Noregi blæðir
07.25.2011
Matthías Johannessen

Horfum til Úteyjar eystri
þar sem paradís breyttist
í glóandi víti
eins og hendi sé veifað,

þar sem ofbeldið læsti
blóðugum klóm
í stálhjarta byssumanns

og ungt fólk
hitti örlög sín fyrir
við afskræmda ásjónu
dauðans,

horfum okkur nær
til annarrar Úteyjar
-
æskuumhverfis
Sighvats hirðskálds
hins helga Ólafs

þar sem farfuglar syngja
við lyng og blóm,

þangað sem landnámsmenn
festu hug sinn
og hjarta
við heimaslóð nýja,

hefjum íslenzka fánann
í hálfa stöng
og sendum hryggð okkar
austur um höf.

Article originally appeared on Matthías Johannessen rithöfundur (http://matthias.is/).
See website for complete article licensing information.