.

Ljóð á netöld

 

Eitt gulnað blað,

aðeins eitt

 

fellur til jarðar

við fótspor þitt,

 

fótatak tímans

og tregi.

 

 

Steinbúinn

við

Ingólfsfjall

 

Við hittum huldumann

við rætur Ingólfsfjalls,

hann stóð við mosagróinn

fjallborinn stein,

gáði til veðurs

 

hann tók kveðju okkar vel,

spurði frétta,sagðist

eiga þarna heima,

 

hann var hvíthærður

og gráskeggjaður,sagðist

vera eins og grámosótt hraun

því hann hefði ekki

haft tíma til að raka sig,

 

við sögðum honum

að við hefðum verið

á tónleikum í Skálholti,

 

hann tók því vel

en spurði einskis framar,sagðist

helzt hlusta á blóm og fugla

og hvíslið í grasi

og mosa,

 

Náttúran er minn sinfón,

sagði hann og hvarf

inní fjallið án þess kveðja.

 

En við héldum áfram,

 

ókum inní rósfingrað

sólarlag Ódysseifs-

kviðu.

 

 

Þunglyndiskast

lífeyrisþegans

 

Við þurfum að ganga gegnum allan fjandann

og guð svo fenginn til að leysa vandann,

en hann er ekki alltaf á þeim buxunum

að allt sé betra en freistingin í þeim hugsunum

sem fylgja okkur eftir alla tíma

og endar með því hún tapast þessi glíma,

 

því eiginlega erum við bara

atvik milli jarðarfara.

 

 

Leið 14,reynslu-

saga

 

Við vorum þrjú í vagninum,

hún sat fyrir aftan mig

og talaði hátt í gemsann,Þú

verður að standa við þetta,

heyrði ég hana segja,þú

getur ekki svikið mig,þú

verður að bæta framkomuna,

já og kynlífið,nei þú

getur ekki hlaupizt undan þessu og þú

verður að standa við þetta,þú

verður að lofa mér því,

nei-nei,aðeins í þetta eina sinn

aldrei oftar,þú

færð ekki annan sjans,

 

 

svo varð þögn í strætó

og ég læddist út

við Hlemm,

 

yfirgaf vígvöll

þessa vængbrotna

hjónabands.

 

 

Gamall frétta-

maður

á förnum vegi

 

Hann sagðist vera frá Súðavík

og sveitin væri engu lík,

fjöllin bæði himinhá

himnesk og blá,

og engin önnur slík,

 

þar bæri örn við efsta tind

og úfin ský við norðanvind

en skriðan hneppti hlýrri flík

að hálsi sér,

 

það var slydda úti og sló að mér.

 

 

 

Ólíkar

forsendur

 

Þú hlekkjaðir þig við vinnuvélar,

það var ástríða þín.

 

Ég hlekkja mig við ást hennar,

það er ástríða mín.

 

Við eigum öll erindi við lífið

á einhverjum forsendum.

 

 

Guðs-

kenningin

 

Einbeitt stóð hún með mótmæla-

spjaldið:Hver skapaði sæðisfrumurnar?

 

Hver skapaði þær?spurði drengurinn

 

Guð,auðvitað, sagði hún ergilega,þess vegna

þoli ég hann ekki.

 

Guð,sagði drengurinn,þessi með skeggið?

 

Svo hélt mótmælagangan áfram niður á Lækjar-

torg,þar sem ræðurnar voru fluttar.

 

 

Ættjarðar-

ljóð

 

 

Og ísöldin kemur

þegar framtíð okkar

sekkur með Golfstraumnum,,

 

sem sagt:

 

það er dauðasynd

að búa á vitlausum stað

á hnettinum.

 

 

All earth

was but one

thought

Byron

 

(eftir uppskurð)

 

Þinn heimur sem áður var ósköp við blys

og auðn við tómlega skugga

er varla annað en einskonar slys

með óvænt ljós í glugga.

 

Þeir sögðu áður við Suðurland

þegar syrti í tvísýnan álinn

að lífið væri að vísu gott strand

þótt virkaði ei kompásnálin.

 

 

Jörðin er hugmynd og öll er hún tóm

og einskis í raun að sakna,

 

samt ertu vorið og ilmar við blóm,

þegar jörðin og fuglarnir vakna.

 

 

 

 

Póst-

módernismi

 

Það er fífill og sóley í fótspori þínu

og fugl á eggjum í hreiðrinu sínu,

það er sumar í bænum , á Suðurgötu

er sólinni helt eins og vatni úr fötu,

 

en öll er sú reynsla eins og hún væri

endurspiluð af gamalli plötu.

 

Samt eru fuglarnir aðrir en áður

og enn er sólin ný eins og forðum,

þótt hugmynd okkar um heiminn sé víst

að hluta til laus úr föstum skorðum,

 

við leitum guðs vors lands,en þó

í löngu þvældum orðum.

 

 

 

 

 

Hvítur

hrafn

 

Ég er einn og enginn finnur

annað en mér líði vel,

reyni að viðra vængi mína

og viðkvæmt stél.

 

Engu líkara en aðrir hrafnar

eigi bágt með það

að finna lífi ljósra vængja

líka stað.

 

Flýg samt eins og enginn spyrji

um afdrif þessa skrítna hrafns,

það er eins og einhver vitji

síns eigin nafns.

 

 

Júní ´05

 

 

 

Svo rís

um aldir.

Jónas

 

Við gengum með ánni,

 

allar víkur froðufullar

við lygnan strauminn,

 

þannig horfi ég nú einnig

yfir fljót tímans.

 

 

 

 

Vilji er

allt

sem þarf

E.Ben.

 

Mig dreymdi um að taka dauðann í nefið

og drepa tímann um leið,

 

það var undarleg reynsla og engu líkar

en ég ætti heiminn um skeið.

 

En dauðinn lét sig það litlu skipta

hvernig lífið flöktir við kveik,

 

við erum líklega óboðnir gestir

í einskonar hildarleik.

 

Eða sem flugur við lítinn loga

sem lifnar eins og roði á kinn.

 

Nú er sjálfur dauðinn dauður,

við drepum þá tímann enn um sinn.

 

 

 

Reynimelur 25a

 

Þegar ég sé trén í garðinum,

þennan ummyndaða jarðveg áttfætlunnar,

hugsa ég um kraftaverk

og þegar ég sé þrestina

fikra sig í laufinu

hugsa ég um veizlu,

 

það er veizla í garðinum okkar.

 

Þannig lætur hann vita af sér,

hann sem var alltaf að tala

við skeggjaða gyðinga í gamla daga,

 

og þeir héldu hann liti út eins og þeir.

 

Nú eru kettirnir komnir

í edensgrænan garðinn hans,

en það er kattlaus fuglasöngur

fyrir utan gluggann okkar.

 

 

 

 

Að upptökum

Nílar

 

 

Lífið er afþreying,einþáttungur

og enginn kann hlutverkið,það

endar að vísu með einhverjum hætti,

þegar örlögin ríða í hlað.

 

Hver villist ei inn í vitlaust hlutverk

og veruleika sem er

ætlaður þeim sem einhvern veginn

hljóp útundan sér.

 

Enginn varð mér innan handar

um afdrif sem biðu mín

og því hef ég orðið af ævintýrum

sem áttu sín hýjalín.

 

Og þú varst í öðru illa leiknu

andstreymi þarna á sviðinu,

rétt eins og málning sem eyðist undan

útsynningi og ryðinu.

 

Því ævin er afþreying og þú leikur

að örlögum þínum,þau tvinnast

við líf okkar hinna sem leitum einnig

eins og Livingstone afdrifa sinna.

 

Dauðinn er engin smitandi smán

þótt sviðið sé autt í bili,

hann er aðeins skuggi sem lifnar og leikur

við ljósið á gömlu þili.

 

26.6. 05

 

 

 

Í

miðbænum

 

Í suðvestur sólinni er Hannes Hafstein

skuggi á stjórnarráðshúsinu,

 

þannig er allt afstætt,

einnig í sólinni.

 

 

 

Í Grasagarði

 

Þegar ungarnir bætast við í Grasagarðinn

og gæsirnar hyggjast styrkja aðhald og vörnina

 

þá varpar mávurinn vænghvítum skugga á tjörnina

og veröldin titrar af kvíða við grasrótarsvörðinn.

 

 

 

...hann ýtti

frá kaldri Skor

M.Joch.

 

Kallazt er á yfir öld,yfir höf,

vor eilífð sem bergmál við gröf,ég heyri það eins og hvíni við vinda

hvíslið af fúnandi beinum,

 

það er eins og ákall af yztu nöf

eða ástarhjal í meinum,

 

vér erum bergmál og bregðumst til að mynda

við bátsæknu lífi,stuttri töf

eða hímu sem hæfir ei neinum,

rétt eins og ágjöf við óvíga tinda

 

því örlagaboðin sem berast til vor

eru bálför í nákaldri Skor.

 

 

 

Viðlög ll

 

Sólin er baldursbrá,

 

lífið lítið strá

en læzt þó vera

fjögurrablaða smári,

 

baldursbráin

sól í þínu hári

 

-------

 

 

Enginn hófadynur deyr

í dauðs manns tröðum,

nú eru aðeins blóm

og fuglar

og fjallahnjúkaþeyr

á Örlygsstöðum.

 

 

 

21.júlí ´05

 

Fuglarnir eru í fótabaði

í Nestjörn,

engu líkara en þeir

standi á gulum spegli

í kvöldsólinni.

 

 

 

 

Ágúst-

veður

 

 

Hún situr á bekk,les

í bók,

barnið sefur í vagninum,

hunangsfluga í sólrauðum

brúðarstjörnum,

en geitungur við kókflösku,

 

fiðrildi sem var ormur

í trjálaufi fyrir ekki löngu

fylgir mér eftir,tvær telpur

príla í Móður jörð,

 

það er fjórði ágúst

og norðvestlæg gola

af Esjunni.

 

Í fyrradag gekk hann á

með þrumum og eldingum

fyrir austan en veðrið

hefur gengið niður,

 

og í gær

voru hvítir skýstrókar

yfir gestvænum fjöllum

í norðri.

 

Nú er bjart yfir Keili

og blár opinn gluggi

yfir suðurfjöllum.

 

Þar er nú útsýn

til eilífðar.

 

 

 

 

Hús

í Vesturbænum

 

Ég sé það er búið að reisa

stillans við húsið,laga

þakskeggið,mála gluggana,

 

þannig væri einnig

kominn tími til að flikka uppá

minningu þeirra

sem áttu hér heima,

 

gera minningu þeirra

húsvænni.

 

En arfleifðin er ekki

í tízku

og þeir sem dóu frá húsunum sínum

eru jafndauðir og stytturnar

í bænum

 

og engu líkara en við séum á hröðum

flótta undan ísöldinni.

 

 

 

 

 

Vél-

menni

 

Hugsun okkar

geimskip.

 

Við erum með hugann

við marz,ekki mánuðinn

heldur stjörnuna,

 

rauðu plánetuna

eins og hún

er kölluð.

 

Hvers vegna?

 

Eigum við stefnumót

við guð,

 

eða hvellinn

mikla?

 

Eða okkur sjálf ?

 

Og vélmennið

horfði á mig

vatnsdauðum augum,sagði

því nú var lag

eins og karlarnir sögðu.

við Selatanga,Viltu

í nefið Jón,

 

viltu í nefið?

 

 

 

Skuggar

í garðinum

 

Dalían í kerinu

á tröppunum við útidyrnar

er farin að gefa sig,ég held

það sé vegna skugganna

sem sólin framkallar

í garðinum við húsið,götumegin.

 

Það er langt síðan ég hef

séð þig,en nú ertu komin

heim aftur og ég sé

að þú hefur verið skuggamegin

í lífinu,sé þú ert farin

að fölna eins og dalían,sé

hvernig sólin hefur skilið eftir

skuggana í garðinum þínum.

 

Ég vökva dalíuna og hún

tekur við sér í kerinu

 

og kannski kemur einhver

og vökvar þig einnig

áður en ágústsólin hverfur

eins og einmana fugl

að fjöllum,

 

ég veit það ekki.

 

 

 

 

Martröð

 

 

Lífið er tími sem eyðist af

og einn góðan veðurdag geng ég við staf,

mig dreymdi barn sem ég burðaðist með

eins og bölvun af himni meðan ég svaf.

 

Það er grámygla úti og engin sól

og útlitið slæmt þegar haninn gól,

ég hristi af mér þá aðsókn sem var

eins og óveðursský við Tindastól.

 

Ég horfði á grenið við gluggann minn,

það grænkar og vex inní himinninn sinn

og hugsun mín fylgir því eftir, enn

er arfasáta við bæinn þinn.

 

Þannig kom njálan á nýjan hátt

eins og nornirnar vefi sinn örlagaþátt

öðruvísi en ætlazt var til,

 

það er útsynningur og heldur grátt.

 

 

 

A la Mokka

 

 

Ég hitti um daginn á hótel Sögu

hressan og kátan Elías Mar,

en bananalýðveldi leitar það uppi

sem leiðir til glötunar

 

og er nokkur furða þótt framtíðin glotti

eins og fjármagnið ræður um stund,

helzt eins og mafíumútur og Gotti

mæti á þann hluthafafund

 

og braskarar sýknaðir öllum til ama

þótt enginn trúi því víst,

en flestum er nánast samstundis sama

hvað síðarmeir af þessu hlýzt.,

 

við Elías drukkum einungis kaffi

og afgreiddum nútímalist.

 

 

 

Minning

 

Dauðinn er stafkarl,hann starir á þig

úr stórum og holum tóttum,

þegar hann birtist brá þinni sól

eins og birta yxi að nóttum.

 

Dauðinn kom og kallaði þig

eins og kynnir uppá sviðið,

þá gerðirðu allt til að drepa á dreif

þeim dögum sem nú hafa liðið.

 

Dauðinn er fjölmiðlafíkill,ég veit

honum finnst að hann eigi leikinn

þegar logar við skar og flugan fer

að finna hitann við kveikinn.

 

 

 

Morgunljóð

í gróandanum

 

Það er guðdómlegt veður í garðinum mínum

og gullregnið breytist í sól

og vorið kyssir syngjandi svörðinn

í sólhvítum kjól.

 

Og sírenan blánar af blánandi degi

blárri en sólin er gul

og hugur minn vex inn í vestanblæinn

og vornæturkul.

 

En grenið ið næsta við grænan himin

þar sem guðirnir brugga sín ráð

og kónguló gengur um vef sinn að verki

og visnaðri bráð.

 

 

 

Hailsham

 

 

Það sem nazistar stunduðu áður og ýmsir kölluðu hreinræktun

er orðið að vísindalegum metnaði og kallað einræktun.

 

Hún verður notuð til að framleiða ofurmenni og einnig til að klóna

ósköp venjulegt fólk svo við losnum við vandræðamenn og róna..

 

Þjóðfélagið svonefnt er alltaf að taka á sig endurteknar myndir

og einkum er það nýtízkulegast að fremja gamlar dauðasyndir.

 

Öll hvílir þessi þróun á okkur mönnum eins og mara

því margir verða framleiddir sem líkamspartar til vara.

 

Það á ekki af okkur sjálfum eða samfélaginu að ganga eins og stendur

því sumt af því sem við tökum okkur í framtíðinni fyrir hendur

 

er eins og þjóðsagan gamla um móður mína í kví kví

og margföld ástæða til að kvíða því.

 

 

 

Vinsældir

 

Sveinn herðubreiðar-

málari var ósköp dapur

þegar þeir Gunnlaugur,

vinur hans hittust

á Lækjartorgi,

 

 

svo að Gunnlaugur sleppir

næsta strætisvagni

og spyr,

 

hvers vegna?

 

Æ,sagði Sveinn,margan daginn

sel ég ekki neitt.

 

 

 

Gönguferð

um

borgina

 

Í Hólavallakirkju-

garði er engin

stéttaskipting,þar

liggja allir jafnt,

 

legsteinar að vísu

misháir,sumir mosagrónir,

aðrir ekki,

 

garðurinn er 5-stjörnu

hótel hinna dauðu,

 

fullsetið.

 

En það vantar reykskynjara.

 

Samt eru brennuvargar

á næstu grösum,

 

þeir sem leggja eld

að mosagróinni æru

hótelgesta,

 

þeir sem kveikja

í arfasátu dauðans.

 

Í þéttsetnu hótelinu

er lífsglöð stúlka,

nú engilhvít minning

eins og glæður rísandi

dags.

 

Og bræður sem dóu

úr spænsku veikinni

á næstu grösum.

 

Ég geng í bæinn,

kem við í Apótekinu,fæ mér

svissneskan mokka

og held svo áfram upp Arnarhól

undir réttvísandi öndvegis-

súlum Ingólfs,

 

og þarna er fornbóksalan

við Klapparstígshornið

þar sem Fischer

skákmeistari grúfir sig

yfir lystugar síður

gulnaðra rita,

 

þessi trjámaðkur frægðar

án ábyrgðar,

 

þarna situr bókaormurinn

og teflir við tvísýna

prentstafi tímans,ég tek

af mér derhúfuna,inni Braga

eftir gömlum bókum

um líf eftir dauðann,hann

teygir sig í hillurnar,

réttir mér og segir;Hér er

Á landamærum

annars lífs.

 

Þar er mikið af jarðsprengjum,

sagði ég.

 

Og kvaddi.

 

 

 

Þið eruð

frjáls,

veljið

Sartre

 

 

Hvort fer ég þangað sem hjörðin heldur

eða hugurinn stendur til,

þangað sem áformin eru fleiri

en allt það sem ég vil

 

Hér geng ég með stafinn gamall maður

og græt ekki hlutskipti mitt,

en hjörðin fór áfram og enginn vissi

um ætlunarverkið sitt.

 

 

Aö víkja er eitt en áformið annað

sem ævin sló í þinn vef,

mig dreymir víst fegurstu drauma mína

að dagslokum þegar ég sef.

 

Og svo kemur að því að enginn hugsar

um afdrif sem steðja að mér

þegar hjörðin æðir að hinztu rökum

og hjarta mitt gleymir sér.

 

 

 

  

Horft um öxl

 

1.

 

Þú snertir mig enn og æska þín

hefur ekkert breytzt eins og hver maður veit

þú varst mitt fagra fyrirheit,

sem flöktandi vonir við gamaldags augu mín.

 

Ég horfi á þig og hjarta mitt

fer hvítri glóð að brjósti mér;

ef finn ég ilminn í fylgd með þér

þá flögra ég enn sem vængur við blómið sitt:

 

í huga mínum sumar við sól

og sezt að lokum þessa dags

sem svalur skuggi sólarlags

við syngjandi blóm í fífilgulum kjól.

 

Við fylgjumst að og eitt er víst

þitt endurskin við gömul spor

er minning þess þú varst mitt vor

og veröld þín mín gleði,ekki sízt.

 

2.

 

Það var 1.október 1949 og ég naut þess eins

að vera kominn heim

en þegar við hittumst um kvöldið var veröldin

aðeins handa okkur tveim,

ég settist á stólinn hjá þér og svo dönsuðum við bljús,

þetta var í Tjarnarcafé sem er gamalt hús

eins og við

og þegar ég hélt þér fast og ákveðið

og sleppti þér ekki úr fanginu

varstu eins og perluskel sem rótaðist með þanginu

 

og síðan hefur þetta brimþunga haf

verið athvarf okkar

 

og við hlustum saman enn eins og áður

á andköf hafsins og þennan vængjaða

fuglaklið.

 

 

 

nóv ´´02

 

 

 

 

Sumardagur

í Elliðaár-

dal

 

Við göngum með Elliðaánum

og andvarinn leikur í kræklóttum trjánum.

 

En þú ert ennþá jafnung eins og forðum

og augu þín sólir í föstum skorðum.

 

En hólminn er sólskin við svanavæng

og sautján punda hæng.

 

Og blómin ilma og brosa við deginum

og blómstra meðfram troðnum veginum.

 

En hrafnaklukkan horfir til þín

í himneskri þögn sem dregur til sín.

 

Og allt sem er hvunndagslegt hverfur nú eins

og hverfulleikinn sé ekki til neins.

 

Þú krýpur við stíginn og fingurnir flétta

fíngerðan ilm eins og mosi við kletta.

 

En sjálf ertu ilmandi jörð og nú

er eilífðin vatnið blómin og þú.

 

 

( 17.og 18.júní ´ 05).

 

 

 

 

Ker-

ljóð

 

Þú ert blóm

í kerinu við dyrnar,

 

en ég er með hugann

við annað ker,

 

þó ekki Kerið

í Grímsnesi.

 

 

 

 

Pólitískur

klíkufundur

á Mímisbar

 

Ég ætlaði að fá mér bjór við barinn,

þar var blæjalogn,ekkert hávært mal,

síðasti kastljósfíkillinn farinn

með fjasið sem viðbót við annað hjal,

ég sat þar hugsi og hlustaði ekkiá háværa þögn við auða bekki

en kveið því öllu sem koma skal.

Fékk svo bjórinn og bað um hnetur

og blessaði þessa kyrru stund,

þá komst þú og Páll og Pétur

og plötuðu mig á klíkufund,

  1.  

friðurinn úti og aukinn kvíði

og yndæl kyrrðin jafngilti stríði

og heimsendi einnig í það mund.

 

 

 

 

 

SMS-laus

tímamót

 

Ég stóð undir kirkjuveggnum,

talaði í farsíma,þá hófst

klukknahringing úr turninum

því það var útför

í aðsigi,ég reyndi að halda

samtalinu áfram,en það dó

inn í klukknahljóminn,svo ég slökkti

á símanum,sendi SMS-skeyti

í staðinn.

 

Þannig lýkur síðasta samtalinu einnig,það deyr inní klukknahljóminn.

 

SMS-laus hverfum við

inní kyrrþey margra fyrirheita.

 

 

 

 

 

Heilsubót

afturgöngunnar

 

 

Ég hef haldið mig við það

sem Þórbergur kallaði

heilsubótargöngu.

 

En...

 

Þú gengur svo mikið um bæinn,

sagði hún,að það endar með því

þú gengur aftur.

 

Þessi athugasemd hefur valdið mér þónokkrum áhyggjum.

 

 

 

 

Nýbúi

 

Nýbúar segirðu?

 

Hvernig get ég verið á móti þeim,

kominn af nýbúa?

 

Afi minn fór ungur

frá Noregi (sem hvarf

sjónum í hafið eins og hilling,en

Vatnajökull reis

eins og bjarndýr úr hvítri vök),

 

amma mín

hafði meiri kynþokka

en allt umhverfi æsku hans

í Björgvin,

 

samt var hún aðeins sextán ára

þegar þau kynntust

á Fógetanum (!)

 

 

 

 

 

 

 

Dúlsínea

frá Tobósó

 

Þú dásamlega Dúlsínea mín,

ég drep þá loksins niður þessum penna

því þú ert fönguleg og flestra kvenna

fríðust,mitt hlutverk er að leita þín

í eilífri gildru,álagaham því þú

varst aldrei til og ekki heldur nú

og þó er líf þitt þessi örlagasenna

og þrotlaus leit,ó Dúlsínea mín

 

og það er eins og fjalir tímans fljóti

að feigðarósi að horfa á þig brenna

við örlög mín,því

ég er don Kikóti

og álög þín.

 

 

 

 

 

 

:..og þá fóru

brýnn hans í lag

Egla

 

(í Elliðaárstöð)

 

Stöðvarklukkan er tíminn

og stanzlaust tifar hún

 

útifyrir laufgað vor

og látlaust tún

 

jörðin mjúk eins og hreiður

við haf og dún

 

og himinninn upplyftir sinni

augabrún

 

 

 

 

 

Þorsteinn

-minning

 

 

Guðir á helvegum hafa nú sagt

að hamingja þín sé úti

fyrst dauðinn hafi svo fyrirlagt

að framtíð þín lúti

í gras eins og alltaf er

 

og nú er höggvið nærri þér,

 

það er sólskinsdagur og sést þó vart

til sólar, því dauðann ber

fyrir augu þín og allt svo svart

 

og einnig sólin í brjósti mér.

 

 

 

 

 

Vetrarganga

í kyrru veðri

 

 

Karlinn í tunglinu

fékk sér kvöldgöngu

í veðurblíðunni,

 

hann gekk yfir fjörðinn

við gulan staf

 

fékk sér sæti í Örfirisey

 

og andaði að sér,

 

þetta sama kvöld var drottinn

allsherjar einnig á stjái

 

hann var að líta eftir úrverki

sköpunarinnar,

 

þegar hann slökkti á sólinni

varð tunglmyrkvi í Örfirisey.

 

Annars bar ekkert til tíðinda

í borginni þessa nótt.

 

 

 

“Á þeim tíma...gæti

regndropi runnið

niður rúðu”

20.júní ´05

 

Líf þitt regndropi

á leið niður vota rúðu,

en þá brýzt sólin

eins og sáluhjálp úr ilmlausu keri

og þurrkar regndropann

af rúðunni,

 

hann hverfur af gagnsæju gleri

og glampandi sólin

strýkur himininn burt

af húsvönum gluggum og klifrandi laufi.

 

En þrestirnar hvíslandi geislar

við grenitréð sem hlustar

með sperrtum eyrum tímans,

en eilífðin stendur á hleri.

 

 

 

 

 

 

Frá Eden

til okkar

 

Stjórnmálamenn nota mikið af klissjum,segja

til að mynda : Lögreglan fékk veiðileyfi

á Bónus,þegar reynt er að koma höggi

á andstæðinginn,

 

sumir fá veiðileyfi á rjúpu,aðrir á hreindýr,

 

sjálft er lífið veiðileyfi á þá sem okkur

hugnast ekki,

 

við erum gæðakonan góða

í þekktu ljóði Jónasar, plokkum æruna

hvert af öðru eins og óvandaðir

stjórnmálamenn og tönnlumst á henni

unz hún er eins og útspýtt hundsskinn,

 

við

 

eftirmynd guðs sem hann skapaði

í garðinum forðum í sinni mynd!

 

En síðan hefur hann ekki sézt.

 

 

 

 

 

 

Söknuður

 

Það er haustlegt.

 

Ég er ófleygur

múkki

 

horfi af blásnum

mel

yfir vaxandi ána,

 

horfi á eftir þér

til hafs.

 

 

 

 

Syndari

leitar

aflausnar í

Landakoti

 

 

Hann gekk að dyrum kirkjunnar og hugðist hverfa inn

en hún var læst því drottinn reyndi að vernda garðinn sinn.

 

Hann gekk svo burt en þá kom systir Fulberta og fór

með faðirvorið handa þeim sem ætla að drýgja hór.

 

Hún er að vísu dáin en dauðinn megnar allt

og dyrnar voru opnaðar og hann naut þess þúsundfalt.

 

Og síðan er hann kaþólskur og kann að meta það

og krýpur nú við bekkina með guð í hjartastað.

 

(Sbr. Morgunbl. 15.febr. 1959)

 

 

 

Smælki

 

1.Úr Morgunblaðinu

 

Jæja,þá ertu gengin til þurrðar,

stóð í minningargrein Jónu og Urðar.

 

Sem sagt,engin upprisa í staðinn fyrir þig

sem hugarburðar.

 

 

2.Kötlugos

 

Ég rétti út höndina

og sá hana ekki.

 

 

Páll Sveinsson

sjómaður

3.Fjallganga

 

Þú stóðst á tindi Heklu hám

uppað hnjám.

 

4.Þjóðrækni

 

Hún var svo þjóðrækin að hún dó

17.júní í Hallormstaðaskóg.

 

Úr minningargrein

í Morgunblaðinu.

 

5. 17.júní og Ibsen.

 

Tjaldurinn í Vatnsmýrinni vakir yfir þremur ungum

og villiöndin syngur um ástina í Skaftártungum.

 

 

6.17.ágúst,menningarnótt

 

a.Menning og maraþonshlaup

og misheppnað skaup.

 

b.Menning og meiri bjór

martröð og slitnir skór.

 

c.Stórstreymt og tunglið hvítt

blindfullt og fólkið skítt.

 

7.Ummæli skáldsins.

 

Ég er orðinn þreyttur á bókum

sem eru eins og þær eiga að vera

 

 

 

 

7.Undir haust

 

a.Enn eru trén

aprílspor

á vori.

 

b.Keilir siglir þöndu tungli

til hafs.

 

c.Ég er grenitré

og reyni að vera grænt

allt árið

 

sagði skáldið.

 

8 Ummæli skálda enn

 

a) Borges sagði,Annað þarf ekki til að deyja

en hafa lifað,

 

þannig er sá einn ódauðlegur

sem hefur ekki lifað.

 

b) Það var lífið sjálft

sem var skáldskapur

 

segir Durrell í Clea,

 

þannig er veruleikinn ekki

í dagdraumum,

 

heldur bókum.

 

9.Úr gömlu ljóði

 

Þú ert kviksettur

gærdagur

í huga mínum.

 

10.Ekkert breytist

 

Björgvin Guðmundsson tónskáld

talar um sorptízku

í ævisögu sinni.

 

Það er eins og draugagangur

í dagbókinni minni.

 

11.Hrösun

 

Enginn dettur um fjöll,

menn detta um litlar

þúfur.

 

 

 

Úr Noregsferð,

júlí 2003

 

 

1,í Osló

 

 

Í kopargrænni þögn

utan við Þjóðleikhúsið

 

Björnson Ibsen

 

hreyfingarlausir,

 

handan götunnar

svartholda maður

frá Sómalíu

 

og dansar við gamalt

tré.

 

 

2.

Stóðum þrjú

við leiði Ibsens

 

lásum ljóð hans

til Súsönnu

á legsteini hennar,

 

ung kona gekk hjá

með stóran svartan

hund,

 

við báðum hana taka mynd

af okkur þremur.

 

Hún brosti

undan sólinni,

 

hundurinn lyfti afturlöpp

við næsta leiði.

 

Svo smellti hún.

 

3.

Gengum yfir Torggötu-

brúna

 

Pétur Gautur

á elgshornum

 

eins og Bjartur

á hreintarfinum

hugsaði ég,

 

er þá ekkert nýtt

undir sólinni?

 

 

 

4 ,í Þrándheimi.

 

Á gömlum grjóthellum

við Niðaróssdóm-

kirkju

vitnisburður

um þá sem áðu

endur fyrir löngu

við þögn tímans,

 

nokkrir máðir stafir,

nokkur orð

 

á íslenzku.

 

Á næstu grösum

endurgerð smiðja

frá miðöldum,

 

fallin týnd,

 

en tungan enn

í smiðju tímans

 

 

 

 

 

Súnamí,

´04

 

Hvar er guð, ó hvar

er hrópað útúr sorginni,

 

þögn hans hvílir hulin gáta

en hávær yfir borginni:

 

milli hans og okkar er

eilíf þögn og niður í grjótinu

 

og þegar aldan rís að ögri

með örlögin í rótinu,

 

þá lætur hann afli orku þess

eftir að ljúka verkinu,

 

það er eins og einhver slökkvi

aftansól í lerkinu.

 

 

3ja.jan.´05

 

 

 

 

 

 

Annað brúðkaup

er kjærleikur

J.C.

 

Hvað er í þessu

farlama húsi?

 

spurði hún.

 

 

Gamlar minningar

sagði hann.

 

 

Og þau horfðu saman

á húsið flutt

af grunni.

 

 

 

Gammel Dansk

 

Í kirkjugarðinum er fólk sem ég þekkti ekkert,

þar eru konur sem töluðu um að eitthvað væri sætt og lekkert

 

(sumar lifðu jafnvel án þess drýgja hór)

 

og þar eru karlar sem fengu sér Gammel Dansk með bjór,

en flestir lifðu eins og lífið væri alltof þröngir skór.

 

 

 

 

 

 

 

Lok

Edinborgar-

hátíðar ´05

 

Flugeldar springa út

á himni

eins og tónar Beethovens

við gömul hljóðfæri,

.

 

það er kvöld við kastalann

 

marglitir vængir

í hlýju svörtu myrkri.

 

 

 

 

Edinborg

4/9 ´05

 

Augun flugur,

 

festast í gulum

blysvef á himni,

 

Sjáðu þetta blómabeð,

segir hún

 

og bendir.

 

 

 

 

Fuglar

við Crail

 

Sérðu blómið,

sagði hún,það

vex út úr klettinum,

 

en ég var með hugann

við brimið,

 

þessa hvítu vængi hafsins.

 

 

 

Crail-höfn.

 

Á hvítum

vængjum

stígur haf

til himins,

og blossar við kletta.

 

 

 

 

 

 

Summer 2005,

Edinburgh zoo

 

 

Ég horfðist í augu

við górilluna

 

hugsaði eins og hún,Þetta

er einkennileg

skepna,

 

þá kom hópur skólastúlkna

og ein þeirra sagði

flissandi,Nei, hvað hann er

líkur honum afa!

 

Ég laumaðist út,

gekk óséður

til mörgæsanna

 

þær voru að viðra vængina

í síðdegisgolunni,það var

kjólfatahátíð í sólinni

 

sumar með hvítan kraga

á brjósti,aðrar nefgulan

 

og þegar ég virti vængina fyrir mér

fjaðralausa eins og áraspaða

 

sá þá kljúfa sjógrænt vatnið

í garðinum

 

fannst mér þeir líkastir hugsunum okkar,

 

þessum fjaðralausu

hversdagslegu

hugsunum.

 

 

Það má nota þessa vængi

á ísköldum hafsvæðum

heimskautann,

 

sagði heilinn við sjálfan sig,

 

en það flýgur enginn á þeim

til fjarlægra drauma.

 

 

 

 

 

Linlithgow

Palace

 

Hún kallar á hundinn,

hann hlustar ekki,Ég

skal gefa þér ostbita

ef þú kemur,

 

ostbita...ost kallar hún,

 

hundurinn horfir á hana

veltir sér í grasinu;

snýr uppá sig

 

ég virði kastalann fyrir mér,

 

eitt sinn leit María

Stúart

út um sóllausan glugga

sem veit að vatninu,

horfði á fugl

horfði á döpur ský,

 

hér voru ræturnar

hér fæddist hún,

 

nú eru minningar hennar

ekki ostsbita virði

og framtíðin rústir einar.

 

 

 

Edinborg,7.sept ´05

 

Hallgrímur Thorsteinsson fréttamaður hringdi til mín,

sagði , Davíð er að hætta í pólitík , hvað segirðu um það?

 

Íslenzk stjórnmál ? sagði ég.

 

Já, sagði hann ,ég hringi aftur

til þín eftir tvo tíma,geturðu ekki haft gemsann opinn?

Kvaddi svo.

 

Einn stóð ég þarna í dýragarðinum í Edinborg,einn í apahúsinu

og horfði á þessa frændur okkar grandskoða gestina forvitnum augum.

 

Að hann skyldi hringja hingað,hugsaði ég,einmitt hingað.Hélt auðvitað

ég væri heima,en nú vitum við ekki sjálf hvar við erum

á hnettinum,

 

tæknin eltir okkur.

 

Og íslenzk stjórnmál umhugsunarefni í apahúsinu í Edinborg!

 

Hvort var það fyndin alvara eða alvarleg fyndni,svo ég vitni

í séra Bjarna dómkirkjuprest.

 

Unglingar frá ýmsum löndum skemmtu sér konunglega

yfir lýðræðislegu frelsi apanna í þéttriðnu búrneti dýragarðsins,

 

en ég leiddi hugann að spurningu fréttamannsins,marglúinn

ísbjörn í framandi umhverfi nashyrninganna

 

 

 

Septemberferð

til Bretlands,´02.

 

 

Á Trafalgar

 

Sólargeislarnir leika sér

í gosbrunninum

eins og börn við ljónsmakkana.

 

Fugl í hestsfaxinu

talar við Georg lv,

enginn veit hvað þeim

fer á milli,

 

svo flýgur fuglinn

af faxinu

og Nelson horfir á eftir honum

inní marglit þök

við fallbyssugráan himin.

 

Í þjóðlistsafninu

sýning á ljósinu

jesúbarnið alltaf í mikilli birtu

meistaranna

(þeir eru aðrir en sá

sem sólina skóp og himininn).

 

Konungur saknar fuglsins

sem er hættur

að hvísla í eyra hans

og heldur norður til Skotlands,

 

horfir nú yfir götuna

sem kennd er við hann

í Edinborg

og skimast eftir fuglinum

að sunnan.

 

 

En unglingarnir strjúka makkann

á ljóninu

og Wellington horfir á,

 

minnugur þess

hvernig rándýrið öskraði

við Waterloo.

 

 

 

Berners-hótel,morgunverður

 

Kokkurinn stendur

með stóran hníf

við kalkúninn,sker þunnar sneiðar.

 

Andlitið svart og lokað

en hýrnar eins og land

við sólarupprás,þegar hann hugsar

yfir hafið.

 

Er kalt á Íslandi?spyr hann

og svarar sjálfum sér,Nei,

engin mengun.

 

En ég þoli kulda ágætlega.

 

Mengunin hefur

eyðilagt jörðina.

 

Og landið í andlitsdráttum hans

hverfur aftur í sólarlaust

myrkur.

 

Snýr sér að kalkúninum

og sker nýja sneið.

 

Og það á eftir að versna,

bætir hann við með sjálfum sér.

 

 

 

 

 

 

 

Hugsanir

á göngu

 

 

1)

Við höfum sólina

í bakið,

skuggi þinn gengur

við hlið mér

á gangstéttinni

 

sporlaus skuggi þinn

fylgir mér eftir.

 

 

2)

Eins og flygillinn

á hótel Berners

leikur Motzart af segulbandi,

 

 

þannig er líf mannsins

á rafeindaöld samtímans.

 

Og við sem vitum ekkert

um rafmagn!

 

Eins og Billy Graham minnti

okkur á:hvað er rafmagn?spurði kennarinn,

lítil stúlka rétti ein upp höndina, hikaði,Ég

er búin að gleyma því,sagði hún.

Það var slæmt sagði kennarinn,því enginn

vissi þetta annar!

 

 

Þannig fer lífið með okkur,

 

við sem erum einungis

forritaður flygill

í sinfóníuhljómsveit

guðs.

 

3)

Ekkert dýr er eins óásjálegt

og maðurinn,

ekki ljónið

né tígurinn

 

enginn fugl,

ekki einu sinni

hrægammurinn.

 

Ég er þess fullviss

að náttúran er að verða

hundleið á manninum,segir hesturinn

við fuglinn

 

og náttúran á eftir

að útrýma manninum.

 

 

4)

Í næsta nágrenni

lítið veitingahús

 

tómt

 

þjónninn stendur við dyrnar

og klórar sér í rassinum.

 

Þota flýgur yfir borgina

eins og lax milli hylja.

 

5)

Gamall maður situr

á gömlum bar í Sóhó,

drekkur Grolsch,

 

svarthærð stúlka

 

 

 

við næsta borð

hlær eins og mávur

í slori.

 

 

Á leið norður

 

Fjalllaust er þetta land

flatt eins og marglesið dagblað,

 

snjáð dagblað með kálfslöppum

eins og gulnað lauf.

 

-----

 

Ég á heima í landi

sem er ekki til,

enginn þekkir það

nema fuglinn.

 

Og ég segi við hann,Varaðu

þig á fálkanum.

 

 

Edinborg

 

1)

Velkomin,

stendur við hliðið

á gömlu geðsjúkrahúsi

 

og regnið drýpur

af septemberhryggu laufi.

 

 

2)

Lægðirnar

í höfði mínu

bera jörðinni vitni,

 

hvernig hún hugsar

frá einum degi til annars.

 

3)

Fólkið hakkar í sig

slúðurblöðin

eins og akurhænur

smákorn á veginum.

 

Ó, þessir fjölmiðlar,

 

þessar beinakerlingar

á vegvilltum heiðum

samtímans.

 

 

4) ( Í september)

 

Spor dauðans

á Manhattan

hóffar í huga mínum.

 

5)

Ég er gangandi gröf

og enginn hefur séð

kistubotninn.

 

 

6)

Þegar guð tekur af sér

hárkolluna

getum við andað léttar.

 

7)

Kastalinn framhald

af gömlu storknuðu

bergi,

 

manngerð hugmynd

á leið til himna..

 

8)

Neðst í Kanúka-götu

gamall kirkjugarður

eins og fallnar rústir um kirkjuna,

 

við innganginn fjórir

utangarðsmenn

 

einn í bláum gallafötum

með hvítan skeggkraga

eins og hurðaskellir,

drekkur af stút

og syngur hástöfum,hinir

taka undir.

 

Hundurinn hlustar á

eins og gagnrýnandi.

 

 

 

Við Grasmarkaðinn,

Edinborg

 

Við sátum á barnum

Síðasti dropinn,það var

kvöld og kastalinn uppljómaður

eins og Paradís í hugskoti

hryðjuverkamanns,

en við sáum ekki til himins,augun

 

 

límd við torgið

þar sem gálginn stóð

 

 

endur fyrir löngu,tíminn

á rauðu ljósi og við horfðum

út á götuna þangað sem þjófurinn

drakk síðasta snapsinn

áður en snaran þrengdi

að hrukkóttum sólbrenndum

 

hálsi.

 

Við heyrðum hrópin,enn

heyrum við hróp fólksins

sem þyrpist að gálganum

eins og börn í fjölleikahús.

 

Skýin flosþunn og hvít

í húminu eins og slæður

svikamiðils í þrunginni

návist dauðans.

 

 

Cramond

 

Sól í rigningarúðanum og engin hreyfing í garðinum,

nema hvað tvær kanínur hlaupa milli leiðanna

og leika hádegisvofur í sólinni.

 

Ég er með derhúfu eins og Neruda,nýkeypta

í Princes-street,skáldlega húfu og minnir

á kreppuárin.

 

Við rómverskar virkisrústirnar mettuð þögn

og minnir á bókasafnsþrungið andrúm

sem fylgir okkur að ströndinni.

 

Hafið skellir hvítum vængjum á grandann

og við horfum á fuglana endurtaka hreyfingu þess

í mjúkum síðdegisvængjatökum fjarðarins.

 

Hitchockslaus kyrrðin í kirkjunni..

 

Og yfir okkur lítið flosmjúkt ský sem Baudelaire

kvaðst elska endur fyrir löngu.

 

 

Dryburgh Abbey,

suður-Skotlandi

 

 

Hér hefur maðurinn

skilið eftir sig

andartak tímans.

 

Klaustrið hrunið

að vestan

 

legsteinar drúpa

við íslandsgrænt

gras

 

tví-tví,syngur fuglinn.

 

Tweed-áin á næstu

grösum.

 

Hér liggur skáldið

frá Abbotsford,

enginn titill

 

ekkert

 

aðeins gras og steingrár himinn..

 

Kvakk-kvakk syngur annar

fugl

og forðar sér inn í nálasárt grenið.

 

Allar fornminjar

á Íslandi

eru grafnar í jörð,

segir hún upp úr eins manns hljóði.

Þannig er einnig minningin

 

fornminjar

undir íslendsgrænu

grasi.

 

Við

á þessari löngu leið

frá einum legstað

til annars.

 

Georgs-gata,

Edinborg

 

Skuggi þinn fylgdi kvöldsólinni

vestur götuna,þú horfðir

á sjálfan þig hverfa með henni

inní kalt steinsvart myrkur framandi

borgar.

 

Langt síðan þú komst þangað fyrst,

þá voru vagnhestar með augnblöðkur

til að sjá ekki umhverfið,

 

nú væru þeir öfundsverðir.

 

 

 

 

 

Heimkoman

 

Nýkominn heim horfi

ég á skrælnað laufið

í garðinum,horfi

á sumarið kveðja,sé

haustið ganga í garð,

 

hún segir Við verðum

að hreinsa garðinn

 

og ég safna

laufinu saman

 

safna sóldögum

saman,hreinsa garðinn.

 

 

 

En næsta dag heldur

laufið áfram að falla

og garðurinn fyllist

af gulnuðum sóldögum

sumarsins.

 

Var líf mitt einnig þannig,

 

var líf mitt ekki annað

en hrúga af fölnuðu

laufi

í óhirtum garði

sem minnir á óræktarhuga

á hausti?

 

 

 

 

 

 

 

Októberdagur

í Edinborg

 

Keypti tvær bækur í Blackwell´s,fjalla

um ljóðalestur,einnig hljóðbók eftir Atwood,

fengum okkur svo grænt te

áður en við fórum í John Lewis,

hún

leitaði að pilsum í litlum númerum,en ég

að stól og tók að lesa,

 

þegar hún hafði mátað og gert upp hug sinn

þarna í búðinni

var ég að ljúka við aðra bókina,How to read

a poem.

 

Það var sól úti,en heima fingurgult haust

og tíndi laufið af rauðberjuðum

trjánum.

 

 

 

 

Atkvæði

 

Síminn er glóheitur,

 

við erum eftirsótt

við erum vinsæl.

 

Það er eins og allir

þekki mann,segir hún

og leggur tólið á.

 

Það er prófkjör.

 

 

 

 

 

 

Hvað ég

segi

 

 

Hvað ég segi

um grenitréð

 

Hvað ég segi?

 

Það er vaxið úr djúpri

myrksvartri jörð

 

breiðir út grænfingraða

vængi

 

fuglsins,

 

hann flýgur

við sól

eins og fluga við kerti,

 

brennur ekki.

 

Hvað ég segi um grenitréð?

 

Ekkert.

 

 

 

 

 

Hef leiðrétt þetta ástaljóð

því það er rangt

í Málsvörn og minningum:

 

(jan. ´06)

 

 

 

Þolinmóður ísbjörn

við vök

 

Ég vil læra þolinmæði

af hreyfingarlausum ís-

birninum

við krapgráar

vakir

 

eins og grænlenzkur

veiðimaður bíður

hringanórans

við selsmjúkt vatnið,

 

ég vil elska þig af þolin-

mæði

eins og grænlenzkur

veiðimaður

elskar tortryggin

selsaugu

við nákalda vök

dauðans.

 

2.

Ég vil sýna þér

þolinmæði

og elska þig eins og ís-

björn

bíði hreyfingarlaus

við vökina

 

ég vil sýna þér

þolinmæði

eins og ísbjörn bíði

eftir mannsaugum

selsins

þegar þau skima

úr krapinu

 

ég vil draga þig

úr vökinni

 

snöggt

 

eins og bjarndýr.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þríhyrningur

 

Tveir hundar hlaupast á

og hinir fylgjast með,

þú varst aðeins ógnarlítið

utanveltupeð,

 

allt var þetta afskaplega

illa séð.

 

 

 

 

Á

heiðinni

 

Það fór hrollur um mig

og ég sá dauðan mann

á heiðinni við Ormarsá

 

þarna stóð hann á bakkanum

grá þúst,

 

veiðistangarlaus

 

og ég hugsði með sjálfum mér,Að

eilífu veiðistangarlaus,

 

það er helvíti.

 

 

 

 

 

Heimurinn er skrýtla

Brynjólfur Bjarnason um Kiljan

 

 

Að lífið sé skrýtla,hver skilur það

að skrýtlan skuli hafa átt sér stað,

en ennþá skrítnara er skrýtlan sjálf

þessi skothenta lína um mennskan álf.

 

 

 

 

 

 

Hver?

 

Metnaður okkar er afstæður

eins og annað í lífinu.

 

Blaðamaður spurði mig

hvort ég hefði ekki viljað

vera einhver annar,ef ég

hefði mátt ráða,Margrét Danadrottning,

Bill Clinton, Salman Rushdie,

Bill Gates?

 

Lennon?

 

Nei,ekkert þeirra.

 

En hver þá?

 

Asninn sem Kristur reið inní Jerúsalem

á Pálmasunnuudag.

 

 

 

 

Þegar fjöllin

bráðna

 

 

Fjöllin eru vaxfílar,

sagði Mao.

 

Við höfum horft

yfir víðátturnar,

 

horft til fjalla,

 

nú eru þau horfin

í sólbráð

hins rauða austurs

 

eins og kenningin.

 

 

 

 

Þjóðfélag

þyrni-

kórónunnar

 

Barrabas hrópuðu þeir,

Barrabas hrópa þeir enn,

 

Ræningjabæli æðstuprestanna

fylgir okkur eins og fugla-

flensa.

 

 

 

 

Skírskotun

í

Öldurnar

 

 

Er laufið fuglar

á eggjum?

 

Það hreyfist segir skáldkonan

sem er að fjalla

um hafið og öldurnar í okkar

eigin blóði,

 

laufið hreyfist

hjartað hreyfist

 

það slær eins og hafið

 

hjartað er gluggi inní sál okkar,

segir vísindamaðurinn,

 

hunangsflugan flýgur

gegnum opinn glugga

inní gleymskuna,

segir skáldkonan,

 

á morgun einnig við.

 

Hjartað opinn gluggi ,

 

við heyrum

skrjáfið í laufinu fyrir utan

þar sem tíminn er einn á ferð,

 

tíminn einn á ferð

með hjarta þínu.

 

 

 

 

Grafskrift

 

Skyldi vera til nokkuð

ómerkilegra

en það að vera þingmaður.

HKL við Jónas Árnason

 

 

Það var ekki gott að ganga þennan spöl

á gömlum,slitnum skóm

en það var samt ekki annarra kosta völ

en arka villtur um þetta tóm,

ég hefði viljað fljúga frjáls um geiminn

og fresta því að endurbæta heiminn.

---------------

 

En ég var bundinn jörð sem eignar sér

allt sem grær að hennar sterku þrá

því ég var gras , það gulnar við deigan ljá

og gefur því lit sem vott um dauðann ber,

 

semsagt því sem jörðin okkar ól,

og endurnærist hér við norðurpól.

 

Þannig missti ég hægt úr höndum mér

þann hnött sem okkur var víst trúað

fyrir, ég stend í konungs sporum kalinn Lér

með kvæði sem er dautt og harla þrúgað

af íþyngjandi tízku sem telur sig

talsvert betra skáld en þjóðin mig.

 

___

 

En hefði ég verið fugl sem flygi um geiminn

og fyndist ekkert merkilegt við heiminn,

þá hefði ég orðið að Jóni Sigurðssyni

og svo einnig þessum Bónaparta

og sæist kannski í svolítið bjartara skini

en samferðamennirnir skarta

 

og þá hefðu staðið vonir til þess að vinna

sitt vonda stríð úr blekking drauma sinna

og engin sérstök ástæða til að kvarta.

 

-----

 

 

Allt er minning,martröð eða gleði

misjöfn jörðin,paradís eða helja,

allt sem ég þráði, allt sem ég setti að veði

allt sem ég keypti og það sem ég vildi selja

 

en það var þó bezt sem ég átti einn og enginn

annar fékk hampað,þegar ég var genginn.