Hluti af greininni Á vígvelli siðmenningar birtist í Lesbók Morgunblaðsins 21. apríl 2007, en hér er hægt að nálgast hana í heilu lagi. Í greininni, sem einnig á rætur í dagbókum mínum viðra ég skoðanir mínar á nokkrum þáttum samtímaumhverfis okkar, en í Lesbók Morgunblaðsins í fyrra var einnig birt slík grein sem nú hefur verið prentuð í bókinni Hrunadans og heimaslóð.

 

Matthías Johannessen


Á vígvelli siðmenningar I. 


1.

(Umhverfi fjölnismanna)


Jónas fann ekkert gott í ljóðum Sigurðar Breiðfjörðs,eins og fjölnisritdómur hans sýnir,Hann var í krossferð gegn rímum og Fjölnir var einskonar rímnafjandi.

Þegar menn eru í krossferð er litið framhjá því sem er gott og jákvætt.Ég held Jónas hafi ekki,þrátt fyrir ferðir sínar um landið , þekkt alþýðu manna alltof vel, hann segist að vísu ekki finna fyrir neinum óvinsældum,en þjóðin var ekki á hans bandi.Hann var menntamaður og að mestu utan garðs í íslenzku bændasamfélagi,búsettur í Danmörku.

Fjölnismenn kvarta undan andúð,að minnsta kosti litlu gengi.Ritinu  var ekki tekið tveimur höndum af þjóðinni,síður en svo,hún   stóð með uppáhaldi sínu, Sigurði Breiðfjörð og rímunum.

Það er sumt gott í rímum,sérstaklega þegar Sigurði tókst upp,enda var hann góðskáld ,þegar bezt lét.En af því vildi Jónas ekkert vita,þóttist ekki þekkja skáldskap hans,bara leirburðinn í Tristansrímum.En gagnrýni hans féll ekki í frjóan jarðveg,það voru bara fáeinir fagurkerar sem fögnuðu Fjölni.Hinir létu sér fátt um finnast.
Það er gömul saga og ný.

Samt hafa Íslendingar lengstum verið bókelskir og Wittgenstein undraðist og dáðist að bókaherbergi bóndans fyrir austan,þar sem hann gisti á ferð sinni um landið.Kannski hefur þverstæðan í þjóðareðlinu verið flotholtið sem dugði í straumköstum tímans.En nú eru bókahillurnar að mestu horfnar í tölvuhreiðrum bloggaranna.  En við Íslendingar höfum held ég aldrei verið estetísk þjóð.Við höfum miklu frekar speglað okkur í rímnasöngli en svokölluðum fögrum skáldskap.Skáldin hafa því ævinlega átt á brattann að sækja.Við höfum verið rímnaþjóð og erum enn.Aðalpersónan í Sjálfstæðu fólki og  Heimsljósi er ekki Jónas Hallgrímsson,heldur Sigurður Breiðfjörð.Og þá má minnast þess sem Rodin sagði :”Smekkur er eins fágætur og snilld”.

Jónas hafði sem sagt ekki erindi sem erfiði.Það var rímnaspuninn sem mótaði okkur í 5oo ár og enn erum við í þessari afþreyingu miðri. Sönglið hefur bara breytzt,það er allt og sumt! Fegurðarskyn fjölnismanna sigraði ekki,þeir vildu að vísu nota náttúruna til uppbyggingar eins og lesa má í formála þeirra,en nú er það helzt fagurt á Íslandi sem hægt er að selja.;annaðhvort ferðamönnum eða iðjuhöldum.

Fegurðin er ekki í tízku ein sér.
Fjölnismenn sögðu,að allir menn “eiga að gyrnast hana sjálfrar hennar vegna”.En ekki sé það þó verra,ef fegurðin er “sameinuð nytseminni”Og við eigum að sigrast á mótspyrnu náttúrunnar,eins og þeir komust að orði.

Nú getum við jafnvel tamið yfirgang og ofurefli höfuðskepnanna.Og það hefði þeim líkað vel,því það  er ekki einungis leyfilegt,heldur æskilegt .Við eigum að nota vatnsafl til að framleiða orku sem “þúsund hendur megnuðu ekki áður”.

Og þeir tala um verksmiðju með velþóknun.

Nytsemi gat þannig verið fögur,ekki síður en Gunnarshólmi.

Hún var “rödd tímans”

Það var á þessum forsendum sem Einar skáld Benediktsson byggði framsýni sína,en hún varð að engu í pólitísku moldviðri. Sjálfur orti hann hugsjónir sínar inn í fagurfræðilega snilld, rétt eins og Jónas.
Fagurbókmenntir hafa alltaf átt undir högg að sækja á Íslandi, þrátt fyrir Völuspá og sögurnar,enda voru þær ættfræði og sagnaþættir,en ekki fagurbókmenntir.
Ljóðin voru trúar-og spekimál.
Þannig segir Gestur Pálsson í frægum fyrirlestri sínum um Lífið í Reykjavík 1888: “Um bókmenntalíf bæjarbúa  yfir höfuð er annars sára-lítið  og sára-fátt að segja”.

Og hann heldur áfram eins og ekkert hafi gerzt þessa rúmu öld sem liðin er frá gagnrýni hans:
“Menn tala mikið um, að þjóðin okkar sé á viðreisnarstigi,hún sé að vakna til pólitískrar meðvitundar og verklegra framkvæmda í ýmsum greinum.Það getur verið;en eitt er víst,og það er að bókmenntalífið er að deyja hér út.Áhugi alþýðu manna á að eignast og lesa bækur er að minnka.....Það er t.d. sérstaklega einkennilegt hér í höfuðstaðnum,ólíkt því sem tíðkast í menntuðum löndum,að þegar menntaðir,ungir menn koma hér saman,þá ber varla við,að nokkurn tíma sé minnzt á íslenzkar bókmenntir.Nú sem stendur eru líka fjögur skáld  hér í höfuðstaðnum,öll steinþegjandi- nema þegar taka skal á líksöngslagi.Benedikt Gröndal yrkir bara grafskriptir.Steingrímur Thorsteinsson sömuleiðis,Jón Ólafsson sömuleiðis og – frá Hannesi Hafstein sést ekkert á prenti.Og skáldunum er það meira að segja ekki láandi,þó þau yrki lítið. Alþýða tekur steinþegjandi við öllum skáldskap,og borgun fyrir slík störf er annaðhvort engin eða svo sáralítil,að hún freistar einskis.Annars staðar í heiminum er skáldskapurinn skoðaður sem hið helzta og bezta menningarmeðal þjóðanna;flestar mannúðar-og frelsishugmyndir,sem beztu framfaramenn stórþjóðanna eru að berjast fyrir,eiga optast nær rót sína að rekja til skáldanna.Hér á landi finna menn aptur á móti enga þörf á skáldskap.Sú skoðun hefur  aldrei rutt sér hér til rúms,að- skáldskapurinn gæti eða ætti að hafa þýðingu fyrir mannlífið.Fyrir nokkrum árum skoðuðu menn hér skáldskap eins og glys og glingur,sem gæti verið skemmtilegt fyrir konur og krakka til að stytta þeim stundir,en nú eru menn komnir svo langt,að skoða skáldskap eins og þarfleysu-hringlanda,sem menn eiga að leggja niður eins og önnur æskubrek,og ef það er kunnugt um einhvern mann,að hann yrki eða hafi orkt,þá getur hann ekki talizt með nýtum mönnum,fyr en hann er alveg hættur að yrkja....”

 Munurinn er semsagt aðeins þessi: markaðurinn er eitthvað að pota í pegasus fyrir jólin og auglýsingastofurnar hafa keyrið á lofti. En raunverulegur áhugi á fagurbókmenntum er jafnlítill og á dögum Gests og dægurskvaldrið um metsölulistana er kæfandi.
 Svo ég tali nú ekki um íslenzku bókmenntaverðlaunin og prófkjörin í kringum þau!

.

2.

(Eigandi Virgin)


Hvorki Auden né Eliot voru,þrátt fyrir ummæli Gests Pálssonar hér að framan,

aðlaðir í Bretlandi,heldur popparar,leikarar og eigandi Virgin.

En hér heima hefur orðið hugarfarsbreyting hjá hinu opinbera eins og sagt er því alþingi hefur lagt skáldum lið,eða eigum við heldur að segja rétt grasinu hjálparhönd,eins og Holub hinn tékkneski komst að orði í baráttunni við kommúnismann á stalínstímanum. Og ég þekki merka listamenn og mæta eins og skáldkonuna Jennu Jensdóttur , Gunnar Eyjólfsson leikara og Erling Jónsson myndhöggvara af Suðurnesjum, sem lifa sig inní númtímaljóð og skila þeim inní samfélagið eins og þrastasöng.

Það er uppörvandi því að ljóðið þarf á hjálparhönd að halda,rétt eins og samfélagðið batnar við fuglasöng!

Þannig er það til fyrirmyndar þegar Mosfellsbær gerði Jóhann Hjálmarsson að bæjarlistamanni í fyrra og metur þannig nærveru skálds við umhverfi sitt.Kannski Álftanes ætti að fara að líta til Hannesar Péturssonar, af því hefði það meiri sóma en ýmsu öðru.Þangað kom Grímur með heimsþorpið sitt,þótt Gestur nefndi hann ekki í fyrirlestri sínum.

Jónas naut ekki neinnar alúðar umhverfisins,en þegar ljóð hans voru sungin í samkvæmum komst hann að fyrir þeim sem alltaf þurftu að láta á sér bera og þurfti ekki að deyja til að njóta sín! Nú kæmist hann kannski að í söngmessunni fyrir hádegisfréttir.


3.

(Leiðin að manninum-innskot)


Jónas Hallgrímsson var náttúrufræðingur og ljóðskáld; einkum ljóðskáld. En það fer vel saman, ljóðið og náttúruvísindin.

Mér er til efs að ljóðið gegni lengur einhverju sérstöku hlutverki eins og áður fyrr. Við lifum ekki á ljóðrænum tímum ef svo mætti segja. Við erum fædd inn í plast og umbúðirnar um líf okkar eru úr gerviefni. Fyrr á öldum nærðist fólk í goðsögulegum dæmisögum eins og við sjáum í hómerskviðum og biblíunni og ljóðlistin stóð í órofa tengslum við þessa klassísku menningu sem birtist svo með sérstæðum hætti í eddukvæðum, dróttkvæðum vísum og konungakvæðum síðar.

Markmið ljóðlistar er nú ekki annað en ljóðlistin sjálf. Það vantar því mikið á að hún gegni sama hlutverki og áður. En sem vitnisburður um mannlegar kenndir, tilfinningar, ást, þrá, ótta og hatur svo eitthvað sé nefnt er hún að sjálfsögðu mikilvæg listgrein og verður væntanlega áfram.

Ljóðlistin er ágæt leið að manninum sjálfum því hún getur sagt hið ósagða og þótt hún geti verið áleitin þarf hún ekki að vera óvinur eða andstæðingur, heldur góður samfylgdar-maður. En hún er að sjálfsögðu einnig afhjúpandi í hlédrægni sinni, myndmáli, líkingum og margræðni og af þeim sökum heldur illa séður gestur í einræðisríkjum. Hún gegnir kannski ekki miklu hlutverki í tæknibúnu allsnægtarríki þar sem allt snýst um peninga og markaðinn og að koma sér áfram, eins og sagt er. En hún er þá því mikilvægari þar sem þjáning og ótti eru helztu fylgifiskar mannlífsins.

En þar sem dauðinn er sú byrði sem við þurfum öll að bera, á ljóðlistin einnig erindi við þá sem eru ekki íþyngdir af neinni þjóðfélagsógæfu, en þurfa einfaldlega að horfast í augu við sjálfa sig og örlög sín.

Hlutverk ljóðlistar er þannig ekki á enda, svo lengi sem maðurinn er háður tilfinningum sínum og fegurðarþrá og sigur dauðans er í augsýn. Þar sem á því verður væntanlega engin breyting eins og maðurinn er af guði gerður og örlög hans afráðin andspænis dauðanum og þá ekki sízt þar sem ástin er augsýnilega dýpsta kennd hans og eðli hans inngróin, mun ljóðlistin áfram gegna því hlutverki í lífi hans sem nú blasir við, þótt hún hafi glatað goðsögulegu markmiði sínu gagnvart hetjunni. En dýrkun hennar er ekki heldur úr sögunni, síður en svo, og nægir að minna á hetjur popps og kvikmynda.

Hetjurnar kunna nú bezt við sig í kvikmyndum og öðrum fjölmiðlum en enginn veit hversu þar er lífvænlegt þegar plastið hrúgast upp og enginn hefur tök á að fylgjast með allri framleiðslunni. Þá má telja líklegt að tíminn vinsi verðmætin úr eins og hann hefur alltaf gert – og kannski hann verði þá til að rétta við hlutskipti ljóðsins.

Það á enn margt ósagt.

Ef ljóðlistin dæi á Íslandi væri það eitthvað svipað því og ef íslenzka birkið hætti að laufgast einn góðan veðurdag. Þá yrðum við íslenzkum skógarilmi fátækari. Landið yrði naktara og fáskrúðugra og tengslin við það ekki hin sömu og áður. Það yrði eins og að glata því mikilvægasta og dýrmætasta í lífi hverrar þjóðar, goðsögninni.

Nú þegar ljóðlistin hefur yfirgefið guði og hetjur og snúið sér að venjulegu fólki og hversdagslegu lífi er þess að vænta að hún verði áfram einn þáttur þess og mikilvæg tengsl við arfleifð okkar og uppruna.

En --það er eins og Steinn sagði :Við lifum á erfiðum tímum(!)

Í lítilli sögu eftir Guðberg Bergsson segir bókmenntir séu ekki skrifaðar til að skiljast,þær séu eins og vínið “eitthvað á milli vínberja og ediks,efni sem virkjar hugann” Gamall maður fer einu sinni á ári í “sína ástkæru fæðingarsveit” sem er sögusvið Eyrbyggju,hittir alltaf einhvern sem hægt er að tala við um söguna,þangað til nú að unga fólkið í Stykkishómi veit ekkert um Eyrbyggju.

Eftir sextíu ár kemur hann að tómum kofunum.Og hann er í uppnámi .”Hann skildi ekki hvað hafði komið fyrir fólkið í heimasveit hans”.

Enginn þekkti Eyrbyggju lengur. En hraunið ið sama og áður , kulnaður eldur. Við lifum þannig á válegum tímum.Og til að fara ekki á mis við sjálf okkur þurfum við á bókmenntum að halda.  Og þá ekki sízt arfleifðinni.


4.

(Umhverfi Balzacs)


Balzac talar í Perre Goriot um umhverfi sitt sem “vígvöll siðmenningarinnar”.Þar segir einnig að hjartað sé fjársjóður og ef af því sé gegndarlaust eytt leiði það fljótt til gjaldþrots.Og að þessu gjaldþroti kemur í sögunni,en það verður með öðrum hætti en lesandinn gerir ráð fyrir.Það kemur semsagt á óvart.

Í þessu umhverfi Balzacs sem er mótað af upplausn og átökum eftir byltinguna 1789 er reynt að brjóta réttarríkið á bak aftur með auðmagni,en þar lifir yfirstéttin lögum ofar,því af byltingum vex ævinlega ný yfirstétt á rótföstum stofni mannleg s eðlis. Borgararnir taka við af aðlinum,samt þykir það fínast af öllu að giftast inní aðalsættir!

Goriot er af borgaralegri lágstétt,en kemst í álnir í upplausninni miðri,því hann fer að stunda viðskipti við útlönd og gerist matvælakaupmaður í öllum skortinum og tekst að öngla saman handa dætrum sínum tveimur sem ná því langþráða takmarki að giftast inní aðalinn!

Og allt snýst þetta um peninga;tilfinningar.

Heiður.

Þannig er lifað í samfélagi alsælunnar sem Stefán Zweig kallar “ himnaríki fíflsins”. Og er ein tegund blekkingar. Og nú er farið að tala um nýja lágstétt jötunlímda við skjáinn.

Eins og ég kynntist Balzac

Stefán Zweig segir að Balzac hafi
verið hjá ástkonu sinni í Ukraínu,en
farið heim til Frakklands til að deyja,það
sé eins og hann hafi kvatt móður sína
áður en hann lagði upp í langferð
á ókunnar slóðir,
en ég kynntist honum
ekki á þeirri leið,heldur öðru ferðalagi, þ.e.
af skáldverkum hans.

Á þessu ferðalagi  frá einni hugsun
til annarrar þarf hvorki að taka
strætisvagn né líkbíl,heldur búa um sig
eins og ormur í laufi

og myndhverfast.

Að vísu lifum við ekki öll í einni og sömu veröld.Og raunar gætum við talað um veröld hvers og eins.Þannig talar Kristur um sáluhjálp hvers og eins eða velvegnun eins og fjölnismenn komust að orði í formála sínum.Ég sagði aðspurður um fyrirmyndir að persónum í nýrri bók minni Maðurinn er vænglaus fluga , þar sem Þórbergi bregður fyrir í einni leiksögunni ,að hann minnti mig af einhverjum ástæðum alltaf á Sókrates,en bætti því við að allar fyrirmyndir í skáldskap “gleymast með tímanum og þurfa þannig ekki að þvælast fyrir persónum sínum”.

Ég hef verið spurður nánar út í þetta,jú hvorugur þeirra Þórbergs eða Sókratesar lifðu í veröld annars fólks,samt voru þeir með allan hugann við annað fólk.Hugarveröld þeirra er ekki í alfaraleið,en samt flöktir skuggi þeirra við hellismunna okkar ; við vitum af þeim. Þeir boðuðu aukinn þroska mannsins,sæluríki á jörð,en það er blekking eins og mannsskepnan er af guði gerð. Hún hefur sín jarðnesku takmörk.

Sæluríki er ekki af þessari jörð,það verður að flytja til himna eins og Jerúsalem.Það getur verið astralt fyrirbrigði,ójarðbundið eins og Bláa eyjan hans Þórbergs.Eða ríki Platós Þar væri von til þess að unnt sé að fara að þeirri ábendingu hans,að þeir stjórni sem vilja það ekki.

Jarðtengt sæluríki kallar á alla vankanta og fordóma mannsins,það er eins og hin veraldlega Jerúsalem.

Eða Sovétríkin,blekking kommúnismans.

Og martröð.

Páll Ísólfsson talaði í einu samtala okkar um “hnattræn takmörk “okkar.

Hann vissi alltaf hvað hann söng.


5.

(Sjónvarpsmarkaður og úrvinnsla tímans)


Við höfum getað séð af leikriti Evripídesar í Þjóðleikhúsinu, Bakkynjurnar, sem skrifað var fyrir tæpum 25oo árum að maðurinn hefur ekkert breytzt á þeim tíma sem hann hefur reynt að lifa í siðmenningarlegu umhverfi.Og fyrst ég er með hugann við Balzac og persónu hans,Goriot sem kallaður hefur verið franskur Lér,stöðvast hugurinn við samtíma hans og Stendhals sem skrifaði skáldsöguna um rauða og svarta,eina mestu skáldsögu allra tíma.Þegar hún birtist í kringum 1830 fór hún framhjá markaðnum og glámskyggn samtíð fúlsaði við meistaraverki. en átti ekki orð yfir ruslbækurnar á metsölulistanum sem nú eru löngu gleymdar;eða hver man eftir Karr,Janin eða Kock sem seldu skáldverk í tugþúsundum eintaka ?

Sá eini sem kveikti á snilld Stendhals í Frakklandi var Balzac,en enginn hlustaði á listrænar vísbendingar hans (eða Goethes í samtölunum við Eckermann).

Markaðurinn velur ekki úr,heldur tíminn.Og hann fer ekki eftir metsölulistum eða verðlaunum.Bókmenntapáfinn sjálfur,Sainte Beuve,hafði ekki heldur neitt um það að segja,hvernig verkum Stendhals vegnaði í framtíðinni; hann hélt því fram að þau skiptu engu máli , persónur hans eru allar andvana fæddar,sagði þessi andlegi einvaldur og yngri samtímamaður Stendhals,þær eru tilbúin og sjálfvirk vélmenni!!Samt hafði enginn greint tilfinningalífið,hvað þá ástina, eins og hinn óþekkti Stendhal sem var kallaður Stenhal í frásögn af dauða hans,enda hafði hann aldrei verið talinn með skáldum og látið sér fátt um finnast,þótt Balzac vissi betur og reyndi að koma honum á framfæri við franska lesendur,en án árangurs þrátt fyrir frægð sína! Þessi tilraun Balzacs gladdi engan,nema Stendhal sjálfan sem hafði aldrei gert út á markaðinn;heldur framtíðina (!)

Og skorti athyglisfíknina.

Íhugunarefni fyrir okkur rithöfunda og bókaútgefendur nú og auglýsinga- og sjónvarpsbruðl þeirra.

Menning,list,já,hver getur komið merkingu þessara orða til skila,svo að viðunandi sé ? Þeir eru ekki margir.Mér er nær að halda að Ibsen hafi komizt einna næst því að lýsa listinni í litlu kvæði sem hann sendi Grieg,en sem kunnugt er bað hann tónskáldið semja tonlist við Pétur Gaut og úr varð eftirminnilegt samstarf þessara snillinga.

Ljóð Ibsens hljóðar svo í hans eigin gerð :

Orfeus slog med toner rene
sjæl i vilddyr,ild i stene.

Stene har vort Norden nok af;
vilddyr har vi og en flok af.

Spil,sá stenen spruder gnister,.
Spil,sá dyrehammen brister.

Semsagt,listin á að hreyfa við sálinni.Hún á að breyta manndýrinu í manneskju.Hún á jafnvel að snerta sálarlaust efnið 1). En það er ekkert takmark,að hún berist um heimsbyggðina með allskyns framtóningum í listinni,heldur eins og fuglasöngur sem er jafneðlilegur og áreynslulaus og andvari í trjágrein.

Boðberar listar eru ekki endilega einhverjir Pétrargautar,eða eins og stendur í leikritinu : ég,herra Gautur,alheimsfrægur, og þá enn síður einhver Garðarhólm,en báðir vissu þetta tvennt : að maður er það sem aðrir halda að maður sé og frægðin er jafngóð,hvernig sem hún er fengin.

Á þessum fölsku forsendum er einatt reynt að sigra heiminn.

Gautur var alltaf að reyna að vera hann sjálfur og alheimssöngvarinn var eitthvað að daðra við hinn eina sanna tón,en hafði ekki genetískar forsendur til að höndla hann

.Eðli sannrar listar er óvart þannig að báðir týndu sjálfum sér í viðstöðulausu frægðarbasli sem er endanlega afgreitt bæði í Pétri Gaut og Brekkukotsannál.

1) (Sjá leiksöguna Stefnumót við tunglið,þríleikur l, í leiksögusafninu Maðurinn er vænglaus fluga,2006)).


6.

(Útrás)


Það er ástæðulaust að hafa neitt á móti svokallaðri útrás eins og nú háttar,en sú var tíðin að hugsjónamenn litu inn,en ekki út.Danskir kaupmenn höfðu gert einskonar ínnrás í þann “siðmenningarlega vígvöll “ sem fátæktin hafði markað sér hér á landi og fékk enginn við það ráðið,því að hún var gerð í skjóli konungs sem hafði arðrænt okkur í þrjár eða fjórar aldir og sýnt mikla kunnustu í þeim efnum,enda bar hann ævinlega efra skjöld,þegar fólkið í landinu hugðist leita réttar síns. Með rómantísku stefnunni efldist þjóðernishyggjan og talið var nauðsynlegt að reka útlendinga af höndum sér,en fjölnismenn ýttu mjög undir slíka þróun.Og að því kom að hér varð einskonar friðsamleg sambúð í þessum efnum.Hitt var annað mál að danskir kaupmenn þóttu fyrirmyndaraðall þar sem þeir lögðu net sín og einhvern tíma heyrði ég því fleygt að íslenzkir hefðu í Stykkishólmi sett inná sig púða á sunnudögum til að líkjast dönskum kaupmönnum sem mest. Þannig eiga þeir að hafa gengið um plássið til hátíðabrigða.Þó að ég telji að þetta sé gömul þjóðsaga,segir hún ýmislegt um ástandið.En hvað sem því líður var íslenzkum verkamönnum aldrei borguð laun á selstöðutímanum,heldur lifðu þeir á vöruúttekt,þangað til Edinborgarverzlun tok upp launagreiðslur snemma á síðustu öld.Átt ég á sínum tíma samtal við einn þessara verkamanna sem taldi þessar greiðslur mikil söguleg tímamót..

En nú þegar útrásin er í algleymingi er ekki úr vegi að horfa um öxl og skoða afstöðu fjölnismanna til verzlunar og viðskipta,en þeir boðuðu hvorki innrás né útrás,heldur uppbyggingu í landinu sjálfu og þá ekki sízt landnýtinu í þessum framtíðardraumum sínum

Þegar ég hugsa um þessa utrás hins nýja íslenzka auðvalds sem alltaf er verið að tönnlast á og byggist á matar-og bensínpeningum alþýðunnar,hvarflar hugurinn

að gömlum bókartitli sem frægur varð á sínum tíma,Fjósakona fer út í heim!


7.

(Imperium)


Ný söguleg skáldsaga eftir Robert Harris,Imperium,hefur vakið mikla athygli og þykir markaðsvæn afþreying.En það er einnig hægt að lesa hana sem áminningu. Á hvaða leið erum við í öllum vellystingunum,eða velvegnuninni eins og fjölnismenn sögðu?

Eru það pólitíkusarnir sem stjórna ferðinni – eða peningamennirnir? Hver er gulrótin?

Saga Harris fjallar um Síseró (106 f.Kr-45 f.Kr) og rómverskt samfélag hans,en hann lætur þau orð falla við þræl sinn, sem segir söguna að pólitík sé álitin barátta fyrir réttlæti,en hún sé í rauninni atvinna þeirra sem stunda hana.

Nei,umhverfi okkar hefur ekkert breytzt. Maðurinn er hinn sami og áður;freistingar hans,takmarkanir. Eftirsókn hans eftir vindi. Og völdum.

Fólk heldur að lýðræði sé næsta fullkomið af því að atvinna pólitíkusanna sé byggð á velfengnum atkvæðum,en það er ekki alltaf.Og bakvið þessi atkvæði er ekki mannvit mikið,svo að vitnað sé í arfleifðina.

Eins og saga Harris sýnir geta réttarhöld jafnvel verið einskonar prófkjör og er spuni hans í þeim efnum harla lærdómsríkur.

Og brýnt umhugsunarefni í andlegri gengisfellingu nútímans.

Í sögunni er athyglisverð frásögn af erfiðum málaferlum Síserós vegna ákæru hans á hendur auðkýfingi á Sikiley,sem reynir að kaupa sér sýknu og er raunar ekki þekktur fyrir neitt annað en peningana sína.Þá notar hann óspart til að kaupa sér frið.En tæknilegar lagaflækjur duga honum samt ekki í þessu siðlausa spillingarbæli sem umhverfið er,ekki sízt í næsta nágrenni við öldungaráðið eða þingið,en virðingin fyrir réttarríkina sigrar þó undir lokin,því að hún er meiri en virðingin fyrir peningum og valdi þeirra.

Getum við einnig státað af því? Mér er það til efs eins og nú háttar í vindhviðum samfélagsins. Jafnvel þeir sem telja sig fulltrúa fólksins veitast að þeim sem eru að reyna að hemja ólman fola fjármagnsins og vernda réttarríkið.

Þessi grimmilega saga Harris fjallar einnig um okkur en ekki einungis pólitískt umhverfi Róms á dögum Síserós,þar er talað um hleranir vegna samsæris áhrifamanna eins og Katilínu , jafnvel Sesars.Allar sömu forsendur og við þekkjum,sami tilgangur,sama löngun til að skara eld að sinni köku;eða varhugaverðum hugmyndum sem menn hafa ánetjazt.Og Síseró ósköp einmana í andstöðu við sitt spillta umhverfi,þar sem eiginhagsmunir ganga fyrir mútum og gagnkvæmri fyrirgreiðslu.Ástæðan ekki sízt sú sem Seneca (5 f.Kr-65 e.Kr) nefnir í ritgerð sinni um okkar skammvinna líf,að í lýðræðisríki eiga stjórnmálamenn allt undir öðrum.

Það er ekki alltaf gott veganesti,en hefur orðið mörgum að falli.


8.

(Hugmyndir Bjarna og fjölnismanna)


a.

Stundum hef ég velt því fyrir mér hvað kviðdómur hefði gert í listaverkafölsunarmálinu svonefnda.Það veit að sjálfsögðu enginn og hefði líklega farið eftir samsetningu hans.En virðingin fyrir skapandi krafti á enn víða spöl í landi,hér sem annars staðar.

Ástæða þess að ég hef velt þessu fyrir mér er sú,að Bjarni Benediktsson talaði um það við mig á sínum tíma að hann teldi við ættum að taka upp kviðdóm og skildi ég hann svo að slíkt kerfi byði upp á réttlátari og kannski lýðræðislegri dóma en hér tíðkast. En semsagt,hann mælti með kviðdómum og studdist þá auðvitað við reynslu af slíku kerfi,bæði austan hafs og vestan.

Og þá kannski einnig með tilliti til fornrar skipunar á alþingi.

Þessi mikli lögfræðingur og fyrrum háskólakennari var að sjálfsögðu einatt með hugann við réttarfarið og lögin sem lýðræðislegt mælitæki í siðmenntuðu landi.Og þrátt fyrir fyrrnefndar hugmyndir hans um kviðdóma átti hann ekki orð yfir réttarfarið í Bandaríkjuunum,þegar Edward Kennedy slapp við bílhneyksli sitt alþekkt ,en þá drukknaði vinkona hans og sjálfur flýði hann af vettvangi og í öruggt skjól.

Eitt sinn þegar við vorum á göngu um Lögberg á yndislegu sumarkvöldi , nutum helgi staðarins og þeirrar sögulegu reisnar sem hann býr yfir vék Bjarni að máli Kennedys og sagði það væri óafmáanlegt réttarhneyksli ,kvaðst jafnvel telja að Bandaríkin yrðu aldrei söm og jöfn eftir hneykslið.En síðan hefur Kennedy verið á Bandaríkjaþingi og búið um sig í bómull skinhelginnar fram á þennan dag eins og svo margir aðrir sem gengið hafa í augun á almenningi og notað lýðræðið til að skara eld að eigin frama;kannski í prófkjörum sem eiga meira skylt við lýðskrum en hæfileika.

Ég átti erfitt með að skilja áhuga Bjarna á kviðdómum og hef alltaf haft fyrirvara á þeim,ekki sízt eftir að O.J. Simpson var sýknaður, að margra áliti vegna íþróttafrægðar sinnar.

Semsagt gert ráð fyrir mannjöfnuði í kerfinu.

Og auðvitað er það svo að Salomon konungur Davíðsson situr ekki í öllum kviðdómum,ekki frekar en hann sé enn að kveða upp sína réttlátu dóma.

En vonandi svífur andi hans yfir vötnunum,þótt stundum megi um það deila,.

b.

Þegar ég læt hugann reika til þeirra tíma,þegar við Bjarni töluðum hvað mest saman,eða til ársins 1959,þegar við vorum ritstjórar Morgunblaðsins og uppúr því,get ég ekki látið hjá líða að minnast á ræðu sem hann flutti á sjómannadaginn 6.júní 1943,en hún er birt í ritsafni hans Land og lýðveldi,1965 sem Almenna bókafélagið gaf út undir ritstjórn Harðar Einarssonar,en í þessari ræðu minnist Bjarni fjölnismanna og víkur óbeint að því sem nú er einna efst á baugi í viðskiptaháttum íslenzku þjóðarinnar,svokallaðri útrás.

Fyrir útrásinni fyrr á tíð stóðu danskir kaupmenn sem tóku allan hagnað sinn af verzlun hér á landi og fluttu til Kaupmannahafnar.Nú þurfi íslenzka kaupmannastétt,segja fjölnismenn, sem ávaxti hagnað sinn hér heima eða eyði honum að öðrum kosti,en aðalatriðið sé að hagnaðurinn verði eftir í landinu sjálfu og notaður til atvinnu og uppbyggingar hér heima.

Bjarni vitnar máli sínu til stuðnings í Tómas Sæmundsson,sem hann kallar oddvita fjölnismanna, og bendir á að Tómas hafi sagt að kaupmennirnir séu “að sínu leyti hið sama í kaupstöðunum og bændur séu í sveitunum: “ undirstaða lansdsins velmegunar,því fé þeirra er kyrrt í landinu,eykst þar og eyðist,og af þeim rótum rennur sú kaupmannastétt,sem landinu er áríðandi og máttarstofn þjóðarinnar “ ,eins og Tómas komst að orði.

Bjarni ítrekar þessa nauðsyn,að féð verði áfram í landinu og sé ekki flutt út, með því að vitna í formála eða ávarpsorð fjölnismanna sem komust svo að orði um verzlun landsmanna til forna , “-Þess vegna lenti allur ágóði verzlunarinnar þar sem hann átti að lenda,inni í landinu sjálfu.......”

Mundu þessi orð ekki vera íhugunarverð eins og viðskiptum okkar er nú háttað, og ástæða til að bera þau saman við arðrán dönsku faktoranna á sínum tíma sem sópuðu gróðanum til Kaupmannahafnar?

(Sjá Hrunadans og heimaslóðir,2006)


9.

(Andspænis Golíat)


Segið mér og segið mér
sverfur að stáli.

Samt er heldur gott
hljóðið í Páli.

Erfiðir tímar
óþjóð í báli,

sólin blikar
við bit í stáli,

enn er Flosi
í aðför að Njáli

Mikið hefur gengið á.Jafnvel gömlu kaldastríðsljóni eins og mér hefur blöskrað atgangurinn.Til að sinna embættisskyldum sínum hafa lögregluyfirvöld látið reyna á lög um viðskiptahætti og uppskera ekki annað en ærumeiðingar,rógburð og hótanir , allt í skjóli auðs og valda.Sigurður Tómas Magnússon settur ríkissaksóknari hefur kallað starf ákæruvaldsins lögboðið verkefni og uppskorið hrakyrði fyrir,rétt eins og aðrir.

Það er með ólíkindum,hvað hugarfar sumra þessara svokölluðu álitsgjafa er rotið,einn þeirra sagði ríkislögreglustjóri ætti að taka pokann sinn og fá hvergi sómasamlegt starf hjá hinu opinbera !!

Semsagt,útskúfun!

Þessi sami maður gekk á mála hjá Baugi á sínum tíma (ekki einn um það !)og var dubbaður upp í ritstjórastöðu hjá DV. Nýríkir eigendur blaðsins þurftu víst á svona málaliða að halda,m.a. til að líkja mér við morðingjann og mannætuna Hannibal Lecter og eltast við lögreglumenn sem voru að sinna skyldustörfum sínum..

Semsagt,harðir húsbændur.

En þetta var ný hlið á gömlu ofstæki,því Þjóðviljinn sálugi hafði látið sér nægja að kalla mig mccarþýista í kalda stríðinu !

(Þegar ég var að skrifa samtölin við Þórberg,leizt Kristni E. Andréssyni ekki á blikuna.Sagði Þórbergi að ég hefði stjórnað atlögunni að sovézka sendiráðinu,ég væri nazisti eins og Halldór Guðmundsson hefur eftir mér í kiljansbók sinni ágætri.Þetta voru geysifjölmenn mótmæli vegna ofbeldis Rauða hersins í Ungverjalandi,eða Ungó eins og Þórbergur sagði, og leizt kommúnistum ekki á blikuna, því þeir höfðu aldrei upplifað jafnæsta mergð gegn margþvældri hugsjón sinni

Þórbergur nefndi þetta við mig,eins og segir í Kompaníinu,en lét sér fátt um finnast.

Hann vissi betur

Þessi morgunblaðsfóbía hefur birzt með ýmsum hætti gegnum tíðina.Samt hafa allar rússagrýlur blaðsins átt rætur í lífinu sjálfu,en ekki ævintýrum!

Og enn er það íhugunarefrni , að gamlir sósíalistar bregðast ókvæða við og telja það jafnvel ærumeiðandi,þegar þeir eru kallaðir kommúnistar , mundi það ekki segja sína sögu?Ætti þetta ekki að vera (söguleg)heiðursnafnbót?Sverrir Hermannsson tekur því t.a.m alltaf fagnandi,þegar hann er kallaður gamall sjálfstæðismaður,telur sér sæmd að því,þótt hann hafi stofnað Frjáldlynda flokkinn og gangi fyrir andúð á Sjálfstæðisforystunni.

En hvað sem því líður,segir þetta heilmikla sögu um arfleifð gamalla kommúnista og orðstír afdankaðra sjálfstæðismanna ! )

En DV hefur breytzt til batnaðar frá því það ýtti undir sjálfsvíg kennara á Ísafirði og var (að kröfu almenningsálitsins) lagt niður sem dagblað,fjallar jafnvel um Baugsmálið af skynsamlegri hófstillingu og á ég þar við grein Brynjólfs Þórs Guðmundssoinar í DV 2.febr.um Óskýr lög...sem voru helzti vegvísirinn í málinu, enda hefur Brynjólfur eftir sérfræðingi í lögum:”...að lögregla gæti átt í vandræðum með að greina hvaða gjörðir séu refsiverðar og hverjar ekki.´..”Málið sýndi “...nauðsyn þess að endurskoða gildandi löggjöf um starfsemi á fjárlagamarkaði,sérstaklega með tilliti til refsiheimilda og mats á refsiþörf. Þetta gæti meðal annars leitt til þess að rannsókn yrði ekki nægilega afmörkuð eða yrði víðtækari en nauðsyn sé til...”

Semsagt,gildandi löggjöf “..sé ekki nægilega skýr þegar kemur að því að greina á milli hvað stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja mega og mega ekki gera”,segir Brynjólfur. og vísar málinu til Alþingis!

Ákæruvaldið á því ekki annarra kosta völ en láta dómstóla skera úr þessum álitamálum.

En þetta nægir ekki Samfylkingunni,allir starfsmenn réttarkerfisins eru handbendi Sjálfstæðisflokksins,hefur forysta hennar fullyrt,eins og fyrrum framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna, Páll E. Winkel, benti á í morgunblaðsgrein um ærumeiðingar hennar og staðlausar fullyrðingar (3ja.febr.).

Og enn er vegið í knérunn.

Forysta Samfylkingar hefur semsé spunnið það upp að Sjálfstæðisflokkurinn hafi att ákæruvaldinu á Baug ,eins og komizt var að orði,jafnvel hótað ríkislögreglustjóra embættismissi,að hætti málaliða , en hann var þó á sínum tíma skipaður í nýtt embætti fangelsismálastjóra af þeim mæta alþýðuflokksforingja,Jóni Sigurðssyni dómsmálaráðherra !

Það hefur þannig verið vegið hastarlega að æru þeirra sem starfs síns vegna geta helzt ekki borið hönd fyrir höfuð sér og liggur jafnvel hæstaréttardómur fyrir þess efnis,eins og ríkislögreglustjóri víkur að í fyrrnefndri umfjöllun Brynjólfs. í DV.

En svona atvinnurógur sæmir engum,allra sízt þeim sem telja sér trú um að þeir geti orðið pólitískir leiðtogar.

Slíkt offors vekur ekki traust.

Það er lýðskrum.

Þannig hefur það þvert á móti verið forysta Samfylkingar sem hefur skipt sér af Baugsmálum öðrum stjórnmálamönnum fremur og reynt að egna almenningsálitið gegn ákæruvaldinu og lögreglu og þá væntanlega til að hafa áhrif á dómara..Og koma sér í mjúkinn hjá atkvæðunum,því auðvitað snýst þetta um þau,en ekki réttlæti.

Og hvers vegna skyldi ekki vera ástæða til að sinna meintum skattsvikum uppá milljónatugi,hvaða hagsmuni hefur Samfylkingin af því? Hún hefði áreiðanlega ekki áhyggjur af því,ef Morgunblaðið væri tekið á teppið fyrir slíkar sakir!

Þegar krafizt var atlögu að olíuforstjórum var fjargviðrazt í fjölmiðlum um vanhæfi ríkislögreglustjóra af því hann vildi láta kanna hvort það mætti reka slíkt mál á tveimur stöðum í kerfinu, hjá samkeppnisyfirvöldum og lögreglu, Var varkár og vildi ekki misbeita valdi,en fara að lögum.Samt var hann ekki vanhæfari en svo að rannsóknin fór að mestu fram í embætti hans,.en lokarannsóknin á vegum ríkissaksóknara sem ákærði og var það eðlilegt vegna umfangs og álitamála og svo náttúrlega fordæma.

En öllu málinu var svo vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur og Hæstarétti.Þá var ekkert talað um klúður eins og í Baugsmálinu,enginn átti að segja af sér!

Allt hávaðalaust.

Stóryrtir pólitíkusar sem sjaldnast gæta tungu sinnar , og alltvitandi ,en misvitrir álitsgjafar hurfu eins og mýbit í köldum gusti ! Almenningsálitið,eða dómstóll götunnar eins og myndlíkingin kemst að orði,tapaði málinu.

Og blessuð þjóðin ,eða tæp 85% hennar,sem hafði loksins fundið “mestu þjófa Íslandssögunnar “, sat eftir ,orðlaus.

Og agndofa!

Og svo hleypur Alþingi til og breytir lögunum,ekki seinna vænna!

En hitt er svo annað mál að ríkissjóður hefur fengið hátt í 2 milljarða vegna olíu- og Baugsmálsins og rannsókna þeirra og kemur það fram í svari Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra vegna fyrirspurna á þingi,Baugsmenn hafa orðið að greiða nær hálfan milljarð króna vegna vantalinna tekna til skatts og olíufélögin að mig minnir hálfannan milljarð vegna lögbrota ,enda báðust forstjórarnir á sínum tíma afsökunnar á samráðinu og uppskáru vægð í Hæstarétti (sem klofnaði í lokin,að sjálfsögðu!) Það var ekki hægt að refsa olíufurstum frekar en þeim tölvum sem þeir notuðu í viðskiptum sínum og samráðum! Sluppu þá væntanlega vegna lögformlegra galla.

Athyglisvert er það sem kemur fram í svari Björns,þegar sagt er “Þá er ótalin hækkun einstaklinga sem tengdust málinu svo sem fram hefur komið í fjölmiðlum”

Þarna á hann við Baugsmálið.Og það verður fróðlegt að sjá þetta uppgjör,þegar upp verður staðið!!

Ég hef hælt Fréttablaðinu og framförum þess í tíð Þorsteins Pálssonar.Þó verð ég að benda á klaufalega ritskoðun sem stingur í augu : Þegar blaðið sagði frá svari Björns Bjarnasonar undir fyrirsögninni “Sérstakur saksóknari kostar 34,5 milljónir” og tíundar kostnað við málarekstur, minnist það ekki einu orði á tekjur ríkissjóðs af rannsókninni og sleppir öllum óþægindum í tengslum við skattamöndlið.

Semsagt,hlífð við eigendur!

Þetta mættu starfsmenn blaðsins íhuga við frekari endurhæfingu.

Dómstólar hafa ekki við að lesa í óskýr lög frá Alþingi,en það eru smámunir miðað við byltinguna sem nú fer fram á Bessastöðum gegn stjórnarskrá landsins,eins og lagaprófessor við Háskóla Íslands hefur bent á.En hvernig væri þá að ganga hreint til verks fyrst ráðherrar og alþingismenn ráða ekkert við forseta landsins og gera embættið pólitískt með nýjum lögum,en þá verður að búa svo um hnútana að enginn geti sezt í það nema með stuðnings álitlegs meirihluta þjóðarinnar,þannig að minnihlutinn geti ekki orðið stærri en meirihlutinn eins og nú vill verða ?!

Sumt er löglegt,annað siðlegt..

Þingræði ræður ekki við siðlega þáttinn.

Ekki dómstólar heldur.

Því miður!

Við morgunblaðsmenn lentum í einu af þessum álitamálum á sínum tíma,þegar ríkissaksóknari kærið umfjöllun Agnesar Bragadóttur sem snerti uppljóstranir eða upplýsingar og bankaleynd í Landsbankanum eins og margir muna,en blaðið var sýknað án þess verjendur sópuðu til sín milljónum og agnúazt væri í fjölmiðlum út í ákæruvaldið.

Málið semsagt rekið hávaðalaust og án málaliða! Engar óheiðarlegar aðferðir eða tölvupóstsþjófnaðir , engar ærumeiðingar, engir fjölmiðlalögmenn. Engar ásakanir um pólitískt upphaf málsins! En Agnes hafði sóma af málinu og hlaut fyrir það verðskuldaða viðurkenningu. Við morgunblaðsmenn töldum að okkur vegið,að vísu,en ríkissaksóknari taldi okkur brotlega.

Hæstiréttur sýknaði,svo við gátum sagt eins og komizt var að orði á dögum Jónasar frá Hriflu :Guði sé lof fyrir Hæstarétt!

Allt var þetta rekið í kerfinu eins og hvert annað kærumál og aldrei datt okkur í hug að fara í neitt skaðabótamál,enda vissum við að ríkissaksóknari var einungis að sinna því sem hann taldi embættisskyldu sína.Og hann lá ekki undir neinum ámælum,þótt hann tapaði málinu,enda enginn fugl á hendi í þeim efnum.

Og enginn nefndi samsæri! Samt er æra okkar meira virði en hlutabréf í öllum tuskubúðum Lundúnaborgar!

Og nú að öðru.

Sumt í þessu Baugs-máli minnir ónotalega á pólitíska þáttinn í Geirfinnsmálinu, án þess það verði rifjað upp hér.

Þá var stundum erfitt að stjórna Morgunblaðinu og sigla milli skers og báru,en umfjöllun blaðsins frá þeim tíma stendur eins og stafur á bók og þarf ekki að skammast sín fyrir hana,enda sagði Ólafur Jóhannesson og lét berast til mín,að augljóst væri að nazistar stjórnuðu ekki þar á bæ.

En þetta voru erfiðir tímar

Þá eins og nú tóku óábyrgir fjölmiðlar undir hasarinn, auðvitað.

Og þannig hefur pólitík fyrr komið við sögu í dómsmálum. Það má með sanni segja að dómstóll götunnar var ekki óvirkur þá frekar en nú. Hann hefur verið Baugsmönnum hliðhollur,því þeir hafa notið vafans og sagðir í hlutverki hróahattar á matvörumarkaðnum,en andstæður olíufurstum sem leika einnig sína rullu þarna í Skírisskógi ísmauranna,svo vitnað sé til Spaugstofunnar sem hefur íslenzkt samfélag á reiðum höndum.

Í hafskipsmálinu vorum við morgunblaðsmenn gagnrýndir af vinstri mönnum fyrir varkárni,jafnvel einnig af fólki sem stóð okkur nær. Vinstri menn héldu því fram að við værum að reyna að hilma yfir með sjálfstæðismönnum sem við sögu komu.Það er rétt að við fórum varlega í sakirnar,enda er dagblað ekki dómstóll,heldur upplýsingamiðill,og þá væntanlega eitthvað skárri en Gróa!

Við sögðum aldrei neitt sem við höfðum ekki pottþéttar heimildir fyrir,það gerðum við ekki fyrir neina sjálfstæðismenn,heldur af nærgætni við lesendur okkar, heiður okkar sjálfra og eigin samvizku.Fyrir bragðið lágum við undir ámæli þeirra sem heimtuðu pólitískan hasar;þeirra sem telja að fjölmiðlar séu dómstólar og sakamál eigi að reka í þeim.

Og þar eigi að kveða upp dómana.

Þetta voru einnig erfiðir tímar og minna á Baugs-málið nú.En það er í raun og veru ekkert öðruvísi en önnur þau mál sem koma til kasta lögreglu vegna gruns um misferli,fara fyrir dómstóla og eru svo afgreidd þar lögum samkvæmt,hvort sem mönnum líkar betur eða ver.

En stundum fara fjölmiðlar offari.Og þá er pólitík oftast undirrótin (og svo náttúrlega tengsl við málsaðilja, eins og dæmin sýna).

Stundum eru haldnar borgarnesræður.Og þá eru þeir sem standa vörð um réttarríkið dregnir fyrir dómstól götunnar og sakaðir um réttarhneyksli,hvað sem það merkir.

Rétt eins og afbrotamenn.

Já,eins og Ólafur Jóhannesson dómsmálaráðherra,á sínum tíma.

En hann stóð keikur og lét ekki hrekja sig úr embætti.Varði hendur sínar á þingi og óhætt að segja að ræða hans hafi verið einstök.

Gula pressan hefur tekið við af beinakerlingunum gömlu,en þær voru einskonar smitberar í varnarlausu samfélagi Gróu á Leiti..Beinakerlingar voru vörður á alfaraleið þar sem menn skildu eftir leggi með níðvísum.Jónas varar við beinakerlingum í einu ljóða sinna.Nú eru reknir hér fjölmiðlar sem kenna sig jafnvel við rannsóknarblaðamennsku (!),en eru ekkert annað en beinakerlingar.

Rógberar og kjaftaskar sækja í þessa nýju “fjölmiðla”eins og flugur í kúaskít.

Og gulna!

Á þetta og annað einelti minnist ég í Málsvörn og minningum, sem mér skilst sé ekki auðlesin,en stendur óhögguð sem minnisvarði um arfleifðarbrostið sirkussamfélag.Þar kemur DV ekki sízt við sögu og álitsgjafar í pistlamoði blaðanna og kjaftaþáttum loftmiðla eins og útvarpi Sögu: þar sem ráðizt er á fjarstatt fólk og reynt að níða af því æruna.Af því hefur umhverfi mitt og nánir vinir ekki farið varhluta,eins og ég ymti að í fyrrnefndu riti.

Þessir fjölmiðlungar eru snákar í fölri sinu samtímans.En áhrif þeirra eru sem betur fer minni en efni standa til.

Til eru málaliðar sem eru með Davíð á heilanum.Það er einskonar geðfötlun.Sá sem lendir í henni fær makleg málagjöld.Það eru leikreglur mafíósa.Ég ætla samt að taka áhættuna!

Davíð Oddsson lætur ekki múlbinda sig , þótt hann starfi nú á nýjum vettvangi Seðlabankans,fjær blindljósum athyglinnar en áður.Nýverið minntist hann aðspurður á Baugsmálið svonefnt í sjónvarpssamtali við Evu Maríu Jónsdóttur og setti allt á annan endann,eins og honum einum er lagið.

Af hverju?

Af því hann segir það sem margir eru að hugsa,en hika við að segja.Hann skilur t.a.m. ekki þá sem að eigin sögn eyða milljónahundruðum í sakleysi sitt.Og ekki heldur dómskerfi sem getur ekki tekið á málum vegna formalisma eða vangetu.Og hann er ekki einn um það að treysta ekki dómskerfinu,því nær 70 af hverjum 100 Íslendingum treystir því ekki samkvæmt könnun Capacent Gallup í febrúar ´07.En traust almennings á lögreglu er nálægt því að 80 af hverjum 100 Íslendingum treysta henni,eftir allan barninginn og níðið vegna Baugsmálsins !

En þá má spyrja:

Hvað um sakborninga sem ekkert eiga,eru þeir sakfelldir vegna fjárskorts;vegna þess að þeir hafa ekki efni á verjendum sem hafa einkum lært í háskóla að drepa sök á dreif? Er þjóðfélagið semsagt orðið verra,siðlausara en það sem við þekkjum verst í þessum efnum ; vont fyrir þá sem ekkert eiga nema bágindi sín?

(Tengt þessu : Þegar sagt var frá sýknudómi hæstaréttar í Baugsmálinu á forsíðu morgunblaðsnetsins 26.jan. ´07,var dálítil frétt neðar á síðunni þess efnis að drengstauli á skilorði sem hóf afbrotaferil yngri en 18 ára hefði í hæstarétti verið dæmdur í 18.mánaða fangelsi fyrir að stela veski og taka út 10 þús.kr. af debetkorti sem í því var!!

Nokkru síðar var einhver blankur (og hungraður ?) vesalingur á skilorði dæmdur í 2ja mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hnupla 1029króna ostaköku í einhverri búðinni, vonandi ekki í Bónus!)

Davíð sagði einfaldlega :”Það er afskaplega vont ef dómskerfið ræður bara við smæstu mál, gæzluvarðhaldsúrskurði,innbrot í sjoppur og þess háttar”

Sumir voru fljótir að segja að hann hefði átt við ákæruvaldið,nei hann sagði dómskerfið og hlýtur að skiljast þeim sem vilja .

Svona einfalt er nú þetta.

Ég staldra við ummæli Sigurðar Líndals,fyrrum lagaprófessors,sem aðspurður um þessa fullyrðingu Davíðs,sendi boltann til alþingis og sagði að refsiheimildir séu ekki nægilega skýrar.

Samt hefur verið dæmt eftir þeim árum saman án þess milljarðir komi við sögu..

Annar lagaprófessor,Róbert Ragnar Spanó,sagði á hádegisfundi í lagadeild háskólans um olíumálið,samkvæmt frásögn Fréttablaðsins,12.apríl ´07. :”Ábyrgðin liggur öðru fremur hjá 63 einstaklingum við Austurvöll....og vitnaði til þess að löggjafinn,það er Alþingi,hefði ekki staðið nógu vel að því að skapa lagaramma sem byggjandi væri á í málum sem þessum”.

Og starfsbróðir hans,Eiríkur Tómasson,sagði á sama fundi að hæstiréttur hefði gengið “of langt með dómi sínum í þessu máli ((olíumálinu)....skynsamlegast hefði verið að senda málið aftur í hérað til efnislegrar meðferðar”.

En þetta leiðir hugann að því sem kennarar við lögfræðideild Háskóla Reykjavíkur bentu á,að það ætti kannski eftir að koma í ljós að löggjöfin sé í skötulíki-og hver ætli beri ábyrgð á því aðrir en þeir sem hæst láta í skjóli þinghelgi.? Enda er traust almennings á Alþingi ekkert orðið,hefur minnkað um 14 prósent á einu ári og er minna en nokkru sinni frá því mælingar hófust 1993.

(Innskot,þessu tengt : Getur nýskipaður hæstaréttardómari kveðið upp vanhæfisdóm yfir ríkislögreglustjóranum eftir að hún hefur kært skipan hans í embætti á sínum tíma til jafnréttisnefndar og tapað málinu?!

Eru hæstaréttardómarar siðferðilega heilagir?

Vanhæfnin fólst í því að lögreglustjórinn gæti ekki stjórnað rannsókn á meintum skattsvikum baugsmanna vegna ummæla um almenningsálit og baugsmálið að öðru leyti!!).

Davíð nefndi málverkafölsunarmálið sem hæstiréttur vísaði útí hafsauga . Annað hefði verið nær,ef marka má afar velgerða heimildamynd. Þar var aðili að málinu sem hafði verið dæmdur fyrir sölu á fölsuðum verkum að föndra eitthvað við gamalt málverk,þegar sonur ráðsmannsins á Kvíabryggju kemur að honum úti í skemmu og spyr:

Eftir hvern er þetta málverk?

Ég er ekki búinn að ákveða það ! var svarið.

Þannig stendur málið,þótt ég viti vel að sýknaðir menn eru saklausir.En meðan þessi setning hljómar fyrir eyrum mér,er málinu ekki lokið í huga mínum.

Enn liggja helztu listmálarar landsins óbættir hjá garði og hver sem er getur í friði , óáreittur, falsað öll sín klessuverk í þeirra nafni og það sem verra er : selt fölsuðu verkin á frjálsum markaði eins og ekkert sé!.

Minnir á tölvupóstþjófnaðinn sem birtist í Fréttablaðinu sællar minningar Og svo auðvitað í DV.Hæstiréttur lagði blessun sína á verknaðinn,sem var loks verðlaunaður á hátíðarsamkomu blaðamannafélagsins!!

Nú er tölvupóstsþjófnaður talinn eitt mesta hneyksli í stjórnmálasögu Svía og er þá ekki einungis verið að tala um lögin,heldur pólitískt siðferði og drengskap í átökum um almannahylli,þótt hún sé valtastur vina.

En með nýjum ritstjóra við Fréttablaðið hefur Eyjólfur verið að hressast,að vísu.Fjölmiðlar eru eins og togarar,mest komið undir því hver stendur í brúnni.Um það fjallaði ég á fundi norrænna ritstjóra fyrir margt löngu og birti undir fyrirsögninni Ábyrgð fréttamanna og þörfin fyrir sterka ritstýringu , prentað í bókinni Við Kárahnjúka og önnur kennileiti,1999,en þar er lögð áherzla á nauðsyn þess að ritstjórn sé í góðra manna höndunm ,en ekki illvirkja “og þá helzt þeirra sem kunna skil á röngu og réttu og láta ekki kylfu ráða kasti”.

( Sjá ennfremur :

Hæstiréttur komst að sömu lögfræðilegu niðurstöðu og ríkislögreglustjóri hafði lýst í máli forstjóra olíufélaganna,þegar dómurinn vísaði því frá Um það segir í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins m.a., sunnudaginn 25.marz ´07 : ”Ekki fer á milli mála,að ríkislögrteglustjóri og embætti hans standa á traustum grunni í þessu máli,nú þegar upp er staðið”.

Skjá ennfremur “Okkar lögfræðilega álit var rétt”,samtal við Harald Johannessen ríkislögreglustjóra um málið eftir Rúnar Pálmason, Mbl.24.marz,en þar er vitnað í athyglisverða grein Guðna Elíssonar um samsæriskenningar,í Skírni,haust ´06, “Dauðinn á forsíðunni---DV og gotnesk heimssýn.”)


10.

(Ósatt að ég hafi skipt mér af Baugsmálum)


Reynt hefur verið að flækja mér inní þetta svokallaða Baugsmál.Auðvaldið og hlaupastrákar þess hafa getið þess oftar en einu sinni , að hæg hafi verið heimatökin , því ég sé gamall samstarfsmaður ritstjóra Morgunblaðsins og faðir ríkislögreglustjórans og þannig augljós tengiliður í málinu !

En ég veit ekkert um upphaf þessa máls , hef aldrei komið við sögu þess., þekki ekki Jón Gerald Sullenberger og hef aldrei talað við hann.Ég ætlaði á sínum tíma að skýra frá þessu , en mér var ráðlagt að gera það ekki,það mundi skaða vini mína og kalla yfir sjálfan mig rógburð og níð. Það verður þá að hafa það, ég er slíku vanur á löngum blaðamannsferli og kippi mér ekki upp við það.En hér á þessi málsvörn heima á þeim forsendum sem ég geri grein fyrir í Málsvörn og minningum.

Ef annað í málflutningi fyrrnefnds auðvalds er jafnósatt og þessi uppdiktaða “aðild” mín að Baugsmálinu sé ég í hendi mér, að ekki hefur veitt af þeim fúlgum sem sóað hefur verið í vörnina!

Og það með góðum árangri.

Eitt af því sem átti að sýna að ég hefði komið að Baugs -máli var sú uppgötvun spekinganna að Styrmir Gunnarsson hefði notað orðið innmúrað í tölvutexta og það hlyti að hafa komið frá mér,þar sem ég hefði verið sá fyrsti sem notaði það í myndlíkingarmáli í ljóði,u.þ.b. 35 árum áður!Ég hafði satt að segja gleymt því og bezt gæti ég trúað að Styrmir hafi aldrei lesið þetta ljóð.

Við Styrmir eigum það eitt sameiginlegt,hvað þetta varðar,að tala 20.aldar íslenzku,þ.e. tungumál umhverfisins,

Það er allt og sumt!

Fréttablaðið sagði nýlega að orðið innmúrað sem myndlíking hefði verið í ljóðinu Fagur er dalur,en slíkt ljóð er mér vitanlega ekki til,heldur er þetta orð í xx1x ljóði Sálma á atómöld.Og þeir birtust fyrst í ljóðabókinni Fagur er dalur,1966 !

Þar er þetta ljóðbrot svo hljóðandi:

Ég opna hjarta mitt,
þetta innmúraða búr ljóða minna
og sendi þau eins og fugla
út meðal fólksins –

veit að sum þeirra
eiga í vök að verjast
eins og snjótittlingarnir
í hvítu kófi janúarbyljanna.

Önnur skipta sér niður á bæina
eins og hrafninn.

Og svo lendir þetta áratugum síðar á burstinni hjá Baugi!!

Ég vona bara hægt verði að syngja eitthvað úr Sálmum á atómöld , þegar sálumessan verður sungin að Baugs-máli loknu.

En hvað sem því líður er mér til efs að nokkur höfundur hafi mátt þola illmælgi af þessu tagi vegna einnar myndlíkingar í gömlu yrkisefni.

En einskis hefur verið svifizt,því hagsmunir spyrja ekki um aðferðir.

Né peningar.

(Annars er það athyglisvert að Hannes Sigfússon notar orðatiltækið að múra inni í V kafla Dimbylvöku ( ...sem múruðu hjartslátt minn inni...) og kannski Styrmir hafi lesið þetta hjá Hannesi? Og þannig gæti Hannes verið þessi tengiliður sem verið er að tala um og upphafsmaður Baugsmálsins!!!

Það er margt skrítið í kýrhausnum um þessar mundir!).

Já,blessað auðvaldið.Fréttablaðið fjallar um hina nýríku í forystugrein Páls Baldvins Baldvinssonar 26.jan. s.l. og vandar þeim ekki kveðjurnar,lýkur ádrepunni með þessum orðum: ”Auðmenn landsins risu upp á skömmum tíma fyrir dugnað,aðstöðu og tækifæri sem þessi þjóð gaf þeim og þeir hrifsuðu (leturbr.mín).Þeim er hollast að misbjóða ekki almenningi með stærilæti og stórbokkaskap.Kjósi þeir (það) ekki,er þeim skást að finna sér aðra þjóð.Í útlöndum er öllum sama hvernig þeir láta.Þar þekkir þá enginn....”

Og ekki nóg með það,heldur fá auðkýfingarnir sem verið er að tala um einn beint á snúðinn :

Er það öfundsvert ,spyr Páll , “ að kunna og geta makað krókinn,farið á svig við almenn viðhorf sanngirni og réttlætis? ....”

Eru það “hin ytri tákn hégómans” sem “bubbinn” notar til að hefja sig á stall?

Já,það er allt þetta.Og sitthvað fleira.

Fréttablaðið er semsagt að ná áttum undir stjórn Þorsteins Pálssonar, þótt fyrrnefnd orð séu eins manns skoðun,en ekki blaðsins.

Ekki endilega.

En í þessa grein Páls vantar bara þetta : Á miðöldum reisti auðvaldið innmúraða virkisveggi um kastalana sína,en nú rekur það fjölmiðla.


11.

(Upplausn og útideyfa)


Hvað sem öllu þessu líður gerum við ráð fyrir því,að dómar hæstaréttar séu endanlegrir og þar af leiðandi hárrettir.Samt sem áður get ég ekki annað en talið ýmislegt aðfinnsluvert sem frá dómstólum kemur,þótt ég sé sízt af öllu að hvetja til harðari dóma en nú tíðkast. Það drepur áhrifum tam mjög á dreif,þegar skýrt er frá andstæðum niðurstöðum dómenda í hæstarétti og raunar lögð áherzla á ólík sjónarmið þeirra, sem merkir í raun og veru ekkert annað en að niðurstaðan sé lítt marktæk.Í stóra listaverkamálinu var sýknað með áliti 3ja dómara,ef ég man rétt,en sakfelling var niðurstaða 2ja dómara.Málið var þannig afgreitt með einskonar opinberri atkvæðagreiðslu,en slík málsmeðferð er harla ósannfærandi,svo ekki sé meira sagt.

En þannig urðu til tveir dómstólar sem blöstu við þjóðinni í fjölmiðlum;raunar þrír þegar héraðsdómur bætist við,en þar sakfelldu þrír dómarar.Þannig sakfelldu alls 5 dómarar,en 3 sýknuðu!!

Dómendur við evrópudómstólinn hafa að ég hygg oft ólíkar skoðanir á málum sem þeir dæma ,en niðurstaðan sem blasir við almenningi er einróma eins og í nóbelsnefndinni og dregur þannig úr óvissu.Eindrægni er sannfærandi.Og þannig fæst einnig einróma niðurstaða í kviðdómum,hvaða sem líður umræðum á lokuðum fundum kviðdómenda.Það eflir réttarfarið,þótt það virðist stundum dálítið brösótt.

Það hlýtur þá einnig að vera aðfinnsluvert þegar æðsti dómastóll landsins vísar erfiðum málum frá og hefur ekki fyrir því að taka efnislega afstöðu til þeirra eins og í jafnbrýnu atriði og því,hvort stjórnendum almenningshlutafélaga leyfist að nota fjármagn annarra eigenda,einstaklinga, félaga eða lífeyrissjóða,til eigin þarfa . Tveir kennarar við Háskóla Reykjavíkur , þau Áslaug Björgvinsdóttir dósent við lögfræðideildina og Stefán Svavarsson endurskoðandi , hafa á opinberum fundi fjallað um mál sem snerta þetta og það af svo faglegri þekkingu,að ekki verður fram hjá því gengið.En vegna frávísana er allt í upplausn og útideyfu, því miður;almenningshlutafélög voru hugsjón okkar morgunblaðsmanna á sínum tíma.

Ef alþingi hefur brugðizt í löggjafarstarfinu þurfa dómstólar að taka af skarið,vernda réttarríkið og auka siðferðisþrek þess,lesa í lögin eins og stundum hefur verið gert og gæti ég nefnt dæmi um slíka afstöðu hæstaréttar,jafnvel nýlegt. En vegna frávísana ríkir t.a.m. enn óvissa um það , hvænær notkun einstakra stjórnarmanna í almenningshlutafélagi verður saknæmt athæfi.Gestur Pálsson minnir að vísu á það í öðrum fyrirlestri en fyrr er nefndur,Menntunarástandið á Íslandi,1889, að það sé í fornri arfleifð okkar , að menn geti í auðs skjóli og valds ógnað réttarríkinu með því að teygja lögin og toga eins og hrátt skinn “eða brotið þau saman í lófa sínum eins og tinsverð” Um það séu mörg dæmi í Íslendinga sögum.

Í Njálu lifir sá alla söguna sem verstur er óþokkinn.

Fullkomið réttlæti er jafnfjarri umhverfi mannsins og sú himneska sæla sem annars staðar er nefnd.

Kannski er þessi hugsun um að þjóðin geti ekkert átt sprottin úr einhverjum úreltum dönskum lögum eins og fleira í löggjöf okkar og menn hafa átt við að glíma upp á síðkastið, en hefur verið gott fyrir danska greifa á sínum tíma,eða þá brezkum lögum sem voru sett til höfuðs írsku þjóðinni á þeim tíma,þegar enska lénsveldið murkaði lífið úr fátækum , sveltandi Írum sem áttu sér enga vörn aðra,þegar kartöfluuppskeran brást og hungrið svarf að en flýja land.

Það var enskum þóknanlegt,því þá fengu þeir jarðirnar fyrir ekki neitt,rétt eins og hvern annan kvóta.

Pottur virðist víða brotinn í löggjöf okkar og nú síðast þegar menn fóru að iðka íbúalýðræði í Hafnarfirði,en gleymdu því að álver þurfa á orku að halda og þjóðin á orkuna,hvað sem hver segir.Það er því nauðsynlegt að iðka íbúalýðræði með þjóðaratkvæðagreiðslu eins og gert er í því landi þar sem borgarastéttin hefur þróað eitthvert fullkomnasta lýðræði sem til er.

En það getur velgt minnihlutanum undir uggum.

Þegar talað var um að virkja Gullfoss og Morgunblaðinu leizt ekki á blikuna töldum við ekki það kæmi næsta nágrenni einu við,heldur þjóðinni allri.Sem betur fer hefur ekki borið á því undanfarið að neinn þori að virkja þennan hvítfexta vatnagæðing,enda þótt mér skiljist það væri hægt með nútímatækni án þess það sæist á fossinum!

Nei,við eigum ekki að iðka afskræmt eða fatlað lýðræði,heldur lögbundið og vel hannað lýðræði og taka þá til fyrirmyndar sem mesta reynsluna hafa.Alvörulýðræði er enginn hafnarfjarðarbrandari.Það er dauðans alvara eins og málum er háttað í heiminum.Íbúalýðræði er engar hreppsnefndarkosningar,í flestum tilfellum skiptir það alla þjóðina einhverju máli og þá væntanlega einkum hvernig farið er með þjóðareignir eins og orku og umhverfi,t.a.m.Þingvelli og umhverfi Vatnajökuls, Heklu og Dettifoss , þótt reynt sé að heilaþvo fólk með þeirri lögfræðilegu áráttu , að þjóð geti ekkert átt.

Þannig á hún auðlindina sjálfa,hafið í kringum okkur.

Hvað sem hver segir.


12.

(Kalda stríðið)


En ég þarf víst ekki að kvarta.Þormóður kenndi skáldum að kveinstafir væru ekki þeirra viðfangsefni og hollt að taka mið af því.Á Stiklastöðum allra skálda er örin tekin ur hjartavöðvanum án allra kveinstafa.Það fer skáldskapnum bezt að dómi þeirra gömlu sem kunnu hann og ræktuðu. Nútímaplastið og hanagal markaðarins kemur einhvern veginn ekki heim og saman við goðsögnina um Óðin sem var æðstur guða og útvörður skáldskapar. Það er alltaf heldur ömurlegt þegar skáld troðast undir Suttungi.Samfylgd við Óðin er mannborulegri.

Og ekki þarf ég að kvarta yfir fálæti,síður en svo;hef raunar aldrei þurft. Gott að vita að í deiglunni hitnar járnið.Og í kuldanum herðist það.

Þegar ég var í útlöndum í fyrra birti Fréttablaðið ljóð sem ég orti að beiðni Þjóðarhreyfingarinnar í tilefni af því að 1.okt. varð Ísland aftur herlaust land.Það var gleðiefni.Og í raun stóð aldrei annað til..Herinn var vörn gegn heimskommúnisma,nú var hann óþörf varðstaða.

Ég hafði oftar en einu sinni sagt í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins að varnarliðið mundi hverfa af landi brott,þegar óhætt yrði.Það kom heim og saman og mér þótti ástæða til að fagna með öðrum við slík tímamót,ekki sízt vegna þess að gömlu kommarnir höfðu tönnlazt á því að Bjarni Benediktsson og við samstarfsmenn hans og vinir á Morgunblaðinu værum landráðamenn.McCarthýistinn hr. Johannessen, sagði Þjóðviljinn árum saman,það merkti m.a. skotleyfi á mig og verk mín.Ástæða þessa uppnefnis var sú,að ég hafði rekizt á þennan bandaríska ofstæismann í Washington og átt við hann stutt samtal!!

Sjálfir töldu gömlu kommarnir sig arftaka fjölnismanna eins og lesa má úr hugsjónaheitum texta Kristins E.Andréssonar,og þeim var allt leyfilegt í því hlutverki.Það gilda ein lög yfir þá,sagði Bjarni,en önnur yfir okkur.Hann hvatti til þess að borgaralegir sagnfræðingar skrifuðu söguna,en ekki marxistar,því aðeins kæmist einhver sannleikur til skila,en ekki bara áróður.Mér er nær að halda að honum hefði hugnazt sumt í samtímasagnfræði,en ekki allt eins og reynt hefur verið að toga sannleikann og teygja.Kalda stríðið fór nefnilega ekki fram á skjalasöfnum,heldur í lífinu sjálfu.

Hitt er svo annað mál að það er snerting Sturlu Þórðarsonar við atburði og umhverfi 13.aldar sem gerir Íslendinga sögu hans að meistaraverki,en ekki endilega heimildir sem hann hafði aðgang að.Beztu heimildirnar voru samtöl hans við samtímamenn og reynsla hans sjálfs.Svo ég taki annað dæmi,þá nýtur skáldsagan Njósnarinn sem kom inn úr kuldanum slíkrar snertingar.Nærvera höfundar við umhverfi kaldastríðsins skilar sér í andrúmi sögunnar.

Kaldastríðsárin voru erfiðir tímar eins og Steinn sagði og enn erfiðara fyrir þá nú að upplifa og skilja,hvað þá skrifa um stalínismann og kalda stríðið sem hafa ekki kynnzt því nema af afspurn og misjafnlega .haldgóðum heimildum,enda finnst mér það hálfandkannalegt að fylgjast með þessum umræðum,en í þær vantar einatt andrúmið,tilfinningu líðandi stundar sem enginn getur endurheimt;lífsháskann.

Andrúm morðsins.

Tölvubúinn heimur samtímans er annar en kalda stríðið og því skyldu menn fara varlega og villast ekki í þeim frumskógi skýrslugerða sem erlendir sendimenn létu eftir sig í rykföllnum skjalasöfnum,en flestir þeirra voru betri í því að misskilja umhverfið en skilja Þannig þurfti ég að skrifa Reykjavíkurbréf um heimsókn Faulknes hingað á sínum tíma vegna rangra upplýsinga sem komið höfðu fram í einhvers konar sjálfsævisögu eins þessara bandarísku sendimanna sem hér voru hvað atkvæðamestir á sínum tíma.

Þegar sovézki andófsmaðurinn Búkovskí kom hingað eins og fjallað er um í Félaga orð talaði hann um andrúm morðsins. Það verður ekki endurtekið í sérfræðingagreinum um kalda stríðið,því verður einungis lýst í skáldverkum.

Kalda stríðið-það var a.m.k. ekkert ímyndað stríð hér heima ,þótt enginn væri drepinn í því.En þá voru stundaðar ærumeiðingar af kappi (þó má þakka fyrir að bloggið var ekki komið til sögunnar,þótt bloggarar séu misjafnir,sumir hælbítar eins og ég hef kynnzt þeim,t.a.m. í útvarpi Sögu) og Kristmann Guðmundsson hefði áreiðanlega kallað aðförina að sér mannorðsmorð og talaði um það í samtölum okkar.Þegar Gunnar Gunnarsson talaði um sósíalista eða kommúnista og samfylgdarmenn þeirra um miðbik 6.áratugarins var hann sama sinnis.Og þeir Kristmann voru ekki einir um það.Af þeim sökum var Almenna bókafélagið stofnað og lifði þar til hættan var liðin hjá.En ekki deginum lengur.Félagið var mikilvægt varnarbandalag borgaralegra skálda , rithöfunda og menntamanna gegn allsráðandi áhrifum kommúnista, stofnað að frumkvæði Bjarna Benediktssonar.

Allt áttu þetta að heita hugsjónir,en hugsjónir ganga sér til húðar,ekki sízt hugsjónir ofstækismanna eins og stalínista..Það er helzti kostur þeirra! En þó hygg ég að mesti óhugnaðurinn í þessum efnum sé bundinn við maóisma,ef marka má nýlega stórvel gerða heimildamynd um Maó formann. Samkvæmt henni slær ekkert óhugnað gamla maóismans út,nema nazismi.Sem betur fer stefnir Kína frá þessum hryllingi með hagvaxtarfána kapítalismans við hún,en þegar hann gengur of langt er voðinn einnig vís.Meðalhófið er vandratað,en miðjumoðið er þó líklega einna verst!

Brezki rithöfundurinn J.B.Priestley segir í ævisögu sinni að heimurinn hafi verið eins og opið sár eftir styrjöldina.Í þetta sár sóttu sýklar úr öllum áttum og meinsemdin varð að köldu stríði.Hér heima lauk því,hvað mig varðar,með þremur bókaáritunum og samtali í ´Tímariti Máls og menningar.

Áritanirnar eru allar til mín,þær eru þessar:

Með kærri kveðju,Magnús Kjartansson,Víetnam 1968,

Í vináttuskyni,Kristinn E. Andrésson,Enginn er eyland,1971

og

Kæri Matthías,með hlýjum óskum og þökkum fyrir einkar góð kynni,Svavar,þ.e. Svavar Gestsson Sjónarrönd, 27.6.1995).

Þannig lauk kaldastríðinu í lífi mínu og svo náttúrlega með samtali Silju Aðalsteinsdóttur við mig í Tímariti Máls og menningar 57.árg. (1996),3.hefti undir ritstjórn Friðriks Rafnssonar.En Silja hafði lengi sýnt verkum mínum skilning og góðvilja,hvað sem hinu gamalgróna marxíska umhverfi hennar leið.Henni er semsagt ekki fisjað saman.Og þess má geta að Halldór Guðmundsson óskaði eftir úrvali ljóða minna,þegar hann var framkvæmdastjóri Máls og menningar og glæringarnar stóðu enn af eggjárnum byltingarmanna.

Nú eru þær slokknaðar.

Síðasta áratuginn hafa verk mín notið sín í ágætri umfjöllun margra sanngjarnra bókmenntafræðinga á vinstra væng,sem gera ekki sízt estetískar kröfur til sjálfra sín en höfundanna og eru hafnir yfir erjur og ofstæki kalda stríðsins,enda veit enginn lengur hvað þetta merkir,hægri og vinstri ; þessir glæru frasar eru einungis húsfastur draumagangur í samfélaginu.En vandinn er enn og áfram hinn sami, skilgreining á fyrirbrigðinu sem Byron kallar strange animal í 128.erindi fyrsta þáttar ,eða canto , ljóðaflokksins um Don Juan og á þá við mannskepnuna; og umkomuleysi hennar .

Enn er þó augljós tilhneiging til að geta bóka minna að engu og verður við það að búa,enda harla hagvanur í þeim efnum.Og vitaskuld er það betra hlutskipti en glósur og svívirðingar kalda stríðsins! Ég er frábitinn auglýsingahroða jólanna og það gengur víst ekki á markaðnum.Hitt er annað mál að síðustu fimm bækur mínar hafa t.a.m hvorki verið ritdæmdar í útvarpi né sjónvarpi (þó með einni undantekningu),en kannski er það tilviljun ein og skiptir ekki máli ( nema fyrir söluna!). Nýjar kynslóðir eru ekkert að naga gömul bein.Auk þess hef ég gefið Íslenzku bókmenntaverðlaununum langt nef rétt eins og Helgi Hálfdanarson og það gæti verið refsivert í auglýsingasamfélaginu.Það er a.m.k. ekki vinsælt af útgefendum.

13.

(Draumar og tákn)


Morgunblaðið óskaði eftir því að birta ljóð mitt , 1.okt.,en ég var fjarri góðu gamni og vildi líta betur á það,þegar heim kæmi.En Fréttablaðið birti kvæðið þegar eftir hátíðafundinn með pistli þess sem hafði óskað eftir því,Ólafs Hannibalssonar.Ég hafði svo sem ekkert á móti því,þegar heim var komið og mér var bent á þetta og því síður þeim orðum sem Ólafur lét fylgja kvæðinu.

Fréttablaðið birti svo eftir mig annað gamalt ljóð um haustið,fallega myndskreytt , og Morgunblaðið enn annað gamalt ljóð,einnig myndskreytt. Þá bregður svo við að skáldkona nokkur hefur allt á hornum sér vegna þessara ljóðabirtinga,skrifar pistil í Fréttablaðið og segir að ég sé “nýjasta herfang” Fréttablaðsins (þ.e.Baugs!) : velgengni Fréttabnlaðsins er svo mikil að þeir hafa tekið Matthías herfangi ! segir þar.

Það er semsagt vandlifað. Og kannski hefði ég átt að biðja fólk um að lesa ekki ljóð mín - og helzt ekki birta þau!Er ekki nóg að banna að þau séu ekki send í markaðssamkeppnina um íslenzku bókmenntaverðlaunin sem eru eitt helzka einkenni þess hégóma sem nú tröllríður menningu okkar?

Og þó,og þó ,nei ljóðið á ekki uppá pallborðið í því samfélagi sem er umgjörð samtímalífs,þvert á móti mætti velta því fyrir sér,hvort það er ekki hornreka,nema þegar tónskáld þurfa á efnivið að halda og söngvarar láta til sín heyra,t.a.m. fyrir hádegisfréttir (en textinn heyrist ekki alltaf sem betur fer!).

Þegar Magnús Magnússon lézt í Skotlandi bað BBC mig minnast hans nokkrum orðum.Það gerði ég og minnti á samstarf okkar í þorskastríði,þegar hann skrifaði fréttir fyrir sitt skozka blað og við uppgötvuðum saman leynivopnið ægilega,klippur landhelgisgæzlunnar ; en þó talaði ég öllu fremur um ljóðrænt upplag hans,áhuga hans á íslenzkri ljóðlist og hversu vel hann las ljóðrænan texta,en því kynntist ég á bókahátíðinni í Edinborg í hitteðfyrra,þegar hann kynnti verk mín, og af upplestri hans á skífunni Poems and melodies from Iceland,en sjálfur valdi hann einnig ljóðin.

Enginn virtist hafa áhuga á þessum þætti í lífi Magnúsar, nema BBC ; að minnsta kosti lét mitt gamla blað hjá líða að minnast á hann,þegar það tíundaði viðbrögðin í Bretlandi daginn eftir andlát Magnúsar.

Ég veit ekki hvort það er talið viðeigandi að ég taki enn smádæmi af eigin reynslu og þá í tengslum við blað sem ég stjórnaði um áraraðir og reyndi að ala upp í virðingu fyrir arfleifðinni og þá ekki sízt ljóðagerð,en hún var aðalsmerki á stórveldistímum sögualdar.

Þegar tímaritið Þjóðmál kom út rétt fyrir jólin birti það í fyrsta skipti dálítið ljóð sem vísbendingu um áhuga ritstjórans á því að breikka efnisvalið og gera ritið fjölbreyttara en verið hafði.Fyrsta sporið í þá átt var heldur hefðbundið ljóð eftir mig og þá valið með tilliti til þess að reyna ekki of mikið á þolrif lesenda sem eru líklega meira gefnir fyrir pólitík og efnahagsmál en ljóðagerð.Þetta fyrsta ljóð tímaritsins var ort inní umræðurnar um Gunnar skáld Gunnarsson og sem slíkt einskonar hugleiðingar um samtöl mín við skáldið,meðan við vorum báðir ofar moldu.Það átti semsagt erindi við saumaklúbbana og þess vegna einhvers konar ljóðlistarblogg,svo ég tali nú inn í allt skvaldrið,þótt áhugi minn á því sé takmarkaður.

Ritstjóri tímaritsins birti ljóðið af virðulegri nærfærni,en þegar Morgunblaðið sagði frá tímaritinu í dálítilli frétt tíundaði það allt efni þess,en sleppti ljóðinu.Lesendur fengu upplýsingar um allt ,nema það!Og ég er þeirrar skoðunar að þetta þyki eðlileg vinnubrögð eins og markaðurinn er um þessar mundir.

Aftur á móti var talsvert fjallað á bloggsíðum um eitt erindi í Hrunadansinum vegna þess að Björn Bjarnason hafði vitnað í það í gagnrýni sinni á svonefnda álitsgjafa .Ég sá ekki betur en bloggarar tækju þessu vel og kurteislega;. tóku sem sagt ekki til sín þá gagnrýni á álitsgjafa sem í fyrrnefndu erindi felst,þ.e.a.s. allir nema einn sem notaði sömu aðferðir og gömlu kommarnir : atyrti skáldskapinn í staðinn fyrir að rökræða efnið.En það skipti mig auðvitað engu máli,ég var ekki að yrkja þetta fyrir hann,ekki endilega ,og sá raunar enga ástæðu til þess hann tæki þetta svona rækilega til sín.Ég minntist þess þá einig,að ég hafði á sínum tíma afskrifað ljóðlistarsmekk þessa annars heldur mjúklega dagskrármanns,því að hann hafði á sínum tíma gengið framaf mér ungur og upprennandi pistlahöfundur á Helgarpóstinum sáluga og skrifað árásargrein á ljóðlist Steins Steinars,svo að ég var í eins góðum félagsskap og ég gat hugsað mér!

Og vel bólusettur

En ummræður um ljóð mín ganga þannig þvert á það sem ég hef haldið fram um áhugaleysi á ljóðlist í samtímanum,enda er það ekki sízt í þversögninni sem sanleikurinn leynist.

Hitt er svo annað mál að mér skilst einhverjir spekingar hafi komið saman á vegum Fréttablaðsins fyrir jólin til að velja versta bókarheiti ársins og orðið sammála um að Maðurinn er vænglaus fluga væri verðugast til vinnings.Þegar innihaldið fékk að vera í friði var agnúazt útí nafnið frekar en ekkert!.En þetta færði mér heim sanninn um að nútíminn er að verða ólæs á tákn og táknlegar skírskotanir.Hér var auðvitað verið að minna á að þessi kóróna lífsins,maðurinn, sem leiksögurnar fjalla um , gæti ekki alltaf mælt sig við tvívængjur, ef því er að skipta.En jarðbundnir álitsgjafarnir skildu það auðvitað ekki og réðust að þeirri skáldlegu vísun sem þeir skildu ekki.

Og svo halda skáld að þau geti skrifað inn í þetta ólæsi,eins og ekkert sé.

Nei,ekkert er fjarri lagi,ef vænglausir álitsgjafar eiga í hlut.

Ég hafði áður notað svipaðan titil á ljóðabókina Fuglar og annað fólk án þess reynt væri að kjöldraga mig fyrir bragðið,en það var ekki fyrr en ég las smásögu Gogols Dagbók vitfirrings nýlega sem ég sá að þessi höfuðmeistari rússneskra bókmennta hikaði ekki við að segja í texta sínum : Hundar eru gáfað fólk,svo ég er í hinum bezta félagsskap hvað þessar hálfmyndir varðar.

Fjölmiðlungar geta svo látið ljós sitt skína eins og þeir vilja og orðið sammála um heimskulegar yfirlýsingar um óvænt myndhvör í skáldskap.

Ljóðagerð á margt sameiginlegt með undirvitundinni,ef ég skil vísindi Freuds rétt.Viðfangsefni hennar er ekki sízt táknmálsheimur,stundum kröfuharður,stundum flókinn;draumfarir.

Draumaheimurinn er fullur af táknum og alls kyns skírskotunum.Freud er að vísu offastur í kyntáknaveröld vísinda sinna, að mínum smekk,en um það má deila.

Þessi táknheimur draumsins á það sameiginlegt með ljóðagerð að menn túlka hann með ýmsum hætti og hver og einn hefur leyfi til að upplifa táknin og skírskotanirnar á þann hátt eða með þeim skilningi sem hann kýs..Þannig getum við talað um að vel fari á því að nálgast þessi flóknu tákn,upplifa þau og skýra með því sem ég hef nefnt tilfinningaskilningur og fjallað er um í ritgerð minni um Dymbilvöku 1) en ekki , að minnsta kosti ekki endilega, á forsendum einhverra vísinda sem eru reist á misjafnlega pottþéttum rökum.

En Freud er svo mikill rithöfundur að engum er láandi þótt hann laðist að hugmyndum hans.En í þær vantar dulhyggju eða mystík sem fylgt hefur íslenzkri alþýðu inní óvæntan og óskilgreinanlegan draumaheim.Hún hefur því gert ráð fyrir örlögum og skilaboðum að handan eins og við sjáum ekki sízt í Íslendinga sögum.Slík reynsla er Freud framandi og alþýðuskýringar táknmyndanna hér heima , t.a.m. bundnar feigð og öðru lífi, hefðu áreiðanlega gengið þvert á vísindalega reynslu hans.

Þó að draumfarir okkar séu engin vísindi,svo að ekki sé talað um draumaráðningar íslenzkrar alþýðu gegnum tíðina,sé ég ekki hvers vegna þær ættu endilega að vera fjær öllum sanni en t.a.m.þegar Freud skýrir hatt á höfði manns svo,að draumamaður sé að hugsa um verju á táknmáli undirvitundarinnar, eins og mér skilst af fræðum hans.

Í táknlausu ljóði þarf hatturinn ekki að merkja neitt annað-en hatt!

Hugsandi um þennan frumskóg allan er samt augljóst að öll búum við yfir litlum freud í undirvitund okkar og hugarórum og þrátt fyrir allan tilfinningaskilning erum við hvert og eitt bundin af jarðneskum rótum okkar og mannlegum takmörkunum.Við erum þannig ekkert betur sett en rótfast tréð sem getur ekki hreyft sig.En það teygir krónu sína til himins,er fuglum skjólgott athvarf og þá ekki síður þeim rýtandi gyltum sem rótast í akarninu og líta aldrei uppúr slabbinu.

Í draumi erum við öll skáld,líklega stórskáld.Í svefni eru engar takmarkanir,engin innri ritskoðun.Fantasíur okkar og hugarórar streyma þar fram,hindrunarlaust.Ómeðvitað.samvizkulaust.Það er annað en úthugsuð tákn,t.a.m. menn með fuglshöfuð og slík furðudýr í myndletri forn-egypta,myndhvörf í trú og skáldskap Rómverja.

Ég á myndröð eftir Valtý Pétursson þar sem hann teiknar þjóðsönginn Þar er Herðubreið konualdlit,þ.e. fjallkonan.Slík meðvituð tákn eru önnur en þau sem birtast okkur óafvitandi í draumi og Freud vann með,þegar hann lýsti draumförum sjúklinga sinna.

Davíð skáld Stefánsson segir í einu ljóða sinna:

Gott er sjúkum að sofa,
meðan sólin í djúpinu er,
og ef til vill dreymir þá eitthvað
sem enginn í vöku sér.

Okkur dreymir það sem okkur dytti aldrei í hug í vöku.Freud leggur mikla áherzlu á óskadraumana,en þeir geta farið langt yfir strikið. og ofurviðkvæmt að ráða táknmál þeirra,ef það gengur þvert á siðferðislegt þanþol okkar.En hvað sem því líður tökum við drauma alvarlega í vöku;reynum að skýra þá eins og Freud.En það er oftast erfitt viðfangsefni og utan við alfaraleið.Gamla kerfið íslenzka er auðveldara; að illt sé að dreyma barn nema sveinbarn sé og sjálfur eigi., að vatn sé ills viti,helzt fyrir veikindum eða dauða,að saur sé fyrir peningum,eldur fyrir illindum,ófriði og kind í tveimur reifum sé fyrirboði dauðans (sjá Jörð úr ægi),eins og alþýðureynslan hefur alið okkur uppí..

Nei,ekkert siðferðilegt aðhald í draumi,allt hömlulaust sem þó er ekki í dáleiðslu.

Af hverju?
Hver veit það?

Draumaskýringar Freuds eru merkileg lesning og lærdómsrík og byggjast á mikilli sálrænni þekkingu.En helzt sýnist mér að þarna slái mörgum heimum saman;sálrænum flækjum,óskum,hversdagslegri reynslu.En það vantar fyrirboðana sem fornmenn lögðu mikið uppúr.Vantar samt ekki fantasíurnar,hugarórana,ýmislegt sem við tökum alvarlega í draumi en ekki í vöku; t.a.m. þegar kona er með yfirskegg eins og Freud lýsir;eða hrútshorn á höfði ; finnst ekkert athugavert við það þegar okkur dreymir vini okkar með vængi eða kynferðislegt athæfi sem er jafnvel andstætt því eðli okkar sem við teljum okkur þekkja.

Fljúgandi klukkur eins og í frægri mynd Dalís.

Okkur hefur dreymt fyrir daglátum eins og gamla fólkið sagði,en ég sé engin merki þess að Freud reikni með slíkum skilaboðum.Ég er að fara á málverkasýningu hjá Eddu,konu Steingríms vinar míns Hermannssonar,en áður hefur mig dreymt fyrir góðri skemmtun með þeim hjonum,uppúr þurru.

Er það óskadraumur?

Nei, það er draumur fyrir daglátum,en þó fremur óorðnum atburði.Í íslenzka alþýðukerfinu er gert ráð fyrir slíkum draumum,en ekki í kerfi Freuds.Vinur minn einn ágætur,nýorðinn ekkill á bezta aldri,sagði sig hefði dreymt að hann hefði eignazt telpu með nýlátinni konu sinni í draumi,hvað það þýddi.

Ég sagði að líklega hefði Freud sagt það væri óskadraumur,en í íslenzka alþýðukerfinu væri ekki gott að dreyma telpu,ef marka má lítið kver sem skagfirzki bóndinn ,Margeir Jónsson,gaf út 1936,en þar segir það sé ekki gott að dreyma

stelpur.

Mig hefur dreymt skrítinn draum og í þessum draumi dreymir mig að draumurinn sé draumur!

Af hverju?

Hver veit það?

Enginn,ekki einu sinni Freud,þótt ég efist ekki um að hann hefði haft skyringar á reiðum höndum.

Ljóð eiga það sameiginlegt með svona draumum að þau veita lesanda ótal tækifæri til túlkunar og skilnings., en þá auðvitað innan þeirra áskorana sem efni standa til.

Já,Dalí,.hann kom með táknveröld draumsins inní hversdagslegt líf okkar,eins og skáldin í mörgum ljóðum sínum..Þegar við komum í listasafn hans norðan við Barcelóna, Figueres, göngum við inn í draum.Í ferðasögu minni af þessum slóðum sem er skrifuð í dagbókarformi undir fyrirsögninni Dagbókarblöð úr Spánarferð og birtist í bókinni Undir afstæðum himni,2000, segi ég m.a. :”Dalí sagði að list hans legði gátur fyrir fólk.Og allt er þetta safn ein allsherjar ráðgáta.....Dalí sækir fyrirmyndir sínar annað en við , venjulegt fólk.

Og hvert þá?

Inní hugarheim sjálfs sín,auðvitað; þessa súrrealísku draumaveröld sem á rætur í rotnandi heilabúi hans þarna í grafhýsinu”.

Tilgangur ? ég veit það ekki.Hvort það sé einhver tilgangur með dularfullum fantasíum svefnsins;vökunnar?

Allt sem bundið er jörðinni er dæmt til tortímingar,dauða;gleymsku.

Tilgangur steingervingsins!

Svo virðist sem við verðum að leita út fyrir jörðina til að finna tilgang eins og lífið er stutt,brothætt.Og efnislega takmarkað.


14.

(...gekk maður út úr gnúpinum og var í geithéðni
og hafði járnstaf í hendi, Njála 133)


Síðbúið samtal við Freud

Að draumar séu táknveröld
brjálseminnar,að hver og einn
geti ráðið þá að sinni vild
eins og einmanalega upplifun
táknmynda í erfiðu ljóði,
   að svefninn
sé raunveröld undirvitundarinnar
þar sem sérhvert tákn er varða
sem rekur leiðina að óvæntum
áfanga,
 að vatnið sé umgjörð
fæðingar þegar höfuð barns birtist
á yfirborðinu ( og við sem erum
alin upp í þeirri kynslóðavissu
að slíkur draumur sé boðberi dauðans)

að svefninn sé kyntáknaveröld
og hattur stafkarlsins vísbending
um margsvelta hugaróra
svefngengils,
nei Freud
það vantar arfleifðina í þetta
flókna táknmyndakerfi,
   örlögin:
varizt þér og varizt þér
vindur er í loft,

vantar hið ókunna, óvissuna, annan
heim, myndtákn, guðanna, vantar
reynslu nafnlausra kynslóða,
óttann
(en hvort svefninn er  táknbúið
umhverfi fáránleikans,brjálseminnar
þeirrar ókunnu veraldar sem fylgir
okkur ekki inní vökuna,
það er
annað mál),

leiksvið fáránleikans svefninn,
í draumi
eru allir skáld,lifa í dularfullum


skógi,fylgjast með síkisbrúnni,hvort hún er
kastalanum sú vörn sem efni standa til,

nei,Freud

enn lætur Flosi illa í svefni enn kallar
Járngrímur brennumenn hvern
af öðrum,enn er hvíslað úr bergmáli
gleymdra orða,að þeir muni allir feigir
er kallaðir voru og koma mun sumra seggja
sveita dögg á leggi,
nei,Freud

það vantar Lómagnúp í umhverfi þitt.

 

15.

( Trú og módern sálmar)


Efi minn leyfir mér ekki að trúa á upprisuna,
en trú mín leyfir mér ekki að efast.

Og þá er komið að trúnni,að það sé tilgangur í því að rækta sálina,ef hún er til,efla þroskann.Kannski er það tilgangur í sjálfu sér,en harla tímabundinn eins og allt í umhverfi okkar,en mundi þá ekki hinn raunverulegi tilgangur vera bundinn fyrirheitinu um annan heim;eilíft líf?

Orðstír er ágætur og fornmenn lögðu mikið upp úr honum.En hann dugar lítt rotnandi líkamsleifum,dauðu efni.Gleymskan gleypir okkur,hvort sem við erum alræmd eða annáluð.

Í margvíslegum röksemdum heilags Tómasar Aquinas segir að til séu lífvana hlutir með tilgang og sé því þá stjórnað af utanaðkomandi afli,því að einungis lifandi hlutir hafi í sér tilgang.

Þannig er þá ekki heldur víst það sé tilgangur með óvísindum alþýðutrúarinnar um drauminn sem skilaboð að handan,eins og sagt er.Og þá gætu freudistar verið sælir í sinni trú,sínmum vísindum.En táknlegt ólæsi og tilfinningaskilningur geta vel farið saman.Og þess vegna er dramreynsla kynslóðanna ekki ómarktæk,ekki frekar en vísindalegar draumapælingar.En þá helzt ef þær lúta utanaðkomandi afli sem þarf ekki endilega að vera þessa heims.

Táknveröld draumsins er oftar en ekki viðfangsefni ljóðagerðar.

En tilgangur efnisins blasir við í grafhýsi Lenins.

Og Maós.

Guðstrú er ekki endilega í tízku á Vesturlöndum um þessar mundir,a.m.k á hún ekki upp á pallborðið í heimi efnishyggjunnar.Það var því uppörvandi að fylgjast með því,hvernig Sálmum á atómöld var tekið þegar þeir komu út í Noregi og Þýzkalandi upp úr aldahvörfum , í þýðingum Wilhelms Friese og Knuts Ödegaards,en sjálfur hefur Knut ort mikilvæg trúarljóð í sínum sannkaþólska andaog Friese hefur verið prófessor við hinn virta háskóla í Tubingen og skrifaði á sínum tíma norræna bókmenntasögu,Nordische Literaturen im 20.Jahrhundert.

Hans H.Skei prófessor í almennri bókmenntasögu við Óslóar-háskóla skrifaði um Sálma á atómöld í Aftenpósten. (jan.´03) og segir hún miðli fyrst og síðast mikilli trúarsannfæringu.(Samt á höfundurinn við miklar efasemdir að glíma).Enn fremur að öll ljóðin séu “moderne lyrik utan rim” og minni það lítt á sálmahefðina.Kvæðin séu “heillandi einföld “ og fjalli um samband mannsins við Guð;hver við séum andspænis honum.”Mörg kvæðanna segja litla sögu eða draga upp mynd sem borin er saman við Guð og almætti hans”Margar líkingarnar sóttar í íslenzkt hversdagslíf “en þó allt augljóst og auðskilið”. Lokaorðin: Það sé hvorki nauðsynlegt að vera kristinn né trúaður til að gleðjast yfir “nákvæmu myndmáli” kvæðanna.Þýðing.Ödegaards sé sterk og sannfærandi.

Sálmunm var einnig vel tekið þegar þeir komu út í Þýzkalandi.Við próf. Friese lásum þá saman bæði í Bonn og háskólanum í Tubingen og fengum góðar viðtökur..

Lítið sem ekkert var um þetta fjallað í íslenzkum fjölmiðlum hér heima og ritdómur próf. Skei fór fyrir ofan garð og neðan,því ég sá hann ekki fyrr en löngu síðar og það sem forlag eða höfundur kemur ekki á framfæri við fjölmiðla birtist aldrei á íslenzkum markaði,eins og við má búast.Ég hef aldrei kunnað við mig á þeim vígstöðvum.

En það er semsagt hægt að vera modern skáld þótt ort sé um guðstrúarleg efni.

Það er uppörvandi á þeim guðlausu tímum sem við nú lifum og minnir á vísuna góðkunnu:

Tunnan valt og úr henni allt
ofaní djúpa keldu,
skulfu lönd og brustu bönd,
en botngjarðirnar héldu.

1) Dymbilvaka og Imbrudagar eftir Hannes Sigfússon, í bókinni Hrunadans og heimaslóðir,2006


16.

(innskot)
(Fjöllin eru vaxfílar)


Kína heillaði okkur krakkana fyrir stríð því þá var sett upp kínversk sýning í Reykjavík sem opnaði fyrir okkur nýja veröld og verkaði á okkur eins og ævintýri. Og þetta ævintýri hefur ekki farið framhjá samtíð okkar,þvert á móti hefur það orðið því meira umhugsunarefni því samofnara sem það hefur orðið samtímaþróun.Efnahagsþróun landsins hefur dregið að sér athyglina,en áhugi minn hefur einkum beinzt að menningarlegri arfleifð kínverja.

Meðan skáldið Wang Ronghua var sendiherra hér á landi þýddum við saman dálítið af kínverskum ljóðum,sum voru þúsund ára gömul,önnur eftir hann sjálfan og á ég góða minningar um samstarf okkar.Sum þessara ljóða hafa verið birt,önnur ekki.

Það kom mér mest á óvart við þessi kynni,hvað kínverjar áttu langa samfellda ljóðlistarhefð,en þó einkum hvað firnagömul leikverk þeirra og þá ekki síður ljóð voru nútímaleg;hvað þau áttu mikið af andblæ nútímaljóðlistar og hvað myndhvörf þeirra voru vaxin úr gamalkunnu umhverfi,þótt sum þeirra væru ort löngu fyrir Íslands byggð.Það bar þess auðvitað einkum vitni hvað mannskepnan hefur lítið breytzt í innsta eðli sínu og hvað umhverfi hennar er kunnuglegt gegnum alla söguna;ástríður hennar,freistingar,þrá eftir örlagaheimi guðanna og þá ekki sízt þeim jarðvegi sem nærir kvíslandi greinar mennskunnar í þeirri grimmilegu áskorun sem hefur elt okkur alla tíð.Og enn er þessi grimmd og valdhroki hennar eitt af einkennum umhverfisins. Ég er ekki viss um að McLuhan hafi haft rétt fyrir sér , þegar hann segir að listin hljóti að fá nýjan tilgang á geimferðaöld upplýsingatækninnar,því að allt sem var, tapi aðdráttarafli sínu og merkingu.En við höfum bara ekkert breytzt þrátt fyrir alla þessa tækni,þessa raföld, eða rafeindaöld.Umhverfið hefur gjörbreytzt að vísu,en ekki við.Ekki að innri gerð.Ekki í grundvallaratriðum. Sál okkar er hin sama.Við erum það sem við höfum verið: dýrið sem bjó til verkfærin.

Jú,verkfærin hafa breytzt,en við?Nei,það held ég ekki.

Maðurinn hefur ekkert breytzt, að minnsta kosti ekki innra eðli hans.Kreml tókst ekki að skapa sovétmanninn,þótt að því væri unnið í pólitísku kerfi stalínmismans.Trúin lifði af í Rússlandi eftir nær aldar afkristnun og segir sína sögu.Englar og huldufólk búa í hugarkerfi okkar í heimsþorpinu ,ekki síður en í rafeindalausu umhverfi fyrri tíma.Grunurinn lifir með okkur,æfintýrið,skáldskapurinn.Heimurinn er ekki ein tölva,ekki frekar en hann var ein bók;eitt dagblað.

Það er mikil áskorun og harla erfið að koma útlendu umhverfi í skikkanlegan búning þess samtíma sem er umgjörð nútímalífs á Íslandi og má segja að þetta litla ljóð segi þá sögiu í hnotskurn.

Kínverskt skáld segir
að kirkjugarðurinn sé
í órækt

og vindurinn skríði
í arfanum eins og snákur,

hvað getum við sagt
í höggormslausu landi?

Í ætt við þetta sagði Maó í einu ljóða sinna að fjöllin væru vaxfílar og af því tilefni varð þetta

litla ljóð til:

Þegar fjöllin bráðna

Fjöllin eru vaxfílar,
sagði Maó.

Við höfum horft
yfir víðátturnar,

horft til fjalla,

nú eru þau horfin
í sólbráð
hins rauða austurs,

eins og kenningin.

Í þýðingarstarfi okkar Ronghua sá ég að gömlu kínversku ljóðin voru stundum rímuð og þá þótti tilhlýðilegt að ríma einnig þegar þetta litla,kínverska ljóð var klætt þeim íslenzka búningi sem talið var að gæti hæft því allsæmilega,en því fylgir dálítil saga um deilur tveggja bræðra sem ég sleppi hér

Ábending frá Ronghua sendiherra

Baun er soðin með því
að brenna stofninn,

og baunin grætur í pottinum.

Af hverju vilt þú ólmur
afgreiða mig
í ofninn

við sem erum af einni
og sömu rót.

Um samstarf mitt við sendiherrann orti ég svofellt ljóð sem gæti etv.varpað einhverju ljósi á starfsem af þessu tagi:

Á vængjum tímans

Þegar við Ronghua lásum saman kínversk ljóð var tíminn þurrkaður út
og engu líkara en skáldin væru nýbúin að gefa út ljóðabækurnar sínar
hjá Eddu,

okkar tími birtist í ljóðum þeirra svo ég vitni í söngvaskáldið
Chu Tsai- Yu sem lifði um svipað leyti og þjóðhetjan Jón Arason
skáldbyskup var hálshöggvinn,

...neðar í götunni múlasni og reynir að ganga eins og hestur,
en getur ekki leynt sínu asnalega yfirbragði...,

og svo ég vitni í annað kvæði ort í gær eða fyrir þúsund árum

...fólk nú á tímum virðir aðeins peninga,án þeirra hefði Ku ´ai
Wen- t´ung ekki getað talað sig áfram í lífinu (eða komizt
áfram eins og nú er sagt)...,

bregður öld við aðra en í raun gerist ekkert í okkar innra manni þótt
umhverfið breytist með tímanum ,

og þótt enn sé tilgangslaust að spyrja blómin um þennan innra mann
sem ég hef áður ort um í margútlánaðri ljóðabók
á sínum tíma,ber það engan árangur því þau svara ekki eins og Wei
Chuang segir,þegar hann langar til að yfirgefa umhverfi asnans
á landnámsöld og fljúga burt á vængjum

sem hann vantar.

við sem erum af einni
og sömu rót.

Þegar ég snaraði ljóðum Maós horfði ég einkum til þess,hvað hann kann vel á ljóðræna metafóra og vefur hugsun sína einatt inní landslagið með eftirminnilegum myndum, en sá síðar að aðferðir hans voru nátengdar kínverskri ljóðlistarhefð og vaxnar úr menningarlegu umhverfi hans.Þetta jók áhuga minn enn á kvæðum hans og minnti á okkar eigin arfleifð sem á sérþúsund ára sögu,hefst raunar með landnámi.Ég tel að þessi kínverska reynsla geti eflt tilfinningu okkar fyrir eigin arfleifð,en hún á eins og allir vita undir högg að sækja nú um stundir.Reynsla þessarar fjölmennustu þjóðar heims og arfleifðarstyrkur hennar gæti þannig orðið okkur í senn styrkur og uppörvun.

Eitt fyrsta stórskáld kínverja var Qu Yuan og hafa kvæði hans,t.a.m. Óður til appelsínutrésins,lifað með þjóðinni á þriðja þúsund ár.,en ég reyndi að snara því yfir á íslenzku með aðstoð Ronghua

(Óður til appelsínutrésins Appelsínutré fóstrað af náttúrunni


Appelsínutré fóstrað af náttúrunni
aðlagað jörð og vatni
hér um slóðir,

þér var ekki ætlað að fara burt,þú munt æ
og ávallt dafna hér í suðrinu.

Rótdjúpt festirðu ekki yndi
annars staðar,bundið þessari jörð
alltaf einarðlegt í ákvörðunum,blómhreint
og laufgrænt , ánægjuleg ótæmandi
gnægðin jafnvel þótt þyrnar séu
meðal laufblaðanna,

ávextirnir fagrir og ávalir,
fullkomin andstæða græns
og guls,

minna á rósaský

minna til fulls
á andstæður himins og jarðar.

Yfirborðið sérstætt , stofninn hvítur
og hreinn, eins og sá sem er
trausts verður,

frjálst og óþvingað,fáguð
er fegurð þín.

Ég dáist að þér,glóaldintré fyrir sunnan,ungt
og einstakt tókstu ákvörðun,neitar að flytja þig
um set,

sjálfstætt

slík einbeiting er geðfelld
og gleðileg.

Það mjakar þér ekkert á þessum djúpu
rótum,

úthverft og hófsamt,yfirvegað
og öllum óhreinleika fjarri,aldrei
gróft,

en frjálst að öllu.

Hyggið ,með hreinan skjöld,mistakalaust,
án yfirsjóna.,ókvartsárir verðleikar
þínir mæla sig við himin og jörð.

Þegar köld álögin ógna og blómin visna
verður þú vonandi styrkur félagi alla tíð,

hjartaprútt ,æðahreint,sterkt
og beinvaxið.

Svo ungt sem þú ert geturðu
verið mér fyrirmynd,
jafneinörð og Bo Yi,

enn mun ég lengi fylgja
fordæmi því.

(Aths.) Qu Yuan var fæddur 34o f.Kr.,en lézt 278 f.Kr.,62ja ára að aldri.Hann átti sæti í ráðuneyti Huai keisara í Chu-héraði.Hann var hægri hönd hans og helzti trúnaðarvinur,meðan allt lék í lyndi,einstæður mannkostamaður og slyngur pólitíkus.Samt var honum vikið úr embætti vegna rógburðar og andstöðu aðalsins og lézt í útlegð,bugaður af illum örlögum ættlandsins og vina sinna sem misstu fótanna í átökum við nærliggjandi héröð og innbyrðis deilum.

Í þessu kvæði ,Óði til appelsínutrésins, líkir skáldið staðfestu þess við eigin afstöðu og föðurlandsást.Sjálft var skáldinu ýtt út af gærunni,hrakið í útlegð.En það var honum um megn að festa rætur annars staðar en í Chu-héraði.Fyrirmyndin var tréð góða sem hann yrkir um.Og svo þjóðsagnahetjan Bo Yi.

Um Qu Yuan var samið frægt leikrit , það fjallar um mannlegan breyskleika,byggt á reynslu hans sjálfs við hirðina,en þaðan er hann hrakinn vegna samsæris gegn honum.Leikritinu var ætlað að styrkja sjálfsímynd Kínverja,þegar Japanar réðust á þá á fjórða áratug síðustu aldar.

Smárími bregður fyrir í þýðingunni og minnir á,að frumkvæðið er undir rímuðum kínverskum hætti,þ.e.endarími Þá er einnig í þýðingunni merkingarlegt frávik frá frumtextanum,”rímsins vegna”.

Ég hef þýtt kvæðið í virðingarskyni við einstæða arfleifð kínverskrar menningar,en af henni gætum við margt lært,ekki sízt umgengni við tunguna og varðveizlu hennar).

Þegar ég hugleiddi ljóð formannsins var ég ungur hugsjónafastur blaðamaður,en þó ekki neinn samfylgdarmaður kommúnista,né aðdáandi þjóðernissinna.En það var hnýsilegt að formaðurinn var skáld og mildaði ásjónu byltingarinnar og við þurftum að vita,hvernig hann hugsaði og orti.Í ljóðunum kæmumst við nær honum sjálfum og maóskum fylgismönnum hans.

Þetta var áður en ég kynntist Ronghua sendiherra og hafði því ekki að öðru að hverfa en enskum og sænskum þýðingum á ljóðum Maós; lét alla pólitík lönd og leið,en einbeitti mér að því skáldlega ævintýri sem kínversk ljóðlist hafði uppá að bjóða,hafði t.a.m. ekki lesið. Maó,ósagða sagan eftir Jung Chang og Jon Halliday sem varð mér síðar ærið umhugsunarefni og þá ekki sízt örlög fyrrum eiginkonu Maós, Yang Kai-hui sem ung var tekin af lífi af herdeildum þjóðernissinna í Changsha , en sjálf var hún skáld og hugsjónamaður.Örlög hennar voru ill og kölluðu á þetta kvæði sem ég orti meðan á lestri bókarinnar stóð:

Changsha, 14.nóv. ´30

Þetta andlit hefur enginn séð,
það er andlit hans og hann er guð
Dauðans.

Hver brennir hjarta mitt,safnar
öskunni saman,dreifir henni
yfir garðinn okkar,berfætt gekk ég
í eldinn því þeir tóku af mér
skóna svo ég gæti ekki ofsótt þá
dauð.

Ég elska þennan mann í fjarlægð
en þeir hata fyrirskipanir hans,

Drepið óvininn

og einnig ég hata þessi orð,þrátt fyrir allt;að
ég elski illmenni sem drepur
með köldu blóði,það er rétt
og ég fylgi hjarta mínu í eldinn,bið

Komdu,

komdu aftur

faðmur minn er opið hlið
að hamingju okkar,

en ég óttast andlit stríðsguðsins,þessa
spegilmynd sem guðinn lánaði honum
í herför drekans rauða,sjöhöfða,tíhyrntur
hóf hann atlögu að konunni og dró
stjörnur himinsins eftir vígvellinum
með hala risaeðlunnar.

Hugsun hans eldur og brenndi
hjarta mitt til ösku.

            Og enn:

Logngult fljótið
líður fram við stríðsgráar
hlíðar fjallanna

tunglið vaggandi bátur
á vegferð þeirra
sem telja sig sendiboða

guðanna.

Í brothættu myrkri tímans
upplifi ég reynslu
annars fólks,sé sundurtætt líkin
á botni þornaðra
brunna,sé
örvæntinguna innilokaða
í andlitum þeirra
sem eru hlekkjaðir
við grjótkalda hella
bergmálslausra kenninga

Jiang Qing

í miðjum vefnum,bíður
utan við hús tímans
eins og nýspunnin kónguló

bíður

þar sem flugurnar suða
við rótfúinn stofn
hins aldna trés,

samt syngja fuglar
við fölnandi laufskrúð asksins
og glugginn lokast gegnt rauðu
austri heimsmiðjunnar,

þar sem sólrisið roðar
ljómandi víðáttur
og tinda Byrjandi trúar,

fjöllin sem flugu
eins og vængjaðir fílar
í furðuveröldum mannsins,

horfi enn inní sólmiðju
myrkursins

þar sem óvígur dagur gægist
við brún í herklæðum
guðanna

með hamar og sigð og gular stjörnur
við hún.

Í þekktasta ljóði Maós,Snjór,talar hann um að fjöllin séu “ dansandi silfurhöggormar” og hæðirnar “eins og vaxfílar (sem) þramma eftir sléttunni” Og í Hinum ódauðlegu sækir hann myndhvörf í umhverfi líðandi stundar og þjóðsöguleg minni.

Hinir ódauðlegu

Ég hef misst mína stoltu ösp
og þú þinn pílvið.
Ösp og pílviður
svífa til hæstu hæða.
Þegar þú spurðir Wu Kang
hvað hann ætti handa þeim
gaf hann þeim
kanelvín.

Einmana gyðjan
í tunglinu
breiðir út víðar ermar
og dansar fyrir þessar góðu sálir
á endalausum himni.
Þá berast allt í einu orð
um ósigur tígursins á jörðinni.
Og þau bresta í grát,
tár þeirra falla eins og steypregn.

(1957)

--------------------------------------------------------

1)Ljóðið er tileinkað ekkju Liu Chihnsuns sem var gamall vinur Maós,en féll í orustunni um Hunghu (sept.1933).Liu merkir pílviður,en yang ösp.Yang var nafn annarrar konu Maós sem fyrr er nefnd.

Þjóðsagan segir að Wu Kang hafi verið dæmdur til að höggva kaneltréð á tunglinu vegna glæps sem hann hafði framið í leit sinni að ódauðleika.,en tréð varð heilt aftur strax og hann reiddi öxina á ný. Ch-ang O stal ódauðleikadrykknum,flýði til tunglsins og varð gyðja þar.Maó hugsar sér e.t.v drykkinn túlka sannleika kommúnismans og að tígurinn sé Chiang-Kai-shek.


17.

(Pólitískt anímal)


Ég nefndi Málsvörn og minningar af gefnu tilefni.Mér var nauðsynlegt að skrifa bókina með þeim hætti sem gert er.Efnið kallaði á uppgjör og athugasemdir.Og þótt ég telji mig engan sannleiksvott þurfti ég að bera sannleikanum vitni eins og þar er gert.Ég hefði viljað losna við það og skrifa einungis um það efni annnað sem mér lá á hjarta og birtist í bókinni

En þess var enginn kostur,úr því sem komið var.

Einn af toppkrötunum sagði við mig á sínum tíma,Þú ert pólitískt animal.Og ég held hann hafi trúað því,enda var hann að tala við þáverandi ritstjóra Morgunblaðsins.

En ég vissi betur.

Ég átti ungur pólitiska hugsjón.Og í hana hef ég eytt ævinni, öðrum þræði..Hún var ,eftir að ég kom ungur sjóari til Leningrað stalínismans 1946 (eins og tæpt er á í Spunnið um Stalín),fólgin í baráttu gegn hundaæði heimskommúnismans sem leiddi til kalda stríðsins,en allir reyna nú að gleyma því eins og hverri annarri martröð..

Þessi barátta kostaði mig mikið og ég galt hennar,ekki sízt sem skáld, og sit enn uppi með það,þótt andrúmsloftið hafi eitthvað skánað og sé ekki eins ófrýnilegt og áður.Enn hefur þó skoðanafast fólk, einkum á vinstra væng,allan vara á gagnvart fyrrnefndu pólitísku “villidýri” sem eitt sinn bar ábyrgð á Morgunblaðinu.

Margir hafa fyrirvara á því að tímarnir hafi batnað og telja sig geta fært rök að því,enda lifum við í heimi bókstafstrúar og hryðjuverka.

En úr þessum hrunadansi kalda stríðsins varð hugsjónabrestur; verðmætabrengl og peningastreð.

Ég taldi nauðsynlegt að koma því uppgjöri sem finna má í Málsvörn og minningum á framfæri,ef einhver hefði áhuga á að skyggnast um af mínum sjónarhóli.En þar er líka fjallað um ævibrot , afstöðu mína til ljóðlistar (með dæmum) , trúmál ; manninn í umhverfi sinna stóru drauma og sögulega menningu.Sumt með rætur í háskólafyrirlestrum mínum,annað með skírskotun í hálfrar aldar reynslu ritstjórans af siðmenningarlegum vígvelli okkar.


18.


Sjónvarpið, undarlegur miðill

Sjónvarpið er undarlegur miðill,
það er alltaf að sýna okkur
það sem við viljum ekki sjá.

Á einni stöðinni var þáttur
um mafíuna og samtal við
mann sem var eins og upplitað
veggfóður,hann var titlaður
fyrrverandi bófi,

hann lýsti því hvernig glæpasamtökin
l ögðu undir sig fasteignamarkaðinn,
verkalýðsfélög , smásöluna

og  náttúrlega margmútaða
stjórnmálamenn
og lögregluþjóna,þ.e.a.s. þá
sem sáu gegnum fingur við samtökin.

Og  svo  fjölmiðlafólkið sem var keypt
eins og vansælar stúlkur
á vændishúsum.

Og ég fór að huga að umhverfi okkar
þar sem til þess er ætlazt að hegningarlög
nái ekki yfir fréttamenn,t.a.m. ef þeir birta
einkapóst úr tölvum;að þeir megi opna
fuglabúr hjarta míns sem er innmúraður
leyndardómur í hægvirkri tölvunni minni
og sleppa ófleygum hugsunum út í fjölmiðlahríðina.

Höfum við gengið til góðs?
spurði skáldið forðum.    

19.

(Réttlætið enn á flótta)


Í nýþýddri smásögu Gogols, Nefið, er minnzt á þá sem verða uppiskroppa með efni í kjaftasögur og verða þannig eins og óvirkir í samfélaginu og svo einnig þá sem eru haldnir þeirri áráttu að kenna stjórnvöldum um alla skapaða hluti.Sagan um nefið og hvernig það verður að samfélagspersónu er ágætt dæmi um hið fyrrnefnda, þótt skáldið sé á yztu nöf í ofnæmi sínu.Nú á þessum forspilltu kvótatímum er lítil sem engin virðing fyrir siðlegri afstöðu í peningamálum, græðgin í fyrirrúmi og braskarar svífast einskis (skipta jafnvel markaðnum á milli sín eins og mafiósar).Minnir einhvern veginn á umhverfi Byrons sem hann lýsir og gagnrýnir með háðsglósum í ljóðaflokknum um Don Juan ( sem fjallar öðrum þræði um okkar tíma,ef vel er að gætt).Skáldið gengur svo langt að segja í xll kviðu að hann gruni að hvítt sé svart og kannski sé bezt að láta blindingja skera úr um það!

Og sannleikurinn, jú hann er alltaf undarlegur!

En hvar er þá Kólumbus hinna siðferðilegu úthafa?

Nú hefur jafnvel verið fjasað um það, að lögfræðilega sé ekki hægt að tala um hafsvæðið umhverfis Ísland sem þjóðareign,því að þjóð geti ekki átt eign.Þannig er langlíklegast að hrafnarnir sem Jónas talar um í Ísland,farsælda frónn! séu hinir einu, sönnu eigendur Þingvalla.Samt getur ríkið,eða þjóðin, þ.e.a.s. Alþingi ráðgazt eins og það vill með þennan helga stað- og jafnvel selt hann, ef vilji væri fyrir því.

En Þorsteinn Már Baldvinsson,forstjóri Samherja , segir réttilega að nýtingarréttur auðlindarinnar verði að vera skýr.þótt hitt sé klárt að þjóðareignarákvæðið sé stjórnarskrárbundið.Engum dettur annað í hug en þeir , sem bezt geta nýtt hafið fyrir þjóðina alla, fari með nýtingarréttinn og breyti kvótanum í verðmæti öllum til hagsbóta.En fyrir það komi þá einnig greiðsla,eða afnotagjald, sem þjóðin sættir sig við,og þá auðvitað sem eigandi þessarar sameignar.En nú er reynt að breyta merkingu orðsins sameign, sem í fornum sögum merkir átök eða stríð, í sitt gamla far,í því skyni einu að ala með þjóðinni illindi og deilur,eða einhvers konar hasar eins og t.a.m. í Grettis sögu.

Orð eiga sinn tíma eins og allt annað!

En svona einfalt er nú þetta eins og Morgunblaðið hefur margtönnlazt á, löngum við harla misjafnar undirtektir.En undarlegast af öllu er samt það,þegar reynt var að klína sósíalisma á ritstjóra blaðsins vegna þess að þeir töluðu um sameign eða þjóðareign auðlindarinnar,þ.e. fullyrt að þeir vilji þjóðnýta hana.Hefur þjóðgarðurinn Vatnajökull þá verið þjóðnýttur? Hver á hann annar en þjóðin?Voru það sósíalistar sem tryggðu á Alþingi að hann yrði þjóðgarður, þ.e.sameiginleg eign þjóðarinnar?

Ef þetta þus er nútímalögfræði,þá gef ég ekki mikið fyrir hana!

Í raun er ríkið stærsta almenningshlutafélag landsins,eigandi þjóðin. Þegar talað var um álver á Keilisnesi var sagt að nesið væri í eigu ríkisins, þ.e. þjóðarinnar.

Ég hef nefnt að menn eru í óða önn að lesa í lögin,ekki sízt dómstólar.Og í raun eru þeir einatt að setja ný lög með því að lesa úr gömlum.Afleiðingin hefur orðið sú að fólk treystir ekki dómstólum lengur eins og skoðanakannanir sýna..Dæmt hefur verið þvert á siðferðisvitiund almennings, að mér skilst.

Annars eru þessar skoðanakannanir sumar eins og út úr kýrhaus.Síðasta könnun sem ég man eftir t.a.m. vísbending um að fólk vildi vinstri stjórn,en mikill meirihluti kjósenda treysti samt Geir H. Haarde bezt fyrir forsætisráðherrastólnum og skil ég það vel.

En átti hann þá að leiða vinstri stjórn, eða hvað?!

Engu líkara en svarendur séu einhvers konar geðklofar ,eða þá af ætt Ragnars Reykás.

Það fer ekki vel í fólk þegar æðsti dómstóll landsins klofnar í mikilvægum málum og niðurstaðan verður einhvers konar persónuleg skoðun,án pottþéttrar lagastoðar.Verkar eins og leiðarar dagblaða,skrifaðir undir nafni.Þeir eru bara eignaðir misjafnlega gáfuðum og fordómalausum jónum,siggum eða stínum - og gleymast náttúrlega jafnóðum.Bak við nafnlausa leiðara stendur aftur á móti sannfæring og stefnufesta fjölmiðilsins , arfleifð mikillar sögu og engin skyndiupphlaup eða hentistefna.

Svo endar karfan alltaf hjá ritstjóranum sem ábyrgðina ber.

Samdóma niðurstaða hæstaréttar er þannig einnig sannfærandi,a.m.k meira sannfærandi en klofningur og viðstöðulaus álitamál.

Montesquieu segir í Anda laganna að engin lög sem ganga gegn hugmyndum fólksins verði marktæk.Það er íhugunarefni og vafalaust að einhverju leyti skýring á neikvæðu viðhorfi almennings til dómstóla og Alþingis.Það er sífellt verið að lesa í gömul lög og búa til nýtt lagaumhverfi,það ruglar almenning,gerir hann tortrygginn.Ekki sízt þegar kemur að barnaníðingum og höfum við ýmis dæmi þess. Slíkir níðingar eru helsjúkir og eiga heima á Sogni,þeir fremja einatt verri glæpi en morð og sleppa billega.

Ógerningur er að stýra samfélagi gegn siðferðisvitund fólksins í landinu.Það verður að hafa sannfæringu fyrir því að rétt sé að málum staðið.

Annars hrynur kerfið.

Nei,við lifum á skrítnum tímum.Og aðalatrið að eiga peninga.Þá er hægt að verja brask sitt og siðleysi undir drep og praktísera þann mun á fyrsta og annars flokks borgurum sem gert hefur verið á öllum öldum.

Engir dansa þennan polka betur en fjölmiðlarnir sem fylgjast nákvæmlega með ástalífi fræga og ríka fólksins,en þykjast svo stundum ( eins og stjórnmálaflokkarnir) hafa samúð með hinum. Svo að ekki sé talað um Byrgis-köstin til að friða samvizkuna (sem er þó engin samvizka,heldur sölubragð!).Geir Jón yfirlögregluþjónn sagðist í vitnisburði í Omega geta nefnt marga sem hefðu náð áttum í Byrginu,en um það var ekki talað.

Slíkt veldur ekki fjaðrafoki.

En ekkert afsakar þó kynsvall,sukk og svívirðu,hvað þá ofbeldi.

Kannski er fyrrnefnd fullyrðing um sölumennsku í fréttum ekki sanngjörn og kannski liggja stundum hugsjónir að baki þessum upphlaupum,en afstaða mín byggist á eigin reynslu..

Fólk á ekki bágt í fjölmiðlum,heldur skáldunum eins og Kiljan sagði.

Já,að ég segi þetta er ekki út í hött því þegar leikrit mitt Fjaðrafok, sem á rætur í Bjargsmálinu svonefnda,var sýnt kom í ljós það sem ég nefni í Viðskilnaði,þegar ég lét prenta leikverk mín (1975) og kvaddi þau endanlega , “að í öllu fjaðrafokinu gleymdist litla manneskjan og hennar “heimur”.Öll mannúðin brann upp í æðinu .Allt var miðað við að leiða höfund verksins upp á Valhúsahæð og krossfesta hann í allra augsýn”,eins og hvern annan misindismann.Verkið sótti öðrum þræði efni í rannsókn málsins án þess neinn fengi kæru,heldur gufaði það upp í kerfinu og fjölmiðlunum,en mér áskotnuðust málsskjölin sem ég veit ekki hvort eru til eða ekki.En í þau vitna ég,rétt eins og ég hafði gert í umfjöllun minni um Sólborgu,þótt þau væru ekki aðalatriðið,heldur hitt,að móðirin í Sólborgu ,fátæk og einstæð,er í hluverki Jobs,þegar allt er hrunið í kringum hana.

Í Fjaðrafoki er m.a. fjallað um valdið og misnotkun þess,hvort sem er á heimilum,stofnunum eða í samfélaginu,en á það minntust fáir.Aðalatriðið virtist vera,hver fjallaði um ofbeldið,það var eins og segir í Viðskilnaði ekki í verkahring þáverandi ritstjóra Morgunblaðsins :”Þess má geta að síðasta árásin á mig sem höfund Fjaðrafoks var gerð í Austra Þjóðviljans nokkrum mánuðum eftir að hætt var að sýna verkið í Þjóðleikhúsinu.....Engin samúð komst að með persónum verksins fyrir þessum hamagangi.Efni verksins og örlög stúlkunnar voru þó sótt í íslenzkt þjóðfélag.Síðan hefur mér þótt skinhelgi einkenna þá “félagshyggjumenn” ýmsa sem þykjast vilja breyta þjóðfélaginu.En ritstjóri Morgunblaðsins átti a.m.k, ekki að eiga aðild að slíkri breytingu,hvað sem skáldið sagði!Fyrir bragðið gat ekki verið nein þjóðfélagsgagnrýni í Fjaðrafoki!”

Margir tóku leikritinu ágætlega,en þó ekki þeir sem viðruðu sig með skrautfjöðrum rannsóknarblaðamennskunnar á þeim tíma.

Kvikmyndaskáldið Kristín Jóhannesdóttir samdi löngu síðar sjónvarpsmyndina Glerbrot úr verkinu og þótti takast vel með Björk í aðalhlutverki.

Og nú mætti kannski endursýna það við tækifæri?!


20.

(Í kompaníi við Orwell)


Án þess það sé samanburðarhæft við rit mín minni ég að lokum á orð Orwells um bók hans Homage to Catalonia.Hann segist hafa orðið að skrifa bókina með þeim hætti sem raun ber vitni, þ.e að dægurmál og pólitík yfirgnæfi stundum þá estetísku kröfu sem hann geri til sjálfs sín sem rithöfundar og við það hnigi bókin fremur að blaðamennsku en bókmenntum.En hann hafi orðið að benda á þann ósanna áróður stalínista á sínum tíma að trotskíistar hafi staðið fyrir einhverju samsæri með Frankó í Spánarstríðinu.

“Ef ég hefði ekki reiðzt þessu,þá hefði ég aldrei skrifað bókina”, segir þetta helzta sannleiksvitni 20.aldar, þegar hann horfir um öxl; frjáls að öllu,nema vonum sínum og draumum.

(Dagbókarbrot,frá gormánuði að góu 2007)