Dagbókarlok

1999

fyrsti hluti

 

Nýársdagur 1999

Góður göngutúr í fínu veðri. Dagurinn lofar góðu. Settum greni á leiði foreldra minna. Horfðum á skaupið í Stöð 2. Einnig á Stöð 1 í gærkvöldi. Lofar ekki góðu. Engu líkara en Íslendingar séu orðnir húmorslausir. Textarnir á lágu plani. Enginn andblær frá Bláu stjörnunni. Hvar er snjórinn sem féll í fyrra? Hann er a.m.k. ekki í sjónvarpinu. Og nú er Spaugstofan einnig búin að glata fína strengnum, sem sagt, ekkert eftir - nema sýkópatarnir!

Ólafur Haukur Símonarson virðist nota stuðlasetningu í sínu skaupi - en kann hana ekki að því er virðist.. Hápunkturinn var fótasveppur, fret og kúkur í sundlaugarpotti. Lorturinn var auðvitað beztur, enda hið bezta samtímatákn. Á Stöð 2 var Titanic-slysið aðalskemmtiatriðið. Það er líka við hæfi!

 

2. janúar, laugardagur

Thor Heyerdal segir að við séum komnir frá Azerbadjan. Það kemur mér ekki á óvart. Hefði samt heldur viljað vera kominn frá Armeníu eða Georgíu, kristnum löndum. Snorri hafði sem sagt rétt fyrir sér þegar hann fullyrti að Óðinn og aðrir æsir hefðu komið að austan (azer > æsir; Azerbadjan merkir víst: land guðanna). Þar hafi víkingaarfleifðin í siglingum orðið til. Og þaðan hafi fólkið sem nú er verið að grafa úr gleymdum tíma komið um 1600 f.Kr. Ljóshært fólk, hávaxið og bláeygt. Ættingjar forfeðra okkar, varðveittir sem múmíur í Kína.

Hanna segir stundum að hún hefði viljað vera fornleifafræðingur! Ég á auðvelt með að skilja það.

Í ensku er notað caucasian um hvítt fólk; eða fólk frá Kákasus. Það er nú að sannast.

 

3. janúar, sunnudagur

 

69 ára

Tak vel við þreyttum
gesti þínum

jörð

lát hann njóta
næðis við þau blóm
sem prýða brjóst þitt
sól
og bláu vori,
en lauf og fuglar
fljúga
inní þögn

tak vel á móti
gesti þínum

jörð

leið hann hægt
að hljóðum vötnum
þínum,

vængstórri þögn
og víðernum.

(Uppkast í ævisögu Keats eftir A.Motion).

 

4. janúar, mánudagur

Er heldur illa við afmæli. Fór samt á Kentucky Fried í gærkvöldi með Hönnu, Ingó og Kristjáni H. Ágætt því ég er í megrun. Finn fyrir þindarsliti.

Gjafir bannaðar. Samt komu dætur Halla, Anna 8 ára og Svava 3ja ára, í franska visit í gær og réttu mér pakka.

Ég vil ekki pakka, sagði ég.

Jú, afi minn, sagði Anna. Þú verður að opna hann.

Helzt ekki, sagði ég.

 Jú, sagði hún.

Af hverju? sagði ég.

Af hverju viljið þið gefa mér pakka?

Af því okkur þykir vænt um þig, sagði Anna, en Svava sagði, Hvar er kakan?

Þar með var björninn unninn!

 

8. janúar, föstudagur

Bar Andrés vin minn Björnsson út úr Dómkirkjunni í dag, ásamt Hannesi Péturssyni, Jóni Þórarinssyni, Hirti Pálssyni, Herði Vilhjálmssyni, Markúsi Erni, Gunnari Stefánssyni og Einari Laxness. Mér þótti vænt um að ég skyldi hafa verið beðinn um að bera Andrés, það var mikill heiður. Sr. Gunnar Kristjánsson jarðsöng og fórst það afar vel úr hendi. Hann flutti væmnislausa menningarræðu og ég gat þess við Hönnu að það gæti farið vel á því að hann flytti einnig ræðu yfir mér því að hann hefur skrifað formála fyrir Sálmum á atómöld. Hittum svo margt fólk í erfidrykkjunni í Súlnasal Hótel Sögu, þar á meðal Jóhannes Nordal og Svein Einarsson sem alltaf hefur frá mörgu að segja.

Ég hafði mikla ánægju af að hitta Hannes Pétursson. Það fer alltaf mjög vel á með okkur og skiptir þá engu hvort við höfum hitzt nýlega eða ekki. Ég hef raunar ekki séð hann í einhver ár en hann hefur lítið breytzt. Hann var ósköp ljúfur og góður í tali og eins og hann var beztur á árum áður þegar við hittumst nánast í hverri viku. Mér þótti það tíðindum sæta að hitta Hannes eftir allan þennan tíma. Ég sagði við hann hvort við gætum ekki heitið á okkur að hittast í kaffi einhvern tíma á næstunni. Hann tók því vel en sagðist koma sjaldan í höfuðborgina enda væri hann orðinn svo gamall og óhraustur. Ég sagði við hann, Þú lítur mjög vel út, ég er viss um að þú ert hraustari heldur en ég.

Ha, sagði Hannes og hrökk við. Það getur ekki verið.

 Jú, jú, sagði ég og síðan reyndi ég að sannfæra hann um þetta og hann kom engum vörnum við. Ég tíundaði ónýtan ristil í sjálfum mér, sagði honum frá of háum blóðþrýstingi og nefndi raunar við hann alla þá kvilla sem mér gat dottið í hug þarna á gangstéttinni fyrir utan Dómkirkjuna og Hannes varð yngri með hverjum þeim kvilla sem mig hrjáði og það endaði með því að hann var orðinn hinn hressasti í bragði og líklega mörgum áratugum yngri en þegar hann kom í kirkjuna. Hann hafði sem sagt hitt ofjarl sinn í sjúkdómagreiningum og þótt hann hafi reynt að malda eitthvað í móinn í byrjun gafst hann upp á því og aumingjaskapur minn og heilsuleysi urðu honum áreiðanlega meira umhugsunarefni en elli hans.

Annars erum við báðir ágætlega á okkur komnir, bætti ég við og hann neitaði því ekki.

Þá sagði ég, Nú skulum við fara að eldast afturábak eins og Þórbergur sagði. Ha, Þórbergur, sagði þá Hannes, hann sagði svo margt - og átti þá við að Þórbergur hefði sagt svo marga vitleysu að ekki væri ástæða til að tíunda það. Eigum við þá ekki að hittast einhvern tíma í kaffi, sagði ég.

 Ja, sagði Hannes, ég fer nú eiginlega aldrei í bæinn, nema þá helzt í jarðarfarir en það getur þá verið að einhver útförin verði tilefni til þess!

Svo kvöddumst við þarna við kirkjuna. Þá var hann kominn með konuna upp á arminn. Hún var mjög fín með barðastóran hatt. Ég horfði á eftir þeim og hugsaði með mér hvað það hefði verið gott hljóð í Hannesi og gaman að hitta hann. Þegar við komum í Hótel Sögu sagði ég þeim Sveini og Jóhannesi Nordal frá þessu.

Þá sagði Jóhannes,

Hvenær fór þetta samtal ykkar fram?

Eftir jarðarförina, sagði ég.

Núna rétt áðan? spurði Jóhannes.

Já, sagði ég.

Það hlaut að vera, sagði Jóhannes og brosti því ég hitti Hannes og það lá svo ljómandi vel á honum. Hann hafði gjörsamlega kastað ellibelgnum - eða þú hefur kastað honum fyrir hann!

Þannig fór nú þessi fallega útför Andrésar Björnssonar fram, með höfðinglegri reisn eins og efni stóðu til. Og það var við hæfi að Hannes Pétursson skyldi loksins koma í leitirnar.

 

9. janúar, laugardagur

Athyglisverð grein í Morgunblaðinu á morgun um Sólborgarmálið og þau verk sem um það hafa verið skrifuð, hún er eftir Hávar Sigurjónsson. Hann er nú um stundir áreiðanlegasti leikhúsfræðingur landsins, ásamt Sveini Einarssyni, vel menntaður og agaður við góðan skáldskap.

 

Las upp nokkrar þýðingar mínar á ljóðum Mao Zedung á menningarvöku kínverska félagsins á Íslandi. Því var sjónvarpað en ég hafði litla ánægju af því vegna þess ég mismælti mig tvisvar eða þrisvar í upplestrinum. Svo mætti ég líta betur út á sjónvarpsskerminum!! Sendiherrann tók einnig þátt í þessari vöku, ásamt öðrum upplesurum og tveimur söngkonum sem sungu frábær lög við ljóð formannsins. Sendiherrann gat þess að ég hefði sagt við hann að Mao hefði svo næma tilfinningu fyrir náttúrunni og landinu að ég gæti vel ímyndað mér að hann hefði verið Íslendingur í fyrra lífi. Þá var hlegið.

En hver veit.

Ég hafði ánægju af að taka þátt í þessari menningarhátíð og rifja upp þýðingar sem ég gerði fyrir 30 árum. Þær eru auðvitað af vanefnum gerðar enda illmögulegt að koma kínverskum ljóðum í íslenzkan búning. Ég hugsaði um það eitt að vera efninu trúr og reyna að breyta kínverskum andblæ og kínverskum tilfinningum í ljóðrænan, íslenzkan veruleika. Með því einu móti er unnt að nálgast þessi eftirminnilegu ljóð formannsins.

Líklega hafa þeir lagt áherzlu á að sýna upplestur minn í sjónvarpinu vegna þess að til þess var ekki ætlazt að ritstjóri Morgunblaðsins þýddi formanninn, leiðtoga kínverskra komma í miðju kalda stríðinu. En ég heillaðist af ljóðum hans og gaf skít í pólitíkina enda hefur formaðurinn og pólitísk stefna hans verið marggagnrýnd síðustu ár en ljóðin hafa haldið velli og skipa æ meiri sess í lífi þjóðarinnar. Kínverjar lesa mikið af ljóðum, þeir eiga dýrmæta arfleifð í þeim efnum og hafa haldið tryggð við hana. Skólabörn læra eitt ljóð á dag, m.a. hin nýstárlegu ljóð formannsins sem byggði á gömlum arfi en breytti honum samkvæmt nútímareynslu sinni. Það höfum við einnig reynt að gera en því miður höfum við ekki haldið tryggð við þetta stolt okkar, ljóðlistina, með sama hætti  og kínverjar. Við höfum verið of önnum kafnir í velsældarstreðinu og ljóðið á litla sem enga samleið með innkaupaplastinu. Það gæti þó breytzt, ef syrti í álinn. En ég skil ekki af hverju ljóðlist og velmegun geta ekki farið saman, rétt eins og tónlist og allsnægtir. Kannski er það vegna þess að tónlistinni hefur fylgt veraldlegt snobb sem ljóðlistin hefur ævinlega verið laus við. Þetta snobb á rætur í hirðlífi Vínar og Þýzkalands. Tónlist er samkomulist. En ljóðlist er helzt stunduð í einrúmi. Samt hef ég reynslu fyrir því að fólk nýtur ljóðlistar á samkomum og ég hef oft lesið  fyrir fullu húsi áheyrenda sem óspart hafa látið í ljós þakklæti sitt og ánægju. En í hversdagslegu amstri hverfur ljóðlistin úr lífi okkar. Í Kína vitna þeir sífelldlega í góða ljóðlist og einstaka setningar úr ljóðum Maos blasa einatt við á almannafæri þar í landi. Í slíku samfélagi vildi ég búa, þrátt fyrir allt!

 

Kvöldið

Spaugstofufólki tókst vel upp í kvöld þegar það gerði grín að jólaleikritum sjónvarpsins. Ég reikna með því að árangur grínsins fari meir eftir andlaginu eða því viðfangsefni sem gert er grín að heldur en maður hefur áttað sig á. Skotspónninn verður að vera almennilegur skotspónn til að grínið eða háðið takist. Það verður líklega að eiga rætur í einhvers konar ofnæmi eða fyrirlitningu, gremju, reiði, eða kannski helzt hneykslun. Ef ekkert slíkt er fyrir hendi mislukkast gamanið.

 

11. janúar, mánudagur

Vorum boðin í kvöldverðarboð í kínverska sendiráðinu, ásamt blaðamönnum sem hingað komu frá Stokkhólmi vegna menningarvökunnar, Helga Ágústssyni sendiherra og frú, Sigríði og Sigurði A. Magnússyni, Bryndísi og Magnúsi Finnssyni, Arnþóri Helgasyni og frú og allmörgum öðrum af báðum þjóðernum. Mér skilst hér sé um 100 manna kínversk kommúna, söngkonurnar eru t.a.m. báðar giftar Íslendingum, önnur er organisti í Hafnarfirði.

Þetta var ágætt boð og ekki setið til borðs. Slíkt frelsi er mikill kostur. Wang Ronghua sendiherra flutti ræðu og gat þess að menningarvakan hefði verið sýnd í sjónvarpi í Kína og um hana einnig birtar fréttir og frásagnir í kínverskum dagblöðum, m.a. Dagblaði Alþýðunnar. Hann bætti við um leið og hann nefndi nafn mitt, að mörg hundruð kínverjar hafa verið að lesa um þig og þýðingar þínar á ljóðum Maos eins og hann komst að orði.

Það er naumast!

 

Ódagsett

Hef lesið margar bækur undanfarið:

Óbærilegur léttleiki tilverunnar eftir Milan Kundera er byggð á ótrúlegum tilbrigðum kynlífsóra í trúverðugum, raunsæislegum umbúðum. Þó dettur höfundur einstaka sinnum út úr þessum trúverðugleika. Tómas, aðalpersóna Léttleikans er með konur á heilanum. Hann segist hafa komizt yfir 200 konur á 25 árum, það sé ekki mikið; átta nýjar konur á ári! Samt kynnist hann ástinni í tengslum við tvær konur, Theresu og Sabínu. Ástin er sjaldgæf, en girndin ekki. Tómas er skurðlæknir en lendir í pólitísku vafstri kommúnismans í Prag og hafnar sem gluggaþvottamaður. Þannig minnir hann á gluggapússarann sem við sáum í Tóronto. Ég hef eiginlega meiri áhuga á hinum ástmanni Sabínu, Franz. Lýsingin á ást þeirra Sabínu er athyglisverð. Mér er hún minnisstæðari en bröltið í Tómasi; skil það betur; þekki það betur.

Kundera gengur svo langt í þessu kynsvalli að hann lætur Tómas eiga samfarir við skessu í draumi! Allt er þetta svo pakkað inní pólitísk átök þegar Rússar réðust inní Tékkóslóvakíu 1968 og kommúnistar stjórnuðu landinu með ofbeldi.

Eitt þykir mér skemmtilegt í tengslum við kynórana, það er sú hugmynd að ástin eigi heima í einhverju ljóðrænu minni í heilanum og allt annað sé utan við þetta minni og komi því ekki við. Þetta finnst mér góð hugmynd og held hún sé rétt.

Það hefði stórbætt Léttleikann að stytta söguna til muna, t.a.m. allan kaflann um Gönguna miklu undir lokin, hugleiðingarnar um hægðir og skít …., svo að ekki sé talað um allar bollaleggingarnar um kítsið, en mér er nær að halda að þær séu á misskilningi byggðar því að kíts merkir eftirlíking sem þykist vera ekta en er óekta eins og bæjersku tréskurðarmyndirar sem eru ætlaðar ferðamönnum og seldar sem innlendur listiðnaður, en eru í  raun japönsk framleiðsla eða kínversk, frá Hong Kong. Í sögunni merkir kíts eitthvað allt annað, líklega það sem er skítlega ómerkilegt, þótt það geti verið ekta sem slíkt; t.d. stjórnmálaskoðun eða einhvers konar hugmyndafræði. Ég veit það þó ekki en hitt virðist mér augljóst að sögunni er lokið löngu áður en henni lýkur. Hún hverfur að hugleiðingaáróðri sem kemur efni og persónum harla lítið við. Bætir að minnsta kosti litlu sem engu við söguefnið en samt glitrar á söguþráðinn. Tómas og Franz eignast hvor sína grafskrift en í útför

hins síðarnefnda er ástkonunni úthýst og hlutverkaleysi hennar lýst með átakanlegum og sönnum hætti og á það minnt að jarðarför hins fráskilda Franz sé hið endanlega brúðkaup eiginkonunnar, hvort sem honum eða ástkonunni líkar betur eða ver; þau eru einfaldlega ekki spurð!

Léttleikanum lýkur svo með átakanlegri og fallegri sögu um hund; þ.e. krabbameinsveika tík þeirra Tómasar og Theresu. Hún ætti að standa ein og sér sem löng smásaga. Hún er eftirminnilegri en öll sagan að öðru leyti.

Af hverju? Jú, vegna þess ekki sízt að hún er einskonar dæmisaga; táknsaga. Og tákn eru heilög, segir einhvers staðar í miðri frásögunni af þessu fremur óhrjálega fólki, en Tómas er augljóslega sýkópat og getur ekki tengzt neinum tilfinningaböndum - nema tíkinni……

 

 

Erindi á 100 ára

afmæli Búnaðarþings

Bandarísk sjónvarpsstöð lagði þá spurningu fyrir allmargt fólk hvað hefði haft mest áhrif á þeim 2000 árum sem liðin eru frá fæðingu Krists. Meðal svarenda voru þó nokkrir nóbelshafar og ýmsir helztu hugsuðir Bandaríkjanna. Í svörunum kennir margra grasa og sumt kemur  áreiðanlega á óvart, ekki sízt vegna þess að í daglegu bardúsi okkar hugsum við sjaldnast eða aldrei um það sem þykir sjálfsagður hlutur, eins og sagt er. En það sem flestir stöldruðu við var uppgötvun Gútenbergs og prentlistin.

En þekktur eðlisfræðiprófessor vestra sagði að mesta uppgötvunin væri heyið. Það var ekkert hey í klassískri veröld Grikkja og Rómverja, segir hann. Af þeim sökum gat siðmenning ekki blómstrað nema í heitum löndum þar sem hestarnir gátu verið á beit árið um kring. Það var engin leið að halda hross þar sem voru harðir vetur og án hesta gat ekki myndast borgaraleg menning. En einhvern tíma á svörtustu miðöldum datt ókunnum snillingi það í hug að breyta skógum í tún og akra, hey var slegið og geymt og menningin fluttist norður fyrir Alpafjöll. Í kjölfar þess uxu upp borgir eins og Vín, París, Lundúnir og Berlín og síðar Moskva og New York, segir fræðimaðurinn.

Annar svarenda heldur því fram að hesturinn hafi rutt siðmenningunni braut en verður þó að viðurkenna að þátttaka hans í þessu ferðalagi nái yfir 6000 ár.

Ég nefni þetta hér vegna þess að bæði hey og hross hafa skipt sköpum fyrir þá sem standa að þeim samtökum sem nú eiga 100 ára afmæli, einkum þá. En þetta er einnig vert íhugunar fyrir þá sök, að við eigum til þeirra gena að telja,  svo að talað sé inní helzta umræðuefni samtímans, sem lögðu upp í ævintýrið Ísland fyrir meira en 1000 árum á þeim forsendum að þeir ættu skip til fararinnar, hesta þegar landnám hæfist og kvikfénað til að halda lífinu í ferðalöngum. Án þessara forsenda hefði Ísland ekki verið numið á sínum tíma og engum dottið í hug að hann gæti farið yfir úfið Atlantshaf, numið landið milli fjalls og fjöru og lifað það af án sauðkindarinnar, en upprunaleg merking orðsins sauður er ekki sú neikvæða afstaða sem felst í orðinu nú um stundir, þ.e. skilningssljór maður, heldur uppspretta eða fjársjóður, - og þá e.t.v. uppspretta auðs, og fer vel á því. Þetta orð segir þannig allt um upphaf landnáms og afstöðu okkar nú á dögum.

En við gátum ekki heldur komizt út hingað án norsku skóganna. Þeir voru betri en engir, þegar við létum fjölina fljóta, hugðum hvorki að hættum né háskasamlegri framtíð og reynt var að uppfylla drauminn um nýjan veruleika.

Sagt hefur verið að myndin hafi uppgötvað Ísland vegna öndvegissúlna Ingólfs. En mér er nær að halda að það hafi verið draumurinn sem var aðalhvatinn að þessu tvísýna ferðalagi. Það var þannig byggt á sömu forsendum og tunglferðir og önnur vísindaafrek nú á dögum.

 

Land mitt

á einnig sögu:

Skip

í skipinu niður

fjarlægra skóga.

 

Skip ykkar

hugsun

send út á úfið haf -

 

þjóð mín:

ókunnur skógur

í leit

að nýrri mold.

 

Niður af hafi,

niður af skógi:

þau í vitund okkar.

 

Við erum komin langt að. Okkur hefur ekki sízt miðað á þessari öld. Og nú stöndum við á tímamótum. Höfum ákveðið að skila jörðinni aftur því sem við tókum frá henni á erfiðum tímum. Höfum ákveðið að skila aftur þeim skógi sem við þurftum á að halda í því skyni að draumurinn yrði að veruleika. En ég get vart ímyndað mér að nokkrum Íslendingi detti í hug að þessi tímamót eigi að nota til að breyta landinu okkar í borgríki. Landið allt er sá líkami sem við byggjum á alla tilveru okkar. Og það getur ekki verið hugsjón nokkurs manns að segja við líkamann, Visni hönd þín vegna þess að við þurfum ekki lengur á þér að halda. Við þurfum á öllu landinu að halda og okkur ætti ekki að vera skotaskuld úr því að græða það eins og efni standa til á  sama tíma og við nytjum það með hagkvæmum hætti.

En við munum ekki eiga síðasta orðið hvað sem við segjum eða þráttum um leiðir til frambúðar. Landið okkar er í sköpun og það erum ekki við sem mótum það, heldur er það partur af sívirku sköpunarverki sem við fáum engu ráðið um. Ef land okkar týnist undir hraun, ösku og ís, þá eru það örlög jarðarinnar, en ekki okkar sem veginn varða.

Góðæri er afstæð hugsun, en það er eins svipult og sjávarafli. Okkur hættir til að gleyma því. Okkur hættir til að gleyma svo mörgu, jafnvel því í basláráttu hverdagsins, hvar menningarleg geymd okkar hefur dafnað og þroskazt og hvar mestur fjársjóður okkar, tungumálið sjálft, hefur varðveitzt í gegnum aldirnar. Það hefur varðveitzt þar sem einangrað fólk og fátækt leitaði að verðmætum sem gátu lyft hug og hönd upp fyrir og út fyrir baslið og erfiðleikana, myrkrið og váleg tíðíndi. Án þessarar geymdar værum við hvorki sérstök þjóð, né sjálfstæð. Og þó að ýmsir telji sauðkindina nú til meindýra fer hitt ekki milli mála að án hennar hefði því takmarki sem nú blasir við ekki verið náð, aldrei. En hún hefur fengið sinn skerf af landinu og nú væri ástæða til að skógar og melgresi taki við þar sem vályndir vindar blása upp landið og nauðsynlegt að stinga við fæti.

Sá tími er liðinn sem lýst er með þessum hætti í dýrmætri bók um sveitina og mannlífssögu hennar:

Þeir spurðu frétta af sauðfé hvaðanæva af landinu því allt líf í landinu var eins og þann dag í dag miðað við sauðfé. T.d. þegar talað var um veður þá var þar eitt sjónarmið ráðandi hversu það mætti henta sauðfé. Gott veður var það veður sem var gott fyrir sauðfé. Gott ár var það þegar óx gras handa sauðfé. Fallegt landslag á Íslandi þykir þar sem góð er beit handa sauðfé. Afkoma og sjónarmið manna í lífinu voru ákvörðuð af þessari skepnu.

Þetta var þá og kannski ekki svo mikill munur gerður á fólki og skepnum eins og lýst er í annarri bók, jafn dýrmætri. Bjartur segir presti frá láti konu sinnar en lætur fljóta með áhyggjur af veturgamalli gimbur, Gullbrá: Eða hefur dauða eiginkonu nokkurn tíma verið lýst með öðrum eins hætti:

Það er enginn slorbragur á nótintátunum þeim arna, og átti við hinar japönsku frúr á bollanum, og það veit ég verður tími þángaðtil þær verða svona brosleitar kvensniftirnar á bollapörunum í Sumarhúsum, og þá dettur mér í hug, prestur minn, bætti hann við og þurkaði framanúr sér svitann með erminni, að nú er þokkalegt fargan á mér: konan mín, sem svo átti að heita síðan þú blessaðir okkur saman í vor, hún sálaðist nú á dögum.

Hvernig stendur á því? spurði presturinn tortrygginn. Ekki get ég gert að því.

Nei, mikil ósköp, veit ég það, enda var það heldur ekki soleiðis meint, sagði Bjartur og sýknaði prestinn algerlega í þessu máli, - hún bara dó á eðlilegan hátt, sennilega af blóðláti, og það skil ég vel hvernig hún hefur dáið. En hvað orðið hefur um hana Gullbrá, veturgamla fjörgimbur af þínu kyni, sem stóð í tjóðri hjá mér í túnfætinum í haust, það var í fyrstu leit, ég skildi hana nefnilega eftir hjá konunni minni sálugu henni til skemmtunar, ja, það er nú meira en ég get skilið.

Það veit ég ekkert um, sagði presturinn kalt. Ég er ekki sauðaþjófur. Ég biðst undan allri hlutdeild í þessum málum.

Ég meina þó prestur minn, sagði Bjartur skynsamlega, að það verði að gera einhverjar ráðstafanir, að minnsta kosti viðvíkjandi konunni.

Það fer ekki milli mála að þessir tímar eru liðnir. En Gullbrá heldur velli á sínum stað, hvað sem eiginkonunni líður. Og kvennabaráttunni.

En Bjartur bóndi var barn síns tíma eins og við öll. Og hann leit stórt á þann titil. Ég þekki aðeins eitt dæmi þess að orðið bóndi hafi verið notað í neikvæðri merkingu í menningarumræðu hér á landi. Það var þegar Eiríkur Magnússon í Cambridge réðst á skáldskap Gríms Thomsens og kallar hann bónda í niðurlægingarskyni. Þá var Grímur tekinn við búi á Bessastöðum.

Þegar fjallað er um þetta mikla og langa ferðalag okkar inn í nútímann fer ekki hjá því að staldrað sé við á þeim vegamótum sem mörkuðu upphaf frelsisbaráttunnar á ofanverðri 18. öld og öndverðri þeirri næstu. Þá áttu menn allt undir sól og regni, rétt eins og kvikfénaðurinn. Af því var tekið mið þegar sum fegurstu ættjarðarljóðin voru ort - og að sjálfsögðu með rætur í Búnaðarbálki Eggerts Ólafssonar:

 

...guð hefir margt til matarbóta

mönnum gefið á landi hér;

að stytta tíð og yndis njóta

enn lina starf og mannraunir,

æfandi vit í verkum hans

verkar það traust til gjafarans.

 

Þetta síðasta orð gjafarans, vísar ekki sízt til listaskáldsins sem tók við merkinu og leiddi okkur inn í nýja öld.

Eitt sinn hafði heyið verið gras og það vissi Eggert ekki sízt:

 

...allt var á beztum blóma-stigi,

blikaði gras um rakan völl,

náttdaggar knappa silfri sett,

smaragaðar voru í hvörjum blett.

 

Hann tók við af þeim sem höfðu varðveitt arfinn í myrkri og vetrarhörkum í gegnum tíðina og höfði löngun til þess að vera annað en norpandi gyltur í svölum skuggum krónunnar:

 

Látum oss ei sem gyltur grúfa,

gæta þær aldrei neitt á svig,

akarni við rætur eikar stúfa,

umhyggjulausar fylla sig;

en upp á tréð þær ekki sjá,

akarnið hvaðan kemur frá.

 

Það er þessi afstaða sem hefur leitt okkur inní góðærið. Sumir óttast að velmegunin geti leitt okkur aftur á slóðir gyltunnar sem fyllir sig af græðgi og hugsar ekki um annað. En við eigum of dýrmætan arf til að geta trúað því að hann dugi okkur ekki inn í þá framtíð sem við óskum þjóð okkar og landi til handa. En við þurfum þá að vera vel á verði og varðveita sérstöðu okkar og það sem gerir okkur að sérstakri þjóð sem getur haft samskipti við aðrar þjóðir af fullri reisn. Það verður ekki höfðatalan sem ræður úrslitum um þá vegferð og þá reisn, ekki það ómelta andlega tízkufóður sem nú er markaðnum þóknanlegast, heldur þau mið sem við drögum af reynslu okkar og arfleifð.

Og enginn viðmiðun er betri en Jónas sjálfur sem breytti jafnvel Heine í íslenzkt skáld.

Eggert Ólafsson, þjóðlegur og mikilsýnn, eins og Einar Benediktsson kemst að orði var Jónasi margvísleg fyrirmynd. Það voru ekki sízt áhrif frá honum sem hvöttu skáldið og náttúrufræðinginn til að ferðast um landið, kynna sér þjóðlíf, staðhætti og atvinnulíf til sjávar og sveita, eins og Eggert hafði gert. En Jónas var ekki með hugann við búskaparstrit eða þjóðlífshætti að sama skapi og Eggert. Segullinn var landið sjálft. Hann kynnti sér það bæði sem náttúrufræðingur og svo - ekki síður - sem áhugamaður um historiskt, eða sögulegt landslag eins og við sjáum í kvæðum hans, og þá ekki sízt Gunnarshólma. Þar er skáld hins endurfædda máls á ferð um stórbrotið sögulegt umhverfi þar sem hólminn verður ímynd Íslands, harmljóðið örlög þjóðarinnar fram að því en glæsileiki hetjunnar vísbending um framtíðina. Það var í þetta landslag sem Jónas leitaði þegar hann var með hugann við endurreisn Alþingis - og þá ekki sízt á ferðalaginu um Ísland og Njáluslóðir 1837. Ísland! farsælda - frón er öðrum þræði áróðurskvæði fyrir endurreisn Alþingis á Þingvöllum og hvergi er meira rætt um Alþingi og þingstörf en í Njálu svo hún hefur verið nærtæk fyrirmynd í þjóðfrelsisbaráttunni.

En Búnaðarbálkur og Eggert Ólafsson eru aldrei langt undan. Og að sjálfsögðu hafnar þessi andblær í formála Fjölnis. Og þá ekki sízt þegar talað er um græna dalina, með hlíðarnar kvikar af nautum og sauðum og hrossum... En reykirnir leggja beint í loftið upp af bæjunum, hvað þá er blítt og fallegt í héruðunum, segir í formálanum. Þetta þekkjum við einnig öll. Það er partur af uppeldi okkar, ást okkar og tilfinningum. Við eigum að vernda þennan silfurstreng á hverju sem gengur að öðru leyti.

Þó að Jónas hafi ekki verið mikill búmaður er þessi tilfinning engu að síður rauður þráður í verkum hans - og þá ekki sízt helztu ljóðum hans; jafnvel þegar hann yrkir um Heklu, þá nefnir hann þessa sveitasælu, rétt eins og í 23. erindi Hulduljóða en í Gunnarhólma talar hann um sveitarblóma. Og allt er á sínum stað, fjalldalurinn, hlíðarnar og hjarðirnar; búsældin:

 

þar sem að una hátt í hlíðum

hjarðir á beit með lagði síðum.

 

Andi guðs í náttúruöflunum. Hann hefur skapað náttúruna og stjórnar sköpunarverkinu. Og það ber honum og sköpun hans vitni. Þótt skáldið tali um huldufólk og náttúrvættir á það ekkert skylt við hugmyndir um náttúruna sem einhvers konar guðlegan anda. Jónas ruglar ekki saman guðstrú og þjóðtrú. Huldan er einskonar andlag þeirrar ástar sem skáldið hefur á ættjörð sinni og sköpunarverkinu. En hún er engin náttúruvættur. Hún er hugsjón hans um ættjarðarástina, persónugerð í fjallkonu Eggerts Ólafssonar, nú undir nafni huldunnar.

Hulduljóð Jónasar leiða hugann að skáldsögu Björnstjernes Björnsons, Arne. Þar segir frá pilti sem verður ástfanginn af stúlku sem hann sér úr fjarlægð í skóginum, enda er jökulsá á milli þeirra. Þau kallast á og stúlkan manar hann að koma yfir á sinn bakka og auðvitað fer það svo að þau giftast.

Pilturinn hafði í fyrstu ekki verið viss um hvort stúlkan var af þessum heimi eða öðrum, en það kom í ljós að hún var raunveruleikinn sjálfur af holdi og blóði.

Þegar þau höfðu verið gift nokkra stund fylltist pilturinn óyndi og leitaði burt frá heimilinu, en stúlkan þjáðist og grét.

Pilturinn festi aftur á móti yndi við skóginn og leitaði þar að draumsjón sinni. Þá sá hann allt í einu stúlku sem augljóslega var ekki af þessum heimi, heldur hin eina og sanna hulda. Hjarta hans tók kipp og hann elti hana um skóginn staðráðinn í því að nú skyldi hann ná henni hvað sem það kostaði. Og það fór svo. En þegar gleði hans var hvað mest og hann horfði ástaraugum á draumsjón sína, sagði huldan við hann, “En ég er konan þín(!)”

Hann var sem sagt kvæntur huldunni sinni án þess vita það. En nú var hann ekki lengur í neinum vafa.

Það var Jónas ekki heldur. Í sögu Björnsons er huldan kölluð hulder sem merkir álfkona, en upprunalega náttúruvættur í germönskum málum. Á íslenzku merkir hulda leynd eða hula, einnig huliðsvættur eða álfkona, upphaflega í forngermönsku falin, dulin.

Það er þessi hulda sem Jónas er ástfanginn af öllum stundum, hún býr í landinu sjálfu. Hún er landið, andi þess og leyndardómur. Og hún er í sérstökum tengslum við guðdóminn, ekki endilega sem náttúruvættur, heldur fegurðin sjálf.

Og hin eina, sanna ást.

Í smásögu sem ég skrifaði fyrir margt löngu er fjallað um gamlan bónda sem er tekinn tali fyrir dagblað í borginni. Í stofunni hans voru Íslendinga sögurnar í langri röð, Grettla að sjálfsögðu í skrautbandi enda er hún öðrum þræði sagan um íslenzku þjóðina og misjöfn örlög hennar. Andspænis þessum fjársjóði lætur bóndinn gamli hugann reika um líf sitt og umhverfi og segir svo stundarhátt, Fjallféð þekkist langar leiðir, það er fallegt. Féð sem gengur heima fær allt annan svip en það sem er frjálst á fjöllum og heiðum. Það verður úfið og sællegt. Ég trúi á frelsið. Og hann bætti við, Ef við búum við frelsi, fáum við sama svip og fjallféð. Allir eiga að hafa frelsi.

Eftir nokkra stund bættir hann enn við, Ungur drengur sá ég hvernig nýgræðingurinn kemst til þroska í skjóli af gömlu fauskunum. Þegar fauskana vantaði, krympluðust nýgræðingarnir. Það hefur eik ef af annarri skefur. Ég hef lært margt sem hefur komið að notum þótt ég hafi aldrei verið í skóla. Hef til að mynda lært að láta lítið á mér bera. Kýrnar gagnrýna mig aldrei nema þegar þær eru svangar, þá baula þær.

Sögumaður segist hafa talað við þennan bónda langt fram á kvöld og samtalið verður honum mikið íhugunarefni. Gamall maður hafði einhverju sinni sagt við hann, Milli mín og þín eru  þúsund ár, ég er samtímamaður Egils Skallagrímssonar - og margt hafði breytzt síðan þessi orð voru sögð. En það hefur þó ekki breytzt sem mestu skiptir, draumurinn sem kallar á mikilvægan veruleika. En án arfleifðarinnar, án þess veganestis sem dugað hefur bezt og lengst verður enginn veruleiki - því að dáið er allt án drauma.

 

Nú kveikir sólin vor í blöðum blóma

og ber sitt ljós um dal og klettarið,

og gamla kjarrið grænu laufi skrýðist

og gleymir sér við nýjan þrastaklið.

 

Og heiðblár dagur heldur vestur jökla

með hlýjan blæ og ilm við lyng og grjót

og geislar fara mildum móðurhöndum

um mel og tún og fræ sem skýtur rót.

 

Svo hellir sólin sumarskini björtu

á sund og hlíð og vetrarskugga þvær

af augum þínum, aftur blasir við þér

það Ísland sem í draumi þínum grær.

 

Þar rís úr sæ þinn snæviþakti jökull

með sól í fangi, vorsins skógarhind,

og landið fyllist fuglasöng og angan

og fegurð þess er vatn í djúpri lind.

 

 

20. janúar, miðvikudagur - starfslok

Talaði við Hallgrím Geirsson í morgun, miðvikudaginn 20. janúar, og komum við okkur saman um að ég keypti Mercedes Benz og við fengjum tvo reikninga, Morgunblaðið annan en ég hinn. Honum leizt ágætlega á að ég eignaðist u.þ.b. þriðjung í bílnum, þá væri auðvelt að reikna út afföll og eignarhluta hvors aðila um sig, þegar að því kæmi. Hann sagði að slíkir reikningar væru algengir hjá öðrum fyrirtækjum en Ræsi, en hann hefði talað við Hallgrím frænda sinn, framkvæmdastjóra Ræsis, og mundi hann sjá um slík reikningsskil, enda eru þau fullkomlega lögleg og ekkert við þau að athuga. Við komum okkur einnig saman um að ég fengi í hendur viðurkenningu á eignaraðild minni í bílnum svo að það færi ekki milli mála, þegar upp væri staðið.

Ég var mjög ánægður með þetta samtal okkar Hallgríms og sé enga vankanta á því að panta bílinn á þessum forsendum. Þess ber þó einnig að gæta að ég greiði ekki skatta af eignarhluta mínum í bílnum, heldur einungis af framlagi Árvakurs, eins og ég hef gert fram að þessu. Þegar þessum þætti samtalsins var lokið, spurði ég Hallgrím hvað Halldór Halldórsson, flugstjóri, stjórnarmaður í Árvakri, hefði sagt í samtali þeirra. Hann sagði að hann hefði verið að spyrjast fyrir um stefnumörkun blaðsins, en Hallgrímur lýsti fyrir honum, hvernig því hefði verið háttað og skilst mér að hann hafi ekki gert athugasemd við það. Held samt að honum þyki eðlilegt að eigendur og stjórn fái tækifæri til að fylgjast með slíku. Hallgrímur sagði honum að ritstjórar hefðu ævinlega verið reiðubúnir að skýra stjórnarmönnum frá þeim málum sem um væri spurt og hefðu margir fundir um slík efni verið haldnir, einkum fyrr á árum, um slík efni og ævinlega farið vel á með mönnum, þótt einatt hefðu verið skiptar skoðanir um einstök mál. Aldrei hefði verið nein pressa á ritstjóra og minntist hann þess ekki að svo hefði verið síðustu þrettán árin sem hann hefði þekkt til á blaðinu.

Halldór spurði um ritstjóraskipti á blaðinu og hafði, að mér skilst, mikinn áhuga á því, hver tæki við af mér, 2001. Eitthvað töluðu þeir saman um það og spurði Halldór þá, hvort Hallgrímur hefði heyrt einhver nöfn nefnd. Hann sagðist ekki hafa heyrt neitt annað nafn en það sem verið hefði í fjölmiðlum, þ.e.a.s. nafn Þorsteins Pálssonar. Halldór tók ekki undir það, þótt hann hafi, að mér skilst, áhuga á því að tengsl Morgunblaðs og Sjálfstæðisflokks séu mikil og góð, meiri en nú. Hann sagði að Þorsteini væri ekki treystandi til að koma á Morgunblaðið því að hætta væri á því að hann mundi hefna sín á forystu Sjálfstæðisflokksins, ef hann fengi slíkt vald. Hallgrímur spurði hvort hann hefði heyrt talað um Björn Bjarnason í þessu sambandi, en Halldór kvað nei við og hafði ekki neinn sérstakan áhuga á því, að hann kæmi að blaðinu. Hann féllst á það sem Hallgrímur sagði um tengsl blaðsins við Sjálfstæðisflokk og hvernig þau hefðu verið rofin hin síðari ár. Það hefði verið gott fyrir blaðið, gott fyrir eigendur og gott fyrir alla aðila, blaðið hefði dafnað vel og rækilega eins og raun bæri vitni og því meiri trúnaður sem væri milli fólksins í landinu og blaðsins því meiri útbreiðsla og því meiri auglýsingar og þannig hefðu eigendur meira uppúr sinni eign en ef blaðið væri málgagn Sjálfstæðisflokksins.

Við Hallgrímur töluðum saman dálitla stund um ritstjóraskipti væntanleg, að tæpum tveimur árum liðnum, og heyrði ég á honum að hann hafði miklar áhyggjur af því. Talaði um að sér liði hræðilega þegar hann hugsaði til þess. Hann sagði það sína skoðun að eigendur Morgunblaðsins mundu ekki sætta sig við annað en að ritstjórar blaðsins væru tveir, eins og verið hefði. Það yrðu allt of mikil völd á einni hendi, ef slíkt blað hefði einungis einn ritstjóra. Ég minntist á að ég hefði haft þessa sömu skoðun og sagt Styrmi frá því og þeim félögum okkar og þá ekki sízt vegna Styrmis sjálfs af þeirri einföldu ástæðu að ábyrgðin væri mikil og óráðlegt að kalla tortryggni og ímyndaða gagnrýni yfir einn mann. Hallgrímur var sömu skoðunar og ítrekaði sem sagt að það væri sín tilfinning að stjórnin vildi einnig hafa þann háttinn á. En hitt væri svo annað mál að við hefðum ekki getað bent á neinn mann og þeim hefði ekki dottið neinn sérstakur maður í hug, en hann þyrfti að finna. Ég nefndi þá hugmynd við hann sem við Styrmir höfum talað um að Styrmir hefði aðstoðarritstjóra sér við hlið og væru þá teknir úr hópi þeirra sem við blaðið hafa starfað og staðið sig vel. Hallgrími leizt ekki á hugmyndina um aðstoðarritstjóra. Hann sagði einnig að það væri betra að fá utanaðkomandi mann sem væri sjálfstæður og samvinnuþýður eins og við Styrmir hefðum getað unnið saman, en slíkt jafnvægi væri það sem ákjósanlegast yrði. Hann sagði að gott væri ef skapaðist trúverðugt jafnvægi milli tveggja ritstjóra Morgunblaðsins eins og verið hefði, en ég lagði áherzlu á að slíkur maður þyrfti að vera Styrmi að skapi og hann yrði að geta sætt sig við hann. Hallgrímur tók því vel. Uppúr því sagði ég við Hallgrím og gekk nú fast á hann, Er það ekki rétt hjá mér að þú unir þér vel hér sem framkvæmdastjóri? Jú, sagði hann, mjög vel. Þá spurði ég um það beint út, hvort hann hefði hug á því að verða ritstjóri Morgunblaðsins, því að það væri alls ekki fráleitt að láta sér detta slíkt í hug. Hann bað guð að hjálpa sér  og sagði að sér hefði ekki dottið það í hug og það hefði aldrei verið inná sér. Hann væri ánægður í sínu starfi og teldi sig ekki þeim kostum eða efnum búinn að takast á við ritstjórastarf á blaðinu og skildist mér á honum, að hann væri þeirrar skoðunar að slíkt starf hentaði honum ekki.

Þetta var mjög einlægt samtal og ég er sannfærður um það í hjarta mínu að Hallgrímur sagði mér nákvæmlega eins og hann hefur hugsað og eins og hann lítur á þetta mál. Hann hafði öll tækifæri til að segja mér annað af einlægni og ákveðni, því að hann vissi og fann að ég vildi vita þetta, svo að maður væri ekki öllum stundum að særa hann í samtölum um þessa hluti án þess vita. Það er ekki minnsti vafi í mínum huga, eftir þetta samtal okkar, að Hallgrímur Geirsson ætlar sér ekki að verða ritstjóri Morgunblaðsins, heldur vill hann sitja áfram í sínum stóli eins og hann er. Hann nefndi það að vísu að komið hefði til tals að setja hlutabréf Árvakurs á frjálsan markað og slíkt væri alltaf fyrir hendi, svo að enginn vissi hve lengi hann yrði á sínum stað eða þá aðrir sem standa þar við stjórnvölinn, en eins og nú stæðu sakir og hægt væri að sjá fyrir yrði þetta með þeim hætti, sem við hefðum rætt um.

Ég spurði Hallgrím hvort ég mætti segja Styrmi Gunnarssyni frá því að hann liti svona á stöðu sjálfs sín á blaðinu og gaf hann mér leyfi til þess.

Áður en samtalinu lauk sagði Hallgrímur, að það væri sín skoðun að ef til vill færi bezt á því að nota einhvers konar leiftursókn í sambandi við ráðningu nýs ritstjóra, finna þá mann á stuttum tíma og ráða hann að Morgunblaðinu, meðan ég væri enn ritstjóri þar, þannig að við værum þrír ritstjórar síðasta árið sem ég væri á blaðinu. Þetta kom flatt upp á mig, en ég sagði honum að ekki yrði það mér á móti skapi, ef vel tækist til. En þetta er sem sagt inni í honum og ég held að hann telji að þetta væri bezta lausnin til að koma í veg fyrir kjaftagang og misskilning. Þetta kom mér að sjálfsögðu mjög í opna skjöldu - og þá ekki sízt sú afstaða sem hann segist hafa heyrt, að bezt færi á því að fá utanaðkomandi mann í ritstjórastarfið til þess að finna það jafnvægi sem verið hefði og hann talaði meira um en ég hef tíundað hér. Hann á þó ekki endilega við að það sé sín skoðun, heldur sé það skoðun annarra sem hann hafi talað við og hlustað. Styrmir mundi hafa innanhússmann og uppalning okkar í vasanum, ef ég skildi hann rétt. Og ýmsir hefðu fyrirvara á því.

Ég veit að vísu að það var ekki hugsað um neitt jafnvægi þegar Styrmir var ráðinn ritstjóri á blaðinu, enda voru tímarnir allt aðrir þá en nú, þá réð pólitík miklu meira en verið hefur undanfarið. Tímarnir hafa breytzt. En bæði ég og Styrmir vorum kallaðir í ritstjórastól blaðsins eftir langt starf að blaðamennsku, en við erum líka þeir einu. Sigurður Bjarnason kom að blaðinu sem pólitíkus og starfaði ævinlega við það á þeim forsendum, þótt hann hafi orðið ritstjóri blaðsins sem starfandi leiðarahöfundur og þingmaður, áður en hann komst í hausinn. Styrmir kom einnig að blaðinu sem ungur pólitíkus, hafði verið formaður Heimdallar, en við höfum ráðið mörg morgunblaðsegg á sömu forsendum.

En sem sagt, þá er nauðsynlegt að finna góða lausn á þessu máli sem flestir, ef ekki allir, geta sætt sig við, því að brotthvarf mitt frá blaðinu verður að efla frið þess og treysta grundvöll þess, en sízt af öllu má það verða til þess að hleypa öllu í bál og brand og ýta undir óánægju sem yrði blaðinu stórháskaleg og versta veganesti sem Styrmir Gunnarsson gæti fengið, þegar að því kæmi.

Ég vil svo geta þess að lokum að í miðju samtali sagði Hallgrímur Geirsson að sér hefði ævinlega skilizt á Styrmi að hann gerði ráð fyrir því að hann fengi mann sér við hlið, þegar að því kæmi án þess um það hefði nokkurn tíma verið talað, hver sá maður yrði.

Ég hef alltaf hugsað mér að hætta á Morgunblaðinu með köldu blóði en því nær sem dregur að þessum starfslokum finn ég að þetta er meira tilfinningamál eftir 40 ára ritstjórastarf en ég hef talið. Ég nefndi þetta við Hallgrím og hann sagði, Það er ekkert undarlegt, heldur fullkomlega eðlilegt.

En samt mun ég stefna á þessi starfslok með fullkomnu jafnvægi og því raunsæi sem ég á til.

Ef utanaðkomandi maður yrði kallaður til, mun ég beita mér fyrir því að Styrmir verði ábyrgðarmaður blaðsins. Þannig sóma hefur hann ávallt sýnt mér, þ.e. fulla tillitssemi, og vil ég endurgjalda þann trúnað. Ég hef alltaf fengið að hafa síðasta orðið, ef svo ber undir. Það er kallað að ég hafi 51% vægi!

Að lokum hvarflar hugurinn til fortíðar. Vilhjálmur Finsen var nokkur misseri einn ritstjóri Morgunblaðsins, hann var góður blaðamaður, samt skorti hann ýmislegt, m.a. menntun og þann styrk og öryggi sem hún veitir og blaðið dafnaði ekki nægilega í hans höndum. Þorsteinn Gíslason var menningalegur maður og vel að sér í pólitík, en ritstjórn hans var einhliða, og blaðið styrktist ekki í hans tíð. Því hrakaði. Valtýr var einn ritstjóri um og eftir 1950; m.a. í átökunum um NATO, þá var Jón Kjartansson hættur. En uppúr því tók heilsu Valtýs að hnigna og var hann þó yngri en Styrmir er nú. Þá voru hatursfullir tímar í pólitík og Morgunblaðið fyrirlitið af mörgum.

Að mörgu er sem sagt að hyggja og enn hefur okkur ekki tekizt að láta kólumbusareggið standa á borðinu, hvað sem verður. En undir því er framtíð blaðsins komin, að okkur takist það á næstu misserum.

 

22. janúar, föstudagur

Við Styrmir borðuðum hádegisverð með Geir H. Haarde. Heyri ekki betur en hann sé ákveðinn í að fara í framboð til varaformanns á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Held hann sé nokkuð öruggur um sigur. Styrmir talaði við Davíð Oddsson í morgun. Hann sagði honum að Björn Bjarnason gældi við þá hugmynd að í varaformannskosningunum yrði ekki kosið um væntanlegan eftirmann Davíðs Oddssonar, heldur yrði það látið bíða betri tíma. Þetta er að ég hygg klókt hjá Birni en mér skilst að Davíð hafi ekki tekið afstöðu til þess. En það er augljóst að Sigríður Anna kæmi til greina ef svo yrði. Geir taldi hana ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá Davíð. Hvað mundir þú gera, spurði Styrmir, ef Davíð færi þess á leit við þig að þú færir ekki fram? Geir sagðist mundu hafna því og bjóða sig fram til formennsku. Ég tel það væri rétt afstaða hjá honum fyrst hann hefur á annað borð áhuga á því að taka við flokknum eftir Davíð. En allt á þetta eftir að koma í ljós.

 

24. janúar, sunnudagur

Hækkandi barómeter og stendur nú á breytilegt. Í Morgunblaðinu í morgun er minningargrein um Böðvar Brynjólfsson bónda á Kirkjulæk í Fljótshlíð. Hún er eftir Sváfni Sveinbjarnarson, prest að ég hygg. Þetta virðist hafa verið eftirminnilegur maður og sérstæður, bæði í ytra útliti og að innri gerð. En það stöðvaði mig við þessa grein að Sváfnir vitnar í dálítið ljóð eftir mig sem hann kallar vorljóð en ég hafði gleymt með öllu og kom mér því á óvart:

 

Bringan er vaxin

grasi og villtum blómum

og af öxlinni

vex hálsinn

inn í stórskorið andlit

fjallsins

og bláan himinn.

 

Af lýsingu Sváfnis Sveinbjarnarsonar að dæma virðist þetta ljóð geta átt jafnvel við Böðvar bónda og umhverfi hans. Þannig höfum við frá fyrstu tíð myndhverft umhverfi okkar og þótt við höfum ekki skapað það í eigin mynd eins og guð skapaði okkur að sögn gamallar bókar, þá höfum við umgengizt landið og náttúruna eins og hvern annan þátt í lífi okkar og persónugert það, ef svo ber undir. Það er ekki einungis í skáldskap sem slíkar lýsingar koma fyrir, heldur í öllu tali okkar og hugsun og af því má sjá að við lifum og hugsum í skáldskap og ljóðlist án þess gefa því gaum, stundum án þess vita. Skáldskapur er þannig partur af tilveru okkar, hann er okkur inngróinn og í blóð borinn og svo hversdagslegur í daglegri umgengni okkar við land og fólk að við tökum ekki eftir því: bringa, öxl, háls.

Það er þannig í eðli málsins sjálfs sem við sækjum ekki sízt þessa afstöðu okkar til umhverfisins og hún er jafn sjálfsögð og hver önnur afstaða í daglegum störfum okkar. Það er ekki undarlegt þótt við höfum sérstakan áhuga á því að vernda umhverfi okkar því að það er partur af veruleika okkar og tilfinningum, og með því að vernda náttúruna erum við að vernda viðkvæman þátt í eðli okkar sjálfra. Án þessarar verndar værum við berskjölduð fyrir aðför að okkar eigin lífi, eigin hugsun og þeim rótgrónu tengslum við náttúruna sem er í eðli okkar og litningum.

 

Ég hef einnig verið að hugsa um Helgispjallið í Morgunblaðinu í morgun en þar er minnzt á Apavatnsför Gissurar  og Sturlu Sighvatssonar og samfylgd þeirra eftir þann fund og þá einkum þegar þeir þögðu saman í lyngi og hrauni við Álftavatn. Gissur átti allt eins von á því að Sturla dræpi hann á þeim fundi og þótti óþægileg sú langa þögn sem lýst er í frásögninni af þessu ferðalagi. En Sturla þyrmdi Gissuri. Engin ákvörðun hans var jafn örlagarík, bæði fyrir hann sjálfan og landið. Hún var upphafið að langri vegferð hans sjálfs að eigin banaþúfu og líklega mætti halda því fram að þessi ákvörðun hafi verið upphafið að endalokum þjóðveldisins. Þessi þögn var þannig einn mikilvægasti atburður þjóðarsögunnar og samt var hún engin atburður því að það gerðist ekkert. Þetta var þögn mikilla tíðinda og engin þögn hefur verið eins hávær í allri þjóðarsögunni.

Þögnin sem boðaði Örlygsstaðafund.

 Þögn örlaganna.

 

Þegar ég hugsa um þetta samfélag Sturlu og Gissurar og umhverfið og jarðveginn sem Njála er sprottin úr hvarflar það að mér að enn eigi þessi mikla saga spöl í landi samtímabókmennta, enda eilíft umhugsunarefni og ráðgáta. Draumfarir margvíslegar voru undanfari Örlygsstaðabardaga og að honum loknum skorti ekki á þá blóðugu drauma sem eru eins og vörður á rithöfundarferli Sturlu Þórðarsonar og boða oftar en ekki stórtíðindi í Njálu og öðrum fornum sögum. Í Tröllakirkju Ólafs Gunnarssonar er þessu einnig svo farið því að eiginkonu höfuðpersónunnar, Sigurbjörns Helgasonar arkitekts, dreymir hastarlegan draum fyrir þeirri ógæfu sem yfir vofði og breytir þessari tiltölulega saklausu umhverfislýsingu í Reykjavík um miðja 20.öldina í blóðugan harmleik sem minnir ekki á neitt annað en vígaferli í fornum sögum. Konuna dreymir að heimili þeirra hjóna sé sveipað svartri sorgarslæðu og fer það allt eftir. Eiginmaðurinn, ósköp venjulegur og sakleysislegur góðborgari í Reykjavík, fremur voðaverk á vini sínum vegna viðskipta þeirra og húsabrasks, en áður hafði hann fengið hrottalegt áfall vegna þess að yngsti sonur þeirra hjóna er svívirtur af illmenni. Þannig breytist þessi saklausa bæjarlýsing þegar kveikt er í arfasátunni um miðbik frásagnarinnar. Og allt leiðir þetta að sjálfsögðu til þess að Sigurbjörn kennir guði um að hafa yfirgefið sig og fjölskyldu sína og samt trúir hann ekki á guð! Þetta er líklega algengari villa en maður gæti ímyndað sér. Sjálfur þekki ég slíka afstöðu. ...

 

Ég kannast vel við þá lýsingu á guðlasti Sigurbjarnar sem er þarna í miðri sögu Ólafs Gunnarssonar og mig furðaði raunar á því að svo ungur maður kynni skil á svo erfiðri fléttu og ógnlegu uppgjöri. Munurinn á sjálfum mér og Sigurbirni er einungis sá að hann hélt fast við sínar öfgar og sitt guðlast, en ég beygði sjálfan mig undir það aðhald af dómgreind okkar sem ein getur brotið odd af oflæti og miskunnarlausum kröfum til þeirra máttarvalda sem eru í senn ógn og athvarf. Mér hefur aldrei síðan dottið í hug að reiða hnefann að guðdómnum og veit að það er áhrifaríkara að beygja höfuð en hönd.

 

Þegar ég hugsaði í gær um Sigurbjörn Helgason, Sjafnargötu 1a, Reykjavík, duttu mér í hug þessar línur fyrir hans munn:

 

Það mega ekki neinir vita nokkurn tíma

að nú er lífið töpuð glíma,

engin von og ekki minnsta skíma.

 

Það er margt dapurlegt í lífinu, ógleymanlegt, en ég er ekki haldinn neinni depurð, veit ekki af hverju!

 

Kvöldið

Geir H. Haarde sagði okkur Styrmi frá því hvernig hann hefði verið ráðinn á Morgunblaðið. Mig minnir það hafi verið 1971. Hann hefði sótt um starf á blaðinu þegar hann varð stúdent en ég hefði ekki viljað ráða hann. Þá fór hann til Ameríku og skrifaði mér bréf og óskaði eftir ráðningu. Ég svaraði ekki bréfinu en alllöngu síðar hitti ég Kjartan Gunnarsson á förnum vegi, það var víst á horninu á Ránargötu og Ægisgötu, og við tókum tal saman. Kjartan stóð í bréfasambandi við Geir H. Haarde og hann kom til tals. Þá sagði ég allt í einu við Kjartan, Þegar þú skrifar Geir Haarde næst, segðu honum þá að hann geti komið á Morgunblaðið.

Þannig var Geir H. Haarde ráðinn að blaðinu. Hann man ótrúlega margt frá því hann starfaði á Morgunblaðinu og ég hef gaman af að heyra hann rifja það upp. Ég hef gleymt því flestu sem betur fer. Af hverju skildum við ekki gleyma þessu daglega þrasi jafnóðum? Það er ekkert gaman að enda eins og hver önnur sorptunna sem geymir allt það drasl sem í hana er látið. En um það hef ég víst skrifað smásögu enda ærið tilefni.

 

Í gærkvöldi hringdi Óskar Magnússon til mín og sagði mér lát Magnúsar föður síns, fyrrum borgarlögmanns í Reykjavík. Við Magnús vorum miklir mátar, kynntumst í Háskóla og hélzt sú vinátta. Magnús var sérstæður maður og margvíslegrar gerðar. Hann fór illa með líf sitt á tímabili, skildi við Ragnheiði Ólínu konu sína, en giftist henni aftur í fyrra, þegar veikindi sóttu á hann. Mér skilst hún hafi hjúkrað honum fallega þar til yfir lauk. Óskar hringdi til mín vegna þess að faðir hans hafði beðið hann um að skýra nokkrum vinum sínum frá láti hans, þegar þar að kæmi, en jafnframt óska eftir  því að þeir bæru hann hinzta spölinn, eða héldu undir horn, eins og hann sagði. Þetta snerti mig og kvaðst ég gera það fúslega.

Magnús var ákaflega bókmenntalega sinnaður maður og hygg ég að hann hafi haft mestan áhuga á stjórnmálum og bókmenntum, auk lögfræði að sjálfsögðu. Hann skrifaði stundum snarpa pistla í Morgunblaðið og hafði þá sérstöðu að þeir voru settir í ramma í blaðinu, svo að á þeim bæri, þó að ekki færi mikið fyrir þeim. Þegar hann gaf út gamanmál sín fyrst skrifaði Súsanna Svavarsdóttir um bókina í Morgunblaðið og fór víst háðulegum orðum um hana. Ég man það þó ekki vegna þess ég var víst ekki á landinu. En þegar hann sendi frá sér næstu bók skrifaði hann mér svofellt bréf:

18. nóvember ‘91

Til Matthíasar Johannessens

Matti minn.

Aðeins get ég launað ljóðin þín með léttu spjalli eins og þessu hér. Þú sem gafst mér áfengt gæðavín færð gambra í staðinn, bruggaðan af mér.

Ég er ekkert að ætlast til þess að skrifað sé um svona bók í Morgunblaðið, þótt allir sem senda frá sér bók vilji fá athygli. En ég ætlast til þess að Súsanna Svavarsdóttir (sjá bls. 14) komi hér hvergi nærri.

Kær kveðja,

Magnús Óskarsson.

 

Við Hanna fengum svofellt bréf frá Jennu Jensdóttur en hún hefur ævinlega sýnt mér mikla vináttu og ástúð. Bréfið er svohljóðandi:

Kæru Hanna og Matthías.

Nöturlegur er morgunninn bláhvasst og fárviðrisfréttir  í útvarpinu kl. 6 að morgni.

Sem ég sit hér og hefi lokið við pistil sem þú, kæri Matthías, hefur gert mér kleift að birta í blaði þínu á “ári aldraðra”, er eitthvað svo mikil ró í vitund minni.

Ég byrjaði morguninn á því að lesa “Tveggja bakka veður”. Hvílík vizka sem felst í þessum snilldarljóðum. Hér finnst allur lífsferill mannsins - margbreytileiki í spilverki örlaganna, með ögrandi fegurð náttúrunnar eins og faðm að baki. Stundum snerta ljóðin viðkvæma strengi á þann hátt að jafnvel jöklar eigi verndarvæng til handa vegfaranda í þessu jarðlífi. Undur lífsins í litmerlaðri örskotsstund sýnist mér einkenni ljóðanna.

Ég leitaði fyrirsagnar á pistli mínum. Eftir að mig dreymdi að ég ætti ekki að nota tileinkunina, hætti ég við það og leitaði til D. Stefánssonar (pistill 21.1.) nú (í leyfisleysi í bók minni “Svipur daganna”) (tv.b.v. bls. 157). Ég hefi lengi ætlað að skrifa ykkur og þakka samveru á Bókamessu í okt. Nærvera ykkar og öll samskiptik gerðu mér, flestu öðru fremur, mögulegt að lifa af nístandi sorg þá nýliðna, sem raunar settist að hjá fjölskyldunni í marz á sl. ári og gróf sig æ dýpra unz yfir lauk. Sárin eru þarna, það skeljar aðeins yfir þau í tímans rás. Þið þekkið þetta. Við þekkjum þetta öll. Jólahátíðin var góð. Við vorum öll saman helztu hátíðar- og áramótadaga, elsku synir og fjölskyldur. Það ríkti kærleiksrík samheldni yfir öllu. Að leiðarlokum (nú 80 ára) mun ég ávallt minnast ykkar og þakka af alhug þessa samveru í Gautaborg svo og öll hin gæfusömu kynni við ykkur. Kæra Hanna, mæður ykkar Hreiðars voru vinkonur. Kannski byrjaði þetta allt þar.

Ég kenndi mannkynssögu í 35 ár og hefi síðan ekki losnað frá því að reyna að leita mér þekkingar á ýmsu sem vakti spurningar, en bækurnar gátu ekki svarað. Akbar keisari Hindusta á 16. öld vakti mikla forvitni mína, ekki síst fyrir að vera talinn mesti stjórnvitringur og um leið göfugmenni sem uppi var á þeim tímum. Hann aðhylltist ein allsherjar trúarbrögð og fékk lærða menn frá Vesturlöndum til þess að kenna sonum sínum Faðirvorið og helstu forsendur kristinnar trúar. Mér hefur tekist að fá talsvert af bókum um hann og ævi hans. Háskólasafn (Þjóðarbókhlaðan nú) hefur um áratugi pantað fyrir mig bækur erlendis frá. Einkennilegt hvað við vitum lítið um þennan stórbrotna mann. En nágrannaþjóðir okkar hafa bæði þýtt og skrifað mikið um hann. 1974 varði námsmaður í Lundi doktorsritgerð sína um hann. Þeir á Háskólabókasafninu gátu útvegað mér hana frá Kaupmannahöfn. Í sumar og raunar lengur - og enn hefi ég eytt miklum tíma í að bera saman lífsskoðanir Friedrich Nietzsche og franska trúfræðingsins, málfræðingsins og rithöfundarins Ernest Renan (1823-1892) sem skrifaði 7 bækur um ævi Jesú. Til grundvallar hef ég “Handan góðs og ills” eftir N. í ísl. þýðingu og 1. bók Enan um Jesú. Hún er á norsku (þýdd á n. 1924). Það er annars furðulegt hve Íslendingar (heimspekingar) halda mikið upp á N. og öll skrif hans, en vita lítið um E. Renan, sem var þó helsti andstæðingur N. sem sagði að það yljaði sér að eiga svo verðugan andstæðing. Ritsnilli N. getur ekki fengið mig til að vera sátt við skrif hans. Aftur get ég aðhyllst þær skoðanir Renan að kærleikurinn sé æðri öllu í þessari veröld og í raun byggist allt guðlegt á honum, hver sem trúarhugsunin er.

Kæri Matthías, þegar ég í upphafi fann háleitan fögnuð við lestur ljóða þinna, fann ég, og vissi áður, að ef ljóðin týnast þrýtur einnig leit að himninum og þá verður fátt sem við þráum og njótum vitsmunalega. Bók franska læknisins og rithöfundarins Georges Duhamel (1884-1966) er einmitt ákall til samtímans, “Defense des lettres”. En auðvitað hefi ég bara lesið útdrátt þann er Axel Broe þýddi á dönsku 1939 - “Forsvar for Bogen”. Ég rændi ljósriti af henni 1976 er ég kynnti mér bókmenntir erlendis. Hún er 105 bls. Og varnaðarorð hans gilda ekki síður nú. Hann færir mörg rök fyrir því að hvaða fjölmiðlar sem koma, og hve háþróuð tækni sem vísindin finni upp - ef bókin týnist glatist andleg menning þjóðanna. Hverju spáði ekki Oswald Spengler (1880-1936) í bók sinni “Der Untergang des Abendlandes”? er það ekki að koma fram? Kannski er þetta síðasta, langa, bréfið sem ég skrifa á vegferð minni. Og af því ég veit að ég er að skrifa góðum vinum, sem hafa oftar en ekki fært fjölskyldu okkar gæfu og gleði, hefur bréfið orðið svo langt.

Ég þakka ykkur hjartanlega gæfurík kynni og bið alvaldið mikla að gæta ykkar og fjölskyldu ykkar á nýju ári og ævinlega.

Jenna Jensdóttir.

 

25. janúar, mánudagur

Hitti Helga Bernódusson í gufubaði í gær. Hann var eitt sinn prófarkalesari á Morgunblaðinu, nú starfsmaður Alþingis. Við tölum oft um pólitík og bókmenntir þarna í gufunni. Í gær rifjaði ég upp þegar ég kom við í þinginu á leið úr menntaskólanum heim á Hávallagötu 49. Skólanum var lokið 20 mínútur yfir eitt en þingfundir hófust klukkan hálf tvö. Ég fór venjulega á pallana og hlustaði á umræður, þótti það fróðlegt og skemmtilegt með köflum. Ég sagði honum að deilur milli Gísla Sveinssonar sýslumanns og Péturs Ottesens, hreppsstjóra, um stöðu hreppstjóra gagnvart sýslumönnum hefðu verið einna minnisstæðastar frá þessum tíma, en frumvarp þess efnis lá þá fyrir þinginu. Þeir hnakkrifust, en voru þó samflokksmenn. Ég hélt þeir mundu takast á loft, slíkur var fyrirgangurinn. Þetta var grátbrosleg rimma.

Ég kynntist Pétri Ottesen síðar. Við urðum miklir mátar, þegar ég var orðinn ritstjóri. Hann kom þá stundum á blaðið, átti einkum erindi við mig vegna Sláturfélags Suðurlands sem var stolt hans og yndi. Hann bar hag þess mjög fyrir brjósti. Þeir faðir minn voru gamlir vinir. Pétur hafði sérstakan áhuga á Njálu í íslenzkum skáldskap, þar er m.a. fjallað um rímur. Hann var áhugamaður um rímnakveðskap. Við töluðum oft um rímur og ljóðlist að öðru leyti. Pétur gagnrýndi mig aldrei fyrir atómskáldskap, ég veit ekki hvers vegna. Hann kynntist Jóhannesi, afa mínum, á þingi og bar mikla virðingu fyrir honum. Hann skrifaði um hann minningargrein á 100 ára afmælisdegi hans. Það hefur verið 17. janúar 1966. Mig minnir það hafi verið góð grein. Á þessum árum kom ég einnig oft við hjá Jóhannesi afa mínum sem bjó á efri hæðinni á Ránargötu 20, hjá Elínu dóttur sinni og Bergsveini lækni. Það var þá mitt annað heimili. Ég talaði mikið við Jóhannes afa minn og hann hafði mikil áhrif á mig. En aldrei minntist hann á stjórnmál; aldrei.

Pétur skrifaði ferðapistla í Morgunblaðið, þegar hann fór til Ísrael, en það gerði Páll Ísólfsson einnig, þegar hann fór í langa tónlistarferð um Evrópu. Það voru góðar greinar og mikið lesnar. Báðir voru þeir Pétur og Páll óvenjulegir og eftirminnilegir samferðamenn.

Það var einnig eftirminnilegt þegar Barði Guðmundsson Njálufræðingur sat á forsetastóli Neðri deildar og reifst við Sigfús Sigurhjartarson um það, hvort hann væri drukkinn í forsetastól eða ekki. Þá hélt Barði svo fast um stólarmana að hnúarnir hvítnuðu, en andlitið eins og rautt kertavax. Sigfús var mikill bindindismaður, stóð upp og gagnrýndi forseta fyrir drykkjuskap við fundarstjórn; það væri óþolandi. Barði stóð þá upp í forsetastóli, neitaði sakargiftum og ávítaði þingmanninn fyrir slúður. Sigfús stóð þá aftur upp og hélt hinu sama fram. Barði ávítaði þingmanninn í annað sinn. Þá stóð Sigfús upp í þriðja sinn og endurtók ásakanir sínar fullum hálsi. Enn stóð Barði Guðmundsson upp í forsetastóli og vítti þingmanninn. Þá varð hann að hverfa af fundi samkvæmt þingsköpum, ef ég man rétt. Mér þótti þetta æsispennandi viðureign og skemmti mér vel.

Það var einnig eftirminnilegt þegar haldinn var þingfundur eftir Glitfaxaslysið. Þá var þeirra minnzt sem farizt höfðu með flugvélinni. Aðstoðarflugmaður var Ólafur Jóhannsson, sonur Jóhanns Þ. Jósefssonar, þingmanns og ráðherra. Hann stóð upp og þakkaði fyrir samúðina, en þá stóð Gísli Jónsson, formaður samgöngumálanefndar, einnig upp og talaði um möstur loftskeytastöðvarinnar á Melunum og ástæður þess að þau höfðu ekki verið fjarlægð - og varð til þess að í brýnu sló milli þeirra Jóhanns. Það var eins pínlegt og hugsazt gat. Þingmenn sátu hnipnir undir þessu og hefðu áreiðanlega allir viljað gefa mikið til þess að hverfa.

Gísli Jónsson, bróðir Guðmundar Kambans, var bráðlátur maður og tilfinningasamur. Hann gat verið einsýnn og þarna stökk hann upp á nef sér, að vísu ekki mikið stökk því að hann var lágur maður vexti og digur, eins og Haraldur, sonur hans.

Ég kynntist Gísla síðar og líkaði ágætlega við hann. Hann var góður heim að sækja. Við töluðum um margt, m.a. æskuheimili þeirra Kambans og lýsingar Gísla á því, en þær er að finna í tveimur skáldsögum, sem hann samdi með hliðsjón af reynslu sinni og ævi.

Haraldur, sonur Gísla, var bekkjarbróðir minn í MR. Hann dó langt um aldur fram. Ég hitti hann í Boston þegar við strákarnir vorum þar á ferð sumarið 1954. Hann tók þá vel á móti okkur. Hann keyrði okkur um vændishverfið í Boston til að sýna okkur næturlífið. Það þótti mér einkennilegt uppátæki. Ég hef alltaf verið hræddur við vændiskonur, en þá var minni ástæða til ótta en nú, eftir að alnæmi kom til sögunnar. Ég mundi heldur deyja en fara á hóruhús. Kynlíf án ásta er mér ógeðfellt.

Haustið eftir stúdentspróf 1950 var ég ráðinn þingskrifari. Mér líkaði það heldur vel. Ég skrifaði þingræður ásamt Þorsteini skáldi Valdimarssyni, Baldri Jónssyni, síðar rektor, og Gísla Jónssyni, síðar menntaskólakennara. Þeir voru langt komnir í norrænudeildinni, en ég var þá að hefja þar nám. Leiðir okkar Gísla hafa oft legið saman í lífinu. Hann var í Þjóðhátíðarnefnd 1974. Hann hefur skrifað merka pistla um íslenzkt mál í Morgunblaðið og er að þeim mikill fengur.

Við Þorsteinn Valdimarsson urðum miklir mátar. Ég skrifaði lofsamlegan dóm í fylgiblað Morgunblaðsins, sem Heimdallur gat út, um aðra ljóðabók hans, Hrafnamál. Þorsteinn skrifaði listilega hönd og var frágangur allur af hans hendi með glæsibrag.

Yfirþingskrifari var Helgi Tryggvason en honum til aðstoðar Ólafur, bróðir hans. Þeir kunnu báðir hraðritun. Þeir vildu að við lærðum af þeim hraðritun, en við tókum það ekki í mál. Töldum að þingið setti niður ef farið væri að skrifa hvert orð, sem féll úr pontunni. Ég var sannfærður um að nauðsynlegt væri að endurrita kjarnann úr ræðunum - og þá eins nálægt orðfæri þingmanna og unnt var. Annars væru þær óprenthæfar. Ræðurnar þyldu engan veginn orðrétta endurskrift. Þá glataði þingið allri virðingu sinni, ef í ljós kæmi að þingtíðindi væru ekki annað en blaður og upphrópanir.

Við vönduðum okkur við hreinskrift á þingræðum. Björn Ólafsson, ráðherra, fylgdist mest og bezt með því að ræður hans væru rétt skrifaðar. Hann gerði stundum athugasemdir við endurritin. Ég kynntist honum löngu síðar og skrifaði við hann samtal. Eftir það mat ég hann mikils. Þeir faðir minn voru miklir mátar og stofnuðu ásamt félögum sínum Nafnlausa félagið, sem var undanfari Ferðafélags Íslands. Einhverju sinni flutti Sigurður Guðnason, þá formaður Dagsbrúnar, ræðu í þinginu og mælti fyrir þingsályktunartillögu sinni um heimild til að flytja inn appelsínur, eða ávexti. Ég fagnaði þessari þingsályktunartillögu mjög og vandaði mig við hreinskriftina. Sigurður var hreykinn af þessu máli. Hann kom niður til okkar og las endurskrift af framsöguræðu sinni. Þá heyrði ég hann tauta með sjálfum sér, Nú, nú, þetta var þá svona gott hjá mér, bara ágætt!

Minnisstæðust er mér þó ræða sem Þorsteinn sýslumaður Þorsteinsson, þingmaður Dalamanna, hélt við umræður um bjargráð til að útgerðin gæti hafizt þegar upp úr áramótum. Það hefur líklega verið þegar bátagjaldeyririnn svonefndi var eitt af bjargráðunum, en þá fengu útgerðarmenn, sem einhvers konar styrk eða framlag frá ríkinu, leyfi til að flytja inn bíla og selja þá sjálfir útgerðinni til styrktar. Það var ágætis spillingarkerfi. Þá fékk pabbi Fiat-inn sinn fyrir orð Sverris Júlíussonar, formanns Landssambands íslenzkra útvegsmanna. Við Hanna keyptum svo bílinn síðar af föður mínum og var hann fyrsti bíllinn sem við áttum. Hann var grænn, fjögurra manna, fallegur bíll en stundum rafmagnslaus í kuldum. Það gat komið sér illa því að þá bjuggum við utan við bæinn, í Nökkvavogi 41.

 

En hvað um það.

Umræðurnar um bjargráðin stóðu í Efri deild fram undir morgun. Um nóttina kvaddi Þorsteinn sýslumaður sér hljóðs. Hann skjögraði í pontuna og sagði að nú væri kominn tími til að ræða um helzta vandamál þjóðarinnar, útrýmingu svartbaks! Allir glenntu upp skjáinn. Við þingskrifarar urðum þrumu lostnir. En þá hélt Þorsteinn áfram að ræða um nauðsyn þess að útrýma svartbaknum, svo að æðavarp gæti haldizt í landinu. Forseti hringdi bjöllunni og reyndi að benda þingmanninum á að verið væri að ræða um bátaútveginn. Þorsteinn sinnti því engu, enda var hann vel puntaður og skemmti sér konunglega þarna í pontunni. Hann lauk svo máli sínu með pomp og prakt eftir 20 mínútna ræðu. Þá bað Hannibal Valdimarsson um orðið og sagði m.a., það var kominn tími til að íhaldsþingmaður flytti almennilega ræðu á þinginu. Þetta er langbezta og málefnalegasta ræða íhaldsins á þessu þingi! sagði hann.

Ég skrifaði svo umræðurnar morguninn eftir, en undir hádegi var ég kallaður inn til skrifstofustjóra Alþingis og þess óskað að ég afhenti hreinrit mitt af ræðu Þorsteins sýslumanns. Ég gerði það, að sjálfsögðu. Það var aldrei birt í þingtíðindum.

Helgi Bernódusson sagði mér að Jón kaldi, (þ.e. frá Kaldaðarnesi) Sigurðsson, skrifstofustjóri Alþingis, og Þorsteinn sýslumaður, sem kallaður var Dalakollur, hefðu verið miklir mátar.

Þannig gat eitt og annað dottið út úr þingtíðindum, en reynt var einnig eftir fremsta megni að flikka upp á það sem þar átti að birtast.

Þingmenn gátu leiðrétt handrit eins og þeim sýndist. Það gerðu sumir öðrum fremur eins og gengur. Þegar þingmenn gagnrýndu okkur voru þeir ævinlega  heldur vingjarnlegir og háttvísir og þurftum við aldrei undan þeim að kvarta svo ég muni. Þingskriftir á þessum árum voru hörkuvinna og þótt ég hafi ekki lært hraðritun geri ég ráð fyrir því að þær hafi skerpt athygli mína og einbeitingu og komið sér vel þegar ég hóf störf á Morgunblaðinu. Ég kunni vel að hlusta og upplifa það sem sagt var.

Þorsteinn Dalakollur var mikill bókasafnari. Þegar hann lézt var ort:

 

Fallega Þorsteinn flugið tók,

fór um himin kliður,

Lykla-Pétur lífsins bók

læsti í skyndi niður.

 

Á þessum árum settu margir sérstæðir menn og furðufuglar svip á bæinn. Nú sýnist mér þeir horfnir vel flestir. Mér vefðist áreiðanlega tunga um tönn, ef ég ætti að nefna einn slíkan nú um stundir. Hvað þá bókamann af ástríðu eða bókasafnara eins og maður  kynntist á þessum árum.

 

Kvöldið

Í skáldsögu Milan Kundera, Með hægð, er talað um minnisvarða ljótleikans. Ef ég ætti að skilgreina söguna, segði ég að hún væri sjálf minnisvarði ljótleikans. Hún er vafin inn í gamla markgreifasögu og þannig um hnútana búið að 18. og 20. öldin eiga stefnumót í upphafi hennar og niðurlagi. Sagan er sem sagt pökkuð inn í einhvers konar stefnumót sem á að vera áhrifamikið en bráðnar inní gleymskuna eins og nótt í dag, svo að líkt sé eftir myndhvörfum undir lok sögunnar. Meginkjarni hennar fjallar um fáránlega ráðstefnu skordýrafræðinga og annarra vísindamanna, að mér skilst, en þó einkum um kynsvall sem í mínu ungdæmi hefði verið talið guðlast og erkiklám, enda segir höfundur það sjálfur, þegar hann lýsir atburðarásinni. Þetta klám er í raun og veru hið mesta ógeð og orðbragðið með þeim hætti, að þeir, sem ólu mig upp, hefðu fengið hjartastopp, ef þeir hefðu heyrt annað eins eða lesið. Nokkrir kaflar fjalla um rassgöt og andfýlu, aðrir um sköp og uppáferðir, en allar eru þessar lýsingar afsakaðar með einhvers konar leit að nautn og hamingju og skírskotunum í Epíkúr. …

Engu er líkara en ein helzta sögupersónan í Með hægð hafi fengið ærlegan skammt af viagra í 42. og 46. kap., rétt eins og Tómas í Léttleikanum, nema þá höfundurinn hafi sjálfur verið á viagra, þegar hann skrifaði sögurnar. Sem sagt, á undan sínum tíma, eins og skáld eiga að vera! En miðað við þessar sögur er Elskhugi Lafði Chatterleys e.k. helgisaga.

Saga Kundera skilur eftir tóm og ógeð, minnti mig á þegar ég var látinn hreinsa kamarinn í vegavinnunni á Vatnsskarði. Fjósin voru heilsulindir miðað við hann! Blóð og njálgur og skítalykt sem fylgir þessu guðlega fyrirbrigði, manninum.

En svona er heimurinn orðin hávaðasamur tussusnúður!

Æ, hvers vegna þarf maður annars að kynna sér slíkan skáldskap til að fylgjast með bókmenntum samtímans? Ósköp er það nú ömurlegt hlutskipti í aðra röndina. Mér finnst Friðrik Rafnsson ekki hafa verið öfundsverður af að snara þessum lortum á ylhýra málið. En hann gerir það vel.

Ég held að stefnumót 18. og 20. aldar skýri fátt í þessu verki, en þetta er flétta og stílbrögð sem ég hef séð í fleiri skáldsögum, líklega fyrst í Orlando eftir Woolf sem er vel skrifuð og frumleg saga og harla minnisstæð; fjallar aðallega um eina persónu sem birtist í ólíkum gervum á ýmsum öldum. Þessi stílbrögð notar Laura Esquivel með vissum hætti í fantasíu sinni, Lögmál kærleikans, en þó er þar allt með öðrum brag. Áður en ég kynntist þessum sögum notaði ég þetta tímaleysi bæði í sjónvarpseinþáttungnum Ofelíu og útvarpsleikritinu Sókrates sem ég skrifaði og fullgerði að beiðni Helga Skúlasonar, þegar hann gegndi dagskrárstjórnun í leiklistardeild úvarpsins. Mér hefur alltaf verið hlýtt til þessa verks og held mér hafi tekizt það skikkanlega sem til var ætlazt; að gera tímann það sem hann er, fyrst og síðast; tímalaus þögn í kyrrstæðum hraða eilífrar sköpunar. Þar gegnir maðurinn að vísu litlu hlutverki, en þó einkum því að breytast lítið sem ekkert þótt aldir líði hver af annarri með sama hraða og jörðin snýst kringum sólu, eða ellefu hundruð kílómetrum á mínútu. Það er svipuð vegalengd og til Skotlands. Samt er ógerningur að komast þangað með því að fylgja geimskipinu Jörð - eins og fló á hundi….

 

 

27. janúar, miðvikudagur

Er heldur latur í skammdeginu, samt í mörgu að snúast; var t.a.m. á fjórum fundum eftir hádegi: um markaðssetningu og ímyndaráróður Morgunblaðsins, menningarborgina Reykjavík - 2000, en blaðið hefur verið kjörið menningarblað ársins (með Svanhildi Konráðsdóttur kynningarstjóra, sem las upp með mér í Cambridge og Kantaraborg, á sínum tíma og Maríu Ingvadóttur, fjármálastjóra) og þá áttum við einnig fund með Sólveigu Pétursdóttur sem ætlar í varaformannsframboð á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Telur sig ekki eiga annan kost en taka þá áhættu, þótt hún hafi að vísu ekki ýkja miklar sigurvonir. Í samtali við Davíð Oddsson sl. laugardag hvatti hann hana til að tilkynna framboð sitt sem fyrst. Hún skilur ekki hvers vegna! En Davíð veit auðvitað að yfirlýsing Geirs H. Haarde um sama efni er væntanleg um helgina.

 

 

28. janúar, fimmtudagur

Kristján Karlsson sagði mér frá því þegar við borðuðum saman í dag að Fríða Á. Sigurðardóttir hefði lesið prófarkir fyrir AB af smásagnasafni hans Komið til meginlandsins frá nokkrum úteyjum  sem út kom 1985. Hún minntist sérstaklega á samnefnda sögu sem er síðast í smásagnaheftinu og sagði um hana, Þar breytirðu um og ferð alveg út í ljóðið. Rétt, svaraði Kristján.

Ég benti Kristjáni á að Fríða hefði gefið út Meðan nóttin líður sex árum síðar. Hún er einnig einhvers konar sögulegt prósaljóð og má vera að hún hafi tekið upp þráðinn þar sem Kristján skyldi við hann, ég veit það ekki.

Saga Fríðu er saman sett úr ljóðrænum þáttum sem reynt er að tvinna saman svo úr verði ein samfelld heild. Sama aðferð og þegar teppi er saumað úr bútum í allskyns litum. Sagan er ljóðrænn bútasaumur, samansettur úr tímalausri frásögn og myndbrotum sem eru fremur erfið aflestrar, en það sem eftir stendur er ekki efnið sjálft, heldur þetta ljóðræna veður sem er í frásögninni. En hætt er við því að hún fari fyrir ofan garð og neðan hjá lesendum. Samt er hún engan vegin óljós. En hver bútur eða hvert myndbrot dregur fremur að sér athyglina en það leiði hugann að heildinni og opinberi teppið, ef svo mætti að orði komast.

Stíllinn á sögunni er knappur þótt hann flæði eins og breiðstílað prósaljóð, mikil áherzla lögð á stakkató og einkennileg notkun persónunafna. Hef ekki séð slíka áherzlunotkun áður, hvorki í skáldsögu né annars staðar. Dæmi: Alltaf jafn dramatískt, Nína... Nefnir það ekki, Katrín móðir þeirra... Strauk stundum, Nína, hrukkurnar á enni mömmu... Stakk aldrei af eftir það, Nína... Og losa takið og legg þau frá mér varlega, blöðin.

Það er heldur óþægilegt flökt milli ára eða tímabila í sögunni og getur verkað truflandi. Símskeytastíllinn getur einnig truflað lesturinn, svo og endurtekningar þótt þær séu stundum falleg stílbrigði og auki á tilbreytinguna. En fyrir bragðið verður bútasaumurinn, eða ljóðsagan, allnýstárlegur skáldskapur og leitar óneitanlega á hugann eins og allt sem er öðruvísi og sérstætt. Mér er nær að halda að Fríða hafi fengið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir þessa sögu, en man það þó ekki; allt slíkt gleymist eins og snjórinn sem féll í fyrra - og skiptir ekki máli.

Þegar ég leiði hugann að þessari sögu Fríðu á ég erfitt með að festa hendur á þræðinum, því að engu er líkara en hann leysist upp. Mér dettur þá í hug saga Sinjavskís, Réttur er settur, sem lýtur ekki ósvipuðum lögmálum hvað varðar bútasauminn, en efnið skilar sér fullkomlega í þessum litlu köflum sem kalla hver á annan, en á það finnst mér skorta í Meðan nóttin líður. Þar verða lausir endar sem höfundur hefði mátt festa og fela þar sem því var við komið.

Efnið í Réttur er settur  er að mínu viti miklu hnýsilegra en fjölskyldumál Nínu, sem stundum er nefnd ég og stundum Nína í skáldsögu Fríðu, eða endurminningum þar sem hún situr við dánarbeð Þórdísar móður sinnar og bíður eftir því, að hún berji nestið. Þannig má vera að sagan líði fyrir áhugaleysi mitt á þessu persónubasli sem um er fjallað. Í sögunni er talað um hendur sem breytast í ís. Það er að sumu leyti ágæt lýsing á þessum skáldsögulegu minningabrotum. þótt  ástríðan sem stjórnar þessum höndum sé heit og sannfærandi og þannig sterkasta framlag skáldkonunnar.

 

Kristján Karlsson lét mig fá lokaútgáfu nýs kvæðis sem ég ætla að birta í Lesbók á laugardag. Það er svona:

 

Eins og bókmenntasaga

Þó ég elski þig heitast

kvað dansmærin

dugar það ekki

að ég dansi fyrir þig einan

ég er minna en dansinn

ég er meira en ég er sjálf

 

ég er vindurinn segir vindurinn

er enginn hver-eða-hvar en

á friðlandi módernismans sem ég

fór yfir áður leit ég sömu augum

á ljóð og Mr Mortimer Adler

sjá Heimspekiorðabók Adlers

útg. '95

 

“þegar eitthvað

er ritað

á skáldskaparvísu

duga engin orð

til að framkvæma

ætlun skáldsins

nema þau sem

hann notar”

 

bravó! og spyrjirðu vindinn útúr

svarar hann vitur vindurinn engu

spyrjirðu hann einskis svarar hann

aftur á móti því eina svari sem

honum er gefið, að detta niður: eilífur

draumur mannsins um stöðnun

og alltaf

og jafnframt uppúr þögnum vindsins

nýr póstmódernismi: draumur um endur-

nýjun án enda vindur á ný

 

hinsvegar ef þú elskar mig

heitast segir dansmærin dansa ég

fyrir þig einan hver sem ég er.

Kristján Karlsson

 

 

Ég sagði Kristjáni að kvæðið fjallaði um prédikarann og lífið. Skírskotunin í vindinn er augljós, allt er eftirsókn eftir vindi - nema lífið sjálft. Það er persónugert í dansmeynni sem er tákngervingur þess og þá skiptir engu þótt þrasað sé um módernisma eða póstmódernisma, eða eitthvað annað. Meðan þessu þrasi öllu fer fram standa orð skáldsins eins og það hefur notað þau í kvæðinu, því að önnur notkun skiptir ekki máli, þótt hver og einn geti að sjálfsögðu túlkað orðin eins og hann vill. En skáldið hefur ávallt síðasta orðið, hvað sem öðru líður. Á meðan umræður standa yfir um aukaatriði förum við á fjörurnar við lífið sjálft og dönsum við það í gervi dansmeyjarinnar einhvers staðar fjarri öllum ismum, en þá verðum við líka að elska lífið í gervi stúlkunnar heitar en það okkur.

….Kristján minnti á það sem Ragnar í Smára sagði - og ég mundi vel eftir þeim orðum því að Ragnar sagði þau einnig við mig í einu af mörgum samtölum okkar, Það er eins og að súpa af koppnum sínum að lesa Guðberg! Mig minnir Ragnar hafi verið að tala um söguna af samlyndum hjónum. Kristján sagði að Guðmundur Daníelsson minntist einnig á þessa setningu í ritum sínum, en ég hef ekki nennt að gá að því.

Þetta þarf líklega ekki að vera neikvæð umsögn því að ég held að einhver forsætisráðherra Indverja hafi á sínum tíma hresst sig rækilega  með því að drekka úr koppnum sínum hvern morgun! Man ekki hvað hann hét. En hann var ekki forsætisráðherra Kongressflokksins. Mér er nær að halda að hvorki Nerú né frú Gandhi hafi byrjað daginn með þessari vítamínssprautu.

Eftir að Guðbergur hrósaði Guðmundi Daníelssyni í samtali mátti aldrei orðinu halla um hann í samtölum okkar, svo mjög mat Guðmundur aðdáun Guðbergs. Guðmundur hafði tilhneigingu til að miða verk sín við afrek Kiljans og þótti ekkert verra að Guðbergur hefði tilhneigingu til að ónotast út í hann. Kiljan hefur legið eins og mara á íslenzkum skáldsagnahöfundum mestan part þessarar aldar.

 

30. janúar, laugardagur

Þegar ég fór heim af vaktinni í gærkvöldi sá ég að Agnes Bragadóttir, sem gegndi fréttastjórn, var orðin þegjandi hás af hálsbólgu. Ég hafði áhyggjur af því, en hún sagðist mundu hrista hálsbólguna af sér, enda væri hún hraust og hin mesta valkyrja. Ég fór því heim, áhyggjulaus.

Í morgun var hún mætt til vinnu og röddin skánandi. Þegar ég spurði hana frétta sagði hún mér þessa skemmtilegu sögu:

Þegar hún var að mestu búin með vaktina í gærkvöldi fékk hún Jóhannes Tómasson til að fylgjast með síðasta teyminginn, svo hún gæti farið heim að hvíla sig. Þá var henni bent á að samstarfsmenn hennar væru í Kringlukránni að borða þorramat, þ.e. strákarnir á ritstjórninni. En í þá veizlu hafa konur aldrei mátt koma, rétt eins og tíðkaðist í Rotary í gamla daga. Henni þótti samt þjóðráð að birtast allt í einu í miðju átinu, en þeir hrópuðu, Út, út, þegar þeir sáu hana. En hún gekk til Freysteins Jóhannssonar og hvíslaði í eyra hans, Þetta er alveg í lagi, ég er algjörlega raddlaus! Freysteinn lét þessi tíðindi út ganga, en þá stóð Árni Jörgensen upp og hrópaði, Guð er til!

Af þessum viðbrögðum Árna jókst mjög hróður hans, enda efaðist enginn lengur um tilvist forsjónarinnar!

 

 

2. febrúar, þriðjudagur

Útför Magnúsar Óskarssonar, lögfræðings, var gerð frá Dómkirkjunni í dag. Bar hann úr kirkju ásamt Sverri Hermannssyni, Birni Bjarnasyni, Árna Sigfússyni og fleiri líkmönnum. Sr. Þórir Stephensen flutti ágæta ræðu; sanna. Ég sagði það líka við hann eftir athöfnina. Pétur vinur minn Jónasson lék einleik á gítar, Rómanza, spánskt þjóðlag og Kristinn Sigmundsson söng  Íslandslag, við ljóð Gríms Thomsens. Áhrifamikið, enda er Kristinn bezti söngvari okkar nú um stundir, hvað sem Kristjáni Jóhannssyni líður.

Ég hef tvisvar verið líkmaður á stuttum tíma og ef þessu fer fram sem horfir enda ég líklega í símaskránni sem Matthías Johannessen, líkmaður. Það væri eftir öðru! En Magnús hafði sjálfur raðað vinum sínum kringum kistuna og ekki ástæða til að skerast úr leik.

Ég orti tvö smáljóð, aldrei þessu vant, hið fyrra að mestu í kirkjunni en hið síðara, þegar ég kom heim. Þau eru svona:

 

Andspænis dauðanum erum við

einungis maurar í þúfu

og skiljum ekki að vor guð

sé endurfæddur í dúfu.

 

Blómin í krönsunum anga enn

sem ilmur af liðnum degi,

engin sorg en örfá tár

og aðeins dálítill tregi.

 

Vor kveðja dropi sem deyr við lyng

og dáið blóm í regni.

Við lifum samt áfram líkt og þeir

sem lifa af fremsta megni.

 

 

 

Og:

 

Óvissa

 

dreki sem býður okkar

í myrkviði

 

eygjum eldinn

úr fnæsandi nösum,

 

rotnunarlykt við naktar

rætur

 

enginn himinn né lauf.

 

Horfum um öxl,

skimumst um

 

ljónshjartað slær

eins og hérapúls,

 

Fáfnir nálgast

 

skuggi við heimkynni

dauðans.

 

Hvar

spyrjum við inní logana,

 

hófadynur

 

og blikandi sverð

í hendi

 

Sigurðar.

 

 

Kvöldið

Sáum sænska sjónvarpsmynd um víkingana, harla merkilega. Þeir fóru á skipum sínum austur og vestur og um allar trissur. Sænskir víkingar fóru einkum austur til Rússlands og Miklagarðs, en norskir til Íslands og Vesturheims. Orðin væringjar og víkingar eru til í rússnesku, en talið er að rússi sé komið af sögninni að róa og eigi við ræðarana sem fóru á víkingaskipum eftir stórfljótum Rússlands. Þeir stofnuðu höfuðborg í Novogord, en þó einkum Kiev eða Kænugarði, og áttu einnig mikil viðskipti, bæði í Miklagarði og Smólensk og raunar víðar. Þeir stofnuðu Garðaríki og töluðu um Miklagarð. Ég fór að velta því fyrir mér hvort Garðarshólmi sem heiti á Íslandi væri ekki til komið með svipuðum hætti, þótt fornar heimildir reyndu að búa það til að landið hafi verið nefnt eftir sænskum víkingi, Garðari Svavarssyni. Ætli þetta nafni hafi ekki upphaflega verið Garðahólmi og tilkomið eins og Garðaríki. Í íslenzkri orðsifjabók segir að garður merki hlaðinn vegg eða girðing; umgirt svæði; eða bær, hús; í gotnesku gards hús, bær, fjölskylda, ætt. Í fornslavnesku merkti gradú kastali, borg, garður, samanber górod sem merkir borg eða kastali og þá væntanlega virki en indógermanska frumorðið merkti að umlykja eða grípa um. Síðan segir: “Nafnliðurinn garð- kemur einnig fyrir í mannanöfnum eins og Garðar og Þorgarðr (sjá garð-) og sérnöfnum eins og Garðar, Garðaríki sem tekur líkl. mið af merkingu frússn. orðsins Grady “borgir”... því má svo bæta við að sögnin að gerða merkir að girða eða verja. Eiginnafnið Gerður var gyðjuheiti og var hún kona Freys. Orðið er skylt garður og merkir í öndverðu annað hvort verndargyðja hins girta akurs eða verndarvætt  almennt,” segir í orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar.

Allt ber þetta að sama brunni, að í öndverðu og skömmu fyrir landnám hafi verið litið á Ísland sem einhvers konar virki eða umlukt verndarsvæði og garðahólmi hafi breytzt í persónuna Garðar Svavarsson, sem er að öllum líkindum vaxið inní heimildir úr gömlum þjóðsögum.

 

5. febrúar, föstudagur

Vorum boðin í afmæli Friðriks Rafnssonar í gærkvöldi, hann er fertugur. Drengur góður og fordómalaus. Ég hef gaman af að senda honum kvæði til birtingar í Tímarit Máls og menningar. Halldór Guðmundsson, forstjóri Máls og menningar, sagði mér í samtali okkar í afmælinu að sér þætti vænt um að ég yrkti í tímaritið. Hann sagðist skilja að ég hefði farið til Vöku-Helgafells, en boð sitt stæði þess efnis að hann vildi gefa út bækurnar mínar, ef til kæmi. Hann sagðist hafa ráðfært sig um það og annað við Jakob Benediktsson og Jakob hefði verið því mjög hlynntur.

Ég kynntist Jakobi vel, þegar ég var í háskóla og vann m.a. undir handleiðslu hans og Ásgeirs Blöndals Magnússonar að ritgerð minni um Kristrúnu í Hamravík, en aðalkennarinn var Halldór Halldórsson, prófessor. Allt mætir menn og góðviljaðir. Halldór einn á lífi.

Við Jakob urðum miklir mátar.

Ég sagði Halldóri Guðmundssyni frá því þegar við Hanna vorum eitt sinn í boði í Norræna húsinu til heiðurs Halldísi, ekkju Tarje Vesaas. Það var skemmtilegt boð. Hún var merkileg kona og alúðleg við kynningu. Ég var beðinn um að lesa ljóð, en vildi það helzt ekki, var feiminn. En hana langaði að heyra lesin íslenzk ljóð og þá kom Thor Vilhjálmsson til mín og hvatti mig. Ég sagðist ekki geta lesið í samkvæmi slíkra gáfumenna! Enginn tók það alvarlega og ég las Veröld mín. Eftir lesturinn kom Jakob til mín með opinn faðminn og kyssti mig. Það eru einhver beztu kvæðalaun sem ég hef fengið.

Halldór sagði að Jakob hefði ævinlega talað fallega um mig, ég trúi því vel. Við vorum miklir mátar.

Útför hans fór fram í síðustu viku, án prests. Hann var gamall marxisti og guðleysingi. En ég held hann hafi lifað betur eftir kærleiksboðskap Krists en margur kristinn maður sem ég hef kynnzt.

Mörður Árnason og Halldór Guðmundsson voru meðal ræðumanna og hylltu afmælisbarnið. Þeir töluðu ágætlega. Þeir létu að því liggja að Milan Kundera væri ekki til, heldur skrifaði Friðrik undir þessu dulnefni! Það var gott hjá þeim. En ég sagði við Halldór á eftir, Þetta datt mér einnig í hug, þegar ég fór að lesa Kundera, en svo þegar ég sá hvað hann er helvíti klúr var augljóst að Friðrik var ekki höfundurinn. En þá fór ég líka að vorkenna Friðrik að þurfa að þýða öll þessi klúryrði á íslenzka tungu. Það þótti Halldóri gott og hló, sagði, Þetta er auðvitað alveg rétt hjá þér.

Ég á erfitt með að skilja hvað Friðrik er hrifinn af Kundera, svo ólíkir sem þeir eru. En hann kynntist honum víst ungur, þegar hann var við nám í Frakklandi. Ég vissi það ekki fyrr en í gærkvöldi að Friðrik hefði þýtt leikrit Kundera um Didero sem sýnt var í Tjarnarbíói á sínum tíma. Ég heillaðist af þeirri sýningu, enda er verkið framúrskarandi gott og leikur stúdentanna ógleymanlegur. Þar voru fremstir í flokki Helgi Björnsson og Arnór Benónýsson. En sem sagt, Friðrik þýddi verkið og þá að sjálfsögðu jafn ágætlega og hann hefur þýtt önnur verk Kundera síðar.

Halldór sagði frá því að líklega væri þetta rétt með dulnefnið því að það hefði komið í ljós að Kundera væri fæddur 1. apríl!

Mér þótti gott það sem Mörður Árnason sagði, að Friðrik Rafnsson hefði verið ráðinn að tímaritinu vegna þess, hversu hann væri góður í badminton!

Hitti margt fólk í boðinu og tók mér ágætlega. Ástráður Eysteinsson var þar ásamt Kristínu Jónsdóttur, sem er forstöðumaður Endurmenntunar í Háskólanum. Þau báðu mig um að halda námskeið næsta vetur á vegum Endurmenntunar og þá annaðhvort um rómantísku skáldin eða Jónas einan. Hún ætlar að hafa samband við mig í sumar því ég tók þessu ekki  fjarri.

 

Hef tekið mér frí frá lestri íslenzkra skáldsagna. Það er eiginlega dálítill léttir. Sáum kvikmyndina um Elísabetu I um daginn, athyglisverð.

Hef verið að lesa Feginn mun ég fylgja þér eftir Gore Vidal, skemmtilega skáldsögu um Ríkharð ljónshjarta. Þar er mikið um trúbadúra og skáldskap en jafnframt makalausasta orrustulýsing sem ég hef nokkru sinni lesið í bókmenntum. Það er með ólíkindum hvernig lokaorrustunni milli Ríkharðs og Jóhanns bróður hans er lýst, en hún á að hafa farið fram við Nottingham eða einhvers staðar nálægt Skírisskógi þar sem Hrói höttur hafðist við á sínum tíma; ekki ýkja langt frá Redford þar sem ég vann á ökrunum hjá Mr. Pitt sumarið 1949 og fram til loka septembers. Það var góður reynslutími. Ég hef notað hann í skáldskap.

Orrustulýsing Vidals minnir ekki á neitt annað en vígsenurnar í meistaraverkum Kurasawa.

Björgvin B. Kemp hefur þýtt sögu Vidals og gert það með miklum ágætum. Þetta er einhver liprasta og fimlegasta þýðing sem ég hef lesið um langt skeið. Hann fær pre og samt er hann líklega óþekktur með öllu!

 

Síðdegis

Fengum í dag bréf frá Davíð Oddssyni. Þar kemst hann m.a. svo að orði:

“Ég tel fulla ástæðu til að hrósa Morgunblaðinu fyrir hve vel það stóð að fréttum frá Mexíkó síðustu daga. Allt var það með myndarbrag.

Með kærum kveðjum, Davíð.”

 

Ágætt. En samt skrýtið hvernig svona fréttir geta glatt hann. Líklega skildi maður það betur ef maður væri í pólitík.

 

Kvöldið

Skrapp niður í Kolaport. Heiðskírt og svalt, ég held frostið sé um átta gráður. Fór með Hönnu og Brynhildi, tengdadóttur okkar og börnum þeirra Haralds, Kristjáni, Önnu og Svövu, en gekk heim. Dálítil hálka en marrið í snjónum í takt við stemninguna að öðru leyti. Kom við í Kristskirkju á heimleið, þakkaði og bað. Var einn í kirkjunni. Kyrrðin tók undir hugsun mína; hvíld. Og þögn.

Keypti harðfisk og nokkrar bækur í Kolaportinu, allar nýlegar og óskemmdar; þ. á m. smásögur Svövu Jakobsdóttur, sagnaþætti Þorsteins frá Hamri og bækur mínar um Ólaf Thors og Gunnlaug Scheving. Leit í ritgerðasafn eftir Kristin E. Andésson. Las dóm sem hann birti í Tímariti Máls og menningar þegar Fagur er dalur kom út. Upplifði aftur blendnar tilfinningar við þennan lestur. Kristinn skrifar þetta nokkrum árum eftir að hann hafði sagt Þórbergi að hann skyldi ekki eiga samtöl við mig því að ég væri nasizti! Hann reynir því að sjálfsögðu að knésetja mig í ritdómnum eftir fremsta megni, en hrósar þó sumu. Þannig hefur ritdómurinn þótt sannferðugri en ella.

Þetta var annars meiri orrahríðin á sínum tíma, ég gat eiginlega aldrei gefið út bók án þess ég sæti upp með ryðgaða nagla í lófum. Þetta voru vondir tímar, en reynslumiklir. Maður hertist í kaldastríðs eldi.

Þar sem ég stóð þarna við bókaborðin og las aðför Kristins að þessum 35 ára gamla manni sem hafði ekkert á samvizkunni annað en heilaga fyrirlitningu á heimskommúnismanum, þótti mér öll þessi orð Kristins brosleg og einhvern veginn eins og fölnað lauf sem þyrlast inn í gleymskuna. Ég var að hugsa um að kaupa þessa bók því ég á ekki dóminn, hún kostar 500 krónur, en tímdi því ekki. Keypti heldur veðurfræði eftir Markús Einarsson.

Aumingja Kristinn, hvernig ofstækistrú hans og efnishyggja heimskommúnismans fóru með hann. Og að lokum hvarf þetta bardús allt út í veður og vind eins og sandfok fyrir austan. En nú er verið að græða upp sandana, sem betur fer.

Ég sagði við bóksalann, Það er gott fyrir mig að fá þessar bækur eftir mig, ég get áritað þær og gefið í afmælisgjöf, þær líta svo ljómandi vel út. Augsýnilega ólesnar!

Þá brosti hann og sagði, Já, það getur víst enginn gert nema þú, breytt þessum ódýru bókum í vinsælar gjafir!

Þannig eru allir hlutir afstæðir, jafnvel bækur sem eru einskis- eða lítils virði fyrir aðra, geta fengið nýja og mikilvæga merkingu með nokkrum árnaðaróskum! Sama hugsun og í Biblíunni; að gjöra alla hluti nýja(!)

 

Ódagsett

Það er engin skírskotun til samtímans í skáldsögu Gore Vidals Feginn mun ég fylgja þér. Hún fjallar alfarið um Ríkharð I ljóshjarta, umhverfi hans og samtíð á ofanverðri 12. öld. Ríkharður hefur samið vopnahlé við Saladin og látið honum eftir Jerúsalem um skeið. Hann er á heimleið eftir misheppnaða krossferð sem hófst með samfylgd þeirra Filipusar Fakklandskonungs II, en lauk með óvináttu þeirra vegna kvonfangs Ríkharðs. Jóhann landlausi sem skrifaði undir Magna Carta, grundvallarlög enska ríkisins, þegar hann var orðinn konungur að Ríkharði dauðum, reynir að steypa ríkið undan honum, en tekst ekki, þótt Ríkharður sé handtekinn á heimleiðinni af Leopold V hertoga af Austurríki, síðar framseldur til Hinriks IV, keisara hins heilaga rómverska ríkis. Hann er að lokum keyptur úr prísundinni og kemst heim til Englands.

Allt er þetta sögulega rétt í frásögn Vidals og sannferðuglega tvinnað inní ævintýri konungs og helzta samfylgdarmanns hans, Blondels trúbadúrs, en á honum hefur konungur mikla mætur, enda skáld sjálfur eins og fram kemur bæði í sögunni og samtímaheimildum. Blondel er uppdiktaður frá grunni og reynslu hans, þegar hann leitar konungs eftir handtökuna, lýst með hliðsjón af þeim ævintýrum sem gengu í Evrópu um þær mundir; hann lendir í höndum risa sem lifir m.a. á mannakjöti, sleppur naumlega og heitir á hurðir gamallar greifynju sem reynist hið mesta forað og galdranorn í þokkabót, kemst við illan leik úr höll hennar og heldur ferðinni áfram, en lendir í varúlfum í þeim forynjulegu skógum sem verða á vegi hans.

Ævintýri trúbadúrsins, eða farandskáldsins, minna ekki sízt á furðusagnir Fornaldarsagna Norðurlanda sem svo eru nefndar; en þær spruttu úr sama jarðvegi og frásagnir Vidals og eru skrifaðar á Íslandi hálfri annarri öld eftir dauða Ríkharðs konungs.

Þessi þáttur frásagnarinnar, sem er raunar kjarni hennar, er skáldskapur frá rótum, tvinnaður meistaralega inní sögulegar staðreyndir sem koma heim og saman við sagnfræðirannsóknir, en þó eru sögulok einber skáldskapur, því að Ríkharður barðist, að ég held, aldrei við Jóhann, bróður sinn, í Skírisskógi, eða í nágrenni Nottingham-borgar. En þar verða miklar lyktir þessarar eftirminnilegu skáldsögu sem er bæði óvenjulega vel skrifuð og saman sett að öllu leyti.

Ég þekki engan núlifandi skáldsagnahöfnund íslenzkan sem gæti samið slíka sögu með þeim hætti sem raun ber vitni. Öll frásögnin afar eðlileg þrátt fyrir þau furðulegu fyrirbrigði sem lýst er; afslöppuð og innlifuð inní ævintýraheim þess tíma sem mótaði persónurnar og hugarheim þeirra. Það eitt út af fyrir sig er vandaverk og bókmenntalegt þrekvirki, ekki sízt á okkar tímum, þegar engar furður eru leyfðar, nema í tengslum við geimverur og skáldskapur og fagurfræði eiga ekki uppá pallborðið, allra sízt í myndmiðlum sem öllu ráða á markaðnum.

 

Ný saga :

 

Heilun

Ég er sérfræðingur í þrýstipunktanuddi, líklega sú bezta á landinu. Ég hef líka lagt fyrir mig slökunarnudd en svæðanudd er þó mitt ríki, ef svo mætti segja. Ég var orðin þónokkuð fullorðin þegar ég tók að leggja þetta fyrir mig, en það hefur ekkert háð mér. Ég var orðin þroskuð kona þegar ég opnaði stofuna. Ég er orðin vel þekkt í borginni, ekki sízt fyrir heildrænt nudd og slökunarnudd sem ég hef lagt mikla áherzlu á. Fólk flykkist í allskonar nudd, sem betur fer. Það þekkir sinn vitjunartíma betur en stjórnvöld. Og fólk flykkist til okkar þótt læknar hafi ekki fundið neitt að því. Við erum nefnilega sérfræðingar í munnvatnsprófun sem segir til um öll efnasambönd líkamans. En aðalatriðið er náttúrulega orkujafnvægið.

Jónína var þeirrar skoðunar að Lárus, maður hennar, væri ekki í jafnvægi eftir að hann náði sér nokkrun veginn af krabbanum. Þá kom hún til mín og sagði, Ég held ég verði að biðja þig fyrir hann Lárus minn, hann er nánast óþolandi eftir að hann var skorinn upp við krabbameini í raddböndum.

Jæja, sagði ég, heldurðu að ég geti eitthvað hjálpað honum.

Já, hvað heldurðu sagði Jónína með áherzlu. Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Ég kem með hann til þín.

Og það var eins og við manninn mælt. Jónína kom með Lárus sinn á réttum tíma og ég tók til hendi og reyndi að koma honum á rétta hillu og Jónína er sannfærð um að það hafi tekizt. Hann er orðinn eins og lamb, segir hún.

Jónína er 76 ára gömul, stór og bústin og lætur allt flakka. Lárus fimm árum eldri og því kominn á níræðisaldur, en hann er fremur ern eftir aldri. Þó hefur höfuðið sígið ofan í axlir eftir aðgerðina og hakan skjagar fram og hann talar dimmri röddu eins og út úr tómri tunni. Einhvers konar strigabassi, skilurðu.

Þegar Lárus hafði náð jafnvæginu ákvað Jónína að koma aftur í nudd til mín og ég tók því fegins hendi, enda aldrei of mikið af kúnnunum, þótt vel gangi. Jónína hefur verið hjá mér nokkurn tíma og þau koma ævinlega saman, hjónin. Hann skilur hana eftir og sækir, þegar hún er búin í meðferð. Ég hef talað mikið við þau um starfið og sagt þeim frá elementunum, orkubrautunum, öllum punktunum, nálunum og hvað eina. Ég held þau séu orðin nokkuð vel að sér í þessum efnum.

Jónína kom til mín seinni part föstudags nú í vikunni og Lárus að sjálfsögðu með henni. Þegar hún kvaddi hann sagði hún, Vertu bless, ástin mín, en hann nikkaði og sagði einungis, Ég ætla að skreppa í bókabúð.

Ha? sagði Jónína, þú sem aldrei lest nokkra bók.

Skiptir ekki máli, tuldraði hann. Annað sagði hann ekki enda var röddin að fjara út, það var engu líkara en hann talaði upp úr opinni gröf.

Farðu gætilega, ástin mín, sagði Jónína og hneppti frakkanum upp í háls. Svo lagaði hún á honum derhúfuna en hann setti hana aftur á sinn stað og horfði á hana þessum fallegu, björtu og barnslegu augum sínum, en sagði ekkert. Hún fór svo á bekkinn hjá mér, en Lárus gekk hikandi út.

Þegar hann var farinn var hún heldur þegjandleg í byrjun.

Er eitthvað að? spurði ég.

Ja, eiginlega ekki, sagði Jónína en færðist svo öll í aukana og sagði hárri röddu eins og til þess væri ætlazt að allir viðstaddir heyrðu ósköpin, Heldurðu ekki að hún Bryndís sem býr í næsta húsi við okkur hafi reynt að draga hann Lárus á tálar!

Ha? hvað segirðu.

Jújú, það er deginum ljósara. Heldurðu virkilega að ég mundi fara með slíkt fleipur, ef það væri ekki rétt. Onei. Þú þekkir hana Bryndísi, var hún ekki með þér þegar þið fóruð í Ferðafélags ferðina í Þórsmörk fyrir þremur árum?

Jújú, og ég hef aldrei heyrt neitt um hana í þessa átt. Hún er harðgift, Jónína mín.

Jájá, skiptir engu, harðgift eða ekki, þetta er böluð dræsa þótt hún sé orðin 59 ára gömul, en skiptir engu. Hún hefur gert ítrekaðar tilraunir til að daðra við manninn minn og hann sem er svo barnslega einlægur og horfir á allt umhverfið þessum saklausu augum sínum og á sér aldrei ills von.

En af hverju segirðu þetta, manneskja, ég hef aldrei heyrt neitt misjafnt um Bryndísi.

Ég segi þetta auðvitað vegna þess að ég veit það?

Já, en Bryndís er harðgift.

Skiptir engu.

En þau Jónatan eru alsæl í hjónabandinu.

Heyr á endemi, sagði Jónína og fyrirlitningin jókst með hverri setningu, hvílíkt hjónaband! Maðurinn er alltaf á sjónum og hún ein heima og leggur snörur fyrir Lárus.

En - en hann er orðinn svo gamall, blessaður, sagði ég varlega, en var nú orðin gapandi af undrun.

Skiptir engu, góða mín, ekki nokkru máli. Hún ætlar sér hann, það er augljóst. Ég hitti hana fyrir tæpum mánuði og þá sagði ég við hana þegar hún ætlaði að heilsa mér, Ég heilsa ekki svona daðurdrós - og kom mér inn. En hún stóð auðvitað eins og þvara á stéttinni og mændi á mig, gat ekkert sagt, enda hefur hún verið staðin að verki.

Nú hvernig þá?

Ja, þegar ég var á spítalanum bauð hún Lárusi iðulega til sín í kaffi og þar daðraði hún áreiðanlega við hann eins og hún lifandi gat. Hann sagði mér sjálfur að hann hefði farið í kaffi til hennar.

Nú, og hvað?

Ja, það er ekkert skrítið þótt hann hafi misst jafnvægið í þessum átökum, blessaður. Það eru ekki allir sem standast slíkar freistingar. En Lárus minn lenti ekki í snörunni því hann er viljasterkari en maður gæti haldið eftir útlitinu. Já, já, hann er mjög viljasterkur, en góðmennskan hefði getað orðið honum að falli.

Ég trúði varla mínum eigin eyrum. Allt hljómaði þetta eins og hver annar brandari. En Jónína var ekki á því, ekki aldeilis, hún var viss í sinni sök og trúði augsýnilega hverju orði sem hún sagði. Hún er áreiðanleg ein þeirra kvenna sem er sannfærð um að engin kona standist eiginmanninn. Samt er Lárus orðinn eins og gömul kona sem hefur þolað beinþynningu allar götur frá því hún fór á síðasta túrinn. En í augum Jónínu er hann einhvers konar kyntröll!

Heldurðu að ég hafi ekki fengið það útúr honum um daginn, hélt Jónína áfram, að hann hefur líka heimsótt Bryndísi í vinnuna, þú manst hún er í druslubúðinni þarna ofarlega á Laugaveginum. Þangað kemur auðvitað enginn sála enda hafði hún víst nógan tíma til að sinna honum. Hann fékk jafnvel kaffi og með því, en nú hef ég harðbannað honum að koma við í þessari ógeðslegu kytru og hann hefur lofað mér að hlíta því. En nú ætla ég að fylgjast með honum og sjá hvort særingar Bryndísar duga öllu lengur. Ég á ekki von á því.

Ég var orðin hálfrugluð, en lagði mig fram um nuddið og held mér hafi aldrei tekizt jafnvel að ná orkujafnvæginu eins og í þetta skipti, enda sagði Jónína eftir að hún hafði hvílt sig, Mér hefur aldrei liðið eins dásamlega, aldrei.

Skömmu síðar kom Lárus og sagði, Ég er kominn að sækja þig.

Jæja, ástin mín, sagði Jónína og lagaði frakkakragann.

Sástu eitthvað í bókabúðinni? spurði hún.

Einhvert tímarit sem heitir Blátt og gult eða Blátt og grænt, ég man það ekki, tuldraði Lárus ofaní skúffuna og fór undan í flæmingi.

Nú, sagði Jónína, hvað skyldi það vera?

En ég lét sem ég heyrði ekki samtalið.

Þá er bezt að koma sér heim, sagði Jónína.

En ég þyrfti helzt að koma við hjá honum Sigurði, sagði Lárus.

Uppá spítala? sagði Jónína undrandi.

Já, ég þyrfti þess helzt.

En af hverju núna, ástin mín.

Ja, þú veizt að hann er að ná sér eftir uppskurðinn.

Hann Sigurður er náttúrulega slíkt ólíkindatól, sagði Jónína, að hann gæti verið rokinn af spítalanum áður en nokkur vissi. Ég veit það svo sem en hann hefur ekki alltaf haft þau áhrif á þig sem ég hefði helzt kosið, bætti hún við ógnandi.

Hann er nú einu sinni bezti vinur minn, tuldraði Lárus.

Ojá, sagði Jónína, það á víst að heita svo.

Nú, hvað áttu við?

Ja, ekkert annað en ég þarf að undirbúa afmælið í kvöld og þú þyrftir eiginlega að hjálpa mér.

Hvaða afmæli? sagði Lárus og horfði spurnaraugum á hana.

Nú, þitt eigið afmæli, auðvitað, það er á morgun eins og þú hlýtur að vita.

Æ, já, sagði Lárus og klóraði sér undir húfunni. Á morgun, endurtók hann hugsi.

Svo fóru þau heim saman.

Næst þegar Jónína kom í nudd sagði hún mér frá afmælinu, en ég spurði hana um þennan Sigurð því ég hef ævinlega haft mikinn áhuga á ólíkindatólum.

Ja, þeir Lárus hafa verið skotveiðifélagar lengi, bæði á gæs og rjúpu, en nú eru þeir hættir öllu slíku bardúsi. Lárus blessaður hálfraddlaus, en Sigurður nýskorinn upp við blöðruhálskyrtli og kom reyndar engum á óvart.

Nú, hvers vegna?

Jú, sérðu það ekki, manneskja, það er áreiðanlega af ofnotkun.

Ofnotkun?!

Já, já, ég er sannfærð um að það er ofnotkun og ekkert annað! Sigurður hefur verið svo kvensamur alla sína hundstíð að ég hef orðið að gæta Lárusar eins og sjáldurs auga míns, þegar þeir hafa verið saman.

Nú, hefurðu farið með þeim á veiðar?

Nei, nei, það er ekki svo gott, konum bannaður aðgangur, hafa þeir sagt í gríni, en það er bara ekkert grín, heldur fúlasta alvara, hvað sem þeir segja. Eitt sinn voru þeir eitthvað að skemmta sér, það var fyrir mörgum, árum, og þeir voru orðnir eitthvað góðglaðir, það var á þorrablóti með veiðifélögunum, þá var ég búin að vera með andstyggilega hálsbólgu og var þegjandi hás. En mér datt í hug það væri samt bezt ég fylgdist með þeim og dúkkaði upp í Naustinu öllum að óvörum.

Ha, sagði Sigurður, ert þú komin?

Þá hvíslaði ég að honum að ég væri þegjandi hás. Hann sagði þeim félögum sínum frá þessu og þá stóð einn þeirra upp og sagði,  Guð er þá til! Á þeim forsendum fékk ég að setjast hjá þeim, en sá ekki það væri neitt eftirsóknarvert, þeir voru allir grútfúlir. Ég veit eiginlega ekki af hverju. Ég fór að hugsa með sjálfri mér, hvers vegna eru þessir menn að hittast á þorrablóti og eyða peningum fyrst þeir eru svona fúlir? En ég fékk aldrei nein svör. Og svo drattaðist ég heim með Lárus, þessa elsku sem aldrei má vamm sitt vita í neinu og það gekk áfallalaust, þegar hann hafði loksins látið sér segjast.

Sigurður ætti nú eiginlega að koma í jafnvægisnudd til þín, það gæti verið að hann lagaðist eitthvað. Ég ætti að nefna það við hann.

Nei, æ - nei, gerðu það ekki. Það er líka svo mikið að gera hér að hann kemst ekki að fyrr en eftir margar vikur.

En hann hefði samt gott af því, get ég sagt þér. Hann er dálítið illa farinn eftir uppskurðinn. Og svo hefur hann verið með staurfót frá því hann man eftir sér.

Staurfót?

Já, hann fékk eitthvert mein í löppina þegar hann var tólf ára og þeir sögðu þetta væri krabbamein en það kom víst í ljós, þegar sýnið var skoðað aftur fyrir nokkrum árum, að sjúkdómsgreiningin hafði verið röng. Sigurður hafði aldrei verið með krabbamein í fæti, heldur eitthvert sark-mein eða risafrumuæxli eins og Lárus nefndi það, þegar hann sagði mér.

En hann missti samt fótinn, skaut ég inní, hálfrugluð eins og alltaf þegar ég tala við Jónínu.

Já, já, en það gerði víst ekkert til. Sigurður hefur sagt Lárusi að hann hafi notið allrar þessarar kvenhylli vegna þess hann var með staurfót. Já, geturðu bara ímyndað þér annað eins, staurfót eins og Byron. Það þykir víst það allra fínasta. Það getur víst ekkert slegið það út, hvorki viagra né plástrar. Mér skilst þær hafi þyrpzt að þessum fæti eins og flugur í ljós. Staurfóturinn hefur víst verið einskonar kyntákn þessa fyrirferðamikla kvennabósa. Hann hefur alltaf lifað eins og honum hefur sýnzt og gerir víst enn, hvað sem öðru líður. Karlar hafa þyrpzt að tréfætinum og drepið  í vindlingum á honum og hann hefur haft kynæsandi áhrif á konur, ja það hefur Sigurður sagt Lárusi, ég sel það ekki dýrara en ég keypti.

Hvernig í ósköpunum stendur á því?

Það veit víst enginn, þetta er einn af leyndardómum lífsins. Það er víst kallað djúpsálarfræði.

En hvað sagði Sigurður þegar honum var sagt að hann hefði misst fótinn á fölskum forsendum?

Lárus segir hann hafi hrópað upp yfir sig af gleði, Þetta var ómaksins vert, þetta er bezta saga sem ég hef heyrt um dagana, sagði hann sigri hrósandi. Jú, hann er mikill sögumaður og hefur víst dáleitt fleiri en Lárus með þessum sífelldu sagnaþulum sínum. Honum þótti ekkert tiltökumál að láta fótinn fyrir svona góða sögu!

Nú var Lárus kominn að sækja elskuna sína. Hann tvísteig við dyrnar með derhúfuna í hendinni og mændi á hana þessum saklausu, himinbláu augum sínum, þegar hún gekk til hans og hneppti frakkanum upp í háls.

Var þetta ekki gott afmæli? spurði ég Lárus.

Ástin mín hefur aldrei verið eins unglegur, greip Jónína framí.

En Lárus læddi út úr sér, Það fer svona eftir elementunum.

Jónína leit um öxl, Aldrei unglegri!, sagði hún stoltaralega og vatt uppá sig.

Og leiddi Lárus út eins og nýtrúlofuð.

 

15. febrúar, mánudagur

Lauk við smásöguna Heilun. Skrifaði hana til að skemmta sjálfum mér. Það minnir mig á ummæli Halldórs Laxness þegar ég kom einhverju sinni til hans uppí Gljúfrastein kringum jól. Hann sagðist hafa verið að skrifa leikrit. Jæja, sagði ég, var það af einhverju sérstöku tilefni. Já, sagði hann og brosti, Það var til að skemmta mér um jólin!

 

Vorum í gær í afmæli Ragnheiðar Stephensen, konu Jóhanns Hjálmarssonar. Þar las Karl Guðmundsson, leikari, ljóð Jóhanns til Ragnheiðar, Animónur; falleg ljóð og fóru vel við lög Karls Möllers, sem lék á píanó með jazzhljómsveit sinni. Ragnheiður er ágæt kona, hörkudugleg og hefur komið sér vel sem hjúkrunarforstjóri hjá DAS. Það leyndi sér ekki þarna í afmælinu. Hún hefur staðið vel við bakið á Jóhanni enda hefur hann þurft á því að halda, oft og tíðum. Hún hefur verið rótfast tré og hann  hefur getað hallað sér að þessu tré, með skjól af krónunni. Eitt kvæðið í þessum ljóðaflokki, Stóri-Kroppur, minnti mig á ljóð sem ég orti fyrir mörgum, mörgum árum um Hönnu eftir að við höfðum verið á Hólsfjöllum. Mig minnir að það heiti Víðirhóll á Fjöllum. Snorri Hjartarson talaði um það við Hönnu, tvisvar eða þrisvar, alltaf jafn ánægður. Hann nefndi það einnig við mig og mér þótti vænt um þessa ánægju hans.

Nú er Iris Murdoch, brezka skáldkonan, látin. Ég hitti þau hjónin á ráðstefnu í Kaupmannahöfn uppúr 1960. Hún var á vegum Congress for Cultural Freedom sem þá var einhvers konar menningarlegt mótvægi gegn heimskommúnismanum. Það var merkileg ráðstefna og þar kynntist ég mörgum eftirminnilegum rithöfundum. Ég hef víst áður nefnt James Baldwin. Þar var einnig sænski höfundurinn Eyvind Jonson, þurr og afskiptalítill, grannur og lágur vexti. Mér þótti Iris Murdoch og maður hennar, John Bayley, harla sérkennilegt par. Hann var lítill og sköllóttur með hár niður á herðar. Hún ótilhöfð. Þetta var ekki fallegasta par sem ég hef séð! Eiginlega voru þau hálfhallærisleg, en ekki vantaði gáfurnar eða klárheitin. Nú hefur hann skrifað bók um Iris og fjallar að mestu um síðustu misserin í lífi hennar, eftir að hún fékk alzheimer. Ég hef ekki enn lesið þessa bók, en af ritdómi í The New York Times Book Review að dæma er augljóst að þetta er hið merkasta rit og lýsir ástum þeirra með sérstökum og eftirminnilegum hætti. Gagnrýnandinn segir að bókin sýni að Bayley hafi haft “hetjulega ást” á konu sinni, en undirtónninn sé hógværð, þolinmæði, auðmýkt og húmor. En auðvitað fjallar þessi bók fyrst og síðast um harmleik. Þau höfðu verið gift í fjóra áratugi þegar skáldkonan dó. Það hafði víst gengið á ýmsu í hjónabandi þeirra, “hún átti í vináttusamböndum án þess Bayley vissi og ástarsamböndum sem honum var ætlað að skilja, en komu honum að öðru leyti ekkert við”. Bayley einsetti sér að verða ekki afbrýðissamur og honum tókst það. Hann taldi að afbrýðssemi væri vúlger og ýtti henni frá sér. Ást þeirra hefur áreiðanlega verið falleg og einstæð og líklega einnig öðrum óskiljanleg, “þau voru illa klædd og bjuggu við heimilisöngþveiti í fallandi húsi”! Hugsuðu ekki um kröfur heimsins, en reyndu að þóknast sjálfum sér og öðrum á sinn hátt.

Þannig upplifði ég þau einnig í Kaupmannahöfn.

 

Kvöldið

Hef verið að lesa um ítalska ljóðskáldið Montale. Hef sjaldan heillazt eins mikið af ljóðum og þegar ég las kvæðabálk hans um nýlátna konu hans. Mér skilst hann hafi ort þessi ljóð í einsemd á hótelherbergi eftir dauða hennar. Ég get auðvitað einungis lesið þýðingar á ljóðum hans en þó hef ég reynt að bera saman enskan og ítalskan texta. Þá kemur í ljós að Montale notar rím með eftirminnilegri nærgætni. Það fyllir ljóð hans músik, t.a.m. í kvæðinu Cuttlefish Bones: Proda/non oda, dormi/stormi, gufo/buffo, condanna/panna; og innrím sem mýkir allt ljóðið og gefur því sérstæðan hljóm rovina/incrina. Merkilegt hvernig hann getur búið til myndhverfa táknsögu í ljóði um pappírsbáta. Bak við þá er heil veröld sem kallar á umhugsun og skilning.

Í ensku þýðingunum koma fyrir orðasambönd eins og: Tidal flow of life... Troubled fields of the sea... Plucked by a wind... Spiderwebs of cloud...

Montale hataði mannmergð, það á ég auðvelt með að skilja. Og þann þátt í Nietzsche skil ég einnig vel. Þegar hann segir t.a.m. í Svo mælti Zaraþústra sem kom út í fjórum hlutum 1883-1885, Þar sem ríkinu sleppir taka við mennirnir sem ekki eru óþarfir; þar byrja ljóðmæli hins nauðsynlega, hið einstaka og ómetanlega stef, //þar sem ríkinu sleppir,/ó,  bræður mínir! Sjáið þið hann ekki, regnbogann, og brýr ofurmennisins? Hann krefst þess að maðurinn reyni að yfirstíga takmörk sín og verða meiri en hann sjálfur; að hver einstaklingur verði að losa sig úr viðjum hjarðmennskunnar, hefja sig yfir hana; losna við kúgunartækið sem kallast ríki; tækið sem á að halda skrílnum í skefjum. Sjáið bara hvernig það laðar fjöldann til sín, segir hann, hvernig það gleypir hann, tyggur og jórtrar. Og ófreskja mergðarinnar telur sig vera fingur guðs sem skipuleggur allt og er öllu æðra. Og klifuraparnir, framtóningarnir sem vita ekki hvað þeir eru holir að innan, fá sinn skerf. Þessar holu afturgöngur mergðarinnar flykkjast í fjölmiðlana, sumar í nafni félagshyggju, aðrir þess goðs sem nú er öllu æðra, markaðarins; skemmtiiðnaðarins; pólitíska hasarsins.

 

Nú eru tímar handverksins og samt vantar handverkið í fagurbókmenntirnar. Áður en menn geta orðið skáld, verða þeir að kunna sitt fag. En það verður enginn skáld vegna þess eins að hann er góður handverksmaður. Ljóð heppnast ekki til fulls nema form og efni fari saman og ef formið er hefðbundið verður rím og önnur bragfræði að falla svo að efninu að kvæðið sé ónýtt ef haggað er við þessum undirstöðum. Nú eru slík kvæði ónýt oftar en ekki.

 

P.s. Einhverju sinni þegar Billy Graham var að hefja prédikunarferil sinn kom hann í smábæ til að prédika. Hann þurfti að setja bréf í póstinn, en vissi ekki hvar pósthúsið var, svo hann sneri sér að ungum dreng og spurði, hvar pósthúsið væri. Þegar drengurinn hafði sagt honum það, þakkaði Grahma fyrir og sagði, Ef þú kemur í kirkjuna í kvöld þá geturðu hlustað á mig prédika, en ég ætla að segja fólkinu, hvernig það geti komizt til himnaríkis. Ég held ekki ég verði þar, svaraði drengurinn, ég ætla ekki að láta neinn segja mér, hvernig á að komast til himnaríkis, sem veit ekki einu sinni hvar pósthúsið er!

Ég held margir mættu íhuga þessa sögu nú um stundir!

 

18. febrúar, fimmtudagur

Í skáldsögu Ísaac Bashevis Singer, Shadows on the Hudson, sem ég er að hlusta á núna af spólu, segir um elskendurna, Önnu og Grien, að þau hafi vaknað í þriðja flokks hóteli í New York, það hafi verið kuldi í herberginu og þau hafi brugðið á leik og reynt að ná teppina til sín eins og tveir fuglar sem bítast um orm. Og í þessum ástarleik veit Grien að það þarf að hlaða líkamann eins og rafhlöðu og samt skorti ekkert á getu hans í þessu óvænta ævintýri.

Það er gaman að lesa svona magnaða og vel skrifaða skáldsögu, það er líka hvíld í því og ég nýt þess. Þetta er mikil saga og minnir á Rússana. Það er því augljóst að bæði Anna og Grien eru harðgift.

Það er mikið um vitræn samtöl í þessari sögu og hún vekur til umhugsunar um mannlífið og allt sem að því snýr.

Það gerir einnig saga Berniéres, Mandólín Corellis, sem gerist á grískri eyju í síðasta stríði; ljóðræn og áhrifamikil saga, fínir tónar leiknir á gamla strengi.

Ein af þessum sögum sem bregður ljósi á ástina án þessa klúra yfirbragðs sem nú er í tízku; ástina og andhverfu hennar, söknuð og harm. Ég þekki ekki Berniéres en ætla að kynnast þessum ágæta höfundi betur ef færi gefst.

Hvíld, sagði ég. Ástæðan eru þessar íslenzku sögur sem ég hef verið að lesa, fremur af skyldurækni en ánægju. Síðasta sagan er Hella eftir Hallgrím Helgason. Einkennilegt sambland af unglingasögu og kotrosknum stellingum og mannlátum. Ljótleikinn blandast inní allt og alltof nákvæmar umhverfislýsingar með köflum; gripið til fáránlegra líkinga, ef ekki vill betur til; ónákvæmt orðalag. Og ég átti stundum erfitt með að skilja setningarnar. Lýsingarnar með engum hætti áhugaverðar, svo hversdagslegar sem þær eru öðrum þræði, og efnið heldur hræmulegt.

Höfundur kann þó talsvert fyrir sér í sjargónum ungs fólks nú um stundir, málfari sem hverfur vonandi með tímanum eins og dögg fyrir sólu.

Það sem óprýðir þessa sögu þó einna helzt er stílhrönglið sem hlaðið er upp í tíma og ótíma. Það er stundum með ólíkindum; hestarnir eru sálrænir á svip. ...Í þessu býti morguns... þykkt hús...  Hekla er.... þúfa í löngum fjarska... það fer að  róast yfir hrossunum í girðingunni ... Það er eins og minni hennar sé hjúpað súkkulaði... staðurinn þrengist af ökulöngu fólki... lætur sama tóninn ganga yfir hverja frétt... þögn frá ádrepinni hondu... hún hleypur burt frá þessu dvalarfulla heimili... einn minniháttar dauði ...fjarlæg karlmennska ...standa í raunsæju erindi ...Birgir færist vel í auka ...dráttarvélin er eins og steinaldarlegur minnisvarði ...Ólöf stendur í sjoppunni í einhvers konar samstöðu ...Birgir stansar fyrir spurningunni ...þokan hefur skroppið saman ...það er eitthvert rótleysi undir hófum hestsins ...framsætismaður... bíldrengir ...himinn hangir tæpur ...kassettutæki situr ...bíllinn eykur hraðann undir iljum bílstjórans ...bagsar lotinn öldungur eins og kræklótt hrísla, hann er með herðakistil fullan af illa launuðum störfum ... Og svo byrjar Hekla að gjósa og blossinn í þokunni er “heitur og ástríðufullur eins og lítill koss”.

Fólkið í plássinu eða sveitinni er að bíða eftir stóra skjálftanum, líklega Suðurlandsskjálftanum, og það á að flauta áður en hann verður til að vara það við. Það er eins og höfundur viti ekki að slíkur skjálfti gerir ekki boð á undan sér. Það bíður enginn eftir honum eins og krappri lægð sem hægt er að spá fyrir um. Hann kemur án þess gera boð á undan sér.

Langamman deyr og því lýst hvernig ...síðasti andinn hefur sloppið úr hinni öldnu konu, hinsti lífsandi hennar hefur stigið upp frá henni eins og gufustrókur úr gömlu eldfjalli, þannig endar líf þessarar gömlu konu eins og dauðateygjurnar í Heklu...

Þetta er dæmigerð líking í sögunni, uppblásin og annarleg. Og þegar amman er dáin blindast stúlkan, þ.e. Helga Dröfn, af hinni skæru birtu sem streymir inn um gluggann eins og vatn sem fyllir herbergið - og hugmynd skýtur upp í kolli hennar, flýtur upp í huga hennar eins og sjórekið lík sem flýtur upp í fjöru.

Það gengur þannig mikið á þarna undir lokin, fólk deyr sem sagt öðruvísi á Hvolsvelli en annars staðar.

Stráknum gengur erfiðlega að klæða stúlkuna úr gallabuxunum á hestamannamótinu og hún er ekkert að hjálpa honum við það, þetta er eins og hver önnur erfiðsvinna, þangað til hún verður allt í einu tilkippilegri. En þó augljóst af  þessari lýsingu að það er illmögulegt að nauðga konu sem er í gallabuxum, eins og ítalskur dómari fullyrti fyrir skömmu þegar hann kvað upp dóm yfir nauðgara sem fékk þær málsbætur, að ekki væri unnt að nauðga konu í gallabuxum! Skyldi ítalski dómarinn hafa lesið Hellu! Það skyldi þó aldrei vera!

En verst er þó lýsingin á lamaða piltinum í sögunni. Hún tekur steininn úr. Fyrirlitningin á honum er með ólíkindum. Á það hefur enginn minnzt, auðvitað ekki. Það er alltaf verið að tala um hluti sem skipta engu máli.

Þegar ég las þessa sögu og punktaði hjá mér nokkur af þessum óhnýsilegu dæmum sem eru eins og innsigli hinnar endanlegu smekkleysu í bókmenntum, var mér hugsað til Jónasar Hallgrímssonar og ritdóms hans um hrákasmíðina í verstu köflum Tistrans-rímna. Líklega hefur mér ekki liðið ósvipað og Jónasi þá, þegar ég las þessa sögu Hallgríms Helgasonar. En með sama hætti og það var ósanngjarnt af Jónasi að taka þetta gamla rímsöngl sem dæmi um skáldskap Sigurðar Breiðfjörðs væri það áreiðanlega einnig ósanngjarnt að taka þessa fyrstu skáldsögu Hallgríms Helgasonar sem dæmi um hortittasmíð hans og lágkúru.

Ég veit reyndar ekki hvenær þessi bók kom út en þetta hljóta að vera bernskubrek. Ég hlustaði á Hallgrím lesa úr nýjustu skáldsögu sinni í Gautaborg í fyrra og hugnaðist betur það sem ég heyrði. Og nú held ég í þá von að honum hafi farið mikið fram og trúi því - þangað til annað kemur í ljós. En Hella er eins og hús sem hefur verið skilið eftir, ókarað. Steyptir hráslagalegir veggir með ryðguðum, óklipptum styrktarvírum í allar áttir. Og engum dettur í hug þetta verði nokkurn tíma íbúðarhæft.

 

19. febrúar, föstudagur

Bauð klíkunni í kvöldverð niður á Morgunblað. Það var góð stund, að venju. Indriði G. leit betur út en oft áður. Ég sé hann er sem betur fer hættur við að berja nestið. Hann sagði að tvær aldir íslandssögunnar væru einskonar eftirmynd hvor af annarri, það væri þjóðveldistíminn eða öllu fremur sturlungaöldin og 20. öldin. Flokkadrættir hefðu verið með svipuðum hætti, þó án manndrápa á hinni síðari. Hann hefur leitað að framsóknarmanninum á sturlungaöld og fundið Ingjald á Keldum: Allir voru þar óvinir Njáls - nema Ingjaldur á Keldum, eins og segir í húsganginum. Ég benti honum á að Ingjaldur á Keldum hefði ekki verið uppi á 13. öld, heldur hefði hann verið samtímamaður Gunnars og Njáls og annarra sögualdarmanna. Indriði sagði að það væri að vísu rétt, en hann væri afkvæmi sturlungaaldar. Höfundur hefði fundið hann í samtímanum. Það má vera, þannig eru skáldverk oft skrifuð. Ingjaldur vissi um aðförina að Njáli en gat ekki sagt honum frá henni án þess verða svikari við vini sína. En hann gaf honum hættuna í skyn með því að vara hann við. Ég benti Indriða á að þetta hefði einmitt verið hlutskipti Hrafns Oddssonar fyrir Flugumýrarbrennu; að hann hefði varað Gissur við vinum sínum.

Ég hef ekki hugmynd um af hverju Indriði komst að þeirri niðurstöðu að Ingjaldur á Keldum hefði verið framsóknarmaður, en hann ætti að sjálfsögðu að vita það betur en ég.

Jóhannes Nordal sagði að kvótanefndin hans mundi ekki koma fram með neinar tillögur heldur einungis einhvers konar yfirlit um það sem hún hefði rætt á fundum sínum. Ef nefndin yrði að komast að niðurstöðu fyrir kosningar, mundi hún klofna. Það væri engum til framdráttar. Lausnin væri ekki fólgin í því að allt færi í hnút, heldur að menn næðu samkomulagi. Allir sammála um þetta.

Sverrir Hermannsson sagðist ekki bragða áfengi fyrir kosningar. Hann hefði heitið því og bragðar hvorki bjór né léttvín. Hann var samt í ágætu formi! Við spurðum hvort það yrði mikil veizla eftir kosningar. Hann sagði að það gæti orðið. Ég spurði hvort hann fengi menn á þing. Hann sagðist fá mann á þing í Reykjavík - og á Vestfjörðum, bætti hann við. Annað var ekki um framboð hans talað, né Frjálslynda lýðræðisflokkinn að öðru leyti. Það yrði mikil uppreisn fyrir Sverri Hermannsson, ef hann kæmist á þing eftir Landsbankamálið. Ég held allur hugur hans snúist um það. Samt finn ég á honum þreytu enda þarf hann að argast í alls kyns vitleysingum sem eru sífellt að hafa samband við hann vegna kvóta og framboðs…..

 

Þá sagði  Gylfi okkur frá því sem við vissum að vísu allir, að vantrauststillaga hefði verið borin fram á Bjarna Benediktsson sem menntamálaráðherra, þegar hann skipaði einhvern skólastjóra úti á landi án þess ég muni nafn hans og hafi framsóknarmenn þá setið hjá við afgreiðslu málsins, en Bjarni var menntamálaráðherra í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, mig minnir í ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar 1952 eða 53. Hann sagði Gylfa löngu síðar að hann hefði þá orðið fyrir svo miklum vonbrigðum af brigðum framsóknarmanna að hann gæti ekki hugsað sér að starfa með þeim aftur í ríkisstjórn. Þetta kemur heim og saman við það sem Bjarni sagði mér undir lok sjöunda áratugarins, að hann mundi frekar láta einhvern annan mynda ríkisstjórn með framsókn ef það yrði nauðsynlegt að viðreisn lokinni, sjálfur mundi hann ekki taka þátt í slíkri stjórn. En hann  minntist aldrei á það við mig að ræturnar væru í hjásetu framsóknarmanna, þegar vantrauststillagan á hann sem menntamálaráðherra var afgreidd á þinginu. Gylfi sagði að sú afgreiðsla hefði valdið Bjarna miklum sársauka....

Það var að heyra á Gylfa að hann telur ástæðuna fyrir því að Sighvatur Björgvinsson stakk upp á Margréti Frímannsdóttur sem talsmanni Samfylkinarinnar þá að kratar þoli ekki forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og kosningasigur hennar í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Ég spurði Gylfa hvernig honum litist á pólitíkina nú um stundir, Illa, svaraði hann.

Jæja, sagði ég, En nú er búið að sameina vinstri menn í einn stóran flokk vinstri manna.

Gylfi hristi höfuðið, en sagði ekkert.

Það var mælsk þögn þessa fyrrum viðreisnarráðherra og einarða talsmanns þess að kratar og sjálfstæðismenn starfi saman í ríkisstjórn. Þannig hefur Gylfi að minnsta kosti ævinlega talað í mín eyru og ég heyrði  það ekki í gærkvöldi að skoðun hans á því hefði breytzt með nokkrum hætti. En það má aldrei orðinu halla um Sighvat Björgvinsson, Gylfi tekur alltaf upp hanskann fyrir þennan pólitíska uppalning sinn. Mér hefur ekki fundizt Sighvatur sannfærandi í sameiningarferlinu, enda kemur hann ekki sérstaklega vel út úr því. Ég tel aftur á móti að hann hafi staðið sig vel sem heilbrigðisráðherra. Ég fylgdist með því. Við Styrmir vorum á fundi með honum um þau mál á sínum tíma, það var fróðlegt og sannfærandi. Ráðherratíð Sighvats var hans stóra stund, en Gaukur er ekki lengur á Stöng.

 

21. febrúar, sunnudagur

Bók Singers um newyork-gyðingana er sterk og eftirminnileg. Samtölin eru ekkert blaður. Þau eru einatt mikilvæg skýrskotun í eitthvað sem skiptir máli og hugleiðingar um manninn andspænis forsjóninni. Það er mikilvægt fyrir okkur sem þekkjum lítið til gyðinga að lesa slíkt verk. Það gefur innsýn í hugarheim þeirra. Það hlýtur að vera harla fróðlegt, því að hugarheimur þeirra er undirstaða eða forsenda kristinnar trúar. Persónurnar í bókinni eru teiknaðar skýrum línum og birtast ekki sízt í samtölum sínum eins og persónur íslendingasagna, en samtöl Singers eru þó miklu lengri, teygðari; meiri hugleiðingar, ekki sízt eintölin.

Þetta verk hefur haft veruleg áhrif á mig og er nánast óþolandi samanburður við samtímaskáldsögur íslenzkar; það er á svo miklu hærra plani, ég veit raunar ekki af hverju, er að hugleiða það. Samt eigum við stórkostlega skáldsagnahefð svo þetta er nánast óskiljanlegt. Kannski er munurinn samfélagið sjálft, smæðin hér heima og hið stóra erlenda umhverfi. Samt segir ein skemmtilegasta persóna sögunnar að heimurinn sé eiginlega ekkert annað en einhvers konar þorp. Maður skyldi halda það með öllum þessum samgöngum og netþorpum sem maður getur haft heima í skrifstofunni sinni. En það er einhver stærðarmunur, enn óskýrður í mínum huga. Bæði samtöl skáldsögunnar og eintöl eru á háu plani, ekki sízt um ást og girnd og guð. Maðurinn í endalausum átökum við eigið eðli og skapara sinn og þá ekki sízt óbeizlaðar tilfinningar. Ekki klúrt orð, engin klúr hugsun. Lífið samt í allri sinni dýrð, með öllum sínum ástríðum, öllu sínu sexi og samförum; án kláms. Aðalpersónan, bandarísk gyðingaannakarenina, sem er reiðubúin að yfirgefa sitt borgaralega öryggi fyrir utangarðslíf ástarinnar.

Hamingjan er das Ding an sich (the Thing in it self); leiðin til guðs. Konan er eiginkona þess sem hún elskar, ef það er gagnkvæm ást - hvað sem líður öðrum böndum, eða samböndum (eins og ég hef sagt einhvers staðar annars að ástlausar samfarir séu hórdómur.ef því er að skipta). Og það er enginn eftirlitsmaður guðs meðal manna. Það er að vísu von í trúnni, en tíminn er einskonar hitler sem tortímir öllu. Í grimmdaræðinu undir lok stríðsins skutu Þjóðverjar þriðja hvern gyðing í fangabúðum, en sumir þurftu að grafa sína eigin gröf. Það var mikilvægt að kunna að hætta að hlusta. Enginn engill grét og herra alheimsins þagði. Ekki hægt að gera annað en hlusta á þessa þögn.

Og hugsa ekki.

 

Kvöldið

Hef verið að taka til í gömlu dóti, skoða gamla pappíra. Fann m.a. orðaskipti okkar Þorsteins Gylfasonar vegna greinar sem hann skrifaði í Skírni 1984 og ég í Frelsið nokkru síðar. Hann sendi mér nokkuð hart bréf og ég svaraði því. Það er skrýtin tilfinning að upplifa þetta aftur.

Hef einnig verið að lesa grein Halldórs Laxness um Gunnar Gunnarsson látinn, hún birtist á 3. síðu Morgunblaðsins laugardaginn 22. nóvember 1975. Þar segir hann m.a. frá því þegar Gunnar kom honum á framfæri við Dani. Þeir vildu ekki taka Halldór upp á arma sína svo að Gunnar varð að þýða fyrstu bókina sjálfur, en það varð Gunnari dýrt spaug. Hann sagði mér löngu síðar að forlagið hefði ekki viljað hafa nema einn íslenzkan rithöfund á sínum snærum og það valdi Halldór Laxness þegar fram liðu stundir.

Halldór kann vel að meta þetta og skrifar fallega grein um Gunnar. Halldór gat verið generus eða örlátur, en hann var harður í samkeppni, ef því var að skipta og mér er nær að halda að hann hafi kunnað nokkuð vel að koma sér á framfæri. Merkilegasta setningin í þessari grein hans um Gunnar er þessi: “Listamannssamviska hans var alger að því leyti sem hvert verka hans var sáttmáli hans við sjálfan sig.”

Þetta þykir mér bæði satt og flott.

 

Skoðaði einnig gamla grein eftir Ólaf Ragnar Grímsson sem hann skrifaði í Þjóðviljann helgina 11. og 12. apríl 1985. Hún heitir Stjórnarandstaða, sjúkdómsgreining. Þetta er auðvitað skítagrin enda hefur höfundurinn ævinlega haft rangt fyrir sér, en var óspar á að koma þessum röngu hugmyndum sínum á framfæri. Það er ekki furða þó að maður telji hann ekki hátt á hrygginn reistan. Hann segir í þessari Þjóðviljagrein m.a.: “Alþýðusamband Íslands hefur tekið þátt í að framkvæma lækkun á tekjuskatti launafólks og breytingar á skattalögum, sem ríkisstjórnin hefur lagt fram á Alþingi, fela í sér auk almennrar skattalækkunnar sérstakar lækkanir fyrir ákveðna hópa, eins og einstæða foreldra og leigjendur. Þessar skattalækkanir í frumvarpi Ragnars Arnalds eru svo afgerandi sönnun á markleysi stjórnarandstöðunnar í áróðri um skattahækkanir að Morgunblaðsherrarnir, sem bera atvinnutitilinn “ritstjórar” en eru í raun áróðursstjórarar Geirsmaskínunnar, einskonar forstjórar auglýsingastofunnar “Geir Formaður h.f.” - enda hefur Matthías sagt sig úr Blaðamannafélaginu - sáu þann kost vænstan að hætta í bili að fjalla um skattamál.

Meðferð Styrmis á Geir síðustu mánuði minnir á dygga þjónustu nafnlausra Moskvuskríbenta við leiðtogana í austri. Þessi yfirkeyrða framkoma ritstjóra Morgunblaðsins, sem telur sig vera einhvers konar prókúruhafa eftir Sjálfstæðisflokkinn, hefur hins vegar í reynd veikt formennsku Geirs. Nú er svo komið að fáir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eru ótvíræðir stuðningsmenn Geirs. Það er helst Halldór Blöndal sem enn styður Geir alfarið og er vafasamt að sá stuðningur  eigi að teljast formanninum til tekna. Flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa annað hvort hætt afskiptum af forystumálum flokksins, eru að leita að nýjum formanni eða gefa til kynna að þeir séu sjálfir í framboði. Raunverulegt formannsvald Geirs Hallgrímssonar er því nú þegar orðið harla lítið og væri því heppilegast fyrir andstæðinga Sjálfstæðisflokksins að hann yrði endurkjörinn formaður svo að flokkurinn yrði áfram stjórnlaus.”

Þetta var sem sagt kveðja núverandi forseta til Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins. og svo er þess krafizt það sé litið á hann sem sameiningartákn! Það er einhvers konar andlegt  ofbeldi. Og framboð hans í þetta embætti, þessa orðhvata, pólitíska lýðskrumara af sama toga. Þó ég þjáist ekki af neinu fortíðarrugli tel ég það móðgun við heilbrigða skynsemi að krefjast þess að við lítum einn góðan veðurdag á pólitíska spekúlanta eins og hver önnur fortíðarlaus viðrini sem hafa ef henta þykir, leyfi til að laga allt í hendi sér, jafnvel minningar okkar og reynslu.

En að öðru leyti hef ég ekkert á móti Ólafi Ragnar Grímssyni; nema síður sé.

 

Bréfaskipti okkar Þorsteins Gylfasonar eru svohljóðandi:

Bréf Þorsteins frá 15. apríl 1986

Matthías minn!

Ég þurfti að komast á spítala til að fá tóm til að lesa greinina þína í Frelsinu. Ég er ekki jafnhrifinn af öllu sem þar stendur, eins og gengur, og ég gæti átt það til að svara að minnsta kosti Jónasi Haralz fullum hálsi. En í bili ætla ég bara að skrifa þér til. Þú verður að fyrirgefa ef bréfið verður í lengra lagi. Hér hef ég nógan tíma. Kannski ég byrji á neðanmálsgrein hjá þér, á blaðsíðu 123: “Þorsteinn Gylfason styðst meðal annars mjög við kenningu Poppers í riti sínu Tilraun um manninn (Almenna bókafélagið, Reykjavík 1969).” Eitt aukaatriði: útgáfuárið var 1970.

Nú spurði ég: af hverju segir hann Matthías þetta? Hann hefur bersýnilega ekki verið að lesa mína bók og bók eftir Popper um sömu efni, því þá hlyti hann að hafa tekið eftir öllu því sem á milli ber. Sannleikurinn er nefnilega sá að ég styðst lítið eitt við rit Poppers í minni bók, um tvö efni, eins og fram kemur í bókinni sjálfri. Svo hvaðan er þetta komið? Hefur Matthías misskilið eitthvað sem ég hef sagt? Eða eitthvað sem Kristján hefur sagt? Var þetta kannski sagt í einhverjum ritdómi um bókina, og Matthías hafi trúað því eins og nýju neti? Þá minnist ég þess allt í einu að pabbi vakti athygli mína á svolítilli klausu í Velvakanda í fyrra eða hitteðfyrra. Þar var Hannes Gissurarson að segja álit sitt á einhverju nýyrði sem kemur fyrir í þessari bók, og lét þess getið í leiðinni, að bókin væri uppsuða úr Karli Popper (fyrri hlutinn) - sem er hvorttveggja jafnósatt ef út í það er farið. Og eftir að ég minnist þessa blaða ég áfram í Frelsinu og rek augun í  það að í miðju viðtali við Popper að spyrillinn segir þar frá eigin brjósti að ég hafi árás Poppers á Hegel allt að því óbreytta eftir honum. Hér er heimildin ef að líkum lætur, og hún er ósköp venjulegur óhróður.

Nú veit ég ekki, Matthías minn, hvort þú ert heldur að eta óhróðurinn hráan eftir eða hefur gert Hannes að skrifdraugi þínum. Það er hvorugt gott. Svo bætir það ekki úr skák að uppistaðan í málflutningi þínum gegn mér er að saka mig um hleypidóma og óheiðarleika: ég beri  fram niðurstöðu sem sé ákveðin fyrirfram af sannfæringu, án neinna sannana; og ég láti þá sem sem ég andmæli ekki njóta sannmælis heldur þegi ég um mikilsverð gögn í máli þeirra, nema þú haldir að ég hafi ekki lesið bækurnar sem ég gagnrýni, og svo beiti ég sömu brögðum sjálfur sem ég saka þá um að beita. Svo finnst þér fara vel á því í þokkabót að gera lítið úr fræðigrein minni: þú gefur skilmerkilega til kynna að hún samanstandi af hugboðum en ekki rökum eða sönnunum.

Skrifdraugur þinn - eða ónafngreindur heimildamaður - skiptir litlu sem engu í þessu sambandi. Hann er þó forvitnilegur um sumt - eins og hann var þegar hann rukkaði mig um tíu þúsund krónurnar fyrir að ég fengi að anza árásum hans sællar minningar. Hvernig í ósköpunum stendur á því að það má ekki hafa hann fyrir skrifdraug eða heimildamann um svo einfalt mál sem þetta? Ekki svo að skilja að ég kunni svar við því. En líttu á niðurlagið á ritdómi Guðmundar Heiðars Frímannssonar um þetta hefti af Frelsinu - ég las hann í Morgunblaðinu í síðustu viku minnir mig. Þar vekur Guðmundur athygli á því að í formála að þessu hefti eignar ritstjórinn mér skoðun sem er gersamlega öndverð skoðun sem ég hef að uppistöðu í alkunnri ritgerð. Og ritstjórinn getur ekki með góðu móti sagt að hann hafi ekki lesið þessa ritgerð, því að hann skrifaði langa grein á móti henni í Morgunblaðið  á sínum tíma. Hvernig getur annað eins og þetta gerzt? Við höfum báðir heyrt um fólk sem kann ekki mun á sönnu og ósönnu, eða fólk sem sér ekki nema það sem það vill sjá, en ég hef satt að segja aldrei getað tekið þær mannlýsingar bókstaflega. En kannski er eitthvað til í þeim stundum.

Ég held ég ætti að segja við þig fáein orð út af hleypidómunum sem þú berð á mig. Annar varðar efnishyggju Friedmans. Þú segir að Friedman geti ekki verið efnishyggjumaður vegna þess að hann segi að hugmyndir geti haft mikil áhrif á gang mála í veröldinni og jafnvel ráðið úrslitum. Þetta dugar þér skammt. Karl Marx var höfundur sögulegrar efnishyggju - sem er stórmerkileg kenning - og það breytir nákvæmlega engu um þessa kenningu, né heldur um trú hans á hana, að hann skrifaði margar bækur í þeirri föstu trú að þær mundu hafa áhrif og jafnvel ráða úrslitum. Lenín gerði lítið annað um dagana en að skrifa blaðagreinar og ritgerðir - hann var óþreytandi að “skipuleggja hugmyndabaráttuna” eins og ég held hann hefði kallað það - og allt þetta gerði hann í þeirri trú að hugmyndirnar réðu úrslitum. Ég væri ekki hissa ef það kæmi í ljós að hann hafi sagt einmitt þetta tólfþúsund sinnum um ævina: “Það eru hugmyndirnar, félagar! Hugmyndirnar ráða úrslitum!”

Samt var Lenín sögulegur efnishyggjumaður, meira að segja eindreginn. Hér er að vísu um svolítið snúið mál að ræða, frá heimspekilegu sjónarmiði, og snertir ekki bara sögulega efnishyggju heldur hvers konar löghyggju og svo sáluhjálparkenningar bæði Lúters og Kalvíns ofan á allt annað. En við skulum láta hreina heimspeki mæta afgangi að þessu sinni.

Ég ætla líka að fá að láta sögulega efnishyggju liggja á milli hluta núna. Leyfðu mér bara að segja örfá orð um Friedman í þessu viðfangi. Kenning hans er sú að ef við innleiðum frjálsan markað út um allt og setjum markaðsverð á alla hluti, þá komi allt annað nánast af sjálfu sér: almenningur uppsker næga læknishjálp og hvers konar menntun við hæfi, kynþáttamisrétti hverfur eins og dögg fyrir sólu og þar fram eftir götunum. Og það sem meira er: allar tilraunir okkar hinna til að draga úr sjúkdómsböli, menntunarleysi og kynþáttahatri gera illt verra og eru dæmdar til að mistakast. Þetta er auðvitað einföldun hjá mér á málstað hans, en samt er það óumdeilanlega rauði þráðurinn í tveimur heilum bókum og óteljandi ritgerðum, fyrirlestrum og blaðagreinum. Og svo vill svo illa til að fyrir þessu er ekki snefill af sögulegum rökum í ritum Friedmans: þessi skoðun virðist vera trúaratriði. Satt að segja virðast alkunnar sögulegar staðreyndir allar ganga í hina áttina. Það þurfti ekki óheftan markað á 19du öld (þegar enginn endir var á honum) til að leysa þræla úr fjötrum vestanhafs: það þurfti hugsjónabaráttu og á endanum borgarastyrjöld til. Á okkar dögum virðist friðsamleg barátta Martins Luthers King hafa ráðið miklu um fáein spor í rétta átt, svo og frægur hæstaréttardómur frá 1954 (Brown vs. Board of Education). - Af öllu þessu máttu ráða það sem ætti að blasa við af mörgu öðru líka: eignafrjálshyggjan (eða sérhyggjan eða hvað við eigum að kalla hana) er fyrst og fremst öfgaskoðun. Það sem ég er að tefla gegn henni eru hversdagslegustu rök: alkunnar staðreyndir og heilbrigð skynsemi og - ef þú vilt - borgaralegt frjálslyndi. (Þetta á við um andmæli mín gegn eignafrjálshyggjunni, ekki endilega um réttlætiskenningu mína sem er svolítið snúnara mál.)

Hinn hleypidómurinn minn snýst um það sem ég kalla “þýhyggju” hjá Nozick. Hann er svolítið alvarlegra mál en efnishyggjan því að þar verða vinnubrögðin þín megin blöskranleg. Svo blöskranleg að ég fæ ekki af mér að trúa því að þar sért þú óstuddur að verki. Þess vegna verður skrifdraugstilgátan áleitin öðru sinni; að minnsta kosti þekki ég ekki nema einn einsta mann sem er svo blöskranlegur í hugsun og skrifum, og sá er ritstjóri Frelsisins.

Hér á mér að hafa sézt yfir mikilsverðan fyrirvara um eignarétt sem Nozick geri ráð fyrir í kenningu sinni: dæmið af uppsprettulindinni í eyðimörkinni á að vera til marks um það að eignarhald geti vikið fyrir frelsinu. Nú er eitt meinið það að ég fjalla um þennan fyrirvara í löngu máli - á rúmum tveimur blaðsíðum - en höfundur þinnar greinar hefur hlaupið yfir þær. Hitt er kannski öllu verra að höfundurinn virðist ekki hafa lesið alla blaðsíðuna sem hann vísar á hjá Nozick, hvað þá allan kaflann. Það sem hér er um að ræða er sá fyrirvari Lockes um öflun eigna að enginn maður megi sölsa meira undir sig en svo að nóg sé eftir, og það jafngott, handa öllum öðrum (sjá Skírni, 186). Til nánari skýringar má geta þess að fyrirvarinn hér er sambærilegur við þann sem til að mynda stuldur veldur: það er sama hvað ég hef lagt mig fram við að komast yfir hlut: ef hann er stolinn þá eignast ég hann ekki. Eins er það í eyðimörkinni: við þær aðstæður skapast enginn eignaréttur. Þar er einmitt ekki um það að ræða að “eignaréttur víki fyrir frelsi”: á það leggur Nozick sérstaka áherzlu á bls. 180. Og hvers vegna gerir hann það? Vegna þess að eftir kenningu hans er eignaréttur náttúruréttur (eða mannréttindi eins og ég kýs heldur að kalla það í minni ritgerð: þar með slepp ég við að gera ítarlega grein fyrir náttúrurétti). Aftur á móti er mín kenning sú í þessum punkti - eins og kenning til dæmis Humes og Páls Árdal sem ég vitna til - að eignaréttur sé ekki nema mannasetning, og þar með megi ganga á hann (nota bena: megi, ekki eigi) ef svo ber undir, til dæmis í nafni almannaheillar eins og í stjórnarskránni eða í nafni réttlætis sem er jafnmikilsvert mál eftir mínum kenningum. Og í þessu efni er hið sama að segja og um Friedman áðan: hér er málstaður okkar Páls og Humes - og Johns Stuarts Mill og margra fleiri ef út í það er farið - ekkert annað en heilbrigð skynsemi sem teflt er gegn fávíslegum öfgum.

Leyfðu mér að taka dæmi til skýringar. Segjum að fáeinir bændur eignuðust allar laxveiðiár í landinu og leigðu þær útlendingum fyrir morð fjár sem jafnvel Seðlabankinn hefði engin tök á að reiða fram. Þá yrðir þú, skulum við segja, að fara til Írlands á vegum einhverrar ferðaskrifstofu til að komast í lax. Nú mundi ég vilja segja að við þessar aðstæður sért þú ekki lengur frjáls maður í frjálsu landi (og ég ekki heldur þótt ég hafi engan áhuga á að veiða lax). Og í krafti þessarar frelsisskerðingar þykir mér það vissulega koma til álita að takmarka eignarhald bændanna með einhverju móti. En hér vill Nozick fara öðru vísi að. Hann vill láta meta hagsmunina sem um er að ræða til fjár og að fyllsta tillit sé tekið til gjaldeyristeknanna sem bændurnir afla, kjaranna sem þú nytir hjá ferðaskrifstofunni, aflaverðmætis í írskum ám og íslenzkum (þú sérð að hér mætast eignahyggjan og efnishyggjan í einum punkti). Það er þetta sem ég á við þegar ég segi í Skírni: “hér er frelsið allt í einu hætt að skipta meginmáli: það má meta til fjár og selja fyrir hálfa skósóla ef einkaeignarhagsmunir eru í húfi.” En þið hlupuð yfir blaðsíðurnar þar sem þetta stendur.

Um Jónas Haralz gæti ég skrifað langt mál, og á það kannski eftir eins og ég sagði. Ég nenni því ekki núna. Málflutningurinn er yfirgengilegur, og heldur hrikaleg sjón að sjá það svart á hvítu að þú takir undir hvert orð í þeim samsetningi. Stundum er eins og Jónas komi úr annarri heimsálfu. Til dæmis virðist hann ekki hafa hugboð um að til sé kvikmyndasjóður, og hann eigi drjúgan þátt í að hleypa kvikmyndagerð í landinu af stokkunum. Og þú tekur undir. “Það er Þjóðleikhúsið og synfóníuhljómsveitin (hann kann ekki einu sinni að stafsetja það), sem ríkið á heiðurinn af, en þar hefur varla verið að finna frjóangana í listsköpun.” Hér er nú til dæmis leikhúsið sem sýnt hefur leikritin þín: enginn frjóangi þar. Og þú tekur undir. Eða líttu á þessa setningu, þó ekki væri nema fyrir tóninn í henni: “Og svo hefur ríkið að sjálfsögðu ausið fé í niðurgreidd námslán fyrir hvern, sem hafa vildi, en ætli uppskeran af því sé sá þroski, sem Þorsteinn Gylfason gerir sér vonir um, þegar allt kemur til alls.” Nú skal ég segja þér eitt, Matthías minn: fjórir af hverjum fimm nemendum mínum hefðu engin tök á að lesa heimspeki nema fyrir námslán. Og þetta er allt saman fyrsta flokks fólk. Margt af því hefur raunar unnið á Morgunblaðinu. Annað vill verða fræðimenn, og við sendum það í suma af beztu háskólum heimsins. Þegar þangað er komið duga því engin námslán, eins og þú veizt manna bezt, heldur verða að koma til háir styrkir þar - sem eru mestan part sprottnir af almannafé á endanum. Nei, þetta er ekki þroskað fólk. Og þú tekur undir.

Eða taktu bara þetta um Marc Chagall:

Hvað hefði gerzt, ef hann hefði fæðzt svo sem tuttugu árum síðar og átt þroska sinn allan undir því góðviljaða ríkisvaldi, sem hann sjálfur á sínum tíma - að ógleymdum Þorsteini Gylfasyni - gerði sér svo miklar vonir um? Þegar ég hugsa um þetta, liggur við, að mér finnist, að sjálft Gúlagið jafnist ekki á við þann glæp, að sannleikurinn um heilar þjóðir fái ekki að koma í dagsljósið áratugum saman, jafnvel öldum saman.

Hér gerir hann mig að stuðningsmanni rússnesku byltingarinnar, og sakar mig þar með um aðild að því sem hann telur verri glæp en gervallar þrælabúðir Ráðstjórnarríkjanna. Og þú tekur undir. Þú tekur undir hvert orð. En þú hefur kannski ekki lesið bréfið, fremur en bækur okkar Poppers og Skírnisgreinina mína og blaðsíðuna sem  þú vísar á hjá Nozick. Er það bara Hannes sem les?

Ég er ekkert að biðja þig afsökunar á þessari beiskju. Ég vona þú sjáir í hendi þér, þegar ég hef bent þér á það, að tilefnið er ærið. Og samt er ekki allt talið. Ég hef aldrei þurft á því að halda að bera hleypidóma og óheiðarleika upp á vini mína á prenti. Ef ef eitthvað er víst um mig þá er það þetta: áður en til þess kæmi mundi ég bera undir þá það sem ég hefði skrifað, kannski í þeirri von að mér skjátlaðist um þá. Það er einmitt af þessum sökum að ég sit nú við að skrifa þér bréf en ekki grein til birtingar. Og nú verð ég að játa að mér finnst sjálfsagt að ætlast til hins sama af vinum mínum. Og ekki batnar það þegar málsatvik eru eins og hér er raunin á: ég bauð þér að lesa þessa grein - eða bað um að fá að lesa hana ef þú vilt það orðalag heldur - áður en hún birtist, og þú færðist undan því með þeim rökum að þú hefðir ekki heilt eintak af henni undir höndum. Ég sagðist þá geta litið á próförkina af henni, án undirtekta. Hins vegar kemur fram í greininni að þér þótti rétt að láta Jónas Haralz lesa hana í handriti, og eiga meira að segja aðild að henni áður en lyki. Meira um það á eftir.

En sleppum öllu þessu. Þó svo þú hefðir engar áhyggjur af skyldum manna eða tillitssemi við vini sína þá hefðu hyggindi átt að koma til skjalanna og halda aftur af þér. Því þú ættir að vita - og veizt ugglaust þegar á þig er gengið - sitthvað um það sem hér er í húfi öðru fremur: það er fræðimennska. Ritgerðin mín í Skírni er fræðileg ritgerð: sú helzta ef ekki hin eina sem skrifuð hefur verið á íslenzku um mikilsvert efni. Svo vill svo til að þetta efni er í brennidepli um þessar mundir í hvers konar mannlegum fræðum: hagfræði og öðrum félagsfræðum ekki síður en í heimspeki. (Kannskii ég fái að minna á það að hún fjallar um réttlæti; það nefnið þið Jónas ekki á nafn í frumstæðu nöldri ykkar í minn garð.) Og eins og ég segi: þú ættir að vita sitthvað um eðli fræðilegra ritsmíða. Eitt er það til dæmis að þær eru nokkuð vandlega samdar. Oft er það svo að þær eru þaulreyndar í rökræðum: mín er marglesin víða um lönd eins og ég tíunda samvizkusamlega í lokin; hún er líka vandlega lesin af starfsbræðrum mínum eins og ég þakka þar fyrir. Þær eru þó kannski einkum samdar handa stúdentum - skínandi skörpu og leiftrandi fjörugu ungu fólki - til að þeir rökræði þær í kennslustundum og samkvæmum, spreyti sig á að rífa þær í sig, skrifi um þær ritgerðir. Í svoleiðis umhverfi, Matthías minn, vanda menn sig. Þeir sletta engu úr sér um bækur sem þeir hafa ekki lesið. Þeir láta ekki annað fólk skrifa í gegnum sig. Og ef minnsti misbrestur verður á þessu - eins og hjá pabba um árið - þá biðja menn auðmjúklega og opinberlega afsökunar eins og hann gerði. Það kemur jafnvel til greina að menn láti af störfum fyrir þessar sakir. Allt þetta ætti ritstjóri Morgunblaðsins að vita upp á sína tíu fingur, þó svo hann hefði ekki fengizt við það sjálfur að setja saman fræðilegar ritgerðir eins og þú hefur gert.

Nú fer auðvitað ekki hjá því að ég velti því fyrir mér um mann sem ég þekki jafn vel og þig hvernig annað eins og þetta getur gerzt. Eitt er kannski það að þér þyki ásakanir um hleypidóma og óheiðarleika svo hversdagslegar að það sé fráleitt af manni eins og mér að vera að fjargviðrast yfir þeim, enda situr þú í valdastóli í miðju þjóðmálaþvarginu þar sem hleypidómar og hvers slags óheiðarleiki eru daglegt brauð. Það er ekki einu sinni víst að þú sjáir að það er ekkert annað en hleypidómar og óheiðarleiki sem þú sakar mig um, og gleymir því svo líka að hleypidómaleysi og ýtrasti heiðarleiki í málflutningi eru lífæðar allra fræða. Allt vald spillir.

Annað er kannski það að þú skiljir það ekki - fremur en Jónas skilur það eins og ég veit af löngum kynnum - að ritgerð eins og mín er leit að sannleikanum - og okkar á milli sagt samin til að vera lesin eftir hundrað ár. Enn er það kannski valdið sem spillir því að þú ert ekki að leita að neinum sannleika og þykist jafnvel ekki þurfa á honum að halda. Þú snýst hring eftir hring í þeirri viðleitni að gera skoðanir ykkar Jónasar (og jafnvel Hannesar) að einni skoðun. Þú ert ekki að hugsa um hugsandi fólk eftir hundrað ár sem rekst á greinina (en ekki á höfundinn): þú ert að leita að dulu til að veifa framan í fólk fyrir bæjarstjórnarkosningar. Enda segirðu að ég sé líklega haldinn oftrú á sannleikanum. Allt vald spillir. Eða ég vona að það sé spilling valdsins en ekki hugarfarsins. Og vertu svo kvaddur að sinni.

Gleðilegt sumar!

Þinn Þorsteinn.

 

 

Reykjavík, 29. apríl 1986

Þorsteinn minn.

Þegar ég fékk bréfið þitt í hendur þar sem ég var í önnum niðri á Morgunblaði 25. apríl sl., hripaði ég niður nokkrar línur og ætlaði að senda þér þegar í stað en hætti við það. Mér fannst þú eiga dálítið ítarlegra bréf skilið en þessi fyrstu viðbrögð mín. Mér finnst samt rétt að segja þér nokkur atriði úr þessu handskrifaða bréfi sem ég sendi ekki, áður en ég sný mér nánar að gagnrýni þinni á mig.

Ég get þess í upphafi að mér hafi sannast sagna ekki dottið í hug að þú mundir taka grein mína í Frelsinu jafn óstinnt upp og raun ber vitni. Ég skrifaði hana til að ýta frá mér og skýra sjálfur frá skoðunum mínum á velferðarríkinu en láta ekki Hannes Hólmstein né aðra skipa mér í flokk. Það var kjarni málsins, allt annað umbúðir sem rithöfundur gamnar sér við, en geta ekki  talist aðalatriði. Það var megintilgangur greinar minnar að skýra skoðanir mínar, en ekki annarra. Þessi flokkaskipting Hannesar er farin að angra mig, ekki síst vegna þess að velferðarríkið er mér mikilvægt hugsjónamál og ég hef með sjálfum mér orðið að finna flöt á því hvernig það getur komið heim og saman við þjóðfélagið og hlutskipti einstaklingsins eins og ég þekki það. Þegar ég gagnrýndi Hannes þótti mér greinin fölsk og ég hálfgerð undirlægja ef ég ekki minntist einnig á þína grein og gagnrýndi í henni fullyrðingar sem mér féllu ekki. Ég tel mig enganveginn stuðla að alræði þótt ég kunni vel við mig í slagtogi með Popper, sem mér finnst merkastur frjálshyggjumanna, og reyni að kynna mér skoðanir annarra af því sauðahúsi án þess ég treysti mér til að skýra allar skoðanir hans eða þeirra. Það er margt í texta þeirra sem allir eru ekki á einu máli um og hver skilur sínum skilningi. Hayek er mér auðveldari en Nozick.

Þetta var nú það sem mér gekk til með grein minni og allra sízt að særa gamlan vin. Segi það eins og er að mér þykir það afar leitt, svo mjög sem ég met vináttu okkar. Ég hef alltaf talið mönnum til tekna, frá því ég kynntist Popper, ef þeir hafa haft hann til hliðsjónar í málflutningi sínum og er raunar óskiljanlegt með öllu að slíkt geti verið óhróður. En líklega hef ég flaskað á einhverju sem ég geri mér ekki grein fyrir og heyrir til þeim leyndardómi sem er lífið sjálft.

Ég segi ennfremur í þessu handskrifaða uppkasti að heimspeki og hennar greinar séu ekki sérfag mitt og þar standir þú að sjálfsögðu framar en ég. Það sé raunar ekki ástæða til að gera of mikið úr því hvernig ég reyni að ýta frá mér. Ég var ekki að skrifa þeim til sem lesa greinina eftir hundrað ár, eða því skyldu menn vera að eyða tíma í það þegar allar okkar hugmyndir um þjóðfélagið verða hvort eð er orðnar úreltar vegna tækniframfara og örra breytinga á högum mannsins og umhverfi. Ég var einungis að gera hreint fyrir mínum dyrum eins og nú háttar. Það fór því illa í mig þegar þú ásakaðir mig fyrir að hafa ætlað greininni það hlutverk eitt að vera eins og hver önnur dula fyrir bæjarstjórnarkosningar eða frumstætt nöldur í þinn garð. Ég vissi ekki betur en Frelsið ætti að koma út fyrir meira en hálfu ári og engar kosningar í sjónmáli þegar ég skrifaði greinina. Ég er ekki í framboði og skrifa ekki um skoðanir mínar á þennan hátt vegna kosninga, ég hélt þú þekktir mig nógu vel til að vita það. Glámskyggni mín taldi að þú mundir  taka greininni eins og hverri annarri ábendingu og Kristján (Karlsson) taldi einnig að svo mundi verða þegar ég sagði honum frá henni. Allra sízt datt mér í hug að þessi orð mín um Skírnis-grein þína gætu verið túlkuð sem hleypidómar og óheiðarleiki af þinni hálfu, slíkt var raunar svo fjarri mér að ég leiddi ekki einu sinni hugann að því. En við lesum augsýnilega ekki alltaf það sama út úr því sem skrifað er, enda er ég ekki sérfræðingur í heimspekilegum texta þótt ég lesi hann stundum - en þér virðist það jafngilda því að ég sé ólesinn í fræðunum. Eða hvernig á ég að svara þeim grun þínum að ég hafi ekkert af því lesið sem ég fjalla um, ekki einu sinni Skírnis-grein þína? Á þessum punkti er ég auðvitað heimaskítsmát því þú gerir mér upp vinnubrögð sem grein mín á auðvitað að afsanna. Þú afskrifar hana, að mér skilst vegna túlkana sem þér mislíkar.

Mér er ljúft að viðurkenna að ég er ekki sterkur í heimspeki og á oft erfitt með að skilja heimspekilegan texta og hef kannski einhverja hleypidóma gagnvart honum á stundum, en minni þig á að ég er ekki einn um það, jafnvel Laxness hefur hleypidóma gagnvart slíkum texta og hefur t.a.m. afgreitt þýzka heimspeki með fyrirlitningu sem finnst ekki í grein minni. Sjálfur hef ég heyrt þig afgreiða Hegel án sérstakrar aðdáunar. Naut þess betur þegar þú skýrðir Kant í háskólafyrirlestri sem var mér þá andleg sálubót. Ég hef alltaf gert mér grein fyrir mikilvægu starfi þínu við Háskólann.

Ég segi einnig í handskrifaða bréfinu að ég hafi ekki haft Frelsis-grein mína við höndina þegar ég sagði þér frá henni og þú óskaðir eftir að fá að sjá hana því handritið, hið eina sem til var fullgert, var í höndum Hannesar Hólmsteins í Bretlandi og mér ekki tiltækt eins og á stóð. Hugsaði svo ekki meira um það því að ekki hvarflaði að mér að þér mundi sárna með þeim hætti sem raun ber vitni.

Lokaorð mín í þessu bréfi voru þau að ég hafi ekki vitað að þú værir á sjúkrahúsi. Ég óskaði þér svo góðs bata og gleðilegs sumars með þökk fyrir allt gamalt og gott. Viðurkenni þó að ég hafi fengið betri sumarkveðju en bréf þitt! Segi að það sé hollt að horfast í augu við vald sitt en þó haldi ég að of mikið sé einatt gert úr valdi Morgunblaðsritstjóra. Það er í aðra röndina þjónustustörf, oft skotmark en einnig einhvers konar sálgæzla, ef svo ber undir. Þetta margnefnda vald notum við þá helzt í þágu þess sem við trúum á að geti verið gott fyrir fólkið í landinu. En okkur eru að sjálfsögðu mislagðar hendur eins og öðrum og ekki erum við hleypidómalausir frekar en aðrir og flytjum oft skoðanir sem öðrum eru þyrnir í augum. Ef þú átt við valdbeitingu og spillingu sem af henni leiðir, þá er hún ekki í verkahring okkar, ritstjóra Morgunblaðsins. Við höfum einfaldlega ekkert framkvæmdavald og sækjumst ekki eftir því.

Þegar heim kom líkaði mér ekki allskostar handskrifaða bréfið og hripaði niður nokkrar línur til viðbótar sem ég læt fylgja þessum orðum:

Frelsis-greinin var aðallega gagnrýni á Hannes Hólmstein, enda hefur hann sagt mér að hann hyggist svara henni með einhverjum hætti. Það er honum í sjálfsvald sett. Ég tel mig hafa rétt til þess - og raunar heyrir það bæði undir mannréttindi og réttlæti - að taka sjálfur til máls um það hvaða skoðanir ég hef á þjóðmálum og stöðu einstaklingsins í þjóðfélaginu.

Ég hlýt einnig að mega hafa skoðanir á því hvort ég sé fjölhyggjumaður eða frjálshyggjumaður, og þá hvernig frjálshyggjumaður. Ég hef, eins og ég hef minnzt á, haft sérstaka ánægju af að lesa Popper og tel mig standa honum næst þeirra hugsuða sem taldir eru til frjálshyggju nú á dögum. Fáir hafa skrifað eins glögglega og hann um marxismann, en líklega túlka hvorki ég né aðrir verk hans með sama hætti, né annarra þeirra sem við sögu koma í grein minni. Þó hygg ég að ég skilji kjarnann í málflutningi Poppers um einstaklinginn í þjóðfélaginu, en leitaðist þó einnig við vegna fullyrðinga Hannesar Hólmsteins að kynna mér skoðanir Berlins fjölhyggjupostula sem hann nefndi því Hannes fullyrti að hann væri lærimeistari minn. En það er rangt eins og ég sýni fram á. Ég þekkti raunar ekki verk hans fyrr en ég fór að kynna mér þau eftir grein Hannesar.

Það sem mér virðist fara mest í þig eru túlkanir mínar á atriðum sem eru viðkvæmari en ég hef líklega gert mér grein fyrir. En það er mér að sjálfsögðu einnig viðkvæmt mál hvort ég er flokkaður með alræðissinnum og þeim sem sagt er að hafi enga samúð með fátæku fólki eða þeim sem eiga bágt. Þá ýti ég frá mér. Grein mín var skrifuð í þeim tilgangi einum að svara fullyrðingum sem snerta hugmyndir mínar um einstaklinginn og þjóðfélagið og ég hvorki vil né get setið undir. Ég reyni að túlka þessar hugmyndir á minn hátt og skýra með því hugsjón mína um einstaklinginn og þjóðfélagið. Frjálshyggja mín, sem er einfaldlega gömul stefna Sjálfstæðisflokksins, á hvorki skylt við alræði né þröngsýnar kröfur um að allir menn eigi að spjara sig en farast ella. Ég vil vernda það mannúðarþjóðfélag sem við búum í og kallað er velferðarþjóðfélag. Kjarni greinar minnar í Frelsinu var sá - og sá einn - og hefði hún því vel getað heitið: Til verndar velferðarþjóðfélaginu. Ég vil að við kappkostum að sníða af því agnúana svo það hlaupi ekki með okkur í gönur. Duglegt fólk, sem greiðir háa skatta, á kröfu á því að hvorki embættismenn né stjórnmálamenn sói peningum þess, m.a. til að kaupa sér atkvæði. Ég tel mig hafa fullt leyfi til að gagnrýna slíka spillingu og hika ekki við að veita þeim mönnum áminningu einnig sem eru taldir til sama flokks og ég, en þetta er vandmeðfarið. Við eigum eftir að læra margt í siðfræði og stjórnspeki áður en draumurinn um hið fullkomna velferðarríki rætist. Sumir frjálshyggjumenn telja að velferðarríkið geti leitt til alræðis, þú telur að skoðanir þeirra geri það einnig. Ég ætla að trúa því að mikið frelsi einstaklingsins í velferðarríki leiði ekki til alræðis, heldur draumsjónar sem verði orðin að viðunandi veruleika eftir hundrað ár. Annars er ég víst ekki nógu góður að skilja draumsýnir annarra manna og má vel vera að hugmyndir mínar um Nozick séu á sandi byggðar. Ég á erfitt með að fylgja honum eftir, það er satt. Það er stundum erfitt fyrir skáld að fylgja öðrum skáldum eftir. Við erum öll bundin af eigin hugmyndum og draumsýnum. Draumsýnir Nozicks eru sprottnar úr þjóðfélagi sem er mér - og hefur alltaf verið hvað oft sem ég hef farið til Bandaríkjanna - framandi, hvort sem það er góð eða vond latína. Spurningin um eignarréttinn hefur einnig vafizt fyrir mér, það er rétt hjá þér. Ég efast um að ég eigi nokkurn tíma eftir að komast að endanlegri niðurstöðu í því efni frekar en öðrum - enda hef ég aldrei eignazt neitt sem orð er á gerandi. Ég stefni  ekki heldur að neinu endanlegu. Ég hef gaman af hugmyndum annarra, jafnvel þótt ég skilji þær ekki alltaf. Ef ég túlka þær ranglega, þá er það mitt vandamál, en ekki þeirra sem hafa sett þær fram. Ég tók það sérstaklega fram í Frelsisgrein minni að íslenzka stjórnarskráin liti ekki svo á að eignarréttur sé fullkomlega friðhelgur. En stjórnmálamenn eru óvandaðri að meðulum en svo að ég treysti þeim til að taka ákvarðanir um hvenær að honum má vega. Kannski ætti það að vera hlutverk lögskýrenda og hæstaréttardómara, ég veit það ekki. Líklega er það á fárra manna færi að fara með þetta viðkvæma mál, ég á ekki við á prenti heldur í raunveru daglegu lífi, andspænis raunverulegum vandamálum, en ekki ímynduðum. Að sjálfsögðu hef ég gert mér grein fyrir því að orð og hugmyndir eru til alls fyrst og þarf ekki að minna mig á það. Hugmyndir eru erfiðar viðfangs þegar á að fara að framfylgja þeim. Lærisveinar Lenins hafa ekki sízt komizt að raun um það. Hvað sem því líður, þá er eignarrétturinn hvetjandi afl, getur leitt til verðmætasköpunar og ekki sízt komið í veg fyrir sóun með hagsmunavarðveizlu. Sú staðreynd að ríkið á allar eignir í Sovétríkjunum, eða mest allar, er ein helzta forsenda þess hversu fólk býr þar við léleg kjör. Eða hvers vegna skyldi það umgangast eignir sósíalismans með sama hætti og eigin eignir? Grein sovézka prófessorsins Vladimir Shlapendokh í Wall Street Journal, er merkileg heimild um það og höfum við í hyggju að geta hennar í Reykjavíkurbréfi. Hann er prófessor í félagsfræði við háskóla Michigan-fylkis, en kom til Bandaríkjanna frá Sovétríkjunum 1979 og er flestum hnútum kunnugur í myrkviði marxismans.

Ég get með engu móti séð að sú sögulega efnishyggja sem hefur leitt sóunar- og spillingarkerfi yfir fólkið í kommúnistaríkjunum, svo ekki sé talað um gúlagið, geti verið merk kenning fyrir annað en mistök. Alræði í kjölfar hennar er einhver mesti smánarblettur í sögunni.

Ég hef forðazt þátttöku í þessum hildarleik og mátt þola margt af þeim sökum, ekki sízt sem rithöfundur. En það verður svo að vera. Og ef aðrir fjölluðu um frjálshyggjuna með þeim hætti að leitt geti til alræðis, þá væri það ekki mín sök. Enda væri ekki um frjálshyggju að ræða að minni hyggju, heldur eitthvað allt annað sem ég kann ekki að nefna. Með grein minni í Frelsinu vildi ég vara við einstrengislegum skrifum um viðkvæm mál. Fyrir mér vöktu engar  atkvæðaveiðar, heldur ósk um að fá að marka sjálfum mér bás án tillits til annarra, einnig vina minna. Guðmundur Heiðar, sem þú nefnir í bréfi þínu og ég hef áður heyrt á þér að þú metir mikils, hafði ekkert nema gott eitt um þessa viðleitni mína að segja. Alþýðublaðið túlkaði hana rétt á forsíðu. Sjálfum líður mér betur eftir að hafa tekið af skarið. Vona þó að ég hafi ekki höggvið of nærri Hannesi Hólmsteini, sem er ekkert allt of ánægður með allt í greininni - frekar en þú. En mest þykir mér fyrir því að hafa sært þig með þeim hætti sem raun ber vitni, og endurtek það.

Þér finnst ég tala af lítilli virðingu um heimspeki. Það hefur aldrei vakað fyrir mér að umgangast hana með forhertu hjarta. Hún er, að ég held, í ætt við skáldskap. Hún er orðisins list. Hún knýr okkur eins og hann til að horfast í augu við sjálf okkur og hún krefst mikils af hugsun  okkar. En við  erum misjafnlega í stakk búin til að njóta hennar. Hún kemur mér sem leikmanni þannig fyrir sjónir, að hún sé með sama marki brennd og bókmenntafræði. Rök hennar leiða fremur til ályktana en niðurstöðu. Ég vildi ekki fara til tunglsins á rökum þessara fræðigreina, þótt nauðsynlegar séu í viðleitni okkar til að gegna hlutverki mannsins á jörðinni.

Ég hef verið að dunda við að telja mönnum trú um að Sturla Þórðarson hafi skrifað Njálu, eða a.m.k. haft hönd í bagga með verkinu. Sjálfur er ég þess raunar fullviss og hef reynt að sýna fram á það með rökum. En þau duga mér því miður ekki alla leið að niðurstöðu. Þau verða líklega einungis eins og hverjar aðrar hugmyndir sem menn tala um sín á milli á mannamótum, og einn og einn sérvitringur gantast með á prenti. Ég tel nokkurn veginn víst að ályktun mín, skoðun eða fullyrðing verði hvorki vísindalega sönnuð né afsönnuð. Ég hlýt að taka því karlmannlega að menn beri brigður á málflutning minn. Hann getur ekki boðið upp á raunvísindalegar sannanir, jafnvel ekki þótt menn færðu sér í nyt tölvur og sýndu fram á hvað Hákonar saga Sturlu Þórðarsonar sé ólík Njálu í stíl og orðnotkun. Hákonar saga er nefnilega jafnólík Íslendinga sögu Sturlu og er þó vitað að hann skrifaði bæði ritin.

Ég tel mig hafa fullt leyfi til að rökræða þetta fram og aftur, hef samt enga sérstaka löngun til þess í raun og veru að Sturla hafi skrifað Njálu, þykir einunigs flest benda til þess og hef haft löngun til að koma því á framfæri. Þetta hefur mér þótt eitt skemmtilegasta viðfangsefni mitt og á rætur í háskólanámi mínu. Ég hef einnig skrifað önnur atriði þar sem rökin hafa verið miklu áhrifameiri og ég hef getað sýnt fram á niðurstöður, sem að mínum dómi jafngilda sönnunum. Það hefur mér ekki þótt jafn heillandi og umfjöllunin um Sturlu, jafnvel þótt sumir hafi brugðizt ókvæða við, en því verð ég að sjálfsögðu að hlíta.

Þú hefur fullan rétt á að telja þjóðfélagshugmyndir helztu hugsuða frjálshyggjunnar nú um stundir leiða til alræðis eins og sögulega efnishyggju marxismans og bera fram rök fyrir því, sum harla athyglisverð að mínum dómi, án þess ég telji mér skylt að falla fyrir niðurstöðunni. Og mér er þá einnig heimilt að nefna þann fyrirvara minn að þetta geti enginn vitað. Þjóðfélag frjálshyggjunnar sé ekki til, en marxisminn blasi við í öllum áttum. Þótt margir hafi talið hann fagra hugsjón, hefur hann alls staðar leitt til alræðis. Ég mundi aldrei telja það þjóðfélag til frjálshyggju sem pakkað væri inn í eitthvert alræði einræðisseggja, né hef ég séð þess merki að frjálshyggjutilburðir leiði til ófrelsis í þeim löndum sem hafa komizt næst hugmyndum frjálshyggjumanna um ákveðna þjóðfélagsgerð. Um þetta fjalla ég m.a. í grein minni margnefndri, það er allt og sumt.

Ef mér hefur skjátlazt hef ég fullt leyfi til þess án þess það snerti heiður minn að öðru leyti. Ef ég hef mistúlkað eða misskilið orð þín og hugmyndir að einhverju leyti þykir mér það leitt. Ég hef hingað til getað lesið texta án þess aðrir kæmu þar við sögu. Og í raun og veru hef ég, eins og þú, fullt leyfi til að skilja hann mínum skilningi án þess neinn siðferðisbrestur komi þar til. Það er mér einfaldlega viðkvæmt mál ef fullyrt er að ég aðhyllist grundvallarskoðun og markmið sem taka hvorki tillit til sannleika, réttlætis né mannúðar og hljóti að leiða til þeirrar verstu þjóðfélagsgerðar sem ég þekki og hef reynt að forðast frá því ég var ungur sjómaður í Leningrað á stalínstímanum. Þá fékk ég andúð á alræði eins og krakkarnir segja - beint í æð. Ekkert af þessu kemur Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni á nokkurn hátt við, né heldur Jónasi H. Haralz né öðrum þeim sem mér hefur verið skipað í flokk með. Í raun og veru hef ég alltaf verið einfari þótt starf mitt hafi gert kröfur til opinberra afskipta. Mér líður bezt innan fjögurra veggja heima hjá mér, og nú orðið fer ég sjaldan á mannamót. Ég hef mesta hneigð til að skrifa og yrkja og vera einn með hugsunum mínum. Ég er ekki eins félagslyndur og margir halda, og kannski á ég ekki heima í flokki með neinum. Samt hef ég sýnt vissa viðleitni til félagslyndis, fremur af nauðsyn en þörf. Hitt er svo annað mál að ég hef sótt mikinn innblástur, menntun og uppörvun til þeirra fjölmörgu ólíku vina minna sem ég hef kynnzt um ævina, bæði þeirra sem ég hef skrifað um og annarra. Ég hefði ekki viljað missa af þeirri reynslu. En ég þykist þó vita að munkarnir í Ettal kunni öðrum mönnum betur að laga þann líkjör sem bragðast. Með líkjör hafa þeir kallazt á gegnum aldirnar. Slíka einveru kann ég að meta og ekki sízt þann sannleika sem þetta fólk hefur verið að reyna að brjóta til mergjar. Ég hef oft þurft að tala við sjálfan mig með þessum hætti. Ástæðan er einfaldlega sú, að skyldurækni hefur alltaf verið minn helzti ókostur. Tillitssemi við aðra hefur oft verið mér fjötur um fót. Sjálfsgagnrýni hefur nagað mig meir en nokkur veit. En ég hef gagnrýnt aðra minna en ég hefði átt að gera. Þar hefur þú verið mér fremri, Þorsteinn minn.

Vafalaust er það rétt hjá þér að ég hefði átt að segja að þú hafir stuðzt lítillega við rit Poppers í þinni bók, eða eitthvað í þá átt. En hitt verð ég að viðurkenna að við túlkum bréf Jónasar H. Haralz með ólíkum hætti. Ég las ekki það sama út úr því og þú gerir. Ég les einfaldlega út úr því hugmyndir um sem mest frelsi einstaklingsins í þjóðfélaginu og sem minnst afskipti ríkisins af hans högum. Ég hef marglýst því yfir að ég telji að ríkið eigi að sinna menningar- og mannúðarmálum, m.a. í ræðu sem formaður Menntamálaráðs, bæði fyrir skömmu og í fyrra, og raunar víða annars staðar. Morgunblaðið hefur einnig haft þessa stefnu. En ríkið á ekki að vera einhver endalaus forsjón sem vasast í öllu án aðhalds. Ég taldi Jónas einfaldlega vera að vara við því. Ég þekki Jónas ekki að því að vera þröngsýnn ofgamaður, ekki frekar en sjálfan mig, enda hef ég talið að við ættum einatt samleið þótt okkur hafi einnig greint á um ýmislegt. Mér datt satt að segja aldrei í hug að hann væri að gera þig að stuðningsmanni rússnesku byltingarinnar eins og þú segir í bréfi þínu, hrökk raunar mjög við þegar ég las þetta og gerði mér grein fyrir að þú lítur svo á. Ég má ekki til þess hugsa að þín túlkun sé réttari en mín. Þeir sem ég hef spurt skilja hana mínum skilningi. Ég tel að Jónas hafi einfaldlega tekið almennt dæmi um gúlag og yfirhylmingar og talið yfirhylmingarnar jafnvel meiri glæp en gúlagið sjálft. Það má raunar til sanns vegar færa. Þar sem þú hefur aldrei verið með neinar yfirhylmingar getur þú ekki tekið þessi orð til þín. En það má vera að ýmsir aðrir Íslendingar hafi ástæðu til að íhuga þessi orð. Ef að mér hefði hvarflað að þú gætir tekið þessi orð til þín hefði ég að sjálfsögðu aldrei tekið undir þau því að enginn ætti að vita betur en ég að þú hefur ýmugust á terror og alræði. Ég þarf ekki að fá neinar upplýsingar um það, hvorki frá Jónasi H. Haralz né öðrum. Ég vona að þú trúir því einnig um mig, að ég styðji ekki skrif né stefnu sem leitt gætu til alræðis. Og vangaveltur þínar um spillingu valds eða hugarfars vona ég að séu fyrstu en ekki síðustu viðbrögð þín. En kannski ég sé ekki nógu viðkvæmur fyrir slíkum ákúrum og ætti að bregðast reiður við. Reynsla mín hefur kennt mér að ekki komi allir dagar í böggli og kjarni málsins sé sá að maður eigi að reyna að vera sáttur við sjálfan sig því maður geti hvort eð er ekki verið sáttur við alla aðra - og ekki heldur alltaf vini sína. En þeir eiga sinn rétt einnig og ég virði fullkomlega þinn rétt til að gagnrýna mig, skoðanir mínar og vinnubrögð, jafnvel þótt þú ætlir mér siðleysi sem ég hef alla tíð reynt að forðast. Verst þykir mér þó að hafa lent á steðjanum í deilu ykkar Hannesar Hólmsteins en ég hef aldrei skilið þá sennu og ávallt reynt að forðast hana. En það er gamla sagan, við höfum ekki í öllum höndum við lævísan húmor tilverunnar, þetta sem helzt nú varast vann varð þó að koma yfir hann.

Þegar ég að endingu hugsa um bréf þitt finnst mér skýringin á viðbrögðum þínum einna helzt vera sú að mér sé ekki tamt að skrifa um viðfangsefnið með þeirri tækni sem þú sem háskólakennari gerir kröfur til og aðferð okkar að lesa í heimspekilegan texta sé með ólíkum hætti. Ég tel að texti Jónasar H. Haralz sé ljós og einnig ótæknilegur og tel mig skilja hann rétt en sé að þú ert þar á annarri skoðun. Það væri þá helzt niðurlagið um velferðarríkið sem ég gæti eitthvað amazt við því að ég á það sameiginlegt með þér að telja það mikilvægara markmið en Jónas virðist gera. Slík blæbrigði eru þó ekki óalgeng í skoðanaskiptum einstaklinga sem er mikið niðri fyrir þegar þeir fjalla um hugmyndir sínar, afstæðan sannleika og misjafnar skoðanir. En ég fæ ekki séð að það geti verið spilling valds eða hugarfars að lesa og túlka texta eins og mönnum er eiginlegt. Það getur verið að túlkunin beri stundum vott um hleypidóma án þess þó um óheiðarleika sé að ræða. Ég tel mig ekki vinna með þessum hætti. Ég veit að þú gerir það ekki. Ályktun þín um orð mín og tilgang komu mér því á óvart og urðu mér ærið íhugunarefni, ollu mér jafnvel hryggð um stundarsakir - eða þangað til ég gerði mér ljóst að þú varst ekki sízt að storka mér í einkabréfi, veita mér áminningu, kannski láta reyna á vináttu okkar og hefðir til þess fullan rétt, svo mikilvægur þáttur sem öll þessi umfjöllun er í störfum þínum sem rithöfundur og kennari. Athugasemdir þínar við vörn mína og hugmyndir hefðu sómt sér vel í Frelsinu þótt mér komi ekki til hugar að gagnrýni  á persónu mína hefði orðið með sama hætti og í bréfinu. Undir því hefði ég að sjálfsögðu ekki getað legið og veit að enginn skilur það betur en þú.

Þetta er orðið langt bréf, Þorsteinn minn. Ég hefði þurft miklu meiri tíma til að skrifa það. Ég er alltaf í önnum eins og þú veizt og nota þennan litla tíma sem ég hef aflögu til að fjalla um það sem stendur hjarta mínu næst. Stundum tekst mér að komast burtu og fá þann frið sem mér er nauðsynleg næring. Mér varð mikið úr verki í Portúgal í fyrra, þar leið mér vel og hafði nógan tíma til að gera einungis það sem ég vil sjálfur en ekki hitt sem aðrir krefjast, bæði vegna starfs míns og stöðu. Stundum verð ég einnig að ýta frá mér en það er ekki  það skemmtilegasta sem ég geri. Margt tek ég nærri mér en verð þá að bíta á jaxlinn. Enginn lifir á skáldskap deginum lengur eins og þú veizt og mig langar ekki til að búa um mig í styrkjakerfinu, ég er nú ekki spilltari en það! Við Kristján hittumst alltaf en það er langt síðan við höfum allir hitzt. Ég veit ekki af hverju. En þú komst til mín niður á Morgunblað ekki alls fyrir löngu og baðst mig tala við menntamálaráðherra um mál sem ég hef haft nokkrar áhyggjur af síðan og mér kom raunar ekkert við. En vegir ritstjóra Morgunblaðsins eru stundum þungfærir og erfiðir yfirferðar ef hann hefur einhverja samvizku á annað borð. Það var mér ávallt gleðiauki þegar við hittumst. Það var nú kannski ekki sízt vegna þess að Tómas var á næstu grösum, við ungir og upplifðum hann og skáldskapinn eins og efni standa til. Vonandi hittumst við Kristján og þú fyrr en síðar og getum tekið upp þráðinn af þeirri gleði, skilningi og nærfærni sem okkur er eiginlegt.

Vinarkveðjur,

Matthías.

 

 

17. febrúar 1987

Matthías minn!

Ég get ekki beðið þig nógsamlega afsökunar á að hafa ekki skrifað þér um greinina þína fyrir löngu. En þegar ég las hana vandlega, skömmu eftir að þið fóruð vestur um haf, sá ég að það var svo margt sem ég vildi koma á framfæri við þig, að ég yrði að vanda mig vel. Sem tekur tíma. Meðal annars sá ég að hjá þér eru þó nokkrar tilvísanir til minna skrifa þótt þú nefnir mig hvergi: til dæmis orðrétt tilvitnun í bréf frá mér til þín á bls. 11, og svo um Leó páfa XIIIda, Hume um eignarréttinn sem mannasetningar, samband réttlætis og sannleika, Jóhann Bogesen og Pétur þríhross, og ennþá fleira. Um sum af þessum efnum fannst mér þú ekki skilja mig alveg eins og ég hefði kosið, en ég ætla ekki að elta ólar við neitt af því (ég geri það ekki heldur í athugasemdunum í handritinu). Það var annað atriði og almennara sem mér fannst umhugsunarvert: ég sá að þrátt fyrir langan og góðan vinskap okkar þá þekkirðu mig ekki mjög vel, og satt að segja mun verr en ég þekki þig. Höfuðskýringin á því er væntanlega sú að þú hefur lítinn áhuga á heimspekinni sem ég er að reyna að búa til úr íslenzkunni á Íslandi, og Guð forði mér frá því að lasta þig fyrir það. Ég hef hins vegar nægan áhuga á bæði skáldskap og þjóðmálum til að vita hvað þú hefur fyrir stafni.

En nú hafa veður skipazt í lofti: þú ert farinn að skrifa langar ritgerðir um þrælheimspekileg efni, og þær meira að segja þrællitaðar af sumum skrifum mínum (eða glefsum úr þeim). Svo að nú finnst mér tími til kominn að þú kynnist mér eins og ég hef kynnzt þér. Meinið er að ég hef skrifað ári mikið (þótt það sé lítið hjá þínum afköstum): um sálarfræði og félagsfræði, um vísindi og gervivísindi, um vald, um hlutleysi vísindanna, um fyrirbærafræði og annað líf, um tónlist, um rökfræði og merkingarfræði. Og Guð forði mér frá því að leggja það á þig að fara nú að stúdera þessi fræði. En mér fannst það vera viðunanlegur millivegur eins og sakir standa að ég fengi nú að bregðast almennilega - og þar með í löngu máli - við Lesbókargreininni, úr því að mér er málið skylt, og þú gæfir þér tíma (þótt ég viti að hann er dýr) til að lesa viðbrögðin almennilega.

Það fer bara vel á því í fyrsta lagi að þú fáir sýnishorn af því hvað ég hef fyrir stafni drjúgan part af vinnutíma mínum hér í skólanum: ég sit með ritverk nemenda minna og krota þau út í öllum regnbogans litum alveg nákvæmlega eins og ég gerði við handritið þitt. Ég krota því meira sem ritgerðirnar eru betri - og mest í ritgerðir starfsbræðra minna, en þeir eru orðnir ískyggilega gjarnir á að láta mig lesa hvað sem þeir skrifa. Ég held þetta séu gerólík vinnubrögð þeim sem þú þekkir héðan úr stofnuninni frá þinni tíð. Nemendur mínir læra - eða eiga að læra - sem rökréttasta og einkum þó sem sjálfstæðasta hugsun af þessum marglitu klausum, og svo er setzt á rökstóla með hverjum og einum um athugasemdirnar (það eru ekki aðfinnslur allt saman). Helzt vil ég að þeir verði skrifandi líka, og þess vegna geri ég venjulega annað eins af athugsemdum - í þessu tilfelli einkanlega aðfinnslum - um mál og stíl. Það er sem betur fer ekki þörf á því í þínu tilfelli! Áður fyrr áttu stúdentar að læra það utanað eða því sem næst sem til að mynda Einar Ólafur eða Steingrímur, Ólafur Jóhannesson eða Jón Steffensen lásu yfir þeim í kennslustundum, og vei þeim sem andmæltu þessum prófessorum. Ég þekkti þetta af reynslunni eins og þú: ég stundaði hér íslenzk fræði í heilan vetur. Þessir nýju starfshættir virðast bera ágætan árangur hjá mér (ég ætla að hafa þetta bréf til þín barmafullt af sjálfsánægju) eins og sést til að mynda á því (skyldi maður ætla) að heimspekingarnir mínir hópast að Morgunblaðinu eins og þú veizt, og sópar að þeim sumum. Og mér hefur sýnzt að þeir séu mun betur skrifandi en gengur og gerist hér í landinu? Eða hvað finnst þér?

Þessi sjálfsánægja kveikir aðra henni skylda sem ég held ég láti fljóta með. Haraldur Blöndal settist hjá okkur Kristjáni á Borginni á dögunum, og hélt þá af einhverjum ástæðum langa ræðu um mín verk. Mér líður alltaf illa þegar svo stendur á, en samt ætla ég að hafa það eftir Haraldi - sem margir aðrir hafa sagt í mín eyru líka - að ég er eiginlega upphafsmaður frjálshyggju síðustu tíma á Íslandi. Þetta gerðist, eins og Haraldur vill hafa það, með því að ég gaf út annars vegar Tilraun um manninn og hins vegar fimm fyrstu Lærdómsritin sama haustið (1970). Eitt þeirra fimm var raunar Frelsi Mills í eigin þýðingu. Haraldur var í menntaskóla um þessar mundir, og horfði á það gerast að marxisminn sem tröllreið ungu fólki á þessum árum (stúdentaóeirða, kynslóðarinnar ‘68 eins og stundum er sagt) veslaðist upp í skólum landsins. Í staðinn fyrir Marx komu lærdómsrithöfundar eins og Galbraith og Mill. Mál og menning reyndi að búa til marxískan bókaflokk á móti mínum, en sá fór í vaskinn á skömmum tíma. Mín eigin bók var líka uppgjör við samtíðarmarxismann að drjúgu leyti.

Þetta sagði Haraldur, og margt fleira sem ég hirði ekki að rekja. Líttu nú heldur á aðra hlið á þessu máli: líttu á frjálshyggjusveitina, - Hannes Gissurarson, Guðmund Heiðar, Kjartan Gunnar Kjartansson, Loga Gunnarsson (aðalhöfund Frímanns), Guðmund Magnússon (nýjan ritstjóra Frelsisins) og gáfu að því að þetta eru allt saman nemendur mínir, og meira að segja nánir nemendur sem fengu margar marglitar ritgerðir og langar rökræður um hverja þeirra. Og svo máttu hyggja að því líka að ég kenni pínulitla grein (10-15 stúdentum hverju sinni). Í forustusveit frjálshyggjunnar (meðal “hugmyndafræðinganna”) eru ekki lögfræðingar og viðskiptafræðingar sem tilheyra tíu sinnum mannfleiri greinum sem snúast þar að auki um stjórnskipan önnur og um markaðskerfi hin.

Hér er eins að gæta: ég hef ekki innrætt nemendum mínum einhverjar eigin kenningar eða fordóma. Ég hef lagt efni fyrir þá - í stjórnspeki og mörgum skyldum greinum - og reynt að kenna þeim að hugsa um þau. Það eru bara sum þesara efna eigin kenningar mínar, og ég vil að þeir hugsi um þær en ekki að þeir taki trú á þær. Skírnisritgerðin mín hefur vakið miklar umræður. Það er ekki bara að þið Jónas Haralz séuð að skammast út í þær í einkabréfum milli landa. Stúdentar hafa haldið ráðstefnu um efnið, og Samtök félagshyggjumanna rætt þær á einu þingi  sínu. Eyjólfur Kjalar og Vilhjálmur Árnason hafa skrifað um hana í Tímarit Máls og menningar og Hannes Gissurarson í Skírni og nú síðast Kristján Kristjánsson (frá Djúpalæk) í Frelsið.  Allir eru þeir mikið á móti mér, meira að segja í grundvallaratriðum. Allir eru þeir nemendur mínir. Svo er sagt að það sé ekki hægt að kenna sjálfstæða hugsun (ég segi það ævinlega sjálfur; það er bara í þessu bréfi sem sjálfsánægjan hefur völdin.) Taktu svo loks eftir því að það hefur engin ritdeila af þessu tagi verið háð í landinu um langt skeið: þar sem sannmenntaðir menn rökræða af hita en með kurteisi um mikilsverð efni með alþýðlegasta hætti. (Það verður auðvitað að hafa fyrirvara á um kurteisina þar sem Hannes okkar á í hlut. Það vill svo til að það verður líka að hafa fyrirvara á um innrætinguna sem ég nefndi. Hannes er sá eini af nemendum mínum fyrr og síðar sem lét innrætast í  stað þess að eflast að sjálfstæðri hugsun: hann þurfti og þarf enn að hafa kennivöld að trúa á. Hann át eftir mér hverja skoðun mína, jafnvel um hégómleg efni, stældi málfar mitt og stíl (þess sjást ótal efni enn í dag) og handleggjaslátt og göngulag. Auðvitað tók ég ekki eftir þessu (hvað veit ég hvernig ég geng og hvernig ég tala?) heldur samstúdentar hans og kunningjar. Þessu fór fram í hálft þriðja ár, en þá sneri Hannes við blaðinu sem kunnugt varð. Samstúdentar hans hafa að minnsta kosti þrjár kenningar um hvernig stóð á þeim sinnaskiptum.)

Nú ertu nokkru nær, vona ég, um það hvernig síðari tíma frjálshyggja varð til á Íslandi. Svo efldist hún auðvitað langmest fyrir það að frjálshyggja varð tízka um skeið í öðrum löndum: þar kom ég auðvitað hvergi við sögu. Og taktu nú í framhjáhlaupi eftir því að sú tízkualda var ekki orðin til þegar sagan sem ég hef nú sagt þér gerðist. Hvað um það: mín frjálshyggja lifir góðu lífi í mönnum eins og þeim sem ég nefndi. Rétttrúnaðarofforsið hef ég hvergi orðið var við nema í Hannesi og Jónasi Haralz, og svo náttúrulega hjá skólakrökkum þegar tízkubylgjan varð hæst. Meðan hún reið yfir var ég að hugsa um annað, einkum og sér í lagi um sálarfræði, sbr. til dæmis langa Skírnisritgerð undir heitinu “Ætti sálarfræði að vera til?” Meðal annarra orða þá er ríkur frjálshyggjuþáttur í þeim skrifum öllum, og þann þáttinn hefur Hannes étið eftir mér í smáu og stóru, án þess auðvitað að geta þess hvaðan það er fengið. Kristján Kristjánsson skrifaði hins vegar tvær langar Lesbókargreinar um sum af þessum efnum og gat auðvitað heimilda sinna.

Nú er ég farinn að tala um “frjálshyggju mína” eins og ekkert sé, og skulda þér skýringu á því. Þar munar mest um Skírnisgreinina um réttlætið. Sannmæliskenning mín er frjálshyggjukenning í því sem kalla má sígildan skilning á frjálshyggju. Hin sígilda frjálshyggja er kenning sem byrjaði að verða til hjá John Locke og John Milton (í Areopagitica, um prentfrelsi), og blómgaðist í byltingunum 1776 og 1789 og eignaðist á 19du öld öflugastan talsmann í Mill en átti þá líka í Jefferson og Paine. Og nú máttu taka eftir því að Hayek, Friedman og Nozick hafa engan áhuga á þessum körlum: þeir minnast ekki á þá. Undantekningin sem sannar þá reglu er dálæti Nozicks á Locke, en það dálæti styðst mestan part við óumdeilanlegan misskilning Nozicks á Locke.

Þeir þremenningarnir leiða hjá sér sígilda frjálshyggju, og það er af þeim sökum sem fólk er að hætta að kalla þá “liberals”, og kenningu þeirra “liberalism”, í enskumælandi löndum: þar hefur fólk tekið upp hugmyndasögulegt heiti á einni kenningunni um frelsi viljans og gefið því nýja merkingu: nú heitir kenning þeirra þriggja “libertarianism” og þeir sjálfir “libertarians”. Hugsunin í þessu orðalagi (sem er held ég orðið næsta viðtekið) er sú sama og ég læt í ljós í Skímugreininni þar sem ég neita að láta frjálshyggjumönnum frjálshyggjuheitið eftir og gera þar með, eins og Jóhann S. Hannesson vildi, orðið “frjálshyggja” að niðrandi orði! Í Skírnisgreininni kalla ég Nozick sérhyggjumann, en það er auðvitað niðrandi orð. Ef við viljum velja honum hlutlaust heiti á íslenzku er sennilega bezt að kalla hann og hans lið markaðssinna eða markaðshyggjumenn. Og minnast þess svo að sú kenning kemur ekki sígildri frjálshyggju við nema með köflum. Ég sagði einhvern tíma í kennslustund að ef menn vildu skilgreina orðið “frjálshyggja” þannig að það yrði álitamál hvort Locke og Mill og Jefferson hefðu verið frjálshyggjumenn eða ekki, þá gætu þeir eins skilgreint orðið “einræði” þannig að Stalín og Hitler hættu að hafa verið einræðisherrar. (Tilefni þessara orða var mikil árás Hayeks á Mill). En þá er að minnast þess að frjálshyggjurnar eru, og eiga að vera, mýmargar.

Helzti og réttnefndasti frjálshyggjumaður í heimspekingastétt á okkar dögum er John Rawls. Fyrsta bókin sem skrifuð var um Theory of Justice heitir The Liberal Theory of Justice,  og ein af þeim nýjustu heitir Liberalism and the Limits of Justice. Þess má líka geta að hann er langsamlega merkilegstur þeirra hugsuða sem um þessi efni fjalla í samtímanum: Nozick er eins og dvergur við hlið hans, og veit það vel sjálfur. Vel að merkja: réttlætiskenning Rawls er svonefnd sáttmálakenning. Hún ber þar með sama heiti og HHG vill hafa á þínum skoðunum. En því miður hefur Hannes ekki almennilegt vald á sáttmálakenningu Rawls, svo að þessi orðanotkun hans er vafasöm. En allt um það falla stjórnmálaskoðanir ykkar Rawls að mestu leyti saman, og mínar líka ef út í þær er farið.

Má ég ekki segja svolítið um mínar kenningar? Sannmæliskenningin - sú kenning að réttlæti sé sannmæli - er tvímælalaust frjálshyggjukenning í sígildum skilningi, eins og til að mynda kenning Mills í Frelsinu (hana má orða svo að réttlætið sé frelsi og frelsið ráðist af almannahag). Og hún er ekki bara frjálshyggjumenning af þessum og fleiri sögulegum ástæðum, heldur hníga margvísleg efnisrök til þess líka. Hjá mér eru mannréttindi (í viðteknum skilningi) uppistaðan í réttlætinu (eins og hjá Mill og Rawls en ekki hjá Nozick). Jafnframt má nota sannmæliskenningu mína (eins og sáttmálakenningu Rawls en ekki eignarréttarkenningu Nozicks) til að færa allsterk rök fyrir hófsamlegu velferðarríki. Það má líka nota sannmæliskenningu mína (en alls ekki kenningu Nozicks og ekki sáttmálakenninguna nema óbeint) til að færa rök fyrir opinberu eða hálfopinberu menntakefi, en jafnfamt sem allra sjálfstæðustu og sjálfráðustu og fjölbreytilegustu og frjálslegustu menntakerfi. Loks má jafnvel nota kenningu mína (en alls ekki kenningar Rawls og Nozicks) til að færa rök fyrir þjóðkirkju á þeim forsendum að trú sé þjónusta við sannleikann.

Ágreiningur minn við Rawls og Nozick (við Nozick á parti) snýst ekki fyrst og fremst um siðferðilegar eða þjóðfélagslegar niðurstöður (sbr. Skírnisgreinina þar sem ég segi að þessar niðurstöður mínar séu ekki frumlegar; ég segi meira að segja að þær séu sem betur fer ekki frumlegar. Okkar ágreiningur er fræðilegur ágreiningur (ekki siðferðilegur eða þjóðfélagslegur nema óbeint) um rökin sem hníga að hinum siðferðilegu niðurstöðum. Við viljum allir vita hver þessi rök eru eða gætu verið, við viljum vita hvers eðlis þau eru (eru þau til dæmis tilfinningamál eða smekksatriði?) Um þetta má hugsa frá öðru sjónarmiði. Segjum að við viljum sannfæra einhvern hugmyndafræðinginn í Moskvu eða Pretóríu um gildi mannréttinda, til að mynda frjálsrar pressu eða jafnræðis kynþáttanna (ég á við þig og mig). Nákvæmlega hvað eigum við að segja við hann? Til hvers eigum við að höfða? Segjum að hann hafi bærileg rök fyrir því að frjáls pressa hafi valdið töluverðu tjóni. Skiptir þetta máli? Skiptir trú máli? Eigum við að höfða til bræðralags allra manna í Kristi? Eigum við að höfða til sáttmála allra manna eða sáttmála Guðs og manna? Eigum við kannski, eins og Mill vildi gera og ég vil gera, að tala við hann um mannlegan þroska, þroska einstaklingsins? Þessi þroskahugsjón er ekki bara til hjá heimspekingum: Sigurður Nordal gerði hana að uppistöðunni í  öllum skrifum sínum (sbr. Einlyndi og marglyndi, líka inngang minn: þar sérðu reyndar líka svolítið af sambandinu sem er á milli minna hugmynda um stjórnspeki í aðra hönd og sálarfræði á hina). Vel að merkja: þroskahugsjónin sem er svona rík í Mill og Sigurði og mér á sér engan stað hjá Nozick og ekki nema óbeint hjá Rawls).

Má ég ekki líka fara fáeinum orðum um heimspekilegu tökin á hugtaki eins og réttlæti? Ég skal vera stuttorður. Heimspekingur byrjar á dæmum um réttlæti og ranglæti. Þau geta orðið ári margvísleg. Stundum tek ég aðallega dæmi úr lífi barna sem telja sig verða fyrir ranglæti: “Hann afi gaf mér peningana, og þá má ég gera við þá það sem ég vil.” “Hann fékk meira en ég.” “Þú skammaðir hana ekki, og hún gerði það líka.” “Þú getur ekki verið með því þú svindlar alltaf.” Og svo má lengi telja. Heimspekingur sem vill hugsa um réttlæti byrjar á svona dæmum. Og næst reynir hann að greina vitið í þeim: hann reynir að flokka þau ef hægt er, hann spyr hvað sé líkt og hvað ólíkt með þeim, hvort það gildi einhver regla um þau eða reglur, hvort þau lúti kannski lögmáli eða lögmálum (sbr. Rawls sem hefur tvö lögmál, Nozick sem hefur þrjár reglur sem hann bara nefnir en ræðir ekkert um). Þegar svörin eru fengin má reyna að fella  þau í eina kenningu um réttlæti. Hjá Rawls er kenningin reist á einu meginatriði: réttlætið er reist á sáttmála. Sem er auðvitað ekki frumleg kenning, heldur var hún til bæði með Grikkjum og Gyðingum. Það sem er frumlegt - og þó nokkuð stórbrotið - hjá Rawls er að á þessari einu sakleysislegu hugmynd um sáttmála megi reisa, með sterkum rökum, tvö lögmál: annað um ýtrustu mannréttindi (í skilningi okkar beggja) og hitt um jafnrétti þegnanna í réttarríkinu. Aftur er niðurstaða Rawls auðvitað ekki frumleg fremur en upphaflega sáttmálahugmyndin. Það er röksemdafærslan frá forsendunni til niðurstöðunnar sem er afrekið hjá honum.

Nozick trúir ekki á nokkurn sáttmála. Mestan part eru skrif hans ekki annað en gagnrýni á Rawls (oft framúrskarandi snjöll gagnrýni). En á endanum hefur hann kenningu sem hann vinnur þó lítið úr (sbr. reglurnar þrjár sem hann bara nefnir á nafn). Og kenningin er: réttlætið er ekki fólgið í sáttmála, ekki í frelsi til almannaheillar heldur er það ekki annað en hversdagslegur óbreyttur eignaréttur. Næstum allir fræðimenn líta á þetta sem augljósa firru; ég held að Nozick hljóti að gera það líka. Það er bara fyrsta dæmið af börnunum mínum áðan (“Hann afi gaf mér peningana...”) sem lýtur að eignarétti. Hin þrjú koma honum ekkert við, og eru samt dæmi af réttlætiskennd barna að verki. Nozick er fyrst og fremst skemmtilegur; og hann er alls ekki alvarlegur eins og Rawls er og ég vil vera. Hann tekur eina reyfaralega hugmynd - hann sækir hana til Lockes og Humes - og reynir að sjá hvað langt hann getur gengið með hana eina að vopni.

Mín hugmynd um réttlæti - sannmælishugmyndin - er að einu leyti alveg sambærileg við hugmynd Nozicks: ég byrja á einu svolítið reyfaralegu atriði: það er ein af kröfum réttlætisins til okkar að við viljum að sannleikurinn komi í ljós og nái fram að ganga, það er réttlætismál að menn hafi það sem sannara reynist. (Þetta er reyfaralegt vegna þess að það er svo sjaldan eftir því tekið: hvorki Rawls né Nozik veita þessu neina athygli; það er helzt að Mill geri það í kaflanum um hugsunarfrelsið í Frelsinu, en hann tekur varla eftir því sjálfur því hann er alltaf að hugsa um almannaheill.) Nú svona byrja ég, og svo held ég líka áfram eftir hætti Nozicks: ég reyni að sjá hvað ég kemst langt með að gera sómasamlega grein fyrir réttlæti með þessa hugsun um sannleikann eina að vopni. Þá verð ég til dæmis að geta greint og flokkað dæmin fjögur af börnunum með tilliti til sannleikans og brota gegn sannleikanum. Og það er svolítið reyfaralegt uppátæki líka því að dæmin virðast, að minnsta kosti við fyrstu sýn, ekki hafa neitt með sannindi og ósannindi að gera.

Nú gæti ég haldið lengi áfram, en ég ætla bara að líta sem snöggvast á eitt dæmið: “Þú skammaðir hana ekki...” Hér vil ég segja að skammirnar sem barnið kveinkar sér undan séu ekki bara ranglátar heldur fyrst og fremst brot gegn sannleikanum: í þeim felst að annað barnið hafi ekki gert það sem hitt gerði, og það er ósatt. Svo hnykki ég á og segi að það séu þessi ósannindi sem gera skammirnar að ranglæti. Svona get ég farið með hin dæmin líka, þótt þú trúir því kannski ekki.

Og nú langar mig til að segja fáein orð um pólitík áður en ég hætti. (Er ég að ganga endanlega fram af þér?) Það vottar á stöku stað fyrir því hjá þér sem ég kalla (í Rauðum fyrirlestri) “eðlistrú” á stjórnmálastefnur. Þú kannast við að  að frjálshyggjur  séu margar og marxismar margir, þú kannast við að stjórnmálaflokkar breytist og séu að breytast, jafnvel að gerbreytast  (sbr. “húmanistana” á Þjóðviljanum). Þetta er í ofanálag  ein höfuðhugsunin í greininni og gerir hana, held ég, að tímamótaverki í stjórnmálum þessara ára. En það vottar fyrir hinu. Á einum stað skrifarðu eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi alltaf haft eina stefnu - sjálfstæðisstefnu sem sé “gamalgróin íslenzk frjálshyggja”. Og þú skrifar um Alþýðuflokkinn - að vísu í hálfkæringi, og tekur það svo aftur að hálfu leyti - eins og hagstjórnarhugmyndir Jóns Sigurðssonar séu uppvakningur frá kreppuárunum. Og það er hvorugt alveg rétt. Taktu bara eitt lítið atriði. Jón Þorláksson, sem þú lofar með fullum rétti, bjó í þjóðfélagi þar sem hann hafði skulum við segja tíu þúsund krónur í árslaun. Af þessari upphæð borgaði hann í skatta og útsvar innan við 200 - tvö hundruð, ekki tvö þúsund - krónur. Og hvernig í ósköpunum á frjálshyggja, eða sjálfstæðisstefna, eða íhaldstefna sem varð til í slíku þjóðfélagi að hæfa (nema mjög yfirborðslega) þjóðfélagi þar sem er allsherjarsamkomulag um í öllum ríkjum Vesturlanda að ríkið eyði þriðjungi eða meir af tekjum okkar? Það hvarflar ekki að Margréti Thatcher að hrófla við opinberri heilbrigðisþjónustu, og er þó til hjá henni öflug einkaþjónusta í heilbrigðismálum sem gæti vel tekið við hlutverki hinnar á skömmum tíma ef því væri að skipta. Með hliðstæðum hætti verður að segja að þjóðnýting frá kreppuárunum eigi ekkert skylt við hagstjórn á okkar dögum. En þetta er hégómi. Það er heildarhugsunin sem skiptir máli, og henni er ég fyllilega sammála og fagna því mikið að hún skuli nú koma fram.

Fyrirgefðu mér svo fyrirferðina á þessu erindi við þig. Mér þykir mikið fyrir því að leggja það á þig að lesa þetta skrif og athugasemdirnar í greininni. Heilsaðu Hönnu. Ég hlakka til að sjá þig aftur, og hana líka ef þið hafið bæði tóm til.

Þinn Þorsteinn.

 

24. febrúar, miðvikudagur

Ég hef skrifað smáathugasemdir, bæði um sjónvarp og kalda stríðið, en nú hef ég séð tvo fyrstu þættina í flokki CNN um kalda stríðið og er ekki eins hrifinn og ég hélt ég yrði eftir kynningarþátt framleiðenda. Þessi kaldastríðsmynd CNN er dæmigerð fyrir sjónvarp. Hún er langt í frá eins stórkostleg og framleiðendur vilja vera láta, m.a. vegna þess að hún líður fyrir eitt helzta vandamál sjónvarps; í samtölum getur fólk einungis sagt örfáar setningar, stundum slitnar úr samhengi og skila sjaldnast því sem um ræðir. Allt vegna keppni við sekúndurnar. Af þessum sökum verður efnið yfirborðslegt og fróðleikurinn kemst ekki til skila eins og vera ætti. Þegar Kennan er t.a.m. að reyna að skýra þær staðreyndir sem hann þekkir vegna óvenjulegrar reynslu sinnar af Sovétríkjunum, gufa þær hálfpartinn upp í “klippingunni”. Mannkynssaga verður ekki skýrð með þessum hætti, heldur rökum og vönduðum umræðum. Það leynir sér að vísu ekki að Kennan býr yfir miklum fróðleik um þessa sögu, en hann verður með einhverjum hætti utanveltu í myndinni, kemst ekki til skila. Sömu sögu má t.a.m. segja um son Bería sem reyndi að lýsa því umhverfi sem faðir hans og Stalín hrærðust í. Hann er sem gamall KGB-maður sérfræðingur í öryggismálum Sovétríkjanna, en við fáum bara reykinn af réttunum í örstuttum samtölum við hann. Annars fannst mér ótrúlegt að unnt væri að grafa son Beria upp og nota hann í þessa heimildamynd, hafði aldrei heyrt hans getið.

Það er talað við miklu fleira fólk og þau samtöl varpa að vissu leyti sérstæðu ljósi á þennan óskaplega tíma. En það vantar herzlumuninn - og vel það.

Styrkur myndaflokksins er aftur á móti sá urmull alls kyns kvikmynda sem teknar voru á sínum tíma og fáir vissu að væru til og ennþá færri höfðu séð. Þær eru merk söguleg heimild, t.a.m. ýmsar fréttamyndir af stórveldafundum á stríðsárunum. Þær eru ómetanleg heimild sem enginn texti getur keppt við. Þessar myndir eru kóróna þeirra þátta myndaflokksins sem ég hef séð nú þegar og gera hann að eftirminnilegri upprifjun og að sumu leyti nýrri reynslu. Slíkum heimildum er auðvitað ekki hægt að skila í sögubókum, þótt unnt sé að vitna til þeirra, að sjálfsögðu. En það yrði aðeins svipur hjá sjón.

 

Svo ég haldi áfram bollaleggingum um kalda stríðið hefur það komið mér mjög á óvart, hvernig ritað hefur verið um nýja bók um Arthur Köstler eftir David Cesarani, en af öllum þessum greinum stendur það helzt uppúr að Köstler hafi verið hinn mesti kvennabósi, og safnað kvenfólki eins og sannir veiðimenn elgshornum og hann hafi bæði verið ófyrirleitinn og harðdrægur í þessum efnum. Í grein í Prospect um bók Cesaranis er minnt á að Köstler hafi stundað kynferðisofbeldi, nauðgað Jill Craigie, eða frú Michael Foot, og neitað að nota smokka í samförum við Jane Howard. Þetta verði hans eftirmæli! Í öllum þessum greinum er að vísu minnt á að Köstler hafi haft mikil áhrif í baráttunni við heimskommúnismann og skáldsaga hans Myrkur um miðjan dag hafi markað tímamót og sé eftirminnilegasta bókmenntaverk stalínstímans. Minni á skáldverk og ritgerðir Orwells. Hann hafi hálffertugur gert sér grein fyrir nazismanum og snúið baki við kommúnismanum og ætti því önnur og betri eftirmæli skilið en fyrr eru nefnd. Allt leiðir þetta hugann að Bertrand Russel sem var einn merkasti heimspekingur síns tíma, eins og allir vita, en við nánari kynni - og þegar farið hefur verið í saumana á lífi hans - hefur komið í ljós, að hann var heldur subbulegur í kvennamálum og lét jafnvel tengdadóttur sína ekki í friði! Þessi eftirmæli hafa brugðið skugga yfir líf og gerðir Russels. Hið sama verður áreiðanlega uppi á teningnum, þegar ævi Köstlers er minnzt.

En kynferðismál þessara manna voru að sjálfsögðu aukaatriði miðað við þau afrek sem þeir unnu með skáldskap sínum, hugsunum og ritlist. Þeir báru af. Og þeir eiga skilið betri eftirmæli hvað sem þessum kynórum líður og þeim “uppljóstrunum” sem nú hafa verið bornar á borð fyrir lesendur.

Það er annars einkennilegt hvað höfundar brezkra ævisagna leggja mikið uppúr kynferðislífi persóna sinna; engu líkara en það skipti öllu máli. Allt fellur í skuggann af því og umræðurnar um bækurnar verða fyrst og síðast hugleiðingar um kynsvall, nauðganir, samkynhneigð o.s.frv. Ekki datt mér í hug þegar ég skrifaði Ólafs sögu Thors, að nokkrum lifandi manni kæmi kynlíf hans við - eða hverjum átti að koma það við? Það hafði engin áhrif á stjórnmálabaráttu hans og þjóðfélagsstöðu. Kynlíf skiptir okkur að vísu miklu máli eins og annað í lífi okkar. En það réð engum úrslitum um stjórnmálaskoðanir Ólafs Thors eða hvernig hann stjórnaði Sjálfstæðisflokknum.

Í einstaka tilfellum getur slíkt að vísu haft áhrif, jafnvel ráðið úrslitum, en það verður þá að sýna framá að svo sé.

Ég veit vel að Köstler og Russel hefðu ekki orðið þau andans stórmenni sem raun ber vitni, ef þeir hefðu verið einhverjir guðs geldingar. Náttúra þeirra var að sjálfsögðu mikill hvati í störfum þeirra eins og annarra, en hún réð varla afstöðu þeirra til stjórnmála, heimspeki eða fagurfræði.

Hitt er rétt að upplag okkar skiptir máli í öllu starfi okkar og viðhorfum. En þar kemur fleira til en kynlíf. Í sumum þessara brezku ævisagna er engu líkara en það eitt skipti máli - og stundum virðist það skipta öllu máli. Það virðist t.a.m. kjarninn í öllum þeim ritdómum sem ég hef lesið um bók Cesaranis, en ég er þó ekki dómbær um bókina sjálfa, því ég hef ekki lesið hana enn sem komið er.

Hitt er svo annað mál að greinarhöfundur Prospects, Frederic Raphal hefur mikla fyrirvara á skrifum Cesaranis og bendir á að hann eigi um sárt að binda vegna þess að foreldrar hans hafi verið kommúnistar. Einhver dulin sálarflækja sé á bak við þessi skrif. Var Köstler skítleg kynferðisófreskja eða var hann eins og hver annar Ungverji í afstöðu til kvenna? Bent er á að Köstler hafi þótt mjög aðlaðandi kvennamaður og til séu vitnisburðir margra kvenna þess efnis. Síðasta kona hans var miklu yngri en hann, en samt treysti hún sér víst ekki til að lifa utan við hans líf - eða án hans. Þegar hann var orðinn sjúkur tók hún þá ákvörðun að deyja með honum.

Greinarhöfundur Prospects bendir á takmarkanir ævisagna, einkum þegar annað vitnið er lifandi, en hitt dáið. Það á við um ævisögu Köstlers. Það getur verið, segir hann, að við höfum einhverjar staðreyndir, en við  höfum ekki og getum ekki haft allar staðreyndir. Hann bendir á að konurnar, jafn bráðgáfaðar og þær voru, hafi vitað um þá áhættu sem þær tóku í umgengni við Köstler. Þær hafi ekki átt það skilið sem þær upplifðu, en þær voru ekki heimskar jómfrúr og þekktu báðar vel karakter Köstlers, segir greinarhöfundur. Hvað voru þær að flækjast með honum eða í kringum hann? spyr hann. Af gefnu tilefni minnist hann einnig á Sartre og Simone de Beauvoir og afgreiðir þau sem lygara og bleyður sem hafi ekki þorað að segja það sem Köstler sagði í skáldsögunni Myrkur um miðjan dag. Köstler hafi viðstöðulaust afhjúpað lygina og borið sannleikanum vitni, þeim sannleika sem Sartre og kompaní hafi hafnað. Og hann spyr hvaða dómsvald þau hafi til að kveða upp úrskurð um karakter Köstlers. Hann var eins og reykskynjari. Þar sem eldur kommúnismans kviknaði, heyrðist ýlfra í Köstler. Hann varð átrúnaðargoð þeirra sem börðust gegn Stalín og heimskommúnismanum. Verk hans skiptu gífurlegu máli í þeirri baráttu. Hann afhjúpaði guðinn sem brást. En í samskiptum við konur misfórust signölin. Og enn má það vera að hann hafi verið kynferðislegur ofbeldismaður. En greinarhöfundur spyr af hverju Jill Craigie sagði ekki manni sínum frá nauðguninni. Hann hafði áður látið í ljós sérstaka aðdáun sína á skáldsögunni Myrkur um miðjan dag og þeir Köstler voru víst miklir mátar. Hann varð síðar formaður Verkamannaflokksins, en þó aldrei forsætisráðherra. Rafael reynir að fara varlega í sakirnar, en segir hikandi að sér séu í fersku minni ummæli dómara sem hafi sagt að mikilvægustu spurningarnar í nauðgunarmálum séu þessar: beiztu hann? klóraðirðu hann? Það hafi þá líklega verið ótti við niðurlægjandi vandræði sem hafi valdið því að kona Mikhael Foots sinnti engum ákærum á sínum tíma.

Það er náttúrulega með ólíkindum að annar eins maður og Arhtur Köstler skyldi hafa ráðizt á væntanlega forsætisráðherrafrú Breta, notað tækifærið þegar þau voru ein saman og nauðgað henni á grimmdarlegan hátt, en augljóst er að konan upplifði atvikið með þeim hætti. Hitt er víst að aðrar konur féllu fyrir töfrum þessa manns og hin síðasta fargaði sér fremur en lifa án hans. Eða kannski hann hafi náð slíku valdi á henni, hver veit?

Ég hef velt því fyrir mér hvers konar samband hafi verið milli Köstlers og Jill Craigie fyrir nauðgunina, það hlýtur að skipta öllu máli. Hafði hún leyft honum að daðra við sig? Hafði hann laðazt að henni? Gat hann verið í góðri trú? Það veit að sjálfsögðu enginn því hún er ein til frásagnar. En aldrei dytti mér í hug að hún mundi skýra frá þessu atviki á þann hátt sem hún hefur gert, ef hún hefur ekki upplifað það eins og hún lýsir.

En þrátt fyrir það er ekki víst að hann hafi upplifað það með sama hætti. Kannski hefur hann trúað því að hann væri ómótstæðilegur. Kannski hann hafi verið sannfærður um að allar konur girntust hann af ástríðu. Hver veit það? Hann er dauður og afrek hans eru ekki á kynferðislega sviðinu, þau eru öll í þeim verkum sem hann skildi eftir sig. Öll í hugsunum hans, sannleiksást og yfirmannlegu þreki andspænis heimskommúnismanum - en sem stendur er kynferðisdýrið samt efst á baugi.

 

Styrmir Gunnarsson skrifaði minningargrein um dr. Bjarna Jónsson í Morgunblaðið í gær. Hann hafði minnzt á hana við mig og sagðist ekki geta skrifað um dr. Bjarna án þess minnast á nasizmann og hvernig hann hefði verið alinn upp í næsta nágrenni við þessi pólitísku trúarbrögð helstefnunnar. Dr. Bjarni var giftur Þóru, föðursystur Styrmis, sem einnig hafði tekið sömu trú og maður hennar og bróðir. Allt var þetta fólk gallhart í sinni sök og lét víst aldrei á sér bilbug finna. Styrmir nefndi við mig samtöl sem hann hafði átt við dr. Bjarna ungur og sagði það hefði ekki verið laust við hann hefði haft áhrif á hann. Þótt Styrmir hafi aldrei gengið nazisma á hönd, enda smápolli þegar styrjöldinni lauk, eru þetta áleitnar minningar. Og hann segir frá þeim í minningargreininni. Ég sagði honum að ekkert væri á móti því, menn strikuðu ekki yfir staðreyndir. Hann ætti að segja allt sem hann teldi rétt, það væri allt og sumt. En eitt mætti hann þó ekki segja - að dr. Bjarni hefði haft pólitísk áhrif á hann. Allt slíkt yrði misnotað hvenær sem henta þætti. Annað veganesti fékk hann ekki frá mér. Ég er að vísu mjög varkár í þessum efnum, enda er ég alinn upp í andúð, nei fyrirlitningu á nazisma; hann sé hinn parturinn af janusarhöfði kommúnismans. Þeir sem studdu nazisma hafa í mínum huga borið sömu ábyrgð á gasklefunum og kommúnistar á gúlaginu.

 

Nú segir fyrrnefndur Rafael að milljónir manna hafi dáið í útrýmingarbúðum kommúnista séu skipulagðar hungursneyðir taldar með. En þær hafi einungis þekkzt í löndum sem marxistar stjórnuðu. “Allir  sem vildu sjá hefðu getað gert sér grein fyrir því eftir 1918, að bolsévikar komu á, með skipulögðum hætti, kerfi útrýmingarbúða, pyntinga og hryðjuverkamanna”. Allir sem gengu kommúnistum á hönd eftir 1918 lokuðu augunum. Það gerðu einnig þeir sem aðhylltust nazisma og studdu Hitler eftir að einræðið blasti við.

 

Styrmir segir að þeir dr. Bjarni hafi verið sammála um ágæti Geirs Hallgrímssonar. Hallgrímur, sonur Geirs, segir að Þóra og dr. Bjarni hafi ekki heilsað föður sínum eftir að þau hófu málaferli út af bílskúr sem var reistur við hliðina á húsi þeirra, en Geir Hallgrímsson treysti sér ekki til að koma í veg fyrir þessa byggingu. Hallgrímur hefur eftir Ernu móður sinni að þau Þóra hafi ekki heilsað Ernu og Geir eftir að bílskúrsmálið kom upp og hún bætir því við að yfirlæknirinn á Landakoti hafi ekki heilsað upp á Geir Hallgrímsson, þegar hann var lagður þar inn skömmu fyrir andlát sitt.

 

Ég held það hafi verið vinátta milli þessa fólks áður en bílskúrinn kom til sögunnar, en henni lauk sem sagt með þessum hætti. Ósköp er það nú ömurlegt og vanþroskað í raun og veru. Ég hef verið að hugsa um þetta fólk - og þá ekki sízt dr. Bjarna sem var stórmerkur læknir og einskonar goðsögn a la Matthías Einarsson - og velti því nú fyrir mér, hvort hann hafi ekki fundið sjálfan sig með einhverjum hætti í sterka manninum Hitler sem hafði viljaþrek til að koma öllu í framkvæmd, bæði góðu og illu. Dr. Bjarni var alinn upp á heimili fátæks sjómanns sem lenti í götubardaga við lögregluna á sínum tíma og varð frægur fyrir að hafa náð kylfunni af einum lögreglumannanna, en átti víst eftir það mjög erfitt með að fá skipspláss á togurum. Dr. Bjarni hefur þurft að vaxa frá drengnum sem ólst upp við þessar aðstæður. Hann þurfti að vaxa inní eitthvert sterkt afdrep þar sem hann gat eignazt skjól og þurfti ekki að hugsa um fátæka sjómanninn sem lenti í útistöðum við kerfið. En þeir sem notuðu kylfurnar gegn fátæku fólki þurftu ekki að ímynda sér að þeir kæmust upp með neitt slíkt, þegar alþýðuhreyfing nazismans var búin að afvopna þá og taka völdin í sínar hendur. Kannski er þetta vitlaus skýring, ég veit það ekki, en hvað sem því líður var dr. Bjarni eftirminnilegur maður og ég varð aldrei var við neitt ofstæki í fari hans. Átti ég þó ágæt samtöl við hann áður fyrr. En hann var óskaplega viðkvæmur fyrir egói sínu eins og títt var um smákónga í læknastétt.

Styrmir sagði mér í gær að einn maður hefði hringt til sín út af greininni um dr. Bjarna. Ég spurði hver það hefði verið. Hann sagði, Það var Ásgeir Hannes Eiríksson.

 Jæja, sagði ég, hann var svona ánægður.

Hann talaði um tímamót, sagði Styrmir.

Það er ekkert skrítið, sagði ég.

Nú, sagði Styrmir, ég hef verið að velta því fyrir mér af hverju hann hringdi. Hefur þú einhverja skýringu á því?

 Já, að sjálfsögðu, sagði ég.

Nú, hverja?

Það er á allra vitorði að Eiríkur faðir hans var sonur Óskars Halldórssonar útgerðarmanns og Óskar gekk nazismanum á hönd. Hann var í framboði fyrir íslenzka þjóðernissinna á sínum tíma, ef ég man rétt.

 

Ásgeir Hannes hefur talið sig og sitt fólk fá uppreisn með þessari grein. Hann hefur auðvitað alltaf burðazt með komplex útaf þessu eins og fleiri og nú brýzt það fram með þessari hringingu til þín.

Ég hef ekki gert mér grein fyrir þessu, sagði Styrmir, ég vissi þetta ekki.

 Nei, sagði ég, en svona er þetta að öllum líkindum. Þú ert að skrifa Ásgeir Hannes og þá fleiri frá komplexum sínum, Styrmir minn, sagði ég.

Já, sagði Styrmir, kannski ég hafi verið að skrifa mig frá mínum eigin komplex, hver veit!

 

Það var gott hjá honum, hver veit? Öll erum við einhvers konar framhald af fólkinu okkar, þeim sem gáfu okkur lífið og ólu okkur upp, með kostum sínum og göllum; þeim sem elskuðu okkur og við elskum svo lengi sem þetta fólk lifir í blóði okkar; óstorknuðu blóði okkar.

En svo storknar það einn góðan veðurdag og þá deyr þetta fólk öðru sinni, það deyr með okkur og við vitum ekki hvað tekur við.

 

Í Morgunblaðinu í morgun er grein eftir Hreggvið Jónsson, fyrrum þingmann, þar sem hann ræðst að Svavari Gestssyni og hneykslast yfir sendiherraskipan hans, krefst þess að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar viðurkenni að hún hafi hlaupið á sig með þessari skipan og afturkalli hana. Annað sé ekki boðlegt. Ástæðurnar:

1. Svavar var á móti útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur.

2. Svavar var á móti aðild Íslands að EFTA.

3. Svavar var á móti aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

4. Svavar var á móti varnarliði Bandaríkjanna á Íslandi.

5. Svavar var á móti NATÓ.

Þarf frekari vitna við, spyr Hreggviður. Síðan gefur hann í skyn að Svavar Gestsson hafi verið á vegum kommúnistastjórnar Austur-Þýzkalands þegar hann var þar eystra við nám. Sú aðdróttun er áreiðanlega undir belti. Svavar var bara sannfærður sósíalisti, það er allt og sumt. Það fær mig enginn til að trúa því að hann hafi átt þátt í óhæfuverkum eða njósnastarfsemi. En hitt er rétt að Svavar hefur verið að móti íslenzkri utanríkisstefnu frá því NATÓ kom til sögunnar en hann er ekki einn um það og ég sé ekki hvað það kemur því við að hann sé skipaður sendiherra í Winnipeg til að sjá um landnámshátíð Leifs Eiríkssonar fyrir hönd íslenzku ríkisstjórnarinnar. Hann er áreiðanlega vel í stakk búinn til að sinna þessu verkefni. Hitt er svo annað mál að ég tel að hann hafi eins og Hreggviðar bendir á haft rangt fyrir sér í þeim efnum sem hann nefnir og þá með sama hætti og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Það vafðist ekki fyrir tveimur fimmtu hlutum íslenzku þjóðarinnar að senda hann á Bessastaði, þrátt fyrir þessa vitneskju! Og fyrst Ólafur Ragnar getur verið á Bessastöðum, þá getur Svavar Gestsson verið í Winnipeg - og þá á sömu forsendum: að kalda stríðinu sé lokið.

 

Pétur Már Ólafsson segir í grein í Morgunblaðinu um daginn, þar sem hann er að verja Heimi Pálsson og þá ákvörðun hans að hafa ekki Kristján Karlsson með í nýrri bókmenntasögu sinni fyrir skóla, að kalda stríðinu hafi lokið þegar Silja Aðalsteinsdóttir átti samtal við Matthías Johannessen fyrir Tímarit Máls og menningar. Pétur hefur víst ekki verið einn um þá skoðun - og mér finnst þetta ágæt ábending! En ég var að öðru leyti lítið hrifinn af því að Pétur skyldi nefna nafn mitt í umræðum um þetta viðkvæma mál sem snertir stöðu vinar míns Kristjáns Karlssonar í íslenzkum samtímabókmenntum. Það vita að vísu allir hvað ég met Kristján mikils og skáldskap hans - og þá ekki sízt bókmenntaskrif hans sem eru hvarvetna til sóma.

 

27. febrúar, laugardagur

Við Kristján Karlsson hittumst í hádeginu og borðuðum saman í Hótel Holti í gær. Það var ágætt að venju. Við töluðum margt saman og þá ekki sízt um þau skrif sem hafa orðið um bókmenntasögu Heimis Pálssonar en þar er Kristjáns að engu getið. Um þetta hefur verið deilt í Morgunblaðinu. Ég sagði við Kristján að í raun og veru skipti það litlu máli eða engu, hvort við værum nefndir í slíkum bókmenntasögum, því að kjarni málsins væri sá, að fæstir íslenzkukennararnir minnast á okkur hvort eð er. Þó að kalda stríðinu sé lokið þá erum við áreiðanlega ekki í náðinni í kennslustofunum. Ég held enginn hafi nefnt þetta mikilvæga atriði í þeim greinum sem birtzt hafa í Morgunblaðinu undanfarið. Það er afstaða kennaranna, innstilling þeirra sem öllu ræður, en hvorki bækurnar né umsagnir í bókmennasögum.

Það má vera að kalda stríðinu sé lokið, en mér er þó nær að halda að svo sé ekki í kennslustofunum. Kannski einn og einn kennari minnist eitthvað á okkur, það má vera, en ég verð þess ekki var að við séum í tízku eins og vinstrisinnaðir rithöfundar! Fyrir tveimur árum vildi Bjarni Benedikt skrifa ritgerð um Jörð úr ægi í MH og spurði kennarann, hvort það væri í lagi. Ég veit ekki hvaða kennari þetta var en skiptir ekki máli. Hann kom af fjöllum. Jörð úr ægi var ekki á námsskrá og hann eða hún hafði aldrei heyrt hennar getið. Engin ástæða til að skrifa ritgerð um hana. En nemandinn sat við sinn keip og fékk leyfi til að skrifa ritgerðina. Kennarinn sýndi það umburðarlyndi að gefa honum ágætiseinkunn.

Höfuðatriðið er að kennarinn hafði ekki á boðstólum neina bók eftir undirritaðann né hafði hann kennt neina bók eftir hann. Hitt er svo annað mál að hann sýndi þroska og leyfði þessa umfjöllun.

Kristján Karlsson tók undir þetta, en hann hefur engar áhyggjur, hvorki af þessum deilum né kennslunni í skólum. Telur þetta samt allt aumingjalegt og siðlaust. Við erum sammála um að það sé ekki nein ástæða til að kenna verk okkar vegna þess að þau eru oft erfið og engin ástæða til að treysta neinum kennara til að opna þau fyrir nemendum og auka áhuga þeirra. Við höldum báðir að þeir mundu miklu fremur verða til þess að nemendur fengju ímigust á þessum verkum og forðuðust þau æ síðan eins og heitan eldinn.

Kristján talaði um ljóðið innan ljóðsins og tók dæmi um dansmeyna í kvæði sem ég hef fjallað um áður, ekki alls fyrir löngu. Það birtist í Lesbók um daginn. Við veltum fyrir okkur hvort unnt væri að lýsa skáldskap íslenzkra ljóðskálda með einu orði og komumst að þeirri niðurstöðu að það væri bæði skemmtilegt og oft auðvelt: Halldór Kiljan: (ungi) draumsnillingur, Einar Benediktsson: alveldissál, (Einræður Starkaðar), Matthías Jockumsson: ungbarnstár (í Goðafosskvæðinu), Steinn: mín sjálfs (í Tímanum og vatninu), Jónas: sefgrænan sæ, eða blómálfur, Steingrímur: svanahljómi, Jónas og Steingrímur saman: bláfjallageimur, Gröndal: undrageimur (í Gígjunni), Grímur: feiknstafir (í Goðmundi á Glæsivöllum), Sólarljóð og Jónas: göfgan guð (í Sólarljóðum), Stefán G.: stórveðrahrollur, (í kvæðinu um Illuga). Og erlend skáld: Shelley: christalin stream, þ.e. Miðjarðarhafið (í Ode to the Westvind), Keats: high romance (í When I have fears), Shakespeare: summersday (í sonnettunum). Sérhvert þessara orða hefur mjög sterka og einkennandi skírskotun í viðkomandi skáld, merking þeirra er einnig mikil. Þessi orðaeinkenni eru einungis til gamans og ekki ástæða til að taka þau of hátíðlega eins og sjá má á því, að summersday skírskotar eða bendir frekar til Keats en Shakespeares.

 

Í ljóðrýni í Lesbók í dag fjallar Þröstur Helgason um dægurtexta, og þá einkum með tilliti til kvæðis eftir Stefán Hilmarsson. Þar er allt fullt af smekkleysum, ofrími; leirburði. Þröstur reynir að finna þessu eitthvert gildi. Ég kem ekki auga á það. Hann nefnir einnig Bubba og Megas, talar auðvitað um meistara Megas! Hann fer öðruvísi að en Jónas gagnvart Sigurði Breiðfjörð, vitnar í Paradísarfuglinn. Þessi skáldskapur kallar fram í mér sömu elementin og Tistrans-rímur kölluðu fram í Jónasi Hallgrímssyni….

 

 Okkar tími er póstmóderniskur að því leyti að hann leggur eiginlega flest, ef ekki allt, að jöfnu. Módernisminn fór eftir estetískum vörðum, en ekki þessi vísnagerð. Þröstur segir að Stefán Hilmarsson sé “meistari hins dæmigerða”. Ég hef ekki hugmynd um hvað það merkir. En hann bætir við: “En hvað er dæmigert í íslenzkum dægurlagatextum? Einfölduð rómantísk heimsmynd. Já, vissulega. Yfirgengileg melódramatísk tilfinningavella. Já, mikil ósköp. Samhengisleysi. Já, tvímælalaust. Merkingarleysi eða merkingarflótti. Jú, það er sennilega megineinkenni ásamt fátæklegri og oft á tíðum vondri ef ekki beinlínis rangri málnotkun. En hver er að velta þessu fyrir sér. Ef textarnir virka, falla að laginu, eru þeir góðir, eins og dæmin sanna: “Þig vil ég fá til að vera mér hjá/ vertu nú vænn og segðu já/ því betra er að sjást/ en kveljast og þjást/ af einskonar ást.”!!!

Allt er þetta rétt hjá Þresti, að öllum líkindum. En bottom line er þó þessi setning: En hver er að velta þessu fyrir sér?

Ég segi það líka.

Þegar ég var ungur voru gerðar miklar estetískar kröfur. Þær voru ekki sízt bakhjarl okkar. En nú hugsar enginn um neitt slíkt. Nú er leyfilegt að láta vaða á súðum, rétt eins og Sigurður Breiðfjörð gerði í sínum verstu textum. En hann átti líka til dýrlega lýrik. Á það ætla ég að minnast í fyrirlestrum í haust.

 

Styrmir sagði mér um daginn að Hannes Hólmsteinn hefði sagt sér að hann hefði fengið það hlutverk að tala við Björn Bjarnason um að fara ekki í varaformannsframboð, hann ætti “ekki að leggja það á vini sína” - (að þurfa að velja milli þeirra Geirs H. Haarde væntanlega). Björn tók því illa. Hannes segir að hann hafi verið í fúlu skapi eftir þetta, en þarna er forsenda þess sem síðar varð. Hann fann það út að bezt væri að leggja niður varaformannsembættið fyrst hann fengi það ekki sjálfur!

 Gott hjá Birni, hann er betri en hinir, kann mannganginn og teflir til vinnings. En í  pólitík er  maðurinn  aldrei einn, þar ræður einnig annar vilji.

 

-Styrmir sagði mér líka um daginn að Halldóri Ásgrímssyni og Davíð Oddssyni hefði lent saman út af Kyoto-sáttmálanum um loftmengun. Veit þó ekki um ágreiningsefnið. En Halldór hefur verið frjálsari af sér undanfarna daga en oft áður og hefur meira að segja lýst því yfir, við mikinn fögnuð samfylkingarfólks á þingi, að hann vilji að kannað sé, hvort unnt sé að breyta sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins í því skyni að Íslendingar geti sótt um aðild að sambandinu. Auðvitað er þetta þvert á stefnu Davíðs. Það verður fróðlegt að sjá hvað Halldór gerir eftir kosningar, hvort hann myndar vinstri stjórn sem honum ætti að vera í lófa lagið eða heldur núverandi stjórnarsamstarfi áfram - og þá á þeim forsendum að hann treysti slíkri stjórn betur en lausunginni á vinstra væng. Það yrði þá freistingunni yfirsterkara.

Við sjáum til.

Halldór hringdi til mín í gærmorgun og var óánægður með Morgunblaðið. Samtal okkar var nokkuð langt, en vinsamlegt. Hann var óánægður með hvað Morgunblaðið hefði gert lítið úr skýrslu hans um öryggismál sem lögð var fyrir þingið til umræðu. Ég sagði honum við ættum eftir að bæta úr því. Hann var ánægður með það. Hann sagðist hafa hringt til mín vegna þess “við værum vinir” og hann vildi spyrjast fyrir um það milliliðalaust, hvort það væri “ásetningur hjá Morgunblaðinu” að fjalla sem minnst um hann? Ég sagði að þetta væri út í bláinn. Hann var ánægður með það. Hann sagði að Morgunblaðið hefði aldrei talað við sig um utanríkismál. Ég sagði honum að við myndum kippa því í liðinn, þegar hann hefði tíma. Hann sagðist vera að fara til útlanda í næstu viku. Ég sagði honum að við myndum eiga samtal við hann, þegar hann kæmi. Hann var mjög ánægður með það. Ég sagði honum að við myndum fjalla um skýrsluna í forystugrein á sunnudag.

Vona að allt þetta hafi sannfært hann um að við erum ekki í neinum þeim stellingum að ná okkur niðri á honum. Svavar Gestsson hafði einnig einhverjar áhyggjur af því að við vildum ekki tala við hann, mér er sagt hann sé mjög viðkvæmur út af sendiherraskipuninni í Winnipeg. Ég sagði honum að hann þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu, við myndum eiga samtal við hann, þegar hann kæmi aftur frá Kanada. Reikna með að það verði í næstu viku. Hann virtist mjög sáttur við það.

Morgunblaðið er ekki á eftir einum eða neinum, það skiptir ekki um pólitískan ham eftir því, hver á í hlut, en það er ekki heldur viðhlæjandi neins. Við gerum það sem við teljum rétt, það er allt og sumt. Halldór sagði að við gæfum það í skyn að við vildum skrifa meira og ítarlegar um varnar- og öryggismálin en aðrir fjölmiðlar. Ég sagði að það væri rétt. Hann sagðist ekki vera að kvarta í raun og veru því líklega hefðum við gert betur en honum fyndist. En samt hefði hann viljað ámálga þetta við mig og spyrja sinna spurninga vafningalaust - og án milliliða.

Samtal okkar var með ágætum og ég held hann hafi sannfærzt um að það sé enginn ásetningur hjá Morgunblaðinu að sýna honum ekki fyllstu kurteisi eða nefna hann sem minnst í blaðinu.

Halldór getur verið þungur á bárunni, en mér líkar ágætlega við hann.

 

Kvöldið

Það má svo sem segja að sturlungaöldin lifi enn með okkur, við lifum að minnsta kosti ennþá í samfélagi kunningsskaparins og vopnaklíkunnar. Við erum að vísu hætt að vega hvert annað með vopnum, en það er gert með öðrum hætti. Ættarsamfélagið er ávallt á næstu grösum. Og þegar skoðað er í saumana koma oftar en ekki fyrir alls konar tengsl sem ráða úrslitum um afstöðu manna og ákvarðanir.

 

Ég spurði Jóhann Hjálmarsson um síðustu bók Sigfúsar Bjartmarssonar en vissi ekkert um hana og hafði aldrei heyrt hennar getið áður, en ég las

frétt um það að hann hefði fengið DV-verðlaun fyrir bókmenntir. Ég þekki piltinn lítið sem ekkert en Bjartmar föður hans, fyrrum þingmann, þekkti ég allvel. Hann var ágætur maður og mér líkar vel við piltinn. Ég las á sínum tíma eftir hann ljóðabók, en gleymdi henni svo alveg  og hef lítið fylgzt með honum. Nú fær hann þessi verðlaun - og er allt gott um það að segja. Á sínum tíma átti ég samtal við hann í sjónvarpsþætti um skáldskap. Það fór allt ágætlega fram, en þeir sem að sjónvarpsþættinum stóðu urðu fyrir árásum kvenvarga sem töldu að þeir hefðu ekki sinnt konum í íslenzkum bókmenntum. Ég skal ekkert um það segja og hafði raunar aldrei neinn áhuga, hvorki á því né þættinum. En svo les ég um þessi verðlaun, kom sem sagt af fjöllum. Þá spurði ég Jóhann Hjálmarsson hvernig bók þetta væri sem hann hefði fengið verðlaunin fyrir. Jóhann sagði að þetta væri ekki ljóðabók, heldur prósi; mér skilst hún sé einhvers konar bollaleggingjar um lífið á jörðinni, manndýrið og önnur dýr.

 

Það er ágætt sagði ég.

 Já, sagði Jóhann, það er margt gott um Sigfús.

Er hann í einhverri sérstakri klíku, spurði ég.

 

Það væri þá helzt með Gyrði Elíassyni og hans klíku, sagði Jóhann.

  Jæja, sagði ‘ég, Og hverjir eru í henni, ekki Hallgrímur Helgason og Guðmundur Guðmundarson?!

Nei, það er víst ekki, sagði Jóhann. En Friðrikka Benónýsdóttir sem var einu sinni blaðamaður hér á Morgunblaðinu og skrifaði svo skáldsögu.

Jæja, sagði ég, er hún í klíkunni.

Já, og hún er í verðlaunanefnd Dagblaðsins, sagði Jóhann. ……

 

 

 

Örlög manna eru þannig með ýmsum hætti ráðin á Íslandi. Ég þakka guði fyrir að Hjördís Hákonardóttir skyldi kæra skipan Haralds, sonar okkar, í embætti ríkislögreglustjóra. Hún átti áreiðanlega ekki von á því að jafnréttisnefnd kæmist að þeirri niðurstöðu, að hann væri henni hæfari í stöðuna. Eftir það hefur enginn getað sagt að hann hafi verið skipaður af pólitík eða vegna vináttu okkar Þorsteins Pálssonar, enda hefði Þorsteinn nú frekar átt að refsa mér en hitt fyrir andstöðu Morgunblaðsins við sjávarútvegsstefnu hans. En Þorsteinn er ekki slíkur aumingi. Hann er vel gerður maður og lætur ekki fordóma ráða gerðum sínum. Hann er drengur góður og má varla vamm sitt vita. Stundum hefur siðgæðispostullinn í Þorsteini að vísu hlaupið með hann í gönur, svo sem þegar hann rak Albert Guðmundsson úr Sjálfstæðisflokknum í beinni útsendingu og þá fyrir ávirðingar sem Albert var sýknaður af síðar meir. Það var örlagaríkur brottrekstur. Hann átti sér rætur í siðgæðishugmyndum Þorsteins Pálssonar, en ekki óheiðarleika hans og fordómum. Menn geta einnig fallið á þeim. Það er enginn heilagur andi sem stjórnar samfélagi mannsins. Því er stjórnað af freistingum og fordómum okkar sjálfra; valdagræðgi, sjálfsvorkun og sérhyggju. Því er stjórnað af nákvæmlega sömu elementum og urðu íslenzka þjóðveldinu að falli. Þetta er í aðra röndina hið skítlegasta samfélag og það er bæði hollt og nauðsynlegt að draga sig út úr því að vissu marki. Það er áreiðanlega eina leiðin til að farnast sæmilega…..

 

 

28. febrúar, sunnudagur

Flutti erindi á 100 ára afmæli Búnaðarþings. Bjart veður, stillt en svalt. Ingólfur sonur okkar hefur verið á Ítalíu. Þar fór hann tvisvar í Scala, það var víst draumurinn. Kemur aftur til Edinborgar í kvöld, að mér skilst. Áður var hann á skíðum í Cortina í Dolomitísku ölpunum. Hann var heppinn með veður, ólíkt þeim sem fóru til Sviss, Frakklands og Austurríkis. Þar hafa margir farizt í snjóflóðum. Alptraum á líklega rætur að rekja til þess, martröð. Náttúruhamfarir eru martröð. Ingólfur er frjáls eins og fuglinn því hann er einn á ferð, en af því hef ég stundum áhyggjur. Reyni að fylgjast með honum eins og ég get. En sem sagt, nú var takmarkið Scala. Hann hefur þannig áhuga á listum, tónlist og myndlist. Les einnig mikið. En ég get víst þakkað fyrir að hvorugur sona minna er bókmenntafræðingur! Það hefði orðið meira kollrakið!

 

Það var skemmtilegt að flytja hátíðarræðuna á 100 ára afmæli Búnaðarþings. Þetta var mjög menningarleg samkoma. Það er hægt að tala um alvarlega hluti við þetta fólk. Rætur þess standa djúpt í þeim jarðvegi sem ég fjallaði um. Ég fékk mikið þakklæti að lokum og forseti Íslands óskaði eftir því að ég sendi honum handritið. Það var ágætt hjá honum, hann er meiri smekkmaður en ég vissi!! Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps söng á milli atriða. Það minnti mig á vegavinnuna á Stóra-Vatnsskarði, einnig á alla hagyrðingana sem þá voru að kenna manni bragsnilld - og þá ekki sízt á Guðmund blessaðan á Bergsstöðum, vin minn, sem dó um aldur fram; smásagnahöfund. Páll Pétursson, félagsmálaráðherra, þakkaði mér sérstaklega fyrir ræðuna, Stórsnjöll ræða, sagði Páll sem einu sinni skrifaði mér bréf og bað mig um að birta grein eftir sig. Það hófst svona: Kæri frændi. Þegar hann þakkaði mér fyrir ræðuna sagði ég við hann, Það er ekkert að þakka, rætur hennar má rekja til Blöndudalshóla, ekki sízt þangað.

 

Jón Helgason, fyrrum landbúnaðarráðherra, bekkjarbróðir minn í MR, sagði mér að nú yrði senn haldin ráðstefna austur í Vík, að mig minnir, og fjallar um arfleifðina.

Það er ágætt, sagði ég, ekki veitir af.

Hermann Pálsson mun koma og tala eitthvað um þessi fræði, sagði hann.

Já, einmitt sagði ég.

 Mér skilst hann vilji helzt tala um Brand byskup Jónsson, bætti Jón við.

 Það er ágætt, sagði ég, hann hefur fært sterk rök að því að Brandur hafi skrifað Hrafnkels sögu.

En Brandur þýddi Alexanderssögu, sagði þá Jón.

 Einmitt, sagði ég.

Jón  hikaði dálítið og hugsaði sig um, bætti svo við, Hermann segir að nemendur sínir séu að komast á þá skoðun að lærisveinar Brands hafi skrifað Njáls sögu.

 Það er ágætt hjá honum, sagði ég. Sjálfur hefur hann sett fram þá kenningu að Árni byskup, eða Staða-Árni hafi skrifað Njálu. Nú er hann líklega á einhverju undanhaldi! Segðu honum, bætti ég við, að ég verði í Edinborg þegar hann kemur þangað aftur eftir ráðstefnuna.

 Ertu að fara þangað? spurði Jón Helgason

 Já, við Hanna ætlum að heimsækja Ingólf son okkar, sem þar býr, og vinnur á spítalanum og við háskólann,einnig að rannsóknum .

 Ég skal segja honum það, sagði Jón og brosti.

 Þá getum við rifizt um Njálu, sagði ég.

 Við Jón rifjuðum upp ýmislegt úr menntaskólanum. Hann er betur að sér í þeim efnum en ég.

 

Nokkur atriði til minnis:

1. Í samtali okkar Jóns Helgasonar á afmælisfundi Búnaðarþings kom til tals að ég nefndi í ræðu minni mótun landsins og hvernig við réðum henni ekki. Landið er því, ólíkt öðrum Evrópulöndum, ferskt og nýtt eins og ævintýri. Jón sagði að unnt væri að aka frá Vík í Mýrdal austur undir Vatnajökul í landslagi sem væri gjörólíkt því sem verið hefði, áður en eldgosin miklu urðu eftir miðja 18. öld. Mig minnir að hann hafi sagt að 1755 hafi orðið feiknamikið Kötlugos sem breytti Mýrdalssandi og huldi Skaftártungurnar  ösku, skömmu síðar urðu Skaftáreldar eins og alkunna er og einhvern tíma á þessu tímabili gaus Öræfajökull. Það er ekki allsstaðar sem við blasir svona nýlegt umhverfi.

 

2. Það eru áreiðanlega margvíslegar ástæður fyrir því að Jónas laðaðist að Gunnari og hlíðinni hans og þeirri fagurfræðilegu athugasemd sem er óvenjuleg í fornsögum, þess efnis, að hún sé fögur að sjá neðan úr Gunnarshólma, bleikir akrar og slegin tún. Í þessum orðum er ekki endilega lögð áherzla á náttúrufegurð, heldur hagnýta fegurð. Það er hin hagnýta fegurð bleikra akra, þ.e. kornyrkjunnar og hinna slegnu túna, sem Gunnar hrífst af. Það er hin hagnýta fegurð fjölnismannsins sem er þarna á ferð og upplifir söguna með skírskotun í þessa einstæðu athugasemd. Hún er ekki sízt einstæð vegna þess hvernig höfundur Njálu leggur áherzlu á þessa nytjafegurð í umhverfinu og hvernig hún gerir það fallegt og eftirsóknarvert. Akuryrkja er framtak, það eru einnig slegnu túnin þótt  þau hafi ekki verið nema litlir blettir eða bleðlar í umhverfinu. Þarna fer saman hagnýt náttúruskynjun fornaldar og hagsældarsjónarmið fjölnismannsins, Jónasar Hallgrímssonar. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því vegna þess ekki sízt, að Jónas veit að það getur enginn lifað á náttúrufegurð einni saman, hvorki Gunnar á Hlíðarenda, né samtíðarmenn hans sjálfs.

Gunnarshólmi er engin tilviljun, heldur fullkomlega eðlilegt framhald fyrirmyndar sinnar og rómantískrar nytjastefnu í anda upplýsingar Eggerts Ólafsssonar.

 

3. Kvæði mitt Haustljóð í skógi sem fjallar um skóginn á hausti og upprisu hans á vori, fugla og tré, hefur einungis hliðsjón af þessu umhverfi. Kjarninn í kvæðinu er aftur á móti kvæðið innan kvæðisins, það sem ekki er beinlínis talað um, heldur ýjað að með vísunum og skírskotunum. Ást okkar og ævi sem fylgir árstíðum; dauðinn. Vindarnir sem deyja við vatnið eða augu okkar (sbr. fjalla vötn í Sólaljóðum) eru veðrabrigði í lífi okkar og þegar á móti blæs undir lokin vökna þessi augu, en niðurinn er dauðinn, eða nóttin sem okkur hefur ávallt vaxið í augum þótt við höfum reynt að láta lítið á því bera.

Grábláir steinar í þessu vatni og glitrandi augnatilliti  á góðum stundum fylgir okkur, þrátt fyrir haustið, þrátt fyrir skilnaðarstundina; þrátt fyrir skjálfandi raddirnar sem minna á kliðinn í skóginum, þegar laufið fellur undir haust og fuglarnir hætta að syngja; en hvað sem því líður, þá vaknar skógurinn á ný og hin endanlega gola kyssir hvern fugl og hvert tré á sama hátt og við upplifum minningar okkar í fyrirheiti vorsins. Við bíðum eins og birkið eftir mjúkum fingrum andvarans á þessu haustkvöldi, þessu októberkvöldi í lífi okkar; bíðum þess að augu hennar snerti enn vanga okkar og vekji þá dularfullu ást og ástríðu sem fylgir okkur að leiðarlokum. Og þá eru golurnar ekki margar, heldur ein.

 

 

 

Ég hafði raunverulega það eitt í huga

að túlka í einföldu, skiljanlegu og aðlaðandi formi

þá samstöðu alls lífs, sem mér hafði

alltaf verið hugnæmt undrunarefni. -

Svo kvað Tómas.

 

1.

Fallandi öldur

hugsanir okkar

 

rísa aftur

með hrynjandi

hafsins.

 

2.

Orð þagnir

þrúgandi andartök

 

vitja okkar enn

 

flöktandi skuggar

á sólhvítu þili

tímans.

 

3.

Eins og hafið

sefur hugsun okkar

 

hljóður andvari

hugans.

 

4.

Hvítir vængstórir

fuglar

 

af hryggjuðum

földum

 

breiðir hafið út

fang sitt

og fagnar.

 

5.

Þanglausir steinar

í fasteygum

skimandi tóttum.

 

6.

Að skugga hins liðna

þyrpast lúnar

minningar

 

flöktandi ljósbrot

í fylgd með okkur.

 

7.

Eins og leðurblökur

í platónskum helli

tímans

 

orð okkar

 

þagnir

 

hellnaristur

útmáðar línur

 

og gleymast.

 

Brot

Hjarta þitt

fangelsi.

 

Og ég á skilorði.

 

----

 

Ást okkar

sólsetur

í svalarúðunni.

 

Þú lokar hurðinni,

dregur fyrir.

 

 

 

Haustljóð í skógi

Eins og birkið sem bíður þess löngum

að blíður andvarinn strjúki það undir kvöld,

fari greinarnar mjúkum fingrum,

þannig bíð ég þess einnig við ótrygga sýn

að augu þín snerti haustkaldan vanga

eins og hvíslandi golurnar hljóðlega syngi

við hrynjandi lauf þetta október-

kvöld

 

eins og dularfull ástríða dragi til sín

mitt dáðlausa þrek

 

en þrátt fyrir haustið í húmsvörtum vindum

og hríslurnar sakni laufsins á kulnuðum greinum

og skógurinn minni á skilnaðarstundir

þegar skjálfandi rödd þín kveður að lokum

vatnið sem gárast við grábláa steina

og glitrandi tillit, það fylgir mér samt

á þinn fund

 

eins og skógurinn vakni og vaxi að nýju

inní vorgræna golu sem kyssir hvern fugl

og hvert tré

 

þótt vindarnir gnauði við vatnið og niðurinn sé

nóttin sem vex þér í augum.

(Sjá skýringu hér að framan)

 

4. mars, fimmtudagur

Við Styrmir borðuðum með Davíð Oddssyni í dag í ráðherrabústaðnum og áttum þar langt samtal sem stóð í hálfan fjórða klukkutíma. Eitt bezta samtal sem ég hef átt við Davíð Oddsson. Hann var eins hlýr og vináttusamlegur og hann getur frekast orðið og mér fannst þetta stefnumót okkar minna á gamla, góða daga. Það var talað um alla heima og geima, en þó ekkert sérstakt. Hann rifjaði það upp að tilhneiging væri í ætt sinni til háþrýstings og sagði að hann hefði lengi verið með of háan blóðþrýsting, en nú væri hann kominn á lyf sem hann tæki daglega. Ég sagði honum það hefði ég þurft að gera í tuttugu ár og hefði að mestu getað haldið blóðþrýstingnum niðri með einni töflu á dag. Hann sagði að blóðþrýstingurinn hefði verið kominn upp í 118 við neðri mörk og yfir 170 við efri mörk. Ég sagði það gæti verið lífshættulegt til lengri tíma og gæti kallað á heilablóðfall. Hann sagðist gera sér grein fyrir því, en nú væri hann kominn niður í 100 við neðri mörk. Ég sagði að þetta væri ekki nóg, hann þyrfti að komast niður í 90. Ég rifjaði það upp að Sigurður Bjarnason hefði haft alltof háan blóðþrýsting síðustu tvö, þrjú árin sem hann var á Morgunblaðinu, en ekkert tillit tekið til þess. … Þá var ég farinn að gera mér grein fyrir því að annaðhvort hefði hann verið með of háan blóðþrýsting eða einhvern hjartakvilla, en hvorttveggja getur haft í för með sér að fólk verður uppstökkt og illþolanlegt. Það kom svo í ljós nokkrum misserum síðar að Sigurður fékk heilablóðfall og lá lamaður og mállaus vikum saman, en náði sér loks á strik og hefur verið eins og hvert annað kraftaverk síðan. Nú sé hann að komast á níræðisaldur og væri það með ólíkindum.

Davíð sagðist hafa fundið til þyngsla yfir höfði og hann hefði haft tilhneigingu til að verða rjóður og þrútinn í andliti. Ég þóttist vita að slík einkenni væru mjög slæm og lífsspursmál að losna við þau með lyfjum og sagðist hann nú finna mikinn mun á sér…..

 

Það er enginn vafi á því að trúnaður ríkir milli okkar Styrmis og Davíðs -og er það vel. Vinátta okkar er góð og til fyrirmyndar. Þegar ég ætlaði að fara um hálf þrjúleytið sagðist hann hafa nægan tíma. Við hittumst bara einu sinni á ári, sagði hann, og brosti, svo það er full ástæða til að við sitjum lengur. Svo kom bílstjóri með einhver lagafrumvörp sem hann þurfti að skrifa undir. Við spurðum hvort forsetinn væri búinn að skrifa undir, en hann sagði að forsetinn ætti það eftir og fengi nú frumvörpin send. Mér virtist hann hafa dálítið gaman af að skrifa undir frumvörpin þarna fyrir framan okkur.

Þegar talið barst að Sverri Hermannssyni var engu líkara en Davíð tryði því varla enn að hann mundi bjóða sig fram. Ég sagði að vinir hans gætu í engu hjálpað honum í þeim efnum því að hér væri ekki um það að ræða að komast á þing, heldur að endurheimta orðstír sinn, mannorð og virðingu. Davíð spurði hvort það nægði honum að komast einn á þing og ég taldi svo vera. Honum þótti það heldur dapur endir á ferli Sverris, en bætti því við að hann hefði sjálfur skotið sig í fótinn með því að krefjast úttektar ríkisendurskoðunar á útgjöldum vegna bankastjóra Landsbankans. Ef hann hefði ekki gert það, sæti hann líklega enn í bankastjórastólnum….

 

Davíð talaði um pólitíkina og viðhorfin og sagðist halda að núverandi ríkisstjórn yrði áfram ef Framsóknarflokkurinn fengi sæmilega útkomu í kosningunum. Annars gæti brugðið til beggja vona. Sæmileg útkoma, sagði hann, væri um 17% eða þar yfir.

Ég sé ekki að hann hafi neinar sérstakar áhyggjur af Samfylkingunni. Hann tók undir Reykjavíkurbréfið sem fjallaði m.a. um hana, en Björn Bjarnason hefur aftur á móti á sinni netsíðu sagt, að sá sem það Reykjavíkurbréf hafi skrifað sé stuðningsmaður samfylkingarmanna. Þetta átti áreiðanlega að vera skeyti til Styrmis. Davíð tók ekki undir það….

Að lokum má geta þess að Styrmir spurði Davíð um afstöðu hans til Norsk Hydro og álvers á Reyðarfirði. Hann sagðist skilja það vel að Halldór Ásgrímsson vildi halda þessu máli vakandi fyrir kosningar, enda augljóst að það væri mikilvægt umræðuefni í kjördæmi hans. En hann sagði jafnframt að sjálfur hefði hann ekkert um þetta viljað segja, því að það lægi ekkert fyrir um niðurstöðu. Hann hefði tekið þátt í Atlantsálsmálinu á sínum tíma og þá hefði ekkert gerzt, þvert á móti hefðu allar fyrirætlanir Atlantsáls um álver á Íslandi gufað upp. Álversmál Austfirðinga minntu sig óþægilega á Atlantsálsþvargið. Og þó að ekki ætti að hugsa um söguna eins og endurtekningu eða ljósrit væri óhjákvæmilegt að þessi mál minntu hvort á annað.

Mér er nær að halda að Davíð Oddsson telji það ekki fýsilegan kost að efna til stórátaka við náttúruverndarsamtök í landinu út af stórvirkjunum á hálendinu, en þær framkvæmdir eru síður en svo yfir gagnrýni hafnar, svo að ekki sé meira sagt. Davíð hefur haft nógan ama af kvótaþvarginu.

 

Kvöldið

Þegar Björn Bjarnason var á dagskrá í samtali okkar Styrmis við Davíð Oddsson sagði hann okkur þessa sögu af þeim Alfreð Guðmundssyni, forstjóra Kjarvalsstaða, en Alfreð og faðir minn voru miklir mátar og þekkti ég hann sæmilega. Honum var sumt vel gefið, en hann var heldur leiðinlegur maður og sjálfsmatið bögglaðist fyrir brjósti hans. Hann dáði Kjarval. Davíð fylgdist nákvæmlega með Kjarvalsstöðum meðan hann var borgarstjóri og tók t.d. upp öll bréf til listasafnsins í fjögur ár, en Alfreð safnaði þeim saman og kom með þau, vildi ekki afgreiða þau sjálfur sem forstöðumaður Kjarvalsstaða, líklega af ótta við gagnrýni.

Þeir Alfreð og Davíð urðu miklir mátar og Davíð gerði það fyrir hann sem hann frekast mátti. Svo líður tíminn og Alfreð fer á eftirlaun. Þá tekur Gunnar Kvaran við safninu, doktor í listasögu, eða nánar tiltekið Ásmundi Sveinssyni, og hafði því allt með sér sem Alfreð skorti. Hann var færður upp um sex launaflokka og þótti öllum sjálfsagt. En þá kemur Alfreð að máli við Davíð og óskar eftir því að eftirlaun hans verði einnig hækkuð um sex launaflokka. Davíð komst í vanda. Magnús Óskarsson, lögfræðingur, var þessu andsnúinn, svo og aðrir sem leitað var til. Niðurstaðan varð sú að Davíð hækkaði Alfreð um þrjá launaflokka.

En það hefði ég aldrei átt að gera, sagði hann, því að Alfreð kom öskureiður á minn fund, dembdi sér yfir mig og sagði að ég hefði alveg eins getað hækkað sig um sex launaflokka eins og þrjá!

Eftir þetta heilsaði Alfreð Davíð Oddssyni aldrei, en gekk úr vegi ef þeir hittust og þau hjón bæði. Davíð sagði að hann hefði ekki erft þetta við Alfreð, en látið eins og ekkert væri og að lokum var hann viðstaddur útför Alfreðs. …

 Þá var það einnig minnisstætt hvernig Davíð hóf samtal okkar. Hann sagði að ég hefði skrifað á bók til sín af miklum hlýhug 1971 og þar hefði m.a. staðið: “Til upprennandi forystumanns”. Reyndi svo að gantast með það, að slaknað hefði á þessum áritunum, líklega átti hann við það undir rós, að Ólafur Ragnarsson í Vöku skrifaði á síðustu bók mína, Flugnasuð í farangrinum,  en ég kvittaði undir, athugasemdarlaust!

 

Hef fengið mikið hrós og enn meira þakklæti fyrir ræðuna á Búnaðarþingi. Salurinn var troðfullur af fólki hvaðanæva að af landinu og að athöfn liðinni ætlaði ég varla að komst út vegna þakklætis, einn bóndi sem ég þekki ekki hélt lengi báðum höndum í hönd mína og sagði: Með þessa ræðu í hjarta mínu fer ég heim og þar verður hún það sem eftir er. Hann sagði mér til sín en ég þekkti hann ekki og man ekki hvað hann heitir. En það var engu líkara en þetta fólk þyrfti á því að halda, að ritstjóri Morgunblaðsins hyllti bændamenninguna og þá arfleifð sem hefur lifað og dafnað í skjóli hennar frá öndverðu.

 

6. marz, laugardagur

Mér finnst þetta athyglisverð greining, birt í Lesbók í dag:

 

Kristján Karlsson

Snertu mig ljós

Snertu mig ljós, það líður

langt á kvöld og ég æðrast

þungt logn þéttist í myrkur

 

fjaðrirnar þagna, það fölnar

fjórlitur páfugl hugans

ljósin á engi og eyrum

 

lengst blikar áin afskipt

uppsprettu ljóssins

ranghverfa rökkurs og hugar

 

á fellur svöl yfir andlit

okkar snöggvast úr fjarska

hljóðlaust og hverfur í myrkrið

 

snertingin ein er eftir

ást mín, í blindum taugum,

snertu mig

snertu mig ljós sem lifir

(Kvæði 84)

 

ÞETTA ljóð býr yfir mikilli fegurð og mikilli sorg í blöndu af beinum lýsingum tilfinninga, myndhverfingum og ytri myndum er spegla hugrenningar. Form þess er fimm þriggja lína erindi, þar sem tvær fyrri línurnar hafa stuðla og höfuðstaf, en hin þriðja tvo stuðla. Í síðasta erindinu er vikið frá þessu stranga formi með endurtekningu orðanna “snertu mig”. Hún eykur áhrifamátt þess er ljóðinu lýkur með upphafsorðunum “snertu mig ljós” með viðbótinni “sem lifir”.

Sú blanda sem nefnd er hér í upphafi, kemur strax fram í fyrsta erindinu. Kalla má það færslu milli skynsviða að tala um snertingu ljóss, sem almennt höfðar til sjónskynjunar, og “þungt logn” er fjarri því að vera venjulegt orðfæri. Sömuleiðis að það “þéttist í myrkur”. Hins vegar er það bein lýsing tilfinningar að segjast æðrast.

Þegar í upphafi birtist hlutgervi ljóðsins (mynd hlutlægra efnisatriða), þótt sú mynd sé enn ekki orðin skýr. Mælandi sem ekki gerir vart við sig, er staddur á óljósum stað síðla kvölds í logni sem breytist í myrkur og biður um snertingu ljóss, sem er að hverfa.

Í næstu erindum skýrist þessi mynd smám saman. Þegar myrkur fellur á þagna fjaðrirnar, ­ það er hluti fyrir heild, þar sem átt er við fuglasönginn. En um leið þagnar hugurinn, eða eins og segir í ljóðtextanum “fölnar fjórlitur páfugl hugans”. Þetta er í senn áhrifamikil og óvænt myndhverfing, sem gegnir vel því hlutverki að sýna í mynd það sem hvorki hefur form né lögun. Hugurinn er sem fjórlitur páfugl: hinni margbreytilegu, frjóu hugsun er líkt við litríkan fugl. Nú fölna litir hans, hugurinn slóvgast er mælandinn æðrast, lætur hugfallast. Um leið fölnar birtan á engjum og eyrum.

Við þekkjum öll að við slíkar aðstæður sést rennandi árstraumur lengst áður en allt hverfur endanlega í myrkur. En í þessu ljóði er áin “afskipt uppsprettu ljóssins” er sett hjá: ranghverfa eða andstæða rökkurs og hugar. Áin, sem fellur líkt og silfurstrengur í rökkrinu, fellur einnig “svöl yfir andlit / okkar snöggvast úr fjarska / hljóðlaust og hverfur í myrkrið”. Vatn hefur margvíslega táknræna merkingu. Það getur táknað materia prima: upphaf alls; orku líkamlegrar, tilfinningalegrar og andlegrar hreinsunar; hinn kvenlega þátt lífsins; lífið sjálft; andlega sköpun og andlegt líf. Hér er það beinlínis tengt ljósi, sem einnig á sér margvíslega táknrænar merkingar: sköpun; andleg orka; guðdómleiki; hugljómun; líf. Við ráðningu þessara tákna í ljóðinu ber að hafa í huga andstæður ljóss og myrkurs ­ og þá um leið að vatnið er hér “afskipt uppsprettu ljóssins”. Takið eftir orðinu “okkar” ­ mælandinn er ekki einn, án þess að það sé skýrt frekar. Takið einnig eftir því að í ljóðinu ríkir þögn. Hið eina sem minnir á hljóð er “fjaðrirnar þagna”.

Nú er allt, bókstaflega allt horfið í myrkur, - og “snertingin ein er eftir / ást mín, í blindum taugum”. Í slíku algeru myrkri eru tengsl einungis fólgin í snertingu. Hér er hún tengd ást, og taugarnar eru "blindar" (enn yfirfærsla) í þessu myrkri sem er miklu meira en myrkur ytri veraldar. Það hlýtur hér að vera tengt bæði tilfinningu (sbr. taugarnar og ástina) og hugsun. Með öðrum orðum allsherjarmyrkur sorgar og örvæntingar sem birtist í átakanlegri bæn lokaorðanna: “snertu mig / snertu mig ljós sem lifir”. Þrátt fyrir allt lifir ljósið sem er horfið mælanda ljóðsins, það veit hann og hrópar á það í hljóðri bæn.

Njörður P. Njarðvík

 

 

Ódagsett

Fótspor á himnum eftir Einar Má er ágæt þjóðfélagssaga um íslenzkt mannlíf á fyrra helmingi þessarar aldar “Dyrnar opnast eins og minning úr fortíðinni”. (18. kafli)

Þegar við vorum saman í Toronto sagði Einar Már mér frá því að hann væri að vinna skáldsögu uppúr minningum um fólkið sitt, enda augljóst af sögunni (“föðurbræðrum mínum”), ekki sízt minningum frænda síns sem tók þátt í spánarstríðinu, en þær eru heldur þunnur þrettándi í sögunni. Svipað vinnulag viðhafði Einar Már í Englum alheimsins  sem fjallar  um geðveikan bróður hans og samfélag þeirra, en hún hlaut Norðurlandaverðlaunin á sínum tíma. Nú er sótt til ömmunnar Guðnýjar og umhverfis hennar, sósíalistans sem trúði þó einkum á Krist eins og gamlar konur gerðu fyrr á tímum, þrátt fyrir allt. Eða - var hann kannski eina athvarfið eins og hann er raunar enn, jú líklega. Hvítasunnusöfnuðurinn og Herinn voru góð lending. Amman var gift drykkfelldum sjómanni úr sveitinni (Ólafi) og hafði hann marga fjöruna sopið. Þau bjuggu í ónothæfri kjallaraíbúð eða rottuholu í vesturbænum. Inní þetta baslumhverfi alltof margra barna (sveitarómaga) eru ofnar minningar um sjóarana, stakstæðin, þar sem amman vann, Árna kaupmann og Símon fátækrafulltrúa og svo sveitina, þaðan sem allir Íslendingar eru ættaðir. Stundum ljóðrænar umbúðir og athugasemdir (t.a.m.

upphaf 15. kafla) eins og í Ljósvíkingnum  og  Sjálfstæðu fólki.

Ósköp gamaldags, gæti verið Jón Trausti, sagði Hanna. Ekki alveg að vísu. Raunsæissaga úr sveit og bæ, skrifuð eins og sósíalrealistar hafa gert öllum stundum og dregur til sín efni um fátækt fólk á enn fátækari tímum.

Í 15. kafla segir m.a.: Borgir ofnar úr draumum léku sér í skýjunum - um þessar borgir, þessa drauma, fjallar sagan öðrum þræði. Það er oft komizt vel og skáldlega að orði í þessari þjóðfélagslýsingu... samvizkan eins og sakaskrá, segir á einum stað og þegar Ólafur afi stikar um bæinn, timbraður og fullur af samvizkubiti er því lýst hvernig gatan “bylgjast eins og seigfljótandi hraun og heimurinn er tilgangslaus þvæla”.

 

Ég hef gaman af því að rifja upp minningar um Maríu Maack þegar ég les um íhaldskonuna sem stjórnar Farsóttarhúsinu þar sem afi deyr að lokum, blindur. María var eftirminnileg kona og hefði að ósekju mátt fá meira rúm í sögunni. Ég átti samtal við hana á sínum tíma og kom þá í ljós að hún bjó yfir mörgu sem blasti ekki við á yfirborðinu, ekki sízt magnaðri og eftirminnilegri dulrænni reynslu.

En foringjar Sjálfstæðisflokksins, bæði Ólafur og Bjarni, voru hálfhræddir við hana, enda var hún mikil á velli og sópaði að henni, bæði á fundum og í samtölum. En enginn efaðist um fórnarlund hennar og hjartahlýju.

 

Nei, ekki Jón Trausti, ekki alveg. Ljóðrænt andrúm sögunnar vísar nær okkur, t.a.m. upphaf 15. kafla. Hann hefst í raun á einskonar prósaljóði sem minnir að sjálfsögðu á annan skáldskap Einars Más í þessum dúr. En - “það er fáfræðin sem heldur okkur fátækum”,. það er ábending sögunnar.

 

Af sögunni virðist augljóst (23. kafla, minnir mig) að langalangafi Einars Más +

var faðir barnanna í Kópavogi sem þar drukknuðu, en sr. Matthías orti um þennan harmleik og varð þjóðfrægt. Svo virðist sem Einar Már þekki ekki þetta kvæði sr. Matthíasar, en það er svohljóðandi:

 

Tvö börn

Tvö gullin blómstur grétu þau sem misstu

og gjörðu báðum sæng í einni kistu.

 

Þar hvíla þau sem hjón að Herrans vilja,

og hvað hann tengir, það má enginn skilja.

 

Svo blítt og rótt þið breidduð hjónarúmið,

því byrjað var hið stóra’ og langa húmið.

 

Og til þess kuldinn angraði’ ei hin ungu,

um ársal dauðans féllu tárin þungu.

 

Og svo þau mættu saman værðar njóta,

þið settuð kross til höfðalags og fóta.

 

Og sunguð klökk: “Þótt sorg á jörðu dafni,

þá sofið rótt og vært í Jesú nafni!”

 

Og allt var gert, sem manna fátækt mátti,

því meira gaf ei neinn en það hann átti.

 

En svo kom hann, sem hér varð barna líki,

með huggun sinni: “Slíkra’ er himnaríki!”

 

Held þetta sé kvæðið, en getur þó verið misminni….

 

 

 

14. marz, sunnudagur

Við Hanna skruppum til Edinborgar því að Ingó flytzt heim um næstu mánaðarmót og tekur kandidatsárið fyrir næsta áfanga.

Ágætt flug og ég hafði gaman af því þegar flugstjórinn sagði að það yrði nokkur kvika í lendingunni í Glasgow, ég hef oft upplifað miklu meiri kviku en þótti þessi ummæli heldur nærgætin við misjafnlega hrædda farþega.

Fórum til Sterling í gær og ég upplifði fyrri tíma þar þegar við gistum þar á ferð um Skotland hjá ágætum hjónum og fengum Bed and breakfast fyrir lítinn pening, en þá var aurunum ekki fyrir að fara. En fleskið hjá þessum ágætu hjónum var of þykkt og of lítið brasað svo ég gat ekki borðað það og átti í erfiðleikum með að leyna því, vildi ekki særa frúna! Man þetta því eins og það hefði gerzt í gær. Ég vil hafa fleskið stökkt og láta það molna, en ekki mjúkt og teygjanlegt.

Skoðuðum kastalann í Sterling og kíktum inní söguna. Fórum svo aftur til Edinborgar og hjálpuðum Ingó að pakka.

Ég fékk mér smákoníakslögg og dálítinn bjór meðan Hanna og Ingó pökkuðu fram á kvöld og las mér til um Skotland og undirbjó Reykjavíkurbréf um skozk stjórnmál sem ég las svo inná segulband í morgun.

 

Kvöldið

Undarlegur er húmor tímans. Við í Skotlandi, en forsetinn í Póllandi og heldur upp á stækkun NATÓ, enda er hann hernámsandstæðingur og hefur alltaf verið á móti NATÓ eins og allir vita!! En hann lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna og var eins og segir í netfréttum Morgunblaðsins í dag “sérstakur gestur pólsku stjórnarinnar við inngöngu Póllands í Atlantshafsbandalagið!!

Ég veit eiginlega ekki hver stjórnar þessum farsa en þó veit ég nógu mikið til að gera mér grein fyrir því að tíminn, forsjónin eða örlögin eru helztu höfundar þess fáránleikaleikhúss sem við höfum fyrir augum dag hvern. Og nú er Ólafur Ragnar í hlutverki sköllóttu söngkonunnar, eða hvað þær nú heita þessar prímadonnur fáránleikans! Kannski er það mátulegt á hann - en eigum við hin það skilið?

Ég velti því fyrir mér hvort forsjónin hafi gaman af þessari kaldhæðni. Ætli hún sitji í Paradísó og hlæi sig máttlausa yfir þessari vitleysu. Það má guð vita!

Wilde sagði að fólk yrði þröngsýnna af að ferðast. Héðan séð finnst mér ástandið heima fáránlegra en nokkru sinni. Nýr sjónarhóll ýtir undir ofnæmið. Það mætti kalla slíka reynslu öfuga þröngsýni.

 

Og svo er það landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Ég sá á netinu að Geir H. Haarde hefur verið kosinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins með nærri 75% atkvæða en Sólveig Pétursdóttir fékk ekki nema rúmlega 24%. Mér finnst það hálfgert kollrak fyrir hana og augljóst að hún hefur ekki fengið öll kvennaatkvæði á landsfundinum…

 Geir H. Haarde er augljóslega næsti foringi Sjálfstæðisflokksins og vona ég að hann verði nýtur maður og farsæll í því embætti. Ég hef áður sagt frá því að hann kom eitt sinn til mín í síðdegisboði og spurði mig með sínum sérstæða húmor og bliki í auga, Matthías, sagði hann, er ég ekki gullegg? Hann kom mér semsagt algjörlega í opna skjöldu, en mér tókst þó að svara spurningunni skandallaust og sagði, Jú, Geir  minn, auðvitað(!) Þetta var fyrir nokkrum árum. Eitt er víst að Geir H. Haarde er morgunblaðsegg í húð og hár og hefur alltaf sýnt það. Á vináttu hans við okkur hefur aldrei borið neinn skugga. Og nú vona ég að fuglinn úr gulleggi Morgunblaðsins beri uppeldinu það vitni sem efni standa til.

 

15. mars, mánudagur

Prédikarinn

Rostropovitz, öðru

nafni Slava

segist vera eins og hver

annar prestur,

boðberi guðspjallsins

en ekki höfundur

 

þó einnar messu virði

eins og ástandið er

á Balkanskaga.

(Edinborg 13.3. ‘99)

 

13. marz ‘99,

Edinborg

Menuhin

 

hvernig augu þín

sjá gegnum holt

og hæðir

 

hvernig brjóst okkar opnast

eins og klettar

 

hvernig huldufólkið dansar

á strengjunum.

 

Mónika áritar bók sína í Waterstone, Edinborg 15. marz ‘99

Þess verður lengi minnzt

hvernig þú lékst

á flautuna,

 

Clinton er mikið

og einstakt hljóðfæri.

 

Síðdegis

Ég sit hér í íbúð Ingólfs í Learmont Terrace 14, Edinborg, með einhver þyngsli yfir höfðinu og velti fyrir mér fallvalltleikanum. Hann er allsstaðar í kringum okkur, bæði sjáanlegur og ósýnilegur, en ekki sízt í höfðinu á okkur, í blóði okkar, í fyrirheitinu. Ég er nýbúinn að yrkja nokkur smákvæði, skrifa Reykjavíkurbréf um skozka þjóðernissinna og sögu um gamla konu. Ég hef gengið mikið um borgina, fyrsta heimsborgaralega ævintýrið í lífi mínu þegar ég kom hingað messagutti á Brúarfossi sumarið 1946, á leið til Kaupmannahafnar, Helsingfors og Leningrad. Og ég er að velta fyrir mér fallvalltleikanum. Þá hafði maður ekki áhyggjur af honum, nú er hann farinn að minna á sig og ekki óeðlilegt. Hefur hann oft minnt á sig í lífi mínu? spyr ég sjálfan mig og get ekki svarað því öðru en játandi þegar ég lít um öxl. En það var ekki fallvaltleiki heldur reynsla sem er fólgin í orðatiltækinu: nú skall hurð nærri hælum. Það er ýmislegt sem hefði getað orðið, en varð ekki. Hef ég staðið andspænis dauðanum. Já, eftir á að hyggja. Það munaði víst litlu þegar móðir mín missti mig þriggja ára út á skúrþakið við Kirkjustræti 10 en barnfóstrunni tókst að skríða út á þakið og lokka mig til sín. Móðir mín gleymdi aldrei þessu atviki, en ég upplifði það aldrei. Sá sem er þriggja ára fyrir 65 árum er jafn ókunnur sjálfum sér nú og þriggja ára barn er ókunnugt sjálfu sér og hefur aldrei kynnzt sér að 65 árum liðnum. En þetta breytist.

Ég man vel eftir því þegar ég lá “banaleguna” í skarlatsóttinni, það var í ÍR-húsinu og munaði litlu að það yrði banaþúfa mín. Það hefði svo sem verið við hæfi því að ÍR-húsið er gömul kirkja, afhelguð. Það er ekkert á móti því að deyja í gamalli kirkju. En ég horfðist ekki í augu við neinn dauða. Hann var einfaldlega ekki til í þá daga og það datt engum heilvita manni í hug að minnast á hann. Fimm ára gamall drengur tekur því sem að höndum ber án þess hugsa um það, samt rann gröfturinn út úr eyrunum á mér og verkirnir nær óbærilegir, þó engar áhyggjur, móðir mín á næstu grösum. Það eru þessi næstu grös sem skipta öllu í lífi okkar.

Næst komst ég í nálægð við dauðann þegar við Steingrímur Hermannsson sofnuðum inn í ósið og sótreykinn í tjaldinu á Stóra-Vatnsskarði. En þá var okkur bjargað á síðustu stund. Það tók víst tíma að vekja mig, en ég man það ekki. Við munum ekki það sem er mikilvægast í lífi okkar. Það hefur aldrei gerzt. Ég vaknaði úti í móum og svo var ekki hugsað meira um það; hóstaði svörtu sóti næstu tvo, þrjá daga, umhugsunarlaust. Engar áhyggjur. Maður hefur ekki áhyggjur af því sem er upplifað umhugsunarlaust, er liðið áður en það gerist.

Eða - þegar ég hvolfdi Standard-bíl föður míns í fljúgandi hálku á Suðurlandsbraut, snerist á veginum undir miðnætti; sá bílaljós koma öslandi á móti mér, en þaut áfram stjórnlaust, slapp við árekstur, en lenti úti í skurði milli brúar og kletts og komst með naumindum út úr bílnum sem var skorðaður niður eins og hluti af landslaginu. Þá skall hurð nærri hælum og enginn á næstu grösum. Óhræddur flaug ég þarna áfram á svellinu, hugsunarlaust; áhyggjulaust. Samt voru allar líkur á því að ég væri á fleygiferð inní eilífðina, en um það hafði ekki verið hugsað og þess vegna gerðist það aldrei. Það gerist líklega aldrei neitt sem ekki hefur verið hugsað fyrirfram. En þarna skall hurð nærri hælum. Og munurinn þá og nú er ekki annar en sá að þá var dauðinn ekki til, nú hefur hann vaxið inní vitund mína og er að verða ein helzta staðreynd lífsins. Nú veit ég að við getum lifað allt af, nema hann.

 

16. marz, þriðjudagur

Hef keypt nokkrar spólur og bækur. Ég hef lokið við The Pat Hobby Stories eftir F. Scott Fitzgerald, flottar sögur og framúrskarandi vel skrifaðar; ekki sízt samtölin. Sagan um Orson Wells er óborganleg. Hef einnig farið yfir A Man in Full eftir Tom Wolfe sem á áreiðanlega sterkar rætur í Kaliforníu-sögum Howard Fasts þótt hún sé “amerískari” í tali og takti. Umhverfið Atlanta en þangað fórum við á leiðinni frá Tallahassee til Washington, um Tennessee. Á margan hátt vel skrifuð saga um óskemmtilegt samfélag. Þáttur um eina persónu, Konrad, sker sig úr, þar er á ferðinni ungur viðfelldinn maður sem vill ekki láta traðka á sér og sýnir manndóm, en lendir í fangelsi fyrir bragðið. Þessar lýsingar Wolfes eru áreiðanlega dæmigerðar fyrir Bandaríkin nú um stundir; heldur sóðalegt tal í heldur sóðalegu umhverfi. Þessi bandaríski draumur, ef svo mætti segja, er að verða einhvers konar áþján. Það má raunar segja um hann það sama og Dante notar um helvíti: ef þú gengur inn um þetta hlið, skildu þá vonina eftir(!) Vonin er nefnilega einungis ein, peningar.

Völd og peningar.

 

17. mars, miðvikudagur - Edinborg

Hef verið að lesa Gula veggfóðrið eftir Charlotte Perkins Gilman. Merkileg saga um konu sem er eins og fangi í hjónabandi sínu. Gult betrekkið og konan á bak við það er flott tákn um þessa vansæld og það er undarlegur keimur af þessu veggfóðri. Lyktin er gul, segir aðalpersóna sögunnar. Ég ætla að tala við Kristján Karlsson um þennan gula lit þegar ég kem heim. Guli liturinn er hans litur.

 

19. mars, föstudagur

Hanna segir að saga Gilmans minni á Kafka. Það er rétt. Konan skríður um herbergið sitt, en bjalla Kafka fyllir útí það. Þetta er harla merkilegt þegar maður hugsar um það, að Gilman skrifaði sína sögu u.þ.b. eða áður en Kafka fæddist. Kannski er Gula veggfóðrið fyrsta kafkaíska sagan sem samin hefur verið.

 

Það er kannski ekki rétt hjá mér að nota orðið sóðalegur um talsmátann í sögu Wolfes, A Man in Full og um efni sögunnar; vulger væri betra orð. Konrad er að vísu ekki vulger, þvert á móti. Og lýsingin á því þegar hann er að lesa forna heimspeki í fangelsinu er að mínu viti stórsnjöll. En að öðru leyti er sagan hrjúf og heldur ömurleg eins og margt í hinum kapitalíska heimi; ormagryfjunni óhrjálegu og fallvöltu. Það er einmitt fólkið í svona sögu, teiknað upp eftir fyrirmyndum sínum í daglegu lífi, sem hefur mótað samtöl eins og maður þekkir þau úr bandarískum bíómyndum nú á dögum. Og þó, kannski fremur pakkið sem er nær skolpræsunum; fólkið sem hefur búið til orð eins og motherfucker og önnur slík.

Það er áreiðanlega vandi að búa til þessa óhnýsilegu streðara í skáldsögu og Wolfe hefur tekizt það mætavel. En mann langar ekkert frekar til að kynnast þessu fólki í skáldsögu en lífinu sjálfu - eða hvað kemur manni eiginlega við þetta fólk sem hefur  alizt upp í ranghugmyndum suðurríkjanna og ber þeim vitni öðru fremur. Æ-jú, það er partur af eina heimsveldi samtímans og maður verður víst að gera sér einhverja grein fyrir því. Og þá er betra að kynnast því í svona skáldsögu en daglegu lífi. Munurinn á þessu fólki og persónum Howard Fast er sá, að persónur Fasts eru mótaðar af minningum og kúltúr sem innflytjendur flutt með sér til Kaliforníu og er hinn hnýsilegasti í alla stað, en þetta fólk Wolfes er einhvers konar dreggjar af suðurríkjasiðferði kynþáttahaturs og þrælahalds. Einskonar bakgrunnur sögunnar er hinn forni heimspekingur Epiktetos, talsmaður æðruleysisins; þræll í Róm framan af ævi, 55-135 e.Kr.b. Það er í tengslum við hann sem boðskapur sögunnar birtist okkur, þ.e. að menn hætti að sofa þegar þeir verða gjaldþrota og missa kokkana, þjónustufólkið og alla þessa umgjörð sem gerir einstaklinginn að öryrkja. En menn eigi að halda áfram að sofa fyrir því. Eina eignin sem máli skiptir er það sem maðurinn á sjálfur innra með sér; karakter hans. Og Charlie Croker hlustar rækilega eftir þessu þegar Konrad hinn ungi tíundar fyrir honum sársjúkum af fótarmeini þennan endanlega sannleika andspænis fallvaltleik glingurs og falsks öryggis tilbúins metnaðar og yfirborðsmennsku. Allt annað er tímabundið; jarðbundið.

Samtalið milli Konrads og Crokers er í senn athyglisvert og vel fléttað inn í söguna. Það fjallar raunar um að selja ekki vilja sinn neinu því verði sem í boði er. Það er ekki verst að svelta, heldur missa andlitið. Og nautið í Charlie Croker getur vel staðizt aðför ljónsins að hjörðinni. “Ég ætla að verða naut”, segir hann, þegar verst gegnir.

Það mætti vel segja að heimspekiritið í höndum piltsins Konrads sé vegurinn til nýs lífs, þegar gjaldþrotið vofir yfir stóreignarmanninum. Bókin - “hún er lifandi” segir Konrad. Þannig er þessi saga ekki sízt óður til bókarinnar, sterkur óður þrátt fyrir allt.

Tvær af aðalpersónum sögunnar lifa undir lokin eftir fyrrnefndu heimspekiriti þar sem Seifur hefur alla þræði í hendi sér. En þeim farnast vel, annar verður prédikari, eins og Benny Hinn. Konrad fer í fangelsi. Þriðja helzta persónan, Wes borgarstjóri í Atlanta, er dæmigerður pólitíkus. Hann veit lengra nefi sínu í þeim efnum: að stjórnmál eru meira fíkniefni en allt annað(!)

 

21. mars, sunnudagur - Edinborg

Förum heim á morgun.

Í gærkvöldi fórum við í óperuna og sáum Cavalleria Rusticana eftir Mascagni og Pagliacci eftir Leoncavallo; fínar sýningar. Sú fyrri einskonar fyrirrennari West Side Story.

 

Hef verið að fara yfir Emmu eftir Jane Austen. Það er góð saga, að sjálfsögðu, eins og aðrar sögur Austens. Eitt er víst, þær eru ekki framlag í kvennabaráttuna, fjalla allar meira og minna um boð og iðjuleysi, en þó einkum um ástarævintýri og væntanleg hjónabönd. Enginn karlmaður hefði getað skrifað Emmu. Ástæðan: Þar er karlmönnum lýst frá sjónarhóli konunnar. Þeir eru ýmist fallegir, myndarlegir eða svona og svona í útliti, ein af aðalpersónunum, hinn ungi Churchill veltir fyrir sér hárgreiðslu einnar dömunnar og hvort hún hafi fengið fyrirmyndina á krullunum á Írlandi! Nei, þetta er kvennasaga, séð gegnum kvennagleraugu. Þetta verður því heldur pempíulegt allt saman og náttúrulega nógu rómantískt til að geta orðið vinsælt. En mikið anskoti eru þessar sögur vel skrifaðar, einkum samtölin. Og hin sálfræðilega stúdía áreiðanlega athyglisverð. En ég verð þreyttur á svona sögum til lengdar. Þær eru eiginlega allar eins.

 

22. mars, mánudagur

Athyglisvert samtal Sindra Freyssonar við Walesa í Morgunblaðinu í gær. Þar segir m.a.:

“Mér var kennt og þér var kennt, okkur var kennt, að sigurvegari tekur alltaf sæti þess sem beið ósigur. En ég tel að í því felist aðeins hálfur sigur. Minn sigur er miklu meiri. Ég sigraði andstæðing minn og skapaði þær lýðræðislegu forsendur sem hann virðir. Hann uppfyllir mín kosningaloforð. Hefði hann uppfyllt sín eigin kosningaloforð, hefði það þýtt að ég hefði beðið ósigur. En þar sem hann uppfyllir mín loforð, er allt eins og best verður á kosið. Ég skapaði reglur lýðræðisins í Póllandi og þær leyfa jafnvel andstæðingum mínum að vinna mig í kosningum, að því tilskildu að þeir fylgi þessum reglum. Sigurinn er því tvöfaldur en ekki einfaldur.”

“Fólkið heldur hins vegar að sú staðreynd að ég sit ekki við völd þýði að ég hafi tapað. En ég vann tvöfaldan sigur og mig langar til að fullvissa alla um að það er sannleikur málsins.Í öðru lagi verðið þið að muna að byltingarmennirnir miklu, ­ og ég er einn af þeim og jafnvel þótt fólk vilji ekki viðurkenna það, viðurkenni ég það sjálfur, ­ eru ekki góðir stjórnendur eða skriffinnar. Eftir byltingu taka önnur störf við og því þarf á öðrum mönnum að halda. Ég er ekki gefinn fyrir skriffinnsku og þoli ekki að sitja lengur á þingi en þrjá klukkutíma í einu, og jafnvel þá verð ég að hafa einhverja krossgátu til að ráða, því annars leiðist mér. Eftir aðra eða þriðja þingræðu er ég yfirleitt búinn að fá nóg, ég þoli ekki þetta kjaftæði.

En ég veit að þingstörfin verða að ganga fyrir sig með þessum hætti, þingmenn eru til þess að kjafta. Ég er hins vegar ekki gefinn fyrir slíkt og það myndi gera út af við mig ef ég þyrfti að sitja á þingi. Ég myndi gerast alkóhólisti. Eða tryllast. Allt er því í góðu lagi. Þessi bylting var ekki gerð fyrir Lech Walesa, á sama hátt og byltingin sem ég nefndi áðan var ekki framin fyrir Lenín eða Stalín. Þeir héldu að byltingin hefði verið gerð fyrir þá, en þeir töpuðu. Ég tapaði hins vegar ekki...

Það eru margir sem hrósa mér og margir sem skamma mig. Ég er að gjalda fyrir sigurinn, en einnig fyrir ósigra. Ég er bendlaður við hinar miklu umbreytingar. Vandi minn felst einnig í því að við erum að byggja upp kapítalisma og framan af því ferli er kapítalismi mjög óþægilegur. Í fyrsta lagi, þá rekur að meðaltali einn af hverjum tíu mönnum sitt eigið smáfyrirtæki og hinir níu vinna hjá honum. Og vegna þess að allir tíu byrjuðu á sama stað, öfunda níumenningarnir þennan eina. “Af hverju hann en ekki við?” spyrja þeir. “Hann var ekkert betri en við.” En hann var gáfaðri og græddi meira. Í því felst munurinn.

Í gamla daga voru allir jafn fátækir en í nýja kerfinu opnast okkur möguleiki á að vera annaðhvort rík eða fátæk, þannig að ég á eftir að tapa í mörgum atkvæðagreiðslum. Vegna þess að ég kom þessu kerfi á. Og svo er það annað, að gamla kerfið tryggði öllum vinnu en margir hafa misst hana núna [ atvinnuleysi í Póllandi er um 12% um þessar mundir ]. Fólk er gefið fyrir stöðugleika, þannig að að minnsta kosti í bili verða margir á móti mér. Ég verð að fyrirgefa þeim og skipta mér ekki af þeim, af því að svona á þetta að vera. Ég hafði árangur sem erfiði því að ég er ekki lengur rafvirki. En rafvirkinn vinur minn, hann er ennþá rafvirki þó hann hafi verið betri rafvirki en ég. Og ég spyr sjálfan mig; “afhverju tókst mér þetta en ekki honum?” Þetta er umbun sem við verðum að skilja. Það er trúin sem hjálpar mér. Ég er trúaður maður. Þess vegna gleður ástandið mig ekki en ég tek því eins og sjálfsögðum hlut og ég mun alltaf gera meira eða minna það sama, þó það geti leitt mig á ýmsar brautir. Áður fyrr kom þetta viðhorf mér í fangelsi, síðan í forsetaembættið og nú er ég fyrrverandi forseti. Hins vegar veit ég ekki hvar ég verð á morgun...

Ég þurfti að ljúka tveimur verkum. Í fyrsta lagi átti ég að kollvarpa gamla kerfinu og það var ekkert múður með það. Ég var leiðtogi þjóðarinnar og svo átti ég að koma á nýja kerfinu. Herrar mínir, hvað ályktanir dragið þið? Ég hefði alveg eins getað verið þjóðarleiðtogi með 99% fylgi, en ég kom af stað lýðræðisumbótunum, þar sem ég sit uppi ­ maðurinn sem kom þessu af stað ­ með átta prósenta fylgi. Spurningin er hvort ég hafi ekki komið af stað alltof miklum plúralisma, þar sem það voru ekki nema átta prósent eftir sem studdu mig.

Þið ættuð því að hugsa þannig: Þetta er góður leiðtogi og honum tókst að byggja eitthvað upp. Fyrst og fremst fer andstæðingur hans eftir settum reglum, og síðan hefur leiðtoginn komið upp svo góðu kerfi að aðrir menn geta notað það til að hirða prósenturnar af honum. Þeir eru kannski betri og gáfaðri en ég, en það var ég sem kom þessu af stað. Ég hef ekkert með 100% að gera, því að þá kem ég ekki plúralisma á. Ég vinn sem sagt að því að aðrir hirði þessar prósentur af mér og þetta var alveg hreint ágætt hjá mér, og það sem þykir ágætt í baráttunni, er lýst í sumum spurningum sem ósigri.

Málið er einfalt: Annaðhvort trúið þið að ég hafi hrundið plúralisma af stað og þess vegna endað með 8% fylgi eða þá að ég hafi ekki hrundið honum af stað og þá er ég með hundrað prósenta fylgi. En ef ég sæti uppi með 100% fylgi, myndi það þýða að ég hefði ekki komið plúralisma á koppinn í Póllandi.”

 

23. marz, þriðjudagur

Friðjón heitir ungur maður á Morgunblaðinu. Hann er að ég held húsamálari, en vinnur í prentsmiðjunni. Hann fór að yrkja fyrir nokkrum árum og sýndi mér nokkur kvæði. Slíkt gerist aðeins á Íslandi. Líklega eitthvað í genunum. En hvað sem því líður sagði hann við mig í morgun að hann hefði farið að sjá leikrit í Þjóðleikhúsinu um Bjart í Sumarhúsum og það væri ágætt.

Ég sagði, Það er alltaf verið að sýna þessi leikrit og kvikmyndir uppúr skáldsögum. Fáir lesa þær lengur fyrir bragðið. Allt þarf að fara gegnum hakkavél. Hvernig yrði ef enginn æti nýja ýsu eða þorsk, allir ætu plokkfisk. Aldrei annað?

Það er sjónarmið, sagði hann hugsi.

 

26. marz, föstudagur

Agnes Bragadóttir hringdi til mín í vinnuna í gærkvöldi þar sem ég var á kafi í alls kyns yfirlestri og fréttaöflun um væntanlegt framboð Ellerts B. Schrams og Sverris Hermannssonar, sem sagðist aldrei hafa heyrt aðra eins úrslitakosti og óháðir hefðu sett fram; þ.e. að Frjálslyndir hættu alls staðar við framboð, en styddu óháða sem mundu ráða ferðinni hvarvetna. Á það verður ekki fallizt svo ekkert verður úr samstarfi, en það gat ég ekki haft eftir Sverri. En það kemur í ljós, líklega í dag. Þurfti að hringja í Sverri útaf þessu um hálftólfleyfið, og var þá úrvinda eftir að hafa breytt leiðaranum, lagað forsíðufyrirsögn og fjörutíu mínútna samtal við Agnesi sem  missti föður sinn meðan við vorum í Edinborg og jarðar hann í dag. Agnes hafði áður talað í hálftíma við Hönnu og sagði að hún væri ekki gull af manni, heldur hvítagull af manni. Hún geti faðmað mann gegnum símann. Ég sagði það allt rétt, en það hefði ekki dugað mér! Töluðum um föðurmissinn sem Agnes tekur mjög nærri sér. En faðir hennar fékk hægt andlát, var meðvitundarlaus í 11-12 daga. Kvaldist ekki. Minnti Agnesi á þau orð Woody Allens að hann ætlaði ekki að vera viðstaddur dauða sinn. Og það er maður ekki, þegar dauðann ber að með þessum hætti.

 

Ódagsett

Konan sem vildi ekki vera fiðrildi

Eins og allt er umvafið sál minni

þannig umvafin sál minni birtist þú í öllu.

Þú ert eins og sál mín, fiðrildi úr draumi

og líkist orðinu þunglyndi.

(Ég vil að þú sért hljóð)

Neruda.

 

 

Hann kallar mig fiðrildi. Það hefur hann gert frá því við kynntumst fyrst þegar hann var í Háskóla. Þá var ég í tónlistarnámi.

Komdu hingað fiðrildið mitt, sagði hann, kannski allt í einu, og ég hlýddi.

Mér fannst það aldrei neitt væmið og finnst það ekki enn.

Nú verðum við að vera róleg, fiðrildið mitt, hvíslaði hann í eyrað á mér, þegar Jón sonur okkar dó úr heilahimnubólgu 16 ára gamall.

Við eigum Sonju, bætti hann við. Nú þurfum við að einbeita okkur að henni. Þú verður að sinna kennslunni áfram og ég að sjá um verðbréfasöluna.

Ég grét. Ég grét með hljóðum ekka. Hann þerraði tárin af augum mínum. Svona fiðrildi, sagði hann. Við eigum þó minninguna.

Hann hefur alltaf verið góður við mig. Ég held ég elski hann, já, ég held það. Ég elskaði hann að minnsta kosti þangað til drengurinn dó. Síðan hefur það verið erfiðara. Mér finnst ég eins og lokuð inni. Ég er lokuð inni og það er ennþá verra af því að hann er svo góður við mig. Hann vill allt fyrir mig gera. Hann veður eld og brennistein fyrir mig. Hann gerir allt fyrir mig, nema kenna. Hann stjórnar öllu fyrir mig. Hann ræður öllu. Hann lifir fyrir mig. Hann lifir fyrir okkur báðar. Sonja er orðin 21 árs. Hún er í háskóla og lærir bókmenntir. Hún skrifar sögur og ber allt undir hann. Hann hefur síðasta orðið, alltaf. Þess vegna hefur hún aldrei þorað að birta neina sögu, en það kemur kannski að því.

Það er sumar. Það er yndislegt sumar. Sólin skín og andvarinn er hlýr. Það er svo bjart. Samt er einhver dimmur skuggi yfir lífi mínu, en ég get ekki talað um það við hann. Hann skilur það ekki, ég veit að hann skilur það ekki. Ég er ein með þessum skugga, ég verð að vera ein með þessum skugga. Eða, hvað ætti ég svo sem að gera? Ég er svo döpur þrátt fyrir þessa sól.

Ég gekk út í garðinn í morgun. Ég var ein. Laufið nýsprungið út, en það er þurrt og vindur upp á sig. Mér finnst það vera byrjað að fölna. Það er einhver slikja á því. Ég kom við það. Laufið á birkinu er bæði hlýtt og mjúkt og ég skoðaði það. Ég þefaði af því og fann ilminn af sumrinu í þessu yndislega laufi. Ég tók það á milli fingranna en þá skreið þessi græni ormur út úr laufinu. Ég hrökk við. Hvað er þetta, sagði ég við sjálfa mig. Ég var ekki viss.

Ég hljóp inn, hann var að lesa dagblað.

Ég sagði við hann, Það er ormur í laufinu.

Það getur ekki verið, segir hann.

Jú, segi ég, víst. Komdu bara út og sjáðu.

Hann stóð upp, lagði frá sér blaðið og við gengum út saman.

Líttu á laufið, sagði ég og benti.

Hann strauk laufið og það molnaði á milli fingranna.

Iss, sagði hann, þetta er bara venjulegur ormur í laufi.

Já, en af hverju býr hann um sig í þessu laufi?

Af því að hann verður að hafa eitthvert athvarf.

Getur hann ekki haft athvarf einhvers staðar annars staðar?

Nei, hann er dæmdur til þess að vinda þetta lauf um grænan líkamann og svo breytist hann. Þeir kalla þetta myndhverfingu í skáldskap.

Nú, hvað áttu við?

Að ormurinn breytist, fiðrildið mitt. Það breytist eins og við. Það er allt í náttúrunni eins og við. Myndbreytist allt.

Og hvað verður um þennan orm, spurði ég hikandi?

Þú hlýtur nú að vita það, sagði hann. Einn góðan veðurdag flýgur hann úr púpunni, frjáls eins og fugl og breytist í fiðrildi. Þá verður hann frjáls eins og þú, fiðrildið mitt.

Ég gekk inn. Hann kom á eftir mér. Hann settist aftur í stólinn og hélt áfram að lesa dagblaðið.

Ég horfði á hann um stund, svo sagði ég, Þú verður að láta sprauta garðinn. Við getum ekki látið ormana eyðileggja laufið. Við getum ekki látið garðinn visna. Við getum ekki breytt vorinu í haust.

Hann lagði frá sér blaðið, stóð upp, horfði á mig.

Nei, sagði hann hægt, það er rétt hjá þér, við þurfum að láta úða garðinn, eins og það heitir víst. Ég hringi í karlana á morgun og bið þá koma og úða garðinn. Þá losnar laufið við ormana og heldur áfram að vaxa og grænka og ilma.

Við horfðumst í augu um stund. Hann sá ég var annars hugar.

Er eitthvað að? sagði hann.

Nei, sagði ég.

Taktu þetta ekki nærri þér, fiðrildið mitt, bætti hann við. Garðurinn nær sér á strik.

Já, sagði ég, þú lætur úða, þá nær hann sér á strik.

Og nú bíðum við eftir körlunum sem koma með eitrið og úða yfir laufið og drepa ormana, svo að það verði engin fiðrildi í garðinum í sumar. Svo að hann geti vaxið í friði, ilmað.

Ilmað af laufi og grænum andvara.

(Edinborg 17. mars 1999)

 

 

 

28. mars, sunnudagur

Eftirfarandi Reykjavíkurbréf birtist í dag, sunnudaginn 28. marz:

 

Færa má rök að því að kosningarnar í Skotlandi í maí næstkomandi geti skipt Íslendinga máli því að þær fjalla í aðra röndina um afstöðu Skota til Atlantshafsbandalagsins og varna- og öryggismála á Atlantshafi. Ástæðan er sú að Skozki þjóðarflokkurinn (SNP) sem hefur lýst því yfir að hann vilji fullt sjálfstæði frá Bretum hefur jafnframt gefið í skyn að hann muni breyta varnarstefnunni, jafnvel með úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu. Það liggur þó ekki ljóst fyrir að Salmond, leiðtogi skozkra þjóðernissinna og fulltrúi þeirra á brezka þinginu, léti reyna á úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu, ef til þess kæmi, heldur hætta afskiptum af bandalaginu og einbeita sér eingöngu að friðargæzlustörfum fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Hann er aftur á móti þeirrar skoðunar að Skotar hefðu sterkari áhrif innan ESB, ef þeir væru lausir við Breta og bendir á, að smáríki njóti sín vel í Evrópusambandinu, skírskotar þá gjarnan til þess hve efnahagur Írlands blómgist í þessu samstarfi og írsk þjóðmenning hafi aldrei verið hærra á hrygginn reist en nú um stundir. Salmond lítur til Íra sem fyrirmyndar í sjálfstæðisbaráttu sinni en aðalkeppinautur hans, Donald Dewar, skotlandsmálaráðherra, leiðtogi Verkamannaflokksins í Skotlandi, hefur lagt höfuðáherzlu á að það sé Skotum enn mikilvægara að hafa náið samstarf við Bretland en Evrópusambandið, þótt það sé að sjálfsögðu einnig harla mikilvægt. Hann hefur lýst því yfir að sjálfstætt Skotland gæti ekki átt aðild að Evrópusamstarfi af þeirri einföldu ástæðu að það gæti ekki fullnægt skilyrðum Maastricht-samkomulagsins. Í kosningunum sé þannig ekki einungis fjallað um framtíðarskipan Skotlands innan brezka samveldisins, heldur einnig um stöðu þess í heiminum.

Það var á stefnuskrá brezka Verkamannaflokksins í síðustu þingkosningum að Skotar fengju einhvers konar heimastjórn og nú hafa þeir í þjóðaratkvæðagreiðslu óskað eftir henni. Þeir munu fá sitt eigið löggjafarþing og eigin heimastjórn eftir næstum þriggja alda leiðsögn frá Lundúnum. Ef þjóðernisflokkurinn sigrar í kosningunum er talið líklegast, eins og áður hefur verið tíundað í grein hér í blaðinu, að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um skilnað við Bretland. Allir aðrir flokkar, þ.e. Verkamannaflokkurinn, Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndir hafa lýst sig andstæða slíkri þróun og munu berjast gegn henni af alefli. En með því að veita Skotum sérstakt löggjafarþing sem tekur ákvörðun um ýmis innanríkismál, þ. á m. skattamál, virðist margt benda til þess að sú ákvörðun Blairs, forsætisráðherra, geti orðið til þess að efla  sjálfstæðisþrá Skota, en hún hefur blundað með þeim frá fyrstu tíð, enda eiga Skotar mikla sögu og hafa af mikilli og sérstæðri þjóðmenningu að státa. Það gæti því farið svo að Skotar létu sér ekki nægja litla fingurinn á Blair, heldur krefðust þeir allrar handarinnar. Hitt er svo annað mál að skozkir þjóðernissinnar hafa ekki meirihluta í Skotlandi og brezki Verkamannaflokkurinn virðist enn hafa talsvert meira kjörfylgi en þeir. Svo gæti þó farið að þjóðernissinnum yxi fiskur um hrygg í kosningabaráttunni nú og þá gæti dregið til tíðinda í skozkri sögu.

 

Margvíslegir hagsmunir

Flugleiðir eiga mikilla hagsmuna að gæta vegna áætlunarflugs til Glasgow. Það hefur verið að síeflast undanfarið og virðist álitlegur þáttur í starfsemi félagsins. Á þetta er nú lögð sérstök áherzla með stórum auglýsingum í fjölmiðlum í Skotlandi og þá ekki sízt á stórum flettispjöldum sem blasa við almenningi, bæði í Edinborg og Glasgow. Samstarf Skota og Íslendinga er þannig töluvert en mikilvægast hlýtur varnarsamstarfið að vera vegna þess að báðar eru þjóðirnar Atlantshafsþjóðir og eiga mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta í þeim efnum. Varnarsamstarf okkar hefur ekki sízt verið í allverulegum tengslum við öryggismál í Skotlandi og það er auðvitað hárrétt hjá brezkum ráðherrum þegar þeir benda á að miklir  hernaðarhagsmunir séu í húfi, ef breyta þyrfti þeirri hernaðar- og varnaruppbyggingu sem fram hefur farið í Skotlandi á undanförnum áratugum. Varnir Bretlandseyja eru ein heild og flóknari en svo að unnt sé að höggva á þann hnút án afdrifaríkra afleiðinga.

Allt snertir þetta okkur Íslendinga  að sjálfsögðu og þá ekki síður sjálfstæðisbarátta annarrar þjóðar sem er okkur enn nákomnari, Færeyinga, því að með stöðu sinni innan danska ríkisins hafa þeir tekið sinn þátt í vörnum á Atlantshafi. Þegar þeir nú eru að undirbúa sjálfstæði sitt eða fullveldi hljóta utanríkismál að koma þar við sögu - og þá ekki sízt varnir og öryggismál eyjanna.

Það er mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að vel takist til. Af þeim sökum, ekki sízt, hljótum við að fylgjast rækilega með sjálfstæðisbaráttu þessara tveggja nágrannaríkja því að segja má, að við eigum einskonar landamæri að þeim, þótt ekki séu þau beinlínis dregin með öðrum hætti en þeim sem 200 mílna lögsaga segir til um. En hafsbotnslögsagan er enn óskýr og óútkljáð og mikilvægt að samningar um hana fari vel úr hendi og þeim ljúki með þeim hætti sem við gætum vel við unað.

 

Sagan - og óttinn við efnahagslegt sjálfstæði

Nú þegar er farið að þjarka um hlutdeild Skota í olíuvinnslunni undan ströndum landsins og telja þjóðernissinnar að hún eigi að vera allt að 90%. Aðrir telja þetta hina mestu firru, skozkir þjóðernissinnar gætu með engu móti gert kröfur til slíkra tekna af olíu- og gaslindum í Norðursjó og brezka blaðið The Economist hefur haldið því fram að rannsókn sýni að Skotar ættu ekki rétt á nema helmingi þeirra tekna af olíu og gasi sem þeir hafa nefnt, eða 45%. Blaðið efast um að þjóðartekjur Skota myndu hækka þótt til sjálfstæðis yrði stofnað.

Það er augljóst að efnahagsmál hafa haft hamlandi áhrif á sjálfstæðisbaráttu bæði Skota og Færeyinga, gagnstætt því sem var uppi á teningnum í sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga. Við efuðumst aldrei um að landinu yrði betur borgið án tengsla við Danmörku. Margir Skotar hafa aftur á móti fyrirvara á slíku og þá ekki færri Færeyingar, eins og kunnugt er. En efnahagur Íslands tók þegar að blómgast eftir að innlendur ráðherra var skipaður í Reykjavík 1904 og frá þeim tíma hafa orðið stöðugar og miklar framfarir. Má ætla að slík þróun gæti ekki síður orðið í fyrrnefndum löndum því að sjálfstæði eykur mönnum þrek og kjark. Það er aftur á móti tíundað rækilega í Skotlandi að þeir hafi grætt stórlega á sambandinu við Breta eins og sjá megi af því að 8,7% af íbúum Bretlands njóti 10,1% skatttekna í Skotlandi. Þannig sé Skotland í raun og veru ekki fært um að sjá sjálfu sér farborða. Þetta telja margir hræðsluáróður og Tony Blair hefur hamrað á því að skoðanakönnun hafi sýnt að einungis forystumenn sex fyrirtækja af hundraði í Skotlandi séu á þeirri skoðun að hagsmunum þeirra yrði betur borgið, ef Skotland yrði sjálfstætt ríki.

Skotar hafa löngum talið að á þeim væri níðzt með einum og öðrum hætti, þeir væru afskiptir og brezka þingið hefði tiltölulega lítinn áhuga á því sem fram færi í Skotlandi. Um þetta má deila. Á það má benda að margir helztu stjórnmálamenn Breta hafa komið frá Skotlandi, bæði fyrr og síðar. Ekki er annað að sjá en svipuð velmegun sé í Skotlandi og Bretlandi að öðru leyti, svo vart hallast þar á. En samt er þessi tilfinning inní skozkri þjóðarsál, ef svo mætti að orði komazt, hún er áreiðanlega sögulegur arfur sem hefur loðað við Skota frá fyrstu tíð. Saga þeirra er líka einskonar áminning um sjálfstæði, svo sérstæð sem hún er og að mörgu leyti frábrugðin enskri sögu fyrr á öldum. Þeir áttu sína konunga, sinn þjóðarmetnað. Eigin tungu sem enn má heyra í sérstökum sjónvarpsþáttum. Eigin tónlist. Og eigin bókmenntir. Örlagasteininn sem gamlir konungar sátu á, þegar þeir voru krýndir, er til sýnis í Edinborgarkastala, ásamt gömlum konungstáknum sem Skotar líta nánast á sem helga dóma. Örlagasteinninn lenti í London, en Bretar skiluðu honum aftur fyrir nokkrum árum. Þá var hátíð í Skotlandi.

Skotar hafa sýnt nokkurt sjálfstæði í verki, t.a.m. í íþróttum. Nú vill SNP að þeir keppi sem sjálfstæð þjóð í söngvakeppni Evrópu, til að minna á sig eins og talsmennirnir segja.

 

Hvað er brezkt?

Boswell var Skoti og lét dr. Johnson hann stundum heyra það. Boswell lét sér vel líka. En Skotar þekkja bakhjarl sinn og arfleifð betur en svo að þeir taki nærri sér, þótt reynt sé að tala niður til þeirra. Þeir eiga sögu og bókmenntir sem bæði Bretar og aðrir hafa ástæðu til að virða og meta. Að vísu eiga Bretar og Skotar mikla sameiginlega arfleifð vegna þess að tunga þeirra er hin sama og mikið af arfleifðinni skrifað á þessa tungu; enskan hlýtur því að ráða miklu um framtíðina nú þegar reynt er að slíta böndin milli þessara þjóða sem í augum útlendinga eru í raun og veru ein þjóð í einu landi. Tungumálið hefur verið hið sama, þingið og konungsveldið, herinn og varnarkerfið. Bent hefur verið á að Breta skorti ýmislegt sem í öðrum löndum sé talið til einkenna. Í Bretlandi sé engin þjóðkirkja, svo að dæmi sé tekið, og blöðin séu einatt í eigu útlendinga svo annað dæmi sé nefnt. Bent er á að Bandaríkin eigi stjórnarskrá og eigin fána sem sameinar öll ríkin. En hvorki brezka konungsdæmið né brezki fáninn sé sameiningartákn allra innan brezka samfélagsins eða - hvað er brezkt? er spurt og mönnum vefst tunga um tönn. Knattspyrna? Nei, ekki einu sinni hún! er svarað.

Þegar gengið er gegnum flugstöðina í Glasgow blasa við stórar litmyndir úr sögu Skotlands, það er engin tilviljun við upphaf heimastjórnar. Þar er lögð áherzla á skozka konunga og skozkar drottningar og þá ekki síður skozk skáld eins og Stevenson og Burns sem eru orðnir einhvers konar tákngervingar skozkrar arfleiðar. Þar hefði mátt bæta við ýmsum fleiri, t.a.m. Knox og Hume og Valtari Skott, eins og Fjölnismenn kölluð höfuðsagnaskáld Skota í yfirlitsgrein um bókmenntir, 1839. Og það er hverju orði sannara að Skotland hefur verið í miklu uppáhaldi hjá brezku krúnunni, því að þangað hafa kóngar og drottningar sótt, sér til hvíldar og heilsubótar. Brezkir þjóðernissinnar gagnrýndu Karl Bretaprins fyrir “að skreppa til Skotlands”, þegar Diana fórst í bílslysinu í staðinn fyrir að “vera heima” á svo alvarlegum tímamótum. Og hvergi leið Viktoríu drottningu betur en í Skotlandi eins og sjá má á dagbókum hennar.

Í könnun sem gerð var 1997 kom í ljós að 88% enskra unglinga litu svo á að þeir byggju í Englandi, en ekki Bretlandi; 66% einkenndu sig sem Englendinga og aðeins 19% sem Breta. Og 59% töldu að brezka ríkið yrði liðið undir lok árið 2017; 49% litu á drottninguna sem Breta, en 17% sem Þjóðverja, Skota, Welsbúa eða Íra! Það virðast ekki mikil tilfinningabönd milli þessa unga fólks og brezku krúnunnar. Þannig gæti farið að hún gengi inn í nýja öld á brauðfótum. Allt yrði í óvissu um stöðu Skotlands gagnvart krúnunni, ef landið fengi fullt sjálfstæði og þing þess yrði ekki í Lundúnum, heldur Edinborg. Þá þyrfti mikla stjórnkænsku til að unnt væri að tala um “eina krúnu, tvö þing”. Á það hefur verið bent að enginn brezkur þjóðhöfðingi hafi verið krýndur af kalvínistum eða skozku kirkjunni. Mundi það vera liðið, ef til kæmi? Hvernig færi það saman við þá kenningu kalvínista að Kristur einn sé höfuð kirkjunnar? Allt slíkt væri í óvissu, ef til kæmi.

 

Kosningarnar og afleiðingar þeirra

Eins og fyrr segir má búast við harðri kosningabaráttu um skipan skozka þingsins og óvíst hvernig kosningarnar fara 6. maí næstkomandi. Ef litið er á síðustu skoðanakönnun fengi Verkamannaflokkurinn um 60 þingsæti af 129, SNP um 40, Frjálslyndir í nánd við 20 og Íhaldsmenn um 10. Slík niðurstaða kallaði að öllum líkindum á samsteypustjórn Verkamannaflokksins og Frjálslyndra demókrata sem tækju þá við völdum án þess umróts sem yrði, ef þjóðernissinnum vegnaði betur en nú virðist. Þá yrði ekki þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð landsins, en látið þar við sitja. Þá þyrfti ekki heldur að taka afstöðu til þess, hvernig aðild Skotar ættu að Atlantshafsbandalaginu eða hvort þeir gengju úr því og færu eigin leiðir; það þyrfti ekki heldur að hefja neinar umræður um skozka ríkið og krúnuna eða hvort Skotar ættu að sækja um aðild að ESB sem sjálfstætt ríki. En Alex Salmond hefur bent á að Skotar mundu að sjálfsögðu sækja um aðild að Evrópusambandinu, ef þeir stofnuðu sjálfstætt ríki, og þá gætu þeir nýtt sér þróunarsjóði þess til umfangsmikillar uppbyggingar, jafnvel gengið í Efnahags- og myntbandalag Evrópu og tekið upp evruna og yrði þetta allt Skotum til hagsbóta. En margir hafa mikla fyrirvara á slíku, eins og fyrr greinir. Salmond svarar því til að smáríki eigi að sumu leyti meira erindi við Evrópusambandið en hin stærri og ef vel sé að málum staðið geti smáríki haft mikil  áhrif innan ESB.

Enginn hinna flokkanna styður hugmyndir skozkra þjóðernissinna. Dewar, skotlandsmálaráðherra brezku stjórnarinnar, sem talinn er nú um stundir líklegasta forsætisráðherraefni skozku heimastjórnarinnar, blæs á allt þetta sjálfstæðistal og vísar því til föðurhúsanna - en þau eru bara að sumu leyti í Verkamannaflokknum!. Hvað sem því líður verður sjálfstæðisbarátta þjóðernissinna samt sem áður höfuðefni væntanlegra kosninga og allt annað mun áreiðanlega falla í skuggann, t.a.m. mennta- og heilbrigðismál, svo að dæmi séu nefnd. Um þau hefur lítið verið talað. Önnur mál eru fyrirferðarmeiri, t.a.m. yfirráð yfir auðlindum í Norðursjó og skozka hálendinu sem eru að miklu leyti í eigu auðkýfinga, en brezka stjórnin vill jafna þessa eignaraðild milli íbúanna - svo að ekki sé talað um utanríkis- og varnarmálin sem hér hafa verið til umræðu.

Enginn skyldi halda að hér sé ekki um mikið tilfinningamál að ræða. Enginn vafi er á því að skozkum þjóðernissinnum er mikið niðri fyrir og barátta þeirra mun halda áfram, hvernig sem til tekst. Enginn skyldi halda að þeir láti sér nægja litlafingur Tony Blairs, þeir vilja höndina alla.

Það getur háð Verkamannaflokknum að Skotar telji litla ástæðu til að ýta undir brezku ríkisstjórnina í næstu kosningum og hafi því áhuga á að velja eitthvað annað, t.a.m. flokk skozkra þjóðernissinna þó að þeir séu síður en svo allir ánægðir með stefnuskrá hans, hvað þá forystumann þeirra sem virðist ekki njóta þess trausts í Skotlandi sem ætla mætti, enda yfirlýsingaglaður og ekki alltaf trúverðugur, finnst mörgum Skotum. Og ef í nauðirnar rekur má benda á að allir flokkarnir, Verkamannaflokkur, frjálslyndir og íhaldsmenn mundu áreiðanlega taka höndum saman, ef einhver veruleg hætti yrði á því að þjóðernissinnum tækist ætlunarverk sitt.

 

Sjálfstæðisbarátta okkar og þeirra

Það er mikill munur á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga eða Færeyinga og Skota. Færeyingar og Skotar hafa átt þingmenn á danska og brezka þinginu, en Íslendingar áttu aldrei neina aðild að danska þinginu og gerðu aldrei neinar kröfur í þeim efnum. Þeir óskuðu eftir nýrri stjórnarskrá í framhaldi af endurreisn Alþingis og aldrei var gengið lengra en svo, að Íslendingum var skylt að bera upp íslenzk málefni í ríkisráði Danakonungs. Ef Uppkastið hefði verið samþykkt 1908 hefði uppburður íslenzkra mála í danska ríkisráðinu fallið brott, en vegna þess að Uppkastið var fellt hélzt sá háttur, þangað til Íslendingar fengu fullveldi sitt 1918. Oft hefur verið reynt að mistúlka þessa staðreynd, ekki sízt í kosningabaráttunni um Uppkastið.

Bæði Skotar og Færeyingar hafa haft miklu nánara samstarf við yfirþjóðir sínar en Íslendingar höfðu nokkurn tíma. Færeyskur þingmaður hafði allt að því úrslitavald um örlög danskrar stjórnar vegna setu í danska þinginu og skozkir þingmenn hafa einatt haft örlagarík árhrif á stefnu brezkra stjórnvalda vegna ráðherradóms og setu sinnar á brezka þinginu. Skotar tóku upp enska tungu og Færeyingar hafa leyft mikla notkun danskrar tungu í landi sínu, það hefur jafnvel verið prédikað á dönsku, en slíkt leyfðu Íslendingar aldrei né þoldu, enda var íslenzk tunga eitt helzta vopnið í sjálfstæðis- og frelsisbaráttu okkar. Af þessu öllu má væntanlega draga mikilvægan lærdóm; þann einna helzt að bakhjarl sjálfstæðis okkar er saga okkar og arfleifð og þá ekki sízt tunga okkar, en Jón Sigurðsson fjallaði sérstaklega um rétt hennar og mikilvægi og gerði sér fulla grein fyrir því, að án hennar hefðu erfiðustu hjallarnir orðið enn erfiðari en raun bar vitni.

Það var ekki sízt á forsendum þessarar þjóðmenningar sem við ákváðum að taka þátt í varnar- og öryggissamstarfi Atlantshafsríkjanna. Og nú er full ástæða fyrir okkur að fylgjast með og huga vel að þeim umbrotum og þeirri pólitísku þróun sem á sér stað í löndum næstu nágranna okkar. Það getur skipt okkur meira máli en blasir við í fljótu bragði, það gæti raunar skipt sköpum fyrir varnar- og öryggissamstarf á Altantshafi. Ýmsir munu vafalaust telja það kaldhæðni örlaganna að forseti Íslands fari í opinbera heimsókn til Póllands til að fagna stækkun NATO með þarlendum forseta, sem áður sat í kommúnistastjórn, á sama tíma og Skotar þurfa að gera upp hug sinn um það, hvort þeir eigi áfram aðild að NATO og varnarsamstarfi á Atlantshafi. En ekki koma allir dagar í böggli, sagði gamla fólkið.

 

Ódagsett

Thor Vilhjálmsson hefur ást á orðum og það er sannarlega engin ást í meinum. En í síðustu skáldsögu hans, Morgunþula í stráum, kemur þessi ást sér ágætlega og framan af verkinu er hún öll í hófi, en síðan elnar honum sóttin og þá leysist frásögnin upp í einskonar prósaljóðum sem stinga þó ekki í stúf við efni bókarinnar að öðru leyti, heldur falla þau inní frásögnina, víkka hana með allskyns skírskotunum og auka á tilbrigði hennar. Útgefendur segja að skáldsagan sé hugvekja um vald og drambsemi og sitthvað fleira, en ég er ekki viss um það sé rétt; held miklu fremur að sagan sé einhvers konar áskorun á þann texta sem skáldið notar til að púkka undir epíska vegagerð sína. Mér finnst þessi aðferð takast vel, þrátt fyrir alls kyns útúrdúra, og er ekki í nokkrum vafa um að þetta er vel gerð saga með sterklegum undirtóni um mannlegt eðli á öllum öldum án þess það komi neitt sérstaklega við þeirri hetjuhugsun sem við tókum í arf, svo að enn sé vitnað til kynningar útgefandans.

Ég hlustaði á Thor lesa þessa sögu sína af bandi og gæti ímyndað mér að hún græði mikið á því, þar sem hann les af innlifun og með sinni persónulegu og allt að því ástríðufullu túlkunaraðferð. Hinn ljóðræni þáttur frásagnarinnar er ekki endilega til trafala, ef vel er hlustað, en það vill oft brenna við í slíkum skáldskap. Thor hefur góð tök á sínum breiða stíl og hann hefur efnið í handraðanum, svo það er honum tiltækt og veitir honum það frelsi sem nauðsynlegt er í slíkri frásögn. Hann hefur mikinn orðaforða, kann ágætlega að lýsa hamförum náttúrunnar, auk þess sem hann er nærfærinn við það smágerða mynstur sem stíllinn hefur uppá að bjóða, en þó varð ég mest undrandi á því, hvað honum tekst vel í bardagalýsingum sem ég reikna með séu nokkurn veginn einsdæmi í íslenzkum bókmenntum. Samtölin eru að vísu ekki fjörleg, en þau eru eðlileg, þótt oftar séu þau nokkurs konar eintal, ég á þá ekki sízt við samtöl Styrmis fróða við Snorra og Sturlu og önnur múnksamtöl, sem eru byggð á góðri þekkingu og má segja að verði í frásögninni einhvers konar smáhugvekjur um trúarleg efni og stöðu mannsins í sköpunarverkinu.

Það vekur athygli mína að Thor fer ekki troðnar slóðir og fylgir lítt Sturlungu, en kíttar uppí eyður hennar með skáldlegu hugmyndaflæði sínu sem stendur okkar tímum miklu nær en því umhverfi sem sagan fjallar um. Skáldið sniðgengur t.a.m. algerlega lýsingar Sturlungu á hirtingu Sturlu Sighvatssonar í Róm, en þær eru bæði hastarlegar og eftirminnilegar og hefði vel mátt minna rækilegar en gert er á ógnlega píslarvættisþrá miðaldamanna með slíkum lýsingum. En Thor Vilhjálmssyni lætur ekki bezt að lýsa því sem veröldin hefur uppá að bjóða, heldur innheimi sjálfs sín, ef svo mætti segja; það er í huga hans sjálfs og hugarflæði sem skáldskapurinn lifnar og sækir í sig veðrið. Slíkar stellingar skila sér ágætlega í þessari sögulegu skáldsögu án þess þó hún sé í raun og veru söguleg, því að hún er fyrst og síðast ljóðrænar hugleiðingar í breiðum, flæðandi stíl. Þessi aðferð skilar sér betur í Morgunþulunni en t.a.m. Grámosanum þar sem mér virtist sumt á tæpasta vaði og ég átti erfiðara með að tileinka mér flæðið í þeim raunsæislega harmleik, sem þarf engra útlistana við. En þar eru þá einnig þessar náttúrustemmningar sem lifna og glitra eins og vorgresi í hugarheimi Thors.

En mundi Morgunþulan þó ekki einna helzt vera ástarsaga, með Sólveigu á næstu grösum; jafnvel í Ítalíuferðinni. Hann hafði að vísu aldrei svikið hana, en þó brugðizt henni, þegar hugur hans klofnaði til annarra kvenna, þótt hann hefði helzt viljað vaxa að óskum hennar; heill og óskiptur, eins og fjallað er um eftir heimkomuna.

Þetta er öðrum þræði fremur saga um Thor Vilhjálmsson en Sturlu Þórðarson.

Í lokin verður sagan heldur spinkel þar sem með öllu er hlaupið yfir Örlygsstaðafund nema hvað valnum er lýzt. En því betur er tekið á óhæfuverkum í Svartshelli og ... Órækju.

Sögunni lýkur svo með því að Snorri slær hendinni - út í tómið. Táknrænn endir og ásætur.

 

Undanfarið hef ég verið að skrifa nokkrar smásögu til viðbótar Flugnasuðinu og hef haft gaman af. Þá hef ég einnig verið að skrifa um Sigurð Breiðfjörð og Jónas Hallgrímsson og umhverfi þeirra og  nota það annaðhvort í Helgispjall eða ef til vill í haustfyrirlestra á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskólans, en Kristín forstöðukona þar bað mig í afmæli Friðriks Rafnssonar að halda námskeið um það efni með haustinu. Finnst það að sumu leyti heillandi viðfangsefni og hef reynt að sökkva mér niður í það enn frekar en orðið er.

 

Mér hefur oft verið hugsað til Ljúpu frænku minnar í Júgóslavíu, nú þegar þar geisar stríð og ég hef fengið skilaboð frá henni um áhyggjur, kvíða og erfiðleika fjölskyldunnar. Hef að vísu aldrei séð þessa dóttur Jóhannesar læknis, föðurbróður míns, en við höfum haft samband við þessa fjölskyldu okkar og stundum reynt að leggja henni lið í raunum hennar og þrautum. Nú hefur okkur enn borizt einskonar neyðarkall og hef ég reynt að leita leiða til að verða við því.

Úr þessum hugsunum öllum hefur sprottið saga sem ég hef verið að reyna að fullgera og vona að hún takist með einhverjum hætti og þá helzt sem einhvers konar áminning um það, að eitt er fólkið í einræðisríkjum, en annað stjórnvöld og þótt framin séu hryðjuverk undir slíkum kringumstæðum, á fólkið enga sök á þeim því að það er eins og við hin, með sinn kvíða og sitt magnleysi, og fær ekki rönd við reist, enda hinir síðustu sem fá vitneskju um slík óhæfuverk. Allt hefur þetta sótt á mig undanfarið og þá ekki sízt vegna þess að Atlantshafsbandalagið, sem ég tel útvörð friðar og frelsis í Evrópu, er flækt í þessi átök með þeim hætti sem gæti komið okkur í koll og orðið afdrifaríkur. Vona samt að þessu fari senn að linna og ungur frændi minn sem er í hersveitum einræðisherrans í Belgrad komist heim á bóndabæ foreldra sinna og sé ekki notaður til þjóðernishreinsana; verði ekki drepinn í slíkum átökum.

En allt er þetta ógnlegt og raunar ótrúlegt en þess má þó geta að Jóhannes  föðurbróðir minn fór til Balkanskaga á vegum Rauða krossins vegna fyrra stríðs og hefur áreiðanlega kynzt því hatri sem brennur eins og eldur logandi undir skorpu yfirborðslegrar nærgætni milli þjóðarbrota á þessu svæði.

En hvað um það. Við eigum ekki annarra kosta völ en bíða og sjá hvað setur. Það er hið venjubundna hlutverk almennings í slíkum hildarleik.

 

Ég las samtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Hannes Pétursson í páskablaði Dags án þess þar væri neitt sem kæmi mér á óvart. Hannes segist ekki vilja vera þjóðskáld, það má vel vera en hann hefur búið vel um sig þarna í munklífinu á Álftanesi. Hann er að venju með dálitla morgunblaðsfælni og var Styrmir kollega minn undrandi á því hve mögnuð hún virtist vera. Ekkert af þessu kom mér á óvart. Hannes er kröfuharður þegar aðdáun er annars vegar. Morgunblaðið hefur að vísu sýnt honum og skáldskap hans mikla virðingu en ég gæti ímyndað mér að hann vildi meira, hvað sem hver segir, þá vill hann vera elskaður og dáður - hver vill það ekki? En til þess verður hann að koma út úr munklífinu og helzt að gerast einhvers konar söngvari eins og Megas og Bubbi Morthens - eða Sigurður Breiðfjörð í gamla daga - og þá þjappast aðdáendurnir saman og verða sýnilegir. Sá sem er ljóðskáld án söngs verður að láta sér nægja nú um stundir að vera nokkurn veginn ósýnilegur og rækta list sína án hávaða og þeirrar væmnu uppstillingar sem aðdáendurnir krefjast. Það hefur Hannes einnig gert og ég vona að hann sætti sig við niðurstöðurnar. Það verðum við að gera fyrst svo er um hnútana búið sem raun  ber vitni.

Hannes segir að mikið af kveðskapnum í Lesbók sé leirburður, óprenthæfur. Ég er eiginlega sammála þessu en þetta er grasrótarkveðskapur, veikur gróður  sem sýnir inn í þjóðfélagið og er engum til meins. Ef við birtum ekkert nema góðan skáldskap, yrði Lesbók kvæðalaust rit eins og aðrir fjölmiðlar nú um stundir en vegna þessa leirburðar ekki sízt getum við smeygt inn góðum kvæðum sem plumma sig ágætlega þarna innan um arfann. En hvernig sem á því stendur finnur fólkið í landinu ekki síður ilm og angan af honum og lætur sér lynda þau litlu hvítu blóm sem hann hefur uppá að bjóða. Fjölnismenn ætluðu í einu vetfangi að breyta skáldskaparafstöðu Íslendinga, en fyrir það fengu þeir á baukinn, alþýða manna leit ekki við þeim og áhrifin urðu lítil sem engin í samtímanum þótt þau yrðu þeim mun notadrýgri þegar fram liðu stundir. Fjölnir var menningar- og bókmenntablað. Lesbókin er einungis hluti af dagblaði og sem slík hlýtur hún að spegla umhverfi sitt en það er ekki ævinlega neitt á hrygginn reist eins og allir vita.

Hannes Pétursson minnist á það að enginn ritdómur hafi birzt í Morgunblaðinu þegar Kvæðabók hans kom út á sjötta áratugnum. Ég man þetta ekki þótt ég hafi verið blaðamaður á Morgunblaðinu á þeim tímum. Ég man ekki heldur það sem hann bætti við, að Morgunblaðið hefði birt ritdóm úr Stefni en þá vorum við Gunnar G. Schram og Þorsteinn Thorarensen ritstjórar tímaritsins og Hannes var okkur mjög handgenginn og skrifaði allnokkuð í ritið. Það má eiginlega segja að hann hafi verið einskonar þjóðskáld Stefnis í þá daga. En hvað sem þessu líður, þá man ég þetta ekki lengur, en gæti bezt trúað því að Hannes segi rétt frá, enda hefur hann enga ástæðu til annars. En mér sýnist hann gefa í skyn að ástæða þess að Morgunblaðið hafi ekki birt sérstakan ritdóm sé sú að forlag kommúnista, Mál og menning, hafi verið útgefandi bókarinnar. Að vísu var þetta í miðju köldu stríði og blikaði á spjótsoddana. En mér er nær að halda að þetta sé ekki svo. Kristmann Guðmundsson var aðalbókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins um þetta leyti en það var fátt með þeim Hannesi og honum; endaði með því að þeir rifust hastarlega ,ef ég man rétt, og enginn bilbugur á hvorugum. Þannig tel ég að ritstjórn Morgunblaðsins hafi ekki haft neinn áhuga á því að Kristmann ritdómari skrifaði um ljóðabók Hannesar, því að hann var alveg eins líklegur til þess að hakka hana í sig og það hefði síður en svo verið Morgunblaðinu þóknanlegt enda var Hannes talinn mjög nálægt Sjálfstæðisflokknum þegar þetta var - og þá ekki sízt vegna afskipta föður hans af stjórnmálum á sínum tíma. Ég gæti sem sagt ímyndað mér að ritstjórn Morgunblaðsins hefði með því að koma í veg fyrir að Kristmann ritdómari skrifaði um kvæðabók Hannesar í Morgunblaðið verið að vernda hann, miklu fremur en sýna honum óvirðingu eða pólitíska andúð vegna Kristins

 

Að lokum: Var mjög ánægður með ávarp eða ræðu sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti á alþjóða heilbrigðisdeginum miðvikudaginn 7. apríl sl. Ræðan er birt í heild í Degi 9. apríl sl. en frásögn af ræðunni birtist í Morgunblaðinu sl. fimmtudag, 8. apríl. Þar segir að forsetinn hafi gert hugtakið eldri borgarar að umtalsefni og m.a. varpað fram þessum spurningum: Er það ávísun á brotthvarf úr önn hversdagsins, iðjuleysi og rólegt líf? eða er það þægileg formúla sem þjóðfélagsþróunin hefur smátt og smátt smíðað til að rýma til á vinnumarkaði og skapa reglur og siði sem henta hinum yngri?

Hann spurði ennfremur hvað væri aldur eða öldrun, hvort það væri ákveðin vegamót, þáttaskil þar sem tilkynnt væri með tilstuðlan laganna að nú sé ævistarfið orðið nokkuð gott, bezt fyrir alla að hætta á sama tímapunkti og sætta sig við að vera samkvæmt skilgreiningum byrði á lífeyrissjóðum, byrði á Tryggingastofnun, byrði á ríkiskassanum “hvernig í ósköpunum höfum við og aðrar vestrænar þjóðir náð að koma þessari firru í skipulagt lagakerfi og þar með gefa út leiðarvísi sem færir okkur frá frjóum akri og út í botnlausa mýri.”

Þetta var gott hjá Ólafi Ragnari og er ég honum hjartanlega sammála þótt ég hafi átt nokkurn þátt í því að starfsmenn Morgunblaðsins skuli hætta þar á því ári sem þeir verða sjötugir. Það er nefnilega hárrétt hjá forsetanum að ótal dæmi eru um það að frumkraftur til nýrra uppgötvana, listsköpunar, nýrra hugmynda og framkvæmda býr með mönnum nánast ævina á enda eins og dæmin sýna og hann tók sjálfur nokkur slík. Sagði síðan “væri ekki viturlegra að leita nú leiða sem færa munu samfélagi, atvinnulífi, menningu og vísindum, ágóða og ánægju af sköpunarverkum hinna eldri og hætta að úrskurða nær alla úr leik á þeim vettvangi um leið og ákveðnu aldursmarki er náð?” Þetta er hárrétt hjá forsetanum og er ég hjartanlega sammála honum. Við eigum ekki að spyrja fólk nú á dögum hvað það er gamalt, heldur hvernig heilsan sé? Sjötugur maður í dag er betur á sig kominn oft og einatt en fimmtugur maður þegar ég hóf blaðamennsku 1951 og fór að eiga samtöl við fólk á öllum aldri. Þá var sjötugt fólk mjög oft dæmt úr leik vegna heilsuleysis og ég man eftir Valdimar bónda Kristóferssyni sem var ekki nema rúmlega fimmtugur en ég hélt hann væri a.m.k. áttræður þegar ég hitti hann fyrst. Hann var eftirminnilegur maður og vel gáfaður. En hann var illa farinn af barnslúa og vinnuhörku vestur á Snæfellsnesi. Mér er nær að halda hann hafi ekki orðið nema sextugur og dó þá úr elli. Valtýr Stefánsson varð ekki nema rúmlega sjötugur en þegar hann veiktist sagði Lárus Einarsson prófessor þegar ég spurði hann hvað væri að Valtý, en þá var hann í mesta lagi hálfsjötugur: Það er elli, sagði Lárus, ekkert annað. Þannig eltist margt af þessu fólki illa á sínum tíma og mun verr oft og einatt en nú um stundir.

 

Í athugun minni á Jónasi og Sigurði Breiðfjörð og umhverfi þeirra rakst ég á kvæðið Vor eftir Davíð Stefánsson. Þegar Hanna las það sagði hún, Þetta er Tómas! Ég fór að skoðaði kvæðið og sá það var rétt hjá henni. Þetta er afskaplega vel gert kvæði hjá Davíð, eiginlega flott! og ég er ekki í nokkurn vafa um að Tómas hefur lært ýmislegt af efnistökum þessa óvenjulega kvæðis.

 

Þegar ég fór yfir Búnaðarbálk sá ég hvernig Jónas Hallgrímsson sá í gegnum fingur við Eggert Ólafsson því hann lætur sér lynda í skáldskap Eggerts það sem hann fyrirlítur og vill uppræta í skáldskap Sigurðar Breiðfjörðs, t.a.m. vísuorð eins og þessi sem eru nokkuð einkennandi fyrir Sigurð sem hugsar lítið sem ekkert um rangar áherzlur íslenzkra orða en koma einnig fyrir hjá Eggerti Ólafssyni ef honum býður svo við að horfa:

 

...Heililmuð grös og jörðin feit,

hólar, vellir, ávöxtuð lyng,

vötnin og fuglar allt um kring...

 

Þarna bjargar Eggert stuðlunum með rangri áherzlu á orðinu ávöxtuð. Samkvæmt íslenzkri málvenju er þessi lína vanstuðluð en vegna áherzlubreytinga nær hann v-stuðlum í orðunum vellir og ávöxtuð, en það er auðvitað hið mesta braglýti og réttilega til bæna tekið í ritdómi Jónasar um Tistrans-rímur í Fjölni. Sigurður Breiðfjörð sækir ekki sízt slíkar fyrirmyndir í skáldskap Eggerts Ólafssonar án þess það flögri að Jónasi að benda á ætternið, enda var það honum hið mesta viðkvæmnismál hvernig á Eggert væri litið. En hvað sem því líður, þá hefur Eggert ort góð erindi innan um fjólurnar en helztu afrek hans í skáldskap eru þó ekki í kvæðabók hans, heldur ljóðabók Jónasar Hallgrímssonar; Hulduljóð Jónasar.

 

22. apríl, sumardagurinn fyrsti

Skrifaði þessa grein í Morgunblaðið, Skógræktarblað, sumardaginn fyrsta 22. apríl:

Yrkja

Yrkjusjóður var stofnaður í tilefni af 60 ára afmæli þáverandi forseta Íslands, frú Vigdísar Finnbogadóttur, árið 1990 og var grundvöllur hans útgáfa afmælisrits sem tileinkað var forsetanum, en bókaforlagið Iðunn sá um útgáfu ritsins. Að ósk stofnandans er markmið sjóðsins að kosta trjáplöntun íslenzkra skólabarna á grunnskólastigi. Þá var þess einnig óskað að Skógræktarfélag Íslands færi með vörzlu og framkvæmd sjóðsins.

Í skipulagsskrá fyrir Yrkju sem dómsmálaráðherra staðfesti 7. júlí í fyrra segir í 1. grein, að hinn 3. marz 1990 hafi að ósk forseta Íslands verið stofnaður sjóður “handa íslenskri æsku til ræktunar landsins, er ber heitið YRKJA”.

Í 3. grein er sagt að markmið sjóðsins sé að kosta trjáplöntun íslenzkra skólabarna á grunnskólastigi á hverju ári og í næstu grein að tekjum sjóðsins skuli árlega varið í þessum tilgangi, en stofnfé sjóðsins var 28.782.700,00 sem óheimilt er að skerða að raungildi. Í 5. gr. skipulagsskrárinnar er svo fyrir mælt að stofnféð skuli “aukið með öllum hagnaði sem verður af útgáfu ritsins “YRKJU”, en sjóðurinn geti leitað eftir gjafafé og öðrum framlögum samkvæmt ákvörðun stjórnar hans.

Í 6. grein segir að tekjur sjóðsins séu vextir af stofnfé og öðrum eignum sem sjóðnum kann að hafa áskotnazt. “Gjafafé skal leggja við stofnfé og ávaxtast með sama hætti nema að gjafir séu skilyrtar sérstökum verkefnum. Stjórnarkostnaður greiðist af tekjum sjóðsins en sjóðsstjórn tekur ekki laun”.

Í 8. grein segir að með úthlutun úr sjóðnum skuli “kosta trjáplöntun íslenskra barna í grunnskólum landsins á ári hverju eftir nánari ákvörðun stjórnar sjóðsins”.

* *

Á síðasta stjórnarfundi Yrkju, 4. marz sl., var lagt fram yfirlit yfir verkefni Yrkju á 7. starfsári sjóðsins 1998, en þá um vorið fengu alls 105 skólar plöntur til gróðursetningar. Nam úthlutun alls 35.000 plöntum, einkum birki. Alls tóku 8.200 nemendur þátt í verkefninu. Flestir skólanna skila inn skýrslu um framkvæmdir og auðséð að almennur áhugi er ríkjandi. Skýrslunum fylgdu upplýsingar um starfsemina frá upphafi 1992-1998. Á þeim tíma hafa rúmlega 45.000 nemendur tekið þátt í þessum störfum og samtals höfðu þeir gróðursett 267.649 þúsund plöntur, eða eina plöntu á hvern mann í landinu. Má telja það góðan árangur.

Á þessum síðasta stjórnarfundi voru teknar fyrir umsóknir til Yrkjusjóðs árið 1999 og kom þá í ljós að 97 skólar höfðu þegar sótt um þátttöku og fjöldi nemenda 6.390. Við úthlutun var miðað við 6 plöntur á nemanda en samkvæmt ósk 3 plöntum á nemanda í skólum Reykjavíkur. Lágmarksúthlutun eru 100 pöntur á hvern skóla. Áætlaður kostnaður af plöntukaupum var 850.000 krónur, en eftirlit og umsjón kr. 600.000, eða alls 1.450.000.00 krónur.

Í samstarfi við Íslandsbanka hefur einnig verið unnið kennsluefni sem ætlað er til leiðbeiningar og stuðnings kennurum og nemendum og hefur það verið sent endurgjaldslaust í skólana. Áhugi hefur verið mikill á þessu fræðsluefni og er upplag ritsins nú þrotið.

Þróunin hefur verið hröð og ánægjuleg. Yrkju-dagurinn hefur orðið þungamiðja almennrar umhverfisfræðslu í skólum, jafnvel stendur undirbúningur kennara í margar vikur og oftar en ekki kemur kennsluefni sem áður er getið að góðum notum.

* *

Það hlýtur að vera í anda Yrkju-sjóðsins að hlú að umhverfinu og auka skilning á umhverfisvernd. Yrkjuverkefnið er ekki einungis gróðursetning, heldur er það einnig fólgið í því að vekja og glæða áhuga nemenda, og ekki síður kennara, á ræktun og fegrun umhverfisins. Það kallar á stöðuga vinnu. Það er því nauðsynlegt að sjóðurinn eflist og geti þannig gegnt mikilvægu hlutverki sínu. Helzt þyrfti hann að hafa sérstakan starfsmann á sínum snærum og gæti hann þá lagt skólunum lið, fylgt gróðursetningunni úr hlaði með því að heimsækja skólana, fylgzt með vinnubrögðum, svæðum og lagt grunn að kennsluefni. En til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að sjóðurinn fái aukið fjármagn, því að hann er ekki í stakk búinn til að standa undir slíku starfi að svo komnu. Sjóðurinn hefur úthlutað um 1,5 milljón krónum árlega í kaup á trjáplöntum og af því framlagi er hluti ætlaður til umsjónar Skógræktarfélags Íslands.

* *

Í fyrstu árgöngum Fjölnis eru tvær greinar eftir Tómas Sæmundsson sem leiða hugann  að Yrkju-sjóðnum og stofnanda hans. Þar er merkilegt ágrip af ævi sr. Þorvaldar Böðvarssonar sem þeir fjölnismenn töldu með merkari samtímamönnum og minntust hans með einstæðum hætti í riti sínu. Sr. Þorvaldur var ættfaðir frú Vigdísar, en honum er m.a. svo lýst að hann hafi verið “allur í bókunum” og snemma farið að gegna “bendingu náttúrunnar” eins og komizt er að orði, þ.e. farið ungur að yrkja; ekki endilega jörðina, heldur tunguna og arfleifð okkar”. Og enn: “Atgjörvi sálar hans var frábært; og kom það öllum ásamt, er hann þekktu, að hann mætti telja með þeim, er gáfaðistir voru og námfúsastir og bezt að sér hér á landi á hans dögum”. Hann hafi verið “aðdáanlega laus við öll fjötur venjunnar og alls konar hindurvitni og hleypidóma og einsýni þá, er aftrar þekkingu á sannleikanum og helzt er vön að loða við hálflærða menn, þó lærðir séu kallaðir.” Hann hafi verið óágengur maður og óáleitinn, hæverskur og vandlátur við sjálfan sig og því náð mikilli “fullkomnun andans” - og ennfremur: “En víst var um það, að honum varð meir eftir geði kyrrlát og friðsamlega iðkun vísindanna en að standa í því er mikil umsvif eður þras þurfti við að hafa”. En þó hafi hann umfram allt verið mesta sálmaskáld landsins um sína daga og sumir sálma hans “svo fagrir og skáldlegir sem vart muni dæmi til finnast í vorum andlega söng, nema ef til vill einstöku Davíðs-sálmar - og sumir eftir Hallgrím Pétursson”.

Í riti slíkra fagurkera eins og þeirra sem að Fjölni stóðu eru þessi orð einstæð einkunn og viðurkenning, enda nefna þeir ekki önnur sálmaskáld í riti sínu en sr. Hallgrím og Ólaf á Söndum, en um hann var sérstaklega fjallað í páskalesbók Morgunblaðsins. Víst er að án sr. Ólafs hefði sr. Hallgrímur ort Passíusálmana með öðrum hætti en raun ber vitni.

En aðalsálmaskáld þeirra félaga var að sjálfsögðu Jónas Hallgrímsson þótt ekki væri þess sérstaklega getið.

En arfleifðin hefur skilað sér vel.

Hin fjölnisgreinin sem snertir sérstaklega Yrkju-sjóðinn  og stofnanda hans er einskonar ferðasaga Tómasar Sæmundssonar, sem hann skrifaði félögum sínum til Kaupmannahafnar eftir að hann kom heim til Íslands. Þar lýsir hann sérstaklega umhverfisvernd og ræktunarstörfum tveggja frumherja á því sviði og kannski fyrstu skógræktarmanna landsins sem því nafni mega nefnast, þeirra Baagöe og Þorláks bónda í Skriðu sem þá stóð á áttræðu “og lítur út sem hann væri um sextugt, og skilst það hverjum sem til hans kemur að það er að miklu leyti að þakka starfsemi hans og hófsemi og náttúrulegu og óbreyttu lífernisháttum. Garðar hans er aðdáanlegir og væri verðugt að lýsa þarí hvurri plöntu. Slíkar tilraunir eru einkanlega nytsamlegar í því tilliti að þær eru þeim til leiðarvísis, upphvatningar og viðvörunar er eftirá vilja hafa viðleiti á þvílíku sem vænta má að margir verði þegar fram líða stundir”.

Hér er um einkar athyglisverða framtíðarspá að ræða og verður ekki annað séð en hún eigi við þá hugsjón sem Yrkju-sjóðurinn er sprottinn af.

Hinn brauðtryðjandinn sem Tómas nefnir í grein sinni er Baagöe verzlunarmaður í Húsavík og segir Tómas að tilraunir þeirra Þorláks nægi “til að sannfæra oss um að garðarækt og trjáplöntun geta vel heppnazt hjá oss, ef rétt meðferð er á höfð. Herra Baagöe er að minni vitund sá útlendingur, sem bezt hefir unað hag sínum á Íslandi og telur hann sig hálforðinn að Íslendingi, því að hann hefir verið hér yfir 30 ár; þekkir hann nákvæmlega landið og ber landsmönnum gott orð, enda unna honum allir, sem við hann hafa kynnzt og þykir mikið í hann varið. Sýna það mörg hans  fyrirtæki, að hann lætur sér ekki miður hugað um framfarir landsins en góður Íslendingur; (við vitum allir að enginn verzlunarmaður hefir betur og skilvíslegar starfað í bókasölum fyrir félag vort en hann). Trjáplönturnar - og garðyrkju-tilraunir hans eru mikilvægar og hefir hann það til launa að geta kennt öðrum, hvað í þessum hlut er tiltækilegast. Hann hefir fengið 1200 trjáplöntur frá Danmörku, og látið hlaða gerði í kringum þann stað er þær voru niðursettar, en ekki lifðu þær er bezt vegnaði lengur en þrjú ár og eru nú allar dauðar, enda höfðu sumar verið komnar í ólag, þegar honum fluttust þær. Ekki segir hann  kuldann geta orðið trjánum að eins miklu fjörtjóni hér á landi einsog snjókyngið sem bælir niður limarnar og leggur tréð að jörðu niður og líka saggan og kuldann í jörðinni meðan stendur á klaka, áður en hún nær að búa um sig að fullu sem fyrir hvurju tré tekur svo langan tíma; ræður hann því fyrst og fremst að velja þann stað til trjáplöntunar sem minnst eru snjóalög og saggasemi. Íslenzkar viðartegundir verða affarabeztar, bæði hér og hjá Þorláki í Skriðu: birki og víðir og einkanlega reynir. Í Húsavík er eitt reynitré sem er orðið - ég held - fimm álnir á hæð, með mörgum kvistum og limum. Það er nú 20 ára gamalt og vex þó hraðast úr því”.

* *

Það er ekki að ófyrirsynju að ég tel við hæfi að nefna þessa tvo frumherja í umhverfisvernd og ræktun, nú þegar minnzt er 100 ára afmælis skipulagðrar skógræktar á Íslandi og þá einnig í tengslum við YRKJU, sjóðinn handa íslenzkri æsku til ræktunar landsins, og stofnanda hans. Fyrir þetta framtak og þá hugsjón sem að baki býr stöndum við í mikilli þakkarskuld við Vigdísi Finnbogadóttur og er ég ekki í nokkrum vafa um að henni verður skipað á bekk með þeim frumherjum skógræktar sem fyrr eru nefndir og hafa lagt fram drjúgan skerf til að rækta landið og klæða. En þá er ekki minnst um það vert að í þessu starfi er einnig fólgin ræktun hugarfarsins, sú mannrækt sem íslenzk æska mun æ og ávallt búa að. Sú mannbót á ekki sízt eftir að skila sér í fegurra og hlýrra umhverfi. Ekkert væri  fremur í anda þeirrar hugsjónar sem var inntak og aflgjafi alls þess sem fjölnismenn töldu mikilvægast og eftirsóknarverðast; fegurð og nytsemi.

 

Matthías Johannessen,

formaður Yrkju.

 

15. apríl, fimmtudagur

Hélt fyrirlestur í Endurmenntun um Sturlungu, Njálu og umhverfi Sturlu Þórðarsonar. Ágætur hópur, hélt ég ætti að svara spurningum og rabba, en þegar á hólminn kom þurfti ég að flytja 50 mínútna erindi. Örnólfur Thorsson stjórnar þessum hópi og gerir það ágætlega.

Erindi mitt á Búnaðarþingi hefur nú birzt í Frey.

 

17. apríl, laugardagur

Flutti annan fyrirlestur. Í þetta sinn um blaðamennsku á námskeiði fyrir fréttaritara Morgunblaðsins. Hef dálítið gaman af því. Síðan sátum við ritstjórarnir fyrir svörum, sbr. frásögn í Morgunblaðinu.

 

19. apríl, mánudagur

Hef skrifað grein sem á að birtast í Skógræktarblaði Morgunblaðsins, Sumardaginn fyrsta. Hún fjallar um Yrkju og þá hugsjón sem að baki hennar liggur; og þá einnig eitthvað um stofnandann, Vigdísi Finnbogadóttur. Minni á dálæti fjölnismanna á ættföður hennar (og okkar), sr. Þorvaldi Böðvarssyni skáldi. En hann á aðeins einn sálm í sálmabókinni nú, getur verið að það sé rétt mat?

 

Uppnám útaf sögu eftir sr. Örn Bárð á byskupsskrifstofu, sem birtist í Lesbók um daginn. Kári Stefánsson hringdi og heldur að hún fjalli um sig og Íslenska erfðagreiningu. Höfum haft ama af þessu. Gísli Sigurðsson sendi söguna til Sigmund , teiknara blaðsins, og á myndinni sem fylgir trónar Davíð Oddsson!! Ég hef sagt við fjölmiðla sem eru í uppnámi út af þessu að myndbirtingin sé mistök af hálfu Morgunblaðsins. Dæmigerður úlfaldi úr mýflugu. Þeir eru ekki að fjalla um bókmenntir og fagrar listir í fjölmiðlunum að öðru leyti, ég tala nú ekki um í sjónvarpsfréttum. Nú fengu þeir höfundinn til að lesa upp “valda kafla” úr þessari Lesbókar-sögu!!

Davíð skrifaði byskupnum bréf út af þessu máli vegna þess að höfundur titlaði sig “fræðslufulltrúa kirkjunnar”. Byskup svaraði með klaufalegu bréfi og reynir að koma allri sök á Morgunblaðið. Hann ætti að mínu viti fremur að hugsa um þjóðkirkjuna sína. Byskup gagnrýnir myndbirtinguna, en Davíð segir að myndin sé í fullu samræmi við efni sögunnar. Hann er sem sagt að bera blak af okkur.

Það er svo sem allt í lagi að lifa, ef það væri ekki þessi samtími.

 Eða eins og segir í Arkangelsk R. Harris: fólk veldur manni alltaf vonbrigðum!

 

Þegar við birtum grein Sverris Hermannssonar í fyrra þar sem aðstandendur Dags voru kallaðir tíkarsynir - ætlaði allt um koll að keyra. Forstöðumenn blaðsins reyndu að skúta okkur ritstjórana fyrir bragðið en við svöruðum í leiðara og vitnuðum í hæstaréttardóm. Þá stóðu Dags-menn á öndinni af vandlætingu, en við létum það ekkert á okkur fá frekar en svingsinn í eyðimörk Egyptalands, það höfum við oftast gert.

En hvað skyldi fólk segja um vandlætarana, þegar þeir birta nú í Degi aðrar eins níðvísur og raun ber vitni, svo látandi eins og segir í Fjölni:

 

Nú er staða okkar ill

og erfitt mjög að lifa

folinn Davíð fjötra vill

frelsi til að skrifa.

 

Því er ekki á verra von

víst í marga fýkur,

enda þessi apason

engum manni líkur.

 

Þetta er ógurlega fyndið - eða hvað?! Nei, nú eru engir vandlætarar á ferðinni, nú á bara að skemmta sér rétt fyrir kosningar!!

 

23. apríl, föstudagur

Hef verið að kynna mér vinsælt spennuverk, Arkangelsk eftir Robert Harris. Sagan er vel skrifuð, en áhugi minn dvínaði til muna, þegar nýr sonur Stalíns kom til sögunnar; úlfur í mannsmynd; eða ófreskja. Þá breytist sagan í allegoríu, eða dæmisögu um Sovétríkin og Rússland; m.a. minnzt á hinn geðveika “lýðskrumara” Sírinovský; og helzt látið að því liggja að lítið sem ekkert  hafi breytzt í landinu. Sagan er fín þar til “sonurinn” er kallaður til - hann birtist aðalpersónunum í skóglendi norðursins, jafnvel í úniformi Stalíns - og með dulnefni hans. Þá hefst dæmisagan; gefur sögunni meiri dýpt að vísu, en þar fer líka allur raunveruleiki fyrir ofan garð og neðan og mér fannst ég vera staddur í miðri furðusögu; eða ævintýri a la fornaldarsögur norðurlanda. Allt með ólíkindum, ósennilegt. Og skrímslið raunar bráðhlægilegt fremur en dramatískt? Mér þótti einkum hnýsilegt að sjá hvernig höfundur fjallar um dauða Stalíns, hvernig hann vinnur úr sögusögnum og heimildum - ekki sízt vegna þess að ég þurfti að gera slíkt hið sama í Spunnið um Stalín, sem er auðvitað ekkert annað en söguleg skáldsaga. En allt er þetta gert sitt með hverjum hætti.

 

Ódagsett

Þröstur Helgason skrifaði leiðarann í Morgunblaðið sumardaginn fyrsta, en ég tók hann upp og lagfærði þá um kvöldið. Hann fjallar um Yrkju og andlega ræktun og þá með tilliti til mikillar lestrarkönnunar Íslendinga þar sem kemur fram að þeir hafi minnkað bóklestur, þótt bókin haldi nokkurn veginn velli. Og þó! Á síðustu ellefu árum, eða frá því síðasta könnun var gerð, hefur Íslendingum sem aldrei lesa bók fjölgað úr 7% í 15,1% og á sama tíma hefur þeim sem lesa mikið fækkað verulega, eða úr 50,4% í 33,5%. Ástæðurnar eru öllum augljósar, “en það er hins vegar menningarpólitísk spurning hvort við ætlum að sætta okkur við þessa þróun eða hvort við ætlum að reyna að sporna við henni”.

Ég var með hugann við Yrkju þegar þessi forystugrein var samin og af þeim sökum datt mér í hug hvort ekki væri hægt að hefja andlega ræktun í skólunum með svipuðum hætti og trjáplöntun, en hún hefur gefizt mjög vel og á níunda þúsund unglingar hafa plantað nærri þrjú hundruð þúsund trjáplöntum frá því Yrkja var stofnuð, fyrir 7-8 árum. Þó að ljóðið hafi átt undir högg að sækja liggur í augum uppi að enn lesa margir þennan elzta bókmenntaarf þjóðarinnar og í leiðaranum er bent á að samkvæmt könnuninni lásu um 43 þúsund landsmenn einhver ljóð á síðustu 12 mánuðum, ef dregnar eru ályktanir af þeirri meðaltalsprósentu ljóðalestrar sem birtist í könnuninni. Þessi lestur skilar sér að vísu ekki í bóksölu, þótt upplýsingarnar ættu að þagga niður í þeim sem sífelldlega tönnlast á því að ljóðið sé í dauðateygjunum. Það var einnig sagt um skáldsöguna fyrir nokkrum árum, en reyndist hrakspá, eins og segir í forystugreininni. Þar er einnig bent á að niðurstöður könnunarinnar eru ekki að öllu leyti neikvæðar því að þær sýna  að um 90 þúsund Íslendingar eru að lesa mikið af bókum um þessar mundir.

En betur má ef duga skal. Þess vegna var í lok leiðarans stungið upp á því að reynt yrði að koma einhvers konar yrkju-andrúmi inn í skólana þar sem börn og unglingar læsu góðar bókmenntir, þ.e. fagurbókmenntir (estetískar bókmenntir), en ekki hvað sem er, svo að þeir gætu tileinkað sér góðan smekk og hafnað öllu því rusli sem að þeim er rétt með alls kyns uppákomum og yfirgengilegum áróðri. Ég hef áður bent á að ekki sé nauðsynlegt að lesa dróttkvæði með þeim hætti að taka þau saman eins og sagt er og skilgreina kvæðin hvert fyrir sig og vekja þannig andúð nemenda á þessari ómetanlegu arfleifð okkar, heldur væri þeim kennt að lesa erindin upphátt og laða fram þá dýrlegu músík sem í þeim er. Það mundi styrkja málkennd þeirra og laða þá að því sem er fagurt og mikilvægt. Hitt geta menn svo lært undir próf. Þegar við vorum í háskóla stofnuðum við smáklúbb þar sem við iðkuðum klassíska músík. Við höfðum ekki verið handgengnir henni og höfðum litla löngun til að tileinka okkur hana. En þegar við fórum að hlusta með skýringum og án þvingunar síaðist þessi tónlist inn í okkur, veitti okkur unað og ánægju og hefur fylgt okkur æ síðan. Við gátum orðið gert greinarmun á Toskaníní og Furtwengler - og notið listar beggja; án fordóma.

Þetta væri einnig hægt að gera til að auka áhuga nemenda á ljóðlist sem er undirstaða allrar málkenndar og góðs uppeldis, þegar smekkur er annars vegar. Og í niðurlagi leiðarans var spurt að því, “hvort ekki sé lag til þess að yrkja fagurbókmenntir í skólunum með svipuðum hætti og nú er gert með gróðursetningu trjáplantna. Unnt ætti að vera að hleypa samskonar áhuga í slíkt starf og verið hefur með Yrkju. Ræktun fagurbókmennta með æskunni væri heillandi skólastarf og gæti orðið mikilvæg viðbót við ræktun að öðru leyti. Ræktun hugarfarsins stuðlar að mannbótum, ekki síður en ræktun lands og jarðar að öðru leyti. Slík ræktun stuðlar ekki sízt að þroskaðra fegurðarskyni sem kemur að sjálfsögðu að notum á okkar dögum, ekki síður en þegar fjölnismenn lögðu höfuðáherzlu á þessa þætti”.

Daginn eftir var svo dagur bókarinnar. Þá voru birt úrslit atkvæðagreiðslu um “bók aldarinnar”. Það var svo sem allt í lagi með þetta upphlaup, en skipti litlu sem engu máli, ég held flestir hafi litið á þetta sem gamanmál. En þátttaka var lítil, eða rétt rúmlega eitt prósent; þ.e. rúmlega þrjú þúsund manns, augsýnilega mikið af börnum og unglingum. Hin 99% sátu heima! Það er kannski von, því að hvernig er hægt að kjósa bók aldarinnar, það er með öllu útilokað! Í fyrsta lagi er skammtímaminnið  mjög stutt eins og allir vita, kannski ekki lengra en gullfisks eða kólibrífuglsins, það er víst nokkrar sekúndur!

Þegar ég hugsaði um þetta sá ég í hendi mér að það var vita ómögulegt að kjósa “bók aldarinnar”, svo margt sem til greina kæmi í þeim efnum. En mergðin hefur engan áhuga á því, hún bara kýs. Hún kýs það sem stendur skammtímaminninu næst. Við vorum heppin að hún mundi eftir Sjálfstæðu fólki. En hver skyldi vera ástæðan? Hún er auðvitað heldur nýleg umfjöllun fjölmiðla um góðar viðtökur hennar erlendis og þá ekki síður ný leikgerð í Þjóðleikhúsinu. Heimsljós var einnig góður kostur, einnig Englar alheimsins en ástæðan til þess að menn muna eftir henni er sú, hvað hún er auðlesin og þar af leiðandi fjöllesin og þá ekki síður hitt hvað mikil áherzla er lögð á kennslu hennar í skólum. Það þekkja hana flestir unglingar um þessar mundir. Svipuðu máli gegnir um Heimsljós og Sölku-Völku þótt þessar sögur hafi ekki verið til umræðu í fjölmiðlum undanfarið. Þær eru einfaldlega þekktar og vinsælar. Bækur Böðvars Guðmundssonar eru sögulegar skáldsögðu í stíl við Vesturfara Mobergs sem var kosin bók ársins í Svíþjóð á sínum tíma; að sjálfsögðu. Það komst enginn hjá því að þekkja Vesturfarana eftir prýðilega sjónvarpsmyndröð úr efni hennar.

Ég hef ekki enn lesið bækur Böðvars Guðmundsonar, Hýbýli vindanna og Lífsins tré en heyrði á sínum tíma, eða u.þ.b. sem bækurnar voru að koma út, að þær urðu vinsælar og margir lásu þær augsýnilega. Fyrir þeim var einnig mikill áróður í fjölmiðlum svo þetta kemur ekki á óvart. Mér sýnist þrjár eða fjórar unglingabækur vera í tíu efstu sætunum og kemur engum á óvart. Ég þekki ekki þessar bækur og mundi ekki eftir Gæsahúð Helga Jónssonar sem kom víst út 1997 og fékk þá einhver verðlaun.

Bók aldarinnar? Fáránlegt uppátæki að láta sér detta í hug að velja bók aldarinnar. Niðurstaðan var auðvitað sú sem fyrirsjáanleg var - að helztu bækur aldarinnar komu ekki til greina. Eða hver man ljóðabækur Einars Benediktssonar eða Svartar fjaðrir eða Fornar ástir eða Fögru veröld, Þorpið og Tímann og vatnið; hver man Vefarann mikla, Aðventu eða Fjallkirkjuna, eða Kristrúnu í Hamravík eða Bréf til Láru eða Ofvitann; eða ævisögu sr. Árna - og svo ótal fleiri bækur; eða upphaf nýskáldskapar á Íslandi, ljóð Jóhanns Sigurjónssonar og Jóhanns Jónssonar? Og hver man Jóhannes úr Kötlum?

Þessar bækur hafa kannski fengið einhver atkvæði, ég veit það ekki. Ég er ekki að segja að þetta séu beztu bækur aldarinnar, en ég fullyrði að allt eru þetta bækur sem skiptu máli vegna þess að þær báru í sér nýjan tíma, voru sprottnar úr arfleifð okkar en bentu fram. Og ekki einungis þessar bækur, heldur einnig margar aðrar bækur sem ég man ekki í svipinn, því að skammtímaminni mitt er einnig úr fuglsheila.

Og þá er einnig á það að líta sem fjölnismenn birtu í riti sínu, 2. árg. 1836, en þar segir - og gæti átt jafn vel við nútímann og fyrri hluta 19. aldar: “Að þessu sé orðið svona varið hjá helzt til mörgum löndum okkar sjáum við á því, hvernig þeir taka allt nærri því með sömu þökkum. Rímnabagl vesælla leirskálda, t.a.m. Sigurðar “Breiðfjörðs”, bókina með Láka-brag og Einbúaljóðum... Þetta er keypt eins ljúflega og miklu meir tíðkað en Paradísar-missir og Messía-ljóð, en hvur “sultarkogni” er farinn að geta haft sér það til atvinnu að láta prenta allskonar bull, sem... ekki er til annars en sýna seinna meir “smekkleysi” vorra daga.”

Á þessu hefur ekki orðið nein breyting, hvert orð gæti átt við um okkar samtíð því nú er einnig allt lagt að jöfnu, a.m.k. flest, leirinn flæðir um allt án athugasemda, jafnvel ég ber ábyrgð á honum í Lesbók, og margir hafa atvinnu af því að prenta bullið! Allt er þetta í raun með ólíkindum, að unnt sé að gera svona athugasemdir fyrir hálfri annarri öld og hvert einasta orð geti verið rétt hermt upp á okkar daga. Það hefur þannig ekkert breytzt, þetta er sama staglið, sama mergðin þótt umgjörðin sé önnur. Það er líka allt og sumt.

Af þessum sökum er engin ástæða til að taka mark á uppákomum samtímans. Ef hann ætti að ráða væri Jónas Hallgrímsson jafn gleymdur og meindýrið sem Benedikt Gröndal drap í Dægradvöl!

En hver man Dægradvöl.

Þá er einnig á hitt að líta að þeir fjölnismenn gátu verið glámskyggnir, ekki sízt þegar Sigurður Breiðfjörð átti í hlut. Leirburðurinn var honum að vísu handhægur, en hann er dýrlegt skáld þegar honum tekst bezt upp og raunar svo gott að menn ættu að gleyma leirbullinu vegna þeirrar andlegu veizlu sem skáldið býður upp á með köflum. En Jónas vildi ekki koma auga á það. Það var einungis Tómas Sæmundsson sem vildi hann fengi að njóta sannmælis. Jónas og þeir hinir sáu ekkert nema leirburðinn. Ef ýmis helztu skáld sögunnar væru einungis dæmd af því versta sem þau hafa gert, væri fátt um fína drætti í bókmenntasögu heimsins.

En hvað vill fólkið lesa? Fólkið, já einmitt. Það vill lesa sögulegar frásagnir, en þó einkum spennu og hasar.

Ég lauk við Arkangelsk nú um helgina. Held hún sé einhver vinsælasta spennusaga síðari ára og margir útlendir gagnrýnendur hafa tekið stórt uppí sig, þegar þeir hafa prísað hana bak og fyrir. Gagnrýnandi Guardian segir að Harris sé “bókmenntalegur Alfred Hitchcock”, eins og hann kemst að orði. Það má vel vera, ég veit það ekki.

En hvað mundi ég segja um þessa bók?

Ef ég ætti að bæta einhverju við fyrri ummæli, væri það svohljóðandi, eins og ég skrifaði inná auða síðu í mínu eintaki, sem Ingólfur gaf mér:

Útópísk saga með rætur í fortíðinni, en bendingar um að endurborinn Stalín sé aftur á leið inní rússneskt samfélag, í persónu sonar Stalíns og kommastúlku frá Arkangelsk. Það sem Stalín frjóvgaði lifir áfram í geggjuðum syni, skrímsli; úlfi. Stalín teiknaði einkum úlfa og geymdi myndir af börnum uppi á vegg.

Sonurinn finnst í skóginum við Arkangelsk - hann er hið brenglaða eða brjálaða pólitíska kerfi persónugert. Og það er enn á ný á leiðinni inní veruleikann, úr útópískri martröð fortíðarinnar.

Niðurstöður bókarinnar: Fólk veldur þér alltaf vonbrigðum(!) Eða eins og segir undir lokin: Úlfur ýlfraði í skóginum þar sem geðveikur “sonur” Stalíns birtist, jafnvel í úníforminu hans! Uppátæki Stalíns voru nánast takmarkalaus. Sjálfur gekk hann einkum fyrir þessari setningu, Þakklæti, það er sjúkdómur hundsins! Eða - eins og segir í sögunni: skrímslið, eða “sonur” Stalíns talaði orð föðursins. En það er á þessum tímamótum í sögunni sem hún breytist í allegóríu eða dæmisögu og þá fóru að renna tvær grímur á mig. Ég geri mér grein fyrir því að “þessi áhætta” dýpkar söguna og gefur henni sterkar vísanir, ef svo mætti segja, en þá verðum við einnig að yfirgefa veruleikann. Stúlkan deyr af barnsförum. Hún hafði verið Stalín til aðstoðar vegna frábærs kommúnistisks uppeldis og hann gerir henni barn. Hún fer heim til Arkengelsk þar sem hún elur þennan son þeirra, en deyr af barnsförum. Sonurinn er sendur í fóstur. Hann ber dulnefni Stalíns frá árunum fyrir byltinguna. Það er ágæt hugmynd. En móðirin dó og sonurinn var ekki til. Hann hvarf inní skógarauðnina. En hvernig gat hann þá eignazt margvíslegt dót eftir föður sinn; hvernig gat hann eignazt einkennisfötin hans?

Bókin er vel skrifuð og hún fléttar dæmisöguna inní veruleikann með þeim hætti að fólk hrífst - mér er nær að halda það viti ekki af hverju; líklega á sömu forsendum og þegar menn lásu eða sögðu fornaldarsögur Norðurlanda á miðöldum.

Fólk hefur þannig ekkert breyzt; það breytist aldrei neitt. Og svo halda menn að Jesús Kristur yrði eitthvert fagnaðarerindi, ef hann gengi um meðal okkar, eins og á dögum Pontíusar Pílatusar.

Ó, þú skrínlagða heimska...

 

25. apríl, sunnudagur

Ingólfur kom heim um síðustu mánaðamót og hefur starfað síðan sem aðstoðarlæknir á Landspítalanum. Hann hyggst svo halda áfram vísindastörfum í Bretlandi uppúr áramótum, eða eftir að hann hefur lokið kandidatsárinu. Hann vill fá læknisréttindi, það er nauðsynlegt vegna framhaldsstarfs í læknavísindum erlendis.

Nú hefur hann verið tæp sjö ár í úlöndum og það er okkur Hönnu því mikil gleði að fá að hafa hann heima, þótt hann vinni dag og nótt. En við sjáumst með köflum, förum í kaffi saman, smábíltúr; lítum inn á Hard Rock. En það er að sjálfsögðu viðbrigði fyrir hann að rifja upp klínískt starf eftir svo langt Ms-nám, samningu doktorsritgerðar og próf í erfiðu fagi. En mér sýnist hann njóta sín heldur vel og því betur sem hann er lengur á spítalanum - og að ég hygg betur en hann sjálfur hélt að verða mundi.

Við höfum verið að taka til í herberginu hans því hann hefur leigt sér stúdíóíbúð á Bragagötu. Tókum einnig til í bókaherberginu mínu þar sem staflarnir voru þannig að það var vart hægt að komast inní herbergið fyrir bókadóti og geisladiskum. En nú er þetta komið í lag og ég hef m.a. raðað dagbókunum upp í hillu, en áður lágu þær eins og hráviði um allt gólf.

Í þessari herferð rakst ég á eintak mitt af Grámosinn glóir eftir Thor Vilhjálmsson. Þá sá ég áritun fremst í bókinni sem ég hafði gleymt. Thor skrifar nafn mitt, teiknar síðan mynd af litlum fugli og segir svo: Góði vin, vona að þú hafir ánægju af þessari bók, þar sem leitað er sumpart á sömu mið og þú hefur gjört með þínum hætti; skáldið - og ég nú með mínum, kær kveðja Thor.

Og undir stendur Nóvember, ‘86.

Við hlustuðum á Thor lesa úr þessari bók í London þegar hún kom út á ensku, en þá fjallaði Ted Hughes um íslenzka arfleifð og fór fallegum orðum um Thor. En mér líkaði ekki það sem lesið var, fannst kaflinn of miklar gælur við sifjaspellið. Sjálfur lét ég það lönd og leið í leikritinu um Sólborgu og skrifaði einkum um móðurina og job-stellingar hennar. En allt er það tilbúningur og uppspuni, þótt efnið sé að öðru leyti sannsögulegt - að mestu.

Hvað annað?

 

Í dag setti forsetinn kristnihátíð í kirkju sr. Matthíasar á Akureyri. Ég man ekki betur en hann hafi einhvern tíma í fyrndinni neitað að leggja hönd á helga bók, en nú virðist hann orðinn allra manna trúaðastur. Sé ekki betur af ræðu hans í dag en hann sé að verða einhvers konar nýr þangbrandur. Bessastaðafyndni guðs almáttugs er með ólíkindum!

 

 

 

Kvöldið

Hver las Jónas á sínum tíma? Ekki alþýða manna. Í einu bréfa sinna talar hann um að hann eigi vini á Íslandi, hvers vegna?

 

Ódagsett

Gott væri enn að lifa

Svínfellinga saga

Hún var eins og fugl þarna við hliðina á honum í bílnum, það gerðu augun. Þau voru eins og vængir og breyttu andlitinu í iðandi himin. Það var eins og nývaknaður mói og augun fuglar í leit að stráum.

Sjáðu þarna, sagði hún og benti.

Hvað? sagði hann.

Hann leit yfir til hennar og út um gluggann.

Hvar?, sagði hann.

Þarna, sagði hún og benti á starra í polli á bílaplaninu.

Já, starrann, sagði hann. Hvað með það?

Og þarna kemur annar og nú eru þeir saman í baðinu.

Og engu líkara en augun væru komin þarna í pollinn og busluðu með þeim og tækju þátt í baðinu.

Þetta minnir þig kannski á eitthvað? sagði hún kankvís.

Ég veit hvað þú ert að fara, sagði hann og horfði á hana.

Þau horfðust í augu og brostu, en starrarnir léku sér í baðinu, viðruðu fjaðrirnar og notuðu gogginn eins og fatabursta, en vissu augsýnilega ekki að það var fylgzt rækilega með þeim.

Þeir undu sér vel, það var auðséð.

Það er komið vor, sagði hún.

Hann kvaddi hana með kossi og fór út úr bílnum, en hún ók í burtu. Starrarnir horfðu á eftir þeim, en héldu svo áfram að baða sig.

Hann andaði að sér. Það var ilmur í lofti. Það var einnig gott veður í huga hans, þegar hann gekk inní húsið, hugsi. Hann átti svo sannarlega erindi við þetta vor, nýkominn úr slarkferð að vestan þar sem hann hafði hitt gömlu konuna sem hafði tileinkað sér Svínfellinga sögu með öðrum hætti en allir aðrir. Hún hét Ingibjörg, kölluð Inga. Hún kunni bezt við það. Hún hafði einnig beðið hann kalla sig því nafni, en honum hafði þótt það óviðeigandi; lét sig samt hafa það. Ástæðan fyrir sérstakri upplifun hennar af Svínfellinga sögu var persónuleg reynsla sem nú sótti einnig á hann.

Hann hafði komið við hjá henni þar sem hún bjó í stóru steinhúsi ásamt fullorðnum syni sínum, Álfi; ógiftum. Umhverfis húsið gott tún, en ekki allskostar vel ræktað; kalblettir á víð og dreif. Honum hafði verið sagt að gamla konan ætti landstóra jörð sem næði inn á öræfi, svo að hún hlyti að eiga dálítið undir sér, enda ekkja eftir mikilsháttar bónda sem hafði notið virðingar í þessari kalsalegu sveit.

Hann átti hesta þarna í nágrenninu og af þeim sökum hafði hann kynzt þeim mæðginunum. Nú var hann kominn til að vitja hrossanna og hlusta á æðarfuglinn úa í fjörunni.

Hann hafði átt eftirminnilegt samtal við gömlu konuna þar sem þau sátu í stofunni og komið undir kvöld. Senn færi að skyggja. Hann hafði fengið molasopa, annað vildi hann ekki. En hann hafði haft mikinn áhuga á því sem slæddist inní frásögn gömlu konunnar og þá einkum í tengslum við jörðina og gamla tímann. Og þegar hann var kominn heim aftur hafði hann rifjað upp Svínfellinga sögu.

Hann settist við skrifborðið, tók blaðsnipsi uppúr vasa sínum, en á það hafði hann skrifað lítið ljóð sem hann hafði verið að yrkja að gamni sínu.

 

Kvöldið

sandsvört eyðimörk

við drúpandi

þök

 

borgin ein

í kyrrlátu myrkri

 

engar stjörnur

einungis hún í huga þínum.

 

Þú lokaðir augum

og gekkst inní drauminn,

 

genguð saman

gegnum myrkrið

 

augun tindrandi

stjörnur.

 

 

Hann las yfir það sem hann hafði verið að skrifa, en hristi höfuðið. Það var einhver brotalöm í kvæðinu, en hann vissi ekki hver hún var. Hugsaði samt um það, en gafst upp. Þá kom Ingibjörg aftur í hugann, gömul kona sem hafði sáð von í brjóst hans og umburðarlyndi. Það var erfitt eins og tímarnir voru, en samt tókst það.

Hann hélt áfram að pikka, fyrst hugsunarlaust en síðan tók hugsunin á sig mynd á hvítum blöðunum og hann sökkti sér niður í þessa reynslu sem hann hafði eignazt vestur á fjörðum og engu líkara en upplifun Ingu gömlu yrði persónuleg reynsla hans sjálfs.

Þú færð ekkert með kaffinu, sagði gamla konan, ég hef ekkert uppá að bjóða nema myrkur og molasopa.

Ég vil ekkert, sagði hann.

Álfur er ekki kominn inn, hann er alltaf að dytta að einhverju fram á kvöld, blessaður drengurinn, það vantar ekki. En hann sér um veitingarnar á þessu heimili.

Ég þarf ekkert, sagði hann. Ég hef bara gaman af að hlusta á þig.

Það er svo sem ekkert, sagði gamla konan, það hefur verið svoddan mæða að hugsa til baka, en Sigurður var afbragð annarra manna, það vantaði ekki, hann lét reisa þennan bæ fyrir 1930 og þótti höll í þá daga.

Ég get ímyndað mér það, sagði hann.

Sigurður var einstakur maður, máttu vita, það báru allir virðingu fyrir honum og ekki að ástæðulausu. Og við áttum barnaláni að fagna. En Sigurður er dáinn fyrir margt löngu og Álfur einn eftir í kotinu og ég hérna eins og húsdraugur allan daginn og margt sem að mér sækir, einkum þegar ég lít um öxl. En það léttir mér stundirnar þegar Álfur kemur inn, kveikir og fer að lesa fyrir mig. Við höfum verið með Svínfellinga sögu.

Bætti við eftir nokkra þögn:

Þeir voru báðir teknir af lífi, bræðurnir Guðmundur og Sæmundur Ormssynir. Höfðu samt orð á því að gott væri að lifa. Það er líka gott að lifa, ekki sízt á vorin. Það er farið að birta vel, finnst þér það ekki?

Jú, sagði hann og gekk að glugganum; horfði út. Hann sá engan á túninu. Ekkert að sjá annað en veginn með ströndinni og sérkennilegt landslag og lítinn bæ í fjarska sem kúrði í notalegu logninu við margklappaða sjávarhamra.

Jú, sagði hann eins og annars hugar. Það er gott að lifa.

Og virti fyrir sér þessa umgjörð mikilla harmrænna atburða sem drógu að sér athygli margra, en skutu öðrum skelk í bringu og hroll í herðar.

Bærinn sem kúrir þarna lengst í burtu rétt undir hlíðinni, það er Staðleysa. Þar átti Ketilbjörn heima, sá sem höggvinn var og brenndur. Hann var einn heima þegar Sveinn fór að honum vegna þess orðspors sem fór af ríkidæmi hans. Sagt var að hann geymdi mikið silfur á bæ sínum, en það kom aldrei í leitirnar. Sveinn hefur líklega ekki fundið það og enginn veit hvar það hafnaði, það fannst að minnsta kosti ekki í brunarústunum og kona hans ekki bjargálna eftir þetta voðaverk. Hún settist upp hjá dóttur þeirra hjóna og hélt dauðahaldi í sinn bjarghring, unz yfir lauk. Þeir fundu ekki öxina í rústunum, en sáu við nánari athugun að höfuðkúpan hafði brotnað við áverkann. Þá var Sveinn tekinn og játaði; sendur til Kaupmannahafnar meðan málið var í rannsókn og þar var hann dæmdur til að höggvast. Hann óskaði eftir því að vera sendur heim til aftökunnar og kóngur varð við því. Þá lá Ísland undir danakonungi eins og þú veizt og hann hafði öll ráð í hendi sér. Hann var ekki vanur að aukmast yfir þegna sína á Íslandi og enginn hefur skilið það fram á þennan dag, hvers vegna hann leyfði heimflutning Sveins. En þarna var hann grafinn við kirkjugarðinn sem stendur á hólnum undir fjallshlíðinni, fyrst utan garðs en ættingjar okkar fengu því framgengt að hann var fluttur inn fyrir garðinn og þar liggur hann; eða það sem er eftir af honum! Ég er komin af þeim báðum, Ketilbirni og Sveini.

Hann grillti í kirkjuna og hlustaði, um leið og hann hellti í bollann sinn og settist aftur.

Jóhanni, bróður Ketilbjarnar, var falið að höggva Svein þarna í hrauninu sem hefur á sínum tíma runnið í sjó fram, en er nú grátt af mosa og nokkuð gróið. Þar er yndælt á sumrin, en í stórum veðrum á veturna er engu líkara, sagði Sigurður, en ýlfrið í örlögunum heyrðist gegnum brimgnýinn. Á milli lognhljóðið sem berst langt inní dal.

Jóhann var mikill bóndi og góður og þótti höfðingi heim að sækja og húsaði svo vel bæ sinn, að enn þykir til fyrirmyndar.

Þegar Sveinn afklæddi sig fyrir aftökuna, talaði hann til viðstaddra og mæltist til fyrirgefningar á hneyksli því sem hann hafði valdið og áminnti menn um að hafa dæmi sitt til viðvörunar og bað að síðustu fyrir sálum þeirra - og sinni. Að því búnu sneri hann sér að Jóhanni og sagði, Nú heggur þú af mér höfuðið, Jóhann. En ég hyggst verða við eins og Guðmundur Ormsson, sem varð við dauða sínum bæði harðlega og hjálpvænlega. Veit það er gott að lifa, en þegar dagarnir eru uppi, getur einnig verið gott að deyja. Vel hef ég þvegið hár mitt fyrir þessa athöfn, því ég hef lært það af fornum sögnum sem hafa fylgt blóði okkar, að ekki dugi að beygja af andspænis dauðanum, heldur ganga inní hann eins og til fagnaðar væri að fara. En hitt vil ég spyrja þig, áður en þessi ganga hefst - og er það síðasta ósk mín í þessu lífi að þú svarir, Hvort heggur þú mig í hefndarskyni eða vegna réttvísinnar. Jóhann sagði enga hefnd í sínum huga. Þá tókust þeir í hendur, en Sveinn lagði nær brosandi háls á höggstokkinn en Jóhann reiddi þá upp öxina hart og hátt og hjó á hálsinn svo að af tók höfuðið. Þá var af nóni.

Það var mikið talað um réttvísina á þessum árum, en hún getur verið mislit eins og hagalagðar, þegar óríkt fólk átti í hlut og freistingar margar. En við höfum ekki leyfi til að dæma. Það voru aðrir tímar og mikil harka í héraði. Og fólk var látið deyja eins og það hafði lifað.

Síðar harðnaði á dalnum. Og Jóhann fluttist vestur um haf. Þá var sagt hann hafi ort vísu um harðræði og þær vonir sem bundnar voru við Vesturheim. En ég veit það ekki og man ekki kviðlinginn.

Hann sat þarna í stólnum, þegjandi. Horfði á gömlu konuna, en það var annar gestur að kveða sér hljóðs í huga hans og engu líkara en hann heyrði öxarhamarshöggið sem enn kvað þarna við í hrauninu eftir hálfa aðra öld.

Ógnlegt, hugsaði hann, og heldur eru þeir atburðir litlausir sem blaðamenn lýsa nú á dögum miðað við þær hörmungar sem settu svip á mannlífið fyrr á öldum. Um þetta var hann að hugsa, þegar gamla konan spurði:

Finnst þér orðið of skuggsýnt?

Hann hrökk upp úr hugsunum sínum og svaraði því neitandi.

Nú skulum við tala um eitthvað skemmtilegra, sagði hún, þangað til Álfur kemur. Annars er svo margt sárt og harmsögulegt að ekki verður undan því vikizt, eins og þú veizt. Sú var tíðin að ung stúlka var dæmd til dauða í Kaupmannahöfn fyrir að aðstoða við morð á ástmanni sínum, það var víst vegna afbrýðissemi, ekki er hún betri en annað. En kóngur náðaði hana og hún hlaut lífstíðarfangelsi í betrunarhúsi þar syðra. Kóngur átti þetta til. En afbrýðssemin, guð minn góður, hún er ekki betri en annað, máttu vita. En um þvílíkt og annað eins vildi Sigurður aldrei tala. Hann var með allan hugann við lífið og gróandann.

Þegar við settum bú saman voru efnin lítil en það rættist úr eins og oftast þegar fólk hefur einhvern neista af bjartsýni. Við áttum þennan neista, það vantaði ekki, en það sló í bakseglin, þegar við heyrðum að Álfur væri heyrnardaufur, það var mikið högg. En það hefur samt verið mín gæfa, því að við höfum verið hér saman tvö ein, ég er hans eyru, en hann er mín augu. Það var náttúrulega kollrak, þegar ég missti sjónina og nú er ég eiginlega alveg blind. En ég sé oft með höndunum, það er einkennilegt; þreifa og snerti og þá sé ég. Er ekki farið að rökkva talsvert?

Jú nokkuð, sagði hann.

Það er eins og ljósbrot mikillar líknar að fá að hafa drenginn hjá sér, ræður kannski úrslitum. Annars væri ég líklega löngu komin á elliheimilið. En hér kann ég bezt við mig og hér vil ég una.

Hún stóð upp.

Sérðu úrið þarna á kommóðunni?

Hann rétti henni úrið og hún strauk því eins og gæludýri.

Þetta er úrið hans Sigurðar, ég hef haldið uppá það eftir að hann fór. Álfur vill ekki bera það, svo við komum okkur saman um að láta það liggja þarna á kommóðunni.

Meðan hún strauk úrið breyttist röddin og varð mildari. Hún varð mjúk og lág eins og minningin og í fullu samræmi við hlýjar hugsanir hennar.

Hann virti hana betur fyrir sér, þessa nettu, gömlu konu með svo fagurlega fléttað hár að það var listaverki líkast. Hún gekk um í myrkri, samt var minningin björt eins og sól á jónsmessu.

Sigurði þótti afar vænt um þegar hann fékk bikarinn atarna frá Danska landbúnaðarfélaginu. Hann lifði aldrei í neinum skugga og það birtir ævinlega upp í huga mínum, þegar ég hugsa um hann. Hann gat ort ágætar vísur. Hann orti einu sinni skemmtilega vísu um steinana hér í hrauninu og sagði að einn góðan veðurdag mundu þeir taka til máls. Og það hafa þeir gert, stundum.

En hljóðlát orð þessarar gömlu konu voru nú samt mælskari en steinarnir í kringum bæinn, fannst honum.

Sigurður hlóð marga garða á þessari jörð, en þeir hrynja eins og allt og verða ekki hlaðnir aftur á hverju sem gengur.

Álfur kom inn og fór úr í forstofunni, en gekk kattmjúkum skrefum inní stofuna. Hann heilsaði.

Það er farið að rökkva hér, sagði hann, án þess hlusta á viðbrögðin.

Myrkrið nægir mér, sagði gamla konan, en gestir þurfa ljós.

Án þess heyra þessa athugasemd móður sinnar gekk Álfur að lömpum og kertum og kveikti á einu eftir annað þangað til engu var líkara en jólahátíð væri í nánd.

Þú ættir að fá þér kerti, góði minn, sagði gamla konan, en Álfur spurði gestinn hvort hann vildi ekki eitthvað að borða.

Hann stóð með logandi kerti í höndunum sem Álfur hafði rétt honum og hristi höfuðið, neitandi.

Ekki það, sagði hún. Ekki hefði nú Sigurði mínum líkað það allskostar. Hann var höfðingi heim að sækja, en nú er höfðingsskapurinn horfinn úr þessu koti. Það er eitthvað annað en þegar hann stóð á tröppunum við nýbyggt húsið og sagði við drukkinn aðkomumann sem sló um sig með því að fullyrða, að hann væri kominn frá guði, Jæja, góði, sagði Sigurður, þú ert þá alkominn. Og eins og ekkert væri og af venjulegri hógværð. Og brosti.

Hann gekk að Ingibjörgu gömlu og rétti henni höndina. Hún hikaði andartak.

Tíminn er líknsamur, sagði hún lágt. En þetta var mitt fólk og það er draugagangur í ættinni.

En allt gleymist, sagði hann og kvaddi.

Jú, sumt, sagði hún. En Sigurður lét það allt afskiptalaust, það var góðs viti. Þá þurfti engin kerti. Þá var nóg að gera og gleðjast yfir. En eitthvað staldraði hann við, þegar hann gerði sér grein fyrir heyrnarleysi Álfs, ójú, víst var nú það. Og nú er hann farinn að bardúsa í eldhúsinu, að venju, blessaður drengurinn. Og svo kemur hann með ljósið. Og engu líkara en hann gleymi því viðstöðulaust að ég er enn í myrkrinu.

Hann kvaddi þau á tröppunum og gekk niður í fjöru. Álfur stóð einn við dyrnar og horfði á eftir honum; svo gekk hann inn.

Það var myrkur í gluggunum en samt fannst honum fylgzt með sér. Andvarinn mjúkur og hlýr og strauk andlit hans eins og hendur gömlu konunnar höfðu strokið gamla munina. Hann heyrði æðarfuglinn úa í fjörunni og hugsaði um vorið; hugsaði um vorið sem lónaði við steinana; vorið í vængjum fuglanna.

 

Hann lauk frásögninni, leit yfir hana, breytti nokkrum setningum; eiginlega hugsunarlítið. Tók síðan upp blaðið með ljóðauppkastinu, breytti tveimur línum og sló þær inn:

 

með tindrandi stjörnur

í augum.

 

Enn ókarað, hugsaði hann. Aldrei skal neitt ganga upp.

Braut blöðin saman og stakk þeim í vasann, gekk út. Þar voru starrarnir enn í óðaönn að leika sér í pollinum; allsókvíðnir.

Hann andaði að sér, brosti. Heilsaði fuglunum og sagði, Gott er að lifa.

Og sólin glitraði í fjöðrum þeirra eins og dögg á grasi.

(Lokið 27.4. ‘99)

 

29. apríl, fimmtudagur

Talaði í morgun við Erlend Sveinsson og Sigurð Sverri. Þeir hafa óskað eftir því að gera um mig kvikmynd þar sem skáldið og blaðamaðurinn koma við sögu, tengt saman með því sem þeir kalla samtalslistina. Ég hef ekkert á móti því. Stefnt að því að hefjast handa með hausti.

Við töluðum nokkuð lengi saman og þeir höfðu áhuga á því þegar ég talaði um samtímann sem væri eins og gyltan í akarninu og hefur aldrei séð laufið á trjánum. Einnig frásögnina af því þegar ég skrifaði páskaleiðarann um Jónatan Máv, sællar minningar, en þá hlupu kirkjunnar menn margir upp til handa og fóta og dembdu sér yfir mig, bæði í Morgunblaðinu og Kirkjuritinu og ég held víðar. Það var mikið upphlaup eins og sr. Þórir Stephensen hefur fjallað um í bók sinni um Dómkirkjuna. Ég sagði þeim að ég hefði aldrei skilið þetta uppnám því að mér hefði ekki gengið annað til en benda á mávinn í hlutverki Krists; hann sveif yfir sorphaugunum og reyndi að hafa áhrif á aðra máva og hvetja þá til að nota vængina til að komast af haugunum upp í himinblámann. Af þeim sökum urðu félagslegu klerkarnir vitlausir; móðguðust held ég fyrir hönd Krists. Jónatan Mávur átti að vera á sorphaugunum með öðrum mávum eins og Kristur var á meðal smælingja, holdsveikra og blindra. En þeir gleymdu því að Kristur talaði ekki við blinda til að verða blindur eða holdsveika til að verða holdsveikur sjálfur. Hann talaði við þá til að lækna þá; til að láta blinda fá sjón og holdsveika verða hreina. Sem sagt, hann var meðal útskúfaðra til þess að þeir fengju vængina; eða eins og Jónatan Mávur sem vildi lyfta öðrum mávum af sorphaugunum svo þeir gætu notið himinsins og vængja sinna. Að lokum sagði ég þeim að sr. Sigurbjörn hefði á næstu prestastefnu áminnt klerkana um það að þeir gætu ekki endilega fylgt skáldunum og ættu því að gæta sín, ef ég skildi hann rétt. Erlendur sagði mér að sr. Sigurbjörn sem er að verða hálfníræður vildi ekki taka neinn þátt í störfum aldraðra; hann hefði ofnæmi fyrir þessu starfi aldraðra, hann vildi lifa eins og hann hefði ávallt gert. Þetta minnti mig á Þórberg. Hann hafði ógeð á ellinni. Elliheimilið var handan við götuna við Hringbrautina og hann sagði við mig að hann vonaðist til þess að hann hafnaði aldrei á þessum óhugnanlega stað. Ellin var honum viðbjóður, ekkert minna. Ég held ég hafi svipaða afstöðu til ellinnar og þessir miklu andans menn. Ég hef ofnæmi fyrir henni. Ég vil vera ungur og lifa sem slíkur.

Erlendur spurði hvort aldamótin hefðu einhverja sérstaka merkingu fyrir mér, kannski táknræna? Ég svaraði því neitandi, sagði að ég yrði sjötugur þremur dögum eftir aldamótin og það vekti með mér hroll eða - hvernig ætti annað að vera. Ungur vildi ég lifa eins og Keats og Shelley, vera mikið skáld og deyja ungur. Ég hafði haft sérstaka unun af að lesa bók Nordals Griegs, De döde unge. Það var bók að mínu skapi. Hún hefur ævinlega fylgt mér og ég er innblásinn anda hennar. Hvernig get ég þá fagnað aldamótunum, fagnað því að verða sjötugur og eiga að hætta að vinna eftir aldamótaárið, hætta að lifa. Móðir mín var engri konu lík, þetta geta víst allir sagt, en ég segi það af fullri sannfæringu. Hún var meira að segja svo framsýn að hún sá um það að ég yrði sjötugur eftir næstu áramót en ekki fyrir og get því unnið allt það ár samkvæmt reglum Morgunblaðsins! Ég held það sé að verða einhver mikilvægasta gjöf foreldra minna. En við sjáum hvernig fer með kvikmyndina, kannski verður hún aldrei gerð; hver veit.

Já, De döde unge, það minnir mig á aðra bók sem ég drakk í mig á fimmta áratugnum, það var Skálholt Kambans. Ég hef aldrei orðið eins bergnuminn af neinni bók og henni, nema þá e.t.v. Svartfugli Gunnars - á dönsku.

 

Við Styrmir töluðum svo við Halldór Guðmundsson, forstjóra Máls og menningar, í hádeginu. Það var ágætt samtal og mér líkar vel við hann. Hann sagði að atkvæðagreiðslan um “bók aldarinnar” hefði farið í vaskinn, eins og að henni hefði verið staðið. Hann hefði talað við Auði Laxness og henni hefði þótt heldur leiðinlegt kompaníið sem Halldór og Sjálfstætt fólk voru í. Það hefur líka verið gert sem minnst úr þessari atkvæðagreiðslu og ég held menn gangi með veggjum, þegar á hana er minnzt.

En hvað um það.

 

Kvöldið

Við Hanna fórum á tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar í kvöld. Fínn gítarleikur. Eftir hlé var flutt fyrsta sinfónía Atla Heimis, kraftmikið verk en féll augsýnilega ekki í kramið. Hef aldrei verið á tónleikum sem undirtektir hafa verið jafn dræmar á og í lok þessa flutnings. Það var eiginlega dálítið pínlegt. Minnti líklega eitthvað á viðtökur verka Jóns Leifs á sínum tíma. Mér finnst 3. þátturinn fallegur og í tengslum við 4. þáttinn skírskotar Atli Heimir í Sálma á atómöld. Mér féll það ágætlega. Sinfóníunni lýkur svo með prósa, ég held eftir Guðberg Bergsson, og minnti mig þannig dálítið á síðustu sinfóníu Beethovens sem notar mannsröddina í svipuðum tilgangi og Atli Heimir í þessum síðasta þætti. Í honum er mikill trumbusláttur, vel gerður og áhrifamikill að mínu viti. Enginn kann betur á trumbur eða trommur en Atli Heimir. Þessi þáttur minnir á Sturlu.  Annað á að minna á hið villta mannkyn sem rekur um hafið eins og skip í þoku og reynir að lifa af í trylltri veröld. Í þessum þætti heyrast nokkrir áhrifamiklir orgeltónar og kunni ég því vel. Stundum fannst mér ég heyra dálítinn jass, stundum nið af tíma og eilífð. En fólkið kunni augsýnilega ekki að meta þessi tilbrigði. Það var ótrúlega lítið klappað og menn reyndu að flýta sér út. Ég hef aldrei upplifað svona viðtökur fyrr.

Í hléinu orti ég þetta kvæði sem getur heitið Á tónleikum:

Klappið deyr út

eins og síðasta

andvarp

 

deyr inn í þögn

sem fylgir

síðasta tóninum.

 

Hléð notað

til að æfa lúna

strengi.

 

Hljómsveitarstjórinn gengur inn

með mörgæsavængi

og tónarnir fljúga

af einum streng

á annan.

 

Þögn

 

eins og brimhljóð

af hafi

sem heyrist ekki.

 

Við göngum út,

það er fuglasöngur

í trjánum

 

og tíminn niðar

í eyrum okkar

 

og tíminn niðar

af einni stjörnu

á aðra.

 

 

30. apríl, föstudagur

Ég er sammála því sem Ríkharður Ó. Pálsson segir í gagnrýni sinni um verk Atla Heimis í gærkvöldi, “að Bernharður Wilkinson og Sinfóníuhljómsveit Íslands hafi unnið sannkallað þrekvirki með eindreginni og eitilsnarpri túlkun á sérlega áhrifamiklu verki, sem án efa mun bera hróður hérlendrar tónsköpunar víða um lönd”. Þá er ég einnig sammála því að í 2. þætti og raunar víðar í þessu verki er ástæða til að leiða hugann að tónmáli Jóns Leifs. Ég þóttist einnig grilla í djass og undir orgelstefjum í lokin var ekki laust við að ég færi að hugsa um Messiaen, þótt ekki væri það nú alvarleg “ásókn”.

 

2. maí, sunnudagur

Sáum Leðurblökuna í gærkvöldi, staðfærða. Ágæt skemmtun. Hitti þar Guðrúnu Pétursdóttur sem er formaður Óperunnar, engu líkara en hún væri þarna til að kynna mig fyrir nýju og nýju fólki; m.a. nýjum forstjóra Óperunnar, Bjarna Daníelssyni, en hann er tengdasonur Gunnars G. Schram sem átti dóttur með Rannveigu Ágústsdóttur vinkonu minni frá því hún var ritari Þjóðhátíðarnefndar 1974, nú látin. Ágæt kona. Ég sagði við hann, Hún er ein af þessum vinstri konum sem alltaf var hægt að tala við í kalda stríðinu. Já, sagði hann, hún var svo skynsöm. Rétt hjá honum.

 

Hef annars verið að vinna mikið, auk nokkuð stífrar ritstjórnar; skrifað smásögu um gamla konu sem er með fortíðarskugga í blóðinu, og svo náttúrulega ýmislegt í kringum Jónas Hallgrímsson. Það held ég mér finnist einna skemmtilegast. Þá hef ég einnig verið að fara yfir Hýbýli vindanna eftir Böðvar Guðmundsson. Það er ágætlega skrifuð saga, ekki vantar það, en ákaflega hefðbundin og liggur einhvers staðar á milli Heiðarbýlis Jóns Trausta og Sjálfstæðs fólks. Mér skilst þetta sé einhvers konar heimildasaga, unnin úr gömlum bréfum vesturfara, en veit það þó ekki. Upphafið er bezt, en frásögnin síðar er meira í stíl við góða blaðamennsku en skáldskap. Það eru góðir sprettir í sögunni, en ég hef takmarkaðan áhuga á efninu sem virðist mjög vinsælt á Íslandi nú um stundir, hvað annað? Á meðan leggjast menn ekki alfarið í eintómt moð eins og verða vill. Böðvar Guðmundsson þýddi ljóðin í Leðurblökunni, en það skiptir víst litlu máli. Textinn kafnar í söngnum og músíkinni.

 

Gott veður og svalt. Hef farið einn göngutúr í vor með ströndinni. Þá gekk ég frá skógræktarstöðinni í Fossvogi og heim. Það var fallegt. Mér líður vel úti í náttúrunni. Talaði við þrjár eða fjórar lóur, þær tóku mér vel. Annað var ekki fugla á vegi mínum; engin sandlóa. Það vantaði sinfóníuna í umhverfið. Það er eins lágvært og upphafið að Dettifossi Jóns Leifs. Hún á eftir að koma í öllu sínu veldi eins og í þessu sama verki. Jón er engum líkur. Hann kemur manni alltaf jafn mikið á óvart, bæði í þögn og hávaða. Hann sagði í samtali okkar að tónlistin væri guð; sem sagt, hann er á guðs vegum öðrum mönnum fremur. Jónas hefði nú talið að við værum það öll. Hvað veit ég sem hef ekki við að upplifa sköpunarverkið í öllum sínum tilbrigðum; einnig Jón og Jónas og hvað þetta fólk allt heitir sem lifði eins og ormur í laufi, en brauzt út úr púpunni og hefur lifað með okkur eins og fiðrildið eilífa. Og tréð hristir af sér púpuna. Og heldur áfram að grænka.

 

Kvöldið

Ingó var á vakt á Landspítalanum og ég heimsótti hann um kvöldið. Fórum saman til Hauks Clausens. Ellý kona hans var hjá honum. Talaði drjúga stund við Hauk. Hann sagðist hafa verið meðvitundarlaus í þrjá mánuði eftir að hann fékk hjartaáfallið. Hann hafði aldrei kennt sér meins fram að því. Ég spurði hvort hann hefði upplifað nokkuð sérstakt í mókinu. Hann sagðist einungis muna eftir því að hann hefði lent í höndunum á einhverjum Kínverjum sem hefðu reynt að pína hann; eða Víetnömum. Og stundum sá ég þá heima í Arnarnesi og hugsaði um það væri nauðsynlegt að ég kæmi skilaboðum til Ellýjar og Ragnheiðar dóttur minnar að vara sig á þessum mönnum með skásettu augun, sagði Haukur brosandi. Ég varð órólegur í návist þeirra. Þeir reyndu að troða mér ofan í einhver ílát og pynta mig. Svo lögðu þeir undir sig heimili Arnar bróður míns og einnig heimili okkar Ellýjar og þá varð mér ekki um sel. Þetta var hræðileg martröð. Ég botnaði ekkert í öllum þessum asíumönnum þarna í kringum mig, sagði Haukur. Kannski þeir stjórni helvíti, sagði ég. Það skyldi þó ekki vera, sagði Haukur og við hlógum hjartanlega að þessum litlu gulu köllum sem voru að pína Hauk í þessari löngu martröð meðvitundarleysisins. En hvað skyldi þetta vera? Okkur er áreiðanlega aldrei ætlað að komast að því. En það var gott að losna við kínverjana, sagði Haukur og hló.

Ég minnti hann á að í síðustu Lesbók Morgunblaðsins er flott mynd af þeim bræðrum þar sem þeir eru eins og fljúgandi fuglar yfir grindunum á Melavelli. Hann hafði tekið eftir því. Ég sá að honum þótti vænt um að þessi mynd skyldi hafa verið birt. Hún er frá þeim árum þegar ÍR var íþróttafélag á heimsmælikvarða og Vesturbærinn í forystu fyrir íþróttum á Norðurlöndum og í Evrópu. Það var á þeim árum þegar ÍR-húsið var miðja heimsins; það var á þeim árum þegar reynt var að gera okkur að mönnum; þegar við vorum aldir upp í spartverskum hugsunarhætti og faðir minn stjórnaði ÍR eins og vináttusamlegur hershöfðingi.

 

Hitti Bent A. Koch, minn gamla vin,ritstjóra Fyns stiftidende, á laugardag. Hann kom í heimsókn til okkar Styrmis og drakk með okkur kaffi. Það var góð stund að venju. Spjölluðum um landsins gagn og nauðsynjar, kosningabaráttuna og útlit í þeim efnum. Bent hafði miklar áhyggjur af Nató og Kosóvó, rétt eins og ég. Atlantshafsbandalagið var ekki stofnað til að ráðast á ríki utan bandalagsins, heldur til að verja bandalagsríkin; og þá einkum fyrir árásum kommúnista. En hvað átti bandalagið að gera andspænis þjóðarhreinsunum Serba, svokölluðum, og mannúðarlausum aðgerðum þeirra gegn albönskum kosóvó-búum? Ég veit það ekki. En það er mikil hætta á því að loftárásirnar á Serbíu þjappi þjóðinni saman að baki einræðisherrans í Belgrað.

Um þetta töluðum við m.a. - og margt annað.

Ég sagði við Bent, Það er kaldhæðni örlaganna að formaður Framsóknarflokksins skuli hafa lent í þeim ósköpum að þurfa að réttlæta árásir Atlantshafsbandalagsins. Hann er Islands förste forsvarsminister, sagði ég. Nej, sagði Bent, han er Islands förste krigsminister!

 

4. maí, þriðjudagur

Við Styrmir töluðum lengi við Róbert Guðfinnsson, nýkjörinn stjórnarformann Sölumiðstöðvar Hraðfrystihúsanna. Það var mjög fróðlegt samtal. Hann er gamall sjómaður sem hefur unnið sig upp í fyrirtæki sínu, Þormóði ramma, norður á Siglufirði og er því harla veðurglöggur á umhverfi sitt. Hann hyggst minnka umsvif milliliðarins SH, skera fituna utan af því eins og hann komst að orði; ætlar að leggja höfuðáherzlu á framleiðendur og markaðinn……

 

 

Róbert segir að Albert Guðmundsson hafi fyrstur manna haft í hyggju að breyta ríkisfyrirtækinu Þormóði ramma á Siglufirði í einkafyrirtæki. Hann hafi stigið fyrsta sporið, en Ólafur Ragnar Grímsson lokasporið, þegar hann var fjármálaráðherra. Þá hafi margir gamlir bolsarar í Siglufirði staðið gegn því og þá ekki síður íhaldið sem stóð fyrir undirskriftarsöfnun á staðnum gegn einkavæðingunni.

Róbert segir að enginn pólitísk tengsl hafi verið milli hans og Ólafs Ragnars og stefna Ólafs hafi ekki átt rætur í neinni pólitík af þeim sökum eða öðrum, þvert á móti hafi hann viljað losa ríkið við starfsemina og tapið. Ég hafði ekki gert mér fulla grein fyrir þessu, en sé nú að Ólafur Ragnar hafði á sínum tíma rétt fyrir sér í þessum efnum; kannski eina skiptið! En þá gekk hann ekki erinda marxismans, heldur kapitalismans. Íhaldið kaus fremur ríkisforsjá eins og oft hefur viljað við brenna. Það var ekki að ástæðulausu að Lúðvík Jósepsson reyndi að kenna mér kapitalisma, þegar við vorum saman úti í Genf og sagði að Sjálfstæðismenn kynnu ekkert fyrir sér í þeim efnum og væru lélegir kapitalistar!

Svona er nú þetta blessaða mannlíf eintómar uppákomur og misskilningur!

Mér hugnaðist Róbert Guðfinnsson ágætlega. Hann er hreinskiptinn og veit, hvað hann er að tala um. Hann kemur vel fyrir og maður finnur að hann er ekki alinn upp í fílabeinsturni, heldur stýrishúsi. Faðir hans var verkamaður og sjálfur studdi hann Alþýðubandalagið eða Sósísalistaflokkinn þangað til  1984. Ólafur Ragnar kom ekki til sögunnar fyrr en uppúr 1990 og vissi þá vel að Róbert var ekki stuðningsmaður flokks hans. Afskipti Ólafs Ragnars eru honum þannig til sóma, en ekki til hnjóðs eða áfellis eins og margir hafa talið, þ. á m. ég.

 

Á hvaða leið skyldi þetta mannkyn annars vera? Ég heyrði frétt í gærkvöldi sem olli öllum viðbjóði sem ég hef talað við. Hún fjallaði um einhvern ítalskan vísindamann sem miklaðist af því að honum hefði tekizt að vekja dauðar sæðisfrumur úr ófrjóum körlum til lífsins með því að búa um þær í rottueista. Þvílíkur viðbjóður! Síðan tók hann þessar sæðisfrumur og frjóvgaði konur með þeim. Og nú hafa fjögur slík börn fæðzt. Í Njálu segir fjórðungi bregður til fósturs. Og einhver vísindamaður gat þess að enginn vissi hvaða áhrif umhverfi sæðisfrumunnar í rottueistanu hefði á þá einstaklinga sem væru kallaðir til lífsins á þessum forsendum. Ég sé ekki betur en þetta sé hinn mesti óhugnaður - og hver veit um afleiðingarnar? Er ekki nóg til að frjóum karlmönnum svo að ekki þurfi að viðhalda mannkyninu með þeim hætti sem hér um ræðir, maður skyldi þó ætla það! En maðurinn heldur áfram að fikta við tilveruna án þess hafa hugmynd um afleiðingarnar og flestum er alveg sama. Kannski jörðin eigi eftir að uppfyllast af einskonar rottumennum, hver veit?

Nei, mér finnst ástæða til að staldra við. Allir þessir vísindamenn keppast við að komast í fjölmiðlana, verða frægir í vísindaritum; dreifa nafni sínu sem víðast. Sumir gera miklar uppgötvanir án þess þeirra sé nokkurn tíma getið. Aðrir gera mikinn óskunda án þess neinn viti. Við erum að komast á yztu nöf sköpunarinnar og svífumst einskis. Allt þarf að betrumbæta - og einn góðan veðurdag verða örlög okkar hin sömu og risaeðlunnar fyrir 60 milljón árum. Þá springur tilraunastofan í loft upp og maðurinn hverfur af jörðinni og hún verður aftur auð og tóm og myrkur grúfir yfir djúpunum. Og nýtt dýr skríður á land úr hafdjúpunum.

 

Það er svo sem ekki furða þótt við kunnum ekki fótum okkar forráð eins og mergðin ærslast áfram; líkt og gný-hjörðin á graslendum Afríku. Öll dýrin í eina átt, hugsunarlaust, og svo birtist allt í einu ljón eða tígrisdýr og þá hvefur hjörðin í allar áttir, hugsunarlaust. Ekkert markmið annað en eðla sig og éta. Engin hugsun, engin ræktun, ekkert markmið. Eini tilgangurinn hugsunarlaus eðlishvöt og svo auðvitað ánægjuleg máltíð fyrir ljón og híenur, eða galtarbræður eins og Jónas kemst að orði í Um eðli og uppruna jarðarinnar þar sem hann talar líka um antilópur sem geithirti. Það er fallegt.Engu líkara en maðurinn sé að ganga af ráðinu eins og komist er að orði í ævintýninu um Eggert glóa eða ætti ég ekki að segja maðurinn, heldur mergðin, það er hún sem gengur af vitinu öllum stundum; einnig nú. Hún hefur ekki ræktað ráð sitt, eða hvenær hefur hún gert það? Ekki á dögum fjölnismanna, ekki nú á dögum; aldrei, að ég held.

Þeir sem hafa ævinlega haldið uppi allri menningu, allri ræktun eru örfáir og það eru ekki samtök eða hreyfingar, heldur einstaklingar. Menn geta sjaldnast séð út úr samtíma sínum, mergðin aldrei.

Nú hefur nýlega farið fram atkvæðagreiðsla í Bretlandi um mesta tónskáld allra tíma - og hver er það? Jú, Paul McCartney! En svarið er auðvitað rangt vegna þess að spurningin er röng. Ef spurt hefði verið um vinsælasta tónskáld allra tíma, hefði svarið verið rétt. En af því að spurningin er röng verður svarið rangt. Og kannski er það mergðinni til afsökunnar að spurningin er röng. En það var alþýðu manna ekki til afsökunar, þegar fólk á dögum fjölnismanna tók “allt nærri því með sömu þökkum” og keypti viðstöðulaust “rímnabagl vesælla leirskálda”, eins og fjölnismenn býsnast yfir í greininni Úr bréfi af Austfjörðum sem birtist í 2. árgangi Fjölnis, 1836.

Mergðin hefur ekkert breytzt. Maðurinn er ávallt hinn sami. Og samtíminn er eins á öllum öldum. Það eina sem breytist eru umbúðirnar; vísindi lina þjáningar okkar, að vísu, en þau bæta okkur ekki. Sjónvarpsveröld mannsins verri en sú veröld sem við ólumst upp í; hún hefur glæpi að gamanmálum og skítlegt eðli mannsins að afþreyingu. Þetta eðli kallar sjaldnast á ræktun, miklu frekar á frelsi frumskógarins þar sem allt snýst um eðlisblint viðhald og ást á næstu máltíð.

 

8. maí, laugardagur

Kosningar. Athyglisvert að Sverrir Hermannsson skyldi koma tveimur mönnum að eftir allt sem á undan er gengið. Hann mun telja það uppreisn æru - og er það vel. Það er einnig mátulegt á þingið að nú skuli vera þangað komnir tveir menn sem eiga það erindi fyrst og síðast  að minna á óréttlætið og vitleysuna í kvótabraskinu.

 

Kvöldið

Sáum Bjart í Sumarhúsum í Þjóðleikhúsinu. Vandræðagangur í uppfærslu. Allar persónurnar, nema Rósa, skítleg fyrirbrigði úr gleymdri fortíð; einskonar röntgenmyndir. Sá allt í einu að persónurnar eru ekki styrkur verksins, heldur það sem á skorti á sýningunni, náttúrulýsingarnar og skírskotanir Bjarts í umhverfið. Það eru hinir glitrandi eiginleikar sögunnar. Bjartur: skringilegt sambland af heimsku og hofmóði. Nánast illmenni.

Rósa: kúgaður vesalingur og  guðsvolaður kvenkindaraumingi.

Hreppstjórahjónin: ólíkindatól og uppskafningar, sýndarmennskan uppmáluð.

Sr. Guðmundur: laundrjúgur væskill, útlitið minnti á Ibsen!

Ekkert af þessu fólki hefði maður viljað þekkja.

Bjartur vel leikinn.miðað við aðstæður. Sigrún Davíðsdóttir sem ég hitti í hléinu sagði við mig: Bjartur er hálfviti! Auk þess níðingur. En ég hef samúð með konunni.

Nakið birtist Sjálfstætt fólk þarna á sviðinu, án skáldlegra tilþrifa; án sinna ljóðrænu náttúrulýsinga. Allt horfið sem gerir verkið að epósi; sagnaljóði. Og þá blasir ekkert við annað en óhrjálegir innviðir; beinagrindur. Og þær heldur ófagrar.

Ingólfur, sonur minn, sagði: Ég ætlaði að fara að lesa bókina, en er hættur við það. Þetta er hundleiðinlegt og fjallar um fortíð sem ég hef engan áhuga á. En þetta er bara óhrjáleg beinagrind, sagði ég til varnar,  á e.k. læknamáli. En hann lét sér ekki segjast.

Allar þessar leikgerðir úr skáldsögum eru meira og minna misvísandi afhroð. Það er slæmt þegar góðar skáldsögur lenda í slíkum hremmingum. En það er bara alltaf að gerast! Ástæðan? Alvöruleikrit ganga ekkert, það er a.m.k. undantekning. Samtíminn vill ekkert almennilegt!

 

- - -

Nú er von á 2. útg. af Bókinni um Ásmund:

Listamaður horfir ekki gegnum skráargat

Við lærum forskrift, en svo skrifar hver og einn sína hönd.

Picasso var klassiker. Hvað væri sagt um íslenzkan rithöfund sem hefði aldrei lesið fornsögurnar.

Kúbisminn þvoði okkur um augun.

 

11. maí, þriðjudagur

Sú var tíðin að ýmsir býsnuðust yfir því að við skyldum láta Sverri Hermannssyni í té rúm í Morgunblaðinu til að skrifa sínar stóryrtu greinar, þ. á m. sumir eigendur blaðsins sem gerðu athugasemd við það aldrei þessu vant en beittu sér ekki að öðru leyti frekar en endranær og ég man ekki betur en einhverjir töluðu um það, meðal annarra Davíð Oddsson, að þriðji ritstjórinn væri kominn að blaðinu. Sverrir og Margrét dóttir hans sögðu við mig á sínum tíma að Morgunblaðið hefði bjargað lífi hans. Ég sagði honum frá gagnrýni hluthafanna, enda ekkert trúnaðarmál. Það var samt ekki til þess ætlazt að hann hlypi með það á torg út eins og hann gerir nú í kosningablaði okkar, sem er bæði fróðlegt og að ég hygg mjög lesvænt, eins og nú mundi tekið til orða. Sem svar við spurningum segir Sverrir að Morgunblaðið hafi brugðizt. Það er auðvitað rangt, enda var Sverrir áreiðanlega annað hvort fullur eða timbraður í þessu samtali, það hefur hann verið þegar þessi gállinn er á honum, en það er langt síðan. Ég hef ekki talað við hann og læt það bíða betri tíðar. En yfirlýsing Sverris ætti að duga öllum til að sannfærast um að það er enginn þriðji ritstjóri við Morgunblaðið og Sverrir Hermannsson hefur þar ekkert að segja, hvorki um stefnu né markmið. Þótt hann í öngum sínum hafi rokið til og stofnað flokk í því skyni að berjast mót kvótabraski, þá er hann sjálfur í glerhúsi í þeim efnum; það heyrðist ekki músartíst í honum gegn kerfinu, meðan hann sat á valdastóli, ef svo mætti segja, en þá vorum við morgunblaðsmenn í óða önn að gagnrýna kvótabraskið og lágum undir sífelldri gagnrýni margra, ekki sízt forystumanna LÍÚ og Sjálfstæðisflokks, af þeim sökum. Þá undi Sverrir glaður við sitt. Nú þykist hann geta kastað að okkur hnútum, en það er í senn  heldur dapurt og grátbroslegt. Ég var búinn að skrifa árum saman gegn braskinu, þegar heyrðist í Sverri á opinberum vettvangi, en auðvitað hafði hvorki ég né Morgunblaðið neinna hagsmuna að gæta. En Sverrir þurfti á málefni að halda, þegar hann stofnaði flokkinn og þá breyttist hann í dálítinn bangsa eins og börn fá. En þeir eru þeirrar náttúru að ef einhver ýtir á magann á þeim þá tísta þeir, og stundum eins og allt hvað af tekur!

Okkur Sverri hefur ævinlega verið vel til vina og vona ég að það breytist ekki. Mér þótti því heldur dapurlegt að heyra ýmsa, einkum konur, býsnast yfir því í gær, að hann skyldi komazt á þing, segjandi fullum hálsi það undirstriki þá spillingu og það ótrúlega siðleysi sem við gengst í þjóðfélaginu

Sá hluti greinar Sverris sem fjallar um Morgunblaðið í kosningablaði okkar í dag er svohljóðandi:

“Gagnrýnir skrif Morgunblaðsins

“ÞAÐ er merkilegt að við unnum þennan málfrelsissigur, þrátt fyrir að allir fjölmiðlar reyndu eins og þeir gátu að drepa á dreif aðalmáli kosninganna,” segir Sverrir Hermannsson, formaður Frjálslynda flokksins.

“Þar fer Morgunblaðið fremst í fylkingu við að drepa á dreif fiskveiðistjórnarmálunum. Það lét sem það tryði fagurgala og friðþægingartali Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að þeir myndu sættast þar. Þrátt fyrir þennan sterka miðil Morgunblaðið þá lifði Frjálslyndi flokkurinn það af,” sagði Sverrir.

“Á síðasta degi, á laugardegi, sagði Morgunblaðið frá fundi í sjónvarpssal um fiskveiðistjórnarmál og það var að þeim fréttastíl að finna að Sverrir Hermannsson hefði ekki verið mættur, hvað þá meira. Leiðarinn var fals og ósannindi um það að stjórnmálaflokkar væru komnir að því að sættast í málinu. Þetta skagar upp úr í mínum huga, ótrúleg þjónusta Morgunblaðsins við kvótaflokkana og kvótaveldið og það getur ekkert þýtt annað en að hluthafar Árvakurs hafi verið að þjóna undir þann hóp,” sagði Sverrir.