Árið 1961

 

30. marz 1961

Skrifaði grein um toppfundinn með Krúsjeff í páskablaðið. Þegar ég kom heim eftir Parísardvölina gladdi það mig að Bjarni Benediktsson sagði, Þú gafst þeim ekkert eftir á stóru blöðunum.

Mér þótti hólið gott!

Bjarni les heimspressuna.


2. maí 1961

Mér sinnaðist um daginn við Ragnar í Smára. Mér þótti rétt að segja honum hug minn og skrifaði honum bréf. Hann svarar þessu bréfi mínu í dag og það hvín í tálknunum á honum. Hann segist hafa fengið bréf frá mér fyrir helgina en þá hafi hann verið að búa sig í ferð austur fyrir fjall og ekki getað svarað fyrr en nú, að hann er kominn aftur til Reykjavíkur.

Hann segir:

“Amma mín hljóp upp af standinum síðustu ár ævinnar. Hún hafði verið yfirsetukona og hálfgerður læknir í hálfa öld, en svo hafði hún mikið á samviskunni að lokum að hún taldi ekki bætt fyrir afbrot sín með minna en því að láta sig falla framaf hömrum og þola dauða af.

Langamma mín var líka mjög illa haldin af einhverjum andlegum óróa, dó þó að lokum án þess að eiga þátt í að flýta fyrir því.

Móðursýkisköst, sem stundum sækja á mig með þeim afleiðingum að halda mætti að ég væri í ætt við Möggu Þórbergs eru úr þessari ætt.

Hin ættin er meira blönduð Júðum, eins og þín, og þar er samviskan öll á mýkri og léttari hjólum.

Ég hefi lagt mjög hart að mér að reyna að bægja frá þeim veikleika að neyða aðra til þess að taka þátt í þessum arfsjúkdómi, en auðvitað ekki tekist með öllu.

Ég fékk frá þér yndislegt móðursýkisbréf, og þykir mér vænna um þig fyrir að hafa skrifað það og sent. Ég reif það og sýndi engum. Það er vissulega ekkert unaðslegra en ganga fram fyrir konu, sem maður ann, og segja að maður elski hana, og hún sé fegursta kona heimsins, en ef hún fer sjálf fram á það, hvað þá ef hún heimtar þessa viðurkenningu, þá er hamingjan rokin út í veður og vind.

Svona er lífið barnalegt og hreint og saklaust, þrátt fyrir það þó við veltum okkur öll flesta daga upp úr hverskonar óþrifum.

Móðursýkisköst eru algengt fyrirbæri og fara vaxandi eins og velmegunin.

Kona sem á engan pels fær sjaldan þesskonar tilfelli, þau eru fylgifiskar þess að fá nýjan og eiga annan fyrir en langa í þann þriðja.

Athugaðu vel, góði vinur, að tjaldabaki samviskunnar, hvort svo kynni að vera að þér hafi borist fleiri pelsar en þú kynnir að telja þig hafa unnið fyrir. Þetta er ekki aðdróttun, fjarri fer því, ég met þig svo mikils að ég tel mér skylt að benda þér á þann möguleika til opinbers falls, sem mér hefir oft verið forðað frá af góðum vinum.

Okkar á milli sagt finst mér þú vera farinn að hafa fullmikinn áhuga fyrir kvæðunum þínum, og ég trúi ekki alveg á fulla hreinskilni þína, er þú segir í bréfinu, að þér sé vel ljóst, að þú sért ritstjóri en ekki skáld.

Sannleikurinn er sá að um sál þína togast á tvö öfl, skáld og veraldarmaður, ritstjóri áhrifamesta blaðsins.

Það er að vísu of fljótt að dæma um það hvort verður ofaná, en í svipinn eru stríðsaðilar háskalega jafnir að afli, og maðurinn því dálítið bundinn annarlegum höftum...”

Síðan minnir Ragnar mig á 27. kaflann í Paradísarheimt Laxness, “eitt hið hrottalegasta og grófasta drama í bókmenntum heimsins, þar sem síðustu lífsvon mannsins er að lokum sökkt í hafið og ekkert framar. Þá koma þessi niðurlagsorð, “ef þú vilt nokkurs nýta þetta snautlega líf mitt, frelsaðu mig þá þannig að ég fái aftur að finna anda af dögunum þegar ég var lítill heima”.

Og þú finnur tárin streyma niður kinnarnar á þér og í þessum heitu snjókornum birtist þér ný framtíð og ný fegurð, nýr heimur. Þetta er hin dásamlega endurnýjun lífsins...”

Að lokum segir Ragnar í bréfi sínu:

“Til samanburðar fyrir þig langar mig að segja þér eitt dæmi úr lífinu. Bjarni Bendiktsson er í mínum augum, og eflaust þínum líka, ákaflega merkur stjórnmálamaður, gáfaður maður, drenglyndur, vitur og rökfastur.

En ef ég væri spurður að því hver væri mesti stjórnmálamaður okkar á þessari öld, mundi ég ekki þurfa að hugsa um svarið. Ólafur Thors.”

Þannig er Ragnar alltaf að reyna að ala mann upp. Stundum, eins og í þetta sinn, leggur hann sig fram um að marka manni bás svo maður sé ekki að sletta úr klaufunum, eins og kýr sem er hleypt út eftir langan og strangan vetur. Hann hefur athyglisverðar skírskotanir ávallt á hraðbergi og getur jafnað um mann með nokkrum vel völdum setningum úr lífsreynslusögu sinni.

Það eru forréttindi sem ég hef ekki.

En þess vegna finnst mér skemmtilegt að vitna í bréfin hans og varðveita kjarnann. Hann er þó heill, ef að er gáð, eins og Einar Benediktsson segir um Njál á Bergþórshvoli.


Sumar 1961 - ódagsett

Hef fengið gott bréf frá Guðmundi Halldórssyni, smásagnahöfundi, á Bergsstöðum í Svartárdal,vini Hannesar Péturssonar og Indriða G.Þorsteinssonar.

Sanntrúuðum framsóknarmanni.

Hann talar fallega um Jörð úr ægi. Það þurfi svalan mann, eins og hann kemst að orði, til að reka hníf í þennan skáldskap.

Samt hef ég séð blika á marga hnífa.