Á vígvelli siðmenningar VII.

 

 

Nokkrar athugasemdir :


1)
Ein ánægjulegasta nýja fréttin er sú , að samkv. glænýrri skoðanakönnun trúir nánast enginn orði af því sem stendur í DV.

2)
Davíð Oddson getur ekki hætt þáttöku í opinberu lífi,því þá mundi Spaugsstofan deyja.Og þjóðin vill ekki missa sína Spaugsstofu !


3)
Minn gamli kollega , Styrmir Gunnarsson,skrifaði óvænt grein á netið um
Sjálfstæðisflokkinn og fjallaði m.a. um. afstöðuna til Ervrópusambandsins.Hann minntist aðeins á Davíð og að góðu einu.
Fjöldi bloggara lét ljós sitt skína og brást við með hinum undarlegasta hætti.Talaði vart um neitt annað en Davíð !!
Mest eru þetta nafnlausar upphrópanir í stíl hundingja og götustráka og því marklausar,en sýna þó því miður að undir áferðargóðu yfirborði fræðslukerfisins leynist andlegt fátækrahverfi sem ég óttast gæti orðið mesta ógnin við framtíð okkar

4)
Jólavertíðin ber markaðshyggjunni því miður ekki það vitni sem hún gerir kröfur til.Bókaauglýsingarnar ekki undanteknar,ekki endilega.Margar í harðri samkeppni við Spaugstofuna!

5)
Vinstri grænir fá mikið fylgi í skoðanakönnunum.En mundi hin íhaldssama vinstristefna þeirra standa undir væntingum?spyrja margir.

Ég skil vel að framsóknarmenn flykkist að þeim,en kjósendur Sjálfstæðisflokksins,það er nánast óskiljanlegt.Sýnir bara að reiði,ótti og vonleysi má sín meira í pólitík en stefnuskrár.
Og kannski eiga sjálfstæðismenn og vinstri grænir saman einhvern þjóðlegan metnað,hver veit ?
Einhvern góðan og gildan þjóðlegan metnað ?

Stefna ASÍ í evrópumálum er a.m.k. ekki stefna vinstri grænna !

6)
Samfylkingin stendur sig að mörgu leyti vel eftir hrun og Ingibjörg Sólrún hefur sýnt óvænt þrek sem pólitískur leiðtogi,en áður gekk þessi fylking á Baugs vegum eins og sumir aðrir á guðs vegum.
Ég hef mikla samúð með Björgvini viðskiptaráðherra og það kemur mér ekki á óvart,ef málsvari Baugs og DV-tipparinn Lúðvík Bergvinsson þingflokksformaður skútunnar, er að reyna að róa hann útaf gærunni.;viðþolslaus eins og Katilína í Rómaborg hinni fornu.
En við eigum bara engan Síseró,því miður.

7)
Sjálfstæðisflokkurinn virðist fá allan skellinn af hruninu,þótt hann hafi reynt að andæfa gegn ófyrirleitni Baugs og yfirgangi , þá undir forystu Davíðs.Auðvitað hlaut hann að fá skell vegna áhrifa sinna ,en eru þessi hlutföll sanngjörn ? spyrja margir sjálfstæðismenn nú um stundir.  Þeir gleyma því að það er engin sanngirni í pólitík og fólk á erfitt með að greina milli þeirra sem veita frelsi og hinna sem misnota það.

8)
Útrásarvíkingarnir liggja eins og ormar á gullinu , rétt eins og gömlu faktorarnir , og látaokkur hinum eftir skuldasúpuna.
Í nýrri skáldsögu vinar míns Ólafs Gunnarssonar,Dimmar rósir,ágætri sögu og harmsögulegri,segir um eina persónuna að hún sé á svipinn eins og hún hafi borið ábyrgð á kalda stríðinu!
Með þetta í huga finnst mér vanta kreppusvipinn á peningaaðalinn.Hann ber þó,hvað sem öðru líður , ábyrgð á hruninu.

9)

Allir segja að krónan sé ónýt.Ég er samt alltaf að nota þessa ónýtu krónu og gengur vel. Hef borgað með henni tugi þúsunda eftir hrun.og allt gengið að óskum.Allir gráðugir í krónurnar mínar.Vöruverð hefur að vísuhækkað,en ég er ekki á leið til útlanda,svo þetta ætti að ganga upp,því ég hef ekki þurft að setja mig í neinar erlendar skuldir..

10)
Ástandið er svona álíka og þegar ég varð stúden 1950 , þá fengum við sérstakt innflutningsleyfi fyrir stúdentshúfum !
Það var góð kreppa og kenndi okkur að lifa í gjaldeyrislausum heimi; lifa með sjálfum okkur,baslinu og þá einnig þeim góðu kapitalistum sem höfðu komið út úr torfkofum og gerzt atvinnurekendur.Þá var góð spilling,bátagjaldeyrir og sjómannagjaldeyrir til að reka eina útflutningin,sjávarafurðir.
Semsagt,þá var notaleg spilling og nauðsynleg !
Og svo kom kalda stríðið.
Og síldarkrakkið.

11)
Ég hef verið að hugsa um Evrópusambandið og aðildina að því,Hef ekki enn gert upp hug minn, en mun gera það fyrir landsfund.
Hjarta mitt segir nei,heilinn já.
Ég ætla að sjá til,hvort hefur betur.
En áhyggjur af þessu eru litlar,því hér mun þróun ráða hvað sem okkur líður.
En mér stendur ógn af regluveldi.

12)
Einokunarkaupmennirnir dönsku gerðu nákvæmlega það sama og íslenzku útrásarvíkingarnir : tæmdu alla sjóði og fluttu peninga fólksins til útlanda eins og ég hef margbent á í greinaflokknum Á vígvelli siðmenningar undan farin misseri. Þar er sem sé sí og æ verið að vara við hinu grimma auðvaldi sem lagði undir sig banka og fjölmiðla,setti okkur venjulegt fólk til hliðar,og þá ekki sízt þingmenn sem engu réðu , og úr varð hægfara bylting sem leiddi til hruns.
Auðvitað,eins og í pottinn var búið.
En hvað skyldu margir hafa horft á með velþóknun?’
Og klappað?!
Og hvað sögðu leigupennarnir,þessir skinheilögu hlaupastrákar grimma auðvaldsins?

13)
Útrásarvíkingarnir bíða nú þangað til rykið sezt , eins og einn þeirra sagði svo spekingslega við norska sjónvarpið og talaði út úr myrkrinu.
Að vísu á dönsku ,enda við hæfi !

14)
Fagna velgengni vina minna í krimmadeildinni sem seljast eins og hvalkjöt í Japan og hef haft ágæta ánægju af sturlungabókum Einars Kárasonar sem hefur tekið undir með mér um það,að Sturla Þórðarson sé höfundur Njálu,en ég efast um að nokkur maður sé nú jafnvel að sér í Sturlungu og Einar.

Loks vona ég að Guðmundur Andri taki það ekki illa upp,þótt ég birti hér að lokum nokkur orð um nýjustu skáldsögu hans,en þau sendi ég honum í tölvupósti að lestri loknum :
“...Og aftur kærar þakkir fyrir Segðu mömmu að mér líði vel , ég hef mikið hugsað um hana og met hana æ meir,ekki sizt vegna þess að ég hef samúð með persónunum,þær eru úr hráslaga lífsins og mér er hlýtt til þeirra.Ég held ljóðskáldið í prósanum eigi ekki sízt heiðurinn af því.
En það er mikill vandi að skrifa slíka samúð inní hráslagann,vandi jú,en til þess þarf hljóðlátt,ljóðrænt hugsæi sem verður ekki lært.
Slík verk renna eins og vatn í landslagi.”

15)
Bækur eru dýrar og ég er á biðlista í Þjóðarbókhlöðunni.En nú herma nýjustu fregnir að jólaverzlun sé í miklum blóma og enginn skortur á peningum.
Það sé eitthvað annað en í nágrannalöndunum !
Og hvaða mynt skyldi nú vera notuð í þessum miklu viðskiptum hér heima,evra ?
Onei,það er gamla ónýta krónan sem spekingar segja að sé ekki á vetur setjandi.
Og nú er ég að veltafyrir mér hvar við erum stödd í ógnarkerfi Dantes
Í hvaða hring ?

16)
Það er nefnilega í blekkingunni sem við höfum alltaf lifað af.
Eins og í Íslendingasögunum.


Að lokum:

Ég tel mig fjölnismann,ég tel mig borgaralegan rithöfund ,en engan róttæklinjg og hef því ekkert á móti borgarafundum.
En leysa þeir einhvern vanda ?

Sem ritstjóri Morgunblaðsins gagnrýndi ég kvótabraskið og þá ekki sízt afstöðuleysi ASÍ,en hver hlustaði ?
Sjálfstæðisflokkurinn ?

Hugmyndir okkar um borgaralegt siðgæði eru nefnilega á reiki.Við getum kallað lýðræði okkar samfélag hins afstæða siðferðis.

Og kosningar nú , án rannsóknar á hruninu og málefnalegra umræðna um aðild að Evrópusambandinu , breyta þær einhverju ?
Væru þær nokkuð annað en friðþæging hinna reiðu og hinna vonsviknu ?

Nei,látum þá standa fyrir máli sínu sem misnotuðu frelsið og stefndu okkur og framtíðinni í skuldafjötra.

Vógu að fullveldinu.