Árið 1972

 

1. janúar 1972

Nú um áramótin voru greinar eftir alla flokksforingja í fyrsta sinn í Morgunblaðinu.

Tómas Guðmundsson sagði við okkur að það væri hræðilegt að horfa upp á stúdenta berjast fyrir skoðunum "sem þeir hafa ekki!"

Búlgarskir rithöfundar segja:

Ef gagnrýnandi skrifar lofsamlega um rithöfund eignast hann einn vin, en allir aðrir verða andstæðingar hans.

Ef hann skrifar illa um höfundinn, eignast hann einn óvin en marga aðdáendur.

Því kýs hann oftast frekar síðari kostinn.

Hannes Pétursson sagði mér um daginn, þegar við borðuðum saman í Naustinu, að hann hefði alla tíð haft sterka trúartilhneigingu.

Þannig hefði hann verið efstur í spurningum undir fermingu hjá séra Helga Konráðssyni.

"Þetta hefur alltaf fylgt mér mjög sterklega", sagði Hannes.

Svo fórum við upp í Háskóla að hlusta á Hagalín.

Hann fjallaði m.a. um okkur.

Við vorum kenndir, gripum frammí og skandalísereðum.

Við slógumst við lögreglu inní bókasafni Háskólans, ég lenti í járnum.

Stúdentar urðu þrumulostnir en sögðu að Mogga-ritstjórinn væri þó manneskja!

Okkur var sleppt á lögreglustöðinni.

Fórum þá heim til vina okkar, Elísabetar og Kristjáns Karlssonar.

Ný vikutíðindi vilja að ég verði settur af sem formaður Þjóðhátíðarnefndar!

Var sögð sú saga að hagyrðingurinn góði , Þura í Garði, hefði sagt, þegar hún fluttist til Akureyrar og bjó skammt frá menntaskólahúsinu

"Nú bý ég í næsta nágrenni við þær dyr sem mig hefur mest af öllu langað til að ganga um".

Rn karl fyrir norðan sagði að strákurinn sinn nennti ekkert að gera “svo það væri bezt að senda hann í skóla! “

 

 

5. janúar 1972

Jóhann Hafstein og Geir Hallgrímsson komu á fund okkar ritstjóra Morgunblaðsins vegna áramótagreinanna sem þeir eru sárir yfir, jafnvel reiðir einsog margir aðrir sjálfstæðismenn.

Að vísu er þetta nýjung, að leyfa forystumönnum annarra flokka að skrifa áramótagreinar, en einkennilegt finnst mér þó hvað menn geta tekið opna blaðamennsku nærri sér.

Ég vissi alltaf þessi opnun mundi taka langan, langan tíma. Við höfum orðið að fara með löndum. Nú erum við að komast á leiðarenda.

Það er ekkert skrýtið þótt við höfum haft veruleg óþægindi af þessu en þá er að hafa breitt bak og góða samvizku.

Ég þykist hafa hvort tveggja.

Og nú blasa breytingarnar við.

Samstaða okkar ritstjóranna hefur kannski ráðið úrslitum um þessa heillavænlegu þróun, svo og afstaða stjórnar Árvakurs,en það er einnig eitthvað í tímanum sem stuðlar að henni.

Geir sagði það sama og áður:

Að við hefðum átt að segja forystumönnum Sjálfstæðisflokksins af þessari breytingu áður en hún varð, þvílík þáttaskil sem hún er og svo mikil hefð sem hefur verið fyrir því, að formaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði einn áramótagrein í Morgunblaðið.

Þeir hefðu þá sagt sína skoðun og við þá getað metið stöðuna áður en við hefðum tekið ákvörðun.

Engir gætu þó borið ábyrgð á ákvörðuninni nema við einir, það væri rétt.

Geir fannst að Morgunblaðið hefði átt að snúa sér til formanna annarra flokka og spyrja þá hvað þeim væri efst í huga um áramótin, sem sagt: að geta ritstýrt greinunum.

Helzt í samtalsformi, þá hefðum við getað leitt efni greinanna, enda ekki fisjað saman í samtölum !

Geir var sérlega sár yfir því hvernig Ragnar Arnalds notaði tækifærið til að ráðast á stjórn borgarinnar.

Jóhann var sama sinnis um þetta allt.

Geir sagði að annaðhvort töluðum við saman eða ekki - og þá væri talað um það sem skipti máli, en ekki aðeins um einskis verða hluti.

Jóhann var sama sinnis. Auk þess bætti Jóhann því við að þarna væri einnig persónuleg hlið á málinu.

Hann hefði e.t.v. skrifað sína áramótagrein öðruvísi en hann gerði, ef hann hefði vitað um hina.

Ég sagði að hans grein væri bezt af því hún væri ekki flokkspólitísk og þröng eins og hinar greinarnar.

Ég sagði eitthvað fleira “skáldlegt” um þetta - og hann brosti og spurði hvort ég hefði verið búinn að æfa þetta áður!

Andrúmsloftið var gott fyrst framan af en síðan hljóp nokkur hiti í umræðurnar.

En allt fór þetta vel.

Geir sagði m.a. að sér fyndist fráleitt að formaður Sjálfstæðisflokksins væri sá eini sem vissi ekki af öðrum.

Ég viðurkenndi það en Styrmir og Eyjólfur þögðu við því.

Ennfremur viðurkenndi ég að nokkuð væri til í þeirri fullyrðingu Geirs að við sveifluðumst um of til og frá, t.a.m. hefðum við hálfpartinn krafizt þess í Reykjavíkurbréfi að Einar Ágústsson færi frá, en svo hrósað honum upp í hásterkt.

Eykon neitaði þessu.

Ég benti á að ekki væri það okkur að kenna þótt forsendurnar væru rangar eins og þegar við hrósuðum Einari fyrir ræðu á NATO-fundinum í Brüssel sem hann hélt þó ekki!

Gamla ræðu!

Við réðum ekki við misskilning.

Loks sagði Geir að við værum of ákafir í að höggva pólitíska andstæðinga þegar þeir gæfu færi á sér, en sveifluðumst svo alveg yfir á hina hliðina, hrósuðum þeim og gældum við þá!

Þetta væri gagnrýnt.

Ég samþykkti þetta enda hafði ég áður í samtölum á pólitískum fundi okkar ritstjóranna bent á að við værum stundum of ákafir að fella vinstristjórnina, það hefði óhjákvæmilega bitnað á blaðamennskunni.

Slíkt hefndi sín.

Jóhann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri Morgunblaðinu reiður vegna áramótagreinanna.

Þar vissu menn ekki hvaðan á þá stæði veðrið.

Við ristjórarnir vorum sammála, ákveðnir og einbeitnir í þeirri afstöðu okkar að blaðið væri frjálst og þyrfti ekki að bera eitt né neitt undir aðra - og þá ekki heldur forystumenn Sjálfstæðisflokksins, enda væri það nú sjaldnast gert og af það sem áður var.

Ég held hver hafi þó haldið sínu.

Jóhann og Geir voru einnig ákveðnir og einbeitnir í málfltuningi sínum. Verst þótti mér þegar Jóhann sagði að við hefðum átt að bera undir hann svo mikilvæga pólitíska nýjung sem áramótagreinar eftir leiðtoga annarra stjórnmálaflokka en Sjálfstæðisflokksins, því að þarna væri um að ræða algera stefnubreytingu í pólitískum skrifum blaðsins.

Við spurðum hvað hann segði ef við sýndum honum slíka hluti, en birtum þá svo í trássi við hann.

Hann sagðist þá mundu hafa orðið ennþá reiðari!

Við sögðumst ekki geta borið stjórnmálaskrif blaðsins undir forystumenn Sjálfstæðisflokksins, en hann svaraði því til að við hlytum að geta komizt að niðurstöðu og orðið sammála í svo veigamiklum atriðum.

Þið eruð varla svo miklir bokkar, sagði Jóhann, að þið getið ekki hlustað á mig og okkur hina.

Hann hefði oft þurft að hlusta á okkur og aðra og tæki það ekki nærri sér.

Við hefðum ekki sömu skoðanir og hann á virkjunum í Laxá í Aðaldal, samt hlustaði hann vel og vandlega á okkur.

Ég man eftir því að hann lét mig komast upp með það að segja í viðurvist Hermóðs bónda í Árnesi Guðmundssonar, forystumanns bænda þar nyðra,að ritstjórn Morgunblaðsins hefði ekki flutzt til Jóhanns upp í iðnaðarráðuneyti.

Jóhann tók þá þessari frekju minni vel og ég var stoltur af því hvað viðbrögð hans voru manneskjuleg og nærgætin.

Eftir það trúði Hermóður því eins og nýju neti að við værum sjálfstætt blað og enginn stjórnaði okkur, hvorki úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins né aðrir, enda mátti hann vel upplifa þetta, svo rétt sem það er.

Hermóður var svo glaður yfir þessu að hann bauð mér norður að veiða í Laxá í Þing.

Og við urðum miklir mátar eftir þessi kynni.

Ég held hann hafi verið Sjálfstæðisflokknum frekar hlynntur þegar hann sá að þar var ekki ein skoðun, heldur fleiri í viðkvæmum málum eins og Laxár-deilunni sællar minningar!

Annars var Jóhann hlýr og viðræðugóður einsog ávallt. Það var Geir einnig að sjálfsögðu, en ég held samt það hafi verið þyngra í honum.

Það kemur mér nokkuð á óvart.

Kannski er það svo sem ekkert skrýtið því að Geir hefur löngum verið tengdari Morgunblaðinu

 

 

9. janúar 1972

Halldór Laxness hringdi til mín í dag og lék á als oddi. Sagðist hafa farið yfir síðasta handritið að samtalsbók okkar í dag og gær og þetta "væri alveg ágæt bók".

Við þyrftum að reisa okkur bautastein fyrir framtíðina!!

Ég sagði, Þú ert búinn að reisa þér þinn, ég á minn eftir.

Þá hló hann.

Hann sagðist ætla að lagfæra orðalag á nokkrum stöðum, því að maður hugsar öðruvísi og betur á prenti en í samtölum, sagði hann.

En þetta er að verða alveg ágætt, bætti hann við.

Bókin verður að vera klassískt verk, sagði hann enn.

Hann talaði um að hún væri mátulega stór.

Ég var sammála því.

Ég bað hann fyrir alla muni um að lagfæra það sem þyrfti. Ég hef skrifað suma kaflana þrisvar, aðra fimm sinnum. Sumir hafa birzt á prenti,aðrir ekki.

Laxness var sammála mér í því að textinn þyrfti að nálgast gott talmál eins mikið og unnt væri, eða "fljótandi talmál" eins og hann komst víst að orði.

Hann sagði að slíkt talmál gæti verið bókmenntalegra en sumt bókmál - og er ég honum sammála um það.

Þetta sér maður á góðum replikum í leikritum.

Jæja, en sem sagt: Laxness lék á als oddi.

Hann hefur geysilegan áhuga á bókinni .

Undirstaða hennar hefur verið lögð á mörgum árum en nú þarf að pússa húsið að utan og innan og leggja síðustu hönd á það.

 

 

22. janúar 1972

Skrapp til Páls Ísólfssonar í dag.

Hann sagði að parkinsons- veikin væri vondur sjúkdómur. Í L-doba-töflunum sem væru eitt af kraftaverkunum í læknisfræði væri eins konar næring fyrir heilastöðvar sem skemmzt hefðu af gömlum og hálfdauðum veirum, eða "sofandi" veirum.

Páll fær stundum vond uppköst af lyfinu og vanlíðan fylgir því en samt telur hann það himnasendingu eins og sjúkdómurinn var farinn að leika hann. Hendurnar hríðskulfu og hann stjórnaði ekki almennilega líkamanum.

Veiztu hvað stykkið af töflunum kostar? spurði hann.

Ég gizkaði á eina krónu.

Nei, sagði hann hróðugur, 90 krónur og ríkið borgar. Ég tek átta töflur á dag og stundum meira. Ég tek töflur fyrir kvartmilljón á ári - ég er einn dýrasti borgari landsins!

Svo glotti hann.

Verst væri þó að hann gæti illa unnið. Allt væri bærilegt nema að geta ekki unnið. Allt væri hégómi nema vinnan eins og prédikarinn sagði, Salómon konungur Davíðsson, "- eini kóngurinn sem mér finnst bera það nafn með réttu".

Held Salómon standi hjarta Páls næst.

Í Biblíu-ljóðunum eru fallegar myndir, sagði Páll, en ég get ekki notað nema eina og eina hendingu. Það er alltof viðamikið að semja lög við öll Ljóðaljóðin. Ég er búinn með sex lög og þau eru mér mikils virði. Þau eru dálítið sérstök.

Páll hlakkar til að heyra þessi nýju lög sungin. En á því verður víst bið, því að Þuríður, dóttir hans , liggur í sjúkrahúsi.

Áhuginn er sem sagt sami og áður, minnið óskert og hugsunin frábær.

Töluðum saman um margt sem ég ætla að nota í M-samtal í Morgunblaðið. Þótti merkilegt það sem Páll sagði um skilningarvitin fimm,

Við erum bundin því sem þau geta sagt okkur. Þess vegna segir Níetzsche: Bleib der Erde treu(!) - sem merkir, Verið trú jörðinni, það er allt og sumt.

Að rækta garðinn sinn(!)

 

 

2. febrúar 1972

Páll sat við píanóið þegar ég heimsótti hann í dag og spilaði.

Hann hrökk við þegar ég kom inn í stofuna.

Ég hef verið að sjá fólk hér inni hjá mér, sagði hann, og mér datt strax í hug, þegar ég varð var við þig, að nú væri enn einn kominn í heimsókn(!)

Svo sagði hann mér að hann hefði verið að semja lag við ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk sem Karlakórinn Geysir ætti að syngja.

Ég ætla að sprengja C-ið á Akureyri, bætti hann við og kímdi.

 


Skilaði annarri próförk af Skeggræðum gegnum tíðina í gær.

Líklega verður þetta nokkuð snotur bók enda mikið verk á bak við hana . Fyrst er sumt skrifað þrisvar, fjórum sinnum og loks birt í Morgunblaðinu (Barn náttúrunnar, Gerpla, Logaritmi og Innansveitarkronika) en nú endurskoðað og dálítið breytt.

Þá eru einnig hafðir til hliðsjónar kjarnarnir úr samtölum okkar í útvarpi og sjónvarpi, en auðvitað breytt, endurskoðað og margskrifað.

Samtöl af segulbandi eru versta hráefni fyrir sæmilegan talmálstexta á bók.

Nú, ég vona að styrkur Skeggræðanna sé meðal annars sá að bókin sé vel saman sett, þ.e. kompóneruð, og svo auðvitað það, hvernig Laxness kemur til dyranna, ef svo mætti segja.

Bjarni Guðmundsson,blaðafulltrúi, sagði okkur um daginn niðri á Hótel Borg að Tómas hefði eitt sinn fyrir mörgum áratugum verið spurður að því, hvers vegna hann væri að yrkja.

Tómas svaraði, Það er til þess að ég hafi eitthvað gott að lesa þegar ég verð gamall.

Vonandi að hann njóti þess nú(!)

Ljóðabókin mín í bígerð. Hagalín er stórhrifinn af henni. Tómas segir að hún verði góð.

Halldór Laxness sagði okkur Svavari Guðnasyni,listmálara, frá viðskiptum þeirra Kjarvals þegar veizla var haldin til heiðurs H.C.Hansen,forsætisráðherra Dana, í danska sendiráðinu í Reykjavík.

Kjarval kom og truflaði boðið, hélt ræðu á dönsku og íslenzku, nokkuð langa.

Þetta var til leiðinda.

Ég gekk þá til hans, sagði Laxness, og spurði ákveðið, Hvenær vaka hvalirnir?

Hann reigði sig og fór út í fússi.

Eftir um það bil hálftíma kom hann inn aftur, gekk til mín og sagði við mig í hálfum hljóðum, Ætli þeir hafi ekki vaktaskipti!

Þegar Tómas Guðmundsson mátaði Eggert Gilfer, þáverandi skákmeistara Íslands, sagði Eggert: "Það er eins og ég hef alltaf sagt, það er ekki nokkur leið að tefla við menn sem kunna varla mannganginn!

Morten Ottesen,skólastjóri Miðbæjarbarnaskólans, trúði ekki á annað líf og sagði Tómasi það oftar en einu sinni.

Þegar hann var látinn kom hann til Tómasar í draumi, glotti og sagði, Ég var búinn að segja þér þetta, Tommi minn, það er ekkert líf eftir dauðann.

Og hvarf svo.