Á vígvelli siðmenningar IV.


1. kafli

Jæja,þá liggur Baugsdómurinn fyrir. Og niðurstaðan kemur ekki á óvart,óhjákvæmilegt að rannsaka málið,þegar það var kært upphaflega.  Almenningshlutafélögin verða betur varin fyrir allskyns peningamöndli hins gráðuga auðvalds en áður var.

Og slegið á puttana á þeim sem halda þeir eigi peninga annars fólks. Og svo verða menn að fara að lögum,jafnvel auðmenn!
Þótt ekki séu allir sammála um það.

En það sem vakti mesta athygli mína,auk fangelsisdómanna (sjá þá á heimasíðu hæstaréttar ), er sú niðurstaða réttarins að ýmsar lánveitingar Baugs til ráðandi hluthafa eða félaga í þeirra eigu hafi verið ólögmætar , en fyrntar vegna  niðurstöðu héraðsdóms.Af þeim sökum vildi Páll Hreinsson hæstaréttardómari senda þann þátt málsins aftur í hérað og láta á það reyna,því það þyrfti ekki endilega að vera lokaorðið,þar sem um fangelsisdóm hefði getað verið að ræða og slíkt fyrnist ekki.Ef þetta voru mistök,voru þau framin í héraðsdómi.
En brotin náttúrlega þau sömu.
En Páll sættist á niðurstöður kollega sinna í hæstarétti,þótt mér sýnist af þessu að hann hefði talið þyngri refsingu réttari, lögum samkvæmt.

Sératkvæði

Páls Hreinssonar
Ég er sammála atkvæði meirihlutans að undanskilinni síðari málsgrein VII. kafla.

Samkvæmt 153. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög varða þau brot gegn 104. gr. þeirra, sem ákærða Jóni Ásgeiri eru gefin að sök, sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Í kafla VI. í atkvæði meirihlutans hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að lánveitingar samkvæmt 2., 3. og 6. tölulið ákæru hafi farið í bága við 104. gr. laga nr. 2/1995. Þegar til þess er litið að 6. liður ákæru varðar 100.000.000 króna lánveitingu, sem bannað var að veita samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 og ákærði er borinn sökum um tvær ólögmætar lánveitingar til viðbótar, verður að mínum dómi að leggja til grundvallar, eins og málið liggur fyrir Hæstarétti, að fangelsisrefsing geti með réttu legið við brotum þessum, reynist ákærði sannur að sök. Af þessum sökum tel ég ekki hægt að slá því föstu að sakir samkvæmt fyrrnefndum ákæruliðum fyrnist á tveimur árum samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu athuguðu tel ég að ómerkja beri dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. júní 2007 að því er varðar ákæruliði 2, 3 og 6 og vísa þeim á ný til héraðsdóms til löglegrar meðferðar og dómsálagningar.

Með því að meiri hluti dómenda hefur komist að því, að ekki eigi að ómerkja dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2007 að hluta, ber mér að greiða atkvæði um efni málsins samkvæmt 6. málslið 2. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 163. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Að því virtu er ég sammála meiri hluta dómenda um niðurstöðu atkvæðis þeirra.

 

Í framhaldi af þessu er ástæða til að vitna í Fréttablaðið,sem hefur augsýnilega brotizt undan ofurvaldi eigenda sinna (gagnstætt Dagblaðinu !) :

 

Fréttablaðið, 09. jún. 2008 07:00

Þrjú lán Baugs ólögmæt en sökin fyrnd

Hæstiréttur tók enga afstöðu til þess hvort Jón Ásgeir Jóhannesson (fyrir miðju) hefði brotið lög með lánveitingum frá Baugi til Gaums. Ekki var fjallað um þann möguleika þar sem sök hans væri fyrnd þó hann teldist hafa brotið lög. MYND/GVA
Hæstiréttur telur skýra refsiheimild í 104. grein hlutafélagalaga, þar sem bann er lagt við lánum fyrirtækja til stjórnenda og tengdra aðila. Þetta er viðsnúningur frá dómi héraðsdóms, sem taldi lagaákvæði svo óskýr að ekki væri hægt að refsa einstaklingum.
Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnar­formaður Baugs Group, var meðal annars ákærður fyrir brot gegn 104. grein hlutafélagalaga í Baugsmálinu. Hann var sýknaður af þeim ákærunum í Hæstarétti á síðastliðinn fimmtudag.
Sérfræðingar um hlutafélagalög og endurskoðendur sem rætt var við segja gott að fá fordæmi Hæstaréttar.
Verjandi Jóns Ásgeirs byggði vörn sína meðal annars á því að heimild til að refsa einstaklingum væri óskýr í þessu tilviki.
Hæstiréttur tekur ekki undir þau sjónarmið. Í dóminum segir að enginn skynsamlegur vafi geti leikið á um að heimild sé til þess að refsa einstaklingum. Hlutafélag brjóti ekki lög án atbeina stjórnenda.
Bann í íslenskum lögum við lánum til stjórnenda og tengdra aðila er svipað ákvæðum á hinum Norðurlöndunum, að sögn sérfræðinga. Víða í Evrópu eru slík lán hins vegar lögleg, en þá ber fyrirtækjunum skylda til þess að upplýsa hluthafa um lánakjör og endurgreiðslur.
Bæði bann og kröfur um að upplýst sé um lán þjónar þeim tilgangi að verja hagsmuni hluthafa. Einnig verja slík ákvæði rétt lánadrottna fyrirtækjanna.
Sérfræðingar eru sammála um að einhver dæmi séu um að slík lán hafi verið veitt hér á landi á undanförnum árum. Með dómi Hæstaréttar þurfi þeir sem veitt hafi slík lán eða tekið við þeim að skoða sína stöðu.
Hæstiréttur segir að í þremur ákæruliðum af þeim níu sem fjölluðu um meintar ólögmætar lánveitingar hafi í raun verið um ólögmætar lánveitingar að ræða. Baugur lánaði því með ólögmætum hætti tæplega 205 milljónir króna til Gaums, fjárfestingar­félags Jóns Ásgeirs og fjölskyldu.
Hæstiréttur tók ekki afstöðu til þess hvort Jón Ásgeir hafi brotið lög í þessum tilvikum. Rétturinn mat það svo að um minniháttar tilvik hefði verið að ræða, þar sem þau hefðu aðeins varðað sektum. Því fyrnast þau á tveimur árum, og voru fyrnd þegar ákæra var gefin út. brjann@frettabladid.is

 

Svona er nú þessi frétt og endurtekin á visir.is

Það væri kannski  ástæða fyrir formann Samfylkingarinnar  að hugsa sinn gang áður en hún og flokkur hennar vega næst að þeim sem bera ábyrgð á lögum og rétti í landinu og verða fyrir skítlegu aðkasti fyrir bragðið.
En erindrekar hins grimma auðvalds láta sér ekki segjast,hver sem ástæðan er.
Þá talar enginn í alvöru um það lengur að málið hafi byrjað vegna pólitísks þrýstings,enda alrangt.

Það segir sína sögu að það er ekki orð um dómana á forsíðu DV,þar ríkir hagsmunaþögnin mikla; þögn eigendanna! Lúðvík Bergvinssyni,samfylgdarmaður Baugs frá upphafi,eða aðrir búktalarar hins grimma auðvalds, sem veltu sér upp úr ærumeiðingum um þá sem höfðu með málið að gera á vegum lögreglu og sinntu skyldum sínum lögum samkvæmt, hafa ekki látið að sér kveða að neinu marki,en ekki vantaði brigzlyrðin á sínum tíma og vígorðin um klúður og vanhæfi.
Þó hefur verið reynt að efna til galdraofsókna gegn embætti ríkislögreglustjóra,að sjálfsögðu í skjóli auðvalds; krafizt rannsónar á upphafi Baugsmálsins til að drepa niðurstöðu hæstaréttar á dreif,en ríkissaksóknari hafnar því auðvitað,enda vita allir að upphafið er kæra Jóns Geralds  Sullenbergers og kemur pólitík ekkert við (sjá gagnasíðu hans á netinu,baugsmalid .is,hún er harla fróðleg).
Við sakfellingu nú þagna gjallarhornin að mestu,bæði á vefnum og annars staðar,því að leigupennarnir hafa ekkert lengur fram að færa samkvæmt nytsemdarlögmálinu,verðmæti þeirra hefur fallið eins og krónan ;svarthöfðarnir geta engan mann skaðað,því að þeir skrifa illmælgi sína með tréhendi og allt sem þeir koma nærri verður að  axarskafti .

Það eru hin raunverulegu tíðindi úr grafhvelfingu Mammons.

 

2. kafli

Nú hafa orðið ritstjóraskipti á Morgunblaðinu og er svosem allt gott um það að segja.Í tilefni af þeim hefur farið fram smáuppgjör,t.a.m. í Þjóðmálum þar sem gamall samstarfsmaður minn  , Jakob F. Ásgeirsson, heldur því fram að við Styrmir hefðum átt að hætta nokkrum árum fyrr en raun ber vitni.
En hvers vegna hefði ég átt að hætta fyrst blaðið blómstraði og lesturinn var milli 50%-60 %?
Ég sá enga ástæðu til þess að fylgja ekki reglum blaðsins í slíkri velgengni.Hætti svo þegar minn tími var kominn samkvæmt reglunum.
Auk þess vildi ég taka þátt í því að leiða blaðið inní einhvers konar framtíð,þótt óviss væri.

Þá hefur það eitthvað verið tíundað,m.a. í kveðjuræðu Styrmis, að ég hafi verið andstæður uppgjöri við marxista eftir kalda stríðið,og má það til sanns vegar færa.Við vorum í liðinu sem sigraði í þessu nöturlega stríði og engin ástæða til að sparka í þá sem horfðu á hugsjón sína hrynja,bæði í Sovétríkjunum og annars staðar.
Í  hnefaleikum sparkar maður ekki í liggjandi andstæðinga sína,hví þá í pólitíska hringnum?
Uppgjör mun auðvitað alltaf fara fram og engin hætta að um tímabilið verði ekki fjallað fram og aftur.En menn eins og Kiljan og Steinn höfðu gert upp,m.a. á vegum Morgunblaðsins.
Það nægði mér.

Ég man nú raunar ekki til þess að lagt hafi verið neitt bann við uppgjöri og gat hver og einn staðið í því eins og hann vildi.Björn Bjarnason var víst á Morgunblaðinu um þetta leyti,eða kringum 1990 ,og segir hann á blogginu sínu að hann hafi  verið andsnúinn þessari ákvörðun minni.Hann og fleiri hafa svo staðið í þessu uppgjöri án þess ég hafi haft neitt við það að athuga.
Bjarni Benediktsson hefði ekki viljað styðja Kiljan til forsetakjörs,ef hann hefði talið hann óuppgjörðan,ef svo mætti segja.
Nei,mér er sama um allt uppgjör,þótt ég hafi ekki talið rétt að breyta Morgunblaðinu í nýjan vígvöll undir minni nstjórn.Taldi eins og Styrmir segir að nóg væri komið, hafði svosem fengið marga pústrana í þessum bardaga-og þá ekkki sízt verkin mín,en þau átti ég erfitt með að verja eins og á stóð; a.m.k var það ekki hægt í Morgunblaðinu.

Kalda stríðið kallaði ekki á það bezta í neinum manni , pólitík gerir það yfirleitt ekki, ástæðan er auðvitað þessi hégómlegi mannjöfnuður og slagsmál um völd sem henni fylgja.En við þurftum að berjast,það var beinlínis bráðnauðsynlegt eins uppvöðslusamir og kommúnistar voru og nauðsynlegt að bjarga landinu undan þeim.Það tókst og ástæða til að fagna því,án blóðugra hefnda.

Án mikilla pólitískra eftirskjálfta.

Án meiri mannskemmda,nóg var nú samt.

Við tímarit Máls og menningar voru hugumstórir marxistar og felldu vopnin,brugðust við staðreyndum af manndómi og án þess standa í neinu uppgjörsbasli;gengu,sárir að vísu, inní nýjan veruleika eins og einherjar.
Og við þá hef ég haft góð samskipti æ síðan.

Við erum að vísu með ör eins og prússneskir skylmingamenn,en það er hraustleikamerki og fer okkur ágætlega í þeirri þverpólitísku deyfð sem ríkt hefur eftir úrslitalotuna.
Ég tek svona til orða vegna þess að nú er  helzt um það hugsað að afþreyingin sé í lagi á fjölmiðlunum,en lítið lagt uppúr öðrum hugsjónum en peningahyggjunni alræmdu
sem tröllríður samfélaginu öllum stundum.Frelsið er að vísu mikilvægt,en ræktun mannsins og manngildið er öllu æðra; sjálf mennskan, ég tala nú ekki um sáluhjálp hvers og eins.
Það þarf þrek til að standast svarthöfðana í þessu umróti.

Í blaðakreppunni hafa alvörublöð lagt meiri áherzlu á verðmæti en nokkru sinni fyrr,en ekki einhverja skírskotun í almenning ,skemmtanir eða afþreyingu
Og með það að leiðarljósi hefur þeim vegnað vel,jafnvel betur en áður,og leyfi ég mér t.a.m. að vísa til Spánar í þeim efnum.Á ég enga ósk Morgunblaðinu til handa aðra en þá að það beri gæfu til að fara þessa leið,rækta arfleifð sína og sérstöðu.

Blaðið þarf semsagt öllu öðru fremur á að halda uppgjöri- við sjálft sig.

Ekki neinni grottakvörn handa eigendum sínum,þótt Fróði gamli verði nátturlega að fá eitthvað fyrir sinn snúð, samkvæmt lögmálinu.

3. kafli

En sigurinn eftir kalda stríðið er ekki sætari en svo að við sitjum uppi með grimmdarlegt auðvald sem sýgur til sín peninga fólksins eins og ryksuga og flytur þá út í markaðsbrask erlendis. Hlýtur útflutningsverðlaun forsetans fyrir bragðið!! Þetta gerðu danskir selstöðukaupmenn forðum  daga, en jafnvel SÍS datt slíkt aldrei í hug í gróðastreðinu mikla.
Þá var einokun og frelsi til þess eins að vera fátækur.
Ég hélt þeir dagar væru liðnir að sumir ættu allt,aðrir ekkert eða lítið sem ekkert.
En er það svo ?

Allt gerist þetta í skjóli þessarar “menntuðu “ samfylkingar sem gerir út á Evrópusambandið og heldur að Gral íslenzkrar framtíðar sé í reglugerðarsamfélaginu í Brussel og evran sé sú eina sanna tólg íslenzkra stjórnmála.

Ég hef svo sem ekkert á móti Brussel ( og finnst raunar tengsl þangað  betri eins og horfir  en vestur um hafa til Bandaríkjanna ),en fyrr má nú vera,deyjandi sjómannastétt eins og hráviði um alla Evrópu,ver farin en hetjur hafsins hér heima.
Það er ömurlegt veganesti inn í þetta að mörgu leyti nauðsynlega samfélag gamalla stríðsþjóða.

En  EES og NATÓ duga okkur enn ágætlega.

4. kafli

Ég hef verið að lesa harla fróðlega grein eftir G.B Shaw og hún hefur rifjað upp fyrir mér eigin reynslu , ýtt undir fyrirvara minn á svokölluðu leiklistarlífi hér á landi.
Það er lítill sem enginn áhugi á skáldum og verkum þeirra,en vinsældir,aðsókn,afþreying skipta öllu máli;semsagt markaðslögmálið sem er ekki bezti vinur listarinnar.Samt er álitlegur vaxtarbroddur í kvikmyndun,en þar ekki sízt mun úrslitaorrustan háð um tungu okkar og þjóðarvitund.

Það er löngu vitað að metnaðurinn liggur utan Broadway þar sem flestar alvarlegar tilraunir eiga sér stað ,enda  skáldin eins konar utangarðsmenn,þótt á því séu undantekningar ; auðvitað.En skáldskaparáhuginn í leikhúsum er áreiðanlega minni en afþreyingarvillan og þetta upppoppaða dægurlagastreð sem tröllríður fjölmiðlum,.

Fólki er helzt ekki treyst fyrir skáldskap,ég tala nú ekki um nýjum skáldskap.Og hvað vinsældirnar varðar er kannski engin ástæða til slíks trausts eins og tízkan er.Samt eigum við marga úrvalsleikara,marga miklu betri en þá sem eru sífellt að leika sjálfa sig í Hollywood og leikstjórar hafa stundum náð eftirminnilegum árangri.
En áherzlan er ekki á leiklistararfleifð sem gæti kallazt íslenzk.Og sízt af öllu trú á það að nýr skáldskapur geti verið afþreying vegna fróðleiks og listrænna vinnubragða.

Kannski er ástæðan líka sú að við höfum aldrei eignazt neinn Ibsen eða Strindberg eða Tsjekóv,fyrr má nú vera (!)
Eða neinn G.B Shaw.

En góðum leikurum og frumlegum leikstjórum er treystandi til að breyta álitlegum skáldskap í athyglisverða sýningu.Ástæðan er einfaldlega sú að það eru alltaf a.m.k. tveir höfundar að sérhverri sýningu og þó fleiri ef vel tekst til,en aðeins einn ef illa tekst til,.þ.e. skáldið eina,ef svo mætti segja.

Skáldið er alltaf eitt með verkum sínum.

Jafnvel gömlu meistararnir  sátu uppi með vondar sýningar í fyrstu,þurftu jafnvel að flýja land eins og Iben og Strindberg.Fylgikona þeirra voru mistök ófullkominna sýninga,þegar enn var verið að leita að réttum tóni í verkinu,þeim rauða þræði sem einn getur vísað á góðan skáldskap..

G.B. Shaw átti betri daga eftir að hann var loks uppgötvaður.Og hann þurfti ekki að flýja,hvorki til Frakklands né Þýzkalands!

Shaw segir að hann hafi ,þegar hann var  tæplega fimmtugur uppúr aldamótunum1900,verið algjörlega hundsað leikritaskáld í London,þótt vitað væri að verk hans væru leikhæf og engin ástæða til að forðast þau af þeim sökum.En markaðslögmálið vildi ekki sjá þau,taldi þau óleikhæf og óseljanleg.Í þeim var ekkert morð,enginn hórdómur,engin kynlífsupplyfting,kvenpersónurnar voru engar kvenhetjur,aðeins eins og venjulegt kvenfólk .
Markaðurinn fúlsaði við öllu slíku,segir skáldið.Hann var því leikhúslaus á bezta aldri,átti engra annarra kosta völ en skrifa í dagblöð og dást að Ibsen.
Það var ekki björguleg framtíðarsýn fyrir skáldið sem var álika sérvitur persónuleiki og  sérstætt skáld og Þórbergur.

Leikhúsin höfnuðu öllum samtölum sem voru lengri en tuttugu orð,þau höfðu engan áhuga á trú og þjóðfélagsmálum,segir Shaw,þau vildu bara rómantíska vellu,flört og uppákomur eins og síðar í poppinu,en uppá það gat Shaw ekki boðið,hafði raunar engan áhuga á því,en vildi túlka manneskjuna í umhverfi sínu með þeim skáldlegu listbrögðum sem voru í samræmi við skáldlegan metnað hans.
En á slíku höfðu  dreggjar viktoríutímabilsins engan áhuga og litlu munaði að skáldið færi með öllu á mis við samtíð sína.
Kannski hungurmorða eins og Hamsun.
Hann var ekki sízt útskúfaður vegna þess að hann var tengdur dagblöðum og sem slíkur afgreiddur sem einhvers konar mútuþegi,ef einhver sinnti honum ,eins og hann segir sjálfur.

Þetta var því heldur óskemmtileg aðstaða og eina ráðið að gera verkin þannig úr garði að unnt væri að gefa þau út á bók,svo að menn gætu þó að minnsta kosti lesið þau í skikkanlegum búningi.En salan og útbreiðslan voru eins og efni stóðu til og eftirtekjan eins og uppí nös á ketti!Þó kom að því að þetta bragð tókst fyrir tilverknað ungs og markaðsglöggs útgefanda og verkin þá kynnt sem bókmenntir.

“Og ég,óleikinn eins og ég var,komst á koppinn sem leikritaskáld “!

Árni Óla sagði,nývaknaður í kartöflubing í kjallara Zimsens-verzlunar eftir góða rispu með Bakkusi , Maður á aldrei  að vera hissa á neinu!

En af grein G.B.Shaws að dæma virðist hann enn hafa verið hissa á þessu basli,þegar hann var að setja greinina saman fyrir Harpers Magazine,kannski til að minna skáldin á að missa ekki kjarkinn,þótt á móti blási.


5. Kafli

Birt í Lesbók í júní,af gefnu tilefni.

 

Grænlenzkur túristi

Hann skimast um,
það er þoka á fjöllum.

Hann er hvítur
eins og efsti skafl,hreinn
eins og regnþrunginn himinn.

Skimast um,
enginn selur í nánd,
aðeins manndýr með selsaugu.

Skimast um,
nálgast,

gamall hólkur,miðar.

Andar að sér ókunnu landi,

skot.

Síðasta andartak bjarndýrs
í gróðurhúsinu
jörð.

 

6. Kafli

Og til gamans ;

Ég er bátur, fúinn í fjörunni
flagnaður og lekur með tjörunni,
horfi samt til hafs úr vörinni
og hefði viljað losna úr körinni.

En .þá er að rísa úr körinni eins og karlinn í Innansveitarkroniku og fá sér góðan göngutúr í Elliðaárdalnum,en þar hitti ég auðnutittling um daginn,enda  komið fram í júní,en slíkur fugl er svo fíngerð náttúrusmíð og slíkur vitnisburður um guðlegan innblástur efnisins, að allt tal um guðlausan heim vegna þróunarkenningar Darwins um þá sem hæfastir eru til að lifa af ,verður að hjómi einu,slíkt er víravirki og andagift þess sem venjulega er kallað dautt efni.En ég þekki ekkert jafnlifandi og þetta dauða efni og enga smíði jafnfjölbreyttan vitnisburð um óendanlega gnægð og lífsþrótt sköpunarverksins.Hvað sem öðru líður,þá er það innblásið mikilli andagift og fjölbreytilegt kraftaverk,raunar svo óendanlegt undur að hugsun mannsins er eins og moldvarpa miðað við það.

Við ættum því að fara varlega og segja sem minnst um sköpunarverkið og taka undir með Darwin sjálfum,þegar hann segist ekki sjá,að reynsla hans og hæfiskenningin um nátrtúruna þurfi á nokkurn hátt að draga úr hugmyndum okkar um guðlega tilvist,eins og efnishyggjumenn halda fram.

Af þeim sökum getur Elliðaárdalurinn verið kjörið musteri í leit okkar að þeirri hugarveröld guðs sem Jónas talar um í verkum sínum.

7. kafli

Og þá að skáldskaparminningum Hemingways frá Afríku,True at first Light,vel skrifuðum að vísu , en villidýradrápin ekki eftir mínu höfði.
Hitt líkar mér betur að höfundurinn hefur góðan bókmenntasmekk sem lýsir sér í því að hann er alltaf að lesa Simenon,en hann kann öðrum fremur að skrifa krimma, getur skapað það sem úrslitum ræður í slíkum verkum : andrúm.
Það er listrænt afrek hvernig hann vefur frásögnina inní þetta sérstæða andrúm og lagar svo stílinn að allri fléttunni
.Sumir bandarískir spennuhöfundar eru honum kannski snarpari í samtölum úr undirheimum,en að öðru jöfnu er hann engum líkur hvað snertir listræna getu.
Það vissi Hemingway auðvitað.

Maigret lögregluforingi var áreiðanlega eina  persónan sem Simenon kunni að meta,enda var hann ekki til ! Ekki frekar en Hemingway í gervi Róberts Jordans í Hverjum klukkan glymur.

8. kafli

Á dögunum barst mér í hendur Skáldatal sem vakti athygli mína vegna þess það rifjaði upp vondar minningar.Það var út gefið af Námsgagnastofnun 1993 og sagt að það hefði verið ”fyrsta uppflettirit fyrir nemendur og kennara sem vilja lesa eða fjalla um fleiri ljóð einstakra höfunda en birt eru í ljóðasafninu (Ljóðsprota,Ljóðspor og Ljóðspegla ) “ , sem stofnunin gaf út fyrir margt löngu og hefur verið helzta ljóðabók ríkisins í grunnskólumlandsins undanfarnaáratugi.Þarna eru ágrip af ævi skáldanna og vísað á bækur þeirra og rit um þau.

Ég vissi raunar ekki að þessi bók væri til og var því alveg grunlaus um þá meðferð sem þau skáld hafa fengið af hálfu ríkisins sem létu þessa ríkisútgáfu fram hjá sér fara á sínum tíma. Svona ríkisútgáfa minnir mest á Sovétríkin sálugu og ekki að undra þótt þau skáld sem vildu ekki taka þátt i upphafi hafi ekki átt uppá pallborðið, svo rækilega sem þetta net hefur verið riðið.

Við Jóhann Hjálmarsson tókum þá ákvörðun á sínum tíma að  hundsa þessa einokun,enda töldum við þetta ekki fagurfræðilegt framlag í ljóðabókaútgáfu handa unglingum,heldur einhvers konar félagsfræði og því móðgun við ljóðlistina. Ljóðunum var skipað niður eftir starfsgreinum og atvinnuháttum og augsýnilega ekkert listrænt mat bakvið valið, þótt þarna leynist ágæt kvæði, enda góðskáld í slagtoginu.

Við þetta hafa unglingar í landinu mátt una allan þennan tíma og kannski ekki undarlegt að áhugi á ljóðlist hafi minnkað fyrst ljóðinu var fórnað fyrir atvinnuhættina og félagsfræðina ! En lengst af,eða framá síðast liðið haust mátti enginn annar pumpa svona úrvali inní skólana,en þá loks var opnuð glufa fyrir önnur forlög.
Og kennarar fengu eitthvert val.

En aðeins glufa.

Og enginn veit hvenær þessi berlínarmúr hrynur endanlega,en vonandi verður það sem fyrst.

Nú er kominn tími til að leggja niður þjóðnýtingu af þessu tagi. Hún hefur alltaf verið tímaskekkja,en nú kollrak.

Ég skil raunar ekki hvernig Sjálfstæðisflokkurinn sem boðar viðskiptafrelsi gegn einokun  og þjóðnýtingu hefur slegið skjaldborg um slíka starfsemi og lagt blessun sína yfir hana öll þessi ár,en fagna þó því spori sem menntamálaráðherra steig í fyrra, þegar hún leyfði meiri fjölbreytni.

Ég hef ekkert á móti því að ríkið gefi út góðar bækur,en tel fáránlegt það sé gert í skjóli einokunar.

Og sum skáld líði fyrir slíka einokun.

Ég tók á sínum tíma þátt í útgáfustarfsemi Menningarsjóðs,var um skeið formaður Menntamálaráðs og er stoltur af ýmsaum þeim bókum sem við gáfum út;taldi raunar rangt að leggja þessa stofnun niður á sínum tíma.Hún gaf út bækur sem einkaforlögin sóttust ekki endilega eftir og nokkur merkileg rit sem þau hefðu ekki ráðið við.
Þetta var í raun engin samkeppni við einkaforlögin í landinu og sízt af öllu nein einokun.Það var miklu frekar stuðningur við góða höfunda og merk rit og mikilvæg,.þótt ekki væru þau á metsölulistanum; rit eins og Kortasaga Íslands eftir Harald Sigurðsson,Íslenzkir sjávarhættir í fimm bindum eftir Lúðvík Kristjánsson og helztu fornrit Grikkja .

Ef ríkisútgáfan heldur áfram ætti hún að skapa sér sérstöðu án samkeppni  við önnur forlög,rétt eins og við ætlumst til af gömlu gufunni,svo dæmi sé tekið.Hún miðlar fróðleik og perlum sem aðrar stöðvar forsóma og hafa engan áhuga á í afþreyingarstrefinu mikla .Verðmæti eru utanvið markaðinn,þau eru eins og frelsið sem við öndum að okkur.

Öllum að kostnaðarlausu.

Þess skal loks getið að á sínum tíma fjallaði ég um útgáfur á verkim þriggja öndvegisskálda á vegum ríkisútgáfunnar,Tómasar,Halldórs Kiljans og Guðmundar G.Hagalíns, og var það gert að þeirra ósk..Forstjórar útgáfunnar sýndu þessu verki sóma og mikinn áhuga og þótti mér þetta kompaní þá hið bezta.Sjálfur tel ég þessar útgáfur mikilvægar,ekki sízt nýtt efni í umfjölluninni um Tómas,svo ég tali ekki um orðskýringar sem fylgdu,og þá ekki sízt orðskýringar mínar við meistaraverk Hagalíns,Kristrúnu í Hamravík,en þær eru samdar í nánu samstarfi við höfundinn sjálfan.

Og ómetanlegar af þeim sökum.