2001

þriðji hluti

 

31.  marz,  laugardagur

Finnst þessi setning  í sögu Simenons, Gildra Maigrets, íhugunarefni fyrir fjölmiðlara: Eftir öll þessi ár trúði hún blöðunum, segir um frú Maigret! Það er víst ætlazt til þess að fjölmiðlar fjalli um staðreyndir, en skáldverk um tilbúinn veruleika. Stundum snýst þetta við og er ekki gott til afspurnar.

 

Kvöldið

Hef verið að velta fyrir mér orðinu dauði. Ástæðan er sú að ég rakst á þetta orð í Minnisverðum tíðindum, þegar ég var að skoða umsögina um andlát Sigríðar Stefánsdóttur , prestsfrúar á Þingvöllum. Þar stendur :  dauð þennan og þennan dag. . . Nú væri ekki hægt að segja það.

Alltaf hefur farið í mínar fínu taugar, þegar prestar hafa ekki hugrekki til að vitna rétt í Sólarljóð og segja Drottinn gefi/ dánum ró/en hinum líkn sem lifa. Þarna stendur dauðum í frumtexta. En svo fóru þeir að breyta þessu og tala tæpitungu og segja dánum ró. . . Þetta er einfaldlega ritskoðun, fölsun.

Og ég sem hélt að ritverk, bæði dauðra manna og lifandi, væru vernduð með stjórnarskránni. En slík ákvæði eru auðvitað einungis til skrauts.

 

1. apríl, sunnudagur

Fórum í leikhús í gærkvöldi og sáum Horfðu reiður um öxl. Sáum  það einnig, þegar það var fyrst sýnt hér heima á sínum tíma. Hafði gleymt verkinu að mestu, en nú rifjaðist það upp.

Leikritið hlýtur að hafa haft meiri áhrif áður fyrr en nú. Þá voru samskipti kynjanna lítið rædd, nú hafa þau verið efst á baugi um langan aldur, Broddurinn er því farinn úr verkinu, það er dálítið þreytt.

En sýningin var sterk og við eigum góða leikara. Hilmir Snær Guðnason leikur aðalpersónuna, Jimmy Porter, og fer á kostum. Hann afhjúpar það í raun að Jimmy er illa skemmdur, raunar klikkaður í aðra röndina. Kona hans, Alison Porter, segir einhvern tíma í miðri rimmu, Annaðhvort okkar er klikkað...! Og það er hverju orði sannara, hann er klikkaður, ræður sér ekki ; illyrðin fljóta út úr honum eins og leirdrulla úr gömlum hver, en hún er viljalaust verkfæri. Hún fer af heimilinu að vísu, en kemur svo aftur, niðurlægð.

Boðskapur verksins er þá þessi, ef einhver er: Þangð leitar klárinn sem hann er kvaldastur! Og raunar hefur maður litla samúð með henni nú á dögum, því að henni er í lófa lagið að fara sína leið. En hún kýs hans leið að lokum, það er víst kallað ást, ég veit það ekki. En ég tók eftir því hvað margar ungar konur hlógu að níðangurslegum bröndurum Jimmys, þegar verst gegndi. Og ég hef verið að velta fyrir mér ástæðunni. Allir þessir brandarar eru í raun ófyndnir, þeir eru eitraðar stungur jafnvægislauss kúgara.

Það er margt óraunverulegt í þessu verki eins og raunar flestum leikritum , ekki sízt raunsæisleikritum, og þá er nauðsynlegt að loka veruleikann úti til að geta upplifað það sem fram fer  á sviðinu. Margt af þvi kemur veruleikanum lítið sem ekkert við, t. a. m.  er mér til efs að nokkrar konur, elja og eiginkona,  geti talazt við með þeim hætti sem raun ber vitni í síðasta þætti, þegar eljan fær samvizkubit og fer! Það væri þá. a.m.k.  undantekning!

Annars sýndi leikur Hilmis Snæs að reiði Jimmys er einskonar dulargervi um klikkun. Jimmy er í raun og veru ekkert reiður, heldur geðveill og veit það sjálfur. Með reiðinni leiðir hann hugann frá klikkuninni, auk þess sem hann notar hana sem gaddasvipu. Minnir á Vilhjálm skáld frá Skáholti í gamla daga. Alltaf þegar geðveikin kom á hann þóttist hann vera drukkinn. Hann fann ósköpin nálgast og fékk sér þá í staupinu til að leyna raunverulegri ástæðu þessa andlega jafnvægisleysis sem sótti á hann. Og svo þegar köstin liðu hjá, stundum eftir marga daga,   hætti hann að drekka.

Einu sinni var ég með honum í svona kasti, við sátum þá niðri í Adlon og hann þóttist vera vel kenndur. En það var appelsín í glasinu! Og hann hafði ekki bragðað vín allan daginn.

Þannig eru reiðiköstin einskonar appelsín Jimmy Porters. En það veit bara enginn, ekki heldur höfundurinn að ég hygg, John Osborne!

Ég held það sé viðloðandi misskilningur að leikrit séu upplifun veruleikans og þess vegna m. a.  eigi þau að hafa “boðskap”. En þau eru engin slík upplifun. Þau eru einungis veruleiki sviðsins Og ef maður gerir sér ekki grein fyrir því, er ekki hægt að njóta sýninganna eins og efni standa til. Þær eru eins og hver önnur ævintýri, óraunverulegar, þótt þær þykist vera einhvers konar eftirmynd umhverfisins. Eða spegill þess.

Samt eru þær auðvitað veruleiki meðan á þeim stendur. Og við upplifum þær sem slíkar. Veruleika sviðsins. Ef við gerðum það ekki, væru allar brotalamirnar í leikverkum, jafnvel heimsfrægum verkum, óþolandi. En það er eins og Kiljan sagði í einu af samtölum okkar, Maður kemur ekki með logaritma í leikhús!

Sá sem það gerir, fer á mis við flest öll leikverk og getur einskis notið. Hann ætti að sitja heima(! )

Thor Vilhjálmsson þýddi Horfðu reiður um öxl á sínum tíma, mjög vel;þ. e. a. s.  á eðlilegt talmál sem hefur enzt betur en verkið að öðru leyti. Það er mikilvægt. Einhverskonar bókmál hefði eyðilagt sýninguna. Thor var í leikhúsinu, en við hittumst ekki. Hann er farinn að gamlast, sýnist mér.

 

Síðdegis

Fór í göngutúr í blíðskaparveðri. Hlustaði á fuglana í trjánum í Skógræktarstöðinni í Fossvogi. Mjóu tónarnir eru alltaf að lengjast – og mjókka!

 

6. apríl, föstudagur

Hanna var kjörin heiðursfélagi í Vernd í gær og hafði hún vel til þess unnið frá fyrsta fari. Hún kom heim með falleg blóm sem líktust henni sjálfri. Mikið held ég henni væri illa við þessa síðustu setningu, hún þolir ekki væmni. Hún hefur fínan bókmenntasmekk og þess vegna þolir hún illa margt af því sem skrifað er nú um stundir.

 

Hef verið að semja pistil um Dag bókarinnar og hingaðkomu Gagaríns á sínum tíma. Það síðar nefnda fyrir 4o ára afmælisfund MÍR!  Þar með er öllu pólitísku basli samtímans lokið.

Gagarín var viðfelldinn maður. Hann var fullkomlega sannfærður kommúnisti og aþeisti af líf og sál. Ég held hann hafi trúðað einlæglega á trúleysi eins og það væri mikilsverð köllun!

 

7. apríl, laugardagur

Síðdegis í dag efndi Smekleysa til samkomu í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem lesið var af disknum sem hún hefur gefið út með djassistunum  sem leika lög Carls Möller undir upplestri okkar sexmenninganna. Diskurinn heitir Októberlauf.

Það var heldur margt fólk á samkomunni og hlustaði vel svo að allt tókst þetta með ágætum, þótt mér þætt ofmikið lesið. En það kom ekki að sök og er víst bara mín sérvizka. Áheyrendur hlusta vel og eru þakklátir. Það er yfirleitt mín reynsla af slíkum uppákomum.

Ég hafði kviðið mikið fyrir þessum upplestri, en það var víst óþarfi.

Guðrún Gísladóttir leikona las ljóð Nínu Bjarkar og hrósaði ég henni fyrir hvað hún gerði það fallega og mjúklega. Hún er  Blöndali og útlitslega kippir henni mjög í þetta móðurkyn mitt.

Hittum m. a.  Jennu Jensdóttur, það var eins gott og alltaf. Hún er nú á níræðisaldri og aldrei sprækari. Hún hefur ofnæmi fyrir minningargreinum og það hefur hvarflað að mér, að hún geti ekki dáið af ótt við að einhver skrifi um hana eina af þessum “klassísku” minningargreinum Moggans!

Sagt er að Árni Helgason hafi  á sínum tíma lýst því yfir að hann mundi skrifa um alla þá Hólmara sem létust, meðan hann væri fréttaritari blaðsins þar vestra. En síðan hafi enginn dáið! 

Jóhann Hjálmarsson var í ágætu formi, en las ekki sjálfur. Karl Guðmundsson las fyrir hann. Ég sagði við Jóhann, Þú ert að verða eins og Tómas, hann leit aldrei glaðan dag, ef hann gat ekki tíundað veikindi sín!

Jóhann brosti.

 

Kvöldið

Hitti Ólaf Ragnar Grímsson í fimmtugsafmæli Geirs H. Haarde í dag. Hitti hann einnig í þjóðleikhúsinu á föstudagskvöldið. Hann er alltaf að tala við mig og þá einkum um unga fólkið og  hversu vel það stendur í sínu stykki. Ungt íslenzkt leikhúsfólk sé á heimsmælikvarða eins og sagt er og ég er honum alveg sammála um það. Sýningin á Syngjandi í rigningunni hefði sómt sér hvar  sem væri. Og það virðist gleðja forsetann.

Ég er farinn að hálfskammast mín vegna gamallar afstöðu til  Ólafs Ragnars, því að við eigum alltaf ágæt samtöl, þegar við hittumst. Ég sé enga ástæðu til að ganga fyrir gömlum fordómum í hans garð eða fetta fingur út í framkomu hans, nema síður væri, og tel mér nauðsynlegt að venjast honum í þessu embætti sem hann hefur gegnt ágætlega að undan förnu. Áhugi hans á því sem ungt fólk gerir vel er mér að skapi.

 

Hitti marga aðra í afmæli Geirs, raunar flesta aðra en afmælisbarnið sem var umsetið gestum eins og verða vill á slíkum samkomum. Fór auk þess á mis við veitingarnar í þessu kraðaki öllu, en skipti engu máli. Langaði bara til að sýna Geir og Ingu Jónu vináttu okkar Hönnu, því að þau hafa ævinlega sýnt okkur hlýju og vinsemd. Ég hafði líka gaman af að hitta svo marga vini og kunningja, en engu var líkara,   þegar þeir þyrptust að,  en ég ætti einnig afmæli þennan dag!

 

Í morgun hringdi formaður Rithöfundasambands Íslands, Aðalsteinn Ásberg, í mig og sagði að stjórnin hefði ákveðið að gera mig að heiðursfélaga sambandsins á næsta aðalfundi, hvort ég hefðii nokkuð á móti því? Ég sagði það ekki vera, mér þætti þvert á móti vænt um það. Ég hugsaði með mér að líklega væri stjórnin að minna á hlut minn að sameiningu rithöfundafélaganna á sínum tíma. Ég gleðst yfir því að það skuli ekki gleymt.

Formaðurinn sagði einnig að Einar Bragi yrði kjörinn heiðursfélagi með mér og þótti mér það ekki verra. Með okkur er gagnkvæm virðing eða samúð, að ég held. Einar er áttræður í dag, en ber það ekki með sér. Nú eru áttræðir menn eins og fimmtugir, þegar ég var ungur blaðamaður. Tímarnir hafa breytzt. Og fólkið ekki síður,að þessu leyti.

 

 

9. apríl, mánudagur

Las upp i Hádegskirkju í kvöld, eingöngu úr Ættjarðarljóðum á atómöld. . Slangur af fólki, en ekki margt.  Falleg tónlist, messósópransöngkonan Ildikó Varga var eins og engill og söng verk eftir Couperin, Bach og Jón Leifs. Ekki klappað og kunni ég því vel

 

Hef verið að vinna að síðustu gerð leiksögunnar Lítið fólk með vængi. Hélt ég hefði lokið því, en við endurlestur sá ég að nauðsynlegt var að gera á því miklar breytingar. Vona það takist. En það er mikil vinna í slíku verki - og kannski er hún unnin fyrir gýg. Það kemur í ljós.

Bíð eftir því að Ellý Helga,  ritari minn,  skili frumgerð að hinum þættinum sem ég skrifaði einnig eftir að ég hætti á Morgunblaðinu, Stefnumót við tunglið. Þar bíður mín áreiðanlega einnig mikil vinna.

 

 

10. apríl, miðvikudagur

Pæli í tvíleiknum um skáldið mikla sem er öll skáld, Stefnumót við tunglið og Litlar flugur með vængi. Þetta eru einskonar samlokur um lífið og tilveruna, minninguna sem er auðvitað blekking í aðra röndina , rétt eins og glansmyndin í lífinu sjálfu. . Vona þetta geti gengið upp, en ekki er nauðsynlegt að flytja þessa þætti saman, þótt það gæti verið áhrifamest. Tengslin milli þeirra eru raunar á bláþræði eins og tengslin milli lífs og dauða.

En  ég sé hvað setur.

 

Nú er búið að taka niður mikil auglýsingaplaköt um sýningu norska málarans Nerdrums. Sá samtal Egils Helgasonar við hann í sjónvarpinu og hugnaðist það heldur vel , en þó ekki eins og sjónvarpsþátturinn um hann ,  sem var sýndur í fyrra. Tilfinningar hans til Íslands, einkum íslenzkrar náttúru, eru mér að skapi. Hann segir með sínum norska gálgahúmor að þær stafi m. a.  af  því að hér þurfi hann ekki að greiða skatta, en auðvitað er það bara tilbúningur til skemmtunar eins og margt annað nú um stundir. Hann vinnur úr náttúru landsins eins og Kjarval, sýnist mér, og af svipaðri ástríði.

Líklega er hann þekktastur norrænna málara nú á tímum, þótt umdeildur sé.

Plakatið á víst að vera sjálfsmynd , skilst mér, og er afarvel gert. Það sýnir málarann með reistan lim sem er svo fyrirferðamikill að hann virðist  hafa misboðið umhverfinu! Það þarf ekki lítið til eins og tímarnir eru! .

En þessi reisulegi limur minnti mig á annað málverk frægara, það er að mig minnir í klausturkirkjunni í Assísí. Þar eru stór málverk eftir Giotto og á einu þeirra er málarinn sjálfur með páfanum, stór og glæsilegur maður og gnæfir upp úr fjöldanum. En Giotto var krypplingur og ekkert glæsimenni. Sjálfsmyndin var sem sagt áróður.

Ég held limur Nerdrums sé það einnig  eins og hann birtist á plakatinu sem nú er búið að fjarlægja, m. a.  úr Þjóðarbókhlöðunni!

Það væri kannski ekki úr vegi að rannsóknarblaðamennskan kannaði það eins og önnur vafaatriði í samtímalífinu. Eða þá fósturlandsins freyja, henni yrði ekki skotaskuld úr því, ef ég þekki hana rétt!

 

Hef verið að setja saman greinarkorn í tilefni af Degi bókarinnar, en um það hef ég  verið beðinn. Vona það standist kröfur. Af þessu tilefni hef ég verið að hugsa um, hvað margar góðar bækur eru lítið skemmtilegar og raunar oft leiðinlegar, en ýmsar vondar bækur skemmtilega vondar. Skemmtilega leiðinlegar bækur geta einnig verið talsverð afþreying , rétt eins og leiðinlegir skemmtiþættir í sjónvarpi. .

En öll eru þessi verk bráðnauðsynleg, já jafnnauðsynleg lýðræðinu og ketilhreinsun gömlum gufutogara.

Án alls þessa þvættings mundi þjóðfélagið springa í loft upp! Lýðræðið kostar, það er dýrkeypt.

Eins og frelsið.

 

Hef verið að lesa James Thurber og skáldsögu Toni Morrisons, Paradís, en kemst ekki í tengsl við þessi verk, ekki almennilega. Þau eru of séramerísk fyrir minn smekk. Hef þó  notið þess að lesa Morrison áður. Fann samt ljóðrænan stíl skáldkonunnar og fannst þetta gott hjá Thurber:

 

Konan, nýkomin úr utanlandsferð,  var spurð hvort hún hefði komið við í Róm.

Ég man það ekki, svaraði hún.

En þið voruð á Ítalíu, var það ekki?

Jú, ég held það.

En komuð þið ekki til Rómar?

Heyrðu elskan, vorum við í Róm? spyr konan dóttur sína.

Já, það var þar sem við keyptum sokkana, manstu ekki?

Æ-jú, það var þar, jú víst vorum við í Róm.

 

Eða eitthvað á þessa leið!

 

Páskadagur

Páskadagsmorgunn er heiður og svalur eins og tómt grafhýsi. Og jörðin, þessi vindkers víði botn, lognkyr og fögur eins og fyrirheit vorsins. Allt fallið í logn.

 

Kvöldið

Það var óneitanlega dálítið einkennileg reynsla fyrir mig að lesa skáldsögu Grahams Greene, Our Man in Havana,  vegna þess hvernig aðalnjósnarinn Hawthorne talaði við Wormold ryksugusala, þegar hann var að fá hann til að njósna fyrir Breta. Minnti mig í smáatriðum á hvernig Peter Kidson starfsmaður brezka sendiráðsins hér, talaði við mig, þegar ráðgert var að ég færi til Moskvu,  via Helsingfors og Leningrað. Hann heimtaði að ég gæfi skýrslu um herstöðvar sem ég sæi úr járnbrautinni á leið til Moskvu. Eg mótmælti ákaft og sagðist vera að fara sem blaðamaður, en ekki njósnari. Hann spurði hvort ég vildi ekki vinna fyrir NATO, ég svaraði, Ekki að þessu marki! Hann reyndi svo að tala mér hughvarf , með hörku a la Hawthorne og sagði að lokum að ég mundi hitta ákveðinn mann í London sem mundi hafa samband við mig. Ég sagðist ekki tala við neinn í London, en Kidson hlustaði ekki á neitt slíkt og sagði allt væri undirbúið, þeir vissu allt um ferðir mínar í London.

Mér leið hálfilla þegar ég kvaddi hann eftir mat og léttvín og hann sagðist mundu hafa samband við mig. Svo leið nokkur tími. Þá kom upp njósnamál Burgess og McLean og þegar ég ætlaði að sækja vegabréfið mitt í sovézka sendiráðið, brostu þeir bara og sögðu, að ég væri ekki á leiðinni til Moskvu. Beiðninni hefði verið hafnað!

Eiginlega létti mér, en ég hafði það á tilfinningunni að þeir vissu um ráðagerðir Kidsons í gegnum gagnnjósnara sína.

Ég hafði sagt Pétri Kidson að þeir gætu lesið það sem ég skrifaði um ferðina í Morgunblaðinu, lengra næði samstarf okkar ekki.

Ég hefði að vísu orðið betri njósnari en Wormold, því að hann lét þá fá eintóm uppdiktuð leyndarmál , m. a.  úr blöðum eins og Time, en það sem ég hugðist skrifa í mitt blað yrði þó að minnst kosti sannleikanum samkvæmt!

Hvað sem þessu leið, fékk ég ekki leyfi til að fara til Sovétríkjanna þessu sinni og sú ákvörðun var mér hálfgerður léttir úr því sem komið var. Ferðin hefði getað orðið mér dýrkeypt, jafnvel kostað mig lífið, en þegar ég minntist á það við Kidson allmörgum misserum síðar, svaraði hann engu, en brosti eins og saklaust barn. Þá sátum við á Hótel Borg og drukkum síðdegiskaffi.

Hann fór svo úr landi og var lengi í útlöndum. Mér er sagt hann hafi orðið gagnnjósnari fyrir Rússa undir lokin, en um það veit ég ekkert. Hann var þó leystur frá störfum á góðum aldri, kom heim til Íslands, settist hér að sem íslenzkur ríkisborgari og býr nú á Herskstalanum,   er mér sagt. Ég minnist þess ekki að hafa séð hann eftir kaffidrykkju okkar á Hótel  Borg.

Við Pétur höfðum þekkzt alllengi og urðum miklir mátar. Hann var heldur hneigður fyrir áfengi, þótti mér, en kom ekki að sök. Hann hafði verið sendur til Íslands sem brezkur hermaður í stríðinu, þá lærði hann eitthvað í íslenzku, en kom svo aftur á vegum utanríkisþjónustunnar og starfaði hér í þorskastríðum. Einhverju sinni sem oftar kom ég heim til hans um miðjan dag, þurfti að spyrja hann einhvers fyrir Morgunblaðið, en þá  sat hann þar í sloppi við annan mann og drakk. Sá var sjómaðir. Eftir það umgekkst ég Pétur af meiri varkárni en áður. Og aldrei talaði ég við þennan íslenzka sjómann eftir það, enda harla vandræðalegt að koma að þeim þarna um miðjan dag og við þessar aðstæður.

Peter Kidson er frá Doncaster  sem var næsti stóri bærinn við Babworth,Retford, þar sem ég vann sumarið 1949 við landbúnaðarstörf, eða frá því í byrjun mai til loka septembers. Þá fór ég heim. Til Bretlands hafði ég komið með togaranum Geir og tókum við höfn í Fleetwood. En heim til Íslands flaug ég frá Prestwic. Þangað upp eftir er talsvert ferðalag og gisti ég í Edinburg .

Ef ég man rétt sáum við ljósin í Doncaster frá Retford. Það þótt mér ævintýralegt. Peter Kidson kom til Íslands úr þessu ævintýri. Hann lærði svo góða íslenzku að undrun sætti, enda vel gefinn maður og augsýnilega námfús.

Með Peter Kidson og Brian Holt hjá brezka sendiráðinu var alla tíð óþykkt, eða eins og segir í  Guðmundar sögu dýra : Þar var ekki margt milli húsa.

 

 

Annar í páskum

Hlýtt, en ofanföll. Hálsbólga, var við rúmið. Fór yfir Kazuo Ishiguro, When we were orphans (Þegar við vorum munaðarlaus). Blátt áfram skrifuð saga, í breiðum, heldur ljóðrænum stíl með köflum. Kann því vel. En það er eins og venjulega, maður verður að útiloka allan veruleika, þegar maður les þennan nútímaskáldskap, ekki sízt raunsæissögur eins og þessa .

Aðalsöguhetjan, Christopher Banks ,  er leynilögreglumaður sem ólst upp hjá foreldrum sínum í Shanghai, en þau hverfa bæði og hann fer til töntu  sinnar í London. Undir lokin kemur í ljós að glæpamaðurinn Wang Kú hefur haldið þeim uppi, en hann rændi móður hans á sínum tíma og gerði hana að frillu sinni. Barði þessa hvítu konu til hlýðni, því að hún hafði rekið honum löðrung. Sem sagt einskonar kvenkynsgunnar! Christopher finnur hana undir lokin og þá er hún komin á hæli og gjörsamlega minnislaus. Faðirinn sem hafði stungið af með hjákonu sinni var þá löngu dáinn í Singapore eða einhvers staðar á þeim  slóðum.

Höfundur vitnar til kínversks ljóðs  og hafði ég sérstaklega gaman af tilvitnuninni sem loðir við mig:

Æskan er horfið land. . .

 

Í Shanghai er aðalleikbróðir Christophers af japönskum ættum, Akhira. Þegar Christopher fer aftur til Shanghai að leita foreldra sinna ( einskonar eltingaleikur við drauga) mörgum árum síðar, eða tveimur, þremur árum fyrir heimstyrjöldina síðari,  geisar styrjöld í Kína og japanar í úthverfum borgarinnar. Í hættusamri leit að foreldrum sínum rekst Christopher á Akhira, þar sem hann liggur særður japanskur hermaður í húsarústum og verður fagnaðarfundur, þótt japaninn hafi kallað þennan æskuvin sinn í fyrstu Svín! , enda bar hann ekki kennsl á hann.

Á þessu andartaki hættir sagan að virka sem sannferðug og áhrifamikil lýsing á mannlífinu og breytist í einskonar lygisögu eða furðusögu, en nær sér þó allnokkuð á strik undir lokin.

Allt sem gerist eftir þennan vinafund í rústunum verður þó með furðussagnablæ og það slaknar stórlega á áhrifunum. Manni dettur í hug að þetta sé ímyndunin einber, en ekki fréttir úr lífinu sjálfu, eins og verið hefur. Að vísu gerist margt í lífinu sem er ævintýri líkast, en það verkar ekki í raunsæislegri skáldsögu og verður ankannalegt og ósennilegt.

 

Ég rakst ekki á slík stílbrot hjá Birni Th. Björnssyni í Hraunsfólkinu, en þar er tíðatrandinn svo fjarlægur að efnið verður út úr kú ( eða Wang Kú) fyrir venjulegan nútímamann, einskonar fjarstæða. En hann gerir sér þó auðveldlega grein fyrir því að fátækt, sjúkdómar og kuldi geta barið mennskuna úr þessum lýð sem þarna er á ferðinni ,  eins og skuggar á þili sögunnar.  (ein prestshjón  þó  frambærilegt hráefni í manneskjur!!)

 

En í sögum eins og Þegar við vorum munaðarlaus verður ósennileikinn að fjarstæðu og verkar eins og stílbrot, þótt sagan sé vel sögð að mörgu leyti Það hafa líklega fáar sögur á okkar tímum komizt út úr þessum hremmingum sem beztu skáldsagnahöfundar eru sífellt að lenda í með verk sín. Lausnin gæti í framtíðinni orðið fjarstæðusögur –en hver nennir að lesa furðusagnir, ef þær fjalla ekki um geimverur ? (Ekkert finnst mér þó leiðinlegra! )

 

Umhverfi Íslendinga sagna er svo langt undan að við samþykkjum allt sem þar gerist, enda verka stílsnilldin og  -vel að merkja-  kaldhæðnin ekki sízt með þeim hætti ,  að við lifum í raunsæislegu alibíi,  meðan við lesum.

 

Kvöldið

Bubbi Mortens sagði við mig fyrir páska, Ég syng alltaf á íslenzku og mér finnst ég vera á vígstöðvum; að bjarga tungunni!

Húrra fyrir Bubba!

 

 

18. apríl, miðvikudagur

Ég hef haft gaman af að hlusta á Völu Þórsdóttur lesa skáldsöguna Áður en þú sofnar, eftir norsku skáldkonuna Linn Ullmann. Hún er spriklandi fjörug, jafnvel klámið verður kátlegt. Við eigum ekki svona skemmtisagnahöfund á prósa sem hefur ekkert fyrir því að lýsa fáránlegustu hliðum  mannlífsins á sannferðugan hátt. . Jafnvel brúðkaupið  er fyndni sem kemst til skila. Á einum stað segir að amman hafi verið lík Marlon Brandon.

Það segir eiginlega alla söguna!

 

Ætli Lucky Jim hafi ekki verið af þessari gerð, það er eins og mig minni það. Ég hafði að minnsta kosti mikla ánægju af að lesa þá sögu  Kingsleys Ames. Kominn tími til að rifja hana upp.

 

Það hefur verið mikil veðurblíða og hlýtt í veðri. Ilmur af vori í lofti

Logn veðurs, sögðu þeir í sagnasmiðjum Snorra og Sturlu Þórðarsonar. Þeir  áttu líka svona kátlegan húmor og kaldhæðni sem rann Steini Steinar í merg og blóð.

 

19. april, fimmtudagur, sumardagurinn fyrsti

Dreymdi Sigurð A. Magnússon í nótt. Hann hringdi til mín og bað mig hitta sig. Vildi jafna ágreining okkar. Ég spurði móður mína löngu látna, hvort ég ætti að hitta hann og hvatti hún til þess. Svo hittumst við og töluðum lengi saman í draumnum. Mér leið ágætlega, en þetta var samt óneitanlega dálítið skrítin reynsla, einkum vegna þess mig langar svo sem ekkert til að hitta Sigurð. Það fer líklega bezt á því við hittumst í draumi

Hann gerði mér upp mannvonzku í síðustu bók sinni, líklega gegn betri vitund - og þó veit maður aldrei þegar SAM á í hlut. Hann göslast þetta áfram og eins og sagt er : hann gengur fyrir eigin vélarafli!

 

Til stóð að ég læsi upp á þriðjudagskvöld í tilefni af Viku bókarinnar. En ég neitaði því, leyfði þó að Hjalti Rögnvaldsson læsi eftir mig eitt ljóð í Þjóðmenningarhúsinu. Bezti vin    ur ljóðsins  stóð fyrir þessari uppákomu og þar er Hrafn Jökulsson í fyrirsvari. Geri ekkert á hans vegum. 

 

Ávarp flutt á sumardaginn fyrsta á 40 ára afmæli MÍR:

Gagarín

Í samtalsbók okkar Þórbergs Þórðarsonar, Í kompaníi við allífið, er talað um geimkapphlaup stórveldanna og augsýnilegt að það hefur verið mikið hitamál, enda alkunna. Á þrettándanum 1959 víkur Þórbergur að þessu kapphlaupi og augljóst að honum er heitt í hamsi. Þetta samtal okkar átti sér stað meira en tveimur árum áður en Gagarín fór í sína himnaför og maður getur rétt ímyndað sér, þegar aðdragandinn er skoðaður, hvílík sigurför þetta geimskot var fyrir sovétstjórnina enda sagði Krjúsjeff sjálfur, að geimfarinn, Yuri Gagarín, væri ódauðlegur. Hann birtist með stjórnendum Sovétríkjanna á grafhýsi Leníns, þegar hann var kominn aftur til jarðar, eða föstudaginn 15. apríl 1961.

Um orðaskipti okkar Þórbergs segir m.a. svo í Kompaníinu: Þeir eru ekki alltaf nákvæmir hjá Þjóðviljanum, segir Þórbergur. Af frétt þeirra er ekki ljóst hvort (geimskutla Rússa) átti að fara til tungls eða sólar. En halda þeir þarna hjá Morgunblaðinu, að það sé meiri vandi að koma eldflaug á braut kringum tunglið en kringum sólina?

Já, það held ég, að minnsta kosti hefur engum tekizt það ennþá, sagði ég.

Tekizt það? sagði Þórbergur. Blessaður góði, ertu að vitna í ameríkanana og þá bölvaða ómynd, sem þeir eru að unga út. Ég ætla að biðja þig um að vera ekki að vitna í þessa hrútspunga, sem ameríkanar hafa verið að senda á loft. Þeir hitta ekkert. Og eiginlega mega þeir þakka fyrir, að hrútspungarnir þeirra skuli ekki hafa lent á skorsteininum á Hvíta húsinu, svo klaufskir hafa þeir verið. En samt er montið svo hóflaust og blekkingarinnrætið, að þeir skjóta á loft þyngra ferlíki en nokkurn tíma hefur áður verið skotið á loft til þess að geta montað af þyngdinni, en innviðirnir eru svo fátæklegir, að vísindamenn fást ekki til að hlusta á ferlíkið. Og svo reka þeir smiðshöggið á blekkinguna með því að láta Eisenhover flytja ræðu ofan úr apparatinu. Það er auðsætt, að rússnesku eldflaugarnar eru sendar út í geiminn í vísindalegum tilgangi, en það er jafn auðsætt, að ferlíki Bandaríkjamanna eru að nokkru leyti áróðursblekking. Blaðamenn ættu að sjá sóma sinn í því að taka ekki fréttir athugasemdalaust, sem augsæilega eru haugalýgi. Yfirlýsing rússnesku vísindamannanna tekur af allan vafa, að eldflauginni var aldrei ætlað að fara til tunglsins!

Svo héldu þessar orðræður eitthvað áfram í svipuðum dúr.

Yuri Gagarín með nafnbótina "geimfari Sovétríkjanna", kom til Keflavíkurflugvallar sunnudaginn 23. júlí 1961, á leið sinni til Kúbu. Ég var þá ungur ritstjóri og ákvað að fara sjálfur til Keflavíkur og skrifa um viðburðinn. En svo mjög þótti mönnum um þessa heimsókn að Hanna kona mín kom einnig með mér til Keflavíkur því að Haraldur sonur okkar, þá einungis sjö ára, hafði ekki meiri áhuga á öðru en sjá þennan frægasta stjörnukappa veraldar og var það í eina skiptið sem þau komu með mér slíkra erinda.

Á Keflavíkurflugvelli var margt manna saman komið - og þá ekki sízt nokkrir helztu aðstandendur þessa félags sem nú minnist fjörutíu ára afmælis síns,  þeirra á meðal bæði Einar Olgeirsson og Kristinn E. Andrésson, sem sagði við Gagarín á ensku: Velkominn til Íslands! Ég er mjög feginn því að þú skyldir geta komið til Íslands. Ég dáist að hinum mikla sigri þínum.

Meðal þeirra sem tóku á móti geimhetjunni var fegurðardrottning Íslands, María Guðmundsdóttir og gnæfði hún yfir geimfarann eins og fjall yfir þúfu, enda var hann lítill maður vexti og engan veginn sprottinn úr þeirri formúlu sem höfundar Íslendinga sagna höfðu um sínar hetjur.

Gagarín var geðfelldur ungur maður. Hann var lágur maður vexti, eins og ég sagði, en samsvaraði sér þó vel. Hann var glaðlegur, en þó til baka og tranaði sér ekki fram. Augsýnilega lítillátur þrátt fyrir heimsfrægðina. Með ferð hans út í geiminn lauk fyrsta þætti í kapphlaupi stórveldanna með sigri Sovétríkjanna. Bandaríkjamenn sátu eftir með sárt ennið, fullir aðdáunar eins og aðrir sem fylgdust með þessu kapphlaupi. Fyrsta áfanga á langri, tvísýnni leið var náð. Tunglið beið enn í rómantískri birtu mikillar væntingar, gult og dularfullt eins og ævintýri.

Við morgunblaðsmenn horfðum úr fjarlægð á þessa vísindapólitísku flugeldasýningu stórveldanna, héldum að sjálfsögðu með kananum, fullir aðdáunar á tækniþekkingu Rússa. Þeir voru þá ekki einungis marxískir efnishyggjumenn, heldur sambland af andlegum jöfrum og draumóramönnum. Fullgildir þátttakendur í kapphlaupinu mikla, ekki einungis um jörðina, ekki einungis um alheiminn, heldur sál okkar og viðhorf; þeir áttu nú aðdáun allra þeirra sem horfðu forvitnum augum til stjarnanna. Og það voru ófáir með stjörnublik í þeim augum.

Þegar ég var á blaðamannafundi Krjúsjeffs  í Palais de Chaillot í París, það var í maí sumarið áður, eða 1960, leizt mér  ekki á blikuna, eins og hann talaði um Eisenhover og dauðateygjur vestursins, en Malinovsky vararmálaráðherra, eins og þrumuský við púltborðið. Þessi nálægð við forystumenn Sovétríkjanna nægði mér sem ærið umhugsunarefni næstu mánuði.

Enginn var ánægðari með Gagarín en Krjúsjeff. Ég faðma þig, hafði hann sagt í skeyti til geimfarans. Slíkt faðmlag hafði orðið sumum harla dýrkeypt en það skildi eftir glitrandi orður á brjósti geimfarans unga. Það glampaði á þær eins og spútnik í geislandi sól.

Gagarín var ekki einungis stolt Sovétríkjanna, hann var ekki síður holdgervingur kommúnismans og á það lagði hann sjálfur mikla áherzlu á blaðamannafundi sem haldinn var með honum í flugvallarbyggingunni á Miðnesheiði þennan sama dag; þessi ótvíræði spaðakóngur á hendi aðalritarans.

En það voru fleiri sem vildu faðma Gagarín. Hann var ekki einungis geimfari, heldur frægasti spútnik heims, þegar hann átti viðdvöl á Íslandi þennan júlídag 1961. Sovétmaðurinn í allri sinni dýrð. Yfirlætislaus, augsýnilega ómannblendinn, alúðlegur. Klæddur einkennisbúningi stoltrar þjóðar.

Eins og ég sagði áðan skrifaði ég sjálfur frásögnina af þessari heimsókn í Morgunblaðið, þriðjudaginn 25. júlí 1961.  Fyrirsögnin á greininni var: Sannur kommúnisti biður ekki til guðs.

Þetta minnir á ummæli Þórbergs í Kompaníinu þess efnis að hann væri meiri díalektikter en leiðtogarnir í Kreml, sem sagt sannari marxisti. Þeir vissu ekkert um framhaldslífið og þess vegna ættu þeir ekki að draga ályktanir af því sem þeir vissu ekki. Það væri ódíaliktískt. Hitt væri meir í anda marxismans að spyrja og draga ályktanir af réttum svörum.

Það þarf ekki að geta þess hér að Þórbergur var einhvers konar sérfræðingur í eilífðarmálum, enda stóð hugur hans fremur til þeirra en nokkurs annars.

Í þessari grein segir m.a.:

"Gagarín var glaður yfir þeirri kurteisi sem honum var sýnd og virtist leika á als oddi. Hann gerði að gamni sínu við viðstadda og sagði litlum dreng úr sendiráðinu frá því að hann hefði ekki getað hreyft sig í geimfarinu, því hann hefði orðið að sitja kyrr allan tímann. Þá sagðist hann hafa fengið fjöldann allan af bréfum og kortum og nú væri hann búinn að koma sér upp álitlegu frímerkjasafni."

Undir lok blaðamannafundarins var hann spurður að því, hvort hann hefði beðið til guðs áður en hann fór í geimförina. Hann hló vandræðalega, fórnaði höndum og sagðist ekki hafa gert það. "Sannur kommúnisti biður ekki til guðs," sagði hann og hvarf inn í mannfjöldann, en piltur úr Æskulýðsfylkingunni klappaði saman lófum af ánægju og sagði með stolti sanntrúaðs aþeista: "Helvíti stakk hann upp í þá!" Blaðamannafundinum var lokið.

Nokkru síðar gekk Gagarín að flugvélinni  og kvaddi viðmælendur sína. Hann skrifaði nafn sitt á kort fyrir forvitna safnara, en þó ekki alla því hann sagðist ekki mega vera að því. Síðan gekk hann upp í flugvélina í fylgd með Alexandrov, sendiherra. Þeir stóðu um stund í efstu tröppunni og brostu til mannfjöldans. Einar Olgeirsson brosti á móti og veifaði. Gagarín sagði glettnislega: "Ég ætti að taka sendiherrann með mér!"

Nokkru síðar hvarf hann inn í flugvélina og hélt upp í þann sama himin sem hefur gert hann ódauðlegan, svo að notuð séu orð félaga Krjúsjeffs.

Gagarín hafði á blaðamannafundinum verið minntur á að hann hefði sagt eftir geimförina að yfirburðir sovétskipulagsins hefðu gert honum kleift að fara þessa för: Er það enn skoðun yðar?

Þið ættuð að vera sömu skoðunar og ég í því efni, svaraði Gagarín ákveðið, því að ferðin sýndi ljóslega yfirburði sovétskipulagsins. Berið okkar geimför bara saman við það sem Bandaríkjamenn hafa verið að gera. En tækni og stjórnmál eru tvennt ólíkt, var hann þá minntur á.

Fólkið stjórnar vélunum, tæknin er í þess höndum, okkar skipulag hefur gert fólkinu kleift að taka upp nýja framleiðsluhætti sem eru betri en það sem áður hefur þekkzt, sagði Gagarín.

Hvað hefðuð þér gert, ef þér hefðuð ekki komizt aftur niður úr geimförinni?

Slíkt hefði ekki getað skeð, svaraði Gagarín hróðugur. Ef eitthvað hefði komið fyrir mig, hefði geimskipið lent sjálfkrafa.

Þá var Gagarín spurður um það, hvernig honum fyndist að vera allt í einu orðinn hetja.

Gagarín sló út höndunum svo að sendiherrann hrökk við, og sagði: Þið getið séð hvernig það er!" sagði geimfarinn.

Því má svo bæta við að Gagarín var spurður hvort það hefði nokkuð bólað á guði þarna í háloftunum, en hann brosti eins og lítill drengur og sagðist ekki hafa orðið var við neinn guð. Það væri sama hve hátt væri farið, það væri enginn guð!

Þegar Gagarín fór út í geiminn sagði Morgunblaðið frá því í stórri fyrirsögn á forsíðu fimmtudaginn, 13. apríl 1961: Rússar sendu mann út í geiminn og náðu honum lifandi til jarðar, segir í fyrirsögninni.

Við báðum Resítof blaðafulltrúa um mynd af Gagarín til að hafa með þessari miklu frétt en sendiráðið svaraði því til, að slík mynd hefði ekki borizt. Af þeim sökum var notuð táknleg mynd með fréttinni og sýndi hún rússneskan geimfara í geimbúningi sínum.

Þennan sama dag fimmtudaginn 13. apríl, birtist forystugrein í Morgunblaðinu um þennan atburð og má vera að ég hafi skrifað hana sjálfur, þótt ég muni það að vísu ekki, en þar segir meðal annars: "Er ekki ofsögum af því sagt að líf þeirra sem nú eru ungir ætlar að verða undravert, ef mannkynið ber gæfu til að hagnýta vísindin í þágu menningar. Og um leið og rússneskum vísindamönnum er óskað til hamingju, hljótum við að bera fram þá ósk að afrek þeirra verði hagnýtt til góðs, en ekki gjöreyðingar."

Svo er guði fyrir að þakka að þessi lokaorð hafa átt við rök að styðjast og ekki sízt verið staðfest með árangursríku samstarfi stórveldanna tveggja í geimvísindum. Mér er jafnvel til efs að Þórbergur mundi í dag tala um áróðursblekkingu og ameríska hrútspunga! En við lifum ekki í sömu veröld og áður. Ástæðan er sú að við höfum haft í huga það sem fyrsti forseti þessa vináttufélags sagði í samtölum okkar væri hvað nauðsynlegast: að hætta að tala saman eins og tveir þokulúðrar - og: Við lifum á tíma þegar þarf að skilgreina sérhvert hugtak á nýjan leik ef mennirnir eiga að halda velli sem skyni gæddar verur.

 

 

25. apríl. miðvikudagur

Sjónvarpssamtöl mín við Hannes Hólmstein Gissurarson voru tekin upp í gær, það var hálfgerð þrekraun. Upptakan tók á fjórða klukkutíma, eða frá hálfsex til níu. Það var eins og venjulega, maður gleymdi ýmsu sem ég hefði viljað víkja að, en það verður svo að vera. Auk þess hef ég verið hás eftir slæma hálsbólgu, en það varð einnig svo að vera. Held það hafi samt sloppið, því ég er skárri seinni part dags

Nóg var samt talað!

Svona sjónvarpssamtöl vilja líklega verða hálfyfirborðsleg. En við þurftum ekki að taka neitt aftur, eða endurtaka, það var bót í máli.

Ég sé hvað setur. Flest af því sem minnzt var á hef  ég fjallað um annars staðar, ekki sízt á prenti. En það gerir ekkert til, sagði Hannes, þetta á að vera eins og leikrit. Performans!

En ég er bara enginn skemmtikraftur!

 

 

 

Ritað á Degi bókarinnar:

Á Degi bókarinnar.

1.

Það hefur verið sagt að sköpunarverkið sjálft sé mesta bók sem  samin hafi verið  og ekkert verk beri höfundi sínum jafnfagurt vitni. Mér er nær að halda að Jónas hafi litið svo á og afstaða hans til höfundarins hafi  ekki sízt mótazt af  því.  Margir hafa reynt að lesa þessa bók, bæði hann og aðrir,  og tekizt misjafnlega, enda er hún ráðgáta og því meiri ráðgáta sem við skoðum hana betur. Þessi bók verður ekki lesin niður í kjölinn.

 

Þetta á við um fáar bækur, við lesum þær, kynnumst höfundunum nokkurn veginn til hlítar og sjáum í hendi okkar að sumar bækur eru betri en aðrar, sumar eru  einhvers konar hvítur galdur sem gaman er að kynnast, en þó einkum fróðlegt, aðrar eru eins og hver annar svartur galdur og bera höfundum sínum harla ófagurt vitni. Við reynum að gleyma þessum skruddum sem fyrst, um hinar hugsum við, sumar lengi, en svo koma nýjar bækur eins og farfuglar og vitja þeirra stranda þar sem við erum að reyna að horfa yfir hafið, við tökum þeim fegins hugar eins og sandlóunni í Skerjafirði á vorin, hún gleður okkur um stund, hverfur svo aftur eins og lóan.

 

Og enn bíðum við nýrra bóka, nýrra höfunda, já nýrra hugsana . Og helzt þeirra umbúða sem hæfa svo mikilvægum gestum.

 

Við lifum í heldur vanþroskuðu umhverfi, að minnsta kosti þegar kemur að verðmætum, raunverulegum verðmætum.  eins og mikilli skáldlist. Þar hjökkum við í tízku og vondum smekk og förum því oft og einatt á mis við sumt af  því bezta sem skrifað er nú um stundir. Það treðst undir.

 

Ullin er ekki í geitarhúsinu, hefur okkur verið sagt! En merkir það eitthvað,  í raun?

 

Það er fullt af fólki að rækta garðinn sinn, að vísu-og hlú að arfanum! Og þá væntanlega vegna þess það þekkir hann ekki frá öðrum jurtum. Það er sem sagt í góðri trú.

 

Bækur eru eins og garðurinn okkar, það þarf að rækta hann . Það þarf að venja fólk  við góðar bækur sem eru miklar af list sinni, en ekki endilega boðskap eins og nú er krafizt. List skáldverks er boðskapur þess.

 

Bækur þurfa á góðu ræktunarfólki að halda. Það getur varla verið neitt metnaðarmál útgefenda eða annarra að skírskota viðstöðulaust til þeirra sem geta ekki gert neinn greinarmun á vondum bókum og góðum.

 

Í samantekt á greinakornum Tómasar Guðmundsson kemur fram að honum hefur þótt ástæða til að víkja að þessu.

Smekkurinn hefur sem sagt alltaf verið á undanhaldi!

 

2.

Bók Tómasar, nýútkomin, heitir  Síðbúin kveðja og þar segir að við höfum hæfileika til alls annars en dást að því sem betur er gert en í meðallagi. Hinsvegar umberi Íslendingar “með stakri þolinmæði það sem lélegt er og ómerkilegt. En þetta gagnrýnisleysi gerir það að verkum meðal annars að beztu rithöfundar vorir bera lítið meira úr býtum en leirskáldin og slúðursagnahöfundarnir. Er þess ekki að vænta að virðingin fyrir andlegum störfum megi sín mikils í landi þar sem svo er ástatt”.

Á Degi bókarinnar er ekki úr vegi að íhuga þessi orð, ekki sízt nú þegar estetískum smekk er að hraka og reynt að leggja allt að jöfnu. Stílflatur markaðurinn gerir þá einsmenningarlegu kröfu sem allt og allir eiga að lúta og heimtar sína athygli, vafningalaust. En afdrif  bóka eins og annarra verðmæta fara, þegar upp er staðið, eftir innra þreki góðra lesenda. Þetta þrek er að sjálfsögðu hægt að rækta með sér, því að bækur eru annaðhvort vel eða illa skrifaðar, segir í  formála Oscars Wilde  fyrir Myndinni af Dorian Gray.

 

Góðar bækur eru að vísu stundum sagðar vondar og vondar bækur góðar. Þetta er eitt af vandamálum samtímans, í beinum tengslum við tízku og eftirsókn eftir vindi. En þá er hollt að hafa í huga viðmiðunarkerfi Innansveitarkroniku : Góð bók er góð, ef hún er góð!

Þetta er alls ekki út í hött, því að í Sturlungu segir:”Góð eru orð góð”

 

3.

Jónas orti ekki að gamni sínu þessar línur eða til að kalla yfir sig andúð og reiði almennings eins og raun varð á, heldur taldi hann það nauðsynlegt;hann var knúinn þörf og sannfæringu og hafði nægan innri styrk til að bjóða tízkustellingum samtíðarinnar birginn:

 

leirburðarstagl og holtaþokuvæl

fyllir nú breiða byggð með aumlegt þvaður,

 

segir í Hulduljóðum.

 

En vanaþrælar tízkunnar slógu taktinn í fjölmiðlum. 

Við eigum margt ólært í bókmenntum, en það er ekki hægt að læra smekk;að vísu!  Það var ekki heldur hægt  þegar Jónas átti undir högg að sækja og holtaþokuvælið var  hin eina sanna tólg. Hún er í raun alltaf í tízku ,  en tíminn jafnar metin.

 

Borges segir einhvers staðar: Sumir hreykja sér af bókum sem þeir hafa skrifað;ég hreyki mér af bókum sem ég hef lesið. Ég veit ekki hvort ég er góður höfundur, segir Borges ennfremur, en ég held ég sé frábær lesandi. , eða að minnsta kosti næmur og þakklátur lesandi. 

 

Styrkur bókarinnar er mikill og raunar ekki minni en áður, þótt ný fjölmiðlun hafi komið til sögunnar. En það lifir enginn í fjölmiðlum stundinni lengur! Og ekki heldur til lengdar á skemmtilegum leiðindum sápunnar.

 

Flestir þurfa á bókinni að halda (nema í þeim löndum þar sem fátæku fólki er haldið niðri með ólæsi), jafnvel heimsfrægir stjórnmálamenn ,  óskarsverðlaunahafar,   poppgoð og puntfólk á skjánum er  ekki í rónni fyrr en ævisagan er komin á markað, bæði á bók og hljóðbók (og helzt orðin metsölubók!) Henni einni er trúað fyrir eilífum orðstír.

 

Bækur eru eins og önnur mannanna verk, harla ólíkar og raunar hver með sínum hætti, þannig að sumum þeirra fylgir enginn fögnuður eða gleði, heldur depurð og vonleysi. . Við þurfum ekki að nefna nema Mein Kampf og þær mannfjandsamlegu kenningar sem þar voru boðaðar og settu allt í bál og brand svo að  sköpunarverkið stóð í ljósum logum  eins og sá loftsteinn sem útrýmdi risaeðlunum fyrir 65 milljónum ára.

 

Helstefnur hafa kallazt á um  okkar daga og kastað fjöreggi á milli sín eins og þjóðsagnatröll.

 

Nei, það hefur ekki verið ástæða til að fagna þeim bókum sem flutt hafa boðskap svarta galdurs. Það hafa samt margir gert gegnum þá misjöfnu tíð sem  maðurinn hefur verið í útlegð frá Grasgarðinum.

 

En önnur verk  hafa sem betur fer glatt okkur og staðizt  sem tákn þeirrar andagiftar sem manninum er í brjóst of lagið. Þeirra minnumst við  á Degi bókarinnar.

 

                              4.

Þar sem ljóðið hefur átt undir högg að sækja er ekki úr vegi að minna á það og hlutverk þess í siðmenningarsögu mannsins. Í því hafa ekki sízt birzt  þeir tilfinningalegu eiginleikar sem hafa veitt manninum sérstöðu á jörðinni og fyrrum voru raktir til guðanna sjálfra.

Af þeim sökum ekki sízt hlýtur að vera rúm fyrir þessa grein bókmennta á því verðbréfaralli sem einkennir umhverfi okkar nú um stundir. Og raunar mætti með nokkrum sanni fullyrða að ljóðlistin sé svo inngróin sögu okkar  og menningu, að undan henni verði ekki vikizt án þess glata því bezta í fari okkar;því sem er hvað merkastur vitnisburður um mennsku okkar og dýrðleg fyrirheit. Þetta síðast nefnda orð minnir okkur á  að höfundur kristninnar skrifaði enga bók, en ekkert ljóðskáld hefur samt tjáð sig í fegurra eða ljóðrænna myndmáli  en hann. Þar  var sá hreini   tónn sleginn og ástæðulaust að óhreinka hann með tilburðum í takt við klámiðnaðinn

 

Sá maður sem aldrei las bók meðan hann lifði og gerði sér ekki aðeins óskrifandi menn að félögum, heldur einhverja þá mestu asna sem sögur fara af, einsog okkur, hann trúði hvorki á bækur né félög, segir í Sjöstafakverinu.

En með skáldskap sínum boðaði hann ríkið, bókarlaus.

 

Ríki bókarinnar.

Þá skulum við ekki heldur gleyma því að þeir norsku nýbúar sem fyrstir komu til Íslands höfðu annars konar skáldskap í farteskinu, ekki  síður fagran og mikilvægan, sjálfa edduna.

Enn eru fornritin sá vegvísir sem bezt er treystandi í tilvistarglímunni miklu, ekki  sízt nú á dögum ,  þegar máli og stílsmekk hrakar svo að um munar. Það getur  varla verið sérverkefni samtímans að rækta vondan smekk.

 

 

Þingvellir eru ekki sízt umgjörð þessarar miklu arfleifðar. Án sögulegrar skírskotunar og uppbyggilegrar áminningar hefur veraldarhyggjan ekki það aðhald  sem lítilli þjóð er nauðsynlegt í leitinni að sjálfri sér og framtíð sinni.  Það var  því engin tilvilju, þegar Ben Gurion minntist á það, einmitt á þessum stað, að ísraelar væru þjóð Bókarinnar, en íslendingar þjóð bókanna.

 

Tvær fámennar þjóðir með dýrmætan arf og  miklar skyldur;bæði við þennan arf  og umhverfi sitt.

Og þá ekki sízt framtíðina.

En þessum skyldum verður ekki fullnægt án undirstöðunnar sjálfrar, bókarinnar.

 

                              5.

Siðmenning er ekki sízt fólgin í því að muna. Og við munum í arfleifðinni. Hún er ræktun sem skerpir bæði mennsku og mannúð. Hún er í senn viðbót við eðlishvöt okkar og aðhald.

Neanderdalsmaðurinn átti hvorki ræktað tungumál né bækur. Hann átti því einungis skammtímaminni. Reynslan erfðist illa og hann laut í gras, ósjálfbjarga í kröfuhörðu umhverfi.

Og hvarf inn í myrkur sögunnar. Úr þessu myrkri komu svo þeir sem leiddu manninn til öndvegis  í tilraunastöð náttúrunnar : Í upphafi var Orðið.

Mundi það ekki hafa átt einhvern þátt í þessari þróun?

 

Margt bendir til þess að á næstu árum verði skorið úr um það hvort íslenzkan lifir eða deyr sem skiljanlegt framhald arfleifðarinnar. Enginn mun vernda arf okkar og tungu,  nema við sjálf. Hvorki fjarlægð né einangrun, úr því sem komið er.

 

Hver tegundin af annarri deyr út í náttúrunni. Og í mannlífinu hafa tungurnar dáið út, hver af annarri. Ekki íslenzkan

Ekki enn!

Baráttan um tunguna fjallar ekki einungis um framtíð hennar, heldur alla arfleifðina. Forsendur þess að við erum þjóð, en ekki óþjóð.

 

Í þessari baráttu er hollt að hafa í huga svofellda lýsingu í Prests sögu Guðmundar góða: “. . . þá þótti honum hart um höggva, því að þar var yndi hans sem bækurnar voru. . . ”

 

Í sjávarháskanum miðjum saknaði Ingimundur, fóstri Guðmundar byskups,  bókakistu sinnar og var hún fyrir borð drepin ,  eins og segir í sögunni.

Ingimundur endurheimti hana óbrotna, þegar hana rak á land nokkru síðar.

 

En það er alls óvíst að við heimtum okkar bókakistu aftur, ef við glutrum henni fyrir borð.

Og hvað þá?

Matthías Johannessen.

(Birtist í Mbl.,lesið í Rúv,kaflar birtir í DV)

 

5. maí, sunnudagur

Hef haft í ýmsu að snúast og ekki nennt að taka til við dagbókina. Hef einkum þurft að einbeita mér að nýjum leikþætti sem gerist á mörkum draums og veruleika. Sýnist hann mundi eiga ágætlega við sem þriðji þátturinn í Tvíleiknum og þá er kominn Þríleikur a la grísku harmleikirnar. Það gæti komið heim og saman, en ég sé til, þegar ég fæ uppkastið frá Ellý.

Ég hef eins og alltaf haft líf mitt og reynslu sem efnivið, eða hráefni, í þessum leiksögum og vitna óspart í önnur verk mín eða samtöl sem ég hef átt við merkilegt fólk sem ég hef kynnzt á lífsleiðinni; eða átt samtöl við. Ég þekki ekki annan efnivið en eigin reynslu og hef engan áhuga á að skrifa út úr öðru en lífinu sjálfu.

Annars hef ég verið að  hlusta á hljóðbækur og lesa ýmislegt, þ. á. m.  hef ég farið yfir skáldsöguna The Human Stain eftir Philip Roth. . Fjallar um bandarískan prófessor sem leikur hvítan mann, en er þó svartrar ættar. Það tekst ágætlega, honum tekst jafnvel að blekkja Iris konu sína og er svo heppinn að öll börn þeirra eru hvít á hörund.

Hann slítur einnig öllu sambandi við foreldra sina og fjölskyldu.

En lífið tekur nýja stefnu, þegar hann er ásakaður fyrir orðalag sem gæti falið í sér kynþáttahatur, en er það þó ekki. Þá halda allir að hann sé gyðingaættar, enda leggur hann sjálfur á það mikla áherslu. En upp úr þessu eltir ógæfan hann og sagan endar náttúrlega í bílslysi. Eftir dauða eiginkonunnar er hann í tigjum við ógæfukonu sem ferst með honum, en milli þeirra myndast sterkt ástarsamband.

Fyrir giftinguna hafði hann verið með ljóshærðri stúlku af íslenzkum ættum, Stínu, og lýsingin á sambandi þeirra verður til þess að íslenzka stúlkan gegnir einu helzta hlutverkinu í sögunni.

Einkennilegt!

En hvað um það. Sagan er sterklega skrifuð og mér finnst hún eins og Borges sagði að íslendinga sögurnar væru saman settar, þ. e.  upp úr köflum eða einskonar smásögum um sérhverja persónu sögunnar. Þannig er Stína þrædd inní atburðarásina. En hún kemur mér sem Íslendingi heldur ankannalega fyrir sjónir, því að nafnið er einhvern veginn svo hjákátlegt þarna í þessu ameríska umhverfi og raunar fyndið. Breytir alvörunni í einhvers konar farsa. Við sungum í  gamla daga : Stína, láttu ljósið þitt skína / yfir leiðina mína / veittu sumri og sól, eða eitthvað í þá veru!

Sá ljóður er á skrifum Roths, hvað hann getur verið grófur í kynferðislýsingum og eitt er víst: hann er með Clinton og kvennamál hans á heilanum. Lýsingar hans í þeim efnum eru subbulegar og raunar engum höfundi samboðnar. En hann er að skrifa fyrir þá sem búa til metsölulistana - og samtíminn er bara ekki betur gerður en þetta.

Það er raunar sorglegt-og afvegaleiðandi, ef höfundana brestur dómgreind; ef þeir láta freistast til að fara út fyrir öll velsæmismörk. Það bætir enga bók.Góðir höfundar koma öllu til skila án þess leggjast í göturæsið. En tízkan er bara ekki með slíkum höfundum. Metsölufólkið er eins og flugurnar sem gulna á kúaskítnum!
Hef einnig verið að fara yfir handrit að trúarljóðum sr.  Ólafs á Söndum, því mér skilst Kári Bjarnason ætli að gefa það út. En uppskeran er ekki eins góð og ég hélt við fyrstu sýn. Sr. Ólafur er að vísu undanfari Hallgríms Péturssonat, en áhrifin sýnast mér minni en ég hélt. Og efnistök slakari

Sé þó til.

Uppvöxtur Litla trés er góð saga og þýðing Gyrðis Elíassonar sannfærandi og látlaus.  Áður en þú sofnar eftir Linn Ullman er skemmtileg saga, en þó einkum vegna þess hvað hún er frísk og blátt áfram, þó einkum framan af.
Ef ég hefði ekkert fyrir stafni væri ég eíns og gamall bíll sem búið er að leggja. Hann ryðgar.

Og hvað svo?

Nei, minn gamli drösull hossast þetta áfram og ég er eins og Bjössi á mjólkurbílnum-með aðra hönd á beizlinu. Það gat verið verra!

Kvöldið

Orti þetta áður en ég fór að sofa, notaði auðar síður í ljóðabók gríska skáldsins Nikos Gatsos, Amorgos:  

 

Þunglynt er landið

og þokan liggur

við grös

eins og hugsun þín

við fótspor hennar.

__

Þunglynd er einnig

borgin

 

og þú vaknar

við sagarhljóð

 

fimmtugt reynitré

fellur eins og eldspýta

að ósprottnum

aprílgrösum

 

grenitré í næsta garði

hryllir sig

í vængstórum

greinum,

 

hríslast inní goluhvítt

tómið.

__

 

Þegar hún fer

er enginn eftir

 

hún er allt

og enginn

 

og tóm borgin

þunglyndi okkar.

 

__

 

Einn liggur þú

á næstu grösum, 

 

sagartennur

tímans

búta þig

sundur

 

svo koma þeir

raða bútunum saman

 

kemur tíminn

og slekkur

á söginni.

 

 

6. maí, sunnudagur

Þegar ég var á Morgunblaðinu hafði ég ekki sízt áhyggjur af því að smásöluverzlunin lenti í einokunarhringum og bandarískar skýrslur sem birtar yrðu um fyrri tíma rugluðu menn í ríminu. Hvorttveggja er að gerast, ef marka má fréttir.

Á sínum tíma óskaði Erlendur Einarsson forstjóri eftir því að við Styrmir hittum hann að máli. Erindið var að ræða SÍS og sérstöðu þess (sumir segja einokunarstöðu þess á ýmsum sviðum, sem er þó ekki alveg rétt, a. m. k.  miðað við það sem fólk lætur yfir sig ganga nú um stundir). Honum fannst eðlilegt, raunar sanngjarnt að SÍS hefði 30-35 % smásöluverzlunar á Stór-Reykjavíkur svæðinu, en þá held ég þeir hafi verið með eitthvað yfir 20% af sölunni og þótti mikið.  Okkur  Styrmi fannst það fráleitt og raunar hættulegt fyrir samkeppnina, ef Sambandið færi langt yfir þriðjung. Urðum við ósammála Erlendi vini mínum um þetta.

Nú sést af nýbirtri skýrslu Samkeppnisstofnunar að smásalan er að mestu komin á hendur tveggja hringa og hefur Baugur að mig minnir um 60% þessara viðskipta. Slík sérstaða,  eða samþjöppun eins og nú er sagt,  er áreiðanlega einstæmi.

Og stofnunin heldur því fram að þessir hringasmásalar hafi aukið álagningu um allt að 12 % á sama tíma og innflutningur og álagning heildsala hefur ekki hækkað um krónu í álagningu! Það hefur samkvæmt þessu verið okrað stórlega á neytendum í skjóli sérstöðunnar. Talsmaður  Baugs var eitthvað að mótmæla þessu og tek ég ekkert mark á því, nema í ljós komi að skýrslan sé á sandi byggð, en slíkt getur varla verið. Hví skyldi opinber stofnun vera að ofsækja svokallað framkvæmdafólk að ósekju?  .

Það er auðveldur leikur að raka saman milljöðrðum króna með þessu móti og svo mikið veit ég, að barátta Morgunblaðsins gegn síaukinni sérstöðu Sambandsins og kaupfélaganna var ekki í því skyni að nýir hringar mynduðust á vegum einkaframtaksins og gróðinn lenti allur í einni hít.

Því miður sýnir þessi þróun að frjálshyggjan á sína fylgikvilla rétt eins og önnur hugmyndakerfi, og líklega  nýtur hún sín ver á litlum mörkuðum eins og okkar en stórum milljónamörkuðum, þar sem margir hringar eru um hituna og keppa sín á milli um hylli neytenda. Menn hafa jafnvel tekið sig saman um harðsvíraða sölueinokun á garðávöxtum án þess gróðinn færi til garðyrkjubænda, heldur milliliða! ! Að minnsta kosti mikill hluti hans. Og svo er reynt að krafsa sig út úr þessari skömm með alls kyns vífilengjum. en neytendur halda áfram að verzla eins og ekkert hafi í skorizt.

Eða-hverra kosta eiga þeir völ?

Þá hefur Morgunblaðið birt grein eftir dr. Val Valsson, ágætan fræðimann og fyrrum starfsmann blaðsins, þar sem tíunduð er bandarísk skýrsla um stofnun 1500 manna leynisveitar á sínum tíma og átti hún að vera lögreglu til aðstoðar að bæla niður mögulega uppreisn íslenzkra kommúnista! Þeir hafa sem sagt ekki setið auðum höndum hér heima bandarísku njósnararnir við sendiráðið!
En enginn kannast að sjálfsögðu við þessa vitleysu og það þarf ekki að segja mér að við morgunblaðsmenn hefðum ekki heyrt um þennan “leyniher” á sínum tíma, ef til hans hefði verið stofnað, eins og fullyrt er í þessari sárgrætilegu “leyniskýrslu”!
Þetta er  að sjálfsögðu algjört rugl og engin ástæða að velta sér upp úr því, í hæsta lagi mætti drepa á það sem gálgahúmor – og þá helzt í vetrarþunglyndi eða gúrkutíð!  En það er svo sannarlega ekki gert, ríkisútvarpið tönnlaðist á þessu í allan gærdag og linnti ekki látum fyrr en í fréttatíma sínum á miðnætti! !
Við eigum eftir að fá margar svona delluskýrslur héðan og handan, en það verð ég að segja, að aldrei hefur mér dottið í hug að bandarískir njósnarar hér á landi hafi verið jafn auðtrúa og heimskir og raun ber vitni. Og aumingja fórnardýrin vestra sem þurftu að sitja kófsveitt við að lesa allan þennan þvætting! .
En þeim var mátulegt! .
Svona skýrslur lýsa auðvitað ekki neinu öðru en þeim sem semja þær, misskilningi þeirra og mistúlkun. Stundum geta þeir, að vísu, slampast á að misskilja umhverfið rétta. Það er auðvitað undir hælinn lagt og engin ástæða til að taka á því ofurmark eins og gert hefur verið.
Þær skýrslur eru helzt einhvers virði, þar sem merkir stjórnmálamenn lýsa hugmyndum sínum eða því hvernig þeir upplifðu vissa atburði, því að þær sýna a.m.k.  afstöðu þeirra sjálfra og varpa ljósi á það, hvernig þeir skynjuðu umhverfi sitt og annað fólk, og skiptir  þá litlu eða engu máli, hvort þeir upplifa þetta “rétt”eða “rangt”
Hitt er aðalatriðið - að við getum upplifað  þáttakendurna og orð þeirra eða ummæli eins og þeir sjálfir gerðu.  Séð þá eins og þeir töldu sig vera. Það sér hvort eða er enginn atburði sömu augum og allir aðrir. Allt slíkt er afstætt. Og síðari tíma skýringar einatt meir í ætt við skáldverk en sagnfræði. 
 
Kvöldið

 Hef verið að fara yfir síðustu kaflana í skáldsöguminningum Marcel Proust, Minning um gleymdan tíma. Þar er m.a.  fjallað um lesbíska kærustu Marcels, Albertine, og langvarandi samband þeirra sem leiðir til þess að hún verður hálfgerður fangi, en það er heitið á þessari bók ritverksins. Mest hef ég þó gaman af Karlusi barón, forsnobbuðum sjálfsvitringi, en slíkt fólk er varla til lengur. Nú eru snobbararnir annarrar gerðar og miklu leiðinlegri!

Þetta minnir mig á fund sem við í afmælisnefnd Háskólans áttum með Baldvin Tryggvasyni um væntanlegan styrkveitingasjóð handa afburðanemendum, ef til kæmi. Þá var minnzt á snobb og Vigdís fyrrum forseti lýsti ferð til Nissa, ég held á vegum Kaupþings og / eða spariskjóðanna og þá sagði hún að mikið hefði verið gert með madam. Baldvin gat þess þá að menn skyldu ekki forsmá snobbið eins og það hefði verið virkjað til margra góðra hluta, ekki sízt lista! Ég fór að hugsa um þetta í alvöru og sá í hendi mér að þetta var alveg rétt og síðan hef ég verið hinn mesti snobbunnandi.

En enginn tekur Karlusi baron fram í þessum efnum,nema ef vera skyldi einhverjar fyrirkerlingar í enskum leikritum,t.a.m. eftir Óskar Wilde. 

Það er bara svo ömurlegt að sitja uppi með leiðinlega snobba eins og skemmtilegir snobbar geta verið hressandi skemmtiefni. Og það eru þessar ensku kerlingar líka..... 

 

P. s.  Fékk í dag bréf frá Hjálmari Ragnarssyni, rektor Listahásakólans, með ósk um að ég flytji hátíðar-eða skólaslitaræðu á  útskriftardegi skólans, 26. maí n. k. Ég kann ekki við að hafna þessari ósk og tel hana mikinn heiður. Þarf því að einbeita mér, svo að nóg verður að gera næstu daga.

 

Ætli ég hafi nokkurn tíma haft jafnmikið umleikis og nú? Engu líkara en maður sé kominn í tízku, loksins!

Ég hef haft það í flimtingum að ég þurfi að byrja aftur á Morgunblaðinu til að fá hvíld og einhvern flóafrið!

 

Það skyldi þó ekki vera!

 

7. maí, mánudagur

Við elskum aðeins það sem við getum ekki eignazt, segir Marcel í Fanganum í Glötuðum tíma.

Ég hef verið að hugsa um hvað það getur verið mjótt á mununum í listinni. Sumir segja að Proust hafi elskað einkabílstjórann sinn öðrum fremur (að undanskilinni móður sinni), en í sögunni breytt honum í konuna Albertine til að villa á sér heimildir. Það var víst nauðsynlegt á sínum tíma, vegna fordóma. En ef Albertine hefði verið Albert einkabílstjóri í sögunni, þá hefði Glataður tími farið fyrir ofan garð og neðan hjá flestu fólki, þótt hommar hefðu lesið söguna áfram af  meiri áhuga.

Tíðarandinn hefur þannig að öllum líkindum bjargað þessu snilldarverki Prousts, því að gagnkynhneigt fólk hefði ekki dregizt að sögunni,  ef Albert hefði leikið ástar-og afbrigðissemishlutverk Albertínu!

Proust hefur þannig átt fordómum mikið að þakka, hvað sem öðru líður!

En sem sagt, mjótt á munum!

 

Ódagsett

Ég hef verið að huga að mörgu undanfarið, auk þess sem ég hef verið á fúkkalyfjum vefna hastarlegrar barkabólgu.

 

Ég er enn með gömlu heimspekina á heilanum,auk þess sem ég hef verið að lesa Wittgenstein, Bláu bókina. Það er mér erfið raun. Platón var mikið skáld þótt hann tortryggði skáld og vildi setja þau undir eftirlit! Þegar hann þurfti að gera einhvern heimaskítsmát í rökræðum  greip hann til Pyþagórasar, en ekki skáldskapar. Samt hef ég nautn af að lesa Díalógana hans og fylgja Sókrates á ferðalaginu um rökhugsanir Platóns. En ég hef ekki nautn af Wittgenstein, það vantar skáldið í hann.

 

Hvað sem því líður er ég að hugsa um fólkið sem býr hlekkjað í helli Platóns og lifir með flöktandi skuggum þeirra sem eru frjálsir fyrir utan.

 

Talaði við Styrmi um “hulduherinn”sem Valur frændi hans Ingimundarson var að skrifa um í Mogga. Styrmir kom mér á óvart. Það var hann sem benti Val á þennan pappírsher og bað hann athuga hvort einhverjar heimildir væru um hann í bandarískum skjölum. Styrmir segir að Birgir Kjaran hafi fengið þessa hugmynd og látið vinna að því að setja einhver nöfn niður á blað, það var víst 1961. Það var ekki til að berja á kommum, segir Styrmir, heldur verkalýðnum, ef hann hugsaði sér til hreyfings  við tvísýntar aðstæður!! Lengra gekk þetta nú ekki, en þó komst það í njósnaskjöl kanans.

Syrmir hélt Bjarni Benediktsson hefði vitað um þetta, en ég fullyrti það gæti ekki verið, því ég hefði þá vitað um það. Bjarni var ekki með hugann við slíkt á þeim tíma, kommúnistahættan var að líða hjá. Auk þess hatað Bjarni ekkert meira en ofbeldi.

Við Bjarni töluðum saman nánast á hverjum degi og ég hefði heyrt þetta á honum, ef eitthvað hefði verið til í því; þ.e.a.s. ef einhver alvara hefði verið á ferðinni.

 Styrmir sagði að ég hefði verið settur á blaðið, en ekki Eykon,því hann hefði verið svo pasturslítill  að Birgi hafi ekki þótt neinn töggur í honum, en ég stór og stæðilegur!! Samt hef ég aldrei heyrt um þetta, þótt því hafi af einhverjum ástæðum verið hvíslað til Washington. Það væri heldur óskemmtilegt, ef nöfnin yrðu birt!

Það er ekki ég einn sem aldrei hef heyrt um þetta, heldur er ég í góðum félagsskap ungra sjálfstlæðismanna eins og Guðmundar H. Garðarssonar og Baldvins Tryggvasonar og slíkra innstu koppa í þáverandi búri Sjálfstæðisflokksins sem hafa aldrei heyrt þetta orðað. Samt var Baldvin einn nánasti samstarfsmaður Birgis.

Björn Bjarnason segir að hann komi líka af fjöllum, þótt Sigurður A. Magnússon gefi í skyn í DV-grein að hann hljóti að hafa vitað þetta. En hverjum er ekki sama hvað SAM segir! Hann er a.m.k. ekki sérfræðingur í staðreyndum. Hann er sófisti, hefur gaman af málæði, en er alveg sama eins og sófistunum, hvort það leiðir til sanninda eða ósanninda. Rökfærsla er honum ekki töm, heldur fullyrðingavaðall. Hann væri upplagt efni í formennsku sleggjudómarafélagsins!

 

Það má svo sem vera að þetta hafi verið hugarórar Birgis Kjarans, ég veit ekkert um það. En hvernig slíkt er komið til kanans er mér hulin ráðgáta. Þeir virðast hafa moðað úr öllu sem á fjörur þeirra barst,gagnrýnislaust, bæði því sem átti við einhver rök að styðjast og þá ekki síður hinu sem ekkert  var! Ætli Rússar hafi ekki unnið á sviðaðan hátt, þegar þeir voru á njósnaskónum. Sitthvað hafa þeir sagt um íslenzka kommúnista sem enga stoð á í veruleikanum. Eða þá okkur hina, guð minn góður!

Jamesbondar eru ófyrirleitnir, en þeir eru ekki endilega gáfuðustu menn í heimi. Góður njósnari verður að kunna að skilja á milli hugaróra og raunveruleika, annars getur hann komið af stað kjarnorkustyrjöld af misskilningi!!!

En njósnarar þurfa líka að skila árangri, það er meinið!

 

 

Hef ekki getað hitt Kristján Karlsson lengi vegna lasleika, en talaði við hann í síma. Hann segist hafa  ort ómeðvitað kvæði með þeirri niðurstöðu að Gunnar skáld  Gunnarsson hafi verið lítt trúaður, en Kalldór Kiljan aftur á móti haft mikið trúarlegt upplag. Ég sagðist vel geta fallizt á þetta, enda kæmi það heim og saman við skáldskap þeirra. Gunnar hafi líklega verið meiri hedónisti en Kiljan sem yfirgaf aldrei sitt kristna veganesti

Kristján ætlar að senda mér kvæðið við tækifæri, með athugasemdum. Svo ætlum við að hittast þegar ég hef jafnað mig. 

Þá hef ég verið að velja úr sálmum sr.  Ólafs á Söndum, sumt er fallegt, annað eins og gengur. Sr. Ólafur var kynslóð á undan Hallgrími Péturssyni og það gerir þessa sálma hans einna hnýsilegasta. Í þeim má merkja það sem verða vildi. Hann talar t.a.m.  um að lesandinn geti lagfært sálmana til að betrumbæta þá og bendir það til formála Hallgríms fyrir Passíusálmunum,  hann segir í miðjum sálmi Upp upp mín sál og sitthvað er það fleira sem vísar til Hallgríms.

Mér er til efs að Hallgrímur hefði getað þrozkað snilli sína án þess sr. Ólfur plægði akurinn eins  og þeir kallast á í þessum trúarkvæðum sínum.

Sr. Ólafur segir á einum stað að Guð hafi teiknað manninn. Er að hugsa um að vitna í það í hátíðarræðunni sem ég hef lofað að halda við skólaslit Listaháskólans síðar í mánuðinum.

Talaði aftur við Styrmi og hann sagði mér frá þó nokkrum erfiðleikum Morgunblaðsins vegna samdráttar. Líklega er einhvers konar samdráttur eða efnahagskreppa í loftinu, ég veit það ekki.

Mér þótti vænt um að Styrmir skyldi minnast á það þegar ég var að prédika vanþóknun mína á því hvernig smásalan væri að lenda á einni hendi. Mér fannst gott að hann skyldi muna það. Nú er það komið á daginn og þetta frjálshyggjufrelsi hefur leitt til þess að skúrkarnir í verzluninni hafa getað sogið til sín mest allt blóðið og eru nú farnir að fjárfesta fyrir milljarða í útlöndum. Engum hefur dottið í hug að ættjörðin frelsaðist á Seltjarnarnesi, en nú virðist það blasa við. Það verður sem sagt smásölumenningin sem varðveitir orðstírinn. Önnur menning er í bómull, það er hún alls staðar að vísu. Þetta er líka allt svo einkennilegt. Ómenning er orðin að menningu, áður en nokkur veit af Og þegar tíminn er búinn að vinsa úr ómenningunni verður hún ekki verri menning heldur en þeir sauðskinnsskór sem fyrir voru. Sumir virðast halda að ættjörðin frelsaðist í sönglagakeppni Evrópu!

 

 

11. maí, föstudagur

Hef verið að lesa heimspekisögu Bertrands Russels, jafnframt því sem ég hef verið að hlusta á fyrirlestra bandaríska prófessorsins Michaels Sugrue, prófessors við Princeton-háskóla, Platón Sókrates og Díalógarnir. Allt er þetta mjög fróðlegt og leiðir hugann að nútímanum og umhverfi okkar. Við Kristján Karlsson vorum að tala um feminismann og þessa kynlífsbyltingu sem  allir töldu að væri ný af nálinni en er auðvitað ekkert annað en gömul lumma, ef rýnt væri í saumana á umhverfi mannsins gegnum aldirnar.

Við sjáum alls kyns samfarasenur í sjónvarpinu og reynt er að lauma klámi og hálfklámi inná hvert heimili og allir halda þetta sé merki um yfirgengilega hnignun, en við erum bara í einhverri slíkri kynferðisbylgju miðri og verðum að láta okkur hafa það. Og þá er bezt að hafa eitthvað til viðmiðunar svo maður fari ekki alveg á taugum.

Sjálfsagt þykir að alls kyns klám og grófyrði sé á matseðli sjónvarpsins, en ekki einungis þar heldur einnig alls staðar þar sem fólk kemur saman - og þá ekki sízt í leikkhúsum. Sá skemmtikrafturinn sem er mesti klámhundurinn virðist einnig vera eftirsóknarverðastur.

Þó held ég margir séu farnir að þreytast á þessari bylgju þótt aðrir klappi henni lof í lófa eins og lítið barn sem horfir hugfangið á, þegar foreldrarnir kveikja ljósin á jólatrénu!

Það er talað um að maðurinn hafi breytzt og umhverfi hans, en mér er það til efs. Ég held  maðurinn, eða öllu heldur mannkynið,  sé nákvæmlega eins nú um stundir og það hefur alltaf verið, þó með einhverjum blæbrigðum sem stjórnast af tækninni.

Það var merkilegt að skoða rústir húsanna í Pompei á sínum tíma og upplifa hvernig heimilin voru skreytt með allskyns guðamyndum, en þó ekki síður skrautlegum myndum af kynfærum og hinum litríkustu samförum. Þetta þótti sjálfsagt þarna suður á Ítalíu áður en guðirnir í Vesúvíusi reiddust og höfðu fengið nóg. Tóku þá til bragðs að eyða umhverfi þeirra sem þarna lifðu rétt eins og guð eyddi Sódómu og Gómorru og lét eldhafið ganga frá því í eitt skipti fyrir öll

Við erum ekki enn komin á það stig sem  þetta fólk bauð umhverfinu uppá og þótti sjálfsagt . Líklega eigum við langt í land, jafnvel algjörlega óvíst hvort við eigum nokkurn tíma eftir að komast eins langt í kynlífsbyltingunni og þarna átti sér stað.

En hvað sem því líður er mikilvægt að skoða söguna og gera sér grein fyrir því hvort eitthvað hafi breytzt eða ekki. Gera sér grein fyrir því hvort gerð mannsins er eitthvað merkilegri nú og þá jafnvel horfast í augu við að maðurinn, eða öllu heldur mannkynið, er í nákvæmlega sömu sporum og það hefur alltaf verið. Við getum talað um blæbrigði en það væri fáránlegt að tala um einhverja grundvallarbreytingu á eðli mannsins eða því umhverfi sem honum þóknast að búa við.

 

Það hafa aðrir en ég borið fram þá kenningu að lítið sem ekkert hafi breytzt í eðli mannsins og upplagi, svo að ekki sé talað um umhverfi hans. Um þetta allt hafði fyrirrennari Platóns og þeirra Sókratesar, Parmenídes frá Elea, fjallað á sínum tíma, en hann mun hafa verið uppi frá 540-480 f.Kr. Hann hélt því fram að veruleikinn væri ein óbreytanleg heild en það sem menn skynjuðu sem breytingu væru aðeins blekking. Hann var sá fyrsti sem byggði niðurstöður sínar og þekkingu á rökfærslu samtalsins svo að ég er í góðu kompaníu hvað þetta varðar.

Af ritum Platóns er augljóst að samfélag aþeninga sem við getum kallað fyrsta lýðræðislega samfélag sögunnar, hafi verið komið miklu lengra í kynlífsbyltingunni en við nú á dögum.Einnig borgríki spartverja Í þessum ritum er fjallað opinskátt um ástir og girndir karla hvers til annars og lesbískar ástir þóttu áreiðanlega jafn sjálfsagðar og nú um stundir. Mér er til efs að nokkur rithöfundur skrifi um smápilta sem andlag karlaásta með þeirri hispurslausu afgreiðslu sem tíðkast í þessum fornu ritum.

Þó að ekkert breytist í veröldinni í raun og veru, þá breytist flest með einhverjum hætti. En þó ekki með öðrum hætti en þeim sem unnt væri að afgreiða með líkingu um hafið. Þó að yfirborð hafsins breytist og fari eftir logni eða stormi, þá breytist hafið ekki í sjálfu sér. Eðli þess er hið sama og áður. Það gerist í raun og veru ekkert annað en yfirborðið er annaðhvort  slétt eða bylgjótt. Og þegar það er slétt í logni, hnígur allt í sama farið og var fyrir storminn.

Þannig er einnig saga mannsins á jörðinni, a.m.k. þegar hugað er að innri gerð hans og því óútreiknanlega fyrirbrigði sem kallast mannkyn.  Í raun og veru er þetta mannkyn hið sama nú og var fyrir þúsund árum. Alls kyns tækni hefur að vísu breytt umhverfi okkar , en við erum að flestu, ef ekki öllu leyti sama fyrirbrigðið og fyrir þrjú þúsund árum. Lýsingin á lýðræðislegu þjóðfélagi  Aþenu fyrir tvö þúsund og fimm hundruð árum eða lýsingarnar á samfélagi gyðinga fyrir og um þann tíma eru í raun í engu frábrugðnar þeim veruleika sem við eigum að venjast, enda þótt allt ytra umhverfi sé með öðrum hætti. Öldugangurinn hefur breytt yfirborðinu og enginn veit hvenær næst verður logn. En breytingarnar eru sum sé fólgnar í tengslum við vísindaafrek alls konar, annað haggast ekki.

Það er að vísu rétt að blæbrigðin eru önnur nú en áður. Tungan hefur breytzt og merkingar orða. Þannig þótti það sjálfsagt á tímum Sigurðar Breiðfjörðs að nota orðið píka yfir stúlku - og þótti engum mikið - eða hvað hefði verið sagt ef einhver hefði notað þetta orð í sálmum nú á dögum? Það gerði sr. Ólafur á Söndum og stingur ekki í stúf við neitt annað í sálmum hans. Síðan verður þetta hið dónalegasta orð sem engum datt í hug að taka sér í munn, þegar ég var að alast upp, a.m.k. ekki á mannamótum. Nú er þróunin sú að nánast væri hægt að nota það um sköp kvenna við öll tækifæri .

Eitt af því sem ég held hafi fylgt kvennabyltingunni er tungutak sem þykir sjálfsagt í kynlífsþáttum í sjónvarpinu vegna þess að konurnar halda að slíkt orðfæri sé notað í karlasamfélaginu og þær ætla sér ekki að verða neinir eftirbátar. En í  raun og veru er þetta grófa tungutak ekki notað í karlasamfélaginu svo að mér sé kunnugt; a.m.k. ekki sem almenn regla. Má vera að það sé einhver undantekning og þá einkum í vissum samfélögum eins og á sjónum, en þó ekki sem almennt tal.. Ég hef bæði unnið á sjó og á síld og einnig í vegavinnu og man ekki til að þessi grófyrði sem við heyrum konur nota, t.a.m.í sjónvarpi, hafi átt þar upp á pallborðið.

Þessi tilraun til að upplifa karlasamfélagið verður því harla hjákátleg, a.m.k. í eyrum þeirra sem raunverulega þekkja karlasamfélag og hafa reynslu af því.

Þannig er engin ástæða til að fara á taugum þó að þjóðfélagið hafi breytzt að þessu leyti á skömmum tíma og allra sízt þegar höfð er viðmiðun við það sem áður var. Það getur þannig verið hollt að kynna sér samfélag Sókratesar eða Krists. Þar er sama mergðin á ferðinni og einkennir okkar eigið samfélag, t.a.m. í sjónvarpi, sama mannkyn eða - hverjir voru það sem vildu heldur Barrabas en Krist; hverjir voru það sem samþykktu í atkvæðagreiðslu að Sókrates yrði líflátinn? Það voru ekki samtímamenn eins og Platón sem horfðu á ósköpin án þess geta  borið hönd fyrir höfuð þeirra sem lýðurinn öskraði á,þótt þeir hefðu ekkert viljað frekar. Lýðurinn heimtaði óréttlæti, það var allt og sumt.

Ég sé ekki að þessi sama mergð sé alltaf að vinna fyrir réttlætið þó að það komi að sjálfsögðu fyrir, hún lætur stjórnast af ofstæki sem oftar en ekki á rætur í manneðlinu sjálfu og vísar veginn, þegar mönnum líkar ekki hugsun einhvers eða boðskapur.Báðir voru þeir Sókrates og Kristur dæmdir fyrir guðlast, enda þótt þeir hafi að öllum líkindum verið hinir einu meðal samtímamanna sem voru saklausir að slíku.

Mergðin, eða hin lýðræðislegi meirihluti í Aþenu, lét eigin ávirðingar bitna á Sókratesi. Það var þessi sama mergð sem hafði brugðizt börnum aþeninga og afvegaleitt þau með siðlausri þjónkun við grófustu eiginleika mannseðlisins. Allt var þetta látið bitna á Sókratesi, manninum sem kenndi nauðsyn þekkingar og fyrirlitningu á fordómum og heimsku. Aþeningar létu meira að segja ósigur sinn í Pelepone-styrjöldinni bitna á Sókratesi , en þá fóru spartverjar með sigur af hólmi og kollvörpuðu lýðræðinu í Aþenu..

Samt hafði Sókrates á sínum tíma verið einhver hugprúðasti hermaður aþeninga og hetjudáðir hans margkunnar - en hver var að hugsa um það? Hver hugsar þegar hreyfiafl mergðarinnar fer af stað? Er það ekki sama fólkið og nú um stundir upphugsar það göturæsismál sem einkennir svo mjög margar sögur og kvikmyndir; sama fólkið og er sífellt í sjónvörpum að tjá grófar, dýrslegar hvatir sínar sem aðrir stríða við í einrúmi og telja að réttu lagi að öðrum komi lítið sem ekkert við.

Grófyrði og klám bætir ekkert samfélag og breytir engu um eðli mannsins, eða eigum við að segja mannkynsins. Aftaka mikilla hugsuða hefur á stundum verið jafn mikil skemmtun þeim sem ferðinni stjórna hverju sinni og uppþot bullunnar á knattspyrnuvelli samtímans.

Nei, við erum ekki á leið upp á neitt Parnassos. Við stöndum enn undir tindinum og mænum ráðvillt til guðanna.

En af hverju er ég að eyða tíma í að velta þessu fyrir mér ; eyða tíma í þessar hvimleiðu bollaleggingar um efni sem fylgir manninum eins og arfi eða nagdýr,.flær eða lýs? Jú, það er auðvitað vegna þess að ég hef áhuga á að vita í hvaða þjóðfélagi ég bý; hver er samtími minn; umhverfi. Og þá vil ég vita það án þess ég hafi endilega einhverjar skoðanir á þessari sömu nútíð.

En mundi það ekki vera einkennileg afstaða að hafa engan áhuga á lífi sínu og umhverfi þess?

 

Sumir halda að klámbylgjan hafi náð hámarki. Ég efast um að svo sé. Slík bylgja er inngróin í eðli dýrsins sem við köllum maður af miklu steigurlæti. En við erum í eðli okkar meiri skepnur en flestar skepnur aðrar,þótt margir reyni að yfirvinna dýrið í sjálfum sér.Það köllum við m.a. siðferðisþrek og á þeim vígstöðvum eru menn misjafnlega sterkir En ætli nokkurt dýr jarðar leggi eins mikið á sig og maðurinn til að sýnast annað en það er? Mér er það til efs. Ætli nokkurt annað kvendýr mundi skrifa leikrit um pjötluna sína, ef það kynni tökin á skrift? Nei, dýr eru hvorki hugsjúk né móðursjúk á kynferðissvellinu. Þau ganga til verks eins og flugan sem frjóvgar blómið. Hugsunarlaust og eðlilega eins og geisli sem  hoppar af einni þúfu á aðra.

Píkusögur eru ekki viðfangsefni hunangsflugunnar. Borgarleikhús flugunnar hefur í öðru að snúast!

 

Abraham reyndi að vera annar en hann var. Hann notaði m.a. guð til að villa á sér heimildir. Hann gat Ísmael með egypskri ambátt og sagði að guð hefði talið sér trú um nauðsyn þess. En ætli guði hafi ekki verið nákvæmlega sama! Það er talið til sérstakra geðtruflana að heyra raddir og ég er ekki viss um nema Abraham og sumar persónur aðrar í Gamla testamentinu hefðu lent á prósaki,ef þær hefðu verið uppi nú um stundir. Hver veit? Ég geri lítið úr þessum tilraunum gamalla gyðinga til að afsaka forfeður sína, hvort sem þeir heita Abraham eða Davíð konungur. Þetta er allt sama tóbakið. Dýrið andspænis guði, án þess það komi forsjóninni við með nokkrum hætti. Efnið andspænis andanum.

 

Þessi barátta hefur alltaf fylgt manninum. Platón gagnrýnir Hómer í Ríkinu og vill draga úr áhrifum hans. Hómer dýrkaði hetjur sem voru skítlega innrættar og fullar af hefndarhug eins og Atkilles. Platón taldi að þessar hetjur væru æskunni ekki góð fyrirmynd. Hefndarhugur er vond fyrirmynd. Uppeldi Hómers er vont uppeldi að áliti Platóns. Hann vill benda mönnum á aðra betri fyrirmynd og segir við Aþeninga: Horfið til Sókratesar(!) Þar er þekkingarhetjan mikla; hetja nýrra tíma. Hún kemur í staðinn fyrir hina vígóðu hetju Hómerskviða. Sókrates er nýr Atkilles.

 Platón prédikaði ný gildi, eða nýtt gildismat. En hann var þeirrar skoðunar að í fyrirmyndarríkinu þyrfti að hafa auga með skáldum; ritskoða þau með mildi. Af hverju? Af þeirri einföldu ástæðu að hann treysti þeim ekki með tilliti til þess sem fram var borið í Hómerskviðum.

Sjálfsstjórnin hefst á heimavígstöðvunum. Í sálinni sjálfri. Og svo á hún að dreifast um allt þjóðfélagið. Það er boðskapur fyrirmyndarríkisins. Við höfum ekki eignazt slíkt ríki; ekki enn. Og mér er til efs við eigum nokkurn tíma eftir að eignast það. Við höfum haldið hingað til að nú væru gósentímar fyrir sálina, siðferðið, sjálfsaga og mennsku.

Það er fráleitt.

Hvað hefur eiginlega breytzt.

 Um daginn auglýsti kaupmaður einn í Hafnarfirði að fyrstu tíu sem kæmu í verzlun hans kviknaktir fengju ókeypis alklæðnað. Og það stóð ekki á þessum tíu. Þeir voru allir mættir, karlar og konur. Og þeir lentu allir í sjónvarpinu, að sjálfsögðu. Aðspurður sagði einn karlanna: Ég er hérna til að fá alklæðnað ókeypis, þá get ég náð mér í stelpu út á nýju fötin!

Fólk hefur verið handtekið að fyrirmælum hegningarlaga, að ég held, fyrir nekt á almannafæri; að ógna blygðun annars fólks. Menn hafa talið rétt og nauðsynlegt að  færa dýrið maður í einhvern klæðnað, a.m.k. á almannafæri. Dýrin skýla sér sjálf með fiðri og loðnum feldi. Ekki maðurinn. Það hefur þótt merki um siðmenningu að klæða frummanninn í einhverjar pjötlur. Menn hafa þurft að hlíta þeirri kröfu almenningsálitsins. Nú er flestum sama, að því er virðist. Næsta skrefið verða áreiðanlega samfarir á almannafæri. Opinberar samfarir. Þá getur fólk fengið alklæðnað og einhvern bónus með.Þeir sem fyrstir mæta.Hinir geta fengið víagra!

 

Þetta er þróunin .Fólk hefur hræsnisfulla afstöðu til siðferðis. Það vita allir. Það er kannski eina leiðin til að lifa samfélagið af. Hentistefna og hræsni, það hefur dugað bezt í gegnum tíðina. En svo hefur þessi sama tíð valið verðmætin úr sorphaugnum.

 

Í athyglisverðum útvarpsþætti um skilnað og hjónabönd þar sem áherzla er lögð á mikilvægan þátt barnanna í endingu hjónabanda var maðurinn kallaður mannlegt dýr eða siðferðilegt dýr. Það eru sem sagt fleiri en ég sem eru þeirrar skoðunar að hinn jarðbundni þáttur mannsins hamli hinu guðlega eðli, ef svo mætti segja.

 

Platón þoldi ekki lýðræðið í Aþenu vegna þess að hinir lýðræðissinnuðu aþenningar höfðu samþykkt í atkvæðagreiðslu að taka Sókrates af lífil. Slíkt þjóðfélag var honum öndvert, í raun og veru. Samt var Sókrates ekki andfélagslegur á nokkurn hátt, þvert á móti. Hann vildi bæta fólk. Hann taldi að það væri þjónusta við guðina.

 

Í Aþenu ríkti einskonar þjóðkirkja. Sá sem var á móti guðunum, hann var réttdræpur. Við erum að vísu á batavegi í þeim efnum, en ættum að geta skilið hneykslun Platóns. Það var samfélagsleg þjónusta að bæta fólk. Færa það úr lörfum þekkingarleysis og fordóma og klæða það í búning leitandi mennsku. Það getur varla verið skaðsamlegt að bæta umhverfi mannsins, en það er ekki endilega vinsælt, þvert á móti. Sókrates var hvítur hrafn í samfélagi aþeninga. Hann var einhvers konar ljónatemjari samfélagsins. Hann talaði annað tungumál en samtíminn. Og það vita allir að tungumálið er áhrifamesta tækið til uppbyggingar- eða niðurrifs.

 En merking orða breytist.

 

Það er margt í Ríkinu sem ég gæti tekið undir, annað ekki. Ég er t.a.m. ekki sammála þeirri tilvitnun í Sófókles að ástin sé endilega harður húsbóndi. Af þeim sökum, ekki sízt, sé gott að eldast. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar að ástin sé eins og minning um vor. Hún er vor á öllum aldri.Og ef Viagra getur framlengt sumarið, sé ég ekkert á móti því. En það er ósköp indælt að þurfa ekki á því að halda! Gervifótur getur aldrei komið í staðinn fyrir heilbrigða fætur. En það má ganga á honum ef nauðsyn krefur.

 

Hef ort þessi smákvæði undanfarið:

 

Hár þitt

klettsvartur foss

 

og ég baða mig

í úðanum.

 

 

Vorannir

í borginni

 

Hann stóð

með sögina

í annarri hendi

 

horfði

yfir valinn

 

nýbrumað birki

á vígvellinum

hvítt í sárið,

 

lóan hvarf

inn í haustlauf

frá í fyrra.

 

Ég þekkti hana

á göngulaginu.

 

 

 

 

 

 

 

 

21. maí, mánudagur

Ingó er í stuttri heimsókn og við fórum með honum á Kontrabassann eftir Patrick Süskind. Frábær sýning. Þekkti ekki leikarann, Ellert A. Ingimundarson, sem kom mér algjörlega á óvart. Það eru ótrúlega margir góðir leikarar hér á landi og koma manni sífelldlega á óvart. Ég held ég sé að uppgötva það, að þeir beztu eru betri, eða a.m.k. jafngóðir, og gömlu leikararnir. Þeir hafa meira þanþol á sviðinu og öryggið er með ólíkindum. Íslenzkt leikhús á þannig mikla framtíð fyrir sér. Það er gott fyrir tunguna.

 

Eftir því sem ég skoða meir heimspekileg verk finnst mér það æ meira íhugunarefni af hverju heimspekingar eru jafn þekktir og raun ber vitni. Ástæðan er sú hvað það kennir margra fáránlegra grasa í verkum þeirra, ef svo mætti segja. Þeir hljóta að vera þekktir af orðfimi og stílbrögðum fremur en efni og hugsun.  Þeir eru líka einatt miklir rithöfundar og sem slíkir hafa þeir unnið til frægðar. Platón hefur til að mynda fáránlegar skoðanir á börnum og foreldrum sem eiga helzt ekki að þekkja börn sín í fyrirmyndarríkinu eða Fögruborg; þau eiga að kalla alla fullorðna karlmenn feður og helzt ekki berja þá vegna þess að þá gætu þeir verið að berja hinn raunverulega blóðföður sinn! Skáld eiga að búa við einhvers konar ritskoðun og alræði og yrkja eins og hver annar uppalandi, en ekki ástríðufullt skáld. Allt miðað við menntun og þekkingu. Það er góðra gjalda vert meðan hugmyndirnar eru ekki jafn fáránlegar og raun ber vitni oft og einatt. Nietzsche hatast við  konur og telur enga ástæðu  til þess þær hafi mannréttindi karla, hatast einnig við kristindóm en kann að meta Gamla -testamentið; fullur af mannhatri. Svartsýni Schopenhauers er einhvers konar sýn inn í ekkert. Mannfirring hans er einhvers konar innibyggð reiði sem engum kemur eiginlega neitt við. En Nietzsche er mikið skáld og Schopenhauer þungavigtarmaður sem rithöfundur. Við lásum í menntaskóla ritgerð hans um einveru og félagsskap, það var á þýzku, mér þótti það frábær lesning.

Þessi frægð heimspekinganna fjallar held ég ekki um afstöðu og ekki endilega um merkilega hugmyndafræði, heldur framsetningu; stíl. Þetta er fyrst og síðast ein tegund bókmennta. Dálæti mitt á Kierkegaard stafar ekki endilega af því hvað hugmyndir hans eru hugnanlegar, heldur hugmyndasnilli, óvæntum líkingum og metafórum, hið sama gildir um Pascal og Nietzsche, svo ég nefni helztu skáldin í faginu.

Ég hef líkt Sókratesi við Þórberg Þórðarson, sumum til mikils angurs, en þá á ég auðvitað við Sókrates Platóns sem hlýtur að vera skáldskapur í aðra röndina. Það er Þórbergur einnig, eftir því sem tíminn líður!  Dálæti mitt á Þórbergi stafar ekki af hugmyndum hans eða pólitískum skoðunum,  sem ég hef í raun engan áhuga á, heldur stílsnilld hans og sérstæðum listrænum tökum á tungunni. Ég geri ráð fyrir því að hið sama hljóti að eiga við um Platón, enda var hann upphaflega dramatískt skáld og skrifar litríkan stíl fullan af vísunum og óvæntum skáldlegum líkingum; t.a.m. er lýsing hans á hellinum bæði dæmisaga og þá ekki síður eftirminnilegur skáldskapur.

 

26. maí, laugardagur

Ræða flutt við skólaslit Listaháskóla Íslands:

 

Vitnisburður um manninn

Við skólaslit Listaháskóla Íslands

 

Það er vart hægt að komast hjá því þegar talað er á vegum listaháskóla að varpa fram þeirri spurningu til hvers listin sé. Það liggur í augum uppi að engum hefur tekizt að skilgreina hana til hlítar og eðlilegt að þessi spurning kalli á margvísleg svör.

 

Lítum á orðið list ,það er engin tilviljun frekar en annað í tungunni.Upprunaleg merking þess er kunnátta, kænska. Listamaður er þá kunnáttumaður, fagmaður; sá sem gengur á undan, markar slóð; listaháskóli lærdómsstofnun sem varðar veginn; eða teiknar áætlun, ef svo mætti segja:

 

...í höndum þínum,minn herra Guð

hefur þú teiknað mig,

 

segir sr. Ólafur á Söndum í óprentuðum sálmi.

 

Eða hver getur skilgreint fegurð?

Brezkur listfræðingur skilgreindi hana svo að hún væri fullnæging. Hún væri þannig óviðjafnanleg reynsla.

En listin, mundi hún þá ekki einnig vera einhvers konar fullnæging? Einhvers konar tilraun til að leita að sjálfum okkur, bæði í umhverfi okkar og innra manni.

Listin á helzt að vera óvenjuleg reynsla og mér er nær að halda að góð list sé a.m.k. mikilvæg reynsla og raunar einhvers konar vitnisburður um að við erum komin út úr frumskóginum, með viðkomu í hellinum þar sem frummaðurinn iðkaði list sína um það leyti sem mennskan var að fæðast í brjósti hans.

 

Listin getur hvorki verið betri né verri en við sjálf. Hún á sér bæði neikvæða og jákvæða hvata, en hún er þó fyrst og síðast einhvers konar barátta við tortímingu; dauða.

Dýrið verður að fá útrás í jarðneskum móðursýkisköstum af ýmsu tagi þótt það hafi yfirgefið frumskóginn. Það er að vísu orðið maður, manneskja, en það hefur ekki losað sig við jörðina og margvíslega fylgikvilla mennskunnar, mannjöfnuð og samanburð sem geta á stundum leitt til nýrrar sturlungaaldar; tómleika og ófullnægju. Ég segi þetta ekki sem neinskonar svartagallsraus, heldur á þessi fullyrðing rætur í haldgóðum heimildum og reynslu okkar eftir langa göngu og mikla leit. Ekki endilega að einhverri óskilgreindri paradís, heldur óskilgreinanlegri fegurð. Sá sem hér talar hefur á engan hátt misst trú á manninn eða þróun lífs á jörðinni vegna þess að margt hefur verið öndverðara í heiminum en æskilegt hefði verið. Sá sem missir trúna á manninn og menninguna annað veifið þarf ekki endilega að hafa glatað þrautseigju andans og þeirri bjartsýnu von sem er leiðarljós allrar listar.

 

Þegar Paul Burton hitti indverska vitringinn og tíundaði áhyggjur sínar af heiminum, sagði vitringurinn, Blessaður hafðu ekki neinar áhyggjur af heiminum, hann spjarar sig. En á meðan einstaklingurinn er eins og þú ert, þá verður heimurinn eins og hann er.

Þessu fær ekkert um þokað, hvorki list né sú vonarglæta trúar sem okkur hefur verið í brjóst of lagin.

 

Forfeður okkar ófu inn í listina allt sem þeim var dýrmætast, svo sem guðamyndir og tilfinningar. Voru þeir þó engar taugahrúgur, heldur í sæmilegu andlegu jafnvægi, ef marka má Íslendinga sögur og aðrar heimildir þess efnis. Þeir tóku ljóðlistina alvarlega, jafnvel svo alvarlega að þeir töldu dulmagnaða töfra henni samfara. Og þeir litu engum smánaraugum á myndlistina því að það er rétt sem Ásmundur Sveinsson sagði í samtölum okkar á sínum tíma, að það hafi verið myndin sem nam Ísland. Það voru guðamyndirnar á öndvegissúlunum sem vísuðu veginn.

Og þessi vegvísir hefur stefnt okkur hingað á þessari stund.

 

Enda þótt nauðsynlegt hafi verið að  endurnýja form og innihald ljóðlistar eins og gert hefur verið á þessari öld - og ekki síður annarra listgreina, þá er margt í þeim gömlu klyfjum sem ástæða er til að meta og fráleitt það hafi íþyngt listum eins og sumir virðast halda.

 

Ég geri ekki endilega ráð fyrir að gamaldags fagurfræði sé kennd í skólum, en listamenn mega helzt ekki verða þrælar vonds smekks, einungis vegna þess að krafan um nýbreytni er háværari en krafan um smekkvísi.

 

 

Þó að fjölmiðlaslúðrið geri kröfuharðar tilraunir til að kalla bókmenntir og listir niður á sitt plan, getum við sagt með þó nokkru stolti að enn er margt fólk á Íslandi sem lætur ekki blekkjast, en gerir kröfur til smekkvísi og fagmennsku og hefur gagn, ánægju og jafnvel nautn af því sem vel er gert.

Þetta fólk hlýtur að vera hverju skáldi, hverjum listamanni, sú áskorun sem úrslitum ræður.Platón segir hlutverk listamanna sé ekki eigingjörn þjónkun við sjálfa sig,heldur þjónusta við list sína.Þannig er það í raun viðfangsefni skáldsins að breyta öðru fólki í skáld  og myndlistamannsins að gera okkur að sjáendum.

 

Það er ekki efni ljóðlistar, og ekki heldur neinna annarra listgreina, sem úrslitum ræður, heldur ferskleiki listamannsins, handbragð og hvernig að verki er staðið, enda fátt nýtt undir sólinni. Sé handbragðið persónulegt og sérstakt er markinu náð. Til þess þarf upplag, útsjónarsemi, ímyndunarafl; frjóa hugsun og ferska. Sérhvert listaverk á að vera atvik út af fyrir sig eins og sköpun í sólkerfum.

Forsendur slíkrar listsköpunar má að sjálfsögðu finna í genum ekki sízt, svo að vísað sé til tízkuvísinda. En þeirra verður ekki síður leitað í lærdómi og menntun. Og þegar að þeim þætti kemur skilur hvert mannsbarn mikilvægi listaháskóla.

 

Listamaður sem byggir hugsun sína og hugarflug á traustri undirstöðu lærdóms og menntunar þarf ekki að hugsa um sérhvert vængjatak. Flugið verður jafn áreynslulítið og hreyfing fugls í hrynjandi lofts og vinda.

Það er í senn gaman og eftirminnilegt að ferðast með slíkum listamanni því að ferðinni er þá ekki heitið inn í ringulreið, heldur reglu; inn í rúmgott jafnvægi. New York-skáldið Singer sagði þegar hann talaði um herbergið sitt þar sem öllu ægði saman að kaós hefði ríkt í tilverunni eins og vinnustofu hans,áður en guð sagði: verði ljós. En svo tók kosmos við, þótt sú þróun hefði ekki orðið á heimili hans. Við það sætti hann sig, þótt honum hefði ekki haldizt uppi að hafa allt á rúi og stúi í skáldsögum sínum. Þar ríkir regla listarinnar ofar hverri kröfu.

Eins og í sköpunarverkinu.

En listamenn verða þá einnig að hafa djörfung, kraft og hugmyndaflug til að brjótast undan vanabundnum klissjum hefðarinnar. Það er nauðsynlegt að kunna bragfræði ef maður er skáld, nauðsynlegt að geta teiknað, ef maður er myndlistamaður, ekki sízt vegna þess að menntun og lærdómur eru forsendur áræðis.

 

Listir geta vera skemmtilegar, jafnvel eftirminnilegar, þótt þær séu ekki fullkomnar. Auk þess eru þær eins og allt annað í lífinu, misjafnar. Það yrkir enginn eins og annar, þótt orðin séu hin sömu, merkingarmiðin svipuð, hugsun, takmark. Hver og einn syngur með sínu nefi.  Það hlýtur þó að vera takmark hvers listamanns að vinna eins vel og hæfileikar hans standa til. En hæfileikar eru af ýmsum toga.

 

Sumir fuglar geta flogið, aðrir ekki. Sumir fuglar ætla aldrei að ná flugtakinu, en komast þó á loft um síðir. Allir eiga þeir sama himinn að markmiði. Og nú hef ég í huga það sem sögumaður Kristnihalds undir Jökli hefur komið á framfæri við lesendur sína; að það sé einkennilegt að allir fuglar skuli ekki fljúga eins;  sumir fuglar eru eins og kría á steini, aldrei kyrrir á sama stað, aðrir þolinmóðir eins og eilífðin og láta lítið á sér kræla, enn aðrir sífellt syngjandi, sumir fuglblendnir, aðrir ekki.

 

Það hefur ekki fundizt "rétt" formúla að listaverki né nein formúla að því, hvernig það verður til. Formúlan er óskilgreint fyrirbrigði í blóði listamannsins, á sama hátt og loft og himinn í vængjum fuglsins.

 

Vettvangur arnarins er allt himinhvolfið, fjöll, firðir og firnindi þar sem maðurinn er sjaldgæfastur fugla. Þar starfar hann eins og sá einn sem ætlar sér mikið hlutverk og  mikla þátttöku í umhverfinu og ber sig helzt ekki saman við neina listamenn aðra en þá sem kunna að blaka vængjum,ómeðvitað.

 

 Fuglar eins og örninn eru fáir og fyrir þá er stundum eitrað eins og refinn. Þeir lúta engum fyrirmælum frekar en aðrir fuglar og þeir listamenn sem líkjast þeim mest eru ekki við eina fjöl felldir. Veröld búrfugla er þeim framandi heimur, þröngur og ófrjáls.

 

En þá skulum við ekki gleyma því að snjótittlingurinn sem er á þyngd við frímerki fýkur ekki þótt hann standi á berangri í fárviðri, eins og Jón prímus benti á.

Hvað sem þessu líður eru listir þó fyrst og síðast vinna, vinna og aftur vinna, þótt vel megi vera að upphaf þeirra sé æði og ástríða.

 

Enginn listamaður er einn á ferð. Í fylgd með honum er jafnan einhver Glámur og við hann þarf að glíma hvern dag sem guð gefur. Það er hörð glíma og háskasamleg og engin fuglasöngur eða gamanmál yfir glasi, heldur grimmileg átök við úreldingu, svo að notað sé tungutak auðlindartízkunnar. Sú glíma fjallar um tortímingu og fer fram undir glottandi tungli og án áhorfenda.

Listamenn eru íslenzkri menningu jafn nauðsynlegir og blóm og fuglar náttúrunni án þess við séum sífellt að gefa þeim einkunnir, enda tilgangslítið. Þeir gegna sérstæðu hlutverki í umhverfi sínu, þótt ólíkir séu. Náttúran leitar jafnvægis í allt að því óendanlegri fjölbreytni. Hún er gjöful en grimm. Hún gleðst yfir sandkorninu , ekki síður en sólkerfinu.

Þannig eigum við einnig að umgangast skáldin og aðra listamenn, ekki sízt í skólastofum. Erindi þeirra við okkur er margvíslegt og ekki það eitt sem Tómas nefndi, þegar kona ein veizluglöð vatt sér að honum og spurði, hvers vegna hann væri eiginlega að yrkja þessi ljóð!

"Það er til þess, sagði skáldið af alkunnri hógværð, að ég hafi eitthvað gott að lesa, þegar ég er orðinn gamall".

 

Við skólaslit listaháskóla hljótum við að leiða hugann að því sem ég drap á hér að framan og er eitt af undirstöðuatriðum alls lærdóms og allrar menntunar, vinnunni. Í samtölum okkar Páls Ísólfssonar minnir hann mig á þá staðreynd að það er enginn jöfnuður í náttúrunni. Og svo hafa séníin eitt fram yfir flesta aðra, segir hann, vinnuþrekið. Og dr. Páll bætir við: "Þrek og ódrepandi dugnaður ráða úrslitum um það hvort okkur tekst að vinna stórvirki eða ekki. Vinna og þolinmæði, ætli þessi tvö yfirlætislausu orð séu ekki lykillinn að leyndardómi mikilla afreka. Ég hef horft á  flag verða að túni á einu sumri.

Því miður höfum við ekki þolinmæði náttúrunnar en meðan ég fylgdist með fæðingu þessa túns, hugsaði ég oft um það hve listamönnum er nauðsynlegt að kunna vinnubrögð náttúrunnar. Hún gefst ekki upp þótt blási á móti. Alltof margir listamenn bíða lon og don eftir því sem þeir kalla innblástur. Maður einn gekk upp Túngötu á fögrum vordegi. Þegar hann kom á móts við Landakotsspítala dritaði kría í hausinn á honum. Hann var í senn hrifinn og undrandi yfir þessu atviki og vildi að það yrði endurtekið. Þess vegna hefur hann síðan verið öðru hverju á vappi við Landakot í von um að kría driti á kollinn á honum.

Þessi maður minnir á suma listamenn. Þeir eru alltaf að bíða eftir sinni kríu sem þeir kalla andagift."

 

Og þó, og þó!

Biðin sjálf getur, eins og Beckett minnir okkur á í Godot, verið þrungin mikilli spennu: mikilli andagift; þessari kvíðafullu eftirvæntingu Eyðilandsins.

Fyrst Godot kemur ekki í dag, þá kemur hann áreiðanlega á morgun. Og þá heldur bið mannsins áfram, hvort sem hún fjallar um leitina að guði eða manninum í brjósti okkar sjálfra. Án listar, án trúar, er þessi leit, þessi bið merkingarlaus. Hún er eins og segir í leikriti Becketts, einungis fyrir þá sem geta ekki hugsað nema með kúluhatt.

Í Godot segir Estragon: Allar dauðu raddirnar, en Valdimar svarar: Það þýtur í þeim eins og vængjum. Estragon: Eins og í laufi. Valdimar: Eins og í sandi.

Þeir eru búnir að blaðra nóg þarna í miðju einsksins. En þá fær Estragon góða hugmynd: Við ættum að snúa okkur ákveðið til náttúrunnar.

Og það eru orð að sönnu ,þótt þeir fari ekki eftir þeim,því að náttúran er ekki utan við manninn, hún er í honum. Og það er í þessari samtengingu manns og náttúru sem hann öðlast þá tignu fegurð sem gæti verið vísbending um að Godot sé ekki krían, heldur guð.

 

Til að fullnægja öllu réttlæti og ná jafnvægi og þá ekki sízt vegna þess ég er í aðra röndina á vegum rektors er mér víst ekki annað fært en vitna einnig í samtöl okkar Jóns Leifs: Takmark allrar sannrar listar er að gefa mönnum þrek til að þola raunir lífsins, sagði Jón, gera menn sterkari.

Það hlýtur einnig að vera eitt helsta hlutverk listaháskóla, að styrkja vængjatökin. Kenna mönnum eðlisfræði listarinnar, auka þannig öryggið.

Einhverju sinni í samtölum okkar Ásmundar Sveinssonar spurði ég hann um  ástríðuna. Hvað áttu við, góði, sagði Ásmundur. Sex, kynlíf sagði ég í takt við tízkuna.. Nei, svaraði Ásmundur, ég hugsa ekki í hormónum, ég hugsa í formum. Ég vil að þau tali saman.

Við skulum í lokin ekki gleyma því hverjir það voru sem varðveittu þá menningu sem er hornsteinn arfleifðarinnar. Ásmundur sagði það hefði verið Vatnsberinn og Járnsmiðurinn. Nei, það voru engar sætabrauðskerlingar eða bronskarlar með merkissvip, sagði Ásmundur. "Verndin er hluti þeirra trúarbragða sem eru mér hugstæðust. Móðirin vendar börnin sín, eins og kemur fram í sumum myndunum mínum. Helgimyndir, segja sumir. En verndin má ekki vera fólgin í því að frelsa fólk eins og stundum í trúarbrögðum. Þá slævist það og því hættir að fara fram, segir bara: Ég er frelsaður! Listin á ekki sízt að vernda okkur frá þess konar frelsi. Stundum hefur mér jafnvel dottið í hug að guð sé baráttan. Slagkrafturinn. Og þroskinn sem fylgir átakinu."

 

 

 

24. maí, uppstigningardagur

Dr. Pétur Pétursson hringdi til mín og bauð okkur Hönnu austur í Skálholt. Hlustuðum þar á Kammerkór Suðurlands , hann söng gömul sálmalög og verk eftir Gunnar Reyni Sveinsson tónskáld. Ágæt verk. Við Pétur og Kári Bjarnason ætlum svo að tala saman um gamla sálmasafnið síðar í sumar, en safn sr.  Ólafs á Söndum verður á mínum vegum.

 

Orti drög að þessu ljóði í kirkjunni, með blindvísunum í gömlu sálmana sem eru eftir Hallgrím Pétursson, Stefán í Vallanesi og Sigurð Jónsson á Presthólum; tilefnið ung kona sem var með barn sitt í kirkjunni og það hjúfraði sig upp að móðurinni; hún lygndi augum aftur og hlustaði; mér datt María guðsmóðir í hug:

 

 

Ég byrja reisu mína. .

                         Hallgr. Pétursson

 

 Hún virðist sem ösp

á vori

og vefur barnið að hjarta sér,

 

lygnir  augum og eignast                                   

örlitla stund með þér,

 

ó guð minn.

 

Sólin upprunnin er

á austursíðu

 

hún lyftir sér upp frá jörð

í trú

og þakkargjörð.

 

Ég byrja reisu mína

í ráðvilltum huga, fer

um ár sem áttavilltur

einmana fugl

til heiða,

 

hún opnar augu, fylgir

mér eftir á þessari leið,

en veröldin vaknar

af dvala

það vorar í huga mér,

 

með opin augu hún fagnar

ástinni í brjósti sér.

 

Fésjóður þinn er drottinn dýr

í dauða  sem í hverjum

býr.

 

Við horfum saman til sólar

og sjáum þitt eilífa vor

 

ó guð minn

 

sem græðir aftur

grösum þau óstignu spor

tímans sem treður yfir

minn trega, minn söknuð

 

og fer

með ólifða daga.

 

En ástfangin vefur

eilífðin líf vort að sér.

 

 

Hef einnig verið að yrkja þessi ljóð:

 

 

                                    Einmanalegt athvarf

 

                                    Frumskógurinn hljóðnar,

                                    engin öskur.

 

                                    Nýsvæft

                                    með flís í þófa

                                    var manndýrið flutt

                                    í nýtt umhverfi

 

                                    og ég vaknaði

                                    í hjarta þínu.

 

                                    Rimlað búr

                                    er hjarta þitt.

 

                                    Haltrandi

                                    gengur manndýrið

                                    óendanlega hringi

                                    í einmanalegu athvarfi

 

                                    sleikir sárið,

 

                                    hlustar.

 

                                    Öskrandi frumskógurinn

                                    í blóði mínu.

 

 

 

 

Óskin eftir að eiga sér

dauðdaga

gerist æ fágætari.

                                                            Rilke

 

 

                                                Skjálfandi laufskrúð

                                                er lífið.

 

                                                Heyrum kallað haust

                                                að hrjúfum degi,

 

                                                ó jörð sem kallar

                                                einmanaleikans rödd

                                                að ættjörð vorri, kallar

                                                hvert spor

                                                að haustsins nöktu

                                                greinum

 

                                                hlustum á haustlæga vinda

                                                hamra sitt járn,

                                                þótt vængjuð sólin veröld sína

                                                snerti,

 

                                                en laufið fellur hljótt

                                                sem hvísl við greinar sínar,

                                                þær loka augum aftur

                                                við endalausan söng

                                                í fuglsins langþreyttu

                                                fjöðrum

 

                                                og trén sakna mjórra tóna

                                                af mildum vængjum laufsins,

 

                                                laufskrúð asksins ýfist

                                                að útvíkkuðum himni,

 

                                                heyrum þig jörð, þú kallar

                                                heimarómi djúpt

                                                úr moldarþögn

                                                er mjúklát nóttin heilsar

                                                nýjum óskrifuðum

                                                degi,

 

                                                þú kallar oss til molda

                                                sem haustgult lauf

                                                að rökum sverði

                                                falli,

 

                                                ó jörð, að þínu brjósti,

 

                                                en fuglinn syngur

                                                sára minning

                                                burt

                                                og saknar hennar líkt

                                                og laufið saknar

                                                gamalla greina sinna,

 

                                                þannig hverfur einnig

                                                jarðtengdur hugur vor

                                                að fölnandi laufi.

 

                        -------------------------------

 

                                    Allt er hávært í borginni

                                    jafnvel grasið er hávært

                                    í borginni,

 

                                    Carreras syngur með haustinu

                                    aðrir halda popp-           

                                    tómleika  með haustinu,

 

                                    því allt er hávært

                                    í borginni.

 

 

 

Þá hef ég verið að breyta gömlu ljóði og vona því sé nú lokið: Hver vill á okkar tímum...

 

                                    Hver vill á okkar

                                    tímum gefa eitthvað

                                    fyrir vandaðan dauðdaga

                                                                        Rilke

 

 

                                    Ég veit að sólin er ilmur við augu þín

                                    og allt sem hún snertir og kallar að lokum til sín

                                    það minnir á gleði sem grær nú við hjart mitt

                                    og grösin sem jörðin þrýstir við brjóstið sitt.

 

                                    Þú ert þessi gleði, þú ert þessi hlýi blær

                                    þú ert þessi skuggi sem flöktandi vængjum slær

                                    eins og deyjandi fugl sem dregur minn huga til sín

                                    og deyr eins og hvísli þögnin við eyru mín.

 

                                    Ég veit að þú ert víst hvergi til nema hér

                                    í hugsun minni en enginn veit þar af þér

                                    samt vitjarðu mín hvert andartak sem ég á

                                    með óljósri minning sem treðst eins og  gulnað strá.

 

                                    Ég finn þig svo oft og þú ferðast um huga minn

                                    eins og fugl sem hverfur og deyr inn í skuggann sinn,

                                    samt veit ég af þér og ekkert er hug mínum nær

                                    en orð sem falla eins og grös þegar tíminn slær.

 

                                    Þú ferðast um hug minn  og andrá okkar um sinn

                                    er eilíft vor og geisli við skuggann minn,

                                    hann flöktir og deyr sem fuglinn að örlögum sínum,

                                    það er fuglasöngur í kirkjugarðinum þínum.

 

 

 

 

6. júní, miðvikudagur

Nú er víst ákveðið að lágmynd Erlings Jónssonar af mér verði afhjúpuð í Morgunblaðshúsinu í síðustu viku þessa mánaðar. Af því tilefni fór ég að hugsa um húsin þar sem ég hef unnið á vegum blaðsins og staðnæmzt við Ísafoldarhúsið við Austurstræti, en þar vann ég fyrstu árin.

 

Ísafoldarhúsið var vel þekkt í bænum, en hinn mesti kumbaldi. Þegar hús Matthíasar afa míns, Aðalstræti 12, brann að köldum kolum, var farið að huga að því ,  hvað gera skyldi við lóðina, því engum datt í hug að endurreisa húsið á rústunum. Eitthvert blað um umhverfisvernd í Grjótaþorpiinu spurði mig , hvað ég segði um brunann og birti ljóð úr Morgni í maí sem ég hafði ort um þetta gamla hús. . Ég sagði að mér fyndist ágætt það skyldi hafa brunnið  eins og því hefði verið misþyrmt eftir andlát Matthíasar um aldamótin, en þá varð Helga Magnea , föðuramma mín, að selja það.  Ég átti samt stundum erindi í þetta hús, því að í kjallaranum var Moritz Biering frændi minn með skóverkstæði og skóslit fjölskyldunnar voru á hans vegum. Hann var faðir Hilmars sem síðar vann hjá borginni. Við erum saman á mynd sem tekin var, þegar Fróði  lagðist að bryggju  með dauða sjómenn og lifandi eftir stríðshremmingarnar suður af Vestmannaeyjum.

Á neðri hæðinni var hannyrðaverzlun og þurfti fólk að ganga háar og miklar tröppur til að komast inn í hana. Þetta voru ljótar tröppur og klossaðar og komu húsinu raunar ekkert við. Voru þær síðari tíma viðbót og eyðilögðu alveg framhlið hússins.

Þá höfðu litlir nettir kvistir verið rifnir af þakinu og stórum klunnalegum kvisti komið þar fyrir og var það einskonar smiðshögg á eyðilegginguna. Þá var húsið orðið krypplingur.

En auðvitað var ekki látið þar við sitja, heldur  höfðu augun einnig verið stungin úr húsinu, svo að það var eins og vanviti ásýndar. Minnti lítið sem ekkert á þá listasmíð sem Matthías hafði flutti út hingað  til hoggna frá ættlandi sínu, Noregi.

Mér er til efst það séu til neinar teikningar af húsinu, enda smíðað í Noregi, en ágætar myndir hef ég séð af því eins og það var upphaflega og sýna fallegt,   norskt timburhús sem samsvaraði sér með ágætum. Þetta hús var  horfið, þegar bruninn varð.

Það var því léttir að losna við þetta afstyrmi og eiga einungis eftir minninguna góðu á gömlum myndum. Það er eins og að varðveita æskuna á mynd og láta svo ekki mynda sig oftar! Hverfa ekki að eilífu frá neinu gamalmenni, heldur þessari eilífu æsku sem allir þrá öðru fremur.

En maður hefur nú ekki haft vit á því eins og myndaæði nútímans er

Ég hef verið að hlusta á fyrirlestra bandaríska prófessorsins John B. Fishers um nokkra rithöfunda, suma sem ég þekkti ekki eins og Beatrix Potter, barnabókahöfund(Pétur kanína) og bandaríska blaðamanninn alkunna, H. L.  Mencken sem starfaði einna lengst við Baltimore  Herald, en hann var einn þerkktasti blaðamaður Bandaríkjanna á fyrra hluta síðustu aldar, þótt ég hafi haft litlar spurnir af honum, enda var hann hættur störfum, þegar ég kynntist blaðamennsku á sjötta áratugnum. Hann fékk heilablóðfall  á bezta aldri, 1948, eða 68 ára gamall,  en lifði átta ár óvirkur eftir það, án þess geta lesið eða skrifað. Það voru ömurleg örlög fyrir slíkan mann. En um það er ekki spurt.

Hann vann afrek í málvísindum með þriggja binda riti sínu The American Languages sem nú er betur munuð en blaðamennskan. Hið sama má segja um safn bókmenntagreina sem þykir  hinn mesti fengur. , svo og þriggja binda ævisögu hans og einstæða dagbók. Hann var ótrúlega afkastamikill, en það er eitt helzta einkenni mikilla rithöfunda.

Þegar vinur Menckens, blaðamaðurinn frægi Alister Cooke, var eitthvað að tala við hann um ljóðskáldið Edgar Lee Masters sem hann virti mikils og þeir rifjuðu upp að hann hefði líklega dáið 1942, þá sagði Mencken: Það var árið sem ég dó!

Margir miklir blaðamenn hafa misst heilsuna á góðum aldri og þekkjum við dæmi þess, því miður. Aðrir hafa ekki orðið langlífir.

Þegar ég horfi um öxl minnist ég þriggja góðra vina og samstarfsmanna , Valtýs Stefánssonar, Bjarna Benediktssonar. og Eykons sem lutu þessum örlögum

En hvað um það.

 

Ástæða þess ég rifja þetta upp er lýsing Menckens á því,  hvernig myndin í speglinum er, þegar hann rakar sig á morgnana. Annaðhvort er hún eins og hann óttast mest eða eins og hann langar mest til eða  þá bara eins og hann er, þegar hann blasir við sjálfum sér  í speglinum

Þannig erum við öll í spegli tímans. Ekki endilega eins og við helzt kysum, heldur eins og við óttumst hvað mest.

 

Og þannig er einnig umhverfi okkar, Einnig hús. Og húsið hans Matthíasar afa var svo sannarlega ekki eins og það var, heldur eins og maður óttaðist mest það væri.

En Ísafoldarhúsið er nú eins og við vildum helzt, en ekki eins og það var, þegar við vorum að klambra þar saman Morgunblaðinu, hálfri þjóðinni til angurs og ama, ekki sízt í forsetakosningunum 1952! .

 

Það var góðu heilli afráðið að endurreisa Ísafoldarhúsið á lóðinni við Aðalstræti þar sem hús Matthíasar afa stóð. Og þannig hefur þetta gamla hús vaknað upp í nýju umhverfi, en þó við vitlausa götu. Og það þarf náttúrlega að venjast henni. Gatan þarf einnig að venjast þessum nýja gesti. . En það ætti að vera auðvelt, því að endurgerðin er til fyrirmyndar og nú er þetta eitt fallegasta húsið í miðbænum, þar sem onnur eftirlaunahús eins og Landsbankinn og Útvegsbankinn tróna eins og hver annar misskilningur,  eða eins og líkami sem vegna bælds ónæmiskerfis hafnar nýjum líffærum. .

Eins og norska húsið hans afa sem lauk ævinni nánast eins og hver önnur umhverfisspjöll.

Vitnisburður um villimannslega umgengni við tilfinningar okkar.

 

Þegar maður fer á eftirlaun verður ekkert eins nauðsynlegt og gera sér grein fyrir því að maður er kominn í nýtt umhverfi og þarf að sættast við það .  Bezt væri að geta orðið til einhverrar prýði við þessar framandlegu aðstæður,  svo að  nýja gatan hafi ástæðu til að taka breytingunum fagnandi. Þá getur manni einnig liðið vel eins og endurbyggðu listasmíðinni við Aðalstræti 12 sem er prýði síns umhverfis og gleði þeirra sem eiga þangað erindi. Ef manni tekst þetta, þá  getur nýtt líf einnig orðið til einhvers gagns.

Eins og það er unnt að lifa af Austurstrætið, þá ætti einnig að vera hægt að lifa af Morgunblaðið.

Og það er auðveldara en ég hefði haldið, að óreyndu!

 

9. júni, laugardagur

Í Vesalingum Victors Hugos stendur þessi fallega setning: Þú ert svo falleg að rósirnar líta undan.

Hugo var mikill höfundur, sálrýnir og þjóðfélagskönnuður, meiri en við þekkjum nú á dögum, að minnsta kosti mér vitanlega. Auk þess var hann að margra áliti mesta ljóðskáld sem Frakkland hefur eignazt.

Það þarf mikið til.

 

Annars hefur margt verið sagt um ljóðlist og á henni margar skoðanir. Carl Sandburg sagði að ljóðlistin væri bergmál sem býður skugga upp í dans. Archibald Mac Leish sagði eins og Steinn vitnaði til í Tímanum og vatninu:

 

A poem should not mean

But Be,

 

það merkir einfaldlega að við eigum að hætta þessum akademísku spurningum um merkingu ljóðs, en njóta þess heldur eins og það er.

Ljóðið er einskonar hreyfing frá einu hjarta til annars (eins og ástin? ) og verður ekki skilið með heilanum einum. Ekki frekar en tónlist. Ljóðið er þannig öðrum þræði eins konar söngur. Og Fisher prófessor  segir að mesti söngvari  vestrænnar menningar sé Robert Burns, enda heita mörg ljóða hans Song of. . . (Ég hef aldrei fundið eins vel og í flutningi Fishers, hvað Burns er magnaður söngvari, , ekki sízt í kvæðum eins og Flow Gently, Sweet Afton, To Mary in Heaven, The Banks of Doon og My Heart´s in the Highlands . Ég orti sonnettu að mig minnir um Burns eftir að við höfðum verið í Alloway, ég held hún sé birt í Lesbók)

 

Fisher minnir á mörg ágæt umhugsunarefni, til að mynda það sem Mencken sagði ,  þegar hann tók sér frí til að sigla um Miðjarðarhafið. Hann kvaðst fara í þessa skemmtiferð til að sjá alla helgustu staði kristninnar, Betlehem og Jerúsalem, Sódómu,  Gómóru og Monte Carló!

 

Hann minnir á ummæli Bismarks járnkanslara þess efnis, að því minna sem fólk veit um hvernig lögin og pilsurnar eru búin til, því betur sofi það á næturnar. Hann var að vitna í lýsingar Uptons Sinclairs  í The Jungle á sláturhúsunum í Chicagó, ef ég man rétt.

 

Maður getur ekki skrifað lífið, maður verður að lifa því, sagði Óskar Wilde. En honum tókst að gera lífið að list og list að veruleika. Og á banastundinni í Parísarútlegðinni sagði hann: : Annaðhvort verður að fara, ég eða veggfóðrið

Og hann fór!

 

En um þetta sama líf sagði Mencken: Hómó sapíens hefur sigrað Mount Everest, Materhorn, fíla og hvali, ljón og tígra, en þó ekki fluguna - ekki enn!

 

Og svo er það sagan um ekkilinn og kisuna. Hann var einmana eftir andlát konu sinnar og sneri sér að heimiliskettinum.Hann lagði alltaf á borð fyrir þau bæði og skammtaði kisu af sínum diski. Einhverju sinni var bið á því að kisa kæmi, en svo birtist hún,  hróðug og kát, með tvær mýs, settist að borðinu og lagði aðra músina á disk ekkilsins!

Þetta er einginlega ágæt dæmisaga um þann árangur sem kommúnisminn náði í jafnrétti og velferðarmálum!

 

Kvöldið

Hef nú lokið við Þríleik, en efnið hef ég að nokkru sótt í samtalsbækurnar mínar. Ég held ég hafi ekki komizt nær lífinu en þar. Vona þessi leikverk, eða leiksögur eins og ég hef kosið að kalla þær,  dugi í flutningi, eða á sviði. Ég hef lagt mikla vinnu í þessi verk og reynt að gera þau eins frumleg og ég tel nauðsybnlegt. Hef einnig úthugsað persónurnar vel, tilgang þeirra og kjarnann í umhverfi þeirra: Konuna sem dýrkar skáldið sem var bara gallaður þunglyndissjúklingur, þótt séní væri, blaðamanninn sem leitar en finnur ekki, ekki endilega; þá sem trúa og hina sem trúa ekki,  efnishyggjumanninn og dreymandann; tákn frrelsisins , tréð, nauðsyn þess að hugsa til þess, hlú að þvi og muna það fellir laufið.  Var með ýmsar aðrar skírskotanir í huga, en þær verður hver og einn að lesa út úr textanum eins og gengur.

Ljóð á ekki endilega að merkja eitthvað sérstakt, heldur vera eins og það er. Og leikrit ekki síður. Menn eiga ekki að fara í leikhús með lógariþma, segði Halldór Kiljan svo ágætlega, og ekki leita að því sem þar er ekki að finna. Hann var heldur öndverður bandarískum raunsæisverkum  og get ég vel skilið það. Eftir því sem ég verð eldri, eftir því langar mig æ meir til að semja hálfsúrrealískar uppákomur, einhvers konar ævintýri  - og þá að sjálfsögði í tengslum við drauma.

 

Ef illa fer get ég haft þessi orð Óskars Wildes í huga, en þetta eru ummæli hans, þegar eitt leikrita hans, nú lítt klunnugt, féll: Leikritið stóðst prófið, en það voru áhorfendurnir sem féllu!  Þetta ætti áreiðanlega ekki síður við um gagnrýnendur. Ég hef eiginlega aldrei skilið hvert er hlutverk þeirra ,ef þeir beita ekki faglegri greiningu í skrifum sínum.Annars er gagnrýnin eins og hvert annað bæjarslúður.

Nú ligg ég á 10 eða 12 ósýndum leikverkum , sjö nýjum  og óbirtum,  og guð má vita,  hvort þeim verður nokkurn tíma komið á framfæri;nema þá í bók. En það er ekkert aðalatriði, . heldur ánægjan af vinnunni. Hún er eins og góður göngutúr í eftirminnilegu umhverfi.

 

Snaraði á íslenzku þessu kínverka ljóði sem reyndar má ætla að sé að mestu frumsamið af Ezra Pound:

 

Þegar ég hugsa af alvöru um einkennilega

hegðun hundsins

er ég nauðbeygður til að álykta sem svo

að maðurinn sé honum æðri skepna.

 

Þegar ég hugsa um einkennilega

hegðun mannsins

verð ég að viðurkenna, vinur minn,

að ég stend á gati!

 

 

 

Hef nýort þetta kvæði:

 

 

Hálfmána-

ljóð

Hálfmáninn ristir húðsterkan

hraunháls Draugafjalls

og vestursólin storknaður

roði á bringunni,,

 

átök dags og nætur

við hvassar eggjar

dauðans.

 

Senn flytjum við húðföla

reynslu á kviktrjám

 

tímans

 

í kirkjugarð

gamalla minninga.

 

 

Um samtímann:

 

Einhver sagði Íslingur við mig um daginn, í stað Íslendingur. Ég fór að hugsa um, hvort þetta sé þróunin. Ef svo er, þá mun íslenzkan draga dám af norsku með tíð og tíma.

 

Fór að hugsa um merkingu orða af þessu tilefni, komst að þeirr niðurstöðu að í raun er engin endanleg merking í neinu orði. Merkingin fer eftir umhverfinu, nágrönnunum. Það eru nálæg orð sem ákvarða merkingu allra orð. Þannig eru orðin merkingarlaus ,  nema þau séu í tengslum við önnur orð-og fylli þau þá einnig merkingu!

Jafnvel orðið ég merkir ekki neitt. Ég er... merkir ekkert fyrr en viðbótin kemur : ég er hundur, ég er sköllóttur, ég er kona, ég er mislynd kona; eða karl? Þessir karlar eru eintómar kerlingar... Ef orðið mislynt stæði eitt sér, gæti það eins verið um veðrið og hvað eina. Mislynt veður er leiðinlegt. Veðrið er mislynt eins og þú.

Eða - hvað merkir tún? Ekkert í raun.  og veru. Kalið, nýslegið... gefur orðinu merkingu. Og það gefur þessum nágrönnum sínum einnig merkingu, ;:túnið er flag... , en þá er það ekki lengur tún!

Heldur flag!

Þannig mætti fara með velflest eða kannski öll orð tungunnar. Þau eru í raun merkingarlaus þangað til nágrannarnir birtast: Ég er góður, ég er illmenni, ég er guð, sem kona er ég maður

Ég er... segir ekkert annað en einhver sé á lífi.

En hver?

Þetta er heillandi umhugsunarefni og má vera ég gefi því meiri gaum síðar, hver veit? En hvað merkir þá hver? Í raun og veru ekkert. En hér virðist það merkja Matthías-og þó er það ekki víst!

Hver veit?

 

Silja Aðalsteinsdóttir sagði mér um daginn að á söguprófi í háskólanum hafi einn nemandinn sagt að Jónas á Hriflu hefði verið mesta ljóðskáld íslenzkt á fyrra hluta síðustu aldar!

Skrítið, en líklega hefði Jónas kosið það öðru fremur, ef það hefði staðið honum til boða. Pólitíska æðið var líklega einskonar uppbót fyir dulda þrá!

 

En ef Jónas hefði haft reynslu fyrir þeim eldi sem ljóðskáld verður að ganga í gegnum, er ég ekki viss um að hann hefði viljað skipta á hlutverki. Pólitík er að vísu hörð, en ljóðlistin fjallar um kvikuna sjálfa. Og þar er ekki hægt að skýla sér bak við neinn flokk-eða samtök. Í ljóðlist stendur maður einn-og berskjaldaður. Þar eru engir stuðningsmenn í hlutverki stuðarans!

 

Sáum í gærkvöldi nýlega kvikmynd eftir sögu Vonneguts, Breakfast of Champions. Frábær mynd og kom á óvart. Hélt ekki kaninn gæti gert svona lúmska þjóðfélagsádeilu, fulla af húmor og skrípalegum teaterdelart-spuna. Eða leikurinn! Allir ógleymanlegir og ólíkir sjálfum sér, Albert Finney sem skáldið vitlausa (það á þó kollgátuna í lokin, því að ábending þess gjörbreytir afstöðu forstjórans: menn eiga að lifa lífinu og njóta þess! ), Nick Nolte sem sölumaðurinn vitlausi og klæðskiptingurinn og Bruce Willis í hlutverki forstjórans á bílasölunni. Konurnar einnig ágætar, en ekki jafn einstæðar.

Íslenzki hljóðfæraleikarinn  Árni Egilsson lék á bassa,  sá ég í kynningunni.

Ég hef ekki lesið þessa sögu Vonneguts, en hún hlýtur að vera eftirminnileg dæmisaga um bandaríska drauminn: kolruglað fólk á markaðnum, forstjórann sem alltaf er að reyna að farga sér í látunum, en er sífelldlega truflaður, áður en það tekst, hann getur ekki einu sinni haft samfarir við símastúlkuna í fyrirtækinu, því að hann verður að sjá sjálfan sig og aðra í sjónvarpinu á mótelinu, meðan hann er að  riðlast á ástkonunni , en hún upplifir höktið eins og hvern annan brandara. Allt snýst um peninga og sölu. Skáldið utangarðsmaður, auðvitað, og  jafnbrenglað og aðrir í svona umhverfi.

Auglýsingamennskan eins og maður kynntist á bílasölunum í Florída ,  sællar minningar. Bílaauglýsingarnar skáru sig úr í sjónvarpinu og ég sé þær hafa farið jafnmikið fyrir brjóstið á Vonnegut og mér!

Sem sagt, ógleymanleg og drepfyndin reynsla af gervilífi. Þungur undirtónn a la Vonnegut.

 

 

Hef lokið við fjallkonukvæðið, það er svona í endanlegri gerð:

 

En huldukonan kallar...

Fjallkonan kveður,

17. júní 2001

 

Ég vitja þín  sem vor af fjarri strönd

og vorið mitt er blóm í grannri hönd

sem blik af sól, og birkiilmur fer

með bláa þögn og fugl ið næsta sér,

minn ilmur líkt og andi blóm við kinn

og æska þín sé förunautur minn

á strangri ferð um veröld vors sem er

mín vegalausa þrá í fylgd með þér.

 

Og hugsun mín er fugl, ég feta ein

mitt flug sem kliði sunnanblær við grein,

hann skilur eftir andartak á vori

með ilm af jörð og sól í hverju spori

 

og hugsun mín er fugl, sá vængur fer

með fögnuð þessa dags í brjósti sér.

 

Minn svali andblær saknar þín sem ert

í sárum skugga blóm svo mikilsvert,

það vitjar mín sem ilmur alls sem ber

mitt yndislega vor á höndum sér.

 

Ég bíð og vona enn sem aldrei fyr

og allt er hljótt og nóttin björt og kyr,

mín sólskinsbjarta sumarnótt , hún mynnist

við svalan dag sem rennur hægt og grynnist,

hann vitjar þín. ég heyri hjarta þitt,

þinn hljóða slátt við rjúpnalaufið mitt

 

og hugsun mín er fugl, hann fylgir mér

og flögrar eins og vor við hreiðrið sitt.

 

Og allt er hljótt og heiðin dimm og blá

sem hvísl við sérhvert blóm og hvert eitt strá,

minn svali blær sem berst að vitum þér,

mín bláa kyrrð með þögn í fylgd með sér.

 

17. júní,  sunnudagur

Þórunn Lárusdóttir leikkona, mörgum að góðu kunnug fyrir leik sinn í Syngjandi í rigningunni, flutti fjallkonukvæði mitt á Austurvelli í morgun, mjög fallega. Hún hefur augsýnilega réttan skilning á efninu, því að fjallkonan er tákngervingur landsins, en ekki fólksins, og það hefur hún haft allar götur frá því Eggert Ólafsson kynnti hana þjóðinni og Jónas tók upp merkið í Hulduljóðum. Ávarp fjallkonunnar er nú orðið hluti af hefð og arfleifð og kann ég því ágætlega. Við ættum að geta tekið okkur einnar stundar frí frá pönki og poppi-og lifað af!

Margir hafa þakkað mér kvæðið og þykir mér vænt um það. Ég lagði mig líka fram og held það sé með réttum hætti, hvernig ég legg kvæðið fjallkonunni í munni. Það verður að vera eðlilegt, án sérvizku eða alltof hátíðlegra stellinga. Þótti líka við hæfi að ávarpið kom strax í kjölfarið á ræðu Davíðs Oddssonar.

 

Gunnar Dal er meðal þeirr sem hafa þakkað mér kvæðið og viðhaft hrósyrði um það, fékk þá góðu sendingu á símsvara. Gunnar er eins og gamalt koníak, batnar með aldrinum.

 

Móðir Þórunnar, Sigríður Þorvaldsdóttir leikkona, flutti fjallkonuljóð eftir mig 1967, en Valgerður Dan síðar.

 

Með þessum þremur fjallkonuljóðum 17. júní hlýt ég að hafa unnið fyrir heiðurslaunum Alþingis, en þau hafa ýtt undir mig að taka þátt í hátíðahöldunum með þessum hætti!!

 

Ávarp fjallkonunnar  er séríslenzkt fyrirbæri og harla skemmtilegt að mínu viti. Þótt það sé eitthvað á skjön við samtímabröltið er það engan veginn hallærislegt, þvert á móti. Það er aftur á móti hallærislegt að finna þessari hefð allt til foráttu, einungis vegna þess hún gefur ekki færi á vúlgar upphlaupi, heldur virðulegri áherzlu á bókmenntirnar , ljóðlistina,sem  hvað merkustum  þjóðmenningararfi okkar. Við hljótum að geta þolað eina slíka áminningu á ári, enda heyrist mér á fólki það sé ánægt með  þessa áunnu hefð,  þótt hún falli ekki inn í alþjóðasamfélag pönkara!

Þessi sérstæða hefð ýtir undir þjóðræktarstreð okkar fremur en hitt og er þannig  eitt af einkennum okkar sem þjóðar, en ekki uppflosnaðrar óþjóðar.

Hvað sem verður!

Vonandi erum við ekki vúlgar-ekki enn,svo vitnað sé í Auden!

 

18. júní, mánudagur

Hef verið að kynna mér líf og störf ítalska heimspekingsins og guðfræðingsins Tómasar Akvínas. Hann var uppi um sviðað leyti og Sturla Þórðarson og má því segja að þá hafi merkir höfundar verið að skrifa stórópusa á meginlandinu og hér norður í ballarhafi. Að vísu er Russel ekkert hrifinn af Tómasi, segir eitthvað á þá leið í heimspekisögu sinni, að hugleiðingar hans eigi lítið skylt við heimspeki, þar sem hann hafi tilhneigingu til að ákveða niðurstöður og leiða rök að þeim.

En mér er nær að halda að ýmsir aðrir heimspekingar geti haft þessa sömu eða svipaða áráttu og þá ekki sízt þeir gömlu og margfrægu aþeningar, ekki Platón undan skilinn. Hann hefur sterka andúð eða samúð með efninu og að sjálfsögðu slær það tóninn í samtölum Sókratesar, ef því er að skipta.

 

Mér finnst líka dálítið skrítið hvað mikið er lagt upp úr hugleiðingum þessara karla, þeir bjuggu við allt aðrar aðstæður en við  eða kristnir hugsuðir fyrr á öldum og það hafði ekki lítil áhrif á afstöðu þeirra.

 

Afstaða Platóns til skálda var t.a.m.  hvorki uppörvandi né til fyrirmyndar og ritskoðunartilhneigingar hans í andstöðu við allt umhverfi okkar nú um stundir. Samt þykir þetta hin ágætasta latína og margt annað fáránlegt í skrifum hans.

Sjálfur var Platón mikið skáld og það ekki sízt gerir hann að miklum rithöfundi. En það skýtur svo sannarlega skökku við,  þegar kristnir heimspekingar eins og Ágústínus og Tómas Akvínas, eru sífelldlega að sækja sér styrk og handfestu í heimspekirit heiðingja, svo ólíkum jarðvegi sem þau eru sprettn úr. Ágústínus hefur Platón að bakhjarli, en Tómas Aristóteles.

Margt er samt nýtilegt úr þessum arfleifðarsjóði, t.a.m. þegar Aristóteles segir, að lögin (orðið merkir víst upprunalega binding eða skuldbinding) eigi að leiða fólk á veg dyggðarinnar. En alltof margt í löggjöf, ekki sízt á hinum síðustu og verstu tímum, leiðir menn til andstöðu við lögin, jafnvel lögbrota, enda er það hverju orðið sannara sem sagt hefur verið, að það verði alltaf ólög sem alþýða manna meðtekur ekki sem lög og rétt.

 

Þá hef ég haft fyrirvara á því að  nútímamanni sé eðlilegt að lifa eftir þeim lögum og fyrirmælum sem gyðingar (eða guðingar?) segja þeir hafi fengið hjá forsjóninni eða rödd hennar, enda er sumt af því heldur ókræsilegt og engan veginn í samræmi við hugmyndir okkar um þann kærleiksríka föður sem Kristur boðaði og Jónas hallaði sér að gegnum þykkt og þunnt. Eða - hvernig eigum við að geta skilið það sé hin rétta guðlega afstaða að koma gyðingum þurrum fótum yfir Rauðahafið, en skella svo hafsjónum yfir Egypta og drekkja þeim öllum eins og mýslum í víntunnu.

Eða-hvernig bræður Jóseps seldu hann til Egyptalands fyrir 20 silfurpeninga (!),að vilja guðs eins og fram kemur!

Eða - hvernig dætur Lots gamla upphófu Móabíta og Ammoníta með sifjaspellum eftir afarsérstæða samdrykkju með forgömlum föður sínum sem var óafvitandi notaður til barneigna!

Eða - hvernig guð horfði með velþóknun á  girndarhug Davíðs konungs og lét honum haldast uppi að misbeita valdi sínu á hinn hroðalegasta hátt. Davíð þvingaði eiginkonu vopnabróður síns og vinar undir sig og sendi hann í opinn dauðann á vígvöllum. Orti svo sálma milli óhæfuverka, en það eru mörg dæmi þess í íslenzkum sálmabókmenntum að guð sé veikur fyrir iðrunarsálmum; þannig kyrjaði Brynjólfur Skálholtsbyskup iðrunarsálm eftir sr.  Ólaf á Söndum, þegar hann var lagztur banaleguna! Hann hefur líklega kviðið refsingunni fyrir meðferðina á Ragnheiði byskupsdóttur.

En Davíð konungur kveið engu!

 

Hvernig má slíkt vera? Er ekki eitthvað bogið við slíkt siðferði. Og hvers vegna ætti slíkur guðdómur að vera forsenda siðmenningarlegrar afstöðu okkar nú á dögum? Það er að minnsta kosti ofar mínum skilningi og er ég þó enginn púrítani í þeim efnum, ekki frekar en öðrum!

 

Ætli þessir karlar hafi verið eitthvað nær guðdómnum en við? Ekki trúi ég því að óreyndu. Samt er Abraham upphaf gyðingdóms og íslams og við kristnir eigum að dansa með!

 

Nei, það er eitthvað að þessu öllu saman, þegar að er gætt, og þá blasa við manni þjóðsögur og ævintýri sem kölluð eru þjóðarsögur hinna útvöldu, en margt í þeim guðlegu fræðum er,  að ég held , alls kyns mannaverk, en ekki sá guðlegi innblástur sem vænta mátti.

Það er mannaþefur í helli mínum, sagði tröllið.

 

Kristur hafði augsýnilega sínar athugasemdir við ýmislegt sem tengt var röddum guðs í Gamla Testamenntinu og hélt sig fast við þann milda, en aðhaldssama föður sem hann boðaði sjálfur. Það er minn guð. Og sá eini sem ég hef minnsta möguleika á að skilja.

 

Ben Gúríon sagði í samtali okkar að spámennirnir hefðu verið leiðtogar þjóðarinnar, einskonar vegvísar, en það merkir ekki að þeir hafi í raun verið í nánari tengslum við guð en aðrir menn; ekki frekar en Jón Sigurðsson sem var slíkur vegvísir, en  ekkert gjallarhorn guðs vors lands; enda gerði hann enga kröfu til þess. Við fórum ekki að laga hann í hendi okkar sem einskonar spámann fyrr en allur mannaþefur var horfinn með honum í gröfina.

Þá hófst upprisan!

 

Það er því vitið meira að snúa sér að Kristi og fylgja leiðsögn hana að svo miklu leyti sem við getum, þessir maurar í mannsmynd! En sem holdgervingur mannsins var hann sú fyrirmynd sem bezt hefur dugað. Og á hann er gott að trúa. Ef maður lokar augum og hugsar til hans í erfiðleikum, líður manni betur. Og þá er traustið og úrlausnin á næstu grösum.

 

En guð, hvað um hann?

 

Orti um daginn lítið kvæði sem átti að skýra afstöðu hans til okkar samkvæmt biblíunni,  en skýrir náttúrlega miklu fremur afstöðu okkar til hans, enda þekki ég hana miklu betur!

Það er svona:

 

Ég er sá

sem ég er,

sagði hann.

 

Og orð hans

voru eldtungur.

 

En við höfum

gert hann að þeim

sem hann er ekki.

 

 

Þegar ég hlustaði á fyrirlestra bandaríska prófessorsins Jeremy Adams um Akvínas vakti það athygli mína, hve gamaldags hugmyndir hann hafði um barnauppeldi, svo dæmi sé tekið. Hann telur að því sé bezt borgið í höndum föðurins vegna þess að hann sé vitrari og raunsærri en móðirin, auk þess sem hann hafi meiri líkamlega burði en móðirin til að refsa barninu eða unglingnum ,  eins og efni standa til. Ég sé ekki að þetta eigi neitt erindi við okkar tíma, þvert á móti.

 

Hitt er athyglisverðara, hvernig Tómas talar um konunginn(og þá væntanlega einnig forsetann),  hann segir konungurinn eigi að vera skuggi guðs; sem sagt leiðtogi þjóðarinnar; hann eigi að leiða hana til vegs og virðingar og þá af mildi, vizku og eindrægni.

 

En hvaða guðs?

 

Það skiptir öllu máli.

Harðstjórinn sé aftur á móti eins og hvert annað úrhrak sem fólkið þurfi að losna við. Það sé því leyfilegt að hrekja hann frá völdum með öllum tiltækum ráðum.Fátt sé nauðsynlegra en svipta harðastjórann allri stjórnun.

 

Tómas leggur áherzlu á blandað stjórnkerfi og ætli það sé ekki í anda þess sem nú þykir hvað eftirsóknarverðast. Bezt gæti ég trúað því að hann hefði einnig verið hallur undir blandað hagkerfi, ef hann væri uppi nú á dögum, en það hefur þótt hvað eftirsóknarveðast í stjórnmálum eftir fall kommúnismans. Það hefur að vísu farið eitthvað úr skorðum upp á síðkastið vegna hins nýja hvítflibba-guðs sem gengur undir heitinu markaðsbúskapur. Og einkavæðing. Ágæt leið  að ýmsu leyti, en hefur tilhneigingu til að raska jafnvægi. Af því höfum við sopið seyðið undan farið - og sér ekki fyrir endann á því.

 

Allar bollaleggingar Akvínas um guð og guðfræði læt ég lönd og leið, þótt þær séu að vísu hnýsilegar á margar hátt. En mér er nær að halda það sé ekki hægt að finna neinar staðfestingar á tilvist alvaldsins, nema þá í sköpunarverkinu sjálfu. Hitt stanzaði ég við,  að kannski sé fremur unnt að sanna tilvist guðs með því að leita þess sem hann er ekki, fremur en þess sem við höldum hann sé.

En allar slíkar bollaleggingar heyra helzt guðfræðinni til, og þá kannski einnig skáldskapnum að nokkru leyti, fremur en þeim raunvísindum sem leiða hugann að vísindahyggju nútímans.

 

Má ég þá heldur biðja um bollaleggingar Akvínas um hjónabandið þess efnis, að einkvæni sé betra en fjölkvæni, ekki sízt vegna þess að hjónaband er eitt æðsta stig vináttu.

 

Þá hef ég ekki sízt haft ánægju af að lesa latnesk kvæði sem eignuð eru Tómasi Akvínas, en í þeim birtist einhver efahyggja sem ekki sér annars stað í verkum hans. Mér finnst ekki sízt skemmtilegt að skoða stuðlasetningu þessara kvæða. Þau eru hljómmikil og sóma sér vel í þessum latneska búningi. Ég las svo þýðingar Adams á þeim í enskum texta sem fylgir.

 

En áður en ég hverf frá þessum hugleiðingum, mætti leggja áherzlu á fegurð kvæðanna í Gamla testamentinu, ekki sízt Ljóðaljóða og Davíðssálma sem eru fallegur og eftirminnilegur trúarskáldskapur og einskonar hversdagsljóð síns tíma.

 

Þegar ég hugsa um þetta kemur mér í hug orðið Íslingur sem ég hef áður nefnt á þessum blöðum.

Er það vísbending?

Mér er nær að halda svo sé.

 

Latína var heimsmál langt inn í myrkar miðaldir og raunar með ólíkindum að hún skyldi ekki lifa af ásókn tímans. Frá Ænesarkviðu Virgils og fram eftir öllum öldum var latína alls ráðandi. Öll mikilvægustu rit heimsins voru skrifuð á latínu og varðveitt í þessum sígilda búningi. Það hefði því ekkert átt að geta hróflað við henni, ekki fremur en rómverska heimsveldinu. Hún var töluð á Spáni og Ítalíu, í Frakklandi, Rúmeníu og Portúgal og víðar, samt veslast hún upp og deyr á vörum fólksins.

Hún var kröfuhörð um framburð og málfræðin ströng og rökvís. Rétt eins og íslenzkan.

En smám saman hættir fólk að nenna að bera hana fram og hún breytist með tímanum í nýjar mállýzkur, svipað og skandínavísku málin; portúgölsku, rúmönsku, frönsku, spænsku og síðast, en ekki sízt, ítölsku. Þá er komið langt fram á miðaldir. Enn er þessi forni arfur þó á tungu fólks á Ítalíu, en ítalskan nær yfirhöndinni hægt og sígandi hvað sem Virgil og öðrum snillingum líður og loks vinnur hún sína stóru sigra í verkum Dantes, Petrarka og Bókatio. Latneska deyr á vörum fólksins og ítalskan tekur við, þessi nýja,  hljómmilka tunga sem lifað hefur til okkar daga.

 

Með allt þetta í huga er meira en lítil ástæða til að hafa áhyggjur af íslenzkunni. Hvers vegna skyldi hún lifa af fyrst latínan, heimsmálið mikla og útbreidda,  dó á vörum fólksins; og þá einna helzt vegna þess að málfræðin og framburðurinn kröfðust þolinmæði sem mergðin, áhyggjulaus um hefð og arfleifð, á ekki til. Einungis fáeinir múnkar í steingerðu umhverfi lokaðra klaustra.

 

Íslingur er bara byrjunin. Svo kemur hitt á eftir.

 

Og hvað svo?

 

Eigum við einhver verðmæti , ég á við arfleifð,sem hægt er að státa af  önnur en tunguna og glæsilega bókmenntaarfleifð? Mér er það til efs.

En svo er guði fyrir að þakka að við eigum enn þau einkenni sem gera okkur að sérstakri þjóð sem á tilkall til virðingar og sjálfstæðis.

Einsmenningarumhverfi okkar kallar að vísu á pönk og popp, en getum við lifað á því?

Kannski, en það yrði skelfilegt! Einskonar siðferðilegt hundalíf.

 

19. júní, þriðjudagur

Orti þetta kvæði um daginn. Þá hafði ég hitt Kristján Búason guðfræðikennara í Þjóðarbókhlöðunni og við tókum tal saman. Við fórum til Bandaríkjanna 1954 í boði Bandaríkjastjórnar, ásamt þremur öðrum stúdentum , Sveini Skorra Höskuldssyni,  síðar prófessor, Magnúsi R. Gíslasyni, síðar tannlækni, og Magnúsi Sigurðssyni, síðar lækni. Við vorum þrjá mánuði í ferðinni og fórum víða. Ég þjáðist með köflum af heimþráð og þoldi auk þess illa hitana í New York og Washington og varpaði það skugga á ánægjuna, en Halli var nýfæddur og fannst mér ábyrgðarhluti að fara frá þeim Hönnu við slíkar aðstæður. Allt er þetta bréfað í skrifum til Hönnu.

Allt gekk þó vel og ferðin var mikið ævintýri.

 

Kristján Búason var í guðfræðideild, mikill og góður trúmaður, og lagði sig fram um að kristna okkur hina, en tókst misjafnlega; það er bakhjarl kvæðisins:

 

Ég hitti guðfræðikennara

í bókasafninu,

hafði ekki séð hann

árum saman.

 

Tókum tal saman

og töluðum stuttlega

um árin sem liðu

eins og fljót til hafs.

 

Nú er ekkert eftir,

sagði hann,

nema brimgarðurinn.

 

Já, sagði ég, en í gamla

daga kölluðu karlarnir

inní fjallháa skaflana; Nú

er lag!

 

Já, sagði hann, en ég

bætti við, Og þú átt

að sjá um það sé

lag!

 

Kristján brosti káfúemm - brosi og kvaddi.

 

Kvöldið

Í dag var birt frétt um vin minn Mikson nuddara þess efnis, að alþjóðanefnd sem forseti Eistlands skipaði hafi nefnt hann í skýrslu sinni sem einn þeirra lögreglumanna eistneskra sem í heimsstyrjöldinni hafi unnið óhæfuverk og þá skilst mér þau hafi verið fólgin í því að undirrita dauðadóma. Ekki minnzt á nauðganir eins og gyðingasamtökin lögðu þunga áherzlu á, þegar málið kom upp síðast , eða undir ævilok Miksons.

Mikson var í öryggislögreglu þáverandi forseta Eistlands og gekk á ýmsu, því að  landið var hernumið bæði af þýzkum nazistum og sovézkum kommúnistum. Ég hef alltaf haldið að KGB hafi staðið fyrir ófrægingarherferð á hendur þessum óvini sínum, en nú er hann nefndur af ábyrgari aðiljum og ekki annað fært en taka eitthvert mark á því.

Á þessum tíma lenti fólk í hremmingum sem enginn getur gert sér grein fyrir nú á dögum. Líklega urðu menn annað hvort að vera handbendi Þjóðverja eða Rússa, en ég held menn eins og Mikson hafi lent þarna ofan í milli og sem verjendur lýðveldisins gripið til örþrifaráða. Kannski með Þjóðverja sem bakhjarl, ég veit það ekki.

Við vörðum Mikson í Morgunblaðinu á sínum tíma og ég trúði því staðfastlega sem hann sagði; að hann hefði ásamt félögum sínum átt í höggi við kommúnista (og kannski landráðamenn? ), en væri saklaus af stríðsglæpum.

Þegar við rifjuðum upp aðild hans að átökunum í Eistlandi grét hann í tvígang og ég neita því ekki að það hafði áhrif á mig. Hann grét yfir illverkum kommúnista og illmælgi gyðinga sem hann kunni ekki að meta. Það vakti með mér grunsemdir undir lokin, að vísu. En hann sór og sárt við lagði að hann væri saklaus af öllum óhæfuverkum, en nú virðist annað komið í ljós, þótt skýrslan jafngildi ekki niðurstöðu dóms. Grunaður maður er ekki sekur fyrr en dómur fellur þess efnis á réttum vettvangi. Mikson verður þannig að réttu lagi ekki nefndur stríðsglæpamaður,  né liggur það staðfastlega fyrir að hann hafi framið glæpi gegn mannkyninu, eins og það heitir víst.

Ef hann væri á lífi ætti hann um þetta við samvizku sína sem er náttúrlega öllum dómstólum aðgangsharðari, ef fólk hefur normaltilfinningu, en ég held Mikson hafi haft það. Hann var,  fannst mér,  heldur ljúfur maður og viðræðugóður og hugsaði um sína íslenzku fjölskyldu af kærleika og skyldurækni, enda var Sigríður, kona hans, kvenstólpi hinn mesti. Ég held hún hafi verið Vestmannaeyingur, að minnsta kosti var einhver selta í henni. Og óþrjótandi dugnaður.

 

Dauður stendur Mikson andspænis guði, en samkvæmt Gamla testamentinu skiptir  öllu máli-hvaða guði. Hann var ekki sekur um argasta glæp af öllum, sifjaspell. Svo að hann á sér kannski einhverjar málsbætur þarna við dómstól Drottins allsherjar. Og ef hann hefur misbeitt valdi sínu, getur hann skírskotað til Davíðs konungs, eða var hann ekki skuggi guðs eftir bókunum? Okkur hefur verið kennt það, því miður.

Má ég þá heldur biðja um Njálu!

 

Að vísu hafa margir, ekki sízt þjóðhöfðingjar, skrifað undir dauðadóma og í Bandaríkjunum einum svo þúsundum skiptir, svo að ekki sé talað um kínversk stjórnvöld, arabalöndin og önnur þau lönd ,  þar sem fólk er tekið af lífi fyrir ýmsar misgjörðir, jafnvel smávægilegar stundum. Handhöggvið fyrir hnupl(!)

 

En þetta eru allt glæpamenn, er þá fullyrt.

 

Ekki í Kína þar sem stjórnmálaglæponar eru teknir af lífi ,  eins og arfi sé reyttur í beði. Eða aftökur í íslömskum ríkjum, þar sem guðlast er nægilegt!

 

Ég vitna þá í Gamla testamentið sem getur að sjálfsögðu verið gott til síns bruks, en þar segir guð að menn eigi að láta hann um refsinguna.

Af þeim sökum m.a.  hef ég ekki getað lagt blessun mína á dauðadóma, jafnvel yfir fjöldamorðingjum.

 

En þá má spyrja; Getur ekki verið að Mikson og aðrir lögregluforingjar í öryggissveitum eistneska forsetans hafi talið þá menn pólitíska glæpamenn eða landráðamenn sem þeir létu taka af lífi?

Ég veit það ekki, en spyr.

 

Morgunblaðið játaðist aldrei undir þá kröfu Sovétmanna að Eystrasaltsríkin væru hluti af Sovétríkjunum, en flestir gengust undir þetta jarðarmen af hagsmunaástæðum í kalda stríðinu.

Ekki við.

Aldrei(! )

 

Afstaða okkar til málefnis Miksons var partur af þessari þrjózku án þess við hefðum neina tilhneigingu til að leggja blessun okkar yfir nein óhæfuverk, hvort sem þau voru framin af nasiztum eða kommúnistum eða hverjum þeim öðrum sem slík verk unnu –og þá má einnig nefna bandamenn, því að mikið blóð rann um hendur þeirra. Ekki bara í Hírósíma, Nagasakí og Dresden! .

 

Þetta voru bölvaðir tímar og bölvun þeirra fylgir okkur enn. Mál Miksons er slík bölvun.

 

En nú stendur hann andspænis augliti Drottins og þarf að verja hendur sínar.

Vonandi játar hann syndir sínar, svo að honum verði fyrirgefið.

En við sem vörðum hann sitjum uppi með venjulegt barnalegt íslenzkt sakleysi. Og trúum engu á nokkurn mann sem við hefðum ekki getað gert.

 

Og þó!

 

Hvað - ef örlög Íslands væri í veði?!

 

En mikla samúð hef ég með fjölskyldu Miksons, hún hlýtur að upplifa helvítiskvalir vegna upprifjama um þessi óhæfuverk á fyrra hluta síðustu aldar. Atli og þeir bræður eiga annað skilið.

 

 

20. júní, miðvikudagur

Hef verið að hlusta á sakamálasögur, það er afslappandi; dreifir huganum.

Bók Le Carré, Our Game, er þéttriðin og vel skrifuð, en ég týndi sjálfum mér í þessu textaflóði,  fann mig samt aftur,  áður en það var um seinan. Það var meira en höfundur gerði. Hann fann aldrei aðalpersónuna sem týnist í sögunni og kemst ekki til skila í öllum þeim plottöfgum sem boðið er upp á.

Kvenmaðurinn Emma er einnig heillum horfin í París.

Le Carré les vel og vandar til verka. En ég gat einhvern veginn ekki fengið áhuga á efninu, það er alltof langsótt og utan gátta fyrir minn smekk. Njósnarinn sem kom inn úr kuldanum er enn klárasta bók Le Carrés, að mínu viti. Í henni er heillandi andrúm.

 

Bandaríkjamennirnir Elmore Leonard og Carl Hiaasen eru ágætir til síns brúks, ekki sízt samtölin, en þau eru sérfag hins fyrr nefnda. Ég missti samt söguþráðinn í Get Shorty, þótt ég næði honum aftur

Lucky You eftir hinn síðar nefnda er einskonar gamansaga og sem slík er hún ágæt dægrastytting. Ég hef aldrei fyrr lesið neitt eftir Hiaasen, en hugnaðist það bærilega.  án þess ástæða sé til að nefna það sérstaklega!

 

Hitt er mikilvægara, að ég hlustaði á Auden  flytja gömul kvæði í hefðbundnari kantinum, The Voice of the Poet. Fín kvæði hefðbundin og eftirminnileg og nýstárleg sem slík, því að Auden er svo slyngur fagmaður á form og hrynjandi. Þessi umgjörð næst kannski ekki alveg í upplestri og því er textinn prentaður með í litlu kveri.

 

Höfundur formálans, McClatchy sem ég veit ekki hver er,  er óforbetranlegur aðdáandi Audens og kemur það jafnvel niður á öðrum eins skáldum og Eliot og Pound. Hann segir Auden kunni að nota allt hljóðfærið og þá ekki sízt að flétta nútímalegt málfar inn í gamla hefð; hann hafi kennt öðrum skáldum að nota tungumálið til að  leita hjartans,  eins og hann segir.

Góð ábending.

 

Hann varpar fram þeirri spurningu, hvort nokkurt skáld mundi nota orð eins og cornflakes nema Auden og kemst að þeirri niðurstöðu, að svo sé ekki.  Auden hafi fyrstur gert 20. öldina að skáldlegum efnivið og þessi flutningur beri vitni siðmenningarlegum gæðum, eins og hann kemst að orði.

 

Í lokin segir  McClatchy að ljóð séu eins og hús, þau séu skjól.

 

Með allt þetta í huga er ekkert skrýtið, hvað ég hef alltaf dregizt að þessu brezka skáldi. Öll afstaða hans hefur verið mér í senn áskorun og íhugunarefni. Og ég sé ekki betur en hann hafi rutt brautina í nútímaljóðlist af meiri víðsýni, kunnáttu og faglegri þekkingu en flestir aðrir. Undir hans leiðsögn lendir maður ekki í Jötunheimum, þegar ferðinni er heitið til Veiðivatna!

 

Kristján vinur minn Karlsson hefur gefið út ritgerðasafn um sjö íslenzk ljóðskáld, fína bók um merk skáld. En með tilliti til þess sem að framan getur er það líklega engin tilviljun að ritið heitir Hús sem hreyfist.

 

23. júní, laugardagur

Fór með Hönnu á Kirkjudaga á Jónsmessu. Ágætt. Jenna Jensdóttir rithöfundur fór að hrósa fjallkonukvæðinu mínu. Hún sagði að Gunnar Dal hrósaði því á hvert reipi, ”hann sér eftir því að hafa ekki lesið meira eftir þig”

Þetta hefur samt gengið bærilega!

Jenna sagði að Gunnar hefði velt því fyrir sér, hvort mér hefði farið svona mikið fram eftir að ég hætti á Morgunblaðinu.

Þetta er nokkuð góð hugmynd; ekki sízt fyrir bókmenntafræðinga!

Jenna sagðist hafa hlegið mikið, þegar hún las dagbók mína í afmælisriti Haralds Bessasonar. Það er gott, sagði ég. Maður verður víst að komast á níræðisaldur til að hafa einhvern húmor!

 

Jenna sagði að Auður Laxness hefði dottið og meitt sig. Það þótti mér leiðinlegt. Hún er orðin hálfeinmana, sagði Jenna . Hvað er Auður orðin gömul? spurði ég. Hún er að verða 85 ára, sagði Jenna. Ég bað hana fyrir kveðjur til Auðar. Hún er merk kona og hlý. Hún hefur alltaf tekið okkur vel. Hún hefur sómt sér vel við hlið skáldsins.

Hitti sr.  Bolla vígslubyskup á Hólum og Matthíldi, konu hans, systur Jóhannesar Helga. Nú er hann dauðvona af lungnakrabba, sagði hún. Hann getur víst lifað sex mánuði í hæsta lagi, en það má ekkert gera fyrir hann, sagði hún.

Þetta hljóp víst upp, þegar kona hans lézt undir vor, að mig minnir.

 

Hitti einnig Kristjönu, systur Sveins Skorra, þegar ég gekk úr Vörðuskóla og áleiðis heim í góða veðrinu. Hún var að fara að syngja  í Hallgrímskirkju. Hún kallaði til mín og sagðist þekkja mig, þau hjón væru í kór Neskirkju. Hafði gaman af að hitta hana. Hún er lík sínu fólki, en ég man vel eftir foreldrum hennar. Móðir hennar var há kona vexti,  dökkhærð, Höskuldur var fríður maður sýnum,  karlmannlegur. Og saman rekinn.

 

Hún sagðist muna vel, þegar við Skorri komum í Vatnshorn í Skorradal, en þar bjuggu foreldrar hans.

Þið tjölduðuð í túninu heima , sagði hún. Og svo fóruð þið út á vatn. Ég var bara telpa þá.

 

Hún sagði mér að Skorri hefði dottið í Kaupmannahöfn og væri á sjúkrahúsi þar. Læknana  grunaði að hann hefði fengið slag. Hún ætlar að skila kveðju til hans frá mér.

Við Skorri vorum góðir félagar í Háskóla, svo fórum við saman í þriggja mánaða ferðalag til Bandaríkjanna, ásamt skólabræðrum okkar. Það hefur alltaf verið þráður á milli okkar síðan.

Mér hefur alltaf líkað vel við Svein Skorra, en hann er of fyrirferðarmikill kenndur, að mínum smekk. En ég hef einungis séð hann tvisvar eða þrisvar í því ástandi.

Skorri bauð mér að tala við nemendur sína eftir að Morgunn í maí kom út. Ég hafði gaman af því. Hann sagði mér síðar að það hefði farið vel í stúdentana, að ég skyldi ekki reyna að vera eitthvað annað en ég er.

Þau kunnu að meta það, sagði Skorri, að þú skyldir segja að þú væri borgaralegur rithöfundur, en enginn róttæklingur.

Það var tízkan þá

 

 

Kvöldið

Las upp í Hallgrímskirkju, þá var komið fram undir miðnætti. Full kirkja af fólki. Löng dagskrá, ég las undir liðnum Ljóðmál. Fjallaði dálítið um ljóðlist og las í lokin lítið kvæði, með skýringum eins og beðið hafði verið um. Guðrún Ásmundsdóttir leikkona kynnti. Ég fann andrúmið var gott og óformlegt. Guðrún sagðist kynna “hið ástsæla skáld”. Ég gat notað það í upphafi til að létta stemninguna enn.  Sagði það væri í fyrsta sinn sem ég heyrði þessa skilgreiningu, en það væri kominn tími á hana - þá hlógu viðstaddir. Guðrún hélt á vatnsglasi fyrir mig og þegar ég fékk mér að drekka í annað sinn,   skaut ég því inn í að það væri bara vatn í glasinu, þótt maður gæti haldið annað, þá hlógu viðstaddir aftur. Þessi alvara var sem sagt krydduð gamni sem virtist falla þessum góða söfnuði í geð.

Ég notaði nokkur atriði úr punktum sem ég hafði tekið saman, en gætti þess vandlega að tala ekki lengur en 6-7 mínútur.

Eg hef oft fengið góðar viðtökur, en aldrei betri en þarna á þessum merku kirkjudögum í Hallgrímskirkju. Þarna var fólk á öllum aldri og þakklæti þess snerti mig. Ég hugsaði, Það er vitleysa að fólk hafi ekki áhuga á ljóðum. Þú hefðir átt að flytja meira, sögu margir að athöfn lokinni. Nei, ljóðið er við ágæta heilsu og á enn spöl í landi þessarar  langþreyttu þjóðar , hvað sem hver segir. Á það var ég rækilega minntur þar sem ég stóð þarna í þessari höfuðkirkju og reyndi að standa mig andspænis þúsund manna söfnuði.

 

Ég hef að vísu heyrt þetta áður, ´”astsælt skáld”, en gleymdi því til að geta snúið þessu upp í brandara og ná fluginu betur í upphafi. Auk þess segir Hanna að orð eins og ástsæll eigi ekki við mig!

 

Að dagskrá lokinni fengum við okkur frískt loft, settumst svo aftarlega í kirkjunni, þegar við komum aftur inn. Þá sá ég við sátum í sama bekk og  sóknarprestur okkar, sr. Frank M. Halldórsson. Við höfðum ekki sézt frá því ég þurfti að taka í hann og mótmæla tillögum hans á  aðalfundi sóknarnefndar Neskirkju ekki alls fyrir löngu. Það var nokkuð hörð rimma, enda taldi ég hann boða ólög til að koma skjólstæðingum sínum að. Til þess hefði þurft að fella Hönnu, varaformanninn og tvo aðra úr aðalstjórn. Presturinn ætlaði að brjóta reglur um heimilisfestu sóknarbarna og bar fyrir sig dómsmálaráðuneytið. Ég sagðist ekki trúa því að ráðuneytið stæði fyrir lögbrotum. Niðurstaðan var sú að skjólstæðingarnir drógu sig til baka, þegar andstaðan var augljós og sóknarnefndin endurkosin samhljóða.

Þannig stóðu málin, þegar við lentum í sætaröð með sr. Frank þarna í Hallgrímskirkju og biðum eftir altarisgöngu. Þegar að friðarkveðjunni og handabandinu kom, var presturinn næstur og þarna tókumst við í hendur með bros á vör! En ég leit upp í himinhvolf kirkjunnar og hugsaði með mér, Hann er engum líkur, karlinn þarna uppi. Og skopskyn hans er aldeilis ótrúlegt.

 

Punktarnir sem ég vitnaði til í inngangi mínum voru þessir (notaði ekkert úr málsgreinum sem byrja svo: Ef ljóð er ekki hughrif. . . . og Unga fólkið virðist. . . ):

 

 

Ég er stundum beðinn um að skýra hvað ákveðnir hlutir merkja í kvæðum mínum, en það er ekki vandalaust. Margt í ljóðum, ekki sízt nútímaljóðum, er einhvers konar óútskýranleg hughrif. Útskýringarnar verða því einatt eins og reynt sé að lýsa hákarli fyrir þeim sem hefur hvorki séð hann né lagt hann sér til munns.

 

Ljóð eru einhvers konar seiður í aðra röndina, að hluta til tónlist og svo er kannski hægt að skýra það sem eftir er, ég veit það ekki. Ljóð er hrynjandi, söngur. Og engin ástæða til að skýra músíkina sem er sprottin úr óútskýranlegri tilfinningu. Þegar menn hafa þessa músík á valdi sínu er kannski ástæða til að ræða efnið.

 

Tungan er hljóðfæri. Eins og t.a.m.  gítar sem allir eru að hamra á. Hún er framhald af tilfinningum okkar, sálinni ef svo mætti segja. Og ljóðið er saman sett úr margvíslegum tónum þessa hljóðfæris.

 

En það skýrir enginn þá tóna sem koma úr hljóðfærinu. Þeir eru lýsing á sálarlífi svo kölluðu, tilfinningum. Viðbrögðum og hugsun. Þeir eru sérstök en óáþreifanmleg snerting; þeir eru tjáning.

 

Við getum snert umhverfi okkar án þess koma við það. Ef gítarinn er ekki framhald af tilfinningum tónskálds og gítarleikara er engin ástæða til að hlusta á það sem hamrað er á strengina. Þá er hljóðfærið eins og hvert annað tæki. Við getum sagað niður trjábúta með sög. En það er einnig hægt að leika á hana fegurstu tónlist og breyta þessu tæki í framhald af tilfinningalífi okkar.

 

Oft hef ég lesið ljóð sem eru að mörgu leysi ágæt, en það vantar í þau alla músík. Og þá missi ég áhugann. Staglið særir viðkvæma kvikuna. Það er eins og að klifra yfir gaddavísrgirðingu og blóðga óvarða og viðkvæma fingurgómana. .

 

Það getur að vísu verið skemmtilegra að hugsa um það sem maður skilur en hitt sem er óskiljanlegt í fyrstu atrennu. Skilningur er þó ekki forsenda þess að geta notið góðrar listar. Ef svo væri gæti ég ímyndað mér að við ættum enga góða eða mikilvæga list. En  það er líka hægt að skilja með tilfinningunum.

Hjartanu.

 

 

Ef ljóð er ekki hughrif, heldur dauður bókstafur og einskonar ritgerð,  væri það betur óort og efnið ætti þá fremur heima í óbundnu máli. En í ljóðlist er hægt að stytta sér leið með skírskotunum og vísunum, ef svo mætti segja. Menn mega einlægt eiga von á slíkum heimsóknum, þegar þeir lesa ljóð. Af þeim sökum m.a.  fer betur um þau í dulúð en dagblöðum.

 

Unga fólkið virðist sækja æðið og tilfinningahitann í pönk og popp, en ekki kröfuharða ljóðlist og ræktandi, agaðan skáldskap. Það gerir svo sem ekkert til, því að ljóðið er lífseigt. Það er eins og grasið. Enginn veit hvar það vex. Og moldbrúnt flagið er orðið að iðjagrænum velli,  áður en nokkurn varir. Og vindurinn hvíslar í grasi og áin hjalar við steina eins og vindur í grasi. Við hlustum, án skýringa.

 

Bandaríska ljóðskáldið Carl Sandburg sagði að ljóðlist væri eins og bergmál sem biði skugga upp í dans. Annað ljóðskáld sem Steinn vitnaði til í Tímanum og vatninu sagði að ljóð - ætti ekki að merkja, heldur vera.

Skýringarlaust.

 

Það er svo sem gott og blessað, en dugar ekki öllum. Þeir vilja meira.

 

Skáldið finnur að haustið nálgast í lífi þess. Það saknar vorsins, en haustið á einnig sína töfra. Þannig gekk ég undir haust í nágrenni Egilsstaða í fyrra og sá þá bláar breiður í hrauni, grasi og lyngi. Það voru bláklukkur. Þær blómstra langt fram á haust. Þetta var heillandi sjón.  Og ég fór að hugsa um, hvernig haustið getur þannig endurkastað nýju vori og minnt á æskuna í þessu fagra umhverfi. Og ég heillaðist af þessari æsku í náttúrunni. Fyrst hún er þar, hugsaði ég með mér, þá er hún einnig í lífi okkar. Og ég fór að hugsa um vorið á mínu eigin hausti, hvernig það getur vitjað manns með nýrri gleði, nýrri upplifun. Og þessi hugsun varð að litlu ljóð. Lofsöng um vor á hausti: 

Af Héraði

Bláklukkan sefur unz ágúst fer að

og ævi þín styttist sem geisli við blað,

þá vaknar hún rétt eins og morgunn í maí

og mjakast sem vor inní himneskan blæ,

en samt er það haustið sem hjúfrar sig þá

að hlýlegu sumri með augun sín blá

og klukkurnar hringja við álfastein eins

og júní sé fyrirheit sólar og steins

en steinarnir fljóta upp eins og allt

sé undraverk guðs og þúsundfalt

ævintýri að eignast þá stund

og endurfund

við lyngmó sem blánar af blákukku senn

og bregður hausti á vor sem er enn

þinn fegursti draumur, þau fyrirheit sumars í meinum

sem fylgja að venju skógarþrestinum einum.

 

24. júní, sunnudagur

Horfði á boxið í sjónvarpinu til kl. fimm í morgun. Óskar de la Hoja er ungur maður, snoppufríður og geðfelldur. Þeir segja hann sé alltaf að taka sig út fyrir stelpurnar, líka í boxinu! Og frægðin (og peningarnir!) er beitan. En hann átti góðan bardaga gegn marktækum spænskum meistara sem ég man ekki hvað heitir. Og vann. Ég hef fylgzt með piltinum, en stærstur hefur hann verið, þegar hann hefur tapað. Þá sér maður inn í manndóminn, en ekki þetta venjulega hégómlega yfirbragð sem alltaf blasir við í samskiptum manna (og þá á ég einnig við konur, hvað sem kvenremban segir!  sbr. athyglisverða grein eftir Svövu Jakobsdóttur í Lesbók um helgina)

 

 

Kvöldið

Hlusta á einn og einn kafla í Dagbók Bridget Jons eftir Helenu Fielding sem allar konur eru víst að lesa. USAtoday segir víst að þessi skáldsaga,  eins og bókin er nefnd,  sé brjálæðislega fyndin. Kannski, ég veit það ekki. En hún er fyrst og síðast brjálæðislega brezk! Minnir samt á skáldsögu norsku skáldkonunnar sem ég hef nefnt á þessum blöðum, en man ekki lengur hvað heitir.

Svona bækur fjalla um slúðrandi hversdagslega veröld og eru líklega harla góður vitnisburður um áhugaefni og umtal nú á dögum.

Heldur leikandi skrifað. Fremur góð blaðamennska en miklar bókmenntir.

 

 

25. júní, mánudagur

Halli benti mér á ritgerð eftir Eystein Þorvaldsson, Veröld á bak við myrkur og regn, Tómas Guðmundsson og önnur Reykjavíkurskáld.  Ritgerðin birtist á Strik. is og rakst Halli á hana af tilviljun, en ég veit ekki, hvar eða við hvert tækifæri hún var flutt. Athyglisverð grein og vel skrifuð.

Vitna í þessi orð prófessorsins( af hégómlegu lítillæti! ):

"Ég er þá kominn að næstu kynslóð módernista og þar með að fyrsta innfædda Reykjavíkurskáldinu, skáldi sem hefur lifað og starfað í borginni og vaxið með henni í 70 ár eða allt frá því að Tómas Guðmundsson orti Fögru veröld. Þetta skáld er auðvitað Matthías Jóhannessen. Hann er líklega annað skáld Reykjavíkur, a.m.k. verðskuldar hann nafngiftina Reykjavíkurskáld næst á eftir Tómasi og varla nokkur annar.
Ég syng um þig borg.

Og gamlar götur horfa í sál mína

og spegla hugsanir mínar og þrá

 

Þannig hefst ljóðið "Hörpusláttur", - fyrsta ljóðið í fyrstu ljóðabók Matthíasar Borgin hló (1958). Í ljóðinu talar ungt Reykjavíkurskáld við fóstru sína og hin traustu tengsl þeirra:

Ég syng um þig borg og hús foreldra minna

og götur þínar sem liggja inn í hjarta mitt

og binda okkur saman

eins og dauðinn líf og eilífð.

Í brjósti mínu berst hjarta þitt

og ljóð þitt fyllir eyru mín,

þegar þú leikur á hörpuna

við lækjargötur og torg.


Matthías skynjar borgina á allt annan hátt en Tómas enda er hann samgróinn henni frá barnæsku. Borgin verður honum náttúrlegt umhverfi, kunnuglegt og vinsamlegt; hún er umgerð margra ljóða hans um æsku, ást og endurminningar. Hún er stundum ævintýraleg en ekki óvænt uppgötvun aðkomumanns. Matthías þekkir einnig vel hina fjölbreyttu náttúru landsins alls og hefur ort margt ljóðið um hana. Í ljóðinu "Borgin" (í Tveggja bakka veðri, 1981) hverfist borgin, náttúran og skáldskapurinn í samhljóm. Náttúru- eða umhverfismyndir borgarinnar og landsins sameinar Matthías líka eftirminnilega í nýjustu ljóðabók sinni Ættjarðarljóðum á atómöld (1999). "

 

Kvöldið

Karl byskup hringdi til mín og þakkaði mér fyrir mitt framlag í Hallgrímskirkju. Hann sagði það hefði hitt í mark og engan látið ósnortinn, eins og hann komst að orði. Það hefði verið ein af stóru stundunum og mundi ekki gleymast þeim sem þarna voru.

Byskup gat látið þetta vera, en mér þótti vænt um orð hans. Sagði honum það, jafnframt að ég væri stoltur af þáttöku í jafnglæsilegum kirkjudögum sem hefðu sýnt ótúlegan styrk kirkjunnar. Mannsöfnuðurinn hefði verið sérstakur og vel ræktaður. Einstaklega góður jarðvegur.

Samt var þetta fólk úr öllum áttum, sagði byskup, enda vissi ég það, svo margir sem til mín komu í þakklætisskyni eftir uppákomuna.

 

En sem sagt, byskup hefði vel getað látið vera að hringja að kvöldi dags. En það gladdi mig.

 

Kannski ég sé orðinn ástsæll af einhverjum, hver veit?!

Loksins!!

 

Í Fréttablaðinu í dag er klausa um þennan upplestur, þar segir m.a: ”Hann náði eyrum viðstaddra með einstæðum hætti og þegar hann í lokin hafði flutt í fyrsta sinn opinberlega náttúrustemningu af Héraði fékk hann að launum dúndrandi lófaklapp. Höfðu þeir sem á hlýddu margir á orði að kvöldvökunni lokinni að þeir hefðu ekki áður upplifað önnur eins áhrif af ljóðalestri”.

Vinsamlegt(! )

 

Hitti Guðna Ágústsson landbúnaðarráðherra í sundi á sunnudag. Hann sagð mér að Ágúst, faðir hans, hefði verið munaðarlaus frá fæðingu, en hreppurinn sendi hann í fóstur að Simbastöðum þar sem uppeldið kom í stað skuldar bóndans við hreppinn. Hann var sem sagt sendur upp í skuld! En það fór vel um hann í fóstrinu, að vísu.

Og svo varð þessi hreppsómagi þingmaður.

Þetta er sagan um það Ísland sem mín kynslóð er sprottin úr

 

Kreppulandið.

 

Halli er 47 ára í dag. Hann kom með sumarfuglunum.

 

Silja Aðalsteinsdóttir hafði samband við mig í morgun. Hún er að ljúka ljóðaúrvalinu mínu, skrifar einnig formála. Segir það sé vandaverk að velja, því að hún þurfi að sleppa svo mörgu. Sér eftir að hafa ekki skrifað sjálf í DV um Ættjarðarljóð á atómöld sem hún hrósar mjög -  meir við nánari kynni. Hún segir að ljóðin mín fylli 2000 síður! Hún ætti að vita hvað ég á mikið óprentað! !

 

Agnes Bragadóttir sagði mér í símtali í gær að Marshall Brement væri kominn með bein- eða mergkrabba. Það væri á byrjunarstigi sem betur fer. Nú er hann í meðferð hjá þekktum lækni í Boston, skildist mér, en þau búa í Washington. .

Við Marshall erum friends for life.

 

Þá talaði ég einnig við Erró í síma því ég gat ekki verið viðstaddur opnun yfirlitssýningar hans vegna upplestrar í Hallgrímskirkju á sama tíma. Gott hljóð í Erró að venju. Við hittumst síðar í sumar.

 

29. júní, föstudagur

Flutt við afhjúpun lágmyndar Erlings Jónssonar í Morgunblaðshúsinu:

 

Þegar ég nú lít um öxl staldra ég við Ísafoldarhúsið í Austurstræti, en þar var Morgunblaðið þegar ég réðst þangað fyrir hálfri öld. Nú  hefur þetta hús verið flutt í Aðalstræti, það er sem sagt komið á eftirlaun. Og það þarf að venjast nýrri götu, nýju umhverfi. En Morgunblaðið er annars staðar.

Þá er ekkert annað eftir  en flikka upp á þennan kumbalda og gleyma sögu hans. En það er bót í máli að nú er kominn bar í húsið. Hann var það eina sem vantaði, þegar við vorum þar að bardúsa og reyna á þolrif fólksins í landinu á þessum hráslagalega vígvelli kalda stríðsins.

En hvað sem þessu líður er Morgunblaðið í reynd blað allra landsmanna; einskonar aþenskt torg; andrúm samtímans, einnig skvaldursins. En gömlu keppinautarnir liðnir undir lok. Meira þarf ekki að segja.

Ég þakka ykkur öllum ánægjulega samfylgd á langri - og stundum býsna háskasamlegri - leið. Ég þakka einnig hvernig ég var kvaddur í blaðinu. Hér hef ég eignazt marga af mínum beztu vinum, sumir látnir. Ég óska ykkur velfarnaðar og þakka góðar gjafir. Og þá ekki sízt þessa stund við lágmynd Erlings og listrænt handbragð hans. Það eru ekki allir sem fá tækifæri til að vera viðstaddir minningarathöfn um sjálfan sig. Til þess þarf hestaheilsu. Og mátulegan skammt af húmor.

 

28. júní, fimmtudagur

Orti þessi smákvæði á síðdegisgöngu:

 

Hávallagata 49

Faðir minn

málaði aldrei

yfir ryð.

 

Við vorum sál

hússins.

 

Og húsið

hélt sér vel

og lengi.

 

Nú er tæring

í niðurfallinu.

 

 

 

Hverfulleiki

Þú verður eftir þegar ég dey

og þá hefur ekkert breytzt,

við vitum það bæði að holdið er hey

og hamingjan eins og þú veizt

sem vindur í laufi, það lifir og deyr

og laufgast sem dagur, ei meir.

 

 

 

 

 

 

 

Ódagsett

 

ÞRÍLEIKUR

Stefnumót

við tunglið.

(Leiksaga)

 

Sögumaður: Ég kynntist þeim þegar ég var drengur og síðan hafa þau fylgt mér. Þau hafa fylgt mér eins og ævintýri úr Svartaskógi. Og hvers vegna ætli þau hafi fylgt mér með þessum hætti. Ég hef oft velt því fyrir mér. Í lífi þeirra sé ég skuggann af lífi okkar allra, ætli það sé ekki ástæðan. Við erum öll í brimgarðinum miðjum og takmarkið að ná landi. Það er reynsla allra kynslóða og ekki síður brýnt umhugsunarefni nú en áður. Freud segir í siðmenningarsögu sinni að þrá okkar standi fyrst og síðast til hamingju. Ég efa ekki að það sé rétt. En hann segir líka að það sé krókudíll á meðal okkar. Við höfum líklega öll  einnig reynslu fyrir því. Ýmist er þessi krókudíll hluti af hugsun okkar sjálfra eða þá að hann skríður inn í ævintýrið eins og óvelkominn gestur - og bíður! Hann gerir sér bæli í hugarvitund okkar og þar fer leikurinn fram. Hugsanir okkar eru einatt ókunnugir gestir, ekki sízt fólk sem við höfum aldrei kynnzt en það er á ferli eins og það eigi eitthvert sérstakt erindi við þetta leikksvið hugans. Ég hef kynnzt mörgu fólki af afspurn, öðrum af verkum þeirra og ég þekki þetta fólk betur en marga þá sem ég hef umgengizt og hafa fylgt mér gegnum lífið eins og gamlir indíánar, svipbrigðalausir og orðfáir. En gestirnir iða oft af lífi og stundum tala þeir viðstöðulaust. Þeir gera vart við sig eins og látið fólk sem deyr í gömlu húsi og getur ekki yfirgefið það. Þá hefjast reimleikar og það er á mörkum þessara tveggja ólíku veralda sem skáldskapurinn leiðir annað fólk inn í hugsanir okkar.

Og þá hefst leikurinn.

Og þarna er Marta María, hún er ein með hugsunum sínum. Hún hrekkur upp við orð  sem koma aftan úr forneskju.

Knútur: Þú sleppir línu. Hættu að æfa þetta hlutverk. Láttu aðrar leikkonur um þessa leiðinlegu persónu karlsins.

Marta María: Ha? Aðrar leikkonur!

Knútur: Já, ég sagði það. Við skulum láta þessar venjulegu leikkonur um hlutverk Sólveigar í framtíðinni.

Marta María: En...

Knútur: Þú verður hjá mér.

Sögumaður: Þannig hafði það byrjað og afbrýðissemi nagaði rætur þeirra beggja. Fyrst var það hann, svo hún. Æ, það var þá, hugsaði hún og dró fyrir stofugluggann. Settist aftur í stólinn. Og svo þessi hræðilegu reiðiköst.

Knútur: Hvernig gastu... farið að búa með leikarafíflinu sem sagðist ekki geta lifað deginum lengur en þú elskaðir hann? Þú hefðir átt að hafa vit á að kynnast mér fyrr. Þá hefðirðu ekki gifzt honum á undan mér. Hvers vegna, Marta María?

Marta María: En þú?

Knútur: Það er allt annað með mig. Ég er meira en tuttugu árum eldri en þú (blíðlega). Hvernig gat ég vitað af þér Marta María, barnið mitt? En gleymum því. Þitt hlutverk er við hliðina á mér.

Sögumaður: Svo bætti hann við að nú gæti hún farið í sorgarbúninginn og syrgt þann sem hún elskaði, en væri því miður dauður. Hún hefði getað drepið hann. Hún hefði getað murkað úr honum lífið þegar hann var að slá hana með sterkustu orðum sem til voru. Og hún grét. En hann sagði:

Knútur: Nú er of seint að fella þessi tár og ég hef bannað þér það.

Sögumaður: Hún hallaði sér aftur á bak í stólnum, lygndi aftur augum. Minningarnar streymdu að henni. Hún naut þess að sitja ein að þeim. Naut þess að muna allt, gleyma engu.

Þannig liðu dagarnir og svo kom hún til hans.

Marta María: Ég er hætt að leika!

Knútur (horfir um stund á hana, tekur svo um axlir henni): Það gleður mig að þú hefur yfirgefið gervilífið í leikhúsinu. Ertu viss um að þú hafir gert rétt?

Sögumaður: Hún leit upp til hans, en sagði ekkert. Á þeirri stundu hafði einungis ein hugsun komizt að í huga hennar en hann vissi það ekki, vissi það kannski aldrei: Héðan í frá verður þessi maður mitt leikhús, hafði hún hugsað þarna í örmum hans, og hún vissi að frá þeirri stund yrði því ekki breytt.

Um kvöldið kallaði fögnuður Knúts fram ljóð sem hann skrifaði á lítið, hvítt blað og orðin fóru jafn hægt yfir blaðið og alltaf þegar hann skrifaði, hægt, hægt... eitt orð eftir annað... eins og snigill tímans sem skilur eftir sig spor í röku grasi áður en það er slegið.

Knútur:

Þú komst inn í líf mitt

eins og leiti sér skjóls

sproti í skugga

skógarsvölum.

Við gengum saman

í grænu lyngi

eins og sól fari geislum

götur og stígi

í dimmum dölum.

 

Þannig gengum við

grýtta vegi

inn í skóg fullan

af skuggum og greinum

á dimmum degi,

horfðumst í augu

og sól hvarf til jökla

stiklaði á steinum

og óð dalinn

í ökkla,

 

komst þú inn í líf mitt

með lyngilm af heiðum.

 

Sögumaður: Daginn eftir sótti að henni efi um það hvort ást þeirra þyldi að þau væru mikið saman. Þau sátu við matborðið, það var spenna í lofti.

Knútur: Þú hlærð of hátt. Þig skortir stolt. Þú ert alltof vingjarnleg við ókunnuga.

Marta María: Hvernig á ég að vera svo að þér líki?

Knútur: Og svo græturðu of hátt. Þú skilur mig ekki.

Marta María: Hver skilur þig? Ég þekki engan. Þekkir þú einhvern?

Sögumaður: Hún fór að taka til í eldhúsinu. Það var þá sem hún gerði sér grein fyrir því að maðurinn í lífi hennar var ekki einungis af holdi og blóði. Enginn þekkti hann eins og hann var. Enginn þekkir annan mann af bókum. Og Knútur var goðsögn.

Næstu daga og vikur hugsaði hún ekki um annað en hlutverk sitt á leiksviði hans. Hvar er Sólveig? spurði hún sjálfa sig. Og hvar er Marta María? Og hún vissi að hún hafði tekið að sér erfiðasta hlutverk sem til var; að leika til fullnustu hugarfóstur skálds sem örlögin höfðu bundið hana órjúfanlegum böndum. Hún læddist um á tánum á morgnana, svo að skapari Mörtu Maríu gæti verið stoltur af henni. Maturinn á réttum tíma og hann borðaði án þess segja aukatekið orð.

Knútur: Þig skortir stolt. Þú hlærð of hátt! Þú ert of vingjarnleg við iðnaðarmenn sem koma hingað að lagfæra eitthvað. Þeir gætu misskilið það.

(Hann tók upp minnisbók og hripaði athugasemdir í hana.)

Ég verð að fá vinnufrið. Og það er rétt sem ég segi, þú ert ekki nógu stolt. Allof vingjarnleg við ókunnuga. Ég hef margsagt þér það.

Marta María (æst): Þú hefur steypt mig í þitt mót eins og allar persónurnar í sögunum þínum og það nægir þér ekki. Hvað nægir þér? Ef þú manst ekki eftir sósunni á borðinu er það mér að kenna og ef þú vilt ekki kartöflur er það einnig mér að kenna. Það eina sem þú manst eftir er kaffið.

Knútur: En...

Marta María: Ég giftist draumi sem breyttist í veruleika við skrifborðið. Við erum hvergi til nema í bókum og þar ætlar þú að láta okkur rykfalla.

Knútur: Í bókum?

Marta María: Já.

Knútur: Einmitt í bókum.  Við erum ekkert annað en tvær bækur. Lokaðar bækur.

Marta María: Og senn rykfallnar bækur!

Sögumaður: Hann stóð upp, horfði á hana, en sagði ekkert. Hann var sorgmæddur og gekk út.

Um kvöldið féll allt í ljúfa löð að venju.

Víst gat hann verið ljúfur og blíður, strokið henni með augunum.

Knútur: Það er eina áþreifanlega snertingin!

Sögumaður: Stundum var hann  þreyttur og þá talaði hann meira en venjulega. Einhverju sinni sagði hann henni frá föður sínum og gjaldþroti hans.

Knútur: Þá kynntist ég því að maður sér guð bezt gegnum tárin. Síld og kartöflur á sunnudögum, annars vellingur og vatnsgrautur. Hálft egg á páskadagsmorgun.

Sögumaður: Það voru firn hvað hún gat einnig verið afbrýðissöm og kannski ekki að ástæðulausu.

Marta María: Hvað ertu að skrifa?

(Hún lítur yfir öxl hans. Knútur lítur upp.)

Knútur: Það færðu ekki að sjá.

Marta María: Jú, af hverju ekki? Þú hefur lofað að leyna mig engu. Má ég sjá?

Knútur: Nei, Marta María.

Marta María: Er það um einhverja aðra?

Knútur: Það er ekki tilbúið.

Marta María: Má ég sjá það samt!

Knútur: Þú færð... nei, seinna!

Sögumaður: Hún las það samt yfir öxl hans, það hafði hún aldrei gert áður. Svo tók hún blaðið og hann horfði á hana án þess segja orð. Hún las:

Marta María:

Þú barst mér þínar rauðu rósir

sem roðna ávallt á mínum vegi,

þær ilma fegurst er blik þitt brosir

og blómgast sífellt þótt aðrar deyi,

ég finn þær eins og feigðin sé

einn fugl á lífsins græna tré

og man þig, vina, er vetur leitar

þess vors sem ann hann meir og heitar

en nokkru sem hann kom á kné.

 

Ég þakka þínar rauðu rósir

sem roðna enn á vegi mínum,

þær ilma fegurst ef augað brosir

og ást mín vex í faðmi þínum

og seinna þegar sorgin fer

um svartnættið í brjósti mér

þá minnist ég þess vors sem varir

í vök sem kyssir sól við skarir

með fögnuð lands í fylgd með sér.

 

Bravó, þetta er fallegt. En um hverja!

Sögumaður: Hann hristi höfuðið vandræðalega og rétti fram höndina. Hún lét hann fá blaðið. Hann settist, en hún varð hugsi. Hún hugsaði mikið um þessar línur, en vissi ekki hvernig bæri að skilja þær og þannig hugsuðu þau saman inn í haustið.

Allt gekk þetta misjafnlega, en stundum vel.

(Sögumaður gengur að tunglinu og kveikir á því með fjarstýringu. Þau koma í ljós og sitja við sinn hvorn símann.)

Knútur: Hvað ertu að gera?

Marta María: Ekkert sérstakt.

Knútur: Ég sakna þín!

Marta María: Ég sakna þín líka. Hvernig er herbergið þitt þarna á hótelinu?

Knútur: Þolanlegt!

Marta María: Er skrifborð?

Knútur: Já.

Marta María: Nóg af handklæðum?

Knútur: Já, nóg af öllu. Samt vantar allt - þig!

Marta María: Og engar flugur?

Knútur: Nei, engar flugur. Það vantar flugnasuð í herbergið, svo ég á erfitt með að vinna.

Marta María: Já, ég gæti trúað því. En ef þú opnar nú gluggann heldurðu ekki að...

Knútur: Bezt ég reyni það.

Marta María: Ef það kemur falleg fluga með blágljáandi vængi, þá er það ég.

Knútur: Já, þá ert það þú. Ég sakna þín hvort sem glugginn er opinn eða lokaður.

Marta María: Og ég sakna þín líka.

Knútur: Sérðu tunglið.

(Þau líta bæði upp).

Marta María: Já, það blasir við. Sumartungl.

Knútur: Horfðu á tunglið, þar geta augu okkar mætzt. Ég sakna þín, barnið mitt.

Marta María: Ég sakna þín líka.

Sögumaður: Og augu þeirra mættust á tunglinu, eða eins og segir í litlu ljóði:

Sérðu tunglið, sagði hann

í símann, líttu út um gluggann, já,

sagði hún, ég

sé það.

 

Tunglið blasir við honum

eins og gagnsær geisladiskur

 

en við henni eins og stórt gult blóm,

 

endurskin sólar í myrkri.

 

Augu þeirra mæltu sér mót á tunglinu,

 

þau horfðust í augu

 

og snertust.

 

(Og þá breytist tunglið í gult blóm).

Sögumaður (slekkur á tunglinu): Við erum öll í mörgum hlutverkum. Hugurinn kallar fram það gervi sem við á hverju sinni. Ég hef einnig þurft að vera í ýmsum hlutverkum. Og nú er ég myndhöggvari og er að gera höggmynd af skáldinu, því skádið er orðið frægt og kallar á brjóstmynd. Ég er líka að hugsa um að gera af honum lágmynd sem hægt er að hengja upp einhvers staðar þar sem henni verður ekki stolið. (Hann tekur ljósmyndavél, setur filmu í hana um leið og Knútur kemur í ljós. Við hliðina á Sögumanni er hálfgerð brjóstmynd af skáldinu. Sögumaður fer í skítugan slopp og tekur til við að ljósmynda skáldið. Knútur sezt, lítur í dagblað).

Knútur: Það er verið að banna innflutning á páfagaukum.

Sögumaður: Ætli það sé ekki nóg af þeim sem fyrir eru!

Knútur: Hætta á gin og klaufaveiki, segja þeir.

Sögumaður: Þeir eru að minnsta kosti með klaufaveiki sem fyrir eru.

Knútur: Eins og páfagaukur eru nauðsynlegir, ég á við í pólitík og listum!

Sögumaður: Hefurðu ort nokkuð nýlega?

Knútur (leggur frá sér blaðið): Alltaf eitthvað nýtt. Á þessum aldri er hugurinn eins og fló á skinni, aldrei kyrr. Stöðvast ekki við neitt. Á sífelldu iði.

Sögumaður (lítur upp): Og hvað hefurðu verið að yrkja?

Knútur: Hefurðu heyrt ljóðið um myndlistarmanninn?

Sögumaður (hugsar sig um, hristir höfuðið): Nei, ég minnist þess ekki.

Knútur: Viltu þá ekki heyra það?

Sögumaður: Það væri betra en ekkert.

Knútur (Marta María kemur í ljós. Hún situr og saumar.): Ég held ég kunni það utan bókar, ég er þó ekki alveg viss.

Sögumaður (er farinn að dútla við brjóstmyndina): Það kemur, þegar þú byrjar.

Knútur: Við skulum sjá.

Sögumaður: Gerðu tilraun, mér veitir ekki af innblæstri.

Knútur:

Hugur þinn þægileg íbúð

með fuglsmyndum

eftir ólíka málara,

það er gestkvæmt í stofunni

þegar hugmyndir okkar

safnast saman

og minningarnar freyða

eins og kampavín

í sjaldnotuðum kristalsglösum,

einkum minningin um unga

ekkju

sem klæddist sorgarbúningi

þar til yfir lauk,

 

enn lifir hún í augum þínum

og hvellri rödd

en hlátur þinn bergmál

af marglitum hljómi

kristalsins

 

og þið hlæið saman

inní kampavínshvítan

dag

þegar fuglarnir taka til vængjanna

og fljúga út úr málverkunum

í leit að glötuðum tíma.

 

(Það heyrist fuglasöngur og þau hlusta öll þrjú).

Sögumaður (í hlutverki myndhöggvarans): Þetta er nokkuð gott hjá þér, það vantar ekki!

Knútur: Nokkuð!

Sögumaður: Já, ljóðið sem þú last.

Knútur: Stundum dettur mér í hug að það sé gott. Já, nokkuð gott.

Sögumaður: Einu sinni vildi ég verða leikari. Ég hafði verið í leiklistarskóla í tvö ár, en ég var alltaf að teikna. Það var mér ástríða og ég sá að ég varð að taka ákvörðun um hvort yrði lífsstarf mitt, leiklistin eða teikningin.

Knútur: Og þú valdir höggmyndina.

Sögumaður: Já, ég hefði getað valið leiklistina, en fannst hitt öruggara.

Knútur: Öruggara? Hvers vegna?

Sögurmaður: Það er öruggt að lifa á metnaði annarra. Sjáðu, þetta er bezta birtan þegar enn er vel lesbjart, en degi tekið að halla. Rembrandt kenndi málurum að vinna að andlitsmyndum á þessum tíma dags. Hann sá að þessi birta dregur skapgerðina fram í dagsljósið og alla drætti og annað sem máli skiptir.

Knútur: Þú valdir rétt. Leiklistin er eftiröpun. Hún er skuggi eða endurkast af lífinu. Það er ekki hægt að breyta skugga eða endurkasti í raunveruleika, allra sízt marktækan raunveruleika.

Sögumaður: Ef skugginn sést, þá er hann einhvers konar veruleiki. Er það ekki?

Knútur: Jæja - þá. En þú nefndir skapgerðina?

Sögumaður: Já. Listamenn eru ekki ljósmyndavélar. Þeir reyna að grafa dýpra, fara undir yfirborðið, teikna sálina, á sama hátt og landslagsmálari teiknar ekki endilega það sem fyrir augu ber, ekki endilega það sem allir sjá og ljósmyndavélin festir á filmu, heldur það sem hann upplifir sjálfur, innra með sér. Þannig langar mig að skyggnast undir yfirborðið á andliti þínu. Málarinn er í raun og veru ekki að fást við landið, heldur sjálfan sig. Þeir sem eru upphafnir gætu kallað það sál landsins, en landið hefur bara ekki sál. Nei, þetta er glíma listamannsins við sjálfan sig. Þú þekkir þetta af eigin raun.

Knútur: Hann málar sem sagt það sem er ekki til. Þú hlýtur að vera bjartsýnn - að halda að þú getir fundið eitthvað í mér annað en yfirborðið. Sál landsins! Það er fjarstæða!

Sögumaður: Ég er ekki að leita að neinu og ég ætla ekki heldur að slá þér gullhamra. Eini tilgangur minn með þessari brjóstmynd er að skrifta fyrir þér. Hún er eins og öll list, synd sem við verðum að losna við. Öll list er aflausn. Þú þekkir þetta sjálfur, ég veit ekki betur en þú sért aðalpersónan í öllum sögunum þínum. Þar er þannig þín eigin glíma við sjálfan þig!

Knútur: Hvað þarf  góður myndlistarmaður að hafa til að bera?

Sögurmaður: Næmi.

Knútur: Næmi? Á hvern hátt lýsir það sér?

Sögumaður: Ætli þú vitir það ekki sjálfur! Við erum báðir næmir á kvenlega töfra þykist ég vita, og eigum báðir miklu yngri konur en við eigum skilið!! Ég hef reynt að móta mína konu sjálfur eins og þessa mynd. Ég treysti engum öðrum fyrir henni.

Knútur (hugsi):  Þú ert víst ekki einn um það. En sér er nú hvert næmið! Hvað segir hún við því?

Sögumaður: Hún? Ætli hún viti það! Fólk hættir að þekkjast um leið og það gengur í eina sæng. En mig langar til að... ég kynntist henni vel meðan við vorum trúlofuð. En nú langar mig að kynnast henni betur og hún á að þekkja mig. Ég er ekki viss um að Mörtu Maríu líki þessi mynd.

Knútur: Nú hvers vegna ekki?

Sögumaður: Hver veit? En hvað sem því líður þá er ég ekki að gera þessa mynd fyrir hana, heldur -

Knútur: Heldur hvern?

Sögumaður: Sjálfan þig. Ef þér líkar hún ekki get ég farið með hana heim og gert aðra síðar. En ef henni líkar hún ekki, þá þekkir hún þig lítið. Það kemur í ljós. Ekki koma allir dagar í böggli, sagði gamla fólkið.

Knútur: Faðir þinn er dómari, svo ég fari úr einu í annað.

Sögumaður: Nei, fósturfaðir minn. Það er að segja, hann giftist aldrei móður minni. Þau búa saman. Hann var dómari, nú kominn á eftirlaun. Þegar ég var drengur skildu foreldrar mínir. Það var mikið áfall. Þegar pabbi var farinn að heiman, var ég látinn færa honum smádót sem hann vantaði. Börn í þá daga voru ekki alin upp eftir kokkabókum atferlisfræðanna.

Knútur: Þessu var ekki ólíkt farið með mig.

Sögumaður: Það var hreinasta helvíti.

Knútur: Nú hvernig?

Sögumaður: Þegar ég var drengur átti ég ekki marga vini og þeir sem voru mér góðir voru flestir eldri en ég. Karlarnir í fiskbúðinni og við höfnina, stúlkurnar í mjólkurbúðinni, gamall prestur á tíræðisaldri - hann var orðinn karlægur en hafði verið prestur í sveit - bað mig stundum um að fara með bréf fyrir sig í póstinn. Hann skrifaði hinum og þessum, einkum páfanum sáluga. Það tók karlinn langan tíma að deyja. En skömmu áður en hann dó reis hann upp við dogg og sagði, Nú veit ég af hverju ég hef aldrei fengið svar frá páfanum. Nú, hvers vegna ekki? spurði hjúkrunarkonan. Ég er sjálfur Píus páfi, sagði gamli presturinn og dó.

Knútur: Hann hefur náttúrulega dáið alsæll!

Sögumaður (tekur ljósmyndavélina og myndar Knút aftur bak og fyrir): Ég er að hugsa um að nota þessar myndir, ef ég geri einnig af þér lágmynd.

Knútur: Er það ekki óþarfi?

Sögumaður: Við sjáum til.

Knútur: Hvað varð um föður þinn?

Sögumaður: Ég hef ekki séð hann síðan, veit ekki hvar hann er. Hann hvarf eins og skip inní þokuna. Ogt það var enginn þokulúður. Kannski er hann dáinn, ég veit það ekki.

Knútur: Hatarðu hann?

Sögumaður: Hata? Maður hatar ekki föður sinn.

Knútur: Kannski elskar þú hann undir niðri.

Sögumaður: Nei, ég reyni að gleyma honum. Hann vildi ekki að ég yrði listamaður og ætlaði að gera mig arflausan. Þegar hann hvarf tók móðir mín við eignunum. Við lifðum í sífelldum ótta.

Knútur: Hvers vegna?

Sögumaður: Jú, sjáðu til. Hann fullyrti að móðir mín væri sér ótrú. En ég verndaði móður mína. Ég elskaði hana þangað til - það er mikið áfall þegar móðir manns hættir að vera þessi ímynd. Þegar ég var fjórtán ára reyndi faðir minn að segja mér að hún væri sér ótrú og héldi við dómarann. Þeir voru vinir. Ég sagði hann lygi því, hann vissi það ekki. Hún hefði bara gaman af að tala við þennan húsvin. Þau ættu sameiginleg áhugamál. En hann sat við sinn keip. Ég missti stjórn á mér, þú skalt ekki óvirða móður mína, hrópaði ég og rak honum löðrung. Það sprakk fyrir á vörinni og blóð lak í skyrtuna hans. Hann horfði á mig hryggur og sagði, Þetta blóð mun fylgja þér. Síðan höfum við ekki sést.

Knútur (stendur upp, hristir höfuðið):  Þetta er mikið drama.

Sögumaður: Vertu kyrr. Ég þarf að taka tvær, þrjár mínútur í viðbót.

Knútur (bandar honum frá sér): Er ekki komið nóg af glansmyndum?

Sögumaður: Aldrei nóg. En seztu þá aftur.

Knútur: Það hafa allir verið í einhvers konar álögum, einhvern tíma. Ég var í álögum þegar ég var drengur og ég hef verið í álögum afbrýðisseminnar frá því ég hitti Mörtu Maríu.

Sögumaður: Það ætti nú að vera óþarfi eins og hún dýrkar þig.

Knútur: Hún var leikkona og leikkonur eru fiðrildi.

Sögumaður: Nú, hvernig þá?

Knútur: Þú veizt aldrei hvaða blóm draga fiðrildin að sér. Stundum fíflar! Stundum koma þær í flugugervi.

Sögumaður: Fíflar, sagði hann. Ekki biðukollur!

Knútur: Já, fíflar, jafnvel þeir.

Sögumaður: Ég skil hvað þú ert að fara.

Knútur: Nei, ég held þú eigir aldrei eftir að skilja það. Enginn á eftir að skilja það. En við erum vinir og þess vegna máttu vita þetta. Afbrýðissemin er nagandi níðhöggur. Hún leggur allt tréð undir sig frá dýpstu rótum að efstu laufum  krónunnar.

Sögumaður: Þú ert skáld og upplifir þetta svona. Það er allt og sumt!

Knútur: Skáld? Hver er ekki skáld? Ég þekki engan sem er ekki skáld. Og ef hann er ekki skáld, þá er hann a.m.k. afbrýðissamur.

Sögumaður: Stjórnaðu höndunum, þær trufla mig!

Knútur: Nú, það var svo sem auðvitað. Maður má ekki hreyfa sig. Allir reyna að stjórna manni. Tilfinningar trufla alla, ef þær sjást. Ég hef gengið fyrir tilfinningum og kvíða. Og þunglyndið að drepa mig.

Sögumaður: Kvíða og þunglyndi. Það er verra en erfðasyndin.

Knútur: Já. Faðir minn lagði á mig að ég skildi hann þegar ég yrði fullorðinn.

Sögumaður: Skildi hvað?

Knútur: Kvennamál hans. Þetta voru eins og áhrínsorð. Ég hef reynt að vaxa frá þeim, en mér hefur ekki tekizt það.

Sögumaður: Við erum hert í deiglu.

Knútur: Guð er svo strangur uppalandi að hann hefur látið mig skilja þetta, því miður.  Það þurfti hreinsunareld til þess ég skildi föður minn.

Sögumaður: Enginn hreinsunareldur nægir mér.

(Þögn)

Knútur (upp úr eins manns hljóði):  Rembrandt, sagðirðu?

Sögumaður: Já, við horfum á myndirnar hans, eða réttara sagt þær horfa á okkur og við gleymum því að þar er málari að verki, en ekki forsjónin sjálf. Sú sama og skapaði okkur. Mér þætti gaman að vita hvað konan þín segir.

Knútur: Þú kvíðir því. Þú kvíðir því að dómur Mörtu Maríu falli. Þú ert hræddur við þennan dóm.

Sögumaður: Nei, en ég óttast að hún þekki þig ekki eins vel og hún heldur.

Knútur: Hvað áttu við?

Sögumaður: O, ekkert sérstakt. Hefurðu heyrt um örninn sem var skotinn fyrir vestan og lá í blóði sínu en makinn flaug yfir honum dauðum? Við getum margt lært af erninum.

Knútur: Hvað ertu kominn langt?

Sögumaður: Ertu orðinn þreyttur?

Knútur: Nei, en mig er farið að langa til að sjá hvað þú ert eiginlega að föndra.

Sögumaður: Kannski hef ég verið að föndra við það sem Marta María kona þín hefur aldrei séð.

Knútur: Og hvað er það?

Sögumaður: Einbeitni. Eitthvað sem er ekki alveg laust við mannfyrirlitningu. Sálarþreytu, draumlyndi. En samt - hvað sé ég, spyrðu? Klett sem stirðnar um leið og hann rís heitur úr hraunflóðinu og storknar vegna kulda í umhverfinu. Risavaxna hönd sem teygir sig eftir því endanlega. Minnismerki náttúrunnar um táknmynd vonarinnar. Innri eld, storknaða hönd.

Knútur: Hvorki meira né minna! Þú ert skáld.

Sögumaður: Það er einnig naut í myndinni.

Knútur: Þú ert stórskáld!

Sögurmaður: Fyrst þú spyrð þori ég að segja það. Þess vegna er ég hræddur við hvað konan þín segir. Konur vilja ekki vera giftar nauti, þær vilja vera giftar postulínshundi - eða bara hundi.

Knútur: Merkilegt. Stundum hefur mér dottið þetta í hug. Hvað heldur þú að ég sé gamall?

Sögumaður: Hálffimmtugur. Konan treystir ekki nauti fyrir hjónabandi sínu.

Knútur: Mér finnst ég alltaf vera drengur sem á líf sitt eftir ólifað.

Sögumaður: Brjóstmyndin er ekki af neinum dreng. Hún hrekkur við þegar hún sér nautið í henni. Það vantar bara hornin!

Knútur: Ha, hornin...?

Sögumaður: En myndin venst. Hún lýsir fjölbreyttu sálarlífi, risavaxinni hönd en engum dreng.

Knútur (stendur upp): Ég vissi ekki að - ég hélt að...

Sögumaður: Hún venst, sagði ég.

Knútur: Konan? Ætli hún viti þetta?

Sögumaður: Hvað?

Knútur: Með nautið?

Sögumaður: Ef hún veit það ekki verður myndin sett niður í kjallara. Annars lendir hún í svefnherberginu.

Knútur (skoðar myndina í krók og kring): Enginn þekkir mig betur en hún. Líklega verður þetta ágæt mynd, væmnislaus.

Sögumaður: Já, líttu á. Ef hún líkist þér ekki núna, þá átt þú eftir að líkjast henni.

Knútur: Ég hef oft verið hræddur við sjálfan mig. Að ég sé ekki nógu sterkur. Að ég láti undan. En einhvern veginn gefur þessi mynd mér hugrekki, kraft - og þó, þegar ég horfi á hana þekki ég ekki sjálfan mig. Þetta er ekki ég.

Sögumaður: Um það mun enginn  fást. Þú munt lifa í þessari mynd - og aðeins  þar. Og þú munt deyja í þessari mynd og hvergi nema þar. Og vertu ekki hræddur við sjálfan þig og ekki konuna. Hún veit að þú ert eins og myndin. Og nautið venst.

Sögumaður (kominn úr sloppnum, gengur að tré með fuglasöng): Löngu síðar stóð ég hér við þetta tré og hlustaði á fuglana syngja. Ég fékk mér sæti og þeir héldu áfram að syngja. Þá kom skáldið, gekk hægt að trénu, virti það fyrir sér. Engu líkara en hann væri að tala við fuglana. Senda þeim hugskeyti og þeir svöruðu, náttúrulega.

Knútur: Sæll vertu. Það er gaman að hitta þig hérna hjá fuglunum.

Sögumaður: Já, þeir verka betur á mig en allt annað.

Knútur: Og það er gott að hlusta, einkum á mjóu tónana. Ég hef einnig ort um mjóu tónana.

Sögumaður: Setztu hérna hjá mér og segðu mér frá mjóu tónunum.

Knútur: Viltu það?

Sögumaður: Já, endilega.

Knútur (setztur): Viltu heyra nýlegt ljóð um mjóu tónana?

Sögumaður: Já, endilega.

Knútur: Það er eftir naut. Það er eftir eina hornlausa nautið sem þú þekkir.

Sögumaður: Já, einmitt. Það líkar mér.

(Marta María kemur í ljós, hún situr og saumar).

Knútur: Þetta ljóð er um eina konu sem er allar konur. Og þegar ég hugsa um hana, verð ég allir menn. Og fyrst við erum hjá fuglunum ætla ég að fara með ljóðið eins og farandsöngvari, en þó án þess að syngja það. Það hvarflar ekki að mér að keppa við þá, eða undirspilið í laufinu. Það mætti víst ekki biðja þig um að skerpa sólarljósið.

Sögumaður: Hvur sem gæti það nú!

Knútur (fer með kvæði):

 

Það er kyrlátt jafnvægi kringum þína sól

og kyrrðin er stirðnað andartak líkt og nú

og hún sem fór ein á indælum sumarkjól

inní mitt hjarta var ekki hún heldur þú

sem ert flöktandi skuggi og fylgir mínu spori

að fallanda degi og tunglhvítri gleði á vori.

 

En hugsun mín fylgir hnígandi degi og sól

að hljóðlátum greinum við marglit reisuleg þök

og þarna er stúlka á þakrauðum ljómandi kjól

og þaulsetin önd á ljóskvikri blikandi vök,

þær heilsast og kveðjast og veturinn vex að sínu

vindkalda gnauði sem næðir í brjósti mínu.

 

Þú fylgir mér enn að fölnandi greinum og nú

er fegurðin réttlætið sjálft eins og jörðin og þú

en tunglið er eyra guðs, það hlustar svo hljótt

á hvíslandi niðinn við spyrjandi augu um nótt

og þegar ég finn þig í vitund minni þá vaknar

mín veglausa þrá til jarðar sem hjarta mitt saknar.

 

 

En þrösturinn flögrar sem gestur við garðtréð sitt

og gerir sér far um að rækta kunninsskap minn

og hvernig hann gleður gamaldags hjarta mitt

eins og grasið leiki við fölnandi skugga um sinn

meðan sólin hverfur að syfjuðum húsaþökum

og svanirnir kveðja með skáldlegum vængjatökum.

 

 

Knútur: Ég sé að þú ætlar að hafa myndina hér uppi við.

Marta María (lítur upp úr saumaskapnum): Já, hún er eins og þú.

Knútur: Hvernig þá?

Marta María: Hún venst!

 

 

Sögumaður: Svo leið tíminn,  eins og snigill fari döggvott tún eða fuglslaust tré felli haustlaufið. Og hann hætti á blaðinu, sagði:

Knútur: Það var eins og maður væri leiddur til slátrunar. Eftir öll þessi ár. Sextíuogsjö ára, sögðu þeir! Og blóðvöllurinn beið. Það var engin miskunn! Engu líkara en maður væri kýr með kúariðu eða gömul rolla með gin- og klaufaveiki! En ég hafði alltaf nóg að gera og nú gat ég snúið mér alfarið að ritstörfum. Heill og óskiptur!

Sögumaður (hnýsinn): Og þér líkaði það vel... svona í aðra röndina?

Knútur: Í aðra röndina, kannski. - En ég var í fullu fjöri og aldrei heilsubetri. Aldrei! Hefði viljað starfa áfram á blaðinu en kom ekki til mála. Og þá var eins og það opnaðist flóðgátt. Ég orti tvo ljóðaflokka á þremur mánuðum... skrifaði auk þess tvö leikrit... Þetta... og svo annað ósýnt.

Sögumaður: Og þá bilaði heilsan. Andlegt jafnvægi?

Knútur: Þeir sögðu það!

Marta María (lítur upp úr saumunum): Það byrjaði með hverjum reiðilestrinum á fætur öðrum, engu líkara en hann væri að reyna að dylja veiluna bak við þessi köst. Minnti á ekkert annað en Jimmy Porter í Horfðu reiður um öxl!

Knútur: Þegar ég talaði við lækninn var hann eins og álfur út úr hól, spurði: Úr hverju dóu foreldrar þínir?  Var faðir þinn þunglyndur. Tók hann köst?

Marta María: Og hvað sagðir þú?

Knútur: Ja, ég veit það nú eiginlega ekki, úr hverju hann dó.

Marta María: Og hvað sagði hann?

Knútur:Þú hlýtur að vita það. Ja, ég hef nú aldrei leitt hugann að því, sagði ég. Ætli það hafi ekki verið elli. Hann ætlaði áreiðanlega að láta mig ganga í gildru; ætlaði  að sýna fram á þunglyndi eða aðra geðveilu í ættinni.

Sögumaður: Hann sat löngum stundum við skrifborðið sitt, skrifaði nokkrar línur, reyndi að leggja við hlustir því nú var hann orðinn heyrnardaufur og notaði heyrnartæki. Horfði út um gluggann. Leitaði að fuglum. Gaf klukkunni auga og stillti hana ef með þurfti. Hlustaði á hana slá, (gengur til Knúts, sögumaður er kominn í hvítan læknaslopp) Hann veðjaði á vitlausan hest, það gerðu þau bæði. Þau voru sem sagt samtaka í því að veðja á vitlausan hest. Milli þeirra hefur ýmist verið bláþráður eða silfurþráður. Hann telur að hann hafi haft rétt fyrir sér þegar hann fagnaði varnarliðinu sem sumir kalla hernámslið. Hann er sannfærður um að þeir hafi komið til að vernda þjóðina. Hann lifir í draumórum eins og allir hugsjónamenn og þau hafa gert það bæði. Það er hið eina sem þau hafa verið samtaka um. Og nú er hann kominn í nýtt hlutverk og undir mínar hendur og ég á víst að lesa úr þessum yfirgengilegu flækjum. Hann hefur allt á hornum sér, að sjálfsögðu. Hann hefur ekki áhuga á neinu nema pennanum og blaðinu sem hann skrifar á. Það sem er gamaldags er honum að skapi. Hann fúlsar við öllu nýju, nema nýjum úrum og klukkum. Helzt Rolex, hann fylgist vel með í þeim efnum. Það er eiginlega eina nýjungin sem hann hefur áhuga á. Hann hugsaði um garðinn heima og trén. Vonsvikinn hugsaði hann einnig um Mörtu Maríu og börnin, en nú var hreiðrið tómt. Örninn fastur í gildru sem svipti hann frelsi og gerði hann háðan þeim sem hann fyrirleit í hjarta sínu. Hann getur þó skrifað nokkrar línur á dag, það er bót í máli. En umhverfið er framandlegt, sumir segja fjandsamlegt. Mér er það þó til efs. En það er ekki sérlega hugnanlegt. Hann unir sér illa en sýtir það ekki frekar en annað. Tekur því sem að höndum ber og horfist í augu við dapurleg örlög. Ókvalráður gengur hann á hólm við þá sem ætla að tortíma honum. Og nú á hann aðeins eitt vopn í þeirri baráttu, pennann sem hefur aldrei brugðizt honum.

Knútur (við gluggann. Það heyrist krunk í hröfnum, hann hlustar, les svo af blöðum): Þeir þóttu ekki alltaf flytja góð tíðindi, heldur váleg. En þeir eru vinir mínir. Þeir vita að ég held upp á þá (það bregður fyrir skugga af hrafnsvæng.) Þeir gera sig heimakomna, kunna vel við sig í návist minni. Ætli þeir séu ekki einir um það, núorðið! Hrafnar eru þær einu verur í þessum heimi, sem ég ber einhverja virðingu fyrir, og það er af því ég held að þeir séu vitrari en ég. Ég kann ýmsar sögur, sem sanna þetta (lítur út um gluggann,hugsi).

Hrafnar eru að mörgu leyti líkir mönnum. Þeir hafa mikla skemmtun af að stríða, til dæmis hundum, láta þá geyja og stökkva upp í loftið, jafnvel kvelja þá svo, að þeir ýlfra undan þeim. Er þetta ekki mannlegt? Þeir hafa líka gaman af að stríða fólki, þegar vel ber undir. Þeir geta líka verið hrekkjóttir og eru glysgjarnir eins og stássmeyjar, sækjast eftir hlutum, sem glóa eða hafa sterka liti. Og margt fleira mætti um þessi kynlegu dýr segja. Að þeir hafi tilkynnt dauðsföll og sagt fyrir dauða fólks er algerlega efalaust. Þeir skynja einhvern veginn óorðna hluti. Ég vildi láta safna saman nokkrum hröfnum í hóp og fara með þá inn í Dómkirkjuna og fá organista til að spila fyrir þá útfararmarsa og óperur og vita, hvernig þeir brygðust við. Svo vildi ég láta spila fyrir þá dægurlög og jassmúsík og rokk til að vita, hvernig þeir brygðust þá við. Síðan ætti einhver prófessor í dýralífssálfræði að leggja fyrir þá sálfræðilegar þrautir, til dæmis hvort þeir sjái feigð á fólki.

Sögumaður (setzt andspænis Knúti): Og hvað ertu svo annars að hugsa um?

Knútur (hrekkur við): Hugsa, ja, ég var að hugsa um að stilla klukkuna betur.

Sögumaður: Og annað?

Knútur (vandræðalega): Ja, veslings móður mína. Hún hafði stórt hjarta.

Sögumaður: En faðir þinn?

Knútur: Ja, það er nú það, ætli hann hafi ekki líka dáið úr elli.Það mætti orða þetta svo: Hann varð fjörgamall - og dó úr engu!

Sögumaður: Skáldið getur verið gamansamt, heyri ég.

Knútur: En má ég spyrja yfirlækninn, er nauðsynlegt að taka af mér fötin mín, mér finnst það óþægilegt.

Sögumaður: Manstu eftir foreldrum þínum?

Knútur: Já, auðvitað.

Sögumaður: Fékk faðir þinn slag?

Knútur: Það get ég ekki sagt þér. Slag?

Sögumaður: Já, heilablóðfall.

Knútur: Hvur sem vissi það nú! Hann dó á stól í forstofunni. Hann gat ekki sofið og gekk fram að fá sér frískt loft. Kveikti ljósið við rúm móður minnar og sagði, Ég ætla að láta loga hjá þér. Þannig kvaddi hann hana. Og dó. Ég hef víst  líka fengið aðkenningu að slagi. Maður getur hrasað, en það eru víst ekki talin veikindi. Sumir hrasa vegna þess að þeir eru fullkomlega heilbrigðir. Hjónaband foreldra minna var ekki fullkomið, en það endaði vel. Þau voru eins og tvær flugur sem... sem... sækja í ljósið.

Sögumaður: Hvað á skáldið við?

Knútur: Jú, menn geta hrasað illa á þessari, ja, þú hefur heyrt talað um hála braut siðferðisins. (hrafnarnir krunka). Þeir sem leggjast hjá hundum mega búast við flóarbiti.

Sögumaður: Hefur þú hrasað þar?
Knútur: Þetta er nærgöngul spurning. Ég hef einkum hrasað í bókum, það gera skáld og rithöfundar (lítur í kringum sig). Annars skil ég ekki almennilega af hverju ég er að rausa þetta. Það amar ekkert að mér. Ég er ekki sjúklingur. En gætirðu ekki komið því til leiðar að ég fengi almennileg hnífapör við kvöldverðarborðið. Maður er hérna eins og barn, eða fáraðlingur.

Sögumaður: Barn?

Knútur: Þegar ég var barn borðaði ég hvorki með hníf né gaffli. Ég borðaði með skeið og nú er mér afhent skeið. Það er litið á mig sem barn. Og hvernig væri að ég fengi annað herbergi, án gægjugats? Mér líður eins og apa í dýragarði.

Sögumaður: Veizt þú hvernig apa í dýragarði líður?

Knútur: Ætli maður fari ekki nærri um það. Herbergi með gægjugati er búr. Þar situr maður fyrir allra augum, ósjálfbjarga. Mér er ekki einu sinni trúað fyrir buxunum mínum.

Sögumaður: Sjúklingar hér geta farið sér að voða.

Knútur: Ég er ekki sjúklingur. Er hægt að ákveða að frískt fólk sé veikt? Er hægt að ákveða að veikt fólk sé frískt? Nei, ekki einu sinni á geðveikrahælum.

Sögumaður: En ef það gæti nú bjargað þér?

Knútur: Bjargað mér! Það getur ekkert bjargað mér, nema guð.

Sögumaður: Guð, hvað áttu við?

Knútur: Forsjónin!

Sögumaður: Hvað áttu við með forsjónin?

Knútur: Ég hugsa að vísu ekki mikið um trúmál en ég trúi á forsjónina. Ég trúi á góðan guð. Ég er orðinn nokkuð latur að biðja, en ég er þakklátur þegar hann hefur hjálpað mér.

Sögumaður: Með hvað?

Knútur: Nú, þegar erfiðlega hefur gengið. En nú er mér orðið sama.

Sögumaður: Þú sagðir áðan eins og barn.

Knútur: Já.

Sögumaður: Viðkvæmur eins og barn?

Knútur: Hvað áttu.við?

Sögumaður: Eða árásargjarn eins og barn?

Knútur: Ertu að leita að dýrslegum þáttum skapgerðar minnar? Ég hef sjálfsagt verið eins og barn, þegar ég var barn. En þarf að taka gleraugun frá manni líka á kvöldin. Það er eins og að taka frá mér veröldina.

Sögumaður: Ertu viss um að þín veröld hafi ekki verið blekking hvort eð er? Að hún hafi aldrei verið til?

Knútur: Þú ert gamansamur, læknir.

Sögumaður: Nei, aðeins raunsær.

Knútur: Gleraugnalaus sér maður ekki einu sinni drauga.

Sögumaður: Hefur þú séð drauga?

Knútur: Nei - ja, ég held ég hafi séð móðurafa minn dáinn þegar ég var sex ára, það er allt og sumt! Það var ofn í herberginu og mér er nær að halda hann hafi horfið út um ofnrörið. En ég var ekkert hræddur fyrst þetta var afi minn. Hann gerði aldrei nokkrum manni mein, aldrei heyrði ég það. Ekki flugu mein.

Sögumaður: Hugsarðu stundum um hana?

Knútur (hrekkur við): Hana, Mörtu Maríu?

Sögumaður: Já.

Knútur: Finnst þér það skrýtið, maður á mínum aldri?

Sögumaður: Nei, síður en svo (stendur upp, en Knútur horfir út um gluggann. Það er engu líkara en eitthvað kvikni í hugskoti hans. Hann situr þegjandi drykklanga stund og horfir út).Við tölum saman síðar ef þú hefur ekkert á móti því.

Þannig hefur hann oft setið einn um ævina, einn með hugsunum sínum. Hann veit að hann verður að hafa stjórn á sér. Nú er komið að honum að þola það sem hann hafði ásakað Mörtu Maríu fyrir. Eða hafði hann ekki líka gagnrýnt hana fyrir skort á sjálfstrausti? Að hún væri ekki nógu sjálfstæð? Hafði hann ekki varað hana við ímyndunum og óttanum við ímyndanir. Og nú á hann ekkert nema ellina sem hann hatar.

Knútur (eins og uppúr hugsunum sínum): Mér býður við henni.

Marta María (kemur í ljós): Hann hefur alltaf  dýrkað æskuna. Æskan og vorið, það eru hans tímar. Og svo hefur hann alltaf dýrkað skáldskapinn. Hann lítur stórt á skáldskapinn.

Knútur: Stórt og ekki stórt. En það gildir einu úr því sem komið er. En ég lít að minnsta kosti stórt á þann jarðveg sem skáldskapurinn er sprottinn úr.

Sögumaður: Jarðveg?

Knútur: Já, lífið sjálft. Stundum leysist það upp í draum sem á ekkert skylt við veruleika, aðeins blekkingu.

Sögumaður: Draum, blekkingu? Hefurðu ekki haft tilhneigingu til að rugla saman veruleika og blekkingu?

Marta María: Hann hefur alltaf haft tilhneigingu til þess, að sjálfsögðu, eins og öll skáld. Stundum hefur hann lifað í skáldskapnum og dreymt veruleikann.

Knútur: Líf og skáldskapur. Án þess síðarnefnda væri lífið óþolandi og leit okkar án takmarks.

Marta María: Já, þetta hefur hann alltaf sagt. Stundum hefur þetta verið eins og ég hafi verið gift hugsjón. Óáþreifanlegri hugsjón. Og hann var alltaf að leita að einhverjum tóni, einhverjum einum tóni. Og hann hefur notað mig eins og strengjahljóðfæri.

Knútur (gengur til hennar): Þegar við kynntumst varst þú barnið mitt, Marta María.

Marta María: Ég hef aldrei verið annað en strengirnir sem þú lékst á og svo brast eitthvað þegar þú fórst að heiman. Það er ekki hægt að segja að við höfum talað saman í mörg ár.

Knútur: Það hefur aldrei neinn talað við mig, ekki í raun og veru, ekki síðustu árin!

Marta María: Það var reynt, en þú heyrðir ekki.

Knútur: Ég hefði átt að rækta umhverfi mitt betur, Marta María. Börnin... og barnabörnin.

Marta María: En hvað um mig? Ég sagði börnunum að allir karlmenn væru fjölkvænisdýr. Naut!

Knútur: Þú hefur frætt þau betur en ég vissi.

Marta María (hrópar): Hvernig gaztu fengið af þér að halda við þessa ógeðslegu dönsku leikkonu? Og þú sem fyrirlítur leikhús og allt því viðkomandi.

Knútur: Ekki þig, Marta María. Þig sótti ég inn á leiksviðið. Sólveig, manstu...

Marta María: Þú dróst mig út úr leikhúsinu, breyttir mér í eiginkonu og húsmóður. Ég mátti vera allt nema, nema ég sjálf!... Ég mátti vera allt nema það sem ég vildi vera. Og svo þurfti ég að sitja uppi með kvæðin sem þú varst að yrkja til þeirra, hlusta á upplestur þinn og gráta inn í mig.

(Knútur gengur aftur að glugganum og horfir út, hugsi. Marta María hlustar á kvæði af diski:)

 

En þú verður ávallt nýgróið vor undir væng

og vekur minn draum eins og blómin við jarðneska sæng,

þau brosa til sólar enn eins og ást okkar sé

þessi andvari guðs við höggorm og lífsins tré.

 

Þar vorum við saman og veröldin beið okkar enn

og vorið og fuglar og gleðin og ástin í senn,

þú hvíslaðir til mín orðum sem enginn sér

og allt sem ég hugsa er spegilmynd drottins af þér.

 

En þá tókstu eplið og ástin mín hamskipt og blind

og allt sem ég þráði var lífið í nýrri mynd,

ég yfirgaf drottin og höggormshjarta mitt

fer hamslausri gleði um sárasta leyndarmál þitt.

 

Og þú varst mín hugsun og hjartað í brjósti mér,

ég hvíldist sem fugl við lauf sem ég ætlaði þér

og það sem þú gafst mér var ilmur af jörð og grösum

og ekkert sem minnir á fölnandi blómin í vösum.

 

Ég finn að ást þín er andrá sem kallaði mig

til endurfundar við fuglana blómin og þig

og þegar ég kveð að lokum líf mitt og fer

þá lít ég um öxl og hugur minn dvelur hjá þér.

 

 

Knútur: Skáld yrkja ekki um eina konu, heldur allar konur.

Marta María: Þetta sagðirðu alltaf.

Knútur: Afbrýðisemi þín var eins og svartur skuggi yfir lífi okkar.

Marta María (ásakandi): Var hún kannski ástæðulaus?

Knútur: Manndýrinu breytir engin stólræða. Það er vaxið úr jörðinni, af holdi og blóði! Ég er engin undantekning. Og svo kemur hún á mann, þessi viðurstyggilega elli, og læsir í mann klónum.

Sögumaður (í læknasloppnum): Þú kallaðir á mig.

Knútur (vandræðalega): Þú spurðir hvernig við eltumst saman?

Sögumaður: Já. Þú sagðir, Það var martröð!

Knútur: Já, það var martröð! Tragikomískur endasprettur úr sjötta hring helvítis. En svo skánaði það aftur eftir uppgjöfina. Allir gefast upp fyrir ellinni. Hún niðurlægir þann sem verður á vegi hennar. En maður þokast samt upp fjallið... á leið til stjarnanna.

Sögumaður: Og Beatrísu.

Knútur(undrandi): Læknirinn er bara vel að sér í Dante!

 

(Krunk í hröfnum og hrafnsvængur á glugga. Knútur tekur handritið og les aftur upphátt fyrstu línurnar um hrafnana. Leiðréttir)

 

 

 

(Þau sitja þegjandi í rúminu,  Knútur með heyrnartæki og hlustar á disk eða spólu,  Marta María les dagblað).

Marta María:  Þetta eru nú meiri villurnar!

Knútur:  Ha?  Hvað ertu að segja.

Marta María:  Villurnar!

Knútur (tekur tækið af öðru eyra):  Villurnar!

Marta María:  Já,  ég sagði það!

Knútur: Eins og hvað?

Marta María:  Starfsvelta (bendir á blaðið),  hérna starfsvelta,  það hlýtur að vera einhver della!

Knútur:  Ég veit það ekki! Ég þekki ekki þetta nútíma fjölmiðlamál.

Marta María:  Þú hefur ekki heyra það?

Knútur: Nei,  aldrei heyrt það.  Já,  líklega villa!

Marta María:  Það getur ekki annað verið!

Knútur:  Nema það merki að starfsmennirnir velti hver öðrum um koll í vinnunni...  og...  og sá vinni sem veltir flestum (setur á sig tækið aftur)

Marta María:  Hvað ertu eiginlega að hlusta á?

Knútur:  Hvað?  (tekur aftur frá öðru eyranu) Varstu að segja eitthvað?

Marta María:  Já,  hvað ertu að hlusta á?

Knútur:  Ég var að hlusta á Skordýramanninn, en nú er ég með Síðasta móhíkanann.

Marta María:  Um hvað var Skordýramaðurinn?

Knútur:  Ja, hún fjallar nú eiginlega um skordýr.

Marta María:  Skordýr!

Knútur: Já.  Ég held hún heiti Skordýramaðurinn mikli!

Marta María:  Aldrei heyrt um hana. Fjallar hún um flugur... eða áttfótunga?

Knútur:  Nei,  hún er ekki til þess að hafa í hávegum.

Marta María:  En af hverju ertu þá að hlusta á hana?

Knútur:  Nú,  hvað ætti ég svo sem að gera annað? Ég hef ekkert fyrir stafni. Auk þess hélt ég þetta væri fræðandi bók. Maeterlinck skrifaði stórmerkilega bók um býflugur, merkilegra rit en nokkurt skáldverk. Hann var einskonar skordýramaður. En þetta er krími eins og nú er víst sagt!

Marta María:  En af hverju ferðu þá ekki að sofa?

Knútur:  Sofa?  Og þú lesandi ... með ljósið á! Ég sef ekki við ljós, eins og þú veizt.

Marta María:  Þú ættir að geta sofnað, ef þú reyndir. Það er varla nýtt að maður lesi við ljós... Enginn les í myrkrinu!

Knútur: Nema uglur! (setur tækið aftur á bæði eyrun): Nei, það er víst ekki!

(Þau þegja um stund, Knútur hlustar og hún les blaðið).

Marta María: Hvernig heldurðu að þessum heimi reiði af?

Knútur: Hvað segirðu?

Marta María: Taktu af þér bölvað tækið, þú heyrir nógu illa samt!

Knútur: Hv-hvað er þetta, manneskja?

Marta María: Ég var að segja, hvernig heldurðu að þessu reiði af?

Knútur: Hverju?

Marta María: Nú, þessari blessaðri samtíð!

Knútur: Hva-, hefur eitthvað sérstakt komið fyrir?

Marta María: Sjáðu hérna, tveir strákar réðust á lítinn dreng í  skóla þarna einhvers staðar uppi í sveit  - og hvað heldurðu?

Knútur: Nú, hvað?

Marta María: Nú er búið að kæra skólastjórann og hann verður víst rekinn frá skólanum vegna slagsmála!

Knútur (setur aftur á sig tækið): Ætli strákarnir verði ekki látnir taka við!

Marta María: Þetta eru nú meiri fíflin!

Knútur: Ha?

Marta María (öskrar): Fíflin, sagði ég!

Knútur: Já, þau! En þetta fer allt einhvern veginn, reynslan sýnir það. Í Rómaborg drap Katilína son sinn og afmeyjaði barnunga dóttur sína, samt vildu margir trúa honum fyrir ríkinu. Þetta er allt sama tóbakið!

Marta María: Æ vertu ekki svona bjartsýnn, það fer þér ekki vel! En hérna er merkileg frétt, læknir í bænum hefur ávísað 15 þúsund víagraskömmtum á síðast liðnu ári! Það er þó nýtt og tíðkaðist ekki í Róm!

Knútur: Ha?

Marta María: Fimmtán þúsund skömmtum, sagði ég.

Knútur: Af hverju?

Marta María: Víagra, sagði ég.

Knútur: Ætli það sé meira en búast mátti við!

Marta María: Samtíðin er náttúrulaus! Þess vegna gengur hún fyrir klámi.

Knútur: Ha?

Marta María: Ekkert! Ég var bara að segja að við hefðum ómögulegan heimilislækni.

Knútur: Nei, er hann ekki ágætur, ég hef átt innhlaup hjá honum, þegar ég hef þurft á að halda. Og það með engum fyrirvara (heldur áfram að hlusta. Þau þegja bæði um stund).

Marta María: Þeir kalla þetta stinningalyf. Mér finnst nú stinningskaldi betra.

Knútur: Ha? Hvað varstu að segja?

Marta María: Ég var að tala um veðrið.

Knútur: Já, veðrið það verður ágætt, er það ekki? Það er alltaf eitthvert veður! Annars er mér svo sem fjandans sama hvað er upp eða niður á veðrinu!

Marta María: Hér er önnur merkileg frétt.

Knútur: Nú?

Marta María: Merkileg frétt, sagði ég.

Knútur. : Nú-já, hvað er það?

Marta María(les ): Lögreglan kölluð til vegna karlmanns i sundbol.

Knútur: Annað eins hefur nú gerzt.

Marta María: Sundbol, sagði ég. Ekki skýlu.

Knútur: Já, þú átt við það. Annars voru þeir í sundbolum í gamla daga.

Marta María: Það var fyrir sex-bylgjuna!

Knútur: Ha, sex-bylgjuna!

Marta María(önug): Já,  fyrir víagrað!

Knútur: Og hvað er með þennan anskotans sundbol?

Marta María: (les) Lögreglan var kölluð í Kringluna vagna karlmanns sem þar var að máta sundboli. Hann var kviknakinn og þegar hann mátaði gekk hann um verzlunina og spurði hvernig konunum litist á!

Knútur: Nú.

Marta María: Já, það var víst ekki talin ástæða til að selja bolina eftir mátunina.

Knútur: Þótti engum mikið.

Marta María: Þetta er að verða óþolandi ástand. Og það fer versnandi. Vitleysingar vaða uppi.

Knútur: Það hafa þeir alltaf gert. En stendur nokkuð um það hvernig þeir voru litir?

Marta María: Litir, hvaða máli skiptir það? Hann var víst hvítur, eða hélztu að hann hefði verið svartur?

Knútur: Nei, það skiptir svo sem engu, ég bara spurði! En ég var að tala um bolina.

Marta María:  Bolina! Þú ert alltaf með hugann við smámuni, já aukaatriðin ætlaði ég að segja.

Knútur: Mér datt bara svona í hug að það gæti verið forvitnilegt!

Marta María (æst): Aukaatriðin sagði ég

(Hann setur tækið á sig aftur og hún sekkur sér niður í blaðið. Þau þegja enn um stund).

Knútur: En eigum við ekki að fara að slökkva?

Marta María: Nei, ekki strax.

Knútur: Hvenær þá?

Marta María (afundin): Nú, þegar ég er búin með blaðið, náttúrlega.

Knútur: Og hvenær verður það?

Marta María: Við sjáum til!

Knútur: Sjáum til, ég er orðinn dauðsyfjaður.

Marta María: Geturðu ekki hlustað ögn lengur?

Knútur: Ég er búinn að fá nægan skammt í bili.

Marta María: En hvað var það nú aftur sem þú ert að hlusta á?

Knútur (vandræðalega): Síð-síðasta móhíkanann, sagði ég.Var það ekki?

Marta María(undrandi): Nú, ég hélt það væri barnabók!

Knútur: Ég hélt það nú eiginlega líka.

Marta María: En hvað?

Knútur: Ekkert. Þetta er bara uppáhaldsbókin mín frá því pabbi las hana fyrir mig. Þá var ég sjö ára. Þetta er spennusaga!

Marta María: En heyrðu, hefurðu nokkurn tíma heyrt þvílíkt og annað eins!

Knútur: Hvað?

Marta María: Þetta sem var í sjónvarpinu í gærkvöldi.

Knútur: Áttu við tapið í landsleiknum?

Marta María: Nei, auðvitað ekki. Ég er að tala um vændið.

Knútur: Var eitthvert vændi í sjónvarpinu? Sjónvarpsstjörnur, þetta er lausafólk í kynferðismálum!

Marta María: Í fréttunum,sagði ég... í fyrragær.

Knútur: Fyrragær? Ég man það ekki, ég sá víst ekki fréttirnar.

Marta María: Jú, það var á meðan þú varst frammi! Þetta tekur orðið svo langan tíma hjá þér,  að þú missir af mörgum fréttum fyrir bragðið. Ég hef margtekið eftir því. Og svo þetta næturgauf öllum stundum. Þú verður að koma þér til læknis, þetta gengur bara ekki .

Knútur: Nei, eiginlega ekki. En hvaða fréttir varstu að tala um?

Marta María: Umræðurnar um vændið í þinginu, að sjötugar konur sæju sér orðið farborða með því að selja sig eins og gleðikonur.

Knútur: Já, það er helvítis fátæktin.

Marta María: Það er ekki verið að tala um það hér í blaðinu, heldur aldurinn.

Knútur: Nú, er eitthvað að honum.

Marta María: Svo þú sérð ekkert athugavert við hann?

Knútur: Nei, eiginlega ekki, aldur er bara einhvers konar tala, sumar eru alla tíð gamlar, aðrar alla tíð ungar. Það er allt og sumt! Það fer eftir hormónastarfseminni, segir Níels læknir, vinur minn.

Marta María (móðguð): Nú, enn gamla karlremban! 

Knútur(hrekkur við ): Auðvitað ekki, það er óþarfi að vera að snúa út úr fyrir manni. Ala á misskilningi!

Marta María: Misskilningi,  þú ættir þá að tala skýrar. Mér finnst ósmekklegt af þér að hafa þetta í flimtingum!

Knútur: Ég var nú ekki að því. Og þetta kemur karlrembu ekkert við.

Marta María: Annað heyrðist mér!

Knútur (fer fram úr): Æ, ég þarf að skreppa fram.

Marta María: Ekki í fyrsta skipti!

Knútur: Nei, þetta er nú bara svona! Ég held ég sé að verða eins og Elliðaárstíflan!

Marta María (kallar á eftir honum): Þú ættir að fara til læknis aftur eins og ég hef margsagt.þér.

Knútur: Það endar víst með því.

(Knútur er drykklanga stund frammi. Hún les blaðið).

Marta María (kallar til hans): Já-já, á áttræðis aldri.

Knútur (kallar): Jæja.

Marta María: Geta ekki séð um framfærsluna með öðrum hætti, segja þeir hérna og vitna í umræðurnar  í þinginu um þessa vændisskýrslu.

Knútur: Já-einmitt! (kemur aftur inn):  Varla nokkuð! Aðeins dropar!

Marta María: Ha. dropar!

Knútur: Já, blöðruhálsinn aftur, gömlu bólgurnar.

Marta María: Já, ekkert nei. Þú verður að fara til læknis á morgun. Það er ekki hægt að draga þetta lengur.

Knútur: Það dropaði þó í morgun! (fer aftur upp í) Það eru þó að minnsta kosti forréttindi að þurfa ekki á að halda slíkri framfærslu.

Marta María (tortryggin): Nú, hvað áttu við? Vændið?

Knútur: Já, varstu ekki að tala um það! En nú er ég að hugsa um að fara yfir sjónvarpsstöðvarnar (Hann  horfir á brot úr ólíkum stöðvum, tuldrar með sjálfum sér) Ekkert! Ekki frekar en venjulega, engar stöðvar! Já, ég verð víst að fara til læknis á morgun, það dugar ekki annað. Þetta eru helvítis bólgurnar!

Marta María (önug): Þarftu endilega að hafa þetta á, sjónvarpið truflar mig. Svo snjóar á annarri hverri stöð, sé ég.

Knútur (eins og við sjálfan sig): Það er þó betra að vera stíflaður en lekur!

Marta María (lítur upp úr blaðinu): Væri þér sama þótt þú talaðir um eitthvað annað sófistíkeraðra? Auk þess getur svona stífla verið hættuleg, það veiztu sjálfur.Og sársaukafull. En þú hefur aldrei hugsað um heilsuna. Ég hef þurft að hugsa um alla hluti. Stórt og smátt,  frá byrjun.

Knútur: Hvað er klukkan orðin?

Marta María: Ég veit það ekki!

Knútur: En vekjaraklukkan þarna á náttborðinu?

Marta María (gáir á vekjaraklukkuna): Þeir eru svo litlir stafirnir.

Knútur: Farðu varlega með hana, misstu hana ekki, kona!

Marta María: Ég er nú ekki orðin svo skjálfhent! Hún er... er... eitthvað um miðnætti.

Knútur: Þá er ég að hugsa um að leggjast og loka augunum.

(Knútur liggur vakandi um stund, en Marta María les).

Knútur: Ætlarðu ekki að fara að hætta að lesa, góða mín, og slökkva ljósið?

Marta María: Láttu ekki svona, rétt bráðum!

(Þau liggja um stund án þess segja orð)

(Hún les).

Knútur(órólegur): Getum við ekki samið um að þú slökkvir ljósið? Ég er hálflaslegur.

Marta María (önug): Rétt bráðum! Þarft þú alltaf að ráða öllu, svona gamall karl eins og þú ert orðinn!

Knútur: Það ber ekki á öðru (fer fram úr, tekur sængina). Ég legg mig bara frammi, þá geturðu haft alla þína hentisemi. Ég er þreyttur!

Marta María: Þú ert alltaf þreyttur, vinur minn. En þú kemur aftur ef þú sofnar ekki!

(Hann fer með sængina). Heyrðu, hér er yndisleg prentvilla. Einkabílasæði til leigu!

Knútur: Þú ert orðin svo anskoti fyndin upp á síðkastið!

Marta María (kallar): Það er ekki ég, það er umhverfið. Þeir hafa gert sér þetta að leik. Það er í samræmi við annað. Komdu aftur, ég ætla að slökkva ljósið.

Knútur: Má treysta því?

Marta María: Já, auðvitað (hann snýr við og kemur með sængina. Hún slekkur ljósið).

 

 

Sögumaður (í hvítum slopp geðlæknisins): Já, einmitt, var þetta orðið svona slæmt!

(situr andspænis Knúti við gluggaborðið).

Knútur: Martröð, sagði ég. Það var eftir að ég kom aftur heim. Þá var mér refsað. En svo lagaðist þetta og var orðið skaplegt. Uppgjöf, sagði ég. Hún þolir þetta miklu betur en ég, hún er svo mörgum árum yngri

Sögumaður: Voru það ekki ein þrjátíu ár?

Knútur: Tuttugu og sex! En nú gengur þetta bærilega. Betra en áður. Þá hékk þetta saman á hveitilími.Ég er eiginlega farinn að halda það sé einhver líknandi sáttargjörð yfir ellinni, þrátt fyrir allt. Ég hef upplifað það svo. Og kannski nýt ég þess, þegar ég fæ að fara heim.

Sögumaður: Það líður að því. Hlakkarðu til?

Knútur: Bæði og. Ég fer svo sem ekki eins og neinn riddari á hvítum hesti, heldur ríð ég heim á klepraðri niðurlægingarmerinni. Allt hefur stefnt að því. En þó á ég eina bók óskrifaða, það er bót í máli.

Sögumaður (forvitinn): Nú, hvaða bók er það?

Knútur: Sú sem aldrei verður skrifuð. Sú sem enginn getur skrifað. Bezta bókin er alltaf óskrifuð. En þetta vildi ég segja þér, ekki annað. Þetta er víst kallað gamalmennageðveiki! Eða kannski atferlissálarfræði, guð má vita!

Sögumaður: Hvað?

Knútur: Þrjózkan við að halda reisn sinni.

 

Sögumaður: Að hælisdvöl lokinni lauk Knútur við söguna um niðurlægingu mannsins. Það væri ekki út í hött að segja að hann hafi lagt út af gömlu  ljóði sem hann hafði ort á miðjum aldri, en lauk aldrei við. Ljóðin voru eins og persónur í lífi hans. Og þegar hann skrifaði sögur endurspegluðu þær þessar persónur. Þær birtust í ýmsum myndum, en þó einkum ljóðrænum myndum eins og náttúran opinberar sig, þegar hún skartar sínu fegursta.

 

...Sporin fylgja grónum götum.

Grasið kvíðir þungu fargi.

Visnar undan haustsins hrammi.

Hélan klappar gráu bjargi.

 

En síðar þegar vorið vekur

vini sína af löngum dvala

vaxa blóm úr mjúkri moldu.

Mörkin heyrir grösin hjala.

 

Þannig var hún okkar ævi

eins og gras und þykkum hæli

eða fornar grónar götu.

Grös og blóm í ríkum mæli.

 

Af öllu kviku í heiminum væri manneskja næst því að vera fædd án tilgangs, þrátt fyrir allt. En aldrei  hafði honum þótt hlutskipti hennar eins ömurlegt og einmitt nú, þegar hann var laus við hælið og kominn aftur í gamla garðinn sinn við gamla húsið sem angaði af gömlum minningum.

Knútur:  Marta María!

(Hún kemur með svuntu og gólfklút.)

Marta María: Já, hvað vantar þig.

Knútur: Ekkert. Ég var bara að hugsa um að manneskjan væri komin úr þokunni og hyrfi þangað aftur.

Marta María: Ha, hvað ertu að segja?

Knútur: Að við værum komin úr þokunni. Að við værum fædd án tilgangs!

Marta María: Nú, eru bækurnar þínar ekki einhver tilgangur?

Knútur: Þær eru gleymdar. Ef þær eru ekki gleymdar, þá eru þær að gleymast.

Marta María: Æ, ég nenni ekki að hlusta á þessa bölsýni. Ég ætla að halda áfram að skrúbba.

Knútur: Ha? Hvað varstu að segja? Ég er að verða eins og lekur krani, einn tveir, einn tveir segja droparnir. Þeir eru eins og atkvæði í háttbundnu ljóði! Ég á engan vilja lengur. Stundum finnst mér ég fastur inni í frumskógi... (tekur um höfuðið) ...hér inni. Og ég kemst ekki út! Nú bíður enginn eftir nýrri bók, nú er beðið eftir dánartilkynningunni!

Marta María: Hvað ertu eiginlega alltaf að tala um dauðann?

Knútur: Já, einhvern tíma var það sagt að ekkert reyndi eins á taugarnar og bíða eftir dauða annars manns.

Sögumaður: Og hann sem óttaðist dauðann öðrum fremur! Hann sem sá aldrei fegurðina í neinu nema því sem er ungt og óvaxið – og á lífið framundan. Allt annað ljótt og úr sér vaxið.

Knútur: Marta María, við verðum að drekka þennan beizka bikar í botn. Við verðum að drekka hann saman úr því sem komið er.

Sögumaður: Marta María hafði alltaf vitað að rithöfundar skrifuðu það sem þeir upplifa. Nú vissi hún að þeir upplifa það sem þeir skrifa.

Marta María (strýkur honum um hárið): Þú hefur elzt, vinur minn. Þú ert að verða eins og gullregnið hér fyrir utan.

Knútur: Dauðinn er ímynd ljótleikans. Eins og ellin. Ég hef aldrei haft samúð með nokkru gamalmenni. Þegar ég var ungur vakti gamalt fólk með mér óhugnað. Það hefur ekki breytzt. Og nú er farið að fenna í sporin. Ljónið afmáði spor sín með halanum, en það getum við ekki gert. Því miður!

Marta María: Hættu nú þessu, þú hressist.

(Klukkan slær. Hann dregur hana upp og réttir).

Knútur: Ekkert jafnast á við fallegar klukkur. Falleg klukka er guðsgjöf. Klukka tímans heldur áfram að tifa, þegar klukkan í brjósti okkar stoppar.

Sögumaður: Þegar Marta María var búin að skrúbba gólfið sagðist hún ætla að skreppa út í garð.

Knútur: Vertu ekki að eyða tímanum í það, góða mín. Það er einungis tímasóun. Þú deyrð bráðum og þá fyllist garðurinn aftur af arfa.

Sögumaður: Þegar hún kom inn aftur sagði hún:

Marta María: Viltu ekki kaffisopa.

Knútur: Nei, ég vil heldur fótabað.

Marta María: Á ég ekki heldur að þvo þér um andlitið.

Knútur: Nei, nei. Ég þoli það ekki, bara fótabað! Rómverjar höfðu kalt vatn og það drap Ágústus keisara. Ég ligg á sári á sitjandanum og get ekki staðið upp, það veiztu. Bara volgt vatn. (andvarpar) Æ,hvað lífið er stutt , en samt er það einum of langt.

Sögumaður: Hann heyrði ekki hverju hún svaraði og sagði eins og við sjálfan sig:

Knútur: Án tilgangs, allt án tilgangs!

Sögumaður: Þegar hún kom úr garðinum spurði hún, hvort hún ætti ekki að lesa fyrir hann. Eitthvað sem þú hefur skrifað sjálfur? Manstu eftir því hverju þú svaraðir skrítnu blaðakonunni sem spurði þig af hverju þú hefðir verið að yrkja öll þessi ljóð?

Knútur: Ha?

Marta María: Hverju þú svaraðir blaðakonunni... af hverju þú hefðir ort öll þessi ljóð? Og þú svaraðir, Til að hafa eitthvað gott að lesa, þegar ég er orðinn gamall! Ertu búinn að gleyma því?

Knútur: Þá var maður ungur!

Marta María: Hvað viltu að ég lesi fyrir þig?

Knútur: Í guðanna bænum, ekkert! Kannski helzt Síðasta móhíkanann! En segðu mér, eru nokkrir fuglar eftir í garðinum. Ég hef meiri áhuga á því.

Sögumaður: Hún svaraði því ekki, en gekk að borðinu, settist og fór að skrifa bréf.

Marta María (les upphátt): Hann vill helzt að ég sitji hjá sér allan guðslangan daginn...

Knútur (kallar til hennar): Hví yfirgefur þú mig, kona? Ætlarðu að láta mig deyja við þröskuldinn hjá þér? ...Það er fallegt fyrir norðan núna... Manstu þegar ég skrifaði ástarsöguna fyrir norðan. Þá varst þú ung, Marta litla María.

Marta María (lítur upp): Og hvað með það?

Knútur: Ung... og falleg.

Marta María (heldur áfram að skrifa, les upphátt): Hann segir að ég muni bráðum deyja og þá fyllist garðurinn af arfa... Ég veit, kæra barn, segir hann, að mistök mín voru þau að geta ekki gleymt. Það varpaði ávallt skugga á það sem var fallegt og gott í lífi okkar... Og það háir mér líka að ég get ekki heldur gleymt. Ég er eins og dýr, föst í gildru. Við erum bæði eins og dýr, föst í gildru.

Knútur (kallar): Hvað ertu að segja, Marta María?

Marta María: Ekkert! (hún gengur til hans): Útihúsið féll í storminum. Allt er fallið, gullregnið eitt eftir.

Knútur: Hvað er klukkan?

Sögumaður: Hún svaraði ekki en gekk aftur að borðinu.

Marta María: ...Og ég hugsa um stórt skip, fullt af blómum. Og nú er það sokkið að eilífu... Ég get ekki hugsað mér erfiðara gamalmenni... en - nú á ég hann ein, loksins.

Sögumaður: Ein, loksins!

(Hann gengur að trénu, horfir upp eftir því. Fær sér svo sæti á bekk, hlustar á fuglasönginn. Marta María setur disk á fóninn, hlustar hugsi. Skáldið heyrist lesa ljóð og lesturinn fellur inní fuglasönginn).

 

Hlekkjað við blóð mitt

manndýr

og flöktandi skuggar

við hellismunnann

 

kemur þú, kemur

framrétt hönd

og sefar manndýrið

losar fjötrana

og leiðir það útúr hellinum,

 

leiðir það burt úr öskrandi

blóði frumskógarins, leiðir það

inní hlustandi skóg

fuglanna,

 

hlustum hlustum.

 

Og þið heilsið þresti og starra

sem skipta sér niður á hverfin

í borginni, skipta sér

niður á garðana

eins og hrafnar

skipta sér niður á afskekkta

bæi,

 

hlustum

 

undir logngrænum

laufhimni

á tíðasöng fuglanna.

 

Og urrandi manndýrið

þagnar

undir vængjuðu laufi

 

hlustar á kliðandi

andvara

vors undir vindgulum

skuggum,

 

hlustar

 

og þú eins og skuggi

af skjálfandi fingrum

sefar manndýrið,

 

drýpur hjartablóð

drekans

á tungubrodd manndýrs

í meinum

 

og það skilur fuglamál.

 

Og saman gangið þið

að grjótbláum nið

lækjar sem dregur til sín

klökknandi jörð

 

eins og klökkni hvít-

vængjaður jökull

til heiða.

 

Og það losnar um dýrið

í blóði mínu

og það syngur með fuglunum

og flögrar í hári þínu

eins og vængir við vaxandi

lauf.

 

Og ég finn hvernig hellisbúinn

leysist upp eins og þiðni

í þögulli návist þinni

langfrosnir skaflar

í skurðgróna jörð.

 

Og blóð mitt er haf

og það niðar af hvíslandi

orðum

 

niðar við sinugult engi

og andrá

sem eitt sinn var þú.

 

 

 

Lítið fólk

með vængi.

(LEIKSAGA) 

 

Blaðamaður: Ég er blaðamaður og hef komið víða við. Ég lifi og starfa innan þessarar hauskúpu sem er leiksvið þess sem ég er. Eftir löng kynni af mörgu fólki er ég margt fólk. Ímyndunarafl okkar er með ýmsum hætti og ólíkt frá einum heila til annars. Í leikhúsinu innan hauskúpunnar getur allt gerzt. Þar gerast öll leikverk, í raun. Þar gerist líf okkar einnig. Þar er vettvangur okkar, veröld okkar. Og þar getum við einnig leikið okkur að því sem gerist ekki. Þar getum við framið þá glæpi sem okkur langar án þess fremja þá. Þar getum við leikið morðingja án þess drepa. Og enginn hefði hugmynd um þessa löngun okkar.

(Marta María kemur í ljós Hún fylgist með honum en hann tekur upp hauskúpu og heldur áfram.)

Hauskúpan er merkilegt fyrirbrigði og ekkert er merkilegra en það sem býr innra með henni. Það er hugsun okkar, upplifun okkar, reynsla. Ég hef kynnzt mörgu fólki, þess vegna er ég margt fólk. Og raunar kem ég ekki fleira fólki fyrir innan þessa kúpta leiksviðs. Heilinn er að vísu tölva en hann tekur ekki endalaust við eins og aðrar tölvur. Það eru takmörk. Við verðum að vinsa úr. Hann getur geymt fimm hundruð nöfn, segja sérfræðingar. Ef nýtt bætist við, dettur annað út. Sum nöfn eru föst viðmiðun, lifa svo lengi sem heilinn virkar. Þau eru einskonar hornsteinn  hugsunar okkar, eða eigum við frekar að segja minninga? Þetta er lokaður heimur, einkaeign hvers og eins. En við getum samt miðlað honum. Við erum ekki minningalausir neanderdalsmenn, við erum fólk sem talar. Við erum í raun og veru einhverskonar fjölmiðill. Og umbúðir þessa fjölmiðils eru skeljar sem eru settar saman með einskonar saumum. Það er engu líkara en tíminn hafi saumað kúpuna saman. Hún minnir á meginlönd. En meginlöndum fylgir landrek. Þessu leiksviði fylgir ekkert landrek. Það er eins og jörðin, séð utan úr geimnum, lokuð kúla, þótt allt sé á iði undir yfirborðinu. En eldar kúpunnar koma upp á yfirborðið í formi hugsana. Og það eru þessar hugsanir, þessar minningar sem fylla leiksvið kúpunnar.

Hér er hún til að mynda á næstu grösum, hún Marta María sem ég hitti fyrst fyrir mörgum árum. Hún hefur fylgt mér síðan því hún er ein af þessum fimm hundruð. Lífsreynd kona og elskaði skáld sem hafði stærri hugsanir en aðrir. Ég vitja hennar stundum, en hún hverfur mér jafnóðum. Hún talar fyrst og síðast um skáldið mikla, hún getur aldrei vaxið frá þeirri minningu og hún er ekki ein um það. Ég kynntist henni þegar ég átti samtal við skáldið, kornungur blaðamaður. Það var á 75 ára afmæli hans. Hún gat verið dóttir hans, hún var svo miklu yngri.

(Hann gengur til hennar og heilsar).

Blaðamaður: Komdu sæl, Marta María.

Marta María: Þú kominn enn einu sinni.

Blaðamaður: Það ber ekki á öðru.

Marta María: Mér hugnast ekki fjölmiðlar, það veiztu. Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekki fyrir að berast á en mér þykir ósköp gott að gefa svöngum manni að borða, gjörðu svo vel og komdu inn.

Blaðamaður: Ég lét ekki segja mér það tvisvar en gekk inn í stofu og fór að horfa á myndirnar sem þar voru.

Hún skrapp fram í eldhús og tók saman kapalinn sem hún var að leggja, kom svo aftur inn í stofuna , lagði hönd á öxl mér og sagði:

Marta María: Hann þolir að það sé litið á hann.

Blaðamaður: Skáldið?

Marta María: Já, gakktu nær. Þetta er fallegasti maður sem ég hef séð, ber höfuð og herðar yfir aðra. Þú hefðir átt að sjá stjörnurnar í andliti hans,þegar augu okkar mættust í fyrsta sinn.En það er liðið,allt er liðið. Samt hefur ekkert gerzt!

Blaðamaður: Hvaða blóm eru þetta?

Marta María: Alpafjólur og nellikkur. Fjólurnar eru að byrja að springa út, það er þeirra eðli að standa í mestum blóma á haustin. Bara ef við gætum nú þetta líka, þá væri svo skemmtilegt að lifa, en það er því miður ekki okkar eðli að bera blóm á haustin. En seztu nú þarna í stólinn með vísundaskinninu.

Blaðamaður: Já, en eru þeir ekki útdauðir?

Marta María: Það er allt útdautt sem skiptir einhverju máli (lítur á myndina).

Þegar hann dó rétti hann mér höndina og sagði: Það er búið! Svo lokaði ég þessum fallegu augum að eilífu. En nú ætla ég að laga handa þér kaffi (fer).

Blaðamaður: Það ætti ekki að saka! Svo er ég að líta í kringum mig þarna í stofunni og þá  þyrpast þeir að, ég þekki þá ekki einu sinni sundur. Og ég ræð ekkert við þessar hugsanir sem er annað fólk og allir að tala við mig í einu. (Það heyrist skvaldur og mannamál.) Samt eru þeir í einu og sama gervinu. Það er merkilegt. Margir í einni og sömu persónunni. Og þessi persóna er ég sjálfur og ég er einhvern veginn lokaður hér inni! Heyri bara þetta skvaldur. Og nú kemur hann. Skiptir um gervi og er aldrei sami maður. Þarna kemur hann.

(Hann bendir. Jón leikari kemur inn á sviðið. Hann gengur undir ýmsum  nöfnum. Hann er margir menn, samt einn.)

Og ég þarf að hafa mig allan við til að komast að fyrir honum.

Jón leikari: Það er bara ég. Þú þekkir mig. Mér finnst skemmtilegast að vera á sjónum, eins og þú veizt. En ég get líka tekið landkrabbana, það er ekki þar með sagt!

(Hann breytir sér í  Valdimar.)

Valdimar: Sæll vertu!

Blaðamaður: Nei, komdu sæll. Ert þú kominn, Valdimar?

Valdimar: Það er nú líklegt. Hér var ég fastagestur á sínum tíma. Og það var einmitt hér sem við réðum lífsgátuna!

Blaðamaður: Og hér var trúin afgreidd meðan hann lifði (lítur á myndina).

Valdimar: Já, einmitt! Ég hef nú alltaf trúað á sjálfan mig. Það er að trúa á guð, að mínu viti. Ég álít mig og þig mesta kraftaverkið, eins og ég sagði þér á sínum tíma, ekki eins og við ættum að vera, heldur eins og við erum. Við getum ekki hlaupið til guðs í lífsháskanum og beðið hann að bjarga okkur. Við verðum að reyna að vera menn, treysta á okkur sjálfa, það er mín trú.

Blaðamaður: Gott.

Valdimar: Gott, segir þú, helvítis kjaftaskur geturðu verið. Þú lætur vaða á súðum eins og við séum blindfullir og segir bara: Gott! Ég er viss um að þetta samtal endar með því að fólk heldur að ég hafi verið á blindafylleríi með þér, en þú verður að taka kyrfilega fram að ég hafi aðeins einu sinni fundið á mér - og aldrei endranær. Nei, karl minn, aldrei í brúnni, ég er agaður við meiri seltu en svo.

Blaðamaður: En hvenær fannstu á þér?

Valdimar: Æ, það var í erfidrykkjunni eftir hann pabba. Það var heimabruggið, sko,landinn!

Blaðamaður: Já, í brúnni, ég man þú sagðir mér það.

Valdimar: Grængolandi sjór og ekki stætt í brúnni. Þú manst ég sagði þér að það kom ógurlegur brotsjór á skipið, þegar það byrjaði að snúast og brotnaði skáhallt fram eftir dallinum frá eldhúshorni og fram yfir allt skip. Þá gerðist allt í senn. Um leið og sjórinn skall á skipinu féll það alveg á hliðina, svo að sjórinn fossaði niður um loftventlana við reykháfinn niður í kyndingarrúmið. Þetta var svo sem engin jólatrésskemmtun!

Blaðamaður: En ég hélt það hefði hjálpað þér meðan þú stóðst þarna í brúnni í þessum stórsjóum að þú hefðir verið trúaður.

Valdimar: Ég trúði á sjálfan mig þarna í brúnni eins og annars staðar, það hef ég alltaf gert. Og búinn heilagur! eins og Elli sagði (þeir setjast).

Marta María (kemur með kaffið): Nú, þú kominn líka, Valdi minn! Ég þarf þá að ná þér í bolla.

Valdimar: Já, ég kom eins og kötturinn, inn um gluggann.

Marta María: Þú ratar!

Blaðamaður: Hann var hér líka síðast þegar ég kom.

Valdimar: Heimiliskötturinn! Og ég malaði fyrir skáldið.

Marta María: Það þótti honum ekki leiðinlegt. En má ekki bjóða ykkur portvín?

Valdimar: Hver sem segði nei við því!

Marta María (lítur á myndina): Ég set alltaf glas fyrir hann.

Valdimar (færist í aukana): Það væri nú annað hvort!

Blaðamaður: En þú varst í miðri frásögn. Skál!

Valdimar (skálar): Já, það gekk á ýmsu og mér líkaði allt bezt, eins og Lási sagði. Einu sinni  kom karlfauskur um borð til okkar og sagði við mig, Hvern fjandann á þetta að þýða hjá þér að kaupa svona mikinn mat? Hvað kemur þér það eiginlega við? svaraði ég. Þú  kaupir alltof mikinn mat, endurtók hann, þetta er ofan í heila herdeild. Þannig á það að vera, hrópaði ég. Hér er heil herdeild um borð og komdu þér út. Svo steytti ég framan í hann hnefana og hann hrökklaðist út. Ég hrópaði á eftir honum af öllum lífs og sálarkröftum: Hefurðu aldrei á sjó komið, mannfýlan þín? Litlu síðar kemur skipstjórinn niður til mín og segir, Hvað var þetta eiginlega sem þú sagðir við eigandann?

Já, mér hefur ekki verið fisjað saman og mér hefur alltaf líkað allt betur, eins og Elli sagði. En eftir þetta var talið að ég væri kjaftfor. Það er vitleysa. Ég hef bara alltaf sagt meiningu mína um daginn og veginn, svo ég vitni aftur í Lása vin minn. Og svo hef ég alltaf viljað hafa allar konur eins og daginn og veginn, eins og Elli sagði eða.... En þú manst ég sagði þér frá því,  þegar ég fékk mænuveikina. Þá hneig ég niður í eldhúsinu á koladallinum og mér fannst verst að liggja þarna óþveginn og ógreiddur og ekki einu sinni haft fyrir því að skrúbba skítinn undan nöglunum á mér. Nei, þarna skyldi hann liggja bölvaður ef unnt væri að rétta hann við með skít og öllu saman. Daginn eftir var ég svo þveginn upp úr spíritus og þá fór ég að lifna við, máttu vita. Eiginlega ætti að lögfesta að fólk þvoi sér upp úr spíritus einu sinni í viku, ekki sjaldnar. Bæði utan og innan!

Blaðamaður: Og það hefurðu gert!

Valdimar: Eins og  aðrir.

Blaðamaður: Varstu aldrei hræddur á sjónum, Valdimar?

Marta María: Hvers konar spurning er þetta, hann hræddur! (síminn hringir og Marta María fer fram).

Valdimar: Hræddur, nei aldrei!  Jafnvel ekki þegar hann lá á bumbunni klukkutímum saman í geðvonzkuveðri og það hætti ekki að renna inn um strompinn fyrr en þeir helltu lýsi í sjóinn. Ég var aldrei hræddur á sjó, aldrei nokkurn tíma. Ég fór bara niður og fékk mér kaffi og sígarettu. Kyndarinn sagði við mig, Nú er anskotinn að hirða okkur. Nú, jæja, sagði ég og lagði mig. Mér var svo sem sama hver hirti okkur, það var ekki sá munurinn. En við vorum taldir af og blöðin sögðu frá því að skipið hefði farizt og þá hlýtur það að vera rétt. En hræddur? Nei, það hef ég aldrei verið, hvorki á sjó né landi. Ég hef aldrei verið hræddur við að deyja. Hræðsla er veiklun á sálinni. Ég held það sé hlýtt að deyja, til að mynda hlýrra en í kolvitlausu norðanbálinu. Annars fannst mér alltaf gott að vera á sjónum að því leyti að þá var engin hætta á því að þeir tækju mann og brenndu eins og hrossatað ef skipið færist. Ég vil ekki láta brenna mig. Mér þykir svo vænt um moldina og landgrunnið eins og það leggur sig. Já, og sjálfan mig! Æ, nei. Þegar strákurinn kom upp til mín og vekur mig klukkan þrjú um nóttina og segir, Það er komið snarvitlaust veður, viltu ekki fara í fötin þín? hafði ég engar áhyggjur. Ég svaraði honum aðeins og sagði, Það liggur ekkert á, það er bezt ég gangi heldur vandlega frá öllu í eldhúsinu, áður en skipið ferst, þá gengur mér betur að komast í himnaríki. Það hlýtur nefnilega að vera ákaflega hreinlegt þar.

 En þú manst hvað Helgi troll sagði við þig: Upp á toppinn! Þangað liggur leiðin úr eldhúsinu: Úr skítkokk í skipstjóra. Það var okkar leið. Þú manst hvað Helgi troll sagði um það.

Blaðamaður: E - já, en - ha, hvað sagði hann um það, ég er búinn að gleyma því.

(Jón leikari er nú orðinn Helgi troll).

Helgi troll (setur á sig derhúfu): Gleyma því, heyr á endemi! Þessir landkrabbar! Nei, það er ekki sama veröld sem blasir við af bæjarhellunni eða gegnum seltu og særok. Þegar ég var dekkkarl var rokið eini vinurinn. Þegar það sýndi á sér úfinn makka fengum við að sofa, annars aldrei. Maður vissi stundum ekki hvort maður hafði tapað sólarhring eða ekki, ég veit það raunar ekki enn. En hvað sem því leið sagði ég alltaf við sjálfan mig, Upp á toppinn! og ég hætti ekki fyrr en ég varð allsráðandi í brúnni. Þó að það væri kalsaveður á dekki gat maður haft yndi af því að sigla inn í norðurljósin. Ég hef alltaf kunnað vel við mig í þessum segulljósum frá sólinni. Það skipti engu þótt maður væri vindþurrkaður á milli.

Blaðamaður: Bíddu andartak, Helgi, ég ætla að setja segulbandið á.

Helgi troll: Á toppinn og inn í norðurljósin, það var kóssinn! Ég ætti að vera margdauður (hikar). Segulbandið, fjandinn eigi það! Einhvern tíma þegar ég gekk um hafnarhverfið í Grimsby, víkur sér að mér enskur togarakarl sem hafði verið með mér á sjó fyrir mörgum árum, tekur í höndina á mér, heilsar og segir: Hvað,ert þú lifandi ennþá, Helgi? Já, þú sérð það vænti ég, svaraði ég. Nú, þeir verða líklega að skjóta þig, segir hann og kveður. Í staðinn fyrir það var mér boðinn OBE-orðan, en ég þáði hana ekki. Ég hefði getað selt hana þegar fokið var í flest skjól og peningarnir horfnir út í veður og vind eins og farfuglarnir, já ég hefði getað dregið hana upp og sýnt svart á hvítu að ég hafi einu sinni verið maður, ekki endilega maður með mönnum - það væri nú kannski til of mikils mælzt, en maður samt og enginn landkrabbi. Og marga fjöruna hef ég sopið, máttu vita. Ég man ekki hvort ég sagði þér frá því þegar við vorum fjörutíu mílur frá Grimsby á sínum tíma og stímdum inn í tundurduflabelti sem floti hans hátignar var að hreinsa. Þá sé ég að léttbátur kemur á eftir okkur á flughraða. Hvern anskotann ert þú að fara, hrópuðu þeir. Veiztu ekki að þú ert að sigla inn í tunduduflabelti? Nei, hvernig á ég að vita það. Ég er að koma frá Kanada. Á þessu? segja þeir og benda á dallinn. Þú lýgur því. Nú hvern fjandann haldið þið að ég sé að gera hér, segi ég. Að ég sé kannski á skemmtisiglingu? Komdu til baka undireins, fyrirskipa þeir, og sigldu upp að síðunni á skipinu þarna - og þeir bentu á stóran tundurduflaslæðara sem lá skammt frá. Þá stórjókst hjartslátturinn í mér og þó ég segi sjálfur frá gerist það ekki af engu tilefni. Ég sigldi upp að skipinu og bjóst við hinu versta, enda var raunin sú að þeir hugðust brugga okkur launráð. Yfirmennirnir um borð í skipinu komu yfir í dallinn til okkar og segjast ekki trúa frásögn minni um Kanadaferðina. Þú lýgur þessu öllu saman, sögðu þeir í einum kór, en voru samt augsýnilega á báðum áttum. Eftir mikið þjark sögðu þeir loks að þeir vissu ekki hvað þeir ættu að gera við mig. Ég sá að þeir voru orðnir óþolinmóðir og búast mátti við hinu versta. Hvað haldið þið eiginlega að ég sé, spurði ég stórmóðgaður. Við höldum helzt að þú sért uppgjafanjósnari fyrir Þýzkalandskeisara, hrökk þá uppúr einum þeirra. Þá gengur foringinn fram með miklum svip sem hæfði fjórum gullsnúrum og segir, Við vitum anskotann ekkert hvað við eigum að gera við þig - líklega er bezt að skjóta þig niður. Þið gerið það ef þið viljið, sagði ég, en þið getið ekki drepið mennina mína. Það væri réttast að sökkva öllu helvítis draslinu, sögðu þeir. Síðan fóru þeir á ráðstefnu sem hefur áreiðanlega verið ein hin umfangsmesta í sögunni, komu svo aftur og höfðu þá tekið ákvörðun: Að gefa mér þrjár stefnur sem ég gæti siglt eftir "út í glórulaust hafsauga" - og komdu þér nú strax af stað og farðu til fjandans! Varla þótti mér þessi munnsöfnuður samboðinn svo virðulegum flota. En ég sá í hendi mér að þeir meintu hvert orð og hypjaði mig af stað. Við áttum ófarnar þrjátíu mílur til Grimsby, þá voru kolin brunnin í ösku og einnig mest allt timbrið. Ég fór þá inn í næsta fjörð og kríaði út 10 poka af kolum, hélt síðan til Grimsby og kom þangað heilu og höldnu.

Þannig lauk fyrra stríðínu sem ég lifði. En það verð ég að segja að aldrei þóttu mér konurnar jafn fallegar í Grimsby og þennan sama dag.

Blaðamaður: Andartak!

Helgi troll: Nú, hvað?

Blaðamaður: Ég þarf að snúa bandinu við.

Helgi troll: Fjandinn eigi helvítis bandið (skálar)! Mest áhrif hafði ég samt á klósettmenningu brezka flotans. Þannig var að ég lét setja klósett í sérstakt lítið herbergi fyrir aftan skipstjóraíbúðina. Það kostaði mig heilan dag að berjast fyrir menningunni, en það er víst ekkert einsdæmi.

Þetta var sem sagt fyrsta water-klósettið í brezkum togara og sparaði margar ferðir niður á dekk. Ég get ekki ímyndað mér að sagan greini frá meiri byltingu í brezka flotanum en þegar karlarnir hættu að ganga örna sinna framan í heilaga ásýnd sköpunarverksins! Og þá hófst keppnin um water-klósettin. Hún minnir á söguna af byskupnum og prófessornum. Prófessorinn var nýbúinn að fá sér water-klósett og sagði byskupnum frá því þegar þeir voru einhverju sinni á göngu umhverfis Tjörnina. Nú, water-klósett, sagði byskupinn, hvað er það? Hvað segið þér, sagði prófessorinn, vitið þér ekki hvað það er? Nei, sagði byskupinn. Svo þér hafið ekki fengið yður water-klósett, sagði prófessorinn. Nei, guð almáttugur ekki enn, sagði byskupinn. Nú, já, nú jæja, sagði prófessorinn. Svo að þér skítið ennþá eins og dóni, herra byskup. Já, þetta kalla ég að tala sjómannamál og það mætti gera oftar úr prédikunarstólnum.

Marta María (kemur enn með kaffi, snýr sér að blaðamanninum): Loksins, þú fyrirgefur!  En hver var hann, þessi maður?

Blaðamaður: Þetta var Helgi troll.

Marta María: Ég hef aldrei heyrt hans getið.

Jón leikari: Nei, þetta var bara ég.

Marta María: Þú, hvernig má það vera?

Blaðamaður: Hann er alltaf að leika, nú síðast Helga troll.

Marta María: Já, ég þekki hann ekki. En -

Jón leikari: Nú er ég að hugsa um að hverfa sjálfur og láta Níels taka við. Þetta skáldlega umhverfi fer honum betur en okkur hinum.

Marta María: Ég veit svo sem ekki hvað þú ert að tala um, Jón minn, en það gerir ekkert til.

Blaðamaður: Nei, en það kemur í ljós. Við ráðum engu um það sem gerist á þessu leiksviði.

Marta María: Ha, leiksviði?

Blaðamaður: Já, ég sagði það.

(Þeir setjast.)

Níels: Þú segir ekkert við því þótt ég kveiki mér í vindli á þessari hátíðlegu stund. Ég er nefnilega að hugsa um að láta fara vel um mig.

Blaðamaður: Nei, auðvitað ekki.

Marta María: Nei, láttu bara fara vel um þig, Níels minn. Alltaf gaman að fá þig í heimsókn, það þótti honum (lítur á myndina).

Blaðamaður: Ég hélt älltaf þú værir ríkur, Níels? Þú lítur þannig út!

Níels: Já, ég man þú sagðir það (hlær). Lítur þannig út!!

Marta María: Nú, af hverju hélztu það?

Blaðamaður: Vegna þess að hann á fjögur píanó.

Níels: Að ég sé ríkur, já, hvernig mætti það vera, opinber starfsmaður? Ég kveiki mér í vindli þegar ég vil láta fara vel um mig. En mér finnst vindlar alltof góðir til að reykja þá að staðaldri. Og dýrir. Þannig lít ég einnig á konur, þess vegna hef ég aldrei gift mig. Ég reyki þær bara við hátíðleg tækifæri. Þær kosta sitt.

Marta María: Nú, svo þú ert þá orðinn karlremba, ekki varð ég vör við það í gamla daga! En það var ekki að marka, maður hlustaði öðruvísi!

Níels: Ég er af gamla skólanum, ég hef alltaf verið það og ég ætla að halda mig við hann fram í rauðan dauðann!. Opinber starfsmaður, já, veiztu hvað það merkir? Það þýðir hvorki meira né minna en hundstíðarfátækt og nóg um það. En ég hef alltaf haft mætur á tónlistinni. Þó ég ætti fimm píanó, væri það enginn íburður. Einu sinni átti ég mér stóra drauma. Þeir voru eins og djúp og falleg tjörn, en veruleikinn hefur gárað þessa tjörn og nú bíð ég þess eins að það lygni og ég fái einn góðan veðurdag óvænt að sjá niður á botn tjarnarinnar. Mig hefur langað til að ráða einn draum, en ég veit ekki hver hann er og það verður að bíða betri tíma. Við höfum vanrækt tónlistina. Hún leysir úr læðingi það sem er gott og fagurt. En okkur vantar leiðsögn. Ég er pedagók og ég stjórna heimi sem þið þekkið ekki. Veröld bak við veröldina. Veröldina í kjallaranum þar sem líkin eru krufin. Það er mitt starf, allt annað er skemmtun.  Við höfum að vísu ekki vanrækt dauðann, en við höfum vanrækt tónlistina. Frelsi er möguleiki til að breyta verandi ástandi, segir Burckhard. Við eigum að nota okkur þetta frelsi. Við eigum ekki að vera hrædd við það. Sá sem hefur eitthvað fram að færa, brýtur sér braut, segir Maeterlinck, og hann verður að gera ráð fyrir að þúsund manns standi vörð um það gamla.Maeterlinck var sérfræðingur í býflugum og þess vegna skildi hann mannfólkið.Hann skrifaði meira að segja bók um býið og hún tekur öllum skáldskap fram. Við eigum að fara til útlanda og sækja okkur kúltúr, velja hann sjálf, láta ekki skammta okkur hann. Kynnast heiminum af eigin raun , en við eigum ekki að miklast af því. Það þurfa fleiri að skvetta úr klaufunum en kýrnar. Það þarf að hleypa fleirum út en þeim. En okkur vantar leiðsögn. Ef ég fer með þotu til London, þá ætlast ég ekki til þess að klæðskeri sitji í flugstjórasætinu. En við erum alltaf að heimta að einhver annar sitji þar en sá sem kann að fljúga þotu.Skraddarinn er aftur á móti góður við leistann!

Marta María: Þetta hef ég líka alltaf sagt. Þegar skáldið mitt varð sjötugt héldu þeir hverja ræðuna á fætur annarri og einn sagði að hann mundi lifa í hjarta þjóðarinnar. Ég sagði þá upphátt,  Það var þá staðurinn! Það þótti hneyksli.

Blaðamaður: Hvort maður hafi ekki heyrt það!

Níels: Og þetta voru orð að sönnu, þykist ég viss um. Annars veit maður svo lítið. Þó veit ég það að trúin er hugarburður. Einhvers konar hækja sem menn grípa til, þótt þeir hafi tvo fætur jafnlanga. Þegar Magnús vitavörður var jarðsunginn var þess minnzt að hann hefði alltaf verið ósáttur við ellina, þegar hún færðist yfir hann. Hann varð nítíu og tveggja ára og dó úr engu. eins og fleiri Furðu brattur fram undir það síðasta. En þegar hann var kominn undir nírætt fór hann einu sinni sem oftar niður á bryggju að grennslast fyrir um afla bátanna. Þá hitti hann gamlan vin sinn. Hann spurði hvernig honum liði. Vel, sagði Magnús, nema hvað önnur löppin er að drepa mig. Er það ekki bara Elli kerling, spurði vinurinn. Það er ólíklegt, svaraði Magnús, því að þær eru jafn gamlar! Þetta líkar mér. Svona eiga sjómenn að tala. Landkrabbarnir eru alltaf að tala um sálina. Ég hef aldrei komizt í samband við hana. Kannski hún sé til, ég veit það ekki. Þið vitið það ekki. Eða guð? Ef einhver finnur fróun eða gleði í því að trúa á eilíft líf og persónulega sál, fagna ég því einungis og segi: Mikil er trú þín! Ég læt mér aðeins nægja mína vitneskju. Og hún er engin! Guð hefur ekki orðið á vegi mínum, ekki frekar en Gagaríns geimfara, þegar honum var skotið á loft. Og er ég þó enginn kommúnisti. En blind náttúra, það er annað mál. Fyrir mér er guð og náttúran eitt og hið sama. Lykillinn að lífsreynslu minni er þessi: Úthlutun náttúrunnar á gáfum virðist vera einskonar happdrætti, ef svo mætti segja. Sumir hljóta stóra vinninginn og aðrir minni, en ég hefði ekkert á móti hinu.

Blaðamaður: Hverju?

Marta María: Já, hverju? Annars ætti ég að muna það eins oft og þetta var á dagskrá hér áður fyrr.

Níels: Að öðruvísi  væri í pottinn búið. Að við lifðum af þennan hrunadans sem kallaður er dauði. Ef ég vakna upp hinumegin, segi ég einungis: Hvernig áttum við að sjá fyrir öll horn? Og þó finnst mér sú hugsun fremur ógeðfelld og tek undir það sem vitur maður sagði: Mesta gæfa mannsins er að hafa ekki fæðzt. Ekkert okkur hefur að vísu reynt þessa mestu gæfu og við getum ekki höndlað hana úr því sem komið er - og sem betur fer höfum við ekki heldur reynt þessa eilífu glötun sem þeir eiga að hreppa eftir dóminn sem með vantrú og þrjózku hafa hafnað guðs náð. Já, þetta var manni kennt, hugsið ykkur annað eins! Má ég þá heldur biðja um ölið í Valhöll!

Við höfum verið á andlegum strigaskóm sem eru svo slitnir að tærnar standa útúr. Ég held það sé kominn tími til að fá sér nýja skó.

Blaðamaður: Kannski Nike! En Níels (lítur á myndina), ekki voruð þið alltaf sammála í þessum efnum?

Marta María: Skyldi það hafa verið, ekki held ég!

Níels: Stundum sammála, stundum ekki. Hann var meiri trúmaður en ég eins og sést á ljóðunum hans. Þó held ég hann hafi verið efasemdamaður, var það ekki?

Marta María: Nei, það held ég ekki. Hann var harður í sinni trú. Og hann hafði mikil áhrif á fólk. Hann bókstaflega dáleiddi það með persónuleikanum.

Blaðamaður: Sinni? Hvað merkir það?

Marta María: Já, ég leyfði mér að segja það. Hann taldi að minnsta kosti að við værum æðri skordýrunum.

Níels: Þau eru úr sama efni og við! Okkur greindi á um það, að vísu. Maðurinn er áreiðanlega ekki æðsta vera lífsins.Maeterlinck segir það sé býflugan,Hún hugsi til framtíðar.Og í búinu hennar ríkir regla sólkerfanna.Þar er enginn kaos eins og allt í kringum okkur.Fremur mætti segja að maðurinn sé æðsta vera dauðans. Hann hefur ekki einu sinni eðlisávísun maðksins eða flugunnar. Hvað þá kríunnar eða spörfuglanna. Á sumrin stendur gullregnið í fullum blóma  fyrir utan gluggann minn. Yndislega fagurt. Þó að maðkurinn éti blöðin á öðrum trjám snertir hann aldrei blöðin á gullregninu. Hann finnur á sér að það er eitrað. En maðurinn finnur það ekki á sér og stundum verður hann gullregninu að bráð. Anatole France segir, Ef ég hefði skapað manninn hefði ég gert hann eins og skordýr. Þau lifa ástarlífinu og deyja síðan. Það væri mér nóg.

Blaðamaður: Og þú sem ert ógiftur?

Níels: Já, einmitt þess vegna.

Marta María: Þetta er afstaða karlrembunnar, hefði ég haldið. En hann hafði þessa stóru hugsun fram yfir karlrembuna.

Níels: Hann gat nú sagt ýmislegt líka og komið orðum að því. Einu sinni sagði hann við leystum niður um okkur buxurnar, rækjum rassgatið framan í samtíðina og segðum: Þetta er alheimurinn!

Marta María: Hann meinti það nú ekki beinlínis!¨

Níels: Nei, kannski ekki beinlínis. En sem táknræna athöfn!

Marta María: Ojæja!

Blaðamaður: Það var gott að þið Anatole France sköpuðuð  ekki  manninn!

Níels: Nú, hvers vegna?

Blaðamaður: Vegna þess að við værum öll löngu dauð, ef þið hefðuð skapað manninn.

Níels: Áttu við ástarlífið?

Blaðamaður: Já, auðvitað.

Marta María: Það er ekki sama hvern maður elskar, ekki aldeilis!

Níels (hugsi): Löngu dauð, já! Kannski guð hafi gefið okkur eitthvað framyfir skordýrin - ég á auðvitað við náttúruöflin því annar guð er ekki til. Mér var kennt að guð hefði skapað manninn í sinni mynd, en ég hef alltaf haft gyðinga grunaða um að hafa skapað guð í sinni mynd! Það var nokkuð gott þeim! Hugsið ykkur aðra eins vitleysu og þessa: Þó ber ekki svo að skilja að maðurinn deyi og rotni og verði að moldu, heldur á hann fyrir höndum að rísa upp aftur og samtengjast sálinni. Hvílíkt og annað eins! Hver trúir þessari vitleysu?

Blaðamaður: Við verðum að gera ráð fyrir öllu. Þú ert ekki nógu mikið skáld, Níels. Skáldin gera ráð fyrir því sem engum dettur í hug - og það er venjulega rétt.

Marta María: Þetta er líka mín reynsla! (lítur á myndina) Honum datt alltaf eitthvað í hug sem engum hafði áður dottið í hug. Allt óvænt.

Blaðamaður: Þegar við tölum um sálina hefðurðu líklega ekkert á móti henni ef þú fengir hana á silfurbakka, Níels.

Níels (lítur á myndina, hugsi): Hann hlýtur að hafa haft sál, stóra sál!

Marta María: Ég er nú aldeilis hrædd um það! Og ég held hann hafi verið uppnuminn, þegar hann dó!

Blaðamaður: Uppnuminn!?

Níels: Ég vona að ég hafi komið læknanemunum til nokkurs þroska, einhverjum þeirra. Ég talaði ekki við þá um guð eða sálina, en ég reyndi að kenna þeim að hugsa. Ég hef sveigt áhuga þeirra að náttúrunni og lögmálum hennar. Ég hef alltaf reynt að búa þá undir mannlíf, reynt að draga úr þeim vígtennurnar sem við fengum í arf úr frumskóginum. En ég hef aldrei reynt að gera þá að guðsbörnum eða eilífðarverum, heldur manneskjum. Vona að mér hafi tekizt það... stundum.

Marta María: Hvað sem þú segir um það, Níels minn, hef ég aðra reynslu.

Níels: Nú hverja?

Marta María: Eftir því sem ég eldist og kynnist mönnunum betur eftir því finnst mér betra að vera í skjóli hans... (bendir) þarna uppi!

(Níels slekkur á vindlinum, gengur út.)

 

(Nokkru síðar)

 

Blaðamaður: Næst þegar ég hitti Valdimar sat hann á Hafnarkránni og söng kvæði sem ort hafði verið um Helga troll, ég gekk til hans og hlustaði.

 

Þitt líf var að trolla bein úr söltum sjó,

þú sagðist aldrei hafa fengið nóg.

Þú sigldir oft á sálarlausum kopp

og sóttir fast að komast upp á topp.

En starf þitt var ekki hangs með hendur í vösum

og heiður þinn sízt af öllu froða í glösum...

 

Þú hlauzt að lokum heiður og sæmd sem bar

því hátíðlegt vitni að líf þitt ei fiaskó var,

þeir buðu þér orðu en gleymdu ei að troða um tær

trollarakarli úr Flóa frá British Empire,

þú tókst ekki við henni, til hvers mundi það vera

fyrst tími vannst ekki til að láta á sér bera...

 

Blaðamaður: Gott að hitta þig aftur, Valdimar.

Valdimar: Já, það er ekki verra.

Blaðamaður: Eitthvað nýtt?

Valdimar: Alltaf eitthvað nýtt.

Blaðamaður: Hvað varstu að syngja, mér fanst ég kannast eitthvað við það.

Valdimar: Það er slagari um Helga troll, ég hitti hann áðan hér á kránni. Hann er fullur í dag. Ætli hann sé ekki búinn að vinna fyrir því.

Blaðamaður: Bezt gæti ég trúað því. En hvað segirðu annars?

Valdimar: Svo sem ekkert sérstakt. En ég hef verið að leika heimspeking í dag.

Blaðamaður: Ha, hvað segirðu, heimspeking? Ég sem hélt þú værir að gera þér glaðan dag!

Valdimar: Já, það er að vísu rétt. en heimspeking, það er mitt líf og yndi.

Blaðamaður: Og ertu enn í því gervinu?

Valdimar: Gæti verið ef þú settist hér hjá mér og við fengjum okkur einn gráan.

Blaðamaður: Upplagt! Þú ert alltaf jafn staffírugur, Valdimar? Og svo ertu sjálfur brot af skáldi.

Valdimar: Allir eru brot af skáldi. En ég er orðinn hálfgerður saltpækill, þótt blóðið renni eins og Jangtze-fljót.

Blaðamaður: Hvorki meira né minna! En hvað um heimspekina? Og skáldskapinn?

Valdimar: Ja, ég hef víst aldrei sagt þér það áður, en ég er gamall hestamaður. Allir hestamenn eru skáld og heimspekingar. Ég hef alltaf haft gaman af hestum. Það er líklega sjaldgæft um sjómenn. En ég er alinn upp í sveit og þess vegna hafa hestar fylgt mér í gegnum tíðina. Mér þykir vænt um hestana, þeir eru góðir vinir. Þú ættir að sjá hvað þeir eru fallegir í tunglsljósi. Það er sagt að hestamenn séu kvennamenn, það má vel vera. En útreiðartúrar eru heilsusamlegri en konur, það máttu bóka. Við eigum að fara með hestana eins og konurnar okkar. Sýna þeim mýkt og umhyggju. Á sama hátt og karl og kona eru eitt, þannig eiga einnig maður og hestur að vera eitt. Það segir skáldið. Við eigum að umgangast hestana eins og daginn og veginn.

Blaðamaður: Skáldið?

Valdimar: Já. Er nema eitt skáld sem er öll skáld. Skáldið sem hún Marta María setti í bómull eins og ungabarn. Mér er nær að halda að hann hafi haft þetta eftir einhverju öðru skáldi. Ég hef aldrei gert hesti mein, ég held ekki að ég hafi gert nokkurri skepnu mein, en ég á það kannski eftir. Hver veit eins og tímarnir eru? Nú kemur sér vel að vera úr góðu efni (lækkar róminn) og svo geta hestar verið praktískir. Ég skal segja þér sögu af því. Siggi bróðir keypti afbragðs reiðhross fyrir margt löngu. Þá var ekki sama hvað konum var boðið uppá, hvort það var góður hestur eða vondur. Við trúlofuðumst þrír bræðurnir út á þetta hross. Yngsti bróðir okkar eignaðist aldrei reiðhest og hann er enn ógiftur. Ég hef verið að segja honum að koma sér á bak, en hann lætur sem hann heyri það ekki. Ég efast um hann hafi nokkurn tíma verið við kvenmann kenndur. Mér er nær að halda að hjónaband sem stofnað er til á hestbaki sé traustara en þessi nýmóðins bílahjónabönd. Konan er hvergi fallegri en á hestbaki, nema þá kannski í minningunni. Og allra fallegustu er hún á hestbaki í fölu tunglsljósi. Ég gæti ekki orðið skotinn í konu í bíl, nema þá kannski langferðabíl og þá helzt ef ég væri að koma af kappreiðum og hesturinn minn hefði unnið. Og nú skal ég sýna  þér þessa dýrð, ef þú nennir að rölta  með mér uppá tún.

Blaðamaður: Við gengum saman upp á tún og Valdimar bendir:

Valdimar: Sko, þarna stendur hann og krafsar. Hefurðu séð aðra eins sjón? Nei, auðvitað ekki. Hún er ekki til. Nema þá náttúrulega, ef maður stendur í brúnni og horfir yfir stefnið í hvítfyssandi öldu og siglir sem leið liggur inn í himininn. Sko, þarna sérðu, hvernig hann krafsar. Og ef það væri tunglskin væri þessi sjón ógleymanleg, það máttu bóka. (Blaðamaður kveikir á tunglinu með fjarstýringu). Já, þetta er betra! (Þeir horfa um stund, fullir aðdáunar, setjast svo aftur). Það er fallegt á sjó og sama hvernig viðrar. Ég missti tvo vina minna fyrir borð, það var mikil raun, en nú eru þeir líklega munstraðir saman á eilífðarsjónum og það er ekki laust við ég öfundi þá svolítið. Ég hef alltaf séð eftir þeim báðum, en hvað dugir að tala um það. Þeir fórust jafnt fyrir því.

Blaðamaður: Munaði aldrei miklu að þú færir sjálfur niður?

Valdimar: Niður, biddu fyrir þér! Ætli ég hefði ekki heldur farið upp. En nú er ég að hugsa um að leyfa þér að heyra brennivínsvísu sem ég lærði á sjónum. Eða ætli það hafi verið í útreiðartúr, ég man það ekki. Það skiptir ekki máli.

(Valdimar skálar og tekur að syngja).

 

Af þínu blóði dýr er hinzti dropinn

en dísir vaka yfir þeirri lögg.

Og bæði trú og tryggð er vígður sopinn,

en teygum daprir við þitt banahögg.

Þú gladdir margan, mörgum þyrstum brynntir

og móðinn gafstu til að heyja stríð.

Þú frelsiseld í allra brjóstum kynntir

og okkar spáðir betri og nýrri tíð.

 

En hef ég nokkurn tíma sagt þér frá því, þegar ég lífgaði karlinn við úr dauðadáinu? Nei, auðvitað ekki.

Blaðamaður: Bíddu andartak.

Valdimar: Nú hvers vegna?

Blaðamaður: Ég ætla að setja segulbandið á.

Valdimar: Til fjandans með segulbandið! En þá var ég í sporum meistarans sjálfs og Lasarus reis upp. Einu sinni kemur til mín háseti og segir við mig, Gefðu mér eitthvað, ég er að drepast í maganum. Ég sæki ópíumglasið úr sjúkrakassanum og helli í snapsglas án þess telja dropana, því ég var að flýta mér að kasta út trollinu aftur, en ætli hann hafi ekki fengið eitthvað um tvö hundruð dropa. Ég bið hann hafa samband við mig eftir hálftíma og hann fer niður í lúkar og leggst þar fyrir, en við höldum áfram að toga. Þá fæ ég eftirþanka og mér dettur allt í einu í hug að hann hafi fengið of stóran skammt Við toguðum í hálfa aðra klukkustund og hann kemur ekki upp á dekk. Þegar trollið er tekið upp kalla ég á einn hásetanna og bið hann skreppa niður og sækja sjúklinginn. Hann stekkur niður en kemur aftur upp með öndina í hálsinum og segir stamandi, Hann er dauður! Mér þótti heldur illt í efni og við hlupum niður og ég geri  kokknum orð að koma með lútsterkt kaffi í einum grænum helvítis hvelli. Þegar ég sé sjúklinginn þykist ég þess fullviss að hann sé dauður, því ekkert lífsmark er með honum og froða úr nefi og munni. Og búinn heilagur!Við leggjum hann flatan á lúkarsgólfið, ég tek hann úr sokkunum, læt háseta halda upp löppunum á honum, tek síðan kústsskaft og lem hann undir drep í iljarnar. Svo helli ég í hann kaffi eins og hægt er og held áfram að lemja hann og þá fara hnéin á honum að dragast saman - og þá lét ég hann aldeilis hafa það. Þá sagði stýrimaðurinn, Ertu vitlaust að fara svona með dauðan mann? En þá rankar karlinn við sér og fer að anda og þannig höldum við áfram að berja hann til lífsins. Ég hafði þegar ég var strákur lesið skáldsögu sem gerðist á ópíumkrá í Kína og í  þessari bók er sagt frá því, hvernig eigi að vekja menn úr ópíumdái, ef þeir eru í þann veginn að sofna svefninum langa. Ég mundi þetta gamla kínverska húsráð og það varð karlinum til bjargar. Ég held hann lifi enn góðu lífi, en mér skilst þetta hafi verið eina trippið í lífi hans og hann hefur ekki fengið svo mikið sem niðurgang eftir að hann dó þarna í höndunum á mér. Það má of mikið af öllu gera, karlinn minn.Skál fyrir því og deginum og veginum!

Blaðamaður (stendur upp og kveður, slekkur á tunglinu): Vertu sæll, Valdimar!

Valdimar: Geturðu ekki farið með eitthvað eftir... eftir skáldið hennar Mörtu Maríu... hann Knút?

Blaðamaður: Af hverju heldurðu að ég kunni eitthvað eftir hann?

Valdimar: Ég heyrði þig fara með ljóðabrot eftir hann á sínum tíma.  Það gladdi hann, sá ég. Og svo er eins og þú getir allt, þú slökktir meira að segja á tunglinu!

Blaðamaður: Stemmningin var búin! En þú nefndir skáldið. Honum þótti gaman að tala. Einu sinni skrifaði ég samtal við hann og þá hafði hann svo mikil áhrif á mig að mér fannst ég verða miklu vitrari en ég var.

Valdimar: Það var nú hægt!

Blaðamaður: Það var eitthvað sem breyttist inni í mér, meðan hann talaði og sumt sem hann sagði lærði ég utanbókar (skimast um). Eigum við þá ekki að kveikja aftur á tunglinu! (kveikir).

Valdimar (bendir): Sjáðu hvernig hann krafsar í tunglsljósi, er eitthvað fallegra?

Blaðamaður (fer með ljóðið):

 

Við erum geimryk eins og trén, rótlaust geimryk og göngum á vatni eins og tunglið, göngum hægt inní skóginn og festum rætur eins og trén, fuglarnir gestir í sígrænu laufi og syngja um jörð tungl og stjörnur og hvellinn mikla, stundum eins og bregði fyrir minningu,

 

við erum minning um hvellinn mikla og geimryk á leið inní skóginn eins og tréð er minning um myrka leyndardóma jarðar í sköpun,

 

minning um himin sem hverfur til jarðar, minning fuglanna á leið til himins, geislaryk rís upp af vatni og heldur rótlaust og frjálst inní skóginn,

 

við erum gestir í skóginum eins og fuglarnir, vænglausir gestir í víðáttum tungls og stjarna, við þessi vænglausa minning um hvellinn mikla,

 

það er tungl á vatni tungl og stjörnur á gulu vatni, þannig komum við einnig í heimsókn til jarðar og dönsum eins og álfar á tunglgulu vatni dansandi álfar á frosnu silfri í sindrandi geislum sólar á  hvítu tungli,

 

þannig er þessi minning um hvellinn mikla endurspeglun sólar af sóllausu tungli, sólin rótlaust tungl í sígrænum skógi fuglanna

 

og gamall himinn gengur til jarðar með sólstaf í hendi.

 

(Á meðan hann fer með ljóðið mjakast hann í átt til Mörtu Maríu sem nú er orðin Vigdís gamla.)

Blaðamaður: Hundrað ár eru langur tími, Vigdís mín.

Vigdís: Ekki ber á öðru.

Blaðamaður: Ég ætla að spjalla við þig um stund í tilefni dagsins.

Vigdís: Hvað ætli ég geti svo sem sagt, reynslulaus konan!

Blaðamaður: Ég óska þér að minnsta kosti til hamingju með þennan áfanga, hundrað ár!

Vigdís: Ekki skiptir hann nú sköpum í lífi mannkynsins!

Blaðamaður: Ja, hvur veit!

Vigdís: Ég hef verið lánsöm kona og trúuð, ekki veitir nú af á þessum tímum! Þetta er eins og liðinn draumur, góður draumur.

Blaðamaður: Hún fikrar sig eftir gleraugunum, setur þau upp eins og til að sjá þennan draum betur.

Vigdís: Ég sætti mig vel við lífið, góði minn, ég er ósköp þakklát guði og náttúrulega sátt við hann, ekki síður en alla menn. Andstreymið varð mér einnig til góðs þegar frá leið. Mér hefur aldrei þótt ástæða til að æðrast. Ég hef átt því láni að fagna sem hverju láni er betra og dýrmætara, að geta ávallt komið til dyranna án þess vera yfirbuguð. Sorgin hefur slegið mig sínum sterka væng, en mér hefur alltaf auðnazt að standa upp aftur.

"Í rósemi og trausti skal þinn styrkur vera," segir í sálminum.

Blaðamaður: Hún setur upp gleraugun og tekur þau af sér, setur þau aftur upp, lítur í sálmabók. Þegar ég kom virti hún mig fyrir sér með augum sem voru ekki köld og hlutlaus eftir bardús hundrað ára. Hún á djúpa og vökula tilfinningu, þessi kona, hugsaði ég. Ég virti hana fyrir mér. Víst var hún með hrukkótt andlit, veðrað og barið af vindgúlpum langrar ævi. Hún greip ósjálfrátt annarri hendi í prjónagarnið sem var í brúnum poka hjá stólnum. Ég tók upp mynd af kommóðunni: Hver er þetta?

Vigdís: Þetta er mynd af yngstu dóttur minni. Hún var tvítug þegar hún dó. Mér þótti ráð að koma með hana hingað í sjúkrahúsið. Hér er ég eins og heima hjá mér.

Blaðamaður: Það var ekki laust við að fölum roða slægi á þessi gömlu augu, þau höfðu ekki sjóazt í veraldarvolkinu sjálfum sér og heitri tilfinningu hjartans til óbóta. Ég skoðaði myndina: Þú hefur orðið fyrir mikilli sorg.

Vigdís: Ég missti tvær dætur aðrar og tvítugan son. Hann dó frá konu og tveimur börnum. Hann var efnilegur eins og hin börnin, en um það er ekki spurt. Ég á enga mynd af honum. Hann sagðist  ætla að láta taka af sér mynd, ef hann yrði einhvern tíma ríkur, en það varð hann víst aldrei, ekki á veraldarvísu. Það hefði líka dugað skammt að eiga af honum ljósmynd. Myndin sem geymist í hjartanu er kannski ekki alltaf eins skýr, en hún er nálæg. Henni týnir maður ekki. Hún máist ekki. Og þó hef ég haft augnabliks nautn af að líta á myndina af stúlkunni minni þarna, ó-já.

Blaðamaður: Hún horfði sínum hlýju augum út í herbergistómið, starði inn í ósýnilega fortíð sem fylgdi henni og lét hana aldrei í friði, sumt líklega séð eins og í móðukvikum hillingum, annað nálægt og raunverulegt eins og bæjarhóllinn.

Vigdís: Æ-já, eins og liðinn draumur!

Blaðamaður (skimast um): Það er fallegt útsýni hér úr sjúkrahúsinu.

Vigdís: Æ-já, heldur betur. Við erum líka svo hátt uppi. Ég hef aldrei verið eins hátt uppi og nú! En hærra verður það þegar að því kemur.

Blaðamaður: Ég talaði við þig þegar þú varðst níræð og mér finnst þú ekkert hafa breytzt.

Vigdís: Þú ert ósköp kurteis, svona ungur eins og þú ert, ekki vantar það. En ég sætti mig vel við lífið, það er ekki ástæða til annars. Við ráðum engu hvort eð er.

Blaðamaður: En ég hélt þú tryðir á forlög.

Vigdís: Hvað á ég að segja um það! Ég veit það svo sem ekki, forlög? Ja, ætli það ekki?  En það er ósköp gott að verða gamall og þroskast með guðs hjálp, losna við hégómann og óraunhæft mat á lífinu. Ég hlæ aldrei að litlum hlutum. Ég leita mér trausts og halds hjá guði, bænin er mín gleði. Guð gefur okkur vit, það er ekki komið af sjálfu sér, ó-nei. Það er manni gefið eins og annað. Ég held við tökum fátt af sjálfum okkur - ég skoða það svo. Og eitt kennir manni reynslan, að dauðinn er ekki  það versta í lífinu.

Blaðamaður: Nú, hvað er það versta?

Vigdís: Að fara illa með það sem manni er lánað eða gefið. Ég er ekki að segja að ég hafi alltaf notað það vel sem mér hefur verið trúað fyrir, kannski ekki alltaf eins vel og vera átti. En ég hef aldrei reynt að leyna því að guð hefur lánað mér margt. Hann hef ég aldrei ásakað og ég kvíði því engu að heita á hans hurðir. En ég hef ekki lagt það í vana minn að vera að grufla út í eitt eða annað. Himnaríki, ja, ætli það sé ekki eins og hvert annað sæluhús, bezt gæti ég trúað því.

Blaðamaður: Við þögðum saman nokkra stund. Ég skoðaði aðra mynd, gamla konan tók aftur til prjónana, svo leit hún upp.

Vigdís: Það er ekki þar fyrir að ég vissi svo sem alltaf að hverju fór.

Blaðamaður: Nú, hvernig stendur á því?

Vigdís: Ja, það var draumurinn.

Blaðamaðurinn: Draumurinn? Hvaða draumur?

Vigdís: Já, það vantaði ekki að maður fengi vísbendingar. Ég var tuttugu og þriggja ára gömul, þegar elzta dóttir mín lézt. Hún var þriggja ára. Hún lézt í kíghósta-faraldri sem fór um sveitina eins og eyðandi eldur. Stúlkan var lögð til eins og venja var. Ég var aðframkomin, lagði mig og sofnaði, en þó aðeins örstutta stund því vinkona mín  sem var hjá mér trúði ekki að mér hefði sigið í brjóst á svo stuttum tíma. En þegar ég vaknaði sagði ég við hana, Þetta er upphaf en ekki endir. Þá svarar hún, Hvers vegna segir þú þetta, Vigdís mín? Ég segi henni að mig hafi dreymt draum. Það getur ekki verið, segir hún, á þessum tíma? En ég vissi betur. Mig dreymdi að hurðinni var hrundið upp og inn kom gamall maður með ljá í hendi og var hann líkastur stærstu torfljáum eins og þeir gerðust í þá daga. Ég þekkti þennan mann í draumnum, hann hét Gestur og var af einum af nágrannabæjunum, ágætur maður, það vantaði svo sem ekki. En þarna í draumnum var hann í öðru hlutverki. Ég gerði mér grein fyrir því um leið og ég sá ljáinn. Gamall maður með ljá, það var ekki um að villast. Jæja, viltu nú vita. Nú lít ég upp í loftið á baðstofunni og sé þá að gólfstólpinn er alþakinn gulstörum, frá gólfi og upp í sperrur. Gestur gengur að honum og heggur af honum alla störina með ljánum. Ekkert er eins opinbert og raunverulegt í lífi mínu og minningin um gulstörina, þar sem hún hlykkjaðist niður á gólfið undan ljánum.

Ég sat á rúminu mínu í draumnum og þótti sem andspænis mér sæti maður sem ég þekkti ekki. Hann segir, Það bítur mikið vel hjá svona gömlum manni og bendir á Gest. Ég get nú ómögulega þakkað honum segi ég, þótt það bíti hjá honum, því það er ekkert leiðinlegt þetta gras. Það voru mín orð.

Á gólfstólpanum voru fjórir fletir og hélt ég að draumurinn væri fyrir því að ég myndi missa fjögur börn um mína daga. En dauðinn vildi meira. Þau urðu fimm, það hefur guð á mig lagt - en hann er löngu búinn að bæta mér það. Reynslan kennir okkur að skoða allt niður í kjöl og rasa ekki um ráð fram. Börnin eru að láni og maður verður að skila þeim aftur. Og enn á ég dreng á lífi.

Blaðamaður: Hvað er hann gamall?

Vigdís: Hann er á áttræðisaldri, blessaður drengurinn. Kornungur!

Blaðamaður: Það er gott að eiga þína sterka trú, Vigdís.

Vigdís: Nú fara þeir á gervihnöttum um allar jarðar. Kannski verður ekki langt þangað til þeir kynnast sjálfu himnaríki, guð má vita. Mér þykir ekki trúlegt að vansælan sitji þar í fyrirrúmi og víst er um það að við fáum að reyna þetta allt saman einn góðan veðurdag. Einu sinni fékk ég kveðju frá föður mínum að handan. Hann sagðist biðja að heilsa mér og ég skyldi vera róleg. Þessi kveðja hefur verið  mér ómetanlegur styrkur - og því skyldi hún ekki vera jafn áþreifanleg staðreynd í lífi mínu og ef ég bæði þig fyrir kveðju til vina og kunningja í bænum. Og ég hef verið róleg, reynt að vera æðrulaus. En einskonar sæluhús, gæti ég ímyndað mér! Sæluhús á heiðinni. En ég læt nótt sem nemur. Ég fer frá góðum en á svo mikið hinu megin. Og svo sagðist faðir minn mundu taka vel á móti mér. Á meðan hann lifði var óhætt að reiða sig á það sem hann sagði! Og ekki trúi ég að honum hafi farið aftur í þeim efnum!

Blaðamaður: Níels kemur nú inn í hvítum slopp og leynir sér ekki að þar er læknir á ferð. Hann kemur með blóm og afhendir Vigdísi.

Níels:  Ég var beðinn um að færa þér þetta, Vigdís, og þau eiga að standa á borðinu hjá þér (við blaðamanninn). Og þú hérna, alls staðar eins og grár köttur!

Blaðamaður: Engin þjóðhátíð án góðs blaðamanns!

Níels: Nei, auðvitað ekki. Og ef þú lætur taka mynd, hafðu þá blómin með.

(Vigdís horfir á blómin, strýkur þeim. Hún hverfur hægt og sígandi. Þeir eru tveir einir).

Blaðamaður: Og hér er þín veröld.

Níels: Já, ein af mínum veröldum.

Blaðamaður: Og hér er læknirinn allsráðandi.

Níels: Ég veit ekki hvað skal segja.

Blaðamaður: Hér er auðvitað enginn heimspekingur á ferð.

Níels: Ætli hann sé ekki á næstu grösum. En frá því við hittumst síðast hef ég hugsað mikið um líf og dauða og ég sagði við sjálfan mig, næst þegar ég hitti hann skal hann fá góða sprautu beint í æð, drengurinn.

Blaðamaður: Og nú er tækifærið!

Níels: Mér finnst ég byrjaður að skilja dauðann sem jákvætt og eðlilegt fyrirbrigði. Ég held menn yfirvinni dauðann í framtíðinni, þegar vísindin hafa útrýmt móðursýkinni og gert okkur andlega heilbrigð. Kirkjan hefur gert of mikið úr dauðanum, notað hann til að ráða yfir fólkinu. Leitandi  og hræddar sálir í gíslingu trúarbragðanna, það er saga mannkynsins. En kirkjan og eilíft líf eru tvennt ólíkt. Ég held framtíðinni muni takast að milda dauðann, draga úr honum vígtennurnar. Sjáðu Japana, þeir fagna dauðanum. Það er ekki heldur neitt að óttast. Samvizkan í mínu eigin brjósti og stirndur himinn yfir höfði mér - það er lögmál minnar trúar, sagði Kant. Og forfeður okkar, þeir voru ólmir að komast í bjórinn í Valhöll, svínasteikina og bjórinn. Svo vildu þeir höggvast hverjan dag. Það er miðaldra úrkynjun að óttast dauðann. Þegar við yfirvinnum þennan ótta, höfum við líka unnið bug á miðöldunum og myrkrinu í sál okkar. Það eru einu ellimörkin sem ég finn á mér, að ég þykist vera byrjaður að skilja dauðann.

Blaðamaður: En ég heyri ekki betur en þetta séu svolítil frávik frá gamla guðleysinu.

Níels: Nei, engin frávik, aðeins tilbrigði. Ekkert annað. Tilbrigði.

(Níels fer og sækir bala, leggur hann á gólfið en blaðamaðurinn fylgist með og hugsar upphátt.)

Blaðamaður: Heimar okkar eru líkir um margt, en ólíkir um ennþá fleira. Mér dettur í hug það sem Guðmundur læknir í Stykkishólmi sagði þegar hann var spurður, hvort það hefði ekki mikil áhrif á hann að sjá nakinn kvenmannslíkama. O, blessaður vertu, þetta er eins og landabréf fyrir mér, svaraði hann. Svona hefði enginn blaðamaður komizt að orði þó að hann viti að konulíkami og landabréf eiga eitt sameiginlegt: að geta valdið stórátökum.

Í mínum huga var banastund Beethovens táknræn fyrir persónulegt sjálfstæði og einstaklingsþrá listamannsins, þegar hann reis upp við olnboga, kreppti hnefann af þrjózku og þrályndi snillingsins óhagganlega, bauð lífi og dauða birginn og féll svo örendur afturábak í rúmið. Þannig deyja mikilmenni... eins og skáldið hennar Mörtu Maríu: Mér hæfir enginn dauðdagi annar, sagði hann, en heimsendir! Í heimi meinafræðingsins var dauðdagastríð Beethovens eðlilegt og án nokkurs rómantísks eða dularfulls ívafs, það er ekki hægt að leggja neitt upp úr svona hlutum, sagði hann sem þarna bograr við balann (bendir.)

Níels: Tónskáldið hefur getað fengið blæðingu inn á heilann og kreppt hnefann ósjálfrátt af hennar völdum!

Blaðamaður: Ég held mig við fullyrðingu tónskáldsins sjálfs, það er aðeins til einn Beethoven!

Flest af því sem ber fyrir augu í innri veröld meinafræðingsins er nýtt fyrir mér (hann skimast um) og kemur óþægilega á óvart. Sumt hrollvekjandi og má kannski segja það eigi ekki erindi við leikmann, en slíkt getur enginn tekið hátíðlega því það er ekki stórmannlegt að vilja aðeins horfast í augu við það sem er þægilegt, raskar engra ró.

Í mínum heimi skoðar fólk fjölskyldumyndir til að rifja upp gamlar endurminningar og eignast aftur þessi grænu bros, þennan bjarta vonglaða svip sem myndin geymir. Í heimi meinafræðingsins eru skoðaðar myndir af líkum og innyflum. Svo kemur einn dag að okkur og meinafræðingurinn fær kannski líka mynd af sér, hver veit!

Og ég hef hugsað með sjálfum mér, Er lífið þá ekki merkilegra en þetta, mynd af nýra eða lunga? Samt er blaðamaðurinn ýmsu vanur, því raunverulega á hann engan sérstakan heim. Starf hans er fólgið í því að læðast inn í ókunna heima annarra, ekki sízt þá heima sem eru á botni mannssálarinnar og fáir eiga aðgang að. Í dag kynnist hann heimi barnsins, þessum saklausa ilmandi heimi, á morgun heimi meinafræðingsins og dauðans, og þó!

Níels (lítur upp): Hér deyr enginn. Hingað koma menn dauðir. En við kynnumst mörgu í starfi okkar sem fólki væri hollt að hugleiða oftar en það gerir, það yrði kannski betra  hvert við annað. Þú kennir starf okkar við dauðann. Ég mundi frekar segja að við lærum af þeim dauðu, hinir dauðu kenna þeim lifandi, ætti að standa yfir dyrum þessarar rannsóknarstofu. Starf meinafræðingsins er að reyna að leysa leyndarmál dauðans um sjúkdóma lífsins.

Blaðamaður: En hvað er þetta? (bendir) Hvað er þarna í balanum?

Níels (sakleysislega): Ha... þetta?

Blaðamaður: Já... þetta í balanum?

Níels: O, það er svo sem ekki neitt.

Blaðamaður: En þessi lykt, þetta er einkennileg lykt.

Níels: Þetta er rotnunarlykt.

Blaðamaður: Nú, hvernig stendur á því?

Níels: Það stendur þannig á því að þetta eru líffæri úr dauðu fólki.

Blaðamaður: Ha, fullur bali af líffærum!

Níels: Já, þetta er allt á leið í rannsókn. Þetta eru krabbameinslíffæri!

Blaðamaður: Væri þér ekki sama þótt þú opnaðir glugga?

(gengur að glugganum, opnar.)

Níels: Ég finn enga lykt, ekki nokkra. Þetta er betri lykt en af reykelsi í kaþólskri kirkju!

Blaðamaður: Nei, auðvitað, engin lykt! En þetta er fnykur! Lyktarskynið ónýtt!

Níels: Þú ættir að koma með mér einhvern tíma niður í kjallara!

Blaðamaður: Kjallara, til hvers?

Níels:  Til að hjálpa mér að kryfja. Þú mundir læra margt af því.

Blaðamaður: Nei, þakka þér kærlega fyrir! Þetta er að verða eins og leikrit eftir Beckett!

Níels: Það mundi opna nýjar víddir. Þú mundir sjá inn í nýja veröld. Og það gæti þroskað þig. Ekki veitti nú af! En - eigum við ekki að skreppa þangað sem hvítu mýsnar eru?

Blaðamaður: Það er áreiðanlega vistlegra en hér.

(Þeir ganga saman inn í næsta herbergi.)

Níels: Hér er pakki sem ég fékk í morgun. Mundirðu ekki vilja skoða það sem er í honum?

Blaðamaður: Nú, hvað er það?

Níels: Réttu fram hendurnar, þá læt ég þig fá hann og þá geturðu skoðað það sjálur. Ég skal taka brúna umbúðarpappírinn utan af þessu.

Blaðamaður: Guð minn góður, pakkaðu þessu aftur inn. Hvað er þetta?

Níels: Þetta er hálft kvenmannslæri og fótleggur. Það var skorið í morgun. Ég fékk það til rannsóknar. Það er af átján ára gamalli stúlku. Kannski þekkirðu hana?

Blaðamaður: Mig hryllti auðvitað við þessu. En svona refsaði hann mér, eða... eða var hann að ala mig upp!? Svo pakkaði hann lærinu aftur inn í brúnan pappírinn og lagði frá sér pakkann.

Níels: Nú getum við komið fram. Hvítu mýsnar geta beðið. Nú ertu eins og járn, hertur í deiglu.

Blaðamaður: Við gengum saman inn í skrifstofu Níelsar. Þar stóð balinn enn á sama stað á gólfinu.

Níels: Nú hefurðu séð inn í veröld sem þú þekktir ekki. Þú hefur fengið nasaþef af raunveruleikanum. Þú verður órómantíkskari héðan í frá en hingað til,  raunsærri!

Blaðamaður: Þú hafðir þörf fyrir að reyna á mig. Stóðst ég prófið?

Níels: Ég hef stundum velt fyrir mér muninum á ræktun og eðlishvöt. Ræktun  er kölluð siðmenning, en flugan gengur fyrir eðlishvöt. Samt hefur hún líklega heila til að siðmenntast, ekki síður en við,  en hún er ekki enn komin eins langt á þróunarbrautinni. Vísindin segja að það sé lítill sem enginn munur á genum flugunnar og mannsins. Líffræðingurinn Benser hefur komizt að þessari niðurstöðu, en enginn er eins vel að sér í ávaxtaflugunni og hann. Maðurinn er vængjalaus fluga. Þekktur vísindamaður hefur kallað fluguna litla fólkið með vængi! Hefurðu heyrt það?
Blaðamaður (hristir höfuðið): Nei.

Níels: Benser skoðar heilana í öllum mögulegum dýrum á nóttunni. Ber þá saman og étur þá svo í hádeginu daginn eftir.

Blaðamaður: Heila úr mönnum líka?

Níels: Nei, auðvitað ekki. Hann er einungus með dýr á heilanum. Engin mannæta?

Blaðamaður: Það gat svo sem verið!

Níels: Já, maðurinn er vængjalaus fluga, mundu það. Láttu engan ljúga öðru að þér. Það eru ekki nema 600 milljónir ára frá því maður og fluga áttu sameiginlegan forföður! Og gleymdu nú þessu sífellda guðsorðastag. Mundu frekar það sem Wittgenstein sagði, þegar hann var spurður hvers vegna hann stundaði heimspeki, Það er til að vísa flugunum út úr flugnaglasinu, svaraði hann. Og þú manst kannski hverju Níels Bohr svaraði Einstein, þegar þessi frægasti vísindamaður allra tíma sagðist ekki trúa því, að guð léki teningaspil um alheiminn. Albert, svaraði Níels Bohr, hættu að segja guði fyrir verkum! Samt efast ég um að Einstein hafi trúað á guð. Það sem Bohr átti við, var þetta: Hættu að segja náttúrunni fyrir verkum. Hættu að skipta þér af þróun efnisins, það fer sínu fram. Þú getur einungis rannsakað það og birt niðurstöður þínar í virtum tímaritum.

Blaðamaður: Guðlausar niðurstöður?

Níels: Já, einmitt, þessar guðslausu niðurstöður vísindanna. Allt hefur sínar skýringar í efninu, það má jafnvel rekja siðfræðina til þess. Þegar ég var ungur heyrði ég ill ummæli eftir tveimur konum um hina þriðju  sem talin var eitthvað úti á lífinu. Þær gagnrýndu meinta vergirni hennar, en sjálfar voru þær víst allt að því hreinar meyjar. Svo dóu þessar konur allar þrjár og höfnuðu hér í kjallaranum hjá mér og ég krufði þær. Þá sá ég að það hefur ekki verið nein þrekraun fyrir þær tvær sem hreinlífar voru að standast freistingar lífsins, því að eggjastokkarnir í þeim voru eins og þurrkaðar rúsínur, en eggjastokkarnir í hinni þriðju, þeirri sem hafði fengið orð fyrir að standa í útstáelsi, voru eins og safaríkir ávextir.Plómur!

Blaðamaður: Sem sagt, siðsemi þarf ekki að vera nein dyggð.

Níels: Nei, aldeilis ekki, heldur afleiðing af lítilli hormónastarfsemi eins og í þessum tilfellum (setur á sig hvíta gúmmíhanzka og hagræðir balanum).

Blaðamaður:  Næst þegar ég sá hann, var hann að flytja fyrirlestur fyrir almenning um vísindi og lífshamingjuna. Og ég skrifaði endursögn í blaðið. Hún var eitthvað á þessa leið:

Níels (í ræðustól): Undirstaðan undir öllu frjálsu lífi er gagnrýni, en það getur verið að til sé lífshamingja án gagnrýni, ég veit það ekki. Það má  vel hugsa sér að kýrin sé hamingjusamari en við - en við eigum ekki að gera okkur ánægð með hugsunarlausa sælu. Andleg kúariða væri okkur ósamboðin! Engum hugsandi manni er það nóg að fullnægja aðeins frumstæðustu hvötum. Hugsandi maður kaupir hamingjuna með göfugri þjáningu, segir Ernest Renan. Og Prédikararinn segir: Sá sem eykur þekkingu sína, eykur kvöl sína. Það eru mikil sannindi. Fáfræðinni getur fylgt viss hamingja. En hamingja kýrinnar á ekki að vera okkar takmark.

Við vitum svo lítið um líf okkar. Sennilega er enginn tími til og margt í kringum okkur blekkingin einber. Við vitum ekki einu sinni hvert við erum að fara eða hvort við erum yfirleitt að fara nokkuð. Hér á miðju túninu fyrir utan þennan fyrirlestrarsal er snigill. Hann lagði af stað fyrir tíu dögum og er nú kominn hálfa leiðina yfir túnið. Hann veit ekki hvað hann hefur verið lengi á leiðinni og ekki heldur, hvert hann er að fara. Hann er blindur og verður að treysta á lyktnæmi sitt. Þrátt fyrir allt held ég að lyktnæmi hans sé betra en okkar. Það eina sem hann skynjar auk þess er munur á nótt og degi. Það eigið þið einnig sameiginlegt. Hann getur ekki haft nema mjög ófullkomnar hugmyndir um umhverfi sitt. Hver veit nema við eigum það einnig sameiginlegt. Og svo einn góðan veðurdag kemur lóa og kroppar hann í sig. Hver veit nema við séum líka sniglar í okkar umhverfi. Og svo kemur dauðinn og kroppar okkur í sig. Við eigum allt undir þessu umhverfi. Samt höfum við ekki göfugri sál en svo, að við erum að breyta því í öskuhauga.  Það er hin guðlega afstaða mannsins til náttúrunnar. Og einn góðan veðurdag verðum við eins og íkornarnir sem eru reknir úr trjánum vegna þess að maðurinn þarf á skóglendinu að halda svo að hann geti keppt í boltaleik eða fullnægt öðrum þörfum sínum. Svo að hann geti þrengt að náttúrunni. Svo að hann geti lagt undir sig skóglendi íkornanna og gert þá útlæga úr umhverfi sínu.

Blaðamaður (skimast um, gengur að trénu, horfir til himins, horfir lengi á nýkveikt gult tungl, fer með ljóð um íkornana):

Höggvum trén og íkornar verða heimilislausir, leita nýrra húsakynna án árangurs, ráðast hver á annan og drepa í stað þess að leita að hnetum eins og knattspyrnumaður að hvítum bolta, hönnuðum eins og orkan skapaði jörðina fyrir fjórum milljörðum ára,

er það orka lífs eða dauða, spyrjum við sem notum enn kraft risaeðlunnar, þegar hún skimar eftir nýrri veröld sem hverfur í  sortann,

hvernig skyldi það hugarfar vera sem breytir hringskottuðum íkornum með saklaus spyrjandi augu í drápsvélar, miskunnarlaus rándýr, útigangshross sem horfa á eftir heimkynnum sínum í sögunarvélarnar á sama tíma og snigillinn flytur hús sitt frá einu strái til annars,

hvernig er sá herra jarðarinnar sem heggur niður íkornaskóga handa hornaboltamönnum til að leika á nýjum völlum,

hvernig skyldi sú ímynd guðs vera  sem breytir friðsælum íkornum í urðarketti,

spyr þig sem hefur breytt Viktoríu-vatni með fiskeldi stórra vatnafiska úr Níl handa hvítum veiðimönnum með ólæknandi drápseðli,

spyr þig sem hefur aðeins uppgötvað tvö prósent af lífverum jarðar og veizt ekki að því meir sem við vitum, því betur vitum við, hvað við vitum lítið,

spyr þig sem kallar regnskóga Brasilíu til vitnis um grimmdaræði þíns óstorknaða blóðs,

spyr þig sem hefur sett eld að íshellu norðursins og eytt salti úthafsins,

spyr þig sem ert í óða önn að sökkva Golfstraumnum,

spyr þig sem kallar framtíðina til vitnis um jörð í hlutverki fótboltans.

Og samt þeytist þessi blái knöttur á braut sinni um sólarmiðju Kópernikusar og Galileós, samt gefum við íkornunum hnetur og smáfuglar horfa á undir súru regni grenitrjánna.

 

(Meðan blaðamaður er að fara með ljóðið kemur Jón leikari og talar inn í það eins og hann sé að hugsa upphátt í gervi Níelsar.)

Níels (gengur að trénu, þeir setjast):            Íkornar, já. Einkennilegt að Knútur skyldi hafa ort um íkorna, en hann var ólíkindatól, fannst mér þegar ég kynntist honum ungur læknanemi. Íkornar bera apabóluna í Afríku, en hann vissi það áreiðanlega ekki.  Hún kom í staðinn fyrir kúabólu. Það þarf ekki mikinn innblástur til að gera sér grein fyrir því að náttúran lætur ekki að sér hæða. Nei, ekki mikinn blástur!  Grái íkorninn dó út á Bretlandi, þegar umhverfisvænni rauður íkorni kom til sögunnar. Þannig vinnur náttúran. Einnig með manninn. Annars er harla vafasamt að nokkur innblástur sé til, að heili mannsins geti orðið fyrir áhrifum frá æðri vitsmunaverum, svo að ég tali nú ekki um ósköpin! Ég held miklu fremur að heili mannsins afreki mestu, þegar hann er vel hvíldur og upplagður og næmur fyrir því sem er satt og fagurt. Slíkt ástand getur endurtekið sig - og gerir oft - þó of sjaldan.

Blaðamaður: En dreymir þig þá aldrei neitt.

Níels: Jú, eins og hvern annan.

Blaðamaður: Aldrei fyrir óorðnum hlutum?

Níels: Það er erfitt  að segja, ég er lítill draumamaður, en móður mína dreymdi oft fyrir ýmsu.

Blaðamaður: Og hvernig skilur þú það?
Níels: Mannsheilinn er bara miklu merkilegra verkfæri en við höfum hugmynd um. Þegar móðir mín vaknaði einhverju sinni, sagði hún:  Hann Halldór hefur slasazt á handlegg. Halldór bróðir minn var þá í útlöndum, mörg þúsund kílómetra í burtu og við vissum ekkert um hagi hans. En viku síðar barst okkur bréf og þá kom í ljós að hann hafði slasazt á hægri handlegg eins og móður mína hafði dreymt. Og á sama tíma og slysið varð.

Blaðamaður: Þarna sérðu!

Níels: Nei, ég sé ekkert annað en það, að heilinn er miklu merkilegra líffæri en við höldum. En við þekkjum hann því miður svo lítið og starfsemi hans ennþá minna. Í honum eru milljarðar frumna sem hafa náið samband sín á milli, möguleikarnir eru stjarnfræðilegir, við kunnum bara ekki að nota þá. Það sem við vitum um heilann á móti því sem við vitum ekki er eins og eitt rykkorn samanborið við sólkerfið.

Blaðamaður: En dauðinn, eilífðin?

Níels: Til hvers þessi eilífðarþrá? Ég held að fæstir sem óska þess að lifa áfram eftir dauðann geri sér ljóst, hvað eilíft líf er. Við þráum öll að missa meðvitund í langan tíma á hverjum sólarhring. Engan langar til að búa við svefnleysti, vaka dag og nótt, jafnvel þótt það gæti aukið afköst hans verulega. Mér finnst eilífðarþráin misskilningur. Ef guð segði, Hvort viltu heldur lifa áfram, ungur og hraustur, um alla eilífð eða hrörna og deyja, þegar þinn tími er kominn, þá mundirðu áreiðanlega svara, Ég vil heldur deyja! Hræðslan við að geta ekki dáið mundi verða miklu ægilegri en hræðslan við dauðann getur nokkurn tíma orðið. Nei, dauðinn á að koma og kemur hjá mörgum eins og langþráður svefn og hvíld frá þrasi. Menn þurfa ekki að kvíða honum og eiga ekki að láta neinn telja sér trú um að eilífðarkvalir bíði nokkurs manns eins og okkur hefur alltof lengi verið hótað.

Blaðamaður: En ef þú vaknaðir nú annars heims, yrðirðu þá fyrir miklum vonbrigðum?

Níels: Ekki býst ég við því. En ég yrði hissa!

Blaðamaður: Þá yrði enginn bali!

Níels: Bali...?

Blaðamaður: Já, hinumegin!

Níels: Nei, þá yrðu líklega eintóm leiðindi. En ég vildi heldur vera í helvíti.

Blaðamaður: Nú, hvers vegna?

Níels: Vegna þess að þær með rúsínurnar yrðu áreiðanlega allar uppi!

Blaðamaður: Þetta var einkennilegur dagur. Og ég svaf illa um nóttina (hann gengur  að rúmi og leggur sig. Jón leikari mjakast hægt að rúminu og reynir að vekja hann ekki, en hann rumskar).

Blaðamaður (hrekkur upp): Hver ert þú?

Jón leikari: Uss, hafðu ekki svona hátt. Það eru allir í fastasvefni.

Blaðamaður: En hver ert þú?

Jón leikari: Uss, við skulum ekki vekja neinn, það eru allir sofandi.

Blaðamaður: Já, en nú er ég vakandi. Af hverju vaktirðu mig. Hver ertu?

Jón leikari: Ég, uss, ég er heilinn (setur á sig grímu).

Blaðamaður (undrandi): Hvaða heili?

Jón leikari: Ég er heilinn í þér. Og ég ætlaði bara að láta þig vita að þú notaðir vitlaust orð í samtalinu sem þú varst að skrifa í gærkvöldi.

Blaðamaður: Ha, samtalinu?!

Heilinn: Já, samtalinu við hann Níels.

Blaðamaður: Samtalinu við Níels, hvernig veiztu það?

Heilinn: Heldurðu að ég hafi ekki fylgzt með neinu, eða hvað?

Blaðamaður: Ja, ég fæ aldrei neinn anskotans frið fyrir þér.

Heilinn: Láttu ekki svona! Ég er bezti bandamaður þinn. Ég er eins og varðhundur.

Blaðamaður: Og hvað ertu að verja?

Heilinn: Sjálfsvirðingu þína. Smáorðin skipa líka máli.
Blaðamaður: Láttu mig í friði, lofaðu mér að sofa áfram.

Heilinn: Nei, þú verður að breyta þessu litla orði, það munar öllu.

Blaðamaður: Og hvaða orð er það?

Heilinn: Þú varst að snúldra við þetta fram eftir öllu kvöldi, en náðir ekki tökum á því. Það er líka of grunnt vaðið.

(Blaðamaður drattast fram úr rúminu, gengur að borði og fer að skoða handrit. Hann er í þungum þönkum en segir ekkert. Jón leikari horfir yfir öxl hans).

Jón leikari (tekur af sér grímuna): Hann óttast heilann, en þorir ekki annað en hlýða honum. En hann hefur aldrei frið fyrir honum. Stundum er engu líkara en hann hati heilann í sér. Heilinn hefur ekki síður haft truflandi áhrif á hann en umhverfið. Síminn, dyrabjallan, útvarpið, stundum sjónvarpið. Heilinn er raunar eitt af þessum hávaðasömu tækjum sem láta hann aldrei í friði og líklega er hann verstur viðureignar þeirra allra. Og það er ekki hægt að láta hann afskiptalausan eins og dyrabjölluna og símann því hann hættir ekki áreitinu, aldrei! Heilinn er í raun skæðasti óvinurinn, hann er farinn að gera sér það ljóst.

Blaðamaður: Jú, þetta er líklega rétt hjá þér. Of grunnt vaðið. Þú ert ósigrandi. Ég gefst upp fyrir þér. En hvaða smáorð?

(stendur upp, en heldur áfram.)

Líklega fæ ég aldrei frið fyrir þér fyrr en við erum báðir komnir undir græna torfu, hvor í sínu lagi. Og þó er ekki víst nema þú haldir áfram að anskotans í mér löngu eftir að ég er brunninn. En samt, samt... Nú ætla ég að leggja mig aftur og líta á þetta í fyrramálið. Hvaða smáorð?

Heilinn (enn með grímuna): Þú mátt ekki gleyma því. Þú verður að endurskoða þetta!

Blaðamaðurinn: Endurskoða? Nú, eins og hvað?

Heilinn: Ja, þetta með eggjastokkana! Það er endemis smekkleysa!

Blaðamaður: Fjandinn hafi það, en við sjáum til á morgun. (leggst fyrir).

Jón leikari (grímulaus): Við leyfum honum að hvíla sig til morgun. Þá mun þetta væntanlega komast til skila og vonandi fær hann þá næði. Hann fékk ekkert næði í gærkvöldi. Það var svo margt sem sótti á hann og hann átti óuppgert við þann sem öllu stjórnar,  leikstjórann sjálfan. Hann lætur hann aldrei í friði. Allt á endaköstum í kringum hann.  Og svo kemur þessi sístarfandi heili alltaf til skjalanna, þegar verst gegnir, með truflandi aðfinnslum sem hann er hættur að þola. Sjálfur hefur hann lýst þessari ásókn bezt í sögu sem hann skrifaði ekki alls fyrir löngu þar sem hann segir: Já, við skulum sjá til..., mig minnir hann lýsi þessu eins og martröð. (gengur að borðinu, leitar að bók, opnar hana  og les) Stundum var engu líkara en hann hefði elzt um mörg ár, þegar hann vaknaði að morgni eftir næturlanga viðureign við heilann. Og hann gaf skít í þær kenningar Freuds sem hann hafði kynnt sér og jafnvel notað í verkum sínum, að draumar kæmu  að innan, en væru ekki boð að utan. Hann þóttist þess fullviss að sumir draumar væru rugl, að vísu, en þó fæstir (hlustar, blaðamaðurinn  er byrjaður að hrjóta örlítið, en lágt.) Algengast væri þó að margt af því sem hann dreymdi kæmi úr óvæntri veröld, að hann fengi góð skilaboð og eftirminnileg. Stundum gat hann setið á sárshöfði við heilann og sambúð þeirra var nokkurn veginn viðunandi. En svo voru þau skipti, þegar  styrjaldarástand ríkti milli þeirra, hvorki meira né minna, og hann gat ekki á heilum sér tekið. Það hafði jafnvel komið fyrir að hann vaknaði að morgni dags eftir næturlanga styrjöld við heilann um eitt orð í texta sem hann hafði skrifað þremur eða fjórum sólarhringum áður. Engu líkara en honum hefði ekki komið dúr á auga alla nóttina, þótt hann hefði sofið óvenju vel og vaknað úthvíldur. En því var þó ekki að heilsa. Stundum hafði hann ekki getað sett orð á pappír tímum saman vegna þess að heilinn hélt áfram að hundelta hann. Hann leitaði þá orðið uppi í handritahrúgunni, virti setninguna fyrir sér og sá í hendi sér, það varð hann að viðurkenna, að þetta var vitlaust orð á röngum stað. Eitt orð, eitt helvítis smáorð!

(Blaðamaður er farinn að hrjóta æ hærra, Jón skimast um, en heldur svo áfram.) Og alltaf skyldi heilinn hafa rétt fyrir sér. Það fór mest í taugarnar á honum. En hann var kominn að þeirri niðurstöðu að heilinn væri tæki sem kæmi honum ekkert við, einskonar tölva sem hann hafði þurft að burðast með frá fæðingu, dyrabjalla, sími, útvarp og sjónvarp og aðrar boðstöðvar í einu og sama tækinu, þessu áleitna og truflandi tæki sem lét hann aldrei í friði, hvorki að nóttu eða degi

(lítur upp, blaðamaður er farinn að rumska aftur. Jón gengur burt og hverfur, en blaðamaður vaknar og fer framúr, gengur að skrifborðinu, situr þar eins og ráðvilltur, hugsi, drekkur kalt kaffi úr könnu, spýtir því út úr sér).

Blaðamaðurinn: Fjandinn hafi það, kalt og staðið!

(Rödd Níelsar heyrist eins og ógnandi áminning: Ekki eins og þurrkaðar rúsínur, heldur safaríkir ávextir... safaríkir ávextir...

Blaðamaðurinn byrgir andlitið í höndum sér, heldur um eyru og horfir þögull inn í dimma nálægð næturinnar... Rödd hans sjálfs fer eins og bergmál með lokaorðin í ljóðinu um íkorna: ...Samt gefum við íkornunum hnetur og smáfuglar horfa á undir súru regni grenitrjánna.

Hann stendur upp og gengur að trénu sem kliðar af fuglasöng. Jón leikari gengur hægt til hans og blaðamaður kveikir á tunglinu).

Jón leikari: Þú ert að hlusta.

Blaðamaður: Já.

Jón leikari: Á eilífðína?

Blaðamaður: Nei, á þögnina í fuglasöngnum.

Jón leikari: Og tunglið! Ekkert jafnast á við nýkveikt tungl.

Blaðamaður: Nei (bendir). Og sjáðu íkornann þarna! Þeir eru fallegastir undir tungli og kliðandi fuglasöng (þeir setjast á bekk, þegja saman og hlusta).

Hrafnar krunka í frjarska, nálgast.

              (10. apríl '01 M.Joh.)

 

 

 

 

 

 

Þögnin er blá

tjörn

(Leiksaga)

 

Stórt tré, laufið hrynur til jarðar. Blaðamaður gengur að trénu, virðir það fyrir sér, sezt svo á bekk. Hann tekur upp segulbandstæki og talar inn í það .

 

Blaðamaður: Þetta tré var gróðursett hér fyrir margt löngu. Það var gróðursett til minningar um frelsisbaráttuna. Sá sem gróðursetti það átti landið hér umhverfis , en nú er það komið í eigu hins opinbera. Samt hefur engum dottið í hug að höggva tréð þótt það sé til mikilla trafala fyrir umferðina. Margir hafa velt þessu tré fyrir sér. Fáir þekkja sögu þess. Þegar það hafði verið gróðursett og tók að vaxa og dafna gaf eigandinn því frelsi. Og það fékk frelsi eins og ófrjálsir menn og þrælar á sínum tíma. Það var líka gróðursett til minningar um frelsi hinna ánauðugu. Og eigandinn sagði við tréð: Það á enginn að eiga þig. Þú átt að eiga þig sjálft. Þú ert sjálft eign þín sjálfs. Og síðan hefur þetta tré verið tákngervingur frelsisins hér í Aþenu. Já, (ruglast í ríminu) hér í Aþenu (lítur í kringum sig vandræðalega) hér í Aþenu í... í... það hlýtur að vera Grikklandi. Einkennilegt að ég skuli hafa ruglazt á því hvar við erum. En í draumum getur allt gerst .Og í þessum draumi er ég staddur... ja, ég heyrði ekki betur en einhver segði... þetta væri í Aþenu, Grikklandi...

Jón leikari ( kemur út úr trénu , grípur frammí): Já, í draumum getur allt gerzt. En þú hefur ruglazt.

Blaðamaður: Nú, svo það ert þú ?!

Jón leikari: Já, ég er í hlutverki trésins þessa stundina.

Blaðamaður: Hvað áttu við með þessa stundina?

Jón leikari: Ég á við... nú í þessum draumi sem... sem... æ ég man ekki hvað hann heitir sá sem er að dreyma þennan draum.

Blaðamaður: Nú, manstu það ekki?

Jón leikari: Nei, ekki frekar en þú heldur við séum í Grikklandi. Það er rangt.

Blaðamaður: Rangt!

Jón leikari: Já, það er rangt. (stígur niður af upphækkun). Við erum ekki staddir í Grikklandi. Við erum að vísu staddir í Aþenu.

Blaðamaður: Já, sagði ég ekki?!

Jón leikari: Jú, þú sagðir Aþenu, það er rétt. En við erum staddir í Aþenu hér í Georgíu-fylki í Bandaríkjunum.

Blaðamaður (lítur í kringum sig): Æ, já, nú man ég það ,  Aþena í Georgíu.

Jón leikari: Gott þú áttaðir þig. En nú er ég hættur í hlutverki þessa trés, eins og þú sérð, að minnsta kosti í bili. Samt fellur skugginn af því þarna á vegginn. Sjáðu. (hann bendir) Þetta er skuggi af engu. Og hann þarf ekki einu sinni sól!

Blaðamaður: Já, þú segir nokkuð. Skugginn af því sem sést ekki.

Jón leikari: Einmitt. Þannig er frelsið. Það er skugginn af því sem sést ekki.   

Blaðamaður: Það er ekki nóg að vita það í draumi. Það þyrfti að koma þessari athugasemd inn í veruleikann. Inn í vökuna. (Ætlar að tala inn í segulbandið) Ég var að skrá sögu þessa trés þegar þú lézt svo lítið að stíga niður af þínum háa stalli og leiðrétta  mig. En nú er bezt ég bæti þessari athugasemd þinni við.

Jón leikari: Nei, blessaður láttu segulbandið eiga sig. Það verður hvort sem er ekkert á því þegar..... þegar hann vaknar og draumurinn slokknar inn í vökuna sem kölluð er veruleiki. En það vitum við náttúrulega báðir að vakan er ekki fremur veruleiki en þessi hljóðláti svefn sem er kallaður draumur.

Blaðamaður: Eða martröð.

Jón leikari: Já, martröð, einmitt. Og ef þeir rifu tréð upp með rótum eins og margir vilja helzt breytist þessi draumur að sjálfsögðu í martröð.

Blaðamaður: En við ?.

Jón leikari: Við yrðum hluti af þessari martröð, að sjálfsögðu, skilurðu það ekki maður. Við verðum að leika okkar hlutverk til loka.

Blaðamaður: Og hvernig fannst þér í hlutverki trésins ?

Jón leikari: Gott. Það er gott að leika tré. Þá er maður ekki með neinar áhyggjur. Tréð er frjálst .Ef það á sig sjálft er það eins frjálst og nokkur getur orðið.

Blaðamaður: En í skógareldum?

Jón leikari: Þá breyttist þessi draumur í það sem þú nefndir áðan.

Blaðamaður: Hvað?

Jón leikari: Martröð.

Blaðamaður: Já, einmitt, martröð.

Jón leikari: Tréð er fast á rótum sínum eins og maðurinn í vöku er fastur í kvíða sínum og áhyggjum. En má ég þá heldur biðja um rætur trésins en áhyggjur vökunnar.

Blaðamaður: Af hverju seztu ekki hérna hjá mér? Þú... þú sem ert í hlutverki þessa sígræna barrtrés, áhyggjulaus eins og fuglar himinsins.

Jón leikari: Ég segi það nú kannski ekki. En frjálsari en búrfuglarnir. Tréð er veröld þessa frelsis (Hlustaðu. Það heyrist fuglasöngur. Þeir hlusta báðir um stund) Þetta er frelsi trésins, að eiga sjálft sig. Að eiga alla þessa veröld, með blaðlús, maðki og öllu saman! En heyrðu, ég get ekki setið hérna hjá þér, aðgerðarlaus. Ég verð að sinna mínu hlutverki. Ég tók að mér að leika tré í sjálfboðavinnu, það er framlag mitt til frelsisins. Framlag mitt  til nýrrar veraldar.

Blaðamaður: Ósköp ertu orðinn hátíðlegur. Slappaðu af, maður!

Jón leikari: Frelsið kallar á sínar stellingar.

Blaðamaður: Þess vegna hefur það alltaf verið misnotað af þeim sem kunna stellingarnar.

Jón leikari: Ekki trjám!

Blaðamaður: Að vísu ekki.

(Jón leikari fer aftur í hlutverk trésins. Blaðamaður situr eftir á bekknum, hugsi.)

Blaðamaður: Einkennilegt, engar áhyggjur. Nei, það er rétt. Við erum föst á rótum þeirra og svo þessar setningar... þessar gömlu setningar sem glymja í eyrum eins og harmashögg. Faðir minn sagði sér til málsbóta: Þú munt skilja þetta allt þegar þú verður fullorðinn(!) Og ég skil. Og ég skil þetta allt nógu vel til að óska mér að ég hefði aldrei orðið fullorðinn. Og síðar kom hún... það var á mánudagsmorgni... þá kom hún til mín þegar ég var eitthvað um tvítugt og sagði... já, hún sagði... það var móðir mín sem kom til mín og sagði: Hann er byrjaður aftur. Ég fann smokka í frakkavasanum hans föður þíns!

Jón leikari (kallar): Hvað ertu alltaf að tuldra þarna niðri? Ég heyri ekki betur en þú sért að tala við sjálfan þig. Hvað varstu að segja ?.

Blaðamaður: Ég var að tala við tréð, lúsina. Maðkinn!

Jón leikari (hneykslaður): Það er hvorki lús né maðkur á þessu tré. Engin óværa. Tréð er friðað. Það er líka friðað fyrir lús og maðki!

Blaðamaður:Vertu ekki viss!

Jón leikari: Ha... hvað sagðirðu?

Blaðamaður: Ekkert. Ég man það ekki!

Jón leikari: Manst ekki!

Blaðamaður: Nei, ég er líklega farinn að eldast!

Jón leikari: Barnungur eins og þú ert! En hvernig lýsir það sér?

Blaðamaður: Ég var að tala við Valdimar skipstjóra um daginn, hann sagði: Ég er farinn að eldast. Hvernig lýsir það sér? sagði ég. Það er þrennt sem gerist, sagði hann, fyrst missir maður minnið og svo... og svo... ég er búinn að gleyma hinu, sagði hann.

Jón leikari: Þetta hljómar sennilega. Ætli karlinn sé ekki að verða elliær. Hann er beztur fullur! En þú ættir að tala minna við þessa kjaftforu sjóara, þeir verða alltaf ómögulegir um leið og þeir koma í land! Kunna ekki einu sinni að míga nema í saltan sjó. Það er ekki verið að tala um þá mengun! En lúsin... já.... hún kallar á heila  herdeild af hryðjuverkamönnum með brúsa á bakinu... og... og úðar yfir mann svo það er ómögulegt að ná andanum. Má ég þá heldur biðja um lúsina. Og maðkinn!    

(Sesselía gengur hægt að trénu, skimast um, tortryggin)

Sesselía: Ha, gleyma..gleyma, skyldi það ekki vera! En hvað varstu að segja, góurinn?

Blaðamaður: Ekkert. Ég var bara að hugsa upphátt.

Sesselía: Hvur sem trúir því, eða varstu nokkuð að stríða henni Sessu gömlu?...svona eins og prakkari með plat í skó!(syngur):

Ló ló mín Lappa!

sára ber þú tappa

það veldur því að konurnar

kunna þér ekki að klappa.

Að þú sért að tala við sjálfan þig, það vantaði nú bara. Eða ertu kannski að tala við tréð þarna, það væri svo sem eftir öðru. Það er margt skemmtilegt sem gerist hér í Barcelona. Mér líður alltaf vel þegar ég er komin á staðinn  minn hér á Ramblas.

Blaðamaður: Ramblas!

Sesselía: Já, ég leyfði mér að segja það. Þetta er tréð mitt. Hér sit ég og segi fyrir um óorðna hluti í drauminum mikla.

Blaðamaður: Þetta er ekki Ramblas. Þetta er... þetta er (lítur til leikarans) ..hvar sagðirðu aftur að við værum?

Sesselía: Bölvaður, ertu að tala við tréð? Þú ættir að láta minna ofan í þig.

Jón leikari: Ég sagði... sagði ég ekki... Sevilla.

Blaðamaður: Kannski það.

Sesselía (setur stólinn við tréð, hristir höfuðið): Talar við tréð, það vantaði nú bara.

Blaðamaður: Og heyrðirðu ekki að það svaraði, Sesselía.

Sesselía: Ha, það var nú einmitt það. Þetta er allt heldur óskemmilegt. Ég heyrði ekki betur en það talaði obbolítið. Er kannski verið að stríða Sessu með alls kyns kúnstum?

Blaðamaður: Þú ættir ekki að tala um að ég hafi fengið ofmikið, aldrei verið ódrukknari á ævi minni!

Sesselía: Nú, snakillur, það munar ekki um það! Ég er bara aldeilis hissa (sezt).

Blaðamaður: Maður á aldrei að vera hissa á neinu. Og það skiptir ekki máli hvort við erum í... í... Selvilla...

Sesselía: Barcelona, sagði ég.

Blaðamaður: Barcelona... eða... eða...

Jón leikari: Aþenu, var það víst.

Sesselía: Ja, skyldi ég ekki hafa heyrt obbolítið (lítur upp, sér Jón leikara). Svo það ert þú! Alltaf að leika!

Jón leikari: Í hlutverki trésins núna!

Sesselja: Alltaf einhverjar kúnstir. Þér færi betur að leika skreytt jólatré... með stjörnu! Eða skottið á íkorna!

Blaðamaður: Já, þú segir nokkuð, Aþenu, það skiptir svo sem engu máli. En maður á aldrei að vera hissa á neinu. Ég heyrði af gömlum blaðamanni sem var þekktur í borginni og hafði gaman af að fá sér neðan í því og hann drakk stundum með bankastjóranum. í miðstöðvarherberginu. Einu sinni vöknuðu þeir í kolabing... þetta var þegar húsin voru hituð upp með kolum og engin olía eða hitaveita. Bankastjórinn ætlaði að fara að barma sér, stóð upp  og sagði, Ég er aldeilis hissa og fór svo að hrista af sér rykið. En þá sagði gamli blaðamaðurinn: Maður á aldrei að vera hissa á neinu. Og hristi sig eins og vagnhestur.

Sesselía: Það hef ég líka alltaf sagt. Aldrei hissa á neinu! Jafnvel þótt maður hlusti á aðra tala við tré... og bæði bláedrú... á maður að slappa af og láta það  ekkert á sig fá, ekki, frekar en  annað!

Blaðamaður: Hver var að tala við tré?

Sesselía: Nú, varst það ekki þú?

Blaðamaður: Nei, ég var að tala við Jón leikara.

Sesselía: Jón leikara. Skemmilegt er þetta allt saman en nú er best þú komir hérna með lófann og ég líti á hann. Það væri ekki verra að þú sæir þau ósköp sem framundan eru. (Hún tekur lófann á blaðamanninum, hristir höfuðið og tautar eitthvað, en óskiljanlegt).

Blaðamaður: Og hvað sérðu?

Sesselía: O, það er nú svo sem ekkert markvert. Eintóm óvera. Bara eitthvað obbolítið. Nei, ekkert markvert, þú getur verið alveg rólegur. Í hæsta lagi rauðar blúndubuxur!

(Blaðamaður kippir að sér hendinni, sezt aftur á bekkinn, þau þegja.)

Blaðamaður: Best ég hypji mig.

Sesselía: Nú, og hvað ætlast maðurinn svo fyrir.

Blaðamaður: Ég þarf að koma við á málverkasýningunni.

Sesselía: Já, einmitt. Ekkert annað! Obbolítið snobbaður!! En skemmilegt hefði það nú verið talið í mínu ungdæmi. Að eyða tímanum á málverkasýningum.

(Blaðamaður labbar hægt burt, hann virðir fyrir sér nýkveikt tunglið, stanzar og lítur til baka, gengur að öðrum bekk og sezt).

Jón leikari (syngur):

Guð láti sólina skína

yfir fagra fjallinu því

sem hún Máría mjólkaði kúna sína.

 

Sesselía (lítur upp): Ha... hva... þú þarna..enn!?! Nú mundi ég hlæja ef ég væri ekki dauð!

Jón leikari: En ég sé ekki betur en þú sért sprelllifandi!(kemur úr trénu): Það er gott þú ert mætt, Sesselía mín. (blíðlega) Ég þarf að biðja þig um að gera mér greiða.

Sesselía: Ha, hvaðan kemur maðurinn? (lítur upp) Varstu kannski í krónunni með fuglunum?

Jón leikari: Já, ég var með fuglunum. En tréð er fast á rótunum og ég get ekki farið með það svo ég þarf að biðja þig um að gera mér agnar greiða.

Sesselía: Greiða, eins og hvað?

Jón leikari: Þú gætir víst ekki staðið fyrir mig þarna sem skugginn byrjar þangað til ég kem aftur.

Sesselía: Og hvað?

Jón leikari: Og verið í hlutverki trésins um stund. Ég þarf að skreppa á málverkasýningu, ég hef tekið að mér hlutverk málarans og get víst ekki verið í tveimur hlutverkum í einu. Ekki einu sinni í draumi.

Sesselía: Að ég standi þarna við skuggann?

Jón leikari: Já, ef þú vildir vera svo góð... Þú gerðir mér mikinn greiða ef þú færir í hlutverk trésins fyrir mig.

Sesselja (hégómlega): Ja, þú sagðir ég væri sprellifandi.

Jón leikari: Já

Sesselja: Og kannski ung. Og girnileg?

Jón leikari: Já-já,hvað sem er, ef þú tekur við trénu.

Sesselja: Girnileg, ha? Nei, ég held það dugi ekki. En samt skal ég taka við trénu. Á ég að segja þér hvenær Sessa vissi að hún var ekki lengur ung. Karlinn var í útlöndum og ég fór á eitthvert skrallið, svona eins og þegar trillurnar sigla á miðin. Og það var ungur strákur sem bauðst til að fylgja mér heim, þegar ég sagðist eiga svona obboðlitla lögg í glasi.Við sátum í stofunni og ég skenkti eins og hefðarfrú. Svo datt mér í hug að skipta um föt, fór inn í svefnherbergi og í silkisloppinn minn. Kom svo inn í stofuna aftur, svifti frá mér sloppnum og sagði: Langar þig?! (hún leikur atriðuð) Þá hvarf hann eins og byssubrenndur og ég hef ekki séð hann síðan. En þá vissi Sessa að hún var orðin gömul kona.

Jón leikari: Ekki svo gömul, Sesselja mín! Nógu ung að minnsta kosti til að taka við trénu, meðan ég skrepp frá.

Sesselja: Æ.hvað þú ert sætur, já ég segi það óhikað, obbolítið sætur!

(Hann leiðir hana að skugganum).

Sesselía (hálfrugluð): Sætur, sagði ég það, obbolítið sætur...

Jón leikari: Já, hér, einmitt! Ég verð ekki lengi, Sessa mín. Þú getur meira að segja setið. Það væri einsdæmi í sögunni ef tré væri í hlutverki spákonu.

Sesselía: Ha, einsdæmi.

Jón leikari: Já, einsdæmi, sagði ég. Og það mundi flykkjast að þér þetta fólk hér... á....

Sesselía: Á Ramblas... en obbolítið væri það nú skemmtileg tilraun? Eða spákona í hlutverki trés.

(Hún sækir stólinn og færir hann til, tekur sig út og býr um sig. Jón leikari gengur hægt til blaðamanns og sezt á bekkinn hjá honum).

(Sesselía hverfur í skugga trésins).

Blaðamaður: Þú mættur!

Jón leikari: Já, ég lofaði að vera í hlutverki meistarans, en... en bara í kaffinu. Það er alveg sama hvort hann sýnir eða ekki, hann þarf alltaf að fara í kaffi. Þetta er eins og hestur sem kemur hlaupandi að girðingunni þegar eigandinn réttir út höndina með normalbrauði!

Blaðamaður: Það má segja að þú hafir í nógu að snúast.

Jón leikari: Já,það má til sanns vegar færa.. En sem betur fer er ég ekki alltaf þar sem áhyggjurnar eru. Maður er áhyggjulaus í hlutverki trésins, en ekki listamannsins. Þá byrja áhyggjurnar fyrir alvöru. Þá hellast yfir mann kvíðaköstin. Þá hverfa sólskinsblettir í heiði og sumardagar breytast í svartnætti.Tré hefur ekki áhyggjur, ekki svo vitað sé.

Blaðamaður: Er hann þunglyndur núna?

Jón leikari: Biddu fyrir þér. Það er hálfgert æði á honum. Það fylgir sýningunum.

(Þeir ganga inn í sýninguna undir skilti sem stendur á stórum stöfum: Málverkasýning. Líta í kringum sig, þögulir, setjast og horfa).

 

Jón leikari: Hvaða hljóð er þetta eiginlega?

Blaðamaður: Það er nú það. Það er stór hunangsfluga í blómapottinum þarna, sjáðu!

Jón leikari:Við skulum reyna að ná henni. Komdu og hjálpaðu mér, rektu hana úr blómunum. Já, svona.

Blaðamaður: Þarna er hún.

Jón leikari: Ha, hvar?

Blaðamaður: Þarna, á veggnum.

Jón leikari: Já þarna! (rekur fluguna út um gluggann með vasaklútnum, suðið hættir)

Blaðamaður: Fínt.

Jón leikari (lágt): Hann gæti vaknað.

Blaðamaður (sezt aftur): Já, það er um að gera að fara varlega. Hann gæti vaknað og þá...

Jón leikari: Og þá... þá hvað?

Blaðamaður: Þá væri ekki að sökum að spyrja.

Jón leikari: Þá yrðum við eins og flugan ef hún hefði stungið mig. Þá hefðum við bæði drepist, því ég hef ofnæmi fyrir broddflugustungum.

Blaðamaður: Eins og lýðurinn í Aþenu!

Jón leikari (hissa): Lýðurinn í Aþenu, hvað áttu við?

Blaðamaður: Hann þoldi ekki Sókrates sem sagðist vera broddfluga!

Jón leikari: Æ-já, þú átt við það. Þú ert nú enginn fugl á hendi eins óútreiknanlegur og þú ert.Talar í gátum eins og Dalí.

Blaðamaður: Það má engu muna eins og þú veizt. Þetta hangir allt á bláþræði.

En við skulum fara varlega. Hann gæti vaknað. En hver sér um tréð.

Jón leikari: Ég plataði hana Sesselíu í hlutverk trésins. En, hvað er klukkan orðin?

Blaðamaður:. Það er nógur tími enn, ef við förum varlega. En af hverju spyrðu?

Jón leikari: Ég get ekki látið kerlinguna standa þarna við greinarnar eins og fuglahræðu, svo ég verð víst að fara og leysa hana af. En ég gleymdi gemsanum mínum.

Blaðamaður: Hefur hún gemsa?

Jón leikari: Já-já, hún er eini kapitalistinn þarna á götunni. Hún hefur gemsa.

Blaðamaður: Þú getur notað minn. (réttir honum gemsann).

Jón leikari (hringir í Sesselíu): Það er glas, Sessa mín.

Sesselía: Ha, nei, ég á ekkert í glas! Hvur er maðurinn eiginlega?

Jón leikari: Bara ég, Sessa mín!

Sesselja (áttar sig): Æ.já, þú gullið mitt.

Jón leikari: Ég sagði bara eins og þeir á sjónum... og... og börunum: Það er glas!

Sesselja: Nú jæja, er þessu þá lokið.

Jón leikari: Já, ég átti ekki að standa lengur...

Sesselía: Kemur mér ekki á óvart. Þetta er eins og annað, obbolítið skemmilegt.

Jón leikari: Þú ferð víst nokkuð nærri um það. En laufið fer að detta hvað úr hverju.

Sesselía: Það er þá bezt að koma sér. Það verður nóg að gera og svo get ég setið eins og vanalega og hlustað á tónlistina. Heyrðu, það verður einhver annar að koma og... og sópa saman laufinu...

Jón leikari: Það er séð fyrir því, séð fyrir öllu, Sessa mín!

Sesselja: Öllu, það er bara ekkert annað! Þú ættir að fara í pólitík!

 

(Hún flytur sig úr skugganum og sezt aftur í stólinn. Hún setur segulbandið á og hlustar á Internationalinn, þögul).

 

Blaðamaður (stingur símanum í vasann): Það var gott þú skyldir ná í hana.

Jón leikari: Það er ástæðulaust að láta kerlingargreyið hanga í þessu hlutverki þegar laufið er farið að detta af trénu. Og ætli hann fari ekki að rumska hvað úr hverju.

Blaðamaður: Nei, það er langt þangað til. Síðast þegar við vorum hér saman sagðist hann hafa verið í bíl með hund í löngu bandi og hann hljóp á eftir bílnum og enginn vissi hvert þeir væru að æða. Þetta var súrrealistískur hollywood-draumur og hann sagðist aldrei hafa skemmt sér betur.

Jón leikari: Já, ætli ég muni það ekki! Ég stóð þarna við skuggann og sá hann aka framhjá og veifaði til hans og þá held ég hann hafi áttað sig.

Blaðamaður: Það er ekki ólíklegt. En ég hef verið að hugsa um þetta með ræturnar. Rætur okkar og áhyggjurnar.

Jón leikari: Og kvíðann, náttúrulega.

Blaðamaður: Já, og kvíðann.

Jón leikari: Það er þessi helvítis kvíði öllum stundum.

Blaðamaður (annars hugar): Hann sagði að ég mundi skilja hann þegar ég yrði fullorðinn.

Jón leikari: Hann hver?

Blaðamaður: Og hún sagði þegar ég var um tvítugt að hún hefði fundið smokka í frakkanum hans. Þá var hann um sextugt.

Jón leikari: Ha? Hver? Um hvern ertu að tala?

Blaðamaður (áttar sig): Ha? Ekki neinn. Ég var bara að hugsa upphátt.

Jón leikari: Hugsa upphátt. Um smokka? Smokka í frakkavasanum! Það er ekki hollt að tala við sjálfan sig, hef ég lesið, ekki hollt! Það er merki um einmanaleika og getur skapað vandræði.

Blaðamaður: Blessaður, gleymdu þessu..

Jón leikari: Það er nú kannski ekki svo auðvelt, þegar maður er viðstaddur. Og þú farinn að tala tungum. eins og við séum á samkomu í hvítasunnusöfnuðinn? Við verðum að fara varlega til að vekja hann ekki.

Blaðamaður (annars hugar): Ja... kannski það sé eins og þú segir.

Jón leikari: Eins og ég segi...hvað segi ég? Ég hef ekki sagt neitt! Kannski eitthvað í tengslum við áhyggjur?

Blaðamaður: Kvíða og áhyggjur. Það var í tengslum við ræturnar, við ófrelsið. Ófrelsi okkar sem er yfirgengilegt og þó verst þegar við berum það saman við frelsi trjánna.

Jón leikari: Eða fuglana, maður!

Blaðamaður: Eða hunangsflugunnar sem þú slepptir þarna út. Hvar skyldi hún vera?

Jón leikari: Undir óendanlegum himni sem er svo stór að vængir hennar eru ósýnilega litlir og samt er sagt hún geti valdið hvirfilbyl í Flórída.

Blaðamaður (hugsi): Og samt er tréð fast á sínum rótum. Ófrjálst að sínum rótum.

Sesselía (stendur upp og slekkur á segulbandinu, tekur stólinn og kjagast út.):

Maður er orðinn eins og skip sem kjagsar í báruna (hún hverfur í skugga trésins sem er byrjað að fella laufið). Ó, blessað frelsið. Það er fyrir alla aðra en okkur kapítalistana. (virðir tréð fyrir sér) Tré frelsisins, ja, sei-sei!

Blaðamaður: Ég hef verið að hugsa um þetta sem þú sagðir um áhyggjurnar. Þær leiða til þess að maður fer að reykja eða naga á sér neglurnar og endar með því að maður þarf að venja sig af hvorutveggja. Ég hef notað þá aðferð að venja mig af að naga neglurnar á hægri hendi. Ég get sýnt hana hverjum sem er eins og hún er núna, en sú vinstri er í vinnslu. Sjáðu muninn.

Jón leikari: Já, það leynir sér ekki. Áhyggjurnar eru farnar úr hægri hendinni en það vantar ekki kvíðaköstin í þeirri vinstri!

Blaðamaður: Ég byrjaði ungur að naga og nú fer það sem er eftir ævinnar í að venja mig af þessum óvana. Og ég byrjað að reykja á sjónum, en vandi mig af því þegar ég fór að reykja pípu, sagði við hana einn góðan veðurdag eftir hálsbólgu, Mig langar ekkert í þig, ekki lengur! Farvel Franz!

Jón leikari: Þetta er bara eins og þegar Sessa uppgötvaði að hún væri orðin gömul kona.

Blaðamaður: Nú, hvernig var það?

Jón leikari: Langar þig, sagði hún við fullan strák - og hann hefur ekki sézt síðan!

Blaðamaður (forvitinn): Hver sagði þér þetta?

Jón leikari: Hún sjálf.

Blaðamaður: Hún sjálf, hvenær?

Jón leikari: Ég man það nú eiginlega ekki, annaðhvort í þessum draumi eða... (hugsi) ..eða einhverjum öðrum. En það er eins og þú segir, það koma sínkt og heilagt upp einhver áhyggjuefni. Einhver vandræði.

Blaðamaður: Og hvar var karlinn?

Jón leikari: Í útlöndum.

Blaðamaður: Á ferðalagi. Í verzlunarerindum. Að lyfta sér á kreik?

Jón leikari: Hvað áttu við, kreik?

Blaðamaður: Já, hún hét víst Krík, en þeir breyttu því í  Kreik, gárungarnir! Hún bjó í Mílanó...Það var þar sem Ásbjörn heildsali sá myndina af Sir John, stórt málverk í anddyrinu, og varð svo mikið um að hann hljóp frakkalaus út í þrumuveðrið.

Jón leikari: Málverk í anddyrinu?

Blaðamaður: Já, í hóruhúsi í Mílanó...eða var það í Napólí, ég man það ekki.

Jón leikari: Það er fyrsta merkið af þremur, að maður sé farinn að eldast. Eins og þú sagðir, eða var það ég sem sagði þér það, ég man það ekki. Ég er líka að verða svo anskoti gleyminn.

Blaðamaður:En í hóruhúsi var það, svo mikið er víst.

Jón leikari: En hver er Sir John?

Blaðamaður: Hann er dauður. Hann var þekktur innflytjandi og var alltaf í þessum verzlunarerindum út og suður.

Jón leikari: Ætli hann hafi ekki heldur verið í pólitík?

Blaðamaður: Einhvers konar pólitík, jú. Gárungarnir kölluðu þessar ferðir að lyfta sér á kreik! En sjáðu hvernig ég fór með löngutöng í gærkvöldi.

Jón leikari: Hvernig?.

Blaðamaður: Nagaði hana upp í kviku eins og þú sérð.

Jón leikari: Nagar og nagar, og samt ertu alveg áhyggjulaus þessa stundina.! Þú verður að gera eitthvað í þessu, maður, til að bjarga hægri hendinni!

Blaðamaður: Eins og hvað?

Jón leikari: Fá þér klippur.

Blaðamaður: Eins og landhelgisgæzlan! Nei anskotinn, frekar byrja ég að reykja aftur!

Jón leikari: Ertu vitlaus, maður, það er harðbannað að nefna tóbak á nafn, harðbannað.

Blaðamaður:Ég þekki fólk sem nýtur þess að reykja... í draumi. Reykir aldrei endranær.

Jón leikari: Já, í martröð, það er víst leyfilegt samkvæmt landslögum. Martröðin er, skal ég segja þér, nokkuð góð, ef menn nota hana rétt. Nei, ekki í venjulegum draumi, aldrei. Það er bannað með lögum, harðbannað. Það má ekki einu sinni nefna það, þetta þú veizt....

 Sesselja: Þar féllu nokkur i einu (tekur lauf og lyktar af því) Næstum því eins falleg og plastlauf!

Jón leikari (vandræðalega): En heyrðu,ég verð víst að segja þér... já, ég ætlaði að minnast á það fyrr ...að áætlunin fór út um þúfur.

Blaðamaður: Hvaða áætlun?

Jón leikari: Um drauminn.

Blaðamaður: Drauminn?

Jón leikari: Hann fór ekki í kaffi .

Blaðamaður: Nú, heldur hvað?

Jón leikari: Hann leigði sér herbergi og lagði sig. Þess vegna erum við hér... og...

Blaðamaður: Og hvað?

Jón leikari: Og við erum komnir inn í vitlausan draum. Annan draum!

Blaðamaður: Hvað áttu eiginlega við?

Jón leikari: Þetta er ekki lengur draumurinn um frelsið, þetta er draumurinn sem hann dreymir þarna í herbegi 113 þar sem hann sefur kófsveittur eins og gamalmenni  með inflúensu.

Blaðamaður: Svo við erum þá ekki hér, heldur þar?

Jón leikari: Einmitt. En nú veiztu þetta og þá geturðu talað um sýninguna.

Blaðamaður: Og áhyggjurnar.

Jón leikari: Og áhyggjurnar. Það skiptir engu máli í sjálfu sér í hvaða draumi við erum, aðalatriðið er að hann sofi sem lengst.. En áttu ekki að skrifa eitthvað um þessa sýningu?

Blaðamaður: Jú, það var meiningin!

Jón leikari: Eigum við þá ekki að snúa okkur að efninu. Hvernig lízt þér á sýninguna?
Blaðamaður: Ha,vel.

Jón leikari (háðslega): Eins og lyfta sér á kreik, ha?! Þetta eru mest megnis súrrealískar myndir Draumar. (bendir) Hvað segirðu um svona mynd?

Blaðamaður: Þetta er sambland af klippimynd og málverki, er það ekki?

Jón leikari: Það mætti segja . Og þarna er táknmynd um stríðið.

Blaðamaður: Þjáningin, afskræmdir líkamar sem eru hluti af landslagi. Draumur um frelsi!

Jón leikari: Þú ert nokkuð heitur! En hvað segirðu um þessa þarna (þeir standa upp og horfa saman).

Blaðamaður: Nú, þetta er tréð. Þetta er frelsistréð.

Jón leikari: Það er rétt .Og byrað að fella laufið.

Blaðamaður: Sem sagt ný mynd. En það vantar Sesselíu á myndina. Er hún ekki hluti af draumnum.

Jón leikari: Ekki þessum draumi. Öðrum draumi.

Blaðamaður: Nú.

Jón leikari: Tréð er einn draumur, en Sesselía annar. Hún er í sínum draumi, en tréð í öllum draumum. Rætur þess eru í Aþenu

Sesselía (er nú sezt aftur við tréð og hlustar á segulband): Það er óskemmilegt hvernig farið er með okkur kapítalistana. Óskemmilegt, sagði ég (þeir hrökkva við).

Blaðamaður: Var einhver að segja eitthvað?

Jón leikari (lítur í kringum sig): Mér heyrðist það, að vísu, en sé engan.

Sesselía: Það er alltaf gengið fram hjá okkur í öllu. Við erum hunzuð. Við erum fórnardýrin, sama á hverju gengur, öllum spjótum beint að okkur. Sá sem á ekkert, hann er frjáls að öllu, sagði skáldið. Hann er sannur kapítalisti, frjáls að öllum öðrum. Þannig hef ég skilið þetta og þannig stend ég mína pligt.

Jón leikari: Nei,þetta var víst misheyrn.. En hvernig finnst þér myndin?

Blaðamaður: Súrrealistísk  auðvitað, draumkennd.

Jón leikari (kominn í hlutverk málarans): Þú minntist á áhyggjurnar, þjáninguna. Líklega væri rétt að skrifa hana með stórum staf. Þessa andlegu Þjáningu sem listin leggur skáldum og listamönnum upp í hendur. Ég þekki hana að vísu ekki. Aftur á móti þekki ég hina þjáninguna, veraldlegu sortina, ef ég mætti nota það orð. En ég er líka á móti henni. Ég fyrir mitt leyti hef aldrei fengið neitt annað út úr veikindum, fátækt,  kynnum mínum af vondu fólki en eitthvað það sem er í alla staði niðurdrepandi og andstyggilegt. Ég veit það eru til fínir menn með viðurkennda intelligensíu og þeir álíta sumir hverjir að listin sé einhver járnagi, tukthús og feiknaleg þjáning. Og svo eru þessir ungu menn sem hnykla brýrnar og setja merkið hátt. Þeir eru við sama heygarðshornið og hin viðurkennda intelligensía. Og maður er fræddur um það að þjáningin sé hingað send af guði sem hið sannarlega balsam andlegs þroska og einhvers konar eilífðar gosbrunnur listarinnar. Vera má að það sé drama og stórfenglegur stíll yfir svona kenningu, en ég hef enga trú á því. Mér gengur betur að vinna að mínu verki þegar ég er léttur í spori og glaður í lund, heldur en þegar ég er reiður og stappa í gólfið. Eða áhyggjufullur. Á sama hátt tel ég mér lífið meira virði þegar ég er heill og hraustur og á nóg að bíta og brenna en þegar ég er sjúkur og allslaus og sé ekki neinn sólskinsblett framundan. Ég hef aldrei verið alfrelsaður af neinu syndsamlegu framferði í listinni, frelsunin hefur aldrei dottið ofan í mína húfu. Líttu bara á myndina þarna þar sem frelsið er byrjað að fella laufið. Það er ekki á það stólandi frekar en önnur stopul gæði lífsins. Mér finnst listin ekkert hafa með frelsunina eða dyggðina að gera, en frekar með syndina, því að hún er skemmtileg, frjósöm og kemur á óvart (hvíslar og dregur blaðamann að veggnum, bendir) En við skulum ekki tala hátt hjá þessari mynd. Það getur verið að við truflum og þá lokast hólarnir og álfarnir læðast burt. Sérðu huldufólkið?

Blaðamaður: Það er hluti af landslaginu, eða hvað?

Jón leikari: Þú ert heitur! En heyrðu, góði, tekurðu eftir því að hann er farinn að rumska.

Blaðamaður: Já, ég var að velta því fyrir mér. Hann var að bylta sér. Mér fannst það eins og jarðskjálfti.

Sesselía (hrekkur upp): Já, ég var eiginlega byrjuð að dotta (lítur í kringum sig)... þetta er allt svo dauft og drungalegt. Ég hef alltaf sagt hún sé skemmtileg, hún versa (horfir á tréð), alltaf sagt það, skepnan þín..En það er ekki þar fyrir, ég hef líka haft það bærilegt hér á Römblunni.

Jón leikari (kallar): Þú ert ekki þar, þetta er allt misskilningur.

Sesselía: Ha, hvað... var einhver að kalla?

Jón leikari: Þetta heitir Aþena, lítill bær í Georgíu-fylki!

Sesselía: Ó, guð minn góður. Ég held ég sé að verða kolrugluð. Bezt að koma sér heim. Ha, hvar á ég heima, ja, ég verð að finna út úr því (tekur stólinn og kjagar burt).

Jón leikari: Hún er orðin kolrugluð, kerlingin. Ég var að fylgjast með henni, tókstu ekki eftir því,þegar hún greip frammí. Ég hélt hálfpartinn þetta væri misheyrn.

Blaðamaður: Nei, ég var með hugann við annað.

Jón leikari: Nú, hvað?

Blaðamaður: Það sem móðir mín sagði.

Jón leikari (forvitinn): Og hvað sagði hún?

Blaðamaður: Það sama og skáldið: Eitt orð getur dimmu í dagsljós breytt. En það segir bara ekki alla söguna. Rangan er oftast ólygnust. Það væri réttara að segja: Eitt orð getur breytt dagsljósi í dimmu. Eða hvað finnst þér?

Jón leikari: Jú, það má íhuga það. En við skulum tala svolítið lægra meðan við erum að snúldra hérna við myndina af trénu.

Blaðamaður: Snúldra?! Ég er að vinna, sérðu það ekki.

Jón leikari: Nú, jæja, en ætlarðu þá ekki að koma með einhverja spurningu?

Blaðamaður: Þú hefur ekkert málað neitt héðan frá Reykjavík.

Jón leikari: Af þessum húshjöllum, nei, mig langar ekkert til þess. Reykjavík, elskan mín, það vantar turnana á þessa borg. Súlur, útflúr og turna á húsin og margt fleira sem setur svip á bæinn og er í stíl við norðurljósin. Og svo eiga húsin að standa hátt. Stýrimannaskólinn er á góðum stað, hann er eina húsið sem mér finnst fallegt í Reykjavík. Þessi nýtízkuhús eru eins og kexkassar en það vantar bara í þau kexið. Þegar ég var kominn yfir þrítugt fór ég til Kaupmannahafnar, lífsreyndur maður og hafði tekið eftir mörgu, en það opnaðist samt fyrir mér nýr heimur, fullur af turnum og fögrum trjám. Ef ég væri byggingameistari mundi ég hafa húsin skrautlegri og meira í samræmi við skýin. Eins og kauphöllina í Kjöben! Eða hringturninn, okkur vantar allt slíkt! Hefurðu tekið eftir því hvað fáir hafa séð skýin eins og þau eru. Hvítt rósatraf. Þannig hef ég oftast málað þau. Ég vil ekki hafa svartar flyksur í mínum málverkum. Hugsaðu þér hvað þetta væri fallegt: Háir turnar sem teygja sig upp í hvítt rósartrafið. Þá fyrst væri kominn fallegur rammi utan um borgina og hún mundi njóta sín.En sjáðu þessa mynd þarna, hvítur jökull eins og tröllslegur svanur á heiðinni, blá þögn og skratulegar endur á þessari þögn.

Blaðamaður: Þetta eru tjarnir, bláar tjarnir.

Jón leikari:Já, endur á blárri þögn, myndin heitir það - og frá því verður ekki hvikað. Þetta er sölutitill, skilurðu það ekki? Ertu alveg út að keyra í markaðssetningu, þú sem gerir út á fjöldann eins og allir fjölmiðlungar! Mergðina, heimskuna!

Blaðamaður: Þú ert svo sannarlega ekki allur þar sem þú ert séður! En segðu mér, hvað gerðirðu nú helzt í Kaupmannahöfn.

Jón leikari: Ég sigldi.

Blaðamaður: Hvert?

Jón leikari: Til Ameríku, New York.

Blaðamaður: Hvernig leizt þér á New York.

Jón leikari: Illa.

Blaðamaður: Af hverju?

Jón leikari: Ég er hræddur við allt sem er hrikalegt og mér líkar ekki að þurfa að leggjast á bakið úti á miðri götu til að sjá himininn og ætli það séu nokkrar stjörnur í New York, ég efast um það.

Blaðamaður: Hefur þér aldrei dottið í hug að stjörnurnar væru augu.

Jón leikari: Nei, svo barnalega lít ég ekki á tilveruna.

Blaðamaður: Hvað varstu lengi til sjós?

Jón leikari: Hálft ár.

Blaðamaður: Fórstu þá heim?

Jón leikari: Nei, þá fékk ég starf á járnbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn. Ég var í Kaupmannahöfn í 5 ár og kunni vel við mig. Danmörku kallaði ég pönnukökulandið. Þar var ég aldrei svangur. Ég drakk líka mikið af bjór.

Blaðamaður: Fannstu stundum á þér?

Jón leikari. Nei, aldrei. Það eru engir nema góðtemplarar sem drekka bjór til að finna á sér. Að hugsa sér ef við hefðum meira af bjór og minna af góðtemplurum! En ég trúi því ekki að þú ætlir að fara að skrifa um þetta!

Blaðamaður: Hvur veit!

Jón leikari: Nei, blessaður vertu, við skulum tala um eitthvað merkilegra. Við getum talað um bjórinn seinna.Og þá með ölkrús í hendi.

Blaðamaður: Hvernig væri að ég gengi með þér að trénu?

Jón leikari: Ágætt. Ég er einmitt á leiðinni þangað. Ég ætla nú ekki að fara að gefa upp öndina í herbergi númer 113 á Hótel Borg. Eða... Radisson... æ, hvað heitir það nú aftur, ég er búinn að gleyma því.Tíminn valtar yfir allt.

(Þeir ganga saman að trénu, laufið er fallið og þeir horfa þögulir á nakið tréð).

 

Skömmu síðar.

 

(Málarinn er nývaknaður. Hann situr á rúmstokknum, en blaðamaður  við borð skammt frá.)

Blaðamaður: Þú afsakar ónæðið.

Málarinn: Gerir ekkert , góði. Það var kominn tími til að vakna. Ég þarf að fara upp á sýningu.

Blaðamaður: Já, en getum við talað saman áður en þú ferð?

Málarinn: Ekkert mál, góði. Hafðu það bara eins og þú vilt. Annars var þetta einkennilegur svefn.

Blaðamaður: Nú, af hverju?

Málarinn: Af því mig dreymdi svo einkennilegan draum. Það var nú meiri helvítis vitleysan. Ætli allir draumar séu eintóm vitleysa?

Blaðamaður: Nei, ætli það. Þeir eru stundum súrrealískir eins og myndirnar þínar.

Málarinn: Já, þú segir nokkuð. Myndirnar mínar!

Blaðamaður: Þær renna út eins og heitar lummur.

Málarinn: Já, það er meinið. En heyrðu mig, sérðu buxurnar mínar þarna einhvers staðar?
Blaðamaður: Já, þær liggja á gólfinu, undir rúminu.

Málarinn: Æ, góði réttu mér þær.

(Blaðamaður réttir honum buxurnar, hann fer í þær).

Málarinn: Mig var að dreyma að ég væri leikari sem léki sjálfan mig. Og hann var að tala við eitthvert fólk sem ég man ekki... man ekki hverjir voru. Þetta var skrítinn draumur. Það var gott að þú skyldir koma og spyrja eftir mér. Annars hefði ég haldið áfram að sofa og sogazt inn í vitleysuna.

Blaðamaður: Við verðum að segja almennilega frá sýningunni. En af hverju segirðu að salan sé meinið?

Málarinn: Æ, góði. Mér leið bezt þegar ég var óþekktur og engum datt í hug að hafa áhuga á því sem ég var að bardúsa, ég tala nú ekki um áhyggjur af fátækt minni.En nú er allt breytt.Og engu líkara en pakkið gangi fyrir klámi. Það er hreyfiaflið nú um stundir. En Aristóteles talaði um guð sem hreyfiaflið, það er kannski ekki svo mikill munur... svona utan úr sal.

Blaðamaður: Þetta heitir víst sex-bylgja nú á dögum, gekk nafnlaust yfir Róm.

Málarinn: Þú segir nokkuð! Þar voru allir að hugsa um að...að drepa...drepa..og fá sér lyfting! Cesar, Antóníus, Oktovía, Kleópatra og hvað þau hétu nú öll sömul. Það var skárra, skal ég segja, þér í Aþenu.

Blaðamaður: Aþenu, já ,þeirri einu sönnu!

Málarinn: Það er bara ein Aþena, góði minn.Ein Aþena. En þetta er allt mikið breytt frá mínu ungdæmi, þá var kynlífið heilagt, já ekkert minna. Og eðlilegt eins og hjá sauðfénu...og hrossunum.En nýrri kynslóð er ekkkert heilagt í þeim efnum, sjáðu bara sjónvarpið. Nú er ekkert eðlilegt lengur! Nú þarf að stinna allt upp. Í gamla daga var það tólgin sem skipti öllu máli, nú er það stífelsið!

Blaðamaður: Það breytist nú þegar fólk kemst á fast.

Málarinn: Jæja, heldurðu það, ég þekki þetta ekki. Ekki gjörla.

Blaðamaður: Fólk hefur ekkert breytzt. Þetta er sama fólkið og í Róm...og..Aþenu.

Málarinn: Þú heldur það, já! Þú ert nokkuð góður í dag, nokkuð góður! Lyftingur tilheyrir jörðinni, dýrinu. Mér skilst slíkt líkamlegt samstarf tíðkist ekki í himnaríki, en það gegnir öðru máli í helvíti. Það er líklega þess vegna sem allir eru á fleygiferð þangað. Þar geta menn reykt hass eins og þeir vilja og fengið sér lyfting á milli...og það jafnvel í skjóli Erosar. Við erum hálfmenni, hinn helmingurinn er enn í frumskóginum, það er rétt hjá þér, þetta hefur ekkert breytzt. Ekki á nokkurn hátt. Mitt ungdæmi var bara einhver skrítin fífilbrekka, þeir kölluðu hana viktoríutímabilið í Bretlandi til heiðurs drottningunni sem var orðin einskonar eilífðarvél, sú eina í sögu mannkynsins,ég náði í halann á henni... Annars er ég að verða eins og hver önnur broddfluga í þessum efnum, lít ekki á kvenfólk, en hef fyrirvara á öllu. Bókstaflega öllu úr því sem komið er! Það er bezta bindindi sem ég þekki. Búinn heilagur. Skveraði þessu af fyrir miðjan aldur. Og með hvaða árangri? Nú vaða krakkarnir í verkunum mínum og halda ég hafi málað  þau handa þeim. Ég hef varla efni á því að fá mér blund á hóteli lengur. Ég er alveg á móti sexinu í list og sjónvarpi. Það gengur hvort eð er fyrir víagra.Víagra-guðinn er ekki minn guð. Ég mála ekki hormóna, heldur form. Ég vil að þau tali saman. Engin klámhögg í mínum myndum!

Blaðamaður: Má þetta koma fram?

Málarinn: Koma fram, hvar?

Blaðamaður: Í samtalinu.

Málarinn.Það þarf ekki að taka þetta fram, góði, þetta blasir við í myndunum.Ég er að verða eins og Sókrates. Mín verk eru að gleymast og ég er að verða eins og hver annar brandari í annarra verkum. Horfi úr æ meiri fjarlægð á fljót tímans líða hjá. Og nú ætlar þú að búa mig til í samtali. Þetta er svo sem ágæt þróun, það er ekki þar fyrir! Ég hef gaman af svona bröndurum...eins og...eins og Sókrates. Hann hlær bara einu sinni í öllum díalógum Platóns og.... og samt er hann að segja brandara allan tímann! Broddfluga og brandari, það er enginn munur. Nei, góði, ég vona þú hafir gert þér grein fyrir því, maður í þinni stöðu, að við erum svo sem ekkert, í hæsta lagi leikföng guðanna. Það er af sem áður var, þegar allir voru að slá manni gullhamra. Þegar ég var að byrja kom áhugamaður um list á sýninguna og sagði, Ég er ekki ánægður með nútímalist, sagði hann. Og svo fór hann að tala við okkur sem þarna vorum og ég sá að hann var vel verseraður í þeirri göfugu list sem kölluð er konversasjón. Hann sagði að nú mundi listin vera að líða undir lok í þessum heimi og og kannski hinum líka og er nú svo kimið málum að ekki er á annað lítandi en gamla kúnst, sagði hann þarna í dyragættinni. En þar er af nógu að taka,guði sé lof og öllum englum hans, vængjuðum og vængjalausum, bætti hann við. Ég svaraði honum og sagð, Þú hefur að mínu áliti góðan smekk og þú ert revólusjóner í þínum skoðunum varðandi þá list sem nú á undir högg að sækja og það er lífsnauðsynlegt að hafa svona listfræðinga eins og þig til þess það gleymist ekki,að fortíðin var einu sinni til. En ef þú ert óánægður með móderne kúnst, þá er það þitt einkamál og ég legg til það atriði verði tekið af dagskrá sem óviðkomandi þessari sýningu, þar sem við nú stöndum. Þú ert eins og víkingaskip komið af hafi, sagði þá aðkomumaður. Þú ert sá mesti meistari í komplímentum sem ég hef augum litið, greip ég fram í. Þú mátt svo sem taka fram í fyrir mér, sagði maðurinn þá, en ég var ekki búinn að klára komplímentið, sem sagt, þú ert sem víkingaskip komið af hafi og ekki er búið að snúa trjónunni á! Að þú skulir ekki vera til á graffófóni, sagði ég, þessi síðasta setning þím er svo einstætt listaverk að það þyrfti að byggja yfir hans heilt listasafn. Það hafa verið byggð söfn yfir ómerkilegri fyrirbæri en svona setningu og vildi ég þá fyrst nefna það sem þú kallar móderne kúnst og ég lagði til að væri tekin út af dagskrá. En allt er þetta óþarfi því að allar verða þessar listir sjálfdauðar hvort eð er. Það koma nýir snillikjaftar fram  á sjónarsviðið og kjafta allt í kaf og það eru þeir sem hafa haldið líftórunni í okkur... og raunar öllum heiminum. í... í... þúsund ár. Og mundu það, minn kæri! En mynd af engli með kúlu áföstum krossi í hægri hendi og langa fjöður í þeirri vinstri mun lifa alla kúnst af næstu þúsund árin. Svona er nú þetta einfalt, góðurinn minn. Sem sagt, engin klámhögg! En mikið hefur þetta nú samt breytzt frá því ég var ungur.

Blaðamaður: Þú ferðaðist þá eins og Sókrates ...í huganum.

Málarinn: Nei,góði, ég hef farið miklu víðar, fyrst til Kaupmannahafnar. Þar sá ég mörg og falleg hús með allskonar skrauti. Ef ég væri byggingameistari mundi ég ekki byggja hús eins og í Reykjavík. Ég mundi hafa þau skrautlegri og meira í samræmi við skýin. Hefurðu tekið eftir því hvað fáir hafa séð skýin eins og þau eru. Hvítt rósatraf. Þannig hef ég oftast málað þau. Ég vil ekki hafa svartar flyksur í mínum málverkum. Hugsaðu þér hvað þetta væri fallegt, háir turnar sem teygja sig upp í hvítt rósartrafið. Þá fyrst væri kominn sá  rammi utan um borgina sem hún ætti skilið. Blaðamaður: Hvað gerðirðu í Kaupmannahöfn?

Málarinn: Stundaði fátækt. Fór á sjóinn.

Blaðamaður: Og hvert fórstu?

Málarinn: Til Ameríku, New York.

Blaðamaður: Hvernig leizt þér á New York?

Málarinn: Illa.

Blaðamaður: Af hverju?

Málarinn: Ég er hræddur við allt sem er hrikalegt og mér líkar ekki að þurfa að leggjast á bakið úti  á miðri  Fimmtutröð til að sjá himininn. Og ætli það séu nokkrar stjörnur í New York, ég efast um það.Ég sá að minnsta kosti enga!

Blaðamaður: Hefur þér aldrei dottið í hug að stjörnurnar væru augu?
Málarinn: Nei, svo barnalega lít ég nú ekki á tilveruna.

Blaðamaður: Þú sagðist hafa verið í Bretlandi?

Málarinn: Já, eitt ár við nám. Þá leigði ég hjá nízkum karli sem hafði aldrei heyrt Turner nefndan, aldrei. Einu sinni bað hann mig að mála mynd af sér við húsið. Hann skyldi borga mér fyrir. Ég vissi það yrði aldrei. En ég málaði samt húsið, það gerði ég án þess mögla, en sleppti karlinum. Hann var ánægður með myndina, en svo sagði hann: Hérna...átti ég ekki að vera á myndinni? Jú, sagði ég. En það vantar mig á myndina, hélt karlinn áfram. Þú segir nokkuð, sagði ég! Já, sagði karlinn, um það var samið. En hvar er ég þá? Þú hlýtur að vera inni að sækja peningana, sagði ég. Daginn eftir þurfti ég að leita að öðru herbergi. Annars hélt ég hann mundi láta sér þetta lynda, en það var ekki. Fólk vill gjarna hafa  á myndum sem það pantar eitthvað sem það á sjálft. Þegar ég kom heim málaði ég útsýnið frá sveitabæ fyrir vestan, að beiðni bóndans. Þá sagði hann, En af hverju hefurðu grindverkið með, girðingin er farin að síga! Ég hélt þú vildir hafa eitthvað á myndinni sem þú ættir sjálfur, sagði ég. Já, en ég á útsýnið, sagði karlinn. Og svo var þrefað um þetta allan daginn og um kvöldið gafst ég upp og fór. Með allt draslið á bakinu eins og van Gogh. En karlinn hélt myndinni, með grindverki og öllu saman!

Blaðamaður: Og útsýninu.

Málarinn: Já, og útsýninu!

Blaðamaður: En hvað varstu lengi á sjónum?

Málarinn: Hálft ár.

Blaðamaður: Fórstu þá heim?

Málarinn: Nei, þá fékk ég starf á járnbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn. Ég var í Kaupmannahöfn í fimm ár og kunni vel við mig. Danmörku kallaði ég pönnukökulandið, þar var ég aldrei svangur. Ég drakk líka mikið af bjór.

Blaðamaður: Fannstu stundum á þér?

Málarinn: Nei, aldrei. Það eru engir nema góðtemplarar sem drekka bjór til að finna á sér. Að hugsa sér ef við hefðum meira af bjór og minna af góðtemplurum!

Blaðamaður: Heldurðu að þú mundir mála betur ef þú drykkir meiri bjór?

Málarinn (hrekkur við): Betur, ha, heldurðu það?! Svo þú heldur það sé upplagt! Má ég þá frekar biðja um gullhamrana í gamla daga! Nei, það held ég ekki, góði. Alls ekki! En ég mundi líklega selja fleiri myndir, ef bjórstofurnar væru svona uppörvandi pöppar eins og í London.

Blaðamaður: Er hægt að selja fleiri myndir en þú hefur gert!

Málarinn: Jú, ætli það ekki, menn yrðu léttari. Þeir ættu auðveldara með að skilja draumana, huldufólkið og rósatrafið.

Blaðamaður: Kynnu betur að meta súrrealisma.

Málarinn: Gæti verið. En sástu myndina af frelsistrénu á sýningunni?

Blaðamaður: Já, að sjálfsögðu.

Málarinn: Og hvernig þótti þér?

Blaðamaður: Íhugunarefni.

Málarinn: Íhugunarefni!Það er vægt til orða tekið. Ég skil ekkert í að hún skuli ekki vera farin fyrir löngu.

Blaðamaður: Nú?

Málarinn: Þessi mynd á erindi, góði. Í henni er allt sem verið er að eltast við, boðskapurinn á ég við En kannski vantar fugla í myndina, ég veit það ekki. Ég er þó mikið fyrir fugla og ekki síður tröll. Kannski þau vanti! Ég hef ekki getað málað sólsetur vegna þess að tröllin eru á ferðinni á nóttunni, en þau dagar upp við sólsetur. Það veit nú líklega enginn lengur, unga fólkið er að vaxa frá náttúrunni, þjóðtrúnni. En þær eru í blóðinu á mér. Og mér hefur einnig fundizt þú luma á slíkri reynslu. Eða arfleifð.Við verðum að gæta okkar, góði. Gæta þess að varðveita hana vel, hún er dýrmæt. Og það verður að gæta þess, góði, mjög vandlega, að það laumist engin vitleysa inn í myndinar, engin leirsletta. Og kannski er mér  ofvaxið að mála sólsetur, hvur veit. En fuglar, það er annað mál. Fuglar fara ljómandi vel í myndum, þeir eru virðulegir eins og embættismenn með kúluhatta og kurteisir eins og þjónustur á hóruhúsi. Við getum margt af þeim lært. Ég kynntist þeim, þegar ég var á sjónum. Og hugsaðu þér, hvað fugladritið fer vel í klettum og björgum. Það er rómantískt í svörtum dröngunum. Úr dritinu vex nýtt land, grænt og lifandi, en ekki flekkótt eins og útskerin. En þau eiga líka eftir að grænka. Hefurðu ekki gaman af heimspeki, góði. Ég þyki heldur sterkur í henni, þú hlýtur að hafa heyrt það. En veiztu af hverju við sjáum ekki huldufólkið. Jú, sjáðu til, það er vegna þess við erum eins og filma, annaðhvort yfirlýst eða undirlýst. Ég held fólkið vilji hafa svona myndir eins og eru á sýningunni. Myndir úr hulduheimum, myndir úr draumum.Og þær eiga líka að sýna það sem er ósýnilegt.

Blaðamaður: Úr draumum, sagðirðu.

Málarinn: Já, mínum draumum. Draumum okkar allra. En það er kannski ekki að marka, ég mála alltaf eftir minni. Ég mála eins og Platón skrifar. Þá ræð ég ferðinni. Og ég mála eins nákvæmlega og ég get. Þess vegna skil ég ekki afstraktið. En ég skil fuglana. Það er gaman að hlusta á þá undir heiðbláum himni, einkum sumarhimni. Ég er talsvert rómantískur í mér eins og þú sérð þótt ég sé kominn hátt á áttræðisaldur. Anthony Quinn hló þegar sjónvarpsfréttamaður spurði hvað hann hefði að gera með rúmlega þrítuga konu, þá hló hann bara. Ástin, sagði hann, það er ástin! Þetta skil ég vel, þótt ég sé í bindindi. Og maður á ekki að koma sér upp þrítugum ekkjum, ekki að óþörfu! Svona afstaða ætti ekki að saka. Það er eiginlega nauðsynlegt að vera alltaf ástfanginn... af einhverju. Sama hvað það er, jafnvel sjálfum sér, ef ekki vill betur til, já eins og Narkissus. Það er eina ástin sem endist alla ævi. Lífstíðarástin, sagði Wilde...eða var það ekki hann? Eini munurinn á duttlungum og lífstíðarástríðu, sagði hann einnig, er sá að duttlungarnir endast ögn lengur! Nei, ég hef hvorki orðið ríkur af þessu litabrölti né neinu öðru. Þetta hefur bara verið einskonar ástarævintýri. Og svo hef ég haldið við fuglana, ja, það hefur verið platónsk ást, þú skilur. En ég hef alla tíð verið fátækur eins og lausamenn eru.En ekki fátækur í anda,alls ekki! Nú vantar mig tvö herbergi og eldhús, þá gæti ég málað í annarri stofunni. Ég leigi eitt herbergi sem stendur hjá ágætu fólki, en það er ekki nóg fyrir afkastamikinn málara eins og mig. Ég hef orðið að mála á dívaninum því ekkert pláss er fyrir trönur, en það nær auðvitað engri átt. Flestar myndirnar verð ég að mála á breiddina en það er kannski ekki svo slæmt því þannig er landið, þótt einstaka fjöll gnæfi upp úr víðáttunni og sum tröllin teygi úr sér. En ég hef ekki haft húsnæði til að mála á hæðina. Þess vegna þyrfti ég að fá mér nýtt húsnæði með tveimur herbergjum og eldhúsi. Þá gæti ég kannski málað hluta af Norðurpólnum. Hann er aflíðandi hæð með grænum sprungum og vatnsbláu íshröngli. Hann er víst í laginu eins og Himnafjallið á Jótlandi. Þegar ég kom þangað spurði ég lögregluþjón, Hvar er Himnafjallið? Þú stendur á því, sagði hann. En þetta eru aðeins vangaveltur og þú verður að tala varlega um þær svo fólk verði ekki fyrir vonbrigðum, þegar ég sýni næst. Auðvitað get ég ekki málað allan pólinn í einu, til þess er ég ekki nógu ríkur, hann kæmist ekki fyrir á minna en 10 stórum myndum. Það er of mikil fjárfesting á einu bretti. En heyrðu góði. Eigum við ekki að fara að leggja í hann.

Blaðamaður: Hvert?

Málarinn: Nú, á sýninguna, auðvitað. Þú hefur ekki farið um hana með mér.

Blaðamaður: Nei, það væri auðvitað upplagt, þá gæti. ég haldið áfram að tala við þig á sýningunni?

Málarinn: Já, að sjálfsögðu , og þar er rétta umhverfið, innan um  myndirnar.

Blaðamaður: En segðu mér áður en við förum,hvað um trúna? Ég veit um tilfinningalegt samband þitt við náttúruna en... en... hvað um forsjónina? Og frelsið? (hann kveikir á segulbandinu).

Málarinn:Slökktu á þessum anskota, engin tól og tæki í minni návist. Þú verður að upplifa mig eins og ég upplifi fjöll og fugla. Og huldufólk. Með heila, taugum og hjarta. Já, þannig, eins og andlega næringu.Ég mála ekki umhverfið, heldur umhverfið sem mig dreymir. Myndirnar mínar eru ný fæðing, ekki endurfæðing! Þú átt að skrifa mig inn í þinn veruleika, en ekki segulbandsins ..eða hvað á ég að segja...færibandsins í frystihúsi blaðamennskunnar. Sá veruleiki er þín eign, einskis annars. Þín einkaeign. Þín upplifun. Þinn draumur. En þú varst eitthvað að minnast á frelsið? Það er tré sem var gróðursett endur fyrir löngu í litlum bæ sem heitir Aþena og er í Georgíufylki í Bandaríkjunum. Þetta tré er nú orðið til trafala, er mér sagt. Það heftir alla umferð í bænum. Menn eru að tala um að höggva það en mér vitanlega hefur enginn þorað að leggja í það. Ekki enn. En ef þeir höggva það, þá verður það til í myndinni minni. Þar mun það standa í fullum blóma um aldur og ævi. Já, löngu eftir að frelsistréð hefur fellt hvert einasta lauf og einnig löngu eftir að þeir eru búnir að höggva það í spað. Og það verður mitt tré,vaxið úr minni hugsun.En eigum við ekki að fara að hypja okkur?

Blaðamaður: Jú, en það var þetta með... með náttúruna... og forsjónina?

Málarinn: Þú ert að tala um náttúruna og guð. Það er ærið viðfangsefni, góði. En það er náttúrulega í tengslum við heimspekina svo ég hef sitthvað um það að segja. Og svo listina. Ég skal segja þér þetta á leiðinni og þá getum við staldrað við hjá trénu í Aþenu.

(Þeir ganga saman, hægt,  og málarinn talar um guð og náttúruna. Þeir stanza við tréð sem nú stendur aftur í fullum blóma og það er fuglasöngur í laufin.).

 

Málarinn: Ég er alinn þannig upp, góði, að ég trúi á guð, að hann sé í öllu og alls staðar nálægur. Það er barnaleg trú, en hún hefur dugað mér. Dugað mér vel, get ég sagt. Hún er einskonar vörn gegn áreiti. Verndar ofnæmið. Og það hefur hjálpað mér, alveg frá upphafi, að ég hef gert mér grein fyrir því að skaparinn er betri málari en allir aðrir, þótt hann hafi ekki stundað nám í listaakademíu. Hann er jafnvel betri en Picasso, hvað sem listfræðingarnir segja um það. Allt sem við erum að rembast við að mála hefur hann málað áður. Og betur en við Grasið sem vex upp af jörðinni grænt og glitrandi, bláan himin, fugla. Mig langar  að vera í nálægð hans og mála honum til dýrðar.En ekki eins og hann. Eða í samkeppni við hann. Þannig hefur mér tekizt að halda fjarlægðinni milli mín og þessara hálfmenna sem alltaf eru að saga...saga! Í stað þess að gróðursetja. Og mig hefur aldrei langað til að mála sólsetursljóðið sem hann yrkir hvert sumarkvöld; ég treysti mér ekki til þess. En ég mála svani og heiðavötn eins og hann hefur gefið mér gáfur til. Farðu heim og biðstu fyrir í herberginu þínu, sagði Kristur, hávaðalaust og ekki hrópandi á torgum eins og heiðingjar.Og guð sem fylgist með þér í leyndum mun endurgjalda þér. Þessi orð hafa verið mitt leiðarljós um dagana.Ég hef látið fara lítið fyrir mér, keppi ekki við neinn, ekki einu sinni grasið (bendir á tréð). En sjáðu, þarna blasir það við. Og heyrirðu fuglasönginn, það hálfa væri nú nóg.Lerki ...eða birki...eða eitthvað annað...það skiptir ekki máli!.

Blaðamaður (grípur um handlegginn á málaranum): Þetta minnir mig á kvæðið hans Knúts um...

Málarinn:Ég þekkti hann aldrei, vissi bara af honum.Hann var of fyrirferðamikill fyrir minn smekk.Vantaði ekki jafnvægið í hann, ballestina? Hann var sá eini sem réð eitthvað við ungu kynslóðina, eða var það ekki hann sem sagði, Mér hæfir enginn dauðdagi  - nema heimsendir?

Blaðamaður: Maður hefur svo sem heyrt það. En ég þekkti ekki þá hlið á honum. Mér fannst hann fremur til bak, jafnvel feiminn. Hann tók mér eins og glötuðum syni.

Málarinn:Hann hefur kunnað vel við þig og ég skil það vel. En hvað segirðu, hvernig er svo kvæðið á þessum drottins degi?

Blaðamaður (reynir að einbeita sér): Bíddu aðeins hægur.

Logn,

og enginn fugl.

Samt hreyfist greinin,

ber litlum vængjum

vitni.

 

Fuglinn ósýnilegur.

 

Eins og guð.

 

Málarinn: Nokkuð gott, nokkuð gott! Og þarna stendur það í allri sinni dýrð, sú eina sanna tólg. Þetta er forsjónin sem þú ert alltaf að minnast á.Ég held guð hafi ekki skapað manninn í sinni mynd, heldur tréð.Og nú hef ég komið því fyrir á dýrasta striga sem til er og þú ættir að vita hvað litatúpurnar kosta sem ég notaði. Og þær eru alltaf að hækka. En eigum við ekki að fá okkur sæti, svona andartak. Blása úr nös. Hlusta. Anda með trénu, anda með.laufinu. Eða barrtrjáanálunum, það skiptir ekki máli. Þetta er nú meiri dýrðin, góði. Sannkölluð alsæla! Að vísu engin dýr, engir íkornar. Ekki hér Engu líkara en þetta sé draumur. Kannski erum við draumur fuglanna, það skyldi  þó ekki vera (grípur í handlegginn á blaðamanni). Draumur trésins. En hlustaðu, góði. Þetta er forleikur fyrir sýninguna. Þegar ég var nýkominn heim frá Kaupmannahöfn stóð ég oft við hornið á bankanum, andspænis pósthúsinu. Þá sögðu þeir, Vertu eins lengi við hornið og þú getur. Nú, sagði ég, til hvers? Þá sögðu þeir: Kreppan er í aðsigi, en meðan þú styður við hornið á bankanum, hrynur hann ekki. Þetta tré er í svipuðu hlutverki og ég í kreppunni .Meðan það stendur er einhver von. Það hristir af sér maðkinn.Ormétið frelsi er einskis virði.En rónarnir koma óorði á brennivínið og maðurinn hefur því miður komið óorði á sköpunarverkið.Vinnusemi guðs, dýrð hans. Manndýrið, einmitt manndýrið. Spor rándýrsins við vatnsbólið.

Blaðamaður: Þú ert svartsýnn í dag.

Málarinn: Ætli það sé ekki dagamunur að svartsýni minni eins og allra sem hugsa eitthvað. Dýrið verður að fá útrás í jarðneskum móðursýkisköstum af ýmsu tagi, þótt það hafi stigið öðrum fæti út úr frumskóginum. Það er að vísu orðið maður, manneskja, en það hefur ekki losað sig við jörðina og margvíslega fylgikvilla mennskunnar. Þessi fullyrðing er ekkert svartagallsraus, heldur styðst hún við haldgóðar heimildir og reynslu okkar eftir langa göngu og mikla leit. Ekki endilega að einhverri óskilgreindri paradís, heldur óskilgreinanlegri fegurð.

Blaðamaður: Þú ert að missa trúna á mannin, heyri ég?

Málarinn: Nei-nei, alls ekki. Það er bara dagamunur á svartsýninni. Og nú tala ég tungum eins og þegar heilagur andi kom yfir postulana, þú verkar þannig á mig. Ekki svo að skilja að þú sért neinn heilagur andi í mínum augum, o-nei,nei, það er enginn fréttamaður, nei, svo elliær er ég ekki orðinn, andinn  er í gervi dúfunnar, en ekki blaðamannsins. Svo er guði fyrir að þakka. O-sei-sei,nei ég hef ekki misst neina trú, ekki heldur á manninn eða þróun lífs á jörðinni, ef þú átt við það, og það vegna þess hve margt hefur orðið öndverðara í heiminum en æskilegt hefði verið. Sá sem missir trúna á manninn og menninguna annað veifið þarf ekki endilega að hafa glatað þrautseigju andans og þeirri bjartsýnu von sem mannúðin nærist á. En mannkynið, maðurinn,hann leysir niður um sig brækurnar hvenær sem honum þóknast, rekur framan í mann rassgatið og hrópar: Þetta er alheimurinn! En það er sko eitthvað annað, því að alheimurinn er annars staðar, góði! Það veizt þú, eða hef ég ekki skilið það rétt að þú hafir fengið intellígensíufrymið með genunum!

Blaðamaður: Gott þú ert ekki gagnrýnandi eins og þú ert hvassyrtur!

Málarinn (stendur upp): Raunsær, áttu við.

Blaðamaður: Svartsýnn!

Málarinn: Það er dagamunur á því, góði. Eins og gengur. En sýningin bíður (syngur hástöfum): Er nokkur furða þótt nautinu blöskri?! Þegar Búdda var spurður hvað væri mikilvægast í lífinu, svaraði hann: Núna! Og sýningin bíður...núna!

(Þeir ganga saman á sýninguna,en hún er merkt með stóru letri: Komið á sýninguna núna!)

 

Nokkru síðar.

 

(Sesselja kjagar að trénu, hikandi. Hún setur útvarp á stólinn, leitar að réttri bylgjulengd. Sagarhljóð í fjarska, nálgast. Upplestur í útvarpinu).

 

Hann stendur með sögina

í annarri hendi,

horfir yfir valinn

 

nýbrumað birki

á vígvellinum,

hvítt í sárið

 

Lóan hverfur undir laufgult

haust frá í fyrra

 

hneyksluð.

 

Hún þekkist

af göngulaginu.

 

Sesselja: Uss-suss  og svei-attan, hvað ætli þeir viti?! Svo sem ekki neitt! (leggur við hlustir, við tréð). Þykjast samt allt vita. En það verður ekki vaðið yfir okkur, skaltu vita, ekki meðan hún Sessa gamla stendur í báða fæturna, jafnlanga (það kviknar fullt tungl í trénu  og fuglasöngurinn eykst).Við spjörum okkur undir fullum mána ( tekur dansspor, syngur)

 

Tunglið, tunglið taktu mig

og berðu mig upp til skýja...

 

(Viðeigandi tónlist í útvarpinu. Sesselja leggur skilti að trénu, á því stendur: Hvað segir völva aldarinnar um framtíðina? Komið með lófana-núna! Tarot. Hún hagræðir skiltinu, sezt og leggur kapal. Sagarhljóðið heyrist, með þögnum. Það nálgast).