Veröld í spegli

 

Fegurð himins er ljóðræn saga.Samt er hún skrifuð í upphafi heimsstyrjaldar. Þrjár

sögupersónur hennar eru nokkurn veginn ógleymanlegar,auk ljósvíkingsins, Sigurður Breiðfjörð,eða öllu

heldur minning hans,stúlkan sem er ekki til,eða eins og segir í sögunni:Ég elska eina stúlku og hef ekki

fundið hana og svo náttúrlega sú sem ljósvíkingurinn finnur,en missir inní dauðann og verður til þess

að hann veslast upp í lokin.

Hún heitir Bera.

Hún hafði lifað á mörkum draums og veruleika.

En rímnaskáldið hafði lifað í þjóðarsálinni,samt höfðu lærðir menn sannað að hann hefði verið leirskáld.

Það eru margir eftirminnilegir kaflar í þessari sögu og í ljóðum eru vísbendingar um það,hver

er fyrirmyndin sem höfundur er að skrifa inní söguna um Beru og ljósvíkinginn.

Það er Steinn Steinarr.

Í niðurlagi 21. og 23.kafla eru ljóð sem skírskota beint í skáldskap Steins Fyrri

sonnettunni lýkur á hugmynd Steins í þekktu kirkjugarðsljóði :

Hvort er ég heldur hann, sem eftir lifir,

eða hinn, sem dó,.

en ljósvíkingurinn Halldór Laxness yrkir:

Hvort er ég hann sem kom eða hinn sem fer ?

og síðan sagt að fegurð stúlkunnar fylgi skáldinu “hvert fótmál hinna endalausu vega!

Ljóðið í 24.kafla er einskonar útlegging á einu eftirminnilegasta erindinu í Tímanum og vatninu:

Frá vitund minni

til vara þinna

er veglaust haf,

en um það hef ég fjallað annars staða (sjá t.a.m. greinina Á bylgjum hafsins í ritinu Fjötrar okkar og

takmörk , Steinn Steinarr í Hugleiðingum og viðtölum og víðar ).

Segja má að skáldið sé að spegla persónur sínar í þessum ljóðum og þá kannski einnig að

höfundi bregði sjálfum fyrir í þessum ljóðræna spegli.

En það er annasr spegill,raunverulegri í 22.kapítula sögunnar,honum er þannig lýst : “Þegar

hún var farin uppgötvaði skáldið að hún hafði gleymt hjá honum speglinum sínum.Það var ofurlítill

kringlóttur spegill til að stinga í vasa eða handtösku.Hann hafði að vísu ekki getað kostað nema örfáa

aura;aftur á móti hafði hann speglað hina fegurstu mynd í lífi dauðlegs manns”.

Og um þennan sprgil orti ljósvíkingurinn “allan daginn”,það var ljóðið sem er 24.kafli

sögunnar; svohljóðandi:

Þótt form þín hjúpi graflín,granna mynd,

og geymi þögul moldin augun blá

hvar skáldið forðum fegurð himins sá,

ó fjarra stjörnublik,ó tæra lind –

og eins þótt fölni úngar varir þær

sem eitt sinn þíddu kalinn hlekkjarmann,

þær hendur stirðni er ljúfar leystu hann

og lyki dauðans greip um báðar tvær,

það sakar ei minn saung,því minníng þín

í sálu minni eilíft líf sér bjó

af yndisþokka,ást og mildri ró,

einsog þú komst í fyrsta sinn til mín ;

einsog þú hvarfst í tign sem mál ei tér,

með tár á hvarni í hinsta sinn frá mér.

Svona kvæði eru til að nálgast fegurðina.En þau eru eins og hún,ónálganleg.Þess vegna eru

þau jafnbrothætt og spegillinn sem auminginn brýtur í næsta kafla. En þá biður Ólafur Kárason

ljósvíkingur um “ að mega festa lítinn spegil á rúmgafl Aumíngjans svo hún sæi aftur jökulinn og hætti

að gráta. “ Í þessum spegli á heima Eitt og Allt “ eins og skáldið segir.

Og sól næsta dags mun koma upp í þessum spegli.

En þá var skáldið á leið inná jökulinn til að hugsa um fegurstu spegilmynd lífsins “í miklu sólskini”

Og það er þá sem fegurðin mun ríkja.

Ein.

-------------------

Þegar ég las Fegurð himins á sínum tíma þekkti ég enga sögu aðra með spegil í

sama hlutverki og ferðalag ljósvikingsins inní fegurðina.En síðan hef ég kynnzt slíkri sögu.Hún er

japönsk,eftir Kawabata Yasunari sem lifði frá 1899 til 1971.Hún fjallar einnig um ást og fegurð og

rúmliggjandi sjúkling sem upplifir veröldina í spegli.

Og spegillinn japanski er kallaður “auga ástarinnar” :

“Það var ekki einungis jurtagarður Kyökós sem eiginmaður hennar hafði skoðað í speglunum

tveim.Hann hafði séð hmin,ský,snjó,fjarlæg fjöll og nálæga skóga.Hann hafði séð tunglið.Hann hafði

séð villt blóm og leyft fuglunum að fljúga um spegilinn.Fólk gekk eftir veginum í speglinum og börn

léku sér í garðinum .”

-------------

Ég hef ekki hugmynd um,hvort Kiljan þekkti þessa sögu,eða hvort japanska nóbelsskáldið

þekkti Fegurð himins,enda veit ég ekki hvenær Yasunari skrifaði eða birti þessa sögu sína sem

heitir Tunglið á vatninu.. Hún fjallar einnig um ást.Og líklega einnig sól sem kemur upp í spegli.

Og fegurðina sem þar ríkir.

Og breiðir línhvíta blæju dauðans yfir leyndardóm þessarar sömu fegurðar.

 

 

Örlög og englaryk

 

Um englarykið

Þessi ljóðaflokkur fjallar um harmleikinn í tengslum við fíkniefni og birtist með skáldsögunni Vatnaskil.Efnið er sorgir foreldra sem missa börn sín í eitrið.Ég þekki það að vísu ekki af eigin raun,heldur afspurn.

Upphafið að þessum flokki varð til í draumi,en svo lauk ég við hann á nokkrum vikum Síðasta ljóðið,Við gröf, 32, er ekki á sínum stað í Vatnaskilum, Matth.

 

... þær inar glæddu götur
Sólarljóð


1.
Hálfvolgur hugur, hvítur
sem nýfallinn snjór,
hlustaði áfram á hvíldarlaust suðið
í huga sínum, Ég læt þetta duga,
sagð´ann uppúr eins manns hljóði
og hálfkveðinni vísu, en hún gat ekki
fundið sjálfa sig í þeim spegli
sem eitt sinn var bundinn
trúnaði þeirra og ást, Ég læt þau
um þetta, örlögin, allt er í þeirra
höndum, sagði'ann og andlit hans
eins og píslarsálmur eftir Ólaf
gamla á Söndum.

2.
Við erum byrjuð að sigla inní
myrkrið, sagði hann,en hún
anzaði því engu, hugsaði með sér
að hún þekkti ekki þennan
mann sem bar þess
merki að ár og dagar voru liðin
frá því þau hittust fyrst, Ég verð
ekki lengi, sagði hún um leið
og hún lokaði dyrunum, en hann
stóð eftir og beið þess hún færi, inní
myrkrið sagði hann við sjálfan sig
og hálfvolg hugsun elti hann
eins og deyjandi glóð sem einhver
skilur eftir í haustgulu rjóðri.

3.
Þau höfðu hitzt eitt
haustkvöld í gulu laufi
og fölnandi sólin var hulin
septemberskuggum þar sem trén
byrgðu útsýn við gamla
mosgróna glugga á litlu
timburhúsi í vesturbænum, hann
mundi það vel og hugur
hans fylltist af hvítum
fuglum sem flögruðu að
og settust eins og gamlar
minningar á naktar greinar
meðan síðustu geislar kvöldsins
dönsuðu tangó af fallandi blaði
á blað.


4.
En nú var hann einn og undi
við atburð sem kom eins og gestur
af úfnu hafi tímans, þegar hún
kom aftur sagðist hann hafa
hugsað um allt sem var
liðið, Og hvað er þá áleitnast, spurði
hún furðu lostin, Sú
ólifða minning, sagði hann
sem aldrei varð að þroskuðum
ávexti trésins og greinarnar
sakna.einar og yfirgefnar,
atburður liðinna daga
sem aldrei varð, hægt inní
myrkrið mjakast sú
áleitna hugsun sem heldur
til fundar við óbrotið
stundaglas tímans.


5.
Hálfur skríður máninn upp
steingráa veggi hússins, egghvass
eins og greinds manns tunga, leggur
af stað inní stjörnulaust
myrkur hugans, Komdu og sjáðu
norðurljósin, segir hún og bendir
út í myrkrið, þau lýsa upp
himininn og vísa myrkrinu
burt, hann stóð upp og starði
þögull og einn með hugsun sinni,
horfði inní uppljómað myrkrið
á óstyrkum grænbylgjandi himni.


6.
Horfði einn inní myrkrið
í huga hans sjálfs, gladdist
yfir því ljósi sem lýsti
upp langdimmar nætur og varpaði
fölri birtu á frostdauðar rósir
sem lifnuðu við eins og minning
um mildari daga,hugsaði
um stéttlausar verur á vergangi
í vitfirrtum borgum, hugsaði
um sorgir þeirra sem sjá ekki
útúr auga, stéttlaus og firrt
lífsneista guðanna miklu
og réttlæti þeirra sem hrópa
hæst og lengst á götum og torgum
sem eiga ekkert skylt
við Aþenu Platons og Seifs, Ég
heyrði af konu, sagði hún, sorgmæddri
röddu, stéttlausri konu sem varpaði
skugga á skjóllausan þingmann, þá
er skylda hans sú að þvo af sér
þennan svarta blett, Þvo af sér,sagði
hann, þennan stéttlausa sora
í sólhvítri blámóðu gjöfullar
borgar við Ganges. Þannig
fundu þau eigin ævi
einhvern þann tilgang sem
nánasta umhverfi svifti
með þjáningu sinni.

7.
Og þau héldu áfram að tala
um tvísýna framtíð og án þess
þau litu á suðandi sjónvarp
og söngl á verðlaunahátíð
þeirra sem útvaldir eru, slitu
svo talinu,horfðu til tungls
sem hvítnaði af sól á langri
leið inní svartnætti myrkurs
og nætur, hann beið þess hún
segði eitthvað um þjakandi þögn
og þrá sem fylgir væntingum
gamallar ástar, en hún þagði
með endurskin tungls í slokknandi
augum,hann sagði að lokum, Þannig
héldum við einnig inní það
myrkur sem slekkur blikandi
fyrirheit rísandi daga unz blekkingin
umvefur ískaldar þagnir
og hikandi dagar hverfa með tungli
í hafdjúpin miklu,

deyja sem glóðir að glóandi
gærdegi vanans.

8.
Það var fennt yfir margt í huga
þeirra og hjarta, jafnvel einnig
fennt yfir bjarta daga og vonir
sem margar rættust, en minningin
bundin þeim raunum og örvænting
misjafnrar ævi sem engum
er ætlað að launum, samt afhendir
lífið þann beizka bikar sem öllum
er ætlað að drekka í botn, hver
bognar ekki í Sandfellsbylnum
síðast, hver brýtur ekki odd
af oflæti sínu að lokum,um það
var hann að hugsa þegar hugur hans
stóð einn og ósjálfbjarga
andspænis þeim sem hverfur að lokum
eins og þröstur að nakinni grein
í nágrenni annars fugls, athvarfslaus
og gestur hjá guði einum.


9.
Ljónsterk minning um lítinn
anga í vöggu,

en:

kviknað í húsi hugans,lífið
allt í rúst eins og Steven
King lýsir í lífshryllingi sínum.

Blikur á lofti og lýsir
af þessu báli.

Hann stendur á þaki hússins
og björgunarþyrlan bíður,

hrópar:

Komið þið aftur eftir þrjár
eða fjórar vikur!

En þá verður
engin þyrla og þá verður
ekkert hús.

Og kvikulaus þögn
við það sóttennta
gin

reyksvört þögn

hvorki hósti né styn

ekkert hvísl úr þeim
köldu kolum

10.

Hann hugsar lífið er eitur
og eiturgræn hugsun
speglast eins og fjarlæg hilling
í augnmósku örvinglaðs
hugar,vei vei yfir hrynjandi
borg minna hrundu vona,

ó þessi útbrunnu kerti
við kveiklausar þagnir
og slokknaðan loga
ókomins dags sem er liðinn,

bráðnað kerti við kveiklausan þráð.

11.
Hver horfir uppá barn sitt deyja
af hvítu dufti, grimmum vélum
dauðans,án þess fela forsjón sinni
fyrirheit sem brugðust eins og heiður
himinn lokist fyrir þrumuskýjum, líkast
því sem ragnarök við helför
hinzta dags,þannig birtist dauðinn
án þess knýja dyra eins og óvelkominn
gestur fagni gömlum vini,það
er sem vindur rífi upp með rótum
rótfastan hlyn og skilji eftir
gamlan garð sem flag af fyrirheitum,
hver leitar ekki örvæntingu
sinni einhvers þess sem leggur
smyrsl á sára und, Nú hefur guð
fundið höggstað á lífi okkar, sagð´ann
og gróf sitt andlit eins og Job í lúna
lófa, hví hefurðu, guð minn, yfirgefið
okkur?

Hún sagði ekkert, en þagði ein
með angist sinni

12.
Hann sneri innra auga sínu að
þeim innra manni sem blasti þar
við sjónum, mundi hvernig
Dante skilgreinir synd og svik
og syndum sínum mætir hann
í eyðilandi ljóna og hlébarða,
samt glittir þar einnig
á úlfsins eyru, hann hræðist
þennan innra mann og auðn
í eigin sál, þá blasir við
það bál sem bregður flöktandi skuggum
á Júdas eins og jökulísinn bráðni
og jörðin skjálfi undir fótum hans
og grjótið hrynji undan arnaklóm,
hann fer með bæn og Beatrísa
birtist þar sem myrkur heljar
sækir fast að ímyndunum hans
Jesús um allt hús, það bregður ljósi
dögunar á djöfulseðli manns,og nóttin
víkur fyrir sól og birtu en sorgin
kveikir neista að nýju böli
þótt borgin vakni af löngum þungum
svefni og líknin fari eins og ylur um
það angur sem er rótfast mein
í hörðu brjósti hans.

13.
Hann gengur þar sem gulönd blasir við
gráum augum og skógurinn
speglast í vatni, skógur og himinn
halda saman til úthafs eins og nú
sé allt í sátt við jörð sem fylgir þér
ó sól og þú sért aftangolan góð
við gulnað lauf og skógarhörpu-
ljóð, hann stöðvast einn og hlustar
við þrastarvæng á eilíft andvarp
guðs og fuglinn veltir væng
að vinalegri grein, það er sem
meinið bráðni í brjósti hans
og blik af skógarþögn sé gleði dags
við grænar nálar gamals trés
og ána.

Ilkvistum leika greinar grenitrjáa
á gulandarvængi sólar eins og fari
hörpustrengi þögn af hverju strái

hverju strái þessa kalda lands

og kulið hreyfir vatn og vitjar þess
og vatnið rennur hægt um vitund
hans.

14.
Í hverjum einum birtist ein og öll
alveröld guðs og skuggi tímans fer
sem mjöll að vatni fljóts, það rennur hljótt
að hafi tímans, nótt með stjörnuaugu
enn í fylgd með sér, þúsund augu fylgja
einnig þér, fylgja þér að skuggum
þessa dags, hann lyftir jöklum hægt
til himins, hægt að brjósti sér,
sú minning er sem skuggi liðins sumars
og ljósið allt sú eina dýrð sem magnar
skuggann þannig þúsundfalt, Er líf mitt
dreymt,er líf mitt veruleiki? spurði
eins og skáldið forðum, horfði
einn til himins þar sem þúsund stjörnur
voru eins og þögul augu hennar
sem lýstu þar sem myrkrið magnar
ljós og skugga, þessi þögn var nótt
og þögult svar.

15.
Milli þeirra þögn. Og honum leið
sem vetrarfuglar fljúgi milli
greina og hugsun hans svo hljóð
sem þögn við steina og henni fylgdi
kona sem gekk í sinni fegurð
eins og nóttin

og nóttin var kona hulin svartri
slæðu

hún læðist hjá og vitjar vors
sem leynist enn í vetrarhugsun hans,
ó vor, sem eitt sinn áttir þennan dag
og söngst í brjósti hans þitt
blendna sólarlag, efst við uppsir
hússins útigönguhrafnar hrets
og snjóa, en haustið kom
og lóuvængur var sem veðurbarin
hugsun þess sem verður

ó vor
sem eitt sinn áttir bjartan dag
í huga þeirra þegar sólin lyfti
þangbrúnum fjöllum
hægt og þó án hiks
til himins þar sem vænting
vorsins býr,

nú syrtir að, nú sölnar
þessi minning, nýr óviss dagur
slokknar eins og sól

sól tér sortna

og myrkvi sólar syrtir huga hans.


16.
Úti við ósinn er brimið varðhundur
veglausra vatna,

úr hrímuðum gluggum horfa
marglúin augu og hófarnir stynja
við steinkast nálægra gatna, það
hvítnar til vesturs og fjöllin
grá fyrir hærum, hann hlustar
til himins og hugsun hans
blærinn í stráum

og mávurinn hverfur að gránandi
augum á himni, þar kviknar
tungl eins og tölva sem guðirnir
lesa ,jafngamalt og tíminn
sem rennur með jökulmori
til hafs, Við glímum saman
við sólmyrkva deginum lengri
segir hún þögul með augum
sem lýsa nálægð dauðans
og mannýgt nautið
æðir á roðnandi sól sem var
blys í bjartsýnum höndum
þeirra.

Hann sagði ekkert,augu hans
fóru með löndum eins og hroðið
skip úr hræsvölum fangbrögðum
hafsins.


17.
Og svo kom þessi dagur
eins og glitrandi
fiskur á himni fagurblár
undir óséðum stjörnum

ósýnilegir steinar
í straumiðu fljótsins og fiskurinn
syndir til hafs, en fjöllin horfa
agndofa á, horfa af eldbrunnum
heiðum þar sem hraunið
er moshvítur feldur, það
rýkur af brimi, hvítur
faðmur dauðans handan við golur
í melgrasgulum sandi,

skuggi bílsins hemlar við bakka
fljótsins og hverfur með vestursól
eins og vorlaust haustið
handan við jökla, vindurinn
strýkur hrímið af álútum makka
hlustandi fjalls, en öldurnar
hlakka með tungunni, Nú er
lag segir tíminn og hugur hans
glímir við fjallstórar myndir
á himnum,

einmana mávur flýgur upp
eftir ánni, aðrir snerta vænglúnar
öldur við brimið

og mávurinn hverfur til himins
sem deyr inní vatnslygna
þögn.

18.
Þau lifa í minningu tánings
sem týndi lífi og minningarnar
sem gull og líkist helzt frosnum
eldi, hugur þeirra þá ormur sem liggur
lengstum á þessu gulli án þess
Fáfnir sé neins staðar nærri, þau
sækja það gull eins og Sigurður
fáfnisbani í manndóm og hetjulund
sína, það lýsir enn af þeim eldi
og þangað leitar hugur þeirra
sem hetja leiti í haugeld gamalla
ævintýra, þau dvelja þar enn
við glampa af gömlum myndum
og eldurinn yljar hugsun þeirra
sem hrekst úr köldum næðingi
nístandi reynslu og hugurinn
leitar í hlýju af gamalli minning

og þau hverfa til lífsins
og leita sjálfs sín að nýju.

19.
En ástin er ástríðulaus og kulnuð
að kærleikans mörkum, þau sofa
saman eins og tvær styttur á gamalli gröf
(svo vitnað sé í söguna The End
of the Affaire eftir gamla Graham
Green), tveir silfurbikarar tómir
og ekkert vín,

tveir útbrunnir eldar sem nærast
á glóðinni einni,

snarkandi hljóður tíminn

þáfjall er tíminn og bráðnar
sem mjöll á víkjandi jöklum
og fjöllum sem leita til himins,

sólarglotti og hugurinn nærist
við hitann.

20.
Engu líkara en augun hverfi
aftur að dögun sem rís
endurnýjuð af ótal blikandi
stjörnum

og augun fylgja morgunhimni
til hafs, fylgja rísandi sól
yfir svefnlausar engjar að vori
augun fylgja sóley og fíflum
og baldursbrám sem vakna
og vaxa í hverju spori og sólin
á leið inní hádegisbirtu
á heiði, dagurinn tekur í hönd
þeirra, leiðir þau hægt inní himin
bikarfullan af birtu og bláfjallahvítri
sól,

fjólublár dagur sem frosinn eldur
og gullið næring í neista
af nýju báli.

21.
Máninn gestur, kemur
í heimsókn eins og gamall
hestamaður, sést fyrst í fjarlægð
en nálgast eins og hugsun
hennar í niðandi myrkri, stundum
fullur eins og syngjandi
fjallkóngur í réttum, stundum hálfur
án þess að vita það
sjálfur, nálgast eins og hugsun
hennar að huga hans,

kulið hreyfir fjólubláan
himin á víkinni og gesturinn
tekur beizlið af hestinum, hann grípur
niður og máninn baðar sig
undir fjallbleikum geislum
vestursins.

Vestrið minning um liðinn
dag og tilhlökkun sem vex
að nýrri dögun, en Keilir
píramíði og geymir minningu
guðs eins og órotnaða
múmíu,

en sólin frosið gull á himni.

22.
Þegar austrið brosir og borgin
lyftist til himins að skýgulum
faðmi sólar sem sést ekki
fyrr en síðar, þá gengur hann út
og yfirgefur leiksvið hugans, heldur
á morgunhvítum vængjum
til vors sem lifir í desembergrænum
nálum næstu grenitrjáa, skimast
um og allt sem veitir
lúnum augum unað er ummerki
dauðans,

spegill vatnsins
jafngagnsær og stjörnulausir
himnar yfir höfði hans, skimast
um og allt ber dauðanum vitni,
fingurkrepptar greinar
birkitrjánna, frosin dögg við gulnaðan
punt og stráin stirðnuð
hugsun jarðar á leið til himins,

svo leggur vatnið einnig
eins og hrím við ógnarstund í djúpri
vitund hans og mosinn glitrar
grár við grænar vakir hrauns
og litar hugmynd hans
um helreið þessa dags, í fjarlægð
áin við bláar skarir íss og hröngls
og allt er hljótt og enginn fugl
í trjánum, vænglaus tré og hugur
hans er himinn,

enginn sté
fæti þar sem rætur trjánna
sögðu fréttir af jörð sem bíður
þögul vors, þá flýgur inní þennan
himin vænggulur fálki
og gárar gamla minning
eins og vindstrokið vatn
sé vitund hans og kvíði

og sölnað laufið fýkur inní
nótt

sölnað laufið strýkur
augu hans,

en gagnsær spegill rennur hægt
að hvítum ósi,

hraunið storknuð
húð, risaeðlan hreyfir höfuð
til vesturs

og brosið bliknað ljós
í huga hans.

23.
Eins og fuglar á gömlum fílum
ferðumst við inní nótt, létt
er fótatak tímans eins og andardráttur
ljóns í háu grasi, hljótt lyftist
vatn til himins, hægt
siglir hvít fyrir seglum
tunglsskinsskútan til vesturs
hverfur í bláa fjarlægð, hnígur
sem strá fyrir vindi, vatnið
glitrandi maurildi

og myrkrið
lýsir af stjörnum, blikar
við kjölfar og segl,

engu líkara en einhver segi, Taktu
negluna úr, það er glas
undir deyjandi tungli.

24.
Það kviknar í jörðinni, sól
kveikir elda á gömlu
vatni, það brakar í öldum
og þurru grasi, hann hugsar
um það sem hann sagði eitt
sinn ungur við stúlku
í litlu timburhúsi í vestur-
bænum, Þú ert blóm og enginn
vasi hæfir því blómi , Væmið,
sagði hún og tíminn leið
eins og tíminn í gömlu víni
og óbrjótanlegu glasi,

það hljómar eins og sinfónía
unz örlögin birtast, ógnleg
örlögin birtast óvænt og missa
vasann úr skjálfandi höndum
og jörðin logar sem glóandi
vín í glasi,

það kvikna eldar á gömlu
brakandi vatni

jörðin logar og sólin er blóm
í þjakandi huga hans sjálfs.


25.
Sólin skríður eftir haffletinum,
Hómer blindast í sólinni
augu hans þreifa eftir nýjum
haffleti,

hunangsflugubrún
þota hverfur
inní gagnsæjan himin

svört trén eru gul
á bakkanum,

það kvöldar

krunkandi hrafnar á kunnuglegum
stólpum við ána

sól breiðir gula sæng
á spegil árinnar,

trén
fylgjast með þegar sólin
líður hjá

og fikrar sig
inní brostin augu Hómers.

26.
Blómgul springur sólin
út í gluggum
nálægra húsa

blóm í augum þeirra

blómgul sól
í augum þeirra.


27. (minning)

Enginn fuglasöngur, ekkert
aðeins vindur hausts
í greinum,

húmar senn í huga mínum.

Hvar er vorið?

Hvar eru sporin frá í fyrra?

Fýkur laufið undan vindi
allt mitt yndi
ekkert nema þögn í greinum,

húmar senn í huga mínum

Hvar ert þú?

Kvöldið lokar lúnum augum.

Kemurðu aftur enn að vori,
á ég að þreyja haust í spori vinds
sem deyr við naktar greinar,

kemurðu aftur eins og minning
fugls sem hvarf
að huga þínum?


28. (Tilbrigði við gömul ljóð)

Geimryk í þróun

við

rótlaust geimryk

og göngum
á vatni

göngum hægt
inní skóg

endurkast sólar
á tunglgulu
vatni

minning um himin
sem hverfur
til jarðar

við

vænglausir gestir
í víðáttum
tungls og stjarna

minning um hvellinn
mikla

tungl og stjörnur
á sólgulu
vatni

og við.

29. (Eftirmæli)

Hægt hlaupið hægt,
hestar næturinnar
Ovid

Þau ganga út, það marrar
hljótt í nýföllnum snjó, leiðast
eins og börn á leið í skóla, ganga
hægt um hlið og stjörnur
blika á himni eins og auga
guðs horfi yfir sviðið, þögnin
marrar eins og kristalsnótt
við sporin, horfa til himins
þögul eins og fyr, andartaki
síðar ein við leiðið, strjúka
köldum fingrum snjó
af nafni hins látna, hann
horfir í andlit hennar, augu
horfir á hana grátna, strýkur
eimanna tár af fölri rós
á kinn, þau krossa yfir kristals-
hvíta gröf, hneigja höfuð,

kveðja

leggja sólsetursrauða rós
við frosinn svörð,

kveðja
himin og jörð og allt í hinzta
sinn.

30.
Garðurinn bíður, einn
undir lognbláu þaki, sólin
fikrar sig vestur á vængjuðum
snjóhvítum greinum, hvítur
kristall frosinn við vorgrænar
nálar, snjóhvít húð eins og jóla-
skraut þekur birki að nöktum
berki, í næstu görðum gestir
með vængjaða fingur sem fléttast
við sofandi lerki og fuglar
sem hugsanir fljúgi úr guðlegri
þögn að þögulum skuggum
við blæðandi sólarlag dagsins, það
kvöldar og nóttin leggur að lokum
sinn kvöldmjúka væng
að blængsvörtum hnígandi
geislum í vestri, lognhvít
er þögnin (en þyrlast til himins
ef hvessti og fjaðrirnar ýfðust
við loftskurð og langþreyttar
greinar), þau hlusta á himin, hann
andar sem bárur við þangbrúna
steina

og hafið við brimsorfna kletta
og stokkseyrarfjörur
við skelhvíta sanda, hlusta
á þegjandi mælsku og marmara-
þagnir af himni, hlusta
á andartak guðs, það brimar
við stjörnur og tungl og nótt
sem fer deyjandi glóðum
að skerjum við eyjar
og höf.

31.
Jörðin vex til himins
undir grænu laufi
trjánna sem vaxa hægt
til himins og fléttast
hvert að öðru
eins og við,
og jörðin leggur laufið
að sól og grænum skugga
sem ilmar eins og geislar
við hægan vatnanið.

Það glampar eins og von
á milli þéttra greina
og sólin hnígur hóglega
að hvítum spegli
með skógargræna jörð
í fangi sér
og kvöldið syngur þresti
að flöktandi skugga
og dagurinn lokar þreyttum
augum og brotnar inní
myrkrið eins og gler.

Og það er eins og einhver
slökkvi á kerti og einhver
bjóði góða nótt og fari
úr einum draumi
í annan verri draum,
samt heldur áin áfram
rennsli sínu og endur
fljúga hljótt af ýfðum spegli
og leita uppi annan betri straum.

Og jörðin heldur áfram
eins og ekkert trufli
svefninn og andardráttur
kvöldsins sé gola
við föla kinn,
og jörðin hverfur hægt
eins og höfuð fugls að vængi
og nóttin hreyfi laufskugga
og mynnist við skóginn sinn.


32. (Við gröf)

Við þessa gröf
er gleðin efst í huga,við
glöddumst eins og fluga í hvítu
ljósi og úr þeim draumi
dreg ég gamla nót,
það glitra litlar myndir
í þeim möskva,
en árin renna óheft
að þeim ósi sem eitt sem virtist
renna uppí mót.

Samt stend ég hér og drúpi
að hvítum krossi og þögnin
gamalt orð i dúfumynd
og það er eins og blessuð
blómin krjúpi
við blossa liðins dags

og lindavatn af sólskinshimni
falli,það fellur eins og tár
af auga þér og jörðin gróíð
sár við fætur þína
og þrýstir hugsun þinni
að hjarta sér.


Og dúfan hreyfir væng
of veröld alla
og blængsvört kyrrð
að morgni þessa
dags,samt fagnar sérhver geisli
grænu strái
en gleðin fölnað log
þess sólarlags

og tíminn bregður ljá
við tind og tjaldhvít vötn
í annarlegri þögn


en öspin hjalar ein
við hlyn og vindsárt strá

og hugsun þín sem grasdögg
hvítra stjarna.

 

 

 

Andspænis höfuðskepnum

hugsað til samtala okkar Gunnars Gunnarssonar

Að ekkert sé fyrirfram vitað
og fæst sé harla víst
(og það gerist oftar en ekki
sem örlögin vilja sízt)
en þetta er ályktun af þeim
umbrotum sem þú sérð
í náttúrunni, hún kýs sér ekki
krossinn,heldur sverð.

Og því er hún ógn en ekki
nein opinberun um það
(víst er hending hvar sólin ætlar
hverju einasta blómi stað)
hvort guð ætli sköpun sinni
skiljanlegt ætlunarverk
með ævi sem lýkur einatt
eins og ýsa blóðguð við kverk.

Og meðan það verk stendur yfir
er vænlegt að fara sér hægt
(það vilja samt allir verða
viðurkennt eintak og frægt,
þetta fólk sem finnur svo til sín
að forsjónin roðnar af skömm
en er samt með kvarnir sem vega
varla tvöhundruð grömm).

Við erum úr sama efni
og allt sem forsjónin skóp
(Munch reyndi að keppa við hana
og málaði niðurbælt óp)
við erum úr geimryki hvellsins
eins og hvert annað sólarljós,
en eitt er eilífðarvonin
en annað að visna sem rós.

Hvort getum við yfirunnið
það efni sem sköpunin kaus
(og líkist þeim eldi sem brann víst
þegar Bjarnarflag síðast gaus)
það er hráefni hans sem stendur
eins og hugboð bak við þá smíð
sem enn er í deiglu og verður
eflaust um þó nokkra hríð.

En svona mjakast hún áfram
þessi jörð sem hýsir vort basl
(og eiginlega er flest allt
eins og fljótaskrift eða tjasl)
en þá er að bíta á jaxlinn
og bölva eins og sagt er í hljóði
því lífið er ekkert annað
en illa hannaður kóði.

.

 

Að Hulduljóðum

 

Sakleysið opnar augu þín sem fyr
og enginn segir neitt,en þögnin spyr,
hvort ertu heldur hún sem Jónas ann
eða hún sem brann
í hjarta mínu,hulda þessa ljóðs
eða hin sem Jónas töfrar fram til góðs,
hvort ertu heldur vættur vona hans
og vonarstjarna þessa auma lands,
eða sú sem hvílir við mitt hold
og hverfur svo að mold;

hvort ertu heldur hugmynd eða jörð
hún sem deyr og gleymist undir svörð
eða hulda skálds sem vísar langa leið,
en lútir í gras um skeið.

 

.

 

1.okt.

 

Allt brýzt nú líkt og jörðin út úr eggi
og allt svo bjart og hvítt á þeirri stund
og það er eins og lífið allt það leggi
sinn lófa á þann stutta endurfund

er jarðarkringlan vaknar ein og ofar
öllu því sem truflar þessa stund

og gott er að eignast einnig fyrst guð lofar
slíkt andartak sem kviknar í það mund

en þó er eins og þagni allt og hiki
á þessu augnabliki.

-------
Sólin hefur sofið bak við ský,
ég sé hún vaknar , ryður þeim úr vegi
og það er bjart og jörðin ung og ný
og yndisleg á þessum hvíta degi.

 

.

 

Don Juan,

13.erindi X söngs

1.
Hvað hefur orðið af Napóleon
hinum eina og sanna
og hvar
er Napóleon rímsins,spyr Byron
lávarður í gervi Don Juans,
hvar
er sú veröld sem var er vert að spyrja
þann tíma sem nú er í deiglu,og samt
hefur ekkert breytzt þegar litið
er í sauma sögulegrar þróunar,
ekkert
og samt er allt breytt frá því skáldið leiddi
sinn kristna ofurhuga um ókunna
veröld islams,
allt hefur breytzt og þó ekkert
í veröld sem minnir á marggreinótt tré
fuglslaust
í sönglausri veröld síns vindhvita
himins,
nei,ekkert og allt er þó horfið
að eilífu glatað
naktar greinar, nöpur ásýnd tímans
i svölulíki
enginn veit enn hvar Napóleon
er,samt hefur hann skroppið saman , Júpíter
er nú Satúrnus eins og segir í 83.erindi X kviðu,
en þá hefur skáldið afgreitt
þann eina sanna Keats sem gagnrýnandi
drap í einu höggi eins og haft er fyrir satt
í kaldhæðinni kveðju
og einnig vikið
að íslenzkum heiðarleika í 13.erindi sömu kviðu
en ekkert skáld yrkir nú um svo gróinn
og gamaldags eiginleika,
að víð séum ekki óuppdregin
-ekki enn eins og Auden sagði
og hann
einnig horfinn,allt breytt,öllu tortímt
-eða hvat?
2.
Veröld úr gleri glampar við sól
og glerið brotnar undan vængþungum höggum
vindsins,hann hrifsar allt og hverfur
eins og lauf af gömlum greinum,
hvar er það lauf sem eitt sinn átti
athvarf á greinum þessa
auðnulausa trés sem forðum var,
Yggdrasils
í vindkers víðum
faðmi,nú fuglslaust eins og framtíð
þess sem var og verður ekki framar
sönglaust tré í samtíð þess sem er
og heyrir ekki lengur langa mjóa
tóna
úr vorköldu hjarta þrastar
við þinn glugg.

 

.

 

Drekinn og draumarnir

 

Fé ráða
skal fyrða hver
æ til ins eina dags...
Fáfnismál

Land mitt er dreki sem rís úr reginhafi,ég hef
séð eldtungur sleikja næturhimin
jöklanna,

slökkva á Sjöstjörnunni,séð
glóandi hraun sem ber fjársjóðnum
vitni,

dýrmæt er sú arfleifð
sem drekinn gætir eins og Fáfnir,
séð
eldana loga kringum gullið og tunglskinið
glitra á silfri og perlum,

ið gjalla gull
og ið glóðrauða fé
þér verða þeir baugar að bana,

land mitt er þeim
gott skjól sem sækja minninguna í gamlan
arf sinna stóru vona,en þó betra fyrir þá
sem geyma sinn skínandi málm í eldhafi
þessa spýjandi dreka,enginn Sigurður
honum til höfuðs,ekkert glóandi sverð
í hetjunnar hendi

og þegar kviknar aftur
á stjörnunum glitra þær á moldsvartri
festingu tímans eins og demantar,

göngum
úr einum draumi í annan,æ til ins
eina dags , göngum
á glóandi eldtungum þessa jökulhvíta
lands,

rís það úr hafi eins og sól allra
tíma,
rís hún
að egghvössum hömrum sinna hvíthekluðu
fjalla,rís að roðnandi flugvængjum drekans

sól allra tíma,
kveikir nýjan dag
í vængjum þinna stórmiklu drauma.

 

.

 

Hauskúpan er hellir

 

Það er hellir í höfði mínu,hann
er með stóran munna og þar flökta
sólargeislar við skugga þeirra
sem ég hvorki sé né þekki,en
á sólarlausum dögum er dimmt
í hellinum og skuggarnir sem reika
þar um á björtum dögum hverfa
inní þögn og myrkur,

og ég er einn
í hellinum,þreifa mig áfram,einn
og þekki ekki einu sinni sjálfs mín
hendur,einn hugsa ég um þá
sem ég er með hugann við,
þá sem eru
fyrir utan opið,einn

sé ég ekki handaskil í myrkrinu en
þreifa mig áfram eins og blindingi

og þögnin,þetta alþjóðlega tungumál
eins og skáldið sagði,fyllir tómið
í kringum mig,
en þó heyri ég
stundum í fugli sem syngur í hjarta
mínu eins og slitsterkir vindar
í greinum

og ég hlusta,einn hlusta ég
með höndunum,

þannig lifi ég með hellinum
í höfði mínu eins og blindur maður
með því myrkri sem flöktir í birtunni
og veröldin hefur afgangs handa
honum einum.

 

.

 

Mídas á meðal okkar

 

1.
Þegar Ariadne gafst Bakkusi
lék hafgolan í hári gyðjunnar
eins og hvíslandi blær við sandölduna,

þegar Odysseifur teiknaði Troju
í sandinn máði hafið út minningu
sæfarans eins og tíminn hefur
þurrkað út minningu þeirra sem voru
hér eitt sinn á ferð,nú gleymdir
eins og fiskifluga á bláum himni
augna þeirra,

þú hefur elskað margar gyðjur
á strönd þinnar eilífu gleymsku
og enn eru tímarnir þeir sömu
og áður,ljóð þín falla í grýtta
jörð,segir Ovid,gullið allsráðandi
og þótt Hómer bæri fram kvæði
sín færi hann erindisleysu,

þótt ein og ein kona þiggi kvæðin
segist Ovid kjósa sér það
hlutskipti að vera skáld hinna fátæku,veit
sem er að gullið bliknar eins og hrakið hey
við hófför gusthvítra vinda.

2.

Hver man ekki þegar Bakkus veitti
Mídasi konungi eina ósk og hann
bað um að allt sem hann snerti breyttist
í gull,en óskaði þess svo
af fenginni reynslu að guðinn
léti af örlæti sínu , því allt sem
konungur snerti varð að sólrauðum málmi,
steinn,gras

korn,

brauð ,vatn og vínið að fljótandi gulli
við varir hans,allt varð að málmgylltri
snertingu

meðan eyru asnans uxu úr höfði
konungs,

þannig horfum við á asnans eyru
vaxa af hlustum þeirrar nýju samtíðar
sem hefur beðið guðina um sömu ósk
og Mídas.

 

.

 

Tilvísun í gleymt skáld

 

Þegar ég tala um
sandi orpna sæng
skilur mig enginn,

svo langt erum við komin
frá uppruna okkar.

Þó ég sé enn í fylgd með Snorra
vitna ég í nykraðar líkingar
Walsers og tala um þá
sem skríða um æðakerfið
eins og snákar í fölu grasi,

en eihvers staðar í borginni
er kona sem heldur að ég
hugsi til hennar eins og hún væri
löngu gleymt atvik eða sólarlaus
dagur eða tunglskin marghulið
í svarta slæðu gleymdrar minningar,

en hugsun mín er fjölær jurt
eins og krókusarnir í garðinum
sem mjaka sér inní sólina til að deyja,

þeir eru fyrirgefningarbros
þess harða dauða sem eltir okkur
eins og misheppnuð áform.

Samt er dagurinn fagur
eins og eilíf ást, eins og illska
sem breytist í góðvild

eins og syndin sem presturinn blessar
við heilaga kvöldmáltíð.

 

.

 

Until I find you

                                                        Irving

Guð er orka eins og
uppvið Kárahnjúka
en hann er ekki hver
sem er hættur að rjúka,

hann er hreyfing einsog
heljarfljótið mikla
eða lítill lækur
sem lætur bezt að stikla,

þó er hann einkum allt
sem enginn getur lýst
og einnig allt sem hann
er allra sízt.

 

.

Á heiðinni

Það fór hrollur um mig
og ég sá dauðan mann
á heiðinni við Ormarsá

þarna stóð hann á bakkanum
grá þúst,

veiðistangarlaus

og ég hugsði með sjálfum mér,Að
eilífu veiðistangarlaus,

það er helvíti.

 .

.

Vísun

Maður er moldu samur
segir gamalt skáld,
en tréð flýgur á laufvængjum
til himins,

þó vex ekkert undir stórum
trjám,þar eru svínin ein
og gramsa í akarninu.

.

 .

Þegar skáldið deyr

Sól ég sá
sanna dagstjörnu
drúpa dynheimum í,
en Heljar grind
heyrði ég á annan veg
þjóta þunglega.
Sólarljóð, 39.

Fegursta gjöf konunnar er nekt hennar,
sagði Victor Hugo sem orti til

Júlíettu :

Þegar ég segi guð blessi þig
á ég við himininn,þegar ég segi
sofðu vel á ég við jörðina,en þegar ég
segi, Ég elska þig er ég að tala
um sjálfan mig.

Hverju get ég bætt við þessi orð,hefur
eitthvað breytzt á nýrri öld
sem gæti lýst betur torsóttri leið
að hjarta þínu ?

Himinninn er á sínum stað
og einnig jörðin og sjálfur er ég
í hlutverki skálds í fylgd með Hugo
á leið út úr myrkviði Vítis

nú get ég ekki séð Beatrísu
nakta,ekki frekar en Rodin,

en andlit þitt ljómar í fjarlægu
ljósi hvítrar stjörnu,

eitt sinn vaktir þú dýrið í mínu
jarðneska blóði,

nú ert þú engill eins og hún.