Árið 1958
29. janúar 1958
Nú er kosningunum lokið. Sjálfstæðismenn eru harla glaðir yfir úrslitunum. Bjarni Benediktsson hefur leikið á als oddi en fagnar þó gætilega. Hann segir að ekki beri að einblína á sigur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík heldur einnig úti á landi þótt þar sé hann ekki eins mikill.
Bjarni er óskaplega duglegur maður og kom það vel í ljós eftir kosningarnar. Daginn eftir talninguna var hann mættur á Morgunblaðinu eldsnemma um morguninn og farinn að skipuleggja viðbrögð blaðsins daginn eftir.
31. janúar 1958
Var heima hjá Pétri Sæmundsen kosninganóttina, ásamt Hrafni Þórissyni, Sverri Hermannssyni og Sigurði A. Magnússyni.
Þegar úrslitin voru kunn skruppum við til Höskuldar Ólafssonar en síðar til Gunnars Thoroddsens, borgarstjóra. Þar var mikill gleðskapur og okkur vel tekið. Gunnar sagði mér að hann hefði alltaf verið bjartsýnn á úrslit kosninganna og var mjög ánægður.
Við þurfum einhvern tíma að tala saman, bætti hann við. Þú þarft að koma hingað í næði. Þá getum við talað um tónlist og skáldskap. Hann virðist hafa sérstakan áhuga á Grími Thomsen, stjórnmálaafskiptum hans og skáldskap.
Sigurður A. vildi ekki koma inn til Gunnars, sagði að borgarstjórinn væri snobb og sér ekki að skapi. Hann var farinn úr bílnum þegar við komum út aftur eftir hálfan annan tíma enda klukkan orðin 7.30 að morgni.
Magnús faðir Sigurðar var svikinn um nýjan bragga sem hann átti að fá og hleypti það þykkju í Sigurð í garð borgarstjóra.
Það er engin baggabraut milli þeirra tveggja, heldur einungis djúp fönn og ófærð.
Kynning á verkum ungra skálda í hátíðarsal Háskólans vakti athygli. Þar var fullt hús. Ég held ungu skáldin hafi í fyrsta sinn fengið dálítið hljóð — og uppreisn fyrir tómlætið. Fullur salur af fólki hlustaði með athygli allan tímann og hafa líklega fæstir haft hugmynd um þennan skáldskap og margir reynt að misskilja hann fremur en skilja.
Sigurði A. mæltist vel, held hann hafi slegið sér upp. Hann er mjög hrifinn af Jónasi Svafár en hrósaði Stefáni Herði mest. Kannski verður Jónas Svafár sá eini sem lifir, hver veit?
Kristbjörg Kjeld las mín ljóð og eitt þeirra, Ást, verður ekki betur lesið. Mér fannst það fallegt í upplestri hennar. Auk þess las hún Borgin hló, Þið komið aftur, og Blóm í júní. Ég hafði gaman af að vera viðstaddur og stóð mig mun betur en Jón Óskar sem lét ekki sjá sig! Þegar við hittumst uppi í Víkingsprenti í fyrradag sagðist hann ekki hafa þorað að vera viðstaddur.
Þar voru þeir Kristján Davíðsson að sýsla við bók sína en ég var að huga að mínu litla kveri. Hitti þar einnig Ragnar í Smára sem var yfir sig hrifinn af kosningaúrslitunum og sagði að ýmsir töluðu um mesta kosningasigur frá 1908.
Hann sagði mér að Tómas ætti að skrifa bók um Kristínu Jónsdóttur en ég sagði honum frá áætlun okkar Valtýs um ævisögu hans. Honum lízt vel á málið og benti á hve Valtýr hefði komið hreinn út úr stjórnmálavafstrinu þrátt fyrir allt. Tók Hriflu-Jónas til samanburðar en bætti við að hann hefði átt slæma vini og mætti vera að það hefði ráðið úrslitum um ófarir hans.
Hvernig væri að ég hefði samtal við Jónas?
Ragnar sagðist hlakka til að lesa Borgin hló þegar hún væri fullprentuð. Þá fyrst væri hægt að átta sig almennilega á henni. Hann sagðist helzt vilja prenta hana í þrjú hundruð tölusettum eintökum og síðan sem vasabók í þúsund eintökum.
Sama er mér.
Hitti Gunnar Dal. Hann er orðinn þjóðvarnamaður. Hann segir að ég vanmeti sig. Það er slæmt að vanmeta fólk en verra að ofmeta það. Gunnar sagðist hafa það heldur skítt í þjóðfélaginu.
Af hverju ferðu ekki á sjóinn? spurði ég.
Þjóðin hefur ekki efni á því svaraði hann.
Ég vissi ekki að Gunnar væri húmoristi en hann hefur breytzt mikið. Við vorum góðir kunningjar en eitthvað höfum við farizt á mis.
Thor Vilhjálmsson sagði víst um síðustu bók Gunnars, Nú verður Sókrates loksins frægur.
Ætla að skreppa til Steins. Ragnar segir mér að hann sé ánægður með kosningaúrslitin.
Fór síðast til Steins með Jóni úr Vör. Þá lék hann á als oddi. Hann hafði mestan áhuga á að fá fréttir af ungskáldakynningunni.
Jú, sagði Jón úr Vör, Sigurður A. Magnússon hrósaði Matthíasi auðvitað, hann getur nú ekki annað svona í næsta herbergi!
Jón sagðist vera óskáldlega vaxinn, svona ákveðinn einstefnumaður eins og hann væri en mótsetningarnar gera menn að skáldum, sagði hann.
Svo bætti hann við, Ég er ekki skáld(!)
Ég fann að hann talaði gegn betri vitund og er að hugsa um hvað þessi athugasemd átti að merkja.. Ég er þó ekki viss um að Jón sé ánægður með sjálfan sig undir niðri því það er stutt í óánægjuna með önnur skáld. Þeir sem eru óánægðir með aðra eru ekki sáttir við sjálfa sig.
Þegar við vorum farnir sagði Jón að Steinn væri mikið skáld en ævi hans ómerkileg, ekki sízt sú árátta að drekka með mönnum sem vildu gefa honum áfengi vegna þess að þeir snobbuðu fyrir honum.
Svo hitt að hafa alla ævi slegið sig til riddara með ómerkilegu snakki.
Jóni finnst Tómas heldur lítill karakter en listfengt skáld.
Um Snorra Hjartarson sagði hann: Hann hefði vel getað verið bróðursonur Jónasar Hallgrímssonar, þetta er allt gamalt sem hann er að yrkja, ég hef verið að rífast um það í bréfum til Hannesar Sigfússonar sem er mjög hrifinn af honum. Mér finnst Snorri líka vera náttúrulaus, þrátt fyrir allar náttúrulýsingarnar bætti hann við. ... Hann ber litla virðingu fyrir skáldskap Hannesar Péturssonar , svo ólíkir sem þeir eru.
Um Hannes Sigfússon sagði hann að hann gæti orðið okkar bezti ljóðaþýðari ef hann sneri sér að því, en ekki ljóðskáld. Hann væri ekki nógu persónulegur til þess, ætti svo auðvelt með að tileinka sér stíl og efni annarra, t.a.m. Eliots í The Waste Land.
Hann sagði að Dymbilvika mundi ekki lifa í íslenzkum bókmenntum. Ég er ekki sammála því.
Loks fór Jón að tala um stjórnmál og boðaði hlutleysisstefnu.
Þú verður að hætta á Morgunblaðinu, sagði Jón úr Vör, ég spái að þú hættir þar. Þú getur ort um borgina, hún bíður þín, en hættu á Morgunblaðinu.
Ég sagði, Er ekki gott að ég og mínir líkar séum á Morgunblaðinu, stærsta og áhrifamesta blaði þjóðarinnar? Getum við ekki gert eitthvert gagn þar?
Jú kannski, sagði Jón er betra að hafa ykkur Sigurð A. á blaðinu en ýmsa aðra en þó getur það líka verið ennþá verra. Þið getið sett glans á óþverra!
Jón vill helzt ég hætti blaðamennsku og fari að kenna bókmenntir við Háskólann. Ég hef haft áhuga á því, að vísu, er að skrifa um Njálu og Grím Thomsen, við sjáum til.
Innblásturinn sem Borgin hló er sprottinn úr er að fjara út.
Ævintýrið á enda.
Við Sigurður A. vonumst til að skáldsaga Guðmundar Gíslasonar (Maríumyndin) verði gefin út hjá Almenna bókafélaginu. Það er fallegur tónn í kaflanum sem ég heyrði. Það gerist lítið nema í stílnum en þar á hún að lifa.
Jón Tómasson skipstjóri tók mig tali og vill ég eigi samtal við Jón Magnússon seglasaumara. Við sjáum til.
Jón sagði mér þessa sögu frá bannárunum:
Jónas pólití var á ferð vestur í bæ þegar hann sér allt í einu hvar strákhnokki nokkur kemur á móti honum með fötu. Hann kallar þá til hans eins og lög gerðu ráð fyrir og segir, Hvað er í fötunni, strákur?
Það er blikk, svarar strákur.
Jónas vindur sér þá að honum, þrífur í treyjuna og segir, Ég spurði hvað væri í þessu?
Það er bara efni sem mamma keypti um daginn og kostaði 1,30 metrinn, svaraði strákur og var nú orðinn hálf smeykur.
Þá varð Jónas pólítí öskureiður og segir, Það er naumast það er kjaftur á þér, drengur.
Strákur fer nú að grenja og svarar lafhræddur, Það er engin furða, pabbi og mamma eru svo fátæk og við erum tíu systkinin, en þau höfðu ekki efni á að kaupa nema níu skeiðar svo ég hef alltaf orðið að borða með sleifinni.
Þá sleppti Jónas pólití stráknum og fór.
12. febrúar 1958
Bjarni Benediktsson fór að tala við mig um stjórnarkosninguna í Heimdalli og sagðist hafa heyrt að eitthvert uppþot væri þar í aðsigi og mundi ég koma þar við sögu. Hann bað mig athuga hvort ekki væri hægt að sameinast um Baldvin Tryggvason. Eftir allmiklar umræður okkar í milli sagðist ég skyldu styðja Baldvin ef honum væri það fast í hendi.
Bjarni var ánægður með það.
Þá fór Bjarni að tala um Pétur Sæmundsen og Sverri Hermannsson. Hann sagði að Sverrir sæist ekki fyrir.
Kappið er meira en forsjáin hjá þessum strákum, sagði Bjarni.
Hann gagnrýndi Pétur fyrir óstundvísi, en Sverri fyrir hörku.
Annars verður fróðlegt að sjá hvað úr þessum strákum verður, bætti hann við.
Hitti Guðmund rukkara hjá Ísafold í dag. Hann sagði að tímarnir hefðu breytzt mikið. Nú væri Reykjavík líflegur bær en áður heldur dauf.
Þá var fátækt allsráðandi,sagði hann. Eitt sinn voru þeir Árni Nikk, rakari hér í bæ, og Jón í Aberdeen að spila upp á eldspýtur. Þegar 10 eldspýtur voru komnar í borð, sagði Árni, Ja, nú fer það að verða spennandi!
Hvað skyldi Ásbjörn Ólafsson stórgrossér segja um það, bætti Guðmundur rukkari við og kvaddi.
Hef verið að skrifa samtal við Kristján V. Guðmundsson. Hann býr á Seljavegi.gáfaður launamaður sem eitt sinn átti sæti í bæjarstjórn.
Hann vann á benzínstöð niður við höfn. Þá sá hann hvar maður kom upp Steinbryggjuna og var valtur á fótunum. Hann fór til móts við hann að hjálpa honum upp bryggjuna og sá þá að þar var enginn annar á ferð en skáldjöfurinn mikli,Einar Benediktsson. Hann hafði verið við drykkju um nóttina í Keflavíkurbáti.
Þegar þeir eru komnir upp í mitt Bankastræti, staðnæmdist Einar og sneri sér að Kristjáni, benti niður að höfn og sagði:
Aldrei hafa Keflvíkingar fengið svona gest fyrr!
Hitti Júlla skóara um daginn. Allgott hljóð í honum. Hann sagðist ekki mundu kvænast ef hann ætti að lifa ævi sína aftur , heldur fljúga eins og fiðrildi milli blómanna.
Þá vildi ég aðeins kynnast sparihliðinni á kvenfólkinu, sagði hann. Það er svo stuttan tíma í blóma.
Þeir eru ekki alveg ólíkir Júlli skóari og Magnús, faðir Sigurðar A. Heimsóttum hann um daginn. Hann býr með fjölskyldu sinni í ömurlegu herbraggaskrifli í Múlakampi.
Ég hafði orð á því og hvað rakt væri í greninu.
Nei nei, sagði Magnús, þetta er ekkert. Þrengra verður það í gröfinni.
Og rakara(!)
Kannski get ég notað þetta sem lokaorð í samtali við Magnús,ef til kæmi. Mér líkar vel við hann. Hann er á móti atómskáldum, að vísu, og vill helzt við lesum Þorskabít.
Hann tók okkur vel.
Fór að yrkja aftur og lauk í gærkvöldi við kvæðið Í marz. Svo er ég byrjaður að yrkja kvæði um Sakiet Sidi Youssef,borg í Túnis sem Frakkar réðust á af mikilli grimmd.
Það eru ósköp hvernig maðurinn lætur. Drepur jafnvel börn eins og flugur. Vona að kvæðið verði sæmileg áminning.
En handa hverjum?
Ekki drepum við börn.
Þeir sem helzt þyrftu að lesa það, eiga aldrei eftir að sjá það.
Hitti Hörð Ágústsson í gær. Við gengum frá útlitinu á Borgin hló. Hörður sagði mér að bókin hefði unnið á við síðari lestur.
Það eru meðmæli, sagði hann.
Ég var harla ánægður með það.
15. febrúar 1958
Var í boði í rússneska sendiráðinu í gær. Þáði þangað boð í fyrsta skipti en þó að undangengnu samtali við Bjarna Benediktsson sem sagði að sjálfsagt væri að við hefðum tengsl við Rússana, en þó í hófi.
Skemmti mér ágætlega.
Drakk vodka með kamstjakarækjum.
Sendiherrann vingjarnlegur, fullorðinn maður.
Hljóðlátur.
Veit samt ekki hvað leynist bakvið gleraugun. Menn nota ólík gleraugu.
Engir tveir menn sjá neinn hlut eins.
Þegar við kvöddum gekk sendiherrann með okkur fram að dyrum. Á vegg í forstofunni er mynd af rússnesku skáldi sem ég man ekki hvað hét.
Sendiherrann stöðvaði í ganginum, benti á myndina og sagði, Hann var einnig diplómat. Hann starfaði í Persíu og dó þar. Hann var drepinn í skrílslátum, ekki ósvipuðum þeim sem hér urðu 1956.
Svo brosti sendiherrann til mín og ég vissi hvað hann var að fara. Hann var að rifja upp viðbrögðin vegna uppreisnarinnar í Ungverjalandi.
Enginn var drepinn hér, sagði ég.
Og kvaddi.
Ég talaði dálítið við Kugjenkov,fréttaritara Tass hér á landi, enda þekkjumst við orðið ágætlega, hann og kona hans hafa komið heim til okkar Hönnu.
Talaði einnig við Pronin, fyrsta ritara sendiráðsins, sem ég hitti í Keflavík þegar Gromykov kom sællar minningar.
Pronin var ákaflega almennilegur í gær en áður hafði mér ekkert litizt á hann.
Samtal okkar hófst með þessum orðum: Höfum við ekki sézt áður, er það misskilningur hjá mér? spurði Pronin.
Nei, sagði ég. Við hittumst á Keflavíkurflugvelli.
Pronin: Jú, alveg rétt, þegar Gromykov kom.
Ég: Já. Og þá ýttuð þér mér til hliðar af mikilli hörku.
Pronin (fer hjá sér) : Nei nei, hvaða vitleysa er þetta. Það hlýtur að vera einhver misskilningur. Ég hafði þvert á móti mikinn áhuga á að þér gætuð talað við herra Gromykov en hann var á hraðri ferð .Og svo var hann ákaflega þreyttur...
Eftir þessa afsökun féll samtalið í ljúfa löð.
Þeir tala mikið um tunglið. Þeir sýna myndir um tunglferðir. Þeir ætla að verða fyrstir til tunglsins.
Sama er mér.
Kannski fara þeir þangað 1980, ég veit það ekki. Hver sem er getur farið til tunglsins fyrir mér. Ég ætla ekki þangað.
Ég ætla í Öskju.
Ásmundur blaðamaður á Þjóðviljanum stakk upp á því við Kugjenkov að Rússar gæfu fræðslumálastjórninni kvikmyndir um tunglferðir svo að hægt væri að sýna þær í barnaskólum landsins. Ásmundur er tillögugóður maður.
Ræddi nokkuð við Loft Guðmundsson,blaðamann á Alþýðublaðinu, í fyrsta skipti. Mér gazt vel að honum. Hélt hann væri leiðinlegur, en svo er ekki. Hann talar ósköp lágt og lítur ógjarnan á mann til að byrja með en hefur svo ekki af manni augun og vill augsýnilega að maður horfist fast í augu við hann.
Bjarni segir að þessi lýsing sé rétt. Þetta sé aðferð Lofts til að bjóða manni dús!
Loftur sagði mér sögu um séra Bjarna. Hann var búinn að fá sér einn lítinn í hádegisverðarboði. Séra Árni Sigurðsson, Fríkirkjuprestur , var þarna líka og drakk bara appelsín.
Þegar séra Bjarni sér hann hella appelsíni úr þriðju flöskunni, gengur hann til hans , setur höndina yfir glasið og segir, Séra Árni, farðu nú varlega, þú veizt þú átt eftir að jarða í dag!
Fórum niður á Mogga og sátum yfir glasi til hálf þrjú, ásamt Ólafi K. Magnússyni ljósmyndara, Hauki Eiríkssyni prófarkalesara og Sigurði A. Magnússyni sem hafði verið á vakt.
16. febrúar 1958
Kristján Gumundsson er ánægður með samtalið. Hann gaf mér ginflösku í ritlaun! En ég drekk ekki gin.Prófaði það einu sinni í Menntaskóla,það var eins og að drekka blásýru.
Lifði þó af.
Kristján er gáfaður alþýðumaður. Ég hef mesta ánægju af að tala við slíkt fólk.
Kristján heldur eins og margir sem lentu í pólitíska rifrildinu fyrr á öldinni að það hefði þurft að bera upp málefni Íslands í danska ríkisráðinu , ef Uppkastið hefði verið samþykkt í kosningunum 1908. En það er að sjálfsögðu rangt. Læt það þó standa til að lýsa hvernig áróðurinn boraði sig inn í gáfað fólk, en hrekklaust.
(Þetta ákvæði var kallað fleygurinn og var eins og steinn í þjóðarskónum.Íslendingar vildu ekki bera upp sín mál í danska ríkisráðinu,heldur við konung einan. Hölt þjóð á öðrum fæti var ekki til mikilla afreka.Í raun voru þeir konungssinnar og hugsuðu ekki um lýðveldi eða forseta.
Fleygurinn hefði fallið brott,ef Uppkastið hefði verið samþykkt.En það var fellt og Íslendingar þurftu áfram að bera upp mál sín við konung í danska ríkisráðinu.
Gamli Sjálfstæðisflokkurinn átti einkum þátt í þessum málalyktum og það lenti á Sigurði Eggerzt sem ætlaði að sniðganga ríkisráðið,þegar hann varð ráðherra 1915,en kóngur tók það ekki í mál.
Sigurður hrökklaðist þá heim og sagði af sér.Þá var sagt í pressunni sem oft var djöfulleg á þeim tíma,Djúpir eru Íslands álar,en munu þeir þó væðir vera!
En þetta breyttist með fullveldinu 1918 ).
Ragnar sagði mér í dag að hann hefði hitt Kristján Davíðsson listmálara. Ræddu um bók þeirra Jóns Óskars.
Þá sagði Kristján, Þú verður að hafa stóra mynd af Jóni, ég held ég sé búinn að kæfa hann(!)
Sá Glerdýrasafnið á sunnudag.
Flott(!)
5. marz 1958
Lenti í Naustinu . Hitti Helgu Valtýsdóttur leikkonu , og mann hennar,Björn Thors forstjóra FÍB.
Þekki hann lítið.
Þau buðu mér heim um kvöldið, ásamt Gunnari Dal. Það var skemmtilegt og dramatískt kvöld.
Helga gagnrýndi Gunnar fyrir að tala lítið við Valtý,föður sinn. Gunnar afsakaði sig.
Ég sat og hlustaði á.
Um tíma hitnaði í kolunum. Ég fékk mér epli.
Þetta var góð rispa eins og laxering.
Helga vill ég skrifi um Valtý,föður sinn,við sjáum til.
Þegar við Gunnar Dal kvöddumst um nóttina, sagði hann, Við skulum vera vinir og viðurkenna að við séum báðir skáld.
Tókumst í hendur upp á það.
Fór í ljóðaþátt hjá Knúti Bruun og Nirði Njarðvík. Honum verður útvarpað eftir hálfan mánuð. Talaði dálítið ögrandi um gamla skáldskapinn. Það veitir ekki af að hrista svolítið upp í fólki. Kannski er þetta bara moldin sem rýkur í logninu.
Las fjögur kvæði inn á bandið, Æska í svörtum sokkum, Kirkjusmiðurinn á Rein, Vindur um nótt og Dans.
Hitti Jón Dan um daginn. Ætlum að fara með Hannesi Péturssyni á kenndirí eitthvert kvöldið. Jón er yndæll maður. Hann sagði mér að hann hefði skrifað söguna sem Almenna bókafélagið er að gefa út á þremur vikum en síðan lagfært hana.
Hann bar undir mig kvæðið um hestinn (Dauðann), allgott.
Las ljóðabók Jóns Óskars í gærkvöldi. Fann góð kvæði í bókinni....
15. marz 1958
Borgin hló kom út í gær. Ragnar bauð mér í mat á Nausti og Sigurður A. kom með. Ragnar vildi borga mér fimm þúsund krónur fyrir bókina, "ekki sem greiðslu heldur viðurkenningu fyrir fyrstu bók", eins og hann komst að orði.
"Þetta eru engir peningar", bætti hann við.
Ég sagðist enga peninga vilja en ef hann vildi vera svo góður að borga viðgerðina á bíldruslunni minni, kæmi það sér vel.
"Komdu bara með reikninginn", sagði Ragnar.
Það eru ágæt málalok. Viðgerðin kostar tvö til þrjú þúsund krónur og þarf ég á þeim peningum að halda.
"Ég ætla að kaupa af þér Morgunblaðsviðtölin", sagði Ragnar. "Þú færð nokkra tugi þúsunda fyrir þau", bætti hann við. "Við gerum sölubók úr samtölunum".
Sennilega vill hann að þau komi út næsta haust, ég veit það ekki. Ég hef ekki áhuga á að gefa þau út,að minnsta kosti ekki strax.
Við sjáum til.
Ragnar bað mig um að sjá um afmælisbók til heiðurs Steini á 50 ára afmæli hans, ljóðabók ungra höfunda. Kvaðst hafa heyrt á Steini að það mundi gleðja hann.
Hitti Stein.
Fór með Borgin hló til hans. Hann var glaður og reifur. Hafði orð á því að ég hefði tekið með kvæðið um Jóhann Sigurjónsson en það fer ekkert í taugarnar á honum, það finn ég.
Steinn minntist á bók Jóns Óskars. Hann hefur einhverjar áhyggjur af frönskum áhrifum í ljóðum hans.
Talaði um það.
Íslenzka er annað mál en franska, sagði hann... Held þó hann beri hlýjan hug til Jóns.
Haldið upp á útkomu Borgarinnar með rauðvínshófi á Mogga. Þetta er eins og að eiga afmæli. Allir eru að óska manni til hamingju, ég hef jafnvel fengið blóm!
Pabbi og mamma taka þátt í þessari hátíð!
Um kvöldið komu Jón Dan, Hannes Pétursson og Sigurður A. Magnússon heim til okkar Hönnu. Það var ákaflega skemmtilegt.
Þeir fóru um 6-leytið.
17. marz 1958
Fór með Halla niður á Höfn. Tók ljósmyndir af sjóurum. Fékk þorsk og lifur í staðinn.
4. apríl 1958 – föstudagurinn langi
Þá er ég kominn heim af Landakoti eftir botnlangaskurðinn. Merkileg reynsla að liggja á spítala. Maður kynnist nýjum hliðum á lífinu, heimi út af fyrir sig. Í þessum heimi getur verið lúxus að snúa sér á hægri hliðina, hjálparlaust.
Öll takmörk eru afstæð í lífinu.
Sumir keppa að heimsfrægð og hafa tiltölulega lítið fyrir að ná henni. Aðrir keppa að því að komast fram úr rúminu og hafa tiltölulega mikið fyrir því.
Halldór Hansen læknir er yndæll maður. Hann skar mig upp. Hann segir að guð hafi gert naflann handa læknum til að raða klemmunum í.
Systir Ermensína er ágæt og tók því alltaf vel þegar við stríddum henni. Er að hugsa um að skrifa samtal við systur Fullbertu þegar ég kemst á lappir.
Hún er sérstaklega skemmtileg kona.
Ágætir karlar á stofunni, Davíð Stefánsson bóndi á Fossum í Landbroti, Sigurlaugur bóndi á Ytri-Hóli, um Hvolsvöll, og Jón skattstjóri, Kópavogi.
Þeir voru að reyna að gera grín að atómsskáldinu sem hafði verið að kúgast eftir skurðinn.
Þegar uppköstunum linnti glennti ég upp skjáinn,reis eitthvað upp í rúminu og orti um þá níð í hefðbundum stíl.
Þá hrukku þeir við. Eftir það fóru þeir að taka mark á mér.
Jón Ingvarsson, 61 árs gamall verkamaður, stórslasaðist í kolabing og var fluttur í spítalann. Dr. Bjarni Jónsson gerði á honum heilaaðgerð.
Jón var í lífshættu þegar hann var fluttur inn til okkar um nóttina. Það var vakað yfir honum.
Við sváfum lítið sem ekkert. Undarleg tilfinning að búast alltaf við dauða mannsins í næsta rúmi.
En dr. Bjarni bjargaði lífi Jóns.
Þessir læknar eru einsog bæn í framkvæmd.
Þannig eru einnig lyf eins og pensilín. Kraftaverk sem forsjónin gefur okkur til að lina þjáningar okkar og kvíða.
Steinn liggur á stofu tíu. Höfum talað margt saman. Held hann geri sér ekki grein fyrir að hverju stefnir...
12. apríl 1958
Er að jafna mig eftir skurðinn. Sé það æ betur að maður á helzt ekkert að gera. Öll þessi vinna, öll þessi löngun að gera eitthvað sem ekkert er!
Maður hefur kannski aldrei lifað þegar öllu er á botninn hvolft(!) Svo ganga menn í barndóm og lifa sjálfa sig .
Eins og Hannes Hafstein.
Hef verið að lesa bók Gerd Griegs um norska skáldið Nordahl Grieg, mann hennar. Steinn gaf mér bókina um leið og hann gretti sig. Hann hafði fengið hana áritaða frá leikkonunni.
Vangavelturnar um það hvort kennarar hafi sál eru þó dálítið skemmtilegar. Og ef þeir hafi sál, þá hafi þeir einungis sál eftir hádegi!
Einhvern tíma hefði þetta þótt matur í menntaskóla.
Ljóðunum mínum er misjafnlega tekið, svo og viðtalinu í útvarpinu. En allt hefur þetta vakið einhverja athygli. Allir tala um bókina við mig, ég er orðinn hálf leiður á því. Áhugi minn á bókinni hefur minnkað stórlega eftir að hún kom út.
Er byrjaður á nýju verkefni og hef hugann við það.
Sum kvæðin eiga rætur í legunni á Landakoti. Það var annars einkennilegt að mér datt aldrei dauðinn í hug, þegar systir Ermensína var einhver staðar nálæg.
Daginn áður en ég kom í spítalann dó 45 ára gamall formaður af Suðurnesjum í sama rúmi og ég fékk til umráða. Aflakóngur úr Keflavík sem hét Þorsteinn, sögðu þeir félagar mínir. Hann fékk krabbamein í lifur.
Það var víst óttalegt að fylgjast með helstríði hans og hafði mikil áhrif á þá.
Minntust oft á það.
Það hafði djúp áhrif á mig, ekki sízt lýsing þeirra á því , þegar lík hans var vafið inn í blátt álafossteppi og flutt burt.
Þetta er efni eins kvæðanna. Það kom úr undirvitundinni, fullmótað.
Sigurður A. kom til mín með nýtt kvæði sem hann orti á 30. afmælisdegi sínum , sl. mánudag. Hann var sjálfur ánægður með kvæðið og ég einnig, en gerði þó lítilsháttar athugasemd við fyrstu línu þriðja erindis: Ég bið um hold...
Það getur ekki staðið svo.
Finnst líkingar Sigurðar að vísu allsvakalegar á köflum og gæti ekki notað þær í mínum ljóðum, þær eru ekki nógu ljóðrænar og skemma andann í kvæðinu.
Finnst mér.
En mínum ljóðum hæfir víst annað en hans kvæðum, eins og gengur.
Finnst þetta kvæði betra en þau sem eiga að vera í væntanlegri ljóðabók hans.
Sigurður kallar þetta kvæði Að enduðum leik.
Árna niðursetningi þótti gott brennivín og tóbak en það var ekki auðfengið fyrir niðursetninga í Skagafirði fyrir aldamót.
Eitt sinn kom hann á bæ nokkurn þar í sveit og var tekið með kostum og kynjum.
En hann langaði í tóbak og brennivín og fór að leita að því í búrkistunni.
Þá kom húsfreyja að honum og spurði hvað hann væri eiginlega að gera.
Hann svaraði: "É- e-er að leita að gráu merinni minni!"
Menn eru alltaf að leita að einhverju á vitlausum stöðum.
Hitti Ragnar Jónsson í fyrradag. Hann var á leiðinni suður í Fossvogskapellu að taka litmynd af Ásgrími Jónssyni í kistunni. Kom þó of seint því kistunni hafði verið lokað.
Ég þakkaði guði fyrir að svo var!
Áhugamál Ragnars eru beggja megin landamæranna.
Skruppum síðan til Steins sem býr á næstu grösum í dalnum.
Sátum hjá honum góða stund. Það lá ágætlega á honum en hann er leiður yfir veikindum sínum og skilur ekki "hvað helvítis bólgan er þrálát".
Hittum Guðmund Gíslason. Hann er að ljúka við skáldsöguna sína.
Sigurður A. hefur skrifað ritdóm um Þórberg sem birtist bráðum í Morgunblaðinu. Skemmtilegur dómur. Sigurður er aldrei hundflatur fyrir frægum höfundum ,en hann er sanngjarn og góður ritdómari.
Mér líður vel.
Halli dafnar og þroskast eins og fallegt lítið blóm. Dálítið vandmeðfarinn því að tilfinningalíf hans er næmt og viðkvæmt.
Get ort þegar mér líður vel.
Og nú líður mér vel.
20. apríl 1958
Fórum í síðdegisdrykkju til Gylfa Þ. Gíslasonar í ráðherrabústaðnum í gær í tilefni af 60 ára afmæli Blaðamannafélags Íslands. Það var ágætt boð. Jökull Jakobsson sagði mér frá Íslendingi sem sagðist hafa búið á Hótel Eingang í Berlín!
Guðbrandur í Áfenginu sagði mér að hann væri á förum til Ameríku. Hann hefði verið niðri í banka að skrifa ávísun upp á þúsund krónur.
“ Þá tautaði maður fyrir munni sér setningu í stíl við gullkorn Árna Pálssonar, Hví má maður ekki halda áfram að skrifa þessi blessuð núll?"
Svo kreppti Guðbrandur báða hnefana og stóð á tánum af geðshræringu.
Nordal sagði mér þessa sögu þegar ég hitti hann síðast:
Vinur Steins kom til hans.
Steinn sagði, Nú fer þetta að lagast.
Jæja, svaraði vinurinn, uppveðraður og hélt að Steinn ætti við heilsu sína.
Já, svaraði Steinn, ég fékk í morgun blóð úr henni Elínborgu Lárusdóttur!
Hafði gaman af að tala við Arndísi Björnsdóttur leikkonu á miðvikudag. Þegar hún hafði lesið yfir samtal mitt við hana, sagði hún, Þér gerið mig miklu fyndnari en ég er.
Ég svaraði, Nei, nei, maður veit sjaldnast af því sjálfur hvað maður er fyndinn!
Sá Gauksklukku Agnars Þórðarsonar á fimmtudag. Leikritið er heiðarleg tilraun og mér finnst dómur Ásgeirs Hjartarsonar ósanngjarn þegar hann segir að hróður Agnars hafi ekki vaxið.
Síðari þátturinn miklu betri en sá fyrri. Í honum er skáldskapur og þungi. Ætla að hafa samband við Agnar um Gauksklukkuna í næstu viku og eiga samtal við hann..
Nordal er allánægður með stykkið. Hef heyrt að Kiljan vilji láta þýða það.
En maður heyrir svo margt!
Gott veður undanfarið.
Kominn aftur á kaf í blaðamennsku. Æ, hvað mig langar að taka mér langt frí, vera laus við kvíðann og spennuna og fá tóm til að skrifa leikrit og yrkja nýja bók.
En samtölin halda mér við Morgunblaðið. Án þeirra væri ég sennilega hættur.
Skemmtilegt að skrifa bókina um Njálu. Margt eftir, en verkinu miðar áfram.
Góð útvarpsdagsskrá um Hannes Pétursson á mánudagskvöldið. Þar var kunnátta og mýkt sem ég kann vel við.
Hannes svíkur engan.
Hann er hefðbundinn estetiker og þannig tillitssamur við umhverfið. Mönnum líkar það vel,svo bráðger sem hann var.
Held hann eigi eftir að verða ákaflega vinsæll með tímanum.
Því hefur aldrei verið spáð fyrir mér að ég yrði vinsæll af mörgum, þvert á móti. Spákona á Siglufirði sagði ég yrði vinsæll af fáum.
Það er ágætt.
Ég vil ekki vera fugl á hendi. En kannski verður maður vinsæll eftir dauðann, hver veit?
Held samt ég sé vinsæll af samtölunum. Það er ágæt tilfinning. Menn eru sífellt að þakka mér fyrir þau. En ég verð bara vandræðalegur.
Mamma sagði mér um daginn að hún hefði beðið guð um að ég yrði ekki atómskáld og einhver utangarðsmaður.
Vonandi verður hún bænheyrð.
1. maí 1958
Undarleg er þessi veröld. Í dag var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins skeleggasti forsvarsmaður verkalýðsins í ræðu á Lækjartorgi. Það var Bergsteinn Guðjónsson.
Mér fannst ræða hans ágæt. Hún bætir fyrir margra ára syndir Sjálfstæðisflokksins í verkalýðsmálum.
Verkalýðurinn er bezta kompaní sem til er. Og í pólitík er gott að hafa hann með sér. Þá er einnig betra að hafa tímann með sér.
Í dag hefur Sjálfstæðisflokkurinn bæði verkalýðinn og tímann með sér.
Hannibal (Valdimarsson) og Hermann (Guðmundsson í Hafnarfirði) geta þakkað sér það!
Var um daginn kosinn í stjórn Þjóðvinafélagsins. Það er ákaflega mikil virðingarstaða! Mér skilst félagið sé ekki til!
Bjarni Ben. spurði mig hvort ég vildi taka þetta að mér.
Ég svaraði því neitandi.
Þá sagði Bjarni grafalvarlegur , Matthías minn,það þýðir ekki að vera með nein merkilegheit!
Þar með var málið afgreitt.
Bjarni sagði brosandi um leið og hann fór, Það er rétt ,þú hefur ekkert róið í okkur að komast í stjórnir.
Bjarni er mér mjög vinsamlegur. Var í 50 ára afmæli hans í gær. Það var skemmtilegt að heimsækja þau Sigríði. Alltaf gaman að koma í Háuhlíð.
Jón á Akri flutti vísu.
Þá sagði Tómas, Þegar Jón fellur frá deyr þessi tegund skáldskapar. Ég get ekki hugsað mér að það verði ort ferskeytla á Íslandi eftir hans daga .
Átti gott samtal við Tómas í afmæli Bjarna. Ég var víst eitthvað uppáþrengjandi í byrjun, en hann lækkaði í mér rostann.
Fór létt með það.
Hann sagðist vera Sigurði A. reiður fyrir að nefna sig í sama ritdómi og hann væri að skrifa um bók eftir mig.
Þetta var gott samtal.
Tómas tekur mér alltaf vel þegar við hittumst.
Fór í Listamannaklúbbinn um kvöldið. Þar var rætt um leikrit og gagnrýnendur.
Lítil vizka en mikið rauðvín.
Geir Kristjánsson stóðst jafnvel ekki mátið og lýsti því yfir að leikarar lærðu illa texta sína og klæmdust svo á þeim.
Við hleyptum samkomunni upp í lokin. Kvöldið varð víst engum til sóma.
24. maí 1958
Eitt vissi ég þegar við kvöddum Stein á sunnudag; að hann ætti oft eftir að tala við þjóð sína og hún að leita til hans, þótt hann hefði kvatt okkur að eilífu þarna í sjúkrastofunni.
Síðustu orð mín við hann voru þessi, Vertu blessaður Steinn og hafðu það alltaf gott.
Hann leit á mig þessum brostnu augum í innföllnu andliti og sagði, Vertu blessaður, Matthías minn, og hafðu það sjálfur gott(!)
Auðmjúkur þakka ég fyrir að hafa kynnzt honum, virt hann, já og þótt vænt um hann. Hann hefur sýnt mér einstæða hlýju og vináttu.
Þegar ég kom til Steins á mánudag var ég á leið til séra Friðriks Friðrikssonar að eiga við hann samtal. Það birtist í dag og ég vona það hafi heppnazt.
Lagði höfuðáherzlu á sálrænan bakgrunn að starfi hans. Þessu lýsa bezt samskiptin við Friðrik, föður hans, og hvernig hann þráði umhyggju hans, en fékk ekki. Þess vegna sneri hann sér að drengjunum þegar hann var sjálfur orðinn fullorðinn og átti eitthvað að gefa.
Varð að lesa ævisögu séra Friðriks til að skilja hann og fá eitthvað nýtt fram í okkar viðræðum.
Það var skemmtileg lesning.
Séra Friðrik er einhver stórbrotnasti persónuleiki sem ég hef kynnzt. Hann sagði mér að hann hefði elskað Sigríði ömmusystur mína Blöndal. Hana fékk séra Bjarni Þorsteinsson á Siglufirð.Sr.Friðriki sagði hann hefði heldur borið kala til hans, a.m.k. ekki þótt mikið til hans koma.
Þegar ég hafði lesið samtalið fyrir hann fullskrifað sagði hann við mig, Mér finnst þetta ekki hafa verið neitt venjulegt blaðasamtal, það ristir dýpra. Mér hefur þótt gaman að kynnast þér. Það hef ég ekki sagt áður við blaðamann.
Samt veit ég að þeir Valtýr eru miklir vinir. Og Valtýr hefur skrifað um hann af nærfærni og skilningi.
Séra Friðrik metur líka Valtý mikils.
Séra Friðrik sagði mér að hann hefði komið til Siglufjarðar fullorðinn maður. Honum hefði verið boðið að messa þar.
Séra Bjarni tók á móti honum.
Séra Friðrik spurði hver yrði við orgelið.
Ég veit það ekki enn, sagði séra Bjarni.
Prestsfrúin? sagði þá séra Friðrik.
Hún er veik, sagði séra Bjarni.
Þegar hann gekk svo inn í kirkjuna til að messa, sat Sigríður Blöndal við orgelið.
Séra Friðrik þótti vænt um það.
Ungir stúdentar höfðu þeir séra Bjarni verið heimilisvinir á Kornsá í Vatnsdal þar sem Sigríður og þau Blöndals-systkin ólust upp.
Séra Bjarni bar efra skjöld í baráttunni um hjarta sýslumannsdótturinnar. Þá ætlaði séra Friðrik að kasta sér fyrir borð á leið til Kaupmannahafnar, eins og segir í ævisögu hans.
En hann hætti við það því að guð hafði ætlað honum mikið hlutverk.
25. maí 1958
Steinn dó í kvöld.
21. desember 1958
Hef rætt við Þórberg undanfarið. Kemur betur í ljós síðar. Þórbergur er einhver heilsteyptasti, lítilþægasti og heiðarlegasti listamaður sem ég hef kynnzt. Kommúnismi hans er fögur hugsjón sem Krútsjov og Kadar hefðu gott af að kynna sér.
Veit ekki hvernig sjálfstæðismenn taka samtölunum við Þórberg, en mér kemur það raunar ekkert við. Ef stefna þeirra þolir ekki þessa litlu bók, þá eru þeir einskis virði.
Bjarni Ben. beitti sér fyrir því um daginn að ég fengi sjö þúsund króna heiðurslaun, eins og hann sagði, fyrir störf við Morgunblaðið á þessu ári.
Hann hefði getað látið það vera.
Sigurður A. skrifar góðan dóm um sögu Guðmundar Gíslasonar.
Guðmundur er reiður út í AB vegna þess þeir létu hann greiða vélritun handritsins. Vonandi rennur honum reiðin þegar ritdómur SAM birtist í Morgunblaðinu.
Þetta verður víst jákvæðasti dómur sem Sigurður hefur skrifað. Margir munu vafalaust segja að vinátta þeirra liggi til grundvallar, en ég veit betur. Sigurður skrifar einungis eins og honum finnst og hann er hrifinn af bók Guðmundar.
Helgi frá Brennu,einn þekktasti ÍR-ingur landsins og upphafsmaður Víðavangshlaupsins, hringdi til mín í morgun. Hann sagðist hafa hitt Hauptman Andersen sem var yfirmaður á Íslands Falk þegar hann kom hingað 1918 með sambandslaganefndina dönsku.
Hann lýsir þessum samningaviðræðum með öðrum hætti en Þorsteinn M. Jónsson, sagði Helgi.
Ég hefði gaman af að hitta Andersen. Hann býr víst í Gentofte.
Síðan fór Helgi að tala um hús í Reykjavík og sagði að Ingólfshvoll væri elzta steinsteypta húsið þar.
Annars skiptir það engu máli, bætti Helgi við, hvort Ingólfshvoll er t.a.m. eldri en Landsbankinn, steyptur eða hlaðinn. Aðalatriðið er að Landsbankinn sé hlaðinn þegar ég kem að biðja um víxil!
Eggert Stefánsson sagði mér að hann kæmi heim til Íslands til að gera landið hamingjusamt. Hér væru ljósin alltaf að deyja inní myrkrið.
Við höfum haft menningu, sagði Eggert, en aldrei siðmenningu.
Mér varð hugsað til Sturlunga-aldar.
3ja í jólum 1958
Fór til Þórbergs í gær. Þegar ég kvaddi sagði hann brosandi við glerdyrnar sem Nína málaði til að gera inngönguna í íbúð þeirra Mömmugöggu sem hátignarlegasta:
Þú ert skæður(!) Ég hleypi þér ekki austur fyrir Breiðamerkursand(!) Og Almannaskarð er heilagt(!) Ég verð að gæta þess vandlega að þú takir ekki allt innan úr mér.
Við erum búnir að ákveða að bókinni ljúki á bréfi Þórbergs til mín. Það yrði skikkanleg reisn yfir slíkum endi. Hann segir að bréfið muni auka á orðstír minn og svo njóti ég þeirra forréttinda að fá að skrifa það sjálfur!
Jón Dan hringdi til mín í gær. Hann er orðinn ríkisféhirðir, vill samt ekki láta hampa því.
Hann vill vera skáld.
Jón sagðist vera búinn að lesa Maríumynd Guðmundar Gíslasonar, Gangrimlahjólið eftir Loft Guðmundsson og síðustu bók Jóhannesar Helga.
Þetta snertir mig sáralítið, sagði Jón. Annað hvort er ég orðinn vitlaus eða þeir.
Hann var aftur á móti hrifinn af sögu Indriða G. Þorsteinssonar í jólablaði Tímans.
Að vísu hemingwaysk áhrif, sagði hann, en hann hefur vald á þessum stíl.
Stefán Hörður skrapp niður á Morgunblað fyrir jól. Hann hrósar mér sérstaklega fyrir Galdra-Loft hinn nýja.
Vill helzt lesa hann í útvarp
Kvæðið verður að vera í afmælisbókinni um Stein, sagði Stefán Hörður.
Held þetta hafi verið einhver diplómasía hjá Stefáni Herði,hann á til ólíkindi.
Þegar ég heyrði fyrst af honum,var hann eitthvað á vegum Steins.
Smiður,sagði Steinn.
Hann væri eitthvað að dytta að hjá sér.
Nefndi ekki skáldskap.
Það hefur mér fundizt einkennilegt.
En þetta er flókin veröld.
Stefán Hörður sagði að Jónas Svafár kynni ekki að ríma og yrði að fá aðstoð til þess.
Hann hefði ekki brageyra.
Hann er ekkert upprifinn yfir kveðskap Jónasar Svafárs en innst inni finnst mér hann hafa dálæti á Jónasi og sumu í skáldskap hans.
Ég er hissa á því hvað hann segist vera lítið hrifinn af ljóðum Einars Braga,hélt hnífurinn kæmist ekki milli Birtingsskáldanna.
En Einar hefur alveg staðið fyrir sínu,finnst mér.