Á vígvelli siðmenningar VIII.

 

Býsnavetur hinn síðari

 

 1.)

Það er rétt,hjartað segir við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið,en heilinn er á öðru máli,eða eigum við frekar að segja hann sé í meiri vafa.Annað sem tengist þessu er sú skoðun mín,að menn fari villir vegar ,þegar þeir beina spjótum sínum að þeim sem afhentu frelsi í viðskiptum og leyfðu frjálsræði þar sem áður voru höft og ófrelsi,en horfa helzt framhjá þeim sem misnotuðu þetta sama frelsi og komu óorði á það.

 

Mín kynslóð er alin upp í konungsríki og þannig minnist ég bernsku minnar. Allt samband okkar við umheiminn voru skipaferðir milli Danmerkur og Íslands og tilhlökkun hverrar viku dönsku blöðin Hjemmet og Familiejournal sem komu með teiknimyndasögurnar.Ein helzta persónan var kafteinn Womb og þegar ömmusystir mín sýndi mér mynd af  föður sínum ,Lárusi sýslumanni langafa mínum , sá ég ekki betur en þar væri þessi sami kapteinn kominn ljóslifandi.Og ég velti því fyrir mér hvernig stæði á því að kapteinn Womb væri langafi minn .

Svo sterk voru þessi dönsku áhrif !


Við vorum alin upp í sjálfstæðisbaráttu.Og það fór ekki fram hjá mér ungum að Jóhannes alþingisforseti, afi minn , hefði verið í forystu fyrir íslenzku fullveldi og að lokum formaður Sambandslaganefndar sem samdi um fullveldi okkar 1918 og af því var ég að sjálfsögðu harla stoltur.

Öll okkar hugsun fjallaði um fullveldið og sjálfstæði þjóðarinnar sem kæmi í fyllingu tímans.Þessi hugsun var miðþyngdarstaðurinn í hugarheimi okkar og vegna þess hún var helzta,jafnvel eina markmiðið , fór kreppan að mestu framhjá þeirri veröld sem var umgjörð æsku minnar.

 

Jóhannes afi var lifandi öll mín æskuár,en talaði aldrei um stjórnmál,en þar sem ég var í aðra röndina alinn upp undir handarjaðri hans varð líf hans og barátta  hluti af hugarveröld minni og sjálfstæði Íslands aðalmarkmiðið.

 

Eitt sinn þegar ég kom heim úr skóla var verið að setja hvítan staut á skyggnið yfir útidyrunum á Hávallagötu 49,þar sem við bjuggum.

Ég spurði föður minn,til hvers þetta væri.

Það er til að setja í flaggstöng með íslenzka fánanum,sagði faðir minn,hér verður flaggað 17.júní..

 

Þetta var í sumarbyrjun 1944,ég var 14 ára og um þetta snerist stolt okkar og framtíð.

Og Jóhannes afi var öllum öðrum glaðari þennan 17,júní ,þótt hann segði lítið í elli sinni.

 

2.)

Við trúðum á arfleifðina,að hún væri sérstök og við hana skyldi miðað,þegar kóssinn væri stunginn út inní framtíðina.En nú var hún á hrakhólum í góðærinu.Það jaðraði við að glata sjálfum sér.Við höfum a.m.k ekki haft hana í hávegum,jafnvel talað um að skipta tungunni út fyrir ensku! Það jafngilti því að breytast í alþjóðlegar fígúrur. sem enginn tæki mark á.Það sem mun kannski ráða úrslitum er sá slappleiki að við höfum ekki einu sinni reynt að skapa íslenzkan sjónvarpskúltúr eins og útvarpskúltúr í gömlu gufunni og íslenzka kirkju úr alþjóðlegri,þrátt fyrir nokkra góða spretti að vísu.

.Útlendur afþreyingarvaðall er ekki arfleifðarkúltúr.Hann er metnaðarlaus innflutningur og ástæðulaust að vernda hann,t.a.m. með auglýsingabanni.

Ef við tökum okkur ekki á í þessum efnum munum við glata sjálfum okkur og einkennum,hvað sem Evrópusambandinu líður.

 

Á æskuárum mínum hafði ég meiri áhuga á Vísi en Mogga,þar voru betri myndasögur.En þegar ég síðar fékk meiri áhuga á Morgunblaðinu var það ekki sízt vegna sögu þess í sjálfstæðismálinu,það haggaðist aldrei á hverju sem gekk,boðaði sjálfstæði í miðri heimsstyrjöld og engin undanbrögð,hvað sem styrjöldinni leið , eða hernámi Danmerkur

.Þannig voru blaðið og Sjálfstæðisflokkurinn samstíga í þessu eina máli sem skipti sköpum og er mér nær að halda það hafi ráðið úrslitum um pólitíska afstöðu mína og stuðning við Morgunblaðið.

 

Þannig var Ólafs saga Thors skrifuð af hugsjón og heiðarlegri sanngirni,þótt ég segi sjálfur frá.Hún var 16 ár í smíðum og á henni engin fljótaskrift.

 

Ég hef alltaf talið að dagblöð eigi að hafa skoðanir,það kemur frjálsri blaðamennsku ekkert við.Hún getur dafnað vel í skjóli merkilegra hugsjóna sem

skipta okkur máli Upppoppaður samtíningur og einskis nýtur eyðileggur virðingu og áhrif dagblaða,ég tala nú ekki um þetta skolpræsalýðræði sem nú er í tízku (einkum á netinu).

Eða alla segulbandsvæðinguna með sinn þunna lopa.

 

Svo leið tíminn og stalínisminn varð örlagavaldur,en NATÓ og kalda stríðið er önnur saga;einnig þorskastríðin og áhætta þeirra.

 

Allt snerist þetta þó um frelsi og fullveldi.


En þá voru hreinsanir lausnarorðið í pólitík Sovétríkjanna.

 

Nú í íslenzkri pólitík !

 

3.)

Faðir minn vann í Landsbankanum lengst af og þangað heimsótti ég hann árum saman.Aldrei hefði manni dottið í hug að þessi traustasta stofnun landsins ætti eftir að  lenda á vergangi.Slík býsn voru óhugsandi.En auðvaldið kunni ekki fótum sínum forráð,þegar að því kom..Kunni sér ekki hóf og setti þjóðina á hausinn,þótt henni kæmi þetta brask allt ekkert við.

Eldurinn sem á sjálfum brennur er þessi skuldsetning til næstu ára.En það hlýtur að teljast grimmd örlaganna að sá maður sem þurrkaði upp gamlar skuldir landsins í fjármálaráðherrartíð sinni,Geir H. Haarde, skuli  nú sitja uppi sem blóraböggull vegna ósvífni fjárglæframanna.og alls kyns braskara.

En þá dettur mér í hug að skáldið og fréttamaðurinn Sigmundur Ernir segist nú vera frjáls “ undan oki auðjöfranna “ og á þá auðvitað við eiganda  Stöðvar 2, þ.e. Baug. Úr því vígi hafa ýmsir skotið af baunabyssum á útvalda eða ímyndaða andstæðinga,en hafa svo undanfarið verið önnum kafnir að mótmæla þessum fyrrum húsbændum sínum, jafnvel siðferðispostular og rithöfundar !

 

Ó þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán....!

 

4.)

Við vorum rík þjóð í stríðinu,þótt við færðum okkar fórnir eins og aðrir.En það liðu ekki mörg ár þar til stríðsgróðinn var upp urinn og við lentum öll á ríkinu,ef svo mætti að orði komast.

Þegar ég varð stúdent 1950 þurftum við að fá innflutningsleyfi fyrir efni í stúdentshúfurnar,höft og þjóðnýting alls staðar og sjálfsbjargarviðleitni marin undir fargi reglusamfélagsins sem var í deiglu.

Þá samþykkti þingið bátagjaldeyri til að koma útgerðinni í gang og útvegsmenn fengu að flytja inn bíla og selja fyrir bátagjaldeyri; sem sagt örlítil glufa í haftamúrinn.Þannig eignaðist faðir minn lítinn Fíat á vegum LÍÚ ! Síðar var sjómannagjaldeyrir samþykktur inní kerfið og þannig gat ég keypt leyfi af togarasjómanni og bíl hjá Sveini Egilssyni . Þá var ég orðinn blaðamaður hjá Morgunblaðinu og nýkominn heim úr framhaldsnámi í þeirri fyrirheitnu og fyrrverandi höfuðborg okkar,Kaupmannahöfn.

 

Áratugum síðar vindur sér að mér í Austurstræti gamall og allslompaður sjómaður með snjáða derhúfu frá kreppuárunum og biður mig lána sér fyrir mat.

Jú,hann þekki mig,en ég ekki hann.

Það var ég sem seldi þér sjómannagaldeyrinn á sínum tíma,sagði hann alldrjúgur,og ég hef alltaf fylgzt með þér síðan þú fékkst hjá mér.bílinn

Hann fékk fyrir mat.

 

Við erum öllu vön,jafnvel óðaverðbólgu (130 % ) eins og gekk yfir þegar ég skrifaði greinina Býsnavetur í íslenzkri pólitík 1980,en þá sat að völdum ein af þessum forklúðrandi stjórnum til vinstri og réð ekki við neitt,allra sízt verðbólgu.

 

Og svo kom kvótinn.

 

5.)

Þetta voru vondir tímar,en sjálfstæðið dreif okkur áfram og von um viðskiptadirfsku sem varð svo kjarninn í viðreisninni. Sú þróun hefur haldið áfram fram á þennan dag,eða þar til hið grimma auðvald  kom óorði á frelsið með misnotkun og spekúlasjónum og án þess aðhalds sem frjáls markaður svo nefndur þarf ,eins og nú er ljóst.

Við höfum séð að án þess getur hann breytzt í einhvers konar skrímsli sem nærist á helztu eðliseinkennum mannsins,græðgi,eigingirni og siðblindu.

Þetta vissi Adam Smith eins og ljóst er af ritum hans.

 

Og kastalinn féll..

 

Mátti litlu muna að sjálfstæðið hefði gengið sér til húðar,enda erum við nú undir eftirliti. Það yrði einnig,ef við gengjum í Evrópusambandið sem Bretar segja að hafi lagt brezkan sjávarútveg í rúst,en það hlýtur að vekja ugg. og eru víti að varast.

Hjartað er viðkvæmt fyrir slíku eftirliti með fullveldinu,þótt heilinn telji það hollt eins og nú er háttað.

En þá hljótum við fyrst og síðast að spyrja hvað er í boði.

 

Og þá ekki síður um orsakir þess að Hrunadansinn fór úr böndunum og þjóðfélagið heimtaði æ meira gull eins og ég orti um í ljóðinu Drekinn og draumarnir sem birtist íTMM 2006 og þó enn fremur Hrunadansinum sem birtist fyrst í Morgunblaðinu 2005. Við getum ekki leitað orsakanna alls staðar, nema í óræktuðu eðli okkar sjálfra.

Freistingum valdsins,freistingum auðsins.

 

Að vísu var hann á fárra höndum , en ætlar einhver að halda því fram að fjöldinn allur af ágætu fólki hafi ekki tekið þátt í Hrunadansinum ?

 

Við vitum betur.

Það var gapað uppí þetta nýja,vonda auðvald.Gerviheimur þess varð allt í einu í tízku.

Og þá sökk kirkjan !.

 

 

6.)

...gullið bliknar eins og hrakið hey

við hófför gusthvítra vinda,

 

segir í ljóðinu Midas á meðal okkar sem birtist í Lesbók á sínum tíma (nóv. 2005),en þar fjallaði ég um goðsögnina um Mídas og Bakkus með skírskotun í Ovid og heimfærði hana uppá gullæðið í þjóðfélagi okkar á þeim tíma  án þess það vekti neina sérstaka athygli eða viðbrögð,enda var allt samfélagið önnum kafið að dýrka gullið og óska þess eins og Mídas að allt sem það snerti yrði að “sólrauðum málmi “ .

 

Og eyru asnans stækkuðu því meir sem æfintýrið entist.

 

 

7.)

Og hver er svo niðurstaðan?

Hún liggur ekki fyrir.Þjóðin hefur ekki sagt sitt,því skoðanakannanir eru vísbendingar,en ekki kosningar,Evrópusambandið óþekktur kostur, en útlerndingar hafa nú þegar eignazt veð í auðlindinni vegna kvótabrasks sem Morgunblaðið varaði við allar götur frá níunda áratug síðustu aldar

Við litlar sem engar undirtektir þingmanna

Jafnvel ASÍ lét sér fátt um finnast.

 

Fólk fúlsar við einkavæðingarstefnunni,samt vill enginn gömlu haftastefnuna aftur,þótt við sitjum uppi með hana að hluta vegna aðstæðna.

 

En hefur frelsið þá uppá viðunandi lausn að bjóða ?

 

Það á eftir að koma í ljós. Viðskiptafrelsi er a.m.k. ekki efst á blaði þeirra vinstrisinnuðu pólitíkusa sem nú eru hvað háværastir.

 

8.)

En eitt er víst , aðeins eitt :

 

Niðurstaðan getur ekki , hvernig sem allt veltist ,orðið önnur en sú sem ég hef nefnt í grein um Bjarna Benediktsson á sínum tíma,en þar er haft eftir honum  :

 

“Við megum aldrei láta fullveldið af hendi.Það verður að minnsta kosti ekki gert,meðan ég hef einhver áhrif. Faðir minn barðist fyrir sjálfstæði Íslands og fullveldi,og ég ætla að standa vörð um hvorttveggja.Ég er hræddur við aðild að EBE eins og nú er..”.

Einhver viðstaddra gagnrýndi þessi orð,taldi þau jafnvel tilfinningasemi.,en Bjarni svaraði með því að fullveldið hefði greitt okkur leið að öðrum þjóðum og alþjóðlegum stofnunum og það yrði ekki látið í aska Efnahagsbandalags Evrópu.

 

“Enn spunnust út af þessu einhver orðaskipti,en þá man ég að Bjarni bandaði frá sér með hendinni,eins og hann gerði stundum og sagði : Fullveldinu megum við aldrei afsala okkur,.við eigum að skila landinu betra en við tókum við því”

 

Svo reis hann á fætur og fór með svofellt vísubrot eftir Steingrím Thorsteinsson:

Aldrei,aldrei bindi þig bönd

nema bláfjötur ægis við klettótta strönd”

                                                                      (Félagi orð 1982 )

 

            Svona einfalt er nú þertta(!)

 

9.)

En bláfjötur ægis er enginn bláþráður, heldur verndandi þáttur sköpunarverksins.Vitnisburður um höfund þess eins og Jónas var sífelldlega að brýna  fyrir okkur.

 

Ekkert kompaní er betra en samfélagið við Fjölnismenn.Þeir voru evrópusinnar í menningarlegu tilliti,en breyttu öllum evrópskum gildum og áhrifum í íslenzkan veruleika,fullyrtu m.a. að tungan væri höfuðeinkenni þjóðanna.; vitnisburður um mennsku,þótt einatt sé hún nú notuð sem vitnisburður um villimennsku..

 

Þessi afstaða Fjölnismanna var ekki einungis hugsjón , heldur arfleifð.