2001

annar hluti

 

21. janúar, sunnudagur

 

...Kvöldið

Hef verið að fara yfir frábæra ævisögu Andrew Motions um Keats. Hanna Ásgeirsdóttir, sjúkraþjálfari minn, var svo elskuleg að gefa mér hana, þegar ég gekk til hennar á sínum tíma. Áhugamál hennar eru eins og sólkerfin, óendanleg.

Lýsingin á því hvernig umhorfs var við dauða Keats er harla eftirminnileg. Ljóðin hans seldust illa og svo fór að útgefandinn seldi rérttinn fyrir 50 pund. Ketas var sannspár um það að honum yrði ekki hampað fyrst eftir dauðann, enda var lítið á hann minnzt og ekkert endurbirt af ljóðum hans fyrr en tveimur áratugum eftir lát hans. Hann átti góða vini, að vísu,  sem stóðu klaufalega að minningu hans.

Keats fékk misjafna dóma, suma afar óbilgjarna, t.a.m. um jafnmagnað verk og Endymion,  og sú skoðun fékk á fæturna að hann hefði tekið sér þennan dóm svo nærri , að hann hefði að lokum verið banamein hans. Lungnaæð hefði brostið af innri sársauka og geðrænum kvölum.

Shelley trúði þessu augsýnilega og orti um það í minningarkvæði sínu Adonais og Byron gerir því einnig skóna í Don Juan, en þar segir að gagnrýnandi hafi drepið Keats Honum hafi verið kálað með einni grein!!

Þetta er auðvitað eintóm vitleysa, Keats hristi af sér vonda dóma eins og öll góð skáld gera. Hann dó einfaldlega úr tæringu og var ekki einn um það á þessum árum.

Mér er nær að halda að báðum þessum brezku öndvegisskáldum hafi staðið ógn af hinum unga Keats, þótt þeir hafi borið einhverjar skáldbróðurlegar tilfinningar til hans. En hann var opinn og róttækur í hugsun og skáldlegum efnum og sagði álit sitt undanbragðalaust, t.a.m. á skáldskap Shelleys sem bauð honum að vísu til sín, þar sem hann bjó á Ítalíu. En Keats gat ekki þegið boðið.

Þegar Shelley druknaði sumarið 1822, eða tveimur árum eftir dauða Keats,  var hann með Hyperion á sér. Og þegar hann var brenndur, var þessu mikla ljóði Keats fleygt á bálköstinn.

 

Hvaða lærdóm má draga af þessu? Samtíðin talar, en framtíðin hefur síðasta orðið.

Það er allt og sumt!

 

Seinna

Gísli Jónsson hefur verið að senda mér hlýjar kveðjur í málfarspistlum sínum undan farna tvo sunnudaga. Það er rétt, ein rós í lifanda lífi er betri en hundrað á gröfina!

 

Og það hefur dropið á djáknann því að Gísli Sigurðsson hefur líka fengið sitt.

 

Annars hef ég upplifað svo mikinn hlýhug undanfarnar vikur að dugar mér þann teyming sem eftir er.

 

 

22. janúar, mánudagur

Það var hvasst á göngunni, einkum í Nauthólsvík. Það var gráð á jörð og grár þungbúinn himinn og ég  hafði gráan vindinn í fangið

Allt heldur grátt og þungbúið, jafnvel öldurnar sem gutluðu við fjörukambinn, líklega þreyttar og langt að komnar.

Þegar ég var kominn í garð Skógræktarfélagsins í Fossvogi var komið logn og ég settist á borðbekk við lækinn sem rennur syðst í garðinum.

Það var heldur einmanalegt hjá svörtum trjánum og fáir fuglar.

Var ég að hugsa um eitthvað sérstakt?

Nei!

Sat þarna bara og horfði á vatnið renna og hvíldi augun í vatninu.

Þá birtist rúmlega miðaldra maður og gekk framhjá bekknum þar sem ég hvíldi mig. Hann var með loðhúfu og lítið yfirskegg.

Ég þekkti ekki manninn, en hann sagði, Góðan daginn!

Góðan dag, sagði ég.

Hann snarstanzaði og rýndi á mig, Er þetta ekki Matthías, sagði hann .

Það var fremur fullyrðing en spurning.

Jú, sagði ég.

Þakka þér fyrir öll ljóðin þín, sagði hann og kvaddi.

Þakka þér sjálfum, sagði ég og horfði á eftir honum.

 

Og ég sem hélt enginn þekkti mig, nema fuglarnir!

 

Miðnætti

 

eins og fullt

tungl

 

alltaf nýtt

 

eins og þú

 

 

 

Og:

 

Hauskúpa enskrar konu

sem dó í Svarta dauða 

 

(Mynd S.Schama)

 

Hvítar eins og perlur

 

tennur þínar ,

 

hver sundríður ekki

Tungufljót

fyrir svo hvítar

perlur!

 

Og ennfremur:

 

tvö á bekk

svo þú ein,

 

nú enginn

 

aðeins minning

um lauf

sem er minning.

 

 

Eftir lestur Dekameron:

 

næturgalinn í lófa þínum

er floginn

til annarra fugla,

 

þar bíður nýr lófi

og ný ævintýr.

 

Keats orti frábært kvæði um næturgalann. Ætli hann hafi verið að lesa Dekameron, ég þarf að athuga málið nánar!

 

 

Ástin, segir Edgar

Lee Masters,

er fölnuð rós

 

og lífið  bíflugna-

drottning,

 

en af hverju er

ástin ekki

rós í fullum

blóma

 

og lífið

blettatígur

 

eða fiðrildi?

 

Er það hunangið

sem úrslitum ræður?

 

 

Nyir tímar 

 

Guð situr

við tölvuna,

 

semur forrit

að nýjum draumi.

 

 

Eftir R..S.  Thomas,brezkt

skáld:

 

Þú er gamall samkvæmt

árunum,en í hægfara

veröld skáldsins leiðinlega

fullorðinn, veizt nú

að brosið á stoltu andliti

hennar er ekki ætlað þér.

 

 

24. janúar, miðvikudagur

Enn veit enginn hvað draumar eru, eða hvers vegna dreymdi mig í nótt heldur hráslagalegan draum af engu tilefni? Hann fjallaði um það, að ég átti að fara ólesinn í þýzkupróf hjá Haraldi Sveinssyni!!

Og kveið náttúrlega fyrir!

Mér er til efs að Haraldur hafi nokkurn tíma sagt setningu á þýzku, nema þá  kannski á stúdentsprófi.Hvernig í ósköpunum er hann allt í einu orðinn þýzkukennari minn og hvers vegna þarf ég að hafa alvöruáhyggjur af prófinu í draumnum? Furðulegt! Ég get ekki ímyndað mér að neinn mundi telja sig sjá kynferðisleg tákn í slíkum draumi, jafnvel ekki Freud!

Segjum að ég þurfi að hafa einhverjar áhyggjur út af Haraldi-en hvers vegna í ósköpunum  vegna þýzkuprófs.

Ég hef  margvíslega reynslu fyrir því að draumar geta sagt fyrir um óorðn hluti og þá  með táknrænum hætti. Og margir sem ég hef talað við hafa sömu sögu að segja, eins og ég hef stundum skráð í samtölum við  ofurvenjulegt fólk - en hvers vegna  í ósköpunum þýzkupróf hjá Harald ? Það er náttúrlega skýringalaust og galið!

Og ég stend á gati - eins og í draumnum!

 

Sjónvarpsprédikarinn:

1.

Og guð sagði við mig,

Farðu ekki á þessa

bíómynd

 

og ég gerði það ekki

því framleiðandinn

var á vegum Satans,

 

halelúja!

 

En ég sagði við

sjálfan mig, Af hverju

talar guð aldrei

við mig

 

(ekki einu sinni á sunnu-

dögum),

 

hef ég gert honum

eitthvað?

 

Og hann svarar því

ekki einu sinni!

 

2.

Guð er alltaf

jafnönnum kafinn,

 

hann situr við

og telur hárin

á höfði okkar

 

(alltaf nema á sunnu-

dögum),

 

halelúja!

 

það er þess vegna

sem svo margir eru

sköllóttir,

 

til að létta undir

með honum!

 

25.  janúar, fimmtudagur

Hönnu dreymdi í nótt, sagði hún mér, fyrsta kvæðið í Sálmum á atómöld:

 

Líf mitt bátur

gisinn af sól og löngu sumri,

Og hafið bíður.

 

Án þess að eiga annars kost

sigli ég yfir hafið

í þínu nafni.

 

Í draumnum var hún af tilefnislausu að velta kvæðinu fyrir sér og hvort þar mætti eitthvað betur fara.

Hanna mín, sagði ég, það er erfitt að breyta kvæðinu úr því sem komið er, það hefur birzt í endanlegri gerð, auk þess sem það er komið inn í skólabókaútgáfur.

Hún sagði það skipti ekki máli, hún vildi bara segja mér frá því, hvernig hana hefði dreymt kvæðið.

Í staðinn fyrir Og, sagði hún, dreymdi mig að betur færi á því að hafa En og í staðinn fyrir yfir hafið væri betra að segja út á hafið.

Ég náði í Sálmana og skoðaði kvæðið eftir langan tíma.

Jú, sagði ég, það er ekkert verra að segja En hafið bíður, kannski betra, ég veit það ekki.

Það væri meira í anda Íslendinga bókar að vísu, þar eru en-in eitt af einkennum stílsins. Þau þrengja hann, og -in eru einkenni opnari stíls og frjálsari, það lærði ég í háskólanum hjá Einari Ólafi. Og-in eru einkenni mælskari stíls, mætti segja.

Auk þess er meiri ógn í En-setningu þarna en Og-setningu.

Ég rifjaði upp með sjálfum mér að Ari skrifar eins knappan stíl og hann getur, það sparar bókfell. Ég þarf ekki að hugsa um það!

Það væri meiri hætta á þessu ferðalagi, ef sagt væri út á hafið og það er ekki eins póetískt og ef sagt er yfir hafið. Það er líka stirðara.

Og ferðin full af óvissu!

Fyrirheitið er fullvissa í anda Krists, sagði ég. Þess vegna segi ég Og... með því er fullyrt að ferðin bíði okkar, hún sé óhjákvæmileg. Ferðabænin er líka í lagi samkvæmt okkar trú: í þínu nafni. Það er kjarni málsins.

En það er dálítið yfirlæti í því að segja yfir hafið, því það er ekki víst við komumst alla leið, sagði Hanna.

En hvað um fyrirheitið, endurtók ég í varnarstellingum.

Má vera, sagði Hanna, en ég er ekki viss.

Ég ætla að hugleiða það, sagði ég og hugsaði með sjálfum mér: Og hún sem á meiri trúarvissu en ég!

 

Kvæðið er þá svona í draumútgáfu Hönnu:

 

Líf mitt bátur

gisinn af sól og löngu sumri.

En hafið bíður.

 

Án þess að eiga annars kost

sigli ég út á hafið

í þínu nafni.

 

Kristján H. sagði mér um daginn að hann hefði séð kvæðið í skólabókinni sinni, Ég sá fínt kvæði eftir þig, afi, sagði hann.

Nú, hvar? sagði ég.

Í skólaljóðunum, sagði hann.

Ég spurði hvort honum hefði líkað það og hann svaraði því játandi. Ég sagði við ömmu hans, Hvernig á ég þá að fara að því að breyta kvæðinu, fyrst það er með gamla laginu í skólunum?!

Hún svaraði engu.

Sagt hefur verið, Ekki er mark að draumum. Samt er ég að hugsa um, hvort ég breyti ekki þessu kvæði einhvern tíma og birti það eins og Hönnu dreymdi. Það gæti verið tilbreyting í því! En ég sé til.

Hitt er svo annað mál, hvernig á því stendur að Hönnu er að dreyma þetta kvæði sem enginn er að hugsa um, hvorki í vöku né svefni.

Það er íhugunarefni og kannski ástæða til að taka mark á því, að minnsta kosti eitthvert mark!

Ég sagði Kristjáni Karlssyni frá þessu, þegar hann bauð mér í löns á Holti í dag. Hann lagði kollhúfur, án athugasemda. Ég fékk á tilfinninguna að honum fyndist draumfarir Hönnu heldur fyndnar. En hann veit líka að hún hefur næma tilfinningu fyrir bókmenntum, ekki sízt ljóðlist, og hefur verið mér gott aðhald í þeim efnum.

Sagði ekkert. Brosti bara inn í hugsun sína.

Við Kristján töluðum margt að venju. Ég fékk frá honum fjögur kvæði sem við töluðum um, en einnig ræddum við breytingar hans á kvæðinu um bókasafnið í Amsterdam. Vorum sammála um að nýja gerðin væri sterkari en hin fyrri, t.a.m. er komin inn í kvæðið skírskotun í skriftamál Ólafar ríku og stúlkan í kvæðinu er dregin skarpari dráttum, sem eiga sér fyrirmyndir í tveimur stúlkum. Mun taka tillit til þess, ef ég fjalla um kvæðið sem dæmi um nútímaljóðlist í háskólanum í haust.

Í kvæðum Kristjáns sem ég fékk í dag og falla að venju vel að mínum smekk, Carioca er hraður tangó, Þann dag sem fór hjá... og Úr myrkri ertu kominn, allt ný eða nýleg kvæði, er með sínum hætti fjallað um það, hvernig "ánægjulegt iðjuleysi" getur aukið á verðleika lífs og tilveru, raunar lyft því í æðra veldi og tók hann þau með held ég til að minna mig á að núverandi hlutskipti mitt er ekki einskis virði, "því það er afskaplega gaman að vera til og anda".

Á þetta minnir Kristur okkur, þegar hann talar um liljur vallarins, þær gera ekkert annað en vaxa sjálfum sér og öðrum til gleði og ánægju. Ef þær væru lúþerskar væru þær að spinna eða gera eitthvað annað, því að viljinn og vinnan eru hinar miklu dyggðir þessarar tegundar prótestantisma, einnig kalvinisma sem er víða sterkari en lúherismi, t.a.m. í Bandaríkjunum, Sviss og Skotlandi. En liljurnar eru að minnsta kosti kaþólskar í aðra röndina eins og Kristján sjálfur sem er líklega sannkaþólskur í viðhorfum sínum til lífsins þessa heims og telur "ánægjuulegt iðjuleysi" rétta afstöðu eins og hann boðar í fyrr nefndum kvæðum, eða:

 

Að lifa enn og ekki

                      er minnsti vandinn

 

að hafa lifað er það erfiðasta

það koma dagar lengri og lengri en áður

og lífið sem ég hélt ég hefði lifað

var ólifað svo oft (þetta finnst mér flott! - M.J.)

                      og af því kemur

hve stutt það virðist?*

 

heldur kannski hitt og engu skipti

hvað ég gerði

                      en hvað ég var, og

ég var eitthvað

 

að gera tekur tíma,

                      og er að lifa

að vera bæði engan tíma og allan:

meir og meir vex undur þessa eins

að vera til.

(Carioca)

 

Og í Þann dag... sem hann sniðgekk... og gleymdi... og gerði ekki neitt:

 

Þann dag læt ég greypa

í stein á leiði mitt

 

eins og segir í lok annars kvæðis.

 

En þann dag er auðvitað ekki hægt að greypa á neitt leiði. En hann getur samt verið jafn mikilvægur eða ánægjulegur og hver annar dagur fyrir það.

Ég veit ekki hvort ég fékk þessi kvæði sem áminningu um að njóta lífsins eftir Morgunblaðið eða ekki, en hvað sem því líður, þá hefur þetta haft góð áhrif á mig. Og ég nýt nú líklega betur þessa "ánægjulega iðjuleysis" sem Kristján telur svo mikilvægt!

Við Kristján töluðum um margt fleira. Hann spurði mig hvort ég hefði lesið þriðja bindið af Einars-bók Guðjóns Friðrikssonar. Ég sagðist hafa lesið hrafl, ég hefði fengið bókina senda með hlýlegri kveðju frá höfundi og þótt vænt um það. Ég minntist á bók Guðjóns um íslenzka blaðamennsku sem út kom í haust, en Kristján hefur ekkert fylgzt með því.

Kristján talaði vel um Einars-bók Guðjóns og við vorum sammála um að hann hefði með verki sínu grafið upp mikið af nýjum heimildum, það hefði honum farizt vel úr hendi. Ég sagði að blaðamaðurinn í honum hefði komið sagnfræðingnum til hjálpar, það hefði verið blaðamaðurinn sem hefði t.a.m. látið sér detta í hug að nota símaskrá Lundúnaborgar til að koma sér á sporið.

Ég sagði að verk Guðjóns fjallaði um viðskipti Einars, enda ekki til annars ætlazt. Þar væri lítil umfjöllun um skáldskap hans, a.m.k. í fyrstu tveimur bindunum, og kvað Kristján það rétt vera. Hann sagði að sér fyndist aðalatriðið að þetta ritverk sýndi fram á að Einar hefði ekki vísvitandi verið að reyna að svíkja annað fólk og svindla á því.

Ég sagði að Íslendingar væru hnýslar og hefðu mestan áhuga á að hnýsast ofan í askinn hjá næsta manni og tók hann undir það. Ég fullyrti að fólkið, eða markaðurinn, hefði ekki tekið jafnsterklega við sér, ef verkið hefði fjallað um estetík Einars eða skáldskap hans. Íslendingar væru ekki bókmenntaþjóð, hvað sem sagt væri, að minnsta kosti ekki kvæðaþjóð með þeim hætti sem fullyrt væri. Vorum við sammála um það. Íslendingar eru sagnaþjóð fyrst og síðast, enda benti arfleifðin til þess, þrátt fyrir Eddurnar. En samt væru allir síyrkjandi og góður hópur læsi ljóð, en hlustaði þó einkum á upplestur.....

....Ég var að blaða í bók Magnúsar Kjartanssonar með Austra-greinunum í Þjóðarbókhlöðunni um daginn og þá kom í ljós það sem mig minnti: aðalumræðuefnin voru Bjarni Benediktsson; Gylfi Þ. Gíslason og viðreisnarritstjórinn ógurlegi, Matthías Johannessen, sem var ekki sízt skotspónn Magnúsar, enda lá hann vel við höggi, þar sem voru viðkvæm, persónuleg ljóð sem auðvelt var að snúa út úr, enda óspart gert.....

 

 

En við stöldruðum stutt við þetta og snerum okkur að Einari Benediktssyni.Ég spurði Kristján um einkenni kvæða hans.Hann sagði að þau væru hljómlist.

Það á ekki að leita að merkingunni í kvæðum Einars,sagði Kristján,það á að lesa þau upphátt og frekar hratt.Þá kemur merkingin hægt og bítandi af sjálfu sér.

Eins og í fornkvæðunum,sagði ég,því að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þau ætti að lesa uðpphátt í skólum,merkingarlaust.Öll góð ljóðlist er einhverskonar söngur og tónlist.

(Pound syngur sín kvæði að vísu of mikið fyrir minn smekk,en upplestur hans er vísbending).

Já,einmitt eins og í fornkvæðunum,sagði Kristján og bætti við: Hljómlistin í kvæðum Einars er eins og brimið fyrir norðan.

Ég spurði um Útsæ sem Einar sagði við sr. Ólaf í Arnarbæli,skólabróður sinn (þeir þéruðust alla tíð)að væri mesta kvæði sitt.

Útsær er mörg kvæði ,sagði Kristján.Kvæðið er ljóðaflokkur og stefnir að vonbrigðum í lífi Einars og lýsir þeim.Það fjallar um ósigur Einars erlendis.Það fjallar um brothljóð.

Hafið er þannig ímynd þess sem brotnar.Og í Útsæ er hugmyndin um það sem brotnaði eða olli vonbrigðum,þegar skáldið dvaldist í útlöndum.......Brimið brotnar við ströndina,aldan brotnar í rótinu.Hafið brýtur manninn,ekki síður en skipið.Og klettana. Það er sá náttúrukraftur sem allt molar og ekkert stenzt.

Kristján benti á þessar tvær línur í næstsíðasta erindi,eða kvæði samkvæmt skilgreiningu hans um mörg kvæði og ljóðaflokk:

 

...já, hafið sem á ekki strönd með fjarlægan frama

en firnaríki í auðnir skýjanna grafið.

 

Og svo næstu línur með svipuðum hætti og þá ekki síður síðasta erindið, eða kvæðið: skáldið tregar að vísu skarkala reynslunnar í reisulegum höllum hafrótsins, en djúpið átti samt ekkert hjarta...

Kalinn á hjarta þaðan slapp ég, sagði Grímur Thomsen um hirðlífið hjá dönskum, eða Goðmundi á Glæsivöllum, hliðrænt sagt.

Þetta er sama og svipuð afstaða til biturrar og dýrkeyptrar reynslu sem var varla eftirsóknarverð þrátt fyrir allt. Missýnir, myndaskipti og skuggar fylgja skáldinu og hníga

 

að minni sál eins og ógrynnis-bylgja.

 

 

Kvöldið.

Leiddi hugann að kvæði Kristjáns sem ég fékk einnig í dag og fjallar um Casnova gamlan og konur í Dux í Bæheimi sem höfðu áhyggjur af því að karlinn væri að gefa dætrum þeirra hýrt auga. Í eintakinu sem ég fékk var talað um stelpur, en ég stanzaði við það, fannst það neikvætt í þessu samhengi og sagði Kristjáni það. Hann sagðist hafa verið í vafa um þetta orð, en í upphaflegu handriti hefði staðið stúlkur. Um tíma hefði hann verið að hugsa um dömur, en það ætti ekki við. Ég heyrði að hann setti stúlkur fyrir sig (held stúlkan mín í kvæði Jónasar hafi eitthvað truflað hann, en ég sagði það fráleitt).

Hann sagði að þarna ætti ekki að vera neikvætt orð, það væri rétt, og kannski færi bezt á því að halda sig við stúlkur. Ég sagði mér fyndist það ekki áhorfsmál.

Hann breytti svo stelpur í stúlkur og það var að mínu viti rétt ákvörðun. En þetta dæmi sýnir hvað mikilvægt er að velja rétta orðið í ljóði og þá fyrst og síðast eftir samhenginu. Það skiptir öllu máli.

Stundum er þetta álitamál einungis tilfinningalegt og ómögulegt að skýra það. Ég veit t.a.m. ekki hvers vegna það er fallegra og einlægara, þegar ég segi við Önnu, sonardóttur mína, tíu ára, Þú ert stelpan hans afa!, en Þú ert stúlkan hans afa!, en það mundi ég aldrei segja. En stelpan hans afa er tilfinningalega rétt, án þess unnt sé að skýra hvers vegna. Ég held það sé til barnabók sem heitir Afastelpa, það er gott nafn og rétt.

Öll ráðast svona dæmi af samhenginu og þess vegna er líklega borin von að nokkur maður geti lært annað tungumál til fullnustu en það sem hann fær með móðurmjólkinni og elzt upp við.

Ég þyrfti að koma þessum skilaboðum einhvern veginn til ungs fólks. Það ríður á því að innræta því estetískan sans eins og sagt er og tilfinningu fyrir tungunni.

Kristján minntist á að honum hefði fundizt að Jóhann Hjálmarsson hefði átt að fara upp í heiðurslaunaflokk Alþingis. Sjálfur sagðist hann ekki hefði tekið við slíkum frama, hann væri á móti heiðurslaunum.

Ég sagði honum að Jóhann hefði sjálfur minnzt á þetta við mig, en ég væri þeirrar skoðunar að þeir hefðu báðir átt að fara upp í heiðurslaunaflokkinn.

Ég nefndi þetta við Jóhann. Held honum hafi þótt vænt um það. En hann sagðist vita að Björn Bjarnason hefði ekki haft neitt með þetta að gera, heldur menntamálanefnd og þingið í heild.

Ég sagði honum að ég vissi það fyrir víst vegna þess að Björn hefði drepið á þetta í Ashkenazy-veizlunni og augljóst að hann var svipaðrar skoðunar og ég.

En Halldór Blöndal hringdi til mín út af þessu fyrir nokkrum vikum, þá kom ég af fjöllum, enda hef ég ekkert fylgzt með heiðurslaunaflokknum árum saman og alls ekki nú. Halldór er leiður yfir því að Kristján skyldi ekki hafa verið valinn þessu sinni. En hann hefði ekkert haft með það að gera, þótt hann sé forseti þingsins.

Jæja, svona er nú þetta basl.

 

Orti þessi tvö smákvæði milli svefns og vöku í gærkvöldi. Lofaði KK að heyra hið fyrra sem ég kann utan bókar! og hann sagði, Prýðilegt og hló:

 

Hún spyr um það

sem hún vill ekki vita

og hann svarar því

sem hún vill ekki heyra.

 

Hitt er svohljóðandi:

 

Mynd þín

gárur á vatni,

 

skýrist í logni

daprast í vindi,

 

samt er hún þarna alltaf

mynd þín.

 

Ekki var það nú merkilegra hjá heiðurslaunaskáldinu!!

 

28. janúar, sunnudagur

Blonde eftir bandarísku skáldkonuna Joyce Carol Oates er einstaklega vel skrifuð bók. Hún fjallar um líf Normu Jeane, öðru nafni Marilyn Monroe, samt er hún skáldsaga og nýtur þannig frelsis skáldsögunnar til hins ítrasta.

Oates segir að hún geti þannig einfaldað efnið eins og hún vilji, einn ástmaður eða ellefu, ein fóstureyðing eða sjö, það skipti ekki máli. Eiginmenn Joe di Maggio eða Arthur Miller, það skipti engu, þeir eru einungis frægðartákn. Ástmenn Kennedy eða misheppnaður sonur Chaplins sem faðirinn vill hvorki sjá né heyra, það skipti ekki heldur neinu máli.

Það eitt skiptir máli hvað Normu Jeane tókst vel að leika Marilyn Monroe. Þegar hún fór með neðanjarðarlestinni í New York þekkti enginn sex-gyðjuna miklu, því að hún var í gervi Normu Jeane og öllum var sama um hana. Þegar hún söng drukkin í afmæli forsetans og var látin taka þátt í þeim sýndarveruleika datt engum í hug að Norma Jeane væri til.

Þessi skáldsaga er eiginlega nútíma markaðsútgáfa af Dr. Jekyll and Mr. Hyde. Það fer hrollur um mann andspænis þeirri niðurlægingu sem er næring og umbúðir nútímamannsins.

Oates lýsir þessu af listrænni fagmennsku.Bók hennar er tímabær afsökun fyrir þann blekkingarvef sem er heimkynni þessarar ægilegu og eitruðu kóngulóar, sem við köllum nútíma. Hann er eins og bandaríski draumurinn, eftirsóknarvert ævintýri og andstyggilegt í allri sinni harmsögulegu blekkingu.

Og hver er þá blekktur? Allir, ekki sízt litla munaðarlausa stúlkan, Norma Jeane, sem síðar var látin taka upp leikkonunafnið, eða boxoffis-nafn markaðarins, Marilyn Monroe.

Og þarna vilja flestir búa um sig, í þessum sýndarheimi. Þangað sækir ungt fólk, ef það hefur tök á, inn í sjónvarp, kvikmyndagervi og poppvímu. Hörmulega margir lenda í annarri vímu, hálfu verri.

Vesalings jörðin, hvað hún á bágt. En kóngulóin skemmtir sér konunglega!

 

Síðdegis

Hin fullkomna endurvinnsla, eða fullnýting:

Ég er að hugsa um að yrkja kvæði á eftir, ef ég nenni. Annars legg ég mig. En ef ég hespa kvæðinu af, birti ég það í Lesbók í febrúar. Þá get ég notað fyrstu vikuna í marz til að skrifa smásögu uppúr kvæðinu og birti hana í vorhefti Máls og menningar. Ég hef svo auðvitað nógan tíma um páskana fyrst ég ætla ekki á skíði og þá get ég skrifað skáldsögu uppúr smásögunni og birt hana fyrir jólin.

Mér lízt nokkuð vel á markaðinn í haust, þótt Dow og Nasdaq hafi fallið í Wall Street, en  listaverk eru ekki háð þeim markaði, sem betur fer.

Mér sýnist ég hafi lítið að gera í marz á næsta ári og þá verður upplagt að semja leikrit uppúr skáldsögunni. Ég vona að einhver af gömlu leikurunum verði þá á lausu, svo ég hafi einhvern til að velja setningarnar í leikritið með mér. Og það er alltaf nokkuð öruggt að hafa þessa gömlu jálka til að fara með textann. Minni áhætta. Það er nauðsynlegt að minnka áhættuna í leikhúsinu, rétt eins og á markaðnum.

Það er þó bezt að fara sér hægt, ekkert liggur nú á. En þetta gæti orðið mikil veizla. Mér væri sama, þótt verðbréfin lentu í Sorpu, ef handritin höfnuðu í leikhúsinu. Eða á jólamarkaðnum. Þar er hið mikla verðbréfaþing rithöfundarins. Þar ræðst framtíðin.

Endurvinnsla er alveg nauðsynleg nú á dögum. Og svo getur orðið hækkun á Wall Street, hver veit!

 

29. janúar, mánudagur

Vatt mínu kvæði í kross og fór í gærkvöldi yfir Maigret og vitlausu konuna eftir Georges Simenon. Frábærlega skrifuð saga, að sjálfsögðu.

Hanna er að lesa krími eftir Arnald Inriðason sem hann var svo vænn að gefa mér um jólin. Árni Þórarinsson gaf mér einniog sína bók. Þeir eru báðir að fikra sig áfarm í þessari gerð skáldsagna. En það þarf mikið til að skrifa góðan krími.

Allir sem skrifa leynilögreglusögur ættu að miða við Simenon. Ég þekki enga viðmiðun betri. Hann er með þetta allt í fingrunum, já að vísu einnig Reymond Chandler. En á milli þeirra er heilt Atlantshaf, annar er evrópumaður, hinn ameríkani. Andrúmið evrópskt og amerískt. Það er meiri hasar, meiri læti í kananum. Simenon er líkari tímanum, hann líður áfram.

Samt er enginn tími.

 

31.  janúar, miðvikudagur

Vaknaði upp úr klukkan fjögur í nótt og varð andvaka fram undir morgun. Ég veit ekki af hverju.

Það er dálítið kaldranalegt að vera andvaka. Það er eins og að vera í flugvél, maður hlustar eftir hverju hljóði. Það er dimmt. Og það er drungalegt. En það gerir svo sem ekkert til, ég er ekkert þunglyndur, heldur hinn hressasti.

Í andvöku hugsar maður og hugsar. Hver hugsunin eftir aðra kemur á mann og engin leið að forðast þessa aðsókn.

Ég var t.a.m. að hugsa um það sem Styrmir Gunnarsson sagði við okkur Hallgrím Geirsson í hádegisverði á Holti í gær, að hann hefði talað við Þorstein Pálsson og boðið honum að svara Steingrími Hermannssyni í samtali í Morgunblaðinu. Þorsteinn hefði ekki viljað það, a.m.k. ekki núna, en hann hefði sagt að hann hefði ekki beðið okkur Styrmi að tala við Steingrím og Jón Baldvin, þegar stjórn hans var í burðarliðnum. Ég sagði það aldrei í frásögn minni í bók Steingríms, það er Steingrímur sjálfur sem dregur þá þessar ályktanir. En ég man raunar ekki hvernig þetta bar að, man það eitt að þessi samtöl fóru fram með velþóknun Þorsteins, enda höfðum við áhuga á að þessi stjórn væri reynd.

Steingrímur taldi sig sambandslausan við Þorstein eins og fram kemur í ævisögu hans. Hitt var þó aðalatriðið að framsóknarmenn vildu að Steingrímur yrði forsætisráðherra og það vildi hann sjálfur. Það þurfti talsverða lagni til að hann sættist á, að Þorsteinn yrði oddviti stjórnarinnar.Það var eiginlega mitt helzta hlutverk án þess ég hefði neinn áhuga á því persónulega.En án slíkrar niðurstöðu hefði engin slík ríkisstjórn verið mynduð.

Annars er þetta löngu liðið og ég hef engan metnað til þess að hafa átt þátt í að mynda þessa blessaða stjórn, hún kom og fór eins og  akarn falli af tré, ég segi akarn vegna þess að í goðafræðinni segir að ef akarn falli á guðina, skjálfi jörðin! Það má líka til sanns vegar færa.

Akarnið fjell, Þorsteinn rak Albert Guðmundsson úr Sjálfstæðisflokknum í beinni útsendingu og flokkurinn klofnaði. Og mér er til efs að Sjálfstæðisflokkurinn hefði komizt í stjórn aftur fyrr en eftir langa mæðu, ef ekki hefði verið skipt um forystu, án þess ég hafi komið þar nærri, enda erlendis  áður en  sá landsfundur var haldinn,  þegar Davíð Oddsson felldi Þorstein úr formannssæti og komst til þeirra valda sem hann hefur haft æ síðan.

Svanur Kristjánsson  hafði það til marks í samtali við Styrmi nýlega, hvað við hefðum haft mikil afskipti af Sjálfstæðisflokknum, að ég hefði verið á myndum frá þessum landsfundi og staðið við hliðina á Davíð!!

Ég vona bara að stjórnmálaskýringar  í Háskóla Íslands styðjist við öflugri vísbendingar en þetta !! Það er að vísu rétt að ég stóð við hliðina á Davíð á þessum myndum, ekki síst flennimyndinni á forsíðu Dagblaðsins. Ástæðan var sú að Davíð kom til mín og stóð við hliðina á mér, þar til atkvæðagreiðslan var kunn. Mér líkaði það svo sem ágætlega, því að við erum gamlir vinir eins og við Þorsteinn og ég var náttúrlega með það inni á mér eins og margir aðrir landsfundarfulltrúar að eitthvað þyrfti að gera ril að bjarga flokknum úr sjálfheldu. En sjálfur vann ég ekki að neinum breytingum. Og ég held Þorsteinn sé farinn að trúa því. Það hefði líka verið ákaflega óhyggilegt af ritstjóra Morgunblaðsins að taka þátt í sársaukafullum átökum innan Sjálfstæðisflokksins. Mér hafði verið trúað fyrir blaðinu og ég hef alltaf reynt fyrst og síðast að bregðast ekki þeim trúnaði. En það merkti ekki að ég hætti einn góðan veðurdag að vera sjálfstæðismaður. Ég hef aldrei séð neinn betri kost í þeim efnum, þótt ég hafi oft verið hundóánægður með minn gamla flokk. En ég hef engin afskipti haft af honum í meira en áratug, nema hvað ég hef alltaf verið settur í flokksráðið án þess ég hafi mætt þar árum saman. Ég er að vísu formaður þjóðleikhússráðs á vegum flokksins, eða Björns Bjarnasonar, og ég sé engan meinbug á því. Ég hef ekki minni áhuga á leiklist en hver annar!

 

Hef verið að bera saman Bretasögu Churchills og Simons Schama, en sjónvarpsþættir hans í BBC eru frábærir. Það er rit hans einnig Saga Bretlands.

Mér finnst hvað merkilegast í Bretasögu Churchills, hvað hann leggur mikla áherzlu á  afrek Pitts eldra sem mesta forsætisráðherra Breta í heimsveldisstreðinu. Það minnti mig á síðustu þunglyndisár hans, en Ingibjörg, kona Ólafs Thors, sagði mér að kynnast þeim, þegar ég var að skrifa Ólafs sögu, því að þau minntu mjög á síðustu æviár Ólafs.

En hvað um það.

Schama fjallar meira um Harald Guðinason eða Godwineson og Tosta, eða Tostig jarl af Norðimbralandi, bróður hans, en Churchill, en þeir koma mjög við sögu Haralds harðráða Sigurðssonar Noregskonungs, sem var hálfbróðir Ólafs helga og lifði af orrustuna á Stiklarstöðum

Þeir bræður, Haraldur og Tósti,  voru synir Guðins eða Godwine, jarls í Wessex, en Haraldur tók við ríkinu að föður sínum látnum og varð það til þess að Tósti gerði  síðar bandalag við Harald harðráða og fór gegn bróður sínum sem þá var orðinn Bretakonungur.

Herir þeirra mættust í einni örlagaríkustu orrustu í sögu Bretlands, það var við Stanforðabryggjur eins og Snorri segir, eða Stamford Bridge, norðaustur af Jórvók. Saxneskir annálar segja að Haraldur Sigurðsson hafi komið þangað á 300 skipum, en Tósti kom frá Skotlandi. Snorri segir floti  Haralds Sigurðssoar hafi verið rúm 2oo skip.

Haraldur Guðinason hafði verið í Suður-Englandi að bíða innrásar Vilhjálms bastarðar,  það var 1066, en hann kom ekki fyrr en undir haust, svo að Haraldur hélt norður með óvígan her, þegar honum bárust fregnir af herför Tósta bróður síns og Noregskonungs. Gjörsigraði hann þá við Stanforðabryggjur, eða Steinavaðsbrú, og féll Haraldur harðráði þar, en Tósti gekk undir merki konungs,  eins og Snorri segir, en féll svo einnig. Síðar hélt Haraldur Guðinason suður að taka móti Vilhjálmi bastarði og varð fundur þeirra við Hastingaport eða Helsingjaport, eins og Snorri segir. Þar var ein frægasta orrusta í sögu Bretlands eins og allir vita. Þar féll Haraldur Guðinason, en Vilhjálmur bastarður Rúðujarl lagði Bretland undir franska afkomendur víkinga og urðu þar þáttaskil í mannkymssögunni.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þessum þætti Bretlandssögunnar vegna skrifa Snorra, þótt ég geri mér grein fyrir því að  í Heimskringlu vantar mikið upp á rétta sagnfræði, en margar getur hafa verið á um þau efni. En í þessum frásögnum  eru sumir eftirminnilegustu kaflar fornrar íslenzkrar sagnaritunar og að mínu viti hefur engum tekizt að komast með tærnar að hælum þeirrar snilldar:

 

Þegar Haraldur Guðinason hafði boðið Tósta bróður sínum  grið og Norðimbraland allt og þriðjung alls ríkis síns, spyr Tósti, hvaða boð sé Noregskonungi til handa. Og svarið er:sjö fóta rúm eða því lengra sem hann er hærri en aðrir menn!

Það var sem sagt leyfilegt að grafa Noregskonung í Bretlandi. En löngu síðar var lík hans flutt heim til Niðaróss og grafið þar.

Eftir þetta svar var Englandskonungi tilkynnt að hann skyldi búast til orrustu. En hann var síður en svo farinn að hamingju  þarna við Jórvík, en 19 dögum síðar yfirgaf hún Harald Guðinason við Helsingjaport.

Frásögnin af því, þegar Styrkár, stallari Haralds harðráða, nýsloppinn úr orustunni hittir enskan vagnkarl og falar af honum skinnjakka, en sá segist vilja drepa hann, er forkostuleg og engu lík. Styrkár segist vilja freista þess að drepa vagnkarlinn fyrst hann hafi ekki bolmagn til að drepa stallarann, reiðir upp sverð sitt og setur á háls honum svo að af fauk höfuðið “tók síðan skinnhjúpinn og hljóp á hest sinn og fór til strandar ofan”.

Það þarf mikla kímnigáfu til að fjalla um dauða manns með þessum hætti, eins og enginn dauðdagi væri eðlilegri!

 

Borges taldi að Shakespeare væri langdregnari en Snorri, menn dæju snöggt í Heimskringlu, en dauði Hamlets væri allt of langdreginn!

 

1. febrúar, fimmtudagur

 

lítill fugl

 

og skelfur

í lófa þinum

 

 

Mér er nær að halda að bandaríska ljóðskáldið Stanley Kunlitz hafi hitt naglann á höfuðið, þegar hann sagði um okkar tíma í samtali sem birtist í The Poet´s Craft:”Vandamálið er að hæfileikar okkar eru ekki rétt notaðir. Bókmenntirnar spegla öld meðalmennsku og heimsku, stundum reiða öld. Hvenær ætlum við að gera okkur ljóst að þetta er harmsögulegt?”

 

Bandaríska skáldkonan Anne Sexton segir í sömu bók það sé betra að ljúka góðu kvæði en fá fullnægingu!

Það er alltof mikið af því að fólk beri saman ósambærileg efni. Það er mikið af skáldum í heiminum. En ef þetta væri rétt hjá Sexton, væru þau margfalt fleiri. Og þau reyndu áreiðanlega að yrkja miklu betri kvæði en raun ber  vitni!!

 

Kvöldið

 

Trúarvissa

nú á dögum:

Öndin liggur

á fúleggi,

 

það er hugmynd okkar

um himnaríki.

 

 

 

10. febrúar,  laugardagur.

Hef verið að yrkja ljóðaflokkinn Borgin vaknar. Erindin eru orðin 30, en ég er enn að breyta og snurfusa. Það er kannski engin tilviljun að 13. erindi lauk svona:  gula pressan í prentun/og gæti komið sér /illa, en ég hef breytt því og nú er það: senn lifnar/ljósið á tölvunni. /Kemur Gróa/í morgunkaffið? Það er betur við hæfi, því að gula pressan er einkum á skjánum, Strik.is og Pressan undir stjórn Hrafns Jökulssonar. .....                                                                                           

 

 

 

13. febrúar, þriðjudagur

 

Það er komið

koldimmt él,

sagði hún

og leit út um gluggann.

 

Rétt áðan

var glaðasólskin.

 

 

14. febrúar, miðvikudagur

Bauð Jóhanni Hjálmarssyni í síðdegiskaffi í Þjóðarbókhlöðunni. Það lá vel á honum, en hann kvíðir þó geislameðferðinni í marz við krabba í blöðruhálskirtli. En hann er að ná sér af heilablóðfallinu. Hann sagði ég bæri ábyrgð á mistökum, þegar ég, að ósk Sigurðar A. Magnússonar, beitti mér fyrir því við Ólaf G. Einarsson, menntamálaráðherra, að hann héldi áfram í íslenzku dómnefndinni vegna bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. SAM hefði á fundinum lagt skáldsögu Árna Bergmanns um Þangbrand á borðið fyrir framan alla nefndarmenn og sagt: Þetta er mín bók!

Eftir það átti ég erfitt uppdráttar með þína bók, sagði Jóhann.

Gerir ekkert, sagði ég, en það er ekki þar fyrir, ég hef tekið margar vitlausar ákvarðanir!

 

18. febrúar, sunnudagur

Fórum á hljómleika í Hallgrímskirkju og hlustuðum á nýja Passíu eftir Hafliða Hallgrímsson. Hefst með ljóði eftir mig úr Sálmunum.

Troðfull kirkja og fínir tónleikar. Ég er stoltur af því að eiga hlut að svo góðu verki.

 

21. febrúar, miðvikudagur

Það hefur verið vitlaust veður og í gær þegar ég gekk heim úr Þjóðarbókhlöðunni kom útsynningurinn á mig eins og hann væri með klær. Mér er alltaf illa við slíkt veður, ekki sízt þegar fólkið mitt er að fljúga en Haraldur fór til Brussel í gærmorgun. Annars hefur veturinn verið einhvers konar haust.

Fór í sjötugsafmæli Gunnars G. Schram í gær. Hitti Huldu Valtýsdóttur sem ég hef ekki séð frá því ég hætti á Morgunblaðinu. Hún kom til mín og kyssti mig að venju og við töluðum dálítið saman og ég heyrði á henni að hún gerði sér grein fyrir því að erfitt gæti verið að aðlagast nýjum aðstæðum. Þetta er orðinn svo langur tími, sagði hún.  Annar maður talaði við mig um Morgunblaðið, Ólafur Ragnar Grímsson forseti. Hann var með Dorrit. Hann vatt sér að mér og sagði mér frá því að hún undraðist þann standard sem Morgunblaðið hefði haldið, það væri nánast einsdæmi og afsannaði þá kenningu sumra að nauðsynlegt væri að slaka á kröfunum. Jafnvel Times í London hefði ekki tekizt það. Ég sagði að sérstaða Morgunblaðsins væri mesti styrkur þess og við mundum halda stefnunni þótt ég væri hættur. Það þyrði enginn að gera neinar róttækar breytingar í þessum efnum fyrr en ég væri dauður!! Þá hlógu þau bæði. Það var ósköp gott að tala við þau, hún gerir sér far um að reyna við íslenzkuna og tekst það merkilega vel og mér fannst eins og þau vildu helzt að maður talaði íslenzku við hana. Það gerði ég líka. Í miðju samtali sagðist hún ekki skilja og þá sagði Ólafur, Við gerum okkur ekki grein fyrir því hvað við tölum hratt. Hún sagðist geta skilið dálítið ef talað væri hægt. Þetta var ósköp vingjarnlegt samtal og okkur Hönnu líkaði það vel. Engin uppstilling og ekkert yfirlæti, þvert á móti.

Hitti margt fólk sem ég hef ekki séð lengi en hafði mikið samband við á sínum tíma, Frosta Sigurjónsson lækni, sem var með mér í stúdentaráði,  og Guðrúnu konu hans. Einar Benediktsson sendiherra og Elsu konu hans og við komum okkur saman um að Kristján Karlsson ætti að sjá um nýja væntanlega útgáfu á ljóðum Einars afa hans. Og margt fólk annað, suma hafði ég hitt daginn áður í útgáfuboði hjá Hannesi H. Gissurarsyni en þar var mætt slík hersing af frjálshyggjumönnum að ég fór að velta því fyrir mér að líklega væri þetta óvígur her. Merkilegt hvað Hannesi hefur tekizt að sanka að sér fólki úr öllum áttum. Svo kann þetta fólk að koma sér á framfæri. Það hefur t.a.m. aldrei verið efnt til sopagillis, þótt ég hafi gefið út einhverja skruddu.

En hvað um það, Hannes þrýstir undir drep á mig að ég eigi við hann samtal um eitthvað af því fólki sem ég hef kynnzt um ævina. Það getur orðið ógleymanlegt. Enginn Íslendingur hefur kynnzt jafn mörgu merkilegu fólki og þú, sagði hann við mig í símann um daginn og má það kannski til sanns vegar færa.

En við sjáum til.

Það var gott að vera í umhverfi Ásmundar Sveinssonar en þar var afmæli Gunnars haldið. Það rifjaði upp fyrir mér löngu liðna daga og löng samtöl okkar Ásmundar. Við Gunnar urðum miklir vinir í Háskólanum, ritstýrðum Stefni saman, ásamt Þorsteini Thorarensen. Fórum m.a. saman til Berlínar og áttum þar góða daga. Það var í júní 1953. Þá var borgin enn að miklu leyti í rústum, samt iðandi mannlíf og uppbygging. Kakkalakkar í rústunum.

Tel mig hafa bjargað lífi Gunnars þegar við fórum eitt sinn yfir hraðbraut í miðborginni, hann ætlaði að ganga út á götuna á sama andartaki og strætisvagn kom askvaðandi en ég kippti honum upp á gangstétt. Ef ég hefði ekki gert það, þá hefði ekki verið neitt afmæli. Vorum orðin peningalítil undir lokin en Gunnar bjargaði því. Hann fór á skrifstofu einhverra æskulýðssamtaka sem börðust gegn kommúnistum og fékk styrk! Við komumst þannig til London.

Ég var að sjálfsögðu á vegum Morgunblaðsins og skrifaði um uppreisnina, annars var þetta brúðkaupsferð okkar Hönnu og ógleymanleg í alla staði. Milli okkar Gunnars hefur alltaf verið góður strengur enda er hann drengur  góður og það er gaman að sjá hversu vel þau Elísa hafa haldið sér en mesta ánægju hafði ég af því þegar barnabörnin sungu afmælissönginn til afa síns, svona margir litlir skrammarar á einum stað!

 

Ódagsett

 

Borgin vaknar

1.

Lúðrablástur

úr draumlausum

svefni

 

inn í rísandi vöku

 

borgin

á álfthvítum vængjum

morgunsins.

 

2..

Vakna

 

eins og fiðrildi

fljúgi

úr laufgrænum

svefni

 

hlusta

 

heyra andardrátt hennar

við hlið sér.

 

 

3.

Borgin nuddar

stýrur

úr augum,

 

hvar eru augu hennar,

 

vaxandi tungl

og stjarna

sem er götuljós

þegar dimmir

 

4..

Það dagar

undir orrahríð

óttu og morguns

eins og indjánar

skjóti

örvum

til himins,

 

skjótum örvum

að morgundjöflum,

 

sækja þeir að hugsun okkar,

 

óvígur her.

 

 

 

 

 

5,

Ástfangin

kona

í vesturbænum,

 

hún er

eins og blómin

í gluggakistunni

 

opnar blöðin

mót birtunni,

 

sækir vatn

 

vökvar

6.

Fellur eitt

akarn,

 

eitt akarn fellur

eins og haustlauf

 

á höfuð guðsins

sem gætir borgarinnar.

 

Og jörðin skelfur

 

7.

Ung sáum við

tjöldin blakta

við opinn glugga,

 

einhver dáinn

inn í virðingu sína

í eigin rúmi

 

(nú deyr enginn

heima

nema af slysni)

 

Landakot fagnar

nýjum degi,hér eru þau

öll

 

dofin af slævandi

lyfjum.

 

Hægt slokkna ljósin

eitt af öðru

við  opna glugga.

 

8..

Vindurinn strýkur

laufvana greinar

eins og fínlegur

gítarlófi

margsnoðað höfuð

á Páli,

 

 

 

 

garðurinn vaknar

undir syngjandi

vængjum

 

vindurinn hreyfir

ósýnilega strengi

milli himins

 

og haglsárra

greina

 

9..

Sérhvert tré

tjaldhús

syngjandi fugla

 

leggja þeir vængi

á vorgrænar nálar

grenitrjánna,

 

hreyfist einn

vængur

og annar,

 

fiðrað laufið

syngur

við stólsetta

sól

og svefngráan

himin,

 

syngjandi lauf

 

og syngur

sólgulum degi

til dýrðar,

 

10.

Hægt mjakast suðrið

til vesturs

 

þrestirnir skipta sér

niður á hverfin,

 

við mætum þeim

þar sem geislarnir

glitra

 

morgundaggir

við deyjandi

þögn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

11.

Kirkjan rís

eins og sæljón

úr gamalli minningu.

 

ungir fórum við

holtið

á tunnustöfum,

 

þá var engin kirkja

ekkert sæljón

 

engin borg.

 

Minningin skolast

burt

með snjónum,

 

það er erfitt

að fóta sig í krapinu

 

minningin,

þetta gullna

andartak!

 

12.

Öskukarlinn horfir

til himins,segir

við trén,Allt

vex til vinstri,

 

meira að segja

tunglið!

 

Öskubíllinn

bíður

við gangstéttina,

 

Götur

eru ekki ruslafötur,

 

stendur á honum

stórum stöfum.

 

Það er garðilmur

í lofti.

 

13.

Með aðra hönd

á farsíma,hina

á stýri

ekur Jónas

til vinnu,

 

rautt ljós

og kemur sér vel

 

senn lifnar

talvan

 

ljósvakaaugun

gulu

 

senn kemur Gróa

í morgunkaffið.

14.

Á þessu horni

varð Geiri

fyrir bíl

 

og dó

 

lögreglunni

til heiðurs,

 

klukkan á Hlemmi

fimm mínútur

í níu

 

og ég sé hann enn

í bláum samfesting

og þykkum

stígvélum.

 

15.

Gult hús

með grænu skyggni

og grænum hlerum,

 

vængir starranna

fiðrað lauf

í sjónvarpsskógi.

 

Í næsta húsi

nývöknuð kona,nuddar

stýrur

úr augum,dregur frá

 

horfir út í  hversdagslegt

tómið,horfir

á fólkið flykkjast

inn í strætisvagn,

 

teygir úr sér

eins og köttur

leggst aftur

upp í rúm.

 

hlustar

á borgina vakna,

 

hugsar.

 

Í nótt var hún með nætur-

gala í lófanum,

nú er hann floginn

úr fingurmjúku

búri.

 

 

 

 

16

Morgunþotan skrifar

nafn sitt

í fölgráan himin

 

(gráan sand

samkvæmt bókinni)

 

og geislarnir

fleyta kerlingar

á báróttum

húsgöflum.

 

17.

Rauður fáni

við kínverska

sendiráðið

 

berst hetjulega

við norðanvindinn,

 

rauður himinn

með hálfmána

og gulum stjörnum,

 

nátthúfulaus

horfir sendiherrann

út í vindinn

 

það er köttur

í garðinum,

engir fuglar,

 

hann , herra Yang

og Zhen

undirbúa kvikmynda-

sýningu síðdegis

þennan dag,ef Mao

lofar

 

verksvið þeirra

Bing Dao;

 

að muna hugsar

sendiherrann,

það er siðmenning;Fjöllin

dansandi silfuhögg-

ormar

og hæðir eins og vaxfílar

þrammi

eftir sléttunni.

 

 

18.

Kirkjan tóm

eins og  höfuð

Sigríðar,

 

svo glymur

 

 

 

og hún nývöknuð

af draumlausum

svefni.

 

19

Blá

blikkandi ljós

 

eins og viti

í fjarlægu

brimi,

 

færist nær

 

nær

 

eins og dauðinn.

 

 

20.

Vatnsþróarlaus

vaknar borgin

 

hægt

 

eins og vorlauf

á birki

 

hægt vaknar

borgin

 

og bíður.

 

 

 

 

21.

Kranarnir hreyfa

langa arma

að óvissri

framtíð.

 

skurðgrafan hikstar

í  Fossvogi

 

Jakinn rumskar

í Sundahöfn.

 

 

22.

Innrömmun,

 

og plakat

eftir Louisu Matthíasdóttur

í glugga,

 

myndlaus spegill

á vegg.

 

Nývaknaður kemur

dagurinn í heimsókn,

 

birtist

eins og nýmáluð

mynd

á spegilsléttu

vatni.

 

23.

Þorskhausar

í grófmöskvuðu

 neti,

 

horfum til himins,

 

reynum að gera

samning við guð,

 

hann bíður

átekta

 

eins og  fiskbúð

Hafliða,lokuð

í hádeginu!

 

 

24

Enn færist blátt

vitaljósið

 

nær,

 

nær færist

blikandi ljós.

 

Dauðinn.

 

25.

Laugardags-

morgunn,

 

fólk lifnar

eins og flugur

í Kolaportinu

 

básarnir

flugnaveiðarar

við dauft ljós,

 

þarna er sjónvarps-

prédikarinn

alþekktur

fyrir stríð sitt

við Satan,

 

halelúja

 

 

 

 

hrópar guði

til dýrðar,gluggar

í gamlar

bækur:Kynlíf

og grái fiðringurinn,Víagra

lykill að fullsælu,Lísa

í Undralandi,

 

tælenzk augu

suðandi freisting

við dauft ljós.

 

26.

Borgin bíður

laufgrænna

daga

 

eins og tré,

 

á háskólatúninu

grágæsir

 

og borgin vaknar

undir vængjum þeirra.

 

27.

Bretasaga Schama

í Eymundsson,

 

mynd af hauskúpu,

 

hvítar tennur

sem eru perlur,

 

hver varst þú

unga kona í miðalda-

myrkri Svarta

dauða

 

hver hefði ekki sundriðið

Tungufljót

fyrir svo hvítar perlur?

 

28.

Og víkingaskipið

á Skúlagötu

stefnir

 

til hafs,

 

hugsun okkar

tveir hrafnar

í fylgd með því.

 

 

 

 

 

 

29.

Esja

með hvítan

prestakraga messar

yfir mávum

og hröfnum,

 

hrafninn

skiptir sér niður

á sóknirnar.

 

30.

Og þarna á Tjörninni

öndin

sem sat á fúleggi

í vor sem leið,

 

það var hugmynd okkar

um himnaríki.

 

Við stöndum

á öndinni

 

meðan guð

situr við

tölvuna

 

semur forrit

að nýjum draumi,

 

en sjófuglar fljúga

forritslaust

inn í þangbrúnt

hvassviðri

morgunsins.

 

Febr.01

 

 

Ódagsett

 

Efni

í fyrirlestra

 

Kristján Karlsson lagði blessun sína yfir ljóðaflokkinn ...þær inar glæddu götur. Sagði sem rétt er hann væri öðruvísi ortur en ég hefði áður gert,  hann færðist í aukana og næði hámarki í 19.-22. erindi eins og rétt var,  en honum lyki ekki þar,  heldur síðar. Flokkurinn væri afslappaður og án alls óðagots. Hann hefði áhuga á því að sjá þetta á prenti. 

Kristján sagði ég þyrfti engar áhyggjur að hafa af skrifum SAMs,  þau gerðu mig bara próblematískari eins og hann sagði; og meira spennandi!!

Ég fékk hjá honum fjögur ný og nýbreytt kvæði,   þ. á m. Bókasöfnin í Amsterdam sem ég á í frumgerð og kvæði um Pál postula,  nýtt. Þau eru svona:

 

Bókasöfnin í Amsterdam

Afsakið vinsamlegast, dýru dömur,

hlið við hlið í gluggakistum en

mitt gamla þorpsbókasafn og

löngu fallið rís hvítt glugghátt

virkisbyggt con merlatura

andartak

milli ykkar og mín

                     hillu af hillu

 

Engéne Sue: Les Mystéres de Paris

íslensk þýðing tvö hundruð myndir

franskir listamenn norsk Sund-

hedspleje á dönsku, sundlíf kynlíf

fjöll og dalir. Sigurður Haralz:

Nú er tréfótur dauður (hóruhús í

Orienten?) Prófessor Richard von

Krafft-Ebing, Vín: Pzychopathia

Sexualis, dönsk þýðing, sumt

                                   án efa

beztu dæmin úr lífinu klætt í sið-

ferðisbuxur úr ósigrandi latínu

...hver og hvaðan varstu sem stalst

að heiman falleg úfin freknótt að

lesa með mér þessi fræði hver ó hver?

 

ó lærðu dömur á bökkum síkis í

gamalli göfugri borg Amsterdam

ó gömlu bækur.

 

Atburðurinn

Sem illmenni í verki hataði hann

hreinleik og dáði  hreinleik að

sama skapi

 

heyrði í svefnförum söngljóð um

kvenlega prýði sem honum þögnuðu

á daginn

 

sá, en í hillingum sumardaga svo

fagra að þeir stóðu kyrrir

                                   Guðs

vegir sagði hann eru rannsakanlegir

 

einn heiðan sumardag sá hann

hvítklædda veru við veginn hún

benti honum til sín: myrkur dró

fyrir sólu ...hann kom að vísu

til baka en hvorki sem fálátur

maður með varnaðarorð um veginn

austur - né kennimaður um teikn

sem þér blindir smáið

                                   nei sagði

hann hinsvegar óttast ég meira

og meira þá sem ég þekki.

 

Bókasöfnin í Amsterdam hefst á gleðikonum sem er stillt upp eins og bókum, en þær eru ekki í hillum, heldur úti í glugga. Þetta minnir Kristján á bókasafnið í Húsavík sem Benedikt á Auðnum stjórnaði. Þangað fór hann oft og sá alls kyns bækur, sumar voru klámbækur sem Benedikt þótti nauðsynlegt að hafa með sem framlag til þjóðfélagsmála í safninu. Þá fengust ekki lánaðar heim klámbækur, ekki frekar en vændiskonurnar í Amsterdam. Auk þess mundi það vekja óþægilega athygli að óska eftir slíkum heimlánum. En drengurinn er sólginn í þessar bækur allar og þarna er einnig stúlka að austan sem er gráðug í klámritin. Það vekur athygli hans, eykur skemmtunina og forvitnina. Þarna eru allskyns bækur, Leyndardómar Parísarborgar og eftir Sue, Sykópatia Sexúalis eftir Ebing, sem rannsakaði afbrigðilegt kynlíf í Vín þar sem hann var prófessor, latínan ósigrandi,  con meraltura  stallar kringum þak og milli þeirra op; e.k. vígskörð. Arkitónískt skraut.

Atburðurinn fjallar um Pál postula og menn sem minna skáldið á hann, Luðvík Guðmundsson t.a.m., rafvirkjameistara (og Bensa á Vallá). Karlinn virðist vera verulega tortrygginn eftir að hann sér sýnina skv. síðustu línunni. Hann viðurkennir sýnina, en neitar að hafa batnað við hana, sem er algengt. Þolir samt ekki að viðurkenna það. Þessi sýn birtist á leiðinni austur, þ.e. á Mosfellsheiði - en ekki á leiðinni til Damaskus.

Kristján hefur Pál í huga vegna þess að hann er frægasta dæmi í heimu um sinnaskipti. Hann var enginn venjulegur kennimaður eða prédikari, þótt hann legði undirstöðurnar að kristinni kirkju.

Atburðurinn  er ek. heilagt orð og notað í jólaguðspjallinu.

Eftir sýnina sér karlinn þá sem hann þekkir í skarpara ljósi en áður, og óttast þá meir. Hann er tvískiptur, brútal illmenni í aðra röndina (og þess vegna ekki sízt er atburðurinn mikilvægur), en dáir fegurð. Hann er sentimentalisti. Bensi á Vallá gat verið klámkjaftur, en þegar hann biður KK að finna orð yfir stóran bor og Kristján nefnir stingböllur, fór Bensi hjá sér, en ef það hefði verið um mann hefði allt verið í stakasta lagi! Lúðvík var athafnamaður út úr Balzac sem var höfundur slíkra karla í verkum sínum. Lúðvík var talinn einhverskonar illmenni og gekk svolítið upp í því að nota brútal orðalag um konur, en þá einnig bókamenntaleg orð eins og prýði - og þá gjarna sem gagnrýni eða háð um greinina.

 

 

Þýðingar

Menn hafa haft ýmsar skoðanir á þýðingum og aðferðum við þær. Ég hef fjallað nokkuð um þýðingar Jónasar Hallgrímssonar í skrifum mínum um hann, einkum í kafla sem heitir Útlönd í íslenzku umhverfi. Þar segi ég m.a.í tengslum við þýðingar hans á ljóðum þýzku skáldanna Schillers og Heines að Jónas hafi eiginlega hvorki þýtt kvæði né útlagt. Hann hafi umskapað hugmyndir og flutt hingað heim. Hafði sem sagt ekki áhuga á öðru en yrkja gott kvæði á íslenzku úr útlendum efnivið. "Með þessum kveðskap sló hann tvær flugur í einu höggi: endurnýjaði íslenzkar bókmenntir og kynnti mikilvægustu hugmyndir samtímans í erlendum skáldskap. Svo virðist sem þessi kveðskapur hafi stundum átt undir högg að sækja á fundum í Fjölni þegar ekki voru allir á eitt sáttir um aðferð Jónasar. Hann var andstæður bókstafsþýðingum og hélt fast við sína stefnu, hvað sem öðrum leið. Hann var enginn aukvisi þegar á reyndi og sannfæringin var annars vegar."

Og þar segir ennfremur að hugmyndaflutningur Jónasar hafi auðgað íslenzka ljóðlist og endurnýjað: "Og það eru ekki sízt gamlir bragarhættir og grónir eins og fornyrðislag og ljóðaháttur sem fá nýtt og fersk yfirbragð í þessari endursköpun. Þótt umbúðirnar séu mikilvægar er innihaldið sú upplyfting sem sköpun skiptir fyrir hugsun okkar og menningu."

Sem dæmi um þessa endursköpun Jónasar Hallgrímssonar nefni ég að þýðingarnar séu nánast eins og frumort kvæði á íslenzku og bendi á að Stóð ég úti í tunglsljósi hafi verið þýtt á dönsku!

Sem dæmi um þýðingaraðferð Jónasar eru nefnd tvö erindi eftir Heine sem hann endurskapar með þessum hætti:

 

Ómur alfagur,

ómur vonglaður,

vorómur vinhlýr

vekur mér sálu;

ljóðið mitt litla

léttur vorgróði!

lyftu þér, leiktu þér

langt út um sveit.

 

Hljóma þar að húsum,

er heiðfögur

blómin í breiðri

brekku gróa;

lítirðu ljósasta

laukinn þar,

berðu, kært kvæði!

kveðju mína.

 

Á frummálinu svohljóðandi:

 

Leise zieht durch mein Gemüt

Liebliches Geläute,

Klinge, kleines Frühlingslied,

Kling hinaus ins Weite.

 

Kling hinaus bis an das Haus

Wo die Blumen sprieben.

Wenn du eine Rose schaust,

Sag, ich lab sie grüben.

 

Jónas þýðir ekki, né útleggur. Hann endurnýjar. Í raun mætti segja að hann leggi út af orðum Heines. Þýðing hans er þannig tilbrigði við Leise zieht durch mein Gemüt, en Steingrímur Thorsteinsson þýðir svo síðar og notar þá aðra aðferð, hina bókstaflegu þýðingu: Mér um hug og hjarta nú... o.s.frv.

 

Borges talar um tvenns konar þýðingar, hinar bókstaflegu þýðingar og svo þær sem minna á aðferðir Jónasar Hallgrímssonar. Hann segir að þýðendum sé vandi á höndum, ekki sízt vegna þess að þeir þurfi að koma til skila því sem hann kallar orðtónlist og ljóðrænn hljómur í hinum þýddu ljóðum. Hann segist ekki vita hvenær sú stefna upphófst að þýða bókstaflega, en telur að það hafi verið með Biblíuþýðingum. Luther hafi t.a.m. ekki lagt áherzlu á estetískar umbúðir biblíuþýðinga sinna, heldur nákvæmni og trúnað við frumtextann. Fram að því hefðu menn þýtt eins og þeim sýndist og voru lausir við bókstafsþýðingar; fóru sem sagt sínar leiðir.

En  Biblían var guðs orð, talið að heilagur andi hefði samið hana og maður hverfur ekki frá texta heilags anda, maður fylgir honum út í æsar. Það sem guð hugsar og lætur frá sér fara hlýtur að vera fullkomið, það verður hvorki endurbætt né betrumbætt, allra sízt endurskapað, en það má leggja út af því og ekkert eðlilegra en slíkur texti kalli á margskonar tilbrigði. Mér er nær að halda að biblíuþýðingar íslenzkar lúti lögmálum bókstafsþýðinganna, hinar fornu þýðingar eru að sjálfsögðu á rismiklu máli, en ég sé ekki betur en síðasta endurnýjun biblíuþýðinga hafi það að markmiði að færa textann nær uppruna sínum. Við því er að sjálfsögðu ekkert að segja. En tilbrigði skortir ekki eins og dæmin sýna.

Borges hefur mikinn fyrirvara á bókstafsþýðingum. Hann hefur samúð með þeirri fullyrðingu breska skáldsins Matthew Arnolds að bókstafsþýðingar kalli á falskar áherzlur. Arnold lenti á síðustu öld í ritdeilum við grískan lærdómsmann, Newman, sem reyndi að þýða Hómer á upprunalegu hexametri og hugsaði þá þýðingu til höfuðs Hómers-þýðingum Popes. Hann fór nákvæmlega eftir frumtextanum og talaði m.a. um "blautar öldur", "víndökkt haf". Þessa aðferð gagnrýndi Arnold í ritdómi en Newman svaraði fullum hálsi og af þessu spruttu hinar merkustu ritdeilur því að báðir höfðu þessir menn ýmislegt fram að færa viðvíkjandi þýðingum. Newman var sannfærður um að bókstafsþýðingar væru hin eina trúverðuga leið að frumtextanum. Arnold taldi aftur á móti að þýðandanum væri skylt að koma á framfæri kjarnanum í kviðum Hómers, skýrleika, göfgi og látleysi. Á þetta, ekki sízt, þyfti að leggja þá áherzlu sem bókstafsþýðingum væri um megn.

Borges tekur sem dæmi um bókstafsþýðngar að í rómönskum málum segi fólk ekki: Það er kalt, heldur: Það gerir kalt o.s.frv. Samt mundi enginn þýða úr rómverskum málum og segja Það gerir kalt. Á íslenzku er sagt Góðan dag, en á spænsku  Góða daga (Buenos Dias). En enginn segði á íslenzku góða daga. Allt slíkt þarf að varast í þýðingum og verður ekki gert með bókstafnum einum, heldur umsköpun. Það er þessi umsköpun sem er ekki sízt mikilvæg í þýðingum, en hún er að sjálfsögðu ekki hin sama og endursköpun eða tilbrigði við hugmyndir.

Á þýzku er talað um Umdichtung, einnig Nachdichtung og loks Übersetzung. Borges gagnrýnir þá bábilju að þýðing þurfti alltaf að vera lakari en frumtextinn. Hann heldur mikið upp á Baudelaire en telur að þýðing þýzka skáldsins Stefan Georges, sem sé að vísu minna skáld en Baudelaire, eins og hann kemst  að orði, á Fleurs du mal sé betri en frumtextinn! En það vita allir að slík fullyrðing um eitt af brautryðjendaverkum módernismans jaðrar við guðlast, þó að Stefan George hafi verið ágætt skáld.

Ég kann ekki þau skil á þessum tveimur tungumálum, frönsku og þýzku, að ég geti haft á þessu neina skoðun. En fullyrðing Borges er hvað sem öðru líður harla íhugunarverð. Ég geri ráð fyrir því að Stefan George, sem var mjög fínt persónulegt skáld, hafi farið sína leið og notað sína aðferð. Og ef kvæðin eru betri í þýðingu en á frummálinu hlýtur hann að hafa haft aðferð miðaldanna að leiðarljósi, þ.e. að endurskapa. Á þeim tímum voru lesendur ekki með hugann við höfunda, ekki endilega. Íslendinga sögurnar eru höfundalausar og raunar mest af bókmenntum okkar frá miðöldum. Það má einnig gera því skóna að lesendur Popes hafi hvorki verið að hugsa um Hómer né Pope, þegar þeir lásu þýðingar hins síðarnefnda, a.m.k. ekki beztu lesendurnir, því að þeir hafa verið með hugann við kvæðin sjálf, list þeirra  og efni.

 

Sjálfur hef ég þó nokkra reynslu af þýðingum. Hef bæði þýtt bókstaflega, umorðað, notað hugmyndir; endurskapað. Mig langar því áður en lengra er haldið að taka dæmi um hið síðastnefnda.

 

Þegar ég var í Skotlandi haustið 2000 las ég mikið eftir Robert Louis Stevenson, einkum kvæði. Þau höfðu áhrif á mig, þetta létta form og þessi einlægi talmálsstíll. Ég ákveð að snara nokkrum kvæðum Stevensons á íslenzku og birti þau svo í minni gerð. Ég hugsaði mikið um hvernig það skyldi gert og komst að lokum á þá skoðun að bezt væri að nota aðferð sem mörgum kynni að þykja gjörsamlega út í hött, þ.e. að ganga feti lengra en Jónas í endursköpunum sínum. Ég tek einungis sem dæmi tvö þessara ljóða. Annað heitir A Portrait, hitt A visit from the Sea. Þau eru bæði í ljóðabókinni Underwoods, eða lágskógargróður. Í hvorri þýðingu um sig er einugis notað eitt orð úr frumtextanum sem meðvituð tenging við hann. En að öðru leyti eru hugmyndir beggja kvæða Stevensons umskapaðar í íslenzkum búningi.

Í kvæðinu a Vist from the Sea er notað orðið mávur en í A Portrait  orðið api sem einu tengingarnar við frumtextann. Í fyrra kvæðinu er íslenzki búningurinn ekki ólíkur hinum skoska en í síðara kvæðinu er endursköpunin róttækari, bæði hvað snertir form og inntak. A Visit from the Sea er svohljóðandi á ensku:

 

Far from the loud sea beaches

   Where he goes fishing and crying.

Here in the inland garden

   Why is the sea-gull flying?

 

Here are no fish to dive for;

   Here is the corn and lea;

Here are the green trees rustling.

   Hie away home to sea!

 

Fresh is the river water

   And quiet among the rushes;

This is no home for the sea-gull

   But for the rooks and thrushes.

 

Pity the bird that has wandered!

   Pity the sailor ashore!

Hurry him home to the ocean,

   Let him come here no more.

 

High on the sea-cliff ledges

   The white gulls are trooping and crying,

Here among rooks and roses,

   Why is the sea-gull flying?

 

 

Heimsókn af sjónum

 Langt frá strönd og stormum

stefnir hann hingað og svífur

hátt yfir grasi og görðum

gamall sem híeróglýfur

 

mávurinn okkar sem eltist

alltaf við trosið í sjónum,

af hverju leitar hann löngum

að lífsbjörg í fallega grónum

 

görðum með trjám og grasi

og glaðhlakkalegum rósum,

leitar þar einhvers sem aðeins

er ætlað vængjaljósum

 

litlum fuglum sem flögra

frjálsir við blóm og greinar

mávurinn gamli sem grefur

til gulls við bylgjurnar einar.

 

Segjum honum að hafið

sé hvítur vængur á mávi,

það fari honum illa að fljúga

sem fluga á gulnuðu strái.

(A visit from the Sea)

 

 

A Portrait er svohljóðandi:

 

I am a kind of farthing dip,

   Unfriendly to the nose and eyes;

A blue-behinded ape, I skip

   Upon the trees of Paradise.

 

At mankind's feast, I take my place

   In solemn, sanctimonious state,

And have the air of saying grace

   While I defile the dinner-plate.

 

I am "the smiler with the knife, "

   The battener upon garbage, I -

Dear Heaven, with such a rancid life,

   Were it not better far to die?

 

Yet still, about the human pale,

   I love to scamper, love to race,

To swing by my irreverent tail

   All over the most holy place;

 

And when at length, some golden day,

   The unfailing sportsman, aiming at,

Shall bag, me - all the world shall say,

   Thank God, and there's and end of that!

 

 

Andlitsmynd 

Að lokum þegar úti er allt

og ekkert nema myrkrið svart

og sálin deyr og sólin frýs,

þá skal ég þakka þúsundfalt,

ég þakka, guð minn, nauman part

af verki þínu, fús ég fer

í ferðalag um paradís

og ekkert skal þá ama að mér,

ég hanga mun sem api efsti

í ótal trjám ef færi gefst.

(A Portrait)

 

Að lokum langar mig til að nefna umfjöllun Borges um Omar Khayyám og ljóð hans í hinni frægu gerð Fitz-Geralds sem var óþekktur með öllu þar til skáldin Swinburn og Rosetti rákust á hina fögru ensku þýðingu  hans á Rubáiyát sem Einar Benediktsson kallar Ferhendur tjaldarans.

Borges staldrar við tvö erindi Awake! For morning in the bowl of night og Dreaming when dawn's left hand was in the sky...

 

Erindin eru svohljóðandi á ensku:

 

Awake! For morning in the bowl of night

Has flung the stone that puts the stars to flight;

And, lo! the hunter of the East has cough

The Sultan's turret in a daze of light.

 

Dreaming when dawn's left hand was in the sky

I heard a voice within the tavern cry,

"Awake my little ones, and fill the cup

Before life's liquor in its cup be dry."

 

Þetta eru tvö upphafserindi kvæðisins, þau eru svohljóðandi í þýðingu Einars Benediktssonar:

 

Sjá næturröðla hrökkva einn og hvurn

við hnattkast dags í rökkurhvolfsins skurn.

Nú vak. Af Austurvegi máttug hönd

slær veiðimöskva ljóss um soldáns turn.

 

Nær dögun réttir hönd  að loftsins hurð,

ég heyrði að skytings-borðum draums míns Urð:

"Nú vaknið sveinar, fyllið bikra' á barm

og bergið. - Lífsins vökvar ganga' í þurrð."

 

Og Magnús Ásgeirsson þýðir svo:

 

Upp! Vak! Í húmsins hvolfskál Morgunn nýr

þeim hnetti varp, er sérhver stjarna flýr.

Og sjá! Úr austri björt og hæfin hönd

um háturn soldáns vað úr geislum snýr.

 

Er Dögun vinstri hendi á himin brá,

ég heyrði í draumi æpt úr kránni: "Sjá,

á lífsins staupum lækkar, börnin góð!

Ó, lyftið þeim, á meðan færi er á!"

 

Það er fróðlegt að bera þessar þýðingar saman og þá ekki síður við það sem Borges segir. Hann heldur því fram að Fitz-Gerald hefði ekki komizt upp með að nota orðfæri sitt í frumkvæði, þótt það þyki nú glæsilegt i þýðingunni, og tekur dæmi þess. En hitt er mikilvægara að hann heldur því fram að aðalorðið í þessum hendingum sé: vinstri, eða left hand. Línurnar hefðu orðið merkingarlausar ef önnur orð hefðu verið notuð. Ástæðan sé sú að orðnotkunin "vinstri hönd" sé svo frumleg skírskotun að hún setji erindið í nýtt, óvænt ljós: draumurinn sem persinn vaknar af þegar dögun bregður vinstri hendi á himin sé svo óvenjulegur að af honum stafi ógn og hann hljóti að breytast í martröð fyrr eða síðar. "Vinstri" breyti andrúminu gjörsamlega, geri það í senn ógnlegt og dulúðlegt. Við látum okkur "vinstri hönd" vel líka vegna þess að við teljum eða gerum ráð fyrir því að það sé persneskur frumleiki að baki þessarar fullyrðingar.

En það er þá ekki sízt merkilegt að Magnús Ásgeirsson notar þessa "vinstri hönd" í sinni þýðingu, en Einar Benediktsson sleppir henni með öllu og lætur sér nægja að dögun rétti hönd á loftsins hurð, en þá er hann líka byrjaður á endursköpun í anda Jónasar. Magnús Ásgeirsson hefur meira þrek til þess að halda sig við bókstafinn og frumtextann.

Ég skal ekkert segja um ágæti þessara aðferða, galla eða mistök, en þykist þess þó fullviss að Jorge Louis Borges hefði tekið þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar fram yfir þýðingu Einars Benediktssonar hvað varðar vinstri höndina, en aftur á móti hefði hann þá einnig, og ekki síður, fallið fyrir endursköpun eða sköpun Einars Benediktssonar.

 

Það blasa að sjálfsögðu við margvísleg vandamál þegar fjallað er um skáldskap, ekki sízt nútímaskáldskap eða svokallaðan modernisma. Eitt er það að modernismi er í raun og veru óskilgreinanlegur því hann er, eins og annað sem mikilvægt er í lífi mannsins,  margbreytilegur og auðvitað runninn frá ólíkum rótum eins og annað sem skiptir máli. Eitt hefur áhrif á annað og ekkert verður til af engu, ekki einu sinni módernisminn svokallaði, en þó virðist eins og sumir sem leita skýringa á honum  fjalli um hann eins og eitthvað eitt fyrirbrigði í nútímaskáldskap en hann er að sjálfsögðu sprottinn úr ólíkum jarðvegi. Íslenzkur módernismi svokallaður er til að mynda harla ólíkur því sem enskumælandi þjóðir flokka undir þessa gerð ljóðlistar. Ástæðan er sú að arfleifðin, hin sterka ljóðlistarhefð okkar, eða bragfræði, hefur haft miklu meiri áhrif á nútímaskáldskap íslenzkan en til að mynda gömul formfesta enskrar tungu á nútímaskáldskap enskumælandi þjóða. Módernismi enskrar tungu er e.k. akademískur skáldskapur, eða gáfumannalist. Þó má fullyrða að módernismi svonefndur einkennir ekki endilega sum af helztu ljóðskáldum þessarar aldar, til að mynda mætti kalla Auden, Hughes, Philip Larkin  og Fenton módernistísk skáld, jafnvel akademísk skáld en þeir eru þó allir með sterkar rætur í hefðinni. Þetta höfum við einnig upplifað hér heima því að mörg helstu nútímaskáld Íslendinga eiga sterkar rætur í hefðinni og hún hefur sett ákveðið mark á þann módernisma sem við erum sífelldlega að reyna að skýra. Að þessu leyti mætti taka undir það sem Ashbury segir á einum stað í bók sinni um aðrar hefðir að áhrifin leita uppi skáldin, en þau leita ekki uppi áhrifin.

Ekkert blóm er rótminna en arfinn. Hann fýkur í vindi og festir rætur þar sem öðrum blómum er ekki ætlað að blómstra. En rótmeiri jurtir og mikilvægari fjúka ógjarnan, en eru fastar fyrir á því næringarsvæði sem þær hafa kosið sér.

Þessi líking við blómin er ekki út í hött því bæði Borges og Harold Bloom eru þeirrar skoðunar að góður skáldskapur veiti ánægju, gleði, endalausa gleði eins og Bloom tekur til orða. Hann getur alið á einhvers konar kennd sem minnir á ástina. Ljóðin ættu að geta talað til okkar, ekki endilega beint, heldur eins og við hleruðum þau, ef svo mætti segja (overheard). Þau tala til hinnar persónunnar í okkur sjálfum og þess vegna lesum við ekki sízt til að leita að henni; okkar innra manni. Það var víst John Stuart Mill sem fyrstur setti fram þessa hugmynd um hvernig við hlerum góðan skáldskap, það var í What is Poetry 1833 þegar hann segir um Mozart að við ímyndum okkur að við hlerum tónlist hans. Ljóðlist sé einnig hleruð.

Allt á þetta að sjálfsögðu við um góða ljóðlist. En hvað er góð ljóðlist? Ég hef alltaf talið það góða ljóðlist sem ég hefði viljað yrkja sjálfur. Ég hef ekki annan betri mælikvarða og þess vegna þótti mér það fremur uppörvandi þegar ég rakst á þau ummæli Blooms að bandaríska skáldið Robert Penn Warren hefði sagt eftir að hann hafði farið með Örninn eftir Tennyson í hádegisverði með Bloom, Ég vildi óska að ég hefði ort þetta! Og Bloom bætir við, Sá sem lærir Örninn utan bókar gæti farið að ímynda sér að hann hefði sjálfur ort ljóðið. Hann heldur því fram að það sé harla mikilvægt að læra ljóð utan bókar, hlusta á þau í huganum, helzt í tíma og ótíma, því þannig seytli þau inní mann, tónlistin, hrynjandin, efnið. Þannig getum við hlerað mikilvæga reynslu og nýtt okkur hana. Ég á að sjálfsögðu ekki við að hlera eins og Þorkell hleraði kvennahjalið í Gísla sögu Súrssonar því það varð upphaf mannvíga, heldur í því skyni að njóta, upplifa; reyna eitthvað nýtt og óvænt, verða ástfanginn ef svo ber undir.

Borges leggur mikla áherzlu á metafórur í skáldskap en segir að þær séu ekki einungis tilraun til einhvers samanburðar eins og oft er, þegar skáld reyna að stytta sér leið, tunglið er eins og þetta og þetta. Nei, metafórurnar geta verið flóknari en svo. Hann bendir á ljóð eftir Robert Frost þar sem eru þessar línur:

 

For I have promises to keep

And miles to go before I sleep

And miles to go before I sleep

 

 

Þetta segir Borges að sé metafóra, að vísu ekki augljós, því að fyrsta línan ein sér sé einskonar yfirlýsing og ekki annað. En með næstu tveimur línum And miles to go befor I sleep breytist yfirlýsingin í upphafi í myndhvörf. "Miles" merki "dagar" eða "ár", þ.e. langan tíma en "sleep" merki að því er virðist "dauði". Samt sé ánægja okkar ekki einungis bundin við þessar yfirfærðu merkingar heldur öllu heldur við tilfinninguna sem fylgir endurtekningunni.

Borges segist hafa iðkað einskonar klassískan skáldskap þegar hann var yngri, en síðar hafi hann orðið sannfærður um að svokallaður frjáls skáldskapur eða óbundinn skáldskapur sé miklu erfiðari viðfangs en hin eldri formfesta. Skáldskapur hafi byrjað með henni og það sé nægileg sönnun fyrir fullyrðingu hans. En þá komum við að því vandamáli hvernig unnt sé að festa hinn óbundna skáldskap í minni eins og hefðbundinn skáldskap. Það er mikill munur á því að læra hefðbundið ljóð eða óhefðbundið. Ég hef að vísu reynslu fyrir því að margt fólk getur lært óhefðbundinn skáldskap. Þegar Jörð úr ægi kom út var mér sagt af nokkrum konum sem höfðu lært ljóðaflokkinn utan bókar. Ég efast ekki heldur um að margir hafi kunnað heilu kaflana í Söngnum af sjálfum mér eftir Walt Whitman, en samt er þessi nýi skáldskapur erfiður að þessu leyti og þar af leiðandi erfiðara að hlera hann með þeim hætti sem Bloom talar um. Það má þá einnig benda á að þessi nýi skáldskapur byggist ekki sízt á óvæntum hugmyndum, óvæntum líkingum og metafórum og þessi óvænta reynsla ætti þá að koma í staðin fyrir hið hefðbundna söngl sem Harold Bloom telur svo mikilvægt.

Goethe leggur einni persónu sinni þessi orð í munn, Jæja, þú getur sagt við mig hvað sem þú vilt en enginn neitar því að ég er samtímamaður. Borges segir að það sé enginn munur á þessari setningu og þeirri óskhyggju margra skálda að þau séu modern. Hann ber litla virðingu fyrir því að skáld séu modern. Við erum modern, segir hann, við þurfum ekki að streða eftir því.

Sem sagt, við lifum í nútímanum og sem slík hljótum við að iðkað nútímaskáldskap, ef við erum að yrkja á annað borð og þá skiptir ekki máli hvort við erum hefðbundin skáld eða fulltrúar hins óbundna frálsa ljóðs. Mörg skáld eru sem betur fer fulltrúar allrar gerðar ljóðlistar en það er sama hvaða gerð þau iðka, þau geta ekki verið annað en nútímaskáld. Jónas Hallgrímsson er ekki fornskáld þótt hann yrki með köflum í eddukvæða-stíl og hefðbundið skáld nútímans er ekki rómantískur nítjándualdar draugur því að umhverfi hans er nútíminn, tilfinningar hans og sýn á umhverfið er að sjálfsögðu samtíminn sem hann lifir í eins og við hin, en ekki umhvefi Keats, Schillers eða Benedikts Gröndals. En formið er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt. Hitt er þó mikilvægara að það hæfi efninu. Í ljóðlist er það einatt  svo, að hægt er að segja efni langra ljóða í nokkrum línum, en lesendur sækjast ekki eftir því. Þeir sækjast eftir fyrrnefndri reynslu, fyrrnefndri gleði og ánægju; ekki endilega ánægju af því að kvæðið er einhvers konar skemmtiefni, revía, gamanleikur; þvert á móti. Ánægjan felst í því að upplifa fagleg og estetísk eða listræn tök á efni sem fjallar ekki sízt um ástir, sorg og dauða. Það eru tökin sem skipta öllu máli. Það geta allir sagt söguna af Bjarti í Sumarhúsum eða Ljósvíkingnum, en það er ekki á allra færi að segja hana af þeirri faglegu reisn og ljóðræna innsæi sem einkennir vinnubrögð nóbelsskáldsins. Þetta gildir raunar um allt, hvort sem um er að ræða handavinnu eða hugarvinnu. Jónas í Stardal sagði að Guðjón í Gljúfrasteini væri svo flinkur að hlaða vegkanta að unun væri á að líta. Allt væri það gert af listrænni tilfinningu. Það var hún sem skáldið erfði öðru fremur eftir föður sinn og það var hún sem skilaði hugmyndum hans þangað sem raun ber vitni.

Sauðkindin og sveitamennska eru ekki endilega kræsilegt umhugsunarefni fyrir nútímafólk, en ef það er í búningi Sjálfstæðs fólks gegnir öðru máli. Það hefði verið hægt að segja þessa sögu á nokkrum blaðsíðum. En hver hefði haft áhuga af því. Hver hefði haft áhuga á því að lesa óbundna frásögn á nokkrum blaðsíðum um það efni sem Milton fjallar um í Paradísarmissi? Það sem skiptir öllu máli er hvernig hann segir frá þessum efnivið. Það eru listrænar umbúðir hans sem hafa skilað þessu margsagða efni Biblíunnar inn í nútímann. Og það eru þessar listrænu umbúðir sem hafa orðið til þess að þýðingar Jóns á Bægisá hafa lifað.

Mér er þó til efs að bókmenntagagnrýnendur leggi þá áherzlu á þessar umbúðir nú um stundir sem vert væri. Þeir hafa tilhneigingu til að ganga framhjá estetískum tökum og listrænum vinnubrögðum. Þeir hafa tilhneigingu til að leggja áherzlu á efnið sjálft, einkum félagslegan þátt þess, þó að það í sjálfu sér ætti í mörgum tilfellum að vera fremur viðfangsefni félags- og stjórnmálafræðinga en þeirra sem fjalla um bókmenntir og fagrar listir.

En þá mætti spyrja: Hvað er að vera skáld? Ég veit það svo sem ekki. Ég held það sé að fylgja tilfinningaástríðu sem skáldið getur ekki sigrast á nema með því móti einu að iðka skáldskap. En til þess þarf tilfinningalegan þroska. Það er eins og sagt hefur verið um syndina. Eina leiðin til að losna við hana er að drýgja synd? Svo getur iðrunin komið á eftir.

Borges hefur þá skýringu á því hvað sé að vera skáld, að það sé einfaldlega að vera trúr ímyndunarafli sínu eða imagination. Hann segist skrifa sögu vegna þess að hann trúi á hana, þó ekki eins og einhverja sagnfræði heldur eins og maður trúir á draum eða hugmynd. Ég held þetta sé rétt. Maður trúir á Moby Dick en þó ekki eitthvert einæði sem er fólgið í því að eltast við hið illa unz það breytist í einhvers konar einelti. Hvalurinn á sitt líf og þótt Ahab sé einfættur af hans völdum þarf hann ekki að eltast við eðlishvöt sköpunarinnar.

Ívar hlújárn er á margan hátt góð saga. En við trúum því ekki að hún fjalli um þann saxneska tíma sem er umhverfi hennar. Hún er sprottin úr rómantísku ferli eins og Niflungaljóð. Hún er ekki sprottin úr þeim norræna jarðvegi Íslendinga sagna sem fjalla um ógnarvald örlaganna og afstöðu hetjunnar gagnvart þessu ógnarvaldi. Það var í Íslendinga sögum sem hetjan birtist okkur í öllu sínu veldi og þá einnig sem einhvers konar framhald af hómerskri hetjudýrkun, en ekki rómanskri viðkvæmni.

 

 

Borges segir það sé nauðsynlegt að gleyma því að flest orð hafi einhvern tíma verið metafórur. Hann segir t.a.m. að setningin Style should be plain yrði óskiljanleg ef við hefðum hugann við upphaflega merkingu orðanna: style, þ.e. stylus, eða penni og plain sem merkir flatur. Með þessa upphaflegu merkingu í huga gætum við aldrei skilið þessa setningu: Penninn ætti að vera flatur í stað þess að stíllinn eigi að vera einfaldur! Eða hvernig ætti að þýða þessar setningar - a.m.k. ekki eftir orðana hljóðan: Hún gekk loksins út; hann lenti í súpunni.

 

Borges segir að það sé engin fullnæging að segja sögu eins og hún gerðist raunverulega. Það verði að breyta, annars séum við einungis eins og blaðamenn eða sagnfræðingar, en slíkir geti þó haft nóg af ímyndunarafli. Og hann tekur Gibbon sem dæmi. Það sé ekki minni ánægja að lesa rit hans um fall Rómaveldis en skáldsögu eftir mikinn rithöfund. Gibbon varð að gera sér margt í hugarlund. Hann þekkti ekki persónur sínar. Hann varð að ímynda sér margt sem gerðist. Og hann hljóti að hafa haft tilhneigingu til að líta svo á að hann sé höfundurinn að falli hins rómverska keisaradæmis! Hann lýsti þessu svo fallega að það kemur ekki til greina að ég fallist á neina aðra skýringu, segir Borges. Hann segist hafa trúað á expression, þegar hann var ungur. Hann hafi viljað finna hárnákvæmt orð yfir sólsetur eða öllu heldur sem óvæntasta metafóru. Nú trúi hann einungis á að gefa í skyn. Vísbending nægi lesandanum.

 

Og af hverju hann hafi aldrei skrifað skáldsögu. Í fyrsta lagi, segir hann, vegna leti; auk þess hafi hann aldrei lesið skáldsögu án vissra leiðinda, en hann hafi marglesið ýmsar smásögur. Þær hafi uppá ánægjulegri flækju að bjóða en langar skáldsögur.

 

Borges segist vera ósýnilegi maðurinn í heimalandi sínu og vitnar þá í samnefnt rit eftir H.G. Wells. En í Bandaríkjunum þar sem hann flutti fyrirlestra við Harward-háskóla sé hann sýnilegur. Þar sé sífellt verið að biðja hann um sögur sem hann hafi gleymt. Hann bætir því við að meining skipti engu, það skipti engu hvað ljóðin merki. Það sem skipti öllu máli sé tónlistin. Hvernig komizt sé að orði. Það sé jafnvel hægt að skynja tónlistina ef hana vanti, t.a.m. í kvæði eftir hann, og ef hana vanti geti lesendur fundið hana upp fyrir skáldið.

Að þessu sögðu las hann sonnettu sína um Spinoza, ekki á ensku heldur spænsku. Í þessu kvæði kemur fyrir setningin: Hugmyndir um drauma í draumi annars spegils. Það segir mikið um þennan látna unnanda íslenzkrar arfleifðar. Það segir mikið um skáldskap og leitina að hinni persónunni í okkur öllum. Hann reyni að hlera þá vizku sem sé einhvers konar svar við þeirri örlagaspurn sem brennur á allra vörum: hver er ég? Á hvaða leið er ég? Hvort er lífið draumur eða veruleiki?

Og í öðru kvæði um Spinoza segir Borges að maðurinn sé byrjaður að hanna guð, en í lok kvæðisins er talað um ást sem hefur enga von um að vera elskuð.

 

 

 

Fyrirlestur

Ég hef annars staðar minnzt á bók Ashberys, other Traditions, þar sem hann fjallar um skáld (minor) og stórskáld (major) og segir frá þeim skáldum sem höfðu mest áhrif á hann ungan, eða eigum við heldur að segja :höfðu mesta þýðingu fyrir hann unganEkkert þeirra er þekkt, þótt ýmsir fullyrði nú að eitt þeirra, T.L.Beddoes, sem fæddist 1803og lézt 1849, eða um svipað leyti og sól rómantíkurinnar hafði verið í hádegisstað, en tók að hníga úr því og þá við dauða helztu skálda á lokaskeiðinu, Keats, Shelleys og Byrons.Örlög Jónasar voru ráðinum svipað leyti, eins og kunnugt er.

Það er harla fróðlegt að sjá hvað þessi óþekktu skáld sem Ashbery  tíundar í bók sinni eru umsvifamikil á sínum tíma, þótt á því hafi slaknað.þar til þau urðu örlagavaldar  á skáldskaparferli annarra eins höfunda og Ashberys.

Þrátt fyrir tímabundna velgengni dapraðist Beddoes flugið, enda gekk hann ekki heill til skógar, og svipti sig lífi að lokum

Annað skáld sem Ashbery nefnir, John Clare(1793-1864) átti miklu meiri vinsældum að fagna en Keats, þegar hann gaf út fyrsta safn sitt 1820, Poemsa Descriptive of Rural Life and Scenery, að vísu fyrsti og síðasti sigur hans sem ljóðskálds. Bókin var gefin út í fjörum útgáfum á þessum árum og seldist í 35oo eintökum, en á sama tíma stóð útgefandinn, John Taylor í miklu basli með þriðju ljóðabók Keats sem kom út sama ár, eða undir lokin í lífi Keats, og tókst ekki á þeim tíma að selja upplagið sem var 5oo eintök.Hann seldi það sem afgangs var síðar fyrir 5o pund, en þá var Keats látinn.

Það er sem sagt ekki þessi sala sem skilur á milli feigs og ófeigs, .heldur önnur  og óvissari atriði.

En hver eru þau?

 

Í  ljóðasafninu Nineteenth Century Minor Poets sem Auden gaf út 1966 og Ashbery vitnar til getur hann nokkurra atriða sem skipta sköpum um það, hvort hægt sé að tala um skáld eða stórskáld:

Stórskáldið yrkir mikið magn af kvæðum, góðum og vondum.

Þau verða að fjalla um margvísleg efni og sýna ótvíræðan frumleika í stíl og afstöðu.Og það verður að vera ótvíræð framför í ljóðlist stórskáldsins og augljós munur á æskuljóðum þess og því sem það yrkir á síðari hluta ævinnar-og þá eru elliárin ekki undan skilin.

Auden bætir því við að skilin séu oftlega miðuð við það ,  hvort sérstaklega sé fjallað um skáldin í háskólafyrirlestrum;ef þau njóti þeirrar virðingar séu þau talin til meiri háttar skálda.

 

Mér er til efs að þessar skilgreiningar dugi með nokkrum hætti.Stórskáld svo nefnd yrkja oft fleiri vond kvæði en venjuleg skáld sem ekki endilega er fjallað um í háskólum og eiga því ekki alltaf betri fyrningar, þegar kemur að sýnisbókum.Auk þess njóta minniháttar skáldin oft og einatt meiri alþýðuhylli en stórskáldin, enda hafa þau tilhneigingu til að vera aðgengilegri og nær þjóðarpúlsinum.

 

Ég er þá þeirrar skoðunar að mörg önnur atriði komi til greina en Auden nefnir og Ashbery lætur sér lynda.Eitt þeirra er, að ég hygg, samfella í hugsun og verklagi sem leiðir af sér merka ljóðaflokka, en mér sýnist flest svonefnd stórskáld skilja eftir sig slíkar ritsmíðar fremur en svonefnd minniháttar skáld, þótt þau geti skarað fram úr í einstökum kvæðum.

Þau skáld sem Auden nefnir til sögunnar sem stórskáld og sleppir því í yfirliti sínu um minniháttar skáldin eiga það m.a. sammerkt, að þau hafa öll samið mikla ljóðabálka, Wordsworth, Blake, Coleridge, Byron, Keats, Tennyson, Browning, Arnold, Swinburne, Hopkins, Yeats, Kipling og Shelley, en um hinn síðast nefnda segir Auden: Ég get ekki notið neins kvæðis eftir Shelley, þótt hann viti það fullvel að hann sé stórskáld og setji hann í þann flokk.Hann fullyrðir einnig að portúgölsku sonnettur Brownings vekji með honum óhug (my taste abhors  them), samt séu þær í öllum sýnisbókum.Hann verði að nota smekk sinn og dómgreind til að skera úr um skáldskap, smekkurinn hafni sonnettunum og dómgreindin segi honum að þær séu ekki góður skáldskapur.Samt telur hann Browning með stórskáldum og þá væntanlega á öðrum forsendum en þessum sonnettum.

En flestum öðrum þykja þær afbragðsskáldskapur.

Auden er ekki í vafa um skáld eins og Wordsworth, þótt hann efist um að hann sé meistari tækninnar, en þá koma aðrir hlutir til,  og ekki finnst honum Swinburne skara fram úr í efnisvali, en hann á þá væntanlega sitthvað annað sér til tekna.Þá má geta þess að Auden varpar fram þeirri spurningu, hvort Hopkins hafi ort nógu mikið til að standa undir því að mega kallast stórskáld eins og flestir bókmenntafræðingar geri.

Auden leggur aftur á móti blessun sína á minniháttar skáldin og skrifar með velþóknun um sum þeirra.Hann nefnir bæði skáldin sem ég vitnaði til úr bók Ashberys.

Allt er þetta harla athyglisvert og ekki síður íhugunarvert.

Svo virðist sem flest þau skáld íslenzk sem talin hafa verið til stórskálda eigi það m.a. sameiginlegt að hafa ort athyglisverða ljóðaflokka, allt frá fornskáldum til okkar daga og mætti þá nefna vörður eins og höfunda Völuspár,  Austurfararvísna,  Sólarljóða, Hrafnsmála, þýðinga Jóns á Bægisá, ef við tökum þær með, Hulduljóð Jónasar, rímur, t.a.m. eftir Sigurð Breiðfjörð, Matthías Jochumsson og Einar Benediktsson, en Útsær hans væri  þá einnig einhvers konar ljóðaflokkur, ekki síður en bálkar Stephans G.Stephanssonar,  og erum við nú komin í næsta nágrenni við þá þrjá ljóðaflokka sem nefna mætti einhvers konar vísbendingu um módernismann hér á landi, atómskáldskapinn eða nýskáldskapinn, svo að nefnd séu nokkur orð sem notuð hafa verrið um þetta nútímalega fyrirbæri. Hér að að sjálæfsögðu átt við Þorpið, Tímann og vatnið og Dimbylvöku.Síðar hafa einnig verið ortir allmargir ljóðaflokkar í einhverjum tengslum við módernismann, en þeir eru utan þessarar umfjöllunar.

 

Þótt hægt sé að bollaleggja um þau efni sem hér hafa verið til umræðu, er nauðsynlegt að festast ekki í fordómum eða alhæfingum, enda augljóst að undantekningar frá þeim vísbendingum eða reglum sem nefndar hafa verið eru svo augljósar, að ekki þarf um að ræða.Það mætti þá til dæmis nefna Bjarna Thorarensen og Tómas Guðmundsson sem dæmi um stórskáld sem engan veginn féllu inn í þá ramma sem  við Auden höfum hér bent á sem einhvers konar einkenni stórskálda, þótt aftur á móti  væri unnt að nefna Jóhannes úr Kötlum sem dæmigert stórskáld að flestu leyti og Davíð Stefánsson  einnig, einkum vegna Gullna hliðsins.Guðmundur Böðvarsson kmist  aftur á móti ekki inn í þennan hóp vegna kirkjugarðsflokksins, svo augljós sem fyrirmynd Edgar Lee Masteers er.Fer þó ekki milli mála að þessi flokkur er vel ortur, og þá ekki síður þýðingar Guðmundar á Dante.

Þessar athugasemdir væru þá einnig í samræmi við fyrirvara Audens í fyrr nefndri sýnisbók, því að þar  er fínum skáldum  og margviðurkenndum eins og Sir Walter Scott,  Elizabeth Barrett Browing, Emily Bronté, William Morris, Robert Louis Stevenson, Housman og Rossetti-systkinunum skipað á bekk með lítt-eða óþekktum skáldum og njóta þau þó öll mikillar virðingar fyrir framúrskarandi, sérstæð og eftirminnileg ljóð.

Sams konar val mætti áreiðanlega gefa út með góðum íslenzkum skáldum og mundi þá vafalaust margur lyfta brún af hneykslun.En þá væri því til að svara, eins og segir hér í upphafi þessarar umfjöllunar, að mörg þau skáld sem unnt væri samkvæmt skilgreiningu Audens að telja til venjulegra skálda eiga ekki minna undir sér í listrænum efnum, ef skoðað væri ofan í kjölinn, en ýmsir þeir sem hafa hlotið stórskáldsnafnbót í íslenzkri bókmenntasögu

Það er því viturlegt að ganga hægt um þessar dyr, fordómalaust og kannski einnig af lítillæti gagnvart þeim skáldum sem eiga ekki upp á pallborðið;minnung þeirra athugasemda sem Auden hafði um Shelley og Browning –og hafa þeir þó báðir verið taldir til höfuðskálda.

 

”Smekkur minn”, segir Auden, ” segir mér raunar, hvers ég á að njóta, þegar ég les (kvæði);dómgreindin að hverju ég á að dást.Það er alltaf talsvert af kvæðum sem maður verður að virða, en getur ekki notið vegna skapgerðar.Hið gagnstæða er ekki endilega  rétt.Ég held ekki mér líki neitt kvæði sem ég virði ekki, en ég verð að minna sjálfan mig á,  að á sumum öðrum sviðum-t.a.m. þegar um er að ræða ofsafengnar kvikmyndir- hef ég nautn af því sem dómgreindin segir mér að sé rusl”

Og loks: ”Nú um stundir er klassísk menntun sjaldgæf og mér er ljóst að ýmis nútímaskáld sem ég virði að mörgu leyti og raunar mjög mikils eru illfær og klunnaleg í bragfræði, eintóna og tilbreytingarlaus.Mig grunar það sé vegna þess þau eru ekki upptekin af bragfræðinni (prosody);þau reyna að spila eftir eyranu.

 

Það væri auðvelt að finna þessum fullyrðingum Audens stað, ef íslenzk ljóðlist, ekki sízt nútímaljóðlist væri grannskoðuð, en ástæðulaust að nefna dæmi.Það er t.a.m. hverjum manni ljóst að skáldin leggja ekki þá alúð við bragfræðina sem tíðkuð var áðurfyrr, enda var svo nefnd formbylting m.a. gerð til að hreina ljóðformið af alls kyns klissjum sem voru orðnar fylgifiskar hins hefðbundna forms.En mér er til efs  að nokkrum manni hafi dottið í hug að útrýma ætti allri bragfræði úr íslenzkum skáldskap, enda hefur það ekki verið gert, þótt mikið skorti á hina bragfræðilegu alúð, ekki sízt ef miðað er við gullaldarskáldskap fyrri ára.

Flest formbyltingarskáldin og margir sporgöngumanna þerirra hafa lagt rækt við margvíslega bragfræði í gömlum stíl, enda hafa þessi skáld verið ágætlega til þess fær og menntuð eins og sést af því að þau eru  mörg hver góðskáld í hefðbundnum stíl, ef því er að skiptaen.Sum þessara skálda hafa þó einkum reynt að sætta þennan nýræktaða akur við gamalt veðurlag hefðbundinnar arfleifðar.

Árangurinn hefur verið misjafn, en oft ágætur.

Þess verður að gæta að módernisminn var öðrum þræði miklu meiri bylting hér á landi en í nágrannalöndunum af þeirr einföldu ástæðu að hér var ekki aðeins gerð rækileg endurnýjun í aðferð og afstöðu og þá ekki sízt ljóðrænni hugsun, ef svo mætti segja, heldur var gerð eins konar atlaga að þúsund ára gömlum arfi sem stóð með miklum blóma á Íslandi og var ekki sízt stolt þjóðarinnar og  eins konar helgidómur, .I nágrannalöndunum hafði þessi arfleifð sungið sitt síðasta fyrir mörgum öldum og er ég þá að tala um stuðla og höfuðstafi, en rímið hafði þó haldið velli, eins og hér heima.En að því var sótt.Þó getur Steinn Strinarr varla hafa átt við það, þegar hann fullyrti að hið hefðbundna ljóðform væri dautt, enda notar hann bæði rím og stuðla í Tímanum og vatninu.Hann var miklu frekar að tala um hina sjálfvirku notkun gamals forms og klissjukenndar hugmyndir í þessum gamla búning;nýja hugsun, nýjan stíl

 

Nýtt andrúm.

Að gömlum gildum var gerð atlaga en ekki góðum skáldskap sem slíkum, enda höfðu módernistarnir mikið dálæti á hefðbundnum skáldskap og aldagömlu formi þeirra fulltrúa hinnar hefðbundnu ljóðlistar sem fram úr sköruðu, Davíðs Stef+anssonar (sem Steinn las eins og Auden Shelley!). Jóhannesar úr Kötlum og Tómasar Guðmundssonar sem hafði haft mikil áhrif á ljóðin í Rauður loginn brann, enda gerði enginn sér betur grein fyrir því en Steinn.

Nú er aftur á móti svo komið að hinn nýi skáldskapur sjálfur  er orðinn alllúinn og harla klissjukenndur, bæði að formi og efni, og ekki út í hött að benda á að stundum er engu líkara en ung skáld yrki út úr blýmóti hvers annars , svo lík og eintóna sem kvæði þeirra eru oft og tíðum. ´Eg hef nefnt þetta áður, án mótmæla.

Það er áreiðanlega kominn tími til að módernisminn fái andlitslyftingu undir forystu ungra skálda, en ekki endilega þeirra gömlu atómskálda sem helzt hafa gert einhvers konar gagnbyltingu í þessu kunna og gamalgróna umhverfi nýskáldskaparins. En það er náttúrlega ekki sama í hverju slík gagnbylting er fólgin.

 

 

Ljóðaflokkar á tímamótum

Þegar litið er um öxl blasir við sú staðreynd að skáld hafa markað ljóðlistarstefnu sína í merkum ljóðaflokkum, bæði hér heima og erlendis og mætti nefna mörg dæmi þess á öllum öldum. Þegar við skoðum umbrotin sem urðu í íslenzkri ljóðlist um miðja síðustu öld er augljóst að formbyltingin grefur sér nýja farvegi í merkum ljóðaflokkum sem sýna hvert stefnir, en þó einkum  hvernig skáldin hugsuðu sér breytingarnar í þessu umróti. Ég er að tala um Þorpið, Tímann og vatnið og Dimbylvöku sem öll stungu í stúf við þá hefðbundnu  leið sem skáldin höfðu markað sér fram að því, að vísu með nokkrum eftirminnilegum fyrirrennurum, eins og kunnugt er.

En nú er markvisst farið að vinna að formbreytingunni og mér sýnast þessar meðvituðu tilraunir hvergi vera augljósari en í þeim ljóðaflokkum sem ég nefndi. Það er þá ekki sízt áberandi að þessi svokallaða bylting er í raun afarsakleysisleg þróun eins og sjá má á því, að hið hefðbundna íslenzka ljóðform er ekki yfirgefið til fulls nema í Þorpi Jóns úr Vör. Tíminn og vatnið er byggður á einhvers konar terzínum eins og Steinn sagði sjálfur, en þær eiga rætur í öðru merkilegur formbyltingarljóði sem vísar fram, Gleðileik Dantes.

Tíminn og vatnið er þannig einskonar samtal við þessa gömlu hefð sem var algjör nýjung á sínum tíma.

Dymbilvaka Hannesar stendur þarna mitt á milli. Skáldið yfirgefur ekki hið hefðbundna form nema með hálfum hug, svo mikilð sem eimir eftir af hefðinni í þessum athyglisverða ljóðaflokki, en rím, stuðlar og önnur einkenni íslenzkrar bragfræði eru þó á hverju strái og setja endanlegt mark á flokkinn. Hann er  þó hugmyndalega séð fyrst og síðast afkvæmi síns tíma eins og ljóðaflokkur Steins, það er í andrúmi og efnistökum þessarar ljóðlistar sem skynja má breytinguna og þá vísbendingu eða stefnuskrá sem þarna er boðuð. Það er horfið frá hefðbundinni hugsun og látið reyna á tungumálið til hins ítrasta-og þá ekki síður lesandann.

Í Þorpinu er hins vegar haldið allri venjulegra, jafnvel hversdagslegri hugsun, en áherzla lögð á formbreytinguna skjálfa og nýjabrumið boðað með henni.

Slíkar stefnuskrár, ef svo mætti segja,  hafa verið boðaðar með ýmsum hætti, t.a.m. þýddi Jón á Bægisá Milton með sínu lagi og lagði þannig grunn að því sem koma skyldi, Jónas getur þess ekki einungis í formi Hulduljóða hvert viðfangsefnið sé, heldur nefnir hann þau hvert fyrir sig, eins og hann hafði áður gert í Íslandsljóðinu sem var einskonar forystugrein Fjölnis í bundnu máli, sr. Matthías og Einar Benediktsson ykja langar rímur og leggja þannig blessun sína yfir epískt ljóðform Sigurðar Breiðfjörðs , hvað sem leið afstöðu Jónasar áður fyrr, Þorsteinn Erlingsson yrkir Eiðinn í ljóðrænum ferhendum ef svo mætti segja, og lýsir þannig afstöðu sinni til þess  hvernig búningur henti bezt viðkvæmum ástaljóðum og Steinn sýnir í Tímanum og vatninu, hvernig eigi að yrkja ástaljóð og flétta þau inn í trúarlega afstöðu og heimspekilegar vangaveltur , svo að úr verði nytt andrúm, ný viðhorf.

Sú aðferð hefur veerið jafnumdeild og hún er fersk, djörf og nýstárleg.

 

Undanfari nýlistar í bókmenntum

Allt hefur sinn tíma, einnig nýlistin í íslenzkum bókmenntum, kölluð módernismi. Hann hófst fyrir alvöru upp úr miðri 20. öld og eru fyrr nefndir þrír ljóðaflokkar sterkleg vísbending um það sem koma skal, en þar mætti einnig nefna önnur ljóð og önnur skáld til sögunnar, eins og kunnugt er.

Þessi nýja bókmenntastefna, ef svo mætti að orði komast, á sér að sjálfsögðu langan aðdraganda eins og allt annað. Hún skrapp ekki fullsköpuð út úr höfði Seifs. Hún var lengi í deiglu og mætti raunar segja að þar sé hún enn. Undanfari hennar er af ýmsum toga, s.s. Fornar ástir Sigurðar Nordals sem birtust 1919, Sorg Jóhanns Sigurjónssonar og Söknuður Jóhanns Jónssonar sem voru birt í Vöku kringum 1926 og leiddu hugann að margvíslegri stöðnun í hefðbundnum skáldskap svo kölluðum, þótt margt væri hátt á hrygginn reist á vegum þessarrar hefðar,  eins og sést t.a.m. af ljóðum Einars Benediktssonar, Davíðs Stefánssonar, Tómasar Guðmundssonar og Jóhannesar úr Kötlum, en samt lá nýi tíminn í loftinu. Hann fylgdi einkum tveimur skáldum, Jóni úr Vör og Steini Steinar.

Ef ég ætti að nefna eldri kvæði sem undanfara þessarar svo nefndu formbyltingar, sem var raunar engin bylting, heldur nokkuð markviss þróun með ymiss konar hliðarsporum eins og Unglingnum í skóginum frá 1924-25 og Rhodymenia palmata sem Kiljan orti um sama leyti og Vefarann mikla frá Kasmír, birt í Lesbók 1926, þá hikaði ég ekki við að benda á Alsnjóa Jónasar og Sorg sem fyrr er nefnt. Það er athyglisvert að bæði eru þessi kvæði ort með skírskotunum í Opinberunarbók Jóhannesar og það er raunar forsenda til skilnings á þeim að gera sér það ljóst. Nýjabrumið og vísunin í það sem einkenndi nýskáldskapinn ekki sízt voru þau merkingarmið í kvæðunum sem þar eru ekki nefnd, heldur gefa hugmyndir skáldanna til kynna og vekja tilfinningaleg tengsl við baksviði kvæðanna, ef svo mætti að orði komast. Í fyrra tilfellinu er Jónas að tala um heilsteypta afstöðu og andúð á hálfvelgju, en í Sorg er leiksviðið rjúkandi rústir Evrópu eftir heimstyrjöldina fyrri og skírskotunin í Opinberunarbókina er eins konar flóðlýsing á þessu sama sviði. Eitt biblíulegt orð í kvæðinu nægir til þeirra hughrifa sem skáldið er að framkalla, vei!

Það liggur náttúrlega engan veginn beint við að þessi kvæði séu í atómstíl svo kölluðum, en þó má færa að því rök að eiginleikar þeirra séu sterkleg vísbending um það sem verður. Alsnjóa býr yfir þeirri dulúð sem einkenndi atómkvæðin fyrstu árin sem þau komust í tízku, þótt formið sé engan veginn sá ytri búningur sem boðaður var; sem sagt að hið hefðbundna ljóðform væri dautt eins og Steinn kvað upp úr með. Sjálfur sýndi hann bæði í Tímanum og vatninu sem  er byggt upp af  ofurhefðbundnum terzínum, bragfræðilega skyldum ljóðformi Dantes í öðru nýlistarkvæði á sínum tíma, Gleðileiknum, og öðrum hefðbundnum ljóðum sínum, að hann átti einfaldlega við að nú þyrfti nýjan skáldskap, ný efnistök, hefðin væri gengin sér til húðar. Það þyrfti að slá nýjan tón. Og það gerði hann. Hann notaði ekki nýztísku plastbjöllu, heldur klukku eins og þá sem eitt sinn var á Þingvöllum. Hann náði nýjum hljóm úr gamalli klukku. Það varb þetta sem hann átti við, einkum þetta. En ekki endilega nauðsyn þess að að setja formleysuna í fyrirrúm. Það gerði Jón úr Vör.

Það sá raunar hver maður í hendi sér að endurnýjun var óhjákvæmileg, þótt almenningur væri ekki reiðubúinn að gleypa nýjabrumið ómelt. Alsnjóa er ort í hefðbundnum stíl, þótt efnistök, skírskotanir og hugsunin öll bendi fram á leið. Rétt eins og Tíminn og vatnið,

Sorg aftur á móti er bæði að anda og efni fullgilt atómkvæði, eins og raunar þau biblíuljóð önnur sem við þekkjum. Skírskotanir þess eru afarnútímalegar, svo og myndsköpun, og þá ekki síður formið, þótt Tómas gagnrýndi efnisskipan kvæðisins í samtölum okkar, Svo kvað Tómas. En um slíkt má alltaf deila, sitt sýnist hverjum. En hvað sem Tómasi líður,  verðum við að láta okkur nægja kvæðið eins og það er úr deigli Jóhanns Sigurjónssonar:það er fyrsta atómkvæði íslenzkrar bókmenntasögu, þegar á allt er litið, og vísar  með einhverjum hætti til allra þeirra þriggja ljóðaflokka sem ég nefndi.

Svipað mætti segja um prósaljóð Nordals í Fornum ástum, 1919, Vefarann mikla frá Kasmír sem er einhvers konar ljóðprósi, Unglinginn í skóginum, ort veturinn 1924-25, þegar skáldið er einnig að huga að Vefaranum,  og hið súrrealistíska framlag Kiljans eftir að André Breton birti stefnuskrá sína 1924, fyrr nefndan ljóðaflokk Rhodymenia palmata (Lesbók 1926), en þetta er heiti á jurt sem skáldið sagði að  hæfði syrpunni vel vegna formleysis og óreglu jurtarinnar, ”svo og vegna þess bragðs af seltu, sætu og joði sem er að jurtinni einsog kvæðinu”

En Söknuður er annarrar tegundar, bragfræðilega fullgild ljóðlist á íslenzku og í engu fráhvarf frá grundvallaratriðum, þótt rímlaust sé. Það er þannig ekki sá undanfari sem margur hyggur, þótt efnistök séu bæði fersk og nýstárleg. En kvæðið markar ekki upphaf, það er miklu frekar einhver þroskaðasti ávöxtur langrar og fjölbreyttrar hefðar. En áhrif þess eru víða í nýskáldskapnum. Þetta er eitt þeirra kvæða sem jók mönnum þrek, þegar skilin urðu í íslenzkri ljóðlist um miðja síðustu öld. Ég reikna t.a.m. með því að Hannes Sigfússon hefði ekki ort Dymbilvöku með þeim hætti sem raun ber vitni án Saknaðar. En þar eru fyrirmyndirnar þó fremur margþróaður leiðsluskáldskapur og draumkvæði af ýmsum toga.

Þegar ég er að setja saman þessar hugleiðingar minnist ég nýlesinnar skáldsögu Margrétar Atwoods sem að ég hygg er hvað sterkust í þeim köflum , þegar söguhetjan veltir fyrir sér mikilvægum spurningum mannlífsins , og á einum slíkum stað beinist hugurinn að kvæði brezka skáldsins Coleridge og leiðslukvæði hans, Kubla Khan. Það er slík arfleifð sem með einhverjum hætti hafnar í íslenzkum ljóðaflokki Hannesar hálfri annarri öld eftir að Coleridge semur kvæði sitt-og þá í einhvers konar vímu, eins og sagt er í skáldsögu Atwoods, The Blind Assasin.  Hún er ekki ein um þá skoðun, heldur virðist hún vera einhvers konar hefðbundin afstaða til þessa eftirminnilega kvæðis, en mér er til efs að nokkur kunni fullkomin skil á efni þess, ekki einu sinni skáldið sjálft eins og söguhetja Atwoods víkur að. Samt er kvæðið rækilega hugsað eins og Dymbilvaka, það má ekki sízt sjá af myndum og líkingum, svo og skírskotunum: demon lover er svo nefndur að sögn Atwoods vegna þess “að hann er fjarverandi”, sacred river er lífið sjálft og þetta fljót rennur í hið líflausa haf (lifeless ocean), þ.e. dauðann. Slíkar myndir verða ekki til upp úr vímu, þær eru bæði meðvitaðar og úthugsaðar. Og þá ekki síður þegar skáldið talar um gotneskar dómkirkjur sem caves of ice, en slíkt upplifðum við á sínum tíma, þegar við biðum eftir Heinrich Böll í Kölnardómkrikju að vetrarlagi 1973. Það var eins og að leita skjóls á ísjaka.

Þess má geta til gamans að Byron  sótti einkunnarorð sín fyrir kvæðið Heaven and Earth,  1823, í þetta kvæði Coleridge:And woman wailing for her Demon Lover.

Þannig kallast skáldin á í ljóðum sínum og arfleifðin heldur áfram, þar sem hennar er sízt von.

Dymbilvaka , 1949, stendur nær Tímanum og vatninu, 1948, en Þorpinu, 1946, bæði hvað varðar efni, efnistök og form, en það er að mestu óhefðbundinn skáldskapur, þótt hefðin togi sífelldlega í skáldið og láti hann ekki í friði þarna í leiðsludraumum sínum. En efni Dimbylvöku minnir aftur á móti nokkuð hastalega á  efni Sorgar;baksviðið eru heimsstyrjaldir og sú ógn sem við blasir.

Þorpið sker sig algjörlega úr. Þar er sagt skilið við hefðina eins og í Sorg og leitað fyrirmynda að sögn í sænskum alþýðuskáldskap, sem er augljós millilending frá upphafinu sjálfu, Úr kirkjugarðinum í Skeiðarárþorpi,  eftir bandaríska ljóðskáldið Edgar Lee Masters. Sennilegt er að Jón úr Vör hafi fremur þekkt íslenzku þýðinguna en frumtextann.

Í Þorpinu blasa við “áhrif hinnar raunsæilegu skáldsögu í ljóðagerð”, svo að vitnað sé  í grein Kristjáns Kkarlssonar um þýðingar Magnúsar Ásgeirssonar. Magnús þýðir þennan bandaríska ljóðaflokk að vísu á nokkuð hefðbundið form og dregur þannig úr nýnæminu, en Jón úr Vör lítur framhjá því og yrkir sitt Þorp í lausmálsformi og eins nálægt hversdagsleika þorpsins og unnt er. Hafði hann þó góðskáldstök á hefðbundnum stíl, eins og mörg kvæða hans sýna svart á hvítu. En hann er að leiða nýjan skáldskap inn í íslenzka ljóðagerð og hvikar í engu frá því, þótt ljóðlistararfleifð okkar kalli enn á það hefðbundna form sem í tízku var um miðja öldina, undanbragðalaust.

Það gerir Þorpið að miklu meiri tímamótavörðu en þýðing Magnúsar á kirkjugarðskvæðunum. Þar var efniviðurinn nýstárlegri en formið.

Jóni úr Vör tekst með Þorpinu að yrkja nýjan tíma inn í íslenzka bókmenntasögu og það svo eftirminnilega, að flokkurinn er nú talinn til sígildra verka í þessari sögu. Með Þorpinu hefur Sorg Jóhanns Sigurjónssonar fundið sér fastan stað í þeirri verbúðarmenningu sem var undanfari nýs samfélags og miðstéttarmenningar upp úr síðari heimsstyrjöld.

 

Dymbilvaka og Imbrudagar

Sagt hefur verið um bandaríska ljóðskáldið John Ashbery, að ljóð hans séu ekki sérstaklega hniðmiðuð, beinist ekki að neinni sérstakri niðurstöðu. Þau séu eins og maður fari í göngutúr í stórborg sem maður þekkir lítið sem ekki, gangi um hana þar til maður er orðinn rammviltur og láti sér það lynda. Með þessu móti sé hægt að kynnast borginni betur en á annan veg.

Þessi skilgreining gæti vel átt við um margt í kveðskap atómskáldanna, ekki sízt Hannesar Sigfússonar og þá einna helzt um fræga ljóðaflokka hans, Dymkbilvöku og Imbrudaga. Dymbilvaka fjallar um mann sem fær ekki sofið,  eins og segir í opnunarlínu kvæðisins, hann liggur milli svefns og vöku og í svefnrofunum upplifir hann margvíslega reynslu genginna kynslóða, margt sem hann hefur lesið í fornum ritum (Dreg ég úr skápnum bók með gulnuð blöð) , myndir og vísanir og óhugnanlega aðsókn framliðins fólks, m. a. fornmanna sem upplifa þrumuguðinn og dráp Haðar blinda á Baldri hinum hvíta ás (einnig í Imbrudögum), víti eins og lýst er í Dante og goðsagnir um Valhöll og Ásgarð. Allt þetta verður svo skírskotandi reynsla úr eigin lífi , með baksvið kalda stríðsins sem viðmiðun, hamfarir samtímans, trölladans stórveldanna, baráttuna um hjarta mannsins eins og skáldið segir, þ. e, sál hans:

 

Presturinn varpar mold á mannleg hjörtu

 

og:

 

nákvelin sötra hjörtu vor gegnum skíðin.

 

Og þegar spurt er í martröðinni , hvað fiska það sé sem vofur veiði, er svarað (vætir ógnlegur viðmælandi bleikar varir, óttagrár) og segir: 

 

“Þær veiða mannleg hjörtu-þitt og mitt”

 

Þá biður ljóðmælandi þess að veröldin byrgi saklaust auglit sitt “á bak við blævæng þinna ljúfu drauma” og einnig:

 

Ó vatn mitt liggðu kyrrt”

 

Og enn:

 

Eg veit hún líður þessi vökunótt.

 

Hvarvetna feigð (handan lífs og feigðar, segir undir lok fyrsta kafla)og feigðarorð (eins og segir í þriðja kafla: Og vindur haustsins les mér feigðarorð).

 

Og enn í fyrsta kafla:

 

Vofeiflegt! Veiztu: Það er hjarta mitt.

 

Um þetta hjarta er barizt, bæði þarna á mörkum lífs og dauða,  í vöku og draumi, en þó að sjálfsögðu einnig í lífinu sjálfu,  eins og ástatt var í upphafi kalda stríðsins, þegar bókin birtist á prenti 1949. Þá átti margur erfitt með að átta sig á þeim átökum sem hófust milli stalinista og þeirra sem við þá börðust.

Ég hef áður haldið því fram að þessi veraldlegu átök hafi ekki sízt verið efni kvæðisins, m. a.  í ritdómi í tímaritinu Stefni 1955-56, og hefur því aldrei verið andmælt, . hvorki af Hannesi né öðrum;þvert á móti leggur Hannes áherzlu á þennan þátt ljóðaflokkanna í endurminngingum sínum, Framhaldslíf förumanns, 1985

 

En vatnið kyrrist ekki, þvert á móti ýfist það og hamfarir náttúrunnar halda áfram og vaxa ,  ef eitthvað er.

Vökunóttin líður ekki.

Og nú er sá sem upplifir martröðina klæddur  líkklæði “sem mér ormar ófu/upp rís ég fölur þessa vökunótt. ”

Haugarnir opnir og þaðan kemur aðsókn martraðarinnar,  opnir eins og þegar Gunnar kvað í haugnum ,  og fornar vofur á reiki eins og skuggamyndir, minnir raunar á hvarf séra. Odds frá Miklabæ eftir Einar Benediktsson og draugaganginn þar. Undirfyrirsögn kvæðisins er Þjóðsaga, en í Dymbilvöku , ekki sízt fyrsta kafla, eru tilvísanir í þjóðkvæði sem gefa efninu ljóðrænni áferð en ella mundi:

 

Sefurðu lilja? Syngdu næturgali

sofðu ó sofðu það er niðdimm nótt.

 

Draugsleg skíman er blind, segir í upphafi Dymbilvöku.

 

Og í lok fyrsta kafla:

 

Eg sá það líkt og skugga á leiksviðstjaldi

með einstakt ljós sem leitaði inn í myrkrið

Leitaði mín-og jafnskjótt burtu bar.

 

En hálfur máni af himinleið

slær helbjarma á mannanna ríki,

 

segir í Hvarfi séra Odds

 

Í næsta nágrenni martröð sem á rætur í aðsókn og vofeiflegum atburðum,  undir lok Dymbilvöku er lýst sjóslysi , ljóðmælandi er  staddur undir vitanum mikla sem táknar lífið sjálft og sendir geisla sína og birtu út í brimrótið.

En það virðist ekki duga.

 

Það þarf ekki annað en líta á heiti ljóðaflokksins til að sjá um hvað hann fjallar, Dymilivaka. Dymbill er trékólfur í kirkjuklukku. Hann var til forna settur í klukkur eða bjöllur í dymbilvikunni, eða dymbildagsvikunni,  til að deyfa hljóminn, svo að hann yrði sorglegri en ella. Kvæðisheitið er þannig nákvæm vísbending um það sem

þarna gerist.

 

Eins og ég hef getið annars staðar er Dymbilvaka einskonar flæðiljóð, skáldið upplifir efnið í órum eða kannski öllu heldur draumórum og yrkir eins og í leiðslu. Það er alþekkt í skáldskap. Í fornöld gátu kvæði eða seiður þeirra verkað eins og vímugjafi og þannig voru þau t. a. m. notuð í Grikklandi til að sefa sorgir.

Það er af þessum sökum sem hver myndin birtist af annarri og ekki endilega sem eðlilegt framhald þess sem á undan er gengið. Skáldið upplifir þessa reynslu í ljóðmyndum sem bregður fyrir eins og skuggamyndum á tjaldi, hann ræður ekki við þær, heldur eru þær eins og óviðráðanleg aðsókn , meðan hann getur ekki sofið og ekki heldur vakað;þ. e.  milli svefns og vöku. Minnir á hvernig brezka skáldið Coleridge, eitt fyrsta og helzta rómantíska skáld Bretlands og mikill áhrifavaldur um þróun brezkrar ljóðlistar, yrkir kvæði sín, þótt áhrifin séu  ekki eins augljós og efni standa til;t. a. m.  ekki í verkum Byrons, Shelleys eða Keats.

 

Hannes Sigfússon var vel lesið og ræktað skáld , ekki sízt vel lesinn í erlendum bókmenntum,  eins og þýðingar hans eru ótvírætt vitni um. Ég tel ekki fráleitt að hann hafi þekkt leiðsluljóð erlendra skálda eins og Coleridge og hafi, kannski –og þá e. t. v. óafvitandi-orðið fyrir einhverjum áhrifum frá þeim. Hvað sem því líður eru Dymbilvaka (og síðar Imbrudagar) sérstæð og eftirminnileg nýjung í íslenzkri ljóðsagerð og að öllum líkindum óhugsandi án þess andrúms og umhverfis sem var að setja mark sitt á íslenzka ljóðlist, þegar kvæðin voru saminn eftir styrjöldina síðari.

 

Sagt hefur verið að kveikjan að Dymbilvöku sé sú áskorun Steins Steinars  að Hannes Sigfússon þýddi Eyðiland Eliots á íslenzku.  og hefur Hannes staðfesr það í endurminningum sínum, en því svo gjarna bætt við að  Dymbilvaka sé sprottin úr einskonar misskilningi, þ. e. hún sé niðurstaðan á þessum misskilningi Hannesar, þegar hann var að þýða Eliot!  Steinn lagði það a. m. k.  til!

Burtséð frá slíkum gálgahúmor er hitt augljóst að höfundur Dymbilvöku hefur þekkt Eyðilandið og annan skáldskap Eliots. Það má m. a.  sjá af þeim einstæða, ljóðræna blæ sem einkennir flokkinn og á sér enga fyrirmynd í íslenzkum skáldskap. En þetta er þá ekki síður blær Hannesar sjálfs, því að styrkur hans sem ljóðskálds liggur fyrst og síðast í þessari ljóðrænu áferð sem prýðir handbragð hans og gefur því  einstæða dul.

Það er einnig ljóst af samtölum í flokknum , einkum fyrsta kafla, að Eliot er einhvers staðar á næstu grösum og á tveimur stöðum má sjá fingraför hans, það er þegar vitnað er í brot úr sálmi sem  Hannes orti að vísu sjálfur inní þessa martröð:

 “eins og stendur í sálminum:

Hljóðlega ekur þú í þetta sinn

þungfærum gripavagni drottinn minn”

 

(Örn Ólafsson bendir á það í bók sinni, Kóralforspil hafsins, 1992,  að skáldið ávarpi guð eins og bónda-og minnir það á,  hvernig Jónas leit á Föðurinn, en þó bendir ekkert til að Hannes sé að kallast á við Jónas í þessum vísuorðum)

 

Þá er Eliot ekki síður nálægur, þegar skáldið segir í öðrum kafla:

Svona upp með þig það er glas.

 

Eliot hafði sagt eitthvað svipað um vaktaskipti, en hann hefur þetta orðfæri úr brezkum pöppum,  Það er tími, var sagt áður en lokað var. En Hannes tekur þetta úr sjómannamáli, eins og kunnugt er. Sjálfur segir hann í endurminningunum: ”Einnig geymdi ég setningu bak við eyrað sem ég notaði síðar í Dymbilvöku af nokkurri ófyrirleitni, og tvítók hana eins og til að gera blygðunarleysið enn augljósara:

“Svona upp með þig það er glas”

“Hurry up please it is time”. Eliot hafði hinsvegar dálítið aðra merkingu: orðtækið er fast markorð í pöbbunum í London þegar liðið er að lokunartíma”.

Þessi misheppnaða tilraun til að snara Eliot á íslenzku ýtti undir áhuga Hannesar ljóðaþýðingum, eins og hann segir sjálfur.

 

 

Hannes Sigfússon segir í samtali við Þjóðviljann 7. des. 1955, en þá um haustið kom út skáldsaga hans, Strandið: ”Í annað sinn reyndi ég að semja skáldsögu að Reykjanesvita haustið ´48, skrifaði tvo kafla og orti Dymbilvöku í örvæntingu vegna misheppnaðs rithöfundarferils og tiltölulega mislukkaðs heims. Um tíma hallaði ég mér svo að ljóðinu í þeirri trú að það væri mitt form, en ekki skáldsagan. . . ”

Í Birtings-samtali  (1958) við skáldbróður sinn , Einar Braga, segir Hannes að Steinn hafi komið til sín “með The Waste Land  eftir Eliot og vildi fá það þýtt. Úr því varð ekki, eins og eðlilegt er. En það er ekki vafamál að rekja má áhrif frá The Waste Land í Dymbilvöku”

 

Og ennfremur: ”Dymbilvaka er innspíreruð bók en ekki unnin. Þetta er mín heimsmynd, kaótísk á margan hátt: í henni blandast efasemdir um kommúnismann, geðhrif í sambandi við misheppnaðar tilraunir til skáldsagnagerðar, ógnir kalda stríðsins og nýliðinnar heimsstyrjaldar, og sitthvað fleira sem mér væri ógerlegt að greina sundur. Heimur þessa ljóðs er mér nú jafn framandi og hverjum öðrum”

 

Dymbilvaka var full af efasemdum og svartsýni , eins og skáldið segir sjálft. En Hannes kveðst hafa ort Imbrudaga, 1951 af ásetningi, hann hafi reynt að fanga það sem í hugann kom án þess reyna að hafa of mikil áhrif á, hvað úr því yrði . Hannes kveðst hafa reynt að vera jákvæður , þegar hann orti Imbrudaga;vonaðist til þess hann kæmist til botns í sjálfum sér og gæti fótað sig á ákveðnum niðurstöðum “um hin stóru mál í bókarlok”Svipaðra geðhrifa og í Dymbilvöku gæti einnig í Imbrudögum.

Hannes segir að Imbrudagar sé súrrealískt verk í aðra röndina, en það má auðvitað einnig segja um Dymbilvöku.

 

Eysteinn Þorvaldsson segir í bók sinni, Atómskáldin,  1980, að tvö af ljóðum Dymbilvöku (V og VI  kafli) hefðu birzt 1947 undir heitunum Haustljóð frá Noregi og Borgarnóttin,  og séu þau fyrstu módernu ljóðin eftir Hannes, en skáldið hafi síðan fellt þau burt úr bálkinum, enda utanveltu þar. Það sem eftir stendur af Dymbilvöku hafi ýmis formeinkenni hefðbundinna ljóða, á nokkrum stöðum hrynjandi, ljóðstafi og rím að hefðbundnum sið. En myndmálið sé allsráðandi í Imbrudögum, þótt ekki hafi skort á það í Dymbilvöku.  Imbrudagar séu  “. án efa hreinræktaðasta surrealíska verkið í íslenzkri ljóðagerð” –og má hiklaust taka undir það

Eysteinn segir að ástæða þess að unnt sé að tala um Dymbilvöku sem fyrstu móderne ljóðabók atómskáldanna sé sú,  að “öll málleg framsetning er módern: myndmálið torrætt, skírskotanir óljósar, málfarið órökrænt og inntakið brotakennt”

Sjálfur átti Hannes eftir að rísa gegn slíkum texta og markaði sér nýjan farveg.

 

Í fyrstu tveimur köflum Imbrudaga virðist vandamál skáldskapar vera meginþemað, vatnið táknmynd hugarástands eða viðhorfs en tréð táknmynd skáldskapar. ”Að sjálfsögðu er skáldskapur aldrei nefndur á nafn né heldur viðhorf, en séu vatnið og spegill þess og tréð og lauf þess skoðuð sem myndhverfingar þessara hugtaka, þá verður inntakið a. m. k.  ljósara”. Myndmálið sé að vísu “sundurleitt og ruglingslegt og orðfærið stundum fjarrænt og upphafið, en allt er þetta hlaðið leiftrandi skáldlegum myndum og listrænu orðfæri á köflum ekki síður en í Dymbilvöku”

 

Jóhann Hjálmarsson segir í Íslenzkri nútímaljóðlist , 1971, að Dymbilvaka sé ekki merkust fyrir þær sakir að “hin blinda vitfirring” svífi þar yfir vötnum “heldur eru það hinar lifandi og eftirminnilegu ljóðrænu myndir, sem skáldið bregður upp og vitna um óvenjulegt vald yfir máli og hrynjandi, sem úrslitum ræður”

Jóhann segir að Imbrudagar séu “speglasalur ruglingslegra mynda, unz komið er að lýsingu strandsins í fimmta kafla. ”Þá breytist ljóðið skyndilega í prósa ,  ekki ólíkan þeimsem Hannes noti í skáldsögunni um sama efni. .  Slíkur stexti varHannesi Sigfússyni eiginlegur,  það gerir gæfumuninn, þótt ekki sé hann einkennandi fyrir Strandið.

Í fimmta kafla Imbrudaga hefur brimgnýrinn tekið völdin, hann leggur “dymbil við brostnar klukkurnar”. Það er sorgarhljóð í brimöldunni.  “Mál skáldsins klæðist óhugnaðarskikkju við lýsingu strandsins”, segir Jóhann, og bætir við það verði “ á köflum áhrifarík heimild um smæð mannsins gagnvart risaörmum hafsins”

 

Síðar, eða 1958, boðaði Hannes hið skorinorða ljóð í stað hins innhverfa og voru þau ummæli  prentuð í Birtingi sama ár.            

 

Strandið kom í skólabókarútgáfu 1995 og sá  Eiríkur Brynjólfsson um útgáfuna, samdi verkefni og skrifar inngang, þar sem kemur m. a.  fram að Strandið sé um enskt olíuskip, sem hrekst vélarvana undan veðri og vindum, strandar við Reykjanesvita og helmingur áhafnarinnar, 27 menn, ferst í brimrótinu. Það var 1. marz 1950. ”Hannes var þá aðstoðarmaður vitavarððarins á Reykjanesvita og varð vitni að þessum atburði”. Hannes lagar efnið í hendi sér, breytir t. a. m.  nafni skips og skipstjóra,  þannig að oliuskipið Clam varð að Atlantis , og að sjálfsögðu er táknræn merking í þessu nafni. , enda hefur skáldið sjálft sagt, að sagan fjalli “um aðra og geigvænlegri atburði”en Clam-slysið, eins og segir í formála fyrir verkinu , og á þá við heimstyrjöldina og afleiðingar hennar. Hann er því að glíma við sama efnivið og í Dymbilvöku sem kom út árið áður en Clam strandaði við Reykjanesvita, eða 1949. Sá hörmulegi atburður er þannig á engan hátt kveikjan að ljóðaflokknum , þótt viðfangsefnið sé ekki ósvipað, maðurinn andspænis ógn sinni og örlögum;maðurinn sem leiksoppur mikilla hamfara.

 

Dymbilvaka gæti samt verið lýsing á martröð í tengslum við Clam-slysið, því að þar er drepið  á vofeiflegar hættur hafsins og því engu líkara en flokkurinn sé öðrum þræði eins konar spásögn eða forsögn um það sem skáldið átti eftir að upplifa. Það er feigð í lofti, draumar og óhugnaður eins og oft er lýst í , þegar sjóslys urðu:

 

Bleikum lit

bundin er dögun hver og dökkum kili.

 

Þá er talað um  að stjarnvindar greiði “ið vota hár”, en hinn föli fylginautur næturinnar“, þ. e.  dauðinn,  “steig fram í nótt og beið við mínar  dyr”.

 

Og:

 

Úr djúpi hafsins risu sköllótt sker(minnir á gult tungl á hvirfli geldmúnksins sem talað er um í 111 kafla Imbrudaga) 

og skuggafingrum (sjá Næturkyrrð Jónasar) sóru djúpsins vættir

við sótflug himins vors að granda þér.

 

Eg heyrði skipið blása fyrir landi

og hlusta lengi og fast við eyra mér

En öskur ljónsins var þess eina svar. . ,

 

segir undir lok fyrsta kafla, en áður er talað um þófa ljónsins, fjarlægan guð og skikkju dauðans:

 

Og varir mínar kysstu þófa ljónsins. . . ,

 

þ. e.  auðmýkt , varnarleysi eða vanmáttur andspænir grimmd  örlaganorna og umhverfis, enda er feigð á næstu grösum og ásókn jötna: . . og jötnaþvöru væri hrært í hring.

 

Þófar ljónsins minnir á annað kvæði Hannesar Sigfússonar,   Borgarnóttin , frá 1947 (Borgarljósin þegar það birtist fyrst í Landnemanum1947, síðar í fyrstu prentun Dymbilvöku) en þar er talað um þófamjúk rándýr:

 

Þófamjúk rándýr sem læðast

með logandi glyrnum

í lævísu myrkri

-og skógur með kvikum trjám. . . ,

 

síðan talað um nótt sem fellur í haf “af hrollköldu ljósi”

 

Svipað yrkisefni og í Dymbilvöku og raunar mætti segja að þetta kvæði slái tóninn;það er sterk vísbending um hugsanaferil skáldsins um það leyti sem Dymbilvaka er ort, vegvísir. Fjallar um óhugnað borgarinnar, grimmdin þar sem þófamjúk rándýr ráða ríkjum með logandi glyrnur í þeim frumskógi sem er umhverfi okkar, eða öllu heldur umgjörð  um andlegt líf okkar. Kveikjan að sjálfsögðu hamfarir stríðs og eftirskjálftar.

 

Jötnarnir koma aftur við sögu í öðrum kafla Dymbilvöku þar sem fyrst er lýst einhvers konar víti: ”sem blási alauðn yfir týndum val”,  reynt að vekja þau dauðans öfl sem stjórna ásókn gamalla guða og vígamanna sem taka á sig okkar eigin mynd og við þenjum bleika fáka dauðans og blóðið drýpur í unaðsgrænan svörð.

 

Og það var allt og undir kvöld við riðum

til Ásgarðs heim með höfuð vor á knjánum

Og tómlát gleði rann úr öðru auga

en óttaslegin spurn á reiki í hinu

 

Allt upplifað úr gömlum bókum , arfur og  bölvís ættarfylgja”, en ártöl og aldir hníga rótt í svörð”, eins og segir í lok annars kafla.

 

 

Í þriðja kafla hefst “kóralforspil hafsins “að nýju, feigð og ilmur hvítra blóma sem er tilvitnun í eldra kvæði , en stendur þarna sem táknmynd dauðans enn einu sinni, feigð;jarðarför, eða öllu heldur brimför. Vísað til Þormóðs : Bráfölur máni ( brámáni skein brúna. . ), bleikt laufið fellur til moldar, það er deyjandi maður sem talar og myndirnar sækja að honum úr öllum áttum og án tengsla eða samhengis, (Örn Ólafsson kallar það sundraðan texta sem hann hefur einna helzt til marks um einkenni módernisma, en ég hef gert athugasemd við í ritgerð minni Á bylgjum hafsins, Örn sækir nafnið á rit sitt í þessi orð Hannesar, Kóralforspil  hafsins).

 

 

Hinn drukknandi maður minnist stúlkunnar heima og hár hennar flæðir líkt og heilagt sólskin/um huga minn,  sem gæti verið úr smiðju Steins:

 

Burt eins og lauf er lásu vindar hafsins

í hinzta sinn.

 

Lokakaflinn, eða sá fjórði, fjallar svo um vitann, líftáknið sjálft sem leiðir sjómanninn úr hafvillum á rétta slóð, þ. e.  ljósarmarnir  vísa skáldinu veginn úr steindri þögn “hinnar vindblásnu hauskúpu dauðans”, bregður ljósi á brimölduna og svipast um milli sviptibyljanna , eins og skáldið kemst að orði. Nú kemur hjartað enn til sögunnar því að þessi auðn, þessi flatneskja og tvítugur hamrar , eða umhverfi Reykjanesvita , “múruðu hjartslátt minn inni”.

 

Samt verður ekki undan dauðanum komizt:

 

Sjá ég er vitinn þar sem auðnin ákallar dauðan,

 

en það er ekki þar með sagt að vitinn ákalli dauðann, þvert á móti;hann andæfir honum með því að bregða birtu á umhverfið þar sem drukknandi farmaður berst fyrir lífi sínu í öldurótinu , eins og síðar varð raunin, þegar Clam fórst:

 

Og enn segir þar:

 

Sjáðu fálmandi grip minna skínandi handa

í skikkjufaldinn,

 

þ. e.  skikkjufald dauðans;brimhvíta faldana í öldurótinu.

Þá dreymir hinn deyjandi mann stúlkuna ,  innilokaður eða læstur inni milli skelja lífs og dauða

 

eins og perluna dreymir ljósið

í luktri skel.

 

Sem sagt, hann dreymir ljósið, þráir að komast út úr þessari martröð, losna við þessa aðsókn.

 

Minningar sækja að honum meðan hann er að hátta í björtu eins og Vestmannaeyingar sögðu um druknandi fólk og athyglisvert að skáldið skuli grípa til svipaðra myndhvarfa um svefn og draum og góðar minningar. Það er vellíðan að deyja með þessum hætti , sagði gamalt fólk , og því var eins og drukknandi  sjómönnum hálfmeðvitunmdarlausum fyndist þeir væru að leggjast til svefns og hvíldar á dauðastundinni.

En skáldið frábiður sér þessi sælu ástaratlot hafmeyjarinnar sem kemur úr frumskógi djúpsins-þessum ómennska frumskógi rándýranna sem einnig er fjallað um í Borgarnóttinni-á hljóðum öldum “með heilaga þrá í augum”.

 

En hann mundi samt vilja komast til hennar sem heima bíður, í hvaða gervi sem hún er; fjallkona eða einhver önnur:

 

Skeljar hafsins

geyma augun þín bláu,

 

segir í Borgarnóttinni

 

 

Þótt allmikið hafi verið skrifað um Dymbilvöku og Inbrudaga, hef ég ekki rekizt á neina alhliða skýringu á efni þessara ljóða, en því meira um ýmis efnisatriði og einstaka þætti kvæðanna.  Örn Ólafsson segir t. a. m.  í bók sinni  Kóralforspil hafsins, 1992, að samtalið í Dymbilvöku sé “óráðskennt” með “ósamstæðum myndum. . . Hér virðist ríkja draumkennt sundurleysi”og má það að sjálfsögðu til sanns vegar færa, en segir þó ekki ýkjamikið. Hann segir að samtalið sé dæmigert fyrir allan ljóðaflokkinn, ”sundurleitar hugsanir andvaka manns” og birtist m. a.  í  “þrálátum endurtekningum. Hugsanir mannsins snúast um drauga (einkum framanaf), hverfleika alls og um feigð og loks sterklega um persónugerða mynd vita”.

Það er þó augljóst að meginþættir Dymblivöku eru mararkenndar  og stundum “sundraðir” eins og Örn Ólafsson segir í bók sinni, hugleiðingar um forna arfleifð okkar –og þá ekki sízt í bókmenntum, ástandið í heiminum í kalda stríðinu, hættur sem að steðja , baráttuna um hjartað , ef svo mætti að orði komast og undir lokin átök lífs og dauða í brimrótinu mikla við lífstáknið sjálft, vitann. Umhverfið , eða leiktjöld þessa háska, er ægifagurt þarna á Reykjanesinu og var mynd sem , Haraldur sonur minn,  tók af klettafjörunni valin á forsíðu ljóðabókar minnar, Tveggja bakka veður og var það engin tilviljun, heldur skírskotandi áminngin um það sem þarna gerðist í tignarlegri umgjörð sköpunarverksins , auk minningar um vináttu okkar Óskars Aðalsteins vitavarðar í Reykjanesvita, en þangað kom ég oft á sínum tíma.

 

 

Í Imbrudögum sem merkir föstudagar, þ. e.  þriggja daga eða viku fasta í upphafi hvers fjórðungs kirkjuárs í kaþólskum sið, eru viðfangsefnin svipuð eða hin sömu og í Dymbilvöku, í fyrstu er þó fjallað um skáldskapinn eins og í upphafi Sonatorreks Egils og og ekki síður torskilið, þá aðstæður í heiminum og loks strandið sem þá er fersk og ný reynsla og þar með áleitin minning. Kaflinn um strandið er að mestu í lausmálsstíl , en þó afarljóðrænum og fróðlegt að bera hann saman við texta skáldsögunnar sem er að sjálfsögðu miklu prósaískari.

Áður en  uppgjörið fer fram á strandstað hefur skáldið gert upp við arfleifðina, eða erfðasynd hennar sem var einnig áleitið efni í Dymbilvöku og notar táknmynd föðurins í því skyni. (Ykkur fylgja vofur og Hjartað er fellt í fjötra. . . föður míns heitins, hans er bíður lík. . . segir í 1v kafla-uppgjör við auðvaldsskipulagið , hefurHannes sagt sjálfur).

 

 

Í upphafi v kafla þar sem fjallað er um strandið er tilvitnun í 11. kafla Dymbilvöku og þar er m. a.  talað um öskur ljónsins og skugga á leiksviðstjaldi. En frásögnin sem fylgir er enn ein lýsingin á því ,   þegar Clam strandaði við vitann, aðrar eru í skáldsögunni og endurminningum skáldsins, Framhaldslíf förumanns. Þessar lýsingar koma allar heim og saman, þótt skáldskapurinn kalli á sín tilhlaup og líkingar.

Samanburður á þessum köflum, upplifun eða frásögnum væri ærið efni í athyglisverða stílkönnum og umfjöllun um mismun óbundins lausmálstexta og ljóðræns prósa.  Hannesar Sigfússonar.

 

Þeir sem hafa skrifað um Dymbilvöku og Imbrudaga leggja harla mismundandi merkingu í fjölmörg atriði og ástæðulaust að tíunda það hér, enda t. a. m.  hægt að bera saman afstöðuna í Kóralforspili hafsins og Atómskáldum Eysteins Þorvaldssonar og því ekki um annað að. gera en halda í eigin skilning.

Ólíkar skoðanir og samtöl á  þeim forsendum eru bókmenntum hollt og frjóvgandi veganesti, en dogmatísk  eða einhlít þröngsýni þjónar engu nema sjálfri sér. Umfjallanir Eysteins og Ólafs varpa þannig nýju ljósi á erfitt og margdulbúið yrkisefni. . En svo vel vill til að  við getum leitað til skáldsins sjálfs um margvísleg vafaatriði og er það unnt vegna umfjöllunar Hannesar um ljóðaflokkana í endurminningunum. Kem ég að því síðar, hvernig hann lýsir afstöðu sinni og yrkisefnium

Í fyrsta lagi fær hann innblástur af lestri Eyðilandsins, þá leitar heimsástandið af þunga á hug hans og hjarta og loks á hann í sífelldri efasemdabaráttu um andlega frjósemi sína og getu til skáldsparar.

Þessar vangaveltur hans gætu verið ærið tilefni til sálfræðilegrar greiningar.

Sannleikurinn er sá að Hannes stjórnaði litlu um innblástur sinn og orti eins og andinn inngaf honum, eins og sagt er, þó að hann hafi fremur stjórnað ferðinni að einhverju leyti í Imbrudögum en Dymvilvöku.

En hvaða ferð?

Og hvernig vitum við hvert hann var að fara í raun og veru. ?

Við vitum það alls ekki alltaf, því að hann vissi það ekki gjörla sjálfur. Flæðið var að því er virðist meira og minna ómeðvitað, líkingar og tákn eins og tónahaf.

Það var hrynjandi kvikunnar sem réð ferðinni.

Þegar þetta er haft í huga er óþarft að velta því fyrir sér ,  hvað sé óskiljanlegt og hvað ekki. Þetta gildir um fjölda  annarra ljóða,  ekki sízt ýmissa þeirra sem frægust eru eftir Einar Benediktsson, en kveðskapur hans er Hannesi meiri fyrirmynd en séð verður í fljótu bragði.  Hann hikar t. a. m.  ekki við eignarfallsnotkun og ofnotar hana stundum til lýta.

Dæmi úr Imbrudögum:

þula dægranna,  eik sumarsins, flughrapa tímans, þögn himinsins,  völundarhús tímans og rúmsins, hnotskurn efnisins, þoka ellinnar, barmur hafmeyjarinnar ,  stjarfa dauðans, njörva blindrar nætur, stef draumanna, afgrunn þagnarinnar(nokkuð mikið notað af föstum greini í nafnorðum, stundum til lýta)og enn færist þessi eignarfallsnotkun í aukana í 111 kafla: hjarta turnklukkunnar, eyra næturinnar, sjáaldur vatnsins, æðar bæjarins, andardráttur næturinnar, enni vetrarins, hvirfli geldmúnksins, myrkur vatnsins, hringir spurnarinnar, vörum myrkursins, svefngrös skýjanna, móðu fljótsins, skurn eggstofunnar, taug sársaukans og glerbrot rúðunnar og eftir 111 kafla: hússins hvelfdu rýmd, holdsins myrkrastofu, skuggsjá loftsins fljúga, haustsins himni, bogstreng mánans, signethringur næturinnar, þegar komið er fram í v kafla, en þar er dregið til muna úr þessari notkun, en magnast svo aftur þegar ljóðmálið kemurr til sögunnar í lokin: andvökunnar auga, augans nekt, bruni tímans, hnattþokum heilans.

Það má vera augljóst úr hvaða smiðju þessi orðnotkun er.

 

Það er ekki tilviljun að ég nefni Einar Benediktsson til sögunnar, því mér er til efs að Eyðiland Eliots og súrrealistarnir hafi gagnazt honum betur í þessari glímu við sjálfan sig, hugsun og form, en t. a. m.  Útsær Einars. Kvæðið er einskonar leiðsluljóð og fjallar í rauninni um sama eða svipað efni og Hannes í ljóðabálkum sínum, auk þess sem Einar notar ekki óáþekk orð : ljósgjafaaugu (sbr. röntgenaugu) og segulfang, svo að dæmi séu nefnd. Áferðin er ekki ósvipuð og þá ekki ljóðmyndirnar, enda er Einar symbolisti og því nátengdur hugmyndaheimi Hannesar. Í Útsæ yrkir hann um heim “hverfulla mynda”, segir í 2. erindi um hafið: en hart þú bindur að ströndunum líkfölu tröfin , og ekki er ólíklegt að Hannes hafi slíkar setningar að fyrirmynd, jafnvel þótt hann geri sér ekki fulla grein fyrir því í leiðslunni.

En hvað sem því líður er útsærinn svipaður leikvöllur í kvæði Einars og samtíð og umhverfi og átökin á þeim tíma eru viðfangsefni Hannesar, þótt hitt sé jafnvíst að hið raunverulega leiksvið er hugarheimur þeirra sjálfra, þ. e.  leiksviðið innan hauskúpunnar sem ég hef talað um af öðru tilefni.

 

 

Einar segir í Útsæ:

 

Þá er eins og líði af landinu svipir af harmi.

Þeir leita í þínum val undir marareldi,

-og mæðuandlit svefnþung á svæfli og armi

sjá þá, er varstu bæði lífið og gröfin,

 

segir í öðru erindi  Útsjávar.

og síðar:

 

Ég minnist þín löngum, heimur hverfulla mynda,

í hópnum sem kemur og fer í voldugum borgum,

með óma sem líða í öræfi hverfandi vinda,

með andlit sem rísa og sökkva á streymandi torgum.

Bylgjur stynja og deyja í fjöldanna flóði.

Þar finnast ei blóðdropar tveir sem að öllu jafnast

og eins er hvert brimtár og andvarp þitt sem safnast

í öldustríðsins máttuga, drukknandi hljóði. .

En einhvers staðar á allt þetta líf að hafnast

og einhver minnisstrengur nær hverju ljóði.

 

Og í lokin:

 

Þó kalt sé þitt brjóst þar sem blikar geislanna sylgja,

þó björgin þú knýir til ákalls, en svarir ei neinu,

allt það sem hjúpur þíns hafborðs gjörir að einu

hnígur að minni sál eins og ógrynnisbylgja. 

 

Það er sem sagt enginn ógrynnis vegur milli þessra erinda, efnis þeirra og umbúða, og ljóðaflokka Hannesar Sigfússonar. Hannes gerði sér náttúrlega grein fyrir því, en hann vissi jafnvel að honum tókst að vinna þetta hefðbundna form og sérstæða hugsun sína inn í eigin kvæði með þeim hætti að þau urðu ný og óvænt og mörkuðu tímamót í því andlega hafróti sem yfir gekk , þegar kvæði hans voru í deiglunni.

 

Í ljóði Einars kemur einnig að goðsögnum í 9. og 10. erindi, ekki síður en í Ásgarðs-hugmyndum Hannesar og áleitinni umfjöllun um Höð blinda

og Hades. Í áttunda erindi talar Einar um andvaka haf sem gæti átt heima í Dymbilvöku, hann yrkir um múgana sem vegast á til bana “leiknir í fangbrögðum dauðans”, missýnir og skugga.

 

En

 

þó kalt sé þitt brjóst og réttlaust frelsi holskaflsins ,  heyrir skáldið hafið steypa í rústir og lyfta frá grunni;hafið á þannig sama erindi við umhverfi sitt og Einars Benediktssonar og leiksvið Hannesar, þegar hann er að gera upp við umhverfi sitt og þá ekki síður arfleifðina. Hafið á sína kulnandi varðelda, ekki síður en andlegt haf Hannesar Sigfússonar. Hamfarir hafsins minna á mannlífið í öllum sínum ofsa.

 

Og:

 

Fornhelga spekin veit að afl skal mót afli

en andanum gefur hún seinasta leikinn í tafli.

 

Og enn:

 

guðirnir yrkja

í kveðandi brims og bylgja

og brjóst hins illa valds er slegið með ótta.

           

Útsærinn hastar á hjartað eins og þau öfl sem Hannes átti í höggi við, en hann göfgar það jafnframt eins og venjan er um átök og dýrkeypta reynslu.

 

Enginn ætti að búast við höfnum handan hafsins, því vonirnar deyja og kalinn nístir “vor brjóst”. Útsær er “ veröld af ekka” og banvænt fangið: klökka djúp sem átt ekkert hjarta, þ. e.  enga mennsku, aðeins vald.

 

Eins og umhverfi Dymbilvöku og Imbrudaga, ekki sízt útsær Vitans.

 

Það hefur okkur því að leiksoppi.

Eins og kötturinn í skáldsögu Strandsins. En hann lenti að vísu sjálfur í gildrunni. Eins og hin tímabundnu kerfi ofbeldis og einræðishyggju. En gaghnvart því var Hannes ráðvilltur, þegar ljóðaflokkarnir voru ortir.

En hann var ekki einn um það, eins og ástandið var.

Hálft mannkynið ráfaði um í villu og svima. En enginn lýsti þessari þrautagöngu betur en Hannes Sigfússon

 

Hvers vegna?

 

Jú, vegna þess hann upplifði sjálfur þessi átök. Og þessa blekkingu. Hún varð persónulegt vandamál hans sjálfs, snerti samvizku hans;hjartað. Einar Benediktsson upplifði einnig átökin í Útsæ, en þó með öðrum hætti en Hannes. Hann upplifði eigið skipbrot.

En þá einnig í veröld sem hrundi til grunna.

 

Hannes Sigfússon var heldur dulur um eigin hagi , en gat verið stoltur; einnig lítillátur eins og við sjáum í endurminningum hans, þar sem blasir við ótrúleg hreinskilni og sjálfsgagnrýni blandin íróníu. Hann var áreiðanlega ánægður með þessa ljóðaflokka sína, en leiddi samt getum að því með sjálfum sér, hvort þeir væru eins og hann hefði helzt kosið. Í þannig hugleiðingum gat hann verið óvæginn við sjálfan sig, þótt hann hristi það af sér allsgáður.

Þegar við eitt sinn vorum að skemmta okkur heima hjá Jóni Dan, skrifaði hann svofelld orð á eintak mitt af Imbrudögum sem höfðu komið eitthvað til tals um kvöldið :  : Matthías minn! Fyrirgefðu mér frá upphafi til til enda, Hannes . (6. des. 1960)

Hvað sem það merkir.

Svo lýsti hann síðasta ljóðið, einnig með grænu bleki. Þar stendur eitthvað um vatn.

 

Ég á honum þannig skuld að gjalda og þá ekki síður fyrir skemmtilega samveru okkar í Edenkoben þar sem við vorum ásamt öðrum skáldum, íslenzkum og þýzkum, við ljóðaþýðingar og upplestur.

 

Hannes talar um Dymbilvöku og Imbrudaga í endurminningum sínum. Hann lýsir því svo. hvernig þessi vita-kvæði urðu til: ”. . . vökunætur mínar í vitanum leystu úr læðingi undarlega runu orða og setninga sem oftast virtust vera úr samhengi eins og þegar talað er upp úr svefni. Hún hófst á orðunum: ”Ég sem fæ ekki sofið. . . ”og hélt áfram að detta niður á pappírinn eins og dropar úr lekum krana. Brátt varð ég gripinn nokkru andríki af þessum dryplanda, enda var hann háttbundinn eins og ljóð ef hlerað var eftir. Loks varð mér ljóst að ég var byrjaður á  löngu kvæði. Það hófst á persónulegum raunatölum, en íþættist fljótlega öðrum þráðum ömurlegrar lífsreynslu af almennari toga, nefnilega mannkynsins, meðbræðra minna á stríðshrjáðum hnetti sem aftur höfðu skipað sér í andstæðar fylkingar og undirbjuggu nýja styrjöld eftir stutt hlé. Það kom á daginn að ég var dálítið óráðinn í hvað gera skyldi og snerist ókvæða við áróðri-kaus helzt að loka augum fyrir skelfingunni og vona hið bezta:

 

Ó veröld byrgðu saklaust auglit þitt

á bak við blævæng þinna ljúfu drauma

er vindar veifa

Ó vatn mitt liggðu kyrrt

 

Ég veit hún líður þessi vofunótt.

 

Það hefði verið undarlegt ef skip hefði ekki komið við sögu á þessum stað (Reykjanesvita), einkum meðan ég gegndi trúnaðarstöðu vitavarðar og skóf snjóblindu af ljósi vitans, enda gerðist ég ármaður sem varar við hættum, og þóttist þó vita að það væri til lítils:

 

Úr djúpi hafsins risu sköllótt sker. . . (og síðan er vitnað í þetta erindi og tvö hin næstu)Síðan skyggndist ég dýpra líkt og í haug sögunnar, djúpt undir rústir liðinna styrjalda, í leit að véfrétt og lausnarorðum sem gætu afstýrt frekari vígaferlum, en þar var allt þögult sem fyrr og enga vizku að sækja. Hins vegar reis upp Höður blindi “undir reiddum hamri þrumuguðsins”og var nokkuð steigurlátur: Þá gullu heróp, bumbur voru barðar( og vitnað í þennan Ásgarðs-kafl. )Það voru að vísu gömul vígaferli, en höfðuðu þó til nútímans á þeirri forsendu goðafræðinnar að þeim mundi aldrei linna. Jafnvel Neró, hinn geggjaði brennuvargur Rómar, kom til sögu áður en yfir lauk”.

Þá segir Hannes að glíman við Eliot og önnur nýstárleg skáld hafi leyst “gosið úr læðingi í undirvitund minni, líkt og grænsápa vekur aðra goshveri af svefni”

Hann lýsir sölu bókarinnar og viðtökum og hvernig hann lengdi hana með síðasta vita-kaflanum ,  að ábendingu Steins.

Að því búnu víkur hann að Imbrudögum og segist hafa orðið róttækur á einu sumri og sig hafi langað til að yrkja nýjan ljóðaflokk, en það hafi verið ljósfælinn draumur. Hann langað til að brjóta mannlífið til mergjar “svo að meinsemdir þess yrðu afhjúpaðar: dýrsleg fégræðgin sem kapítalisminn hafði innrætt mönnum líkt og heilög trúarbrögð , og ýmist sundrað þeim í sérgæðinga eða safnað þeim um hégiljur í ómælandi hjörð og att fram á vígvelli til slátrunar”. Hann hafi verið staðráðinn í að vera skorinorðari en í Dymbilvöku. . . .

En ekki er að sjá að það hafi tekizt, slík ráðgáta sem kvæðið er á köflum og óaðgengilegt venjulegum lesanda. En skýringar skáldsins eru þó harla traustur vegvísir og og “opna”kvæðið, ef svo mætti segja, gera það hverjum manni skiljanlegt í aðalatriðum. Einstakar og óvenjulegar ljóðmyndir og tengslalausar athugasemdir breyta engu um augljósar útlínur.

Andagiftin lét á sér standa og það var ekki fyrr en eftir strandið í febrúar 1950 sem Hannes fékk innblástur og orti Imbrudaga. Þessu er ágætlega lýst í endurminningunum. Þá var hann heimilisfastur í Reykjavík. Og þá einn daginn byrjaði tréð að syngja: Hin hringhenda þula dægranna. . . ”Þetta stutta ljóð úr upphafi bókarinnar felur raunar í sér lýsingu á vinnuaðferð minni um þær mundir”, segir Hannes í endurminningunum.  “Ég var lind og spegill og beið eftir að verða snortinn orðum sem ég var reiðubúinn að metta skilningi að innstu trefjum. Í Dymbilvöku hafði orð kviknað af orði af sjálfu sér og magnazt í bál, en nú vildi ég njósna um sjálfan mig, um orðin sem yrðu mér á munni, og komast til botns í hvað fyrir mér vekti. Veruleikinn var þrátt fyrir allt ekki annað en úrval skilningarvitanna úr glundroða efnis opg lífs, og þessvegna lá í augum uppi að orð gátu verið margræð. Það reið á að grandgæfa þau eins og fjölstrendan sannleika. Að öðru leyti treysti ég skáldlegri leiðsögn undirvitundarinnar eins og súrrealistar:

 

Undir moldum vex frjóið líkt og óskilgetin hugsun

hugleiðing myrkurs um grænt ljós, við stef sólarinnar

dregur lífræna ályktun af rotnuðum gróðri, leiðir svefnsins

og leitar sér forms að hæfi. . .

 

Ég orti hvert ljóðið af öðru næstum fyrirhafnarlaust og að tíu dögum liðnum hafði ég ort átta ljóð. Ég sá í hendi mér fyrsta kafla nýrrar ljóðabókar og reiknaðist til að verkinu yrði lokið um áramót með sömu vinnubrögðum. ”. Kvæðin öll moll-stemmd og því skilgetin afkvæmi höfundar. ”Nú vakti fyrir mér að tefla saman andstæðum og teygja síðan lopann með tveim stefjum líkt og í tónlist. Enn notaði ég sömu ljóðmyndir og í fyrsta kvæðinu: lauffall og lind. En nú var vindurinn hættur að hvísla og farinn að þyrla upp ryki og prentuðum orðum til að slæva lindaraugað og villa því sýn. Það var áróður kalda stríðsins sem var kominn til sögu og tókst eftir nokkurt þóf að blinda augað, fyrst með bölmóði, síðan með glitofnum draumum og hégiljum gamalla trúarbragða: Vindurinn snuðraði í pappír (og svo er einnig vitnað í fjögur næstu erindi um þyt söngfugla og sálmasöng , lindin hélt áfram að kliða og kirkjan varð æ greinilegri og felldi blán skugga á lindarvatnið með lituð ljósaugu, full af lofsöngvum).

“Kalda stríðið var greinilega orðið mér áleitið íhugunarefni”En “vandi minn var sá að ljóðmál mitt var ekki fallið til að ná eyrum almennings. ”Því var helzt um að ræða einskonar eintal sálarinnar sem að vísu  var einnig leiðsögustef sr. Hallgíms, þegar hann orti Passíusálmana. ”Aftur á móti orti ég liðugt jafnskjótt og ég talaði líkt og upp úr svefni og lét hugmynd tengjast hugmynd af sjálfu sér og tákn ráða merkingum eins og í draumi. Þegar ég síðan leiddi verk mitt augum sá ég að allt lá ljóst fyrir í rökréttu samhengi orða, hugmyndatengsla og ljóðmynda, - að minnsta kosti fyrir sjálfum mér. Og ég kinkaði aftur kolli við verki mínu”.

Og enn:

”Þegar á leið og mér óx ásmegin af kynngi orðanna, fór þó ekki hjá því að ég freistaðist til að taka afstöðu til efnisins, líkt og ég þjappaði því saman í lófa mínum í einhlíta merkingu, þótt enn væri dult kvæðið. Í 4. kafla talaði ég t. d.  um fúið hold föður míns(kapítalismans) sem biði í kjallaranum eftir því að sálumessan yrði sungin til enda og hringjarinn aldni klingdi köldu stáli:

 

að kveðjulokum, felldi líkt sem hagl.

af klukkuportsins hvarmi heiðin tár

að harmi, strjál og dreif í lukta gröf.

 

Ég tala þar um að eldra fólkið noti ilmvötn til að verjast líkþefnum, en yngra fólk þyrli upp ryki og þvoi burt tárin með svita.

 

Við börur hans loga engin ljós

Og luktir veggirnir eru sveittir af angist

Dagarnir flökta við gluggana líkt og kveikurinn sé þurr

En augu vor flökta fyrir dulinni vissu.

 

Loks magnast óþol mitt yfir heimsástandinu í heita bæn um að þessu megi linna, jafnvel þótt það kosti stríð(einkennileg játning! )En þessi fáránlega bæn er óðar gerð ómerk af 5. kaflanum sem lýsir ógnum stríðsins. Í þeim kafla nota ég skipsstrandið við Reykjanesvita og líkburðinn úr fjörunni sem tákn um hrylling mannfórnanna í nýliðinni eða væntanlegri styrjöld. Og síðan klykki ég út með bölmóðasta kvæði sem ég hef ort:

Kyrrstæðan himin

andvökunnar auga(og síðan er vitnað í öll erindin)”

 

Þannig lýkur þessum ljóðaflokki og þurfum við ekki lengur að velkjast í vafa , um hvað hann fjallar eða hver var ætlun skáldsins og markmið. ;þ. e.  hvert hann var að fara með þessum ljóðum sínum.

Hannes tvíefldist að þreki og sjálfstrausti meðan hann orti Imbrudaga og þótti honum hann “loksins vera kominn til fulls þroska bæði á sál og líkama og var sannfærður um að ég ætti glæsta framtíð í vændum sem skáld”.

 

 

Þegar talað er um skilninginn og hið óskiljanlega ljóðmál má, án þess það sé út í hött, fullyrða að tilfinningin tekur við þar sem skilninginn þrýtur. Og ef lesendinn lætur eftir sér tilfinninguna-og lætur sér hana jafnvel nægja í fyrstu atrennu -er mikil von til þess að skilningurinn fylgi í kjölfarið: það er a. m. k.  mín reynsla. Og eitt er víst, þá er minni hætta á oftúlkun!

Þannig getum við kinnroðalaust talað um tilfinningaskilning og hann er ekki verri en annar skilningurt. Hann er t. a. m. góður leiðarvísir, þegar við lesum erfið, en hljómfalleg fornkvæði.

Tilfinningin er þannig heldur góður vegvísir. En þá þarf að lesa upphátt , hlusta á hljómfallið, tileinka sér hrynjandina, samlagast öldunni.

Eins og þegar Útsær Einars Benediktssonar er lesinn. Og ljóðaflokkar Hannesar Sigfússonar.

 

Skilningur er ekki forsenda þess að maður geti notið ljóðlistar, heldur upplifun. Hún leiðir til skilnings eins og við þekkjum af tónlist. Og það er mikið af tónlist í kvæðum Hannesar. , ekki sízt í Dymbilvöku og með köflum einnig í Imbrudögum.

En enginn nýtur tónlistar eins og aðrir. Enginn skilur tónlist eins og aðrir. Og enginn skilur ljóðlist eins og skáldið. Jafnvel það verður stundum að lúta skilningi lesenda. Sjálfur hef ég af þessu reynslu. Eitt sinn fór ég yfir Hólmgönguljóð með ungum stúlkum sem áttu að skrifa ritgerð til stúdentsprófs um kvæðið þú/ert dagurinn sem hvarf, . . þar sem ljóðmælandi horfir á sjálfan sig sem dreng í vesturbænum , situr við gluggann í herbergiskytru sinni og lætur hugann reita til jötunsins handan flóans, Jökulsins,  og þá einnig með skírskotun í gamlan skáldskap.

Ég sagði stúlkunum þetta væri efni kvæðisins, annað ekki, nema þá söknuður glataðra æskuára,  en þær kváðust upplifa kvæðið með öðrum hætt, þarna væri ungur maður og hugsaði um unnustu sína í fjarlægð.

Það var svo sem ekki verri skýring

 

En þegar þær svo komu alllöngu síðar með ritgerðina að sýna mér afrekið, voru þær heldur glaðar í bragði og fullar af sjálfstrausti, því að þær höfðu fengið A-plús, hvorki meira né minna! Og það sem kom mér mest á óvart: þær skrifuðu um kvæðið ,  eins og þær höfðu upplifað það og skilið , en ekki ég -og kærðu sig kollóttar um minn skilning! . Ég gladdist í hjarta mínu yfir því að þær höfðu haldið við sinn skilning og sína upplifun, enda tilgangurinn. En það sem bezt var, kvæðið var margræðara en mig grunaði.

Þetta var því góð kennslustund fyrir mig í bókmenntum!

 

Ég hef því ekki í hyggju að leggja neinn einkaskilning í Imbrudaga, en veit þó að flokkurinn hefst á hugleiðingum um skáldskap og skáldið lítur á sjálfan sig sem lind og spegil og  þá verða hugleiðingarnar auðveldari.

 

Og hér á eftir nokkrar athugasemdir:

 

Í upphafi fyrsta kafla er talað um hina hringhendu þulu dægranna, sem er hvísluð af vindum/við næm eyru lindarinnar. . . . , . þ. e  “ spegillinn sem brotnar “og er “aftur heill” í ölduróti hefðar og nýliztar, gamall tími og nýr. Þá er minnzt á”óskilgetna hugsun”, en nýi skáldskapurinn er auðvitað skilgetið afkvæmi hefðarinnar, ekki síður en erlendra tízkuáhrifa og skiptir þá ekki máli, hvort lesnar eru gamlar íslenzkar bækur eða  erlendir súrrealistar ;eða Eliot. . Fallvaltleikinn er hvort eð er á næstu grösum, ”flughraði tímans”. Skáldið er eins og myrkvuð stjarna sem hefur “ týnt braut sinni” í völundarhúsi tíma og rúms. Undirstöðurnar ótraustar eins og í Dymvilvöku, forfeðurnir að vísu sigursælar hetjur eða guðir í gamalkunnum bardögum . Og tónlistin minnir á sakleysislega drauma.

En þá færist nær “hin gráa þoka”:

 

Hinar myrku frumur

fleyta vofum framliðinna guða

umhverfis kulandi varðelda

löngu liðinnar bernsku.  

 

Kulnandi varðeldar er eftirminnilega líking um menningarleg tímamót, þegar gamall heimur fyrirstríðsáranna er að hrynja og nýr tekur við.

Heimur atómskáldskapar. .

 

Þá er vikið að nákvelinu úr Dymbilvöku og auga unglingsins sem er opið til hálfs, en það er skírskotandi mynd í Tímann og vatnið, þá vikið að vatninu og dymbli þess og þungu vatni sem leitar mjög á skáldið, enda eins konatr  kjarnorkutákn og lýsir kaldastríðsógn og ótta og kemur aftur fyrir síðar; t. a. m.  þegar hafið tekur sinn toll við vitann mikla.

 

Ljóðmælandi segist vera hræddur í klukknahljómi þokunnar, áttavilltur (Er ég til? )

 

Þá er komið að ormunum og vofunum , þ. e.  gröf og dauða, og þreytandi suði “fréttaþráðanna” eða ljósvakannasem verður æ áleitnara í eyrum og er í tengslum við orðin  “þið vofur guða”, en þegar komið er að Spánarstyrjölinni, Guernica, ( og æpandi janusarhöfði samtímans ) er spegillinn enn heill, þótt hann brotni í þessum hamförum.

 

Í upphafi 11 kafla heldur lindin “áfram að kliða”, en að þvi kemur að jörðin snýst hægar og hægar unz hún stendur kyrr “í kirkjugarðinum“;röntgenaugað framkallar beinagrindina og :

Með stjarfa dauðans, njörva blindrar nætur

við nakta limi, tærða, brostin símu

stóðum við í garðinum og hugsuðum og hugsuðum

og hugsuðum um dauðann.

 

Kirkjan orðin að steinbákni og laufið fellur af trjánum “eins og litlar hendur”. . En þrátt fyrir að steingervingar dýrlinganna séu dauðir svipir á veggnum, augun blinduð og vindar blási gegnum augntóttirnar heldur lindin áfram að kliða (í skáldinu væntanlega) og kirkjan fellir bláan skugga á gruggað lindarvatnið.

Það er þrátt fyrir allt , von.

 

Í næsta kafla brestur “taug sársaukans” og þá koma heldur hefðbundin erindi að forminu til, þótt hugsunin sé af þeim toga innhverfra flæðiljóða sem einkennir skáldskap Hannesar Sigfússonar um þessar mundir:

 

Fiðraður skýjum ferðamóður klauf

ég firrðir rúms og tíma, eilíflega

með sköllótt höfuð, augu byrgð við barminn

og blinduð skugga sjálfs mín, ekkert rauf

þögnina nema þytur fallsins

er þaut í fjöðrum mínum, eyru dauf. . .

 

Og :

Ég sá þá líða fram og fölna

sem fylking vofusýna, endalaust

á eirðarlausu reiki um rúm og tíma. . .

 

Þar næsta erindi  sýnir ljóðræn tök skáldsins og braglist, erindið endar svo:

 

ég sá hvar stjarna flaug

af haustsins himni

og hvítum fæti steig á jörðu græna.

 

Að því búnu kemur kaflinn um Davíð andspænis risanum og fiðrildið í lófa hans sem er afar eftirminnileg mynd , þá 1v kaflinn og rekviem föðurins, eða hins gamla arfs og skipulags, en v kafli er tilvitnanabrot í 11 kafla Dymbilvöku sem eins konar inngangur að strandinu sjálfu. Þar birtist svo aftur hið hálflukta auga, þunga vatnið, dymbillinn sem brimgnýrinn lagði við brostnar klukkur, ölvaðir guðir og hálfdauðir sjómenn sem flutu í briminu eins og .  drukknandi flugur í vínámu.

 

Og Eldeyna hillti uppi út í hafsauganu.

 

Allt við undirleik blásandi pípuorgelsins.

 

 

(Sjá Hrunadans og heimaslóð, 2006).

 

 

Þorpið.

 

Það fer ekki milli mála að Þorpið eftir Jón úr Vör er merkilegur ljóðaflokkur og raunar tímamótaverk, þegar hann kom út 1946,  og þá sem einskonar vegvísir um það sem koma skyldi. Að vísu var hversdagslegt tungutak og,  ef svo mætti að orði komast,  opinn texti skáldins ekki sú fyrirmynd sem atómskáldunum var helzt þóknanleg, enda höfðu þau tilhneigingu til að yrkja heldur myrkt og þá með alls kyns myndum og skírskotunum sem fóru fyrir ofan garð og neðan hjá fólki, enda hefur sá þáttur ljóðlistar ekki verið ræktaður hér með sama hætti og í nágrannalöndum,  nema þá helzt í atómkvæðum.

 

Jón úr Vör gaf aftur út Þorpið 1956 , en fyrri útgáfu 1946 hafði verið vel tekið af helztu bókmenntafræðingum þess tíma, Sigurði Nordal og Kristni Ándréssyni. En nú er vestfirzka sjávarplássið Patreksfjörður orðið að tákngervingi slíkra þorpa á Íslandi, en þó einkum athyglisverð viðbót við umhverfi Kristrúnar í Hamravík sem bjó í einangraðra samfélagi,  ef eitthvað var, ásamt Fal syni sínum og guði almáttugum sem stjórnaði  hugarfari, afstöðu og hugsunarhætti. Sem sagt, allri afstöðu til umhverfis og mannlífs, þessa heims og annars.

Kristrún hefði getað búið í koti sínu einhvers staðar rétt utan við Þorpið, en þó ekki inni í því miðju eins og annað það fólk sérkennilegt sem skáldið fjallar um í flokki sínum. Guðmundur G. Hagalín skrifaði löngu síðar annað snilldarverk að vestan, skáldsöguna Márus á Valshamri, en þar er ekki fjallað um andrúm fátæks umhverfis, heldur bændasamfélag eins og það gerðist við Önundarfjörð eða Dýrafjörð og þá einnig í einangrun, en ekki endilega fátækt. Vestfirzkir bændur voru flestir vel bjargálna og sumir með efnuðustu mönnum landsins, enda höfðu þeir margvíslegt gagn að bakhjarli. Þó einnig biblíutexta að leiðarljósi, en hann er víðsfjarri þorpsbúum á Patreksfirði, þótt trú og kirkja komi þar við sögu, kannski einna helzt með hjákátlegum hætti. Í Þorpinu er fátækt fólk og umhverfi þess alfarið heldur fátæklegt, að vísu minnzt á kaupmanninn og aðkomufólk með milliferðaskipi eins og komizt er að orði í fyrri útgáfu frá ´46, en strandferðaskipi eins og því er breytt í seinni útgáfunni, 1956.

Þorpsbúar eru ekki með hugann við himnaföðurinn og annað líf með sama hætti og Kristrún og Márus bóndi, ekki endilega, heldur fátæktina og veraldarbaslið og það meginatriði , hvernig hægt sé að halda höfði í þessu fátæktarbasli og vernda mannlegt stolt sitt.

Þó segir í Föllnum manni:

 

Fölgrænt kirkjugarðsskeggið

bærist í golu haustsins,

 

(en væri þó betra að sleppa haustsins. )

 

og sérstakt kvæði heitir Boðunardagur Maríu, en þar er fremur lögð áherzla á að bátarnir eru að koma að með björg í bú en guðsþjónustuna, það eru fyrstu gæftir á vori og þorpsbúar ganga allir til fjöru að ná sér í soðið. Og presturinn fær heilagfiski! .

Um þessa soðningu snýst  allt líf þorparanna þarna fyrir vestan. Sem sagt, kreppan í hnotskurn undir ljóðrænu stækkunargleri. Kreppan í þorpinu, kreppan um allt land. Allan heim.

 

Hvar er þín trú sem er í báðum gerðum Þorpsins nálgast þó trúarinntak Kristrúnar gömlu og afstöðu hennar. Þar segir m. a. :

 

Hvar er þín trú,

            þú sem settist á óveðursdögum undir brekán

            og hlýddir á guðsorð gamallar konu, sem mælti:

 

Eitt skjól er til gegn öllum hretum,

einn vegur er yfir alla vegu,

ein huggun við öllum raunum,

og hinn vesalasti allra vesalla finnur það,

            sem hann leitar að, -

og ég, sem ekkert á nema gleðina að nefna guðs nafn.

 

Og síðar:

 

Mig auma getur hann kannski notað

            til þess að fara með eitthvað gott fyrir óvita.

 

 

En það étur enginn fegurð fjallanna eða rómantík skáldanna eins og segir í kvæðinu Fegurð fjallanna.

 

Fólkið í þorpinu er baslhagmenni í lífi og hugsun. Lætur hverjum degi nægja sína þjáningu, en lyftir þó huganum öðru hverju til himins og á sína Njálu við hjartaræturnar, sína fögru hlíð eins og fjallað er um í samnefndu kvæði, Fögur er hlíðin,  en þar er Ameríku-Jói kallaður til sögunnar, hann kom að vestan með líkkistu handa Henríettu gömlu , móður sinni, sem bjó í koti eins og Kristrún og hét Hlíðarkot. Gamla konan hrörnaði eins og kotið og var öll , þegar sonurinn dúkkaði upp nokkrum mánuðum eftir andlát hennar.  . Ameríku-. Jói lét sér nægja Njáluna, svaf í kistunni og dó þar nokkrum árum síðar. Á legstein hans var höggvið Fögur er Hlíðin

 

Í bók minni, Njála í íslenzkum skáldskap, 1958, er samtal okkar Jóns úr Vör um þetta kvæði, Fögur er hlíðin,  og síðar átti ég samtal við skáldið um Þorpið og hafa helztu atriði þess verið fléttuð inn í sérstaka grein um skáldið sem birtist í Bókmenntaþáttum, 1985. Þar segir skáldið m. a.

”Ég hafði náð mikilli leikni í að ríma og hefði sjálfsagt getað orðið hlutgengur rímari. Sú leið hefði sennilega líka orðið vinsælli. En fyrir vestan var að vaxa upp ný tegund af Íslendingum og ég var einn þeirra. Þetta voru þorpsmenn. Ég gat því ekki farið að yrkja eins og fyrirrennarar mínir sem flestir voru uppaldir í sveitum og komnir á mölina og hörmuðu þau örlög að hafa ekki getað orðið bændur og dýrkað moldina, enda sjáum við að vinsælustu ljóð þessara skálda eru um traðir og tóftarbrot. Og þær minningar sem þeir eiga eru um gróður og sveitastörf. Til þess að tjá þessa nýju lífsreynslu þorpsmanna þurfti annað form. Þessu hversdagslega lífi sem þarna var lifað hæfði ekki neitt málskrúð. Og þegar ég kom ungur til útlanda og kynntist sænsku öreigaskáldunum sem voru alin upp við lík lífskjör sá ég að tjáningarform þeirra var bezt til þess fallið að gefa sanna mynd af æskuumhverfi mínu”.

Að öðru leyti fjallar Jón úr Vör um uppburðarleysi fólksins fyrir vestan og kjarkleysi. Það brast kjark til allra hluta

“Þetta var ágætt fólk, en það var ekki nóg. Það skorti einhverja snerpu og skilningurinn ekki upp á marga fiska, ekkert hugsað um hollustu og framfarir. ”.

 

Jón úr Vör sagði í samtali okkar að hann hefði ort Fögur er hlíðin í Svíþjóð 1945, hann kvaðst gera ráð fyrir því það væri ættjarðarkvæði, efnið hafi verið honum “dálítið hugstætt”, því að hann hafi einnig skrifað samnefnda smásögu um það og birt hana í sunnudagsblaði Vísis skömmu fyrir 1940. Hann hafi að vísu alltaf verið í vafa um kvæðið “frá sjónarmiði ljóðsins”;honum hafi kannslki fundizt það “fullmikill prósi””

Tilefni kvæðisins hafi verið vesturför frænda hans, Magnúsar Magnússonar, skipstjóra, sem dreymdi stóra drauma og fór til Ameríku ungur að afla fjár, en hann settist að við Winnipeg-vatn og stundaði þar útgerð og fiskverzlun alla tíð. Hann kom aldrei heim aftur til Íslands, en hafði alltaf samband við ættingja sína. .

Ameríku-Jói sé saminn með Magnús í huga og svo annan frænda skáldsins sem fór aldrei til Ameríku , en dreymdi um að verða meiri háttar maður, þótt það hafi ekki orðið. Hann hét Gísli Guðbjartsson. Hann var sjómaður alla ævi, átti skektu og reri lengstum einn á báti. Sérkennilegur maqður “og las Íslendinga sögur af miklu kappi alla ævi og orð og orðasambönd úr fornsögunum voru honum mjög tiltæk, einkum úr Njálu og Grettis sögu. Hann kom, eins og ég segi í kvæðinu, mjög oft á skósmíðaverkstæði föður míns og hafði þá gjarna með sér þessar uppáhaldssögur sínar, aðra hvora í senn, og las upp þá kafla, sem einkum voru að hans skapi. Hlustaði ég oft á þennan upplestur og hafði yndi af.

Þessum tveim mönnum hef ég steypt saman í eina persónu í kvæðinu. . Annað í þessu kvæði er ekki sótt í veruleikann.

Þó má geta þess, að mér voru mjög minnistæð örlög gamallar konu, sem hafði komið heim til Íslands frá Ameríku;hún hafði mjög hægt um sig, en ég vissi, að hún var ákaflega hamingjusöm yfir því að fá að bera beinin á Íslandi. Ekki veit ég deili á henni, en hún er mér í barnsminni”.

Líkkistan kemur við sögu vegna þess hve öldruðu fólki var mikið kappsmál að eiga fyrir jarðarförinni og dæmi voru þess að fólk tryggði sér kistu í lifanda lífi. ”Fóstri ömmu minnar bjó á rekajörð (Naustabrekku á Rauðasandi). Hann var þjóðhagasmiður og mun hafa verið búinn að smíða kistur bæði handa sér og konu sinni, og var sagt, að þær hefðu að mestu verið smíðaðar úr mahogni-við. ”

Jón úr Vör lýsir svo hverju erindi fyrir sig og kemur þá í ljós að þau eru saman sett úr skáldskap og veruleika, þannig er annað og áttunda erindið skáldskapur frá rótum, hin styðjast við minningabrot.

Þessar lýsingar skáldsins eru harla verðmætar vegna þess þær sýna,  hvernig þetta tímamótaverk varð til og úr hvaða efnivið það er smíðað. Það sem á við um kvæðið Fögur er hlíðin á einnig við um önnur kvæði Þorpsins.

 

Það var eins með Ameríku-Jóa og aðra þorpsbúa, hann hafði aldrei farið að heiman, þótt hann hefði dvalizt árum saman í Vesturheimi. Hann nefndi aldrei Ameríku á nafn.  eftir heimkomuna. Það minnir á upphafsorð síðasta kvæðis ljóðaflokksins, Ég er svona stór, en þar segir:

 

Enginn slítur þau bönd

            sem hann er bundinn heimahögum sínum, Móðir þín

fylgir þér á götu, er þú leggur af stað út í heiminn,

en þorpið fer með þér alla leið.

 

Og síðar:

Þú færð aldrei sigrað þinn fæðingarhrepp

            stjúpmóðurauga hans vakir yfir þér alla stund. . .

 

. . . ok hans hvílir á herðum þér.

 

Jón úr Vör varð áreiðanlega oft var við þetta ok og virtist ekki geta hrist það af sér. Þegar skáldið kemur fram í eigin persónu í Þorpinu þarf hann að glíma við þessa möru, ef svo mætti segja, hún minnkar hann með ýmsum hætti, en hann reynir að yrkja sig frá henni án þess hann sigrist á þeim bitru minningum um fátækt og basl sem fylgja honum flokkinn á enda.

 

Dagarnir eru eins og þungir hlekkir,

hver nótt er hlaðin ótta,

því byrðar gærdagsins höfum við borið inn í svefninn

og vöknum jafnþreyttir að morgni,

 

segir í Bernskudraumi. Hann fjallar um ljóðmælanda (ég, mig) og “hina hryllilegu draummöru veruleikans”, eins og segir í þessu sama kvæði.

Þegar ljóðmælandi,  gamall að árum , hefur loks unnið “allan heiminn”, vaknar hann í ókunnri borg þar sem þorpið stóð áður og segir við gröf móður sinnar: Ég er svona stór.

En það svarar þér enginn.

 

Þannig lýkur þessu tímamótaverki Jóns úr Vör, heldur dapurlega. Minningarnar      ristar í merg og bein, þetta er ekki leikrit sem gleymist, þetta eru minningar um eigið líf og þær yfirgefa hann aldrei.  En gleðin “í ástvinar auga”er þó eins og “vitaljós villtum sæfara”, eins og segir í kvæðinu Heima.

Tvö orð vekja einkum athygli í þessum texta, stjúpmóðurauga og hreppur. Það áttu margir bitrar minningar  um stjúpuna eins og fjallað er um í gömlum ævintýrum og því er þessi skírskotin lýsandi vísbending um líðan skáldsins sem þorpsbúa;sterkari og eftirminnilegri en flest annað í þessum flokki. Það er einnig  sterk vísbending í orðinu fæðingarhreppur, þegar haft er í huga þá niðurlægingu að lenda á hreppnum, en það varð hlutskipti margra í þá daga. Jón úr Vör losnaði sem barn við þá niðurlægingu, en líklega hefur litlu mátt muna. Annað skáld vezstfirzkt, Aðalsteinn Kristsmundsson,  öðru nafni Steinn Steinarr,  lenti aftur á móti á hreppnum. Það var alla tíð óbragðið í lífi hans.

 

Kvæðin  í Þorpinu koma hvert af öðru og  að mestu í sömu röð í báðum útgáfum og þá einnig með litlum, en þó dálitlum breytingum. Mér er til efst það hafi margir orðið til að fagna þessu verki eins og háttað var um þær mundir, þjóðin öguð við hefðbundið form og kunni lítt að meta slíkar nýjungar. Hér þurftu menn samt ekki að glíma við gátur, eða ráðgátur, formbyltingarinnar, svo ljós, jafnvel augljós sem kvæðin í Þorpinu eru.

En Íslendingar höfðu svo sannarlega  áður þurft að horfast í augu við nýstárlegan táknskáldskap eins og hann hafði birzt í mörgun ljóðum Einars Benediktssonar. Þó var engu líkara en menn hefðu gleymt hinum myrku gátum sem Einar bauð upp á í sínum stórbrotna skáldskap.

En hvað sem því leið átti ekkert skáld íslenzkt sér eldheitari aðdáendur en hann. Jafnvel hver heildsalinn af öðrum hafði Einar á hraðbergi, þótt flest annað í íslenzkum skáldskap hefði farið fram hjá þeim. En þar reið hljómfallið og bragsnilldin líklega baggamuninn, eins og hjá hirðskáldunum til forna og ósennliegt að margir hafi lagt á sig að greina rækilega það sem kvæði Einars höfðu upp á að bjóða í táknum, gátum og ljóðmyndum. .

En með Þorpinu voru komin hversdagsleg ljóð um alþýðufólk og sjómenn vestur á Patreksfirði,  einfaldur og gátulaus skáldskapur á hversdagslegu þorpsmáli í anda sænsku öreigaskáldanna , eins og Jón benti sjálfur á í samtölum okkar, en ræturnar í skáldskap Carls Sandburgs, en þó einkum Edgars Lee Masters. En þrátt fyrir þetta hlaut flokkurinn engar sérstakar vinsældir og átti raunar undir högg að sækja,  eins og allur lausmálsskáldskapur á þeim tíma. Margir töldu þetta ekki annað en óbundinn lausmálsprósa og kæmi ljóðlist nánast ekkert við. Þessi afstaða breyttist ekki fyrr en löngu síðar, eða með annarri útgáfu Þorpsins.

 

Jón úr Vör hafði áður gefið út Ég ber að dyrum, 1937,  og Stund milli stríða , 1942, og sýnt það og sannað með mörgum fallegum og velkveðnum smákvæðum að hann kunni tökin á hefðbundnu formi íslenzku og orti raunar eins og sæmandi væri góðskáldi á byrjunarreit.

En Þorpið var annars konar, nýr tónn kveðinn, nýtt form í uppsiglingu .

Það kom blendinn svipur á suma, skeifa á aðra. Kannski flesta.

 

Þegar Þorpið kom út aftur, 1956, og þá í nýrri endurgerð, var talsvert liðið á atómskáldskapinn, umhverfið allt annað og jákvæðara en tíu árum áður, Tíminn og vatnið löngu kominn út, svo og ljóðaflokkur Hannesar Sigfússonar, Dymbilvaka sem mér virðist hafi fallið í betri jarðveg en flokkar Jóns og Steins, hvernig sem á því stóð. Mér er nær að halda að fólki hafi þótt ljóðrænni blær á kvæði Hannesar en Jóns, enda er það svo,  og þrátt fyrir allt virtist það skilja Dymbilvöku betur en gáturnar í Tímanum og vatninu. Í Dymbilvöku liggur þó fæst ljóst fyrir.

 

 Útgáfa Þorpsins ´46 hefst með litlum inngangi sem er sleppt tíu árum síðar. Hann hljóðar svo:

 

Hvíl þú væng þinn í ljóði mínu,

lítill fugl á löngu flugi

frá morgni til kvölds.

 

Styð þig,  stjarna,  við blóm í garði mínum

eitt andartak á ferð þinni

um tíma og rúm.

 

Eins og stráið í sandi við dauðans haf,

vaxa rætur þess,  sem hvergi fer.

Enginn spyr,  hvaðan hann komi.

 

 

Þá kemur Hafið og fjallið, fyrsta kvæðið í útgáfunni frá ´56, en verulega breytt. Jón úr Vör breytir ýmsu í þessari annarri útgáfu Þorpsis, en einna mest þessu fyrsta eða öðru kvæði, þ. á. m einni fínustu líkingu flokksins, sem er svo hljóðandi í fyrstu útgáfunni frá ´46: Ströndin er okkur kirkja, /og hafið predikar sannindi/lífs og dauða, en verður í næstu prentun tíu árum síðar: Kirkjan er okkur ströndin og hafið og fjallið, /guðspjall dagsins vanmáttur mannsins/í lífi og dauða.

 

Þá koma kvæðin hvert af öðru í báðum útgáfum og litlar, en þó dálitlar breytingar, en skipta engum sköpum, þó sleppir skáldið kvæðinu Stóristeinn  í síðari útgáfunni. Það er svohljóðandi:

 

Stóristeinn

Við gráan stein

fyrir austan túngarðinn

undum við glöð,

reittum blöðkur og grös

og höfðum fyrir hey

og vorum jafnvel

að hugsa um að verða

álfar og búa í steini.

 

En við urðum stór,

fórum út í heim

eða bjuggum alla okkar daga

í sömu byggð.

 

Og börnin kalla steininn alltaf Stórastein.

Okkur finnst hann muni hafa sokkið hálfur í jörð,

en líklega hefur hann aldrei verið stærri en þetta.

 

 

Eins og sjá má  styrkist flokkurinn við það að sleppa þessu veika erindi og engin eftirsjá að því. Aftur á móti er bætt við kvæðinu Fákar í útgáfuna frá ´56, en í þessu kvæði eru sterk og ljóðræn tök og því talsverð lyfting að því, þegar hér er komið.

 

Síðan heldur röðin áfram óbreytt þar til kemur að kvæðinu Eftirmæli sem er í báðum útgáfum, en í lokaerindi síðari útgáfunnar er niðurlaginu sleppt til stórra bóta: Það var hann, /sem vissi/ hvaðan litlu börnin koma. .

Þessi orð eru eins og flatur brandari í fyrri útgáfunni og gera leyndarmálið að fáránlegu hjali tveggja drengja og skiptir þá ekki máli, hvaðan börnin koma! Annars vegar er það þó svo að þetta voðalega leyndarmál er algerlega óundirbyggt, þegar fyrr nefndum orðum er sleppt, en á hinn bóginn er það auðvitað heldur hjákátlegt að einhver fari ekki við jarðarför þess sem segir honum dreng, hvaðan litlu börnin koma - en jarðarförin hefur væntanlega farið fram löngu síðar! Samt græðir flokkurinn á því að þessum orðum, eða þessari yfirlýsingu er sleppt, þótt hið hnitmiðaða hversdagslega merkingarmið kvæðisins fari fyrir bragðið fyrir ofan garð og neðan við breytinguna. En það er þó skömminni skárra vegna þess að hinn ósagði leyndardómur heldur áfram að vera gáta í vitund lesandans og gæti það gefið kvæðinu seiðmagnaða dul sem er einn helzti kostur góðrar ljóðlistar.

.

Þá er komið að Þurrki sem bætt er inn í síðari útgáfuna, en vantar í flokkinn  í útgáfunni frá ´46. Að þessu kvæði er fremur fengur en ekki. Það er svo hljóðandi:

 

Þurrkur

Ó,  bjartir eru draumar kotapiltsins

í glöðu sólskini júnídagsins,

ó,  bjartir eins og ilmandi saltfiskur

á heitum steinunum,

þegar fjórar stundir eru milli breiðslu og samantekningar,

ef ekki gerir skúr.

 

Gamlar konur með köflóttar svuntur,

og ljósar hyrnur á höfðinu,

rosknir karlar,  sem mylja klútinn sinn,

taka í nefið og spauga.

 

Ungar stúlkur,  sem fjötra bylgjur hársins

með litríkum borðum úr silki,

strákar,  sem ganga með laust hálsmálið

og ermalausar skyrtur,  svo hnyklar vöðvanna sjást,

þegar þeir hafa mikið á börunum.

 

Og hrafninn flýgur krunkandi

yfir fiskþakta reitina

og finnur hvergi stein

til að brýna við gogg sinn.

 

 

Kvæðið Leyndardómur skólastjórans  vantar í síðari útgáfuna og er það bættur skaðinn. Raunar sýna breytingarnar, einkum það sem skáldið sleppir í síðari útgáfunni, að honum hefur farið fram að smekkvísi og öryggi og raunar eru flestar breytingar til bóta og styrkja flokkinn í heild.

 

Leyndardómur skólastjórans

Í þrjátíu ár

            hefur skólastjórinn kvatt nemendur sína

                        með tárum við fullnaðarprófið

                        og óskað þeim farsældar.

 

            Hann er formaður sparisjóðsins

            og oddviti hreppsnefndarinnar.

 

Í þrjátíu ár

            hefur skólastjórinn ritað einkunnir þorpsbúa

                        í bækur sínar,

            fyrst í Nemendaröðina,

            -  og við munum það alla ævi,  hverjir voru efstir

            og hverjir voru lægstir,  -

 

            og síðan í Útsvarsskrána.

 

Röðunarbókin

er hinn mikli leyndardómur skólastjórans.

Þar eru nöfn þeirra,  sem nú koma hlaðnir að

og greiða útsvörin.

 

 

Þegar hér er komið sögu er óveruleg breyting á kvæðaröð og ástæðulaust að tíunda hana. Það mætti þó spyrja hvers vegna skáldið sleppti ekki niðurlagi kvæðisins Frelsari minn í síðari útgáfunni, eða jafnvel  einnig þeirri fyrri, en hún gæti vel talizt til ofsagnar eins og hún stendur þarna í kvæðislok: Jesús Kristur skorinn í tré/er kominn í Forngripasafnið/ fyrir sunnan.

Skáldið hefur að öllum líkindum litið á þetta eins og hverja aðra áherzluaukningu, eða jafnvel fyndni um verðmætaskyn fólksins fyrir vestan eða hirðuleysi þess, en hvorugt dugar þó sem fullkomin skýrin. Auk þess er forngripasafn notað  í kvæðinu eftir að  þjóðminjasafn er hið hversdagslega tungutak þess tíma sem það er ort og því kannski dálítið vandræðalegt. En um það má að sjálfsögðu deila.

 

Það er fremur ástæða til að staldra við ýmsar eftirminnilegar athugasemdir og myndir í flokknum, t. a. m.

 

Geta börn verið fátæk?

Ég hef séð sól í auga

varpa geislum á fölan vanga, -

vorið

            (Vorljóð)

 

eða:

 

Börnin fæðast litlum systkinum sínum eins og ljós sé kveikt

eins og fyrstu blóm vorsins

sem aldrei gleymist,

 

segir í Litlum dreng sem er eitt bezta kvæði bókarinnar.

Nokkru síðar  talað um flakandi sár jarðar, í Fákum um skammdegisbörn

 

 

og í Lítilli skel segir:

 

Einn dag segir dauðinn við lífið:

Ó, ljá mér skel þína, bróðir. ,

 

í Vorhugsun er talað um hjarta í fangelsi sínu og hlýtur að hafa verið harla frumlegt, þegar flokkurinn kom fyrst út.

 

En eftirminnilegasta setning bókarinnar er líklega í kvæðinu Faðir minn sem er eins í báðum gerðum:

 

Og hendur föður míns urðu svo svartar og harðar, (af vinnu)

að hann varð að hafa þær í vösunum

 

Önnur, heldur óhugnanleg líking, en eftirminnileg er í kvæðinu Ólafur blíðan, svo hljóðandi:

                                           meðan beinaberir

moldugir líkmannafingur seilast eftir pönnukökum

af rósóttum diski.

 

Þá er talað um landsteina eigin bernsku í Við landsteina, blind augu vegarins í kvæðinu Við Gullfoss, líkkistubreiðar hengjur eða grafir í Undir hvalbak. Á eftir kvæðinu Fögur er hlíðin er bætt við tveimur nýjum kvæðum í síðari útgáfu, Aðstoðarmatsveinninn sefur og Hlátur fjallsins.

Í hinu fyrr nefnda eru  ljóðrænar, fallegar myndir: Sólfingur leika á vorstreng við hafsauga . . . og

Eins og duttlungar vindanna veltir mávurinn/væng sínum hvítum og breiðum.

Í hinu síðara er talað um oddvitann sem “brosti við tárum”. Hann stóðst allt, jafnvel hlátur fjallsins, þegar skriður falla á hús hans.

En í þessu kvæði segist skáldið ætla að skrifa bækur, verða frægur og láta sólina skína á sinn barðastóra hatt úr fléttuðu strái.

Þennan hatt held ég hann hafi aldrei eignazt

 

Aðstoðarmatsveinninn sefur

Litlir bátar vaggast með tilgangslausri reglusemi,

bundnir við bryggjustólpana,

festarnar nema við sjávarflötinn þegar slaknar á þeim,

hefjast svo að nýju og drýpur af þeim sjór.

Það vætlar inn um rifu á bógi,  og grænmálað austurtrog

bíður þess að undir það flæði.

Sólfingur leika á vorstreng við hafsauga.

Langt úti á firði skríkja fuglar í geri.

 

Tvær stúlkur ganga fram á bryggjusporðinn.

Það er aðeins einn vökumaður um borð

og aðstoðarmatsveinninn,  sem er ungur og sefur.

Vörðurinn kastar hálfreyktum vindlingi niður í sjóinn

á stjórnborða.

 

Stúlkurnar taka dansspor í geislum ljósrar nætur,

en aðstoðarmatsveinninn sefur.

Eins og duttlingar vindanna veltir máfurinn

væng sínum hvítum og breiðum.

 

Hlátur fjallsins

Enn hugsa ég um fjallið,  sem var yfir okkur,

ogn hina mjóu steinvölurönd milli þess og hafsins,

og oddvitann okkar,

            sem taldi aura fólksins og brosti við tárum.

 

Þegar ég verð stór,  hugsaði ég,  en sagði ekki hátt,

ætla ég að byggja hús uppi á hjallanum,

- einu grastó fjallsins yfir þorpinu -

og rita bækur mér til frægðar,

láta sólina skína á barðastóran hatt úr fléttuðu strái.

 

En ég var ennþá fátækur,  atvinnulaus og umkomulítill,

þegar síðasta skriðan velti torfunni af nefi klettsins

og kastaði í hús oddvitans

            á bakkanum við sjávarhamrana.

 

Þetta var hlátur fjallsins.

En einnig hann stóð oddvitinn af sér,

gekk berum fótum út kalda aurleðju gólfs síns

og brosti.

 

 

Næsta kvæði í fyrri útgáfunni vantar í hina síðari, Leyndarmál. Það er viðkvæmt ástarkvæði sem skáldið hefur líklega talið yrði misskilið, ég  sé enga aðra ástæðu til að sleppa því. Það er fallegt innskot þar sem það stendur í fyrri útgáfunni og hefði gefið hinni síðari hlýlegra og ljóðrænna viðmót. En hvers vegna að sleppa þessu ágæta kvæði? Mér kemur helzt í hug aðástæðan sé þessi setning: Það voru brúnu lokkarnir hennar/sem eitt sinn snertu vanga minn/svo ég vaknaði.

En kvæðið er svo hljóðandi:

 

Leyndarmál

Aldrei gleymi ég telpu í rauðum kjól.

Það voru brúnu lokkarnir hennar,

sem eitt sinn snertu vanga minn,

svo að ég vaknaði.

 

Nú er hún gift fyrir vestan

og á falleg börn,

og ef hún skyldi einhverntíma

lesa þessar línur

grunar hana sízt af öllu

að það sé hún,

sem hverfur mér ekki úr huga.


 

Næsta kvæði í fyrri útgáfunni heitir Sumarnótt. Það kemur í síðari útgáfunni á eftir kvæðinu, Sóleyin grær snjó, en þar gengur ung kona á vaknandi stráum og sól og regn eru persónugerð, moldin er í höndum sólar og regns. Það er vorgleði og óvæntur fögnuður í þessu kvæði. Einnig í Sumarnótt sem er rómantískt kvæði með fallegum myndum og birtir upp þetta fátæklega og kaldranalega kreppuumhverfi:

 

Meðan þögnin leikur á hörpu kvöldroðans

og fjöllin speglast í bládýpi rökkurs

sem aldrei verður að nótt,

siglir ástin yfir bárulausan sjó,

bíður ung kona við þaragróna vík

og hlustar eftir blaki af árum

 

Ástin hlutkennd sem bátur.

 

 

Og í næsta , eða síðara erindi,  standa þessi fallegu orð:

 

Árablöðin kyssa lygnan fjörð eins og hvítir vængir.

 

Ástin komin til sögunnar og þá birtir yfir umhverfinu.

 

 

Bæði eru þessi kvæði flutt framar í síðari útgáfunni. Ástin kemur sem sagt fyrr til sögunnar í þeirri útgáfu, enda kreppan löngu liðin minning!

Jóhann Hjálmarsson segir í bók sinni Íslenzk nútímaljóðlist, 1971, að svo virðist sem tvö ljóð hafi villzt inn í Þorpið, Við landsteina og Sumarnótt”. Sú yndisstund sem er ríkjandi í þessum ljóðum”, segir hann, ”sker sig sig úr dapurleikanum í mörgum ljóðunum, sem þó táknar ekki sama og uppgjöf hjá Jóni úr Vör. Í Við landsteina er talað um, að bátur vaggi undurhægt við landsteina eigin bernsku;þar er kominn mjúkur silkispegill, gullnir vængir og laufgrænn skógur. Engu er líkara en eitthvert gamalt kínverskt skáld hafi tekið fram fyrur hendurnar á Jóni, viljað benda honum á eilífa fegurð lífsins. Og í Sumarnótt leikur þögnin á hörpu kvöldroðans, og fjöllin speglast í bládýpi rökkurs, sem aldrei verður að nótt. ”

Ég er ekki þeirrar skoðunar að þessi kvæði eigi ekki heima í Þorpinu, þvert á móti. Ástæðan er sú að ljóðaflokkurinn er ekki einungis einhvers konar óbundin frásagnarkvæði eins og Jóhann nefnir, eða einskonar minnivarði um íslenzka örbirgð, eða umbúðir um rómantíska fátækt eins og Eysteinn Þorvaldsson minnist á í bók sinni um Atómskáldin, 1980, eða Jón sé eini sósíalrealistinn sem Íslendingar hafa eignazt, eins og Einar Bragi hefur bent á, heldur umbúðir um minningar. Það er styrkur hans fyrst og síðast. Minningar sækja að skáldinu, misjafnlega dýrmætar að vísu, en áleitnar og undan þeim verður ekki vikizt. Engar prédikanir,  lítil sem engin félagsleg gagnrýni í róttækum skilningi, heldur er lesandanum ætlað að draga sínar eigin ályktanir og upplifa fátæktina og baslið með skáldinu, en þá ekki síður það sem fagurt er og uppörvandi, það sem dregur úr vonleysi kreppuáranna. Og þá er ekkert eðlilegra en skáldið fylgi lesendum sínum einnig inn í íslenzka náttúrufegurð og þá heillandi veröld sem hún hefur að geyma. Slíkur unaður þarf ekki að vera kínverskur, hann getur ekki síður verið íslenzkur. Þó að ekki sé hægt að éta fegurðina, er ekki þar með sagt fólk geti ekki notið hennar.  Fátæku fólki  hefur þótt Hlíðin ekki síður fögur en þeim sem hafa átt merira undir sér.

 

Margt hefur verið sagt um Þorpið og sýnist sitt hverjum, eins og alltaf er. Steinn sagði t.a.m. í samtali í Birtingi 1955,  að Jón væri “býsna nýtízkulegur”, en varla til eftirbeytni”. Það er naumast á nokkurs annars manns færi að þræða það einstigi milli skáldskapar og leirburðar sem hann fer”.

Þau tíðindi eru helzt úr skáldskap Jóns að hann byltir forminu, þótt hugsunin, afstaðan sé engan veginn í samræmi við kröfur módernismans um innhverfan skáldskap;eða eigum við heldur að segja tízkukröfu módernismans? Þorpið er þannig formbyltingarljóð fyrst og síðas, en þó umfram allt minningaljóð um veröld sem var, að vísu ekki endilega fagra veröld, en þó heillandi  á sinn hátt;fólkið í þessari umgjörð í ætt við fjallræðufólk Halldórs Laxness og varpar þeim mannúðarblæ á umhverfi sitt sem í sjálfu sér er eftirsóknarvert ævintýri, hvað sem allri fátækt líður, öllu basli. 

 

Sóleyin grær í snjó

Sóleyin grær í snjó

            í maí.

Með barn undir brjósti

            um vor

gengur ung kona

            á vaknandi stráum.

 

Túnið skal stækka,

            steinarnir hlaðast í garð.

Moldin er mjúk og frjó

            í höndum sólar og regns.

 

Ungur maður slær pontu við stein

og horfir á konu sína.

Og í rauðu flaginu leika sér þegar

lítil ófædd börn.

 

Í næsta kvæði í síðari útgáfunnu (það er aftar í hinni fyrra) setur skáldið sig í spor gamalla hjóa og talar fyrir munn eiginmannsins sem er dauður: bleikt haustlaufið/féll á mína kistu.

 

Næsta kvæði í síðari útgáfunni, Frambjóðandinn, er ekki í hinni fyrri. Þar er gert hálfgert gaman að  því, hvað þingmannsefni byltingarmanna leggur á sig til að fá atkvæðin í sveitinni. Annars staðar segir þó að það verði ekki gerð bylting í þorpi. (Verkfallið)

 

Þetta kvæði birtist fyrst í ljóðabókinni Með örvalausum boga 1951, ort í Stokkhólmi. Þar er það með öðrum hætti en í síðari útgáfu Þorpsins 1956. Í upphafserindinu er línum bætt við frumgerðina, en breytingin er svo hljóðandi.

 

 Í Með örvalausum boga segir:

 

Og við horfðum á Kríuvatnið, sem sat í heiðinni

og rann hljómlaust niður í dalinn,

gaf þorpinu ljós, en skammtaði naumt,

 

en verður  svo hljóðandi, þegar það er birt í Þorpinu fimm árum síðar:

 

Og við litum til Kríuvatnsins,

            sparisjóðsins í miðri heiðinni,

er safnaði sitrum og lækjarsprænum

og rann hljómlaust niður í dalinn,

gaf þorpinu ljós, en skammtaði naumt.

 

Álitamál hvor gerðin er betri, því að vatn sem sparisjóður er heldur langsótt líking.

 

 

 

Frambjóðandinn

Þú trúir ekki á guð,  sagði ég við byltingarmanninn

á leið yfir fjallið.

Nei,  á mennina,  sagði hann,  þeir eru til.

Og við litum til Kríuvatnsins,

            sparisjóðsins í miðri heiðinni,

er safnaði sitrum og lækjarsprænum

og rann hljómlaust niður í dalinn,

gaf þorpinu ljós,  en skammtaði naumt.

 

Svo hallaði undan fæti og við stóðum í fjörunni.

Bóndinn flutti okkur yfir fjörðinn,

en nennti ekki að hlusta á þingmannaefnin

við austurgafl barnaskólans.

Hóið,  piltar,  ef á að sækja ykkur yfir,

sagði hann og strauk úr skegginu.

 

Og enn var sólskin um kvöldið,

hóið glumdi í fjallinu

            og bátskelin þeyttist til okkar í logninu.

 

Byltingarmaðurinn varpaði klæðum í skutinn

            og greip til sundsins,

en ég horfði gegnum blágrænan sjóinn

            á leik kola og smáfiska á gulum sandinum.

Frambjóðandinn varð fyrri yfir sundið,

og þar stóð dóttir bóndans og greiddi honum atkvæði.

 

 

 

Næstu kvæði í síðari útgáfunni, Fegurð fjallanna, Við Gullfoss, Undir hvalbak, Kyndarinn, Heima, Á útleið, Í erlendri höfn og Fallinn maður, vantar öll í fyrri útgáfuna 1947. Aftur á móti er síðasta kvæði seinni útgáfunnar, Ég er svona stór, í báðum gerðum.

En fyrri gerðinni lýkur með nafnlausum erindum sem vantar í lokagerð: Ef þú ert fæddur á malarkambi. . .  

 

Ef þú ert fæddur á malarkambi,

eru steinar fyrir fótum þínum

hvar sem þú ferð, -

og þú unir þér aldrei í borg.

 

Þitt gras skal brjóta sér leið milli steina.

 

Far þú heiminn á enda

að leita þér frama,

 

kom heim

og leik þér að brotinni skel,

 

gakk aldinn

veg allrar veraldar,

 

og í eilífðarfjörunni finnur þú gulnað strá

bak við sorfinn blágrýtisstein.

 

Í nýju kvæðunum sem nefnd hafa verið og skáldið hefur skotið inn í flokkinn er leitað út úr þorpinu, kreppan er augsýnilega að baki, og ljóðmælandi er á ferðalögum, ýmist uppi á öræum eða annars staðar í fjarlægum sveitum, þar sem hann er í vegavinnu, fer til Gullfoss .  og víðar, en þó fjalla þessi viðbótarljóð einkum um sjómennsku og þá helzt um söluferðir togara til útlanda. Þar er meira að segja fjallað um ávaxtasala í erlendri hafnarborg, en brjóst vændiskonunnar eru þroskkaðir ávextir og fingrafreisting!

Þannig koma þessi kvæði þorpinu lítið sem ekkert við og helzt að sjá sem átt sé við nýsköpunartogara sem komu til landsins í stríðinu., og þá einhverja eldri togara, ef því er að skipta.

Þá voru byltingarmennirnir komnir í stjórn og áttu þátt í því hvernig hinni pólitísku siglingu var hagað.

Þessi kvæði eru á margan hátt eftirminnileg, en mér er til efs þau eiga þarna heima. Þau eru að sögn skáldsins ort í Stokkhólmi veturinn 1946´47 og prentuð í bókinni  Með örvalausum boga, 1951, þar sem þau standa ásamt öðrum nýjum kvæðum skáldsins. Efni þeirra, umgjörð og andrúm er líka augljóslega frá stríðsárunum. .

Kvæðin stinga þannig í stúf við hið eiginlega yrkisefni,  þorpið sjálft í kreppu og fátækt,  og spurning hvort eldri gerðin sé sterkari lýsing á kreppuárunum en sú yngri. Efniviðurinn var þá ömurlegri en þegar andrúm framandi hafnarborga og stríðsreynsla eru komin til sögunnar, eins og í kvæðunum Heima, Á útleið, Í erlendri höfn og Fallinn maður. : Aðeins einn hefur fallið fyrir helskeytum stríðsins. . . , segir þar.

 

Þessum hamförum stríðsins fylgdu peningar, miklir peningar. Og góðæri.

En það er önnur saga.

 

Hið eiginlega Þorp kemur svo aftur til sögunnar í kvæðinu Ég er svona stór. Það er þetta umhverfi sem fylgir skáldinu alla tíð,  enginn slítur þau bönd sem hann er bundinn heimahögum sínum, segir í þessu kvæði, enginn fær sigrað fæðingarhrepp sinn, eða þetta þorp, þetta eina þorp sem horfir stjúpmóðurauga á efir hverjum þeim þorpara sem hyggst leggja land undir fót. Og það er í þessu þorpi sem skáldið bjó um sig.

Þetta hús hef ég kallað Vör, segir í kvæðinu Sjóbúð. Það var þessi sjóbúð sem fylgdi skáldi Þorpsins alla tíð.

 

 

26. febrúar, mánudagur

Hef haft í mörgu að snúast, en þó hef ég einkum einbeitt mér að því að ljúka við ljóðaflokk sem  kom á mig eina nóttina fyrir nokkru og ég hef verið að yrkja æ síðan, hann heitir Hvers vegna ekki ?  í núverandi gerð, eða Pourquoi pas ?  Slysið uppi á Mýrum og minning mín um það, eða öllu heldur jarðarförin frá Landakotskirkju, hefur löngum búið í mér eins og aðrar hamfarir, ekki sízt í stríðinu. Flokkurinn fjallar m. a.  um þá áhættu að vera maður, þá áskorun sem því fylgir og hvers vegna við ættum að taka henni af fullri reisn.

Ég hef líka verið að hlusta á fyrirlestra bandaríska prófessorsins Roberts M Hazen, The Great Principles of  Science, og það hefur hreyft við mér. Við getum vegna þekkingar okkar upplifað alla sköpun tilverunnar frá upphafi , enda þáttakendur í henni frá örofi alda og minningin lifir . undirvitundarlega með okkur ,  því að við erum eins og hvert annað efni úr þessari deiglu geimsins, við erum sem sagt geimryk, hert í yfirgengilegum eldi og upphaflegum óskapnaði sem síðar varð að náttúrulögmálum.

Þannig getum við upplifað allt þetta ferli sem viðmiðun við umhverfi okkar nú.

 

Sérhver fruma er einskonar efnaverksmiðja og við erum gerð úr trilljónum slíkra verksmiðja sem eru einungis sýnilegar undir smásjám. Og samsetningin eins og hvert annað undur, eða jafnvel kraftaverk. Náttúran ein getur breytt svo flóknu ferli í einfalda niðurstöðu.

Í hverri frumu eða frumukjarna eru upplýsingamiðstöðvar, eða litningar (23 pör í manninum, þ. e. 46 litningar alls)með genum eða erfðavísum, sem flytja þá vitneskju milli kynslóða sem prótínreynslan aflar, ef svo mætti segja. Þessi genareynsla nær líklega yfir 4 milljarða ára, eða frá því fyrstu frumurnar urðu til við sköpun sólkerfisins. Frumurnar búa líka yfir vitneskju um það, hvernig þær eiga að fjölga sér, þ. e.  ein kynslóð fær upplýsingar frá annarri um það, hverjir eru eiginleikar efnisins, eða í þessu tilfelli þeirra einstaklinga sem um ræðir. Og tegundin á einnig sinn geymslusjóð.

Þannig er það eðli frumunnar “að muna” og miðla því sem hún “man”,  þ. e. ef efnið man, þá hlýtur það einnig að hugsa  og geyma reynslu sína sem einhvers konar minningu.  Öll dýr og allar plöntur nota þessa “minningu” til að viðhalda tegundinni, en svo á náttúran einnig annað vopn í  þróunarferlinu, stökkbreytingu innan efnisins eða einskonar byltingu.

Þessa minningu notar maðurinn einn til að þróa og efla þekkingu sína á sköpunarverkinu - og þá ekki sízt sjálfum sér. Hann einn lifir og hrærist í því sem nefna mætti tilverugeymd. Hún er allt annars konar en eðlishvöt.

 

Við erum í brimgarðinum miðjum og takmarkið er að ná landi. Þetta er reynsla allra kynslóða og ekki síður brýnt umhugsunarefni nú en áður. Freud segir í Civilization and its Discontents að þrá okkar standi fyrst og síðast til hamingju. En hann segir líka það sé krókódíll á meðal okkar. Hver hefur ekki kynnzt honum?

 

Í þessum hamförum öllum og andspænis dauða og tortímingu er minningin og hefur breytt okkur úr mállausum frummanni í einhvers konar siðmenningarfyrirbrigði sem kannski á  einhvern guðsneista í brjóstinu. Og að minnsta kosti dýrmæta mennsku.  

Þessi neisti er forsenda þess að við getum notið óendanlegrar fegurðar sköpunarverksins og hlustað á og tileinkað okkur rómantíska upplifun og tónlist tunglhörpunnar mjúku. En hættur alls staðar á næstu grösum.

 

Veganesti okkar er áhætta, en hún er líka heillandi. Geimrykið upplifir hana ekki síður en annað í umhverfi okkar. Það veit að  Pourqoi pas ?  er alltaf að farast einhvers staðar,  þetta eilífa skip vísindamannsins og þekkingarinnar, ekki síður en skáldskapar og drauma ;þ. e þeirra þátta í lífi okkar sem hafa skapað draumamanninn úr þessu eilífa ryki, þessu frumdýri sem heitir maður.

 

Allt hefur þetta sótt á mig. Og svo hef ég verið að skrifa um Þorpið, Einar Benediktsson, einkum Útsæ,  og Dymbilvöku og það hefur ekki dregið úr upplifunarástríðunni og þeim minningum sem ég hef verið að yrkja um. Þær eru líklega mikilvægastar alls. Kanarífuglinn gæti aldrei lagt undir sína andlegu vængi himin og jörð, því að skammtímaminni hans er innan við  mínútu, þótt eðlishvötin, hið hugsunarlausa veganesti til sjálfsbjargar, reynsla og aðlögun árþúsunda veiti honum allmikið skjól. , jafnvel öryggi ,  og breyti smæð hans í kröftug vængjatök.

En þetta langminni gerir okkur að mönnum. Og svo náttúrlega skáldum!

 

Í upphafi flokksins er reynt að lifa sig inn í sköpunina, hina efnislegu reynslu umhverfis okkar , andspænis biblíulegum forsendum trúarreynslunnar og þá með skírskotun í Gamla testamenntið og Opinberunarbók Jóhannesar-hvaða nýstefnuljóð hefur ekki einhverja vísun í hana! -en allt er þetta auðvitað partur af sköpuninni , og þá einnig þegar sólin fer að stækka og gleypir Merkúr og e. t. v.  fleiri nærliggjandi plánetur eins og Venus, en þar sem sólin er svona nokkurn veginn á miðjum aldri, verður þetta víst ekki fyrr en eftir um 4 milljarða ára og þá verða um 18 milljarðar ára frá hvellinum mikla og upphafinu sem einnig er drepið á. Í þessu umróti öllu er maðurinn með alla sína þekkingu, allt sitt minni, eins og hver önnur fluga, líf hans aðeins andrá eða andartak og margar hættur á þessu andartaki. Örlög Charcot og manna hans bíða okkar allra, því það eru mikil veður allt í kringum okkur og Hnokki og önnur sker í öllum brimgörðum.

En þá er það ekki síður mikilvægt að muna til framtíðar, ef svo mætti segja, reyna að gera sér grein fyrir því, hver þróunin verður. Flugan hefur ekki áhuga á slíku.

Þá er vitnað í Jónas, sem öðrum fremur var með hugann við manninn í sköpunarverki guðs, eða Alheimsvíðáttuna, og annað kvæði eftir hann, Undir annars nafn (Austur sé ég fljúga), svo og  Hávamál,  en að því búnu vikið aftur að Charcot þegar hann sleppir mávnum úr búrinu, þ. e. hugsun hans og mannúð myndgerð og hún fer með mennsku okkar eins og goðsögn inn í nýja minningu, þótt annars konar ógeðfelldari minningar eins og lýst er í hetjukvæðum blasi við, en það er einnig hægt að upplifa fegurðina í dauðanum eins og Gunnar gjúkungur gerði, þá minnzt á hvernig skáldskapur Egils hefur ferðazt til okkar, en það er eiginleiki hugsana að leggja himin og jörð undir vængi sína, ekki síður en geimskip fljúgi milli himinstjarna.

 

Þá er  að sjálfsögðu vitnað í þau vísuorð Dymbilvöku sem urðu mér ógleymanleg, þegar ég las þau fyrsta sinn og skrifaði um verkið síðar hálfþrítugur, það var í Stefni 1955 ,  Bleikum lit. . . , einnig í Odysseifs-kviðu, eða hver hefur gert ferðalagið að táknrænum boðskap mannsins,  ef ekki gamli Hómer. ? Og síðan vikið að öðrum sæförum, öðrum sýnum sem kviknuðu undir lokin eins og um allt kvæðið. En þá er ekki sízt mikilvægt að lesa upphátt og skilja með tilfinningunum;a. m. k til að byrja með.Tilfinningaskilningur er mikilvægur,bæði í skáldskap og lífinu sjálfu.

En ekkert af þessu eru bara orð, heldur er þetta allt á rökum byggt og vísanir og skírskotanir ekki sízt til þess fallnar að benda á og undirstrika það.

150120

 

 

Fórum á laugardagskvöldið  í Þjóðleikhúsið og horfðum á einleik Gunnars Eyjólfssonar um Pétur Gaut, það var í tilefni af 75 ára afmæli hans. Það var hrífandi pétur eins og ég sagði í heillaóskaskeyti til hans.

Pétur Gautur er merkilegt verk og það er líklega rétt sem Einar Benediktsson segir, að þetta sé frægasta leikrit norrænt sem samið hefur verið. Ævintýrafjarstæðan endist einhvern veginn alltaf betur en raunsæið, t.a.m.  hef ég nú meiri áhuga á Jónsmessunæturdraumi en kóngaleikritunum.

Einar segir enn fremur að efnið sé lýsing á eigingirni og sjálfsbirgingsskap ,  eins og hann kemst að orði,  gagnvart kærleika og æðri þekkingu sem normaðurinn öðlast gegnum miklar lífsbreytingar, víðferli og örlagaríka atburði. En þegar hann hverfur aftur til fósturjarðarinnar sigrar kærleikurinn.

Allt er þetta spunnið úr æðra lífi höfundarins sjálfs, segir Einar. Hið sama mætti vafalaust segja um Einar sjálfan og enginn vafi á því að hann hefur oft og einatt séð sjálfan sig í þessari persónu. Engin tilviljun að hann nefnir  sjálfbirgingsskap, kærleika, þekkingu, en þó einkum lífsbreytingar og víðferli.

 

 

Þegar ég hafði hvílt mig um stund á ljóðaflokknum Hvers vegna ekki?  orti ég tvö lítil ljóð og setti svo við þau tileinkanir úr Pétri Gaut, eftir að Gunnar hafði birt hann á sviði Þjóðleikhússins, enda vel við hæfi.

 

Þessi sýning tók augsýnilega mikið á Gunnar og í lokin æddi hann um sviðið og engu líkara en hann væri hálförvinlaður og væri að leita að sjálfum sér. Ég hef aldrei séð þetta áður á sviði, hvorki fyrr né síðar, en það var hnýsilegt.

Þegar nánar er skoðað  má sjá að sumt í þessu verki vísar hingað heim. Þannig segir Einar að runnarnir í Marokkó, sem þar er minnzt á, eigi að tákna Ísland, þar sem frummálið er talað:

 

Sjálfur hélt ég fram og fylgdi

frumtungunnar mikla gildi;

var að reyna að vekja upp líkið,

vernda gólið úti um ríkið,

vældi með og heimti hljóðin

háfrumleg í þjóðaróðinn.

 

Þetta er harla íhugunarvert og háðsglósurnar ódulbúnar, enda vissi Ibsen að norðmenn höfðu glatað tungu sinni og ekkert málstríð gæti komið henni til bjargar. Þess vegna skrifaði hann verk sín á þeirri dönsku norsku sem kallast ríkismál. Af því gætum við sitthvað lært.

Þá finnst mér hitt ekki síður athyglisvert að undir lokin er orðnotkun sem minnir mjög á síðari kvæði Einars sjálfs eins og Útsæ og þar er engu líkara en hann sé að tala um sjálfan sig af vörum Péturs Gauts:

 

Finnst enginn, enginn í öllum heimi 

í afgrunnsins djúpi, né himinsins geimi. . .

 

Það skyldi þó ekki vera að leikritið sé einskonar fræ sem óx með skáldinu og skilaði öðrum eins ávexti og Útsæ löngu seinna. Útsær er ortur eitthvað fyrir 1916 og fjallar um svipað efni og Pétur Gautur, en Einar er búinn að snara leikriti Ibsens á síðasta áratug 19. aldar, þótt hann lagfærði ýmislegt fyrir endanlega útgáfu, 1922.  

 

Í Ústæ stöðvast maður við þessi orð sem einskonar framhald af afgrunnsins djúpi: ógrynnis-bylgja, en þetta er lokaorð kvæðisins. Þar er talað um að fornhelga spekin gefi andanum seinasta leikinn í tafli, þ. e. að þroski og þekking ráði úrslitum andspænis djúpinu mikla sem á ekkert hjarta ; þ. e. umhverfinu og miskunnarlausri samtíð.

Mundi það ekki einnig vera efni Péturs Gauts, þegar upp er staðið?

 

Síðdegis

Í helgarblaði DV er grein sem nefnist Íslenskur aðall. Hanna benti mér á hana, en ég hljóp á henni. Ég kem þar eitthvað heldur góðlátlega við sögu, m. a.  sagt að ég sé prúðmenni! Ég sagði við Hönnu að ég væri það ekki.

Nú, sagði hún, ertu með einhver læt?

Ekki endilega, sagði ég, en oftast segi ég meiningu mína umbúðalaust-og það gera ekki prúðmenni!

Jú, jú, sagði Hanna. En hvað ertu þá?

Ja eiginlega bóhem, sagði ég!.

Það er bara ímyndun, sagði hún og sat við sinn keip!

Og þannig sit ég víst uppi með það að vera prúðmenni!

 

Við Hanna fórum í kvöldverð á vegum kirkjunnar í  gær og þá var vitanlega alltaf verið að spyrja mig hvernig ég hefði það, hættur á Morgunblaðinu. ! Ég fann þá allt í einu rétta svarið við þessum eilífu spurningum. Það er ekki lengur nein helgi í lífi mínu, það er búið að þurrka þær út. Hvern dag sem ég vakna upplifi ég einhvers konar hvíldardag .

Helgarnir eru ekki lengur neitt frábrugðnar öðrum dögum. Ég held því að svarið sé að ég sakna helganna, það er allt og sumt! Það eru engar helgar lengur í lífi mínu, því að hver dagur sem guð gefur er helgidagur. Hvíldardagurinn er orðinn að hversdagslegum degi, í engu öðruvísi en aðrir dagar

Í því er eftirsjá.

 

1. marz, fimmtudagur

Hlustaði á gamalt samtal Ian Flemings við Raymond Chandler um glæpasagnagerð, áhugavert. En þó fannst mér skemmtilegast hvað þeir báru mikla virðingu hvor fyrir öðrum. Það var til fyrirmyndar, en líklega heldur sjaldgæft nú orðið, ef keppinautar eiga í hlut. Fleming sagði m. a.  að James Bond væri ekki hetja eins og Marlove, þótt hann lendi í mörgum ævintýrum. Hann er bara njósnari og kvennabósi. Hann sagði einnig að Chandler hefði skrifað einhver fínustu skáldsagnasamtöl sem hann þekkti og er ég því nokkuð sammála. Hann kann m. a.  að flytja tungutak ræsisins  yfir á eðlilegt, velsmurt bókmál. Það ískrar ekki í samtölum hans eins og venjan er.

 

Lauk einnig við tvær sögur eftir Chandler,  Farewell My Lovely og The Lady in the Lake. Ég hef lesið betri sögur eftir hann. Lauk einnig við Travels With My Aunt eftir Graham Green. Skemmtileg saga, en sú gamla frænka er teiknuð upp eftir Wilde. Það er samt vel gert og eiginlega  sérstök brezk sagnahefð, ættuð frá lafði Windermere!

 

2. marz, föstudagur

Hef verið að skoða líf og verk brezka leikskáldsins Marlowes sem var uppi á svipuðum tíma og Shakespeare, lézr 1593 aðeins 29 ára. Hann fékk hnífsstungu í augað, þegar hann lenti í slagsmálum á einhverri krá minnir mig, enda hinn mesti ævintýramaður, var m. a.  njósnari fyrir Elísabetu 1 .  Banamaður hans var einnig njósnari og átti víst þátt í aftöku Maríu Skotlandsdrottningar.

Enginn veit út af hverju þeir félagar slógust, en það vita menn sjaldnast! Hitt er víst að leikskáldskapur missti mikils við dauða Marlowes, því að hann ruddi brautina með stórverkum eins og Játvarði 2, Tamburlaine og Fást. Ótrúlegt raunar að svo ungur maður skyldi hafa ort slík verk. Hann kenndi Shakespeare blank verse, þ.e.  háttbundna rímleysu

Marlowe var illa þokkaður af ýmsum, t. a. m.  kirkjunni ,  því að hann var guðleysingi,  og “siðuðum” borgurum, því að hann var hommi og kemur það m. a.  fram í Játvarði 2, að því er virðist. Ég er þó ekki viss um hann hafi verið neinn guðleysingi af lífi og sál, eins og talað er um Krist í Fást;að einn dropi af blóði hans gæti bjargað Fást undan djöflinum.

En Shakespeare, hver sem hann var, fékk blúð po tannen, þegar Marlow,  keppinauturinn mikli, var drepinn. . Og honum óx ásmegin!

 

 

4. marz sunnudagur

Ég er nú að nálgast lokin á fyrirlestrum próf. Hazens. Þeir hafa verið stórfróðlegir og mikið umhugsunarefni. Merkilegt hvað jörðin hefur breytzt á þeim fjórum milljörðum ára sem hún hefur verið til;útlit, land og sjór, fjöll og dalir, veðurfar ,  plöntu-og dýralíf. Hann minnist á fjölda tegunda sem náttúran sjálf hefur útrýmt, einnig skemmdir mannsins á náttúrunni, t. a. m.  hvernig fiskeldi hefur eyðilagt Viktoríuvatnið með því að flytja þangað fisktegund sem hefur breytt öllu náttúrujafnvægi í og við vatnið. En náttúran sjálf og breytileg umhverfisskilyrði eru aðalskaðvaldurinn gegnum tíðina. Hann segir að 99. 99 % allra tegunda sem hafa lifað á jörðinni frá fystu tíð séu útdauð. Fyrir 25o milljónum ára hurfu 96% allra tegunda á jörðinni á tiltölulega skömmum tíma, en ekki er vitað hvers vegna. En þá hefur náttúran af einhverjum ástæðum þurft að glíma við milljóna ára ánauð. Á þessum tíma urðu miklar náttúruhamfarir, eldgos, veðurfarsbreytingar, landrek. Þegar risaeðlurnar hurfu ásamt öðrum tegundum var ástæðan lofteinn sem féll til jarðar við Mexíkó fyrir 65 milljónum ára og breytti jörðinni í koldimmt helvíti. Nú telur þekktur vísindamaður að 4 tegundir dýra deyi út í frumskógum Brasilíu daglega og annar að ein tegund plantna deyi út á nokkurra mínútna fresti.

 

Ég hef ekki sízt áhuga á því sem Hazen segir um Kantaraborgar-sögurnar. Af þeim eru til 58 handrit, ekkert þó skrifað af höfundinum sjálfum,  Chaucer. Nú er reynt með tölvutækni að komast eins nálægt frumhandritinu og unnt er. Þau handrit sem til eru borin saman og leitað að frumtexta. Mér skilst það hafi borið góðan árangur. Nú þyrftum við að bera saman Njálu-handrit og niðurstöðuna síðan við nafnbundin rit Sturlu Þórðarsonar, t. a. m.  Íslendinga sögu og Hákonar sögu , og skoða vel það sem þá kemur í ljós. Einnig væri ástæða til að bera saman mörg önnur forn handrit og  ganga úr skugga um, hvort ekki er hægt að finna höfunda sagnanna með þeim hætti. Þetta gæti orðið spennandi verkefni og hnýsilegt. Höfundar eru aldrei langt undan texta sínum.

 

Kvöldið

Í sundinu í dag sagði einn gestanna við mig, Er það ekki rétt, Matthías, að Jóhann Hjálmarsson sé eina póstmóderna skáldið á Íslandi?

Það veit ég ekki, svaraði ég, af hverju heldurðu það?

Jú, vegna þess að hann vann hjá póstinum á sínum tíma. !

 

Þetta er dæmigert samtal á Íslandi,  því að gálgahúmor er þjóðareinkenni okkar.

 

Nú eiga allir að vera sjókaldir og sniðugir og menn vekja helzt athygli á sjálfum sér með stóryrðum og grófum fullyrðingum. Sízt af öllu með rökum, heldur blaðri. Og alltaf sömu framtóningarnir í fjölmiðlum, einkum sjónvarpi. Þetta eru að verða einhvers konar sirkusdýr sem leika sömu listir viðstöðulaust fyrir einn mola úr lófa temjarans!

Og sirkusinn stendur á öndinni af andakt!

 

Hallgrími Helgasyni þótti sér sæmandi að kalla Sólveigu Pétursdóttur , dómsmálaráðherra,  flokkstík í DV-pistli fyrir helgi og klykkti út með því að hún skeindi sig með undirtyllum sínum, þ. e.  lögregluþjónum!

Svo er verið að loka fólk inni fyrir litlar sem engar sakir! Saklaust fólk sem þykir eitthvað skrítið, en er einungis skemmtilega órígenelt. Samskonar fólk og setti svip á bæinn, þegar ég var strákur.

Þetta á víst að vera fínt hjá Hallgrími og fyndið. En það er fjósalykt af þessu öllu saman. Og flórinn hefur aldrei verið mokaður. Það flóir út af

Svona talar enginn með sjálfsvirðingu um annað fólk.

En vitleysingarnir hlæja og halda um magann . Veita verðlaun. Minnir á það sem Auden sagði, að það væri íslenzkt orðtak, þegar sagt væri: Allir elska eigin fret!

Ég hef að vísu aldrei heyrt það orðtak, en glöggt er gests augað!

 

8. marz,  fimmtudagur

Er að ljúka leiksögu sem styðst við samtöl  við fólk sem ég hef kynnzt í störfum mínum. Finnst það skemmtilegt viðfangsefni að reyna að breyta slíkum tíðindum úr lífinu í einhvers konar listræna heild, ef svo mætti segja.

Leiksagan á að heita Lítið fólk með vængi. Í henni verða tvö ljóð nýleg, annað um náttúruumhverfi mannsins, hitt  tilbrigði við gamalt ljóð.

Svo er ég að hugsa um stutt fjarstæðuverk  í tengslum við  Netið. Og þó!

Það getur verið heilsusamlegt að hugsa. Þá er maður aldrei einn!

 

11. marz, sunnudagur

Langur göngutúr í gær meðfram Elliðaánum og um skóginn þar og um skógræktarstöðvarskóginn í Fossvogi.  Fínt vorveður.  Löngu, mjóu tónar fuglanna farnir að heyrast á stangli. Það merkir að einhvers staðar sé vorið!

Er að hlusta á Naxos-diska með tónlist og upplestrum úr bréfum stóru tónskáldanna. , auk diska með sögu tónlistarinnar frá upphafi. Góð viðbót við þekkingarforðann.

Merkilegt hvað Motzart var mikið með hugann við breytingar á óperunum. Einnig hvað vinátta þeirra Hydens var falleg og raunar óvenjuleg. Ástæðan var auðvitað sú, hvað þeir virtu verk hvor annars. Það er oftast lykillinn að slíkri vináttu milli listamanna. Þó byggðist vinátta Berlioz og Mendelssohns ekki á slikri gagnkvæmni, því hinn síðar nefndi taldi sitthvað vanta á snilligáfu Berlioz. En hann virti hann samt vel.

Ég vissi svo sem að Schubert var fátækur snillingiur og  mikið tónskáld, þóttist vita að Schumann hefði verið góður rithöfundur og Berlioz frábær, en hafði ekki gert mér grein fyrir því, hvað Mendelssohn var góður stílisti á ritað mál. Hann hefði getað orðið sérstæður rithöfundur. , einkum ferðasagnahöfundur.

Ég gerði mér ekki heldur grein fyrir því ,  hvað Wagner lagði mikla áherzlu á að hann væri ljóðskáld og enn síður hvað hann getur verið ástúðlegur við sína nánustu, þessi hrossabrestur! Hann ætlar svo sannarlega að ná takmarki sínu-og ef ekki ,  þá muni hann deyja í mikilfenglegri fegurð vegna verka sinna og áhugamála. Ekki vissi ég heldur hvað Brahms gat verið óöruggur og þurfti mikið á því að halda að fá staðfestingu kunnáttusamra vina um ágæti verka sinna. Það stafar náttúrlega öðrum þræði af fullkomnunaráráttu sem allir þessir snillingar voru haldnir;að sjálfsögðu.

Fyndni Verdís hefur líka komið mér á óvart og þá ekki síður hvað Tsjækövskí er kominn úr óræktuðu músíkumhverfi. Ég þykist þekkja svona heimþrá eins og kemur yfir hann á ferðalögum, samt leið honum vel í útlöndum, t. a. m.  í New York. En Rússland hefur sterkt aðdráttarafl, rétt eins og Ísland. Ástæðan er líklega þetta hráa, ófáaða umhverfi sem kallar á frelsi eins og náttúran ein gerir. Samt hefur aldrei verið neitt frelsi í Rússlandi! Og frelsi okkar er tilbúin blekking smáþjóðar sem eltist því meir við útlönd sem hún hefur minni ástæðu til!

Beethoven kvartar yfir því hvað meðalmönnum er hossað í Vín. Á sama tíma er  amazt við verkum hans sjálfs

Hann ætti að vera uppi í dag, þá hefði hann sagt eitthvað!!

En hann huggar sig með sama hætti og aðrir miklir listamenn hafa gert gegnum tíðina, Þeir gagn-gagn-gagn-rýn-rýn-rýna ekki inní eilífðina,  segir hann í bréfi til listtímarits. Undanskilið: Hún er mín!

Ég held listamenn hafi það á tilfinningunni, hvernig verkum þeirra muni vegna í framtíðinni, a. m. k hafa þeir einhvern grun um það.

 

Meðan ég var að hlusta á þessa diska  hugsaði ég um öll þau verðmæti sem nútímafólk fer á mis við vegna þess það hefur ekki við að taka á móti því rusli öllu sem því er viðstöðulaust boðið upp á í fjölmiðlum. Mikið af því er alls kyns samtímadrasl sem skiptir engu máli og þroskar engan mann. Og svo endar þetta með því að fólk verður eins og yfirfullar öskutunnur. Og hugsar aldrei ærlega hugsun. Allt snýst um pjatt og peninga.

Það er talað um nauðsyn þess að endurvinna sorp, en mundi ekki vera ærin ástæða til að stofna endurvinnslustöðvar fyrir fólk. Endurmenntun háskólans er að vísu spor í áttina. En það er auðvitað ekki hægt að lifa fyrir aðra. Og meðan fólk vill þetta fjölmiðladrasl, þá fær það rusl.

 

Síðdegis

Sáum í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi Laufin í Toscana eftir sænska leikskáldið Lars Norén. Ágæt sýning. Við eigum góða leikara og fína fagmenn í leikhúsi, þeim hefur farið stórlega fram, enda vel menntaðir, ekki sízt í útlöndum, þar sem byggt er á langri sögulegri hefð.

 

Þegar ég þekkti til í gamla daga,  var áfengi notað í óhófi og ég er þess fullviss að Jón gamli, Eins og þér sáið. . .  og Fjaðrafok guldu þess eitthvað á sínum tíma. Leikverk voru ekki alltaf fullunnin fyrir frumsýningar, það vantaði metnaðinn sem ég held sé í fyrirrúmi í Þjóðleikhúsinu nú um stundir, enda höfum við séð margar skínandi sýningar undan farin misseri, þótt verkin hafi verið harla misjöfn. En leikararnir eru hver öðrum betri og metnaður þeirra leynir sér ekki.

Fjaðrafok var held ég ekki fullæft nema fram að hléi, þegar það var frumsýnt. Leikararnir voru góðir, enda voru beztu leikararnir í gamla daga frábærir, en það vantaði alúðina við vinnsluna, finnst mér. Og þá á ég við sýninguna í heild og tímann sem unnið var að henni. Ég þóttist sjá, að hverju stefndi, en tók því sem að höndum bar. Auk þess talað um að setja lögbann á sýninguna vegna Bjarg-málsins. Ég skipti mér ekki heldur af því, svo þetta gekk sinn gang. En viðbrögð flestra gagnrýnenda voru einkum ætluð til að ganga frá mér sem leikskáldi. Það mátti litlu muna, svo margir og óvægnir farandriddarar sem þátt tóku í þeim leik. Þeir fengu blóð á tönnina og linntu ekki látum fyrr en í fulla hnefana, mörgum vikum eftir frumsýningu. Ritstjóri Morgunblaðsins skyldi settur á pláss! Það voru einkum vinstri menn sem stóðu að þessari aðför, töldu enga ástæðu til að íhaldið stæðii fyrir svona gagnrýni á kerfið, það var þeirra hlutverk! Löngu síðar sagði Páll Baldvinsson , í Vísi minnir mig, að vinstri menn hefðu átt að fagna verkinu, þetta væri eiginlega fyrsta og eina sósíalrealistíska leikverk íslenzkt sem samið hefði verið!

Það kom vel á vondan.

Ég held Páll hafi verið að skrifa um Guðs reiði, þegar hann sagði þetta.

 

Það hafði gengið betur þegar Jón gamli og Eins og þér sáið. . . var sýnt í Lindarbæ. Þó var hið síðar nefnda leikritið limlest með því að skera niður leikara í sparnaðar skyni. Lét ég það einnig gott heita. En metnaðurinn var ekki sá sami og nú, hvað sem öðru líður.

Jón gamli sló strax í gegn og varð mjög vinsælt verk, það vantaði ekki. Og þrátt fyrir áhyggjur mínar, small leikurinn þegar á frumsýningunni

Guðlaugur Rósinkranz,   þjóðleikhússstjóri, fylgdist með og ræktaði umhverfi sitt eftir beztu getu. Hann markaði stefnu leikhússins frá upphafi og gerði það vel að minni hyggju. Hann átti hlut að mörgum fínum sýningum. En hann réð ekki við Bakkus, hann var sá eini sem virtist leika lausum hala í leikhúsinu og gat því brugðið til beggja vona. Mér skilst Sveinn Einarsson hafi þurrkað Þjóðleikhúsið. Þá hætti Bakkus að stela senunni!

 

Eftir þessa heldur óskemmtilegu reynslu forðaðist ég sviðið, en hef unnið fyrir útvarp og sjónvarp, að ósk þeirra sem töldu það ekki fullkomlega réttmætt að stúta mér; manna eins og  Steindórs Hjörleifssonar (Jón gamli), Jóns Þórarinssonar og Hinriks Bjarnasonar ( Ofelía í sjónvarpi) Hrafns Gunnlaugssonar  og Hilmars Oddssonar  (Sjóarinn o. fl í sjónvarpi), Kristínar Jóhannesdóttur (Glerbrot upp úr Fjaðrafoki í sjónvarpi )Helga Skúlasonar  (Sókrates í útvarpi og á plötu frá Fálkanum) og Sveins Einarssonar (Guðs reiði, einnig í útvarpi, en Þorsteinn Gunnarsson hvatti mig til að semja úr því leiksviðsverk, en ég  lét það eiga sig, meðan Sólmyrkvi og Sólborg hafa ekki verið sýnd).

Og nú á ég að mig minnir fimm óleikna leikþætti, eða leiksögur eins og ég kalla þá ,  og hef ekki haft neina tilburði til að koma þeim á framfæri þrátt fyrir fín meðmæli Hávars Sigurjónssonar, helzta leiklistarsérfræðings landsins. Aðrir hafa ekki séð þessi verk.

En kannski kemur að því ég viðri þau, hver veit!

 

Samt hef ég áhuga á því að  Sólmyrkvi verði  sýndur, en til þess hefur enginn haft hugrekki. Að sýna sviðsverk eftir mig væri líklega eins og hvert annað guðlast!

 

Og þá aftur að Laufunum.

Ég held mér finnist sýningin betri en verkið sjálft  með  jafnósannferðugum persónum og þarna eru á ferðinni, a.m.k.  innanum! Betra að fá bara óraunsætt verk, í fjarstæðustíl,  og láta allt raunsæi eiga sig. Það verkar hvort eð er fjarstæðukennt.

 

Talaði við Ólaf Ragnar forseta í hlénu. Hann er fínn að tala við eins og fólk sem hefur fengið allt sem það vill.  Mér virðist hann hafa áhuga á leiklist, held hann lifi sig inní svona sýningar.

Þetta er magnaður texti, sagði hann.

Ég jánkaði því, enda eru þetta að mörgu leyti ágæt samtöl.

 

En unga stúlkan,   Klara, er einhvern veginn utanveltu, yngra leikskáldið einnig og loks frændinn, þessi asnalegi trússhestur fjölskyldunnar. En hann er samt skemmtilegasta persóna verksins svona vel leikinn, ásamt föðurnum sem er tragíkómísk upplifun. Hann þolir ekki einu sinni minningu látinnar konu sinnar og amast við henni í samtölin við systkinin, sem er hvert öðru móðursjúkara eins og reyndar allur persónuskari verksins. Hann segir um þessa látnu eiginkonu sína, að lifandi hafi hún verið hárið í súpunni!

 Hvernig skyldi þetta samlíf hafa verið, meðan hún lifði!

 

Svona leikverk sækir mikið til. Strindbergs og Tsjekovs, enda segir höfundur það sjálfur. En það vantar einhvern veginn í það skáldskap þessara brautryðjemda. Norén hætti að yrkja þegar hann hóf leikritagerð. Kannski er það skýringin? Einhvers konar ljóðlist er að mínu viti undirstaða góðs leikhúss. Það sem getur gert gæfumuninn. Hitt er bara skemmtun, afþreying.

En hvað sem raunsæinu líður eru svona leikrit spegill sem  sýna áhorfendurna eins og þeir vilja ekki sjá  sjálfa sig. Og þeir geta skemmt sér við þessa spegilmynd. Að því leyti er þetta ágæt þerapía. Flestir halda að hún fjalli um alla aðra en þá sjálfa. Að því leyti erum við  flest einhvers konar sykópatar. En normölu fólki tekst ágætlega að leyna því.

Oftast!

 

17. marz. ,  laugardagur

Sá í gærkvöldi sjónvarpsmynd um bágindi fólks í Afríku.

Orti þetta:

 

Svartur drengur grætur,

 

tár hans litlaus

eins og okkar tár,

 

litlaus eru tár þeirra

sem gráta.

 

Hef verði að hlusta á tónlist. Ég er eins og túramaður þegar tón

list er annars vegar, hlusta viðstöðulaust meðan á því stendur, en ekkert á milli.

Hljómsveitarsöngverk Brahms eru sterk, t. a. m.  við ljóð Goethes, Schillers og Hölderlins. Rinaldó er hálfgildings ópera og flott söngverk.

Og Rómeó og Júlía Berlioz er einhver allra flottasta ópera sem ég hef heyrt. Ekkert röfl sem skemmir flestar óperur. Minnir að þessu leyti á Fidelíó Beethovens og  svo Wagner.

Rómeó og Júlía hefði nægt Berlioz inn í eilífðina!

 

18. marz,  sunnudagur

Svalt veður og bjart, logn. Skýjaslæða um Esjuna miðja.

Gekk niður á höfn. Þjóðarskútan bundin við bryggju, það er dapurlegt. Skoðaði myndir á Miðbakka sem Snorri Snorrason flugstjóri hefur tekið af gömlum reykvískum fiskiskipum, bátum og togurum. Fróðlegt. Sá einnig bátsmynd eftir Bjarna Jónsson, einnig fróðlegt. Mundi eftir gömlum orðum  sem voru til skýringar:hnífill framhluti, kinnungur eða bógur að framan, en súð um miðjan byrðing. Miðþófta, hlummur á ár og keipar sem hún er sett í: Nú sýður á keipum, hvað ætli margir skilji það nú á dögum?

Allt lærði ég þetta, þegar ég var að veiða silung í Elliðavatni drengur með föður mínum. Hef ort ljóðaflokk um þann tíma, bjartasta skeið bernsku minnar. Nú eru þessi orð að gleymast. Eins og annað. Það er einnig dapurlegt.

 

Nú hefur verið hafizt handa um að rífa ÍR-húsið. Allt er rifið, en það á víst að flytja það og varðveita, kannski ekki sízt vegna harðorðs leiðara sem ég skrifaði í Morgunblaðið í fyrra. Það skykldi þó ekki vera! Það var að minnsta kost ráðgert að farga húsinu vegna kostnaðar við flutning. En húsið á merkilega sögu. Það var fyrst kaþólsk kirkja, síðan miðstöð mikilla afreka í íþróttum. Ég upplifði það vegna þess faðir minn var þá formaður ÍR og við bjuggum um skeið á efri hæð hússins, þar sem skrifstofur höfðu verið. Og þar fékk ég skartaltssóttina.

Tíminn gerir atlögu að minningunni, rífur hana í sig eins og rándýr.

 

Smábátakarlar voru að landa glitrandi golþorskum í höfninni, það var eftirminnilegt. Svona fiskar eru eins og minning um gamla góða daga, golþorskaminning er hin raunverulega saga okkar. Og skipsmyndirnar á Miðbakka sýna hverjir færðu þjóðinni  þennan veruleika sem er hverri minningu dýrmætari. Nú eru þeir í verkfalli, því miður. Ekki sízt út af óréttlætinu sem tengt er kvótakerfinu. Það er dapurlegt.

Þjóðarskútan tók sig að vísu vel út þarna niður við höfn, samt var stærsti og flottasti togarinn frá Hull. Einkennileg áminning!

 

Sá marga hrafna við höfnina. Ég hef aldrei séð eins marga hrafna í Reykjavík og í vetur. Þeir gera sig heimakomna. Þrír fylgdu mér eftir eins og ég væri Hrafna-Flóki;eða persóna í Íslendinga sögu Sturlu eða Njálu. Þar eru dramatískir hrafnar á flugi. Og ég fór að hugsa, Hvað hefur eiginlega breytzt frá því Flóki var að forvitnast um landið? Mennirnir? Ég held varla. Landið sjálft? Enn síður. Nýtt fólk og nokkur gos, það er allt og sumt!

Þannig leið þessi sunnudagsmorgunn á hrafnavetrinum mikla.

 

 

Strandið

Lokin á Imbrudögum styðjast við reynslu Hannesar Sigfússonar af því, þegar hann gegndi störfum vitavarðar í Reykjanesvita og olíuskipið Clam fórst þar 1.marz 1950, en ljóðaflokkurinn kom út, 1951. Skáldsagan Strandið fjórum árum síðar, eða 1955.

Í v kafla flokksins sem hefst með tilvitnun í Dymvilvöku, Svo liðu dægrin, leyndum harmi bundin, er strandinu lýst og þegar borið er saman við skáldsöguna kemur í ljós að frásögnin er nánast hin sama (þrjú ljós úti í myrkrinu, áhöfnin á brúarvængnum, dráttarbáturinn, björgunarbátar settir út, vitavörðurinn  veifar þeim frá með höndunum og óp hans deyr í apalurðina og “þungt vatnið” brýtur allt mélinu smærra, mennirnir farast í briminu og hann reynir að tína þá upp úr fjörunni, þessar “drukknandi flugur”og einstigið niður í fjöruna er á sínum stað). Í þessum frásögnum er bitamunur,. en ekki fjár;hann er einkum sá ljóðræni blær sem er í kvæðinu, að sjálfsögðu, þ.e áferðin er önnur en í skáldsagnaprósanum.

 

En þessi munur getur skipt sköpum eins og við sjáum í einu þekktasta leikriti Molieres, þegar viðkomandi persóna , eða heimspekingur, skrifar ástarbréf fyrir aðra persónu og spyr  hvort það eigi að vera í prósa eða bundnu máli.

Ég verð að trúa yður fyrir því að ég er ástfanginn af mikilli gæðakonu og langar til að skrifa henni bréf sem ég get lagt við fætur hennar. Er ekki rétt að gera það.

Jú, auðvitað, segir heimspekingurinn. Viljið þér  hafa það í ljóði eða prósa?

Nei, ekki í ljóði, það hentar mér ekki.

Þér viljið þá hafa það í prósa.

Nei, hvorugt!

En það verður að vera annað hvort!

Hvað þá?

Jú,  ef þér ætlið að tjá yður verður það að vera í ljóði eða prósa, önnur leið er ekki til.

Hvað segið þér, aðeins ljóð eða prósi?

Það er rétt. Það sem er ekki prósi er ljóð og það sem er ekki ljóð er prósi.

En ef talað er eins og ég geri núna, hvað er það?

Það er prósi.

Þegar ég segi, sæktu inniskóna mína eða náðu í nátthúfuna mina,  er það þá prósi?

Auðvitað, herra.minn.

Ég hef verið að tala prósa í 4o ár án þess að hafa vitað það. Ég er yður ákaflega þakklátur..

 

Síðasti kafli Imbrudaga er  að mestu prósaljóð eins og sagt er og það gefur skáldinu tækifæri til að stikla á því sem gerist og lýsa því fremur í myndhvörfum og líkingum en raunsæislegum smáatriðum. Það er aftur á móti gert í skáldsögunni, þótt ljóðlistin sé ávallt á næstu grösum, eins og sjá má á því að skáldið er með hugann við Eyðiland Eliots:..og nú var brúin jafnörugg og London Bridge. Vart getur þessi líking verið tilviljun einber!Skáldsagan er að mestu skrifuð í raunsæisstíl, en undir lokin verður hann ljóðrænni með köflum : Því þessi brú var ekki ofin úr regnboga og þjótandi skýjum, segir í lok xii kafla, bláma himinsins og flugi svölunnar, og því síður af húmi næturinnar-heldur var hún mjög raunveruleg, -enda gátu skipbrotsmenmnirnir sem eftir voru í skipinu gengið hana í land þurrum fótum.

Gengið yfir “hyldýpið”milli lífs og dauða.

 

Það hafði dregið úr briminu síðan í gær, vindinn hafði lægt og úti í hafsauganu stafaði sólin á lygnan hafflötinn. það var mildur andi í lofti og undarleg, kyrrlát birta yfir landinu, eins og náttúran hvíldi við minningar um fjarlægt vor, segir í xiv kafla og síðar, eða í lokakaflanum: Mér þykir gott að þegja og hlusta eftir straumi tímans, og því betra sem hann er mér fjarlægari og hefur lægra um sig, eins og t.d. voðfelldum niði vindsins, skrjáfinu í sinunni sem er svo dauft að ég heyri það varla, og vatnsseytlinu utan við gluggann minn eftir regnið. Í gær orti ég eftirfarandi vísu:

Vatn er seytlar við minn glugga

þyt af vindsins ljá er skárar grasið

nema eyru mín en eigi

eiginn blóðnið-og mitt hár er visið.

 

Þessi passus hefði sómt sér ágætlega í Imbrudögum.

 

Lítið dæmi um muninn á ljóðrænum prósa kvæðisins og raunsæislýsingum skáldsögunnar eru þessar línur í kvæðaflokknum:

...Og þegar við stóðum faðmslengd frá þverhníftu bergstálinu við hafið sáum við áhöfnina standa á brúarvængnum líkt og skelin hefði opnast, mann við mann, og ég sá gul andlitin mæna til landsins líkt og ópersónulegt neyðaróp gegnum brimgnýinn...

 

Og  þessi lýsing í skáldsögunni  ,  ix kafla, Atlantis:

 

...Ég sá að þar var krökkt af mönnum sem allir sneru andlitunum til lands, bæði uppi í brúnni, á hvalbaknum og uppi á bátaþilförunum..Andlit þeirra voru eins og gulir blettir sem ýmist höfðu skipið eða blágrátt hafið að bakgrunni...

 

Sama efni, önnur tök. Önnur áferð eins og blasir við, ef áfram er haldið.

 

Enn ódagsett


Að lyktum

                            Þú elskar mig

                                               Pétur Gautur

 

Hvers vegna ekki að elska og hugsa um þig

og elska þig meira en vorið við skugga minn

hvers vegna ekki, en elskar þú haust eins og mig?

Ég elska þig meira en vorið fuglsvænginn sinn.

 

Hvers vegna ekki að elskast sem dagur við ský

og opna sitt hjarta og lifa og deyja í senn

og hvers vegna ekki að njóta þess ávallt á ný

sem næst stendur hjarta þínu og gleður þig enn?

 

Og hvers vegna ekki að elska þá jörð sem ber

því ótvírætt vitni að hugur þinn stendur til mín

og þú ert sú gleði sem glitrar í huga mér.

Það glampar á dauðann og ást mín er kveðja til þín.

 

 

 

 

Svo á ég þig

             Pétur Gautur

 

Hvers vegna ekki að elska þig

og elska þig nógu mikið,

meira en öll þau áform mín

sem ég hef hingað til svikið,

 

hvers vegna ekki að elska þig

og eignast þig fyrir vikið.

 

 

Pourquoi pas ?

(eða: Hvers vegna ekki?) 

 

Sjáum sólina eins og eldrautt bólgið auga, sjáum

hana sleikja rauðum eldtungum litlar kulnandi stjörnur, sjáum

hana svelgja Merkúr eins og skordýr, horfum í gin drekans, sjáum

hann sletta halanum að hvítglóandi sólkerfum, sjáum

musterið rifna þar sem guð valdi því stað á hæðinni, sjáum

rödd hans og heyrum ásjónu hans í leiftrandi eldingum, sjáum

 

augað bólgna á himni, eineygur kraftur musterisins

og björgin klofna, en Merkúr hverfur eins og sandkorn í þrútið auga,

 

stjórnar rauðlogandi himni undir sáru augnloki næturinnar,við

sem munum óorðna atburði, upplifum sköpun og tortímingu í sömu andrá, við

sem upplifum bólgið auga guðs eins og sótgult sólarlag þess sem verður

og var og hugsar í glóandi efni, fer

leggjarbrjót eilífðarinnar, stiklar stjörnur sem blika

eins og vatn við glitrandi tónfall vatnadísanna, sárfætt þessi hugsun

undir voggríshvítu augnloki sólguðsins,

 

öll þessi langa ferð

 

andrárlaus eilífð í einni andrá,

 

fórst einn saman,eilífð á undan

og eftir söm,

 

förum ein saman, ómfögur aldahvörf kliða við þögn og steina,

undarleg þögn við hádegismyrkur svefnlausra daga,

 

glitrandi blik og brotnar eins og deyi

dvergstjarna hvít við guðsauga.

 

Útsynningshagli slær vindurinn andlit vor og vindurinn

fyllir seglhvíta hugsun áttleysu utan við skerin, slær

skipinu flötu sem öslar stjórnlaust og þreytt

inn í ósköp haglsárra daga, stendur Charcot við búrið, opnar

lokuð heimkynni mávsins, Hvers

vegna ekki? hleypir honum út undir nýjan óttalegan himin

og líkföla jörð, það brýtur við Hnokka

og hugsun vor  steytir á klettföstu skeri, Berðu

lífinu kveðju, fljúgðu einn inn í eirðarlaus

ósköp, vertu sæll undir vænglausum vindum

þessa voðalega dags

 

sólvindum hvítum,

 

 

höndin vængur og vindmjúkur lófi við nýbrýnd örlög

og ósaköp i senn.

 

Kjalfestulaus og leikur á tunglhvíta hörpu, horfir til lands

inn í blindandi augu brimsins.

 

Austur sjáum fljúga að Esju tindi hrafn af húsmæni þar sem gráföl

ský hefjast mót himni

 

og horfandi augu stara í nótt sem er náttblind ugla.

 

Margir eru vængir vorir, bera hikandi hugsun mávsins

að fjarlægum endamörkum sem fjarlægjast enn

með ljósárahraða um stjarnklasa jarðbundinna hugmynda, Hvers

vegna ekki ? er spurt inní logandi

eldgas og óskapnað skipbrots

við ströndina,

 

stöndum við búrið, opnum, hleypum fuglinum út, horfum

á eftir vindhvítum vængjum úr dauðvona

auga sólguðsins og athvarfslausu skjóli leiðtogans, horfum

úr vænglausum huga

á helför sólar við tungl,

 

leikum á hvítgula strengi tunglhörpunnar mjúku,

orgelniður í fjarska, færist nær

 

brimför dauðans við kletta

 

hlustum

 

þangað sem brimið brotnar við stálbláan eld og storknaða

kulnandi kletta, rís tíminn úr stjarnþokum fugls og áttlausra

takmarkana,

 

hvers vegna ekki að framlengja  handfingraða hugsun, fylgja

himnaför mávsins, fylgja

lokaðri hugsun að gráfölum væntingum

ókunnra stranda

 

hugsun vor hagl úr hálfluktu

auga

 

og ósköpum þess að fæðast sem fugl eftir dauðann, rís

duftið til himins að dögun

við upphafleg ósköp, rísa rauðrisa stjörnur við dverghvítt sólblik

í suðri

 

guðfögur sól

 

og allt verður nýtt eins og rísi

við auglit skipstjórans mikla nýr himinn og jörð

 

og haf undir rísandi stjörnum.

 

 

Hvers vegna ekki? spyr Atli, er fjársjóður falinn við klofna tungu

ormsins?

 

Hér máttu hýrast, Gunnar, í gryfju ormsins , auga

þitt yfirgefið og engin sól fyrir stafni ,

 

tóm

 

og  tærnar leika við tunglskinshörpuna mjúku,

 

 

hlustum

 

 

senn hnígur hetjan

höll að bólstri

 

 

og himinsængin myrkur

við leitandi auga ormsins,

 

Hvers vegna ekki? og ósköpin salthvítar öldur

sem hrynjandi lokkar við sker.

 

Vestr  fór of ver

hugsun vor ein með Agli, örlöglaus eins og tíminn

tímalaus eins og örlög þúsund ára

 

stjarnörlög þúsund ára,

 

hvort er ferðin til einskis, hvað ætlast þú fyrir, skipstjóri?

 

 

Er ferðinni heitið að upptökum alheims

í hugum vor sjálfra, eða vetnishvítri strönd og upphafi þess

sem aldrei varð?

 

Stórt er það skref sem stigið var

við strandgula höfn þar sem ratsjárauga

tunglferjunnar skimar inn í stjarnþokuryk

og þyrlast upp að útbrunnum eldum

tunglsins,

 

stórt skref að minningu efnis sem eitt sinn brann

við upphafsþokur og  stjörnuryk

 

geimskipið siglir að svörtum höfum

sóllausra stjarna

og eldar dauðans sem ógnandi

blik

 

á annarlegri strönd.

 

Hvers vegna ekki að sigla þau ósköp, sleppa hröfnum úr hendi

sleppa mávum úr búri, sigla þangað sem úthafsaldan stefnir

öndvegissúlum að vitalausri strönd

við bólgið auga stjarnguðsins,

 

stórt skref

 

og þó:

 

bleikum lit bundin er dögun hver

og dökkum kili

 

hugsun vor fugl og skimar

við ókunnum klettlausum fjörum, hugsun vor mávur í búri, hrafn

á hendi,

            hauskúpan búr

            kemur ókunn hönd

 

            opnar búrið

            og hleypir fuglinum

            út.

 

 

Hugsanir vorar fuglar í fylgd með þeim draumi sem knýr

geimskip að upptökum efans.

 

 

Bláhvítar vetnissprengjur á himni, kallaðar stjörnur, rauðar

eins og appelsínubörkur kulnandi stjörnur, deyjandi stjörnur

sem lifa í minningu efnis sem splundrast um óendanlegar víddir, geimduftið

þyrlast og þéttist við augnlausar tóttir jötunkúpunnar miklu, blindur

sá kraftur sem  fylgist minnislaus með ljóseindum afstæðra

leiksýninga

 

við sólris í vestri,

 

sjá hvernig sviðið opnast og ævi vor miðar sín markmið við blikandi

bláljós og kerti á náttborði jötuns í svefni,

 

hvers vegna ekki að leita sín sjálfs eins og goðsögnin fylgist

með fjölkunnum Odysseif um fuglslausan himin

og furður eyjahafs,

 

Seg mér sönggyðja,

 

viðkvæmir erum vér enn, dregur Odysseifur purpuraskikkju

yfir höfuð meðan söngmaður kveður

sagnaljóð við hörpu leikandi, lagskonu

dýrlegrar veizlu

 

leikum á hvítgula strengi tunglhörpunnar mjúku,

 

en sírenur leika sitt hlutverk við svikula strönd,

 

hvar er þinn fugl og hvar er þín

útrétta hönd

 

þar sem brimskaflinn tannar vor seglhvítu

möstur

og Charcot velkist í fjörunni með opið auga

til hálfs,

 

þar sem mávurinn þenur sín hvítu segl

og hverfur inn í blekkjandi kófið

og blinda vitund sín sjálfs,

 

Seg mér sönggyðja

 

syngdu nótt undir náttlausa vængi

og næturfrið inn í svefnlaust forspil dauðans,

 

 

 

inn í nótt sem er náttblind ugla.

 

Vestr fór of ver

vængur mávs

og fylgir fingri þínum

 

fuglavörður,

 

opnar búrið, bendir

á  blikandi ljós í svartholi þín sjálfs.

 

Vindurinn smækkar möskva í neti dauðans, Varpið akkerum, hendur

leita að gripfastri hendi í fjörunni,

 

varpið akkerum!

 

Vindurinn smækkar möskva í neti

dauðans

 

og banaþúfan blánar undir morgun.

 

Charcot velkist enn og alla tíð

í annarlegu brimi vorra drauma

og vængur mávsins öslar ósköp sín

og andrá þess er minning, hún tendrast

eins og norðurljós kvikni af sígrænum

sólvindum, minning drengs sem vex ekki

frá þeirri deyjandi dögun,

 

ekki frekar en vængur fugls

rífi sig upp úr aðdráttarafli

netstórra minninga, Berðu lífinu vitni

og leitaðu burt úr blindandi auga, hvernig

 

haglið fellur

af blóðhlaupnum augntóttum

dauðans.

 

Fuglar, hrópa þeir, fuglar fyrir stafni

og Kólumbus horfir til himins

úr marggleymdu auga víkingsins,

 

fuglar

og strönd fyrir stafni,

 

eins og gull og silfur mótast

í glóandi deiglu vetnis og kjarnlogum

deyjandi stjarna,

þannig glampar á gráðugan

vilja,

 

aðdráttaraflið lögmál sem þenur vindsælar voðir

og vísar kompásnálinni leið,

 

svarthol á himni og svelgir

sólvinda eins og ljósið

sé fangi í rimluðum klefa

 

fjötrað og deyjandi ljós,

 

en hvers vegna ekki að sigla

sorglausar bylgjur,leita

landvíðar strendur uppi og hafblik

í sama bili,

 

bylgjurnar hljóðskraf hafsins

hvísl undir dökkum kili,

 

hvort mun svarthol hugans opnað

hvort verður ljósið leyst eins og þrælar úr haldi

við lýsingu nýrrar aldar,

 

spyrjum í vindinn

 

þögn

 

myrkurhvít þögn undir augnlokum

rísandi dags.

 

Faxhvítar öldur

við lónkyrrar strendur í vestri

gullið tækifæri og silfurþráður sem slitnar

eins og naflastrengur

nýfæddrar vonar við hældjúp spor í fjöruhvítum

sandi,

 

hvers vegna ekki að sigla þær bylgjur

sem brotna við faxhvíta

strönd ?

 

Lítum til himins úr augum náttblindrar uglu

hlustum á tunglgula strengi hörputónanna mjúku,

 

hlustum á fugla

 

spyrjum:

 

Hvers vegna ekki?

 

(Sjá  Vatnaskil, ljóðin sem fylgja sögunni, 2002 ).

 

21. marz, miðvikudagur

Fór á fund í afmælisnefnd Háskóla Íslands vegna níræðisafmælis skólans á þessu ári. Þangað kom Vigdís Finnbogadóttir, einn nefndarmanna. Ég var víst eitthvað að reyna að koma mér undan  ofmiklum nefndarstörfum og reyndi að tíunda það, hvað ég hefði  haft í mörgu að snúast undan farið. Það væri allltaf eitthvað og ég sæi varla út úr auga. Ég hefði sagt við Styrmi í gær að ég yrði að koma aftur á Morgunblaðið til að hvíla mig. Það fannst þeim gott og Vigdís sagði, Segjum tvö! Þá sagðist ég skyldu styðja hana  svo að hún gæti farið aftur á Bessastaði.

Allt - nema þangað! svaraði hún ákveðið.

Af þessu fannst mér ég geta dregið þá ályktun, að hún hafi verið búin að fá sig fullsadda, þegar hún hætti í forsetaembættinu.

 

Hitti Steingrím Hermannsson í rótarý í dag. Spurði hann um nýafstaðinn landsfund Framsóknar, hvort hann hefði ekki tekizt vel?

Júú, sagði Steingrímur dræmt, en...

En hvað?

Ja, það var nokkuð mikil undiralda á fundinum, sagði Steingrímur .

Jæja, af hverju?

Ja, sumum þykir Halldór Ásgrímur oflíkur Brésnev eins og sagt er!

Hvernig þá?

Þungur ...og erfiður.

Eins og naut í flagi? sagði ég stríðnislega því ég veit að Halldór getur verið það, þótt hann sé ágætur maður og ég hafi alltaf kunnað vel við hann.

Þungur eins og Brésnev, svaraði Steingrímur og hló. Þú sérð líka að hann fékk ekki nekma 85% atkvæða, það er ekki nógu gott.

Var það? sagði ég,enda fylgdist ég ekki með því.

Já, sagði Steingrímur, það  segir sína sögu.

 

Og felldum svo talið um þetta, en snerum okkur að öðru.

 

 

Kvöldið

Hef verið að hlusta á sögu Björns Th. Björnssonar, Hraunfólkið. Það er mikið af 18. og 19. aldar bókmáli í sögunni og margt forklárað að því leyfi. En nú er þetta tungutak dautt. Samt hnýsilegt að ýmsu leyti, en þó einkum fyrir þá sök, hvað það virðist Birni tungutamt. En stíllinn er nútímanum harla fjarlægur og raunar fór ég að velta því fyrir mér, hvort það væri ekki við hæfi að hlusta á söguna með parruk á höfði. Það væri í stíl við tungutakið. En efnið er samt hnýsilegt og áreiðanlega vel stúderað. Undirbúningsvinna Björns er til fyrirmyndar. Og merkilegt hvað hann hefur afkastað miklu með kennslustörfum. Ég kann því vel, enda virðingarvert.

Sigurður Skúlason leikari les söguna afarvel og hún lifnar á tungu hans, enda ágætlega gerð samtöl.

 

En sagan minnir mig á það sem Borges segir í umsögn um sögur Cortázar, 1985, að Dante Gabriel Rossetti hafi skrifað til vinar síns, þegar hann hafði lesið Fýkur yfir hæðir eftir Bronté: Sagan gerist í helvíti, en staðanöfnin eru, ég veit ekki hvers vegna, ensk! Sama megi segja um sögur Cortázar.

Og ég segi:einnig um sögur Björns Th.: Þær fjalla um fólk í helvíti og það er að mestu með hugann við barneignir og hórdóm og einskisvert dútl, þó með guð á vörunum!

 

Mér er nær að halda ég hafi sjaldan eða aldrei séð á prenti jafn samansúrruð illyrði um fólk og í þessari frásögn. Mikið af þessum orðum má áreiðanlega finna í orðabók Chr. Westergaard –Nielsens,Laaneordene í det sextende Aarhundrede, sem ég þurfti að nota við ritgerðina um Kristrúnu í Hamravík. En tungutakið þar er þó í miklu nánari tengslum við talmálið fyrir vestan en hinn dönskuskotni bókmálsstíll á Hraunfólkinu, þótt verstfirzkan í sögu Hagalíns eigi rætur í biblíubókmáli sem síaðist inní tungutak fólksins með tíð og tíma. Þar er líka séríslenzka sem telja má einskonar veztfirzka mállýzku.

 

Hraunfólkið endar með holdsveiki Þingvallaprests, sr. Björns, sonar prestshjónanna þar áður Sigríðar Stefánsdóttur og sr. Páls Þorlákssonar. En þó bregður fölt sumartungl dálítilli skímu á framtíð sem enn er óráðin.

Það eru sögulok.

 

Ég skoðaði Minnisverð tíðindi frá 1801, en höfundur vitnar í þau um andlát Sigríðar prestsmaddömu í október það ár og föður hennar, sr. Stefáns Högnasonar prests að Breiðabólsstað, nokkru síðar, en þau prestshjónin voru þá flutt til dóttur sinnar og  tengdasonar. Hún lézt 21. október, en Stefán prófastur, faðir hennar, rúmum mánuði síðar, eða 27. nóv. Allt er þetta kyrfilega tíundað í sögunni, sem verður fyrir bragðið einskonar heimlidaskáldsaga.

Sigríður dó frá manni sínum og sjö eftirlifandi börnum þeirra, aðeins 32ja ára að aldri eins og segir í Minnisverðum tíðindum. Um slík atriði vitnar höfundur orðrétt í skáldsögunni, einnig um mannkosti hennar. Þeir, ásamt  mannkostum  prestanna, föður hennar og eiginmanns, eru einu ljósu punktarnir í þessu heljarmyrkri  og hörmungum prestakallsins. Aðrir mannkostir eru þar ekki tíundaðir, heldur skítlegt orðbragð, fátæktarbasl og vesaldómur annarra persóna.

Þar er einnig talað um Grafningsmenn og þá sem Þingvallaprestar þjónuðu sunnan vatns, talað um bæina í Þingvallasveit, Kárastaði, Brúsastaði, Skógarkot, Heiðabæ og hvað þeir nú heita, og allt vestur í Selkot sem komið var í eyði löngu áður en ég smalaði umhverfi Sauðafells, þegar ég var strákur í Stardal. Ég kynntist þá einnig Fellsenda-fólki, en í sögunni er þessi bær byggður undir lokin.

Öllu er þessu lýst sem miklum harmkvælum og á annan veg farið en þegar ég var þarna á ferð með því góða fólki sem þá byggði þessi heiðabýli. Og ekki örlaði þá á neinni lánaorða-íslenzku eins og þar var alls ráðandi rúmri öld áður, ef marka má söguna. En harla er það þó ólíklegt

.

Eftir að við Bjarni Benediktsson gengum eitt sinn sem oftar frá Þingvöllum og vestur um Selkot þar sem við fórum úr skóm og sokkum og óðum bæjarlækinn, orti ég um þetta hálfhrunda og yfirgefna eyðibýli og mannlíf þar á bæ í einum af Sálmum á atómöld , en margir hafa kunnað vel að meta það ljóð og haft orð á því við mig.

En þetta var dramatísk aðkoma og engu líkara en þeir í kirkjugarðinum tengdu saman fortíð og nútíð með sínum eftirminnilega hætti.

 

Í Minnisverðum tíðindum eru eftirmæli um sr. Stefán og lýkur þeim svo:

 

Blómgva skal með bræðrum

bein þín fölnuð,

minning ágæt

mannkosta þinna,

sem oss, er þig kunnum

og öldum seinni

æ skal uppi

til eftirdæmis.

 

Björn Th.  Björnsson hefur ekki varpað skugga á þessa minningu. En annað í þessari heimildasögu er svo sannarlega ekki til eptirdæmis, eins og segir í  þessu málgagni Magnúsar Stephensens. Ef rétt væri mætti segja að þjóðin væri ekki komin af víkingum og fræknum söguhetjum Íslendinga sagna, heldur einhvers konar hundingjum og vesölum óþjóðalýð. 

Slík afstaða virðist ríkjandi í sögulegum skáldskap nú um stundir.

Það er íhugunarefni.

Bjarni Benediktsson hafði litla ánægju af mannlífsþáttum Jóns Helgasonar Tímaritstjóra vegna aumingjalýsinga og gagnrýndi slík skrif í mín eyru. Hann lagði meira upp úr efni en efnistökum og listrænum stíl og gat hann þó notið hans, ekki síður en aðrir.

 

Tökuorðin dönskuskotnu og skrúðmálsstíllinn eins og hann hefur birzt í nokkrum skáldverkum um okkar daga eru nú liðin saga, svo í bókmáli sem í talmáli. Í skáldsögum er stíllinn nú miklu fremur einskonar framhald af þeirri ómenguðu íslenzku bókmálshefð sem notuð er í fornritum frá sturlungaöld (þótt hún sé með sínum sérkennilegu orðum eins og páskir sem  Björn Th. notar einnig í Hraunfólkinu). Það er engu líkara  en skrúðmálsstíllinn og danska tökuorðaflóðið sem einkenndi ritmálið eftir siðaskipti hafi farið fyrir ofan garð og neðan og þá ekki síður mikið af þeim orðum sem sveitafólk notaði í gamla daga, auðvitað í samræmi við búskaparhætti sem enginn þekkir lengur, en höfundur Hraunfólksins virðist hafa á valdi sínu. Við vitum að vísu ekki hvernig þetta fólk fyrri alda talaði, þótt við drögum ályktanir af bókuðum heimildum. En samt er harla ólíklegt að skrúðmálsstíll gamalla ritverka hafi verið einkenni  daglegra samræðna í afskekktum sveitum, heldur hafi þar viðgengizt ómengað talmál, án mikilla eða nokkurra áhrifa frá þessum bréfaða kansellístíl. En þó má ætla að guðsorðabókaþýðingar eftir siðaskipti hafi haft einhver áhrif á þetta tungutak víðsvegar um land, ekki síður en á Vestfjörðum. En þar voru þó  meiri efni til að kaupa slík guðsorðarit en annars staðar, eins og heimildir herma og ég hef fjallað um í ritgerð minni um Kristrúnu í Hamravík og Márus á Valshamri sem vel mætti nefna vörður á skáldsagnaferli Björns Th.  Björnssonar.  En þessi hefð er á undanhaldi í íslenzkri  skáldsagnaritun, sýnist mér.

 

23.  marz, föstudagur

Hef einatt undrazt ótrúlegar dýralífsmyndir, einkum frá Afríku, bæði á Discovery og Nat. Geographic. Í gær sá ég samtal við Japanann Iwago sem hefur tekið sumar mögnuðustu myndirnar, það var fróðlegt. Virðist vera heldur viðkunnanlegur maður og hreykir sér ekki. En myndirnar hans eru ævintýri líkastar og eitt bezta efni sem ég hef séð í sjónvarpi.

 

Hef annars verið að ljúka við leiksögu og lagfæra gömul ljóð sem hafa legið hjá mér eins og  sláturskeppir í sýru, sum áralangt. Sá í hendi mér, þegar ég tók kvæðin upp úr súr, að þau dugðu ekki, svo ég gjörbreytti þeim sumum. Stundum heldur maður að kvæðin séu tilbúin og hægt sé að flytja inn í þau, en þá kemur í ljós við nánari athugun-og eftir góðan tíma-að þau eru í hæsta lagi tilbúin undir tréverk!

En nú er óhætt að flytja inn.

Eitt er víst og það hef ég séð af langri reynslu að ekki er hægt að treysta á fyrsta innblástur eins og margir virðast gera. Sýrutunnan er nauðsynleg. Eða ísskápurinn þar sem kvæðin hafa verið geymd á ís eins og önnur handrit. Fékk þessa geymslu, þegar Hanna kasseraði gamla ísskápnum og flutti hann niður í kompu.

Það fer vel á því að geyma handritin þar!!

 

Kvöldið

Hef verið að lesa Borges. Það er alltaf uppörvandi. Hann er einstæður eins og Þórbergur. Hugmyndaflugið eins og náðin, aldeilis óendanlegt!Ég hefði getað notað hann gegn þeirri yfirlýsingu Grass á dögunum að það væri áróður af minni hálfu, þegar ég héldi því fram að Íslendinga sögurnar hefðu verið fyrstu skáldsögurnar. Borges segir í greininni The Scandinavian Destiny: ”Á tólftu öld uppgötvuðu Íslendingar skáldsöguna”.

Og hann vitnar í þann snilling, W.P. Ker, um sama efni (Epic and Romance, 1898)

Svo að ég hef ekki haft neinn áróður í frammi, heldur byggt á sögulegum staðreyndum.