Á vígvelli siðmenningar lll.

 

  • 1

Á sínum tíma reyndum við morgunblaðsmenn að sýna fram á að kvötakerfið væri harla gallað,enda stríddi það af augljósum ástæðum bæði gegn skynsemi og góðum lögum að hægt væri að veðsetja og selja það sem menn eiga ekki; reyndum að sýna fram á að kvótabraskið stríddi gegn jafnaðarreglu stjórnarskrárinnar og þá að sjálfsögðu mannréttindum.Við bentum á að sjómenn og fiskvinnslufólk ætti að fá eitthvað í sinn hlut,ef þjóðareigninni væri skipt milli þeirra sem lifa á sjósókn.

Ekki var hlustað á neitt af þessu,en þó var komið í veg fyrir að eignarréttur myndaðist á auðlindinni

Lögvísir fastagestir í fjölmiðlum blésu á þetta allt,sumir kölluðu okkur sósíalista,en nú hef ég séð að bloggarar tala um einkavæðingu eins og kerfið er núna,eftir að komið var í veg fyrir eignaréttinn og borga þurfti fyrir nýtinguna. Auðvitað er þetta ekki eignarréttur,heldur leiguréttur eins og þegar menn leigja veiðirétt í ám af eigendum þeirra.

Þegar ríkið skar þorskkvótann niður um þriðjung fyrir áramót var náttúrlega tekið af skarið,hver er hinn raunverulegi eigandi auðlindarinnar;það eru auðvitað stjórnvöld fyrir hönd almennings í landinu.

Svo að ekki þarf að fara í grafgötur um,hver það er sem fer með eignarhald á hafinu kringum landið;það eru ekki kvótakóngar sem nú sitja með sárt ennið andspænis staðreyndum og fölskum vonum.

Í janúar kom svo úrskurður í máli sem tveir sjómenn sendu mannréttindanefnd S.Þ.,en þeir höfðu fengið hæstaréttardóm fyrir að veiða kvótalausir,enda engan kvóta að fá. Mannréttindanefndin segir að jafnræðisreglan hafi verið brotin á þessum kvótalausu sjómönnum og úrskurðað að um sé að ræða alvarleg mannréttindabrot og nauðsynlegt að bæta úr á næstu sex mánuðum.Við höfum samþykkt mannréttindasáttmálann og erum því aðilar að honum og verðum að hlýta úrskurði þessarar 18 manna nefndar.Við höfum hálft ár til að lagfæra kerfið.Það er ekki nægilægt, eins og um hnútana er búið, að segja að hæstiréttur hafi tekið af skarið. Það væri siðferðilegt kollrak í þessu tilfelli.

Björg Thorarensen prófessor segir m.a. “ Íslendingar eru aðilar að samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og hafa skuldbundið sig til að virða ákvæði hans.Sá samningur hefur umtalsverð áhrif á Íslandi.Hann hefur verið notaður í dómsmálum og til hans verið vísað,til að mynda þegar íslenzkir dómstólar túlka ákvæði stjórnarskrárinnar,enda tekur 65.grein stjórnarskrárinnar mið af 26.grein samningsins,sem var til skoðunar í þessu máli,en hún kveður á um svonefnda almenna jafnræðisreglu “.

Allt hafði Mogginn sagt þetta fyrir og ætti ekki að koma neinum á óvart.Kvótalögin eru klúður og ekki nóg með það,heldur eru þau einnig atlaga að jafnræði þegnanna og mannrétrtindum þeirra,að áliti þeirrar nefndar sem um slíkt fjallar á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Engum dettur annað í hug en stjórnvöld taki mið af þessu og lögin verði endurskoðuð

í samræmi við kröfur sem alþjóðasamfélagið gerir,og þá ekki sízt til ríkis sem ætlar sér sæti í Öryggisráðinu.

Þeir sem kosnir eru á þing eiga að finna viðeigandi úrræði fyrst þeir hafa með framboði sínu þótzt vera fullfærir um það. Það mundi sóma þingmönnum betur en sitja þarna niður við Austurvöll til að brjóta mannréttindi,að dómi færustu lögfræðinga samtímans !

Og kannski væri þá einnig kominn tími til að hætta illa grundaðri aðför og ofstækisfullri gagnrýni á Morgunblaðið og stefnu þess í sjávarútvegsmálum undanfarna tvo áratugi.

Væri ekki kominn tími til að þingið benti á leið til verndar þorskstofninum,a.m.k. er núverandi kerfi í skötulíki,eins og allir vita;jafnvel þingmenn núorðið.

Forysta Starfsgreinasambands Íslands hefur átt fund með ráðherrum vegna “getuleysis kvótakerfisins”; öfugþróun sem nú blasir við,eins og komizt er að orði á vef sambandsins “ á sér rætur og skýringar í fiskveiðistjórnunarkerfinu “ og má fara að búast við því,að ráðherrarnir geri sér grein fyrir því,nú þegar kerfið er byrjað að koma illilega niður á atkvæðunum.

En ég er þó ekki ýkjabjartsýnn á hugarfarsbreytingu,enda segir í Birtingi að bjartsýni sé brjálsemi.En þar er talað um þann heim sem við teljum okkur trú um að sé okkar bezti mögulegi heimur.En þar er líka ófögur lýsing á þessum bezta heimi allra heima.

Kvótakerfið var upphaf lausungar í efnahagsmálum,brask á gráu svæði sem engin lög virðast ná yfir;útrás græðginnar;ójafnaðar og ranglætis.Samt hafa ýmsir varið þessa lausung undir drep sem voru ofvel að sér í siðareglum alþjóðalaga til að nota ekki kurteislegar aðferðir , svo að ég umskrifi orðræðu Kakambusar þegar villimennirnir hættu við að éta þá félaga í Birtingi.

Þeir voru þá nýkomnir frá landinu þar sem allt grjót var gull.Það var ekki Ísland.Það var Eldóradó.Og engu líkara en við teljum okkur búa þar,þótt .það sé ekki til,enda hálfarfleifðarlausir skýjaglópar eins og þotuliðið er blindað af gullinu nú um stundir !

  • 2

Ég er ekki eigandi fjölmiðlis .Þess vegna get ég ekki sent þeim leiðréttingu og ávítur sem hélt því fram ekki alls fyrir löngu í leiðara í Fréttablaðinu (21.des. s.l.) að ég hefði verið ritstjóri fyrirtækja sem nú hafa verið staðin að verðsamráði og svikum.Í greininni stóð að ég hefði unnið fyrir þessa aðila,þeir væru hið góða auðvald sem ég hefði talað um í fyrstu greininni Á vígvelli siðmenningar (Olíufélögin og Eimskip).

Allt var þetta rangt,uppspuni ;mannskemmandi,enda til þess ætlazt ekki sízt sú setning að ég hafi unnið fyrir þessi fyrirtæki.Ég hef aldrei komið nálægt þeim í starfi mínu ,í launaumslagi mínu voru alla tíð peningar frá Árvakri,öðrum ekki.Ég hef ekki unnið hjá eða fyrir neitt fyrirtæki annað en þetta útgáfufélag Morgunblaðsins,sem var gott auðvald,hvað sem hver segir.Eigendurnir virtir hugsjónamenn í verzlun,með hreinan skjöld.

Þar var ég í fastri vinnu í nær hálfa öld og undi mér vel,enda minn eigin herra lengst af sem ritstjóri og frjáls að öllum,nema sjálfum mér.

Það urðu vinslit milli Eimskips og Morgunblaðsins þegar ég benti stjórn félagsins á það í Reykjavíkurbréfi að slíkt almenningshlutafélag ætti ekki að vera heimilisarinn þeirra sem sátu í stjórn félagsins.En áður hafði félagið verið í uppáhaldi okkar morgunblaðsmanna eins og önnur almenningshlutafélög sem voru ekki bara til fyrir “eigendur “ sína,þ.e. þá sem sitja í stjórnum og nota peninga litlu hlutahafanna í eigin þágu.

Morgunblaðið var aldrei í uppáhaldi hjá olíufélögunum sem mökuðu krókinn vegna einokunar í tengslum við vöruskiptasamninga okkar og Sovétríkjanna,enda vorum við alla tíð eitt helzta aðhald olíufurstanna.En það er löng saga og óskemmtileg.

Nei,það hefði ekki haft mikið uppá sig að senda leiðréttingu,því ég er ekki eigandi neins fjölmiðils.Henni hefði verið stungið í tætarann, eins og nú háttar,eða út úr henni snúið.En ef ég hefði verið eigandi,hefði engum dottið í hug að bera það uppá mig,að ég hefði verið leigupenni svindlara og ef það hefði verið gert og ég sent leiðréttingu,hefði viðkomandi blaðamaður lagzt á hnén og beðið auðmjúklega afsökunar undir hinu fornkveðna : “Flatur fyrir mínum herra !”

Við höfum upplifað dæmi þessa undanfarið ,því miður.

En það er með ólíkindum að maður skuli þurfa að standa í svona hreingerningum. Ástæðurnar eru augljósar,að vísu.Enn finnst mér ég vera einhvers konar andófsmaður eins og í kalda stríðinu.Og verk mín gjalda þess,auðvitað.

Það er einkennilegt að hafa þurft að berjast við kommúnisma allt kalda stríðið og hið nýja auðvald nú í þíðunni !

Líklega einsdæmi !

Eru það örlög,mætti spyrja..Örlagatrúarmenn svokallaðir mundu áreiðanlega segja að svo sé.En það er ekki rétt,ekki endilega. Þetta er samkvæmt bókum Sartres og tilvistarmanna.Ég hef einfaldlega tekið ákvarðanir,skipað mér í fylkingu þar sem ég hef talið að markmiðið sé einhvers konar sannleikur.

Eða réttlæti,nema hvorttveggja sé.

Í þeim efnum hef ég ekki þurft að berjast við eigin samvizku,hún hefur staðið með mér í þessu bardúsi öllu ! En þannig hef ég alla tíð verið sjálfstæðismaður,en ekki endilega alltaf sjálfstæðisflokksmaður,það þarf ekki alltaf að fara saman.

En semsagt borgaralegur existensíalisti .

Það var ekki í tízku í kalda stríðinu . Og þá ekki heldur í hinu nýja kalda stríði auðhyggjunnar nú um stundir.l

  • 3

Ég nefndi Birting eftir Voltaire sem vildi að menn ræktuðu garðinn sinn öðru fremur,eða eins og segir í Hugsvinnsmálum : ræk þín hús og hjú.Það er svo sem ágætt,en ég held það sé betra að rækta hjarta sitt svo það slái í takt við réttlæti og sanngirni,en ekki hagsmuni fyrst og síðast.

Halldór Laxness snaraði þessari óvenjulegu heimsádeilu á íslenzku með sínu lagi.Þetta er ekki venjuleg skáldsaga,heldur einhvers konar ferðasaga,eða ástarsaga,en þó umfram allt mannfyrirlitningarrolla og sýnir vel ofnæmi franska skáldsins fyrir umhverfi sínu.. Birtingur þráir fyrirmyndarþjóðfélagið þar sem smjör drýpur af hverju strái og finnur það í Eldóradó sem er ekki til.

Þetta er raunar sama landið og Laxness sjálfur var að leita að alla ævi; jafnvel í sovétgúlagi Stalíns eða vestur í Mormóníu . Leitaði að bakeldinum sem hægt var að halla sér að.! Þannig sótti Heidegger til nazisma og Sartre til kommúnisma,rétt eins og Platon var heldur hallur undir alvald og einræði.

Semsagt góður félagsskapur !

Þessi þýðing sýnir vel hve Voltaire hafði mikil áhrif á skáldskap Halldórs,svo mjög sem bókin minnir á efnistök hans sjálfs ,en þó einkum stíl.

Þeir Gunnar Gunnarsson hafa báðir snarað þeim bókum sem hvað mest áhrif höfðu á skáldskap þeirra sjálfra,því að Gunnar þýddi Vaðlaklerk Blichers hins józka,eins og kunnugt er,en án þessarar litlu perslu efast ég um að Gunnar hefði skrifað Svartfugl ,svo að eitt verka hans sé nefnt.

Blicher var mikill höfundur og dagbækur hans óviðjafnanlegar,en þeim kynntist ég, þegar við Hanna bjuggum í Kaupmannahöfn að loknu háskólanámi mínu hér heima.Það var Sigurður Madslund ( sem átti íslenzka móður ,Sigríði systur Sigurgeirs byskups og var gift dönskum verkfræðingi hjá konunglegu postulínsverkssmiðjunni ) sem benti mér á verk Blichers,en Sigurður er einn fínasti bókmenntamaður sem ég hef kynnzt.Sjálfur skrifaði hann hörkumerkilega dagbók sem ég veit ekki hvar er niðurkomin,en þekktastur var hann samt sem ljóðskáld,þótt hann skildi ekki eftir sig nema eina ljóðabók,að mig minnir.Skáldgáfan yfirgaf hann,ég held sjálfsgagnrýni hafi tortímt henni.

Annars var hann læknir að mennt,en stundaði engar lækningar.Það sem ég heyrði úr dagbók hans á sínum tíma voru ekki sízt djúpar sálfræðipælingar á honum sjálfum,greining á umhverfi hans og skáldritum.

Kompaní hans var afareftirminnilegt þau misseri sem ég dvaldist í Höfn.

Ég sagði mannfyrirlitningarolla og stend við það;sígild rolla í þeim efnum.Eða mundu ekki þessar lýsingar á samfélagi Parísar á dögum Voltaires vera enn í fullu gildi, og þá ekki sízt á okkar eigin umhverfi:

Um fólk segir í Birtingi :

Ætli djöfullinn prjóni ekki í skrokknum á yður,sagði Birtingur.

Hann hefur löngum viljað blanda sér í það sem gerist hér í heimi,sagði Marteinn,svo það mætti svosem vel segja mér hann prjóni í skrokknum á mér eins og annars staðar;en ef ég á að segja yður alveg eins og er,þá er það skoðun mín eftir að hafa rennt augum yfir þennan hnött,eða réttara sagt þetta hnattkorn, að drottinn hafi afhent það einhverskonar veru með vondu innræti,vitaskuld að Eldóradó undanteknu.Ég hef aldrei vitað kaupstað sem ekki óskaði þess að næsti kaupstaður legðist í auðn,og aldrei þekkt fjölskyldu sem langaði ekki mest til að gera útaf við einhverja aðra fjölskyldu.Alls staðar hafa aumingjarnir fyrirlitnmingu á þeim voldugu,sem þeir skríða fyrir,og þeir voldugu selja af þeim ullina, og kjötið eins og kindum.Ein milljón af innrituðum morðingjum æða frá einu horni í Evrópu til annars,framkvæma morð og rán undir aga til að hafa onaf fyrir sér,af því það er hvergi unnt að fá heiðarlega atvinnu; en í þeim borgum sem virðast njóta friðarins,þar sem listirnar blómgast,þar er fólkið jafnvel sjúkara af öfund,áhyggjum og kvíða en aðþrengdir íbúar í umsetnum borgum.Leynilegir harmar fólks eru ennþá ægilegri en nokkur opinber eymd.

Í sem stytztu máli,ég hef séð og reynt það mikið að ég er maníki (eða : að ég verð að trúa því að eðli mannsins sé upprunalega illt ).

Og ennfremur :

Í sumum (héruðum Frakklands ) er helmingurinn af íbúunum brjálaður,í öðrum eru þeir of slungnir,í sumum eru þeir sæmileg grey,en nokkuð heimskir;annars staðar þykjast þeir vera gáfaðir; en alls staðar er aðalstarf þeirra kvennafarið;þarnæst baktalið; og númer þrjú bullið .

Loks:

Finnst yður ekki,hélt Birtingur áfram,furðuleg ástin sem stúlkurnar tvær í Eyrúngalandi

báru til apanna,sem ég sagði yður frá um daginn ?

Ekki finnst mér það,sagði Marteinn,ég sé sosem ekkert skrýtið í því; ég hef séð ofmargt skrýtið til þess nokkuð sé skrýtið lengur.

Haldið þér,sagði Birtingur, að mennirnir hafi ævinlega drepið hver annan eins og þeir gera nú á dögum.Hafa þeir alltaf verið lygarar,svikarar,meinsærismenn,vanþakklátir,ræningjar,ræflar,ístöðuleysingjar,raggeitur,öfundsjúkir,átvögl,fylliraftar,ágjarnir,metorðagjarnir,hræsnarar og heimskingjar?

Haldið þér,sagði Marteinn,að fálkar hafi alltaf étið dúfur svofremi þeir náðu í þær?

Áreiðanlega,sagði Birtingur.

Nújæja,sagði Marteinn,ef fálkar hafa alltaf haft sömu lyndiseinkunn,hvers vegna ætlizt þér þá til að mennirnir breyti sinni

Það er nú allt annað mál,sagði Birtingur, því fríviljinn......

Mitt í þessum hugleiðingum voru þeir komnir til Bordóar.

Þá voru nýjar bækur vondar , bókaflóðið hundleiðinlegt og leikrit heldur slöpp,en verstir voru þó gagnrýnendur sem ekki voru á vetur setjandi,eða hver var hann þessi....? .....jú,hann var illviljaður náungi sem lifir á því að úthúða hverri bók og hverju nýju leikriti : Hann hatar þá höfunda sem ná góðum árangri rétt eins og geldingar sem hata þá sem kunna til verka í ástum.Hann er einn af þessum bókmenntasnákum sem nærast á sorpi og eitri.Hann er semsagt eitt af þessum leirskáldum sem hafa atvinnu af skáldskap!

Voltaire er þannig mikið niðri fyrir,þegar hann fjallar um þennan óþvott samtímamenningar eins og Halldór Laxness orðar það !

Og ef það er rétt sem Þorsteinn Gylfason segir í skýringum við Birting Hins ísl. bókmenntafélags,að persónan Lítilsbeiðandi sé í raun Voltaire sjálfur,þá hefur hann verið haldinn einstæðum lífsleiða og kannski þess vegna jafnskemmtilegur og raun ber vitni; hundleiður á allri tónlist og jafnvel listaverkum Rafaels : þau eru orðin alltof dökklituð og mannsmyndirnar ekki nógu ávalar,en það sem verst var : það vantaði náttúruna sjálfa í meistaraverkin !

Og því mætti spyrja,hvernig Lítilsbeiðandi hefði brugðizt við nútímamálverkinu sem á ekki annað bindiefni nú um stundir en einhvers konar póstmóderníska andúð á löghyggju og formalisma afstraktsins.

Eða þá ýmsu öðru í þessu bólgna og yfirborðslega heimsþorpi okkar sem minnir um margt á sveitaþorp Voltaires.

  • 4

Að fjallabaki

 

Af hverju þurfum við að leita

að bezta heimi allra heima

fyrst Eldóradó er ekki til,af hverju

þurfum við að búa í landi þar sem grjót

er gull og gimsteinar fleiri

en stjörnur himins ?

Við vitum hvort eð er ekki

hvað er handan fjallsins,ekki frekar

en íbúar fyrirheitnalandsins

sem er ekki til.

Fljótið rennur að vísu

undir fjall tímans,en hvert

sem straumkastið ber

þessa brothættu skektu sem við

deilum með ljónum gaupum

og tígrum eru áhöld um

hvort stýrið dugi í freyðandi

iðunni.

En hvort sem það dugar

eða ekki fljótum við

með straumnum og einhvers staðar

brotnar bátsskelin við kletta

og standberg.

Við spyrjum,

spyrjum

hvað er handan fjallsins

þegar okkur ber að landi

sem er ekki til,

því fjallið rís eins víst

og ókleif nálægð dauðans.

 

  • 5

Innskot

Og svo koma hér tvær vísur sem engum dytti í hug að setja í fína ljóðabók,en ég var að yrkja þær einn morguninn,þegar ég vaknaði og ber þannig ekki ábyrgð á því sem ég geri í draumi :; allra sízt ef það er leirburður !

Ég er dauður úr öllum æðum

og ekkert jarðneskt freistar mín

nema ókominn aprildagur

ef að blessuð sólin skín.

Bið þess einnig að þú sért

einhvers staðar á næstu grösum

ekki líkt og afskorin blóm

í alltof stórum krystalsvösum.

Þarna segir ef að,það er vond samsetning ,en algeng í svona kveðskap.; eða ætti ég frekar að segja stagli, eða holtaþokuvæli , sbr. Hulduljóð ? Samt hef ég séð ef að hjá Jónasi sjálfum.

En -mætti ekki segja að þarna örli á bjartsýni?! Löngun til að rækta vorhjartað í skammdeginu?

En- afskorin blóm er minning;þau visna.Þau eru ekki ræktuð í neinum garði.Og þau ilma í einskis manns hjarta. Alltof stórir krystalsvasar eru umbúðir um ilmlausar minningar,en afskorin blóm eru ekki nærvera,þau eru visnandi gleymska . En vasarnir minna á veraldleg gæði,þeir eru fortíðartákn.Nú dugar ekkert minna en skemmtiskúta til að fullnægja hégóma auðvaldsins.Og svo náttúrlega þota

Samt ekki krystalsþota !

  • 6

Bandaríska ljóðskáldið John Ashbery sem ég minnist á í Málsvörn og minningum gaf út safn eftir minniháttar skáld bandarísk og fjallar um áhrif þeirra.Það er fróðleg lesning.Mér datt þessi umfjöllun í hug,þegar ég var að blaða í safnriti Snorra Hjartarsonar,Sól er á morgun,sem kom út fyrir hálfri öld.Faðir minn gaf mér þessa bók,þá var ég 17 ára.

Þarna er að finna mörg athyglisverð kvæði frá fyrri öldum og maður þarf ekki að fletta lengi, þegar við blasir,hvernig sum þessara kvæða hafa að því er virðist ýtt undir síðari tíma kveðskap með ýmsum hætti.

Björn Halldórsson talar um jörðina sem gestaherbergi í kvæði sínu Ævitíminn eyðist og vísar þannig fram til hugmynda Tómasar um jörðina sem hótel í þekktu kvæði,Hótel jörð:Við erum gestir og hótel okkar er jörðin,segir þar.

En Björn talar um að hann sé “heimsins góður borgari “.

Sem sagt líklegt að Tómas hafi sótt hugmyndina í þetta 18.aldar kvæði.

Og þá hefur Grímur Thomsen að öllum líkindum fengið setninguna drottinn leiði drösulinn minn... í Á Sprengisandi úr draumavísu eftir Magnús Einarsson,einnig á 18.öld : drottinn leiði drösulinn minn / dimmt er á Bakkagerðum,segir Magnús.

Benedikt eldri Gröndal hefur aftur á móti sótt til Snorra,þegar hann segir um Skúla fógeta : Hörð ráð böndin herðu / harðmúluðustum Skála í vísu frá fyrra hluta 19.aldar.

Ég læt þessi dæmi nægja,en af einhverjum ástæðum fannst mér ágætt kvæði Jóns Þorlákssonar á Bægisá (1744-1819) um kanarífuglinn ellidauða eiga við Bobby Fischer skákmeistar,t.a.m. þessar línur :

Erindi þitt til Ísalands var

öðrum að skemmta og deyja þar.

Og :

Þú máttir nefnast utan efa

Íslands klenódí makalaust..

Og loks :

Yndi var meira að einum þér

en öllum hröfnum,sem jörðin ber.

Og fyrst ég er að minnast hér á gömul ljóð er ekki úr vegi að benda á einstaklega viðmótsþýtt ástarljóð eftir Pál Jónsson,eða Staðar-Hóls Pál,sem var sýslumaðiur og lifði á 16.öld..Það er til Halldóru Guðbrandsdóttur og rakst ég á það í Íslensku ljóðasafni Kristjáns Karlssonar,en þar er mörg matarholan eins og kunnugt er. Þetta yndæla og sérstæða sextándu aldar ástarkvæði hafði farið framhjá mér af einhverjum ástæðum ,en því skemmtilegra var að uppgötva það af einskærri tilviljun.

Ég læt fylgja tvö dæmi úr því hér í lokin og minni á að þetta merka ljóðaúrval seldist í 6000 eintökum,þegar það kom út hjá AB fyrir þrjátíu árum. Nú væri endurskoðuð útgáfa þess áreiðanlega kærkomin fjárfesting. og mundi sýna viðvarandi ást Íslendinga á góðri ljóðlist.

Þannig hættir þetta mál

þrifleg silkilína,

ann eg þér sem eigin sál

alla dagana mína

----

Guð af hæðum gleðji þig

og gefi þér blessun sanna,

láttu ei af að elska mig,

afbragð flestra svanna.

------

Elskaðu dátt og unn þú mér

elsku og dygða ríki þitt,

meðan að blóð í æðum er,

allra kærasta hjartað mitt.

----

Allar stundir mundu mig,

margt skal nú ei ljóða,

annist drottinn ávallt þig,

elskulífið góða.

Öld bregður við aðra.Og fróðlegt að hlusta á hvíslið milli kynslóða Stundum getur verið gott

að leggja við eyru.

 

  • 7

Ég fæ alltaf brezka vikublaðið The Week sem birtir skemmtilegt vikuyfirlit um heimsviðburði og ekki sízt menningu.Það birtir einnig minningargreinar og byggir á tilvitnunum í heimspressuna.Ísland var aðeins nefnt tvisvar í langri grein um andlát Bobby Fischers og látið þar við sitja.Annars var ég ekkert sérstaklega hrifinn af þessari grein,fannst í henni einhver andúð á viðfangsefninu.Kannski var Fischer ekki nógu ánægður með Ísrael og kannski hafði hann tekið ofmikið uppí sig,t.a.m. um Bandaríkin. Maður veit aldrei,hvað hangir á spýtunni.

En hvað um það,Bobby var heimsfrægur snillingur í skák,um það ber öllum saman. Kannski sá bezti fyrr og síðar,þótt blaðið gangi ekki svo langt.

Og kannski verður grafreitur hans fyrir austan hin nýja Mekka skákunnenda,hver veit.

Nú er bara að láta markaðslögmálið þjóna undir þennan þátt landkynningar og þá getum við grætt og grætt og grætt .....og fundið nýjar áherzlur eins og sagt er í þessum bransa.Og kannski gæti Bobby tekið við af hvalaskoðun og lyft okkur á svolítið hærra plan í sjálfbærri þjónustu við ferðamenn,svo að notað sé tungumál tízkunnar.

En hvað um það.

Annað í þessu blaði vakti fremur athygli mína,en það var umsögn um nýja ævisögu John Stuart Mills eftir Richard Reeves.Þar segir m.a. um Mill að hann hafi ekki leitað að neinum endanlegum sannleika þrátt fyrir mikla leit hans að réttlæti.

Og mér þóttu þau tíðindi ekki sízt athyglisverð,þegar blaðið fullyrðir að barátta hans fyrir kvenfrelsi.hafi verið áhrifameiri en samanlögð öll baraátta feminista fyrr og síðar.

Það er gott að hafa slíkan mann að leiðtoga sínum og lærimeistara.

En áhrif hans hafa ekki náð til Afríku og Asíu,því miður.

Ekki enn.