunni, það var gott að vera í návist hans. Hann er hlýr og góður. Sagði ég hefði verið farsæll kapteinn á Morgunblaðsskútiunni og tók undir með mér það væri gott að vera kominn í land og sinna öðru. Hann sagði ég hefði gerbreytt blaðinu. Minnti á að það hefði aldrei mátt nefna nafn hans á síðum þess fyrr en ég tók við því. Aðeins einu sinni hefði hans verið getið vegna misskilnings; hann var kallaður Þór Vilhjámsson!! Þór var einn af forystumönnum ungra sjálfstæðismanna og vann um tíma á Morgunblaðinu svo óhætt hafi verið að nefna nafnið. En Thor var á vinstri kantinum, Morgunblaðið, var upp á kant við þann kant!

Svona voru þessir tímar.

Við Thor föðmuðumst enda ævinlega góðir vinir gegnum þykkt og þunnt. Hann hefur aldrei látið mig gjalda vináttunnar við Kristmann sem hann fyrirleit. Og hann sagði ég væri drengskaparmaður. Það var svolítið annar tónn en hjá Sigurði A.!! Thor hitti naglann á höfuðið eins og oft áður, hann sagði við Erlend þegar hann hrósaði myndinni að hún væri föðurtorrek, það má til sanns vegar færa því að Sveinn var ekki alltaf metinn sem skyldi.

Nú hefur þess verið hefnt.

 

Hef verið að hlusta á geisladisk um búddatrú. Það dregur úr fordómum manns.

 

Fálka-grein

Myndbreyting skrímslis í hetju-þekkjum við það?

 

Sagði Kristjáni vini mínum Karlssyni í síðasta símtali okkar að ég hefði verið að fara gegnum skálsögu Victors Hugos,  Nítíuog þrjú. Það er frábær söguleg skáldsaga sem gerist upp úr stjórnarbyltingunni miklu í Frakklandi. Betri sögur hafa ekki verið skrifaðar. Hvernig hann fer með samtöl, það er með eindæmum! Og lýsingar allar eru eftir alvörumeistara. Samtal Robespierre, Dantons og Marat undir miðbik sögunnar er eftirminnileg snilld. Samkvæmt því hafa þeir allir verið óþolandi, nei illmenni. Marat þó sýnu verstur. Jafnvel Robespierre þolanlegur í samanburði við hann.

Þetta hafa verið ómenni a la Kremlverjar eftir byltinguna. Og ég sem hef talið mér trú um að mín bylting hafi verið gerð 1789! Bylting borgaranna, og hún var náttúrlega söguleg nauðsyn eins og allar byltingar!  En þremenningarnir stálu henni eins og stalínistarnir í Moskvu byltingu kommúnista á sínum tíma. Og svo stal Napoleon, sagður mikli,  byltingunni af þeim og gerðist einn helzti hryðjuverkamaður í sögu Evrópu!

Það er ekki skrítið þótt Hugo hafi ekki kunnað að meta Napoleon lll eða litla  sem sendi hann í útlegð til Ermarsundseyja kringum miðbik 19. aldar. Hugo var lýðræðis-og lýðveldissinni, en móðir hans hafði verið konungssinni svo að hann átti dálítið um sárt að binda í þeim efnum. Þess sér líklega stað í sögunni, skáldið fylgir engum að málum:  í byltingu... er engin sök eða sekt. . við erum undir guði eins og gras undir dögg... sköpunarverkið er kraftaverk í fullum blóma..., segir skáldið.

Þrátt fyrir allt.

Hugo var snillingur. Og síðari tíma skáldsagnahöfundar hafa ekki farið fram úr honum. Man varla eftir nokkrum sem hefur náð þessu yfirgengilega , en þó jarðbundna flugi í stíl og frásögn. Þannig mætti segja að í skáldskap hans renni saman rómantísk frásagnarlist og miskunnarlaust umhverfisraunsæi. Og þá ekki sízt skírskotunarhæfni sem gerir miklar kröfur, en stækkar verkið.

Kornungur skrifaði Hugo skáldsöguna Han d ´ Islande. Ég hef ekki lesið hana, en mér skilst hún  fjalli m. a.  um dverg með þessu sama nafni . Hann á rætur á Íslandi af öllum stöðum og er einskonar fyrirmynd hringjarans í Notre Dame, Quasimodos. En fyrirmynd Myriels byskups í Vesalingunum síðar tekur dverginn víst að sér og hann flækist til Noregs þar sem Niðarósdómkirkja verður á vegi hans. Þar fremur hann  ýmsar tröllslegar kúnstir og ríður m.a. á ísbirninum Vini!!

 

Margt af þessu bendir til síðari skáldsagna Hugos, en þannig kemur Ísland við sögu í lífi þessa dverghaga meistara og list hans. Og engu líkara en Ísland sé sjálfsögð umgjörð um svo tröllslegt ævintýri. Það segir sína sögu.

 

 

Völdum af matseðli Hótels Holts forréttinn Saltfisks brandade með djúpsteiktri hörpuskel og sósu “Bouillabaisse”, en í aðalrétt Steiktan þorsk með kryddjurtaskel, grænmetisravioli og parmesanfroðu. Eftirréttur að hætti Hótels Holts. Verð kr. 2050. -

  Sódavatn með mat. René Martin með kaffi, í minningaskyni. .

 

Ég  nefndi þetta við Kristján, næst þegar við hittumst í Holti. Hann las Hugo fyrir rúmri hálfri öld, þegar hann var við nám vestur  í Kaliforníu Hann sagði að síðari tíma skáldsagnahöfundar hefðu ekki kraft Hugos og skírskotunarafl. Við urðum sammála um að þeir hefðu gefizt upp og hætt að keppa við þessa nítjándu aldar kappa. Þeir fóru því að skrifa öðruvísi sögur. En stóra skáldsagan dó með nítjándu öldinni, hvað sem líður Proust og  Joyce. Þeir ræktuðu sinn garð og tókst vel.

Nútíminn má vel una verkum þeirra, satt er það. Þó er ég ekki viss um nema nútíminn hafi í raun farið á mis við þau.

Það skyldi þó ekki vera! .

 

 

Þrjár höfuðpersónur eru í Níutíu og þrjú,  Lantenac markgreifi, gamall aðalsmaður, sem er kannski aðsópsmesta persóna sögunnar, hann er fulltrúi gamla tímans, honum er smyglað til Frakklands í því skyni að hann stjórni bændauppreisn; Cimourdain, fyrrum klerkur, húmanisti og byltingarmaður sem er í nánum tengslum við fyrr nefnda byltingarleiðtoga, en húmanismi hans er ómannúðlegur ofsi í þágu byltingarinnar (einkennilegt að í byltingu skuli þurfa svo níðingsleg fantabrögð í þágu nýs og betri tíma, segir í sögunni), en hann fremur sjálfsvíg í lokin; og svo Gauvain, stórfrændi Lantenac, markgreifa og ástsæll lærisveinn Cimourdains. Gauvain leyfir markgreifanum að sleppa úr haldi eftir blóðugan bardaga við skæruliða ,  en Cimourdain lætur drepa hann fyrir bragðið eftir harla manneskjulegt  og raunar eftirminnilegt samtal í fangelsinu. Þeir deyja um svipað leyti,  Gauvain á höggstokknum, Cimourdain fyrir eigin hendi; byltingin holdi gerð. Samt hafði hann verið vilji hennar, hermennirnir umhverfis viljalaus mergð.

 

Og áhorfendur.

 

En eftirminnilegust er þó bóndakonan fátæka sem horfir upp á mann sinn drepinn og leitar að börnum sínum þremur sem rænt er í harmleiknum. Hún finnur þau í kastala þar sem barizt hefur verið og Lantenac hættir lífi sínu, ekki einungis fyrir kóng og föðurland, heldur bóndakonuna fátæku og börnin hennar, bjargar þeim úr eldsvoða og gengur þannig glaðbeittur í greipar borgara Cimourdains sem hyggst lífláta hann þar á staðnum ,  þó í kjölfar alþýðudóms sem hefur síðan verið uppáhaldstæki þjóðfrelsishreyfinga og byltingamanna af ýmsu tagi. En Gauvain yfirforingi leyfir konungssinnanum gamla að sleppa og er þannig réttdræpur sjálfur.

 

Ógleymanlegar eru hugleiðingar Hugos um réttlæti og ranglæti sem látnar eru fara fram í hugskoti þessa hugsjónaheita stríðsmanns lýðveldissinna. Þar vinnur skáldið sinn mikla sigur í verkinu því að hann fórnar öllum áróðri fyrir djúpristar kröfur um mannúð. Hræðilegasti dómarinn, samvizka okkar, er þarna að verki í hugarfylgsnum Gauvains. Markgreifinn hafði framið hetjudáð, það var allt og sumt. Hann hafði bjargað þremur föðurlausum börnum og fórnað sér fyrir þau og móður þeirra.

Metamorfósis, já! Óvinurinn,  skrímslið mikla breyttist í hetju.

Það varð umbreyting í hugarfari Gauvains.

 

Var hægt að ætlast til meira af þessum gamla stríðsmanni  fallandi konungsveldis? Var hann réttdræpur fyrir bragðið? Nei, hræðilegasti dómstóllinn sagði nei, hvað sem byltingunni leið.  Þetta er boðskapur Hugos og hann á einnig erindi við okkur.

Ekki sízt okkur.

Byltingarmaðurinn Dzhugashvili heillaðist að klerknum Cimourdain, þegar hann las þessa miklu sögu í fangelsi og breytti nafni sínu eftir þann lestur í Stalín. Ofstæki þessa byltingarleiðtoga hentaði manninum frá Grúzíu. Og eiginlega fannst okkur Kristjáni við nánari athugun þessi mikla saga fjalla um stalínstímann og það skjólleysi sem var umhverfi kalda stríðsins.

Og þá ekki síður hatursátökin nú um stundir.

 

Og þá eru hugrenningar Lantenac gamla ekki síður athyglisverðar þarna í dýflussinni. Hann er einarður, ósvifinn við Gauvain frænda sinn og hirðir ekkert um höggstokkinn sem bíður hans: Hvernig lízt þér á ástandið, frumlegt? Rousseau og aðrir heimspekingar... bækurnar þeirra voru brenndar í staðinn fyrir þá sjálfa! ... Einu sinni voru kóngur og drottning í ríki sínu. Kóngurinn var kóngur, en drottningin... Frakkland. Kóngurinn var hálshöggvinn, en drottningin... hún var gefin Robespierre. Þau skötuhjúin eignuðust barn sem heitir Höggstokkur, ég kynnist honum á morgun og ég fagna því. Þá hittumst við. Hefurðu ekki verið hækkaður í tign?

Þú ert frjáls, sagði Gauvain og fórnaði sjálfum sér , ekki fyrir byltinguna, heldur samvizku sína.

Hver hefur hugrekki til þess á  þeim plasttímum sem við nú lifum?

Ekki þeir sem drepa saklaust fólk án alls samráðs við sinn hræðilega dómara.

 

Victor Hugo var einnig eitt helzta ljóðskáld Frakka um sína daga, orti bæði mikil kvæði og falleg ljóðræn kvæði. Flestir Frakkar, sagði Kristján, eru þeirrar skoðunar að hann sé helzta ljóðskáld þeirra; þrátt fyrir karla eins og Rimbaud, Verlain og Beaudelaire, mætti bæta við, því þar eru engir aukvisar á ferð,  heldur bóhemskir fullhugar nýrra tíma í ljóðlist-og þá auðvitað einnig menningarlegri sagnfræði. Modernismi þeirra virðist þó ekki skírskota  til alþýðu manna með sama hætti og ljóðlist Hugos og hefðbundnu skáldanna. Sama sagan hér heima, hvað sem öðru líður, a.m.k. enn sem komið er.

En Hugo blívur.

Hann var ótrúlegur, sendi Napoleon skeyti frá Ermarsundseyjum og hélt sínar ástkonur fram í rauðan dauðann. Víagralaus! Ein hin síðasta hét Blanche og var þjónustustúlka á heimilinu. Hún var send frá Gvernsey til Parísar til að efla heimilisfriðinn! Þá var skáldið á áttræðisaldri. Og þá hafði hann ort til hennar fallegt kvæði sem hefst á þessari lýsingu:

Hún fagnar ástinni og öllum eldum hennar...

 

Komnir á sæmilegan fullorðinsaldur kunnum við Kristján vel að meta blikið í augum Hugos  um þessar mundir og ástríðufullt kæruleysi þessa gamla skálds! . 

En það sem skiptir mestu máli er þó sú staðreynd að Hugo skrifaði einnig fram í rauðan dauðann önnur eins verk og Nítíu og þrjú.

Það hafa ekki allir gert.

 

Uppúr samtali þremenninganna fyrrnefndu koma þessar athugasemdir: Prestar bráðna  í  borgara eins og klukkur í kanónur ... Guð er úr tízku, sagði Danton... Það er auðveldara að deyja en lifa... Ertu særður? Ég er nógu hress til að verða skotinn...!

 

Áður hafði sögunni verið lýst í einni setningu: Þar sem er vindur, þar eru öldur. Einnig ... hrukkur vekja traust...

Það er góð athugasemd og hentar okkur Kristjáni vel!

 

Jakobínarnir áttu eftir að horfa í eggina áður en langur tími var liðinn. Fyrir miðjan áratuginn voru þremenningarnir allir dauðir. Og enginn saknaði þeirra. Siðferðileg spilling fylgir miklum völdum og hún er , því miður, ekki sízt fylgikvilli lýðræðisins þar sem  heimaríkir hundar baða sig í kjörfylginu -en það er verra þegar völdin lenda í höndum illmenna eins og byltingarforingja frönsku stjórnarbyltingarinnar sem lögðu hornsteininn að okkar eigin þjóðfélagi, að vísu.

 

Þá er höggstokkurinn á næsta leiti.

Og  þá getur hinn lýðræðislegi pendúll gengizt undir einhverja napólí -jóna sem hefjast sem hetjur, en enda sem hryðjuverkamenn .

Og þá fer lýðræðið að útdeila fálkaorðum eins og ekkert hafi gerzt!

_________________

 

 

 

Hef einnig farið yfir kínverska sögu eftir Ha Jin, Biðin. Þetta er fín saga sem hlaut að verðleikum National Book Award í Bandaríkjunum; hún fjallar um kínverskan herprest og ástir hans, allskrautleg með köflum, nauðgun, hálfgert tvíkvæni og harmræn örlög. Sýnir áreiðanlega vel inn í kínverskt samfélag. En það sem ræður úrslitum: hún er vel skrifuð.

Benti Kristjáni á þess ágætu sögu Þótt hún sé verðlauna- og metsölusaga er hún engin hrákasmíð, þvert á móti. Verðlaunaverk geta staðið fyrir sínu, þótt það þurfi ekki að vera reglan, ekki endilega.

 

 

Svar við óskum Bjarts, þ.e.  hvaða íslenzkur höfundur hefur skipt mig máli á síðustu öld? Þetta á víst að fara í eitthvert sérhefti.

 

Andsvar handa Bjarti

Grímur Thomsen sagði ungur að Bjarni væri skáld, en Jónas ekki. Síðar sneri hann við blaðinu og kallaði Jónas listaskáld. Það var eftir andlát Jónasar.

 

Þetta segir mikla sögu, gamla og nýja. Það er ekki skáldið sem slíkt sem hefur síðasta orðið, heldur afstaða og tilfinningalíf lesandans. Hann breytist, skáldskapurinn ekki!

 

Það er nánast ógerningur að benda á þau skáld eða rithöfunda – hvað þá einn rithöfund -  sem haft hafa einhverja þýðingu fyrir mann ungan - og það af þeirri einföldu ástæðu hvað þar eiga margir höfundar hlut að máli og hve áhrifin eru fjölbreytileg. Mest áhrif hafa haft á mig nokkur erlend skáld eins og Whitman, Dylan Thomas og Auden sem ég kynntist ungur og skrifaði um. Einnig held ég það hafi orðið hlutskipti mitt á sínum tíma að kynna Thomas fyrir Íslendingum, það var víst í smágrein í Morgunblaðinu.

Íslenzki hópurinn er allstór og raunar fáránlegt að fara að tíunda hann. Ungur var ég samfylgdarmaður gömlu skáldanna og lærði ýmislegt af þeim, ekki sízt fornskáldum.  En við nánari athugun held ég þeir höfundar hafi verið mér mikilvægastir sem ég hef kynnzt persónulega, en þó einkum þeir sem ég hef skrifað um, þ.e.  fjallað um í bókum mínum og samtölum, án þess ástæða sé til að geta þeirra með nöfnum. Allir hafa þeir skipt mig máli, bæði sem aðhald og uppörvun. Þó held ég þeir hafi haft dýpst áhrif á mig sem hafa lesið yfir ljóðahandrit mín, áður en þau höfnuðu á prenti, en þeir voru Steinn Steinarr sem las yfir fyrstu ljóðabók mína, Borgin hló, og raðaði niður ljóðunum, Tómas Guðmunsdsson sem tók við þessum starfa og annaðist þetta aðhald fram á áttunda áratuginn og svo Kristján Karlsson, mestur estetikker íslenzkur á þessu tímabili og í röð þeirra örfáu ljóðskálda sem hafa skipt mig einhverju máli. Þó ekki metinn sem skyldi.

 

Hitt er svo auðvitað annað mál að enginn skyldi raða samtímaskáldum í gæðaflokka, svo háskasamlegt sem það getur verið eins og dæmin sýna. Glámskyggni samtímans er með þeim eindæmum að maður getur auðveldlega lent í hallærislegri lágkúru þegar fram líða stundir.

 

Mér er það minnisstætt sem Kristján Albertsson sagði mér á sínum tíma um samtal þeirra Bjarna frá  Vogi, þegar Kristján var ungur eldhugi og aðstoðarmaður í sölum Alþingis sem var einhvers konar annað heimili  þeirra sem töldu sig eiga Ísland (rétt eins og nú!). Bjarni sýndi honum grein um skáldskap sinn í þýzku menningartímariti og þeir töluðu eitthvað um skáldframa Bjarna sem sagður var fremsta skáld landsins í riti þessu. Það komu einhverjar vöflur á hinn unga,  uppvöðslusama þingsvein sem hafði sínar skoðanir á málinu, en þegar Bjarni sá það sagði hann ákveðið – og Kristjáni væntanlega til áminningar: Þér skuluð ekki halda, ungi maður, að ég hafi einhverjar áhyggjur af Einari Benediktssyni, ef  þér eruð eitthvað að ýja að því!

 

Þetta var að vísu alveg rétt athugað hjá Bjarna frá Vogi, með tilliti til þess hvað það er auðvelt að þýða alls kyns leirburð, en Einar Benediktsson er óþýðanlegur; rétt eins og Tómas og Tíminn og vatnið, svo að dæmi séu tekin. Ljóðlist er það sem glatast í þýðingum, sagði Robert Frost.

 

Sjálfur dýrkaði Einar hugsuð eins og Björn Gunnlaugsson, en það var ekki á skáldskaparlegum forsendum, þótt sumir virðist halda það. Hann var að vísu skáld,  þó einungis í einu og einu smáerindi. En útsýn og eldlegan áhuga skorti ekki að öðru leyti.

 

Þegar ég hugsa um það hallærislega dæmi sem ég hef nefnt, dettur mér ekki í hug að tíunda ágæti íslenzkra skálda og rithöfunda á síðustu öld, hvorki fyrir Bjart né neinn annan; slík upptalning gæti orðið til þess maður sæti uppi einn góðan veðurdag eins og hvert annað náttröll sem fór á mis við sólina í samtíðinni.

Hitt er svo annað mál hverjir eru mikilvægir í lífi manns og störfum. Þá hef ég reynt að nefna, þótt annarra sé ógetið.

 

24. október, miðvikudagur

Í nótt dreymdi mig Margréti Heinriksdóttur sem var Bjarnason þegar við unnum saman á Morgunblaðinu. Það er vont að dreyma nafnið Margrét og áður fyrr einnig Margéti Bjarnason, en nú er það öllu betra.  Ég veit ekki af hverju Það er einkennilegt eins og hún er fín kona og merkileg og full af mannkostum. Einkennilegt, eins og gott er að dreyma Sigurð og þá einnig Sigurð A.  Magnússon eins og blóðið er illt í honum með köflum. Það eru nöfnin sem gilda , ekki persónurnar.

Þegar við vorum saman á Morgunblaðinu orti Margrét falleg kvæði, ótrúlega góð, sem hún bað mig lesa. En ástríður hennar stóðu ekki til skáldskapar og ég veit ekki hvað varð af kvæðunum. Hún tók aftur á móti lögfræðipróf af miklum dugnaði og gerðist dómari. Ég held það hafi farið henni vel. Hún er húmanisti.

 

25. október, fimmtudagur

Kristján Karlsson las á Holts-fundi okkar yfir greinar mínar í Bjart og Fálkann. Líkaði vel og þakkaði mér fyrir. Hann sagði að fordómarnir gegm Einari Benedikltssyni hafi gengið svo langt, að Sigfús Blöndal hafði ekki eina einustu tilvitnun í verk hans í sinni miklu orðabók um íslenzkt mál. Það kom ekki fyrr en með viðbætinum. Við vitum ekki ástæðuna, en þetta segir talsverða sögu um umhverfi okkar.

Kristján sagði mér líka að Sigurður Nordal hefði verið stríðinn. Ummæli hans um Hugleiðingar og viðtöl hafi verið stríðni í aðra röndina (skemmtileg bók, en vond bók!). Hann stríddi Kristjáni með því að fullyrða að Mývetningar hafi litið niður á Húsvíkinga og Þingeyingar hafi verið flámæltir! Kristján aftók þetta með öllu, en Nordal sat við sinn keip!

Ekki held ég Nordal hafi verið að stríða Kiljan þegar hann skrifaði um Ljósvíkinginn og Sólon Íslandus Davíðs Stefánssonar í sömu andrá, en það má þó vel vera. Það var í stríðinu og Nordal mikill aðdáandi Davíðs og hefur líkað efni hans, íslenzk sveitarómantík. Ég man líka vel hvað danska skáldið Poul P. M. Pedersen, þýðandi okkar, var mikill aðdáandi þessarar sögu Davíðs. Jón Óskar tók svo þennan listhneigða utangarðsmann upp á sína arma, þess sér stað á sýningu á handritum hans í Þjóðarbókhlöðunni  um þessar mundir , en þar kemur Sölvi Helgason eða Sólon við sögu.

Þegar ritdómur Nordals birtist kom Kiljan við á Borginni og sagði, Hvergin er hægt að  bregðast við svona skrifum, er nokkur leið önnur en forða sér til útlanda!

Hann var farinn eftir tvo daga...

 

...Töluðum um margt fleira, t.a.m.  Sverri Kristjánsson og hvað hann var ólíkur skrifum sínum oft á tíðum. Hann var yfirleitt ljúfur í samtölum, en þegar hann fjallaði um pólitíska andstæðinga breyttist hann í myndhverfan ofsa. Þá var hann að skrifa fyrir Kristin og kommana. En hann var fyrst og síðast rómantíker og viðræðugóður, talaði t.a.m.  oft um annað en sjálfan sig! Og mikið tók hann mér vel í Kaupmannahöfn, þegar Aðalgeir Kristjánsson kynnti okkur svo ég gæti sýnt honum ljóðahandrit mitt. Hann tók því sérlega vel og við urðum miklir mátar. Hann sagði það væri arkítekt sem hefði ort þessi kvæði.

Þegar við komum heim var hann allur öfugsnúinn og vildi ekkert með ungan blaðamann íhaldsins hafa. Skrifað m.a.  skammargrein í TMM um okkur Jóhann Hjálmarsson. Ég náði mér niður á honum með því að skrifa huggulega afmælisgrein um hann í Mogga. Mig minnir ég hafi sagt hann væri 19. aldar rómantíker  hvað sem 20. öldinni liði. Þegar ég nokkru síðar kom niður á Hótel Borg sat hann þar ásamt nokkrum borðfélögum sínum, en stóð upp, þegar ég birtist og faðmaði mig. Þá réð hjartað ferðinni. Og kommarnir víðs fjarri!...

 

...Kristján minntist á bréfabók Jóhannesar afa míns og dr.  Valtýs, sagði að Jóhannes hefði skrifað afar góðan stíl. Minn stíll minnti verulega á hann, en hann væri safaríkari.

Þetta kom mér ekkert á óvart. Jóhannes var mikill bókmenntamaður eins og hann átti kyn til, kominn af Thorarensenum, Hafsteinungum og síðast en ekki sízt Schevingum, Lárus Blöndal, bókavörður sem sjálfur var mikill smekkmaður á bókmenntir og norrænufræðingur, sagði mér að Jóhannes hefði ,  ásamt Sigurði Nordal, verið mesti estetiker sem hann hefði kynnzt um ævina. Bókmenntasmekkur hans hefði verið frábær. Um þetta talaði hann þó aldrei við mig, þrátt fyrir löng samtöl okkar, ekki frekar en stjórnmál,enda var ég ekki orðinn stúdent,þegar hann dó í febrúar 1950.

Ég heimsótti afa minn oft í viku og þá talaði hann helzt um  skólann og námið í MR. Þá hafði hann áhuga á slíku efni. En hið liðna pólitíska bardús skipti hann engu.

Eitt sinn í hárri elli kom hann niður snemma morguns , hálfringlaður og að líkindum eftir smááfall um nóttina, og spurði um málsskjölin sín. Hann var ekki þingmaður, heldur bæjarfógeti.

 

Frændur mínir hafa verið stílgóðir pennar, ekki sízt Lárus, móðurbróðir minn, sem skrifaði óvenjugóðar greinagerðir með sínum málum fyrir hæstarétti og þá ekki síður Guðjón læknir, sonur hans,  sem hefði  að mínum dómi vel getað orðið prýðilegur rithöfundur. En hann hefur orð á sér fyrir að vera frábær læknir, það segja mér kollegar hans.

 

Ódagsett.

Eva María hjá sjónvarpinu vill endilega eiga við mig samtal fyrir Stöð 1. Hef að vísu lítinn áhuga á athygli, en Vaka Helgafell hefur verið að ýta á þetta,  svo að ég kann ekki við annað en verða við því fyrst þeir eru að gefa út tvær bækur eftir mig, ljóðaúrval Silju og skáldsöguna, Hann nærist á góðum minningum.

 

Hér eru nokkrir punktar,  ef til kæmi.

 

Áhugi minn á fjölmiðlum nú um stundir?

Lítill!

Fylgist illa með íslenzku pressunni, þó misjafnlega. Hanna bendir mér á það sem hún telur ég hafi áhuga á. Er samt ekki að verða eins og Hamsun sem einangraðist að eigin sögn vegna heyrnarleysis. Ég heyri grasið gróa eins og Heimdallur! Stundum heyri ég of vel!

 

Horfi stundum á sjónvarpsfréttir, ekki sízt CNN og Sky.

 

Fjölmiðlar verka oft illa á mig. Gera mig leiðan, ekki sízt íslenzkir fjölmiðlar. Ég er búinn að fá minn skammt af þeim. Ofnæmi? Já, kannski einhvers konar ofnæmi, með köflum. Eða öryggisleysi, ég veit það ekki. Það er ákaflega fátt sem ég þarf að fylgjast með, sem betur fer, ákaflega fátt.

Ég tek margt nærri mér, hef alltaf gert-og það hefur ekkert breytzt(! )Ekki endilega það sem snertir mitt nánasta umhverfi, heldur einnig þjáningar annars fólks sem þarf að þola það sem ég væri ekki maður til að takast á við. Og nú er ég að yrkja ljóðaflokk um þjáningar fíkniefnafjölskyldunnar. Ekki vegna þess ég þekki þessa þjáningu af eigin raun,  heldur vegna þess ég upplifi hana með öðrum.

 

Hafði hálfgaman af því að ástæða þótti til að endurbirta samtöl mín við Kristmann í Lesbók, í tilefni af 100 ára afmæli hans. Margir minntust á þetta við mig, þ. á m.  Kristján Karlsson sem leggur ekki mikið uppúr fjölmiðlasamtölum. En þetta fannst honum fjörlegt og gott. Það gladdi mig. Sjálfur er ég ánægður með þessi samtöl, þau lýsa Kristmanni vel, held ég,  viðbrögðum hans og látæði. Hann var ágætur karl, en ólíkindatól. Tók mér vel og okkur varð vel til vina. Ég hnoðaði hann eins og mér sýndist, byrjaði samtalið á því að láta hann ráðast á Kompaníið,  sem ég hafði sjálfur skrifað, það mundi vekja athygli og gera samtalið sannferðugt. Kristmann fyrirleit Þórberg...

 

Nú hef ég dálítið gaman af því að sýsla með Fálkann í samstarfi við Ragnar Halldórsson sem átti á sínum tíma mikið samtal við mig í Aðalstöðina og Salvöru Nordal, þau eru miklu yngri en ég og það ýtir undir mig. Mér yngra fólk verkar vel á mig og ég nýt mín held ég í slagtogi með því. Ef mér finnst eitthvað til þess koma á annað borð. Af þeim sökum einum sakna í Morgunblaðsins.

 

Þegar ég var í barnaskóla las ég  Hróa hött í Vísi. Aðalmaðurinn á blaðinu var sá sem bar hann út á Hávallagötu , ég gæti lýst honum nákvæmlega.

 

Þegar ég var í MR  las ég aðallega  myndasöguna um X-9.

Það er talið ellimerki að hætta að fylgjast með. Ég tel það sé merki um búddiska fullkomnun. Hef ekki náð henni enn. .

 

Hvað um blaðið og frelsi þess?

 Er ekki nægilegt að horfa á það, þegar ég hvarf frá því sem ritstjóri? Ástæðulaust að vera að tíunda þessa þróun enn einu sinni, hún blasir við. Auk þess spegla fjölmiðlarnir sinn tíma og tímarnir hafa breytzt, það er allt og sumt!

Ég var mikill vinur ritstjóra Tímans, bæði Þórarins og Indriða G. Þorsteinssonar, enda bókmenntasinnaðir menn og Indriði einn helzti prósahöfundur okkar á síðari hluta 20. aldar. Við rifumst hóflega og það breytti engu. Vinátta okkar hélzt.

Ég á bækur eftir Kristin E.  Andrésson og Magnús Kjartansson með áritunum um vinátta, Magnús skrifaði að lokum margar greinar í Morgunblaðið, kunni bezt við sig þar, sagði hann mér. Við Svavar Gestsson erum einnig miklir mátar, enda er hann fagurkeri með skáldlegan neista.

Ég gæti nefnt fleiri keppinauta og vináttu við þá. Við Árni Bergmann vorum til að mynda saman á bókmenntahátíðinni í Gautaborg og það komst ekki hnífurinn á milli okkar, þegar við vorum að kynna bækurnar okkar áhugasömum Svíum; einkum konum!!

Og svo réð ég gamla ritstjóra Alþýðublaðsins að Morgunblaðinu, Freysteinn Jóhannsson og Björn Jóhannsson eru þar enn. En Gísli Ástráðsson í helgum steini. Það er þar sem blaðamaðurinn þarf ekki lengur að hugsa um rithöfundinn eða hafa áhyggjur af honum, því að skáldið er alls ráðandi í þessum steini. Það er mín reynsla.

 

Þegar ég skrifa sögu er alltaf verið að spyrja: Er þetta ekki ævisaga? Auðvitað ekki(!) Hann nærist á góðum minningum er  er einskonar Hólmgönguljóð í prósa

Allt verður til af einhverju efni eins og Snorri sagði. Timburhús eru byggð úr trjám sem vaxa í skógi. Samt er ekki hægt að segja að þeir sem búi í timburhúsi  eigi heima í skógi! Trén eru einungis hráefni eins og fólkið í umhverfi skáldsins. Það er tilhöggið eins og trén og saman sett eftir teikningu höfundarina. Það er allt og sumt.

 

Svo er einnig hægt að segja eins og Stephen King í  minningum sínum, Um að skrifa, að höfundur eða lesandi getur að loknu verki litið á einstök tré, skoðað þau og reynt að gera sér grein fyrir skóginum sem þau hafa myndað. Annars finnst mér einkennilegt að King skuli hafa talað um skóg og tré, ég hafði ekki hugmynd um það, þegar ég var, með skírskotun í skóginn, að reyna að lýsa vinnubrögðum mínum!

 

Þá má geta þess hér í framhjáhlaupi að sumir hafa ekki einungis gert hús úr timbri, heldur  gálga eða höggstokka; hýst hugsjónir sínar og hugmyndir í slíkum skógi. Það er þeirra umhverfi, en ekki mitt.

 

Síðasti kafli skáldsögu Hugos, Níutíuog þrjú,  lýsir slíku umhverfi af óvæginni snilld. Menn eru drepnir. En sóleyjan vex og blómstrar við fætur okkar. Trén laufgast, þrestirnir syngja í trjánum. Og stjörnurnar tindra.

Hvað sem manninum líður.

 

Það er ekki einu sinni í samtölum hægt að lýsa fólki eins og það er. Mín samtöl fjalla um það hvernig ég hef séð viðmælendur mína... Hef skrifað þau oft og tíðum eins og smásögur... í slíkum stellingum... eins og myndlistamenn  upplifa náttúruna... Esja Kjarvals er önnur Esja en allra annarra, jafnvel er ein Esja hans frábrugðin annarr... Enginn hefur málað Herðubreið eins og Sveinn Þórarinsson eða Stefan vinur minn í Möðrudal. , blessaður. . Fegurst var hún úr eldhúsglugga Katrínar tengdamóður minnar.  Sú Herðubreið dó með henni... .

 

Umhverfið er oftast það sem höfundur þekkir, en persónurnar meira og minna fixeraðar, eða tilbúnar.  Nabokov segir  þetta sama í samtali sem ég sá í Learning Zone BBC um daginn, veit ekki betur en það sé rétt... En þó veit maður aldrei. . !    . Það hefði orðið helmingi meiri hvellur en raun bar vitni,  þegar hann birti Lolitu í Frakklandi 1955 og nokkru síðar í USA, ef einhver hefði trúað því að hann væri sjálfur höfuðpaurinn í sögunni! En slíkir menn eru til bæði austan hafs og vestan, ekki bara í skáldverkum, heldur einnig í umhverfi okkar. 

Því miður.

 

Hugo

Einu sinni skrifað ég sögu um stalinismann, það var einskonar heimildasaga. Ég mátti víst þakka fyrir meðan enginn spurði mig, hvort þetta væri ekki ævisaga mín, eða endurminningar! Samt heyrði ég sagt eftir einhverjum sem hafði lesið söguna: Mikið er hann Matthías. heillaður af einræðisherrum! !

Sannleikurinn er sá að ég fyrirlít völd og þá ekki sízt einræðisherra, hvort sem þeir eru í einræðisríkjum eða lýðræðisríkjum. Já, því miður eru þeir einnig fylgikvillar lýðræðis, oft á tíðum. Eða hverjir stjórnuðu lýðræðinu í Frakkladi, Marat, Danton og Robespierre. Alls kyns eftirmyndir þeirra eru eins og svipir á þili sögunnar. Nei, þar eru ekki allir stjórnendur lýðræðissinnar, ekki endilega.

Lýsing Viktors Hugo á þessum byltingarmönnum franska lýðræðisins, gjörðum þeirra og umhverfi er aldeilis óborganleg. Hún birtist í brýnustu skáldsögu um okkar tíma sem ég  þekki og hef verið að lesa, Níutíuog þrjú, miklu merkilegri úttekt á þessum hræringum en hægt ert að gera í nokkru sagnfræði-eða félagsfræðiriti. Nákvæmlega eins og skáldsaga Gunnars Gunnarssonar um Jón Arason er bezta lýsing á falli kaþólsku kirkjunnar og uppgangi siðbótarinnar sem ég þekki

Þessi merka og mikla skáldsaga Hugos lýsir í raun betur okkar tíma, ekki sízt kalda stríðinu, en nokkurt annað rit sem ég þekki. Samt fjallar hún um stjórnarbyltinguna miklu og 19. öldina

 

Ástæðan til að ég skrifaði skáldrit um stalinismann er sú, að ég upplifði hann bæði sem blaðamaður  (og þar með þáttakandi)og áhorfandi. Upplifði hann svo sterkt að ég var farinn að búa um mig í Kreml, enda hitti ég marga þá sem stjórnuðu Sovétríkjunum, eins og sjá má annars staðar.

 

Allt er þetta sagan um styrjöldina milli höggstokksins og hræðilegasta dómarans, samvizkunnar.

 

Learning Zone BBC.

Ég skil ekki af hverju við getum ekki framleitt slíkt efni, eða keypt það í staðinn fyrir sumt af þessu skemmtanarusli í ljósvökum sem hefur sannað þau ummæli Kiljans rækilega , að það er ekkert leiðinlegra en skemmta sér!   Í raun er fátt skemmtilegra en listræn nautn-og svo auðvitað fróðleikur. En- eins og Kiljan sagði einnig að óskalög sjúklinga sönnuðu ótvírætt að Íslendingar væru gjörsamlega ómúsíkalskir, þá lýsa ljósvakarnir þeirri menningarlegu örbirgð sem virðist þjaka aðstandendur þeirra. Gamla gufan stendur sig bezt, að venju. Og hana má alls ekki selja í hendurnar á ruslmennum(! )

 

Stephen King:

Þegar King skrifaði fyrstu bók sína um Carrie gafst hann upp því að

 

1) efnið snart hann ekki tilfinningalega 2) honum fannst aðalpersónan óhnýsileg  og hann aumkaði hana 3)honum leið illa því hann var óöruggur í umhverfi sögunnar og 4) sagan þurfti að vera lengri en hann nennti eða vildi eyða í hana til að koma henni á markað.

 

Hann fleygði henni. En konan hans sem er rithöfundur og hann kallar minnir mig Tabby  eða Tabiþu  í minningum sínum tíndi blöðin úr bréfakörfunni og sagði honum að halda áfram með söguna, hún skyldi hjálpa honum. Það varð!

 

Og King gaf út sína fyrstu skáldsögu.

 

Ég hef ekki lesið þessa sögu, en las aftur á móti ágæta sögu eftir King í Bandaríkjunum á sínum tíma, minnir hún heiti Jerualems Lot.

 

King segir réttilega að höfundur verði að geta skapað eigin heim í sérhverri sögu og það sé ekki hægt að skrifa án þess lesa mikið. Mér finnst það rétt, lestur bóka ýtir undir skriftir.

Hann talar skynsamlega um samtöl og hvað þau eru bæði mikilvæg og erfið. Geta losað höfundinn við langar lýsingar, en einnig drepið verkið. Honum finnst Chandler og Elmer Leonard góðir í samtölum og er ég því sammála. Honum leiðast útlitslýsingar á persónum og get ég tekið undir það, einnig fata-eða klæðalýsingar. Menn geti fengið sér auglýsingabæklinga um föt! Það getur verið tillitssemi við ímyndunarafl lesenda að lýsa persónunum ekki alltof vel! . Lýsingin hefst í höfði höfundar, en lýkur i upplifun lesanda. Í kvikmyndum verða allir að klæðast og líta út eins og myndin krefst. , einnig í Grænu mílunni sem gerð er eftir sögu Kings. Fannst það fín mynd, en hef ekki lesið söguna, svo mér var alveg sama um útlit leikaranna. Þeir áttu bara að vera eins og þeir komu fyrir af skepnunni, engin ástæða til að fitla meir við ímyndunaraflið!

 

Nákvæmnislýsingar í sögum eru ekki nauðsynlegar nema í skáldverkum,  þegar raunsæishöfundarnir voru upp á sitt bezta í gamla daga og raunsæið var þáttur í galdrinum. Þá skiptu þær miklu máli.

Ekki lengur, held ég!

 

King segist ekki hafa skrifað meira en 30-40 bækur, það sé ekki mikið miðað við suma aðra höfunda. Hann nefnir Creacy (? ) sem skrifaði víst 500 sakamálasögur, en sumir höfundar hafa aðeins skrifað eina sögu, t. a. m.  höfundur To kill a mockingbird, Harper Lee. Sjálfur sitji hann við skriftir 21/2 tíma að morgni, það sé ekki mikið miðað við hina iðnu býflugu enskrar skáldsagnagerðar Anthony Trollope sem skrifaði um Barchester-fólkið, fínar sveitalífs-eða einskonar prestasögur. Þær hef ég lesið mér til ánægju. Hann skrifaði fimm tíma á hverjum degi, setti punktinn aftan við nákvæmlega eftir þann tíma hvar sem hann var í verkinu og þegar sögunni lauk, byrjaði hann á nýrri þar til fimm tímarnir voru liðnir! !

King segir einnig frá því að vinur Joyce hafi einhverju sinni sem oftar komið í heimsókn til hans, skáldið var í uppnámi, hann spurði hvað væri að, Joyce sagðist ekkert hafa getið skrifað allan daginn, einungis sjö orð! . En getur það ekki verið viðunandi? Jú, en ég hef ekki einu sinni getað raðað þeim rétt! !

 

Svona goðsagnir eru ekki óalgengar í bókmenntum! .

 

Loks er kaflinn um fíkniefnaástríðu Kings óhugnanlegur, en afar lærdómsríkur. Eiginlega ætti að gera hann að skyldulesningu í skólum.

 

Hann segist hafa verið í rús þegar hann skrifaði sögu sem heitir Cupido eða eitthvað slíkt. Er þó ekki ósáttur við afurðina!

 

Minnir á hvernig hægt er að komast í hálfgerðan rús þegar nýtt kvæði sækir að manni og það er enginn friður fyrr en glímunni er lokið.

 

Loks varð King að gera upp milli fíkninnar og fjölskyldunnar. Nú var bréfakarfan full af fíkniefna-og lyfjaumbúðum, konan hvolfdi úr henni og hann fékk úrslitakosti. Hann bað um tvær vikur til að gera málið upp við sig. Hann segir nú það hafi verið  eins og standa á þakinu á brennandi húsi og björgunarþyrla komi að. Það er kallað til hans, það á að bjarga honum. En hann svarar, Komið aftur eftir tvær vikur!

En þegar hann hafði tekið ákvörðun um lækningu var það eins og koma að sumarbústað eftir langan vetur-og sjá! Það var allt á sínum stað, engu hafði verið stolið.

 

Það eru ekki allir svo heppnir(! )

 

Er að hugsa um að yrkja erindi um þetta inní ljóðaflokkinn minn um fíkniefnasorgina, Örlög og englaryk.  Sjáum til(! )

 

Nokkur atriði sem bíða mín:

1) Bókasafn Keflavíkur n. k.  fimmtudag, 1. nóv.  um kvöldið. Rótarý áður. Lágmynd og upplestur (till.  úr Flugnasuði og Ættjarðarljóðum)

2) Sjónvarpssamtalið, laugardag.

3) Upplestur úr bók minni um Gunnlaus Scheving í Listasafni Íslands (? )

4) Upplestur í Kópavogi (um Tómas Guðmundsson. Svo kvað Tómas, úr Hundaþúfunni (um Tómas), sýna bókaáritanir til mín frá Tómasi. -Mest frásagnir uppúr mér!

5) Fyrsta sunnudag í aðventu,  ljóðasyrpa 5-7 mín. í Grafvarvogskirkju: Um kvöldið.

 

Það vantar ekki viðfangsefnin, enda hef ég sagt við þá sem spyrja að ég þyrfti að fara aftur á Mogga til að hvila mig!!!

 

Síðar

Kvöldvökunni í bókasafni Keflavíkur lokið með miklum ágætum. Fín og fjölmenn samkoma, setið í hverju sæti. Birgir Guðnason afhenti lágmynd Erlings Jónssonar af mér og hún hékk fallega, þegar við fórum. Kannski er hún þar enn!! Sjálfur flutti Erlingur m.a. ljóð eftir mig, hann vekur alltaf jafnmikla athygli, hvernig hann getur munað þetta allt. Og hann fer fallega með það.

 

Hilmar Jónsson talaði einnig nokkur orð, en fór einkum með nokkur ljóð eftir mig. Það var ágætt.

Hnýtti í Þórberg í leiðinni og sagði bækur hans úreltar vegna vitlausra skoðana hans. Nefndi þá einnig Kompaníið, ef ég man rétt. Átti allavega við það, ekki sízt.

Gallinn er bara sá að menn hafa ekkert verið að pæla í skoðunum Þórbergs. Hann er mesti stílisti okkar að því leyti að hann kemur alltaf á óvart, enda er það kjarni listar hans. Ég efast um að nokkur maður hafi tekið stjórnmálaskoðanir hans alvarlega, nema þá kannski Mammagagga! En hann var mesti skemmtir íslenzkra bókmennta. Hann var eins og sirkus, alltaf nýtt og óvænt atriði á hverri sýningu! Jafnvel ljón og  tígrar voru skemmtiatriði í höndum hans, enda til þess ætlast. En rándýrin voru vitahættulaus, rétt eins og allt annað

Kompaníið er skirkus. Það er skemmtirit, en enginn kenningadoðrant. Og fólk hefur skemmt sér vel í sirkusnum. Það er allt og sumt.

Tómas sagði einhvern tíma við mig; Þegar við verðum öll dauð og marggleymd verður fólk enn að lesa Þórberg - sér til skemmtunar(! )

 

Sá sem fer í þennan sirkus til að leita hins endanlega sannleika, finnur í hæsta lagi hina sannarlegu tólg, eins og Gunnlaugur Scheving sagði einhvern tíma við mig af öðru tilefni!

Þá er sjónvarpssamtalinu einnig lokið, margir hafa þakkað fyrir það, svo mér er létt!

 

Ég hef einnig sagt frá Gunnlaugi Scheving í Mosaik-þætti sjónvarpsins. Samtalið fór fram á stórkostlegri sýningu Listasafns Íslands á verkum Gunnlaugs.

Talaði dálítið um kynni okkar Gunnlaugs .

Gunnlaugur var einstæður, bæði sem maður og listamaður.

Sagði söguna af því þegar Gunnlaugur sagði okkur Hönnu að hann hefði hitt Svein Þórarinsson listmálara niðri í miðbæ.

Sveinn vatt sér að honum, enda voru þeir mikliur mátar og spurði hvort hann hefði selt mikið undanfarið.

Gunnlaugur gaf ekkert út á það, enda var hann aldrei í neinum sölustellingum.

Þá sagði Sveinn: Margan daginn sel ég ekki neitt !

 

Það þótti Gunnlaugi fyndið.

 

7. nóvember, miðvikudagur

Byltingardagurinn var m. a.  haldinn hátíðlegur með tveimur lofsamlegum ritdómum um Hann nærist á góðum minningum

 

Silja Aðalsteinsdóttur skrifar í DV og Fríða Björk Ingvarsdóttur í Morgunblaðið. Silja leitar að fyrirmyndum í lífi mínu og leggur ofmikið upp úr því sem hún finnur. Það gerir ekkert, því að oft er hún á gráu svæði. Og kannski langaði mig undir niðri að skrifa listaverk um þá sem hafa gert söguhetjuna að því sem hún er. Þeir eiga skilið fallegan bautastein, en engan hégóma eða tilgerð.  Fríða Björk minnir á, að skáldið er dautt, þegar verkið birtist. Þá er það lesenda að sjá um líf  þess. Og þá kemur ævi  og reynsla höfundarins málinu ekkert við. Verkið verður að lifa i sínum eigin heimi, höfundarlaust. Enda er líf hans þá væntanlega að mestu gleymt. Getur að minnsta kosti ekki flækzt fyrir sögunni! 

 

Fríða Björk nefnir skáldsögu Laurence Sterne, Tristram Shandy,  í grein sinni, það er merkilegt því að ég er einmitt að lesa hana núna !

 

Silja talar um skýrar persónur, ljóðrænan og heillandi stíl, Fríða Björk talar um eftirminnilega sögu, frumlega og ljóðræna og allar hugmyndir hennar um söguna eru kórréttar. Það er sjaldgæft og lýsir einstæðri tilfinningalegri gáfu, auk gríðarlegrar þekkingar sem ég tek ofan fyrir.

 

 

Grein Fríðu fer hér á eftir:

Skáldskapur sem veruleikinn er ofinn úr

Það telst alltaf til tíðinda þegar ástsælustu skáld þjóðarinnar senda frá sér skáldsögu og svo er einnig nú þegar bók Matthíasar Johannessen, "Hann nærist á góðum minningum", kemur út. Matthías hefur á löngum ferli sínum eignast dyggan hóp lesenda meðal þeirra sem láta sig íslenskar bókmenntir varða, og þetta nýja verk hans afhjúpar einkar vel þau einkenni sem ætíð hafa verið styrkur skáldskapar hans; órjúfandi tengsl við andlegan veruleika, sögu okkar allra eins og hún myndbirtist í hversdagsleikanum, nánasta umhverfi okkar og náttúrunni.

Verkið spannar minningar skálds nokkurs allt frá því það man fyrst eftir sér og þar til það horfir til baka yfir æviskeið sitt sem fullorðinn maður. Reyndar seilist sagan töluvert langt inn í fortíðina, aftur fyrir þann tíma er markar fyrstu minningarnar, líkt og fræg saga Laurence Sterne af "Lífi og skoðunum Tristram Shandy", sem enn má telja framúrstefnulega þótt hún hafi verið skrifuð á 18. öld. Og eins og skáldbróðir hans, Sterne, leyfir Matthías sér að flakka óhindrað fram og til baka í tíma og rúmi, sem og á milli orsaka og afleiðinga í lífi söguhetju sinnar og þeirra sem tengjast henni með einhverjum hætti.

Eins og titillinn, "Hann nærist á góðum minningum", bendir til ráða minningarnar og það hugarflæði sem þær framkalla ferðinni í gegnum bókina. Bygging verksins er í samræmi við það lítt njörvuð niður, óræð og fljótandi, eins og minnið sjálft. Matthías beitir stílbragði sem fyrst var tengt James Joyce og Virginiu Wolfe, "stream-of-consciousness" eða vitundarflæði, til að endurskapa andrými horfins heims og þau augnablik sem kallast á við fortíðina úr samtímanum. Sagan er þannig sögð sem óslitinn straumur hugrenninga í vitund aðalsögupersónunnar, skáldsins, sem þekkir köllun sína allt frá unga aldri. Eins og til að undirstrika lauslega uppbyggingu megintextans er hann nokkrum sinnum rofinn með ljóðum, einu sinni með löngu sendibréfi og inn í bréfið er meira að segja laumað "ljósriti" af lífsreynslusögu. Í kjölfarið koma frásagnir 1 og 2 af Halaveðrinu, stuttar sögur sem enduróma þá tilfinningu fyrir alheimsvitundinni sem birtist í bókinni sem heild. Þessi brotakennda uppbygging gerir hvort tveggja í senn, að framkalla tilfinningu fyrir fallvaltleika minnisins og (mannkyns)sögunnar, og undirstrika óljós mörk skáldskapar og veruleika. Lausbeislað formið þjónar því verkinu vel og gefur lesandanum góða tilfinningu fyrir þeim skapandi spuna sem söguþráður af þessu tagi krefst.

Titillinn er fenginn að láni frá Cervantesi, eins og sést á tilvitnun framan við verkið. Víða má finna fyrir samsömun söguhetjunnar við Kíkóta sjálfan, (sem hér þjónar einnig táknrænu hlutverki sem fyrsta skáldsagnahetja heims) og baráttu hans við vindmyllur á vegferð sinni. Sem heild er verkið einnig ákaflega "bókhneigt", inn í það hefur höfundurinn ofið vísanir og minningar úr öðrum sögum - ekki síst íslenskum fornbókmenntum sem leita á söguhetju hans "eins og væru þær úr einni bók og einum tíma" (bls. 275). Skáldið/söguhetjan er einnig fyllilega meðvituð um skuld sína við arf heimsbókmenntanna, hann gengst við áhrifum ólíkra höfunda á borð við Konfúsíus, heilagan Ágústínus, Kafka, Blixen, Mann, Styron og O'Neill, á sinn persónulega hugarheim, ekki síður en á þá menningu sem mótar samtímann hverju sinni. Hann minnist einnig þátta úr dægurmenningu af ýmsu tagi, vinsælla barnabóka, kvikmynda og djasstónlistar, og afhjúpar þannig tíðaranda þeirrar kynslóðar sem kynntist hernámsárunum á barnsaldri og fékk nýstofnað lýðveldið í arf um leið og hún sleit barnsskónum.

En jafnvel þótt sagan rekji óteljandi eftirminnileg atvik langs lífshlaups er þó langt því frá að Matthías geri þann ytri veruleika að meginviðfangsefni sínu í þessu verki. "Hann nærist á góðum minningum" fjallar fyrst og fremst um innri veruleika aðalsögupersónunnar, skáldsins. Bókin er rannsókn á tengslum hans við sína nánustu; ömmur og afa, systur, eiginkonu og syni - en rannsóknin beinist þó fyrst og síðast að sambandi hans við foreldra sína, sem alla tíð mótar lífshlaup hans. Hinn ytri veruleiki heimsins er því einungis í aukahlutverki í frásögninni og myndhverfist sem slíkur í fyrstu "áþreifanlegu minningu" söguhetjunnar; tréskipi "sem sigldi inn í huga hans og hefur haldið áfram að sigla þar öll þessi ár á úthafi minninganna" ( bls. 9). Eins og þetta myndmál gefur til kynna er aðalefniviður verksins óendanlegt úthafið, huglægt flæði vitundarinnar og sjálfsins sem enginn getur gert nema takmörkuð skil jafnvel þótt hann reyni að kafa ofan í djúp sálar sinnar.

Á þessu andlega hafi minninga og menningar sem býr innra með aðalpersónunni í verki Matthíasar, verður einstaklingseðlið og hið sammannlega tæpast skilið í sundur. Af því leiðir að skilin á milli föður og sonar í sögunni (sem báðir standa á bak við "hann") og móður og eiginkonu (báðar einungis "hún") verða stundum afar óljós. Það er engu líkara en Matthías vilji leysa einstaklinginn upp til að gera samhengið við eilífðina og mannkynssöguna ljósara, enda vísar skáldið í sögunni iðulega til sjálfs sín sem e.k. hulsturs, húss, eða jafnvel kirkju (bls. 60) sem "íbjúg" hugsunin flæðir út úr í tímalausu frelsi andlegra vídda er hann deilir með öðrum: "Og hann gengur að þessu vatni og sér sjálfan sig, sér líf sitt speglast í þessu andartaki af hugsun guðs. Og mynd föður hans gárast í vatninu. Og mynd hans hverfur inní gárulausa mynd móður hans. Og þau eru ung í vatninu. Og þau eru hann í vatninu" (bls. 209). Hér bregður fyrir hugsæisstefnu í anda Walts Whitmans, því þegar söguhetjunni tekst að vinna bug á tímanum í vitund sinni, hinum skammvinna loga "sem lóðar atvik við atvik, ár við ár" (bls. 278), verður saga hans ekki síður saga foreldra hans og fjölmargra annarra sem á undan hafa gengið, svo sem skáldsins sem söguhetjan fylgir í dauðann í Pompej (bls. 284). Sjálfið er því afar margslungið í þessu verki, það tvístrast og finnur samsömun í tvíförum sínum frá ýmsum tímum; í "[öllu] þessu dauða [fólki] sem er í blóði hans" (bls. 289).

En þegar upp er staðið er þetta þó þrátt fyrir allt saga um ævi eins manns. Hún rekur þó hvorki sigra hans né ósigra í opinberu lífi, hún segir ekki frá ávinningum hans eða áföllum á veraldlega vísu, nema rétt í því mæli að það fleyti sögunni áfram. "Hann nærist á góðum minningum" er umfram allt þroskasaga, saga manns sem er ákveðinn í því að draga lærdóm af biturri reynslu foreldra sinna. Skilningur hans á sjálfum sér helst í hendur við skilning hans á gjörðum þeirra sem eru í kringum hann, en um það fólk fer söguhetjan afar nærfærnum höndum. Þroskann öðlast hann þó ekki átakalaust. Að honum sækir þunglyndi, efasemdir og öryggisleysi, sem hann þarf að yfirstíga til að hafa stjórn á þeim "grímum" sem hann sýnir heiminum út á við. Grímu blekkingarinnar, sem móðir hans greip stundum til, reynir hann þó að forðast í lengstu lög líkt, og faðir hans og systir (bls. 111). Þess í stað finnur skáldið styrk sinn í stöðugri sjálfskönnun og sannleiksleit. Hann finnur hljómgrunn í lífsförunaut sínum, gleði í sonum sínum og andlega næringu í skáldskapnum - og þegar upp er staðið skiptir fátt annað máli. Innra með sjálfum sér leitar skáldið hins sanna ávinnings, "það var hvort eð var þar sem styrjöldin fór fram. Sú eina styrjöld uppá líf og dauða. Hans styrjöld. Og hún yrði hvergi unnin nema þar" (bls. 151).

Það er vissulega freistandi að leita hliðstæðna í lífi hins nafnlausa skálds bókarinnar og skáldsins Matthíasar Johannessen. Slík lesning væri þó alltof einföld leið að margslungnu verki. Því eins og franski hugsuðurinn Roland Barhes lýsti í ritgerð sinni "Dauði höfundarins" fyrir u.þ.b. þrjátíu árum, er ekki hægt að leita þess sannleika sem birtist í bókmenntunum í lífi höfunda þeirra. Um leið og höfundurinn hefur látið verkið frá sér er hann "dauður", og verkið fer að lifa sínu eigin lífi í gegnum lesandann. Það er lesandinn sem gefur textanum merkingu, með tengingum við sinn eigin hugarheim, með lestri sínum á milli línanna og með skilningi sínum á sammannlegum þáttum - sem undirstrikaðir eru með nafnleysi sögupersónanna í þessu ákveðna verki.

Þessi nýja skáldsaga Matthíasar Johannessen er því fyrst og fremst skáldskapur, því þótt hún sé í einhverjum skilningi ævisaga eru ævisögur "ekki efniviður í skáldskap," eins og faðir skáldsins í verkinu bendir honum á í sendibréfi sínu. Ævisögur eru þvert á móti sá "skáldskapur sem veruleikinn er ofinn úr" (bls. 258). Af sögu Matthíasar má ráða að einu sannleikskornin sem við getum nokkurn tíma fundið eru fólgin í skáldskapnum; söguhetja hans biður konu sína að láta dreifa ösku hans að honum látnum við kirkju í framandi landi "eins og sáðkorni í akur" (bls. 64). Þannig markar endir einnar sögu upphaf margra annarra, hugsunin verður ekki hamin því frásagnirnar leita á skáldið "eins og væru þær úr einni bók og einum tíma" (bls. 275). Vegna þessarar margræðni getur á stundum verið snúið að henda reiður á þessu skáldverki, það er hvikult eins og minningarnar. Að lestri loknum situr það þó eftir í hugskotinu sem ljóðræn, frumleg og eftirminnileg heild, frásögn þar sem hið smáa er farvegur fyrir hið stóra og hversdagslegt líf okkar allra sem einstaklinga skarast við óræðari heima sameiginlegrar arfleifðar.

Fríða Björk Ingvarsdóttir.

 

 

Hanna minnti mig  á ummæli Bjarna Benediktssonar þegar við vorum að tala um utanferðir í morgun, hann sagði einhverju sinni þegar við vorum á heimili þeirra Sigríðar í Háuhlíðinni (en hana langaði að fara með honum í utanlandsreisu sem var á döfunni):Kannski þú farir með, frú Sigríður, en þá verð ég að borga það sjálfur, því að ekki má það koma fram í reikningum ráðuneytisins að hið opinbera hafi borgað fyrir þig!

 

Nú hljóma þessi orð eins og öfugmælavísa. Það hvarflar ekki að mér að Bjarni hefði samþykkt sendiráð í Japan fyrir milljarð! En tímarnir hafa breytzt! Og það er víst milljón sinnum erfiðara og dýrara að fá jarðnæði í Japan en vist á himnum.