Árið 1980

.

Febrúar 1980

Skrifaði greinina Býsnavetur í íslenzkri pólitík.birt í Morgunblaðinu. Fjallar

um stöðu Geirs Hallgrímssonar,Gunnar Thoroddsen og átökin í Sjálfstæðisflokknum

(Sjá Býsnavetur í íslenzkri pólitík,greinar,samtöl og ljóð,í ritinu Félagi orð).

.

Sumar 1980

Hamborg

Förum skoðunarferð um höfnina,

upplitaður íslenzkur

pappírsfáni ásamt öðrum

flöggum í ganginum.

Selfoss í slipp

í dokk 18, Deutsche Werft,

og maðurinn við hljóðnemann

segir, Þið þurfið ekkert að óttast

þótt þið sjáið hakakrossmerkið, það

er í engum tengslum

við þúsundára-ríkið, mörg önnur

skipafélög hafa slíkt merki, indversk

og norsk zum Beispiel,

það er sólartákn.

Fylgir huga okkar

miðnætursólar-

fáni,

hakakrosslaus

eins og himinn.

.

30. júní 1980

Rigning; sífelld rigning. Fórum í Neanderdal í þrumum og eldingum.

Breyttist í neanderdalsmann, það var ný reynsla og eftirminnileg. Orti þetta í rigningunni.

Bolkerstrasse 53, Düsseldorf:

Við getum ekki sagt af gömlum vana

sólin hafi sigrazt

á myrkrinu í Bolkerstrasse, nálægt

Vater Rhein í Altstadt: 30 júní '80,

dapurlegur kaldhæðinn

dagur, eða hvað sagði ekki

Heine: þýzkt sumar er eiginlega aðeins

grænmálaður vetur.

Upphleypt mynd

af ungum manni á Bolkerstrasse 53: hier

wurde Heinrich Heine am 13. Desember

1797 geboren, nú ekkert nema ljósgrænt

endurbyggt hús, tvær hæðir og ris, en á

jarðhæð Bäkerei Weidenhaupt, seit 100

Jahren, kaupum

heilhveitibrauð og glas af víni,

í næsta húsi

Mata Hari, kjólaverzlun (hve oft ortirðu

ekki um konur með svo vafasömu

nafni), handan götunnar: Im goldenen

Kessel og drekkum tunnubjór

á gangstétt sem minnir

á gluggakistu í gömlum sumarbústað, iðandi

af hálfdauðum flugum,

Er ekki kalt

á Íslandi? spyr drukkinn, bæklaður

róni með gráan hatt og grafsteina

í augum.

.

10. desember 1980

Sverrir Hermannsson kallar ekki allt ömmu sína. Í dag sagði hann mér að hann hefði farið um síðustu helgi á Snæfellsnes og gengið upp á Urðarkast, að rótum Ljósufjalla og upp undir Skyrtunnu.

Ég skrifaði einhvern tíma um þessi örnefni í Morgunblaðið, það var þegar Hraunsrétt átti afmæli.

Þá var gaman að koma vestur, að vísu ausandi rigning , en gerði ekkert til.

Vegurinn var svona nokkurn veginn ófær og það gerði ekki heldur neitt til.

Okkur var höfðinglega tekið á Borg.

Það má með nokkrum sanni segja að höfðingi sé á hverjum bæ á Íslandi, það er að minnsta kosti mín reynsla. Ég kynntist því ekki sízt þegar ég fór um Rangárvallasýslu fyrir Ingólf Jónsson í kosningunum 1959, þá var mikið tekizt á ,en gott að hitta bændur.

Við Þorsteinn Thorarensen skrifuðum þá í Morgunblaðið úr Suðurlandskjördæmi, sváfum í hótelinu á Hellu en borðum hjá Ingólfi og Evu,konu hans.

Mig minnir flugvélin sem fórst með konu Pálmars vinar míns og barni þeirra hafi lent í Ljósufjöllum en það er farið að skafa yfir þá minningu eins og aðrar. Ég kynntist Pálmari eftir slysið, hann er góður drengur, trúaður vel og nokkuð sérstæður. En enginn getur náð sér að fullu eftir slíkt áfall. Það var á sínum tíma reynt að sverta Morgunblaðið fyrir frásögn af þessu hörmulega slysi, en Pálmar tók af skarið og stóð með okkur. Það var drengilega gert eins og á stóð.

Sverrir segir að veðrið hafi verið frábært og er þess fullviss að ég myndi hækka mig á fluginu, eins og hann segir, ef ég kæmi einhvern tíma með honum í slíka gönguferð.

Hann segist á þessari göngu hafa gert upp við sig mikilvæg mál.l

Kvaðst þó verða að tala við mig um málefni sem hann ætlaði að hvíla sig á fram yfir jól, en virðist liggja allþungt á honum.

Hann segir ég hafi varpað fram þeirri fullyrðingu við hann og Ólaf G. Einarsson, þegar við töluðum síðast saman, að í hjarta þeirra vildu þeir breytingar á æðstu forystu Sjálfstæðisflokksins.

En hann fullyrðir að þetta sé ekki rétt, segir að þetta sé raunar alrangt hjá mér og eigi það við um þá báða.

Hann fór víst að hugsa um þetta þegar hann nálgaðist Skyrtunnuna, svo hún virðist kalla fram einhvers konar uppgjör við samvizkuna!

Þeir Ólafur myndu mikið vilja á sig leggja til að óbreytt ástand gæti haldizt í flokknum.

“Ella værum við ómanneskjulegir, tilfinningalausir, tillitslausir. Angist mín stafar einmitt af því, að ég er ekki viss um að okkur gefist kostur á að sýna tillitssemi og drenglund. Að menn telji sig ekki hafa efni á því þar sem annað verra taki þá við og er það að vísu óhugnanleg íkoma.”

Sverrir bætir svo við að á þessari löngu göngu hefði einnig sótt á hann að hann hefði frá upphafi verið haldinn grundvallarmisskilningi á pólitík og þeim vopnum sem beita ber í þeim vígaferlum.

Þetta komi honum að vísu ekki í opna skjöldu, En ég hefi frá tvítugsaldri stöðugt verið að uppgötva hversu seinþroska ég er, en þá þóttist ég fær í flestan sjó. Ósköp er leiðinlegt að hafa verið svona mikið flón fram undir fimmtugsaldurinn,segir Sverrir.

En sem sagt:

Í pólitík er annað hvort vitlaust gefið eða menn hafa rangt við vísvitandi.

Þetta eru spilareglurnar.

Það er búið að gefa vitlaust vegna rangrar kjördæmaskipunar og kosningalaga frá stofnun Framsóknarflokksins. Það hefir gefið þeim flokki ótrúleg völd, langt umfram það sem fólkið í landinu vildi. Það er athyglisvert að í eina skiptið sem tókst að kjósa þingmenn í réttu hlutfalli við fylgi flokkanna, hófst eina tímabilið í sögu lýðveldisins sem stjórnað hefur verið með viti.

Og ennfremur :

“Mikil skelfileg fífl eru það sem hafa haldið að siðferði tíðkaðist í venjulegum mannlegum samskiptum og þykir sjálfsagt eigi eitthvað skylt við það sem eðlilegt og sjálfsagt er að beita í pólitík!

Þetta er sem sagt alltsaman valdatafl og tilgangurinn helgar meðalið.

Og holhljómurinn ærandi.

“En nú er ei tóm fyrir dvala né draum.”

Við skulum athuga að stofna klikkur manna sem vilja ráða og eru tilbúnir til að tileinka sér rétt vinnubrögð og hætta öllu helvítis væli og víli um siðgæði og drengskap, eða öllu heldur: gera sér grein fyrir réttri merkingu þeirra orða í pólitík.

Einkunnarorð slíkrar valdasellu fannst þú sjálfur upp 1952 þegar þú sagðir við okkur klíkubræður þína:

Ryðjum hver öðrum úr vegi!

Þessi speki er algild. Við beitum bara reglunni fyrst á hina, meðan við erum að koma okkur fyrir. Svo náttúrulega hlýtur einn og annar að týna tölunni og betra að láta ekki Elli gömlu um það, heldur vinna á þeim með réttum og drengilegum pólitískum vopnum og varðar þá mestu að koma aftan að andstæðingi sínum eða fá hann myrtan í sæingu.

Nú er spurning hvenær stofnfundurinn verður.

Vilji er allt sem þarf!! “

.

29. desember 1980

Fórum í sjötugsafmæli Gunnars Thoroddsens. Held hann njóti þess að vera forsætisráðherra á svona stórhátíð. Það var mannfjöldi heima hjá þeim Völu og okkur fjarskalega vel tekið.

Við höfum raunar alltaf verið miklir mátar og engin persónuleg leiðindi hafa verið okkar í milli.

Ég skil í aðra röndina vonbrigði hans þegar hann missti af formennsku Sjálfstæðisflokksins.

Hann réð sjálfur ferðinni.

Hann tók um það ákvörðun sjálfur að verða sendiherra í Danmörku, líklega vegna þess hann hafði augastað á Bessastöðum.

En það fór illa.

Studdi hann í forsetaembættið.

En hann hefur aldrei trúað því almennilega að við morgunblaðsmenn hefðum þetta álit á honum!

Í kosningabaráttu hans töluðum við Bjarni Ben. mikið saman.

Við þóttumst vita að hverju fór.

Vð höfðum áhyggjur af því hvað þessi gamli forystumaður Sjálfstæðisflokksins virtist hafa lítið fylgi, það var ekki uppörvandi.

Við Bjarni gengum saman einn daginn og fórum marga hringi í miðbænum og reifuðum málin.

Niðurstaðan varð sú að ég skrifaði samtal við Bjarna um kosningarnar, Gunnar og forsetaembættið, man raunar ekki nákvæmlega eftir þessari samtalsgrein, en í henni var ótvíræður stuðningur við Gunnar. Að ósk hans fórum við ritstjórar Morgunblaðsins upp í Hótel Holt, mig minnir tvisvar eða þrisvar í viku, og ræddum við Gunnar.

Hann óskaði ekki eftir stuðningi í blaðinu, taldi það yrði sér ekki til framdráttar eins og dæmin hefðu sýnt!

En ég held honum hafi þótt gott að hitta okkur og ræða málin.

Þetta voru vinalegir fundir og að lokum var ákveðið, að ósk Gunnars, að við skrifuðum einn leiðara honum til stuðnings – og þá í lok kosningabaráttunnar.

Einn daginn sem oftar sátum við, ritstjórar Morgunblaðsins, Sigurður Bjarnason, Eyjólfur Konráð Jónsson og ég, með Gunnari á Hótel Holti og þá fór Sigurður að segja okkur draum sem hann hafði dreymt þá um nóttina.

Hann hafði verið á kosningafundi fyrir Gunnar Thoroddsen, það hefðu að vísu ekki verið margir viðstaddir ,en góðmennt þarna í Gamla bíói þar sem fundurinn var, en þá hefði Hannes Hafstein allt í einu stigið í pontuna og haldið mikla ræðu til stuðnings Gunnari.

Eftir þennan draum var Sigurður sannfærður um að Gunnar Thoroddsen ynni forsetakosningarnar.

Ég hugsa mikið um drauma, það verða skáld að gera, ritstjórar síður.

Mér leizt ekki á blikuna, sagði samt ekkert í fyrstu. En þeir þrír virtust himinlifandi yfir þessum draumi, og þá ekki sízt Gunnar.

En ég sagði, Mér er til efs þetta sé góður draumur.

Þeir hrukku við.

Hvers vegna ekki?

Tákngervingurinn Hannes Hafstein í þessum draumi minnir á mesta afhroð sem stjórnmálamaður hefur goldið í íslenzkum stjórnmálum, kosningarnar um Uppkastið 1908.

Eftir það voru draumar teknir af dagskrá.

Gunnar hringdi til mín frá Kaupmannahöfn þegar Kristján Eldjárn lýsti yfir forsetaframboði sínu.

Hann spurði hvernig mér litist á.

Ég sagði, Í gamla daga voru sendiboðar illra tíðinda teknir af lífi.

Já, sagði Gunnar, en þú munt sleppa.

Raunar veit ég ekki hvort ég slapp – nema fyrir horn, því mér fannst alltaf einhver breztur í samtölum okkar Gunnars eftir að ég þurfti að segja honum, að ég minntist þess ekki að hafa upplifað aðra eins flóðbylgju fagnaðar og ánægju og þegar framboð Kristjáns Eldjárns fréttist.

Hann tók því karlmannlega og endurtók í lok símtalsins að sendiboðinn héldi lífi, þótt ekki væru tíðindin góð.

Ég skrifaði ritgerð um Grím Thomsen til fyrri hluta prófs í íslenzkum fræðum við Háskólann.

Hafði hugsað mér að skrifa doktorsritgerð um Grím og vann að því í Kaupmannahöfn því ég hafði áhuga á að kenna við einhvern háskóla.

Þegar ég kom heim frá Kaupmannahöfn festist ég í blaðamennsku og Valtýr hvatti mig eindregið til að vera áfram á blaðinu.

Ég hafði það alltaf á tilfinningunni að hann teldi að framtíð mín lægi þar og gaf oft til kynna að það væri ósk hans.

Ég sökkti mér því niður í blaðamennsku og gaf Grím Thomsen frá mér.

En löngu síðar skrifaði ég grein um hann og lýsti því hvernig stjórnmálaferill hans hefði markað skáldskap hans – og þá einkum með skírskotunum í fornsögulegar bókmenntir.

Þannig varð Goðmundur á Glæsivöllum til.

Þar segir Grímur umbúðalítið að hann hafi sloppið kalinn á hjarta úr því pólitíska þrefi sem hann tók þátt í ungur maður í Kaupmannahöfn.

Allt heillaði þetta Gunnar Thoroddsen og samtöl okkar hófust iðulega á því að hann minntist á Grím, kvæði hans og stjórnmálabaráttu.

Ég held raunar leiðir okkar hafi legið saman um líf Gríms Thomsens og ljóðlist.

Þetta var það sem við áttum sameiginlegt og báðum þótti jafn gaman að tala um það.

Þegar við komum í sjötugsafmælið hafði ég skrifað Reykjavíkurbréf um Gunnar Thoroddsen.

Okkur var mikill vandi á höndum og þetta bréf dæmdist á mig og ekkert við því að segja.

Þegar Gunnar myndaði stjórn sína skrifaði ég hvassa pólitíska grein sem vakti athygli og misjöfn viðbrögð, Býsnavetur í íslenzkri pólitík.

Mér var einnig þá mikill vandi á höndum en ég gat ekki orða bundizt eins og komið var fyrir Sjálfstæðisflokknum á lífsháskasamlegum tímum.

Innviðirnir voru að brezta.

Reykjavíkurbréfið fjallaði um Gunnar Thoroddsen og ríkisstjórn hans. Fyrri hlutinn um Gunnar, ágæti hans og hæfileika, en síðari hlutinn um þá klénu stjórn sem hann hafði myndað.

Það átti auðvitað enginn að vita að ég hefði skrifað þetta Reykjavíkurbréf, enda á ábyrgð okkar ritstjóranna beggja.

En þegar við gengum inn í forstofuna og óskuðum honum til hamingju með afmælið , tók hann mér fagnandi og sagði svo allir heyrðu,

Þakka þér fyrir Reykjavíkurbréfið – áttaði sig svo og bætti við – fyrri hlutann!

Það var örlagaríkt að Gunnar Thoroddsen skyldi ekki verða forseti. Þá hefði farið betur á með honum, Geir Hallgrímssyni og okkur morgunblaðsmönnum.

En þá hefði dr. Kristján Eldjárn ekki fengið tækifæri til að gera hann að forsætisráðhera!

Ég reikna með því að honum hafi ekki verið öndvert að geta sýnt þessum gamla keppinaut sínum einhvern þann virðingarvott sem eftir yrði tekið.

En hvað sem því líður, þá er erfitt að vera sjálfstæðismaður í dag; ég tala nú ekki um ritstjóri Morgunblaðsins.

Að því kemur vonandi að við losnum við þessa ábyrgð lífsháskans og kalda stríðsins.

 

 

 

 

.