Árið 1964

 

Miður janúar 1964 - ódagsett

Fékk bréf frá Skúla Skúlasyni Hann er áhugasamur. Mér hefur alltaf líkað vel við Skúla. Hann er opinskár og einlægur og þótt hann geti verið hrjúfur á yfirborðinu er hann hlýr undir niðri.

“Ég þýddi af gamni mínu þitt hrífandi ljóð um Kennedy og legg það hérmeð”, segir Skúli blessaður og sendir mér ljóðið á norsku.

Hann bætir því við að hann geti endurskoðað þýðinguna og komið henni í norskt blað, ef ég vilji.

En ég veit það ekki, þetta kvæði varð til í inspirasjónskasti og líklega einhverri örvæntingarfullri geðshræringu yfir því hve heimurinn er djöfullegur í aðra röndina.

Ég hef aldrei borið Kennedy fyrir brjósti satt að segja, en örlög hans eru líkust grískum harmleik.

Það er eins og Pallas Aþena standi þarna efst á sviðinu og horfi yfir mannheima og stjórni þessum ósköpum eins og hún gerir í Konunum í Troju eftir Evrípídes.

Við eigum að gæta okkar á guðunum, þeir eru ekki barna meðfæri.

Og til alls vísir.

Í augum þeirra erum við einungis eins og hverjir aðrir óvitar. Við höfum ekkert í hendi okkar, ekki einu sinni örlög okkar sjálfra. Séra Hacking í Landakoti sagði við mig þegar við töluðum einhverju sinni um spíritisma.

“Kaþólska kirkjan hefur ekkert á móti sálarrannsóknum en hún vill ekki að þær séu í höndum leikmanna. Þær eru stundaðar í Vatíkaninu undir handleiðslu sérfræðinga.

Maðurinn er eins og barn andspænis öðru lífi. Hann á ekki að vera að fitla við það sem hann kann ekki skil á og honum er ekki ætlað að fást við.

Það væri eins og að leyfa barni að leika sér að hættulegri innstungu. Það getur fengið í sig straum.

Það getur jafnvel dáið.”


5. maí 1964

Basil Boothby, sendiherra Breta á Íslandi, hefur skrifað mér bréf og segir að við megum þýða eftir Auden ljóð, ef við viljum.

“He says: Since Iceland is for me, a “holy ground” I shall ask no fee”.

Hann biður sendiherrann einnig um að skýra fyrir mér að það sé líklega ómögulegt að þýða hæku-ljóðin þar sem íslenzka sé “inflected” tungumál eða beygingarmál með sérstökum áherzlum og óskar eftir því að ljóðin séu þýdd á óbundið mál.

Mér finnst þetta skemmtileg viðbrögð hjá Auden. Þau staðfesta það sem hann sagði hér heima; hann er sannur eins og góðskáld eru ævinlega, að minnsta kosti, ef þeim er sjálfrátt.


September 1964 - ódagsett

Hef fengið boð um það frá Arthur Miller,bandaríska leikskáldinu, að hann geti ekki komið við á Íslandi á leið sinni til Evrópu.

Ferðinni hefur verið breytt; þetta verði ekkert frí.

Hann hafði áhuga á að koma til Íslands þegar við töluðum saman í New York á sínum tíma.

Kannski kemur hann einhvern tíma seinna.