laugardagur
maí162009

Hanna Johannessen og hjartablóm elskunnar - sigurdurarni.annall.is

Hanna Ingólfsdóttir Johannessen var vökukona elskunnar. Líf hennar var sem samfelld prédikun, útlegging á elskuboðskap Jesú. Hún vakti yfir velferð þeirra sem störfuðu og komu í Neskirkju. Hún var í sóknarnefnd Neskirkju í 21 ár og lengstum sem varaformaður. Útför hennar varð gerð frá Neskirkju 8. maí 2009. Minnningarorðin birtast hér að neðan.

Hjartablómið
Hanna og Matthías voru á Hólsfjöllum. Þau voru komin heim í fang fjallanna hennar Hönnu, heim í Víðirhól. Ilmur gróðurs kitlaði, blómin brostu og augu heiðarinnar horfðu á þau úr öllum áttum. Kvika Matthíasar var snortin. Hann skynjaði helgi augnabliksins, þykkni sögunnar, dansandi stúlkubarnið í konunni sem laut niður á hlaðinu á Víðirhóli og gældi við gróðurinn. Svo rétti hún úr sér, brúnu augun ljómuðu og hún lagði í lófa hans fíngert blóm. Og hann sá hvað það var – það var alsett hjörtum, sláandi ástartjáning Hönnu, sem gaf honum ekki einfalda ást sína, heldur hjörtu lífs, gleði, styrks, trúar, vonar, hláturs og ljóða. Hún varð honum póesía, verðandi - og líka okkur hinum. Og Matthías hreifst af þessu smáblómi ástarinnar, tákni um líf lands og fólks. Lífið lifir.

Ungur maður sem hefur sótt Neskirkju í mörg ár og kynntist því Hönnu sagði í vikunni: “Það er óhugsandi að Hanna sé dáin. Hún hefur alltaf verið óháð tíma, eiginlega ofar tímanum og eins og hún gæti ekki dáið.”

En höggið kom snöggt og skjótt. Hvernig verður hjá Matthíasi? Hvernig er hægt að hugsa sér aðfangadagskvöld á Hernum án Hönnu? Hvernig getur kirkjulíf í Vesturbænum lifað af, svo við tölum nú ekki um pólitík, góðvild, fermingarbörnin hér í kirkjunni og mömmumorgnana? Stórfjölskyldan í Neskirkju kveður “kirkjumömmu” sína – eða “kirkjuömmu” eins og sum börnin í sunnudagaskólanum sögðu. Þú og þessi stóri kærleikshópur Hönnu sem kveður í dag hefur tapað vökukonu elskunnar.
Elskið – elskið hvert annað – sagði Jesús við brottför sína af heimi. Fólkið á Hólsfjöllum, fjallræðufólkið, iðkaði boðskap Jesú. Elskið, gætið að líðan fólks og dýra, eflið hvert annað, dansið á góðum dögunum, syngið þegar söngs er þörf og ljóð kvikna. Meitlið mál, elskið hvert annað – gefið hjartablóm til lífs.

Æviágripið
Jóhanna Kristveig fæddist á Grímsstöðum á Fjöllum 28. nóvember árið 1929. Foreldrar hennar voru Ingólfur Kristjánsson og Katrín María Magnúsdóttir. Barnalán þeirra var mikið og eignuðust þau hjón fimmtán börn. Hanna lærði því á fólk strax í bernsku.

Heimilislífið var fjörugt og bókelskt. Foreldrarnir voru samstiga í uppeldi, glaðværð, ögun og menntunaráherslu. Á vökum var lesið, ljóð hljómuðu, mál var vandað og pabbinn brást hart við þegar texti var brotinn eða mál brenglað. Um pabbann var sagt að hann væri Gullna reglan holdi klædd. Ingólfur var tilfinningamaður og spyrja má hvort Hanna fann ekki í Matthíasi síðar ýmsa djúpstrengi, sem hún þekkti úr fíngerðum lífsþorsta pabbans. Svo erfði hún spilandi glaðværð hinnar hálffæreysku mömmu, sem var berdreymin, fjölskynug, fagurkeri og söngvin. Börn Ingólfs og Katrínar fengu stóra meðgjöf sjálfsvirðingar til ferðarinnar út í lífið. Í þeim býr mannvirðing og fjölþættar gáfur. Því voru þeim margir vegir færir og “þau áttu að gera eitthvað úr sér” sagði Katrín.

Fyrstu árin bjó stækkandi fjölskyldan á Grímsstöðum. Svo fluttu þau út í kirkjustaðinn Víðirhól. Hvers konar fólk verður til í mæra-aðstæðum? Fjalla Bensi í Aðventu Gunnars Gunnarssonar var einn. Uppeldiskrafan var um lífsleikni en líka elskuiðkun, traust og víðsýni. Svo líka að elska Herðubreið, sem “leit best út um eldhúsgluggan,” eins og Hanna sagði, læra að meta kyrrðina, sem var svo djúp að hægt var að heyra fótatak göngumanns í margra kílómetra fjarlægð, heillast af ofsaþokka dansandi norðurljósa. Í slíkri náttúru verður til ljóðræna og skynjun, að hið smáa getur verið ofurstórt og hið gríðarlega hverfist í smáblóm. Sandkornin á Hólssandi eru mörg, sporin inn í Öskju óteljandi, droparnir margir í fljótinu og foksandur nagaði gróður.

Gegn eyðingunni brosti fjallið Eilífur himnesku brosi – maður mundu köllun þína. Já hvað er mennskan – er hún bara til dauða? Var lífið aðeins tíbrá heits dags? Mökkur daga, æðandi stórhríð, brosandi hjartablóm stæla æðruleysi, kenna samsend alls sem er, opna æðar lands, sögu, Guðs. Og hið mikla fæðist í hinu smáa, Hanna tók í sig land, stóru spurningarnar, fortíð og ást til fólks. Arfur úr foreldrahúsum varð heimamundur, sem hún naut og gat veitt af alla tíð. Elskið.

Suðurferð og fjölskyldusaga
Svo fór Hanna Ingólfsdóttir suður og í Iðnskólann. Hún varð hágreiðslumeistari og rak eigin stofu í Skólastræti. Hún hafði fljótt mikið að gera og rífandi tekjur. Enginn, sem henni kynntist, efaðist um færni hennar.

Þegar Matthías lenti í brasi með félaga sína í samkvæmi á þeim örlagadegi 1. október 1949 var nærri honum nett stúlka sem gerði sér grein fyrir vanda hans, færði sig til á stól sínum og sagði við hann. “Þú getur setið hér á stólnum hjá mér.” Og þaðan í frá sat hann hjá henni. Svo fóru þau að búa. Hanna var hrifin af Matthíasi sínum og sagði sínu fólki stolt að hann væri verulega vel hagmæltur! Svo fæddist þeim Haraldur. Matthías stökk út í lönd skömmu eftir fæðingu. Fjarri konu og nýfæddum syni uppgötvaði hann hversu Hönnulaus tilveran var honum óbærileg. Hann tók ákvörðun sem ekki varð hnikað að fara aldrei bæjarleið í veröldinni án hennar. Svo varð.

Hanna vann fyrir þeim hjónum fyrstu árin. Danmerkurárin urðu þeim dýrðartími. Þegar þau sneru heim hélt Hanna áfram hárgreiðslunni. Bóndi hennar þjónaði Morgunblaðinu og annirnar urðu svo miklar, að Ingólfur varð ekki til fyrr en áratug á eftir bróður hans kom í heiminn. Þá hætti Hanna sínum atvinnurekstri en hélt vel um sína menn og hafði að auki tíma til allra þeirra ómetanlegu félagsstarfa, sem hún varð kunn fyrir og hlaut síðar viðurkenningu fyrir með veitingu Fálkaorðunnar.

Það var skemmtilegt að sjá blikið í augum sona hennar þegar spurt var um mömmuhlutverkið. Þeir voru sammála um, að móðir þeirra hafi sett skýr mörk, klára stefnu, skiljanlegar leikreglur og hún hafi ekki þurft að skella hurðum til að þeim yrði hlýtt. Hún vildi að karlarnir hennar héldu sínu striki í verkum, stæðu fast og hvikuðu ekki meðan stætt væri. Hanna stýrði vel og eflaust hefur Haraldur líka notið Hönnureglu og lagaspeki til sinna starfa. Hann er lögfræðingur og ríkislögreglustjóri. Ingólfur lagði stund á læknisfræði og er tvöfaldur doktor í veirufræði. Hann kennir við læknadeild Edinborgarháskóla.

Börnin í fjölskyldunni urðu Hönnu gleðigjafar. Kona Haraldar er Brynhildur Ingimundardóttir og eiga þau fjögur börn: Matthías, Kristján, Önnu og Svövu. Líf sona, fjölskyldunnar, barnabarna og langömmubörnin, börn Matthíasar yngri urðu tilefni margra sagna, sem Hanna gladdi okkur vini sína með. Hún vakti yfir velferð og gæfu þessa fólks, allra sem henni tengdust, fagnaði happi og sigrum og svo bað hún fyrir þeim sem þörfnuðust, og virkjaði bænahópinn í kirkjunni, þegar erfiðleikar steðjuðu að.

Eigindir
Hanna var ekki einnar víddar? Var það fæðing á fjalli sem olli, fósturfjórðungurinn, arfur eða mótun? Líkast til allt þetta samtvinnað. Uppistaðan í henni var sterk, hún var einbeitt og stefnuföst, hafði þegið góðar og fjölþættar gáfur í vöggugjöf. Hún var eins og björkin og brotnaði ekki við álag. Hún var æðrulaus og hafði tamið sér að bera ekki sorgir á torg. Hún var dul, en trúði þó prestunum sínum fyrir flestu og svo átti hún líflínu í greiðu himinsambandi.

Hanna hafði ekki aðeins skoðanir á heimsmálum og stjórnmálum Íslands, heldur líka helgileikjum í Oberammergau, ítölskum kúltúr og ótrúlegt nokk – Formúlunni. Michael Schumacher var hennar kappi. Þó hún væri ekki sjálf í spyrnunni, sá hún til að bílarnir þeirra Matthíasar væru hreinir. Hanna var flott í stígvélum á þvottaplaninu og með slæðu á höfði. Hanna vildi hafa allt fallegt og vandað í kringum sig. Og gæði vildi hún einnig í starfsháttum og samskiptum. Hanna heyrði aldrei slúður og miðlaði því ekki. En hún var hins vegar glögg á fólk, sagði frá til góðs og eflingar. Hún lagði alltaf vel til annarra og stóð svo ákveðin með þeim sem á var hallað. Hanna var trygglynd, glaðlynd, kímin og vönduð til orðs og æðis. Hún átti enga óvildarmenn. Allt frá bernsku var hún ákveðin að lifa sólarmegin í lífinu og snúa örðugleikum til góðs og var alltaf lipur við að leyfa öðrum að njóta birtunnar.

Félagsþjónusta Hönnu
Elskið – elskið – það var boðskapur Jesú. Og í Hönnu bjó virðisauki elskunnar. Hún brást vel við kalli frá stuðningssamtökum fanga. Á aðfangadagskvöldum - yfir fjörutíu ár - var Hanna sem engill af himni í veröld Verndarfólks. Fyrst fór hún niður á Hjálpræðisher, efndi þar til veislu og svo kom hún þreytt en sæl í miðnæturmessuna í Neskirkju. Hanna starfaði einnig að barnaverndarmálum og var í Barnarverndarnefnd Reykjavíkur í mörg ár.

Hanna var rásföst í pólitík eins og í öðrum málum. Í tengslum við fólk spurði hún ekki um flokksskírteini en hún beitti sér í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði heillandi sögur af litríkum vinum sínum í pólitíkinni. Hanna var í trúnaðarráði Hvatar, félagi Sjálfstæðiskvenna, og var formaður um skeið.
Það var Neskirkju og starfi þjóðkirkjnnnar blessun og happ þegar sr. Guðmundur Óskar kom á fund Hönnu árið 1988 og bað hana að koma til starfa í sóknarnefnd Nessafnaðar. Hún sagði já og þjónaði svo kirkjunni óhvikul, lengstum sem varaformaður sóknarnefndar. Hún var safnaðarfulltrúi og sótti því héraðsfundi prófastsdæmisins, var í héraðsnefnd og í stjórn Hjálparstarfs kirkjunnar.

Aldrei þáði Hanna laun fyrir en starfsdagur hennar í kirkjunni var oft langur eins og hún væri í meira en fullu starfi. Hún vakti yfir flestum starfsþáttum ekki síst mömmumorgnum og barna- og unglinga-starfi. Hún gætti að velferð starfsfólks kirkjunnar, tók á móti öllum, sem komu í kirkjuna, með þeim hætti að allir urðu heimamenn. Hún var eiginlega framkvæmdastjóri kirkjunnar í mörg ár. Allir fóru upplitsdjarfari frá hennar fundi. Við, prestarnir, áttum alltaf stuðning vísan og ráðhollt mat hennar.
Það var gaman að spyrja hana hvað maður ætti nú að tala um næsta sunnudag. Hún skautaði með klerkinum yfir viðfangsefnið. Sjaldan vildi hún efna til herferða eða stórudóma. En eitt sinn var henni alveg lokið og þótti mál og menning þjóðarinnar vera að blása upp og trosna. “Nú þarf presturinn að tala um tungumálið,” sagði hún. Og svo gerði presturinn það auðvitað. Þá fékk ég innsýn í hvernig hún hefur verið Matthíasi stuðningur í gustmiklu starfi hans.

Hanna hlustaði og fyldist með öllu frá Hönnusætinu í kirkjunni, í þriðju röð við ganginn, og stýrði messustandi safnaðarins - nú er sætið hennar autt – hvít rós í því tjáir missinn.

Matthías hefur haft mikil áhrif með störfum sínum. En ég þori að fullyrða að fleiri hafa staðið og setið í samræmi við forskrift Hönnu en forskrift Matthíasar. Í áratugi stóð söfnuðurinn og sat í samræmi við hennar stjórn.

Í mörg ár útdeildi hún í altarisgöngum með prestum. Þeirri þjónustu lauk ekki fyrr en við dauða hennar. Fyrir liðlega mánuði síðan útdeildi Hanna við bænamessu. Hún gekk með bikarinn, bar lífstáknið – sagði hin helgu orð: Blóð Krists – bikar lífsins. Sú útdeiling í hinstu altarisgöngu hennar var á nákvæmlega sama stað og kista hennar er nú. Ekki óraði mig fyrir þegar ég útdeildi henni, að það væri nestun til eilífðar.

Hanna er farin en táknmálið lifir, lífið lifir, trúin sem hún þjónaði er lífsstrengur og orðin sem hún sagði eru áhrínsorð.

Kærleikur þinn hafið
Síðustu daga höfum við, vinir Hönnu, verið að reyna að að æfa okkur í staðreynd dauða hennar. Hanna er ekki lengur nærri. En svo koma ljóðin hans Matthíasar upp í fangið og huga og við uppgötvum að hún er víða í ljóðum hans.

Í hinum magnaða ljóðabálki Sálmar á atómöld segir:

Óendanlega smátt er sandkornið
á ströndinni.

Óendanlega stór er kærleikur þinn.

Ég er sandkorn á ströndinni,
kærleikur þinn hafið.

Myndin tjáir guðsnánd. Vatn er alls staðar þar sem líf er, og myndhverfingin miðlar að elskan hríslast um æðar þínar og er í sál þinni. Elskan til maka og barna, ástalíf þitt allt er hræring hinnar miklu Guðsnándar. En getur verið að Hanna sé þarna líka í þessu ljóði, sem ásjónu Guðs, birting hins guðlega?

Nú hefur Eílífur vitjað Hönnu. Í vikunni kom ég heim til Matthíasar. Hann opnaði bókina Mörg eru dags augu og benti á ljóðið um Víðirhól og Hönnu. Þar segir:

Hún beygir sig niður
eftir blómi
og réttir mér hjarta
úr grænu blaði,
réttir mér hjarta
vaxið úr dökkri mold,
og lynggróin heiðin
horfir á okkur
úr öllum áttum.

Á þessari bókaropnu var líka þurrkuð jurt límd í bókina. Matthías hafði varðveitt hjartablómið og skrifað svo í bókina hvar Hanna hafði gefið honum þessa ástargjöf. Blómið í bókinni við hlið ljóðsins er tákn um allar hjartans gjafir hennar til hans, en líka ástvina, vina, samferðafólks, gjafir til lífs, bikar lífsins. Elskið – Saga Hönnu Ingólfsdóttur Johannessen er saga um hafstærð kærleikans sem nú hefur opnast henni.

Guð geymi hana, Guð geymi þig.

Amen 

Sigurður Árni Þórðarson

 

laugardagur
maí162009

Minningarorð: Hanna Ingólfsdóttir Johannessen

Hanna (skírð Jóhanna Kristveig) Ingólfsdóttir Johannessen var fædd á Grímsstöðum á Fjöllum 28. nóv. 1929, dóttir Ingólfs Kristjánssonar bónda á Grímsstöðum og Víðirhóli á Hólsfjöllum, Fjallahr. N.-Þing., síðast á Kaupvangsbakka í Eyjafirði, f. 10.sept. 1889, d. 9. jan. 1954, og k.h., Katrínar Maríu Magnúsdóttur, húsfreyju, síðast saumakonu á Akureyri og í Reykjavík , f. 13.okt 1895, d.17.mars 1978. Þau hjón eignuðust 15 börn. Hanna giftist Matthíasi Haraldssyni Johannessen þ. 26. júní 1953. Matthías er cand.mag. í íslenzkum fræðum , rithöfundur og ritstjóri Morgunblaðsins 1954–2001, f. 3.jan. 1930, foreldrar hans: Haraldur Matthíasson Johannessen aðalféhirðir Landsbanka Íslands, f. 5.apríl 1897, d. 13.des. 1970, og Anna Jóhannesdóttir Johannessen, húsmóðir, f. 2.nóv. 1900, d.15. júní 1983. Þau áttu þrjú börn. Synir Hönnu og Matthíasar eru Haraldur, f. 25. júní 1954 , lögfræðingur og ríkislögreglustjóri, og dr. Ingólfur, f. 17. feb. 1964, læknir og lektor við Edinborgarháskóla. Haraldur er kvæntur Brynhildi Ingimundardóttur hjúkrunarfræðingi, f. 15. feb. 1956, og eiga þau fjögur börn: Matthías, f. 6. des.1973, Kristján, f. 11. jan. 1985, Anna, f.7. júní 1990, og Svava, f. 28. ágúst 1995.

Hanna kom ung til Reykjavíkur, gekk í Iðnskólann og varð hárgreiðslumeistari. Hún rak eigin hárgreiðslustofu í Skólastræti á annan áratug. Hún gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum, einkum í mannúðar- og líknarmálum, og gekk m.a. snemma í Félagasamtökin Vernd, fangahjálp sem stofnuð var 1960, en fyrsta verkefni samtakanna var að halda jólafagnað fyrir einstæðinga og heimilislausa. Hanna starfaði með nefndinni frá upphafi, tók við formennsku Jólanefndar Verndar 1967 og gegndi því starfi til hinsta dags. Hún var kjörin heiðursfélagi samtakanna 2001. Hanna var skipuð í Barnaverndarnefnd Reykjavíkur 1982 og starfaði þar um margra ára skeið. Þá átti hún einnig sæti í Trúnaðarráði Hvatar, Félagi Sjálfstæðiskvenna, og gengdi formennsku þar um tíma. Hanna var kjörin í sóknarnefnd Nessóknar 1988 og gegndi þar varaformennsku til hinsta dags auk þess sem hún var safnaðarfulltrúi. Hún átti sæti í stjórn Hjálparstarfs Kirkjunnar og sat í stjórn Héraðsnefndar Reykjavíkurprófastsdæmis Vestra. Hanna var sæmd Riddarakrossi hinnar Íslensku Fálkaorðu af Vígdísi Finnbogadóttur forseta 17. júní 1993 fyrir störf að líknar- og mannúðarmálum.

Hanna lést á kvennadeild Landspítalans að kvöldi 25. apríl s.l. og fer útför hennar fram frá Neskirkju klukkan 15:00 í dag. Jarðað verður í Gufuneskirkjugarði.

 


mánudagur
apr.062009

Á vígvelli siðmenningar IX.

Hvítflibbar og hrunadans

  

            “ Sama mýta,sífelldlega endurtekin, eignaðist eigið líf.. “Þrjú hundruð

 og sjötíu lygar verða að sannleika “sagði Huxley í Brave New World.

Ég lifi ekki í neinum blekkingum.Ein manneskja getur ekki stöðvað

flóðbylgju !...

Vegið hefur verið að heiðri mínum og efazt um heiðarleika minn...”

 Eva Joly

 

1.

Það er fróðlegt að lesa bók Evu Joly um svindl og mútuþægni sem tengd var olíurisa í Frakklandi og pólitískri spillingu þar í landi.Hún fjallar um þann tíma þegar franskur almenningur vaknaði upp við vondan draum sem breyttist í þann veruleika, að hinir útvöldu voru staðnir að glæpsamlegu athæfi.Nú hefur hún verið ráðin sérfræðingur vegna bankahrunsins hér heima og því er saga hennar og barátta nærtækt umhugsunarefni.

Af þeim sökum hef ég tekið saman þessa lokagrein mína um útrásina svokölluðu,en hana mætti alveg eins kalla innrásina í sparifé landsmanna.

áfram >>

þriðjudagur
feb.032009

Á vígvelli siðmenningar VIII.

Býsnavetur hinn síðari

 

 1.)

Það er rétt,hjartað segir við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið,en heilinn er á öðru máli,eða eigum við frekar að segja hann sé í meiri vafa.Annað sem tengist þessu er sú skoðun mín,að menn fari villir vegar ,þegar þeir beina spjótum sínum að þeim sem afhentu frelsi í viðskiptum og leyfðu frjálsræði þar sem áður voru höft og ófrelsi,en horfa helzt framhjá þeim sem misnotuðu þetta sama frelsi og komu óorði á það.

 

Mín kynslóð er alin upp í konungsríki og þannig minnist ég bernsku minnar. Allt samband okkar við umheiminn voru skipaferðir milli Danmerkur og Íslands og tilhlökkun hverrar viku dönsku blöðin Hjemmet og Familiejournal sem komu með teiknimyndasögurnar.Ein helzta persónan var kafteinn Womb og þegar ömmusystir mín sýndi mér mynd af  föður sínum ,Lárusi sýslumanni langafa mínum , sá ég ekki betur en þar væri þessi sami kapteinn kominn ljóslifandi.Og ég velti því fyrir mér hvernig stæði á því að kapteinn Womb væri langafi minn .

Svo sterk voru þessi dönsku áhrif !

áfram >>

mánudagur
jan.192009

Tygg eg söl, segir hún (Egla)

Örlögin höggva að hjarta mínu

hamslaust og stórt,

hvar er allt sem áður var

svo yndælt og bjart ?

 

Lífið er eins og lítil stúlka

á ljósbláum kjól.

hleypur frjáls að framtíð sinni

með fagnandi sól.

 

En skuggar fylgja,bregður birtu

og býsnir undir haust ,

 

lífið býður ekki uppá

annan betri kost.

 

Nú er höggvið stórt og stöðugt,

stenzt ég þessa raun ?

Sár mín ber ég eins og Egill

og oftastnær á laun.

----

Bíð og ligg í lokrekkjunni

en löng er dvölin,

hver er hinzta hugarbótin

og hvar eru sölin ?

 

 


föstudagur
jan.162009

Eiríks mál

(Ort vegna greinar Eiríks Guðmundssonar í Fréttablaðinu 3.1. ´09)

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega vera ríkir,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega spinna sinn vef eins og kóngulær,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega hlusta á Elton John

ef þeir láta okkur í friði?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega fá útflutningsverðlaun forsetans,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega viðra sig á Bessastöðum,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega gefa ölmusur,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega leika sér á excel.

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega blóta sína guði,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega telja hlutabréfin sín,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna mega þeir ekki

möndla við bókhaldið,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

Hvers vegna skyldu þeir ekki

mega verða gjaldþrota,

ef þeir láta okkur í friði ?

 

---

En vildum við að þeir

létu okkur í friði?

 

Spyrjum leigupennana,spyrjum

Mæðrastyrksnefnd,

 

spyrjum Elton John !

 

föstudagur
jan.162009

Þar sem guð varð til

1.

Hamas,hisbóla

alkaíta,

 

hvað segja þessi

framandlegu orð ?

 

Að dauðinn

sé dýrmætari en lífið

 

að lífið

sé dýrmætast í dauðanum

 

að dauðinn

sé guði þóknanlegri

en lífið ?

 

Að helvíti sé í nánd ?

 

Nei,spyrjum ekki

óþægilegra spurninga,

 

það vekur tortryggni.

 

2.

Þeir herja á börnin

í Gasa,skjóta hendur

og fætur

af börnunum í Gasa

eins og óvitar slíti

vængi

af varnarlausum

flugum.

föstudagur
jan.162009

Farsælda- frón

Hvað er þá orðið okkar starf,

erum við búin að vera,

höfum við fengið í okkar arf

ilm þeirra tómu kera

sem skáldin ortu er að okkur svarf,

en ekkert við því að gera ?

 

Höfum við alltaf gengið til góðs

götuna fram á veginn,

hvort eru götur gamals ljóðs

gleðin sjálf eða treginn,

höfum við arkað okkur til blóðs

og útjaskað hérnamegin ?

 

Lifðum við ekki eins og strá

ýlustrá í vindi,

veröldin réttlega rauð eða blá

og ruglandi hennar yndi,

hrundi síðan guggin og grá

 

guggin og grá

meðan veröldin lék í lyndi.

 

Við erum orðin eins og tré

sem engu laufi fagna,

getum samt sagt að gleðin sé

gjörningur fornra sagna,

en askurinn sjálfur ekkert vé

og allir fuglar þagna.

 

Skulum því binda vonir við

vos sem var allra glíma,

þar hefur sálin flóafrið

sem feigðin er dauðans gríma,

en gangan er sett á hið gullna hlið

eins og göngur allra tíma.


föstudagur
jan.162009

Kreppan

Hún liggur yfir landi eins og skuggi,

sem ljós við kerti slokknar sérhver gluggi

en himinljósin horfa niður og skína

og halda tryggð við langa vegferð þína.

 

Það dimmir mjög og landið liggur undir

lævísri ógn og villu nú um stundir,

allt er það myrkur þyngra en tárum taki,

tökum því vel því seinna kemur Laki.

 

Hnípin var sagt,en horfum fram á veginn,

hvar sem við förum þar er línan dregin,

hamingja þjóðar hennar von sem er

að horfast í augu við Glám í fylgd með sér.


föstudagur
jan.162009

Harmljóð útrásarvíkings

Flestallt hefur gengið mér úr greipum

ég geld þess enn sem var mín stærsta synd,

við mér blasir ógn og áttavilla

því augu mín vóru haldin,dauð og blind.

 

Enginn fær lifað lífi nokkurs annars

né leitað þess sem öðrum fellur til,

því enginn fær notið óskastunda þeirra

sem öðrum er skapað og honum er í vil.

 

Líf mitt var eldur, askan fýkur þangað

sem örlögin blása og veröld okkar deyr,

þangað sem blóm úr auðn og akri vaxa

og ævin breytist í mold og harðan leir.

föstudagur
jan.162009

Framtíðarsýn fundastjórans

Hér stend ég einn og egni öngul minn

á öllum þessum fundum sem ég stjórna,

samt gerist ekkert, allir hugsa um sinn

auma hag og skuldir sinna fórna.

 

Ekkert gerist,enginn segir neitt,

allir flýja brott af þessu sviði,

að vísu hefur enginn annan meitt

því allir hverfa burt í spekt og friði.

 

En jörðin rís og framtíð fersk og ný

mun fagna mér og styðja á allar lundir,

því ég mun áfram reyna að ráða því

sem ráðaleysið megnar nú um stundir.

föstudagur
jan.162009

Kristján fjallaskáld

Skorti í senn trú

til að lifa og trú

til að deyja

                   Matthías Viðar,Dimmir dagar

 

Þitt líf var aðeins ógn og brotinn reyr

og ótal vindar blésu við það strá,

svo myrkvast sólin , menguð jörðin deyr

sem morgundögg við grös og brýndan ljá,

 

en samt var lífið sól og vor í bland

og söngur fugls við himinbláa von

og samt var eitthvað yndælt við það land

sem áðurfyr var kallað gamla frón.

 

En tíminn líður,eitt er alveg víst

að ósinn bíður, líf þitt týndist þar

sem líf þitt þráði ei og allra sízt

og ekkert meir en það sem fyrrum var,

 

því allt var þetta ekkert sem þú vildir

og ennþá síður skildir.

 

 

föstudagur
jan.162009

Saknaðarljóð Dalís

            “Hún getur aldrei dáið”

Dalí 10.júní 1982

Gala er dáin , grundvöllurinn brostinn,

hún gekk í burt með tign sem henni ber,

ég er þá einnig ógn og dauða lostinn

og ást og gleði deyja senn í mér.

 

Hún var mér allt og ást mín fylgir henni

að endalokum þess sem fyrrum var,

þótt sinueldar ævi hennar brenni

í augum mínum, deyr hún líka þar.

 

Svo leggur dauðinn lokahendur sínar

á líf sem engum tekst að vaxa frá,

og allt er hljótt um uppákomur mínar

og allt mitt líf sem brunnið sinustrá.

 

fimmtudagur
des.182008

Farsælt ár

 

..þú heilagi andi,

huggari minn...


Ég lít til þín,þú hjálpar mér og heyrir
mitt hjarta slá við landsins djúpa nið,
lít til þín og örlög mín sem áður
eitt andartak og þessi langa bið
það morgni enn af mildum, nýjum degi
og myrkrið þagni að haustsins fuglaklið,

lít til þin og finn mitt eina athvarf
við opinn faðm sem er þitt gullna hlið.

 

Um leið og ég sendi þeim fjölmörgu sem heimsótt hafa heimasíðu mína óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár,þakka ég þessar heimsóknir og vona þið hafið haft einhverja ánægju af þeim.
Ég læt svo fylgja nýja áður óbirta ljóðasmámuni sem orðið hafa til undanfarnar vikur,enda ærin ástæða til að harma margt af því sem afvega hefur farið í umhverfi okkar,en þá er að horfast í augu við það eins og hverja aðra plágu og gleðjast með arfleifð sem enginn getur tekið frá okkur.
Hún hefur aldrei orðið neinni útrás að bráð,en ætíð staðið fyrir sínu.Hún hefur verið sá arinn sem þjóðin hefur yljað sér við á hverju sem hefur gengið.
Og þótt tízka undangenginna missera hafi sagt annað,er hún enn í fullu gildi,t.a.m. hefur engin þjóð skrifað sig út úr fátækt og blekkingu með annarri eins reisn og það fólk sem trúað var fyrir þessari arfleifð.

Loks vil ég þakka Skólavefnum fyrir samstarfið sem hefur verið mér í senn örvun, upplyfting og hvatning til að leita á nýjar slóðir.Þar hef ég hitt fjölda fólks sem ég hafði engin samskipti við áður en til heimaslóðarinnar var stofnað,en jafnframt vil ég benda á skolavefurinn.is þar sem er mikið efni eftir mig,bæði skrifað og flutt (Skáld mánaðarins).

Vona ég það sé þeim þóknanlegt sem hafa lagt sig eftir ritverkum mínum.

Hlusta.is

Ég vil þá ekki sízt benda á  nýjan vef sem hægt er að hlusta á eða hlaða niður á spiladós (ipod) og tileinka sér hvar sem maður er staddur.
Sjálfur hef ég þannig hlustað á mörg erlend ljóð og allskyns skáldverk sem ég hefði farið á mis við að öðrum kosti..Að mínu mati er ástæða til að fagna þessari nýju tækni og færa sér hana í nyt.Þar hefur verið hlaðið niður eftir mig bæði bundnu og óbundnu máli,skáldsögunum Sól á heimsenda og Vatnaskilum og ljóðabókunum Borgin hló og Jörð úr ægi sem voru einskonar upphaf þessarar löngu ferðar um víðáttur íslenzkra bókmennta.

Ég les heimsendasólina sem áður hefur verið flutt í útvarp og báðar ljóðabækurnar,en Ingólfur Kristjánsson, annar forstöðumanna Skólavefjarins les Vatnaskil,en hún hefur ekki verið flutt áður.

Semsagt , ég fagna þessari nýjung sem hlotið hefur vefslóðina hlusta.is.

Jólagjöf Skólavefjarins í ár verður Hrunadansinn sem birtist á vegum Háskólaútgáfunnar fyrir um þremur árum og fjallar sem einhvers konar forboði um það sem átti eftir að gerast í íslenzku samfélagi næstu misseri.

Ég hef lesið hann í útvarp og Gunnar Eyjólfsson leikari lærði hanna utan bókar og hefur oft farið með hann og víða og var ég viðstaddur slíkan flutning í Rótarýklúbb Reykjavíkur mér til mikillar ánægju,,enda var Gunnari fagnað mikið og lengi fyrir flutninginn.
Ég kann honum beztu þakkir fyrir þessi listrænu tök og hvernig hann hefur komið þessu verki til skila inní samfélagið.
En á Skólavefnum les Ingólfur Kristjánsson  þennan langa brag með jólakveðjum inní kreppuandrúmið sem Mammon skildi eftir í umhverfi okkar.
En vonin er á næstu grösum,auðvitað.Það segir einnig í Hrunadansinum.

P.s.

Ég mun svo bæta við nýju efni á nýju ári,t.a.m. úr dagbókum mínum og einhverju ljóðakyns…

Með kveðjum, Matthías

 

fimmtudagur
des.182008

Á vígvelli siðmenningar VII.

Á vígvelli siðmenningar VII.

 

Nokkrar athugasemdir :


1) 
Ein ánægjulegasta nýja fréttin er sú , að samkv. glænýrri skoðanakönnun trúir nánast enginn orði af því sem stendur í DV.

2) 
Davíð Oddson getur ekki hætt þáttöku í opinberu lífi,því þá mundi Spaugsstofan deyja.Og þjóðin vill ekki missa sína Spaugsstofu !


3) 
Minn gamli kollega , Styrmir Gunnarsson,skrifaði óvænt grein á netið um
Sjálfstæðisflokkinn og fjallaði m.a. um. afstöðuna til Ervrópusambandsins.Hann minntist aðeins á Davíð og að góðu einu.
Fjöldi bloggara lét ljós sitt skína og brást við með hinum undarlegasta hætti.Talaði vart um neitt annað en Davíð !!
Mest eru þetta nafnlausar upphrópanir í stíl hundingja og götustráka og því marklausar,en sýna þó því miður að undir áferðargóðu yfirborði fræðslukerfisins leynist andlegt fátækrahverfi sem ég óttast gæti orðið mesta ógnin við framtíð okkar

 

Áfram >>

 


fimmtudagur
des.182008

Lokuð skel

Lokuð

skel

 

Í náttúrunni eru engar reglur,

því eru þessar reglur fyrir mig

 

í bátnum þínum eru engar neglur,

því eru þessar neglur fyrir þig.

 

þannig er lífið leyndardómur og spurn,

lævís grunur undir harðri skurn.

fimmtudagur
des.182008

Farsældafrón

 

Farsælda-

frón

J.H.

 

Hvað er þá orðið okkar starf,

erum við búin að vera,

höfum við fengið í okkar arf

ilm þeirra tómu kera

sem skáldin ortu er að okkur svarf,

en ekkert við því að gera ?

 

Höfum við alltaf gengið til góðs

götuna fram á veginn,

hvort eru götur gamals ljóðs

gleðin sjálf eða treginn,

höfum við arkað okkur til blóðs

og útjaskað hérnamegin ?

 

Lifðum við ekki eins og strá

ýlustrá í vindi,

veröldin réttlega rauð eða blá

og ruglandi hennar yndi,

hrundi síðan guggin og grá

 

guggin og grá

meðan veröldin lék í lyndi.

 

Við erum orðin eins og tré

sem engu laufi fagna,

getum samt sagt að gleðin sé

gjörningur fornra sagna,

en askurinn sjálfur ekkert vé

og allir fuglar þagna.

 

Skulum því binda vonir við

vos sem var allra glíma,

þar hefur sálin flóafrið

sem feigðin er dauðans gríma,

en gangan er sett á hið gullna hlið

eins og göngur allra tíma.

 

 

fimmtudagur
des.182008

Kreppan

 Kreppan

 

Hún liggur yfir landi eins og skuggi,

sem ljós við kerti slokknar sérhver gluggi

en himinljósin horfa niður og skína

og halda tryggð við langa vegferð þína.



Það dimmir mjög og landið liggur undir

lævísri ógn og villu nú um stundir,

allt er það myrkur þyngra en tárum taki,

tökum því vel því seinna kemur Laki.



Hnípin var sagt,en horfum fram á veginn,

hvar sem við förum þar er línan dregin,

hamingja þjóðar hennar von sem er

að horfast í augu við Glám í fylgd með sér.

fimmtudagur
des.182008

Harmljóð  útrásarvíkings

 

Harmljóð

útrásarvíkings

 

Flestallt hefur gengið mér úr greipum

ég geld þess enn sem var mín stærsta synd,

við mér blasir ógn og áttavilla

því augu mín vóru haldin,dauð og blind.

 

Enginn fær lifað lífi nokkurs annars

né leitað þess sem öðrum fellur til,

því enginn fær notið óskastunda þeirra

sem öðrum er skapað og honum er í vil.

 

Líf mitt var eldur, askan fýkur þangað

sem örlögin blása og veröld okkar deyr,

þangað sem blóm úr auðn og akri vaxa

og ævin breytist í mold og harðan leir.

 

fimmtudagur
des.182008

Framtíðarsýn  fundastjórans.

 

Framtíðarsýn

fundastjórans.

 

Hér stend ég einn og egni öngul minn

á öllum þessum fundum sem ég stjórna,

samt gerist ekkert, allir hugsa um sinn

auma hag og skuldir sinna fórna.

 

Ekkert gerist,enginn segir neitt,

allir flýja brott af þessu sviði,

að vísu hefur enginn annan meitt

því allir hverfa burt í spekt og friði.

 

En jörðin rís og framtíð fersk og ný

mun fagna mér og styðja á allar lundir,

því ég mun áfram reyna að ráða því

sem ráðaleysið megnar nú um stundir.