Árið 1978

.

8. febrúar 1978

Fékk í dag svohljóðandi handskrifað bréf frá Sverri Hermannssyni – og segir það sína sögu um vinsældir ritstjóra Morgunblaðsins!

“Góði vinur.

Ég sé á leiðara blaðs þíns í morgun, að Mbl. hefir ákveðið að hafa mannorðið af þingmönnum, hvað sem það kostar. Ég hefði aldrei trúað því fyrr en ég tek nú á að þið Mbl.-menn mynduð leggjast lægra en Dagblaðið.

Ég á ekki fleiri orð í eigu minni.

Þinn Sverrir Hermannsson.”

Það er ekki undarlegt þótt maður vilji fá sæmileg laun fyrir þetta starf!

Ætli það sé ekki rétt sem Snæbjörn Jónsson,bóksali, skrifaði mér í bréfi, dags. 4. nóvember 1975.

Fyrst þakkar hann mér fyrir aðstoð við grein sem hann sendi blaðinu, segir síðan “að enda þótt kynni okkar á liðnum árum hafi engin verið, umfram það, að heilsast þegar fundum bar saman, hefir mjer lengi fundist að fremur mundi jeg eiga vin en óvin þar sem þjer voruð. Og væri þetta svo, þá voruð þjer ekki sá fyrsti í ættinni; því sannarlega bar Johannes afi yðar góðan hug til mín. En ekki kom það nema einusinni fyrir að jeg hefði tækifæri til að eiga nokkuð langt samtal við hann í ró og næði. Það var skömmu eftir lát Boga Melsteðs, en um hann hafði jeg skrifað dánarminningu í Lögrjettu (síðar endurprentuð í greinasafni mínu Lokasjóði) og jeg held að afa yðar hafi þótt jeg skrifa um manninn af sæmilegum skilningi. Lárus móðurbróðir yðar sýndi mjer alla tíð sjerstaka góðvild, en hið sama geta svo margir sagt um hann, því ekki á hann marga sína líka um drengskap og höfðingslund”.

En svo bætir Snæbjörn við – og það er þess vegna sem ég hef geymt þetta bréf því þessi athugasemd hans þótti mér umhugsunarverð:

“Það hefir fallið í yðar hlutskifti að lenda í þeirri stöðu sem jeg ætla að sje í rauninni hin allravandasamasta í okkar litla þjóðfjelagi: að stjórna stærsta og fjöllesnasta stjórnmálablaði landsins. Þegar sá tími kemur að yðar sögu ljúki (jeg vona að þess verði enn mjög langt að bíða) vildi jeg óska að sagt verði, að þetta vandasama starf hafi yður tekist að leysa lofsamlega af hendi. En árangurinn hlýtur að verða að ekki litlu leyti eftir því, hvernig yður tekst að velja samstarfsmenn. Sagt er að sá ritstjóri er gerði The Times að stórveldi, hafi sjálfur aldrei skrifað orð í blaðið.”

Ég hef að sjálfsögðu oft tekið starf mitt við Morgunblaðið nærri mér, en ég hef þá einnig valið mér góða samstarfsmenn.

En það getur víst ekki orðið úr þessu að ég hafi aldrei skrifað orð í Morgunblaðið!

Við getum ekki ógert það sem gert hefur verið, en ég sé ekki eftir því sem ég hef skrifað í blaðið og mest af því hef ég orðið að skrifa.

Ég hef einnig viljað vera einskonar leiðbeinandi í skrifaðri blaðamennsku, ekki síður en stjórnun, en það hefur víst tekizt misjafnlega.

Hitt er svo annað mál að bréf míns góða vinar Sverris Hermannssonar er dæmigert um viðbrögð sem ritstjóri Morgunblaðsins verður að þola, ef blaðið á ekki að verða vasaklútur valdamanna og þeirra sem öllu stjórna.

Það verða vinir mínir á þingi að sætta sig við, bæði Sverrir Hermannsson og aðrir.

Kannski á þetta starf eftir að skjóta alla vini mína úr hendi mér, ég veit það ekki.

Vona samt ekki.

Vona þeir sjái og skilji að mín fyrsta og síðasta skylda er að standa vörð um það sem mér hefur verið trúað fyrir, ekki síður en þeir standi vörð um lífsskoðun sína, ábyrgð og störf.

En hagsmunir geta verið með þeim hætti að sjálfsögðu að árekstrar séu óumflýjanlegir og þá verður að hafa það.

Og þá er nauðsynlegt að í slíkum átökum fái menn einungis skeinur, en engin svöðusár.

Við Sverrir eigum áreiðanlega eftir að vera jafngóðir vinir og við höfum verið. Hjartalag hans er að mínu skapi og skilningur á sjálfstæðisstefnunni ævinlega farið saman.

En hann er líkari Þorgeir, ég er aftur á móti líkari Þormóði.

.

10. febrúar 1978

Fékk enn bréf frá Sverri Hermannssyni í dag, boðsent frá Alþingi.

Segist kjósa að rita mér örfáar línur áður en við tökum tal saman í bróðerni, eins og hann kemst að orði.

Og hann heldur áfram:

“Ég minni á að ég er formaður þingfararkaupsnefndar Alþingis. Fyrir því beinast spjótin að sjálfsögðu að mér vegna umræðu um misferli þingmanna í kaup- og kjaramálum sínum. – Eins og þú veizt ber ég aldrei þungan hug til neins persónulega, þótt ég eigi í illvígum þrætum og vona ég að Ey.Kon (Eyjólfur Konráð) geri sér einnig grein fyrir því.

Í máli þessu þykknaði fyrst alvarlega í mér þegar vinur min Ey. Kon. hóf umræður í þingflokki Sjálfstæðisfl. með því að krefjast þess, að öllum forsetum Alþingis yrði falið að kveða upp úrskurð um hvort þingfararkaupsnefnd hafi farið að lögum, þegar hún bókaði úrskurð Kjaradóms um laun þingmanna.

Mér þótti hratt af stað farið að biðja um að settur yrði yfir mér réttur, áður en umræða hafði farið fram.”

Hann reifar svo málið frá sínum bæjardyrum og gagnrýnir enn leiðara Morgunblaðsins um þessi mál, segir:

“Langstærsta áfallið er leiðari Mbl. í fyrradag. Ef til vill misskil ég innihald hans. Það geri ég a.m.k. ekki viljandi, enda hefði þjáning mín þá engin orðið.

Að brjóta trúnað milli manna er óskaplegt.

En trúnaðarbrestur milli þings og þjóðar er ofboðslegt mál. Hér um ekki fleira.

Ég varð fyrir vonbrigðum með að í frétt Mbl. í morgun af umræðunum í þingi í gær kom ekki fram það sem ég lagði mikla áherzlu á, en það er heiður og virðing Alþingis.

Menn koma og fara á Alþingi.

Þótt á mig persónulega falli smán þá skiftir það óendanlega litlu máli í samanburði við að heiðri og virðingu Alþingis verði borgið.”

Sverrir bætir svo við, P.S.:

”Ég er ekki með línum þessum að reyna að hafa áhrif á skoðanir þínar né telja þér hughvarf. Ég hefi fyrir margt löngu áttað mig á, að stjórnandi dagblaðs þarf að búa yfir gífurlegum sannfæringarkrafti, ella myndi hann ganga af göflunum eða verða drepinn.”

Þessi síðasta athugasemd Sverris er kannski ekki fjarri lagi!

.

Maí 1978 – ódagssett

Blaðamaðurinn heimsfrægi,Victor Zorza, sem hefur skrifað greinaflokka í The Washington Post og mörg önnur blöð, þ.á m. Morgunblaðið, og er einn þekktasti sérfræðingur í sovézkum málefnum nú um stundir, skrifaði mér bréf dags. 9. maí sl. þar sem hann skýrir mér frá því að dóttir þeirra hjóna hafi dáið úr hvítblæði á brezku hjúkrunarheimili þar sem þau gátu búið “við sæmileg þægindi” og í nálægð við ástfólgna dóttur, meðan hún háði dauðastríðið.

Hann segir að bæði Jane, dóttir þeirra, og þau hjón hafi fengið svo góða reynslu af slíku hjúkrunarheimili eða hospice, eins og hann kallar það í bréfinu, að hann hafi skrifað grein í The Washington Post í von um að hún gæti orðið öðrum krabbameinssjúklingum og fjölskyldum þeirra til einhverrar huggunar.

Hann sendi mér líka greinina sem er bæði stórmerkileg og átakanleg, en hún er skrifuð undir nafni þeirra hjóna beggja, Victors og Rosemary.

Hún birtist í sunnudagsblaði The Washington Post sunnudaginn 22. janúar sl. með stórri mynd af Jane.

Mér er til efst að svona grein hafi nokkurn tíma verið skrifuð áður.

Zorza er einn þekktasti greinarhöfundur í heimi nú um stundir, þau hjón höfðu hug á að koma til Íslands og ferðast um óbyggðirnar í jeppa og það hefði verið stolt okkar morgunblaðsmanna að birta greinarnar hans héðan.

Eftir greinina í Washington Post sem heitir The Death Of a Daughter fengu þau sjö þúsund bréf með ósk um að þau hefðu forystu um að reisa slík hjúkrunarheimili í Bandaríkjunum og nú hafa þau myndað samtök um það,

Hospice Action, en meðal þátttakenda eru Edward Kennedy, öldungardeildarþingmaður, Betty Ford,forsetafrú, og leikarinn frægo,Bob Hope.

Nú segist Zorza ætla að leggja greinaskrif til hliðar og einbeita sér að bók um þessa sorglegu reynslu þeirra hjóna.

Gerir ráð fyrir því að hefja greinaskrif aftur með haustinu og þá mun ég heyra frá honum aftur.

Heilsu Breshnevs,leiðtoga Sovétríkjanna, sé augsýnilega að hraka og það gæti þá hentað að taka upp þráðinn aftur með greinarflokki sem héti “Að Breshnev liðnum” (After Breshnev).

Zorza býður okkur greinina um Jane og langar mig til að birta hana í Morgunblaðinu.

Ritlaunin eiga að ganga til Hospice Action.

Þessi grein Zorza er engu lík.

Ég skil að vísu ekki hvernig þau hjón geta einbeitt sér að svona greinarskrifum, það er að minnsta kosti lærdómsríkt fyrir okkur hin.

Slíkt þrek er að mínu viti ofurmannlegt.

Ég vona að þessi einbeiting geti sefað harm þeirra og breytt vonleysi í tilgang.

.

Maí 1978– ódagssett

Fékk stutt kort og þýðingu á grein frá Pétri K. Karlssyni sem áður var Kidson og kom fyrst til Íslands sem brezkur hermaður í stríðinu, en síðar sem sendiráðsstarfsmaður og njósnari.

Ég geri ekkert með þetta.

Við Pétur vorum góðir kunningjar á sínum tíma, eða þangað til mér varð fullljóst hvert starf hans hefur verið á Íslandi.

Þegar ég ætlaði að fara til Moskvu á sínum tíma , sagði ég honum frá því.

Þá bauð hann mér eitt sinn heim í hádegisverð og óskaði eftir því að ég færi til Leningrað og þaðan með lest til Moskvu og lýsti einhverjum hernaðarmannvirkjum á leiðinni!

Ég þvertók fyrir það.

Enda fáránlegt !

Hann spurði hvort ég væri ekki sannur stuðningsmaður Atlantshafsbandalagsins. Þetta væri nauðsynlegt og ég ætti að hitta einhvern mann þegar ég kæmi til Lundúna , hann léti mig fá allar upplýsingar um ferðalagið.

Ég sagði nei.

Ég sagðist mundu skrifa í Morgunblaðið það sem ég sæi og upplifði í Sovétríkjunum.

Ég hafði aldrei kynnzt slíkum þrýstingi áður og auðvitað ætlaði ég ekki að hitta neinn brezkan njósnara í London.

En Pétur hefur augsýnilega ekki látið sér segjast því þegar ég kom upp í rússneska sendiráð og ætlaði að fá vegabréfsáritun, brostu þeir eins og japanskur liðsforingi andspænis fórnardýri sínu, djöfullegu brosi sem enginn gat misskilið , og sögðu að ég fengi enga vegabréfsáritun ; ég færi hvorki til Leningrad né Moskvu!

Pétur hafði að öllum líkindum nefnt nafn mitt við leyniþjónustuna í London, en hún var þá, eins og allir vita nú, hriplek og eins og hraðbraut til KGB gegnum brezku njósnarana sem afhjúpaðir voru, komust undan til Moskvu og ég nenni ekki að nefna.

Ég minntist á þetta við Pétur löngu seinna en þá brosti hann bara og eyddi talinu.

Njósnarar eru ávallt hverju barni saklausari og þeir eiga sér alltaf afsökun í hættulegu starfi sínu.

En ef ég hefði farið til Leningrað og síðan Moskvu hefði það getað kostað mig fangelsi; kannski gúlagið, guð má vita(!)

Kannski Rússar hafi sjálfir bjargað mér með því að hafna vegabréfinu.

Móðir mín bað mig alltaf um að fara ekki yfir járntjaldið, sagði það væri hættulegt manni sem hefði helgað líf sitt baráttu gegn kommúnisma.

Eftir uppreisnina í Berlín 1953 og skrif mín þaðan fór ég ekki aftur þangað fyrr en löngu síðar.

Og þá sá ég enn skepnuskapinn; sá blóðhundana, speglana sem voru settir undir bílana og ýmis önnur einkenni alræðisins.

Mér létti þegar ég kom vesturum aftur.

(Viðbót löngu síðar: Sjaldan hefur mér liðið eins vel og þegar við Hanna gengum um götur Austur-Berlínar eftir fall kommúnismans og ég var beðinn að lesa upp í Café Clara,áður í Austur-Berlín.

Engu líkara en hin himneska Jerúsalem væri orðin staðreynd á jörðinni.

Og við gengum eftir Unter den Linden, gegnum Branderburgarhliðið þar sem við höfðum einnig farið í gegn í uppreisninni í júní 1953, og héldum áfram eftir 17. júnígötu og það var engu líkara en maður hefði lifað í þúsund ár og nú væru þessi þúsund ár einn dagur, ei meir.

Og múrinn að baki — eins og dauður ormur).

.

Ódagssett -

Þetta hefur verið erfiður vetur, sögðu þau hjón, Dóra og Ólafur Jóhannesson, við Ernu og Geir Hallgrímsson í boði á Þingvöllum, eins og ég hef víst nefnt áður.

Verð eiginlega að viðurkenna að ég hef aldrei almennilega skilið þetta Geirfinnsmál.

Efast um að nokkur lifandi maður hafi í raun og veru skilið það.

Það er kannski af þeim sökum sem það hefur verið eitthvert erfiðasta mál sem við höfum þurft að hofast í augu við á Morgunblaðinu frá því ég kom þangað til starfa.

Það berst enginn við dauðann, hann hefur síðasta orðið.

Sú staðreynd er ekki sízt ástæðan fyrir því, hve illa þetta mál hefur leikið samfélag okkar.

Við á Morgunblaðinu höfum reynt að halda sjó.

Það hefur oft verið erfitt, en tekizt að mínu áliti, hvað sem hver segir

Sem ritstjóra stærsta blaðs þjóðarinnar hefur þetta mál oft valdið mér áhyggjum.

Kvíðinn er fylgifiskur heiðarleikans og það er ekki alltaf heiglum hent að koma honum á framfæri við tortryggið spyrjandi samfélag.

Vinátta okkar og krataþingmannsins Vilmundar Gylfasonar flækir málið enn.

Ég held hann kunni frekar að meta mig sem skáld en ritstjóra! Það hefði á sínum tíma þótt saga til næsta bæjar , að skáldið væri einhvers virði!

En batnandi veröld er bezt að lifa!

Vinátta okkar við Vilmund Gylfason er flókið og viðkvæmt vandamál og tengist vinátta okkar við fjölskyldu Gylfa og Háuhlíð,þar sem hann er tengdasonur Bjarna og Sigríðar; giftur Valgerði.

Vilmundur er svo sannarlega ekki á því að Morgunblaðið sé neinn sérstakur boðberi sannleikans!

Ekki heldur að við séum hin nýja hugsjón rannsóknarblaðamennskunnar í allri sinni dýrð!

Hann heldur einungis að við séum hluti af fúnandi samfélagi þess borgaralega þjóðfélags sem hafnar kalli hins nýja tíma og blómunum sem Halldór Laxnes telur vitnisburð um betri tíð.!

Samt höfum við ekki gert annað en fara gætilega með þau gífurlegu völd sem okkur er sagt að felist í Morgunblaðinu og reyna að hafa í heiðri þá aðgát sem er nauðsynleg í nærveru sálar.

Ýmsir pólitískir andstæðingar okkar hafa kunnað að meta þessa varfærni og þessa kröfu um sakleysi manna, þangað til sök þeirra liggur fyrir.

En slík afstaða eykur ekki pólitískt fylgi nú á tímum; né orðstír dagblaðs í miðjum fjölmiðlahasarnum.

Orðstír er góður, en sannfæring öllu betri.

Ég tala stundum við Vilmund, það eru yfirleitt ágæt samtöl. En við tölum ekki sama tungumál, það finnum við báðir. En ég held við virðum hvor annan í þeim misskilningi sem jaðrar við skilning.

Og þótt Vilmundur hafi yljað mér undir uggum, hefur hann ávallt reynt að bæta fyrir það. Milli okkar er, að ég held, gagnkvæm hlýja.

En honum er ekkert sérstaklega um ritstjórann.

Skáldin skilja aftur á móti hvort annað og Hanna eflir vináttuna.

Tengslin við Háuhlíð eru sterk bönd.

Eins og trén laufgast á vorin, þannig blómstrar veruleikinn í minningunni.

Þegar slysið varð á Þingvöllum og sonur Vilmundar,Benedikt, fórst með afa sínum og ömmu,talaði Vilmundur við mig um grimmd náttúrunnar.

Hann talaði ekki um trú.

Eða guð.

Hann talaði um náttúruöflin.

Við vorum sammála um grimmd náttúrunnar, en létum guð liggja á milli hluta; eða eins og segir í Kristínu Lavranzdóttur, Krossinum:

Gauti hugsaði ekki meira um skapara sinn en hann var neyddur til.

Það er í sársaukanum sem fólk skilur hvert annað.

Og vináttan blomgast.

En það væri synd að segja að samtöl okkar Vilmundar færu fram með þeim hætti sem Kielland lýsir í Garman og Worse:

Síðustu orðin komu í dúnmjúkum rómi eins og þau læddust á kattarfótum.

Ætli við Vilmundur séum ekki jafnfyrirferðarmiklir og raun ber vitni vegna þess að við erum báðir dálítið líkar candidat Delphin í þessari ágætu sögu Kiellands.

Felið þér yður? spurði hún hlæjandi.

Já, - það er að segja, mér geðjast ekki að því, að hver, sem framhjá fer, geti gægst inn til mín. Mér lætur bezt að lifa fyrir niðurdregnum gluggatjöldum.

En ég held ekki að við höfum þurft að hafa áhyggur af því að vera líkir kandidat Delphin að öðru leyti:

Ég er maður alþýðunnar alveg fram í fingurgóma. En ég verð að játa, að þegar þessi kæra alþýða kemur of nálægt mér, þá er eins og mín alþýðlega hrifning kólni.

Það er eitthvað í þessari blöndu af tóbaki, tjöru, fiski og blautum ullarfötum, sem ég get ekki með nokkru móti fellt mig við...

Nei, það held ég ekki.

En Vilmundur minnir mig þó rækilegar á kandídat Johnsen sem flytur stólræðuna ægilegu í þessari sömu sögu.

Og þegar hann kom að þeim stað í ræðunni “er hann skyldi byrja að tala um sannleikann í lífinu, hið mikilsverða atriði, að ryðja lyginni úr sínum eigin hýbýlum”, þá finnst mér Vilmundur lifandi kominn.

Og ennfremur:

“Allur söfnuðurinn fylgdist af áhuga með; nokkrar gamlar konur grétu og snökktu. En kynleg óró tók samtímis að breiðast út frá einum til annars í söfnuðinum.

Hverskonar kynleg ræða var nú þetta?

- Þessar áköfu áskoranir um að vera algjörlega sannur og hreinskilinn, þessi miskunnarlausa fordæmig alls ytra forms og seremonía, allra smámunalegra hversdagssjónarmiða, - þetta var alltof ástríðuþrungið og öfgakennt.

... Hann þekkti það vel, þetta fíngerða net af skýringum til að svæfa samvizkuna, blekkingum til að róa hjartað.

Hann þekkti það úr sinni eigin stétt, - prestastéttinni, - sem framar öllum öðrum átti að lifa í sannleika, hinum harða, skæra sannleika, fyrirlitnir og hataðir af gegnum lognum heimi.

Og sjáið!

Hversu fer svo?

Rólynd, heiðvirð embættisstétt, sem lifir á því að breiða yfir bresti sína og annarra, - fela efann og svæfa, kefja allt lifandi líf hjá einstaklingnum til þess að allt gæti gengið rólega, reglulega og hávaðalaust.

En sannleikurinn var tvíeggjað sverð, skær, skerandi harður eins og kristall.

Þegar sannleikurinn brauzt inn í líf mannsins, þá var það sundurtætandi sárt, eins og þegar kona fæðir barn sitt í heiminn.

Og í stað þessa undu menn dvalalífi í lygi og dauðum ytri formum, - enginn kraftur, enginn sársauki, ekkert sterkt og hreint, - en flóki utan um flóka, endalaust.

Svo mörg eru þau orð og mér finnst ég vera í sporum gamla prófastsins sem leyfði ræðuhöldin í trássi við Martens aðstoðarprest. En að ræðunni lokinni kom Martens askvaðandi inn í skrúðhúsið þar sem prófasturinn sat með reynslu sinni og lét sér ekki bregða.

Hvað skyldi prófasturinn ætla að gera... hvað segir svo herra prófasturinn um þetta, hrópaði Martens með öndina í hálsinum um leið og hann lokaði hurðinni á eftir sér:

Sparre prófastur sat í hægindastólnum í hinu háa, hvelfda skrúðhúsi og las í stóru sálmabókinni sinni.

Við óp aðstoðarprestsins hóf hann upp augu sín með mildri ásökun í svipnum yfir því að vera truflaður og sagði annars hugar:

Hvað?

Hvað eigið þér við?

Nú, prédikunina - hún er alveg regin hneyksli! hrópaði séra Martens ákafur.

Nú, jæja, - ég vil ekki segja að það hafi að öllu leyti verið góð prédikun, - en þegar litið er á það -

En, herra prófastur! greip aðstoðarpresturinn fram í - mér virðist, og það er ekki í fyrsta sinn, - að þér, - kæri séra Martens, eigið dálítið bágt með að sætta yður við vorn nýja samverkamann í Drottni, kandídat Johnsen. Og það er þó einmitt hjá okkur, sem hann ætti að geta vænzt bróðurlegs stuðnings.

Aðstoðarpresturinn leit niður fyrir sig.

Hvílíkur dásemdar maður var þessi prófastur, og hvílíku undravaldi var hann gæddur.

Fyrir augnabliki var hann sjálfur svo handviss í dómi sínum, og ekki stóð hann fyrr frammi fyrir þessu bjarta andliti en allt var breytt.

-

En mér fellur það þungt að verða að segja þetta við yður, kæri Martens, - en það er gert í góðum hug ....

En virðist ekki herra prófastinum, að hann væri alltof ofsafenginn? spurði aðstoðarpresturinn.

Jú, að vísu, - að vísu, svaraði prófasturinn vingjarnlega, - hann var ofsafenginn, eins og allir byrjendur, ef til vill sá ofsafengnasti sem ég hef heyrt. En við vitum að þannig byrja menn svo oft á okkar tímum,

Marthens hlaut ósjálfrátt að minnast fyrstu prédikana sinna, - og það væri ranglæti að krefast fulls andlegs þroska af hinum ungu.

En hann sagði, að við, - prestastéttin, - lifðum öðrum fremur í lygi og dauðum formum.

Ýkjur, - stórkostlegar og hættulegar ýkjur! Í því hafið þér öldungis rétt fyrir yður, kæri séra Martens. - En á hinn bóginn, - hver af okkur vill neita því, að embættisstarf, hversu fagurt og andlegt sem það er, geti þó með tímanum og sífelldri endurtekningu, glatað einhverju af því sem áður snart mest persónulega. Sjáið þér til, - hver vill nú kasta fyrsta steinum?- Jú, það vill æskan, sem ennþá hefur ekki reynt hið seigslítandi starf þess manns, sem er trúr allt til enda. Og í þessu eru fólgnar ýkjur, hættulegar ýkjur!

Ég er að velta því fyrir mér hvort þetta sé ekki sagan um okkur Vilmund.

.

30. júní 1978

Fékk í dag bréf frá Magnúsi Erlendssyni, öðrum helzta forystumanni Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, þar sem hann er að svara þeirri grínaktugu fyrirspurn minni hvort Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að fá 110 prósent atkvæða í bæjarstjórn Seltjarnarness til að bækurnar mínar væru þar í bókasafninu.

Hann tók þetta alvarlega eins og stjórnmálamenn eiga að gera og lét kanna málið. Mér hafði verið sagt að safnið fúlsaði við bókum mínum, en Magnús hafði aðra sögu að segja og sýnir fram á í bréfinu að tortryggni skáldsins sé á misskilningi byggð!

En þetta er sem sagt orðið eins og séra Bjarni sagði að fyndni ætti að vera: alvarleg fyndni!

Magnús kann sitt fag og kallar mig í bréfi sínu “arftaka Tómasar” og þessum arftaka vildi hann “öllum mönnum helzt hampa í bókasafni bæjarins”.

Ennfremur:

“Það er einlæg von mín að þú látir sannfærast að ekki sértu gleymdur hjá okkur sjálfstæðismönnum á Seltjarnarnesi, og þegar okkar nýja bókasafn kemst í gagnið, væntanlega að tveimur árum liðnum, mun ég beita mér fyrir að þar muni þínar bækur skipa veglegan sess meðal beztu skálda þessa lands.”

Svona eiga stjórnmálamenn að vera!!

En svo kemur þessi viðbót í bréfi Magnúsar sem vekur mesta athygli mína og sýnir svart á hvítu hve erfitt er að breyta Morgunblaðinu úr málgagni Sjálfstæðisflokksins í Blað allra landsmanna.

Það verður að gerast hægt og bítandi en við þurfum að halda vel á spöðunum, ekki síður nú en áður, annars gæti orðið upphlaup sem við réðum ekkert við.

Magnús Erlendsson segir:

“En kæri Matthías, talandi um sjálfstæðismenn og Seltjarnarnes, leyfist mér að tala um Morgunblaðið og sömu sjálfstæðismenn? – Satt best að segja finnst mér okkar beggja kæra Morgunblað vera ofurlítið of víðsýnt dagana fyrir Alþingiskosningarnar. Sjáðu til, þá sjaldan ég fletti Þjóðviljanum get ég séð myndir af nafna mínum (Magnúsi ritstjóra) Kjartanssyni og greinar hans um framtíðardraumalandið, en að gefa þessum villuráfandi manni tvær greinar með mynd örfáum dögum fyrir kosningar í “blaðinu okkar” þótti mér á mörkum víðsýninnar – og vart trúi ég að blessaður flokkurinn okkar fái nokkurn tíma 110 prósent atkvæða meðal þjóðarinnar verði framhald á slíkri víðsýni”.

Svo kveður hann mig með 63 prósent kveðju “þ.e. sterkasta prósentuvígi flokksins í landinu”.

Mér finnst þetta merkilegt bréf og athugasemd Magnúsar íhugunarverð enda hef ég haft ánægju af að tala við hann og veit að hann er einarður og segir hug sinn allan, þess vegna verður hann kannski ekki eilífur augnakarl í pólitíkinni, ég veit það ekki.

En við verðum að gæta okkar, ekki síður en aðrir, því við megum ekki gera Morgunblaðið að blaði allra landsmanna án þess það verði einnig “blaðið okkar”.

Þetta einstigi er vandratað en við verðum að sætta bæði sjálfstæðismenn og aðra við sjálfstæði Morgunblaðsins.

Það á í erfiðri samkeppni við sjónvarpsstöðvarnar og verður að sinna skyldum sínum við lýðræðið í landinu og þann frjálsa markað sem það á allt undir.

.

Lok júní 1978

Fékk í dag bréf frá vini mínum, sænska rithöfundinum og þingmanninum Per Olof Sundman.

Hann er að koma til Íslands, það á víst að undirbúa tökur á kvikmynd um bók hans um Sám sem er samin upp úr Hallfreðs Sögu Freysgoða.

Ég veit ekki betur en Per Olof hafi fengið hugmyndina þegar við vorum saman á Þingvöllum á sínum tíma, þá fór hann að lýsa því fyrir mér hvað hann hefði mikið dálæti á Hrafnkels sögu og svo fór hann að tala um að hann ætlaði að skrifa nútímasögu sem ætti rætur í henni.

Og tók að lýsa söguefni sínu með þeim hætti að engu var líkara en það hefði kviknað þarna á staðnum.

Mér fannst við hæfi að hugmyndin að slíkri sögu yrði til á Lögbergi.

.

4. júlí 1978 – ódagsett

Fékk í dag bréf frá Hagalín.

Það er svohljóðandi:

“Elskulegi vinur.

Hérmeð sendi ég þér tvær greinar, sem ég þykist ekki hafa kastað höndum til. Vona ég, að þær birtist fljótlega í blaðinu, og svo sit ég þá hér yfir seinasta bindi ævisögu minnar, sem mér þykir æði erfið viðfangs – og þá á ég eftir rétt að segja áttræð skaparans skepna, að ganga frá útgáfu fyrirlestra minna og einnig skáldsögu átta til níu arka, sem ég hef þrisvar skrifað og þarf að skrifa enn – og þykir mér vel, ef ég mætti kveðja með henni þennan heim og taka til starfa í öðrum.

Ástarkveðjur til þín frá Unni og frá okkur báðum til allrar fjölskyldunnar. Ég ætlast til að greinin um bók þín komi á undan hinni.

Þinn einlægur vinur. Guðm. Gíslason Hagalín.”

Mér hefur ávallt liðið vel í kompaníi Hagalíns.

Hann er einn þeirra sem aldrei hefur fengið þá viðurkenningu sem hann á skilið.

Það er eins og hann sitji ávallt í skugga þess að hafa aldrei fengið lof og prís í útlöndum.

En það er víst helzta vegabréfið að hylli samtíðarinnar á Íslandi!

Framhjá því verður ekki gengið hversu ósanngjarnt sem það er.

Tómas er eiginlega nú í svipuðum sporum.

Þeir eru báðir íslenzkari en allt sem íslenzkt er og hafa auðvitað notið þess að sumu leyti hér heima, en goldið þess að öðru leyti.

Samt er mér til efs það sé til betra ljóðskáld í heiminum en Tómas Guðmundsson .

Og Hagalín er andlegt stórveldi.

Bækur hans eru svo íslenzkar að þær virðast helzt ekkert erindi eiga til útlanda, enda óþýðanlegar eins og Kristrún í Hamravík.

Samt er hún ein af örfáum snilldarverkum í íslenzkri skáldsagnargerð þessarar aldar.

.

27. júlí 1978

Mikill fundur í Sjálfstæðisflokknum í gærkveldi.

Geir Hallgrímsson sagði við mig í morgun, Við eigum að opna allt uppá gátt. Við eigum að knýja menn upp á yfirborðið og þeir sem eru á móti okkur berjast gegn mér þar.

Hann er farinn að sjá að honum hentar opinská umræða en öðrum síður.

Styrkur Alberts Guðmundssonar er persónuleg tengsl.

Styrkur Geirs er opinber átök.

.

Síðdegis 1978:

Ég er hættur að nenna að hripa neitt hjá mér, nema um stjórnmál. Eftir að Geir Hallgrímsson tók við Sjálfstæðisflokknum hefur pólitískur áhugi minn augsýnilega aukizt til muna.

Ég þarf víst að gæta mín.

En samstarfið við Geir er heillandi viðfangsefni, ég sé ekki að það trufli starf mitt á Morgunblaðinu með nokkrum hætti.

En Geir verður síðasti forystumaður Sjálfstæðisflokksins sem ég ætla að hafa svona samstarf við.

Hvernig er hægt að hætta að hugsa um stjórnmál þegar heimskommúnisminn er sá lífsháski sem raun ber vitni? Við verðum að halda vöku okkar meðan hann situr á fleti fyrir. Eftir það getum við snúið okkur að öðrum hugðarefnum.

Og þá verður Morgunblaðið blað allra landsmanna, frjálst eins og fuglinn fljúgandi og æskuhugsjón mín um slíkt blað getur orðið að veruleika.

En þangað til verða samtöl við stjórnmálamenn þungamiðjan í þeim störfum sem ritstjóra Morgunblaðsins hefur verið trúað fyrir. Hjá því verður ekki komizt og þess vegna hripa ég þessi samtöl niður frekar en annað sem á dagana drífur.

Skyldi maður lifa það að kommúnisminn hrynji?

Getur verið að maður þurfi að eyða allri sinni ævi, allri sinni orku í pólitísk slagsmál vegna kalda stríðsins?

Vonandi ekki.

Vonandi kemur að því að pólitískur áhugi minn slokknar vegna betri tíðar og þá verða hagsmunir blaðsins einir í fyrirrúmi.

Og svo ljóðin sem enn eru óort.

Við Styrmir fórum á fund Geirs Hallgrímssonar í Stjórnarráðinu að morgni 14. júlí sl. Við sátum þar til hálf eitt en fórum þá til Sverris Hermannssonar þar sem við borðuðum í Framkvæmdastofnun og röbbuðum svo saman lengi.

Eykon átti að vera með okkur en hann átti að fara á fund í Fjárfestingarfélaginu.

Geir hóf samtalið með því að ræða frjálslega um Morgunblaðið, Sjálfstæðisflokkinn og sjálfan sig.

Sagði að sig langaði til að ræða við okkur um það sem að hefði verið í kosningabaráttunni.

Morgunblaðið hefði verið gagnrýnt á hverfafund fyrir kosningar, og jafnvel eftir þær einnig, þó hefði hann reynt að bera skjöld fyrir blaðið.

Það hefði vakið undrun sína að enginn gagnrýndi Vísi, öll gagnrýnin beindist að Morgunblaðinu einu þó að Vísir hefði í raun og veru verið hlutlaus eða hálfstutt Alþýðuflokkinn fyrir kosningar, jafnvel verið glóðvolgur þremur eða fjórum dögum fyrir kosningar.

Gagnrýnendur reyndu að kalla Morgunblaðið til ábyrgðar fyrir tap Reykjavíkurborgar og úrslit alþingiskosninganna, auk þess sem spjótin beindust að honum sjálfum og gerði hann sér fullkomlega grein fyrir því.

Hann sagði að við, ritstjórar Morgunblaðsins og hann, værum í sama báti hvað vinsældir snerti og einnig hvað sætti gagnrýni meðal sjálfstæðismanna.

Ég minnti hann á að ég hefði haldið því fram fyrir kosningar að við hefðum farið með blaðið á yztu nöf eins og ástandið væri í fjölmiðlaheiminum og ekki hefði mátt ganga feti framar til stuðnings Sjálfstæðisflokknum í þessum kosningum.

Þeir sjálfstæðismenn sem væru sínkt og heilagt að gagnrýna Morgunblaðið fyrir að vera ekki glórulaust málgagn Sjálfstæðisflokkins ættu einhvern tíma að gera sér grein fyrir því að það geta varla verið hagsmunir sjálfstæðisfólks í landinu að blaðið sé eyðilagt með gamaldags aðferðum í pólitík, auk þess sem slíkur áróður bíti ekki eins og áður fyr.

Geir sagði að sér þætti þessi gagnrýni ekki sanngjörn en gott væri að reyna að gera sér einhverja grein fyrir því hvað væri að; hvort við kynnum ekki að reka áróður eða koma upplýsingum til fólks; hvort við værum í fílabeinsturni eða á svo háu plani að almenningur skildi okkur ekki.

Sjálfur sagðist hann vera farinn að efast um sjálfan sig í þessum efnum og vel gæti verið að ritstjórar Morgunblaðsins þyrftu einnig að íhuga þessi atriði.

Hann kvaðst ekki vera sannfærður um þetta en ástæða væri til að ræða það.

Ég sagði að mér fyndist þessi samanburður út í hött því það væri ætlazt til alls annars af Morgunblaðinu en síðdegisblöðum. Morgunblaðið eitt ætti að sýna styrk, ákveðni og pólitískt þrek en síðdegisblöðin ættu að baða sig í frelsinu.

En við bærum ábyrgð, ekki einungis gagnvart Sjálfstæðisflokknum sem helzta afli einstaklingshyggju og borgaralegs lýðræðis, heldur einnig gagnvart orðstír blaðsins sjálfs og framtíð þess. Auk þess ættu lesendur kröfur á heiðarlegu blaði sem mark væri takandi á, en ekki einhverjum snepli sem byði lesendum upp á hvaða áróður sem væri, eins og oft hefði viljað brenna við gegnum tíðina. Við færum ekki með Morgunblaðið niður á annað plan en sæmandi væri. Og svo mætti einnig íhuga hvort úrslitin væru ekki í samræmi við það sem flokkurinn ætti skilið, minnti á þau orð Bjarna Benediktssonar að það væri ekki höfuðatriði hvað Sjálfstæðisflokkurinn fengi af atkvæðum, heldur hvað hann ætti skilið.

Geir sagðist vita að við færum ekki með blaðið niður á annað plan en okkur þætti sæmandi en hitt væri annað mál, hvort ekki mætti skrifa pólitíkina með einhverjum öðrum hætti en gert hefði verið, þannig að fleiri skildu.

Ég gagnrýndi hann fyrir að hann hefði talað um það eftir kosningarnar, bæði í sjónvarpi og Morgunblaðinu, að upplýsingar okkar um efnahags- og kjaramál hefðu ekki komizt til skila, en ég teldi þvert á móti að svo hefði verið.

Upplýsingarnar komust til skila en fólkið vildi ekki hlusta á þær; það horfði í budduna sína og líkaði ekki það sem þar var.

Bætti því við að ég hefði heyrt verulega gagnrýni á hann fyrir þessi ummæli hans og fólk hefði sagt að það væri ekki nóg að við töpuðum kosningunum, heldur þyrftum við endilega að koma aulaorði á almenning í landinu sem ekkert skildi. Það væri hvorki honum né okkur að kenna að andrúmið í þjóðfélaginu hefði verið með þeim hætti að fólkið vildi ekki hlusta viðstöðulaust á erfiðleika í efnahagsmálum.

Geir spurði hvort við værum orðnir of gamlir til að ná til ungs fólks.

Það gæti verið, sögðum við, og ástæða til að yngja upp hópinn. Margt mætti bæta en greining væri erfið og engin ástæða til að breyta breytinganna vegna. Við hefðum einfaldlega átt undir högg að sækja, fólkið hefði haft trú á því að undir forystu Sjálfstæðisflokksins yrði sigrazt á verðbólgunni og það hefði ekki sízt lent á honum sem forsætisráðherra enda þótt hann hefði verið mjög vinsæll borgarstjóri, eins og allir vissu.

Geir sagði það væri rétt að skammt væri milli öldudals og öldutopps í stjórnmálum.

Svo bætti hann við brosandi, Þó ég sé í þessum öldudal núna, þá getur vel verið að ég verði þjóðhetja eftir eitt ár eða svo, maður veit aldrei! En ég ætla ekki að gefast upp, ég hef verið kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins og mun ekki láta það af hendi með þeim hætti sem sumir virðast ætlast til, ég mun ekki gefast upp heldur mun ég berjast fyrir því sem mér hefur verið trúað fyrir ,þótt í móti blási um stund, og falla þá á réttum vettvangi, ef barátta okkar mistekst.

Hann mundi ekki biðja einn eða neinn um að kjósa sig heldur ætlast til þess að menn mætu það sem hann gerði á þann hátt að starf hans fyrir flokkinn aflaði honum þess stuðnings sem hann þyrfti á að halda.

Styrmir gagnrýndi þessi orð og sagði að við lifðum á breyttum tímum; menn þyrftu að afla sér fylgis. Það fengi enginn stuðning sem sæktist ekki eftir honum, hvorki innan flokks né utan.

Geir minnti á þau orð Bjarna Benediktssonar að formennska í Sjálfstæðisflokknum væri miskunnarlaust starf og menn þyrftu að vera vel í stakk búnir til að standast þá atlögu sem alltaf mætti búast við. Sjálfur hefði hann aldrei sótzt eftir neinum vegtyllum innan flokksins.

Og ef fjölskylda sín mætti ráða eða ef hún hefði einhvern atkvæðisrétt um það, hvort hann héldi áfram að vera formaður Sjálfstæðisflokksins eða ekki, þá yrði það áreiðanlega fellt.

Starfið væri yfirþyrmandi, hann hefði ekki haft tækifæri til að tala við alla sem hann vildi og færi þó mikill tími í að tala við fjölda manns. Hann hefði raunverulega aldrei frið og hann væri orðinn seigþreyttur, eins og hann komst að orði. En hann ætlaði ekki í sumarfrí fyrr en stjórnarmyndunarmálin væru komin í höfn en þá ætlaði hann að láta sig hverfa í einn mánuð, eins og hann komst að orði.

Ég sagði, Það er viss tegund af feimni sem háir þér í samskiptum við fólk, að ég held, og sumir misskilja þig fyrir bragðið.

Hann hefði varpað því fram hvort verið gæti að við værum hrokafullir, eða í fílabeinsturni, hvort þetta gæti þá átt við hann?

Hann brosti að þessari óvæntu ósvífni og kvaðst ekki telja sig í neinum fílabeinsturni, hvað þá hrokafullan!

Ég tel mig ekki yfir aðra hafinn, hvað þá að ég hlusti ekki á annað fólk. Ég hlusta á rök og menn hafa tækifæri til að sannfæra mig.

Hann tók þessu vel að venju og veit það hvarflar ekki að okkur að hann sé í neinum fílabeinsturni, hvað þá að hann sé hrokafullur.

En hann er feiminn.

Ég vó í knérunn að gamni mínu því það er dálítið gaman að koma flatt upp á Geir og spurði,hvort hann teldi okkur Styrmi kannski hrokafulla.

Hann arnhvessti á okkur augun og sagði:

Nei.

Enda þótt stundum væru sveiflur í skrifum Morgunblaðsins eins og hann hefði stundum áður bent á, þá teldi hann að við værum í tengslum við þjóðlífið og ekki í neinum fílabeinsturni.

Ég taldi að nú væri kominn tími til að spyrja Geir hvort fólkið hefði ekki skilið hann eða okkur í kosningunum 1974, þegar Sjálfstæðisflokkurinn vann sinn mesta sigur undir forystu hans.

Hann svaraði því játandi.

Ég spurði þá hvers vegna allir hefðu skilið okkur 1974 en ekki nú, það væri auðvitað vegna þess að við hefðum mótbyr núna, en þá hefðum við haft allt með okkur. Meðbyrinn hefði gert okkur trúverðuga. Og enginn hefði gagnrýnt forystu hans né pólitísk skrif Morgunblaðsins. Nú væri mótbyr í bili og við Morgunblaðsmenn værum vanari honum en meðbyr.

Ég myndi forsetakosningarnar, þegar Ásgeir Ásgeirsson var kjörinn.

Þá hefði nánast verið martröð að starfa á Morgunblaðinu; einnig þegar landhelgin var færð út í 12 mílur á vinstristjórnarárunum fyrri og Morgunblaðið var talið gult í því máli, jafnvel hefði okkur einnatt verið brigzlað um landráð og ég myndi vart eftir erfiðari tíma á blaðinu en einmitt þá.

Og það sem nú væri að gerast væru smámunir miðað við slíkt kollrak.

Hann tók undir það að við hefðum oft átt undir högg að sækja og það væri vafalaust rétt hjá mér að við hefðum oft átt í meira basli áður fyr en nú.

Bjarni Benediktsson hefði einnig haft mikinn andbyr um tíma.

Styrmir minntist þess sérstaklega hve mjög hann hefði verið rægður 1967, og þá ekki sízt meðal sjálfstæðismanna.

Geir hélt sig við nútímann og talað um að Albert Guðmundsson væri sér mjög andsnúinn þótt hann hafi selt honum sjálfdæmi í samningunum við Breta, og vorum við allir sammála um það; vorum sammála um að líklega stefndi hann á formannsembættið.

Geir sagðist hafa talað um það við Gunnar Thoroddsen að kosningum til formanns þingflokks yrði frestað, en Gunnar hefði ekki tekið vel í það en sjálfur hefði hann lagt áherzlu á það og hefði Gunnar að lokum fallizt á að fresta kosningum ,en tók því dræmt.

Hann lagði áherzlu á að við reyndum að skilja Gunnar Thoroddsen.

Hann væri á lokaspretti í pólitík, allt væri í óvissu, enginn vissi hvernig stjórn yrði mynduð né hverjir yrðu ráðherrar, ef Sjálfstæðisflokkurinn eignaðist aðild að ríkisstjórn.

Við yrðum að bíða átekta.

Margt fleira bar á góma en einkum horft fram á veginn. Þó einnig horft til baka enda hverjum manni nauðsynlegt að hafa Janusarhöfuð sem þarf á að halda í pólitíska yfirsýn. Samanburður, viðmiðanir eru nauðsynlegar til að draga réttar ályktanir.

Það var ekki sízt fyrir áeggjan Bjarna Benediktssonar sem Geir Hallgrímsson óskaði eftir varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum því hann vildi ekki bregðast Bjarna og því trausti sem hann hafði sýnt honum á sínum tíma; veit að þetta er rétt og upplifi það sjálfur.

Og auðvitað hefur Geir barizt fyrir þeim embættum sem hann hefur tekið að sér innan Sjálfstæðisflokksins, ekki síður en aðrir.

Ef vinir mínir eins og þið teljið að ég eigi nú að hætta, sagði Geir, mundi ég íhuga það. Persónugervingur flokksins þarf að geta haldið honum saman.

Við erum allir sammála um að Geir hefur full tök á því þótt nú blási ekki byrlega.

Ég tel það ekki í kot vísað að styðja Geir.

Hann nær sér á strik. Erfiðleikarnir innan flokksins eru honum skeinuhættastir. Það gera margir tilkalla til krúnunnar; a.m.k. Gunnar og Albert.

En Geir er bezti kosturinn.

Sjálfstæðisstefnan þarf að vera í góðum höndum. Ætli hún sé ekki fjöregg þjóðarinnar á þessum válegu tímum?

Hafa menn ekki verið að kasta þessu fjöreggi á milli sín og er ekki nauðsynlegt að það sé í höndum þessa gamalgróna flokks sem er sprottinn úr sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar?

Alþýðuflokkurinn hefur breytzt og nálgast okkur mjög. Hann hefur alltaf staðið sig í öryggismálum.

Kannski fer hann að boða sjálfstæðisstefnuna einn góðan veðurdag?!

Þá gæti Morgunblaðið stutt hann, ekkert síður en Sjálfstæðisflokkinn!

Ég nefndi þetta.

Geir hrökk við.

Hann má ekki heyra á slíkt minnzt! Þrátt fyrir allt, þrátt fyrir frjálslyndi hans og jafnvægi, þrátt fyrir rökvísi hans og raunsæi getur hann ekki hugsað sér annað en Morgunblaðið sé bakhjarl Sjálfstæðisflokksins.

Hann verður það að sjálfsögðu áfram meðan óvinir sitja á fleti fyrir.

En þegar hættan er liðin hjá vindur Morgunblaðið upp sín eigin segl og siglir inn í frjálsa, óháða blaðamennsku, inn í sinn eigin bláfjallageim, án skuldbindinga við annað en eigin sannfæringu og trúnað við þjóðina sem hefur gert blaðið að sínu málgangi.

Þá verður einungis hugsað um mannúðarstefnu borgaralegs lýðræðis og þá fæ ég kannski að sjá þá drauma rætast sem mig dreymdi ungan ritstjóra á erfiðum tímum, þegar þess var krafizt að Morgunblaðið væri höfuðvígi í baráttunni við heimskommúnismanna svo þjóðin gæti lifað af í friðsamlegri sambúð við sjálfa sig og aðra, án Rússagrýlunnar og Morgunblaðslyginnar, eins og sannleikurinn hefur verið kallaður um okkar daga.

Getur verið að við eigum eftir að lifa slíkar breytingar?

Getur verið að ég eigi eftir að upplifa þetta frelsi ritstjórans?

Getur verið að sá tími komi að óvinurinn sem gerði okkur að vígreifum stríðshetjum verði lagður að velli?

Ef svo færi gæti orðið erfitt að lifa; gæti orðið erfitt að fóta sig í nýrri veröld; gæti verið erfitt að upplifa nýjar hugsjónir á gömlum vígslóðum.

En nauðsynlegt að vera undir það búinn.

.

Ágúst 1978 – ódagssett

Fékk bréf frá Christer Erikson. Hann á að sjá um ljóðaúrval Norðurlanda fyrir Rabén og Sjögren í Stokkhólmi.

Ég sé af lýsingunni að þetta verður fínt úrval.

Hann segist vera byrjaður að þýða ljóð eftir mig og biður um fleiri.

Mér lízt vel á þessa útgáfu og hef áhuga á að vera með í henni fyrst Erikson segist sjálfur ráða, hvaða skáld séu valin til útgáfunnar.

Þetta er augsýnilega ekki ein af þessum málamiðlunarútgáfum þar sem menn verða að taka tillit til þessa eða hins.

Af þeim sökum þykir mér vænt um að ljóð mín skuli koma út á sænsku með þessum hætti.

.

10. október 1978

Ragnar í Smára lætur engan ráðskast með sig.

Þóroddur Guðmundsson fór að mínum ráðum og sendi honum ljóðaþýðingar sínar til útgáfu.

Þóroddur er heldur dapur, Hann hefur sent mér allt þýðingasafnið orðalaust í hausinn aftur, sagði Þóroddur við mig, og það er mesta skipbrot sem ég hef beðið á öllum mínum rithöfundaferli og er þá mikið sagt, því að ég tel að í þessu safni séu þær skástu ljóðaþýðingar sem ég hef gert um dagana.

Nú ætlar hann að bjóða Menningarsjóði þýðingasafnið til útgáfu og biður mig um að gerast meðmælandi hans á þeim vettvangi,

Til hvers er að ríki og sjóðir styrki mann til að þýða ljóð ár eftir ár ef þau fást ekki útgefin, þegar búið er að íslenzka þau? segir Þóroddur.

Og svo sannarlega lagði ég mig fram eins og ég gat.

Ég sé hvað setur.

.

1. desember 1978

Ég hef alltaf haldið að skák væri þjóðaríþrótt Íslendinga og það sem við getum einna helzt státað af, enda eru taflmenn með þekktustu fornminjum íslenzkum, ef ég man rétt.

Ég man að vísu hvað ég var hissa ungur drengur þegar ég las andúð Churchills á skákinni, en hún kemur fram í ævisögu hans.

Ég var mikið fyrir slíkar sögur en las helzt ekki barnabækur

Ég tel Gúllíver, Lísu í Undralandi, Nonna, Sabatíní Víkinginn, Robinson Krúsó eða Síðasta móhíkananna ekki til þeirra. Þetta eru allt saman klassískar bókmenntir fyrir hvern sem er.

Eina barnabókin sem hafði djúpstæð áhrif á mig var Kisubörnin kátu.

Mér rann til rifja hvað kettlingunum var kalt og samúð mín með þeim festist í viðkvæmri barnssálinni. En ég man held ég ekki eftir öðrum barnasögum.

En það var þetta með skákina – og ég sem hélt að hún væri þjóðarstolt Íslendinga!

Svo fæ ég í dag, á sjálfan fullveldisdaginn, bréf frá Kristjáni Albertssyni þar sem hann úthúðar skákinni og anskotast út í Morgunblaðið fyrir skákáhuga þess.

“Ég sé ekki nein útlend blöð haga sér svona og þetta setur mjög provinsíellan blæ á Morgunblaðið. Auk þess er hér um að ræða skaðlega probaganda – fyrir sóun á orku, tíma og fé sem er forkastanleg þegar hún er úr hófi fram.

Skák bætir engu við vit né þroska neins manns nema til þess eins að tefla skák. Aldrei hefur heyrst að neinn mikill taflmaður hafi til neins dugað nema til að tefla. Einn af merkustu mönnum Íslands, Ragnar Jónsson, sagði mér að um tvítugt hafi hann verið farinn að tefla sjö-átta tíma á dag, þangað (til) hann gekk í æfilangt bindindi og ákvað að reyna heldur að verða að manni.

Allt þetta mál verðið þið Styrmir að taka til nýrrar athugunar! Hvernig væri að skrifa magnaða forustugrein og ráðleggja æsku landsins að neyta fremur andlegrar orku til einhvers nytsamlegra? “

Þetta var nú meiri fullveldisrollan, en hver hefur sinn smekk.

Það er augljóst að Kristján vinur minn Albertsson hefur ekki unnið margar skákir um ævina.

Kannski hefur hann einhvern tíma orðið heimaskítsmát, hver veit?

En hann hlýtur þó að vera undir sömu sök seldur og við hin-að tefla við páfann!

.

Desember 1978

Í vikunni fyrir jól, ég man ekki nákvæmlega hvaða dag það var, hitti ég Kristján Eldjárn forseta að máli í skrifstofu hans í Stjórnarráðinu.

Hann hafði kallað á mig á rótarýfundi og beðið mig um að hafa samband við sig.

Hann tók mér vel og við áttum saman gott morgunrabb. Hann hafði reiðzt út af leiðara í Morgunblaðinu um stjórnarmyndun þar sem gagnrýnt var að gamall kommúnisti og góður kunningi minn frá því við vorum á hafréttaráðstefnu í Genf saman, Lúðvík Jósefsson, fengi umboðið þrátt fyrir kalt stríð og áframhaldandi yfirgang heimskommúnismans.

Mér hefur fundizt leiðinlegt að þjarka í þessu og vonandi kemur að því að tímarnir breytist og sögulegar sættir verði milli eldheitra hugsjónamanna á hægri og vinstri væng því það er ómögulegt að skipta lítilli þjóð svona í tvennt til lengdar og mundi ég hlakka til að eiga aðild að því að laga ástandið ef tilefni gefst.

En sem sagt, svona er umhverfi okkar og samfélag enn í dag, því miður.

Ég hef viðurkennt við forsetann að ég hafi sjálfur skrifað leiðarann því hann spurði mig hastarlega að því í símasamtali okkar í milli - og skellti á mig,þegar ég játaði “sökina”!

Má segja með nokkrum sanni, reiðr vas þá Vingþór es hann vaknaði...

Ég ætlaði svo sannarlega ekki að gera neitt á hlut Lúðvíks Jósefssonar enda erum við miklir mátar og hann var alltaf að kenna mér kapítalisma og fyrirtækjastjórnun, þegar við löbbuðum saman um Genf á sínum tíma.

En það var ekkert gaman að fá sér í staupinu með honum því hann drakk bara óáfengt öl.

Við báðum hann einu sinni að kaupa öl fyrir okkur þegar hann skrapp út í búð.

Það var ekki óskað eftir því aftur!

Nei, það er ekki kominn sá tími að gömlu kommúnistarnir geti myndað ríkisstjórn á Íslandi þó að stjórnaraðild alþýðubandalagsmanna sé jafnsjálfsögð og annarra stjórnmálamanna.

Ég hef aldrei fundið á Lúðvík að hann væri mér reiður, síður en svo.

Það fer alltaf vel á með okkur enda er hann þeirrar gerðar.

En forsetinn reiddist og vildi ræða málin, því ég kvartaði yfir þessu við forsætisráðherra og taldi að það væri ekki góð siðvenja í lýðræðisríki að forseti þess hringdi í ritstjóra stærsta blaðsins, neyddi hann til að brjóta trúnað og skýra frá leiðarahöfundi — og skellti síðan á!

Ég sagði Kristjáni í símtalinu að hann væri að tala við ábyrgðarmann blaðsins, en það var honum ekki nóg.

Ég var ekki að spyrja að því, sagði hann, ég var að spyrja hver skrifaði leiðarann.

Fyrst forsetinn spyr, sagði ég, verð ég að segja honum að þú ert að tala við höfund leiðarans.

Þá var samtalinu lokið.

Við rifjuðum þetta upp og Kristján sagði að það sem hefði farið í taugarnar á sér væri setningin um að forseti Íslands hefði látið undan Lúðvík Jósefssyni að fela honum myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta stendur í leiðaranum en það var eitthvað í þessa átt.

Ég sagðist algjörlega koma af fjöllum, ég væri orðinn bláeygur eins og Benedikt Gröndal og kratarnir því mér hefði aldrei dottið í hug að það væri þetta sem hann hefði sett fyrir sig.

Jú, sagði hann, það var þessi setning og ekkert annað.

Ég sagði honum að ég hefði haldið að það hefði verið samanburðurinn við Kekkonen Finnlandsforseta , en hann sagði að hann hefði ekki reiðzt neinu öðru í leiðaranum en fyrrnefndri setningu.

Ég ítrekaði að ég hefði skrifað leiðarann sjálfur og gerðum við málið upp með þeim hætti að það er úr sögunni - og er það vel.

Vonandi verður einhvern tíma sú breyting á veröldinni og okkur Lúðvík að hann geti tekið að sér stjórnarmyndun með velþóknun Morgunblaðsins.

En hræddur er ég um að það verði ekki fyrr en á astralplaninu!

Ég held það sé jafngott milli okkar Kristjáns og áður.

Geir hefur augsýnilega nefnt þetta við hann og mér finnst gott hjá honum að losa sig við þessi vandræði.

Kristján sagðist efast um að hann hefði skellt á mig símanum.

Ég hafði einfaldlega lokið samtalinu, sagði hann.

Ég hafði ekki meira að segja.

Svo brosti hann og bætti við, Ég skellti nú eiginlega ekki á, en ja... svona hálfpartinn.

Ég sagði, Jú, víst skelltirðu á mig.

Hann svaraði, Það má kannski halda því fram!

Ég sagði að mér hefði þótt það mikið mál að forseti skyldi ljúka þannig samtali við mig og ég hefði setið langa stund agndofa og orðlaus með símtólið í hendinni og ekki trúað mínum eigin eyrum.

Ég var farinn að halda, sagði ég, að þetta hefði verið einhver sem var að reyna að herma eftir þér í símann.

Nú vékum við talinu að öðru og ég sagði honum að það stæði sem ég hefði sagt við hann þegar hann kallaði mig á skrifstofu sína á Alþingi, nýkosinn forseti, að forseti Íslands væri einnig forseti Morgunblaðsins.

En um það var hann ekki viss eins og á stóð, að Morgunblaðið styddi forseta í embætti, þótt það hefði stutt Gunnar Thoroddsen í einum leiðara fyrir kosningar.

Kristján var ekki vanur svona slag en hann er áreiðanlega farinn að venjast þessu núna.

Kristján sagðist ekki hugsa sér að gera mann úr gamla kommúnistaflokknum að forsætisráðherra landsins, það væri áreiðanlega ekki á dagskrá og ef það yrði einhvern tíma þá væri langt þangað til.

Kristján sagði það væri rétt að Lúðvík hefði leikið prímadonnu eftir kosningar og þeir alþýðubandalagsmenn þótzt hafa öll ráð í hendi sér, enda leikið á als oddi.

Lúðvík Jósepsson hefur verið mikil prímadonna, sagði hann.

En hann bætti því við að það hefði ekki verið stætt á því að veita honum ekki umboðið til að mynda í ríkisstjórn, eftir kosningar.

Hann hefði því tekið ákvörðun um að gera það og mér skilst á honum að hann líti svo á að nú sé búið að sýna alþýðubandalagsmönnum þann gestus sem nauðsynlegt hafi verið og þar með sé málið afgreitt.

Hann sagði að sigurvegarar kosninganna, kratar og kommar, hefðu ekki getað unnt hvorir öðrum að leiða stjórnarforystuna og það hefði Ólafur Jóhannesson séð og því hefði mátt renna grun í, hvert stefndi.

Sumir teldu Ólaf Jóhannesson djúpvitran mann og það hefði því ekki verið undarlegt þótt hann hefði séð fyrir, hvernig fara mundi.

Forsetinn hefur miklar áhyggjur af ríkisstjórninni og segist vita að hún sé afar veik. Hann efast um að hún lafi og ég tók undir að hún ætti mjög undir högg að sækja.

Þá fór hann að tala um utanþingsstjórn og ég sagði honum það álit mitt að slíkar stjórnir gætu verið nauðsynlegar og átt rétt á sér, eins og sagan sýndi, þótt þær væru ekki beinlínis þingræðislegar, enda hefði Ólafur Thors ekki þolað utanþingsstjórnina, þegar lýðveldið var stofnað. En utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar hefði auðnazt að stemma stigu við verðbólgu.

Það hefðu aðrar stjórnir tæpast gert.

Dr. Kristján spurði mig hver ætti að verða forsætisráðherra, ef utanþingsstjórn yrði mynduð. Ég sagði það yrði að vanda vel til þess og ekki hægt að kalla til samskonar embættismenn og áður hefði verið gert.

Hann spurði þá, Hvaða nöfn hafa menn í huga.

Ég sagðist ekki vita það.

Hann svaraði sjálfum sér og sagði, Eru það ekki menn eins og Jóhannes Nordal, Jónas Haralz og Ólafur Björnsson ?

Þetta væru efnahagssérfræðingar og hefðu langa reynslu í þeim efnum.

En nýjabrum? sagði hann við sjálfan sig, hugsi.

Nefndi svo Jón Sigurðsson ,Þjóðhagstofustjóra , og sagði hann hefði stundum komið til sín að skrafa við sig í skrifstofunni.

Við vorum sammála um að hann væri greindur maður og hefði sérstaklega gott tungutak og kvaðst forsetinn oft dást að því, hve vel hann kæmist að orði.

Mér fannst Kristján vera að hugsa um það sem hann þyrfti ef til vill einhvern tíma að standa andspænis, að mynda utanþingsstjórn, og velta því fyrir sér hverjir kæmu til greina að veita henni forstöðu.

Ef til hans kasta kæmi, að mynda slíka stjórn, var hann augsýnilega að viðra málið við einn auman blaðamann sem á að hafa almennigsálitið í taugakerfinu.

En ég gætti þess að segja sem minnst.

Það leynir sér ekki að forsetinn ber hlýjan hug til Geirs Hallgrímssonar.

En Geir hefur því miður ekki notið sín til fulls, sagði hann, enda hefur hann átt í miklum erfiðleikum í eigin flokki.

Það er erfitt að stjórna, sagði forsetinn, með hníf við bakið.

Ég sagðist telja að Gunnar Thoroddsen hefði að öllum líkindum aldrei verið ánægður eftir forsetakosningarnar.

Nei, ég geri mér grein fyrir því, sagði Kristján Eldjárn, og það hefur komið niður á ykkur og flokknum. En Geir getur ekki notið sín til fulls nema hann fái frið til þess.

Eftir nokkra umhugsun bætti forsetinn við, Það er mikil gæfa fyrir íslenzku þjóðina að slíkur mannkostamaður eins og Geir Hallgrímsson, fullur heilinda og með mikla ábyrgðartilfinningu, skuli vera formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins.

Það er nauðsynlegt að formaður Sjálfstæðisflokksins sé enginn óábyrgur pólitískur hippi, sagði ég með hálfkæringi.

Nei, sagði forsetinn, það hefði víst ekki bætt ástandið í landinu.

Við töluðum svo um ágæti Geirs og vorum sammála um það og einnig að hann hefði átt í erfiðleikum í stjórnarsamstarfinu við Framsóknarflokkinn og ekki komið sterkur út úr því.

Við töluðum eitthvað frekar um stjórnmál og ég sagði dr.Kristjáni að við sjálfstæðismenn gætum ekki hugsað okkur að neinn kæmi nálægt öryggis- og varnarmálum landsins sem við treystum ekki fullkomlega.

Hann sagðist skilja það.

Hann fór að reyna að skilgrein Alþýðubandalagið og ymti m.a. að því að í því væru fleiri en kommúnistar, en tók undir með mér, þegar ég fullyrti að þar væri einnig kommakjarninn í íslenzku þjóðfélagi, enda þótt einhverjir maóistar væru vinstra megin við Alþýðubandalagið.

Kristján sagði það væri nauðsynlegt fyrir mann í sinni stöðu að hlusta á fólk úr öllum áttum og með ólíkar skoðanir.

Forseti Íslands mætti ekki loka sig af og hafna í einhverri lítilli samhljóma klíku.

Hann minntist aftur á Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkinn og sagði að þeir hefðu átt jafnmiklar kröfur á því að mynda ríkisstjórn með tilliti til kosningaúrslitanna.

Ég veit, sagði hann, þessi afstaða mín fer í taugarnar á mörgum sjálfstæðismönnum og verður að hafa það.

Það sem gæti haldið núverandi stjórn saman væri sú staðreynd að í Alþýðuflokknum væru svo margir ungkratar sem vildu sitja á þingi en vissu það jafnframt, enda deginum ljósara, að þeir næðu ekki inn á þing aftur, ef efnt yrði til nýrra kosninga.

Af þeim sökum vildu þeir sitja sem fastast og eins lengi og unnt væri.

Ég er sannfærður um að þessi skilgreining hans er rétt.

Það er engu líkara en hann leggi talsvert uppúr þessari afstöðu ungu kratanna og telji jafnvel að hún geti ráðið einhverjum úrslitum um langlífi ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar.

Snerum okkur enn að öðru.

Dr.Kristján kvaðst vera þakklátur fyrir að Morgunblaðið skyldi hafa reynt að drepa umræðurnar um Félaga Jesúm. Ég sagði það væri ósanngjarnt að dæma forseta eða forsetaembættið eftir því, hvaða bækur sonur hans þýddi á íslenzku og skipti þá engu máli, hvernig slík bók kæmi við sannkristið fólk á Íslandi.

Það leyndi sér ekki, sagði Kristján, að ritstjórar Morgunblaðsins gerðu sér far um að lægja öldurnar fremur en hella olíu á eldinn. Það væri í raun og veru dálítið undarlegt, jafnvel einkennilegt, hvað Þórarni syni hans hefði tekizt að róta upp í fólki með þessari þýðingu, jafnrólegur og raunar hlédrægur maður og hann væri í eðli sínu. En hjá því yrði ekki komizt að hann væri rækilega brennimerktur forsetaembættinu með ættarnafi sínu.

Hann kom til mín á sínum tíma, sagði forsetinn, og bað mig um að lesa handritið að þýðingu sinni, svona eins og sonur leitar til föður.

Það gerði ég en sagði honum þegar ég afhenti honum handritið aftur að hann mætti búast við því að síðasti kafli bókarinnar gæti haft í för með sér ýfingar, jafnvel kallað fram einhver mótmæli.

Önnur afskipti hafði ég ekki af þessari bók.

Kristján sagði að byskup Íslands hefði verið of stóryrtur í afstöðu sinni til bókarinnar og ég sá að honum hafði fallið illa þau orð sem Sigurbjörn byskup (Einarsson) hafði notað um bókina, þýðanda hennar og útgáfufyrirtæki.

En hann hafði fullan skilning á því að slík bók vekti mótmælaöldu og sá ég ekki að honum þætti það á nokkurn máta undarlegt.

En þó fannst mér hann ætti undir niðri erfitt með að una því hvílíku umróti bókin hefði komið af stað og hvernig hún hefði átt þátt í því, að minnsta kosti um stundarsakir, að minnka almennar vinsældir hans sem þjóðhöfðingja.

Þetta var gott samtal og opinskátt.

Í lokin sagði dr. Kristján að við ættum eftir að tala um bækur og menningarmál og skildum við láta það bíða betri tíðar.

Áður en ég kvaddi, sagði hann, að hann hefði megnustu andstyggð á bókaflóðinu sem gengi yfir á jólavertíðinni og tók ég undir það. Við vorum sammála um að ástæða væri til að hafa áhyggjur af því, hvernig magnið kæmi niður á gæðunum.

 

 

 

 

.