Árið 1983


17. mars 1983

Fékk svo hljóðandi miða frá Halldóri Laxness í dag:

Gljúfrasteini, 17. mars 1983.

Kæri Matthías, þakka hjartanlega fyrir safn þitt af fallegum dálkum. Það er einmitt sem okkur vantar í blaðamenskunni: dálkahöfundar. Oft virðist manni að þeir sem hér taka sér sæti hinna dýrtborguðu menníngardálka “understrecket” (kólumnistar) séu asnar og sveitahlunkar. Það þarf endilega að fara að hefja kólumnistana til virðingar (eða a.m.k. athuga hvort þeir séu til á Íslandi).

Þú fyrirgefur að ég fæ aungva skynsamlega lausn á þessu þjóðsaungsmáli. Íslendingar virðast ekki vita hvað þjóðsaungur sé fremur enn þeir vita hvað dálkar eru í dagblaða verkinu. Hvað á að gera við þjóð sem er svona ókunnug í heiminum? Hjartans kveðjur, Halldór.

Síðan bætir Halldór Laxnes við, Þakka innilega þína gömlu samtalsbók við mig.

Ég þarf víst ekki annað eða meira veganesti næstu misserin!

Hann hefur svo oft þakkað samtalsbókina að hún er fyrir löngu fullþökkuð.

Skeggræðurnar komu út 1972.

Ég hef ávallt haft einstæða ánægju af samstarfi okkar Halldórs.

Hann hefur ekki sízt tekið mig undir verndarvæng sinn.

Af öllu því sem ég hef gert á Morgunblaðinu er ég kannski stoltastur af því að leiða hann þangað inn aftur upp úr 1952,þegar Gerpla kom út, en þá hafði hann í mörg ár verið utangarðsmaður á þeim bæ.


13. maí 1983

Geir Hallgrímsson hefur haft Albert Guðmundsson þétt við hlið sér og hann hefur staðið fast með honum.

Vorum á fundi með Geir í hádeginu ásamt Haraldi Sveinssyni, Eykoni, Þorsteini Pálssyni, Stefáni Friðbjarnarsyni,blaðamanni.

Talað um stjórnarmyndun.

Sammála um að bezti kosturinn sé að mynda stjórn með krötum og Vilmundi, eða Bandalagi jafnaðarmanna, sem e.t.v. væri hægt eins og nú er háttað.

Geir hefur minnstan áhuga á þessu stjórnarmynstri.

Treystir hvorki krötum né Vilmundi til styrkrar stjórnar.

Talað um efnahagsmál.

Ég spurði hví ekki mætti athuga tillögu Eykons betur um afnám óbeinna skatta, söluskatts og vörugjalds.

Geir sagði það kæmi til greina en tollalækkanir og lækkanir á fyrr nefndum sköttum þýddu stórhalla á fjárlögum.

Þorsteinn tók undir það og er því andstæður þessari leið eins og talað var um.

Eykon sagðist hvergi hafa séð ábyrga tölu um þennan halla.

Þorsteinn fullyrti það.

Eykon vill selja skuldabréf upp í hallann en þá var spurt, hvort ekki væri hægt að fara enn aðra leið.

Allt opið en samtöl við framsókn og krata í bígerð.

Eftir fundinn kom Geir inn til okkar Styrmis. Hann sagðist ekki vera á móti stjórnarmyndun með krötum,ef hægt væri, þó ef til vill aðeins til hausts.

Við tókum undir það.

Haft í flimtingum að ég hefði skotið fast á Geir þegar ég sagði, En stjórnarmyndun með Vilmundi og krötum?! Það getur orðið erfitt fyrir þig að koma í veg fyrir það.

Þá sagði Eykon, Þangað leitar klárinn þar sem hann er kvaldastur!

Geir hló að þessu og tók því vel.

En í haust verðum við þrír frjálsir menn, sagði hann við okkur Styrmi.

Augljóst hvað hann á við.


8. ágúst 1983 - mánudagur

Skemmtileg sagan um Bjarna Benediktsson í nýbirtu samtali Ingólfs, sonar okkar, við Auði Auðuns.

Hún er lík Bjarna.

Hann var að vísu enginn sérstakur húmoristi en hafði sérkennilegt skopskyn og það gat verið neyðarlegt:

“Mér hefur líka oft komið það í hug, hve Bjarni gat verið neyðarlegur í svörum.

Þegar þingsályktunartillaga um lausn fiskveiðideilunnar við Breta var lögð fyrir þingið 1961, urðu, eins og menn muna, harðar deilur um málið, fygldi henni ítarleg greinargerð.

Þar hafði þó orðið meinleg prentvilla fyrir ríkisstjórnina.

Halldór Ásgrímsson, einn af þingmönnum Framsóknarflokksins og stjórnarandstæðingur, sagði í umræðum um tillöguna, að jafnvel prentvillupúkinn væri á móti ríkisstjórninni.

Þá kallaði Bjarni framí: “Já, það eru allir púkar á móti okkur!””


17. nóvember 1983 - fimmtudagur

Í dag er nærmynd af Sigurði A. Magnússyni í Helgarpóstinum.

Þeir spurðu mig eitthvað um Sigurð.

Ég þekkti Sigurð lítið sem ekkert þegar hann kom að Morgunblaðinu.

Þá birtist samtal við hann nýkominn frá Ameríku að mig minnir og mér skildist að hann væri með allar ferðatöskur fullar af handritum.

Ég taldi að það væri að hefjast nýtt eldgos á Íslandi!

Þegar hann kom á blaðið tókst strax með okkur góð vinátta, stendur í Helgarpóstinum, sem hefur haldizt þrátt fyrir marga brotsjói og mikið öldufall.

Sigurður skrifaði einkum um menningarmál í Morgunblaðið, frísklega og öðruvísi en venja var hér á landi.

Hann hélt uppi miklum og ómetanlegum vörnum fyrir nútímaljóðlist og hafði að mínu viti mjög næma tilfinningu fyrir því sem var verðmætt í íslenzkum nútímabókmenntum; ekki sízt atómskáldskap.

Já, þetta má til sanns vegar færa. Og einnig það sem kemur á eftir:

Á þessum tíma áttu Sigurður og Morgunblaðið samleið, hvað sem síðar varð. Hann var eindreginn Nató-sinni og hélt uppi vörnum fyrir vestrænt samstarf. Um það leyti sem ég var að skrifa Kompaníið við Þórberg flutti Sigurður einmitt erindi í útvarp um þessi mál.

Ég man ekki betur en Þórbergi félli allur ketill í eld við að hlusta á þá yfirgengilegu aðdáun á Nató sem hraut af munni þessa vinar míns.

Svo bætir greinarhöfundur, Egill Helgason, við þessari athugasemd:

“Morgunblaðið þótti á þessum fyrstu árum Sigurðar heldur frísklegra en oft áður og síðar, enda ungir og frískir pennar þar í fararbroddi, Matthías og Sigurður líklega fremstir.

Þegar á líður fer þó að þrengjast hagur Sigurðar á Mogganum – hvort sem þar var um að kenna minnkandi svigrúmi á blaðinu eða sinnaskiptum hans sjálfs.

”Ég hafði verið einn af stofnendum Samtaka um vestræna samvinnu. En þegar átökin um ameríska sjónvarpið hófust snerist ég alveg í Nató-málinu og hef síðan verið herstöðvaandstæðingur,” segir Sigurður.

“Meðan Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórnarandstöðu mátti ég eiginlega fara mínu fram, en undir eins og hann var kominn í stjórn var farið að sussa á mig.””

Enn ein skýringin!!

Þá er þetta haft eftir mér um sinnaskiptin:

“Ég hef aldrei áttað mig á þessum sinnaskiptum sem þarna urðu, eða hvort þau urðu yfirleitt.

Sigurður er eins og margir góðir menn, í pólitík hugsar hann meira með tilfinningunum en öðrum taugaþráðum.

Hann gengst mjög upp í því sem hann er að gera hverju sinni, og hefur því farið í marga hringi.

Ég veit aldrei hvar hann er staddur á hringnum.

Hann er svolítill krossfararriddari í sér og elur með sér einhvern draum um að frelsa heiminn, leggja undir sig Jerúsalem.

Að mínu viti er það einn aðalókostur Sigurðar hversu áhrifagjarn hann er. Mig hefur stundum undrað það hvað síðasti ræðumaður getur haft mikil áhrif á hann.

Á þessum árum var alltaf verið að halda því fram við okkur að Sigurður væri ekkert annað en kommúnisti.

Þessi óskaplega gagnrýni á skrif Sigurðar olli okkur talsverðum vandræðum, því þá vorum við í óða önn að sannfæra menn um að frjálst blað væri heppilegasta leiðin.

Þá var ekki alltaf auðvelt að skýra þennan hringakstur hans, en við urðum að axla þá ábyrgð og þola steinbörnin.

En þráðurinn milli okkar Sigurðar hefur aldrei slitnað.

Við ættum að geta krunkað margt ágætt saman í ellinni.”

Allt er þetta gott og blessað en það er ekki rétt sem ég hef heyrt haft eftir Didda, að ég hafi sagt honum upp á Morgunblaðinu.

Hann var að vísu mjög skeinuhættur opnunarstefnu okkar vegna þess að hann kallaði fram tortryggni meðal sjálfstæðismanna.

En við létum það að mestu yfir okkur ganga.

Samstarfið milli hans og Ingimars Erlends Sigurðssonar ,blaðamanns, var óþolandi, þeir gátu ekki unnið saman.

Mér skilst þeir hafi kastað símaskrá hvor í annan. Það er að vísu betra en nota til að mynda eggjárn og það urðu sem betur fer engin slys.

En svo tók Þjóðviljinn upp á því að segja frá innahúsmálum Morgunblaðsins.

Ég varð undrandi af því sumt var satt, en annað auðvitað ósatt.

Ég spurði Sigurð hvort þetta hefði komið frá honum.

Hann kom af fjöllum.

Nokkru síðar hittumst við Magnús Kjartansson og töluðum saman að venju.

Ég sagði honum að mér hefði fundizt einkennilegar fréttir um Morgunblaðið í Þjóðviljanum.

Hann sagði, Þær eru ekkert einkennilegar, þær eru allar réttar.

Nú, sagði ég, af hverju heldurðu það?

Ég hringdi í Sigurð A. Magnússon, sagði hann, og fékk þær frá honum sjálfum , milliliðalaust.

Ég sagði, Það getur ekki verið, Sigurður hefur sagt mér að hann hafi ekki haft neitt samband við ykkur á Þjóðviljanum.

Það er nú eitthvað annað, sagði Magnús Kjartansson og hló, hann er heimildamaður fréttarinnar.

Ég hugsaði mitt en reyndi svo að gleyma þessu.

Ég hef alltaf reynt að gleyma því sem er óþægilegt. Ég hef beðið fyrir þeim sem hafa hatað mig og mér þykir leiðinlegt, þegar ég er reittur til reiði.

Ég get jafnvel orðið reiður út í þann sem reitir mig til reiði!

Ég óska ekki eftir neinni lognmollu, en það er gott að halda friðinn.

Ég hef ævinlega reynt að gera það á Morgunblaðinu.

Nú ætla ég að biðja fyrir Didda og Magnúsi Kjartanssyni og fyrirgefa þeim , sem sagði mér ósatt.

Ég sagði Sigurði A. Magnússyni ekki upp á Morgunblaðinu.

Hann kom inn í skrifstofuna mína þegar ég var að tala við Harald Sveinsson og sagði að hann væri búinn að fá svo gott boð um ritstjórn á Samvinnunni að hann gæti ekki hafnað því.

Hann myndi því hætta á Morgunblaðinu.

Hann hafi átt mjög gott samtal við Erlend , forstjóra SÍS, og nú yrði hafizt handa um að gera Samvinnuna að fersku og sterku tímariti og hann langaði að hafa forystu um það.

Ég skildi það vel.

Ég held einnig að Haraldur hafi skilið það mæta vel.

Ég saknaði Sigurðar.

Við höfðum verið fóstbræður; jafnvel vopnabræður. Ég hafði oft legið undir ámæli vegna vináttu okkar. Mér líkaði það ágætlega og við áttum saman margar góðar stundir sem voru eins og þau andartök sem Steinn minntist á í samtali okkar – þegar skuggarnir koma neðan frá og umhverfið leysir úr læðingi þá dularfullu skynjun sem er forsenda alls skáldskapar.


30. desember ‘83

Skrifaði Haraldi,syni mínum,sem nú er orðinn lögfræðingur, langt bréf að gamni mínu.Hann stundar framhaldsnám í afbrotafræði við háskólann í Tallahassee,Flórída,þar sem þau nú búa.

Þar segir m.a.:

.....mamma þín sagði einhverju sinni við mig eftir að við komum heim:

“Ég sá mömmu þína (látna) í stólnum sínum inni í skrifstofu, hún sat þar við skrifborðið”.

“Hvað ertu að segja,” sagði ég.

“Já, er eitthvað athugavert við það,” sagði hún, eins og ekkert væri.

“Hvað sástu hana lengi,” spurði ég

“Ég veit það ekki,” sagði hún.

“Þrjár, fjórar sekúndur?” spurði ég.

“Nei, miklu lengur,” sagði hún. “Ég sá hana í meira en mínútu, kannski hálfa aðra mínútu. Hún var með svo fallega lagt hárið.

Ég vissi að ég átti ekki að vera að horfa á hana svo ég fór og gekk um íbúðina, eins og ég ætlaði að gera til að sjá, hvort ekki væri allt í góðu lagi, en þegar ég kom aftur var hún horfin.”

Móðir þín er mjög dulræn og hefur sérkennilega hæfileika á þeim sviðum, Halli minn, eins og þú veizt.

Ég þekki marga hluti af langri reynslu, en þetta er í fyrsta skipti, sem hún hefur sagt slíka hluti við mig af fyrra bragði og þótti mér það harla merkilegt.

Ef einhver annar hefði sagt mér þetta, hefði ég skellt við skollaeyrum, en þegar móðir þín segir eitthvað, þá veit ég, að það er satt og rétt. Að minnsta kosti eins satt og eins rétt og nokkur hlutur getur verið í þessari óskiljanlegu tilveru.

Hvort amma þín sat þarna í stólnum eða ekki, það veit ég ekki, en svo mikið er víst, að móðir þín sá hana og horfði á hana.

Það er jafnmikil staðreynd, eins og til að mynda það, að ég ligg hér upp í sófa og er að tala þetta samhengislausa bréf inn á segulband til þín....

.... Ég trúi því og hef alltaf gert, að það sé hollt og heillavænlegt að huga að fortíðinni, því í raun og veru er ekkert til nema nútími sem heitir fortíð (og framtíð), það er við, nú og meðan við lifum og meðan við hugsum og meðan við notum þá dýrmætu gjöf, sem Guð hefur gefið okkur, lífið sjálft. Það er í æðum okkar sjálfra, sem tíminn stendur kyrr. Við gætum alveg eins sagt, að þar sé fortíðin á leið til framtíðarinnar.

Og það er merkilegt og skemmtilegt ferðalag...

....Ungir strákar eru viðstöðulaust að skrifa æviminningar sínar í skáldsagnaformi, eins og þú veizt.

Ég hef stundum velt þessu fyrir mér.

Ég man eftir æsku minni, að mörgu leyti mjög vel og rifja margt upp í huganum, en ekki hefur mig enn langað til að skrifa slíkt niður með þeim hætti, sem aðrir gera.

Ég tel það verði að vera á háu skáldlegu plani.

En við sjáum til.

Fínasta bók þeirrar gerðar, sem ég þekki er eftir nóbelsverðlaunaskáldið Canettí og hef ég lesið það á þýzku. Það er fallegasta endurminningabók, sem til er og þýzkan á henni er með afbrigðum skáldleg og auðveld.

Slíka bók hefði ég viljað skrifa.

Hitt er svo annað mál, að Kristján Karlsson, sem segir margt merkilegt við mig, og hefur verið ráðunautur minn í skáldskap síðan Tómas treysti sér ekki lengur til þess, hann var það fram til 1975 þegar Dagur ei meir kom út, sagði að það væri ekki hægt að dæma unga menn á því, hvernig þeir skrifuðu um æsku sína.

Það gætu í raun og veru allir gert.

Ég held það sé dálítið mikið til í þessu og það reynir ekki á fyrr en glímt er við önnur atriði lífsins.

Þess vegna vildi ég heldur yrkja Morgunn í maí í ljóðaformi, þótti það meiri áskorun.

Satt að segja ætla ég ekki að fara að þylja ævisögu okkar yfir hér í þessu sundurlausa bréfi, en þó langar mig til að bæta örlitlu við.

Ég hef sjaldan haft eins mikið að gera, eins og eftir að ég kom heim frá ykkur á Florida.

Það var ógleymanleg ferð.

Við munum ávallt búa að henni.

Bandaríkin eru stórkostlegt land og ævintýri okkar í Florida var með þeim hætti, að ekki gat orðið á betra kosið.

Þú sérð, að ég lýk Ferðarispunum með litlu ljóði um ferð okkar til Kennedyhöfða.

Það hafði mikil áhrif á mig að horfa annars vegar á dýrakálfinn, en hins vegar á skotpallana, tvö ólík tákn þess lífs, sem við lifum, alls þess sem við sjáum, fegurð lífsins sjálfs og mikilleik vísindanna, en mér fannst einhvern veginn hjartardýrið þarna á Kennedy ímynd þess kraftaverks, sem lífið er, sbr. ljóð Matthíasar Jochumssonar um Goðafoss: ....en mér finnst meir ef falla, fáein ungbarns tár.

Þú veizt ég tek lífið alltaf fram yfir dauðann eða dauða hluti.

Styrmir hefur stundum minnt mig á, að eftir flugslysið mikla á Sri Lanka hafi verið miklar umræður niðri á Morgunblaði um það, hvernig skyldi afgreiða þennan hörmulega atburði í sögu Loftleiða.

Ég kvað upp úr með það.

Lífið, þeir sem af komust á forsíðuna, áherzla á kraftaverkið, sorgin, - harmleikurinn á sínum stað, en þó mátti hann með engu móti yfirgnæfa það sem var mest um vert: þá stórkostlegu staðreynd, að fjöldi manna hafði líf eins og gamla fólkið sagði í Mýrdalnum, þegar Katla kom og fjármennirnir og aðrir komust undan vatnssvelgnum.

Og lifðu af....

....Ég var varla kominn heim, þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins byrjaði og þá var ábyrgð okkar mikil, að vel færi.

Það gladdi mig mikið, að Þorsteinn Pálsson skyldi verða formaður Sjálfstæðisflokksins og þá ekki sízt, að Geir Hallgrímsson skilaði flokknum af sér með þeim sóma, sem hann átti skilið.

Yfir þeim viðskilnaði var söguleg reisn, að mínum dómi og sagði ég það við Geir, en kannski eigum við eftir að fjalla eitthvað nánar um þetta, við sjáum hvað setur.

Þú last þetta í blöðunum jafnóðum og margt fleira og fer ég ekki út í þá sálma, enda veiztu allt sem þú þarft að vita í þeim efnum.

Við Styrmir áttum langan fund með Birgi Ísleifi Gunnarssyni um daginn. Við vorum hræddir um, að honum hefði kannski ekki líkað afstaða okkar að standa ekki með sér í þessum harða og miskunnarlausa leik, en hann tók því öllu vel.

Hann vissi alltaf, hvar við vorum. Ég hef haldið upp á Birgi Ísleif frá því hann var ungur menntskælingur í bókmenntafyrirlestrum hjá mér á vegum Heimdallar, en þá var ég í Háskólanum og hafði bókmenntafyrirlestra fyrir Heimdellinga í VR-húsinu.

Þangað komu í hverri viku milli 10 og 20 ungir menn og hafa þeir sumir sagt mér, að þeir hafi búið vel að þessari uppfræðslu síðan.

Birgir minnist þessara fyrirlestra með ánægju, að því er mér skilst og þykir mér vænt um það.

En ég hef sagt honum að það yrði eldur sem á honum brynni, ef hann reyndi ekki sjálfur að ná Reykjavík aftur í kosningunum.

En hann kaus að hverfa alfarið úr borgarstjórn til Alþingis.

Það kom niður á honum eins og ég hafði sagt honum, kannski fyrstur manna.

Svo ég hafði hreinan skjöld í þeim efnum.

Þá þótti Davíð Oddssyni eitthvað einkennilegt, að Þorsteinn Pálsson vildi strax að formannskosningu lokinni, að Friðrik Sophusson yrði varaformaður sinn og hélt kannski, að einhver baksamningur hefði verið gerður, sem honum hefði ekki verið sagt frá og reiddist Davíð mjög.

Ég átti gott samtal við Davíð og sannfærði hann um, að þetta hefði gerzt í gleðivímu Þorsteins og til að halda flokknum saman.

Davíð trúði mér.

Þeir töluðu síðan saman og Davíð sagði mér að hann væri þess fullviss, að Þorsteinn hefði sagt satt, enda sagði hann Davíð það sama og mér.

Þetta eru drengilegir menn, sem segja það sem þeir telja, að sé satt, en ekki það sem þeir vilja segja, eða halda, að aðrir vilja heyra.

Það er einn höfuðkostur manna í lífinu að segja óþægilega hluti. Þá trúa menn því, þegar maður segir þægilega hluti eins og þú veizt.

Bjarni Benediktsson kenndi mér það strax ungum ritstjóra, að ég skyldi segja óþægilega hluti á eins góðan hátt og ég gæti strax í upphafi, því að ef ég gerði það ekki, gætu þeir orðið að erfiðum vandamálum, þegar fram í sækti.

Maður ætti ekki að skjóta sér undan erfiðum hlutum, heldur afgreiða þá strax, þá yrðu þeir síðar miklu minni vandamál.

 

Birgir Ísleifur telur, að Geir Hallgrímsson hafi ekki sagt sér satt um það hvorn þeirra Þorsteins hann myndi styðja til formannskjörs og er honum mjög reiður.

Það var það eina sem var óþægilegt í samtali okkar við Birgi Ísleif, en ég vona, að tíminn lækni það sár.

Birgir telur, að Geir hafi ekki komið fram við sig af þeirri hreinskilni, sem hann hafi búizt við og gefið Þorsteini í raun og veru forskot fyrir formannskosningarnar, en ég veit ekki hvernig í þessu máli liggur eða hvort Þorsteinn mátti segja það, sem hann sagði um stuðning Geirs Hallgrímssonar, þegar hann ýjaði að honum í fyrstu.

Það skildist mér, að hefði komið Birgi á óvart og ekki komi heim og saman við það, sem Geir hefði átt að segja við hann eða hann skildi af samtali þeirra.

En þetta er held ég einhver gamall misskilningur milli þeirra Geirs og Birgis, en hitt er víst, að Geir veit, að Birgir er honum reiður og telur hann ekki þann drengskaparmann, sem hann hafði gert.

“Ef hann hefur komið svona fram við Gunnar Thoroddsen, þá skil ég Gunnar nú loksins” var eitt af því sem Birgir sagði.

Ég tel, að einhver misskilningur hljóti að vera þarna á ferðinni, aldrei, ekki í eitt einasta sinn, hef ég staðið Geir Hallgrímsson að ódrengskap eða óheiðarleika og í raun og veru hefur mér alltaf fundizt hann hafa hugrekki til að segja óþægilega hluti ef þess hefur þurft. En þá höfum við einnig alltaf getað sagt honum það sem okkur hefur búið í brjósti, eins og þú veizt, og marga óþægilega hluti höfum við þurft að segja honum, svo óþægilega að ég er sannfærður um, að fólkið í landinu hefði aldrei trúað því, að sum samtölin við Geir Hallgrímsson hafi getað átt sér stað.

En þá var alltaf talað af ákveðni og hreinskiptni.

Það kemur mönnum sízt af öllu í koll að vera hreinskilnir.

Ég held okkur Styrmi hafi einungis einu sinni greint mjög á um afstöðuna til Geirs Hallgrímssonar.

Það var eftir prófkjörið síðasta.

Þá féll Geir út af þingi samkvæmt niðurstöðunni, eins og þú manst.

Geir var í miklu uppnámi um nóttina, en þó stilltur vel eins og hans er vandi.

Hann bað okkur koma upp í Valhöll þá um nóttina.

Þar var enginn annar en Kjartan vinur þinn og vinur okkar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Við töluðum um úrslitin fram og aftur, útlitið var ekki björgulegt.

Formaður Sjálfstæðisflokksins fallinn af þingi miðað við þann möguleika, sem flokkurinn hafði í kosningum.

Geir var eiginlega að komast á þá skoðun að segja af sér.

Kjartan sagði lítið.

Styrmir sagði við hann, að hann ætti að kalla saman landsfund og segja þar af sér og láta kjósa nýjan formann.

Þá kvað ég upp úr með það, að hann ætti ekki að kalla saman landsfund, hann væri formaður Sjálfstæðisflokksins til næsta landsfundar og það kæmi ekki til greina að hann skildi við flokkinn með þeim hætti, að hann væri knúinn eftir prófkjörið til að kalla saman landsfund og hverfa síðan úr formennsku eins og hundur.

Styrmi fannst þetta misskilningur hjá mér og þú getur spurt hann síðar, hvaða afstöðu hann hafi haft, því að hann heldur því fram, að sín skoðun hefði ekki orðið verri niðurstaða heldur en mín, en ég er þeirrar skoðunar, að ekkert annað gat komið til greina en að formannsskiptin yrðu með þeim hætti sem raun varð á.

Að vísu var mikil áhætta tekin, hvor leiðin sem farin var, en niðurstaðan er farsæl og ég sé ekki betur en Sjálfstæðisflokkurinn geti vel við unað, eins og ástandið er og eigi sér mikla framtíð.

Styrmir er einn gleggsti maður á stjórnmál, sem ég þekki, eins og þú veizt, og hefur alltaf sagt það sem honum býr í brjósti.

Það gerði hann einnig þessa örlaganótt.

Hann hafði mikið til síns máls, en af eigingirni minni og kannski ekki sízt gleði yfir því, hvernig fór að lokum, hef ég haldið því fram við hann, að ég hafi í þetta sinn haft réttar fyrir mér en hann.

Að öðru leyti höfum við yfirleitt alltaf verið á sömu skoðun og eins og þú veizt hefur samstarfið á Morgunblaðinu verið með þeim hætti, að einsdæmi mun vera.

Þar hefur ávallt ríkt vinátta, ekki sízt nú, og samstarf okkar Styrmis er með þeim ágætum, að ekki verður á betra kosið. Hann missti föður sinn, Gunnar Árnason, um hátíðirnar og ætti að jarða hann í dag 4. janúar, en var frestað til laugardags vegna veðurs.

Óvenjulegt og eykur á ömurleikann.

Ólafur Jónsson gagnrýnandi svipti sig lífi í gær eða fyrradag. Það var mjög sorglegt. Við tókumst stundum á, m.a. í Fjaðrafoki.

Samstarfið við Harald Sveinsson er með sama marki brennt. Eigendur blaðsins voru með okkur á kvöldfundi ekki alls fyrir löngu í Arnarhól og man ég ekki eftir jafn ánægjulegum fundi með þeim. Þar var einhugur og samhugur og í þessu fólki eiga ritstjórarnir bakhjarl, sem þeim er nauðsynlegur. Þangað geta þeir sótt styrk, sem vaxandi blaði er nauðsynlegur.

Mikið er að gerast. Ný prentvél á þessu ári, nýtt hús á döfinni, framtíðin virðist blasa við Morgunblaðinu og hefur verið talsvert um það talað.

Það er ánægjulegt fyrir okkur, þó að kostnaðurinn sé mikill.

Samt gat blaðið greitt starfsmönnum sínum góðan bónus fyrir jólin og gladdi það alla...,.

....Eins og þú veizt þá er Styrmir dulur um eigin hagi og flíkar ekki tilfinningum sínum, en hann tekur dauða föður síns með sama hætti og hann tekur öllu öðru, sem að höndum ber: æðruleysi. Þú sérð af myndinni af honum í Mogga að hann er ótrúlega líkur föður sínum í sjón....

....Þegar Tómas Guðmundsson lézt lagði ég metnað minn í að við kveddum þjóðskáldið eins vel og unnt var.

Ég skrifaði sjálfur grein um hann, enda var hann velgjörðarmaður minn eins og þú þekkir, las yfir öll ljóð mín og var mér ómetanlegur mentor, þar til hann treysti sér ekki til þess lengur, en þá tók Kristján Karlsson við, eins og þú veizt, og hef ég notið leiðsagnar hans síðan og hefur það verið mér ómetanlegt einnig, enda er ekki betri eða menningarlegri bókmenntamanni til að dreifa hér á landi en honum.

Þú veizt einnig, að Steinn Steinar valdi í fyrstu ljóðabókina mína, Borgin hló, þannig að ég hef alltaf farið með mína hluti í merkilegustu smiðjur landsins, en jafnframt lagt þessi sömu verk undir þá ströngustu dómara, sem til hafa verið.

Enda betra, ritstjóri Morgunblaðsins!!

Ég hef aldrei nema grætt á því.

Ég hef oft fengið gagnrýni. Stundum hefur verið leiðrétt eða lagfært, stundum algjörlega strikið yfir það, sem ég taldi sjálfur frambærilegt.

Enginn er dómari í sjálfs síns sök

Það hefur því verið mér ómetanlegt, að eiga þessa vini að og þá ekki sízt Tómas.

 

Meðan Tómas lá á líkbörunum lézt Kristmann Guðmundsson. Hann hafði alltaf verið mér góður. Í síðsta samtalinu við hann, sem skrifað var af Braga Óskarssyni, syni Óskars Aðalsteins, og birtist í Morgunblaðinu, tekur hann mig út úr sem skáld og talar um, að ég sé í sérflokki.

Þetta kom mér mjög á óvart, að vísu hafði Kristmann oft farið fallegum orðum um það sem ég hef skrifað, og stundum hafði hann sagt eitthvað svipað við mig, en ég vissi ekki, að hann hefði svo mikla sannfæringu fyrir þessari skoðun sinni, að hann vildi setja hana á prent, eins og hann gerði í þessu síðasta samtali sínu.

Ég mat þetta mikils

Mér þótti vænt um það.

Ég vildi skilja við Kristmann, ekki mín vegna, heldur blaðsins vegna með þeirri reisn, sem hann átti skilið.

Ég hafði því í mörgu að snúast þessa daga.

Tómas hafði sagt við mig: “Matthías minn, þú veizt, að ég vil að þú takir við af mér.”

Hann átti að sjálfsögðu ekki við það, að ég yrði neitt þjóðskáld, heldur hitt, að ég væri það borgaralega skáldið í landinu, sem hann kunni einna helzt að meta og vildi, að yrði eins konar arftaki sinn.

Þetta sagði hann að vísu margoft við mig og einnig í annarra viðurvist, eins og til að mynda svo að Eiríkur Hreinn Finnbogason heyrði.

Það var ótvírætt.

Auðvitað þótti mér vænt um allt þetta.

En aldrei hefði það hvarflað að mér, að það yrði hlutskipti mitt að taka við sæti hans eða þeirra Kristmanns Guðmundssonar í heiðurslaunaflokki.

Margir vinir mínir töldu, að ég mundi hafna því, ef mér byðist það.

Þegar ég var spurður sagði ég: “Mér hefur aldrei dottið þetta í hug, það hvarflaði ekki að mér, en það sem Alþingi ákveður skipti ég mér ekki af.”

Þeir sáu þá, að ég ætlaði engin afskipti að hafa af málinu og það hafði ég ekki heldur.

En ég var undrandi yfir því, hve margir vildu að ég færi í heiðurslaunaflokkinn og lét það gott heita.

Indriði G. Þorsteinsson mátti ekki annað heyra og sagði við mig

“Ef þetta kemur til tals þá heldur þú kjafti”.

Ég sagði:

“Þetta er ekki mitt mál - þetta er mál Alþingis.”

Í fyrsta skipti sem ég heyrði þetta nefnt við mig var þegar Styrmir sagði mér, að á þetta hefði verið minnzt við sig.

Síðan spurði Indriði G. Þorsteinsson mig um það í erfidrykkju Tómasar Guðmundssonar hvort ég mundi ganga gegn þessu, ef Alþingi hefði áhuga á því.

Það var viðkvæm stund og erfitt fyrir mig að svara á þeirri stundu, en með orð Tómasar Guðmundssonar í huga sagði ég við Indriða,

“Ég geri það sem Alþingi ákveður”.

Nokkru síðar hringdi Davíð Oddsson, borgarstjóri, til mín og sagði eitthvað á þá leið, að hann hefði talað um það við Þorstein Pálsson, eða þeir saman, hvort ég mundi taka því, ef upp á mér yrði stungið á Alþingi að fara í heiðurslaunaflokkinn.

Ég sagði við Davíð, að það væri Alþingis að ákveða það, en þeir menn, sem vildu, að ég færi í þennan flokk yrðu að hafa fulla sannfæringu fyrir því, að ég stæði undir því.

Þeir yrðu að vera klárir á því, að verk mín væru þess virði, að þetta hljómaði ekki eins og öfugmælavísa.

Hann sagði, að þeir væru þeirrar skoðunar að enginn efi væri í þeirra huga.

Síðan var ekkert um þetta rætt við mig nema hvað Halldór Blöndal, frændi okkar, færði þetta í tal.

Ég sagði það sama við hann, að það væri Alþingis að ákveða þetta. Mér hefði aldrei dottið í hug að fara í þennan flokk, þeir yrðu að meta það hvort ég stæði undir því og hvort að mér væri komið.

Sama sagði ég við Eykon og Árna Johnsen þegar þeir minntust einhverntíma á þetta við mig eftir að málið kom til kasta Alþingis.

Að vísu sagði ég við Eykon:

Forsjónin ákveður þetta eins og annað!

Hann sagði að menn væru þessarar skoðunar.

Ég var í raun og veru undrandi. Ég hef þurft að berjast fyrir því sem ég hef sótt til lífsins en ekki fengið lífið eða gæði þess, virðingu eða viðurkenningu á neinum silfurbakka.

Ég var að vísu einu sinni ungur blaðamaður í tízku eins og sagt var. Ég man eftir því, að rétt fyrir 1960 hittum við Sigurður A. Magnússon Kristján Albertsson á Lækjargötunni.

Það var sólbjartur sumardagur.

Þá var hann nýkominn frá París.

Hann kom á móti okkur með opinn faðminn og sagði:

“Komið þið sælir, hvað segja tízkublaðamennirnir?”

Og nokkru síðar, eða um sama leyti , gekk ég inn á Hótel Borg. Þá var Jónas Jónsson frá Hriflu, einn helzti andstæðingur Jóhannesar, afa mín, þar ásamt dætrum sínum tveimur.

Þegar ég gekk inn, stóð Jónas upp, gekk til mín, rétti mér höndina og sagði:

“Komið þér sælir ég heiti Jónas Jónsson frá Hriflu, má ég heilsa upp á tízkublaðamanninn.”

Allt var þetta dálítið hlægilegt, en sú var tíðin, að ég mátti vera góður blaðamaður, ég mátti vera snillingur í samtölum, en ég mátti ekki vera skáld.

Síðan leið tíminn og ég mátti vera ljóðskáld og rithöfundur, en sá tími hefur að vísu ekki runnið upp, að ég megi vera leikritaskáld!

Við sjáum hvað setur.

Þetta var útúrdúr, Halli minn, til að skýra vissa hluti. Til að mynda að það hefur aldrei hvarflað að mér, að ég ætti neinn heiður skilið fyrir verk mín í rituðu máli.

Að vísu viðurkenni ég að það kom mér þægilega á óvart, þegar Tveggja bakka veður var sent í Norðurlandakeppnina í bókmenntum, en það veizt þú manna bezt, að listaverðlaunum gengst ég ekki upp við enda eru þau oft meira hagsmunamál þeirra, sem þau veita, en hinna sem við taka, sbr. Félaga orð.

 

Ég tel að listaverðlaun, og þá ekki sízt verðlaun í bókmenntum, séu óttalegt húmmbúkk og eigum við Helgi Hálfdanarson, algjöra samleið í þeim efnum.

En lífið sjálft, fólkið og þá ekki sízt alþýða manna, sem betur fer - sker úr um það, hvað lifir og hvað deyr.

Það gera engar klíkur, hvorki fámennar né fjölmennar og allra sízt þær bókmenntaklíkur, sem stundum hafa verið allsráðandi í landi, eins og þú veizt.

Ólafur Jónsson var því miður margflæktur í slíkar klíkur.

En þær duga ekki.

Ef ég hefði sótzt eftir verðlaunum eða viðurkenningu eins og heiðurslaunum Alþingis, þá hefði ég að sjálfsögðu ekki verið ritstjóri Morgunblaðsins.

Fyrir 10 árum hefði alls ekki getað gerzt, að ritstjóri Morgunblaðsins fengi slíkan heiður samhljóða.

Það er viðkvæmt starf og maður liggur vel við höggi, eins og reynslan sýnir....

.... Ritstjóri Morgunblaðsins hefur oft verið að þvælast fyrir skáldinu og rithöfundinum, eins og þú veizt.

En ekki þessu sinni.

Það hefði kannski gerzt fyrir tíu árum. Þá hefði þetta líklega ekki einu sinni getað verið til umræðu.

En við vitum báðir, að skáldið hefur grætt mikið á blaðamanninum, því að tengsl hans við lífið í landinu, fólkið, alþýðuna og landið sjálft eru meiri en skáld eiga að venjast, að minnsta kosti þegar þau sitja við skrifborðið sitt og halda, að lífið sé innan þeirra fjögurra veggja, sem afmarka vinnustofur þeirra.

Um allt þetta höfum við talað margoft, Halli minn, og stundum hefur þú orðið illa fyrir barðinu á ritstjóranum, þegar þú varst lítill drengur og unglingur og jafnvel eitthvað lengur, en þú hristir það af þér og sást, að pabbi þinn lét ekki deigan síga.

Stundum, þegar ég vaknaði á morgnana og leit í fjölmiðlana sá ég sverðin og axirnar yfir hálsi mér og ég vissi, að það voru til menn, sem hefðu sízt af öllu grátið þá stund, þegar hausinn fauk af undirrituðum í óeiginlegri merkingu, þ.e. ef unnt hefði verið að ganga frá honum sem skáldi og rithöfundi.

En það hefur sem sagt ekki orðið.

....Vegna Menntamálaráðs hef ég lítið að segja.

Ég komst einfaldlega ekki undan því að taka við formennsku þess.

Áslaug Brynjólfsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins, sagði við mig, að hún treysti sér ekki til að kjósa alþýðubandalagsmann áfram sem formann.

Einar Laxness hefur verið formaður og staðið sig vel. Hann er góður drengur og okkar samstarf hefur verið með ágætum. En hann er fulltrúi Alþýðubandalagsins og þegar þingmaður Sjálfsstæðisflokksins er orðinn menntamálaráðherra, Ragnhildur Helgadóttir, fannst Áslaugu rétt, að ég sem elztur manna í ráðinu tæki við.

Ég bað hana sjálfa að taka við formennskunni, ég hefði nóg að gera og í mörgu að snúast.

Um þetta körpuðum við talsvert, en hún hélt fast við sitt.

Niðurstaðan varð svo sú, að ég gat ekki fengið hana til að taka við formennskunni og hún vildi ekki hlusta á annað en ég yrði formaður.

Ég gat því ekki skorazt undan þessu.

Mér hefði fundizt það uppgjöf og dálítil svik við þá, sem trúðu okkur fyrir setu í Menntamálaráði.

Ég hef verið þar öll þessi ár og mér hefur þótt gaman að vera þar. Þar hef ég kynnzt mörgu ágætu fólki og samstarfið við það hefur alltaf glatt mig frekar en hryggt.

Af þeim sökum þótti mér í lagi að taka við formennskunni þessu sinni og hafa ráðsmenn lýst því yfir allir, að við bakið á mér verði vel staðið og ráðið muni standa vel saman, þó að atkvæðagreiðsla hafi orðið um formannskjörið en þar fékk ég þrjú atkvæði, en Einar Laxness (sagnfræðingur) tvö.

Við áttum ágætan jólafund og þar tók fólkið mér mjög vinalega, þegar ég kom, óskaði mér til hamingju með heiðurslaunin og sagði að ég verðskuldaði þau.

Mér þótti vænt um að heyra það af vörum Einars Laxness.

Þeir Einar Laxness og Gunnar Eyjólfsson (leikari) kváðust báðir mundu standa með mér í ráðinu, enda munum við ekki praktísera neina flokkapólitík þar, en Sólrún Jensdóttir (sagnfræðingur) er hinn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og ný í ráðinu. Merk kona og ágætur fræðimaður, eins og þú veizt. Mig minnir, að hún hafi skrifað einna fræðilegast og skilmerkilegast um Ólaf Thors á sínum tíma, enda hlaut hún gott uppeldi, þegar hún var ung stúlka!

Hún er eitt af mörgum Morgunblaðseggjum, sem ég er stoltur af og hafa staðið sig með sóma í lífinu.

Það er ekki einungis mikil gæfa að eiga tvo ágæta og yndislega syni eins og þið Ingólfur eruð, svo ég tali nú ekki um nafna minn, heldur er það einnig mikil gæfa að hafa átt þátt í því að hafa komið mörgu ungu fólki til þroska, leitt það fyrstu sporin á erfiðu svelli þessa misvindasama jarðlífs okkar.

Ég hef aldrei fengið nema þakklæti fyrir það.

Ég er stoltur af því og mér þykir vænt um það.

Ég er einnig stoltur af því, að Alþingi Íslendinga skyldi hafa treyst sér til að færa mig upp í þennan merka heiðurslaunaflokk án mótbára og með samþykki svo margra merkra manna, því að þú veizt, að Alþingi Íslendinga hefur alltaf verið að mínum dómi einhver merkust stofnun, sem til er.

Jóhannesi, afa mínum, stóð tvisvar eða þrisvar til boða að verða ráðherra Íslands.

Hann stóð, eins og þú veizt, í forystu fyrir endurheimt sjálfstæðis landsins og var formaður Sambandslaganefndarinnar 1918, sem kom með fullveldið og sjálfstæðið heim aftur. En hann vildi ekki verða ráðherra, hafnaði því í öll skiptin.

Bjarni Benediktsson minnist á eitt skipti í minningargrein sinni um Ólaf Thors í Andvara og getur þess, að Jóhannes hafi hafnað ráðherradómi, en það var ekki í eina skiptið.

Honum bauðst örugglega tvisvar sinnum að verða ráðherra, ef ekki þrisvar og hafnaði því alltaf.

En hann vildi verða forseti Sameinaðs þings og hann var forseti Sameinaðs Alþingis lengur en flestir aðrir.

Það þótti honum mestur sómi, sem einum manni gat hlotnazt.

Alþingi var sú stofnun, sem hann taldi merkasta og þar vildi hann vera í forsæti.

 

Þú veizt það, Halli minn, að ég er ekki mikið fyrir veraldlega upphefð.

Ég trúi að það sé meira um vert hvernig maður lifir, hvernig hjartalagið er, hvernig maður vinnur.

Og þess vegna vildi ég á sínum tíma ekki taka við fálkaorðunni eftir þjóðhátíðina.

Ég hafði ekkert að gera við skraut á brjósti mínu.

Annaðhvort höfum við staðið okkur með þeim hætti, að þjóðhátíðin var til sóma, eða ekki. Það þurfti enga konunglega yfirlýsingu um það.

Ég sagði að gamni mínu, þegar Tíminn spurði mig af hverju ég hefði ekki tekið við fálkaorðunni, að ég hefði ekki þurft þess, forsjónin hefði séð um sólina allt sumarið!

Ef þjóðhátíðin hefði rignt niður, þá hefði ég sennilega verið neyddur til að taka við orðunni því að eitthvað verður maður að hafa sér til upplyftingar!

En á þessu tvennu geri ég greinarmun, fálkaorður eftir pöntun oft og einatt, og samhljóða samþykkt Alþingis um heiðurslaunaflokkinn.

Það máttu vita og það eigið þið synir mínir að vita. Þess vegna stend ég nú þar sem ég er og get ekki annað.

Kannski hef ég vasast í of mörgu. Kannski á blóðþrýstingurinn eftir að hækka. Hann er nógu hár samt. 115 neðri mörk síðast þegar Guðjón Lárusson(læknir) mældi hann í desember. Nú ætlar hann að mæla hann með vissu millibili, ákveða svo hvernig við skuli bregðast.

Það verður þá að hafa þetta, en svona er það.

Og ég tel að handleiðsla forsjónarinnar stjórni lífi okkar.

Páll Ísólfsson sagði þetta við mig í einhverju samtali okkar, að okkur væri stýrt eða stjórnað.

Þetta er ekki svo fráleitt, en við verðum þó sjálf að leggja eitthvað af mörkum, svo að unnt sé að stýra okkur vel.

Það stýrir enginn neinum sem er fullur af hatri eða neikvæðu hugarfari.

Við verðum líka að taka því sem á bjátar. Við verðum að leggjua okkar skerf fram. Það lærum við af lífinu.

Nú er nýárið framundan og heldurðu ekki að það sé lagt á mig að fara klukkan ellefu á gamlársdagsmorgun á fund forseta Sameinaðs þings, Þorvalds Garðars Kristjánssonar, ásamt öðrum heiðurslaunamönnum til að taka þar í hönd þessa æðsta embættismanns Alþingis.

Ég sagði lagt á mig, vegna þess að ég er ekki mikið fyrir seremoníur og reyni að komast undan þeim í hvert sinn sem ég get, a.m.k. nú orðið.

Og heldur þú ekki, að það sé einnig lagt á mig að eiga að fara á fund forseta Íslands á nýársdag og óska honum árs og friðar ásamt embættismönnum þjóðarinnar.

Og hvers vegna?

Vegna þess, að ég var sá asni að ganga undir það jarðarmen að taka við formennsku í Menntamálaráði!

En þetta verð ég að gera, hvort sem mér líkar betur eða verr.

En ég kann bezt við mig í fárra manna hópi.

Samt langbezt í hópi fárra vina.

En það sem ég þarf að gera, það geri ég, það veiztu og þekkir af gamalli reynslu. Ég þurfti að ganga í gegnum margt slíkt á sjö ára starfsferli þjóðhátíðarnefndar, svo ég tali nú ekki um þjóðhátíðina sjálfa. Þá var þetta sýnkt og heilagt í heilt ár.

Ég veit ekki til ég hafi misstigið mig í þeim sermóníum öllum.

Allt gekk vel.

Ástæðan var kannski sú, að við hlið mér og að baki hefur staðið kona, sem heitir Jóhanna Kristveig, öðru nafni Hanna: móðir ykkar bræðra. Án hennar væri ég líklega annar en lífið hefði krafizt, því ég er Blöndal eins og þú veizt og það er ekki alltaf auðvelt að vera Blöndal. Auk þess hafa samstarfsmennirnir ávallt verið fyrsta flokks, ekki sízt í þjóðhátíðinanefndinni.

Nú er þessum segulbandslestri mínum lokið. Ég vona, að ég hafi einungis sagt þér það sem satt er og rétt.

Að minnsta kosti veit ég ekki betur.

Ég lofaði þér löngu bréfi.

Nú hefur þú fengið það. Þú færð ekki annað svona bnréf frá mér. Ég er pennalatur og svara ekki einu sinni alltaf bréfum nema með stuttum orðsendingum eins og þú veizt, helzt símhringingum

En ég vildi að þú fengir einu sinni bréf frá föður þínum, sem gæti sagt þér ýmislegt, sem allir vissu ekki og skipt gæti máli fyrir þig og ykkur bræður, þegar fram í sækir. Svo getur þú sagt Matta (syni Haralds) einhvern tímann frá einhverju af þessu og svo ýmsu öðru sem þú hefur sjálfur reynt og upplifað.

Sumt er í greinninni minni um Bjarna Benediktsson í bókinni um hann, sem þið Brynhildur hafið fengið fyrir jólin.

Ég vona þér líki þessi grein.

Það var að minnsta kosti mikið mál fyrir mig að skrifa hana eins sanna og rétta og ég gat.

Hún hefur hlotið góðan hljómgrunn og fína dóma. Ég held hún hafi alltaf verið tekin út úr þegar minnzt hefur verið á verðmæti bókarinnar.

Það hefur glatt mig, svo mikið sem ég og við eigum Bjarna og Sigríði að þakka.

Slíkir vinir eru einstæðir.

Minning, sem er heilög og verður ekki tönnlazt á.

Ég hef einnig skrifað um Bjarna annars staðar, til að mynda í Félaga orð eins og þú manst. ...


31. desember 1983 - laugardagur

Ég er farinn að trúa því að Þorsteinn Pálsson hafi gaman af skáldskap. Hann hefur stundum komið mér á óvart, ekki sízt nú þegar hann byrjar áramótagrein sína í Morgunblaðinu með þessum hætti:

“Fyrir jólin, í hringiðu fjárlagagerðar, kauptíðar og aðventuhalds, skipaði Alþingi Matthíasi Johannessyni skáldi og ritstjóra á heiðurslaunabekk listamanna ásamt með fleiri mætum mönnum.

Það er að vísu ekki ætlun mín að fjalla sérstaklega um þessa ákvörðun, en því er ekki að leyna að hún var mörgum ánægjuefni. Þeir eru ófáir, sem hrifist hafa af leiftrandi skáldgáfu Matthísar, ekki síst þeir, sem njóta þess að nálgast kviku mannlífs og þjóðlífs eftir ljóðrænum strengjum tilfinninganna.

Matthías Johannessen, nýliðinn á heiðurslaunabekknum, býr yfir þeim skáldlega eiginleika að finna oft á tíðum í hversdaglegum og óhátíðlegum tilefnum frækorn djúpra hugsana eða almennra sanninda. Fyrir meira en áratug kom fram í kosningum fremur ómerkilegt fyrirbæri, en eigi að síður nokkuð fyndið. Framboðsflokkurinn var það kallað. Tiltæki þetta varð Matthíasi Johannessen yrkisefni.

Í kvæðinu Undir regnhlíf segir skáldið að einn góðan veðurdag geti enginn heimtað af okkur:

“að við séum ekki lengur

kekkirnir í ofsöltum hafragraut

þjóðfélagsveislunnar.”

Nú, mörgum árum seinna, vöknum við upp við það, að þjóðfélagsveislan, sem við höfum haldið sjálfum okkur, er orðin að kekkjóttum, ofsöltum hafragraut.

Fyrir áratug voru þessar ljóðlínur ef til vill útúrsnúningur eða hálfkæringur, en nú eru þær kaldur veruleiki.

Það hefur verið meginverkefni þeirrar ríkisstjórnar, sem Sjálfstæðisflokkurinn á nú aðild að ásamt með Framsóknarflokknum, að draga þessi bitru sannindi fram í dagsljósið og bregðast við þeim.

Ofseltan í grautnum hefur birst í líki óðaverðbólgu er nánast hafði gert íslensku krónuna ónothæfa sem gjaldmiðil.

Hafragrautskekkirnir eru ímynd þeirra fjárfestingamistaka, sem smám saman hafa hrannast upp og gera það að verkum, að við njótum nú ekki þeirra ávaxta, sem við töldum okkur trú um að við hefðum sáð til.”

Ég hef ávallt haldið mikið upp á Þorstein, hann hefur sérkennilega skynjun og stundum skáldlega. Mér líkaði ávallt vel að vinna með honum á Morgunblaðinu. Hann getur verið viðkvæmur og stundum er hann sérlundaður. En hann er drengskaparmaður, heiðarlegur og frjálslyndur og ég vona að beztu kostir hans komist til skila í erfiðri stjórnmálabaráttu.