1999

annar hluti

Miðvikudagur 12. maí

Fórum á leikritið uppúr Sjálfstæðu fólki í kvöld. Það heitir víst Ásta Sóllilja. Miklu betra en fyrri hlutinn og raunar ágætt sviðsverk. Mjög nálægt sögunni og kemur henni ágætlega til skila. Það glitrar einnig á ljóðræna þætti sem eru sannfærandi Laxness. Við Hanna og Ingó höfðum öll gaman af þessari sýningu en kviðum fyrir henni vegna þess að við höfðum upplifað vandræðaganginn í fyrri hlutanum. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað ræður úrslitum um þann greinarmun sem er á þessum tveimur verkum, en það er eitthvað í uppsetningunni, fremur en leiknum; eitthvað í andrúminu. Kannski er sagan bara svona miklu viðfelldnari þegar á líður en framan af, þegar ólíkindalæti Bjarts, vitleysisgangurinn í sr. Guðmundi og snautlegheit hreppstjórahjónanna á Útirauðsmýri keyrði um þverbak; ég veit það svo sem ekki, en hitt er augljóst að síðari hluti Sjálfstæðs fólks er ljóðrænni en sá fyrri.

Það er augljóst við nánari athugun að sagan gerist austur á landi, einhvers staðar á næstu grösum við Jökulsá og hreindýrin. Það er einnig jafn augljóst við nánari kynni að Halldór Laxness sem segir undir lok sögunnar  að hún fjalli um manninn “sem sáði í akur óvinar síns allt sitt líf, dag og nótt”, sáir í eigin akur, ræktar hann og endurræktar, þannig að víxláhrifin eru augljós milli skáldsagna hans, rétt eins og víxláhrifin í Íslendinga sögum einkenna þær öðru fremur. Þannig segir í Sjálfstæðu fólki að það hafi einu sinni verið maður “sem villtist í þoku á langri bæjarleið, þangað til honum sýndust lækirnir renna uppí móti”. Þá kom bláklædd huldukona útúr þokunni og vísaði honum veginn unz lækirnir runnu aftur niður í móti. Svona villa kemur fyrir í Kórvillu á Vestfjörðum og eitthvað í þessum dúr einnig í Innansveitarkroniku, í kaflanum Af brauðinu dýra. Þá er það og algengt í skáldsögum Halldórs að karlar eru að gefa stúlkukindum peninga; það gerist í Paradísarheimt og er hvað alvarlegast þar, Jón hreppsstjóri gefur Ástu Sóllilju tvær krónur því ungar stúkur hafa gaman af því “að eiga peninga fyrir snýtuklút” og Einar kaupmaður Túlinius gefur henni skínandi tíeyring “svo hún gæti keypt sér fallegan vasaklút, því það er einkenni allra mikilmenna hvað þeir hafa mikla tilhneigingu til að gefa fólki vasaklút”.

Einkennilegt!

Þá er það ekki sízt sérkennilegt, hvernig farandkennararnir fleka stúlkubörn, bæði í Heimsljósi og Sjálfstæðu fólki. Kaflarnir um farandkennarana í báðum þessum skáldsögum eru svo keimlíkir að engu er líkara en þeir séu tilbrigði við einhvern sérstakan atburð sem reynt er að lýsa. Og afstaða stúlkubarnanna er nákvæmlega hin sama. Námsmærin Jasína Gottfreðlína segir að Ólafur Kárason hafi ekkert gert sér, þegar hann er búinn að færa sér í nyt aðstöðu sína, fleka hana og afmeyja. Hann áminnir hana um að þegja yfir þessu, rétt eins og ræfillinn í Sjálfstæðu fólki sem flekar Ástu Sóllilju með svipuðum hætti, þegar Bjartur er í burtu að vinna fyrir búinu sínu. “Þegar maður á lífsblóm byggir maður hús”. Ólafur Kárason segir við Jasínu, Mundu að það hefur ekkert gerst. Stúlkan sagði, “Og það var ekki neitt”. Að verknaði loknum segir Ásta Sóllilja við þennan sveitarlim sem virðist notaður til einhverrar kennslu, Þú hefur ekki gert neitt. Sem sagt, hvorugur hafði gert neitt.

En bæði stúlkubörnin eru eins og kjánar sem opna sig mótstöðulaust fyrir nýjum spennandi ævintýrum. Þær falla ekki sízt fyrir þeim skáldlegu freistingum sem fylgja orðum þeirra; falla af því þær vilja reyna eitthvað nýtt, eitthvað annað. En báðum er þeim um megn að greiða þá skuld sem því fylgir. En - “þú máttir gera það”, segir Ásta Sóllilja “ef það var rangt þá var það mér að kenna. En það var alls ekki rangt og þú meiddir mig ekki neitt og þú mátt gera það aftur hvenær sem þú vilt, pabbi skal aldrei fá að vita það”.

Annað tilbrigði við sömu upplifun, sömu reynslu. En þegar bróðir hennar spyr, Hefurðu misst eitthvað?, svarar hún, Já, segir hún. Hvað? spyr drengurinn. Ekki neitt, segir hún.

Og allt var þetta vegna þess hvernig hún var sköpuð.

 

14. maí föstudagur

Kínverski sendiherrann, Wang Ronghua, hefur þýtt eftir mig kvæði úr Borgin hló, The Rush of the Wind, en það birtist í Three Modern Icelandic Poets, í þýðingu Marshals Brements. Það eru þannig tveir sendiherrar sem hafa komið þessu kvæði, sem heitir Þytur í vindi, til útlanda. Ronghua skýrði fyrir mér þýðinguna og hafði ég gaman af. Kvæðið er flott með kínverska letrinu. Hann sagðist ætla að þýða fleiri kvæði eftir mig, en gæti ekki gert það, meðan hann dveldist á Íslandi, því að hann vantaði kínverska prentsmiðju.

Ronghua er geðþekkur maður og ég hef gaman af að tala við hann. Enn er hann að þakka mér fyrir Mao-þýðingarnar. Við töluðum um Mao og skáldskap hans, en hann er heldur hefðbundinn á kínverska vísu. Þýðing kínverska sendiherrans er aftur á móti í nútímastíl, sagði hann. Ég benti honum á að við sem hefðum átt þátt í svokallaðri formbyltingu íslenzkrar ljóðalistar hefðum orðið að taka af skarið, en ég hefði aldrei litið svo á að ástæða væri til að ganga af hefðbundnu ljóðformi dauðu. Ég hefði því ævinlega reynt að rækta arfleifðina og endurnýja hana með einhverjum hætti. Hún væri líklega dýrmætasti fjársjóður okkar. Byltingar væru ekki til að eyðleggja, heldur þróa og byggja upp. Hann vitnaði þá í kínversk ljóð þar em segir að grasið grói eftir eldinn, en áður hafði hann minnt á aðra ljóðlínu sem er einhvern veginn á þann veg að vindurinn þekkir sterkt grasið, eða stráin. En þannig var kínverska byltingin. Hún fór eins og eyðandi eldur um akurinn, en Maó gætti sín á því að eyðileggja ekki arfleiðina, heldur rækta hana. Og það gerði hann í eigin ljóðum.

Síðan snerum við talinu að stríði Nató við stjórnvöld í Belgrað, en þó einkum þeim mistökum að flugskeyti frá herflugvélum Atlantshafsbandalagsins lentu á kínverska sendiráðinu þar í borg. Hann sagði að enginn Kínverji tryði því að um mistök hafi verið að ræða. Ef þeir hafi notazt við gamalt kort af borginni, af hverju hafi þeir þá ekki gert það endranær. Auk þess verður að stilla flugskeytið áður en því er skotið og það hittir ekki skotmarkið nema það fái svörun, mér skildist úr gervitungli. Allt hafi þetta verið þrælundirbúið og um mistök geti ekki verið að ræða. Hann sagði að Kínverjar skildu vel aðstöðu Íslendinga og þessi atburður hefði engin áhrif á samskipti þjóðanna. Viðskipti þeirra væru að aukast og sú þróun mundi halda áfram. Kínverjar vissu vel að Íslendingar hefðu gerzt aðilar að Atlantshafsbandalaginu á erfiðum tímum, eða þegar kalda stríðið var í algleymingi og ógnir stalínismans vofðu yfir. Þeir hefðu ekkert við aðild Íslands að Nató að athuga og vissu vel að Íslendingar tækju ekki þátt í neinum hernaði.

Þá snerum við okkur að þróuninni í Asíu og sendiherrann sagði mér það sem ég vissi ekki áður, að Kínverjar hafa varan á, þegar Japanir eru annars vegar. Og ekki einungis Kínverjar, bætti hann við, heldur einnig Kóreumenn og Tælendingar. Hann sagði að það væri undirstraumur þjóðernis- og hernaðarhyggju í Japan og margir þar sem væru síður en svo neinir iðrandi syndarar þótt Japanir hafi farið eins og drepsótt yfir Kína á árunum fyrir stríð; myrt t.a.m. um 100 þúsund Kínverja í Nankin einni, en vildu helzt ekki viðurkenna það.  Nú hefði einn helzti hatursmaður Kínverja í Japan verið kosinn borgarstjóri í Tokyo og því ekki að ástæðulausu að Kínverjar fylgdust rækilega með framvindu mála þar í landi.

Allt kom þetta mér á óvart. Við erum eins og börn í þessum efnum hér heima; eins og hverjir aðrir heimaalningar. Eða hvernig getum við sett okkur inn í hugarheim Kínverjans sem er þeirrar skoðunar að Indverjar séu staðráðnir í því að vera forystusauðurinn í Asíu; ekki endilega hið hlutlausa Indland, heldur það kjarnorkubúna Indland sem væri ekkert lamb, ef út í það færi.

 

Föstudagur 21. maí

Annasamur dagur í gær. Auk starfa á Morgunblaðinu fór ég á fund í Menningarnefnd Íslandsbanka, ásamt Vali Valssyni bankastjóra og Brynjólfi Bjarnasyni forstjóra og gengum við þar frá úthlutun úr sjóðnum til listamanna og annarra er um hafa sótt. Það er að vísu ekki auðvelt verk en ánægjulegt að því leyti að hér er verið að úthluta framlögum einkarekstrarfyrirtækis til menningar á Íslandi.

Sagði Brynjólfi að ég hefði skilið betur afstöðu hans til SH-mála eftir að við Styrmir höfðum talað við Róbert Guðfinnsson, núverandi stjórnarformann þess. Mér skildist á Brynjólfi að hann hefði ekki haft neinn hug á því að verða forstjóri SH, framlag hans til breytinga á stjórn og framkvæmdastjórn SH hafi átt rót sína að rekja til þess að breyting hafi verið nauðsynleg. Hann hafi haft Árna Vilhjálmsson, stjórnarformann Granda, að bakhjarli í þeim efnum. Stjórnendur SH hafi verið orðnir fangar hefðar og umhverfis og því hafi þurft að rífa allt stjórnkerfi fyrirtækisins eins og roð frá svelli. Það hafi verið gert.

Ég tók undir það með honum að rétt væri af núverandi stjórnendum SH að leggja niður skrifstofuna á Akureyri, ef hún væri ekki nauðsynleg og það hefði í för með sér verulega hagkvæmni í rekstri. Fyrirtæki ættu ekki að vera einhvers konar hjálparstofnanir útum allt land, þau ættu að vera þar sem þau væru nauðsynleg og þá sem lyftistöng og bakhjarl, en ekki eins og einhvers konar rauðikross í atvinnurekstri. Nú hefði elzta kaupfélag landsins, Kaupfélag Þingeyinga, í raun og veru sungið sitt síðasta og hafi mátt þakka fyrir að það varð ekki gjaldþrota. Stjórnendur þess hafa augsýnilega ekki ætlað sér af og vel má vera það eigi eftir að koma niður á bændum, ég held það liggi ekki enn ljóst fyrir. En það er engin ástæða til að reka ölmusufyrirtæki í þágu landsbyggðarinnar, ekki frekar en hér í þéttbýlinu.

 

Helgi Kristbjarnarson læknir hafði óskað eftir því að tala við mig vegna þess hann hefur haft áhyggjur af því að ég sé að hætta á Morgunblaðinu, hvort það gæti ekki orðið til þess að blaðið lenti í höndum hagsmunahópa sem vildu einungis nota það, en ekki reka það með þeirri reisn sem verið hefði. Ég var að vísu undrandi á þessu erindi hans. Ég hef hvorki séð Helga né talað við hann, en þegar við hittumst í gær vissi ég dálítið um störf hans og stöðu. Hann er sonur Kristbjarnar Tryggvasonar, barnalæknis á Landsspítalanum, sem var í miklu uppáhaldi í Háuhlíð 14, þegar við Hanna vorum þar nær daglegir gestir hjá Sigríði og Bjarna Benediktssyni. Helgi varði doktorsritgerð við Karólínska Institutet í Stokkhólmi, hann er þannig mjög vel menntaður læknir og sérfræðingur í svefni. Hann hefur ekki stundað lækningar undanfarin ár en stofnaði fyrirtækið Flaga og framleiðir það tæki til að mæla svefn. Það er í aðra röndina hugbúnaðarfyrirtæki, að mér skildist, og hefur því vegnað svo vel að gert er ráð fyrir að það framleiði fyrir um 300 milljónir króna á þessu ári, einkum til útflutnings. Fyrirtækið, sagði Helgi mér, er nú metið á rúmlega 2 milljarða og á hann 25%, en afgangurinn hefur verið seldur og þá einkum starfsmönnum, en þeir eru um 50 talsins. Helgi er þannig  sjálfur og einn uppá hálfan milljarð! Líklegt er að svona fyrirtæki hækkaði í verði, ef það væri sett á markað, en án þess er það að sjálfsögðu fyrst og síðast pappírarnir einir. En þeir þykja svo verðmætir að hlutafé sem ekki hefur verið sett á almennan markað gengur á 50-60 földu verði. Helgi er þannig mikill framkvæmdamaður og orðinn vellauðugur eins og hann sagði sjálfur.

Helgi Kristbjarnarson sagði að það væri sín skoðun að Morgunblaðið væri framúrskarandi blað og þyldi samanburð við hvaða dagblað sem væri í heiminum. Hann sagði að það væri orðið fjölmiðill þjóðarinnar og hefði í raun tekið við af ríkisútvarpinu, þótt enn væri margt gott þar á bæ, eða á Rás 1 eins og hann komst að orði. Helgi fór mörgum hrósyrðum um stefnu Morgunblaðsins í hinum ýmsu málum og taldi að vel hefði verið haldið á þeim öllum, bæði af einurð, varkárni og fyrirhyggju. Hann sagði að blaðið væri útvörður menningar á Íslandi og hefði staðið glæsilegan vörð um arfleifðina og verndun hennar. Hann sagðist vera hræddur við peningamenn sem hefðu engan áhuga á slíkum málum og hefðu áreiðanlega margir hverjir löngun til að eignast einhverja aðild að Morgunblaðinu. Á því væri að sjálfsögðu alltaf hætta því að eigendahópurinn stækkaði og vafalaust kæmi að því, að erfingjarnir vildu losa um fjármuni sína og selja á almennum markaði. Hann kvaðst vita að eigendur Morgunblaðsins hefðu látið sér stefnu blaðsins vel líka og hefði blaðið notið þeirra höfðingja sem að því hefðu staðið -eins og hann komst að orði. En nú væru margir nýríkir og hugsuðu þeir ýmsir einungis um peninga, en ekki þær hugsjónir sem Morgunblaðið hefði staðið vörð um.

Hann sagði að margt ungt fólk væri til fyrirmyndar og hefði hann frábærlega gott fólk í vinnu hjá sér, það væri um og yfir þrítugt, en úti í þjóðfélaginu væru ýmsir sem hugsuðu einungis um peningana og alls kyns fjárfestingar og á þetta fólk væri ekki treystandi, þegar menningarleg geymd væri annars vegar.

Mér fannst einkennilegt að hann skyldi nefna fyrirtæki eins og Fjárfestingabanka atvinnulífsins (FBA) og þá líklega sem einskonar tákngerving þeirra sem hafa gert út á hlutabréfamarkaðinn og grætt rækilega, en lagði þó fremur áherzlu á nýríka kvótaeigendur sem vissu ekki aura sinna tal og sumir þeirra hefðu reynt að komast inn í fyrirtæki hans, boðið milljónatugi eins og að drekka vatn, en þeim hefði ekki verið hleypt inn í fyrirtækið.

Ég sagði honum að það ríkti eining um stefnu Morgunblaðsins og það yrði í góðum höndum, þegar ég hætti störfum, en hann gæti alveg verið rólegur því að það yrði ekki fyrr en eftir hálft annað ár rúmlega. Ég vissi ekki betur en núverandi stjórnendur blaðsins væru einhuga í því að slá skjaldborg um þann mikla árangur sem náðst hefði eftir mikla baráttu við ýmsa hagsmunaaðila, blóð og tár með köflum, og mér væri ekki kunnugt um neinn bilbug í þeim efnum. Við Styrmir værum samhentir um öll atriði og gæti Helgi treyst honum vel fyrir því að taka við merkinu af einurð.

En Helgi var þeirrar skoðunar að brugðið gæti til beggja vona á allra næstu árum þótt blaðið væri vel í stakkinn búið nú um stundir. Hann sagðist vilja koma því á framfæri við mig að hann væri reiðubúinn, ekki af gróðahyggju heldur hugsjón, að leggja fram verulegt fjármagn, eins og hann sagði, ef það mætti verða til þess að tryggja að Morgunblaðið gæti haldið sínu striki, óáreitt og frjálst að þeim utanaðkomandi öflum sem hefðu hug á fjárfestingu í hagsmunaskyni. Hann bætti því við að hann væri að tala um þetta vegna áhuga á stöðu blaðsins og stefnu því að hann væri sannfærður um að Morgunblaðið þyldi samanburð við hvaða dagblað í heiminum sem væri og hlutverk þess væri einstakt með þjóðinni. Hann nefndi einnig þrek blaðsins í ýmsum málum, ekki einungis í tengslum við kvótabraskið, heldur einnig afstöðuna til Evrópusambandsins, en það kom mér mest á óvart, þegar hann sagði að við hefðum óhikað skrifað þvert á almenningsálitið í hvalamálum, en þar hefðum við varað einarðlega við því að hefja hvalveiðar að nýju eins og ekkert væri.

Helgi Kristbjarnarson ætlar svo að hitta mig aftur með haustinu og ég bauðst til þess að leyfa honum að fylgjast með þróuninni. Hann sagði mér að sér væri ógleymanlegt þegar hann einhverju sinni sat ásamt dr. Bjarna Jónssyni í læknaskrifstofu Landakotsspítala, þá var hann annað hvort læknanemi eða kandiat, ég veit það ekki, en ég held það hafi verið í kringum 1970. Dr. Bjarni var að lesa Morgunblaðið, sagði Helgi, en leit allt í einu upp úr blaðinu og sagði, Hefurðu gert þér grein fyrir því, Helgi, að það eru ekki gefin út betri blöð í heiminum en Morgunblaðið! Um þetta hafi hann hugsað allareiðu síðan og af kynnum sínum við erlend blöð, bæði í Svíþjóð og annars staðar, hafi hann sannfærzt um þessi orð yfirlæknisins. Áhugi hans eigi þannig rætur í þessu samtali þeirra en áður hafði honum fundizt Morgunblaðið einatt vera alltof halt undir Sjálfstæðisflokkinn og raunar of íhaldssamt. Hann sé nú á sömu skoðun og dr. Bjarni var 1970 og hafi raunar styrkzt í sinni trú. Þessum árangri megi ekki spilla á nokkurn hátt, hann yrði að varðveita á hverju sem dyndi og hann væri reiðubúinn til að taka þátt í þeirri varðveizlu, ef með þyrfti; ekki í auðgunarskyni því hann ætti nóg af peningum og meira en það, heldur af hugsjón og íslenzkri menningu til varnaðar.

Annað dæmi sagði hann mér sem hefði haft mikil áhrif á sig, það var frá fyrstu árum Dagblaðsins. Þá hafi fæðzt barn á Landsspítalanum með klofinn hrygg og faðir hans hafi vitað sem var að ekki hafi verið unnt að lækna barnið og sagt móðurinni það. Hún hafi ekki sætt sig við það og sagt að í Bandaríkjunum væru gerðar aðgerðir á börnum með klofinn hrygg og vildi hún fá stuðning hans til þess að hún gæti farið með barnið vestur. Hún sótti um styrkinn, en hann gat ekki mælt með honum, enda vissi hann það var vitavonlaust. Hún fór þá á fund Dagblaðsmanna og þeir hófu sérstaka þjóðarsöfnun til að koma barninu vestur. Kristbjörn Tryggvason átti ekki orð yfir þetta og hringdi til Jónasar Kristjánssonar sem þá var ungur ritstjóri. Spurði m.a. hvort hann vissi ekki að þessi söfnun yrði til einskis af þeirri einföldu ástæðu að það væri ekki hægt að lækna barnið. Jónas svaraði því til að hann vissi það vel, en þetta væri gott efni; góð söluvara! Kristbjörn Tryggvason kvaddi ritstjórann og gat aldrei eftir það séð hann í réttu ljósi.

Dr. Helgi Kristbjarnarson bætti því við að hann vissi vel að slíkt gæti ekki gerzt á Morgunblaðinu. Í slíkum málum sem öðrum sigldi það undir öðrum fánum en sýndarmennskunnar og það hefði margoft sýnt, að það seldi ekki samvizku sína og reyndi af fremsta megni að halda sig við það, sem það teldi rétt.

Allt var þetta samtal hið athyglisverðasta fyrir mig og ég velti því fyrir mér þegar ég kvaddi þennan prúða og hægláta mann sem ég hafði aldrei séð fyrr, dr. Helga Kristbjarnarson, hvort það væru margir slíkar helgar á Íslandi. Það kæmi þá væntanlega í ljós, ef á reyndi.

 

 

Þorsteinn Pálsson borðar með okkur Styrmi í hádeginu í dag og ætlum við að kveðja hann áður en hann tekur við sendiherraembætti í Lundúnum. Það er kaldhæðni örlaganna að “fréttirnar” sem sífelldlega voru að birtast í ýmsum fjölmiðlum í fyrra þess efnis að Þorsteinn Pálsson ætti að taka við Morgunblaðinu af mér voru kveikjan að því að Helgi fór að hugsa um framtíð Morgunblaðsins og fékk þær áhyggjur sem fyrr eru nefndar. Ég sagði honum að Þorsteinn Pálsson yrði ekki ritstjóri Morgunblaðsins. Hann sagði að sér hefði létt þegar hann gerði sér grein fyrir því. Slíkur stjórnmálamaður gæti ekki tekið við Morgunblaðinu, hann gæti ekki veitt blaðinu þann sannfærandi kraft sem þjóðin krefðist.

 

Maður á aldrei að vera hissa á neinu, sagði Árni Óla en ég neita því ekki að ég var dálítið undrandi á grein eftir Úlf Hjörvar sem birtist í Bréfi til blaðsins síðastliðinn miðvikudag. Þar ræðast hann á mig að ósekju í einhverjum hatursskrifum gegn Máli og menningu og dylgjar í raun um það að ég sé til sölu; að ég láti múta mér, ef út í það fari. Annars skil ég ekki þessi skrif, þau bera vott um sjúklegt hugarástand og andlega flatneskju.

Það hefur ekkert illt farið á milli okkar Úlfs Hjörvars um dagana, þvert á móti höfum við heilsast eins og hverjir aðrir án þess hann hafi rekið hornin í mig á nokkurn hátt. En nú ber nýrra við.

Ég spurði Halldór Guðmundsson hjá Máli og menningu hverju þetta sætti. Hann sagðist ekki vita það. Hann sagðist ekki skilja þessa árás, hún væri lýsing á Úlfi Hjörvar, en ekki Máli og menningu. Hann sagði að Friðrik Rafnsson hefði ekki heldur neina hugmynd um ástæðu þessarar áreitni og þar með erum við allir í sama báti, undrandi á upphlaupinu og án þess skilja forsendur þess. En Úlfur Hjörvar átti víst að vera sjéní ungur, að því er Halldór Guðmundsson sagði mér, en það fórst víst fyrir. Og þegar svo er geta menn verið til alls vísir!

 

Innan tíðar birtist í Morgunblaðinu árásargrein Árna Ibsens á Heimi Pálsson og kennslubók hans nýlega í bókmenntum sem Jakob F. Ásgeirsson réðst einnig að í fyrra. Í þessari grein reynir Árni að vega að Heimi og heggur ótt og títt á báðar hendur. Hann telur að Heimir hafi ekki sýnt leiklistinni tilhlýðilegan sóma og má það vel vera, ég veit það ekki. Í málflutningi Árna er hver sótraftur á sjó dreginn til að sýna mönnum fram á hvernig Heimir hafi gengið fram hjá leikritaskáldum; ég held allir séu nefndir nema undirritaður! Þó var ekki fremur talað um mín leikrit í þessari bók Heimis en annarra. En Árna Ibsen þykir ekki tilhlýðilegt að geta þess, það passar ekki í kramið! Kannski er hann tortrygginn yfir því að um mig var þó ágætlega fjallað í bókinni, ég veit það ekki, en hann hefði alveg eins átt að nefna leikrit mín eins og margra annarra, hvað sem öðru líður. Hann skrifar greinina sem formaður Leikskáldafélags Íslands og ég álít þannig að félagið beri ábygð á þessum skrifum. Það hefur aldrei mátt minnast á, hvorki fyrr né síðar, að ég hafi skrifað milli tíu og fimmtán leikrit, það er einskonar tabú!

 

Það sem þarna gerist er ekkert annað en það sem alltaf er að gerast, menn skrifa út úr glerhúsi. Árni Ibsen er að hundskamma Heimi Pálsson fyrir það sem hann gerir sig svo sjálfur sekan um í gagnrýni sinni. Menn sjást ekki fyrir í heilagleika sínum - og því fer oft sem fer.

 

Í gær, á 106. afmælisdegi Ásmundar Sveinssonar, kom bók mín um Ásmund út öðru sinni, lítillega endurskoðuð. Ég var beðinn að taka á móti fyrsta eintakinu, þegar Ásmundarsýning var opnuð, en kom því ekki við sökum anna og taldi enga ástæðu til að vera í slíkum stellingum. Ég benti aftur á móti á að tilhlýðilegt væri að afhenda einkadóttur listamannsins þetta fyrsta eintak og var því vel tekið. Morgunblaðið segir ágætlega frá þessu í morgun og birtir myndir frá athöfninni. Þar átti dóttir Ásmundar heima en ég hef enga þörf fyrir fjölmiðlathygli, þótt ég gleðjist að sjálfsögðu yfir því að Bókin um Ásmund hafi verið gefin út í þeim endanlega búningi sem hugur minn hefur staðið til.

 

Hef ort þessi þrjú kvæði að gamni mínu undanfarna daga:

 

Með hliðsjón

af kínversku

kvæði

Gamlir vindar þekkja stráin stinn

og stráin eru við glugga annars manns,

ég þekki að vísu ekki hugmynd hans

um hálmstráin sem berjast við óvin sinn,

en hef þá skoðun á ósýnilegum óvini mínum

að enginn geti verið í sporum stormsins

en hver og einn verði að sveitast í sporum sínum

og sjaldnast í gervi hetjunnar, heldur ormsins.

 

 

Dauði

Hvítur hestur

í huga mínum,

legg við hann beizli

berbakt þeysi

að sofnum augum

þínum,

 

Sesam

 

ljúk upp, það er vor

veturinn liðinn,

 

laufið hikandi þeyr.

 

Hesturinn hneggjar,

það er hálfmáni úti.

 

Ekkert svar,

aðeins biðin.

 

Og skugginn

deyr

við hvítan skugga

af hesti sínum.

 

Við aldahvörf

Þar sem vetur vígslóð brenndi

varnarlausa djúpt í svörð

látum þúsund blómin blómstra

bráðum kemur fugl með vor

þar sem eldar eftir skildu

ógn við dauðans máðu spor

látum þúsund blómin blómstra

í bliki af sól við nýja jörð.

 

Hvítasunnan

Þorsteinn Pálsson kom upp á Morgunblað sl. föstudag og borðaði með okkur hádegismat. Hann er mjög afslappaður og hlakkar augsýnilega til að vera sendiherra í Lundúnum. Við töluðum um margt, m.a. um breytta kjördæmisskipan í næstu kosningum. Þá verður Reykjavík tvö kjördæmi og að ég held einungis þrjú kjördæmi úti á landi. Þá mun pólitískt landslag, eins og kallað er, gjörbreytast og ómögulegt að vita hvernig kosningar fara. Mér skilst t.a.m. á Þorsteini að þingmenn Reyknesinga séu byrjaðir að leita hófanna hjá sunnlendingum því að þessi kjördæmi verða þá sameinuð.

Annars kom ekkert sérstak fram í samtali okkar. Við vorum sammála um að það hafi verið annað og auðveldara að mynda ríkisstjórn á Íslandi undanfarin misseri heldur en áður var, þegar Framsóknarflokkurinn var sífelldlega að leita til vinstri. Ég held það hafi t.a.m. verið nánast kraftaverk að hægt var að mynda ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar á sínum tíma. Það kom líka í ljós að ríkisstjórnin varð ekki langlíf.

Það hefur ekki kveðið neitt að stjórnarandstöðunni undanfarin misseri, ekki frekar en í Bretlandi á dögum Margretar Thatchers. Af þeim sökum m.a. hefur forysta Sjálfstæðisflokksins átt frekar auðvelt með að stjórna landinu, ásamt með Halldóri Ásgrímssyni og Framsókn. Það er enginn forystumaður í röðum vinstri manna nema Ingibjörg Sólrún, en hún er bundin við Reykjavík. Og nú eru byrjaðir að safnast utan á hana allskyns hrúðurkarlar sem festast með pólitíska þanginu á fjörusteina gamalla pólitíkusa. En það eru bara ekki nein sérstök átök því að allt er þverpólitískt nú um stundir, hvort sem það heitir Evrópusamband, hvalveiðar, kvóti eða annað sem unnt væri að nefna. Ég held vinstri menn séu að vísu gráðugri í skatta, en það er líka allt og sumt.

 

Pétur Jónasson gítarleikari átti fertugsafmæli sl. föstudag. Við vorum boðin til þeirra Hrafnhildar kl. 10 um kvöldið og vorum framundir 1. Þar hitti ég ágætt fólk, m.a. Svein Einarsson sem flutti sömu ræðuna yfir mér í annarra viðurvist og dr. Helgi Kristbjarnarson hafði áður flutt og ég hef tíundað hér í dagbók. Kjartan Ólafsson, vinur Péturs, er formaður Tónskáldafélags Íslands og STEFS, mér líkar ágætlega við hann. Hann átti ekki orð yfir samtalið við Jón Leifs. Hann sagði að það væri einhvers konar ævintýri að slíkt væri til. Það væri engu líkara en maður hitti Jón Leifs sjálfan og sæti með honum þarna í stofunni heima hjá honum. Hann sagðist hafa heyrt mikið um þetta samtal en ekki þekkt það fyrr en Morgunblaðið endurbirti það á 100 ára afmæli Jóns að ósk Tónskáldafélagsins. Og hann sagðist hafa verið stoltur af þeirri ósk.

Kjartan sagði mér að hann hefði lokið við tónverk sitt við kvæðið sem ég samdi í tilefni af afmæli Neskirkju og er tilbrigði við Davíðssálma.

Ég lofa því, sagði hann, að það er gott verk.

 En hvenær á að flytja það? spurði ég.

Það er tilbúið til flutnings, sagði hann. Það er hjá Þorgerði Ingólfsdóttur….

 

 

Afi Kjartans Ólafssonar var Páll Einarsson, fyrsti borgarstjóri í Reykjavík. Ég man lítillega eftir honum úr Vesturbænum. Mig minnir að hann hafi búið í nánd við Jóhannes bæjarfógeta, afa minn, einhvers staðar í nágrenni Ránargötu.

Kjartan er stoltur af þessum afa sínum. Ég heyrði ekki betur en hann væri stoltur af borgaralegu umhverfi sínu, en sagðist þó vera vinstri maður. Ég spurði hvað það væri. Hann brosti, hristi höfuðið og sagði að það merkti víst ekkert nú orðið!

Talaði einnig dálítið við Stefán Baldursson, þjóðleikhússtjóra. Hann er óskaplega hrifinn af báðum sýningunum uppúr Sjálfstæðu fólki svo ég vildi ekki hrekkja hann með skoðun minni á fyrri sýningunni. Sagði einungis að síðari sýningin hefði verið miklu betri, að mínu áliti.

 Hann sagði, Það er skrítið.

 Nú, sagði ég, af hverju segirðu það.

Vegna þess, sagði hann, að gagnrýnandi Morgunblaðsins sagði að fyrri sýningin hefði verið miklu betri.

Jæja, sagði ég, og mundi það ekki. Leikdómar gleymast eins og sjóveiki.

 Þú ert þá ekki sammála honum, sagði Stefán.

Nei, sagði ég.

Þá kallaði hann á dóttur Brynju Héðinsdóttur sem þarna var einnig stödd, en hún lék Ástu Sóllilju - og kynnti mig fyrir henni.

 

Hún er ágæt leikkona.

Mér finnst þetta unga fólk yfirleitt leika vel. Við sáum t.a.m. leikrit vinar míns Einars Arnar Gunnarssonar í Nemendaleikhúsinu á laugardag, það heitir Krákuhöllin. Mér fannst það góð sýning. Einar Örn kaus að ljúka söguefninu og láta það ganga upp, en mér er til efs það hafi verið nauðsynlegt. Í svona farsa fer stundum bezt á því að láta verkið ekki ganga upp. En um þetta má deila eins og allt annað. En hvað sem því líður stóð sýningin ágætlega undir sér og það unga fólk sem tók þátt í henni skilaði hlutverkum sínum með prýði. Margt var augsýnilega vandasamt en leikurunum tókst ágætlega að þykjast vera annað fólk og öllu var komið ágætlega til skila. Samt er leikritið á þriðja klukkutíma og aldrei nein deyfð

 

26. maí, miðvikudagur

Sá tvær myndir í sjónvarpinu í gær sem mér þótti harla athyglisverðar; önnur á National Geographic, hin á CNN. Sú fyrri fjallaði um úlfa í Indlandi og hvernig þeir réðust á börn í einhverju héraðinu þar, hin um flóttamenn frá Kosovo. Segja má með nokkrum sanni að báðar hafi þessar myndir verið dýralífsmyndir. Það var einkum einn úlfur í héraðinu sem lagðist á börn, hann hafði ráðizt á milli 70-80 börn og drepið 47. Hann var orðinn mannæta. Allt var gert til að ná þessu skrímsli, en tók langan tíma. Að lokum var úlfurinn lagður að velli. Þá var farið að kanna aðstæður og kom í ljós að einhverjir karlmenn úr einu þorpinu höfðu fundið úlfsbæli, svælt út hvolpana og drepið þá. Foreldrarnir höfðu rakið sporin til þorpsins og skömmu síðar hófust árásirnar á börnin. Sumir telja að úlfarnir hafi í byrjun verið að hefna fyrir hvolpadrápin, það má vel vera. En þeir lögðust á börn og enginn var óhultur.

Hin myndin fjallaði um flóttamenn frá Kosovo. Það var talað við allmarga þeirra, yfirleitt heldur unga menn. Allir höfðu frá hræðilegum hörmungum að segja. Þrír sluppu ómeiddir, en misstu bæði konur sínar og börn. Þeir áttu fjögur til fimm börn. Serbar drápu þau með köldu blóði. En Serbarnir áttuðu sig ekki á því hvað Kosovarnir höfðu yfir að ráða mörgum kvikmyndavélum, bæði super-8 og öðrum vélum sem þeir notuðu til að kvikmynda ummerki, þegar Serbarnir voru farnir. Maður sá líkin þar sem þau lágu eins og hráviði með skotsár á höfði; gamla menn, unga og miðaldra. Þeir höfðu einnig tekið kvikmyndir af syrgjandi eiginkonum og börnum sem flóðu í tárum.

Þetta var óhugnanleg mynd og ég sannfærðist um að Serbarnir eru einhvers konar framhald af Gestapo. Þeir eru að minnsta kosti jafn grimmir og úlfarnir á vegum Hitlers. Og eins og þeir eru þeir haldnir hundaæði og fara um Kosovo eins og eyðandi eldur. Það er ekki hægt að réttlæta gerðir þeirra. Ég hef reynt það vegna frændfólks míns í Serbíu, en hef nú gefizt upp.

Það er stiginn trylltur dans  grimmdarseggja og öfgamanna á þessum slóðum. Þeir depa allt sem fyrir er. Það er enginn munur á þeim og úlfunum á Indlandi. Ég hef reynt að skilja þessa grimmd, en það er ómögulegt. Helzta skýringin væri þá sú að úlfarnir í Kosovo teldu sig vera að verja heimkynni sín og hefna fyrir landnám Kosovanna; að þeir séu í raun og veru að verja bælið sitt.

Ég hef ekki fundið aðra skýringu á því, hvenig mannskepnan getur breytzt í tannhvassa blóðúlfa sem leggjast á heilu fjölskyldurnar, drepa eiginmenn, bræður og syni; jafnvel börn, mæður, systur - og eiginkonur.

Og nú hefur mér dottið í hug að maðurinn sé ekkert annað en úlfur í mannsmynd. Hann hegðar sér a.m.k. þannig.

 

 

28. maí, föstudagur

Ný ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Í stjórnarsáttmála hennar, eða stefnuskrá, er komizt svo að orði, að eitt af helztu markmiðunum á kjörtímabilinu sé að vinna að sem víðtækastri sátt um fiskveiðistjórnkerfið og í því skyni verði skipuð nefnd til að endurskoða fiskveiðistjórnunarlögin með hagsmuni sjávarútvegsins, byggðanna og alls almennings fyrir augum, eins og komizt er að orði.

Þetta er mikill sigur eftir langa baráttu og sterkt aðhald. Ég held það sé ekki á neinn hallað, þótt fullyrt sé að enginn eigi jafn mikinn þátt í þessu aðhaldi og þessari sáttaviðleitni en Morgunblaðið.

En við sjáum hvað setur.

Ég gæti ímyndað mér að Haraldur sonur minn sé ánægður með skipan mála því hann hafði mikinn áhuga á því sem ríkislögreglustjóri að dómsmálin lentu í góðum höndum…..

Ingólfur sonur minn hefur sagt okkur frá því að hann hafi fengið Welcome-styrk til að halda áfram veiru-rannsóknum sínum og nemur hann víst hvorki meira né minna en 30-40 milljónum. En hann á eftir að fá staðfestingu á þessum tíðindum og bíður, að ég hygg, spenntur eftir henni. Mér er til efs að nokkur einn einstakur íslenzkur vísindamaður hafi fengið jafn háan styrk til vísindastarfa - og það af jafn virtri stofnun og Welcome er. Í því ekki sízt felst mikil og góð viðurkenning.

 

Við Styrmir hittum Þorstein Pálsson framkvæmdastjóra Kaupfélags Árnesinga í hádeginu í gær. Hann er geðfelldur maður og fræddi okkur um margt í tengslum við smásöluverzlunina á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Hann er leiðandi maður í Kaupás  sem er höfuðsamkeppnisaðili við Baug og því lífsnauðsynlegt fyrirtæki, ef sæmilega heilbrigð samkeppnisverzlun á að ríkja í smásölunni. Kaupás er sameignarfélag Kaupfélags Árnesinga, Nóatúns og 11-11 og hefur eitthvað rúmlega 20% markaðshlutdeild á svæðinu, en Baugur er kominn yfir 55% og er slík fákeppni gersamlega óviðunandi. Það er varla hægt að hugsa til enda, hvernig hér yrði umhorfs, ef Kaupás færi á hausinn og við yrðum algerri fákeppni að bráð eins og tilhneiging virðist vera á sumum sviðum í viðskiptum hérlendis.

Þorsteinn sagði okkur að hann hefði reynt að fá forystumenn Kaupfélags Eyfirðinga til liðs við Kaupás, en það hefði ekki tekizt, ekki ennþá. Hann telur samt að vonir standi til þess að KEA komi til liðs við Kaupás og styrki þannig samkeppnisstöðuna. Ef svo yrði ekki, mundi KEA reyna að efla aðstöðu sína og gæti þannig orðið þriðja aflið í þessari samkeppni. En tíminn einn getur leitt í ljós það sem verða vill.

Fyrir mörgum árum áttum við Styrmir margra klukkutíma samtal við Erlend Einarsson um stöðu Sambandsins á Stór-Reykjavíkursvæðinu, en hann reyndi þá að sannfæra okkur um að 30% aðild SÍS að smásöluverzluninni væri réttlætanleg. Við töldum að svo væri ekki. Það væri alltof há prósenta. Um þetta var þjarkað og gat hvorugur sannfært hinn. Sambandið ætlaði sér svo ekki af, en hrundi, þegar þeir fengu ekki gefið verðbólgulánsfé úr bönkunum, en þurftu að fara að borga lánin og hlíta þeim samkeppnisreglum sem aðrir höfðu búið við.

Það getur vart hjá því farið að 55% hlutdeild  vekji þó nokkurn ugg. Við höfum ekki eytt hálfri ævinni í að berjast við ofurvald Sambandsins og forkólfa þess í því skyni, að markaðurinn lenti síðan í höndum örfárra einstaklinga, eða fjölskyldna, en við þessari þróun er víst ekkert að gera, meðan hún leiðir til hagkvæmara vöruverðs fyrir allan almenning. En þetta er samt varhugaverð samþjöppun og þótt hún geti ef til vill staðizt í milljónatuga-samfélögum, er mér til efs það gildi einnig um smáþjóð eins og okkur. Í milljónasamfélögum eru fjölmörg stórfyrirtæki, en ekki bara eitt eða tvö.

Þessi þróun er þannig ekki ósvipuð því hvernig kvótinn hefur komizt á örfáar hendur, en þessu er þó ekki saman að jafna því að um smásölumarkaðinn er verið að berjast án þess neinum hafi verið gefið neitt, allra sízt eigur annarra - en það hefur einmitt orðið upp á teningnum hvað kvótann varðar. Menn hafa fengið gjafakvóta og valsað með þjóðareignina án þess þurfa að þakka fyrir þessi forréttindi með neinskonar gjaldi eða á annan hátt - þó ekki væri til annars en minna sjálfa sig og aðra á þá staðreynd, að menn geta ekki átt eða lagt undir sig það sem aðrir eiga. En það er hægt að fá það til ráðstöfunar eða nýtingar, ef um það er samið með þeim hætti að eigandinn sé sáttur við niðurstöðuna. Vonandi verður raunin sú þegar sáttanefnd ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnunarkerfið hefur komizt að niðurstöðu, að öðrum kosti verður aldrei neinn friður um kvótann. Við verðum að losa þjóðina við þá sálarkreppu sem hún hefur verið í vegna framsals gjafakvótans og margs konar brasks í tengslum við hann.

Að því mun Morgunblaðið áfram vinna, hvernig sem allt veltist.

 

Þegar ég lít í kringum mig og sé alla þessa framtóninga í fjölmiðlum og annars staðar hef ég verið að velta því fyrir mér hvernig standi eiginlega á þessum belgingi. Ýmsir sem mest ber á ættu að mínu viti að hafa hægt um sig, að minnsta kosti hægara en raun ber vitni. Ástæðan er að sjálfsögðu sú að menn verða að hafa eitthvað til að bera til að láta bera á sér. Að öðrum kosti verður þetta bara innantómur kláði og það er engu líkara en þjóðfélagið hafi ekki við að klóra sér um þessar mundir. Og þá verður mér hugsað til þess sem Knut Hamson sagði fyrir réttinum í Grimstad: Að við verðum öll gleymd eftir 100 ár.

Og til hvers eru þá þessar æfingar?

 

Það var engu líkara en ég upplifði einskonar draugagang í gær. Sigurður Valgeirsson, dagsskrárstjóri innlends efnis í sjónvarpinu, bauð mér í hádegismat. Ég komst að vísu ekki til hans fyrr en um 2-leytið vegna þess hve samtalið við Þorstein Pálsson dróst á langinn. En þá fengum við Sigurður okkur te og horfðum á gamlar spólur með sjónvarpsleikritum mínum sem ég hef ekki séð árum saman og við létum okkur hafa það að horfa á Ófelíu til enda, hún er rétt tæpur hálftími. Ég hafði ekki séð þetta leikrit í tvo eða þrjá áratugi og engu líkara en maður væri dauður og þetta væri draugagangur úr fortíðinni. En við vorum sammála um að sýningin hefði tekizt óvenjuvel, miðað við aðstæður, tækni og tíma og leikararnir skiluðu sínum hlut framúrskarandi, ekki sízt Helga Backmann sem er alveg yndisleg Ófelía í þessu verki. Helgi Skúlason kunni sitt starf og þess sér stað í þessari mynd. Áferðin er eftirminnileg og hinn ljóðræni blær á sýningunni eiginlega dálítið sérstæður.

Sigurði fannst þetta frábær mynd og hafði sérstakt orð á því að hún hefði verið djörf á sínum tíma. Öllu boðið birginn, sagði hann, ekkert hálfkák í þeim efnum og ég sá að það var rétt hjá honum.

Jónas Árnason hringdi til mín eftir sýningu í sjónvarpinu á sínum tíma og þakkaði mér fyrir þessa litlu perlu, eins og hann komst að orði. Mér þótti vænt um það þá, man ég, en ég man ekki hvernig var um myndina skrifað í fjölmiðlum.

Við litum einnig á Sjóarann... Glerbrot og upphafið að Jóni gamla, en hljóðinu er talsvert ábótavant í honum og vafamál, hvort hægt er að endursýna myndina af þeim sökum; ég veit það ekki. En eitt er víst að Valur Gíslason fór á kostum og Lárus Pálsson  einnig í sínu litla hlutverki.

Sigurður Valgeirsson spurði hvort ég ætti eitthvurt handrit. Ég sagði að það gæti verið. Hann bað mig senda sér það. Ég sagði honum það væri jafn djarft, geggjað og galið og Ófelía. Það fannst honum enn betra. Ég ætla að senda honum það sem sýnt var eina kvöldstund í Kópavog á sínum tíma. Annað á ég ekki í fórum mínum, hvað sem verður.

Framan við Jón gamla er tíu mínútna samtal Steindórs Hjörleifssonar við mig, bæði um Jón gamla og ýmislegt fleira; samtöl og leikrit. Ég gæti tekið undir hvert orð sem ég sagði þá, en mikið er skrýtið að upplifa þetta með þessum hætti eftir öll þessi ár; að upplifa sjálfan sig eins og ókunnugan mann frá allt öðru umhverfi og allt öðrum tíma. Hvaða kröfur getur maður þá gert til annars fólks um að það upplifi mann eins og maður helzt vildi; eða telur sjálfan sig vera. Það er raunar ekki hægt af þeirri einföldu ástæðu að við erum fyrst og síðast viðbrögð við umhverfinu. Og hvað sem sálinni líður, þá eru umbúðirnar einungis gervi sem hentar því umhverfi sem maður er einskonar andsvar við. Og þó að maður geymist á filmu þá er maður ævinlega með einhverjum öðrum hætti en efni standa til. Maður er að hætti tímans. Mér fannst það t.a.m. með ólíkindum að við Steindór Hjörleifsson skyldum þéra hvor annan, en samtalið átti sér stað á tímum deyjandi þéringa. Nú er þetta ankannalegt, einungis áminning um tíma sem er horfinn.

Og samt get ég staðið við allt sem ég sagði í þessu samtali, hvert einasta orð. Ástæðan er einfaldlega sú að orðin komu ekki úr umbúðunum, þótt þau væru ætluð sérstöku umhverfi; þau komu úr hugsuninni og hún er í tengslum við sálina sem við teljum að sé hið eina sem geti lifað af.. Og það er af þeim sökum sem ljóðið, einkum það, er í senn mikilvægt og dýrmætt, því það er afkvæmi hennar og í því birtist sá innri maður sem fylgir okkur alla tíð.

 

29. maí, laugardagur

Fórum í dag í hádegisboð til Halldóru og Árna Johnsens. Breki sonur þeirra varð stúdent og uppá það var haldið. Breki er ljúfur og góður drengur og við höfum þekkt hann alla tíð. Ég finn að Árni vinur minn er dálítið sleginn út eftir að Davíð Oddsson valdi ráðherra Sjálfstæðisflokksins í nýja ríkisstjórn. Held það sé ekki sízt vegna þess hann á erfitt með að skilja, hvers vegna Sturla Böðvarsson var valinn í ríkisstjórnina, en framhjá honum sjálfum gengið. Hann telur að Sturla geti aldrei tekið ákvörðun í neinu máli, sé í raun og veru skoðanalaus. Hann sagðist hafa unnið með honum í nefnd og það sé niðurstaðan. Honum finnst aftur á móti rétt að farið að gera Árna Mathiesen að ráðherra. Hann situr spurningamerki við Sólveigu Pétursdóttur. Ég held hún geti staðið sig vel, en Árni gagnrýnir það sem honum finnst yfirgangur og telur Sigríði Önnu, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins, skapfellilegri.

Árni vann góðan sigur í Suðurlandskjördæmi og ég er því alveg sammála að hann átti tilkall til ráðherradóms, miðað við allar aðstæður og þá hefð sem ríkt hefur. Ég skil því sársauka hans vel. Það er hægt að trúa Árna fyrir margvíslegum störfum, hann kemur sér hvarvetna vel, hann er vinsæll og hlustar á fólk. Hann hefur þurft að berjast við fordóma þeirra sem telja að hann sé “bara gítarsöngvari”, en það er rangt. Hann sýndi það í síðustu kosningu að hann getur leitt Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í stóru kjördæmi og á því tilkall til góðrar uppskeru. Ég sagði við hann um daginn að hann ætti að tala við Davíð um ráðherradóm og gefa ekkert eftir. Ef illa gengi ætti hann að bjóða Davíð uppá það sem úrslitum gæti væntanlega ráðið: að gerast klæðskiptingur og slá þannig tvær flugur í einu höggi fyrir Sjálfstæðisflokkinn!! Mér skilst Árni hafi sagt þetta við Davíð, en hann hafði víst lítinn húmor fyrir þessu!! Fyndna kynslóðin er ekki alltaf jafn ginkeypt fyrir húmor.

 

Vorum síðdegis í gær í fimmtugs afmæli Öbbu, konu Hallgríms Geirssonar, framkvæmdastjóra Morgunblaðsins. Þar hitti ég margt fólk. Ég kvíði alltaf fyrir öllum boðum en stend mig ævinlega ágætlega, þegar ég er kominn á staðinn; einkum ef ég fæ glas af bjór! Talaði við margt fólk í þessu boði, þar á meðal einn af bræðrum Tryggva Ásmundssonar, læknis, Magnús. Hann var um skeið læknir á Kópaskeri, sagði hann Hönnu, enda var Kópasker einskonar höfuðstaður Hólsfjalla, þegar hún var ung stúlka þar nyrðra; en þó lengst af á Neskaupstað. Pólitísk skoðun Magnúsar fór ekki milli mála. Hann var að tala við Jón Guðmundsson, íslenzkukennara okkar í MR, þegar mig bar þar að garði.

Ég sagði við Jón að við hefðum verið í fyrsta bekknum sem hann kenndi í Menntaskólanum og taldi hann það í fyrstu ekki rétt, en féllst svo á að líklega myndi ég þetta betur en hann. Við kölluðum Jón Krulla í MR. Hann hafði mikið dökkt hrokkið hár. Hann var ágætur kennari. Ég sagði honum að hann hefði kennt mér svo vel z að það hefði aldrei hvarflað að mér að yfirgefa hana. Hann sagði að hún gengdi miklu hlutverki í íslenzkri stafsetningu og engin ástæða til að leggja hana af.

Annars voru þeir læknirinn eitthvað að þjarka um vísuna Ást er föstum áþekk tind og hélt Jón því fram að hún væri eftir Steingrím Thorsteinsson en Magnús sagði hún væri eftir Látra-Björgu. Ég sagði umsvifalaust, Vísan er eftir Steingrím. Læknirinn tók þessu heldur illa, en ég fullyrti þetta. Jón sagði, Þarna sérðu, ég hef rétt fyrir mér! Svo fór Jón á flot þarna í salnum og ég sat uppi með lækninn. Hann sagði mér að honum hefði alltaf verið illa við mig. Í raun og veru hefði hann hatað mig út af pólitík. Ég hefði ekkert verið nema helvítis hofmóðurinn. Ég sagði að þetta væri ágætt hjá honum og hann ætti að halda sig við þessa skoðun. Ég vonaðist bara til að hann hefði réttara fyrir sér í pólitík en vísnagerð!

Þá fór ég að segja honum frá Þorsteini Helgasyni forföður hans, sem Jónas Hallgrímsson orti um. Hann þekkti vel til hans. Við töluðum eitthvað um Þorstein og ég sagði honum að hann hefði orðið fyrstur til að safna skáldskap sr. Jóns Þorlákssonar á Bægisá. Þá fór að lyftast brúnin á lækninum. Hann sagðist hafa samskonar fordóma gegn Halldóri Blöndal og mér. Síðan hefði hann kynnzt Halldóri og hrósaði honum á hvert reipi fyrir ljúfmennsku. Ég sagði við hann, Það er ekki hægt að hata einn Blöndal!

 Nei, sagði læknirinn, það er líklega rétt hjá þér. Og ég sé að þú ert ágætur við nánari kynni. Kannski eru þetta einhverjir fordómar í mér!

Það skyldi þó ekki vera, sagði ég. Þú sérð það líka að ég er ekki eins fordómafullur í pólitík og þú.

 Nú, hvað áttu við? spurði hann.

 Ég skrifaði bók um Þórberg Þórðarson í miðju kalda stríðinu.

 Já, sagði hann, það var vond bók! Þú ert að gera grín að Þórbergi allan tímann.

 Það er rangt, sagði ég, mér þótti vænt um Þórberg, hann er einn bezti maður sem ég hef kynnzt. Ég var að lýsa Þórbergi, en ekki gera grín að honum. Þú ættir að lesa bókina aftur.

Já, sagði Magnús, eiginlega þyrfti ég að gera það. Kannski er þetta rangt hjá mér, kannski las ég þessa bók á forsendum þeirra fordóma sem ég hef ævinlega haft fyrir þér.

Þetta sagði mér mikið um stöðu ritstjóra Morgunblaðsins í þjóðfélaginu, bæði fyrr og nú. Sem sagt, ágæt áminning um návígið í litlu samfélagi.

Uppúr þessu fór Magnús læknir einnig á flot, en mér er til efs hann líti á Kompaníið aftur. Og ég efast einnig um hann eigi eftir að losna við fordómana gagnvart ritstjóra Morgunblaðsins. Það gerist þá kannski, þegar ég er hættur blaðamennsku. Eða hann hættur að vera bolsi!

 

Fórum svo í Borgarleikhúsið í gærkvöldi og sáum verk eftir Dario Fo, Stjórnleysingjann Skemmtileg endaleysa.

Það er eiginlega furðulegt hvernig hægt er að halda uppi heils kvölds sýningu á svona dellu frá upphafi til enda. Samt smellur þetta með einhverjum hætti og úr varð skemmtileg sýning. Ákaflega góð uppsetning og framúrskarandi leikur.

Við höfum farið dálítið í leikhús undanfarið og ég er orðinn sannfærður um að hér hefur vaxið upp ný kynslóð ungra leikara sem eru ekki síðri en gömlu leikararnir; frábærir leikarar sem koma á óvart og skila hlutverkum sínum af innlifun og einhverri smitandi gleði. Ég held Gísli Rúnar hafi leikið lögreglustjórann í gærkvöldi, en er þó ekki viss um það. Hanna telur a.m.k. að svo sé og hún er betur að sér í þessum efnum en ég. En hvað sem því líður hef ég aldrei séð eins vel leikið með höndunum og Gísli Rúnar gerði í gærkvöldi. Það var eiginlega ógleymanlega vel gert.

Þegar sýningarnar eru jafnvel sviðsettar og leiknar eins og raun bar vitni í gærkvöldi, er hægt að sýna hvaða texta sem er. Leikararnir breyta honum viðstöðulaust í góða skemmtun sem ástæðulaust er að taka alvarlegar en efni standa til. Þannig er teater del art.

Hitt er svo annað mál að ég er ekkert viss um að Dario Fo hafi átt að fá Nóbelsverðlaun öðrum fremur. Ég þekki fjölda rithöfunda sem stóðu nær þeirri viðurkenningu en hann. En við ráðum við allt - nema samtímann! Hann fer sínu fram. Og það tjóar ekki að taka hann öðruvísi en efni standa til. Hann er óskiljanlegur, hann er skrýtinn og hann er bezt skrifaði farsi sem um getur. En stundum er hann því miður ofleikinn. Og stundum ætla senuþjófarnir mann lifandi að drepa. Nei, ekki stundum, alltof oft.

Því miður.

 

Kvöldið

Í kvöld varð Ísland í 2. sæti í evrópsku söngvakeppninni. Framan af var útlit fyrir að við ynnum keppnina, en svo var ekki; guði sé lof. Þetta er að vísu ágæt auglýsing, eða landkynning eins og sagt er. En ef við hefðum unnið keppnina, hefðu Íslendingar haldið að það væri hlutverk þeirra í lífinu að syngja slagara á ensku! Þá hefði allt þjóðlífið snúist um næstu sönglagakeppni og tízkan sem er ævinlega einhver farsakenndur misskilningur hefði sannfært okkur um að hlutverk okkar í lífinu væri fyrst og síðast - að vera misskilningur!

Vonandi var okkur forðað frá því með 2. sætinu.

 

30. maí, sunnudagur

Styrmir skrifaði gott Reykjavíkurbréf í dag sem fjallar um nokkur helztu hugmyndafræðilegu baráttumál okkar Morgunblaðsmanna í gegnum tíðina og leggur þar út af fyrirlestri Anthony Giddens, prófessors og rektors hins virta háskóla London School of Economics, sem hann hélt hér á landi fyrir rúmri viku. Þar er m.a. talað um alþjóðavæðingu, undanskilið hið hnattræna alheimsþorp, en það var ekki sízt í þessu þorpi sem við vorum stödd í gærkvöldi, þegar evrópska sönglagakeppnin fór fram. Þetta er að vísu athyglisvert þorp að mörgu leyti. En íhugunarvert á hinn bóginn og ástæða til að gæta sín vel og fóta sig á því hraungrýti alþjóðahyggjunnar sem liggur að þessu þorpi. Það er einnig auðvelt að týna sál sinni í þessari alþjóðahyggju og engin vafi á því að margar smáþjóðir nú um stundir eru á þeirri leið, án þess vita.

Mér er  til efs að það sé lengur ástæða til að treysta okkur Íslendingum fyrir arfleifð okkar, eða eigum við frekar að segja fjöreggi okkar, til þess erum við alltof uppteknir af alþjóðaþorpinu og þeim hnattrænu stormsveipum sem virðast þrífa allt með sér í upplýsingasamfélagi nútímans. Ef við kunnum fótum okkar forráð, ættum við að geta staðizt þessa ágjöf og notað hana til að hreinsa loftið og fylla staðnað vatn úreltra hugmynda því súrefni sem nauðsynlegt er til að halda lífinu í því sem verðmætt er. Þetta eru að vísu þónokkrar þverstæður, en geta vel komið heim og saman, ef að er gáð. Við höfum hingað til kunnað að nota erlend áhrif án þess glata sálu okkar. Og ef við héldum vökunni væri það enn hægt, þrátt fyrir allt. En tízkan er á móti okkur, sú tízka að alþjóðahyggjan skipti öllu, en arfleifðin litlu sem engu. Maður rekst jafnvel einstaka sinnum á fólk sem telur engu máli skipta, hvort við höldum tungu okkar eða ekki, það geti jafnvel verið hagræðingaratriði að glata henni!

Að þessu er m.a. vikið í Reykjavíkurbréfinu og komizt svo að orði: “Áhrif alþjóðavæðingarinnar eru augljóslega mismunandi eftir löndum. Í Bandaríkjunum hefur Patrick Buchanan gengið fram fyrir skjöldu og hafið baráttu fyrir nýrri verndarstefnu til þess að koma í veg fyrir, að alþjóðavæðingin ræni bandarískt verkafólk atvinnu sinni. Þar hefur stjórnmálamaður á hægri vængnum tekið upp baráttu fyrir þrengstu hagsmunum verkafólks undir merkjum verndarstefnu á sama tíma og Robert Reich, einn helzti umbótasinninn í liði Clintons, vill mæta afleiðingum alþjóðavæðingarinnar með stórauknu fjármagni til þess að veita fólki nýja starfsmenntun.

Hér á Íslandi hafa áhrif alþjóðavæðingarinnar birzt með öðrum hætti, áhyggjum yfir því hvaða áhrif hún muni hafa á íslenzka tungu og menningu og sjálfsvitund þjóðarinnar. Hvort þetta litla mál- og menningarsvæði geti staðið af sér holskeflu alþjóðlegra menningaráhrifa. Það hefur ekki sízt verið Morgunblaðið sem á allmörgum undanförnum árum hefur hvatt til umhugsunar um þessi áhrif alþjóðavæðingarinnar á Íslandi. Í því sambandi hefur blaðið varpað fram spurningum um, hvort verja ætti miklum fjármunum til þess að talsetja allt efni, sem sýnt er á sjónvarpsstöðvum og í kvikmyndahúsum. Þessi viðhorf hafa lítið verið rædd á hinum pólitíska vettvangi, eins merkilegt og það nú er.

Við Íslendingar höfum á þessum áratug opnað land okkar fyrir áhrifum alþjóðavæðingar í efnahagsmálum og fjármálum að verulegu leyti. Áhrifin hafa fram til þessa verið jákvæð. En hvað gerist ef við göngum lengra? Sagt er, að með EES- samningnum getum við nýtt okkur nánast allt það bezta, sem fylgir aðild að ESB en losnum við hið neikvæða. Sjávarútvegsfyrirtæki okkar fjárfesta í vaxandi mæli í öðrum löndum á sama tíma og við bönnum erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi hér. Hversu lengi komumst við upp með þetta? Hvaða áhrif mundi það hafa, ef við leyfðum erlendar fjárfestingar í íslenzkum sjávarútvegi? Mundu útgerðarfyrirtækin í Hull og Grimsby, svo að notað sé orðalag Morgunblaðsins sjálfs fyrr á árum, kaupa upp íslenzk útgerðarfyrirtæki og leggja þannig undir sig fiskveiðilögsögu okkar?”

Allt hefur þetta verið mikið umræðuefni í Morgunblaðinu, enda sú áskorun sem við blasir. Um þetta þarf að fjalla af hófsemi og ábyrgðartilfinningu, án öfga og upphrópana. Það er eina leiðin til þess að við náum tökum á umhverfi okkar - og þá ekki síður sjálfum okkur. Í þessum efnum gildir einnig sú hressandi afstaða sem Hannes Hafstein hefur í kvæði sínu um storminn, Ég elska þig stormur sem geisar um grund..., en þar fjallar skáldið um þjóðfélagslegt áræði og tekur upp hanskann fyrir storminn, en ekki feyskna fúadrumba. Undanskilið að sjálfsögðu að stormurinn ráði ekki við þann sterka gróður sem á rætur í djúpri jörð mikillar og frjósamrar arfleifðar.

Brezki utanríkisráðherrann, Crossland, sem nú er að komast í einhvers konar tízku í Bretlandi og talað um crosslenzkan sósíalisma sem var miklu frjálslegri en gamli þjóðnýtingar-marxisminn, hafði forystu um að semja við okkur Íslendinga um 200 sjómílna lögsögu og tók þá mikla áhættu, enda var kjördæmi hans í Hull eða Grimsby og samningarnir sættu gífurlegri gagnrýni þeirra kjósenda Verkamannaflokksins sem þar bjuggu og áttu allt undir sjósókn - og þá ekki sízt togaraveiðum í Norðurhöfum. Mér skilst margt af þessu fólki hafi farið á vonarvöl eða eigi fátæktina einna helzt sameiginlega nú um stundir, enda missti það fótanna gjörsamlega. En Crossland benti á að þróunin gæti orðið sú að mikill fiskvinnsluiðnaður blómstraði í framtíðinni í þessum fyrrnefndum kjördæmum og átti þá áreiðanlega við samstarf Breta og Íslendinga í skjóli þeirrar alþjóðavæðingar sem nú er orðin staðreynd hvarvetna. Crossland dó á bezta aldri og upplifði ekki þá þróun sem hann talaði um í þessum efnum. Hann var dæmigerður brezkur stjórnmálamaður síns tíma, Einar Ágústsson utanríkisráðherra sem samdi við hann fyrir hönd Íslands komst svo að orði að hann hefði ekki getað keppt við hann því að Crossland var alltaf búinn að fá sér fyrsta sjússinn snemma að morgni, en ég ekki fyrr en undir kvöld, sagði Einar!

Þá er vikið í Reykjavíkurbréfinu að baráttu okkar gegn gjafakvóta og fyrir því að festa hugtakið þjóðareign í sessi, eða eins og segir í Reykjavíkurbréfinu: “Í okkar huga er fyrst og fremst um að ræða tvenns konar eignarrétt, ríkiseign og einkaeign. Í lögunum um fiskveiðistjórnun frá 1984 voru fiskimiðin nefnd sameign þjóðarinnar. Margir hafa gert lítið úr þessu lagaákvæði. Við nánari skoðun kemur í ljós, að þetta hugtak á sér mörg hundruð ára gamla sögu í lagahefð ekki sízt engilsaxneskra þjóða. Í Bandaríkjunum eru fjölmargar almannaeignir, sem ekki teljast í ríkiseigu heldur í almannaeigu og ákveðnar reglur, sem gilda um þær. Í umræðum um fiskveiðistjórnarkerfið hér má segja, að örlað hafi á hugmyndum um, að hugtakið sameign þjóðarinnar gæti orðið vísir að nýrri tegund eignarréttar, þar sem um væri að ræða eignir í almannaeigu eins og fiskimiðin eru lögum samkvæmt. Hugmyndir Giddens um endurskilgreiningu ríkisvaldsins tengjast augljóslega þessari hugsun að nokkru leyti.”

Að lokum er ekki sízt ástæða til að huga að hugmyndum Giddens um aldur og elli, en það er að verða brýnt viðfangsefni eins og þróunin hefur orðið. Í Reykjavíkurbréfinu er því lýst með þessum hætti: “Í fyrirlestri Giddens í Háskóla Íslands komu fram athyglisverðar nýjar hugmyndir, sem hann tengir við þriðju leiðina svonefndu. Dæmi um það var umfjöllun hans um öldrun og stöðu aldraðs fólks. Hið hefðbundna kerfi á Vesturlöndum er að starfslok fólks verði á árabilinu 60­70 ára. Hér á Íslandi er það við 70 ár, þótt fólk geti hætt fyrr og öðlast lífeyrisréttindi fyrr. Í kringum þetta grundvallaratriði hefur svo verið byggt upp lífeyrissjóðakerfi og önnur kerfi, sem við þekkjum.

Giddens vekur hins vegar athygli á því, að við verðum að líta á öldrun í nýju ljósi. Að verða gamall er ekki það sama og áður. Það sé hægt að hafa svo mikil áhrif á það, hvernig við verðum gömul. Læknavísindin koma til sögunnar með nýjar leiðir. Lífsstíll fólks hefur breytzt. Í stuttu máli: við höfum það sjálf í hendi okkar að töluverðu leyti hvernig við eldumst og hvenær við verðum gömul. Í samræmi við þetta lýsti Giddens andstöðu við hefðbundnar reglur um starfslok.

Almenningur hér hefur talað um þessar hugmyndir Giddens um langt árabil og löngu áður en hann kom hér og lýsti þessum skoðunum. Manna á meðal hefur lengi verið spurt hvers vegna fólk eigi að hætta störfum, þótt það sé við beztu heilsu og í fullu fjöri. Og það má spyrja: hvers vegna? Eru þetta ekki einfaldlega gamlar og úreltar hugmyndir? Er ekki eðlilegt að fólk geti unnið fulla vinnu á meðan það hefur heilsu til? Mundi það ekki jafnframt létta mjög á kostnaði þjóðfélagsins, sem margir hafa vaxandi áhyggjur af, vegna þess hve stór hópur þjóðfélagsþegna er hættur störfum? Hér er Giddens raunverulega að tala um grundvallarbreytingar á því tryggingakerfi um afkomu fólks, sem byggt hefur verið upp á Vesturlöndum.”

 

Í tengslum við sögu okkar og hugvísindi, og þá væntanlega einnig arfleifðina, er ástæða til að hafa í huga það sem segir í dálítilli umfjöllun Ólafs Rastricks, einnig í blaðinu í dag undir fyrirsögninni Sagnfræði hins einstaka, einsaga um dagbók eða sjálfsævisögu Magnúsar Hj. Magnússonar, skáldsins á Þröm, en hann er víst aðalfyrirmyndin að Ljósvíkingnum og er nú sjálfur einn á ferð í sýnisbók Sigurðar Gylfa Magnússonar, en í greininni segir m.a.: “Sigurður Gylfi er jafnframt upptekinn af þeirri sérkennilegu skírskotun sem líf Magnúsar hefur til persónu Ljósvíkingsins. Samspil dagbókarinnar og texta Laxness verður honum tilefni til að velta upp sambandi sagnfræði við raunveruleika fortíðarinnar og því hvort sögulegur skáldskapur sé ef til vill betur til þess fallinn að koma fortíðinni til skila við nútímann. Þannig geti listræn sköpun skáldsins á stundum opnað fyrir gleggri skilning á tíðaranda og kringumstæðum heldur en vísindalegar aðferðir sagnfræðingsins.

Tilkall Sigurðar Gylfa til sagnfræðilegs sannleika fyrir hönd hins einstaka og fyrir hönd skáldskaparins er áleitið söguspekilegt vandamál fyrir iðkendur sagnfræði. Vandinn snýr ekki eingöngu að því hvernig sagnfræðin getur gefið sem sannasta heilstæða mynd af fortíðinni, heldur líka að því hvers eðlis sannleikurinn er. Eru kannski til margir ósamstæðir sannleikar sem eru frekar háðir orðræðu þess sem starir í söguna heldur en fortíðinni sjálfri?”

Þegar ég las þennan pistil mundi ég eftir því að ég hafði rekizt á það í þessari bók að Magnús Ljósvíkingur var á sínum tíma ásakaður um alvarlegt ofbeldi, þ.e. nauðgun, en hélt því ævinlega fram að hann væri sárasaklaus af þeirri ákæru. Hann var ekki einungis fyrirmynd skáldsins í Heimsljósi, heldur einnig að sjálfsögðu barnakennarans, eða farandkennarans sem dúkkar upp bæði í Heimsljósi og Sjálfstæðu fólki, en honum fylgja hin verstu afglöp, eymd og upplausn, en þó einkum afmeyjun barnungra stúlkna sem bíða þess aldrei bætur að þetta fyrirbæri kvaddi dyra í afskekktum hjörtum þeirra. Líklega eru þetta einhver áhrif frá upplifun skáldsins á Þröm án þess þó það sé með öllu ljóst, en þetta eru að minnsta kosti sérkennilegir þættir í þessum skáldsögum báðum; einkanlega stendur þessi freisting sem ótrúleg andstæða þeirrar breytni sem Ljósvíkingurinn tíðkaði í umhverfi sínu, og ekkert var að minnsta kosti lengra frá fegurðarhugtaki alþýðuskáldsins en þessi ljóti blettur á ferli hans - og skiptir þá engu máli hvort hann “mátti gera það” - eða ekki! Sjálfum finnst mér þessar uppáferðir hálfgerðar skothendingar í skáldsögunum báðum, en þær voru það þá kannski einnig í lífinu sjálfu.

En það vantar ekki svona vendingar í rímur Sigurðar Breiðfjörðs. Þannig segir um meydóminn í 57. erindi 8. Jómsvíkingarímu:

 

En hans dóttur Ingibjargar

arma spenna

um myrka nótt svo megi ég farga

meydóm hennar.

 

Ódagsett

Finnst þetta athyglisverðir punktar sem ég rakst á:

Þeir Jose Maria Aznar, forsætisráðherra Spánar, og Javier Solana, framkvæmdastjóri NATO, heilsuðust mjög innilega á hátíðarfundi bandalagsins fyrir skömmu og það var eins og þeir væru að segja, að Spánverjar almennt væru miklir NATO-sinnar. Það eru þeir þó ekki segir Fernando Lopez Agudin. Spánn hefur verið aðili að NATO frá 1982 en þá ákváðu stjórnvöld að ganga í bandalagið án þess að bera það undir landsmenn. Olli því m.a. misheppnuð tilraun hersins eða hluta hans til að ræna völdunum. Reiddust margir þessari ákvörðun og enginn  eins og Solana sjálfur. Maðurinn, sem nú stendur í stafni NATO-fleysins, byrjaði nefnilega feril sinn með því að fordæma stríðsæsingar bandalagsins og með því að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina. Þegar Solana og félagar hans í Sósíalistaflokknum komust svo til valda nokkrum mánuðum síðar ventu þeir sínu kvæði í kross. Þá létu þeir sem vind um eyru þjóta þótt 100.000 manns krefðust úrsagnar úr bandalaginu og fögnuðu uppsetningu NATO-flauga í Evrópu. Þegar þjóðaratkvæðagreiðslan var loks haldin 1986 voru landsmenn orðnir svo utangátta í málinu, að 40,3% þeirra sátu heima á kjördag og aðildin var samþykkt með 52,5% atkvæða. Síðan hafa spænskir leiðtogar, sem vilja gjarna láta í sér heyra á alþjóðavettvangi, unnið að æ nánara samstarfi við bandalagið. Nú fylgjumst við með því full aðdáunar þegar Solana, sjálfur “Júdas” á meðal okkar, kveður sér hljóðs á NATO-sviðinu miðju.

 

MORÐIÐ á Jill Dando (brezku sjónvarpskonunni) var hörmulegt, segir Joan Smith í The Independent on Sunday, en þrátt fyrir það er erfitt að átta sig á og útskýra þann gífurlega harm, sem gagntók landa hennar. Allt í einu var “gæska” hennar á allra vörum eins og hún hefði “helgað líf sitt fátækum”. Samt var hún bara metnaðarfull sjónvarpskona.

“Það var líka nóg,” segir Bryan Appleyard í The Sunday Times.

Sjónvarpsfólk nú á dögum sér einfaldlega um að miðla umheiminum til áhorfandans. Fólkið sjálft skiptir orðið meira máli en það, sem verið er að segja okkur. Berum til dæmis saman þá Richard Dimbleby og Trevor McDonald. Dimbleby var aldrei einn af okkur: “Hann var upphafinn og fjarlægur en kunni þá list að færa okkur heimsfréttirnar.” Aftur á móti fannst flestum sem þeir þekktu hinn viðfelldna McDonald. Það átti jafnvel enn betur við um Dando en hún og Desmond Lynam báru sigur úr býtum þegar spurt var hvaða nágranna fólk vildi helst eiga sér. Í þessu sjónvarpsfólki sameinast hversdagsleikinn (við sjálf) og glæsileikinn (sem við þráum). Þau eru ímynd þess, sem við viljum vera. Þegar almenningur harmaði örlög hennar var hann “ekki aðeins að syrgja hana, heldur sjálfan sig”. Guðsgjöfin hennar Dando var einmitt hversdagsleikinn, segir Allison Pearson í Evening Standard. Hún kom okkur til að trúa því, að frægðin væri “lýðræðislegra fyrirbæri en hún er í raun og veru”. “Eðlileg góðsemi” hennar hafnaði þeirri hugmynd, að fræga fólkið þyrfti að  vera kuldalegt, kaldhæðið og yfir aðra hafið.

“Samt sem áður, segir Nigella Lawson í The Observer, var þessi opinberi harmagrátur skammarlegur. Sjúkleg tilfinningasemi af þessu tagi gerir dauðann að eins konar verslunarvöru: “Við kaupum blóm, sendum kort, grátum saman og hjúfrum okkur hvert að öðru.” Að láta sem þetta eigi eitthvað skilt við óbærilegan sársauka ástvina hennar er beinlínis klúrt. Á þessari grófu sjálfselskuöld viljum við gjarna halda, að “sorgin” okkar sé nokkur huggun þeim, sem þekktu hana best. Svo er ekki. “Við erum engir þátttakendur í sorginni, bara boðflennur.”

(The Week)

 

2. júní, miðvikudagur

Til okkar komu bræðurnir sr. Örn Bárður og Friðrik Jónssynir vegna smásögu sr. Arnar sem birtist í Lesbókinni og talsverður hvellur hefur orðið um vegna þess að Davíð Oddsson gagnrýndi það við byskup að prestur sem segði fullum fetum í smásögu að forsætisráðherra væri landsölumaður gæti ekki auðkennt sig með því að hann væri fræðslustjóri þjóðkirkjunnar…..

Allt er þetta smásögumál hið pínlegasta, ekki sízt fyrir okkur. Við töldum þá bræður á að leita hófanna hjá Davíð áður en sr. Örn tæki ákvörðun um næsta leik. Friðrik, bróðir hans, sem er stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins, segir illþolanlegt að bróðir hans þurfi að ganga í gegnum slíka niðurnægingu sem raun ber vitni, en taldi þó með okkur og sr. Erni skynsamlegt að sr. Örn reyndi að fá áheyrn hjá Davíð og kanna hvort ekki væri unnt að ná sáttum í málinu. …

 

 

Ég veit ekki af hverju þeir bræður komu til okkar Styrmis, líklega í því skyni að óska eftir afsökun vegna þess að Morgunblaðið birti umdeilda mynd í sögunni þar sem Davíð þekkist greinilega. En ég hafði áður sagt í fjölmiðlum að myndbirting þessi væri mistök og í þeim ummælum fólst að sjálfsögðu afsökunarbeiðni af hálfu blaðsins. Davíð svaraði því aftur á móti til á sínum tíma að myndin væri eðlilegt framhald af sögunni, hún segði ekki annað en það sem í sögunni stæði. Sr. Örn vildi ekki taka undir það, enda væri talað almennt um starfsheiti í sögunni en enginn nafngreindur.

Ég vona bara að niðurstaða fáist í þessu máli sem allir geta við unað því að við eigum að sjálfsögðu okkar sök og hef ég gert Gísla Sigurðssyni rækilega grein fyrir því, en hann birti myndina án þess telja neitt athugavert við það. Að vísu skilst mér hann hafi ekki séð hana almennilega áður en hún birtist vegna þess að hann skoðaði hana bara í lélegu tölvuformi. En hvað um það. Við sjáum hvað setur. Sr. Örn á áreiðanlega eftir að hafa samband við okkur aftur.

 

3.. júní, fimmtudagur

Við Styrmir áttum ágætt samtal við sr. Pálma Matthíasson, formann landsliðsnefndar í handbolta, Þorbjörn Jensson, landsliðsþjálfara, og Geir Sveinsson, handboltamann, í hádeginu í dag. Þorbjörn hafði kvartað mjög hastarlega yfir því að hann væri hundeltur af íþróttafréttariturum Morgunblaðsins og af þeim sökum var Sigmundur fréttastjóri deildarinnar viðstaddur. Þeir kvörtuðu talsvert í upphafi, en síðan féll allt í ljúfa löð og allir viðstaddir voru á einu máli um það að íþróttafréttir Morgunblaðsins bæru af því sem gerðist í öðrum prentmiðlum, t.a.m. Dagblaðinu. Það hafði sérstaklega farið fyrir brjóstið á Þorbirni að Morgunblaðið hafði ítrekað minnzt á það, hvort hann yrði ekki rekinn vegna ósigra liðsins undanfarið og viðurkenndum við að sjálfsögðu að slíkt væri bæði ósanngjarnt og ósmekklegt.

Ég vonast til að þessi fundur leiði til þess að gott samstarf takist milli Morgunblaðsins og handboltamanna enda eiga þeir vonandi í vændum mikla keppni og spennandi á alþjóðavettvangi, en um það verður dregið í júní við hverja við keppum. Og ef vel tekst til gætum við unnið leikinn í september, en þetta er víst útsláttarkeppni svokölluð. Ef vel tækist til gætum við lent í alvörukeppni um Evrópumeistaratitilill.

 

4. júní, föstudagur

Flutti í dag svofelldan pistil yfir sumarfólki á Morgunblaðinu.

Frávik

Hvers vegna skyldi Morgunblaðið nú vera prentað í 55-60 þúsund eintökum og meðallestur þess 62,7%. Hvers vegna sækist fólkið í landinu eftir því að fá Morgunblaðið í hendur og lesa það?

Þrátt fyrir allt og allt hefur íslenzka þjóðin löngun til að kynnast því sem er markvert; afla sér fróðleiks. Og þá helzt í því blaði sem bezt er treyst til þess að fara rétt með staðreyndir. Það er að minni hyggju sú einfalda ástæða þess að vettvangur okkar heitir samkvæmt almannarómi “blað allra landsmanna”. Þangað er sótt þegar menn vilja vera nokkurn veginn vissir í sinni sök. Það er ekki sízt af þessum sökum sem starf okkar allra er mikilvægt.

Og hvers vegna treysta menn Morgunblaðinu. Jú, það er vegna þess að það er ekki blað frávikanna. Frávikanna? spyrjið þið, hvað á hann eiginlega við?

Því hefur verið haldið fram, að frétt sé frávik frá hinu venjulega eins og komizt er að orði. Mér er til efs að þetta sé einhver alhliða skilgreining á hugtakinu frétt.

Frávik frá hinu venjulega getur að sjálfsögðu verið hnýsileg frétt. En hitt er miklu mikilvægara að frétt getur einnig verið frekari upplýsingar; fróðleikur. Frétt þarf alls ekki að vera frávik, síður en svo. Hún getur fjallað um útgáfu bókar, afmæli, leiksýningu, brautskráningu stúdenta og að lóan sé komin. En hún getur svo auðvitað einnig fjallað um frávik frá hinni hversdagslegu venju, t.a.m. ef einhver tæki uppá því að bíta hund. En vel að merkja, það getur einnig verið frétt ef hundur bítur mann. Spyrjið bréfberann í Kópavogi sem neitaði að bera út póstinn í ákveðið hús þar í bæ vegna hundsins sem ógnaði honum og glefsaði í hann.

Við morgunblaðsmenn lítum svo á að “það venjulega” eigi skilyrðislaust erindi við fólk ef það er fréttnæmt á annað borð, þótt það sé ekki frávik eins og nauðganir eða morð, heldur einungis hversdagsleg atvik sem eru forvitnileg af ýmsum ástæðum. Ég tel aftur á móti að frávik sé einatt efniviður í svokallaða æsifréttamennsku og oftar en ekki afsökun fyrir henni. Og þótt frávikin teljist fréttnæm er alltaf ástæða til að fara varlega í sakirnar og aldrei nauðsynlegt að gera meira úr þeim en efni standa til þótt slík vinnubrögð séu oft og tíðum freisting þeirra sem þurfa að hafa söluna í huga þegar þeir sitja við tölvuna.

Ef fjölmiðill á að vera trúverðugur spegill umhverfis og samtíma verður hann að sýna alla myndina, en ekki einungis þá afskræmingu sem frávikið fjallar oftast um.

Lífið er dýrlegast í hversdagsleika sínum, hinni venjulegu uppákomu. Nýtt skip getur verið fréttnæmt, aflabrögð og aðalfundur Granda, hvalablástur og margvísleg atvik úr hversdagslífinu. Fréttamennska þarf ekki, svo er guði fyrir að þakka, að vera svartur galdur; hún er ekki síður hvítur galdur eins og það sem er jákvætt, fróðlegt, uppbyggilegt og ástæða til að fagna. Hneykslin eru þó gómsætust, veit ég vel. Ávirðingar annarra sem sætta okkur betur við sjálf okkur, þær eru einatt frávik.

Hitt er svo annað mál að frávik innan hversdagslegrar venju eru oft og tíðum mestu fréttirnar. Alvarleg slys, óvæntar vísindauppgötvanir, geimferðir; fyrsta sporið á tunglinu. Hin sjúklegu frávik eru annað og alvarlegra efni; morð, meiðingar, ofbeldi. Ég óttast því miður að of margir fréttamenn nú um stundir telji sér einna skyldast að koma þessum frávikum til skila og þá ekki sízt þeim mistökum og víxlsporum sem geta eyðilagt líf þeirra sem létu freistast, og því miður, einnig líf saklauss fólks sem tengist ógæfufólki með ýmsum hætti. Fréttamaður sem tekur slíkar fréttir ekki nærri sér er á rangri hillu. Hann ætti að starfa á öðrum vettvangi en þeim sem er hverjum aðgátsmiklum og varfærnum blaðamanni dýrkeypt reynsla í hvert skipti sem starf hans krefst þess að vegið sé að æru og lífshamingju þeirra sem í ógæfu lenda, og þá ekki síður aðstandendum þeirra. Þeir eiga ævinlega um sárt að binda, þessi saklausu fórnarlömb frávikanna.

Það eru að vísu margar skýringar á óvenjulegri útbreiðslu Morgunblaðsins. En það sem ég hef nú sagt eru fyrsta, annað og þriðja boðorð blaðsins. Og ég er þess fullviss að útbreiðsla þess er ekki sízt með þeim hætti sem raun ber vitni, vegna þess að fólkið í landinu hefur, þrátt fyrir allt og allt, meiri áhuga á því sem er jákvætt og uppbyggilegt en hinu sem er hráefni meinfýsni og miskunnarleysis, eymdar og ógæfu.

 


 

 

6. júní, sunnudagur

Hef nú lokið umfjöllun um Hrafnkötlu í Helgispjalli og ætla að birta þrjú kvæði úr síðustu ljóðabók minni meðan ég er að átta mig á næsta viðfangsefni. Líklega tek ég kafla úr bók minni um Gunnlaug Scheving, en ég held hún sé afarlítið þekkt. Myndir Gunnlaugs prýða nú kápu nýrrar símaskráar og er því vel við hæfi að kynna hann dálítið rækilega í Morgunblaðinu.

Kvæðið sem ég birti í dag heitir Hvaða skáld hefur ekki blandað falsi í vín sitt? Titillinn er sóttur í Zaraþústra eftir Nietzsche. Ég breytti einu orði í kvæðinu vegna ábendingar Árna Jörgensens og er það góð breyting, þótt lítil sé. Í ljóðabókinni segir í fyrsta vísuorði annars erindis kvæðisins: Hvort er ég sem heiður máni í ljósinu milda frá þér… Þessu breytti ég á þann hátt að ég tók sem-ið út og með því móti verður kvæðið djarfara en ella. Ég hafði haft sem-ið vegna þess mér fannst það nauðsynlegt vegna hrynjandinnar, en við nánari athugun verður hún óskemmd þótt þessu smáorði sé sleppt. Í kvæðum má litlu muna og það er ekki sízt skemmtilegt við þau, að litlu orðin skipta jafn miklu máli og þau stóru. Aðalatriðið er að muna að hvert orð er dýrt eins og Kiljan benti á og nauðsynlegt að öll orð, stór og smá, séu á sínum stað. Betra er að hafa þau ekki, en þeim sé ofaukið. Það er náttúrulega dálítill munur á því hvort maður er eins og heiður máni eða hvort maður er heiður máni, en hið síðara er djarfara, frumlegra og ekki sízt af þeim sökum æskilegra.

 

Hef verið að skrifa leikrit með hliðsjón af samtölum sem ég hef átt við gamla vini mína, fyndist það skemmtilegt ef vel tækist til um þessa leiksögu.

 

Hitti Þorstein frá Hamri á Bergstaðastrætinu í dag. Ég var á heilsubótargöngu og staldraði við fyrir framan hús Elíasar Hólm. Þá kom Þorsteinn með fimm ára gamla dóttur sína. Ég sagði honum frá Elíasi, Þorsteinn sagði, Ég held maður muni eftir samtölum þínum við hann. Maður man annað eins!

Ég spurði hvað dóttir hans væri gömul. Hann sagði fimm ára. Það er gott að yngja sig upp með þessum hætti. Bezt ég segi henni Hönnu það, sagði ég og spurði hvernig hann hefði það.

Gott, sagði hann. Við búum á Njarðargötunni og þar er ágætt að vera, en umferðin hefur aukizt mikið, svo og hávaðinn. Hvað er hægt að gera við þessari þróun?

Ekkert sagði ég. Eina ráðið kannski að láta fólkið hafa það svo skítt að það hafi ekki efni á að kaupa bíl!

Það má ekki rífa svona söguleg hús, sagði hann. Það er alltaf hætta á því.

Hvaða hús, sagði ég.

Húsið hans Elísar Hólm, og benti.

Ég samsinnti því og svo kvöddumst við.

 

Orti þetta kvæði um daginn með skírskotun í ljóð sr. Ólafs á Söndum:

 

Mig hafa ljóð þess listamanns

langseminni svipt

(Stefán í Vallanesi)

 

Í fornöld var sungið um svanna

en séra Ólafur kvað

um Krist sem er konungur manna

og kominn úr helgum stað

og enginn efast um það

vort líf sé hans í höndum

og hjarta hans athvarf vort

eins og sóknarprestur á Söndum

hefur sjálfur margsinnis ort

um guðs eigið gullna port,

að sonur Máríu mæti

megi ég tengjast við þig

svo að eg Guð minn gæti

glatt í þér sjálfan mig,

tryggð lát og trúnað sannan

traust halda hvern við annan,

 

þá bregður öld við aðra

þótt óvinur Guðs sé naðra,

eitruð og ógnvænleg.

 

 

 

Bláa eyjan

Leiksaga af astralplaninu

Hann gengur eftir astralplaninu. Hann er hikandi. Hann svipast um. Hann horfir á lítinn fugl sem syngur. Hann hlustar.

Sögumaður:

 

Ef ég man rétt sá ég þig síðast á sjónvarpsloftneti einhvers staðar í námunda við Ásmundarsafn. Mér er nær að halda að það sé rétt hjá mér.

Fuglinn hættir andartak að syngja og hann gengur áfram nokkur skref, en hikandi. Það er eins og hann sé ekki búinn að átta sig á umhverfinu. Hann horfir á blómin. Hann tekur upp tvo eða þrjá fífla og ber þá að vitum sér. Stingur einum í hnappagatið.

 

Sögumaður:

Þetta minnir á fifílbrekkurnar heima. Þú manst eftir þeim.

Hann bíður eftir svari. Fuglinn byrjar að syngja aftur.

Hann horfir á konu sem kemur inn með hund í bandi. Hún bíður eftir því að hann ljúki sér af. Þá tekur hún plastpoka og hirðir upp hundaskítinn. Lokar plastinu og setur það í annan stærri plastpoka. Hún svipast um.

Sögumaður:

Þetta er alveg eins og á Klambratúninu

 

Þá kemur í ljós öskutunna og holdgrannur maður hálfur ofan í henni. Hann er með hatt. Hann týnir úr tunnunni og setur í plastpoka. Hann tekur ofan og heilsar.

Öskutunnu-maðurinn:

Það er góða veðrið í dag. Og alltaf munur að heyra fuglasönginn.

Konan með hundinn gengur að tunnunni. Hún setur plastið í tunnuna. Maðurinn með hattinn gengur vandræðalega í burtu.

Sögumaður lítur enn til fuglsins.

Sögumaður:

Þetta er alveg eins og heima, enginn munur. Og við tveir eigum einnig margt sameiginlegt, kannski allt. Ég hélt fyrst að mig væri að dreyma en nú veit ég að ég hef farið sálförum og hingað er ég kominn. Það er merkilegt hvað astralplanið er líkt veröldinni. Það mætti raunar vera ólíkara því að við þurfum á himninum að halda eins og jörðin er á sig komin.

 

Hvítur hestur

í huga mínum,

legg við hann beizli

berbakt þreysi

að sofnum augum

þínum,

 

Sesam

 

ljúk upp, það er vor

veturinn liðinn,

 

laufið hikandi þeyr.

 

Hesturinn hneggjar,

það er hálfmáni úti.

 

Ekkert svar,

aðeins biðin.

 

Og skugginn

deyr

við hvítan skugga

af hesti sínum.

Hann heldur áfram og þá kemur gömul kona í ljós. Hún húkir eins og ringluð og það blæðir úr andlitinu á henni. Hjá henni standa tveir mnenn og reyna að stugga við henni.

 

 

Sögumaður:

Einkennilegt að hitta ykkur hér.

Þórður læknir

Það er ekkert einkennilegt. Við vorum kallaðir hingað til að hjálpa henni.

Eyjólfur málari:

Já, og svo hittumst við hér.

Sögumaður:

Þið eruð báðir á astralplaninu.

Þórður læknir

Það var einhver sem bað okkur um að hjálpa henni.

Sögumaður:

Hjálpa henni við hvað?

Eyjólfur málari:

Að deyja!.

Sögumaður:

Nú, veit hún ekki að hún er dáin?

Þórður læknir

Nei, hún hefur ekki gert sér grein fyrir því? Hún er búin að húka hér í hálfa öld en nú er víst komið að því að hún haldi áfram. Hún fórst í bílslysi.

Konan:

Ég get ekki haldið áfram, það blæðir úr mér.

Eyjólfur málari:

Það er löngu hætt að blæða. Þú ert komin yfir um!.

Konan:

Yfir um, yfir hvert?

Þórður læknir

Yfir á astralplanið. Þú fórst í bílslysi.

Konan:

Ó, guð minn góður! En það blæðir enn úr höfðinu á mér

Eyjólfur málari:

Nei, það er löngu hætt að blæða.

Sögumaðurinn:

Haldið þið að þið getið komið henni í skilning um hvar hún er?

Eyjólfur málari:

Þú ert á astralplaninu, góða mín.

Konan:

Ó, guð minn góður, astralplaninu? Hvað er nú það?

Þórður læknir

Þangað fara hinir dauðu.

Konan:

Hinir dauðu?!

Sögumaður:

Segið henni að hún sé komin í guðsríki.

Eyjólfur málari:

Já, þú ert komin í guðsríki.

Konan:

Nú, það hljómar betur. En hvernig stendur þá á því að einn er hálfur ofan í öskutunnunum, en annar með hundaskít í plasti.

Sögumaður:

(Grípur framí.) Þetta er alveg eins og á jörðinni.

Konan:

(Örg.) Það er nú eitthvað annað en manni var lofað.

Sögumaður:

Já en það skánar þegar þú ert komin lengra.

Mennirnir leiða hana áfram. Sögumaður snýr sér að fuglinum.

Sögumaður:

Þetta er víst það sem kallað er helvíti. En við skulum ekki fást um það. Við skulum halda áfram að syngja fyrir fíflana.

Lítur í kringum sig.

Sögumaður:

En þarna stendur Þorbergur og horfir á eftir gömlu konunni. Ég sagði honum á sínum tíma frá þessu atviki og hann sagði ekkert annað en, Þarna sérðu! Ég hef alltaf verið að segja þér þetta.

Þórbergur:

Já, ég gerði allt til að opna augu þín. Og nú sérðu að það er allt rétt sem ég sagði.

Sögumaður:

Það ber víst ekki á öðru.

Þórbergur:

Ég er búinn að fara um allt. Ég er búinn að heimsækja Bláu eyjuna. Og það er allt heldur betra en fyrirheitin, nema náttúrulega hér. Eins og þú sérð þá ríkir þetta hlutleysi hér sem Dante talaði um. En það er nú eitthvað annað en hans helvíti. Það var hvergi til nema í brjóstinu á honum sjálfum. Ég sagði þér þetta alltaf, það er hugarfarið sem skiptir máli. Ég hef rekizt á hann hérna á sífelldu róli og það er engu líkara en hann sé bæði með parkinson og alzheimer. Ég sagði þér alltaf það væri betra að gera sér réttar hugmyndir um ástandið hér fyrir handan. En hvernig stendur á því að þú ert allt í einu kominn?

Sögumaður:

Ég fór sálförum.

Þórbergur:

Nú, einmitt! Þér er sem sagt að fara fram. Þú spurðir mig einhvern tíma hvort ég héldi að ég mundi vakna hinu megin. Ég sagði við þig, Ég held ég sofni aldrei. Og þannig var það. Ég sofnaði aldrei. Ég áttaði mig strax. Ég hef aldrei gengið aftur, ekki að ráði.

Sögumaður:

Og hvernig var það svo að deyja.

Þórbergur:

Það var svo sem ekki neitt, alls ekki neitt. Aðalatriðið er að gera sér grein fyrir landslaginu, eins og nú er sagt. En þeir eru víst fáir sem eyða tímanum í svoleiðis óþarfa. En það eru fleiri en Dante sem líða af einhvers konar kompásskekkju hér á þessu plani, já, þeir eru margir eins og ég var alltaf að segja þér. En það hlustar aldrei neinn.

Sögumaður:

Sástu konuna með hundinn?

Þórbergur:

Já, og einnig þann sem var í öskutunninni. En ég hafði mestan áhuga á þeirri gömlu sem áttaði sig ekki. Hún er lifandi sönnun þess sem ég var alltaf að reyna að koma á framfæri. Líklega hefur hún nurlað einhverju saman,. ég gæti bezt trúað því. Ætli hún hafi ekki verið með hugann við budduna sína. Þeir sem eru með hugann við hana, geta ekki áttað sig nema á löngum tíma. Og þeir eru erfiðir draugar ef þeir snúa við og halda ekki áfram.

Sögumaður:

Já, þú nefndir þetta oft.

Þórbergur:

Og hafði rétt fyrir mér eins og ævinlega. Draugagangur er erfiður fyrir alla, ekki sízt drauginn.

Sögumaður:

Er hann einnig slæmur hér á þessu plani?

Þórbergur:

Já, hann getur verið það. Þú sást þá gömlu, eða hvernig heldurðu að henni hafi liðið? Og þú sást kallinn í öskutunninni? Hann er búinn að vera þar í tæpa hálfa öld. Þetta rót í öskutunnum var orðið að brennandi ástríðu sem hann hefur ekki enn losnað við. Þú átt áreiðanlega eftir að rekast aftur á hann hér á planinu því það eru margar tunnur hér, ekki síður en hinumegin.

Sögumaður:

Og hver hreinsar þær?

Þórbergur:

Enginn. Það þarf ekki að hreinsa sjónhverfingar.

Sögumaður:

Er hann þá blekking.

Þórbergur:

Allt hans æði er blekking, sjónhverfing. Það er hún sem við köllum draugagang. Þú sást konuna með hundinn. Hún er ekki með neinn hund. Hún heldur bara að hún sé með hund. Þegar hún dó var hundurinn orðinn ástríða hennar og hún hafði áhyggjur af honum. Stórviðburður hvers dags í lífi hennar var að fara með hundinn á Klambratún og leyfa honum að ganga til kukks. En hún er svo hreinleg að hún er alltaf með plastið með sér.

Sögumaður:

(undrandi.) Og hún heldur þessu áfram hér?

Þórbergur:

Já, að sjálfsögðu. Ég hef verið að reyna að tala við hana, en það gengur erfiðlega. Ég hef verið að segja henni það sama og ég sagði þér á sínum tíma, að það væru málglöp að segja, að það sé erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Svoleiðis tala menn ekki á Bláu eyjunni. En það er erfitt að kenna gömlum hundi að húka sem merkir: að hægja sér. En þú skalt aldrei taka þér í munn að kenna gömlum hundi að sitja því það er lokleysa. Það þarf ekki að kenna gömlum hundi að sitja. Það er það eina sem hann kann og getur. Það eina sem hann gerir af sjálfsdáðum. En blessuð konan getur ekki skilið það, ekki frekar en aðrir.

Nú leynir sér ekki að einhverjir eru að koma. Þórbergur horfir inn í tómið. Þeir bíða.

Sögumaður:

Á hvað ertu að góna, Þórbergur?

Þórbergur:

Ég er að góna inní eilífðina.

Sögumaður:

Nú, er hún þarna einhvers staðar?

Þórbergur:

Að sjálfsögðu. Og þarna koma þeir út úr eilífðinni.

Mennirnir tveir sem fóru með gömlu konuna koma nú aftur og eru hálf framlágir.

Þórbergur:

Þetta var erfitt?

Þórður læknir

Já, það var erfitt.

Eyjólfur málari:

Ætlaði aldrei að takast.

Sögumaður:

En tókst þó að lokum?

Þórður læknir

Já, hún er farin að átta sig.

Eyjólfur málari:

Og þá getur hún haldið áfram.

Þórbergur.

Hún áttar sig þegar hún kemur á Bláu eyjuna.

Þórður læknir

Við rákumst á læk.

Eyjólfur málari:

Yndislegan læk.

Þórður læknir

Og þvoðum á henni andlitið.

Eyjólfur málari

Allt blóðið í burtu.

Þórbergur:

Og þá fór hún að átta sig.

Þórður læknir

Já, einmitt.

Þórbergur:

Þegar sjónhverfingin, eða blekkingin, hafa verið þvegnar burtu, þá fara menn að átta sig. Það er gömul reynsla og bregzt aldrei.

Sögumaður:

Og er hún þá hólpin?

Þórður læknir

Maður skyldi halda það.

Sögumaður:

Og þið ætlið þá til baka?

Eyjólfur málari:

Já, nú er erindi okkar á astralplaninu lokið að þessu sinni og við getum haldið áfram að sofa eins og ekkert sé. Og á morgun vöknum við eins og ekkert hafi gerzt.

Eyjólfur málari:

Eins og það hafi verið svo sem ekki neitt.

Sögumaður:

Þórbergur, hvernig væri að þú syngdir fyrir okkur um sósurnar?

Þórbergur:

Nú, af hverju það?

Sögumaður:

Til að halda uppá þetta afrek sem mennirnir hafa unnið. Það er ekki á hverjum degi sem kraftaverk eru unnin hér á astralplaninu.

Þórbergur:

Við tölum ekki um daga hér. En ég get svo sem vel sungið fyrir ykkur kvæðið um sósurnar, það á vel við hér á planinu því að hvergi eru betri sósur en hér. Þær minna einna helzt á bruggið hans Eyjólfs málara. Þú manst nú líklega eftir því hvernig hann bjó til þennan yfirgengilega líkkjör úr blómum og fjallagrösum, hann var eins og huldufólkslíkkjör og áhrifin engu lík nema alsælu.

Sögumaður:

Já, hvort ég man!

Þórður læknir

En okkur er ekki til setunnar boðið.

Sögumaður:

Bíðið bara meðan Þórbergur syngur um sósurnar.

Eyjólfur málari:

Ef hann byrjar þá strax.

Meðan Þórbergur syngur um sósurnar gengur karlinn í öskutunninni framhjá og heilsar konunni með hundinn sem hægir sér við fíflana, en hún hreinsar upp eftir hann og setur í plastpoka eins og áður. Gamla konan kemur hikandi og svipast um. Hún horfir til fuglsins sem er byrjaður að syngja. Hún týnir fífla og ber að vitum sér. Hún lítur til mannanna sem kenndu henni að átta sig á umhverfinu.

Á meðan syngur Þórbergur um sósurnar, laglaus.

Þórbergur:

Sósurnar koma sunnan að.

Sósurnar trítla norðan að.

Sósurnar labba austan að.

Sósurnar ærslast vestan að.

 

Sósurnar brjóstar utan að.

Sósurnar bulla’ upp innan að.

Sósurnar falla ofan að.

Sósurnar smjúga neðan að.

 

Sósurnar æxlast alls staðar,

allri mannkind til bölvunar,

öllum um stund til ununar,

öllum þá loks til þjáningar.

Sögumaður:

En þú gleymdir síðasta erindinu.

Þórbergur:

(Hrekkur við.) Æ-já, ég gleymdi því víst. Bíddu nú við, ja, ætli ég hafi það ekki.

Hann syngur síðasta erindið en á meðan hverfa þeir sem þarna voru, allir nema sögumaður.

Þórbergur:

Tak frá mér, guð, allt sósusull,

seyddar steikur og þvílíkt drull.

Gefðu mér á minn græna disk

grautarsleikju og úldinn fisk.

 

En nú skulum við halda áfram. Ég ætla að sýna þér hvernig allt velltist á þessu plani. Eins og var þegar við vorum uppi á okkar bezta á jörðinni og leituðum þess viðstöðulaust að það væri satt sem sagt var, að maður væri manns gaman.

Þeir halda áfram inní myrkur, en svo birtir og allt er baðað í sólskini.

Þórbergur:

Þetta er Bláa eyjan.

Sögumaður:

Það munar ekki um það!

Þórbergur:

Og nú skal ég leiða þig á fund gamalla vina okkar sem hér eru. Og þú getur upplifað það sem var eins og það sé og það sem er eins og það verði alltaf.

Þórbergur stanzar og tekur í sögumann. Þeir hika. Það heyrist ómur af ljóði.

Þórbergur:

Eins og ég sagði. Og þarna er hann enn einu sinni.

Sögumaður:

Hver?

Þórbergur:

En hann Dante, hver annar?

Dante fer með kvæði fyrir unga stúlku sem grillir fyrst í en verður svo ljóslifandi í allri sinni fegurð.

Dante:

Því jörðin mín er öllum hnöttum betri

og eilíft sumar grænkar líkt og nú,

en þú ert sjálf sem vor að loknum vetri

og veröld mín er himnesk eins og þú.

Steinn gengur til hans, bandar honum frá sér.

Steinn:

Nei, hættu nú, ekki meir! ekki meir!

Sögumaður:

Hvur er þetta?

Þórbergur:

Nú, Steinn auðvitað. Hann er orðinn leiður á þessu. Hann er að reyna að segja honum að hætta.

Dante:

Skiptu þér ekki af þessu, íslenzka skáld. Ég tek ekkert mark á hortittasmiðum á sauðskinnsskóm.

Konan:

Gott hjá þér, Dante.

Þórbergur:

Þarna heyrirðu. Hann hefur verið að reyna að heilla hana í 500 ár.

Sögumaður:

Það er ekkert annað!

Steinn:

Nú er komið nóg, eða hver nennir að hlusta á þessa mosavöxnu Ítali sem eru viðstöðulaust að lesa sama ljóðið og nú er orðin svo mikil fúkkalykt af því, að það minnir ekki á neitt annað en síkin í Feneyjum.

Steinn lítur á þá félaga, heilsar.

Steinn:

Þið hér, aldrei hvarflaði að mér að ég ætti eftir að hitta ykkur hér eftir allan þennan tíma.

Þórbergur:

Talaðu ekki um tíma, hann er ekki til. Ekki hér.

Steinn:

Nú, jæja, en hér er enginn friður.

Sögumaður:

Af hverju ertu að reyna að þagga niður í honum.

Steinn:

Vegna þess að hann lætur ekki þessa konu í friði. Þetta er stúlka sem ég kynntist í bók sem heitir Sjálfstætt fólk.

Sögumaður:

Jæja.

Steinn:

Já, og hún heitir Bera.

Dante:

Blaður og kjaftæði!

Konan flissar og tekur sig til. Dante heldur áfram og fer með kvæðið, en Steinn heldur fyrir eyrun.

Steinn:

Eigum við ekki að koma okkur héðan. Eða hvernig væri að setjast þarna við franska veitingahúsið og fá sér einn kalvadors.

Þórbergur:

Nei, ekki núna, ekki núna! Ég þarf að bregða mér frá, en kem aftur. Þið skuluð bara setjast og fá ykkur kaffi og með því. Ég fæ mér þorláksdropa með ykkur einhvern tíma seinna.

Þórbergu virðir konuna og Dante fyrir sér. Hann gengur í burtu hægt, en Steinn og sögumaður að gangstéttarkaffihúsinu. Setjast. Dante og konan hverfa.

Steinn:

Það er langt síðan við höfum sézt, samt er eins og það hafi verið í gær.

Sögumaður:

Já, í gær. En er það til, í gær?

Steinn:

Nei, kannski ekki.

Þeir tala saman við borðið. Það verður undarleg birta á planinu og engu líkara en hún komi neðan frá.

Steinn:

Það er meiri hofmóðurinn í þessum Dante, hann þykist vera eitthvað.

Sögumaður:

Já, ég heyrði það.

Steinn:

Það er engu líkara en hann hafi fengið pata af heimsmenningu hornstrendinga. Þú manst hvað ég sagði þér um þá á sínum tíma. Ef þeir fengu sendan emaleraðan kopp, þá stilltu þeir honum upp á stofuborð hjá sér.

Maðurinn í öskutunninni birtist hægt. Hann heilsar og fer ofan í næstu tunnu.

Steinn:

Einu sinni var stolið frá mér öskutunnu. Hún var nýmáluð og þeim hefur þótt hún falleg. En það hvarflaði ekki að mér að kaupa nýja tunnu, hvarflar ekki að mér fyrst þær eru ekki greiddar niður af ríkissjóði. Í mér býr ekki aðeins fól, heldur einnig bóndi. Og ég kaupi ekki annað en það sem er niðurgreitt. En öskutunnur eru samt bráðnauðsynlegar og það er eins og sumir hafi aldrei nóg af þeim.

Karlinn í öskutunninni gengur nú að konunni með hundinn. Hún er enn að hreinsa eftir hann í plastpoka. Dante hefur lát á lestrinum og er nú farinn að fylgjast með.

Sögumaður:

Hún líka komin aftur.

Steinn:

Já, hér ganga allir aftur. Það er eins og í lífinu sjálfu. Jú, þú manst eftir því sem Warhol sagði, að allir yrðu frægir í 15 mínútur. Hér ganga allir aftur í 15 mínútur. En samt eru hér engar mínútur, enginn tími.

Sögumaður:

Og samt ert þú þekktastur fyrir að hafa ort kvæði um Tímann og vatnið.

Steinn:

Já, einmitt, en það gleymist allt. Þú manst hvað ég sagði þér á sínum tíma, að Eggert Stefánsson hefði sagt, kæru vinir, hafið ekki áhyggjur af skáldskapnum, hann lifir en við munum deyja, það er allt og sumt.

Sögumaður:

En við lifum samt!

Steinn:

(hikandi.) Jáá, það er víst engu líkara. Dauðinn er einkennilegur eins og minningin. Kannski hef ég setið hér áður að drykkju í París eina kvöldstund fyrir mörgum árum, kannski hef ég gengið um göturnar í London einn sunnudag um messutímann og beðið þess að barirnir væru opnaðir. Einhvern tíma finnst mér að ég hafi verið á ferðalagi um Miðjarðarhafið um nóttu í miklu óveðri. Ég er ekki viss um þetta, en það er stundum eitthvað að þvælast fyrir mér. Aftur á móti hef ég hugsað mikið um dauðann. Dauðinn er eina staðreynd lífsins, sagði Hemingway. En það þýðir ekki mikið að hugsa, maður kemst aldrei að neinni niðurstöðu, það er reynsla mín héðan af planinu. Það væri t.a.m. ákaflega skemmtilegt að geta trúað á annað líf, eins og það var kallað  þegar ég var upp á mitt bezta, en dálítið erfitt, ég hef aldrei fengið neinar sannanir fyrir slíku. Nei, það hefur aldrei neitt komið fyrir mig. Ég hef ekki einu sinni séð draug. En það er nokkurn veginn öruggt að ég hef séð þessa konu áður, konuna með plastpokann. Konuna sem heldur að hún sé með hund. Þetta er eini hundurinn sem ég hef séð hér á planinu en mér er heldur vel við dýrin. Það var gott fyrir menn eins og mig að umgangast hunda og ketti. Ég átti einu sinni tík sem leyndi á sér þótt hún væri ekkert sérstaklega gáfuð. Hún var lítillar ættar og full alþýðleg fyrir minn smekk. Samt ágæt. Og við vorum einu sinni miklir mátar, en svo fór tíkin að fjarlægjast mig og ég fékk hálfgerðan klomplex af því. Hún hafði kynnzt stórum fressketti með blátt blóð og af því verð hún talsvert hofmóðug og hún lét mig finna fyrir því. Og svo hvarf hún með öllu. Það gengur svo. Þá fóru hundarnir í næstu húsum að koma í heimsókn. Þeir settust inn í eldhús, dilluðu rófunni, veltu vöngum og depluðu augunum. Það var alveg eins og þeir væru að segja manni einhverjar skrýtnar fréttir sem þeir vildu helst ekki að færu lengra. En mér líkaði verst við hænsnin. Þau eru alltaf hæsni á hverju sem gengur. Mér líkaði ver við þau en rotturnar í kjallaranum undir íbúð skrifstofustjórans í fjármálaráðuneytinu. Þetta var kompa. Svona kompur sjást ekki hér á astralplaninu. Það var ekki einu sinni klósett. Það hefði hentað ágætlega hér, því hér þarf maður aldrei að pissa.. En það var ótækt þarna í kjallaranum og ég varð að pissa í tómar brennivínsflöskur. Og þegar ég fór var ég búinn að selja allar bækurnar úr bókaskápnum en þeir voru þá fullir af brennivínsflöskum með þessum eðla vökva! En rottunum var alveg sama um þessar flöskur og það sem í þeim var. Þær klifruðu upp í bókaskáp eins og ekkert væri og duttu niður í rúmið og skriðu svo í skjól. Mér var alveg sama og lét það gott heita, en mér líkaði það heldur illa þegar ég var truflaður við að lesa Sjálfstætt fólk, þá vildi ég fá frið og njóta þess sem þar er boðið uppá. Þar er mikið kvennafar, eins og þú veizt. Og ég þekki menn sem hafa aldrei fengið það nema í bókum, en ég var svo heppinn að hafa dálitla reynslu af ástinni og þess vegna lét ég mér fátt um finnast. Og ég hélt áfram að elska Beru þarna í þessu umhverfi eða eigum við heldur að segja landslagi sem dregið er upp í sögunni af þeim lúsablesum sem þar er lýst.

Sögumaður:

Ég hef ofnæmi fyrir rottum, þær valda mér hryllingi.

Hann lítur í kringum sig skelfdur.

Steinn:

Nei, þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af rottum hér á astralplaninu, hér eru engin dýr. Og svo eru þær ekki sem verstar. Það er einkennlegt í þeim hljóðið og merkilegt hvað það getur verið fallega lýrískt. Stundum jafnvel eins og fuglasöngur í trjánum. En hvað sem því líður fékk ég mér rottueitur og setti það í skál á borðinu þarna í kjallaraholunni. Ég man það ekki lengur en ég held það hafi borið einhvern árangur. En hitt var merkilegra að Ásmundur frá Skúfstöðum fékk sér vænan mola af því þegar hann kom einhvern tíma í heimsókn. Það var von, þetta var eins og lagkaka, ágætt á bragðið en undarlegt að honum skyldi ekkert verða meint af því.

Þegar hér er komið sögu eru allir horfnir af planinu nema Steinn og Sögumaður, en þá kemur Þórbergur í ljós, gengur hægt og hikandi að þeim, stöðvar og leggur við hlustir en heldur svo áfram án þess virða þá viðlits.

Steinn:

Einu sinni orti ég kvæði sem hét Skemmtanalífið í helvíti. Það vakti litla athygli, enda hafði ég engan pata af því sjálfur. Ég hef ekki einu sinni rekizt á helvíti hér á planinu. En heyrðu, er þetta ekki hann Þórbergur.

Sögumaður skyggnir hönd fyrir auga.

Sögumaður:

Jú, það ber ekki á öðru. Hann er kominn aftur.

Steinn:

En hann er eitthvað hikandi.

Sögumaður kallar á Þórberg.

Sögumaður:

Komdu hingað Þórbergur. Það erum við.

Þórbergur stanzar.

Þórbergur:

Þið hverjir?

Sögumaður:

Við Steinn.

Þórbergur gýtur til þeirra augum.

Þórbergur:

Nú, þið Steinn, gott. Ég ætlaði að koma mér í burtu án þess mikið bæri á því ég hélt þið væruð rónar.

Steinn:

Það má nú kannski til sanns vegar færa. En komdu hingað og sestu.

Þórbergur:

Nei, seinna. Nú verðum við að hafa hraðan á því að þeir bíða hinir. Ég er búinn að hóa í þá.

Hann kveður Stein. Sögumaður stendur upp. Þeir ganga hægt burtu, en Steinn situr eftir við borðið.

Steinn:

Já, það væri ákaflega skemmtilegt að geta trúað á annað líf eins og þeir kalla það. En það er dálítið erfitt því ég hef aldrei fengið neinar sannanir fyrir slíku. Hér á planinu er nokkuð gott, en þó eru sumir svo leiðinlegir að þeir gætu drepið naut. Leiðinlegastur er Dante, já og svo auðvitað Ezra Pound, en ég sé hann bara svo sjaldan. En það er bezt að umgangast þá sem enginn þekkir og mér finnst skemmtilegast að fá mér í staupinu með þeim sem eru ekki sífelldlega að grípa frammí. Ég hefði sennilega getað orðið góður drykkjumaður þó ég segi sjálfur frá. Ég hef drukkið mikið og vel og lengi, bæði í Reykjavík, Kaupmannahöfn, Barsilóna, Stokkshólmi, London, París, Hveragerði og Moskvu og svo náttúrulega víðar. Það var mjög skemmtilegt. Það var eins og að sitja langt inní einhverjum dularfullum skógi þar sem ljósið kemur neðanfrá og tala við ókunna guði. Ég svaf aldrei en stundum þegar líða tók á nætur var ég gripinn óviðráðanlegri söngnáttúru, slíkt og þvílíkt kunni enginn að meta nema kannski ég sjálfur. Og samt er ég eins laglaus og Þórbergur. Einu sinni var mér neitað um afgreiðslu á stéttarkaffi í Madrid um miðja nótt sökum þess að ég var að kveða Krókarefsrímur fyrir konuna mína. Annars þykir mér vænt um Spán, þetta fagra og stolta land, þetta einmannalega og sorgbitna land hefur aldrei horfið úr huga mínum frá því ég leit það í fyrsta sinn.

Þeir hinir eru horfnir inní dvínandi birtu, en Steinn stendur upp og gengur að Dante sem nú horfir undrandi á hann, þögull.

Dante:

Er eitthvað að, íslenzka skáld?

Steinn:

Nei, ekki fyrst þú ert hættur að afvegaleiða þessa konu sem ég kyntnist fyrir margt löngu í einkennilegri skáldsögu um allskonar lúsablesa.

Dante:

Hún hlýtur þá að hafa verið íslenzk… sagan?

Steinn:

Já, ekki ber á öðru. Samt höfum við kveðið alla í kútinn sem hafa eitthvað verið að ybba sig. Krókarefsrímur eru góðar til slíks brúks. En það er rétt hjá þér, okkar þjóð, okkar þjóð. Ég er ekki viss um að við séum nein þjóð. Við erum miklu fremur nokkurs konar útilegumenn, …nokkurs konar útilegumenn.

Meðan Steinn talar við Dante og stúlkuna breytast þau í myndastyttur.

Steinn (heldur áfram): Fyrir um 1000 árum vorum við dæmdir til útlegðar á þessu eyðiskeri utan takmarka hins byggilega heims. Ég veit ekki hvað við höfðum til saka unnið eða hvað vakað hefur fyrir þeim mikla og ókunna dómara, en það hefur sjálfsagt verið gott og blessað.

Þau hverfa hægt af sviðinu, en Þórbergur og sögumaður koma í ljós, þeir skima í kringum sig en þá kemur miðaldra kona í ljós, höfðingleg og fasmikil og vindur sér að þeim.

Konan:

Ég hef séð þig hér áður, en ekki hann.

Þórbergur:

Já, við höfum sézt áður.

Konan:

En ert þú þá kominn yfir um líka, eða ertu ein af þessum blekkingum sem maður er alltaf að upplifa hér á planinu, viðstöðulaust.

Sögumaður:

Nei, nei, ég er hér bara í heimsókn. Ég flaug hingað í draumi eins og fugl.

Konan:

Fjaðralaus eins og vindurinn.

Sögumaður:

Já, já, alveg rétt.

Konan:

Þú áttir einu sinni langt samtal við mig og ég undraðist eftir á hvað þér tókst að bora þér langt inn í hjarta mitt.

Þórbergur:

Ég er ekki hissa á því. Hann er viðsjárverður.

Sögurmaður:

Nei, ekki viðsjárverður. Áhugasamur.

Konan:

Áhugasamur, það vantaði svo sem ekki. En voruð þið að tala við hann Stein. Ég mætti honum hér áðan.

Þórbergur:

Já.

Sögumaður:

Það var einkennilegt, það var eins og ekkert hefði breytzt. Ég átti við hann nokkurn veginn sama samtalið og fyrir mörgum árum.

Þórbergur:

Árum, það eru engin ár hér!

Sögumaður:

Eða fyrir, hvað á ég að segja margt löngu!

Konan:

Já, það var á þeim árum þegar hjarta mitt var óvarið.

Sögumaður:

Þá héztu Helga.

Konan:

Og heiti enn.

Þórbergur:

Hún hefur alltaf heitið Helga.

Þórbergur hverfur í bili en Helga situr í eldhúsinu sínu. Sögumaður gengur inn.

Sögumaður:

Þú ert hamingjusöm, Helga.

Helga:

Já, það er ég. Ég hef lagt allt mitt líf í hans stóru hönd og nú á ég börnin mín, jörðina og hænsnin. Þegar ég var ung stúlka og ósjálfbjarga á alla lund var mér kennt að bezta tryggingin væri sú að trúa á hann sem birtist okkur jafnt í regndropunum og hafinu. Komin á þennan aldur veit ég að sú trygging bregzt aldrei þó ekki hafi hún verið lögfest af þeim góðu mönnum sem landinu ráða. En komdu hingað inn, elsku beztu vinur. Ég skal gefa þér heitt kaffi. En það er ekkert hægt að spjalla við mig. Ég kann á engu skil og ekkert merkilegt við mína ævi, ja nema kannski þetta eina.

Sögumaður:

Já, þetta eina!

Helga:

Veiztu hvað það er?

Sögumaður:

Nei, en ég kom til að fá að vita það.

Helga:

Já, þú komst og svo stend ég hér eins og hvert annað ræfilsgrey í eldhúsinu, illa til höfð og allt í skít og hef ekkert að segja.

Sögumaður:

En þetta eina?

Helga:

Jú það er rétt. Og allt lagt í guðs stóru hönd og hún hefur varðveitt mig, það hlýja skjól. En komdu inn, elsku góðurinn minn, og ég ætla að gefa þér bolla af rjúkandi kaffi, það skaltu fá. Það er bara engin hlýja hér, skelfing bregður manni nú annars að hún Soffía skuli vera orðin köld.

Sögumaður:

Soffía?

Helga:

Já, það er miðstöðin okkar. Og nú er búið að taka hana úr þessu gamla hrófatildri, verið að setja einn og einn ofn í nýja húsið, ég er svolítið hreykin af því, þú verður að koma uppeftir og skoða það. Nú stend ég hér, glöð og hreykin og bendi þér á nýja húsið mitt sem kostar formúu. En tveimur dögum áður en ég var fermd lagðist ég milli þúfna og grét. Þá var ég nýbúin að læra þessar línur:

Því fjær sem heims er hyllin

er hjarta guðs þér nær.

Það bjargaði mér.

Sögumaður:

Þetta er góðlegt hús.

Helga:

Já, og í húsi föður míns eru margar vistarverur. Þú ert nú líklega búinn að kynnast því eitthvað á þessu ferðlagi?

Sögumaður:

Þú hefur haft mikið viljaþrek.

Helga:

Ég er bara eins og ánamaðkurinn. Skríð alltaf saman aftur. Viljaþrek, þú segir vel um það.

Sögumaður:

En þetta eina, Helga?

Helga:

Um það tölum við ekki. Mín mesta yfirsjón var að þykja vænt um vondan mann. Versta glappaskotið af mörgum stórum. En ég réð ekkert við það. Það er ekkert nýtt.

Sögumaður:

En af hverju ræður maður ekkert við svona smámuni?

Helga:

Ó, ef ég gæti nú svarað því!

Sögumaður:

Eiginmaðurinn?

Helga:

Nei, friðillinn minn. Láttu það fara, elsku góði vinur. Láttu það bara fara eins og það var. Ég hef vanið mig á að segja allt satt því að þeir sem eru heimskir hafa ekki efni á að skrökva.

Sögumaður:

Og var það nú ást, Helga’

Helga:

Því ekki það?

Sögumaður:

Og komin yfir hana?

Helga:

Enginn veit hvenær sálargarmurinn er kominn í samt lag og hvenær ekki. Ég er ágæt að staga í sokkaplögg, en það hefur tekið mig lengri tíma að bæta sálarhróið mitt eftir áfallið. En hvað á þetta eiginlega að þýða, ég sem hef börnin mín, jörðina mína, dýrin mín, störfin mín og vináttu margra. En hrakin kom ég hingað og einkennileg tilviljun að ég skyldi fyrst þegar ég kom hingað finna blóm sömu tegundar og móðir mín á Vatnsleysu gaf mér, þegar ég kom hrakin til hennar.

Sögumaður:

Hvaða blóm er það?

Helga:

Ranfang, það er ósköp góð lykt af því. Rétt eins og ástinni, en það var mín raun að kynnast henni. En sjaldnast ristir þetta neitt, hefur engin áhrif, skilur ekkert eftir. Það ætti að vera guðsþjónusta hvert sinn sem karl og kona verða eitt. En ég var alltaf að leita að hlýju. En við erum ekki nógu glögg þegar okkur er bent og önum áfram í blindingsleik. Það er ekki alls staðar hlýja þar sem leitað er að skjóli. Eitt sinn dreymdi mig að ég var að fara yfir fljót á ónýtri brú og komst yfir, en munaði litlu. Þegar ég er komin yfir stendur á bakkanum kona sem Guðlaug heitir og segir við mig: Þetta fór nú allt vel. Þannig var það einnig þegar ég kom hingað. Það munaði litlu, en fór vel.

Sögumaður:

Merkileg reynsla.

Helga:

Já og mig hefur dreymt marga drauma. En þessi draumur sem ég lifi nú er sá undarlegasti. Ég er alltaf að reyna að fóta mig en þá kemur einlægt eitthvað fyrir sem ruglar mig og ég missi fótanna og það er svo undarleg birta hérna og ég hef ekki enn fundið þá vistarveru sem mér er ætluð. En hann er víst kominn, hann Þórbergur vinur þinn. Gjörðu svo vel og fáðu þér kaffi, Þórbergur.

Þórbergur:

Nei, ég ætla að eiga það inni hjá þér þar til síðar. Það getur komið sér vel að eiga eitthvað inni. En við þurfum að halda áfram, þeir bíða.

Helga:

Hverjir?

Þórbergur:

Ja, gamlir vinir og samskrafsmenn.

Sögumaður:

Og svo verð ég að vera kominn aftur á morgun, þegar ég vakna.

Þórbergur:

Já, einmitt. Hann verður að vera kominn aftur áður en hann vaknar.

Þeir kveðja Helgu þar sem hún stendur í eldhúsinu og halda áfram inní í nýja óvænta birtu.

Stórt hús kemur í ljós.

Sögumaður:

Er þetta dvalarheimili?

Þórbergur:

Já.

Sögumaður:

Þá þykist ég vita að þú viljir ekki koma þar inn fyrir dyr.

Þórbergur:

Nú, hvers vegna ekki?

Sögumaður:

Þú hatar elliheimili.

Þórbergur

Já, það er rétt. Þau eru óhugnaður. Ellin er viðbjóðsleg. Ég hef aldrei þolað hana. Aldrei. Ég var heilsugóður fram að áttræðu og fann aldrei á mér neina elli. Sá sem er heilsugóður og hefur losnað við barnslúann getur verið eins og unglamb fram eftir öllu. Það á ekki að parkera honum eins og gömlum skrjóði á elliheimili.

Sögumaður:

Ertu enn þessarar skoðunar, kominn á þetta eilífa plan, astralplan eilífrar æsku?

Þórbergur:

Já, auðvitað. Ég hef alltaf sagt það sem mér hefur fundizt. Þeir voru svo vitlausir að þeir héldu að ég hefði uppdiktað söguna af því þegar ég varð óléttur. Að láta sér detta í hug að ég gæti búið svona nokkuð til, það er engu líkt! Alls engu! Að láta sér detta í hug að ég sé svo frumlegur að ég geti látið mér detta annað eins og þvílíkt í hug, það er merki um dómgreindarleysi. Fullkomið dómgreindarleysi. Það er svipað dómgreindarleysi og þegar þeir héldu því fram að draugar væru ekki til. Þú manst hverju ég svaraði, þegar við vorum í upplestrarferðinni á Laugarvatni og krakkarnir spurðu, af hverju draugar væru hættir að sjást, hvort þeim hefði farið aftur. Manstu hvað ég sagði þá.

Sögumaður:

Já, ég man það vel. Þú sagðir að það væri rétt, að þeir sýndu sig miklu sjaldnar en áður. Og þá varstu enn spurður hvort þeim hefði ekki farið aftur og þú svaraðir, Nei en mönnunum hefur farið aftur. Þeir eru hættir að sjá þá.

Þórbergur:

Þarna sérðu! Auðvitað hafði ég rétt fyrir mér. Þeim hefur farið aftur. En eigum við ekki að líta inn.

Sögumaður:

Í elliheimilið?

Þórbergur:

Þetta er ekki elliheimili. Þetta er dvalarheimili fyrir sjómenn og kemur elliheimili ekkert við. Þetta er fyrir þá sem drukknuðu eða voru næstum því drukknaðir. Þeir fundu ekkert endilega til neinnar elli. En þegar mér hætti til að langa í þorláksdropa sagði ég við sjálfan mig, Abupp! Ég er búinn að fá nóg! Og þá sagðir þú eins og út úr kýrrassi: Nóg? Já, sagði ég, nóg af lífinu.

Sögumaður:

Já, einmitt, það var þegar þú stóðst upp og spurðir mig hvort þú hallaðist. En þú hallaðist ekki mikið, bara svolítið. En þú hélzt því fram að það væri komin talsverð slagsíða á þig og þú værir farinn að draga fæturna.

Þórbergur:

Já, það var líka rétt hjá mér. Ég gekk svona.

Hann sýnir honum hvernig hann var farinn að draga fæturna og missa andlitið niður í bringu.

Þórbergur:

Það var þá sem ég sagði, Abupp! Þetta var búið.

Sögumaður:

Hvað?

Þórbergur:

Lífið. Og þá var ekkert framundan annað en endurholdgun. Líf, ný reynsla. Og nú fer að koma að því. En við skulum líta inn. Hér er Lási kokkur sem þú hefur alltaf haft mikið dálæti á.

Sögumaður:

Jæja, er hann hér, blessaður.

Þórbergur:

Já, ég hef séð hann hér fyrir utan.

Þeir ganga inn og Þórbergur kallar:

Þórbergur:

Lási! Lási!

Lási kemur hægt á móti þeim. Hann er í kokksjakka eins og notaðir voru á skipum áður fyrr.

Lási:

Þú kominn!

Þórbergur:

Nei, hann er ekki kominn. Hann er bara í heimsókn.

Sögumaður:

Sæll Lási.

Lási:

Það er langt síðan við vorum að kokka saman.

Sögumaður:

Já, langt síðan.

Þórbergur:

Hefurðu það ekki gott hér.

Lási:

Jú, ágætt.

Sögumaður:

Og hvort líkar þér betur hér eða á jörðinni?

Lási:

Mér líkar allt betur!

Sögumaður:

Þú meinar hvort tveggja, er það ekki Lási?

Lási:

Jú mér líkar hvort tveggja betur. En það var auðveldara að vera á trollurunum. Þar var meira hreinlæti og ég er ákaflega veikur fyrir hreinlæti eins og þú hefur kannski heyrt. Við þurftum að sækja kol og standa í ýmiskonar skítverkum sem voru ekki samkvæmt mínu upplagi.

Þórbergur:

Það þurftum við aldrei á skútunum.

Sögumaður:

En skítverkum?

Þórbergur:

Jú, að vísu. Og ég var sjálfur skítkokkur um tíma.

Lási:

Það hef ég aldrei verið. En það er gaman að fá ykkur í heimsókn. Má ekki bjóða ykkur konfekt?

Sögumaður:

Ertu með konfekt á þér?

Lási:

Já, alltaf með konfekt.

Þórbergur:

Það gerir blekkingin.

Lási:

Og koníak.

Þórbergur:

Eitt staup.

 

Lási dregur konfektið fram, setur koníaksglös á borð og býður þeim. Þeir skála.

Lási:

Ég gerði bókstaflega ekkert annað allan tímann sem ég var á sjó en þvo mér og skrúbba. Þið vitið hvernig þetta var í þá daga, allt sótt upp á bátadekk, saltkjöt og brauð og hvaðeina sem maður valdi ofan í þá, stundum í snarvitlausu veðri, og ef túrinn tók meira en hálfan mánuð stóð ég allan daginn í bakstri og þau voru annáluð hveitibrauðin, klattarnir og kleinurnar mínar. Stundum bakaði ég jólaköku. Viljið þið jólaköku?

Þórbergur bandar frá sér.

Lási:

Nei, þakka þér kærlega fyrir. Maður hefur alltaf þurft að sýna hæfileika sína í verki og það var ekkert annað að gera um borð en slegið með sleif í eldhúsinu allan daginn og veginn, hendurnar þvegnar, neglurnar burstaðar, settir upp vettlingar þegar þurfti að sækja kol niður í fýrpláss. Allt gekk samt prýðilega. Þeir blésu út eins og hvalir. En verst var hún þegar reiðarinn kom og ég þekkti hann ekki. Hann var að fetta fingur út í það hvað ég keypti mikinn mat. Ég sagði honum að halda kjafti. Hann lét ekki segjast. Ég steytti framan í hann hnefann svo hann hrökklaðist út og ég hrópaði  á eftir honum af öllum sálarkröftum, Hefurðu aldrei á sjó komið mannfýlan þín! Litlu síðar kemur skipstjórinn niður til mín og segir: Hvað er það eiginlega sem þú sagðir við reiðarann, Lási minn! Eftir það var ég kallaður Lási kjaftur. En sjáiði hvað ég er tandurhreinn um hendurnar, svona er ég alltaf, enginn skítur, engar sorgarrendur. Og sorgin hefur ekki fylgt mér, ekki einu sinni við jarðarförina.

Lási réttir fram hendurnar og þeir skoða þær og samsinna því sem hann segir.

Þórbergur:

Þú ert alltaf jafn friðsamur, Lási minn.

Lási:

Ég er ekki gefinn fyrir neina draslvinnu og ef þú skrifar um mig minningarorð mundu þá að segja að mér hafi alltaf líkað allt betur. Og svo blanda ég mér ekki í nein deilumál, geng bara um daginn og veginn og gef engum höggstað á mér. Ég er fæddur diplómat. En maður er svo sem fæddur eitt og annað, allt eftir því hver talar.

Sögumaður:

Þeir sögðu kallarnir hérna að þú væri orðinn sextugur.

Lási:

Sögðu þeir það? Þeir eru hraðlygnir.

Þórbergur:

Og hver heldurðu að sé lygnastur?

Lási:

Það veit ég ekki því ég hef ekki gegnumlýst þá. Ég vildi heldur lenda í sjávarháska en horfa á það sem kemur í ljós ef þeir væru gegnumlýstir í alvöru, hvað segja þeir að ég sé gamall?

Sögumaður:

Fjörutíu og níu ára.

Lási:

Jæja, segja þeir það. Borið saman við þá er ég auðvitað ekki nema fjörutíu og níu ára. Ég hef verið bindindismaður alla mína hundstíð og samt fylgist ég með þó að ég hafi ekki drukkið daginn og veginn.

Sögumaður:

En þú hefur ekki aðeins verið hreinn, Lási, þú hefur alltaf verið svo fínn í tauinu?

Lási:

Já, það hef ég verið og það er um að gera að vera fínn í tauinu, bæði utan og innan.

Sögumaður:

Og samt ertu ógiftur, Lási?

Lási:

Hvað áttu eiginlega við? Að ég sé ekki hamingjusamur, það er nú eitthvað annað! Ég hef að vísu alltaf verið piparkarl og aldrei gifzt neinni einni konu, heldur haft allar konur eins og daginn og veginn. Annars hef ég ekkert verið að hugsa um konur að staðaldri, takmark mitt í lífinu hefur aðeins verið eitt: að vera góður kokkur, helzt bezti kokkur landsins. Ég hef aldrei verið skítkokkur og alltaf verið góður inná mér. Hreinn og fínn, bæði utan og innan. En þeir voru það nú ekki allir sem ég hef kynnzt enda eru margir komnir  skemmra á planinu en ég. Það mátti svo sem búast við því. Einhver þeirra hefði haft gott af því að leggja sálartetrið sitt í bleyti, þó að ekki hefði verið nema yfir eina nótt. Og svo hef ég alltaf verið heilsugóður, aldrei legið einn einasta dag. Ódrepandi. Og eiginlega má segja að ég hafi dáið úr engu þegar að því kom. Ég drukknaði ekki einu sinni og ég var aldrei hræddur, ekki andartak. Ég var aldrei hræddur við að deyja, hvorki á sjó né landi. Ég gerði alltaf ráð fyrir planinu. En ég hélt að vísu það yrði fjörugra.

Þórbergur:

En það var nú aldrei beinlínis gert ráð fyrir því að það yrði fjörugt á Bláu eyjunni.

Lási:

Fjörugt, kannski ekki. En það mætti vera fjörugra. Annars finnst mér allt fjörugra, það er ekki svo að skilja og ég hef notið þess að lifa og deyja og skiptir ekki máli, hvort það hefur verið á deginum eða veginum. Annars hefði ég viljað taka upp einn sið, að það yrði lögfest að fólk þvoi sér upp úr spíritus einu sinni í viku, ekki sjaldnar.

Þórbergur:

Jæja, abupp þetta er gott. Nú er að halda áfram því tíminn líður þó hann sé ekki til.

Sögumaður:

En hvernig var það þegar þú fórst til Ítalíu.

Lási:

Alveg ágætt, en ég hitti aldrei Dante fyrr en ég kom á planið. Ég er alltaf að rekast á hann hérna einhvers staðar. Annars var ágætt á Ítalíu, alveg prýðilegt. Ég fór í leikhús, dýragarðinn og kassana og kynntist öllu sem er umtalsvert.

Þórbergur:

Og hvað þótti þér nú bezt.

Lási:

Allt bezt! En það var að vísu erfiðast í Portúgal því að þar voru þeir alltaf með krumlurnar niðri í vösunum á manni og vita vonlaust að geyma þar nokkurn seðil. En ég raðaði hlemmunum í vasana og þá hringlaði í, ef þeir ætluðu að ræna okkur. Aðalatriði að hafa ekki á sér peningaveski, það gat kostað mann lífið, ekkert minna.

Sögumaður:

Og þú slappst.

Lási:

Já, auðvitað slapp ég.

Sögumaður:

Þú ert hreystimenni, Lási.

Lási:

Já, er það ekki! En þó er ég annað frekar, góður kokkur.

Þórbergur:

Jæja, við eigum eftir að koma við hjá honum Ásmundi.

Lási:

Já, hann er stundum á rölti hér, ég hef hitt hann. Hann spurði mig einu sinni hvað mér þætti bezt. Ég sagði honum Allt bezt. En hann sagði þá langbezt. Ég sagði, Karbonaði. Hann sagði mér að hann væri alltaf að reyna að endurnýja sig. Þú veizt hvernig fer fyrir listamönnum, þegar þeir endurnýja sig ekki, það er eins og að missa heilsuna. Ég spurði, En ertu ekki heilsugóður, Ásmundur? Nei, ég er alltaf að missa heilsuna annars slagið, sagði hann.

Ég sagði honum þá söguna af því, þegar ég var eitt sumar á Nönnu. Það var gott að vera á Nönnu.

Sögumaður:

Ertu ekki löngu hættur því?

Lási:

Ha?

Þórbergur:

Já, hvar er Nanna. er hún hér á planinu? Ég hef ekki orðið var við hana.

Lási:

Nei, nei, hún er á hafsbotni, held ég. Við höfðum fengið stórgott kast og ég er búinn að gefa strákunum matinn og smyrja upp á kvöldið svo þeir geti fengið nóg að borða því þeir þurfa alltaf að vera að éta eitthvað, þessir sjómenn. Það er munur eða ég og þú sem fáum aldrei næði til neins. Klukkan þrjú um nóttina kemur strákur upp til mín og vekur mig, Það er komið snarvitlaust veður, segir hann, viltu ekki fara í fötin þín? Ég svara honum aðeins, Það liggur ekkert á, það er bezt ég gangi heldur vandlega frá öllu í eldhúsinu, áður en skipið ferst. Þá gengur mér betur að komast í himnaríki. Það hlýtur nefnilega að vera ákaflega hreinlegt þar.

Þeir líta í kringum sig.

Þórbergur:

Jú, svona fremur.

Öskutunnumaðurinn gengur framhjá. Konan með hundinn einnig. Hann fer ofaní öskutunnu, hún tekur upp plastpokann, hreinsar eftir hundinn gengur að tunnunni og setur plastpokann í hana. Maðurinn í öskutunnunni tekur ofan hattinn, hneigir sig.

Lási:

Fyrst þið eruð að fara ætla ég að hitta huldukonuna mína. Hún hefur aldrei yfirgefið mig. Hún segir að þetta sé allt draumur. Hún segist búa í steini. Hún segir að ég sé draumur í þessum steini.

Hann setur á sig hattinn, kveður og fer. Þau horfa öll á eftir honum. Lási lítur við, tekur ofan hattinn og veifar.

Lási:

Guð launar fyrir hrafninn.

Þau ganga sitt í hverja áttina, Þórbergur og Sögumaður ganga enn framhjá Dante og konunni og hlusta á sömu hendingar úr fyrrnefndu ljóði, halda síðan áfram og koma þar að sem Eggert Stefánsson er að prédika yfir Steini sem enn situr við sama borð og áður á gangstéttinni. Þegar þau nálgast kallar Dante til þeirra, en hann hefur hægt og sígandi verið að breytast úr myndastyttu og er farinn að hreyfa sig þar sem hann flytur konunni kvæðið með miklu handapati. Hann fylgist rannsakandi með þeim.

Dante:

Þið eruð komnir aftur. Þið hafið kannski rekizt á Virgil?

Þórbergur:

Nei, ég efast um að hann sé hér.

Sögurmaður:

Ferðalagi ykkar er löngu lokið.

Dante:

Því lýkur aldrei, aldrei að eilífu. Ef þið rekizt á hann, látið hann þá vita hvar ég er.

Hann heldur áfram að þylja kvæðið en hverfur að mestu inn í nýja dularfulla birtu. Það heyrist einungis ómur af lestri hans, þegar Eggert Stefánsson tekur við. Eggert bendir í áttina til Dantes.

Eggert:

Nú er ég í góðu skapi, já yndælu skapi. Það birtir í huga mínum þegr ég fæ þessa ítölsku sól. Þetta hlýtur að vera himnaríki á jörð fyrst mér þóknaðist að hitta Dante. En ég vissi ekki að hann væri enn að yrkja til Beatrísu.

Steinn ætlar að standa upp og  mótmæla.

Steinn:

Þetta er ekki Beatrísa, þetta er Bera.

Eggert ýtir honum aftur niður á stólinn.

Eggert:

Þetta er ítölsk sól og vertu nú rólegur. Það er ekkert eins stórkostlegt og fá sér ítalskt expressó og tala um póesíunna og listina og tala skynsamlega. Það er orðið svo sjaldgæft að menn tali skynsamlega. Getum við ekki gert það.

Þórbergur hrekkur við.

Þórbergur:

Nú, svo hann er hér. Ég er að hugsa um að draga mig í hlé. Það er ágætt að fá sér heilsubótargöngu fyrst hann er hér. Og nokkrar mínútur í jóga.

Eggert horfir á hann með fyrirlitningu.

Eggert:

Þegar við töluðum saman á sínum tíma sagði ég þér frá allri ræfladýrkuninni heima. Það er aldrei neinn friður. Aldrei.

Sögumaður:

Jú, ég man það. En það er langt síðan.

Eggert:

Nú og þá er eitt og hið sama. Það hefur ekkert breytzt. Bezt gæti ég trúað að hann stundaði ennþá heilsubótargöngur og jóga!

Það grillir í Þórberg þar sem hann er í joga-æfingum.

Steinn:

En hvað varstu að segja um drepsóttir.

Eggert:

Hvað er drepsótt? spyr Camus í Pestinni. Það er lífið, svarar hann, og hana nú. Mikið andskoti er þetta gott. Ég var andvaka heila nótt yfir þessum orðum. Ég sagði þér þetta allt á sínum tíma.

Sögumaður:

Já, ég man það að sjálfsögðu.

Eggert:

Það var þegar ég var á ferðinni heima og öllu hafði hrakað og ég sagði við þig, Ég veit ekki hvernig þessi borg er orðin, hingað kemur maður til síns fæðingarbæjar og verður að búa í úthverfi. Engum dettur í hug að gefa manni hús. Og ef maður fer í veitingahús er ekkert annað á boðstólum en lafskás eða friggasé. En nú er ég að hugsa um að segja ykkur dálítinn sannleika. Þetta verður að vera bæði sympatískt og pólerað til að fólk trúi því að ég hafi sagt það. Og alvarlegt umfram allt. Það þýðir ekki að tala neina tæpitungu við þessa þjóð, þessa kostulegu þjóð.

Hann sækir kassa og stígur uppá hann. Heldur nú áfram eins og hann sé að prédika.

Eggert:

Hér vita allir allt og hér kunna allir allt annað en það, sem þeir eiga að kunna. Rakarinn kann t.a.m. ekki að raka, en hann er mesti heimspekingur sem þið hafið hitt á lífsleiðinni, bankamaðurinn kann ekkert í bankastarfsemi, en hann er afbragðsleikari og trésmiðurinn er helvíti mikill bassi. Og fyrir bragðið vita allir allt. Þegar ég skrapp hingað heim eru menn að kenna mér allt mögulegt, meira að segja að syngja! En kæru vinir, þetta er kannski ekki svo slæmt, þetta er allsstaðar svona. Í Noregi voru þeir alltaf að kenna Ibsen að skrifa leikrit og í Bretlandi eru þeir enn að reyna að finna  höfundinn að leikritum Shakespeares. Í Reykjavík er ekki nógu tært loft og Tjörnin er gruggug. Það er allt og sumt. Hér er ekkert að lifa fyrir og ekkert að deyja fyrir, hér er tómt innihaldsleysi, engin dýpt í neinu, allt á yfirborðinu, jafnvel í listum. Hér eru allir eins og kötturinn, halda að heimurinn hafi orðið til, þegar þeir opnuðu augun. En samt er ég milljóneri, andlegur milljóneri. Það er betra en vera úttroðin peningabudda. Manni líður betur. Ég er ekki viss um að Rockefeller hafi verið milljóneri í anda. Samt átti hann mikla peninga. Samt var hann hugsuður. En síðasta áratuginn sem hann lifði gat hann ekkert borðið nema disk af hafragraut einu sinni á dag. Hann var ekki annað en historískur milljóneri. Ævi hans er áminning til þessa efnislega, uppblásna heims, þessa undarlega heims gervitungla og eldflaugna. Ákaflega tragískt, finnst ykkur ekki! Ég er alinn upp í fátækt. Ég hef alltaf lifað í heiðursfátækt, þrátt fyrir allt. Menn eru alltaf að tala um rósirnar, en það eru þyrnarnir sem gefa lífinu gildi. Þegar ég var á leiðinni ungur maður til söngnáms á Ítalíu kom ég við í Kaupmannahöfn og á leiðinni þangað frá Skotlandi vindur sér að mér maður á miðri leið, það var víst etatsráð Andersen hjá Ö.K. og hann segir: Hvad vil de blive? Ég svaraði: Jeg vil blive verdens berömt!. Honum fannst það auðvitað sjálfsagt og svaraði: Det er rigtigt, unge mand. Man skal sætte maalet höjt! En þetta skildi aldrei neinn heima, aldrei. Og það skilur enginn enn. Það eru allir frægir í bókum, en enginn í veruleikanum. Þeir ætluðu eitthvað að fara að púkka upp á mig í Brekkukotsannál og skírðu mig upp og sögðu ég héti Garðar Hólm og ég væri hvergi frægur nema í bókum.

Sögumaður grípur framí.

Sögumaður:

Það er engin frægð til lengur. Nú er enginn frægur nema í fimmtán mínútur.

Eggert:

En þessar fimtán mínútur eru dýrmætar og stórum betri en það sem ég þurfti að upplifa í Borgarnesi. Við fórum þangað í norðanroki og urðum sjóveikir. Hér er aldrei annað að hafa en andskotans rok enda er öll þjóðin orðin eins og karfi í framan af eintómri seltu. Ef Dante hefði þekkt þetta veður, ef hann hefði þekkt farþegaskipið Skjöld, sem við fórum með í Borgarnes, þá hefði það orðið sérstakur kvalahringur í helvíti.

Dante kallar frammí.

Dante:

Var einhver að nefna mig?

Eggert:

Nei, þú getur óhræddur haldið áfram að dreifa þessari ítölsku sól hér í þessu blá myrkri. En loks gátum við skriðið á land í Borgarnesi og náðum okkur fljótlega og fólk sá að það voru komnir sjentilmenn í plássið en þá tók ekki betra við. Okkur var ýtt inn í opinn blæjubíl eins og hverjum öðrum nautpeningi og ferðinni heitið í Norðtungu. En sama rokið og sami kuldinn. Þegar við vorum komnir upp í bílinn kynntist ég fyrir alvöru þessari margrómuðu siðmenningu þarna á norðurhjaranum, það er annars merkilegt hvað fólk sem étur mikið af sviðahausum getur orðið líkt sauðkindinni. Fyrir framan okkur er karl sem tuggði skro. Hann spýtti út úr sér í allar áttir og af því ég var svo lánsamur að sitja fyrir aftan hann lenti tuggan á mér svo ég hafði ekki við að þurrka af mér með poka sem ég náði í. En þegar ég var orðinn eins og kolmóðrautt jökulfljót af tuggunni hnippti ég í karlinn og spurði kurteisislega hvort hann gæti ekki spýtt á eitthvað annað en mig. Þá herðir karlinn upp í sér andagiftina og segir, Það er ekki ég, það er vindurinn. Og heldur áfram að spýta. Svo snýr hann sér að mér og ávarpar mig eins og hvern annan sauðaþjóf, Hver er maðurinn? Ég heiti Eggert, segi ég hvasst, og er Stefánsson. Já, einmitt það, segir karlinn, ertu kannski sonur hans Stefáns múrara? Þá opnaði ég rúðuna og spýtti hraustlega út í rokrassinn. Um nóttina gistum við í Norðtungu. Daginn eftir var farið ríðandi norður í Hrútafjörð en hestarnir voru ekki af betri endanum og þegar ég kom upp að Melstað var rassgatið á mér orðið eins og upprifið bænabókarkver. Þannig er allt á sömu bókina lært í þessu elskulega föðurlandi okkar og samt erum við svo stórir upp á okkur að við höldum að Cesar hafi búið í Grindavík og ekki haft annað fyrir stafni en rífa í sig þorskhausa. En loks komum við á eitthvert prestssetur sem ég man ekki lengur hvað heitir. Þar voru alveg yndisleg börn og ég hef hvergi verið í eins mikilli stemningu þar sem ég hef sungið. Sérstaklega var ég hrifin af elskulegum dreng sem starði hugfanginn á mig þegar ég söng í kirkjunni. En þegar ég hafði lokið söngnum dundi ógæfan yfir á nýjan leik eins og norðanbylur. Drengurinn sneri sér að föður sínum og sagði, Pabbi, sérðu járntönnina sem er uppí honum! Maður getur ekki einu sinni verið óáreittur með sínar gullplumbur fyrir þessari margnefndu íslenzku gestrisni.

Þegar Eggert er að ljúka þessari ræðu sinni kemur vinnustofa í ljós og Ásmundur stendur við myndverk, klappar því og virðir fyrir sér. Hjá honum stendur Gunnlaugur listmálari.

Ásmundur:

Allt er vígt dauðanum, blóm, jörð, menn. Dauðinn verður að vera óhugnanlegur. Við erum brennimerkt honum. Hann flæðir yfir allt. Þyrmir engu.

Gunnlaugur:

Já, það má víst segja.

Ásmundur tekur í nefið.

Ásmundur býður Gunnlaugi í nefið. Hann hafnar því. Þórbergur og Sögumaður ganga inn í vinnustofuna. Ásmundur gengur  að þeim og býður þeim í nefnið.

Ásmundur:

Ég var að segja við Gunnlaug að allt væri vígt dauðanum, blóm, jörð, menn. Að dauðinn yrði að vera óhugnanlegur því við erum brennimerkt honum. Hann þyrmir engu.

Þórbergur:

Það er enginn dauði á Bláu eyjunni. Hvað segir þú um það Gunnlaugur?

Gunnlaugur:

Það er langt síðan við höfum sézt? Þórbergur.

Þórbergur:

Það getur ekki verið langt síðan því það er enginn tími til.

Sögumaður:

Hvað sem dauðanum líður Gunnlaugur þá man ég eftir því að þú trúðir engu og allra sízt neinni tilvist á Bláu eyjunni. Ég hef aldrei heyrt neitt eða séð, sagðírðu, eiginlega ekki. Og ég er að eðlisfari heldur latur og þar af leiðandi ósköp áhugalítill um marga hluti. Ég hef ekki nennt að hugsa um þetta, mér finnst svo margt annað standa mér nær. Svo er ein ósköp af fólki sem liggur alla ævi yfir þessum eilífðarmálum, sem sagt þetta fólk starfar á því sviði, ég á öðru.

Þórbergur:

En núna? Hefur þetta ekki breytzt Gunnlaugur?

Gunnlaugur:

Nei, það hefur ekkert breyst. Af hverju ætti það að breytast?

Sögumaður:

Ja, hér á planinu!

Gunnlaugur:

Hvaða plani? Ég hef alltaf verið á sama plani. Ég hef aldrei skipt um plan og ég ætla ekki að fara að taka upp á því núna.

Ásmundur:

En samt er nauðsynlegt að staðna ekki. Hreyfing er mikilvægust af öllu. Maður má ekki vera frelsaður í stöðnuninni. Maður getur ekki fest sig í trúarbrögðum stöðnunarinnar. Þá hættir manni að fara fram. Ég er frelsaður! hrópar fólk. Það eru ósköp. Listin á að vernda okkur fyrir þesskonar frelsi. Stundum hefur mér jafnvel dottið í hug að guð sé baráttan. Slagkrafturinn. Og þroskinn sem fylgir átakinu.

Þórbergur:

Talaðu lágt. Hér nefna menn ekki þetta orð ótilneyddir.

Ásmundur:

Hvaða orð?

Þórbergur hvíslar.

Þórbergur:

Guð.

Ásmundur:

Má ekki bjóða ykkur í nefið. Það hafa margir troðist undir tröllslegum hófum stríðsófreskjunnar án þess nokkur gripi í taumana. Og nú er ég farinn að eldast. Mörg eru þau orðin tóbakskílóin sem farið hafa í nefið á mér. En ekki kvíði ég endalokunum. Ég beygi mig undir miskunnarlaust lögmál dauðans. Og ef eitthvað tekur við langar mig ekki til annars en að forma í eitthvert efni. Ég er allur í því.

Hann gengur að myndverkinu og fer að vinna við það.

Sögumaður:

Þú sagðir mér, Gunnlaugur, að þú hefðir aldrei séð neitt.

Gunnlaugur:

Nei.

Þórbergur:

Aldrei neitt.

Sögumaður:

Svo þú hefur þá aldrei séð draug frekar en Þórbergur?

Þórbergur hrekkur við.

Þórbergur:

Ha, ég?

Gunnlaugur jafn hissa.

Gunnlaugur:

Ha, hefur hann aldrei séð draug?

Sögumaður:

Nei, ekki að neinu gagni.

Gunnlaugur:

Jæja! Svo þetta eilífðartal var þá ekki byggt á neinni reynslu!

Sögumaður:

En þú?

Gunnlaugur:

Æ-nei, góði.

Sögumaður:

En hefurðu nokkurn tíma sótt andafund?

Gunnlaugur:

Nei, guð forði mér frá því.

Þórbergur:

Talaðu lágt góði. Hér eru mörg eyru. Og þetta orð nefnir maður ekki á þessu plani.

En Gunnlaugur heldur áfram.

Gunnlaugur:

Ég hef séð ljósmyndir af öndum og miðlum, það er léleg estetík að mér finnst. En það hefur hver sinn smekk. Mér er þetta alveg óviðkomandi.

Sögumaður:

Þú sagðir mér einu sinni að þú hefðir séð draug á einhverjum sveitabæ.

Gunnlaugur:

Jæja, sagði ég það.

Sögumaður:

Ég man ekki betur.

Þórbergur:

Já, góði, segðu okkur frá því.

Gunnlaugur:

Nei, það tekur því ekki. Það sem talið er óskiljanlegt eða yfirskilvitlegt á heima í þjóðsögunum. Sem slíkt er það öllu öðru skemmtilegra. Öll blekking er áskorun og það er hún sem ég hef fengizt við. Og ég hef upplifað hana eins og hvern annan veruleika. Eins og umbúðir utan um sýndarveruleika.

Þórbergur kveður þá, gengur að Sögumanni.

Þórbergur:

Hér þarf ég víst að kveðja þig. Senn skilja leiðir.

Sögumaður:

Nú, hvers vegna?

Þórbergur:

Af sömu ástæðu og leiðir Dantes og Virgils skildu þarna í skóginum.

Sögumaður:

Ert þú þá á leiðinni inn í skóginn?

Þórbergur:

Nei. Það er glas og ég hef tekið þá drastísku áskorun að endurfæðast.

Sögumaður:

Ha, endurfæðast. Þú átt við endurholdgast.

Þórbergur:

Nei, ég sagði endurfæðast.

Sögumaður:

Og hvað ætlarðu að verða?

Þórbergur:

Það er hinn djúpi leyndardómar Bláu eyjarinnar. Þeir hverfa allir, nema sögumaður.

Sögumaður:

Stundum er hugur minn leiksvið. Stundum veit ég að þessi sýning hefur endurtekið sig margoft. Það er einkennilegt hvernig ég hef upplifað þetta allt áður. Allt sem gerist hefur gerst einhvern tíma, einhvers staðar, í vöku eða draumi, jafnvel í bókum, og nú á ég bara eina sýningu eftir, áður en ég vakna. Kannski hef ég líka upplifað hana áður, hver veit.

Hann gengur í áttina að stóru tré sem syngur af fuglasöng. Hann beygir sig niður og tínir blóm.

Sögumaður:

Já, hver veit? Eða eins og segir í kvæðinu:

Í þessu blómi

birtist hugur minn

og brýtur sér leið

að þögn í hjarta þínu

og hún er laufgað tré

sem býður eitt um sinn

og brosir eins og lauf

við hjarta mínu.

 

Og blómin dansa blá

og rauð og gul

og bregða á leik við grös

í skugga trjáa,

þau svífa eins og sól

við túngrænt kul

og sólin kyssir blómin

milli stráa.

 

Og þannig ilmar allt í kringum þig

og augu mín þau sækja í bláa

blómið, þú réttir mér

kattarauga og sagðir,

Komdu hingað, komdu

og rífðu mig,

 

rífðu mig upp með rótum.

 

Hann horfir upp eftir trénu og hlustar.

 

Það birtir upp í sýningarsal Ásmundar. Þar eru allir þeir saman komnir sem hafa komið við þessa sögu. Það er ys í salnum og glaðværð. Sögumaður gengur inní salinn. Þórbergur tekur á móti honum.

Þórbergur:

Þú kominn hingað.

Sögumaður:

Og þú hér. Hvernig stendur á því, ég hélt þú værir farinn.

Þórbergur:

Nei, ég kom hér við, áður en ég endurfæddist. Það er nauðsynlegt að fá sér þorláksdropa fyrir svo langa ferð.

Sögumaður:

En ég hélt…

Þórbergur:

Já, þú hélzt. En maður á aldrei að halda neitt. Nú er gamlárskvöld og við höldum upp á það að venju.

Sögumaður:

En það er enginn tími til.

Þórbergur:

Nei, að vísu. En það skiptir engu máli. Hér höldum við uppá það sem ekki er til. Hér getum við haldið uppá hvaða blekkingu sem er. Gakktu inn og fáðu þér í glas og skemmtu þér, áður en við förum í ferðina löngu, þú í þína ég í mína.

Þeir fá sér í glas. Sögumaður gengur hikandi inn. Hann rekst á skáldið og fræðimanninn.

Jón:

Sæll vert þú.

Sögumaður:

Sæll. Hér er margt um manninn.

Jón:

Ég sé engan, nema okkur tvo. Allt hitt eru draugar og ég er að reyna að leika draug því að til þess er ætlazt í þessu verki.

Sögumaður:

Já, einmitt það.

Jón:

Vertu alls ókvíðinn. Nú látum við nótt sem nemur.

Lási kemur að þeim tveimur, en hinir hverfa hægt og sígandi inní nýja birtu.

Lási:

Þetta er lauf úr garði drottningar í London. Algjör toppur. Miklu merkilegra en laufið úr Eden. Miklu merkilegra en laufið sem Eva fékk eftir fallið. Taktu þetta og gefðu konunni þinni með kveðju frá mér.

Sögumaður:

Þakka þér fyrir, Lási, ég skal láta hana fá þetta frá þér.

Jón:

Það er gott að hafa eitthvað til að skýla nekt sinni með. Nauðsynlegt að vera ekki nakinn fyrir allra augum, hvorki á þessu plani né annars staðar.

Lási hverfur hægt eins og hinir, en þeir tveir tala saman.

Jón:

Ég er margbúinn að segja svissnesku sendiherrafrúnni að ég sé dauður, að ég sé Gespenst og hafi aldrei sagt orð af viti frá því um fertugt. En hún hristir bara höfuðið. Ég held hún sé hér einhvers staðar, eða hvað?

Þeir líta í kringum sig. Hann heldur áfram.

Jón:

Ég hitti fyrir nokkuð löngu konu í Englandi sem kynnti sig hálf hryssingslega með þessum orðum, Ég er skáld. En svona komast auðvitað engin alvöruskáld að orði. Það er ég líka, svaraði ég, og sagðist meira að segja vera dautt skáld. En þá sagði sú enska, Uss, ég hef dáið þrisvar sinnum! Og þá varð ég orðlaus. Ég held í fyrsta og síðasta skipti, bæði í lífi og dauða. Ég hef alltaf reynt að vera skrítinn, alltaf reynt að segja alla þá vitleysu sem kostur hefur verið á, en ég sé að þú ert miklu skrítnari en ég. En samt ertu óvenju þögull og ég veit af hverju það er, auðvitað veit ég það.

Sögumaður:

Nú af hverju?

Jón:

Vegna þess að þú vilt ekki slá mig út. Þú slærð mig út á þeirri stundu sem þú segir heila setningu. Djúpsálarfræðin segir mér að þú munir slá mig út um leið og þú opnar munninn. Konan með hundinn kemur aðvífandi, þá kemur í ljós að hún er sendiherrafrúin.

Sendiherrafrúin:

Þú getur ekki platað mig, það er ómögulegt. Ég er líka dauð, eins og þú!

Jón:

Jæja, ertu þá komin á þá skoðun, loksins.

Sendiherrafrúin:

Ó-já, og ég veit svo sem að allar konur eru skotnar í þér, en ég segi eins og Steinn ekki meir, ekki meir!

Sögumaður:

Þið eruð þar með komin á sama plan.

Jón:

Vissi ég ekki! En hvar er hundurinn?

Sendiherrafrúin:

Sérðu hann ekki, hann stendur hér við hliðina á mér.

Hundurinn er ósýnilegur, hann sést ekki. Samt heyrist gelt.

Sendiherrafrúin:

Heyrirðu ekki í honum?

Lítur í kringum sig.

Jón:

Jú en ég sé hann ekki.

Sögumaður:

Þú átt ekki að sjá hann. Hann er blekking.

Jón:

Blekking, já vissi ég ekki!

Jón snýr sér að sendiherrafrúnni.

Jón:

Sieu sind eine Weltdame.

Sendiherrafrúin fer hjá sér, beygir sig niður og þykist taka hundinn í fangið. Gengur hægt í burt, hálfringluð.

Jón fylgist með henni og þeir báðir.

Jón:

Þegar þar að kemur?

Sögumaður:

Þegar þar að kemur – hvað?

Jón:

Þegar ég hrekk upp af, máttu skrifa nekrólóg um mig og þú mátt hafa hann eins vitlausan og þú vilt. Ég vil að þú líkir mér við þá sem brenndu vestfirzka galdramenn. Ég hef alltaf dáðst að þeim. Það réð enginn við þá. Trú sem var forsenda þess maður brenndi næsta nágranna sinn var ekkert blávatn. Ég ber mikla virðingu fyrir slíkri trú, slíkum sannfæringakrafti. En mér er til að mynda meinilla við þig. Og ég veit það er gegenseitigt. En mér dytti aldrei í hug að brenna þig.

Sögumaður:

En ef þú bærir virðingu fyrir mér?

Jón:

Þá mundi ég auðvitað beita mér fyrir því, að þú yrðir brenndur. En sannfæringin fyrir meinillsku þinni er ekki fyrir hendi.

Sögumaður:

En hvernig hefurðu þá haft það hér á planinu?

Jón hrekkur við.

Jón:

Ha, planinu? Vissi ég ekki!

Hann lítur í kringum sig, hálfringlaður.

Jón:

Hvaða plani?

Sögumaður:

Nú, astralplaninu!

Jón:

Ha, astralplaninu. Hvaða plan er það?

Sögumaður:

Nú þetta, allt þetta sem er í kringum okkur.

Jón:

Ég sé ekkert í kringum okkur.

Sögumaður:

Það er einmitt astralplanið. En ég veit hún fer að lyftast á þér brúnin, þegar þú kemur á Bláu eyjuna.

Jón:

Þangað hef ég aldrei komið og þangað ætla ég aldrei að fara.

Sögumaður:

Þú endar þar, sjáðu til!

Jón lítur vandræðalega í kringum sig.

Jón:

Hefurðu séð sendiherrafrúna hérna, konuna með hundinn? Hvert fór hún?

Sögumaður:

Hún fór.

Jón reynir að átta sig.

Jón:

Heyrðu, ef þú hittir einhvern hérna sem segir hönum, láttu mig þá endilega vita.

Sögumaður:

Af hverju?

Jón:

Það er svo sjaldgæft. Mig hefur alltaf langað til að hitta einhvern sem segir hönum. Það var algengt áður fyrr, en nú afar sjaldgæft. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að ef ég hitti einhvern sem segir hönum, þá væri ég dauður.

Öskujtunnumaðurinn sést álengdar. Hann gengur hægt að þeim.

Öskutunnu-maðurinn

Komið þið sælir, félagar.

Hann lyftir hattinum.

Jón:

Hver er hann, þessi?

Sögumaður:

Ég er alltaf að rekast á hann. Hann er hér á planinu. Ég veit það ekki.

Jón:

Hvaða fjandans plani. Þú ert alltaf að tala um eitthvert plan.

Öskutunnu-maðurinn:

Já, það er rétt. Þetta er planið sem er hannað af hönum gvuði.

Jón:

Hönum gvuði! Ég er sem sagt dauður

Sögumaður:

Já, ég hef verið að reyna að segja þér það. Þetta er allt svo skrítið.

Jón sigrihrósandi.

Jón:

Þá er þeim áfanga náð.

Öskutunnumaðurinn tekur ofan, fer síðan ofan í tunnuna og kemur með plastpoka fullan af drasli. Jón og Sögumaður horfa á, agndofa. Öskutunnurmaðurinn gengur í burtu. Jón hleypur á eftir honum.

Jón:

Heyrðu, hvaðan ertu – hvaðan ertu af landinu? Bíddu andartak!

Öskutunnumaðurinn bíður eftir honum. Þeir ganga saman. En Sögumaður hlustar enn á fuglasöng, skiptir um blóm í hnappagatinu, fer með kvæði.

Sögumaður:

Tak vel við þreyttum

gesti þínum

 

jörð

 

lát hann njóta

næðis við þau blóm

sem prýða brjóst þitt

sól og bláu vori,

en lauf og fuglar

fljúga inn í þögn

 

tak vel á móti

gesti þínum

 

jörð

 

leið hann hægt

að hljóðum vötnum

þínum,

 

vængstórri þögn

og víðernum.

 

 

20. júní, sunnudagur

Bjart og fallegt veður, þó allnöpur gola úr vestri. Gekk frá Elliðavatni niður í Skógrækt í Fossovogi, fuglasöngur og grænt lauf. Hitti Helga Bernódusson í gufubaði í dag. Hann hrósaði kvæði sem hafði birtzt eftir mig í Helgispjalli fyrir hálfum mánuði. Hann sagðist hafa sagt við Halldór Blöndal niðri í þingi, hvort honum hefði ekki fundizt þetta gott kvæði. Halldór svaraði því til að hann væri alltaf tortrygginn á kvæði þar sem þín rímaði á móti sín! Ég sagði við Helga, Skilaðu því til Halldórs, frænda míns, að þetta sé alveg rétt athugað hjá honum. Ætli það sé ekki af þessum sökum sem Nú andar suðrið sæla… eftir Jónas Hallgrímsson er ónýtt kvæði, en því lýkur víst með þessum orðum: Þröstur minn góði, það er stúlkan mín – og rímar á móti þín!!

Þegar skáld ríma skiptir það helzt máli að rímorðin séu í svo sérstæðum tengslum við umhverfi sitt að engu er líkara en þau hafi aldrei verið notuð áður. Það er allt og sumt!!

 

29. júní, þriðjudagur

Geir H. Haarde borðaði með okkur Styrmi hádegisverð á Morgunblaðinu þriðjudaginn 29. júní og við áttum gott samtal. Hann sagði okkur undan og ofan af því sem er að gerast í pólitíkinni, en það var ekkert stórvægilegt eða nýtt. Hann nefndi tvö stórmál sem afgreidd yrðu innan tíðar, Landssímann sem yrði seldur og þá líklega útlendingum að hluta til, en annað færi á markað hér heima. Aðalatriðið væri að fólk hefði sannfæringu fyrir því að fyrirtækið yrði ekki gefið einum eða neinum. Þá var talað um sameiningu Íslandsbanka og Landsbankans. Styrmir sagðist hafa þær fregnir úr herbúðum framsóknarmanna að þeir eygðu þá lausn. Það kemur í ljós. Að öðru leyti sagði Geir að Fjárfestingarbankinn yrði að fara á markað, en hefur augsýnilega ekki gert sér grein fyrir því ennþá, hvernig að því verður staðið. Mér finnst á honum að hann teldi einna réttast að sparisjóðirnir tækju við bankanum, enda eiga þeir hvað mest í honum, að ríkinu undanskildu. Þó er ekki víst að forráðamenn bankans telji þetta beztu lausnina og ég held Styrmir hafi eitthvað heyrt um það.

Geir sagðist ekki telja að Davíð og Halldór hafi gert neitt samkomulag í tengslum við framhald ríkisstjórnarinnar; telur þó heldur líklegt að Davíð hætti á miðju kjörtímabili. Hann sagði að Halldór hafi einungis spurzt fyrir um það, hvort Davíð mundi hætta, en Davíð svaraði því til, að enginn þekkti sinn næturstað. Þessi spurning Halldórs Ásgrímssonar bendir þó til þess að honum sé engan veginn sama um framvinduna, enda sagði hann Davíð að mynda yrði nýja ríkisstjórn, ef formaður Sjálfstæðisflokksins hætti stjórnarforystu á miðju kjörtímabili. Ekki er ólíklegt að þá muni hann ætla sjálfur að taka við stjórnartaumunum. En það veit þó enginn og lagði Geir áherzlu á það. Ef svo færi sagði Geir þó, að sjálfstæðismenn yrðu að fá viðbótaráhrif í ríkisstjórninni, og þá líklega með þeim hætti að þeir fengju fleiri ráðherraembætti en framsókn. Um ekkert af þessu hefur þó verið samið eins og við Styrmir héldum fyrir ekki löngu og óvíst hvort Davíð sjálfur veit, hvort hann heldur áfram eða ekki. Flestir telja þó líklegt að hann hætti á kjörtímabilinu, enda verður hann þá búinn að slá öll þau met sem hugsazt getur og verið forsætisráðherra á Þingvöllum árið 2000. Lengra getur metnaður íslenzks stjórnmálamanns ekki náð – eða hvað?.

Geir H. Haarde er sallarólegur eins og venjulega og léttur í skapi. Það er ævinlega gott og gaman að tala við hann. Hann hafði þó áhyggjur af því að Morgunblaðið mundi snúast gegn virkjun á hálendinu, svo nauðsynlegt sem hann telur að efla þurfi atvinnulíf á Austurlandi. Þar sé afturför augljós. Við sögðum honum að tímarnir hefðu breytzt og hafa yrði allan fyrirvara á virkjunum á hálendinu, en við hefðum ávallt verið virkjanablað og myndum halda því áfram, ef góðir kostir blöstu við. Þessa kosti þyrfti að finna svo unnt yrði að nýta vatnsorkuna fyrir Austfirðinga án þess til nýrrar laxárvirkjunardeilu kæmi, en ef það yrði ekki gert væri hún óumflýjanleg. Til þess mætti ekki koma. Geir sagðist ævinlega hafa verið mikill virkjunarmaður og taldi Eyjabakka ekki eins verðmætt svæði og ýmsir aðrir, en við bentum á  það yrði að vernda þetta svæði eins og aðrar perlur á þessu stærsta óbyggða svæði Evrópu.

Geir hlustaði vel og rækilega á málflutning okkar og ég hygg hann eigi eftir að íhuga rækilega, hvernig bezt sé að koma standandi niður í þessum efnum sem öðrum. Það er augljóst að hann á eftir að leiða Sjálfstæðisflokkinn í kosningum og það yrði ekki árennilegt, ef hann hefði ekki trúnað fólksins í landinu hvað snertir umhverfisvernd. Ég sagði við hann það væri mikilvægt að hann yrði ekki fyrir neinu áfalli vegna virkjanaframkvæmda og tók hann undir það. En vonandi tekst betur til en nú horfir. Það þarf að finna sáttaleið sem eflt gæti atvinnulíf Austfirðinga og auðveldað þeim lífsbaráttuna.

Að lokum: Geir telur ekki að Davíð hafi áhuga á Seðlabankanum.

 

Endurtekið og smáviðbót:

Geir H. Haarde kom í heimsókn til okkar í hádegismat og við Styrmir áttum ágætt samtal við hann. Það var einkum talað um tvö stórmál, bankamálin og væntanlega sameiningu einhverra banka, s.s. Fjárfestingabanka atvinnulífsins og SPRON eða Landsbankans og Íslandsbanka, svo að eitthvað sé nefnt. Mér heyrðist helzt á Geir að hann væri hallur undir að SPRON tæki við Fjárfestingarbankanum. Aðalaatriðið er að fólkið hafi tilfinningu fyrir því þegar bankarnir verða seldir að þeir hafi ekki verið gefnir einhverjum fjársterkum aðilum eins og menn hafa sagt um Síldarverksmiðju ríkisins og eitthvað fleira, án þess ég treysti mér að dæma um það.

Geir segir að engir samningar hafi verið gerðir milli Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar þess efnis að Davíð hætti á miðju kjörtímabili og Halldór taki við. Halldór hafi að vísu spurt hvort hann mundi hætta en Davíð hafi svarað, Það ræður enginn sínum næturstað. Okkur finnst samt margt benda til þess að Davíð hætti á miðju kjörtímabili, en þá taki Halldór við og myndi nýja stjórn, en setjist ekki einungis í forsætisráðherrastólinn. Geir segir að ef svo færi yrðu sjálfstæðismenn að fá einhverja sárabót, t.a.m. einu ráðherraembætti fleira eða eitthvað í þeim dúr.

Þá töluðum við einnig um hálendið og náttúruvernd. Við lögðum mikla áherzlu á að ef illa tækist til gæti hafizt ný Laxárdeila vegna virkjana á hálendingu og því væri nauðsynlegt að koma í veg fyrir slík átök. Þeir sem muna Laxárdeiluna reyna að komast hjá að kveikja slíka elda aftur. Geir sagði að vísu, Ég hef alltaf verið mikill virkjanamaður, en hann hlustaði samt vel á það sem við sögðum og  ég geri ráð fyrir því hann taki eitthvert mið af því. Það er honum að minnsta kosti nauðsynlegt, ef hann á að leiða Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum. Okkur Styrmi fannst hann vera að búa sig undir að taka við Sjálfstæðisflokknum á þessu kjörtímabili, hann spurði t.a.m. hvort við hefðum hugmyndir um væntanlegan varaformann. Það höfðum við ekki, en Styrmir benti á Þorgerði Gunnarsdóttur, nýkjörinn þingmann Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi. Mér sýndist Geir lítast vel á það. Ég spurði um Sólveigu Pétursdóttur. Hann sagði að hún væri liðinn tími hvað varðaði framboð til varaformennsku. Hann spurði um Björn Bjarnason. Við töldum ekki að hann mundi fara fram til formennsku á næsta landsfundi, án stuðnings Davíðs Oddssonar. Geir hlustaði rækilega á það og ég held hann sé samála okkur.

Geir hefur alltaf góðan húmor. Í miðju samtali okkar kom Guðlaug ritari okkar inn og spurði hvort hún mætti taka afmælisgrein um kött. Við sperrtum eyrun. Konan með köttinn beið þá frammi og hafði sagt að afmæli kattar væri ekki ómerkilegra en afmæli margra þeirra sem um væri skrifað í Morgunblaðinu. Við sögðum henni að við vildum ekki hefja afmælisgreinaskrif um ketti í Morgunblaðinu. Með það fór hún. Ég veit ekkert hvaða viðtökur hún fékk hjá konunni með köttinn, en hitt sá ég að Geir hafði mjög gaman af þessu atviki og hló sig máttlausan. En hann sá þá líka í hnotskurn við hvað við megum búa. Við verðum jafnvel að standa vel á verði til að Morgunblaðið breytist ekki í kattaafmælisblað, en það væri svo sem eftir öðru!

 

Annars hefur lítið á dagana drifið. Bergljót Guðjónsdóttir, systurdóttir Hönnu, sem lézt á bezta aldri var jarðsett miðvikudaginn 23. júní og þá skrifaði Hanna minningargrein í Morgunblaðið þar sem hún sagði að “elskuleg Didda okkar er leyst frá þrautum. Hún sofnaði inní sumarsöng fuglanna sem hún hændi að garðinum sínum í Vesturási”. Á eftir þessum orðum kom nýtt kvæði mitt, Á Jónsmessu. Það fjallar um fuglana.

Ég orti um nóttina tvö kvæði þegar ég lá andvaka eftir andlát Bergljótar og Hönnu og Árna Jörgensen fannst rétt að birta þá gerð sem prentuð var í Morgunblaðinu.

 

Síðar

Við lögðum í vesturferðina 16. júní þegar að lokinni kistulagningu Bergljótar Guðjónsdóttur, systurdóttur Hönnu, sem lézt af krabbameini í síðustu viku, hálffimmtug að aldri. Yndisleg stúlka og stórgreind, en þurfti að heyja harða baráttu við þennan sjúkdóm sem herjar nú eins og hver önnur plága og þyrmir engum. Það var sorgleg athöfn og slæmt veganesti í ferðina, en enginn má sköpum renna. Orti tvö kvæði andlátsnótt Bergljótar, því að ég átti erfitt með að sofa, og eru þau svohljóðandi:

 

Dauðinn kemur

á jónsmessu

Jónsmessubjört

og blik af sigðgulum

degi

 

nóttin

 

og vex að þögnum

við þreytta

brá

 

kliðandi vængir

og kyrrð

við nýhertan ljá

 

samt kallar hafið

sól eins og

dragi til sín

 

þröstur

við jónsmessuþögn

sinn kliðandi

skóg

 

sína ókomnu daga

án þín.

 

Dauðinn

er svefn

Hvítur hestur

í huga mínum,

legg við hann beizli

þeysi berbakt

að sofnum augum

þínum,

 

Sesam

 

ljúk upp, það er vor

vetur liðinn,

 

laufið hikandi þeyr.

 

Hesturinn hneggjar,

það er hálfmáni úti.

 

Ekkert svar,

aðeins biðin,

 

Og skugginn

deyr

við hvítan skugga

af hesti sínum.

 

Hanna er að hugsa um að skrifa um frænku sína og hefur í hyggju að láta annað kvæðið fljóta með og þá fremur það sem byrjar á Jónsmessubjartri nótt.

 

Enn síðar:

Minningargrein Hönnu sem birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 23. júní:

Lokið er langri baráttu við sjúkdóminn illvíga, krabbameinið. Elskuleg systurdóttir mín, Bergljót, var aðeins rúmlega tvítug er hún fór í fyrstu krabbameinsaðgerðina. Horfurnar voru góðar, en síðar dró aftur ský fyrir sólu. Sjúkdómurinn hafði tekið sig upp á ný. Þá hafði hún kynnst sínum einstaka pilti, Helga Bergmann Ingólfssyni, og giftust þau nokkru síðar. Einkabarn þeirra, augasteinninn Ólafur Ragnar, er mikill efnismaður. Hann brautskráðist jarðeðlisfræðingur frá Háskóla Íslands sl. laugardag.

Bergljót var um margt óvenjuleg stúlka, fríð sýnum, með falleg dökk augu. Hún var skarpgreind, hafði mjög ákveðnar skoðanir, var með létta lund og óvenjulegt sálarþrek og viljastyrk. Kom það ekki síst fram í erfiðum veikindum hennar. Feðgarnir, Helgi og Óli Raggi, og fjölskylda hennar studdu hana alla tíð og á engan er hallað þótt sértaklega sé minnst á Áslaugu Sif, systur hennar, sem bar með henni sjúkdómsbyrðina þungu uns yfir lauk.

Elskuleg Didda okkar er leyst frá þrautum. Hún sofnaði inn í sumarsöng fuglanna sem hún hændi að garðinum sínum í Vesturási. Megi góður guð styrkja feðgana og aðra ástvini. Minningin fagra mun ætíð geymast.

Hanna Johannessen.

 

 

Skrifaði Reykjavíkurbréf sl. sunnudag 27. júní um vestfjarðarför okkar Hönnu, en þangað fór ég að flytja þjóhátíðarræðuna á Hrafnseyri. Bréfið er svohljóðandi:

“Mikið hefur verið rætt og ritað um atvinnu ástandið á Þingeyri og ýmsum spurningum varpað fram af því tilefni. Því hefur þá einnig verið haldið fram að ekki hafi verið mikil forsjálni að stofna fyrirtæki sem þyrfti að styðjast við aðfengið erlent hráefni. Til þess að unnt yrði að vinna úr því hefði þurft að flytja inn 50­70 manns frá Póllandi, en nú væri þetta fólk atvinnulaust, auk þeirra Íslendinga sem misst hefðu atvinnuna vegna greiðslustöðvunarinnar.

Um þetta skal ekkert sagt enda erfitt að leggja mat á það hvernig að verki hefur verið staðið. Hitt er augljóst að atvinnuástand þar vestra er með öllu óviðunandi og nauðsynlegt að kippa því í lag. En framhjá því verður ekki gengið að þrjú fiskverkunarfyrirtæki á Þingeyri, Bíldudal og í Bolungarvík hafa fengið greiðslustöðvun og hið fjórða á Tálknafirði hefur ekki starfað undanfarið. Hráefnið, þ.e. rússafiskurinn, hefur hækkað án þess að unnt hafi verið að mæta þeim hækkunum með afurðasöluhækkun.

Vonandi tekst eigandanum að finna flöt á þessu vandamáli á næstu þremur vikum, svo að ekki komi til gjaldþrots. En erfiðleikar fólksins eru langt frá því leystir. Um 200 manns á fyrrnefndum stöðum þurfa nú að horfast í augu við óleyst verkefni og spyrja má hvort fyrirhyggja hafi verið með í þessu áhættusama ævintýri.

Atvinnuástand vestra hefur verið skaplegt, þrátt fyrir ýmis áföll, og hafa bættar samgöngur átt þátt í því hvernig til hefur tekizt.

Sumarófærð

Á því er enginn vafi að göngin hafa bætt stórlega samgöngur milli Dýrafjarðar, Önundarfjarðar og Ísafjarðar og má raunar líta á það svæði sem eina heild úr því sem komið er. Hitt er annað mál að nauðsynlegt er að bæta um betur, því að vegakerfið á Vestfjörðum er langt frá því allsstaðar mönnum bjóðandi.

Ekki alls fyrir löngu var að venju efnt til Hrafnseyrarhátíðar á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar. Þótt veður hafi ekki verið upp á það bezta var hátíðin vel sótt og forráðamönnum þar vestra til sóma. Veðrið var þó nokkurn veginn skaplegt en eitt skyggði á: Færðin úr Flókalundi norður í Arnarfjörð var með þeim hætti að vart var bjóðandi nokkrum venjulegum fólksbíl, það var þá helzt unnt að komast þessa leið á sterkbyggðum jeppa sem fær er í flestan sjó. Leiðin er að sjálfsögðu ægifögur og skiptir þá ekki höfuðmáli í hvernig skapi veðurguðirnir eru. Segja má að þessi fjallaleið sé með hrikalegustu vegleysum landsins og raunar ógleymanlegt að leggja í hana, þó að vegirnir séu með þeim hætti sem skipverji á ferjunni Baldri lýsti, en hann sagði að nú væri talað um að setja vegakerfið þar vestra á Þjóðminjasafnið! Þar væri hver hola eftirminnileg og nauðsynlegt að varðveita þær, ásamt öðrum minjum þjóðarsögunnar!

Kjálkinn ægifagri

En hvað sem þessu líður og hvernig sem allt veltist um atvinnuhorfur þar vestra, er hitt víst að Vestfirðir eru einhver sérkennilegasti fjórðungur landsins, örugglega sá hrikalegasti og raunar sá eftirminnilegasti, ef út í þá sálma er farið. Að því verður að róa öllum árum að byggð haldist sem blómlegust á Vestfjörðum. Það verður ekki gert með öðrum hætti en stórbæta samgöngur á landi og auðvelda fólki búsetu með þeim hætti.

Þá hlýtur það og að vera lágmarkskrafa í nútímasamfélagi að helztu þjóðvegum sé haldið nokkurn veginn við og þeir séu greiðfærir fyrir öll ökutæki sem nú eru í notkun, en það kostar peninga, eða eins og nóbelskáldið sagði á sínum tíma og allir hafa vitað alla tíð: Það er dýrt að vera Íslendingur.

Það eru ekki eftirminnilegri ökuleiðir á Íslandi en þjóðvegurinn um Barðaströndina, en allt er það umhverfi þó víti til varnaðar. Náttúran er í senn hrikaleg og ægifögur og enginn gleymir suðurfjörðunum sem þá hefur ekið, en hvarvetna blasa þó við ömurlegar áminningar, eyðibýli og allskyns minjar eftir búsetu, meðan þetta svæði stóð í mestum blóma og hafði upp á að bjóða eftirminnilegt og fjölbreytt

mannlíf. Nú eru örfáir bæir á stangli við þessa alfaraleið og ekkert að sjá nema mannvistarleifar á löngum köflum. Á vetrin einatt ófært milli þeirra fáu bæja sem eftir standa og allt svæðið meira og minna eftirlátið ref og rjúpu og svo auðvitað þeim konungi sem þar ríkir öðrum ofar, erninum sjálfum.

Á þessari leið er hægt að æja í Djúpadal, þar sem Björn Jónsson ritstjóri var fæddur, og þá ekki síður í Gufudal, sem er hið fegursta dalverpi í þröngum faðmi hrikalegra fjalla, en þar hefur eftirminnilegt fólk átt rætur og nægir að minna á Harald Guðmundsson ráðherra, sem var einn af helztu forystumönnum jafnaðarmanna á þessari öld.

Enn er blómleg byggð í þessu fagra dalverpi og vonandi verður svo áfram um alla framtíð.

Merkur áfangi í vegagerð

Íslenzkir vegagerðarmenn hafa einatt sýnt verklagni og útsjónarsemi og eitt slíkt minnismerki er á þessari leið, eða frá Reykhólum í Dalina og er þar átt við hina nýju Gilsfjarðarbrú og hleðslurnar að henni, sem ná yfir þveran fjörðinn og hafa stytt leiðina um 17­18 kílómetra, auk þess sem hún var heldur hvimleið og þreytandi. Þessi vegagerð vísar veginn, því að enginn vafi er á því að unnt er að finna betri vegastæði um Vestfirði en nú blasa við á þeim leiðum sem fyrr voru nefndar, einkum úr Vatnsfirði og norður eftir kjálkanum, en sú leið liggur með köflum yfir fjöll og firnindi hvort sem er. Ekkert tjóar annað en leggja vegi sem unnt er að nota allan ársins hring, vel gerða og upphleypta. Sumarvegir eru fyrir ferðamenn, en vetrarvegir gegna því hlutverki meðal annars að halda fjarlægum stöðum í byggð. Það gæti því verið dýrara spaug að leggja ekki slíka heilsársvegi en veita í þá ærnu fjármagni. Við höfum aldrei ætlað okkur að búa í landi sem væri einhvers konar borgríki, heldur hefur það ævinlega verið markmið fólksins í landinu að hér sé byggð sem víðast og að minnsta kosti alls staðar þar sem fólk getur verið vel bjargálna vegna þeirra auðæfa sem hafið býður upp á.

Útlendingar við Dýrafjörð

Þó að nú ári illa við Dýrafjörð og útlit sé allískyggilegt er síður en svo nein ástæða til að örvænta. Það hafa þeir Þingeyringar sem blaðamenn Morgunblaðsins hafa hitt að máli að undanförnu heldur ekki gert, þvert á móti. En þeir hafa sínar áhyggjur eins og skiljanlegt er. Einhverjir hafa talað um að niðurstaða atvinnuástandsins á Þingeyri verði sú að þar verði einhvers konar pólsk nýlenda í framtíðinni, þar sem helzt af öllu heyrist ekki nokkurt íslenzkt orð! Því þarf að sjálfsögðu enginn að kvíða. Áður hafa verið útlendingar við Dýrafjörð og þeir hafa skilið eftir sig margvíslegar minningar sem nú er vel haldið til haga, enda ástæða til að rækta þær og varðveita eins og aðra mikilvæga þætti þjóðarsögunnar.

Áður en lengra er haldið mætti minna á veglega útgáfustarfsemi svonefnds Vestfirzka forlagsins sem hefur gefið út athyglisverða ritröð með þjóðlegum fróðleik að vestan, en Hallgrímur Sveinsson, staðarhaldari á Hrafnseyri, er ritstjóri safnsins. Sameiginlegt heiti þess nefnist Mannlíf og saga og kennir þar margra grasa, eða eins og ritstjórinn segir í sjötta hefti safnsins: "Munum við því birta í framtíðinni þætti úr mannlífinu hvaðanæva af Vestfjörðum, þó einkum verði það einskorðað við svæðið frá Bjargtöngum að Djúpi. Fyrst í stað mun aðalefnið verða héðan frá miðhluta Vestfjarða."

Í þessu hefti er þáttur eftir Davíð H. Kristjánsson, sem heitir Gott betur, gott betur, og er þar fjallað um heimsókn Halldórs Kiljans Laxness á bernskuheimili höfundar einhvern tíma á árunum upp úr 1930, en þá kynnti skáldið sér fornt vestfirzkt málfar eins og segir í kynningu á þessum pistli. Þar segir ennfremur meðal

annars: "Halldór Laxness kom vestur á Ísafjörð þegar hann var að undirbúa ritun skáldsögu sinnar um Ólaf Kárason Ljósvíking, til þess að kynna sér háttu og málfar Vestfirðinga, sem var vísast á þeim tíma nokkuð frábrugðið því sem Halldór þekkti best á Suðvesturlandi. Vilmundur Jónsson, þá læknir á Ísafirði, greiddi götu hans vestur um firði og hafði samband við heimili þar sem hann dvaldi. Á vegum Vilmundar kom svo Halldór í Neðri-Hjarðardal og gisti eina nótt. Halldór var ræðinn og forvitinn um alla hluti og fór hann í fylgd föður míns og Jóhannesar, bróður hans, um öll útihús og kofa á jörðinni. Í fjárhúshlöðunni hafði Halldór orð á því að þar væru veggir vel hlaðnir úr torfi og grjóti. Sagði faðir minn honum að þessa veggi hefði Jón í loftinu, sem kallaður var, hlaðið fyrir aldamót og þeir hefðu ekki haggast og væru búnir að standa í 40 ár eða "gott betur". Jón í loftinu hafði fengið þetta viðurnefni af því hve duglegur hann var og sérstakur hleðslumaður. Varla var byggður kofi í Dýrafirði, að Jón í loftinu væri ekki fenginn þar að til þess að verkið kæmist áfram. Veggir þeir sem Jón hlóð ruku annað hvort strax, var hann þá fljótur að hlaða þá upp aftur, eða þeir stóðu vel og lengi.

Ekki þótti Halldóri Laxness heimilisfólkið í Neðri-Hjarðardal nógu harðmælt á fornan vestfirskan framburð og ræddi hann um hvort í sveitinni væri ekki einhver af eldri kynslóðinni sem hefði hann, og ef svo væri, hvort ekki væri möguleiki á að greiða sér veg þangað. Talaðist svo til, að faðir minn lofaði að fara með honum til gamallar, greindrar konu sem hefði þennan sérstaka framburð og skyldu þeir ræða við hana. Þessi gamla kona var María Sigmundsdóttir á Bessastöðum.

Þetta sama kvöld hitti faðir minn Valgeir Jónsson, bónda á Gemlufjalli, og sagði honum frá fyrirhugaðri ferð þeirra Halldórs að Bessastöðum. Valgeir átti svo leið þangað á undan þeim félögum og sagði Maríu frá því að hún ætti von á gestum daginn eftir. Þeir myndu koma, Kristján á Bakka og Halldór Kiljan, og ætlaði Halldór að læra vestfirskan framburð af henni. Þeir komu svo og kvöddu dyra á Bessastöðum, faðir minn og Halldór, María kom til dyra og tekur í hendur þeirra steinþegjandi og bendir þeim inn í bæinn. Þegar þeir eru komnir til stofu, hverfur María. Guðmundur Jón, bóndi hennar, þá orðinn háaldraður og ellihrumur og hafði vísast sjaldan eða aldrei hellt í kaffibolla fyrir sjálfan sig, gekk þeim um beina og bar þeim kaffi og dýrindis bakkelsi, því enginn bakaði betri kökur í sveitinni en María.

Þegar þeir höfðu gert sér gott af veitingunum og gert nokkrar misheppnaðar tilraunir til þess að ræða við Guðmund Jón, stóðu þeir upp, þökkuðu fyrir sig og kvöddu án þess að hafa heyrt Maríu segja eitt einasta orð.

Þegar að því kom að Halldór hélt ferð sinni áfram vestur yfir Dýrafjörð, fluttu þeir bændur á Gemlufjalli, Jón Ólafsson og Valgeir Jónsson, hann yfir fjörðinn. Valgeir hafði orð á því, að í bátnum á leiðinni hafi Halldór tautað við sjálfan sig: "Gott betur, gott betur."

Þannig fór um sjóferð þá. En það hefur ekki farið hjá því að Halldór hafi kunnað að meta fjárhúsveggina í Neðri-Hjarðardal því að hann var alinn upp við snilldarhandbragð í þeim efnum. Guðjón, faðir Halldórs, var þekktur vegaverkstjóri og sagði Jónas bóndi í Stardal frá því hér í blaðinu á sínum tíma, hvílíkur snillingur Guðjón var sem vegagerðarmaður og stóðst enginn honum snúning hvað varðar vegahleðslur, hvort sem um var að ræða úr grjóti eða torfi. Hlóð hann af þvílíku listfengi að minnti ekki á neitt annað en stílbrögð sonarins, þegar fram liðu stundir.

Vel húsað á Hrafnseyri

Á Hrafnseyri er húsað af miklum myndarbrag og augljóst að Hrafnseyrarnefnd hefur unnið þar hið ágætasta starf. Smíði gamla bæjarins sem á að minna á æskuumhverfi Jóns Sigurðssonar hefur vel heppnazt, Minjasafnið er hið hnýsilegasta og má fullyrða að Hrafnseyri sé að öllu leyti hin staðarlegasta á að líta. Ræktarsemin við sögu og minjar er til fyrirmyndar og þá má enn tengja fróðleiksstarf sem unnið er þar á staðnum við upphaf þessa bréfs, því að í Mannlífi og sögu er getið um svonefnd "Ameríkana-tímabil" á Þingeyri og þannig minnt á að þar hafa verið útlendingar á ferð löngu áður en Pólverjarnir settust þar að til að verka þann rússneska fisk sem þar hefur borizt á land. Þess má þó geta í framhjáhlaupi, vegna deilna um Skriðuklaustur og framtíð þess, að það væri hægur vandi að leysa þær deilur með hliðsjón af því, hvernig Hrafnseyrarnefnd hefur leyst sitt starf af hendi og mætti taka mið af því, þegar hugað er að minningu Gunnars Gunnarssonar og konu hans þar eystra. En að því slepptu er ástæða til að minna á lúðuveiðar Bandaríkjamanna fyrir Vestfjörðum á síðustu tveimur áratugum síðustu aldar en þar voru þá einhver fengsælustu sprökumið í Evrópu, en kanarnir ættaðir frá Nýja-Englandi. Þegar flest var voru bandarísku skonnorturnar sem höfðu bækistöð á Þingeyri þrettán talsins, en í hverri áhöfn 16­22 skipverjar, þar af nokkrir Íslendingar, flestir úr Dýrafirði og nágrenni. Þarna voru á þessum árum um 200 Bandaríkjamenn, þegar flest var. "Ekki fer hjá því, að áhrif hinna amerísku sjómanna hafi verið mikil og margvísleg á litla sjávarþorpið," segir í Mannlífi og sögu. "Kanarnir hafa "átt pleisið", eins og sagt er, þegar þeir voru í landi. "Ameríkanarnir höfðu mikil peningaráð og voru eyðslusamir mjög," segir Gils Guðmundsson í Skútuöldinni.

Mikið vöruval var í Grams-verzlun og var ekki dæmalaust að úttektir einstakra skipverja næmu 100 dollurum yfir sumarið, en það var mikið fé í þá daga. Mikil aukning var í ölsölu í Grams-verzlun á þessu tímabili og jókst hún úr 700 pottum 1884 í 9600 potta á árunum 1891­94 þegar Bandaríkjamenn voru hvað fjölmennastir. En hvernig var ástandið á Þingeyri þá? "Þar var nokkurskonar "ástand"," segir í fyrrnefndri frásögn, "en aðrir Íslendingar þekktu það ekki fyrr en í stríðinu." Þar var þá mikið skemmtanalíf, drukkið og duflað og endaði oft með slagsmálum. Það virðist því mikill munur á ástandinu á Þingeyri þá og nú og í raun og veru ekki ástæða til að kvarta, þótt á móti blási um stundarsakir. Vonandi verður þessi blástur skammlífur. Og vonandi verður unnt að aka um Vestfirðina annars staðar en á því þjóðminjasafni sem hásetinn á Baldri talaði um, að því er virtist í fúlustu alvöru!

Vestfirðir eru einhver sérkennilegasti fjórðungur landsins, örugglega sá hrikalegasti og raunar sá eftirminnilegasti, ef út í þá sálma er farið. Að því verður að róa öllum árum að byggð haldist sem blómlegust á Vestfjörðum. Það verður ekki gert með öðrum hætti en stórbæta samgöngur á landi og auðvelda fólki búsetu með þeim hætti.”

 

Ódagbundið

Ég hef víst áður minnzt á grein Árna Ibsens í Morgunblaðinu þar sem hann gat um alla sótrafta leiklistarsögunnar, nema undirritaðan. Það fauk að vísu í mig og stóð yfir í einn eftirmiðdag,  en svo gleymdi ég þessu eins og öðrum vonbrigðum. Við vorum svo að tala saman, Styrmir, ég og Hávar Sigurjónsson, og þá sagði ég honum frá því að mér hefði líkað illa að Árni Ibsen hefði sleppt mér, þótt ég væri ritstjóri Morgunblaðsins! Ég væri því alvanur! Hávar sagðist þekkja Árna vel og kvaðst sannfærður um að þetta væru mistök, Árni hefði annað hvort gleymt ritstjóranum eða ekki talið nauðsynlegt að telja hann með, enda óþarfi! Ég gat svo sem fallizt á það, en sagði að hann mætti nefna þetta við Árna. Það gerði Hávar með góðum árangri sem gladdi mig. Ég fékk tölvupóst frá Árna Ibsen samdægurs, drengilegan og afdráttarlausan, og þar með held ég áfram að ganga á öllum kertum! Hvarflar ekki einu sinni að mér að segja mig úr leikskáldafélaginu!

Bréf Árna Ibsens til mín er svohljóðandi:

Kæri Matthías!

Ég vil byrja á að óska þér innilega til hamingju með sess formanns í Þjóðleikhúsráði. Það er verðskulduð upphefð, og reyndar sérstakt fagnaðarefni, því við vorum að harma það þegar nýju lögin um leikhúsið voru samþykkt, að lítil von væri til þess að leikskáld kæmist nokkurn tíma í leikhúsráðið. Nú hefur menntamálaráðherra enn sýnt hversu úrræðagóður hann er og skipað leikskáld til formennsku. Því fögnum við að sjálfsögðu.

Ég hafði af því spurn að þú værir ekki fyllilega sáttur við skrif mín um kennslubók Heimis Pálssonar í Morgunblaðið sl. sunnudag. Það þykir mér mjög miður. Grein minni var aldrei ætlað að vera tæmandi úttekt á efninu eða upptalning á þeim leikskáldum og leikskáldskap sem horft er fram hjá í bók Heimis. Satt best að segja varð það mér slík raun að blaða í umræddri bók, að fyrstu viðbrögð voru að skrifa mun lengri og talsvert heitari grein. Þegar ég fór að huga að birtingu var ljóst að greinin var allt of löng og auk þess of mikill reiðilestur. Ég skar hana því niður af grimmd, fækkaði dæmum verulega og felldi úr að minnsta kosti fjórar alllangar málsgreinar, sem kemur nokkuð niður á flæðinu í textanum. Í hita þess leiks fór ýmislegt forgörðum, því miður, og mörg ágæt nöfn urðu úti. Þessi niðurskurður á greininni segir hins vegar ekkert um mat mitt á þeim leikskáldum sem ég læt ógetið. Þannig er tam. Nína Björk vinkona mín ekki nefnd, en getið um ýmsa aðra sem hvorki eru merkari né ómerkari en hún. Ýmsir þeir sem standa mér nálægt í aldri eru heldur ekki nefndir, jafnvel þó að þeir sitji með mér í stjórn leikskáldafélagsins (eða kannski af þeim sökum). Og þó að þitt nafn hafi orðið útundan í grein minni, vona ég að það verði ekki skilið sem óvild af minni hálfu. Ég hef tam. jafnan þegar tök hafa verið á haldið fram hlut skáldsins Matthíasar Johannessens, einkum ef ég hef verið í ritstjórnaraðstöðu, eins og td. í svonefndu Ljóðleikhúsi sem ég annaðist í Leikhúskjallaranum um árið, og þegar mér var falið af Ríkisútvarpinu að velja ljóð dagsins í einn mánuð 1997.

Um þessar mundir er ég að efna í bókarkafla um íslenska leikritun frá 1918 til 1974, sem verður birtur í IV. bindi Íslenskrar bókmenntasögu, hvenær sem sú bók kemst á kjöl. Sá kafli verður væntanlega í mun betra jafnvægi og ég fæ þar svigrúm til að líta yfir allt sviðið og gera því þokkalega tæmandi skil. Þar fjalla ég að sjálfsögðu um þín leikrit, sem mér eru mjög eftirminnileg.

Með vinsemd og virðingu

Árni Ibsen

Ég svaraði Árna hlýlega. Svar mitt er svohljóðandi:

Kæri Árni.

Þótti vænt um að fá bréfið frá þér og þakka kærlega vinsamleg orð. Þau eru öll í þeim anda sem ég átti von á. Vonandi höfum við einhvern tíma tækifæri til að hittast og spjalla saman, kannski með Hávari, vini vorum. Við sjáum til.

Ávallt með beztu óskum,

Matthías.

 

Ódagsett

Þriðjudaginn 8. júní sl. hringdi Björn Bjarnason til mín og við áttum afar vináttusamlegt samtal sem minnti á gömlu góðu dagana. Mér fannst Bjarni og Sigríður vera upprisin í jarðnesku lífi og væru á meðal okkar. Björn sagðist ekki hafa getað hringt til mín áður frá því hann varð menntamálaráðherra og átt við mig erindi við hæfi. En nú ætlaði hann að biðja mig um að taka að mér starf sem væri virðingu minni samboðið – formennsku Þjóðleikhúsráðs! Þetta kom mér mjög á óvart en mér þótti vænt um það, þótt ég hefði raunar engan áhuga á formennsku í Þjóðleikhúsráði og snobbinu kringum það. Björn sagðist ætla að skipa Stefán Baldursson, þjóðleikhússtjóra, aftur í embættið enda hefði hann staðið sig ágætlega og spurði hvort ekki væri allt gott okkar í milli. Ég sagði honum að ég hefði talað við Stefán nú nýlega og allt væri gott okkar í millum. Hann fagnaði því og nefndi tvo eða þrjá sem yrðu í ráðinu, mig minnir Jóhann Sigurðsson leikara og Guðjón Peteren, frænda minn, einnig, en man það þó ekki gjörla. Hann spurði hvort ég hefði einhverja í huga, en svo var ekki. Við felldum talið þar sem ákveðið var að ég hefði aftur samband við hann þegar ég kæmi að vestan, og það gerði ég. Þá sagði ég Birni að ég mundi taka við formennskunni, ef hann óskaði þess áfram . Ég spurði hvort það hefði ekki verið ósk Þuríðar Pálsdóttur að hætta formennsku í ráðinu og sagði hann að svo hefði verið. Hún hefði eindregið óskað eftir því. Hann hefði reynt að fá hana til að halda áfram, en ekki við það komandi. Eftir þessa vitneskju taldi ég fara ágætlega á því að ég yrði eftirmaður hennar, það væri í samræmi við fyrri tengsl okkar við Pál föður hennar og fjölskyldu alla. Björn spurði hvernig mér litist á að fá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, eða Diddú, í ráðið og kvaðst ég fagna því. Hann nefndi einnig að hann hygðist skipa Harald Ólafsson varamann minn og sagði ég honum að milli okkar Haralds hefði ávallt ríkt góður hugur. Ég veit ekki betur en þetta verði svo afráðið eftir helgi. En það er kannski ekki meginatriðið, heldur hitt, hversu vináttusamleg samtöl ég hef átt við Björn Bjarnason eftir alla tortryggni hans í garð blaðsins. Hann sagði að ég yrði að fá mér smóking, ég sagðist ekki vera viss um það, ég gæti allt eins fengið lánaðan smóking úr klæðaskáp Þjóðleikhússins!

Ég sagði Klíkunni frá þessu og fagnaði hún því. Þeir töldu allir, eins og ég, að ég hefði ekki getað neitað þessari ósk Björns.

Það hefur aldrei verið neitt illt á milli okkar Björns, en kannski má segja dálítið fátt með okkur eftir að hann fór frá Morgunblaðinu. Nú vona ég allt sé þetta gleymt og grafið og vinátta okkar verði eins og áður.

Klíkan telur að Björn sé nú að leita gamalla vina, því að Davíð hafi skilið hann eftir á landsfundinum, án stuðnings í varaformannsslagnum. Um það veit ég ekkert, en hlusta þó á það sem þeir segja. Björn hafði í samtölum okkar lagt áherzlu á að Gylfi og Kiljan hefðu gegnt formennsku í Þjóðleikhúsráði og mér skildist á Gylfa að hann hefði haft af því þónokkra ánægju.

Annars töluðum við mest um stöðu Sverris Hermannssonar. Ég gagnrýndi hann og stríddi honum fyrir árásir hans á okkur Styrmi að kosningum loknum, en hann hélt fast við sitt og sagði að við hefðum tryggt stjórninni áframhaldandi völd vegna linku í fiskveiðistjórnunarmálum undir lokin. Það er auðvitað eintóm vitleysa, þótt við hefðum tekið í framrétta hönd og tryðum því að forystumenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefðu áhuga á því að vinna að sáttum um fiskstjórnunarkerfið. Að vísu viðurkenni ég að Davíð Oddsson hljóp eitthvað útundan sér í stefnuskrárræðu sinni og ýjaði að skipbroti þeirra sem boðað hefðu veiðileyfagjald. En við afgreiddum málið frá okkar hendi með forystugrein um þessa ræðu og er hún með þeim hætti, að bæði Davíð og aðrir hljóta að skilja viðbrögðin, þótt kurteisleg hafi verið og án gífuryrða. Nú þarf að vinna að sáttum og skulum við sjá hvað setur.

Ég hef að vísu ekki trú á því að Davíð verði út kjörtímabilið og bezt gæti ég trúað að hann hætti á því miðju og Halldór Ásgrímsson taki við af honum, en léti svo Finn Ingólfsson taka við Framsóknarflokknum og leiða hann í næstu kosningum. Þetta sagði ég félögum mínum án þess vita, hef þó að vísu dálítið fyrir mér í þessu. Ég get ekki ímyndað mér að Halldór Ásgrímsson hafi kosið áframhaldandi stjórn þeirra Davíðs án þess bera meira úr býtum en raun ber vitni. Hann hafði í hendi sér að mynd vinstri stjórn, en gerði ekki. Hvað fékk hann í staðinn? Ekki einungis utanríkisráðuneytið, það getur ekki verið. Metnaður hans er meiri en svo. En þá yrði staða Geirs H. Haarde heldur erfið og ætti hann fárra kosta völ. Þá yrði hann að taka við utanríkisráðherraembættinu, en Finnur við fjármálaráðuneytinu. Við sjáum hvað setur….

 

 

Fór á fyrsta fund í Þjóðleikhúsráði mánudaginn 28. júní sl. Ágætur fundur, stóð tæpa þrjá klukkutíma, flestir mættir, bæði aðalmenn og varamenn. Þjóðleikhússtjóri setti okkur inní starfssemina og sýndi okkur allt leikhúsið. Hittum ágætt fólk og hlýlegt. Þegar byrjað að undirbúa 50 ára afmæli Þjóðleikhússins á skírdag á næsta ári. Talaði um það við Geir H. Haarde og að við þyrftum að auka fjárveitinguna til Þjóðleikhússins af þeim sökum, það hefur víst verið farið fram á 30 milljónir króna. Það er að vísu dálítið erfitt því að Sinfónían á einnig 50 ára afmæli næsta ár, og Ríkisútvarpið verður þá einnig sjötugt næsta haust. En mér fannst Geir taka þessu vel og hef engar áhyggjur af því.

Það er svolítið gaman að vera kominn aftur inní þetta umhverfi, minnir á gamla daga þegar maður var ungur og allsókvíðinn. Vonandi gengur þetta vel – og án alls fjaðrafoks!

1. júlí, fimmtudagur

Ég hef fengið allveruleg viðbrögð við þeim ljóðum sem ég hef verið að birta í Helgispjalli undanfarna sunnudaga. Mér hefur fundizt það skemmtilegt og dálítil ný reynsla. Minnir á sterk viðbrögð þegar bækurnar mínar voru að koma út áður fyrr. Það minnti mig þá einnig á gamlan tíma, þegar ég var í Þjóðarbókhlöðunni í dag að kynna mér Jónas og hitti bæði Svein Skorra og Aðalgeir Kristjánsson. Við vorum allir saman í Norrænu deildinni í gamla daga og ég sé ekki nokkurn mun á okkur frá þeim tíma. Við höfum sem sagt allir elzt vel! Skorri sagðist aldrei hafa verið eins ungur og ég tek í sama streng!

Við Sveinn Skorri töluðum margt og mikið um Gunnar Gunnarsson sem hann er að kanna, það er afar spennandi verkefni. Hann segist  vera búinn að skrifa 200 síður en verkið verði að mér skildist  fimm, sex sinnum lengra. Ég sagði honum frá því sem Gunnar sagði mér á sínum tíma að einhver úr Sænsku akademíunni hefði hringt í hann og óskað honum til hamingju, því hann fengi nóbelsverðlaunin ásamt Halldóri Laxness. Skorri sagði að það hlyti að hafa verið löngu áður en kom að endanlegri ákvörðun í akademíunni; það hafi verið sumarið áður sem talað hafi verið um þá báða í einu, en síðan hafi Gunnar dottið úr skaftinu. Dag Hammarskjöld var víst harðasti andstæðingur Halldórs Laxness í akademíunni og barðist ásamt einhverjum öðrum mjög harkalega gegn því að Halldór fengi nóbelsverðlaunin. Þeir sem börðust harðast fyrir Halldóri voru ljóðskáldin Harry Martinson og Per Lagerquist, sem einnig var fínt ljóðskáld, en þó þekktastur fyrir frábærar skáldsögur sínar. Ég held ég hafi aldrei lesið betri skáldsögu en Dverginn. Eftir að hún kom út hefur aldrei þurft að skrifa skáldsögu um einræðisherra, svo skelfileg sem hún er, vel skrifuð og raunar ljóðræn að innsta kjarna.

Harry Martinson kom til Íslands og þá kynntist ég honum. Hann var afar vináttusamlegur maður og eftirminnilegur. Ég skrifaði um þessa heimsókn í Morgunblaðið á sínum tíma.

Við Skorri erum sammála um það að tilvitnanir í verk Gunnars, t.a.m. Fjallkirkjuna, eigi alls ekki að sækja í þýðingu Halldórs Laxness því hún er fremur partur af hans skáldskap og stílsnilld en verklagi Gunnars. Gunnar skrifaði mjög sterkan stíl á íslenzku en þó hefur mér samt aldrei fundizt neinn af samtíðarmönnum hans hafa skrifað betri dönsku en hann, nema ef vera skyldi Jóhannes V. Jensen. Á því er líka enginn vafi að Jensen hafði mikil áhrif á dönsku Gunnars, enda voru þeir að ég hygg samstarfsmenn um skeið, líklega þegar Jensen var að þýða Grettis sögu.

Sveinn Skorri sagði mér margt af ástum Gunnars Gunnarssonar sem kom mér algjörlega í opna skjöldu. Sá þáttur í ævisögu hans um Gunnar verður áreiðanlega einhvers konar sensasjón þegar þar að kemur.

 

Viðbætur:

Sveinn Skorri hitti líka barnsmóður Gunnars, þ.e. móður Gríms Gunnarssonar, sem varð íþróttaritstjóri Sosialdemokraten og að því er virtist afar líkur föður sínum. Hún var mjög falleg kona, segir Skorri, giftist síðar öðrum manni, allþekktum, en ég er búinn að gleyma nafni hans. Skorri átti mikið og gott samtal við hana, en hún var ástkona Gunnars alllengi. Hún skrifaði bréf um ástir þeirra og eru þau til. Sveinn sagði að í eitt slíkt bréf væri vitnað í ævisögu Tom Christensens, þar eru lýsingar á því hvílíkur ógnarelskhugi Gunnar var. Hann var þá harðgiftur Franziscu, en hélt framhjá henni eins og hann væri enginn annar en Casanova. Sveini Skorra þótti undarlegt hvernig hann skrifaði ástarkaflann fallega um Franziscu, konu sína, inn í Fjallkirkjuna á sama tíma og hann stóð í þessu ástarsambandi við aðra konu. Ég sagði honum slíkt væri ekki óalgengt. Benti honum á Sturlu Sighvatsson og ást hans á Sólveigu, en á sama tíma átti hann sér ástkonuna Vigdísi sem minni sögur fara af.

Gunnar gat víst lítið skrifað um þetta leyti en leitaði fyrir sér á nýjum og nýjum stöðum, t.d. í Varmalandi minnir mig og víðar. Sveinn Skorri sagði barnsmóður Gunnars í samtali þeirra að Gunnar hefði ekkert getað skrifað, þegar hann leitaði sér næðis á nýjum stöðum. Þá hló hún og sagði, Það var engin furða, ég var með honum!

Einkennilegt hvernig jafn siðfágaður, sjálfsagaður og samvizkumikill maður og Gunnar Gunnarsson gat staðið í jafn mikilli og augljósri lausung, en ástæðan er auðvitað sú að maðurinn hefur verið yfir sig ástfanginn – og þá líklega af báðum konunum samtímis, náttúrulega fullur af eigingirni og sjálfsdekri eins og við erum allir. Og það sem var fjærst eðliskostum hans var hálfvelgjan sem varað er við í Opinberunarbók Jóhannesar. Gunnar Gunnarsson var venjulega allur í því sem hann tók sér fyrir hendur; augsýnilega einnig ástinni, þótt ekki hafi hann verið kvennamannslega vaxinn!

Gunnar yngri, sem var allra manna ljúfastur og viðfelldnastur, sagði Sveini Skorra að þeir bræður, Úlfur læknir og hann, hefðu hvatt móður sína til að skilja við föður sinn, þegar hann eignaðist barnið með ástkonu sinni, en hún tók það ekki í mál.

Ég kynntist Franziscu og Gunnari eldra heldur vel og kom oft á heimili þeirra. Milli þeirra ríkti mikil virðing og ég er sannfærður um að milli þeirra voru einnig sterk kærleiksbönd sem gátu ekki slitnað, á hverju sem gekk.

Ég hvatti Svein Skorra til að flýta verkinu, svo mikilvægt sem það væri að ævisaga Gunnars kæmi út eins fljótt og unnt er, en hann á víst mikið verk óunnið. Hefur þó fengið frí næsta vetur og mun helga sig þessu verki.

 

Aðalgeir Kristjánsson kom að okkur Sveini Skorra þarna í Þjóðarbókhlöðunni. Ég sagði honum ég þyrfti að tala við hann um Jónas Hallgrímsson og umhverfi hans og hyggst ég hitta hann við gott tækifæri. Ég sagði honum hvað ég hefði orðið bæði agndofa og yfir mig hrifinn af að lesa bréf Konráðs Gíslasonar til vina sinna, en Aðalgeir gaf þau út á sínum tíma. Ég sagði honum að ef íslenzkir skáldsagnahöfundar hefðu lært eitthvað af þessum bréfum þá ættum við betri sagnalist í dag en raun ber vitni. Þessi bréf hefðu getað verið fyrirmynd að nýjum skáldskap á Íslandi, því að í þeim er kraftur og einhver dularfull list og óvæntar uppákomur, fjör og frelsi sem gætu orðið eftirminnilegur vegvísir í sagnagerð okkar. Aðalgeir var sammála mér í þessu. Hann sagði þó að Benedikt Gröndal hefði lært af Konráð og ég bætti því þá við að Þórbergur hefði lært af Benedikt, án þess þó vita að lærimeistarinn var Konráð Gíslason. Aðalgeir sagði að Konráð hefði verið svo lokaður að menn hefðu ekki talið hann byggi yfir þessum eldmóði - og má það vel vera. Hann hefur þá af þessum sökum farið framhjá flestum og fræðimaðurinn þurri og lokaði staðið einn eftir á sviðinu. Konráð eltist líka í þá átt.

Ég hef aldrei skilið vináttu Jónasar og Konráðs til fulls fyrr en ég las þessi bréf Konráðs. Jónas hefur bæði séð og vitað að Konráð var mikið skáld, enda hygg ég að hann gefi Jónasi ekkert eftir í þeim efnum, þótt hann hafi ekki sjálfur lagt áherzlu á skáldskaparhneigð sína. Jónas hefur dregizt að þessum frjóa akri og kunnað að meta skáldlegt eðli vinar síns sem lá eins og kvika undir mosavöxnu hrauni og lét aldrei á sér kræla nema í vinarbréfum og lokuðum hring fjölnismanna. En hann var mikið prósaskáld.

 

Viðbætur og smáendurtekning

Í samtali okkar Sveins Skorra kom fram að Gunnar Gunnarsson var að skrifa fallega kaflann um Franziscu, konu sína, í Fjallkirkjunni þegar hann stóð í ástarmálum sínum. Þá var hann einnig að skrifa Svartfugl. Það er einkennilegt þegar maður hugsar um það. Forsendur harmleiksins í Svartfugli voru einmitt slík ástamál, tilfinningar sem enginn réð við og stefndu rakleiðis í manndráp. Gunnar hefur áreiðanlega haft meiri tilfinningu og skilning á málefnum Steinunnar og Bjarna í Svartfugli en hann hefði ella haft, ef hann hefði ekki kynnzt ástkonu sinni danskri og þurft að fara með henni í gegnum þá elda sem raun bar vitni.

 

Sveinn Skorri sagði mér að Gunnar Gunnarsson hafi ekki verið í keppninni um nóbelsverðlaunin, þegar Halldór Laxness fékk þau. Það hljóti að hafa verið sumarið áður því að þá hafði akademían tilhneigingu til að veita þessum íslenzku rithöfundum báðum nóbelsverðlaunin. Það hefur líklega verið þá sem hringt var til Gunnars og honum sagt að hann fengi nóbelsverðlaun ásamt Halldóri Laxness, að því væri stefnt í nóbelsnefndinni. Ég veit ekki hver hringdi í hann, held að Gunnar hafi ekki sagt mér það. En það var meðlimur í nefndinni og mikið átoritet. Dag Hammarskjöld sat í nóbelsnefndinni meðan hann var framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og tók mikinn þátt í störfum hennar. Hann var á móti því að Íslendingarnir fengju verðlaunin, talaði um að Gunnar væri eins og hver önnur julla við móðurskipið Laxness. Hann vildi að franska ljóðskáldið Perse fengi verðlaunin, enda hlaut hann þau síðar. Þeir sem börðust helzt fyrir því að Halldór Laxness fengi verðlaunin voru sænsku skáldin Lagerquist og Harry Martinson, en hann kom hingað til Íslands á sínum tíma og skrifaði ég um þá heimsókn í Morgunblaðið. Sérstaklega geðfelldur maður.

Þegar meirihluti akademíunnar ákvað að Halldór fengi verðlaunin sagði Hammarskjöld, Við erum þá lausir við hann!! Að mati Dags Hammarskjölds var það eitt gott við ákvörðun akademíunnar! Mikil átök urðu um verðlaunin þessu sinni, en þegar Halldór hafði fengið þau stóð öll akademían saman eins og einn maður; minnir á páfakjör!

Þessu sinni kepptu þrjú skáld um verðlaunin, fyrrnefndur Perse, ítalskt ljóðskáld, sem Sveinn Skorri mundi ekki hver var, og svo Halldór Laxness.

Harry Martinson og Lagerquist voru báðir mjög fín skáld og sómi að stuðningi þeirra. Ég hef aldrei lesið betri skáldsögu en Dverginn eftir Lagerquist; held það sé ekki hægt að skrifa oftar um einvaldsherra eftir að snilldarverk Lagerquist kom út. Ég las þessa skáldsögðu í Kaupmannahöfn veturinn 1955-56 og hef aldrei gleymt henni. Hún er ekki einungis frábær, hún er meistaraverk.

 

Hef verið að fara yfir næsta Reykjavíkurbréf. Það fjallar einkum um bækur sem ég hef verið að handfjatla. Síðasta bréf fjallaði um ferð okkar vestur á Hrafnseyri. Nú er komið að öðru ferðalagi; ferðalagi hugans. Fyrir vestan hittum við prestshjónin sem sáu um messuna, Guðrúnu Eddu sem er prestur á Þingeyri, en eiginmaðurinn guðfræðiprófessor við Háskóla Íslands, Einar Sigurbjörnsson. Þau voru einnig ágætlega vinsamleg og skipti ekki máli, þótt prófessorinn hafi á sínum tíma kallað mig bramatrúarmann vegna páskaleiðara sem ég skrifaði í Morgunblaðið á sínum tíma. Það þótti móður minni slæmt og bera vott um lítinn smekk hjá guðsmanninum, því hún taldi sig hafa alið mig upp í góðri kristinni trú! Þeir voru fleiri klerkarnir sem höfðu horn í síðu minni eftir þennan leiðara og sneru sér til Styrmis, þegar þeir áttu erindi við Morgunblaðið, en vissu þó líklega ekki að hann er trúlaus með öllu, að ég held, trúir að minnsta kosti ekki á framhaldslíf, enda skiptir það víst engu nú á dögum.

 

 

Gamla klíkan kom saman í gærkvöldi og þá töluðum við Gylfi Þ. Gíslason dálítið um sr. Friðrik að venju, en ég minntist eitthvað á trúmál að öðru leyti. Gylfi sagði þá að sr. Friðrik hefði talað við sig um allt nema trúmál. Og sjálfur sagðist hann aldrei hugsa um, hvað við tæki að lífi loknu. Mér finnst það góð afstaða og er að hugsa um að reyna að tileinka mér hana. Gylfi sagði að sr. Friðrik hefði verið að hugsa um að gerast kaþólskur, þegar hann var í Danmörku, því að lútherskan nægði honum ekki, en þá hafði hann hitt Nonna sem var jesúítaprestur og hafði Nonni þá gefið honum það heilræði að snúa aftur til Íslands og vinna þar að trúboðsstörfum. Það hafi ráðið úrslitum um heimkomu sr. Friðriks og starf hans hér heima. Annars hefði hann ef til vill orðið kaþólskur, líklega rammkaþólskur múnkur.

En hvað um það. Ágætlega fór á með okkur Einari Sigurbjörnssyni og allt gleymt og grafið sem áður var. Sr. Guðmundur Óskar minnti mig á að hann hafi verið formaður prestafélagsins, þegar þessar deilur stóðu sem hæst, og hafi að lokum skrifað rammagrein í Morgunblaðið og beðið menn fara gætilega. Ég var búin að gleyma því, en það var sr. Guðmundi Óskari líkt. Hann minnti mig einnig á að Einar hafi ekki bara kallað mig bramatrúarmann, heldur hafi ég sagt að hann hafi verið einhvers konar íslenzkur komení! Það hefur verið mátulegt á hann á sínum tíma, en nauðsynlegt að slíkt gleymdist hið fyrsta. Þó er margt af þessu rifjað upp í ágætri sögu sr. Þóris Stephensens um Dómkirkjuna í Reykjavík.

Þau prestshjónin sáu um hátíðlega athöfn og Einar prófessor flutti prýðilega ræðu þarna í kapellunni á Hrafnseyri.

Við hittum margt fólk á Hrafnseyri, meðal annarra Einar Odd alþingismann og konu hans, og áttum við þau gott samtal. Þá voru liðin mörg misseri frá því við vorum í Önundarfirði og fórum þar um allar trissur í fylgd með Einari Oddi, eins og ég skrifaði um á sínum tíma í Reykjavíkurbréf, fleiri en einu.

Talaði einnig við sr. Gunnar Björnsson í Holti í Önundarfirði og hugnaðist það ágætlega. Hann þakkaði mér sérstaklega fyrir ræðuna, og þá einkum og sér í lagi ljóðrænt niðurlag hennar, eins og hann komst að orði.

Allt var þetta sem sagt ágætt.

Ég horfði stundum til fjalla og óttaðist að þar yrði þoka í bakaleiðinni, svo dökkur sem hann var ásýndum. Talaði um þetta m.a. við Jón Pál sem þekkir leiðina vel og þá sagði hann mér að hann hefði hitt mann austur á landi sem hefði komizt þannig að orði: Hann heiðar sig. Mér þótti gott og gagnlegt að heyra þetta nýmæli og vonaðist til að það yrði uppi á teningnum, þegar við færum suður yfir fjöllin og má segja það hafi orðið að nokkru leyti, a.m.k. var engin þoka, þótt sólarlaust væri, að vísu. Svo tókum við ferjuna Baldur til Stykkishólms og fengum ágætt leiði í suðaustan kalda. Vorum svo komin heim um hálfeittleytið aðfaranótt 18. júní.

Mér er nær að halda það hafi verið snaggaralegt af okkur að fara alla þessa leið á þessum tíma en öll var ferðin jafn ánægjuleg og hún var eftirminnileg. Sáum þó ekki örn á suðurfjörðum Vestfjarða, því miður.

 

 

4. júlí, sunnudagur

Fyrrnefnt Reykjavíkurbréf er svohljóðandi:

TVÆR athyglisverðar bækur hafa komið út erlendis að undanförnu en þær fjalla báðar um heimsþekkta menn sem komu til Íslands á sínum tíma. Önnur þessara bóka er ævisaga Arthurs Koestlers, The Homeless Mind, og er eftir David Cesarani sem er háskólakennari og sérfræðingur í gyðinglegum fræðum. Hann minnist á Íslandsferð Koestlers en hann kom hingað til að fylgjast með skákeinvígi Fischers og Spasskys og ritaði greinar sínar í Sunday Times. Einvígi þetta er ein mesta landkynning sem um getur og þeim ógleymanleg sem fylgdust með því, enda einstætt að öllu leyti. Þá gaf Jóhann Þ. Jónsson, nú nýlátinn, út tímaritið Skák og var það selt eftir hverja einvígisskák og vakti verulega athygli.

Í þessi hefti skrifuðu meðal annarra skáld sem fylgdust með leiknum, þannig segir Hannes Pétursson í sinni grein: "Mannshugurinn frjáls bak við settar reglur. Ætti það ekki að vera aðalsmerki þjóðskipulaganna, hvaða nafni sem þau nefnast? Mennirnir á skákborði heimsins, hinir lifandi menn sem um aldir hafa verið færðir til eftir óljósum reglum og stundumn í myrkri, njóta því aðeins lífshamingju að hlítt sé sömu leikreglum á þessu skákborði og hugsun þeirra eigi sér ótöluleg tækifæri þrátt fyrir ytri skorður. Séu aftur á móti engar settar reglur, þá er frelsinu hætt, hinu sanna frelsi hugans, og uppflosnun og lausung boðið heim í þess stað. Í skáklist er mannshugurinn í senn bundinn og frjáls, farsællega bundinn og farsællega frjáls", en Indriði G. Þorsteinsson segir í sinni grein: "Og þar sem þeir eru loksins setztir við taflið, Spassky og Fischer, þá mætast þar ekki fulltrúar skákhefðar tveggja heimsálfa, heldur tvö þjóðfélagskerfi. Annað þeirra leitar eftir beztum árangri meðal fjöldans og þreifar sig síðan áfram skipulega, fullt af ræktunarsjónarmiðum. Hitt kerfið treystir á að einstaklingurinn standi sig, og uppgötvar kannski ekki snilling sinn fyrr en á einhverjum ómerkilegum alþjóðaflugvelli, svona um það bil sem hann er að leggja af stað í þoranraun sem afgangurinn af heiminum stendur á öndinni út af. Jafnvel að bregði fyrir óánægju yfir að mannskrattinn skuli ekki vera farinn af stað, og hvað hann sé að hugsa landi sínu til skammar og armæðu. Auðvitað hugsa ameríkumenn ekki út í það, að þeir eiga ekkert í snilld þessa manns, hafa ekkert gert til að örva hana, og létu sig engu varða þótt hann þyrfti að heyja einvígi sitt á sokkaleistunum. Samt mundi sigursæl keppni svona manns koma milljónum til að trúa því að enn einu sinni hafi snilli einstaklingsins sannað ágæti sitt." Svava Jakobsdóttir segir m.a í sinni grein: "Í goðsögu nútímans er allur heimurinn skákborð og taflið svo mikið féndatafl, að hvorugur guðinn má breyta stöðu sinni án þess að spáð sé ragnarökum. Taflið sem tákn friðar og sáttfýsi hefur snúizt upp í andhverfu sína." Guðmundur Daníelsson segir í sinni grein: "Í skáldlistinni er þessu öðruvísi farið. Margsinnis hef ég í hégómagirni minni og stærilæti óskað þess, að ég gæti skorað á einhvern heimsmeistara eða þó ekki væri annað en Íslandsmeistara í skáklist og sigrað hann. "Dómara" vantar ekki, en mælikvarðinn er ekki til. Dómararnir hafa ekkert við að styðjast annað en sinn eigin smekk, sem er umdeilanlegur og alla tíð háður "veðrum og vindum" þeirrar tíðar, sem umlykur okkur." Jóhann Hjálmarsson segir í sinni grein: "Í bókmenntum gegnir tafl veigamiklu hlutverki vegna þess að það speglar lífið sjálft. Manntafl heitir það á íslenzku. Tafl er íþrótt andans, í því reynir í senn á kunnáttu og hugkvæmni. Menn eru líka skáld í tafli, reikningslistin ein nægir ekki til sigurs. Áhættan, hinn djarflegi leikur, getur einmitt fært sigurinn." Thor Vilhjálmsson segir í grein sinni List eða íþrótt: "Í hugann kemur mynd af tveim öðrum mönnum sem dönsuðu bróðurlega á tunglinu og virtust þurfa að beita átaki til þess að ná aftur niður á jörðina undir fótum sér, mánagrund. Er nokkuð dularfullt á sveimi í þessum skákvirkjuðu hugum?

Að tefla eins og Mozart, sagði einhver. Háleit list, sagði annar. Fegurðin. "Kóngurinn á sjaldnast neinn þátt í sigri," segir Jökull Jakobsson, "á hinn bóginn er hann alltaf miðpunkturinn í ósigri. En þó svo hann skorti alla þá vígfimi og leikni sem prýða liðsmenn hans og drottningu, þó hann kunni ekki að lyfta sverði, þá ber hann í sjálfum sér þann auð sem allt veltur á, hann er sjálf sálin, skáldskapurinn innst í öllum hræringum taflsins. Hann gengur fram í einmana tign, síðastur allra og honum er ekki einu sinni sýnd sú miskunn að fá að deyja þó hann sé sigraður: hann stendur eftir". Og loks endar blaðamaður Morgunblaðsins á staðnum sína grein með þessum orðum: "Og enn er teflt um örlög okkar. Við skulum vona að það tafl fari vel, þó að veðurguðirnir hafi verið okkur harla andsnúnir þennan eftirminnilega júlímánuð, sem nú er liðinn. En Bobby Fischer tók því öllu vel. Fyrir skömmu leit hann út um gluggann hjá sér, virti fyrir sér regnið og drungann og sagði: "Mér geðjast vel að Íslandi. Næst ætla ég að koma hingað að sumarlagi."

Og allri þessari veizlu, eða Veizlu aldarinnar, stjórnaði Guðmundur G. Þórarinsson forseti Skáksambandsins af festu og bjartsýni.

Íslandsferðin

Kaflinn um Íslandsferð Koestlers í fyrrnefndri bók er svohljóðandi:

"Koestler var þá farinn eina ferðina enn, í þetta skiptið til Reykjavíkur til að fylgjast með skákeinvígi Fischers og Spasskys, til Danmerkur þar sem hann kom að gerð kvikmyndar með Holger Hyden og til Edinborgar og Amsterdam til að flytja fyrirlestra á ráðstefnum. Ferðin til Íslands, sem farin var á vegum Sunday Times, reyndist hálfgerður skrípaleikur því Fischer mætti tíu dögum of seint til leiks en þá þurftu Koestler og flestir blaðamennirnir að fara að búa sig til brottfarar. Engu að síður skrifaði hann tvær lengri greinar fyrir blaðið. Hin fyrri, sem fjallaði um sögu skáklistarinnar, var byggð á rannsóknum sem hann hafði gert nokkrum mánuðum áður. Í seinni greininni, sem einnig lýsti aðstæðum í Reykjavík, bar hann skákmeistarana tvo saman og sagði frá fyrstu dögum einvígisins. Venju samkvæmt var undirtónninn í senn pólitískur og frumspekilegur. Koestler hélt því fram að geta skákmanna til að ná utan um þann nánast ótölulega fjölda leikja sem byðist í hverri skák gæfi til kynna að "mannshugurinn búi yfir gríðarmikilli, ónýttri getu, jafnvel mörgum sinnum öflugri en við nýtum í hversdagslegu lífi voru". Hugsun Koestlers var sú að unnt yrði að breyta siðmenningunni og raunar færa mannkynið upp á æðra tilverustig ef tækist að virkja þessa ónýttu orkulind.

David Pryce-Jones, sem þekkt hafði Koestler í mörg ár og bjó ekki langt frá honum, hitti hann óvænt á leiðinni til Íslands en þangað hélt hann einnig til að fylgjast með einvíginu. Þar sem engar skákir voru tefldar, höfðu þeir ekkert að skrifa um og voru mikið saman. Pryce- Jones skrifaði síðar skemmtilega og upplýsandi grein um veru þeirra á Íslandi. Hann rifjaði upp að þegar hann rakst fyrst á Koestler hefði hann verið kvikur og loðinn og minnt sig á "otur... snyrtilegur og feldurinn í óaðfinnanlegu ásigkomulagi." Koestler virtist þekkja alla lykilmennina í skipulagsnefnd einvígisins og bjó jafnan yfir trúnaðarupplýsingum, sem hann miðlaði purkunarlaust til annarra og hafði gaman af. Blaðamenn og skáksérfræðingar leituðu eftir áliti hans: honum leið vel í hvers kyns félagsskap. Hann var einungis andvígur sovézka sendiherranum og fylgdarliði Spasskys. Pryce-Jones tók einnig fram að hann hefði gefið konunum á staðnum hýrt auga og að hann hefði ekki tekið áhuga þeirra á honum af fálæti.

(Arthur Koestler ­ The Homeless Mind eftir David Cesarani/bls. 517.)

Baráttan við guðinn sem brást

Koestler var einn þekktasti andstæðingur heimskommúnismans um og eftir heimsstyrjöldina síðari. Hann hafði haft samúð með kommúnistum og tók m.a. þátt í Spánarstyrjöldinni þar sem hann var á vegum lýðveldissinna svonefndra, en sneri við vinstri mönnum bakinu og gerðist öflugur andstæðingur marxista. Hann var ungverskur að uppruna, fæddur 1905 en bjó lengst af í Bretlandi, eða frá 1940, sama ár kom þar út þekktasta ritverk hans, Myrkur um miðjan dag , sem Jón Eyþórsson þýddi á íslenzku og kom út hér á landi 1947. Bókin hafði gríðarleg áhrif og vafamál hvort nokkurt skáldverk var kommúnismanum jafn skeinuhætt og þessi skáldsaga Koestlers sem fjallar um Moskvu-réttarhöldin 1936-38. Hann var í forystusveit andkommúnista á þessum árum og beindi spjótum sínum óspart að guðinum sem brást. Í seinni ritverkum hneigðist Koestler til dulhyggju og fléttaði hana inn í þjóðfélagsleg og mannúðleg markmið sín.

Enginn vafi er á því að Myrkur um miðjan dag og skrif Koestlers um heimskommúnismann mörkuðu djúp spor hér á landi, ekki síður en annars staðar.

Myrkur um miðjan dag

Koestler ritaði einnig ýmislegt um gyðinga og gyðingdóm, enda átti hann til þeirra að telja og lenti í hörkuritdeilum vegna afstöðu sinnar sem var m.a. fólgin í því að annaðhvort yrðu gyðingar að sætta sig við samruna við þá sem þeir bjuggu með og hafna gyðingdómi eða flytjast ella til Ísrael og rækta þar gyðingdóm sinn til fulls. Allt annað væri falskur tónn. Af þessum sökum lenti hann í ritdeilu við þjóðfélagsheimspekinginn Isaiah Berlin og er frá þeim sagt í nýrri ævisögu Berlins eftir Michael Ignatieff. Berlin er vafalaust einn helsti félagsheimspekingur okkar daga, kallaður fjölhyggjumaður meðan Frelsið kom út, og reyndi að þræða hið vandrataða einstigi milli ríkisafskipta og einstaklingshyggju og hafði áhrif í þeim efnum, einnig hér á landi, þótt skrif hans um rússneska rithöfunda, Turgenéf, Tolstoy, Pasternak og Önnu Akhmatovu, hafi verið brýnust um þær mundir, en tvö hin síðastnefndu hitti hann á þriðja áratugnum. Upp úr því var reynt að þegja Pasternak í hel og um þá tilraun hefur verið sagt að skáldið hafi verið eins og fólkið í Pompei, grafinn í ösku í miðri setningu.

Við fyrstu kynni gerði Berlin sér grein fyrir því að Pasternak hafði lítinn sem engan áhuga á að rækta sinn gyðinglega uppruna og hélt þá hinu sama fram og Koestler síðar, að gyðingar ættu að falla inn í það menningarsamfélag sem fóstraði þá og verða hluti af því. Hann lagði þá mikla áherzlu á sína kristnu trú. Samt var augljóst að hann átti í innri baráttu vegna togstreitu milli upprunans og umhverfisins en hún varð að engu með tímanum og leystist í snilldarverkinu um Doktor Zhivago. Koestler aftur á móti fann ekki þá sáttaleið milli gena og umhverfis sem leysti persónuvandamál Pasternaks.

Áður en lengra er haldið má geta þess að miklar deilur hafa orðið um bók Cesaranis um Koestlers enda talið af sumum að ýmsar fullyrðingar höfundar um viðfangsefni sitt séu á veikum grunni byggðar og fram settar af enn minni skilningi enda eigi höfundur harma að hefna vegna gyðinglegs uppruna síns og marxísks umhverfis í æsku. Um þetta skal ekkert sagt, heldur litið á þá bók sem aflaði Koestler heimsfrægðar, skáldsöguna Myrkur um miðjan dag.

Í upphafi Þriðju yfirheyrslu er m.a. komizt svo að orði: "Sá misskilningur slæddist inn í kenningar sósíalista, að sjálfsvitund almúgans færi jafnt og þétt vaxandi. Af þessu leiddi ráðaleysi þeirra, áður en síðasta dingulsveifla sögunnar hófst, - hin hugsjónalega sjálfhelda þjóðanna. Við héldum, að það myndi verða auðhlaupaverk, sem reikna mætti í árum, að laga viðhorf almúgans til umheimsins eftir breyttum aðstæðum. Í þess stað hefði legið nær, samkvæmt allri sögulegri reynslu, að reikna það í öldum. Því fer fjarri að þjóðir Evrópu hafi enn fengið ráðrúm til að melta, í andlegum skilningi, afleiðingar eimvélarinnar."

Og ennfremur segir í sögunni:

"Flokkurinn neitaði frjálsum vilja einstaklingsins ­ og krafðist jafnframt sjálfsfórnar hans af frjálsum vilja. Flokkurinn neitaði hæfni einstaklingsins til að velja um tvo kosti ­ og krafðist þess jafnframt, að hann skyldi jafnan velja hinn rétta kostinn. Flokkurinn neitaði getu einstaklingsins til að greina milli góðs og ills ­ og talaði jafnframt hástöfum um sekt og sviksemi. Einstaklingurinn var bundinn efnahagslegum forlögum, hann var hjól í sigurverki, sem dregið hafði verið upp fyrir alla eilífð og ekki var unnt að stöðva eða hafa áhrif á ­ og Flokkurinn krafðist þess, að hjólið gerði uppreist gegn sigurverkinu og breytti gangi þess. Einhvers staðar var villa í þessum reikningi. Líkingin varð ekki leyst."

"En hvar var fyrirheitna landið"?

Og sögunni lýkur með þessum orðum:

"Var í raun og veru nokkurt slíkt takmark til fyrir hið ráfandi mannkyn? Það var spurningin, sem hann hefði gjarnan þegið svar við, áður en það var um seinan. Móses hafði ekki heldur fengið að stíga fæti inn í fyrirheitna landið. En hann hafði fengið að sjá það blasa við sér ofan af fjallinu. Þannig var auðvelt manni að deyja, er sjálft takmark hans blasti í sjón og reynd við honum. Hann, Nicolas Salmanovitch Rubashov, hafði ekki verið leiddur upp á neitt slíkt fjall. Hvert sem hann beindi auganu, var ekki annað en auðn og svartnætti að sjá.

Hljóðlaust högg féll aftan á hnakka hans. Hann hafði búizt við því lengi, en samt kom það honum á óvart. Hann fann hálfundrandi að hnén urðu máttlaus og bolurinn vatzt í hálfhring. Gæti sómt sér á leiksviði, hugsaði hann um leið og hann féll, en samt finn ég ekkert til. Hann lá í hnipri á gólfinu með vangann á kaldri steinhellunni. Það varð koldimmt. Hann barst á vaggandi bárum eftir náttsvörtum haffleti. Minningar bylgjuðust um hann eins og þokurákir á lygnu vatni. Úti fyrir var einhver að berja á anddyrið. Hann dreymdi, að þeir væru komnir til að handtaka hann. En í hvaða landi var hann?

Hann reyndi eftir mætti að smeygja handleggnum í ermina á morgunsloppnum. En af hverjum var litprentaða andlitsmyndin, sem hékk yfir rúminu og horfði á hann?

Var það NR.EINN eða var það hinn? ­ Var það sá með háðsbrosið eða hinn með glergljáu augun?

Einhver skuggaleg vera beygði sig yfir hann. Hann fann nýjan leðurþef af skammbyssubeltinu. En hvaða skjaldarmerki hafði veran á ermunum og axlarskúfinum? og í hvers nafni hóf hún upp svarta skammbyssuhlaupið?

Annað, roknahvellt högg féll á eyra hans. Svo varð allt hljótt. Aftur kom hafið niðandi úr fjarska. Ein bylgjan hóf hann mjúklega á loft. Hún kom úr órafjarlægð og brunaði óstöðvandi áfram, ­ borin á herðum eilífðarinnar."

Fyrirheitna landið, það var aldrei í augsýn, hann hafði ekki einu sinni fengið að sjá það eins og "egyptinn" Móses sem varð leiðtogi gyðinga samkvæmt uppruna sínum eins og Jonathan Kirsch fjallar um í nýrri ævisögu Móses. Fyrirheitna land Stóra bróður var myrkur, skothvellur.

Dauði.

Churchill

Í bréfasafni Churchill-hjónanna, Speaking for Themselves, sem ritstýrt er af dóttur þeirra, Mary Soams, er þetta frábæra bréf sem Clementine, eiginkona Sir Winstons, sendi manni sínum 27. júní 1940, og mætti það verða mörgum stjórnendum til ábendingar ­ og íhugunar:

27. júní 1940.

Ástin mín. Ég vona að þú fyrirgefir mér að ég skuli segja þér frá nokkru sem ég tel að þú þurfir að vita.

Einn mannanna í fylgdarliði þínu (tryggur vinur) hefur komið að máli við mig og sagt mér að hætta sé á því að félagar þínir og undirmenn taki almennt að kunna illa við þig vegna grófrar kaldhæðni þinnar og yfirgangs. ­ Svo virðist sem persónulegir aðstoðarmenn þínir hafi komið sér saman um að haga sér eins og skólastrákar og "taka því sem yfir þá kann að koma" og yppti síðan öxlum þegar þeir sleppa úr návist þinni. ­ Þegar hærra er komið (t.a.m á fundi) er sagt að þú sért svo hrokafullur að nú um stundir komi engar hugmyndir fram, hvorki góðar né slæmar. Ég varð undrandi mjög og áhyggjufull vegna þess að á öllum þessum árum hef ég átt því að venjast að allir þeir sem vinna með þér eða undir þinni stjórn hafi á þér miklar mætur. ­ Þetta sagði ég og var þá sagt "Vafalaust er það álagið".

Elsku Winston ­ ég verð að játa að ég hef tekið eftir því að framkoma þín hefur versnað; og þú ert ekki jafn alúðlegur og áður. Þitt hlutverk er að gefa Skipanir og ef þeim er klúðrað getur þú rekið hvern sem er og alla ­ nema Erkibiskupinn af Kantaraborg og forseta þingsins. ­ Þar sem þér hefur verið falið þetta gríðarmikla vald verður framkoma þín að einkennast, svo sem frekast er kostur, af kurteisi, góðvild og olympískri yfirvegun. - Þú varst vanur að vitna til orðanna: On ne r`egne sur les ^ames que par le calme. ­ Ég fæ ekki þolað að þeir sem vinna bæði fyrir Þjóðina og þig skuli ekki elska þig, dá og virða. ­ Aukinheldur munt þú ekki ná mestum árangri með því að vera uppstökkur og dónalegur. Slík framkoma mun geta af sér annaðhvort andúð eða þrælslund ­ (Uppreisn á stríðstímum er vitanlega óhugsandi!) Bezti, fyrirgefðu þinni elskandi, trúu og umhyggjusömu

Clemmie."

Það er vitur kona sem skrifar manni sínum slíkt bréf, stór í sniðum og snjall ráðgjafi.

Engin Bergþóra, engin Hallgerður!”

 

6. júlí, þriðjudagur

Sendi Ingu Jónu og Geir H. Haarde Flugnasuðið og fékk þetta tölvuskeyti:

“Kæri Matthías.

Bestu þakkir til ykkar hjóna fyrir sendinguna.   Við höfum þessa bók með okkur til Portúgal.

Kveðja, Geir

 

Ps:  Ég get ekki stillt mig um að benda ykkur á að Hanseatic liggur núna við Miðbakkann í Reykjavíkurhöfn.  Hvort það er sama skipið og 1972 þori ég ekki að fullyrða.

Ps2:  Ég hafði mjög gaman af að lesa Reykjavíkurbréfið þitt um helgina.  Mér er minnisstætt þegar Koestler kom hér á skákeinvígið 1972.  Ég fékk það verkefni að hafa upp á honum og reyna að fá hann til að segja nokkur orð í Morgunblaðið en það tókst reyndar ekki.  Sigurður heitinn Magnússon blaðafulltrúi Loftleiða var að einhverju leyti með hann á sínum snærum og mér skildist á honum að Koestler kærði sig ekki um að tala við innlend blöð.  Ég hafði þá aðeins unnið sem sumarmaður á Mbl. í u.þ.b. 5 vikur og ekki enn lært af M og fleirum að svona svör eru ekki tekin gild!”

Ætlaði að senda Geir Sól á heimsenda svo hann gæti lesið hana í Portúgal, en þau áttu hana.

 

10. júlí, laugardagur

Helga Backmann talaði við mig í fyrradag. Erindið var flutningur jarðneskra leifa Guðmundar Kambans, móðurbróðir hennar, úr Fossvogskirkjugarði í Þingvallagrafreitinn; að þessi flutningur sé bundinn við hátíðarhöldin árið 2000. Þetta sé ósk afkomenda Guðmundar en hann átti eina dóttur með sinni dönsku konu, Sibyl. Ég veit ekki hvað danska konan hét, en hún var leikkona. Þegar Guðmundur hafði verið drepinn í Kaupmannahöfn í lok stríðsins fluttust þær mæðgur til Bandaríkjanna, eða kannski væri réttara að segja að þær hafi flúið þangað. Þær eirðu ekki í Evrópu eftir þetta hrottalega níðingsverk; gátu ekki einu sinni haft langa viðdvöl á Íslandi, en héldu vestur um haf hið fyrsta. Guðmundur var jarðsettur í grafreit einhverra frænda sinna í Fossvogi, en Helga sagði að þar lægju ekki hans nánustu. Sibyl á son sem er blaðamaður vestra. Hún var gift þekktum kvikmyndaleikstjóra, gyðingi sem bar ættanafnið Bibermann, ef ég man rétt. Hann er látinn. Sonur þeirra heitir Thor. Hann á að ég held heima á vesturströnd Bandaríkjanna þar sem móðir hans býr einnig, ef ég skildi Helgu rétt.

Helga kom með undirskrift nokkurra ættingja Guðmundar fyrrnefnds efnis. Hún óskaði eftir því að ég skrifaði undir og tæki þátt í því að jarðneskar leifar Guðmundar yrðu fluttar á Þingvöll. Ég sagðist ekki geta skrifað undir skjalið með ættingjum en þá dró hún upp annað skjal sem var ætlað okkur hinum. Ég sagðist skrifa fúslega undir það. Hún ætlaði svo að fá fleiri undirskriftir, talaði m.a. um Thor. Sibyl hefði hitt hann hér heima á sínum tíma og þótt vænt um það, enda var þetta fólk allt miklir vinir thorsara.

Ég sagði Helgu að hún skyldi hefja þessa baráttu með því að tala við menntamálaráðherra, Björn Bjarnason. Hann væri að ég héldi einnig formaður Þingvallanefndar. Henni leizt vel á þessa uppástungu. Svo kvaddi Helga og ég hugsaði ekki meira um það. En daginn eftir lá svofellt bréf frá henni á skrifborðinu mínu: “Kæri Matthías. Ég talaði við Björn Bjarnason  í dag – honum leist ekkert á að endurnýja dæmið um skáldareit á Þingvöllum – það yrði varla til friðs.”

Með þessari orðsendingu til mín var ljósrit af korti Thors. Þar stendur San Diego, Daily Transcript, Published since 1886. Og undir Staffwriter Thor Kamban Bibermann. Og loks heimilisfangið.

Ég get vel skilið að Björn Bjarnason treysti sér ekki til að leggja út í einhverjar hatrammar deilur um grafreitinn á Þingvöllum, það er líklega komið nóg af svo góðu. Ég held þessi grafreitur hafi verið uppfynding Jónasar frá Hriflu og þá voru flutt bein Jónasar Hallgrímssonar, sögð hans bein að vísu, og jarðsett á Þingvöllum. Segja má það hafi verið vel við hæfi svo mjög sem hann barðist fyrir Alþingi á Þingvöllum, hann og þeir fjölnismenn aðrir.

Ég sagði Helgu að ég teldi að Guðmundur Kamban ætti heima á Þingvöllum, ef út í þá sálma færi. Hann hefði verið einn helzti skáldsagnahöfundur og leikskáld landsins á þessari öld, víðfrægur og mikilhæfur. Ég hefði aldrei gleymt því, þegar ég hefði lesið Skálholt á sínum tíma. Þá hvarf ég þessum heimi og hafnaði í umhverfi Ragnheiðar og Daða. Þess sér stað í Jörð úr ægi, svo mjög sem allt þetta drama snerti kvikuna í mér. En hvað um það. Ýmsir rithöfundar aðrir hafa unnið fyrir því að vera jarðsettir á Þingvöllum án þess það kæmi til tals, svo ég tali ekki um skáld. Guðmundur Kamban var skáld í aðra röndina og vann merkilegt starf fyrir íslenzka ljóðlist með þýðingum sínum á íslenzkum ljóðum á dönsku. Þau voru lesin upp í danska útvarpið í stríðinu, það var víst eitt af því sem haft var gegn Guðmundi; að hann hafði aðgang að danska útvarpinu á þessum erfiðu árum nazistísks ofbeldis. En hann hafði svo sem fullt leyfi til þess eins og aðrir að reyna að sjá sér farborða, auk þess sem hann var ekki skyldur til að taka þátt í andspyrnuhreyfingunni gegn Þjóðverjum. Hann var ekki Dani. Danir höfðu þvert á móti kúgað íslenzku þjóðina öldum saman, en það réð áreiðanlega engu um afstöðu Kambans, eða miklu fremur afstöðuleysi. Ég hef enga trú á því að hann hafi haldið með nazistum í stríðinu eða unnið fyrir þá pólitísk störf, það er fráleitt. Hann var alltof stórgeðja maður til þess að ganga erinda einræðisseggja. En hann var vel þekktur í Þýzkalandi og í miklum metum sem rithöfundur. Hver gengst ekki upp við slíku? Það var hægt að vera vinsæll rithöfundur í Ráðstjórnarríkjunum án þess elska Stalín! Shelley var einn þeirra sem hafði miklar mætur á Napóleon, en hver söng frelsinu dýrlegri óð? Napóleon var einræðisseggur, Shelley gerði sér augljóslega ekki grein fyrir því og hann var ekki einn um það. Enn er verið að dýrka þennan litla liðsforingjaskúrk sem lagði hálfa Evrópu í rúst og kenndi Hitler að miða stærð sína við Rússland. Þeir fengu sömu útreið á sléttunum þar, sem betur fer.

 

Kristján Albertsson gaf mér ljóðaþýðingar Guðmundar Kambans á sínum tíma. Þar eru margar fínar þýðingar sem Danir mættu halda meir uppá en raun ber vitni. Hvide Falke kom út hjá Munksgaard lýðveldisárið, 1944. Það hefur varla verið tilviljun. Kristján Albertsson skrifar formála og aftast eru athugasemdir. Guðmundur Kamban ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Hann þýðir Hallgrím Pétursson, Bjarna Thorarensen, Jónas Hallgrímsson, Grím Thomsen, Matthías Jochumsson, Þorstein Erlingsson og Einar Benediktsson. Það þarf mikið þrek til að leggja í þessa kappa.

Ég sagði Helgu Bachmann að það væri einkum tvennt sem ylli því að mér væri kært að skrifa undir fyrrnefnda ósk ættingjanna; í fyrsta lagi óskin sjálf frá þeim aðilum einum sem ég tæki marki á; í öðru lagi morðið á Kamban og hvernig hann hefði verið niðurlægður – og þar með íslenzka þjóðin – af dönskum ofbeldisseggjum. Mig varðaði ekkert um, þótt þeir hafi verið í andspyrnuhreyfingunni. Þeir hefðu ekkert leyfi haft til að drepa fólk þó að Þjóðverjar hefðu drepið fólk; allra sízt saklaust fólk. Og þó að Guðmundur Kamban hafi ögrað þessum illræðismönnum þarna undir lok stríðsins, þegar þeir eltu hann eins og ótíndan glæpamann, breytir það engu. Hann hafði fullt leyfi til að segja við dönsku “frelsishetjuna” Skjóttu þá! Strákafíflin sem stóðu að morðinu hafa komizt upp með glæpinn. Þeim hefur aldrei verið refsað. Morgunblaðið reyndi að ná til þeirra í fyrra, en án árangurs. Sá sem skaut var þá á lífi, að okkur var sagt, en við fengum ekki undir neinum kringumstæður nafn hans. Við þær aðstæður væri við hæfi að íslenzka þjóðin sýndi minningu Guðmundar Kambans sérstaka virðingu. Hann var góður Íslendingur og einn helzti rithöfundur þjóðarinnar á þessari öld. Hvaða þjóð önnur en Íslendingar hefði geð til þess að láta drepa einn helzta rithöfund sinn eins og ótýndan hund fyrir það eitt að hann tók ekki þátt í baráttu annarrar þjóðar við illvígan innrásarher? Að sjálfsögðu engin. Af þeim sökum, ekki sízt, hefði það verið ágæt og verðug áminning að grafa jarðneskar leifar skáldsins á helgasta stað þjóðarinnar. Það gæti einnig verið táknleg athöfn um 500 ára baráttu kúgaðrar þjóðar við arðrán og ógnarstjórn danskra konunga á þvísa landi – eða hver getur haldið því fram að við Íslendingar höfum verið í betri sporum en kúgaður þriðji heimurinn unz hann losaði sig undan oki Breta og annarra nýlenduvelda evrópskra? Okkur hefur aldrei borið skylda til að standa með Dönum, taka upp þykkjuna fyrir þá, berjast fyrir þá. Hlutleysi gagnvart öðrum þjóðum er ekki landráð við Ísland og Guðmundur Kamban var einhver bezti Íslendingur sem lifði á þessari öld.

Fyrir það hefði hann vel mátt hvíla á Þingvöllum. En ég er samþykkur því að það sé svo sem engin ástæða til að hefja einhverja hatramma baráttu eða ógnardeilur vegna jarðneskra leifa eins né annars. Sjálfir eru þeir sem barizt er fyrir að þeim dauðum allsstaðar annars staðar en í gröfinni, hvað sem þessum leifum líður. Og Guðmundur Kamban var, er og verður fyrst og síðast í sínum beztu verkum. Um það geta danskir ofbeldisseggir engu breytt. Morð er morð, manndráp er manndráp, hvaða nafni  sem það er nefnt.

 

Ódagsett:

Kosovó

Í Pristina, Kosovó

aftengdu þeir ósprungnar

eldflaugar,

 

hvenær aftengjum við

ógnlegar gróusögur

sem geta sprungið hvenær sem er

 

áðurfyr fóru þær

eins og eldur í sinu

um samfélagið

nú springa þær í fjölmiðlum

sem við höfum séð og heyrt.

 

Það er rottugangur

á Reynimel, sagði Lilja

með skelfingarsvip

 

og meindýraeyðirinn kom

á vettvang,

 

hvernig stendur þá á því

að enginn aftengir gróurnar

sem bíða og vinna sitt verk

eins og ósprungnar eldflaugar

við flugvöllinn í Pristina.

 

Með hliðsjón

af kínversku

kvæði

 

Gamlir vindar þekkja stráin stinn

og stráin eru við glugga annars manns,

ég þekki að vísu ekki hugmynd hans

um hálmstráin sem berjast við óvin sinn,

en hef þá skoðun á ósýnilegum óvini mínum

að enginn geti verið í sporum stormsins

en hver og einn verði að sveitast í sporum sínum

og sjaldnast í gervi hetjunnar, heldur ormsins.

 

Jónsmessu

kvíði

Sumargræn kyrrð

 

og þögn við augu

þín

 

sigðgul þögn

og nótt

sem grös við ljá

 

samt vaknar dögun, ljós

við lyng og strá

 

og hafið dregur

sólarglit

til sín,

 

ókominn dag.

 

Og allt er nýtt

án þín.

 

Þetta er önnur gerð af fyrrnefndu kvæði.

 

 

 

 

Þrjár greinar í Morgunblaðinu sem ég hef staldrað við:

 

Wellcome-stofnunin styrkir íslenskan lækni öðru sinni

Nær 40 milljónir til grunnrannsókna í veirufræði

BRESKA Wellcome-stofnunin hefur veitt dr. Ingólfi Johannessen lækni tæplega 30 milljóna króna styrk til rannsókna á herpes-veirusýkingum í beinmerg.

Stofnunin veitti Ingólfi í fyrstu um 10 milljónir króna til forrannsókna við Læknaskóla Edinborgarháskóla í Skotlandi, en styrkir nú verkefnið á ný. Wellcome-stofnunin á rætur að rekja til Wellcome-lyfjafyrirtækisins, en varð síðar sjálfstæð stofnun sem styrkir vísindarannsóknir á Bretlandi.

Herpes-veirur eru allmargar og sumar sýkja m.a. blóðfrumur. Ein þeirra (Epstein-Barr veiran) sýkir t.d. B-eitilfrumur í blóði og er talin eiga þátt í myndun B-eitilfrumukrabbameins í ónæmisbældum sjúklingum. Megintilgangur verkefnis Ingólfs er að kanna hvort og með hvaða hætti þær herpes-veirur er sýkja blóðfrumur kunni einnig að sýkja frumur í beinmerg. Verkefnið er því grunnrannsókn á sviði veirufræði og ætlað að auka skilning á sýkingum af völdum herpes- veira.

Verkefnið er unnið við Læknaskóla Edinborgarháskóla, en Ingólfur starfar þar með Dorothy H Crawford prófessor í sýklafræði. Hann lauk MSc-prófi í sýklafræði og doktorsprófi í veirufræði við Lundúnaháskóla fyrir 2 árum, en vinnur sem stendur á Landspítalanum.

(16. júlí)

 

Ár aldraðra

Jenna Jensdóttir:

"Að bera ábyrgð á Stóra garðinum"

"Það er mat mitt eftir margra áratuga kennslu á unglingastigi að lestur allra áðurnefndra rita væri ungmennum nauðsynlegur vegna dvalar þeirra í þessari veröld. Sá hluti náttúrunnar, Maðurinn, er ábyrgur fyrir því sem er að gerast og gerist. Reynum að gleyma því ekki.”

Furan teygir greinar sínar

fjötruð við jörð, án vængja

líkt og fugl sem fjaðravana

finnur ekkert viðnám

vinds og himins, veröld þeirra er jörðin

og hún er einnig eina veröld þín ...

(Matthías Johannessen)

Við erum komin í þessa veröld án þess að vita tilgang eða örlög. Nærtækast er í vitund okkar, að sjá hana sem veröld heimsku og harma. Við mörg sem eigum flest árin að baki skynjum hana þó sem undursamlegt ævintýri þegar "öllu er á botninn hvolft".

Hugsa sér, á níræðis aldri að eyða dögum í fjarlægu landi með fjölskyldunni, sem elst af fjórum ættliðum og vita aldrei nema sól í dásamlegri samveru fjölskyldu.

Að sjá nýlega í Mbl. að unglingar í Vinnuskóla Reykjavíkur undir stjórn Jóns Gunnars Gylfasonar lesa ljóð í vinnuhléum, leita sér áhugaverðra ljóða á skólasöfnum og lesa þau.

Enn skal nefnt hið stórkostlega framtak Einars Hákonarsonar, listmálara og eiganda Listaskálans í Hveragerði, að koma á samsýningu verka eftir 61 listamann. Tryggvi Gíslason, skólameistari á Akureyri, opnaði sýninguna með athyglisverðu ávarpi, þar sem fram kom að máttur hvers konar listar, væri slagæð í menningu þjóðar. Samsvaraði það lífsreynslu margra aldraðra er á hlýddu.

Ljóðalestur, þar sem lesin voru ljóð tveggja af merkustu samtíðarskáldum okkar; þeirra Matthíasar Johannessens og Jóhanns Hjálmarssonar. Tónlist eftir Carl Möller var flutt með upplestri þess síðar nefnda, frábær upplestur þeirra Karls Guðmundssonar leikara snerti þá sem trúa á ljóðið sem æðstu tjáningu hins talaða orðs. Mannfjöldinn í Listaskálanum á laugardaginn sannaði aðdráttaraflið sem þetta framtak Einars listmálara hafði.

Þótt aðeins séu hér nefnd þrjú dæmi um hve veröldin er björt og hlý, eru þau fjölmörg dag hvern.

Hér skal enn bent á bók Páls Skúlasonar háskólarektors, "Umhverfing", sem leiðir hugann sterklega að því hver er þáttur mannsins á þessari vegferð á móður jörð.

Djarflega mælt: Að lesa nefnda bók samhliða "Móðir Teresa" (ísl. þýð. 1997) verður sú tilfinning ríkust í vitundinni að innsti kjarninn, hvað lífssannindi snertir sé hinn sami. Líkt er það tilfinningu sem gerir vart við sig við lestur á ritum Kierkegaard og Sartre, þar sem tilverukenningin birtist í andstæðum trúar og trúleysis. Jafnvel má nefna rit eftir Ernest Renan og Nietzsche, þótt mörkin þar séu miklar andstæður.

Það er mat mitt eftir margra áratuga kennslu á unglingastigi að lestur allra áðurnefndra rita væri ungmennum nauðsynlegur vegna dvalar þeirra í þessari veröld. Sá hluti náttúrunnar, Maðurinn, er ábyrgur fyrir því sem er að gerast og gerist. Reynum að gleyma því ekki.”

(22. júlí)

Athugasemd frá Þorleifi Haukssyni:

Í “BÓKMENNTARÝNI” sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson birtir í Lesbók Morgunblaðsins í dag heldur hann því fram að Þórbergur Þórðarson hafi skreytt sig með stolnum fjöðrum í lokakafla Bréfs til Láru. Ég leyfi mér að benda honum á að lesa eftirmála Sigurðar Nordals við útgáfu Bréfs til Láru 1949 ásamt bréfi Þórbergs til Sigurðar sem þar er birt. Bréfið er dagsett á Ísafirði 20. júní 1924, en Þórbergur bjó þar hjá Vilmundi Jónssyni.

Í bréfinu segir Þórbergur frá því hvernig efnið hafi leitað á sig, kenningar guðfræðinga um hina tvískiptu náttúru mannsins milli góðs og ills og hvernig refsingin fyrir verk hinnar illu náttúru hljóti að koma niður á hinni góðu sem þar átti enga sök á. Þessa uppgötvun hafi hann fært í tal við ýmsa klerka og orðið fátt um svör. Síðan segir hann:

“Eg hugsaði mér að gera mér einhverntíma mat úr þessari”uppgötvun” minni, helzt í smásöguformi, þar sem eg kæmi fyrir dómstól Drottins allsherjar á efsta degi. En þetta dróst. Í vor las eg smásögu eftir Oscar Wilde, sem heitir The house of judgment. Mér þótti hún vel skrifuð, en heimspekin í henni heldur rýr. Nú leið og beið. Aðfaranótt hins 19. þessa mánaðar lá það alt í einu ljóst fyrir mér, hvernig mín saga ætti að vera. Og í gær skrifaði eg hana. Að formi til ber hún einhvern blæ af sögu Wilde's. En hugsanagangurinn er ólíkur. Eg er að hugsa um að láta Bréf til Láru enda á þessari sögu. Hún getur verið um leið storkandi afsökun fyrir afbrot mín gegn almennu velsæmi, svo að eg bæti í lengstu lög gráu ofan á svart."

Af þessu má ljóst vera að "þessum heiðursmönnum öllum", a.m.k. bæði Sigurði Nordal og Vilmundi Jónssyni, var fullljóst um margnefnd rittengsl, sem rýrði kaflann síður en svo í þeirra augum. Sá sem telur "Morgun hins efsta dags" einungis ófrumlega stælingu á þessu verki Oscars Wilde ætti að velja sér önnur viðfangsefni en bókmenntagreiningu þegar hann skrifar fyrir almenning.”

(23. júlí)

 

Aths. Þessir andans menn vita líklega ekki að hugmyndin er upphaflega komin frá Shakespeare.

 

 

 

Undir mánaðarlok

Hef verið að lesa og ljúka við nýtt rit eftir Daniel J. Boorstin, The Seekers, sögu um viðstöðulausa þörfa mannsins til að skilja heiminn. Fróðleg bók og skemmtileg eins og efni standa til. Mest hafði ég gaman af því sem höfundur segir um Sókrates og hvernig hann gerði spurninguna og samtalið að grundvelli heimspeki sinnar. Sókrates gerði heimspekina persónulegri en áður hafði verið. Hann spurði ekki hvað, heldur hvort menn vissu. Hann lét ekki eftir sig nein ritverk eða kenningar. Platon sá um ritverkin eins og guðspjallamennirnir sáu um að varðveita Krist á skrifuðum blöðum. Styrkur Sókratesar fólst ekki í svörunum, heldur þeim spurningum sem hann spurði.  Heimspeki Sókratesar var samtvinnuð lífi hans. Það var í hversdagslegum og óhátíðlegum samtölum á götum úti og á torgum Aþenu sem hann varð hvað eftirminnilegastur þeim sem til þekktu. Hann lifir í samtölum sínum; ekki í svörunum, heldur spurningunum. Spurningar leiddu af sér svör sem kölluðu á nýjar spurningar og ný svör. Það voru spurningarnar sem gáfu lífi hans þann slagkraft sem raun ber vitni. Hann lifði ekki í ritverkum heldur hversdagslegum samtölum, ósköp venjulegu tali á torgum úti. Hann er ekki eftirminnilegur vegna einhvers heimspekiskóla eða kenninga, heldur vegna persónuleika sem var einstæður og ógleymanlegur. Hann var boðberi nýrrar leitar. Líf hans er varðveitt í bókmenntum mikilla rithöfunda, Aristofanesar, Xenofons, Platons, Aristotelasar  - og allir þresktu þetta korn andlegrar vizku, hver með sínum hætti. Við vitum ekki í raun og veru hvað við vitum um Sókrates, sagði Bertrand Russel. Það sem við vitum er eins og geisli í safngleri mikilla höfunda.

Platon ætlaði sér ungur að verða leikritaskáld en þegar hann kynntist Sókratesi breytti hann um stefnu og varð heimspekingur. Hann fann upp nýtt form, samtalið, í því skyni að koma Sókratesi á framfæri; þessum einstæða fulltrúa vizku og vanþekkingar. Sagt hefur verið að hann hafi verið ljósmóðir nýrra hugmynda; nýrrar heimspeki. Sem hermaður hafði hann verið hetja á vígvellinum, en auðmjúkur spyrjandi á torgum Aþenu. Sem slíkur var hann fulltrúi efans, en efinn er upphaf allrar vizku.

 

En það er rætt margt fleira í bók Boorstins, þar er fjallað um margt nýtt og óvænt og sumt eftirminnilegt eins og verða vill. Sókrates afhjúpaði marga í Aþenu. Hann sýndi fram á að ýmsir sem töldu sig mikla vitmenn vissu lítið sem ekkert. Við hefðum þurft á að halda slíkum manni nú um stundir.

 

Það mættu ýmsir hafa hliðsjón af þeim orðum bandaríska heimspekingsins Holmes þegar hann sagði, Sú uppgötvun að ég er ekki guð er lykillinn að velgengni minni! Hann var merkur boðberi frjálsra gilda í bandarísku þjóðfélagi og lagði að sjálfsögðu höfuðáherzlu á ritfrelsi, en hafði þó þann fyrirvara á því að það mætti enginn hrópa: Eldur, eldur í leikhúsi, ef það væri uppspuni og enginn eldur neins staðar. Það gæti orðið til þess að margir træðust undir. Þessi líking er ekki sízt mikilvæg nú á dögum, svo margir sem sífellt eru að hrópa eldur, eldur í fjölmiðlum án þess það sé neinn eldur. Og margir farast í troðningnum.

 

Boorstin segir að gíski sagnfræðingurinn Þúsidis sem skrifaði um Pelepón-stríðin, en hafði áður verið frægur hershöfðingi, hafi kennt mörgum að vara sig á ræðumönnum og haft fyrirvara á lýðræði.

 

Menn mættu einnig hafa í huga það sem Boorstin segir um Beztu bókina  því að nú er alltaf verið að leita að einhverju sem er bezt eða mest,  þó að það sé náttúrulega út í hött og heimspeki Lása kokks sé miklu nær sanni: Mér finnst allt skemmtilegast, en Boorsten talar um beztu bókina sem aldrei var skrifuð.

 

Ég hafði lúmskt gaman af vangaveltunum um leiðindi guðs. Þegar hann hafði lokið sköpunarverkinu tóku að sækja á hann margvísleg leiðindi, honum fannst vanta eitthvað í sköpunina. Þá fékk hann þá hugmynd að skapa Adam. En Adam var ekki lengi í Paradís því honum fór einnig að leiðast. Þá skapaði guð Evu. Þá kom höggormurinn til sögunnar.

 

Við þykjumst vita flest það sem nauðsynlegt er að vita. Samt er miklu meira óvitað en það sem er vitað. Sumir tala um guð eins og hann sé næsti nágranni. Sumir tala um hann eins og hann gangi með plastpoka um bæinn og safni í hann úr öskutunnunum þeirra. Sumir tala um hann eins og þeir hafi einhverja hugmynd um hver hann er. Sumir eins og þeir hafi hann í vasanum. Nei, við vitum ekkert. Descartes sagði Cogito, ergo sum, ég hugsa, því er ég, en hitt hefði verið nær lagi: Dubito, ergo sum; ég efast, þess vegna er ég. Hitt er rétt, að margir vita ekkert um hvað þeir hugsa, né heldur, um hvað þeir efast, þeir leiða aldrei hugann að því. Minna á konuna sem fann aldrei það sem hún þráði því að hún vissi ekki hvað hún þráði. Arfleifð okkar er hið dimma meginland minninganna. Við stöndum eins og Ásta Sóllilja við hliðina á Bjarti og horfum út á hafið án þess hafa hugmynd um hvað er handan þess. En það sem er handan þess er allt sem við vitum ekki. Það er miklu meira handan þess en það sem liggur við tærnar á okkur. En – hvað eigum við þá að gera. Eigum við að hengja okkur og sjá eftir því. Það leysir ekkert. Hitt er annað mál að við sjáum jafn mikið eftir því að hengja okkur ekki eins og að hengja okkur, eða var það ekki eitthvað á þá leið sem Kierkegaard afgreiddi þessi leiðindi sem sumir kalla, en aðrir líf mannsins á jörðinni. Gifztu – og þú sérð eftir því. Gifztu ekki og þú sérð eftir því. Hvað sem því líður, þá er líklega allt spennandi, nema endurtekningin. Þess vegna eru ferðalög jafn mikilvæg og raun ber vitni. Það er ekki hægt að endurtaka ferðalag; ekki einu sinni ferðalag hugans. Og kannski er það skemmtilegast af öllu. Það er ekki hægt að segja hugsaðu og þú munt sjá eftir því. Hugsaðu ekki og þú munt sjá eftir því. Það er t.a.m. ferðalag að spyrja sjálfan sig að því, hvað merkir historia. Mér skilst upphaflega merking þess sé að spyrja; eða myth – ég hélt það merkti goðsögn, en það er víst ekki rétt. Það merkti víst orð í forngrísku, ekki goðsögn eða uppspuni. Í Biblíunni segir í upphafi var orðið og orðið var hold. Þannig merkir orð í Biblíunni Kristur. En Hómer samdi úr þessu orði önnur orð, sagnir og goðsagnir úr þessu lífi og öðru. Því að orð kvikna af orði eins og neisti af neista. Hómer vann með staðreyndir eins og blaðamaður nú á dögum án þess geta heimilda. Með þeim hætti verður allt afstæður sannleikur og hann eldist eins og Jón Sighvatsson, öldungurinn í Minningarljóði Jónasar; eins og sól hverfi hóglega að fjallsbrún eða – eins og gott vín. Allt er með einhverjum hætti eins og eitthvað annað. Þannig getum við helzt skilið það sem okkur væri annars nánast óskiljanlegt.

 

Brezka skáldið Wordsworth taldi að Biblían væri merkasta rit sem hefði verið skrifað, þar næst ritverk fyrsta sagnfræðingsins Heródótusar. Það get ég vel skilið.

 

Boorstin talar um Oswald Spengler í bók sinni og hugmyndir hans þess efnis, hvernig siðmenning sprettur af menningu sem einskonar örlög, ef ég skildi það rétt. Í þessum kafla nefnir hann brezka heimspekinginn og sagnfræðinginn Tonby, sem skrifaði m.a. fyrir Observer, þegar ég var ungur blaðamaður, og þá þóttu það mikil tíðindi, þegar ný grein birtist eftir hann á þessum vettvangi. Með aldrinum hneigðist Tonby að kaþólskri trú og leitaði með sínum hætti að sambandi mannsins við guð. Alltaf er guð einhvers staðar á ferðinni, samt hefur lítið til hans spurzt eftir að hann fékk leið, bæði á Adam og Evu og bannaði þeim að nota aldingarðinn eins og verðbréfafyrirtæki þar sem höggormurinn ræður lögum og lofum. Og þau hrökkluðust úr garðinum og áttu ekki annars úrkosta en hætta þessu yfirborðslega plastlífi og taka að yrkja jörðina. Nú er engu líkara en við höldum við séum komin aftur inn í aldingarðinn og nú gengur allt fyrir hlutabréfum og viðskiptum. Engu líkara en við teljum guð sé oss næstur, en við erum ekki komin lengra á þroskabrautinni en svo, að við erum sífelldlega að rugla honum sanan við höggorminn.

 

Það fór hlýr straumur um mig þegar ég las kaflann í bók Boorstins um Lúther og mótmælendur, því að þar kemur Ísland við sögu. Lúther lauk við þýðingu sína á Nýja testamentinu 1522, en 12 árum síðar, eða 1534 var það komið út á hollenzku, sænsku, dönsku – og íslenzku. Það segir meira um arfleifð okkar en mörg orð. Og nú má þakka fyrir hvert það ár sem við lifum án þess glata þessum silfurþræði sögu okkar, arfleifðinni sjálfri. Jafnvel Forn-Grikkir glötuðu sinni arfleifð og grikkir tala nú aðra tungu en samtímamenn Platons og Sókratesar. Samt höfðu þeir varað við utanaðkomandi þrýstingi, m.a. með orðinu barbari, en það merkir: maður sem talar annað mál en grísku.

Vonandi höldum við sjó og höfum þetta í huga; höfum í huga upphaflega merkingu orðsins barbari.

 

Boorstin talar einnig um Malraux og minnir á kenningu hans um andörlög í listinni; að lifa af í miklu listaverki eins og Egill í Sonatorreki. Og þegar komið er að Malraux er Guðinn sem brást ekki langt undan. Ritgerðarsafn með þessu nafni  kom út 1950, skrifað af stórmennum andans sem höfðu látið blekkjast af kommúnismanum, en vöknuðu áður en það var um seinan. Það voru dýrmæt þáttaskil í kalda stríðinu. Wordsworth og Shelley trúðu á frönsku stjórnarbyltinguna og féllu fyrir Napóleon sem stal byltingunni og lifði eins og hver annar einræðisseggur með þjóðernisbelging sem afsökun fyrir þeim hörmungum sem hann leiddi yfir Evrópu. En þeir sem skrifuðu Guðinn sem brást voru framsýnni. Einn þeirra var ítalska skáldið Ignazio Silone.

Þegar ég lít til baka minnist ég þess að ég skrifaði um Silone og Dario Fo í Reykjavíkurbréfi fyrir margt löngu; einnig Tolstoj. Það var svo margt skrifað í gamla daga og viðfangsefnin í kalda stríðinu svo ólík því sem nú er efst á baugi. Ég man eftir ferðabrotum sem hafa ekki birzt annars staðar en í Morgunblaðinu, t.a.m. frá Bad Soden, Oberammergau, frá heimaslóðum Mozarts í Salsburg. Þegar ég lít í gamlar úrklippur sé ég að Hanna hefur klippt þetta út, en ég skrifað athugasemdir og viðbætur. Ein er svona: “Þótt ég haldi ekki  lagi, þá veit ég það. Maður getur haft músík í blóðinu, þótt maður sé laglaus. Páll Ísólfsson læknaði mig af þessari minnimáttarkennd. “Það er ekkert nema lífffærafræðilegt atriði hvort maður getur sungið eða ekki”, sagði hann. “Það er með herkjum að ég haldi lagi. Þegar ég reyni að syngja fyrir þjóðkórinn, skella allir uppúr!”,sagði Páll.

Síðan hef ég verið hinn rólegasti og notið allrar þeirrar tónlistar sem hugsazt getur, en aldrei hefur mér samt dottið í hug að semja óperu!

Við Þórbergur erum ósammála í afstöðunni til ópera. Hann á sér ekki heitari ósk en fundið verði meðal við músík. “Það er aðeins tvennt í tilverunni sem er ofaukið”, segir hann. “Það er krabbamein og músík. Tónlist er orðin alþjóðaplága með útvarpi og hátölurum”. Og Þórbergur bætti við: “Mín músík er þögnin og söngur snjótittlingsins í trjánum í garðinum hans Jakobs Thor”. En aumingja Þórbergur hefur aldrei átt slíkan garð eða tré – og því þurft að standa fyrir utan annarra manna garða til að hlusta á snjótittlingana.”

Þetta átti að verða innskot í greinina um Mozart!

 

Í fyrrnefndu Reykjavíkurbréfi sem virðist hafa verið birt 19. nóvember 1978 er sem sagt fjallað um fyrrnefnda tvo rithöfunda ítalska. En kaflinn um Tolstoj hefur líklega birtzt 1975 eða 1980, ég get ekki áttað mig á því af þeim blöðum sem ég hef við höndina.

 

Tveir ítalskir rithöfundar

I.

Ignazio Silone

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 21. október 1978, Hvatir Marx, ræðir Hannes Hólmsteinn Gissurarson um hið merka tímarit andólfsmanna úr kommúnistaríkjunum sem búa útlagar á Vesturlöndum, Kontient, og telur upp marga snöllustu andans menn Norðurálfu, sem eigi aðild að ritstjórn tímaritsins, en lýkur upptalningu sinni með því að nefna ítalska rithöfundinn Ignazio Silone.

Ignazio Silone er einn af merkustu rithöfundum á Vesturlöndum á þessari öld, skáldsagnahöfundur og skarpskyggn baráttumaður gegn fasisma, en síðar kommúnisma. Það er því rétt að nefna hann í sömu andrá og aðra “snjöllustu andans menn Norðurálfu”, en sá hængur er þó á, að Silone var látinn, þegar hann var sagður eiga aðild að ritstjórn Kontinent. Það er í raun og veru tímanna tákn og segir mikla sögu um yfirborðsgárur samtímalífs og brenglað verðmætamat, að Íslendingum skuli ekki enn vera kunnugt um, að svo hugrakkur frumkvöðull frjálshyggju í Evrópu og svo merkur rithöfundur mikillar og rótgróinnar menningarþjóðar, hafi burt kallazt fyrr á þessu ári. Ef poppstjarna tekur inn eiturpillu er fréttin lögð undir forsíður síðdegisblaða um öll Vesturlönd, ef önnur poppstjarna lætur græða á sig nokkra hárbrúska til að hylja yfirvofandi skalla er það jafnvel frétt í Morgunblaðinu(!) En þó Ignazio Silone kveðji þetta líf sem einn af höfðingjum heimsmenningar á Vesturlöndum, láta menn sér fátt um finnast. Og við hér á Morgunblaðinu gerum okkur jafnvel sek um að hafa látið dauða hans framhjá okkur fara.

Ignazio Silone lézt í sjúkrahúsi í Genf 78 ára gamall. Hann var bóndasonur frá Norður-Ítalíu, gekk 17 ára gamall í lið með sósíalistum og barðist gegn fasisma frá æskuárum. Hann notaði umgjörð uppruna síns og æsku í verk sín, þó að ekki sé hægt að segja, að þau séu ævisögur í þeim skilningi, sem við leggjum í orðið. Hann lýsir þessum uppruna sínum m.a. í merkri grein, sem birtist í íslenzkri þýðingu í bókinni Guðinn sem brást, en þar tíundar hann afskipti sín af stjórnmálum frá fyrsta fari, rekur það, hvernig hann gengur kommúnisma á hönd, sér síðan í gegnum þann hrikalega blekkingarvef, sem marxisminn hefur ofið í löndum eins og Sovétríkjunum og víðar, segir skilið við marxismann og boðar ræktun og frelsi einstaklingsins í frjálsu þjóðfélagi. Líf Ignazio Silones og störf drógu að sér athygli allra þeirra, sem létu sig skipta þróun stjórnmála og menningar fyrir og um miðbik þessarar aldar. Hann var í fararbroddi, rödd hans heyrðist um víða veröld. Hann var einna fyrstur til að kasta trúnni og lýsa því, hvernig goð kommúnismans brást dýrkendum sínum eins og skurðgoð Dala-Guðbrands, sem Snorri segir frá í Heimskringlu, en guð Ólafs konungs Haraldssonar var að dómi Guðbrands “hindurvitni” og “trúið á goð vort, er allt hefur ráð yðar í hendi”. En konungur sagði um goð Guðbrands það sama og Ignazio Silone um skurðgoð kommúnismans, að það væri “blint og dautt” og þegar það brast allt sundur, “hlupu þar út mýs svo stórar sem kettir voru, og eðlur og ormar”. En bændur urðu svo hræddir, að þeir flýðu. Og Guðbrandur tók átrúnað á guð konungs, sem fór “með ljósi miklu”. (Bjarni Benediktsson hefur lagt eftirminnilega út af frásögn Snorra í ræðunni 1. des. 1961.)

Guðinn sem brást var gefin út í þýðingu Hersteins Pálssonar 1950. Það eru engir aukvisar, sem gera upp við kommúnismann í þeirri bók, Arthur Koestler, Ignazio Silone, Richard Wright, André Gide, Louis Fishcer og brezka ljóðskáldið Stephen Spender, sem er í fremstu röð ljóðskálda á enska tungu.

Ignazio Silone var einn af stofnendum ítalska kommúnistaflokksins 1921, en sagði sig úr flokknum 1930 af ástæðum, sem hann lýsir í Guðinum sem brást. Hann þurfti marga hildi að heyja og er fullyrt, að líf hans hafi einatt verið í hættu vegna afskipta hans af stjórnmálum heima á Ítalíu. Hann var handtekinn og settur í fangelsi, en komst frá Ítalíu og bjó í Sviss um 14 ára skeið. Að stríði loknu hvarf hann aftur heim, tók enn þátt í ítölskum stjórnmálum, blaðamennsku og skrifum um bókmenntir og menningarmál. Silone var þekktur af skáldsögum sínum, leikriktum og stjórnmálaritgerðum og var allfrjór höfundur í fremstu röð og virður vel. Segja má með nokkrum sanni, að verk hans séu samfelld heild, reist á persónulegri reynslu og nálgist einatt að vera skáldsögur í ritgerðarformi. Einhverju sinni komst hann svo að orði, að hann væri “sósíalisti án flokks, kristinn maður án kirkju”. Segja má að hann hafi smám saman losað sig við alla pólitíska afstöðu og tilheyrt hvorki sérstökum flokki né stefnu. Velferð meðbræðra hans í frjálsu samfélagi var honum nægilegt og verðugt viðfangsefni.

Í ævisögugrein hans í Guðinum sem brást, eru ýmis íhugunarefni fyrir okkur, sem nú lifum ekki, sízt ungt fólk. Hann segir t.a.m. í V kafla: “Hinar sálfræðilegu aðferðir, sem af leiðir, að hver einstakur baráttumaður verður jafnt og þétt óaðskilanlegri hluti heildarinnar, eru af sama toga  og þær, sem beitt er af sumum trúarfélögum og herforingjaskólum, og árangurinn næstum hinn sami. Hverri fórn var fagnað sem persónulegu framlagi á fórnarstall “sameiginlegrar frelsunar” og leggja verður áherzlu á það, að böndin, sem tengdu okkur flokknum, urðu jafnt og þétt sterkari, ekki þrátt fyrir hætturnar og fórnirnar, sem krafizt var, heldur einmitt vegna þeirra. Þetta er skýringin á því, hvers vegna kommúnisminn hefur haft svo mikið aðdráttarafl á vissa tegund ungra karla og kvenna, á menntamenn og það ákaflega viðkvæma og örláta fólk, sem þjáist mest af sóun borgaralegs þjóðfélags. Hver sá, sem heldur, að hann geti fengið hin beztu og alvarlegast hugsandi ungmenni til þess að snúa baki við kommúnismanum með því að ginna þau inn í hlý salarkynni til að leika ballskák, hefur ákaflega takmarkaðar og óskynsamlegar hugmyndir um mannkynið”.

Og Silone segir ennfremur svo í V kafla: “Dag nokkurn eyddi ég klukkustundum í að reyna að skýra fyrir konu, sem var framkvæmdastjóri við útgáfuhring ríkisins, hvers vegna hún ætti að minnsta kosti að skammast sín fyrir þann sífellda ótta, sem rússneskir rithöfundar lifðu í. Hún skildi ekki það, sem ég var að reyna að koma henni í skilning um.

Ég reyndi að sýna henni fram á þetta með dæmum. “Frelsi,” sagði ég, “er möguleikinn til að efast, möguleikinn til að skjátlast, möguleikinn til að leita og gera tilraunir, möguleikinn til að segja nei við hvaða yfirvald sem er – bókmenntalegt, listrænt, heimspekilegt, trúarlegt, félagslegt og jafnvel stjórnmálalegt yfirvald.”

“En það,” tautaði þessi ágæti embættismaður Sovétmenningarinnar með hryllingi,  “er gagnbylting.” Svo bætti hún við, til þess að reyna að ná sér niðri á mér: “Við erum fegin því að njóta ekki frelsisins ykkar, en við höfum heilsuhæli í staðinn.”

Þegar ég benti henni á, að orðatiltæki hennar “í staðinn” væri alveg út í hött, “frelsi er ekki verzlunarvara, sem hægt er að nota til skipta”, og að ég hefði séð heilsuhæli í öðrum löndum, hló hún upp í opið geðið á mér.

“Þú ert í skapi til að gera að gamni þínu við mig í dag,” sagði hún .  Og mig rak svo í rogastanz við einlægni hennar að ég þorði ekki að andmæla henni frekar.

Það var fullkomlega sannfærandi að sjá hrifning rússneskrar æsku á þessum fyrstu árum sköpunar hins nýja heims, sem við vonuðum allir, að mundi verða mannúðlegri en hinn gamli. En hversu breizk voru ekki vonbrigðin, þegar árin liðu fram og hin nýja stjórn festist í sessi, efnahagskerfi hennar byrjaði að taka á sig mynd og hernaðarárásum utan frá var hætt, - vonbrigðin af að sjá ekki bóla á hinu fyrirheitna lýðræðisfyrirkomulagi en verða þess hins vegar var, að einræðið varð enn harðsvíraðra en áður”.

Og í þessari merku ritgereð Silones segist hann hafa skotið þeirri viðvörun að ítalska kommúnistaforingjanum Togliatti, að “síðasti bardaginn verður háður milli kommúnista og uppgjafakommúnista”.

 

II

Dario Fo

Menn verða kommúnistar eða marxistar af ólíkum ástæðum; sumir vegna biturrar reynslu í æsku, aðrir af sálfræðilegum ástæðum, og svo eru þeir, sem gerast marxistar eða kommúnistar í sama tilgangi og kamelljónið skiptir um lit, þ.e. til að hylja fyrri veikleika, glæpi, sem mega ekki komast upp, og umfram allt: til að falla inn í umhverfi óvinarins og halda lífi – á sama hátt og kamelljónið. Þannig hafa fyrrverandi nazistaforingjar orðið kommúnistaleiðtogar í Austur-Þýzkalandi, að því er fregnir herma, og nú hefur verið upplýst sú ótrúlega staðreynd, að einn byltingarsinnaðasti rithöfundur Ítala, maður, sem hefur varla haldizt við í kommúnistaflokki Ítalíu vegna þess hann er ekki nógu róttækur fyrir hann, ítalska leikkritaskáldið Dario Fo, er fyrrverandi fasisti og barðist meira að segja ótilneyddur fyrir málstað Mussolinis.

Dario Fo er einn af vinsælustu leikritahöfundum samtímans. Af þeim verkum, sem leikin hafa verið eftir hann í Leikfélagi Reykjavíkur, vita Íslendingar mætavel, að hann kann svo vel til verka, að fáir standa honum á sporði í óborganlegri farsagerð. Hann er í senn frábærlega skemmtilegur leikritahöfundur og stórsnjall hugmyndasmiður í erfiðistu grein leiklistar, fyndinni farsaádeilu. Enginn erlendur leikritahöfundur hefur náð meiri vinsældum hér á landi en Dario Fo og sýningarnar á verkum hans hafa ekki einungis verið eftirminnilegar, heldur ógleymanlegar.

Dario Fo hefur ekki eyðilagt þau leikverk sín, sem hér hafa verið sýnd, með ómerkilegu þjóðfélagsþvaðri eða pólitísku bulli, sem gengur aftur í fjölda verka nú um stundir eins og kækur. Hann er alltof góður höfundur til að láta sér detta í hug að eyðileggja verk sín með þeim hætti. En þó “prédikar” hann eins og honum sýnist, en með þeim hætti, að vekur í senn kátínu og umhugsun. Það hefur ekki farið framhjá nokkrum manni, sem fylgzt hefur með rithöfundarferli Dario Fos, að hann er marxisti og hefur raunar þótzt vera svo langt til vinstri, að jafnvel ítalskir kommúnistar hafa lent í útistöðum við hann vegna róttækni hans.

En nú hefur það verið afhjúpað á Ítalíu, að hann er fyrrum fasisti. Þannig hefur hann farið úr einum öfgum í aðrar og það þarf engan frumlegan sálfræðing til að láta sér detta í hug, hvers vegna hinum fyrrverandi fasista hafi þótt henta að hylja sig reykskýi  kommúnismans, þegar búið var að uppræta þriðja ríki Hitlers og Mussolini hafði verið hengdur upp á fótunum. Samt hefur þessi uppgötvun komið mönnum í opna skjöldu og á Ítalíu hefur það vakið athygli, að Dario Fo skyldi hafa viðurkennt það fyrir réttinum í Varese, að hann hefði ekki verið kommúnisti í seinna stríði og því ekki getað tekið þátt í fjöldamorðum kommúnista á Ítalíu í stríðinu, heldur hefði hann verið í fasistasveitum Mussolinis og gengið m.a. í fallhlífasveit hans á N-Ítalíu.

Mynd hefur verið birt af Dario Fo þar sem hann er í hermannabúningi fasista í stríðinu, tekin 1944. Fyrir réttindum sagðist hann hafa gengið í þessa frægu fallhlífasveit fasista til að eyða tortryggni í garð föður síns, en fjölskyldan bjó, að sögn hans, í einhverju fegursta umhverfi Evrópu, við Lago Maggiore. Dario Fo kvaðst hafa verið í sveitum fasista frá september 1944 – jan. 1945, þegar hann sagðist hafa gengið í andspyrnuhreyfingu Lazzarinis. En leiðtogi þessarar andspyrnuhreyfingar, Giacinto Lazzarini, hefur lýst því yfir í samtali við ítalska vikublaðið Gente, að hann sé undrandi á yfirlýsingu Dario Fos, af því að hann hafi aldrei verið í andspyrnuhreyfingu hans, né heldur hafi heimkynni Dario Fos og foreldra hans nokkurn tíma verið bækistöðvar andspyrnuhreyfingar gegn fasistum. Aftur á móti birti vikuritið samtöl við nokkra fyrrverandi félaga Dario Fos í fasistaherdeildinni og mundu þeir eftir því, hversu áhugasamur hann hafði verið, meðan hann var í þjónustu Mussolinis og gat einn þessara fyrrverandi félaga Dario Fos í fastistahreyfingunni þess, að hann hefði barizt við hlið hans, þegar fallhlífasveitin gerði árás á andspyrnusveitir kommúnista  við Cannobio við Lago Maggiore, en í þeim bardaga börðust fasistar gegn andspyrnuhreyfingu kommúnista frá Domodossola, sem er ein helzta samgönguborg á þessu svæði á N-Ítalíu, með mikilvægri járnbrautarstöð á leiðinni til Brig Í Svisslandi.

 

III

Ólíkt hlutverk í harmleik

En hvað sem þessu líður, þá er augljóst, að hlutverk þessara tveggja merku ítölsku rithöfunda, Ignazio Silones og Dario Fos, í síðustu heimsstyrjöld, voru eins ólík og verða mátti. Það er því kannski ekki undarlegt, þó að pólitískt hlutverk þeirra hafi einnig orðið ólíkt eftir styrjöldina. Í styrjöldinni var Silone sósíalisti og harður andstæðingur fasista, en Dario Fo barðist undir merkjum Mussolinis með frægri fasistasveit, m.a. við andspyrnuhreyfingu kommúnista. En eftir stríð verður Ignazio Silone einn merkasti andstæðingur kommúnismans í Evrópu, en Dario Fo aftur á móti kröfuharðastur allra um marxíska byltingu á Ítalíu.

Þessi samanburður segir ekki ómerka sögu. En hann verður líklega aldrei efniviður í skemmtilegan farsa eða merk ádeiluverk eftir Dario Fo. En kannski þeir ættu að gera þessa örlagafléttu að rannsóknarefni í sálfræði- og þjóðfélagsvísindum við Háskóla Íslands. Það hlýtur að vera eftirsóknarvert rannsóknarefni að komast að raun um, hvers vegna fyrrverandi kommúnistar hætta að vera kommúnistar og fyrrverandi fasistar gerast byltingarsinnaðir marxistar við hentugt tækifæri. Róttækir leikarar gætu einnig haldið fund um fyrirbrigðið og Alþýðubandalagið sett nefnd í málið, nú þegar íslenzkir kommúnistar hafa lýst því yfir að þeir ætli að stjórna heimsbyltingunni.

(1978)

 

 

Örfá orð um Tolstoj

I

Sjónvarpið sýndi ekki alls fyrir löngu merka kvikmynd um rússneska stórskáldið, hugsuðinn og snillinginn Leo Tolstoj. Það var eftirminnilegt að sjá Tolstoj eins og hann var á efri árum: þennan mikla og sérstæða persónuleika, sem á seinni árum lifði sjálfur samkvæmt þeim siðferðiskenningum, sem hann boðaði í verkum sínum. Mikið lagði hann í sölurnar fyrir þann boðskap. Rætur hans sóttu næringu í siðaboðskap Krists, eins og kunnugt er. Tolstoj var kristinn höfundur og hafði róttækar skoðanir á ýmsum málum.

Tolstoj var mikilmenni. Malcolm Muggerage, einn þekktasti rithöfundur og blaðamaður Breta nú um stundir, sagði um hann í sjónvarpsmyndinni, að hann væri eins og sjálft sköpunarverkið. Gekk jafnvel svo langt að nefna Krist í sömu andrá og hann talaði um trúspeki Tolstojs.

Margt hefur breytzt í föðurlandi Leo Tolstojs. Þó var eins og margar lýsingar á lífi hans ættu ekki síður við nú á dögum en meðan hann lifði. Afstaða stjórnvalda til rithöfundarins minnir á þá kúgun, ofbeldi og mannúðarleysi, sem enn ríkir þar í landi. Frelsið er fótum troðið. Þó verður að segjast eins og er, að fólk hefur það nú flest betra hvað snertir fæði og klæði en á dögum Tolstojs. Leiguliðarnir eru að vísu enn kerfisþrælar og andlegt frelsi þeirra eða annarra ekki meira í þessu föðurlandi mikillar menningar en á dögum snillingsins. Ófrelsið jafnvel meira, ef eitthvað er.

Leo Tolstoj gat aldrei fellt sig við kenningar Karls Marx, leit á hann sem boðbera efnishyggju, sem hann fyrirleit og stakk gjörsamlega í stúf við mannúðarkenningar, kærleiksboðskap og siðgæðisvitund Tolstojs. Kristnin varð kjarni lífs hans og kenninga. Virðingin fyrir manninum, frelsi hans og andlegri reisn. Snillingurinn taldi jafnvel að andi mannsins væri guðslegs eðlis og í eðli hvers einstaklings byggi fyrirheit um einhverskonar eilífð. Nú á dögum má helzt ekki minnast opinberlega á orð eins og einstaklingur og mannúð í Sovétríkjunum, enda þótt Brezhnev hafi leyft sér þann munað að taka þau sér í munn við hátíðlegt tækifæri á Helsingforsfundinum, þegar sáttmálinn um öryggi og mannréttindi var undirritaður.

 

II

Leo Tolstoj helgaði líf sitt leit að fullkomnun. Í Kreutzersónötunni gerði hann upp við synd og freistingu. Sagði skilið við veikleika sinn og æsku. Ástina og fylgikvilla hennar, afbrýðissemina. Hengdi sjálfan sig upp á krosstré. Sjálfur fór hann í gegnum hreinsunareld, skírðist í þeim eldi meir og betur en flestir aðrir. Verk hans bera þess ekki sízt merki og munu ávallt eiga erindi við hugsandi fólk, hvar sem er í heiminum.

Þó sagði talsmaður rússneskra vinstri manna um Stríð og frið – og var, sýnilega stórlega létt – að til allrar hamingju væri Tolstoj ekki mikill höfundur! Samt varð Tolstoj e.k. guðspjallamaður á efri árum og rödd hans náði m.a. til indversks lögfræðings í Suður-Afríku að nafni Gandhi. Hann varð fyrir miklum áhrifum af Tolstoj og bandaríska rithöfundinum úr Walden-skógi, Nýja-Englandi, Thoreau, sem sumir telja einstaklingshyggjuna persónugerða. “Óvirk andstaða” er frá honum komin, þessum miskilda frjálshyggjumanni. Tolstoj vildi lifa eins og heilagur maður. Það var misskilið, talið bera vott um miskunarlausa eigingirni, sjálfsdýrkun. Kona hans, Sonja, skildi þetta ekki, það var sárt. “Hann lyktar eins og geit”, sagði hún. Lærisveinar hans voru þá raunveruleg fjölskylda hans.

 

III

Lenin hafði misjafnar mætur á Tolstoj, kunni að meta sumt í verkum hans, annað ekki. Hann talaði um þverstæðurnar í lífi hans og verkum, kallaði hann annars vegar “fjall”, en hinsvegar “vælukjóa”. En hvernig átti hann að skilja þennan hugsuð, sem gekk út á akrana að plægja þá fyrir rússneska leiguliða og verkafólk?

En Lenin markaði aftur á móti þá stefnu, ásamt samstarfsmönnum sínum og arftökum, að milljónir rússneskra bænda flosnuðu upp af jörðum sínum, eða voru reknar miskunnarlaust inn í þrælabúðir og dauða. Píslarganga kúlakanna er ein af harmsögum þessarar aldar.

 

IV

Eða kirkjan. Jafnvel rússneska orþódox-kirkjan þoldi ekki siðferðisboðskap Leos Tolstojs, né þá kenningu hans, að farsælst væri að menn fetuðu þá einu leið, sem að hans dómi var fær, þ.e. að fara eftir kenningum Krists, í verki, en ekki einungis í orði. Jafnvel það tókst skáldinu, þegar árin færðust yfir hann. Hann galt jafnvel ekki keisaranum það, sem keisarans er, heldur lýsti hann blákalt yfir því, að hann yrði ævinlega í andstöðu við ríkið, í hvaða mynd sem það birtist. Að þessari niðurstöðu komst hann, þegar hann horfði á fórnardýr leggjast undir fallöxina í París. en fallöxi ríkisins var erfðagóss orþódox-kirkjunnar rússnesku. Leo Tolstoj uppfyllti jafnvel í elli sinni orð Krists, þegar hann sagði við unga manninn: “Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.” Hinn ungi maður segir við hann: “Alls þessa hefi eg gætt. Hvers er mér enn vant?” Jesús sagði við hann: “Ef þú vilt vera algjör, þá far, sel eigur þínar og gef fátækum, og munt þú eiga fjársjóð á himni.” Siðferðisprédikun Tolstojs var einföld eins og fjallræðan: Gegn manndrápum og ofbeldi, gegn stríði; í fátæku fólki var dyggð og vizka – við gætum kallað það fjallræðufólk.

Slíkur boðskapur var spilltri orþódoxkirkjunni að sjálfsögðu ofviða. Hún skildi nánast ekki skáld, sem tókst í lífi sínu að fylgja kenningu Krists. Í kringum aldamótin gerði hún sér lítið fyrir og bannfærði Leo Tolstoj, kallaði hann jafnvel falsspámann, og þá ekki sízt vegna samúðar hans með soltnum og undirokuðum leiguliðum. Hann svaraði því til, að hann gæti ekki, eftir langa og stranga baráttu, snúið aftur til fyrri viðhorfa frekar en fleygur fuglinn inn í eggið, sem hann kom úr.

 

V

Þegar styrjöldin brauzt út milli Rússa og Japana, var Leo Tolstoj spurður um það, með hvorum hann héldi. Skáldið svaraði, að hann stæði með verkafólkinu í báðum löndum. Þrátt fyrir slíkt svar, er mörgum leiðtogum efnishyggjunnar um megn að sjá hann í réttu ljósi. Þeir fyrirlitu það markmið hans að stefna að fullkomnun mannsandans, fullkomnun einstaklingsins. Hvernig ættu marxistar að skilja siðferðisbaráttu, sem beinir athyglinni inn á við – að innri auðlegð og þroska einstaklingsins, en ekki út – til megðarinnar?

Leo Tolstoj var langt á undan sínum tíma í afstöðu til skólamála. Kenningar hans í menntunar- og fræðslumálum höfðu að takmarki þroska einstaklingsins, en ekki mótun hans að vilja ríkis og opinbers valds. Það kemur því engum á óvart, þegar talsmaður Sovétstjórnarinnar á búgarði skáldsins, sem nú er minjasafn, feit kerling og flokkslega innrætt, fullyrði blákalt í sjónvarpsmyndinni, að kenningar Leos Tolstojs í kennslumálum séu löngu úreltar – og hafi raunar alltaf verið. Það vekur ekki heldur neina sérstaka athygli lengur, en mætti þó vera kirkjunnar mönnum íslenzkum nokkurt íhugunar- og áhyggjuefni, þegar þessi sama þröngsýna kommúnistakerling segir, að boðskapur skáldsins eigi ekki erindi við okkar tíma, því að “á tímum tækni og vísinda” sé heimskulegt að trúa á Guð, eins og hið opinbera munnsegulband hennar komst að orði. Veikleiki Tolstojs, sagði hún, var sá að hann trúði á guð(!) Hvað skyldi hún vita um guð, frekar en aðrir, nema þá falsguðina í fyrirheitum marxismans? En góðum marxista ætti þó að vera það metnaðarmál að afgreiða ekki það sem hann veit ekkert um. Slík heimska er a.m.ki. ódíalektísk. Þórbergi hefði líkað hún illa.

Hvernig ættu þessar gervipersónur sem hafa tekið sér gerviguði og fyrirlíta forsjón Leos Tolstojs, að geta skilið líf hans og störf, boðskap hans og kenningar, svo að ekki sé talað um frelsisást hans og fordæmi? Skáldsins sem lagði í verkum sínum höfuðáherzlu á eina persónu: sannleikann.

 

VI

Allt leiðir þetta hugann að öðru skáldi rússnesku, öðru mikilmenni, Alexander Solzhenitsyn. Sagt var að tveir keisarar réðu ríkjum í Rússlandi, meðan áhrif Leos Tolstojs voru hvað mest, skáldið og Nikulás keisari II. Nú má segja hið sama, að keisararar Sovétríkjuanna séu tveir, sá veraldlegi Brezhnev og hinn andlegi leiðtogi, Solzhenitsyn. Athyglisvert er, hver afstaða orþódox-kirkjunnar hefur verið til hins síðastnefnda. Það leiðir einnig hugann að Tolstoj. Allir, sem fylgzt hafa með átökum Solzhenitsyns og sovétvaldsins, vita fullvel, að grundvöllur siðferðisboðskapar Solzhenitsyns er sama bjargið og Tolstoj stóð á. Hann er kristinn höfundur og sér þess víða stað, enda er hann ófeiminn að flíka því. Siðferðislegt þrek sitt sækir Solzhenitsyn einnig í orð Krists og kenningar, sem hann boðar af heitri sannfæringu. En hvað segir orþódox-kirkjan í Sovétríkjunum um þennan mesta boðbera kristinnar trúar, sem nú skrifar og talar á rússneska tungu? Það er raunar eins og ekkert hafi breytzt í Rússlandi, allra sízt kirkjan. Hin opinbera afstaða kirkjunnar nú er með nákvæmlega sama hætti og þegar hún bannfærði Leo Tolstoj á sínum tíma. Þegar Solzhenitsyn hafði skrifað fyrsta bindið af Gulag-eyjaklasanum, rufu ýmsir af forystumönnum rússnesku kirkjunnar þögnina og réðust harkalega að skáldinu; afneituðu honum; bannfærðu hann á sinn hátt. Yfirlýsingar þeirra leiðtoga orþódox-kirkjunnar rússnesku sem ráðizt hafa á Solzhenitsyn, hafa að vísu ekki verið birtar í opinberum sovézkum málgögnum innanlands af þeirri einföldu ástæðu, að þau viðurkenna ekki tilveru kirkjunnar og talsmanna hennar. En einhvern frið reyna þeir nú samt að kaupa sér, og má þar til nefna Aleksei, yfirmann orþódox-kirkjunnar í Eistlandi, Serafin byskup, og Juvenal byskup, sem sér um það takmarkaða samband, sem patríarkinn í Moskvu hefur við önnur lönd. Yfirlýsingar þeirra hafa verið birtar af sovézku fréttastofunni Novosty, sem blómstrar m.a. hér á landi eins og níðhöggur í aski Yggdrasils. Í yfirlýsingum klerkanna segir, að sovézka þjóðin, bæði hinir trúuðu og guðleysingjarnir, fordæmi alla andþjóðfélagslega hegðun, eins og komizt er að orði. (Við þekkjum tungutakið). Þessi fordæming nái einnig til Alexanders Solzhenitsyns, “sem gerir lítið úr tilraunum þjóðar vorrar til að  draga úr spennu, með því að birta andsovézk verk erlendis,” eins og sagt er í einni yfirlýsingunni frá þessum kristnu karlfauskum. Tónninn  er sá sami og þegar fyrirrennarar þeirra fordæmdu Leo Tolstoj og verk hans. Serafin ræðst sérstaklega á Solzhenitsyn fyrir að birta Gulag-eyjaklasann, harmsöguna miklu um þrælabúðirnar í Sovétríkjunum. Solzhenitsyn er óvinur lands síns og þjóðar, segir Serafin og maður trúir því allt í einu, sem stundum hefur verið haldið fram, að KGB-menn séu sendir á prestaskóla til að eyðileggja orþódox-kirkjuna innan frá.

En einkennilegt er að slíkir leppar skuli telja sig kristna, nema þá þeir hafi orðið fyrir svipaðri reynslu og persóna ein í Kontrapunkti, skáldsögu Huxleys, sem trúir á djöfulinn og kemst að þeirri niðurstöðu, að hið illa sanni tilveru guðs. Ég ætla að trúa á djöfulinn, segir þessi kommúnisti í Kontrapunkti, guð í djöflinum.

Menn geta nálgast guðdóminn með ýmsum hætti. En þegar klerkastéttin er orðin málsvari hins illa, hvað þá um hina minni spámennina?

En vegir guðs eru sagðir órannsakanlegir. Jafnvel “á tímum tækni og vísinda!”

 

VII

Í grein í New Statesman eftir Malcolm Muggeridge er rifjað upp, þegar hann var í Sovétríkjunum fyrir tveimur árum á vegum kanadíska sjónvarpsins, og gerði sjónvarpsmyndina um Tolstoj. “Við vorum að taka myndir í Yasnaya Polyana, heimili Tolstojs, og sjónvarpsstöð í nágrenni Tula bað mig um samtal. Ég samþykkti það þegar í stað. Það átti aðeins að spyrja mig einnar spurningar, var mér sagt – hvers vegna ég dáðist að Tolstoj? Þetta virtist auðvelt. Meðan ég beið eftir því, að samtalið hæfist, labbaði ég fram og aftur og einbeitti huganum, en þá kom til mín Rússi, sem talaði ensku og ræddi við mig, Tolstoj var mikill friðarsinni, var það ekki? sagði hann í upphafi samtalsins. Ég féllst á það. Það yrði vel metið, hélt hann áframn, ef ég segði í samtalinu, að détente (eða slökunarstefna) Brezhnevs væri að gera vonir hans að veruleika. Manninum var fúlasta alvara. Við þetta sat.  En þegar ég var spurður spurningarinnar, hvers vegna ég dáðist að Tolstoj og hafði sagt, að hann væri mesti rithöfundur okkar daga, bætti ég við, að mér fyndist hann persónulega vera lýsandi útlistun Nýja-testamentisins og fullyrti, að stjórnir og vald gætu í raun og veru ekki á nokkurn hátt bætt við gildi mannlegs lífs.”

Malcolm Muggeridge bætir því einungis við, að það hafi ekki komið sér á óvart, að samtalinu hafi ekki verið sjónvarpað í Sovétríkjunum og látið sitja við það eitt að sýna á sjónvarpsskerminum þögla mynd af upptöku þeirra félaga í Yasnaya Polyana.

Þögn hinna bergmálslausu múra hafði talað.

(1975/1980)

 

30. júlí, föstudagur

Var á fundi í gær með Birni Bjarnasyni, menntamálaráðherra, og Stefáni þjóðleikhússtjóra Baldurssyni. Aðalfundarefni: Auglýsing um starf Þjóðleikhússtjóra. Björn sagðist hafa ákveðið að birta auglýsingu þess efnis 8. ágúst n.k. Hægt væri samkvæmt lögum að endurráða núverandi þjóðleikhússtjóra og hygðist hann gera það. Stefán sagðist mundu sækja, enda fengið áskoranir þess efnis frá starfsfólki Þjóðleikhússins. Ég sagðist mundu styðja ráðningu Stefáns þar sem ég teldi að hann hefði staðið sig vel og engin ástæða til að byggja opinberum starfsmönnum úr embættum á 5 ára fresti, nema þeir hefðu gerzt sekir um hneyksli eða afglöp. Ég fæ svo umsóknir í hendur frá menntamálaráðuneytinu þegar þar að kemur og mun leggja þær fyrir þjóðleikhúsráð. Það skrifi síðan umsögn um þann sem ráðið styður. Það kemur í ljós, þegar umsóknir hafa borizt, en að öllu óbreyttu þykir mér líklegast að Stefán verði áfram í embættinu. Ég veit ekki um neinn sem hyggst sækja gegn honum og vona að það verði enginn venjulegur íslenzkur kverúlant sem ekki yrði unnt að losna við næstu árin! Það er mikilvægt að vel takist til af þeirri einföldu ástæðu að nú er 50 ára afmæli Þjóðleikhússins framundan og næsta ár á víst að verða mikið menningarár, þótt ég sé að vísu ekki hallur undir slíkar stellingar, en tel bezt fara á því að halda hversdagsleikann hátíðlegan og af þeirri reisn sem efni standa til.

Björn sagði okkur frá átökum um Skriðuklaustur og stofnun Gunnars Gunnarssonar þar. Þar er Arthúr Björgvin Bollason helzt nefndur til sögunnar vegna þess að hann hafði einhver fyrirheit um að fá starfið, meðan stjórnarmenn vissu ekki af deilum hans og Franziscu Gunnarsdóttur um meintan nazisma afa hennar, en þau fyrirheit urðu að engu, þegar skrif Arthúrs Björgvins um Gunnar á sínum tíma voru rifjuð upp. Franzisca er eldheit eins og sjá má á úttekt Morgunblaðsins í dag en þar er rækilega fjallað um málið á miðsíðu.

Sveinn Skorri Höskuldsson talaði við mig í dag og sagði að Franzicsa hefði skellt á hann símanum vegna þess að hann vildi ekki blanda sér í þessa deilu, taldi bezt að reynt yrði að kyrra ýfðan sjóinn. Ég er sammála um þetta. Hitt þykir mér augljóst að Arthúr Björgvin hafi farið heldur óvarlega  í þessu máli, enda kallaði hann á andsdtöðu, þegar hann skrifaði um Gunnar Gunnarsson á sínum tíma. Mér er að vísu gjörsamlega óskiljanlegt, hvernig hann gat sótt um þetta starf, hafandi það álit á Gunnari sem raun ber vitni. En hann gerir grein fyrir því, einnig í Morgunblaðinu í morgun, án þess ég telji það fullnægjandi.Franzicsa var Skorra reið vegna þess hann vildi ekki hafa afskipti af deilunni, þótt hann væri að skrifa ævisögu Gunnars, en ég tel það rétt af honum og sagði honum að halda sig í hæfilegri fjarlægð. Annars gæti hann misst trúnað og það kæmi niður á ævisögunni, þegar að því kemur. Hún sagði Skorra að hann gæti a.m.k. hringt í mig eða Styrmi og óskað eftir því að við bentum á, hversu óviðurkvæmilegt það hefði verið af Arthúri Björgvini að sækja um þetta embætti. Ég sagði honum að nú væri ráð að bíða. Það væri engin ástæða til að kveikja í nýrri arfasátu.

En við sjáum hvað setur.

Hitti Kára Bjarnason í dag. Hann er að vinna við óútgefin ljóð, einkum sálma sr. Ólafs á Söndum. Ég tel að án hans hefði Hallgrímur Pétursson aldrei orðið sá sem raun ber vitni. Sr. Ólafur er harla merkilegur undanfari sr. Hallgríms og ég er spenntur fyrir því að lesa handrit Kára að verkum hans. Annars hef ég minnzt á sr. Ólaf í grein í Morgunblaðinu um Yrkju. Það var víst í fyrra, minnir mig. En sr. Ólafur á Söndum sækir á hug minn og ég gaf Kára Bjarnasyni kvæðið sem ég orti um hann og er víst einhvers staðar að finna á þessum dagbókarblöðum.

 

Þegar Jóhann Hjálmarsson varð sextugur um daginn birtist ættartala hans í Dagblaðinu. Það vakti athygli mína að ættir okkar þriggja, Jóhanns, Steins Steinars og mín, eru raktar til manns sem heitir Magnús Einarsson og virðist hafa verið hinn mesti bóhem; m.a. dæmdur frá prestsskap, eins og annar forfaðir minn, sr. Þorvaldur Böðvarsson, en um hann fjallaði ég einnig í fyrrnefndri Yrkju-grein. Sr. Magnús var dæmdur fyrir skírlífisbrot með vinnukonu sinni, Málmfríði Benediktsdóttur “er hann hafði árinu fyrir, eftir barneignina, gefið saman við Eyvind Bjarnason í Kirkjuskógi”, eins og segir í Ævum Íslendinga eftir Pál Eggert Ólason. Magnús fæddist 1734, en dó 2. maí 1819. Við þremenningarnir erum ekki komnir af vinnukonunni, óskilgetnu, heldur að ég hygg eiginkonunni. En hvort það var kona númer eitt eða tvö, veit ég ekki; held ég sé kominn af fyrri konunni vegna nafns hennar. Hún hét Helga (f. um 1739, d. 6. ágúst 1791) Oddsdóttir prests í Keldnaþingum, Þórðarsonar. Föðuramma mín hét Helga Magnea og gæti ég bezt trúað að þetta sé sama nafnið því að meðal barna þeirra Helgu og sr. Magnúsar sem upp komust var Jón beykir í Reyðarfirði og er mér nær að halda að hann sé afi Helgu Magneu. Veit það þó ekki fyrir víst. Sr. Magnús átti einn son með síðari konunni en ég veit ekkeret um hann. Má vera að Jóhann eða Steinn Steinar séu af honum komnir, en hann var kenndur við Skógskot.

 

Ódagbundið

Fékk svofellda vísu senda frá Hirti Gíslasyni, ágætlega orta:

 

Ég upp með Þverá lagði mína leið.

Þar lá í grasi nakinn fylliraftur,

í hossaköstum hóru einni reið

í hólmanum þar sem Gunnar snéri aftur.

 

Fékk þetta einnig frá Hilmari Skagfield í tölvupósti vegna einhvers sem kallað er  Happy Friendship Week:

Nafn hans var Fleming og hann var fátækur, skozkur bóndi. Dag nokkurn þegar hann vann að því að sjá fjölskyldu sinni farboða heyrði hann óp úr nálægu mýrarfeni. Hann kastaði frá sér vinnutækjum og hljóp að feninu. Þar var ungur drengur skelfingu lostinn og sokkinn í svarta leðju upp að brjósti, en reyndi allt hvað hann gat að halda sér upp úr feninu. Bóndinn bjargaði drengnum. En næsta dag kom skrautvagn að fátæklegu hreysi skozka bóndans, herramaður gekk út og kynnti sig sem föður drengsins sem Fleming bóndi hafði bjargað daginn áður. Mig langar að endurgjaldra þér, sagði herramaðurinn, þú bjargaðir syni mínum. Nei, ég get ekki tekið við neinum björgunarlaunum, sagði skozki bóndinn. En í sömu mund kom sonur hans út úr hreysinu og herramaðurinn spurði, Er þetta sonur þinn? Já, sagði bóndinn stoltur. Ég ætla að gera við þig samning. Ég tek að mér menntun sonar þíns. Ef hann er eitthvað líkur föður sínum verður hann að merkum manni sem allir geta verið stoltir af. Og það varð úr. Sonur Flemings bónda lauk námi frá St. Mary’s  læknaskólanum í Lundúnum og varð síðar þekktur sem Sir Alexander Fleming, sá sem uppgötvaði pensilínið.

Mörgum árum síðar fékk sonur herramannsins lungnabólgu. Hvað bjargaði honum? Pensilín. Hvað hét herramaðurinn? Randolph Churchill. Sonur hans var Sir Winston Churchill.

Góð saga. Ég spurði Hilmar, hvort hún væri sönn. Já, sagði Hilmar, dagsönn.

 

Um verzlunarmannahelgina

Hef að mestu lokið við fyrirlestrana sem ég ætla að halda um Jónas Hallgrímsson í endurmenntun Háskólans í haust. Samt á ég einn kafla eftir, hann verður erfiðastur. Hann mun fjalla um það kvæði sem ég tel bezt kompúnerað allra kvæða Jónasar, minningarkvæðið um Jón Sighvatsson, bónda.

Ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar að fáránlegt sé að segja að einn listamaður sé betri en annar, ennþá fáránlegra að bera saman ólík listaverk. Við höfum svo ólíkan smekk. Listaverk hafa mismunandi áhrif á okkur. Listaverk kallast á við tilfinningar mínar með öðrum hætti en það mundi kallast á við tilfinningar annarra. Listaverk kallar á persónulega upplifun. Það er t.a.m. ekki aðalatriðið, hvernig gott ljóð er með tilliti til annarra ljóða, heldur skiptir hitt mestu máli, hvernig það verkar á lesandann. Gott ljóð kallar fram í honum ljóðskáldið. Ljóðið, list þess og efni, er ekki endilega aðalatriðið, heldur hitt, hvernig list þess og efni verka á tilfinningar okkar; hvaða neisti fæðist af þessum loga og hver viðbrögðin eru. Við njótum ekki öll eins. Við njótum með ýmsum hætti.

Af þessum sökum m.a. er út í hött að bera saman skáld, það ætti miklu fremur að bera saman lesendur; eða neytendur, svo við notum markaðsvænt tízkuorð. Það er þá einnig út í hött að bera saman góð kvæði og segja að eitt sé betra en annað, það merkir einungis nokkurn veginn hið sama og segja: að einn neytandi eða lesandi sé betri en annar.

Við verðum að sætta okkur við að listin er fjölbreytt flóra, nei, við eigum ekki að sætta okkur við það, við eigum þvert á móti að fagna því og þá ekki síður hinu, að lesendur eru með ýmsu móti og harla ólíkir, þótt þeir séu allir skapaðir í kross! Tilfinningalíf þeirra, kvikan í brjósti þeirra, reynsla þeirra og áhugaefni eru af ýmsum toga spunnin og harla misjafnlega undir það búin að njóta þess sem skáldið hefur fram að færa.

Það hvarflar því ekki að mér að segja að Jónas Hallgrímsson sé betra skáld en öll önnur, en hann er öðruvísi skáld en öll skáld önnur. Og ljóðmál hans er sprottið úr tilfinningalíf sem er annars konar en það tilfinningalíf umhverfisins sem við erum vön hversdagslega.

Ég þekki folk sem segir að Jónas Hallgrímsson sé leiðinlegt skáld. Ég þekki einnig merkilegt skáld og sérstætt sem heldur því blákalt fram að Jónas Hallgrímsson sé ekki jafnmikið skáld og sagt hefur verið.

Ég virði þessar skoðanir þótt þær séu öndverðar öllu því sem ég tel rétt og afdráttarlaust, því skynsemin segir mér, ásamt tilfinningunum, að Jónas sé mikið skáld og með köflum harla skemmtilegt og frumlegt, en þó einkum sérstætt og öðruvísi skáld en öll önnur skáld, þótt margvísleg áhrif annarra skálda séu merkjanleg í ljóðum hans. En hann er umfram allt sérstakur. Ljóð hans hafa aðra áferð en ljóð allra annarra skálda. Þau eru eins og íslenzkt umhverfi, allt öðruvísi en allt annað umhverfi. Á sama hátt og það er sungið öðruvísi en annars staðar í íslenzkri náttúru, þannig er allt annar söngur, allt önnur hrynjandi í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar en annarra skálda.

Allt þetta tel ég ótvírætt og hirði ekkert um það sem aðrir fullyrða, ekki frekar en menn geta haft mismunandi skoðanir á íslenzkri náttúru og hlustað með ýmsum hætti á kliðinn í birkiskógum Þingvallaskógarins eða þrastakliðinn í Skaftafelli. Ég efast ekki um að sumum þyki annar kliður tilkomumeiri, bæði hér heima og erlendis, t.a.m. straumniður stórfljótanna eða þögnin í sandauðn hálendisfjallanna. En Jónas Hallgrímsson á einnig þann klið til í verkum sínum, ef vel er hlustað, en hann er þá einnig öðruvísi en sams konar kliður í ljóðum annarra skálda.

Ef ég væri spurður hvert væri mesta ljóð Jónasar, ætti ég erfitt um svar. Flestir mundu áreiðanlega nefna Ísland eða Gunnarshólma og gæti ég vel tekið undir það. Þau eru eins og landið sjálft, yfirbragðsmikil til að sjá eins og segir í öðru þessara ljóða, eða eins og Jónas kemst að orði í Ferðadagbók sinni til Vestmannaeyja, 3. júní 1837, en þá segir hann m.a.: “Þegar sjónum er svo hinsvegar beint til lands, þar sem nær ekkert er að sjá annað en hinn mikilfenglega Eyjafjallajökul og gnæfir geysilegt, snæviþakið hvel hans uppúr skýjunum, þá hnykkir manni við þá tilhugsun hve Ísland hlyti að vera einstætt og áhrifamikið, ef augað gæti í einni sjónhendingu litið öll hin þverhníptu og margbreyttu stuðlagrjótsfjöll, stöllóttu blágrýtisfjöll svo og hin miklu ljósgrýtisfell og sú gríðarlega þyrping birtist hliðstætt þeirri smámynd sem Vestmannaeyjar eru tilsýndar.” Þessari ægifegurð lýsir hann með

svofelldum orðum annars staðar, eða í yfirliti sínu yfir íslenzka fugla – og minnir óneitanlega á tungutak Tómasar Guðmundssonar síðar: “…því varla held ég að nokkur fugl væri lengi að telja eftir sér tveggja eða þriggja daga ferð til að geta búið að svo fallegu og skemmtilegu landi”, Íslandi.

Sigurður Nordal taldi að kvæði Jónasar Sáuð þið hana systur mína… væri óviðjafnanlegt í einfaldleik sínum og því hversdagslega tungutaki sem er ein helzta prýði þess. En ef ég væri spurður um óviðjafnanlegt kvæði eftir Jónas, jafnvel bezt kompóneraða eða bezt orta eða sansetta kvæði hans, mundi ég hiklaust nefna minningarkvæðið um Jón bónda Sighvatsson. Ekki veit ég um tengsl þeirra en Jón (1759-1841) var bændahöfðingi, bjó í Höskuldarkoti í Ytri-Njarðvík og þegar hann lézt samdi Sveinbjörn Egilsson grafskrift eftir hann og birtist hún í Skírni 1842, framan við ljóð Jónasar. Grafskrift Sveinbjarnar er svolátandi: “Hann var stakur dugnaðar, ráðvendnis og ráðdeildarmaður, manna geðspakastur og góðfúsastur, vinavandur og hinn vinfastasti, hjálparhönd hjálpþurfenda, prýði sinnar stéttar, sómi ættjarðar. Hans leið varð bein og blessunarrík, því hann leit ekki á sitt gagn einungis, heldur og annarra. Vel hefir það land, sem eignast marga hans jafningja.”

Ekkert kvæði er jafn gott dæmi um það, hvernig unnt er að tengja líf mannsins náttúrunni og bera það saman við hringrás hennar, vorið sem vaknar með nýjum kliði og harðneskjuleg endalok dauðans á myrkum og köldum vetri.

Í engu ljóði, hvorki eftir Jónas Hallgrímsson, né neitt annað skáld sem ég þekki, er annað eins samræmi í þeim líkingum sem dregnar eru upp milli náttúrunnar annarsvegar og lífs mannsins á hinn bóginn. Í fornyrðislaginu njóta sín beztu kostir skáldsins – og þá ekki sízt sérkenni – og orðavalið er ekki sízt til marks um smekk Jónasar og hugmyndaflug: haustsól brosandi… salar sólheima… systur álfröðuls… sælust dagstjarna… á vonarhimni… í góðri elli.

Í upphafi segir skáldið að dýrlegt sé að sjá eftir liðinn dag

haustsól brosandi

í hafið renna.

Hún kveður landið og hnígur hóglega að vesturfjöllum; kveður með friðarkossi; kveður eins og “sofnað prúðmenni” sem gengur til grafar “í góðri elli”, eins og segir í 7. erindi kvæðisins. En þegar sólin hefur kvatt, rísa alskærar stjörnur upp af austurstraumum eins og skáldið segir í öðru erindi, en það minnir á Alheimsvíðáttuna sem hann yrkir eftir hugmynd Schillers, en þar segir hann í 3. erindi

 

sá eg í ungum

æsku blóma

stjörnur úr himin

straumum rísa…

 

Og þá einnig á þýðingu hans á smákvæði eftir Heine, Strit, brot úr kvæði:

 

Sól rís sæl

úr svölum straumum

austurdjúps,

að eyða dimmu…

 

en það á rætur í Deutschland – Ein Wintermärchen. Við þessi ferðalok blika stjörnurnar eins og blys um heiðan boga sólheima, en nóttin er svöl, eins og návist dauðans.

Þarna vaka stjörnurnar í návistinni við systur álfröðuls, þ.e. sólina en hin sæla dagstjarna sofnar ekki, þótt hún sígi til viðar, heldur sést hún enn að morgni. Þannig er einnig um ævi mannsins þegar hann getur búizt við betri dögum að loknu ævistarfi í stundarheimi. Og skáldið lýkur ljóðinu með því að endurtaka orðin í miðju 3. erindi: sofnar ei og sofnar ei – og á þá við sólina, en í lokin er líkingin endurtekin með þessum hætti:

 

Sefur ei og sefur ei

í sorta grafar

sálin – í sælu

sést hún enn að morgni.

 

Þannig á maðurinn áfram athvarf “hjá drottni lifanda”, eins og skáldið segir í 6. erindi.

Þegar Jónas hefur lokið 3. erindinu með því að benda á að sólin komi aftur upp að morgni, segir hann, að þannig rísi sumarsólin einnig í ævi öldungmanna, eins og hann kemst að orði, en þeir hnígi svo á haustkvöldi hérvistardags, hóglega og blíðlega fyrir hafsbrún dauða, en þá vaka og skína alskærar stjörnur á vonarhimni og engu líkara en líf mannsins sé brennt inn í náttúruna og hún og það séu eitt. Af þeim sökum er ekki ástæða til að gráta “göfgan föður”, engin ástæða til harms, því að lífsdagur Jóns Sighvatssonar – og þá væntanlega annarra í hans sporum – var fagur, en fegri dagur er þó upp runninn

dýrðardagur hans

hjá drottni lifanda.

eins og segir í fyrrnefndu erindi. Minningin lifir og blómstrar eins og annar mikilvægur og eftirminnilegur gróður í náttúru landsins, því að hinn látni sem nú er allur í minningunni var fyrirmynd dáða og dugnaðar og hvers kyns dyggða og sem slíkur verðugur eins og fjölær jurt í landslagi.

Og þar með er líkingin fullkomnuð og verður með engum hætti endurtekin í öðrum kvæðum, hvorki í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar né annarra skálda.

Hér birtist hið fullkomna samræmi lífs og listar með þeim hætti sem einstætt er, bæði í íslenzkri ljóðlist og að því er ég bezt veit í þeirri ljóðlist annarri sem við þekkjum til.

Það væri að vísu gaman að vita eitthvað meira um Jón Sighvatsson og áreiðanlega hægt að viða að sér frekari upplýsingum um líf hans og störf. En það er þó ekki nauðsynlegt til að njóta kvæðisins um hann, svo ágætt sem það er í sjálfu sér. Skáld yrkja sjaldnast um einstakar persónur, heldur út frá almennum gildum. Þau draga almennar ályktarnir af einstökum tilfellum. Ef það er haft í huga er auðvelt að njóta jafn einstæðrar perlu og kvæðið um Jón Sighvatsson er. Og þá getum við einnig verið minnug þess sem sr. Matthías Jochumsson sagði þegar Sigurður Nordal spurði hann hver væri sá eftirminnilegi maður sem hann hafði löngu áður ort um frábært erfiljóð, Æ, sagði sr. Matthías, það var einhver karl í Hafnarfirði!

 

Lengra verður ekki komizt í samruna lífs og náttúru en í kvæði Jónasar um Jón bónda, nema með því að lýsa náttúrunni og árstíðum hennar einni og sér og án skírskotunar í ævi mannsins, en þó þannig að draga megi augljósar ályktanir af þessum hliðstæðum í lífi okkar og umhverfi. Það er auðvitað hinn fullkomni samanburður - og þá notuð sú skáldskaparlega tækni að fela annað kvæði innan í því sem ort er. Oft er það áhrifamikil líkingaaðferð og veitir mikið og óvænt svigrún til túlkunar.

 

1. ágúst, sunnudagur

Við Hanna og Ingó fórum til Stykkishólms og sigldum um Breiðafjörð í logni og spegilsléttum sjó. Það minnti mig á fyrri eyjaferð sem ég orti um í Land mitt og jörð, en þar eru áhrif frá þeirri ferð í 44. erindi. Nú bættust við Skjaldarey þar sem við sáum örn alllangt frá hreiðrinu sínu, en þau hjón hafa komið upp einum unga; þegar við nálguðumst flaug assan upp og hvarf; einnig Arney þar sem eru tveir fullorðnir fuglar og tveir ungar og er það afar sjaldgæft. Við sáum annan ungan í hreiðrinu og reisti hann sig við, þegar við fórum, og blakaði vængjum, en annar örninn hóf sig til flugs og við horfðum á eftir honum hverfa til hafs. Það var einstæð sjón, ekki sízt vegna þess mig hefur um langa hríð langað að sjá örn á flugi og nú rættist sá draumur.

Við sáum margt fleira, ritu, lunda, skarfa ógleymanlega og teistur í Burkney. Skarfarnir voru í Dímon og í víkinni við Dímonarklakka sáum við hvar Eiríkur rauði faldi skip sín, þegar hann var orðinn eftirlýstur og réttdræpur útlagi og áður en hann hvarf vestur um haf og uppgötvaði Grænland. Þar sagði lítill drengur við skipstjórann, Það var gott að eyjarnar voru skógi vaxnar, annars hefðu þeir séð Eirík rauða og kallana hans úr þyrlu!

Í fyrrnefndu 44. erindi er talað um Þórishólma en nú er mér nær að halda að hann heiti Þóruhólmi, ef það er rétt sem munnmælin segja að bóndi hafi veitt þar hafmey og hafi hún heitið Þóra. En allt er þetta á reiki eins og allar munnmælasögur og skiptir ekki máli í skáldskap.

En hvað sem þessu líður var dagurinn ógleymanlegur vegna arnanna sem við sáum og eiga eftir að fylgja úthafi hugmynda minna það sem eftir er.

Síðar

Þetta er víst rangt hjá mér. Eyjan hét upphaflega Þóruhólmi en breyttist í Þórishólmi. Slíkt gerðist víst oft.

 

2. ágúst, mánudagur

Hef verið að yrkja dálítið eftir ferðina til Breiðafjarðar:

 

Við Arney

1.

Horfir

 

hlustar

 

tekur til vængjanna

 

flýgur lágt

yfir eyjar og sund

 

örninn

 

hverfur

með hugsun okkar

til himins.

 

2.

Horfir

yfir hafsléttan spegil

 

unginn

 

úr einmanna

hreiðri

 

senn vaxa

inní vökul augu

 

vængir hans

 

vaxa inní arnhvassa

veröld tímans.

 

3.

Með þessi áttahundruð

hreiður

er eyjan

þrettán sænga

virði

 

segir gamall bóndi

og skimar til

lofts

 

blikar á kolluna

undir arnfleygum

lundgæfum

himni.

 

4.

Vængjatök

þessa fjaðraþunga

tíma

 

vængir vinlausra

arna

 

hverfa inní

klakklausa

 

vitund

 

inní æðardúnsmjúka

hugsun

 

vistvænna fyrirheita

um sextíu hreiður

í sæng.

 

5.

Hugsun okkar

himinn

 

 

situr arnfleygur hugur

að hreiðri

 

horfir

 

bíður himinn

hverfulla vængja

 

hikandi

 

þögull.

 

6.

Horfa af grösugum

stapa

 

stórvængjuð augu

 

hlustandi

vænggróin augu

 

inní arnstóran

himin.

 

Hef einnig hugsað um þessi dæmi sem lýsa vel grimmd náttúrunnar og kröfu hennar um tortímingu þeirra sem verða undir:

Ritan eignast þrjá unga. Þeir vaxa í hreiðrinu. Hægt og bítandi stækka þeir unz ekki verður rúm fyrir nema einn. Þá falla hinir tveir fyrir björg og drukkna.

Skyldi nokkur stjórna því hver fellur?

Hví skyldum við vera svo miklu merkari en  þessir fallegu fuglar, að einhver stjórni því, hvenær við föllum fyrir björg? Mundi það þá ekki vera náttúran sjálf, blind, grimm og aldrei í neinum sáttastellingum?

 

Tveir arnarungar í hreiðri. Það er lítið að éta, hálfgert hallæri. Annar stækkar örar en hinn og þá einn góðan veðurdag, án afskipta foreldranna, rífur stærri unginn þann minni í sig og étur hann með góðri lyst.

Ekki hefur samvizkan truflandi áhrif á græðgi þessa stærri unga. Hann fer  sínu fram, hvað sem öðru líður. Engin forsjón ræður vali hans, heldur eigið eðli og svo náttúrulega innbyggð krafa að lifa af.

Annað vakir ekki fyrir honum.

Af þessu hefur náttúran engar áhyggjur. Hún vinnur sitt verk, án afskipta. Öllu eru lögmál sett og eftir þeim er farið.

Annað gerist víst ekki.

 

Ódagbundið

Hef senn verið ritstjóri Morgunblaðsins í 40 ár. Samt er eins og ekkert hafi gerzt. Morgunblaðið kemur ekki einu sinni út á mánudögum!

 

8. ágúst, sunnudagur

Líklega hef ég aldrei upplifað hversdagslegri dag í lífi mínu, það fer vel á því, nú eru 40 ár frá því ég tók við ritstjórn Morgunblaðsins. Ég hef reynt að gera blaðið að hversdagslegri eign fólksins í landinu, án stellinga, án hátíðabrigða. Ég man hvað Sigríður Björnsdóttir var hneyksluð á fyrirsögn greinar Andrésar Björnssonar um Áslaugu Ágústsdóttur, konu sr. Bjarna, en hún birtist í bók okkar um þau hjón. Grein Andrésar heitir Hver dagur var hátíð. Það þótti Sigríði út í bláinn. Það lifir enginn alla daga sem hátíðisdaga og hversdagurinn er beztur. Hann er eins og lífið sjálft, áfangi á löngu ferðalagi, áfangi án áningar.

Þannig upplifi ég einnig þennan dag í lífi mínu.

 

Undir kvöld

Ég gekk um gamla kirkjugarðinn, það var hlýtt en þunn slæða á himni. Sól hallaði í vestur. Ég var í sporum Ljósvíkingsins og leitaði að leiði Sigurðar Breiðfjörðs. Þegar ég hafði fundið það og virt fyrir mér hörpuna á steininum, gekk ég að bekk þar skammt frá og fékk mér sæti. Lítil flugvél hafði flogið hjá. Nú var þögn og algjör kyrrð í garðinum. Ég var hluti af þessum þögula heimi og það seig á mig höfgi. Hamarshögg frá nærliggjandi húsi, lítill fugl söng í nálægri grein. Tvær konur gengu framhjá, báðar í bláum síðbuxum, önnur með hvíta tösku, hin með báðar hendur í vösum. Þær skoðuðu legsteinana, lásu nöfnin. Ég fylgdi þeim eftir með augunum. Þær hurfu og ég var einn í garðinum. Einn með þeim sem þar voru ekki. Ég lygndi aftur augunum, opnaði svo annað augað. Gráhærður maður gekk að hliðinu, hann fór hljóðlega. Ég heyrði ekkert fótatak. Hann hvarf. Engin hamarshögg lengur. Algjör þögn. Ég lokaði augunum. Ég var einn með þeim sem höfðu skilið nöfn sín eftir þarna í garðinum. Aleinn. Þá heyrði ég fótatak. Það kom nær, nær. Það gekk einhver að bekknum. Ég opnaði augun.

En það var enginn.

Fuglinn hélt áfram að syngja og ég heyrði það spilaði einhver undir á hörpu skáldsins. Ég sat og horfði á sólina sem sást ekki á himninum. Og svo hvarf ég inní þögnina.

Inní fótatakið.

 

10. ágúst, þriðjudagur

Fékk þennan tölvupóst frá Svavari Gestssyni í dag.

 

Kæri Matthías!

 

Þakka þér allt gamalt og nýtt í samskiptum okkar. Ætlarðu að enda með því að verða þjóðskáld? Það stefnir allt í það. Hefurðu kannski ekki tekið eftir því? - Hvenær ætlarðu annars að koma hingað til mín til að anda að þér  þessu fólki öllu sem þykir vænna um Ísland en öllum Íslendingum til samans? - Þér yrði fagnað alls staðar í upplestrum og  á mannamótum.

Annað:  Blað heitir Lögberg/Heimskringla. Það er lítið blað og veikburða. Það þarf að kynna á Íslandi. Væri hægt að efna til einhvers konar skipulegrar samvinnu milli Morgunblaðsins og Lögbergs? Sem byrjaði til dæmis með því að eitt blað af Lögbergi/Heimskringlu fengi að fljóta með Morgunblaðinu til lesenda sem kálfur innan í blaðinu. Lögberg er mestallt á ensku. Hefur einhvern tímann komið til tals að gefa út útdrátt úr Morgunblaðinu á ensku?  Hvað segirðu um málið.

Bið að heilsa öllu góðu og heiðarlegu fólki.

Svavar Gestsson sendiherra

aðalræðismaður Íslands í Kanada

 

Svaraði þessu:

Svavar minn.

Kærar þakkir fyrir þitt góða bréf - og ekki sízt ábendingarnar! Er og hef verið á leiðinni til Vesturheims um nokkurt skeið og líklega endar það með því - allt endar þetta einhvern veginn. Ég er alltaf að hlusta á þjóðskáldin í skógræktargarðinum í Fossvogi, það heldur brageyranu við efnið. Fleiri mættu hlusta á þau skáld. En við skulum einhvern tíma hlusta saman eins og ég hef sagt þér, þó ekki endilega í Fossvogi!

Gaman væri að gefa út Lögberg-Heimskringlu með Morgunblaðinu á næsta ári. Mundum vilja vinna að því með þér. Þú heldur okkur við efnið.

Ávallt beztu kveðjur til allra þeirra sem njóta þess að hlusta á fuglana syngja - á íslenzku.

Vinarkveðjur til ykkar.

Matthías.

 

Og Svavar svarar:

 

Ímeil í ljóði; er það ekki áreiðanlega einsdæmi?

Sendi þér útfærðar tillögur um Lögberg með Morgunblaðinu.

Hér syngja fuglarnir yfirleitt á íslensku. Nema krákan.

Bestu kveðjur frá Guðrúnu.

 

13. ágúst, föstudagur

Leiðir Davíðs Oddssonar og Morgunblaðsins hafa legið saman undanfarið í tveimur málum sem hafa verið efst á baugi – og fagna ég því, þótt þessi mál beri vott um heldur ömurlega þróun og leiðinlegt hugarfar í tengslum við brask og peninga; annað snertir verndun Laugardals, hitt einkavæðingu bankanna. Það er undarlegt að nokkrum lifandi manni skuli detta í hug að breyta stórum hluta þess svæðis sem eftir er af Laugardalnum í bílaplan og leiktækjafíkn sem mundi að sjálfsögðu loða við “fjölskylduhús” það sem Jón Ólafsson hyggst reisa með velþóknun Ingibjargar Sólrúnar, borgarstjóra. Þetta gengur að sjálfsögðu ekki.

Þrjár grúppur eru að kaupa hlut SPRON í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, ein undir forystu Samherjamanna, einkum útgerðarmenn, sagði Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri SPRON okkur Styrmi í gærkvöldi; önnur Jóns Ólafssonar og hin þriðja Bónus-manna. Um 7% félli þá í hlut hverrar grúppu.

Við höfum varað við fámennri eignaraðild þegar bankar eru settir á markað enda full ástæða til að markaðurinn hafi sitt aðhald, ekki síður en þeir sem nú eru að leggja undir sig auðlindina á hafinu, og er það sérstakt ánægjuefni að Davíð Oddsson skuli vara við því að bankarnir fari þannig á fárra hendur. Sjálfstæðisflokkurinn er sem sagt á réttu róli, ég efast um Framsókn, en það kemur í ljós. Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins, að því er virðist blindaður af andúð gegn Davíð, gengur aftur á móti erinda fámennisklíku kapítalistanna sem ekkert hugsa um annað en græða, skara eld að sinni köku, án neins frumkvæðis eða hugsjóna. Ég ber að minnsta kosti enga virðingu fyrir því, þótt menn geti skrapað saman í púkk, án þess aðrar hugsjónir séu þar driffjöður en einkahagsmunir. Þetta nýríka lið gín yfir öllu, talar digurbarkalega um gamla kolkrabbann og þykist sigla undir einhverjum frelsisfána, en það er blekking. Það ætlar sér allt. Hvenær skyldi koma að Morgunblaðinu?

Davíð Oddsson skynjar þetta augsýnilega með sama hætti og við morgunblaðsmenn og er það ánægjuefni. Við Styrmir höfum mikið rætt um þessa þróun og erum að sjálfsögðu fullkomlega einhuga í afstöðu okkar. Hún er í tengslum við fyrri afstöðu og rifjaði Styrmir það upp í ágætu Reykjavíkurbréfi sl. sunnudag. Hann skrifaði einnig góðan leiðara um dreifða eignaraðild í Morgunblaðið í morgun. Við börðumst ekki gegn einokunartilburðum Sambandsins til að afhenda Ísland gráðugum peningafjölskyldum.

Eitt er brask, annað hugsjón.

Ég sagði við Guðmund Hauksson í gærkvöldi, Þið hafið grætt á þessari sölu, en þið hafið tapað banka. Ég sagði honum að við værum algerlega sannfærðir um að það hefði getað myndazt samstaða um sameiningu SPRON og FBA því að sparisjóðirnir eru fulltrúar dreifðrar aðildar með öllu því fólki vítt og breitt um Ísland sem á við þá viðskipti. Guðmundur sagði, Ef ég hefði vitað þetta, hefði ekki verið selt. Við vorum orðnir uggandi og ætluðum bara að tryggja okkur með þessari sölu.

Við gátum að sjálfsögðu ekki sagt honum að Geir H. Haarde, hefði í samtali við okkur verið hallastur undir sameiningu SPRON og FBA en ekki FBA og Landsbankans t.a.m., og enginn vafi á því að afstaða hans hefði getað ráðið úrslitum.

Kínverski sendiherrann sagði við mig um daginn, Þetta er einkennilegt sem þið eruð að tala um hér á landi, að einkavæðinga fjárfestingabanka. Það hljómar eins og öfugmælavísa. Maður á að byrja að einkavæða viðskiptabankana, svo geta fjárfestingabankar komið á eftir. Sem sagt, fulltrúi kínversku kommúnistanna hafði betri skilning á þessu en allir hugsjónarkapítalistar Íslands samanlagt! Þeir sem eru nú að kaupa 26% í FBA eru auðvitað ekki að sækjast eftir viðskiptum. Þeir eru einungis að sækjast eftir aðstöðu, fjármagni. Þeir eru sem sagt einungis að stytta sér leið, ef svo mætti segja.

Þegar ég var drengur fór ég stundum í leikhús. Einu sinni sá ég Hlyna kóngsson. Ég man hvað ég var óttaslegin og raunar skelfingu lostinn þegar skessurnar köstuðu fjöregginu milli sín, ég þóttist þess fullviss að heimurinn myndi farast ef þær misstu eggið og það brotnaði.

Nú fylgist ég með því hvernig skessurnar eru að kasta á milli sín fjöreggi landsins og enginn veit hvernig þeim hildarleik lýkur. Kvótabrasið hefur ýtt undir siðferðisbrest í þjóðfélaginu og þær eru margar skessurnar sem gera tilkall til fjöreggsins. En þjóðin horfir á eins og ég á sínum tíma, agndofa.

 

15. ágúst, sunnudagur

Fór með Matthíasi, nafna mínum, Hönnu og Ingólfi í kristnitökumessu á Laugardalsvelli. Veðrið gott og glaðnaði til síðdegis. Byskup í grárri skikkju, enda kirkjan ævinlega á gráu svæði eftir því sem Kierkegaard sagði, en ég er heldur hallur undir gagnrýni hans  á hálfvelgju kirkjunnar eins og fram kemur í kaflanum um Jónas Hallgrímsson og Kierkegaard sem ég hef verið að skrifa inní væntanleg erindi mín um hinn fyrrnefnda.

Sólveig Pétursdóttir, kirkjumálaráðherra, las guðspjall dagsins, hún var í einhverskonar grænni skikkju, hin vígalegasta, ég hélt Guðrún Ósvífursdóttir væri mætt til leiks! Einhver las úr Jeremíasi um guð gyðinga, ég hefði heldur kosið kafla úr Njálu, en hún fjallar öðrum þræði um kristnitökuna hér heima. Hvernig væri að skipta Gamla testamentinu út fyrir hana, mér litist heldur vel á það. Og láta Jeremías eiga sig í bili(!)

 

Fórum í gær og fyrradag fyrir Snæfellsjökul í heldur þungbúnu, en þó ágætu veðri. Hellnar og Arnarstapi ógleymanleg náttúruundur, ég minntist Valdimars Kristóferssonar frá Skjaldartröð sem ég átti samtöl við á sínum tíma; bæði um hann sjálfan, barnslúann, Ásgrím Hellnaprest og vistina hjá “vondu fólki”. Fann leiði foreldra hans og systkina í Hellna-kirkjugarði, en ekki leiði hans sjálfs.

Valdimar var einhver greindasti maður sem ég hef kynnzt. Það er hægt að tala um að eitthvað sé hvasst eins og greinds manns tunga, þegar hans er minnzt.

Orti þessi tvö kvæði í ferðinni vegna umræðna um virkjanaframkvæmdir við Eyjabakka fyrir austan og ummæli umhverfisráðherra, Sifjar Friðleifsdóttur, þess efnis að hún hefði ekki verið bergnumin á ferð sinni þar um slóðir!

 

Fuglahræða

 

Æðavarp

 

eins og hvítskellóttir

steinar í grasi

 

stór fuglahræða

með síhött

og opinn faðminn

 

arnarhreiður

á næstu grösum

 

örn bíður átekta

við grýttan stapann

 

og ég segi

við sjálfan mig:

 

hvers vegna

er mesta ógnin

ævinlega

í mannsmynd?

 

Við Snæfell

 

Gnæfir

bergnuminn

við auðn og lágan

gróður

 

risinn

 

hvítur fyrir hærum

 

og horfir

yfir gæsabyggðina

 

óttast ekkert

allra sízt

 

fuglahræður.

 

 

 

23. ágúst, mánudagur

Erindi flutt á IPI-fundi í Reykjavík.

 

Ábyrgð fréttamanna og þörfin fyrir sterka ritstýringu

Miklir listamenn eru oft miklar manneskjur; það er a.m.k. mín reynsla. Og miklir blaðamenn eru þá einnig oft merkilegar persónur. Einn þeirra er Russell Baker sem skrifaði stórmerkar æviminningar sínar; The Good Times, ekki hið góða líf, heldur hinir góðu tímar. Það virðist alltaf vera eitthvað gott þegar merkir blaðamenn minnast reynslu sinnar og samtíðar. Þegar ég lít um öxl á ég einnig að fagna þessum góðu minningum. Blaðamennskan hefur verið dýrmæt, en stundum dýrkeypt reynsla; þroskandi og mikilvæg. Efniviður þess sem ástæða er að muna. Sumt að vísu harðvítugt, krefjandi; jafnvel miskunnarlaust. En ævinlega þroskandi og mikilvægt.

Russell Baker var fréttamaður og greinahöfundur í New York Times. Hann kynntist mörgu merkilegu fólki og komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hlutverk blaðamannsins að breyta stjórnmálapeði í drottningu. Hann ætti aftur á móti að lýsa skákinni. Vinátta gat einnig orðið honum þrándur í götu, en hann fór þó ávallt eigin leiðir. Hann er ekki einungis mikill blaðamaður, heldur listrænn höfundur og sem slíkur mun hann lifa þá atburði ýmsa sem hafa verið viðfangsefni hans.

Bandaríski sjónvarpsfréttamaðurinn Lesley Stahl segir í minningum sínum að fjölmiðlar hafi fjallað um O.J. Simpson og Díönu prinsessu eins og þau hafi verið De Gaulle eða Mao Zedung. En um hvað fjalla minningar hennar? Venjulegt fólk? Nei, heimspressan fjallar helzt ekki um venjulegt fólk, nema það lendi í slysum eða einhverjum óhugnaði. Þá fyrst skiptir það einhverju máli. Lesley Stahl fjallar að mestu um þrjá bandaríska forseta, enda var hún lengi vel fréttaritari CBS í Hvíta húsinu, en hvorki vísindamenn, rithöfunda eða listamenn, ekki einu sinni poppstjörnur eða geimfara. Einungis forsta! Það er í anda þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað í svokölluðum fjölmiðlaheimi. En sem betur fer eigum við Íslendingar alllangt í land að þessu leyti, þótt við höfum ekki farið varhluta af þessari þróun, eða á ég að segja þessari markaðssetningu fræðgarinnar.

Þegar við vorum í Noregi vorið 1989, heimsóttum við Stavanger Aftanblad og áttum ágætt samtal við ristjóra þess, Thor Bjarne Bore, alvarlegan mann og viðræðugóðan. Nokkru síðar rakst ég á athyglisverða grein eftir hann í málgagni norskra blaðamanna og þar fjallar hann um siðleysi í fjölmiðlum og ábyrgð fréttamanna. Hann segir í upphafi greinar sinnar að fyrrverandi upplýsingafulltrúi hjá Kreditkassen hafi sagt að fyrir venjulegt fólk sé aðeins eitt verra en að verða fyrir reiði guðs, það sé að verða umfjöllunarefni á forsíðu Dagbladet eða Verdens Gang í Osló, án þess að vilja það. Þar sé nefnilega hvorki að finna náð né fyrirgefningu. Og Bore segir: Það er ef til vill ekki þægileg tilhugsun að æ fleiri skuli spyrja hvort nýtt réttarkerfi sé að verða til í Noregi, kerfi þar sem menn eru dæmdir sekir um leið og grunsemdir vakna, þar sem menn verða að afplána refsinguna þegar í stað í gapastokki almenningsálitsins ásamt öllum þeim ættingjum sem bera sama eftirnafn. Í gamla daga lauk refsingunni á einum sunnudegi við kirkjuna. Þá hlaut fólk refsingu eftir réttarhöld og dómsúrskurð, núna er gapastokkur fjölmiðlanna stundum miklu verri en dómarnir sem réttarkerfið kveður upp.

Norski ritstjórinn bætir því við að við getum áreiðanlega öll verið sammála um að ekki eigi að skerða tjáningarfrelsið þegar það er notað til að hindra óréttlæti og leiðrétta mistök. Rannsóknarblaðamennska fari vaxandi og það sé gott fyrir samfélagið en það sé aftur á móti slæmt að í sumum tilfellum hafi menn sýnt óvarkárni og skaðað rannsókn lögreglu á málum með yfirgangi. “Blöðin hafa oft varpað fram afdráttarlausum staðhæfingum allt of snemma og síðar hefur komið í ljós að þau voru á villigötum. Oft er skaðinn mikill, fjárhagslegur og félagslegur, fyrir einstaklinga sem verða fyrir barðinu á þessu, þótt þeir reyni að rétta hlut sinn með málssókn.”

Hann bætir því enn við að lögbrot séu lögbrot en varpar fram þeirri spurningu hvaða bort séu svo yfirþyrmandi að það sé eiginlega hægt að verja það að fjallað sé um þau á mörgum blaðsíðum og birtar risastórar myndir. Fjölmennir flokkar ljósmyndara og fréttamanna séu á hælum hins ákærða, notaðar séu kvikmyndavélar og skær flassljós sem afhjúpa hverja einustu drætti og svipbrigði.

Athafnir fjölmiðla í slíkum málum minni á alþýðudómstóla. Eintakafjöldinn, áherzlan á málið, orðaval þar sem skoðanir blaðamanns koma skýrt í ljós, og ekki sízt að einstaklingar á vegum fjölmiðlanna bregða sér í mörg hlutverk í senn – þeir annist rannsókn, séu ákærendur og dómarar, auk þess sem þeir miðli upplýsingum til almennings.

Allt er þetta brýnt íhugunarefni fyrir okkur sem hér erum og það fer ekki hjá því að það kalli á mikla ábyrgð, umhugsun og í raun umburðarlyndi. En það kallar ekki síður á sterka ritstjórn þótt hún sé kannski ekki endilega í tízku nú um stundir; þvert á móti. Það er ekki hvarvetna í tízku að hafa hönd í bagga með því hvernig fréttamenn nota það frelsi sem þeim er úthlutað samkvæmt lýðræðislegri skipan mála á Vesturlöndum, né heldur er það endilega í tízku að hugsa um viðkvæma samvizku fjölmiðla umhverfisins þegar teknar eru ákvarðanir um með hvaða hætti skuli fjalla um alvarleg mál sem snert geta æru og orðstír samborgaranna. Stundum er það að sjálfsögðu reynt, en ekki alltaf og ævinlega. Þar ríkir einatt fremur kapp en forsjá. Af þeim sökum, ekki sízt, er nauðsynlegt að ritstjórnin sé í góðra manna höndum og þá helzt þeirra sem kunna skil á röngu og réttu og láta ekki kylfu ráða kasti. Íslenzkt skáld sagði einhverju sinni að freistingar væru til þess að standast þær ekki. En í þessu tilfelli er augljóst að það getur varðað mannheill og hamingju að viðkomandi fréttamenn standist freistingar og aðgát sé höfð í nærveru sálar eins og annað íslenzkt skáld kemst að orði í þjóðþekktu kvæði.

Þegar ég tala um ritstjórn á ég að sjálfsögðu ekki við það sem nefnt hefur verið ritskoðun, en fá orð hafa fengið á sig jafn neikvætt rygti í nútíma samfélagi og einmitt það. Ástæðan er auðvitað sú að í skjóli þess hafa einræðisseggir notað þjóðfélagið í sína þágu og komið óorði á samfélagið með svipuðum hætti og sagt hefur verið að rónarnir komi óorði á brennivínið. Hitt er svo annað mál að sérhverjum blaðamanni er nauðsynlegt að hafa til að bera einhvers konar innbyggða ritskoðun, svo mikilvæg sem hún getur verið, þegar nauðsynlegt er að gera út á réttsýni og dómgreind.

Fólk verður aldrei söluvarningur í höndum þeirra sem hafa sæmilega heiðarlegt lífsstarf og temja sér vinnubrögð siðaðra manna. Það getur verið freistandi að ganga yfir mörk drengskapar eða meiðyrðarlöggjafar en sérhver sannur blaðamaður reynir að forðast það, jafnvel þótt annað gæfi meira í aðra hönd. Gott blað er ekki mannorðsmorðingi, það er kvika þjóðlífsins en ekki kviksyndi. Kandhal, fyrrum ritstjóri Aftenposten, segir einhvers staðar, Það er á valdi blaðanna án raunverulegra ástæðna, án dóms og laga að eyðileggja fólk. Það verður hver blaðamaður að gera sér ljóst.

Hver sá blaðamaður sem gerir sér ekki ljóst hvaða tæki hann er með í höndum ætti í raun og veru að velja sér annað lífsstarf. Og ef hann sér það ekki sjálfur eða veit ekki af því, ættum við að gera þá kröfu til umhverfisins að það benti honum á þessa bresti í karakternum. Ég óttast það einna mest, því miður, að of margir fréttamenn nú um stundir telji sér einna skyldast að koma alls kyns frávikum til skila og þá ekki sízt þeim mistökum og víxlsporum sem geta eyðilagt líf þeirra sem létu freistast og því miður einnig líf saklauss fólks sem tengist ógæfufólki með ýmsum hætti. Fréttamaður sem tekur slíkar fréttir ekki nærri sér er á rangri hillu. Hann ætti að starfa á öðrum vettvangi en þeim sem er hverjum aðgátsmiklum og varfærnum blaðamanni sár og dýrkeypt reynsla í hvert skipti sem starf hans leiðir til þess að vegið sé að æru og lífshamingju þeirra sem í ógæfu lenda og þá ekki síður aðstandenda þeirra. Þau eiga ævinlega um sárast að binda, þessi saklausu fórnarlömb frávikanna.

Það er ekki úr vegi að benda á að við fréttamenn þurfum sama aðhald og aðrir, ekki sízt stjórnmálamenn og frægt fólk í umhverfi okkar, eða hver sá aðili sem við teljum okkur skylt að veita staðfestulegt aðhald og þá er vert að minnast þess sem Bjarne Bore minntist á í fyrrnefndri grein sinni, þegar hann talaði um valdamenn; að við mættum aldrei gleyma því að þeir sem af eðlilegum ástæðum eru mikið í sviðsljósi fjölmiðla, glata alltaf að nokkru leyti hæfileikanum til að skilja gildi tjáningarfrelsis og opinberrar umræðu. En einmitt þetta á því miður einnig oft við um fjölmiðlafólk. Sumir vilja baða sig í sólskininu en þeim er nokkurn veginn sama, þótt þetta sama sólskin valdi öðrum brunasárum. Ekki sízt af þeim sökum er mikilvægt hverjir stjórna fjölmiðlum, nú og í framtíðinni, og er það að sjálfsögðu algjörlega óháð tæknilegri þróun, því að alþýðudómstóll notar þau meðul sem nærtæk eru hverju sinni.

Ef einhver heldur að ég sé að tala um ritstjórn sem einhvers konar hégóma eða uppákomu eins og bandaríska fréttakonan Lesley Stahl nefnir í minningum sínum, þá er það rangt. Hún segir frá því þegar hún í upphafi ferils síns var áminnt um að brosa ekki í sjónvarpsþætti, eða fréttaútsendingu, því að hún ætti að vera með öðrum og alvarlegri hætti, ímyndin krefðist þess. Ég er hvorki að tala um ímynd eða markaðslögmál. Ritstýring er annað en ímyndarstreð sjónvarpsstöðva. Ég er ekki heldur að tala um smáhégóma eins og þann sem hún nefnir annars staðar, hvort Nixon sinnti konu sinni við veizluborð eða ekki, en um það var víst fjallað í bandarískum fjölmiðlum á sínum tíma. Nei, ég er að fjalla um þá ritstjórn og aðhald sem blaðamenn Washington Post fengu, þrátt fyrir allt, og varð ofaná þar á bæ í Watergate-málinu. En þá var einnig talað um ímynd og síðan hefur það verið einhvers konar töfraorð í sjónvarpssögu samtímans. En þá var einnig byrjað að styðjast við ónafngreinda heimildarmenn með þeim hætti sem áður var heldur fátítt, jafnvel óþekkt. Það ekki sízt kallaði á miklu meiri ritstýringu en áður og þeir sem sinntu henni til hins ítrasta eins og Washington Post urðu ofan á í baráttunni um athyglina.

Samt vitum við að mörgu er ábótavant í bandarískri fréttamennsku þegar sannleikurinn virðist stundum ekki helzta keppikeflið, heldur eitthvað annað eins og bandaríski blaðamaðurinn Richard Harwood hefur bent á í grein þar sem hann leggur höfuðáherzlu á góða ritstýringu. Það væri að sjálfsögðu mistök að gera ráð fyrir því að einföld lausn sé til á þeim vandamálum sem leitt hafa til hrapalegra mistaka í blaðamennsku undanfarið. Þau eru einatt afsprengi fyrirtækjarekstrar sem virðist lítt móttækilegur fyrir breytingum og blindur á eigin veikleika. Ég ætla ekki hér að nefna mörg dæmi þessa efnis úr bandarískum fjölmiðlaheimi, en bendi þó á tilfelli Janet Cookes sem hlaut Pulitzer-verðlaunin fyrir hönd The Washington Post fyrir frásögn af átta ára heróínsjúklingi, þar sem einungis eitt hafði verið útundan: sannleikurinn; ég bendi einnig á greinaflokk þess efnis að bandaríska leyniþjónustan stæði að baki krakkfaraldurs meðal svertingja í Los Angeles eða þegar Time/CNN sakaði bandarískt herfylki um að hafa notað eiturgas í hernaðaraðgerð í Laos 1970, en það var síðar dregið til baka. Mörg slík dæmi eru til og snerta öll metnað, æru og heiðarleika viðkomandi aðila – en þá ekki sízt viðkomandi fjölmiðils. Þær afsakanir hafa verið settar fram, einkum af ljósvakamiðlum, að hér sé um rekstrarlegan þrýsting að ræða því að sjónvarpsstöðvar séu helteknar af áhorfsmælingum og áhorfendafjölda sem ræður auglýsingaverði og hagnaði og þess vegna sé ýmsu sjónvarpað sem ekki hefði átt að sýna. Mörg dagblöð og tímarit eru í svipaðri aðstöðu, illa haldin af minnkandi útbreiðslu og leita leiða til þess að ná aftur því sem glatazt hefur.

En Harwood vísar öllum þessum afsökunum til föðurhúsanna, segir að gabbfréttir og uppspurni undanfarinna mánaða verði ekki að öllu leyti útskýrður sem viðbrögð við fjárhagslegum þrýstingi af efri hæðinni. Það sé í grundvallaratriðum eitthvað athugavert við fréttastofurekstur þar sem svona lagað gerist ár eftir ár.

Við höfum öll sem hér erum samankomin heyrt sífellt fleiri frásagnir sem byggjast á ónafngreindum heimildum og þeirri barnalegu trú að blaðamenn séu heiðarlegar og æruverðugar manneskjur, en samtímis séu ritstjórar sífellt eftirlátssamari við fréttamenn sem hafa ekki til að bera það innra siðferðisþrek sem hverjum góðum fjölmiðli er nauðsynlegt. Harwood segir að við blaðamenn neitum að trúa því að fréttastofur líkt og aðrar stofnanir eigi sinn skerf af lygurum, ritþjófum, rummungum og fúskurum. Það kunni að vera erfiðara að koma auga á þá í blaðamennsku en öðrum starfsgreinum vegna þess að hjá okkur séu viðmiðin tvíræð.

Ég er ekki sammála þessu, að vísu. Við hljótum að gera okkur grein fyrir þessari hættu, þessum freistingum. Og við hljótum að hafa allan fyrirvara á því að slík hrakmenni séu algeng á fréttastofum, en við vitum samt sem áður um freistingarnar.

Það er rétt að við vildum ekki að annar gerði við leka í húsinu okkar en pípulagningamaður, né að annar skæri okkur upp en skurðlæknir og þá einnig að lögfræðingur sem stingi af með fjármuni sem honum hefur verið trúað fyrir sé líklegri til að vera staðinn að verki en blaðamaðurinn sem hefur eitthvað eftir heimildarmönnum sem ekki eru til. Af þeim sökum m.a. er nauðsynlegt að vera vel á verði og óttast ekki umhverfi sitt; óttast ekki það siðferðilega þrek sem hverjum góðum blaðamanni er nauðsynlegt; óttast ekki að standast ekki freistingar; óttast ekki að stjórna þeim fjölmiðli sem okkur er trúað fyrir.

Ég get vel ímyndað mér að það sé engin sleggjudómur þegar Harwood heldur því fram, að blaðamennskan hafi orðið fyrir barðinu á öfgamönnum sem ætluðu sér að sanna kenningar án tillits vil vísbendinga. Við þekkjum öll mörg slík dæmi.

En hver er ástæða þessarar þróunar? Er það krafa um meira frelsi, eingöngu hún? Eru það minni siðferðiskröfur en áður? Eða slappari dómgreind? Slappari ritstjórn?

Ég hygg að vel mætti sýna framá að allt þetta leggist á eitt, en kannski er það þá ekki síður “nýja blaðamennskan” sem stundum er kölluð “listin að flytja persónulegar fréttir”. Hún spratt upp á sjöunda áratugnum og hana má rekja til nokkurra frægra rithöfunda eins og Mailers, Capotes og Tom Wolfes.

Harwood bendir á að þegar þessi fréttamennska ruddi sér til rúms hafi slakari fréttamönnum og rithöfundum gefizt færi á að nota aðferðir skáldskaparins í þjónustu “raunsæis og sannleika” og þynna út skilgreininguna á blaðamennsku, unz hún varð nánast merkingarlaus. Hann heldur því fram að hluti vandans sé stærð fjölmiðlafyrirtækja nútímans. Framkvæmdastjórar á fréttastofum tileinki sér venjur atvinnurekenda, megin af vinnutíma þeirra fari í fundarsetur og einhvers konar konar áætlunargerð í fjárveitingabaráttu markaðssetningar og allskonar heilræði í tengslum við hana. Þá yrði lítill tími aflögu til að ritstýra, gagnrýna og fylgjast með fréttum, eða sýna gott fordæmi og sinna í raun og veru þeim grundvallaratriðum sem góð blaðamennska byggist á. Þessi hlutverk séu því oft falin fólki sem hefur ekki hæfileika til að gegna því, eins og dæmin hafi sýnt.

Norman Isaacs, kunnur gagnrýnandi “agaleysis og hroka”  nýju blaðmennskunnar, lét þau orð falla í kjölfar Janet Cook-málsins, og þau eiga enn við í dag, að við þurfum ekki “á að halda dagblöðum fyrir fréttamenn, heldur dagblöðum fyrir lesendur – og það sem þarf til að skapa þau er góð ritstýring”.

Ég hef verið að fara yfir athyglisverða bók um sjónvarp og áhrif þess. Hún heitir How to Watch News og er eftir Neil Postman og Steve Powers. Í þessari bók er m.a. fjallað um það hvernig sjónvarpið lagar sig að áhorfendum, þannig að það eru ekki einungis þeir sem nota sjónvarpið, heldur notar sjónvarpið þá einnig á sinn hátt. Mér þykir sú fullyrðing sérstaklega hnýsileg að engum manni dugi sjónvarpið einvörðungu og eru ýmsar ástæður fyrir því. Sjónvarpið fleytir kerlingar en þessar kerlingar eru bæði áþreifanlegar og mjög svo sýnilegar, meðan á þeim stendur. En hvað svo? Þegar sýndar eru myndir frá Kosovo og átökunum þar fylgir engin skýring á því, af hverju þessi átök stafa eða aðrar forsendur til skilnings á því sem verið er að sýna á skerminum. Hörmungarnar eru bara sýndar og þær festast í minninu meðan á sýningu stendur og næstu daga á eftir, en gleymast svo, ef Kosovo er ekki lengur í fréttum. Þannig er því einnig farið um hörmungarnar í Hondúras eftir hvirfilbylinn mikla sem lagði landið nánast í rúst, svo að annað nýlegt dæmi sé nefnt. Enginn vissi neitt um Hondúras en allir vissu nú, að landið hafði verið lagt undir vatn og áratuga uppbygging unnin fyrir gý.

En hvaða uppbygging og hvaða land? Sjónvarpið segir ekki frá því, ekki frekar en forsendum stríðsins á Balkanskaga.

Höfundar segja að þeir sem láti sér nægja sjónvarp séu á villigötum. Engum nægir sjónvarp. Sjónvarp geti verið ágætt til að bregða upp skyndimyndum, en enginn geti verið án prentmiðla sem vill vita hvað er undir þessu blákalda yfirborði. Þeir taka dæmi um kvikmynd frá Torgi hins himneska friðar og ungum stúdent sem stendur fyrir framan fallbyssukjaft aðvífandi skriðdreka. Það er áhrifamikil mynd. Hún sýnir það sem þarna gerðist. Hún minnir á, segja höfundar, þá fullyrðingu Mao Zedong að valdið styðjist við byssukjaftana. En þeir benda jafnfram á að þessi mynd sýni einnig það sem hún segir ekki; að sá hefur líka vald sem stendur fyrir framan byssukjaftana, hann ógnar og hann hefur orðið til þess að mörg alræðisríki hafa hrunið til grunna á okkar dögum.

En hvað veit sá um uppreisn stúdenta á Torgi hins himneska friðar sem hefur ekkert lesið um Kína og þekkir hvorki haus né sporð á kínverskri sögu, samtíð eða arfleifð. Hann veit nánast ekkert annað en það að ungir stúdentar hafa staðið fyrir framan skriðdrekabyssur og ógna alræðisstjórn. En hann þarf á prentmiðlum að halda til að komast í snertingu við þá sögu og þá samtíð sem er forsenda þessara harmsögulegu atburða sem gerðust fyrir rétt 10 árum.

Skoðanakannair hafa sýnt að bandarískir stúdentar halda flestir að Kína sé norðan eða sunnan við bandarísku landamærin. Það væri ómaksins vert að rétta þennan kompás af. Höfundar tala einnig mikið um mörkin milli raunveruleika og sýndarveruleika en þau séu oft óljós í sjónvarpi. Margir góðir sjónvarpsfréttamenn fjalli um mikilvæga atburði og takist þeim stundum að koma þeim vel til skila en þó sé oft um brellur að ræða, þegar leikarar eru valdir í þularstarfið. Oft sé þarna mjótt á munum en mikið sé upp úr því leggjandi fyrir sjónvarpsstöðvarnar að efnið gangi í áhorfendur eins og hnífur í feitt ket og sé þá ekki alltaf mikill munur á hasarnum, fréttum, auglýsingum eða jafnvel veðurfregnum. Margir fréttamenn eða þulir koma ekki nálægt samningu fréttanna, ekki frekar en þær sjónvarpsstjörnur sem segja veðurfregnirnar með sjónvarpstilburðum. Þetta held ég að vísu eigi ekki við hér heima eða á Norðurlöndum.

En hvað sem því líður er hér um fróðlegt og hnýsilegt efni að ræða, enda fullyrða fyrrnefndir höfundar að Bandaríkin séu nú einhver þekkingarsnauðasta og óupplýsasta samfélag sem um getur. Að vísu megi ætla að fimmtungur sjónvarpsáhorfenda hugsi sitt, en það er ekki fólkið sem styðst einvörðungu við sjónvarpsefni, heldur hinir sem leita til prentaðs máls og breyta hráu fréttaefni dagslegs lífs í mikilvæga þekkingu.

Þessi dæmi sýna ekki sízt hve nauðsynlegt það er að þeir sem fjölmiðlum stjórna hafi þrek og bolmagn til þess að leiða fólk inní einhvern upplýstan veruleika sem getur nýzt því í þeim eina leik sem máli skiptir, baráttunni við umhverfið, samfélagsþátttöku í sýndarveruleika nútímans.

En það sem mér þykir einna merkilegast við fullyrðingar höfundanna eru bollaleggingar þeirra um það, að fjöldi sjónvarpsáhorfenda opnar fyrir tækin til að sjá veröld sem er þeim fjarlæg og kemur þeim í raun ekkert við. Þeir sjá merki hungurs, ofbeldis og dauða en þetta er sýndarveröld sem er þeim fjarlæg og þeir fagna því með sjálfum sér; fagna því að þeir skuli ekki búa við þessar aðstæður. Þetta er sýndarveröld – eða þetta er heimur annars fólks. Og þeir gleðjast innst inni yfir því að hafa ekki þurft að upplifa svo ógnandi staðreyndir í umhverfi sínu. Ef morð eða glæpir eða ofbeldi er sýnt úr þeirra eigin samfélagi, þakka þeir guði fyrir að þeir eru sjálfir, þrátt fyrir allt, utan við þessa ógnlegu veröld. Þetta er heimur annars fólks.  Og þeir loka fyrir sjónvarpið. En þá er einnig á hitt að líta að tilveran er ekki eins slæm eða hættuleg og fréttirnar benda til. Þær fjalla sem betur fer um undantekningar eða frávik – og á það raunar við um mikinn hluta allra frétta.

Argentínski rithöfundurinn Borges sagði við mig á sínum tíma að það sem gerðist á leiksviði væri jafn mikilvægur atburður og hvert annað atvik úr daglegu lífi. Ég er ekki viss um að þetta sé rétt. Listrænt verk á sviði getur að sjálfsögðu haft mikil áhrif á sálarlíf okkar og hugsanaferil. En við erum ekki þátttakendur í þessari tjáningu, við þurfum ekki að gefa leikurunum ráð; við þjáumst ekki með þeim á sviðinu. Og þegar leiknum er lokið, ljósið kveikt og tjöldin falla, þá stöndum við upp úr stólunum og hverfum inní veröld sem er framandi þeim heimi sem hefur birzt okkur á sviðinu; hverfum inn í okkar eigin veröld, laus við þær þjáningar og þau vandamál sem við upplifðum andspænis sviðinu, ekki sem þátttakendur, heldur áhorfendur. Hverfum úr heimi annars fólks inní okkar eigin tilveru.

Þannig upplifum við einnig sýndarveröld sjónvarpsins, við slökkvum á tækinu, stöndum upp – sýningunni er lokið. Sjálf erum við hólpin. Við horfum á harmleik í sjónvarpinu, svo er harmleiknum lokið. Tjaldið fellur. Við slökkvum á tækinu, göngum út í þann veruleika sem bíður okkar. Skiljum leiksviðið eftir, segjum að á því séu t.a.m. brunarústir. En þetta eru brunarústir annars fólks sem við þekkjum ekki og þær hverfa í undirvitundina, unz það slokknar í þeim eins og hverjum öðrum brunarústum í skáldskap, t.d. Njálssögu. Eftir stendur táknmynd þessa sýndarveruleika sem við hugsum ekki um, ekki frekar en síðustu sýninguna sem við sáum í Borgarleikhúsinu eða Þjóðleikhúsinu og hún gleymist eins og hvert annað atvik sem við teljum okkur trú um að hafi ekki komið okkur við. Eins og hamfarirnar í Hondúras. Þangað sendum við Íslendingar 3 milljónir króna í hjálparstarf. Þar með vorum við sátt við samvizkuna. Hún er flugnasuð sem við þurfum að banda frá okkur. En sjónvarpssamvizkan er einungis áreiti sem hverfur með nýju áreiti; sífelld áminningu um þjáningu og dauða en umfram allt – dauða annars fólks.

Það er að sjálfsögðu mikilvægt að fréttamenn greini skýrt frá staðreyndum og án alls skáldskapar eða þeirra einkenna nýju blaðamennskunnar sem ég nefndi hér að framan, skilji sem sagt á milli staðreynda og hugmyndaflugs; veruleika og sýndarveruleika. Staðreyndir eru að sjálfsögðu mikilvægastar í allri fréttamennsku, en fréttamönnum hættir til að rugla þeim saman við hugarburð. Það er ekki óalgengt í nútíma blaðamennsku að öllu ægi saman í sömu fréttinni, frásögn, dómum og ályktun. En góður og áreiðanlegur fréttamaður ruglar þessu þó ekki saman. Hann gefur lýsingu á því sem við blasir og um er að ræða og eins nákvæma og unnt er, þ.e. hann fjallar um staðreyndir málsins, en lætur dóma og ályktanir lönd og leið.

Tilfinningaleg notkun tungunnar, ef svo mætti segja, er bæði algeng í frásögnum sjónvarpsfréttamanna og þeirra blaðamanna sem hafa kosið prentmiðilinn að tæki sínu, eða eigum við að segja áróðurstæki sínu. En góðir blaðamenn láta ekki freistast. Þó getur þeim orðið á í messunni, þeim getur orðið fótaskortur á því einstigi sem þeim er ætlað að feta. Tilgangurinn þarf ekki endilega að lýsa andúð eða samúð, eða einhverjum þeim fordómum sem ekkert okkar er laust við með öllu, heldur þeirri löngun skáldsins í hverjum manni að koma frásögninni í eins skaplegar umbúðir og unnt er. En beztu umbúðirnar eru þó nákvæmni og nauðsynlegur trúnaður við efni og aðstæður og þá ekki sízt við áhorfendur eða lesendur, ef því er að skipta. Og til þess að vel takist til þarf sterkt aðhald og þá ekki sízt ritstýringu, hvort sem hún er meðfædd eða tillærð - áunnin.

Þrátt fyrir ýmsar þá annmarka sem við getum fundið á nútímablaðamennsku sýnir velgengni þeirra fjölmiðla sem mest áhrif hafa og bezt hafa staðið sig í ritstýringarlegum metnaði sínum, ef svo mætti segja, að fólk er ekki jafnskyni skroppið og stundum virðist í fljótu bragði, heldur hefur það, þrátt fyrir allt, meiri áhuga á því sem er jákvætt og uppbyggilegt en hinu sem er hráefni miskunnarleysis og meinfýsni, eymdar og ógæfu.

 

Journalisters ansvar og behovet for stærk redigering 

Store kunstnere er ofte fremragende mennesker; det er i hvert fald min erfaring. Og fremragende journalister er derfor ofte mærkværdige personer. En af dem er Russell Baker som skrev sine meget betydningsfulde erindringer; The Good Times, som ikke fortolkes som "det gode liv" men snarere som "de gode tider". Det er altid fortræffeligt når mærkværdige journalister mindes deres erfaring og deres samtid. Når jeg ser tilbage kan jeg også glæde mig over gode erindringer. Journalistikken har været en dyrebar men somme tider en dyrekøbt erfaring; udviklende og betydningsfuld. Den består af det som er værd at blive husket. Noget af det er ganske vist hårdt og krævende; endog skånsesløst. Men altid udviklende og betydningsfuldt.

Russell Baker var journalist og kolumnist i New York Times. Han lærte mange mærkværdige mennesker at kende. Baker kom til den konklusion, at det ikke var journalistens rolle at forvandle en politisk bonde til en dronning. Journalistens rolle var derimod at beskrive skakspillet. Venskab kunne blive en hindring, men han gjorde altid som det passede ham. Russel Baker er ikke bare en mægtig journalist, men snarere en kunstnerisk forfatter. Som sådan vil han overleve mange af de begivenheder, som han har handlet om.

Den amerikanske TV-reporter, Lesley Stahl, skriver i sine erindringer, at massemedierne handlede om O.J. Simpson og prinsesse Diana som om de var De Gaulle eller Mao Tse-tung. Men hvad handler hendes erindringer om? Almindelige mennesker? Nej, verdenspressen handler ikke så gerne om almindelige mennesker, undtagen hvis de bliver ramt af en ulykke eller uhyggelighed. Så først begynder de at tælle. Lesley Stahl handler, hovedsageligt, om tre amerikanske præsidenter, for hun var jo længe CBS_ reporter i Det hvide hus, men hun handler hverken om videnskabsmænd, forfattere eller kunstnere, ikke engang om popstjerner eller astronauter. Udelukkende om præsidenter! Det er i henhold til den udvikling som har fundet sted i den såkaldte massemedieverden. Men heldigvis har vi islændinge temmelig lange udsigter hvad dette angår, selv om vi ikke helt har undgået denne udvikling, eller skal jeg kalde det "berømthedens markedsføring". 

Da vi var i Norge, i foråret 1989, besøgte vi Stavanger Aftanblad og havde en udmærket samtale med bladets redaktør, Thor Bjarne Bore, en alvorlig mand og høflig. Lidt senere fandt jeg tilfældigt en interessant artikel af ham i de norske journalisters organ, hvor han handler om umoralitet i massemedier og om journalisters ansvar. I begyndelsen af artiklen fortæller han, at den forhenværende informationschef hos Kreditkassen udtalte, at for almindelige mennesker var der kun én ting som var værre end at komme ud for guds vrede, og det var at blive omhandlet på forsiden af Dagbladet eller Verdens Gang i Oslo, uden at ønske det. Dér findes nemlig hverken nåde eller tilgivelse. Og Bore siger: Det er bestemt ikke nogen behagelig tanke, at stadig flere spørger, om et nyt retssystem er ved at opstå i Norge, et system hvor mennesker bliver dømt skyldige så snart en mistanke opstår, hvor de mistænkte må afsone straffen øjeblikkelig i den offentlige menings gabestok, foruden alle dem som har det samme efternavn. I gamle dage blev straffen udført på en søndag ved sognekirken. Men dengang blev der først udført straf efter retsforhør og retskendelse. Nutidens massemediers gabestok er somme tider langt værre end de retskendelser som retssystemet afsiger.

Den norske redaktør tilføjer, at vi sikkert alle kan være enige om, at ytringsfriheden ikke skal indskrænkes når den tjener det formål at forhindre uretfærdighed og at rette fejltagelser. Dybteborendejournalistik tiltager, hvilket er sundt for samfundet, men han siger, at det derimod er dårligt, at man nogle gange har været uforsigtig og påtrængende hvilket har skadet politiets forskning i mange sager: "Aviserne har tit improviseret ubetingede konstateringer alt for tidligt, og senere har det vist sig, at de var på vildspor. Ofte bliver skaden stor, både økonomisk og socialt, for dem som bliver indblandet i disse sager, selv om de forsøger at forbedre deres stilling med sagsanlæg."

Han tilføjer, at lovovertrædelse er et retsbrud men stiller så spørgsmålet: "Hvilke lovbrud er så overvældende, at det kan forsvares, at overtrædelsen bliver omhandlet på flere sider og kolossale billeder bliver offentliggjort. Talrige grupper fotografere og reportere forfølger den anklagede, videokameraer anvendes og skarpe blitz som afslører alle ansigtstræk og varierende ansigtsudtryk".

Massemediernes handlinger i sådanne sager minder om folkedomstole. Mængden, den store vægt på sagen, ordvalget, hvor journalistens meninger tydeligt fremkommer og ikke mindst, at individer på massemediernes vegne, antager forskellige roller på en gang - de tager sig af forskning, de anklager og de afsiger dom, foruden at de formidler oplysninger til offentligheden.

Alt det her er meget vigtigt til overvejelse for os som her er samlet, og det kræver stort ansvar, omtanke og faktisk også tolerance. Men det kræver ikke mindst stærk redigering, selv om den ikke nødvendigvis er på mode nu om dage; snarere tværtimod. Det er ikke altid lige populært at blande sig i hvordan journalister bruger den frihed, som de nu har, i overensstemmelse med demokratisk ordning i den vestlige verden. Ej heller er det absolut på mode at tænke på massemediernes sarte samvittighed, når en beslutning skal tages angående fremgangsmåden i alvorlige sager som kan involvere medborgeres ære og rygte. Nogle gange bliver det naturligvis forsøgt men ikke altid. Ivrighed dominerer mens forsigtighed viger. Ikke mindst derfor er det nødvendigt at redigering er i gode hænder, gerne hos dem som skelner mellem ret og uret og som ikke lader tilfældet råde. En islandsk digter sagde engang, at fristelser fandtes for ikke at modstå dem. Men i dette tilfælde er det indlysende, at det drejer sig om menneskeligt held og lykke, om pågældende journalister kan modstå fristelser og om "forsigtighed udvises i sjælens nærvær", som en anden islandsk digter udtrykker sig i et nationalkendt digt.

Når jeg taler om redigering, mener jeg naturligvis ikke det som kaldes "censur". Få andre ord har fået så dårligt rygte i et nutidigt samfund. Grunden er naturligvis den, at i censurens navn har diktatorer udnyttet samfund til deres egen fordel og givet samfundene dårligt rygte på samme måde, som det er blevet sagt, at bumserne giver brændevin et dårligt rygte. Noget andet er så, at enhver journalist må have en slags indbygget skøn eller vurdering, så vigtigt som det nu er, når retsindighed og fornuft er alt afgørende.

Mennesker bliver aldrig en salgsvare hos dem som har en nogenlunde ærlig livsstilling og som vænner sig til civiliserede menneskers arbejdsmetoder. Det kan eventuelt friste at overskride grænsen fra ædelmodighed eller injurielovgivning, men enhver sand journalist forsøger at undgå det, selv om det kunne give et større udbytte. En god avis er imod at ødelægge menneskers gode rygte, en god avis er samfundets dønning men ikke samfundets hængedynd. Kandhal, Aftenpostens forhenværende redaktør, siger et sted: "Det står i avisernes magt, uden reel grund, uden lov og dom, at ødelægge mennesker. Det må enhver journalist gøre sig klart."

Enhver journalist, som ikke forstår hvilket redskab han har i hænderne skulle i virkeligheden vælge en anden livsstilling. Og hvis han ikke ser det selv eller ved hvordan det forholder sig, skulle vi forvente af omgivelserne, at de gjorde ham opmærksom på denne brist i hans karakter. Jeg frygter mest, desværre, at der er for mange reportere nu for tiden som mener, at det er deres pligt at offentliggøre alle mulige afvigelser og ikke mindst de fejltagelser og fejltrin som kan ødelægge de menneskers liv som lod sig friste og desværre også uskyldige menneskers liv, nemlig deres som er forbundet med disse ulykkelige mennesker på forskellig vis. En reporter som ikke tager sig sådanne nyheder nær, han er ikke på den rette hylde. Han skulle finde arbejde inden for et andet område end dér hvor enhver opmærksom og forsigtig journalist oplever en smertelig og dyrekøbt oplevelse hver gang hans arbejde resulterer i at ulykkelige menneskers ære og livslykke bliver krænket og ikke mindst deres pårørende. De bliver som regel hårdest ramt af sorg, disse uskyldige ofre for afvigelserne.

Jeg understreger, at vi reportere har behov for den samme kontrol som andre, ikke mindst politikere og berømtheder i vores omgivelser og ethvert individ, som vi mener, at vi er forpligtet til at kontrollere standhaftigt. Så kan vi mindes det, som Bjarne Bore nævnte i sin føromtalte artikel, da han skrev om magthavere; at vi aldrig måtte glemme, at de som af naturlige grunde kommer meget i massemediernes rampelys altid taber til en vis grad deres evne til at forstå værdiet af ytringsfrihed og offentlig debat. Men netop dette ser vi ofte hos massemediums- personale. Nogle ønsker at bade i solen men de er nogenlunde ligeglade om så denne samme sol påfører andre en del brandsår. Ikke mindst af den grund er det afgørende hvem leder massemedierne, nu og i fremtiden, og det har naturligvis intet med teknisk udvikling at gøre, for folkedomstoler bruger de midler som er nærliggende i hvert tilfælde.

Hvis nogen tror, at jeg taler om redigering som en slags forfængelighed eller begivenhed, som den amerikaniske reporter Lesley Stahl nævner i sine erindringer, så er det forkert. Hun fortæller om dengang hun i begyndelsen af sin karriere blev påmindet om ikke at smile under en TV-udsendelse eller i TV-avisen, for hun skulle have en mere alvorlig mine, billedet krævede det. Jeg taler hverken om billedlige- eller markedsmekanismer. Redigering er noget andet end TV-stationers billedlige stræben. Jeg taler heller ikke om bagateller, som den hun nævner et andet sted, om præsident Nixon tog sig af sin kone ved festmiddage eller ej, men det handlede man om i amerikanske massemedier i sin tid. Nej, jeg taler om den redigering og det kontrol som journalisterne på Washington Post trods alt fik, og som blev anvendt i Watergate-sagen. Men dengang talte man også om billedlige mekanismer, og siden da har det været en slags trylleord i samtidens fjernsynshistorie. Men da begyndte man også at anvende anonyme kilder på en måde som før var ret ualmindeligt, muligvis ukendt. Ikke mindst dette krævede langt stærkere redigering end før, og de som lagde størst vægt på redigering , som Washington Post, vandt i kampen om opmærksomhed.

Alligevel ved vi, at amerikansk journalistik kan være mangelfuld, for eksempel når sandheden ikke bliver det eftertragtede mål, men snarere noget helt andet, som den amerikanske journalist Richard Harwood har påpeget i en artikel, hvor han lægger hovedvægt på god redigering. Det ville selvfølgelig være en fejltagelse at regne med, at der fandtes en simpel løsning på de problemer som har ført til fatale fejltagelser i journalistik her på det sidste. De stammer som regel fra virksomheders drift som synes knap nok at være modtagelig for ændringer, og opdager ikke egen svagheder. Jeg har ikke tænkt mig her og nu at nævne mange eksempler på dette fra den amerikanske massemedieverden, men jeg vil dog påpege Janet Cookes_ eksempel. Hun fik Pulitzer-prisen, på The Washington Posts vegne, for en fortælling om en otte år gammel heroinpatient, hvor kun ét blev tilsidesat: nemlig sandheden; jeg gør også opmærksom på en artikelserie som handlede om, at det amerikanske efterretningsvæsen skulle stå bag krackepidemi blandt sorte i Los Angeles eller da Time/CNN beskyldte en amerikansk divison om at have brugt giftgas i militær operation i Laos 1970, som senere blev rettet. Mange lignende eksempler findes, og de angår alle ambitioner, ære og hæderlighed hos pågældende - og ikke mindst hos pågældende medium. De undskyldninger har været fremme, især hos elektroniske medier, at det drejer sig om driftsspekulationer, idet TV-stationer er meget optaget af tilskuermålinger og tilskuermængde som igen øver indflydelse på reklamepriser og profit, og derfor bliver forskelligt stof udsendt som ikke skulle have været det. Mange aviser og tidskrifter står i en lignende situation, i dårlig stilling på grund af formindsket udbredelse, og de søger udvej for at genvinde det som er gået tabt.

Men Harwood vender alle disse undskyldninger mod deres ophavsmænd og siger, at den sidste tids usande nyheder og opspind ikke helt kan blive forklaret som reaktion mod økonomisk spænding på den øverste etage. I princippet er der noget i vejen med driften af det nyhedsbureau, hvor noget lignende sker i årevis.

Vi har alle, som her er samlet i dag, hørt stadig flere beretninger som bygger på anonyme kilder og den barnlige opfattelse, at journalister er hæderlige og ærværdige mennesker, men samtidig, at redaktører stadig mere føjer journalister som ikke har den moralske styrke som er en forudsætning for et godt medium. Harwood siger, at vi journalister nægter at tro på, at nyhedsbureauer ligesom andre institutioner har deres andel af løgnere, plagiatore, tyve og fuskere. Han siger, at det kan være sværere at få øje på dem i journalistik end i andre erhvervsgrene, fordi hos os er sammenligningsgrundlaget tvetydigt.

Jeg er dog ikke enig med ham. Vi er nødt til at være bevidst om denne fare, disse fristelser. Og vi er nødt til at tage det med forbehold, at sådanne slyngler er almindelige på nyhedsbureauer, men vi kender alligevel fristelserne. Det er en kendsgerning, at vi ikke ønsker, at andre end rørlæggere reparerer lækage i vores hus, eller at andre end kirurger opererer os. En jurist som forsvinder med ejendele som han er blevet tiltroet er mere sandsynlig til at blive grebet på fersk gerning end journalisten som genfortæller noget fra kilder som ikke eksisterer. Derfor er det blandt andet nødvendigt at være godt på vagt uden at frygte omgivelserne; ikke at betvivle den moralske styrke som er nødvendig for enhver god journalist; ikke at betvivle ens modstandsdygtighed mod fristelser; ikke at frygte at lede det medium som os er blevet tiltroet.

Jeg mener ikke at det er umotiveret når Harwood påstår, at journalismen har måttet holde for nogle ekstremister som ville bekræfte teorier uden at tage hensyn til advarsler. Vi kender alle sammen flere eksempler på det.

Men hvad er grunden til denne udvikling? Er det kravet om større frihed, kun det? Er moralske krav mindre end før? Eller større mangel på dømmekraft? Ringere redigering?

Jeg mener, at man godt kunne påvise, at alt dette kan være grunden til denne udvikling, men muligvis er det ikke mindst "den nye journalistik" som undertiden kaldes "kunsten at bringe personlige nyheder". Den dukkede op i tresserne, og kan henledes til nogle berømte forfattere som Mailers, Capotes og Tom Wolfes.

Harwood understreger, at da denne journalistik begyndte, kunne ringere journalister og forfattere bruge digtningens metoder for "realitet og sandhed" og fortynde betydningen af journalistik indtil den nærmest blev betydningsløs. Han påstår, at en del af problemet er massemediernes størrelse nu for tiden. Nyhedsbureauets administrerende direktører tilegner sig arbejdsgiveres vaner, størstedelen af deres arbejdstid går til møder og en slags projektering i finanskampen ved marketing og al slags gode råd i forbindelse med det. Så blev der ikke megen tid tilovers for at redigere, udøve kritik, følge med i nyhederne eller for at være et godt forbillede og tage fat på de grundprincipper, som god journalistik bygger på. Disse opgaver bliver derfor overladt til mennesker som ikke har kvalificationer til at passe dem, som eksemplerne viser.

Norman Isaacs, en kendt kritiker af den nye journalistiks "mangel på disciplin og hovmod" sagde følgende i kølvandet af Janet Cook-sagen, og det hører sig stadigvæk til i dag, "at vi ikke har brug for aviser for journalister, snarere aviser for læsere - og det som skal til for at lave dem er god redigering".

Jeg har lige læst en interessant bog om fjernsyn og fjernsynets indflydelse. Den hedder How to Watch News og er skrevet af Neil Postman og Steve Powers. Denne bog handler blandt andet om hvordan fjernsynet indordner sig tilskuerne, på den måde, at det ikke bare er tilskuerne som bruger fjernsynet, men at fjernsynet bruger tilskuerne også på en måde. Jeg finder den konstatering særdeles interessant, at intet menneske kan nøjes med fjernsyn, og der er flere grunde til det. Fjernsynet sejler ikke på dybten, selv om det er effektivt og meget fremtrædende mens søfarten varer. Men hvad så? Når billeder fra Kosovo og krigssituationen i området udsendes, følger der ikke nogen forklaring på hvorfor krigen er opstået eller andre forudsætninger til forståelse af det der vises på skærmen. Elendigheden vises nøgtern, og den sætter sig i sindet mens udsendelsen varer og de næste par dage, men så er den glemt, hvis ikke TV-avisen mere handler om Kosovo. Det samme skete vedrørende elendigheden i Honduras efter den voldsomme hvirvelvind, da det hele styrtede sammen, for at nævne et andet nyligt eksempel. Ingen anede noget som helst om Honduras, men nu var alle blevet gjort opmærksomme på, at landet var kommet under vand, og årtiers opbygning var forgæves.

Men hvilken opbygning og hvilket land? Fjernsynet fortæller ikke noget om det, ikke mere end om Balkan-krigens præmisser.

Forfattere hævder, at de som nøjes med fjernsynet er på vildspor. Ingen har nok i fjernsynet. Fjernsyn er udmærket for at vise øjebliksbilleder, men de siger, at ingen som ønsker at vide hvad der skjuler sig under den brutale overflade, kan undvære tryksager. Forfattere tager som eksempel en film fra Den himmelske Freds Plads der viser en ung student stående foran en kampvogn som nærmer sig mens kanonmundingen sigter på ham. Det er en effektiv film. Den viser det som skete. Den minder os om Mao Tse-tungs påstand om, at magten støtter sig til kanoner, siger forfattere. Men de antyder også, at denne film viser det, som den ikke viser; at den som står foran kanonmundingen er truende og har bevirket, at flere diktatoriske rige har styrtet sammen i vores tid.

Men hvad kan den, som intet har læst om Kina og kender hverken det ene eller det andet til kinesisk historie, samtid eller arv, vide om studenternes oprør på Den himmelske Freds Plads. Han ved så godt som intet andet end det, at unge studenter har stået foran kamvognskanoner og truet det diktatoriske styre. Han har brug for printsager for at komme i kontakt med den historie og den samtid som er forudsætning for disse forfærdelige begivenheder som skete for ti år siden.

Opinionsundersøgelser har vist, at de fleste amerikanske studenter mener, at Kina er nord eller syd for den amerikanske grænse. Det ville være ulejligheden værd at indstille kompasset. Forfattere taler også meget om grænsen mellem realitet og illusorisk realitet, men grænsen er ofte uklar i fjernsynet. Mange gode TV-reportere handler om vigtige begivenheder, og somme tider lykkes det dem at redegøre vel for dem, men dog spilles der tit et puds, når skuespillere bliver valgt til speakerjobbet. Ofte er der ikke stor forskel, men det er vigtigt for TV-stationerne, at stoffet bliver populært, og så er der ikke altid stor forskel på spænding, nyheder, reklamer eller endog vejrudsigten. Mange reportere eller speakere deltager ikke i at udarbejde nyhederne, ikke mere end de TV-stjerner som læser vejrudsigten op, med manér. Dette tror jeg dog ikke er tilfældet herhjemme eller i de øvrige nordiske lande.

Men hvordan det end går med det, drejer det her sig om et interessant og spændende emne, idet førnævnte forfattere påstår, at Amerika nu er et af de samfund hvor mest uvidenhed og mangel på kundskab forefindes. Dog kan man regne med at én femtedel tilskuere er tænkende mennesker, men det drejer sig ikke om de mennesker som kun bruger fjernsynsstof, men snarere de andre som bruger tryksager for at forvandle dagligdagens rå nyheder til vigtigt kundskab. Disse eksempler viser ikke mindst hvor nødvendigt det er, at de som leder massemedierne har kraft og mulighed for at føre folk ind i oplyst realitet som kan komme dem til gode i den eneste leg som spiller rolle, kampen mod omgivelserne, samfundets deltagelse i nutidens illusoriske realitet.

Men det som jeg synes er mest interessant ved forfatternes konstatering er deres overvejelser om, at adskillige fjernsynstilskuere tænder for fjernsynet for at se en verden som er dem fjern og kommer dem i realiteten intet ved. De ser tegn på sult, terror og død, men dette er en illusorisk verden som er dem fjern, og de glæder sig over det; glæder sig over, at de ikke lever under disse forhold. Det er en illusorisk verden - med andre ord, det er andre menneskers verden. Og de glæder sig i sjælen over at have undgået at opleve så frygtelig virkelighed i deres omgivelser. Hvis mord, kriminalitet eller vold fra deres egne samfund kommer på skærmen, takker de gud for, at de selv, trods alt, er uden for denne forfærdelige verden. Det er andre menneskers verden. Og de slukker for fjernsynet. Men så må der også tages hensyn til, at verden ikke er så slem eller farlig som nyhederne antyder. Heldigvis handler de om undtagelser eller afvigelser - og det er fakta med en stor del af alle nyheder.

Den argentinske forfatter Borges sagde engang til mig, at begivenheder på en teaterscene var lige så vigtige som oplevelser i det daglige liv. Jeg er ikke sikker på, at det er rigtigt. Kunstneriske værk på en scene kan selvfølgelig øve indflydelse på vores sjæleliv og tankegang, men vi er ikke deltagere i den ytring, vi behøver ikke at give skuespillerne gode råd; vi lider ikke sammen med dem på scenen. Og når spillet er forbi, lyset bliver tændt, og tæppet går ned, så står vi op, og går ind i en verden som er fremmed for den verden som er kommet til os på scenen; fortsætter ind i vores egen verden, frie for de lidelser og de problemer, som vi stod overfor på scenen, ikke som deltagere, men som tilskuere. Forsvinder fra andre menneskers verden og ind i vores egen tilværelse.

På den måde oplever vi også fjernsynets illusoriske verden, vi slukker for apparatet, står op - forestillingen er afsluttet. Selv er vi sikre. Vi følger et drama i fjernsynet, så slutter dramaet. Tæppet falder. Vi slukker på apparatet og går ud i den virkelighed sem venter os. Efterlader teaterscenen og lad os sige, at på den findes der rygende brandtomt. Men det er andre menneskers brandtomt, menneskers som vi ikke kender og den forsvinder i underbevidstheden indtil den slukkes som enhver anden brandtomt i et forfatterskab, f.eks. i Njalssaga. Tilbage sidder et symbol for denne illusoriske verden, som vi ikke tænker på, ikke mere end på den sidste forestilling vi så i Byteatret eller Nationalteatret, og den bliver glemt ligesom enhver anden begivenhed, som vi bilder os ind, at ikke vedkommer os. Som naturkatastrofen i Honduras hvortil vi islændinge sendte tre millioner kroner i nødhjælp. Derefter var vi forsonet med samvittigheden som fluesummen der kan viftes væk. Men samvittigheden over TV-avisen er kun chikane som forsvinder med nyt chikane; uafbrudt påmindelse om lidelse og død men vigtigst af alt - andre menneskers død.

Naturligvis er det vigtigt, at journalister redegør klart for kendsgerninger og uden opdigtning eller de af den nye journalistiks symptomer som jeg før nævnte, at de skelner mellem fakta og fantasi; realitet og illusorisk realitet. Kendsgerninger er naturligvis det vigtigste i al journalistik, men journalister forveksler dem ofte med fantasi. Det er ikke ualmindeligt i nutidens journalistik, at det hele bliver blandet sammen i den samme nyhed: fortælling, antagelse og dom. Men en god og stabil reporter blander det ikke sammen. Han beskriver det som debatteres og som er indlysende så præcist som muligt, det vil sige, at han handler om sagens kendsgerninger men lader være med at antage og fordømme.

Følelsesmæssigt brug af sproget, hvis man kan sige sådan, er både almindeligt i TV-reporters beretninger og journalisters som har valgt trykmediet som deres midler, eller skal vi hellere sige som deres propagandamidler. Men gode journalister lader sig ikke friste. Dog kan de slå fejl, de kan træde forkert på den smalle sti som dem er tiltænkt. Hensigten behøver ikke at genspejle

sympati eller antipati eller nogle andre fordomme som ikke nogen af os er helt frie for, men snarere forfatterens længsel, den som bor i alle mennesker, efter at pakke fortællingen ind i så passende emballage som muligt. Men den bedste emballage er dog præcision og nødvendig fortrolighed til emnet og situationen og dog ikke mindst til tilskuere eller læsere hvis det drejer sig om dem. Og for at det skal lykkes godt behøves der stærkt kontrol og ikke mindst redigering, hvad enten den er medfødt eller tillært - erhvervet.

Til trods for diverse mangler, som vi kan finde på nutidens journalistik, viser fremgang blandt de mest indflydelsesrige massemedier, de medier som har gjort mest for at tilfredsstille deres ambitioner med hensyn til redigering, hvis man kan sige sådan, disse mediers velgående viser os, at mennesker ikke mangler forstand i den grad som man umiddelbart kunne tro. Mennesker interesser sig, trods alt, langt mere for det som er positivt og konstruktivt end for det som er råstof til ubarmhjertighed, skadefryd, elendighed og ulykke.

 

The Responsibility of Reporters and the Need for Firm Editing

Great artists are often great persons; this, at least, is my experience. And similarly great reporters, then, are often great persons.  One of them is Russell Baker, who wrote his outstanding memoirs, The Good Times, not about his good life, but the good times. When noted journalists recall their experience and their own times it never fails to be something good. When I myself look back, I also enjoy those good memories.  My work in journalism has been a precious but, at times, also a costly experience, at once maturing and significant. It has been the substance of what deserves to be remembered. Some of it, indeed, has been tough, demanding, and even merciless. Still, it has always been maturing and significant.

Russell Baker was a reporter and columnist at the New York Times. He met a number of remarkable people and he reached the conclusion that it was not the function of the journalist to turn a political pawn into a queen. His function was, however, to describe the game of chess. Friendship was also something that could be a hindrance, yet he always did things his own way. He is not only a great reporter, but also a writer of artistic merit, and in that capacity he will outlive many of the events that have been his subject.

The American TV reporter Lesley Stahl says in her memoirs that the media reported on O.J. Simpson and Princess Diana as if they were De Gaulle or Mao Zedung. But what is the subject of her memoirs? Ordinary people? No, the world press prefers not to report on ordinary people unless they have an accident or suffer something horrible. Only then are they of any significance. Having been a CBS White House reporter for a long period, Lesley Stahl writes primarily about three American presidents, but not about scientists, writers or artist, not even about pop stars or astronauts. Only about presidents! This is in line with the developments that have taken place in the so-called media world.  Fortunately, we still have a long way to go in this respect in Iceland, although we have not altogether missed out on this development, or should I say this marketing of fame.

When we were in Norway in the spring of 1989 we paid a visit to the Stavanger Aftenblad and had a discussion with its editor, Thor Bjarne Bore, a serious man and a pleasant one to talk to.  A little while later I came across an interesting article written by him for the organ of Norwegian journalists about the immorality of the media and the responsibility of reporters. At the beginning of his article he quotes a former public relations officer for Kreditkassen as saying that for ordinary people there is only one thing worse than being struck by the wrath of God, namely becoming, against your will, the front-page subject of Dagbladet or Verdens Gang in Oslo. The reason is that you will neither find the grace of God nor forgiveness in there. And Bore goes on to say: It may not be a pleasant idea to contemplate that more and more people are wondering whether a new system of justice is coming into being in Norway, a system that finds people guilty as soon as any suspicion is aroused, where people are forced to take their punishment immediately in the pillory of public opinion, together with all their relatives who carry the same family name. In the old days the punishment was over on one Sunday at the church. In those days people got their punishment following a hearing and sentence by the court. Nowadays, however, the pillory of the media can sometimes be much worse than the sentences delivered by the judiciary.

The Norwegian editor goes on to add that we probably all agree that freedom of expression should not be infringed upon when it is employed to prevent injustice and to correct mistakes. The practice of investigative journalism is on the increase, which is a good thing for society, he says. It becomes bad on the other hand in those instances where it has been applied without proper caution, thus damaging police investigations through its aggressiveness. “The press has often made some unequivocal statements far too early and only later has it been proved to be on the wrong track.  Quite often the damage is great, both financially and socially, to those individuals who fall victim to this kind of reporting, even though they may try to clear their reputation by resorting to litigation.”

He continues to add that crime will always be crime, but goes on to ask what kind of offences can be seen as outrageous enough to justify their being reported on page after page accompanied by oversize pictures. Hordes of photographers and reporters, he says, follow the accused around at every footstep, using cameras and flashlights that reveal every single feature and expression.

The practices of the media in cases of this sort, he goes on to say, remind you of people’s courts.  The circulation, the emphasis on language, the phrasing that clearly reveals the reporter’s personal opinions combine to create this impression, and, last but not least, the fact that media individuals assume several functions at once – conducting investigations, acting as prosecutors and judges in addition to providing the general public with information.

All this is an urgent matter to deliberate for us who are present here today, and it must, as a matter of course, call for a great deal of responsibility, contemplation and, indeed, tolerance.  What is more, these ideas call for some firm editing, although such practices are hardly the fashion these days; on the contrary. It is not the fashion everywhere to have a hand in the way reporters use the freedom they have been given in the democratic order of things in the West, nor is it necessarily in tune with the trend to ponder over the delicate conscience of the surrounding media when decisions are taken concerning the methods of reporting on serious issues that may affect the honour and reputation of our fellow citizens. Certainly, an attempt to this effect is sometimes made, but by no means always. More often than not, we are dominated by excessive zeal rather than discretion. For this very reason, the editorship needs to be in the hands of good men, preferably those who know how to distinguish between right and wrong and will not leave anything to chance. An Icelandic poet once said that temptations were meant not to be resisted. In this context, however, an individual’s welfare and happiness may be at stake unless the reporters concerned are able to resist temptation and take care to tread softly in the presence of a soul, to paraphrase the words of another Icelandic poet in a renowned poem.

When I speak of editing I am obviously not talking about what has been referred to as censorship. Indeed, there are few terms in modern society that have acquired a reputation as negative as that particular concept. The reason is obvious, of course, since tyrants have made use of censorship in order to exploit their societies for their own benefit, bringing those societies into disrepute in a manner that may compared to bums who give alcohol a bad name. Seen from a different point of view, however, every single journalist must be in possession of some kind of inner censorship, important as it will be when fairness and common sense need to be applied.

People will never become a commodity at the hands of those who have a fairly honest career and conduct their work in accordance with the practice of civilized people.  It may be tempting to exceed the boundaries of fair play or the libel law, but  every true reporter will try to avoid that, even though the opposite would be more profitable. A good newspaper is not killer of reputations, it is the heart of society and not a quagmire. Kandhal, a former editor of Aftenposten, says somewhere: It is in the power of the press, without any real reason, to destroy people without a legal trial. Every reporter must be aware of this.

Any reporter who is not aware of what kind of tool he is wielding should really choose a different career. If a reporter does not see this himself or is unaware of it, we ought to demand that someone in his immediate environment should point this character flaw out to him. What I fear most, I am sorry to say, is that too many reporters nowadays see it as their primary duty to report all kinds of deviations from the norm, in particular those mistakes and transgressions which may destroy the lives of those who were tempted, and, unfortunately, also the lives of the innocent people who are associated with those wretched people in one way or another. A reporter who is not deeply affected by such news is not the right person in the right place.  He should find himself a job in  some other field, different from the one that becomes a painful and costly experience to any careful and cautious journalist every time his work leads to an encroachment on the honour and happiness of those who suffer some misfortune, and especially that of their relatives. The innocent victims of the deviations are always the ones to suffer most.

It is not out of place in this context to point out that we reporters need to be subject to the same measure of discipline as any other people, not the least politicians and  people of renown or anyone else, on whom we see it as our duty to impose some firm discipline. Let me in this respect remind you of the words of Bjarne Bore in the above-mentioned article when he speaks of people in authority; nameley that we must  never forget that those who for natural reasons bask in the media limelight always tend to lose to some degree their ability to understand the value of freedom of expression and public debate. This very thing, unfortunately, also applies to media  people in many cases. Some of them want to bask in the sunshine while not caring very much if that same sunlight causes burns to some other people. For this reason, more than anything else, it is important what kind of people manage the media, at present and in the future, and this is of course absolutely irrespective of any technical developments, because a people’s court will use any means available at each time.

Should anyone imagine that I am talking about newspaper editing as some kind of vain pursuit or happening, such as the American reporter Lesley Stahl mentions in her memoirs, they are wrong.  She relates that in the beginning of her TV career she was reminded not to smile on a TV programme or news report, because she was supposed to come across in different and more serious manner, demanded by the image. I am speaking neither of image nor the law of the market. Nor am I speaking of those trifling things she refers to elsewhere, such as whether or not President Nixon attended to his wife at a dinner, a subject that seems to have been discussed in the American media at the time. No, I am referring to the editing and discipline that the reporters of Washington Post were subjected to, in spite of everything, and which eventually prevailed at that paper in the Watergate case.  At the time, however, the subject of images was also discussed, and image has since then become the magic word in the contemporary history of television. This was also the time when relying on anonymous sources started becoming the order of the day in a way that had been rare up until then, if not unheard of. This called for a much more extensive editing than before and those who applied such methods to the utmost degree, such as Washington Post, won the day. In spite of this, we do know that American reporting leaves much to be desired, when the principal goal does not seem to be the truth, but rather something else, as the American journalist Richard Harwood has pointed out in an article where he lays emphasis on good editing. It would be an error, of course to assume that there is a simple solution to those problems that recently have led to grave journalistic mistakes. These mistakes are more often than not the product of a business operation that appears to be little susceptible to change and blind to its own weaknesses. I do not intend to list many examples of this nature from the world of American media, although I mention the case of Janet Cooke, who was awarded the Pulitzer prize on behalf of Washington Post for her report on an eight-year old heroine addict, where only one item was missing: the truth. I would also like to mention a series of articles indicating that the US secret service was behind an outbreak of crack addiction among black Americans in Los Angeles and the instance when Time/CNN accused an American military squadron of having employed poison gas in a military action in Laos in 1970, a claim that was later withdrawn. There are a number of such examples, all of which have to do with the ambition, integrity and honesty of the parties concerned – and especially of the media in question. The excuses have been offered, particularly by radio and TV, that this is a matter of operational pressures, since the TV stations are absorbed by viewing measurements and ratings, figures which govern the price of advertisements and profits, and that for this reason all kinds of material is put on the air that should not have been broadcast at all. A great number of newspapers and magazines are in a similar position, suffering from reduced circulation and looking for ways to regain what they have lost.

Harwood, however, dismisses all these excuses, saying that the fake news and inventions of recent months cannot wholly be explained as reaction to financial pressures from upstairs. There is, he says, something basically wrong with the operation of newsrooms where such things can happen year after year.

All of us gathered here today have heard a steadily increasing number of reports based on anonymous sources and on the naive belief that reporters are honest and honourable people, while at the same time the editors are becoming more and more permissive towards the reporters, who do not possess the moral stamina required by any respectable media. Harwood says that we refuse to believe that newsrooms, just like any other organization, have their own share of liars, plagiarists, rascals and dilettantes. It may, he continues, be more difficult to spot them in journalism than in other professions because our criteria are equivocal.

As a matter of fact, I do not agree with this. We are bound to be aware of this danger, these temptations. And we must have every reservation about the statement that scoundrels are common in newsrooms, even though we know about the temptations. It is certainly true that we do not want anyone but a professional piper to repair a leak in our house, nor would we have anyone but a surgeon make an operation on us. In the same way it is also true that a lawyer who would manage to slip away with some funds put in his trust is more likely to be exposed than is a journalist who reports something from non-existent sources. For this reason, among other things, it is important to be on one’s guard and not to be afraid of one’s surroundings; not to be afraid of the moral stamina which is essential for every good journalist; not to be afraid to manage the media that we have been entrusted with.

I can quite easily imagine that Harwood is not making an unwarranted assertion when he claims that journalism has suffered at the hands of extremists who intended to prove some theories without any regard to the evidence. We all know numerous such instances. But what is the reason for this development? Is it a demand for more freedom, and nothing else? Is it a lower standard of ethics than before? Or a more lax judgement? A more permissive editing?

I do believe that one could argue a case for the combined effect of all these things, but on closer look the reason is perhaps just as much the “new journalism”, sometimes referred to as “the art of bringing personal news.” It cropped up in the sixties and can be traced to several well-known writers such as Mailer, Capote and Tom Wolfe.

Harwood points out that when this type of reporting started to gain ground, some reporters and writers of poorer quality were given an opportunity to use the methodology of poetry in the service of “realism and truth,” thus diluting the definition of journalism until it became practically meaningless. He claims that part of the problem is the size of modern media companies. The newsroom managers adopt the practices of employers, he says, and most of their working hours are devoted to meetings and some kind of planning in the struggle for marketing and raising funds and all kinds of good advice connected with those activities. Consequently, he continues, there is little time left to edit, criticize and keep abreast of the news, or show good precedent and really tend to the principles on which fine journalism is based. These functions, therefore, are often left in the hands of people unqualified to perform them, as evidenced by a number of examples.

Norman Isaacs, a renowned critic of the “lack of discipline and arrogance” of the new journalism, said in the wake of the Janet Cook case, and his words still apply today, that we “do not need newspapers for the sake of reporters but newspapers for the sake of readers  – and what is required to create them is good editing”.

I have just been studying a noteworthy book on television and its impact. It is entitled How to Watch the News and is written by Neil Postman and Steve Powers. It deals among other things with the way television adapts itself to the viewers in such a manner that not only do the viewers make use of television but television also makes use of them in its own way. I do find their statement particularly intriguing that no one can be satisfied with television alone, and there are a number of reasons to support this. Television can be compared to skipping stones on the surface of a lake, the stones being both tangible and, indeed, very visible, while they are on the screen. But then what?  You see pictures from Kosovo on the screen and there is no commentary to explain the reasons for the conflict nor any other grounds that might help you understand what you are watching. The misery is just shown there and you remember it while the pictures are on the air and during the following days, but it is soon forgotten if Kosovo does not remain in the news. The same applies to the horrors following the great tornado that struck Honduras and almost left the country in ruins, to mention another recent example. No one knew anything about Honduras, but now everyone knew that the land had been laid under water and the development of past decades was all in vain.  But what development and what country? Television does not report on that any more than it does on the background of the Balkan wars.

The writers claim that those who are satisfied with television alone are on the wrong track. Television cannot be sufficient for anyone. Television, they say, may be satisfactory to display snapshots, but no one who has any desire to know what lies behind that ice-cold surface of the screen can do without a printed paper. They name as an example a film report from Tiananmen Square showing a young student standing face to face with the muzzle of a gun of an approaching tank. This is a moving picture. It shows exactly what happened there. It reminds us, say the writers, of Mao Zedong’s statement that power must always rely on the gun barrel. At the same time they point out that this picture also shows what it does not say; it shows the power of the person standing in front of the gun barrel; he constitutes a threat and he has caused the downfall of many totalitarian states in our times.

But what does a person know about the student uprising on Tiananmen Square who has read nothing about China and is unable to make head or tail of the history of China, its present society or its traditions? He knows practically nothing but the fact that young students placed themselves in front of tank guns and posed a threat to a totalitarian government. What he needs is the printed press in order to get in touch with the history and the present, which form the background of those tragic events of ten years ago.

Opinion polls have revealed that most American students believe that China is either north or south of the US border. It could be worth while to correct their compass. The two writers also discuss at some length the borderline between reality and virtual reality, which often becomes blurred on the television screen. Many good TV reporters deal with important events, they say, and sometimes they manage to make a good job of reporting them, but there are often some tricks involved, for instance when actors are hired to do function as narrators. The distinction is often a fine one, they continue, but the TV stations find it worth their while going to a great deal of trouble to make sure their viewers digest their material with as little effort as a warm knife cutting through butter. And there is not always that much difference between the sensationalism, the news, the commercials and even the weather report, when it comes to that. A great many TV reporters and news announcers have nothing to do with writing the news reports, any more than the TV stars who present the weather report with the appropriate TV gestures. I do believe, though, that this does not apply here in Iceland nor in the other Nordic countries.

In any case this is interesting and intriguing material and, as a matter of fact, the two writers make the assertion that the United States is at present among the most ignorant and most uninformed of nations. Indeed, it may be assumed, they claim, that about one fifth of the viewers have their reservations, but those are the viewers who do not rely exclusively on television but the ones who go the printed word and transform the raw material of everyday news into significant knowledge.  These examples go to prove, more than anything else, how important it is that the managers of the media are persons with the strength and the means to lead people into some form of enlightened reality, which can be of benefit to them in the only things that matter, the struggle with their immediate environment, the social participation in the virtual reality of modern times.

What I find most noteworthy in the assertions of the two writers involves their deliberations about the fact that a great number of television viewers turn on their TV sets to see a world which is distant and does not really concern them. They see the signs of famine, violence and death, but all this is virtual reality at a distance from them and privately they rejoice over it; rejoice over the fact that these conditions are not theirs. This is virtual reality – the world of other people. Privately, they are also filled with joy for not being forced to experience such threatening circumstances in their own environment. If murder or crime or violence in their own community appears on the screen, they give thanks to God for being themselves, in spite of everything, outside that horrible world. This is the world of other people. And they turn off the TV. In the mean time, let us also keep in mind that life is not as bad or dangerous as the news might indicate. Fortunately, they deal with the exceptions or deviations – and this applies to the greatest part of all news, to be exact.

The Argentinean writer Borges once said to me that what took place on a stage was just as important as any other daily event. I am not convinced that this is true. An artistic work of drama may certainly have a great impact on our souls and our way of thinking. However, we do not ourselves take part in that expression, we do not have to give advice to the actors; we are not suffering with them on the stage. And as soon as the play is over, the lights are on and the curtain falls, we stand up and disappear into a world that is foreign to the world we have been witnessing on stage. We disappear into our own world, which is free from the suffering and the problems that we were experiencing opposite the stage, not as participants but as an audience. We disappear from the world of other people into that of our own.

This is also how we experience the virtual reality of television; we turn the set off, stand up – the show is over. We ourselves have been saved. We watch a tragedy taking place on TV, then the misery is over. The curtain falls. We turn the set off and walk away into the reality that awaits us.  Let us leave the stage behind, let us imagine that it contains, for instance, the ruins of a burnt-down house. These, however, are the ruins of the home of some other people that we do not know and the ruins quietly disappear into the subconscious until they are extinguished just like any fictitious ruins of burnt-down buildings, for instance in the Njal’s Saga. What remains is the symbol of that virtual reality which we do not think of, no more than we think of the last performance we saw at the Reykjavik City Theatre or the National Theatre and it is forgotten like any other incident which we have convinced ourselves has no nothing to do with us.  Just like the catastrophe in Honduras. We in Iceland sent 3 million Icelandic krónur to Honduras for relief work. Thus we had put our conscience at rest. It is like a buzz of flies that we want to wave away. The television conscience, on the other hand, is a stimulus that will disappear with a new stimulus, a constant reminder of suffering and death, but by all means – the death of other people.

It goes without saying that it is important that reporters relate the facts distinctly, without resorting to any form of fiction or any of those characteristics of the new journalism I described earlier, which means that they must distinguish between facts and imagination; between reality and virtual reality. Facts are of course most important in any reporting, but reporters sometimes tend to get them mixed up with the figment of their imagination. It is not uncommon in modern journalism to find an account of events, judgements and conclusions all mixed together in one single news report. A good journalist does not get these elements mixed up, however. He gives as accurate a description as he possibly can of what there is to see and of the issue at hand, in other words he discusses the facts of the case while ignoring all judgements and conclusions.

What has been referred to as emotive use of language is a common phenomenon in the reports of both TV reporters and those journalists who have chosen the printed press for their medium, or should we call it their means of propaganda. Good journalists, however, do not let themselves be tempted. Nonetheless, they can become guilty of making an error on occasion; they may slip on the narrow path they are expected to tread.  The purpose does not have to be the expression of antipathy or sympathy or any of those prejudices none of us is absolutely free of, but rather the desire of the poet latent in every human being to package his account of events as agreeably as possible. The finest packaging, on the other hand, is accuracy and the required loyalty to the subject and the circumstances at hand, and in particular to the viewers or readers, as the case may be. What is needed in order to succeed is strong discipline, especially in the form of editing, whether it comes as a natural gift or an acquired accomplishment.

In spite of the various kinds of shortcomings that we may find in modern journalism, the success of those media that have proved most influential and successful in terms of their editorial ambitions, reveals that people are not as brainless as they might sometimes appear at first glance. Instead, they do exhibit, in spite of everything, a greater interest in everything that is positive and constructive than in the kind of material that breeds ruthlessness, malice, misery and misfortune.

 

 

17. ágúst, þriðjudagur

Hittum Davíð Oddsson í stjórnarráðinu í hádeginu í dag. Áttum við hann gott samtal. Styrmir ætlar að láta mig fá minnispunkta um það sem fram fór um FBA og fjármálamennina. Nenni satt að segja ekki að endurtaka samtal okkar um þessa karla sem gína helzt yfir öllu fjármálalífi landsins í skjóli frjálshyggjunnar. Við Davíð Oddsson erum nú í sama báti, hann er a.m.k. jafn harður og við og vill tryggja dreifða eignaraðild að þeim ríkisfyrirtækjum sem sett verða á markað. Mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn á réttu róli undir forystu hans, það gleður mig. Marxistar höfðu aldrei þrek eða kjark til að horfast í augu við gallana í kerfinu. Við megum ekki heldur verða ginningarfífl okkar kerfis, þ.e. frjáls markaðar og verðbréfaþings. Davíð hefur fullan skilning á því. Við erum alltaf að heyra frá framsóknarmönnum að við séum að vernda og verja Davíð Oddsson, annað gangi okkur helzt ekki til. Þetta er fjarri lagi. Við þurfum að vernda hugsjónir okkar sjálfra og afstaða Davíðs er einfaldlega partur af þessum hugsjónum. Það hefur ekki alltaf verið, en nú erum við í sama bátnum og ég vona að hann komi heill að landi þrátt fyrir úfinn sjó. Það á enginn að geta keypt Ísland, það á enginn að geta braskað með fjármuni fólksins í landinu. Davíð varaði við fjármálamafíum á Hólahátíð um daginn. Menn krefjast skýringa. Hvaða skýringa? Vita ekki allir að mafíurnar, ekki sízt eiturlyfjamafíurnar vaða uppi í hinum vestræna heimi og hafa búið um sig eins og grimmir hundar sem einskis svífast. Þetta hundaæði fjármálamarkaðarins er Íslandi stórhættulegt. Við verðum að sporna gegn því. Við verðum að eiga þátt í því að markaðurinn geti verið heilbrigður; að hann geti orðið sem flestum til góðs, en ekki einhverjum örfáum sem kunna að eignast allt fyrir lítið sem ekkert; eða lánsfé.

 

Davíð sagði okkur frá því að forseti Íslands væri kominn með konu upp að hliðinni á sér. Hún er af gyðingaættum, fædd í Ísrael en býr í Lundúnum. Hún er af auðugu fólki komin. Ég hafði heyrt þetta áður, en vissi það ekki fyrir víst, enda lít ég svo á að ásalíf annarra sé mér óviðkomandi. Mér skilst konan sé hin gerðarlegasta og tali ekki við hann með neinum undirlægjuhætti. Það er ágætt. Hún á víst mikla eign í Chelsea eða í námunda við Sloan-torg í London. Þar gistir Ólafur Ragnar þegar hann er í Lundúnum, segir Þorsteinn Pálsson okkur. Mér skilst hann sé þar nú orðið nánast í hverri viku. Við veltum því fyrir okkur hvað gerist þegar þetta verður opinbert. Þá byrjar banvænn kjaftagangur fyrir alvöru. Saumaklúbbarnir verða eins og vel smurðar vélar. En Ólafur Ragnar mun ekki gefa neitt upp fyrr en eftir að framboðsfrestur er útrunninn. Hann ætlar sér áreiðanlega að halda áfram, en mér skilst hann ætli sér konuna einnig. Spurningin er, hvort það kemur heim og saman og – því ekki? Kannski finnst fólki of stutt síðan Guðrún Katrín lézt? Ég veit það ekki. Allt er þetta farsi og íþyngjandi fyrir lítið samfélag. Forsetaembættið er óþarft, menn hafa ekki komið auga á það enn. Það er allt of mikið tildur í sambandi við það. Það truflar. Það hefur ekkert nema hégómlegt gildi. Einhver annar embættismaður gæti verið þetta táknlega einkenni lýðveldisins. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar. Mér finnst þetta allt minna á Haiti, en ég vil ekki búa í svoleiðis ríki. Þingræði hefur verið okkar kostur frá fyrstu tíð. Annað hæfir okkur ekki. Hátíðlegar stellingar í konunglegum dúr hæfa okkur ekki….

 

 

Við forum að tala um trúmál. vegan aðkomu sr. Arnar Bárðar að Neskirkju.Davíð lét sér það í léttu rúmi liggja,sagðist fara í Dómkirkjuna af gömlum vana.Styrmir lýsti því yfir að hann væri algjörlega trúlaus, hann tryði ekki á annað líf og enga guði. En hann reyndi þó að virða trú annarra. Davíð var dálítið hissa en ég vissi þetta allt. Mér er til efs að kirkjunnar menn hafi hugmynd um þetta!! Held þeir hafi meiri velþóknun á Styrmi en mér, það fer þeim kannski ágætlega. Davíð sagði okkur frá sinni trú sem báðar ömmur hans höfðu ræktað af miklu kappi. Ég þekki þessa trúarræktun vegna þess að móðir mín stundaði hana rækilega. Að þessu höfum við Davíð ætíð búið. Styrmir sagðist aldrei hafa verið alinn upp í neinni trú, hann býr þá einnig að því.

Fórum nú að tala um Magnús Óskarsson, vin okkar, og hvernig hann tók dauða sínum. Davíð sagði okkur það. Hann hitti hann skömmu áður en hann lézt. Hann hafði litla sem enga trú á framhaldslíf, en vonaði það bezta. Hann talaði um þetta við Davíð undir lokin. Faðmaði hann svo. Þannig kvöddust þeir með þeirri ósk Magnúsar að hann héldi undir kistu hans, þegar að því kæmi. Davíð jánkaði því en hann var í útlöndum, þegar jarðarförin fór fram. …

 

 

 

Samtal okkar fjallaði að mestu um nauðsyn þess að koma í veg fyrir að fyrirtæki ríkisins verði fáum einum, eða fjármálabröskurum, að bráð og hvernig komið verði í veg fyrir það, sbr. skrif Morgunblaðsins og krossferð Davíðs gegn fjórhöfða-grúppunni og Kaupþingi.

 

Kvöldið

Nenna

Ég nenni ekki neinu

nenni ekki að hugsa eða skrifa

nenni ekki að njóta þess að lifa,

nenni ekki neinu

 

nenni ekki að segja

að ég nenni ekki einu sinni að deyja,

 

datt þetta í hug þegar ég var að lesa skýringar við Enten-Eller,  en þar er kafli um að nenna, líklega áhrif Wessels á Kierkegaard.

 

 

19. ágúst, fimmtudagur

Þorsteinn Pálsson kom til okkar í hádeginu. Hann er mjög afslappaður. Það er bæði gott og gagnlegt að tala við hann.

 

….Við töluðum margt og mikið um verðbréfamarkaðinn, hlutafjársöfnun og fjármál yfirleitt; einnig nokkuð um pólitík; einnig þó nokkuð um fíkniefnabaróna og sagði Þorsteinn að hann hefði fulla sannfæringu fyrir því að þeir væru til á Íslandi. Það væri alltof mikið af fíkniefnum í umferð hér á landi til þess að svo væri ekki. En þeir væru ósýnilegir. Samt þótti Þorsteini hólaræða Davíðs Oddssonar nokkuð mikil sleggja eins og hann komst að orði. En ég held þessi ræða hafi verið nauðsynleg. Það hafa margir vaknað upp við vondan draum. Mátulegt á þá sem þurftu svona sleggju til að vakna við vondan draum!

Þorsteinn sagði okkur ýmislegt af forseta Íslands. Allt kemur það heim og saman. Hann tekur ekkert nærri sér að sinna skyldum sínum við forsetaembættið. Ég tala bara við hann eins og í þinginu, það gengur ágætlega, sagði Þorsteinn.

Einmitt.

Annars sagði Þorsteinn í sem styztu máli um peningahyggjuna á Íslandi og þróunina í þeim efnum, Þetta er ómögulegt, þetta getur ekki gengið(!)

 

Okkur hefur verið sagt að Halldór Ásgrímsson sé heldur þykkjuþungur í okkar garð vegna skrifa okkar um Eyjabakka-svæðið og Siv umhverfisráðherra Friðleifsdóttur og FBA-hlutabréfasöluna og skrif okkar um Finn Ingólfsson og aðild hans. Þessi skrif okkar hafa einungis verið varnaðarorð og ekki nein persónuleg árás á einn né neinn. En Halldór tekur þetta víst nærri sér fyrir hönd Framsóknarflokksins. Styrmir talaði því við hann í hádeginu og óskaði m.a. eftir því að hann ætti samtal við okkur um þessi mál. Hann féllst á það, en var mjög þungur, sagði Styrmir, mjög þungur. Það verður að hafa það. Við verðum að hafa okkar skoðun á umhverfinu í kringum okkur, við getum ekki haft annarra skoðun. En þeir geta þá komið fram með sína skoðun, það stendur ekkert í veginum fyrir því, a.m.k. ekki Morgunblaðið. Finnur ætlar víst að tala við okkur seinna, hvað sem verður.

 

Styrmir og Friðrik Sophusson töluðu saman í hádeginu í dag, einkum um væntanlega virkjun norðan Vatnajökuls. Ég tók ekki þátt í þessu samtali, mun gera það síðar. En Friðrik telur víst að Morgunblaðið hafi einarða stefnu í öllum málum, rétt eins og stjórnmálaflokkur. Það mætti til sanns vegar færa.

 

Allt eru þetta nauðsynleg samtöl því að menn eru fljótir að stilla okkur upp sem andstæðingum sínum, ef við viðrum aðrar skoðanir en þeir hafa. Við höfum einnig heyrt, bæði eftir Finni og Halldóri, að við sjáum nú um Davíð Oddsson. Þeir eru alltaf að vernda Davíð, hafa þeir báðir sagt. Þetta er eintóm vitleysa. Davíð sér um sig sjálfur, við sjáum um okkar. Í þessu tilfelli erum við í sama báti og Davíð, það er allt og sumt. Við erum að verja og vernda okkar eigin sjónarmið; hugsjónir okkar sjálfra og blaðsins. En þær og hugmyndir Davíðs Oddssonar falla í einum og sama farvegi um þessar mundir. Framsóknarmenn hafa aftur á móti haldið klaufalega á málum, bæði hvað varðar Fjárfestingarbankann og einnig Eyjabakka-áætlanir. Siv Friðleifsdóttir sagðist ekki hafa orðið bergnumin þegar hún kom að Eyjabakka. Við skrifuðum leiðara um það. Við gagnrýndum orð hennar – eða hvað áttum við að segja? Þetta var einfaldlega fáránleg yfirlýsing. Öllum er sama um það, hvort hún er bergnumin  eða ekki! Finnur Ingólfsson hefur verið í sambandi við Kaupþing og kannski haft áhrif á hlutafjársölu Fjárfestingarbankans. Gagnrýni okkar beinist því ósjálfrátt að honum, það er óhjákvæmilegt. Þetta fólk verður að axla ábyrgð. Það getur ekki ætlazt til þess við öxlum annarra ábyrgð. Við höfum nóg með okkur(!)

 

Ég er að velta því fyrir mér hvort ég ætti að birta litla kvæðið mitt um Snæfell og fuglahræðurnar, það má vel vera, veit það samt ekki. Langar ekki til að egna óbilgjarna - og þó! Það verður þá í Helgispjalli.

 

23. ágúst, mánudagur

Vorum hálfan annan dag í Laxá í Leirársveit. Fyrri daginn var áin eins og súkkulaðilitað jökulfljót og við Hanna fengum aðeins einn fisk. Svo rann úr henni um nóttina og í gær var hún tær eins og himinn. Fengum marga fiska. Mjög skemmtileg ferð. En ég þurfti að koma heim að halda fyrirlestur um ritstjórn og blaðamennsku á vegum ársfundar IPI, sem eru alþjóðasamtök ritstjóra, en Styrmir er formaður íslenzku deildarinnar. Þetta er fámennt lið en líklega nokkuð valdamikið, ef út í það færi af þeirri einföldu ástæðu, að þarna eru ritstjórar ýmissa sterkra og mikilvægra fjölmiðla. Ég flutti fyrirlestur minn eins og efni stóðu til, en sá í hendi mér, meðan ég var að flytja hann, að ég þurfti að skjóta því inn í sem póstmódernistarnir segja um textann; að hann sé ekki endilega aðaðalatriðið, heldur hvernig menn lesa hann og túlka; unnt sé að túlka textann með margvíslegum hætti og það sé þessi túlkun hvers og eins sem sé mikilvægasti þáttur þess sem skrifað er. Þetta mætti svo sem til sanns vegar færa og get ég vel tekið undir þá afstöðu eins og hún hefur birzt hjá Þresti Helgasyni í pistlum hans í Morgunblaðinu undanfarið. En blaðamenn geta ekki leyft sér að líta þannig á málin. Þeir verða að treysta sínum texta eins og Kristján Arngrímsson hélt fram í sínum pistlum. Þeir verða að trúa því að þeir séu að lýsa raunveruleikanum. Ef þeir gera það ekki verður umhverfið eins og hver annar afstæður eða óraunverulegur draumur. Þannig er ekki hægt að skrifa um staðreyndir hversdagslífsins. Slíkir draumar eru efni í skáldskap, en það er annað mál. Mér fannst einhver alvarlegur þungi yfir samkomunni og að lokum spurði enginn neins. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að þeir voru allir ósammála mér eða hvort ég kjaftaði þá í kútinn. Það skiptir ekki máli. Ég stóð þá eins og Kierkegaard, einn. Það fer mér líklega bezt(!)

 

Kvöldið

Fékk kort frá dr. Erni Ólafssyni, bókmenntafræðingi, sem ég sendi tvær bækur af Helgispjalli. Mér þykir afstaða hans dálítið merkileg, hann segir m.a.: “Ég þakka þér mikillega fyrir bækur þínar, Gríma gamals húss og Fjötrar okkar og takmark. Það var sannarlega vel til fundið að safna pistlum þínum í bækur og ég hlakka líka til að lesa ljóðaþýðingarnar.

Ég fann þegar það sem ég leitaði; eins og ég sagði þér í síma þurfti ég að vitna í pistil þinn þar sem þú bendir réttilega á að ég hafi afmarkað modernismann helst til þröngt í bók minni Kóralforspil hafsins. Mér var svo mikið í mun að hrekja þær útbreiddu bábiljur að modernismi sé sama og háttleysa, þ.e. fríljóð og prósaljóð, eða þá hvers kyns verk sem einkennast af tilteknu hugarfari einsemdar og tilgangsleysis. Ég stend auðvitað við það að modernismi einkennist af sundraðri framsetningu, en ljóðin þurfa ekki að vera óskiljanleg, vissulega er Eyðiland Eliots skiljanlegt röklega, rétt eins og Hólmgönguljóð þín og vissulega er hvort tveggja modernismi á sama hátt mestmegnis með endurteknum vísunum og textabrotum…

En þar fyrir utan eru spennandi pælingar þínar, m.a. um að vísanir ljóðs gera það skiljanlegt þótt ekki sé svo á yfirborðinu. Merkileg ábending frá því skáldi sem öðrum fremur hefur beitt vísunum! Þótt ég sé enn skammt kominn í lestrinum, sé ég þegar, að ég hef mikið gagn af þessu…”

Dr. Örn skrifar sérkennilega hönd og ég á erfitt með að lesa hana. Hann notar ekki y og fer sínar leiðir í stafsetningu, skrifar t.a.m. sje og jeg, en ég held því ekki í þessari tilvitnun; ekki frekar en ég held þeim rithætti sem vitnað er til í nýjum pælingum mínum um Jónas Hallgrímsson. Sennilega munu einhverjir setja út á það, en ég læt mér fátt um finnast. Ég er ekki í neinum textarannsóknum og læt aðra um allt slíkt, en einfalda það sem er flókið, ef það brýtur ekki með neinum hætti í bág við textann að öðru leyti.

 

 

25. ágúst, miðvikudagur

Talaði við Bjarna Ármannsson hjá Fjárfestingabankanum í gær. Hann er mjög viðfeldinn, ungur maður, ákaflega vel að sér um viðskipti og fjárfestingarmál. Ég spurði hvernig stæði á þessari lenzku að menn keyptu  fyrir milljónir eða milljarða án þess eiga fyrir því og gætu alltaf fengið lán, að því er virtist. Ég átti þá auðvitað við grúppurnar fjórar sem tóku sig saman og keyptu fjórðung eða þriðjung Fjárfestingarbankans á einu bretti....

 

Ég hafði gaman af að heyra Bjarna Ármannsson tala um muninn á honum sjálfum og næstu kynslóð á eftir. Hann hefði verið alinn upp í sveit, þurft að líta til lofts og gá til veðurs fyrir heyskapinn, hann hefði einnig unnið á eyrinni og starfað á sjónum; hann var t.a.m. hjá Haraldir Böðvarssyni á sínum tíma. Hann sagði að unga kynslóðin væri ekki eins bundin eða nátengd Íslandi og hans kynslóð, hún gengi fyrir meiri alþjóðahyggju. En ég heyrði ekki betur en hann fagnaði sinni arfleifð og því veganesti sem hann hlaut í æsku. Hann sagðist ekki hafa farið til útlanda fyrr en hann var 22 ára gamall, en þá hélt hann til Japans af öllum löndum.

Við töluðum dálítið um Kára Stefánsson og hann sagði að sér líkaði vel við hann. Kári talaði vel um okkur morgunblaðsritstjórana. Það væri rétt að Kári vildi verða einhvers konar Snorri Sturluson, hann vildi áreiðanlega verða forseti, þjóðskáld og ríkasti maður landsins. Sem stendur á hann víst hlutabréf sem eru metin á tæplega átta milljarða íslenzkra króna.

Ég sagði Bjarna að við gerðum okkur grein fyrir því að líftækni sé með svipuðum hætti og kvótinn eign þjóðarinnar og nú væri gert út á þessa eign en það hefði verið með öllu útilokað fyrir okkur að ganga gegn Íslenskri erfðagreiningu og lögum henni tengd því að það vildi áreiðanlega enginn bera ábyrgð á því að 2-300 ungir íslenzkir vísindamenn komist ekki hingað heim og yrðu innlyksa í útlöndum. Ég þekkti það ástand vel af eigin reynslu, því að Ingólfur, sonur okkar, er vísindamaður á alþjóðlegum vettvangi og ekkert útlit fyrir það sem stendur, að hann geti unnið sín vísindastörf hér heima. Hann mun því halda aftur utan til Edinborgar og vinna að sínum veirurannsóknum þar, en ég vona samt að hann hafi það markmið að komast í gott starf hér heima og mér heyrist á honum að hann hafi helzt löngun til að undirbúa sig undir það. Það er þó að minnsta kosti víst að hann hefði aldrei fengið 30-40 milljónir króna til að sinna vísindastörfum sínum, ef hann væri ekki á þessum alþjóðlega vettvangi sem Welcome-stofnunin fylgist með og fjármagnar á Bretlandseyjum.

En sem sagt, Kári fékk hugmynd og hún varð að veruleika og sjálfur varð hann milljarðamæringur! Það voru einmitt slíkir millar sem Stefán  fréttamaður ,faðir hans, taldi sig helzt þurfa að berjast við, bæði á heimavígstöðvum og Alþingi! Það veit sem sagt enginn sína ævina fyrr en öll er.

Nú þykjumst við Styrmir vita hvernig fjórhöfða-grúppan var vakin upp. Kári hugðist fjárfesta í Fjárfestingabankanum, auk  hagkaupssystkinanna. En þá gerði systir þeirra bræðra sér lítið fyrir og hafði samband við Jón Ásgeir, son Jóhannesar í Bónusi, og sagði honum frá þessari fyrirhuguðu fjárfestingu. Hann er víst fyrrum sambýlismaður hennar, en ég veit það ekki gjörla. Mér skilst samt að þau hafi verið í ástarsambandi og tengsl séu enn þeirra í millum. Mér skilst einnig að hatur hans á þeim bræðrum sé svo glórulaust, að engu tali taki. Hann hafi kallað saman grúppurnar, eða öllu heldur vakið þær upp, eins og þegar Loftur vakti upp Gottskálk byskup í Hóladómkirkju forðum daga! Þessi Galdra-Loftur hinn nýi er mér að vísu ókunnugur með öllu, en ég þekki föður hans, hann var prentari í prentsmiðju Morgunblaðsins á sínum tíma, ágætur strákur að mörgu leyti, en engin sérstök fyrirmynd þarna í prentsmiðjunni! Hann fór svo til Sláturfélags Suðurlands þar sem faðir hans vann, lærði á viðskiptalífið, kom sér upp samböndum og fór að höndla með sekkjavöru, ef svo mætti segja. Hún var ódýrari en allt annað og þessi kassaverzlun varð upphafið að Bónusi. Ágætt fyrir neytendur, því er ekki að neita. Við Hanna kynntumst svona verzlun þegar við bjuggum einhverjar vikur í Genf, sællar minningar. Hún hét Denner, ef ég man rétt.

 

Davíð Oddsson berst nú hetjulegri baráttu gegn fjármálabraski, ég er hreykinn af honum. Hann er nú í eldi sem mun skíra hann sem leiðtoga. Ég fagna því ekki sízt. Við stöndum með honum, að sjálfsögðu, enda höfðum við tekið þennan kóss, áður en hann lét til sín heyra, vegna Fjárfestingarbankans. Ég efast ekki um að hann á eftir að komast að samkomulagi við Framsókn um viðunandi lausn.

 

Óánægja Halldórs Ásgrímssonar með okkur Styrmi leyndi sér ekki í samtali þeirra, en vonandi er hún nú minni en áður. Við eigum ekkert sökótt við Halldór Ásgrímsson, þvert á móti. En við getum ekki staðið með honum í því sem við teljum ekki rétt. Hann verður að skilja það. Hann ætlar að bjóða okkur í mat innan tíðar, það er ágætt. Mér finnst það gott hjá Halldóri að hafa tekið þá stefnu að Fljótsdalsvirkjun skuli lögð aftur fyrir Alþingi eins og hann boðar í Morgunblaðssamtali. Við hljótum að fagna því, að sjálfsögðu. En hann er hikandi í fjárfestingabankamálinu, ég skil eiginlega ekki af hverju, sé enga ástæðu til að braskaragrúppa geti lagt heilu bankana undir sig með aðferðum sem eru nýjar af nálinni hér heima. Halldór vill setja lög og styrkja samkeppnisstofnun. Ég held það dugi ekkert, hún hefur farið illa að ráði sínu. Hún hefur lagzt gegn lækkunum Landssímans í samkeppnisstríðinu á símamarkaðnum, það er raunar með ólíkindum. Samkeppnisstofnun getur varla gengið gegn hagsmunum neytenda með þeim hætti. Hún á að tryggja heiðarlega samkeppni til lækkunar vöruverðs, en ekki hækkunar. Hún á að koma í veg fyrir einokun sem hækkar vöruverð, það er allt og sumt. En hún á ekki að krefjast hækkunar á lækkuðu verði!

Það er annars merkilegt hvernig þessar stofnanir hafa misst allan trúnað hér heima, jafnréttisnefnd, samkeppnisstofnun og neytendasamtökin. Formaður og varaformaður síðast nefndu stofnunarinnar lentu í hári saman með þeim hætti að alþjóð hélt um magann af hlátri yfir þeim ósköpum. Annar sagði m.a. að hinn væri fjölmiðlagraður, það er víst ekki betra en annað!!

Umboðsmaður Alþingis setti ofaní við jafnréttisnefnd vegna þess að hún hafði eyðilagt segulbönd, þegar hún var að fjalla um eitthvert mál. Það hefur ekkert heyrzt meira um það. Auðvitað hefði átt að taka rækilega í lurginn á þessu fólki sem þarna átti hlut að máli, en það var náttúrulega ekki gert. Nixon, forseti Bandaríkjanna, fór ver út úr sínu segulbandshneyksli heldur en jafnréttisnefnd!

Nei, við erum ákaflega vanþroskað þjóðfélag hvað snertir þær nýjungar sem nú eru tiltækar en voru áður ókunnar, t.a.m. þegar ég var ungur blaðamaður. En vonandi horfir þetta allt til bóta. Ég segi eins og Eggert Ólafsson þegar hann í ljóðum sínum hafði sett ofaní við landann og gagnrýnt það sem efni stóð til, Hvað sem öðru líður, þá á Ísland mikla framtíð fyrir sér.

 

Fékk ágætt kvæði hjá Kristjáni Karlssyni síðast þegar við hittumst, Marta, Marta. Hafði fengið það áður, en í annarri gerð. Nú hafði hann breytt einskis í einkis. Ég bað hann skýra fyrir mér ástæðuna. Hann skrifaði hana á blað, svohljóðandi: Breyting: einskis > einkis, vegna þess að s-in eru of ágeng í einskis og, eins og ég held einkis miðalda- og kaþólskulegra – en það er alveg óvíst – og hversvegna að sækjast eftir því, nema af því að það er meira yfir tímann hafið en okkar orðalag nú. (20.8. ’99 á Hótel Holti).

 

Nokkru síðar

Styrmir hefur átt langt samtal við Jón Ólafsson (föstud. 27. ág.), en ég var ekki viðstaddur

 

26. águst, fimmtudagur

Athyglisvert samtal í Morgunblaðinu í dag:

Gætir réttar borgaranna gagnvart dagblöðunum

Meðal þátttakenda á fundi Norðurlandadeildar alþjóðasamtaka ritstjóra, IPI, sem haldinn var hér á landi í vikunni, var Pär Arne Jigenius, blaðaumboðsmaður í Svíþjóð, sem á hverju ári tekur við 400­450 kvörtunum vegna meintra ófaglegra vinnubragða sænskra dagblaða. Helgi Þorsteinsson ræddi við hann um siðareglur sem mótast hafa á þeim rúmlega áttatíu árum sem eru síðan siðanefnd dagblaða tók til starfa, og ný verkefni sem fylgja Netinu og aukinni ágengni slúðurblaða.

SVÍAR urðu árið 1917 fyrstir þjóða til að skipa siðanefnd og móta siðareglur til að taka á kvörtunum vegna skrifa blaða. Embætti blaðaumboðsmanns, eða "pressombudsman" var sett á fót rúmum fimmtíu árum síðar til að styrkja þessa starfsemi enn frekar.

"Embætti blaðaumboðsmanns var stofnað árið 1969," segir Jigenius. "Töluverð gagnrýni hafði þá komið fram gegn fjölmiðlum fyrir lélega blaðamennsku og fyrir að fara illa með einstaklinga með óvönduðum fréttaflutningi. Með stofnun embættisins voru fjölmiðlarnir að bregðast við þeirri gagnrýni og reyna að lagfæra það sem aflaga hafði farið."

Jigenius segir að ekki hafi þótt nægilegt að hafa siðanefnd, því nefndarmenn voru allir í öðrum störfum og höfðu hvorki aðstöðu né tíma til að beita sér eins og þörf var á í þessum málum.

Embættið "ombudsman", eða umboðsmaður, er sænskt að uppruna en er orðið að alþjóðlegu hugtaki. Fyrsti umboðsmaðurinn var skipaður fyrir tvö hundruð árum til að gæta réttinda borgara gagnvart yfirvöldum. Íslendingar hafa einnig tekið upp þetta fyrirkomulag með skipan umboðsmanns Alþingis og umboðsmanns barna.

Jigenius bendir þó á að sænski blaðaumboðsmaðurinn sé ólíkur öðrum slíkum að því leyti að hann er ekki skipaður af stjórnvöldum, og kostnaður við embættið er ekki greiddur með skattpeningum. "Yfirvöldin hafa engin áhrif á skipan mína eða starfsemi. Kostnaðurinn er að öllu leyti greiddur af samtökum fjölmiðlanna."

Hlutdrægur umboðsmaður tilgangslaus

Jigenius samsinnir því að hugsast gæti að í þessari stöðu yrði fjölmiðlaumboðsmaðurinn háður fjölmiðlunum og afstaða hans myndi mótast af því. "Grundvallarhugsunin er sú að umboðsmaðurinn starfi sjálfstætt og sé óhlutdrægur. Í reynd hefur embættið gott orð á sér og nýtur trausts bæði hjá almenningi og stjórnmálamönnum. Það er ekki litið á það sem einhvers konar hagsmunagæslutæki fjölmiðlanna. Ef nánar er að gáð áttar maður sig á því að embættið væri tilgangslaust ef það væri hlutdrægt og fylgdi alltaf fjölmiðlunum að málum."

Starf umboðsmannsins er að taka við og kanna réttmæti athugasemda sem berast vegna skrifa í sænskum blöðum. Hann getur gert kröfu um að fá upplýsingar frá blöðunum sem tengjast málinu og er þeim skylt að láta þær af hendi innan viku. Í sumum tilvikum tekst að leysa deilur óformlega með aðstoð umboðsmannsins, en í öðrum tilvikum tekur hann afstöðu til málsins og vísar því síðan áfram til siðanefndarinnar sem fellir dóm um það.

Stundum velja menn að halda áfram með málið til dómstóla, en Jigenius segir að á hverju ári komi þó ekki upp nema 4­5 dómsmál gegn dagblöðum í Svíþjóð. "Það er flókið og því fylgir mikil fjárhagsleg áhætta að kæra dagblað til dómstóla. Ef menn tapa þurfa þeir að borga málskostnaðinn sem getur verið mörg hundruð þúsund [sænskar] krónur. Einn tilgangurinn með blaðaumboðsmanninum er að auðvelda fólki að leita réttar síns, því þjónusta embættisins er því að kostnaðarlausu."

Útlendingar geta einnig leitað til umboðsmannsins

Allir sem skrifað er um í sænskum dagblöðum geta leitað til umboðsmannsins, jafnt innlendir sem útlendir menn. "Á hverju ári berast mér 400­450 kærur. Að auki er oft hringt í mig og leitað ráða. Þannig hringir stundum fólk sem stendur frammi fyrir því að fara í viðtal við blaðamann, en er því óvant. Það spyr til dæmis hvort það geti krafist þess að lesa það sem haft er eftir því áður en grein er birt. Svarið í því tilviki er að það megi lesa það sem haft er eftir þeim, en ekki alla greinina, ef upplýsingar úr öðrum áttum koma þar einnig fram."

Jigenius bendir þó á að þetta sé alltaf samkomulagsatriði. Blaðamaður getur neitað ósk viðmælandans og þá getur hann, eða viðmælandinn, hætt við að láta það fara fram. "Aðalatriðið er að málið sé rætt áður en viðtalið fer fram, en ekki eftir á. Ef það hefur ekki verið gert er viðmælandinn í erfiðri stöðu."

Reglur um samskipti blaðamanns og viðmælanda eru aðeins að hluta til bundin í lög, en einkum er farið eftir siðareglum blaðamanna og umboðsmaðurinn tekur jafnframt mið af þeim.

Nafnbirtingarreglur mismunandi eftir löndum

Jigenius segir að töluverður munur sé á siðareglum sænskra blaðamanna og til dæmis engilsaxneskra, enda byggist þær á mismunandi hefð. "Í Svíþjóð er til dæmis algengt að beðið sé með að birta nöfn manna sem grunaðir eru um afbrot, en í engilsaxnesku löndunum eru þau oft birt þó litlar upplýsingar liggi fyrir um málið."

Jigenius segir að blaðamenn og blaðaumboðsmaðurinn þurfi alltaf að hafa í huga annars vegar gildi og mikilvægi upplýsinganna fyrir almenning og hins vegar þann skaða sem birting þeirra gæti valdið. "Upplýsingar sem hafa mikið gildi á auðvitað að birta þó að þær hafi slæmar afleiðingar fyrir einstakling og öfugt á að sleppa því að birta upplýsingar sem lítið gildi hafa en geta skaðað einstakling. Dæmi um hið fyrra er að ef opinber embættismaður gerist sekur um misferli hefur birting upplýsinganna slæm áhrif fyrir hann og fjölskyldu hans, en hagsmunir almennings af því að þær komi fram eru miklir. Dæmi um hið síðarnefnda, þar sem einnig kemur fram munur á sænskri og engilsaxneskri hefð, eru frásagnir af sjálfsmorðum. Ef venjulegur borgari fremur sjálfsmorð er samkvæmt venju sænskra blaða útilokað að nefna nafn hans. Fyrir kemur að sagt sé frá atburðinum án nafnbirtingar, en yfirleitt er það ekki einu sinni gert. Í Bretlandi er á hinn bóginn algengt að segja frá sjálfsmorðum almennra borgara, nöfnum þeirra og jafnvel ástæðum verknaðarins."

Jigenius segir að í Svíþjóð sé þó sagt frá sjálfsmorðum fólks sem áberandi er í þjóðlífinu, til dæmis háttsettra embættismanna. "Þá er talið að gildi upplýsinganna fyrir almenning sé svo mikið að það vegi meira en skaði sá sem frásögnin getur valdið fjölskyldu hins látna."

Rétturinn til að svara fyrir sig samdægurs mikilvægur

Annað algengt umkvörtunarefni sem berst Jigenius og sem hann segist líta alvarlegum augum á er að einstaklingum, fyrirtækjum eða stofnunum sem fjallað er um á neikvæðan hátt í dagblaði, sé ekki gefið færi á að svara gagnrýninni í blaðinu samdægurs. "Það er grundvallaratriði í siðareglum sænskra blaðamanna að sá sem er gagnrýndur í frétt í blaði hafi rétt á að tjá sig í sama tölublaði. Þetta á þó ekki við á sama hátt um leiðara og slíka texta. Það nægir ekki að hann fái að svara fyrir sig fjórum dögum síðar, þá hefur upplýsingunum sem komu fram í upprunalegu greininni verið ósvarað um skeið, sem veldur þeim sem fjallað hefur verið um skaða."

Jigenius segir að eftir því sem samkeppni milli dagblaða sé meiri aukist líkurnar á að brotið sé gegn þessari reglu. "Það er þá aukin freisting fyrir blaðamann sem er með góða frétt í höndunum, en hefur ekki tekist að ná í þann sem hún fjallar um, að birta þær engu að síður. Það er þó mikilvægt að hafa í huga í þessu sambandi að ef hann neitar að tjá sig um málið er ekkert því til fyrirstöðu að birta fréttina."

Enn ein tegund algengra kvartana er að blöð neita að birta leiðréttingu eða andsvar við ummælum sem birtast í leiðara eða annarri álíka grein þar sem skoðanir blaðamanns koma fram. "Í sumum löndum Evrópu hafa menn sett lög um rétt til leiðréttingar eða andsvars og slíkar hugmyndir hafa verið ræddar á sænska þinginu. Við viljum þó helst komast hjá því að slík lög verði sett, því ef slík mál koma fyrir dómstóla verður mun þyngra í vöfum að fá lausn á málinu heldur en ef blaðaumboðsmaðurinn er látinn sinna því."

Kvartanir vegna myndbirtinga verða algengari

Jigenius nefnir í fjórða lagi að æ oftar komi upp mál sem varða óánægju vegna myndbirtinga blaða. "Myndir geta verið meiðandi eða jafngilt birtingu nafns á manni sem ætti ekki koma fram opinberlega. Stefna sænskra blaða er á þessu sviði að jafnaði mildari heldur en í Bretlandi og Bandaríkjunum. Sem dæmi má nefna að ef bílslys verður og ökumennirnir farast er það óheimilt samkvæmt sænskum siðareglum að birta myndir þar sem hinir látnu sjást í bílnum, en þetta má í engilsaxnesku löndunum."

Nýlega urðu miklar deilur í Svíþjóð út af annars konar myndbirtingu. Deilt var um tvö tilvik sem bæði tengjast slúðurblaðinu "Se och Hör". "Í öðru tilvikinu hafði með tölvutækni verið skeytt saman mynd af Viktoríu krónprinsessu og fyrirsætu í skjóllitlum baðfötum. Niðurstaða málsins var sú að tímaritið var talið hafa brotið gegn siðareglunum og myndbirtingin var auk þess mjög gagnrýnd í öðrum fjölmiðlum."

Í hinu tilvikinu var um að ræða mynd sem svonefndur "paparazzi"-ljósmyndari tók af poppsöngkonunni Evu Dahlgren berbrjósta á hóteli. "Þetta var engin fölsun, heldur var myndin tekin í mikilli fjarlægð með aðdráttarlinsu. Skömmu áður en ég hélt til Íslands hafði ég einmitt lokið athugun á þessu máli, og vísaði því áfram til siðanefndarinnar. Niðurstaða mín var að tímaritið hefði brotið gegn siðareglum blaðamanna. Dahlgren var ekki stödd á opinberum stað og myndirnar voru teknar í laumi úr mikilli fjarlægð. Þarna var því verið að ganga á rétt hennar til einkalífs."

Úrskurðir blaðaumboðsmannsins og siðanefndarinnar hafa fyrst og fremst siðferðilegt gildi, því þessir aðilar geta ekki knúið blöðin til að greiða skaðabætur. Ef niðurstaðan er blaðinu í óhag er það þó látið greiða sem nemur um 220 þúsund íslenskum krónum í málskostnað. "Aðalatriðið er að blaðið er látið birta dóminn og láta þannig eigin lesendur vita að það hafi gert mistök. Einnig er mikilvægt að athygli annarra fjölmiðla á málinu er vakin og orðspor blaðsins versnar. Það getur haft áhrif á stöðu þess og einnig valdið því að ritstjórnir sem oft hafa gert mistök af þessu tagi verði látnar víkja."

Slúðurblöðin verða ágengari en önnur blöð ekki

Jigenius segir að sænsk slúðurblöð séu orðin ágengari heldur en áður var, en þau séu þó aðeins lítill hluti af sænska blaðamarkaðinum. Önnur blöð hafi ekki breyst hvað þetta varðar.

Að undanförnu hefur þó mikið verið rætt um greinaflokk sem kvöldblaðið Aftonbladet, sem er stærsta dagblað Svíþjóðar, hefur birt um unga nýnasista í Stokkhólmi. "Nýnasistarnir hótuðu tveimur þekktum borgarbúum og blaðið sagði frá hótununum í greinunum. Mikil umræða hefur farið fram um réttmæti þess. Þetta mál hefur einnig leitt í ljós galla í löggjöf um prentfrelsi, því þar er ekki gert ráð fyrir þeim möguleika að blað geti verið notað sem tæki til að hóta einstaklingum. Rætt er um að breyta löggjöfinni vegna þessa."

"Smit"-hætta frá vefsíðum með ótryggum upplýsingum

Jigenius segir að löggjöfin og siðareglur blaðanna breytist hægt, í takt við breytingar á gildismati í samfélaginu. Hraðar breytingar á fjölmiðlatækni á undanförnum árum hafi hins vegar vakið nýjar spurningar og geri starf blaðaumboðsmannsins og siðanefndarinnar erfiðari. "Á Netinu ræður einhvers konar villta-vesturs-hugsunarháttur sem erfitt er að ráða við. Blaðaumboðsmaðurinn hefur ekki lögsögu yfir því sem birtist á hinum og þessum vefsíðum og vegna þess að Netið er alþjóðlegt nær löggjöf einstakra landa aðeins í takmörkuðum mæli til þess."

Jigenius segir að Netið valdi einnig ákveðinni "smit"-hættu hvað varðar fréttaflutning dagblaða. Hættan er sú að dagblöð freistist til að fjalla um óstaðfestar fregnir sem birtast á ýmsum vefsíðum og slaki þá á þeim kröfum sem venjulega eru gerðar til upplýsinga sem birtast í blöðunum.

Annar vandi sem Netið veldur er að hraðinn í fréttaflutningnum verður meiri þegar birt er jafnóðum á Netinu. Fréttir netfjölmiðla geta því oft á tíðum verið óvandaðri en þær sem birtast í hefðbundnum dagblöðum, þar sem meiri tími gefst til yfirlestrar og til þess að leita andsvara frá þeim sem fjallað er um.

 

30. ágúst, mánudagur

Við Ingó fórum í göngutúr í gær um Fossvog. Þar hitti ég Kristin Briem, aðstoðarmann Halldórs Kristjánssonar,bankastjóra Landsbankans, sem eitt sinn vann á viðskiptablaði Morgunblaðsins. Hann sagðist vita að bankinn væri gagnrýndur fyrir lánin til Jóns Ólafssonar. Þetta eru tvö lán, sagði hann, og hann fékk þau bæði eftir faglegt mat.

 

Um daginn var ráðstefna um landafundina á vegum stofnunar Sigurðar Nordals. Rifjaði upp söguna um stofnunina og Halldór Laxness. Stofnunin ákvað fyrir nokkrum árum að skreppa austur á Þingvöll en á leiðinni þótti sjálfsagt að koma við hjá skáldinu í Gljúfrasteini. Þeim var tekið tveim höndum eins og öðrum. Þegar inn var komið heilsaði Halldór öllum innvirðulega og var lítið á honum að sjá þótt hann væri byrjaður að veikjast. Allt í einu spyr hann upp úr eins manns hljóði, Hvaða samkoma er þetta? Þetta er stjórn Stofnunar Sigurðar Nordals, var honum sagt. Jæja, einmitt, svaraði skáldið, Svo þetta er þá draugagangur.

 

Ódagbundið

Jón forseti og Steingrímur Thorsteinsson

1.

Þegar ég var beðinn um að flytja erindi á Hrafnseyri um Jón forseta Sigurðsson í tilefni af þjóðhátíðardeginum 17. júní 1999 kynnti ég mér þann skáldskap sem um hann var ortur og kom þá í ljós margt hnýsilegt sem ég hafði ekki þekkti áður, enda ortu mörg skáld bæði um Jón lifandi og dauðan. Á sínum tíma gaf Almenna bókafélagið út dálítið kver með ljóðum hirðskálda Jóns forseta og sá Sigurður Nordal um útgáfuna. Þetta er hið hnýsilegasta rit en samt þótti mér einkum athyglisvert að skoða þau ljóð sem Steingrímur Thorsteinsson hafði ort um Jón, enda má segja með nokkrum sanni að hann hafi staðið honum hvað næst þessara hirðskálda og starfaði með honum í ritstjórn Nýrra félagsrita, kornungur að aldri. Hann þekkti Jón forseta öðrum betur og bera kvæði hans þess ekki sízt merki.

Annað kvæði Steingríms fyrir minni Jóns var flutt í samsæti Íslendinga 24. nóvembeer 1869 og var sérprentað það sama ár. Það hefst á þessu vísuorði: Vígdjarfur Völsungs niður… En þegar ljóðabók Steingríms kom út 1881 er þetta kvæði ekki prentað með öðrum forseta-kvæðum skáldsins, en þar eru tvö kvæði fyrir minni Jóns og eitt, Landtöku-söngur, sem ort er í tilefni af útför Ingibjargar Einarsdóttur og Jóns Sigurðssonar 4. maí 1880. Kvæði Steingríms er aftur á móti birt í næstu ljóðabók, Ljóðmælum 1893, en þá er það gjörbreytt frá því sem var 1869. Það er því augljóst  að skáldið hefur verið óánægt með frumútgáfu kvæðisins og tekið sér langan tíma að breyta því og fullgera, eða nær fjórðungi aldar. Þá eru birt nokkur fleiri forseta-kvæði, m.a. gamalt kvæði fyrir minni Jóns Sigurðssonar, Komin norðan um haf, bárum ísköldum af… sem birtist 1881 í tveimur köflum. Nú hefur skáldið bætt við þetta kvæði sem öðrum kafla fyrrnefndu minni, Vígdjarfur Völsungs niður…, og er það nú óþekkjanlegt frá því sem var. Í stað upphafsins Vígdjarfur Völungs niður/á vafurloga reið… hefst það nú á þessum línum: Hinn vaski Völsungs niður/á vafurloga reið… Fyrsti og þriðji hluti kvæðisins sem áður voru fyrsti og annar kafli eru aftur á móti óbreyttir með öllu, svo og þau ljóð önnur um Jón Sigurðsson sem birtast í báðum ljóðabókunum.

Að lyktum er þessu kvæði svo enn breytt þegar það er birt í Úrvalsljóðum Steingríms Thorsteinssonar 1946, en þá sá sonur hans, Axel Thorsteinson, um útgáfuna og valdi ljóðin til prentunar. Þá er hin breytta gerð með upphafinu Hinn vaski Völsungs niður/á vafurloga reið… birt undir heitinu Jón Sigurðsson, en í lok þess er fimmta erindið í upphaflega kvæðinu sem hefst með þessum orðum: Komin norðan um haf, bárum ísköldum af… sem hljoðar svo:

 

Þeim sem ævinnar magn fyrir móðurlands gagn

hafa mestum af trúnaði þreytt,

hljómar alþjóðar lof yfir aldanna rof,

því þeir óbornum veg hafa greitt.

 

Við þetta erindi hefur svo þremur erindum enn verið bætt við hið upphaflega kvæði:

 

Hnigin er hetjan,

skarð er fyrir skildi,

Ísland harmar sinn óskason.

Aldar af djúpi

upp rann hans dagur

með nýrri sól og nýrri von.

 

Fjallkonan faldar

harmahjúpi dökkum,

titrar hryggð gegnum tindafjöll,

vordögg á vengi

verður að tárum

og sorgleg fugla sönglög öll.

 

Hvað má oss hugga?

Heiður hans vér eigum,

nafn hans geislum á grafreit slær.

Föðurlands framtíð

frjóvgar hans andi.

Við leiði hans vort lífsvor grær.

 

Þá hefur nánast orðið til nýtt kvæði, breytt og bætt, og soðið úr ýmsum brotum.

 

 

2.

En hvernig var hið upphaflega kvæði sem birtist 1869 og hvernig var því breytt á þeim aldarfjórðungi sem leið frá því skáldið birtir það fyrst og þar til það var prentað í endarnlegri útgáfu? Í síðustu útgáfunni, 1946, er einungis tekið 5. erindið úr kvæði fyrir minni Jóns Sigurðssonar, sem fyrst var prentað 1869, Kominn norðan um haf, bárum ísköldum af… sem fyrr er vitnað til, öðrum kaflanum í útgáfunni frá 1881, Heill sit þú, hetjan góð!… sleppt með öllu, en það hafði verið þriðji kafli í ljóðabók skáldsins frá 1893, fyrrnefndum þremur erindum bætt við í lokin, og endanleg útgáfa af Hinn vaski Völsungs niður/ á vafurloga reið… birt í heild. Það kvæði hafði verið svohljóðandi:

 

Vígdjarfur Völsungs niður,

Á vafurloga reið,

Lofgjörnum lofðung viður

Þá lægðist eldhrönn breið.

Hann vakti valdís sofna,

Vöknuð í dagsbrún leit

Brúður með brynju rofna,

Þá bundust ástarheit.

 

Eins þú sem ungur kappi

Óskelfdu hjarta, Jón!

Reiðst yfir hyr að happi,

Hugkærri munarsjón.

Þú vekja vannst að morni

Valkyrju föðurlands,

Meinstungna myrkurþorni

Í móður fjalla ranns.

 

Þá birti lands á brúnum,

Þá birtist land og haf,

Helgað með huldum rúnum,

En hún þér skilning gaf.

Fjöll, vötn og fljót um vengi,

Sem fengju líf og sál,

Sungu við silfurstrengi

Þá Sigurdrífumál.

 

Of gröfnum gullinmálmi,

Þar grundin mænir hátt,

Þig dísin hvít und hjálmi

Við hönd sér leiddi brátt,

Þú gekkst í hyrjar hauga

Hraustur með augun snör,

Þar tókstu ei bjarta bauga,

En beittan sigurhjör.

 

Og ryð þú skókst af skjóma,

Hann skein við frelsis sól.

Þá hjóstu deyfðar dróma,

Sem drótt í kreppu fól.

Fella réð fleinn þinn gjalli

Fárvætti – skylt sem er

Þú, Sigurðs arfinn snjalli,

Nú sigurheiti ber.

 

Djarflyndi og þrek í þrautum

Varð þér sem fleirum björg,

Á votum víkings brautum

Þér veittust áföll mörg.

En sjór þá brast á borðum,

Svo brögnum hnykkti við.

Með hug og hraustum orðum

Þú hvattir sveina lið.

 

Þökk fyrir dæmi dýrast,

Drengskap og alla tryggð,

Manndyggð, er skín hvað skýrast

Þá skemma reynir lygð.

Söngdís með björtu brána

Nú ber þér minnisveig

Og frelsisgyðjan frána

Þér fagran réttir sveig.

 

Eina breytingin á þessari lokagerð og þeirri gerð sem prentuð var 1893 er í fyrstu línu annars erindis en í Ljóðmælum 1893 er hún svohljóðandi: Og eins sem ungur kappi/of eldinn reiðstu, Jón!

Kominn norðan um haf, bárum ísköldum af… er svohljóðandi í öllum gerðum:

 

Kominn norðan um haf, bárum ísköldum af,

Þú frá ættlandi kveðjumál ber,

Nú í öndvegis sess sit þú heill bæði og hress,

Allrar hamingju biðjum við þér.

 

Undir alhvítri skör ber þú æskunnar fjör,

Janvel ungum þú lífs glæðir hyr,

Og með afli og dug og með ástglöðum hug

Þú ert æskunnar hetja sem fyr.

 

Þú, sem feðranna láð, lengi hrakið og hrjáð,

Reyndir hefja á gæfunnar braut,

Sýndir tryggð sem ei brást og þú ættjarðar ást,

Sem að aldreigi gafst upp í þraut!

 

Hver ein drenglunduð sál efla mundi það mál,

Sem að miðar til þess að á ný

Sjáum lífstré vort grænt, blómgvað, veglegt og vænt

Hefja vaxandi limar und ský.

 

Þeim sem æfinnar magn fyrir móðurlands gagn

Hafa mestum af trúnaði þreytt,

Hljómar alþjóðar lof yfir aldanna rof,

Því þeir óbornum veg hafa greitt.

 

 

Ekkert veraldar rán skerðir lofsverka lán,

Og þau lifa þótt ógni þeim grand,

Dyggðar deyr eigi fræ, því mun ávaxtast æ

Það sem Ísa- þú vannst fyrir –land.

 

Njóttu kraptanna heill, frelsis vinur óveill,

Þú, sem vinnur og spyr ei um laun,

Meðan Ísfold rís há undir bjarthimni blá,

Mun hún blessa þig lífs fyrir raun.

 

Heil sit þú, hetjan góð!… sem sleppt er í lokagerðinni er svohljóðandi bæði í Ljóðmælum 1881 og Ljóðmælum 1893:

 

Heil sit þú, hetjan góð!

Hljóma þér söngvaljóð,

Vor minnismál.

Glatt er í gildis rann,

Gleðjast vor hugur kann,

Um þína hvarflar hann

Hamingju skál.

 

Aptur vor augu sjá

Um ára tugi þrjá

Þitt skærast skeið,

Festum þar feginsjón,

Fram þegar gekstu, Jón!

Vort kæra feðra frón

Að firra neyð.

 

Hver innir alt þitt stríð

Og elju fyrir lýð,

Þín ástverk öll?

Væn þau, er vanst þú oss,

Varðveitast munu hnoss

Strítt meðan steymir foss

Og standa fjöll.

 

Ef fannafoldin heið

Fullgróinn sér sinn meið

Á bjarga brún

Hefjast við himingeim

háfaldin(n) geislareim,

hvert lauf á þolli þeim

Ber þína rún.

 

Aldrei mun eyðast nú

Andinn, sem vaktir þú

Hjá þjáðri þjóð.

Lifðu sem lengst að sjá

Landið þitt frelsi ná,

Styrki þig hyggjan há

Með helgum móð.

 

3.

Þá verður höfuðkvæði Steingríms Thorsteinssonar um vin sinn og leiðtoga, Jón forseta Sigurðsson, svohljóðandi í síðustu gerðinni frá 1946 og hlýtur Axel, sonur hans, að hafa heimildir fyrir þessari endanlegu gerð föður síns, en hún er bezt heppnuð og ber skáldskap Steingríms fagurt vitni:

 

Jón Sigurðsson

Hinn vaski Völsungs niður

á vafurloga reið.

Þá lægðist lofðung viður

sú logahrönnin breið.

Hann vakti valdís sofna,

hún vöknuð dagsbrún leit,

með brynju brandi rofna,

þá bundust ástar heit.

 

Og eins og ungur kappi

of eldinn reiðstu, Jón,

og hrósa náðir happi

við hreppta munar sjón.

Þá fannstu frægðar efni

hið fremsta í lífi manns,

er vaktir víls af svefni

þú valdís föðurlands.

 

Þá birti lands á brúnum,

þá birti’ um land og haf,

af huldum helgað rúnum,

en hún þér skilning gaf.

Og flóð og fjöll og vengi,

sem fengju líf og sál,

allt söng við silfurstrengi

þá Sigurdrífu mál.

 

Of fólgnum fornheims málmi

þar Fjörgyn hefur sig,

þig leiddi hvít und hjálmi

sú hróðdís þröngvan stig.

Þá gekkstu í hyrjar hauga

með hergauts augun snör

og tókst þar bjarga bauga

og beittan sigurhjör.

 

Og ryð þú skókst af skjóma,

hann skein við frelsis sól.

Þá hjóstu deyfðar dróma,

sem drótt í kreppu fól.

Og flögðum kom að falli

sá fleinn í hendi þér.

Því Sigurðs arfinn snjalli

þú sigurheiti ber.

 

Þín dirfð í þungum þrautum

og þreklund vann oss björg

á votum víkings brautum,

er veittust áföll mörg.

Og sjórinn brast á borðum

svo brögnum hnykkti við.

Með hug og hraustum orðum

þú hvattir  sveina lið.

 

Vér þökkum dæmi dýrast,

þinn drengskap, þrek og tryggð,

og dyggð, er skín sem skírast,

er skemma reynir lygð.

Nú söngdís björt á brána

þér býður minnis veig,

og frelsisgyðjan frána

þér fagran réttir sveig.

 

 

Þeim, sem æfinnar magn fyrir móðurlands gagn

hafa mestum af trúnaði þreytt,

hljómar alþjóðar lof yfir aldanna rof,

því þeir óbornum veg hafa greitt.

 

Hnigin er hetjan,

skarð er fyrir skildi,

Ísland harmar sinn óskason.

Aldar af djúpi

upp rann hans dagur

með nýrri sól og nýrri von.

 

Fjallkonan faldar

harmahjúpi dökkum,

titrar hryggð gegnum tindafjöll,

vordögg á vengi

verður að tárum

og sorgleg fugla sönglög öll.

 

Hvað má oss hugga?

Heiður hans vér eigum,

nafn hans geislum á grafreit slær.

Föðurlands framtíð

frjóvgar hans andi.

Við leiði hans vort lífsvor grær.

 

2. september, fimmtudagur

Fórum í dag frá Akureyri til Egilsstaða en skreppum væntanlega upp á hálendið á morgun að skoða Snæfell og undirlendið þar sem áformað er að virkja fyrir álverksmiðju. Skruppum síðdegis til Eskifjarðar og Reyðarfjarðar en þar á verksmiðjan væntanlega að rísa. Ég er sammála Hönnu að Reyðarfjörður er fegurstur fjarða Austanlands og leiðin yfir Fagradal hefur upp á að bjóða einhverja mestu náttúrufegurð sem ég get hugsað mér. Þar getur maður upplifað landið frá fyrstu tíð þegar víkingarnir börðu það augum og eftirkomendur þeirra sögðu að það hafi þá verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Hanna trúir því mátulega en ég efast ekki um að þetta sé rétt með farið. Hvað sem því líður er Reyðarfjörður engum bæjum líkur, þar er víð útsýn til fjalla og fjarðar og undirlendi ágætt. Gott veður en dálítið hvasst. Hefði átt að koma til Seyðisfjarðar þar sem móðir mín fæddist og ólst upp en nennti því ekki, m.a. vegna þess að ég fæ ekki séð að Seyðfirðingar hafi neinn áhuga á því að varðveita minningu þessa gamla þingmanns síns og sýslumanns, Jóhannesar bæjarfógeta, afa míns. Hann var þó flestum öðrum lengur forseti sameinaðs þings, einn af forystumönnum í sjálfstæðisbaráttunni fyrr á öldinni, formaður Sambandslaganefndar 1918 og alþingishátíðarnefndar 1930 og einstakt göfugmenni. Ég hálfólst upp undir handarjaðri hans og get því trútt um talað. Seyðisfirðingar hafa engan áhuga á öðrum en síldarkóngum, - og þá helzt ef þeir eru norskir. Þetta voru að vísu miklir gróserar og byggðu stór hús, en mér er til efs að þeir hafi verið jafn mikil athafnaskáld og reynt er að halda fram. Þeir græddu að vísu á síldinni, og ef til vill einnig á hvalnum og veittu mörgu fólki góða atvinnu. En nú á tímum hefðu þeir verið á verðbréfaþingi og hlutafjármarkaðnum þótt ekki hafi þeir líkzt þeim sem nú eru þar hvað atkvæðamestir og telja að virðing sé föl fyrir peninga. En þessir gömlu karlar fyrir austan öfluðu sér orðstírs sem vel má varðveita þótt ekki sé hann endilega tengdur sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Fengum rok yfir Mývatnsöræfi og moldrok svo mikið að vart sá út úr auga á köflum. Í einni hrinunni munaði minnstu að ég missti bílinn út af veginum. Ég hef aldrei upplifað Mýrvatnsöræfin með þessum hætti fyrr og var það þó nokkur ný reynsla. Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu að við Hanna gætum ekið framhjá Grímsstöðum á Fjöllum þar sem hún fæddist fyrir nær 70 árum án þess gera okkur grein fyrir því, en vegarstæðinu hefur þá einnig verið breytt. Bærinn var einhvers staðar horfinn í moldrokið og við áttuðum okkur ekki fyrr en við vorum komin að Víðidalsá, þá birti dálítið, en þó fylgdi moldrok okkur lengst af að Möðrudalsfjallgarð.

Allt gekk þetta ágætlega en ég vona að Grímsstaðir blasi við á þeim stað þar sem hann á að vera, þegar við höldum aftur til Akureyrar á laugardag. Hanna segir að það hafi aldrei verið moldrok á Víðirhóli þar sem hún ólst upp eftir átta ára aldur. Þar er allt þakið í lyngi og gróðri, mér skilst alla leið út í Þistilfjörð. En hitt er samt áreiðanlegt að Herðubreið gamla hefur stundum horfið í moldrokið þar sem hún blasti við úr eldhúsglugga tengdamóður minnar eftir að þau fluttust að Víðirhóli 1938, eða um það bil. Þá var Hanna orðin 8 ára og ólst sem sagt upp á Grímsstöðum fram að því. Þetta er harðbýlt land, og ekki hefur Ingólfur tengdafaðir minn alltaf átt sjö dagana sæla á öræfum, þegar hann fór í eftirleitir með Fjalla-Bensa, en ég held hann hafi ekki verið nema 18 ára, þegar hann lagði undir sig öræfin.

Ég hef alltaf dálítinn beyg af öræfunum eftir að við Hanna festum okkur í Öskju sællar minningar. Þar er margt sem minnir á harðbýla návist okkar við dauðann. Einkennilegt að hafa sótt konuna sína á þessar fjarlægu og að mörgu leyti ógnlegu slóðir. Ég sagði við Hönnu að mér fyndist þetta land vera mér einhvers konar lífsfirring, en hún þvertók fyrir það og fullyrti að þetta væri gott umhverfi og vinalegt. Ég viðurkenni að sjálfsögðu að hvergi blasir við á Íslandi jafn stórbrotið útsýni og eftirminnilegt. En það vekur mér ávallt hrollkaldan beyg og þegar ég ferðast um þessar kaldbrýndu einmannalegu öræfaslóðir þakka ég ævinlega guði fyrir að vera annað hvort kominn í Mýrvatnssveit eða á Egilsstaði sem eru einhverjar fegurstu og vinalegustu vinjar sem ég get hugsað mér. En það hefur alltaf verið mikið ævintýri að fara um þessar fornu byggðir með Hönnu og upplifa það hlýja viðmót sem hún tengir æskuslóðum sínum, enda var mannmargt á Fjöllum, þegar hún var að alast upp. Allt að átján manns á hennar heimili að sumarlagi, færra á vetrum.

 

Síðdegis

Hvíldum okkur síðdegis. Hrafnkell Jónsson hringdi til mín og er búinn að útvega mér leiðsögumenn á hálendið, annar er fulltrúi náttúruverndarmanna, Þórhallur að nafni og vinnur hjá RARIK að ég held, en hinn er víst á vegum Landsvirkjunar og virkjanamanna og býr á Reyðarfirði, Magnús að nafni. Þeir ætla víst að leiða mig í allan sannleika, en nauðsynlegt er að ég heyri báðar hliðar þarna undir hvíthærðum snjólubba Snæfells.

 

Hanna var að glugga í Moggann. Hún las minningargrein um mann sem hét Dan Gunnar Hansson en hann hafði verið giftur Snjólaugu Stefánsdóttur, systur Guðmundar Árna Stefánssonar og hafa þær þekkzt lengi, en nú fékk hún í fyrsta skipti að vita einhver deili á henni, börnum hennar og fyrrum eiginmanni; sem sagt, einkalífi hennar. Þessi fyrrum eiginmaður var kornungur því að hann er samkvæmt minningargreininni fæddur 1952. Þegar hún hafði lesið greinarnar um Dan Gunnar rétti hún mér blaðið og benti mér á grein um hann eftir Hrafn Jökulsson. Það sem vakti athygli hennar voru inngangsorð Hrafns, en það eru tilvitnanir í ljóð sem ég orti á sínum tíma vegna hörmulegs slyss, þegar kornungur sonur Sigurðar brekkjarbróður míns Fjeldsteds fórst í bílslysi í Bretlandi: Við uxum úr grasi með glitrandi vonir… Sigurður vissi aldrei neitt af þessu ljóði og hefur ekki hugmynd um að það átti rætur að rekja til þessa hörmulega bílslyss sonar hans. Ljóðið var birt allnokkru síðar í einni af ljóðabókum mínum, ég man ekki hverri, og þá hélt Vilmundur Gylfason að það hefði verið ort um Benedikt, son hans, sem fórst á Þingvöllum með afa sínum og ömmu, vinum okkar Sigríði og Bjarna Benediktssyni. Í útvarpsræðu frá Alþingi fór Vilmundur með þetta ljóð í sömu andrá og hann réðst að Morgunblaðinu, en gat þess þá jafnframt að það væri merkilegt að maðurinn sem ritstýrði þessum snepli hefði getað ort annað eins ljóð; fór síðan með það í þingræðunni og vakti alþjóðarathygli. Það hvarflaði auðvitað aldrei að mér að geta þess hvert var tilefni ljóðsins því að ekkert ljóð sprettur einungis af einu tilefni, þótt eitt tilefni sé að sjálfsögðu oft og einatt kveikjan að ljóðinu. Þannig er þetta ljóð um höggið sem bíður okkar allra. Og því skyldi það þá ekki vera fullkomlega eðlilegt að Hrafn Jökulsson noti þetta kvæði til að lýsa eigin tilfinningum.

 

En hvað sem öllu þessu líður, þá bíða öræfin okkar á morgun og ég ætla að heilsa upp á Snæfell af sömu auðmýkt og Tómas Guðmundsson heilsaði upp á Reykjavík!

 

Kvöldið

Borðuðum í Nílsenshúsi. Það er elzta húsið á Egilsstöðum. Það byggði víst danskur maður, Nílsen að nafni. Veit annars engin deili á honum. Matráðskonan sauð sjófrysta ýsu handa mér. Hún er miklu betri en ný. Var með gemsann á borðinu. Þá var hringt. Mér var sagt að Nína Björk hefði reynt að farga sér liðna nótt. Ari Gísli, skáld, sonur hennar, kom að henni. Hann náði í bráðvaktina og hún var flutt á Landspítalann þar sem dælt var uppúr henni aðskiljanlegum töflum. Þetta var alvörutilraun, alvarlegri en hinar fyrri. Illa hefði farið ef Ari Gísli hefði ekki fengið sitt hugboð og komið við hjá móður sinni. Læknirinn sem tók á móti Nínu Björk á Landspítalanum var Ingólfur, sonur okkar, en hún hefur alltaf haldið mikið uppá hann. Einkennileg tilviljun. En hann er bundinn trúnaði og má ekkert segja. Samt var mér sagt þetta í símann þar sem ég var að borða sjófrystu ýsuna. Einnig að Nína vinkona okkar hafi skilið eftir sig kveðjubréf með fyrirmælum um jarðarförina. Allt eru þetta ósköp. Nína hefur reynt þetta áður án árangurs og ég yrði ekki hissa, þótt hún gerði enn eina tilraunina eins og Sylvia Plath. Mér skilst hún hafi haft svipaðar ástæður og Nína.

Mér líkar vel við þetta fólk, það er vinir mínir til margra ára. Þegar við feðgarnir skruppum uppí Laxá í Kjós uppúr helgi hringdi Nína í Hönnu og þær töluðu saman langalengi. Hanna ætlaði að hitta hana síðar. Það munaði víst litlu að úr því gæti ekki orðið, að minnsta kosti ekki þessa heims. En dauðinn vill ekki Nínu, ekki enn. Hún verður að þrauka með þjáningum sínum og þeirri andlegu kröm sem hún lýsir í samtali við Vikuna nýlega. Þar segir hún frá því þegar við hittumst við Sólon Íslandus í Ingólfsstræti og hún strunsaði framhjá, hélt ég væri sjómaður vegna þess ég var í peysu og gallabuxum. Við heilsuðumst og hún sagði að sér liði illa, hún gæti ekkert ort. Ég sagði, Víst geturðu ort, reyndu bara(!) Hún lýsir því hvernig hún tók mig á orðinu og orti fyrsta ljóðið í langan tíma þá um kvöldið.

Einhverjir góðir menn ættu að fá Nínu til að lesa ljóðin sín, það getur enginn gert eins og hún. Það yrði mikill fengur að slíkri geymd því að Nína Björk er sérstætt skáld og skáldskapur hennar vaxinn úr mikilli þjáningu og hún minnkaði ekki þegar þau Bragi Kristjónsson slitu samvistum í fyrra.

Hanna segir að þrátt fyrir allt hafi hún verið ánægð með ýmislegt, t.a.m. nýja íbúð sem hún fékk hjá Öryrkjabandalaginu. Það er gott að einhver vill hjálpa Nínu til að lifa.

 

Ég frétti einnig annað; að Jón Ingvarsson hafi fyrir aðalfund Fjárfestingabanka atvinnulífsins ætlað að segja Davíð Oddssyni frá því að fjórhöfða-grúppan hefði fengið hann til að taka sæti í stjórn bankans sem fulltrúi hennar. Þeir hafa haldið að það væri krókur á móti bragði því að Jón hefur verið á snærum Sjálfstæðisflokksins og er enn í stjórn Granda, þótt hann hafi fallið í síðustu kosningum um formennsku í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Jón náði ekki í Davíð og fór á fundinn. Þegar kosningu var nýlokið er Jón kallaður í símann, það er þá forsætisráðherra. Jón fór fram og talar við Davíð; segir honum að hann hafi ætlað að skýra honum frá því fyrir fundinn að hann mundi taka við stjórnarsetu á vegum fyrrnefndra aðila. Davíð hlustar, en á svo að hafa sagt, Sá sem leggst með lúsugum, verður lúsugur.

Þannig fór um sjóferð þá. Mér er til efs að Jón sé ánægður með þetta hlutskipti sitt. Hann þurfti ekki að láta nota sig með þessum hætti því hann á nóg af peningum. Jón Ólafsson sagði Styrmi í samtali þeirra, að þeir Jón Ingvarsson væru náskyldir, afar þeirra hafi verið bræður. Líklega bera þeir nafn sama langafa, ég veit það þó ekki. Jón Ólafsson sagði í samtalinu við Styrmi að hann hefði hug á að kynnast þessum frænda sínum betur. Nú hefur hann séð sér leik á borði....

 

En hverjar eru þá þarna með Jóni ? Það eru víst þeir Eyjólfur Sveinsson, fyrrum aðstoðarmaður Davíðs, og Sveinn faðir hans, Þorsteinn Már í Samherja á Akureyri, Jón Ólafsson, stjórnarformaður Norðurljósa hf. og Bónus-feðgarnir, Jóhannes og Jón Ásgeir.

 

Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur hér á Egilsstöðum, sendi mér dálitla lesningu í sumar og nú hef ég verið að glugga í ritling sem heitir Fljótsdals grund. Það er hnýsileg lesning áður en við förum uppá hálendið. Þar eru margvíslegar upplýsingar um landið hér í kring og sögu þess, t.a.m. þetta um hið umdeilda svæði, Eyjabakka: “Eyjar eða Þóriseyjar er flæðislétta mikil suðaustan við Snæfell, í um 650 m hæð yfir sjó, þar sem Jökulsá hefur fyllt upp gamlan vatnsbotn og myndað fjölmarga hólma eða eyjar, sem margar eru algrónar og vaxnar stargresi, og sumar alsettar tjörnum. Beggja vegna eru svo fagurlega gróin nes, Eyjabakkar að austanverðu en Þjófagilsflói og Snæfellsnes að vestanverðu. Hvergi annarsstaðar ganga mikil graslendi alveg upp að Vatnajökli, nema hér“, segir Þorv. Thoroddsen.

Nú er öll þessi slétta kölluð Eyjabakkasvæði eða bara Eyjabakkar. Þar er mikið fuglaland, heiðargæsir svo þúsundum skiptir seinni part sumars.

Eyjabakkasvæðið er á margan hátt sambærilegt við Þjórsárver við Hofsjökul, og eru bæði talin með merkustu hálendisvinjum Íslands. Sá er þó munurinn að Þjórsárver hafa verið friðlýst um aldur og ævi en Eyjabakkar dæmdir til að kaffærast í jökullóni Fljótsdalsvirkjunar.” Síðan segir að Snæfell sé hæsta fjall utan meginjökla, 1833 m yfir sjó; dæmigert eldfjall eða eldkeila sem minnir á nafna sinn á Snæfellsnesi, en ekki er vitað til að það hafi gosið á sögulegum tíma. Samt má víst finna hraunklepra á austurhorni tindsins sem eru svo að segja óveðraðir. Þar segir enn að Snæfell sé heilagt fjall í hugum flestra sem til þekkja og hafi Fljótsdælir varað Svein Pálsson 1794 við að ganga á fjallið, töldu að það mundi hefna sín með illviðri, enda sannaðist það á Sveini, þegar hann freistaðist að ganga á tindinn. Loks segir að bílvegur hafi verið lagður upp á heiðina 1980 og síðan lengdur inn að Laugarfelli, en þangað er ferðinni heitið – og þó lengra.

 

Það er lítið um náttúrulýsingar í Íslendinga sögum og setningin Fögur er hlíðin einsdæmi í þessum bókmenntum. En fegurðarskyn fornmanna lýsir sér með áhrifamiklum hætti í mörgum örnefnum. Sá sem gaf Fagradal nafn á sínum tíma hefur haft svipaða tilfinningu fyrir umhverfinu og við sem nú lifum. Hann hefur áreiðanlega farið um þetta svæði á sólbjörtum sumardegi og kunnað að meta þá veizlu augans sem við blasti. Á vetrin er heiðin oft illfær.

 

3. september, föstudagur

Yndislegt veður, bjart og hlýtt. Friðsæll himinn og skip heiðríkjunnar liggja fyrir akkeri yfir húsi skáldsins að Skriðuklaustri. Hrafnkell Jónsson, sem er einn af helztu talsmönnum náttúruverndarsinna hér eystra, útvegaði okkur tvo leiðsögumenn í ferðina, þá Þórhall Þorsteinsson, hjá RARIK, sem er varamaður í náttúruverndarráði og mikill öræfagarpur og eindreginn andstæðingur virkjanaframkvæmda við Eyjabakka og Kárahnjúka og Aðalstein Aðalsteinsson frá Vaðbrekku, sem sér um hreindýraveiðar á hálendinu; hvor um sig eins og alfræðiorðabók um öræfin og sögu þessa einstæða og undurfagra héraðs. Ferðin var í alla staði hin ánægjulegasta og raunar ógleymanleg. Allt sem við sáum var nýtt af nálinni og okkur áður ókunnugt. Aðalsteinn er mikill virkjanamaður og því var mjög lærdómsríkt fyrir mig að heyra samtal þeirra félaga og öndverðar skoðanir. Morgunblaðið þarf að gæta sín því mikið er í húfi, en ég tel eftir ferðina að það hafi verið rétt stefna hjá okkur að óska eftir því að Eyjabakkavirkjun færi í umhverfismat, þótt báðir leiðsögumenn okkar séu þeirrar skoðunar að það taki a.m.k. tvö ár. Reynt yrði að drepa málinu á dreif og seinka því eins og hægt væri. Auk þess sem þeir sögðu okkur frá kennilautum, örnefnum og umhverfi þarna á öræfaslóðum fengum við margar skemmtilegar og fróðlegar sögur af lífi fólksins á þessum slóðum, og hafði ég gaman af því. Aðalsteinn gat tengt umhverfið Hrafnkötlu hvar sem við vorum á ferð, hvort sem við ókum framhjá Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal eða Aðalbóli eða Eyvindarfjalli þar sem Hrafnkell drap Eyvind, bróður Sáms. Var þessi fróðleikur bæði endurnærandi reynsla og ný upplifun.

Fyrst komum við að Skriðuklaustri þar sem nýr forstöðumaður tók á móti okkur, ásamt Sigurði Blöndal, skógræktarstjóra, en þangað höfðum við aldrei komið áður. Nýi forstöðumaðurinn er kornungur, Skúli Björn Gunnarsson, og hyggst hann breyta þessu gamla höfuðbóli Gunnars skálds Gunnarssonar í fræðastofnun og skáldamiðstöð. Skúli Björn hefur gefið út smásagnasafn, Lífsklukkan tifar, sem hlaut ágætar viðtökur. Hann er viðfelldinn ungur maður og ástæða til að ætla að setrið rísi úr öskustónni á hans tíð. Sigurður Blöndal var náskyldur Gunnari skáldi í móðurætt og sagði okkur ýmislegt af því þegar hann fór að Skriðuklaustri með móður sinni í tveggja sólarhringa heimsókn til frændfólksins. Mig minnir að það séu um 30 herbergi í þessu höfðingjasetri og sýndi Sigurður okkur skrifstofu skáldsins, svefnherbergi þeirra hjóna, gestaherbergi og annað sem heyrir þessu þýzka hugviti til. Það voru ekki tök á að hlaða bæinn úr steini eins og arkitektinn ætlaðist til, en þá brá Guðmundur Þorbjörnsson, múrari frá Seyðisfirði, faðir Þorbjörns Guðmundssonar, fyrrum ritstjórnarfulltrúa Morgunblaðsins, á það ráð að steypa steinana utan á veggina og tókst það með ágætum. Steinarnir voru fyrst þvegnir úr saltsýru svo að enginn gróður   gæti festst við þá.

Skriðuklaustur er fornt stórbýli. Þar var klaustur frá 1493 til siðaskipta, en kirkja til 1792. Þar sat Hans sýslumaður Wium, frægur af Sunnevu-máli. Þar er sagt að hann liggi, en þar mun einnig vera leiði Jóns hraks sem Stephan G. Stephansson orti um. Gunnar Gunnarsson settist að á Skriðuklaustri 1939 og reisti þetta stórhýsi, en gaf það síðan ríkinu ásamt jörðinni og var þar rekin tilraunastöð sauðfjárræktar og jarðræktar, en nú hefur hún verið lögð niður. Á Skriðuklaustri er lista- og fræðimannnsíbúð á vegum Gunnarsstofnunar, en formaður hennar er Helgi Gíslason á Helgafelli, ættaður frá Skógargerði. Hann talaði við mig og bauð okkur að koma við. Það var fyrir orð Hrafnkels Jónssonar. Það var kominn tími til að ég kæmi að Skriðuklaustri og sæi þetta ótrúlega höfðingjasetur Gunnars vinar míns, en ég kom oft á heimili þeirra Franziscu í Reykjavík, skrifaði um Gunnar og varði hann fyrir kommúnistum á sínum tíma. Milli okkar var þannig hlýleg vinátta, enda mat ég hann mikils og skáldskap hans. Ég þekkti allar hliðar á Gunnari, sumar hvassar eins og útsynningur, aðrar hlýjar, manneskjulegar og viðfelldnar. Milli Jóhannesar, afa míns, og afa á Knerri ríkti vinátta og studdi þessi afi Gunnars Jóhannes í þingkosningum í Múlasýslu á sínum tíma.

Ég hafði einnig gaman af að sjá Arnheiðarstaði handan Lagarins þegar við ókum vestur með Leginum sunnanverðum, en þar var móðir mín í sveit, þegar hún var lítil telpa á Seyðisfirði. Þar bjó hún í herbergi með tveimur systrum sem báðar smituðust af berklum, en sjálf slapp hún við þennan mesta ógnvald þeirra tíma.

Ógleymanlegt var einnig að sjá Hengifoss, einn af hæstu fossum landsins, 118 metra; gilið einstaklega fagurt og fjölbreytilegt. Við komum ekki að Valþjófsstað, en horfðum þangað heim. Valþjófsstaðar-hurðin er hvort eð er ekki þar á staðnum, hún er varðveitt í Þjóðminjasafninu, en eftirlíking á Valþjófsstað. Frá Valþjófsstað voru þeir bræður Þorvarður Þórarinsson, sem Barði Guðmundson segir að hafi skrifað Njálu, og Oddur Þórarinsson, bróðir hans, sem Sturla Þórðarson lýsir í Íslendinga sögu sinni, en sú lýsing er að hluta til fyrirmynd að Gunnari á Hlíðarenda, enda var Oddur talinn manna vígfimastur á Sturlungaöld, veginn í Geldingaholti 1255. Þorvaldur Þórarinsson drap aftur á móti Þorgils skarða að Hrafnagili, sællar minningar. Af því hlaut hann lítinn sóma.

Sigurður Blöndal lýsti Gunnari eins og ég hafði upplifað hann, bæði sem hlýlegum manni og heldur hvassyrtum, ef því var að skipta. Eitt sinn var karl þar á hlaðinu og keyrði á smiðju sem stóð þar og varð Gunnar þá hinn versti, skammaði karlinn óbótaskömmum, en varð kjaftstopp, þegar karlinn svaraði: Þetta er svo sem ekkert, en þú hefðir átt að sjá þegar ég keyrði á Súðina!

Sigurður sagði að oftast hafi verið borðað niðri í matsalnum, en þegar gesti bar að garði var maturinn borinn upp í stofu. Gunnar borðaði ævinlega með vinnufólki sínu og sat þá fyrir enda borðsins. Þeir Skúli Björn töldu að hann hefði ekki skrifað mikið þau níu ár sem þau hjón dvöldust á Skriðuklaustri, þó hafi hann að öllum líkindum lokið þar við Heiðaharm og skrifað þar einnig Sálumessu, auk Árbókanna. Aðalsteinn Aðalsteinsson sagði að Gunnar hafi haft mikla ánægju af að heimsækja Pál Vigfússon, bónda á Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Þá fór hann þangað ríðandi, en það mun vera um þriggja tíma ferð. Þá sátu þeir Páll á tali fram á nætur og spiluðu lomber. Gunnar var mikill lomber-spilari. Þeir Páll voru miklir og góðir vinir. Stundum reið Páll með honum á milli bæja.

Þegar Páll Vigfússon hvarf frá Aðalbóli og fluttist burtu, tók nýr ábúandi við jörðinni, Páll Gíslason frá Skógargerði. Þegar við ókum niður Hrafnkelsdal og Aðalból blasti við, sagði Aðalsteinn okkur frá því, hvernig Páll Gíslason skýrði Aðalsteini föður sínum, bónda á Vaðbrekku þar í næsta nágrenni, frá láti Gísla föður síns, en hann varð bráðkvaddur. Hann hringdi í Aðalstein og sagði, Nú er Gísli hættur búskap. Nú, sagði Aðalsteinn undrandi, Og hvað ætlar hann að fara að gera? Það verður ráðið annars staðar, sagði Páll og kvaddi.

Aðalsteinn var með Páli Gíslasyni þegar hann var í Brúarkláf, og vírin slitnaði og Páll lenti í Jökulsá á Brú. Páll féll í beljandi jökulleðjuna fyrir neðan, en þótt mikið væri í ánni tókst honum að synda að sléttri klöpp sem skagaði út í strauminn þar fyrir neðan, vó sig upp og tókst af sjálfsdáðum að komast úr gilinu. Hann gekk að kláfnum og sagði einungis við samfylgdarmenn sína, Það var gott að ég var í kláfnum, en ekki þið. Aðalsteinn segir líka að þeir aðrir sem þar voru staddir hefðu ekki komizt upp úr ánni, en Páll hefur augsýnilega verið heljarmenni. Aðalsteinn segir að hann hafi gengið þegjandi og rennblautur að kláfnum og þeir splæstu vírendana saman.

Páll var flugsyntur og hafði auk þess úthugsað mjög rækilega hvernig hann mundi bregðast við, ef hann lenti í ánni. Það var ein af ástæðunum fyrir þessari ótrúlegu björgun, eða öllu heldur þessu yfirgengilega afreki.

Aðalsteinn sagði okkur að þeir Páll hefðu farið í eftirleitir í byrjun desember, þegar hann var ungur maður, og gengu þeir upp að Vatnsjökli í veiku tunglsljósi og miklum frosthörkum. Þeir gengu svo aftur til baka þessa sömu nótt. Þú kallar þetta öræfi, sagði hann við mig, En þetta eru engin öræfi lengur. Ég þekkti öræfin meðan þau voru og hétu.

Páll var sonur Gísla í Skógargerði, en fluttist  að Aðalbóli, en Aðalsteinn var sonur Aðalsteins á Vaðbrekku, bróður Jóns Hnefils og þeirra systkina. Ég held hann þekki hverja einustu þúfu á þessari leið.

Við fórum einnig að Kárahnjúkum þar sem eru gljúfrin miklu í Jökulsá á Brú, ógnleg og ægifögur. Þar er varla hægt að sjá til fljótsins af brúninni því að gljúfrin eru 180 metrar og ekki fyrir lofthræddan mann eins og mig. Við héldum upp með ánni og Þórhallur sýndi okkur svæðið þar sem ráðgert væri að reisa Kárahnjúka-stífluna, en mér skilst hún eigi að verða um 250 metrar á hæð. Á þeim slóðum hefjast gljúfrin en ef stíflan verður reist, verður lítið vatn í gljúfrunum og þá einungis bergvatn. Þú ert laxveiðimaður, sagði Aðalsteinn. Ég jánkaði því. Þegar hér rennur einungis bergvatn í gljúfrunum, bætti hann við, verður áin bezta laxveiðiá landsins. Jæja, sagði ég.

En Þórhallur sagði ekkert.

Frá efsta Kárahnjúk blasir Brúarjökull við og Kverkfjöll og augljóst sagði Þórhallur að þar væri mikið hvassviðri, hann sæi það á skýstrókunum. Kárahnjúkar draga líklega nafn sitt af því að þar verður rokhvasst í vondum veðrum og þannig er þetta örnefni eitt af snilldarverkum þeirra örnefnasmiða sem fóru um landið fyrstir manna. Á þessum slóðum er mikil og nakin fegurð. Þarna er varla stingandi strá, en umhverfið minnir mest á Hólssand við Dettifoss þar sem eru gljáandi steinar og svartur sandur í allar áttir. Á leiðinni í Jökuldal stanzaði Aðalsteinn við mikið moldarbarð sem stóð eins og hreindýrstönn upp úr umhverfinu. Ég segi hreindýrstönn vegna þess að af tönnum hreindýra er hægt að ráða aldur þeirra. Aðalsteinn las jarðsögu Íslands út úr þessu mikla barði, þar blöstu við gosöskulögin, bæði frá Kverkfjöllum, Vaðöldu og Öskju, svo að eitthvað sé nefnt. Þetta er mikil bók og fróðleg.

Á leiðinni niður í Jökuldal sögðu þeir félagar okkar frá því að mikið væri þar um fálka. Þórhallur sagði að tilhugalíf fálkans væri sérstætt. Kerlinginn settist í hreiðurstæði og þá reyndi á hvort karlinn gæti séð fyrir henni með matföng. Ef hann gæti það ekki, yrpi hún ekki og hreiðurgerðin færi forgörðum. Þannig sæi náttúran um að fálkinn sóaði ekki eggjum sínum til einskis. Þegar  fálkinn væri orpinn kæmi einungis einn ungi úr eggi í einu. Það væri ráð náttúrunnar til að tryggja að einhver unganna kæmist upp því að unnt væri að sjá einum unga farborða, þótt það væri ekki endilega hægt, ef þeir væru fleiri í hreiðrinu. Allt er þetta með eindæmum eins og annað úthugsað í orðlausri þögn sköpunarverksins. En þó engu líkara en efnið hugsi.

Aðaltilgangur ferðarinnar var þó sá að koma að Snæfelli og berja Eyjabakka augum. Það var dálítill vindur þegar við komum að Eyjabakka en Snæfell var að mestu skýlaust, þótt það væri með dálitla hettu. Herðubreið fylgdi okkur í vestri, dökkblá, þögul og tignarleg, eins og drottningu sæmir. Við sáum hreindýrahjörð í graslendinu niður við bakka Jökulsár á Fljótsdal, en þar fyrir sunnan blasti Eyjabakkajökull við, hvítur undir skýjaslæðunni. Þórhallur sagði að hann væri farinn að skýja sig upp og hafði ég aldrei heyrt það, hvorki fyrr né síðar. En sem sagt, þarna blasti við hið umdeilda landssvæði sem hverfur undir vatn,  ef virkjað yrði á þessum slóðum. Eyjabakkar eru ólíkir Þjórsárverum að því leyti að þar fellir geldfuglinn fjaðrirnar, en verpir helzt ekki. Ég veit ekki hvort gæsirnar mundu flytja sig um set, ef bakkarnir hyrfu undir vatn og virkjað yrði, það má vera. Náttúruverndarmenn vilja þó ekki taka áhættuna og fullyrða að landið muni skila meiri arði óvirkjað en virkjað, því að þarna gæti friðaður þjóðgarður orðið einhverskonar gróttarkvörn vegna þeirra þúsunda ferðamanna sem þangað muni sækja í framtíðinni. Um þetta get ég ekkert sagt og raunar var þessi ferð okkar Hönnu inná öræfin ekki gerð í því skyni að taka af skarið og skipa sér í sveit náttúruverndarmanna eða virkjanamanna. Þar sem ég stóð þarna á öræfunum fann ég fyrir því sem oft hefur ónáðað mig, en kannski stundum verið leiðbeinandi þáttur í lífi mínu; ég fann að skáldið og ritstjórinn voru ekki alveg á eitt sáttir. Skáldið vill ekkert jarðrask í náttúrunni, en ritstjórinn vill atvinnuuppbyggingu á Héraði og fjörðunum og telur það skyldu sína að styrkja afkomumöguleika fólksins í fjórðungnum. Þarna hófst því hin mesta togstreita með sjálfum mér, en Snæfell, risinn mikli, horfði óhagganlegur yfir þessar fuglahræður sem þarna voru á ferð og haggaðist ekki. Fyrst þessi átök voru innra með sjálfum mér, hvers vegna skyldu þau þá ekki einnig fara eins og hrollkaldur efi um allt samfélagið og leiða til deilna og öndverðra sjónarmiða? Sá sem stjórnar Morgunblaðinu verður að reyna að setja sig inn í hugsunarhátt fólksins í landinu, skilja það; skilja jafnvel það sem er óskiljanlegt. Draumarnir eru svo margvíslegir. Það eru til fleiri draumar en þeir sem eru bundnir við náttúru og skáldskap.

 

3. september, Egilsstöðum

1.

Við horfðum yfir flúðirnar framundan og Þórhallur sagðist oft hafa ekið yfir fljótið á vaðinu fyrir ofan á sínum sérhannaða fjallabíl, hann hefur jafnvel ekið til Kverkfjalla um hávetur og þá farið eftir brúnum Eyjabakkajökuls og Brúarjökuls, ofan við sprungur og aðrar torfærur. Það er skotfæri, segir hann, og augu hans drekka í sig himin og sporðgráan jökul framundan, en ég kleif skriðubrattar hlíðar Snæfells með undrandi augum gestsins og var nú kominn að sköflunum rétt undir hettunni sem bar sunnanáttinni órækt vitni.

Ég hef gengið sjö sinnum á Snæfell, segir Aðalsteinn á Vaðbrekku, eftirlitsmaður með hreindýrum, og hvessir augun á allstóra hjörð á holtgrænum bökkum fljótsins þar sem dýrin eru á beit undir hvelfdum himni jökulsins, en líta nú upp því þau hafa fundið lyktina af óvelkomnum aðkomumönnum, eða hafði samtal okkar borizt inn í ofurnæm eyru þeirra sem hlusta á þögnina eins og holt hlustar á heiðar?

Ég hef ekki verið nema þetta þrjá tíma á toppinn, bætir Aðalsteinn við um leið og risinn tekur af sér höttinn og heilsar okkur í heiðríkjunni.

Við kinkum til hans kolli og kveðjum, höldum yfir skarðið um Nálhúshnúka og að Jökulsá á Brú sem er engin hölkná, engin grjótá, heldur grjótlaust straumkast sem ryður morinu á undan sér til hafs, sléttbotnað fljót og grjótlaust og kastið með þeim ósköpum að kolmórauð áin skilur ekki eftir sig einn einasta foss á langri leið að ósi.

Fosslaust rennur fljótið inní dulmagnaða veröld hreindýranna.

 

2.

Og það hvessir við Kárahnúka eins og lög gera ráð fyrir, þar ræður vindur konungur ferðinni og fer drottningu sína í vestri, Herðubreið, svalköldum höndum þar sem hún reisir sig úr ósýnilegu undirlendi, öræfablá eins og óræður draumur. En í auðninni yfirgefinn fjallabíll veiðimanna í sporlausum sandi og vængjalausri auðn heiðagæsanna.

 

3.

Hittum hreindýraveiðimennina í Jökuldal þar sem fólkið býr í árgili og höfðu skotið tvö dýr hver, Við megum vera stoltir, sögðu þeir og bentu á hornskóginn sem lá á hlaðinu, hausarnir enn fastir á greinunum og horfðu undrandi á okkur með opinn munn og hálflokuð augu.

Við erum að koma ofan af hálendinu, sagði Aðalsteinn.

Af hverju ferðu aldrei með okkur? spurðu veiðimennirnir.

Hann svaraði um leið og hann horfði til heiða, Ég fer aldrei á öræfi nema með höfðingjum.

Það var eins og skógur dauðans yxi úr hlaðinu, nú hafði hann fellt laufið. Það var komið fram í september og heiðagæsin á Eyjabökkum tekin til vængja sinna. Við vorum í sárum, ekki hún, við og spyrjandi hausarnir í skógi dauðans á hlaðinu þar sem jörð fylgir mórauðu vatni að vökulu auga hafsins. Og ég hugsaði um skóginn í vinalegum hlíðunum, hvernig hann vex úr lyngheitri jörð og ilmar af fallandi septemberlaufi. Og einnig skóg dauðans á hlaðinu, ilmlausan skóginn sem óx eins og greinar á tré úr mjúku holdi dýrsins, sem ber jörðinni vitni þegar skógurinn rásar um holt og mýrar og leitar sér skjóls í geldfuglafaðmi Snæfells. Og nú var hann kyrr á hlaðinu og horfði á okkur brostnum, spyrjandi augum, eins og hann vildi segja, Af hverju eru þið ekki með horn?

Og augu mín hvörfluðu til fjalla þar sem fálkinn er önnum kafinn að sjá sér farborða.

Eins og við, skógræktarmennirnir.

 

4.

Við Snæfell

 

Gnæfir

bergnuminn

við auðn og lágan

gróður

 

risinn

 

hvítur fyrir hærum

 

og horfir

yfir gæsabyggðina

 

óttast ekkert

allra sízt

 

fuglahræður.

 

5.

Á leiðinni yfir Möðrudalsöræfi, þar sem moldrokið sveiflast í skýstrókum langt í suðri, er ég að hugsa um mennina sem ganga á Snæfell og sjást ekki á þessum úfna risa, hugsa um mennina sem skríða upp eftir skriðunum eins og lús upp á úfinn koll þessa þögula risa sem segir allt af öræfunum án orðs, án hreyfinga; er að hugsa um smæð mannsins í þessari skriðbláu þögn öræfanna, er að hugsa um fuglahræðuna sem skríður óséð að fálka og dýri, er að hugsa um drottninguna þar sem hún hefur lagt yfir sig gagnsæja moldarslæðu og bíður þess að Kári beri hana á hvítum, ósýnilegum höndum inní heiðríkjuna.

Og líkaböng kallar til messu í Möðrudal.

 

6.

Og nú sit ég og horfi til baka; horfi á heiðina í huga mínum, horfi upp eftir fjallinu sem nú er búið að setja upp sjóhatt í norðanáttinni, horfi yfir fljótið þar sem hreindýrin hlusta á lyktina í vindinum, sé heiðagæsina fyrir mér og brosi að frásögninni í blaðinu sem bíður okkar í forstofunni við lúgugatið: menn urðu þess varir að gæsirnar söfnuðust saman undir glugga á sunnudagsmorgnum og hlýddu á útvarpsmessu, það var einkum kórsöngurinn sem heillaði þær, en þegar presturinn tónaði tók allur skarinn undir; reyndi að gera mér grein fyrir muninum á grágæs og heiðagæs og sá í huga mér léttklæddar fuglahræður, rifjaði upp fyrir mér fellistöðvarnar og skriðmjúkar steinahlíðar Nálhúshnúkanna, sá fyrir mér hvernig tröllkonan tók nál úr húsinu, þræddi og stagaði í votlendissárin þar sem hreindýrin litu upp og horfðu til okkar úr sömu augum og síðar horfðu hálflukt og brostin úr dauðum greinum hjarnskógarins, Hvers vegna eru þið ekki með horn? Og ég velti fyrir mér orðum Nietzsche um hjarðirnar sem eru á beit um landið og minna á græna fingur guðs, gæsahjarðir, hreindýrahjarðir og mjólkurhvít lömb auðnarinnar, hugsaði um öll þessi dýr sem eru hvorki að leita að hamingjunni né góðri framtíð, þessi dýr sem hugsa ekki um gamlar minningar, löngu gleymdar, hugsa ekki um annað en næstu tuggu við fætur þeirra og ég sá skóginn splundrast í smásjársikti veiðimannsins og stóran tarf í blóði sínu, einan og yfirgefinn eins og rauðan skutbíll við veginn.

Hægt hættir jörðin að hreyfa sig. Og kvíslmiklar greinar þögult vitni um deyjandi klið öræfanna.

 

7.

Í sárum

Þegar auðnin safnast í skafla

eins og ellin feti sig nær

komst þú á vindsterkum vængjum

heiðarinnar

 

komst þú

 

ég beið þín við sandfoknar

auðnir sem minna á votlendi

heiðagæsarinnar,

þú kemur eins og hún

leggur mjúka vængi á mýrarnar

við skolgult jökulfljótið

þar sem sporðhvítir jakar falla

í lónið og fjallið rís til himins

eins og risi

 

bíð með landinu

og þú kemur með hvítum

sunnanþey og ég tek

á móti þér tveim höndum,

breytist eins og landið

í endalaus víðerni,

 

ung af vorgrænum fingrum

sumarsins

 

og ég finn vængi þína

við hlýjan barm dýjamosans

þar sem jökulmorið ryðst

í gömlum farvegi og rennur

að ósi dauðans,

 

finn hvernig himinn bíður

við haf

þar sem vatn mætir vatni

og blóð mitt rennur

inní sólarlagið,

 

einn bíð ég við hraun

og sanda, hlusta

með landinu á nýjar fjaðrir vaxa

á vængi þína

 

einn með landinu

 

hlusta á fallandi fjaðrir

þegar sólarlagið deyr

í grimmum vetrargreipum

glitrandi ísa

 

þegar ég bíð einn

eins og geldfugl í sárum.

 

8.

Já, eins og Nietzsche segir, að við skulum hugsa um hjarðirnar sem eru þarna á beit, þær hafa enga hugmynd um það sem var og er, þær bíta og jórtra, hreyfast eða hvílast frá morgni til kvölds, una sér við dálitla ást eða hatur, þekkja hvorki þunglyndi né velsæld… og þrátt fyrir mannlegt stolt horfum við öfundaraugum á hamingju dýrsins. Viljum ekki lifa án vellíðanar eða þjáningar eins og dýrið. Allt til einskis því við mundum aldrei kjósa hlutskipti dýrsins, samt er okkur nauðugur sá einn kostur, að velja. Við gætum litið á dýrið og sagt, Hvernig geturðu horft á mig án þess að tala um hamingjuna? Dýrið langar til að svara, Af því ég gleymi alltaf hvað mig langar að segja. En það gleymir einnig þessu svari. Og maðurinn bíður og undrast. Einnig um sjálfan sig. En hann getur ekki lært að gleyma. Og hangir í því liðna.

Undarlegt þetta andartak sem er og var og er þó ekkert. Samt fellur laufið viðstöðulaust af greinum tímans, feykist burt og kemur aftur og við segjum, Nú man ég – og öfundum dýrið.

Ætli það valdi okkur ekki sársauka að sjá hjarðir á beit. Og ég undraðist þegar ég sá hreindýrin niður við fljótið, hvernig þau hreyfðu jökulinn, hvernig þau litu upp og fluttu skóginn nær jökulfljótinu án þess vita, horfðu í átt til okkar, horfðu til jökuls. Hlustuðu með augunum, hlustuðu á mjúkan andvara af skriðbröttu fjalli sem gnæfði yfir okkur eins og exi.

Já, exi. Dauðinn og þögn hans, segir heimspekingurinn, er hið eina sem er öruggt á þessu andartaki sem var framtíð, nú fortíð. Liðið andartak eins og dauðinn. Undarlegt að við skulum helzt ekki hugsa um það sem er öruggt og bíður allra og þó, lífið bíður einnig – eins og gæsirnar sem við verndum undir drep til að veiðimenn geti skotið þær á hausti.

Já, dauðinn, á þessum stað er svartur sandurinn duft dauðans og duftið fellur í skafla eins og hugsun okkar um tortímingu. Og það fýkur úr sköflunum og stráin hverfa undir ösku. En úr þessari gömlu ösku vex einhvern tíma lítið strá og svo fleiri og enn fleiri og allt verður grænt og vorlegt og allt verður kátlega grænt undan fótspori dauðans og allt hverfur í hvítt fótspor dauðans, þetta hljóða fótatak dauðans.

 

9. september, fimmtudagur

Styrmir talaði lengi við Finn Ingólfsson í dag. Helgi, formaður bankaráðs Landsbankans, var viðstaddur. Finnur sagði að SPRON hefði orðið að selja, því að þeir voru farnir að brjóta lög að dómi bankaeftirlitsins, án þess þó að hafa gert sér grein fyrir því. Þeir seldu því hlut sinn í FBA í einskonar örvæntingu.

Hitt var þó merkilegra að Finnur sagðist vera algerlega sammála okkur í kvótamálum. Ef þeir Geir H. Haarde tækju við flokkunum mundi kvótadeildan leysast með svipuðum hætti og við hefðum lagt til. Mikil umræða væri um kvótann innan framsóknar.

Styrmir segir að Finnur sé afar vel að sér í þeim málum sem undir hann heyra.

 

Ódagsett

Punktar um Jónas

 

Benedikt Gröndal, eldri, (f. 1760, d. 1825) þýddi Musteri mannorðsins eftir Alexander Pope (úr þýsku en ekki enska frummálinu). Það er undir fornyrðislagi, eða hinum einfalda hætti Eddukvæða og tóku mörg skáld það síðar eftir honum. Það endur á:

Ó, gef þú

góðan mér,

eða alls

enga hróður,

 

sem Sigurður Breiðfjörð vitnar í sem tilvitnun fyrir ljóðum sínum.

 

- - -

 

Benedikt Gröndal fékk volksama heimferð því skipið strandaði á heimleið í desember 1791 í norðan kafaldi og frosthörkum. Hann kól bæði á höndum og fótum og bjó við mikla vosbúð.

 

Þarna mætti einnig minna á lýsingar Tómasar Sæmundssonar og Sveinbjörns Egilssonar á sjóferðum þeirra, einnig Magnúsar Stephensens en þær lýsa allar mjög vel þeim ósköpum sem þessar ferðir gátu verið.

 

- - -

 

Í bréfi til Finns Magnússonar talar Jónas um stjörnufræði Úrsins sem stjörnufræðin mín.

 

- - -

Í bréfi til Finns Magnússonar, dagsettu 13. júlí 1842 segir Jónas að sér sé spáð því að hann missi farangur sinn og drepi sig jafnvel í Austurvötnum, eins og hann kemst að orði, en þá var hann á ferðinni með níu hesta og tvo fylgdarmenn (duglega skólapilta og allan útbúnað”). En hann bætir því við að ef hann deyi, - “ég dey þá í köllun minni”.

 

-       - -

 

Sumt í þýðingu Jónasar í stjörnufræði Úrsins er ekkert minna en prósaljóð, t.a.m. kafli á bls. 357-358, 407-408, einnig blaðsíðu 425 og 433. Þarna eru ágæt dæmi, bæði um stíl Jónasar og trú hans (sjá blöð). Finnbogi Guðmundsson nefnir í fyrirlestri áhrif Sveinbjarnar á nemendur hans og vitnar í dægradvöl Benedikts Gröndals, sjá blað. Þar eru einnig dæmi um áhrif á Jónas, Alþingi hið nýja.

 

- - -

 

Matthías Jochumsson þýddi Unnustuna eftir Goethe (sjá blað). Hann notar blástjörnunni í lokavísuorðinu og er það tekið frá Jónasi, 3. erindi:

 

Brosi dagroða

blástjörnur augum

liljur ljósi.

 

Þetta orð er ekki í frumkvæði Goethes.

 

- - -

 

Jónas talar um það í bréfi til Konráðs Gíslasonar að hann sé maðurinn sem gæti komið lagi á náttúrugripasafn á Íslandi. “Gáðu að því að ég m.a. þekki allt Ísland og flesta menn á Íslandi og er vinsæll og er eini maðurinn sem stendur sem gæti komið í lag náttúrusafni heima ef ég fengi tóm og húsrúm.”

 

- - -

 

Í bréfi til Páls Melsteðs yngra, sem dagsett er á Eskifirði 18. október 1842, segir Jónas m.a. að sér hafi aldrei liðið jafnvel “og nú seinustu fjögur árin og verið geti ég lifi enn með guðshjálp nokkur ár,” ” alle vore fjender til skræk og bævelse”.

 

- - -

 

Í bréfi frá því í nóvember 1832 minnist Jónas á að faðir hans hafi látist þegar hann var á áttunda ári og þannig hafi móðir hans verið skilin eftir í sárri fátækt með fjögur börn. Samt hafi hann getað komizt í Bessastaðaskóla, með styrk. En til að geta haldið áfram háskólanámi hafi hann orðið að vinna í skrifstofu í Reykjavík til að safna til ferðarinnar. Hann hafi að vísu ekki nægan farareyri en allt sem hann eigi hafi hann safnað saman sem kontoristi undanfarin þrjú ár.

 

- - -

 

…þá hnykkir manni við þá tilhugsun hve Ísland hlyti að vera einstætt og áhrifamikið, ef augað gæti í einni sjónhendingu litið öll hin þverhníptu og margbreyttu stuðlagrjótsfjöll, stöllótt blágrýtisfjöll svo og hin miklu ljósgrýtisfell… - þessi orð minna á það þegar Jónas talar um yfirbragðsmikið til að sjá í Ísland farsældar frón.

 

- - -

 

Eitt af því fallegasta sem Jónas hafði séð um sína daga, sbr. dagbækur hans frá því í september 1832: “Var þá svo mikið maurildi í sjónum að allt skúmið undir brjóstunum á skipinu, aftur með báðum síðum, logaði eins og eldur. Það er eitthvað það fallegasta sem ég hef séð”.

 

- - -

 

Jónas segir í einkabréfi frá 1844: Heilsaðu öllum og vertu blessaður og sæll, minnir á Heilsaðu einkum…

 

- - -

 

Í bréfi til Brynjólfs Péturssonar, dagsettu að Saurum 28. apríl 1844 segir  Jónas m.a. að hann hafi verið “að bíða eftir andanum en hann hefir ekki viljað koma”. Ennfremur að sér hafi hálfleiðst á balli sem hann var á - og varpar þá fram þeirri spurningu – “Hvað kemur til að vorið getur ekki einu sinni verið rautt, svosem til dálítillar tilbreytingar?”

 

 

- - -

 

Munurinn á ástarljóðum Jónasar og Bjarna Thor sjá Þórleif Hauksson bls. 22. Í …kysstu mig hin mjúka mær “er unaður kossins, þeirrar jarðnesku athafnar, unaður sem er svo alger að skáldið óskar sér ekki að vakna til lífsins framar”. Þórleifur segir þetta þvert ofan í fullyrðingar Einars Hjörleifssonar Kvarans um ástarkvæði Bjarna. (sjá blað).

 

- - -

 

Dæmi um áhrif Jónasar á Tómas Guðmundsson: “Því varla held ég nokkur fugl væri lengi að telja eftir sér tveggja eða þriggja daga ferð til að geta búið í svo fallegu og skemmtilegu landi”. Um fugla.

 

- - -

 

Jónas segir í dagbók sinni frá 23. ágúst 1832. Það var allt þakið í fugli, sbr. ferðakvæði.

 

- - -

 

Hjá Huldu minni, segir Jónas í Hulduljóðum.

 

 

Í einkabréfi frá 1839 segir Jónas: Hefurðu séð menn sem ganga allir saman hoknir af monti? Þeir eru til hér fyrir norðan; og mjóhljóðaða menn af monti? Þeir eru hér líka innanum.

 

- - -

 

Jónas segir í bréfi til Jóns Sigurðssonar, dagsettu að Saurum 5. október 1843. Fréttist annaras nokkuð að heiman og ætli Íslendingar séu dauðir eða lifandi?

 

- - -

 

Jónas segir í bréfi til Konráðs Gíslasonar frá 6. mars 1841 að Hulduljóð, “það verður fallegt kvæði”.

 

- - -

 

Í bréfi til Jóns Sigurðssonar sem dagsett er  að Saurum 1844 segir Jónas: Er það ekki eins og ég segi, að hvað gamlir sem kóngarnir verða, þá deyja þeir nærri ævinlega seinast”.

 

- - -

 

Eggert Ólafsson segir í formálanum fyrir ljóðum sínum að menn eigi að yrkja “myrt og snillilega”. Jónas tók hann á orðinu hvað hið síðarnefnda atriði varðar en ekki hið fyrra, en atómskáldin hafa fremur hallast að því, einkum í upphafi formbyltinar.

 

- - -

 

Þýðing á ljóði eftir þýzka skáldið og náttúrufræðinginn Albert von Chamisso (1781-1838), af franskri aðalsætt en eitt helzta skáld Þjóðverja á fyrri hluta nítjándu aldar. Jónas orti kvæðið eða þýddi, líklega í marz 1844. Kvæðið hefur augljóslega haft áhrif á eitt þekktasta ástarkvæðið Hannesar Péturssonar Hjá fljótinu, sem birtist í Kvæðabók 1955, að mig minnir: Veiztu hvað gleðin tefur tæpa stund, en treginn lengi. En Jónas segir: Rétt sem örskot tæpur telst, tíminn mér við kossa þína.

Á það má minna að í formála Fjölnis er talað um tímann með sérstökum hætti, sjá hann.

 

- - -

 

Jónas Hallgrímsson skrifar til Tómasar, staddur í Reykjavík í mars 1829, hefur reynt að fá lán hjá Jóni á Böggvinstöðum en fékk ekki. Skemmtileg lýsing á þeirri neitun. Sjá meðfylgjandi blað, bls. 6-7.

 

- - -

 

Fjölnismenn segja: Ég atla, við atlum.

 

- - -

 

Jónas notar orðið farsæld í minningarorðunum um Tómas, sbr. farsælda Frón.

 

- - -

 

Gísli Thorarensen skrifar um Ljóðasmámuni Sigurðar Breiðfjörðs og Emilíu raunir, útgefin í Viðeyjarklaustri 1839 og fer þá eftir formúlu Jónasar í ritdómi hans, vegur sem sagt í knérum: Bögumáli, dönskuslettur, hortittur og vitleysur, smekkleysur og klaufaleg orðatiltæki. (Segir jafnvel að Sigurður líki sér við Eyvind skáldspilli.)

 

- - -

 

Fjölnismenn tala vel um Magnús Stephensen og fara sem vægast í að dæma ljóðlist hans af virðingu við hann, “slíkur maður sem hann var um flesta hluti”. (Fjölnir)

 

- - -

 

Eggert Ólafsson lagði höfuðáherzlu á frjálsa verzlun á Íslandi.

 

- - -

 

Eggert Ólafsson talar um eyrar-rósir í Íslandi, 9. kap. 57. erindi, bls. 21, hann talar um manndáð, bls. 20 í sama kvæði, sbr. manndáðin bezt hjá Jónasi, hann talar um í skýringum sínum að Íslendingar vilji ekkert nýtt, bls. 23, 73. erindi.

 

- - -

 

Upplýsing, eða skynsemisstefna  Tómasar og Jónasar birtist m.a. í áherzlum á raunvísindi hér á landi.

 

- - -

 

Varla er það tilviljun að Jónas birtir fyrst Ísland í Fjölni en fremsta kvæðið í ljóðabók Eggerts var einnig Ísland.

 

- - -

 

Í 59. erindi Búnaðarbálks er fjallað um doðann, deyfðina, sbr. Fjölni.

 

- - -

 

Í Náttúrulist Eggerts er talað um gjafarann í 8. erindi en fjölnismenn tala um doðann í formála Fjölnis og Jónas notar gjafarinn í Heiðlóukvæði sínu. Eggert notar orðið farsæld í 16. erindi í Náttúrulist.

 

- - -

 

Eggert talar um eyrar-rósir og Jónas talar um rósirnar í einu fegursta erindi sínu í Saknaðarljóði, Fjölni 3. árg. 1837: Þegar röðull á rósir skein (um Skafta).

 

- - -

 

Spádómur Mána í Mána-málum, bls. 82: Hyggja mun á holti… Framtíðarspá.

 

- - -

 

Antilópa verður geithjörtur hjá Jónasi. Hýenur verða galtarbræður.

 

- - -

 

Fjallkonan er fyrst nefnd í Ofsjónum 107 bls.

 

- - -

 

Eggert talar einkum um frjálsa verzlun og siglingar í skýringum við 40. erindi Íslandskvæðis síns, 18. bls.

 

- - -

 

Jónas er mikið á móti dönskum kaupmönnum og hann segir í minningarorðum sínum um Tómas að hann hafi kynnzt kaupmönnum í Reykjavík og einokun þeirra og þurft að taka skip frá Akureyri til að komast til Danmörku.

 

- - -

 

Eggert Ólafsson leggur höfuðáherzlu á frjálsa verslun á Íslandi, 6. kafla, 40. erindi, bls. 17. Einnig í skýringum við 44. erindið og 76. erindi, bls. 24.

 

- - -

 

Í tengslum við kaflann um Kierkegaard og Jónas má benda á að í Ligevægten talar Kierkegaard um að náttúran sé sköpuð af Engu og þá einnig hann sjálfur og skírskotar með þessum hugleiðingum í Mose bók en þetta minnir á Feuerbach og ljóð hans sem Jónas þýddi. Reynt hefur verið að halda því fram að þessi þýðing Jónasar á Feurerbach sýni að hann hafi verið efasemdarmaður um það leyti en skírskotunin í Mose bók tekur af allan vafa. Jónas getur alveg eins haft orð Mose bókar í huga eins og þann skilning sem Feuerbach lagði í tómið. Guð skapaði allt af engu. Hann breytti tómi í líf. Jónas hefur þannig Mose bók við að styðjast þegar hann þýðir þetta ljóð hins guðlausa skálds.

 

 

18. september, laugardagur

Dagbókarslitur um Kárahnjúkaferð birtust í Lesbók Morgunblaðsins í dag. (Síðar birt í Hellgispjallsbókinni,Við Kárahnjúka og önnur kennileiti;þar er einnig syrpa af ljoðum, nýjum og gömlum , t.a.m. Skálholtsljóðið og Sólhjartarljóðið ,Úr fréttatengdu umhverfi o.fl. Og mikið efni um Jónas)

 

 

Úr Lesbók

 

 

Meltorfan

er opin bók

og fróðleg...

 

Dagbókarslitur

af heiðum og hálendi…

 

Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur hér á Egilsstöðum, sendi mér dálitla lesningu í sumar og nú hef ég verið að glugga í ritling sem heitir Fljótsdals grund. Það er hnýsileg lesning áður en við förum uppá hálendið. Þar eru margvíslegar upplýsingar um landið hér í kring og sögu þess, t.a.m. þetta um hið umdeilda svæði, Eyjabakka: “Eyjar eða Þóriseyjar er flæðislétta mikil suðaustan við Snæfell, í um 650 m hæð yfir sjó, þar sem Jökulsá hefur fyllt upp gamlan vatnsbotn og myndað fjölmarga hólma eða eyjar, sem margar eru algrónar og vaxnar stargresi, og sumar alsettar tjörnum. Beggja vegna eru svo fagurlega gróin nes, Eyjabakkar að austanverðu en Þjófagilsflói og Snæfellsnes að vestanverðu. Hvergi annarsstaðar ganga mikil graslendi alveg upp að Vatnajökli, nema hér“, segir Þorv. Thoroddsen.

Nú er öll þessi slétta kölluð Eyjabakkasvæði eða bara Eyjabakkar. Þar er mikið fuglaland, heiðagæsir svo þúsundum skiptir seinni part sumars.

Eyjabakkasvæðið er á margan hátt sambærilegt við Þjórsárver við Hofsjökul, og eru bæði talin með merkustu hálendisvinjum Íslands. Sá er þó munurinn að Þjórsárver hafa verið friðlýst um aldur og ævi en Eyjabakkar dæmdir til að kaffærast í jökullóni Fljótsdalsvirkjunar.”

Síðan segir að Snæfell sé hæsta fjall utan meginjökla, 1833 m yfir sjó; dæmigert eldfjall eða eldkeila sem minnir á nafna sinn á Snæfellsnesi, en ekki er vitað til að það hafi gosið á sögulegum tíma. Samt má víst finna hraunklepra á austurhorni tindsins sem eru svo að segja óveðraðir. Þar segir enn að Snæfell sé heilagt fjall í hugum flestra sem til þekkja og hafi Fljótsdælir varað Svein Pálsson 1794 við að ganga á fjallið, töldu að það mundi hefna sín með illviðri, enda sannaðist það á Sveini, þegar hann freistaðist að ganga á tindinn. Loks segir að bílvegur hafi verið lagður upp á heiðina 1980 og síðan lengdur inn að Laugarfelli, en þangað er ferðinni heitið – og þó lengra.

 

Það er lítið um náttúrulýsingar í Íslendinga sögum og setningin fögur er hlíðin einsdæmi í þessum bókmenntum. En fegurðarskyn fornmanna lýsir sér með áhrifamiklum hætti í mörgum örnefnum. Sá sem gaf Fagradal nafn á sínum tíma hefur haft svipaða tilfinningu fyrir umhverfinu og við sem nú lifum. Hann hefur áreiðanlega farið um þetta svæði á sólbjörtum sumardegi og kunnað að meta þá veizlu augans sem við blasti. Á vetrin er heiðin oft illfær.

 

3. september, föstudagur, Egilsstöðum

Heiðríkt veður og heldur spakt, bjart og hlýtt; enginn ógangur í veðrinu. Friðsæll himinn og skip heiðríkjunnar liggja fyrir akkeri yfir húsi skáldsins að Skriðuklaustri. Hrafnkell Jónsson, sem er einn af helztu talsmönnum náttúruverndarsinna hér eystra, útvegaði okkur tvo leiðsögumenn í ferðina, þá Þórhall Þorsteinsson, hjá RARIK, sem er varamaður í náttúruverndarráði og mikill öræfagarpur og eindreginn andstæðingur virkjanaframkvæmda við Eyjabakka og Kárahnjúka, og Aðalstein Aðalsteinsson frá Vaðbrekku, sem sér um hreindýraveiðar á hálendinu; hvor um sig eins og alfræðibók um öræfin og sögu þessa einstæða og undurfagra héraðs. Ferðin var í alla staði hin ánægjulegasta og raunar ógleymanleg. Allt sem við sáum var nýtt af nálinni og okkur áður ókunnugt. Aðalsteinn er mikill virkjanamaður og því var mjög lærdómsríkt fyrir mig að heyra samtal þeirra félaga og öndverðar skoðanir. Morgunblaðið þarf að gæta sín því mikið er í húfi, en ég tel eftir ferðina að það hafi verið rétt stefna hjá okkur að óska eftir því að Eyjabakkavirkjun færi í umhverfismat, þótt báðir leiðsögumenn okkar séu þeirrar skoðunar að það taki a.m.k. tvö ár. Reynt yrði að drepa málinu á dreif og seinka því eins og hægt væri. Auk þess sem þeir sögðu okkur frá kennileitum, örnefnum og umhverfi þarna á öræfaslóðum fengum við margar skemmtilegar og fróðlegar sögur af lífi fólksins á þessum slóðum, og hafði ég gaman af því. Aðalsteinn gat tengt umhverfið Hrafnkötlu hvar sem við vorum á ferð, hvort sem við ókum framhjá Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal eða Aðalbóli eða Eyvindarfjalli þar sem Hrafnkell drap Eyvind, bróður Sáms. Var þessi fróðleikur bæði endurnærandi reynsla og ný upplifun. En sagan sýnir að allir vilja vera efstir á strái í sinni sveit.

Fyrst komum við að Skriðuklaustri þar sem nýr forstöðumaður tók á móti okkur, ásamt Sigurði Blöndal, skógræktarstjóra, en þangað höfðum við aldrei komið áður. Nýi forstöðumaðurinn er kornungur, Skúli Björn Gunnarsson, og hyggst hann breyta þessu gamla höfuðbóli Gunnars skálds Gunnarssonar í fræðastofnun og skáldamiðstöð. Skúli Björn hefur gefið út smásagnasafn, Lífsklukkan tifar, sem hlaut ágætar viðtökur. Hann er viðfelldinn ungur maður og ástæða til að ætla að setrið rísi úr öskustónni á hans tíð. Um það á að ríkja friður eins og Hrafnseyri. Sigurður Blöndal var náskyldur Gunnari skáldi í móðurætt og sagði okkur ýmislegt af því þegar hann fór að Klaustri með móður sinni í tveggja sólarhringa síðsumarsheimsóknir til frændfólksins. Mig minnir það séu um 30 herbergi í þessu höfðingjasetri og sýndi Sigurður okkur skrifstofu skáldsins, svefnherbergi þeirra hjóna, gestaherbergi og annað sem heyrir þessu þýzka hugviti til. Það voru ekki tök á að hlaða bæinn úr steini eins og arkitektinn ætlaðist til, en þá brá Guðmundur Þorbjörnsson, völundur frá Seyðisfirði, faðir Þorbjörns Guðmundssonar, fyrrum ritstjórnarfulltrúa Morgunblaðsins, á það ráð að steypa steinana utan á veggina og tókst það með ágætum. Steinarnir voru fyrst þvegnir úr saltsýru svo að enginn gróður gæti festst við þá og prýða nú alla útveggi, óveðraðir. Vigfús í Geitagerði sá um grunngröft, um hann skrifaði ég í Ferðarispum. Hann var skemmtilegur karl og sérstæður.

Skriðuklaustur er fornt stórbýli. Þar var klaustur frá 1493 til siðaskipta, en kirkja til 1792. Þar sat Hans sýslumaður Wium, frægur af Sunnevu-máli. Þar er sagt að hann liggi, en þar mun einnig vera leiði Jóns hraks sem Stephan G. Stephansson orti um. Gunnar Gunnarsson settist að á Skriðuklaustri 1939 og reisti þetta stórhýsi, sem þýzkur arkitekt teiknaði, Höger að nafni, en gaf það síðan ríkinu ásamt jörðinni og var þar rekin tilraunastöð sauðfjárræktar og jarðræktar, en nú hefur hún verið lögð niður. Á Skriðuklaustri er lista- og fræðimannnsíbúð á vegum Gunnarsstofnunar, en formaður hennar er Helgi Gíslason á Helgafelli, ættaður frá Skógargerði. Hann talaði við mig og bauð okkur að koma við. Það var fyrir orð Hrafnkels Jónssonar. Það var kominn tími til að ég kæmi að Skriðuklaustri og sæi þetta ótrúlega höfðingjasetur, en ég kom oft á heimili þeirra Gunnars og Franziscu í Reykjavík, skrifaði um Gunnar og varði hann fyrir kommúnistum á sínum tíma. Milli okkar var þannig hlýleg vinátta, enda met ég hann mikils og skáldskap hans. Gunnar yngri var einnig á Klaustri með foreldrum sínum, góðlegur maður og listhagur.

Ég þekkti allar hliðar á Gunnari skáldi, sumar hvassar eins og útsynningur, aðrar hlýjar, manneskjulegar og viðfelldnar. Með Jóhannesi, afa mínum, og afa á Knerri ríkti mikil vinátta og studdi þessi afi Gunnars Jóhannes í þingkosningum í Múlasýslu á sínum tíma.

Ég hafði einnig gaman af að sjá Arnheiðarstaði handan Lagarins þegar við ókum vestur með Leginum sunnanverðum, en þar var móðir mín í sveit, þegar hún var lítil telpa á Seyðisfirði. Þar bjó hún í herbergi með tveimur systrum sem báðar smituðust af berklum, en sjálf slapp hún við þennan mesta ógnvald þeirra tíma.

Ógleymanlegt var einnig að sjá Hengifoss, einn af hæstu fossum landsins, 118 metrar; gilið einstaklega fagurt og fjölbreytilegt. Við komum ekki að Valþjófsstað, þar sem Gunnar var fæddur, en horfðum þangað heim. Valþjófsstaðar-hurðin er hvort eð er ekki þar á staðnum, hún er varðveitt í Þjóðminjasafninu, en eftirlíking á Valþjófsstað. Þaðan voru þeir bræður Þorvarður Þórarinsson, sem Barði Guðmundsson segir að hafi skrifað Njálu, og Oddur Þórarinsson, bróðir hans, sem Sturla Þórðarson lýsir í Íslendinga sögu sinni, en sú lýsing er að hluta til fyrirmynd að Gunnari á Hlíðarenda, enda var Oddur talinn manna vígfimastur á Sturlungaöld, veginn í Geldingaholti 1255. Þorvaldur Þórarinsson drap aftur á móti Þorgils skarða að Hrafnagili, sællar minningar. Af því hlaut hann lítinn sóma.

Sigurður Blöndal lýsti heimili þeirra Franziscu eins og ég hafði upplifað það og Gunnari sem hlýlegum manni oftast, en heldur hvassyrtum, ef því var að skipta. Eitt sinn kom Jóhann bílstjóri hjá K.H. akandi heim á hlað á Klaustri og fór mikinn. Hann ók á smiðju sem þar stóð og beyglaði mikið. Gunnar skáld stóð á hlaðinu og sá þessar aðfarir, brást hinn versti við og skammaði Jóhann, en Jói lét sér hergi bregða og svaraði, Þetta er nú ekki mikið, þú hefðir átt að sjá þegar ég keyrði á Súðina!

Þá var Gunnari öllum lokið og fór að skellihlæja.

Sigurður sagði að oftast hafi verið borðað niðri í matsalnum, en þegar gesti bar að garði var maturinn borinn upp í stofu. Gunnar borðaði ævinlega með vinnufólki sínu og sat þá fyrir enda borðsins. Þeir Skúli Björn töldu að hann hefði ekki skrifað mikið þau níu ár sem þau hjón dvöldust á Skriðuklaustri, þó hafi hann að öllum líkindum lokið þar við Heiðaharm og skrifað þar einnig Sálumessu, auk Árbókanna. Aðalsteinn Aðalsteinsson sagði að Gunnar hafi haft mikla ánægju af að heimsækja Pál Vigfússon, bónda á Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Þá fór hann þangað ríðandi, en það mun vera um þriggja tíma ferð. Þá sátu þeir Páll á tali fram á nætur og spiluðu lomber. Gunnar var mikill lomber-spilari. Þeir Páll voru miklir og góðir vinir. Stundum reið Páll með honum á milli bæja.

Þegar Páll Vigfússon hvarf frá Aðalbóli og fluttist burtu, tók nýr ábúandi við jörðinni, Páll Gíslason frá Skógargerði. Þegar við ókum niður Hrafnkelsdal og Aðalból blasti við, sagði Aðalsteinn okkur frá því, hvernig Páll Gíslason skýrði Aðalsteini, föður hans, bónda á Vaðbrekku þar í næsta nágrenni, frá láti Gísla föður síns, en hann varð bráðkvaddur. Hann hringdi í Aðalstein og sagði, Nú er Gísli hættur búskap. Nú, sagði Aðalsteinn undrandi, og hvað ætlar hann að fara að gera? Það verður ráðið annars staðar, sagði Páll og kvaddi.

Aðalsteinn var með Páli Gíslasyni þegar hann var í Brúarkláf, og vírin slitnaði og Páll lenti í Jökulsá á Brú. Páll féll í beljandi jökulleðjuna fyrir neðan, en þótt mikið væri í ánni tókst honum að synda að sléttri klöpp sem skagaði út í strauminn þar fyrir neðan, vó sig upp og tókst af sjálfsdáðum að komast úr gilinu. Hann gekk að kláfnum og sagði einungis við samfylgdarmenn sína, Það var gott að ég var í kláfnum, en ekki þið. Aðalsteinn segir líka að þeir aðrir sem þar voru staddir hefðu ekki komizt upp úr ánni, en Páll hefur augsýnilega verið heljarmenni. Aðalsteinn segir að hann hafi gengið þegjandi og rennblautur að kláfnum og þeir splæstu vírendana saman, þögulir.

Páll var flugsyntur og hafði auk þess úthugsað mjög rækilega hvernig hann mundi bregðast við, ef hann félli í ána. Það var ein af ástæðunum fyrir þessari ótrúlegu björgun, eða öllu heldur þessu yfirgengilega afreki.

Aðalsteinn sagði okkur að þeir Páll hefðu farið í eftirleitir í byrjun desember, þegar hann var ungur maður, og gengu þeir upp að Vatnajökli í veiku tunglsljósi og miklum frosthörkum; síðan aftur til baka sömu nótt. Þú kallar þetta öræfi, sagði hann við mig, En þetta eru engin öræfi lengur. Ég þekkti öræfin meðan þau voru og hétu.

Páll var sonur Gísla í Skógargerði, en fluttist  að Aðalbóli, en Aðalsteinn var sonur Aðalsteins á Vaðbrekku, bróður Jóns Hnefils og þeirra systkina. Ég held hann þekki hverja einustu þúfu á þessari leið.

Við fórum einnig að Kárahnjúkum þar sem eru gljúfrin miklu í Jökulsá á Brú, ógnleg og ægifögur. Þar er varla hægt að sjá til fljótsins af brúninni því að gljúfrin eru 180 metrar og ekki fyrir lofthræddan mann eins og mig. Við héldum upp með ánni og Þórhallur sýndi okkur svæðið þar sem ráðgert væri að reisa Kárahnjúka-stífluna, en mér skilst hún eigi að verða yfir 200 metrar á hæð. Á þeim slóðum hefjast gljúfrin, en ef stíflan verður reist, verður lítið vatn í þeim og þá einungis bergvatn. Þú ert laxveiðimaður, sagði Aðalsteinn. Ég jánkaði því. Þegar hér rennur einungis bergvatn í gljúfrunum, bætti hann við, verður áin bezta laxveiðiá landsins. Jæja, sagði ég.

En Þórhallur sagði ekkert.

Við skimuðum inní gljúfrin …þröng mér sýndi dauðans göng, sagði Páll Ólafsson um Rangá.

Frá efsta Kárahnúk blasir Brúarjökull við og Kverkfjöll og augljóst sagði Þórhallur að þar væri mikið hvassviðri, hann sæi það á skýstrókunum. Kárahnjúkar draga líklega nafn sitt af því að þar verður rokhvasst í vondum veðrum og þannig er þetta örnefni eitt af snilldarverkum þeirra örnefnasmiða sem fóru um landið fyrstir manna.

Nú rýmkaði vindurinn heldur til, en birtan hélzt.

 Á þessum slóðum er mikil og nakin fegurð. Þarna er varla stingandi strá, en umhverfið minnir mest á Hólssand við Dettifoss þar sem eru gljáandi steinar og svartur sandur í allar áttir. Á leiðinni í Jökuldal stanzaði Aðalsteinn við mikið moldarbarð sem stóð eins og hreindýrstönn upp úr umhverfinu og minnti á meltorfuna í Hrafnkötlu sem var blásin mjök. Ég segi hreindýrstönn vegna þess að af tönnum hreindýra er hægt að ráða aldur þeirra.

Aðalsteinn las jarðsögu Íslands út úr þessu mikla barði, þar blöstu við gosöskulögin, bæði frá Kverkfjöllum, Vaðöldu og Öskju, svo að eitthvað sé nefnt. Þetta er mikil bók og fróðleg, ekki sízt um uppblástur. Enginn getur vegið eins að landinu og náttúran sjálf.

Á leiðinni niður í Jökuldal sögðu þeir félagar okkar frá því að mikið væri þar um fálka. Þórhallur sagði að tilhugalíf fálkans væri sérstætt. Kerlinginn settist í hreiðurstæði og þá reyndi á hvort karlinn gæti séð fyrir henni með matföng. Ef hann gæti það ekki, yrpi hún ekki og hreiðurgerðin færi forgörðum. Þannig sæi náttúran um að fálkinn sóaði ekki eggjum sínum til einskis. Þegar  fálkinn væri orpinn kæmi einungis einn ungi úr eggi í einu. Það væri ráð náttúrunnar til að tryggja að einhver unganna kæmist upp því að unnt væri að sjá einum unga farborða, þótt það væri ekki endilega hægt, ef þeir væru fleiri í hreiðrinu. Allt er þetta með eindæmum eins og annað úthugsað í orðlausri þögn sköpunarverksins. En þó engu líkara en efnið hugsi.

Aðaltilgangur ferðarinnar var þó sá að koma að Snæfelli og berja Eyjabakka augum.

Það vindaði nokkuð þegar við komum að Eyjabökkum, en Snæfell að mestu skýlaust, þótt það væri með dálitla hettu. Herðubreið fylgdi okkur í vestri, dökkblá, þögul og tignarleg, eins og drottningu sæmir. Við sáum hreindýrahjörð í votlendinu niður við bakka Jökulsár á Fljótsdal, en þar fyrir sunnan blasti Eyjabakkajökull við, hvítur undir skýjaslæðunni. Þórhallur sagði að hann væri farinn að skýja sig upp og hafði ég aldrei heyrt það, hvorki fyrr né síðar. En sem sagt, þarna blasti við hið umdeilda landssvæði sem hyrfi undir vatn, ef virkjað yrði á þessum slóðum.

Eyjabakkar eru ólíkir Þjórsárverum að því leyti að þar fellir geldfuglinn fjaðrirnar, en verpir helzt ekki. Ég veit ekki hvort gæsirnar mundu flytja sig um set, ef bakkarnir hyrfu undir vatn og virkjað yrði, það má vera. Náttúruverndarmenn vilja þó ekki taka áhættuna og fullyrða að landið muni skila meiri arði óvirkjað en virkjað, því að þarna gæti friðaður þjóðgarður orðið einhverskonar gróttarkvörn vegna þeirra þúsunda ferðamanna sem þangað muni sækja í framtíðinni. Um þetta get ég ekkert sagt og raunar var þessi ferð okkar Hönnu inná öræfin ekki gerð í því skyni að taka af skarið og skipa sér í sveit náttúruverndarmanna eða virkjanamanna. Þar sem ég stóð þarna á öræfunum fann ég fyrir því sem oft hefur ónáðað mig, en kannski stundum verið leiðbeinandi þáttur í lífi mínu; ég fann að skáldið og ritstjórinn voru ekki alveg á eitt sáttir. Skáldið vill ekkert jarðrask í náttúrunni, en ritstjórinn vill atvinnuuppbyggingu á Héraði og fjörðunum og telur það skyldu sína að styrkja afkomumöguleika fólksins í fjórðungnum. Þarna hófst því hin mesta togstreita með sjálfum mér, en Snæfell, risinn mikli, horfði óhagganlegur yfir þessar fuglahræður sem þarna voru á ferð og haggaðist ekki. Fyrst þessi átök voru innra með sjálfum mér, hvers vegna skyldu þau þá ekki einnig fara eins og hrollkaldur efi um allt samfélagið og leiða til deilna og öndverðra sjónarmiða? Sá sem stjórnar Morgunblaðinu verður að reyna að setja sig inn í hugsunarhátt fólksins í landinu, skilja það; skilja jafnvel það sem er óskiljanlegt. Draumarnir eru svo margvíslegir. Það eru til fleiri draumar en þeir sem eru bundnir við náttúru og skáldskap.

 

Nokkru síðar

1.

Við horfðum yfir flúðirnar framundan og Þórhallur sagðist oft hafa ekið yfir fljótið á vaðinu fyrir ofan á sínum sérhannaða fjallabíl, hann hefur jafnvel ekið til Kverkfjalla um hávetur og þá farið eftir brúnum Eyjabakkajökuls og Brúarjökuls, ofan við sprungur og aðrar torfærur. Það er skotfæri, segir hann, og augu hans drekka í sig himin og sporðgráan jökul framundan, en ég kleif skriðubrattar hlíðar Snæfells með undrandi augum gestsins og var nú kominn að sköflunum rétt undir hettunni sem bar sunnanáttinni órækt vitni.

Ég hef gengið sjö sinnum á Snæfell, segir Aðalsteinn á Vaðbrekku, og hvessir augun á allstóra hjörð á holtgrænum bökkum fljótsins þar sem dýrin eru á beit undir hvelfdum himni jökulsins, en líta nú upp því þau hafa fundið lyktina af óvelkomnum aðkomumönnum, eða hafði samtal okkar borizt inn í ofurnæm eyru þeirra sem hlusta á þögnina eins og holt hlustar á heiðar?

Ég hef ekki verið nema þetta þrjá tíma á toppinn, bætir Aðalsteinn við um leið og risinn tekur af sér höttinn og heilsar í heiðríkjunni.

Við kinkum til hans kolli og kveðjum, höldum yfir skarðið um Nálhúshnúka og að Jökulsá á Brú sem er engin hölkná, engin grjótá, heldur grjótlaust straumkast sem ryður morinu á undan sér til hafs, sléttbotnað fljót og grjótlaust og kastið með þeim ósköpum að kolmórauð áin skilur ekki eftir sig einn einasta foss á langri leið að ósi.

Fosslaust rennur fljótið inní dulmagnaða veröld hreindýranna. Og Hrafnkötlu sem segir að undir mýrinni sé svá hart sem hölku, eða flatt berg; sbr. hallus á gotnesku.

Þannig rennur Hölkná í Þistilfirði á flötu bergi.

 

2.

Og það hvessir við Kárahnjúka eins og lög gera ráð fyrir, þar ræður vindur konungur ferðinni og fer drottningu sína í vestri, Herðubreið, svalköldum höndum þar sem hún reisir sig úr ósýnilegu undirlendi, öræfablá eins og óræður draumur. En í auðninni yfirgefinn fjallabíll veiðimanna í sporlausum sandi og vænglausri auðn heiðagæsanna.

 

3.

Hittum hreindýraveiðimenn í Jökuldal þar sem fólkið býr í árgili og höfðu skotið tvö dýr hver, Við megum vera stoltir, sögðu þeir og bentu á hornskóginn sem lá á hlaðinu, hausarnir enn fastir á greinunum og horfðu undrandi á okkur með opinn munn og hálflokuð augu.

Við erum að koma ofan af hálendinu, sagði Aðalsteinn.

Af hverju ferðu aldrei með okkur? spurðu veiðimennirnir.

Hann svaraði um leið og hann horfði til heiða, Ég fer aldrei á öræfi nema með höfðingjum.

Það var eins og skógur dauðans yxi úr hlaðinu, nú hafði hann fellt laufið. Það var komið fram í september og heiðagæsin á Eyjabökkum tekin til vængja sinna. Við vorum í sárum, ekki hún, við og spyrjandi hausarnir í skógi dauðans á hlaðinu þar sem jörð fylgir mórauðu vatni að vökulu auga hafsins. Og ég hugsaði um skóginn í vinalegum hlíðunum, hvernig hann vex úr lyngheitri jörð og ilmar af fallandi septemberlaufi. Og einnig skóg dauðans á hlaðinu, ilmlausan skóginn sem óx eins og greinar á tré úr mjúku holdi dýrsins, sem ber jörðinni vitni þegar skógurinn rásar um holt og mýrar og leitar sér skjóls í geldfuglafaðmi Snæfells. Og nú var hann kyrr á hlaðinu og horfði á okkur brostnum, spyrjandi augum, eins og hann vildi segja, Af hverju eru þið ekki með horn?

Og augu mín hvörfluðu til fjalla þar sem fálkinn er önnum kafinn að sjá sér farborða.

Eins og við, skógræktarmennirnir.

 

4.

Við Snæfell

 

Gnæfir

bergnuminn

við auðn og lágan

gróður

 

risinn

 

hvítur fyrir hærum

 

og horfir

yfir gæsabyggðina

 

óttast ekkert

allra sízt

 

fuglahræður.

 

5.

Á leiðinni yfir Möðrudalsöræfi, þar sem moldrokið sveiflast í skýstrókum langt í suðri, er ég að hugsa um mennina sem ganga á Snæfell og sjást ekki á þessum úfna risa, hugsa um mennina sem skríða upp eftir skriðunum eins og lús upp á úfinn koll þessa þögula risa sem segir allt af öræfum án orðs, án hreyfinga; er að hugsa um smæð mannsins í þessari skriðbláu þögn öræfanna, hugsa um fuglahræðuna sem skríður óséð að fálka og dýri, hugsa um drottninguna þar sem hún hefur lagt yfir sig gagnsæja moldarslæðu og bíður þess að Kári beri hana á hvítum, ósýnilegum höndum inní heiðríkjuna.

Og líkaböng kallar til messu í Möðrudal.

 

6.

Og nú sit ég og horfi um öxl; horfi á heiðina í huga mínum, horfi upp eftir fjallinu sem nú er búið að setja upp sjóhatt í norðanáttinni, horfi yfir fljótið þar sem hreindýrin hlusta á lyktina í vindinum, sé heiðagæsina fyrir mér og brosi að frásögninni í blaðinu sem bíður okkar í forstofunni við lúgugatið: menn urðu þess varir að gæsirnar söfnuðust saman undir glugga á sunnudagsmorgnum og hlýddu á útvarpsmessu, það var einkum kórsöngurinn sem heillaði þær, en þegar presturinn tónaði tók allur skarinn undir; reyndi að gera mér grein fyrir muninum á grágæs og heiðagæs og sá í huga mér léttklæddar fuglahræður, rifjaði upp fyrir mér fellistöðvarnar og skriðmjúkar steinahlíðar Nálhúshnúkanna; sá fyrir mér hvernig tröllkonan tók nál úr húsinu, þræddi og stagaði í votlendissárin þar sem hreindýrin litu upp og horfðu til okkar úr sömu augum og síðar horfðu hálflukt og brostin úr dauðum greinum hjarðskógarins, Hvers vegna eru þið ekki með horn?

Og ég velti fyrir mér orðum Nietzsche um hjarðirnar sem eru á beit um landið og minna á græna fingur guðs, gæsahjarðir, hreindýrahjarðir og mjólkurhvít lömb auðnarinnar, hugsaði um öll þessi dýr sem eru hvorki að leita að hamingjunni né góðri framtíð, þessi dýr sem hugsa ekki um gamlar minningar, löngu gleymdar, hugsa ekki um annað en næstu tuggu við fætur þeirra og ég sá skóginn splundrast í smásjársikti veiðimannsins og stóran tarf í blóði sínu, einan og yfirgefinn eins og rauðan skutbíll við veginn.

Hægt hættir jörðin að hreyfa sig. Og kvíslmiklar greinar þögult vitni um deyjandi klið öræfanna.

 

7.

Í sárum

Þegar auðnin safnast í skafla

eins og ellin feti sig nær

komst þú á vindsterkum vængjum

heiðarinnar

 

komst þú

 

ég beið þín við sandfoknar

auðnir sem minna á votlendi

heiðagæsarinnar,

þú kemur eins og hún

leggur mjúka vængi á mýrarnar

við skolgult jökulfljótið

þar sem sporðhvítir jakar falla

í lónið og fjallið rís til himins

eins og risi

 

bíð með landinu

og þú kemur með hvítum

sunnanþey og ég tek

á móti þér tveim höndum,

breytist eins og landið

í endalaus víðerni,

 

ung af vorgrænum fingrum

sumarsins

 

og ég finn vængi þína

við hlýjan barm dýjamosans

þar sem jökulmorið ryðst

í gömlum farvegi og rennur

að ósi dauðans,

 

finn hvernig himinn bíður

við haf

þar sem vatn mætir vatni

og blóð mitt rennur

inní sólarlagið,

 

einn bíð ég við hraun

og sanda, hlusta

með landinu á nýjar fjaðrir vaxa

á vængi þína

 

einn með landinu

 

hlusta á fallandi fjaðrir

þegar sólarlagið deyr

í grimmum vetrargreipum

glitrandi ísa

 

þegar ég bíð einn

eins og geldfugl í sárum.

 

8.

Já, eins og Nietzsche segir, að við skulum hugsa um hjarðirnar sem eru þarna á beit, þær hafa enga hugmynd um það sem var og er, þær bíta og jórtra, hreyfast eða hvílast frá morgni til kvölds, una sér við dálitla ást eða hatur, þekkja hvorki þunglyndi né velsæld… og þrátt fyrir mannlegt stolt horfum við öfundaraugum á hamingju dýrsins. Viljum ekki lifa án vellíðanar eða þjáningar eins og dýrið. Allt til einskis því við mundum aldrei kjósa hlutskipti dýrsins, samt er okkur nauðugur sá einn kostur, að velja. Við gætum litið á dýrið og sagt, Hvernig geturðu horft á mig án þess tala um hamingjuna? Dýrið langar til að svara, Af því ég gleymi alltaf hvað mig langar að segja. En það gleymir einnig þessu svari. Og maðurinn bíður og undrast. Einnig um sjálfan sig. En hann getur ekki lært að gleyma. Og hangir í því liðna.

Undarlegt þetta andartak sem er og var og er þó ekkert. Samt fellur laufið viðstöðulaust af greinum tímans, feykist burt og kemur aftur og við segjum, Nú man ég – og öfundum dýrið.

Ætli það valdi okkur ekki sársauka að sjá hjarðir á beit. Og ég undraðist þegar ég sá hreindýrin niður við fljótið, hvernig þau hreyfðu jökulinn, hvernig þau litu upp og fluttu skóginn nær jökulfljótinu án þess vita, horfðu í átt til okkar, horfðu til jökuls. Hlustuðu með augunum, hlustuðu á mjúkan andvara af skriðbröttu fjalli sem gnæfði yfir okkur eins og exi.

Já, exi. Dauðinn og þögn hans, segir heimspekingurinn, er hið eina sem er öruggt á þessu andartaki sem var framtíð, nú fortíð. Liðið andartak eins og dauðinn. Undarlegt að við skulum helzt ekki hugsa um það sem er öruggt og bíður allra og þó, lífið bíður einnig – eins og gæsirnar sem við verndum undir drep til að veiðimenn geti skotið þær á hausti.

 

9.

Já, dauðinn, á þessum stað er svartur sandurinn duft dauðans og duftið fellur í skafla eins og hugsun okkar um tortímingu. Og það fýkur úr sköflunum og stráin hverfa undir ösku. En úr þessari gömlu ösku vex einhvern tíma lítið strá og svo fleiri og enn fleiri og allt verður grænt og vorlegt og allt verður kátlega grænt undan fótspori dauðans og allt hverfur í hvítt fótspor dauðans, þetta hljóða fótatak dauðans.