25. ágúst
Styrmir minn,
Fór yfir erlendu fréttirnar um helgina, ástríðan lifir enn góðu lífi!
Athyglisverðast fyrir okkur er yfirlýsing Jeltsíns um sjálfstæði Eystrasaltsríkja og áskorun hans á Gorbasjov að viðurkenna þau. Og Jeltsín hyggst viðurkenna þau eins og aðs.utanríkish. sagði við Mbl. svo þeir hljóta að skiptast á sendiherrum.
Þetta var allt sem við þurftum.
Jafnvel hetja eins og Þorgeir þurfti hvönn til að halda í. Og við ísl. hetjurnar þurfum einnig eitthvað að handlása okkur eftir, eitthvað meira en ástríðuna, þótt réttlætið sé okkar megin að venju.
Það er semsagt Jeltsín sem hefur gefið grænt ljós, hann er maðurinn sem við eigum nú að fylgja. Hann og Rússland hafa viðurkennt Eystrasaltsríkin – og það nægir okkur. Þú sérð hann á upphleyptu myndinni á styttu Jóns Sig. á Austurvelli.
Gorbastj. er aftur á móti maðurinn sem vísaði veginn, Jeltsín ryður hann.
Eitt sinn voru þeir báðir í sama flokki, það er hin ósýnilega hönd örlaganna sem nú bendir inn í framtíðina.
Þetta höfum við að vísu vitað, eða trúað, en þótt mín kynslóð sé hert í eldi er hún öguð við staðreyndir.
áfram >>
Article originally appeared on Matthías Johannessen rithöfundur (http://matthias.is/).
See website for complete article licensing information.