Á vígvelli siðmenningar IX.

  

Hvítflibbar og hrunadans

  

            Sama mýta,sífelldlega endurtekin, eignaðist eigið líf.. “Þrjú hundruð

 og sjötíu lygar verða að sannleika “sagði Huxley í Brave New World.

Ég lifi ekki í neinum blekkingum.Ein manneskja getur ekki stöðvað

flóðbylgju !...

 

Vegið hefur verið að heiðri mínum og efazt um heiðarleika minn...”

 

 Eva Joly

 

 

 

1.

Það er fróðlegt að lesa bók Evu Joly um svindl og mútuþægni sem tengd var olíurisa í Frakklandi og pólitískri spillingu þar í landi.Hún fjallar um þann tíma þegar franskur almenningur vaknaði upp við vondan draum sem breyttist í þann veruleika, að hinir útvöldu voru staðnir að glæpsamlegu athæfi.Nú hefur hún verið ráðin sérfræðingur vegna bankahrunsins hér heima og því er saga hennar og barátta nærtækt umhugsunarefni.

Af þeim sökum hef ég tekið saman þessa lokagrein mína um útrásina svokölluðu,en hana mætti alveg eins kalla innrásina í sparifé landsmanna.

 

Það fer ekki milli mála að margt er líkt með Baugsmálinu og þeim svikamálum sem Joly leiddi til lykta í Frakklandi .Ég staðnæmdist einkum við þá frásögn hennar,hvernig hún var sökuð um að vera einhvers konar peð í frönskum stjórnmálum,en í upphafi Baugs-málsins var ríkislögreglustjórinn sakaður um hið sama,enda þóknanlegt sakborningum sem gerðu allt til að sverta mannorð þeirra sem að málinu unnu á vegum embættisins.

Samt var augljóst að þetta var ósatt og einungis notað í sama tilgangi og þegar reynt var að sverta mannorð Evu Joly..

 

Reynt var á sínum tíma að þvæla mér inní þennan lygavef um pólitísk afskipti vegna þess að ég hafði verið ritstjóri Morgunblaðsins.En nú er vefurinn fallinn og enginn dauður, nema kóngulóin !

 

Baugsmálið var fyrsta vísbending og athugasemd við útrásina sem leiddi þjóðina inní andrúm moldarkofans enn á ný.

 

En þetta mál breytti einnig samfélaginu í ógnlegt hysterískt umhverfi,þar sem leigupennar gátu fengið blaðamannaverðlaun fyrir að vinna úr stolnum tölvupóstum,vitandi að þeir voru í “ klóm auðmannanna “ grimmu.

 

2.

 

Eftirminnilegt er að lesa lýsingar Evu Joly á því,hvernig reynt var að vega að æru hennar og samstarfsmanna hennar,minnir á ærumeiðingar Baugsmanna og fjölmiðla þeirra í hasarnum hér heima,þar sem tönnlazt var á vanhæfni og uppspuna sem jaðraði við meinsæri eins og ég hef áður fjallað um.

Joly var í mikilli lífshættu vegna rannsóknar sinnar og heitir einn kafli bókarinnar Hver myrti Evu Joly?

 

Hvernig gat eiginlega allur þessi hamagangur orðið,segir hún,í samfélagi sem í upphafi rannsóknarinnar var það bezta í heimi,umhverfið fullt af fólki sem virðir lög og rétt,en átti eftir að saka hana um vanhæfni og ofsóknir ?

Þegar á reyndi voru hinir grunuðu verndaðir af umhverfinu,en rannsakendum vantreyst.

Sakborningarnir,eða hinir grunuðu í Baugs-málinu áttu lungann úr fjölmiðlafyrirtækjunum íslenzku og notuðu óspart þessi tæki sín til að koma óorði á lögreglu og ákæruvald.Má segja að það hafi að ýmsu leyti tekizt þar sem rannsakendur stóðu berskjaldaðir andspænis þessu fjölmiðlafári og afvegaleiddu almenningsáliti sem tók undir allar ærumeiðingarnar og reyndi að breyta embættismönnum í sakamenn og hinum grunuðu í saklausa engla.

 

Samt nýtur lögreglan 80% trausts (en Alþingi 13 % og sannleiksvitnið DV mælist vart í skoðanakönnunum um traust ,enda upplýst að lygin er þar við stjórnvöl og arfleifðarhræsni Baugs á hundavaktinni !                      

Svoað ekki sé nú talað um nethroðann ).

 

En lögregla og ákæruvald áttu mjög undir högg að sækja og þá ekki sízt vegna þess að forysta Samfylkingarinnar með Borgarnes-ræðu formannsins á vígorðaspjaldi dægurbaráttunnar ýtti undir þessar lágkúrulegu pólitísku ásakanir.Þingflokksformaðurinn,Lúðvík Bergvinsson lýsti því jafnvel yfir að leggja bæri niður embætti ríkislögreglustjórans !

 

Einnig bergmál úr herbúðum Baugs.en fékk litlar sem engar undirtektir,enda blasa alls staðar við innlendir og alþjóðlegir glæpir sem ógna ríkinu og þegnum .þess.

  

3.

Joly segir að rannsakendur hér heima hafi þurft að þola sömu ofsóknir og hún kynntist í Frakklandi,þegar vegið var að henni sem saksóknara og lögreglunni sem vann að málinu .

 

Enginn ber hönd fyrir höfuð þeim sem þurftu að rannsaka ósómann við litlar vinsældir og urðu fyrir mestu ærumeiðingunum úr herbúðum hinna grunuðu og fjölmiðla þeirra.En Joly fullyrðir að dómstólar hafi tilhneigingu til að sjá í gegnum fingur við hvitflibbana,einnig hér heima , þeir hafi fengið ofvæga dóma.

Milljónum var líka eytt í verjendur sem einskis svifust,svo að krafizt var nýs verklags sakborningum til stuðnings  

 

Norski sérfræðingurinn í efnahagsbrotum , Morten Eriksen , segir í Morgunblaðsgrein : að Baugsmálið hafi stöðvazt um sinna  “ með dómi Hæstaréttar 10.október 2005,að því er virðist vegna réttarfarslegra smáatriða  (leturbr.mín MJ) sem tengjast orðalagi í ákærunni”.

 

Og ennfremur :

 

“Ég geri þær athugasemdir við dóm Hæstaréttar að hann kallar á alveg nýja og aukna umfjöllun um lýsingar á atvikum þar sem fjalla þarf nánar um hvernig staðið var að verki,smáatriði sem einna helst gegna því hlutverki að vera til nánari skýringar,en þó án þess að dómstóllinn skilgreini hvar þær nánari skilgreiningar eiga að hefjast eða enda.....Óskýrar kröfur um nánari skýringar hafa ekkert annað í för með sér en aukinn kostnað og tímasóun ”.

  

Um þetta segir saksóknari efnahagsbrota,Helgi Magnús Gunnarsson nýlega í Fréttablaðinu,að dómstólar hafi gert “allt sem þeir geta til að fjalla ekki efnislega um málið,en það er svo sem ekki nýtt í efnahagsbrotum...(það verði skemmtilegt eða hitt þó heldur fyrir sérstakan saksóknara bankahrunsins að mæta þessu viðmóti,...Við sáum þetta í Baugsmálinu,við sáum þetta í olíumálinu og við sjáum þetta í þessu máli,þ.e. skattsvikamáli Jóns Ólafssonar).

Semsagt dómstólaviðmótið er hagstætt hvítflibbum eins og Joly segir.

 

Og hér mætti bæta við stóra málverkafölsunarmálinu sem lauk með dæmigerðum kattarþvotti hvítflibbanna og fölsuðu verkin áfram á markaði,listamönnum til háðungar eins og “Kjarvalsmynd” af nakinni konu,nýsönnuð fölsun á mynd eftir danskan 19.aldar málara !

.

Svolítið önnur meðferð en þegar svangur drengur var dæmdur fyrir að stela brauðskorpu úr einni af Haga-búðunum,þá þurfti ekki nýtt verklag

Ekkert viðmót.

 

Og enga stjörnuverjendur !!

 

Þá er það einnig harla athyglisvert,hvernig Joly lýsir þeim frönsku sakborningum sem hún þurfti að glíma við og minnir það allt á kokhreysti baugsmanna og verjenda þeirra í upphafi málsins og lengi vel.

Þeir voru kaldrifjaðar skepnur,segir hún,ýmist smeðjulegir og væmnir,en jafnframt fullir af hatri.Þeir urðu æstir andspænis staðreyndum,enda voru þeir ekki vanir því að hlusta á andmæli.Þeir voru heldur vel gefnir og áhrifamenn í skjóli auðs og valda,þótt ekki hefðu þeir fengið útflutningsverðlaun forsetans !

 

 

 

Siðleysi

stjórnmála

Hnípin var sagt,en horfum fram á veginn,

hvar sem við förum þar er línan dregin,

hamingja þjóðar hennar von sem er

að horfast í augu við Glám í fylgd með sér.

 

1.

Í Evrópu eru kratar hin mestu markaðsljón,miklu meiri en t.a.m. sjálfstæðismenn hér heima. Þeir eru eins og hverjar aðrar gorkúlur í kapítalisma í samanburði við hundaþúfur evrópsku kratanna..

 

Ég hef alltaf haft talsverða samúð með krötum.Gylfi Þ. Gíslason kallaði mig sunnudagskrata,enda var ég viðreisnarritstjóri.

 

Ég hélt því satt að segja lengi vel að Sjálfstæðisflokkurinn gæti treyst samstarfinu við Samfylkinguna,en annað kom á daginn.Og þá hófst ljótur leikur í íslenzku stjórnmálarevíunni,þegar forysta flokksins hljópst undan merkjum,fyrst með því að stilla sjálfstæðismönnum upp við vegg og krefjast þess að þeir tækju afstöðu með aðild að Evrópusambandinu,en síðan með því að hlaupa upp í fangið á vinstri grænum og mynda nýja ríkisstjórn undir forystu eins af ráðherrum gömlu stjórnarinnar,eins og enginn væri til ábyrgðar á þeim bæ nema formaðurinn sem dró sig í hlé vegna veikinda ;  víluðu þetta ekki fyrir sér þótt vinstri grænir væru á móti Evrópuaðild og hafi þá gefið Alþjóðagjaldeyrissjóðnum langt nef.

Slíkt eru smámunir í pólitík!

Svo að ekki sé talað um þau undur og stórmerki að Framsókn ber ábyrgð á vinstri stjórn sem flokkurinn styður ekki !

Annað gerðist raunar ekki,en þá gól vindhaninn á lýðræðisburstinni og skinheilög þögn fór um Austurvöll.

 

Hitt er svo annað mál að það var klókt að setja tvo óhlutdræga fagráðherra yfir dóms-og viðskiptamálin og firra stjórnina óþarfa pólitískri tortryggni,hvað sem verður eftir kosningar.

 

Auðvitað báru allir ráðherrar gömlu stjórnarinnar sömu ábyrgð,þótt sumir hafi farið í felubúning vinstri grænna eins og menn gera gjarna til að bjarga eigin skinni.

Það segir svo sem ekki mikið um þetta fólk,því margt er mannlegt sem er ekki að sama skapi karlmannlegt,en það segir því meira um siðferði í íslenzkri pólitík.

Menn geta skipt um stjórn og stefnur eins og gallabuxur!

 

Rannsókn á hruninu mun væntanlega leiða Baugs-dekur samfylkingarmanna í ljós,en Sjálfstæðisflokkurinn er saklaus að því,enda hafa forystumenn hans ekki farið varhluta af ofsóknum Baugs-miðlanna.Þeirra syndir eru aðrar og þá einkum andvaraleysi og barnaskapur andspænis grimmu og harðsvíruðu auðvaldi sem sveifst einskis.

 

En hvað sem þessu líður virðist rúmlega helmingur kjósenda láta sér fyrrnefnt dekur í léttu rúmi liggja,ef marka má skoðanakannanir, og hálfgerður brandari þegar talað er fjálglega um að refsa þeim sem ábyrgðina bera.Diderot talar í Frænda Rameausar um það sem hann kallar “sameiginlega heimsku “.Hún er einatt í fyrirrúmi á vinsældalista hins útjaskaða en ginnheilaga lýðræðis..

 

En þó öllu heldur venjuleg pólitísk hræsni.

 

Og í þessu skjóli segjast vinstri grænir munu stjórna landinu næstu 12 árin,en þó er líklega eitthvað í óvissu um landstjórann!!En samfylkingarmenn eru fuglar á hendi , þótt vinstri grænir gefi skít í Evrópusambandið eins og 38.landsfundur sjálfstæðismanna sýnist mér.Þessi meirihluti gegn aðild er samt óvirkur pólitískur vilji,hvað sem verður,en aðild er augljóslega aðalstefna og markmið Samfylkingar.

 

Þannig hangir þetta stjórnarsamstarf saman á málningunni,en enginn veit hve lengi. Þegar stýrivextir Seðlabankans eru lækkaðir er augljóst hver ræður ferðinni.Það er ekki ríkisstjórnin,heldur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og skiptir því ekki öllu máli,hvað stjórnvöld og Alþingi segja.

 

Það kann ekki góðri lukku að stýra,þegar einn flokkur reynir að hafa áhrif á annan og kom greinilega í ljós,þegar Gunnar Thoroddsen myndaði sína vinstri stjórn,en þá veifuðu vinstri menn gulrótum framan í nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins og klufu hann eins og fjallað er um í grein minni,Býsnavetri i íslenzkri pólitík.Allt endaði það með ósköpum,.eins og kunnugt er,en Sjálfstæðisflokkurinn náði þó vopnum sínum með nýrri forystu.

 

2.

Þegar ég nú hugsa um þetta,minnist ég samtals við Halldór Ásgrímsson,þegar hann benti á nokkra þingmenn Samfylkingar og sagði, Dettur þér í hug að ég ætli að mynda ríkisstjórn með þessu fólki,nei ég treysti því ekki (sjá dagbækur mínar ).

Halldór hefur ekki alltaf haft rétt fyrir sér,en ég sé nú að ályktun hans átti við rök að styðjast.

Geir H.Haarde hefði mátt heyra þessa eftirminnilegu athugasemd Halldórs,þá hefði hann ekki verið skilinn eftir einn góðan veðurdag á eyðieyju eins og Robinson Krúsó,áður en Frjádagur kom til sögunnar.En ef ég man rétt átti Robinson félagsskap við páfagauk og þurfti að láta sér hann duga,þar til Frjádagur birtist.

En Frjádagur íslenzkra stjórnmála var ekki á næstu grösum.Og í stað hans kom nýr landstjóri yfir eyjuna,sendur á strandstað af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum,en þeir sem fóru ryksugum sínum um sparifé okkar landsmanna í bönkunum eru nú önnum kafnir að flytja sig úr einni eyju í aðrar og þá einkum þangað sem skattsækinn armur hins opinbera nær ekki til með nokkra móti.

Þetta voru hinir nýju faktorar íslenzkrar sögu,kallaðir útrásarvíkingar og voru á sínum tíma hið ósnertanlega framhald væringjanna ! Goðsagnapersónur glansritanna,tízkutröll hins poppaða gerviheims.sem átti rætur í öllu nema arfleifð , sögu og andlegum metnaði.

Slíkur heimur er dæmdur til að hrynja.

Og hrunadansinn óhjákvæmilegur.

3.

Vinstri grænir hafa verið áhrifalausir og utanveltu,það hefur verið þeirra sterkasta tromp í bankahruninu.Þeir verða því ekki kallaðir til ábyrgðar.Þeir eru einskonar rómantískir sósíalistar án vitundar um orkugæði náttúrunnar til að létta þúsundum störfin eins og fjölnismenn komust að orði og Buckminster Fuller prédikaði (sjá samtal mitt við hann í Félaga orð ).

Enginn veit hvort þetta pólitíska nesti þeirra dugar í kröfuharðri tízkuskrunu samtímans..Sjálfsbjargarviðleitni er bæði sósíalisma og rómantík yfirsterkari,þótt óheft markaðshyggja sé eins og viðbrenndur vellingur nú um stundir.

 

En hefur vinstri stefna nokkurs staðar dugað án markaðshyggju kapítalismans ?

Hún er líftaug Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn starfar í anda hennar.

Semsagt frjálshyggju,en ekki marxisma.

En hún er hvorki laus við reglugerðir né skrifræði og velur ekki alltaf úr það bezta,ekki endilega

Nú eru vinstri grænir handhafar hennar, hvað sem öðru líður.

Við skulum sjá hvernig þeim semur !

 

4.

Sjálfstæðisflokkurinn missti átrúnað sinn í hendurnar á óprúttnum fjárglæframönnum sem köstuðu fjöreggi hans á milli sín eins og tröll .

Og brutu það.

En hann klikkaði líka á kvótanum,þá hófst glerhallasamfélagið.Raunar klikkuðu allir á kvótanum,nema Morgunblaðið, því Frjálslyndi flokkurinn kom löngu síðar til skjalanna..

Nú síðast hafnar landsfundur Sjálfstæðisflokksins veiðileyfagjaldi,sem var spor í réttlætisátt; því kvótakerfið fjallar ekki aðallega um aflamark,heldur einkum um eignarrétt,pólitískt siðferði og réttlæti.

En mjótt var á mununum í atkvæðagreiðslunni á landsfundinum sem betur fer..Líklega hefði Diderot kallað þessa samþykkt sameiginlega landsfundarheimsku !

Uppúr kvótabraskinu fóru byggingakranarnir að rísa eins og risavélmenni og engu líkara en tröllvaxnir marzbúar hefðu gert innrás í landið úr frægri skáldsögu H.G.Wells.

Og þá sagði græðgisvæðingin gamalgróinni nytja-og mannúðarstefnu stríð á hendur.

En á því kveiktu sjálfstæðismenn ekki,ekkert frekar en aðrir.

Og samfélagið fór úr skorðum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið velli þrátt fyrir margvíslega ágjöf gegnum tíðina vegna þess að hann er séríslenzkt fyrirbrigði,sprottinn úr samfélagskvikunni og hugmyndum okkar um frelsi;hugmyndum trillukarlsins um kvótalaust frelsi og sjálfsbjargarviðleitni hörku og vonar.

Gamla sjálfstæðisstefnan væri löngu dauð og grafin, ef hún ætti ekki það baðstofuhlýja viðmót sem er arfleifð okkar,styrkur og þá einnig sáluhjálp hvers og eins og vel hefur dugað í langri og tvísýnni baráttu við lús og örbrigð.

 

Baugsmál ?

 

1.

Í tæpitungulausri , yfirgripsmikilli og hreinskilinni setningaræðu Geirs H.Haarde á 38.landsfundi Sjálfstæðisflokksins komst hann m.a.svo að orði,að sögn Morgunblaðsins :

“En stærstu mistök okkar sjálfstæðismanna sem tengjast bankakerfinu og hruni þess voru gerð við einkavæðingu bankanna fyrir rúmlega sex árum. Með því að falla frá þeirri stefnumörkun sem ákveðin hafði verið um dreifða eignaraðild urðu okkur á mikil mistök. Þegar eigendur bankanna gerðust umsvifamiklir í atvinnulífinu og eignatengsl milli viðskiptablokka urðu gríðarlega flókin og ógegnsæ var stöðugleika bankakerfisins ógnað. Hefðum við sjálfstæðismenn haldið fast við okkar upphaflega markmið um dreifða eignaraðild eru líkur á því að bankarnir hefðu ekki verið jafn sókndjarfir og áhættusæknir og raunin varð," sagði Geir.

Hann sagði að það breytti ekki öllu um ábyrgð sjálfstæðismanna á mistökum við einkavæðingu bankanna að eftirlit með óeðlilegum viðskiptaháttum og skaðlegum eignatengslum hefði verið á höndum annarra flokka frá árinu 1991.

„Það breytir heldur ekki öllu um ábyrgð okkar að aðrir flokkar gerðu lítið sem ekkert þegar Sjálfstæðisflokkurinn reyndi að sporna gegn óeðlilegum áhrifum auðhringja í íslensku samfélagi, og sumir þeirra lögðust reyndar á árarnar með stórfyrirtækjunum í þeim átökum (leturbr.mín MJ ). Það breytir heldur ekki öllu um okkar ábyrgð að við sömdum ekki þær leikreglur sem bankarnir og  önnur fyrirtæki fóru eftir heldur var okkur skylt að innleiða þær á grundvelli EES-samningsins. Við hefðum átt að standa öðruvísi að málum, vera gagnrýnni í hugsun, standa við okkar sannfæringu. Við verðum öll að draga lærdóm af mistökum fortíðarinnar og tryggja að öðruvísi verði staðið að málum í framtíðinni og ganga í þeim efnum hreint til verks.”

 

Hér kveður við annan tón en í setningarræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á landsfundi Samfylkingar,en þar taldi hún ein helztu mistök kratanna hafa verið þau að sitja í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og þá að mér skildist sem einhvers konar bandingi eða samfylgdarmenn án samvizku!

Á þessari afstöðu er mikill munur og vekur athygli,þegar haft er í huga að bankamálaráðherrann var samfylkingarmaður og bar því hvað mesta ábyrgð á ferlinu,enda axlaði hann þá ábyrgð,þegar hann sagði af sér ásamt þeim fjármálaeftirlitsmönnum sem lentu í þessum hremmingum

Það var pólitískur hælkrókur.

.En hann er að vísu á leið inná Alþingi aftur,ásamt fjölda þingmanna sem ábyrgð bera og hafa ekki beðizt afsökunar á neinu ( t.a.m.þessum 13 % ).

En það var ekki þessi kafli um ábyrgðina sem vakti mesta athygli mína,þegar ég hlustaði á Geir halda ræðu sína í Laugardalshöll,heldur það sem hann sagði um hina dreifðu eignaraðild og vitnað er í hér að framan.

Það gefur auga leið að einkavæðingin hefði átt að leiða til stofnunar almenningshlutafélaga um bankana eins og til var ætlazt í stað þess að afhenda þá auðmönnum , og vísa ég til þess að á sínum tíma boðaði Morgunblaðið þetta hlutafélagaform sem valkost í stað sósíalisma á erfiðum kaldastríðstímum,þegar svonefnd félagshyggja,blandað hagkerfi eða jafnvel þjóðnýting voru efst á baugi.

En í Baugsmálinu hafa ókostir almenningshlutafélagakerfisins því miður komið í ljós með afdrifaríkum hætti,því að þessi leið getur boðið uppá alls kyns brask eins og sýndi sig í Baugi.Þar notuðu aðaleigendurnir og stjórnendur fjárframlög almennings til eigin nota , lánuðu sjálfum sér og svífust einskis..Þeir mökuðu krókinn fyrir sjálfa sig og almennir hluthafar höfðu ekkert um það að segja., fengu kannski einhverja dúsu og þögðu.

Það er semsagt engin trygging fyrir því að svonefnd dreifð eignaraðild hefði komið í veg fyrir þann glannaskap sem þarna átti sér stað fyrst eftirlitskerfið var ekki burðugra en raun ber vitni.

Eða sparisjóðirnir, hvernig er komið fyrir þeim ? .Og hvað segir það okkur?

 

Sem svar við ummælum Geirs H.Haarde sagði Davíð Oddsson í sinni beinskeyttu,fyndnu og sögulegu. landsfundarræðu,að hann hefði viljað 3-8% eignaraðild við einkavæðinguna eins og fram kom í þinginu ,en Samfylkingin verið því andvíg.

Og nú má spyrja : Á Samfylkingin svar við þessu ?

Davíð drap á fleira,m.a.fjölmiðlalögin og tengsl Baugs við áróðursmaskínu auðhringsins sem sveifst einskis.

Samfylkingin fékk sinn skerf og kom engum á óvart.

Hitt kom aftur á móti á óvart hvernig höfundar endureisnarskýrslu Sjálfstæðisflokksins urðu fyrir breiðum spjótum formannsins fyrrverandi , en hann kallaði hana“hráslagaleg “ vinnubrögð og pappírinn í hana vonda nýtingu skógræktar !

Vilhjálmur Egilsson skýrsluformaður taldi þetta ómaklegt,en mátti búast við því að lítt yrði af setningi slegið,ef miðað er við aðdragandann.En hann svaraði ekki meinhæðinni ásökun Davíðs um tengsl við Baug og útrásarvíkinga fyrr en eftir fundinn og þá með sínum hætti.Og skiptir svo sem ekki máli.

En það varð kúnstpása á landsfundinum!

  

2.

Í lokin má svo vitna í það sem, Eva Joly sagði á nýlegum blaðamannafundi með dómsmálaráðherra , þegar hún var ráðin til starfa til að upplýsa bankahrunið.Um það segir svo í frétt rúv :

Eva Joly segir markmið vinnu sinnar vera að leiða þá sem hafi gerst brotlegir fyrir íslenskan rétt og sakfella þá”

 

Og ennfremur í sjónvarpinu :

. Ég tel að alvarlegir glæpir hafi verið framdir og afleiðingar þeirra heimta þunga dóma. Ég held að það sé tími til kominn fyrir venjulegt fólk að sætta sig ekki lengur við svona lagað, að það gangi fram fyrir skjöldu og segi frá því sem það veit. Með þeirra hjálp gengur starf okkar mun skjótar fyrir sig og það skilar einnig betri árangri.”

 

 Skyldu ný Baugs-mál vera í uppsiglingu !.